text
stringlengths
0
2.14k
"Ekki er þér sjá sætt hörð," segir Hallur, "því að þú átt ekki vígsmál eftir Sigfússonu og eiga bræður þeirra vígsmál eftir þá en Hámundur hinn halti eftir son sinn. En þú munt nú ná sættum við Þorgeir því að eg mun ríða til með þér og mun Þorgeir mér nokkurninn vel taka. En engi þeirra, er mál þessi eiga, munu þora að sitja að búum sínum í Fljótshlíð ef þeir eru utan sætta því að það verður þeirra bani. Og er það að vonum við skaplyndi Þorgeirs."
Var nú sent eftir Sigfússonum og báru þeir þetta mál upp við þá. Og lauk svo þeirra ræðum af fortölum Halls að þeim þótti svo allt sem hann talaði um fyrir þeim og vildu gjarna sættast.
Grani Gunnarsson mælti og Gunnar Lambason: "Sjálfrátt er oss ef Kári er einn eftir að hann sé eigi óhræddari við oss en vér við hann."
"Ekki er svo að mæla," segir Hallur. "Mun yður verða sárkeypt við hann og munuð þér mikið afhroð gjalda áður en lýkur með yður."
Síðan hættu þeir talinu.
**147. kafli**
Hallur af Síðu og Kolur son hans og þeir sex saman riðu vestur yfir Lómagnúpssand og svo vestur yfir Arnarstakksheiði og léttu eigi fyrr en þeir komu í Mýdal. Þar spurðu þeir að hvort Þorgeir mundi heima í Holti en þeim var sagt að hann mundi heima vera. Hallur var spurður hvert hann ætlaði að fara en hann kvaðst þangað ætla í Holt.
Þeir kváðu hann með nokkuru góðu fara mundu. Dvaldist Hallur þar nokkura stund, og áðu. Eftir það tóku þeir hesta sína og riðu á Sólheima um kveldið og voru þar um nóttina.
En um daginn eftir riðu þeir í Holt. Þorgeir var úti og svo Kári og menn þeirra því að þeir kenndu ferð Halls. Hann reið í blárri kápu og hafði litla öxi silfurrekna í hendi. En er þeir komu í túnið þá gekk Þorgeir í móti þeim og tók Hall af baki og minntust þeir Kári báðir við hann og leiddu hann í milli sín í stofu og settu hann á pall í hásæti og spurðu hann margra tíðinda. Var hann þar um nóttina.
Um morguninn eftir vakti Hallur til máls við Þorgeir ef hann vildi sættast og sagði hverjar sættir þeir buðu honum og talaði þar um mörgum orðum fögrum og góðgjarnlegum.
Þorgeir svarar: "Kunnigt má þér það vera að eg vildi engum sættum taka við brennumenn."
"Allt var það annað mál," segir Hallur. "Þér voruð þá vígreiðir. Hafið þér nú og mikið að gert um mannadráp síðan."
"Svo mun yður þykja," segir Þorgeir, "en hverja sætt bjóðið þér Kára?"
"Boðin mun honum sættin sú er sæmileg er," segir Hallur, "ef hann vill sættast."
Kári mælti: "Þess vil eg biðja þig, Þorgeir vinur, að þú sættist því að þinn hlutur má ekki verða betri en góður."
"Illt þykir mér að sættast og skiljast við þig nema þú takir slíka sætt sem eg tek," segir Þorgeir.
"Eigi vil eg það," segir Kári, "að sættast. En þó kalla eg nú að við höfum hefnt brennunnar. En sonar míns kalla eg vera óhefnt og ætla eg mér einum það að hefna hans slíkt sem eg fæ að gert."
En Þorgeir vildi eigi fyrr sættast en Kári sagði á ósátt sína ef hann sættist eigi. Handsalaði Þorgeir þá grið Flosa og hans mönnum til sáttarfundarins en Hallur seldi önnur í móti er hann hafði tekið af Flosa og Sigfússonum. En áður þeir skildust gaf Þorgeir Halli gullhring og skarlatsskikkju en Kári silfurmen og voru á gullkrossar þrír. Hallur þakkaði þeim vel gjafarnar og reið í braut með hinni mestu sæmd og létti eigi fyrr en hann kom til Svínafells. Tók Flosi vel við honum.
Hallur sagði Flosa allt frá erindum sínum og svo frá viðræðum þeirra Þorgeirs og svo það að Þorgeir vildi eigi fyrr sættast en Kári gekk að og bað hann og sagði ósátt sína á ef hann sættist eigi en Kári vildi þó eigi sættast.
Flosi mælti: "Fám mönnum er Kári líkur og þann veg vildi eg helst skapfarinn vera sem hann er."
Þeir Hallur dvöldust þar nokkura hríð. Síðan riðu þeir vestur að ákveðinni stundu til sáttarfundarins og fundust að Höfðabrekku sem mælt hafði verið með þeim. Kom Þorgeir þá til móts við þá vestan að. Töluðu þeir þá um sætt sína. Gekk það allt eftir því sem Hallur hafði sagt.
Þorgeir sagði þeim fyrir sættirnar að Kári skyldi vera með honum jafnan er hann vildi "skulu hvorigir öðrum þar illt gera að heima mínu. Eg vil og ekki eiga að heimta að sérhverjum þeirra og vil eg að þú Flosi varðir einn við mig en heimtir að sveitungum þínum og vil eg að sú gerð haldist öll er ger var á þingi um brennuna. Vil eg Flosi að þú gjaldir mér þriðjung minn óskerðan."
Flosi gekk skjótt að þessu öllu. Þorgeir gaf hvorki upp utanferðir né héraðssektir.
Nú riðu þeir Flosi og Hallur austur heim.
Hallur mælti til Flosa: "Efn þú vel mágur sætt þessa bæði utanferð þína og suðurgönguna og fégjöld. Munt þú þá þykja röskur maður þó að þú hafir ratað í stórvirki þetta ef þú innir rösklega af hendi alla hluti."
Flosi kvaðst svo skyldu gera. Reið Hallur nú heim austur en Flosi reið heim til Svínafells og var nú heima um hríð.
**148. kafli**
Þorgeir skorargeir reið heim af sáttarfundinum. Kári spurði hvort saman gengi sættin. Þorgeir sagði að þeir voru sáttir að fullu. Kári tók hest sinn og vildi í braut ríða.
"Eigi þarft þú í braut að ríða," segir Þorgeir, "fyrir því að það var skilið í sætt vora að þú skyldir hér vera jafnan hvern tíma er þú vildir."
Kári mælti: "Ekki skal svo vera mágur því að þegar ef eg veg víg nokkurt þá munu þeir það mæla að þú sért í ráðum með mér og vil eg það eigi. En það vil eg að þú takir við handsölum á fé mínu og eignir ykkur Helgu Njálsdóttur konu minni og dætrum mínum. Mun það þá ekki upp tekið af þeim sökudólgum mínum."
Þorgeir játaði því sem Kári vildi beitt hafa. Tók Þorgeir þá handsölum á fé Kára.
Síðan reið Kári í braut. Hann hafði hesta tvo og vopn sín og klæði og nokkurt lausafé í gulli og silfri. Kári reið nú vestur fyrir Seljalandsmúla og upp með Markarfljóti og svo upp í Þórsmörk. Þar eru þrír bæir er í Mörk heita allir. Á miðbænum bjó sá maður er Björn hét og var kallaður Björn hvíti. Hann var Kaðalsson, Bjálfasonar. Bjálfi hafði verið leysingi Ásgerðar móður Njáls og Holta-Þóris. Björn átti þá konu er Valgerður hét. Hún var Þorbrandsdóttir, Ásbrandssonar. Móðir hennar hét Guðlaug. Hún var systir Hámundar föður Gunnars að Hlíðarenda. Hún var gefin til fjár Birni og unni hún honum ekki mikið en þó áttu þau börn saman. Þau áttu gnóttir í búi. Björn var maður sjálfhælinn en húsfreyju hans þótti það illt. Hann var skyggn og skjótur á fæti. Þangað kom Kári til gistingar og tóku þau við honum báðum höndum. Var hann þar um nóttina.
Um morguninn töluðust þeir við.
Kári mælti til Bjarnar: "Það vildi eg að þú tækir við mér. Þykist eg hér vel kominn með þér. Vildi eg að þú værir í ferðum með mér er þú ert maður skyggn og frár enda ætla eg að þú munir öruggur til áræðis."
"Hvorki frý eg mér," segir Björn, "skyggnleiks né áræðis eða nokkurrar karlmennsku. En því munt þú hingað kominn að nú mun fokið í öll skjól. En við áskorun þína Kári," segir Björn, "þá skal ekki gera þig líkan hversdagsmönnum. Skal eg víst verða þér að liði öllu slíku sem þú beiðir."
Húsfreyja hans varð áheyrsla og mælti: "Tröll hafi þitt hól," sagði hún, "og skrum og skyldir þú eigi mæla ykkur tál báðum og hégóma í þessu. En gjarna vil eg veita Kára mat og aðra góða hluti þá er eg veit að honum má gagn að verða. En á harðræði Bjarnar skalt þú Kári ekki treysta því að eg uggi að þér verði að öðru en hann segir."
Björn mælti: "Oft hefir þú veitt mér ámæli en eg treysti mér svo vel að eg mun fyrir engum manni á hæl hopa. Er hér raun til að því leita fáir á mig að engir þora."
Þar var Kári nokkura stund á laun og var það á fárra manna viti. Ætluðu menn nú að hann mundi riðinn norður um land á fund Guðmundar hins ríka því að Kári lét Björn það segja nábúum sínum að hann hefði fundið Kára á förnum vegi og riði hann þaðan upp á Goðaland og svo norður á Gásasand og svo til Guðmundar hins ríka norður á Möðruvöllu. Spurðist það þá um allar sveitir.
**149. kafli**
Nú er þar til máls að taka er Flosi er. Hann mælti til brennumanna félaga sinna: "Eigi mun oss enn duga kyrru fyrir að halda. Munum vér hljóta að hugsa um utanferðir vorar og fégjöld og efna sættir vorar sem drengilegast, taka oss fari þar hver er líkast þykir."
Þeir báðu hann fyrir sjá.
Flosi mælti: "Austur munum vér ríða til Hornafjarðar því að þar stendur skip uppi er á Eyjólfur nef, þrænskur maður, en hann vill biðja sér konu og nær hann eigi ráðinu nema hann setjist aftur. Munum vér kaupa skipið að honum því að vér munum hafa fé lítið en margt manna. Er það skip mikið og mun það taka oss upp alla."
Hættu þeir þá talinu.
En litlu síðar riðu þeir austur og léttu eigi fyrr en þeir komu í Bjarnanes í Hornafjörð. Fundu þeir þar Eyjólf því að hann hafði þar verið á vist um veturinn. Þar var tekið vel við Flosa og voru þeir þar um nóttina. En um morguninn eftir falaði Flosi skipið að stýrimanni. Hann kvaðst ekki mundu þver í vera að selja skipið ef hann hefði það fyrir sem hann vildi. Flosi spurði í hverjum aurum hann vildi fyrir hafa. Austmaðurinn kveðst vildu fyrir hafa land og þó nær sér. Sagði Eyjólfur þá Flosa allt sem farið var um kaup þeirra bónda. Flosi kveðst skyldu saman róa svo að keypt yrði en kaupa síðan skipið að honum. Austmaðurinn gladdist við þetta. Flosi bauð honum land í Borgarhöfn. Austmaðurinn heldur nú á málinu við bónda svo að Flosi var hjá. Flosi lagði þá til orð sín með þeim svo að saman gekk með þeim kaupið. Lagði Flosi til landið í Borgarhöfn með Austmanninum en tók handsölum á kaupskipinu. Flosi hafði og af Austmanninum tuttugu hundruð vöru og varð það í kaupi þeirra.
Reið Flosi þá aftur. Hann var svo vinsæll af sínum mönnum að hann hafði þar vöru að láni eða gjöf sem hann vildi. Flosi reið nú heim til Svínafells og var heima um hríð. Flosi sendi þá Kol Þorsteinsson og Gunnar Lambason austur í Hornafjörð. Skyldu þeir þar vera við skip og búast um og tjalda búðir og sekka vöru og draga að slíkt sem þurfti.
Nú er að segja frá Sigfússonum að þeir segja Flosa að þeir vilja ríða vestur í Fljótshlíð að skipa til búa sinna og hafa þaðan vöru og slíkt annað sem þeir þyrftu.
"Er nú eigi Kára að varast," sögðu þeir, "ef hann er fyrir norðan land sem sagt er."
Flosi svarar: "Eigi veit eg um sögur slíkar hvað satt er sagt um ferðir Kára. Þykir mér það oft rjúfast er skemmra er að frétta en slíkt. Er það mitt ráð að þér farið margir saman og skiljist lítt og verið um yður sem varastir. Skalt þú nú og, Ketill úr Mörk, muna draum þann er eg sagði þér og þú baðst að við skyldum leyna, því að margir eru þeir nú í för með þér er kallaðir voru."
Ketill mælti: "Allt mun það sínu fram fara um aldur manna sem ætlað er fyrir áður en gott gengur þér til vörunnar þinnar."
Töluðu þeir nú ekki um fleira. Síðan bjuggust þeir Sigfússynir og menn með þeim þeir sem til voru ætlaðir. Voru þeir átján saman. Riðu þeir þá í braut. Og áður en þeir fóru minntust þeir við Flosa. Hann bað þá vel fara og kvað þá eigi mundu sjást oftar suma er í braut riðu en þeir létu eigi letjast. Riðu þeir nú leið sína. Flosi mælti að þeir skyldu taka vöru hans í Meðallandi og flytja austur og svo í Landbroti og í Skógahverfi.