Title
stringlengths
43
45
Keywords
stringlengths
3
239
Summary
stringlengths
73
7.24k
Text
stringlengths
778
682k
Mál nr. 41/2021
Leigusamningur Riftun Aðild Viðurkenningarkrafa Lögbann Málskostnaður Málsástæða Lagarök Frávísun frá héraðsdómi að hluta Sératkvæði
Í júní 2007 gerðu R ehf. og Ú með sér leigusamning um fasteign til eins árs og hugðist Ú reka þar gistiskýli fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Afhending húsnæðisins dróst þar sem tilskilinna leyfa hafði ekki verið aflað. Ú fékk húsnæðið afhent í nóvember 2017 en 24. sama mánaðar var að kröfu tiltekinna eigenda í sama húsi lagt lögbann við því að Ú og R ehf. starfræktu gistiskýli í fasteigninni. Ú rifti leigusamningnum með bréfi 5. febrúar 2018 og lýsti því yfir að stofnunin myndi ekki greiða frekari leigugreiðslur. R ehf. mótmælti riftuninni með bréfi 12. sama mánaðar og höfðaði síðar mál á hendur Ú þar sem aðallega var krafist greiðslu á leigu en jafnframt skaðabóta vegna kostnaðar við að laga húsnæðið að þörfum og óskum Ú. Ú höfðaði jafnframt gagnsök þar sem krafist var meðal annars viðurkenningar á heimild til riftunar leigusamningsins og endurgreiðslu á þegar greiddri leigu. R ehf. framseldi síðar kröfur sínar á hendur Ú til T ehf. Í dómi Hæstaréttar var ekki fallist á kröfu um ómerkingu hins áfrýjaða dóms. Um efnishlið málsins var talið að réttur Ú sem leigjanda hefði verið verulega skertur vegna opinberra fyrirmæla vegna lögbannsins. Var því fallist á viðurkenningarkröfu Ú um heimild til að rifta leigusamningnum og hann sýknaður af kröfum T ehf. um greiðslu leigu fyrir húsnæðið. Krafa T ehf. um greiðslu skaðabóta var talin í slíku ósamræmi við f- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að henni var sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi. Þá vísaði rétturinn til þess að á þeim tíma sem hið leigða húsnæði nýttist ekki Ú vegna lögbannsins greiddi hann allt að einu umsamda leigu fyrirvaralaust allt fram til þess að hann rifti samningnum 5. febrúar 2018. Með vísan til þess var ekki fallist á kröfu Ú um endurgreiðslu leigugjalds úr hendi R ehf. Loks var fallist á kröfu Ú um greiðslu helmings málskostnaðar úr hendi R ehf. sem aðilum var gert að greiða í framangreindu lögbannsmáli.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 2. Aðaláfrýjandi, Útlendingastofnun, skaut málinu til Hæstaréttar 23. september 2021. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda, Teiknis ehf., og málskostnaðar á öllum dómstigum. Jafnframt gerir aðaláfrýjandi þá kröfu á hendur stefnda, Riverside ehf., að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og að viðurkennd verði heimild hans til riftunar leigusamnings þeirra frá 22. júní 2017. Enn fremur krefst hann þess að stefnda, Riverside ehf., verði gert að greiða sér 17.474.931 krónu með nánar tilgreindum vöxtum auk málskostnaðar á öllum dómstigum. 3. Gagnáfrýjandi, Teiknir ehf., skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 26. nóvember 2021. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 43.306.244 krónur en til vara 31.874.996 krónur í báðum tilvikum með nánar tilgreindum vöxtum. Til þrautavara krefst hann þess að dómur Landsréttar verði staðfestur um málskostnað og að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 26.614.580 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Að því frágengnu krefst hann þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 9.742.700 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Loks krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi aðaláfrýjanda. 4. Stefndi, Riverside ehf., hefur ekki áfrýjað dómi Landsréttar af sinni hálfu en krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. 5. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt um formhlið þess 2. febrúar 2022 og um efni 22. mars sama ár. Ágreiningsefni 6. Í málinu deila aðilar um gildi leigusamnings 22. júní 2017 þar sem stefndi, Riverside ehf., var leigusali og aðaláfrýjandi leigutaki. Með yfirlýsingu 28. apríl 2020 framseldi stefndi ætlaðar kröfur félagsins á hendur aðaláfrýjanda til gagnáfrýjanda samhliða því sem hann skyldi yfirtaka aðild dómsmáls þessa. Því framsali mótmælti aðaláfrýjandi og taldi sig ekki þurfa að sæta því að beina kröfum sínum í málinu að nýjum aðila. 7. Í málinu er einnig deilt um frá hvaða tíma leigusamningurinn skuli gilda og þá jafnframt hversu lengi og hvort skilyrði hafi verið til riftunar hans samkvæmt 2. og 5. tölulið 1. mgr. 60. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994, sbr. yfirlýsingu aðaláfrýjanda þess efnis 5. febrúar 2018. Gagnáfrýjandi mótmælir riftun aðallega á þeim grundvelli að réttur til hennar hafi fallið niður þar sem sá tímafrestur hafi verið liðinn sem kveðið er á um í 4. mgr. 60. gr. laganna. Aðaláfrýjandi byggir á hinn bóginn á því að sú málsástæða gagnáfrýjanda hafi komið fram of seint og Landsrétti því verið óheimilt að byggja á henni við úrlausn málsins. Þá hefur gagnáfrýjandi uppi kröfu um greiðslu skaðabóta verði ekki fallist á kröfu hans um greiðslu húsaleigu. Enn fremur deila aðilar um hvenær hinu leigða húsnæði hafi verið skilað. Loks hefur aðaláfrýjandi krafist endurgreiðslu þeirrar leigu sem hann innti af hendi fram til janúarloka 2018. 8. Áfrýjunarleyfi var veitt 22. september 2021 á þeim grunni að á dómi Landsréttar kynnu að vera þeir ágallar að rétt væri að samþykkja beiðni um áfrýjun, sbr. 4. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málsatvik og meðferð máls fyrir dómi 9. Hinn 22. júní 2017 var undirritaður húsaleigusamningur milli aðaláfrýjanda og stefnda, Riverside ehf., um „húsnæði fyrir umsækjendur um vernd í þjónustu Útlendingastofnunar á gistiheimilinu Bíldshöfða 18“. Með samningnum tók aðaláfrýjandi á leigu tiltekna eignarhluta í framangreindu húsnæði. Samkvæmt grein 1.3 samningsins var um nánari lýsingu á ástandi hins leigða við afhendingu og þarfir leigjanda vísað til tiltekinna fylgiskjala sem voru hluti af samningnum. Skyldi leigusali afhenda „að öllu leyti fullfrágengið og fullinnréttað gistiheimili ásamt búnaði skv. fylgiskjölum I-IV.“ Þá kom fram í grein 1.5 að hið leigða væri ætlað til gistingar og að um leigusamninginn giltu ákvæði I. kafla húsaleigulaga. Í grein 13.1 kom jafnframt fram að um vanefndir, tilkynningaskyldu vegna þeirra svo og vanefndaúrræði giltu ákvæði húsaleigulaga, sbr. XII. kafla þeirra. Í grein 1.7 sagði að leigusali ábyrgðist að húsnæðið uppfyllti kröfur sem opinberir aðilar gera til gistiheimilis sem þessa, svo sem kröfur heilbrigðis- og eldvarnareftirlits. 10. Samkvæmt grein 2.1 var miðað við að hið leigða yrði afhent fullbúið eigi síðar en 1. ágúst 2017. Drægist afhending eignarinnar um meira en tvo mánuði, án þess að leigjanda yrði um það kennt, væri honum heimilt að rifta samningnum einhliða „með tilkynningu án eftirmála eða fébóta af hálfu leigusala, eða beita öðrum vanefndaúrræðum laga.“ Bætur vegna afhendingardráttar sem yrði af ástæðum sem vörðuðu leigusala skyldu verða jafnháar fyrir hvern mánuð og leigugreiðslur fyrir hið leigða. Þá sagði í grein 2.2 að samningurinn væri tímabundinn til eins árs, hann gilti til 30. júní 2018 og lyki þá án sérstakrar uppsagnar. Í grein 4 var kveðið á um endurgjald fyrir hið leigða og samkvæmt grein 4.3 átti leigjandi að greiða húsaleigu frá og með afhendingardegi. Samkvæmt grein 14.1 skyldu allar breytingar og viðaukar sem gerðir yrðu við samninginn vera skriflegir og undirritaðir af báðum samningsaðilum. 11. Afhending húsnæðisins samkvæmt framansögðu dróst þar sem tilskilinna leyfa hafði ekki verið aflað af hálfu stefnda. Tímabundið leyfi fékkst 24. október 2017 til að starfrækja þar gistiskýli fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem gilti frá þeim degi til 13. október 2018. Í kjölfarið var fasteignin afhent aðaláfrýjanda í byrjun nóvember 2017. 12. Að kröfu tiltekinna eigenda hússins Bíldshöfða 18 var lagt lögbann 24. nóvember 2017 við því að aðaláfrýjandi og stefndi, Riverside ehf., starfræktu sjálfir, annar hvor eða báðir, gistiskýli í fasteigninni fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd samkvæmt 25. tölulið 3. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Réttarstefna til staðfestingar lögbanninu var gefin út 30. nóvember 2017 og málið þingfest 12. desember sama ár. Lögbannið var staðfest með héraðsdómi 30. maí 2018 og dóminum áfrýjað til Landsréttar 28. júní sama ár. Hinn 18. september 2018 lagði sýslumaður að nýju lögbann við víðtækari hagnýtingu en samkvæmt eldra lögbanni og beindist það eingöngu að stefnda. Við gerðina lýsti lögmaður þess félags því yfir að það myndi una lögbanninu. Af þeim sökum vísaði Landsréttur frá máli vegna eldra lögbannsins með dómi 8. febrúar 2018 í máli nr. 526/2018, enda ættu aðaláfrýjandi og stefndi ekki lengur lögvarinna hagsmuna að gæta af kröfum þeirra í málinu. Í dóminum var einnig tekið fram að aðaláfrýjandi hefði engra hagsmuna að gæta af ráðstöfun húsnæðisins eftir að leigusamningur rann út 30. júní 2018. 13. Aðaláfrýjandi rifti leigusamningnum með bréfi 5. febrúar 2018 og lýsti því yfir að hann myndi ekki greiða frekari leigugreiðslur. Stefndi mótmælti riftuninni með bréfi 12. sama mánaðar. Í bréfi aðaláfrýjanda 25. júlí 2018 kom meðal annars fram að stefndi hefði haft lyklavöld að húsnæðinu frá 5. febrúar 2018 og hefði getað ráðstafað því að vild en á hans vegum hafi verið leigutaki í hluta húsnæðisins í júlí 2018. 14. Stefndi höfðaði mál þetta á hendur aðaláfrýjanda 23. maí 2019. Var þess aðallega krafist að leiga yrði greidd í samræmi við efni leigusamningsins og um það byggt á því að samkomulag hefði tekist um að greiða skyldi leigu frá 1. nóvember 2017 og að leigusamningurinn gilti til 31. október 2018. Til vara var krafist efnda samkvæmt samningnum frá afhendingu húsnæðisins 1. nóvember 2017 fram til þess dags sem stefndi telur að húsnæðinu hafi verið skilað 25. júlí 2018. Til þrautavara var krafist greiðslu leigu fram til 30. júní 2018 í samræmi við efni upphaflegs leigusamnings. Að þessu frágengnu var krafist greiðslu vegna þess tjóns sem stefndi byggði á að hann hefði orðið fyrir vegna fjárútláta sem tengdust fyrirhugaðri leigu aðaláfrýjanda á húsnæðinu. 15. Aðaláfrýjandi tók til varna og höfðaði jafnframt gagnsök þar sem krafist var viðurkenningar á heimild hans til riftunar leigusamningsins, endurgreiðslu á þegar greiddri leigu og greiðslu á fjárhæð sem nam helmingi málskostnaðar sem honum og stefnda, Riverside ehf., var gert að greiða gagnaðilum í lögbannsmálinu sem lauk með fyrrgreindum dómi Landréttar 8. febrúar 2018. 16. Með héraðsdómi var aðaláfrýjandi sýknaður af kröfu um greiðslu leigu þar sem talið var að leigusamningurinn hefði ekki komist til framkvæmda að öllu leyti og því ekki verið þörf á sérstakri riftun hans. Þá var stefndi sýknaður af kröfum í gagnsök. 17. Svo sem fyrr greinir framseldi stefndi, Riverside ehf., kröfur sínar á hendur aðaláfrýjanda með yfirlýsingu 28. apríl 2020 eftir að félagið hafði áfrýjað málinu til Landsréttar. Fylgdi yfirlýsingin greinargerð stefnda til Landsréttar þar sem sagði að viðkomandi lögmaður gætti hagsmuna ,,áfrýjanda, Riverside ehf., að svo stöddu, og Teiknis ehf. þegar gengið hefur verið frá breytingu á aðild í Landsrétti.“ Í yfirlýsingunni sagði að gagnáfrýjandi myndi taka yfir aðild málsins fyrir Landsrétti í stað stefnda en af hálfu aðaláfrýjanda var því mótmælt sem fyrr segir. Í hinum áfrýjaða dómi var fallist á að gagnáfrýjandi tæki yfir réttindi og skyldur stefnda í málinu með framangreindum hætti en samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga nr. 91/1991 gæti stefndi hins vegar ekki komið sér undan því að sæta dómi í gagnsök og væri aðaláfrýjanda því heimilt að halda málinu áfram á hendur honum eins og hann gerði með gagnáfrýjunarstefnu sem birt var stefnda 19. maí 2020. Þá sagði í dóminum að þar sem stefndi hefði ekki skilað greinargerð í gagnsök væri með vísan til 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991 litið svo á að hann krefðist staðfestingar héraðsdóms fyrir Landsrétti. 18. Með hinum áfrýjaða dómi var fallist á kröfur gagnáfrýjanda og aðaláfrýjandi dæmdur til greiðslu leigu að fjárhæð 26.614.580 krónur ásamt vöxtum. Var fallist á að leigusamningurinn hefði öðlast gildi en að skilyrði 5. töluliðar 1. mgr. 60. gr. húsaleigulaga fyrir riftun hefðu verið uppfyllt þar sem réttur aðaláfrýjanda hefði verið verulega skertur vegna opinberra fyrirmæla í síðasta lagi frá þeim tíma sem réttarstefna um fyrrnefnt lögbann hefði verið gefin út 30. nóvember 2017. Hins vegar hefði riftunaryfirlýsing aðaláfrýjanda ekki komið fram innan þess átta vikna frests sem kveðið er á um í 4. mgr. 60. gr. laganna og samningnum því ekki verið rift með löglegum hætti. Var aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda leigu fyrir húsnæðið fram til 30. júní 2018. Þá var stefndi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 1.508.931 krónu með nánar tilgreindum vöxtum sem svaraði til helmings dæmds málskostnaðar í lögbannsmálinu. Málsástæður og lagarök aðila 19. Um formhlið málsins vísar aðaláfrýjandi til þess að ágreiningslaust sé að stefndi, Riverside ehf., hafi hvorki byggt á því í stefnu né greinargerð til héraðsdóms í gagnsök að réttur aðaláfrýjanda til riftunar hefði verið fallinn niður vegna 4. mgr. 60. gr. húsaleigulaga 5. febrúar 2018. Sú málsástæða hafi fyrst komið fram við munnlegan flutning í héraði. Þrátt fyrir það hafi Landsréttur reist niðurstöðu sína á þeirri málsástæðu sem hafi verið andstætt 5. mgr. 101. gr. og 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991. Um efnishlið málsins reisir aðaláfrýjandi kröfur sínar á því að leigusamningur hans og stefnda hafi aldrei komist til framkvæmda samkvæmt efni sínu þar sem stefndi hefði aldrei efnt samninginn fyrir sitt leyti. Jafnframt byggir aðaláfrýjandi á því að hann hafi réttilega rift leigusamningi aðila 5. febrúar 2018. Stefndi hafi upp frá því hvorki átt rétt til frekari leigugreiðslna né að halda þeim greiðslum sem þegar höfðu verið inntar af hendi þar sem hann hefði vanefnt samninginn verulega. 20. Gagnáfrýjandi tekur undir niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um formhlið málsins þess efnis að málsástæða hans byggð á því að réttur aðaláfrýjanda til riftunar hafi fallið niður fyrir tómlæti á grundvelli 4. mgr. 60. gr. húsaleigulaga hafi komið nægilega fram í héraði til þess að á henni yrði byggt. Um efnishlið málsins byggir gagnáfrýjandi aðalkröfu sína á því að leigusamningurinn hafi verið í gildi en að komist hafi verið að samkomulagi um að hann skyldi gilda frá 1. nóvember 2017 til 31. október 2018. Krafa um leigugreiðslur vegna þess tíma sem aðaláfrýjandi hafði umráð húsnæðisins sé ,,krafa um efndir in natura en krafa eftir afhendingu efndabætur.“ Um vara- og þrautavarakröfur sínar vísar gagnáfrýjandi til þess að í þeim felist kröfur um efndir in natura enda taki þær til tímabils þar sem aðaláfrýjandi hafði óumdeilanlega umráð húsnæðisins. Verði hins vegar talið að leigusamningurinn hafi ekki veitt rétt til leigugreiðslna samkvæmt efni sínu krefst gagnáfrýjandi þess að hann fái bætt tjón af því að hafa lagt í kostnað í þágu aðaláfrýjanda að hans beiðni. Krafan sé reist á almennum reglum skaðabótaréttar og sakarreglunni. Niðurstaða Formhlið málsins 21. Eins og áður greinir lýsti aðaláfrýjandi yfir riftun á leigusamningi aðila með bréfi 5. febrúar 2018 og reisti hann þá kröfu á ákvæðum 13. greinar samningsins sem og 60. gr. húsaleigulaga, einkum 2. og 5. tölulið 1. mgr. greinarinnar. Í svarbréfi stefnda, Riverside ehf., 12. sama mánaðar var því hafnað að skilyrði fyrrgreindra ákvæða væru uppfyllt. Í stefnu til héraðsdóms sagði að riftunin hefði verið til málamynda og gerð í því skyni að tryggja hagsmuni aðaláfrýjanda ef fallist yrði á lögbann við fyrirhugaðri notkun fasteignarinnar. Í greinargerð stefnda í gagnsök í héraði sagði jafnframt að þar sem riftunin hefði verið til málamynda hefði hún í reynd ekki haft þýðingu vegna aðgerða aðaláfrýjanda sjálfs í tengslum við rekstur dómsmáls um gildi lögbannsins. Gæti hann ekki samhliða sent erindi um riftun þar sem réttarsambandi aðila væri slitið með óheimilum hætti. Auk þess mótmælti stefndi því að skilyrðum 2. og 5. töluliðar 1. mgr. 60. gr. húsaleigulaga væri fullnægt. 22. Aðaláfrýjandi hefur haldið því fram að málsástæða stefnda reist á 4. mgr. 60. gr. húsaleigulaga hafi komið of seint fram, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 og 2. mgr. 163. gr. sömu laga. Af hálfu gagnáfrýjanda og stefnda er aftur á móti byggt á því að málsástæðan hafi komið fram jafnskjótt og tilefni gafst til. Ekki hafi verið tilefni til að halda henni fram í skriflegum málatilbúnaði fyrir héraðsdómi. Jafnframt er byggt á því að um hafi verið að ræða lagareglu sem ekki hafi þurft að koma fram með beinum hætti í skriflegum málatilbúnaði. 23. Fyrir liggur að hvorki var byggt á framangreindri málsástæðu af hálfu stefnda í stefnu til héraðsdóms né greinargerð hans í gagnsök. Við aðalmeðferð málsins í héraði var hins vegar byggt á því að riftunarréttur hefði glatast samkvæmt 4. mgr. 60. gr. húsaleigulaga. Af því tilefni voru bókuð í þingbók héraðsdóms mótmæli aðaláfrýjanda við að byggt yrði á þeirri málsástæðu þar sem henni hefði ekki áður verið hreyft. Af hálfu stefnda var bókað að með fyrrgreindri málsástæðu væri brugðist við greinargerð aðaláfrýjanda í aðalsök þar sem byggt væri á ákvæðum 60. gr. húsaleigulaga. 24. Samkvæmt framansögðu sætti umræddur málatilbúnaður stefnda, Riverside ehf., þegar andmælum aðaláfrýjanda við meðferð málsins í héraði sem of seint fram kominn. Ekki verður annað ráðið af fyrrgreindri bókun en að málsástæðan hafi fyrst komið fram við aðalmeðferð málsins í héraði. Hefði þó verið rík ástæða fyrir stefnda að bera hana fyrir sig í síðasta lagi í greinargerð í gagnsök en ekki er fallist á að um sé að ræða lagarök að baki málsástæðum stefnda og gagnáfrýjanda. Fyrrgreind málsástæða kom því of seint fram við aðalmeðferð málsins í héraði, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Var heldur ekki fullnægt skilyrðum 2. mgr. 163. gr. sömu laga til þess að málsástæðan kæmist að fyrir Landsrétti. Með því að hún komst þar að og Landsréttur reisti niðurstöðu sína á henni var málsgrundvelli málsins raskað verulega. 25. Með því að Landsréttur tók til greina umrædda málsástæðu um að réttur til riftunar hefði glatast á grundvelli 4. mgr. 60. gr. húsaleigulaga, sem að réttu lagi átti ekki að komast að í málinu, kom ekki til þess að dæmt yrði um hvort aðaláfrýjanda hefði verið heimilt að rifta leigusamningnum. Þótt leyst hafi verið úr málinu á þessum grundvelli getur það ekki varðað ómerkingu hins áfrýjaða dóms, sbr. til hliðsjónar meðal annars dóma Hæstaréttar 20. apríl 2018 í máli nr. 169/2017 og 22. maí 1997 í máli nr. 350/1996 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 1704. Hér verður ekki gerð sú fortakslausa krafa að á lægri dómstigum hafi verið dæmt um allar þær málsástæður sem haft geta áhrif fyrir úrlausn þess á æðra dómstigi. Þannig kann dómari að hafa fallist á tiltekna málsástæðu og koma þá eftir atvikum aðrar ekki til úrlausnar en á æðra dómstigi sé síðan leyst úr máli á annan veg þannig að reyni á málsástæður sem ekki hefur áður verið dæmt um. Hér gegnir því öðru en þegar dómari fer út fyrir málsgrundvöll aðila og byggir niðurstöðu sína á málsástæðu sem ekki er haldið fram í máli, sbr. 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991, eða þegar ekki er leyst úr málsástæðu sem haldið er fram og þarf að leysa úr til að komast að þeirri niðurstöðu sem varð raunin á lægra dómstigi. Þegar mál er með þeim hætti dæmt á röngum grundvelli miðað við málatilbúnað aðila sem hafa forræði á sakarefninu verður venjulega ekki komist hjá því að dómur verði ómerktur. Gildi leigusamnings og krafa gagnáfrýjanda um greiðslu leigu 26. Í leigusamningnum 22. júní 2017 sagði í grein 2.2 að samningurinn væri tímabundinn til eins árs og rynni út 30. júní 2018. Fallist er á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að samningurinn hafi öðlast gildi samkvæmt efni sínu þótt afhending hins leigða húsnæðis hafi ekki farið fram fyrr en í nóvember 2107. Í grein 14.1 í samningnum sagði jafnframt að allar breytingar og viðaukar sem gerðir yrðu við samninginn skyldu vera skriflegir og undirritaðir af báðum samningsaðilum. Hefur gagnáfrýjandi ekki sýnt fram á, gegn andmælum aðaláfrýjanda, að komist hafi á samkomulag um breyttan gildistíma samningsins. 27. Samkvæmt grein 1.7 samningsins ábyrgðist leigusali að húsnæðið uppfyllti kröfur sem opinberir aðilar gerðu til gistiheimilis, þar á meðal kröfur heilbrigðis- og eldvarnareftirlits. Í því skyni var lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða vegna lóðarinnar nr. 18 við Bíldshöfða. Þeirri umsókn var síðar hafnað af umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar meðal annars vegna afstöðu annarra eigenda hússins. Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að þeir hafi allt frá ágúst 2017 andmælt fyrirhuguðum breytingum á notkun húsnæðisins sem gistiheimilis. 28. Í kjölfar þess að veitt var tímabundið leyfi til rekstrar gistiskýlis 24. október 2017 kröfðust nokkrir eigenda hússins lögbanns við starfrækslu þess með beiðni 16. nóvember 2017. Var lögbann síðan lagt við henni í samræmi við beiðnina og mál höfðað til staðfestingar því með réttarstefnu 30. nóvember sama ár sem lauk með héraðsdómi 30. maí 2018. Bæði aðaláfrýjandi og stefndi áfrýjuðu málinu til Landsréttar. Leiddi lögbannið til þess að aðaláfrýjandi gat aldrei nýtt húsnæðið í samræmi við efni samningsins en eins og fyrr greinir lýsti aðaláfrýjandi yfir riftun hans 5. febrúar 2018. Í riftunaryfirlýsingu var vísað til 2. og 5. töluliðar 1. mgr. 60. gr. húsaleigulaga, meðal annars með vísan til fyrrgreinds lögbanns. Í bréfi stefnda, Riverside ehf., 12. febrúar 2018 var því hins vegar hafnað að riftun leigusamningsins gæti átt stoð í framangreindum ákvæðum húsaleigulaga. 29. Í 2. tölulið 1. mgr. 60. gr. húsaleigulaga segir að leigjanda sé heimilt að rifta leigusamningi ef verulegur dráttur verður á afhendingu húsnæðis og í 5. tölulið sömu málsgreinar er riftun jafnframt heimiluð sé réttur leigjanda verulega skertur vegna laga eða annarra opinberra fyrirmæla eða vegna þess að hann fer í bága við kvaðir sem hvíla á eigninni. Riftunaryfirlýsing aðaláfrýjanda var send eftir að hann hafði haft húsnæðið til umráða í um þrjá mánuði án þess að það hefði nýst til umsaminna nota vegna fyrrgreinds lögbanns. Auk þess var á þeim tíma fyrirsjáanlegt að staðfestingarmáli vegna þess yrði ekki lokið fyrr en að einhverjum tíma liðnum, en eins og að framan greinir var leigusamningurinn tímabundinn og átti að renna út í lok júní 2018. Að þessu gættu er fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að réttur aðaláfrýjanda sem leigjanda hafi verið verulega skertur vegna opinberra fyrirmæla vegna lögbannsins. Því voru fyrir hendi skilyrði til að rifta samningnum, sbr. 5. tölulið 1. mgr. 60. gr. húsaleigulaga. 30. Af hálfu gagnáfrýjanda hefur því verið haldið fram að riftunaryfirlýsing aðaláfrýjanda 5. febrúar 2018 hafi einungis verið sett fram til málamynda og ekki haft neitt gildi. Hafi athafnir aðaláfrýjanda í kjölfarið verið ósamrýmanlegar henni. Aðaláfrýjandi hafi tekið til varna í lögbannsmáli og jafnframt staðið að áfrýjun málsins til Landsréttar í júní 2018. Þá hafi aðaláfrýjandi ekki afhent lykla að húsnæðinu eða fjarlægt öryggiskerfi og myndavélar sem komið hafi verið fyrir í því. Hafi húsnæðinu því ekki verið skilað með réttum hætti í kjölfar riftunar. 31. Samkvæmt 3. mgr. 60. gr. húsaleigulaga falla réttindi og skyldur leigusala og leigjanda samkvæmt leigusamningi niður frá dagsetningu riftunar og skal leigjandi rýma leiguhúsnæði þegar í stað nema aðilar semji um annað. Í þeim tilvikum á leigusali rétt á greiðslu leigu vegna þess tíma sem líður frá riftun og þar til leigjandi hefur rýmt húsnæðið samkvæmt samkomulagi. Yfirlýsing aðaláfrýjanda um riftun 5. febrúar 2018 kom þegar til framkvæmda og liggur ekkert fyrir um að samið hafi verið um áframhaldandi notkun hans á hinu leigða. Er þá jafnframt til þess að líta að aðaláfrýjandi hafði hvorki hafið not af hinu leigða í samræmi við efni leigusamningsins né komið þar fyrir neinum lausafjármunum að frátöldu öryggiskerfi og myndavélum. Getur það eitt ekki ráðið úrslitum eins og hér stendur á hvort aðaláfrýjandi hafi skilað sínum lyklum að hinu leigða húsnæði. Má einnig ráða af gögnum málsins að leigusali hafi haft óhindraðan aðgang að húsnæðinu enda var leigutaki á hans vegum í hluta þess í júlí 2018. Þá verður ekki fallist á að þátttaka aðaláfrýjanda í lögbannsmáli sé ósamrýmanleg fyrrgreindri riftunaryfirlýsingu enda höfðu bæði stefndi og aðaláfrýjandi augljósa hagsmuni af því að láta reyna á lögmæti lögbannsins meðal annars til að fá skorið úr um rétt til að krefjast skaðabóta samkvæmt VII. kafla laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. 32. Samkvæmt framangreindu verður fallist á viðurkenningarkröfu aðaláfrýjanda um heimild hans til að rifta leigusamningi aðila og hann sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda um greiðslu leigu fyrir húsnæðið. 33. Loks krefst gagnáfrýjandi þess að sér verði dæmdar skaðabætur að fjárhæð 9.742.700 krónur. Sú krafa er byggð á því að aðaláfrýjanda beri að bæta tjón sem svari þeim kostnaði sem stofnaðist til við að laga húsnæðið að þörfum og óskum aðaláfrýjanda. Um grundvöll kröfunnar er jafnframt vísað til almennra reglna skaðabótaréttar og sakarreglunnar. Til stuðnings kröfunni hefur verið lögð fram samantekt kostnaðarliða auk afrits reikninga og ljósmynda af húsnæðinu og búnaði. Ekkert liggur fyrir í málinu um hvaða atvik eigi að leiða til þess að aðaláfrýjandi hafi með samningsgerð við stefnda, Riverside ehf., bakað sér bótaskylt tjón eða hvert það tjón er. Grundvöllur kröfunnar er því í slíku ósamræmi við f- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að vísa verður henni sjálfkrafa frá héraðsdómi. Krafa um endurgreiðslu leigu og málskostnaðar 34. Aðaláfrýjandi hefur fyrir sitt leyti krafist þess að stefndi greiði sér 17.474.931 krónu ásamt vöxtum. Annars vegar er þar um að ræða greiðslu á 15.966.000 krónum vegna leigu sem hann greiddi í nóvember og desember 2017 og janúar 2018. Hins vegar krefst hann 1.508.931 krónu vegna helmings þess málskostnaðar sem aðilum var gert að greiða með fyrrgreindum dómi Landsréttar í máli nr. 526/2018. 35. Hér að framan var komist að þeirri niðurstöðu að leigusamningur aðila hafi öðlast gildi og húsnæðið afhent í nóvember 2017 þó svo að aldrei hafi komið til nýtingar þess í samræmi við efni leigusamningsins vegna fyrrgreinds lögbanns. Þá hefur verið rakið að aðilar brugðust sameiginlega við lögbanninu. Á þeim tíma sem hið leigða húsnæði nýttist ekki aðaláfrýjanda vegna lögbannsins greiddi hann allt að einu umsamda leigu fyrirvaralaust allt fram til þess að hann rifti samningnum 5. febrúar 2018. Með vísan til þess verður ekki fallist á kröfu hans um endurgreiðslu leigugjalds úr hendi stefnda. 36. Með hinum áfrýjaða dómi var stefndi, Riverside ehf., dæmdur til greiðslu helmings málskostnaðar sem aðilum var gert að greiða með fyrrgreindum dómi Landsréttar, eða 1.508.931 krónu með dráttarvöxtum frá 21. mars 2019 til greiðsludags. Hér fyrir dómi hefur stefndi krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms hvað sig varðar. Verður þegar af þeirri ástæðu fallist á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms hvað þennan lið kröfu aðaláfrýjanda varðar eins og í dómsorði greinir. 37. Eftir þessum úrslitum og með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 190. gr., laga nr. 91/1991 verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda hluta af málskostnaði hans fyrir Landsrétti og Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir. Þá verður stefndi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda hluta af málskostnaði hans á öllum dómstigum sem jafnframt ákveðst eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Vísað er frá héraðsdómi kröfu gagnáfrýjanda, Teiknis ehf., að fjárhæð 9.742.700 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Aðaláfrýjandi, Útlendingastofnun, er sýkn af öðrum kröfum gagnáfrýjanda. Viðurkennd er riftun aðaláfrýjanda 5. febrúar 2018 á leigusamningi við stefnda, Riverside ehf., 22. júní 2017. Stefndi greiði aðaláfrýjanda 1.508.931 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. mars 2019 til greiðsludags. Stefndi greiði aðaláfrýjanda samtals 1.000.000 króna í málskostnað á öllum dómstigum. Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti. Sératkvæði Ásu Ólafsdóttur og Karls Axelssonar 1. Við erum sammála atkvæði meirihlutans um formhlið málsins til og með málsgrein 24 þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að málsástæða um 4. mgr. 60. gr. húsaleigulaga fái ekki komist að í málinu. Að þeirri niðurstöðu fenginni þarf að taka afstöðu til þess hvort málið verður allt að einu dæmt efnislega fyrir Hæstarétti. 2. Með þeim breytingum sem gerðar voru á dómstólaskipan með lögum nr. 50/2016 um dómstóla og lögum nr. 49/2016 um breytingu á lögum nr. 91/1991 og lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála var komið á þriggja þrepa dómskerfi. Þar með breyttist hlutverk Hæstaréttar í að vera fyrst og fremst fordæmisgefandi dómstóll með réttarskapandi hlutverk. Það getur eftir atvikum haft áhrif þegar metið er hvort galli á málsmeðferð er slíkur að varðað geti ómerkingu í sérstökum tilvikum. Því hafa eldri fordæmi Hæstaréttar um þetta atriði takmarkaðri þýðingu en ella. 3. Hafa verður í huga að almennt gildir sú regla í einkamálaréttarfari að aðilar eiga að hafa uppi kröfur sínar, lýsingu á málsatvikum og röksemdir svo og mótmæli gegn kröfum, rökum og yfirlýsingum gagnaðila jafnharðan og tilefni verður til en að öðrum kosti komast þær ekki að. Samkvæmt 2. mgr. 163. gr. og 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991 er því að meginreglu bannað að gera nýjar kröfur eða bera fram nýjar málsástæður frá því sem gert var á lægra dómstigi við meðferð máls fyrir Landsrétti og Hæstarétti. Þótt reglan sé undanþæg, eins og orðalag fyrrgreindra ákvæða ber með sér, er tilgangur hennar að girða fyrir að grundvelli máls verði raskað á málskotsstigi. Er þannig ætlast til að Landsréttur og Hæstiréttur endurskoði úrlausn dómstóls á lægra dómstigi á sömu forsendum og málið var dæmt þar. 4. Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum teljum við að með því að umrædd málsástæða reist á 4. mgr. 60. gr. húsaleigulaga hafi ranglega komist að fyrir Landsrétti hafi grundvelli málsins þar fyrir dómi verið raskað verulega. Var niðurstaða hins áfrýjaða dóms um kröfu gagnáfrýjanda á hendur aðaláfrýjanda að mestu leyti reist á henni. Leiddi það jafnframt til þess að ekki kom þar til úrlausnar hvort eftirfarandi athafnir aðaláfrýjanda eftir riftun hefðu samræmst henni. Einnig er til þess að líta að ekki var fjallað efnislega um þær málsástæður sem lúta að riftun leigusamnings aðila í héraðsdómi enda var þar komist að þeirri niðurstöðu að samningurinn hefði ekki komist til framkvæmda að öllu leyti. 5. Af þessu leiðir að taka verður efnislega afstöðu til fyrrgreindra varna gagnáfrýjanda í fyrsta sinn hér fyrir dómi án þess að úr þeim hafi verið leyst á fyrri dómstigum og án möguleika á efnislegri endurskoðun. Eins og hér háttar sérstaklega til fór meðferð málsins fyrir Landsrétti svo verulega úr skorðum að telja verður að það yrði aðilum málsins til réttarspjalla að dæma málið í því horfi sem það liggur fyrir Hæstarétti. Að öllu framangreindu gættu verður því að telja varlegast að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir Landsrétt að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. 6. Með því að meirihluti dómenda hefur komist að gagnstæðri niðurstöðu um formhlið málsins er afstaða okkar um efnishlið málsins, sbr. 6. málslið 2. mgr. 189. laga nr. 91/1991, sú að við erum henni samþykk. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=99bc93a3-a0e9-48e3-add0-a40dcc1a1ea2&verdictid=a37260e4-b7fb-45ee-955f-826d5b8167c7
Mál nr. 34/2021
Ákæra Skattalög Virðisaukaskattur Peningaþvætti Lögskýring Frávísun frá héraðsdómi
X var ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og peningaþvætti. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti lýsti ákæruvaldið því yfir að þess væri nú krafist að I. ákærulið um brot gegn skattalögum yrði vísað frá héraðsdómi. Samkvæmt því var þeim ákærulið vísað frá héraðsdómi. Um II. ákærulið fyrir peningaþvætti vísaði Hæstiréttur til þess að sú háttsemi sem X væri gefin að sök fæli í sér sjálfstætt brot samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sem ekki hefði getað komið til fyrr en eftir fullframningu skattalagabrotanna og þá með tilgreindri háttsemi sem bar að lýsa í ákæru, sbr. c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Í ákærunni væri í engu lýst í hverju þær athafnir X til viðbótar brotum samkvæmt I. lið fólust og ætlaðri háttsemi X auk þess lýst með valkvæðum hætti. Þá væri ætlað brot X samkvæmt II. lið ákæru ekki afmarkað í tíma með neinum hætti, hvorki um upphafstíma þess né hvenær því lauk og ekki væri þar að finna neina sundurliðun þess fjár sem X átti að hafa ráðstafað, geymt og/eða nýtt með þessum hætti, annars vegar persónulega en hins vegar í þágu atvinnurekstrarins. Vísaði Hæstiréttur til þess að játning X breytti engu um þær kröfur sem gera yrði til skýrleika ákæru, enda gæti hann ekki með góðu móti ráðið af henni einni hvaða háttsemi honum var gefin að sök umfram þau skattalagabrot sem tilgreind voru í I. lið ákæru. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ágallar á I. lið ákæru væru svo verulegir að óhjákvæmilegt væri að vísa þeim lið einnig frá héraðsdómi, sbr. c–lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Af því leiddi að málinu í heild sinni var vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. júlí 2021. Ákæruvaldið krefst frávísunar á I. lið ákæru en að ákærði verði að öðru leyti sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd. 3. Ákærði krefst þess að máli þessu verði vísað frá héraðsdómi. Ágreiningsefni og málsatvik 4. Með ákæru héraðssaksóknara 27. febrúar 2020 voru ákærða gefin að sök ,,meiri háttar brot gegn skattalögum framin í sjálfstæðri atvinnustarfsemi hans og fyrir peningaþvætti“ með því að hafa: I. Eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti á lögmæltum tíma sem innheimtur var í starfseminni uppgjörstímabilin mars – apríl, maí – júní, september – október og nóvember – desember rekstrarárið 2017 og janúar – febrúar til og með maí – júní rekstrarárið 2018, sem bar að standa ríkissjóði skil á, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 8.745.728, sem sundurliðast sem hér greinir: [...] II. Fyrir peningaþvætti með því að hafa ráðstafað, geymt og/eða nýtt ávinning af brotum skv. I. lið ákæru, samtals kr. 8.745.728, í þágu atvinnurekstrarins eða eftir atvikum í eigin þágu. Háttsemi ákærða samkvæmt I. ákærulið var talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Þá var háttsemi hans samkvæmt II. ákærulið talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. 5. Við þingfestingu málsins í héraði 3. apríl 2020 játaði ákærði sakargiftir og var farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með héraðsdómi 29. apríl 2020 var ákærði sakfelldur fyrir háttsemi samkvæmt I. ákærulið en talið var að 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga tæmdi sök gagnvart 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. sömu laga. Refsing hans var ákveðin fangelsi í 15 mánuði en fullnustu 12 mánaða refsingarinnar frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Þá var honum gert að greiða 17.500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs að viðlagðri vararefsingu. 6. Ákæruvaldið áfrýjaði dómi héraðsdóms til Landsréttar og krafðist þess að ákærði yrði sakfelldur í samræmi við ákæru og refsing hans þyngd. 7. Ágreiningur málsins fyrir Landsrétti laut einkum að því hvort brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga tæmdi sök gagnvart broti gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. sömu laga. Með hinum áfrýjaða dómi 4. júní 2021 var talið að í þeim tilvikum þegar brot gagnvart 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga félli saman við frumbrot og ekkert lægi fyrir um viðbótarathafnir af hálfu ákærða yrði að telja að frumbrotið tæmdi sök gagnvart broti gegn 264. gr. laganna. Þar sem sú væri raunin í málinu var talið að brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga tæmdi sök gagnvart broti gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. laganna. Landsréttur staðfesti því dóm héraðsdóms. 8. Áfrýjunarleyfi var veitt 27. júlí 2021 á þeim grunni að úrlausn í málinu, meðal annars um beitingu 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. 9. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti krafðist ákæruvaldið frávísunar á I. lið ákæru. Málatilbúnaður aðila 10. Um II. lið ákæru vísar ákæruvaldið til þess að með lögum nr. 149/2009 hefðu verið gerðar grundvallarbreytingar á löggjöf á sviði peningaþvættis og efnahagsbrota. Byggir ákæruvaldið á því að orðalag 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sé skýrt. Við mat á því hvort sakfellt verði fyrir peningaþvætti beri ekki einungis að líta til þess hvort í háttseminni hafi falist áform um að fela uppruna og eiganda fjár sem sé ávinningur brotastarfsemi, eins og gert hafi verið í hinum áfrýjaða dómi, heldur beri að skoða skýrt orðalag ákvæðisins sjálfs. 11. Þá taldi ákæruvaldið niðurstöðu hins áfrýjaða dóms vera ranga um að frumbrot samkvæmt 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga tæmdi sök gagnvart broti gegn 264. gr. laganna. Of mikið væri gert úr orðalaginu „eftir því sem við á“ í tilvísun 2. mgr. 264. gr. til þess að brotasamsteypa samkvæmt 77. gr. laganna gildi um frumbrot og peningaþvætti. Þá væri áréttað að ákærði hefði játað alla þá háttsemi sem í ákæru greindi. Ágreiningur málsins í héraði hefði aðeins snúið að því hvort sú háttsemi sem ákærði játaði að „hafa ráðstafað, geymt og/eða nýtt ávinning af brotum skv. I lið ákæru [...] í þágu atvinnurekstrarins eða eftir atvikum í eigin þágu“ félli undir 264. gr. almennra hegningarlaga, en fyrir lægi að ákærði hefði játað að hafa nýtt ávinning af brotum sínum samkvæmt I. lið ákæru. 12. Jafnframt var á því byggt af hálfu ákæruvaldsins að fleira þyrfti að koma til eftir fullframningu frumbrots til að unnt væri að ákæra og refsa fyrir peningaþvættisbrot, til dæmis að maður geymdi eða nýtti ávinning. Um þyrfti að vera að ræða einhverja þá háttsemi sem félli að verknaðarlýsingu 264. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn yrði sú krafa ekki gerð til ákæruvaldsins að leitt yrði í ljós, að undangenginni játningu ákærða, hvernig hann hefði nýtt ávinning af skattalagabrotum í þágu atvinnurekstrar eða eftir atvikum í eigin þágu. Ekki væri skilyrði samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga að ávinningur væri nýttur á einhvern sérstakan hátt umfram annan. Með játningu ákærða teldist sannað að hann hefði nýtt ávinning af brotum sínum í skilningi 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. 13. Ákærði krafðist þess að málinu yrði í heild sinni vísað frá héraðsdómi. Um I. lið ákæru tók hann undir sjónarmið ákæruvaldsins. Um II. lið vísaði hann til dóms Hæstaréttar 2. mars 2022 í máli nr. 46/2021 þar sem ákæru vegna peningaþvættis var vísað frá héraðsdómi. Hann kvað ákæru í því máli hafa verið samhljóða ákæru í þessu máli og væri hún því háð sömu ágöllum og fjallað var um í fyrrnefndum dómi. Bæri því að vísa þessum ákærulið frá héraðsdómi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Lagaumhverfi 14. Í 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að 6 árum. Þá segir í 2. mgr., sem fjallar um svokallað sjálfsþvætti, að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. skuli sæta sömu refsingu og þar greinir og ákvæði 77. gr. laganna gildi þá eftir því sem við eigi. 15. Gildissvið 264. gr. almennra hegningarlaga var fært til núverandi horfs með lögum nr. 149/2009 og tekur það til ávinnings af öllum refsiverðum brotum. Um tilurð og skýringu ákvæðisins í þeirri mynd, sbr. 7. gr. laga nr. 149/2009, hefur ítarlega verið fjallað í dómum Hæstaréttar, meðal annars dómi 25. mars 2021 í máli nr. 29/2020 og fyrrgreindum dómi réttarins í máli nr. 46/2021. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 149/2009 sagði að við breytingar á ákvæðinu væri horft til 6. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi 15. nóvember 2000, svonefnds Palermo-samnings, og athugasemda í skýrslu FATF (Financial Action Task Force) 13. október 2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti á Íslandi. Með breytingunni væri gildissvið peningaþvættisbrotsins samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga rýmkað þannig að það tæki ekki einungis til frumbrota á þeim lögum, heldur einnig til refsiverðra frumbrota á öðrum lögum sem fullnægðu að öðru leyti hlutrænum og huglægum efnisskilyrðum ákvæðisins. Jafnframt væri markmið lagabreytingarinnar að gera ákvæðið skýrara með því að orða í lokamálslið 1. mgr. greinarinnar sérstaklega þær verknaðaraðferðir sem slíkt brot tæki til, með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 6. gr. Palermo-samningsins. Við túlkun einstakra verknaðarþátta yrði sem fyrr að horfa til þess að peningaþvætti væri í megindráttum hver sú starfsemi sem lyti að því að fela uppruna og eiganda fjár sem væri ávinningur af brotastarfsemi. Meginmarkmiðið væri að gera háttsemina refsiverða og höggva að rótum afbrota með því að uppræta aðalhvata þeirra, þann ávinning sem af þeim kynni að leiða. 16. Með fyrrgreindum lögum nr. 149/2009 var lögfest ákvæði um sjálfsþvætti í 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sem felur í sér að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt peningaþvættisbrot samkvæmt 1. mgr. sömu greinar skuli sæta sömu refsingu og þar greini. Fram kom í athugasemdum í greinargerð með frumvarpinu að með málsgreininni væri horft til athugasemda í skýrslu FATF-nefndarinnar um að óljóst væri hvort gildandi lagareglur tækju til sjálfsþvættis. Enn fremur sagði að þar sem frumbrot og síðar tilkomið sjálfsþvætti á ávinningi sem af því stafaði yrðu þannig tvö sjálfstæð brot væri áréttað að 77. gr. almennra hegningarlaga um brotasamsteypu gilti eftir því sem við ætti. Niðurstaða Um I. ákærulið 17. Eins og að framan greinir er ákærða samkvæmt I. ákærulið gefið að sök meiri háttar brot gegn skattalögum framin í sjálfstæðri atvinnustarfsemi, sbr. 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. 18. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti vísaði ákæruvaldið til þess að ákærða hefði þegar verið gert að sæta álagi á vantalinn virðisaukaskatt á grundvelli 27. gr. laga nr. 50/1988. Því myndi efnismeðferð og sakfelling samkvæmt I. ákærulið brjóta í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, í ljósi þess að ekki væri uppfyllt skilyrði um nægjanlega samþættingu í tíma. Með vísan til þessa lýsti ákæruvaldið því yfir að þess væri nú krafist að ákæruliðnum yrði vísað frá héraðsdómi. 19. Samkvæmt þessu verður I. ákærulið vísað frá héraðsdómi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 27. september 2018, í máli nr. 521/2017. Um II. ákærulið 20. Í II. lið ákæru var ákærða gefið að sök peningaþvætti en hann sýknaður af því broti með hinum áfrýjaða dómi þar sem talið var að skattalagabrot samkvæmt I. lið ákæru tæmdu sök gagnvart broti gegn 264. gr. almennra hegningarlaga. 21. Við mat á því hvort skattalagabrot samkvæmt I. ákærulið tæmi sök gagnvart broti gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. laganna ber að líta til þess að þar er tiltekið að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. skuli sæta sömu refsingu og þar greini. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 149/2009 sagði að þar sem frumbrot og síðar tilkomið sjálfsþvætti á ávinningi sem af því stafaði yrðu þannig tvö sjálfstæð brot væri áréttað að 77. gr. almennra hegningarlaga um brotasamsteypu gilti eftir því sem við ætti. Framangreind tilvísun í athugasemdunum til tveggja sjálfstæðra brota, frumbrots og síðar tilkomins sjálfsþvættis, sem og tilvísun ákvæðisins til brotasamsteypu mælir að öllu jöfnu gegn því að litið verði svo á að annað brotanna tæmi sök gagnvart hinu. 22. Af hálfu ákæruvaldsins var vísað til þess við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti að hið ætlaða sjálfsþvættisbrot sem ákært væri fyrir fæli í sér sjálfstætt og eftirfarandi brot gagnvart því broti sem ákært væri fyrir í I. ákærulið og fullframning skattalagabrota væri skilyrði þess að unnt væri að koma fram refsingu fyrir peningaþvætti. Það væri jafnframt útilokað við þessar aðstæður að lýsa broti ákærða með nákvæmari hætti eða greina í einstökum atriðum hvernig ávinningi af skattalagabrotum hefði verið varið. 23. Sú háttsemi sem ákærða er gefin að sök í II. ákærulið, að hafa ráðstafað, geymt og/eða nýtt ávinning af brotum samkvæmt I. lið ákæru, samtals að tilgreindri fjárhæð, í þágu atvinnurekstrarins eða eftir atvikum í eigin þágu, felur í sér sjálfstætt brot samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sem ekki gat komið til fyrr en eftir fullframningu skattalagabrotanna og þá með tilgreindri háttsemi sem bar að lýsa í ákæru, sbr. c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa fyrirmæli þess ákvæðis verið skýrð svo að lýsing á háttsemi sem ákærða er gefin að sök í ákæru verði að vera svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni hvaða háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa gerst brotlegur við. Mega ekki vera slík tvímæli um hverjar sakargiftir eru að ákærða verði með réttu talið torvelt að taka afstöðu til þeirra og halda uppi vörnum. Að þessu leyti verður ákæra að vera svo skýr að dómara sé kleift af henni einni að gera sér grein fyrir hvað ákærði er sakaður um og hvernig sú háttsemi verður talin refsiverð. Ákæra verður því að leggja viðhlítandi grundvöll að saksókn svo að dómur verði lagður á málið í samræmi við ákæru enda verður ákærði ekki sakfelldur fyrir aðra hegðun en þar greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Það veltur síðan á atvikum máls og eðli brots hvaða nánari kröfur verða gerðar samkvæmt framansögðu til skýrleika ákæru. Getur þá reynst nauðsynlegt að nýta heimild d-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 til að setja fram í ákæru röksemdir sem málsókn er byggð á með svo skýrum hætti að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftirnar eru. 24. Ákvæði 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sem leggur refsingu við því þegar maður þvættar ávinning af eigin broti hefur ekki að geyma sjálfstæða verknaðarlýsingu heldur vísar bæði um lýsingu á verknaði og refsimörk til hins almenna peningaþvættisákvæðis í 1. mgr. greinarinnar. Í 1. mgr. er talin upp ýmis sú háttsemi sem felld er undir peningaþvætti þar á meðal að taka við, nýta, eða afla sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum. Samkvæmt því getur það varðað refsingu sem sjálfsþvætti að nýta eða afla sér ávinnings af eigin broti. 25. Ætlaðri refsiverðri háttsemi ákærða á grundvelli II. liðar ákæru er lýst á þann hátt að hann hafi ,,ráðstafað, geymt og/eða nýtt ávinning“ af brotum samkvæmt I. lið ákæru í þágu atvinnurekstrarins sem engin grein er gerð fyrir í ákæru hver hafi verið, eða eftir atvikum í eigin þágu. Í ákærunni er í engu lýst í hverju þær athafnir ákærða til viðbótar brotum samkvæmt I. lið fólust og ætlaðri háttsemi ákærða auk þess lýst með valkvæðum hætti. Þá er ætlað brot ákærða samkvæmt II. lið ákæru ekki afmarkað í tíma með neinum hætti, hvorki um upphafstíma þess né hvenær því lauk og ekki er þar að finna neina sundurliðun þess fjár sem ákærði á að hafa ráðstafað, geymt og/eða nýtt með þessum hætti, annars vegar persónulega en hins vegar í þágu atvinnurekstrarins. Þá hefur ákæran ekki að geyma sértækar upplýsingar um fjárhagslegar ráðstafanir ákærða, svo sem um nýtingu bankareikninga eða sambærileg gögn, sem stutt gætu sönnun um brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt framangreindu skortir með öllu á að lýst sé fyrrgreindum verknaðarþáttum peningaþvættisbrotsins. 26. Meta þarf eftir atvikum hversu nákvæm slík lýsing í ákæru þurfi að vera til þess að skilyrðum c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 sé talið fullnægt. Á slíkt mat reynir hins vegar ekki í þessu máli þar sem engin tilraun var gerð til að lýsa ráðstöfun, geymslu, og/eða nýtingu ætlaðs ávinnings af skattalagabrotum samkvæmt I. lið ákæru. Hafi sá ómöguleiki á nánari tilgreiningu brotsins verið fyrir hendi, sem ákæruvaldið ber við í málinu, hlaut samkvæmt framansögðu að koma til álita hvort yfirhöfuð væri við slíkar aðstæður tækt að ákæra á grundvelli 264. gr. almennra hegningarlaga, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 46/2021. 27. Ákærði játaði þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru við þingfestingu málsins í héraði. Játning ákærða breytir engu um þær kröfur sem gera verður til skýrleika ákæru, enda gat hann ekki með góðu móti ráðið af henni einni hvaða háttsemi honum var gefin að sök umfram þau skattalagabrot sem tilgreind eru í I. lið ákæru. 28. Samkvæmt framangreindu eru ágallar á II. lið ákæru svo verulegir að óhjákvæmilegt er að vísa þeim lið einnig frá héraðsdómi, sbr. c–lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Af því leiðir að málinu er í heild sinni vísað frá héraðsdómi. 29. Allur kostnaður vegna reksturs málsins á öllum dómstigum greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi. Allur sakarkostnaður á öllum dómstigum greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, í héraði og fyrir Landsrétti, Sævars Þórs Jónssonar lögmanns, 768.180 krónur, og skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Þ. Á. Vilhjálmssonar lögmanns, 744.000 krónur. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=c2536947-632a-4451-a47c-98887dc28fbb&verdictid=ffa7bb32-4e89-4c10-90eb-80eab8fefb43
Mál nr. 33/2021
Ákæra Fjárdráttur Umboðssvik Peningaþvætti Lögskýring Frávísun frá héraðsdómi að hluta
Þ var ákærður fyrir fjárdrátt, umboðssvik og peningaþvætti. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að sú háttsemi sem Þ væri gefin að sök í III. kafla ákæru um peningaþvætti fæli í sér sjálfstætt brot samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sem ekki hefði getað komið til fyrr en eftir fullframningu auðgunarbrotanna og þá með tilgreindri háttsemi sem bar að lýsa í ákæru, sbr. c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Í ákæru hefði aðeins verið lýst nýtingu þeirra verðmæta sem auðgunarbrotin samkvæmt I. og II. kafla ákæru lutu að sem lið í lýsingu þeirra brota en ekki nánar nýtingu ávinningsins sem verknaðarþáttar í peningaþvættisbrotum. Þannig hefði meðal annars ekki verið lýst sérstaklega hvar, hvenær eða með hvaða hætti slík brot voru framin. Vísaði Hæstiréttur til þess að játning Þ breytti engu um þær kröfur sem gera yrði til skýrleika ákæru, enda gæti hann ekki með góðu móti ráðið af henni einni hvaða háttsemi honum var gefin að sök umfram þau auðgunarbrot sem tilgreind voru í I. og II. kafla ákæru og fólu í sér öflun fjárvinnings á kostnað ADHD samtakanna. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ágallar á III. kafla ákæru væru svo verulegir að óhjákvæmilegt væri að vísa þeim kafla frá héraðsdómi, sbr. c–lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Að öðru leyti var hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en upphafsdag dráttarvaxta einkaréttarkröfu.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. júlí 2021. Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd. Ákærði krefst þess aðallega að III. kafla ákæru verði vísað frá dómi og að refsing hans verði milduð. Til vara krefst hann þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en refsingu sem hann krefst að verði milduð. Þá krefst hann sýknu af einkaréttarkröfu brotaþola. 3. Af hálfu einkaréttarkröfuhafa, ADHD samtakanna, er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um einkaréttarkröfu, að því frátöldu að krafist er dráttarvaxta frá 3. maí 2020 til greiðsludags. Ágreiningsefni og málsatvik 4. Með ákæru héraðssaksóknara 5. mars 2020 voru ákærða gefin að sök fjárdráttur, umboðssvik og peningaþvætti í starfi sínu sem framkvæmdastjóri ADHD samtakanna sem nánar var svo lýst í ákæru: I. Fyrir fjárdrátt, með því að hafa dregið sér fjármuni ADHD samtakanna, samtals kr. 7.115.767 í 50 tilvikum, á tímabilinu 30. júlí 2015 til og með 26. maí 2018, með debetkorti, greiðslu reikninga í eigin þágu, veitingu styrks og með millifærslum af bankareikningum samtakanna hjá Íslandsbanka hf., nr. [...] og nr. [...] og Landsbankanum hf., nr. [...] og [...], yfir á sinn persónulega bankareikning nr. [...] hjá Arion banka hf., og ráðstafað ávinningnum í eigin þágu líkt og rakið er í III. kafla ákærunnar. Tilvikin 50 sundurliðast með eftirfarandi hætti: [...]. II. Fyrir umboðssvik, með því að hafa misnotað aðstöðu sína til að skuldbinda ADHD samtökin á tímabilinu 19.2.2015 til og með 19.5.2018, með því að nota í alls 131 skipti kreditkort félagsins nr. [...] og [...] útgefin af Íslandsbanka og kreditkort félagsins útgefið af Landsbankanum nr. [...] til kaupa á vörum og þjónustu í heimildarleysi til eigin nota, samtals að fjárhæð kr. 2.096.969. Kreditkortin hafði ákærði fengið útgefin vegna starfa sinna sem framkvæmdastjóri ADHD samtakanna og var honum ætlað að greiða með því útgjöld tengd starfsemi samtakanna. Framangreind notkun kortanna var hins vegar án heimilda og með öllu ótengd störfum ákærða fyrir félagið. Tilvikin 131 sundurliðast með eftirfarandi hætti: [...]. III. Fyrir peningaþvætti, með því að hafa nýtt ávinning af brotum samkvæmt ákæruköflum I og II, samtals að fjárhæð kr. 9.212.736, í eigin þágu. Háttsemi ákærða samkvæmt I. kafla ákæru var talin varða við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, háttsemi samkvæmt II. kafla ákæru við 1. mgr. 249. gr. og samkvæmt III. kafla ákæru við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. sömu laga. 5. ADHD samtökin gerðu þá kröfu að ákærði yrði dæmdur til að greiða þeim 9.212.736 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. nóvember 2018 til greiðsludags. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti breytti lögmaður einkaréttarkröfuhafa upphafsdegi dráttarvaxta á þann veg að þeirra væri krafist frá 3. maí 2020 til greiðsludags. 6. Við þingfestingu málsins fyrir héraðsdómi 3. apríl 2020 óskaði ákærði ekki eftir að honum yrði skipaður verjandi. Eftir honum var bókað að hann viðurkenndi skýlaust að hafa gerst ,,sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.“ Með málið var því farið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. 7. Með héraðsdómi 29. apríl 2020 var ákærði sakfelldur fyrir háttsemi samkvæmt I. og II. kafla ákæru en dómurinn taldi að 1. mgr. 247. gr. og 1. mgr. 249. gr. almennra hegningarlaga tæmdu sök gagnvart broti gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. sömu laga. Refsing hans var ákveðin fangelsi í 10 mánuði en fullnustu sjö mánaða refsingarinnar frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Þá var honum gert að greiða ADHD samtökunum þá fjárhæð sem krafist hafði verið með nánar tilgreindum vöxtum. 8. Ákæruvaldið áfrýjaði dómi héraðsdóms til Landsréttar og krafðist þess að ákærði yrði sakfelldur í samræmi við ákæru og refsing hans þyngd. 9. Ágreiningur málsins fyrir Landsrétti laut einkum að því hvort brot gegn 1. mgr. 247. gr. og 1. mgr. 249. gr. almennra hegningarlaga tæmdu sök gagnvart broti gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. sömu laga. Með hinum áfrýjaða dómi 4. júní 2021 var talið að í þeim tilvikum þegar brot gagnvart 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga félli saman við frumbrot og ekkert lægi fyrir um viðbótarathafnir af hálfu ákærða yrði að telja að frumbrotið tæmdi sök gagnvart broti gegn 264. gr. laganna. Þar sem sú væri raunin í málinu var talið að brot gegn 1. mgr. 247. gr. og 1. mgr. 249. gr. tæmdu sök gagnvart broti gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Landsréttur staðfesti því dóm héraðsdóms. 10. Áfrýjunarleyfi var veitt 27. júlí 2021 á þeim grunni að úrlausn í málinu, meðal annars um beitingu 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Málatilbúnaður aðila 11. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti voru reifuð sjónarmið ákæruvaldsins um I. og II. kafla ákæru. Varðandi III. kafla ákæru var vísað til þess að með lögum nr. 149/2009 hafi verið gerðar grundvallarbreytingar á löggjöf á sviði peningaþvættis og efnahagsbrota. Byggir ákæruvaldið á því að orðalag 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sé skýrt. Við mat á því hvort sakfellt verður fyrir peningaþvætti beri ekki einungis að líta til þess hvort háttsemin hafi falist í að fela uppruna og eiganda fjár sem er ávinningur brotastarfsemi, eins og gert hafi verið í hinum áfrýjaða dómi, heldur beri að skoða skýrt orðalag ákvæðisins sjálfs. 12. Þá taldi ákæruvaldið niðurstöðu hins áfrýjaða dóms vera ranga um að frumbrot samkvæmt 1. mgr. 247. gr. og 1. mgr. 249. gr. almennra hegningarlaga tæmdu sök gagnvart broti gegn 264. gr. laganna. Of mikið væri gert úr orðalaginu „eftir því sem við á“ í tilvísun 2. mgr. 264. gr. til þess að brotasamsteypa samkvæmt 77. gr. laganna gildi um frumbrot og peningaþvætti. Þá var áréttað að ákærði hefði játað alla þá háttsemi sem í ákæru greini. Ágreiningur málsins hefði í héraði aðeins snúið að því hvort sú háttsemi sem ákærði játaði að ,,hafa nýtt ávinning af brotum samkvæmt ákæruköflum I og II [...] í eigin þágu“ félli undir 264. gr. almennra hegningarlaga, en fyrir lægi að ákærði hefði játað að hafa nýtt ávinning af brotum sínum samkvæmt I. og II. kafla ákæru. 13. Jafnframt var á því byggt af hálfu ákæruvaldsins að fleira þyrfti að koma til eftir fullframningu frumbrots til að unnt væri að ákæra og refsa fyrir peningaþvættisbrot, til dæmis að maður geymdi eða nýtti ávinning. Um þyrfti að vera að ræða einhverja þá háttsemi sem félli að verknaðarlýsingu 264. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn yrði sú krafa ekki gerð til ákæruvaldsins að leitt yrði í ljós, að undangenginni játningu ákærða, hvernig hann hefði nýtt ávinning af auðgunarbrotunum í eigin þágu. Ekki væri skilyrði samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga að ávinningur væri nýttur á einhvern sérstakan hátt umfram annan. Með játningu ákærða teldist sannað að hann hefði nýtt ávinning af brotum sínum í skilningi 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. 14. Af hálfu ákærða var byggt á því að dómur Landsréttar væri réttur að því frátöldu að refsing hans hefði verið ákveðin of þung. Því væri gerð krafa um að hún yrði milduð og bundin skilorði að öllu leyti. Um III. kafla ákæru var vísað til dóms Hæstaréttar 2. mars 2022 í máli nr. 46/2021 þar sem ákæru vegna peningaþvættis var vísað frá héraðsdómi. Ákæra í þessu máli væri samhljóða ákæru í því máli og háð sömu ágöllum og fjallað var um í fyrrnefndum dómi. Bæri því að vísa þessum ákærulið frá héraðsdómi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Lagaumhverfi 15. Í 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að 6 árum. Þá segir í 2. mgr., sem fjallar um svokallað sjálfsþvætti, að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. skuli sæta sömu refsingu og þar greinir og ákvæði 77. gr. laganna gildi þá eftir því sem við eigi. 16. Gildissvið 264. gr. almennra hegningarlaga var fært til núverandi horfs með lögum nr. 149/2009 og tekur það til ávinnings af öllum refsiverðum brotum. Um tilurð og skýringu ákvæðisins í þeirri mynd, sbr. 7. gr. laga nr. 149/2009, hefur ítarlega verið fjallað í dómum Hæstaréttar, meðal annars dómi 25. mars 2021 í máli nr. 29/2020 og fyrrgreindum dómi réttarins í máli nr. 46/2021. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 149/2009 sagði að við breytingar á ákvæðinu væri horft til 6. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi 15. nóvember 2000, svonefnds Palermo-samnings, og athugasemda í skýrslu FATF (Financial Action Task Force) 13. október 2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti á Íslandi. Með breytingunni væri gildissvið peningaþvættisbrotsins samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga rýmkað þannig að það tæki ekki einungis til frumbrota á þeim lögum, heldur einnig til refsiverðra frumbrota á öðrum lögum sem fullnægðu að öðru leyti hlutrænum og huglægum efnisskilyrðum ákvæðisins. Jafnframt væri markmið lagabreytingarinnar að gera ákvæðið skýrara með því að orða í lokamálslið 1. mgr. greinarinnar sérstaklega þær verknaðaraðferðir sem slíkt brot tæki til, með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 6. gr. Palermo-samningsins. Við túlkun einstakra verknaðarþátta yrði sem fyrr að horfa til þess að peningaþvætti væri í megindráttum hver sú starfsemi sem lyti að því að fela uppruna og eiganda fjár sem væri ávinningur af brotastarfsemi. Meginmarkmiðið væri að gera háttsemina refsiverða og höggva að rótum afbrota með því að uppræta aðalhvata þeirra, þann ávinning sem af þeim kynni að leiða. 17. Með fyrrgreindum lögum nr. 149/2009 var lögfest ákvæði um sjálfsþvætti í 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sem felur í sér að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt peningaþvættisbrot samkvæmt 1. mgr. sömu greinar skuli sæta sömu refsingu og þar greini. Fram kom í athugasemdum í greinargerð með frumvarpinu að með málsgreininni væri horft til athugasemda í skýrslu FATF-nefndarinnar um að óljóst væri hvort gildandi lagareglur tækju til sjálfsþvættis. Enn fremur sagði að þar sem frumbrot og síðar tilkomið sjálfsþvætti á ávinningi sem af því stafaði yrðu þannig tvö sjálfstæð brot væri áréttað að 77. gr. almennra hegningarlaga um brotasamsteypu gilti eftir því sem við ætti. Niðurstaða 18. Ákærði var með hinum áfrýjaða dómi sakfelldur fyrir fjárdrátt samkvæmt I. kafla ákæru með því að hafa dregið sér fjármuni ADHD samtakanna á tilgreindu tímabili í 50 tilvikum, með greiðslum af debetkorti, greiðslu reikninga í eigin þágu, veitingu styrks og með millifærslum af bankareikningum samtakanna yfir á sinn persónulega bankareikning og ,,ráðstafað ávinningnum í eigin þágu líkt og rakið er í III. kafla ákærunnar.” Tilvikin voru nánar sundurliðuð í ákæru þar sem fram kom dagsetning, aðferð, viðtakandi og fjárhæð hverrar greiðslu fyrir sig en ákærði var viðtakandi greiðslu í 43 tilvikum. 19. Jafnframt var ákærði sakfelldur fyrir umboðssvik samkvæmt II. kafla ákæru með því að hafa misnotað aðstöðu sína til að skuldbinda ADHD samtökin á tilgreindu tímabili með því að nota í alls 131 skipti kreditkort félagsins til kaupa á vörum og þjónustu í heimildarleysi til eigin nota, sem voru með öllu ótengd störfum hans fyrir félagið. Tilvikin voru sundurgreind í ákæru með þeim hætti að fram komu viðtakendur greiðslu, dagsetning færslna og fjárhæðir. 20. Í III. kafla ákæru var ákærða gefið að sök peningaþvætti en hann sýknaður af því broti með hinum áfrýjaða dómi þar sem talið var að brot gegn 1. mgr. 247. og 1. mgr. 249. gr. almennra hegningarlaga tæmdu sök gagnvart broti gegn 264. gr. laganna. 21. Við mat á því hvort brot gegn 1. mgr. 247. og 1. mgr. 249. gr. almennra hegningarlaga tæmi sök gagnvart broti gegn 264. gr. laganna ber að líta til þess að í 2. mgr. 264. gr. þeirra er tiltekið að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. skuli sæta sömu refsingu og þar greini. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 149/2009 sagði að þar sem frumbrot og síðar tilkomið sjálfsþvætti á ávinningi sem af því stafaði yrðu þannig tvö sjálfstæð brot væri áréttað að 77. gr. almennra hegningarlaga um brotasamsteypu gilti eftir því sem við ætti. Framangreind tilvísun í athugasemdunum til tveggja sjálfstæðra brota, frumbrots og síðar tilkomins sjálfsþvættis, sem og tilvísun ákvæðisins til brotasamsteypu mælir að öllu jöfnu gegn því að litið verði svo á að annað brotanna tæmi sök gagnvart hinu. 22. Í greinargerð ákæruvaldsins til Hæstaréttar var á því byggt að ákærði hefði ekki nýtt í eigin þágu fé sem hann hefði dregið sér samtímis því sem hann hefði millifært inn á bankareikning sinn, enda hafi hlotið að koma til frekari athafnir af hans hálfu síðar í því skyni. Hið sama ætti við um greiðslur með kreditkorti ADHD samtakanna sem ákærði hefði notað til að kaupa ýmsa þjónustu og varning sem nýst hafi honum í framhaldinu. Sú nýting hefði ekki farið fram á sama augnabliki og frumbrotin voru framin heldur síðar. Af hálfu ákæruvaldsins var áréttað við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti að hið ætlaða sjálfsþvættisbrot fæli í sér sjálfstætt og eftirfarandi brot gagnvart þeim brotum sem ákært væri fyrir í I. og II. kafla ákæru. 23. Sú háttsemi sem ákærða er gefin að sök í III. kafla ákæru, að hafa nýtt sér ávinning af auðgunarbrotum, felur í sér sjálfstætt brot samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sem ekki gat komið til fyrr en eftir fullframningu auðgunarbrotanna og þá með tilgreindri háttsemi sem bar að lýsa í ákæru, sbr. c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa fyrirmæli þess ákvæðis verið skýrð svo að lýsing á háttsemi sem ákærða er gefin að sök í ákæru verði að vera svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni hvaða háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa gerst brotlegur við. Mega ekki vera slík tvímæli um hverjar sakargiftir eru að ákærða verði með réttu talið torvelt af henni einni að gera sér grein fyrir hvað hann er sakaður um og hvernig sú háttsemi verði talin refsiverð. Ákæra verður því að leggja viðhlítandi grundvöll að saksókn svo að dómur verði lagður á málið í samræmi við hana enda verður ákærði ekki sakfelldur fyrir aðra hegðun en þar greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Það veltur síðan á atvikum máls og eðli brots hvaða nánari kröfur verða gerðar samkvæmt framansögðu til skýrleika ákæru. 24. Ákvæði 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sem leggur refsingu við því þegar maður þvættar ávinning af eigin broti hefur ekki að geyma sjálfstæða verknaðarlýsingu heldur vísar bæði um lýsingu á verknaði og refsimörk til hins almenna peningaþvættisákvæðis í 1. mgr. greinarinnar. Í 1. mgr. er talin upp ýmis sú háttsemi sem felld er undir peningaþvætti þar á meðal að taka við, nýta eða afla sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum. Samkvæmt því getur það varðað refsingu sem sjálfsþvætti að nýta eða afla sér ávinnings af eigin broti. 25. Þegar sjálfsþvætti er talið felast í að nýta eða afla sér ávinnings af eigin broti og frumbrotið er auðgunarbrot reynir á samspil frumbrots og peningaþvættisbrots. Sameiginlegum verknaðarþætti allra auðgunarbrota er lýst í 243. gr. almennra hegningarlaga en þar segir að fyrir slík brot skuli því aðeins refsa að þau hafi verið framin í auðgunarskyni. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að almennum hegningarlögum sagði að ásetningur geranda þyrfti að standa til þess að afla sér eða öðrum fjárvinnings á þann hátt að annar maður biði ólöglega fjártjón að sama skapi. Ljóst er að þegar ákæra er byggð á því að ákærði hafi gerst sekur um auðgunarbrot og eftirfarandi háttsemi sem falist hafi í að afla eða nýta sér ávinning þeirra auðgunarbrota þannig að um brotasamsteypu teljist vera að ræða sé nauðsynlegt að tilgreina í ákæru svo nákvæmlega sem unnt er í hverju sú háttsemi var fólgin sem kom til eftir fullframningu auðgunarbrotsins og talin er fela í sér peningaþvætti. Getur þá reynst nauðsynlegt að nýta heimild d-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 til að setja fram í ákæru röksemdir sem málsókn er byggð á með svo skýrum hætti að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftirnar eru. 26. Í I. kafla ákæru var lýst fjárdráttarbrotum ákærða sem í flestum tilvikum fólust í því að hafa greitt með debetkorti ADHD samtakanna reikninga í eigin þágu eða millifæra fjárhæðir af bankareikningi samtakanna yfir á hans persónulega reikning og ráðstafað ávinningi í eigin þágu. Eins og rakið hefur verið telur ákæruvaldið að ákærði hafi ekki nýtt í eigin þágu féð sem hann hafi dregið sér samtímis því sem hann hafi tileinkað sér fjármunina, enda hafi hlotið að koma til frekari athafnir af hans hálfu síðar í því skyni. Frumbrot ákærða voru auðgunarbrot og lýsing á þeim í ákæru, þar á meðal á tileinkun verðmæta og auðgun, í samræmi við það. Þá kom fram hverjum var greitt eða hvert millifærslur runnu, fjárhæð hverrar millifærslu eða greiðslu og dagsetning hennar. Í III. kafla ákæru er ákærða einungis gefið að sök að hafa nýtt ávinning af fjárdráttarbrotunum í eigin þágu og um það vísað til I. kafla. Þar er hins vegar ekki að finna nánari lýsingu á því með hvaða hætti hann nýtti ávinninginn í eigin þágu og þar með enga lýsingu á frekari athöfnum ákærða sem falið gætu í sér brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. 27. Í II. kafla ákæru voru tilgreind fjölmörg tilvik um notkun ákærða á kreditkortum ADHD samtakanna til kaupa á vörum og þjónustu í heimildarleysi til eigin nota. Frumbrot ákærða voru auðgunarbrot og lýsing á þeim í ákæru, þar á meðal á tileinkun og auðgun, í samræmi við það. Tilgreint var að ákærði keypti vöru eða þjónustu, fjárhæð hverrar greiðslu og dagsetning hennar. Í III. kafla ákæru var ákærða einungis gefið að sök að hafa nýtt ávinning af umboðssvikabrotunum í eigin þágu og um það vísað til II. kafla. Engin nánari grein var hins vegar gerð fyrir því hvernig frekari nýtingu ávinnings af brotunum var háttað. 28. Samkvæmt framansögðu var í ákæru aðeins lýst nýtingu þeirra verðmæta sem auðgunarbrotin lutu að sem lið í lýsingu þeirra brota en ekki nánari nýtingu ávinningsins sem verknaðarþáttar í peningaþvættisbrotum, þar á meðal var ekki lýst sérstaklega hvar, hvenær eða með hvaða hætti slík brot voru framin. Meta þarf eftir atvikum hversu nákvæm slík lýsing í ákæru þurfi að vera til þess að skilyrðum c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 sé talið fullnægt. Á slíkt mat reynir hins vegar ekki í þessu máli þar sem engin tilraun var gerð til að lýsa nýtingu ávinnings umfram það sem fólst í lýsingu á þeim auðgunarbrotum sem ákært var fyrir og engar skýringar eða röksemdir samkvæmt d-lið 1. mgr. 152. gr. voru í ákærunni. Hafi sá ómöguleiki verið fyrir hendi í máli þessu að ekki hafi verið unnt að tilgreina þá háttsemi sem ákæruvaldið taldi felast í nýtingu ávinnings auðgunarbrota þeirra sem ákærði var sakfelldur fyrir, líkt og ákæruvaldið hélt fram við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti, hlaut samkvæmt framansögðu að koma til álita hvort ákæra bæri fyrir þau ætluðu brot gegn 264. gr. almennra hegningarlaga sem tilgreind eru í ákæru, sbr. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 46/2021. 29. Ákærði játaði þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru við þingfestingu málsins í héraði. Játning ákærða breytir engu um þær kröfur sem gera verður til skýrleika ákæru, enda gat hann ekki með góðu móti ráðið af henni einni hvaða háttsemi honum var gefin að sök umfram þau auðgunarbrot sem tilgreind eru í I. og II. kafla ákæru og fólu í sér öflun fjárvinnings á kostnað ADHD samtakanna. Samkvæmt framangreindu eru ágallar á III. kafla ákæru svo verulegir að óhjákvæmilegt er að vísa þeim kafla hennar frá héraðsdómi, sbr. c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. 30. Að öðru leyti verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en upphafsdag dráttarvaxta einkaréttarkröfu sem dæmdir verða eins og nánar greinir í dómsorði. 31. Ákærði greiði bótakrefjanda, ADHD samtökunum, málskostnað við að halda kröfu sinni fram fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008. 32. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Vísað er frá héraðsdómi III. kafla ákæru. Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um sakfellingu ákærða, Þrastar Emilssonar, samkvæmt I. og II. kafla ákæru, refsingu og sakarkostnað svo og málskostnað ADHD samtakanna. Ákærði greiði ADHD samtökunum 9.212.736 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. maí 2020 til greiðsludags og 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Arnars Kormáks Friðrikssonar lögmanns, 868.000 krónur. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=620d9ddc-48bc-45b5-ad84-1d9f71189cde&verdictid=6600092c-6f11-49b8-aa1a-fede29a7e7da
Mál nr. 52/2021
Reglugerðarheimild Lögmætisregla Stjórnarskrá Félagsleg aðstoð Jafnræðisregla
Í málinu var deilt um hvort að TR hefði verið heimilt á árunum 2011 til 2015 að reikna greiðslur til A á sérstakri uppbót á lífeyri vegna framfærslu, samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, í samræmi við búsetu hennar hér á landi. A hafði búið í Danmörku um hríð áður en hún var metin til 75% varanlegrar örorku árið 2011. Ákvörðun TR var reist á fyrirmælum 3. mgr. 15. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1052/2009 um að fjárhæð uppbótar á lífeyri skyldi greiðast í samræmi við búsetu hér á landi. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að í lögum nr. 99/2007 hafi verið að finna reglugerðarheimild fyrir ráðherra í 5. mgr. 9. gr. til að mæla nánar fyrir um uppbætur á lífeyri, meðal annars um tekju- og eignamörk. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 mætti greiða lífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri ef sýnt þætti að hann gæti ekki framfleytt sér án þess og mælt fyrir um mörk tekna sem miðað skyldi við. Hæstiréttur tók fram að með því að binda fjárhæð uppbótar á lífeyri við búsetu hér á landi, eins og gert var með 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1052/2009, gæti komið til þess að fjárhæðin skerðist þannig að hún næði ekki þeirri fjárhæð sem miðað væri við í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007. Taldi Hæstiréttur því að áskilnaður um búsetutíma hér á landi sem skilyrði fyrir uppbótinni samrýmdist ekki tilgangi laga nr. 99/2007 um að lífeyrisþegar byggju við tiltekna lágmarksframfærslu. Þá væri slíkur áskilnaður ekki tilgreindur í lögum heldur í reglugerð sem sett var með vísan til almennrar reglugerðarheimildar. Væri því ekki fullnægt kröfu lögmætisreglunnar um að almenn fyrirmæli stjórnvalda eigi sér stoð í lögum og fari ekki í bága við þau. Þá leiddi skýring eftir innra samræmi jafnframt til þess að ekki væri lagaheimild fyrir ákvæði reglugerðarinnar. Varðandi þá málsástæðu TR að lífeyrisþegar sem hefðu sætt skerðingu á uppbót á lífeyri vegna búsetu erlendis kynnu að hafa þegið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sem taka bæri tillit til tók Hæstiréttur fram TR hefði hvorki upplýst um slíkar greiðslur til A né skorað á A að gera það. Var því fallist á kröfur A á hendur TR.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. nóvember 2021. Hann krefst sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. 3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. 4. A lést […]. desember 2021. Í samræmi við 2. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hefur dánarbú hennar tekið við aðild að málinu fyrir Hæstarétti. Ágreiningsefni 5. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort áfrýjanda hafi verið heimilt á árunum 2011 til 2015 að reikna greiðslur til A á sérstakri uppbót á lífeyri vegna framfærslu, samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, í samræmi við búsetu hennar hér á landi. Ákvörðunin var reist á fyrirmælum 3. mgr. 15. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri um að fjárhæð sérstakrar uppbótar skyldi greiðast í samræmi við búsetu hér á landi. 6. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun um að reikna lífeyrisuppbót til A í samræmi við búsetu hennar hér á landi ætti sér ekki lagastoð og tók til greina fjárkröfu hennar um leiðréttingu. Með dómi Landsréttar var sú niðurstaða staðfest. 7. Með ákvörðun Hæstaréttar 25. nóvember 2021 var veitt leyfi til áfrýjunar á þeim grundvelli að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi meðal annars um rétt til lífeyrisuppbótar samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 og um lagastoð þágildandi reglugerðar nr. 1052/2009. Málsatvik og málsmeðferð 8. A var búsett á Íslandi til ársins […] þegar hún flutti til Danmerkur en þá var hún […] ára. Þar mun hún hafa búið til ársins […], þegar hún flutti aftur til Íslands, að undanskildum tveimur tímabilum sem hún var búsett hér á landi. Hún var metin til 75% örorku frá 1. mars 2011 og fékk greiddan frá áfrýjanda örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót og tekjutryggingu samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar og sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu samkvæmt lögum nr. 99/2007. 9. Við upphaflegan útreikning bóta lagði áfrýjandi til grundvallar að A hefði ávallt búið hér á landi. Hinn 10. maí 2011 mun henni hafa verið tilkynnt um leiðréttingu á bótunum í samræmi við búsetu hennar hér á landi. Með þeim útreikningi var búsetuhlutfall hennar lækkað úr 100% í 57,81% og bætur ákveðnar miðað við það frá 1. júlí 2011. Þetta breytta búsetuhlutfall tók mið af búsetu hennar hér á landi frá […] ára aldri til þess tíma er örorka hennar var metin auk þess sem miðað var við sama hlutfall frá þeim tíma til 67 ára aldurs. Hún var ekki endurkrafin um ofgreiddar bætur vegna tímabilsins frá 1. mars til loka júní 2011. 10. Með bréfi Öryrkjabandalags Íslands 21. júní 2013 fyrir hönd A var þess krafist að henni yrði ekki gert að sæta skerðingu á lífeyrisuppbót samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 vegna búsetu hennar erlendis. Sá áskilnaður ætti sér enga stoð í lögunum og gengi gegn markmiði þeirra um að tryggja lífeyrisþegum lágmarksframfærslu. Þessari kröfu synjaði áfrýjandi með bréfi 9. ágúst sama ár. A skaut þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndar almannatrygginga með kæru 17. september það ár. Með úrskurði 9. apríl 2014 í máli nr. 300/2013 staðfesti nefndin synjun áfrýjanda. 11. A höfðaði málið í héraði 29. ágúst 2016 til að fá hnekkt þeirri ákvörðun áfrýjanda að reikna bætur að teknu tilliti til búsetu hennar hér á landi, bæði eftir lögum nr. 100/2007 og lögum nr. 99/2007. Eftir að umboðsmaður Alþingis skilaði áliti sínu […] 2018 í máli nr. […] um útreikning á réttindahlutfalli miðað við búsetu samkvæmt lögum nr. 100/2007 gerðu aðilar með sér réttarsátt 27. apríl 2020 um greiðslur samkvæmt þeim lögum auk þess sem áfrýjandi féllst á að inna af hendi frekari greiðslur lífeyrisuppbótar samkvæmt lögum nr. 99/2007. Við það hækkaði búsetuhlutfall A úr 57.81% í 78,5% og bætur í samræmi við það. Eftir stóð þá aðeins ágreiningur um hvort hún ætti rétt á greiðslu lífeyrisuppbótar árin 2011 til 2015 án skerðingar vegna búsetuhlutfalls. Ágreiningslaust er að fjárhæð þeirrar kröfu nemur 676.110 krónum. A hafði þá kröfu uppi í héraði og Landsrétti og var hún tekin til greina á báðum dómstigum eins og áður greinir. Lagaumhverfi Stjórnarskrá og almenn lög 12. Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 skal öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur ákvæði þetta verið skýrt þannig að skylt sé að lögum að tryggja rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu eftir fyrir fram gefnu skipulagi sem ákveðið er á málefnalegan hátt og að gættu jafnræði svo sem einnig verður leitt af 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnframt er þess að gæta að Ísland á aðild að ýmsum alþjóðasamningum um félagsleg réttindi sem stefna að því sama og er vísað til þeirra í greinargerð með frumvarpi sem varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 um skýringar á fyrrgreindu ákvæði stjórnarskrárinnar, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000. 13. Til samræmis við þennan áskilnað í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar hefur með almennum lögum verið komið á fót velferðarkerfi til að styðja við þá sem standa höllum fæti fjárhagslega og félagslega. Er þá helst til að taka lög nr. 100/2007 sem kveða meðal annars á um rétt öryrkja og ellilífeyrisþega til bótagreiðslna úr almannatryggingum. Ýmis önnur löggjöf stefnir einnig að þeim markmiðum sem lýst er í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, þar á meðal lög nr. 99/2007, sem mæla fyrir um félagslega aðstoð af ýmsum toga, svo sem sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna. 14. Eins og nánar er rakið í dómi Hæstaréttar 8. október 2020 í máli nr. 13/2020 er ýmist að löggjöf mæli fyrir um skýlausan rétt manna til ótímabundinna greiðslna fullnægi þeir ákveðnum skilyrðum, svo sem á við um lög nr. 100/2007, eða að um heimildarákvæði sé að ræða, eins og gildir um lög nr. 99/2007. Þá mæla enn önnur lög fyrir um tímabundnar greiðslur sem geta komið til viðbótar öðrum greiðslum og má hér benda á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga eftir lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Öll löggjöf af þessum toga hefur áðurgreindan tilgang þótt réttur til aðstoðar sé með ýmsu móti eins og rakið hefur verið. Frumskylda í þeim efnum hvílir á ríkinu en aðrir koma einnig þar við sögu og má þar nefna sveitarfélög og lífeyrissjóði. Um félagslega aðstoð og sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu 15. Vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, var nauðsynlegt að gera greinarmun í lögum á bótum almannatrygginga og félagslegri aðstoð. Helgaðist þetta af því að aðildarríkjum samningsins bar skylda til að greiða lífeyri almannatrygginga til elli- og örorkulífeyrisþega óháð búsetu. Það sama átti ekki við um bætur vegna félagslegrar aðstoðar. Ákvæði um þær voru því með lögum nr. 118/1993 um félagslega aðstoð færð úr heildarlögum um almannatryggingar nr. 67/1971 í sérstaka löggjöf. Í 10. gr. þeirra laga var mælt fyrir um eina tegund bóta en þar sagði að heimilt væri að greiða frekari uppbætur til elli- og örorkulífeyrisþega ef sýnt þætti að lífeyrisþegi gæti ekki framfleytt sér án þess. Þessi lög voru síðan endurútgefin sem lög nr. 99/2007, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 166/2006. Í 9. gr. þeirra laga var að finna samhljóða ákvæði um heimild til að greiða frekari uppbætur til elli- og örorkulífeyrisþega. Í málinu liggja ekki fyrir upplýsingar um greiðslu uppbótar á þessum lagagrunni áður en reglum var breytt í þá veru sem síðar varð og reynir á í málinu. 16. Með reglugerð nr. 878/2008 um sérstaka uppbót til framfærslu lífeyrisþega var fyrst útfærð nánar heimild til að veita þessa aðstoð. Reglugerðin var sett með stoð í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 99/2007 en það ákvæði veitti ráðherra almenna heimild til að setja „frekari ákvæði um greiðslu félagslegrar aðstoðar samkvæmt lögunum“. Í reglugerðinni var meðal annars mælt fyrir um tekjumörk við mat á því hvort lífeyrisþegi gæti framfleytt sér og voru þau mörk breytileg eftir því hvort hann fékk greidda heimilisuppbót samkvæmt 8. gr. laganna. Þá var tilgreint til hvaða tekna ætti að líta við ákvörðun uppbótar en hún átti að nema mismuni þessara tekna lífeyrisþega og fyrrgreindra tekjumarka sem leggja átti til grundvallar við mat á því hvort hann gæti framfleytt sér. Þá sagði í 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar að fjárhæð uppbótar skyldi greiðast í samræmi við búsetu hér á landi, sbr. 1. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007. Reglugerðin var sett 16. september 2008 en kom til framkvæmda 1. sama mánaðar. Hún mun hafa verið liður í aðgerðum stjórnvalda vegna efnahagshrunsins þá um haustið. 17. Með lögum nr. 120/2009 voru felld inn í lög nr. 99/2007 helstu ákvæði reglugerðar nr. 878/2008. Eftir þá lagabreytingu hljóðaði 9. gr. laganna svo með fyrirsögn:  Uppbætur á lífeyriHeimilt er að greiða lífeyrisþega uppbót á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án uppbótar skal taka tillit til eigna og tekna. Heimilt er að greiða lífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem fær greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skal miða við að heildartekjur séu undir 180.000 kr. á mánuði. Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem ekki fær greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skal miða við að heildartekjur séu undir 153.500 kr. á mánuði. Til tekna samkvæmt ákvæði þessu teljast allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki eru taldar fram hér á landi. Tryggingastofnun ríkisins metur þörf samkvæmt ákvæði þessu. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um tekju- og eignamörk. 18. Eftir að lög nr. 120/2009 voru sett hafa fjárhæðir í 2. mgr. 9. gr. þeirra verið uppfærðar auk annarra breytinga á greininni sem ekki hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins. Jafnframt var reglugerð nr. 878/2008 leyst af hólmi með reglugerð nr. 1052/2009. Í 16. gr. hennar sagði að hún væri sett með stoð í 5. mgr. 9. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 99/2007 og 70. gr. laga nr. 100/2007. 19. Svo sem áður greinir var í 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 878/2008 ákvæði um að sérstök uppbót á lífeyri skyldi greiðast í samræmi við búsetu hér á landi og var samhljóða ákvæði í 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 sem eins og fyrr segir kom í stað hennar. Aftur á móti var ekki mælt fyrir um þetta atriði í lögum, eins og gert var um ýmis önnur atriði um sérstaka uppbót á lífeyri sem áður voru í reglugerðinni. Hér má til samanburðar benda á að með fyrrgreindum lögum nr. 120/2009 var lögfest í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 að endurhæfingarlífeyri ætti að greiða miðað við búsetu hér á landi í samræmi við 4. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007. 20. Reglugerð nr. 1052/2009 hefur verið leyst af hólmi með gildandi reglugerð nr. 1200/2018 með sama heiti. Þau ákvæði eldri reglugerðar sem hér hefur verið vísað til standa óbreytt í gildandi reglugerð, sbr. 3. mgr. 14. gr. og 15. gr. hennar. Niðurstaða 21. Eins og hér hefur verið rakið var í 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 mælt fyrir um að sérstök uppbót á lífeyri greiddist í samræmi við búsetu hér á landi. Fjárkrafa stefnda á hendur áfrýjanda svarar til skerðingar á uppbótinni til A árin 2011 til 2015 vegna búsetu hennar erlendis. Eins og áður greinir er útreikningur kröfunnar ágreiningslaus með aðilum. 22. Að stjórnlögum gildir sú regla að athafnir stjórnvalda þurfa að eiga sér viðhlítandi stoð í settum lögum ef þær íþyngja borgurunum eða takmarka réttindi þeirra og birtist hún meðal annars í ákvæðum stjórnarskrárinnar sem mæla fyrir um heimildir til að takmarka mannréttindi. Á þessum grunni hvílir svonefnd lögmætisregla stjórnsýslunnar en af henni leiðir meðal annars að almenn fyrirmæli stjórnvalda með reglugerðum verða annars vegar að eiga sér stoð í lögum og mega hins vegar ekki vera í andstöðu við þau. Þann áskilnað verður jafnframt að gera að heimildir stjórnvalda til að setja slík fyrirmæli séu skýrar og afdráttarlausar, ef þær takmarka réttindi borgaranna eða íþyngja þeim, svo að fyrir fram megi vera ljóst að til slíkra ráðstafana geti komið og þeir geti tekið ákvarðanir sínar með hliðsjón af því. Af þessu leiðir jafnframt að því meira íþyngjandi sem ákvæði reglugerðar eru þeim mun strangari kröfur verði að gera til skýrleika þeirrar lagaheimildar sem þau eru byggð á. Til viðbótar er þess að gæta að þegar gerður er greinarmunur á rétti manna til að njóta félagslegra réttinda sem fram koma í lögum, svo sem vegna búsetu eða stöðu að öðru leyti, leiðir af 65. gr. stjórnarskrárinnar að ekki aðeins verður slík mismunun að hvíla á málefnalegum sjónarmiðum heldur einnig að byggjast á skýrri lagaheimild. 23. Í lögum nr. 99/2007, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 120/2009, var að finna reglugerðarheimild fyrir ráðherra í 5. mgr. 9. gr. til að mæla nánar fyrir um uppbætur á lífeyri, meðal annars um tekju- og eignamörk. Þessi heimild er nú í 6. mgr. þeirrar greinar. Þá er að finna almenna heimild í 2. mgr. 14. gr. laganna til að setja ákvæði um greiðslu félagslegrar aðstoðar samkvæmt lögunum sem fyrr var lýst. 24. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 99/2007 greiðast bætur félagslegrar aðstoðar eingöngu þeim sem lögheimili eiga hér á landi og að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna og reglugerða sem settar eru með stoð í þeim. Þar segir einnig að heimilt sé að tengja greiðslu bótanna við aðrar tekjur en húsaleigubætur, eftir því sem við á, en þessi heimild um tekjumörk að því er varðar uppbætur á lífeyri er áréttuð í 5. mgr. 9. gr. laganna, eins og áður greinir. Um sérstaka uppbót á lífeyri segir í 2. mgr. sömu greinar að hana megi greiða lífeyrisþega ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Í ákvæðinu er jafnframt mælt fyrir um mörk tekna sem ekki eru taldar nægja til að lífeyrisþegi geti framfleytt sér án uppbótar á lífeyri. Þær tekjur sem miða á við eru svo tilgreindar í 3. mgr. 9. gr. laganna. 25. Með því að binda fjárhæð sérstakrar uppbótar á lífeyri við búsetu hér á landi, eins og gert var með 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1052/2009, getur komið til þess að fjárhæðin skerðist þannig að hún nái ekki þeirri fjárhæð sem miðað er við í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 að lífeyrisþegi þurfi til að geta framfleytt sér án þessarar uppbótar. Þannig samrýmist áskilnaður um búsetutíma hér á landi sem skilyrði fyrir uppbótinni ekki þeim tilgangi nefndra laga að lífeyrisþegar búi við tiltekna lágmarksframfærslu. Auk þess er sem fyrr greinir slíkur áskilnaður ekki tilgreindur í lögum heldur í reglugerð sem sett var með vísan til almennrar heimildar ráðherra í 5. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laganna. Er því ekki fullnægt kröfu lögmætisreglunnar um að almenn fyrirmæli stjórnvalda eigi sér stoð í lögum og fari ekki í bága við þau. 26. Eins og áður er rakið voru helstu ákvæði eldri reglugerðar nr. 878/2008 um sérstaka uppbót á lífeyri lögfest með lögum nr. 120/2009 að frátalinni heimild til að binda fjárhæð uppbótarinnar við búsetu hér á landi. Ólíkt þessu var með sömu lögum mælt fyrir um slíka heimild að því er varðaði endurhæfingarlífeyri, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007. Hlýtur skýring eftir innra samræmi umræddra breytingalaga jafnframt að leiða til þess að ekki sé fyrir hendi lagaheimild til að mæla fyrir um í reglugerð að uppbót á lífeyri skuli skert vegna búsetu erlendis. Þegar af þeirri ástæðu að ákvæði reglugerðar nr. 878/2008 um heimild til að binda fjárhæð uppbótar við búsetu hér á landi voru ekki tekin upp í lög nr. 120/2009 geta ummæli í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögunum, um að ekki væri gert ráð fyrir efnislegum breytingum á gildandi reglugerð eða framkvæmd áfrýjanda, enga sérstaka þýðingu haft fyrir úrlausn málsins. 27. Að öllu framangreindu virtu ber að staðfesta þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að lagastoð hafi brostið til að ákveða með reglugerð að greiðsla sérstakrar uppbótar á lífeyri til A yrði skert miðað við búsetu hér á landi. Fyrir niðurstöðu málsins skiptir heldur engu þótt ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 sé orðað sem heimild til að veita aðstoð en ekki réttur til hennar, enda er ekki unnt að gættum tilgangi laganna um lágmarksframfærslu lífeyrisþega að tengja þá aðstoð við búsetutíma hér á landi ef á annað borð var ákveðið að nýta heimildina með þeim almenna hætti sem gert hefur verið allar götur frá 1. september 2008, fyrst með reglugerð nr. 878/2008 og síðan á grundvelli laga nr. 99/2007 eins og þeim var breytt með lögum nr. 120/2009. 28. Áfrýjandi hefur borið því við að lífeyrisþegar sem sætt hafi skerðingu á sérstakri uppbót á lífeyri vegna búsetu erlendis kunni að hafa þegið fjárhagsaðstoð af þeim sökum frá sveitarfélagi á grundvelli laga nr. 40/1991. Þeim verði ekki gert að endurgreiða það framlag og því muni þeir auðgast sem þessu nemur fái þeir uppbótina greidda án tillits til búsetu erlendis. Að réttu lagi ber að taka tillit til slíkrar aðstoðar við uppgjör til lífeyrisþega sem sætt hafa slíkri ólögmætri skerðingu. Þetta getur hins vegar engu breytt fyrir niðurstöðu málsins þegar af þeirri ástæðu að áfrýjandi hefur hvorki upplýst um þessar greiðslur til A né skorað á gagnaðila að gera það. 29. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Um málskostnað og gjafsókn fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Tryggingastofnun ríkisins, greiði 900.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem rennur í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, dánarbús A, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þess, 900.000 krónur. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=94d3e6b7-f5a0-49d1-97d3-cf9a4db46572&verdictid=31c0c7b3-bcc7-4599-9a4e-b54545ad8e22
Mál nr. 43/2021
Viðurkenningarkrafa Fasteign Óbeinn eignarréttur Afnotaréttur Kvöð Umráð Vatnsréttindi Nauðungarsala Leigusamningur Málsástæða Lagarök
Árið 2008 gerðu O og þáverandi eigandi jarðarinnar H með sér samning um leigu á spildu úr landi jarðarinnar sem brunnsvæði fyrir vatnsveitu sem þjónar meðal annars Stykkishólmsbæ. L hf. eignaðist jörðina á nauðungarsölu en seldi hana síðar B ehf. Ágreiningur málsins laut að kröfu B ehf. um viðurkenningu þess að leigusamningurinn væri óskuldbindandi gagnvart sér þar sem réttindi samkvæmt honum hefðu fallið niður við útgáfu afsals til L hf. vegna ákvæða 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í dómi Hæstaréttar var talið að í samræmi við meginreglu 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 féllu niður við útgáfu afsals þau réttindi sem stofnað hafði verið til á grundvelli samningsins með sama hætti og önnur óbein eignarréttindi sem á því tímamarki hafði verið stofnað til yfir jörðinni H. Var því fallist á dómkröfu B ehf. þess efnis að leigusamningurinn væri óskuldbindandi gagnvart honum sem núverandi eiganda jarðarinnar.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson. 2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. október 2021. Hann krefst viðurkenningar á því að leigusamningur frá 14. maí 2008 milli stefnda og fyrri eiganda jarðarinnar Hrísa í Helgafellssveit sé óskuldbindandi gagnvart sér. Til vara krefst hann þess að leigusamningurinn teljist ógildur. Loks krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum. 3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Ágreiningsefni 4. Mál þetta lýtur að því hvort samningur stefnda sem leigutaka við fyrrverandi eiganda jarðarinnar Hrísa í Helgafellssveit sem leigusala um afnot lands og vatnstöku 14. maí 2008 er skuldbindandi fyrir áfrýjanda. Landsbankinn hf. eignaðist umrædda jörð við nauðungarsölu, sem fram fór árið 2016, en seldi hana áfrýjanda árið 2018 og er hann núverandi eigandi hennar. 5. Með héraðsdómi var fallist á kröfu áfrýjanda og viðurkennt að umræddur samningur væri óskuldbindandi gagnvart honum þar sem hann hefði fallið niður á grundvelli 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í hinum áfrýjaða dómi var komist að gagnstæðri niðurstöðu. Ótvírætt væri að samningurinn hefði verið gerður á grunni 1. mgr. 25. gr. og 1. mgr. 26. gr. vatnalaga nr. 15/1923 og líta yrði svo á að kvaðir sem í honum fælust leiddu beinlínis af lögum í skilningi 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 og hefðu því ekki fallið niður við nauðungarsöluna. Einn dómari skilaði sératkvæði og vildi staðfesta héraðsdóm með vísan til forsendna hans. 6. Fyrir Landsrétti byggði áfrýjandi meðal annars á því að framangreind málsástæða, um lögfylgjur tilvitnaðra ákvæða vatnalaga, væri of seint fram komin þar sem ekki hefði verið á henni byggt undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi. Í dómi Landsréttar var talið að um væri að ræða lagarök til stuðnings þeirri málsástæðu stefnda „að kvaðirnar hafi ekki fallið niður við nauðungarsöluna“ og bæri réttinum að huga að þeim þótt stefndi hefði ekki nefnt þau sérstaklega í málatilbúnaði sínum. Var því ekki talið að um væri að ræða nýja málsástæðu sem ekki fengi komist að fyrir Landsrétti vegna ákvæðis 2. mgr. 111. gr., sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ágreiningur aðila fyrir Hæstarétti lýtur jafnframt að því hvort niðurstaða Landsréttar þar um stenst. 7. Áfrýjunarleyfi var veitt 1. október 2021 á þeim grunni að dómur í málinu kynni að hafa fordæmisgildi. Málsatvik 8. Í september árið 1975 var undirritaður leigusamningur milli Stykkishólmshrepps sem leigutaka og ábúenda Hrísa og Svelgsár í Helgafellssveit sem leigusala. Samkvæmt honum leigðu þeir síðarnefndu land úr jörðinni Hrísum og vatnstökurétt úr jörðunum Hrísum og Svelgsá til sveitarfélagsins til öflunar neysluvatns. Samningurinn var gerður til 50 ára og var meðal annars samið um nánar tilgreint endurgjald til handa leigusölum. 9. Hinn 22. júlí 2005 var undirritaður kaupsamningur milli Stykkishólmsbæjar og stefnda. Með samningnum seldi og afsalaði Stykkishólmsbær Orkuveitu Stykkishólms til stefnda með réttindum og skyldum samkvæmt lögum nr. 32/2004 um vatnsveitur sveitarfélaga og orkulögum nr. 58/1967. Í 2. grein samningsins kom fram að stefndi myndi yfirtaka öll réttindi seljanda til vatns- og hitaveitureksturs. Þá var tilgreint að í gildi væri leigusamningur milli Orkuveitu Stykkishólms „um vatnstökurétt milli Stykkishólmsbæjar við landeigendur Hrísa og Svelgsár í Helgafellssveit frá september 1975“. 10. Leigusamningur milli stefnda og Harðar Ingólfssonar, þáverandi eiganda jarðarinnar Hrísa, var undirritaður 14. maí 2008. Með samningnum tók stefndi á leigu spildu úr landi Hrísa til 99 ára sem brunnsvæði fyrir vatnsveitu sem þjónaði meðal annars Stykkishólmsbæ. Samkvæmt 1. grein samningsins var hin leigða spilda til vinnslu á köldu vatni úr Svelgsárhrauni en auk þess var þar kveðið á um rétt stefnda til að leita eftir og hagnýta neysluvatn sem kynni að finnast síðar á eða í hinni afmörkuðu spildu. Enn fremur náði leigurétturinn til jarðborana og hvers konar mannvirkjagerðar og athafna sem kynni að þurfa til vatnsöflunar á svæðinu. Í 3. grein samningsins var kveðið á um endurgjald en það skyldi vera annars vegar eingreiðsla að fjárhæð 5.400.000 krónur fyrir afnot af vatninu og landinu fyrir vatnsmagn allt að 20 sekúndulítrum. Hins vegar skyldi greiða 270.000 krónur fyrir hvern sekúndulítra vatns umfram það viðmið. Gjalddagi eingreiðslunnar var 30 dögum eftir undirritun samningsins en gjalddagi umframmagns 31. mars á þeim árum sem það færi „stigvaxandi“. Samkvæmt 4. grein samningsins var hvorum aðila um sig heimilt að óska eftir endurskoðun leigugjaldsins á 10 ára fresti „ef telja má að greiðslan sé orðin bersýnilega ósanngjörn“. Loks var tekið fram í 9. grein að samningnum skyldi þinglýsa en óumdeilt er að það gekk ekki eftir. 11. Í forsendum hins áfrýjaða dóms kemur fram að ótvírætt sé að umræddur samningur frá 2008 hafi verið gerður á grundvelli 25. og 26. gr. vatnalaga en ekki hafi reynt á eignarnámsheimild 1. mgr. 27. gr. laganna þar sem samkomulag hafi náðst við þáverandi landeiganda um afnotin og endurgjald fyrir þau. Mjög takmarkaðar upplýsingar liggja hins vegar fyrir í málinu um aðdraganda þess að stofnað var til umræddra samninga. Þannig liggur ekkert fyrir um hvort unnt var að stofna til sambærilegrar vatnstöku fyrir vatnsveitu víðar í sveitarfélaginu, hvorki þegar upphaflegi samningurinn um vatnstöku var gerður árið 1975 né samningurinn 14. maí 2008. Í þeim síðarnefnda er ekki vísað til ákvæða 25. til 27. gr. vatnalaga eins og þau hljóðuðu þá um heimild sveitarfélaga til öflunar vatns í þágu vatnsveitna, sbr. nú sömu lagagreinar með breytingum sem gerðar voru á þeim með 22. til 24. gr. laga nr. 132/2011. 12. Í aðalskipulagi Helgafellssveitar 2012–2024, sem samþykkt var 12. maí 2015, er það landsvæði úr jörðinni Hrísum sem samningurinn 14. maí 2008 tekur til afmarkað á skipulagsuppdrætti sem annars vegar brunnsvæði og hins vegar grannsvæði háð vatnsvernd. Þá kemur fram í grein 2.7.1 að ein kaldavatnsveita sé í sveitarfélaginu. Vatnsbólið sé í landi Hrísa en vatnsból og vatnsveita í eigu stefnda. Vatnsmagn á virkjaðri lind sé áætlað yfir 50 sekúndulítrar. 13. Jörðin Hrísar var seld nauðungarsölu 25. október 2016 til Landsbankans hf. Afsal var gefið út til bankans 4. janúar 2017 og því þinglýst 9. sama mánaðar. Samkvæmt IV. grein þess skyldi með vísan til 6. og 56. gr. laga nr. 90/1991 afmá öll veðbönd og önnur óbein eignarréttindi við þinglýsingu afsalsins. Lögbundnar kvaðir og lögbundinn forkaupsréttur yrðu þó ekki afmáð ef um slíkt væri að ræða. 14. Fyrir Hæstarétt var lagt fram undirritað eintak kaupsamnings Landsbankans hf. og áfrýjanda um jörðina Hrísa 24. janúar 2018. Í söluyfirliti um jörðina sem liggur fyrir í gögnum málsins kemur fram að seljandi þekki ekki eignina umfram það sem kemur fram í opinberum gögnum. Þá er kaupanda bent þar á að kynna sér leigusamning „er fyrri eigendur gerðu ... við Orkuveitu Reykjavíkur um land og vatnstöku til 99 ára frá maí 2008 úr landi Hrísa.“ Í 2. grein fyrrgreinds kaupsamnings kemur fram að við gerð hans hafi meðal annars legið fyrir fyrrgreint afsal til Landsbankans hf. og söluyfirlit. Er tekið fram í niðurlagi greinarinnar að skjöl þau sem vísað sé til í henni og innihald þeirra skoðist sem hluti kaupsamnings eftir því sem við eigi. Afsal var undirritað 23. mars 2018 og því þinglýst 15. apríl sama ár. 15. Með bréfi lögmanns áfrýjanda 10. september 2018 til stefnda var því lýst yfir að fyrrgreindur leigusamningur 14. maí 2008 væri ekki skuldbindandi vegna ákvæðis 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991. Þá var óskað eftir viðræðum við stefnda um afnot landsins og vatnstöku. Í svarbréfi stefnda 18. september 2018 var því lýst yfir að stefndi hefði á grundvelli samningsins fullan rétt til vatnstöku. Þá var ítrekað að þegar hefði verið greitt fyrir þau réttindi. Málsástæður og lagarök aðila 16. Áfrýjandi bendir á að niðurstaða hins áfrýjaða dóms byggist á þeirri málsástæðu stefnda að með leigusamningi 14. maí 2008 hafi verið stofnað til kvaða sem leiði beinlínis af lögum og hafi þær ekki fallið niður við nauðungarsölu jarðarinnar, sbr. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991. Þessi málsástæða hafi komið of seint fram enda ekki verið á henni byggt í héraði, sbr. 5. mgr. 101. gr. og 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991. Hvorki væru skilyrði til að byggja á henni fyrir Landsrétti, sbr. 2. mgr. 163. gr., né Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 187. gr. laganna. Verði talið að málsástæðan komist að telur áfrýjandi að áskilnaði framangreindrar undantekningarreglu 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 sé ekki fullnægt enda leiði umræddar kvaðir ekki beinlínis af lögum. Þá mótmælir hann því að Landsbankinn hf. hafi tekið að sér réttindi eða kvaðir samkvæmt leigusamningnum í skilningi 2. mgr. 56. gr. laganna. Einnig byggir áfrýjandi á því að réttindi stefnda samkvæmt samningnum hafi verið háð þinglýsingu, sbr. 1. mgr. 29. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Vanræksla stefnda á að þinglýsa samningnum hafi þau réttaráhrif að hann sé óskuldbindandi gagnvart áfrýjanda sem síðari eiganda jarðarinnar. Jafnframt hafnar áfrýjandi því að meint grandsemi hans um tilvist leigusamningsins við kaup hans á jörðinni hafi áhrif á gildi hans gagnvart sér. Loks gerir hann varakröfu um að leigusamningurinn teljist ógildur á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. 17. Stefndi tekur undir niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að málatilbúnaður, þess efnis að kvaðir samkvæmt leigusamningnum leiði beinlínis af lögum, hafi ekki falið í sér nýja málsástæðu sem ekki hefði átt að komast að fyrir Landsrétti. Hann byggir sýknukröfu sína á því að í málinu sé fullnægt tveimur skilyrðum 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 fyrir því að réttindi stefnda hafi ekki fallið niður við nauðungarsölu jarðarinnar. Í fyrsta lagi telur hann að samningurinn hafi verið gerður á grunni 25. og 26. gr. vatnalaga og þar af leiði að kvaðir um vatnstöku sem þær lagagreinar ráðgeri og leigusamningurinn sé reistur á leiði beinlínis af lögum í skilningi 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991. Í öðru lagi hafi Landsbankinn hf. við kaup jarðarinnar 25. október 2016 tekið réttindi samkvæmt leigusamningnum að sér í skilningi sömu greinar. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til fyrrgreinds ákvæðis í söluyfirliti jarðarinnar þegar hún var seld áfrýjanda. Þá byggir stefndi á því að fyrirsvarsmönnum áfrýjanda hafi verið kunnugt um leigusamninginn við kaup jarðarinnar. Áfrýjandi hafi því verið grandsamur í skilningi 19. gr. þinglýsingalaga og af því leiði að mótbárur hans nú um að nauðsyn hafi verið að þinglýsa samningnum hafi enga þýðingu fyrir úrslit málsins. Loks hafnar stefndi varakröfu áfrýjanda á þeim grunni að engin rök eða gögn hafi verið lögð fram í málinu til stuðnings þeirri kröfu. Lagaumhverfi 18. Í 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 segir að hafi nauðungarsölu verið krafist á eign eftir heimild í 6. eða 7. gr. laganna falli niður öll veðbönd, umráðaréttindi, kvaðir, höft og önnur réttindi yfir eigninni við útgáfu afsals nema annað leiði beinlínis af lögum, eignin hafi verið seld með þeim skilmálum að þau standi í tilteknum atriðum óhögguð eða kaupandinn hafi síðar tekið þau að sér. Í afsali skal tekið fram hver réttindi yfir eigninni falli brott. Í athugasemdum við lagagreinina í frumvarpi sem varð að lögum nr. 90/1991 er vakin athygli á því að hún feli meðal annars í sér að öll óbein eignarréttindi falli niður vegna nauðungarsölu án tillits til heitis eða eðlis þeirra eða þess hvort þeim hefur verið þinglýst eða réttarvernd þeirra sé óháð þinglýsingu. Um framangreindar undantekningar frá þeirri meginreglu segir að í fyrsta lagi sé gert ráð fyrir því að hún víki ef annað leiði beinlínis af lögum en það gæti til dæmis átt við um lögbundinn forkaupsrétt eða lögbundnar kvaðir. Í öðru lagi sé gert ráð fyrir að víkja megi frá reglunni um brottfall framangreindra réttinda með uppboðsskilmálum eða skilmálum við sölu á almennum markaði, þannig að kvaðir og höft fylgi eign sem hefðu að öðrum kosti fallið niður og eftir atvikum veitt rétthafa tilkall til greiðslu af söluandvirði eignarinnar samkvæmt 4. mgr. 49. gr. laganna. Loks segir í athugasemdunum að í þriðja lagi sé tekið tillit til þess að kaupandi kunni að semja við einstaka rétthafa um að réttindi þeirra hvíli áfram á eign, sem væri þá oftast liður í uppgjöri kaupandans á söluverði, og um það vísað til 40. gr. laganna. 19. Svo sem fram hefur komið var ákvæðum 25. til 27. gr. vatnalaga, sem fjalla um vatnsveitu sveitarfélaga og vatnstökurétt, breytt með 22. til 24. gr. laga nr. 132/2011. Ekki urðu þó við það neinar þær efnislegu breytingar sem þýðingu hafa fyrir sakarefni máls þessa. Í 1. mgr. 25. gr. vatnalaga er kveðið á um rétt sveitarstjórnar til að taka það vatn sem hún þarf til vatnsveitu úr brunnum, uppsprettum eða vötnum í landareignum annarra manna að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er manni skylt að láta af hendi land sitt og landsafnot hvar sem er og hvenær sem er í þarfir vatnsveitu sveitarfélags, svo og mannvirki, og að þola þær eignarkvaðir, óhagræði og takmörkun á afnotarétti sem vatnsveitan kann að hafa í för með sér enda komi fullar bætur fyrir. Náist ekki samningar um framkvæmd og/eða bætur vegna þeirra þarfa sem greinir í 25. og 26. gr. getur ráðherra heimilað eignarnám, sbr. 1. mgr. 27. gr. laganna. Niðurstaða 20. Þess er fyrst að gæta að ekki er vísað til hugtaksins kvaðar af nákvæmni, hvorki af aðilum málsins né í hinum áfrýjaða dómi. Til kvaða er meðal annars vísað í 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 svo og í afsali 4. janúar 2017 þar sem segir: „Lögbundnar kvaðir og lögbundinn forkaupsréttur er ekki afmáður ef um það er að ræða.“ Kvaðir eiga sér að lögum mismunandi merkingu, sbr. annars vegar einkaréttarlegar kvaðir, svo sem ískyldur sem falla í flokk óbeinna eignarréttinda og hins vegar lögbundnar kvaðir en undir þær falla meðal annars skipulagskvaðir í skilningi 20. töluliðar 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 en þær verða lagðar á einstakar lóðir og landsvæði í deiliskipulagi. Vísaði stefndi í greinargerð sinni til Landsréttar fyrst og fremst til þess að þær lögbundnu kvaðir sem ráða eigi úrslitum sakarefnis byggist á fyrirmælum 25. og 26. gr. vatnalaga auk þess sem sem fyrir hendi væri kvöð um vatnsvernd og landsafnot af hinni leigðu landspildu í gildandi aðalskipulagi Helgafellssveitar. Í hinum áfrýjaða dómi er aftur á móti vísað jöfnum höndum til kvaða sem felist í leigusamningnum annars vegar og svo kvaða sem sóttar verði í tilvitnuð ákvæði vatnalaga hins vegar. Því er svo ekki borið við, hvorki af aðilum málsins né í hinum áfrýjaða dómi, að útskýra efnislega hvert er inntak þeirra ætluðu kvaða sem leiddar verði af tilvitnuðum ákvæðum vatnalaga og hvernig þær binda sérstaklega hendur eiganda jarðarinnar Hrísa hverju sinni, óháð þeim skuldbindingum sem stofnað var til með hinum umþrætta samningi. 21. Eins og fyrr greinir var í hinum áfrýjaða dómi ekki fallist á það með áfrýjanda að ný málsástæða stefnda hefði falist í því að leigusamningurinn 14. maí 2008 stæði óhaggaður vegna fyrirmæla 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 þess efnis að „annað leiði beinlínis af lögum“. Um væri að ræða lagarök til stuðnings þeirri málsástæðu stefnda að „kvaðirnar hefðu ekki fallið niður við nauðungarsöluna“. Var þar vísað til ákvæða leigusamningsins 14. maí 2008 og þess að kvaðir hefði beinlínis leitt af ákvæðum vatnalaga og þær ekki fallið niður við nauðungarsöluna. 22. Við úrlausn þess hvort um nýja málsástæðu er að ræða er þess að gæta að í greinargerð stefnda í héraði var vísað almennt til þeirra einstöku fyrirmæla vatnalaga og laga nr. 90/1991 sem fyrr eru rakin. Á því stigi var málatilbúnaður stefnda að því er varðaði 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 einskorðaður við að þrátt fyrir nauðungarsölu jarðarinnar Hrísa hefði leigusamningurinn 14. maí 2008 haldið gildi sínu vegna afstöðu Landsbankans hf. sem kaupanda við nauðungarsöluna. Þannig hefði bankinn undirgengist skuldbindingar samningsins, miðlað upplýsingum um tilvist hans og efni til fyrirsvarsmanna áfrýjanda við kaup þeirra á jörðinni og þeir því verið grandsamir þar um. Þessi málsástæða er studd þeirri undantekningu 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 að réttindi sem ella féllu niður haldi gildi sínu taki kaupandi þau að sér síðar. Í greinargerð stefnda í héraði er þeirri málsástæðu hins vegar hvergi borið við að fyrir hendi séu kvaðir sem leiði beinlínis af lögum og þær hafi því ekki fallið niður við nauðungarsölu jarðarinnar vegna fyrirmæla 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991. Þá verður ekki séð af endurritum úr þingbók héraðsdóms eða dómi héraðsdóms að stefndi hafi reist málið á þessum grunni þar fyrir dómi. 23. Í greinargerð stefnda til Landsréttar var því reyndar einnig haldið fram að umdeildur leigusamningur félli í raun ekki undir 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991. Samningurinn sjálfur legði hvorki kvöð né höft á eignina. Samningurinn yrði því ekki með „góðu móti“ felldur undir 2. mgr. 56. gr. þannig að réttaráhrif hans hefðu af þeim sökum fallið niður við nauðungarsöluna. Sýnist málatilbúnaður í þessa veru styðjast við það sjónarmið að réttur stefnda til vatnstöku úr jörðinni Hrísum verði leiddur beint af tilvitnuðum ákvæðum vatnalaga og að með samningnum 14. maí 2008 hafi eingöngu verið samið um bætur til handa jarðeiganda vegna þeirrar vatnstöku. 24. Umþrætt málsástæða stefnda byggð á rétti sveitarfélaga til vatnstöku á grundvelli 25. og 26. gr. vatnalaga og þýðing þess réttar fyrir beitingu 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 kom samkvæmt framangreindu fyrst fram í greinargerð hans fyrir Landsrétti. Öndvert við það sem fram kemur í forsendum Landsréttar og rakið hefur verið byggði stefndi ekki á því fyrir héraðsdómi að „kvaðirnar“, eins og það er orðað í dómi Landsréttar, hefðu ekki fallið niður við nauðungarsöluna. Þvert á móti miðaðist málatilbúnaður hans alfarið við að þrátt fyrir nauðungarsölu jarðarinnar Hrísa hefði leigusamningurinn 14. maí 2008 haldið gildi sínu vegna afstöðu Landsbankans hf. Fól framangreindur grundvöllur sýknukröfu stefnda því í sér nýja málsástæðu sem að réttu gat ekki komist að fyrir Landsrétti vegna ákvæðis 5. mgr. 101. gr., sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991, en ekki voru fyrir hendi skilyrði síðarnefndu greinarinnar fyrir því að málsástæðan kæmist að fyrir Landsrétti. 25. Að framangreindri niðurstöðu gættri stendur eftir að taka afstöðu til þeirrar málsástæðu stefnda að Landsbankinn hf., sem keypti eignina við nauðungarsölu, hafi allt að einu tekið umrædd réttindi að sér í merkingu 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991. Í því sambandi er áréttað það sem fyrr er reifað úr lögskýringargögnum með greininni að slíkt fælist oftast í uppgjöri kaupanda á söluverði við nauðungarsölu. 26. Hvað sem líður rétti sveitarfélaga til vatnsnýtingar í þágu vatnsveitna sinna á grundvelli tilgreindra ákvæða vatnalaga voru réttindi þau sem fyrri eigandi Hrísa samdi um við stefnda á grundvelli leigusamningsins 14. maí 2008 hefðbundinn réttur til afnota af vatni ásamt nauðsynlegri aðstöðu til nýtingarinnar. Með samningnum var stofnað til óbeinna eignarréttinda í formi afnotaréttar þess sem samningurinn kvað á um og hefðbundið er í afnotasamningum af þeim toga, hvort sem þeir varða leigu eða önnur afnot fasteigna, hluta þeirra eða einstök fasteignaréttindi. 27. Lögvarinn réttur til vatnstöku í þágu starfrækslu vatnsveitu og þau fyrrnefndu úrræði sem vatnalög tryggja í því sambandi standa óhögguð án tillits til nauðungarsölu á jörðinni. Öðru máli gegnir hins vegar um þann einkaréttarlega samning sem deilt er um í málinu. Í samræmi við meginreglu 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 féllu niður við útgáfu afsals þau réttindi sem stofnað hafði verið til á grundvelli samningsins með sama hætti og önnur óbein eignarréttindi sem á því tímamarki hafði verið stofnað til yfir jörðinni Hrísum. Þetta styðst jafnframt við þá staðreynd að hvorki í uppboðsskilmálum, sbr. 28. gr. laga nr. 90/1991, né afsali, sbr. 56. gr. sömu laga, er að umræddum réttindum vikið hvað þá að þau skuli hvað sem nauðungarsölunni líður standa óhögguð og raunar ekki á því byggt í málinu. 28. Af framangreindu leiðir að við nauðungarsöluna féllu niður þau óbeinu eignarréttindi sem til hafði verið stofnað á grundvelli umþrætts samnings 14. maí 2008. Að því virtu verður að túlka þá undantekningu 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 þess efnis að kaupandinn hafi síðar tekið þau að sér í skilningi greinarinnar þannig að hann hafi í kjölfar nauðungarsölu stofnað á ný til þeirra réttinda sem fallið höfðu niður við útgáfu afsals við nauðungarsölu. Í málinu hefur stefndi ekki sýnt fram á að Landsbankinn hf. hafi undirgengist slíka skuldbindingu, hvað þá að hún hafi verið liður í uppgjöri hans á söluverði, sbr. 40. gr. laga nr. 90/1991. Sér því hvorki stað í nauðungarsöluafsali til Landsbankans hf. 4. janúar 2017, kaupsamningi bankans og áfrýjanda 24. janúar 2018 né afsali til áfrýjanda 23. mars sama ár. Tilvísun í söluyfirliti þess efnis að væntanlegum kaupendum jarðarinnar Hrísa væri bent á að kynna sér samning stefnda og fyrri jarðeiganda 14. maí 2008 fól ekki í sér skuldbindingu af framangreindu tagi. Þegar af þeirri ástæðu hefur ætluð grandsemi fyrirsvarsmanna áfrýjanda um tilvist og efni þess samnings, sem á því tímamarki hafði fallið niður, enga þýðingu fyrir úrlausn málsins. 29. Samkvæmt öllu framansögðu verður fallist á dómkröfu áfrýjanda þess efnis að leigusamningur stefnda og fyrri eiganda jarðarinnar Hrísa 14. maí 2008 sé óskuldbindandi gagnvart honum sem núverandi eiganda jarðarinnar. 30. Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað á öllum dómstigum sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Viðurkennt er að leigusamningur 14. maí 2008 milli stefnda, Orkuveitu Reykjavíkur, og fyrri eiganda jarðarinnar Hrísa í Helgafellssveit sé óskuldbindandi gagnvart áfrýjanda, BB & sonum ehf. Stefndi greiði áfrýjanda samtals 3.000.000 króna í málskostnað á öllum dómstigum. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=f1e77cf1-38f3-4d8d-b41a-5cbe010a7d0e&verdictid=bd672344-f91d-418d-920b-e257ec4a270a
Mál nr. 47/2021
Brot í nánu sambandi Heimfærsla Skilorð Aðfinnslur
X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veist að fyrrverandi kærustu sinni á heimili hennar, ýtt henni þannig að hún féll niður stiga, tekið í hár hennar, skallað hana í höfuðið og tekið hana kverkataki með tilgreindum afleiðingum. Í Landsrétti var háttsemin heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Í dómi Hæstaréttar kom fram að tengsl ákærða og brotaþola hefðu verið slík að heyrði undir 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Tekið var fram að brotaþoli þyrfti ekki að verða fyrir beinum eða sjáanlegum líkamsáverkum eða öðru tjóni svo að heimfæra mætti háttsemi til greinarinnar en slíkt gæti þó komið til skoðunar við mat á grófleika brots og heimfærslu, einkum að því er varðar 2. mgr. hennar. Í málinu lá fyrir að áverkar hefðu verið víðs vegar á líkama brotaþola þótt hver um sig hefði ekki talist verulegur. Hæstiréttur taldi að árásin hefði í heild sinni verið talin til þess fallin að vekja mikla ógn hjá brotaþola auk þess sem fram væri komið að hún hefði orðið fyrir andlegu áfalli vegna árásarinnar. Með atlögunni hefði ákærði á alvarlegan hátt og með ofbeldi ógnað heilsu brotaþola og velferð og var háttsemin því felld undir ákvæði 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga. Var refsing X ákveðin fangelsi í tíu mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Í dóminum var fundið að þeim drætti sem varð á meðferð málsins á lægri dómstigum.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. september 2021. Endanlegar dómkröfur ákæruvaldsins eru að ákærði verði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru að frátalinni þeirri háttsemi að hafa skellt brotaþola í vegg og að refsing ákærða verði þyngd. 3. Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að hún verði bundin skilorði. Ágreiningsefni 4. Ágreiningsefni málsins lýtur einkum að því hvort ákærði hafi gerst sekur um háttsemi sem varðar við 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um brot í nánu sambandi sem meðal annars lýsir refsivert að ógna á alvarlegan hátt lífi, heilsu eða velferð fyrrverandi sambúðaraðila með ofbeldi. 5. Með ákæru lögreglustjórans á [...] 15. ágúst 2018 var ákærða gefin að sök líkamsárás með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 15. maí sama ár veist að fyrrverandi kærustu sinni á heimili hennar, ýtt henni þannig að hún féll niður stiga, tekið í hár hennar og skellt henni í vegg, skallað hana í höfuðið og tekið hana hálstaki með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og yfirborðsáverka á hálsi, mar á brjóstkassa, mar á hægri öxl, upphandlegg og olnboga, hrufl á hægra hné, mar á innanverðu vinstra hné og marbletti á il á vinstri fæti. Var háttsemin talin varða við 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga. Þá gerði brotaþoli bótakröfu á hendur ákærða að fjárhæð 1.500.000 krónur með tilgreindum vöxtum. 6. Með dómi héraðsdóms 8. nóvember 2019 var ákærði sýknaður af sakargiftum og bótakröfu vísað frá dómi. Með dómi Landsréttar 23. júní 2021 var ákærði sakfelldur fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga eins og henni er lýst í ákæru að því undanskildu að ekki var talið nægilega sannað að hann hefði skellt brotaþola í vegg. Jafnframt sagði í dóminum að miða yrði við að hálstakið sem ákærði tók brotaþola hafi verið kverkatak framan á háls hennar með annarri hendi. Var refsing ákærða ákveðin fangelsi í þrjá mánuði sem bundin var almennu skilorði til tveggja ára, sbr. 57. gr. almennra hegningarlaga. 7. Í hinum áfrýjaða dómi var framangreind háttsemi ákærða ekki talin hafa verið þess eðlis að hana ætti að heimfæra til 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga þar sem skilyrði ákvæðisins um að árás þyrfti að vera endurtekin eða alvarleg voru ekki talin uppfyllt. Var háttsemin þess í stað færð undir 1. mgr. 217. gr. laganna. Um væri að ræða eitt tilvik en ákærði hefði ekki áður „ráðist að brotaþola líkamlega“. Hálstak það sem ákærði tók brotaþola hefði ekki valdið punktblæðingum umhverfis augu en slíkir áverkar hefðu í dómaframkvæmd verið taldir til marks um hættueiginleika árásar. Þá hefði brotaþoli horft niður eftir stiganum er ákærði hrinti henni og verið betur í stakk búin til að verjast falli en ef hún hefði snúið baki í stigann. Einnig hefði brotaþoli ekki hlotið alvarlega áverka í árásinni, svo sem beinbrot eða höfuðáverka, þótt áverkar hefðu verið víða á líkama hennar. Enn fremur yrði ekki af framburði brotaþola ráðið að árásin hafi verið langvarandi þótt hún hefði verið fjölþætt. Að þessu virtu yrði sá vafi sem léki um hættueiginleika aðferðar ákærða metin honum í hag við heimfærslu brotsins til refsiákvæðis. Einn dómari skilaði sératkvæði og vildi sakfella ákærða fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. b laganna og þyngja refsingu hans. 8. Ríkissaksóknari óskaði eftir leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar málsins. Með ákvörðun réttarins 31. ágúst 2021 var leyfið veitt á þeim grunni að dómur í málinu, meðal annars um beitingu 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga, myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Málsatvik 9. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst henni tilkynning klukkan tvö aðfaranótt þriðjudagsins 15. maí 2018 um að brotaþoli hefði orðið fyrir líkamsárás eða heimilisofbeldi. Hún var þá stödd í íbúð nágranna sinna þangað sem hún hafði leitað eftir aðstoð. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var hún í íbúð sinni. Í skýrslunni kemur fram að hún hefði setið á gólfinu með frystivörur í pokum víðs vegar á líkamanum til kælingar. Einnig sagði að hún hefði greinilega verið í áfalli og bolur sem hún klæddist rifinn. Ákærði var ekki á vettvangi. Með skýrslunni fylgdu ljósmyndir af vettvangi og áverkum á líkama brotaþola. 10. Brotaþoli gekkst undir læknisskoðun að morgni sama dags. Í ódagsettu læknisvottorði kom fram að hún hefði verið með byrjandi mar og yfirborðsáverka á hálsi, lítil hrufl eða mar á baki yfir neðstu rifjum, meira vinstra megin, stórt mar á innanverðum hægri upphandlegg og hrufl á olnboga þeim megin, verki í báðum hnjám og hrufl á hægra hné, hrufl á vinstri fæti og mar á il. Einnig sagði að brotaþoli hefði verið með mar á brjóstkassa. 11. Ákærði neitar sök en hann hefur á öllum stigum málsins nýtt sér lögbundinn rétt til að tjá sig ekki um sakagiftir. Í héraðsdómi er rakinn framburður brotaþola og annarra vitna fyrir dómi. Brotaþoli gaf einnig skýrslu fyrir Landsrétti. Lagaumhverfi 12. Ákvæði 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga hljóðar svo: Hver sem endurtekið eða á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, niðja síns eða niðja núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, áa síns, eða annarra sem búa með honum á heimili eða eru í hans umsjá, með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt, skal sæta fangelsi allt að 6 árum. Í 2. mgr. 218. gr. b segir: Ef brot er stórfellt getur það varðað fangelsi allt að 16 árum. Við mat á grófleika verknaðar skal sérstaklega líta til þess hvort þolandi hafi beðið stórfellt líkams- eða heilsutjón eða bani hlotist af. Enn fremur ber að líta til þess hvort brot hafi verið framið á sérstaklega sársaukafullan eða meiðandi hátt, hafi staðið yfir í langan tíma eða hvort gerandi hafi misnotað freklega yfirburðastöðu sína gagnvart þolanda. 13. Eins og rakið er í dómi Hæstaréttar 9. mars 2022 í máli nr. 42/2021 var 218. gr. b bætt við almenn hegningarlög með lögum nr. 23/2016. Með þeim lögum voru gerðar ýmsar breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga til þess að unnt væri að fullgilda samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi frá 11. maí 2011 (Istanbúlsamningurinn). Í lögskýringargögnum með lögum nr. 23/2016 er tekið fram að þótt fullgilding samningsins kallaði ekki á setningu sérstaks refsiákvæðis um ofbeldi í nánum samböndum væri slíkt ákvæði mjög í anda samningsins og til þess fallið að ná markmiðum hans. Væri alþekkt að þolendur ofbeldis í nánum samböndum væru fyrst og fremst konur og börn. Rakið er hvernig afstaða löggjafans til sérrefsiákvæðis um ofbeldi í nánum samböndum og heimilisofbeldis hefur þróast frá því að áður hafi verið talið rétt að styðjast áfram við hin almennu líkamsmeiðingarákvæði 217. og 218. gr. laganna. Þó hafi sú breyting verið gerð með lögum nr. 27/2006 að sérstöku refsiþyngingarákvæði var bætt við 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Það hafi verið þess efnis að það skuli að jafnaði tekið til greina til þyngingar refsingu hafi verknaður beinst að karli, konu eða barni sem eru nákomin geranda og tengsl þeirra þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins. Nú stæðu sterk refsipólitísk og samfélagsleg rök til þess að setja sérstakt ákvæði um efnið. Mikilvægt væri að löggjafinn viðurkenndi sérstöðu slíkra brota og að heimilisofbeldi væri ekki einkamál fjölskyldna heldur varði samfélagið allt. Tryggja þyrfti þeim sem búa við alvarlegt eða endurtekið ofbeldi af hálfu nákominna meiri og beinskeyttari réttarvernd. Líta þurfi til tengsla þolanda og geranda og þess rofs á trúnaðarsambandi og trausti þeirra á milli sem í háttseminni felist. Enn fremur er því lýst að fyrirmynd ákvæðis frumvarpsins um ofbeldi í nánum samböndum sé sótt til hliðstæðra greina norsku hegningarlaganna. Líkt og við eigi í tilviki norsku ákvæðanna sé það meginmarkmið ákvæðisins að leggja áherslu á það ógnarástand sem þessi tegund ofbeldis geti skapað og þá langvarandi andlegu þjáningu sem því geti fylgt. Ákvæðum um ofbeldi í nánu sambandi sé þannig fyrst og fremst ætlað að ná yfir háttsemi sem staðið hafi yfir í lengri eða skemmri tíma þótt þeim verði jafnframt beitt um einstök alvarleg tilvik. 14. Í athugasemdum með 4. gr. frumvarpsins, sem varð að 218. gr. b almennra hegningarlaga, er varpað frekara ljósi á hvaða háttsemi skal að mati löggjafans falla undir verknaðarlýsingu 1. mgr. greinarinnar svo og hvað leiðir til þess að brot teljist stórfellt samkvæmt 2. mgr. Með 1. mgr. sé lögð áhersla á að ofbeldi í nánum samböndum feli ekki einungis í sér samansafn einstakra tilvika heldur megi virða slíka háttsemi sem eina heild. Ítrekað er að meginmarkmið ákvæðisins sé að ná til endurtekinnar eða alvarlegrar háttsemi. Ekki sé þó útilokað að einstakt brot geti fallið undir ákvæðið nái það tilteknu alvarleikastigi. Minni háttar brot sem ekki næðu því stigi gætu eftir sem áður varðað við vægari refsiákvæði eins og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Tekið er fram að refsinæmi sé ekki bundið við verknað sem þegar geti falið í sér refsiverða háttsemi samkvæmt almennum hegningarlögum heldur taki það jafnframt til þess ef lífi, heilsu eða velferð þolanda er ógnað á annan hátt sem ekki feli í sér sjálfstæða refsiverða háttsemi samkvæmt gildandi lögum. Þá er lýst atriðum sem leiði til þess að brot samkvæmt 1. mgr. greinarinnar teljist stórfellt þannig að það falli undir 2. mgr. hennar en það skuli ráðast af grófleika brotsins. Tekið er fram að við mat þar að lútandi skuli sérstaklega litið til þess hvort stórfellt líkams- eða heilsutjón eða bani hafi hlotist af. Niðurstaða 15. Í ákæru er verknaði ákærða lýst sem líkamsárás með tilgreindum áverkum á líkama brotaþola. Ekki er vísað sérstaklega til þess að ákærði hafi ógnað lífi, heilsu eða velferð hennar eins og rétt hefði verið í ljósi verknaðarlýsingar 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga, sbr. c-lið og eftir atvikum d-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Við lestur ákærunnar er þó ljóst hverjar sakargiftir eru og var vörn ákærða ekki áfátt vegna framsetningar hennar, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. 16. Samkvæmt 2. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008 kemur ekki í hlut Hæstaréttar að endurmeta niðurstöðu áfrýjaðs dóms um sönnunargildi munnlegs framburðar. Ekkert er fram komið um meðferð málsins á fyrri stigum sem leiða á til annars en að staðfesta beri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að ákærði hafi gerst sekur um þá atlögu gegn brotaþola sem þar er lýst og með þeim afleiðingum sem í ákæru segir. Kemur því einungis til úrlausnar hér fyrir dómi hvort háttsemi sú sem ákærði var sakfelldur fyrir í hinum áfrýjaða dómi verður færð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga eins og þar var gert eða 1. mgr. 218. gr. b laganna eins og gert er í ákæru og jafnframt hver skal vera refsing ákærða. 17. Eins og að framan greinir lúta ákvæði 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga að broti þar sem tilgreind tengsl eru eða hafa verið milli geranda og brotaþola og geta þau verið með ýmsum hætti. Jafnframt getur verið um að ræða margvíslega háttsemi geranda svo að ákvæðið eigi við. Þó er gert að skilyrði að háttsemin sé með þeim hætti að ógni lífi, heilsu eða velferð þess sem fyrir verður. Á hinn bóginn þarf brotaþoli ekki að verða fyrir beinum eða sjáanlegum líkamsáverkum eða öðru tjóni svo að heimfæra megi háttsemi til 1. mgr. greinarinnar en slíkt getur þó komið til skoðunar við mat á grófleika brots og heimfærslu, einkum að því er varðar 2. mgr. hennar. 18. Samkvæmt orðum sínum einskorðast 1. mgr. 218. gr. b laganna heldur ekki við endurtekið atferli gagnvart brotaþola. Einstakt tilvik getur fallið þar undir sé um að ræða alvarlega ógnun við líf, heilsu eða velferð brotaþola án þess þó að atvik séu með þeim hætti að ákvæði 2. mgr. greinarinnar eigi við. Mat á þessu verður einatt atviksbundið og með hliðsjón af tilgangi refsiákvæðis um brot í nánu sambandi svo sem lýst var að framan. 19. Gögn málsins bera með sér að ákærði og brotaþoli hafi verið par í um tvö ár og búið saman stóran hluta þess tíma. Fallist er á með hinum áfrýjaða dómi að tengsl þeirra hafi verið slík að heyri undir ákvæði 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga. 20. Fram er komið að þegar atvik urðu höfðu ákærði og brotaþoli slitið samvistir. Birtist ákærði óvænt á heimili brotaþola að nóttu til og veittist að henni með því að ýta henni þannig að hún féll niður stiga, tók í hár hennar, skallaði hana í höfuð og tók kverkataki. Voru áverkar víðs vegar um líkama brotaþola þótt hver um sig hafi ekki talist verulegur. Er ljóst að brotaþoli hlaut áverka vegna fallsins og var þessi háttsemi ákærða einkar alvarleg. Var árás hans í heild sinni til þess fallin að vekja mikla ógn hjá brotaþola en jafnframt er fram komið að hún varð fyrir andlegu áfalli vegna árásarinnar. Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að brotaþoli var varnarlaus gagnvart óvæntri, tilefnislausri og harkalegri atlögu ákærða á heimili sínu um miðja nótt. Verður talið að með atlögunni hafi ákærði á alvarlegan hátt og með ofbeldi ógnað heilsu brotaþola og velferð. Háttsemi ákærða verður því felld undir ákvæði 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga. 21. Brot það sem ákærði er sakfelldur fyrir varðar allt að sex ára fangelsi. Í ljósi forsögu refsiákvæða almennra hegningarlaga um brot í nánu sambandi verður við ákvörðun refsingar vegna brots gegn 218. gr. b laganna ekki litið til refsiþyngingarákvæðis 3. mgr. 70. gr. þeirra. Ákærði á sér engar sérstakar málsbætur en haft er í huga að um var að ræða eitt tilvik og hefur sakaferill ákærða ekki áhrif til þyngingar refsingu hans. Þá er litið til 1., 3. og 6. töluliða 1. mgr. 70. gr. laganna. Verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Að virtum sakaferli ákærða og því hve langur tími er liðinn frá atvikum máls er rétt að binda refsinguna almennu skilorði, eins og greinir í dómsorði. 22. Í héraði leið eitt ár frá þingfestingu málsins til dóms og er í dómi Landsréttar að finna athugasemd við þann drátt á meðferð málsins sem talinn var vera úr hófi fram. Á hinn bóginn liðu rétt tæpir 19 mánuðir frá áfrýjun málsins til Landsréttar og þar til dómur var þar upp kveðinn. Ekki eru fram komnar skýringar á þeim drætti sem einnig verður að telja aðfinnsluverðan. 23. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest. Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Ákærði, X, sæti fangelsi í 10 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 1. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skulu óröskuð. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar lögmanns, 744.000 krónur. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=698f691b-43c5-4624-9c3d-02a1c516cc18&verdictid=29b85cec-2cf5-455e-ad75-b93dd3b3fce5
Mál nr. 19/2022
Kærumál Rannsókn Stjórnarskrá Mannréttindasáttmáli Evrópu Kæruheimild Frávísun frá Hæstarétti
X kærði úrskurð Landsréttar þar sem máli hans á hendur L var vísað frá héraðsdómi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að kæruheimild í a-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hefði verið skýrð svo að hún tæki almennt aðeins til endanlegra úrskurða um frávísun mála sem höfðuð hefðu verið með ákæru en ekki til úrskurða Landsréttar um frávísun kæru vegna rannsóknarúrskurða eða úrskurða um réttarfarsatriði. Sömu rök ættu við um kæruheimild í þessu máli og þeim málum enda væri sú aðkoma dómstóla að rannsókn sakamála sem fælist í heimild 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 af sama toga og aðkoma þeirra að öðrum rannsóknarathöfnum sem þeim væri falið úrskurðarvald um samkvæmt lögunum. Var því talið að X hefði brostið heimild til að kæra úrskurð Landsréttar og var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. mars 2022 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 16. mars 2022 í máli nr. 113/2022 þar sem máli varnaraðila á hendur sóknaraðila var vísað frá héraðsdómi. Um kæruheimild vísar varnaraðili til a-liðar 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. 3. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. 4. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. 5. Varnaraðili telur kæruheimild a-liðar 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 vera skýra og afdráttarlausa og taki til dómsúrlausna Landsréttar um frávísun frá héraðsdómi eins og í þessu máli. Varnaraðili telur þær kröfur sem gerðar eru til aðgangs að dómstólum og réttlátrar málsmeðferðar í 60. og 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu mæla gegn þeirri þröngu túlkun á kæruheimildinni sem beitt hafi verið í dómum Hæstaréttar 15. janúar 2021 í máli nr. 1/2021 og 9. febrúar sama ár í máli nr. 6/2021. Jafnframt mæli 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmálans gegn því að beitt sé þrengjandi túlkun á kæruheimildinni þar sem réttaröryggi og möguleikar borgaranna til að bera lögmæti inngripa stjórnvalda í tjáningarfrelsi þeirra undir dómstóla sé einn þáttur í vernd þess. Slík sjónarmið hafi aukið vægi í þessu máli þar sem reyni á inngrip lögreglu í tjáningarfrelsi blaðamanns. Þá vísar varnaraðili til þess að í 13. gr. mannréttindasáttmálans felist réttur hans til raunhæfs réttarúrræðis til að tryggja fyrrnefnd réttindi. 6. Með þeim breytingum sem gerðar voru á dómstólaskipan hér á landi með lögum nr. 50/2016 um dómstóla og lögum nr. 49/2016 um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála var komið á þriggja þrepa dómskerfi. Með því breyttist eðli Hæstaréttar í að vera fyrst og fremst fordæmisgefandi dómstóll. Til þess að rétturinn gæti sinnt því hlutverki sínu voru heimildir til að kæra dómsúrlausnir Landsréttar hafðar mjög þröngar. Um það sagði svo í athugasemdum við a-lið 68. gr. (211. gr. laga nr. 88/2008) í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 49/2016: 7. Með umræddum lagabreytingum var Landsrétti fengið það hlutverk sem Hæstiréttur hafði áður að eiga endanlegt úrskurðarvald um þær þvingunarráðstafanir, rannsóknaraðgerðir og aðrar rannsóknarathafnir lögreglu sem dómstólum er samkvæmt lögum nr. 88/2008 falið úrskurðarvald um en þær geta meðal annars falið í sér frelsisskerðingu og önnur inngrip í mikilvæg mannréttindi. 8. Sú dómsúrlausn sem kæra varnaraðila lýtur að er úrskurður Landsréttar um að vísa frá héraðsdómi kröfu hans, sem borin var undir héraðsdóm með vísan til 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008. Krafan tók til þess að fyrirhuguð skýrslutaka lögreglu af varnaraðila sem sakborningi væri ólögmæt og skyldi ekki fara fram. Varnaraðili hefur þegar fengið umfjöllun dómstóla á tveimur dómstigum um kröfu sína og því notið aðgengis að dómstólum með þeim hætti að fullnægt var kröfum 60. og 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. einnig 13. gr. sáttmálans um raunhæft úrræði til að leita réttar síns. 9. Hin kærða dómsúrlausn Landsréttar fól ekki í sér endanlegar lyktir sakamáls heldur þá niðurstöðu að vald dómstóla næði ekki til þess að kveða á þessu stigi rannsóknar sakamáls úr um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eftir 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 og leggja efnislegt mat á atriði og gefa lögreglu á grundvelli efnislegra ástæðna fyrirmæli um framkvæmd rannsóknar. Frávísun kröfu varnaraðila frá héraðsdómi fól þannig í raun í sér höfnun kröfunnar þegar af þeirri ástæðu að úrlausn hennar ætti ekki undir úrskurðarvald dómstóla á þessu stigi máls. 10. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 er unnt að kæra til Hæstaréttar dómsathöfn Landsréttar um frávísun máls frá héraðsdómi. Þessi kæruheimild hefur verið skýrð svo í fyrrnefndum dómum Hæstaréttar í málum nr. 1/2021 og 6/2021 að hún taki almennt aðeins til endanlegra dómsúrlausna Landsréttar um frávísun mála sem höfðuð hafa verið með ákæru en ekki til dómsúrlausna Landsréttar um frávísun kæru vegna rannsóknarúrskurða eða úrskurða um réttarfarsatriði. Sömu rök eiga við um kæruheimild í þessu máli og þeim málum enda er sú aðkoma dómstóla að rannsókn sakamála sem felst í heimild 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 af sama toga og aðkoma þeirra að öðrum rannsóknarathöfnum sem þeim er falið úrskurðarvald um samkvæmt lögunum. 11. Samkvæmt framansögðu er ekki fyrir hendi heimild til að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar og verður málinu því vísað frá réttinum. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=9ce39716-c260-4754-9ad3-94957e8f5fee&verdictid=2b7ec580-68d8-4c21-83a5-719f408cbac5
Mál nr. 42/2021
Brot í nánu sambandi Heimfærsla Börn Skilorð Miskabætur
X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veist með ofbeldi að stjúpsyni sínum og tekið hann kverkataki. Í Landsrétti var háttsemin heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að við mat á því hversu alvarlegt tilvik þyrfti að vera til að falla undir 1. mgr. 218. gr. b laganna um brot í nánu sambandi bæri í máli þessu að líta til stöðu brotaþola, sem var sjö ára barn, andspænis fullorðnum manni sem brotaþoli leit á sem föður sinn. Litið var til tengsla brotaþola og ákærða og þess rofs sem hefði orðið á trúnaðarsambandi og trausti þeirra í milli vegna ofbeldis ákærða gagnvart honum. Var háttsemi ákærða virt þannig að hann hefði með alvarlegum hætti ógnað heilsu og velferð brotaþola í skilningi ákvæðisins. Í dóminum var tekið fram að 218. gr. b almennra hegningarlaga tæmdi sök gagnvart fyrrgreindum ákvæðum barnaverndarlaga. Var hinn áfrýjaði dómur staðfestur um ákvörðun refsingar ákærða og honum gert að greiða brotaþola 600.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. september 2021. Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem fjallar um brot í nánu sambandi, að refsing hans verði þyngd og niðurstaða hins áfrýjaða dóms um upptöku fíkniefna staðfest. 3. Ákærði krefst aðallega sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi en að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að öðru leyti. Til vara krefst hann refsilækkunar og að bótafjárhæð verði lækkuð. Til þrautavara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms. 4. Af hálfu brotaþola er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða sér 1.000.000 króna með nánar tilgreindum vöxtum. Ágreiningsefni 5. Ágreiningsefni málsins lýtur að því hvort háttsemi ákærða eins og henni er lýst í ákæru verður heimfærð til 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga um brot í nánu sambandi sem meðal annars lýsir refsivert að ógna á alvarlegan hátt lífi, heilsu eða velferð niðja sambúðaraðila með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt. 6. Með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 19. nóvember 2019 var ákærða gefið að sök að hafa á heimili sínu 17. nóvember 2018 veist með ofbeldi að stjúpsyni sínum, sem þá var sjö ára, og tekið hann hálstaki með þeim afleiðingum að hann náði ekki andanum uns móðir drengsins stöðvaði hann. Var háttsemi þessi talin varða við 1. mgr. 218. gr. b og 233. gr. b almennra hegningarlaga svo og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. 7. Með héraðsdómi var ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Ekki var sakfellt fyrir brot gegn 233. gr. b um stórfelldar ærumeiðingar í garð nákominna þar sem því var ekki nægilega lýst í ákæru. Í dómi Landsréttar kom fram að sannað væri, gegn neitun ákærða, að hann hefði tekið brotaþola kverkataki. Á hinn bóginn taldi rétturinn ósannað að brotaþoli hefði ekki náð andanum þar til móðir hans stöðvaði ákærða. Háttsemi ákærða var heimfærð til 1. mgr. 217. gr. laganna auk fyrrgreindra ákvæða barnaverndarlaga. Að öðru leyti var staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða, greiðslu miskabóta til brotaþola og upptöku fíkniefna. Einn dómari skilaði sératkvæði og vildi sakfella ákærða fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. b laganna, þyngja refsingu hans og hækka miskabætur til brotaþola. 8. Ríkissaksóknari óskaði eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar. Með ákvörðun réttarins 31. ágúst 2021 var áfrýjunarleyfi veitt á þeim grunni að úrlausn í málinu, meðal annars um beitingu 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga, myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Málsatvik og málsmeðferð 9. Rannsókn lögreglu á atvikum málsins hófst eftir að móðir brotaþola og fyrrverandi sambýliskona ákærða lagði fram kæru á hendur honum 5. mars 2019 fyrir líkamsárás á sjö ára son hennar að morgni laugardagsins 17. nóvember 2018. Ákæra í málinu var gefin út að lokinni rannsókn 19. nóvember 2019 sem fyrr greinir. Í henni voru ákærða einnig gefin að sök hylming og fíkniefna- og vopnalagabrot í júní 2019. Ákærði var sýknaður af þeim ákærulið í héraðsdómi en þeirri niðurstöðu var ekki áfrýjað. 10. Ákærði neitar sök í málinu. Fyrir héraðsdómi kvaðst hann hafa rifist við brotaþola og sambýliskonu sína umræddan morgun. Hann myndi ekki rifrildið nákvæmlega en ekkert ofbeldi hefði átt sér stað. Hann hefði verið í neyslu á þessum tíma en gæti ekkert sagt nákvæmlega um hvort hann hefði verið undir áhrifum þegar atvikið varð. 11. Í skýrslu móður brotaþola fyrir héraðsdómi kom fram að þau mæðgin hefðu vaknað snemma þennan dag til að fara á fótboltamót en ákærði ekki verið heima. Hann hefði komið heim skömmu síðar og verið „útúrdópaður“. Hún hefði sagt brotaþola að fá sér morgunmat í eldhúsinu og verið að taka til íþróttaföt hans í þvottahúsi þegar hún heyrði ákærða kalla til brotaþola úr stofunni. Því næst hefði hún heyrt ákærða strunsa inn í eldhús og þaðan hefðu síðan heyrst einhver öskur. Hún hefði hraðað sér í eldhúsið en þar hefði ákærði haldið báðum höndum utan um háls drengsins sem sat upp við vegg í stól og ákærði öskrað á hann. Þá hefði hún reynt að rífa ákærða frá brotaþola en ekki tekist það alveg strax og áætlaði hún að liðið hefðu sex til átta sekúndur þangað til það tókst. Meðan á þessu stóð hefði brotaþoli ekki náð að gefa frá sér hljóð en haldið um hendur ákærða og reynt að losa sig. Eftir að henni tókst að losa brotaþola hefði ákærði reynt að ráðast aftur á hann en hún hefði staðið á milli þeirra og öskrað að ákærða sem hefði að lokum farið úr eldhúsinu. Hún kvaðst ekki hafa kannað hvort brotaþoli hefði verið með áverka en hann verið í áfalli og hún reynt að hugga hann. Hún hefði ætlað að vekja bróður sinn sem gisti á heimilinu en þá hefði ákærði aftur komið inn í eldhúsið mjög reiður og rekið mæðginin út. Þau hefðu síðan farið á fótboltamótið. Hún hefði haft áhyggjur af því að skilja ungar dætur sínar eftir í húsinu og þegar bróðir hennar svaraði ekki í síma hefði hún hringt í vin ákærða og beðið hann að fara á staðinn til að kanna aðstæður. 12. Er atvikið varð hafði sambúð móður brotaþola og ákærða staðið í rúm tvö ár. Auk þeirra og brotaþola bjuggu á heimilinu tvær yngri systur hans. Móðir brotaþola bar að ákærði hefði aldrei fyrr lagt hendur á sig eða börnin á heimilinu en ofbeldi hans hefði aðeins verið andlegt. Vitnið hefði ekki farið með drenginn í læknisskoðun eftir atvikið vegna ótta við ákærða og um að hún kynni að missa börnin. Á þessu tímabili hefðu bæði hún og ákærði verið í neyslu en þennan morgun hefði hún ekki verið undir áhrifum. Hún hefði slitið samvistir við ákærða á jóladag 2018 er hún flúði af heimilinu og dvaldi í Kvennaathvarfinu í janúar 2019. Aðspurð um líðan drengsins eftir atvikið bar vitnið að hann ætti mjög erfitt, upplifði ákærða sem morðingja og fengi martraðir vegna atviksins og reiðiköst. Hún hefði fyrst ekki ætlað að kæra atvikið en afstaða hennar hefði síðar breyst og hún gert sér grein fyrir því að hún yrði að standa með barni sínu. 13. Brotaþoli gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi 6. júní 2019. Þar kom fram að hann hefði verið að borða morgunmat á heimili sínu umræddan dag þegar ákærði hefði kallað á hann að koma inn í stofu en hann hefði ekki svarað því. Ákærði hefði þá komið reiður inn í eldhúsið og reynt að „kyrkja“ sig þannig að hann hefði gripið um háls sér með annarri hendi. Lýsti brotaþoli því að það hefði verið „fast en ég get ekki andað“. Það hefði staðið stutt en sér liðið illa. Brotaþoli sagðist hafa reynt að „gera læti“ og náð að öskra á mömmu sína sem hefði komið og stoppað ákærða. Aðspurður sagði brotaþoli að ákærði hefði verið pabbi sinn. Fram að þessu atviki hefði hann venjulega verið góður við sig og aldrei áður meitt sig. 14. Fyrir dómi gáfu einnig skýrslu fjögur önnur vitni sem báru um að móðir brotaþola hefði greint þeim frá atvikinu, tveimur þeirra sama dag og það átti sér stað. Þá bar eitt vitnið, móðurbróðir brotaþola, meðal annars um breytta hegðun drengsins eftir þennan dag og ákærði hefði ekki mátt koma nálægt honum næstu daga á eftir. 15. Vitni voru ekki leidd fyrir dóm í Landsrétti en við aðalmeðferð málsins þar voru spilaðar upptökur af skýrslu ákærða, brotaþola og móður hans. Löggjöf og þróun hennar 16. Ákærða er gefið að sök brot í nánu sambandi samkvæmt 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga sem er svohljóðandi: Hver sem endurtekið eða á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, niðja síns eða niðja núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, áa síns, eða annarra sem búa með honum á heimili eða eru í hans umsjá, með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt, skal sæta fangelsi allt að 6 árum. Í 2. mgr. 218. gr. b segir: Ef brot er stórfellt getur það varðað fangelsi allt að 16 árum. Við mat á grófleika verknaðar skal sérstaklega líta til þess hvort þolandi hafi beðið stórfellt líkams- eða heilsutjón eða bani hlotist af. Enn fremur ber að líta til þess hvort brot hafi verið framið á sérstaklega sársaukafullan eða meiðandi hátt, hafi staðið yfir í langan tíma eða hvort gerandi hafi misnotað freklega yfirburðastöðu sína gagnvart þolanda. 17. Greininni var bætt við almenn hegningarlög með lögum nr. 23/2016. Með þeim voru gerðar ýmsar breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga til þess að unnt væri að fullgilda samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi frá 11. maí 2011, einnig nefndur Istanbúlsamningurinn, og varð Ísland aðili að honum 26. apríl 2018. Í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 23/2016 er tekið fram að þótt fullgilding samningsins kallaði ekki á setningu sérstaks refsiákvæðis um ofbeldi í nánum samböndum væri slíkt ákvæði mjög í anda samningsins og til þess fallið að ná markmiðum hans. Væri einnig alþekkt að þolendur ofbeldis í nánum samböndum væru fyrst og fremst konur og börn. 18. Í þeim kafla í greinargerð frumvarpsins sem ber heitið „Ofbeldi í nánum samböndum (heimilisofbeldi)“ er ítarlega rakin þróun íslenskrar refsilöggjafar um það efni, markmið með setningu sérstaks refsiákvæðis þar um og löggjafarþróun á Norðurlöndum. Þar kemur meðal annars fram að í störfum sérstakra nefnda sem dómsmálaráðherra skipaði á tíunda áratug liðinnar aldar og í skýrslum ráðherra um efnið til Alþingis frá maí 1998 hafi verið gerðar tillögur um hvernig skilgreina ætti heimilisofbeldi og fjallað um meðferð heimilisofbeldismála hjá lögreglu og í dómskerfinu. Í kjölfarið hafi komið til skoðunar hvort lýsa ætti heimilisofbeldi sem sérstökum refsinæmum verknaði í almennum hegningarlögum eða styðjast áfram við hin almennu líkamsmeiðingarákvæði 217. og 218. gr. laganna. Varð niðurstaðan þá að ekki stæðu viðhlítandi lagaleg eða refsipólitísk rök til þess að lögfesta sérrefsiákvæði um heimilisofbeldi. Engu að síður hefði verið talið nauðsynlegt að íslensk refsilöggjöf endurspeglaði með skýrari hætti að brot gegn nákomnum hefðu sérstöðu. Í þessu skyni hafi verið sett lög nr. 27/2006 sem bættu við sérstöku refsiþyngingarákvæði, 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, þess efnis að það skuli að jafnaði tekið til greina til þyngingar refsingu hafi verknaður beinst að karli, konu eða barni sem eru nákomin geranda og tengsl þeirra þykja hafa aukið á grófleika verknaðarins. Með lögum nr. 27/2006 var 233. gr. b einnig bætt við lögin til að auka refsivernd gegn stórfelldum ærumeiðingum innan fjölskyldna. 19. Í almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga nr. 23/2016 er rakið hvernig afstaða löggjafans til sérrefsiákvæðis um ofbeldi í nánum samböndum og heimilisofbeldi hafi breyst og sterk refsipólitísk og samfélagsleg rök standi nú til þess að setja sérstakt ákvæði um efnið. Mikilvægt sé að löggjafinn viðurkenni sérstöðu slíkra brota og að heimilisofbeldi sé ekki einkamál fjölskyldna heldur varði samfélagið allt. Tryggja þurfi þeim sem búa við alvarlegt eða endurtekið ofbeldi af hálfu nákominna meiri og beinskeyttari réttarvernd. Líta þurfi til tengsla þolanda og geranda og þess rofs á trúnaðarsambandi og trausti þeirra á milli sem í háttseminni felist. Þá sé eitt af markmiðum slíks ákvæðis að auka réttarvernd barna sem búi við ofbeldi á heimilum. Ákvæðið verndi þannig öll börn sem eru í þeirri aðstöðu að lífi þeirra, heilsu eða velferð er ógnað hvort sem athafnirnar sem beitt er til að skapa ógnina beinast beinlínis gegn þeim sjálfum eða þeirra nánustu. 20. Enn fremur er því lýst að fyrirmynd ákvæðis frumvarpsins um ofbeldi í nánum samböndum sé sótt til hliðstæðra greina norsku hegningarlaganna sem er að finna í 282. og 283. gr. þeirra laga en hin síðarnefnda fjallar um stórfellt brot. Líkt og á við um norsku ákvæðin sé það meginmarkmið ákvæðisins að leggja áherslu á það ógnarástand sem þessi tegund ofbeldis geti skapað og þá langvarandi andlegu þjáningu sem því geti fylgt. Því sé þannig fyrst og fremst ætlað að ná yfir háttsemi sem staðið hafi yfir í lengri eða skemmri tíma þótt því yrði jafnframt beitt um einstök alvarleg tilvik. 21. Í athugasemdum með 4. gr. frumvarpsins, sem varð að 218. gr. b, er varpað frekara ljósi á hvaða háttsemi falli undir verknaðarlýsingu 1. mgr. hennar svo og hvað felist í stórfelldu broti samkvæmt 2. mgr. Með 1. mgr. sé lögð áhersla á að ofbeldi í nánum samböndum feli ekki einungis í sér samansafn einstakra tilvika heldur megi virða slíka háttsemi sem eina heild. Ítrekað er að meginmarkmið ákvæðisins sé að ná til endurtekinnar eða alvarlegrar háttsemi. Ekki sé þó útilokað að einstakt brot geti fallið undir ákvæðið nái það tilteknu alvarleikastigi. Minni háttar brot sem ekki næðu því stigi gætu eftir sem áður varðað við vægari refsiákvæði eins og 1. mgr. 217. gr. laganna. Áréttað er það markmið ákvæðisins að auka vernd barna sem búa við ofbeldi. Þá er tekið fram að refsinæmi sé ekki bundið við verknað sem þegar geti falið í sér refsiverða háttsemi samkvæmt almennum hegningarlögum heldur taki það jafnframt til þess ef lífi, heilsu eða velferð þolanda er ógnað á annan hátt sem ekki feli í sér sjálfstæða refsiverða háttsemi samkvæmt gildandi lögum. 22. Í athugasemdum frumvarpsins er lýst atriðum sem leiði til þess að brot samkvæmt 1. mgr. greinarinnar teljist stórfellt þannig að það falli undir 2. mgr. hennar en það skuli ráðast af grófleika brotsins. Tekið er fram að við mat þar að lútandi skuli sérstaklega litið til þess hvort stórfellt líkams- eða heilsutjón eða bani hefur hlotist af. Loks er í niðurlagi skýringa á ákvæðinu sem varð að 218. gr. b ráðgert að hinu nýja ákvæði verði að jafnaði beitt einu og sér en ekki samhliða öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga, svo sem 1. mgr. 217., 218., 225. eða 233. gr. Ekki sé þó útilokað að ákvæðinu verði beitt samhliða öðrum ákvæðum sem mæli fyrir um hærri refsimörk eða varða kynferðisbrot svo sem 194. gr. laganna. Niðurstaða Krafa um sýknu 23. Aðalkrafa ákærða um sýknu byggist á því að hann hafi ekki beitt brotaþola ofbeldi og viðhaft þá háttsemi sem lýst er í ákæru. Hann bendir jafnframt á að óljóst sé í hinum áfrýjaða dómi hvort hann hafi verið sakfelldur fyrir hálstak, eins og honum er gefið að sök í ákæru, þar sem Landsréttur sakfelldi hann fyrir að taka brotaþola kverkataki. 24. Orðið „hálstak“ sem tilgreint er í ákæru skírskotar samkvæmt almennri málvenju til þess að tekið sé um háls einstaklings. Verður að skilja orðið „kverkatak“ þannig að gripið sé með berum höndum eða hendi um háls annars manns en þannig var háttsemi ákærða nánar lýst í framburði brotaþola og móður hans. Samkvæmt framangreindu er þessi lýsing sakarefnis í ákæru nægilega skýr og voru sakargiftirnar svo ljósar að ákærði gat tekið afstöðu til þeirra og haldið uppi vörnum, sbr. c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Í hinum áfrýjaða dómi var ákærði þannig ótvírætt dæmdur fyrir hegðun sem honum var gefin að sök í ákæru í samræmi við áskilnað 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. 25. Með dómi héraðsdóms var talið að lögfull sönnun væri fram komin um að ákærði hefði gerst sekur um þá háttsemi sem lýst var í þessum ákærulið. Var sú niðurstaða reist á mati á trúverðugleika framburðar brotaþola og móður hans með stoð í vitnisburði nafngreinds manns sem móðirin hringdi í eftir atvikið. Í hinum áfrýjaða dómi var einnig talið sannað að ákærði hefði tekið brotaþola kverkataki með vísan til þess að framburður brotaþola væri trúverðugur og fengi stuðning í framburði vitna, einkum móður hans. Á hinn bóginn var talið ósannað að brotaþoli hefði ekki náð andanum uns móðir hans stöðvaði ákærða svo sem greinir í ákæru. 26. Samkvæmt 2. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008 getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu áfrýjaðs dóms um sönnunargildi munnlegs framburðar, sbr. einnig til hliðsjónar dóm réttarins 16. desember 2021 í máli nr. 31/2021. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um sönnunarmat er því lagt til grundvallar að sú háttsemi ákærða að taka brotaþola kverkataki með ofbeldi teljist sönnuð. Heimfærsla til refsiákvæða 27. Í rökstuðningi fyrir niðurstöðu hins áfrýjaða dóms var við skýringu 218. gr. b almennra hegningarlaga um brot í nánu sambandi vísað til lögskýringargagna með 1. mgr. ákvæðisins og bent á að því væri fyrst og fremst ætlað að ná yfir háttsemi sem staðið hefði yfir í lengri eða skemmri tíma en yrði þó beitt um einstök alvarleg tilvik. Taldi Landsréttur að við mat á því hvort tilvik næði slíku alvarleikastigi mætti hafa hliðsjón af 2. og 3. málslið 2. mgr. greinarinnar. Í málinu væri ákært fyrir eitt atvik og hefði ákæruvaldið ekkert fært fram um að verknaðurinn hefði á alvarlegan hátt ógnað heilsu eða velferð brotaþola. Yrði háttsemi ákærða því ekki heimfærð til 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga heldur 1. mgr. 217. gr. laganna um líkamsárás. Til stuðnings heimfærslu til refsiákvæðis var til hliðsjónar vísað til fyrri dómaframkvæmdar Landsréttar, einkum dóma frá 7. júní 2019 í máli nr. 616/2018 og 18. júní 2020 í máli nr. 196/2019. 28. Ótvírætt er að náið samband var milli ákærða og brotaþola í skilningi 1. mgr. 218. gr. b þar sem sérstaklega er vísað til niðja sambúðaraðila. Við mat á því hversu alvarlegt tilvik þurfi að vera til að falla undir ákvæðið ber í máli þessu að líta til stöðu brotaþola, sem var sjö ára barn, andspænis fullorðnum manni sem brotaþoli leit á sem föður sinn. Svo sem fram kemur í lögskýringargögnum var skýr vilji löggjafans við setningu þessa refsiákvæðis að auka vernd barna sem eru í þeirri aðstöðu að lífi þeirra, heilsu eða velferð sé ógnað. Við úrlausn um heimfærslu brotsins til refsiákvæða ber einnig að líta til tengsla brotaþola og ákærða og þess rofs sem varð á trúnaðarsambandi og trausti þeirra í milli vegna ofbeldis ákærða gagnvart honum. 29. Í ljósi ungs aldurs brotaþola verður einnig litið til varnarleysis hans og þeirrar yfirburðastöðu sem ákærði hafði gagnvart honum. Þau ummæli í lögskýringargögnum að minni háttar brot sem ekki nái því alvarleikastigi að falla undir 1. mgr. 218. gr. b geti varðað við vægari refsiákvæði eins og 1. mgr. 217. gr. laganna ber ekki að skilja svo að minni háttar líkamsárás falli af þeirri ástæðu einni ekki undir 218. gr. b. Þannig verður að meta hvert tilvik í ljósi allra atvika, með heildstæðum hætti og með hliðsjón af tilgangi refsiákvæðis um brot í nánu sambandi. Eykur það á alvarleika brotsins að ofbeldi ákærða beindist að barni en ekki fullorðnum einstaklingi. Það var einnig til þess fallið að vera sérlega ógnvekjandi fyrir brotaþola en eins og áður segir taldi hann pabba sinn vera að kyrkja sig. Þannig greina atvik þessa máls sig frá þeim málum sem vísað var til í hinum áfrýjaða dómi þar sem háttsemi ákærða í einu tilviki gagnvart fullorðnum einstaklingi var heimfærð til 1. mgr. 217. gr. laganna. Er sú skýring, að minni kröfur séu gerðar til alvarleika háttsemi þegar barn á í hlut, í samræmi við framkvæmd hinna norsku refsiákvæða um brot í nánu sambandi sem voru höfð að fyrirmynd við setningu 218. gr. b og fjallað var um í lögskýringargögnum. 30. Verður háttsemi ákærða virt þannig að hann hafi með alvarlegum hætti ógnað heilsu og velferð brotaþola þegar hann veittist með ofbeldi að honum og tók hann kverkataki. Jafnvel þótt ósannað teljist, samkvæmt hinum áfrýjaða dómi, að brotaþoli hafi ekki getað andað meðan á því stóð var brot ákærða fullframið við þessa atlögu hans. Hefur ekki þýðingu í því sambandi að ekki liggi fyrir vottorð um áverka sem brotaþoli hlaut af kverkatakinu en ljóst er af skýrslum vitna að drengurinn varð fyrir miklu andlegu áfalli við atlöguna. Verður jafnframt hafnað þeim sjónarmiðum sem koma fram í hinum áfrýjaða dómi að meta skuli grófleika verknaðar með hliðsjón af 2. mgr. greinarinnar, þar sem fjallað er um stórfellt brot í nánu sambandi, en ákæra í málinu lýtur ekki að því ákvæði. Samkvæmt öllu framangreindu hefur ákærði gerst sekur um brot á 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga. 31. Svo sem fram kemur í lögskýringargögnum er gert ráð fyrir að 218. gr. b verði að jafnaði beitt einni og sér en ekki samhliða öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga sem mæla fyrir um lægri refsingu en ekki sé hins vegar útilokað að ákvæðinu verði beitt samhliða öðrum ákvæðum sem mæla fyrir um hærri refsimörk. Er til þess að líta að 218. gr. b er sérákvæði um ofbeldi gagnvart börnum og öðrum í nánu sambandi með hærri refsimörk en refsiákvæði 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga sem ákærða er einnig gefið að sök í ákæru að hafa brotið. Ákvæðið tæmir því sök gagnvart framangreindum ákvæðum barnaverndarlaga og verður háttsemi ákærða því ekki jafnframt heimfærð til þeirra. Ákvörðun refsingar, miskabóta og sakarkostnaðar 32. Að teknu tilliti til þess að ákæruvaldið krafðist staðfestingar refsingar ákærða við áfrýjun héraðsdóms til Landsréttar verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um ákvörðun refsingar hans, sbr. 208. gr. og 1. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008. 33. Ákvæði um upptöku fíkniefna í héraðsdómi, sem staðfest var í hinum áfrýjaða dómi, skal vera óraskað. 34. Með háttsemi sinni sýndi ákærði algert skeytingarleysi gagnvart varnarlausu barni og ógnaði á alvarlegan hátt heilsu og velferð brotaþola sem varð fyrir miklu áfalli við atlögu hans. Verða miskabætur til brotaþola ákveðnar 600.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir. 35. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest. Rétt er að áfrýjunarkostnaður fyrir Hæstarétti verði felldur á ríkissjóð með vísan til 2. mgr. 238. gr. laga nr. 88/2008. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda og réttargæslumanns verða ákveðin, að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en einkaréttarkröfu. Ákærði, X, greiði brotaþola, A, 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. nóvember 2018 til 22. september 2019 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Allur áfrýjunarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Gunnars Inga Jóhannssonar lögmanns, 744.000 krónur, svo og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sögu Ýrar Jónsdóttur, 248.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=1f232401-3882-42fa-90fd-0f2072169e51&verdictid=ea5c8313-6acf-4955-bceb-94ccf875997e
Mál nr. 12/2022
Kærumál Félagsdómur Dómstóll Frávísunarkröfu hafnað
Kærður var úrskurður Félagsdóms þar sem hafnað var kröfu S um frávísun á kröfu ASÍ um að viðurkennt yrði að uppsögn A hjá I ehf. fæli í sér brot gegn 11. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og væri af þeim sökum ólögmæt. Hæstiréttur vísaði til þess að meginágreiningur aðila lyti að því hvort A hefði notið þeirrar verndar sem 11. gr. laganna kvæði á um til handa trúnaðarmönnum við uppsögn. Sá ágreiningur félli ótvírætt undir lögsögu Félagsdóms. Hinn kærði úrskurður var því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 2022 sem barst réttinum degi síðar. Kærumálsgögn bárust réttinum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Félagsdóms 11. febrúar 2022 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um frávísun á kröfu varnaraðila þess efnis að viðurkennt yrði með dómi að uppsögn A hjá Icelandair ehf. 20. ágúst 2021 fæli í sér brot gegn 11. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og væri af þeim sökum ólögmæt. Kæruheimild er í 1. tölulið 1. mgr. 67. gr. laga nr. 80/1938. 3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að kröfunni verði vísað frá Félagsdómi. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar. 4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Málsatvik 5. Af gögnum málsins verður ráðið að A hafi verið starfsmaður Flugfélags Íslands ehf. frá nóvember 2016. Hún var kosin trúnaðarmaður starfsmanna hlaðdeildar félagsins í mars 2018 og tilnefnd sem trúnaðarmaður Eflingar stéttarfélags frá 16. mars 2018 til 16. mars 2020. Ágreiningslaust er að tilkynning þess efnis var send í samræmi við grein 13.1 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar. Í febrúar 2020 mun Flugfélag Íslands ehf. hafa sent tilkynningu um skipan öryggisnefndar sinnar til Vinnueftirlitsins og átti A sæti í henni sem öryggistrúnaðarmaður. Icelandair ehf. tók yfir ráðningarsamning hennar á vormánuðum 2020 á grundvelli laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Með bréfi 20. ágúst 2021 sagði Icelandair ehf. henni upp störfum frá og með 31. sama mánaðar. 6. Ágreiningur málsins lýtur meðal annars að því hvort A hafi haldið stöðu sinni sem öryggistrúnaðarmaður við sameiningu Flugfélags Íslands ehf. og Icelandair ehf. 7. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að ágreiningur um stöðu öryggistrúnaðarmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum eða við uppsögn heyri ekki undir lögsögu Félagsdóms. Dómstóllinn sé sérdómstóll með afmarkaða lögsögu og verði hún ekki skýrð rúmt gagnvart lögsögu almennra dómstóla. Brot gegn lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum varði við lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála og falli því utan lögsögu Félagsdóms. Þá gegni öryggistrúnaðarmenn og öryggisnefndir ekki hlutverki samkvæmt lögum nr. 80/1938. Jafnframt bendir sóknaraðili á að ekki heyri undir lögsögu Félagsdóms að túlka ákvæði laga nr. 72/2002. 8. Af hálfu varnaraðila er á því byggt að með 9. gr. laga nr. 46/1980 hafi með skýrum hætti verið fellt undir lögsögu Félagsdóms að dæma um og meta hvort uppsögn öryggistrúnaðarmanns telst vera lögmæt eða í andstöðu við þá vernd sem mælt er fyrir um í 11. gr. laga nr. 80/1938, sbr. og 1. tölulið 1. mgr. 44. gr. sömu laga. Niðurstaða 9. Í 11. gr. laga nr. 80/1938 segir að atvinnurekendum og umboðsmönnum þeirra sé óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess að stéttarfélag hefur falið þeim að gegna trúnaðarmannsstörfum fyrir sig. Þurfi atvinnurekandi að fækka við sig verkamönnum skuli trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni. 10. Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 46/1980 segir að öryggistrúnaðarmenn og fulltrúar starfsmanna í öryggisnefnd skuli njóta þeirrar verndar sem ákveðin er í 11. gr. laga nr. 80/1938, sem fjallar um réttindi trúnaðarmanna við uppsögn. 11. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 72/2002 skulu trúnaðarmenn starfsmanna halda stöðu sinni samkvæmt lögum og kjarasamningi eftir aðilaskipti haldi fyrirtæki eða hluti þess áfram sjálfstæði sínu en að öðrum kosti skulu starfsmenn eiga sér fulltrúa þar til nýr trúnaðarmaður hefur verið valinn. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar fer um réttarstöðu trúnaðarmanna samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og eftir atvikum kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins. 12. Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 er meðal verkefna Félagsdóms að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á þeim lögum. Ætluð brot gegn 11. gr. laganna falla því þar undir. 13. Meginágreiningur aðila lýtur að því hvort A hafi notið þeirrar verndar sem 11. gr. laga nr. 80/1938 kveður á um til handa trúnaðarmönnum við uppsögn. Sá ágreiningur fellur ótvírætt undir lögsögu Félagsdóms, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 44. gr. laganna, þótt við úrlausn hans kunni að þurfa að skoða samspil ákvæða laga nr. 80/1938, nr. 72/2002 og nr. 46/1980 sem lúta að trúnaðarmönnum og öryggistrúnaðarmönnum. 14. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. 15. Það athugast að hinn kærði úrskurður tekur einungis til frávísunarkröfu sóknaraðila og dómkröfur hans fyrir Hæstarétti lúta að endurskoðun þeirrar niðurstöðu úrskurðarins að hafna beri frávísun krafna hans. Þegar af þeirri ástæðu kemur ekki til skoðunar hér fyrir dómi málatilbúnaður sóknaraðila er lýtur að kröfu varnaraðila um sekt er sóknaraðila verði gert að greiða í ríkissjóð. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Samtök atvinnulífsins f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Icelandair ehf., greiði varnaraðila, Alþýðusambandi Íslands f.h. Starfsgreinasambands Íslands vegna Eflingar stéttarfélags, f.h. A, 500.000 krónur í kærumálskostnað. https://felagsdomur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=a14d342a-16b3-4a43-8625-df31aad7dab8
Mál nr. 9/2022
Kærumál Dánarbú Erfðaskrá Opinber skipti Eignarnámsbætur Gjafsókn
M kærði úrskurð Landsréttar þar sem staðfestur var úrskurður héraðsdóms um viðurkenningu á rétti hans til ógreiddra eftirstöðva eignarnámsbóta vegna eignarnáms K árið 2007 á landi Vatnsenda, að undanskildum einum lið í sáttargerð við K sem viðurkennt var að tilheyrði dánarbúi ÞH. Fyrir andlát sitt hafði ÞH höfðað mál á hendur K til heimtu ógreiddra bóta vegna eignarnámsins en það hafði hluti erfingja SKLH jafnframt gert í öðru máli. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að mál þetta væri afmarkað við þá kröfu sem ÞH hafði gert á hendur K og úrskurðarorð um ágreining þessa máls yrði að bera með sér að það tæki aðeins til þess ágreinings. Úrskurðarorðið gæti því ekki falið í sér fyrirvaralausa viðurkenningu á því að réttur til bóta á hendur K tilheyrði aðilum þessa máls einum án tillits til þess að fleiri einstaklingar hefðu gert tilkall til bóta vegna sama eignarnáms í öðru dómsmáli sem ekki er endanlega útkljáð. Að framangreindu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna var hinn kærði úrskurður staðfestur með þeim hætti sem greindi í úrskurðarorði.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 2021 en kærumálsgögn bárust réttinum 5. janúar 2022. Kærður er úrskurður Landsréttar 16. desember 2021 þar sem staðfestur var úrskurður héraðsdóms um viðurkenningu á rétti sóknaraðila til ógreiddra eftirstöðva eignarnámsbóta vegna eignarnáms Kópavogsbæjar 23. janúar 2007 á landi Vatnsenda samkvæmt eignarnámsheimild frá 10. janúar 2007, sbr. sáttargerð 30. sama mánaðar, að undanskildum lið 2.2.3 í sáttargerðinni sem viðurkennt var að tilheyrði varnaraðila. 3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en lið 2.2.3 í framangreindri sáttargerð og viðurkennt verði að réttur til eignarnámsbóta samkvæmt þeim lið tilheyri honum einum. Þá krefst hann kærumálskostnaðar ,,eins og málið sé ekki gjafsóknarmál“. 4. Varnaraðili kærði úrskurð Landsréttar fyrir sitt leyti 30. desember 2021. Hann krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að öllum kröfum sóknaraðila á hendur sér verði hafnað. Þá krefst hann þess að viðurkennt verði að krafa á hendur Kópavogsbæ um ógreiddar eftirstöðvar eignarnámsbóta vegna framangreinds eignarnáms tilheyri sér. Til vara krefst hann þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar á öllum dómstigum. Ágreiningsefni 5. Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði Landsréttar hafa um árabil staðið deilur um eignarráð yfir jörðinni Vatnsenda í Kópavogi. Ágreiningur þessi á öðru fremur rætur að rekja til deilna um túlkun erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds frá 4. janúar 1938. Fjöldi dóma hefur gengið vegna þessa og deilur meðal annars staðið á milli lögerfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds, sem Magnús arfleiddi að jörðinni í öndverðu með erfðaskránni, og hins vegar sonarsonar Sigurðar, Þorsteins Hjaltesteds heitins, sem að föður sínum Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested látnum, árið 1999, var á grundvelli erfðaskrárinnar áskilinn réttur til ábúðar og nánar tilgreindrar hagnýtingar jarðarinnar Vatnsenda. 6. Meðal þess sem deilur standa um er tilkall til bóta vegna fyrrgreinds eignarnáms Kópavogsbæjar á hluta jarðarinnar. Þorsteinn Hjaltested, sem þá var ábúandi á grundvelli ákvæða erfðaskrárinnar, gerði samkomulag við eignarnema, Kópavogsbæ, um eignarnámsbætur með sáttargerð 30. janúar 2007. Hann lést 12. desember 2018 og með dánarbúið er farið samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. 7. Fyrir andlát sitt hafði Þorsteinn höfðað mál á hendur Kópavogsbæ, sem dánarbú hans hefur nú tekið við aðild að, til heimtu ógreiddra bóta vegna umrædds eignaráms en það hafði hluti erfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds jafnframt gert í öðru máli sem þeir höfðuðu aðallega gegn Kópavogsbæ. 8. Í máli þessu er til úrlausnar hvort framangreind krafa, sem Þorsteinn heitinn Hjaltested hafði gert til umræddra bóta vegna eignarnámsins 2007, á grundvelli réttar síns til ábúðar og nánar tilgreindrar hagnýtingar jarðarinnar Vatnsenda, tilheyrir sóknaraðila sem erfingja hans eða varnaraðila. Með framangreindum úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms með eftirfarandi hætti: „Viðurkennt er að sóknaraðila, ... tilheyri réttur til ógreiddra eftirstöðva eignarnámsbóta vegna eignarnáms Kópavogsbæjar á landi Vatnsenda ... að undanskildum lið 2.2.3 í sáttargerðinni, sem viðurkennt er að tilheyri varnaraðila, ...“ 9. Í ákvörðun Hæstaréttar 7. febrúar 2022 vegna beiðni um kæruleyfi kemur fram að ekki verði talið að kæruefnið hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrði 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Á hinn bóginn kynnu að vera þeir ágallar á niðurstöðu Landsréttar, sem staðfesti úrskurðarorð héraðsdóms, hvað varðar umfang og inntak þeirrar viðurkenningarkröfu sem fallist var á í úrskurðarorði að rétt var talið að samþykkja beiðni um kæruleyfi á grundvelli 3. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laganna. Málsatvik 10. Ákvörðun um að beita heimild til eignarnáms úr landi Vatnsendajarðarinnar var tekin á fundi bæjarstjórnar Kópavogsbæjar 23. janúar 2007 á grundvelli heimildar umhverfisráðherra 10. sama mánaðar. Voru 864 hektarar teknir eignarnámi. 11. Með sáttargerð 30. janúar 2007 sömdu ábúandinn Þorsteinn Hjaltested og Kópavogsbær um bætur fyrir landið. Þar var meðal annars um að ræða peningagreiðslu sem greidd var Þorsteini á árinu 2007. Aðrar greiðslur samkvæmt sáttargerðinni eru hins vegar ógreiddar. 12. Svo sem fyrr greinir er deilt um tilkall til bóta vegna eignarnámsins í tveimur aðskildum dómsmálum. 13. Í fyrrnefndu dómsmáli erfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds, sem þeir reka aðallega gegn Kópavogsbæ og var höfðað með stefnu 28. apríl 2014, eru aðallega gerðar kröfur um að Kópavogsbær greiði dánarbúinu 74.811.389.955 krónur auk vaxta vegna eignarnáms á árunum 1992, 1998, 2000 og svo fyrrnefndu eignarnámi 2007. Með dómi héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2020 var Kópavogsbæ gert að greiða dánarbúi Sigurðar Kristjáns 968.000.000 króna auk vaxta. Dómurinn taldi allar kröfur fyrndar vegna eignarnáms á árunum 1992, 1998 og 2000 en að dánarbúinu bæri, á grundvelli beins eignarréttar að jörðinni Vatnsenda, réttur til greiðslu fyrrnefndrar fjárhæðar frá Kópavogsbæ vegna eignarnámsins sem fram fór í janúar 2007. Samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna sem lagt var fram í málinu hafði markaðsvirði landsins sem tekið var eignarnámi 23. janúar 2007 verið 6.948.000.000 króna. Af forsendum dómsins verður ráðið að virði óbeins eignarréttar, sem stofnað var til með erfðaskránni frá 1938, hafi numið 5.980.000.000 króna en beins eignarréttar 968.000.000 króna. Málinu hefur nú verið áfrýjað til Landsréttar og bíður þar efnismeðferðar. 14. Hitt dómsmálið, sem varðar bætur vegna eignarnámsins 23. janúar 2007, var höfðað 28. maí 2018 af Þorsteini heitnum Hjaltested á hendur Kópavogsbæ en varnaraðili fer nú sem fyrr segir með aðild þess. Af hálfu dánarbúsins eru í málinu aðallega gerðar kröfur í átta liðum, bæði um greiðsluskyldu og um nánar tiltekna viðurkenningu réttinda, á hendur Kópavogsbæ vegna eignarnámsins 23. janúar 2007 og vanefnda á sáttargerðinni frá 30. janúar 2007. Þannig er aðallega krafist greiðslu á 5.631.000.000 króna en jafnframt gerð krafa um viðurkenningu á skyldu Kópavogsbæjar til greiðslu skaðabóta vegna tapaðra leigugreiðslna vegna 300 lóða sem afhenda átti samkvæmt sáttargerðinni. Enn fremur er í málinu krafist viðurkenningar á skyldu til að afhenda byggingarrétt og tíu lóðir, einkaafnotarétt haustbeitar og skyldu til greiðslu kostnaðar við stofnun lóða sem samið var um í tilvitnaðri sáttargerð. Þá er í málinu höfð uppi sú krafa til vara að Kópavogsbær greiði dánarbúinu 14.000.000.000 króna í skaðabætur að frádregnum innborgunum. Samkvæmt því sem fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur málinu verið frestað og niðurstöðu úr því er beðið. 15. Með bréfi varnaraðila 26. mars 2020 var með vísan til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, krafist úrlausnar héraðsdóms um það hvort kröfur um eignarnámsbætur vegna eignarnámsins 2007 tilheyrðu varnaraðila eða fylgdu jörðinni Vatnsenda í þeim skilningi að þær erfðust til sóknaraðila samkvæmt fyrirmælum fyrrnefndrar erfðaskrár. 16. Með tilvitnuðum úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 26. maí 2021 var sem fyrr segir viðurkennt að réttur til ógreiddra eftirstöðva eignarnámsbóta tilheyrði sóknaraðila að undanskildum bótum samkvæmt lið 2.2.3 í sáttargerðinni, sem viðurkennt var að tilheyrðu varnaraðila þar sem um væri að ræða fjárhagsleg réttindi samkvæmt 1. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991. Hins vegar var talið að önnur réttindi samkvæmt sáttargerðinni 30. janúar 2007 væru ekki fjárhagsleg í þeim skilningi að varnaraðili hefði tekið við þeim við andlát Þorsteins Hjaltesteds og tilheyrðu þau því sóknaraðila. Niðurstaða 17. Mál þetta er afmarkað við þá kröfu sem Þorsteinn heitinn Hjaltested gerði á hendur Kópavogsbæ vegna eignarnámsins 2007. Það endurspeglast í upphaflegri kröfu sóknaraðila fyrir héraðsdómi sem var þess efnis að krafa á hendur Kópavogsbæ „gerð af Þorsteini Hjaltested“ um ógreiddar eftirstöðvar eignarnámsbóta vegna eignarnáms Kópavogsbæjar á landi Vatnsenda samkvæmt eignarnámsheimild frá 10. janúar 2007 og sáttargerð frá 30. janúar 2007 tilheyrði sóknaraðila. Krafa varnaraðila fyrir héraðsdómi var hins vegar þess efnis að „viðurkennt verði með dómsúrskurði að krafa á hendur Kópavogsbæ um ógreiddar eftirstöðvar eignarnámsbóta vegna eignarnáms Kópavogsbæjar á landi Vatnsenda, samkvæmt eignarnámsheimild frá 10. janúar 2007, sbr. einnig sáttargerð frá 30. janúar 2007, tilheyri varnaraðila“. Í úrskurðarorði héraðsdóms, sem staðfest var með hinum kærða úrskurði Landsréttar, er sem fyrr segir lagt fyrirvaralaust til grundvallar að bætur vegna eignarnámsins 2007 tilheyri aðilum máls þessa með orðalaginu að „sóknaraðila ... tilheyri réttur til ógreiddra eftirstöðva eignarnámsbóta vegna eignarnáms Kópavogsbæjar á landi Vatnsenda samkvæmt eignarnámsheimild frá 10. janúar 2007, sbr. sáttargerð frá 30. janúar 2007, að undanskildum lið 2.2.3 í sáttargerðinni, sem viðurkennt er að tilheyri varnaraðila ...“. 18. Eins og rakið hefur verið eru það ekki aðilar máls þessa einir sem gera kröfur til bóta vegna eignarnáms Kópavogsbæjar 23. janúar 2007. Endanleg niðurstaða um það mun ráðast síðar af lyktum þeirra dómsmála sem grein hefur verið gerð fyrir hér að framan eða mögulega niðurstöðu annarra dómsmála. 19. Svo sem fram kemur í dómi Hæstaréttar frá 24. nóvember 2021 í máli nr. 45/2021, þar sem snúið var þeirri niðurstöðu Landsréttar að vísa máli þessu frá héraðsdómi, tók dánarbú Þorsteins Hjaltesteds að honum látnum við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti þá eða naut, að teknu tilliti til þeirra undantekninga sem nefndar eru í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 20/1991. Kröfur á hendur þriðja manni væru meðal þeirra réttinda sem féllu undir skipti og lytu ráðstöfunarheimildum skiptastjóra og bæri að leysa úr slíkum ágreiningi fyrir dómi í ágreiningsmáli á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991 enda þótt kröfuréttindin kynnu að vera umdeild. Ljóst sé að úrlausn slíks ágreinings sé ekki til þess fallin að hafa bindandi réttaráhrif gagnvart öðrum en aðilum þessa máls um það hver eða hverjir teljast réttir eigendur þeirra krafna og því síður um efnislegt inntak þeirra. 20. Af framangreindum forsendum Hæstaréttar verður allt að einu ráðið að úrskurðarorð um ágreining aðila máls þessa verður að bera með sér að það taki aðeins til þess ágreinings sem hér er til úrlausnar milli þessara málsaðila um þá kröfu sem Þorsteinn heitinn Hjaltested gerði á hendur Kópavogsbæ. Úrskurðarorðið getur því ekki, líkt og raunin hefur orðið í hinum kærða úrskurði, falið í sér fyrirvaralausa viðurkenningu á því að réttur til bóta á hendur Kópavogsbæ vegna eignarnámsins 23. janúar 2007 tilheyri aðilum máls þessa einum án tillits til þess að fleiri einstaklingar, sem ekki eru aðilar þessa máls, hafa gert tilkall til bóta vegna sama eignarnáms í öðru dómsmáli sem ekki er endanlega útkljáð. 21. Að framangreindu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna verður hinn kærði úrskurður staðfestur með þeim hætti sem greinir í úrskurðarorði. 22. Staðfest verða ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað í héraði og kærumálskostnað fyrir Landsrétti. 23. Gjafsókn sóknaraðila í héraði og fyrir Landsrétti var takmörkuð við rekstur málsins á þeim dómstigum samkvæmt gjafsóknarleyfum 29. september 2020 og 20. september 2021. Sóknaraðili nýtur ekki gjafsóknar fyrir Hæstarétti. 24. Kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Dómsorð: Viðurkennt er að sóknaraðila, Magnúsi Pétri Hjaltested, tilheyri krafa sú sem Þorsteinn Hjaltested gerði á hendur Kópavogsbæ um ógreiddar eftirstöðvar eignarnámsbóta vegna eignarnáms Kópavogsbæjar á landi Vatnsenda samkvæmt eignarnámsheimild 10. janúar 2007 og sáttargerð 30. janúar 2007, að undanskildum lið 2.2.3 í sáttargerðinni sem viðurkennt er að tilheyri varnaraðila, dánarbúi Þorsteins Hjaltesteds. Að öðru leyti er hinn kærði úrskurður staðfestur. Kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=8e929653-b10e-49f1-940e-c231d60b6967&verdictid=9d12de7e-41ad-4b11-9aae-6d7d9c8aa5a2
Mál nr. 18/2021
Ráðningarsamningur Trúnaðarskylda Samkeppnisákvæði Skaðabætur Vitni Sönnun
A ehf. höfðaði mál gegn B til heimtu bóta vegna ætlaðs brots hans gegn starfs- og trúnaðarskyldum sínum í kjölfar þess að honum var sagt upp störfum hjá A ehf. Byggði A ehf. málatilbúnað sinn einkum á tilteknu ákvæði í ráðningarsamningi aðila og því að B hefði á uppsagnartíma hafið undirbúning að samkeppni við A ehf., sem meðal annars hefði falist í stofnun einkahlutafélags og samskiptum við mikilvægan viðskiptavin A ehf., sem síðar færði viðskipti sín til einkahlutafélags B. Ágreiningur málsins laut að því hvort B hefði brotið gegn ákvæðum ráðningarsamnings og óskráðum reglum um trúnaðarskyldur í vinnusambandi. Einnig var deilt um hvort B hefði brotið gegn þágildandi 16. gr. c laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ráðningarsamningur aðila hefði ekki að geyma samkeppnisbann heldur hefði þar komið fram ósk A ehf. um að B hæfi ekki störf hjá samkeppnisaðila innan sex mánaða frá starfslokum. Ef A ehf. hefði viljað að umrætt ákvæði fæli í sér samkeppnisbann hefði honum borið nauðsyn til að orða ákvæðið með þeim hætti að enginn vafi léki á að það fæli í sér slíkt bann, enda yrði það ekki skýrt rýmra en eftir orðanna hljóðan. Hæstiréttur benti á að sönnunarbyrði fyrir því að B hefði brotið gegn ólögfestum reglum um trúnaðarskyldu hvíldi á A ehf. Taldi rétturinn að A ehf. hefði ekki tekist að leiða nægar líkur að því að B hefði í raun gripið til nokkurra ráðstafana til að koma á viðskiptasambandi við tiltekinn viðskiptavin A ehf. áður en félagið rifti ráðningarsamningnum. Þá var ekki fallist á að B hefði brotið gegn 16. gr. c laga nr. 57/2005 eða þagnarskylduákvæði í ráðningarsamningi aðila. Var hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sýknu B.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. apríl 2021. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 33.883.756 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2016 til 8. febrúar 2018 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum. 3. Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að krafa áfrýjanda verði lækkuð, vextir verði aðeins dæmdir frá dómsuppsögu og málskostnaður látinn niður falla. Ágreiningsefni 4. Í málinu krefst áfrýjandi skaðabóta úr hendi stefnda vegna ætlaðs brots hans gegn starfs- og trúnaðarskyldum sínum í kjölfar þess að honum var sagt upp störfum hjá áfrýjanda. Áfrýjandi byggir málatilbúnað sinn einkum á tilteknu ákvæði í ráðningarsamningi aðila og því að stefndi hafi á uppsagnartíma hafið undirbúning að samkeppni við áfrýjanda, sem meðal annars hafi falist í stofnun einkahlutafélags og samskiptum við mikilvægan viðskiptavin áfrýjanda, sem síðar færði viðskipti sín til einkahlutafélags stefnda. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort stefndi hefur brotið gegn ákvæðum ráðningarsamningsins og óskráðum reglum um trúnaðarskyldur í vinnusambandi. Einnig er deilt um hvort stefndi hefur brotið gegn þágildandi 16. gr. c laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. 5. Áfrýjunarleyfi var veitt 27. apríl 2021 á þeim grundvelli að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um skýringu reglna um trúnaðarskyldur í vinnusambandi og eftir atvikum önnur atriði sem leyfisbeiðni var reist á. Málsatvik 6. Stefndi var ráðinn til starfa hjá áfrýjanda árið 2005 og sá meðal annars um sölu á vörum frá […] félagi C, sem framleiðir ýmiss konar búnað fyrir [...] og þjónustu vegna þeirra. Viðskiptasamband áfrýjanda og forvera hans við hið […] félag mun hafa varað í rúma þrjá áratugi er því lauk í febrúar 2016. 7. Í ráðningarsamningi aðila 18. mars 2005 voru ákvæði um þagnarskyldu stefnda sem skyldu einnig gilda eftir að hann hætti störfum hjá áfrýjanda. Þar sagði að öll forrit, kerfisvinna, öflun viðskiptasambanda og þess háttar sem starfsmaður ynni við á launum hjá fyrirtækinu og allur afrakstur þess teldist eign fyrirtækisins. Í samningi aðila var síðan að finna svohljóðandi ákvæði: Ef starfsmaður hættir störfum hjá A ehf. er óskað eftir að hann hefji ekki störf hjá samkeppnisaðila innan 6 mánaða frá starfslokum. Verði þess sérstaklega óskað og viðkomandi verði fyrir beinum fjárhagslegum skaða vegna þess, þá mun félagið bæta hann. 8. Í ráðningarsamningum tveggja annarra starfsmanna áfrýjanda sem gerðir voru annars vegar sama ár og samningur aðila og hins vegar ári síðar var ákvæði um trúnaðarskyldu. Þar sagði að ef starfsmaður hætti störfum hjá áfrýjanda væri honum „óheimilt að hefja störf hjá helstu samkeppnisaðilum innan 6 mánaða frá starfslokum, nema með skriflegu samkomulagi aðila.“ Í ákvæðinu voru einnig helstu samkeppnisaðilar tilgreindir. 9. Áfrýjandi sagði stefnda upp störfum 30. október 2015 með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Í uppsagnarbréfi kom ekki annað fram um ástæður uppsagnar en að þær væru það sem um hefði verið rætt. Af málatilbúnaði áfrýjanda verður ráðið að hann hafi reist uppsögnina meðal annars á ætluðum fjarvistum stefnda frá vinnu. 10. Hinn 3. nóvember 2015 var haldinn stofnfundur einkahlutafélagsins D og var stefndi kosinn formaður félagsins og eiginkona hans meðstjórnandi. Í samþykktum félagsins segir að tilgangur þess sé að flytja inn vörur, selja þær og þjónusta, auk þess að reka þær fasteignir, tæki og annað sem til þess þurfi. 11. Fyrir héraðsdómi bar stefndi að tilgangurinn með stofnun félagsins hefði verið að finna sér lífsviðurværi eftir að hafa verið sagt upp störfum. Þau hjónin hefðu ákveðið að stofna strax fyrirtæki en meðal annars hefði komið til greina að flytja inn vörur fyrir […] þar sem eiginkona stefnda væri […] og ræki sitt eigið […] fyrirtæki. Einkahlutafélagið D hefði tekið formlega til starfa í febrúar 2016 eftir að þriggja mánaða uppsagnarfresti hjá áfrýjanda lauk. Stefndi kvaðst hafa byrjað á að flytja inn vörur fyrir […]. Þá sagði stefndi að E, sem mun vera svæðis- og dreifingarstjóri hjá C, hefði haft samband við sig með samstarf í huga öðru hvoru megin við áramótin 2015 og 2016 og þá vitað að stefndi væri hættur hjá áfrýjanda. Stefndi hefði af því tilefni upplýst að hann gæti ekkert gert fyrr en að loknum uppsagnarfresti í febrúar 2016. 12. Fyrrgreindur starfsmaður C sendi tölvubréf 4. janúar 2016 til fyrirsvarsmanns áfrýjanda þar sem honum var tilkynnt að fyrirhugað væri að hefja samstarf við annað íslenskt fyrirtæki og af þeim sökum væri endir bundinn á samstarfið milli áfrýjanda og félagsins frá og með 1. febrúar 2016. Tilkynnt yrði um nafn fyrirtækisins innan tíðar. Í kjölfar þessa skiptust fyrirsvarsmaður áfrýjanda og fyrrgreindur starfsmaður C á tölvubréfum þar sem meðal annars var rætt um kröfu áfrýjanda um bætur úr hendi C vegna fjárfestingar í vörum félagsins og jafnframt var óskað eftir upplýsingum um nafn þess fyrirtækis sem taka ætti við af áfrýjanda. 13. Í málinu liggur fyrir rammasamningsútboð […] frá desember 2015 þar sem óskað var eftir tilboðum í […], […] og [...]. Stefndi lagði fram tilboð 3. febrúar 2016 um eftirtaldar vörur frá C: […]. Upphaflega stóð til að opna tilboð í janúar 2016 en því var seinkað til febrúar sama ár. Um tildrög tilboðsins bar stefndi fyrir héraðsdómi að útboðið hefði verið auglýst í fjölmiðlum en hann fyrst ákveðið að bjóða tilgreindar vörur C eftir að auglýst hefði verið seinkun á opnun tilboða. 14. Í framburði fyrrgreinds starfsmanns hins […] félags fyrir Landsrétti kom fram að enginn bindandi samningur hefði verið í gildi milli þess og áfrýjanda. Um tildrög þess að viðskipti með vörur C færðust til D ehf. kvaðst hann hafa verið í heimsókn hér á landi í nóvember 2015 og orðið þess áskynja að ekki væri nægileg áhersla lögð á vörur þeirra hjá áfrýjanda. Hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með það hvernig þjónusta ætti C hjá áfrýjanda eftir stafslok stefnda og talið að brotthvarf hans gæti orðið til þess að minni áhersla yrði lögð á þeirra vörur. Hann kvað stefnda ekki að fyrra bragði hafa haft samband við C til þess að reyna að koma á viðskiptasambandi milli félagsins og D ehf. C hefði á hinn bóginn haft samband við stefnda í því skyni. Stefndi hefði svarað því til að hann væri skuldbundinn til loka janúar vegna samnings síns við áfrýjanda. Hefði samstarf við stefnda því ekki verið tekið upp fyrr en í febrúar 2016. Þá staðfesti vitnið að yfirlýsing frá júní 2018 stafaði frá sér. Í henni kom fram að samstarf milli C og D ehf. hefði byrjað í febrúar 2016 og að C hefði haft frumkvæði að því að hafa samband við stefnda í því skyni. 15. Með bréfi 21. janúar 2016 rifti áfrýjandi ráðningarsamningi við stefnda sökum „verulegra vanefnda og grófs brots gagnvart hagsmunum A ehf.“ Þar sagði að samningnum sem áður hefði verið sagt upp væri rift afturvirkt. Brotið var talið felast í því að stefndi hefði vélað til sín viðskiptamenn áfrýjanda og skaðað viðskiptasambönd félagsins. Áfrýjandi áskildi sér rétt til skaðabóta af þessum sökum. 16. Áfrýjandi fékk dómkvaddan sérfróðan matsmann [...] 2016 til þess að leggja mat á tjón vegna ætlaðra brota stefnda. Matsspurningar voru í átta liðum og var matsgerð skilað í nóvember 2017. Samkvæmt bréfi áfrýjanda til stefnda 8. janúar 2017 taldi áfrýjandi með vísan til matsins tjón sitt felast í fjárhagslegu virði viðskiptasambandsins við C, óendurkræfum kostnaði vegna kaupa á varahlutum, óendurkræfum kostnaði vegna markaðssetningar og ofgreiddum launum til stefnda á uppsagnarfresti, samtals að fjárhæð 33.883.756 krónur sem er stefnufjárhæð málsins. Lagaumhverfi og reglur Trúnaðarskylda 17. Almennt er viðurkennt að gagnkvæm trúnaðarskylda gildi á milli aðila ráðningarsamnings. Fá dæmi eru um að slík trúnaðarskylda sé lögfest en meðal þeirra var ákvæði 16. gr. c laga nr. 57/2005 sem var í gildi þegar atvik máls þessa áttu sér stað. 18. Þörf fyrir gagnkvæman trúnað í vinnusambandi er mjög rík þar sem náin tengsl eru á milli samningsaðila. Skylda til trúnaðar felur í sér að aðilar samningssambands skuli sýna hvor öðrum hæfilegt tillit og virðingu. Ólögfestum reglum um trúnaðarskyldu í ráðningarsambandi er ætlað að sporna gegn misnotkun á aðstöðu, enda annast starfsmaður oft í starfi sínu mikil verðmæti sem vinnuveitandi hans á og starfsmanni hefur verið trúað fyrir og hann hefur oft aðgang að upplýsingum sem honum ber að gæta trúnaðar um. Að sama skapi gætir vinnuveitandi mikilvægra hagsmuna starfsmanns síns. 19. Trúnaðarskylda í vinnusambandi telst til svokallaðra aukaskyldna samningsaðila þar sem aðalskylda atvinnuveitanda er að greiða starfsmanni laun fyrir vinnuframlag sitt og aðalskylda starfsmanns að inna þau störf af hendi sem hann var ráðinn til. Afleiðingar þess að starfsmaður virðir ekki trúnaðarskyldu geta í undantekningartilvikum orðið þær að vinnusamningi er rift en algengara er að brot á trúnaðarskyldu leiði til vægari úrræða. 20. Ekki er með tæmandi hætti unnt að gera grein fyrir því hvað felst í trúnaðarskyldu í vinnuréttarsamhengi, en þar á meðal er upplýsinga- og tilkynningarskylda, skylda til þess að skýra það sem óljóst getur verið, skylda til þess að sýna heiðarleika, tillitssemi og eðlilega sanngirni, umönnunarskylda, þagnarskylda og bann við háttsemi sem felur í sér samkeppni við viðsemjanda andstætt efni ráðningarsamnings. Af síðastnefnda þætti trúnaðarskyldunnar leiðir að starfsmaður mætti almennt ekki hefja sjálfur atvinnurekstur í samkeppni við vinnuveitanda sinn eða vinna fyrir samkeppnisaðila samhliða vinnu sinni hjá vinnuveitanda. 21. Hin gagnkvæma trúnaðarskylda í vinnusambandi, þar á meðal sá þáttur hennar sem lýtur að samkeppnisvernd, helst í uppsagnarfresti. Starfsmanni ber því að sýna vinnuveitanda sínum trúnað á uppsagnarfresti hvort sem hann vinnur hann eða ekki. Eðli máls samkvæmt hefur þó áhrif að verið er að binda endi á samningssambandið. Jafnvel þótt trúnaðarskyldan haldist á uppsagnarfresti er eðlilegt að veita starfsmanni ákveðið svigrúm til þess að verða sér úti um annað starf, hvort sem er með stofnun eigin fyrirtækis eða með því að leita eftir nýju starfi, jafnvel hjá samkeppnisaðila. Hér vegast því á hagsmunir vinnuveitanda af því að starfsmaður haldi trúnað við hann og hagsmunir starfsmanns af því að leita sér að starfi þar sem þekking hans og geta koma að notum. Ráðning til starfa hjá samkeppnisaðila sem tekur gildi að loknum uppsagnarfresti felur almennt ekki í sér brot á trúnaðarskyldu, enda sé sýnt fram á að starfsmaður noti ekki upplýsingar, gögn eða annað frá vinnuveitanda sínum í starfi hjá eða fyrir samkeppnisaðila eða hyggi sjálfur á slíkan rekstur í því skyni. 22. Dæmi þess að með stofnun félags í samkeppni við vinnuveitanda meðan á uppsagnafresti stóð hafi verið brotið gegn trúnaðarskyldu í vinnusamningi má finna í dómi Hæstaréttar 30. apríl 1998 í máli nr. 398/1997 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 1595. Þar hafði starfsmaður sagt upp starfi sínu hjá tilgreindu hlutafélagi með bréfi í september 1996 og skyldi uppsagnarfresti ljúka 31. desember sama ár. Málið höfðaði starfsmaðurinn á hendur vinnuveitanda til greiðslu launa í uppsagnarfresti. Vinnuveitandinn bar því við að forsendur launagreiðslna hefðu brostið þar sem starfsmaðurinn hefði starfað í samkeppni við hann á uppsagnarfresti. Starfsmaðurinn hafði ásamt fleirum tekið þátt í stofnun hlutafélags 30. september 1996 og hefði tilgangi þess verið lýst með svipuðum hætti og starfsemi félagsins sem hann vann áður hjá. Hann var einnig kosinn í stjórn félagsins og ráðinn framkvæmdastjóri þess. Meðal gagna málsins var kynningarbréf hins nýja félags 4. desember 1996 sem ráða mátti að dreift hefði verið til þeirra sem félagið vildi ná viðskiptum við, þar á meðal tilgreindra viðskiptamanna þess félags sem starfsmaðurinn hafði starfað hjá. Sneru að minnsta kosti fjórir viðskiptamenn þess félags sér til hins nýja félags með viðskipti sín. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að gerðir starfsmannsins eftir 30. september 1996 í tengslum við stofnun og starfsemi hins nýja félags hefðu verið ósamrýmanlegar þeim trúnaðarskyldum sem hann enn bar gagnvart launagreiðanda sínum þrátt fyrir uppsögn vinnusamnings. 23. Á sambærilegt ágreiningsefni reyndi í dómi Hæstaréttar 16. nóvember 2001 í máli nr. 398/2001. Í málinu lá fyrir að ráðningarsamningi starfsmanns félags hafði verið rift en hann hafði sjálfur íhugað að segja upp störfum og hefja samkeppnisrekstur við félagið sem hann starfaði hjá og meðal annars leitað ráðgjafar hjá lögfræðingi um réttarstöðu sína með tilliti til þess. Þegar eftir riftun ráðningarsamnings hófst hann handa við að hrinda í framkvæmd áformum sínum um rekstur í samkeppni við fyrri vinnuveitanda. Með dómi Hæstaréttar var ekki fallist á að starfsmaðurinn hefði brotið gegn trúnaðarskyldu við vinnuveitanda með því einu að leita lögfræðiráðgjafar um réttarstöðu sína, enda ósannað að hann hefði gripið til ráðstafana til þess að hrinda þeim áformum í framkvæmd meðan á ráðningarsambandi stóð. Hann hafði á hinn bóginn brotið gegn trúnaðarskyldu með því að senda lögmanni sínum eintök af samningum við tíu stærstu viðskiptavini vinnuveitanda síns, auk annarra gagna, til þess að unnt væri að leggja mat á hvort þessir viðskiptavinir gætu hætt viðskiptum við vinnuveitandann og tekið þess í stað upp viðskipti við starfsmanninn. Taldi rétturinn að þetta hefði gefið vinnuveitanda tilefni til fyrirvaralausrar riftunar á ráðningarsamningi aðila. Ákvæði 16. gr. c laga nr. 57/2005 24. Í þágildandi 16. gr. c laga nr. 57/2005 sagði að óheimilt væri í atvinnustarfsemi er lögin tækju til að afla sér eða reyna að afla sér með ótilhlýðilegum hætti upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmálum starfseminnar. Í 2. mgr. greinarinnar sagði að sá sem fengið hefði vitneskju um eða umráð yfir atvinnuleyndarmálum á réttmætan hátt í starfi sínu fyrir annan eða í félagi við annan, sbr. 1. mgr., mætti ekki án heimildar veita upplýsingar um eða hagnýta sér slík leyndarmál. Bann þetta skyldi gilda í þrjú ár frá því að starfi væri lokið eða samningi slitið. Í 3. mgr. sagði að þeim sem vegna starfs síns eða stöðu að öðru leyti hefði verið trúað fyrir uppdráttum, lýsingum, uppskriftum, líkönum eða þess háttar væri óheimilt að hagnýta sér eða veita öðrum afnot af slíku án sérstakrar heimildar. Í 4. mgr. sagði síðan að ef upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmáli hefði verið aflað á þann hátt að brotið hefði verið gegn ákvæðum 1. til 3. mgr. væri þeim sem brotlegur væri eða þeim sem hefði fengið upplýsingar frá honum óheimilt að færa sér það í nyt. 25. Fyrir gildistöku laga nr. 57/2005 var samhljóða ákvæði að finna í 27. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 en eldra ákvæði af þessu tagi var að finna í 35. gr. laga nr. 56/1978 um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Ákvæði um vernd atvinnuleyndarmála hafa verið í íslenskum rétti allt frá árinu 1933, sbr. 12. gr. laga nr. 84/1933 um varnir gegn óréttmætum verslunarháttum. 26. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 57/2005 sagði um 13. gr., sem seinna varð 16. gr. c þeirra, að ákvæðið væri samhljóða 27. gr. þágildandi samkeppnislaga. Í athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga sagði að greinin væri samsvarandi 35. gr. laga nr. 56/1978. Þar sagði jafnframt að hagsmunir þeir sem greinin verndaði væru atvinnuleyndarmál. Það hugtak væri hvorki skýrt í greininni né heldur rekstrar- og viðskiptaleyndarmál. Ekki væru skörp skil á milli þessara hugtaka og í einstöku leyndarmáli gætu falist þættir úr þeim báðum. Rekstrarleyndarmál varði fremur tæknileg atriði. Verslunar- eða viðskiptaleyndarmál geti til dæmis verið fólgin í sérstöku sölu- eða innkaupaskipulagi, skrám yfir viðskiptavini, sérstakri þekkingu á viðskiptavinum og ýmsum tölfræðilegum upplýsingum. Almenn þekking og reynsla starfsmanns geti ekki fallið undir það að vera atvinnuleyndarmál. Til þess að svo væri þyrfti að liggja fyrir þekking, sérstaklega bundin við viðkomandi rekstur og sem skipti máli fyrir starfsemina. Um atvinnuleyndarmál gæti verið að ræða þótt fleiri en eigandi eða stjórnandi vissu um það. Því fleiri sem þekktu atvinnuleyndarmál og ekki væru háðir þagnarskyldu, þeim mun meiri vafi væri um hvort hagsmunirnir væru þess eðlis að þeir ættu að njóta verndar sem atvinnuleyndarmál. 27. Lög um viðskiptaleyndarmál nr. 131/2020 leystu af hólmi 16. gr. c laga nr. 57/2005. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna sagði að það fæli í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/943 frá 8. júní 2016 um verndun trúnaðarupplýsinga um sérþekkingu og viðskipti (viðskiptaleyndarmál) gegn ólögmætri öflun, notkun og birtingu þeirra. Þar sagði jafnframt að hin nýju lög kæmu í stað sérákvæða um vernd atvinnuleyndarmála í 16. gr. c laga nr. 57/2005. Niðurstaða 28. Af hálfu áfrýjanda er á því byggt að stefndi hafi, með því að stofna einkahlutafélag og eiga samskipti við mikilvægan viðskiptavin áfrýjanda sem síðar hafi fært viðskipti sín til einkahlutafélags stefnda, brotið gegn ákvæðum ráðningarsamnings aðila og óskráðum reglum um trúnaðarskyldur í vinnusambandi. Jafnframt heldur áfrýjandi því fram að stefndi hafi brotið gegn þágildandi 16. gr. c laga nr. 57/2005. 29. Ákvæði í ráðningarsamningum af þeim toga sem greinir í 7. og 8. lið dómsins er almennt ætlað að takmarka heimildir starfsmanns til þess að vinna störf í samkeppni við vinnuveitanda eftir að ráðningarsambandi lýkur og eru eins konar framlenging á þeirri trúnaðarskyldu sem lýtur að samkeppnisvernd. Markmið með slíkum ákvæðum er að vernda samkeppnishagsmuni vinnuveitanda. Við gerð og beitingu slíkra samningsákvæða vegast á hagsmunir starfsmanns af því að geta nýtt hæfni sína í starfi hjá öðrum eða í eigin rekstri og hagsmunir vinnuveitanda af því að sporna gegn samkeppni við eigin rekstur. Í ljósi meginreglna fjármunaréttar um samningsfrelsi er aðilum ráðningarsamnings innan ákveðinna marka frjálst að semja með þessum hætti. Með því að undirgangast slíkt ákvæði í ráðningarsamningi getur komið til þess að aflahæfi starfsmanns verði skert verulega og getur ákvæði af þessum toga því orðið þungbært fyrir hann. Meðal annars af þeirri ástæðu eru ákveðnar skorður settar frelsi til að semja um samkeppnisbann, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sem kveður á um heimild til að ógilda slík ákvæði ef skuldbindingin er víðtækari en nauðsynlegt er til þess að varna samkeppni eða ef hún skerðir með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi starfsmannsins. 30. Ráðningarsamningur aðila hafði ekki að geyma samkeppnisbann heldur fyrrgreint ákvæði sem tekið er orðrétt upp í 7. lið dómsins og fól í sér ósk áfrýjanda um að stefndi hæfi ekki störf hjá samkeppnisaðila innan sex mánaða frá starfslokum. Í niðurlagi ákvæðisins kom fram vilji áfrýjanda til að bæta stefnda tjón ef stefndi yrði af starfi hjá samkeppnisaðila á þeim tíma. Ákvæðið er ekki skýrlega orðað, ólíkt ákvæðum í ráðningarsamningum þeirra tveggja annarra starfsmanna áfrýjanda sem lagðir hafa verið fram í málinu og fjallað er um í 8. lið dómsins. Í ljósi þess hversu miklar hömlur á atvinnufrelsi stefnda samkeppnisákvæði af þessum toga gat sett honum bar áfrýjanda, ef hann vildi að það fæli í sér samkeppnisbann, nauðsyn til að orða ákvæðið með þeim hætti að enginn vafi léki á að það fæli í sér slíkt bann, enda verður það ekki skýrt rýmra en eftir orðanna hljóðan. Þannig skýrt felur ákvæðið hvorki í sér skuldbindingu stefnda til að stofna ekki til atvinnurekstrar í samkeppni við áfrýjanda eftir lok ráðningarsambandsins né heldur afdráttarlaust bann við því að stefndi hæfi störf hjá samkeppnisaðila eftir lok þess. 31. Áfrýjandi verður samkvæmt framansögðu að bera hallann af óskýru orðalagi ákvæðisins og verður ekki á því byggt til stuðnings þeim málatilbúnaði hans að stefndi hafi með því að hefja samstarf við viðskiptavin áfrýjanda í kjölfar þess að ráðningarsamningi hans var rift 21. janúar 2016 brotið gegn ráðningarsamningi aðila. 32. Einkahlutafélag stefnda mun formlega hafa tekið til starfa í febrúar 2016. Í málinu liggur fyrir rammasamningsútboð […] í desember 2015 í […] og […] en stefndi bauð 3. febrúar 2016 tilgreindar vörur frá C í útboðinu. Jafnframt sendi svæðis- og dreifingarstjóri félagsins áfrýjanda tölvubréf 4. janúar 2016 þar sem tilkynnt var um að viðskiptum þess og áfrýjanda væri lokið. Þá væri félagið að hefja samstarf við annað íslenskt fyrirtæki en þess var ekki getið hvaða fyrirtæki var um að ræða. Hann bar fyrir dómi að hann hefði átt frumkvæði að því að hafa samband við stefnda í því skyni að leita eftir samstarfi við D ehf. en stefndi hefði ekki viljað að það hæfist fyrr en eftir lok ráðningarsamnings síns við áfrýjanda. Enn fremur liggur fyrir í málinu að stefndi var í samskiptum við C meðan á uppsagnarfresti hans stóð um áramótin 2015 til 2016. 33. Sönnunarbyrði fyrir því að stefndi hafi brotið gegn ólögfestum reglum um trúnaðarskyldu hvílir á áfrýjanda. Meta verður framburð vitnisins E fyrir dómi um að stefndi hafi ekki átt frumkvæði að viðskiptum við C meðan á uppsagnarfresti hans stóð í því ljósi að félagið sem hann starfar hjá á nú í viðskiptasambandi við stefnda, sbr. 59. gr. laga nr. 91/1991. Hins vegar er til þess að líta að áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á hið gagnstæða. Þau gögn sem áfrýjandi hefur skorað á stefnda að leggja fram, annars vegar um aðdraganda þess að C ákvað að færa viðskipti sín til D ehf. og hins vegar fylgigögn með tilboði félagsins í útboði […], án þess að við því hafi verið orðið eru ekki til þess fallin að létta sönnunarbyrði af áfrýjanda. Við sönnunarmatið er jafnframt horft til þess að áfrýjandi var ekki umboðsaðili fyrir C á Íslandi og hafði ekki einkasölusamning á vörum félagsins heldur gat félagið hvenær sem er fært viðskipti sín annað ef það taldi hagsmunum sínum betur borgið þannig. 34. Sönnunarstaða í málinu er því alls ólík þeirri sem reyndi á í dómi Hæstaréttar 1998 á bls. 1595, þar sem fyrir lá kynningarbréf þess félags sem starfsmaðurinn sem sagt hafði upp störfum hafði stofnað og dreift hafði verið til viðskiptavina þeirra sem félagið vildi ná viðskiptum við, þar á meðal tilgreindra viðskiptamanna félags þess sem starfsmaðurinn hafði áður starfað hjá. Kynningarbréfið var auk þess dagsett tæpum mánuði áður en uppsagnarfresti starfsmannsins átti að ljúka. 35. Samkvæmt framangreindu hefur áfrýjanda ekki tekist að leiða nægar líkur að því að stefndi hafi í raun gripið til nokkurra ráðstafana til að koma á viðskiptasambandi við C áður en áfrýjandi rifti ráðningarsamningi hans. Breytir þar engu um að stefndi og C voru í samskiptum um áramótin 2015 til 2016, enda liggur ekkert fyrir um að í þeim hafi stefndi brugðist trúnaðarskyldum sínum meðan á uppsagnarfresti stóð. 36. Um tilvísun áfrýjanda til 16. gr. c laga nr. 57/2005 segir í stefnu að tengsl stefnda og starfsfólks C hafi eingöngu myndast vegna starfa stefnda fyrir áfrýjanda. Öll sú þekking sem nauðsynleg hafi verið til að fá að flytja inn og selja og þjónusta vörur C hafi verið til komin vegna starfa hans hjá áfrýjanda. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram af hálfu áfrýjanda að stefndi hefði ekki haft þekkingu umfram aðra starfsmenn áfrýjanda á rekstri félagsins. Enda þótt stefndi hafi öðlast þekkingu og reynslu í störfum sínum fyrir áfrýjanda, sem síðar gat gagnast honum í öðrum störfum á svipuðum starfsvettvangi, var sú þekking ekki hluti af atvinnuleyndarmálum sem hann mátti ekki hagnýta sér í störfum í þágu einkahlutafélags síns eftir að ráðningarsambandi hans við áfrýjanda lauk. Samkvæmt þessu er ekki fallist á að stefndi hafi brotið gegn 16. gr. c laga nr. 57/2005 eða þagnarskylduákvæði í ráðningarsamningi aðila. 37. Með vísan til alls framangreinds verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Um málskostnað fer eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, A ehf., greiði stefnda, B, 1.000.000 króna í málskostnað fyrir Hæstarétti. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?Id=85bf008f-3ac9-4b9e-a308-3d66405a40df
Mál nr. 19/2021
Leigusamningur Samning dóms Ómerking héraðsdóms Heimvísun
Aðilar málsins gerðu með sér leigusamning til tuttugu ára þar sem F ehf. tók á leigu fasteign í eigu Í ehf. í því skyni að reka þar hótel. Vegna aðstæðna sem rekja mátti til COVID-19 heimsfaraldursins var hótelinu lokað í lok mars 2020. Með dómi héraðsdóms var fallist á kröfu F ehf. um að víkja tímabundið til hliðar ákvæði leigusamningsins um leigugreiðslur á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Leyfi var veitt til áfrýjunar héraðsdóms beint til Hæstaréttar samkvæmt heimild í 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991. Í dómi Hæstaréttar kom fram að fyrir héraðsdómi hefði verið til úrlausnar annars vegar viðurkenningarkrafa F ehf. um að leigusamningi yrði tímabundið vikið til hliðar og hins vegar fjárkrafa Í ehf. í gagnsök um greiðslu leigu fyrir hluta þess tímabils sem viðurkenningarkrafan tók til. Síðastnefnd krafa hefði falið í sér skyldu sem fullnægja mætti með aðför samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Í dóminum hefði einungis verið leyst úr viðurkenningarkröfunni en að þeirri niðurstöðu fenginni hefði ekki verið dæmt um greiðslukröfu Í ehf. Taldi Hæstiréttur að Í ehf. hefði lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um hvort hann ætti fjárkröfu á hendur F ehf. og hefði héraðsdómi borið að leysa efnislega úr kröfum hans eins og skylt hefði verið samkvæmt f. lið 1. mgr. og 2. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Héraðsdómur var því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 2. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. maí 2021. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og að honum verði gert að greiða sér 419.889.800 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. apríl 2020 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 15. apríl 2020 að fjárhæð 11.345.266 krónur og 9. apríl 2021 að fjárhæð 297.858.441 krónu. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 3. Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 7. júlí 2021. Hann krefst sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og að ákvæði um leigufjárhæð í leigusamningi milli aðila 2. júlí 2013 verði tímabundið vikið til hliðar að fullu frá 1. apríl til 31. desember 2020. Jafnframt krefst hann þess að frá 1. janúar til 31. mars 2021 verði sér gert að greiða 20% leigufjárhæðar hvers mánaðar að viðbættri verðtryggingu auk virðisaukaskatts að fjárhæð 11.709.004 krónur vegna janúar 2021, 11.732.935 krónur vegna febrúar 2021 og 11.725.755 krónur vegna mars 2021 eða samtals 35.167.694 krónur. Þá krefst hann þess að dráttarvextir verði ekki dæmdir af leigufjárhæðum fyrr en einum mánuði eftir uppsögu dóms Hæstaréttar. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Málsatvik og meðferð málsins 4. Aðilar gerðu leigusamning 2. júlí 2013 þar sem aðaláfrýjandi leigði gagnáfrýjanda fasteign til tuttugu ára í því skyni að reka hótel. Vegna aðstæðna sem rekja má til COVID-19-heimsfaraldursins lokaði gagnáfrýjandi hótelinu í lok mars 2020. Ágreiningur málsins lýtur að kröfu gagnáfrýjanda um að gera tímabundna breytingu á leigugreiðslum samkvæmt leigusamningnum. Gagnáfrýjandi reisir kröfur sínar á ákvæði í leigusamningnum um ófyrirséð og ófyrirsjáanleg atvik, ólögfestri reglu kröfuréttar um óviðráðanleg ytri atvik (force majeure), reglu kröfuréttar um stjórnunarábyrgð, sem og reglum samningaréttar um brostnar forsendur og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga sem vísað er til í 11. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Aðaláfrýjandi gerir hins vegar kröfu um greiðslu áfallinnar leigu fyrir 1. apríl til 1. september 2020 að frádregnum innborgunum. 5. Í hinum áfrýjaða dómi var jafnframt til úrlausnar sú krafa gagnáfrýjanda á hendur Íslandsbanka hf. að staðfest yrði lögbann sem gert var 23. júní 2020 við greiðslu nánar tiltekinna ábyrgða sem settar voru til tryggingar leigugreiðslum hans. Á það var ekki fallist í hinum áfrýjaða dómi og var þeim hluta málsins ekki áfrýjað. Eftir að héraðsdómur gekk greiddi Íslandsbanki hf. aðaláfrýjanda 297.858.441 krónu á grundvelli ábyrgðarinnar sem hann hafði gengist í. 6. Fyrir héraðsdómi var endanleg krafa gagnáfrýjanda á hendur aðaláfrýjanda sú að vikið yrði tímabundið til hliðar ákvæði leigusamningsins um greiðslu leigu þannig að því yrði vikið til hliðar að fullu 1. apríl til 31. desember 2020 og að gagnáfrýjanda yrði gert að greiða 20% leigunnar frá 1. janúar til 31. mars 2021 að viðbættri verðtryggingu og virðisaukaskatti. Þá var þess krafist að dráttarvextir reiknuðust ekki af ógreiddri leigu fyrr en einum mánuði eftir dómsuppsögu. Í gagnsök krafðist hann jafnframt sýknu af öllum kröfum aðaláfrýjanda og til vara að kröfur hans yrðu lækkaðar. Aðaláfrýjandi krafðist hins vegar sýknu af öllum kröfum gagnáfrýjanda. Í gagnsök krafðist hann þess að gagnáfrýjanda yrði gert að greiða sér 419.889.800 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 sem var gjaldfallin leiga frá 1. apríl til 1. september 2020, að frádreginni innborgun 15. apríl 2020 að fjárhæð 11.345.266 krónur. 7. Eins og áður greinir var í hinum áfrýjaða dómi fallist á að rétt væri að víkja tímabundið til hliðar leigusamningi aðila á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Leiguverðið átti að ákvarðast með þeim hætti að frá apríl 2020 til og með loka mars 2021 greiddi gagnáfrýjandi helming leigufjárhæðar í hverjum mánuði miðað við leigusamning aðila. Upphafstími dráttarvaxta af leigugreiðslum vegna framangreinds tímabils var mánuði eftir dómsuppsögu. Um gagnkröfu aðaláfrýjanda sagði í forsendum dómsins að af framangreindri niðurstöðu leiddi að hafnað væri kröfum ,,gagnstefnanda í gagnsök þar sem um leigufjárhæð fer samkvæmt því sem greinir í aðalsök.“ Í dómsorðinu var síðan ekkert vikið að greiðslukröfu aðaláfrýjanda. 8. Með ákvörðun Hæstaréttar 4. maí 2021 var fallist á að málið gæti haft þýðingu fyrir framkvæmd fjölda samninga þar sem forsendur hefðu breyst vegna heimsfaraldursins og væri því brýnt að fá niðurstöðu Hæstaréttar með skjótum hætti. Hefðu málsaðilar hvorki lýst því yfir að þörf væri á að leiða vitni í málinu né að ágreiningur væri um sönnunargildi munnlegs framburðar í héraði. Því var talið fullnægt skilyrðum 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og veitt leyfi til að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt um formhlið þess 13. október 2021. Niðurstaða 9. Í héraðsdómi var til úrlausnar annars vegar viðurkenningarkrafa gagnáfrýjanda um að leigusamningi yrði tímabundið vikið til hliðar og hins vegar fjárkrafa aðaláfrýjanda um greiðslu leigu fyrir hluta þess tímabils sem viðurkenningarkrafan tók til, en sú krafa fól í sér skyldu sem fullnægja má með aðför samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Í dóminum var einungis leyst úr viðurkenningarkröfunni en að þeirri niðurstöðu fenginni var ekki dæmt um greiðslukröfu aðaláfrýjanda. Slík dómsúrlausn veitir aðaláfrýjanda ekki heimild til að leita aðfarar enda felur dómsorð hins áfrýjaða dóms ekki í sér skyldu sem framfylgt yrði með slíkri gerð, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 7. mars 1996 í máli nr. 347/1994 sem birtur er í dómasafni réttarins 1996 á bls. 786 og 20. mars 2014 í máli nr. 673/2013. Það á við jafnvel þótt af dómsorði hins áfrýjaða dóms megi ráða að gagnáfrýjanda beri að greiða hluta hinnar umsömdu leigu enda er fjárhæð hennar þar ekki nánar tiltekin. Er jafnframt til þess að líta að með kröfu í gagnsök krafðist aðaláfrýjandi greiðslu vegna leigu frá apríl til september 2020 en í aðalsök laut krafa gagnáfrýjanda að tímabilinu frá apríl 2020 til loka mars 2021. 10. Aðaláfrýjandi hefur lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um hvort hann á fjárkröfu á hendur gagnáfrýjanda og bar héraðsdómi að leysa efnislega úr kröfum hans eins og skylt var samkvæmt f-lið 1. mgr. og 2. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Má um það meðal annars vísa til dóma Hæstaréttar 9. nóvember 1995 í máli nr. 133/1994 sem birtur er í dómasafni réttarins 1995 á bls. 2580, 30. apríl 2009 í máli nr. 485/2008, 20. desember 2011 í máli nr. 383/2011, 13. júní 2013 í máli nr. 35/2013 og 2. júní 2016 í máli nr. 479/2015. Dómaframkvæmd ber þannig með sér að gerðar eru ríkar kröfur í þessum efnum. Fyrrgreindur annmarki á héraðsdómi er slíkur að ekki verður hjá því komist að ómerkja hann án kröfu og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. 11. Tekið skal fram að á það verður ekki fallist með aðilum að um sé að ræða bersýnilega villu í dómi sem dómara er heimilt að leiðrétta samkvæmt 3. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, auk þess sem fram kom við flutning málsins hér fyrir dómi að aðilum ber ekki saman um hvernig leiðrétta skuli dóminn með tilliti til forsendna hans. 12. Rétt þykir að málskostnaður falli niður fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. https://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=80d318b1-7586-4f58-ba7e-777f9d67f94d
Mál nr. 40/2021
Kærumál Börn Bráðabirgðaforsjá Sáttameðferð Frávísun frá héraðsdómi
Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem máli sem A höfðaði meðal annars til úrlausnar ágreinings um forsjá dóttur málsaðila var vísað frá héraðsdómi. Hæstiréttur vísaði til þess að það væri ófrávíkjanleg skylda foreldra að undirgangast sáttameðferð áður en mál væri höfðað um forsjá barns, sbr. 1. mgr. 33. gr. a barnalaga nr. 76/2003. Í 5. mgr. ákvæðisins væri kveðið á um að gefa skyldi út vottorð um sáttameðferð ef foreldrum tækist ekki að gera samning eða ef þeir mættu ekki á sáttafund eftir að hafa fengið kvaðningu tvívegis. Aðilar málsins hefðu á hinn bóginn einungis verið boðaðir einu sinni til sáttameðferðar hjá sýslumanni. Þá hefði ekkert legið fyrir um afstöðu B til ágreiningsefna málsins og mögulegra sátta í því áður en sáttameðferð var lokið án þess að boðað hefði verið aftur til sáttafundar. Samkvæmt þessu hefði ekki farið fram fullnægjandi sáttameðferð í málinu. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest og málinu vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. september 2021 sem barst réttinum degi síðar. Kærumálsgögn bárust réttinum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 8. september 2021 þar sem máli sem sóknaraðili höfðaði meðal annars til úrlausnar ágreinings um forsjá dóttur málsaðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar en krefst ekki kærumálskostnaðar. 4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. Ágreiningsefni 5. Málið á rætur að rekja til þess að milli aðila er rekið forsjármál sem sóknaraðili höfðaði 23. febrúar 2021. Með úrskurði héraðsdóms 8. júlí 2021 var meðal annars leyst úr ágreiningi aðila um forsjá dóttur þeirra til bráðabirgða og kveðið á um hvar lögheimili hennar skyldi vera. Úrskurðinum var skotið til Landsréttar 15. sama mánaðar sem vísaði málinu frá héraðsdómi á þeim grundvelli að við sáttameðferð hjá sýslumanni hefði ekki verið farið að fyrirmælum 5. mgr. 33. gr. a barnalaga nr. 76/2003, þar sem aðilar hefðu einungis einu sinni verið boðaðir til sáttameðferðar. Varnaraðili sinnti ekki þeirri boðun en engu að síður var gefið út vottorð um sáttameðferð 31. ágúst 2020 þar sem fram kom að virk sáttameðferð hefði ekki farið fram. 6. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að þrátt fyrir að ekki hafi verið farið að fyrirmælum 5. mgr. 33. gr. a barnalaga um að boða skuli tvívegis til sáttafundar sé of langt gengið að vísa málinu frá héraðsdómi af þeim sökum. Fyrir liggi að tilraunir til boðunar á sáttafund hjá sýslumanni myndu engum árangri hafa skilað þar sem varnaraðili hefði ekki haft í hyggju að sinna sáttameðferð. Sóknaraðili hefði af þeim sökum óskað eftir því að sáttavottorð yrði gefið út svo að ekki yrðu frekari tafir á málinu. Þá hefði hvorugur málsaðila gert kröfu um frávísun málsins vegna galla á sáttameðferð, hvorki í héraði né fyrir Landsrétti, þar sem þeir hefðu verið sammála því að sáttaumleitanir gætu engum árangri skilað. Hagsmunum barnsins sé varpað fyrir róða ef málsmeðferð tefjist enn frekar í máli þessu sem sæta eigi flýtimeðferð. Þá telur sóknaraðili úrskurð Landsréttar í ósamræmi við fyrri niðurstöðu í dómi hans 18. apríl 2018 í máli nr. 309/2018. 7. Varnaraðili bendir á að hún hafi boðað lögmæt forföll þegar boðað var til sáttameðferðar 31. ágúst 2020 og óskað eftir nýjum tíma, en því ekki verið sinnt. Í málinu liggi ekki fyrir fullnægjandi sáttavottorð sem sé óhjákvæmilegt skilyrði þess að unnt sé að höfða forsjármál, sbr. 33. gr. a barnalaga. Sáttavottorðið sem sáttamaður hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hafi gefið út 31. ágúst 2020 beri með sér að sáttamiðlun hafi farið fram án þátttöku varnaraðila. Sátta beri að leita með tilteknum lögbundnum hætti og ekki megi gefa út sáttavottorð fyrr en að því loknu, enda sé einn megintilgangur 33. gr. a barnalaga að vernda hagsmuni þeirra barna sem búi við ágreining foreldra. Það hafi því verið mat löggjafans að það sé andstætt hagsmunum barna að foreldrar þeirra leiti ekki sátta með virkum hætti áður en höfðað er dómsmál vegna forsjár þeirra. Niðurstaða 8. Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. a barnalaga, sem lögfest var með 12. gr. laga nr. 61/2012, er það ófrávíkjanleg skylda foreldra að undirgangast sáttameðferð áður en mál er höfðað um forsjá barns. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar er markmið sáttameðferðar að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn máls sem er barni fyrir bestu. Skulu foreldrar mæta sjálfir á þá sáttafundi sem sáttamaður boðar til auk þess sem gefa skal barni sem náð hefur nægilegum þroska kost á að tjá sig. Í 5. mgr. er kveðið á um að gefa skuli út vottorð um sáttameðferð ef foreldrum tekst ekki að gera samning eða ef þeir mæta ekki á sáttafund eftir að hafa fengið kvaðningu tvívegis. Þá segir í 6. mgr. að í vottorði um sáttameðferð skuli gera grein fyrir því hvernig meðferðin fór fram, helstu ágreiningsatriðum, afstöðu aðila og sjónarmiðum barns, nema það sé talið ganga gegn hagsmunum þess. Í skýringum með 12. gr. frumvarps til laga nr. 61/2012 segir að nýmæli laganna um skyldu til sáttameðferðar mæli ekki fyrir um eina tiltekna tegund eða aðferð sem beri að nota við alla sáttaumleitan. Jafnframt segir þar að nauðsynlegt sé að foreldrar taki sjálfir fullan þátt í öllu ferlinu svo að þeir átti sig á þeim sjónarmiðum sem liggja til grundvallar, taki þátt í og axli ábyrgð á þeirri sátt sem er gerð. Enn fremur segir í almennum athugasemdum að gert sé ráð fyrir að sáttamaður meti hvenær hann telur ekki unnt að ná sáttum og geti til dæmis gefið út sáttavottorð ef foreldrar mæti ekki á sáttafund eftir að hafa fengið kvaðningu tvisvar. 9. Eins og rakið hefur verið voru aðilar málsins einungis boðaðir einu sinni til sáttameðferðar hjá sýslumanni. Varnaraðili sótti ekki þann sáttafund og hefur borið því við að hún hafi haft lögmæt forföll. Í vottorði sáttamanns er einungis vísað til þess að faðir hafi talið að móðir ætli ekki að mæta hjá sýslumanni. Ekkert lá því fyrir um afstöðu varnaraðila til ágreiningsefna málsins og hugsanlegra sátta í því áður en sáttameðferð lauk án þess að boðað væri aftur til sáttafundar. Samkvæmt þessu fór ekki fram fullnægjandi sáttameðferð í málinu. 10. Við úrlausn máls þessa er þess að gæta að þótt málið hafi með kæru borist Landsrétti eingöngu til úrlausnar um bráðabirgðaforsjá leiðir það af fortakslausum fyrirmælum barnalaga um sáttameðferð að hafi þeirra ekki verið gætt með fullnægjandi hætti veldur það frávísun forsjármáls frá héraðsdómi í heild án kröfu. 11. Atvik málanna sem sóknaraðili hefur vísað til og til úrlausnar voru í dómum Landsréttar 18. apríl 2018 í máli nr. 309/2018 og síðar 1. febrúar 2019 í máli nr. 554/2018 eru að því leyti ósambærileg atvikum máls þessa að í þeim málum hafði sáttameðferð hafist og sáttamaður aflað afstöðu aðila til sátta, en metið það svo eftir að sú afstaða lá fyrir að ekki væri grundvöllur fyrir áframhaldandi sáttameðferð. 12. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. 13. Kærumálskostnaður verður felldur niður en um gjafsóknarkostnað varnaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila, B, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=f3418d67-e0c5-4190-bdaa-c40aea4f653a
Mál nr. 41/2020
Þjóðlenda Eignarréttur Fasteign Afréttur Gjafsókn Sératkvæði
O höfðaði mál gegn Í og krafðist þess að fellt yrði úr gildi ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar um að landsvæðið Þóreyjartungur í Borgarbyggð, með nánar tilgreindum merkjum, teldist þjóðlenda í afréttareign O. Reisti O kröfu sína á því að umrætt landsvæði teldist eignarland sitt. Héraðsdómur sýknaði Í af kröfum O en Landsréttur tók kröfur O til greina. Í áfrýjaði dómi Landsréttar og krafðist fyrir Hæstarétti sýknu af kröfum O. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þrátt fyrir að lýsingar í hinum ýmsu gerðum Landnámu af landnámi á þessu svæði væru ekki að öllu leyti glöggar og samrýmanlegar yrði sú ályktun dregin af þeim að umþrætt landsvæði hefði í upphafi tilheyrt hinu víðfeðma landnámi Skalla-Gríms. Um landnám Þóreyjartungna vísaði rétturinn til þess að óbyggðanefnd hefði komist að þeirri niðurstöðu að aðliggjandi heiðarlönd, Lundartunga og Oddstaðatunga, hefðu verið numin í öndverðu og teldust eignarlönd. Þá hefði Í ekki gert kröfu fyrir óbyggðanefnd um að landsvæði norður af Þóreyjartungum teldist þjóðlenda. Flest sömu sjónarmið ættu við um Þóreyjartungur og umrædd heiðalönd, að því er varðaði lýsingar Landnámu á landnámi á svæðinu, staðháttum, hæð yfir sjávarmáli og gróðurfari. Ekki stæðu rök til annars en að niðurstaðan yrði sú sama að því er varðaði nám Þóreyjartunguna og talið nægilega sýnt fram á að þær hefðu verið numdar með þeim hætti að beinn eignarréttur hefði stofnast yfir þeim. Niðurstaða um það hvort beinn eignarréttur hefði haldist réðist einkum af heildarmati á heimildum um eignarréttindi yfir Þóreyjartungum og inntaki þeirra, heimildum um nýtingu þeirra og fyrirliggjandi upplýsingum um gróðurfar og staðhætti. Rétturinn taldi að heimildir um jörðina Hrísa og Þóreyjartungur veittu því næga stoð að Þóreyjartungur hefðu lengst af verið hluti af jörðinni Hrísum og að beinn eignarréttur hefði ekki fallið niður þótt Reykholtskirkja hefði í lok 19. aldar selt landsvæðið til sveitarfélags og síðar til O. Hæstiréttur komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að Þóreyjartungur hefðu ekki verið nýttar sem samnotaafréttur fyrr en þær komust úr eigu Reykholtskirkju. Loks bar Hæstiréttur saman þá þætti sem heiðarlöndin Þóreyjartunga, Lundartunga og Oddsstaðartunga ættu sameiginlega í eignarréttarlegu tilliti og komst að þeirri niðurstöðu að Þóreyjartungur og Lundartunga ættu að nær öllu leyti og Oddsstaðatunga að flestu leyti þá þætti sameignlega sem mestu máli skipti við afmörkun á landsvæðum sem teljast annars vegar undirorpin beinum eignarrétti og hins vegar þjóðlendur. Hæstiréttur taldi að rök stæðu ekki til annars en að niðurstaðan yrði sú sama að því er varðaði eignarréttarlega stöðu Þóreyjartungna, Lundartungu og Oddsstaðatungu svo og aðliggjandi landsvæða til norðurs, það er að Þóreyjartungur teldust eignarland O. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms var því staðfest.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. desember 2020. Hann krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti en ella að málskostnaður verði látinn niður falla. 3. Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. 4. Dómendur skoðuðu vettvang 7. september 2021. Ágreiningsefni 5. Í málinu er deilt um gildi hluta af úrskurði óbyggðanefndar 11. október 2016 í máli nr. 5/2014. Nefndin starfar á grundvelli laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Nánar tiltekið er deilt um gildi þeirrar niðurstöðu úrskurðarins að landsvæðið Þóreyjartungur í Borgarbyggð, innan þeirra marka sem óbyggðanefnd ákvað, teldist þjóðlenda í afréttareign stefndu 6. Í hinum áfrýjaða dómi Landsréttar var tekin til greina krafa stefndu um að fellt yrði úr gildi ákvæði í umræddum úrskurði óbyggðanefndar þess efnis að Þóreyjartungur væru þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998, en svæði þetta var nánar afmarkað þannig: „Upphafspunktur er við ármót Flókadalsár og Syðri-Sandfellskvíslar. Þaðan er Flókadalsá fylgt til upptaka. Þaðan er dregin bein lína í upptök Syðri-Sandfellskvíslar. Syðri-Sandfellskvísl er svo fylgt vestur í upphafspunkt við Flókadalsá.“ Jafnframt var fallist á kröfu stefndu um að viðurkennt yrði að enga þjóðlendu væri að finna innan umþrætts svæðis. 7. Stefnda gerði þá kröfu fyrir óbyggðanefnd að Þóreyjartungur, eins og hún afmarkaði það landsvæði allt til Oks í austri, teldist eignarland sitt. Kröfugerð málsaðila í héraði fól í sér að þeir féllust á niðurstöðu óbyggðanefndar um afmörkun þess svæðis sem deilt er um hvort er eignarland stefndu eða þjóðlenda. Þá fól kröfugerð áfrýjanda í sér að hann féllist á þá niðurstöðu óbyggðanefndar að hið umþrætta svæði teldist í afréttareign stefndu, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998, og að stefnda nyti veiðiréttar í ám á svæðinu samkvæmt 5. gr. sömu laga, sbr. II. kafla laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. 8. Héraðsdómur sýknaði áfrýjanda af kröfum stefndu en Landsréttur tók sem fyrr segir allar kröfur stefndu til greina. 9. Ágreiningur er með aðilum um hvort og þá með hvaða hætti hið umþrætta landsvæði hefur verið numið í öndverðu og eftir atvikum um hvort beinn eignarréttur hefur síðar fallið niður. Þá greinir aðila á um hvort dregin verði sú ályktun af heimildum um hið umþrætta landsvæði að það hafi verið hluti af jörðinni Hrísum eða sérstakt afmarkað landsvæði sem nýtt hafi verið sem afréttur Reykholtskirkju. Hvað sem þeim ágreiningi líður eru aðilar ekki á eitt sáttir um sönnunargildi og túlkun ýmissa heimilda um jörðina Hrísa og hið umþrætta landsvæði. Loks er deilt um þær kröfur sem gera verði til sönnunar um að landsvæði sé undirorpið beinum eignarrétti. 10. Áfrýjunarleyfi var veitt 22. desember 2020. Í ákvörðuninni kom fram að þegar litið væri heildstætt til þess að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um atriði sem beiðni um áfrýjunarleyfi væri reist á og til þeirra hagsmuna sem deilt væri um væri hún tekin til greina. Málsatvik Meðferð málsins fyrir óbyggðanefnd 11. Í hinum áfrýjaða dómi er meðal annars rakið með hvaða hætti óbyggðanefnd tók umrætt landsvæði til meðferðar, gerð grein fyrir kröfugerð málsaðila og málsmeðferð fyrir nefndinni í stórum dráttum. 12. Í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 5/2014, sem stefndi krefst að verði felldur úr gildi að hluta, var einnig fjallað um sambærilegan ágreining um önnur aðliggjandi landsvæði sem liggja að nokkru samsíða Þóreyjartungum sunnan þeirra frá vestri til austurs en áfrýjandi gerði kröfu um að þau yrðu einnig talin þjóðlendur, nánar tiltekið Lundartunga, Oddsstaðatunga og Gullberastaðaselsland. Jafnframt var þar fjallað um afrétt austan við framangreind landsvæði og ætlaðan hluta af landi jarðarinnar Húsafells II. Áfrýjandi gerði aftur á móti ekki kröfu um að landsvæðin norðan Þóreyjartungna yrðu talin þjóðlendur og féllst þar með á að allt það svæði væri hluti af eignarlandi viðkomandi jarða. Heimildir um jörðina Hrísa og Þóreyjartungur 13. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi byggir stefnda rétt sinn til Þóreyjartungna á samþykkt hreppsnefnda Andakíls- og Lundarreykjadalshreppa 31. mars 1998 um stofnun stefndu og yfirlýsingu hreppsnefndar Lundarreykjadalshrepps 2. apríl sama ár um framlag fjármuna og eignarlanda, þar á meðal Þóreyjartungna, til stofnunar stefndu. Í yfirlýsingunni er vísað til þess að Lundarreykjadalshreppur hafi keypt Þóreyjartungur af Reykholtskirkju með kaupsamningi 9. september 1895 og afsali 9. janúar 1896. Um landamerki var vísað til landamerkjabréfs 2. júlí 1923. Umrædd sveitarfélög eru nú hluti af sveitarfélaginu Borgarbyggð. Í dóminum er nánar lýst framlögðum heimildarskjölum um sölu Reykholtskirkju á afréttarlöndum kirkjunnar til Lundarreykjadalshrepps, þar á meðal Þóreyjartungum og staðfestingu landshöfðingja á því að konungur hefði samþykkt söluna 19. september 1894. Þá er því lýst að landamerkjabréf fyrir „Þóreyjartungur afréttarlandi Lundarreykjadalshrepps“ hafi verið undirritað 2. júlí 1923 og því þinglýst 7. júlí 1924. 14. Í hinum áfrýjaða dómi er jafnframt gerð nokkur grein fyrir heimildum um landnám á því svæði sem óbyggðanefnd fjallaði um. Þá er rakið meginefni þeirra heimilda sem fyrir liggja í málinu um jörðina Hrísa, sem lengst af var að hálfu í eigu Reykholtskirkju en að hálfu Bæjarkirkju, og um hið umþrætta landsvæði Þóreyjartungur. Þær heimildir sem Landsréttur vísaði til virðast allar hafa legið fyrir við meðferð málsins hjá óbyggðanefnd utan lögfesta Halldórs Jónssonar frá árinu 1668 um lönd, jarðareignir og ítök Reykholtskirkju en ljósrit af skjalinu og vélrituð uppskrift þess, sem staðfest er af Þjóðskjalasafni Íslands, var lagt fram af hálfu stefndu við meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Lagagrundvöllur 15. Í 1. gr. laga nr. 58/1998 er að finna skilgreiningu á þeim þremur hugtökum sem fram koma í heiti laganna og notuð eru til að lýsa eignarréttindum yfir landi. Eignarland er þar skilgreint sem landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fari með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma. Samkvæmt ákvæðinu er þjóðlenda landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Afréttur er þar skilgreindur sem landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé. Í almennum athugasemdum við frumvarp það sem varð að umræddum lögum kemur fram að eitt þeirra meginatriða sem nefnd sú sem gerði tillögu um efni lagafrumvarpsins hefði byggt á hefði verið að hugtakið afréttur yrði ekki notað sem lýsing á ákveðnu eignarformi lands heldur afnotaréttindum, til dæmis beitarafnotum. 16. Lög nr. 58/1998 eru reist á því að landinu verði í eignarréttarlegu tilliti skipt í annars vegar eignarlönd og hins vegar þjóðlendur. Samkvæmt 2. gr. laganna telst íslenska ríkið eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Það er hlutverk óbyggðanefndar samkvæmt 7. gr. laganna og eftir atvikum dómstóla samkvæmt 19. gr. þeirra að kanna og skera úr um hvaða land telst þjóðlenda og hver eru mörk þeirra og eignarlanda, auk þess að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna. Hlutverk óbyggðanefndar og dómstóla er þannig ekki að svipta menn eignarlöndum sínum eða skerða eignarréttindi þeirra á annan hátt og færa eignarréttindi með þeim hætti til íslenska ríkisins, sbr. dóm Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004. 17. Af almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 58/1998 verður ráðið að úrlausn óbyggðanefndar og dómstóla um hvort landsvæði telst eignarland eða þjóðlenda í merkingu laganna ráðist af almennum sönnunarreglum og þeim réttarheimildum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki. Í dómi Hæstaréttar í áðurgreindu máli nr. 48/2004 er sú regla talin gilda að sá sem telur til eignarréttinda yfir landi verði að færa fram heimildir fyrir eignatilkalli sé það dregið í efa. Hversu ríkar kröfur verði gerðar til heimilda fyrir eignatilkalli í hverju einstöku tilviki og hvernig þær heimildir verða túlkaðar þarf hins vegar að meta í hverju máli fyrir sig. Þó hlýtur mat á sönnunargildi mismunandi tegunda heimilda um mörk landsvæðis og inntak eignarréttinda yfir því svo og túlkun einstakra heimildarskjala óhjákvæmilega að taka mið af dómaframkvæmd um sambærileg tilvik. 18. Í athugasemdum við 11. gr. í fyrrnefndu frumvarpi er áréttað mikilvægi þess að samræmis sé gætt hvað varðar fyrirsvar ríkisins að því er varðar kröfur þess um eignarréttindi innan þjóðlendna og við úrlausn um hvort land telst til eignarlands eða þjóðlendu. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar í þjóðlendumálum hefur niðurstaða um hvort landsvæði telst hafa verið numið í öndverðu og hvort það telst eignarland eða þjóðlenda meðal annars ráðist af samanburði við niðurstöður um aðliggjandi landsvæði sem telja verður sambærileg með tilliti meðal annars til gróðurfars og hæðar yfir sjávarmáli. Um þetta vísast til dóma Hæstaréttar í máli nr. 48/2004, um mörk jarðarinnar Hóla, dóma 16. maí 2007 í málum nr. 448/2006, 536/2006 og 24/2007, sem vörðuðu mörk eignarlanda og þjóðlendna sunnan við Mýrdalsjökul, dóma 7. október 2010 í málum nr. 722/2009 og 748/2009, sem vörðuðu mörk landnáms inn til landsins í Þistilfirði og dóma 29. september 2011 í málum nr. 40/2011 og 56/2011, sem vörðuðu mörk jarða í Öxarfirði. Þá hefur Hæstiréttur vísað til jafnræðisreglu við úrlausn um afmörkun þjóðlendu og eignarlands, sbr. dóm 11. maí 2006 í máli nr. 345/2005. 19. Óumdeilt er að eignarréttur yfir landi á Íslandi stofnaðist í öndverðu með námi. Í Landnámabók eru frásagnir af fundi Íslands og landnámi þess. Elsta gerð hennar mun hafa verið rituð á 12. öld en hefur ekki varðveist í heild sinni. Lýsingar yngri gerða hennar á landnámi einstakra landnámsmanna eru ekki að öllu leyti samhljóða og jafnframt í ýmsu ósamþýðanlegar. Þá er umfangi og landamerkjum einstakra landnáma sjaldan lýst nákvæmlega í Landnámu og á þetta einkum við um afmörkun þeirra inn til landsins. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar í málum um tilvist beins eignarréttar á tilteknu landsvæði og í úrskurðum óbyggðanefndar hafa skýrar frásagnir í Landnámu um landnám einstaka svæða og umfang þeirra verið taldar hafa sönnunargildi við mat á því hvort stofnast hefur til beins eignarréttar með námi eða eftir atvikum takmarkaðs eignarréttar yfir landsvæði, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 3. nóvember 1994 í máli nr. 247/1994 sem er að finna í dómasafni réttarins það ár á bls. 2227. Aftur á móti hafa fáorðar og óskýrar lýsingar í Landnámu fremur verið taldar mæla gegn því að land hafi verið numið og þannig undirorpið beinum eignarrétti, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 10. apríl 1997 í máli nr. 66/1996 sem birtur var í dómasafni réttarins árið 1997 á bls. 1162 og 6. maí 1999 í máli nr. 41/1999 en síðastgreind mál voru sakamál vegna skotveiði. 20. Við mat á því hversu víðtækar ályktanir má draga af takmörkuðum lýsingum Landnámu um afmörkun landnáms inn til landsins hefur meðal annars verið horft til hæðar lands yfir sjávarmáli og gróðurfars eins og það er nú eða ætla má að það hafi verið við landnám, sbr. áðurnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 48/2004 þar sem slakað var á kröfum til sönnunar um að landsvæði hefði verið numið í öndverðu með vísan til fyrrnefndra atriða. Þegar lýsingar Landnámu á afmörkun náms á tilteknu landsvæði eru óskýrar hefur verið litið til nákvæmari lýsinga í Landnámu á námi á landsvæðum í nágrenninu, í svipaðri hæð yfir sjávarmáli og með svipað gróðurfar. Af þeim samanburði hafa verið dregnar ályktanir um hvort líklegt sé að umþrætt landsvæði hafi verið numið með þeim hætti að stofnast hafi til beins eignarréttar yfir því, sbr. fyrrnefnda dóma Hæstaréttar í málum nr. 48/2004, 448/2006, 536/2006, 24/2007, 722/2009, 748/2009, 40/2011 og 56/2011. 21. Enda þótt talið verði að landsvæði hafi verið numið í öndverðu kann nýting þess eða önnur atvik að hafa valdið því að réttindi yfir því eða hluta þess hafi fallið niður eða breyst þannig að það teljist ekki lengur undirorpið beinum eignarrétti. Hæstiréttur hefur slegið föstu að teljist beinn eignarréttur hafa stofnast yfir landsvæði við nám eða á annan hátt verði þess ekki krafist að sýnt sé fram á með hvaða hætti upphaflegur eignarréttur hafi haldist við heldur aðeins að hann hafi gert það í raun, sbr. dóm Hæstaréttar 29. október 2009 í máli nr. 685/2008. Þar var vísað til þess að í skriflegum heimildum hafi afréttar einkum verið getið í tengslum við búfjárbeit og að hann hafi verið nýttur sem samnotaafréttur. Af þessum heimildum var dregin sú ályktun að hvað sem liði upphaflegum eignarrétti hefði beinn eignarréttur ekki flust til síðari rétthafa heldur aðeins óbein eignarréttindi. Í dómi Hæstaréttar 4. október 2007 í máli nr. 27/2007 var byggt á svipuðum sjónarmiðum en þar sagði að af tiltækum heimildum yrði ekki ráðið að upphaflegur beinn eignarréttur hefði flust til síðari rétthafa heldur hefði þar stofnast til óbeinna eignarréttinda. Gróðurfar og staðhættir ásamt heimildum um nýtingu landsins voru taldar styðja þá niðurstöðu. Fjallskil hefðu þar verið með líkum hætti og þar sem um samnotaafrétti væri að ræða. Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli 448/2006 var talið að líkur væru fyrir því að tiltekið landsvæði hefði verið innan upphaflegs landnáms eins og aðliggjandi lönd. Í dóminum segir síðan að landsvæðið yrði eins og þau talið heiðarland sem frá alda öðli hefði verið nýtt til beitar, sumar og vetur, svo og fýlatekju þegar svo bar undir. Enda þótt deilt hefði verið um það hvort heiðarnar næstar jökli ættu að teljast afréttir væri ljóst að landsvæðið og löndin fyrir austan það og vestan hefðu ekki verið talin til samnotaafrétta. Ekkert væri fram komið í málinu sem stutt gæti að munur yrði að þessu leyti gerður á landsvæðinu og aðliggjandi landsvæðum. Hæstiréttur taldi því nægilega í ljós leitt að landsvæðið hefði frá landnámi verið háð beinum eignarrétti sem heiðarland jarðar. 22. Eins og fram kemur í almennum niðurstöðum óbyggðanefndar, sem vísað er til í úrskurði nefndarinnar sem hér er til endurskoðunar, voru landnám eins og frá þeim er greint í Landnámu í öndverðu einatt mjög stór en smám saman skipt niður í smærri einingar sem lengi hafa verið nefndar jarðir. Fallist er á þær almennu niðurstöður óbyggðanefndar að gera megi ráð fyrir því að jörð sé landsvæði sem upprunalega hefur verið ráðstafað úr einstökum landnámum, stofnað til nýbýlis á eða eignarhefð unnin yfir. Þannig má ráða af dómum Hæstaréttar að land sem samkvæmt fyrirliggjandi heimildum er eða hefur verið jörð eða hluti hennar sé háð beinum eignarrétti, sbr. dóm réttarins 2. desember 1971 í máli nr. 193/1970, að því er varðaði beinan eignarrétt Andakílshrepps yfir Gullberastaðatungu en dóminn er að finna í dómasafni réttarins árið 1971 á bls. 1137, og dóm 28. janúar 1975 í máli nr. 65/1971 sem er að finna í dómasafni réttarins árið 1975 á bls. 55. Í dóminum var talið að afréttarland hefði verið hluti af landi jarðarinnar Kalmannstungu sem eignarland í beinni merkingu þegar það var selt tveimur hreppum árið 1880 og 1901 og verður ráðið af dóminum að lagt hafi verið til grundvallar að afrétturinn væri undirorpinn beinum eignarrétti hreppanna. 23. Svo sem gengið var út frá við setningu laga nr. 58/1998 hefur hugtakið afréttur ekki verið notað sem lýsing á ákveðnu eignarformi lands heldur afnotaréttindum, svo sem beitarréttindum og hugsanlega fleiri réttindum. Það að landsvæði hafi verið nefnt afréttur í heimildum sker þannig ekki úr um hvort það er undirorpið beinum eignarrétti. Eins og fram kemur í almennum niðurstöðum óbyggðanefndar má flokka afrétti í þrennt með tilliti til uppruna. Í fyrsta lagi samnotaafrétti þar sem landsvæði hefur samkvæmt elstu heimildum verið til sameiginlegra nota jarða í tilteknu sveitarfélagi eða á afmörkuðu svæði. Óbyggðanefnd telur mega álykta að hluti þeirra landsvæða hafi legið utan þeirra svæða sem numin hafi verið eða eignarheimildir snemma fallið niður hafi svo verið. Rétturinn til þeirra hafi orðið til við það að íbúar byggðalags hafi tekið viðkomandi landsvæði, utan þáverandi byggðarmarka, til sumarbeitar fyrir búpening og eftir atvikum annarra takmarkaðra nota. Í öðru lagi sé um að ræða afrétti einstakra jarða og stofnana, en þar sé um þá afrétti að ræða sem samkvæmt elstu heimildum tilheyrðu einstökum jörðum, lögpersónum eða stofnunum, fyrst og fremst kirkjunum og afnot annarra þá aðeins heimil gegn gjaldi. Slíkir afréttir séu að meginstefnu skildir frá viðkomandi heimajörð með sjálfstæðum merkjum eða í sumum tilvikum af öðrum fasteignum. Tilurð þessara afrétta sé ekki með öllu ljós en þeim skýringum hafi verið hreyft að þeir hafi verið hluti af landnámi einstakra landsnámsjarða en vegna legu sinnar, landkosta og búskaparhátta verið nýttir til upprekstrar. Í þriðja lagi sé um það að ræða að land eða hluti lands einstakra jarða hafi verið lagt til afréttar. 24. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 41/1919 um landamerki o.fl. taka ákvæði þeirra fyrst og fremst til afmörkunar á milli jarða með merkjum. Lögin eiga þó jafnframt við um merki milli jarða og afrétta eða annarra óbyggðra lendna ef sá krefst þess er land á að afrétti eða lendu. Þá taka lögin einnig til annarra lendna eða landhluta sem skipt er úr landi jarðar. Samkvæmt 2. gr. laganna skal eigandi lands gera glöggva skrá um landamerki eins og hann veit þau réttust. Í eldri lögum um landamerki nr. 5/1882 var einungis kveðið á um að landamerkjum afrétta og annarra óbyggðra lendna skyldi haldið við að því leyti sem því yrði við komið. Skylda eiganda jarðar til að setja merki, skrá þau og viðhalda hefur þannig um langt skeið verið afdráttarlausari en þegar um afrétt er að ræða. 25. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur komið fram að við mat á gildi landamerkjabréfa og því hvert er inntak eignarréttar á svæði, sem þar er lýst, skipti almennt máli hvort um er að ræða jörð eða annað landsvæði, en þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir heldur einnig til dæmis afrétti sem ekki tengjast sérstaklega tiltekinni jörð. Feli landamerkjabréf fyrir jörð í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega, sbr. til dæmis dóm réttarins í máli nr. 48/2004. Í þeim dómi segir að með því að gera landamerkjabréf geti menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það sem verið hafði. Ekki var talið að landamerkjabréf gæti eitt og sér nægt til að sanna beinan eignarrétt að öllu landi sem bréfið tæki til heldur yrðu önnur atriði jafnframt að koma til sem stutt gætu sömu niðurstöðu. Væri þá einkum til þess að líta hvort fyrir hendi væru eldri heimildir, sem fallið gætu að lýsingu í landamerkjabréfinu, enda stangaðist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu landsins. 26. Í fjölda þjóðlendumála sem komið hafa til kasta Hæstaréttar hefur reynt á mat á sönnunargildi eldri heimilda um eignir kirkna, svo sem máldaga, lögfesta og vísitasía. Í dómi réttarins 5. október 2006 í máli nr. 67/2006 segir að þegar slíkar heimildir séu metnar sé það að athuga að þær séu að mestu einhliða lýsingar þeirra sem fóru með kirkjujarðir eða eftir þeim hafðar án þess að vera staðfestar af öðrum sem til réttinda gátu talið. Hafi vísitasíur og lögfestur ekki einar sér verið taldar fullnægjandi gögn fyrir beinum eignarrétti. Af þessum dómi og fleirum þar sem vísað er til slíkra gagna, svo sem dómi réttarins í máli nr. 48/2004, verður þó ráðið að slíkar heimildir geti skipt máli við úrlausn þess hvort landsvæði telst undirorpið beinum eignarrétti, sérstaklega ef þær styðja við yngri heimildir, svo sem landamerkjabréf. Niðurstaða 27. Óumdeilt er að Lundarreykjadalshreppur keypti Þóreyjartungur af Reykholtskirkju árið 1895 og að þær voru lagðar inn í stefndu árið 1998. Í heimildarskjölum vegna þeirra lögskipta var landið nefnt afréttur. Landamerkjabréf um Þóreyjartungur er sem fyrr segir frá 2. júlí 1923 en þinglýst 7. júlí 1924. Deilt var um merki þrætusvæðisins fyrir óbyggðanefnd en aðilar hafa ekki gert ágreining í málinu um afmörkun nefndarinnar. Stefnda telur þrætusvæðið undirorpið beinum eignarrétti hennar en áfrýjandi telur það þjóðlendu í afréttareign stefndu í samræmi við niðurstöðu óbyggðanefndar. 28. Af hálfu stefndu er á því byggt að beinn eignarréttur yfir Þóreyjartungum hafi stofnast í öndverðu fyrir nám eða eftir atvikum hefð og landsvæðið hafi komist í eigu Reykholtskirkju sem hluti af jörðinni Hrísum og þá og síðar verið undirorpið beinum eignarrétti. Þóreyjartungur hafi ekki verið nýttar sem samnotaafréttur fyrr en þær komust í eigu sveitarfélaga sem stefnda leiði eignarrétt sinn frá. 29. Áfrýjandi dregur í efa að þrætusvæðið allt hafi verið numið með þeim hætti að beinn eignarréttur hafi stofnast og byggir á því að ef svo verði talið hafi þau réttindi allt að einu fallið niður. Hann telur að fyrirliggjandi heimildir bendi fremur til þess að Þóreyjartungur hafi alla tíð verið sérstakt afmarkað landsvæði en ekki hluti af jörðinni Hrísum. Landsvæðið hafi einungis verið nýtt sem afréttur og til veiði í skjóli takmarkaðra eignarréttinda Reykholtskirkju og þeirra sem leitt hafi rétt sinn frá henni. 30. Í þeim hluta úrskurðar óbyggðanefndar sem hér er til endurskoðunar kemur annars vegar fram að sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verði að telja líklegt að svæði það sem nefndin afmarkaði sem Þóreyjartungur hafi verið numið að minnsta kosti að hluta. Síðar í úrskurðinum segir að sú ályktun verði dregin af fyrirliggjandi landnámslýsingum að líklegt teljist að landsvæðið sé innan upphaflegs landnáms. Óbyggðanefnd taldi engu að síður að ekki hefði verið sýnt fram á annað en að réttur til Þóreyjartungna hefði orðið til á þann veg að landsvæðið hefði verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og veiða og ef til vill til annarrar takmarkaðrar notkunar. Nefndin komst með þessum hætti að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið sýnt fram á að Þóreyjartungur væru eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti og að landsvæðið væri þjóðlenda. 31. Lýsingar Landnámu á landnámi í þeim hluta Borgarfjarðar sem þrætulandið liggur eru ekki nákvæmar og jafnvel nokkuð misvísandi um umfang upphaflegs landnáms á svæðinu og þá landnámsmenn sem taldir eru hafa numið einstök landsvæði í skjóli þess eða þeirra sem fyrstir námu þar land. Sérstaklega er frásögn Landnámu ónákvæm um afmörkun landnáms inn til landsins. 32. Í úrskurði óbyggðanefndar segir meðal annars um landnám í Borgarfirði: Svo segir í Egils sögu Skallagrímssonar, sem og bæði í Sturlubók og Þórðarbók Landnámu, að Skalla Grímur hafi numið Borgarfjarðarhérað. Í Eglu er notað orðalagið: „-allt þat land, er vatnföll deila til sjóvar“ en í Landnámu segir: „svo vítt sem vatnsföll deila til sjóvar“. [...] Samkvæmt Landnámabók nemur Björn Gullberi Lundarreykjadal, milli Grímsár og Flókadalsár, að því er virðist allt niður að landnámi Óleifs Hjalta. Í austur hefur land Bjarnar náð svo langt sem landnám Skalla Gríms tók til, þ.e. allt að núverandi sýslumörkum. [...] Að norðan hefur Flókadalsá skilið á milli Hrísa og landa Björns Gullbera. Samkvæmt Landnámabók (Sturlubók og Þórðarbók) nam Flóki, þræll eða leysingi Ketils gufu, Flókadal allan, milli Flókadalsár og Geirsár, og bjó í Hrísum. Þar er einnig talað um Gnúp Flókason í Hrísum. Nokkurs ósamræmis virðist þó gæta um landnám í Flókadal. Í 39. kafla Eglu er getið um „Þórodd Hrísablund, er fyrstur bjó í hrísum.“ Hvernig sem þessu hefur verið farið er ljóst að Hrísar eru landnámsjörð, og eiga – á þeim tíma – land móti Gullberastöðum við Flókadalsá. Einnig að allt land Sjálfseignarstofnunarinnar Oks er innan hins forna landnáms Björns Gullbera. 33. Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til samantektar Þorsteins Þorsteinssonar á Skálpastöðum frá árinu 2008 um þróun eignarhalds á löndum stefndu. Í samantektinni, sem er hluti af gögnum málsins, kemur fram að eftir því sem greini í Landnámu hafi sum landnám í öndverðu verið mjög stór en smám saman verið skipt niður í smærri einingar. Sem dæmi um það er vitnað til eftirfarandi frásagnar Landnámu af Skalla-Grími: „Síðan skipaði hann heraðit sínum félǫgum, ok þar námu margir menn síðan land með hans ráði. Skalla-Grímr gaf land Grími enum háleyska fyrir sunnan fjǫrð á milli Andakílsár ok Grímsár; hann bjó á Hvanneyri.” 34. Eins og rakið er í úrskurði óbyggðanefndar er í Þórðarbók Landnámu getið sjálfstæðra landnáma annarra manna en Skalla-Gríms í Borgarfirði. Ekki er fyllilega ljóst hvort þau hafi verið til komin með eða án leyfis úr hinu víðfeðma landnámi Skalla-Gríms eða verið sjálfstæð landnám. Í framangreindri samantekt Þorsteins Þorsteinssonar er gerð grein fyrir misvísandi frásögnum og ósamræmi í hinum ýmsu gerðum Landnámu um landnám einstakra manna á þessum slóðum og á það jafnt við um umfang landnáms Björns gullbera og um landnámsmenn og landnám í Flókadal. 35. Þrátt fyrir að hinar ýmsu gerðir Landnámu af landnámi á þessu svæði séu ekki að öllu leyti glöggar og samrýmanlegar verður sú ályktun dregin af þeim að allar Þóreyjartungur, sem liggja milli Flókadalsár í vestri og norðri og Syðri-Sandfellskvíslar í suðri, eins og þær hafa verið afmarkaðar í máli þessu, hafi í upphafi tilheyrt hinu víðfeðma landnámi Skalla-Gríms. Á grundvelli fyrirliggjandi heimilda er hins vegar ekki unnt að skera úr um hvort þær hafa við landnám verið hluti af landsvæði sem Björn gullberi nam eða tilheyrt landnámsjörðinni Hrísum. 36. Fyrir liggur að áfrýjandi gerði ekki kröfu fyrir dómi um að landsvæði sem liggja að Þóreyjartungum í norðri teldust þjóðlendur og óbyggðanefnd komst að þeirri niðurstöðu, í þeim úrskurði sem hér er að hluta til endurskoðunar, að heiðarlöndin Lundartunga og Oddsstaðatunga, sem liggja sunnan Þóreyjartungna, teldust eignarlönd. Þær niðurstöður voru reistar meðal annars á þeirri forsendu að þau teldust hafa verið numin í öndverðu. Áfrýjandi undi úrskurðinum. Flest sömu sjónarmið eiga við um Þóreyjartungur og umrædd aðliggjandi heiðarlönd að því er varðar lýsingar Landnámu á landnámi á svæðinu, staðháttum, hæð yfir sjávarmáli og gróðurfari svo og aðra þætti sem máli skipta. Ekki standa rök til annars en að niðurstaðan verði sú sama að því er varðar nám Þóreyjartungna og þessara heiðarlanda og vísast þar um til umfjöllunar í lið 18 og þá dóma Hæstaréttar sem þar eru nefndir. Verður því fallist á með stefndu að nægilega hafi verið sýnt fram á að Þóreyjartungur hafi verið numdar með þeim hætti að beinn eignarréttur hafi stofnast yfir þeim. 37. Í málinu reynir þannig á hvort sá beini eignarréttur sem samkvæmt framansögðu stofnaðist yfir Þóreyjartungum sé enn fyrir hendi eða hafi fallið niður. 38. Hæstiréttur hefur byggt á því að teljist beinn eignarréttur hafa stofnast yfir landsvæði við nám eða á annan hátt verði þess ekki krafist að sýnt sé fram á með hvaða hætti upphaflegur eignarréttur hafi haldist við heldur aðeins að hann hafi gert það í raun, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 685/2008. 39. Niðurstaða um það hvort beinn eignarréttur yfir þrætusvæðinu hafi haldist ræðst af heildarmati á heimildum um eignarréttindi yfir Þóreyjartungum og inntaki þeirra, heimildum um nýtingu þeirra og fyrirliggjandi upplýsingum um legu, gróðurfar og hæð yfir sjávarmáli. Jafnframt hlýtur niðurstaðan að taka mið af því að hvaða leyti þeir þættir sem talið er að hafi skipt mestu máli um eignarréttarlega stöðu aðliggjandi landsvæða eigi einnig við um Þóreyjartungur. 40. Eignarheimild stefndu að því er varðar Þóreyjartungur er sem fyrr segir samþykkt hreppsnefnda Andakíls- og Lundarreykjadalshreppa 31. mars 1998 um stofnun stefndu og yfirlýsing hreppsnefndar Lundarreykjadalshrepps 2. apríl sama ár um framlag fjármuna og eignarlanda, þar á meðal Þóreyjartungna, til stofnunar stefndu. Í yfirlýsingunni er vísað til þess að Þóreyjartungur hafi verið keyptar af Reykholtskirkju með kaupsamningi 9. september 1895 og afsali 9. janúar 1896. Þar er Lundarreykjadalshreppi afsalað „til eignar og umráða afréttarlöndum Reykholtskirkju á Suðrfjalli, fyrir sunnan Flókadalsá, Þóreyjartungum, og landi við Reyðarvatn“. Um landamerki var í fyrrnefndri yfirlýsingu vísað til landamerkjabréfs 2. júlí 1923, þinglýstu 7. júlí 1924. Þar er lýst landamerkjum fyrir „Þóreyjartungum afréttarlandi Lundarreykjadalshrepps“. 41. Svo sem var gerð grein fyrir í lið 25 felur landamerkjabréf fyrir jörð í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða en landamerkjabréf fyrir afréttarlandi þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Um þetta vísast meðal annars til fyrrnefnds dóms Hæstaréttar í máli nr. 48/2004. 42. Í lið 22 er gerð grein fyrir að gengið hefur verið út frá því í dómum Hæstaréttar að líkur séu á að land sem samkvæmt fyrirliggjandi heimildum er eða hefur verið jörð eða hluti hennar sé háð beinum eignarrétti. Þekkt er að innan eignarlands jarðar getur verið heiðarland eða afréttarland sem einkum hefur nýst til beitar. Slík landsvæði liggja að jafnaði að öðru landi þeirrar jarðar sem þau tilheyra en þó eru dæmi þess að aðrar jarðir liggi á milli heimalands jarðar og heiðarlands sem engu að síður er talið tilheyra henni, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 448/2006. 43. Eins og fram kemur í lið 15 var gengið út frá því við samningu laga nr. 58/1998 að hugtakið afréttur yrði ekki notað sem lýsing á ákveðnu eignarformi lands heldur afnotaréttindum, til dæmis beitarréttindum. Afréttur sem áður telst hafa verið hluti af jörð getur samkvæmt framansögðu áfram verið undirorpinn beinum eignarrétti þótt hann hafi verið seldur eða komist með öðrum hætti undan jörð í hendur annars en eiganda jarðarinnar. 44. Það að Þóreyjartungum hefur í framangreindum heimildarbréfum stefndu, þar með talið landamerkjabréfi, verið lýst sem afréttarlandi og hafi allt frá því er Lundarreykjahreppur keypti þær af Reykholtskirkju í lok 19. aldar verið nýttar sem samnotaafréttur sker samkvæmt framansögðu ekki úr um hvort landsvæðið telst eignarland eða þjóðlenda. 45. Ekki liggja fyrir heimildir um að býli hafi verið reist í Þóreyjartungum og landsvæðið eins að það er afmarkað í máli þessu er að minnsta kosti ekki lengur hluti af sjálfstæðri jörð. Reynir því í málinu á hvort þau beinu eignarréttindi yfir Þóreyjartungum sem samkvæmt framansögðu stofnuðust við landnám teljast síðar hafa fallið niður eða hvort þetta heiðarland telst hafa verið hluti af jörðinni Hrísum og sé því enn undirorpið beinum eignarrétti á sama hátt og aðliggjandi landsvæði til norðurs og suðurs. Niðurstaða þar um ræðst af heildstæðu mati, annars vegar á eldri og yngri heimildum um tengsl jarðarinnar Hrísa og Þóreyjartungna og eignarréttarlegri stöðu jarðarinnar og þrætulandsins en hins vegar á líkum á viðhaldi eignarréttar með tilliti til eignarréttarlegrar stöðu aðliggjandi landsvæða sem sambærileg geta talist, til dæmis hvað varðar legu, hæð yfir sjávarmáli og gróðurfar. 46. Enda þótt gjalda megi varhug við að gefa fornum einhliða heimildum, svo sem máldögum, lögfestum og vísitasíum, sem ætlað hefur verið að styrkja tilkall kirkna til eignarréttinda mikið vægi við þetta heildstæða mat geta þær eigi að síður veitt mikilsverðar vísbendingar um legu og afmörkun jarða og annarra landsvæða til forna og nýtingu þeirra. Á þetta því frekar við sem þessar fornu heimildir eru fleiri, einkum ef þær mynda tímalega samfellu og samrýmast yngri heimildum um sömu atriði. 47. Afstaða Þóreyjartungna til jarðarinnar Hrísa er þannig að þær liggja austan við land Hrísa, ofar í landinu. Flókadalsá afmarkar Þóreyjartungur til norðurs frá upptökum en áin tekur skarpan sveig til suðvesturs þegar kemur að landi Hrísa og rennur síðar á kafla til suðurs. Á þeim kafla sem áin rennur í suðvestur og síðan í suður skiptir hún löndum milli Hrísa og Þóreyjartungna. Eftir að Syðri-Sandfellskvísl, sem afmarkar Þóreyjartungur til suðurs, sameinast Flókadalsá rennur síðarnefnda áin til vesturs og skiptir eftir það löndum milli Hrísa og Lundarjarða. Óumdeilt er í málinu að þar sem Flókadalsá skiptir löndum milli Hrísa og Þóreyjartungna er áin greiðfær bæði mönnum og skepnum. Samkvæmt framansögðu er landfræðileg lega Þóreyjartungna gagnvart jörðinni Hrísum sambærileg og Oddsstaðatungu gagnvart Oddsstaðajörðum og Lundartungu gagnvart Lundarjörðum þótt síðastnefndu landsvæðin liggi saman á mjög stuttum kafla. Öll liggja þessi heiðarlönd nema stöku fell tiltölulega lágt yfir sjávarmáli eða í um 200 metra hæð. 48. Áður en málið var flutt fyrir Hæstarétti var dómendum, ásamt lögmönnum málsaðila og leiðsögumanni, flogið í þyrlu yfir jörðina Hrísa, Þóreyjartungur, Oddsstaðatungu, Lundartungu og nágrenni. Enginn vafi er á að Þóreyjartungur skera sig að engu leyti úr í samanburði við landsvæðin norðan við svo og Oddsstaðatungu og Lundartungu að því er varðar legu, gróðurfar og hæð yfir sjávarmál. 49. Fyrir liggur að áfrýjandi gerði ekki kröfu fyrir óbyggðanefnd um að landsvæðið norður af Þóreyjartungum teldist þjóðlenda og telst það til eignarlands jarðanna Steindórsstaða og Búrfells. Áfrýjandi gerði hins vegar kröfu um að Lundartunga og Oddsstaðatunga teldust þjóðlendur en óbyggðanefnd komst að þeirri niðurstöðu að þær væru eignarlönd. Samkvæmt þessum niðurstöðum mynda Þóreyjartungur hins vegar afgerandi totu eða sneið til vesturs, í átt til byggðar, á þjóðlendulínunni í ofanverðum Borgarfirði. 50. Af Landnámu verður ráðið að jörðin Hrísar hafi verið sjálfstæð landnámsjörð og ekki innan landnáms Björns gullbera sem var sunnan Flókadalsár. Þóreyjartungur liggja hins vegar að öllu leyti austan og sunnan Flókadalsár en Syðri-Sandfellskvísl skilur þær frá Lundartungu sem ágreiningslaust er að hafi verið innan landsnáms Björns gullbera. Af Landnámu verður helst dregin sú ályktun að Þóreyjartungur hafi upphaflega verið hluti af hinu víðfeðma landnámi Skalla-Gríms en hann er í Sturlubók sagður hafa gefið öðrum landsvæði úr því. Sumir þeirra eru nefndir til sögunnar sem sjálfstæðir landnámsmenn í öðrum gerðum Landnámu. Þótt Þórðarbók Landnámu veiti vísbendingu um að Þóreyjartungur hafi verið innan landnáms Björns gullbera er þar einnig lýst landnámi annarra manna sem allt eins geta hafa náð yfir þær að hluta eða öllu leyti. 51. Í þeim úrskurði óbyggðanefndar sem hér er til endurskoðunar er vísað til máldaga og lögfesta Reykholtskirkju allt frá því á 12. öld, svo og samantektar Þorsteins Þorsteinssonar á Skálpastöðum þar sem vísað er til slíkra heimilda. Málsaðilar hafa hins vegar túlkað orðalag þessara gagna og þýðingu þess sem þar er látið ósagt með mismunandi hætti. Á þessum heimildum verður byggt að því leyti sem óbyggðanefnd vísar til þeirra beint eða óbeint. 52. Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til þess að í máldögum Reykholtskirkju frá árunum 1185 og 1224 sé talin upp meðal eigna og ítaka kirkjunnar tveggja mánaða beit í Faxadal sem talin er hafa verið innan núverandi landamerkja Hrísa. Í framangreindri samantekt Þorsteins Þorsteinssonar er vísað til þess að í Reykholtsmáldaga frá árinu 1358 sé þess getið að kirkjan eigi hálfa jörðina Hrísa en eiganda hins helmingsins ekki getið. Muni þetta vera elsta heimildin um beinan eignarrétt Reykholtskirkju að jörðinni Hrísum. Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til þess að í máldögum kirkjunnar frá árunum 1358, 1397 og 1478 komi fram að jörðinni tilheyri hálf jörðin Hrísar og einnig talin upp beit í Faxadal. Í þessum máldögum sé Þóreyjartungna ekki getið sérstaklega. Í fyrrnefndri samantekt er vísað til þess að í máldaga frá árinu 1553 sé Bæjarkirkja talin eigandi Hrísa að hálfu á móti Reykholtskirkju og að ekki finnist eldri heimildir þar um. Samkvæmt þessum heimildum hefur Reykholtskirkja átt beitarítak í landi Hrísa að minnsta kosti frá því á 12. öld og beinan eignarrétt að hálfri jörðinni að minnsta kosti frá því um miðja 14. öld. 53. Í lögfestu Halldórs Jónssonar um eignir Reykholtskirkju frá árinu 1668 lögfestir hann kirkjunni í áttundu grein „halfa jordina Hrys i flocka dal, med ollum halfum londum Þoreÿartungum og Saudatungum, þar med tveggia manada beit i faxadal er kyrckjann a Sinnar og Bæjar kyrckiu jord, Hrysa jord“. Lögfestan var lesin upp á manntalsþingum sama ár og aftur árin 1678, 1686 og 1699. Efnislega sama tilgreining kemur fram í lögfestum Halldórs Hannessonar fyrir Reykholtskirkju frá árinu 1709 sem lesin var upp á manntalsþingum sama ár og aftur árið 1730. 54. Nokkuð annað orðalag er að finna í lögfestu Finns Jónssonar fyrir Reykholtskirkju frá árinu 1739 en hún var lesin upp á manntalsþingum það ár og aftur árið 1743. Þar bregður svo við að jarðir kirkjunnar eru tilgreindar í sjö liðum, þar á meðal hálf jörðin Hrísar. Meðal annarra eigna og ítaka kirkjunnar er hins vegar í áttunda lið lögfest „Tveggia mänada beit ollum peninge i faxadal þöreyjartungur og Saudatungur“. 55. Í úrskurði óbyggðanefndar segir að í biskupsvísitasíu Reykholtskirkju frá 31. júlí 1827 sé hálf jörðin Hrísar talin upp meðal jarðeigna kirkjunnar. Þar er getið tveggja mánaða beitar í Faxadal en ekki minnst á Þóreyjartungur. 56. Í lögfestu Þorsteins Helgasonar fyrir Reykholt frá árinu 1837 segir í áttunda lið að lögfest sé kirkjujörðin Hrís í Flókadal sem hálf sé eign Reykholtskirkju. Í níunda lið segir: „Loksins lögfesti eptirfylgiandi útlönd egnir og itök kyrkjunnar í Reikholti. Tveggja mánadabeit öllum peníngi í faxadal er kyrkjan á í sínu Og Bæjarkyrkju landi að Hrísum, þá Saudatungur og Þóreyartungur allar; en þad eru Þóreyjartungur, er liggja millum Sandfellskvísla, framum Sandfell, og framí Saudabrekku fyrir vestan Fantófell og ad Flókadalsá á nordurhlid.“ 57. Í vísitasíu fyrir kirkjuna að Reykholti frá 21. júlí 1869 er vísað til fyrrnefndrar biskupsvísitasíu frá 1827 hvað varðar eignir og ítök kirkjunnar. Þar er jafnframt ritað: „einungis skal því viðbætt (að kirkjan á lönd) að kirkjan á og hefur lengi haft í hefðarhaldi land við Reiðarvatn [Reiðarvatn úti á spássíu] austan frá Drangshlíð og út um Fossárflóa og Saudatungur og Þóreyjartungur.” 58. Um staðsetningu Sauðatungna, sem getið er um í flestum framangreindum heimildum, er nú ekkert vitað fyrir víst enda örnefnið ekki lengur þekkt. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti töldu málflytjendur beggja málsaðila líklegast að þær hefðu verið einhver hluti af syðri Þóreyjartungu. 59. Við túlkun á efni framangreindra lögfesta frá árinu 1668 til ársins 1730 er fyrst að nefna að þar er Reykholtskirkja sögð eiga hálfa jörðina Hrísa í Flókadal með öllum hálfum löndum Þóreyjartungum og Sauðatungum. Þóreyjartungur eru á þessu árabili taldar upp í sama lið lögfestanna og jörðin Hrísar sem bendir til náinna tengsla þar á milli. Þóreyjartungur og Sauðatungur eru jafnframt taldar upp sem eignarland en ekki sem beitarítak eins og gert er um Faxadal. Þá er sérstaklega til þess að líta að eignarhlutfall kirkjunnar á þessum tíma er hið sama í jörðinni Hrísum og Þóreyjartungum. Þótt engar heimildir hafi fundist um hvernig Reykholtskirkja eignaðist hálfa jörðina Hrísa og sama hlut í Þóreyjartungum veita þessar lögfestur sterka vísbendingu um að eignarhald kirkjunnar á Þóreyjartungum hafi komið til samhliða eða að minnsta kosti tengst eignarhaldi á hálfri jörðinni Hrísum. 60. Enda þótt ekki sé beinlínis tekið fram í framangreindum lögfestum að Þóreyjartungur séu hluti af jörðinni Hrísum bendir orðalag þeirra, þegar það er skoðað í heild sinni, frekar til þess að svo hafi verið talið en að litið hafi verið á heiðarlandið sem sérstakt afmarkað landsvæði án tengsla við Hrísa. Er þá til þess að líta annars vegar að merkjum Hrísa er ekki lýst sérstaklega og hins vegar að Þóreyjartungur eru skýrt landfræðilega afmarkaðar til norðurs og suðurs og heiti þeirra og lega augljóslega þekkt á þeim slóðum. 61. Orðalag lögfestunnar frá árinu 1739 er ekki eins afdráttarlaust og í fyrri lögfestum þar sem Þóreyjartungum er ekki lýst með Hrísum heldur öðrum eignum og ítökum Reykholtskirkju. Þóreyjartungum er þó ekki lýst sem beitarítaki en í fyrsta sinn eru þær allar taldar meðal eigna og ítaka kirkjunnar. Ekki verður dregin sú ályktun af þessari heimild að eðli eignarhalds kirkjunnar hafi breyst þótt Þóreyjartungum hafi ekki lengur verið lýst í beinum tengslum við jörðina Hrísa heldur er skýringanna frekar að leita í því að eignarhlutfall kirkjunnar í þessu heiðarlandi hafi þá verið orðið annað en í öðru landi jarðarinnar Hrísa. Ekki hafa fundist heimildir um hvernig Reykholtskirkja eignaðist Þóreyjartungur allar. 62. Eignarhaldi Reykholtskirkju á jörðinni Hrísum og Þóreyjartungum er lýst með svipuðum hætti í lögfestunni frá árinu 1837 og í þeirri frá árinu 1739. Þær breytingar eru þó á lýsingunni að landsvæðið Þóreyjartungur er sérstaklega afmarkað eins og fyrr greinir. 63. Fyrir liggur að Þóreyjartungna var ekki getið í máldögum Reykholtskirkju frá árunum 1358, 1397, 1478 og 1553 en þar kom hins vegar fram að kirkjunni tilheyri hálf jörðin Hrísar og beit í Faxadal. Þegar þýðing þessa er metin verður þó ekki hjá því komist að líta til fyrstu heimildar sem vitað er um þar sem Þóreyjartungna er getið en það var í máldaga Reykholtskirkju frá árinu 1392 sem varðveist hefur í skinnhandriti. Þar er að finna vitnisburð Einars þrasa um landamerki Þrándarholts og Hæls í Flókadal. Þar segir: „oc þat hyggia menn ath hris eighi allt firir svnnan grönahlid. suo ath hris eigi fyrer nordan þa kvisl er fellr næst savda tvngum oc fram j flokadals æ og ath hris eighi allar þoreyiar tvnghvr.” Fyrr í lýsingu á vitnisburði Einars þrasa er vísað til örnefnisins Klofasteina sem merkja milli Þrándarholts, Hæls og Hrísa en það örnefni er enn þekkt sem merki milli jarða. Grænahlíð er ekki lengur þekkt sem örnefni en Grænakinn er á hinn bóginn þekkt örnefni á sömu slóðum og Grænuhlíð er lýst. Þá virðist sú kvísl sem lýst er að falli í Flókadalsá vart geta verið önnur en Syðri-Sandfellskvísl. Það eykur verulega gildi þessarar heimildar að vitnisburðurinn sem þar er að finna samrýmist vel yngri heimildum um landamerki á svæðinu og síðari afmörkun Þóreyjartungna. Þá er orðalagið „ath hris eighi allar þoreyiar tvnghvr” nákvæmlega það sama og notað er á tveimur öðrum stöðum í vitnisburðinum um afmörkun á landi Hrísa. Þótt skýra beri tungutak 14. aldar manna um eignarrétt af varfærni má helst álykta að Einar þrasi hafi verið að lýsa Þóreyjartungum sem hluta af landi jarðarinnar Hrísa fremur en sem afmörkuðu landsvæði í einhvers konar öðrum eignarréttarlegum tengslum við jörðina. Þessi heimild þykir því styrkja þann málatilbúnað stefndu að þegar í lok 14. aldar hafi verið litið á Þóreyjartungur sem hluta af jörðinni Hrísum og eignarhald Reykholtskirkju yfir landsvæðinu þá tengst eignarhaldi kirkjunnar á hálfri jörðinni. 64. Fyrir liggur að eignarhald Reykholtskirkju á hálfri jörðinni Hrísum var samfellt allt til þess að kirkjan seldi eignarhlut sinn 17. mars 1914. Áður hafði kirkjan hins vegar sem fyrr segir selt Þóreyjartungur árið 1895. Bæjarkirkja seldi sinn hluta í jörðinni Hrísum árið 1930. Af kaupum Lundarreykjadalshrepps á Þóreyjartungum árið 1895 af Reykholtskirkju verður ráðið að á þeim tíma hafi ekki verið efast um eignarréttindi kirkjunnar yfir landsvæðinu. Af samningnum verður ráðið að beitarréttur hafi á þeim tíma verið talinn tilheyra kirkjunni og landsvæðið því ekki verið samnotaafréttur. Sama ályktun verður dregin af þeim máldögum, lögfestum og vísitasíum sem vitnað er til í hinum áfrýjaða dómi. Þótt þessar heimildir stafi frá þeim sem fóru með eignir Reykholtskirkju og sönnunargildi þeirra markist af því benda þær til þess að réttindi Reykholtskirkju til nýtingar Þóreyjartungna og útilokun annarra hafi ekki verið dregin í efa af eigendum nágrannajarða. Sú undantekning er þar á að þegar Þorsteinn Helgason sóknarprestur í Reykholti lögfesti Reykholtskirkju allar Þóreyjartungur á manntalsþingsrétti að Lundi 20. maí 1837 taldi presturinn í Lundi að Lundarkirkja ætti syðri hluta Þóreyjartungna. Því mótmælti Reykholtsprestur af mikilli hörku með vísan til eldri heimilda og fyrirbauð Lundarpresti og hans leiguliðum, að viðlagðri sekt, að nota þetta eða annað land Reykholtskirkju nema með hans leyfi. Ekki virðast hafa orðið önnur eftirmál af þessu en að nafnið Þrætutunga festist við syðri hluta Þóreyjartungna. Af framangreindum heimildum verður ráðið að ekkert bendi til annars en að Þóreyjartungur hafi um langt skeið verið nýttar sem séreignarafréttur Reykholtskirkju og að öðrum hafi verið meinaðar nytjar án leyfis. 65. Framangreindar heimildir þykja veita því næga stoð að Þóreyjartungur hafi lengst af verið hluti af jörðinni Hrísum og að beinn eignarréttur hafi ekki fallið niður þótt landsvæðið hafi í lok 19. aldar verið selt Lundarreykjadalshreppi og síðar stefndu. 66. Með vísan til gagnstæðrar niðurstöðu óbyggðanefndar um beinan eignarrétt að Þóreyjartungum annars vegar og Lundartungu og Oddsstaðatungu hins vegar er rétt að bera saman þá þætti sem helst þykja skipta máli varðandi eignarréttarlega stöðu landsvæðanna. 67. Skal þá nefna þætti sem telja verður að greini Þóreyjartungur frá öðru eða báðum umræddum heiðarlöndum í eignarréttarlegu tilliti. Í fyrsta lagi eru heimildir ekki jafn skýrar um hvaða landnámi Þóreyjartungur tilheyrðu og hvað varðar Lundartungu og Oddsstaðatungu. Samkvæmt framansögðu er þó líklegast að öll landsvæðin hafi verið innan upphaflegs landnáms Skalla-Gríms. Í öðru lagi eru eignarréttarleg tengsl jarðarinnar Hrísa og Þóreyjartungna ekki jafn skýr og samfelld og jarðarinnar Lundar og Lundartungu annars vegar og jarðarinnar Oddsstaða og Oddsstaðatungu hins vegar að því leyti að á löngu tímabili átti Reykholtskirkja hálfa jörðina Hrísa en allar Þóreyjartungur. Í þriðja lagi var Þóreyjartungna jafnan getið sérstaklega í eldri heimildum þótt yfirleitt hafi það verið í tengslum við jörðina Hrísa en jörðinni Oddsstöðum og landamerkjum hennar hins vegar að jafnaði lýst þannig að landsvæðið Oddsstaðatunga taldist í raun hluti af henni. Í fjórða lagi hafði verið gert landamerkjabréf fyrir jörðina Oddsstaði 29. maí 1885 áður en Oddsstaðatunga var seld frá Oddsstöðum árið 1930 og náði lýsing á merkjum einnig yfir Oddsstaðatungu án þess að hún hafi sérstaklega verið þar tilgreind eða afmörkuð. 68. Á hinn bóginn eru þættir sem þessi heiðarlönd eiga sameiginlega í eignarréttarlegu tilliti eftirfarandi: Í fyrsta lagi eru landsvæðin afar einsleit hvað varðar landfræðilega legu, gróðurfar og hæð yfir sjávarmáli. Í öðru lagi hafa landsvæðin svo lengi sem elstu heimildir greina verið nýtt sem séreignarafréttir sem ekki hafa staðið öðrum en eigendum þeirra til afnota án leyfis. Í þriðja lagi rofnuðu eignarréttarleg tengsl milli landsvæðanna og þeirra jarða sem landsvæðin tengdust ekki fyrr en í lok 19. og byrjun 20. aldar og þau þá gerð að samnotaafréttum. Í fjórða lagi hefur meðferð eigenda landsvæðanna verið án athugasemda yfirvalda og nágranna og að mestu ágreiningslaus. Í fimmta lagi fjalla heimildir um öll landsvæðin fyrst og fremst um beit og önnur þrengri og sambærileg not svo sem selstöðu sem heimildir eru um á þeim öllum. Í sjötta lagi var landsvæðanna ekki getið sérstaklega í lýsingu á jörðunum Hrísum, Lundi og Oddsstöðum í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1708 en takmarkaðar ályktanir verða af því dregnar. Í sjöunda lagi var Lundartungu lýst með svipuðum hætti í eldri heimildum í tengslum við lýsingu á Lundi eða Lundarkirkju og Þóreyjartungum var lýst í tengslum við lýsingu á Hrísum. Lundartungu eða Lundarheiði var þannig ekki getið sérstaklega í eldri heimildum um jörðina Lund og Lundarkirkju en svæðisins fyrst getið í vísitasíu fyrir Lund frá árinu 1647 og staðsetningu hennar þar fyrst lýst. Í lögfestum Lundar frá árunum 1665, 1671, 1679, 1694 og 1703 var Lundarheiði tilgreind með svipuðum hætti gagnvart jörðinni Lundi og Þóreyjartungur gagnvart jörðinni Hrísum. Þannig var Lundarheiði lögfest Lundi sérstaklega í lögfestu frá árinu 1694 og í vísitasíum fyrir Lundarkirkju frá árunum 1827 og 1868 er landamerkjum Lundar lýst annars vegar og Lundarheiðar hins vegar gagnvart öðrum landsvæðum. Í áttunda lagi hafði hvorki verið gert landamerkjabréf fyrir Hrísa né Lund áður en Þóreyjartungur voru seldar árið 1895 og Lundartungur árið 1910, gagnstætt við Oddsstaði þegar Oddsstaðatunga var seld árið 1930. 69. Í úrskurði óbyggðanefndar sem að hluta til er til endurskoðunar í máli þessu segir í niðurstöðuköflum um Lundartungu og Oddsstaðatungu, sem hér eru ekki til endurskoðunar, að eignarlönd liggi að þessum landsvæðum til norðvesturs, vesturs og suðurs. Þá segir þar að líkur á stofnun og tilvist beins eignarréttar aukist sé tekið tillit til eignarréttarlegrar stöðu aðliggjandi landsvæða og að í fyrirliggjandi dómum og úrskurðum hafi atriði af þessu tagi í mörgum tilvikum legið til grundvallar niðurstöðu um eignarland. Þessar ályktanir óbyggðanefndar eru í samræmi við niðurstöður í 18. lið hér að framan og sækja meðal annars stoð í fyrrnefnda dóma Hæstaréttar í málum nr. 48/2004, 448/2006, 536/2006 og 24/2007. 70. Fyrir liggur sú niðurstaða óbyggðanefndar hvað varðar Lundartungu og Oddsstaðatungu að hvorki staðhættir, gróðurfar né heimildir um réttindi eða nýtingu mæltu gegn því að umrædd landsvæði gætu hafa verið hluti af jörð eða jörðum allt frá öndverðu og að þessi landsvæði væru undirorpin beinum eignarrétti. Samkvæmt framansögðu eiga Þóreyjartungur og Lundartunga að nær öllu leyti og Oddsstaðatunga að flestu leyti þá þætti sameignlega sem mestu máli skipta við afmörkun á landsvæðum sem teljast annars vegar undirorpin beinum eignarrétti og hins vegar þjóðlendum. Ekkert er þannig fram komið í málinu sem getur stutt að munur verði gerður á Þóreyjartungum og aðliggjandi landsvæðum. Þegar sú aðstaða sem lýst hefur verið er virt í heild sinni standa ekki rök til annars en að niðurstaðan verði sú sama að því er varðar eignarréttarlega stöðu Þóreyjartungna, Lundartungu og Oddsstaðatungu svo og aðliggjandi landsvæða til norðurs, það er að Þóreyjartungur teljist eignarland stefndu. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms verður því staðfest. 71. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður en um gjafsóknarkostnað stefndu fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Dómur Landsréttar skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, Sjálfseignarstofnunarinnar Oks, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 2.500.000 krónur. Sératkvæði Benedikts Bogasonar og Bjargar Thorarensen 1. Við erum sammála lýsingu á ágreiningsefni málsins, málsatvikum og umfjöllun um lagagrundvöll í dómi meirihluta dómenda en ósammála niðurstöðunni af eftirfarandi ástæðum: 2. Af lýsingum í Landnámu er ekki fyllilega skýrt hvort það landsvæði sem ágreiningur er um og kallast Þóreyjartungur hafi í öndverðu verið numið og af hverjum. Ætla má að það hafi upprunalega verið hluti af hinu víðfeðma landnámi Skalla-Gríms í Borgarfirði, samkvæmt heimildum í Sturlubók og Þórðarbók Landnámu, en ekki liggur fyrir hvernig sjálfstæð landnám innan þess svæðis komu til. Þó segir einnig í Landnámu að Björn gullberi hafi numið Reykjardal milli Grímsár og Flókadalsár. Vafi leikur á hversu langt inn til landsins landnámið náði en með hliðsjón af þessari lýsingu verður að telja líklegt, eins og óbyggðanefnd lagði til grundvallar í úrskurði sínum í máli nr. 5/2014 hjá nefndinni, að landsvæði þetta hafi í öndverðu verið numið að minnsta kosti að hluta. Ætla verður að það hafi þá verið í landi Björns gullbera, svo sem ráðið verður af ofangreindri lýsingu Landnámu svo og þeirri lýsingu hennar að Flókadalsá hafi skilið á milli landa hans og jarðarinnar Hrísa. Samkvæmt þessu voru Þóreyjartungur ekki hluti af landnámsjörðinni Hrísum. Þvert á móti kemur fram í Sturlubók og Þórðarbók Landnámu að Flóki leysingi Ketils gufu hafi numið Flókadal allan á milli Flókadalsár og Geirsár. Sú lýsing getur ekki tekið til Þóreyjartungna enda liggur Geirsá norður og vestur af Hrísum. 3. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi er jarðarinnar Hrísa eða landsvæða innan hennar getið í máldögum Reykholtskirkju. Þannig er í máldögum kirkjunnar frá árunum 1185 og 1224 minnst á ítak kirkjunnar í Faxadal en hann er innan landamerkja Hrísa. Einnig kemur fram í máldaga kirkjunnar frá árinu 1358 að henni tilheyri hálf jörðin Hrísar og er þar jafnframt talin upp tveggja mánaða beit í Faxadal. Sama á við um máldaga kirkjunnar frá árunum 1397 og 1478. Þá segir í máldaga kirkjunnar frá því um 1570 að kirkjan eigi tveggja mánaða beit í Faxadal. Í þessum heimildum er aftur á móti hvergi vikið að Þóreyjartungum ef frá er talinn vitnisburður Einars þrasa um landamerki Þrándarholts og Hæls í Flókadal, sem fram kemur í máldaga kirkjunnar frá árinu 1392, en þar segir að „þat hyggia menn [...] ath hris eighi allar þoreyiar tvnghvr“. 4. Í lögfestu séra Halldórs Jónssonar um eignir Reykholtskirkju frá árinu 1668, sem lögð var fram í héraði, lögfestir hann kirkjunni „halfa jordina Hrys i flocka dal, med ollum halfum londum Þoreÿartungum og Saudatungum, þar med tveggia manada beit i faxadal er kyrckjann a Sinnar og Bæjar kyrckiu jord, Hrysa jord“. Í hinum áfrýjaða dómi eru jafnframt raktar síðari lögfestur frá árunum 1709, 1739 og 1837 og vísitasía frá árinu 1869 þar sem vikið er með svipuðu móti að jörðinni Hrísum og Þóreyjartungum. Aftur á móti er ekki vikið að Þóreyjartungum í biskupavísitasíu 1827 en tekið fram að hálf jörðin Hrísar sé meðal jarðeigna kirkjunnar og getið tveggja mánaða beitar í Faxadal. 5. Í málinu liggur ekki fyrir hvernig Reykholtskirkja eignaðist upphaflega hálfa jörðina Hrísa og sama hlutfall í Þóreyjartungum en samkvæmt máldaga frá árinu 1553 mun jörðin hafa verið í eigu Bæjarkirkju að hálfu. Ekki verður ráðið af þessum heimildum að Þóreyjartungur hafi verið hluti af jörðinni Hrísum enda eru tungurnar tilgreindar sérstaklega og í lögfestum allt frá árinu 1739 með öðrum eignum og ítökum Reykholtskirkju. Þá segir í vísitasíunni frá árinu 1869 að kirkjan hafi meðal annars haft Þóreyjartungur „í hefðarhaldi“. Enn fremur er til þess að líta að Þóreyjartungur eru að því er virðist að öllu leyti taldar til eigna og ítaka kirkjunnar í lögfestunni árið 1739 og aftur árið 1837 án þess að eignarhlutföll jarðarinnar Hrísa hafi breyst. Bendir þetta fremur til að Þóreyjartungur hafi verið sérstakt landsvæði og ekki hluti af jörðinni. Í því tilliti getur engu breytt máldaginn frá árinu 1392 með framburði Einars þrasa sem á sér ekki stoð í öðrum gögnum frá þessum tíma. 6. Við mat á þessum lögfestum og vísitasíum er þess að gæta að slík gögn eru einhliða og hafa ein og sér takmarkað sönnunargildi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 5. október 2006 í máli nr. 67/2006 og 26. september 2013 í máli nr. 413/2012. Á hinn bóginn geta slík einhliða gögn haft sönnunargildi um hið gagnstæða ef þau eru ekki afdráttarlaus eða misvísandi um eignarhaldið og benda til að sá réttur hafi verið takmarkaðri, eins og ráðið verður af þeim gögnum um Þóreyjartungur sem hér hafa verið rakin. 7. Jafnvel þótt litið verði svo á að hið umdeilda landsvæði hafi verið numið í öndverðu sem hluti af landnámsjörð Björns gullbera og að beinn eignarréttur hafi stofnast verður að leggja mat á hvort slíkur eignarréttur hafi flust til síðari rétthafa eða hvort þar hafi stofnast til óbeinna eignarréttinda þegar litið er til staðhátta og fyrirliggjandi heimilda um nýtingu landsins, sbr. einnig dóma Hæstaréttar 4. október 2007 í máli nr. 27/2007 og 27. september 2012 í máli nr. 350/2011. 8. Að því marki sem byggt verður á fyrrgreindum heimildum um afnot Þóreyjartungna frá 17. og fram á 21. öld fjalla þær um beit eða önnur þrengri og sambærileg not. Landsvæðið hefur sem fyrr segir almennt verið talið með öðrum eignum og ítökum Reykholtskirkju með réttindum til beitar en ekki sem hluti af Hrísum, hálfri eign Reykholtskirkju. Ekkert kemur fram í heimildum um að Þóreyjartungur hafi verið nýttar til annars en upprekstrar búfjár. Standa því engin viðhlítandi rök til annars en að líta svo á að réttindi Reykholtskirkju, á síðari stigum Lundarreykjar¬dalshrepps og nú stefnda, yfir þessu landi hafi verið fólgin í óbeinum eignarréttindum til hefðbundinna nota á því til upprekstrar og annars þess sem afréttir hafa í aldanna rás almennt verið hafðir til, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 10. nóvember 2016 í máli nr. 323/2016. 9. Við sölu Reykholtskirkju á landsvæðinu til Lundarreykjadalshrepps árið 1895 var vísað til Þóreyjartungna sem afréttarlanda Reykholtskirkju. Þá var landamerkjabréfi fyrir „Þóreyjartungum afréttarlandi Lundareykjardalshrepps“ þinglýst 7. júlí 1924. Eins og lýst er í atkvæði meirihluta dómenda felur landamerkjabréf jarðar í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða en landamerkjabréf fyrir afréttarlandi. Þarf engu að síður að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Er þess þá jafnframt að gæta að með því að gera landamerkjabréf var ekki einhliða hægt að auka við land eða annan rétt umfram það sem verið hafði, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004. Þegar gildi umrædds landamerkjabréfs fyrir afréttarlandið Þóreyjartungur er skoðað í ljósi fyrrgreindra heimilda um nám og nýtingu landsvæðisins frá alda öðli getur landamerkjabréfið ekki nægt til að sanna beinan eignarrétt stefndu að svæðinu, umfram afréttareign. Að þessu leyti greinir mál þetta sig í veigamiklum atriðum frá atvikum í dómi Hæstaréttar 16. maí 2007 í máli nr. 448/2006 sem meirihluti dómenda vísar í til stuðnings niðurstöðu sinni. Þar hafði heiðalandi sem ágreiningur stóð um verið lýst sem hluta af viðkomandi jörð í landamerkjabréfum allt frá árinu 1888 og gengið hafði dómur 18. júlí 1777 í Lögréttu um að landið hefði verið talið „fullkomin eign“ jarðarinnar. Loks var talið ljóst að landið hefði verið numið í öndverðu líkt og aðliggjandi lönd og óslitið frá landnámi verið háð beinum eignarrétti sem heiðaland jarðar. 10. Við tökum undir þá lýsingu í atkvæði meirihluta dómenda að niðurstaða um hvort landsvæði telst hafa verið numið í öndverðu og hvort það telst eignarland eða þjóðlenda geti meðal annars ráðist af samanburði við niðurstöður um aðliggjandi landsvæði sem telja verður sambærileg með tilliti til gróðurfars og hæðar yfir sjávarmáli. Þetta er þó aðeins einn af mörgum þáttum í heildarmati en kemur ekki í stað kröfu um að efnislega áþekkar heimildir séu til stuðnings eignarhaldi á samliggjandi landsvæðum. 11. Þegar litið er til aðliggjandi landsvæða, Lundartungu og Oddsstaðatungu, sem liggja sunnan Þóreyjartungna og talin voru eignarlönd í fyrrnefndum úrskurði óbyggðanefndar, sést að til grundvallar þeirri niðurstöðu lágu mun skýrari heimildir í samanburði við Þóreyjartungur, bæði um nám í öndverðu og þaðan í frá um óslitin og óumdeild tengsl þeirra sem hluta viðkomandi landsnámsjarða. Allt þetta landsvæði er vissulega áþekkt að gróðurfari og staðháttum sem rennir stoðum undir þá ályktun að Þóreyjartungur hafi verið numdar í upphafi. Þar sem ekki nýtur við styrkari heimilda um að Þóreyjartungur hafi upphaflega verið hluti af landnámsjörðinni Hrísum og beinn eignarréttur að landinu hafi með henni færst á hendur annarra geta áþekkir staðhættir þó ekki einir sér ráðið úrslitum til staðfestingar því að um eignarland stefndu sé að ræða. 12. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms teljum við að sýkna beri áfrýjanda af kröfu stefnda. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?Id=af71715c-0b1b-471e-996a-591392bda3af
Mál nr. 17/2021
Faðerni Börn Aðild Stjórnarskrá Mannréttindasáttmáli Evrópu Frávísun frá héraðsdómi
A og B kröfðust þess að viðurkennt yrði að C, sem er látinn, hafi verið faðir föður þeirra sem einnig er látinn. Ágreiningur í málinu laut að því hvort börn látins manns gætu haft uppi kröfu um viðurkenningu á faðerni hans með dómi þrátt fyrir fyrirmæli 1. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003 um að eingöngu barnið sjálft, móðir þess eða maður sem telur sig föður barns geti verið stefnendur faðernismáls. Í dómi Hæstaréttar kom fram að 1. mgr. 10. gr. barnalaga hefði að geyma sérreglu um aðild til sóknar í faðernismálum sem gengi framar ákvæðum almennra réttarfarslaga. Skýr vilji löggjafans stæði til þess að einskorða málsaðild í faðernismálum við þá aðila sem taldir væru í umræddu ákvæði og af þeim sökum væri ókleift annað en að skýra það með þeim hætti að þar væru taldir með tæmandi hætti þeir sem geti höfðað dómsmál um viðurkenningu á faðerni barns. Hæstiréttur taldi þann greinarmun sem gerður væri á málsaðild barns og foreldra í slíkum málum annars vegar og afkomendum og öðrum ættingjum barns hins vegar hvíla á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum um að vernda hagsmuni barnsins og því tengt réttindi foreldra þess, en ekki annarra ættingja. Voru hagsmunir A og B ekki taldir slíkir að fallast bæri á að víkja til hliðar 1. mgr. 10. gr. barnalaga vegna fyrirmæla 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þar sem í málinu reyndi á formreglur um aðild máls til sóknar var málinu vísað frá héraðsdómi án kröfu.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 2. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 21. apríl 2021. Þær krefjast þess að viðurkennt verði með dómi að C, sem er látinn, hafi verið faðir D sem einnig er látinn og var faðir áfrýjenda. Þá krefjast þær málskostnaðar fyrir héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti. 3. Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Ágreiningsefni 4. Í málinu er deilt um hvort áfrýjendur geta krafist viðurkenningar á að C, sem lést árið 2016, hafi verið faðir D föður þeirra, sem lést árið 2006, þrátt fyrir fyrirmæli 1. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003 um að aðild til sóknar í faðernismálum sé takmörkuð við barnið sjálft, móður eða mann sem telur sig föður barns. 5. Niðurstaða héraðsdóms varð á þann veg að ákvæði 1. mgr. 10. gr. barnalaga gæti ekki, vegna fyrirmæla 70. gr. stjórnarskrárinnar og þess megintilgangs reglna um feðrun barna að faðerni væri rétt skráð, staðið því í vegi að áfrýjendur fengju efnislega úrlausn um sakarefnið. Jafnframt var viðurkennt að C hafi verið faðir D. Í dómi Landsréttar var vísað til röksemda að baki ákvæðum barnalaga um aðild í faðernismálum um ríka hagsmuni barns af því að vera réttilega feðrað og njóta réttar til umgengni við foreldra sína auk fjárhagslegra hagsmuna. Þótt dómur í málinu gæti skotið stoðum undir tilkall áfrýjenda til arfs væru þeir menn sem málið hverfðist um allir látnir og hagsmunir áfrýjenda ekki sambærilegir við hagsmuni barns af því að fá dóm um faðerni sitt. Voru stefndu því sýknuð af kröfum áfrýjenda vegna aðildarskorts. 6. Áfrýjunarleyfi var veitt 20. apríl 2021 á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um aðildarreglu 1. mgr. 10. gr. barnalaga og hvort hún fari að þessu leyti í bága við 70. gr. stjórnarskrárinnar um rétt til að bera mál undir dómstóla. Málsatvik 7. Stefndu eru lögerfingjar C sem lést […] apríl 2016 en áfrýjendur krefjast viðurkenningar á að C hafi verið faðir D föður þeirra. Amma áfrýjenda, L, höfðaði mál 21. september 2016 til vefengingar á faðerni sonar síns, D sem fæddist 1954 og lést 2006. Lagði hún fram yfirlýsingu um að M, sem lést árið 2003 og hún var komin í sambúð með við fæðingu D, hefði ekki verið líffræðilegur faðir hans heldur C. Í tengslum við vefengingarmálið fór fram mannerfðafræðileg rannsókn sem leiddi í ljós að meira en 99% líkur væru á því að C hefði verið faðir D. Með héraðsdómi 11. apríl 2017 var viðurkennt að M hefði ekki verið faðir D. 8. L höfðaði í kjölfarið, 28. apríl 2017, faðernismál gegn lögerfingjum C til viðurkenningar á því að C hefði verið faðir D. L lést hins vegar tveimur dögum eftir málshöfðunina, […] apríl sama ár. Í úrskurði héraðsdóms var ekki fallist á að lagaskilyrði væru til að dánarbú L gæti tekið við aðild málsins til sóknar og var málinu vísað frá dómi 31. október 2017. Hæstiréttur staðfesti þann frávísunarúrskurð með dómi 7. desember sama ár í máli nr. 722/2017. 9. Í gögnum málsins kemur fram að bú C hafi verið tekið til opinberra skipta en skiptum er ólokið. Í kröfu sýslumannsins á Vesturlandi 19. desember 2017 um opinber skipti eru taldir upp lögerfingjar C sem eru systkini hans og systkinabörn. Tekið er fram að áfrýjendur í máli þessu hafi gefið sig fram og telji að faðir þeirra D hafi í raun verið sonur C og þær séu því lögerfingjar hans. Er þar jafnframt vísað til fyrrgreindrar niðurstöðu héraðsdóms 11. apríl 2017 og álitsgerðar vegna mannerfðafræðilegrar rannsóknar um að líkurnar á að C hafi verið faðir D séu meiri en 99%. Loks segir í kröfu um opinber skipti að eignir dánarbúsins nemi um 16,8 milljónum króna. 10. Áfrýjendur höfðuðu mál þetta á fyrri hluta árs 2018 gegn 16 lögerfingjum C og tóku sjö þeirra til varna og eru stefndu í máli þessu. Með úrskurði héraðsdóms 7. febrúar 2019 var málinu vísað frá dómi þar sem aðilar faðernismáls væru tæmandi taldir í 1. mgr. 10. gr. barnalaga. Áfrýjendur kærðu þann úrskurð til Landsréttar. Með úrskurði 9. apríl 2019 í máli nr. 149/2019 felldi Landsréttur úrskurð héraðsdóms úr gildi á þeim grundvelli að væri aðildarskortur fyrir hendi leiddi það til sýknu en ekki frávísunar máls, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Eins og áður greinir lauk nýrri meðferð málsins í héraði með dómi 11. nóvember 2019 þar sem sýknukröfu vegna aðildarskorts var hafnað og viðurkennt að C hefði verið faðir D. Stefndu áfrýjuðu dóminum til Landsréttar sem komst, sem fyrr segir, að öndverðri niðurstöðu. Niðurstaða 11. Kjarni ágreinings í máli þessu lýtur að því hvort börn látins manns geta haft uppi kröfu um viðurkenningu á faðerni hans með dómi þrátt fyrir fyrirmæli 1. mgr. 10. gr. barnalaga um að eingöngu barnið sjálft, móðir þess eða maður sem telur sig föður barns geti verið stefnendur faðernismáls. Auk tilgreiningar á því hverjir geta átt aðild til sóknar faðernismáls er þar tekið fram að hafi móðir barns höfðað mál en andast áður en því er lokið, geti sá sem tekur við forsjá þess haldið málinu áfram. 12. Í II. kafla barnalaga eru sérreglur um dómsmál til feðrunar barna, þar á meðal 10. gr. um málsaðild. Samkvæmt 12. gr. laganna sæta faðernismál almennri meðferð einkamála að því leyti sem ekki er á annan veg mælt í lögunum. Fram kemur í 15. gr. að dómari geti, samkvæmt kröfu, ákveðið með úrskurði að blóðrannsókn verði gerð á aðilum máls og barninu og enn fremur aðrar sérfræðilegar kannanir, þar á meðal mannerfðafræðilegar rannsóknir. Þá er tekið fram í 17. gr. laganna að maður skuli talinn faðir barns ef niðurstöður mannerfðafræðilegra rannsókna benda eindregið til að hann sé faðir þess. 13. Reglur barnalaga um aðild að faðernismálum eiga sér nokkra forsögu sem rakin er í hinum áfrýjaða dómi og þýðingu hefur fyrir skýringu þeirra. Álitaefni um hvort takmörkun á aðild til sóknar í slíkum málum samkvæmt eldri barnalögum nr. 20/1992 færi í bága við 70. gr. stjórnarskrárinnar kom til úrlausnar í dómi Hæstaréttar 18. desember 2000 í máli nr. 419/2000 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 4394. Samkvæmt 43. gr. eldri barnalaga gátu eingöngu móðir og barn höfðað faðernismál en sá sem taldi sig föður barns gat ekki átt aðild að slíku máli. Í dóminum var vísað til þess að í 70. gr. stjórnarskrárinnar fælist sjálfstæð regla um að menn skuli almennt eiga rétt á að bera mál undir dómstóla og yrði að skýra lagaákvæði sem takmörkuðu þann rétt í því ljósi. Fæli 43. gr. barnalaga eftir orðanna hljóðan í sér tálmun þess að sóknaraðili í málinu gæti leitað dómsviðurkenningar á að hann væri faðir umrædds barns. Yrði ekki ráðið af lögskýringargögnum að sú mismunun kynjanna sem birtist í því ákvæði byggðist á málefnalegum rökum er hnigu sérstaklega að því að vernda hagsmuni kvenna í þessu tilliti fremur en karla. Þá var litið til þess að mikilvægir þjóðfélagslegir hagsmunir væru fólgnir í að faðerni barna væri í ljós leitt og ákvarðað og ekki síst bæri að hafa í huga ríka hagsmuni barnsins sjálfs af því að vera réttilega feðrað. Nægði þar að nefna rétt barns til að njóta umgengni við foreldra sína og umsjár þeirra, auk fjárhagslegra hagsmuna sem þessu tengdust. Loks var vísað til lögskýringar¬gagna um að ætlunin með faðernismálum væri að leita sannleikans um hver væri faðir barns. Þar væri ekki síst hagur og heill barnsins í húfi og réttarfarsreglum yrði að haga svo að þær þjónuðu þeim tilgangi sem að væri stefnt um könnun á faðerni barns. Væri í þessu ljósi ekki unnt að fallast á að nægar málefnalegar forsendur stæðu til þeirrar mismununar sem birtist í reglum barnalaga um málsaðild í faðernismálum. Með vísan til 70. gr. stjórnarskrárinnar var því ekki talið að fyrirmæli þágildandi 43. barnalaga gætu staðið í vegi fyrir því að sóknaraðili fengi efnisúrlausn dómstóla um kröfu sína. 14. Í tilefni af þessum dómi Hæstaréttar voru reglur um málsaðild í faðernismálum teknar til ítarlegrar endurskoðunar í frumvarpi til barnalaga sem varð að núgildandi lögum og lagt mat á þá hagsmuni sem slíkum reglum væri ætlað að vernda. Í athugasemdum um helstu nýmæli frumvarpsins var vísað til framangreinds dóms um að takmarkanir eldri barnalaga á sóknaraðild í faðernismálum brytu gegn 70. gr. stjórnarskrárinnar. Í því ljósi svo og sjónarmiða sem reifuð voru í frumvarpinu um rétt barns til að þekkja báða foreldra sína, svo sem mælt væri fyrir um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var lögð til sú breyting á reglum um aðild að faðernismálum að maður sem telur sig föður barns geti höfðað faðernismál. Einnig var tekið fram að þetta ákvæði frumvarpsins væri í samræmi við meginreglur sérfræðinganefndar Evrópuráðsins um lagalega stöðu barnsins. Var viðurkenning á rétti manns sem telur sig föður barns til að höfða faðernismál talin fallin til að styrkja þau réttindi barns til að þekkja báða foreldra sína og rétti þess til að njóta samvista við þá. Í frumvarpinu voru einnig rakin sjónarmið um mikilvægi þess að sporna við því að hinar nýju aðildarreglur sem opnuðu fyrir málshöfðun þess sem teldi sig föður barns gæfu tækifæri til tilhæfulausra málshöfðana. Í athugasemdum við 10. gr. frumvarpsins komu fram frekari skýringar á markmiðum þess nýmælis að maður sem teldi sig föður barns gæti átt aðild til sóknar. Tekið var fram að barnið væri sett í öndvegi og lögð áhersla á að það væru fyrst og fremst hagsmunir þess sem mörkuðu form og efni aðildarreglnanna, eins og annarra reglna barnalaga. 15. Áfrýjendur í máli þessu telja sig hafa lögvarða hagsmuni af því að fá staðfest með dómi að C hafi verið faðir föður þeirra og að slík skráning sé rétt. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 hafi þær almenna heimild til að leita viðurkenningar¬dóms um kröfur sínar sem 10. gr. barnalaga fái ekki breytt og ekki sé hægt að gagnálykta að aðrir en þeir sem taldir eru í 1. mgr. 10. gr. geti ekki átt aðild. Um sé að ræða viðurkenningarmál um faðerni á grundvelli almennra reglna en ekki samkvæmt barnalögum. 16. Ekki verður fallist á framangreinda málsástæðu áfrýjenda, enda geymir umrætt ákvæði barnalaga sérreglu um aðild til sóknar í faðernismálum sem gengur framar ákvæðum almennra réttarfarslaga og hefur um langt skeið verið í lögum. Auk þess er tekið fram í 12. gr. barnalaga að faðernismál sæti almennri meðferð einkamála að því leyti sem ekki er á annan veg mælt í lögunum, en dæmi slíks fráviks frá almennum reglum er einmitt í 10. gr. þeirra. Ef sérreglur barnalaga um málsaðild í faðernismálum gengju ekki framar almennum fyrirmælum laga nr. 91/1991 um viðurkenningarmál væri tilvist slíkra reglna óþörf. Yrði þá jafnframt að engu það markmið fyrrgreindu laganna að tryggja hagsmuni barns og eftir atvikum foreldra í þessu tilliti. Engin mörk væru þá sett heimildum manna til að höfða faðernismál þegar bæði barn og foreldrar eru látnir. Til viðbótar þessu stendur skýr vilji löggjafans til að einskorða málsaðild í faðernismálum við þá aðila sem tilgreindir eru í 1. mgr. 10. gr. barnalaga svo sem fram kom í þeim lögskýringargögnum sem áður voru reifuð. Af þessu verður einnig ályktað að réttur aðila til sóknar í slíkum málum sé persónubundinn og færist hvorki á hendur dánarbúi né erfist við andlát hans. Verður sú niðurstaða einnig leidd af fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 722/2017 þar sem meðal annars var tekið fram að sóknaraðilinn, dánarbú L, hefði ekki fært nein haldbær rök fyrir því að lög gætu staðið til þess að búið héldi áfram rekstri málsins eftir andlát hennar eða aðrir gætu tekið við rekstri þess. Að öllu framangreindu virtu er ókleift annað en að skýra 10. gr. barnalaga með þeim hætti að þar séu taldir með tæmandi hætti þeir sem geti höfðað dómsmál um viðurkenningu á faðerni barns. 17. Að þessu frágengnu þarf að skera úr um hvort fyrirmæli 1. mgr. 10. gr. barnalaga um aðild til sóknar í faðernismálum eru í andstöðu við stjórnarskrárvernduð mannréttindi áfrýjenda þannig að láta verði hjá líða að beita hinu setta lagaákvæði. Áfrýjendur vísa til grundvallarmannréttinda um aðgengi að dómstólum og réttar til að fá úrlausn um réttindi sín samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt þeirri grein ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir dómstólum og hefur ákvæðið verið skýrt í ljósi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Hefur réttur þessi ekki verið talinn svo fortakslaus að honum verði ekki settar neinar skorður. Slíkar takmarkanir verða þó að hvíla á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum og hvorki fela í sér mismunun sem fari í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar né önnur grundvallarréttindi, svo sem staðfest var í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 419/2000. 18. Þegar lagt er mat á þær forsendur sem reglur barnalaga um málsaðild í faðernismálum hvíla á kemur glögglega í ljós að hagsmunir barnsins eru þar í fyrirrúmi eins og skilmerkilega er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Reglurnar byggðust upphaflega á því að eingöngu móðir og barn hefðu ákvörðunarvald um höfðun faðernismáls, ekki síst við aðstæður þar sem barn og móðir hefðu myndað fjölskyldutengsl með öðrum einstaklingi, og einnig að tryggja þyrfti friðhelgi þeirra gagnvart tilhæfulausum málsóknum. Þær aðstæður sem eru uppi í þessu máli eru í veigamiklum atriðum ólíkar þeim sem voru í máli nr. 419/2000. Sá greinarmunur sem gerður er á málsaðild barns og foreldra í faðernismálum annars vegar og afkomendum eða öðrum ættingjum barns hins vegar hvílir á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum og hnígur sérstaklega að því að vernda hagsmuni barnsins og því tengt réttindi foreldra þess, en ekki annarra ættingja. 19. Réttur barns til að þekkja báða foreldra sína nýtur verndar 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Þegar einstaklingur kemst á fullorðinsár telst réttur hans til að þekkja líffræðilegan uppruna sinn og rétt faðerni áfram til mikilvægra persónulegra réttinda hans og er jafnframt þáttur í einkalífi hans sem nýtur verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Því er rökrétt að sóknaraðild barns að faðernismálum haldist eftir að einstaklingur nær 18 ára aldri. Við meðferð slíks máls er einnig unnt að krefjast mannerfðafræðilegrar rannsóknar til að skera úr um faðerni samkvæmt 15. gr. barnalaga, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 18. janúar 2017 í máli nr. 866/2016. Einnig ber að líta til sjálfsákvörðunarréttar einstaklings um hvort hann gerir reka að því að höfða mál til að fá faðerni sitt staðfest að lögum. Það undirstrikar einnig persónubundið eðli þessa réttar barns að hann færist ekki á hendur annarra eftir andlát. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram að áfrýjendum og D föður þeirra hefði verið kunnugt um að hann væri ekki sonur M heldur C. Það hafi almennt verið vitað í fjölskyldunni og jafnframt að áfrýjendur hafi þekkt til C. Af því sést að faðir áfrýjenda nýtti sér ekki þann rétt að höfða mál til að leiða í ljós faðerni sitt. 20. Áfrýjendur hafa ekki fært skýr rök fyrir því í hverju hinir lögmætu hagsmunir þeirra eru fólgnir en vísa almennum orðum til réttar sem þær eigi að njóta sem barnabörn til að dæmt verði um réttindi látins föður þeirra auk þess sem borgarar hafi hagsmuni af því að fá skorið úr um ætterni sitt. Þeim er þó í reynd kunnugt um ætterni sitt vegna þeirrar mannerfðafræðilegu rannsóknar sem fram fór í tengslum við vefengingarmál um faðerni föður þeirra. Þannig verður ekki séð að hagsmunir þeirra lúti að þörf til að fá upplýsingar um uppruna sinn eða tengist á annan hátt stjórnarskrárverndaðri friðhelgi einkalífs þeirra eða fjölskyldu. 21. Af gögnum málsins verður ráðið að einu hagsmunir áfrýjenda af því að fá viðurkenningu á faðerni látins föður síns séu að þær hyggist reisa tilkall til arfs úr dánarbúi C á dómi þar um. Arfstilkall er ekki þáttur í þeim réttindum barns sem lýst er í barnalögum þótt faðernisviðurkenning samkvæmt lögunum renni stoðum undir kröfu um arf samkvæmt ákvæðum erfðalaga nr. 8/1962. Þótt þessir hagsmunir búi að baki kröfu um faðernisviðurkenningu verður í ljósi framangreindra sjónarmiða um markmið aðildarreglna barnalaga í faðernismálum, sem löggjafinn hefur tekið skýra afstöðu til, ekki fallist á að slíkir hagsmunir leiði til þess að víkja beri til hliðar ákvæði 1. mgr. 10. gr. barnalaga vegna fyrirmæla 70. gr. stjórnarskrárinnar. 22. Það athugast að skortur á að uppfylla lagaskilyrði um aðild að faðernismálum leiðir til frávísunar en ekki sýknu, eins og lagt var til grundvallar í fyrrgreindum úrskurði Landsréttar nr. 149/2019 og hinum áfrýjaða dómi. Er þannig ekki um aðildarskort að ræða í skilningi 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 heldur reynir á formreglur um aðild máls til sóknar. Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu vegna fyrirmæla 1. mgr. 10. gr. barnalaga. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi. Málskostnaður á öllum dómstigum fellur niður. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=a09ddc41-a74c-4c0e-81ee-38831fffb965
Mál nr. 15/2021
Ráðningarsamningur Uppsögn Skaðabætur Miskabætur
A höfðaði mál gegn B ses. til heimtu bóta vegna uppsagnar B á ráðningarsamningi þeirra á milli. B ses. kvað tilefni uppsagnarinnar vera tilkynningar sem leikhússtjóra B ses. höfðu borist frá nokkrum einstaklingum um kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi af hálfu A. Óumdeilt var í málinu að á fundi 16. desember 2017 voru A í fyrsta skipti kynntar umræddar ásakanir samhliða því að honum var afhent uppsagnarbréf. Ágreiningur málsins laut að því hvort rétt hefði verið staðið að uppsögninni og ef svo væri ekki, hvort A ætti rétt til bóta fyrir fjártjón og miska. A byggði einkum á því að við uppsögnina hefði ekki verið fylgt þeim reglum sem kveðið væri á um í reglugerð nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, og í handbók starfsfólks B. Í dómi Hæstaréttar kom fram að B ses. hefði almennt séð verið heimilt að segja upp samningnum við A í samræmi við þær meginreglur sem þar um gilda á almennum vinnumarkaði. Hins vegar þyrfti B ses. að sæta því að þær tilgreindu forsendur sem hann byggði ákvörðun sína á sættu skoðun með tilliti til þeirra takmarkana sem fortakslaus réttur til uppsagnar kynni að sæta samkvæmt fyrirmælum laga, kjarasamnings eða annarra heimilda. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að B ses. hefði í grundvallaratriðum vikið frá þeim skráðu hátternisreglum, sbr. reglugerð nr. 1009/2015, sem honum hefði borið að fara eftir við mat á framkomnum ásökunum á hendur A þótt uppsögnin væri beint tengd þeim. Útilokað væri nú að segja til um hver hefði orðið niðurstaða málsins hefði B ses. fylgt umræddum reglum við úrlausn þess. Við þessar aðstæður væri sú forsenda sem sérstaklega hefði verið tilgreind fyrir uppsögninni ekki lögmætur grundvöllur hennar og hefði jafnframt falið í sér brot á gagnkvæmri trúnaðar- og tillitsskyldu B ses. gagnvart A í samningssambandi þeirra. Var þetta metið B ses. til sakar og var hann af þeim sökum talinn bótaskyldur gagnvart A. Af sönnunarástæðum var B ses. sýknað af kröfu A um fjártjón en gert að greiða A 1.500.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. mars 2021. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 13.000.000 króna. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum. 3. Stefndi krefst staðfestingar á dómi Landsréttar og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Ágreiningsefni 4. Í málinu krefst áfrýjandi 10.000.000 króna bóta vegna fjártjóns og 3.000.000 króna í miskabætur vegna uppsagnar stefnda á ráðningarsamningi 16. mars 2017. Stefndi kveður tilefni uppsagnarinnar hafa verið tilkynningar sem leikhússtjóra stefnda hefðu borist frá nokkrum einstaklingum um kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi af hálfu áfrýjanda. Þeir hefðu óskað trúnaðar um nöfn og nánari málavexti. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að uppsögninni og ef svo hafi ekki verið hvort áfrýjandi eigi rétt til bóta fyrir fjártjón og miska. 5. Áfrýjunarleyfi var veitt 11. mars 2021 á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um réttindi og skyldur starfsmanns og vinnuveitanda á almennum vinnumarkaði þegar reynir á uppsögn starfsmanns sem borinn hefur verið sökum af því tagi sem um ræðir í málinu. Leyfið var takmarkað við áfrýjun gagnvart stefnda. Ekki var fallist á beiðni þess efnis að málinu yrði áfrýjað gagnvart þáverandi leikhússtjóra stefnda, sem sýknuð var af kröfum áfrýjanda með dómi Landsréttar. Málsatvik 6. Áfrýjandi er lærður leikari frá [...] og útskrifaðist þaðan árið 1997. Frá útskrift hefur hann leikið í fjölmörgum sýningum og verið fastráðinn við [...] frá árinu 2000. Hann hóf störf hjá stefnda 18. ágúst 2017 samkvæmt ráðningarsamningi 16. mars sama ár. Í samningnum kom fram að áfrýjandi væri ráðinn til að leika í tveimur tilgreindum leikverkum og mögulega því þriðja. Samningurinn var tímabundinn til eins árs og skyldi renna út án uppsagnar við lok samningstímans yrði ráðningin ekki framlengd fyrir 1. júní 2018. Honum mátti auk þess segja upp með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti, sbr. grein 6.2.2 í kjarasamningi stefnda og Félags íslenskra leikara 21. nóvember 2016. 7. Áfrýjandi var boðaður á fund laugardaginn 16. desember 2017 með leikhússtjóra og framkvæmdastjóra stefnda. Hann var ekki upplýstur fyrir fram um efni fundarins en þar var honum afhent uppsagnarbréf undirritað af leikhússtjóra. Í því kom fram að uppsögnin skyldi gilda frá og með næstu mánaðamótum og að uppsagnarfrestur væri þrír mánuðir. Tekið var fram að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi áfrýjanda á uppsagnartímanum. Ekki var þar vikið að ástæðum uppsagnarinnar en á fundinum var greint frá því að tilefni hennar væru tilkynningar sem leikhússtjóra hefðu borist frá „ótengdum aðilum“ um kynferðislega áreitni og ofbeldi af hálfu áfrýjanda. Uppsögnin leiddi meðal annars til þess að fresta þurfti frumsýningu á jólaleikriti leikhússins, sem átti að vera [...] desember 2017, þar sem áfrýjandi átti að fara með hlutverk. 8. Áfrýjandi lýsti því fyrir héraðsdómi að hann hefði ekki fengið svör á fundinum um fjölda tilvika ætlaðrar háttsemi af hans hálfu, hvenær atvik hefðu átt að hafa orðið eða hvers eðlis ætluð háttsemi hans hefði átt að vera. Þó hefði komið fram að eitt atvik hefði átt að hafa orðið í [...]leikhúsinu eftir að hann hóf þar störf. Lýsti hann því að efni fundarins hefði komið flatt upp á sig og hann ekki þekkt til neinna atvika sem gætu gefið tilefni til þessara ásakana. Gert hefði verið um tíu mínútna hlé á fundinum á meðan leikhússtjóri hefði leitað sér ráða. Að því loknu hefði honum verið tilkynnt að ákvörðunin stæði óbreytt. 9. Daginn eftir var aftur fundað um málið en þann fund sátu jafnframt lögmenn áfrýjanda og stefnda. Aðilar eru sammála um að þar hafi verið rætt hvort mögulegt væri að beita einhverju vægara úrræði en uppsögn. Fljótlega eftir fundinn hafi lögmenn aðila hins vegar talað saman og þar komið fram að tvær tilkynningar til viðbótar hefðu borist leikhússtjóra og að uppsögnin stæði. 10. Fyrir héraðsdómi bar leikhússtjóri að frá 1. desember 2017 og fram yfir miðjan mánuðinn hefðu henni samtals borist sjö tilkynningar sem vörðuðu sex tilvik um kynferðislegt áreiti og kynferðisofbeldi af hálfu áfrýjanda. Hún hefði sjálf rætt við þá einstaklinga sem áttu í hlut og þeir lýst atvikum fyrir henni beint en óskað þess að trúnaðar yrði gætt. Hefðu þau atvik átt sér stað „á vinnutíma og önnur atvik utan hússins“. Fjórir þeirra sem tilkynntu hefðu verið starfsmenn stefnda og hefðu lýst því að þeir upplifðu „mikla vanlíðan og kvíða yfir því að mæta í vinnuna og óttist um öryggi sitt“. Hún hefði þurft að horfa á heildarhagsmuni í því ljósi að tryggja öruggt starfsumhverfi. Þá hefði hún leitað ráðgjafar sérfræðinga um viðbrögð, þar á meðal mannauðsfyrirtækisins [...], sálfræðings hjá [...], auk Stígamóta. Stjórnarformanni og stjórn stefnda hefði verið haldið upplýstum um málið. Áfrýjandi hefði á fundinum 16. desember 2017 verið upplýstur um fjölda tilkynninga og hvers eðlis þær væru og að einstaklingarnir hefðu rætt beint við leikhússtjórann. Hún hefði ekki viljað greina nánar frá atvikum til að brjóta ekki trúnað við þá. 11. Hinn 19. desember 2017 birtist fyrsta fréttin um uppsögnina á vefmiðli með fyrirsögninni „A rekinn viku fyrir frumsýningu: Sakaður um kynferðislega áreitni ...“. Sama dag birtist frétt þar sem vitnað var til tilkynningar áfrýjanda sjálfs þar sem hann kvað ástæðu „brottrekstrar“ síns hafa verið nafnlausar ásakanir á hendur honum sem tengdust „#metoo-umræðunni“. Honum hefði hvorki verið greint frá því hvers eðlis ásakanirnar væru, frá hvaða tíma, hverjir ættu í hlut né nokkru öðru sem gæfi honum tilefni til þess að tjá sig um þær. Í frétt daginn eftir var vitnað til samtals fréttamanns við leikhússtjóra. Var haft eftir henni að áfrýjanda hefði verið gerð grein fyrir því hvers eðlis tilkynningarnar hefðu verið og að uppsögnin hefði verið viðbragð við „beinum tilkynningum“ meðal annars frá starfsfólki leikhússins. Þá hefði ríkt einhugur um ákvörðunina milli leikhússtjóra, framkvæmdastjóra og stjórnar stefnda og hún verið tekin „eftir mikla yfirlegu og að vandlega ígrunduðu máli“. Fleiri fjölmiðlar fjölluðu um málið með svipuðum hætti á þessum tíma. 12. Lögmaður áfrýjanda sendi formanni stjórnar stefnda bréf 1. febrúar 2018 þar sem óskað var eftir svörum við spurningum um orsakir og aðdraganda uppsagnarinnar. Meðal annars var óskað eftir upplýsingum um hvaða einstaklingar hefðu borið áfrýjanda sökum um kynferðislega áreitni, hvers eðlis meint atvik væru og frá hvaða tíma. Óskað var eftir upplýsingum um málsmeðferðina hjá stefnda eftir að upplýsingarnar komu fram, hvaða sérfræðingar hefðu verið kallaðir til og hverjir hefðu verið upplýstir um málið. Þá var spurt hvers vegna áfrýjanda hefði ekki verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ákvörðun um uppsögn hefði verið tekin og hvort málið hefði verið skoðað út frá þeim möguleika að um væri að ræða „eineltistilburði“ gagnvart áfrýjanda „eða upplognar ásakanir“. Til viðbótar var óskað eftir afriti af greiningum stefnda á áhættuþáttum eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldis og afriti af áætlun um að koma í veg fyrir slíkt á vinnustað, auk verklagsreglna um viðbrögð í slíkum tilvikum. Í bréfinu var jafnframt gerð grein fyrir þeim afleiðingum sem uppsögnin hafði haft á áfrýjanda og áskilinn réttur til að hafa uppi frekari kröfur þar með talið um greiðslu skaðabóta. 13. Bréfi þessu var svarað af hálfu lögmanns stefnda 15. febrúar 2018. Þar var ítrekuð sú afstaða stefnda að virða trúnað við þá einstaklinga sem hefðu kvartað undan áfrýjanda. Þá var því hafnað að forsvarsmenn stefnda hefðu ekki gætt trúnaðar gagnvart áfrýjanda í tengslum við fjölmiðlaumfjöllun um málið. Þvert á móti hefðu viðbrögð áfrýjanda sjálfs, þar með talið hundruð samtala sem hann kvaðst hafa átt um málið og fjölmiðlayfirlýsing hans dregið athygli að því. Tekið var fram að ákvörðun um uppsögn áfrýjanda hefði verið tekin að undangengnu faglegu mati á öllum þáttum málsins með aðkomu ýmissa sérfræðinga. Það hefði verið mat leikhússtjóra að rétt væri að nýta uppsagnarheimild ráðningarsamningsins en um ráðningarsambandið giltu engar sérreglur sem takmörkuðu þá heimild. Þegar mál sem þessi kæmu upp væru þau rýnd, þar með talið með aðkomu sérfræðinga. Með vísan til heildarmats á gögnum, upplýsingum og aðstæðum öllum væri tekin ákvörðun um hvaða aðgerðir væru viðeigandi og nauðsynlegar í hvert sinn. Þá var upplýst að þar sem engin kvörtun hefði borist um einelti í garð áfrýjanda væri enginn grunur um slíka háttsemi. Með bréfinu fylgdi hluti starfsmannahandbókar stefnda. 14. Með bréfi lögmanns áfrýjanda 2. mars 2018 til stefnda var fyrri beiðni um upplýsingar og gögn ítrekuð. Þar kom fram að málsmeðferð stefnda hefði meðal annars brotið gegn lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Þá var bent á að hvorki hefðu sérfræðingar rætt við áfrýjanda né honum verið gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Enn fremur var því hafnað að áfrýjandi hefði sjálfur vakið athygli á málinu í fjölmiðlum. Yfirlýsing hans 19. desember 2017 hefði þvert á móti verið „nauðvörn“ af hans hálfu því að málið hefði spurst út til fjölmiðla. Loks var óskað eftir formlegum viðræðum um það hvernig stefndi hygðist bæta áfrýjanda það tjón sem málið og málsmeðferð þess hefði valdið honum. Með bréfi lögmanns stefnda 28. mars 2018 var vísað til fyrri samskipta. Hvorki var fallist á að stefndi hefði brotið gegn málsmeðferðarreglum né að skaðabótaskylda hefði stofnast. 15. Vegna uppsagnarinnar sendi áfrýjandi kvörtun til Persónuverndar 2. mars 2018. Tilefnið var möguleg brot stefnda gegn ákvæðum laga nr. 77/2000 um persónuvernd. Með úrskurði Persónuverndar 15. október 2018 var komist að þeirri niðurstöðu að vinnsla stefnda á persónuupplýsingum um áfrýjanda hefði samrýmst ákvæðum laga nr. 77/2000 og að honum hefði verið veittar fullnægjandi upplýsingar um umrædda vinnslu. Áfrýjandi höfðaði mál gegn Persónuvernd og krafðist þess að fyrrnefndur úrskurður yrði felldur úr gildi. Með héraðsdómi 26. júní 2020 var fallist á kröfur áfrýjanda. Persónuvernd hefur áfrýjað dóminum til Landsréttar þar sem málið bíður dóms. 16. Áfrýjandi sendi jafnframt kvörtun til Vinnueftirlitsins 2. mars 2018 vegna meintra brota stefnda á lögum nr. 46/1980 og reglugerð nr. 1009/2015. Vinnueftirlitið framkvæmdi svokallaða „takmarkaða úttekt“ 24. maí 2018. Í athugasemdum eftirlitsins segir að mikilvægt sé að hafa forvarnar- og viðbragðsáætlun gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustaðnum í samræmi við gildandi lög og reglur. Var þeim fyrirmælum beint til stefnda að endurskoða og uppfæra áætlun um öryggi og heilbrigði vegna sálfélagslegra þátta, þar með talið viðbragðsáætlun, til samræmis við reglugerð nr. 1009/2015. 17. Mál þetta var höfðað af áfrýjanda 2. janúar 2019 gegn stefnda og þáverandi leikhússtjóra stefnda. Krefst áfrýjandi 10.000.000 króna skaðabóta vegna fjártjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna saknæmrar og ólögmætrar framgöngu af hálfu stefnda við uppsögn hans úr starfi. Þá krefst hann 3.000.000 króna miskabóta á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. 18. Til stuðnings fjárkröfu sinni hefur áfrýjandi meðal annars lagt fram yfirlýsingu frá verslunarkeðjunni [...] þar sem staðfest er að samningi við áfrýjanda um lestur á auglýsingum hafi verið sagt upp vegna frétta af umræddri uppsögn. Tekjur samlagsfélagsins C, sem er að stærstum hluta í eigu áfrýjanda, frá [...] á þriggja ára tímabili vegna þessa námu 150.000 krónum á mánuði. Félagið framseldi fjárkröfur sínar vegna þessa til áfrýjanda. Þá hefur áfrýjandi lagt fram skattframtöl sín vegna áranna 2016 til 2019. Þar kemur fram að launatekjur hans vegna ársins 2015 hafi numið 6.131.069 krónum, 5.995.780 krónum árið 2016, 6.910.443 krónum árið 2017 og 7.238.850 krónum árið 2018. Þá er í málsgögnum yfirlit yfir tekjur áfrýjanda fyrir samlagsfélagið C árin 2012 til 2018 sem staðfest var af [...] bókhaldi ehf. Áfrýjandi byggir á því að líta beri til afkomu félagsins við mat á ætluðu fjártjóni hans. Í framlögðum ársreikningum C kemur fram að tekjur þess hafi numið 5.659.271 króna árið 2014, 13.265.868 krónum árið 2015, 20.329.556 krónum árið 2016, 8.760.842 krónum árið 2017 og 14.954.553 krónum árið 2018. 19. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að uppsögn á ráðningarsamningi áfrýjanda hefði verið ólögmæt og það leitt til bótaskyldu stefnda og leikhússtjórans. Var vísað til þess að við meðferð málsins hefði ekki verið sýnd sú háttsemi sem ætlast yrði til af atvinnurekanda þegar upp kæmi mál af þessum toga og mælt væri fyrir um í reglugerð nr. 1009/2015. Voru bætur vegna fjárhagstjóns áfrýjanda ákveðnar að álitum 4.000.000 króna og miskabætur 1.500.000 króna. 20. Í dómi Landsréttar voru stefndi og leikhússtjórinn sýknuð af kröfum áfrýjanda þar sem ekki hefðu verið færðar sönnur á að fullnægt væri því skilyrði að þau hefðu sýnt af sér ólögmæta háttsemi í garð áfrýjanda. Lagt var til grundvallar að meðferð málsins hjá stefnda hefði ekki verið hagað á þann hátt sem lýst væri í fyrrnefndri reglugerð og handbók starfsfólks leikhússins. Á hinn bóginn yrði ekki talið að sú málsmeðferð sem þar væri kveðið á um væri ófrávíkjanlegt skilyrði þess að grípa mætti til uppsagnar á ráðningarsamningi. Tekið var fram að engin skylda hvíldi á vinnuveitendum, öðrum en stjórnvöldum, að rannsaka atvik sem gæfu tilefni til uppsagnar starfsmanns, gefa honum færi á að tjá sig eða gæta meðalhófs við val á úrræðum. Því var talið að heimilt hefði verið að segja áfrýjanda upp störfum á þeim grundvelli sem gert var án þess að viðhafa þá málsmeðferð sem áfrýjandi taldi að skort hefði. Þá var ekki talið að aðgerðir stefnda og leikhússtjórans hefðu í orði eða verki falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru áfrýjanda en ekki lægi fyrir að þau hefðu tekið afstöðu til sannleiksgildis ávirðinga sem á hann hefðu verið bornar. Einn landsréttardómari skilaði sératkvæði og taldi að dæma bæri stefnda, B ses., til að greiða áfrýjanda miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna. Lagaumhverfi og reglur 21. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1980 gilda þau um alla starfsemi, þar sem einn eða fleiri menn vinna, hvort sem um er að ræða eigendur fyrirtækja eða starfsmenn, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, að undanskildum þeim sem sérstaklega eru undanþegnir lögunum í a- og b-lið ákvæðisins. Samkvæmt 1. gr. laganna er tilgangur þeirra að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi sem jafnan sé í samræmi við félagslega og tæknilega þróun í þjóðfélaginu, sbr. a-lið ákvæðisins. Þá sé með þeim leitast við að tryggja skilyrði fyrir því að innan vinnustaðanna sjálfra sé hægt að leysa öryggis- og heilbrigðisvandamál í samræmi við gildandi lög og reglur, ráðleggingar aðila vinnumarkaðarins og ráðleggingar og fyrirmæli Vinnueftirlits, sbr. b-lið ákvæðisins. Samkvæmt 13. gr. laganna hvílir sú almenna skylda á atvinnurekanda að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Í 1. mgr. 37. gr. laganna er kveðið á um að vinnu skuli haga og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta og skal samkvæmt 2. mgr. sömu greinar fylgja viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða og fyrirmælum Vinnueftirlits í því skyni. Þá skal vinnustaður þannig úr garði gerður að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta, sbr. 1. mgr. 42. gr. laganna. Í 38. gr. er kveðið á um að ráðherra setji reglugerð að fenginni umsögn Vinnueftirlits um hvaða kröfur skuli uppfylltar varðandi skipulag, tilhögun og framkvæmd vinnu, meðal annars um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, sbr. e-lið ákvæðisins. Í 13. gr. reglugerðar nr. 1009/2015 er vísað til 37. gr., 38. gr., 65. gr., 65. gr. a og 66. gr. laganna um heimild fyrir setningu hennar. Í þeim lagaákvæðum er fjallað um ábyrgð atvinnurekanda á því að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, sérstakt áhættumat með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi og áætlun um heilsuvernd. 22. Markmið reglugerðar nr. 1009/2015 er að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum og stuðla að gagnkvæmri virðingu þar, sbr. a- og b-lið 2. gr. reglugerðarinnar. Enn fremur er með henni leitast við að tryggja að gripið verði til aðgerða í samræmi við skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, sbr. II. kafla reglugerðarinnar, komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað eða ef atvinnurekandi verður var við háttsemi sem getur falið það í sér, sbr. c- og d-liði ákvæðisins. Í 3. gr. reglugerðarinnar er skilgreind sú háttsemi sem henni er ætlað að stemma stigu við. Þar kemur fram að með kynferðislegri áreitni sé átt við hvers kyns kynferðislega hegðun sem sé í óþökk þess sem fyrir henni verður og hafi þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin geti verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Í II. kafla reglugerðarinnar er mælt fyrir um gerð og efni áhættumats og áætlunar um áhættuþætti og forvarnir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustað. Jafnframt skal í áætlun um heilsuvernd, sbr. 66. gr. laga nr. 46/1980, meðal annars gera grein fyrir þeim aðgerðum sem grípa skal til komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um slíka háttsemi á vinnustað. Þá er í III. kafla reglugerðarinnar fjallað um skyldur atvinnurekanda í þessu efni og um skyldur starfsmanna í IV. kafla. Nánar verður vikið að einstökum ákvæðum reglugerðarinnar í niðurstöðum hér síðar. 23. Þá eru í lögum ákvæði sem er ætlað að vernda starfsmenn sem hafa kært eða veita upplýsingar um kynbundna eða kynferðislega áreitni eða kynjamismunun. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem giltu er atvik máls þessa áttu sér stað, skyldi atvinnurekandi gæta þess að starfsmaður sem hefði tilkynnt um slíka háttsemi yrði ekki beittur óréttlæti í starfi, svo sem með tilliti til starfsöryggis, starfskjara eða mats á árangri, sbr. nú 20. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. 24. Samkvæmt ákvæðum kjarasamningsins sem gilti um réttarsamband aðila var heimilt að segja ráðningarsamningnum upp með þriggja mánaða fyrirvara, sbr. grein 6.2.2. Þar var jafnframt kveðið á um að starfsmaður ætti rétt á viðtali um starfslok sín og ástæður uppsagnar, eða skriflegar skýringar, sbr. bókun 3 við kjarasamninginn. 25. Í málinu liggur fyrir handbók starfsfólks [...]leikhússins 2017−2018 sem gerð var af stefnda. Þar kom meðal annars fram að gera skyldi aðgerðaráætlun um forvarnir gegn einelti á vinnustað. Ef upp kæmi grunur um kynferðislega áreitni skyldi kanna málið með aðstoð sérfræðinga sem hlotið hefðu staðfestingu til þeirra starfa hjá Vinnueftirlitinu og unnið að úrlausn þess af hálfu framkvæmdastjóra og leikhússtjóra. Þá skyldi rætt við aðila sem veitt gætu upplýsingar um málsatvik og við aðila málsins, farið yfir atvik og að því loknu legði sérfræðingur mat á málið. Niðurstaða 26. Að framan hefur verið gerð grein fyrir aðdraganda uppsagnar áfrýjanda 16. desember 2017, framkvæmd hennar og eftirmálum. Til grundvallar samningssambandi málsaðila lá, sem fyrr segir, tímabundinn ráðningarsamningur 16. mars 2017 sem átti að renna út án uppsagnar 17. ágúst 2018 nema samið væri um framlengingu hans. Þar var jafnframt tekið fram að áfrýjandi væri á grundvelli hans ráðinn umræddan tíma „í leikverkin […] og […] og mögulega eitt annað leikverk í samráði við leikhússtjóra.“ Þá kom fram að um tímabundna ráðningu væri að ræða og tegund starfs sögð: „Leikari á árssamningi.“ Í samningnum var enn fremur vísað um starfskjör til fyrrnefnds kjarasamnings milli stefnda og Félags íslenskra leikara 21. nóvember 2016. Þar kom fram í grein 6.2.2, sem bar heitið „Ársráðning“, að þrátt fyrir að ráðningarsamningur væri tímabundinn væri heimilt að segja honum upp með þriggja mánaða uppsagnarfresti. 27. Uppsögn stefnda á ráðningarsamningnum sem fram fór á grundvelli framangreindrar heimildar verður að meta með hliðsjón af þeirri viðurkenndu meginreglu vinnuréttar að atvinnurekandi á almennum vinnumarkaði hefur verulegt svigrúm til að segja upp starfsmanni sínum á grundvelli uppsagnarréttar enda standi hvorki fyrirmæli laga, kjarasamnings né annarra heimilda því í vegi. Í máli þessu er þess þó að gæta að í bókun 3 við framangreindan kjarasamning var kveðið á um að starfsmaður sem sagt væri upp störfum ætti rétt á viðtali um starfslok sín, ástæður uppsagnar o.fl. Í fyrrnefndri handbók starfsfólks [...]leikhússins kom eftirfarandi fram um starfslokaferli: „[...]leikhúsið leggur metnað sinn í að starfslok séu unnin af fagmennsku, sanngirni og reisn. Ávallt skal starfsmanni gefin skýring á ástæðum þess að samningi er sagt upp. Jafnframt er þess óskað að þeir starfsmenn sem kjósa að hætta störfum fyrir leikhúsið tilgreini ástæður.“ Umrædd tilhögun setti svigrúmi stefnda til einhliða uppsagnar ráðningarsamnings án rökstuðnings því nokkrar skorður umfram það sem almennt gildir. 28. Hér að framan, sem og í hinum áfrýjaða dómi, er rakið að leikhússtjóra stefnda hafi í aðdraganda uppsagnarinnar 16. desember 2017 borist kvartanir þar sem því hefði verið haldið fram að áfrýjandi hefði beitt konur kynferðislegri áreitni og ofbeldi og hefði hún sjálf rætt við konurnar. Þær hefðu í öllum tilvikum farið fram á trúnað gagnvart sér sem hún hefði talið rétt að virða. Í því fólst meðal annars að áfrýjandi yrði hvorki upplýstur um nöfn þeirra né nánar um atvik. Til grundvallar ákvörðuninni um uppsögn áfrýjanda hefði legið heildarmat með aðkomu þeirra fagaðila sem fyrr eru nefndir. Við það mat hefði meðal annars verið litið til framkominna kvartana, fjölda þeirra, alvarleika, umfangs og fleira sem og nauðsynjar þess að tryggja öruggt vinnuumhverfi og vellíðan starfsfólks. 29. Óumdeilt er að á fundinum 16. desember 2017 voru áfrýjanda í fyrsta sinn kynntar umræddar ásakanir samhliða því að honum var afhent uppsagnarbréf dagsett sama dag. Þá ber aðilum saman um að við sama tilefni hafi leikhússtjórinn upplýst áfrýjanda um þær ásakanir sem fram hefðu komið um kynferðislega áreitni af hans hálfu, fjölda þeirra kvenna sem um væri að ræða og að þessar ásakanir væru ástæður uppsagnar hans. Hann var hins vegar ekki upplýstur um fjölda ætlaðra tilvika, hvenær þau hefðu átt að eiga sér stað eða nánar hvers eðlis þau hefðu verið og bar leikhússtjórinn fyrir sig fyrrnefndan trúnað þar um. Aðilum ber jafnframt saman um að ákveðið hafi verið að halda annan fund daginn eftir og kanna hvort möguleiki væri á því að fara aðra og vægari leið gagnvart áfrýjanda. Síðar hefðu tvær kvartanir vegna áfrýjanda bæst við og leikhússtjóri stefnda metið það svo að standa bæri við uppsögnina. 30. Svo sem fyrr greinir var stefnda almennt séð heimilt að segja upp samningi við áfrýjanda í samræmi við þær meginreglur sem gilda þar um á almennum vinnumarkaði. Hann þarf hins vegar að sæta því að þær tilgreindu forsendur sem hann byggði ákvörðun sína á sæti skoðun með tilliti til þeirra takmarkana sem fortakslaus réttur til uppsagnar kann að sæta og fyrr eru nefndar. 31. Áfrýjandi byggir á því að eftir að kvartanir um ætlað athæfi áfrýjanda hafi komið fram hafi stefnda skilyrðislaust borið að fylgja því verklagi sem lagt er til grundvallar í reglugerð nr. 1009/2015 og nánari grein er gerð fyrir hér að framan. Það hafi hann ekki gert og leiði það til þess að uppsögn á ráðningarsamningi hans við áfrýjanda hafi verið ólögmæt og varði bótaskyldu. Stefndi telur hins vegar að hann hafi fylgt ákvæðum umræddrar reglugerðar og þó svo að í einhverju kunni að hafa verið vikið frá þeim varði það því ekki að uppsögn áfrýjanda verði metin ólögmæt og bótaskyld af hans hálfu. Samkvæmt þessu liggur því fyrir að taka afstöðu til þess hvort umræddar kvartanir hafi fallið undir gildissvið 1. gr. reglugerðarinnar. Ef sú er raunin, hvort fyrirmælum hennar um verklag hafi verið fylgt og ef svo sé ekki hvort það hafi þýðingu við úrlausn málsins. 32. Hér að framan hefur ákvæðum reglugerðar nr. 1009/2015 verið lýst með almennum hætti en nú verður vikið nánar að þeim einstöku ákvæðum hennar sem sérstaka þýðingu hafa fyrir úrlausn þessa máls. Í 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að hún gildi um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum sem falla undir gildissvið laga nr. 46/1980. Af hálfu forsvarsmanna stefnda hefur verið borið á þann veg að minnsta kosti eitt umræddra tilvika hafi komið upp innan leikhússins á ráðningartíma áfrýjanda. Þegar af þeirri ástæðu bar að fylgja fyrirmælum reglugerðarinnar án þess að fyrir lægi hvar eða hvenær önnur tilvik kynni að hafa átt sér stað. 33. Um upphaf þeirrar málsmeðferðar sem lögð er til grundvallar í III. og IV. kafla reglugerðarinnar kemur fram í 9. gr. að telji starfsmaður sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi á vinnustað eða hafa rökstuddan grun eða vitneskju um slíka hegðun á vinnustað skuli hann upplýsa atvinnurekanda eða vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins um slíkt enda sé ekki gert ráð fyrir annarri tilhögun samkvæmt skriflegri áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sem atvinnurekanda ber að setja á grundvelli II. kafla reglugerðarinnar. Þá kemur fram í 9. gr. að viðkomandi starfsmaður skuli jafnframt vera reiðubúinn að skýra mál sitt nánar. Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur fram að atvinnurekandi skuli haga vinnuaðstæðum á vinnustað í samræmi við skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, skv. II. kafla, með það að markmiði að draga úr hættu á því að þær aðstæður skapist sem líkur eru á að gætu leitt til eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis á vinnu-staðnum. Í tilviki stefnda var umræddri áætlun, samkvæmt II. kafla reglugerðarinnar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, sbr. 66. gr. laga nr. 46/1980, áfátt eins og fram kemur í úttekt Vinnueftirlitsins 24. maí 2018. Í handbók starfsfólks [...]leikhússins var þó, svo sem fyrr er getið, að finna áætlun um meðferð eineltismála sem nánar verður vikið að hér síðar. 34. Eftir að umræddar ásakanir komu fram á hendur áfrýjanda, á grundvelli tilkynninga viðkomandi starfsmanna um meint atvik innan leikhússins, bar stjórnendum stefnda samkvæmt fyrrgreindum reglum að tryggja að meðferð málsins yrði felld í þann farveg sem mælt er fyrir um í reglugerðinni, einkum 4. mgr. 6. gr. og 7. gr. hennar. Þar kemur fram að við meðferð einstaks máls skuli atvinnurekandi sýna varfærni og nærgætni í aðgerðum sínum með virðingu og einkahagi hlutaðeigandi starfsmanna í huga, meðal annars með því að veita ekki óviðkomandi aðilum upplýsingar um mál og tryggja að utanaðkomandi aðilar sem kunna að koma að meðferð máls geri slíkt hið sama. Mál skal síðan reka eftir fyrirmælum 7. gr. reglugerðarinnar þar sem í 1. mgr. segir að atvinnurekandi skuli bregðast við eins fljótt og kostur er þegar honum berst kvörtun af umræddum toga. Honum ber að meta aðstæður í samvinnu við vinnu¬verndar¬fulltrúa vinnustaðarins, eftir því sem við á, og utanaðkomandi aðila ef með þarf. Atvinnurekanda ber jafnframt að tryggja að við matið sé hlutaðeigandi starfsmönnum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og að alla jafna sé rætt við einn aðila máls í senn. Í 2. mgr. 7. gr. kemur fram að leiði framangreint mat á aðstæðum í ljós rökstuddan grun um að kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða ofbeldi eigi sér stað eða hafi átt sér stað á vinnustaðnum skuli atvinnurekandi grípa til aðgerða í samræmi við skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað í því skyni að stöðva hegðunina, sé hún enn til staðar, sem og í því skyni að koma í veg fyrir að hún endurtaki sig á vinnustaðnum. Í 4. mgr. 7. gr. eru síðan fyrirmæli þess efnis að atvinnurekandi skuli skrá niður allt sem tengist meðferð máls og halda hlutaðeigandi starfsmönnum sem og vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins upplýstum meðan á meðferð stendur, meðal annars með því að veita þeim aðgang að öllum upplýsingum og gögnum í málinu, að teknu tilliti til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Loks er mælt fyrir um það í 5. mgr. 7. gr. að þegar atvinnurekandi lítur svo á að máli sé lokið af hans hálfu skuli hann upplýsa hlutaðeigandi starfsmenn sem og vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins um það. 35. Fram hefur komið að Vinnueftirlitið mat það svo að áætlun stefnda, skv. II. kafla reglugerðarinnar, um öryggi og heilbrigði væri ekki fullnægjandi. Í áætlun um meðferð eineltismála í handbók starfsfólks [...]leikhússins 2017−2018 sem jafnframt tók til mála er vörðuðu kynferðislega áreitni sagði að kæmi upp grunur um slíkt innan leikhússins skyldi málið kannað með aðstoð sérfræðinga sem hefðu hlotið staðfestingu til þeirra starfa hjá Vinnueftirlitinu og unnið að úrlausn málsins á vettvangi framkvæmdastjóra og leikhússtjóra. Þá kemur eftirfarandi fram: „Rætt er við aðila sem veitt geta upplýsingar um málsatvik og við aðila málsins, farið yfir atvik og að því loknu leggur sérfræðingur mat á málið. Í slíku mati felst rökstutt álit um það hvort um einelti sé að ræða eða annars konar samskiptavanda og gerð er áætlun um úrlausn máls af hálfu [...]leikhússins sem unnið er eftir.“ 36. Af óumdeildum málsatvikum er ljóst að verulegur misbrestur varð á því af hálfu stefnda að framangreindum fyrirmælum reglugerðar nr. 1009/2015 og eigin innri reglum stefnda væri fylgt. Áfrýjanda var ekki gefinn kostur á að tjá sig um fram komnar ásakanir um kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi fyrr en eftir að ákvörðun hafði verið tekin um uppsögn hans. Engin skráning virðist hafa farið fram um feril málsins í samræmi við 5. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1009/2015 og því í raun óupplýst að hvaða marki þeirri málsmeðferð sem að framan er lýst var fylgt við að upplýsa málið og taka í framhaldinu hina umdeildu ákvörðun. Í málinu liggja til dæmis engin gögn fyrir frá þeim sérfræðingum sem að málum komu og mat stjórnenda stefnda er sagt byggt á heldur eingöngu einhliða frásögn forsvarsmanna stefnda um aðkomu tiltekinna sérfræðinga en þá án nokkurrar þátttöku áfrýjanda. Þannig var staðið að málum þrátt fyrir að sjónarmið ætlaðs geranda séu einn þeirra þátta sem atvinnurekanda ber að líta til við mat sitt, sbr. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar 1009/2015, en það mat er undanfari aðgerða skv. 2. mgr. sömu greinar. Reglur handbókar stefnda eru efnislega sama efnis hvað þetta varðar. 37. Í þessu samhengi er þess jafnframt að gæta að fram hefur komið í málinu að forsvarsmenn stefnda undirgengust sérstaka trúnaðarskyldu gagnvart þeim einstaklingum sem höfðu uppi kvartanir í garð áfrýjanda. Hafði sá trúnaður í för með sér að áfrýjandi var aðeins upplýstur um tilvist kvartana og eðli þeirra en ekki veittar frekari upplýsingar um þær. Úrskurður Persónuverndar 15. október 2018 þar sem talið var að þessi málsmeðferð stefnda uppfyllti að sínu leyti áskilnað laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, áður laga nr. 77/2008 en nú laga nr. 90/2018, var sem fyrr segir ógiltur með dómi héraðsdóms. Hvað sem þeirri niðurstöðu líður að persónurétti gat sú ákvörðun forsvarsmanna stefnda að ganga svo langt í trúnaði sem raun bar vitni ekki leitt til þess að slakað yrði á þeim kröfum sem gerðar eru til málsmeðferðar, sbr. fyrirmæli reglugerðarinnar. Þannig hlaut sá trúnaður sem heitið var að þrengja heimildir stefnda til aðgerða gagnvart áfrýjanda, ekki síst við beitingu uppsagnar gagnvart honum á þeim grundvelli, sbr. niðurlag 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1009/2015. 38. Misbrestur á því að stefndi fylgdi framangreindum málsmeðferðarreglum reglugerðar nr. 1009/2015 og handbókar sinnar útilokar hins vegar ekki þá þegar og sjálfkrafa samningsbundinn rétt hans til uppsagnar ráðningarsamnings aðila, sbr. og framangreinda meginreglu um rúmt svigrúm aðila almenna vinnumarkaðarins til uppsagnar ráðningarsamninga með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Áhrif slíkra ágalla á lögmæti aðferðar við uppsögn getur þurft að meta eftir atvikum hverju sinni og jafnframt hverju það varði að vikið er frá þeim. Í því tilviki sem hér um ræðir háttar þannig til að stefndi vék, sem fyrr segir, í grundvallaratriðum frá þeim skráðu hátternisreglum sem honum bar að fara eftir við mat á framkomnum ásökunum á hendur áfrýjanda þótt uppsögnin væri beint tengd þeim. Útilokað er nú að segja til um hver hefði orðið niðurstaða málsins hefði stefndi fylgt umræddum reglum við úrlausn þess. Við þessar aðstæður var sú forsenda sem var sérstaklega tilgreind af hálfu forsvarsmanna stefnda fyrir uppsögninni ekki lögmætur grundvöllur hennar og fól jafnframt í sér brot á gagnkvæmri trúnaðar- og tillitsskyldu stefnda gagnvart áfrýjanda í samningssambandi þeirra. Verður þetta metið honum til sakar á grundvelli reglu bótaréttar um vinnuveitandaábyrgð og er hann af þeim sökum bótaskyldur gagnvart áfrýjanda. 39. Í málinu krefst áfrýjandi annars vegar greiðslu skaðabóta fyrir fjárhagslegt tjón sem hann hafi orðið fyrir vegna uppsagnarinnar og hins vegar greiðslu miskabóta sem hann telur stefnda bera að greiða sér á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. 40. Fyrir liggur að stefndi greiddi áfrýjanda umsamin laun á þriggja mánaða uppsagnarfresti hans í samræmi við ráðningarsamning aðila. Til viðbótar því krefst áfrýjandi skaðabóta vegna ætlaðs tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna uppsagnar ráðningarsamningsins og þeirra ávirðinga í hans garð sem legið hafi henni til grundvallar. Tekjuöflunarhæfi hans sem leikara sé alfarið háð ímynd og orðspori sem beðið hafi mikinn hnekki og lýsi sér meðal annars í því að ekki hafi verið eftirspurn eftir starfskröftum hans. Hefur áfrýjandi stutt málatilbúnað í þessa veru með tvennum hætti. Í fyrsta lagi hafi [...] sagt upp samningi við hann um lestur auglýsinga. Í öðru lagi byggir áfrýjandi á því með vísan til gagna og framburðar nafngreinds bókara að hann hafi aflað hluta tekna sinna á vettvangi samlagsfélagsins C sem að nær öllu leyti sé í hans eigu. Tekjuöflun hans á þeim vettvangi hafi dregist saman eftir uppsögnina í desember 2017. 41. Til þess er hins vegar að líta að áfrýjandi hélt fastri stöðu sinni við [...]. Þá horfir málið þannig við að hvorki skattframtöl áfrýjanda vegna áranna 2015 til 2018, sem hann lagði fram í kjölfar áskorunar stefnda undir rekstri málsins fyrir Landsrétti og fyrr er gerð grein fyrir, né ársreikningar C slf. vegna reksturs sömu ára sýna fram á líkindi fyrir fjártjóni sem gæti orðið fullnægjandi grundvöllur þess að ákvarða honum bætur að álitum. Ber því af sönnunarástæðum að sýkna stefnda af skaðabótakröfu áfrýjanda. 42. Kröfu sína um miskabætur úr hendi stefnda reisir áfrýjandi á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga þar sem fram kemur að sá sem ábyrgð beri á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns skuli greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Eins og lýst hefur verið var áfrýjanda sagt upp störfum vegna ásakana um kynferðislega áreitni og ofbeldi án þess að af stefnda hálfu væri þess gætt að fella málið fyrst í þann farveg sem mælt er fyrir um í reglugerð nr. 1009/2015. Uppsögn á framangreindum grundvelli var augljóslega til þess fallin að verða áfrýjanda til mikils álitshnekkis. Þá gat fyrirsvarsmönnum stefnda ekki dulist að brotthvarf áfrýjanda úr starfi kæmi til með að kalla á skýringar og vekja athygli, enda fór áfrýjandi með hlutverk í jólasýningu leikhússins sem fyrirhugað hafði verið að frumsýna tæpum hálfum mánuði síðar en sýningunni var frestað af þessum orsökum. 43. Ekki er fallist á það með stefnda að þótt forsvarsmenn hans hafi hvorki með beinum hætti né yfirlýsingum lýst yfir afstöðu til framkominna ásakana leysi það hann undan ábyrgð á þeirri atburðarás sem uppsögn áfrýjanda olli. Í þeirri gjörð að segja áfrýjanda upp, án þess að gæta þess í aðdragandanum að fylgt væri framangreindu verklagi, fólst að sínu leyti afstaða til framkominna ásakana. Skiptir þá ekki síst máli að ákvörðun um uppsögn á samningnum við áfrýjanda var tekin án þess að honum væri gefinn kostur á að svara fyrir þær ávirðingar sem á hann voru bornar. Eftir að málið komst í hámæli í opinberri umræðu, meðal annars á grundvelli upplýsinga frá áfrýjanda eftir að fjölmiðlar leituðu skýringa hans, tjáði leikhússtjóri stefnda sig jafnframt með þeim hætti að til grundvallar uppsögninni lægi yfirveguð ákvörðun. Hún tjáði sig meðal annars á þann veg að stefndi hefði ekki verið að bregðast við nafnlausum tilkynningum heldur „beinum tilkynningum“ og að ákvörðunin hafi verið tekin „eftir mikla yfirlegu og að vandlega ígrunduðu máli“. 44. Að þessu gættu verður talið að forsvarsmenn stefnda hafi af verulegu gáleysi vegið að æru áfrýjanda og persónu með þeim hætti að í því fólst meingerð í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Verða áfrýjanda því dæmdar miskabætur. 45. Við ákvörðun fjárhæðar miskabóta er til þess að líta að starfsmissir vegna jafn alvarlegra ásakana um ætlaða hegðun sem er afar ámælisverð ef sönn reyndist, og sennilega refsiverð, hlaut að hafa mikil neikvæð áhrif á lífshlaup og feril áfrýjanda sem þekkts sviðslistamanns. Engin efni eru til þess að lækka miskabætur vegna þátttöku áfrýjanda í þeirri þjóðfélagsumræðu sem átti sér stað. Hlaut skyndilegt brotthvarf hans úr starfi við þessar aðstæður að vekja mikla athygli og naut hann ríks réttar til að fá að skýra frá því hvernig það væri tilkomið og lýsa afstöðu sinni til þeirra ásakana sem á hann voru bornar. Að þessu virtu eru miskabætur ákveðnar 1.500.000 krónur. 46. Eftir framangreindum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða áfrýjanda málskostnað sem ákveðinn er í einu lagi á öllum dómstigum eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Stefndi, B ses., greiði áfrýjanda, A, 1.500.000 krónur. Stefndi greiði áfrýjanda samtals, 3.000.000 króna í málskostnað í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=67b81d01-f984-425d-9a72-23c230f49a43
Mál nr. 36/2021
Kærumál Opinber skipti Búsetuleyfi Erfðaskrá Óvígð sambúð Gjafsókn
Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu A um að dánarbú móður hans, C, sem lést í ágúst 2016, yrði tekið til opinberra skipta, en B eiginmaður hennar sat í óskiptu búi eftir hana. A var eina barn C og fyrri eiginmanns hennar en B á tvo syni. A og B gerðu með sér sameiginlega erfðaskrá þar sem kom fram að það væri sameiginleg ákvörðun hjónanna að hið langlífara þeirra gæti setið í óskiptu búi eftir lát hins skammlífara eins lengi og það vildi með þeim fyrirvara að sú heimild myndi falla úr gildi ef það þeirra sem lengur lifði gengi í hjónaband að nýju eða hæfi sambúð. Í dómi Hæstaréttar kom fram að augljóslega hefði að baki þessari ákvörðun verið sá vilji að koma í veg fyrir að langlífari maki stofnaði til fjárhagslegrar samstöðu er fylgi hjúskap eða óvígðri sambúð og gæta þannig hagsmuna stjúpniðja sem ættu arf inni í óskiptu búi. Vísaði rétturinn til þess að því er varðaði hjúskap leiddi þetta beint af 2. mgr. 13. gr. erfðalaga og óþarft að taka það atriði fram í erfðaskránni en ekkert sambærilegt ákvæði væri í erfðalögum um óvígða sambúð og því hafi þurft að gera áskilnað þar um í erfðaskrá. Að því gættu að það skilyrði þjónaði sama tilgangi og umrætt ákvæði erfðalaga var talið heimilt að mæla fyrir um í erfðaskránni að langlífari makinn gæti ekki setið í óskiptu búi ef hann stofnaði til sambúðar og var lagt til grundvallar í málinu að B hefði stofnað til sambúðar í skilningi erfðaskrárinnar. Var því krafa A tekin til greina um að dánarbúið yrði tekið til opinberra skipta á grundvelli 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júní 2021 sem barst réttinum degi síðar. Kærumálsgögn bárust réttinum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 20. maí 2021 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dánarbú C yrði tekið til opinberra skipta. 3. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa um opinber skipti verði tekin til greina. Þá krefst hann þess að varnaraðila verði gert að greiða sér kostnað vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Landsrétti og Hæstarétti. 4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál. Ágreiningsefni 5. Hinn […] ágúst 2016 andaðist C. Varnaraðili var eiginmaður hennar og situr í óskiptu búi eftir hana. Sóknaraðili er eina barn C og fyrri eiginmanns hennar en varnaraðili á tvo syni. Í málinu er deilt um hvort fyrir hendi séu skilyrði til að taka dánarbúið til opinberra skipta. Með úrskurði héraðsdóms 16. mars 2021 var krafa um skipti tekin til greina en henni var hafnað með hinum kærða úrskurði, eins og áður segir. 6. Með ákvörðun Hæstaréttar 13. júlí 2021 var veitt heimild til að kæra úrskurðinn til réttarins á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í ákvörðuninni sagði að dómur í málinu gæti meðal annars haft fordæmisgildi um túlkun á heimild erfingja til að krefjast þess að dánarbú yrði tekið til skipta samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991. Málsatvik 7. Sóknaraðili ólst upp hjá móður sinni sem var einstæð eftir að hafa skilið við föður hans árið 1981. C starfaði um langt skeið sem […] í […] en árið 2007 hóf hún einnig að vinna á sumrin í […] hjá […]. Þar starfaði varnaraðili og tókust með þeim kynni. Hann flutti síðan til C á árinu 2011 eða 2012 en þau gengu í hjúskap […] desember 2014. 8. Nokkru áður en C og varnaraðili gengu í hjúskap hafði hún greinst með sjúkdóm sem dró hana til dauða. Fyrir milligöngu frænda hennar var fenginn lögmaður til að gera sameiginlega erfðaskrá fyrir hjónin og var hún undirrituð af þeim og arfleiðsluvottum […] ágúst 2016 eða 12 dögum áður en C andaðist. Þar sagði að það væri sameiginleg ákvörðun hjónanna að hið langlífara þeirra gæti setið í óskiptu búi eftir lát hins skammlífara eins lengi og það vildi. Þessi heimild skyldi þó falla úr gildi ef það þeirra sem lengur lifði gengi í hjónaband að nýju eða hæfi sambúð. 9. Varnaraðili óskaði 13. september 2016 eftir heimild til setu í óskiptu búi og var veitt það leyfi 19. sama mánaðar af sýslumanninum á Suðurlandi. Með bréfi 20. ágúst 2020 var varnaraðila kynnt sú ósk sóknaraðila að dánarbúinu yrði skipt. Þar var því haldið fram að vilji C hefði aðeins staðið til að varnaraðili sæti í óskiptu búi í þrjú ár þótt fram kæmi í erfðaskránni að heimildin væri ótímabundin. Þar sem meira en þrjú ár væru liðin frá því að varnaraðili fékk heimildina væri þess farið á leit að þessi hinsti vilji hennar yrði virtur. Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvort varnaraðili svaraði þessu erindi. Sóknaraðili krafðist síðan opinberra skipta með bréfi 18. september 2020. 10. Varnaraðili flutti til […] vorið 2019 og var búsettur þar fram á haustið 2020 þegar hann flutti til Íslands, en hann hefur verið skráður til heimilis hér á landi frá […] október það ár. Með aðilum er ágreiningur um hvort varnaraðili hafi stofnað til óvígðrar sambúðar með nafngreindri sænskri konu. Telur sóknaraðili að heimild varnaraðila til setu í óskiptu búi hafi af þeim sökum fallið niður í samræmi við fyrirmæli í erfðaskrá hjónanna um að heimildin félli niður hæfi hið langlífara sambúð að nýju. Niðurstaða 11. Sóknaraðili reisir kröfu um opinber skipti á dánarbúi móður sinnar á 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991. Þar segir að erfingi geti krafist þess að bú verði tekið til opinberra skipta, þótt maki þess látna hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi, hafi erfinginn til þess heimild eftir ákvæðum erfðalaga. 12. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. erfðalaga nr. 8/1962 er því hjóna sem lengur lifir heimilt að sitja í óskiptu búi með fjárráða stjúpniðjum sínum ef þeir veita samþykki sitt til þess. Ef fjárráða stjúpniðji hefur gefið slíkt samþykki getur hann krafist skipta sér til handa með eins árs fyrirvara, sbr. 2. mgr. 14. gr. laganna. Frá reglunni um að afla þurfi samþykkis stjúpniðja langlífari maka svo að honum verði heimilað að sitja í óskiptu búi gildir undantekning eftir 3. mgr. 8. gr. laganna. Hún er bundin því skilyrði að hið látna hafi í erfðaskrá mælt fyrir um þann rétt maka síns. 13. Þau ákvæði erfðalaga sem hér hafa verið rakin um rétt langlífari maka til setu í óskiptu búi voru lögfest með lögum nr. 48/1989. Í lögskýringargögnum með þeim kom fram að tilgangur ákvæðanna væri meðal annars að bæta stöðu langlífari maka gagnvart stjúpniðjum hans þannig að heimild til setu í óskiptu búi yrði ekki háð samþykki þeirra heldur yrðu þeir bundnir af ákvörðun í erfðaskrá um þennan rétt makans. Að baki þessu bjó sú reynsla að stjúpniðjar stæðu frekar í vegi fyrir setu langlífari maka í óskiptu búi en sameiginlegir niðjar hjóna. Einnig sagði að unnt væri að mæla fyrir um þennan rétt maka í sameiginlegri erfðaskrá hjóna eða einhliða erfðaskrá þess skammlífari. Efnislega þyrfti aðeins að kveða á um rétt langlífari maka til setu í óskiptu búi og þá þyrfti hann ekki að leita afstöðu stjúpniðja sinna til umsóknar um leyfi til setu í óskiptu búi heldur fengist leyfið á grundvelli erfðaskrárinnar að öðrum skilyrðum fullnægðum. Loks var tekið fram að þegar leyfi væri veitt á þessum grunni ættu stjúpniðjar þess ekki kost að krefjast skipta eftir 14. gr. laganna en eftir sem áður gætu þeir krafist skipta vegna meðferðar langlífari makans á eignum búsins, sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna. 14. Með erfðalögum er ekki fortakslaust girt fyrir að heimild í erfðaskrá fyrir maka til setu í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum sé bundin skilyrðum. Er þess einnig að gæta að með erfðaskrá er hægt að koma í veg fyrir að langlífari maki sitji í óskiptu búi með sameiginlegum niðjum eða ófjárráða stjúpniðjum, sbr. 7. gr. og 1. mgr. 8. gr. laganna. Að þessu virtu hefur skammlífara hjóna ríkan rétt til að ráða því með erfðaskrá hvort skipti fara fram eða heimild verður veitt til setu í óskiptu búi. Hér verður jafnframt að gæta að þeirri grundvallarreglu erfðaréttar að virða beri vilja arfláta eins og hann kemur fram í erfðaskrá svo sem frekast er unnt. 15. Eins og áður greinir kom fram í sameiginlegri erfðaskrá hinnar látnu og varnaraðila að það hjónanna sem lengur lifði hefði heimild til að sitja í óskiptu búi eins lengi og það vildi. Þessi heimild átti þó að falla niður ef það þeirra sem lengur lifði gengi í hjónaband að nýju eða hæfi sambúð. Að baki þessu bjó augljóslega sá vilji að koma í veg fyrir að langlífari maki stofnaði til fjárhagslegrar samstöðu er fylgir hjúskap eða óvígðri sambúð og gæta þannig hagsmuna stjúpniðja sem ættu arf inni í óskiptu búi. Að því er varðar hjúskap leiðir þetta beint af 2. mgr. 13. gr. erfðalaga og því var í sjálfu sér óþarft að taka það atriði fram í erfðaskránni. Ekkert sambærilegt ákvæði er í erfðalögum um óvígða sambúð og því verður að gera áskilnað þar um í erfðaskrá. Að því gættu að það skilyrði þjónaði sama tilgangi og umrætt ákvæði erfðalaga var heimilt að mæla fyrir um í erfðaskránni að langlífari makinn gæti ekki setið í óskiptu búi ef hann stofnaði til sambúðar. Verður því ekki fallist á það með Landsrétti að þessi áskilnaður verði að engu hafður og lagaskilyrði skorti til að taka búið til skipta. 16. Í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi greindi varnaraðili frá því að hann og fyrrgreind kona hefðu orðið „kærustupar“ í febrúar eða mars 2020 og væru enn í sambandi. Einnig kannaðist varnaraðili við að hafa verið skráður til heimilis hjá henni frá og með maí og til loka október 2020. Eins og málið liggur fyrir geta gögn um ætlað leigusamband þeirra enga þýðingu haft um hvort til sambúðar hafi stofnast. Ekki nýtur við almennrar skilgreiningar á óvígðri sambúð í lögum og hafa ekki þýðingu í þessu sambandi lagaákvæði sem taka til slíkrar sambúðar á ýmsum réttarsviðum. Samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar að varnaraðili hafi stofnað til sambúðar í skilningi erfðaskrárinnar og við það hafi fallið niður heimild hans til setu í óskiptu búi eftir eiginkonu sína. Samkvæmt þessu verður tekin til greina krafa sóknaraðila um að dánarbúið verði tekið til opinberra skipta á grundvelli 3. mgr. 38. gr. laga nr. 20/1991. 17. Með úrskurði héraðsdóms var málskostnaður felldur niður. Sóknaraðili kærði ekki úrskurðinn fyrir sitt leyti til Landsréttar og því kemur krafa hans um málskostnað í héraði ekki til álita. Eftir úrslitum málsins verður varnaraðila hins vegar gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað fyrir Landsrétti og hér fyrir dómi sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Um gjafsóknarkostnað varnaraðila fer eins og segir í dómsorði. Dómsorð: Dánarbú C er tekið til opinberra skipta. Varnaraðili, B, greiði sóknaraðila, A, samtals 1.200.000 krónur í kærumálskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti. Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=e44990cc-18c6-4e3b-8e6b-d4fc8fb402df
Mál nr. 9/2021
Fasteign Galli Upplýsingaskylda
A og B kröfðu C um greiðslu á eftirstöðum kaupverðs vegna sölu á fasteign. Í málinu var deilt um hvort A og B hefðu við sölu íbúðar sinnar í fjöleignarhúsi til C vanrækt upplýsingaskyldu sína um samskiptavanda íbúa í húsinu þannig að galli teldist á fasteign í skilningi laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Einnig var ágreiningur um hvort C hefði sinnt aðgæsluskyldu í tilefni þeirra upplýsinga um samskiptavandann sem veittar hefðu verið við söluna. Þá deildu aðilar um hvort söluverð fasteignarinnar hefði tekið mið af þeim samskiptavanda sem um ræddi. Í dómi Hæstaréttar var fallist á með A og B að upplýsingar í kauptilboði um að kaupanda hefði verið kunnugt um samskiptavanda þeirra og eigenda íbúðar á miðhæð hefði gefið C tilefni til að afla sér frekari upplýsingar um þann vanda. Var talið fullnægjandi að inna A og B eða þann fasteignasala sem annaðist söluna frekar um samskiptavandann en fram hefði komið að C hefði gert það. Var talið að A og B hefðu leynt upplýsingum sem þær vissu um og máttu vita að C hefði haft réttmæta ástæðu til að ætla að hún fengi enda hefðu þær verið til þess fallnar að hafa áhrif á efni kaupsamnings. Með hliðsjón af matsgerð dómkvadds manns var því slegið föstu að umfang gallans hefði ekki numið lægri fjárhæð en eftirstöðvum kaupsverðs. Var C því sýknuð af kröfum A og B.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 8. febrúar 2021. Þær krefjast þess að stefndu verði gert að greiða þeim óskipt 1.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. mars 2018 til greiðsludags. Þá krefjast þær málskostnaðar á öllum dómstigum. 3. Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Ágreiningsefni 4. Í málinu er deilt um hvort áfrýjendur hafa við sölu íbúðar sinnar í fjöleignarhúsi til stefndu vanrækt upplýsingaskyldu sína um samskiptavanda íbúa í húsinu þannig að galli teljist á fasteign við sölu í skilningi laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Einnig er ágreiningur um hvort stefnda hefur sinnt aðgæsluskyldu í tilefni þeirra upplýsinga um samskiptavandann sem veittar voru við söluna. Þá deila aðilar um hvort söluverð fasteignarinnar hafi tekið mið af þeim samskiptavanda sem um ræðir. 5. Áfrýjunarleyfi var veitt 8. febrúar 2021 á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um upplýsingaskyldu seljanda við sölu fasteignar og hvað teljist galli í fasteignakaupum. Málsatvik Atvik fyrir og við kaup stefndu á íbúðinni 6. Í fjöleignarhúsinu að [...] eru þrjár íbúðir, ein á hverri hæð, og er sérinngangur í hverja þeirra. Íbúð sú sem mál þetta snýst um er á jarðhæð hússins. Hún var í eigu áfrýjenda, sem eru mæðgur, frá árinu 2015 þar til þær seldu stefndu hana með kaupsamningi 27. október 2017. Frá árinu 2016 hafa hjónin D og E ásamt dætrum sínum búið í íbúð á þriðju hæð hússins. Íbúð á miðhæð hússins er í eigu hjónanna F og G sem búið hafa þar frá júní 2015 ásamt börnum sínum. Íbúðin var afhent stefndu 31. janúar 2018 en hún mun hvorki hafa flutt í íbúðina né leigt hana út. 7. Samkvæmt gögnum málsins hafði mikill samskiptavandi verið milli íbúa í húsinu áður en stefnda keypti íbúðina af áfrýjendum. Töldu íbúar á jarðhæð og þriðju hæð hússins að G hefði sýnt af sér óvenjulega háttsemi, svo sem með því að skilja eftir sig á ýmsum stöðum í húsinu miða með óskiljanlegum skilaboðum og rifin dagblöð sem á voru ritaðir tölustafir og talnarunur, kasta salernispappír á lóðina, kríta á stéttir við húsið, færa til blómapotta í sameign og hrópa ókvæðisorð að öðrum íbúum hússins. Þá eru í gögnum málsins ýmis bréf og orðsendingar frá G með sundurlausu og lítt skiljanlegu efni sem beint var að íbúum hússins. 8. Samkvæmt bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 8. október 2019 hefur lögregla að minnsta kosti frá september 2015 fengið margar tilkynningar frá íbúum á jarðhæð og þriðju hæð hússins um vandræði tengd íbúum miðhæðarinnar, einkum G. Lutu kvartanirnar meðal annars að eignaspjöllum og tilraunum til líkamsárása. Í bréfinu er meðal annars að finna lýsingu tveggja kvenna sem bjuggu í húsinu og vildu ekki koma fram undir nafni um að þær óttuðust G vegna hegðunar hennar en hún væri andlega veik. Þá kemur fram að lögregla hefði nokkrum sinnum haft afskipti af íbúum miðhæðarinnar vegna þessara tilkynninga, en ekkert aðhafst frekar fyrr en 27. júlí 2016 að G veittist að áfrýjandanum A utandyra við húsið og sló hana tvívegis með flötum lófa í andlitið með þeim afleiðingum að hún hlaut bólgu og eymsli yfir hægra kinnbeini og upp að gagnauga og var aum viðkomu þar. 9. Í gögnum málsins er að finna tölvubréf 3. febrúar 2017 frá áfrýjandanum A til áðurgreinds E í tilefni af dagskrá fundar húsfélagsins sem stóð til að halda. Í bréfinu sagði meðal annars: „Það sem skiptir mestu máli og er aðalatriði. Við teljum hana/þau hættuleg, okkur stafar ógn af þeim. Enda getum við sýnt fram á að hún hefur beitt líkamlegu ofbeldi þar sem lögreglukæra er í gangi. Það er ekki æskilegt fyrir okkur að búa undir sama þaki þar sem hún er andlega veik og er ekki hæf til að búa í fjölbýli. Eina lausnin er að þau flytji eins fljótt og hægt er. Við aðrir íbúar í húsinu óskum eftir því.“ 10. Á aðalfundi húsfélagsins 15. mars 2017 var samþykkt tillaga um að fela stjórn þess í samráði við lögmann Húseigendafélagsins að veita G „áminningu og skora á hana að taka upp betri siði að viðlögðum úrræðum 55. gr. fjöleignarhúsalaga“. Í fundargerð voru tíundaðar lýsingar íbúa hússins á margvíslegri háttsemi G til stuðnings tillögunni. 11. Áðurnefndur F sendi beiðni 12. apríl 2017 til kærunefndar húsamála um álit á lögmæti samþykktarinnar. Kærunefndin veitti það álit 31. ágúst 2017 að ekki hefði verið löglega boðað til aðalfundarins. Væri hann því hvorki lögmætur né bindandi. 12. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2017 var G dæmd fyrir fyrrgreinda líkamsárás 27. júlí 2016. Var háttsemin heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og henni gert að greiða 50.000 króna sekt til ríkissjóðs auk 100.000 króna í miskabætur til áfrýjandans A. Kom fram í dóminum að áfrýjandinn hefði skýrt svo frá við aðalmeðferð málsins að umræddan dag hefði hún verið að koma akandi heim. Ekkert bílastæði hefði verið laust, en hún séð reiðhjól standa í bílastæði. Hún hefði tekið hjólið og lagt að grindverki og síðan ætlað að leggja bíl sínum í stæðið en heyrt högg og séð ruslapoka lenda á bílnum. G hefði komið að, tekið hjólið og þrykkt því utan í bílinn. Henni hefði tekist að komast út úr bílnum og spurt G hvort hún væri að skemma bílinn hennar en hún þá rekið áfrýjandanum þungan kinnhest. Áfrýjandinn hefði hringt í Neyðarlínuna en þá fengið annað högg og misst sólgleraugu við það. Hefði hún fengið suð fyrir eyrun og höfuðverk og farið á slysadeild. 13. Í ódagsettu söluyfirliti er fylgdi kaupsamningi kom fram að íbúðin á jarðhæð væri 111,4 fm að stærð og fasteignamat hennar 39.000.000 króna en ásett verð 53.500.000 krónur. Í kauptilboði stefndu 12. október 2017 um kaup eignarinnar fyrir 52.000.000 króna, samþykktu af áfrýjendum, var eftirfarandi sérstaklega tiltekið: „Kaupanda er kunnugt um samskiptavanda seljanda og eiganda miðhæðar í húsinu.“ Eins og áður greinir var svo gerður kaupsamningur 27. október 2017. Samkvæmt honum greiddi stefnda 12.000.000 króna við gerð hans og skyldi hún við afhendingu eignarinnar, eigi síðar en 20. janúar 2018, greiða 39.000.000 króna en 1.000.000 króna við útgáfu afsals tveimur mánuðum eftir afhendingu, eða 20. mars 2018. 14. Til viðbótar því sem fram kom í áðurnefndu kauptilboði var stefnda upplýst munnlega um vandamál sem verið höfðu í samskiptum áfrýjenda við íbúa miðhæðar hússins. Málsaðilum ber ekki saman í hverju þær upplýsingar fólust og hvort og með hvaða hætti samskiptavandi varðaði aðra íbúa hússins. Ágreiningslaust er að áfrýjandinn A hafi sagt stefndu að G væri að sínu áliti veik á geði og ætti að vera á lyfjum þess vegna. Þá er ekki ágreiningur um að stefnda hafi fengið upplýsingar um að G hafi bölsótast yfir hundahaldi áfrýjandans og hringt í hundaeftirlitsmann. Jafnframt hefur komið fram að fyrir kaupsamningsgerð var stefnda ekki upplýst um líkamsárásina árið 2016 eða refsidóm ári síðar vegna hennar. Loks liggur fyrir að hvorki áfrýjendur né fasteignasali sem annaðist söluna skýrðu stefndu hvorki frá fyrrgreindri samþykkt á húsfundi 15. mars 2017 né að áfrýjendur eða aðrir íbúar hússins hafi óttast G. 15. Í skýrslutöku fyrir dómi lýsti fasteignasalinn því að hann hefði ekki vitað um annað en að samskiptavandinn hefði einungis verið milli áfrýjandans A og G sem sýnt hefði af sér undarlega hegðun. Hann hefði þó hvorki vitað um alvarleika eða umfang vandans né að húsfélagið hefði viljað grípa til aðgerða gagnvart íbúum miðhæðarinnar eftir ákvæðum 55. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. 16. Frá 10. október 2017 og þar til kauptilboð stefndu var samþykkt 12. sama mánaðar áttu sér stað töluverð samskipti með smáskilaboðum milli fasteignasalans og stefndu með hugleiðingum um mögulegt kaupverð og greiðslutilhögun þess. Þar bar umræddan samskiptavanda ekki á góma. Atvik eftir kaup stefndu á íbúðinni 17. Aðilar máls lýsa því að stefnda hefði ásamt móður sinni heimsótt áfrýjandann A eftir kaupsamningsgerð, eða í desember 2017, og þær meðal annars rætt um samskiptavanda við íbúa á miðhæð. Á hinn bóginn ber þeim ekki saman um efni samtalsins. Kveðst áfrýjandinn A þá hafa lýst inntaki vandans en hvorki skýrt frá líkamsárás þeirri er hún varð fyrir né því að húsfélagið hefði freistað þess að fá íbúana á miðhæðinni brott úr húsinu. Stefnda kveður á hinn bóginn lýsingar áfrýjandans ekki hafa tekið til atriða sem valdið hefðu henni einhverjum áhyggjum, enda hefði áfrýjandinn neitað því aðspurð að nokkuð alvarlegt hefði komið upp milli hennar og nágranna á miðhæðinni. Það hefði ekki verið fyrr en eftir afhendingu eignarinnar 31. janúar 2018 að hún hefði frétt hjá samstarfskonu sinni að málið væri mun alvarlegra en hún hefði verið upplýst um. 18. Með bréfi 16. febrúar 2018 lýsti áfrýjandi yfir riftun á kaupunum með vísan til 42. gr. laga nr. 40/2002 sökum þess að fasteignin hefði verið haldin galla sem fæli í sér verulega vanefnd. Sagði þar að eftir afhendingu eignarinnar hefði stefnda fengið upplýsingar um að veruleg samskiptavandræði hefðu verið við eigendur miðhæðarinnar og að aðrir eigendur hússins hefðu freistað þess að fá þau borin út. Jafnframt hefðu eigendur miðhæðarinnar gerst sekir um líkamsárás gegn þremur eigendum annarra íbúða í húsinu. 19. Kröfu þessari var hafnað af hálfu áfrýjenda með bréfi 20. sama mánaðar með vísun til þess sem fram kom í kauptilboði stefndu um að henni hefði verið kunnugt um samskiptavanda „seljanda og eiganda“ miðhæðar hússins. Hefði tilgreindur fyrirvari vísað til þess að stefnda hefði verið vel upplýst um að annar eigandi miðhæðarinnar ætti við andleg veikindi að stríða og þann vanda sem hefði verið í samskiptum við báða eigendur miðhæðarinnar. 20. Stefnda höfðaði mál 9. maí 2018 á hendur áfrýjendum til viðurkenningar á að íbúðin sem hún keypti væri haldin galla og að áfrýjendum bæri að greiða henni skaðabætur og/eða veita afslátt af kaupverði vegna hans. Málið var þingfest 23. þess mánaðar en áfrýjendur höfðuðu gagnsök 12. júní það ár með kröfu um greiðslu eftirstöðva kaupverðs 1.000.000 króna með dráttarvöxtum frá 20. mars 2018. Með úrskurði héraðsdóms 23. nóvember 2018 var viðurkenningarkröfu stefndu vísað frá dómi. Stóð því eftir fjárkrafa áfrýjenda um greiðslu eftirstöðva kaupverðsins og er sú krafa til úrlausnar í máli þessu. 21. Að beiðni stefndu var dómkvaddur maður 7. janúar 2019 til að meta hvort unnt væri að staðfesta hvort umrædd íbúð hefði á söludegi 27. október 2017 verið verðminni en aðrar sambærilegar eignir þar sem engin vandamál væru með nágranna. Í öðru lagi hvort unnt væri að staðfesta að íbúðin hefði verið minna söluvænleg en aðrar sambærilegar eignir, þar sem engin vandamál væru milli nágranna og loks hver væri kostnaður á mánuði við að leigja sambærilega eign hvað varðar stærð, tegund fjölbýlishúss og staðsetningu frá febrúar 2018. Í niðurstöðu matsgerðar 26. mars 2019 sagði að unnt væri að staðfesta að íbúðin hefði verið verðminni vegna galla af þessum sökum sem næmi 5 til 8% af kaupverði. Vildi matsmaður taka fram að forsenda fyrir þessu mati væri að kaupandi hefði ekki verið upplýstur við sölu um vandamál með nágranna. Þá taldi matsmaður að íbúðin hefði ekki verið eins söluvænleg og aðrar sambærilegar eignir ef upplýst væri um þetta við sölu. Loks kom fram að samkvæmt verðsjá leiguverðs sem Þjóðskrá gæfi út hefði leiguverð á sambærilegu íbúðarhúsnæði [...] verið á bilinu 250.000 til 260.000 krónur á mánuði, án húsgjalda, rafmagns og hita. Matsmaður staðfesti matsgerð fyrir dómi. 22. Með héraðsdómi 2. október 2019 var stefnda sýknuð af kröfu áfrýjenda um greiðslu eftirstöðva kaupverðs. Talið var í ljós leitt að íbúðin hefði verið gölluð og gætu aðaláfrýjendur ekki borið fyrir sig að framangreindur fyrirvari þeirra í kauptilboði hefði átt að leiða til þess að stefndu hefði borið að leita frekari upplýsinga um samskiptavanda í fasteigninni en hún gerði. Vísað var til framburðar matsmanns um að markaðsverð eignarinnar án þessa galla hefði verið 52.000.000 króna og jafnframt til matsgerðar um rýrnun á verðgildi eignarinnar sökum hans. 23. Hinn 28. nóvember 2019 höfðaði húsfélagið að [...] dómsmál gegn eigendum miðhæðar hússins með kröfu um að þeim yrði gert skylt „að flytja, ásamt öllu sem þeim tilheyrir, út úr íbúð 0201 að [...]“. Þá var þess krafist að þeim yrði „gert skylt að selja umræddan eignarhluta sinn í húsinu“. Var málatilbúnaður húsfélagsins reistur á aðvörun 14. maí 2019 og vísað til atvika á tímabilinu frá 2015 til og með 2019. Með héraðsdómi 18. nóvember 2020 voru íbúar miðhæðarinnar sýknaðir af kröfum húsfélagsins. Í dóminum sagði meðal annars að ljóst væri að G hefði með háttsemi sinni valdið eigendum og íbúum hússins óróa og óþægindum. Þau kynnu að hafa af þessum sökum upplifað ótta gagnvart henni eins og þau hefðu lýst í skýrslum sínum fyrir dómi. Samrýmdist háttsemi hennar ekki almennum skyldum eigenda í fjöleignarhúsi um að sýna skuli tillitssemi og valda ekki óþarfa ama eða óþægindum, sbr. til hliðsjónar 3. og 4. tölulið 13. gr. og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 26/1994 og almennar reglur grenndarréttar. Að virtum gögnum málsins, þar með talið skráningum lögreglu og skýrslum fyrir dómi, yrði aftur á móti ekki fallist á að íbúar miðhæðarinnar hefðu brotið með þeim hætti gegn öðrum eigendum hússins að heimilt væri að beita íþyngjandi úrræðum samkvæmt 3. og 4. mgr. 55. gr. laga nr. 26/1994, sem áskildu að um gróf eða ítrekuð brot væri að ræða. Þá var sérstaklega tekið fram að líkamsárás gegn áfrýjandanum A á árinu 2016 gæti ekki haft beina þýðingu við úrlausn málsins, enda hún ekki lengur aðili að húsfélaginu. Yrði ekki fallist á að háttsemi eigenda miðhæðar hússins eftir að aðvörun hefði verið veitt hefði verið þess eðlis að réttmætt hefði verið að taka ákvörðun um beitingu umræddra úrræða, sbr. 2. mgr. 55. gr. laganna, enda hefðu þau tilvik sem húsfélagið legði áherslu á hvorki falið í sér ofbeldi, eignaspjöll né hótanir sem hefðu verið helsta tilefni aðvörunarinnar. 24. Með dómi Landsréttar 18. desember 2020 var héraðsdómur staðfestur um að fasteignin hefði verið haldin galla við sölu og jafnframt vísað til þess að áfrýjendur hefðu ekki sýnt fram á að með umsömdu kaupverði hefði verið tekið tillit til gallans. Lagagrundvöllur 25. Samkvæmt 26. gr. laga nr. 40/2002 telst fasteign gölluð ef kaupandi hefur ekki fengið þær upplýsingar um hana sem seljandi vissi eða mátti vita um og kaupandi hafði réttmæta ástæðu til að ætla að hann fengi. Þetta gildir þó aðeins ef það hefur haft áhrif á gerð eða efni kaupsamnings að upplýsingarnar voru ekki veittar. Þá segir í 1. mgr. 27. gr. laganna að fasteign teljist gölluð ef hún er ekki í samræmi við upplýsingar sem seljandi, eða aðrir þeir sem koma fram fyrir hans hönd, hafa veitt kaupanda. Hið sama eigi við ef fasteignin er ekki í samræmi við upplýsingar sem veittar voru í auglýsingum, söluyfirliti eða öðrum sölu- og kynningargögnum um hana. Ákvæði 1. mgr. 27. gr. laganna eigi þó aðeins við ef upplýsingar hafa haft áhrif á gerð eða efni kaupsamnings og þær ekki skýrlega leiðréttar í tæka tíð, sbr. 2. mgr. greinarinnar. 26. Í 29. gr. laganna er síðan að finna ákvæði um skoðun og aðra rannsókn á fasteign. Þar segir í 1. mgr. að kaupandi geti ekki borið fyrir sig galla á fasteign sem hann þekkti eða átti að þekkja þegar kaupsamningur var gerður. Hafi kaupandi skoðað fasteign áður en kaup gerðust eða án nægjanlegrar ástæðu látið undir höfuð leggjast að skoða hana, þótt seljandi hafi skorað á hann að gera það, geti hann ekki borið fyrir sig galla sem hann mátti sjá við slíka skoðun. Þetta eigi þó ekki við ef seljandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi eða framferði hans strítt með öðrum hætti gegn heiðarleika og góðri trú, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Loks er í 3. mgr. tekið fram að ákvæði 1. og 2. mgr. víki fyrir efni 26. gr. um skort á upplýsingum um fasteign. 27. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum um fasteignakaup segir um 26. gr. að upplýsingaskylda seljanda hafi tvíþætt réttaráhrif í fasteignakaupum, annars vegar að vanræksla á henni geti leitt til þess að fasteign sem ekki teldist gölluð teljist vera það og hins vegar að seljandi teljist skaðabótaskyldur vegna galla sem annars hefði ekki leitt til bótaskyldu heldur eingöngu afsláttar eða eftir atvikum riftunar ef galli teldist verulegur. Lengi hafi verið litið svo á að upplýsingaskylda seljanda sé hluti af gallahugtakinu í fasteignakaupum og talið að upplýsingaskyldan felist bæði í því að veita þær upplýsingar sem honum beri að láta í té og einnig að veita réttar upplýsingar. Ákvæði 26. gr. veiti einungis í almennum orðum lýsingu á inntaki þessarar skyldu því að margbreytileiki fasteigna sé slíkur að það ráðist mjög af atvikum hverju sinni hvenær seljandi fullnægir þessari skyldu sinni. Standi upplýsingaskylda seljanda til þess að veita kaupanda upplýsingar um fasteign sem seljandi vissi eða mátti vita um að kaupandi hefði réttmæta ástæðu til að ætla að hann fengi. Feli það í sér að seljandi skuli hafa frumkvæði að því að veita upplýsingar, en í því felist löglíkur fyrir því að seljandi þekki fasteign svo að hann geti upplýst kaupanda um galla á henni. Það standi seljanda nær að upplýsa um þetta, enda auðveldara fyrir hann en kaupanda að leita galla á henni. Þá hvíli aðgæsluskylda á kaupanda sem takmarki nokkuð upplýsingaskylduna, til dæmis eigi seljandi ekki að upplýsa kaupanda um augljós atriði sem kaupandi geti ekki búist við að fá upplýsingar um. 28. Í athugasemdum við 27. gr. segir einnig að um skýringu á þeirri grein megi að hluta vísa til athugasemda við 26. gr. Vanræksla á upplýsingaskyldu og rangar upplýsingar af hálfu seljanda, sem löglíkur séu á að þekki fasteign til hlítar, sé almennt saknæm háttsemi og eigi því eðlilega að hafa lögfylgjur. Þó beri að undirstrika að ekki sé áskilnaður um saknæma háttsemi seljanda. Þess vegna geti komið til þess að rangar upplýsingar teljist hafa verið veittar þótt seljandi hafi gert það í grandleysi sínu. Með röngum upplýsingum sé ekki aðeins átt við upplýsingar sem eru beinlínis rangar heldur og misvísandi upplýsingar og upplýsingar sem eru aðeins hálfur sannleikur, svo og upplýsingar sem fallnar eru til þess að valda misskilningi. Það sé á ábyrgð seljanda að tjá sig skýrt í þessum efnum. 29. Í athugasemdum við 29. gr. segir meðal annars að ekki hafi þótt rétt að leggja til reglu um fortakslausa skoðunarskyldu kaupanda. Í 1. mgr. væri mælt fyrir um almenna reglu þess efnis að kaupandi gæti ekki borið fyrir sig galla sem hann þekkti til eða átti að þekkja til þegar kaupsamningur var gerður. Reglan um réttindamissi kaupanda vegna þess að hann hafi ekki sinnt aðgæsluskyldu sinni eigi ekki við hafi seljandi sýnt af sér háttsemi sem feli í sér stórkostlegt gáleysi eða framferði hans stríði með öðrum hætti gegn heiðarleika og góðri trú. Loks sé með 3. mgr. sérstaklega ítrekað að upplýsingaskylda seljanda standi óhögguð og takmarkist ekki af aðgæsluskyldu kaupanda. 30. Í 55. gr. laga nr. 26/1994 segir meðal annars að gerist íbúi húss sekur um gróf eða ítrekuð brot á skyldum sínum gagnvart húsfélagi eða eigendum, einum eða fleirum, geti húsfélag með ákvörðun lagt bann við búsetu og dvöl hins brotlega í húsinu, gert honum að flytja og krafist þess að hann selji eignarhluta sinn. Áður en húsfélag grípur til aðgerða skal það að lágmarki einu sinni skora á hinn brotlega að taka upp betri siði og vara hann við afleiðingum þess ef hann lætur sér ekki segjast. Láti hinn brotlegi ekki skipast er húsfélagi rétt að banna honum búsetu og dvöl í húsinu og skipa honum að flytja á brott með fyrirvara. Með sama hætti er húsfélagi unnt að krefjast þess að hinn brotlegi selji eignarhluta sinn svo fljótt sem auðið er. Skal veita honum sanngjarnan frest í því skyni sem skal þó að jafnaði ekki vera lengri en þrír mánuðir. 31. Þá kemur fram í 25. gr. laga nr. 26/1994 að þegar eign, sem lögin taka til, er seld skuli seljandi áður en kaupsamningur er undirritaður kynna kaupanda helstu atriði er varða fjöleignarhúsið þar með talið sérstakar samþykktir húsfélagsins ef um þær er að ræða. Annist löggiltur fasteignasali sölu eignar í fjöleignarhúsi skal hann sjá til þess að slíkar upplýsingar og gögn séu rækilega kynnt kaupanda áður en kaupsamningur er gerður og undirritaður. Í athugasemdum með frumvarpi að lögunum segir að greinin hafi það markmið að tryggja að sem gleggst gögn og upplýsingar liggi fyrir við sölu og koma þannig í veg fyrir deilur og eftirmál síðar. Niðurstaða 32. Samkvæmt framansögðu telst fasteign gölluð ef hún stenst ekki þær kröfur sem kaupandi má með réttu gera til hennar um gæði, búnað og annað sem leiðir af lögum eða samningi. Skiptir í því sambandi máli hvaða kröfur kaupandi má gera á framangreindum grundvelli til ástands fasteignar í víðasta skilningi. Getur úrlausn um hvort galli er til staðar ráðist af mörgum þáttum svo sem um hvað var samið, hvað seljandi upplýsti um eða lét hjá líða að upplýsa, sbr. 26. og 27. gr. laga nr. 40/2002, eða hvort kaupandi hefur sinnt aðgæsluskyldu sinni, sbr. 29. gr. laganna. Samskiptavandi íbúa í fjöleignarhúsi sem ekki er nægilega upplýst um við sölu getur talist til galla á fasteign. 33. Við mat á efnislegu inntaki upplýsingaskyldu seljanda fasteignar verður að líta til þess að orðalag 26. gr. laga nr. 40/2002 er rúmt að því leyti að seljanda ber að upplýsa kaupanda um atriði sem áhrif geta haft á ákvörðun hans um kaup á fasteign og efni tilboðs þar um. Breyta ákvæði laganna um aðgæsluskyldu kaupanda því ekki, sbr. 3. mgr. 29. gr. þeirra, og stendur skylda seljanda óhögguð ef vafi rís um hverjar upplýsingar hafa verið veittar við sölu. 34. Fallist er á með áfrýjendum að upplýsingar í kauptilboði um að kaupanda væri kunnugt um samskiptavanda áfrýjenda og eigenda íbúðar á miðhæð hafi gefið stefndu tilefni til að afla sér frekari upplýsinga um þann vanda. Hér var fullnægjandi að inna áfrýjendur eða þann fasteignasala sem annaðist söluna frekar út í þýðingu þeirrar yfirlýsingar sem um ræðir. Fram er komið að stefnda leitaði nánari upplýsinga hjá fasteignasalanum en hann benti henni á að ræða við áfrýjandann A um þetta, sem hún og gerði. Þótt fallist verði á með áfrýjendum að ekki hefði þurft að tíunda í smæstu atriðum inntak samskiptavandans í húsinu og miðað verði við að stefnda hafi fengið nokkrar upplýsingar um vanda þennan þá bar áfrýjendum samkvæmt framansögðu að upplýsa um þau atriði sem þau vissu eða máttu vita að stefnda hefði réttmæta ástæðu til að ætla að hún fengi. 35. Eins og áður greinir kemur meðal annars fram í tölvubréfi áfrýjandans A 3. febrúar 2017 og fundargögnum vegna fundar húsfélagsins 15. mars 2017 að íbúar á jarðhæð og þriðju hæð hússins töldu að þeim stæði veruleg ógn af íbúa á miðhæðinni. Töldu þau ástandið svo alvarlegt að þau væru knúin til að grípa til aðgerða samkvæmt 55. gr. laga nr. 26/1994. Að virtum ákvæðum 26. og 27. gr. laga nr. 40/2002 var framangreind samþykkt á aðalfundi húsfélagsins 15. mars 2017 þess eðlis að nauðsyn bar til að kynna stefndu hana fyrir kaupin, sbr. og 1. og 5. mgr. 25. gr. laga nr. 26/1994. Skiptir þá ekki máli að ágallar voru á boðun til aðalfundarins. Einnig bar áfrýjendum að veita upplýsingar um líkamsárás gagnvart öðrum áfrýjenda sem íbúi miðhæðarinnar hlaut refsidóm fyrir 27. júlí 2016. Þessi atriði gátu með engu móti rúmast innan áðurnefndrar yfirlýsingar um samskiptavanda í samþykktu kauptilboði. 36. Samkvæmt framansögðu leyndu áfrýjendur upplýsingum sem þær vissu um og máttu vita að stefnda hefði réttmæta ástæðu til að ætla að hún fengi enda voru þær til þess fallnar að hafa áhrif á efni kaupsamnings. Fullyrðing áfrýjenda um að söluverð hefði að endingu orðið 1.500.000 króna lægra en ásett verð í söluyfirliti vegna samskiptavanda fær hvorki stoð í frásögn fasteignasala sem annaðist söluna, framburði matsmanns fyrir dómi né öðrum gögnum málsins um samskipti málsaðila fyrir kaupin. Telst þetta því galli við kaupin. 37. Með hliðsjón af matsgerð hins dómkvadda manns verður því slegið föstu að umfang gallans nemi ekki lægri fjárhæð en eftirstöðvum kaupverðs. 38. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur og áfrýjendum gert að greiða stefndu málskostnað hér fyrir dómi eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjendur, A og B, greiði óskipt stefndu, C, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=858672d0-e912-477b-b547-424208faaab8
Mál nr. 29/2021
Kærumál Sameignarfélag Frávísun Landsréttar felld úr gildi Frávísunarkröfu hafnað
Kært var ákvæði í dómi Landsréttar þar sem kröfu L og G um að D&T sf. yrði gert að veita þeim aðgang að nánar tilgreindum gögnum og upplýsingum að viðlögðum dagsektum, var vísað frá héraðsdómi. Krafan byggði á 20. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög um upplýsingaskyldu gagnvart félagsmönnum. Hæstiréttur taldi að dómkrafa L og G væri nægilega skýr með tilliti til d- og e-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Í niðurstöðu sinni vísaði Hæstiréttur til þess að það væri háð lögskýringu hvað fælist í fyrirmælum lagaákvæðis um rétt til aðgangs að gögnum. Féllist dómari ekki á ýtrustu kröfur sóknaraðila um aðgang að gögnum og upplýsingum, bæri honum að leysa úr því efnislega hvað rúmist innan þeirrar kröfugerðar og lagaheimildar sem byggt væri á í málinu. Var ákvæði hins kærða dóms um frávísun á kröfum sóknaraðila frá héraðsdómi því fellt úr gildi og málinu vísað til Landsréttar til efnismeðferðar. Fundið var að því að Landsréttur hefði tvisvar sinnum fjallað um sömu frávísunarkröfu D&T sf. með tveimur gagnstæðum niðurstöðum án þess að útskýrt væri í hinum kærða dómi hvaða nýju upplýsingar leiddu til þess að rétturinn væri óbundinn af fyrri úrskurði um sömu atriði, í samræmi við 3. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 2. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júní 2021 sem barst réttinum 7. sama mánaðar. Kærumálsgögn bárust réttinum 14. júní. Kært er ákvæði í dómi Landsréttar 21. maí 2021 um að vísa frá héraðsdómi kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 3. Sóknaraðilar krefjast þess að ákvæði dómsins um að vísa kröfum þeirra á hendur varnaraðila frá dómi verði fellt úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar að því leyti. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar. 4. Varnaraðili gerir aðallega þá kröfu að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að dómur Landsréttar um frávísun dómkrafna sóknaraðila á hendur varnaraðila frá héraðsdómi verði staðfestur. Þá krefst hann staðfestingar hins kærða dóms og kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti. Málsatvik 5. Sóknaraðilar höfðuðu mál þetta 30. nóvember 2018 gegn varnaraðila og Deloitte ehf. Tilefni málshöfðunarinnar var að sóknaraðilum var sagt upp störfum sem endurskoðendur hjá Deloitte ehf. með bréfi forstjóra félagsins 19. desember 2017 og var þeim þá jafnframt tilkynnt um innlausn eignarhluta sem þeir áttu í varnaraðila. Í stefnu til héraðsdóms voru kröfur sóknaraðila í aðalsök að varnaraðila yrði gert að veita þeim aðgang að nánar tilgreindum gögnum og upplýsingum að viðlögðum dagsektum. Í varasök kröfðust sóknaraðilar þess að varastefnda Deloitte ehf. yrði gert að veita þeim aðgang að nánar tilgreindum gögnum og upplýsingum að viðlögðum dagsektum. 6. Sóknaraðilar hafa mótmælt lögmæti uppsagnarinnar og yfirlýsingar um innlausn og telja að þeim sé nauðsynlegt að fá aðgang að þeim gögnum og upplýsingum sem krafa þeirra tekur til svo að þeir geti staðreynt hvort réttilega hafi verið staðið að uppsögn þeirra og innlausn á eignarhlutum. Til stuðnings kröfum sínum gagnvart varnaraðila vísa sóknaraðilar til 20. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög sem ber yfirskriftina „Upplýsingaskylda gagnvart félagsmönnum”. Sóknaraðilar byggja kröfur sínar á því að þeir séu enn félagsmenn í varnaraðila þar sem forstjóra Deloitte ehf. hafi skort umboð til að segja upp ráðningarsamningi þeirra við félagið og lýsa yfir innlausn á eignarhlutum þeirra. Þeir halda því einnig fram að forsendur uppgjörsins séu rangar sem hafi leitt til þess að þeir hafi fengið minna í sinn hlut en þeir ættu rétt á. Óumdeilt sé að þeir hafi verið félagsmenn í varnaraðila til loka árs 2017. 7. Með úrskurði héraðsdóms 26. júní 2019 var málinu vísað frá dómi. Byggðist sú niðurstaða á því að í kröfum og málatilbúnaði sóknaraðila fælist lögspurning auk þess sem ekki hefði verið sýnt fram á hvaða lögvörðu hagsmunir það væru sem réttlættu að krafa þeirra um afhendingu afrita og aðgang að fundarboðum, fundargerðum stjórnar og félagsfunda og fundargögnum á rúmlega tveggja ára tímabili skyldi tekin til greina. Auk þessi væri í sumum dómkröfuliðum krafist aðgangs að gögnum og upplýsingum án frekari útlistunar á því hvaða skjölum krafan lyti að. Var því fallist á frávísunarkröfu varnaraðila með vísan til þess að skilyrði 1. og 2. mgr. 25. gr. svo og e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 væru ekki uppfyllt. 8. Sóknaraðilar kærðu úrskurð héraðsdóms til Landsréttar og kröfðust þess að hann yrði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Í úrskurði Landsréttar 3. september 2019 í máli nr. 541/2019 var fallist á að sóknaraðilar hefðu hagsmuni af því að fá aðgang að gögnum og upplýsingum um starfsemi varnaraðila enda augljóst að þau gætu skipt máli við ákvörðun um hvort réttilega var staðið að ákvörðunum um innlausn á eignarhlutum og útreikningi á uppgjöri við þá. Í niðurlagi úrskurðarins sagði jafnframt: „Kröfur sóknaraðila beinast að því að þeim verði veittur aðgangur að gögnum og eru því skýrar um efni þeirra réttinda sem krafist er. Röksemdir varnaraðila um að kröfugerð sóknaraðila sé óskýr að þessu leyti eru haldlausar.“ Þá var tekið fram að ef málsástæður sem sóknaraðilar hefðu teflt fram í málinu til stuðnings kröfum sínum væru ekki á rökum reistar leiddi það til sýknu varnaraðila en ekki til frávísunar málsins. Landsréttur felldi samkvæmt framansögðu hinn kærða úrskurð úr gildi og lagði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. 9. Með héraðsdómi 29. janúar 2020 var leyst efnislega úr kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila. Var honum gert að veita sóknaraðilum hvorum um sig aðgang að tilgreindum gögnum og upplýsingum að viðlögðum dagsektum. 10. Dóminum var áfrýjað til Landsréttar af hálfu varnaraðila sem kvað upp þann dóm sem kæra málsins lýtur að. Í dóminum var áréttað að upplýsingaskylda gagnvart félagsmönnum í sameignarfélögum væri rík, en það helgaðist meðal annars af eðli sameignarfélaga og innbyrðis trúnaðarskyldum á milli félagsmanna og félags. Í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/2007 væri fjallað um skyldu félagsmanna til að veita öðrum félagsmönnum upplýsingar án ástæðulauss dráttar og í 3. mgr. um rétt félagsmanns til að krefjast þess að fá að skoða hvers konar gögn félags, þar á meðal að rannsaka reikninga félagsins og gögn sem tengjast reikningsgerð og bókhaldi. Auk þess gæti félagsmaður falið sérfróðum manni að afla slíkra upplýsinga. Hins vegar væri hvorki í ákvæðum 20. gr. laganna né lögskýringargögnum tekin bein afstaða til þess hvort félagsmenn í sameignarfélagi skyldu fá í hendur gögn eða afrit þeirra eða rétt til aðgangs að gögnum sem væri ótvírætt rýmri að efni til en fyrrgreind orð 20. gr. Sóknaraðilar hefðu þegar hafnað boði varnaraðila um að þeir gætu kynnt sér hluta umbeðinna gagna hjá varnaraðila án heimildar til afritunar þeirra. Taldi rétturinn einsýnt að kröfugerð varnaraðila í héraði, eins og ákvæði 20. gr. yrðu skýrð, myndi ekki ná þeim tilgangi sem málssóknin stefndi í reynd að sem væri að fá afhent tilgreind gögn eða afrit þeirra. Var því talið óhjákvæmilegt að vísa dómkröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila frá héraðsdómi af sjálfsdáðum. Málsástæður 11. Sóknaraðilar byggja kröfu sína í fyrsta lagi á því að fyrri úrskurður Landsréttar í máli nr. 541/2019 um að hafna frávísun hafi bindandi réttaráhrif í málinu og sami dómstóll geti ekki nú komist að gagnstæðri niðurstöðu að þessu leyti. Í öðru lagi telja sóknaraðilar að það rúmist fyllilega innan kröfugerðar þeirra að dómstóll taki efnislega afstöðu til afhendingar á upplýsingum og á hvaða formi það skuli gert. Þótt rétturinn féllist ekki á ýtrustu kröfur um afrit af gögnum hefði hann átt að taka afstöðu til þess sem skemur gengi um hvernig ætti að veita upplýsingar á grundvelli 20. gr. laga nr. 50/2007 og þannig leysa úr því hvað fælist í upplýsingarétti samkvæmt ákvæðinu. 12. Varnaraðili byggir aðalkröfu sína, að málinu verði vísað frá Hæstarétti, á a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem óumdeilt sé að bæði héraðsdómur, í úrskurði 26. júní 2019, og Landsréttur í þeim dómi sem hér er til umfjöllunar hafi komist að því að vísa beri kröfu sóknaraðila á hendur honum frá dómi, sé ekki heimild að skjóta þeim ágreiningi til meðferðar hjá þriðja dómstigi. Varakröfu sína um staðfestingu á dómi Landsréttar byggir varnaraðili einkum á 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um að dómari megi ekki fara út fyrir kröfugerð aðila. Þá sé dómkrafa þeirra um aðgang að gögnum í engu samræmi við 20. gr. laga nr. 50/2007 þar sem hvergi sé getið um rétt til slíks aðgangs. Niðurstaða 13. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 sæta dómsathafnir Landsréttar um frávísun máls frá héraðsdómi að hluta eða að öllu leyti kæru til Hæstaréttar ef ekki er um að ræða staðfestingu á slíkri dómsathöfn héraðsdóms. Í máli því sem hér er til úrlausnar fól ákvæði í dómi Landsréttar um að vísa frá dómi kröfu sóknaraðila ekki í sér staðfestingu á héraðsdómi 29. janúar 2020 þar sem leyst var úr öllum kröfum sóknaraðila að efni til. Þótt kröfum sóknaraðila hafi verið vísað frá á tveimur dómstigum í aðgreindum málaferlum var ekki um staðfestingu Landsréttar á dómsathöfn héraðsdóms að ræða sem áskilin er í áðurgreindu ákvæði laga nr. 91/1991. Því er kæruheimild fyrir hendi og ber af þeirri ástæðu að hafna aðalkröfu varnaraðila um frávísun málsins frá Hæstarétti. 14. Í málinu hefur Landsréttur tvisvar sinnum fjallað um frávísun málsins með tveimur gagnstæðum niðurstöðum. Þegar lagt er mat á þá staðhæfingu sóknaraðila að fyrri úrskurður réttarins í máli nr. 541/2019 hafi bindandi réttaráhrif og sami dómstóll geti ekki nú komist að gagnstæðri niðurstöðu að þessu leyti, ber að líta til meginreglu 1. mgr. 116. laga nr. 91/1991 um að dómur sé bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra sem koma að lögum í þeirra stað, um þær kröfur sem eru dæmdar þar að efni til. Jafnframt segir í 2. mgr. greinarinnar að krafa sem hefur verið dæmd að efni til verði ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól. Af þessu verður ályktað að hafi krafa ekki verið dæmd að efni til heldur aðeins um atriði sem lúta að formhlið hennar hafi slík ákvörðun ekki bindandi réttaráhrif með sama hætti og dómur um efnishlið máls. Engu að síður getur fyrri ákvörðun dómstóls um að hafna frávísun haft áhrif sé hún borin upp á nýjan leik við sama dómstól. Um þá aðstöðu segir í 3. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 að þegar dómari hrindir frávísunarkröfu sé hann ekki bundinn af þeim úrskurði ef nýjar upplýsingar koma fram síðar undir rekstri máls um þau atriði sem úrskurðað var um. Í dómaframkvæmd hefur umrætt skilyrði verið skýrt fremur rúmt, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 23. ágúst 2010 í máli nr. 415/2010 og 8. maí 2008 í máli nr. 194/2008. Af þessum dómum verður þó ráðið að dómstóll skuli tilgreina ástæður þess að hann breyti fyrri afstöðu sinni til kröfu um frávísun máls, svo sem ef forsendur eru breyttar, nýjar frávísunarkröfur komnar fram eða málatilbúnaður lýtur að öðrum atriðum en við fyrri úrlausn þess. 15. Í hinum kærða dómi Landsréttar tók rétturinn aðra afstöðu til kröfugerðar og málatilbúnaðar sóknaraðila en í úrskurði sínum í máli nr. 541/2019 sem leiddi til gagnstæðrar niðurstöðu hans um frávísunarkröfu varnaraðila. Í þeim úrskurði kom fram að kröfur sóknaraðila um aðgang að gögnum væru skýrar um efni þeirra réttinda sem krafist væri. Í hinum kærða dómi segir hins vegar að slíkt misræmi sé milli kröfugerðar og málatilbúnaðar sóknaraðila og 20. gr. laga nr. 50/2007 að kröfugerðin myndi ekki ná þeim tilgangi sem málssóknin stefni í reynd að, sem væri að fá afhent tilgreind gögn eða afrit þeirra. Í dóminum skortir þó útskýringar á því hvaða nýju upplýsingar leiddu til þess að rétturinn væri nú óbundinn af fyrri úrskurði í samræmi við 3. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991. Þetta getur þó ekki valdið því að ákvörðun sem tekin er að réttu lagi um að vísa máli frá héraðsdómi verði felld úr gildi af þeirri ástæðu einni að ekki sé vísað til slíkra upplýsinga. Af því leiðir að óhjákvæmilegt er að meta hvort ástæða sé til frávísunar á kröfum sóknaraðila frá dómi. 16. Samkvæmt d- og e-liðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má dómkröfur stefnanda og þær málsástæður sem hann byggir málsókn sína á. Dómkrafa sóknaraðila er skýr að því leyti að hún lýtur að skyldu varnaraðila til að veita þeim aðgang að tilgreindum gögnum og upplýsingum. Í undirliðum dómkröfunnar um einstaka gögn er síðan ýmist vísað til afrits gagna, endanlegra samþykkta skjala, upplýsinga um fjárhæðir tiltekinna greiðslna, yfirlita eða samninga. 17. Krafa sóknaraðila er byggð á 20. gr. laga nr. 50/2007 um upplýsingaskyldu gagnvart félagsmönnum. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar er skylt að veita félagsmönnum í sameignarfélagi upplýsingar um starfsemi þess og samkvæmt 3. mgr. getur félagsmaður krafist þess að fá að skoða hvers konar gögn félags, þar á meðal rannsaka reikninga og gögn sem tengjast reikningsgerð og bókhaldi eða fela sérfróðum manni að afla upplýsinga. Ákvæðið mælir ekki nákvæmlega fyrir um hvernig upplýsingar skulu veittar eða á hvaða formi. Slíka skyldu er augljóslega hægt að inna af hendi með ýmsum aðferðum sem ganga misjafnlega langt. Lengst gengur krafa um að fá afhent tiltekin gögn, því næst krafa um afrit gagna en skemmra ganga kröfur um heimild til að skoða gögn eða jafnvel aðeins að fá veittar upplýsingar úr þeim. Um inntak þess hvað felst í aðgangi að gögnum eða upplýsingum er ekki að finna fastmótaða skilgreiningu í íslenskum lögum en undir það geta fallið allar þær aðferðir sem lýst er að framan. Verður að leysa úr kröfu um rétt til aðgangs að gögnum eða upplýsingum á grundvelli þeirra lagaheimildar sem liggur fyrir hverju sinni en einnig út frá eðli þeirra upplýsinga sem krafist er, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 3. september 2002 í máli 373/2002 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 2657. Í undirliðum í dómkröfum sóknaraðila er einmitt gerður greinarmunur á því hvort krafist er afrita af tilteknum gögnum eða eftir atvikum aðeins upplýsinga um tiltekin atriði úr þeim. 18. Eins og fram kemur í áðurgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 373/2002 er háð lögskýringu hvað felst í fyrirmælum lagaákvæðis um rétt til aðgangs að gögnum. Sömu sjónarmið eiga við í þessu máli um skýringu á því hvað felst í þeirri upplýsingaskyldu félagsmanna í sameignarfélagi gagnvart öðrum félagsmönnum sem mælt er fyrir um í 20. gr. laga nr. 50/2007 og jafnframt hversu langt upplýsingaréttur hinna síðarnefndu nær samkvæmt ákvæðinu. Fallist dómari ekki á ýtrustu kröfur sóknaraðila um aðgang að gögnum og upplýsingum, ber honum að leysa úr því efnislega hvað rúmast innan þeirrar kröfugerðar og lagaheimildar sem á er byggt í málinu. Reynist málsástæður sóknaraðila ekki á rökum reistar leiðir það til þess að kröfur þeirra verði að einhverju eða öllu leyti ekki teknar til greina. 19. Samkvæmt framansögðu verður ákvæði hins kærða dóms um frávísun á kröfum sóknaraðila frá héraðsdómi fellt úr gildi og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dóms að nýju. 20. Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Fellt er úr gildi ákvæði dóms Landsréttar um frávísun á kröfum sóknaraðila, Lárusar Finnbogasonar og Guðmundar Kjartanssonar, frá héraðsdómi og lagt fyrir Landsrétt að taka þær til efnismeðferðar. Varnaraðili, D&T sf., greiði sóknaraðilum hvorum um sig 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Mál nr. 24/2021
Kærumál Dómari Vanhæfi Sératkvæði
Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu X um að tveir landsréttardómarar vikju sæti í máli ákæruvaldsins gegn honum.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. maí 2021 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 26. maí 2021 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson og Jóhannes Sigurðsson vikju sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í b-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. 3. Varnaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. 4. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Ágreiningsefni 5. Mál þetta var höfðað með ákæru héraðssaksóknara 21. desember 2017 þar sem ákærða og öðrum manni var gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot sem talið var varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 6. Með héraðsdómi 25. apríl 2018 var ákærði sýknaður af brotinu þar sem sök þótti ekki sönnuð. Meðákærði var hins vegar sakfelldur og refsing hans ákveðin fangelsi í 6 ár og 6 mánuði. Hann undi dóminum. Ákæruvaldið áfrýjaði málinu og krafðist þess að ákærði yrði sakfelldur í samræmi við ákæru og honum gerð refsing. Með dómi Landsréttar 20. desember 2019 var ákærði sakfelldur fyrir brotið og gert að sæta fangelsi í 5 ár. 7. Hæstiréttur veitti leyfi 30. október 2020 til að málinu yrði áfrýjað til réttarins. Með dómi Hæstaréttar 18. mars 2021 í máli nr. 34/2020 var dómur Landsréttar ómerktur og málinu vísað heim til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að ákærði hefði skorast undan að gefa skýrslu um sakargiftir fyrir Landsrétti. Þrátt fyrir það hafi ekki verið spilaðar myndupptökur af skýrslu ákærða og meðákærða fyrir héraðsdómi. Því hafi engin munnleg sönnunarfærsla farið fram fyrir Landsrétti ef frá væri talið að spiluð hefði verið símaskýrsla fyrir héraðsdómi af einum lögreglumanni. Engu að síður hefði Landsréttur endurskoðað sönnunargildi munnlegs framburðar og komist að þeirri niðurstöðu að skýringar ákærða og meðákærða um tiltekin atriði væru mjög óljósar og ótrúverðugar. Hæstiréttur taldi að þessi málsmeðferð fyrir Landsrétti hefði farið í bága við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu og því verið í ósamræmi við áskilnað um réttláta málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Talið var að þar sem aðferð við sönnunarmatið hefði að þessu leyti verið ófullnægjandi yrði að ómerkja hinn áfrýjaða dóm. 8. Jafnframt var í dómi Hæstaréttar gerð sú athugasemd við dóm Landsréttar í málinu að þar sem ákærði væri sóttur til saka fyrir brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga yrði ekki refsað fyrir það nema ásetningur hefði staðið til þess. Röksemdafærsla fyrir sakfellingu ákærða í hinum áfrýjaða dómi lyti öðrum þræði að gáleysi sem grundvelli saknæmis. 9. Málið var tekið aftur til meðferðar í Landsrétti af þremur dómurum en tveir þeirra, Davíð Þór Björgvinsson og Jóhannes Sigurðsson, höfðu áður kveðið upp efnisdóm í því. Munnlegur málflutningur fór fram í Landsrétti 17. maí 2021 um kröfu ákærða um að umræddir landsréttardómarar vikju sæti en þeirri kröfu var hafnað með hinum kærða úrskurði. 10. Varnaraðili byggir kröfu sína um að landsréttardómararnir tveir víki sæti einkum á því að þeir hafi þegar myndað sér skoðun á sekt hans á grundvelli skriflegra gagna en ekki með því að hlýða á framburð meðákærða og tilgreinds lögreglumanns í héraði. Hann telur að þrátt fyrir brottfall 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 séu þau sjónarmið sem ákvæðið byggðist á í fullu gildi. Í málinu sé nákvæmlega sama staða uppi og ákvæðið tók til. Staða Hæstaréttar gagnvart Landsrétti varðandi munnlega sönnunarfærslu sé sú sama eftir tilkomu Landsréttar og staða Hæstaréttar var gagnvart héraðsdómstólum fyrir tilkomu Landsréttar að því leyti að Hæstiréttur endurmetur ekki gildi munnlegrar sönnunarfærslu. 11. Sóknaraðili telur að varnaraðili dragi of víðtækar ályktanir af umfjöllun Hæstaréttar í dómi í máli nr. 34/2020. Hann tekur undir forsendur og niðurstöður í hinum kærða úrskurði og leggur áherslu á að dómur Landsréttar hafi verið ómerktur á þeim grundvelli að aðferð Landsréttar við sönnunarmat hafi verið ófullnægjandi en ekki að sönnunarmatið hafi verið rangt. Niðurstaða 12. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að fyrrnefndum lögum segir að skilyrðið um óhlutdrægan dómstól feli í sér áskilnað um að dómari í máli þurfi að vera hlutlaus og að aðilar njóti jafnræðis að því leyti, en ákvæðið sækir fyrirmynd sína til 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. 13. Þegar lagt er mat á hæfi dómara til að fara með mál verður að gæta að því að tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er ekki einungis að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum máls og efni þess heldur einnig að tryggja traust aðila jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari komi að úrlausn máls ef réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans. Sé réttmætur vafi um óhlutdrægni dómara er óhjákvæmilegt að hann víki sæti í máli, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 22. apríl 2015 í máli nr. 511/2014 og 1. júní 2017 í máli nr. 90/2016. 14. Samkvæmt dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hefur við úrlausn um það hvort dómari telst óvilhallur í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verið greint á milli annars vegar athugunar er miðar að því að ganga úr skugga um hvaða viðhorf hafa ráðið hjá dómara í tilteknu máli og þá einkum hvort dómari hefur sýnt af sér fordóma eða hlutdrægni (huglægur mælikvarði) og hins vegar athugunar á því hvort til staðar eru hlutlæg atriði sem gefi réttmætt tilefni til að draga í efa að dómari sé óvilhallur (hlutlægur mælikvarði). 15. Samkvæmt hinum huglæga mælikvarða um hæfi dómara verður um persónulega afstöðu hans að gera ráð fyrir því að hann sé hæfur til meðferðar máls nema sýnt sé fram á hið gagnstæða. Af hálfu varnaraðila hafa ekki verið lögð fram gögn er sýna fram á að landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson og Jóhannes Sigurðsson hafi þá persónulegu afstöðu til sakarefnisins, ákærða eða annarra þeirra sem koma við sögu í málinu að hæfi þeirra verði með réttu dregið í efa af þeim sökum. 16. Þegar meta skal hvort draga má óhlutdrægni dómara með réttu í efa ber jafnframt að líta til þess út frá hlutlægum mælikvarða hvort fyrir hendi eru sýnileg ytri atvik eða aðstæður sem gefa réttmætt tilefni til að óttast megi um hlutlægni hans í málinu. Hlutlæga prófið lýtur meðal annars að tengslum dómara við sakarefni máls, aðila, fyrirsvarsmenn, vitni og málflytjendur. Ekki er nægilegt að dómari sjálfur telji sig óhlutdrægan heldur verður ásýnd dómstóls að vera með þeim hætti að ekki sé uppi réttmætur vafi um hlutlægni dómarans. 17. Þótt vanhæfisástæða sem aðili máls byggir á geti verið til þess fallin að vekja hjá honum efasemdir um óhlutdrægni dómara ræður það eitt ekki úrslitum um hvort honum ber að víkja sæti heldur hvort unnt er að færa efnisleg rök fyrir réttmæti slíkra efasemda. 18. Mikilvægt er að lagaumgjörð um dómstóla sé með þeim hætti að það traust skapist um starfsemi þeirra sem nauðsynlegt er í lýðræðislegu samfélagi. Lagaákvæðum um sérstakt hæfi dómara til meðferðar máls og beiting þeirra er þannig ætlað að stuðla að því að ekki þurfi að efast um hlutlægni dómara við meðferð einstakra dómsmála. 19. Í a- til f-liðum 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 eru tilgreind afmörkuð atvik og aðstæður sem leiða til þess að dómara ber að víkja sæti við meðferð sakamáls. Í g-lið 1. mgr. greinarinnar er almennt vanhæfisákvæði en samkvæmt því er dómari vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem fallnar eru til þess að draga megi óhlutdrægni hans með réttu í efa. Auk fyrrnefndra vanhæfisreglna er í 2. mgr. greinarinnar sérstakt ákvæði um að dómari skuli enn fremur víkja sæti í máli eftir útgáfu ákæru ef hann hefur fallist á kröfu um að ákærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laganna. Gæsluvarðhald á þeim grunni verður aðeins úrskurðað ef sterkur grunur leikur á að sakborningur hafi framið afbrot sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. 20. Fram að gildistöku laga nr. 49/2016, sem meðal annars breyttu lögum nr. 88/2008, fór mat á sönnunargildi munnlegs framburðar einungis fram fyrir héraðsdómi og sætti ekki endurskoðun Hæstaréttar nema með óbeinum hætti í formi ómerkingar héraðsdóms. Með þessum breytingalögum var numið á brott ákvæði 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 sem mælti fyrir um að Hæstiréttur gæti ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hefði gefið skýrslu fyrir Hæstarétti. Jafnframt var numið brott svohljóðandi ákvæði 3. mgr. 208. gr. þeirra: Nú telur Hæstiréttur líkur á að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls og vitni eða ákærði sem eiga í hlut hafa ekki gefið munnlega skýrslu fyrir Hæstarétti. Getur þá rétturinn fellt úr gildi héraðsdóm og meðferð málsins í héraði í þeim mæli að munnleg sönnunarfærsla geti farið þar fram eftir þörfum og leyst verði úr máli á ný. Sé héraðsdómur ómerktur samkvæmt þessu skulu þrír dómarar skipa dóm í málinu við nýja meðferð þess í héraði og mega þeir ekki vera hinir sömu og áður fóru með það. 21. Í athugasemdum um niðurlagsákvæði 3. mgr. 208. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 88/2008 kemur fram að talið hafi verið nauðsynlegt „með tilliti til aðstöðu aðilanna“ að stuðla að því að aðrir dómendur kæmu að máli í héraði þegar svo stæði á að héraðsdómur hefði verið ómerktur í Hæstarétti vegna þess að líkur þættu á að mat á sönnunargildi munnlegs framburðar kynni að hafa verið rangt svo að einhverju skipti um úrslit máls. Við þær aðstæður að mat héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar sætti ekki endurskoðun æðra dóms var mikilvægt að vandað væri til endurtekins sönnunarmats fyrir héraðsdómi. Sú staða og tillit til málsaðila virðist því hafa verið tilefni lagafyrirmæla um að þrír nýir dómarar tækju við meðferð máls í héraði eftir ómerkingu dóms í því. 22. Með tilkomu millidómstigs samkvæmt lögum nr. 49/2016, sbr. einnig lög nr. 50/2016 um dómstóla, varð sú eðlisbreyting á meðferð sakamála að unnt var með áfrýjun til Landsréttar að leita endurskoðunar á öllum þáttum dóms í sakamáli, þar á meðal á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar. Heimild til ómerkingar héraðsdóms á þeim grunni að líkur væru á að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kynni að vera röng svo að einhverju skipti varð því óþörf og þar með ákvæðið um að þrír nýir héraðsdómarar tækju við meðferð máls eftir slíka ómerkingu. 23. Endurskoðun Hæstaréttar á dómum Landsréttar í sakamálum er eftir gildistöku laga nr. 49/2016 samkvæmt framansögðu nokkuð annars eðlis en endurskoðun Hæstaréttar á dómum héraðsdóms áður, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 sem mælir fyrir um að ekki sé heimilt að veita leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar til endurskoðunar á mati Landsréttar á sönnunargildi munnlegs framburðar. Hins vegar er samkvæmt d-lið 1. mgr. 215. gr. unnt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar til að fá ómerkingu á héraðsdómi og landsréttardómi og heimvísun máls auk þess sem dómur Landsréttar kann að vera ómerktur án kröfu þar um. 24. Þótt ómerkingarheimild í 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 sé fallin brott getur eftir sem áður komið til þess að svo verulegir annmarkar verði taldir á meðferð sakamáls í héraði eða Landsrétti, þar á meðal á sönnunarfærslu, að til ómerkingar geti komið með dómi Hæstaréttar. Við slíkar aðstæður getur þurft að taka sakamál sem efnisdómur hefur verið lagður á til nýrrar efnislegrar meðferðar af þremur eða eftir atvikum fimm dómurum Landsréttar og dómsálagningar að nýju. 25. Þar sem ekki er að finna í lögum nr. 88/2008 sérstakt ákvæði um að dómarar Landsréttar séu vanhæfir til að fara með sakamál af þeirri ástæðu einni að þeir hafi áður lagt á það efnisdóm sem ómerktur hefur verið í Hæstarétti þarf að leysa úr því hvort dómarar Landréttar teljast við þessar aðstæður vanhæfir á grundvelli g-liðar 1. mgr. 6. gr. laganna. 26. Samkvæmt dómaframkvæmd hér á landi og dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hefur það eitt ekki verið talinn grundvöllur réttmæts efa um óhlutdrægni dómara við efnislega meðferð sakamáls að hann hafi áður kveðið upp efnisdóm sem hefur verið ómerktur og máli vísað heim til nýrrar meðferðar enda sé hann ekki bundinn af fyrri úrlausn sinni í málinu. Um það má vísa til dóma Hæstaréttar 24. maí 2012 í máli nr. 33/2012, 12. apríl 2017 í máli nr. 232/2017, 28. september 2017 í máli nr. 599/2017, 2. nóvember 2017 í máli nr. 665/2017 og dóm mannréttindadómstólsins 8. október 2020 í máli nr. 52095/11, Teslya gegn Úkraínu (40. lið). Í fyrrgreindum dómum Hæstaréttar í málum nr. 599/2017 og 665/2017 var talið að dómari sem kveðið hefði upp efnisdóm í sakamáli yrði ekki af öðrum ástæðum en þeim sem mælt væri fyrir um í 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 vanhæfur til þess að annast nýja meðferð málsins í héraði eftir að fyrri dómur hefði verið ómerktur og málinu vísað heim í hérað. 27. Þau sjónarmið sem samkvæmt framansögðu lágu að baki ómerkingarheimildinni í 1. og 2. málslið 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 áður en ákvæðið var fellt brott verða því ekki heimfærð upp á þá aðstöðu sem skapast við það að dómur Landsréttar í sakamáli er ómerktur á þeim grundvelli sem gert var í þessu máli með dómi Hæstaréttar í fyrrgreindu máli nr. 34/2020 og það tekið til nýrrar efnismeðferðar af þremur dómurum Landsréttar. Ástæður ómerkingarinnar voru fyrst og fremst þær að annmarkar þóttu á formhlið málsins hvað varðaði munnlega sönnunarfærslu og endurskoðun á sönnunargildi munnlegs framburðar þótt einnig hafi verið fundið að samningu dómsins. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að formreglum réttarfarslaga er ætlað að stuðla að efnislega réttri niðurstöðu en fyrrnefndur dómur Hæstaréttar laut aðeins að formhlið málsins en ekki efnishlið. 28. Þótt að sínu leyti sé skiljanlegt að ákærði sem sakfelldur hefur verið af þremur dómurum hafi efasemdir um að þessir dómarar muni líta málið öðrum augum við nýja efnislega meðferð þess og telji að þeir muni síður fallast á rök hans fyrir sýknu en nýir dómarar sem ekki hafa komið að því áður getur það eitt og sér ekki talist grundvöllur undir réttmætan efa um að þeir teljist óhlutdrægir. Eftir ómerkingardóm Hæstaréttar eru dómarar Landsréttar óbundnir af fyrri efnislegri niðurstöðu í málinu er þeir taka að lokinni endurtekinni aðalmeðferð nýja ákvörðun um hvort sekt ákærða telst sönnuð, meðal annars með hliðsjón af þeim athugasemdum sem fram komu í dómi Hæstaréttar. Til þess er jafnframt að líta að við nýja aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti gefst ákærða kostur á að leggja fram frekari gögn af sinni hálfu, gefa munnlega skýrslu, óska eftir að leiða vitni og styrkja málatilbúnað sinn með öðrum hætti í þeim tilgangi að hafa áhrif á niðurstöðu dómsins. 29. Í ljósi alls framangreinds er ekki uppi réttmætur efi um óhlutdrægni umræddra tveggja dómara við nýja meðferð málsins fyrir Landsrétti. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sératkvæði Ólafs Barkar Þorvaldssonar 1. Eins og nánar greinir í atkvæði meirihlutans var ákærði sýknaður í héraði af ákæru um stórfellt fíkniefnalagabrot en sakfelldur í Landsrétti með dómi 20. desember 2019 og gert að sæta fangelsi í fimm ár. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 34/2020 var dómur Landsréttar á hinn bóginn ómerktur og málinu vísað heim til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju þar sem aðferð Landsréttar við sönnunarmat var talin vera í andstöðu við áskilnað um réttláta málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kom fram í dóminum að aðferðarfræði Landsréttar við að komast að niðurstöðu hefði verið í bága við regluna um milliliðalausa málsmeðferð þar sem engin sönnunarfærsla hefði farið fram fyrir réttinum ef frá væri talið að spiluð hefði verið símaskýrsla fyrir héraðsdómi af einum lögreglumanni. Þrátt fyrir þetta hefði Landsréttur endurskoðað sönnunargildi munnlegs framburðar og komist að þeirri niðurstöðu að skýringar ákærða og meðákærða um tiltekin atriði væru mjög óljósar og ótrúverðugar. Til viðbótar þessu sagði í dómi Hæstaréttar að röksemdafærsla Landsréttar fyrir sakfellingu ákærða hefði öðrum þræði lotið að gáleysi sem grundvelli saknæmis en það ætti ekki við um ásetningsbrot það sem ákærði var saksóttur fyrir. 2. Í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar er málið að nýju til meðferðar fyrir Landsrétti. Sitja tveir af þeim þremur dómurum sem áður dæmdu í málinu í Landsrétti í dómi við hina síðari meðferð þar. Hefur ákærði krafist þess að þeir víki sæti við meðferð málsins. 3. Eins og rakið er í atkvæði meirihluta dómenda hefur samkvæmt dómum Mannréttindadómstóls Evrópu við úrlausn um hvort dómari telst óvilhallur í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu annars vegar verið greint á milli athugunar á því hvaða viðhorf hafa ráðið hjá dómara í tilteknu máli og þá einkum hvort dómari hefur sýnt af sér fordóma eða hlutdrægni (huglægur mælikvarði) og hins vegar athugunar á því hvort til staðar eru hlutlæg atriði sem gefi réttmætt tilefni til að draga í efa að dómari sé óvilhallur (hlutlægur mælikvarði). Vísast um þetta nánar til umfjöllunar í atkvæði meirihlutans. Þessi aðgreining breytir þó ekki því að líta verður heildstætt á mál þegar metið er hæfi dómara hverju sinni. 4. Ég tel tilvísun meirihluta dómenda til dóms mannréttindadómstólsins 8. október 2020 í máli nr. 52095/11, Teslya gegn Úkraínu, ekki hafa sérstaka þýðingu við úrlausn málsins þannig að það leiði til þeirrar niðurstöðu sem meirihlutinn kemst að. Nokkrar ástæður búa þar helst að baki. 5. Í fyrsta lagi ber að hafa í huga að þótt dómstóllinn hafi í því tilviki ekki talið það vera brot gegn 1. mgr. 6. gr. sáttmálans að sömu dómarar og fengu máli heimvísað skyldu dæma aftur í máli ákærðs manns vegna sömu sakargifta þá leiðir það ekki sjálfkrafa til þeirrar ályktunar að ákærðir menn hér á landi þurfi að þola sömu meðferð við efnisdóm í annað sinn vegna ákæru á hendur sér. 6. Þá eru nokkrir fyrirvarar gerðir í dómi mannréttindadómstólsins við niðurstöðu í málsins svo sem í lið 46 um að horfa eigi til þess hvort ákærði hefur notið aðstoðar verjanda og hvort krafa hefur komið fram af hans hálfu um að dómarar vikju sæti við síðari meðferð máls. Um þetta var sérstaklega tiltekið að ákærði í því máli hefði notið aðstoðar verjanda en eigi að síður ekki krafist að dómarar vikju sæti og ekki hefðu fengist skýringar á því hvers vegna slík krafa hefði ekki komið fram. 7. Þótt ætla megi að atriði sem þetta eigi að koma til skoðunar án sérstakrar kröfu ákærðs manns þá er rétt að nefna að hér háttar svo til að ákærði krafðist þess þegar við fyrirtöku málsins að nýju í Landsrétti að dómarar vikju sæti við hina síðari meðferð þess. 8. Einnig segir, eðli málsins samkvæmt, í lið 41 í dómi mannréttindadómstólsins að horfa beri meðal annars til löggjafar í viðkomandi aðildarríki við mat á vanhæfi dómara þegar þessi staða er uppi. 9. Um þetta atriði má líta til þess að í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála var fyrir gildistöku laga nr. 49/2016, um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómstig), kveðið á um í 3. mgr. 208. gr. að teldi Hæstiréttur líkur á að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kynni að hafa verið röng svo að einhverju skipti um úrslit máls og vitni eða ákærði sem eiga í hlut gáfu ekki munnlega skýrslu fyrir Hæstarétti gat rétturinn þá fellt úr gildi héraðsdóm og meðferð málsins í héraði þannig að munnleg sönnunarfærsla færi þar fram eftir þörfum og leyst yrði úr máli á ný. Var jafnframt sérstaklega kveðið á um það í lokamálslið málsgreinarinnar að yrði héraðsdómur ómerktur samkvæmt þessu skyldu þrír dómarar skipa dóm í málinu við nýja meðferð þess í héraði og mættu þeir ekki vera hinir sömu og áður fóru með það. 10. Um þetta sagði svo í athugasemdum með frumvarpi að lögunum að með niðurlagi ákvæðisins væri bætt við fyrirmælum sem kæmu í veg fyrir að sömu dómarar, einn eða fleiri, færu með mál öðru sinni í héraði ef Hæstiréttur hefði ómerkt upphaflegan dóm sökum þess að líkur þættu vera á því að mat á sönnunargildi munnlegs framburðar kynni að vera rangt svo að einhverju skipti um úrslit máls. Þótt þessar reglur kynnu að verða til þess að endurtaka þyrfti munnlega sönnunarfærslu að því leyti sem hún þætti skipta máli, til að tryggja milliliðalausa málsmeðferð, þá yrði að líta svo á að nauðsynlegt væri, með tilliti til aðstöðu aðilanna, að stuðla að því að aðrir dómendur kæmu að máli í héraði þegar svona stæði á. 11. Ákvæði 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 var fellt brott með 65. gr. áðurgreindra laga nr. 49/2016. Kom meðal annars fram í athugasemdum frumvarpsins við 65. gr. að lagt væri til að felld yrðu úr gildi ákvæði 3. mgr. 208. gr. er lytu að mögulegri ómerkingu héraðsdóms vegna þess að niðurstaða dómsins um sönnunargildi munnlegs framburðar kynni að vera röng svo að einhverju skipti. Væri það í samræmi við þá breytingu sem í frumvarpinu fælist um að milliliðalaus sönnunarfærsla geti farið fram fyrir Landsrétti. 12. Í athugasemdum um breytinguna kom jafnframt fram að í 1. og 2. mgr. 225. gr. laganna, samkvæmt frumvarpinu, væri að finna reglur sem eru sama efnis og samsvarandi ákvæði 208. gr. gildandi laga. Ákvæði 3. mgr. 208. gr. yrði hins vegar fellt brott enda ekki lengur ástæða til að mæla sérstaklega fyrir um að Hæstiréttur geti ómerkt dóm vegna þess að rétturinn teldi að niðurstaða um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kynni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls þótt ekki væri loku fyrir það skotið að Hæstiréttur gæti ómerkt dóm ef verulegir annmarkar væru á samningu hans. 13. Af framangreindu verður því sú ályktun dregin að ástæða þess að felld voru niður fyrirmæli í 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um að sömu héraðsdómarar sem komist hefðu að niðurstöðu um sekt ákærðs manns skyldu ekki dæma á ný efnislega í máli á hendur honum vegna sömu sakargifta fólst ekki í breyttu mati löggjafans um vanhæfi dómara í þessu tilliti. Þvert á móti virðist ástæðan fyrir því að ákvæðið var fellt brott hafa verið að með stofnun Landsréttar væri sú aðstaða áfrýjunardómstóls að ómerkja áfrýjaðan héraðsdóm vegna ágalla við sönnunarmat nánast óhugsandi því Landsréttur tæki að sér að endurskoða sönnunarmat með skýrslugjöf þar fyrir dómi, öfugt við það sem tíðkaðist í Hæstarétti fyrir breytinguna á lögunum. Jafnframt var þess getið í athugasemdum með frumvarpinu að lögum nr. 49/2016 að sú aðstaða myndi varla skapast að Hæstiréttur teldi sönnunarmat landsréttardómara rangt svo einhverju skipti um úrslit máls þótt ekki væri útilokað að dómur Landsréttar yrði ómerktur vegna verulegra annmarka á samningu hans. Af þessum réttarfarsástæðum var ekki lengur þörf á sambærilegri reglu um hverjir skyldu sitja dóm í Landsrétti líkt og áður gilti með 3. mgr. 208. gr. um héraðsdómara. 14. Breyting þessi með lögum nr. 49/2016 var því afleiðing breytinga á samspili héraðsdómsstóla og æðri dómstiga, en ekki sökum þess að vilji löggjafans stæði til þess að efnisbreyting skyldi vera á mati löggjafans um hæfi dómara sem áður hefði metið trúverðugleika ákærða og vitna til að meta trúverðugleika framburðar á ný og dæma á ný um sömu sakir á hendur sama manni. 15. Til viðbótar þessu má líta til þess að réttarfarsbreytingar þær sem urðu við stofnun Landsréttar breyttu í engu reglu 2. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 um þá fortakslausu skyldu dómara að víkja sæti við efnismeðferð, hefði hann fallist á kröfu um að ákærði sætti gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. einnig til dæmis dóma Hæstaréttar 3. júní 1996 í máli nr. 151/1996 og 17. september 2015 í máli nr. 383/2014. Er þá til þess að líta að eitt af skilyrðum þess að menn séu úrskurðaðir í gæsluvarðhald samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laganna er að dómari telji á grundvelli framkominna gagna að „sterkur grunur“ sé um að kærður maður hafi framið brot það sem er tilefni kröfu um gæsluvarðhald. Eðli málsins samkvæmt eru þá sjaldnast komin fram öll gögn málsins. Í því máli sem hér um ræðir hafa á hinn bóginn þeir tveir dómarar Landsréttar sem um ræðir gert gott betur en að telja einungis „sterkan grun“ vera fram kominn um sekt ákærðs manns. Þeir hafa, eftir viðeigandi málsmeðferð að þeirra mati, komist að þeirri rökstuddu niðurstöðu að fengin sé sönnun fyrir sekt ákærða sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Er í raun í máli þessu uppi sambærileg aðstaða og 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 tók til fram að gildistöku laga nr. 49/2016 og svo sem áður er lýst. 16. Endurskoðun Hæstaréttar á dómum Landsréttar í sakamálum eftir gildistöku laga nr. 49/2016 er nokkuð annars eðlis en endurskoðun Hæstaréttar á dómum héraðsdóms áður, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008, sem kveður á um að ekki sé heimilt að veita leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar til endurskoðunar á mati Landsréttar á sönnunargildi munnlegs framburðar. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 215. gr. laganna er á hinn bóginn unnt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar til að fá ómerkingu á héraðsdómi og landsréttardómi og heimvísun máls, auk þess sem dómur Landsréttar kann að vera ómerktur án kröfu þar um. Aftur á móti er útilokað að síðara mat Landsréttar eftir endurtekna meðferð máls hjá sömu dómurum og áður dæmdu í því geti komið til endurskoðunar hjá æðra dómi, en fyrir gildistöku laga nr. 49/2016 var þó sá möguleiki fyrir hendi að endurtekið mat héraðsdóms kæmi til endurmats fyrir Hæstarétti samkvæmt þágildandi 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Þrátt fyrir það þótti sérstök ástæða til að hafa sérstakt ákvæði í 3. mgr. 208. gr. laganna er bannaði sama héraðsdómara og áður hafði dæmt í máli að dæma á ný í sama máli við síðari meðferð þess. 17. Þegar litið er yfir sviðið má loks nefna að vanhæfisreglur 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 eru orðaðar á sama veg og reglur 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fjölmörg dæmi eru um að dómari hafi talist vanhæfur þótt afskipti hans af málefni, meðal annars við meðferð máls fyrir dómi, hafi verið mun veigaminni en að kveða upp efnisdóm í máli, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 9. janúar 2004 í máli nr. 491/2003. Vanhæfisreglur laganna hafa auk þess að geyma víðtæk ákvæði sem mæla fyrir um að hlutrænt séð skuli dómarar taldir vanhæfir þótt síður en svo verði fullyrt að tengsl þeirra við mál séu með þeim hætti að áhrif þurfi að hafa á afstöðu þeirra miðað við ýmis önnur tilvik sem upp geta komið, sbr. til dæmis f-lið 6. gr. laga nr. 88/2008 um að dómari teljist vanhæfur við meðferð máls ef vitni er maki systkinabarns fyrrverandi maka dómara. 18. Eins og rakið hefur verið töldu dómarar Landsréttar sönnunarmat og málsmeðferð þá sem átti sér stað fyrir Landsrétti fullburða svo snúa mætti við dómi héraðsdóms og sakfella ákærða. Á hinn bóginn var dómur Landsréttar yfir ákærða ómerktur í Hæstarétti og málinu vísað til nýrrar meðferðar sökum þess að aðferð Landsréttar við sönnunarmat var talið í andstöðu við ákvæði laga og stjórnarskrár auk þess sem aðrir annmarkar voru við röksemdafærslu fyrir sakfellingu ákærða. Er með þessum hætti komin upp sambærileg aðstaða og áðurgildandi ákvæði 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 var ætlað að taka til, en niðurfelling þess ákvæðis fól eins og áður segir ekki í sér breytt mat löggjafans á hæfi dómara. Er heldur ekkert fram komið um að ný sönnunargögn verði færð fram í málinu við síðari málsmeðferð fyrir Landsrétti sem leiða kunni til breytingar á fyrri niðurstöðu hans. 19. Fallast má á það sem fram kemur í lið 28 í atkvæði meirihluta dómenda Hæstaréttar að það sé að sínu leyti skiljanlegt að ákærði sem sakfelldur hefur verið af þremur dómurum hafi efasemdir um að þeir dómarar líti málið öðrum augum við nýja efnislega meðferð þess og telji að þeir muni síður fallast á rök hans fyrir sýknu en nýir dómarar sem ekki hafa komið að því áður. Að virtri 70. gr. stjórnarskrárinnar og öllu því sem rakið er hér að framan tel ég varhugavert að vefengja fullyrðingu ákærða um að réttmæt ástæða sé fyrir hann að telja að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni dómara í efa í skilningi g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Verður að ætla að önnur niðurstaða sé heldur ekki til þess fallin að skapa traust aðila jafnt sem almennings til dómstóla. 20. Ber því að fallast á kröfu varnaraðila um að landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson og Jóhannes Sigurðsson skuli víkja sæti í landsréttarmálinu nr. 723/2018. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=ad63fbd1-442f-4f82-9834-d69b84e74998
Mál nr. 13/2021
Kærumál Málskostnaður Kröfugerð Ómerking úrskurðar Landsréttar
Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem fallist var á kröfu K um að S og J yrðu með beinni aðfarargerð bornir út af lögbýlinu H og þeim gert að greiða K málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti. Í dómi Hæstaréttar kom fram að K hefði fyrir Landsrétti aðeins krafist kærumálskostnaðar þar fyrir dómi. Var því talið að með því að gera S og J að greiða K málskostnað í héraði og kærumálskostnað fyrir Landsrétti hefði Landsréttur farið út fyrir kröfur K. Hinn kærði úrskurður var því ómerktur og málinu vísað á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 26. janúar 2021 en kærumálsgögn bárust réttinum 2. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Landsréttar 20. janúar 2021, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sóknaraðilar yrðu með beinni aðfarargerð bornir út af lögbýlinu Hraungerði í Flóahreppi, ásamt þeim eignum sem þar væri að finna og nánar tilgreindum eignum sem væru hluti jarðarinnar og sérmetnar. Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og kröfu varnaraðila um að sóknaraðilar verði bornir út af fyrrnefndu lögbýli með beinni aðfarargerð verði hafnað. Þá krefjast þeir óskipt kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Kæruleyfi var veitt 22. febrúar 2021 á grundvelli 3. málsliðar 2.  mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem talið var að á úrskurði Landsréttar kynnu að vera ágallar. Mál þetta lýtur að kröfu varnaraðila um að sóknaraðilar verði bornir út af lögbýlinu Hraungerði í Flóahreppi með beinni aðfarargerð. Héraðsdómur hafnaði kröfunni með úrskurði 18. nóvember 2020 en felldi niður málskostnað milli aðila. Varnaraðili kærði úrskurðinn til Landsréttar. Í kærunni var vísað til þess að varnaraðili gerði ,,sömu dómkröfur og í héraði: Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að varnaraðilar ásamt því sem að þeim fylgir, verði bornir út af lögbýlinu Hraungerði, Flóahreppi ... ásamt þeim eignum sem þar er að finna með beinni aðfarargerð. Þess er krafist að varnaraðilar verði bornir út með beinni aðfarargerð af jörðinni og eftirfarandi eignum sem eru hluti jarðarinnar og sérmetnar, sbr. fskj. 1 með aðfararbeiðni. ... Þá er krafist kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.“ Í greinargerð varnaraðila til Landsréttar sagði að gerðar væru ,,sömu dómkröfur og í kæru“ og voru kröfur varnaraðila nákvæmlega hinar sömu og raktar hafa verið. Þar var því ekki frekar en í kæru til Landsréttar gerð sérstök krafa um málskostnað fyrir héraðsdómi.   Í hinum kærða úrskurði var kröfum varnaraðila lýst, þar á meðal kröfu um kærumálskostnað, en í þeirri lýsingu kom ekki fram krafa um málskostnað fyrir héraðsdómi. Engu að síður gerði Landsréttur sóknaraðilum að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað fyrir Landsrétti sem var ákveðinn í einu lagi 800.000 krónur. Með þessu fór Landsréttur út fyrir kröfur varnaraðila í andstöðu við 1. mgr. 111. gr., sbr. 190. gr. laga nr. 91/1991. Er þetta slíkur annmarki á hinum kærða úrskurði að óhjákvæmilegt er að ómerkja hann og vísa málinu á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Rétt er að kærumálskostnaður falli niður. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er ómerktur og er málinu vísað á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar.  Kærumálskostnaður fellur niður.            Úrskurður Landsréttar Landsréttardómararnir Ásmundur Helgason, Davíð Þór Björgvinsson og Ragnheiður Bragadóttir kveða upp úrskurð í máli þessu. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 24. nóvember 2020. Greinargerð varnaraðila barst réttinum 14. desember 2020. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 18. nóvember 2020 í málinu nr. A-420/2020 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðilar yrðu með beinni aðfarargerð bornir út af lögbýlinu Hraungerði, Flóahreppi, landnúmer 166237, fastanúmer F220-0798 ásamt þeim eignum sem þar er að finna. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. 2        Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að varnaraðilar, ásamt því sem þeim fylgir, verði bornir út af fyrrnefndu lögbýli með beinni aðfarargerð. Þá er krafist kærumálskostnaðar. 3        Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Málavextir og málsástæður aðila 4        Með hinum kærða úrskurði var hafnað kröfu sóknaraðila um að varnaraðilar yrðu með beinni aðfarargerð bornir út af lögbýlinu Hraungerði í Flóahreppi og þeim eignum sem þar er að finna sem eru hluti jarðarinnar og sérmetnar. 5        Málavöxtum er lýst í hinum kærða úrskurði. Sóknaraðili, sem starfar samkvæmt lögum um kirkjumálasjóð nr. 138/1993, er þinglýstur eigandi lögbýlisins sem um ræðir. Faðir varnaraðila, Guðmundur Stefánsson, mun hafa haft jörðina í ábúð frá fardögum 1977. Með bréfi 20. desember 2016 sagði Guðmundur upp ábúðinni. Eftir uppsögn Guðmundar lýstu varnaraðilar því við sóknaraðila að þeir væru tilbúnir til að leigja jörðina til eins árs, eða fram að fardögum árið 2018. Um samdist að varnaraðilar leigðu jörðina til eins árs og leigugjald yrði 1.319.820 krónur eða 3% af fasteignamati árið 2017. 6        Kröfu um útburð af jörðinni með beinni aðfarargerð á grundvelli 78. gr. laga nr. 90/1989 byggir sóknaraðili í fyrsta lagi á því að umsaminn ábúðartími hafi liðið undir lok. Samningurinn við varnaraðila hafi verið til eins árs og við lok leigutímans 6. júní 2018 hafi samningnum lokið í samræmi við efni hans án sérstakrar uppsagnar eða tilkynningar. Sé það í samræmi við 1. mgr. 34. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004. Í öðru lagi hafi ábúð varnaraðila verið sagt upp með réttum hætti samkvæmt 35. gr. sömu laga. Ákvæði samningsins og samskipti aðila í aðdraganda og eftir gerð hans staðfesti að málsaðilar hafi viljað semja til eins árs. Uppsögnin liggi fyrir og móttaka hennar hafi verið staðfest og ekki mótmælt af varnaraðilum. Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á því að ábúð hafi verið sagt upp með réttum hætti vegna vanefnda varnaraðila á greiðslu jarðarafgjalds í samræmi við 37. gr. laganna. 7        Varnaraðilar reisa kröfu sína um að hafna beiðni sóknaraðila á því að skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 um útburð án undangengins dóms eða réttarsáttar séu ekki uppfyllt. Í öllu falli sé uppi slíkur vafi að varhugavert sé að láta gerðina ná fram að ganga án þess að skorið verði úr um þau efnislegu atriði sem vafa valdi. Skilyrði fyrir útburði samkvæmt ákvæðinu séu að réttindi sóknaraðila séu bæði skýr og glögg og ekki leiki nokkur vafi þar á. Beri að gera ríkar kröfur um sönnun um tilvist slíkra réttinda. Varnaraðilar telja að ágreiningur sé milli aðila um hvernig túlka skuli yfirtöku varnaraðila á ábúðarsamningi föður þeirra og hvort samningssamband þeirra við sóknaraðila hafi liðið undir lok. Telja varnaraðilar að þeir hafi skýran rétt til að vera á jörðinni. Í samningnum segi að ábúð varnaraðila sé tímabundin í eitt fardagaár. Þá komi fram í 5. gr. samningsins að gildandi ábúðarlög gangi framar ákvæðum samningsins ef saman lýstur. Í 5. gr. ábúðarlaga komi fram að jörð skuli byggð, sé ekki um annað samið, frá fardögum til fardaga til fimm ára hið skemmsta og geti ábúðartíminn verið tímabundinn, til lífstíðar eða gengið í erfðir. Af ákvæðinu leiði að ekki sé unnt að semja um skemmri ábúðartíma en til fimm ára og skipti aðdragandi samningsgerðarinnar engu máli. Ábúðartímanum ljúki þar með ekki fyrr en á fardögum vorið 2022 og hafi varnaraðilar þangað til fullan rétt til umráða yfir jörðinni. 8        Varnaraðilar byggja jafnframt á því að ekki sé unnt að segja tímabundnum samningum upp á grundvelli 35. gr. laganna, sbr. 9. gr., enda gildi þær reglur eingöngu um ótímabundna samninga. Enn fremur byggja varnaraðilar á því að sóknaraðili hafi látið hjá líða að innheimta leigugjaldið og ekki látið í té greiðsluupplýsingar. Ekki hafi farið fram uppgjör milli sóknaraðila og fráfarandi ábúanda, sóknaraðili hafi haldið eftir háum greiðslum og geti sóknaraðili ekki innheimt leigugjald fyrir eignir fráfarandi ábúanda. Þess utan hafi sóknaraðili móttekið leigugreiðslur sem inntar hafi verið af hendi eftir að sóknaraðili hreyfði fyrst í desember 2019 þeim fullyrðingum að vanhöld væru á greiðslu leigu og sagði samningnum upp. 9        Enn byggja varnaraðilar á því að mikill ágreiningur ríki um eignarhald á metangasstöð sem standi á jörðinni. Í dómsmáli milli fráfarandi ábúanda og sóknaraðila sé deilt um skyldu sóknaraðila til að kaupa mannvirkið. Skjóti skökku við að sóknaraðili hafi selt stöðina með jörðinni þegar óvissa sé um hvort hún sé hluti hennar. Að lokum telja varnaraðilar að sóknaraðili hafi brotið gegn skyldum sínum á grundvelli 20. gr. jarðarlaga nr. 81/2004 með því að bjóða varnaraðilum ekki að neyta forkaupsréttar síns þegar jörðin var seld þriðja aðila. Niðurstaða 10       Í málinu liggur fyrir að faðir varnaraðila, Guðmundur Stefánsson, fékk jörðina Hraungerði í Flóahreppi til ábúðar samkvæmt byggingarbréfi 3. október 1977. Með bréfi 20. desember 2016 sagði Guðmundur upp ábúðinni samkvæmt 35. gr. ábúðarlaga. Hinn 22. mars 2017 sendu varnaraðilar bréf til sóknaraðila þar sem þeir lýstu sig reiðubúna að leigja jörðina til eins árs frá fardögum 2018. Í bréfinu var óskað eftir því að gerður yrði leigusamningur þar sem leiguskilmálar yrðu nánar útfærðir. Þar er áréttað að skilyrði þess að leigusamningurinn yrði gerður sé að hann hefði ekki áhrif á uppgjör við fráfarandi ábúanda. Samningur um eins árs ábúð varnaraðila er frá 8. júní 2017 og ber hann yfirskriftina „Samningur um yfirtöku ábúðarsamnings um lögbýlið Hraungerði, Flóahreppi“. Þar kemur fram í 1. gr. að ábúð leigutaka sé frá fardögum að vori 2017 til fardaga að vori 2018. Samkvæmt 2. gr. skyldi leigugjald fyrir þetta tímabil vera 1.319.820 krónur sem inna skyldi af hendi með 12 jöfnum greiðslum fyrir fram fyrir einn mánuð í senn, fyrsta hvers mánaðar og skyldi leigugjaldið fyrir júní 2017 innt af hendi við undirritun samkomulagsins. Þá segir í 3. gr. að leigutakar skuli halda áfram kúabúskap og gasframleiðslu sem verið hafi á jörðinni. Þá skyldu leigutakar samkvæmt 4. gr. ekki stofna til kaupskyldu jarðareiganda með framkvæmdum, fjárfestingum eða endurbótum á hinu leigða, nema um slíkt væri samið skriflega. Enn segir í 5. gr. að gildandi ábúðarlög gangi framar ákvæðum ábúðarsamnings ef saman lýstur. 11       Í 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför kemur fram að sé manni með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda sem hann tjáir sig eiga og telur svo ljós að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum sem aflað verður samkvæmt 83. gr. laganna, sé honum heimilt að beina til héraðsdómara beiðni um að skyldu þess efnis, sem getur í 72. eða 73. gr., verði fullnægt með aðfarargerð þótt aðfararheimild samkvæmt 1. gr. laganna liggi ekki fyrir. Þá kemur fram að þegar héraðsdómara hefur borist beiðni samkvæmt 1. mgr. og hann telur að lög leiði ekki til þess að henni verði þegar vísað á bug skuli hann fara með beiðnina eftir þeim reglum sem mælt er fyrir um í 13. kafla laganna. Ákvæði 79. gr. laga nr. 90/1989 hefur hér einnig þýðingu en þar kemur fram að ekki standi í vegi aðfarargerðar samkvæmt 78. gr. þótt dómsmál sé jafnframt rekið milli sömu aðila um önnur atriði sem varða réttarsamband þeirra. 12       Ákvæði 1. mgr. 78. gr. laganna felur í sér heimild til að fullnægja rétti gerðarbeiðanda til umráða fasteignar með útburði gerðarþola þótt aðfararheimildar eftir almennum reglum hafi ekki verið aflað. Samkvæmt ákvæðinu er skilyrði til að gerð nái fram að ganga á þessum grundvelli að réttindi gerðarbeiðanda séu svo ljós að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum sem má afla fyrir dómi samkvæmt reglum 83. gr. Í þessu felst annars vegar að gerðarbeiðandi sé réttur aðili að kröfu um gerðina og hins vegar að honum sé unnt að sanna að réttindin séu til staðar með gögnum sem 83. gr. laga nr. 90/1989 heimilar honum að styðja mál sitt við fyrir dómi. 13       Skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 um skýrleika réttinda lýtur að því að unnt sé að sýna fram á réttindin með takmarkaðri sönnunarfærslu. Skýrleiki réttinda verður þannig að vera auðsannaður á grundvelli þeirra gagna sem lögð eru fram með beiðni án frekari sönnunarfærslu fyrir dómi með framburði vitna eða mats- og skoðunargerðum. Af þessu leiðir að sama skapi að gera verður talsverðar kröfur um skýrleika og styrkleika þeirra gagna sem fyrir liggja og beiðnin er reist á. Þá leiðir af dómaframkvæmd eins og hún hefur þróast að ágreiningur sem stofnað kann að verða til í slíku máli um skýringu laga- eða samningsákvæða leiðir ekki einn og sér til þess að kröfu verði hafnað. 14       Varnaraðilar hafa borið fyrir sig 5. gr. ábúðarlaga og telja að af henni leiði að þeir hafi enn full umráð jarðarinnar. Þar segir að jörð skuli byggja, sé ekki um annað samið, frá fardögum til fardaga til fimm ára í senn hið skemmsta. Þá segir að ábúðartími geti verið tímabundinn, til lífstíðar eða gengið í erfðir. Ákvæðið mælir svo fyrir að sé ekki samið um upphafs- og lokatímamark ábúðar skuli miða við að hún hefjist og ljúki í fardögum. Þá kemur fram í skýringum við ákvæðið í frumvarpi til laganna að ákvæðið feli í sér að samning um ábúð sé unnt að gera tímabundið, en þó ekki skemur en til fimm ára í senn. Þá segir þar jafnframt að samkvæmt 34. gr. laganna geti ábúðarlok miðast við annað tímamark ef um er að ræða uppsögn jarðareiganda samkvæmt ákvæðum í samningum aðila. 15       Í 1. mgr. 34. gr. ábúðarlaga kemur fram að tímabundnum samningi um ábúð ljúki á umsömdum tíma án sérstakrar uppsagnar eða tilkynningar af hálfu aðila. Þá segir að jarðareiganda og ábúanda sé heimilt að semja um að segja megi tímabundnum samningi upp án sérstakra aðstæðna, atvika eða forsendna. Slík uppsögn skuli vera skrifleg og fara fram fyrir 1. desember miðað við ábúðarlok 1. júní eða fyrir 1. apríl miðað við ábúðarlok 1. október nema jarðareigandi og ábúandi hafi samið um annað tímamark. Í 35. gr. ábúðarlaga segir að ótímabundinn samningur um ábúð sé uppsegjanlegur af hálfu beggja aðila. Uppsögn skal vera skrifleg og send með sannanlegum hætti. Uppsögn skal fara fram fyrir áramót og taka gildi í næstu fardögum nema um annað sé samið. 16       Samningur varnaraðila við sóknaraðila 8. júní 2017 um leigu á jörðinni til eins árs vísar í yfirskrift til þess að hann feli í sér yfirtöku ábúðarsamnings þess sem faðir þeirra Guðmundur Stefánsson hafði gert á árinu 1977 og sagt upp 20. desember 2016. Í inngangi samningsins er vísað til byggingarbréfsins frá 1977 og þar tekið fram að varnaraðilar taki við réttindum og skyldum fráfarandi ábúanda samkvæmt byggingarbréfinu með tilteknum frávikum sem nánar eru greind í samningnum. Í honum er samið um leiguafnot til eins árs, en samningurinn hefur ekki að öðru leyti að geyma annað ákvæði um uppsögn hans sérstaklega, enda hafði byggingarbréfinu frá 1977 þegar verið sagt upp af hálfu föður varnaraðila. Eins og hér á stendur og með hliðsjón af samhenginu milli eldra byggingarbréfs, sem faðir varnaraðila hafði sagt upp, og samnings varnaraðila um tímabundna yfirtöku réttinda samkvæmt byggingarbréfinu til eins árs, verður ekki fallist á þau rök varnaraðila að um hafi verið að ræða nýjan ábúðarsamning sem hafi, vegna ákvæðis 5. gr. ábúðarlaga um ábúð til fimm ára hið skemmsta og andstætt skýrum eignarheimildum sóknaraðila, tryggt þeim fullan umráðarétt yfir jörðinni til fimm ára eins og þeir halda fram. 17       Af gögnum málsins verður ráðið að sóknaraðili hefur, eftir að umsömdum leigutíma lauk, ítrekað áréttað við varnaraðila að umsömdum leigutíma væri lokið. Þannig er því lýst í tölvuskeyti lögmanns sóknaraðila 30. ágúst 2018 til lögmanns varnaraðila að þess sé vænst að jörðinni sé skilað til sóknaraðila og í framhaldi gengið til uppgjörs um leigugreiðslur. Í öðru bréfi 10. desember 2018 milli sömu aðila er áréttað að sóknaraðili líti svo á að varnaraðilar hafi jörðina í vörslum sínum án heimildar og óskað eftir því að upplýst verði hvenær þeir hyggist afhenda hana. Er þetta einnig áréttað í bréfi 21. janúar 2019 og síðan fylgt eftir með ábyrgðarbréfi sóknaraðila til varnaraðila 2. júní 2019. Í bréfinu er áréttað það sjónarmið sóknaraðila að ábúðartíminn sé liðinn undir lok og þess krafist að lögbýlið verði afhent án tafar og lyklum skilað á skrifstofu lögmanns sóknaraðila, að öðrum kosti verði höfðað útburðarmál fyrir Héraðsdómi Suðurlands. 18       Samkvæmt öllu framansögðu verður fallist á með sóknaraðila að varnaraðilar geti ekki leitt umráðarétt sinn yfir jörðinni af samningi aðila frá 8. júní 2017 og að varnaraðilum hafi mátt vera ljóst af samskiptum við sóknaraðila eftir að leigutíma lauk að vera þeirra á jörðinni væri í óþökk sóknaraðila hvað sem liði ágreiningi þeirra að öðru leyti. Var sóknaraðila því rétt að krefjast þess að varnaraðilar vikju af jörðinni. 19       Að fenginni þessari niðurstöðu er ekki þörf á að taka sérstaka afstöðu til þeirrar málsástæðu sóknaraðila að honum hafi verið heimilt að segja samningnum upp vegna vanefnda varnaraðila á greiðslu jarðarafgjalds samkvæmt ákvæðum hans. Varnaraðilar geta að sama skapi ekki reist rétt sinn til umráða yfir jörðinni á því að gera ágreining um hvort þeir hafi með réttum hætti staðið skil á jarðarafgjaldi því sem um var samið.  20       Varnaraðilar hafa einnig andmælt gerðinni á þeim grundvelli að út af standi ýmiss konar annar ágreiningur um uppgjör við fyrri ábúanda, um eignarhald á metangasstöð sem standi á jörðinni og mögulegan forkaupsrétt þeirra samkvæmt ákvæðum jarðarlaga. Þá sé í dómsmáli milli fráfarandi ábúanda og sóknaraðila deilt um skyldu sóknaraðila til að kaupa mannvirkið. Ágreiningur af þessu tagi um réttarsamband aðila eða við fyrri ábúanda, að öðru leyti en lýtur að beinum umráðarétti yfir jörðinni, kemur ekki í veg fyrir að gerðin nái fram að ganga, sbr. meðal annars ákvæði 79. gr. laga nr. 90/1989. 21       Að öllu samanlögðu verður ekki talið á grundvelli þeirra sönnunargagna sem fyrir liggja í málinu að varhugavert sé að gerðin nái fram að ganga. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og skulu varnaraðilar ásamt þeim eignum sem þeim fylgja, að kröfu sóknaraðila, sem er þinglýstur eigandi jarðarinnar, með beinni aðfarargerð bornir út af lögbýlinu Hraungerði í Flóahreppi. 22       Verður varnaraðilum gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálsmálskostnað fyrir Landsrétti í einu lagi eins og í úrskurðarorði greinir. Úrskurðarorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi. Varnaraðilar, Stefán Guðmundsson og Jón Tryggvi Guðmundsson, með þeim eignum sem þeim fylgja, skulu með beinni aðfarargerð bornir út af lögbýlinu Hraungerði í Flóahreppi, landnúmer 166237, fastanúmer F220-0798, og þeim eignum sem þar er að finna sem eru hluti jarðarinnar og sérmetnar.  Varnaraðilar greiði sóknaraðila, Kirkjumálasjóði, óskipt málskostnað í héraði og kærumálskostnað fyrir Landsrétti 800.000 krónur.       Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 18. nóvember 2020        Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 21. október 2020 var þingfest 26. ágúst sama ár.         Sóknaraðili, hér eftir gerðarbeiðandi, er Kirkjumálasjóður, kt. 530194-2489, Laugavegi 31, Reykjavík.        Varnaraðilar, hér eftir gerðarþolar, eru Stefán Guðmundsson, kt. 301171-4989, Snælandi 4, Selfossi og Jón Tryggvi Guðmundsson, kt. 300774-3779, Laxabakka 8, Selfossi.          Dómkröfur gerðarbeiðanda eru að dómurinn úrskurði um að gerðarþolar, ásamt því sem þeim fylgir, verði bornir út af lögbýlinu Hraungerði, Flóahreppi, landnr. 166237, fastanr. F220-0798 ásamt þeim eignum sem þar er að finna með beinni aðfarargerð. Þess er krafist að gerðarþolar verði bornir út með beinni aðfarargerð af jörðinni og eftirfarandi eignum sem eru hluti jarðarinnar og sérmetnar: Nr.                    Lýsing                                                       Fastanúmer                          Merking 1                       Ræktað land                                           fnr. 220-0799                      01 2                       Fjós                                                           fnr. 220-0800                      03-0101 3                       Hesthús                                                    fnr. 220-0801                      06-0101 4                       Hlaða m/súgþurrkun                             fnr. 220-0802                      07-0101 5                       Votheysturn                                            fnr. 220-0803                      08-0101 6                       Bogaskemma                                           fnr. 220-0804                      10-0101 7                       Fjós með áburðarkj.                              fnr. 220-0805                      12-0101 8                       Íbúð                                                          fnr. 220-0807                      14-0101 Nr.                    Lýsing                                                       Fastanúmer                          Merking 9                       Legubásafjós                                           fnr. 232-5389                      16-0101 10                     Geymsla                                                   fnr. 220-0808                      15-0101   Þá er krafist málskostnaðar úr hendi gerðarþola að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.        Dómkröfur gerðarþola eru þær að kröfu gerðarbeiðanda verði hafnað. Þá krefjast gerðarþolar málskostnaðar úr hendi gerðarbeiðanda að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins ef til kemur. Málavextir Gerðarbeiðandi mun starfa samkvæmt lögum um kirkjumálasjóð nr. 138/1993 og hefur kirkjuráð hinnar íslensku þjóðkirkju á hendi umsjá og stjórn sjóðsins, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Guðmundur Stefánsson, faðir gerðarþola, mun hafa verið með lögbýlið Hraungerði í Flóahreppi í ábúð frá fardögum 1977, en hann mun hafa sagt ábúðinni upp 20. desember 2016. Úttekt vegna ábúðarlokanna mun hafa verið gerð 9. mars 2018 og óskuðu báðir aðilar eftir yfirmati sem mun hafa legið fyrir í ágúst sama ár. Gerðarbeiðandi og faðir gerðarþola munu hafa gengið frá uppgjöri árið 2019 og gengið mun hafa verið frá kaupsamningi í mars sama ár, en þar mun hafa verið tekið fram að Guðmundur hefði afhent jörðina 1. júní 2017. Báðir aðilar munu hafa gert fyrirvara við uppgjörið. Gerðarbeiðandi hefur talið sér frjálst að ráðstafa jörðinni sem þinglýstum eiganda en Guðmundur hafi ekki fengist til þess að gefa út afsal og hafi ekki látið þinglýsa byggingarbréfi jarðarinnar þrátt fyrir lagaskyldu þess efnis. Hefur gerðarbeiðandi því krafist þess að byggingarbréfi Guðmundar verði aflýst, sbr. 47. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004. Eftir uppsögn Guðmundar hafi gerðarþolar sent tölvupóst til gerðarbeiðanda þar sem þeir hafi lýst því yfir að þeir væru tilbúnir til að leigja jörðina til eins árs, þ.e. fram að fardögum árið 2018, með þeim fyrirvara að viðunandi leigusamningur fengist. Hafi gerðarþolar lagt til að leigugjald yrði 1.258.000 krónur, eða 3% af fasteignamati árið 2017. Hafi gerðarbeiðandi samþykkt þessa tillögu með tölvupósti 31. mars sama ár. Aðilar munu hafa undirritað ábúðarsamning 8. júní sama ár og segi í 1. gr. samningsins að ábúðin sé tímabundin í eitt fardagaár, þ.e. frá fardögum að vori 2017 til fardaga að vori 2018. Þá sé umsamið leiguverð 3% af fasteignamati og þá sé samið um að gerðarþolar myndu ekki stofna til kaupskyldu jarðareiganda með framkvæmdum, fjárfestingum eða endurbótum á hinu leigða, nema um slíkt sé samið skriflega. Hafi enginn samningur verið gerður milli aðila um kaupskyldu gerðarbeiðanda og því engin kaupskylda fyrir hendi að mati gerðarbeiðanda, sbr. 38. gr. ábúðarlaga. Hafi gerðarþolar að minnsta kosti enga heimild til þess að vera á jörð gerðarbeiðanda jafnvel þótt upp komi ágreiningur um kaupskyldu. Gerðarbeiðandi telur gerðarþola enga leigu hafa greitt vegna fardagaársins 2017-2018. Með tölvupósti 30. ágúst 2018 hafi verið áréttað við gerðarþola að ábúð þeirra væri lokið en jörðinni hefði ekki verið skilað. Hafi verið óskað eftir því að jörðinni yrði skilað eins fljótt og kostur væri og hafi krafa um afhendingu jarðarinnar verið áréttuð með tölvupóstum 10. desember sama ár og 21. janúar 2019. Í síðargreinda tölvupóstinum hafi verið greint frá ástæðu þess að gerðarbeiðandi hafi engar ráðstafanir gert þrátt fyrir að jörðinni hefði hvorki verið skilað né greitt jarðarafgjald vegna hennar. Hafi gerðarbeiðandi sagt að hann hefði ávallt staðið í þeirri trú að gerðarþolar myndu afhenda jörðina samhliða því að umsamið kaupverð væri greitt til föður þeirra, enda hefði verið rætt um eitt uppgjör. Með bréfi dagsettu 2. júní 2019 mun hafa verið skorað á gerðarþola að rýma jörðina en þeir munu ekki hafa orðið við þeirri kröfu. Í bréfi þeirra dagsettu 5. júní sama ár munu þeir hafa borið því við að þeir hefðu byggt jörðina frá því umræddur samningur hafi runnið út og greitt leigu sem móttekin hafi verið af gerðarbeiðanda athugasemdalaust. Hefði því stofnast til ótímabundins ábúðarsamnings frá fardögum að vori 2018, sbr. 9. gr. ábúðarlaga. Gerðarbeiðandi mótmælir því að gerðarþolar hafi greitt umsamið jarðarafgjald og með bréfi dagsettu 13. desember 2019 hafi samningnum verið sagt upp með vísan til 35. og 37. gr. ábúðarlaga. Gerðarbeiðandi kveður gerðarþola ekki hafa mótmælt uppsögninni enda ljóst að þeir hefðu ekki greitt umsamið jarðarafgjald og þá hafi verið heimilt að segja samningnum upp. Hafi gerðarbeiðandi því staðið í þeirri trú að gerðarþolar myndu rýma jörðina 6. júní sl. og hafi hún verið auglýst til sölu. Gerðarþolar hafi tveimur dögum áður en þeir hafi átt að skila jörðinni sent tölvupóst þar sem þeir hafi byggt á því að ábúðarsamningurinn hefði átt að vera til fimm ára með vísan til 5. gr. ábúðarlaga. Gerðarbeiðandi telur ljóst að gerðarþolar hyggist vera áfram á jörðinni þrátt fyrir að ábúðarsamningur þeirra hafi liðið undir lok og þeim verið sagt upp í samræmi við lög. Gerðarbeiðandi hyggist selja jörðina og liggi fyrir hagstætt kauptilboð í hana. Komi dvöl gerðarþola á jörðinni í veg fyrir söluna og hafi leitt til verulegs tjóns fyrir gerðarbeiðanda. Gerðarþolar kveða endanlegt uppgjör vegna ábúðarloka Guðmundar ekki hafa farið fram, heldur dregist úr hófi af völdum gerðarbeiðanda. Mál vegna ábúðarlokanna mun hafa verið höfðað á hendur gerðarbeiðanda fyrir dóminum. Gerðarþolar segjast hafa greitt leigu á leigutímanum fyrir afnot eigna gerðarbeiðanda samkvæmt eigin útreikningum, en hvorki fyrr né síðar hafi gerðarbeiðandi sinnt því að innheimta leigugjald af þeim. Hafi leigugreiðslur verið mótteknar án athugasemda af hálfu gerðarbeiðanda í alls níu skipti á árunum 2019 og 2010. Uppi sé ágreiningur milli aðila um heimild gerðarþola til þess að hafa umráð jarðarinnar og hafi sá ágreiningur ekki verið útkljáður. Telja gerðarþolar sig eiga fullan rétt til umráða yfir jörðinni fram til fardaga ársins 2022. Málsástæður og lagarök gerðarbeiðanda Gerðarbeiðandi byggir á því í fyrsta lagi að umsaminn ábúðartími hafi liðið undir lok. Í öðru lagi er byggt á því að ábúð gerðarþola hafi verið sagt upp með réttum hætti samkvæmt 35. gr. ábúðarlaga og í þriðja lagi að ábúð hafi verið sagt upp með réttum hætti samkvæmt 37. gr. laganna vegna vanefnda gerðarþola á greiðslu jarðarafgjalds. Gerðarbeiðandi byggir á 1. gr. ábúðarsamningsins þar sem tekið sé fram að ábúðin sé tímabundin í eitt fardagaár, frá 8. júní 2017 til 6. júní 2018. Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. ábúðarlaga hafi samningnum þá lokið án sérstakrar uppsagnar eða tilkynningar af hálfu aðila. Gerðarbeiðandi telur að ákvæði 5. gr. laganna um að jörð skuli byggja til fimm ára í senn hið skemmsta hafi ekki þau réttaráhrif að ábúðartími gerðarþola sé til fimm ára eins og þeir haldi fram. Skýra verði ákvæðið í samræmi við 1. mgr. 34. gr. laganna, en þar segi að heimilt sé að semja um að segja megi upp tímabundnum samningi án sérstakra aðstæðna, atvika eða forsendna. Sé því heimilt að segja upp tímabundnum samningi jafnvel þótt ábúðin hafi ekki náð fimm árum. Beri því að skýra ábúðarsamning málsaðila með þeim hætti að þeir hafi samið fyrirfram um að segja samningnum upp frá og með næstu fardögum og sé sú túlkun í samræmi við vilja málsaðila. Gerðarbeiðandi byggir á því að verði komist að þeirri niðurstöðu að ábúðartíminn hafi verið ótímabundinn sé ljóst að samningnum hafi verið sagt upp með réttum hætti með vísan til 35. gr., sbr. 9. gr. ábúðarlaga. Ákvæði ábúðarsamningsins og samskipti aðila í aðdraganda og eftir gerð hans staðfesti að málsaðilar hafi viljað semja til eins árs. Uppsögnin liggi fyrir, móttaka hennar hafi verið staðfest og ekki mótmælt. Beri því þegar af þessum ástæðum að fallast á kröfu gerðarbeiðanda. Gerðarbeiðandi byggir á því til vara að gerðarþolar hafi fyrirgert öllum rétti sínum til ábúðar þar sem ábúðarsamningi málsaðila hafi verið sagt upp vegna vanefnda þeirra á greiðslu jarðarafgjalds. Hafi jarðarafgjald vegna fardagaársins 2017-2018 verið 1.319.820 krónur, 1.451.940 krónur vegna fardagaársins 2018-2019 og 1.642.920 krónur vegna fardagaársins 2019-2020. Gerðarþolar hafi einungis greitt 1.407.968 krónur þegar uppsögnin hafi átt sér stað 13. desember 2019 og hafi þeir því vanefnt ábúðarsamninginn. Hafi gerðarbeiðanda því verið heimilt að segja honum upp, sbr. 37. gr. ábúðarlaga.  Fjárhæð sú sem gerðarþolar hafi greitt hafi hins vegar átt að vera tilgreind 1.132.736 krónur, þar sem millifærsla að fjárhæð 275.232 krónur, sem innt hafi verið af hendi 24. júlí 2019, hafi verið vegna leigu gerðarþolans Stefáns á jörðinni Prestalaut. Þá tekur gerðarbeiðandi fram að gerðarþolar hafi millifært 941.463 krónur eftir að ábúðarsamningi hafði verið sagt upp, en þær millifærslur hafi enga þýðingu, enda inntar af hendi eftir uppsögnina og hafi ekki falið í sér uppgjör. Gerðarbeiðandi vísar til 78. gr., sbr. 12. og 72. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og 46. gr. ábúðarlaga. Krafa um málskostnað er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 84. gr. laga nr. 90/1989. Málsástæður og lagarök gerðarþola     Gerðarþolar byggja á því að réttur sá sem gerðarbeiðandi byggir kröfu sína á sé ekki ljós og óttvíræður og þar með séu ekki uppfyllt skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 fyrir útburðargerð án undangengins dóms eða réttarsáttar. Að minnsta kosti sé uppi slíkur vafi um réttmæti kröfunnar að henni beri að hafna samkvæmt 3. mgr. 83. gr. laganna, enda væri varhugavert að láta gerðina fram ganga án þess að skorið verði úr um þau efnislegu atriði sem valdi vafa á réttmæti kröfunnar. Samkvæmt þessum lagaákvæðum sé gerð sú krafa að réttindi gerðarbeiðanda séu bæði skýr og glögg og að ekki leiki nokkur vafi á réttmæti kröfunnar. Beri að gera ríkar kröfur til sönnunar á slíkum réttindum og byggja gerðarþolar á því að slíkur vafi sé uppi um réttindi gerðarbeiðanda að hafna beri kröfu hans um útburð. Atvik séu um margt óljós og þörf á skýrslutökum af aðilum og vitnum til að upplýsa málið. Ekki verði leyst úr ágreiningi aðila öðruvísi en með dómi í einkamáli milli þeirra. Það sé fjarri lagi að telja megi réttindi gerðarbeiðanda og kröfu hans svo skýra að öldungis megi jafna til þess að dómur hafi gengið um hana. Gerðarþolar byggja á því að kominn sé upp ágreiningur milli aðila um það hvernig beri að túlka yfirtöku gerðarþola á ábúðarsamningi föður þeirra og hvort samningssamband þeirra og gerðarbeiðanda hafi liðið undir lok. Gerðarbeiðandi byggi á því að umsaminn ábúðartími sé liðinn, en gerðarþolar telja svo ekki vera, heldur líta svo á að þeir hafi skýran rétt samkvæmt ábúðarlögum til þess að vera á  jörðinni. Í 1. gr. samningsins segi að ábúð gerðarþola sé tímabundin í eitt fardagaár og þá segi í 5. gr. samningsins að gildandi ábúðarlög gangi framar ákvæðum samningsins ef saman lýstur. Í 5. gr. laganna segi að jörð skuli byggja, sé ekki um annað samið, frá fardögum til fardaga til fimm ára í senn hið skemmsta og geti ábúðartími verið tímabundinn, til lífstíðar eða gengið í erfðir. Í greinargerð með frumvarpinu segi að samning um ábúð sé unnt að gera tímabundið, þó ekki skemur en til fimm ára í senn. Sé því ljóst að ekki sé í lögum heimild til þess að semja um ábúð til styttri tíma en til fimm ára. Gildi þá einu hvaða sjónarmið hefðu komið fram í tölvupóstsamskiptum aðila í aðdraganda samningsgerðar, enda geri samningurinn ráð fyrir að ákvæði hans víki fyrir ákvæðum ábúðarlaga ef saman lýstur. Þá sé uppsögn tímabundins ábúðarsamnings einungis heimil sé um slíkt samið með beinum hætti milli jarðareiganda og ábúanda, sbr. 34. gr. laganna. Samkvæmt þessu ljúki ábúðartímanum ekki fyrr en á fardögum að vori árið 2022 og hafi gerðarþolar fullan umráðarétt yfir jörðinni út ábúðartímann. Gerðarþolar mótmæla þeim sjónarmiðum gerðarbeiðanda að samningnum hafi verið réttilega sagt upp á grundvelli 35. gr. laganna, sbr. 9. gr. þeirra, enda gildi þær reglur einungis um ótímabundna samninga. Þá hafi gerðarþolar ítrekað komið því á framfæri við gerðarbeiðanda að þeir hafi litið svo á að um tímabundinn samning til fimm ára hafi verið að ræða. Gerðarþolar byggja á því að frá upphafi samningstímans hafi gerðarbeiðandi látið hjá líða að innheimta leigugjald samkvæmt samningnum, hann hafi hvorki fyrr né síðar sent þeim innheimtukröfu fyrir leigugjaldi né látið í té aðrar greiðsluupplýsingar. Fram til ársins 2019 hafi enn ekki farið fram uppgjör milli gerðarbeiðanda og fráfarandi ábúanda jarðarinnar af ástæðum sem eingöngu megi rekja til gerðarbeiðanda. Hafi gerðarbeiðandi haldið eftir nær 150 milljóna króna greiðslu, að því er virðist að ástæðulausu, fyrir ævistarf fráfarandi ábúanda sem byggt hafði jörðina í um fjörutíu ár. Þá byggja gerðarþolar á því að þeir hafi reiknað út leigugjald frá upphafi leigutímans 1. júní 2017 og greitt leigugjald samkvæmt þessum útreikningum. Þeir byggist á því að greidd sé leiga miðuð við fasteignamat þeirra eigna sem verið hafi í eigu gerðarbeiðanda á hverjum tíma. Fram til 5. mars 2019, þegar gengið hefði verið frá kaupsamningi um eignir fráfarandi ábúanda, hafi gerðarþolar litið svo á að hluti hinna leigðu eigna, sem tilgreindar væru í kaupsamningnum, væru í reynd enn eign fráfarandi ábúanda, enda hefði hann ekki fengið greitt fyrir þær. Hafi þetta leitt til þess að gerðarbeiðandi hafi ekki átt réttmæta kröfu á að innheimta leigugjöld af eignunum. Þá hafi gerðarbeiðandi ekki framvísað kaupsamningi eða öðrum gögnum til staðfestingar á eignarheimild sinni að eignum fráfarandi ábúanda og hafi hann því brostið heimild til þess að innheimta leigugjald fyrir þessar eignir. Verður því ekki litið svo á að gerðarþolar hafi vanefnt samninginn þegar vanheimild hafi staðið því í vegi að gerðarbeiðandi mætti innheimta leigu hjá gerðarþolum. Eftir að uppgjör hafði farið fram að hluta árið 2019 og gerðarbeiðendi hafði gengið frá kaupsamningi um eignirnar og greitt meirihluta kaupverðs, hafi gerðarbeiðandi greitt leigu til gerðarþola af þeim eignum sem keyptar hefðu verið af fráfarandi ábúanda í samræmi við eigin útreikninga, enda hefði gerðarbeiðandi aldrei gert reka að því að innheimta leigu hjá gerðarþolum. Afsal vegna umræddra eigna hafi ekki enn verið gefið út til gerðarbeiðanda, enda hafi endanlegt uppgjör ekki farið fram milli hans og fráfarandi ábúanda. Gerðarþolar byggja á því að umræddar leigugreiðslur hafi verið mótteknar af gerðarbeiðanda án athugasemda. Það hafi ekki verið fyrr en í desember 2019, þegar gerðarbeiðandi hafi sent gerðarþolum hið ólögmæta uppsagnarbréf, að fyrst hafi verið hreyft þeim fullyrðingum að gerðarþolar væru í vanskilum með leigu. Það hafi ekki verið á rökum reist þar sem gögn málsins beri með sér að leigugreiðslur hafi verið í fullum skilum, eða því sem næst, þegar uppsagnarbréfið hafi verið sent. Gerðarbeiðandi geti því ekki byggt útburðarbeiðni sína á ákvæði 37. gr. ábúðarlaga. Þá sé það skilyrði ákvæðisins að vanefndir séu verulegar, en ljóst sé að ekki hafi verið um slíkt að ræða af hálfu gerðarþola þegar uppsögn hafi borist þeim. Gerðarþolar byggja á því að mikill ágreiningur ríki um eignarhald á metangasstöð sem standi á jörðinni. Í dómsmáli milli fráfarandi ábúanda á jörðinni og gerðarbeiðanda sé deilt um það hvort gerðarbeiðanda hafi borið skylda til að kaupa mannvirkið en gerðarbeiðandi hafi hafnað því. Í yfirmatsgerð, sem unnin hafi verið í tengslum við ábúðarlok fráfarandi ábúanda, séu sett fram þau sjónarmið að þar sem umrætt mannvirki sé í eigu annars gerðarþola hafi ekki verið fyrir að fara kaupskyldu gagnvart fráfarandi ábúanda á grundvelli 38. gr. ábúðarlaga, en í fyrrgreindu dómsmáli sé þessum sjónarmiðum hafnað. Verði komist að þeirri niðurstöðu að gerðarbeiðanda hafi ekki borið skylda til að kaupa mannvirkið á grundvelli framangreindrar lagagreinar af þeirri ástæðu að mannvirkið sé í eigu annars gerðarþola, komi til skoðunar hvort slík kaupskylda hafi stofnast gagnvart gerðarþolum við undirritun samnings aðila 8. júní 2017. Um lok ábúðarsamnings aðila gildi ákvæði V. kafla ábúðarlaga og geti gerðarbeiðandi sem jarðareigandi ekki komið sér undan þeim skyldum sem hann beri á grundvelli umræddra reglna með því að kveða á um það í samningi að ekki muni stofnast til kaupskyldu með framkvæmdum eftir fardaga vorið 2017, sbr. 4. gr. samnings aðila. Beri í öllu falli að túlka samninginn í samræmi við ákvæði ábúðarlaga, sbr. 5. gr. hans. Þá hafi umrætt mannvirki verið reist áður en gerðarþolar tóku við réttindum fráfarandi ábúanda samkvæmt byggingarbréfi hans frá 1977. Gerðarþolar benda á að í 3. gr. samnings þeirra og gerðarbeiðanda segi berum orðum að leigutakar haldi áfram þeim kúabúskap og gasframleiðslu sem verið hafi á hinni leigðu jörð. Þá segi í 4. gr. samningsins að gert sé ráð fyrir að hinni leigðu eign væri skilað til jarðareiganda í svipuðu ásigkomulagi og hún er við afhendingu til leigutaka að teknu tilliti til eðlilegra fyrninga og afskrifta á ábúðartíma leigutaka. Ekki verði annað ráðið af efni samningsins en að gerðarbeiðandi hafi litið svo á að hauggasstöðin væri hluti af hinni leigðu eign, enda verði ekki annað ráðið af efni samningsins en að gerðarbeiðandi telji gasframleiðsluna sem þar fer fram vera órjúfanlegan hluta af þeirri landbúnaðarstarfsemi sem fram fer á jörðinni. Skjóti því skökku við að gerðarbeiðandi skuli leigja hina umdeildu hauggasstöð með jörðinni til ábúðar áfram á sama tíma og hann þvertekur fyrir að mannvirkið sé hluti af þeim mannvirkjum jarðarinnar sem kaupskylda hans samkvæmt 38. gr. ábúðarlaga nái til. Geti ábúðarlok gerðarþola hvort heldur sem er aldrei átt sér stað fyrr en að undangenginni þeirri skyldubundinni málsmeðferð sem ábúðarlög mæli fyrir um, sbr. 38.-45. gr. þeirra laga. Verði komist að þeirri niðurstöðu að engin kaupskylda hafi verið fyrir hendi að metangasstöðinni sé ljóst að fráfarandi ábúanda, ellegar gerðarþolum, sé bæði rétt og skylt að fjarlægja mannvirkið af jörðinni, sbr. 46. gr. ábúðarlaga. Þrátt fyrir þetta hafi gerðarbeiðandi hvorki fyrr né síðar gert þá kröfu að mannvirkið verði fjarlægt af jörðinni. Þvert á móti hafi gerðarbeiðandi tekið við umráðum þess frá fráfarandi ábúanda og leigt áfram til gerðarþola undir þeim formerkjum að gerðarþolar myndu halda áfram þeim kúabúskap og gasframleiðslu sem verið hafi á hinni leigðu jörð, sbr. 3. gr. samningsins. Skjóti því skökku við að á sama tíma og gerðarbeiðandi hafni kaupskyldu að mannvirkinu hafi hann selt jörðina til þriðja aðila, að því er virðist með umræddu mannvirki. Í undirrituðu kauptilboði sé hvergi að finna fyrirvara um eignarrétt fráfarandi ábúanda eða gerðarþola að mannvirkinu og einungis kveðið á um það að gerðarbeiðandi muni fjarlægja það að ósk kaupanda. Megi því ætla að það yrði verulegum vandkvæðum bundið fyrir fráfarandi ábúanda eða gerðarþola að endurheimta umrædd verðmæti, verði komist að þeirri niðurstöðu að kaupskylda hafi ekki verið fyrir hendi. Leiki verulegur vafi á um það hvort gerðarþolar hefðu í reynd rétt til að fjarlægja þessar eignir af jörðinni vegna réttinda kaupsamningshafa. Að lokum telja gerðarþolar að gerðarbeiðandi hafi brotið gegn skyldum sínum á grundvelli 20. gr. jarðalaga nr. 81/2004 til þess að bjóða gerðarþolum að neyta forkaupsréttar að jörðinni við sölu hennar til þriðja aðila. Skýrt komi fram í samningi aðila að gerðarþolar hafi tekið við öllum réttindum og skyldum fráfarandi ábúanda samkvæmt byggingarbréfi dags. 3. október 1977. Ekki sé sérstaklega kveðið á um forkaupsrétt og líti gerðarþolar því svo á að þeir hafi yfirtekið þann forkaupsrétt sem fráfarandi ábúandi hafi notið, enda hefði hann byggt jörðina í mun lengri tíma en sjö ár, sbr. 27. gr. jarðalaga. Verði ekki betur séð en að gerðarbeiðandi sé meðvitaður um þennan rétt gerðarþola, en kauptilboð um jörðina hafi verið undirritað fyrir hönd gerðarbeiðanda með fyrirvara um mögulegan forkaupsrétt. Gerðarþolar telja að í umræddum fyrirvara felist viðurkenning gerðarbeiðanda á því að samningur aðila sé enn í gildi, enda væri forkaupsréttur gerðarþola ekki lengur fyrir hendi ef samningurinn væri niður fallinn, hvort sem væri á þeim grundvelli að samningstíminn væri liðinn eða vegna ætlaðra vanefnda gerðarþola. Í öllu falli staðfesti fyrirvarinn viðurkenningu gerðarbeiðanda á því að fyrir hendi sé vafi um þau réttindi sem gerðarbeiðandi byggi útburðarkröfu sína á. Þar sem gerðarþolum hafi ekki verið boðið að neyta forkaupsréttar sé frestur þeirra til að svara því hvort þeir hyggist neyta hans ekki byrjaður að líða. Þá byggja gerðarþola á því að þeir eigi einnig kauprétt að jörðinni á grundvelli 36. gr. jarðalaga. Niðurstaða Í máli þessu krefst gerðarbeiðandi þess að gerðarþolar, ásamt því sem þeim fylgir, verði bornir út af lögbýlinu Hraungerði, Flóahreppi ásamt þeim eignum sem þar er að finna með beinni aðfarargerð. Þess er krafist að gerðarþolar verði bornir út með beinni aðfarargerð af jörðinni og tilteknum eignum sem eru hluti jarðarinnar og sérmetnar. Faðir gerðarþola mun hafa verið með jörðina í ábúð frá fardögum 1977, en hann mun hafa sagt ábúðinni upp 20. desember 2016. Aðilar munu hafa undirritað ábúðarsamning 8. júní 2017 og segi í 1. gr. samningsins að ábúðin sé tímabundin í eitt fardagaár, þ.e. frá fardögum að vori 2017 til fardaga að vori 2018. Þá sé umsamið leiguverð 3% af fasteignamati. Fyrir dómi er rekið mál sem faðir gerðarþola hefur höfðað á hendur gerðarbeiðanda vegna ágreinings um uppgjör í tengslum við ábúðarlok stefnanda í því máli á jörðinni. Í stefnu í málinu er ágreiningur aðila afmarkaður og snýr m.a. að því hvort fyrir hendi sé kaupskylda stefnda í því máli að hauggasstöð sem stefnandi hafi byggt á jörðinni í samvinnu við son sinn, annan gerðarþola í þessu máli. Af hálfu gerðarbeiðanda er byggt á því í fyrsta lagi að umsaminn ábúðartími hafi liðið undir lok, í öðru lagi að ábúð gerðarþola hafi verið sagt upp með réttum hætti samkvæmt 35. gr. ábúðarlaga og í þriðja lagi að ábúð hafi verið sagt upp með réttum hætti samkvæmt 37. gr. laganna vegna vanefnda gerðarþola á greiðslu jarðarafgjalds. Gerðarþolar byggja á því í fyrsta lagi að samningsamband aðila sé ekki liðið undir lok, í öðru lagi að uppsögn gerðarbeiðanda á samningi aðila sé ólögmæt og í þriðja lagi er því hafnað að gerðarþolar hafi vanefnt samning aðila. Samkvæmt 1. gr. ábúðarsamnings aðila skal ábúðin vera tímabundin í eitt fardagaár, frá 8. júní 2017 til 6. júní 2018. Gerðarbeiðandi byggir á því að samkvæmt 1. mgr. 34. gr. ábúðarlaga hafi samningnum þá lokið án sérstakrar uppsagnar eða tilkynningar af hálfu aðila. Gerðarþolar mótmæla þessum skilningi og benda á 5. gr. laganna þar sem segi að jörð skuli byggja, sé ekki um annað samið, frá fardögum til fardaga til fimm ára í senn hið skemmsta og geti ábúðartími verið tímabundinn, til lífstíðar eða gengið í erfðir. Sé því ljóst að ekki sé í lögum heimild til þess að semja um ábúð til styttri tíma en til fimm ára. Gerðarbeiðandi telur að skýra verði ákvæðið í samræmi við 1. mgr. 34. gr. laganna, en þar segi að heimilt sé að semja um að segja megi upp tímabundnum samningi án sérstakra aðstæðna, atvika eða forsendna. Sé því heimilt að segja upp tímabundnum samningi jafnvel þótt ábúðin hafi ekki náð fimm árum.  Gerðarþolar benda aftur á móti á 5. gr. samningsins þar sem segi að gildandi ábúðarlög gangi framar ákvæðum samningsins ef saman lýstur. Þá greinir aðila á um það hvort gerðarbeiðandi hafi sagt upp samningnum með lögmætum hætti. Gerðarbeiðandi kveður ákvæði ábúðarsamningsins og samskipti aðila í aðdraganda og eftir gerð hans staðfesta að málsaðilar hafi viljað semja til eins árs. Þá liggi uppsögnin fyrir, hún hafi verið móttekin og ekki mótmælt. Gerðarþolar mótmæla þeim sjónarmiðum gerðarbeiðanda að samningnum hafi verið réttilega sagt upp á grundvelli 35. gr. laganna, sbr. 9. gr. þeirra, enda gildi þær reglur einungis um ótímabundna samninga. Ágreiningur aðila snýst einnig um það hvort gerðarþolar hafi vanefnt leigugreiðslur af jörðinni og telja gerðarþolar að gerðarbeiðandi hafi frá upphafi samningstímans látið hjá líða að innheimta leigugjald samkvæmt samningnum.  Hvorki fyrr né síðar hafi hann sent þeim innheimtukröfu fyrir leigugjaldi eða látið í té aðrar greiðsluupplýsingar. Við úrlausn máls þessa verður ekki fram hjá því litið að framangreint dómsmál milli föður gerðarþola og gerðarbeiðanda getur haft áhrif á réttarstöðu gerðarþola, enda var hauggasstöðin byggð í samvinnu við annan gerðarþola. Hugsanlegt er að niðurstaða dómsins í því máli gæti leitt til þess að ábúðarlok gerðarþola gætu ekki átt sér stað fyrr en að undangenginni þeirri skyldubundnu málsmeðferð sem mælt er fyrir um í 38.-45. gr. ábúðarlaga. Í 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 kemur fram að ef manni er með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda sem hann tjáir sig eiga og telur svo ljós að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum sem aflað verður skv. 83. gr, er honum heimilt að beina til héraðsdómara  beiðni um að skyldu þess efnis, sem getur í 72. eða 73. gr., verði fullnægt með aðfarargerð, þótt aðfararheimild skv. 1. gr. liggi ekki fyrir.  Samkvæmt 1. mgr. 83. gr. sömu laga skal málið, ef sátt tekst ekki, sótt og varið munnlega, en vitnaleiðslur og mats- og skoðunargerðir skulu að jafnaði ekki fram fara. Samkvæmt síðari málslið 3. mgr. 83. gr. sömu laga skal aðfararbeiðni að jafnaði hafnað, ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna, sem heimilt er að afla samkvæmt áðursögðu. Í ljósi þess ágreinings aðila sem rakinn hefur verið hér að framan verður að fallast á það mat gerðarþola að atvik málsins séu um margt óljós og að þörf sé á skýrslutökum af aðilum og vitnum til að upplýsa málið, sérstaklega að því er varðar þá fullyrðingu gerðarþola að þeir hafi ítrekað komið því á framfæri við gerðarbeiðanda að þeir hafi litið svo á að um tímabundinn samning til fimm ára hafi verið að ræða. Samkvæmt öllu framansögðu verður því að telja að það mikill vafi leiki á rétti gerðarbeiðanda til umbeðinnar gerðar að ekki verði skorið úr um réttarstöðu aðila á grundvelli þeirrar takmörkuðu sönnunarfærslu sem heimil er í málum af þessu tagi. Með hliðsjón af þessu og með vísan til síðari málsliðar 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 verður því að telja varhugavert að láta gerðina ná fram að ganga og er kröfu gerðarbeiðanda því hafnað. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Hjörtur O. Aðalsteinsson  dómstjóri  kveður upp úrskurð þennan. Úrskurðarorð:        Kröfu gerðarbeiðanda, Kirkjumálasjóðs, um að gerðarþolar, Stefán Guðmundsson, og Jón Tryggvi Guðmundsson, verði bornir út af lögbýlinu Hraungerði, Flóahreppi, landnr. 166237, fastanr. F220-0798, ásamt þeim eignum sem þar er að finna og nánar tilgreindum eignum sem eru hluti jarðarinnar og sérmetnar, með beinni aðfarargerð, er hafnað. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 30/2020
Kynferðisbrot Stjórnarskrá Lögskýring Sönnunarmat Réttlát málsmeðferð Milliliðalaus málsmeðferð Sannleiksregla Miskabætur
Þ var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa fróað A án hans samþykkis með því að beita hann ólögmætri nauðung með tilgreindum hætti. Í dómi Hæstaréttar kom fram að enda þótt munnleg sönnunarfærsla hefði ekki farið fram fyrir Landsrétti í málinu hefði endurskoðun á sönnunarmati, þar á meðal mati héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar, verið í samræmi við ákvæði laga um meðferð sakamála auk þess sem málsmeðferðin var ekki talin hafa brotið gegn rétti Þ til milliliðalausrar sönnunarfærslu. Þá kom fram í dómi Hæstaréttar að þótt skortur á samþykki hefði ekki verið hluti af verknaðarlýsingu nauðgunarákvæðisins í 194. gr. almenna hegningarlaga á verknaðarstundu væri vafalaust að skortur á samþykki fyrir samræði eða öðrum kynferðismökum hefði verið ein af forsendum þess að háttsemi teldist þá refsinæm samkvæmt ákvæðinu. Þrátt fyrir alvarleika brots Þ þótti ekki næg ástæða til að hagga við refsingu hans með hliðsjón af þeim langa tíma sem hafði liðið frá því að brotið átti sér stað og þar til brotaþoli tilkynnti um það til lögreglu og ákæra var gefin út. Var Þ gert að sæta fangelsi í 18 mánuði. Þá var honum gert að greiða A 1.200.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. september 2020 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd. Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara lægstu refsingar sem lög leyfa og að sú refsing verði bundin skilorði. Þá krefst hann þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð. Brotaþoli, A, krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2011 til 2. október 2016 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms um kröfuna. I    Með ákæru héraðssaksóknara 16. ágúst 2018 var ákærða gefin að sök nauðgun með því að hafa í lok september 2010, á þáverandi heimili sínu að […] á […], fróað A, án hans samþykkis, með því að beita hann ólögmætri nauðung en ákærði hefði misnotað það traust sem A bar til hans sem heilara er hann lá nakinn á nuddbekk hjá ákærða. Háttsemin var í ákæru talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði var sakfelldur í héraði fyrir það brot sem honum var gefið að sök í ákæru og refsing hans ákveðin 18 mánaða fangelsi. Honum var auk þess gert að greiða brotaþola 800.000 króna miskabætur auk vaxta. Með hinum áfrýjaða dómi var dómur héraðsdóms staðfestur. Að ósk ákærða var veitt leyfi til áfrýjunar málsins til Hæstaréttar. Í ákvörðun réttarins um að veita leyfið var tekið fram að líta yrði svo á að úrlausn, meðal annars um beitingu 194. gr. almennra hegningarlaga og lagaskil, myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. II Rannsókn málsins hófst í kjölfar þess að brotaþoli mætti á lögreglustöð 17. mars 2016 í því skyni að leggja fram kæru á hendur ákærða vegna kynferðisbrots á heimili hans í lok september 2010. Ítarleg skýrsla var tekin af brotaþola sama dag. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi lýsti brotaþoli þá þeirri háttsemi ákærða sem ákæran lýtur að en einnig fyrri samskiptum þeirra, háttsemi ákærða eftir hið ætlaða brot og líðan sinni í kjölfarið. Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 20. apríl 2016 og neitaði því að hafa átt í kynferðislegum samskiptum við brotaþola en helstu atriði úr framburði ákærða hjá lögreglu eru rakin í héraðsdómi. Við rannsókn málsins gáfu skýrslu foreldrar brotaþola, tvö systkini hans, námsráðgjafi við skóla þar sem brotaþoli stundaði nám, ráðgjafi hjá Stígamótum og maður sem þá hafði einnig lagt fram kæru á hendur ákærða. Lögregla aflaði einnig greinargerðar sálfræðings sem hafði haft brotaþola til meðferðar. Meðal gagna málsins er einnig skjáskot sem brotaþoli sendi lögreglu af rafrænum samskiptum sínum og ákærða á tímabilinu 18. september til 2. október 2010. Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi gáfu ákærði og brotaþoli munnlega skýrslu og jafnframt átta vitni en sjö þeirra höfðu áður gefið skýrslu hjá lögreglu. Allar framburðarskýrslur voru teknar upp í hljóði og mynd. Munnleg sönnunarfærsla fór ekki fram fyrir Landsrétti en við aðalmeðferð málsins var spiluð upptaka af framburði ákærða og hluti af framburði brotaþola fyrir héraðsdómi. III Af hálfu ákærða er því haldið fram að niðurstaða Landsréttar brjóti gegn meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa sönnunarfærslu þar sem sakfelling hafi verið byggð á lögregluskýrslum og framburði vitna fyrir héraðsdómi sem ekki hafi getað borið um atvik. Ákærði vísar til þess að í dómi Landsréttar segi að lyktir málsins ráðist fyrst og fremst af mati á sönnunargildi og trúverðugleika framburðar brotaþola annars vegar og ákærða hins vegar fyrir héraðsdómi en einnig hjá lögreglu. Vísar hann til þess að í dóminum hafi ranglega verið byggt á skýrslum vitna sem ekki hafi skynjað atvik af eigin raun. Ákærði byggir kröfu sína um sýknu á því að háttsemi hans hafi ekki verið refsiverð samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga þegar atvikið átti sér stað. Á þeim tíma hafi verknaðarlýsing nauðgunarákvæðisins verið bundin við að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Fyrir þá breytingu sem gerð hafi verið á ákvæðinu með lögum nr. 16/2018 hafi ekki verið fyrirsjáanlegt að ákærða yrði gerð refsing fyrir brot gegn því vegna þeirrar háttsemi sem honum hafi verið gefin að sök í ákæru. Sakfelling gangi því gegn rétti ákærða samkvæmt 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Ákæruvaldið telur að ekki hafi verið brotið gegn reglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu við meðferð málsins fyrir Landsrétti og vísar í því efni til 1. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um frjálst sönnunarmat dómara og óbeina sönnun. Jafnframt telur ákæruvaldið að við mat á sönnunargildi framburðar ákærða, samkvæmt 1. mgr. 115. gr. sömu laga, eigi dómari meðal annars að líta til annarra gagna og upplýsinga sem fram hafi komið við málsmeðferðina, svo sem lögregluskýrslna. Ákæruvaldið vísar um þetta til niðurlags athugasemda við 115. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 88/2008 en þar segi að það geti gert framburð ákærða ótrúverðugan ef hann reynist óstöðugur, til dæmis ef hann beri allt annað fyrir dómi en áður hjá lögreglu án þess að viðhlítandi skýring komi fram á því. Ákæruvaldið kveður niðurstöðu héraðsdóms og Landsréttar um sakfellingu ákærða fyrst og fremst hafa byggst á mati á sönnunargildi framburðar ákærða og brotaþola. Framburður brotaþola um atvik hafi verið metinn stöðugur og trúverðugur og hafði fengið stuðning í framburði móður, föður og systkina brotaþola en einnig í vottorði og framburði sálfræðings um mikla vanlíðan brotaþola í kjölfar þess atviks sem ákæran lúti að. Framburður ákærða hafi á hinn bóginn verið metinn óstöðugur um mikilsverð atriði og skýringar hans á misræmi í framburði hafi þótt ósannfærandi og ótrúverðugar. Af hálfu ákæruvalds er byggt á því að skortur á samþykki brotaþola til kynferðismaka hafi frá gildistöku laga nr. 61/2007 verið í forgrunni hvað varðar skilgreiningu á nauðgunarbrotinu og hafi því verið rétt að orða ákæru með þeim hætti sem gert hafi verið. Vísað er til þess að með þeim lögum hafi inntak nauðgunarákvæðisins í 194. gr. almennra hegningarlaga verið rýmkað verulega og fellt undir það ólögmæt kynferðisnauðung og misnotkun sem áður hafi verið refsiverð samkvæmt 195. og 196. gr. laganna. Í greinargerð með frumvarpi sem orðið hafi að þeim lögum hafi komið fram að tilgangurinn væri að hið nýja ákvæði um nauðgun tæki til þeirra tilvika þar sem kynmök færu fram án samþykkis þolanda enda væri það undirliggjandi skilyrði að samþykki skorti til kynmaka. Ákæruvaldið vísar til þess að hin ólögmæta nauðung ákærða hafi falist í því að hann hafi misnotað það traust sem brotaþoli hafi borið til ákærða sem heilara. Brotaþoli hafi talið ákærða geta veitt sér hjálp við andlegum og líkamlegum vanda sínum og í trausti þess hafi hann legið nakinn á nuddbekk heima hjá ákærða. Þetta traust og þennan aðstöðumun hafi ákærði notfært sér til að ná fram þeim kynferðismökum sem ákært sé fyrir en ákærði hafi byrjað að fróa brotaþola honum að óvörum og án þess að nokkuð slíkt hefði verið rætt þeirra á milli, hvað þá að samþykki brotaþola fyrir kynferðismökum hafi legið fyrir. Af hálfu ákæruvaldsins er talið að engin efni séu til að efast um réttmæti verknaðarlýsingar brots ákærða og heimfærslu þess til 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga eins og ákvæðinu hafi verið breytt með 3. gr. laga nr. 61/2007. IV 1 Niðurstaða hins áfrýjaða dóms er einkum reist á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og vitna en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Ef annmarkar eru hins vegar á aðferð við sönnunarmat í dómi sem áfrýjað er til réttarins og þeir teljast fallnir til að hafa áhrif á niðurstöðu málsins geta þeir leitt til ómerkingar dómsins, sbr. dóm Hæstaréttar 15. október 2020 í máli nr. 16/2020. 2 Af hálfu ákærða er sem fyrr segir byggt á því að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn rétti hans til milliliðalausrar sönnunarfærslu og að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu hafi verið byggð á lögregluskýrslum og framburði vitna sem ekki hafi getað borið um atvik. Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða var fyrst og fremst byggð á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og brotaþola. Annars vegar var litið til þess hvernig framburður þeirra fyrir dómi samrýmdist framburði þeirra hjá lögreglu og hins vegar framburði vitna. Framburður brotaþola var talinn mjög trúverðugur og samræmi talið í framburði hans hjá lögreglu og fyrir dómi. Þá var frásögn hans talin fá stoð í framburði foreldra hans, systkina og annarra vitna sem komu fyrir dóminn. Misræmi í framburði ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi um það hvort brotaþoli hefði legið nakinn á nuddbekk var talið rýra trúverðugleika framburðar hans en ákærði var ekki talinn hafa gefið trúverðugar skýringar á þessu misræmi. Þá var það talið skipta máli við sönnunarmatið að brotaþoli og fjölskylda hans báru um tíðar hringingar og SMS-skilaboð ákærða til brotaþola í nokkra daga eftir það atvik er ákæran lýtur að en ákærði kannaðist ekki við það. Jafnframt var litið til framburðar vitna sem báru um líðan brotaþola eftir umrætt atvik. Í dómi Landsréttar var framburður brotaþola um aðdraganda að kynnum hans og ákærða, um fjölda heimsókna brotaþola til ákærða og það sem þeim fór á milli svo og um það atvik sem ákæran lyti að talinn vera stöðugur og trúverðugur og fá stoð í framburði vitna. Á hinn bóginn hafi framburður ákærða verið óstöðugur um mikilsverð atriði. Misræmi í framburði ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi um hvort brotaþoli hefði legið nakinn á nuddbekk þótti draga úr trúverðugleika framburðar hans og skýringar hans á misræminu voru taldar ósannfærandi og ótrúverðugar. Framburður ákærða um fjölda heimsókna og frumkvæði hans sjálfs að samskiptum við brotaþola var talinn óljós og reikull. Þá þótti framburður vitna um tilraunir ákærða til samskipta við brotaþola í betra samræmi við framburð brotaþola en ákærða. Loks var vætti vitna um mikla vanlíðan brotaþola í kjölfar þess atviks sem ákæran lýtur að og vottorð sálfræðings um að brotaþoli bæri skýr einkenni áfallastreituröskunar talin styðja óbeint við frásögn brotaþola af samskiptunum við ákærða og atvikum þeim sem ákæran lýtur að. Með vísan til framangreindra atriða og forsendna héraðsdóms að öðru leyti taldi Landsréttur sannað að ákærði hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru. 3 Fyrirmæli 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð fyrir dómi hafa verið skýrð svo að þáttur í henni sé að sönnunarfærsla í sakamálum skuli vera milliliðalaus, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 29. nóvember 2012 í máli nr. 429/2012. Nánari útfærslu á meginreglunni er að finna í d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans sem mælir fyrir um að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli ekki njóta minni réttar en að fá að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum. Sjá skuli til þess að vitni sem beri honum í vil komi fyrir dóm og séu spurð á sama hátt og þau vitni sem leidd séu gegn honum. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarps til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sem varð að 70. gr. stjórnarskrárinnar, er meðal annars vísað til 6. gr. mannréttindasáttmálans og sagt að ekki þætti ástæða til að telja upp í greininni öll atriði sem tryggð væru í alþjóðasamningum um mannréttindi varðandi málsmeðferð fyrir dómstólum en að leiðarljósi væri haft að „taka þar aðeins upp grundvallarreglur og sleppa útfærsluatriðum sem eiga við þessar aðstæður eðli sínu samkvæmt aðeins heima í rétt­arfarslöggjöf“. Samkvæmt því er litið svo á að þau réttindi sakbornings sem njóta verndar samkvæmt d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans séu liður í réttlátri málsmeðferð samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið litið til úrlausna Mannréttindadómstóls Evrópu við skýringu mannréttindasáttmálans þegar reynir á ákvæði hans sem hluta af íslenskum landsrétti, sbr. ummæli í dómi Hæstaréttar 19. maí 2004 í máli nr. 520/2004 þar sem vísað var til túlkunar mannréttindadómstólsins á d-lið 3. mgr. 6. gr. sáttmálans svo og dóma Hæstaréttar 22. september 2010 í máli nr. 371/2010 og 21. maí 2019 í máli nr. 12/2018. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um þær kröfur sem gerðar eru til milliliðalausrar sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi sem þáttar í að tryggja réttláta málsmeðferð við endurskoðun dóms undirréttar í sakamáli, sbr. til dæmis dóma réttarins 19. febrúar 1996 í máli nr. 16206/90, Botten gegn Noregi, 15. júlí 2003 í máli nr. 44671/98, Sigurþór Arnarsson gegn Íslandi og 5. júlí 2011 í máli nr. 8999/07, Dan gegn Moldóvu. Í dómaframkvæmd mannréttindadómstólsins hefur verið talið sérstaklega mikilvægt að ákærði eigi þess kost að gefa munnlega skýrslu við meðferð sakamáls á áfrýjunarstigi ef hann hefur verið sýknaður á fyrsta dómstigi. Í dómi hans 9. janúar 2018 í máli nr. 36676/06, Ghincea gegn Rúmeníu, var vísað til þess að ákærði hefði skiljanlega litla hagsmuni af því að óska eftir að munnleg sönnunarfærsla yrði endurtekin í slíku tilviki og lögð áhersla á frumkvæði áfrýjunardómstóls hvað varðar munnlega skýrslutöku á áfrýjunarstigi. Samkvæmt 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 er dómara, eftir því sem hann telur nauðsynlegt til að upplýsa mál eða skýra, rétt að beina því til ákæranda að afla gagna um tiltekin atriði þess en ákvæðið tekur einnig til meðferðar máls fyrir Landsrétti, sbr. 210. gr. laga nr. 88/2008. Þetta frumkvæðishlutverk Landsréttar getur átt við hvort heldur sem ákærði hefur verið sýknaður eða sakfelldur í héraði, til samræmis við meginregluna um jafnræði málsaðila við rekstur sakamáls fyrir dómi og regluna um að leiða skuli hið sanna í ljós. Réttur ákærða til milliliðalausrar sönnunarfærslu er ekki aðeins tryggður í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar heldur kemur þessi meginregla sakamálaréttarfars jafnframt fram í 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 þar sem segir að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð séu fram við meðferð máls fyrir dómi. Með þeim breytingum sem gerðar voru á lögum nr. 88/2008 með lögum nr. 49/2016 var tekið upp þriggja þrepa dómskerfi með Landsrétt sem millidómstig. Ein þeirra meginbreytinga sem þau lög fólu í sér var að heimilað var að leita endurskoðunar Landsréttar á öllum þáttum héraðsdóms, þar á meðal niðurstöðu sem byggð er á mati héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar samkvæmt c-lið 1. mgr. 196. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 58. gr. laga nr. 49/2016. Um munnlega sönnunarfærslu fyrir Landsrétti er fjallað í e-lið 2. mgr. 203. gr., 2. mgr. 205. gr. og 1. mgr. 206. gr. laganna. Með þessum málsmeðferðarreglum fyrir Landsrétti var meginreglan um milliliðalausa sönnunarfærslu á öðru dómstigi fest í sessi, sbr. einnig 210. gr. laganna. Í athugasemdum við 59. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 49/2016 segir svo: „Ekki er gert ráð fyrir að sú sönnunarfærsla sem fram fór fyrir héraðsdómi verði endurtekin fyrir Landsrétti, enda mæla sterk rök gegn því að sakborningar, brotaþolar, málsaðilar eða vitni séu yfirheyrð ítrekað fyrir dómi um sömu atriði eins og nánar er rakið í almennum athugasemdum með frumvarpinu. Á þetta sérstaklega við í sakamálum þar sem ætla má að upprifjun brotaþola og vitna á erfiðri lífsreynslu geti verið sársaukafull og af þeirri ástæðu varhugavert að endurtaka skýrslugjöf að nauðsynjalausu. Hins vegar er í frumvarpinu gert ráð fyrir að málsaðilum gefist kostur á að leiða ný vitni og taka viðbótarskýrslur af ákærðu og vitnum sem gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Þá verði allar skýrslur í héraði teknar upp í hljóði og mynd og afrit af þessum upptökum send Landsrétti sem hluti af gögnum máls. Myndupptökurnar verði þannig aðgengilegar dómurum sakamáls í Landsrétti en að auki verði unnt að fara fram á að einstakar skýrslur eða hluti af þeim verði spilaðar við aðalmeðferð máls ef þörf þykir vegna endurmats á sönnunargildi munnlegs framburðar. Eftir sem áður er þó gert ráð fyrir að við sönnunarfærslu fyrir Landsrétti verði að miklu leyti stuðst við endurrit af framburði ákærðu og vitna fyrir héraðsdómi, enda er mikið hagræði í því fólgið fyrir málsaðila og dómendur og málsmeðferðin til muna skilvirkari með því móti. Sá möguleiki að leiða ný vitni og taka viðbótarskýrslur, svo og að spila upptökur af skýrslum sem teknar voru í héraði, er til þess fallinn að Landsréttur geti endurskoðað sönnunargildi munnlegs framburðar og skorið úr um sekt eða sýknu á grundvelli heildarmats á öllum sönnunargögnum, þ.m.t. munnlegum framburði.“ Samkvæmt framansögðu gera lög nr. 88/2008 ráð fyrir því að ákærði og ákæruvald geti í greinargerð til Landsréttar óskað eftir að munnlegar viðbótarskýrslur séu teknar af ákærða og vitnum við aðalmeðferð sakamáls fyrir Landsrétti og einnig munnlegar skýrslur af nýjum vitnum. Það er hins vegar lagt í hendur Landsréttar að ákveða hvort þörf þykir á því en í þeim efnum skal þó tekið fram að ákærði á ávallt rétt á að gefa munnlega skýrslu við meðferð máls fyrir Landsrétti. 4 Í greinargerð ákærða til Landsréttar í máli þessu kom fram að hann teldi ekki þörf á því að hann, brotaþoli eða vitni kæmu fyrir Landsrétt til skýrslugjafar en að hann teldi rétt að spila hljóð- og myndupptökur af framburði í héraði við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti. Í greinargerð ákæruvalds til Landsréttar kom fram að það teldi ekki nauðsynlegt að aflað yrði munnlegra skýrslna eða viðbótarskýrslna fyrir Landsrétti en að það gerði ekki athugasemdir við óskir ákærða um að spilaðar yrðu upptökur. Landsréttur hélt undirbúningsþinghald með sækjanda og verjanda ákærða 13. febrúar 2020 í samræmi við 3. mgr. 204. gr. laga nr. 88/2008. Þar komu ekki fram óskir um að munnlegar skýrslur yrðu teknar fyrir Landsrétti en verjandi ákærða óskaði eftir að spiluð yrði upptaka af skýrslugjöf ákærða og brotaþola. Í samræmi við ákvörðun Landsréttar 10. mars sama ár um tilhögun aðalmeðferðar var einungis spiluð upptaka af skýrslugjöf ákærða í héraði í heild sinni og tilteknir hlutar af framburði brotaþola. Myndupptaka af munnlegri skýrslugjöf í héraði í heild sinni var meðal þeirra gagna sem lágu frammi í málinu fyrir Landsrétti og jafnframt endurrit af munnlegum framburði. 5 Samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er sökuðum manni tryggður réttur til þess að vera talinn saklaus þar til sekt hans er sönnuð, sbr. einnig 2. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 108. gr. laga nr. 88/2008. Sú meginregla sem birtist í framangreindum ákvæðum um að sönnunarbyrði í sakamálum hvíli á ákæruvaldinu felur í sér að ríkar sönnunarkröfur eru gerðar til ákæruvaldsins. Í 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 segir að dómari meti hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, er fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafa, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn. Með 2. mgr. sömu greinar er jafnframt lagt í hendur dómara að meta, ef þörf krefur, hvert sönnunargildi þær staðhæfingar hafa sem varða ekki beinlínis það atriði sem sanna skal en ályktanir má leiða af um það. Samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 88/2008 metur dómari við úrlausn máls sönnunargildi framburðar ákærða, þar á meðal trúverðugleika hans en við það mat skal meðal annars hugað að ástandi og hegðun ákærða við skýrslugjöf og stöðugleika í frásögn hans. Í greinargerð með frumvarpi er varð að lögunum segir meðal annars um 115. gr. að það geti gert framburð ákærða ótrúverðugan ef hann reynist óstöðugur í framburði, til dæmis ef hann ber allt annað fyrir dómi en hann hefur áður gert hjá lögreglu, án þess að viðhlítandi skýring komi fram á því. Í 126. gr. laganna kemur fram að við mat dómara á sönnunargildi vitnisburðar skuli meðal annars hugað að afstöðu vitnis til ákærða og eftir atvikum brotaþola, hagsmunum þess af málsúrslitum, þroska þess, áreiðanleika skynjunar þess á atvikum, minni, ástandi og hegðun þess við skýrslugjöf, öryggi þess og skýrleika í svörum og samræmi í frásögn. Skýrslutökur af ákærða og brotaþola hjá lögreglu eru liður í rannsókn máls og eru meðal þeirra sönnunargagna sem heimilt er að leggja fram í dómsmáli, sbr. dóm Hæstaréttar 22. október 1992, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 1639, en sá dómur hefur fordæmisgildi þótt hann snúi að túlkun á ákvæðum eldri laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sönnunargildi framburðar sem ótvírætt er að ákærði eða vitni hefur gefið hjá lögreglu verður ekki lagt að jöfnu við sönnunargildi munnlegs framburðar sem gefinn er með milliliðalausum hætti fyrir dómi nema að því leyti sem viðkomandi hefur staðfest hann fyrir dómi. Löng dómaframkvæmd er hins vegar um að dómara sé rétt að taka tillit til þess við mat á trúverðugleika framburðar ákærða og brotaþola fyrir dómi ef ósamræmi reynist um atriði sem talið er skipta máli milli framburðar fyrir dómi og framburðar sem viðkomandi hefur sannarlega gefið hjá lögreglu og hann hefur ekki gefið sennilega skýringu á því ósamræmi. Hvaða þýðingu framburður ákærða hjá lögreglu hefur við þetta mat á trúverðugleika framburðar ákærða fyrir dómi ræðst þó jafnframt af því hvort ákærði naut liðsinnis verjanda við skýrslutöku hjá lögreglu og hvort þar var að öðru leyti fylgt lagafyrirmælum um réttindi sakbornings. Af framangreindu leiðir að dómari verður að meta annars vegar innra samræmi framburðar ákærða jafnt sem brotaþola með tilliti til þess hvort mótsagna gætir í frásögn og skýringum hvors um sig og á það jafnt við um innra samræmi í einstökum framburði og samræmi milli framburðar hvors um sig annars vegar hjá lögreglu og hins vegar fyrir dómi. Á sama hátt verður að meta ytra samræmi um hvernig framburður hvors um sig samræmist framburði vitna og öðrum þeim sönnunargögnum og upplýsingum sem komið hafa fram við málsmeðferðina. Á þessum grunni verður metið hversu trúverðugur framburður ákærða og brotaþola er um einstök atriði sem áhrif geta haft við sakarmatið og hvaða áhrif niðurstaða þess mats hefur með tilliti til annarra beinna og óbeinna sönnunargagna sem fyrir liggja í málinu.  Eins og áður er rakið gaf ákærði skýrslu hjá lögreglu að viðstöddum verjanda sínum og er myndupptaka af skýrslunni meðal gagna málsins. Ekki eru í ljós leiddir neinir annmarkar á framkvæmd skýrslutöku af ákærða, brotaþola og vitnum hjá lögreglu. Samkvæmt framansögðu var það hluti af lögboðnu mati héraðsdóms og Landsréttar, samkvæmt 115. og 126. gr. laga nr. 88/2008, á trúverðugleika framburðar ákærða og brotaþola fyrir dómi um einstök atriði sem máli skiptu við sakarmatið að ganga úr skugga um hvort samræmi væri í framburði hvors þeirra um sig hjá lögreglu og fyrir dómi um slík atriði. Tilvísun í héraðsdómi og hinum áfrýjaða dómi til framburðar sem ákærði og brotaþoli gáfu sannarlega hjá lögreglu við mat á trúverðugleika framburðar þeirra fyrir dómi fer samkvæmt framansögðu ekki í bága við rétt ákærða til milliliðalausrar sönnunarfærslu. Sama máli gegnir um tilvísun í héraðsdómi og hinum áfrýjaða dómi til framburðar vitna sem ekki gátu borið um hin eiginlegu ákæruefni en talið var að draga mætti ályktanir af um sannleiksgildi framburðar ákærða og brotaþola um þau. Svo sem hér hefur verið rakið var ákærða ekki einungis heimilt samkvæmt lögum heldur gafst raunhæfur kostur á að fram færi munnleg sönnunarfærsla fyrir Landsrétti í málinu og hann gæfi þar skýrslu. Fyrir liggja skýrar yfirlýsingar ákærða og ákæruvalds í greinargerðum þeirra og í undirbúningsþinghaldi um að þess væri ekki óskað að munnlegar skýrslur yrðu gefnar fyrir Landsrétti. Þá er þess að gæta að í málinu reyndi ekki á kröfu um að sýknudómi yrði að hluta eða í heild snúið í sakfellingardóm en það er eitt þeirra atriða sem getur samkvæmt framansögðu haft áhrif á hvort þörf er á munnlegri sönnunarfærslu fyrir Landsrétti við endurskoðun dóms í sakamáli. Þótt ekki færi fram munnleg sönnunarfærsla fyrir Landsrétti í málinu var endurskoðun á sönnunarmati, þar á meðal mati héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar, við þær aðstæður sem lýst hefur verið að framan í samræmi við ákvæði laga nr. 88/2008 eins og þeim var breytt með lögum nr. 49/2018. Málsmeðferðin fyrir Landsrétti braut heldur ekki gegn rétti ákærða til milliliðalausrar sönnunarfærslu sem er þáttur í réttinum til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. og d-lið 3. mgr. mannréttindasáttmálans. Í því sambandi hefur verið litið til framangreindra dóma mannréttindadómstólsins um réttinn til milliliðalausrar málsmeðferðar á áfrýjunarstigi. Samkvæmt öllu framansögðu var í engu áfátt aðferðum við sönnunarfærslu og sönnunarmat fyrir Landsrétti og í dómi héraðsdóms sem vísað var til í forsendum hins áfrýjaða dóms. V 1 Í 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að engum verði gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða megi fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Í þessu ákvæði felst grunnregla íslensks réttar um skýrleika refsiheimilda sem á sér hliðstæðu í 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í henni felst áskilnaður um að refsiheimild sé lögbundin og svo skýr og ótvíræð að ljóst sé af lestri lagaákvæðis hvaða háttsemi er refsiverð. Vafa um hvort refsiákvæði taki til háttsemi ber að virða ákærða í hag, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 14. desember 1995 sem birtur var á bls. 3149 í dómasafni réttarins það ár. Í 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga segir meðal annars að hafi refsilöggjöf breyst frá því að verknaður var framinn til þess er dómur gengur skuli dæma eftir nýrri lögunum, bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu. Aldrei megi þó dæma refsingu nema heimild hafi verið til þess í lögum þegar verk var framið, og ekki þyngri refsingu en orðið hefði eftir þeim lögum. Sá verknaður sem ákærða er gefið að sök að hafa framið í lok september 2010 er í ákæru talinn varða við 194. gr. almennra hegningarlaga. Með breytingum sem gerðar voru á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga með lögum nr. 61/2007 voru ákvæði 194. gr. almennra hegningarlaga um nauðgun, 195. gr. um annars konar ólögmæta nauðung og 196. gr. um kynferðislega misnotkun, sameinuð í nýtt nauðgunarákvæði í 194. gr. laganna. Eftir breytinguna og á verknaðarstundu var ákvæði 1. mgr. svohljóðandi: „Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.“ Ákvæði 2. mgr. greinarinnar var þannig orðað: „Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.“ Þegar ákæra í málinu var gefin út höfðu lög nr. 16/2018 tekið gildi en þau breyttu verknaðarlýsingu nauðgunarákvæðisins í 194. gr. almennra hegningarlaga eins og það hafði verið frá árinu 2007. Núgildandi ákvæði 1. mgr. greinarinnar er svohljóðandi: „Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung.“ Þá segir í 2. mgr.: „Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti. Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að beita blekkingum eða notfæra sér villu viðkomandi um aðstæður eða að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.“ Með vísan til 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga reynir í máli þessu á hvort sú háttsemi ákærða sem héraðsdómur og Landsréttur töldu sannaða telst refsiverð sem nauðgun samkvæmt núgildandi 194. gr. laganna og jafnframt hvort háttsemin hafi með réttu talist nauðgun samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga eins og ákvæðið var á verknaðarstundu. 2 Sú lýsing á háttsemi ákærða sem fram kemur í ákæru tekur öðrum þræði mið af verknaðarlýsingu nauðgunarákvæðisins eins og það var á ætlaðri verknaðarstundu en jafnframt að nokkru leyti af gildandi ákvæði. Vafalaust er að sá verknaður ákærða sem lýst er í ákæru og hann var sakfelldur fyrir í héraði og fyrir Landsrétti fól í sér nauðgun eins og brotinu er lýst í 194. gr. almennra hegningarlaga eftir breytingar á ákvæðinu með lögum nr. 16/2018. Sem fyrr segir telur ákærði hins vegar að 194. gr. almennra hegningarlaga hafi á verknaðarstundu verið orðuð með þeim hætti að ekki hafi verið fyrirsjáanlegt að í þeirri háttsemi sem talin hafi verið sönnuð felist nauðgun samkvæmt þáverandi verknaðarlýsingu ákvæðisins. Dómstólar túlka og skýra inntak refsiákvæða eins og annarra lagaákvæða. Í verknaðarlýsingu ýmissa rótgróinna refsiákvæða er vísað til hugtaka sem mótuð hafa verið í áratuga dómaframkvæmd, svo sem ákvæði 244. gr. almennra hegningarlaga um þjófnað og 245. gr. laganna um gripdeild. Þótt verknaðarlýsing þessara ákvæða sé í sumum tilvikum knöpp fer ekki á milli mála að þau teljast skýrar refsiheimildir vegna þess fyrirsjáanleika sem dómsúrlausnir um túlkun þeirra hafa skapað. Um inntak nauðgunarbrotsins samkvæmt 194. gr. laganna gegnir nokkuð öðru máli. Þótt ákvæði um nauðgun hafi verið að finna í 169. gr. fyrstu heildstæðu refsilaganna sem sett voru hér á landi árið 1869 og í almennum hegningarlögum allar götur síðan hefur verknaðarlýsing nauðgunarákvæðisins tekið margvíslegum breytingum í áranna rás og hefur meðal annars verið felld undir ákvæðið háttsemi sem áður taldist til annarra kynferðisbrota. Við mat á því hvort ákvæði 194. gr. almennra hegningarlaga hafi verið nægilega skýrt á verknaðarstundu með tilliti til þeirrar háttsemi ákærða sem talin hefur verið sönnuð ber að líta til þess hvort túlkun dómstóla á inntaki 195. gr. laganna fram til gildistöku laga nr. 61/2007 og inntaki 194. gr. fram til gildistöku laga nr. 16/2018 hafi verið svo afdráttarlaus og fyrirsjáanleg að ekki hafi á verknaðarstundu verið vafi um að í háttsemi ákærða fælist nauðgun í skilningi 194. gr. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar má ráða að heimilt er að líta til lögskýringargagna við túlkun refsiheimilda, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 6. apríl 2006 í máli nr. 472/2005 og 22. mars 2007 í máli nr. 331/2006 þótt mat á skýrleika refsiákvæðis hljóti ávallt fyrst og fremst að ráðast af orðalagi þess. Í 194. gr. almennra hegningarlaga, eftir þær breytingar sem gerðar voru á ákvæðinu með lögum nr. 16/2018, er nauðgun skilgreind sem samræði eða önnur kynferðismök án samþykkis brotaþola. Hin nánu tengsl við eldri skilgreiningu á nauðgun koma fram í þeim áskilnaði í ákvæðinu að samþykki teljist ekki liggja fyrir ef beitt sé ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Þótt samþykki hafi ekki verið orðað í verknaðarlýsingu nauðgunarbrotsins fyrr en með gildistöku laga nr. 16/2018 hefur skortur á samþykki, að minnsta kosti frá gildistöku eldri almennu hegningarlaganna frá árinu 1869, skilið á milli nauðgunar og refsilausra kynferðisathafna. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 16/2018 kom fram að frumvarpið fæli ekki í sér mikla breytingu á skilgreiningu nauðgunarhugtaksins en að frumvarpið væri eðlilegur þáttur í þróun réttarins og að leitast væri við að tryggja að lögin væru í samræmi við réttarvitund almennings. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 61/2007 sagði að aðalatriði kynferðisbrots væri að brotið væri gegn sjálfsákvörðunarrétti fólks varðandi kynlíf, frelsi þess og friðhelgi og væri það alvarlegast fyrir þolendur brotanna. Í samræmi við það sjónarmið væri lagt til í frumvarpinu að dregið yrði úr áherslu á verknaðaraðferðir og megináherslan lögð á að með brotunum væru höfð kynmök við þolanda án þess að samþykki hans væri fyrir hendi og þannig brotið gegn sjálfsákvörðunarrétti og athafnafrelsi hans í kynlífi. Enn fremur sagði í athugasemdunum að áherslu á ofbeldi sem verknaðarþátt yrði að telja úrelta og endurspeglaði ekki þann veruleika sem þolendur brotanna upplifðu. Það alvarlegasta við brot samkvæmt 194. til 199. gr. almennra hegningarlaga væri að með verknaðinum væri brotið gegn kynfrelsi fólks, athafnafrelsi þess, friðhelgi og athafnafrelsi í kynlífi. Í almennum athugasemdum með frumvarpinu var sérstaklega fjallað um hvort rétt væri að skilgreina nauðgunarhugtakið með áherslu á samþykki eða skort á samþykki þolanda. Skortur á samþykki væri atriði sem fólgið væri í nauðgunarhugtakinu því að samþykkisskorturinn gerði háttsemi að nauðgun og þar með refsiverða. Samkvæmt framansögðu var það hluti af verknaðarlýsingu í ákæru að ákærði hefði fróað brotaþola án hans samþykkis. Enda þótt skortur á samþykki hafi ekki verið hluti af verknaðarlýsingu nauðgunarákvæðisins í 194. gr. almennra hegningarlaga á verknaðarstundu er samkvæmt framansögðu vafalaust að skortur á samþykki fyrir samræði eða öðrum kynferðismökum var ein af forsendum þess að háttsemi teldist þá refsinæm samkvæmt ákvæðinu. Þessi hluti lýsingar í ákæru á háttsemi ákærða hefur ekki þau áhrif að hún teljist ekki hafa verið refsinæm á verknaðarstundu, sbr. 2. málslið 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga. 3 Í því frumvarpi sem síðar varð að lögum nr. 61/2007 var upphaflega lagt til að 1. málsliður 1. mgr. 194. gr. yrði á þann veg að hver sem hefði samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi eða hótunum gerðist sekur um nauðgun og skyldi sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Allsherjarnefnd Alþingis gerði þá tillögu um breytingu á fyrrnefndum málslið í frumvarpinu að verknaðaraðferðir í nauðgunarákvæðinu yrðu ekki einungis ofbeldi og hótanir heldur einnig annars konar ólögmæt nauðung. Í nefndaráliti allsherjarnefndar komu fram þær skýringar á breytingartillögunni að nefndin hefði velt fyrir sér hvort nægilega væri tryggt í frumvarpinu að sú háttsemi að notfæra sér aðstöðumun, sem hingað til hefði verið heimfærð undir 195. gr. laganna, væri refsiverð, það er hvort hugtakið hótun næði fyllilega yfir það sem í réttarframkvæmd hefði verið talið felast í ólögmætri nauðung og hvort með breytingunum væri í raun verið að þrengja verknaðarlýsingu áður gildandi ákvæða. Þá kom þar fram að sú háttsemi sem í dómaframkvæmd hefði talist brot gegn 195. gr. mætti kalla að notfæra sér aðstöðumun en þó hefði alltaf orðið að felast einhvers konar hótun í háttseminni. Nánar um þetta sagði í athugasemdunum að væri hótun beitt ætti 194. gr. við um brotið en samkvæmt frumvarpinu gæti efni hótunar varðað hvað sem er. Um þetta sagði síðan að lítið þyrfti til „svo að um hótun sé að ræða og getur það að notfæra sér aðstöðumun falið í sér hótun“. Í athugasemdum með breytingartillögu allsherjarnefndar sagði enn fremur að með hliðsjón af meginreglunni um að refsiákvæði þyrftu alltaf að vera skýr og til að taka af allan vafa í þessum efnum legði nefndin til þær breytingar á frumvarpinu að annars konar nauðung yrði bætt við verknaðarlýsingu nauðgunarákvæðisins. Ákvæðið, með umræddri breytingartillögu, var lögfest sem ný 194. gr. almennra hegningarlaga. Af orðalagi 195. gr. almennra hegningarlaga, eins og ákvæðið var fyrir gildistöku laga nr. 61/2007 og orðalagi 194. gr. laganna eftir það, svo og með hliðsjón af framangreindum lögskýringargögnum, er ljóst að breytingarnar á umræddum refsiákvæðum miðuðu að því að fella háttsemi sem fólst í því að þröngva manni til samræðis eða annarra kynferðismaka með annars konar ólögmætri nauðung en ofbeldi eða hótun um ofbeldi undir nauðgunarákvæðið í 194. gr. og hækka refsimörk slíks brots til samræmis við refsimörk þeirrar greinar. Eins og fram kemur í umræddum lögskýringargögnum var misnotkun á aðstöðu í því skyni að ná fram samræði eða öðrum kynferðismökum talin meðal þeirra verknaðaraðferða sem féllu undir aðra ólögmæta nauðung í skilningi 195. gr. almennra hegningarlaga fyrir gildistöku laga nr. 61/2007. Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar fyrir gildistöku laga nr. 61/2007 var sú háttsemi ákærða að hafa kynferðismök við brotaþola án samþykkis hans, við þær aðstæður að ákærði misnotaði traust brotaþola og nýtti sér brotavettvang eða yfirburðaaðstöðu svo sem aldurs-, afls- eða liðsmun, talin ólögmæt nauðung í skilningi 195. gr., sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 10. október 1996 í máli nr. 159/1996 og 15. janúar 2004 í máli nr. 372/2003. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar eftir gildistöku laga nr. 61/2007 hefur slík háttsemi sem að ofan greinir, er felst í að nýta sér aðstöðumun, verið felld undir nauðgunarákvæðið í 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 15. desember 2016 í máli nr. 440/2016 en þar var ákærði sakfelldur fyrir brot sem svipaði talsvert til þeirrar háttsemi sem ákærða í þessu máli er gefin að sök og 20. júní 2017 í máli nr. 486/2016. Þar voru ákærðu sakfelldir fyrir brot sem talið var felast í ólögmætri nauðung en þeir voru taldir hafa brotið gróflega gegn kynfrelsi brotaþola og um það meðal annars vísað til mikils aðstöðu- og aflsmunar. 4 Ákærði var sakfelldur í héraði og fyrir Landsrétti fyrir nauðgun með því að hafa á þáverandi heimili sínu fróað brotaþola, án hans samþykkis, með því að beita hann ólögmætri nauðung en ákærði misnotaði það traust sem brotaþoli bar til hans sem heilara er brotaþoli lá nakinn á nuddbekk hjá honum. Þegar litið er til alls framangreinds og þá sérstaklega fyrrgreindrar dómaframkvæmdar Hæstaréttar leikur ekki vafi á því að slík háttsemi sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir samkvæmt hinum áfrýjaða dómi fól í sér ólögmæta nauðung í skilningi 195. gr. almennra hegningarlaga fyrir gildistöku laga nr. 61/2007 og 194. gr. almennra hegningarlaga eins og ákvæðið var á verknaðarstundu. Beiting og túlkun síðarnefnda ákvæðisins í þessu máli var því fyrirsjáanleg. Þessi refsiákvæði, eins og þau voru um langt skeið túlkuð af Hæstarétti, fullnægja þannig kröfum 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar um skýrleika refsiheimilda. Samkvæmt framansögðu var sú niðurstaða Landsréttar að sakfella ákærða og gera honum refsingu jafnframt í samræmi við 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga. Fyrir liggur að brotaþoli tilkynnti lögreglu ekki um brot ákærða fyrr en hálft sjötta ár var liðið frá því. Þegar ákæra í málinu var gefin út voru tæp átta ár liðin frá broti. Með hliðsjón af því og þrátt fyrir alvarleika brots ákærða þykir ekki næg ástæða til að hagga við refsingu hans. Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sakfellingu ákærða, heimfærslu brots hans til refsiákvæða og dæmda refsingu. VI Með hliðsjón af alvarleika brots ákærða og þeim andlegu afleiðingum sem brotaþoli glímdi við vegna brotsins samkvæmt gögnum málsins verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 1.200.000 krónur. Undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti var krafa brotaþola um vexti af skaðabótum lagfærð hvað varðar tímabil þeirra vaxta sem krafist er samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 án athugasemda af hálfu ákærða. Þar sem ákærði hefur hvorki mótmælt vaxtakröfu brotaþola né borið fyrir sig að hluti vaxtanna sé fyrndur verður hún tekin til greina með þeim hætti sem í dómsorði greinir. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun og útlagðan kostnað réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en einkaréttarkröfu A. Ákærði, Þórhallur Guðmundsson, greiði A 1.200.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2011 til 2. október 2016 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.  Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 1.307.898 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar lögmanns, 824.600 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ingvars Þóroddssonar lögmanns, 353.400 krónur, auk útlagðs kostnaðar hans, 59.910 krónur.                                                                                     Dómur Landsréttar Mál þetta dæma landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson og Jóhannes Sigurðsson og Björg Thorarensen, settur landsréttardómari. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar 9. janúar 2019 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2018 í málinu nr. S-375/2018. 2        Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd. 3        Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin. Þá krefst hann þess aðallega að bótakröfu brotaþola verði vísað frá dómi en til vara að krafan verði lækkuð. 4        Brotaþoli, A, krefst þess aðallega að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2011 til 2. október 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst brotaþoli staðfestingar héraðsdóms. Málsatvik og sönnunarfærsla 5        Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti var framburður ákærða fyrir héraðsdómi spilaður í heild. Þá voru spilaðir valdir kaflar úr framburði brotaþola, A, fyrir héraðsdómi. 6        Ákærði starfaði sem miðill og heilari hjá […]. Meðal skjólstæðinga hans var brotaþoli og kom hann reglulega á heimili ákærða til heilunar eða slökunar. Telur ákærði í skýrslu sem hann gaf fyrir dómi að þessi samskipti hafi hafist á árunum 2006-2007 en brotaþoli telur að hann hafi fyrst hitt ákærða á heimili hans á árinu 2008 eða 2009. Hinn 17. mars 2016 lagði brotaþoli fram kæru á hendur ákærða. Í skýrslu sinni fyrir lögreglu greinir brotaþoli frá atviki sem mun hafa átt sér stað lok september 2010 sem nú er ákært fyrir. Er ákærða gefin að sök nauðgun með því að hafa í umrætt sinn fróað brotaþola án hans samþykkis, með því að beita hann ólögmætri nauðung og þannig misnotað sér það traust sem brotaþoli bar til hans sem heilara er hann lá nakinn á nuddbekk hjá ákærða. Málsástæður aðila 7        Ákærði hefur staðfastlega neitað sakargiftum frá öndverðu og telur að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að færa fram lögfulla sönnun fyrir sekt hans. Þá telur ákærði að með þeirri niðurstöðu héraðsdóms að „ekki þyki varhugavert að telja sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru“ freisti héraðsdómur þess að snúa sönnunarbyrðinni við, í andstöðu við gildandi rétt. Jafnframt leggi héraðsdómur blessun sína yfir heimfærslu til refsiákvæða sem að mati ákærða er ófullnægjandi í ákæru. 8        Ákæruvaldið hafnar framangreindum sjónarmiðum og tekur undir forsendur hins áfrýjaða dóms og sakfellingu ákærða samkvæmt ákæru. Niðurstaða 9        Sem fyrr greinir byggir ákærði málsvörn sína meðal annars á því að heimfærsla til refsiákvæða í ákæru sé röng. Verður þetta skilið svo að ákærði beri fyrir sig að á þeim tíma sem ætlað brot á að hafa átt sér stað undir lok september 2010 hafi ákvæði 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, eins og því var breytt með 3. gr. laga nr. 61/2007, verið orðað með þeim hætti að hver sá sem hefði samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerðist sekur um nauðgun. 10       Í ákæru sé aftur á móti vísað til skorts á samþykki, en gera megi ráð fyrir að það orðalag ákærunnar sé að rekja til breytinga sem gerðar voru á 194. gr. almennra hegningarlaga með lögum nr. 16/2018, en þau lög tóku gildi löngu eftir að hið ætlaða brot sem ákært er fyrir var framið. Verða þessi rök ákærða skilin svo að brotinu sé þannig ekki réttilega lýst með tilliti til refsinæmis verknaðarins á þeim tíma sem hið ætlaða brot var framið, heldur með tilliti til refsinæmis samkvæmt síðar tilkomnum lögum. 11       Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar verður engum gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Þessi grundvallarregla kemur einnig fram í 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur er með lögum nr. 62/1994 þar sem segir að engan skuli telja sekan um afbrot hafi verknaður sá eða aðgerðaleysi, sem hann er borinn, eigi varðað refsingu að landslögum eða þjóðarétti þá framin voru. 12       Orðalag ákæru er þannig að ætla má að það taki mið af orðalagi 194. gr. almennra hegningarlaga eftir breytingar þær sem gerðar voru á ákvæðinu með lögum nr. 16/2018. Á hinn bóginn verður ráðið af athugasemdum í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því sem varð að lögum nr. 61/2007, sem í gildi voru er hið ætlaða brot var framið, að meginmarkmið þeirra breytinga hafi í reynd verið það að draga úr áherslu á verknaðaraðferðir og leggja í staðinn áherslu á það að með brotunum séu höfð kynmök við þolanda án samþykkis hans og þannig brotið gegn sjálfsákvörðunarrétti og athafnafrelsi hans í kynlífi. Verður því ekki litið svo á að ákæru sé svo áfátt að þessu leyti að andstætt sé 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar eða 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, að ekki verði lagður á hana dómur. Enn er þess að geta að á ákæruvaldinu hvílir sönnunarbyrði um að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi sem lýst er í ákæru og sem hafi verið refsiverð lögum samkvæmt á þeim tíma sem hið meinta brot á að hafa verið framið. Ber ákæruvaldið hallann af því takist sú sönnun ekki, sbr. meðal annars dóm Landsréttar 27. september 2019 í máli nr. 53/2019. 13       Aðdraganda að kynnum brotaþola og ákærða er lýst í hinum áfrýjaða dómi en hinn fyrrnefndi sótti reglulega tíma hjá ákærða í heilun, slökun eða viðtöl frá því seint á árinu 2008 eða snemma á árinu 2009 og allt þar til atvik það sem ákæran lýtur að á að hafa átt sér stað í lok september 2010. Fyrir liggur að faðir brotaþola þekkti ákærða gegnum starf sitt fyrir […]. Það var síðan ekki fyrr 17. mars 2016 sem brotaþoli kærði atvikið til lögreglu en þann dag var jafnframt tekin skýrsla af brotaþola hjá lögreglu. 14       Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, hvílir á ákæruvaldinu að færa sönnur á sekt ákærða. Dómari metur hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé komin fram um hvert það atriði er varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, sbr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Í máli þessu nýtur ekki við sýnilegra sönnunargagna sem geta varpað ljósi á atvik þau sem ákæran lýtur að, önnur en skjáskot af Facebook-samskiptum ákærða og brotaþola frá 18. september til 2. október 2010. Ráðast lyktir málsins þannig fyrst og fremst af mati á sönnunargildi og trúverðugleika framburðar brotaþola annars vegar og ákærða hins vegar fyrir héraðsdómi, en einnig fyrir lögreglu. Við þetta mat geta skýrslur vitna, sem ekki hafa skynjað atvik af eigin raun, einnig haft þýðingu að því marki sem unnt er að draga ályktanir um sakarefnið af framburði þeirra. 15       Ákærði og brotaþoli eru einir til frásagnar um samskipti þeirra þegar brotaþoli kom í tíma til ákærða. Þetta á einnig við um atvik það sem ákært er vegna. Frásögn brotaþola af aðdraganda af kynnum hans og ákærða og um fjölda koma brotaþola til ákærða og það sem þeim fór í milli er stöðug og trúverðug. Það sama verður sagt um frásögn brotaþola af atviki því er ákæran lýtur að. Þá þykja skýringar brotaþola á því hvers vegna hann fór aftur í tíma til ákærða eftir umrætt atvik og frásögn hans af þeirri heimsókn einnig trúverðugar. 16       Framburður ákærða er á hinn bóginn óstöðugur um mikilsverð atriði. Þannig lýsir ákærði því svo fyrir lögreglu að brotaþoli hafi stundum verið nakinn á nuddbekknum hjá honum. Aðspurður hvernig stæði á því sagðist ákærði ekki vita það og spyrja yrði brotaþola sjálfan um það. Verður ákærði skilinn svo að þetta hafi verið nokkuð sem brotaþoli hafi sjálfur ákveðið. Enn fremur kemur fram í þessum framburði ákærða að almennt fari þetta eftir því hvað fólk vilji, hvort það er í fötum eða fari úr þeim. Í framburði fyrir dómi hélt ákærði því á hinn bóginn fram að brotaþoli hefði í engum tilvikum verið nakinn á bekknum hjá honum. Aðspurður hvort framburður hans hjá lögreglu hefði verið rangur að þessu leyti, svaraði ákærði því svo að „ég mundi þá álíta það að ég hafi meint að hann hafi verið í naríum eða nærbuxum … með handklæði yfir sig“. Misræmi er í framburði ákærða um þetta atriði sem þykir draga úr trúverðugleika framburðar hans. Skýringar ákærða á þessu misræmi eru ósannfærandi og ótrúverðugar. 17       Í framburði sínum bæði fyrir lögreglu og fyrir dómi bar brotaþoli að hann hefði farið mjög oft til ákærða, jafnvel „tæplega 50 skipti“, fyrst í húsnæði […] og eftir það heim til ákærða í […] á […] þar sem ákærði hafi verið með á efri hæð sérstakt herbergi með aðstöðu til að taka á móti fólki sem til hans leitaði í heilun eða slökun. Greinir brotaþoli svo frá að það hafi iðulega verið ákærði sem hafði samband við hann að fyrra bragði, „allavega í 9 af hverjum 10 skiptum“. Í framburði sínum fyrir lögreglu gekkst ákærði við því að „kannast við“ brotaþola en hann myndi ekkert eftir því hvers vegna hann kom til hans eða hver tilgangurinn með því var. Hann hafi hitt brotaþola í nokkur skipti, „svona tíu skipti“. Spurður að því hjá lögreglu hver hefði átt frumkvæðið að samskiptum þeirra svaraði ákærði því til að hann myndi það ekki. Sérstaklega spurður um hvort það hefði verið hann sjálfur vildi ákærði ekkert fullyrða eða taka undir neitt varðandi það, enda myndi hann það ekki. Greindi hann svo frá að brotaþoli hefði sótt í að hitta hann til að tala saman „og allt það“. Spurður fyrir dómi um fjölda heimsókna, bar ákærði að hann gæti ekkert talað um það. Brotaþoli hefði komið til hans nokkrum sinnum í heilun og slökun. Hann myndi ekki glöggt hvað fór fram í hvert skipti, hvort það var nudd, slökun, heilun eða samtöl, né heldur hvað það var sem bjátaði á eða hvað talað var um. Brotaþoli, sem var mikið í […], hefði komið til hans til að fá „einhverja úrlausn einhverra mála“. Verður framburður hans skilinn þannig að brotaþoli hafi leitað til hans vegna fótameina, meðan brotaþoli hefur sjálfur greint frá því að það hafi verið vegna bakverkja. 18       Móðir brotaþola kom fyrir dóm þar sem hún var spurð um samskipti ákærða og brotaþola. Í framburði hennar kemur fram að hún hafi sjálf orðið vör við að mál hafi þróast með þeim hætti að það hafi alltaf verið ákærði sem leitaði eftir því að brotaþoli kæmi til hans, „alltaf oftar og oftar og mér var farið að finnast þetta eitthvað skrýtið“. Fram kemur að sonur hennar hafi sýnt henni smáskilaboð frá ákærða þar sem ákærði hafi hvatt brotaþola til að koma í heilun til sín. Hafi henni og syni hennar verið farið að finnast þetta svolítið furðulegt. Faðir brotaþola bar með svipuðum hætti og vitnaði um mjög tíð samskipti brotaþola og ákærða sem hann varð sjálfur vitni að, meðal annars með smáskilaboðum og á Facebook. Framburður brotaþola er stöðugur um að hann hafi hitt ákærða mjög oft og ákærði hafi að stórum hluta átt frumkvæði að samskiptum við brotaþola og hvatt hann til að koma til sín í heilun eða slökun. Fær sá framburður bæði að því er varðar fjölda skipta og um frumkvæði ákærða jafnramt stoð í framburði móður hans og að nokkru föður. Framburður ákærða um fjölda skipta og frumkvæði hans sjálfs að samskiptum við brotaþola og frumkvæði að því að hvetja hann til að koma til sín er á hinn bóginn óljós og reikandi þar sem hann ber í ríkum mæli fyrir sig minnisleysi um atvik. 19       Fyrir lögreglu bar ákærði að hann hefði aðeins einu sinn hringt í brotaþola eftir atvik það sem ákæran lýtur að. Brotaþoli hafi þá ekkert viljað við hann tala, en ákærði bar fyrir lögreglu og fyrir dómi að hann hefði ekki hugmynd um ástæðu þess að brotaþoli sleit sambandi sínu við hann. Þá viðurkenndi ákærði að hafa átt samskipti eða gert tilraun til samskipta á Facebook eftir umrætt atvik en þar kemur fram að ákærði hafi verið að reyna að ná í brotaþola til að bjóða honum vínflösku. Fyrir dómi bar ákærði á svipaðan veg, það er að hann hefði hringt einu sinni í brotaþola eftir umrætt atvik, brotaþoli hefði svarað og beðið sig um að hringja ekki aftur og hefði ákærði virt það. 20       Fyrir lögreglu bar brotaþoli aftur á móti að ákærði hefði eftir atvikið hringt í sig „gjörsamlega non stopp“ en brotaþoli hefði ekki svarað. Fyrir dómi lýsti brotaþoli því að eftir atvikin sem leiddu til þess að hann hætti öllum samskiptum við ákærða, hefði ákærði hringt stanslaust í hann og aftur og aftur án þess að brotaþoli hefði svarað símanum. Framburður brotaþola fær stoð í framburði móður hans og að nokkru leyti föður en bæði vitna þau um margar tilraunir ákærða til að ná tali af brotaþola langt umfram það sem ráðið verður af skjáskoti af Facebook-skilaboðum ákærða til brotaþola sem liggja fyrir í málinu. 21       Í málinu liggja einnig fyrir framburðir vitna um mikla vanlíðan brotaþola í kjölfar þess atviks sem ákæran lýtur að og eftir að samskiptum brotaþola við ákærða lauk. Þannig vitnar vottorð B sálfræðings um mikinn kvíða og vanlíðan brotaþola, erfiðleika við einbeitingu, svefnvanda og fleira. Telur hún í vottorði sínu að brotaþoli beri skýr einkenni áfallastreituröskunar. Þótt þessi gögn vitni ekki beint um atvik þau er ákæran lýtur að er þar þó lýst dæmigerðum einkennum þolenda kynferðisbrota. Þau styðja þannig óbeint við frásögn brotaþola af samskiptum við ákærða og atvikum þeim er ákæran lýtur að. 22       Á grundvelli þess sem að framan er rakið, sem og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti, er niðurstaðan sú að telja verður sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. 23       Við ákvörðun refsingar ber að horfa til þess að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Þá ber að taka tillit til þess að nú eru liðin rúmlega fjögur ár frá því að kæra kom fram og hafa þannig orðið tafir á málsmeðferðinni sem ákærða verður ekki um kennt. Samkvæmt þessu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi. 24       Brotaþoli krefst þess aðallega að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2011 til 2. október 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest ákvæði hans um skyldu ákærða til greiðslu miskabóta og fjárhæð þeirra. 25       Um sakarkostnað, þóknun verjanda og réttargæslumanns brotaþola sem tilgreind eru með virðisaukaskatti auk útlagðs kostnaðar réttargæslumanns fer sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, 1.300.041 króna, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Landsrétti, Sigmundar Hannessonar lögmanns, 800.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola fyrir Landsrétti, Ingvars Þóroddssonar lögmanns, 400.000 krónur auk útlagðs kostnaðar hans 57.360 krónur.       Dómur Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 18. desember 2018                 Mál þetta, sem dómtekið var þann 20. nóvember sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 18. ágúst 2018, á hendur ákærða, Þórhalli Guðmundssyni, kt. [...], til heimilis að [...], Garðabæ,                 „fyrir nauðgun, með því að hafa í lok september 2010, á þáverandi heimili hans að [...] á [...], fróað A án hans samþykkis, með því að beita hann ólögmætri nauðung en ákærði misnotaði sér það traust sem A bar til hans sem heilara er hann lá nakinn á nuddbekk hjá ákærða. Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.   Einkaréttarkrafa: Af hálfu A, kt. [...], er gerð krafa um greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 1.500.000 úr hendi ákærða. Gerð er krafa um greiðslu vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2011 til greiðsludags af framangreindri fjárhæð. Þá er gerð krafa um greiðslu dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá 1. júlí 2016 til greiðsludags. Einnig er krafist þóknunar til handa réttargæslumanni úr ríkissjóði.“                   Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að bótakröfu verði vísað frá dómi, til vara að hún verði lækkuð verulega. Þá krefst hann þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun verjanda hans.                 Dómstólasýslan fól dómaranum meðferð máls þessa.   Málavextir.   Þann 17. mars 2016 kom A, brotaþoli í máli þessu, á lögreglustöð í því skyni að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gagnvart honum í lok september 2010. Hann kvaðst hafa kynnst ákærða árið 2007 eða 2008 þegar ákærði hafi verið með miðilsfund í [...] á [...]. Hafi brotaþoli í framhaldi af því farið á miðilsfund sem ákærði hafi haldið í [...]. Hafi ákærði boðið brotaþola eftir það að fara í heilun til hans, en á þessum tíma hafi brotaþoli verið í […] og verið meiddur í baki. Hafi brotaþoli farið reglulega í þessa tíma hjá ákærða og hafi þeir farið að ræða hin og þessi mál og hafi ákærði verið orðinn eins og góður vinur brotaþola. Hafi ákærði alltaf hringt að fyrra bragði og boðið brotaþola að koma heim til hans í heilun. Brotaþoli kvað að í ársbyrjun 2010 hafi ákærði farið að sýna af sér vafasama hegðun. Þegar hann hafi tekið á móti brotaþola hafi hann verið í bol og stuttbuxum eða náttbuxum. Þá hafi ákærði farið að taka brotaþola úr bolnum og teygja á honum. Ákærði hafi í einhver skipti beðið brotaþola að leggjast á nuddbekk í því skyni að fá líkama hans í jafnvægi. Þetta hafi hægt og hægt þróast í að brotaþoli hafi verið á brókinni og síðan hafi ákærði farið að klæða brotaþola úr henni. Í tvö skipti hafi það gerst að ákærði hafi rekist í eða rétt snert kynfæri brotaþola, kannski óvart að því er brotaþoli hélt. Þá kvað brotaþoli það hafa gerst einu sinni að ákærði hafi rúnkað honum þar sem hann lá nakinn á bekknum og hafi það staðið í um fimm mínútur. Brotaþoli kvaðst hafa frosið, síðan klætt sig og hafi þeir talað eitthvað saman. Hann hafi kvatt ákærða og einhvern veginn ekki áttað sig á því sem hefði gerst. Tveimur dögum síðar hafi brotaþoli ákveðið að hitta ákærða einu sinni enn þar sem hann hafi talið sig þurfa að fá staðfestingu á því hvað hefði gerst. Hafi ákærði spurt hvort brotaþoli vildi bekk eða stól og hafi brotaþoli valið stólinn. Hafi ákærði ítrekað beðið brotaþola að leggjast á bekkinn en það hafi endað með því að brotaþoli hafi lagst á dýnu. Brotaþoli kvað ákærða ekki hafa rúnkað brotaþola í þetta skipti en hann kvaðst hafa séð hvað ákærði hafi verið ógeðslega graður þegar hann hafi verið að teygja á honum. Kvaðst brotaþoli þá hafa áttað sig á því hvað væri í gangi. Hann kvaðst eftir þetta ekki hafa farið til ákærða en næstu daga á eftir hafi ákærði hringt eða sent SMS stanslaust en brotaþoli kvaðst ekki hafa svarað honum. Þá hafi ákærði þann 2. október 2010 sent honum Facebook skilaboð þar sem hann hafi boðist til að gefa honum áfengisflösku. Næstu mánuði hafi brotaþoli fengið hringingar úr leyninúmeri sem hann kvaðst ekki hafa svarað fyrr en sex til átta mánuðum síðar þegar hann hafi svarað hringingu ákærða sem hafi spurt mjög hrokafullur hvort hann hefði gert brotaþola eitthvað. Brotaþoli kvaðst hafa neitað því en beðið ákærða að láta sig í friði og síðan skellt á hann. Brotaþoli kvaðst ekki hafa heyrt í ákærða eftir þetta. Ákærði var yfirheyrður þann 20. apríl 2016 og neitaði hann því að hafa átt í kynferðislegum samskiptum við brotaþola. Hann kannaðist við að brotaþoli hefði komið í heilun til hans og tvisvar til fjórum sinnum hefði hann farið á nuddbekk þar sem ákærði kvaðst hafa nuddað hann og látið hann gera slökunaræfingar.  Ákærði mundi ekki eftir að hafa klætt brotaþola úr bolnum og þá kannaðist hann ekki við að hafa klætt hann úr brókinni. Ákærði kvaðst muna að brotaþoli hafi sjálfur farið úr og verið stundum nakinn á bekknum. Hann kvaðst ekki hafa vitað af hverju en hann kvaðst yfirleitt hafa sett handklæði yfir brotaþola. Þá neitaði ákærði að hafa strokið kynfæri brotaþola eða rúnkað honum. Ákærði mundi ekki eftir því að hafa hringt stanslaust í brotaþola eftir að hann hætti að mæta hjá honum                                 Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.                   Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi kynnst brotaþola í gegnum fjölskyldu hans í tengslum við [...] þar sem ákærði hafi starfað sem miðill. Hafi þetta sennilega verið í kringum 2006 til 2007. Hafi faðir brotaþola unnið þarna við heilun eins og ákærði. Brotaþoli hafi komið nokkrum sinnum á einkafundi en ákærði mundi ekki hvernig það hafi þróast. Brotaþoli hafi einnig komið á heimili ákærða en ákærði gat ekki munað hversu oft brotaþoli hafi komið, en hann hafi komið í heilun og slökun. Ákærði kvaðst hafa átt nuddbekk og hafi brotaþoli farið í slökun á honum. Hafi hann legið á bekknum, tuttugu mínútur í senn og hafi ákærði lítið eitt nuddað brotaþola, aðallega lagt hendur á ökkla og fætur að því er ákærða minnti. Hann hafi ekki nuddað vöðva, heldur hafi þetta verið heilun, sem sé snerting á nöktum fótlegg og þá hafi tónlist verið notuð. Að því er ákærða minnti hafi brotaþoli einhvern tíma verið í stuttbuxum, því hann hafi verið að koma af æfingu. Brotaþoli hafi verið klæddur að ofan og hafi hann aldrei hafa verið nakinn á bekknum. Ákærði mundi ekki hve oft brotaþoli hafi lagst á bekkinn, það hafi algjörlega verið hans val hvort hann legðist á bekkinn. Hann kvað meðferðina ekki hafa verið fólgna í öðru og þá mundi hann ekki hvað honum og brotaþola hafi farið á milli í þessari meðferð. Ákærði kvað brotaþola hafa verið góðhjartaðan, tilfinningaríkan og hafi hann verið að spila […]. Hafi samskipti þeirra verið ósköp eðlileg, þeir hafi talað saman en ákærði mundi ekki eftir umræðuefninu. Ákærði mundi þó eftir því að brotaþoli hafi haft áhyggjur af heilsu systur sinnar. Hann kvað allan gang á því hvort hann hafi fengið fólk í meðferð heim til sín eða í […]. Hann kvað brotaþola aðallega hafa verið að sækja eftir slökun og hafi hann þá viljað fara á nuddbekkinn heima hjá ákærða. Ákærði kvaðst aldrei hafa tekið við greiðslu frá fólki fyrir heilun heima hjá honum. Hann kvaðst hafa haft fastar tekjur frá […]. Ákærði mundi ekki eftir að hafa áreitt brotaþola. Ákærði kannaðist við að hafa boðið brotaþola áfengi, það hafi ekki verið ásetningur hans að múta honum, en ákærði mundi ekki tilefnið, en það hafi ekki verið af annarlegum hvötum. Hann kvað samskiptum sínum við brotaþola hafa lokið árið 2010 þegar brotaþoli hafi skyndilega hætt að tala við ákærða og kvaðst hann aldrei hafa fengið skýringar á því. Hann kvaðst einu sinni hafa hringt í brotaþola eftir þetta en hann hafi beðið hann um að hafa ekki samband aftur.  Ákærði kvaðst enn ekki vita hver ástæðan hafi verið fyrir þessu og þá hafi samskiptin við fjölskylduna rofnað á þessum tíma. Ákærði mundi ekki eftir því að hafa ítrekað reynt að ná sambandi við brotaþola. Ákærði kvaðst ekki muna eftir síðasta skiptinu sem brotaþoli kom til hans og þá kvað ákærði aldrei hafa verið um kynferðisleg samskipti að ræða milli þeirra og þá hafi hann aldrei komið við kynfæri hans. Þá kvaðst ákærði ekki kannast við lýsingu brotaþola á háttsemi ákærða gagnvart honum og kvaðst hann alfarið neita ákæruefninu. Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu þar sem fram kemur að brotaþoli hafi stundum farið sjálfur úr og hafi hann stundum verið nakinn á bekknum og hafi ákærði sett handklæði á hann miðjan. Ákærði taldi að hann hefði meint að brotaþoli hefði verið í nærbuxum með handklæði yfir sér en ákærði kvaðst ekki muna eftir slíku tilviki.                 Brotaþoli skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi fyrst hitt ákærða á miðilsfundi á […] árið 2008 eða 2009. Einhverjum mánuðum síðar hafi hann pantað tíma á miðilsfund með ákærða. Hafi þeir síðan farið að tala saman á Facebook. Hafi brotaþoli þá farið að sækja tíma í heilun hjá ákærða vegna vandamála í baki, en hann hafi á þessum tíma verið í […]. Hann hafi mætt heim til ákærða, þar hafi verið róleg tónlist og hafi fyrstu tímarnir verið fínir. Síðan hafi ákærði farið að hafa samband að fyrra bragði og tímarnir orðið furðulegir en hann hafi mætt hjá honum í tugi skipta. Hafi ákærði orðið nokkurs konar trúnaðarvinur brotaþola og hafi hann sagt ákærða frá einkalífi sínu. Hafi ákærði reynt að hafa áhrif á það hvaða stelpum brotaþoli væri með. Hafi ákærði alltaf verið í stuttbuxum og bol. Hafi ákærði farið að taka hann úr bolnum og þá hafi hann farið að bjóða brotaþola að leggjast á nuddbekk. Hafi það alltaf endað þannig að brotaþoli væri á brókinni. Hafi ákærði farið að snerta typpið á brotaþola, fyrst mjög lítið, en þá hafi brotaþoli verið nakinn eftir að ákærði hefði verið búinn að taka hann úr brókinni. Brotaþoli kvaðst á þessum tíma ekkert hafa pælt í þessu. Ákærði hafi ekki rúnkað brotaþola. Brotaþoli lýsti því atviki sem mál þetta snýst um þannig að ákærði hafi beðið hann um að fara á bekkinn, hann hafi tekið brotaþola úr brókinni og hafi hann legið nakinn á bekknum. Hann hafi notað einhverja olíu og eftir einhvern tíma hafi ákærði nuddað axlir, teygt á brotaþola og síðan hafi hann fikrað sig áfram og hægt og hægt hafi hann nálgast typpið á brotaþola og fljótlega farið að rúnka honum með hægri hendi. Brotaþoli kvaðst hafa frosið, en ákærði hafi verið með andlitið alveg upp við typpið. Hann taldi að þetta hafi staðið yfir í fimm mínútur en þá hafi ákærði hætt. Ákærði hafi farið að tala um daginn og veginn eins og ekkert hefði í skorist. Brotaþoli kvaðst hafa farið heim eftir fimm til tíu mínútur og verið í áfalli. Brotaþoli kvaðst hafa farið aftur til ákærða eftir þetta tveimur dögum síðar þar sem hann hafi viljað átta sig á því hvað hefði gerst. Hann kvað ákærða hafa spurt  hvort brotaþoli hafi viljað stól eða bekk. Brotaþoli kvaðst hafa viljað stólinn en ákærði hafi verið ýtinn og viljað fá brotaþola á bekkinn. Hafi ákærði þá fengið brotaþola til að leggjast á dýnu og hafi ákærði klætt brotaþola úr að neðan og þá kvaðst hann hafa séð hvað ákærði hafi verið sveittur, graður og ógeðslegur í framan. Kvaðst brotaþoli þá hafa sagt að þetta væri orðið gott og kvaðst hann þá hafa farið. Hafi ákærði eftir þetta stanslaust hringt í brotaþola og daginn eftir kvaðst brotaþoli hafa sagt móður sinni frá þessu og hafi hún áttað sig á því að þetta hafi ekki verið eðlilegt. Hann kvaðst einnig hafa sagt föður sínum frá þessu degi síðar. Hann kvað ákærða hafa hringt stanslaust í fjóra til fimm daga, þá hafi hann sent SMS og skilaboð á Facebook þar sem hann hafi boðið honum áfengi. Eftir þetta hafi hringingum fækkað en við hafi tekið hringingar úr leyninúmerum, sennilega í þrjá til fimm mánuði. Hann kvaðst einu sinni hafa svarað og hafi það verið ákærði sem hafi heilsað og viljað vita hvort hann hefði gert honum eitthvað. Brotaþoli kvaðst hafa neitað því en beðið ákærða að láta sig í friði og skellt á. Hann kvaðst ekki hafa heyrt í ákærða eftir þetta. Brotaþoli kvaðst hafa treyst ákærða og kvaðst hann sjá eftir á að hann hefði heilaþvegið sig. Hann kvaðst hafa litið á ákærða sem vin sinn sem væri að hjálpa honum. Brotaþoli kvaðst aldrei hafa greitt ákærða fyrir þessa tíma sem hann sótti hjá honum og þá hafi ákærði aldrei krafið hann um greiðslu. Hann kvað umrætt atvik hafa gerst í lok september 2010 en hann hafi ekki verið reiðubúinn að kæra fyrr en ári eftir að hann hafi fyrst leitað til sálfræðings árið 2015. Hann kvaðst hafa orðið mjög reiður eftir fyrsta tímann hjá sálfræðingnum en eftir að hann hafði rætt við sálfræðinginn árið 2016 hafi hann tekið þá ákvörðun að kæra. Brotaþoli kvaðst á þessum tíma hafa talað við vitnið C sem hafi kært ákærða fyrir sambærilega háttsemi og hafi hann sagt brotaþola frá því að ákærði hafi beitt sömu aðferð á hann. Hann kvaðst þá fyrst hafa fengið alvöru áfallið og áttað sig á því hversu mikið ákærði hefði brotið á honum. Hann hafi átt erfitt með svefn og fengið kvíðaköst. Hann kvaðst hafa rætt þetta við systkini sín og þá kvaðst hann hafa leitað sér aðstoðar hjá […].                  Vitnið D, móðir brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi kynnst ákærða í gegnum [...] og hafi hún komið á miðilsfundi hjá honum. Hún kvað brotaþola hafa farið á skyggnilýsingafund sem ákærði hafi haldið og hafi þeir hist á veitingastað. Síðar hafi brotaþoli leitað til ákærða vegna meiðsla í baki, annað hvort í nudd eða heilun. Ákærði hafi oft haft samband við brotaþola og boðið honum að koma til sín. Hafi ákærði oftar og oftar leitað eftir því að brotaþoli kæmi til hans. Hafi ákærði rætt stelpumál við brotaþola og hafi henni fundist það furðulegt og einnig hversu oft ákærði hafi beðið brotaþola að koma. Þá hafi ákærði oft hringt og sent SMS til brotaþola. Brotaþoli hafi sagt henni að ákærði hefði verið að nudda sig við kynfæri sín og snert þau og halda utan um sig aftan frá. Þá hafi hann legið nakinn á bekk hjá ákærða. Brotaþoli hafi verið reiður og ekki viljað tala mikið um þetta. Hafi þá verið haft samband við […] því brotaþola hafi verið farið að líða illa. Hafi brotaþola þótt erfitt að aka götuna sem ákærði bjó við. Brotaþola hafi liðið illa og hafi þetta haft áhrif á nám hans. Hafi brotaþoli verið pirraður, sjálfstraust hans hafi minnkað, hann hafi skammast sín fyrir að hafa látið þetta gerast. Eftir að brotaþoli hafði farið til ákærða í síðasta skipti hafi ákærði hringt stanslaust og sent SMS í nokkra daga. Hafi brotaþola verið ráðlagt að svara ákærða ekki. Þá hafi farið að berast hringingar úr leyninúmeri sem brotaþoli hafi ekki svarað. Hún kvað brotaþola hafa tjáð sér síðar að ákærði hefði fróað honum, en hann hefði aldrei nákvæmlega sagt sér hvað hefði gerst. Ákærði hafi leitað til sálfræðings og eftir það hafi hann farið að geta opnað sig meira. Hún kvað brotaþola nú líða oftast ágætlega en honum þyki ekki gott að koma til [...].                 Vitnið E, faðir brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi kynnst ákærða fyrir aldamótin í gegnum […]. Hann kvaðst hafa verið á fundum með ákærða. Hann kvað brotaþola hafa kynnst ákærða á fundi í skólanum og hafi þeir eftir það hist á veitingastað. Hann kvað brotaþola hafa farið á fund hjá ákærða og eftir það hafi þeir hist oft. Þeir hafi einnig verið í samskiptum á Facebook og með SMS. Hann kvað brotaþola ekki hafa rætt mikið um það hvað þeim fór á milli en brotaþoli hafi oft farið heim til ákærða. Vitnið kvaðst hafa frétt af umræddu tilviki nokkru eftir að það hafði gerst. Hann hafi ekki verið mikið heima vegna vinnu en hann hafi orðið var við breytingu á brotaþola, hann hafi orðið ör og pirraður. Eftir nokkurn tíma hafi móðir brotaþola komist að því sem gerst hefði og eftir það hafi vitnið fengið að vita það. Brotaþoli hafi sagt móður sinni frá atvikum og kvaðst vitnið hafa orðið vart við mjög tíðar hringingar frá ákærða, í tvo til þrjá daga. Vitnið kvað brotaþola ekki strax hafa viljað segja hvers vegna ákærði hafi verið að hringja, hann hafi ekki sagt það fyrr en síðar, en ekki nákvæmlega hvað hefði gerst. Hann hafi talað um að þetta hefði verið sérstakur tími en ekki talað um að ákærði hefði brotið kynferðislega gegn honum, hann hafi ekki sagt það fyrr en löngu síðar, um það bil sem brotaþoli hafi lagt fram kæru á hendur ákærða. Vitnið kvað brotaþola hafa átt erfitt með að tala um þetta við vitnið og kvaðst vitnið ekki hafa viljað ganga á hann. Hann kvaðst hafa verið í heilun eða nuddi hjá ákærða og hefði það gengið lengra en menn hefðu ætlað. Hann hafi ekki sagt nánar frá fyrr en löngu síðar. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt um mál þetta við ákærða. Vitnið kvaðst tengja breytingar á brotaþola við umræddan atburð, sem greinilega hafi verið mjög erfiður fyrir hann og hafi sjálfsmynd hans brotnað niður.                 Vitnið F, systir brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi einhvern tíma farið í heilun heima hjá ákærða. Hún kvað móður sína og brotaþola hafa sagt sér að ákærði hefði snert brotaþola á kynferðislegan hátt. Hann hefði snert sig í kringum typpið og minnti vitnið að hann hefði sagt að hann hefði verið nakinn á bekk í heilun. Hafi brotaþoli sagt að ákærði hefði strokið á honum typpið að því er vitnið minnti. Vitnið kvað brotaþola vera einhvern veginn niðurdreginn og hafi hún í fyrstu ekki vitað af hverju. Þau hafi einhverju síðar rætt þetta í bílferð. Brotaþoli hafi sagt að hann hefði farið til sálfræðings. Hún kvaðst ekki hafa vitað hvað hefði farið fram í tímunum hjá ákærða á sínum tíma. Hún kvað brotaþola lítið tala um þetta mál nú, honum þyki það erfitt.                 Vitnið G, bróðir ákærða, skýrði svo frá fyrir dómi að hann þekkti ákærða og hefði hann farið á miðilsfund hjá honum. Í framhaldi af því hafi hann hitt ákærða í nokkur skipti og hafi þetta fljótlega farið að verða skrýtnara og skrýtnara, t.d. undarlegar spurningar frá ákærða. Hafi þetta sennilega verið 2007 til 2008. Vitnið kvað ákærða hafa spurt sig út í brotaþola og hafi samskipti ákærða og brotaþola fljótlega orðið undarleg.  Hafi móðir vitnisins sagt honum frá umræddu atviki og síðar hafi brotaþoli sagt honum frá því sem gerst hefði. Hann kvað endalausar símhringingar og SMS frá ákærða til brotaþola hafa verið mjög undarlegar. Hann kvaðst hafa heyrt fleiri sögur af þessum toga um ákærða frá öðrum en brotaþola. Vitnið kvaðst á þessum tíma hafa búið erlendis. Vitnið kvað brotaþola hafa sagt sér að ákærði hefði nuddað sig, hann hefði verið nakinn á nuddbekk og hefði ákærði fært sig upp á skaftið sem hafi endað með því að ákærði hafi fróað brotaþola. Vitnið kvað brotaþola hafa liðið mjög illa eftir þetta og hafi hann ekki borið sitt barr eftir þetta.                 Vitnið H skýrði svo frá fyrir dómi að hún og faðir brotaþola væru systkinabörn. Hún kvað móður brotaþola hafa hringt í sig, en vitnið kvaðst vera ráðgjafi hjá […]. Hafi hún sagt að brotaþoli hefði verið í nuddi hjá ákærða og hefði hann farið yfir mörkin gagnvart honum en hún hafi ekki sagt nákvæmlega hvað hefði gerst. Hafi hún leitað ráða því brotaþoli hafi lítið viljað tala um þetta. Hafi brotaþoli síðar haft samband við vitnið og kvaðst hún hafa talað við hann og bent honum á að hann gæti farið í viðtöl hjá […] hjá einhverjum öðrum en henni vegna skyldleika þeirra. Hafi brotaþoli sagt að ákærði hefði eitthvað farið inn á kynfæri sín. Vitnið hélt að brotaþoli hefði farið í einhver viðtöl. Vitnið kvað brotaþola hafa verið rosalegan reiðan fyrst.                 Vitnið C skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði hitt brotaþola til þess að ræða um háttsemi ákærða. Vitnið kvaðst hafa lagt fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot árið 2015 eða 2016, en það mál hefði verið fellt niður, að hluta til vegna fyrningar. Hann kvaðst hafa rætt við brotaþola og hafi upplifun þeirra af háttsemi ákærða verið svipuð. Hann kvað brotaþola þó ekki hafa sagt beint hvað hefði gerst milli þeirra.                 Vitnið I, fyrrverandi námsráðgjafi, skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að móðir brotaþola hafi leitað til sín vegna erfiðleika hans og hafi móðir hans talið að skýringin væri kynferðisbrot sem hann hefði orðið fyrir af hálfu ákveðins aðila sem hann hefði leitað til vegna nudds. Hefði maðurinn leitað á hann þar en vitninu hafi ekki verið sagt hversu langt það hefði gengið. Hefði brotaþoli klippt á samskiptin en í framhaldi hefði maðurinn leitað eftir frekari samskiptum við brotaþola með SMS skilaboðum. Hafi brotaþoli sagt vitninu að honum hafi þótt samskiptin við manninn mjög óþægileg og kvaðst hann hafa vitað að maðurinn hefði aðgang að öðrum strákum.                 Vitnið B, sálfræðingur, kom fyrir dóm og staðfesti skýrslu sína. Hún kvað brotaþola augljóslega hafa verið í uppnámi í fyrsta og öðrum tíma hjá henni, sérstaklega þegar hann hafi verið beðinn um að lýsa atvikum í smáatriðum og hafi hann átt erfitt með það. Hann hafi komið í átta eða níu skipti og smám saman hafi farið að draga úr einkennum. Hún kvað sjálfsmat brotaþola hafa mælst lægra en í meðallagi. Hún kvað brotaþola hafa sýnt töluvert mikil einkenni áfallastreituröskunar. Hann hafi verið með svefnörðugleika, hann hafi fengið martraðir og fengið minningar tengdar atvikum án þess að hann væri að hugsa um þau. Þá hafi hann sýnt forðunareinkenni, verið uppstökkur, pirraður og erfiður í samskiptum.  Hún kvað brotaþola að hluta til hafa lýst atvikum en hann hafi forðast það. Hún kvaðst muna eftir að hann hafi talað um að þeir hefðu hist á atburði tengdum skólanum og í framhaldi af því hafi verið fundur heima hjá ákærða. Hafi myndast tengsl milli þeirra, traust hafi myndast og samskiptin aukist. Þá hafi ákærði nuddað brotaþola á líkamshlutum sem hann hafi upplifað sem kynferðislega snertingu. Hann hafi talað um að ákærði hefði snert kynfæri brotaþola og fróað honum. Vitnið kvað brotaþola hafa verið mjög trúverðugan og væru minningabrot hans mjög skýr og hann hefði gefið heildstæða frásögn.      Niðurstaða.                            Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa í lok september 2010 fróað brotaþola án hans samþykkis á nuddbekk á heimili ákærða. Í ákæru er ákærði talinn hafa beitt brotaþola ólögmætri nauðung með því að misnota það traust sem brotaþoli hafi borið til hans sem heilara. Ákærði neitar alfarið sök en kannast við að brotaþoli hafi í nokkur skipti legið á nuddbekk heima hjá ákærða þar sem hann hafi beitt heilun og lítið eitt nuddað brotaþola, aðallega lagt hendur á ökkla og fætur að því er ákærða minnti. Ákærði neitar því að hafa snert kynfæri brotaþola. Fyrir dómi skýrði ákærði svo frá að brotaþoli hefði aldrei legið nakinn á bekknum hjá honum en við yfirheyrslu hjá lögreglu kvað ákærði að brotaþoli hefði stundum farið sjálfur úr og hafi hann stundum verið nakinn á bekknum og hafi ákærði sett handklæði á hann miðjan. Ákærði skýrði þetta misræmi með þeim hætti að hann hafi átt við að brotaþoli hefði verið í nærbuxum með handklæði yfir sér. Brotaþoli kvað fyrstu tímana hjá ákærða hafa verið fína, en smám saman hafi tímarnir orðið furðulegir, ákærði hafi farið að snerta á honum typpið, fyrst mjög lítið en síðan hafi ákærði rúnkað honum. Kvaðst brotaþoli hafa frosið við þetta en ekkert sagt og ákveðið að fara aftur í tíma hjá ákærða til þess að átta sig á því hvað hefði gerst. Í þeim tíma hafi ákærði klætt brotaþola úr að neðan og þá kvaðst brotaþoli hafa séð hvað ákærði hafi verið sveittur, graður og ógeðslegur í framan og hafi brotaþoli þá farið og ekki farið aftur í tíma til ákærða. Brotaþoli kvaðst hafa borið traust til ákærða, litið á hann sem trúnaðarvin sinn en hann sæi eftir á að ákærði hefði heilaþvegið sig. Brotaþoli kvaðst ekki hafa verið reiðubúinn að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrr en ári eftir að hann hafði fyrst leitað til sálfræðings á árinu 2015. Foreldrar brotaþola og systkini kveða hann fljótlega hafa sagt þeim frá atvikum og þá kveða þau brotaþola hafa liðið mjög illa eftir þetta. Þá hafa brotaþoli, foreldrar hans og bróðir lýst fyrir dómi tíðum hringingum og SMS skilaboðum frá ákærða til brotaþola fyrstu dagana eftir umrætt atvik en ákærði kannast ekki við það.                 Ákærði og brotaþoli eru einir til frásagnar um samskipti þeirra á nuddbekk á heimili ákærða umrætt sinn. Brotaþoli er að mati dómsins mjög trúverðugur og þá fær frásögn hans stoð í framburði foreldra hans, systkina og annarra vitna sem komu fyrir dóm í máli þessu. Þá er samræmi í framburði hans hjá lögreglu og fyrir dómi. Það rýrir trúverðugleika ákærða að misræmi er í framburði hans hjá lögreglu og fyrir dómi varðandi það hvort brotaþoli hafi legið nakinn á nuddbekknum. Þá hefur ákærði að mati dómsins ekki gefið trúverðugar skýringar á þessu misræmi. Brotaþoli og fjölskylda hans hafa lýst tíðum hringingum og SMS skilaboðum frá ákærða í nokkra daga eftir umrætt atvik en ákærði vill ekki kannast við þetta atriði. Lýsing brotaþola á samskiptum hans og ákærða benda til þess að ákærði hafi smátt og smátt unnið trúnað brotaþola og smám saman fært sig upp á skaftið í samskiptum sínum við hann. Þá styður það framburð brotaþola að hann sleit á öll samskipti við ákærða eftir umrætt atvik og svaraði ekki símhringingum og skilaboðum ákærða fyrr en all nokkru síðar þegar hann hafi beðið ákærða að láta sig í friði og skellt á hann. Þá hafa vitni í máli þessu lýst miklum afleiðingum fyrir brotaþola sem talin eru hafa hlotist af samskiptum brotaþola við ákærða, t.d. svefnleysi, kvíðaköstum og þunglyndi.                 Þegar allt framanritað er virt þykir ekki varhugavert að telja sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og varðar við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007, en háttsemi ákærða var refsiverð samkvæmt þeim lagaákvæðum sem í gildi voru þegar brot hans var framið.  Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði ekki áður sætt refsingu. Refsingu ákærða ber að ákveða með hliðsjón af því að brot hans var framið fyrir rúmum átta árum og nú eru liðin tæp þrjú ár frá því brotaþoli lagt fram kæru á hendur ákærða. Hins vegar ber að hafa í huga að brotaþoli var rétt rúmlega tvítugur þegar ákærði braut á honum og þá leit brotaþoli á hann sem trúnaðarvin sinn um tíma. Hefur ákærði með þessari háttsemi sinni gagnvart brotaþola því freklega rofið það traust sem brotaþoli bar til hans í framangreindri meðferð. Með hliðsjón af framansögðu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Ekki þykja efni til að skilorðsbinda refsinguna.                 Brotaþoli krefst miskabóta að fjárhæð 1.500.000 krónur með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafan er rökstudd með þeim hætti að brot ákærða hafi verið sérstaklega svívirðilegt þar sem það hafi beinst gegn ungum manni sem hafi lagt traust sitt á ákærða. Brotaþoli hafi litið upp til hans og hafi brotið haft mikil áhrif á heilsu hans og valdið honum verulegri sálrænni vanlíðan. Séu afleiðingar brotsins skert sjálfstraust, skapgerðarbrestir, erfiðleikar með svefn og kvíðaköst. Þá hefur verið lögð fram greinargerð B sálfræðings sem staðfestir að brotaþoli hafi borið einkenni þunglyndis og áfallastreituröskunar. Brot ákærða gagnvart brotaþola var til þess fallið að valda honum miska og á hann því rétt á bótum úr hendi hans með vísan til 26. gr. skaðabótalaga. Ákærða var kynnt skaðabótakrafan þann 2. september 2016. Þykja bætur til brotaþola hæfilega ákveðnar 800.000 krónur og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir. Þá ber með vísan til 1. mgr. 233. gr., sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talinn útlagðan kostnað vegna sálfræðivottorðs, 35.000 krónur, málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sigmundar Hannessonar lögmanns, 1.000.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sigmundar Guðmundssonar lögmanns, 642.940 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk útlagðs kostnaðar lögmannsins, 100.201 krónu.  Hjörtur O. Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.   Dómsorð:  Ákærði, Þórhallur Guðmundsson, sæti fangelsi í 18 mánuði. Ákærði greiði brotaþola, A, 800.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2011 til greiðsludags og dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá 2. október 2016 til greiðsludags.  Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talinn útlagðan kostnað vegna læknisvottorðs, 35.000 krónur, málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Sigmundar Hannessonar lögmanns, 1.000.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sigmundar Guðmundssonar lögmanns, 642.940 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk útlagðs kostnaðar lögmannsins, 100.201 krónu.
Mál nr. 27/2020
Útlendingur Brottvísun úr landi Meðalganga Aðild Gjafsókn Frávísun frá Hæstarétti
A höfðaði mál á hendur Í til ógildingar á ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun A frá Íslandi og úrskurði kærunefndar útlendingamála sem staðfesti þá ákvörðun og kvað á um endurkomubann A í 20 ár. B, dóttir A, gerðist aukameðalgöngumaður í málinu í héraði og átti einnig aðild að málinu fyrir Landsrétti þar sem hún gerði sömu efniskröfu og A. Fallist var á kröfur þeirra í hinum áfrýjaða dómi. Dómi Landsréttar var eingöngu áfrýjað til Hæstaréttar gagnvart A. Í dómi Hæstaréttar var talið að eins og atvikum væri háttað hefði borið nauðsyn til að dómi Landsréttar yrði einnig áfrýjað gagnvart B vildi Í freista þess að koma fram endurskoðun á honum, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Væri því óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júlí 2020. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti en ella að málskostnaður verði látinn niður falla. Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins frá Hæstarétti en til vara staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Með ákvörðun Útlendingastofnunar 17. nóvember 2014 var stefnda vísað brott frá Íslandi á grundvelli a- og b-liðar 1. mgr. 20. gr. b þágildandi laga nr. 96/2002 um útlendinga. Jafnframt var honum bönnuð endurkoma til landsins að fullu og öllu, sbr. 2. mgr. 20. gr. c sömu laga.  Kærunefnd útlendingamála staðfesti ákvörðun stofnunarinnar um brottvísun stefnda með úrskurði 16. mars 2017 en stytti endurkomubann hans í 20 ár.  Stefndi höfðaði mál á hendur áfrýjanda og gerði þær dómkröfur aðallega að felld yrði úr gildi fyrrgreind ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurður kærunefndar útlendingamála en til vara að endurkomubann hans til landsins í 20 ár yrði stytt verulega. C höfðaði meðalgöngusök í málinu fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar og stefnda, B, með stefnu 21. júní 2019 og krafðist þess annars vegar að vera heimiluð meðalganga í málinu en hins vegar gerði hún kröfu sama efnis og stefndi. Meðalgöngusökin var þingfest við upphaf aðalmeðferðar málsins í héraði 28. sama mánaðar. Í þingbók var bókað að ,,lögmenn [gerðu] ekki athugasemd við meðalgönguna“. Ber þingbókin með sér að B hafi eftirleiðis átt aðild að málinu við hlið stefnda. Með dómi 16. ágúst 2019 hafnaði héraðsdómur kröfu stefnda um ógildingu á fyrrgreindri ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurði kærunefndar útlendingamála en stytti endurkomubann hans í 10 ár. Enn fremur var í dóminum kveðið á um málskostnaðarkröfur og kröfur aðila um gjafsóknarkostnað, þar á meðal kröfur meðalgöngustefnanda þess efnis. Stefndi og B áfrýjuðu dóminum til Landsréttar 12. og 13. september 2019 og kröfðust þau hvort fyrir sitt leyti að ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurður kærunefndar útlendingamála yrðu felld úr gildi. Í greinargerð B til Landsréttar kom meðal annars fram að hún teldi sig eiga sjálfstæðra og lögvarinna hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins og að brotið hefði verið gegn stjórnarskrárvörðum rétti hennar til umgengni við báða foreldra sína. Í forsendum hins áfrýjaða dóms var meðal annars fjallað um umgengni hennar við stefnda og í því samhengi lagt mat á hvort tengsl þeirra í milli hafi notið verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þannig að einhverju varðaði fyrir niðurstöðu málsins. Með dómi Landsréttar var fallist á kröfur stefnda og B.   Með beiðni 26. júní 2020 leitaði áfrýjandi eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar. Í áfrýjunarstefnu kemur fram að tilgangur áfrýjunar sé að fá hnekkt þeirri niðurstöðu Landsréttar að ógilda ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurð kærunefndar útlendingamála. Áfrýjandi taldi niðurstöðu Landsréttar ranga að efni til og að byggt hefði verið á efnislega röngum forsendum sem ekki hefðu komið fram í úrskurði kærunefndar útlendingamála eða ákvörðun Útlendingastofnunar. Stefndi og B skiluðu bæði athugasemdum af því tilefni og lögðust gegn því að leyfið yrði veitt. Með ákvörðun Hæstaréttar 28. júlí 2020 var beiðni áfrýjanda um áfrýjunarleyfi tekin til greina og var áfrýjunarstefna gefin út sama dag. Í henni er kveðið á um að stefndi í máli þessu fyrir Hæstarétti sé A og því var dóminum ekki áfrýjað gagnvart B. II Eins og áður greinir gerðist dóttir stefnda, B, aukameðalgöngumaður í máli þessu í héraði, sbr. 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá átti hún aðild að málinu fyrir Landsrétti þar sem fallist var á þá kröfu hennar að ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurður kærunefndar útlendingamála í máli stefnda yrðu felld úr gildi og dæmt um kröfur hennar um málskostnað og gjafsóknarkostnað. Eins og rakið hefur verið er B ekki aðili málsins fyrir Hæstarétti. Af því leiðir að rétturinn getur ekki tekið til endurskoðunar hvort skilyrði hafa í öndverðu staðið til þess að meðalgönguaðild hennar yrði heimiluð. Samkvæmt því sem að framan greinir var í héraði og fyrir Landsrétti fallist á meðalgöngu hennar og gerði hún þar sömu efniskröfu og stefndi sem fallist var á í hinum áfrýjaða dómi. Því bar nauðsyn til að dómi Landsréttar yrði einnig áfrýjað gagnvart henni ef áfrýjandi vildi freista þess að koma fram endurskoðun á honum, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, enda laut aðild stefnda og B að sama sakarefni. Þar sem áfrýjandi lét þetta hjá líða er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu sjálfkrafa frá Hæstarétti. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður milli aðila en um gjafsóknarkostnað stefnda hér fyrir dómi fer eins og í dómsorði greinir. Það athugist að ekki bar nauðsyn til að krafa um ógildingu tæki til ákvörðunar Útlendingastofnunar 17. nóvember 2014 heldur var nægjanlegt að krefjast þess að einvörðungu úrskurður kærunefndar útlendingamála 16. mars 2017 yrði felldur úr gildi, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 23. febrúar 2011 í máli nr. 72/2011. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður milli aðila. Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 800.000 krónur.   Dómur Landsréttar 29. maí 2020. Mál þetta dæma landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson og Hervör Þorvaldsdóttir og Hjörtur O. Aðalsteinsson, settur landsréttardómari. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Áfrýjendur skutu málinu til Landsréttar 11. og 12. september 2019. Þau krefjast þess hvort fyrir sitt leyti að ákvörðun Útlendingastofnunar 17. nóvember 2014 og úrskurður kærunefndar útlendingamála 16. mars 2017 verði felld úr gildi. Til vara krefjast þau þess að endurkomubann áfrýjanda, A, í 20 ár samkvæmt úrskurði kærunefndar útlendingamála verði stytt verulega. Loks krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. 2        Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti en til vara að hann verði felldur niður. Málsatvik 3        Áfrýjandi A er [...] ríkisborgari sem kom til landsins árið 2004. Var honum veitt dvalarleyfi hér á landi 9. mars 2005 á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara en búsetuleyfi 9. október 2010. Eignaðist hann D [...] og meðáfrýjanda [...]. Bæði börnin fæddust utan hjónabands en fyrir liggur að mæður þeirra, sem báðar eru íslenskir ríkisborgarar, hafa farið með forsjá þeirra. Áfrýjandi var ekki í sambúð með þeim en naut umgengnisréttar við börnin að höfðu samráði við þær. 4        Áfrýjandi var ákærður [...] fyrir manndráp með því að hafa [...]. Með dómi Hæstaréttar [...] í máli nr. [...] var hann dæmdur fyrir manndráp og gert að sæta fangelsi í 16 ár. Samkvæmt gögnum málsins hafði hann ekki áður hlotið dóm fyrir refsiverða háttsemi. Í tengslum við meðferð framangreinds máls fyrir héraðsdómi var honum gert að sæta geðrannsókn en í niðurstöðu þeirrar rannsóknar [...] kom fram að engin merki hefðu fundist um alvarlegar geðraskanir hjá honum og að hann hefði „örugglega“ verið sakhæfur. Fram kom að ekkert benti til alvarlegra persónuleikabresta eða siðblindu í upplagi hans, heilaskaða eða greindarskorts sem gæti haft þýðingu. Taldi geðlæknirinn stærsta orsakavald verknaðarins hafa verið ölvunarástand hans og áhrif fíkniefna. Í skýrslu geðlæknisins kemur meðal annars fram að áfrýjandi hafi greint honum frá því í umfjöllun um áhugamál sín að hann hafi hitt börnin sín reglulega eða aðra hverja helgi. 5        Með tilkynningu Útlendingastofnunar 18. ágúst 2014 var áfrýjanda tilkynnt um hugsanlega brottvísun og endurkomubann í tilefni af fyrrgreindum dómi Hæstaréttar. Í tilkynningunni var um grundvöll hugsanlegrar ákvörðunar um brottvísun vísað til a- og b-liða 1. mgr. 20. gr. b laga nr. 96/2002 um útlendinga en auk þess var vakin sérstök athygli á lögbundnum takmörkunum á heimild til brottvísunar samkvæmt 3. mgr. 21. gr. sömu laga. Var honum veittur 14 daga frestur til að koma á framfæri athugasemdum sínum. Með bréfi lögmanns hans 7. september 2014 var fyrirhugaðri ákvörðun um brottvísun mótmælt með vísan til þess að hún fæli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum og börnum hans í skilningi 3. mgr. 21. gr. laga nr. 96/2002. Auk þess var vísað til þess að ekkert benti til þess að öryggi ríkisins væri ógnað eða að almannahagsmunir krefðust þess að honum yrði vísað af landi brott, sbr. áskilnað b-liðar 1. mgr. 20. gr. b sömu laga, og að ákvörðun um brottvísun kynni að brjóta gegn 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu, sbr. lög nr. 62/1994. Með bréfi Útlendingastofnunar 11. september 2014 var kallað eftir upplýsingum frá áfrýjanda um forsjá barnanna og hvernig umgengni hans og samskiptum við þau væri háttað. Var sérstaklega vísað til þess að slíkra upplýsinga mætti afla með „greinargerð mæðra barnanna eða þeim sem [færi] með forsjá þeirra“. Sama dag fékk stofnunin staðfestingu í tölvubréfi frá Þjóðskrá um að áfrýjandi væri faðir barnanna. Í bréfi lögmanns áfrýjanda 14. september 2014, sem barst stofnuninni tveimur dögum síðar, kom fram að hann hefði notið umgengni við börnin aðra hverja viku fram að þeim tíma sem hann var handtekinn en að hann hefði ekki vitneskju um hvernig forsjá þeirra væri háttað. Kom fram að hann hefði ávallt sinnt umgengninni og greitt meðlag eins og honum hefði borið að gera. Á hinn bóginn hefði hann ekki viljað leggja það á börnin að fá þau í heimsókn í fangelsið. Með bréfi Útlendingastofnunar 19. september 2014 ítrekaði stofnunin beiðni sína um upplýsingar um hvernig forsjá með börnum hans væri háttað og hver samskipti hans við þau hefðu verið fram að því að afplánun hófst. Óskað var staðfestingar hans ef hann vildi ekki leggja þessar upplýsingar fram en engar frekari upplýsingar munu hafa borist frá honum áður en ákvörðun um brottvísun var tekin. Stofnunin aflaði sjálf upplýsinga frá Þjóðskrá um að hann hefði aldrei verið í hjúskap eða skráðri sambúð með mæðrum barna sinna. 6        Með ákvörðun Útlendingastofnunar 17. nóvember 2014 var áfrýjanda vísað á brott frá Íslandi og honum bönnuð endurkoma „að fullu og öllu“. Var ákvörðunin byggð á a- og b-liðum 1. mgr. 20. gr. b laga nr. 96/2002 og því hafnað að fyrrgreindar takmarkanir 3. mgr. 21. gr. sömu laga ættu við vegna tengsla áfrýjanda við börnin. Var því jafnframt hafnað að ákvörðunin bryti gegn 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ákvörðunin var birt áfrýjanda 20. febrúar 2015 sem kærði hana 5. mars sama ár til innanríkisráðuneytisins með heimild í 30. gr. laga nr. 96/2002. Kæran hlaut ekki afgreiðslu í ráðuneytinu en eftir gildistöku laga nr. 80/2016 um útlendinga 1. janúar 2017 var málið framsent kærunefnd útlendingamála í febrúar sama ár. 7        Með úrskurði kærunefndar útlendingamála 16. mars 2017 var fyrrgreind ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun áfrýjanda staðfest en endurkomubann hans var ákveðið 20 ár. 8        Fangelsismálastofnun féllst 24. maí 2017 á beiðni áfrýjanda um að afplána hluta refsingar sinnar á áfangaheimili félagasamtakanna Verndar frá og með 12. júní sama ár en áfrýjandi hóf síðan afplánun undir rafrænu eftirliti 7. júní 2018. Með beiðni 14. maí 2018 óskaði áfrýjandi eftir reynslulausn sem var samþykkt af Fangelsismálastofnun 24. janúar 2019. Stóð til að veita áfrýjanda reynslulausn frá og með 2. júní 2019 sem tók í ljósi ákvörðunar um brottvísun hans mið af helmingi afplánunar refsitímans. Áfrýjandi dró hins vegar umsókn sína um reynslulausn til baka 26. mars 2019 samhliða ákvörðun sinni um að höfða mál þetta. Að öðrum kosti mun hafa staðið til að brottvísun hans kæmi til framkvæmda 2. júní 2019 er til stóð að hann fengi reynslulausn. Höfðaði hann mál þetta með birtingu stefnu 16. apríl 2019. Meðáfrýjandi höfðaði meðalgöngusök 21. júní sama ár sem ráða má af þingbók héraðsdóms að hafi verið fallist á í þinghaldi 28. júní sama mánaðar. Ákveðið var að fresta brottvísun áfrýjanda á meðan málið væri rekið fyrir dómstólum og hóf áfrýjandi afplánun refsivistar í fangelsi á ný 2. júní 2019. Af því tilefni var tekin af honum þvagprufa sem sýndi, samkvæmt nýjum gögnum sem voru lögð fram hér fyrir dómi, jákvæða niðurstöðu um kannabisefni. 9        Aðalkröfu áfrýjenda var hafnað í hinum áfrýjaða dómi en endurkomubann áfrýjanda var stytt úr 20 árum í 10 ár. Var dóminum áfrýjað í því skyni að fá niðurstöðu héraðsdóms hnekkt en auk þeirra málsástæðna sem fyrr hefur verið vísað til byggja áfrýjendur á því að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafi við málsmeðferð sína brotið gegn 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Niðurstaða 10       Eins og fyrr hefur verið rakið varðar sakarefni málsins það hvort skilyrðum b-liðar 1. mgr. 20. gr. b laga nr. 96/2002 um brottvísun áfrýjanda hafi verið fullnægt er Útlendingastofnun tók ákvörðun um brottvísun hans 17. nóvember 2014 sem og hvort takmarkanir á heimild til brottvísunar samkvæmt 3. mgr. 21. gr. sömu laga hafi átt við. 11       Samkvæmt b-lið 1. mgr. 20. gr. b laga nr. 96/2002 var heimilt að vísa útlendingi með búsetuleyfi úr landi ef það var talið „nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna“. Samkvæmt fyrri málslið 3. mgr. 21. gr. skyldi hins vegar ekki ákveða brottvísun ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, fæli í sér „ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans“. Samkvæmt síðari málslið 3. mgr. átti að taka sérstaklega tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns væri að ræða og skyldi „það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun“. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar átti fyrri málsliður 3. mgr. hins vegar ekki við þegar brottvísun var talin nauðsynleg vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna samkvæmt b-lið 1. mgr. 20. gr. b sömu laga. 12       Ákvæði laga nr. 96/2002 féllu úr gildi 1. janúar 2017 við gildistöku laga nr. 80/2016 en eins og fyrr greinir tók kærunefnd útlendingamála þá við kærumáli áfrýjanda. Í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 121. gr. laganna tók kærunefndin málið til meðferðar á grundvelli þeirra laga. Fyrrgreint ákvæði 1. mgr. 20. gr. b laga nr. 96/2002 er að finna í b-lið 1. mgr. 100. gr. laga nr. 80/2016 um brottvísun útlendings sem hefur ótímabundið dvalarleyfi og er það efnislega samhljóða. Ákvæði 3. mgr. 21. gr. laga nr. 96/2002 er að finna í 3. mgr. 102. gr. laga nr. 80/2016 og er það jafnframt efnislega samhljóða. Ákvæði 4. mgr. 21. gr. laga nr. 96/2002 er að finna í 4. mgr. 102. gr. laga nr. 80/2016 en það er frábrugðið ákvæði eldri laga að því leyti að þar er ekki eingöngu vísað til fyrri málsliðar 3. mgr. sömu lagagreinar eins og í eldri lögunum heldur málsgreinarinnar í heild. Af innbyrðis samhengi ákvæðisins má þó ráða að síðari málsliður 3. mgr. feli eingöngu í sér nánari útfærslu á þeim fyrri auk þess sem ekki verður ráðið af lögskýringargögnum laga nr. 80/2016 að til hafi staðið að breyta ákvæðinu að efni til. Verður því ekki talið að þessi munur á ákvæðinu milli eldri og yngri laga hafi þýðingu við skýringu þess. 13       Samkvæmt framangreindu gefur orðalag 4. mgr. 102. gr. laga nr. 80/2016 til kynna að þær takmarkanir á heimild til brottvísunar sem tilgreindar eru í 3. mgr. 102. gr. sömu laga gildi ekki þegar brottvísun hefur verið ákveðin á grundvelli b-liðar 1. mgr. 100. gr. laganna. Heimild til að vísa útlendingi úr landi með vísan til „öryggis ríkisins“ og „almannahagsmuna“ samkvæmt síðastnefndu ákvæði verður á hinn bóginn að skýra með hliðsjón af 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi fjölskyldu. Við þá skýringu verður jafnframt að horfa til 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um sama efni og þeirra viðmiða sem hafa mótast við skýringu þess í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. 14       Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir njóta friðhelgi fjölskyldu en heimilt er þrátt fyrir 1. mgr. að takmarka friðhelgi fjölskyldu „ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra“, sbr. 3. mgr. sömu greinar stjórnarskrárinnar. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu skal ekki ganga á réttinn til friðhelgi fjölskyldu nema „samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra“, sbr. lög nr. 62/1994. 15       Óumdeilt er að áfrýjandi er faðir meðáfrýjanda og D. Jafnframt er óumdeilt að hann naut umgengni við börnin áður en hann gerðist sekur um fyrrgreint afbrot og hóf afplánun refsidómsins [...]. Var meðáfrýjandi þá rúmlega [...] ára og D [...] árs. Samkvæmt framburði móður meðáfrýjanda fyrir héraðsdómi var áfrýjandi „í mjög góðu sambandi“ við hana áður en meðáfrýjandi fæddist og „yfir meðgönguna“. Kom fram að hún hefði eftir fæðingu reglulega farið með meðáfrýjanda í heimsókn til hans allt þar til hún varð [...] árs en þá hafi farið „að halla undan fæti hjá“ áfrýjanda. Þá hefði sambandið milli þeirra slitnað en þau hefðu tekið það upp á ný um haustið 2017 og þá aftur hafið regluleg samskipti sem hefðu í framhaldinu orðið náin. Í framburði móður D fyrir héraðsdómi kom fram að barnið hefði verið í reglulegum samskiptum við áfrýjanda fram að afbrotinu. Kom fram að vel hefði farið á með þeim. Samskiptin hefðu hins vegar slitnað þegar áfrýjandi fór í fangelsi en hafist á ný haustið 2017. Í byrjun hefði D verið ánægður með að hitta hann en í framhaldinu hefði hann verið „frekar lokaður um samskiptin“. Sem fyrr greinir var áfrýjandi aldrei í sambúð með mæðrum barnanna. 16       Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að áfrýjandi naut reglulegrar umgengni við börn sín um árabil áður en hann hóf afplánun refsidómsins [...]. Gögn málsins gefa til kynna að hann hafi á þessum tíma verið búinn að mynda við þau tilfinningaleg tengsl þótt börnin hafi verið ung að árum. Jafnframt liggur fyrir að mæður barnanna voru hlynntar umgengni hans við þau þótt þær hefðu aldrei verið í sambúð með honum. Verður að líta svo á að þessi tengsl áfrýjanda við börnin hafi ótvírætt verið þess eðlis að þau njóti verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi fjölskyldu og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu en af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu verður meðal annars ráðið að vernd 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu geti náð til sambands föður og barns óháð sambúð hans við móður, sbr. til hliðsjónar dóm 18. febrúar 2020 í máli Makdoudi gegn Belgíu nr. 12848/15. Talið hefur verið að slík vernd geti jafnvel náð til mögulegs sambands milli föður og barns sem enn hafi ekki stofnast, sbr. til hliðsjónar dóm 29. júní 1999 í máli Nylund gegn Finnlandi nr. 27110/95 og mál M.B. gegn Bretlandi 6. apríl 1994 nr. 22920/93. 17       Eitt af þeim skilyrðum sem þarf að fullnægja samkvæmt 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er að inngrip í friðhelgi heimilis geti talist hafa verið nauðsynlegt í lýðræðislegu þjóðfélagi. Við mat á því hvort þessu skilyrði hafi verið fullnægt í málum sem varða brottvísun útlendinga hefur í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu verið horft til fjölmargra viðmiða eins og alvarleika brots þess sem sætir brottvísun, hættu á endurteknum afbrotum, heilsu og félagslegra- og menningarlegra tengsla við landið sem viðkomandi býr í og landið sem til stendur að vísa honum til. Loks hefur verið gerð krafa um að lagt hafi verið mat á tengsl hans við fjölskyldu í landinu þar sem hann býr og í landinu þangað sem til stendur að vísa honum, sbr. nýlega dóma 18. febrúar 2020 í máli Makdoudi gegn Belgíu nr. 12848/15, 18. desember 2018 í máli Saber og Boughassal gegn Spáni nr. 76550/13 og 45938/14 og 9. apríl 2019 í máli I.M. gegn Sviss nr. 23887/16. Hefur verið talið að skortur á fullnægjandi mati á tengslum við fjölskyldu í samhengi við önnur viðmið sem horfa beri til geti einn og sér falið í sér brot gegn 8. gr. sáttmálans, sbr. fyrrgreindan dóm Makdoudi gegn Belgíu. 18       Samkvæmt framangreindu leiðir af skýringu á b-lið 1. mgr. 100. gr. laga nr. 80/2016 til samræmis við 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að þrátt fyrir fyrrgreint orðalag 4. mgr. 102. gr. sömu laga verði við ákvörðun um brottvísun á grundvelli b-liðar 1. mgr. 100. gr. laganna meðal annars að horfa til þeirra sjónarmiða sem koma fram í 3. mgr. 102. gr. sömu laga um atvik og aðstæður sem geta staðið slíkri ákvörðun í vegi. Fær sú skýring stoð í lögskýringargögnum með 7. gr. laga nr. 64/2014, til breytinga á eldri lögum nr. 96/2002, sem varð að 3. mgr. 21. gr. þeirra laga. Þar kemur meðal annars fram að eðlilegt sé „að horft sé til 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu við mat á því hvort ákvörðun sé ósanngjörn gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans“. Af ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurði kærunefndar útlendingamála má ráða að það hafi í reynd verið gert þótt engu að síður hafi í ákvörðun Útlendingastofnunar verið vísað sérstaklega til 4. mgr. 21. gr. eldri laga nr. 96/2002 um að sjónarmið 3. mgr. sömu lagagreinar ættu ekki við. Er það jafnframt gert í málatilbúnaði stefnda fyrir dómi. 19       Í ákvörðun Útlendingastofnunar 17. nóvember 2014 var ekki fallist á að tengsl áfrýjanda við börn sín gætu staðið ákvörðun um brottvísun í vegi. Var lagt til grundvallar að áfrýjandi hefði ekki sýnt fram á nein tengsl við þau fram að þeim tíma sem hann fór í fangelsið [...]. Var ekki talið að ákvörðunin fæli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans, sbr. 3. mgr. 21. gr. eldri laga nr. 96/2002. Taldi stofnunin að „hagsmunir ríkisins vegi þyngra en það óhagræði og erfiðleikar sem börn [áfrýjanda] verða fyrir við brottvísun hans“. Kemur fram að þar vegi þyngst „eðli og refsing þeirra brota sem [áfrýjandi] afplánar nú dóm fyrir“. Jafnframt kom fram að „[s]kortur á gögnum sem staðfesta umgengni hans við börnin [hefði] einnig áhrif“ en þó hafi verið horft til þess „að umgengni gæti stofnast eða verið til staðar á síðari stigum“. Í forsendum ákvörðunar kemur fram að áfrýjandi hafi „ekki lagt fram greinargerðir frá barnsmæðrum um þá umgengni sem hann kveðst hafa sinnt“. Kemur fram að „[e]kkert í gögnum málsins [styðji] þær fullyrðingar [áfrýjanda] að hann hafi sinnt umgengni fram að fangelsun hans“. Loks segir: „Að jafnaði er lagt mat á áhrif þess hvað brottvísun og endurkomubann myndi hafa á börn viðkomandi og samband þeirra við foreldri. [Áfrýjandi] segir í greinargerð að hann vilji ekki fá börn sín í heimsókn [í fangelsið] á meðan á dvöl hans þar stendur þar sem hann telur það verða þeim erfitt. Því er ljóst að [áfrýjandi] er ekki að sinna umgengni við börn sín nú og ætlar ekki að gera það næstu árin.“ 20       Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga ber stjórnvaldi að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í ákvæðinu felst að stjórnvaldi ber að eigin frumkvæði að afla allra nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin. Það fer eftir atvikum hverju sinni hvaða upplýsinga ber að afla en eðli máls samkvæmt verður þar fyrst og fremst að horfa til þeirrar réttarheimildar sem til stendur að byggja stjórnvaldsákvörðun á. Hefur þar grundvallarþýðingu hvort aflað hafi verið allra þeirra upplýsinga sem skipta máli við mat á því hvort lagaskilyrði fyrir stjórnvaldsákvörðun séu uppfyllt. Sem fyrr greinir voru ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurður kærunefndar útlendingamála reist á b-lið 1. mgr. 20. gr. b eldri laga nr. 96/2002 og samhljóða ákvæði b-liðar 1. mgr. 100. gr. laga nr. 80/2016. Við mat á því hvort skilyrði þeirra ákvæða um nauðsyn brottvísunar vegna „öryggis ríkisins“ eða „almannahagsmuna“ hafi verið fullnægt var, eins og fyrr hefur verið rakið, nauðsynlegt að afla upplýsinga um tengsl áfrýjanda við börn hans. Ákvörðunin um brottvísun varðaði ekki eingöngu hagsmuni áfrýjanda heldur einnig barna hans sem eiga sjálfstæðan lögvarinn rétt til að njóta umgengni við föður sinn, sbr. 1. mgr. 46. gr. barnalaga nr. 76/2003. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins skal það sem er barni fyrir bestu ávallt hafa forgang þegar stjórnvöld gera ráðstafanir sem varða börn, sbr. lög nr. 19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. barnalaga skal það sem er barni fyrir bestu ávallt haft í forgangi þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. og síðari málslið 3. mgr. 102. gr. laga nr. 80/2016 sem fyrr hefur verið fjallað um. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 80/2016 skal ákvörðun sem varðar barn tekin með hagsmuni þess að leiðarljósi og skal barni sem myndað getur eigin skoðanir tryggður réttur til að tjá sig í máli sem það varðar og skal þá tekið tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska, sbr. og 3. mgr. 1. gr. barnalaga. 21       Með hliðsjón af framangreindum lagaákvæðum var sérstaklega brýnt að fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir um tengsl áfrýjanda við börn sín áður en hin íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun um brottvísun hans var tekin. Var þess hvorki gætt af hálfu Útlendingastofnunar né kærunefndar útlendingamála en eins og fyrr er rakið liggur fyrir að ákvörðun Útlendingastofnunar byggðist meðal annars á þeirri forsendu að áfrýjandi hefði ekki notið umgengnisréttar við börnin sín áður en hann fór í fangelsi, þrátt fyrir fullyrðingar hans um hið gagnstæða. Af fyrrgreindum forsendum ákvörðunar Útlendingastofnunar er jafnframt ljóst að áfrýjandi var látinn bera hallann af því að hafa ekki lagt fram gögn varðandi umgengnisréttinn. Úrskurður kærunefndar útlendingamála byggir á sömu forsendu en þar var jafnframt vísað til þess að áfrýjandi „hafi ekki lagt fram gögn sem staðfesti að hann hafi haft umgengni við börn sín“. Hvorki Útlendingastofnun né kærunefnd útlendingamála átti frumkvæði að því að afla upplýsinga frá mæðrum barnanna um umgengnisréttinn og tengsl þeirra við áfrýjanda. Upplýsingar um samskipti þeirra komu fyrst fram í tengslum við rekstur dómsmálsins en þá kom í ljós, eins og fyrr hefur verið rakið, að áfrýjandi hafði notið umgengnisréttar við bæði börnin áður en hann fór í fangelsi. Samkvæmt því liggur fyrir að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála byggðu ákvörðun sína um brottvísun áfrýjanda á röngum upplýsingum um tengsl hans við börnin. 22       Sú meginregla gildir í stjórnsýslurétti að þegar mál byrjar að frumkvæði stjórnvalds, eins og háttar til í máli þessu, geti stjórnvald ekki krafið málsaðila um gögn og upplýsingar nema það hafi til þess viðhlítandi lagaheimild. Í lögum nr. 96/2002 og 80/2016 er hvergi að finna heimild til þess að krefja þann sem ákvörðun um brottvísun beinist að um upplýsingar sem hann þarf að afla frá þriðja aðila. Samkvæmt því skorti lagastoð fyrir þeirri ákvörðun Útlendingastofnunar að beina því til áfrýjanda að afla greinargerða frá mæðrum barnanna. Jafnframt skorti lagastoð fyrir því að láta hann í kjölfarið bera hallann af því að hafa ekki aflað þeirra upplýsinga en eins og fyrr greinir var út frá því gengið í ákvörðun Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála að áfrýjandi hefði ekki notið umgengnisréttar við börnin þar sem hann aflaði ekki umræddra upplýsinga frá mæðrum þeirra. 23       Af 10. gr. stjórnsýslulaga leiðir að þegar niðurstaða máls veltur á mati á atriði sem krefst sérþekkingar ber stjórnvaldi að kalla eftir sérfræðilegri aðstoð, hafi það sjálft ekki yfir að ráða nauðsynlegri þekkingu á viðkomandi sviði. Í því máli sem hér um ræðir var nauðsynlegt að taka til sjálfstæðs mats tengsl áfrýjanda við börnin sín sem ekki er lögfræðilegs eðlis en samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laga nr. 80/2016 er kærunefnd útlendingamála heimilt að kveðja til sérfróða aðila sér til ráðgjafar og aðstoðar við úrskurði í einstökum málum. Var þessa ekki gætt af hálfu kærunefndarinnar enda út frá því gengið af hálfu nefndarinnar, eins og fyrr greinir, að engin tengsl hefðu verið milli þeirra. 24       Samkvæmt framangreindu voru slíkir annmarkar á málsmeðferð Útlendingastofnunar og síðar kærunefndar útlendingamála að óhjákvæmilegt er að taka aðalkröfu áfrýjenda til greina. 25       Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti falli niður. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal standa óraskað, en um gjafsóknarkostnað áfrýjenda fyrir Landsrétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Ákvörðun Útlendingastofnunar 17. nóvember 2014 um brottvísun áfrýjanda, A, og ótímabundið endurkomubann er felld úr gildi sem og úrskurður kærunefndar útlendingamála 16. mars 2017 um staðfestingu á þeirri ákvörðun og 20 ára endurkomubann. Málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti fellur niður. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað til handa áfrýjanda og meðáfrýjanda, B, skal standa óraskað. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna áfrýjanda, Guðjóns Ólafs Jónssonar, 500.000 krónur, og Auðar Bjargar Jónsdóttur, 500.000 krónur, og lögmanns meðáfrýjanda, Baldvins Hafsteinssonar, 800.000 krónur.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. ágúst 2019   Mál þetta var höfðað 16. apríl sl. og þingfest sama dag, en stefndi féll frá stefnufresti. Stefnandi er A, [...], og stefndi er íslenska ríkið, Sölvhólsgötu 7, 150 Reykjavík. Við upphaf aðalmeðferðar málsins var þingfest meðalgöngustefna C, [...], f.h. ólögráða dóttur hennar og sóknaraðila, B, sem fædd er [...]. Lögmenn annarra aðila töldu ekki ástæðu til að skila sérstökum greinargerðum vegna þessa og var því aðalmeðferð málsins fram haldið. Eftir skýrslutökur við aðalmeðferð málsins sem fram fóru 29. júní sl., málflutning lögmanna og dómtöku málsins taldi dómari rétt, með heimild í 104. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, að boða til dómþings og beindi því í þinghaldi 10. júlí sl. til aðila málsins til sóknar að afla sérfræðimats um afstöðu meðalgöngustefnanda, B, til málsins. Lögmenn til sóknar óskuðu eftir fresti til að taka afstöðu til þessa og tilkynnti lögmaður meðalgöngustefnanda svo dómara með tölvuskeyti 17. júlí sl. að meðalgöngustefnandi myndi ekki bregðast við þessum tilmælum dómara þar sem afstaða B í málinu væri óumdeild. Aðalstefnandi tók undir þetta og taldi frekari sönnunarfærslu bersýnilega þarflausa, en taldi sig þó ekki vera í þeirri stöðu nú að geta hlutast til um ákvörðun meðalgöngustefnanda í þessum efnum, eins og það var orðað.   I.                    Dómkröfur   Stefnandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar, frá 17. nóvember 2014, sem og úrskurður kærunefndar útlendingamála, frá 16. mars 2017, verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að endurkomubann stefnanda í 20 ár verði stytt verulega. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda, stefnanda að skaðlausu.   Meðalgöngustefnandi krefst þess að fallist verði á kröfur stefnanda. Jafnframt krefst hún til vara að endurkomubann verði stytt verulega. Þá krefst hún málskostnaðar að skaðlausu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.   Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda, en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla.     II.                  Málsatvik   Stefnandi mun hafa búið á Íslandi í meira en 14 ár. Hann kom til Íslands árið 2004 og var fyrst veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara 9. mars 2005. Það leyfi var endurnýjað 25. maí og 2. júní 2006. Stefnandi fékk útgefið dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku 2. ágúst 2007 og búsetuleyfi hér á landi 9. október 2010. Stefnandi er ættaður frá [...] en hefur ekki búið þar í u.þ.b. 25 ár. Hann hefur lítil sem engin tengsl við landið og hefur ekkert þangað að sækja lengur. Áður en hann fluttist til Íslands bjó hann á Spáni í u.þ.b. 10 ár.   Stefnandi gerðist sekur um manndráp þann [...] og var dæmdur í 16 ára fangelsi með dómi Hæstaréttar nr. [...].   Þegar stefnandi framdi brot það sem hann var dæmdur fyrir átti hann að sögn við áfengisvanda að stríða og var undir miklum áhrifum áfengis. Í fyrirliggjandi skýrslu geðlæknis sem gerði geðrannsókn á stefnanda kemur fram að stefnandi sé geðþekkur maður án nokkurra sýnilegra persónuleikavandamála þegar hann er ekki undir áhrifum. Stefnandi iðrist gjörða sinna og sé staðráðinn í að byggja líf sitt upp að nýju. Hann hafi nýtt tíma sinn í fangelsinu vel, unnið í edrúmennsku sinni og tekið á áfengisvanda sínum af ábyrgð og festu. Hann geri sér grein fyrir því að hann geti ekki hafið neyslu á áfengi eða öðrum vímuefnum þegar hann losnar. Hann fari með bænir daglega og hafi verið fyrirmyndarfangi. Á honum hafi aldrei fundist eiturlyf eða áfengi og heldur ekki í klefa hans. Öll eiturlyfjapróf hafi komið út neikvæð eftir að hann hóf afplánun. Stefnandi hafi verið fyrirmyndarfangi og ekki lent í neinum alvarlegum uppákomum innan veggja fangelsisins. Sé honum hvarvetna borinn góður vitnisburður.   Stefnandi á tvö börn, D, sem fæddur er [...], og B, fædda [...]. Áður en stefnandi var dæmdur í fangelsi mun hann hafa haft umgengni við börn sín aðra hverja helgi. Til að hlífa börnum sínum og vegna ungs aldurs þeirra taldi stefnandi, að eigin sögn, það vera þeim fyrir bestu að þau hittu hann ekki í fangelsinu. Hafi mæður barna hans sýnt þessu skilning.   Með ákvörðun Útlendingastofnunar 17. nóvember 2014 var stefnanda vísað úr landi. Sagði í ákvörðunarorðunum m.a.: „A, kt. [...], ríkisborgara [...], er vísað brott frá Íslandi með vísan til a- og b-liðar 1. mgr. 20. gr. b laga um útlendinga nr. 96/2002. Jafnframt er ákveðið að honum sé bönnuð endurkoma til Íslands að fullu og öllu, sbr. 2. mgr. 20. gr. c sömu laga.“ Í úrskurði kærunefndar útlendingamála frá 16. mars 2017 var svo eftirfarandi ákveðið: „Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest hvað varðar ákvörðun um brottvísun kæranda. Endurkomubann kæranda er ákveðið 20 ár.“   Haustið 2017 hóf stefnandi afplánun á áfangaheimili félagasamtakanna Verndar. Á svipuðum tíma kveðst hann hafa hafið að nýju umgengni við börn sín, þau B og D. Stefnandi kveður samband sitt við B frá upphafi hafa verið mjög náið og þurfi hún mjög á föður sínum að halda. Umgengni við D hafi einnig gengið vel þótt ekki hafi þeir feðgar náð að mynda eins náið samband og feðginin hafi gert.   Þann 8. maí 2017 óskaði stefnandi eftir því að honum yrði veitt reynslulausn eftir að hafa afplánað helming af 16 ára fangelsisrefsingunni. Þann 24. janúar 2019 barst honum bréf um að beiðni hans hefði verið samþykkt af Fangelsismálastofnun frá og með 2. júní 2019, sbr. dskj. nr. 6. Kom eftirfarandi fram í bréfinu: „Þrátt fyrir eðli þess brots er refsing þín er fyrir tilkynnist þér hér með að Fangelsismálastofnun hefur ákveðið að veita þér reynslulausn að afplánuðum helmingi refsitímans, eða frá og með 2. júní 2019, kl. 8.00, þar sem fyrir liggur ákvörðun Útlendingastofnunar, sem Kærunefnd Útlendingastofnunar hefur staðfest, um að þér verði vísað úr landi að afplánun lokinni.“   Þar sem stefnandi kveðst ekki hafa áttað sig á að úrskurður kærunefndar útlendingamála gæti komið til framkvæmda um leið og hann fengi reynslulausn sendi hann Fangelsismálastofnun bréf 26. mars 2019, þar sem hann óskaði eftir að umsókn hans um reynslulausn yrði afturkölluð og málið fellt niður. Stefnandi segir ástæðu þess að hann hafi fengið reynslulausnina, að loknum helmingi afplánunar, eingöngu þá að honum yrði samstundis vísað úr landi. Annars hefði hann ekki fengið reynslulausn fyrr en að loknum a.m.k 2/3 hlutum afplánunar 16 ára dómsins, eða því sem samsvari afplánun í 12 ár. Hann telur jafnframt að ef reynslulausnin verður afturkölluð eða að dómur falli honum í hag muni hann þurfa að ljúka afplánun u.þ.b. fjögurra ára til viðbótar áður en hann geti aftur átt rétt á að sækja um reynslulausn.   Í dag býr stefnandi [...] og hefur verið undir rafrænu eftirliti, með svokallað ökklaband, frá því um mitt sumar 2018. Hann er menntaður [...] og vinnur [...]. Hann hefur unnið hjá fyrirtækinu í u.þ.b. fimm ár, eða frá því að hann var fluttur frá Litla-Hrauni á Sogn.   Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Þá gáfu jafnframt skýrslu C, barnsmóðir stefnanda, móðir B meðalgöngustefnanda. Einnig gáfu skýrslu vitnin E, barnsmóðir stefnanda, móðir D, F, vinnuveitandi stefnanda, og G sálfræðingur sem gerði sálfræðimat á stefnanda dagsett 26. júní sl. Framburðar verður getið í niðurstöðukafla dómsins eins og ástæða þykir til.   III.                Málsástæður og lagarök stefnanda   Stefnandi byggir á því að brottvísun úr landi feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum og fjölskyldu hans, sbr. 102. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Í 3. mgr. ákvæðisins komi fram að brottvísun skuli ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendinga við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skuli taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skuli það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á þessu ákvæði verði að hafa í huga og til hliðsjónar 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu.    Stefnandi hafi haft umgengni við börn sín aðra hverja helgi áður en hann fór í fangelsi. Eftir að hann hóf afplánun hafi hann talið það vera börnum sínum fyrir bestu að þau myndu ekki hitta hann í fangelsinu. Stefnandi hóf afplánun á Vernd haustið 2017. Um leið hafi hann hafið umgengni við börn sín aftur. Samband stefnanda við dóttur sína B hafi strax orðið mjög náið, eins og komi fram í bréfi móður hennar frá 7. mars sl. Komi þar fram að B hafi mikla þörf fyrir föður sinn og hafi átt erfitt með að geta ekki hitt hann á meðan hann var í fangelsi. Henni hafi liðið eins og hún hefði misst hann þegar hann fór í fangelsi, en hún hafi á þessum tíma haft mjög sterk tilfinningatengsl við stefnanda. Í dag gangi samskiptin afar vel, en hún hafi verulegar áhyggjur af því að missa hann aftur verði hann sendur úr landi. Þetta hafi valdið henni töluverðum kvíða og hafi hún þurft aðstoð vegna þessa hjá sálfræðingi. Móðir B segi einnig í bréfinu að hún viti ekki hvernig B eigi að komast í gegnum það að hún sé mögulega að fara að missa föður sinn í annað sinn. Styðji móðirin heilshugar að stefnandi fái að vera áfram á Íslandi.   Stefnandi hafi einnig hafið umgengni við son sinn D, sem sé [....] ára, haustið 2017. Hafi hann hitt hann um það bil einu sinni í mánuði síðan þá. Hafi feðgarnir myndað samband, þótt það sé ekki eins náið og hjá stefnanda og B. Segist móðir D halda að það geti verið vegna þess að D hafi verið greindur með [...] og að hann þori ekki að bindast föður sínum traustari böndum, verði honum vísað frá Íslandi.   Byggir stefnandi mál sitt á því að hagsmunir barna hans af möguleikanum á samvistum við föður hafi mikla þýðingu við mat á því hvort brottvísun sé heimil skv. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Telur stefnandi að hagsmunir hans og barna hans af því að hann dvelji áfram hér á landi vegi mun þyngra en almannahagsmunir af því að vísa honum úr landi. Það sé börnum stefnanda fyrir bestu að hann fái að dvelja áfram á landinu. Því séu skilyrði fyrir brottvísun skv. a- og b-lið 1. mgr. 100. gr. laga um útlendinga ekki uppfyllt.   Einnig telur stefnandi að við mat á því hvort vísa eigi honum úr landi eða ekki verði að taka til skoðunar tengsl hans við landið og hegðun hans eftir brotið. Einnig þurfi að skoða hvort refsingin hafi náð tilætluðum markmiðum sínum. Stefnandi hafi mikil og góð tengsl við Ísland. Hann hafi búið hér lengi og hafi lítil sem engin tengsl við [...], þar sem hann hafi ekki búið í u.þ.b. 25 ár. Einnig hafi stefnandi búið í u.þ.b. 10 ár á [...] áður en hann fluttist til Íslands. Hann hafi átt við áfengisvanda að stríða og verið undir miklum áhrifum áfengis þegar hann framdi verknaðinn. Í kjölfarið hafi stefnandi gengið undir geðrannsókn, sbr. framangreint um niðurstöðu hennar. Byggir stefnandi á því að það væri mjög ósanngjarnt gagnvart honum, manni sem sé að byggja sig upp og iðrist gjörða sinna, að vísa honum úr landi í óvissu og vonleysi um framtíð sína. Það liggi því ekkert fyrir um að skilyrði 1. mgr. 100. gr. útlendingalaga um almannahættu séu uppfyllt. Brot hans hafi verið einangrað tilvik og hann hafi ekki sýnt af sér þá hegðun að hann verði talinn hættulegur umhverfi sínu eða að talið verði að hann muni brjóta af sér aftur.   Stefnandi telur að stjórnvöld hafi ekki gætt að rannsóknarreglunni í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þeim hafi borið að rannsaka sérstaklega hvaða áhrif það hefði á börn stefnanda að honum yrði vísað úr landi með 20 ára endurkomubanni eða gætt að því hvernig umgengni við þau var háttað áður en stefnandi fór í fangelsi. Í úrskurðum Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála sé hvergi vikið að því að tekið hafi verið viðtal við börn hans eða mæður þeirra um þessi atriði. Bendir stefnandi á að hann hafi ekki verið í neinni aðstöðu innan veggja fangelsisins til að afla gagna um umgengni eða sýna fram á hvaða áhrif það hefði á börnin yrði honum vísað úr landi. Þá telur stefnandi að stjórnvöld hafi ekki gætt meðalhófs í ákvörðum sínum, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Hann hafi myndað sterk tengsl við Ísland en hafi lítil eða engin tengsl við landið sem eigi að vísa honum til.   Stefnandi krefst þess til vara að ef honum verður gert að yfirgefa landið verði endurkomubannið til landsins stytt verulega. Er vísað til þess að stefnandi eigi tvö börn hér á landi og hafi myndað sterk tengsl við þau, sérstaklega B, sbr. framangreint. Endurkomubann í 20 ár sé verulega íþyngjandi fyrir hann og börn hans og ljóst að með því geti tengsl stefnanda við börnin rofnað endanlega. Stjórnvöld hafi hvorki rannsakað nægilega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, né gætt meðalhófs í ákvörðum sínum, sbr. 12. gr. sömu laga, og því séu ekki fyrir hendi skilyrði til að ákvarða honum svo langt endurkomubann, sbr. 2. mgr. 101. gr. útlendingalaga.   Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til útlendingalaga nr. 80/2016 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig er vísað til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmála Evrópu frá 4. nóvember 1950, ásamt breytingum, sbr. lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994. Þá er vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en krafa um málskostnað er byggð á XXI. kafla laganna. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun styðst við lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988.   IV.                Málsástæður og lagarök meðalgöngustefnanda.   Meðalgöngustefnandi vísar til þess að það séu mannréttindi og stjórnarskrárvarinn réttur hvers barns að njóta umgengni við báða foreldra sína auk þess sem það sé réttur foreldra að njóta umgengni við barn sitt. Meðalgöngustefnandi sé barnsmóðir aðalstefnanda A og höfði málið f.h. dóttur sinnar, sem hafi brýna og sjálfstæða hagsmuni af því að dómur falli aðalstefnanda í vil. Með því verði tryggður sjálfstæður mannréttindavarinn réttur hennar til að þekkja og umgangast föður sinn. Réttur dótturinnar sé verndaður í 1. gr. a og 46. gr. barnalaga nr. 76/2003, 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 3. mgr. 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (barnasáttmálinn). Því séu skilyrði 20. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 fyrir meðalgöngu uppfyllt um sjálfstæða og brýna hagsmuni hennar. Þá sé meðalgönguaðild dóttur aðalstefnanda hluti af réttindum hennar sem barns til að fá að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem varði barnið, sbr. 12. gr. barnasáttmálans.   Meðalgöngustefnandi byggir á því að brottvísun barnsföður hennar úr landi feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum og fjölskyldu hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Í ákvæðinu komi fram að sérstaklega skuli taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við slíka ákvörðun.   Það sé ríkjandi viðhorf í barnarétti að allar ákvarðanir skuli teknar þannig að hagsmunir barns séu hafðir að leiðarljósi og í samræmi við það sem barni sé fyrir bestu. Þessi meginregla sé lögfest í 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003. Auk þess teljist hún til einna af fjórum grundvallarreglum barnasáttmálans, sem lögfestur hafi verið hér á landi með lögum nr. 19/2013 og komi skýrt fram í 3. gr. hans, sbr. 1. mgr.   Í 1. mgr. 46. gr. barnalaga sé fjallað um rétt barns til að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, að því gefnu að það sé ekki andstætt hagsmunum þess, eins og áður hefur verið vikið að. Þegar foreldrar búa ekki saman hvíli sú skylda á þeim báðum að grípa til þeirra ráðstafana sem við verður komið til að tryggja að þessi réttur barnsins sé virtur.   Í 1. mgr. 9. gr. barnasáttmálans segi skýrt að aðildarríki skuli tryggja að barn sé ekki skilið frá foreldrum sínum gegn vilja þess, nema þegar lögbær stjórnvöld ákveða samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð að aðskilnaður sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins. Þar segi jafnframt að slíkur aðskilnaður sé einungis talinn nauðsynlegur í tilvikum svo sem ef barn sætir misnotkun eða er vanrækt af foreldrum sínum, eða þegar foreldrar búa ekki saman og ákveða verður hver skuli vera dvalarstaður þess. Þessar undantekningar eigi ekki við í máli þessu að mati meðalgöngustefnanda.   Í úrskurði kærunefndarinnar komi fram að nefndin telji brot aðalstefnanda vera þess eðlis og gegn slíkum grundvallarhagsmunum samfélagsins, sbr. b-lið 1. mgr. 100. gr. laga um útlendinga að mál hanshafi ekki krafist þess að sérstakt mat færi fram á því hvort hann væri líklegur til að brjóta af sér aftur eða ekki. Þannig taldi nefndin að eðli og alvarleiki brots stefnanda leiddi til þess að brottvísun væri heimil og staðhæfing hans um að hann hefði snúið við blaðinu meðan á afplánun fangelsisrefsingar stóð hefði ekki áhrif á það mat.   Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) gefi stjórnvöldum mikið svigrúm til mats á því hvað ógni þjóðaröryggi þegar komi að brottvísunum. Til stuðnings því vísi lögmaður meðalgöngustefnanda til fjölda dóma dómstólsins. Til dæmis gætu tengsl útlendings við öfgahópa fallið þar undir. Dómstóllinn hafi þó endurskoðunarvald og gæti þess að ekki sé farið út fyrir eðlilega merkingu hugtaksins. Dómstóllinn hafi gert það ljóst að málsmeðferðarreglum þurfi að fylgja, eins og á hvaða grundvelli aðilum sé vísað á brott, að mál séu rannsökuð til fulls og að aðilar geti leitað réttar síns, telji þeir á honum brotið. Sé um brottvísun að ræða þurfi að gefa ástæður og rökstuðning fyrir henni, m.a. til að koma í veg fyrir að stjórnvöld taki geðþóttaákvarðanir. Þá hafi fallið dómar þar sem mikil áhersla hafi verið lögð á hversu langt væri liðið síðan glæpurinn var framinn og hvernig hegðun hins dæmda hafi verið í kjölfarið. Á hinn bóginn hafi í einu máli verið talið að einhliða yfirlýsingar einstaklings um að engin hætta væri á að hann myndi brjóta af sér aftur væru ekki marktækar þar sem þær þóttu ekki vera í samræmi við þær staðreyndir að hann hafði áður brotið ítrekað af sér, meðal annars með ofbeldi. Þrátt fyrir að hann hefði átt börn með hollenskri konu var talið að brottvísunin takmarkaði ekki réttinn til friðhelgi fjölskyldulífs umfram það sem nauðsynlegt teldist til að gæta þjóðaröryggis og almannaheilla, sbr. 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Fyrri brotaferill hafi haft talsverð áhrif á það mat þar sem sýnt hafi þótt að kærandi hneigðist til glæpa.   Meðalgöngustefnandi telur framangreinda röksemdafærslu kærunefndarinnar því ekki standast þær kröfur sem MDE geri í sambærilegum málum. Ef manndráp skapar svo mikla ógn fyrir samfélagið að talið sé að allir sem fá slíka dóma ógni öryggi ríkisins eða almannahagsmunum hlyti löggjafinn að bregðast við því með því að kveða á um lífstíðarfangelsi fyrir slíkt afbrot. Meðalgöngustefnandi telji að meint ógn við öryggi ríkisins eða almannahagsmuni verði að vera grundvölluð á frekara mati á raunverulegri hættu á ítrekunaráhrifum hverju sinni, svo ekki sé hætta á að eingöngu ráði rótgrónir fordómar um hættulega útlendinga. Aðalstefnandi hafi ekki gerst sekur um ítrekuð brot, hvorki áður en né eftir að hann var dæmdur fyrir það brot sem hann afplánar refsingu fyrir. Hann geti þvert á móti sýnt fram á fyrirmyndarhegðun allan þann tíma. Síðastliðin fimm ár hafi hann unnið sem verkamaður hjá sama fyrirtæki, frá því að hann var fluttur frá Litla-Hrauni á Sogn, og beri vinnuveitandi hans honum afar vel söguna.   Þá komi fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að aðalstefnanda sé ljóst að hann eigi við áfengisvanda að etja og hafi verið undir miklum áhrifum áfengis þegar hann framdi brot sitt. Hann hafi gengist undir geðrannsókn þar sem fram komi að hann iðrist gjörða sinna og hafi nýtt tímann í fangelsinu vel. Hann hafi tekið á áfengisvanda sínum af ábyrgð og festu og hafi verið fyrirmyndarfangi.   Bent sé á að móðir hafi samþykkt umgengni dóttur hennar og aðalstefnanda haustið 2017. Það samþykki hennar styðji jafnframt staðhæfingu hans um að hann hafi snúið við blaðinu meðan á afplánun stóð. Meðalgöngustefnandi fullyrðir að hún hefði aldrei samþykkt að umgengni hæfist á ný ef hún hefði haft áhyggjur af umgengninni. Þó umgengni barns við það foreldri sem barnið býr ekki hjá sé skýr réttur barnsins skv. 46. gr. barnalaga sé jafnframt tekið fram að umgengni megi aldrei vera andstæð hagsmunum barnsins. Meðalgöngustefnandi hafi því þurft að vega það og meta áður en hún tók ákvörðunina.   Telur meðalgöngustefnandi að í ljósi þessa hljóti Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála að þurfa að bera hallann af því að hafa ekki látið fara fram sérstakt mat á því hvort aðalstefnandi væri líklegur til að brjóta af sér aftur eða ekki. Einkum beri að líta á þetta í ljósi þess að engin önnur gögn styðji þá fullyrðingu að aðalstefnandi ógni öryggi ríkisins eða almannaheill.   Kærunefnd útlendingamála hafi við túlkun 3. mgr. 102. gr. útlendingalaga litið til þeirrar verndar gegn brottvísunum sem geti falist í 8. gr. MSE, sbr. einnig 71. gr. stjórnarskrárinnar. Eins og fram komi í úrskurði kærunefndarinnar ráðist niðurstaða slíkra mála af því hvort nauðsyn beri til að takmarka friðhelgi einkalífs og fjölskyldu, sbr. 2. mgr. 8. gr. MSE. Við þetta mat líti kærunefndin til sjónarmiða sem MDE hafi horft til í dómaframkvæmd sinni. Í úrskurði kærunefndarinnar segi m.a. um þetta: „Þau sjónarmið sem mannréttindadómstóll Evrópu hefur lagt til grundvallar í málum af þessum toga eru t.a.m. eðli þess brots sem viðkomandi hefur gerst sekur um, lengd dvalar viðkomandi í því ríki sem tekur ákvörðun um brottvísun og félags-, menningar- og fjölskyldutengsl viðkomandi við dvalarríki og heimaríki, sbr. t.d. mál Balogun gegn Bretlandi (nr. 60286/09) frá 4. október 2014.“   Það mál hafi varðað brottvísun nígerísks manns frá Bretlandi, sem hafi átt langan feril að baki í fíkniefnatengdum afbrotum. Bresk yfirvöld hafi talið að mál hans heyrði ekki undir friðhelgi fjölskyldulífs skv. 8. gr. MSE þar sem hann hafi einungis átt frænku og kærustu í Bretlandi. MDE hafi á hinn bóginn talið þau tengsl falla undir friðhelgi einkalífs hans skv. sömu grein og hafi komist að þeirri niðurstöðu að brottvísun hans stefndi að lögmætu markmiði, þ.e. að koma í veg fyrir afbrot. Þarna hafi skipt máli að kærandi átti ekki börn og hafi því ekki notið verndar friðhelgi fjölskyldulífs skv. 8. gr. MSE, eins og eigi við í tilviki aðalstefnanda.   Meðalgöngustefnandi telur að í úrskurði kærunefndarinnar hafi hún notað rangt hagsmunamat og aðallega stuðst við þau viðmið sem sett hafi verið fram í framangreindu máli, sem byggðust á því að kærandi nyti einungis friðhelgi einkalífs. Þau viðmið sem dómstóllinn hafi sett fram við hagsmunamat sem grundvallist á friðhelgi fjölskyldulífs geri ríkari kröfur við framkvæmd þess þegar vegið er og metið hvort hagsmunir ríkisins eiga að vega þyngra en það óhagræði og erfiðleikar sem börn útlendings verða fyrir við brottvísun.   Í ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann aðalstefnanda að fullu og öllu hafi stofnunin lagt til grundvallar að brottvísun aðalstefnanda myndi ekki hafa í för með sér grundvallarbreytingu á högum barna hans þar sem hann gæti notið umgengni við þau í sínu heimaríki. Þá ályktun telur meðalgöngustefnandi hafa verið dregna út frá skorti á öðrum sönnunargögnum um forsjá og umgengni en þeim sem aðalstefnandi hafi haldið fram og kallað hafi verið eftir frá Þjóðskrá. Úrskurður kærunefndar útlendingamála hafi byggst á sömu röngu forsendum að mati meðalgöngustefnanda. Kærunefndin hafi þó breytt varanlega endurkomubanninu í 20 ára endurkomubann með hliðsjón af því að aðalstefnandi ætti tvö börn.   Útlendingastofnun hafi lagt það á aðalstefnanda að afla gagna frá barnsmæðrum sínum til að staðfesta orð hans um umgengni við börnin. Hann hafi verið ófær um að sinna þessu þar sem hann hafi setið í afplánun og haft takmörkuð tækifæri til þess. Telur meðalgöngustefnandi að stofnunin hafi vanrækt þá skyldu sína að gæta að sjálfstæðum lögvörðum rétti dóttur þeirra með því að afla ekki gagna frá forsjáraðila hennar og brotið þar með gegn lögbundinni rannsóknarskyldu sinni, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Þetta hafi haft þær afleiðingar að lítið hafi verið gert úr þeim tengslum sem komist hafi á milli dóttur meðalgöngustefnanda og aðalstefnanda og það hafi skekkt hagsmunamatið sem hafi legið til grundvallar ákvörðuninni.   Varðandi varakröfu telur meðalgöngustefnandi breytingu úr ævilöngu endurkomubanni í 20 ár, ganga of skammt til að vernda mannréttindavarinn rétt dóttur hennar hennar til að þekkja og umgangast föður sinn, enda verði hún þrítug að þessum 20 árum liðnum og löngu komin af barnsaldri. Fyrir hana skipti mestu að geta átt eðlileg samskipti við föður sinn næstu átta árin, eða þangað til hún verður lögráða, og að það sé henni ekki óeðlilega íþyngjandi að eiga umgengni og samskipti við hann.   Til stuðnings kröfum sínum vísar meðalgöngustefnandi til útlendingalaga nr. 80/2016, barnalaga nr. 76/2003, stjórnsýslulaga nr. 37/1997, stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 18/1992.   V.                  Málsástæður og lagarök stefnda   Stefndi vísar til þess að með ákvörðun Útlendingastofnunar (UTL) hafi stefnanda verið vísað á brott frá Íslandi á grundvelli a- og b-liða 1. mgr. 20. gr. b í þágildandi lögum um útlendinga nr. 96/2002, sbr. nú a- og b-lið 1. mgr. 100. gr. laga nr. 80/2016, og ákveðið hafi verið endurkomubann til landsins að fullu og öllu samkvæmt 2. mgr. 20. gr. c í sömu lögum, nú 2. mgr. 101. gr. laga nr. 80/2016. Eftir gildistöku síðastnefndu laganna þann 1. janúar 2017 hafi kærunefnd útlendingamála fengið mál stefnanda til meðferðar og kveðið upp úrskurð á grundvelli nýju laganna, sbr. 7. og 121. gr. laga nr. 80/2016.   Í úrskurði kærunefndarinnar hafi verið talið heimilt að vísa stefnanda úr landi á grundvelli a- og b-liða 1. mgr. 100. gr. laga um útlendinga, sem fjalli um brottvísun útlendings sem hefur ótímabundið dvalarleyfi. Varði a-liðurinn þær aðstæður þegar útlendingur hefur afplánað refsingu eða verið dæmdur til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað þriggja ára fangelsi og hafi átt sér stað á síðustu fimm árum erlendis eða á síðasta ári hér á landi. Taki b-liðurinn til aðstæðna þar sem brottvísun teljist nauðsynleg vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna. Í stefnu séu ekki gerðar athugasemdir við það mat kærunefndarinnar að brottvísun stefnanda hafi verið heimil á grundvelli a-liðar 1. mgr. 100. gr. laga um útlendinga. Stefnandi byggi hins vegar á því að tilvísun til almannahagsmuna í b-lið 1. mgr. 100. gr. geti ekki orðið grundvöllur fyrir brottvísun hans, þar sem brot stefnanda hafi verið einangrað tilvik og að hegðun hans eftir brotið gefi ekki til kynna að hann muni brjóta aftur af sér.   Eins og fram komi í úrskurði kærunefndarinnar, þá hafi það verið mat nefndarinnar, í ljósi þess að stefnandi var dæmdur til 16 ára fangelsisrefsingar fyrir manndráp skv. 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, að brot hans væri þess eðlis og gegn slíkum grundvallarhagsmunum samfélagsins að heimilt væri að vísa honum úr landi á grundvelli almannahagsmuna, sbr. b-lið 1. mgr. 100. gr. laga um útlendinga. Jafnframt hafi kærunefndin talið að við mat á því hvort brottvísun væri heimil samkvæmt ákvæðinu, þ.e. að brottvísun væri nauðsynleg vegna almannahagsmuna, þá krefðist mál hans þess ekki að sérstakt mat færi fram á því hvort hann væri líklegur til að brjóta af sér aftur eða ekki. Þannig hafi kærunefndin talið að eðli og alvarleiki brots stefnanda ætti að leiða til þess að brottvísun væri heimil samkvæmt síðastnefndu ákvæði og að staðhæfing hans um að hann hefði snúið við blaðinu meðan á afplánun fangelsisrefsingar stóð hefði ekki áhrif á það mat.    Með vísan til framangreinds byggir stefndi á því að skilyrði a- og b-liða 1. mgr. 100. gr. laga um útlendinga hafi verið uppfyllt.   -------   Vegna rökstuðnings í stefnu sem lúti í meginatriðum að því að brottvísun stefnanda, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum hans við landið, feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum og börnum hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, bendir stefndi á að við túlkun þessa ákvæðis hafi kærunefnd útlendingamála einkum litið til þeirrar verndar gegn brottvísunum sem geti falist í 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE), sbr. einnig 71. gr. stjórnarskrárinnar. Eins og fram komi í úrskurði kærunefndarinnar, þá ráðist niðurstaða slíkra mála af því hvort nauðsyn beri til að takmarka friðhelgi einkalífs og eða fjölskyldu, sbr. 2. mgr. 8. gr. MSE. Við þetta mat líti kærunefndin til sjónarmiða sem Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) hafi horft til í dómaframkvæmd sinni. Í úrskurði kærunefndarinnar segi m.a. um þetta: „Þau sjónarmið sem mannréttindadómstóll Evrópu hefur lagt til grundvallar í málum af þessum toga eru t.a.m. eðli þess brots sem viðkomandi hefur gerst sekur um, lengd dvalar viðkomandi í því ríki sem tekur ákvörðun um brottvísun og félags-, menningar- og fjölskyldutengsl viðkomandi við dvalarríki og heimaríki, sbr. t.d. mál Balogun gegn Bretlandi (nr. 60286/09) frá 4. október 2014.“ Til viðbótar við framangreind sjónarmið hafi MDE jafnframt litið til þess tíma sem hafi liðið frá því að brotið var framið, þjóðernis þeirra einstaklinga sem málið varði og fjölskylduaðstæðna, sbr. t.d. dóm MDE í máli Üner gegn Hollandi (nr. 46410/99), en í því máli hafi dómstóllinn vísað sérstaklega til þess að inn í umrætt mat skyldi draga sjónarmið um það hvað væri barni fyrir bestu.   Í úrskurði í máli stefnanda hafi kærunefndin lagt til grundvallar að hann nyti friðhelgi einkalífs hér á landi. Hafi því verið lagt mat á það hvort brottvísun væri heimil í ljósi 8. gr. MSE, sbr. jafnframt 71. gr. stjórnarskrárinnar.   Eins og fram komi í úrskurðinum, þá hafi alvarleiki brots stefnanda vegið mjög þungt við framangreint mat, en litið hafi verið til þess að manndráp er eitt alvarlegasta brot sem einstaklingur getur gerst sekur um hér á landi sem annars staðar, auk þess sem verknaðaraðferð í máli stefnanda var að mati nefndarinnar alvarleg. Jafnframt hafi verið litið til þess að stefnandi hefði setið samfleytt í fangelsi frá því daginn eftir að hann framdi umrætt brot, fyrst í gæsluvarðhaldi og síðan við afplánun 16 ára fangelsisrefsingar, og hafi það verið mat nefndarinnar að ekki yrði því litið svo á að langt væri liðið frá því að brotið var framið. Þá hafi verið litið til þess að stefnandi hafði dvalið hér á landi í rúm sex ár áður en hann framdi brotið. Þótt stefnandi hefði á þeim tíma öðlast búseturétt, þ.e. ótímabundið dvalarleyfi, hér á landi, þá hafi nefndin talið að lengd dvalar stefnanda hér á landi vægi ekki þungt.   Varðandi fjölskylduaðstæður stefnanda, þá bendir stefndi á að legið hafi fyrir að hann ætti tvö börn hér á landi, son fæddan árið [...] og dóttur fædda árið [...]. Jafnframt hafi legið fyrir að stefnandi hefði hvorki verið í hjúskap né óvígðri sambúð með barnsmæðrum sínum. Í málinu hafi verið litið til upplýsinga frá stefnanda um að áður en hann framdi brot sitt hefði hann haft umgengni við börnin aðra hverja helgi. Þó bendi stefndi á að umgengni hafi ekki átt sér stað síðustu mánuðina fyrir brotið, sbr. framlagt bréf frá barnsmóður. Stefnandi hafi ekki haft umgengni við börn sín meðan á afplánun stóð af tilgreindum ástæðum, þ.e. að stefnandi hafi ekki viljað leggja það á börnin. Af þessum upplýsingum hafi kærunefndin dregið þá ályktun að stefnandi hefði ekki búið með börnum sínum og ekki haft forsjá þeirra. Hafi í því sambandi verið litið til þess að brottvísun stefnanda myndi ekki hafa í för með sér grundvallarbreytingu á högum barna hans, en einnig hafi verið lagt til grundvallar að stefnandi gæti notið umgengni við börn sín í heimaríki sínu.    Sérstaklega hafi verið litið til framangreinds dóms MDE í máli Üner gegn Hollandi (nr. 46410/99), þar sem dómstóllinn taldi að ekki hefði verið brotið gegn 8. gr. MSE. Að mati kærunefndarinnar hafði stefnandi mun minni tengsl við Ísland en þau tengsl við Holland sem lýst sé í máli Üners g. Hollandi. Jafnframt taldi kærunefndin að sjónarmið sem lýst væri í dómnum varðandi stöðu fjölskyldna sem ekki hefðu verið í stöðugum samvistum ættu við um mál stefnanda. Að mati stefnda beri þessi dómur MDE það með sér að enginn vafi leiki á því að tengsl stefnanda við Ísland og fjölskylduaðstæður hans hér hafi ekki slíkt vægi að leitt gæti til þess að 8. gr. MSE og 71. gr. stjórnarskrárinnar stæðu í vegi fyrir brottvísun hans.   Stefndi telji jafnframt að atvik málsins að öðru leyti, t.a.m. varðandi aðstæður í heimaríki stefnanda, leiði ekki til þess að ákvörðun um brottvísun verði talin ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.    Við ákvörðun um endurkomubann hafi kærunefndin tekið tillit til þess að stefnandi ætti tvö börn hér á landi. Að því virtu hafi stefnanda verið gert að sæta endurkomubanni til landsins í 20 ár í stað endurkomubanns fyrir fullt og allt, eins og ákvörðun UTL hafði kveðið á um. Telur stefndi að litið hafi verið með fullnægjandi hætti til hagsmuna barna stefnanda við meðferð málsins hjá kærunefndinni og meðalhófs gætt eins og unnt hafi verið.   Þótt stefnandi hafi að einhverju leyti styrkt fjölskyldutengsl sín hér á landi eftir að kærunefnd útlendingamála kvað upp úrskurð sinn í máli hans, þá sé það mat stefnda, með vísan til þeirra atriða sem rakin hafi verið, að þau tengsl séu ekki þess eðlis að ákvörðun um brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart stefnanda eða börnum hans.   Til viðbótar við framangreint bendir stefndi til hliðsjónar á að í málum sem varða 8. gr. MSE hafi MDE horft til þess hvort fjölskyldutengsl séu mynduð á þeim tíma þegar dvalarréttur fjölskyldumeðlims sé ótryggur, sbr. ákvarðanir MDE. Hafi dómstóllinn lagt til grundvallar að í þeim tilvikum geti aðeins mjög sérstakar aðstæður leitt til þess að brottvísun verði talin brjóta gegn réttindum 8. gr. MSE. Stefnanda hafi verið ljóst, í það minnsta frá árinu 2014, að stjórnvöld hefðu það til skoðunar að vísa honum úr landi vegna framangreinds brots. Hafi endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi legið fyrir með úrskurði kærunefndar í mars 2017, sem birtur hafi verið fyrir stefnanda í maí sama ár. Séu þau fjölskyldutengsl sem stefnandi vísi til í stefnu að mestu leyti mynduð eftir að honum varð kunnugt um úrskurð kærunefndar í máli hans. Í því sambandi sé sérstaklega bent á að dóttir hans var ekki nema um [...] árs þegar umgengni féll niður og þau tengsl sem barnsmóðirin staðfestir á framlögðu skjali séu því einungis mynduð frá hausti 2017, þegar umgengni komst aftur á. Jafnframt ítrekar stefndi að engin gögn liggi fyrir í málinu um að stefnandi hafi í raun umgengni við son sinn, annað en fullyrðingar stefnanda sjálfs. Stefndi telur, með vísan til þessa, að atvik í máli stefnanda séu ekki svo sérstök að brottvísun myndi fela í sér óheimila skerðingu á réttindum hans samkvæmt 8. gr. MSE. Þannig tekur stefndi undir það mat kærunefndarinnar að hagsmunir af brottvísun stefnanda vegna manndráps vegi mun þyngra en hagsmunir hans og barna hans af því að viðhalda fjölskyldulífi sem þau hafa myndað hér á landi síðan haustið 2017.   Þegar öll þessi sjónarmið séu vegin saman, tekur stefndi undir niðurstöðu kærunefndar útlendingamála um að alvarleiki brots stefnanda vegi mun þyngra en aðrir hagsmunir hans af því að dvelja áfram hér á landi og að brottvísun hans feli ekki í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart stefnanda eða nánustu aðstandendum hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Stefndi telur þannig að niðurstaða kærunefndarinnar um að nauðsynlegt hafi verið að vísa stefnanda brott frá Íslandi, sbr. 2. mgr. 8. gr. MSE, hafi verið rétt.   -------   Í stefnu sé því haldið fram að stjórnvöld hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni við meðferð málsins, þar sem þeim hafi borið að afla frekari gagna um þau áhrif sem það hefði á börn stefnanda ef honum yrði vísað úr landi og varðandi umgengni stefnanda við börnin áður en hann fór í fangelsi.   Eins og sjá megi af gögnum málsins hafi stefnanda verið tilkynnt um fyrirhugaða brottvísun og honum veitt tækifæri til að koma að andmælum með bréfum UTL, 11. júní 2012 og 18. ágúst 2014, en síðara bréfið hafi verið kynnt kæranda að viðstöddum túlki 1. september 2014. Í greinargerð þáverandi lögmanns stefnanda til UTL, 7. september 2014, hafi verið vísað til stöðu barna stefnanda og að brottvísun hans væri ósanngjörn m.t.t. hagsmuna þeirra. Að frumkvæði UTL hafi Þjóðskrá Íslands veitt upplýsingar um börn stefnanda þann 11. september 2014 og þann sama dag hafi UTL sent lögmanni stefnanda beiðni um frekari gögn um börn hans, þ.m.t. varðandi forsjá, umgengni og samskipti við börnin. Hafi í bréfi stofnunarinnar m.a. verið óskað sérstaklega eftir greinargerðum frá mæðrum barna stefnanda eða þeim sem færi með forsjá þeirra, en engar slíkar greinargerðir hafi borist á því stigi málsins.    Í bréfi lögmanns f.h. stefnanda, 14. september 2014, hafi því m.a. verið lýst að stefnandi hefði haft umgengni við börnin aðra hverja viku þar til hann var handtekinn og að hann hefði ávallt sinnt umgengni og greitt meðlag eins og honum hafi borið að gera, en væri ekki viss um hvernig forsjá væri háttað. Fram hafi komið að börnin hefðu hins vegar ekki komið í heimsókn til hans í fangelsi. Með bréfi UTL, 19. september 2014, hafi enn verið óskað eftir upplýsingum um stefnanda og börn hans, þ.m.t. um forsjá barnanna og samskipti við þau fram að því að afplánun hófst, en engin frekari gögn borist frá stefnanda áður en ákvörðun var tekin í máli hans.   Því sé alfarið hafnað af hálfu stefnda að ekki hafi verið gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins á stjórnsýslustigi. Við rannsókn málsins hafi UTL fylgt hefðbundnu verkferli, þar sem stefnanda hafi gefist kostur á að koma að gögnum og upplýsingum, sbr. framangreint. Stofnunin geri þá kröfu að aðili máls leggi fram þau gögn sem nauðsynleg séu við mat á því hvort aðili njóti verndar frá brottvísun skv. 102. gr. útlendingalaga. Sé stofnuninni í slíkum tilvikum ekki heimilt að knýja aðila til að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þá hafi aðgerðaleysi stefnanda ekki heldur þau áhrif að ekki verði tekin ákvörðun um hvort vísa eigi honum frá landinu. Í ljósi þess að stefnandi hafi ekki lagt fram staðfest gögn um umgengni og forsjá barnanna hafi UTL beitt sönnunarreglum og rannsakað málið með þeim úrræðum sem henni séu heimil með tilliti til lögmætis- og meðalhófsreglunnar. Af því tilefni hafi UTL kynnt sér m.a. hjúskaparstöðu stefnanda og barnsmæðra hans á fæðingardegi barnanna samkvæmt opinberum skráningum. Þá beri að nefna að þrátt fyrir að UTL hafi ekki fengið umbeðnar upplýsingar frá stefnanda hafi verið tekið tillit til þess að hann ætti hér á landi tvö börn sem væru íslenskir ríkisborgarar. Verði að telja að stefnandi hafi átt þess kost að koma umbeðnum upplýsingum á framfæri við bæði UTL og kærunefnd útlendingamála, enda hafi hann notið aðstoðar lögmanns við meðferð málsins á stjórnsýslustigi.   Að gefnu tilefni telur stefndi rétt að taka fram að UTL telur varhugavert að taka viðtöl án skýrrar heimildar til þess, enda ýmis sjónarmið sem vegist þar á. Eigi það sérstaklega við í tilvikum þar sem stofnunin hafi gert árangurslausar tilraunir til að fá umbeðnar upplýsingar frá þeim aðila sem ákvörðunin snýr að. UTL taki viðtöl við umsækjendur um dvalarleyfi og aðstandendur þeirra sé þess þörf, með vísan til 4. mgr. 10. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. áður 3. mgr. 39. gr. eldri reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003, en sú heimild taki ekki til mála eins og þess sem hér um ræðir.   Stefnanda hafi jafnframt gefist kostur á að leggja fram greinargerð til kærunefndar útlendingamála. Í greinargerð/kæru hans frá 9. mars 2015,hafi umgengni hans við börnin verið lýst. Í úrskurði kærunefndarinnar hafi verið byggt á lýsingum stefnanda á málsatvikum að því er varðaði samskipti hans við börn sín, þ.m.t. að hann hefði haft umgengni við þau aðra hverja helgi. Það hafi verið mat kærunefndarinnar að þær upplýsingar sem stefnandi þó veitti, í kjölfar leiðbeininga stjórnvalda, hafi verið nægilega ítarlegar til að mál hans teldist nægilega upplýst að þessu leyti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Í því sambandi sé áréttað að stefndi fái ekki séð að ítarlegri upplýsingar um það í hverju umgengni stefnanda við börn sín aðra hverja helgi fólst eða upplifun barna hans af henni hefðu getað haft þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Þá hafi við ákvörðun í málinu verið lagt til grundvallar að börn stefnanda yrðu fyrir óhagræði og erfiðleikum vegna brottvísunar stefnanda, en almannahagsmunir hafi verið taldir vega þyngra, eins og máli þessu sé háttað, og hafi kærunefndin því ekki talið ástæðu til að afla frekari gagna varðandi þann þátt málsins.   Stefndi hafnar því alfarið að ekki hafi verið gætt meðalhófs í máli stefnanda. Samkvæmt þágildandi viðmiðum UTL hafi einstaklingar sem dæmdir hafi verið í meira en 13 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot, líkamsárásir og önnur verulega alvarleg hegningarlagabrot fengið að jafnaði endurkomubann að fullu og öllu. Stjórnvöldum beri að gæta að jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og í samræmi við þetta verklag hafi stefnanda verið ákveðið varanlegt endurkomubann. Þessi viðmið hefur stofnunin nú endurskoðað og uppfært, m.a. með tilliti til úrskurðar kærunefndarinnar í þessu máli, sem markaði endurkomubanninu afmarkaðan tíma, eða 20 ár. Sú niðurstaða kærunefndarinnar hafi m.a. verið rökstudd með hliðsjón af málsatvikum, einkum því að stefnandi á tvö börn hér á landi. Stefndi telur að með þessu hafi verið gætt meðalhófs og ekki gengið lengra en nauðsyn krafði, þegar hliðsjón sé höfð af því alvarlega broti sem stefnandi gerðist sekur um hér á landi.   Stefndi áréttar að leiðbeiningar til stefnanda varðandi umrædd gögn hafi verið ítarlegar og ítrekaðar og hafi stefnandi og lögmaður, sem kom fram fyrir hans hönd á stjórnsýslustigi, haft rík tækifæri til að koma að frekari gögnum sem talið væri að hefðu þýðingu í málinu. Hafi meðferð málsins að mati stefnda því verið í fullu samræmi við 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga.   Um lagarök vísar stefndi að öðru leyti til laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. eldri lög, og reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 og eldri reglugerðar, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.   Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.   I.                    Niðurstaða dómsins   Ágreiningur þessa máls lýtur að því hvort Útlendingastofnun og síðar kærunefnd útlendingamála hafi verið rétt að lögum að úrskurða á þann veg að stefnanda skuli vísað úr landi á grundvelli þess að hann hafi gerst sekur um manndráp árið [...] og dæmdur af Hæstarétti í 16 ára fangelsi með dómi réttarins [...].   Í máli þessu liggur fyrir að stefnandi er [...] ríkisborgari og telst þar með ekki vera EES-borgari í skilningi laga nr. 80/2016 um útlendinga („útlendingalög“), en ágreiningslaust er í málinu að mismunandi reglur gildi þegar kemur að brottvísun útlendings, eftir því hvort um ræðir EES-borgara eða einstakling með ríkisfang í ríki utan svæðisins. Strangari kröfur eru þannig settar fyrir brottvísun EES- og EFTA-borgara.   Við úrlausn þessa máls gilda reglur útlendingalaga nr. 80/2016 sem tóku gildi 1. janúar 2017. Úrskurður Útlendingastofnunar í málinu var kveðinn upp í gildistíð eldri laga nr. 96/2002 en þar sem kæra til æðra stjórnvalds hafði ekki fengið efnismeðferð við gildistöku nýrra laga hjá innanríkisráðuneytinu, sem var þá æðra stjórnvald í þessum efnum, úrskurðaði kærunefnd útlendingamála í málinu samkvæmt ákvæðum núgildandi laga. Þau ákvæði sem eru til skoðunar í því máli sem hér er til meðferðar eru einkum reglur a- og b-liða 1. mgr. 100. gr. útlendingalaga og 3. og 4. mgr. 102. gr. sömu laga.   Í a-lið er kveðið á um að heimilt sé að vísa úr landi útlendingi sem hefur ótímabundið dvalarleyfi ef hann hefur afplánað refsingu eða verið dæmdur til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað þriggja ára fangelsi eða meira og átti sér stað á síðustu fimm árum erlendis eða á síðasta ári hér á landi; samsvarandi gildir um sérstakar ráðstafanir sem ákvarðaðar eru vegna slíkrar refsiverðrar háttsemi. Samkvæmt b-lið er brottvísun heimil ef það er talið nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.    Í 3. mgr. 102. gr. laganna, sem er ákvæðið sem sóknaraðilar vísa einkum til, segir að brottvísun skuli ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skuli taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns sé að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Í 4. mgr. segir svo að ákvæði 3. mgr. eigi ekki við þegar brottvísun er nauðsynleg vegna öryggis ríkisins eða almannahagsmuna.   Í máli þessu byggir stefnandi fyrst og fremst á því að vegna 3. mgr. 102. gr. útlendingalaga og aðstæðna stefnanda og sögu hans hér á landi séu skilyrði a-liðar eða b-liðar 100. gr. laganna ekki uppfyllt.   Stefnandi vísar einungis til þessa en hefur ekki uppi þá málsástæðu, eins og hann gerði fyrir úrskurðarnefndinni, að a-liður ákvæðisins geti ekki orðið grundvöllur brottvísunar þar sem liðið hafi meira en ár frá því að umrædd háttsemi átti sér stað og dómur var upp kveðinn þar til Útlendingastofnun hafi tekið ákvörðun í máli hans. Verður því ekki fjallað sérstaklega um þá túlkun stefnanda á ákvæðinu en kærunefnd útlendingamála hafnaði, í úrskurði sínum frá 16. mars 2017, þessum skilningi stefnanda með vísan m.a. til athugasemda sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 64/2014 um breyting á eldri lögum nr. 96/2002 en það ákvæði var nákvæmlega eins orðað og núgildandi ákvæði. Nefndin benti á að stefnandi afplánaði þá, eins og hann gerir enn þann dag í dag, refsingu fyrir brot sem varðar getur þriggja ára fangelsi eða meira.   Kærunefndin fjallar eðli máls samkvæmt um dóm Hæstaréttar yfir stefnanda og telur að þótt hann hafi ekki hlotið aðra fangelsisdóma hér á landi vegna ofbeldis verði ekki horft fram hjá því að hann hafi veist að öðrum manni og [...] sem leiddu til dauða. Slíkt brot gangi gegn slíkum grundvallarhagsmunum samfélagsins og sé þess eðlis, þegar metið sé hvort skilyrðum b-liðar ákvæðisins fyrir brottvísun sé fullnægt, að við mat á því hvort brottvísun sé nauðsynleg vegna almannahagsmuna verði ekki gerð krafa um að sérstakt mat fari fram á því hvort stefnandi sé líklegur til að brjóta af sér aftur eða ekki. Því taldi nefndin að skilyrði fyrir brottvísun stefnanda samkvæmt b-lið væru einnig uppfyllt.   Stefndi byggir í málinu á þessum sjónarmiðum nefndarinnar í greinargerð sinni og áréttaði það við aðalmeðferð málsins. Með vísan til alvarleika þess brots sem ákærði gerðist sekur um og stöðu hans samkvæmt útlendingalögum, sem er frábrugðin stöðu EES/EFTA-borgara, eins og fram hefur komið, og með vísan til röksemda stefnda sem tekur undir rök kærunefndar útlendingamála, verður fallist á að skilyrði fyrir brottvísun hvort sem er samkvæmt a- eða b-lið 100. gr. útlendingalaga teljist uppfyllt. Ekki verður þannig talið að fara verði fram mat á því, undir þeim kringumstæðum sem hér eru fyrir hendi, hvort stefnandi sé líklegur til frekari afbrota.   Kemur þá til skoðunar sú meginmálsástæða stefnanda að burtséð frá framangreindu eigi 3. mgr. 102 gr. útlendingalaga að leiða til þess að framangreindum ákvæðum verði ekki beitt í tilviki stefnanda.   Að gögnum málsins virtum verður því að mati dómsins vart slegið föstu að áður en stefnandi framdi brotið [...] hafi hann haft einhver þau tengsl við landið sem geti skipt sköpum fyrir sakarefni þessa máls, enda ekki sjáanlega á því byggt af hálfu sóknaraðila. Vissulega eignaðist hann með barnsmæðrum sínum börnin tvö á þessum tíma en ekkert liggur fyrir um tengsl við þau þá, utan þess að hann mun hafa, a.m.k. á stundum, sinnt umgengni við þau ágætlega. D var um [...] árs gamall þegar stefnandi hóf í raun afplánun eftir að hafa verið hnepptur í gæsluvarðhald eftir brotið og B rúmlega [...] ára. Það athugist í þessu sambandi að samkvæmt geðrannsókn H geðlæknis frá [...] á stefnanda virðist hann hafa misst tök á lífi sínu upp úr 2008 og farið hratt niður á við eftir það vegna aukinnar neyslu áfengis og fíkniefna, jafnframt því að hann hafi byrjað að spila í spilakössum.   Þannig verður málatilbúnaður stefnanda og meðalgöngustefnanda ekki skilinn á annan hátt en svo að það hafi ekki verið fyrr en eftir að stefnandi fór á áfangaheimilið Vernd haustið 2017 að þau ríku tengsl sem hann kveðst hafa myndað við börn sín og hann telur eiga að ráða úrslitum í máli þessu hafi byrjað að myndast svo einhverju nemi og gæti skipt máli.   Því verður ekki séð að það skipti miklu máli við úrlausn þessa máls að ekki fór fram sérstök könnun á tengslum stefnanda við börn sín áður en þeir úrskurðir sem krafist er að verði ógiltir voru kveðnir upp. Þá telur dómurinn vafasamt að neinum sköpum hefði getað skipt þótt einhver rannsókn hefði farið fram fyrir tilstilli Útlendingastofnunar á því hvaða áhrif brottvísun stefnanda hefði á börn hans þegar hann hafði ekki séð þau í rúm þrjú ár, þ.e. þegar málið var til meðferðar hjá stofnunni. Þá naut stefnandi aðstoðar lögmanns bæði við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála og þótt það gæti hafa reynst stefnanda erfitt að afla upplýsinga um börnin sem skipt gætu máli við úrlausn málsins hefði hann vitaskuld getað falið lögmanni sínum að afla slíkra upplýsinga eða gagna. Það athugist og að Útlendingastofnun óskaði með bréfi 11. september 2014 eftir upplýsingum um það hvernig forsjá með börnunum væri háttað og umgengni auk upplýsinga um samskipti stefnanda við börnin, t.d. með skriflegri greinargerð frá mæðrum þeirra. Þar sem svör bárust ekki var erindið ítrekað með bréfi 19. september 2014 en ella óskað eftir yfirlýsingu frá stefnanda um að gögn í þessa veru yrðu ekki lögð fram svo hægt væri að ljúka málinu. Ekki verður séð að nokkrar upplýsingar hafi borist frá stefnanda eða lögmanni hans í framangreinda veru, hvorki til Útlendingastofnunar né hafi þær verið lagðar fram fyrir kærunefnd útlendingamála.   Tengsl stefnanda við D eru ekki eins mikil og milli stefnanda og B að því er virðist. Engin gögn liggja fyrir um þessi tengsl þeirra feðga önnur en skýrsla G sálfræðings frá 26. júní sl. sem byggði hins vegar eingöngu á frásögn stefnanda sjálfs en ekki viðtölum við börnin, þá gaf stefnandi skýrslu fyrir dómi um tengslin sem móðir D. Hún greindi frá því að eftir að stefnandi hefði farið í fangelsi hefðu í sjálfu sér engin tengsl verið og D ekki verið að sækja í samskipti. Hún kvað stefnanda hafa hafið umgengni við drenginn haustið 2017, og þá einu sinni í mánuði undir eftirliti. Fyrst hafi drengurinn verið glaður yfir því að hitta föður sinn en væri nú dálítið búinn að loka á samskipti. Tengslin séu bara ekki til staðar, a.m.k. ekki sterk tengsl. Samskiptin hafi minnkað en feðgarnir hafi hist tvisvar síðasta mánuðinn fyrir aðalmeðferð málsins, enda þá vitað að hann gæti verið að yfirgefa landið. D tjái sig ekki um samskiptin við föður sinn. Vitnið kvaðst aldrei hafa verið í sambúð við stefnanda. Hún kvaðst hafa rætt við D um þá stöðu ef stefnanda yrði vísað úr landi og að þá gætu þeir haft samband í gegnum síma eða aðra miðla eða hist á miðri leið til umgengni. Vitnið taldi stefnanda hafa gott af því að fara heim til [...], eins og hún orðaði það, en það væri einnig gott að hann fengi að koma fljótt aftur, og þá í heimsókn en ekki til að búa hér.   Að þessum framburði virtum telur dómurinn ljóst að samband þeirra feðga geti lítil ef nokkur áhrif haft í málinu enda svo að jafnvel þótt það væri meira og nánara sé alls ekki víst hvaða áhrif það hefði á niðurstöðu málsins að vegnum öðrum sjónarmiðum, sbr. eftirgreint.   Um tengsl B við stefnanda liggja heldur engin gögn fyrir í málinu önnur en skýrsla G sbr. framangreint og samantekt móður hennar sem lögð var fram 16. apríl sl., auk skýrslu stefnanda sjálfs og móður telpunnar fyrir dómi. Móðir lýsti því fyrir dómi að mjög sterk tengsl hefðu myndast á milli þeirra feðgina að undanförnu en þau hefðu hins vegar aldrei hist á meðan stefnandi var í fangelsinu. Hún lýsti einhverri umgengni fyrir ódæðisverkið en hún hefði þó minnkað fyrir verknaðinn þar sem hallað hefði undan fæti hjá stefnanda. Vitnið kvaðst hafa haldið minningu stefnanda við með því að sýna dóttur þeirra myndir og myndbönd af stefnanda. Eftir að stefnandi hafi losnað út hafi hann og B náð mjög vel saman og séu nánast óaðskiljanleg. Þá sé samband vitnisins við stefnanda mjög gott og hann beri virðingu fyrir henni sem móður. Vitnið kvað fyrirætlanir um að vísa stefnanda úr landi dálítið vera að fara með dóttur þeirra eins og hún orðaði það og kvaðst hún ekki getað hugsað það til enda ef stefnanda yrði vísað úr landi. Hún hafi þó reynt, ásamt stefnanda og fósturföður, að búa B undir það og útskýra stöðuna. Vegna kvíða og vanlíðanar hafi hún farið með stúlkuna á [...]. Staðan sé nú sú að hún þurfi [...] og það muni hafa neikvæðar sálfræðilegar afleiðingar fyrir hana verði föður hennar vísað úr landi. B er greind með [...]. Vitnið er í sambúð og [...].   Í skriflegri skýrslu móður kom fram að stúlkan hefði verið í umgengni við föður sinn þar til hún var [...] árs gömul en þá hefði umgengni hætt vegna ástands stefnanda. Á meðan stefnandi hafi dvalið í fangelsi hafi hún reynt að halda minningunni lifandi en stúlkan hafi haft mikla þörf fyrir föður, telur móðir, en hún hafi verið ein með stúlkuna á þessum tíma. Haustið 2017 hafi svo verið gerður samningur um umgengni einu sinni í mánuði undir eftirliti. Samskiptin hafi gengið mjög vel og nú sé umgengni á hálfs mánaðar fresti þar sem stúlkan gisti eina nótt og stundum tvær hjá föður sínum. Móðir kveðst styðja stefnanda heilshugar og telur það enda skipta miklu máli fyrir dóttur þeirra og það séu mannréttindi þeirra beggja að hann fái að dveljast áfram á Íslandi.   Umræður voru um það fyrir aðalmeðferð hvort ástæða væri til þess að [...] kæmi fyrir dóm og gæfi skýrslu. Á endanum taldi dómurinn að það væri ekki leggjandi á stúlkuna og hefði líkast til takmarkað gildi fyrir málið, en móðir hennar sagði við skýrslutöku, hana hafa viljað koma fyrir dóminn og „öskra á dómarann“ eins og hún orðaði það. Eftir aðalmeðferð, í ljósi málatilbúnaðar aðila og framburðar fyrir dómi, kallaði dómari lögmenn að nýju til dómþings og beindi því til lögmanna til sóknar að afla sérfræðiálits um afstöðu stúlkunnar og á hvaða forsendum sú afstaða byggðist. Enn fremur þyrfti að leggja mat á hversu einbeitt afstaða hennar væri og hversu vel hún gerði sér grein fyrir stöðu málsins, ásamt því eftir atvikum að lagt yrði mat á önnur atriði m.a. áhrif brottvísunar á hana. Lögmenn til sóknar töldu þetta hins vegar liggja nægjanlega fyrir í málinu og afstaða stúlkunnar væri óumdeild og sönnunarfærsla sem þessi því bersýnilega þýðingarlaus. Við það sat óhjákvæmilega í ljósi eðlis þessa máls og meginreglu 1. mgr. 46. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.   Hryggjarstykkið í málatilbúnaði stefnanda er, eins og fram hefur komið, að það sé ósanngjarnt að vísa honum úr landi með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum hans við landið. Þetta byggir hann á því að hann hafi slík tengsl við börn sín að það sé þeim fyrir bestu og sé um leið mannréttindi þeirra að hann dvelji áfram á Íslandi, jafnvel þótt hann þurfi að öllum líkindum, miðað við málflutning lögmanns hans, að afplána að minnsta kosti tvö og hálft ár til viðbótar vegna brots síns ef fallist verður á kröfu hans í máli þessu, en þessi viðbót var reyndar sögð myndu vara í fjögur ár í stefnu málsins.   Eins og að framan greinir hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að uppfyllt séu skilyrði a- og b-liða 100. gr. útlendingalaga til brottvísunar. Stefnandi gerðist sekur um manndráp og var ekki talinn eiga sér nokkrar málsbætur og dæmdur til sextán ára fangelsisvistar. Því er þannig slegið föstu að stefnandi hafi með brotinu gengið gegn grundvallarhagsmunum samfélagsins. Brot hans beindist með ófyrirleitnum og einbeittum hætti gegn einstaklingi og dró fórnarlambið til dauða. Því verður að telja alvarlegar ástæður fyrir brottvísun hans á grundvelli allsherjarreglu. Meta verður hins vegar í máli sem þessu þá hagsmuni sem hér vegast á, þ.e. þessa grundvallarhagsmuni samfélagsins og allsherjarreglu andspænis hagsmunum stefnanda af því að fá að dveljast hér áfram, þar sem sannanlega skiptir miklu máli að hann á hér tvö börn, [...] ára son og [...] ára dóttur, en einnig mikilvæg réttindi barnanna sjálfra. Hér er þannig óhjákvæmilegt að horfa til mannréttinda þeirra einstaklinga sem í hlut eiga, einkum og sér í lagi réttarins til friðhelgi einkalífs og fjölskyldulífs sem tryggður er í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en stefnandi hefur vísað til þessara ákvæða til stuðnings málatilbúnaði sínum. Af þessum ákvæðum leiðir að vega verður sameiginlega hagsmuni ríkisins af íhlutun í umrædd réttindi gagnvart persónulegum hagsmunum einstaklingsins sem nýtur þeirra, og eftir atvikum, sjónarmiðum um það sem barni er fyrir bestu.   Þegar tekin er afstaða til málsástæðna aðila um það hvort brottvísun stefnanda muni fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans verður ekki hjá því litið að stefnandi er [...] gamall og hefur dvalist í fimmtán ár á Íslandi, eða síðan 2004, þar af reyndar bróðurpartinn í fangelsi. Auk þess á stefnandi, eins og margoft hefur komið fram, tvö börn hér á landi, og svo virðist sem hann hafi nú takmörkuð tengsl við [...], sem er heimaland hans, eftir að hafa búið á [...] í tíu ár áður en hann kom til Íslands, a.m.k. er því haldið fram. Það breytir þó ekki því að stefnandi var kominn á fullorðinsár þegar hann fór frá [...], 21 árs gamall að því er virðist. Ekkert hefur verið upplýst um fjölskyldu- eða félagslegar aðstæður hans þar og í máli þessu hefur ekki verið byggt á því að honum stafi einhver hætta af því að verða sendur til [...], eins og þó var gert undir meðferð málsins hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála, en þar var þessari málsástæðu stefnanda eindregið hafnað.   Á hinn bóginn verður að líta til þess glæps sem stefnandi framdi. Fallist verður á með þeim aðilum sem kváðu upp úrskurðina sem eru hér til endurskoðunar að brot stefnanda sé svo alvarlegt að sá verknaður vegi mun þyngra en aðrir hagsmunir kæranda af því að dveljast áfram hér á landi. Brottvísun hans felur því að mati dómsins ekki í sér ósanngjarna niðurstöðu gagnvart honum eða börnum hans. Verður þar horft til sambands stefnanda við börn sín, sbr. framangreint, þótt það sé ekki úrslitaatriði í málinu miðað við atvik önnur. Þar athugist og að þessi málsástæða stefnanda lítur vart dagsins ljós, reyndar eðli máls samkvæmt, samanber framangreint, fyrr en með stefnu í máli þessu. Þá fyrst  var lögð slík áhersla á sterk og mikil tengsl a.m.k. við dóttur stefnanda. Sem fyrr segir fór stefnandi ekki heldur að umgangast  börn sín, einkum dóttur, neitt að ráði fyrr en fyrir tæpum tveimur árum. Dómurinn saknar þess að afstaða stúlkunnar væri könnuð betur, eins og leitað var eftir. Það sjónarmið sakflytjenda til sóknar að afstaða stúlkunnar lægi fyrir og væri óumdeild svarar ekki að mati dómsins því á hverju hún byggist og á hversu traustum grunni. Ekki liggur heldur neitt fyrir í málinu annað en framburður móður hennar um það hvaða afleiðingar brottvísun stefnanda geti mögulega haft á barnið, en stefnandi fullyrðir að brottvísun muni hafa „neikvæðar afleiðingar sálrænar í för með sér með tilheyrandi áhrifum á framtíð og velferð hennar“, eins og lögmaður hans orðar það. Dómurinn telur sem fyrr að í þessum efnum hefði engu breytt þótt stúlkan hefði komið fyrir dóm. Þessi afstaða stúlkunnar, sem hefur þó ekki verið mótmælt í sjálfu sér, getur ekki, miðað við gögn málsins, haft úrslitaáhrif í því andspænis öðrum málsatvikum.   Þá telur dómurinn það ekki geta skipt sköpum í málinu, með vísan til framangreindra sjónarmiða, það sem er ómótmælt og verður ekki með réttu dregið í efa, að stefnandi iðrist mjög og hafi verið til fyrirmyndar í afplánun sinni og sé afbragðs starfskraftur samkvæmt núverandi vinnuveitanda hans sem gaf skýrslu fyrir dómi. Þessi atriði geta ekki leitt til þess að umræddur úrskurður kærunefndar útlendingamála verði felldur úr gildi.   Með vísan til þeirra sjónarmiða sem dómurinn hefur rakið hér að framan telur hann ekki unnt að fallast á málsástæður stefnanda um ógildingu úrskurðar kærunefndar útlendingamála á þeim forsendum að úrskurðurinn sé í andstöðu við 3. mgr. 102. gr. útlendingalaga og vísast þar um einnig til 4. mgr. ákvæðisins. Á grundvelli sömu sjónarmiða hafnar dómurinn einnig málsástæðum stefnanda um að úrskurður kærunefndar feli í sér brot gegn friðhelgi einkalífs stefnanda og rétti hans til fjölskyldulífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.   Um meint brot á rannsóknarreglu stjórnsýslulaga verður vísað til fyrri umfjöllunar um tengsl stefnanda við börn sín og skort á viðbrögðum hans við fyrirspurnum úrskurðaraðila um þau eða frumkvæði hans áður en úrskurðir voru felldir. Verður ekki fallist á að úrskurðaraðilum hafi borið að rannsaka málið betur og heldur ekki séð að einhver slík rannsókn hefði breytt niðurstöðu á þeim tímapunkti. Þá verður fallist á með kærunefndinni að ekki hafi þurft að framkvæma sérstakt mat á því hvort stefnandi væri ógn við öryggi ríkisins í ljósi alvarleika þess brots sem hann framdi. Loks verður því hafnað að brotin hafi verið meðalhófsregla stjórnsýsluréttar í máli stefnanda, en sú málsástæða er og vanreifuð að mati dómsins.   Dómar Mannréttindadómstóls Evrópu sem vísað hefur verið til breyta að mati dómsins ekki þessari niðurstöðu. Þvert á móti telur dómurinn suma tilvísaða dóma styrkja niðurstöðuna. Þar má til dæmis nefna dóma í málum Üner gegn Hollandi, nr. 46410/99 frá 18. október 2006, Antwi o.fl. gegn Noregi, nr. 26940/10, frá 14. febrúar 2012, Onur gegn Bretlandi, nr. 27319/07, frá 17. febrúar 2009 og Balogun gegn Bretlandi, nr. 60286/09, frá 10. apríl 20012.   Stefnandi í máli þessu hefur, auk þess að krefjast þess að úrskurður kærunefndar útlendingamála frá 16. mars 2017 verði felldur úr gildi,  gert þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar frá 17. nóvember 2014 verði ógilt. Í ljósi niðurstöðu dómsins hér að framan og þess að úrskurður kærunefndar er endanlegur á stjórnsýslustigi er að mati dómsins engin þörf á að fjalla sérstaklega um kröfu stefnanda um ógildingu ákvörðunar Útlendingastofnunar og málsástæður að því leyti, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.   Með vísan til þess sem að framan er rakið er kröfu stefnanda, en sú krafa fær stuðning frá meðalgöngustefnanda, um að úrskurður kærunefndar útlendingamála verði ógiltur hafnað.   Stefnanda var með úrskurði Útlendingastofnunar gert að sæta ævilöngu endurkomubanni sem var stytt í 20 ár með úrskurði kærunefndar útlendingamála. Dómurinn sér ekki sannfærandi rök í þessum úrskurðum fyrir þeirri niðurstöðu og litla leiðbeiningu er að fá í lögunum eða lögskýringargögnum um það hvað miða beri við í þessum efnum. Í ljósi tengsla stefnanda við Ísland og þá einkum þess að hann á hér tvö börn og þess að það sér fyrir endann á afplánun stefnanda á dómi, það er að hann hefur eða mun fyrr en síðar hafa tekið út þá refsingu sem honum var gerð samkvæmt íslenskum lögum, telur dómurinn hæfilegt að endurkomubann vari í tíu ár. Á þeim tíma gefst aðilum kostur á umgengni og samskiptum með ýmsu móti þótt þeim verði vissulega ekki jafnað til þess að stefnandi væri staddur hér. Það athugist reyndar í þessu sambandi að ef dómur hefði fallið stefnanda í hag, þá hefði hann, miðað við upplýsingar dómsins, þurft að afplána eða eftir atvikum vera undir eftirliti í talsverðan tíma. Í þessu sambandi áréttar dómurinn og að samkvæmt 3. mgr. 101. gr. útlendingalaga er heimilt að fella úr gildi endurkomubann undir vissum kringumstæðum, og þá er einnig samkvæmt ákvæðinu hægt að heimila brottvísuðum komu hingað til lands til stuttrar heimsóknar þó að endurkomubann sé í gildi. Í úrskurði kærunefndar er um þetta atriði ranglega vísað til 2. mgr. 97. gr. laganna sem á við EES- og EFTA-borgara en ekki stefnanda í þessu máli eftir því sem best verður séð.   Með tilliti til atvika og eðlis málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður. Stefnandi og meðalgöngustefnandi njóta gjafsóknar í málinu og verður allur kostnaður þeirra af rekstri málsins lagður á ríkissjóð, þar með talin þóknun lögmanna þeirra. Þóknun Höskuldar Þórs Þórhallssonar, lögmanns stefnanda, þykir hæfilega ákveðin, að teknu tilliti til umfangs málsins, framlagðrar tímaskýrslu lögmanns og þess gjalds sem haft hefur verið til viðmiðunar í sambærilegum málum þar sem gjafsóknar nýtur við, 1.750.000 krónur. Með vísan til sömu sjónarmiða telst þóknun Helgu Baldvins Bjargardóttur, lögmanns meðalgöngustefnanda, hæfileg 950.000 krónur. Ekki verður í úrskurðinum tekin afstaða til annarra þátta gjafsóknarkostnaðar en þóknunar lögmanns fyrir flutning málsins, sbr. 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991, samkvæmt því sem í úrskurðarorði greinir og er þóknun lögmanna til sóknar ákveðin án virðisaukaskatts, sbr. til hliðsjónar úrskurð Landsréttar í máli nr. 288/2018 frá 10. apríl 2018.   Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.   D Ó M S O R Ð   Hafnað er kröfum A um að úrskurður Útlendingastofnunar, frá 17. nóvember 2014, sem og úrskurður kærunefndar útlendingamála, frá 16. mars 2017, verði felldir úr gildi. Endurkomubann stefnanda ákveðst tíu ár.        Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda og meðalgöngustefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Höskuldar Þórs Þórhallssonar, 1.750.000 krónur, og lögmanns meðalgöngustefnanda, Helgu Baldvins Bjargardóttur, 950.000 krónur.
Mál nr. 22/2020
Stjórnsýsla Stöðuveiting Skaðabætur Dómstóll Orsakasamband Andmælaréttur
E var einn 33 umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt og meðal þeirra 15 sem dómnefnd samkvæmt lögum um dómstóla mat hæfasta til starfans. Þegar dómsmálaráðherra gerði tillögu til Alþingis um þá 15, sem skipa skyldi dómara við Landsrétt, vék ráðherrann frá niðurstöðum dómnefndar varðandi fjóra umsækjendur, sem nefndin hafði metið hæfasta, og var E einn þeirra. Alþingi samþykkti tillögu ráðherra og höfðaði E í kjölfarið mál á hendur Í og krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu Í vegna þess fjártjóns sem hann taldi sig hafa beðið við að hafa ekki verið skipaður dómari við Landsrétt umrætt sinn. Hæstiréttur taldi að þegar metið væri hvort háttsemi dómsmálaráðherra í aðdraganda skipunar landsréttardómaranna 15 hafi verið ólögmæt og saknæm bæri fyrst til þess að líta að rétturinn hefði áður slegið því föstu að þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð ráðherrans í aðdraganda skipunar dómaranna, að skaðabótaskyldu varðaði úr hendi Í. Ekkert hafi komið fram í málinu sem fengi þeirri ályktun hnekkt. Í annan stað væri þess að gæta að eftir að dómsmálaráðherra hafði ákveðið í tillögu sinni til Alþingis að víkja frá áliti dómnefndarinnar á grundvelli annarra sjónarmiða en þeirra sem nefndin hafði áður reist álit sitt á hafi ráðherranum borið samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga að gefa E kost á að koma á framfæri athugasemdum, áður en ráðherrann réð ákvörðun sinni til lykta. Það hafi ráðherrann ekki gert og hafi því einnig verið brotið gegn andmælarétti E við meðferð málsins. Í dómi Hæstaréttar sagði að það væri óskráð meginregla íslensks réttar að stjórnvaldi sem skipar í opinbert starf eða embætti beri hverju sinni að velja hæfasta umsækjandann og væri reglan lögfest hvað dómara varðaði. Ef ætlun löggjafans við setningu bráðabirgðaákvæðis IV við lög um dómstóla hefði verið að víkja frá framangreindri meginreglu við skipun dómara í Landsrétt hefði slíkt þurft að koma fram með ótvíræðum hætti í orðum laganna eða lögskýringargögnum. Svo væri ekki og var því hafnað málsástæðu Í sem laut að hinu öndverða. Hæstiréttur taldi að E hafi leitt að því nægar líkur að forsvaranlegt mat ráðherra á umsókn hans og samanburður á hæfni hans og annarra umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt hefði leitt til þess að hann hefði verið skipaður dómari umrætt sinn. Með hliðsjón af gögnum málsins væri ljóst að skipun E í embætti landsréttardómara hefði fylgt umtalsverð tekjuaukning fyrir hann. E hefði því leitt að því nægar líkur að hann hafi orðið fyrir fjártjóni, í hverju tjónið hafi falist og hver tengsl þess væru við atvik málsins.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Þorgeir Örlygsson fyrrverandi hæstaréttardómarar, Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari og Kristinn Bjarnason lögmaður. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. maí 2020. Hann krefst viðurkenningar á því að stefndi sé skaðabótaskyldur vegna fjártjóns sem áfrýjandi telur sig hafa beðið við það að hafa ekki verið skipaður í eitt af 15 embættum dómara við Landsrétt sem auglýst voru laus til umsóknar 10. febrúar 2017. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefnda á öllum dómstigum. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Áfrýjandi var einn 33 umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt sem auglýst voru laus til umsóknar 10. febrúar 2017 og meðal þeirra 15 sem dómnefnd samkvæmt lögum nr. 50/2016 um dómstóla mat hæfasta til að gegna slíku embætti. Samkvæmt stigatöflu dómnefndar var áfrýjandi sjöundi í röð 15 hæfustu umsækjendanna. Þegar dómsmálaráðherra gerði tillögu til Alþingis um þá 15 sem skipa skyldi dómara við Landsrétt vék ráðherrann frá niðurstöðum dómnefndar varðandi fjóra úr hópi þeirra 15 sem nefndin hafði metið hæfasta og var áfrýjandi einn þeirra. Alþingi samþykkti tillögu ráðherra og í kjölfarið undirritaði forseti Íslands skipunarbréf til handa þeim 15 umsækjendum sem tillaga ráðherra hljóðaði um. Í málinu greinir aðila á um hvort stefndi ber skaðabótaábyrgð gagnvart áfrýjanda vegna þess fjártjóns sem hann telur sig hafa beðið við að hafa ekki verið skipaður dómari við Landsrétt umrætt sinn. Málsókn áfrýjanda er reist á sakarreglunni og reglunni um vinnuveitendaábyrgð. Dómsmálaráðherra og Alþingi hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi með því að ganga fram hjá áfrýjanda við skipun dómara í Landsrétt. Það sé ótvíræð meginregla í íslenskum rétti, sem staðfest hafi verið í dómum Hæstaréttar, að við val á umsækjanda í opinbert starf eða embætti beri hverju sinni að velja hæfasta umsækjandann. Gildi sú regla óháð því hver veitingarvaldshafinn er og í því tilviki sem hér um ræði gildi hún bæði um aðkomu ráðherra og Alþingis að skipun dómara á grundvelli ákvæðis IV til bráðabirgða við dómstólalög nr. 50/2016. Með dómum Hæstaréttar 19. desember 2017 í málum nr. 591 og 592/2017 hafi verið staðfest að dómsmálaráðherra hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þegar hún gerði tillögu til Alþingis um að vikið yrði frá niðurstöðum dómnefndar. Samkvæmt téðum dómum hafi verið annmarkar á rannsókn ráðherra, rökstuðningi hennar og tillögugerð þegar hún ákvað að auka vægi dómarareynslu við val á dómurum. Annmarkinn hafi ekki falist í því að sjónarmið ráðherra sem slíkt hafi verið ómálefnalegt, heldur í því að ráðherrann hafi hvorki framkvæmt fullnægjandi rannsókn  á umsækjendum né gert samanburð á hæfni þeirra með hliðsjón af hinu aukna vægi sem hún vildi ljá dómarareynslu. Sami annmarki hafi verið á málsmeðferð og ákvörðun Alþingis samkvæmt dómunum frá 19. desember 2017, enda þinginu ekki frjálst að velja hvaða umsækjanda sem er á grundvelli hvaða sjónarmiða sem er. Þá kveðst áfrýjandi heldur ekki hafa notið andmælaréttar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga áður en ráðherrann tók ákvörðun sína. Tjón sitt telur áfrýjandi felast í þeim mun sem sé á launum landsréttardómara annars vegar og prófessora við lagadeild Háskóla Íslands hins vegar. Orsakasamhengi sé á milli hinnar ólögmætu og saknæmu háttsemi ráðherrans og tjóns áfrýjanda. Óumdeilt sé að áfrýjandi hafi verið meðal 15 hæfustu umsækjenda að mati dómnefndar. Við þær aðstæður hafi hann átt lögvarinn rétt til þess að vera skipaður dómari við Landsrétt, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 14. apríl 2011 í máli nr. 412/2010, nema til kæmi ný og lögmæt rannsókn sem leiddi í ljós að áfrýjandi teldist ekki til 15 hæfustu umsækjendanna. Kjósi ráðherra að víkja frá áliti dómnefndar, sem honum sé heimilt, verði hann á grundvelli málefnalegra sjónarmiða, frekari rannsóknar, rökstuðnings og samanburðar að gera tillögu um annan umsækjanda sem að mati ráðherra sé hæfari til að gegna dómaraembættinu. Ef sjónarmið ráðherra sé málefnalegt og rannsókn hans lögmæt felist það í niðurstöðu hans að hæfasti umsækjandinn sé fundinn. Við þær aðstæður sé áfram fylgt þeirri ófrávíkjanlegu meginreglu að hæfasti umsækjandinn sé skipaður enda engin undantekning til frá þeirri reglu. Varnir stefnda eru einkum á því reistar að í ákvæði IV til bráðabirgða við dómstólalög nr. 50/2016 hafi sérstaklega verið kveðið á um heimild ráðherra til að víkja frá meginreglunni um að skipa beri þann umsækjanda sem dómnefnd hafi talið hæfastan, enda hafi Alþingi samþykkt Alþingi tillögu ráðherra um  umsækjanda sem í því tilviki fullnægði að mati dómnefndar skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. laganna. Gagnvart meginreglunni verði að horfa til þess að bráðabirgðaákvæði IV við dómstólalög sé sérregla, og ekki sé unnt að telja heimild hennar svo þrönga sem áfrýjandi haldi fram. Markmið þeirra breytinga sem gerðar hafi verið á dómstólalögunum frá 1998 hafi ekki verið að færa dómnefnd veitingarvaldið við skipun dómara. Stefndi heldur því fram að í ljósi dóma Hæstaréttar í málum nr. 591 og 592/2017 hafi hann ekki getað gert annað en viðurkennt rétt áfrýjanda til miskabóta. Dómaframkvæmd sé fyrir því að slíkur réttur geti verið fyrir hendi vegna meðferðar stjórnvalda þótt viðkomandi hafi ekki átt eða eigi ekki rétt til skipunar eða ráðningar í starf. Annað gildi um ætlað fjártjón áfrýjanda. Sjónarmið ráðherra og samþykki Alþingis um aukið vægi dómarareynslu við skipun í embætti landsréttardómara hafi verið málefnalegt og að því gættu hafi einnig verið málefnalegt að saman við það færi viðleitni til að jafna stöðu kynjanna við skipunina. Í ljósi sjónarmiðsins um dómarareynslu liggi fyrir að tilhlýðilegt mat hafi farið fram á henni meðal umsækjenda, enda hafi þeir fjórir sem skipaðir voru en voru ekki efstir að mati dómnefndar verið með meiri dómarareynslu en áfrýjandi. Samkvæmt þessu sé því eindregið hafnað að meðferð málsins, rökstuðningur og tillögur ráðherra eða frekari meðferð við skipun dómara geti talist saknæm og ólögmæt háttsemi þannig að bótaskyldu varði. Um orsakatengsl vísar stefndi til þess að umsækjendur um dómaraembætti við Landsrétt hafi ekki á nokkru stigi málsmeðferðar átt lögvarið tilkall til að hljóta skipun. Sýnt hafi verið fram á að aukið vægi dómarareynslu hafi verið málefnalegt sjónarmið og að frekari rannsókn ráðherra eða rökstuðningur hefði ekki breytt því að svo hagaði til um þá fjóra sem skipaðir voru umfram þá sem dómnefnd taldi í hópi 15 hæfustu en hlutu ekki skipun umrætt sinn. Í meginatriðum hafi sá munur verið á mati dómnefndar og mati ráðherra að nefndin hafi talið 15 umsækjendur hæfasta en ráðherra talið þá vera 24 og valið úr þeim hópi. Í hinum áfrýjaða dómi hafi verið komist að kjarna málsins við úrlausn um bótakröfu og ætlað fjártjón áfrýjanda. Ráðherra hafi verið heimilt að víkja frá niðurstöðu dómnefndar og meginreglunni um að skipa skyldi þann eða þá hæfustu samkvæmt mati dómnefndar. Nefnt bráðabirgðaákvæði beri augljóslega með sér að ráðherra hafi með samþykki Alþingis að sönnu verið heimilt að víkja frá áliti dómnefndar og frá þeirri meginreglu að skipa skuli hæfasta umsækjandann. Af þeim sökum sé ekki unnt að fallast á sjónarmið áfrýjanda um að hann hafi sannað bótaskilyrði, þar á meðal um orsakatengsl, þannig að borið hafi að skipa hann dómara við Landsrétt umrætt sinn. Í héraðsdómi var áfrýjandi talinn hafa leitt að því nægilega sterkar líkur að lögmæt meðferð málsins af hálfu ráðherra og forsvaranlegt mat hennar á umsókn og samanburður á hæfni áfrýjanda og annarra umsækjenda hefði leitt til þess að áfrýjandi hefði verið skipaður. Landsréttur komst að öndverðri niðurstöðu. Í ljósi reglna um sönnunarbyrði samkvæmt sakarreglunni og þess hvernig löggjafinn hefði ákveðið að haga málum við skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn, var talið að áfrýjandi hafi ekki getað gengið að því sem vísu að hann yrði skipaður landsréttardómari, þegar af þeirri ástæðu að ráðherra hafi verið heimilt að fengnu samþykki Alþingis að skipa aðra en þá sem dómnefnd hafði metið hæfasta að því tilskildu að þeir uppfylltu almenn hæfisskilyrði dómstólalaganna. Áfrýjandi hafi því ekki átt lögvarinn rétt til að vera skipaður dómari við Landsrétt og því beri að sýkna stefnda af kröfum hans. Með bréfi forseta Íslands 16. ágúst 2019 var áfrýjandi skipaður dómari við Landsrétt frá  og með 1. september það ár. Málavöxtum er ítarlega lýst í héraðsdómi. II Stjórnskipan íslenska lýðveldisins byggist á því að ríkisvaldið greinist í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið, forseti og önnur stjórnvöld með framkvæmdarvaldið og dómendur með dómsvaldið, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Í V. kafla hennar, sem er að mestu efnislega óbreyttur frá árinu 1874, er fjallað um dómsvaldið og skiptist kaflinn í þrjár greinar, 59.-61. gr. Samkvæmt 59. gr. verður skipan dómsvaldsins ekki ákveðin nema með lögum. Í 60. gr. kemur fram að dómendur skeri úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda og samkvæmt 61. gr. skulu dómendur í embættisverkum sínum einungis fara eftir lögunum. Um dómsvaldið eru nánari fyrirmæli í VII. kafla stjórnarskrárinnar. Segir þar í fyrsta málslið 1. mgr. 70. gr. að öllum beri réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Ákvæði þetta kom í stjórnarskrána með 8. gr. laga nr. 97/1995, stjórnarskipunarlögum um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum. Í almennum athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 97/1995 kom fram að þrenns konar ástæður væru fyrir því að breytinga væri þörf á VII. kafla stjórnarskrárinnar sem venjulega væri nefndur mannréttindakafli hennar. Í fyrsta lagi þyrfti að efla, samhæfa og samræma mannréttindaákvæðin þannig að þau gegndu betur því hlutverki sínu að vera vörn almennings í samskiptum við þá sem fara með ríkisvald. Í öðru lagi væri þörf á því að færa ýmis ákvæði kaflans til nútímalegra horfs, enda væru þau óbreytt frá því að fyrsta stjórnarskrá Íslands var sett árið 1874. Loks væri tímabært að endurskoða mannréttindaákvæðin með tilliti til þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem Ísland hefði gengist undir með því að gerast aðili að alþjóðlegum sáttmálum til verndar mannréttindum. Um 8. gr. frumvarpsins sagði að þar væri gerð tillaga um efni nýrrar 70. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem fjallað væri um lágmarksskilyrði þess að maður gæti talist njóta réttlátrar málsmeðferðar í einkamálum og opinberum málum fyrir dómstólum. Sambærileg regla væri ekki í þágildandi stjórnarskrárákvæðum en atriðin sem talin væru í greininni kæmu öll með einum eða öðrum hætti fram í þágildandi réttarfarslöggjöf. Um 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins sagði að þar væri mælt fyrir um að dómstólar skyldu vera óháðir og óhlutdrægir. Þetta væri einn mikilvægasti áskilnaðurinn í ákvæðinu og undirstaða þess að maður gæti talist njóta réttlátrar meðferðar fyrir dómstólum. Þegar tekið væri fram að dómstólar skyldu vera óháðir væri einkanlega skírskotað til þess að þeir ættu að vera sjálfstæðir og ekki háðir öðrum þáttum ríkisvaldsins. Væri sjálfstæði þeirra gagnvart framkvæmdarvaldinu sérstaklega mikilvægt, bæði hvað varðaði skipunarvald framkvæmdarvaldsins yfir þeim, kjör sem dómendum væru tryggð og að dómendum verði ekki vikið úr starfi með stjórnvaldsákvörðun. Skýrar reglur væru um skipan dómsvaldsins í V. kafla stjórnarskrárinnar en þær hefðu meðal annars að markmiði að tryggja sjálfstæði dómenda, auk almennu reglunnar um þrískiptingu ríkisvaldsins í 2. gr. Þótt sjálfstæði dómsvaldsins birtist þannig í öðrum ákvæðum stjórnarskrárinnar þætti rétt að árétta þetta frumskilyrði í þessu ákvæði.   III 1 Eins og greinir í dómum Hæstaréttar í málum nr. 591 og 592/2017 er það og hefur lengi verið óskráð meginregla íslensks réttar að stjórnvaldi sem skipar í opinbert starf eða embætti ber hverju sinni að velja hæfasta umsækjandann, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 14. apríl 2011 í máli nr. 412/2010 og 5. nóvember 1998 í máli nr. 46/1998 sem birtur er í dómasafni það ár á blaðsíðu 3599. Í fyrrnefnda dóminum, þar sem deilt var um lögmæti skipunar í embætti héraðsdómara, var tekið fram að samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri stjórnvaldi sem veitir starf í þjónustu ríkisins eða embætti að sjá til þess að atriði sem máli skipta séu nægilega upplýst áður en það tekur ákvörðun um veitinguna. Í síðarnefnda dóminum var komist svo að orði að valdi ráðherra væru þau mörk sniðin sem leiði af lögum og almennum reglum í stjórnsýslurétti um undirbúning stöðuveitingar og mat á hæfni umsækjenda. Hvað dómara varðar sérstaklega var reglan um að skipa skuli hæfasta umsækjandann fest í lög með 2. gr. laga nr. 45/2010 eins og nánar verður rakið hér á eftir. Reglur um dómnefndir til að meta hæfi umsækjenda um dómarastörf komu fyrst í lög hér á landi með lögum nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Þær tóku til héraðsdómara en bundu ekki hendur ráðherra við veitingu dómaraembættis. Í lögskýringargögnum sagði að tillaga um slíka dómnefnd hefði áður komið fram en það hafi verið í stjórnarfrumvarpi sem lagt hafi verið fyrir Alþingi 1975-1976. Í athugasemdum við það hafi verið rakin ýmis dæmi um svipað fyrirkomulag í öðrum ríkjum en megintilgangur ákvæðisins væri að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar væru óháðir handhöfum framkvæmdarvaldsins. 2 Efnislega sömu reglur og voru í lögum nr. 92/1989 voru teknar upp í 3. og 4. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Um störf dómnefnda skyldi ráðherra samkvæmt lögunum setja nánari fyrirmæli og var það gert með reglum nr. 693/1999 um störf dómnefndar samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998. Á grundvelli þeirra setti dómnefndin verklagsreglur við mat á umsóknum sem ráðherra staðfesti 23. mars 2001. Með 3. og 4. mgr. 12. gr. laga 15/1998 var rannsóknarskyldu þeirri sem mælt er fyrir um í 10. gr. stjórnsýslulaga við skipun í embætti héraðsdómara að verulegu leyti létt af ráðherra og þess í stað lögð á herðar sjálfstæðrar og óháðrar dómnefndar sem var skipuð með tilliti til þess að tryggt yrði að sérþekking væri þar fyrir hendi um mat á hæfni umsækjenda um dómaraembætti. Samkvæmt ákvæðum 3. og 4. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998, eins og þau voru fram til ársins 2010, batt álit dómnefndar um hæfni umsækjenda ekki ráðherra. Þótt álitið væri ekki bindandi var eigi að síður lagt til grundvallar í dómaframkvæmd, sbr. áðurgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 412/2010, að teldi ráðherra efni til að víkja frá áliti dómnefndar væri óhjákvæmilegt að ákvörðun hans yrði reist á frekari rannsókn samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Bæri ráðherra þá meðal annars að taka tillit til eigin fyrirmæla í reglum nr. 693/1999 um þau atriði sem ráða skyldu hæfnismati og jafnframt tryggja að sérþekkingar nyti þar við í sambærilegum mæli og við störf dómnefndarinnar. Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi til laga nr. 15/1998 kom fram að hæst hefði borið í þeirri umræðu sem fram hefði farið um stöðu dómstólanna hvort það væri samrýmanlegt meginreglunni um sjálfstæða og óháða dómstóla að ákvörðunarvald um svokölluð innri málefni dómstóla, þar á meðal beiðnir um fjárveitingar til þeirra, væri að meira eða minna leyti í höndum ráðherra, en hér á landi gætti þess í nokkrum mæli að dómsmálaráðherra hefði slíkt vald. Bent hafi verið á að ráðherra gæti með afskiptum af starfsmannahaldi, veitingu dómaraembætta og beiðnum um fjárveitingar haft talsverð áhrif á starfsemi dómstólanna. Þá sagði að af þessum sökum hafi því verið hreyft að draga mætti í efa að dómstólarnir væru fyllilega sjálfstæðir og óháðir öðrum þáttum ríkisvaldsins. Við mótun frumvarpsins hafi verið tekið tillit til þessarar umræðu. Þá hafi einnig verið hugað að þróun sambærilegrar löggjafar í öðrum ríkjum Evrópu. Þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands, einkum hvað varðar mannréttindi og viðskipti, valdi því að sú viðmiðun sé ekki aðeins eðlileg heldur einnig óhjákvæmileg. Þá verði við mótun löggjafar um dómstóla að hafa í huga eftirlitshlutverk þeirra gagnvart löggjafar- og framkvæmdarvaldinu. Með þetta í huga hafi verið stefnt að því við samningu frumvarpsins að það yrði tryggt sem best að dómstólarnir verði óháðir hinum tveimur þáttum ríkisvaldsins. Einnig hafi því verið fylgt, sem þróunin hafi tvímælalaust beinst í átt til í nágrannalöndunum, að búa svo um hnútana að dómstólar yrðu einnig sjálfstæðir um stjórn innri málefna sinna. 3 Með 2. gr. laga nr. 45/2010 var lögum nr. 15/1998 breytt og reglur um störf dómnefndar til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti hæstaréttar- og héraðsdómara leiddar í lög með ákvæðum 4. gr. a laganna. Í fyrsta málslið 3. mgr. þeirrar lagagreinar kom fram að óheimilt væri að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefði ekki talið hæfastan meðal umsækjenda. Samkvæmt öðrum málslið sömu málsgreinar mátti þó víkja frá þessu ef Alþingi samþykkti tillögur ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægði að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 4. gr. laganna. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 45/2010 sagði meðal annars að þegar settar væru reglur um skipun dómara yrði að taka tillit til fjölda atriða. Mikilvægt væri að styrkja stöðu og sjálfstæði dómstólanna og tryggja sem best að þeir verði óháðir hinum tveimur þáttum ríkisvaldsins sem þeir hafi eftirlit með. Ekki sé nægilegt að sjálfstæði dómstólanna sé tryggt í raun heldur verði sjálfstæðið og trúverðugleikinn sem því fylgi að vera öllum sýnilegur. Þá sagði einnig að í íslenskum lögum væru ekki almennar reglur um hvaða sjónarmið ætti að leggja til grundvallar við skipun í opinber störf. Litið hafi verið svo á að það væri komið undir mati þess sem starf veitti hvaða sjónarmið skyldi leggja sérstaka áherslu á. Sú óskráða meginregla stjórnsýsluréttar gilti þó um slíka ákvörðun að hún yrði að vera byggð á málefnalegum sjónarmiðum eins og til dæmis um menntun, starfsreynslu, hæfni og persónulega eiginleika. Auk þess væri gengið út frá því í stjórnsýslurétti að þar gilti sú meginregla að velja bæri þann umsækjanda sem talinn væri hæfastur, þannig að frjálsu mati stjórnvaldsins væru settar skorður. Um 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins sagði í athugasemdunum að þar væri fjallað um hlutverk dómnefndar. Hún skyldi láta dómsmálaráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um embætti dómara. Þar ætti að koma fram skýr afstaða dómnefndar til þess hvaða umsækjandi væri hæfastur til að hljóta embættið, en heimilt væri að setja tvo eða fleiri umsækjendur jafna í því efni. Brýnt væri að vandað væri til allrar málsmeðferðar hjá nefndinni og væri hlutverk hennar að draga fram hæfustu umsækjendurna og gera jafnframt grein fyrir því hvern eða hverja hún teldi hæfasta úr hópi þeirra. Um 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins sagði meðal annars að þar væru lögð til þau nýmæli að ráðherra væri bundinn af áliti dómnefndarinnar þótt hann hafi enn hið formlega skipunarvald. Lagt væri til að óheimilt yrði að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefði ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Þó mætti víkja frá þessari reglu ef Alþingi samþykkti tillögu ráðherra um að skipa annan nafngreindan umsækjanda. Í þessu fælist að dómsmálaráðherra tæki við áliti dómnefndar þar sem fram kæmi umsögn um alla umsækjendur og jafnframt afstaða nefndarinnar til þess hvaða umsækjandi eða eftir atvikum umsækjendur teldust hæfastir til að vera skipaðir í embættið. Ekki væri gert ráð fyrir því að dómsmálaráðherra leitaði eftir afstöðu umsækjenda til niðurstöðu dómnefndarinnar enda ætti hún að veita þeim andmælarétt áður en hún tæki endanlega ákvörðun í málinu. Þó gæti komið til þess að ráðherra þyrfti að óska eftir nýrri umsögn dómnefndar ef í ljós kæmi verulegur annmarki á undirbúningi ákvörðunar nefndarinnar. Einnig sagði um 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins að legði dómsmálaráðherra til að annar en sá sem dómnefnd hefði talið hæfastan yrði skipaður í embættið skyldi hann bera þá tillögu undir Alþingi. Gert væri ráð fyrir því að slík tillaga hlyti sömu málsmeðferð og gilti um kosningu umboðsmanns Alþingis, meðal annars að hún gengi án umræðu til þeirrar nefndar sem forseti Alþingis legði til. Rétt þætti að ganga út frá því að nægilegt væri að tillaga ráðherra fengi fylgi meiri hluta á Alþingi. Væri þá horft til þess að áskilnaður um aukinn meiri hluta gæti leitt til þess að regla um þetta yrði í reynd óvirk og hefði í för með sér að dómnefndin færi með veitingarvaldið en ekki ráðherra. Yrði að ætla að reglur í þeim búningi sem lagðar væru til þjónuðu nægilega tilgangi án þess að lengra yrði gengið í þessu efni. Að öðru leyti væri rétt að benda á að ráðherra væri bundinn af tillögu dómnefndar ef tillaga hans yrði felld á Alþingi eða næði ekki fram að ganga innan þess frests sem lögin setji. Í því tilviki gæti ráðherra ekki auglýst dómaraembættið að nýju þannig að nýtt skipunarferli hæfist heldur væri hann bundinn af umsögn dómnefndarinnar. Ráðherra setti á grundvelli 4. gr. a dómstólalaga reglur nr. 620/2010 um störf dómnefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti og voru þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda 23. júlí 2010. Þar sagði í 5. gr. að umsókn umsækjanda um embætti dómara á grundvelli auglýsingar um það ásamt reglum sem um það giltu markaði þann grundvöll sem dómnefnd byggi umsögn sína á. Dómnefndin skyldi sjá til þess að mál væri nægilega upplýst áður en umsögn væri veitt um hæfni umsækjanda. Samkvæmt 6. gr. reglnanna skyldi dómnefndin gefa skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur þar sem fram kæmi rökstutt álit á hæfni hvers umsækjanda og rökstutt álit á því hvern eða hverja nefndin teldi hæfasta til að hljóta embættið. Í 7. gr. reglnanna kom fram að dómnefnd skyldi kynna umsækjendum drög sín að umsögn um hæfni umsækjenda og gefa þeim sjö daga frest til þess að koma að sjónarmiðum sínum. 4 Lög um dómstóla nr. 50/2016 öðluðust gildi 1. janúar 2018 en bráðabirgðaákvæði I, II, IV,V og VI tóku gildi 14. júní 2016.  Samkvæmt 1. til 3. gr. laganna er dómstólaskipan landsins með þeim hætti að Hæstiréttur Íslands er æðsti dómstóll þjóðarinnar, Landsréttur er áfrýjunardómstóll og í héraði eru átta dómstólar með afmörkuð umdæmi. Í 1. mgr. 12. gr. laganna segir að dómnefnd láti ráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um embætti dómara. Í umsögn dómnefndar skal tekin afstaða til þess hvaða umsækjandi er hæfastur til að hljóta embættið en heimilt er að setja tvo eða fleiri umsækjendur jafna. Að öðru leyti setur ráðherra reglur um störf nefndarinnar. Um það giltu á þeim tíma sem hér skiptir máli reglur nr. 620/2010, nú reglur nr. 970/2020. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 50/2016 er óheimilt að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Frá þessu má þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum til að hljóta skipun í embættið. Ráðherra skal þá leggja slíka tillögu fyrir Alþingi innan tveggja vikna frá því að umsögn dómnefndar er afhent honum, eða innan þess tíma frá því að Alþingi kemur næst saman eftir að umsögn er fengin, og verður tillagan að vera samþykkt innan mánaðar frá því að hún er lögð fram ella er ráðherra bundinn af umsögn dómnefndar. Í athugasemdum við 12. gr. frumvarpsins kom fram að greinin svaraði til 2. og 3. mgr. 4. gr. a þágildandi laga um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 45/2010. Um skýringu á ákvæðinu var vísað til athugasemda við 2. gr. í greinargerð við frumvarp það sem varð að þeim lögum. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðis IV til bráðabirgða við lög nr. 50/2016 skyldi skipun dómara við Landsrétt lokið eigi síðar en 1. júlí 2017 og dómarar skipaðir frá og með 1. janúar 2018. Nefnd samkvæmt 4. gr. a laga nr. 15/1998 skyldi meta hæfni umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn og láta ráðherra í té umsögn um umsækjendur í samræmi við 2. mgr. 4. gr. a og reglur sem um dómnefndina giltu. Þá sagði í 1. mgr. ákvæðis IV til bráðabirgða að ráðherra væri óheimilt að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefði ekki metið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Frá þessu mætti þó víkja ef Alþingi samþykkti tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægði að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. laganna. Í 2. mgr. ákvæðis IV til bráðabirgða sagði að þegar ráðherra gerði tillögu um skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn skyldi hann leggja tillögu sína um hverja skipun fyrir Alþingi til samþykktar. Samþykki Alþingi tillögur ráðherra skuli hann senda þær forseta Íslands sem skipi í embættin, sbr. 21. gr. Samþykki Alþingi ekki tillögu ráðherra um tiltekna skipun skuli ráðherra leggja nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar. Um bráðabirgðaákvæði IV sagði í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 50/2016 að lagt væri til að áður en ráðherra skipaði dómara í embætti Landsréttar í fyrsta sinn skyldi hann leggja tillögu sína um hverja skipun fyrir Alþingi til samþykktar. Í ljósi þess að skipaðir yrðu samtímis 15 dómarar væri eðlilegt að tryggja aðkomu fleiri en eins handhafa ríkisvalds að því. IV 1 Málsókn áfrýjanda er reist á sakarreglunni og reglunni um vinnuveitendaábyrgð. Samkvæmt því þarf áfrýjandi sem krefst viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda að sanna eftirfarandi: Í fyrsta lagi að málsmeðferð dómsmálaráðherra í aðdraganda skipunar landsréttardómaranna 15 í júní 2017 hafi falið í sér saknæma og ólögmæta háttsemi. Í öðru lagi þarf áfrýjandi að leiða að því nægar líkur, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að hann hafi orðið fyrir fjártjóni, gera grein fyrir því í hverju tjónið felist og tengslum þess við atvik málsins. Í þriðja lagi þarf áfrýjandi að sanna að orsakasamband sé á milli ólögmætrar og saknæmrar háttsemi ráðherrans við málsmeðferðina og þess fjártjóns sem áfrýjandi telur sig hafa orðið fyrir af hennar völdum. 2 Þegar metið er hvort háttsemi dómsmálaráðherra í aðdraganda skipunar landréttardómaranna 15 hefur verið ólögmæt og saknæm er þess fyrst að gæta að í fyrrnefndum dómum Hæstaréttar í málum nr. 591 og 592/2017 var því slegið föstu að þeir annmarkar hefðu verið á málsmeðferð ráðherrans í aðdraganda skipunar dómaranna að það varðaði skaðabótaskyldu úr hendi íslenska ríkisins. Í máli þessu hefur ekkert komið fram sem fær þeirri ályktun umræddra dóma hnekkt og hafa þeir því um það efni sönnunargildi hér samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Á sama lagagrundvelli er einnig að gæta dóms Hæstaréttar 24. maí 2018 í máli nr. 10/2018 sem varðar sömu málsmeðferð dómsmálaráðherra, þótt í öðru samhengi sé. Þar var lagt til grundvallar, að ekki stæðist það sem byggt var á í minnisblaði ráðherrans 30. maí 2017, að með því einu að auka vægi dómarareynslu frá því sem dómnefnd hafði lagt til grundvallar í stigatöflu að baki umsögn sinni 19. sama mánaðar, en byggja að öðru leyti á fullnægjandi rannsókn nefndarinnar á einstökum matsþáttum, gæti fengist sú niðurstaða, að fjórir tilteknir umsækjendur um embætti dómara við Landsrétt féllu allir en aðrir ekki brott úr hópi þeirra 15 hæfustu, og að í stað þeirra færðust upp í þann hóp fjórir tilteknir umsækjendur öll með tölu öðrum fremur. Í annan stað er þess að gæta varðandi mat á lögmæti athafna dómsmálaráðherra, að þegar drög að umsögn dómnefndar lágu fyrir 11. maí 2017 var áfrýjanda eins og öðrum umsækjendum gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum við umsögn nefndarinnar, sbr. fyrirmæli 7. gr. reglna nr. 620/2010. Þann rétt nýtti áfrýjandi sér samkvæmt gögnum málsins ekki, enda í hópi 15 hæfustu umsækjendanna að mati dómnefndar og hafði því ekki sérstakt tilefni til andmæla. Samkvæmt gögnum málsins var aðaláfrýjanda ekki gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum áður en ráðherrann tók þá ákvörðun að áfrýjandi yrði, ásamt þremur öðrum sem dómnefnd hafði metið í hópi 15 hæfustu umsækjendanna, ekki á meðal þeirra 15 sem hún hygðist gera tillögu til Alþingis um að skipaðir yrðu dómarar við Landsrétt. Eins og greinir í dómum Hæstaréttar 31. júlí 2017 í málum nr. 451 og 452/2017 fær fyrirkomulag laga er varðar störf dómnefndar og aðkomu Alþingis að skipun dómara ekki breytt þeirri rótgrónu stjórnskipunarvenju íslensks réttar að það er dómsmálaráðherra sem fer með ákvörðunarvald um það hverjir eru skipaðir dómarar hverju sinni. Umsögn dómnefndar 19. maí 2017 var eins og áður getur lögbundinn þáttur í undirbúningi þeirrar ákvörðunar að skipa 15 dómara til að taka sæti  í Landsrétti.  Í 13. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Í skjóli valdheimilda ákvað dómsmálaráðherra í tillögu sinni til Alþingis að víkja frá áliti lögskipaðrar dómnefndar á grundvelli annarra sjónarmiða en þeirra sem nefndin hafði áður reist álit sitt á. Verður að jafna þeim breyttu sjónarmiðum til þess að ráðherrann hafi aflað nýrra gagna og upplýsinga í skilningi 13. gr. stjórnsýslulaga. Að því gættu og þar sem um var að ræða atriði sem voru áfrýjanda í óhag, bar ráðherranum samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga að gefa áfrýjanda kost á að koma á framfæri athugasemdum áður en ráðherrann réð ákvörðun sinni til lykta. Myndi öndverð lögskýring leiða til þess að ákvæðið yrði þýðingarlítið, sbr. til hliðsjónar um lögskýringu hvað tilgang varðar dóm Hæstaréttar 16. nóvember 2006 í máli nr. 195/2006. Er þá til þess að líta að ekki lá fyrir í gögnum málsins afstaða áfrýjanda og rök hans til þeirra sjónarmiða, sem breytt afstaða ráðherra miðað við afstöðu dómnefndar var reist á. Í ljósi lögbundins hlutverks dómnefndar og fyrirmæla um skipun hennar mátti áfrýjandi sem umsækjandi um dómaraembætti ganga út frá því að sjónarmið nefndarinnar yrðu lögð til grundvallar tillögugerð ráðherra nema fullnægjandi rannsókn og að öðru leyti lögmæt málsmeðferð af hálfu ráðherra leiddi til annarrar niðurstöðu um hæfni áfrýjanda en dómnefndin hafði komist að. Þá verður með engu móti talið að afstaða hans til breyttrar afstöðu ráðherra miðað við umsögn dómnefndar hafi í ljósi hagsmuna áfrýjanda af úrlausn málsins verið óþörf í skilningi 13. gr. stjórnsýslulaga. Braut dómsmálaráðherra samkvæmt þessu einnig gegn andmælarétti áfrýjanda við meðferð málsins. Að öllu framangreindu virtu liggur fyrir, að meðferð málsins af hálfu dómsmálaráðherra í aðdraganda þess að skipaðir voru í fyrsta sinn 15 dómarar til að taka sæti í Landsrétti var ekki í samræmi við fyrirmæli stjórnsýslulaga. Er því fullnægt skilyrði sakarreglunnar um ólögmæti háttsemi ráðherrans. 3 Áfrýjandi telur fjárhagslegt tjón sitt felast í þeim mun sem er annars vegar á launum landsréttardómara og hins vegar launum prófessora við lagadeild Háskóla Íslands en því starfi gegndi áfrýjandi þegar hann sótti um starf landsréttardómara á grundvelli auglýsingarinnar 10. febrúar 2017. Áfrýjandi hefur lagt fram gögn um þennan launamun og er efni þeirra ítarlega rakið í héraðsdómi. Eins og þar getur nánar námu mánaðarlaun áfrýjanda sem prófessors 745.318 krónum en mánaðarlaun landsréttardómara voru samkvæmt ákvörðun kjararáðs 14. desember 2017 samtals 1.692.155 krónur. Er munurinn 946.837 krónur á mánuði eða 11.364.044 krónur á ársgrundvelli. Er samkvæmt þessu ljóst að hefði áfrýjandi verið skipaður í embætti landsréttardómara frá og með 1. janúar 2018 hefði því fylgt umtalsverð tekjuaukning fyrir hann. Áfrýjandi sótti öðru sinni um embætti landsréttardómara sem auglýst var laust til umsóknar 3. maí 2019 og var samkvæmt áliti dómnefndar 22. júlí 2019 metinn hæfastur þeirra umsækjenda sem dómnefnd lagði þá mat á. Var áfrýjandi í framhaldinu skipaður til að gegna embættinu frá og með 1. september 2019 og lauk þá tjónstímabili hans. Hefur áfrýjandi samkvæmt þessu leitt að því nægar líkur að hann hafi orðið fyrir fjártjóni, gert nægjanlega grein fyrir því í hverju tjónið felst og hver tengsl þess eru við atvik málsins. 4 Um skipun dómara við Landsrétt vorið 2017 fór samkvæmt ákvæði IV til bráðabirgða í lögum nr. 50/2016. Samkvæmt fyrsta málslið 1. mgr. ákvæðisins skyldi skipun dómaranna lokið eigi síðar en 1. júlí 2017 og þeir skipaðir í embætti frá og með 1. janúar 2018. Í öðrum málslið 1. mgr. ákvæðisins kom fram að nefnd samkvæmt 4. gr. a laga um dómstóla nr. 15/1998 skyldi meta hæfni umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn og láta ráðherra í té umsögn um umsækjendur í samræmi við 2. mgr. þeirrar greinar og reglur sem um dómnefndina giltu. Þá sagði í ákvæðinu að ráðherra væri óheimilt að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefði ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Frá þessu mætti þó víkja ef Alþingi samþykkti tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægði að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. laganna.    Þess er áður getið að það er og hefur lengi verið meginregla í íslenskum rétti að stjórnvaldi sem skipar í opinbert starf eða embætti ber hverju sinni að velja hæfasta umsækjandann. Hvað varðar dómara sérstaklega var meginregla þessi fest í sett lög árið 2010 en hafði áður gilt ólögfest. Af hálfu stefnda er því haldið fram að í framangreindum orðum ákvæðis IV til bráðabirgða í lögum nr. 50/2016 að frá þessu megi þó víkja felist að sönnu heimild ráðherra til að víkja frá þeirri meginreglu að skipa skuli hæfasta umsækjandann. Á framangreint sjónarmið stefnda verður ekki fallist. Ef ætlun löggjafans við setningu bráðabirgðaákvæðis IV við lög nr. 50/2016 var að víkja frá meginreglunni um hæfasta umsækjandann við skipun dómara í Landsrétt hefði slíkt þurft að koma fram með ótvíræðum hætti í orðum laganna eða lögskýringargögnum. Svo er ekki. Er í því sambandi sérstaklega til þess að líta að við veitingu dómaraembætta tekur ráðherra ekki ákvörðun um veitingu embættis sem lýtur boðvald hans sjálfs, heldur um stöðu sem tilheyrir þeirri grein ríkisvaldsins sem að stjórnlögum fer með eftirlitshlutverk gagnvart öðrum greinum þess og tryggt er sjálfstæði í 1. málslið 61. gr. stjórnarskrárinnar eins og áður hefur verið rakið. Á hinn bóginn leiðir af hinu tilgreinda orðalagi bráðabirgðaákvæðisins að álit dómnefndar um hæfni umsækjenda batt dómsmálaráðherra ekki fortakslaust. Var honum  samkvæmt ákvæðinu heimilt að gera tillögu til Alþingis um skipun annars eða annarra umsækjenda en þeirra sem dómnefnd hafði metið hæfasta, að því tilskildu að þeir fullnægðu almennum hæfisskilyrðum laganna. Tillaga ráðherra um að víkja frá áliti dómnefndar og leggja til aðra umsækjendur en þá sem dómnefnd hafði metið hæfasta varð hins vegar að byggja á málefnalegum sjónarmiðum og vera reist á fullnægjandi rannsókn, samanburði og rökstuðningi fyrir breyttri tillögu um það hver eða hverjir umsækjenda væru að mati ráðherra hæfastir til að gegna dómaraembætti öndvert áliti dómnefndar. Að fenginni slíkri tillögu frá ráðherra væri það síðan hlutverk Alþingis að hafa eftirlit með því að tillaga ráðherra fullnægði þessum kröfum. Eins og rakið er í héraðsdómi hefur það í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið talin forsenda  fyrir bótaskyldu stefnda gagnvart þeim sem sækir um opinbert starf eða embætti, en fær ekki, að viðkomandi sýni fram á að lögmæt meðferð málsins og forsvaranlegt mat á umsókn hans og samanburður á hæfni hans og annarra umsækjenda hefði leitt til þess að hann hefði hlotið embættið. Af hálfu stefnda hefur ekki verið gerð viðunandi grein fyrir því hvaða samanburður fór fram af hálfu ráðherra á áfrýjanda og öðrum umsækjendum og hvernig innbyrðis mati á þeim var háttað, en dómnefnd hafði samkvæmt stigatöflu raðað áfrýjanda í sjöunda sæti yfir 15 hæfustu umsækjendurna. Þá hefur Hæstiréttur eins og í héraðsdómi greinir þegar hafnað sjónarmiðum um að þeir annmarkar hafi verið á dómnefndarálitinu að tilefni hafi verið fyrir ráðherra að víkja frá því, sbr. dóma réttarins í málum nr. 591 og 592/2017. Af þessu leiðir að vafa um það hvort fullnægjandi rannsókn málsins og að öðru leyti lögmæt meðferð þess af hálfu ráðherra hefði leitt til annarrar niðurstöðu um hæfni áfrýjanda en dómnefnd hafði komist að verður að túlka honum í hag, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 16. október 2008 í máli nr. 56/2008 og 19. desember 2012 í máli nr. 236/2012. Að framansögðu virtu er fallist á með áfrýjanda að hann hafi leitt að því nægar líkur að forsvaranlegt mat dómsmálaráðherra á umsókn hans og samanburður á hæfni hans og annarra umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt hefði eins og hér hagaði til leitt til þess að hann hefði verið skipaður dómari umrætt sinn. 5 Samkvæmt öllu framansögðu er fallist á kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á því að stefndi beri skaðabótaskyldu gagnvart honum vegna þess að hann var ekki skipaður í eitt af 15 embættum dómara við Landsrétt sem auglýst voru laus til umsóknar 10. febrúar 2017.  Eftir framangreindum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða áfrýjanda málskostnað sem ákveðinn er í einu lagi á öllum dómstigum eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Viðurkennt er að stefndi, íslenska ríkið, er skaðabótaskylt gagnvart áfrýjanda, Eiríki Jónssyni, vegna þess að hann var ekki skipaður í eitt af 15 embættum dómara við Landsrétt sem auglýst voru laus til umsóknar 10. febrúar 2017. Stefndi greiði áfrýjanda samtals 3.500.000 krónur í málskostnað í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti.     Dómur Landsréttar 27. mars 2020 Mál þetta dæma Árni Vilhjálmsson lögmaður, Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari og Þórður S. Gunnarsson, fyrrverandi héraðsdómari. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 20. nóvember 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2018 í málinu nr. E-415/2018. 2        Áfrýjandi krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. 3        Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti. Málsatvik 4        Málsatvikum eru gerð ítarleg skil í hinum áfrýjaða dómi. Þar er meðal annars rakið að embætti 15 dómara við Landsrétt hafi verið auglýst laus til umsóknar 10. febrúar 2017. Umsóknarfrestur hafi verið til 28. sama mánaðar og að stefndi hafi verið meðal umsækjenda. Endanlegur fjöldi umsækjenda, sem uppfyllt hafi skilyrði 2. og 3. mgr. 21. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, sbr. ákvæði IV til bráðabirgða í lögum nr. 50/2016, sbr. lög nr. 10/2017 um breytingu á þeim lögum, það er almenn hæfisskilyrði, hafi verið 33. Dómnefnd samkvæmt 4. gr. a laga nr. 15/1998 um dómstóla hafi metið stefnda meðal 15 hæfustu umsækjenda. Að fengnu áliti dómnefndar hafi dómsmálaráðherra ákveðið að gera ekki tillögu til Alþingis um skipun fjögurra umsækjenda, sem dómnefnd hafði metið hæfasta, og hafi stefndi verið einn þeirra. Þess í stað hafi ráðherra lagt til við Alþingi að skipaðir yrðu fjórir umsækjendur, sem dómnefnd hafði ekki metið í hópi þeirra hæfustu. 5        Eftir að málinu var áfrýjað til Landsréttar var stefndi skipaður dómari við Landsrétt og hefur hann gegnt því embætti frá 1. september 2019. Niðurstaða 6        Í dómum Hæstaréttar, 31. júlí 2017, í málunum nr. 451/2017 og 452/2017, þar sem fjallað var um skipun dómara í Landsrétt, staðfesti Hæstiréttur þá fastmótuðu stjórnskipunarvenju að dómsmálaráðherra færi með skipunarvaldið við skipun dómara í réttinn. Í dómunum kom fram að á sama hátt og tillaga dómsmálaráðherra til forseta Íslands um skipun tiltekins manns í embætti dómara væri liður í þeirri stjórnvaldsákvörðun sem í skipuninni fælist, væri tillaga ráðherra til Alþingis um að annar maður yrði skipaður dómari en sá sem dómnefnd hefði metið hæfastan, einnig lögbundinn þáttur í undirbúningi þeirrar ákvörðunar að skipa mann í dómaraembætti. 7        Um skipun dómara við Landsrétt vorið 2017 fór samkvæmt ákvæði IV til bráðabirgða í lögum um dómstóla nr. 50/2016. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal ráðherra, þegar hann gerir tillögu um skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn, leggja tillögu sína um hverja skipun fyrir Alþingi til samþykktar. Samþykki Alþingi tillögur ráðherra skal hann senda þær forseta Íslands, sem skipar í embættin, sbr. 21. gr. laga nr. 50/2016. Samþykki Alþingi ekki tillögu ráðherra um tiltekna skipun skal ráðherra leggja nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar. Í 3. málslið 1. mgr. ákvæðis IV til bráðabirgða í lögum nr. 50/2016, kemur fram að óheimilt sé að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Samkvæmt 4. málslið sömu málsgreinar má þó víkja frá þessu, ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. sömu laga. 8        Með lögum nr. 45/2010 kom inn nýtt ákvæði, 4. gr. a, í þágildandi lög nr. 15/1998 um dómstóla. Um skýringu framangreinds ákvæðis IV til bráðabirgða vísast til athugasemda við 2. gr. í greinargerð við frumvarp það sem varð að framangreindum lögum nr. 45/2010. Í almennum athugasemdum sem fylgdu því frumvarpi kemur fram að það sé samið á vegum réttarfarsnefndar á grundvelli tillagna nefndar, sem falið hafi verið að gera tillögur um breytingar á reglum um skipun dómara. Fram kemur að við setningu reglna um skipun dómara þurfi að taka tillit til fjölda atriða. Mikilvægt sé að styrkja stöðu og sjálfstæði dómstólanna og tryggja sem best að þeir verði óháðir hinum tveimur þáttum ríkisvaldsins, sem þeir hafa eftirlit með. Þá er vísað til þeirrar grundvallarreglu stjórnsýsluréttar að stjórnvaldi beri við skipun í embætti að velja hæfasta umsækjandann og lagt til það nýmæli að dómsmálaráðherra verði bundinn af áliti dómnefndar, þótt hann hafi enn hið formlega skipunarvald. Frá þessu megi þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægi að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. laga nr. 50/2016, það er hinum almennu hæfisskilyrðum. 9        Nefnd dómsmálaráðherra, sem falið var að móta tillögur um nýjar reglur um skipun hæstaréttar- og héraðsdómara, og vikið var að hér að framan, taldi rétt að samþykki aukins meirihluta alþingismanna þyrfti til að koma, ella yrði ráðherra bundinn af áliti dómnefndar. Vísaði nefndin til þess að hér væri um nokkurs konar neyðarhemil að ræða. Líkur væru á því að það fældi ráðherra frá því að skipa ómálefnalega í embætti ef atbeina Alþingis þyrfti til. Taldi nefndin máli skipta hvernig staðið væri að málsmeðferð þingsins, þannig að flokkspólitík kæmi sem minnst við sögu. Löggjafinn hafnaði þeirri tillögu og segir í athugasemd við 3. gr. frumvarpsins að slík skipun gæti leitt til þess að dómnefndin færi með veitingarvaldið en ekki ráðherra. Áskilnaður um aukinn meirihluta, eins og nefndin lagði til, gæti leitt til þess að regla um þetta yrði í reynd óvirk og hefði í för með sér að dómnefndin færi með veitingarvaldið en ekki ráðherra. Þá segir að ætla verði að reglur í þeim búningi sem hér séu lagðar til þjóni nægilega þeim tilgangi sem að sé stefnt án þess að lengra verði gengið. Í nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar um frumvarpið kemur fram að mjög fátítt sé að krafist sé aukins meirihluta Alþingis og að skapast hafi ákveðnar venjur og hefðir um að einfaldur meirihluti sé nægilegur nema skýrt sé kveðið á um annað, til dæmis í stjórnarskrá og lögum um þingsköp Alþingis. Kemur fram það mat meirihlutans að það verði nægilega viðurhlutamikið fyrir ráðherra, vilji hann fara gegn ráðleggingum dómnefndar, að hann þurfi að leggja tillögu sína fyrir Alþingi og fá samþykki einfalds meirihluta fyrir henni. 10       Stefndi krefst þess að viðurkennd verði bótaskylda áfrýjanda vegna tjóns stefnda af völdum þess að hann var ekki skipaður í eitt af 15 embættum dómara við Landsrétt sem auglýst voru laus til umsóknar 10. febrúar 2017. 11       Þegar embætti 15 dómara við Landsrétt voru auglýst laus til umsóknar 10. febrúar 2017 lá fyrir að tillaga ráðherra um skipun dómara í Landsrétt í fyrsta sinn þyrfti samþykki Alþingis, sbr. lög nr. 50/2016 um dómstóla, 1. málslið 2. mgr. ákvæðis IV til bráðabirgða. Einnig lá fyrir að ráðherra væri heimilt, þrátt fyrir meginregluna um að skipa skyldi þann hæfasta, hvort heldur einn eða samhliða öðrum, að víkja frá meginreglunni með þeim hætti sem áður greinir, sbr. 4. málslið 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Samkvæmt þessu gerði löggjafinn ráð fyrir að svo kynni að fara að ráðherra vildi skipa aðra umsækjendur en dómnefnd hefði metið hæfasta eins og fjallað hefur verið um hér að framan. 12       Með dómum Hæstaréttar, frá 19. desember 2017, í málunum nr. 591/2017 og 592/2017, þar sem fjallað var um upphaflega skipun dómara í Landsrétt, var því slegið föstu að ráðherra hefði ekki hagað málsmeðferð sinni með lögmætum hætti þegar hún lagði fram tillögu til Alþingis um að vikið yrði frá áliti dómnefndar við skipunina. Hæstiréttur taldi að hygðist ráðherra víkja frá áliti dómnefndar við veitingu dómaraembætta væri óhjákvæmilegt að slík ákvörðun væri reist á frekari rannsókn, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem tryggja þyrfti að við hæfnismatið væri fyrir hendi sérþekking sambærileg þeirri sem dómnefnd byggi yfir að teknu tilliti til fyrirmæla í reglum nr. 620/2010. Til þessa væri enn brýnni ástæða en ella þegar álit dómnefndar væri bindandi fyrir ráðherra og óheimilt að skipa í embætti umsækjanda, sem dómnefnd hefði ekki metið hæfastan, nema að fengnu samþykki Alþingis. Þá taldi Hæstiréttur að í rökstuðningi ráðherra til Alþingis hefði ekkert nýtt komið fram umfram það sem fram hefði komið í áliti dómnefndar. Þá hafnaði Hæstiréttur því að sjónarmið á grundvelli laga nr. 10/2018 um jafna stöðu kvenna og karla gætu komið til álita við veitingu dómaraembætta nema tveir eða fleiri umsækjendur hefðu áður verið metnir jafn hæfir til að gegna þeim. Var það niðurstaða Hæstaréttar að málsmeðferð dómsmálaráðherra hefði verið andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga og þar sem ekki hefði verið bætt úr ágöllum á málsmeðferð ráðherra, þegar komið hefði til atkvæðagreiðslu á Alþingi, hafi einnig verið annmarki á meðferð Alþingis á tillögu dómsmálaráðherra. 13       Stefndi í máli þessu byggir á því að sú háttsemi ráðherra að ganga fram hjá honum við skipun í embætti landsréttardómara hafi verið saknæm og ólögmæt og valdið stefnda umtalsverðu tjóni enda hafi hann verið í hópi þeirra 15 umsækjenda sem dómnefnd samkvæmt 4. gr. a laga nr. 15/1998 um dómstóla hafði metið hæfasta til að gegna embætti landsréttardómara. Telur stefndi einsýnt að hann hefði verið skipaður í embættið ef ekki hefði komið til hinnar ólögmætu ákvörðunar ráðherra. Þannig hafi stefndi átt lögvarinn rétt til embættisins. 14       Sönnunarbyrði hvílir á stefnda um það hvort skilyrðum almennu skaðabótareglunnar um orsakasamband og sennilega afleiðingu sé fullnægt. Þarf stefndi því að sýna fram á að honum hafi borið skipun í embætti dómara við Landsrétt umfram aðra umsækjendur sem uppfylltu almenn hæfisskilyrði laga. 15       Með vísan til alls sem að framan greinir og þess hvernig löggjafinn ákvað að haga málum við skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn, gat stefndi ekki gengið að því sem vísu að hann yrði skipaður landsréttardómari, þegar af þeirri ástæðu að ráðherra var, eins og rakið hefur verið, samkvæmt bráðabirgðaákvæði IV í lögum nr. 50/2016, heimilt að fengnu samþykki Alþingis að skipa annan eða aðra umsækjendur dómara við Landsrétt en þá sem dómnefnd hafði metið hæfasta að því tilskildu að þeir uppfylltu almenn hæfisskilyrði laganna. Verður því ekki fallist á með stefnda að hann hafi þrátt fyrir niðurstöðu dómnefndarinnar, 19. maí 2017, átt lögvarinn rétt til að vera skipaður dómari við Landsrétt. Er áfrýjandi því sýkn af kröfu stefnda um viðurkenningu á bótaskyldu. 16       Eftir framangreindum úrslitum fer um málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Áfrýjandi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfu stefnda, Eiríks Jónssonar. Málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti fellur niður.   Sératkvæði Árna Vilhjálmssonar 1       Ég er ósammála niðurstöðu meirihlutans um að sýkna beri áfrýjanda af kröfu stefnda um viðurkenningu á bótaskyldu vegna fjártjóns af völdum þess að hann var ekki skipaður í eitt af 15 embættum dómara við Landsrétt sem auglýst voru laus til umsóknar 10. febrúar 2017 og tel að staðfesta beri hinn áfrýjaða dóm. 2       Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi byggist málatilbúnaður stefnda á því að hann hefði hlotið embætti dómara við Landsrétt ef ekki hefðu verið annmarkar á málsmeðferð og efnislegu mati ráðherra. Samkvæmt dómum Hæstaréttar frá 19. desember 2017 í málunum nr. 591/2017 og 592/2017 liggur fyrir að annmarki hafi verið á tillögu dómsmálaráðherra þegar málið kom til afgreiðslu Alþingis. Annmarkinn fólst ekki í tillögu ráðherra um skipun þeirra 11 umsækjenda sem byggðist á niðurstöðu dómnefndar. Ráðherrann gerði tillögu sem vék frá niðurstöðunni að því er varðaði fjóra tiltekna umsækjendur, þar á meðal stefnda, en það var henni fyllilega heimilt að gera. Slíka ákvörðun varð á hinn bóginn óhjákvæmilega að reisa á frekari rannsókn ráðherra í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ljósi þessarar lögbundnu rannsóknarskyldu bar ráðherra að lágmarki að gera samanburð á hæfni annars vegar þeirra sem nefndin hafði metið meðal þeirra 15 hæfustu, en ráðherra gerði ekki tillögu um, og hins vegar þeirra fjögurra sem ráðherra gerði tillögu um í stað hinna fyrrnefndu. Aðeins þannig hefði Alþingi á réttum forsendum getað rækt hlutverk sitt í þessu ferli og tekið afstöðu til mats ráðherra andstætt mati dómnefndarinnar. Gögn málsins bera ekki með sér að þessi rannsókn hafi farið fram.  3       Eins og rakið er í tilvitnuðum dómum Hæstaréttar er ótvírætt að dómsmálaráðherra fer með skipunarvald dómara í embætti. Stefndi var, sem fyrr segir, ásamt þremur öðrum umsækjendum sem dómnefndin hafði gert tillögu um að skipaðir yrðu dómarar við Landsrétt, ekki meðal þeirra 15 sem ráðherra gerði tillögu um. Með bréfi dómsmálaráðherra 29. maí 2017 til forseta Alþingis þar sem hún leitaði eftir samþykki þingsins fyrir tillögu sinni fylgdi tveggja blaðsíðna fylgiskjal. Þar var farið yfir þau sjónarmið sem leiddu til þess að ráðherrann ákvað að víkja frá niðurstöðum nefndarinnar. Að mati ráðherra vó þyngst að í umsögn dómnefndar fengi dómarareynsla ekki það vægi sem tilefni væri til og gert sé ráð fyrir í reglum nr. 620/2010. Með minnisblaði til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis 30. maí 2017 gerði ráðherra síðan tilraun til þess að rökstyðja ákvörðun sína nánar. Hvergi var gerður samanburður á hæfni þeirra umsækjenda sem dómnefnd hafði metið meðal 15 hæfustu og ráðherra hafði ekki gert tillögu um og þeirra fjögurra sem ráðherra gerði tillögu um að skipaðir yrðu í þeirra stað. Ef auka hefði átt vægi dómarareynslu umfram það sem fram var tekið í auglýsingunni frá 10. febrúar 2017, með því að taka tillit til starfsreynslu dómara umfram reynslu annarra umsækjenda, hlaut stefndi einnig að njóta þess. Ætla má að þetta aukna vægi dómarareynslu hefði styrkt stöðu stefnda að þessu leyti, en hann var settur héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur um 11 mánaða skeið árið 2013. Einnig sat hann sem sérfróður meðdómsmaður í einu máli hjá sama dómstól árið áður. Því hafði hann þá þegar reynslu af stjórnun þinghalda og að semja og rita dóma. Hann bjó því ótvírætt yfir meiri reynslu af dómstörfum en nokkrir þeirra umsækjenda sem ráðherra lagði til að skipaðir yrðu af lista dómnefndarinnar. Þá kemur ekki fram í gögnum málsins hvaða matsþættir þurftu að víkja fyrir auknu vægi dómarareynslu. Ljóst er að fullnægjandi rannsókn samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga fór ekki fram og að ómálaefnalega var staðið að tillögugerðinni til Alþingis.  4       Með vísan til framangreinds og hins áfrýjaða dóms, tel ég að stefndi hafi leitt nægilega sterkar líkur að því að lögmæt meðferð málsins hefði orðið til þess að hann hefði verið skipaður í embætti dómara við Landsrétt og að áfrýjandi beri þar með skaðabótaábyrgð vegna þess fjárhagstjóns sem gögn málsins bera með sér að stefndi hafi orðið fyrir. Því tel ég að fallast beri á viðurkenningu á skaðabótaskyldu áfrýjanda vegna þess fjárhagslega tjóns sem stefndi varð fyrir vegna ákvörðunar ráðherra. 5       Í ljósi þessarar niðurstöðu tel ég að áfrýjanda beri að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2018   I.                    Dómkröfur Mál þetta var þingfest 15. febrúar 2018 en tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 11. september sl.  Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði bótaskylda stefnda vegna tjóns stefnanda af völdum þess að hann var ekki skipaður í eitt af 15 embættum dómara við Landsrétt sem auglýst voru laus til umsóknar 10. febrúar 2017. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Af hálfu stefnda eru gerðar þær dómkröfur að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.   II.                 Málavextir 10. febrúar 2017 auglýsti innanríkisráðuneytið laus til umsóknar embætti 15 dómara við Landsrétt með umsóknarfresti til 28. sama mánaðar. Alls sóttu 33 einstaklingar um embættin og var stefnandi einn þeirra. Í gögnum málsins kemur fram að dómsmálaráðherra og formaður dómnefndar samkvæmt 4. gr. a laga nr. 15/1998, um dómstóla, sbr. ákvæði til bráðabirgða IV í lögum nr. 50/2016 um dómstóla og lög nr. 10/2017, átti fund 2. mars 2017 þar sem ráðherra afhenti formanninum umsóknir um dómaraembættin. Á þeim fundi mun ráðherra hafa reifað þá hugmynd hvort til greina gæti komið að dómnefndin skilaði mati á til dæmis 20 hæfustu umsækjendunum sem ráðherra gæti valið á milli og skipað í umrædd 15 dómaraembætti. Á fundi dómsmálaráðherra og formanns dómnefndar 11. maí 2017 afhenti formaðurinn ráðherra drög að umsögn nefndarinnar og voru umsækjendum um dómaraembættin afhent drögin samdægurs. Á fundinum mun ráðherra aftur hafa reifað þá hugmynd hvort til greina gæti komið að dómnefnd skilaði mati á fleiri en 15 hæfum umsækjendum. Formaður dómnefndar sýndi og útskýrði fyrir ráðherra við sama tækifæri stigatöflu í Excel-skjali sem nefndin hafði stuðst við í störfum sínum við mat á hæfni umsækjenda en lét ráðherra ekki af hendi afrit af töflunni. Dómnefndin skilaði dómsmálaráðherra 19. maí 2017 endanlegri umsögn, ásamt minnisblaði um það hvernig nefndin vann úr andmælum umsækjenda. Í umsögninni voru sögð deili á umsækjendunum, á hvaða sjónarmiðum nefndin byggði mat sitt og hvernig málsmeðferð fyrir nefndinni hefði verið háttað. Í umsögninni var einnig að finna almennar upplýsingar um umsækjendur og mat nefndarinnar á þeim. Mati nefndarinnar á umsækjendum var skipt í nokkra þætti sem fjallað var um í sérstökum undirköflum og var umsækjendum þar raðað í hæfnisröð um hvern þátt matsins. Í Excel-stigatöflu dómnefndar sem fyrir liggur í gögnum málsins er umsækjendum raðað eftir þeim stigafjölda sem áðurnefndir tólf matsþættir gáfu samanlagt samkvæmt vægi hvers og eins þáttar í heildarstigafjölda. Raðaðist hæfasti umsækjandinn fyrstur með stigafjöldann 7,35 og svo aðrir umsækjendur koll af kolli þar til komið var að þeim þrítugasta og þriðja með 3,525. Samkvæmt þessari röðun var stefnandi sá sjöundi í röðinni.   Í umsögn dómnefndarinnar var umsækjendum þó ekki raðað í röð eftir hæfni. Í staðinn var lýst þeirri niðurstöðu í umsögninni að allir 33 umsækjendurnir væru metnir hæfir en þeir 15 hæfastir sem nafngreindir voru í ályktarorði umsagnarinnar. Sérhver þeirra teldist hæfari en þeir sem kæmu á eftir en ekki þætti rétt að raða þeim sérstaklega innbyrðis í sæti. Í ályktarorði kom fram að stefnandi væri meðal þeirra 15 umsækjenda sem hæfastir væru til að gegna embætti dómara við Landsrétt. Dómsmálaráðherra ritaði formanni dómnefndar bréf 27. maí 2017 þar sem ráðherra óskaði upplýsinga og gagna um hvort dómnefndin hefði rætt sérstaklega forsendur vægis einstakra matsþátta sem tilgreindir væru í umsögn nefndarinnar. Jafnframt var um það spurt hvort dómnefndin hefði tekið til sérstakrar umræðu þá niðurstöðu sína að einungis væri vísað til 15 hæfustu umsækjendanna en ekki fleiri. Formaður nefndarinnar svaraði ráðherra með bréfi næsta dag þar sem fram kom að skipan í einstaka matsþætti hefði orðið til þegar í kjölfar setningar laga nr. 45/2010 um breytingu á lögum um dómstóla nr. 15/1998 og hafi nefndinni ekki þótt rétt að bregða út frá því sem verið hefði, enda væri nokkurs virði að festa ríkti í þeim efnum. Þá hafi ekki verið tilefni til að meta fleiri en 15 umsækjendur hæfasta þar sem munur hafi verið á umsækjanda í fimmtánda sæti og öðrum þeim sem á eftir komu. Í bréfi formanns dómnefndar til dómsmálaráðherra 28. maí 2017 kom fram að nefndin hafi á fleiri fundum en einum rætt vægi einstakra matsþátta sem heildarmat nefndarinnar var reist á en vægið hafi verið það sama í formannstíð hans frá miðju ári 2013. Þá sagði í bréfinu að formaðurinn hafi tekið við svokölluðum skorblöðum frá fyrri dómnefnd sem notuð hafi verið við samlagningu og útreikninga á niðurstöðum um einstaka umsækjendur en á þessum skorblöðum hafi verið prentaðar nákvæmlega þær vægistölur í prósentum sem síðan hafi verið beitt. Skorblöðin hafi verið leyst af hólmi með stigatöflu með sama vægi einstakra þátta og áður, en notkun stigatöflu í þetta skipti hafi helgast af miklum fjölda umsækjenda. Í skýrslu sinni fyrir dómi bar Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra að hún hefði átt samtal við formenn allra stjórnarflokkana þegar álit dómnefndarinnar kom fram. Í skýrslu sinni kvað hún að sér hefði verið gert ljóst heilt yfir í þeim samtölum við formennina að erfitt yrði að afla þessum tillögum brautargengis. Formennirnir hefðu látið þetta í ljós með mismunandi hætti. Sumir sögðu að þetta yrði erfitt, en aðrir að þetta gengi ekki. Ráðherra kvaðst, í skýrslu sinni, hafa fengið sérfræðinga í stjórnsýslurétti á sinn fund, meðal annars Hafstein Þór Hauksson, sem átti þátt í að semja frumvarp til þeirra laga sem á reyndi við skipunina, m.a. bráðabirgðaákvæðið. Í ljósi þess skamma tímafrests sem lögin veittu til að endurskoða nefndina taldi ráðherra rétt að túlka þann frest ráðherra í hag. Það væri m.ö.o. ekki hægt að gera sömu kröfur til rannsóknar ráðherra og til nefndarinnar. Í gögnum málsins kemur einnig fram að ráðherra hafi haft samráð við embættismenn um meðferð málsins. Í tölvupósti Ragnhildar Arnljótsdóttur, setts ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins, í tengslum við skipun dómara við Landsrétt, til dómsmálaráðherra og aðstoðarmanns hennar, dags. 28. maí 2017, kemur fram að ráðuneytisstjórinn hafi rennt yfir drög að rökstuðningi ráðherra, gert athugasemdir og lagt til að Hafsteinn Þór fengi þau sem fyrst til yfirlestrar. Síðan segir í tölvupóstinum:           ,,Svona blasir viðfangsefnið við mér, þ.e. leiðir sem ráðherra hefur: Möguleiki er að ráðherra greini frá því á morgun að ráðherra sé ekki sáttur við forsendur dómnefndarinnar og leggi til að gildistöku laganna verði frestað til 1. október (frv. lagt fyrir Alþingi á morgun) og að dómnefndin fari aftur yfir málið á forsendum sem ráðherra leggur áherslur á með góðum rökstuðningi (sem ráðherra setur fram í þessu skjali). Ráðherra sendi Alþingi bréf á morgun með tillögum sem gera ráð fyrir breytingum á grundvelli rökstuðnings um aukið vægi dómarastarfa. Ráðherra sé með því að bæta úr annmörkunum með sjálfstæðu mati, sem þýðir að leggja þarf sama mat á alla umsækjendur út frá þeim málefnalegu og lögmætu forsendum sem ráðherra gefur sér. Það þýðir að leggja þarf efnislegt mat á hæfni hvers umsækjenda út frá nýjum forsendum. Best væri því að veita dómarastarfaflokkunum aukið vægi og geta vísað til þess gagnvart öllum hópnum. Viltu að við förum á fulla ferð að reyna það í kvöld? Við gætum líka sagt að með þessari breytingu sé kynjahlutföllum breytt án þess að vísa í þau í rökstuðningi? Ráðherra sendi óbreyttan lista til þingsins (sem kallar þá á vinnu ráðherra við að velja með málefnalegum rökum ný nöfn) – ekki ákjósanleg leið.“   Dómsmálaráðherra afhenti forseta Alþingis 29. maí 2017 bréf með tillögum um hverja skyldi skipa dómara við Landsrétt. Þar sagði að ráðherra hygðist að fengnu samþykki Alþingis, sbr. 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis IV í lögum nr. 50/2016, leggja til við forseta Íslands að 15 nánar tilgreindir einstaklingar yrðu skipaðir dómarar við Landsrétt. Voru það þeir umsækjendur sem í stigatöflu dómnefndar höfðu raðast í sæti 1, 2, 3, 4, 5, 6, 8, 9, 10, 13, 15, 17, 18, 23 og 30. Af tillögum ráðherra leiddi að umsækjendur í 7., 11., 12. og 14. sæti stigatöflunnar voru ekki á meðal þeirra sem ráðherra lagði til að skipaðir yrðu. Í stað þeirra óskaði ráðherra eftir samþykki fyrir skipun þeirra sem samkvæmt stigatöflu dómnefndar höfðu raðast í sæti 17, 18, 23 og 30. Stefnandi hafði raðast í 7. sæti með heildarstigafjölda 6,2 í töflu dómnefndar. Á eftir honum kom umsækjandi í 8. sæti með 6,05 stig en síðan komu umsækjandi í 9. sæti með 6,00 stig, umsækjandi í 10. sæti með 5,8 stig og umsækjandi í 11. sæti með 5,75 stig. Þar á eftir komu síðan umsækjandi í 12. sæti með 5,675 stig, umsækjandi í 13. sæti með 5,55 stig, umsækjandi í 14. sæti með 5,525 stig og umsækjandi í 15. sæti með 5,48 stig. Sem fyrr segir lagði ráðherra til að umsækjendur í 17., 18., 23. og 30. sæti yrðu skipaðir, en þeir voru með 5,4, 5,275, 4,625 og 4,325 hver um sig. Bréfi dómsmálaráðherra til forseta Alþingis 29. maí 2017 fylgdi skjal dagsett sama dag. Hafði það að geyma rökstuðning ráðherra fyrir ákvörðun hennar en í bréfinu sagði meðal annars:   ,,Hinn nýi dómstóll, Landsréttur, verður áfrýjunardómstóll sem mun hafa það hlutverk að endurskoða dóma sem kveðnir hafa verið upp í héraði. Flestum dómsmálum sem áfrýjað verður til réttarins mun að öllum líkindum ljúka fyrir Landsrétti án þess að koma til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.   Fyrir liggur að skipa þarf 15 nýja dómara í einu vetfangi. Brýnt er að tryggja skilvirkni dómstólsins frá fyrsta degi svo og eðlilegan málsmeðferðartíma fyrir réttinum. Er það mat ráðherra að nauðsynlegt sé að gera reynslu af dómarastörfum hærra undir höfði en gert var í mati dómnefndar þannig að tryggt sé að meirihluti dómenda við Landsrétt hafi haldgóða reynslu af dómarastörfum. Var vægi þessa matsþáttar því aukið frá því sem var í heildarmati dómnefndar.   Það að veita dómarareynslu aukið vægi gerði það að verkum að neðangreindir umsækjendur, sem ráðherra gerir tillögu til Alþingis um að skipaðir verði í embætti landsréttardómara voru að mati ráðherra einnig hæfastir til viðbótar við þá sem dómnefnd hafði áður metið hæfasta. Ákvörðun að skipa dómara við Landsrétt er stjórnvaldsákvörðun og í stjórnsýslulögum er eftirfarandi rökstuðningur lögfestur sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt ákvæðinu þarf aðeins að rökstyðja ákvarðanir þegar þess er óskað innan 14 daga frá því aðila var tilkynnt ákvörðunin. Endanleg ákvörðun liggur ekki fyrir þar sem afla þarf samþykkis Alþingis fyrir niðurstöðu ráðherra, sbr. þau ákvæði dómstólalaga sem áður hafa verið rakin. Stjórnvöldum er ekki skylt að veita samhliða rökstuðning nema það sé sérstaklega boðið í lögum. Allvíða í lögum má finna ákvæði sem leggja þá skyldu á stjórnvöld að láta rökstuðning fylgja ákvörðununum sínum. Ekki er að finna nein slík ákvæði í lögum um dómstóla og þá er ekki kveðið á um að ráðherra þurfi að veita samhliða rökstuðning þegar ákveðið hefur verið að nýta þá heimild að leggja til nöfn annarra umsækjenda, en sem dómnefnd hefur metið hæfasta.   Rökstuðningur lýtur að því hvers vegna sá eða þeir sem skipaðir voru urðu fyrir valinu, en ekki ástæða þess að tiltekinn umsækjandi hafi ekki verið skipaður. Þetta hefur verið staðfest m.a. í álitum umboðsmanns Alþingis.   Áður hefur verið rakið að ráðherra vill í ljósi eðli þeirra skipana sem hér um ræðir, þ.e. að skipa 15 dómara við nýtt millidómstig að aukið vægi verði lagt á dómarareynslu eðli máls samkvæmt, þ.e. farsæla reynslu af störfum við dómstóla. Slík sjónarmið eru bæði málefnaleg og lögmæt. Þá liggur fyrir að lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, gilda um tillögu ráðherra.   Þrátt fyrir framangreint telur ráðherra rétt að gera Alþingi grein fyrir því efnislega mati sem liggur að baki tillögu ráðherra varðandi neðangreinda umsækjendur.   Arnfríður Einarsdóttir starfaði sem fulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík á árabilinu 1986-1992, síðustu árin sem aðalfulltrúi embættisins. Á árunum 1993-1998 var hún dómarafulltrúi við Héraðsdóm Reykjavíkur en eftir það aðstoðarmaður dómara við dómstólinn þar til hún var ráðin skrifstofustjóri hans 1. mars 1999 - 1. febrúar 2006. Á árunum 1992-2006 var hún allnokkrum sinnum sett héraðsdómari eða samtals í tæp fjögur ár. Hún var skipuð héraðsdómari 1. febrúar 2006 en var í námsleyfi frá störfum árið 2014. Samkvæmt því hefur hún verið fulltrúi og aðstoðarmaður dómara í meira en tíu ár og héraðsdómari í um það bil 14 ár. Frá því síðla árs 2010 hefur hún verið forseti Félagsdóms, en hún telur láta nærri að þar hafi verið dæmd 13 mál á ári að meðaltali á tímabilinu. Þá sat hún sem varadómari í Hæstarétti Íslands í einu máli. Á starfsferli hennar hefur hún jöfnum höndum dæmt í málum í öllum málaflokkum héraðsdómstólanna, þ.e. í öllum tegundum sakamála, í almennum einkamálum af öllum gerðum, ágreiningsmálum af öllum gerðum og lögræðismálum. Auk þess hefur hún samið fjölmarga rannsóknarúrskurði.   Þá má einnig nefna að Arnfríður hefur mikla reynslu af stjórnsýslustörfum, meðal annars í úrskurðarnefndum. Hún hefur jafnframt töluverða stjórnunarreynslu en hún var skrifstofustjóri Héraðsdóms Reykjavíkur í nærfellt fjögur ár og hefur verið forseti Félagsdóms frá árinu 2010.   Arnfríður á þannig 32 ára farsælan feril við dómstóla landsins og farið með dómsvald lungann af þeim tíma.   Ásmundur Helgason var í um tvö og hálft ár aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt íslands. Hann var skipaður dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur í maí 2010 og hefur gegnt embættinu í sjö ár. Á þeim tíma hefur hann dæmt í fjölmörgum einkamálum, verið meðdómsmaður í allnokkrum sakamálum og auk þess fengið fjölmörg mál til meðferðar þar sem gerð er krafa um rannsóknar- eða þvingunaraðgerðir af hálfu lögreglu og ákæruvalds. Ásmundur hefur verið fastur dómari í Félagsdómi frá ársbyrjun 2014. Hann var ad hoc dómari í Hæstarétti íslands í einu máli.   Ásmundur býr jafnframt yfir mikli reynslu af stjórnsýslustörfum. Hann starfaði til að mynda í um sjö ár hjá umboðsmanni Alþingis og í um tvö ár sem lögfræðingur á skrifstofu Alþingis, nær allan tímann sem aðallögfræðingur og þekkir því vel til stjórnsýslu. Þá liggja eftir hann töluverð fræðiskrif en hann hefur ritað bókarkafla, kennsluefni, fræðigreinar og fleira.   Jón Finnbjörnsson starfaði sem fulltrúi við Borgarfógetaembættið í Reykjavík í samtals um þrjú ár á árabilinu 1983-1990, aðstoðarmaður hæstaréttardómara í tvö og hálft ár á árunum 1987-1993 og fulltrúi við Héraðsdóm Reykjavíkur í fjögur ár 1993-1997. Þá var hann fjórum sinnum settur héraðsdómari í samtals um fjögur ár áður en hann var skipaður dómari við Héraðsdóm Suðurlands frá 1. mars 1998. Jón fluttist til Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2001 og hefur starfað þar síðan. Hann hefur verið dómari í samtals 22 ár að teknu tilliti til námsleyfis. Hann hefur á ferli sínum dæmt í bæði einkamálum og sakamálum.   Jón hefur starfað á vettvangi dómstólanna frá lokum kandídatsprófs. Hann á að baki farsælan 28 ára feril við dómstólana og nánast allan þann tíma við dómsstörf. Jón á jafnframt að baki langan kennsluferil en hann var stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands í um átta ár og hefur annast kennslu við réttindanám í 11 ár. Hann hefur einnig samið námsefni í sjórétti og fræðigreinar á sviði lögfræði.   Ragnheiður Bragadóttir hóf störf sem fulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík að loknu embættisprófi 1989 og gegndi því starfi í þrjú ár. Frá 1. júlí 1992 starfaði hún í rúm fimm ár sem dómarafulltrúi við Héraðsdóm Reykjavíkur. Ragnheiður starfaði sem aðstoðarmaður hæstaréttardómara frá 15. ágúst 1997 til 15. janúar 1999, en þá var hún sett til þess að gegna starfi héraðsdómara til 30. júní 2001. Á þeim tíma starfaði hún sem dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur Héraðsdóm Vesturlands og Héraðsdóm Austurlands. Hún var skipuð dómari við Héraðsdóm Austurlands frá 15. september 2005 og gegndi því starfi til 1. september 2008, er hún sótti um flutning til Héraðsdóms Reykjaness, og hefur frá þeim tíma starfað sem héraðsdómari við þann dómstól.   Ragnheiður starfaði sem sjálfstætt starfandi lögmaður um tíma áður en hún varð dómari. Á sama tíma rak hún sína eigin lögmannstofu, ýmist ein eða með öðrum. Hún hefur jafnframt reynslu af stjórnsýslustörfum og hefur til að mynda tekið sæti í óbyggðanefnd, úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og samkeppnisráði. Auk þess hefur hún annast stundakennslu við Háskóla íslands. Þá var hún dómstjóri við Héraðsdóm Austurlands á árunum 2005-2008. Starfsreynsla hennar er því afar fjölbreytt.   Ragnheiður á þannig að baki rúmlega 22 ára feril við dómstólana, sem dómari, dómstjóri dómarafulltrúi og aðstoðarmaður dómara. Störf hennar hafa tekið til allra réttarsviða. Eins og rakið hefur verið að framan þá er það hin mikla reynsla þessara umsækjanda af störfum dómara sem lá til grundvallar tillögu ráðherra, ásamt því sem líta bar til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.   Ráðherra er í mati sínu bundinn af því að velja þá sem hæfastir eru til að gegna embætti landsréttardómara. Í fyrirliggjandi máli eru að mati ráðherra ofangreindir fjórir umsækjendur að auki hæfastir til að gegna embætti dómara við Landsrétt. Byggist það mat ráðherra á ítarlegri yfirferð á gögnum málsins, þ.m.t. umsókna, umsagnar dómnefndar, andmæla umsækjenda, vinnugagna nefndarinnar og með þau málefnalegu sjónarmið að leiðarljósi sem áður hafa verið rakin. Ráðherra hefur ekki gert athugasemd við undirbúning málsins af hálfu dómnefndar. Ráðherra telur dómnefnd hafa upplýst málið nægilega og fullnægjandi rannsókn farið fram á þeim matsþáttum sem eru til grundarvallar niðurstöðu. Ráðherra telur rétt að vægi dómsstarfa sé þyngra en dómnefnd gerði ráð fyrir. Nefndin hefur nú þegar lagt mat á þennan matsþátt og allar upplýsingar um dómarareynslu umsækjenda liggja fyrir í gögnum málsins. Engar nýjar upplýsingar eða gögn hafa legið til grundvallar tillögu ráðherra.“   Þá fylgdu og með bréfi ráðherra drög að tillögum hennar til forseta Íslands um skipun þeirra 15 umsækjenda sem ráðherra óskaði eftir að Alþingi samþykkti. Við aðalmeðferð málsins var ráðherra spurð nánar um hvernig hún hefði farið yfir mat sitt á dómarareynslu. Í skýrslu sinni kvaðst hún hafa haft efasemdir um mat nefndarinnar á þessum þætti strax 11. maí 2017 þegar formaður dómnefndarinnar hefði sýnt henni Excel-skjal með mati á umsækjendum án þess að henni væri afhent skjalið. Hún hafði síðan fengið skjalið afhent 19. maí 2017 og hafi henni þá fundist liggja fyrir að dómarareynsla hefði borið skarðan hlut frá borði, ekki síst í ljósi þeirra ályktana sem nefndin kaus að draga frá þessari töflu. Þar sem verið var að skipa í áfrýjunardómstól en ekki fyrsta stig hafi henni fundist dómarareynsla skipta máli. Í kjölfarið hafi hún skoðað ítarlega vinnu nefndarinnar og andmæli sem fram komu og byggt á vinnu nefndarinnar að miklu leyti. Leggja hafi þurft heildstætt mat á umsækjendur og þeir fjórir sem fóru inn í hópinn höfðu allir haft meiri dómarareynslu en þeir fjórir sem hún tók út, þar af höfðu a.m.k. þrír umtalsvert meiri dómarareynslu. Það var líka verið að skipa hóp fólks með breiða skírskotun úr fræðimannasamfélaginu og stjórnsýslunni, en henni hafi fundist dómarareynsla bera skarðan hlut frá borði. Í framhaldinu fór tillaga dómsmálaráðherra samkvæmt ákvörðun forseta Alþingis til meðferðar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins. Eftir að þau sjónarmið komu fram fyrir nefndinni að óeðlilegt væri að ekki væru færð rök með hverjum og einum umsækjanda í bréfi ráðherra til forseta Alþingis sendi ráðherra nefndinni minnisblað, dagsett 30. maí 2017, fjórar blaðsíður að lengd. Kom þar meðal annars fram að þrátt fyrir að engin lagaskylda hvíldi á ráðherra til að veita samhliða rökstuðning teldi ráðherra engu að síður rétt að gera grein fyrir því efnislega mati sem lægi að baki tillögum hennar um að skipa nánar tilgreinda fjóra umsækjendur sem ekki voru í hópi þeirra 15 sem dómnefnd hafði talið hæfasta. Í bréfinu sagði meðal annars:  ,,Hinn nýi dómstóll, Landsréttur, verður áfrýjunardómstóll sem mun hafa það hlutverk að endurskoða dóma sem kveðnir hafa verið upp í héraði. Flestum dómsmálum sem áfrýjað verður til réttarins mun að öllum líkindum ljúka fyrir Landsrétti án þess að koma til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Fyrir liggur að skipa þarf 15 nýja dómara í einu vetfangi. Brýnt er að tryggja skilvirkni dómstólsins frá fyrsta degi svo og eðlilegan málsmeðferðartíma fyrir réttinum. Er það mat ráðherra að nauðsynlegt sé að gera reynslu af dómarastörfum hærra undir höfði en gert var í mati dómnefndar þannig að tryggt sé að meirihluti dómenda við Landsrétt hafi haldgóða reynslu af dómarastörfum. Var vægi þessa matsþáttar því aukið frá því sem var í heildarmati dómnefndar. Það að veita dómarareynslu aukið vægi gerði það að verkum að neðangreindir umsækjendur, sem ráðherra gerir tillögu til Alþingis um að skipaðir verði í embætti landsréttardómara voru að mati ráðherra einnig hæfastir til viðbótar við þá sem dómnefnd hafði áður metið hæfasta. Ákvörðun að skipa dómara við Landsrétt er stjórnvaldsákvörðun og í stjórnsýslulögum er eftirfarandi rökstuðningur lögfestur sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt ákvæðinu þarf aðeins að rökstyðja ákvarðanir þegar þess er óskað innan 14 daga frá því aðila var tilkynnt ákvörðunin. Endanleg ákvörðun liggur ekki fyrir þar sem afla þarf samþykkis Alþingis fyrir niðurstöðu ráðherra, sbr. þau ákvæði dómstólalaga sem áður hafa verið rakin. Stjórnvöldum er ekki skylt að veita samhliða rökstuðning nema það sé sérstaklega boðið í lögum. Allvíða í lögum má finna ákvæði sem leggja þá skyldu á stjórnvöld að láta rökstuðning fylgja ákvörðununum sínum. Ekki er að finna nein slík ákvæði í lögum um dómstóla og þá er ekki kveðið á um að ráðherra þurfi að veita samhliða rökstuðning þegar ákveðið hefur verið að nýta þá heimild að leggja til nöfn annarra umsækjenda, en sem dómnefnd hefur metið hæfasta. Rökstuðningur lýtur að því hvers vegna sá eða þeir sem skipaðir voru urðu fyrir valinu, en ekki ástæða þess að tiltekinn umsækjandi hafi ekki verið skipaður. Þetta hefur verið staðfest m.a. í álitum umboðsmanns Alþingis. Áður hefur verið rakið að ráðherra vill í ljósi eðli þeirra skipana sem hér um ræðir, þ.e. að skipa 15 dómara við nýtt millidómstig að aukið vægi verði lagt á dómarareynslu eðli máls samkvæmt, þ.e. farsæla reynslu af störfum við dómstóla. Slík sjónarmið eru bæði málefnaleg og lögmæt. Þá liggur fyrir að lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla gilda um tillögu ráðherra. Þrátt fyrir framangreint telur ráðherra rétt að gera Alþingi grein fyrir því efnislega mati sem liggur að baki tillögu ráðherra varðandi neðangreinda umsækjendur. Arnfríður Einarsdóttir starfaði sem fulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík á árabilinu 1986-1992, síðustu árin sem aðalfulltrúi embættisins. Á árunum 1993-1998 var hún dómarafulltrúi við Héraðsdóm Reykjavíkur en eftir það aðstoðarmaður dómara við dómstólinn þar til hún var ráðin skrifstofustjóri hans 1. mars 1999 - 1. febrúar 2006. Á árunum 1992-2006 var hún allnokkrum sinnum sett héraðsdómari eða samtals í tæp fjögur ár. Hún var skipuð héraðsdómari 1. febrúar 2006 en var í námsleyfi frá störfum árið 2014. Samkvæmt því hefur hún verið fulltrúi og aðstoðarmaður dómara í meira en tíu ár og héraðsdómari í um það bil 14 ár. Frá því síðla árs 2010 hefur hún verið forseti Félagsdóms, en hún telur láta nærri að þar hafi verið dæmd 13 mál á ári að meðaltali á tímabilinu. Þá sat hún sem varadómari í Hæstarétti Íslands í einu máli. Á starfsferli hennar hefur hún jöfnum höndum dæmt í málum í öllum málaflokkum héraðsdómstólanna, þ.e. í öllum tegundum sakamála, í almennum einkamálum af öllum gerðum, ágreiningsmálum af öllum gerðum og lögræðismálum. Auk þess hefur hún samið fjölmarga rannsóknarúrskurði. Þá má einnig nefna að Arnfríður hefur mikla reynslu af stjórnsýslustörfum, meðal annars í úrskurðarnefndum. Hún hefur jafnframt töluverða stjórnunarreynslu en hún var skrifstofustjóri Héraðsdóms Reykjavíkur í nærfellt fjögur ár og hefur verið forseti Félagsdóms frá árinu 2010. Arnfríður á þannig 32 ára farsælan feril við dómstóla landsins og farið með dómsvald lungann af þeim tíma. Ásmundur Helgason var í um tvö og hálft ár aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt íslands. Hann var skipaður dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur í maí 2010 og hefur gegnt embættinu í sjö ár. Á þeim tíma hefur hann dæmt í fjölmörgum einkamálum, verið meðdómsmaður í allnokkrum sakamálum og auk þess fengið fjölmörg mál til meðferðar þar sem gerð er krafa um rannsóknar- eða þvingunaraðgerðir af hálfu lögreglu og ákæruvalds. Ásmundur hefur verið fastur dómari í Félagsdómi frá ársbyrjun 2014. Hann var ad hoc dómari í Hæstarétti íslands í einu máli. Ásmundur býr jafnframt yfir mikli reynslu af stjórnsýslustörfum. Hann starfaði til að mynda í um sjö ár hjá umboðsmanni Alþingis og í um tvö ár sem lögfræðingur á skrifstofu Alþingis, nær allan tímann sem aðallögfræðingur og þekkir því vel til stjórnsýslu. Þá liggja eftir hann töluverð fræðiskrif en hann hefur ritað bókarkafla, kennsluefni, fræðigreinar og fleira. Jón Finnbjörnsson starfaði sem fulltrúi við Borgarfógetaembættið í Reykjavík í samtals um þrjú ár á árabilinu 1983-1990, aðstoðarmaður hæstaréttardómara í tvö og hálft ár á árunum 1987-1993 og fulltrúi við Héraðsdóm Reykjavíkur í fjögur ár 1993-1997. Þá var hann fjórum sinnum settur héraðsdómari í samtals um fjögur ár áður en hann var skipaður dómari við Héraðsdóm Suðurlands frá 1. mars 1998. Jón fluttist til Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2001 og hefur starfað þar síðan. Hann hefur verið dómari í samtals 22 ár að teknu tilliti til námsleyfis. Hann hefur á ferli sínum dæmt í bæði einkamálum og sakamálum. Jón hefur starfað á vettvangi dómstólanna frá lokum kandídatsprófs. Hann á að baki farsælan 28 ára feril við dómstólana og nánast allan þann tíma við dómsstörf. Jón á jafnframt að baki langan kennsluferil en hann var stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands í um átta ár og hefur annast kennslu við réttindanám í 11 ár. Hann hefur einnig samið námsefni í sjórétti og fræðigreinar á sviði lögfræði. Ragnheiður Bragadóttir hóf störf sem fulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík að loknu embættisprófi 1989 og gegndi því starfi í þrjú ár. Frá 1. júlí 1992 starfaði hún í rúm fimm ár sem dómarafulltrúi við Héraðsdóm Reykjavíkur. Ragnheiður starfaði sem aðstoðarmaður hæstaréttardómara frá 15. ágúst 1997 til 15. janúar 1999, en þá var hún sett til þess að gegna starfi héraðsdómara til 30. júní 2001. Á þeim tíma starfaði hún sem dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur Héraðsdóm Vesturlands og Héraðsdóm Austurlands. Hún var skipuð dómari við Héraðsdóm Austurlands frá 15. september 2005 og gegndi því starfi til 1. september 2008, er hún sótti um flutning til Héraðsdóms Reykjaness, og hefur frá þeim tíma starfað sem héraðsdómari við þann dómstól. Ragnheiður starfaði sem sjálfstætt starfandi lögmaður um tíma áður en hún varð dómari. Á sama tíma rak hún sína eigin lögmannstofu, ýmist ein eða með öðrum. Hún hefur jafnframt reynslu af stjórnsýslustörfum og hefur til að mynda tekið sæti í óbyggðanefnd, úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og samkeppnisráði. Auk þess hefur hún annast stundakennslu við Háskóla íslands. Þá var hún dómstjóri við Héraðsdóm Austurlands á árunum 2005-2008. Starfsreynsla hennar er því afar fjölbreytt. Ragnheiður á þannig að baki rúmlega 22 ára feril við dómstólana, sem dómari, dómstjóri dómarafulltrúi og aðstoðarmaður dómara. Störf hennar hafa tekið til allra réttarsviða. Eins og rakið hefur verið að framan þá er það hin mikla reynsla þessara umsækjanda af störfum dómara sem lá til grundvallar tillögu ráðherra, ásamt því sem líta bar til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ráðherra er í mati sínu bundinn af því að velja þá sem hæfastir eru til að gegna embætti landsréttardómara. Í fyrirliggjandi máli eru að mati ráðherra ofangreindir fjórir umsækjendur að auki hæfastir til að gegna embætti dómara við Landsrétt. Byggist það mat ráðherra á ítarlegri yfirferð á gögnum málsins, þ.m.t. umsókna, umsagnar dómnefndar, andmæla umsækjenda, vinnugagna nefndarinnar og með þau málefnalegu sjónarmið að leiðarljósi sem áður hafa verið rakin. Ráðherra hefur ekki gert athugasemd við undirbúning málsins af hálfu dómnefndar. Ráðherra telur dómnefnd hafa upplýst málið nægilega og fullnægjandi rannsókn farið fram á þeim matsþáttum sem eru til grundarvallar niðurstöðu. Ráðherra telur rétt að vægi dómsstarfa sé þyngra en dómnefnd gerði ráð fyrir. Nefndin hefur nú þegar lagt mat á þennan matsþátt og allar upplýsingar um dómarareynslu umsækjenda liggja fyrir í gögnum málsins. Engar nýjar upplýsingar eða gögn hafa legið til grundvallar tillögu ráðherra.“ Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gerði 31. maí 2017 tillögu til þingsályktunar um að Alþingi samþykkti tillögur dómsmálaráðherra um að þeir yrðu skipaðir dómarar við Landsrétt sem ráðherra hafði lagt til í bréfi sínu til forseta Alþingis 29. sama mánaðar. Voru þeir þar taldir upp í stafrófsröð og raðað eftir númerum frá 1 til 15. Í áliti minnihluta þingnefndarinnar sagði að þótt ágreiningslaust væri að ráðherra hefði heimild til að víkja frá mati dómnefndar, svo fremi sem Alþingi samþykkti þá tilhögun, væri ráðherra ekki undanþeginn þeirri meginreglu að skipa hæfasta umsækjandann. Taldi minnihlutinn að röksemdir ráðherra í minnisblaðinu 30. maí 2017 væru ekki þær sömu og fram hefðu komið í fylgiskjalinu með tillögum ráðherra degi fyrr og þannig „virðist svo sem rökstuðningur ráðherra taki breytingum eftir því sem málinu vindur fram. Alþingi hlýtur að gera kröfu til þess að rökstuðningur liggi allur fyrir áður en ráðherra tekur ákvörðun um tillögu sína til Alþingis.“ Þá taldi minnihlutinn vafa leika á að ráðherra hefði haft í heiðri rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins meðal annars vegna þess að „fjórir umsækjendur falla af listanum í stað þeirra fjögurra sem bætast við á listann. Ekki er ljóst af rökstuðningi ráðherra hvaða samanburður hefur farið fram á milli þeirra umsækjenda sem dómnefnd telur hæfasta og falla brott úr tillögu ráðherra og þeirra fjögurra sem ekki eru á meðal þeirra sem dómnefnd telur hæfasta en bætast við tillögu ráðherra ... Ljóst má vera að ráðherra telur rökstuðning sinn jafngilda fullnægjandi rannsókn en ekki er sýnt í rökstuðningi ráðherra að sambærileg sérfræðiþekking liggi að baki mati ráðherra á umsækjendum og mati dómnefndar. Þá ber að nefna að mat dómnefndar er allítarlegt, 117 blaðsíður, þar sem farið er yfir hæfni einstaklinga í ólíkum matsþáttum og birt röð að loknum hverjum þætti en mat ráðherra er fjórar blaðsíður sem byggjast að miklu leyti á upplýsingum úr dómnefndaráliti um reynslu umsækjenda af dómarastörfum.“ Alþingi lauk meðferð sinni á málinu 1. júní 2017 með því að tillögur dómsmálaráðherra voru í einu lagi bornar undir atkvæði og samþykktar með 31 atkvæði gegn 22 en átta alþingismenn greiddu ekki atkvæði. Tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt sem Alþingi samþykkti í atkvæðagreiðslunni 1. júní 2017 voru ásamt skipunarbréfum í framhaldinu sendar forseta Íslands til staðfestingar. Forseti undirritaði síðan 8. júní 2017 skipunarbréf þeirra 15 dómara við Landsrétt sem dómsmálaráðherra hafði gert tillögu um og Alþingi samþykkt.  Með bréfi, dags. 12. júní 2017, tilkynnti dómsmálaráðuneytið stefnanda að það hefði borið ofangreindar tillögur undir forseta sem hefði staðfest þær. Var stefnanda jafnframt leiðbeint um að hann gæti óskað rökstuðnings fyrir ákvörðuninni, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stefnandi svaraði þessu bréfi með tölvubréfi 15. júní 2017. Þar tilkynnti hann ráðuneytinu um að hann teldi sig þegar hafa fengið rökstuðning og að hann áskildi sér rétt til að krefjast síðar bóta fyrir fjártjón og miska. Í kjölfar þess að umræddir 15 umsækjendur voru skipaðir dómarar við Landsrétt höfðuðu tveir umsækjenda, þeir Ástráður Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannesson, mál á hendur stefnda. Með dómum Hæstaréttar frá 19. desember 2017 í málum nr. 591 og 592/2017 voru þeim báðum dæmdar 700.000 krónur í miskabætur vegna ólögmætrar málsmeðferðar ráðherra. Nánar er fjallað um þýðingu þessa dóma fyrir úrslit þessa máls í niðurstöðu dómsins, en báðir aðilar vísa til þeirra í málatilbúnaði sínum. Í framhaldi af dómum Hæstaréttar ritaði lögmaður stefnanda bréf til ríkislögmanns, dags. 28. desember 2017, þar sem stefndi var krafinn um greiðslu miskabóta og viðurkenningu á bótaskyldu vegna þess fjártjóns sem ákvörðun ráðherra um skipun dómara í Landsrétt hefði valdið honum. Í bréfinu var rakið að stefnandi teldi tjón sitt nema mismuni eigin mánaðarlauna og launa dómara við Landsrétt, auk mismunar lífeyrisréttinda og annarra launatengdra réttinda. Með bréfi ríkislögmanns, dags. 2. janúar 2018, var fallist á greiðslu miskabóta að fjárhæð 700.000 kr. en hafnað kröfu stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu.   III.               Málsástæður aðila. Málsástæður stefnanda Stefnandi byggir á því að sú háttsemi ráðherra að ganga framhjá honum við skipun í embætti dómara við Landsrétt hafi verið saknæm og ólögmæt og valdið honum umtalsverðu tjóni. Ákvörðun ráðherra hafi brotið gegn meginreglu íslensks réttar að skipa beri hæfasta umsækjandann um opinbert starf eða embætti hverju sinni. Þá braut ráðherra með háttsemi sinni gegn réttarreglum stjórnsýsluréttar, m.a. um rannsókn, rökstuðning, heildstæðan samanburð á umsækjendum og andmælarétt. Stefnandi vísar til þess að samkvæmt dómum Hæstaréttar í málum nr. 591 og 592/2017 sé óhjákvæmilegt ef ráðherra gerir tillögu til Alþingis um að vikið verði frá áliti dómnefndar að slík ákvörðun sé reist á frekari rannsókn ráðherra eftir 10. gr. stjórnsýslulaga. Skuli þá tryggt að fyrir hendi sé sérþekking sambærileg þeirri sem dómnefnd býr yfir og að tekið sé tillit til fyrirmæla ráðherra í reglum nr. 620/2010 um þau atriði sem ráða skulu hæfnismati. Sé til þessa enn brýnni ástæða en ella þegar álit dómnefndar bindur hendur ráðherra líkt og hér eigi við. Af hálfu stefnanda er vísað til niðurstöðu Hæstaréttar um að annmarkar hefðu verið á rannsókn ráðherra, rökstuðningi og tillögugerð. Þá segir í dómunum að rannsókn ráðherra hafi verið ófullnægjandi til að upplýsa málið nægilega, svo ráðherra væri fært að taka aðra ákvörðun um hæfni umsækjenda en dómnefnd hafði áður tekið. Hafi málsmeðferð ráðherra að þessu leyti verið andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga, en af því hafi sjálfkrafa leitt að annmarki var á meðferð Alþingis á tillögunni. Enn fremur segi í dómunum að rökstuðningur ráðherra í fylgiskjali með bréfi til forseta Alþingis 29. maí 2017 og tillaga hennar til Alþingis, um skipun tilgreindra fjögurra umsækjenda í dómaraembætti í stað þeirra sem dómnefnd hafði lagt til, hafi ekki fullnægt þeim lágmarkskröfum sem gera verði til rökstuðnings. Án tillits til þess hvort ráðherra hafi með minnisblaði sínu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis 30. maí 2017 getað bætt úr þeim annmörkum, sem voru á rannsókn hennar, rökstuðningi og tillögugerð, hefði það minnisblað ekkert nýtt að geyma umfram það sem fram hefði komið í áliti dómnefndar. Þá hafi sjónarmið á grundvelli laga nr. 10/2008 um jafna stöðu karla og kvenna ekki getað komið til álita við veitingu ráðherra á dómaraembættunum nema tveir eða fleiri umsækjendur hefðu áður verið metnir jafnhæfir til að gegna því. Stefnandi vísar enn fremur til þess að því hafi verið hafnað í dómum Hæstaréttar að slíkir annmarkar væru á umsögn dómnefndar að það réttlætti að vikið væri frá henni. Eini annmarkinn sem Hæstiréttur tiltók varðandi umsögn dómnefndar var sá að dómnefndin hefði ekki lagt út frá umsóknargögnum mat á færni hvers og eins umsækjanda til að semja dóma. Á hinn bóginn taldi rétturinn að þessi matsþáttur hefði haft óverulegt vægi í heildarstigafjölda dómnefndar, eða 2,5% meðan samtala allra matsþáttanna gat hæst orðið 105%. Annmarkinn hafi því verið óverulegur og ekki getað einn og sér gefið tilefni til þess að vikið yrði frá dómnefndarálitinu. Stefnandi telur að þeir annmarkar á stjórnsýslu ráðherra sem lýst er í framangreindum dómum eigi að öllu leyti við gagnvart honum. Stefndi hafi viðurkennt þetta gagnvart stefnanda með því að fallast á kröfu hans um miskabætur í bréfi sínu 2. janúar 2018 og þar með samþykkt rökstuðning Hæstaréttar fyrir tildæmdum miskabótum í áðurnefndum málum, sem m.a. byggir á því að dómsmálaráðherra hafi ekki farið eftir þeim reglum sem fylgja bar þegar hún gerði tillögu um að vikið yrði frá áliti dómnefndar varðandi veitingu áðurnefndra fjögurra dómaraembætta við Landsrétt. Þegar af þeirri ástæðu sé ótvírætt og hljóti að vera óumdeilt að háttsemi ráðherra var bæði saknæm og ólögmæt.   Frekari annmarkar gagnvart stefnanda Til viðbótar telur stefnandi að það sjónarmið, sem fram kom í minnisblaði ráðherra til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar 30. maí 2017, um að nauðsynlegt væri að gera reynslu af dómarastörfum hærra undir höfði en gert hafði verið í mati dómnefndar – og vægi þess matsþáttar því aukið frá því sem verið hafði í mati dómnefndar – hafi  með engu móti átt að geta leitt til þeirrar niðurstöðu að færa stefnanda af lista 15 hæfustu umsækjendanna. Þannig hafi stefnandi verið með meiri reynslu af dómstörfum en þrír umsækjendur sem dómnefnd hafði raðað fyrir aftan hann í hæfnisröð (umsækjendur í sætum nr. 8, 9 og 13). Ráðherra hafi engu að síður ákveðið að leggja til að þessir þrír umsækjendur yrðu skipaðir í embætti fremur en stefnandi. Fyrir þessu hafi ráðherra engar skýringar gefið og gangi þessi ákvörðun þvert á þann rökstuðning sem ráðherra þó gaf fyrir því að sniðganga álit dómnefndar. Þá áréttar stefnandi að hann hafi verið metinn sjöundi hæfasti umsækjandinn af dómnefnd, eða mun framar og með töluvert hærri einkunn en umsækjendurnir í framangreindum dómsmálum. Þá hafi munurinn verið enn meiri á stefnanda og þeim fjórum umsækjendum sem ráðherra ákvað að tilnefna þvert á niðurstöðu dómnefndar. Engin rök hafi verið færð fyrir því hvernig stefnandi gat mögulega lent utan hóps 15 hæfustu umsækjendanna. Var þó afar brýnt tilefni til, enda þyrfti verulegar breytingar á öllum forsendum matsins til að stefnandi teldist ekki meðal hinna 15 hæfustu umsækjenda. Þannig hafi réttarbrot ráðherra verið verst og alvarlegast gagnvart stefnanda.   Andmælaréttur Stefnandi vísar einnig til þess að honum hafi aldrei verið gefið færi á að tjá sig um sjónarmiðið um aukið vægi dómarareynslu, sem ráðherra kvaðst líta til er hann gerði framangreindar breytingar á tillögum dómnefndarinnar, né heldur um beitingu þess sjónarmiðs í málinu. Telur stefnandi þetta hafa verið í andstöðu við reglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt. Stefnandi telur að það segi sig sjálft að umsögn dómnefndarinnar var ívilnandi fyrir hann og því ekki hægt að halda því fram að andmælarétti hafi verið fullnægt með því að veita honum kost á að tjá sig um drög nefndarinnar, enda engu að andmæla fyrir stefnanda. Þessu hafi verið öfugt farið fyrir þá umsækjendur sem ekki voru á meðal 15 hæfustu í drögum og niðurstöðu nefndarinnar, enda hafi þeir skilað ítarlegum andmælum og þótt þau hafi ekki skilað árangri fyrir nefndinni, þá gerðu þau það við meðferð málsins hjá ráðherra og hefur það verið viðurkennt af hálfu stefnda. Umsækjendurnir sem um ræðir fengu því að skila inn andmælum þegar fyrir lá hverja til stæði að meta hæfasta af nefndinni. Þeir gátu því í andmælum sínum borið sig saman við þá umsækjendur sem til stóð að nefndin mæti hæfasta og gerðu það í raun. Þetta stóð stefnanda eðli málsins samkvæmt ekki til boða við málsmeðferð hjá nefndinni og hann fékk engan sambærilegan kost á að skila inn andmælum þegar fyrir lá hverja til stæði að ráðherra myndi skipa. Stefnandi telur augljóst að hann hafi ekki fengið að sitja við sama borð og þeir fjórir umsækjendur sem ráðherra skipaði í andstöðu við niðurstöðu dómnefndarinnar. Á meðan allri málsmeðferðinni stóð fór niðurstaða hennar frá því að vera ívilnandi fyrir stefnanda yfir í það að vera íþyngjandi fyrir hann, án þess að hann fengi á nokkrum tímapunkti kost á að tjá sig um þá breytingu. Að mati stefnanda fékk hann því engan raunverulegan andmælarétt við málsmeðferðina. Af hans hálfu er byggt á því að hann hafi átt rétt á að tjá sig um nýjar upplýsingar, sjónarmið og málsástæður stjórnvalds. Breyting á röðun umsækjenda við skipun í dómaraembætti heyri augljóslega þar undir. Stefnandi telur að ef hann hefði notið andmælaréttar þá hefði hann getað bent ráðherra á að hann hefur töluvert meiri dómarareynslu en nokkrir þeirra umsækjenda sem ráðherra skipaði sem landsréttardómara. Rökrétt afleiðing þess hefði verið að ráðherra skipaði stefnanda í embætti landsréttardómara. Um leið sýnir þetta atriði enn frekar hversu verulegir annmarkar voru á rannsókn ráðherra.   Um rökstuðning ráðherra og niðurstöður um bótagrundvöll Stefnandi telur sérstaklega ámælisvert að ráðherra hafi byggt á því í áðurnefndum dómsmálum að rökstuðningur hans í fylgiskjali með tillögum til forseta Alþingis hafi verið ætlaður þingheimi, en ekki umsækjendum, í ljósi þess að starfsmenn ráðuneytisins sendu stefnanda fylgiskjalið og vísuðu til þess um rökstuðning þegar stefnanda var synjað um andmælarétt. Gagnvart stefnanda hafi fylgiskjalið verið gert að samhliða rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun ráðherra að taka hann út af lista þeirra 15 umsækjenda sem ráðherra gerði tillögu um til Alþingis, þótt ráðherra hafi eftir á, í bréfi dags. 12. júní 2017, leitast við að bjóða upp á eftirfarandi rökstuðning fyrir ákvörðun sinni. Benti stefnandi þá á að hann hefði þegar fengið rökstuðning fyrir ákvörðuninni. Samkvæmt margnefndum dómum Hæstaréttar fullnægði umræddur rökstuðningur ekki þeim lágmarkskröfum sem gerðar verða í þessum efnum. Af framangreindu telur stefnandi ljóst að sú ákvörðun ráðherra að ganga framhjá honum við skipun í embætti dómara við Landsrétt hafi verið bæði saknæm og ólögmæt. Þetta staðfesti títtnefndir dómar Hæstaréttar, enda var talið að fullnægt væri skilyrðum b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til að dæma umsækjendunum í þeim málum miskabætur úr hendi stefnda, en það ákvæði gerir kröfu um aukið saknæmi, þ.e. ásetning eða verulegt gáleysi.   Um hunsun ráðherra á ráðgjöf starfsmanna ráðuneytisins Stefnandi vekur sérstaka athygli á gögnum sem lýsa aðdraganda ákvörðunarinnar og þeirri ráðgjöf sem ráðherra fékk áður en ákvörðunin var tekin. Gögnin hafi birst í fjölmiðlum að undanförnu og virðast vera hluti af þeim gögnum sem ráðherra afhenti  stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis vegna rannsóknar hennar á stjórnsýslu ráðherrans. Er skorað á stefnda að afhenda stefnanda öll þau skjöl, sbr. 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi telur að umrædd gögn sýn svo ekki verður um villst að starfsmenn ráðuneytisins upplýstu ráðherrann um það, að hygðist hann gera breytingar á lista dómnefndar yfir hæfustu umsækjendurna væri honum skylt að legga „sama mat á umsækjendur út frá þeim málefnalegu og lögmætu forsendum sem ráðherra gefur sér“ og nefndin hafði gert. Það þýði að ráðherra þurfi að „leggja efnisleg mat á hæfni hvers umsækjenda út frá nýjum forsendum.“ Hygðist ráðherra leggja til ný nöfn vöknuðu upp spurningar um rannsóknarskyldu og andmælarétt, auk þess sem ráðherra bæri við þær aðstæður að fara að stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Í athugasemdum við drög að bréfi sem síðar varð að fylgiskjali ráðherra með tillögum til Alþingis, beini starfsmenn ráðuneytisins þeim tilmælum til ráðherra að hann rökstyðji með vísan til reglna stjórnsýsluréttarins af hverju umsækjendur, sem nefndin mat hæfasta, séu teknir út af listanum og nýir settir inn. Rökstyðja þurfi hverjir séu hæfastir, ef ætlunin sé að breyta, og sá rökstuðningur þurfi að geyma hlutlægar og málefnalegar ástæður fyrir breytingunni. Þá þurfi ráðherra að leita andmæla hjá umsækjendum ef til standi að byggja ákvörðunina á öðrum atriðum en nefndin hafi þegar rannsakað. Auk framangreinds benti settur ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins ráðherra sérstaklega á að leggja þyrfti „sama mat á alla umsækjendur út frá þeim málefnalegu og lögmætu forsendum sem ráðherra gefur sér.“ Það þýði að leggja þurfi „efnislegt mat á hæfni hvers umsækjenda út frá nýjum forsendum“ og var ráðherra boðin aðstoð við þessa vinnu. Stefnandi telur að ráðherra hafi hunsað þessa ráðgjöf með öllu, en Hæstiréttur hafi þegar staðfest að ráðherra bar að haga málum með þeim hætti sem starfsmenn ráðuneytisins lögðu til. Verði tæplega annað ráðið af þessum málavöxtum en að það hafi hreinlega verið ásetningur ráðherra að taka ólögmæta stjórnvaldsákvörðun. Í stað þess að leitast á einhvern hátt við að verða við umræddri ráðgjöf,  rökstyðja breytingarnar og af hverju þeir umsækjendur sem kæmu inn með þeim teldust hæfastir, hvarf ráðherrann til framsetningar í þá veru að um væri að ræða einhvers konar hlaðborð, þar sem hún gæti einfaldlega valið á milli hæfra umsækjenda. Í fylgiskjalinu sagði þannig upphaflega, þegar það var sent til umsagnar starfsmanna ráðuneytisins:   „Eina ófrávíkjanlega krafan sem hlýtur að vera gerð er að til starfans veljist þeir sem hæfastir eru…“   Eftir ráðleggingar og tillögur starfsmanna ráðuneytisins hljóðaði setningin hins vegar svo í endanlegri útgáfu fylgiskjalsins:   „Eina ófrávíkjanlega krafan sem hlýtur að vera gerð er að til embættisins veljist hæfir einstaklingar…“   Stefnandi telur að þessi breyting á minnisblaðinu, samhliða því sem ráðleggingar starfsmannanna voru hunsaðar og engin tilraun gerð til að rökstyðja að þeir sem lagðir væru til teldust hinir hæfustu, segi í raun allt sem segja þarf um ákvörðun ráðherrans, sem hafi verið í hróplegu ósamræmi við framangreindar reglur stjórnsýsluréttar og þá meginreglu íslensks réttar að skipa beri hæfasta umsækjandann um opinbert starf eða embætti hverju sinni.   Um síðari skýringar ráðherra á opinberum vettvangi Stefnandi vísar til þess að rökstuðningur ríkislögmanns fyrir höfnun á viðurkenningarkröfu stefnanda telji einungis eina setningu, sem þar að auki sé bersýnilega röng. Þetta geri það að verkum að erfitt sé að átta sig á því á hverju höfnun stefnda á viðurkenningarkröfunni í reynd byggir. Ráðherra hafi hins vegar sett fram ýmsar skýringar opinberlega á framgöngu sinni, sem engin geti leitt til synjunar á bótakröfu stefnanda, auk þess sem þær séu að nokkru leyti í innbyrðis ósamræmi. Þannig hafi ráðherra ýmist lýst því yfir að hún beri ábyrgðina í málinu eða bent á Alþingi sem geranda. Hið síðarnefnda stangast á við áðurnefnda dóma Hæstaréttar, reglur stjórnskipunarréttar sem og ummæli ráðherra sjálfs þegar málið var til meðferðar á Alþingi. Þar að auki myndi engu breyta fyrir stefnanda þótt réttarbrotið yrði talið Alþingis en ekki ráðherra, enda bæri stefndi eftir sem áður á því ábyrgð. Þá hafi ráðherra einnig lýst því, sbr. fréttaskýringaþáttinn Kveik 30. janúar sl. og opinn fund í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis 31. janúar sl., að hún hafi ekki talið rétt að „leggja svona hlutlægt mat á þetta“, eins og dómnefndin hafi gert, heldur hafi hún talið að líta yrði til „mannlega þáttarins“. Matið þyrfti óhjákvæmilega að vera „huglægt að einhverju leyti“ og ráðherrann að beita sínu „hyggjuviti“. Stefnandi telur að hér sé þes fyrst að gæta að stjórnvöldum ber almennt að varast að veita huglægum þáttum mikið vægi, umfram hlutlæga þætti, við töku stjórnvaldsákvarðana á borð við þessa. Þá hafi ráðherra enga tilraun gert til að útskýra nánar hvað falist hafi í þessu huglæga mati, hvernig það hafi verið framkvæmt og af hverju það hafi leitt til umræddrar niðurstöðu. Því síður liggur fyrir nokkur heildstæður samanburður af hálfu ráðherra á umsækjendum m.t.t. slíkra huglægra þátta né nokkurs konar viðhlítandi grunnur að slíkum huglægu mati, en í því sambandi athugast m.a. að ráðherra tók ekki viðtöl við umsækjendur. Þótt stjórnvöldum sé í undantekningartilvikum heimilt að líta til huglægra sjónarmiða eru gerðar til þess tilteknar lágmarkskröfur, sem voru fjarri því að vera uppfylltar af hálfu ráðherra, enda virðist hún grípa til þessarar röksemdar eftir á, í nauðvörn fyrir framgöngu sinni, án nokkurra nánari skýringa á því hvaða huglægu þættir verið hafi á ferðinni.           Af hálfu stefnanda er einnig vísað til þess að ráðherra hafi einnig, og að einhverju leyti í mótsögn við síðastgreindar röksemdir, fært fram þau rök að eftir að vægi dómarareynslu hafi verið aukið hafi 24 umsækjendur verið hæfastir, og þá jafnhæfir, og ráðherrann hafi getað valið á milli þeirra. Í þessu felist nánar tiltekið sú afstaða, sbr. fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar 31. janúar sl., að þeir dómarar sem höfðu „áratuga athugasemdalausa reynslu af dómstörfum“ hafi sjálfkrafa talist meðal hæfustu umsækjenda, án nokkurs tillits til þess hvernig þeir komu út í öðrum matsþáttum. Það að gefa einum matsþætti slíkt 100% vægi sé hins vegar í hróplegu ósamræmi við reglur nr. 620/2010, þar sem taldir eru upp nánar tilteknir matsþættir sem byggt skuli á, áhersla lögð á að umsækjendur hafi „fjölbreytta starfsreynslu á sviði lögfræðinnar“ og m.a. nefnd lögmannsstörf, störf innan stjórnsýslunnar og fræðistörf. Þá liggi í reynd ekkert fyrir um hvaða 24 umsækjendur þetta nákvæmlega voru, né heldur hvernig ráðherra komst að niðurstöðu um að velja þá 15 sem hún gerði úr þessum 24 manna hópi. Virðist framangreind rök stangast á við upphaflegan rökstuðning fyrir tillögu ráðherra, auk þess sem benda má á að flestir þeir sem ráðherra lagði til þvert á tillögu dómnefndar höfðu alls ekki „áratuga“ reynslu af dómstörfum, eins og ráðherrann heldur fram, heldur sé reynslan nær því að spanna áratug, raunar talsvert styttri í tilviki eins umsækjandans. Þá áréttast það sem fyrr er rakið að ef gefa átti dómarareynslu aukið vægi, átti eitt yfir alla að ganga, og stefnandi að njóta þess umfram þá umsækjendur sem minni dómarareynslu höfðu, en ráðherra lagði þó til. Vert er einnig að taka fram að þau sjónarmið sem ráðherra hefur fært fram opinberlega að undanförnu, og að framan greinir, geta engu breytt um niðurstöðu Hæstaréttar í áðurnefndum dómsmálum, um saknæma og ólögmæta háttsemi ráðherra, eða annað það sem greinir í málatilbúnaði stefnanda. Sama eigi við um það sjónarmið ráðherra, sem hún setji ítrekað fram opinberlega, að hún hafi eingöngu haft tvær vikur til að gera tillögu sína. Samkvæmt öllu framansögðu sé í reynd afar óljóst á hverju höfnun stefnda nákvæmlega byggir, enda liggur einungis ein setning ríkislögmanns, sem ekki fæst staðist, höfnuninni til grundvallar, á meðan ráðherra verst opinberlega og setur þar fram ýmis ný sjónarmið. Áskilinn er allur réttur til að bregðast við þeim nýju sjónarmiðum sem stefndi kann að setja fram, en að mati stefnanda geta þau engu breytt um bótaskyldu stefnda, enda er einsýnt að hún liggur fyrir samkvæmt margnefndum dómum Hæstaréttar og því tjóni sem við blasir.       Tjón stefnanda og kröfugerð Stefnandi byggir kröfu sína um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda á heimild 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi byggir á að hin ólögmæta ákvörðun ráðherra hafi valdið því að hann var ekki skipaður í embætti dómara við Landsrétt, sem hann annars hefði fengið. Með vísan til dómaframkvæmdar Hæstaréttar byggir stefnandi á því að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að stefnandi hefði ekki hlotið embætti landsréttardómara ef málsmeðferð ráðherra hefði verið lögum samkvæm. Mælir hið aukna stig saknæmis sem fólst í háttsemi ráðherra, sbr. áðurgreint, einnig með því að sönnunarbyrðin um afleiðingar háttseminnar verði látin hvíla á stefnda Jafnvel þótt sönnunarbyrðin yrði talin hvíla á stefnanda telur hann einsýnt að hann hefði verið skipaður í embættið ef ekki hefði komið til hinnar ólögmætu ákvörðunar ráðherra. Með öðrum orðum hafi stefnandi átt lögvarinn rétt til embættisins. Stefnandi var metinn 7. hæfasti umsækjandinn af dómnefnd. Umsögn dómnefndar var ekki haldin slíkum annmörkum að það gæfi tilefni til þess að vikið yrði frá henni, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 591 og 592/2017. Um það komst ráðherra sjálfur svo að orði í fréttaskýringaþættinum Kveik 30. janúar sl. að Hæstiréttur væri „búinn að kveða upp úr um það að starf nefndarinnar hafi verið óaðfinnanlegt“. Stefnandi telur einnig að hann hafi haft meiri dómarareynslu en margir sem hlutu embætti, sem var það sjónarmið sem ráðherra sagðist hafa lagt áherslu á. Þá hefði stefnandi notið góðs af því ef samanburður hefði verið gerður á umsækjendum m.t.t. til hæfni þeirra til að semja dóma. Ráðherra hafi því engar forsendur haft til að komast að annarri niðurstöðu en dómnefndin varðandi stefnanda, ekki einu sinni á grundvelli þess sjónarmiðs sem hún tefldi fram til réttlætingar á því að víkja frá áliti dómnefndar. Verði sönnunarbyrðin talin hvíla á stefnanda fyrsta kastið hljóti framangreint í öllu falli að duga til að varpa henni yfir á stefnda.  Að mati stefnanda hefur aðkoma Alþingis, sem stefndi ber einnig fébótaábyrgð á, hér engin áhrif, enda leiði af sjálfu sér að málsmeðferð Alþingis var haldin annmörkum þar sem ekki var bætt úr áðurnefndum annmörkum á málsmeðferð ráðherra þegar málið kom til kasta þingsins, sbr. áðurnefnda dóma Hæstaréttar. Þá var það samkvæmt sömu dómum ráðherra en ekki Alþingi sem fór með hið endanlega ákvörðunarvald og bar stjórnarfarslega ábyrgð á skipununum. Samkvæmt framansögðu og áðurnefndum dómum Hæstaréttar var málsvörnum stefnda er snertu aðkomu Alþingis hafnað, sem og þeirri málsvörn að annmarkar hafi verið á umsögn dómnefndar er veitt hafi tilefni til að víkja frá henni. Eftir stóð þá einungis hin lögmælta heimild til að víkja frá umsögn dómnefndarinnar, en samkvæmt dómunum, sem og eldri dómum, eru gerðar tilteknar kröfur til beitingar heimildarinnar, sem ekki var fylgt. Telur stefnandi að því hafi borið að skipa hann í embætti landsréttardómara, þar sem dómnefnd hafði áður tekið ákvörðun um að hann væri meðal allra hæfustu umsækjenda. Liggur þannig þegar fyrir sönnun á þessu atriði, jafnvel þótt stefnanda væri enginn afsláttur veittur af sönnunarkröfum. Hér athugast einnig að í framangreindum dómum var viðurkenningarkröfum umsækjendanna tveggja hafnað af þeirri einu ástæðu að ekki lægju fyrir nægar upplýsingar um tekjur þeirra þannig að unnt væri að taka afstöðu til þess hvort líkur væru til að þeir hefðu beðið fjártjón. Slíkar upplýsingar liggi hins vegar skýrlega fyrir í þessu máli. Skaðabótakrafa stefnanda byggir á sakarreglu skaðabótaréttarins, sbr. og regluna um vinnuveitandaábyrgð. Öll skilyrði reglunnar eru uppfyllt, m.a. um saknæma og ólögmæta háttsemi af hálfu stefnda og orsakasamhengi milli háttseminnar og tjóns stefnanda. Samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar beri  stefnda að bæta stefnanda allt fjárhagstjón hans. Tjón stefnanda sé afmarkað með samanburði á þeirri atburðarrás sem varð í raun og þeirri sem ætla megi að hefði orðið ef hin saknæma og ólögmæta háttsemi hefði ekki verið viðhöfð, þ.e. með mismunaraðferð skaðabótaréttar, sem er meginreglan við ákvörðun tjóns. Stefnandi telur að ólíkt því sem átti við í áðurnefndum dómsmálum hafi hin saknæma og ólögmæta ákvörðun ráðherra valdið honum augljósu og auðsannanlegu tjóni. Hefði stefnandi fengið skipun í embætti landsréttardómara hefði fylgt því umtalsverð tekjuaukning fyrir hann. Stefnandi starfar sem prófessor við lagadeild Háskóla Íslands með kr. 745.318 í grunnlaun á mánuði. Mánaðarlaun landsréttardómara verði samkvæmt ákvörðun kjararáðs 14. desember 2017 samtals kr. 1.692.155. Munurinn nemi kr. 946.837 á mánuði, eða kr. 11.364.044 á ársgrundvelli. Þannig sé ljóst að grunnlaun landsréttardómara séu umtalsvert hærri en grunnlaun stefnanda og tjónið því mikið. Til að sýna enn frekar fram á tjón stefnanda hefur hann lagt fram með stefnu þessari nýjasta launaseðið sinn, skattframtöl sem sýna tekjur áranna 2015 og 2016 og staðgreiðsluyfirlit ársins 2017. Þegar litið er til meðaltals heildartekna stefnanda á mánuði síðastliðin þrjú ár, uppreiknuð með hliðsjón af launavísitölu, er ljóst að sú fjárhæð er mun lægri en grunnlaun landsréttardómara. Þannig séu meðaltekjur stefnanda síðustu þrjú almanaksár, að teknu tilliti til allra aukatekna og uppreiknaðar samkvæmt vísitölu, því kr. 513.793 lægri á mánuði en grunnlaun landsréttardómara, eða sem nemur kr. 6.165.516 á ársgrundvelli. Áréttað skal að hluti af heildartekjum stefnanda – þ.e. tekjur sem eru umfram grunnlaun – sé vegna starfa sem stefnandi hefði áfram getað sinnt samhliða störfum sem landsréttardómari. Aukatekjur stefnanda umrædd ár eru fyrst og fremst til komnar vegna formennsku hans í Úrskurðarnefnd um Viðlagatryggingu Íslands. Því starfi hélt stefnandi áfram þegar hann var settur héraðsdómari í um eitt ár, með samþykki nefndar um dómarastörf, og hefði því getað haldið því starfi áfram samhliða Landsrétti. Þá vísar stefnandi til þess að þegar hann var settur héraðsdómari var hann samhliða í 30% stöðu við lagadeild Háskóla Íslands, sem hann hefði jafnframt getað gegnt samhliða störfum í Landsrétti. Hann hefði samkvæmt því áfram getað haft nokkrar aukatekjur sem landsréttardómari, rétt eins og í starfi sínu sem prófessor, og eðlilegast að horfa til mismunar á grunnlaunum í hvoru starfi fyrir sig. Allt að einu sé ljóst að meðaltal heildartekna stefnanda á mánuði síðastliðin þrjú ár sé umtalsvert lægri fjárhæð en grunnlaun landsréttardómara og tjón stefnanda því augljóst. Að lokum hafnar stefnandi alfarið þeim rökum í bréfi ríkislögmanns, dags. 2. janúar 2018, að ekki verði séð að dómstólar hafi fallist á sambærilegar kröfur og stefnandi hefur uppi í málinu. Raunar telur stefnandi þennan rökstuðning, sem er sá eini sem stefndi hefur sett fram í málinu og telur einungis eina setningu, fráleitan. Í fyrsta lagi skipti dómar um viðurkenningu á skaðabótaskyldu hundruðum. Í annan stað megi finna bein dæmi um að bótaskylda vegna fjártjóns af því að fá ekki starf hafi verið viðurkennd. Nægir að vísa til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 195/2006 því til stuðnings. Verður raunar að telja makalaust að lögmætri kröfu stefnanda, sem feli það eitt í sér að bótaskylda verði viðurkennd og gengið til viðræðna um umfang tjóns stefnanda, skuli hafnað með svo órökstuddum og ófullnægjandi hætti, eftir það réttarbrot sem stefnandi hefur þurft að þola af hálfu ríkisins. Í því sambandi verður að hafa huga að almennar reglur stjórnsýsluréttar gilda um starfsemi ríkislögmanns, en umrædd afgreiðsla verður trauðla talin í samræmi við þær.     Að endingu skulu áréttaðar þær kröfur sem gerðar eru til viðurkenningarmála, og getið er í upphafi þessa kafla. Málið snýst ekki um það hvort stefnandi teljist hafa fært fullar sönnur að kröfu um framangreint mánaðarlegt tjón sitt, heldur hvort hann hafi hér leitt nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni, gert grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls. Einboðið sé að þessar vægari kröfur til sönnunar um tjón séu uppfylltar í málinu. Stefnandi byggir mál sitt á meginreglum skaðabótaréttar, einkum sakarreglunni, sbr. og regluna um vinnuveitandaábyrgð. Þá byggir stefnandi á meginreglum stjórnsýsluréttar, einkum jafnræðisreglu, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og reglunni um að skipa beri hæfasta umsækjandann í opinbert starf eða embætti hverju sinni sem einnig styðst við jafnfræðisreglu stjórnskipunarréttar, sbr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Byggt er á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og reglunni um andmælarétt í 13. gr. sömu laga. Einnig er byggt á reglum um rökstuðning stjórnvaldsákvarðana. Um heimild til að leita viðurkenningardóms fyrir bótaskyldu stefnda vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991. Krafa um álag er nemi virðisaukaskatti styðst við l. nr. 50/1988. Varðandi varnarþing vísast til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991.   Málsástæður stefnda Stefndi byggir á því að ekki sé unnt að líta svo á að nokkur umsækjandi hafi átt lögvarið tilkall til skipunar í stöðu dómara við Landsrétt eða mátt hafa réttmætar væntingar til embættisins. Þvert á móti hafi verið ljóst að endanleg niðurstaða um það myndi ráðast af samþykkt Alþingis, sbr. 1. og 2. mgr. ákvæðis IV til bráðabirgða. Skipun forseta Íslands í embætti dómara við Landsrétt hafi ekki komið til greina nema að fengnu samþykki Alþingis. Stefndi telur að þótt stefnandi hafi verið talinn í hópi hæfustu umsækjenda í mati dómnefndar á grundvelli 4. gr. a í lögum nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 1. mgr. ákvæðis IV til bráðabirgða í lögum nr. 50/2016, hafi verið ljóst að Alþingi þyrfti að samþykkja tillögur ráðherra um hvern og einn eða hafna með þeim afleiðingum að ráðherra hefði þurft að leggja fram nýja tillögu. Í þessu máli hefur þýðingu að mati stefnda hvort ganga megi út frá því sem vísu, miðað við þær aðstæður sem uppi voru, að einboðið sé að tillaga um að skipa stefnanda sem dómara við Landsrétt hefði náð fram að ganga, hvernig sem undirbúningi hefði verið háttað. Byggir stefndi á því að um þetta hafi verið óvissa þar sem útilokað sé að slá nokkru föstu um það, auk þess sem stefnandi gat ekki haft um það réttmætar væntingar. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að borið hafi að skipa hann í embættið en sú sönnun hafi ekki tekist. Stefndi kveður ráðherra hafa verið ljóst eftir að drög að áliti dómnefndar og endanlegt álit hennar lá fyrir var að það myndi ekki hljóta samþykki á Alþingi óbreytt. Kom skýrt fram á opinberum vettvangi að tilteknir þingmenn sögðu að þeir hefðu ekki samþykkt tillögu á grundvelli álits dómnefndarinnar óbreytta. Þá hafði ráðherra einnig vissu fyrir þeirri stöðu eftir að drög að dómnefndarálitinu lá fyrir, en þá var henni gert það ljóst af forsvarsmönnum þingflokka á Alþingi. Mörg gögn sem stefndi leggi fram sýni fram á þetta þar sem þingmenn, bæði stjórnarþingmenn og aðrir þingmenn, lýstu þessu á opinberum vettvangi eða við meðferð málsins á Alþingi. Kom einnig fram í tölvupósti Ragnhildar Arnljótsdóttur frá 28. maí 2017 þar sem reifaður er þriðji möguleiki í þeirri stöðu sem uppi var en þar segir: „3. Ráðherra sendi óbreyttan lista til þingsins (sem kallar þá á vinnu ráðherra við að velja með málefnalegum rökum ný nöfn) – ekki ákjósanleg leið.“ Af þessu sé einnig ljóst að vissa var innan ráðuneytis á þá lund að tillaga dómnefndarinnar yrði ekki samþykkt óbreytt. Að mati stefnda var við þessar aðstæður ekki unnt að ganga út frá því sem vísu að þeir sem dómnefndin taldi hæfasta yrðu að endingu skipaðir á grundvelli samþykktar Alþingis, en slíkt samþykki var óhjákvæmilegt að lögum. Í þessu sambandi telur stefndi einnig nauðsynlegt að líta til þess að ráðherra gerði tillögu um fjóra umsækjendur sem ekki voru meðal þeirra 15 sem nefndin taldi hæfasta. Þessir fjórir umsækjendur komu úr röðum starfandi dómara, allt einstaklingar með farsæla dómarareynslu og mjög vel hæfir til að hljóta skipun sem dómarar við Landsrétt eins og síðar verður rakið. Stefndi vísar til þess að ráðherra taldi nauðsynlegt að gera reynslu af dómarastörfum hærra undir höfði en gert var í umsögn dómnefndar. Sjónarmið ráðherra um aukið vægi dómarareynslu var málefnalegt, enda var verið að skipa dómara í umrætt sinn. Þá er ítrekað að veitingavaldshafi hafi víðtækt svigrúm við mat á því hvaða vægi einstök sjónarmið eiga að hafa þegar kemur að eins matskenndri stjórnvaldsákvörðun og stöðuveitingu. Hljóti jafnframt sérstök sjónarmið að eiga við þegar skipa á í einu vetfangi 15 dómara við nýjan dómstól og að atbeini Alþingis var óhjákvæmilegur. Stefnandi telur að umsækjendur fyrir neðan hann hafi haft minni dómarareynslu. Benda verður á að þeir fjórir sem ráðherra gerði tillögu um og ekki voru taldir hæfastir samkvæmt mati dómnefndar voru með samfellda og langa dómarareynslu. Samkvæmt framangreindu hafi ráðherra verið skylt að leggja sjálfstætt mat á málið sem hann gerði. Í því fólst a.m.k. að fara yfir gögn málsins og tillögu dómnefndarinnar og rökstuðning fyrir honum. Þessi krafa um sjálfstæða yfirferð feli í sér að ráðherra gat ekki látið það nægja að fara yfir hvort formlegir ágallar hafi verið á matinu. Ráðherra verði hverju sinni að yfirfara efnislegt mat dómnefndarinnar og fallast á það og þá gera tillögu um einhverja þeirra sem dómnefndin metur hæfasta, eða eftir atvikum að gera tillögur sem víkja frá mati dómnefndarinnar. Í máli þessu hafi dómnefndin ákveðið að 15 umsækjendur væru hæfastir til að hljóta þær 15 stöður sem lausar voru til umsóknar, hvorki fleiri né færri. Jafnframt hafði nefndin lýst því afdráttarlaust yfir að þessir 15 væru að hennar mati allir jafnhæfir, en tillagan væri ekki sett fram um umsækjendur í neinni hæfnisröð. Að lokinni yfirferð sinni taldi ráðherra einsýnt að tillaga nefndarinnar fæli í sér að dómarareynslu væri ekki gert nógu hátt undir höfði og að ekki væri ljóst af þeim skýringum sem ráðherrann kallaði eftir af hverju hópur níu reyndra héraðsdómara væri metinn lægri öðrum sem ýmist sóttu um dómaraembætti í fyrsta sinn eða hefðu áður verið taldir standa að baki öðrum umsækjendum um dómarastörf. Þessu mati ráðherrans hefur út af fyrir sig ekki verið hnekkt og verður að leggja til grundvallar að ráðherra hafi haft heimild í lögum og reglum nr. 620/2010 til að meta vægi matsþátta á annan hátt en dómnefndin gerði. Ekki sé ljóst hvað stefnandi eigi við með því að dómarareynslu hafi verið gefið 100% vægi. Beri að nefna að dómnefndin hafi í síðari álitum breytt nokkuð aðferð sinni. Í þessu sambandi sé vert að geta þess að í minnisblaði sérfræðings ráðuneytisins og starfsmanns dómnefndar til ráðherra, dags. 24. maí 2017, var athygli ráðherra vakin á því að nánar tilgreindir dómarar hafi skarað fram úr í þeim þáttum er lúta að réttarfari og dómarareynslu en væru þó ekki á meðal þeirra 15 sem dómnefndin lagði til. Umrætt skjal virðist ekki hafa verið lagt fram í fyrri málum, en það sýni að rannsókn á þessum þáttum fór fram, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Ráðherra taldi sig ekki hafa forsendur til að hrófla við því mati nefndarinnar varðandi einstaka umsækjendur í 15 manna hópnum að þeir væru allir jafn hæfir, a.m.k. ekki innan þeirra marka sem yfirferðinni var búinn vegna tímarammans sem hún var háð. Af þessari niðurstöðu leiddi að ráðherra taldi rétt og skylt að velja dómarana úr þessum 24 manna hópi. Nálgun ráðherra var með öðrum orðum ekki sú að hafna stefnanda sérstaklega eða taka hann út af lista eins og byggt er á í stefnu, enda kom stefnandi fyllilega til greina. Hins vegar taldi ráðherra að 24 einstaklingar kæmu til álita sem hæfastir en ekki eingöngu þeir 15 sem dómnefndin gerði tillögu um. Hefði ráðherra skipað algjörlega samkvæmt tillögu dómnefndar, en jafnframt gengist við því að tillagan væri ekki í samræmi við mat ráðherra á málinu eða að ekkert slíkt mat hefði farið fram, virðist einsýnt að það hefði falið í sér meingerð í garð umsækjenda sem áttu rétt á að málið væri réttilega afgreitt. Stefndi telur einnig óhjákvæmilegt að líta til þess að ráðherra var veittur mjög stuttur frestur til sinnar yfirferðar af annars vegar Alþingi og hins vegar nefndinni. Ráðherrann hafði einfaldlega ekki annan og rýmri tímaramma en frá þeim degi þegar umsögn og tillaga dómnefndar barst og fram til þess að Alþingi yrði slitið og hafði enga stjórn á þessum dagsetningum. Þetta atriði hljóti að hafa afgerandi áhrif á matið á því hvort framganga ráðherra við meðferð málsins gat skapað ríkinu skaðabótaskyldu. Í þessu samhengi sé mikilvægt að undirstrika að þegar lög leggja skyldur á herðar ráðherra á borð við þá að auglýsa dómaraembætti og gera tillögu um skipun dómara til Alþingis, þá eigi ráðherra ekki annan kost en að haga störfum sínum og mati eftir því. Ráðherra geti ekki tekið þá afstöðu að honum finnist lögin gölluð eða svigrúm sitt til vandaðrar málsmeðferðar of stutt og þá einfaldlega ákveðið að fara ekki eftir lögunum. Það sé heldur ekki í valdi ráðherra að breyta reglunum eða hreyfa við starfsáætlun Alþingis. Því átti ráðherra engan annan kost en að freista þess að gera tillögu til þingsins lögum samkvæmt í síðasta lagi 1. júní 2017 við þessar sérstöku aðstæður þar sem ljóst var að álit dómnefndarinnar myndi ekki eiga brautargengi óbreytt. Á þessum tíma kynnti ráðherra sér gögnin og umsögnina, kallaði eftir skýringum á því sem stakk í augu og lagði að því búnu það mat á gögnin að rétt væri að leggja til grundvallar að níu reyndir dómarar stæðu þeim fimmtán jafnfætis sem nefndin hafði metið hæfasta, en fyrir lá það mat að þeir væru allir jafnhæfir. Að þessu loknu var ekki um annað að ræða en að velja úr þessum 24 manna hópi 15 umsækjendur til að leggja til við Alþingi að yrðu landsréttardómarar. Við það val hlaut ráðherra að þurfa að líta til margra atriða og ljóst er að innan þess knappa tímaramma sem þá var til stefnu, tókst ekki að undirbyggja með svo vönduðum hætti sem æskilegt hefði verið, tillögu með útskýringum eða rökstuðningi fyrir því af hverju einmitt þessir 15 skyldu verða fyrir valinu, fremur en stefnandi eða aðrir umsækjendur. Það geti þó ekki falið í sér að aðrir umsækjendur en umræddir 15 Landsréttardómarar hafi orðið fyrir bótaskyldu fjártjóni. Ráðherra gat ekki með réttu lagt fyrir Alþingi tillögu að skipan landsréttardómara sem fyrir lá að yrði ekki samþykkt af þinginu. Fyrirkomulagið í lögum um dómstóla gerir ráð fyrir því að auk hins formlega atbeina forseta Íslands myndu fleiri koma að vali dómara, þ.e. dómnefnd, dómsmálaráðherra og Alþingi. Hverjum og einum þessara aðila er ætlað að tempra vald hinna með nokkrum hætti, en lögin gera ekki ráð fyrir því að dómnefndin ein velji dómara eða að ráðherra gangi fram án nokkurs tillits til vilja Alþingis. Burtséð frá því var ljóst að Alþingi átti í reynd og að lögum síðasta orðið um hverjir yrðu að lokum skipaðir dómarar við Landsrétt. Jafnvel þótt ráðherra hefði ákveðið að leggja tillögu dómnefndarinnar óbreytta til við þingið, hefðu þær athafnir hans alls ekki verið nægileg forsenda til að afstýra meintu tjóni stefnanda því fyrir lá að þingið hefði ekki samþykkt þá tillögu. Hér sé ekki unnt að líta á málið með sama hætti og þegar Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að tillaga ráðherra hafi að ófyrirsynju getað bitnað á orðspori þeirra sem ekki var lagt til að yrðu skipaðir. Þrátt fyrir forsendur Hæstaréttar í dómum Hæstaréttar frá 19. desember 2017 í málunum nr. 591 og 592/2017 telur stefndi að gefa því frekari gaum í ljósi bótakröfu stefnanda vegna ætlaðs fjártjóns, að Alþingi var ekki bundið af áliti dómnefndar við meðferð málsins og ekki var óhjákvæmilegt að það samþykkti stefnanda og að hann yrði síðan skipaður. Þá hafi stefnandi heldur ekki getað haft réttmætar væntingar til embættisins að viðlagðri bótaskyldu stefnda. Er að mati stefnda ekki unnt að leggja til grundvallar að ætlað tjón stefnanda sé af völdum saknæmrar og ólögmætrar háttsemi. Verði því ekki fullyrt í máli þessu að skipun hefði óhjákvæmilega átt að fara á einn veg eða annan í meðförum Alþingis við þær sérstöku aðstæður sem uppi voru. Er ósannað að stefnandi hefði verið skipaður eða að skipa hefði átt hann í embættið. Með því að auka vægi dómarareynslu var ljóst að aðrir umsækjendur úr hópi starfandi dómara hlutu einnig að teljast meðal hæfustu til að hljóta embættin sem höfðu langa reynslu af dómarastörfum. Þau Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Bogi Hjálmtýsson, Hildur Briem, Jón Finnbjörnsson, Jónas Jóhannsson, Ólafur Ólafsson, Ragnheiður Bragadóttir og Sandra Baldvinsdóttir bættust af þeim sökum við þá niðurstöðu nefndarinnar hverjir teldust hæfastir. Sé ekki unnt að skilja dóma Hæstaréttar frá desember síðastliðnum þannig að ráðherra hafi verið með öllu óheimilt að leggja til grundvallar annað vægi matsþátta. Eins og fram kom í rökstuðningi ráðherra taldi hann 24 umsækjendur koma til greina og að auka þyrfti vægi dómarareynslu af ýmsum ástæðum við stofnun nýs dómstigs og horfa til laga um jafnrétti kynja. Er skilmerkilega gerð grein fyrir þessum ástæðum í bréfi þar sem rökstuðningur var veittur. Var um að ræða nýjan dómstól með tilheyrandi álagi þar sem ráðherra taldi af ýmsum ástæðum brýnt að dómarareynsla yrði metin meiri. Stefndi vísar til gagna málsins um að Arnfríður Einarsdóttir hafi verið fulltrúi og aðstoðarmaður dómara í meira en tíu ár og héraðsdómari í um það bil 14 ár. Frá því síðla árs 2010 hafi hún verið forseti Félagsdóms, en þar eru dæmd u.þ.b. 13 mál á ári að meðaltali. Þá sat hún sem varadómari í Hæstarétti Íslands í einu máli. Á starfsferli hennar hefur hún jöfnum höndum dæmt í málum í öllum málaflokkum héraðsdómstólanna, þ.e. í öllum tegundum sakamála, í almennum einkamálum af öllum gerðum, ágreiningsmálum af öllum gerðum og lögræðismálum. Auk þess hefur hún samið fjölda rannsóknarúrskurða. Arnfríður hefur einnig mikla reynslu af stjórnsýslustörfum, meðal annars í úrskurðar­nefndum. Þá hafi hún töluverða stjórnunarreynslu, en hún var skrifstofustjóri Héraðs­dóms Reykjavíkur í nærfellt fjögur ár og forseti Félagsdóms frá árinu 2010. Arnfríður eigi þannig að baki 32 ára feril við dómstóla landsins og hefur farið með dómsvald lungann af þeim tíma. Frekari umfjöllun er um reynslu Arnfríðar á bls. 11-13 í umsögn dómnefndar. Ásmundur Helgason hafi í um tvö og hálft ár verið aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt Íslands. Hann var skipaður dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur í maí 2010 og hefur gegnt embættinu í sjö ár. Á þeim tíma hafi hann dæmt í fjölmörgum einkamálum, verið meðdómsmaður í allnokkrum sakamálum og auk þess fengið fjölmörg mál til meðferðar þar sem gerð hefur verið krafa um rannsóknar- eða þvingunaraðgerðir af hálfu lögreglu og ákæruvalds. Ásmundur hafi verið fastur dómari í Félagsdómi frá ársbyrjun 2014 og ad hoc dómari í Hæstarétti Íslands í einu máli. Ásmundur býr jafnframt yfir mikilli reynslu af stjórnsýslustörfum. Hann starfaði til að mynda í um sjö ár hjá umboðsmanni Alþingis og í um tvö ár sem lögfræðingur á skrifstofu Alþingis, nær allan tímann sem aðallögfræðingur og þekkir því vel til stjórnsýslu. Þá liggja eftir hann fræðiskrif en hann hefur m.a. ritað bókarkafla, kennsluefni og fræðigreinar. Frekari umfjöllun er um reynslu Ásmundar á bls. 13-14 í umsögn dómnefndar. Er af framangreindu ljóst að Ásmundur Helgason sé a.m.k. jafn hæfur til að gegna embætti landsréttardómara og stefnandi. Hann hafi talsverða reynslu af dómstörfum, auk þess sem reynsla hans af stjórnsýslustörfum fólst að mestu í að semja rökstuddar úrlausnir. Jón Finnbjörnsson eigi að baki 28 ára feril við dómstólana og nánast allan þann tíma við dómstörf. Hann eigi jafnframt að baki langan kennsluferil en hann var stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands í um átta ár og hefur annast kennslu við réttindanám í 11 ár. Hann hafi einnig ritað námsefni í sjórétti og fræðigreinar. Frekari umfjöllun er um reynslu Jóns á bls. 31-32 í umsögn dómnefndar. Telur stefndi ljóst að Jón Finnbjörnsson sé a.m.k. jafn hæfur til að gegna embætti landsréttardómara og stefnandi, sérstaklega þegar höfð er hliðsjón af hinni löngu reynslu hans við dómstóla landsins. Ragnheiður Bragadóttir hóf störf sem fulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík að loknu embættisprófi 1989 og gegndi því starfi í þrjú ár. Frá 1. júlí 1992 starfaði hún í rúm fimm ár sem dómarafulltrúi en síðan sem aðstoðarmaður hæstaréttardómara í tæpt hálft annað ár. Hún hafi 15. janúar 1999 verið sett til þess að gegna starfi héraðsdómara til 30. júní 2001 við Héraðsdóm Reykjavíkur, Héraðsdóm Vesturlands og Héraðsdóm Austurlands. Hún var skipuð dómari við Héraðsdóm Austurlands frá 15. september 2005 og gegndi því starfi til 1. september 2008, er hún sótti um flutning til Héraðsdóms Reykjaness þar sem hún hefur starfað síðan. Hún var sjálfstætt starfandi lögmaður um tíma áður en hún varð dómari og rak sína eigin lögmannsstofu, ýmist ein eða með öðrum. Hún hefur jafnframt reynslu af stjórnsýslustörfum og hefur til að mynda tekið sæti í óbyggðanefnd, úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og samkeppnisráði. Auk þess hefur hún annast stundakennslu við Háskóla Íslands. Þá var hún dómstjóri við Héraðsdóm Austurlands á árunum 2005-2008. Ragnheiður á þannig að baki rúmlega 22 ára feril við dómstólana sem dómari, dómstjóri, dómarafulltrúi og aðstoðarmaður dómara. Störf hennar hafi tekið til allra réttarsviða. Stefndi telur ljóst af framangreindu að Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Jón Finnbjörnsson og Ragnheiður Bragadóttir séu a.m.k. jafn hæf til að gegna embætti landsréttardómara og stefnandi. Mati Alþingis um þetta hefur ekki verið hnekkt. Stefndi vísar til þess að í dómum Hæstaréttar 19. desember 2017 hafi stefndi verið sýknaður af kröfu tveggja umsækjanda, sem voru í hópi þeirra sem dómnefndin taldi hæfasta, voru dæmdar miskabætur til viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna fjártjóns, þ.e. um sambærilega hagsmuni og stefnandi krefur stefnda um í þessu máli. Taldi Hæstiréttur að ekki hefði verið færð fram fullnægjandi sönnun um ætlað fjártjón og beri því „þegar af þeirri ástæðu“ að sýkna af viðurkenningarkröfu áfrýjanda. Orðalagið ber með sér að fleiri ástæður þarfnist skoðunar. Stefndi bendir á að af hans hálfu hafi verið viðurkennd sambærileg krafa til greiðslu miskabóta stefnanda til handa. Stefndi vísar til þess að þekkt sé í dómaframkvæmd að meðferð máls, þar sem ekki séu uppfyllt skilyrði stjórnsýslulaga, kunni að leiða til stofnunar bótaréttar fyrir miska. Á hinn bóginn þýði það ekki að viðkomandi hafi átt lögvarið tilkall til þess að endanleg ákvörðun yrði honum í hag, honum veitt leyfi, hann skipaður í starf eða á annan hátt orðið við umsókn. Stefndi bendir jafnframt á að við skipun dómenda í Landsrétt hið fyrsta sinn giltu ákvæði sem tæplega eiga sér hliðstæðu. Þótt annmarkar hafi verið á tillögu ráðherra og meðferð Alþingis, á þann hátt sem lagt er til grundvallar í dómum Hæstaréttar frá 19. desember 2017, breyti það því ekki að skipan dómenda við Landsrétt liggur fyrir og var endanleg í það skiptið með því að Alþingi samþykkti tillögur ráðherra að undangenginni meðferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og umræðum. Stefndi leggur áherslu á hina sérstöku tilhögun sem lögin kváðu á um þegar skipað var í embætti dómara við Landsrétt og vísar um það til 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis IV með lögum nr. 15/2016. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi sem varð að dómstólalögum hafi verið sérstaklega áréttað að í ljósi þess að skipaðir yrðu samtímis 15 dómarar væri eðlilegt að tryggja aðkomu fleiri en eins handhafa ríkisvalds að því. Stefndi byggir á því að skýra verði þessi ákvæði laga sem giltu við skipun landsréttardómara með þeim hætti að víkja mátti frá áliti dómnefndar um að skipa þann sem að mati dómnefndarinnar væri hæfastur. Frávikið var þá réttlætanlegt og lögmætt ef Alþingi samþykkti einhvern þann umsækjanda eftir tillögu ráðherra sem fullnægði að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. dómstólalaga. Þeir umsækjendur sem ráðherra gerði tillögu um og Alþingi samþykkti, en voru ekki meðal 15 hæfustu samkvæmt mati dómnefndarinnar uppfylltu þessi skilyrði augljóslega. Leggur stefndi áherslu á að orð bráðabirgðaákvæðisins „… frá þessu má þó víkja …“ þarfnist sérstakrar skoðunar þegar leyst er úr bótakröfu stefnanda fyrir fjártjón auk ákvæðis 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IV. Þegar til kasta Alþingis kom á grundvelli þessa bráðabirgðaákvæðis er ljóst af nefndum ákvæðum laganna að svigrúm þess var á engan hátt takmarkað með sama hætti og ef ekki hefði komið til atbeina þess. Í ákvæðum laganna sem fyrr er lýst felst hið augljósa að Alþingi var ekki bundið af niðurstöðu dómnefndarinnar. Alþingi hafði því skýlausa heimild til að samþykkja eða synja tillögu um hvern þann sem dómnefnd taldi að fullnægði skilyrðum 2. og 3. mgr. dómstólalaga og var ekki bundið af niðurstöðu dómnefndarinnar. Stefndi bendir á að í áliti meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis var bent á að þingmál af þessu tagi væri án fordæma. Kom fram að nefndin hefði fjallað um ýmis álitaefni svo sem hlutverk Alþingis, veitingavald ráðherra, hlutverk dómnefndar um mat á hæfi, stofnun Landsréttar, jafnréttissjónarmið og tillögur ráðherra. Mikilvægt sé að hafa í huga hvernig stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd litu á hlutverk Alþingis samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu við dómstólalög. Stefndi telur að þar sem Alþingi var ekki bundið af áliti dómnefndarinnar og átti lokaorð um hvern og einn umsækjanda hafi þinginu verið stætt á því að horfa einnig til jafnréttissjónarmiða, ekki síst á grundvelli meginmarkmiða laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. einkum 1. gr., 18. gr., 20. gr. og 24. gr. Á sama hátt og víkja mátti frá áliti dómefndar við meðferð málsins á Alþingi mátti þingið fjalla um málið á öðrum grundvelli t.d. jafnréttissjónarmiðum við skipan dómsins í heild. Stefndi telur ekki verða séð að Hæstiréttur hafi hafnað þessu með öllu í dómum sínum frá 19. desember síðastliðnum enda verði að skoða umfjöllun réttarins um þetta atriði í tengslum við málsmeðferð ráðherra á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga. Í dómi sínum nefndi Hæstiréttur að annmarki hefði af þessum sökum verið á meðferð Alþingis þar sem ekki hefði verið bætt úr annmörkum á meðferð ráðherra. Ekki hafi á hinn bóginn verið slegið nokkru föstu um að atkvæðagreiðsla og efnisleg niðurstaða Alþingis og samþykkt þingsins hafi verið andstæð lögum. Verði að líta svo á að almenn sjónarmið um jafnrétti kynja hafi verið málefnaleg þegar skipað var fyrsta sinn í 15 stöður dómara við nýjan áfrýjunardómstól eins og það horfði sérstaklega við Alþingi. Enn fremur verði ekki horft fram hjá hvers eðlis niðurstaða Alþingis er í þessu sambandi, sbr. 2. gr. stjórnarskrá og að um atkvæðagreiðslu var að ræða. Horfa verði þá sérstaklega til 48. gr. stjórnarskrár um að hver alþingismaður er eingöngu bundinn við sannfæringu sína. Af hálfu stefnda er bent á að málatilbúnaður stefnanda sé í öllum aðalatriðum reistur á niðurstöðu dómnefndarinnar. Sem fyrr segir telur stefndi Alþingi ekki hafa verið bundið af niðurstöðu dómnefndarinnar þrátt fyrir að í dómum Hæstaréttar hafi verið fundið að málsmeðferð. Þegar grannt sé skoðað sé ljóst að Alþingi var heldur ekki bundið af því að velja hæfasta umsækjandann og ekki þann sem dómnefnd taldi hæfastan. Það liggi í hlutarins eðli þar sem greiða þurfti atkvæði á Alþingi; í því tilviki gat þingmaður t.d. setið hjá eins og raunin varð. Þá byggir stefndi einnig á því að þótt tillögugerð ráðherra hefði verið á aðra lund – eða tillaga stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar – og rökstudd með öðrum hætti og með samanburði eins og fjallað var um í dómum Hæstaréttar frá fyrra ári sé ekki unnt að leggja til grundvallar að Alþingi hefði verið bundið við þann rökstuðning í atkvæðagreiðslu eða við meðferð málsins. Stefnanda mátti vera þetta með vísan til gildandi lagaákvæða. Auk þess sé skilyrði skaðabótareglna um orsakasamband og sennilega afleiðingu ekki uppfyllt við þessar aðstæður. Fallist hafi verið á svipuð sjónarmið stefnda var í meginatriðum í hinum áfrýjuðu dómum héraðsdóms sem sættu endurskoðun með dómum Hæstaréttar 19. desember síðastliðinn, en þar fyrir dómi var niðurstaðan byggð á því að ekki væri sýnt fram á tjón. Í ljósi þessa byggir stefndi á því að tjón sé að fullu bætt. Um er að ræða ófjárhagslegt tjón á sama hátt og dæmt er um í nefndum dómum Hæstaréttar í málunum nr. 591 og 592/2017. Við meðferð málsins á Alþingi var unnt að hafna tillögu ráðherra, annað hvort í heild eða hvað snerti tiltekinn umsækjanda. Svo varð ekki og hlutu þeir 15 einstaklingar sem nú gegna embætti dómenda við Landsrétt lögmæta skipun. Sé því ekki unnt að fallast á að borið hafi að skipa stefnanda að viðlagðri bótaskyldu stefnda. Stefndi fellst ekki á að hér gildi öfug sönnunarbyrði, enda væri það ekki í samræmi við dómafordæmi. Um rannsóknarreglu og andmælarétt byggir stefndi sérstaklega á því að ekki er unnt að fullyrða að frekari rannsókn eða andmæli hefðu leitt til þess að stefnandi hefði verið skipaður dómari við Landsrétt. Sama er ef stefnanda hefði verið gefinn kostur á frekari andmælum. Öll sjónarmið stefnanda höfðu komið fram. Að því er snertir mat á dómarareynslu lágu upplýsingar um það fyrir og ekki nauðsynlegt að gefa sérstakan kost á andmælum. Fyrir liggur að stefnandi sendi einnig stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis erindi sem liggur fyrir í málinu og kom þar fram sínum sjónarmiðum. Að því er snertir málsástæður um rökstuðning liggi fyrir ítarlegt svar ráðuneytis, dags. 6. júlí 2017 og vísast til þess. Hvað sem þessu liði sé ekki fram komin sönnun þess að orsakasamband hafi verið milli málsmeðferðar ráðherra og meðferðar á Alþingi, enda hafði Alþingi tækifæri á að hafna tillögu ráðherra um hvern og einn. Að undangengnum umræðum á Alþingi og umfjöllun þingnefndar samþykkti Alþingi tillöguna. Í ljósi alls framangreinds og þess að ráðherra var að sönnu heimilt að leggja til aðra sem uppfylltu hæfisskilyrði en þá sem nefndin taldi hæfasta, sem og hlutverk Alþingis, er ekki unnt að líta svo á að það sé vegna saknæmrar eða ólögmætrar háttsemi að stefnandi hlaut ekki skipun sem dómari við Landsrétt. Mótmælir stefndi því að ráðherra hafi sýnt saknæma og ólögmæta háttsemi. Auk þess er því mótmælt að meðferð og endanleg niðurstaða á Alþingi hafi verið saknæm og ólögmæt. Á sama hátt er ekki raunhæft að stefnandi hafi haft réttmætar væntingar til embættisins eða átt lögvarða kröfu til þess eru fyrir hendi svo miklir óvissuþættir um hvernig Alþingi hefði lagt til aðra niðurstöðu að ekki er unnt að fullyrða að skipa hefði átt stefnanda. Stefndi telur ekki unnt að fullyrða að stefnanda hefði borið að skipa í embættið þótt ráðherra hefði gert sérstakar tillögur um þá fjóra umsækjendur sem skipaðir voru en voru ekki hæfastir taldir af dómnefnd og rökstutt þær frekar á þann hátt sem Hæstiréttur taldi í dómum sínum, einkum með tilliti til úrlausnarefnis um miskabætur. Stefnandi hafi ekki sannað að útilokað hefði verið að leggja til umsækjendur án þess að hann væri þeirra á meðal. Ganga verði út frá því að umræddir fjórir umsækjendur hefðu við þær aðstæður verið samþykktir af Alþingi þótt staðið hefði verið á annað hátt að tillögum um þá og vísast þá meðal annars til þess rökstuðnings sem veittur var. Með vísan til alls þessa beri að sýkna af kröfum stefnanda varðandi bótakröfu vegna fjártjóns. Verði ekki fallist á ofangreint ber stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi verið og sé hæfari en Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Ragnheiður Bragadóttir og Jón Finnbjörnsson. Verður þá að gera þá kröfu að stefnandi sanni að hann sé hæfari en hvern og einn þessara umsækjenda. Auk þessa verði eins og fyrr segir að leggja sönnunarbyrði á stefnanda um að skipun hans hefði verið samþykkt á Alþingi. Því verði að hafna sem ósönnuðu. Áliti dómnefndar hafi ekki verið hnekkt í dómum Hæstaréttar nema um atriði sem rétturinn taldi hafa óverulegt vægi en það hafi lotið að samningu dóma. Einnig er á mörgum umsækjendum afar lítill munur í einstökum matsatriðum þegar horft er á Excel-skjal sem nefndin útbjó. Þannig voru þeir dómarar sem ráðherra gerði tillögu um og ekki voru meðal þeirra 15 sem nefndin taldi hæfasta með allháar einkunnir fyrir dómarareynslu og þrír þeirra með hærri einkunn en stefnandi. Verði að gera kröfu til þess að stefnandi sanni að hann uppfylli betur skilyrði um samningu dóma og um dómarareynslu sína en þeir fjórir sem skipaðir voru en voru ekki á meðal 15 hæfustu eftir mati dómnefndar. Stefndi leyfi sér að fullyrða að a.m.k. þrír af þessum fjórum höfðu meiri reynslu af dómarastörfum og samningu dóma og sá fjórði hafði starfað lengur í dómsýslunni. Stefndi mótmælir málsástæðum í stefnu að öðru leyti og krefst sýknu. Stefndi hafnar bótakröfu stefnanda, sem stefnandi hefur sett fram í formi viðukenningarkröfu. Ekki sé ljóst af hverju stefnandi telur ástæðu til að krefjast viðurkenningar en hafa ekki uppi fjárkröfu til að úr deilunni yrði endanlega leyst ef ekki yrði á sýknu fallist. Stefndi telur að stefnandi eigi alla möguleika á að takmarka ætlað tjón sitt í framtíðinni og sækja um önnur störf eða embætti, t.d. við Landsrétt. Skorað er á stefnanda að leggja fram ársreikninga vegna sjálfstæðrar starfsemi eða félaga í eigu stefnanda samkvæmt skattframtölum. Þá verður að horfa til þess að Kjararáð ákvað ekki laun dómenda við Landsrétt fyrr en allnokkru eftir að skipun var um garð gengin. Stefnandi gat ekki haft væntingar til þess að laun myndu hækka á þann hátt sem kröfugerð hans virðist grundvölluð á og tæplega er unnt að ganga út frá að stefnandi hafi sótt um embættið vegna hærri launa. Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísast í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.     IV. Niðurstaða dómsins 1.       Forsaga málsins og dómar Hæstaréttar í málum annarra umsækjenda Málatilbúnaður stefnanda byggist á því að viðurkenna beri rétt hans til skaðabóta úr hendi íslenska ríkisins vegna þess að ráðherra hafi gengið fram hjá honum með ólögmætum hætti þegar hún bar fram til Alþingis og síðar til forseta Íslands tillögur sínar um hverjir skyldu skipaðir dómarar við Landsrétt. Stefnandi var í hópi 15 einstaklinga sem dómnefnd taldi á meðal 15 hæfustu umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt samkvæmt áliti frá 19. maí 2017. Ráðherra lagði hins vegar sjálf fram lista til forseta Alþingis 29. maí 2017 með eigin tillögum um hvaða 15 einstaklingar skyldu skipaðir dómarar við Landsrétt og var stefnandi ekki þar á meðal. Alþingi staðfesti tillögur ráðherra og voru tillögurnar sem fyrr segir sendar forseta Íslands sem undirritaði skipunarbréf 15 dómara við Landsrétt 8. júní 2017. Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi einkum til dóma Hæstaréttar frá 19. desember 2017 í málum nr. 591/2017 og 592/2017. Þar komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð dómsmálaráðherra við skipun í embætti dómara við Landsrétt í júní 2017 hefði verið andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga. Í ofangreindum dómum er lýst þeirri niðurstöðu Hæstaréttar að málsmeðferð ráðherra hafi ekki verið annmörkum háð varðandi þá ellefu umsækjendur sem raðast höfðu í sæti 1, 2, 3, 4, 5, 6, 8, 9 10, 13 og 15 samkvæmt stigatöflu dómnefndar. Hæfni þeirra hefði verið metin af dómnefnd sem hafði yfir að ráða sérþekkingu í þeim efnum og framkvæmdi mat sitt í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 4. gr. a laga nr. 15/1998 og reglur sem um dómnefndina gilda. Samkvæmt þessu hefði ekkert staðið því í vegi að tillaga ráðherra um samþykki Alþingis fyrir heimild til að skipa þessa umsækjendur yrði borin upp í einu lagi við atkvæðagreiðslu á Alþingi í samræmi við ákvæði þingskaparlaga og þingvenjur, að því tilskildu að kostur gæfist á að greiða atkvæði um hvern og einn sem ráðherra gerði tillögu um, kæmi fram ósk um slíkt. Hæstiréttur taldi hins vegar að öðru máli gilti um þá málsmeðferð sem ráðherra viðhafði þegar hann lagði fram tillögu til Alþingis um að vikið yrði frá áliti dómnefndar um veitingu dómaraembættis. Taldi Hæstiréttur að óhjákvæmilegt væri að slík ákvörðun væri þá reist á frekari rannsókn ráðherra eftir 10. gr. stjórnsýslulaga. Skyldi þá tryggt að fyrir hendi væri sérþekking sambærileg þeirri sem dómnefnd byggi yfir og að tekið væri tillit til fyrirmæla ráðherra í reglum nr. 620/2010 um þau atriði sem ráða skyldu hæfnismati. Var rakið í dóminum að til þessa væri enn brýnni ástæða en ella þegar álit dómnefndar væri bindandi fyrir ráðherra og óheimilt væri að skipa í embætti umsækjanda sem dómnefnd hefði ekki metið hæfastan nema að fengnu samþykki Alþingis. Gæta yrði að því að við veitingu dómaraembætta tæki ráðherra ekki ákvörðun um starf sem ætti undir boðvald hans sjálfs, heldur um stöðu sem tilheyrir þeirri grein ríkisvaldsins sem að stjórnlögum færi með eftirlitshlutverk gagnvart öðrum greinum þess og tryggt væri sjálfstæði í 1. málslið 61. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998. Í ljósi þess að hversu miklu leyti málatilbúnaður stefnanda byggist á dómum Hæstaréttar er fullt tilefni til að taka orðrétt eftirfarandi úr forsendum dómanna:  ,Að gættu framansögðu bar ráðherra í ljósi rannsóknarskyldu sinnar samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga að lágmarki að gera samanburð á hæfni annars vegar þeirra fjögurra umsækjenda sem dómnefnd hafði metið meðal 15 hæfustu en ráðherra gerði ekki tillögu um, og hins vegar þeirra fjögurra sem ráðherra gerði tillögu um í stað hinna fyrrnefndu. Ef niðurstaða þess samanburðar gat gefið tilefni til hefði ráðherra á þeim grundvelli borið að rökstyðja þá ákvörðun sína að leita eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri tillögu að vikið yrði frá áliti dómnefndar. Aðeins þannig hefði Alþingi á réttum grundvelli getað rækt hlutverk sitt í ferlinu og tekið afstöðu til mats ráðherra andstætt mati dómnefndar. [...] Við úrlausn þess hvort staðið hafi verið að málum af hálfu dómsmálaráðherra í samræmi við ofangreint er fyrst til þess að líta að gögn málsins bera ekki með sér, að fram hafi farið af hálfu ráðherra eða aðila á hennar vegum sérstök rannsókn sambærileg rannsókn dómnefndar á atriðum, sem vörðuðu veitingu umræddra fjögurra dómaraembætta við Landsrétt í undanfara þess að ráðherra ákvað að víkja frá dómnefndarálitinu. Er reyndar tekið fram í málatilbúnaði stefnda að ráðherra hafi haft undir höndum öll sömu gögn og dómnefndin og að ekki hafi verið byggt á öðrum eða nýjum gögnum heldur hafi ráðherra ákveðið að ljá dómarareynslu aukið vægi.“                 Í forsendum Hæstaréttar er síðan rakið í kjölfarið að með tillögum dómsmálaráðherra um hverja skyldi skipa dómara við Landsrétt hafi fylgt skjal, sem hafði að geyma rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun. Þar hafi þess fyrst verið getið hvenær ráðherra hafi borist álit dómnefndar og drög að álitinu, því næst hvaða reglur giltu um störf dómnefndar, vísað var til þess að álit nefndarinnar væri yfirgripsmikið, að ítarleg umfjöllun væri í því um þá þætti sem auðvelt væri að meta hlutlægt og að sú veiting embætta sem lægi fyrir dómsmálaráðherra væri án fordæma. Í framhaldinu var vikið að hlutverki Landsréttar sem áfrýjunardómstóls, þess getið að dómnefnd legði reynslu af dómarastörfum að jöfnu við reynslu af lögmanns- og stjórnsýslustörfum og tekið var fram að þrír nánar tilgreindir þættir hafi verið látnir liggja milli hluta með því að gera ekki upp á milli umsækjenda hvað þá varðaði. Þá hafi sagt að með því að gera ekki tilraun til að leggja þætti varðandi stjórnun þinghalda og samningu dóma til grundvallar heildarmati yrði ekki annað ráðið en að reynsla dómara hafi ekki fengið það vægi sem tilefni væri til og gert væri ráð fyrir í reglum nr. 620/2010. Þessu næst hafi verið vísað til bréfaskipta ráðherra og formanns dómnefndar, vikið að því að mat huglægra þátta væri vandasamt og ætti ekki að vera vélrænt og að ekkert í reglum nr. 620/2010 kallaði á slík vinnubrögð. Í lok fylgiskjalsins hafi sagt að eftir að hafa farið yfir öll gögn málsins væri það niðurstaða ráðherra að fleiri umsækjendur hafi komið til greina en tilteknir hafi verið í ályktarorðum dómnefndar. Þannig hafi þeir fimmtán umsækjendur sem nefndin tiltók allir komið til greina sem og aðrir sem bjuggu yfir áralangri dómarareynslu, alls 24 umsækjendur. Í framhaldinu hafði Hæstiréttur eftirfarandi orð um þessa málsmeðferð: ,,Samkvæmt því sem hér var rakið liggur ekki fyrir að frekari rannsókn af hálfu dómsmálaráðherra hafi farið fram á atriðum sem vörðuðu veitingu þeirra fjögurra dómaraembætta sem eftir stóðu. Þá fullnægði rökstuðningur ráðherra í fylgiskjali með bréfi til forseta Alþingis 29. maí 2017 og tillaga hennar til Alþingis, um skipun tilgreindra fjögurra umsækjenda í dómaraembætti í stað þeirra sem dómnefnd hafði lagt til, ekki þeim lágmarkskröfum sem að framan er lýst. Án tillits til þess hvort ráðherra gat með minnisblaði sínu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis 30. maí 2017 bætt úr þeim annmörkum, sem voru á rannsókn hennar, rökstuðningi og tillögugerð, hafði það minnisblað ekkert nýtt að geyma umfram það sem fram hafði komið í áliti dómnefndar. Þá gátu sjónarmið á grundvelli laga nr. 10/2008 um jafna stöðu karla og kvenna ekki komið til álita við veitingu ráðherra á dómaraembættunum nema tveir eða fleiri umsækjendur hefðu áður verið metnir jafnhæfir til að gegna því. Að gættum þeim kröfum sem gera bar samkvæmt framansögðu var rannsókn ráðherra ófullnægjandi til að upplýsa málið nægilega, svo ráðherra væri fært að taka aðra ákvörðun um hæfni umsækjenda en dómnefnd hafði áður tekið. Var málsmeðferð ráðherra að þessu leyti því andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga. Leiðir þá af sjálfu sér að annmarki var á meðferð Alþingis á tillögu dómsmálaráðherra þar sem ekki var bætt úr annmörkum á málsmeðferð ráðherra þegar málið kom til atkvæðagreiðslu á Alþingi. “   2. Réttur stefnanda til bóta fyrir fjárhagslegt tjón. Stefndi hefur í málsvörn sinni gegn því að hann beri skaðabótaábyrgð vegna fjártjóns vísað til þess að þótt stefnandi hafi verið í hópi hæfustu umsækjanda um embætti dómara við Landsrétt að mati dómnefndar, þá hafi hann ekki getað gengið að því vísu að hljóta embættið, enda hafi það verið ljóst að Alþingi þurfti að samþykkja tillögur ráðherra um hvern og einn eða hafna með þeim afleiðingum að ráðherra þurfti að leggja fram nýja tillögu. Af hálfu stefnda hefur enn fremur verið vísað til þess að ráðherra hafi verið ljóst þegar hún fékk álit dómnefndar í hendur að það myndi ekki hljóta samþykki á Alþingi óbreytt en henni hafi meðal annars verið gert þetta ljóst af forsvarsmönnum samstarfsflokka í ríkisstjórn. Telur stefndi að jafnvel þótt ráðherra hefði ákveðið að leggja tillögu dómnefndar óbreytta fyrir þingið þá hefðu athafnir hennar ekki nægt til að afstýra meintu tjóni stefnanda þar sem fyrir hafi legið að Alþingi hefði ekki samþykkt þá tillögu. Dómurinn getur ekki fallist á þessar málsástæður. Verður í því sambandi að hafa í huga að dómsmálaráðherra fór í reynd með vald til skipunar dómara við Landsrétt í samræmi við stöðu hennar sem æðsta handhafa framkvæmdarvalds og bar að stjórnlögum sérstaka ábyrgð á þeirri skipun, sbr. 13. gr. og 14. gr. stjórnarskrárinnar. Tillaga ráðherra til Alþingis um að annar verði skipaður dómari en sá sem dómnefnd hefur metið hæfastan, er einnig lögbundinn þáttur í undirbúningi þeirrar ákvörðunar að skipa mann í dómaraembætti, sjá hér til hliðsjónar dóma Hæstaréttar frá 31. júlí 2017 í málum nr. 451 og 452/2017.  Í ljósi þessa er ekki unnt að fallast á málsástæðu stefnda sem felur efnislega í sér að ráðherra hafi ekki megnað að koma í veg fyrir þá atburðarás sem átti sér stað með að gengið var fram hjá stefnanda, enda var það hún sem tók þá ákvörðun að taka hann út af listanum frekar en aðra umsækjendur. Ráðherra fór enn fremur bæði með það vald að leggja til umsækjendur og eins að ákveða hvort tillaga um skipun þeirra umsækjenda sem Alþingi hafði samþykkt yrði borin undir forseta Íslands til staðfestingar. Við þetta má enn fremur bæta að ef fallist væri á málsástæðu stefnda um að vandkvæði á því að sjá fyrir hver afdrif máls verða í meðförum Alþingis takmörkuðu eða jafnvel firrtu hann bótaskyldu myndi slík niðurstaða draga verulega úr möguleikum einstaklinga til að leita réttar síns vegna skipunar í embætti þar sem Alþingi kæmi að máli. Í þessu samhengi verður einnig að leggja áherslu á að Alþingi kemur við þessar aðstæður ekki fram í hlutverki sínu sem löggjafi heldur er því falinn ákveðinn þáttur í undirbúningi að stjórnvaldsákvörðun sem ráðherra tekur og er á ábyrgð ráðherra. Þá verður enn fremur að minna á að sú niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir að annmarki hafi verið á meðferð Alþingis á tillögu ráðherra þegar málið kom þar til atkvæðagreiðslu, sbr. þá dóma réttarins sem vitnað er til hér að framan. Af þeim dómum verður enn fremur skýrlega ráðið að þar sem á skorti að ráðherra gerði grein fyrir samanburði sínum á umsækjendum í rökstuðningi til Alþingis hafi Alþingi ekki  á réttum grundvelli getað rækt hlutverk sitt í ferlinu og tekið afstöðu til mats ráðherra andstætt mati dómnefndar. Verður af þeim sökum að hafna alfarið þeim vörnum stefnda að samþykki Alþingis á tillögum ráðherra um aðra umsækjendur hafi leitt til þess að ákvörðun um endanlegt val þeirra fjögurra sem komu í stað stefnanda og þriggja annarra umsækjenda hafi verið lögmæt. Með vísan til þessarar niðurstöðu verður einnig að hafna þeirri málsástæðu stefnda að Alþingi hafi getað samþykkt tillögur ráðherra á grundvelli sjónarmiða sem leidd verða af lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu karla og kvenna, enda komu þau ekki til álita við veitingu ráðherra á dómaraembættunum nema tveir eða fleiri umsækjendur hefðu áður verið metnir jafnhæfir til að gegna því. Dómurinn fær heldur ekki séð að það geti haft þýðingu við úrlausn um kröfu stefnanda um skaðabætur fyrir fjártjón hvaða væntingar stefnandi mátti gera sér um meðferð málsins í kjölfar þess að umsögn dómnefndar lá fyrir. Verður þá að líta til þess að málatilbúnaður stefnanda byggist ekki á því að hann eigi rétt til bóta á grundvelli þess að réttmætar væntingar hans hafi verið virtar að vettugi, heldur því að hann telur sig mundu hafa hlotið embætti dómara við Landrétt ef ekki hefðu verið annmarkar á málsmeðferð og efnislegu mati ráðherra.  Að því er snertir kröfu stefnanda um að honum verði bætt fjárhagslegt tjón vegna ólögmætrar framgöngu ráðherra við meðferð málsins verður að hafa í huga að almennt leiða annmarkar á málsmeðferð og undirbúningi stjórnvaldsákvörðunar um veitingu embættis ekki einir og sér til bótaábyrgðar stefnda gagnvart þeim sem fær ekki slíkt embætti. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur það aftur á móti verið talið forsenda fyrir bótaskyldu stefnda við slíkar aðstæður að sá sem sækir um opinbert embætti sýni fram á að lögmæt meðferð málsins og forsvaranlegt mat á umsókn og samanburður á hæfni hans og annarra umsækjenda hefði leitt til þess að hann hefði hlotið embættið, sbr. meðal annars til hliðsjónar dóma Hæstaréttar Íslands frá 19. september 2002 í máli nr. 90/2002, frá 14. apríl 2011 í máli nr. 412/2010 og frá 7. júní 2018 í máli nr. 578/2017. Þegar tekin er afstaða til þess hvort stefnandi hafi uppfyllt þær kröfur til sönnunar sem gerðar eru samkvæmt framangreindu er óhjákvæmilegt að horfa til tilvitnaðra dóma Hæstaréttar frá 19. desember 2017. Verður þá fyrst að benda á að í þessum málum komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að tilteknir annmarkar sem Héraðsdómur Reykjavíkur taldi að hefðu verið á áliti dómnefndar hefðu verið óverulegir og samkvæmt því ekki einir og sér getað gefið tilefni til þess að vikið yrði frá dómnefndarálitinu. Þá var ekki af hálfu Hæstaréttar tekið undir sjónarmið Héraðsdóms um að sá mælikvarði sem dómnefndin beitti og sá naumi tími sem henni var ætlaður til starfa síns hafi leitt til þess að í reynd skorti á að efnislegt mat og samanburður færu fram á verðleikum umsækjenda og þar með hæfni þeirra. Af þeim sökum verður við úrlausn þess máls sem hér er til umfjöllunar að leggja til grundvallar að ekki hafi verið neinir annmarkar á dómnefndarálitinu sem réttlætt gátu að ráðherra viki frá því. Þótt Hæstiréttur hafi í fyrrgreindum dómum sínum einungis vísað með beinum hætti til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem fjallar um skyldu stjórnvalds til að afla sér fullnægjandi upplýsinga um atvik máls áður en það tekur ákvörðun í máli, verður að sama skapi ekki litið fram hjá því að í dómunum er einnig fjallað um hvernig efnislegu mati ráðherra á umsækjendum var háttað og þær ályktanir sem hún dró af því mati. Þannig er tekið svo til orða í forsendum Hæstaréttar að ráðherra hafi ,,að lágmarki borið að gera samanburð á hæfni annars vegar þeirra fjögurra umsækjenda sem dómnefnd hafði metið meðal 15 hæfustu en ráðherra gerði ekki tillögu um, og hins vegar þeirra fjögurra sem ráðherra gerði tillögu um í stað hinna fyrrnefndu“. Að mati þessa dóms verður ekki annað ráðið af þessum forsendum Hæstaréttar en að þar sé vísað til þeirrar skyldu sem hvílir á ráðherra samkvæmt grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins um mat á hæfni umsækjenda. Þannig getur stjórnvald að öllu jöfnu ekki slegið því föstu að það hafi valið hæfasta umsækjandann nema það hafi gert heildstæðan samanburð á umsækjendum með tilliti til þeirra krafna sem lög gera til þess einstaklings sem gegna má starfinu og þeirra sjónarmiða sem valið á milli umsækjenda byggist á.  Hvað varðar þær kröfur og sjónarmið sem samanburður á umsækjendum byggist á er almennt gengið út frá því að stjórnvaldið sem veitir viðkomandi embætti skuli ákveða hverju sinni á hvaða sjónarmiðum ákvörðun um skipun eigi að byggjast, að því marki sem ekki er mælt fyrir um annað í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins fela ekki í sér takmarkanir í þessu efni. Þau sjónarmið ráðast þó af eðli og viðfangsefnum þess embættis sem verið er að skipa í hverju sinni. Þannig verður að telja að veitingu dómaraembætta sé svigrúm ráðherra þrengra að þessu leyti, enda tekur ráðherra þá ekki ákvörðun um veitingu embættis sem heyrir undir boðvalds hans sjálfs, heldur um stöðu sem tilheyrir þeirri grein ríkisvaldsins sem að stjórnlögum fer með eftirlitshlutverk gagnvart öðrum greinum þess og tryggt er sjálfstæði í 1. málslið 61. gr. sem og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 24. gr. þágildandi laga nr. 15/1998, um dómstóla, sbr. dóma Hæstaréttar frá 19. desember 2017 sem áður er vitnað til. Í sömu dómum er jafnframt tekið skýrt fram að ef ráðherra hygðist víkja frá mati dómnefndar skyldi tryggt að fyrir hendi væri sérþekking sambærileg þeirri sem dómnefnd byggi yfir og að tekið væri tillit til fyrirmæla ráðherra í reglum nr. 620/2010 um þau atriði sem ráða skulu hæfnismati. Í 4. gr. þeirra reglna var kveðið sérstaklega á um það að dómnefnd skyldi gæta þess að samræmis væri gætt við mat umsækjenda þannig að jafnræði væri í heiðri haft. Þá skyldi niðurstaðan byggð á heildstæðu mati á grundvelli málefnalegra sjónarmiða út frá verðleikum umsækjenda með hliðsjón af menntun og reynslu, ráðvendni, hæfni og skilvirkni í starfi, eins og nánar greinir með tilliti til atriða sem nánar voru rakin í 1.–5. tölul. 4. gr.  Þegar litið er til þeirra fyrirmæla sem ráðherra var bundinn af samkvæmt reglum nr. 620/2010 verður ekki annað séð en að þar hafi verið sett það viðmið við mat á hæfni umsækjenda um dómaraembætti að æskilegt væri að umsækjandi hefði fjölbreytta starfsreynslu á sviði lögfræðinnar, s.s. reynslu af dómstörfum, málflutningi eða öðrum lögmannsstörfum, störfum innan stjórnsýslunnar eða fræðistörfum. Ljóst er að ekki er gert ráð fyrir því berum orðum í reglum nr. 620/2010 að ráðherra gæti lagt aukna áherslu á tiltekna þætti í starfsreynslu umsækjenda við mat á hæfni þeirra til að gegna dómaraembætti. Að sama skapi verður heldur ekki séð að ráðherra hafi samkvæmt sömu reglum verið alfarið óheimilt að ljá reynslu af dómsstörfum aukið vægi, enda var ekki í reglunum kveðið á um innbyrðis vægi matsþátta, þótt vissulega væri talið æskilegt að starfsreynsla umsækjenda væri fjölbreytt. Hvað sem leið annars heimild ráðherra til að leggja meira upp úr dómarareynslu við mat á hæfni umsækjanda, þá leikur að mati dómsins enginn vafi á því að ráðherra bar allt að einu að gera samanburð á umsækjendum með tilliti til reynslu þeirra af dómsstörfum, ef hún ákvað á annað borð að byggja á þessari tilteknu reynslu, og þess heldur ef hún kaus að auka vægi hennar. Í tilvitnuðum dómum Hæstaréttar frá 19. desember 2017 er raunar tekið svo til orða í tengslum við þessa skyldu að ráðherra hafi ,,að lágmarki“ borið ,,að gera samanburð á hæfni annars vegar þeirra fjögurra umsækjenda sem dómnefnd hafði metið meðal 15 hæfustu en ráðherra gerði ekki tillögu um, og hins vegar þeirra fjögurra sem ráðherra gerði tillögu um í stað hinna fyrrnefndu“. Að mati dómsins er þó ekki unnt að leggja þann skilning í þetta orðalag úr forsendum Hæstaréttar að skylda ráðherra að þessu leyti sé takmörkuð við að bera þá fjóra umsækjendur af lista dómnefndar, sem hún ákvað að gera ekki tillögu um að yrðu skipaðir, saman við þá fjóra umsækjendur sem hún síðar lagði til við Alþingi. Verður í því sambandi að leggja áherslu að á ráðherra hvíldi allt að einu sú skylda að sjá til þess að 15 hæfustu umsækjendurnir yrðu skipaðir dómarar við Landsrétt á grundvelli heildstæðs samanburðar á umsækjendum með tilliti til þeirra sjónarmiða sem hún taldi sjálf rétt að byggja á. Ef ráðherra taldi að rétt væri að ljá reynslu af dómsstörfum aukið vægi bar henni að réttu lagi að leggja mat á alla umsækjendur út frá því sjónarmiði. Að öðrum kosti var ráðherra ekki í aðstöðu til að slá því föstu að hún hefði valið 15 hæfustu umsækjendurna á grundvelli reynslu þeirra af dómsstörfum. Að mati dómsins gefa hvorki gögn málsins né skýringar ráðherra fyrir dómi greinargóða mynd af því hvaða samanburður hafi farið fram af hálfu ráðherra á umsækjendum með tilliti til sjónarmiða um reynslu af dómsstörfum. Þannig liggur ekkert fyrir um í hverju samanburðurinn fólst og hver var niðurstaða ráðherra um innbyrðis mat einstakra þátta milli umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt, að því marki sem hún lagði annað mat á umsækjendur en dómnefndin. Telja verður að í ljósi tölvupósts setts ráðuneytisstjóra til ráðherra, dags. 28. maí 2017, hafi ráðherra haft sérstaklega ríkt tilefni til að huga að því hvernig þessum samanburði yrði háttað. Í tölvupóstinum er beinlínis vikið að þeim breytingum sem ráðherra hafði í huga á lista nefndarinnar með tilliti til aukins vægis dómsstarfa eins og hún vék sjálf að í skýrslu sinni fyrir dómi. Kemur þar jafnframt fram að ráðherra væri þá að bæta úr annmörkum sem verið hefðu með sjálfstæðu mati, sem þýddi að leggja þyrfti ,,sama mat á alla umsækjendur út frá þeim málefnalegu og lögmætu forsendum sem ráðherra gefur sér“. Best væri því að ,,veita dómarastarfaflokknum aukið vægi og geta vísað til þess gagnvart öllum hópnum“. Þrátt fyrir framangreindar ábendingar setts ráðuneytisstjóra er í gögnum málsins ekkert að finna um samanburð á umsækjendum með tilliti til reynslu af dómsstörfum. Gögn málsins, sbr. meðal annars bréf ráðherra til forseta Alþingis 29. maí 2017, hafa í reynd aðeins að geyma rökstuðning ráðherra fyrir því hvers vegna hún taldi þá fjóra umsækjendur, sem hún gerði sjálf tillögu um, hæfa til að gegna embætti dómara við Landsrétt og til hvaða upplýsinga hún leit um þá umsækjendur. Á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu er hins vegar ekki unnt að fullyrða að af hálfu ráðherra hafi farið fram samanburður á umsækjendum sem fullnægði þeim kröfum sem taldar eru hluti af grundvallarreglum í stjórnsýslurétti um undirbúning stöðuveitingar og mat á hæfni umsækjenda. Í því sambandi verður að leggja áherslu á að ákvörðun um skipun í opinbert embætti verður að byggjast á samanburði á umsækjendum á sambærilegum grundvelli sem leiði í ljós hver er hæfastur til að gegna starfinu en ekki bara réttlætingu á því hvern ráðherra vill skipa í embættið.  Eins og áður hefur verið rakið hefur það verið talið forsenda í dómaframkvæmd Hæstaréttar fyrir bótaskyldu stefnda gagnvart þeim sem sækir um opinbert embætti að viðkomandi umsækjandi sýni fram á að lögmæt meðferð málsins og forsvaranlegt mat á umsókn og samanburður á hæfni hans og annarra umsækjenda hefði leitt til þess að hann hefði hlotið umrætt embætti. Þar sem hvorugur aðila málsins hefur teflt fram málsástæðum um að dómnefnd eða ráðherra hafi ekki dregið forsvaranlegar ályktanir af gögnum málsins né lagt fram nein umsóknargögn sem gefa dóminum tækifæri til að taka afstöðu til slíkra atriða koma þau ekki til umfjöllunar í málinu. Þegar tekin er afstaða til þess hvort stefnanda hafi tekist að sýna fram á að lögmæt meðferð málsins og efnislegur samanburður á hæfni hans og annarra umsækjenda hefði leitt til þess að hann hefði verið skipaður dómari við Landsrétt þá er ekki unnt að horfa fram hjá því að af hálfu stefnda hefur ekki verið gerð viðunandi grein fyrir því hvaða samanburður fór fram á stefnanda og öðrum umsækjendum og hvernig innbyrðis mati þeirra var háttað. Þá verður heldur ekki dregin fjöður yfir það að dómnefnd hafði þegar raðað stefnanda í 7. sæti á lista yfir hæfustu umsækjendur, auk þess sem stefnandi bjó yfir meiri reynslu af dómsstörfum en nokkrir þeirra umsækjenda sem lagt var til að skipaðir yrðu dómarar við Landsrétt. Eins og áður segir hefur Hæstiréttur enn fremur hafnað sjónarmiðum um að slíkir annmarkar hafi verið á dómnefndaráliti að tilefni hafi verið fyrir ráðherra að víkja frá því, sbr. tilvitnaða dóma frá 19. desember 2017. Með vísan til þessara atriða verður að telja að stefnandi hafi leitt nægilega sterkar líkur að því að lögmæt meðferð málsins og forsvaranlegt mat á umsókn og samanburður á hæfni hans og annarra umsækjenda hefði leitt til þess að hann hefði verið skipaður dómari við Landsrétt. Er því fallist á málsástæðu stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda vegna þess fjárhagslega tjóns sem hann varð fyrir vegna ákvörðunar ráðherra. Stefnandi hefur í málatilbúnaði sínum byggt á því að ráðherra hafi brotið gegn andmælarétti samkvæmt ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga þegar hún ákvað að taka fjóra umsækjendur, sem ekki voru meðal 15 hæfustu að mati dómnefndar, fram yfir stefnanda. Héraðsdómur fjallaði um sambærilega málsástæðu í dómum sínum frá 15. september 2017 en um hana var ekki fjallað við endurskoðun dómsins á áfrýjunarstigi í Hæstarétti 19. desember 2017 í málum nr. 591 og 592/2017. Eins og bent var á í dómi Héraðsdóms hefur andmælaréttur samkvæmt ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga, og eins óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttarins, almennt verið talinn fela í sér að aðili máls eigi rétt á að tjá sig um nýjar upplýsingar sem fram koma um málsatvik við meðferð máls, ef upplýsingarnar eru honum í óhag og geta haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins. Þótt í ákveðnum tilvikum megi vissulega telja það til vandaðri stjórnsýsluhátta að stjórnvöld gefi aðilum máls kost á að tjá sig þegar þau ákveða að víkja frá mati lögbundins umsagnaraðila, eins og dómnefndarinnar sem um ræðir í máli þessu, þá verður hvorki af lögum né óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins leidd nein skylda til að gefa aðila máls slíkt færi. Þar sem ekkert kemur fram í gögnum málsins um að ráðherra hafi aflað einhverra gagna eða upplýsinga til viðbótar við þau atvik sem lágu fyrir við álit nefndar um mat á hæfi dómara, dags. 19. maí 2017, eru ekki efni til að taka undir þá málsástæðu stefnanda að ráðherra hafi brotið gegn andmælarétti hans. Er þessari málsástæðu stefnanda því hafnað. Með hliðsjón af þessum úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda allan málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1,2 milljónir króna.                 Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm. Við uppkvaðningu dómsins var gætt 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.   Dómsorð: Fallist er á kröfu stefnanda um að viðurkennd sé bótaskylda stefnda vegna tjóns stefnanda af völdum þess að hann var ekki skipaður í eitt af 15 embættum dómara við Landsrétt sem auglýst voru laus til umsóknar 10. febrúar 2017 Stefndi greiði stefnanda alls 1.200.000 kr. í málskostnað.
Mál nr. 23/2020
Stjórnsýsla Stöðuveiting Skaðabætur Dómstóll Orsakasamband Andmælaréttur
J var einn 33 umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt og meðal þeirra 15 sem dómnefnd samkvæmt lögum um dómstóla mat hæfasta til starfans. Þegar dómsmálaráðherra gerði tillögu til Alþingis um þá 15, sem skipa skyldi dómara við Landsrétt, vék ráðherrann frá niðurstöðum dómnefndar varðandi fjóra umsækjendur, sem nefndin hafði metið hæfasta, og var J einn þeirra. Alþingi samþykkti tillögu ráðherra og höfðaði J í kjölfarið mál á hendur Í og krafðist skaða- og miskabóta. Hæstiréttur taldi að þegar metið væri hvort háttsemi dómsmálaráðherra í aðdraganda skipunar landsréttardómaranna 15 hafi verið ólögmæt og saknæm bæri fyrst til þess að líta til þess að Hæstiréttur hefði áður slegið því föstu að þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð ráðherrans í aðdraganda skipunar dómaranna, að skaðabótaskyldu varðaði úr hendi Í. Ekkert hafi komið fram í málinu sem fengi þeirri ályktun hnekkt. Í annan stað væri þess að gæta að eftir að dómsráðherra hafði ákveðið í tillögu sinni til Alþingis að víkja frá áliti dómnefndarinnar á grundvelli annarra sjónarmiða en þeirri sem nefndin hafði áður reist álit sitt á hafi ráðherranum borið samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga að gefa J kost á að koma á framfæri athugasemdum, áður en ráðherrann réð ákvörðun sinni til lykta. Það hafi ráðherrann ekki gert og hafi því einnig verið brotið gegn andmælarétti J við meðferð málsins. Í dómi Hæstaréttar sagði að það væri óskráð meginregla íslensks réttar að stjórnvaldi sem skipar í opinbert starf eða embætti beri hverju sinni að velja hæfasta umsækjandann og væri reglan lögfest hvað dómara varðaði. Ef ætlun löggjafans við setningu bráðabirgðaákvæðis IV við lög um dómstóla hefði verið að víkja frá framangreindri meginreglu við skipun dómara í Landsrétt hefði slíkt þurft að koma fram með ótvíræðum hætti í orðum laganna eða lögskýringargögnum. Svo væri ekki og var því hafnað málsástæðu Í sem laut að hinu öndverða. Hæstiréttur taldi að J hafi leitt að því nægar líkur að forsvaranlegt mat ráðherra á umsókn hans og samanburður á hæfni hans og annarra umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt hefði leitt til þess að hann hefði verið skipaður dómari umrætt sinn. Taldi Hæstiréttur að J ætti rétt á skaðabótum vegna fjártjóns sem næmu mismun á launum hans sem héraðsdómara og síðar dómstjóra og launum sem hann hefði haft sem landsréttardómari en vegna óvissu er varðaði lífeyrisréttindi hans voru bætur fyrir þau metnar að álitum. Þá var Í gert að greiða J miskabætur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Þorgeir Örlygsson fyrrverandi hæstaréttardómarar, Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari og Kristinn Bjarnason lögmaður. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. maí 2020. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi greiði sér í skaðabætur 9.299.361 krónu með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2018 til 6. mars sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Aðaláfrýjandi krefst þess einnig að gagnáfrýjandi greiði sér 2.500.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum frá 6. mars 2018 til greiðsludags. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar úr hendi gagnáfrýjanda á öllum dómstigum. Gagnáfrýjandi skaut málinu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 16. júlí 2020. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um sýknu af skaðabótakröfu aðaláfrýjanda og að fjárhæð tildæmdra miskabóta verði lækkuð. Þá krefst gagnáfrýjandi þess að málskostnaður fyrir héraðsdómi og Landsrétti verði felldur niður og aðaláfrýjanda gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti. I Aðaláfrýjandi var einn 33 umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt sem auglýst voru laus til umsóknar 10. febrúar 2017 og meðal þeirra 15 sem dómnefnd samkvæmt lögum nr. 50/2016 um dómstóla mat hæfasta til að gegna slíku embætti. Samkvæmt stigatöflu dómnefndar var aðaláfrýjandi ellefti í röð 15 hæfustu umsækjendanna. Þegar dómsmálaráðherra gerði tillögu til Alþingis um þá 15 sem skipa skyldi dómara við Landsrétt vék ráðherrann frá niðurstöðum dómnefndar varðandi fjóra úr hópi þeirra 15 sem nefndin hafði metið hæfasta og var aðaláfrýjandi einn þeirra. Alþingi samþykkti tillögu ráðherra og í kjölfarið undirritaði forseti Íslands skipunarbréf til handa þeim 15 umsækjendum sem tillaga ráðherra hljóðaði um. Í málinu greinir aðila á um hvort gagnáfrýjandi ber ábyrgð gagnvart aðaláfrýjanda á því fjártjóni sem hann telur sig hafa beðið við að hafa ekki verið skipaður dómari við Landsrétt umrætt sinn. Eins er ágreiningur um hver sé hæfileg fjárhæð miskabóta til handa aðaláfrýjanda af sama tilefni. Málsókn aðaláfrýjanda er reist á sakarreglunni og reglu 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Dómsmálaráðherra hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi með því að ganga fram hjá aðaláfrýjanda við skipun dómara í Landsrétt og bakað gagnáfrýjanda með því skaða- og miskabótaábyrgð. Það sé ótvíræð meginregla í íslenskum rétti, sem staðfest hafi verið í dómum Hæstaréttar, að við val á umsækjanda í opinbert starf eða embætti beri hverju sinni að velja hæfasta umsækjandann. Meginreglan gildi óháð því hver veitingarvaldshafinn er og hún sé fest í sett lög hvað dómara varðar. Verkefni dómnefndar samkvæmt lögum um dómstóla sé að meta hæfni umsækjenda og þá ekki einvörðungu með tilliti til lágmarkskrafna eða almennra mælikvarða, heldur sé það beinlínis hlutverk nefndarinnar að gera upp á milli umsækjenda og finna þann hæfasta. Komist dómnefnd að þeirri niðurstöðu að einn eða fleiri umsækjendur séu hæfari en aðrir beri nefndinni að leggja það til grundvallar. Óheimilt sé að skipa annan eða aðra en þá sem dómnefnd hafi metið hæfasta nema Alþingi samþykki tillögu ráðherra í þeim efnum. Tilgangurinn með þessu sé að styrkja stöðu og sjálfstæði dómstóla og tryggja sem best að þeir séu óháðir hinum tveimur þáttum ríkisvaldsins. Dómnefnd verði að byggja mat sitt á málefnalegum sjónarmiðum og hið sama eigi við um ráðherra vilji hann víkja frá áliti dómnefndar. Ráðherra geti því aldrei vikið frá því skilyrði meginreglunnar að leggja til hæfasta eða hæfustu umsækjendurna. Með dómum Hæstaréttar 19. desember 2017 í málum nr. 591 og 592/2017 hafi verið staðfest að dómsmálaráðherra hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þegar hún gerði tillögu til Alþingis um að vikið yrði frá niðurstöðum dómnefndar. Samkvæmt téðum dómum hafi verið annmarkar á rannsókn ráðherra, rökstuðningi hennar og tillögugerð og ekkert sé fram komið af  hennar hálfu hvers vegna aðaláfrýjanda var vikið til hliðar og hann ekki talinn meðal 15 hæfustu umsækjendanna eins og dómnefnd hafði komist að niðurstöðu um. Einnig sé þess að gæta að  ráðherranum hafi verið óheimilt að veita tilteknum þáttum í hæfnismati dómnefndar aukið vægi eftir að nefndin skilaði mati sínu. Sé þá til þess að líta að dómnefndin hafi í áliti sínu umrætt sinn gefið einstökum matsþáttum sama vægi og hún hafði jafnan gert áður í störfum sínum og hafi þannig verið gætt fyllsta jafnræðis milli allra umsækjenda. Með ákvörðun ráðherra um að auka vægi dómarareynslu hafi ráðherrann á hinn bóginn breytt leikreglum eftir á sem sé óheimilt. Þá  hafi ráðherrann með ólögmætri háttsemi sinni hvorki gætt þess samræmis né jafnræðis sem kveðið sé á um í 11. gr. stjórnsýslulaga og 65. gr. stjórnarskrárinnar og aðaláfrýjandi hafi heldur ekki notið andmælaréttar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga áður en ráðherrann tók ákvörðun sína. Fjárhagslegt tjón sitt telur aðaláfrýjandi felast í þeim mun sem sé á launum héraðsdómara og landsréttardómara frá 1. janúar 2018 til 1. desember 2019 og mun á launum dómstjóra og landsréttardómara frá 1. desember 2019 til 1. október 2020, en óumdeilt sé að aðaláfrýjandi hefði hlotið embætti landsréttardómara ef ekki hefði komið til hin ólögmæta og saknæma háttsemi ráðherrans. Sé í því sambandi til þess að líta að aðaláfrýjandi hafi af dómnefnd verið metinn einn af 15 hæfustu umsækjendunum samkvæmt ítarlegri samantekt nefndarinnar og hafi Hæstiréttur staðfest að ekki hafi verið neinir þeir annmarkar á áliti dómnefndar sem gátu gefið ráðherranum tilefni til að víkja frá matinu. Krafa aðaláfrýjanda um miskabætur er á því reist að dómsmálaráðherra hafi með háttsemi sinni vegið að starfsheiðri, orðspori, reynslu og hæfni aðaláfrýjanda. Ráðherranum hafi mátt vera ljóst að gerðir hennar myndu bitna á aðaláfrýjanda og verða honum til miska. Við mat á fjárhæð miskabótanna verði ekki fram hjá því litið að dómsmálaráðherra hafi lagt til skipun umsækjenda, sem höfðu mun minni dómarareynslu en aðaláfrýjandi eða jafnvel enga slíka reynslu, en ráðherrann hafi eigi að síður kosið að ganga fram hjá honum. Breyting ráðherra á niðurstöðu dómnefndarinnar að þessu leyti hafi þannig verið á skjön við röksemdafærslu ráðherrans sjálfs sem hafi sagst vilja gera dómarareynslu hærra undir höfði. Allt þetta hafi verið aðaláfrýjanda til miska og með ákvörðun ráðherra hafi verið vegið gróflega að æru og persónu aðaláfrýjanda samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, sbr. b. lið 1. mgr. þeirrar lagagreinar. Varnir gagnáfrýjanda eru einkum á því reistar að í ákvæði IV til bráðabirgða við dómstólalög nr. 50/2016 hafi sérstaklega verið kveðið á um heimild ráðherra til að víkja frá meginreglunni um að skipa beri þann umsækjanda sem dómnefnd hafi talið hæfastan, enda hafi Alþingi samþykkt tillögu ráðherra um  umsækjanda sem í því tilviki fullnægði að mati dómnefndar skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. laganna. Gagnvart meginreglunni verði að horfa til þess að bráðabirgðaákvæði IV við dómstólalög sé sérregla og ekki sé unnt að telja heimild hennar svo þrönga sem aðaláfrýjandi haldi fram. Markmið þeirra breytinga sem gerðar hafi verið á dómstólalögunum frá 1998 hafi ekki verið að færa dómnefnd veitingarvaldið við skipun dómara. Gagnáfrýjandi heldur því fram að í ljósi dóma Hæstaréttar í málum nr. 591 og 592/2017 hafi hann ekki getað gert annað en viðurkennt rétt aðaláfrýjanda til miskabóta sem í þeim málum hafi verið ákveðnar 700.000 krónur. Dómaframkvæmd sé fyrir því að slíkur réttur geti verið fyrir hendi vegna meðferðar stjórnvalda þótt viðkomandi hafi ekki átt eða eigi ekki rétt til skipunar eða ráðningar í starf. Annað gildi um ætlað fjártjón aðaláfrýjanda. Sjónarmið ráðherra og samþykki Alþingis um aukið vægi dómarareynslu við skipun í embætti landsréttardómara hafi verið málefnalegt og að því gættu hafi einnig verið málefnalegt að saman við það færi viðleitni til að jafna stöðu kynjanna við skipunina. Í ljósi sjónarmiðsins um dómarareynslu liggi fyrir að tilhlýðilegt mat hafi farið fram á henni meðal umsækjenda, enda hafi þeir fjórir sem skipaðir voru en voru ekki efstir að mati dómnefndar verið með sömu eða meiri dómarareynslu en aðaláfrýjandi. Samkvæmt þessu sé því eindregið hafnað að meðferð málsins, rökstuðningur og tillögur ráðherra eða frekari meðferð við skipun dómara geti talist saknæm og ólögmæt háttsemi þannig að bótaskyldu varði. Um orsakatengsl vísar gagnáfrýjandi til þess að umsækjendur um dómaraembætti við Landsrétt hafi ekki á nokkru stigi málsmeðferðar átt lögvarið tilkall til að hljóta skipun. Sýnt hafi verið fram á að aukið vægi dómarareynslu hafi verið málefnalegt sjónarmið og að frekari rannsókn ráðherra eða rökstuðningur hefði ekki breytt því að svo hagaði til um þá fjóra sem skipaðir voru umfram þá sem dómnefnd taldi í hópi 15 hæfustu en hlutu ekki skipun umrætt sinn. Í meginatriðum hafi sá munur verið á mati dómnefndar og mati ráðherra að nefndin hafi talið 15 umsækjendur hæfasta en ráðherra talið þá vera 24 og valið úr þeim hópi. Í hinum áfrýjaða dómi hafi verið komist að kjarna málsins við úrlausn um bótakröfu og ætlað fjártjón aðaláfrýjanda. Ráðherra hafi verið heimilt að víkja frá niðurstöðu dómnefndar og meginreglunni um að skipa skyldi þann eða þá hæfustu samkvæmt mati dómnefndar. Nefnt bráðabirgðaákvæði beri augljóslega með sér að ráðherra hafi með samþykki Alþingis að sönnu verið heimilt að víkja frá áliti dómnefndar og frá þeirri meginreglu að skipa skuli hæfasta umsækjandann. Af þeim sökum sé ekki unnt að fallast á sjónarmið aðaláfrýjanda um að hann hafi sannað bótaskilyrði, þar á meðal um orsakatengsl, þannig að borið hafi að skipa hann dómara við Landsrétt umrætt sinn. Í héraðsdómi var aðaláfrýjandi talinn hafa leitt að því nægilega sterkar líkur að lögmæt meðferð málsins af hálfu ráðherra og forsvaranlegt mat hennar á umsókn og samanburður á hæfni aðaláfrýjanda og annarra umsækjenda hefði leitt til þess að hann hefði verið skipaður. Var samkvæmt því fallist á með aðaláfrýjanda að hann ætti rétt til skaðabóta fyrir fjárhagslegt tjón og þóttu þær hæfilega ákveðnar 4.000.000 króna að álitum. Í ljósi þess að ráðherrann hafði opinberlega fært fram þau rök að leggja yrði meiri áherslu á dómarareynslu og að aðaláfrýjandi hafði samkvæmt gögnum málsins mun meiri dómarareynslu en áfrýjendur hæstaréttarmála nr. 591 og 592/2017, var fallist á með aðaláfrýjanda að í málsmeðferð ráðherra hafi falist meiri meingerð gagnvart aðaláfrýjanda sem hafi orðið honum til aukins miska. Þóttu miskabætur af þeim sökum hæfilega ákveðnar 1.100.000 krónur. Landsréttur komst að öndverðri niðurstöðu um fjárhagslegt tjón aðaláfrýjanda. Í ljósi reglna um sönnunarbyrði samkvæmt sakarreglunni og þess hvernig löggjafinn hefði ákveðið að haga málum við skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn, var talið að aðaláfrýjandi hafi ekki getað gengið að því sem vísu að hann yrði skipaður landsréttardómari, þegar af þeirri ástæðu að ráðherra hafi verið heimilt að fengnu samþykki Alþingis að skipa aðra en þá sem dómnefnd hafði metið hæfasta að því tilskildu að þeir uppfylltu almenn hæfisskilyrði dómstólalaganna. Aðaláfrýjandi hafi því ekki átt lögvarinn rétt til að vera skipaður dómari við Landsrétt og því bæri að sýkna gagnáfrýjanda af skaðabótakröfu hans. Hvað rétt aðaláfrýjanda til miskabóta varðaði féllst Landsréttur á að rök væru til þess að ákveða honum hærri miskabætur en ákveðnar voru í málum nr. 591 og 592/2017 þar sem hann byggi yfir mun meiri dómarareynslu en áfrýjendur þeirra mála. Var fallist á með aðaláfrýjanda að ákvörðun ráðherra eins og hún var rökstudd hafi falið í sér verulega meingerð gegn æru og persónu aðaláfrýjanda og þættu miskabætur hæfilega ákveðnar eins og í héraðsdómi greindi. Aðaláfrýjandi var kjörinn dómstjóri við Héraðsdóm Reykjaness frá og með 1. desember 2019 og skipaður landsréttardómari frá og með 1. október 2020. Málavöxtum er ítarlega lýst í héraðsdómi. II Stjórnskipan íslenska lýðveldisins byggist á því að ríkisvaldið greinist í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið, forseti og önnur stjórnvöld með framkvæmdarvaldið og dómendur með dómsvaldið, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Í V. kafla hennar, sem er að mestu efnislega óbreyttur frá árinu 1874, er fjallað um dómsvaldið og skiptist kaflinn í þrjár greinar, 59.–61. gr. Samkvæmt 59. gr. verður skipan dómsvaldsins ekki ákveðin nema með lögum. Í 60. gr. kemur fram að dómendur skeri úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda og samkvæmt 61. gr. skulu dómendur í embættisverkum sínum einungis fara eftir lögunum. Um dómsvaldið eru nánari fyrirmæli í VII. kafla stjórnarskrárinnar. Segir þar í fyrsta málslið 1. mgr. 70. gr. að öllum beri réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Ákvæði þetta kom í stjórnarskrána með 8. gr. laga nr. 97/1995, stjórnarskipunarlögum um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum. Í almennum athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 97/1995 kom fram að þrenns konar ástæður væru fyrir því að breytinga væri þörf á VII. kafla stjórnarskrárinnar sem venjulega væri nefndur mannréttindakafli hennar. Í fyrsta lagi þyrfti að efla, samhæfa og samræma mannréttindaákvæðin þannig að þau gegndu betur því hlutverki sínu að vera vörn almennings í samskiptum við þá sem fara með ríkisvald. Í öðru lagi væri þörf á því að færa ýmis ákvæði kaflans til nútímalegra horfs, enda væru þau óbreytt frá því að fyrsta stjórnarskrá Íslands var sett árið 1874. Loks væri tímabært að endurskoða mannréttindaákvæðin með tilliti til þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem Ísland hefði gengist undir með því að gerast aðili að alþjóðlegum sáttmálum til verndar mannréttindum. Um 8. gr. frumvarpsins sagði að þar væri gerð tillaga um efni nýrrar 70. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem fjallað væri um lágmarksskilyrði þess að maður gæti talist njóta réttlátrar málsmeðferðar í einkamálum og opinberum málum fyrir dómstólum. Sambærileg regla væri ekki í þágildandi stjórnarskrárákvæðum en atriðin sem talin væru í greininni kæmu öll með einum eða öðrum hætti fram í þágildandi réttarfarslöggjöf. Um 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins sagði að þar væri mælt fyrir um að dómstólar skyldu vera óháðir og óhlutdrægir. Þetta væri einn mikilvægasti áskilnaðurinn í ákvæðinu og undirstaða þess að maður gæti talist njóta réttlátrar meðferðar fyrir dómstólum. Þegar tekið væri fram að dómstólar skyldu vera óháðir væri einkanlega skírskotað til þess að þeir ættu að vera sjálfstæðir og ekki háðir öðrum þáttum ríkisvaldsins. Væri sjálfstæði þeirra gagnvart framkvæmdarvaldinu sérstaklega mikilvægt, bæði hvað varðaði skipunarvald framkvæmdarvaldsins yfir þeim, kjör sem dómendum væru tryggð og að dómendum verði ekki vikið úr starfi með stjórnvaldsákvörðun. Skýrar reglur væru um skipan dómsvaldsins í V. kafla stjórnarskrárinnar en þær hefðu meðal annars að markmiði að tryggja sjálfstæði dómenda, auk almennu reglunnar um þrískiptingu ríkisvaldsins í 2. gr. Þótt sjálfstæði dómsvaldsins birtist þannig í öðrum ákvæðum stjórnarskrárinnar þætti rétt að árétta þetta frumskilyrði í þessu ákvæði.   III 1 Eins og greinir í dómum Hæstaréttar í málum nr. 591 og 592/2017 er það og hefur lengi verið óskráð meginregla íslensks réttar að stjórnvaldi sem skipar í opinbert starf eða embætti ber hverju sinni að velja hæfasta umsækjandann, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 14. apríl 2011 í máli nr. 412/2010 og 5. nóvember 1998 í máli nr. 46/1998 sem birtur er í dómasafni það ár á blaðsíðu 3599. Í fyrrnefnda dóminum, þar sem deilt var um lögmæti skipunar í embætti héraðsdómara, var tekið fram að samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri stjórnvaldi sem veitir starf í þjónustu ríkisins eða embætti að sjá til þess að atriði sem máli skipta séu nægilega upplýst áður en það tekur ákvörðun um veitinguna. Í síðarnefnda dóminum var komist svo að orði að valdi ráðherra væru þau mörk sniðin sem leiði af lögum og almennum reglum í stjórnsýslurétti um undirbúning stöðuveitingar og mat á hæfni umsækjenda. Hvað dómara varðar sérstaklega var reglan um að skipa skuli hæfasta umsækjandann fest í lög með 2. gr. laga nr. 45/2010 eins og nánar verður rakið hér á eftir. Reglur um dómnefndir til að meta hæfi umsækjenda um dómarastörf komu fyrst í lög hér á landi með lögum nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Þær tóku til héraðsdómara en bundu ekki hendur ráðherra við veitingu dómaraembættis. Í lögskýringargögnum sagði að tillaga um slíka dómnefnd hefði áður komið fram en það hafi verið í stjórnarfrumvarpi sem lagt hafi verið fyrir Alþingi 1975-1976. Í athugasemdum við það hafi verið rakin ýmis dæmi um svipað fyrirkomulag í öðrum ríkjum en megintilgangur ákvæðisins væri að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar væru óháðir handhöfum framkvæmdarvaldsins. 2 Efnislega sömu reglur og voru í lögum nr. 92/1989 voru teknar upp í 3. og 4. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Um störf dómnefnda skyldi ráðherra samkvæmt lögunum setja nánari fyrirmæli og var það gert með reglum nr. 693/1999 um störf dómnefndar samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998. Á grundvelli þeirra setti dómnefndin verklagsreglur við mat á umsóknum sem ráðherra staðfesti 23. mars 2001. Með 3. og 4. mgr. 12. gr. laga 15/1998 var rannsóknarskyldu þeirri sem mælt er fyrir um í 10. gr. stjórnsýslulaga við skipun í embætti héraðsdómara að verulegu leyti létt af ráðherra og þess í stað lögð á  herðar sjálfstæðrar og óháðrar dómnefndar sem var skipuð með tilliti til þess að tryggt yrði að sérþekking væri þar fyrir hendi um mat á hæfni umsækjenda um dómaraembætti. Samkvæmt ákvæðum 3. og 4. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998, eins og þau voru fram til ársins 2010, batt álit dómnefndar um hæfni umsækjenda ekki ráðherra. Þótt álitið væri ekki bindandi var eigi að síður lagt til grundvallar í dómaframkvæmd, sbr. áðurgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 412/2010, að teldi ráðherra efni til að víkja frá áliti dómnefndar væri óhjákvæmilegt að ákvörðun hans yrði reist á frekari rannsókn samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Bæri ráðherra þá meðal annars að taka tillit til eigin fyrirmæla í reglum nr. 693/1999 um þau atriði sem ráða skyldu hæfnismati og jafnframt tryggja að sérþekkingar nyti þar við í sambærilegum mæli og við störf dómnefndarinnar. Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi til laga nr. 15/1998 kom fram að hæst hefði borið í þeirri umræðu sem fram hefði farið um stöðu dómstólanna hvort það væri samrýmanlegt meginreglunni um sjálfstæða og óháða dómstóla að ákvörðunarvald um svokölluð innri málefni dómstóla, þar á meðal beiðnir um fjárveitingar til þeirra, væri að meira eða minna leyti í höndum ráðherra, en hér á landi gætti þess í nokkrum mæli að dómsmálaráðherra hefði slíkt vald. Bent hafi verið á að ráðherra gæti með afskiptum af starfsmannahaldi, veitingu dómaraembætta og beiðnum um fjárveitingar haft talsverð áhrif á starfsemi dómstólanna. Þá sagði að af þessum sökum hafi því verið hreyft að draga mætti í efa að dómstólarnir væru fyllilega sjálfstæðir og óháðir öðrum þáttum ríkisvaldsins. Við mótun frumvarpsins hafi verið tekið tillit til þessarar umræðu. Þá hafi einnig verið hugað að þróun sambærilegrar löggjafar í öðrum ríkjum Evrópu. Þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands, einkum hvað varðar mannréttindi og viðskipti, valdi því að sú viðmiðun sé ekki aðeins eðlileg heldur einnig óhjákvæmileg. Þá verði við mótun löggjafar um dómstóla að hafa í huga eftirlitshlutverk þeirra gagnvart löggjafar- og framkvæmdarvaldinu. Með þetta í huga hafi verið stefnt að því við samningu frumvarpsins að það yrði tryggt sem best að dómstólarnir verði óháðir hinum tveimur þáttum ríkisvaldsins. Einnig hafi því verið fylgt, sem þróunin hafi tvímælalaust beinst í átt til í nágrannalöndunum, að búa svo um hnútana að dómstólar yrðu einnig sjálfstæðir um stjórn innri málefna sinna. 3 Með 2. gr. laga nr. 45/2010 var lögum nr. 15/1998 breytt og reglur um störf dómnefndar til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti hæstaréttar- og héraðsdómara leiddar í lög með ákvæðum 4. gr. a laganna. Í fyrsta málslið 3. mgr. þeirrar lagagreinar kom fram að óheimilt væri að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefði ekki talið hæfastan meðal umsækjenda. Samkvæmt öðrum málslið sömu málsgreinar mátti þó víkja frá þessu ef Alþingi samþykkti tillögur ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægði að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 4. gr. laganna. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 45/2010 sagði meðal annars að þegar settar væru reglur um skipun dómara yrði að taka tillit til fjölda atriða. Mikilvægt væri að styrkja stöðu og sjálfstæði dómstólanna og tryggja sem best að þeir verði óháðir hinum tveimur þáttum ríkisvaldsins sem þeir hafi eftirlit með. Ekki sé nægilegt að sjálfstæði dómstólanna sé tryggt í raun heldur verði sjálfstæðið og trúverðugleikinn sem því fylgi að vera öllum sýnilegur. Þá sagði einnig að í íslenskum lögum væru ekki almennar reglur um hvaða sjónarmið ætti að leggja til grundvallar við skipun í opinber störf. Litið hafi verið svo á að það væri komið undir mati þess sem starf veitti hvaða sjónarmið skyldi leggja sérstaka áherslu á. Sú óskráða meginregla stjórnsýsluréttar gilti þó um slíka ákvörðun að hún yrði að vera byggð á málefnalegum sjónarmiðum eins og til dæmis um menntun, starfsreynslu, hæfni og persónulega eiginleika. Auk þess væri gengið út frá því í stjórnsýslurétti að þar gilti sú meginregla að velja bæri þann umsækjanda sem talinn væri hæfastur þannig að frjálsu mati stjórnvaldsins væru settar skorður. Um 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins sagði í athugasemdunum að þar væri fjallað um hlutverk dómnefndar. Hún skyldi láta dómsmálaráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um embætti dómara. Þar ætti að koma fram skýr afstaða dómnefndar til þess hvaða umsækjandi væri hæfastur til að hljóta embættið, en heimilt væri að setja tvo eða fleiri umsækjendur jafna í því efni. Brýnt væri að vandað væri til allrar málsmeðferðar hjá nefndinni og væri hlutverk hennar að draga fram hæfustu umsækjendurna og gera jafnframt grein fyrir því hvern eða hverja hún teldi hæfasta úr hópi þeirra. Um 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins sagði meðal annars að þar væru lögð til þau nýmæli að ráðherra væri bundinn af áliti dómnefndarinnar þótt hann hafi enn hið formlega skipunarvald. Lagt væri til að óheimilt yrði að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefði ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Þó mætti víkja frá þessari reglu ef Alþingi samþykkti tillögu ráðherra um að skipa annan nafngreindan umsækjanda. Í þessu fælist að dómsmálaráðherra tæki við áliti dómnefndar þar sem fram kæmi umsögn um alla umsækjendur og jafnframt afstaða nefndarinnar til þess hvaða umsækjandi eða eftir atvikum umsækjendur teldust hæfastir til að vera skipaðir í embættið. Ekki væri gert ráð fyrir því að dómsmálaráðherra leitaði eftir afstöðu umsækjenda til niðurstöðu dómnefndarinnar enda ætti hún að veita þeim andmælarétt áður en hún tæki endanlega ákvörðun í málinu. Þó gæti komið til þess að ráðherra þyrfti að óska eftir nýrri umsögn dómnefndar ef í ljós kæmi verulegur annmarki á undirbúningi ákvörðunar nefndarinnar. Einnig sagði um 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins að legði dómsmálaráðherra til að annar en sá sem dómnefnd hefði talið hæfastan yrði skipaður í embættið skyldi hann bera þá tillögu undir Alþingi. Gert væri ráð fyrir því að slík tillaga hlyti sömu málsmeðferð og gilti um kosningu umboðsmanns Alþingis, meðal annars að hún gengi án umræðu til þeirrar nefndar sem forseti Alþingis legði til. Rétt þætti að ganga út frá því að nægilegt væri að tillaga ráðherra fengi fylgi meiri hluta á Alþingi. Væri þá horft til þess að áskilnaður um aukinn meiri hluta gæti leitt til þess að regla um þetta yrði í reynd óvirk og hefði í för með sér að dómnefndin færi með veitingarvaldið en ekki ráðherra. Yrði að ætla að reglur í þeim búningi sem lagðar væru til þjónuðu nægilega tilgangi án þess að lengra yrði gengið í þessu efni. Að öðru leyti væri rétt að benda á að ráðherra væri bundinn af tillögu dómnefndar ef tillaga hans yrði felld á Alþingi eða næði ekki fram að ganga innan þess frests sem lögin setji. Í því tilviki gæti ráðherra ekki auglýst dómaraembættið að nýju þannig að nýtt skipunarferli hæfist, heldur væri hann bundinn af umsögn dómnefndarinnar. Ráðherra setti á grundvelli 4. gr. a dómstólalaga reglur nr. 620/2010 um störf dómnefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti og voru þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda 23. júlí 2010. Þar sagði í 5. gr. að umsókn umsækjanda um embætti dómara á grundvelli auglýsingar um það ásamt reglum sem um það giltu markaði þann grundvöll sem dómnefnd byggi umsögn sína á. Dómnefndin skyldi sjá til þess að mál væri nægilega upplýst áður en umsögn væri veitt um hæfni umsækjanda. Samkvæmt 6. gr. reglnanna skyldi dómnefndin gefa skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur þar sem fram kæmi rökstutt álit á hæfni hvers umsækjanda og rökstutt álit á því hvern eða hverja nefndin teldi hæfasta til að hljóta embættið. Í 7. gr. reglnanna kom fram að dómnefnd skyldi kynna umsækjendum drög sín að umsögn um hæfni umsækjenda og gefa þeim sjö daga frest til þess að koma að sjónarmiðum sínum. 4 Lög um dómstóla nr. 50/2016 öðluðust gildi 1. janúar 2018 en bráðabirgðaákvæði I, II, IV,V og VI tóku gildi 14. júní 2016.  Samkvæmt 1. til 3. gr. laganna er dómstólaskipan landsins með þeim hætti að Hæstiréttur Íslands er æðsti dómstóll þjóðarinnar, Landsréttur er áfrýjunardómstóll og í héraði eru átta dómstólar með afmörkuð umdæmi. Í 1. mgr. 12. gr. laganna segir að dómnefnd láti ráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um embætti dómara. Í umsögn dómnefndar skal tekin afstaða til þess hvaða umsækjandi væri hæfastur til að hljóta embættið en heimilt er að setja tvo eða fleiri umsækjendur jafna. Að öðru leyti setur ráðherra reglur um störf nefndarinnar. Um það giltu á þeim tíma sem hér skiptir máli reglur nr. 620/2010, nú reglur nr. 970/2020. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 50/2016 er óheimilt að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Frá þessu má þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum til að hljóta skipun í embættið. Ráðherra skal þá leggja slíka tillögu fyrir Alþingi innan tveggja vikna frá því að umsögn dómnefndar er afhent honum, eða innan þess tíma frá því að Alþingi kemur næst saman eftir að umsögn er fengin, og verður tillagan að vera samþykkt innan mánaðar frá því að hún er lögð fram, ella er ráðherra bundinn af umsögn dómnefndar. Í athugasemdum við 12. gr. frumvarpsins kom fram að greinin svaraði til 2. og 3. mgr. 4. gr. a þágildandi laga um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 45/2010. Um skýringu á ákvæðinu var vísað til athugasemda við 2. gr. í greinargerð við frumvarp það sem varð að þeim lögum. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðis IV til bráðabirgða við lög nr. 50/2016 skyldi skipun dómara við Landsrétt lokið eigi síðar en 1. júlí 2017 og dómarar skipaðir frá og með 1. janúar 2018. Nefnd samkvæmt 4. gr. a laga nr. 15/1998 skyldi meta hæfni umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn og láta ráðherra í té umsögn um umsækjendur í samræmi við 2. mgr. 4. gr. a og reglur sem um dómnefndina giltu. Þá sagði í 1. mgr. ákvæðis IV til bráðabirgða að ráðherra væri óheimilt að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefði ekki metið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Frá þessu mætti þó víkja ef Alþingi samþykkti tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægði að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. laganna. Í 2. mgr. ákvæðis IV til bráðabirgða sagði að þegar ráðherra gerði tillögu um skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn skyldi hann leggja tillögu sína um hverja skipun fyrir Alþingi til samþykktar. Samþykki Alþingi tillögur ráðherra skuli hann senda þær forseta Íslands sem skipi í embættin, sbr. 21. gr. Samþykki Alþingi ekki tillögu ráðherra um tiltekna skipun skuli ráðherra leggja nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar. Um bráðabirgðaákvæði IV sagði í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 50/2016 að lagt væri til að áður en ráðherra skipaði dómara í embætti Landsréttar í fyrsta sinn skyldi hann leggja tillögu sína um hverja skipun fyrir Alþingi til samþykktar. Í ljósi þess að skipaðir yrðu samtímis 15 dómarar væri eðlilegt að tryggja aðkomu fleiri en eins handhafa ríkisvalds að því. IV 1 Málsókn aðaláfrýjanda er hvað skaðabótakröfu hans varðar reist á sakarreglunni. Samkvæmt því þarf aðaláfrýjandi að færa sönnur að eftirfarandi: Í fyrsta lagi að málsmeðferð dómsmálaráðherra í aðdraganda skipunar landsréttardómaranna 15 í júní 2017 hafi falið í sér saknæma og ólögmæta háttsemi. Í öðru lagi þarf aðaláfrýjandi að sanna að hann hafi orðið fyrir fjártjóni og í þriðja lagi að orsakasamband sé á milli ólögmætrar og saknæmrar háttsemi ráðherrans við málsmeðferðina og þess fjártjóns sem aðaláfrýjandi telur sig hafa orðið fyrir af hennar völdum. 2 Þegar metið er hvort háttsemi dómsmálaráðherra í aðdraganda skipunar landréttardómaranna 15 hefur verið ólögmæt og saknæm er þess fyrst að gæta að í fyrrnefndum dómum Hæstaréttar í málum nr. 591 og 592/2017 var því slegið föstu að þeir annmarkar hefðu verið á málsmeðferð ráðherrans í aðdraganda skipunar dómaranna að það varðaði skaðabótaskyldu úr hendi íslenska ríkisins. Í máli þessu hefur ekkert komið fram sem fær þeirri ályktun umræddra dóma hnekkt, og hafa þeir því um það efni sönnunargildi hér samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Á sama lagagrundvelli er einnig að gæta dóms Hæstaréttar 24. maí 2018 í máli nr. 10/2018 sem varðar sömu málsmeðferð dómsmálaráðherra, þótt í öðru samhengi sé. Þar var lagt til grundvallar að ekki stæðist það sem byggt var á í minnisblaði ráðherrans 30. maí 2017, að með því einu að auka vægi dómarareynslu frá því sem dómnefnd hafði lagt til grundvallar í stigatöflu að baki umsögn sinni 19. sama mánaðar, en byggja að öðru leyti á fullnægjandi rannsókn nefndarinnar á einstökum matsþáttum, gæti fengist sú niðurstaða, að fjórir tilteknir umsækjendur um embætti dómara við Landsrétt féllu allir en aðrir ekki brott úr hópi þeirra 15 hæfustu, og að í stað þeirra færðust upp í þann hóp fjórir tilteknir umsækjendur öll með tölu öðrum fremur. Í annan stað er þess að gæta varðandi mat á lögmæti athafna dómsmálaráðherra að þegar drög að umsögn dómnefndar lágu fyrir 11. maí 2017 var aðaláfrýjanda eins og öðrum umsækjendum gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum við umsögn nefndarinnar, sbr. fyrirmæli 7. gr. reglna nr. 620/2010. Þann rétt nýtti aðaláfrýjandi sér samkvæmt gögnum málsins ekki, enda í hópi 15 hæfustu umsækjendanna að mati dómnefndar og hafði því ekki sérstakt tilefni til andmæla. Samkvæmt gögnum málsins var aðaláfrýjanda ekki gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum áður en ráðherrann tók þá ákvörðun að aðaláfrýjandi yrði, ásamt þremur öðrum sem dómnefnd hafði metið í hópi 15 hæfustu umsækjendanna, ekki á meðal þeirra 15 sem hún hygðist gera tillögu til Alþingis um að skipaðir yrðu dómarar við Landsrétt. Eins og greinir í dómum Hæstaréttar 31. júlí 2017 í málum nr. 451 og 452/2017 fær fyrirkomulag laga er varðar störf dómnefndar og aðkomu Alþingis að skipun dómara ekki breytt þeirri rótgrónu stjórnskipunarvenju íslensks réttar að það er dómsmálaráðherra sem fer með ákvörðunarvald um það hverjir eru skipaðir dómarar hverju sinni. Umsögn dómnefndar 19. maí 2017 var eins og áður getur lögbundinn þáttur í undirbúningi þeirrar ákvörðunar dómsmálaráðherra að skipa 15 dómara til að taka sæti í Landsrétti. Í 13. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Í skjóli valdheimilda ákvað dómsmálaráðherra í tillögu sinni til Alþingis að víkja frá áliti lögskipaðrar dómnefndar á grundvelli annarra sjónarmiða en þeirra sem nefndin hafði áður reist álit sitt á. Verður að jafna þeim breyttu sjónarmiðum til þess að ráðherrann hafi aflað nýrra gagna og upplýsinga í skilningi 13. gr. stjórnsýslulaga. Að því gættu og þar sem um var að ræða atriði sem voru aðaláfrýjanda í óhag bar ráðherranum samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga að gefa aðaláfrýjanda kost á að koma á framfæri athugasemdum áður en ráðherrann réð ákvörðun sinni til lykta. Myndi öndverð lögskýring leiða til þess að ákvæðið yrði þýðingarlítið, sbr. til hliðsjónar um lögskýringu hvað tilgang varðar dóm Hæstaréttar 16. nóvember 2006 í máli nr. 195/2006.  Er þá til þess að líta að ekki lá fyrir í gögnum málsins afstaða aðaláfrýjanda og rök hans til þeirra sjónarmiða sem breytt afstaða ráðherra miðað við afstöðu dómnefndar var reist á. Í ljósi lögbundins hlutverks dómnefndar og fyrirmæla um skipun hennar mátti aðaláfrýjandi sem umsækjandi um dómaraembætti ganga út frá því að sjónarmið nefndarinnar yrðu lögð til grundvallar tillögugerð ráðherra, nema fullnægjandi rannsókn og að öðru leyti lögmæt málsmeðferð af hálfu ráðherra leiddi til annarrar niðurstöðu um hæfni aðaláfrýjanda en dómnefndin hafði komist að. Þá verður með engu móti talið að afstaða hans til breyttrar afstöðu ráðherra miðað við umsögn dómnefndar hafi í ljósi hagsmuna aðaláfrýjanda af úrlausn málsins verið óþörf í skilningi 13. gr. stjórnsýslulaga. Braut dómsmálaráðherra samkvæmt þessu einnig gegn andmælarétti aðaláfrýjanda við meðferð málsins. Að öllu framangreindu virtu liggur fyrir, að meðferð málsins af hálfu dómsmálaráðherra í aðdraganda þess að skipaðir voru í fyrsta sinn 15 dómarar til að taka sæti í Landsrétti var ekki í samræmi við fyrirmæli stjórnsýslulaga. Er því fullnægt skilyrði sakarreglunnar um ólögmæti háttsemi ráðherrans. 3 Um skipun dómara við Landsrétt vorið 2017 fór samkvæmt ákvæði IV til bráðabirgða í lögum nr. 50/2016. Samkvæmt fyrsta málslið 1. mgr. ákvæðisins skyldi skipun dómaranna lokið eigi síðar en 1. júlí 2017 og þeir skipaðir í embætti frá og með 1. janúar 2018. Í öðrum málslið 1. mgr. ákvæðisins kom fram að nefnd samkvæmt 4. gr. a laga um dómstóla nr. 15/1998 skyldi meta hæfni umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn og láta ráðherra í té umsögn um umsækjendur í samræmi við 2. mgr. þeirrar greinar og reglur sem um dómnefndina giltu. Þá sagði í ákvæðinu að ráðherra væri óheimilt að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefði ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Frá þessu mætti þó víkja ef Alþingi samþykkti tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægði að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. laganna. Þess er áður getið að það er og hefur lengi verið meginregla í íslenskum rétti að stjórnvaldi sem skipar í opinbert starf eða embætti ber hverju sinni að velja hæfasta umsækjandann. Hvað varðar dómara sérstaklega var meginregla þessi fest í sett lög árið 2010 en hafði áður gilt ólögfest. Af hálfu gagnáfrýjanda er því haldið fram að í framangreindum orðum ákvæðis IV til bráðabirgða í lögum nr. 50/2016 að frá þessu megi þó víkja felist að sönnu heimild ráðherra til að víkja frá þeirri meginreglu að skipa skuli hæfasta umsækjandann. Á framangreint sjónarmið gagnáfrýjanda verður ekki fallist. Ef ætlun löggjafans við setningu bráðabirgðaákvæðis IV við lög nr. 50/2016 var að víkja frá meginreglunni um hæfasta umsækjandann við skipun dómara í Landsrétt hefði slíkt þurft að koma fram með ótvíræðum hætti í orðum laganna eða lögskýringargögnum. Svo er ekki. Er í því sambandi sérstaklega til þess að líta að við veitingu dómaraembætta tekur ráðherra ekki ákvörðun um veitingu embættis sem lýtur boðvald hans sjálfs, heldur um stöðu sem tilheyrir þeirri grein ríkisvaldsins sem að stjórnlögum fer með eftirlitshlutverk gagnvart öðrum greinum þess og tryggt er sjálfstæði í 1. málslið 61. gr. stjórnarskrárinnar eins og áður hefur verið rakið. Á hinn bóginn leiðir af hinu tilgreinda orðalagi bráðabirgðaákvæðisins, að álit dómnefndar um hæfni umsækjenda batt dómsmálaráðherra ekki fortakslaust. Var honum  samkvæmt ákvæðinu heimilt að gera tillögu til Alþingis um skipun annars eða annarra umsækjenda en þeirra sem dómnefnd hafði metið hæfasta, að því tilskildu að þeir fullnægðu almennum hæfisskilyrðum laganna. Tillaga ráðherra um að víkja frá áliti dómnefndar og leggja til aðra umsækjendur en þá sem dómnefnd hafði metið hæfasta varð hins vegar að byggja á málefnalegum sjónarmiðum og vera reist á fullnægjandi rannsókn, samanburði og rökstuðningi fyrir breyttri tillögu um það hver eða hverjir umsækjenda væru að mati ráðherra hæfastir til að gegna dómaraembætti öndvert áliti dómnefndar. Að fenginni slíkri tillögu frá ráðherra væri það síðan hlutverk Alþingis að hafa eftirlit með því að tillaga ráðherra fullnægði þessum kröfum. Eins og rakið er í héraðsdómi hefur það í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið talin forsenda  fyrir bótaskyldu gagnáfrýjanda gagnvart þeim sem sækir um opinbert starf eða embætti, en fær ekki, að viðkomandi sýni fram á að lögmæt meðferð málsins og forsvaranlegt mat á umsókn hans og samanburður á hæfni hans og annarra umsækjenda hefði leitt til þess að hann hefði hlotið embættið. Af hálfu gagnáfrýjanda hefur ekki verið gerð viðunandi grein fyrir því hvaða samanburður fór fram af hálfu ráðherra á aðaláfrýjanda og öðrum umsækjendum og hvernig innbyrðis mati á þeim var háttað, en dómnefnd hafði samkvæmt stigatöflu raðað aðaláfrýjanda í ellefta sæti yfir 15 hæfustu umsækjendurna. Þá hefur Hæstiréttur eins og í héraðsdómi greinir þegar hafnað sjónarmiðum um að þeir annmarkar hafi verið á dómnefndarálitinu að tilefni hafi verið fyrir ráðherra að víkja frá því, sbr. dóma réttarins í málum nr. 591 og 592/2017. Af þessu leiðir að vafa um það hvort fullnægjandi rannsókn málsins og að öðru leyti lögmæt meðferð þess af hálfu ráðherra hefði leitt til annarrar niðurstöðu um hæfni aðaláfrýjanda en dómnefnd hafði komist að verður að túlka honum í hag, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 16. október 2008 í máli nr. 56/2008 og 19. desember 2012 í máli nr. 236/2012. Að framansögðu virtu er fallist á með aðaláfrýjanda að hann hafi leitt að því nægar líkur að forsvaranlegt mat dómsmálaráðherra á umsókn hans og samanburður á hæfni hans og annarra umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt hefði eins og hér hagaði til leitt til þess að hann hefði verið skipaður dómari umrætt sinn. 4 Aðaláfrýjandi var dómari við Héraðsdóm Reykjaness, þegar hann sótti um starf dómara við Landsrétt á grundvelli auglýsingar 10. febrúar 2017. Gegndi hann því starfi í 23 mánuði frá 1. janúar 2018 að telja til 1. desember 2019 en frá þeim degi starfi dómstjóra í 10 mánuði eða til 1. október 2020 er hann var skipaður landsréttardómari. Samkvæmt gögnum málsins fóru föst laun héraðsdómara á þeim tíma sem hér skiptir máli í hverjum mánuði eftir flokki 502-140 ásamt 33 einingum fyrir yfirvinnu og námu samtals 1.410.328 krónum á mánuði. Laun dómstjóra fóru eftir flokki 502-141 ásamt 42 einingum fyrir yfirvinnu og námu samtals 1.533.859 krónum á mánuði. Á tímabilinu frá 1. janúar 2018 til 1. október 2020 voru laun landsréttardómara samkvæmt gögnum málsins 1.692.155 krónur. Endanleg fjárhæð dómkröfu aðaláfrýjanda byggist annars vegar á núvirtum mun launa og hins vegar verðmæti lífeyrisréttinda samkvæmt útreikningi tryggingastærðfræðings sem ekki hefur verið andmælt tölulega. Munur launa samkvæmt útreikningnum er 7.746.039 krónur og munur verðmætis lífeyrisréttinda 1.553.322 krónur. Fallist er á með aðaláfrýjanda að á þessum grundvelli eigi hann rétt til þess að fjártjón hans verði ákvarðað en vegna óvissu um lífeyrisréttindin verða bætur fyrir þau ekki metnar öðruvísi en að álitum. Að þessu gættu verða aðaláfrýjanda dæmdar 8.500.000 krónur í skaðabætur vegna fjártjóns. 5 Áður er komist að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hafi ekki hagað málsmeðferð sinni með lögmætum hætti þegar hún lagði fyrir Alþingi tillögu sína um skipun 15 dómara við Landsrétt á grundvelli auglýsingar 10. febrúar 2017, en í tillögunni fólst eins og áður er fram komið að vikið var að hluta frá áliti dómnefndar um veitingu dómaraembættanna. Í hæstaréttarmálum nr. 591 og 592/2017 voru áfrýjendum þeirra mála dæmdar miskabætur að fjárhæð 700.000 krónur, en þeir voru eins og aðaláfrýjandi í hópi þeirra 15 umsækjenda sem dómnefnd taldi hæfasta til að gegna embætti dómara við Landsrétt en ráðherra gerði ekki tillögu um til Alþingis. Gagnáfrýjandi hefur með hliðsjón af niðurstöðu þessara dóma viðurkennt skyldu sína til að greiða aðaláfrýjanda miskabætur af sama tilefni en aðila greinir á hinn bóginn á um fjárhæð þeirra. Þegar horft er til þess að dómsmálaráðherra færði opinberlega fram þau rök fyrir tillögu sinni að leggja yrði meiri áherslu á dómarareynslu, og að því gættu að aðaláfrýjandi var starfandi héraðsdómari og hafði samkvæmt gögnum málsins mun meiri reynslu af dómstörfum en aðilar umræddra mála er fallist á það mat hins áfrýjaða dóms, að ákvörðun ráðherrans hafi eins og hún var rökstudd falið í sér verulega meingerð gegn æru aðaláfrýjanda og persónu. Teljast miskabætur til handa honum því hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur. 6 Samkvæmt öllu framansögðu er niðurstaða málsins sú að gagnáfrýjandi verður dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 8.500.000 krónur í skaðabætur vegna fjártjóns og 1.000.000 krónur í miskabætur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Eftir framangreindum úrslitum ber að dæma gagnáfrýjanda til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað sem ákveðinn er í einu lagi á öllum dómstigum eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Gagnáfrýjandi, íslenska ríkið, greiði aðaláfrýjanda, Jóni Höskuldssyni, 8.500.000 krónur í skaðabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1.  janúar 2018 til 6. mars sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr.  laganna frá þeim degi til greiðsludags. Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 1.000.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 6. mars 2018 til greiðsludags. Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda  samtals 3.500.000 krónur í málskostnað í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti.         Dómur Landsréttar Mál þetta dæma Árni Vilhjálmsson lögmaður, Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari og Þórður S. Gunnarsson, fyrrverandi héraðsdómari. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Aðaláfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 20. nóvember 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2018, í málinu nr. E-723/2018. 2        Aðaláfrýjandi krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda um skaðabætur vegna fjártjóns og að miskabætur til handa gagnáfrýjanda verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. Til vara krefst hann lækkunar á öllum kröfum gagnáfrýjanda og að málskostnaður verði felldur niður.  3        Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 13. febrúar 2019. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 22.947.422 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði og miskabætur að fjárhæð 2.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. mars 2018 til greiðsludags. Þá krefst hann hærri málskostnaðar í héraði og málskostnaðar fyrir Landsrétti. Málsatvik 4        Málsatvikum eru gerð ítarleg skil í hinum áfrýjaða dómi. Þar er meðal annars rakið að embætti 15 dómara við Landsrétt hafi verið auglýst laus til umsóknar 10. febrúar 2017. Umsóknarfrestur hafi verið til 28. sama mánaðar og að gagnáfrýjandi hafi verið meðal umsækjenda. Endanlegur fjöldi umsækjenda, sem uppfyllt hafi skilyrði 2. og 3. mgr. 21. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, sbr. ákvæði IV til bráðabirgða í lögum nr. 50/2016, sbr. lög nr. 10/2017 um breytingu á þeim lögum, það er almenn hæfisskilyrði, hafi verið 33. Dómnefnd samkvæmt 4. gr. a laga nr. 15/1998 um dómstóla hafi metið gagnáfrýjanda meðal 15 hæfustu umsækjenda. Að fengnu áliti dómnefndar hafi dómsmálaráðherra ákveðið að gera ekki tillögu til Alþingis um skipun fjögurra umsækjenda, sem dómnefnd hafði metið hæfasta, og hafi gagnáfrýjandi verið einn þeirra. Þess í stað hafi ráðherra lagt til við Alþingi að skipaðir yrðu fjórir umsækjendur, sem dómnefnd hafði ekki metið í hópi þeirra hæfustu.  5        Eftir að framangreindum dómi héraðsdóms var áfrýjað til Landsréttar var gagnáfrýjandi kosinn dómstjóri við Héraðsdóm Reykjaness og hefur hann gegnt því embætti frá 1. desember 2019. Með bréfi 13. þess mánaðar til Landsréttar lækkaði gagnáfrýjandi höfuðstól upphaflegrar kröfu sinnar vegna ætlaðs fjártjóns þar sem laun hans hefðu hækkað við að taka við fyrrgreindu embætti dómstjóra. Niðurstaða 6        Í dómum Hæstaréttar, 31. júlí 2017, í málunum nr. 451/2017 og 452/2017, þar sem fjallað var um skipun dómara í Landsrétt, staðfesti Hæstiréttur þá fastmótuðu stjórnskipunarvenju að dómsmálaráðherra færi með skipunarvaldið við skipun dómara í réttinn. Í dómunum kom fram að á sama hátt og tillaga dómsmálaráðherra til forseta Íslands um skipun tiltekins manns í embætti dómara væri liður í þeirri stjórnvaldsákvörðun sem í skipuninni fælist, væri tillaga ráðherra til Alþingis um að annar maður yrði skipaður dómari en sá sem dómnefnd hefði metið hæfastan, einnig lögbundinn þáttur í undirbúningi þeirrar ákvörðunar að skipa mann í dómaraembætti. 7        Um skipun dómara við Landsrétt vorið 2017 fór samkvæmt ákvæði IV til bráðabirgða í lögum um dómstóla nr. 50/2016. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal ráðherra, þegar hann gerir tillögu um skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn, leggja tillögu sína um hverja skipun fyrir Alþingi til samþykktar. Samþykki Alþingi tillögur ráðherra skal hann senda þær forseta Íslands, sem skipar í embættin, sbr. 21. gr. laga nr. 50/2016. Samþykki Alþingi ekki tillögu ráðherra um tiltekna skipun skal ráðherra leggja nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar. Í 3. málslið 1. mgr. ákvæðis IV til bráðabirgða í lögum nr. 50/2016, kemur fram að óheimilt sé að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Samkvæmt 4. málslið sömu málsgreinar má þó víkja frá þessu, ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. sömu laga. 8        Með lögum nr. 45/2010 kom inn nýtt ákvæði, 4. gr. a, í þágildandi lög nr. 15/1998 um dómstóla. Um skýringu framangreinds ákvæðis IV til bráðabirgða vísast til athugasemda við 2. gr. í greinargerð við frumvarp það sem varð að framangreindum lögum nr. 45/2010. Í almennum athugasemdum sem fylgdu því frumvarpi kemur fram að það sé samið á vegum réttarfarsnefndar á grundvelli tillagna nefndar, sem falið hafi verið að gera tillögur um breytingar á reglum um skipun dómara. Fram kemur að við setningu reglna um skipun dómara þurfi að taka tillit til fjölda atriða. Mikilvægt sé að styrkja stöðu og sjálfstæði dómstólanna og tryggja sem best að þeir verði óháðir hinum tveimur þáttum ríkisvaldsins, sem þeir hafa eftirlit með. Þá er vísað til þeirrar grundvallarreglu stjórnsýsluréttar að stjórnvaldi beri við skipun í embætti að velja hæfasta umsækjandann og lagt til það nýmæli að dómsmálaráðherra verði bundinn af áliti dómnefndar, þótt hann hafi enn hið formlega skipunarvald. Frá þessu megi þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægi að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. laga nr. 50/2016, það er hinum almennu hæfisskilyrðum. 9        Nefnd dómsmálaráðherra, sem falið var að móta tillögur um nýjar reglur um skipun hæstaréttar- og héraðsdómara, og vikið var að hér að framan, taldi rétt að samþykki aukins meirihluta alþingismanna þyrfti til að koma, ella yrði ráðherra bundinn af áliti dómnefndar. Vísaði nefndin til þess að hér væri um nokkurs konar neyðarhemil að ræða. Líkur væru á því að það fældi ráðherra frá því að skipa ómálefnalega í embætti ef atbeina Alþingis þyrfti til. Taldi nefndin máli skipta hvernig staðið væri að málsmeðferð þingsins, þannig að flokkspólitík kæmi sem minnst við sögu. Löggjafinn hafnaði þeirri tillögu og segir í athugasemd við 3. gr. frumvarpsins að slík skipun gæti leitt til þess að dómnefndin færi með veitingarvaldið en ekki ráðherra. Áskilnaður um aukinn meirihluta, eins og nefndin lagði til, gæti leitt til þess að regla um þetta yrði í reynd óvirk og hefði í för með sér að dómnefndin færi með veitingarvaldið en ekki ráðherra. Þá segir að ætla verði að reglur í þeim búningi sem hér séu lagðar til þjóni nægilega þeim tilgangi sem að sé stefnt án þess að lengra verði gengið. Í nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar um frumvarpið kemur fram að mjög fátítt sé að krafist sé aukins meirihluta Alþingis og að skapast hafi ákveðnar venjur og hefðir um að einfaldur meirihluti sé nægilegur nema skýrt sé kveðið á um annað, til dæmis í stjórnarskrá og lögum um þingsköp Alþingis. Kemur fram það mat meirihlutans að það verði nægilega viðurhlutamikið fyrir ráðherra, vilji hann fara gegn ráðleggingum dómnefndar, að hann þurfi að leggja tillögu sína fyrir Alþingi og fá samþykki einfalds meirihluta fyrir henni. 10       Gagnáfrýjandi krefst skaðabóta vegna fjártjóns sem hann hafi orðið fyrir þar sem hann hafi ekki verið skipaður í embætti dómara við Landsrétt, þótt hann hafi verið í hópi þeirra 15 umsækjenda sem dómnefnd hafði metið hæfasta til að gegna embætti landsréttardómara. Um fjárhæð kröfunnar vísar gagnáfrýjandi til mismunakenningarinnar, það er fjárkrafan nemi mismun á launum og lífeyrisréttindum hans í núverandi starfi og launum og lífeyrisréttindum landsréttardómara til 70 ára aldurs gagnáfrýjanda. 11       Þegar embætti 15 dómara við Landsrétt voru auglýst laus til umsóknar 10. febrúar 2017 lá fyrir að tillaga ráðherra um skipun dómara í Landsrétt í fyrsta sinn þyrfti samþykki Alþingis, sbr. lög nr. 50/2016 um dómstóla, 1. málslið 2. mgr. ákvæðis IV til bráðabirgða. Einnig lá fyrir að ráðherra væri heimilt, þrátt fyrir meginregluna um að skipa skyldi þann hæfasta, hvort heldur einn eða samhliða öðrum, að víkja frá meginreglunni með þeim hætti sem áður greinir, sbr. 4. málslið 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Samkvæmt þessu gerði löggjafinn ráð fyrir að svo kynni að fara að ráðherra vildi skipa aðra umsækjendur en dómnefnd hefði metið hæfasta eins og fjallað hefur verið um hér að framan. 12       Með dómum Hæstaréttar, frá 19. desember 2017, í málunum nr. 591/2017 og 592/2017, þar sem fjallað var um upphaflega skipun dómara í Landsrétt, var því slegið föstu að ráðherra hefði ekki hagað málsmeðferð sinni með lögmætum hætti þegar hún lagði fram tillögu til Alþingis um að vikið yrði frá áliti dómnefndar við skipunina. Hæstiréttur taldi að hygðist ráðherra víkja frá áliti dómnefndar við veitingu dómaraembætta væri óhjákvæmilegt að slík ákvörðun væri reist á frekari rannsókn, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem tryggja þyrfti að við hæfnismatið væri fyrir hendi sérþekking sambærileg þeirri sem dómnefnd byggi yfir að teknu tilliti til fyrirmæla í reglum nr. 620/2010. Til þessa væri enn brýnni ástæða en ella þegar álit dómnefndar væri bindandi fyrir ráðherra og óheimilt að skipa í embætti umsækjanda, sem dómnefnd hefði ekki metið hæfastan, nema að fengnu samþykki Alþingis. Þá taldi Hæstiréttur að í rökstuðningi ráðherra til Alþingis hefði ekkert nýtt komið fram umfram það sem fram hefði komið í áliti dómnefndar. Þá hafnaði Hæstiréttur því að sjónarmið á grundvelli laga nr. 10/2018 um jafna stöðu kvenna og karla gætu komið til álita við veitingu dómaraembætta nema tveir eða fleiri umsækjendur hefðu áður verið metnir jafn hæfir til að gegna þeim. Var það niðurstaða Hæstaréttar að málsmeðferð dómsmálaráðherra hefði verið andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga og þar sem ekki hefði verið bætt úr ágöllum á málsmeðferð ráðherra, þegar komið hefði til atkvæðagreiðslu á Alþingi, hafi einnig verið annmarki á meðferð Alþingis á tillögu dómsmálaráðherra.  13       Gagnáfrýjandi í máli þessu vísar til þess að ef ráðherra hefði farið að lögum við tillögugerð til Alþingis hefði hann, þar sem hann hafi verið í hópi þeirra 15 umsækjenda sem dómnefnd samkvæmt 4. gr. a laga nr. 15/1998 um dómstóla hafði metið hæfasta til að gegna embætti landsréttardómara, hlotið embætti dómara við Landsrétt. 14       Sönnunarbyrði hvílir á gagnáfrýjanda um það hvort skilyrðum almennu skaðabótareglunnar um orsakasamband og sennilega afleiðingu sé fullnægt. Þarf gagnáfrýjandi því að sýna fram á að honum hafi borið skipun í embætti dómara við Landsrétt umfram aðra umsækjendur sem uppfylltu almenn hæfisskilyrði laga. 15       Með vísan til alls sem að framan greinir og þess hvernig löggjafinn ákvað að haga málum við skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn, gat gagnáfrýjandi ekki gengið að því sem vísu að hann yrði skipaður landsréttardómari, þegar af þeirri ástæðu að ráðherra var, eins og rakið hefur verið, samkvæmt bráðabirgðaákvæði IV í lögum nr. 50/2016, heimilt að fengnu samþykki Alþingis að skipa annan eða aðra umsækjendur dómara við Landsrétt en þá sem dómnefnd hafði metið hæfasta að því tilskildu að þeir uppfylltu almenn hæfisskilyrði laganna. Verður því ekki fallist á með gagnáfrýjanda að hann hafi þrátt fyrir niðurstöðu dómnefndarinnar, 19. maí 2017, átt lögvarinn rétt til að vera skipaður dómari við Landsrétt. Er aðaláfrýjandi því sýkn af kröfu gagnáfrýjanda um bætur fyrir fjártjón í máli þessu. 16       Eins og áður greinir hefur Hæstiréttur í fyrrgreindum dómum frá 19. desember 2017 slegið því föstu að slíkir annmarkar hafi verið á málsmeðferð dómsmálaráðherra í aðdraganda skipunar 15 landsréttardóma, 8. júní 2017, að skaðabótaskyldu varðaði úr hendi íslenska ríkisins gagnvart tveimur umsækjenda um embættin, sem báðir höfðu verið metnir í hópi 15 hæfustu umsækjendanna en dómsmálaráðherra gekk fram hjá við skipun dómara við réttinn. Var íslenska ríkinu gert að greiða hvorum um sig miskabætur að fjárhæð 700.000 krónur. Aðaláfrýjandi hefur, með vísan til framangreindra dóma Hæstaréttar, viðurkennt rétt gagnáfrýjanda til miskabóta samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hins vegar greinir aðila á um fjárhæð bótanna. Af hálfu aðaláfrýjanda er á því byggt að hæfilegar bætur, með vísan til framangreindra dóma Hæstaréttar, séu 700.000 krónur en af hálfu gagnáfrýjanda er gerð krafa um bætur að fjárhæð 2.500.000 krónur. 17       Til stuðnings þeirri ákvörðun ráðherra að víkja að hluta frá áliti dómefndar um hæfni umsækjenda til að gegna stöðu landsréttardómara, sem meðal annars fól í sér að gagnáfrýjandi var felldur af lista yfir 15 hæfustu umsækjendurna, tefldi ráðherra fram þeim rökum að nauðsynlegt væri að auka vægi dómarareynslu miðað við vægi hennar í áliti dómnefndarinnar. Fallist er á þá niðurstöðu héraðsdóms að rök séu til þess að ákveða gagnáfrýjanda hærri miskabætur en ákveðnar voru í dómum Hæstaréttar 19. desember 2017 í málunum nr. 591/2017 og nr. 592/2017 þar sem gagnáfrýjandi hafði mun meiri dómarareynslu en þeir umsækjendur um embætti landsréttardómara sem aðild áttu að framangreindum málum. Að auki höfðu fjórir umsækjendur, sem dómnefnd mat meðal 15 hæfustu umsækjenda og ráðherra lagði til í tillögu sinni til Alþingis að yrðu skipaðir landsréttardómarar, minni dómarareynslu en gagnáfrýjandi eða jafnvel enga. Verður fallist á það með gagnáfrýjanda að umrædd ákvörðun ráðherra, eins og hún var rökstudd af hálfu ráðherra, hafi falið í sér verulega meingerð gegn æru hans og persónu. Teljast miskabætur til gagnáfrýjanda hæfilega ákveðnar eins og í héraðsdómi greinir. Þá dæmast vextir eins og krafist er en upphafstíma þeirra hefur ekki verið sérstaklega mótmælt. 18       Eftir framangreindum úrslitum fer um málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda, Jóni Höskuldssyni, 1.100.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. mars 2018 til greiðsludags. Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 2.000.000 króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.   Sératkvæði Árna Vilhjálmssonar 1       Ég er sammála meirihluta dómenda um að fallast beri á þá niðurstöðu héraðsdóms að gagnáfrýjanda beri hærri miskabætur en ákveðnar voru í dómum Hæstaréttar 19. desember 2017 í málunum nr. 591/2017 og 592/2017. Þá er ég sammála meirihlutanum um að dæma beri gagnáfrýjanda vexti af miskabótum eins og í dómsorði greinir. Ég er á hinn bóginn ósammála niðurstöðu meirihlutans um að sýkna beri aðaláfrýjanda af kröfum gagnáfrýjanda um bætur vegna fjártjóns og tel að staðfesta beri hinn áfrýjaða dóm að því leytinu til.  2        Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi byggist málatilbúnaður gagnáfrýjanda á því að hann hefði hlotið embætti dómara við Landsrétt ef ekki hefðu verið annmarkar á málsmeðferð og efnislegu mati ráðherra. Samkvæmt dómum Hæstaréttar frá 19. desember 2017 var annmarki á tillögu dómsmálaráðherra þegar málið kom til afgreiðslu Alþingis. Annmarkinn fólst ekki í tillögu ráðherra um skipun þeirra 11 umsækjenda sem byggðist á niðurstöðu dómnefndar. Ráðherrann gerði tillögu sem vék frá niðurstöðunni að því er varðaði fjóra tiltekna umsækjendur, þar á meðal gagnáfrýjanda, en það var henni fyllilega heimilt að gera. Slíka ákvörðun varð á hinn bóginn óhjákvæmilega að reisa á frekari rannsókn ráðherra í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ljósi þessarar lögbundnu rannsóknarskyldu bar ráðherra að lágmarki að gera samanburð á hæfni annars vegar þeirra sem nefndin hafði metið meðal þeirra 15 hæfustu, en ráðherra gerði ekki tillögu um, og hins vegar þeirra fjögurra sem ráðherra gerði tillögu um í stað hinna fyrrnefndu. Aðeins þannig hefði Alþingi á réttum forsendum getað rækt hlutverk sitt í þessu ferli og tekið afstöðu til mats ráðherra andstætt mati dómnefndarinnar. Gögn málsins bera ekki með sér að þessi rannsókn hafi farið fram.  3        Eins og rakið er í tilvitnuðum dómum Hæstaréttar er ótvírætt að dómsmálaráðherra fer með skipunarvald dómara í embætti. Gagnáfrýjandi var, sem fyrr segir, ásamt þremur öðrum umsækjendum sem dómnefndin hafði gert tillögu um að skipaðir yrðu dómarar við Landsrétt, ekki meðal þeirra 15 sem ráðherra gerði tillögu um. Með bréfi dómsmálaráðherra 29. maí 2017 til forseta Alþingis þar sem hún leitaði eftir samþykki þingsins fyrir tillögu sinni fylgdi tveggja blaðsíðna fylgiskjal. Þar var farið yfir þau sjónarmið sem leiddu til þess að ráðherrann ákvað að víkja frá niðurstöðum nefndarinnar. Að mati ráðherrans vó þyngst að í umsögn dómnefndarinnar fengi dómarareynsla ekki það vægi sem tilefni væri til og gert sé ráð fyrir í reglum nr. 620/2010. Með minnisblaði til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis 30. maí 2017 gerði ráðherra síðan tilraun til þess að rökstyðja ákvörðun sína nánar. Hvergi var gerður samanburður á hæfni þeirra umsækjenda sem dómnefnd hafði metið meðal 15 hæfustu og ráðherra hafði ekki gert tillögu um og þeirra fjögurra sem ráðherra gerði tillögu um að skipaðir yrðu í þeirra stað. Ef auka hefði átt vægi dómarareynslu umfram það sem fram var tekið í auglýsingunni frá 10. febrúar 2017, með því að taka tillit til starfsreynslu dómara umfram reynslu annarra umsækjenda, hlaut gagnáfrýjandi einnig að njóta þess. Ætla má að þetta aukna vægi dómarareynslu hefði styrkt stöðu gagnáfrýjanda að þessu leyti, en hann hafði stjórnað þinghöldum og samið og ritað dóma frá því hann var skipaður héraðsdómari í maí árið 2010. Hann bjó því ótvírætt yfir meiri reynslu af dómstörfum en nokkrir þeirra umsækjenda sem ráðherra lagði til að skipaðir yrðu af lista dómnefndarinnar. Ekki kemur fram í gögnum málsins hvaða matsþættir þurftu að víkja fyrir auknu vægi dómarareynslu. Ljóst er að fullnægjandi rannsókn samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga fór ekki fram og að ómálaefnalega var staðið að tillögugerðinni til Alþingis. 4        Með vísan til framangreinds og hins áfrýjaða dóms, tel ég að gagnáfrýjandi hafi leitt nægilega sterkar líkur að því að lögmæt meðferð málsins hefði orðið til þess að hann hefði verið skipaður í embætti dómara við Landsrétt og að aðaláfrýjandi beri þar með skaðabótaábyrgð á því fjárhagstjóni sem gögn málsins bera með sér að gagnáfrýjandi hafi orðið fyrir. Að því er varðar fjárhæð bóta vegna fjárhagslegs tjóns gagnáfrýjanda tel ég að of margir óvissuþættir um framtíðartekjur hans leiði til þess að ekki sé tækt að leggja til grundvallar framlagða útreikninga tryggingastærðfræðings. Þess vegna tel ég að skaðabætur gagnáfrýjanda fyrir fjárhagslegt tjón séu að álitum hæfilega ákveðnar í héraðsdómi. Af þeirri fjárhæð skuli greiðast vextir eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi. 5        Í ljósi þessarar niðurstöðu tel ég að aðaláfrýjanda beri að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2018 I.                    Dómkröfur Mál þetta var þingfest 6. mars 2018 en tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 11. september sl. Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 30.699.290 kr., með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. janúar 2018 til 6. mars 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum 2.500.000 kr. í miskabætur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, sbr. 1.mgr. 6. gr. laganna, frá 6. mars 2018 til greiðsludags. Auk þess krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað. Af hálfu stefnda eru gerðar þær dómkröfur að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður. II.                 Málavextir 10. febrúar 2017 auglýsti innanríkisráðuneytið laus til umsóknar embætti 15 dómara við Landsrétt með umsóknarfresti til 28. sama mánaðar. Alls sóttu 33 einstaklingar um embættin og var stefnandi einn þeirra. Í gögnum málsins kemur fram að dómsmálaráðherra og formaður dómnefndar samkvæmt 4. gr. a laga nr. 15/1998, um dómstóla, sbr. ákvæði til bráðabirgða IV í lögum nr. 50/2016 um dómstóla og lög nr. 10/2017, átti fund 2. mars 2017 þar sem ráðherra afhenti formanninum umsóknir um dómaraembættin. Á þeim fundi mun ráðherra hafa reifað þá hugmynd hvort til greina gæti komið að dómnefndin skilaði mati á til dæmis 20 hæfustu umsækjendunum sem ráðherra gæti valið á milli og skipað í umrædd 15 dómaraembætti. Á fundi dómsmálaráðherra og formanns dómnefndar 11. maí 2017 afhenti formaðurinn ráðherra drög að umsögn nefndarinnar og voru umsækjendum um dómaraembættin afhent drögin samdægurs. Á fundinum mun ráðherra aftur hafa reifað þá hugmynd hvort til greina gæti komið að dómnefnd skilaði mati á fleiri en 15 hæfum umsækjendum. Formaður dómnefndar sýndi og útskýrði fyrir ráðherra við sama tækifæri stigatöflu í Excel-skjali sem nefndin hafði stuðst við í störfum sínum við mat á hæfni umsækjenda en lét ráðherra ekki af hendi afrit af töflunni. Dómnefndin skilaði dómsmálaráðherra 19. maí 2017 endanlegri umsögn, ásamt minnisblaði um það hvernig nefndin vann úr andmælum umsækjenda. Í umsögninni voru sögð deili á umsækjendunum, á hvaða sjónarmiðum nefndin byggði mat sitt og hvernig málsmeðferð fyrir nefndinni hefði verið háttað. Í umsögninni var einnig að finna almennar upplýsingar um umsækjendur og mat nefndarinnar á þeim. Mati nefndarinnar á umsækjendum var skipt í nokkra þætti sem fjallað var um í sérstökum undirköflum og var umsækjendum þar raðað í hæfnisröð um hvern þátt matsins. Í Excel-stigatöflu dómnefndar sem fyrir liggur í gögnum málsins er umsækjendum raðað eftir þeim stigafjölda sem áðurnefndir tólf matsþættir gáfu samanlagt samkvæmt vægi hvers og eins þáttar í heildarstigafjölda. Raðaðist hæfasti umsækjandinn fyrstur með stigafjöldann 7,35 og svo aðrir umsækjendur koll af kolli þar til komið var að þeim þrítugasta og þriðja með 3,525. Samkvæmt þessari röðun var stefnandi sá ellefti í röðinni.   Í umsögn dómnefndarinnar var umsækjendum þó ekki raðað í röð eftir hæfni. Í staðinn var lýst þeirri niðurstöðu í umsögninni að allir 33 umsækjendurnir væru metnir hæfir en þeir 15 hæfastir sem nafngreindir voru í ályktarorði umsagnarinnar. Sérhver þeirra teldist hæfari en þeir sem kæmu á eftir en ekki þætti rétt að raða þeim sérstaklega innbyrðis í sæti. Í ályktarorði kom fram að stefnandi væri meðal þeirra 15 umsækjenda sem hæfastir væru til að gegna embætti dómara við Landsrétt. Dómsmálaráðherra ritaði formanni dómnefndar bréf 27. maí 2017 þar sem ráðherra óskaði upplýsinga og gagna um hvort dómnefndin hefði rætt sérstaklega forsendur vægis einstakra matsþátta sem tilgreindir væru í umsögn nefndarinnar. Jafnframt var um það spurt hvort dómnefndin hefði tekið til sérstakrar umræðu þá niðurstöðu sína að einungis væri vísað til 15 hæfustu umsækjendanna en ekki fleiri. Formaður nefndarinnar svaraði ráðherra með bréfi næsta dag þar sem fram kom að skipan í einstaka matsþætti hefði orðið til þegar í kjölfar setningar laga nr. 45/2010 um breyting á lögum um dómstóla nr. 15/1998 og hafi nefndinni ekki þótt rétt að bregða út frá því sem verið hefði, enda væri nokkurs virði að festa ríkti í þeim efnum. Þá hafi ekki verið tilefni til að meta fleiri en 15 umsækjendur hæfasta þar sem munur hafi verið á umsækjanda í fimmtánda sæti og öðrum þeim sem á eftir komu. Í bréfi formanns dómnefndar til dómsmálaráðherra 28. maí 2017 kom fram að nefndin hafi á fleiri fundum en einum rætt vægi einstakra matsþátta sem heildarmat nefndarinnar var reist á en vægið hafi verið það sama í formannstíð hans frá miðju ári 2013. Þá sagði í bréfinu að formaðurinn hafi tekið við svokölluðum skorblöðum frá fyrri dómnefnd sem notuð hafi verið við samlagningu og útreikninga á niðurstöðum um einstaka umsækjendur en á þessum skorblöðum hafi verið prentaðar nákvæmlega þær vægistölur í prósentum sem síðan hafi verið beitt. Skorblöðin hafi verið leyst af hólmi með stigatöflu með sama vægi einstakra þátta og áður, en notkun stigatöflu í þetta skipti hafi helgast af miklum fjölda umsækjenda. Í skýrslu sinni fyrir dómi bar Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra að hún hefði átt samtal við formenn allra stjórnarflokkana þegar álit dómnefndarinnar kom fram. Í skýrslu sinni kvað hún að sér hefði verið gert ljóst heilt yfir í þeim samtölum við formennina að erfitt yrði að afla þessum tillögum brautargengis. Formennirnir hefðu látið þetta í ljós með mismunandi hætti. Sumir sögðu að þetta yrði erfitt, en aðrir að þetta gengi ekki. Ráðherra kvaðst, í skýrslu sinni, hafa fengið sérfræðinga í stjórnsýslurétti á sinn fund, meðal annars Hafstein Þór Hauksson, sem átti þátt í að semja frumvarp til þeirra laga sem á reyndi við skipunina, m.a. bráðabirgðaákvæðið. Í ljósi þess skamma tímafrests sem lögin veittu til að endurskoða nefndina taldi ráðherra rétt að túlka þann frest ráðherra í hag. Það væri m.ö.o. ekki hægt að gera sömu kröfur til til rannsóknar ráðherra og til nefndarinnar. Í gögnum málsins kemur einnig fram að ráðherra hafi haft samráð við embættismenn um meðferð málsins. Í tölvupósti Ragnhildar Arnljótsdóttur, setts ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins, í tengslum við skipun dómara við Landsrétt, til dómsmálaráðherra og aðstoðarmanns hennar, dags. 28. maí 2017, kemur fram að ráðuneytisstjórinn hafi rennt yfir drög að rökstuðningi ráðherra, gert athugasemdir og lagt til að Hafsteinn Þór fengi þau sem fyrst til yfirlestrar. Síðan segir í tölvupóstinum:         Svona blasir viðfangsefnið við mér, þ.e. leiðir sem ráðherra hefur: Möguleiki er að ráðherra greini frá því á morgun að ráðherra sé ekki sáttur við forsendur dómnefndarinnar og leggi til að gildistöku laganna verði frestað til 1. október (frv. lagt fyrir Alþingi á morgun) og að dómnefndin fari aftur yfir málið á forsendum sem ráðherra leggur áherslur á með góðum rökstuðningi (sem ráðherra setur fram í þessu skjali). Ráðherra sendi Alþingi bréf á morgun með tillögum sem gera ráð fyrir breytingum á grundvelli rökstuðnings um aukið vægi dómarastarfa. Ráðherra sé með því að bæta úr annmörkunum með sjálfstæðu mati, sem þýðir að leggja þarf sama mat á alla umsækjendur út frá þeim málefnalegu og lögmætu forsendum sem ráðherra gefur sér. Það þýðir að leggja þarf efnislegt mat á hæfni hvers umsækjenda út frá nýjum forsendum. Best væri því að veita dómarastarfaflokkunum aukið vægi og geta vísað til þess gagnvart öllum hópnum. Viltu að við förum á fulla ferð að reyna það í kvöld? Við gætum líka sagt að með þessari breytingu sé kynjahlutföllum breytt án þess að vísa í þau í rökstuðningi? Ráðherra sendi óbreyttan lista til þingsins (sem kallar þá á vinnu ráðherra við að velja með málefnalegum rökum ný nöfn) – ekki ákjósanleg leið.   Dómsmálaráðherra afhenti forseta Alþingis 29. maí 2017 bréf með tillögum um hverja skyldi skipa dómara við Landsrétt. Þar sagði að ráðherra hygðist að fengnu samþykki Alþingis, sbr. 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis IV í lögum nr. 50/2016, leggja til við forseta Íslands að 15 nánar tilgreindir einstaklingar yrðu skipaðir dómarar við Landsrétt. Voru það þeir umsækjendur sem í stigatöflu dómnefndar höfðu raðast í sæti 1, 2, 3, 4, 5, 6, 8, 9, 10, 13, 15, 17, 18, 23 og 30. Af tillögum ráðherra leiddi að umsækjendur í 7., 11., 12. og 14. sæti stigatöflunnar voru ekki á meðal þeirra sem ráðherra lagði til að skipaðir yrðu. Í stað þeirra óskaði ráðherra eftir samþykki fyrir skipun þeirra sem samkvæmt stigatöflu dómnefndar höfðu raðast í sæti 17, 18, 23 og 30. Stefnandi hafði raðast í 11. sæti með heildarstigafjölda 5,75 í töflu dómnefndar. Á eftir honum kom umsækjandi í 12. sæti með 5,675 stig en síðan komu umsækjandi í 13. sæti með 5,55 stig, umsækjandi í 14. sæti með 5,525 stig og umsækjandi í 15. sæti með 5,48 stig. Þar á eftir komu síðan umsækjandi í 16. sæti með 5,45 stig, umsækjandi í 17. sæti með 5,4 stig, umsækjandi í 18. sæti með 5,275 stig og umsækjandi í 19. sæti með 5,15 stig. Sem fyrr segir lagði ráðherra til að umsækjendur í 17., 18., 23. og 30. sæti yrðu skipaðir. Bréfi dómsmálaráðherra til forseta Alþingis 29. maí 2017 fylgdi skjal dagsett sama dag. Hafði það að geyma rökstuðning ráðherra fyrir ákvörðun hennar en í bréfinu sagði meðal annars: Hinn nýi dómstóll, Landsréttur, verður áfrýjunardómstóll sem mun hafa það hlutverk að endurskoða dóma sem kveðnir hafa verið upp í héraði. Flestum dómsmálum sem áfrýjað verður til réttarins mun að öllum líkindum ljúka fyrir Landsrétti án þess að koma til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Fyrir liggur að skipa þarf 15 nýja dómara í einu vetfangi. Brýnt er að tryggja skilvirkni dómstólsins frá fyrsta degi svo og eðlilegan málsmeðferðartíma fyrir réttinum. Er það mat ráðherra að nauðsynlegt sé að gera reynslu af dómarastörfum hærra undir höfði en gert var í mati dómnefndar þannig að tryggt sé að meirihluti dómenda við Landsrétt hafi haldgóða reynslu af dómarastörfum. Var vægi þessa matsþáttar því aukið frá því sem var í heildarmati dómnefndar. Það að veita dómarareynslu aukið vægi gerði það að verkum að neðangreindir umsækjendur, sem ráðherra gerir tillögu til Alþingis um að skipaðir verði í embætti landsréttardómara voru að mati ráðherra einnig hæfastir til viðbótar við þá sem dómnefnd hafði áður metið hæfasta. Ákvörðun að skipa dómara við Landsrétt er stjórnvaldsákvörðun og í stjórnsýslulögum er eftirfarandi rökstuðningur lögfestur sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt ákvæðinu þarf aðeins að rökstyðja ákvarðanir þegar þess er óskað innan 14 daga frá því aðila var tilkynnt ákvörðunin. Endanleg ákvörðun liggur ekki fyrir þar sem afla þarf samþykkis Alþingis fyrir niðurstöðu ráðherra, sbr. þau ákvæði dómstólalaga sem áður hafa verið rakin. Stjórnvöldum er ekki skylt að veita samhliða rökstuðning nema það sé sérstaklega boðið í lögum. Allvíða í lögum má finna ákvæði sem leggja þá skyldu á stjórnvöld að láta rökstuðning fylgja ákvörðununum sínum. Ekki er að finna nein slík ákvæði í lögum um dómstóla og þá er ekki kveðið á um að ráðherra þurfi að veita samhliða rökstuðning þegar ákveðið hefur verið að nýta þá heimild að leggja til nöfn annarra umsækjenda, en sem dómnefnd hefur metið hæfasta. Rökstuðningur lýtur að því hvers vegna sá eða þeir sem skipaðir voru urðu fyrir valinu, en ekki ástæða þess að tiltekinn umsækjandi hafi ekki verið skipaður. Þetta hefur verið staðfest m.a. í álitum umboðsmanns Alþingis. Áður hefur verið rakið að ráðherra vill í ljósi eðli þeirra skipana sem hér um ræðir, þ.e. að skipa 15 dómara við nýtt millidómstig að aukið vægi verði lagt á dómarareynslu eðli máls samkvæmt, þ.e. farsæla reynslu af störfum við dómstóla. Slík sjónarmið eru bæði málefnaleg og lögmæt. Þá liggur fyrir að lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, gilda um tillögu ráðherra. Þrátt fyrir framangreint telur ráðherra rétt að gera Alþingi grein fyrir því efnislega mati sem liggur að baki tillögu ráðherra varðandi neðangreinda umsækjendur. Arnfríður Einarsdóttir starfaði sem fulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík á árabilinu 1986-1992, síðustu árin sem aðalfulltrúi embættisins. Á árunum 1993-1998 var hún dómarafulltrúi við Héraðsdóm Reykjavíkur en eftir það aðstoðarmaður dómara við dómstólinn þar til hún var ráðin skrifstofustjóri hans 1. mars 1999 - 1. febrúar 2006. Á árunum 1992-2006 var hún allnokkrum sinnum sett héraðsdómari eða samtals í tæp fjögur ár. Hún var skipuð héraðsdómari 1. febrúar 2006 en var í námsleyfi frá störfum árið 2014. Samkvæmt því hefur hún verið fulltrúi og aðstoðarmaður dómara í meira en tíu ár og héraðsdómari í um það bil 14 ár. Frá því síðla árs 2010 hefur hún verið forseti Félagsdóms, en hún telur láta nærri að þar hafi verið dæmd 13 mál á ári að meðaltali á tímabilinu. Þá sat hún sem varadómari í Hæstarétti Íslands í einu máli. Á starfsferli hennar hefur hún jöfnum höndum dæmt í málum í öllum málaflokkum héraðsdómstólanna, þ.e. í öllum tegundum sakamála, í almennum einkamálum af öllum gerðum, ágreiningsmálum af öllum gerðum og lögræðismálum. Auk þess hefur hún samið fjölmarga rannsóknarúrskurði. Þá má einnig nefna að Arnfríður hefur mikla reynslu af stjórnsýslustörfum, meðal annars í úrskurðarnefndum. Hún hefur jafnframt töluverða stjórnunarreynslu en hún var skrifstofustjóri Héraðsdóms Reykjavíkur í nærfellt fjögur ár og hefur verið forseti Félagsdóms frá árinu 2010. Arnfríður á þannig 32 ára farsælan feril við dómstóla landsins og farið með dómsvald lungann af þeim tíma. Ásmundur Helgason var í um tvö og hálft ár aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt íslands. Hann var skipaður dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur í maí 2010 og hefur gegnt embættinu í sjö ár. Á þeim tíma hefur hann dæmt í fjölmörgum einkamálum, verið meðdómsmaður í allnokkrum sakamálum og auk þess fengið fjölmörg mál til meðferðar þar sem gerð er krafa um rannsóknar- eða þvingunaraðgerðir af hálfu lögreglu og ákæruvalds. Ásmundur hefur verið fastur dómari í Félagsdómi frá ársbyrjun 2014. Hann var ad hoc dómari í Hæstarétti íslands í einu máli. Ásmundur býr jafnframt yfir mikli reynslu af stjórnsýslustörfum. Hann starfaði til að mynda í um sjö ár hjá umboðsmanni Alþingis og í um tvö ár sem lögfræðingur á skrifstofu Alþingis, nær allan tímann sem aðallögfræðingur og þekkir því vel til stjórnsýslu. Þá liggja eftir hann töluverð fræðiskrif en hann hefur ritað bókarkafla, kennsluefni, fræðigreinar og fleira.   Jón Finnbjörnsson starfaði sem fulltrúi við Borgarfógetaembættið í Reykjavík í samtals um þrjú ár á árabilinu 1983-1990, aðstoðarmaður hæstaréttardómara í tvö og hálft ár á árunum 1987-1993 og fulltrúi við Héraðsdóm Reykjavíkur í fjögur ár 1993-1997. Þá var hann fjórum sinnum settur héraðsdómari í samtals um fjögur ár áður en hann var skipaður dómari við Héraðsdóm Suðurlands frá 1. mars 1998. Jón fluttist til Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2001 og hefur starfað þar síðan. Hann hefur verið dómari í samtals 22 ár að teknu tilliti til námsleyfis. Hann hefur á ferli sínum dæmt í bæði einkamálum og sakamálum. Jón hefur starfað á vettvangi dómstólanna frá lokum kandídatsprófs. Hann á að baki farsælan 28 ára feril við dómstólana og nánast allan þann tíma við dómsstörf. Jón á jafnframt að baki langan kennsluferil en hann var stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands í um átta ár og hefur annast kennslu við réttindanám í 11 ár. Hann hefur einnig samið námsefni í sjórétti og fræðigreinar á sviði lögfræði. Ragnheiður Bragadóttir hóf störf sem fulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík að loknu embættisprófi 1989 og gegndi því starfi í þrjú ár. Frá 1. júlí 1992 starfaði hún í rúm fimm ár sem dómarafulltrúi við Héraðsdóm Reykjavíkur. Ragnheiður starfaði sem aðstoðarmaður hæstaréttardómara frá 15. ágúst 1997 til 15. janúar 1999, en þá var hún sett til þess að gegna starfi héraðsdómara til 30. júní 2001. Á þeim tíma starfaði hún sem dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur Héraðsdóm Vesturlands og Héraðsdóm Austurlands. Hún var skipuð dómari við Héraðsdóm Austurlands frá 15. september 2005 og gegndi því starfi til 1. september 2008, er hún sótti um flutning til Héraðsdóms Reykjaness, og hefur frá þeim tíma starfað sem héraðsdómari við þann dómstól. Ragnheiður starfaði sem sjálfstætt starfandi lögmaður um tíma áður en hún varð dómari. Á sama tíma rak hún sína eigin lögmannstofu, ýmist ein eða með öðrum. Hún hefur jafnframt reynslu af stjórnsýslustörfum og hefur til að mynda tekið sæti í óbyggðanefnd, úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og samkeppnisráði. Auk þess hefur hún annast stundakennslu við Háskóla íslands. Þá var hún dómstjóri við Héraðsdóm Austurlands á árunum 2005-2008. Starfsreynsla hennar er því afar fjölbreytt. Ragnheiður á þannig að baki rúmlega 22 ára feril við dómstólana, sem dómari, dómstjóri dómarafulltrúi og aðstoðarmaður dómara. Störf hennar hafa tekið til allra réttarsviða. Eins og rakið hefur verið að framan þá er það hin mikla reynsla þessara umsækjanda af störfum dómara sem lá til grundvallar tillögu ráðherra, ásamt því sem líta bar til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ráðherra er í mati sínu bundinn af því að velja þá sem hæfastir eru til að gegna embætti landsréttardómara. Í fyrirliggjandi máli eru að mati ráðherra ofangreindir fjórir umsækjendur að auki hæfastir til að gegna embætti dómara við Landsrétt. Byggist það mat ráðherra á ítarlegri yfirferð á gögnum málsins, þ.m.t. umsókna, umsagnar dómnefndar, andmæla umsækjenda, vinnugagna nefndarinnar og með þau málefnalegu sjónarmið að leiðarljósi sem áður hafa verið rakin. Ráðherra hefur ekki gert athugasemd við undirbúning málsins af hálfu dómnefndar. Ráðherra telur dómnefnd hafa upplýst málið nægilega og fullnægjandi rannsókn farið fram á þeim matsþáttum sem eru til grundarvallar niðurstöðu. Ráðherra telur rétt að vægi dómsstarfa sé þyngra en dómnefnd gerði ráð fyrir. Nefndin hefur nú þegar lagt mat á þennan matsþátt og allar upplýsingar um dómarareynslu umsækjenda liggja fyrir í gögnum málsins. Engar nýjar upplýsingar eða gögn hafa legið til grundvallar tillögu ráðherra. Þá fylgdu og með bréfi ráðherra drög að tillögum hennar til forseta Íslands um skipun þeirra 15 umsækjenda sem ráðherra óskaði eftir að Alþingi samþykkti. Við aðalmeðferð málsins var ráðherra spurð nánar um hvernig hún hefði farið yfir mat sitt á dómarareynslu. Í skýrslu sinni kvaðst hún hafa haft efasemdir um mat nefndarinnar á þessum þætti strax 11. maí 2017 þegar formaður dómnefndarinnar hefði sýnt henni Excel-skjal með mati á umsækjendum án þess að henni væri afhent skjalið. Hún hafði síðan fengið skjalið afhent 19. maí 2017 og hafi henni þá fundist liggja fyrir að dómarareynsla hefði borið skarðan hlut frá borði, ekki síst í ljósi þeirra ályktana sem nefndin kaus að draga frá þessari töflu. Þar sem verið var að skipa í áfrýjunardómstól en ekki fyrsta stig hafi henni fundist dómarareynsla skipta máli. Í kjölfarið hafi hún skoðað ítarlega vinnu nefndarinnar og andmæli sem fram komu og byggt á vinnu nefndarinnar að miklu leyti. Leggja hafi þurft heildstætt mat á umsækjendur og þeir fjórir sem fóru inn í hópinn höfðu allir meiri dómarareynslu en þeir fjórir sem hún tók út, þar af höfðu a.m.k. þrír umtalsvert meiri dómarareynslu. Það var líka verið að skipa hóp fólks með breiða skírskotun úr fræðimannasamfélaginu og stjórnsýslunni, en henni hafi fundist dómarareynsla bera skarðan hlut frá borði. Í framhaldinu fór tillaga dómsmálaráðherra samkvæmt ákvörðun forseta Alþingis til meðferðar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins. Eftir að þau sjónarmið komu fram fyrir nefndinni að óeðlilegt væri að ekki væru færð rök með hverjum og einum umsækjanda í bréfi ráðherra til forseta Alþingis sendi ráðherra nefndinni minnisblað, dagsett 30. maí 2017, fjórar blaðsíður að lengd. Kom þar meðal annars fram að þrátt fyrir að engin lagaskylda hvíldi á ráðherra til að veita samhliða rökstuðning teldi ráðherra engu að síður rétt að gera grein fyrir því efnislega mati sem lægi að baki tillögum hennar um að skipa nánar tilgreinda fjóra umsækjendur sem ekki voru í hópi þeirra 15 sem dómnefnd hafði talið hæfasta. Í bréfinu sagði meðal annars:  Hinn nýi dómstóll, Landsréttur, verður áfrýjunardómstóll sem mun hafa það hlutverk að endurskoða dóma sem kveðnir hafa verið upp í héraði. Flestum dómsmálum sem áfrýjað verður til réttarins mun að öllum líkindum ljúka fyrir Landsrétti án þess að koma til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Fyrir liggur að skipa þarf 15 nýja dómara í einu vetfangi. Brýnt er að tryggja skilvirkni dómstólsins frá fyrsta degi svo og eðlilegan málsmeðferðartíma fyrir réttinum. Er það mat ráðherra að nauðsynlegt sé að gera reynslu af dómarastörfum hærra undir höfði en gert var í mati dómnefndar þannig að tryggt sé að meirihluti dómenda við Landsrétt hafi haldgóða reynslu af dómarastörfum. Var vægi þessa matsþáttar því aukið frá því sem var í heildarmati dómnefndar. Það að veita dómarareynslu aukið vægi gerði það að verkum að neðangreindir umsækjendur, sem ráðherra gerir tillögu til Alþingis um að skipaðir verði í embætti landsréttardómara voru að mati ráðherra einnig hæfastir til viðbótar við þá sem dómnefnd hafði áður metið hæfasta. Ákvörðun að skipa dómara við Landsrétt er stjórnvaldsákvörðun og í stjórnsýslulögum er eftirfarandi rökstuðningur lögfestur sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt ákvæðinu þarf aðeins að rökstyðja ákvarðanir þegar þess er óskað innan 14 daga frá því aðila var tilkynnt ákvörðunin. Endanleg ákvörðun liggur ekki fyrir þar sem afla þarf samþykkis Alþingis fyrir niðurstöðu ráðherra, sbr. þau ákvæði dómstólalaga sem áður hafa verið rakin. Stjórnvöldum er ekki skylt að veita samhliða rökstuðning nema það sé sérstaklega boðið í lögum. Allvíða í lögum má finna ákvæði sem leggja þá skyldu á stjórnvöld að láta rökstuðning fylgja ákvörðununum sínum. Ekki er að finna nein slík ákvæði í lögum um dómstóla og þá er ekki kveðið á um að ráðherra þurfi að veita samhliða rökstuðning þegar ákveðið hefur verið að nýta þá heimild að leggja til nöfn annarra umsækjenda, en sem dómnefnd hefur metið hæfasta. Rökstuðningur lýtur að því hvers vegna sá eða þeir sem skipaðir voru urðu fyrir valinu, en ekki ástæða þess að tiltekinn umsækjandi hafi ekki verið skipaður. Þetta hefur verið staðfest m.a. í álitum umboðsmanns Alþingis. Áður hefur verið rakið að ráðherra vill í ljósi eðli þeirra skipana sem hér um ræðir, þ.e. að skipa 15 dómara við nýtt millidómstig að aukið vægi verði lagt á dómarareynslu eðli máls samkvæmt, þ.e. farsæla reynslu af störfum við dómstóla. Slík sjónarmið eru bæði málefnaleg og lögmæt. Þá liggur fyrir að lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla gilda um tillögu ráðherra. Þrátt fyrir framangreint telur ráðherra rétt að gera Alþingi grein fyrir því efnislega mati sem liggur að baki tillögu ráðherra varðandi neðangreinda umsækjendur. Arnfríður Einarsdóttir starfaði sem fulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík á árabilinu 1986-1992, síðustu árin sem aðalfulltrúi embættisins. Á árunum 1993-1998 var hún dómarafulltrúi við Héraðsdóm Reykjavíkur en eftir það aðstoðarmaður dómara við dómstólinn þar til hún var ráðin skrifstofustjóri hans 1. mars 1999 - 1. febrúar 2006. Á árunum 1992-2006 var hún allnokkrum sinnum sett héraðsdómari eða samtals í tæp fjögur ár. Hún var skipuð héraðsdómari 1. febrúar 2006 en var í námsleyfi frá störfum árið 2014. Samkvæmt því hefur hún verið fulltrúi og aðstoðarmaður dómara í meira en tíu ár og héraðsdómari í um það bil 14 ár. Frá því síðla árs 2010 hefur hún verið forseti Félagsdóms, en hún telur láta nærri að þar hafi verið dæmd 13 mál á ári að meðaltali á tímabilinu. Þá sat hún sem varadómari í Hæstarétti Íslands í einu máli. Á starfsferli hennar hefur hún jöfnum höndum dæmt í málum í öllum málaflokkum héraðsdómstólanna, þ.e. í öllum tegundum sakamála, í almennum einkamálum af öllum gerðum, ágreiningsmálum af öllum gerðum og lögræðismálum. Auk þess hefur hún samið fjölmarga rannsóknarúrskurði. Þá má einnig nefna að Arnfríður hefur mikla reynslu af stjórnsýslustörfum, meðal annars í úrskurðarnefndum. Hún hefur jafnframt töluverða stjórnunarreynslu en hún var skrifstofustjóri Héraðsdóms Reykjavíkur í nærfellt fjögur ár og hefur verið forseti Félagsdóms frá árinu 2010. Arnfríður á þannig 32 ára farsælan feril við dómstóla landsins og farið með dómsvald lungann af þeim tíma. Ásmundur Helgason var í um tvö og hálft ár aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt íslands. Hann var skipaður dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur í maí 2010 og hefur gegnt embættinu í sjö ár. Á þeim tíma hefur hann dæmt í fjölmörgum einkamálum, verið meðdómsmaður í allnokkrum sakamálum og auk þess fengið fjölmörg mál til meðferðar þar sem gerð er krafa um rannsóknar- eða þvingunaraðgerðir af hálfu lögreglu og ákæruvalds. Ásmundur hefur verið fastur dómari í Félagsdómi frá ársbyrjun 2014. Hann var ad hoc dómari í Hæstarétti íslands í einu máli. Ásmundur býr jafnframt yfir mikli reynslu af stjórnsýslustörfum. Hann starfaði til að mynda í um sjö ár hjá umboðsmanni Alþingis og í um tvö ár sem lögfræðingur á skrifstofu Alþingis, nær allan tímann sem aðallögfræðingur og þekkir því vel til stjórnsýslu. Þá liggja eftir hann töluverð fræðiskrif en hann hefur ritað bókarkafla, kennsluefni, fræðigreinar og fleira. Jón Finnbjörnsson starfaði sem fulltrúi við Borgarfógetaembættið í Reykjavík í samtals um þrjú ár á árabilinu 1983-1990, aðstoðarmaður hæstaréttardómara í tvö og hálft ár á árunum 1987-1993 og fulltrúi við Héraðsdóm Reykjavíkur í fjögur ár 1993-1997. Þá var hann fjórum sinnum settur héraðsdómari í samtals um fjögur ár áður en hann var skipaður dómari við Héraðsdóm Suðurlands frá 1. mars 1998. Jón fluttist til Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2001 og hefur starfað þar síðan. Hann hefur verið dómari í samtals 22 ár að teknu tilliti til námsleyfis. Hann hefur á ferli sínum dæmt í bæði einkamálum og sakamálum. Jón hefur starfað á vettvangi dómstólanna frá lokum kandídatsprófs. Hann á að baki farsælan 28 ára feril við dómstólana og nánast allan þann tíma við dómsstörf. Jón á jafnframt að baki langan kennsluferil en hann var stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands í um átta ár og hefur annast kennslu við réttindanám í 11 ár. Hann hefur einnig samið námsefni í sjórétti og fræðigreinar á sviði lögfræði. Ragnheiður Bragadóttir hóf störf sem fulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík að loknu embættisprófi 1989 og gegndi því starfi í þrjú ár. Frá 1. júlí 1992 starfaði hún í rúm fimm ár sem dómarafulltrúi við Héraðsdóm Reykjavíkur. Ragnheiður starfaði sem aðstoðarmaður hæstaréttardómara frá 15. ágúst 1997 til 15. janúar 1999, en þá var hún sett til þess að gegna starfi héraðsdómara til 30. júní 2001. Á þeim tíma starfaði hún sem dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur Héraðsdóm Vesturlands og Héraðsdóm Austurlands. Hún var skipuð dómari við Héraðsdóm Austurlands frá 15. september 2005 og gegndi því starfi til 1. september 2008, er hún sótti um flutning til Héraðsdóms Reykjaness, og hefur frá þeim tíma starfað sem héraðsdómari við þann dómstól. Ragnheiður starfaði sem sjálfstætt starfandi lögmaður um tíma áður en hún varð dómari. Á sama tíma rak hún sína eigin lögmannstofu, ýmist ein eða með öðrum. Hún hefur jafnframt reynslu af stjórnsýslustörfum og hefur til að mynda tekið sæti í óbyggðanefnd, úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og samkeppnisráði. Auk þess hefur hún annast stundakennslu við Háskóla íslands. Þá var hún dómstjóri við Héraðsdóm Austurlands á árunum 2005-2008. Starfsreynsla hennar er því afar fjölbreytt. Ragnheiður á þannig að baki rúmlega 22 ára feril við dómstólana, sem dómari, dómstjóri dómarafulltrúi og aðstoðarmaður dómara. Störf hennar hafa tekið til allra réttarsviða. Eins og rakið hefur verið að framan þá er það hin mikla reynsla þessara umsækjanda af störfum dómara sem lá til grundvallar tillögu ráðherra, ásamt því sem líta bar til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ráðherra er í mati sínu bundinn af því að velja þá sem hæfastir eru til að gegna embætti landsréttardómara. Í fyrirliggjandi máli eru að mati ráðherra ofangreindir fjórir umsækjendur að auki hæfastir til að gegna embætti dómara við Landsrétt. Byggist það mat ráðherra á ítarlegri yfirferð á gögnum málsins, þ.m.t. umsókna, umsagnar dómnefndar, andmæla umsækjenda, vinnugagna nefndarinnar og með þau málefnalegu sjónarmið að leiðarljósi sem áður hafa verið rakin. Ráðherra hefur ekki gert athugasemd við undirbúning málsins af hálfu dómnefndar. Ráðherra telur dómnefnd hafa upplýst málið nægilega og fullnægjandi rannsókn farið fram á þeim matsþáttum sem eru til grundarvallar niðurstöðu. Ráðherra telur rétt að vægi dómsstarfa sé þyngra en dómnefnd gerði ráð fyrir. Nefndin hefur nú þegar lagt mat á þennan matsþátt og allar upplýsingar um dómarareynslu umsækjenda liggja fyrir í gögnum málsins. Engar nýjar upplýsingar eða gögn hafa legið til grundvallar tillögu ráðherra. Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gerði 31. maí 2017 tillögu til þingsályktunar um að Alþingi samþykkti tillögur dómsmálaráðherra um að þeir yrðu skipaðir dómarar við Landsrétt sem ráðherra hafði lagt til í bréfi sínu til forseta Alþingis 29. sama mánaðar. Voru þeir þar taldir upp í stafrófsröð og raðað eftir númerum frá 1 til 15. Í áliti minnihluta þingnefndarinnar sagði að þótt ágreiningslaust væri að ráðherra hefði heimild til að víkja frá mati dómnefndar, svo fremi sem Alþingi samþykkti þá tilhögun, væri ráðherra ekki undanþeginn þeirri meginreglu að skipa hæfasta umsækjandann. Taldi minnihlutinn að röksemdir ráðherra í minnisblaðinu 30. maí 2017 væru ekki þær sömu og fram hefðu komið í fylgiskjalinu með tillögum ráðherra degi fyrr og þannig „virðist svo sem rökstuðningur ráðherra taki breytingum eftir því sem málinu vindur fram. Alþingi hlýtur að gera kröfu til þess að rökstuðningur liggi allur fyrir áður en ráðherra tekur ákvörðun um tillögu sína til Alþingis.“ Þá taldi minnihlutinn vafa leika á að ráðherra hefði haft í heiðri rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins meðal annars vegna þess að „fjórir umsækjendur falla af listanum í stað þeirra fjögurra sem bætast við á listann. Ekki er ljóst af rökstuðningi ráðherra hvaða samanburður hefur farið fram á milli þeirra umsækjenda sem dómnefnd telur hæfasta og falla brott úr tillögu ráðherra og þeirra fjögurra sem ekki eru á meðal þeirra sem dómnefnd telur hæfasta en bætast við tillögu ráðherra ... Ljóst má vera að ráðherra telur rökstuðning sinn jafngilda fullnægjandi rannsókn en ekki er sýnt í rökstuðningi ráðherra að sambærileg sérfræðiþekking liggi að baki mati ráðherra á umsækjendum og mati dómnefndar. Þá ber að nefna að mat dómnefndar er allítarlegt, 117 blaðsíður, þar sem farið er yfir hæfni einstaklinga í ólíkum matsþáttum og birt röð að loknum hverjum þætti en mat ráðherra er fjórar blaðsíður sem byggjast að miklu leyti á upplýsingum úr dómnefndaráliti um reynslu umsækjenda af dómarastörfum.“ Alþingi lauk meðferð sinni á málinu 1. júní 2017 með því að tillögur dómsmálaráðherra voru í einu lagi bornar undir atkvæði og samþykktar með 31 atkvæði gegn 22 en átta alþingismenn greiddu ekki atkvæði. Tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt sem Alþingi samþykkti í atkvæðagreiðslunni 1. júní 2017 voru ásamt skipunarbréfum í framhaldinu sendar forseta Íslands til staðfestingar. Forseti undirritaði síðan 8. júní 2017 skipunarbréf þeirra 15 dómara við Landsrétt sem dómsmálaráðherra hafði gert tillögu um og Alþingi samþykkt.                 Með bréfi, dags. 9. júní 2017, krafðist lögmaður stefnanda þess fyrir hans hönd að ráðherra myndi rökstyðja skipan dómara við Landsrétt. Var þess farið á leit við ráðherra, með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að rökstutt væri hvers vegna ráðherra kaus að taka stefnanda út úr 15 manna hópnum og ganga fram hjá honum. Beiðni stefnanda um rökstuðning var sett fram í átta tölusettum liðum, og m.a. óskað rökstuðnings fyrir því af hverju Ásmundur Helgason, Arnfríður Einarsdóttir, Ragnheiður Bragadóttir og Jón Finnbjörnsson voru tekin fram fyrir stefnanda við veitingu embættis dómara við Landsrétt. Jafnframt óskaði stefnandi rökstuðnings fyrir því hvaða liður innan hæfnismatsins var skertur á kostnað aukins vægis dómarastarfa. Þá óskaðist einnig rökstutt hvernig mat einstakra umsækjenda breyttist m.t.t. þessara breytinga. Enn fremur óskaði stefnandi eftir því að ráðherra rökstyddi af hverju Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Jóhannes Sigurðsson voru skipaðir dómarar við Landsrétt þrátt fyrir að vera með minni dómarareynslu en stefnandi, og hvers vegna Oddný Mjöll Árnadóttir, Aðalsteinn Jónasson og Kristbjörg Stephensen, sem höfðu enga dómarareynslu, voru skipuð í embætti dómara við Landsrétt fyrst ákvörðun ráðherra var að hans sögn sú að dómarastörf ættu að fá aukið vægi. Eftir að stefnandi hafði ítrekað erindi sitt sendi dómsmálaráðuneytið honum bréf 6. júlí 2017. Í því bréfi sagði meðal annars: Meginreglan er sú að stjórnvöld ákveða sjálf á hvaða sjónarmiðum þau byggja ákvörðun sína um veitingu starfs umfram þau almennu hæfisskilyrði sem sett eru fram í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Þau sjónarmið verða að vera málefnaleg og er lögð áhersla á að heildstætt mat fari fram á þeim umsækjendum sem uppfylla lágmarkskröfur til starfsins og að allir umsækjendur séu metnir á sama hátt. Að loknu slíku heildstæðu mati sem byggir á almennum og sérstökum hæfniskröfum sem þegar lögmæltum hæfisskilyrðum eða sjónarmiðum sem skylt er að byggja á við skipun eða ráðningu í starf hjá ríkinu sleppir kemur það í hlut stjórnvalds að ákveða á hvaða sjónarmiðum skuli byggja við val milli hæfra umsækjenda. Sjónarmiðin verða að vera málefnaleg og í eðlilegum tengslum við viðkomandi starf, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í málum nr. 2630/1998, 4279/2004 og 8941/2016. Þá er jafnframt í höndum stjórnvalds að ákveða vægi einstakra sjónarmiða. Ráðherra má af þeim sökum víkja frá dómnefndarálitinu ef fyrir því eru málefnalegar ástæður. Lögð var til grundvallar sú meginregla að starfsmenn ríkisins eru ráðnir til starfa í þágu þeirra verkefna sem viðkomandi stofnun hefur með höndum skv. lögum sbr. m.a. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4018/2004 og máli nr. 4306/2005. Dómarar eru embættismenn samkvæmt 22. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og eru þar af leiðandi starfsmenn ríkisins. Hér þarf að hafa í huga sú veiting embætta sem lá fyrir dómsmálaráðherra var án fordæma þar sem verið var að skipa 15 dómara í senn við stofnun nýs dómstóls. Á það ber að líta að hinn nýi dómstóll er áfrýjunardómstóll sem hefur það hlutverk að endurskoða dóma sem kveðnir hafa verið upp í héraði. Flestum dómsmálum sem áfrýjað verður mun að öllum líkindum ljúka fyrir Landsrétti án þess að koma til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Megintilefni nýrra laga um dómstóla og tilkomu Landréttar er að bæta úr þeim ágöllum sem lotið hafa að sönnunargildi munnlegs framburðar í sakamálum. Fyrir Hæstarétti hefur endurskoðun á mati undirréttar á munnlegum framburði ekki farið fram. Samkvæmt framangreindu er því ljóst að hlutverk Landsréttar sem millidómsstigs, er að taka til endurskoðunar dóma héraðsdómstóla landsins. Þá verður að hafa í huga að um nýja stofnun er að ræða sem hefur ekki yfir að ráða svokölluðu stofnanaminni., þ.e.a.s. býr yfir starfsfólki með reynslu af þeim verkefnum sem stofnun er lögum samkvæmt ætlað að inna af hendi. Stofnunin á að taka til starfa þann 1. janúar nk. og er gert ráð fyrir að þau mál sem dæmd verða eftir þann tíma af hálfu héraðsdómstóla, geti sætt málskoti til Landsréttar. Þá er gert ráð fyrir því í fyrirliggjandi frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (millidómsstig), nr. 49/2016, með síðari breytingum, að sakamál sem áfrýjað hefur verið til Hæstaréttar fyrir gildistöku laga nr. 49/2016 og ekki er lokið við gildistöku þeirra skulu upp frá því rekin fyrir Landsrétti. Samkvæmt framansögðu er ljóst að Landsrétti er ætlað taka strax til starfa þann 1. janúar 2018 og fá dómarar lítinn sem engan tíma til að koma sér inn í starf landsréttardómara. Af þeim sökum er mikilvægt að þeir einstaklingar sem skipaðir verða dómarar búi yfir þeirri þekkingu og reynslu sem nauðsynleg er strax frá fyrsta degi. Það skiptir miklu máli að dómarahópurinn sé samansettur af einstaklingum með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu. Það endurspeglast í reglum nr. 620/2010 sem gilda um störf dómnefndarinnar. Þar sem segir í 1. tölulið. 4. gr. reglnanna að mið mat á menntun, starfsferli og fræðilegri þekkingu skuli dómnefndin miða við að æskilegt sé að umsækjandi hafi fjölbreytta starfsreynslu á sviði lögfræðinnar s.s. reynslu af dómsstörfum, málflutningi eða öðrum lögmannsstörfum, störfum innan stjórnsýslunnar eða fræðistörfum. Þar sem Landsréttur er áfrýjunardómstóll sem mun endurskoða mál sem áður hefðu sætt endurskoðun Hæstaréttar verður að mati ráðherra að gera þá kröfu að sem flestir dómarar við réttinn búi yfir tiltekinni reynslu af dómarastörfum. Þá verður og að líta til þess að dómarar við Landsrétt sitja alltaf þrír í hópi samkvæmt ákvæðum laga. Svo að minnsta kosti einn dómari af þremur hafi reynslu af dómsstörfum, stjórnun þinghalda og samningu dóma þarf að minnsta kosti fimm dómara. Slíkt hlutfall við nýja stofnun var að mati ráðherra of lágt. Þá var það grundvallarsjónarmið ráðherra að hin nýja stofnun yrði bera samsetningu af starfsfólki með reynslu af ákveðnum og ólíkum sviðum, þannig að Landsréttur væri í stakk búinn til að takast á við þau verkefni sem réttinum er samkvæmt lögum falið að gegna. Ráðherra fór ítarlega yfir umsögn dómnefndar og mat það svo að ekki væru neinir formgallar á málsmeðferð og umsögn dómefndar. Hins vegar með vísan til framangreinds og eftir að hafa farið yfir öll gögn málsins, þ.m.t. umsóknir, umsögn dómnefndar, andmæli umsækjenda og vinnugögn nefndarinnar, sem ráðherra kallaði sérstaklega eftir, var það niðurstaða ráðherra að nauðsynlegt væri að gefa reynslu af dómarastörfum meira vægi en gert var í mati dómnefndar. Með því að gera ekki upp á milli umsækjenda í matsþáttum sem lúta að stjórn þinghalda og ritun dóma varð ekki annað ráðið en að dómnefndin hafi ekki gefið reynslu dómara það vægi sem tilefni er til og gert er ráð fyrir í reglum nr. 620/2010. Þá er möguleikum dómara til að afla sér reynslu með aukastörfum verulegar skorður settar í 26. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, og reglum nr. 463/2000, um aukastörf héraðs- og hæstaréttardómara og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækjum. Með því að auka vægi dómarareynslu var unnt að ná því markmiði að meiri hluti dómenda við Landsrétt hafi haldgóða reynslu af dómarastörfum og þannig að tryggja skilvirkni dómstólsins frá fyrsta degi. Raunar var alltaf viðbúið að stór hluti dómara við Landsrétt kæmi úr röðum héraðsdómara. Þannig sagði t.d. eftirfarandi í athugasemdum með frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 50/2016: ,,Þar sem búast má við að nokkur fjöldi þeirra sem hljóta skipun í embætti landsréttardómara komi úr röðum starfandi héraðsdómara [...].“ Af vinnugögnum nefndarinnar að dæma, sem ráðherra óskaði sérstaklega eftir, kom einnig í ljós að mat hennar virtist hafa verið of hlutlægt. Þannig var t.d. gert upp á milli 15. og 16. manns, þótt aðeins hafi munað 0,025 á einkunn þeirra. Ráðherra taldi útilokað að mat nefndarinnar hafi getað verið nákvæmt upp á þriðja aukastaf. Mat á hæfni umsækjanda eru ekki svo nákvæm vísindi og eru fyrri umsagnir nefndarinnar ekki svo afgerandi hlutlægar, heldur er þar bersýnilega tekið tillit til huglægra þátta. Þá hlýtur að teljast óvenjulegt að nefndin hafi, við skipun 15 manna, talið að nákvæmlega sá fjöldi væri hæfastur.         Með hliðsjón af öllum framangreindum atriðum var það niðurstaða ráðherra að byggja á umsögn nefndarinnar um þá 15 sem dómnefndin taldi hæfasta, enda er ráðherra samkvæmt meginreglunni bundin af umsögn hennar, auk þess sem ráðherra taldi að þessir umsækjendur væru á meðal hæfustu umsækjenda. Ráðherra taldi aftur á móti bæði málefnalegt og lögmætt að auka vægi dómarareynslu samkvæmt því sem áður hefur verið rakið. Að því loknu var það niðurstaða ráðherra að fleiri umsækjendur hafi komið til greina heldur en tilteknir voru í ályktarorðum dómefndar. Þannig hafi þeir 15 umsækjendur sem nefndin tiltók allir verið á meðal þeirra hæfustu sem og aðrir sem búa yfir áralangri dómarareynslu, alls 24 umsækjendur. Þau Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Bogi Hjálmtýsson, Hildur Briem, Jón Finnbjörnsson, Jónas Jóhannsson, Ólafur Ólafsson, Ragnheiður Bragadóttir og Sandra Baldvinsdóttir bættust af þeim sökum við þá niðurstöðu nefndarinnar hverjir teldust hæfastir. Ráðherra mat það svo að þessir 24 einstaklingar væru hæfastir til að gegna embætti landsréttardómara. Í framhaldinu er síðan í rökstuðningi ráðherra gerð grein fyrir helstu upplýsingum og mati á hverjum þeirra 15 umsækjenda sem ráðherra gerði tillögu um til Alþingis að skipaðir yrðu dómarar við Landsrétt. Þar sem sá rökstuðningur fer í öllum meginatriðum saman við upplýsingar og sjónarmið úr bréfi ráðherra til forseta Alþingis 29. maí 2017 þykir ekki ástæða til að rekja hann hér frekar. Í kjölfar þess að umræddir 15 umsækjendur voru skipaðir dómarar við Landsrétt höfðuðu tveir umsækjenda, þeir Ástráður Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannesson, mál á hendur stefnda. Með dómum Hæstaréttar frá 19. desember 2017 í málum nr. 591 og 592/2017 voru þeim báðum dæmdar 700.000 krónur í miskabætur vegna ólögmætrar málsmeðferðar ráðherra. Nánar er fjallað um þýðingu þessa dóma fyrir úrslit þessa máls í niðurstöðu dómsins, en báðir aðilar vísa til þeirra í málatilbúnaði sínum. III.               Málsástæður aðila. Málsástæður stefnanda Af málatilbúnaði stefnanda verður ráðið að hann telji ákvörðun dómsmálaráðherra um að leggja ekki til að hann yrði skipaður dómari við Landsrétt ólögmæta og að ráðherra hafi með henni bakað stefnda skaða- og miskabótaskyldu. Til stuðnings málatilbúnaði sínum vísar stefnandi einkum til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, um skipun fimm manna dómnefndar til að fjalla um hæfni umsækjenda um dómaraembætti sem hafi það hlutverk að skila skriflegri og rökstuddri umsögn þar sem tekin sé afstaða til þess hvaða umsækjandi sé hæfastur, en heimilt sé að setja tvo eða fleiri umsækjendur jafna, sbr. 2. mgr. 4. gr. a. laganna. Stefnandi telur að það sé lögbundið verkefni dómnefndar samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, sbr. einnig 1. mgr. 11. gr. laga nr. 50/2016, að meta hæfni umsækjenda, ekki einvörðungu m.t.t. lágmarkskrafna eða almennra mælikvarða, heldur beinlínis að gera upp á milli hæfni þeirra eftir því sem unnt er hverju sinni. Þetta sé inntak meginreglunnar og ef dómnefnd kemst að þeirri niðurstöðu að einn eða fleiri umsækjendur séu hæfari en aðrir, þá beri henni að leggja þá niðurstöðu til grundvallar. Nefndinni beri engin skylda til þess að skila fleiri tillögum en þarf og skilja eftir mat fyrir ráðherra. Það eigi ekki að gera nema sú staða sé uppi að nefndinni sé ómögulegt að gera upp á milli þeirra sem eru hlutskarpastir. Stefnandi telur að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. tilvitnaðra laga sé ráðherra óheimilt að skipa annan eða aðra en dómnefnd hefur metið hæfasta, nema Alþingi samþykki tillögu ráðherra um að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda. Mati dómnefndarinnar séu settar þær skorður að hún þurfi að byggja niðurstöðu sína á málefnalegum sjónarmiðum eins og t.a.m. menntun, starfsreynslu og hæfni, þannig að nefndinni beri að velja þann umsækjanda sem er hæfastur. Stefnandi vísar til þess að í dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 591/2017 og 592/2017 hafi komið fram að á hafi skort að ráðherra rökstyddi hvers vegna hann ákvað að fara á svig við tillögur dómnefndarinnar. Í dómunum segir að ráðherra hafi borið „í ljósi rannsóknarskyldu sinnar samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga að lágmarki gera samanburð á hæfni annars vegar þeirra fjögurra umsækjenda sem dómnefnd hafði metið meðal 15 hæfustu en ráðherra gerði ekki tillögu um, og hins vegar þeirra fjögurra sem ráðherra gerði tillögu um í stað hinna fyrrnefndu….. bar ráðherra að gera sjálfstæða tillögu um sérhvern þeirra fjögurra sem hún lagði til en voru ekki í hópi þeirra 15 sem dómnefnd hafði metið hæfasta“. Stefnandi telur verulega hafa skort á að ráðherra sinnti þessum skyldum. Vísar stefnandi að því leyti í það sem fram hafi komið í dómum Hæstaréttar um að af hálfu ráðherra hafi ekki farið fram rannsókn á atriðum sem vörðuðu veitingu þeirra fjögurra dómaraembætta sem eftir stóðu. Þá hafi rökstuðningur ráðherra í fylgiskjali með bréfi til forseta Alþingis 29. maí 2017 og tillaga hennar til Alþingis, um skipun tilgreindra fjögurra umsækjenda í dómaraembætti í stað þeirra sem dómnefnd hafði lagt til, ekki fullnægt þeim lágmarkskröfum sem lýst sé í dóminum. Stefnandi vísar einnig til þess sem segi í dómum Hæstaréttar um að án tillits til þess hvort ráðherra gat með minnisblaði sínu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis 30. maí 2017 bætt úr þeim annmörkum sem voru á rannsókn hennar, rökstuðningi og tillögugerð, hafði það minnisblað ekkert nýtt að geyma umfram það sem fram hafði komið í áliti dómnefndar. Þá hafi Hæstiréttur tekið fram að sjónarmið á grundvelli laga nr. 10/2008 um jafna stöðu karla og kvenna gætu ekki komið til álita við veitingu ráðherra á dómaraembættunum nema tveir eða fleiri umsækjendur hefðu áður verið metnir jafnhæfir til að gegna því. Að gættum þeim kröfum sem bar að gera hafi rannsókn ráðherra verið ófullnægjandi til að upplýsa málið nægilega, svo ráðherra væri fært að taka aðra ákvörðun um hæfni umsækjenda en dómnefnd hafði áður tekið. Vísar stefnandi til þeirrar niðurstöðu dómsins að ,,málsmeðferð ráðherra [hafi] að þessu leyti því [verið] andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga. Leiði[.] þá af sjálfu sér að annmarki var á meðferð Alþingis á tillögu dómsmálaráðherra þar sem ekki var bætt úr annmörkum á málsmeðferð ráðherra þegar málið kom til atkvæðagreiðslu á Alþingi.“ Stefnandi telur ótvírætt liggja fyrir að dómsmálaráðherra braut lög við skipan dómara í Landsrétt, m.a. hvað varðaði það að ganga fram hjá stefnanda sem var einn af 15 hæfustu umsækjendunum að mati dómnefndarinnar. Stefnandi telur ekki hafa verið grundvöll fyrir því af hálfu ráðherra að byggja sjónarmið sín um skipan í embættin á grundvelli jafnréttislaga. Á slík sjónarmið kann almennt að reyna við ákvörðun ráðherra við veitingu dómaraembættis hafi dómnefndin metið tvo eða fleiri umsækjendur jafnhæfa til að gegna embættinu. Sú staða hafi ekki verið uppi í máli þessu, sbr. umsögn dómnefndar frá 19. maí 2017.   Ólögmætur undirbúningur að tillögu dómsmálaráðherra. Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að dómsmálaráðherra hafi við undirbúning ákvörðunar sinnar bæði brotið gegn málsmeðferðar- og efnisreglum stjórnsýsluréttar. Fyrir liggi að dómstólar séu ein mikilvægasta stofnun samfélagsins. Vegna þessa sé meginregla laga um skipan dómara byggð á faglegu mati óháðrar dómnefndar. Af því leiði að öll frávik frá því mati þurfa að byggja á sérstökum og faglegum rökstuðningi, brýnum og gagnsæjum ástæðum og vandaðri meðferð til undirbúnings ákvörðunarinnar. Með því móti eigi að vera tryggt að hæfustu umsækjendurnir hverju sinni, séu skipaðir í störf dómara. Stefnandi telur að ákvörðun dómsmálaráðherra um að fara ekki að tillögu dómnefndarinnar og skipa fyrrnefnda fjóra umsækjendur í stað fjögurra sem dómnefnd hafði lagt til, sé andstöðu við framangreindar reglur og sjónarmið. Ákvörðunin hafi verið illa undirbúin, ráðherra hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína og brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í samræmi við þetta hafi rökstuðningur ráðherra verið ófullnægjandi og sé þar að finna um það hvers vegna dómsmálaráðherra vék stefnanda til hliðar og taldi hann ekki meðal 15 hæfustu umsækjendanna svo sem hin óháða dómnefnd hafði álitið. Stefnandi telur ekki hjá því komist að benda á áhrif hinnar ófullnægjandi rannsóknar og rökstuðnings ráðherra. Fyrir liggi að ráðherra rannsakaði málið ekki með þeim hætti sem áskilið er í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 591/2017 og 592/2017. Þá liggi fyrir að með þessari ólögmætu háttsemi ráðherra gætti hann hvorki þess samræmis né jafnræðis sem kveðið er á um í 11. gr. stjórnsýslulaga og 65.gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Stefnandi bendir á að ráðherra freistaði þess að rökstyðja þá tillögu sem hann bar undir Alþingi, en hefur ekki getað rökstutt þá ákvörðun að ganga fram hjá stefnanda eins og nánar er vikið að síðar. Ráðherra hafi heldur ekki veitt stefnanda lögbundinn andmælarétt samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga, þegar ráðherra ákvað að taka fjóra umsækjendur sem ekki voru meðal 15 hæfustu, fram yfir stefnanda. Þá vísar stefnandi til þess að ráðherra hafi borið skylda til að velja hæfustu umsækjendurna um embætti dómara Landsréttar. Ef það var mat ráðherra að niðurstaða dómnefndarinnar væri haldin ágöllum, bar honum samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar að hafa forgöngu um að bætt yrði úr þeim annmörkum og eftir atvikum ákveða að leita eftir nýrri umsögn. Stefnandi telur enn fremur liggja fyrir að ráðherra var óheimilt að veita tilteknum þáttum í hæfnismati dómnefndarinnar aukið vægi eftir að nefndin hafði skilað matinu. Dómnefnd gaf einstaka matsþáttum sama vægi og nefndin hafði áður gert í störfum sínum. Gilti þar með jafnræði milli allra umsækjenda. Fyrir liggi að stjórnvöld hafa um langt árabil samþykkt þessa aðferðafræði athugasemdalaust. Með þessari ákvörðun megi segja að ráðherra hafi breytt leikreglum við meðferð á umsóknum eftir á, sem sé óheimilt. Ef ráðherra hefði talið breytinga þörf á matsreglunum hefði honum borið að tryggja það að hið breytta verklag yrði viðhaft í vinnu dómnefndarinnar frá öndverðu og að nefndin hefði stuðst við þær í vinnu sinni. Jafnframt hefðu breyttar verklagsreglur þurft að vera umsækjendum kunnar.   Sérstaklega um stöðu stefnanda. Stefnandi telur að rökstuðningur ráðherra um að reynsla dómara hefði ekki fengið það vægi sem tilefni væri til og gert væri ráð fyrir í reglum nr. 620/2010 hafi einkennst af þversögnum. Vísar stefnandi í því sambandi til þess að hann væri einn héraðsdómara tekinn út af lista dómnefndar yfir hæfustu umsækjendurna án þess að finna mætti ástæðu þessa í skýringum ráðherrans. Stefnandi var, sem fyrr segir, skipaður héraðsdómari 15. maí 2010. Meðal þeirra sem ráðherra gerði tillögu um, en var ekki meðal þeirra 15 hæfustu að mati dómnefndarinnar, var héraðsdómari sem skipaður var í starf héraðsdómara sama dag og stefnandi og hafði þannig gegnt stöðu héraðsdómara jafn lengi og stefnandi. Telur stefnandi að breyting ráðherra á niðurstöðu dómnefndarinnar að þessu leyti hafi þannig verið á skjön við rökstuðning ráðherra.   Krafa stefnanda um skaðabætur og sundurliðun skaðabótakröfu. Stefnandi telur óumdeilt, að ef ráðherra hefði borið sig að með lögmætum hætti við skipan dómara við Landsrétt, hefði stefnandi verið einn þeirra 15 sem skipan hefðu hlotið. Laun landsréttardómara eru hærri en laun héraðsdómara en þau séu í báðum tilvikum ákveðin af kjararáði. Stefnandi hafi því orðið fyrir tjóni sem nemur mismun á launum dómara við Landsrétt og launum stefnanda sem héraðsdómara, út starfsævi stefnanda frá og með 1. janúar 2018 að telja, en þann dag tók skipun landsréttardómaranna gildi, og til þess dags sem stefnandi verður sjötugur. Um þennan mismun vísar stefnandi til úrskurða kjararáðs frá 17. desember 2015 um laun og starfskjör héraðsdómara og 14. desember 2017 um laun og starfskjör dómara við Landsrétt. Stefnanda reiknast svo til að mismunur launa í embætti landsréttardómara umfram embætti héraðsdómara frá 1. janúar 2018 fram til fullnaðs 70 ára aldurs sé 25.569.126 krónur (153.522.995 – 127.953.869). Í útreikningum tryggingastærðfræðings sem stefnandi vísar til er einnig gert ráð fyrir öflun lífeyrisréttinda fram til 70 ára aldurs, eða fram til þess að réttur stofnast til örorku- eða makalífeyris verði það tímamark fyrr. Stefnandi telur að mismunur þeirra lífeyrisréttinda sem vænta megi að stefnandi myndi afla í embætti dómara við Landsrétt umfram embætti héraðsdómara sé 5.130.164 krónur (30.802.700 – 26.672.536). Samkvæmt framangreindu telur stefnandi að heildarfjárhæð þess tjóns sem hann varð fyrir vegna ólögmætrar ákvörðunar dómsmálaráðherra hafi þannig numið alls 30.699.290 krónum, miðað við 1. janúar 2018 og er krafist skaðabótavaxta frá þeim degi fram til þingfestingardags, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags. Stefnandi telur ekki unnt að ætlast til af stefnanda að hann sæki um eða komist í stöðu sem sé betur launuð en starf héraðsdómara er, sér í lagi m.t.t. þess hversu langt á starfsævi stefnanda er gengið. Þannig eru engar forsendur til lækkunar kröfu hans af þeim sökum.   Miskabætur Krafa stefnanda um miskabætur er byggð á því að dómsmálaráðherra hafi með háttsemi sinni vegið að starfsheiðri, orðspori, reynslu og hæfni hans. Þá hafi ráðherra með ólögmætum hætti vegið að stefnanda með því að leggja ekki til grundvallar faglegt mat dómnefndar á hæfni stefnanda til dómarastarfa við Landsrétt. Byggir krafa stefnanda á því að með vísan til fyrrgreindra dóma Hæstaréttar Íslands, þá sé ótvírætt að ráðherra hafi ekki farið eftir þeim reglum sem honum bar að fara eftir við skipan í embætti dómara við Landsrétt. Stefnandi telur miska sinn vegna þessara ólögmætu meingjörðar dómsmálaráðherra í sinn garð hæfilega metinn 2.500.000 kr. Telur stefnandi þannig að miða eigi við hærri fjárhæð en dæmd var af Hæstarétti Íslands í málum nr. 591/2017 og 592/2017. Í því sambandi verði ekki hjá því komist að líta til þess að ráðherra gaf opinberlega þá skýringu á því að fara ekki að áliti dómnefndar, að hann vildi auka vægi dómarareynslu meðal þeirra sem hann skipaði dómara við Landsrétt. Hann hafi á hinn bóginn tekið stefnanda, einan dómara, út af lista 15 hæfustu umsækjendanna og skipað aðra umsækjendur sem voru mun lægri á hæfnislista dómnefndar, í hans stað. Ekki verði heldur fram hjá því litið að dómsmálaráðherra skipaði umsækjendur sem höfðu mun minni og/eða enga dómarareynslu en kaus að ganga fram hjá stefnanda. Allt þetta hefur orðið stefnanda til miska og með ákvörðun ráðherra var gróflega vegið að æru og persónu stefnanda. Vísast í þessu sambandi til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. laganna. Stefnandi krefst einnig dráttarvaxta á dæmdar miskabætur, samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, sbr. 1.mgr. 6.gr. laganna, frá þingfestingardegi til greiðsludags. Krafa um málskostnað er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. og 129. gr. laganna vegna útlagðs kostnaðar stefnanda við málareksturinn. Stefnandi gerir kröfu um að við málskostnað bætist virðisaukaskattur, sbr. lög nr. 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og er honum þannig nauðsyn á að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda með tilliti til skaðleysissjónarmiða. Stefnandi vísar kröfum sínum til stuðnings til laga um dómstóla nr. 50/2016, sbr. lög nr. 10/2017, sbr. og eldri lög um dómstóla nr. 15/1998, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, skaðabótalaga nr. 50/1993, laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og reglna um störf dómnefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti nr. 620/2010. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Um varnarþing vísast til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 .   Málsástæður stefnda Stefndi byggir á því að ekki standi rök til að játa stefnanda bótarétt vegna fjártjóns og mótmælir kröfum stefnanda. Að mati stefnda er með öllu óraunhæft að dæma bætur hvort heldur er almennt eða fyrir ókomna tíð fyrir að fá ekki starf. Stefndi byggir á því að ekki er unnt að líta svo á að nokkur umsækjandi hafi átt lögvarið tilkall til skipunar í stöðu dómara við Landsrétt eða mátt hafa réttmætar væntingar til embættisins. Þótt stefnandi hafi verið talinn í hópi hæfustu umsækjenda í mati dómnefndar á grundvelli 4. gr. a í lögum nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 1. mgr. ákvæðis IV til bráðabirgða í lögum nr. 50/2016, hafi verið ljóst að Alþingi þyrfti að samþykkja tillögur ráðherra um hvern og einn eða hafna með þeim afleiðingum að ráðherra hefði þurft að leggja fram nýja tillögu. Í þessu máli hefur þýðingu að mati stefnda hvort ganga megi út frá því sem vísu, miðað við þær aðstæður sem uppi voru, að einboðið sé að tillaga um að skipa stefnanda sem dómara við Landsrétt hefði náð fram að ganga, hvernig sem undirbúningi hefði verið háttað. Byggir stefndi á því að um þetta hafi verið óvissa sem útilokað sé að slá nokkru föstu um, auk þess sem hann hafi ekki getað haft um það réttmætar væntingar. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að ráðherra hefði borið að skipa hann í embættið en sú sönnun hafi ekki tekist. Stefndi vísar til þess að eftir að drög að áliti dómnefndar og endanlegt álit hennar lá fyrir var ráðherra ljóst að það myndi ekki hljóta samþykki á Alþingi óbreytt. Þannig hafi komið skýrt fram á opinberum vettvangi að tilteknir þingmenn hefðu ekki samþykkt tillögu á grundvelli álits dómnefndarinnar óbreytta. Þá hafði ráðherra einnig vissu fyrir þeirri stöðu eftir að drög að dómnefndarálitinu lá fyrir, en þá var henni gert það ljóst af forsvarsmönnum þingflokka á Alþingi. Telur stefndi að þetta verði glöggt ráðið af tölvupósti Ragnhildar Arnljótsdóttur, setts ráðuneytisstjóra, frá 28. maí 2017 sem rakinn er í kafla II. Af þessu sé einnig ljóst að vissa var innan ráðuneytis á þá lund að tillaga dómnefndarinnar yrði ekki samþykkt óbreytt. Jafnvel þótt ráðherra hefði ákveðið að leggja tillögu dómnefndarinnar óbreytta til við þingið, hefðu þær athafnir hans alls ekki verið nægileg forsenda til að afstýra meintu tjóni stefnanda því fyrir hafi legið að þingið hefði ekki samþykkt þá tillögu. Hér sé ekki unnt að líta á málið með sama hætti og þegar Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að tillaga ráðherra hafi að ófyrirsynju getað bitnað á orðspori þeirra sem ekki var lagt til að yrðu skipaðir. Stefndi vísar einnig til þess að ráðherra var skylt að leggja sjálfstætt mat á málið. Í því fólst a.m.k. að fara yfir gögn málsins og tillögu dómnefndarinnar og rökstuðning fyrir honum. Þessi krafa um sjálfstæða yfirferð felur í sér að ráðherra gat ekki látið það nægja að fara yfir hvort formlegir ágallar séu á matinu. Ráðherra verður hverju sinni að yfirfara efnislegt mat dómnefndarinnar og fallast á það og þá gera tillögu um einhverja þeirra sem dómnefndin metur hæfasta, eða eftir atvikum að gera tillögur sem víkja frá mati dómnefndarinnar. Stefndi bendir á að dómnefndin hafi ákveðið að 15 umsækjendur væru hæfastir til að hljóta þær 15 stöður sem lausar voru til umsóknar, hvorki fleiri né færri. Jafnframt hafði nefndin lýst því afdráttarlaust yfir að þessir 15 væru að hennar mati allir jafnhæfir, en tillagan væri ekki sett fram um umsækjendur í neinni hæfnisröð. Að lokinni yfirferð sinni taldi ráðherra einsýnt að tillaga nefndarinnar fæli í sér að dómarareynslu væri ekki gert nógu hátt undir höfði og að ekki væri ljóst af þeim skýringum sem ráðherrann kallaði eftir af hverju hópur níu reyndra héraðsdómara væri metinn lægri öðrum sem ýmist sóttu um dómaraembætti í fyrsta sinn eða hefðu áður verið taldir standa að baki öðrum umsækjendum um dómarastörf. Þessu mati ráðherrans hefur út af fyrir sig ekki verið hnekkt og verður að leggja til grundvallar að ráðherra hafi haft heimild í lögum og reglum nr. 620/2010 til að meta vægi matsþátta á annan hátt en dómnefndin gerði. Stefnandi telur í þessu sambandi vert að geta þess að í minnisblaði sérfræðings ráðuneytisins og starfsmanns dómnefndar til ráðherra, dags. 24. maí 2017, var athygli ráðherra vakin á því að nánar tilgreindir dómarar hefðu skarað fram úr í þeim þáttum er lúta að réttarfari og dómarareynslu en væru þó ekki á meðal þeirra 15 sem dómnefndin lagði til. Umrætt skjal virðist ekki hafa verið lagt fram í fyrri dómsálum sem varða skipun Landsréttardómara en það sýni að rannsókn á þessum þáttum fór fram, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Ráðherra taldi sig ekki hafa forsendur til að hrófla við því mati nefndarinnar varðandi einstaka umsækjendur í 15 manna hópnum að þeir væru allir jafn hæfir, a.m.k. ekki innan þeirra marka sem yfirferðinni voru búin vegna tímarammans sem hún var háð. Af þessari niðurstöðu leiddi að ráðherra taldi rétt og skylt að velja dómarana úr þessum 24 manna hópi. Nálgun ráðherra var með öðrum orðum ekki sú að hafna stefnanda sérstaklega eða taka hann út af lista eins og byggt er á í stefnu, enda kom stefnandi fyllilega til greina. Hins vegar taldi ráðherra að 24 einstaklingar kæmu til álita sem hæfastir en ekki eingöngu þeir 15 sem dómnefndin gerði tillögu um. Hefði ráðherra skipað algjörlega samkvæmt tillögu dómnefndar, en jafnframt gengist við því að tillagan væri ekki í samræmi við mat ráðherra á málinu eða að ekkert slíkt mat hefði farið fram, virðist einsýnt að það hefði falið í sér meingerð í garð umsækjenda sem áttu rétt á að málið væri réttilega afgreitt. Stefndi telur enn fremur óhjákvæmilegt að líta til þess að annars vegar Alþingi og hins vegar nefndin gáfu ráðherra mjög stuttan frest til sinnar yfirferðar.. Ráðherrann hafði einfaldlega ekki annan og rýmri tímaramma en frá þeim degi þegar umsögn og tillaga dómnefndar barst og fram til þess að Alþingi yrði slitið og hafði enga stjórn á þessum dagsetningum. Þetta atriði hljóti að hafa afgerandi áhrif á matið á því hvort framganga ráðherra við meðferð málsins gat skapað ríkinu skaðabótaskyldu. Í þessu samhengi sé mikilvægt að undirstrika að þegar lög leggja skyldur á herðar ráðherra á borð við þá að auglýsa dómaraembætti og gera tillögu um skipun dómara til Alþingis, þá eigi ráðherra ekki annan kost en að haga störfum sínum og mati eftir því. Ráðherra geti ekki tekið þá afstöðu að honum finnist lögin gölluð eða svigrúm sitt til vandaðrar málsmeðferðar of stutt og þá einfaldlega ákveðið að fara ekki eftir lögunum. Það er heldur ekki á valdi ráðherra að breyta reglunum eða hreyfa við starfsáætlun Alþingis. Því átti ráðherra engan annan kost en að freista þess að gera tillögu til þingsins lögum samkvæmt í síðasta lagi 1. júní 2017 við þessar sérstöku aðstæður þar sem ljóst var að álit dómnefndarinnar myndi ekki eiga brautargengi óbreytt. Stefndi vísar til þess að ráðherra hafi á þessum tíma kynnt sér gögnin og umsögnina, kallað eftir skýringum á því sem stakk í augu og að því búnu lagt það mat á gögnin að rétt væri að leggja til grundvallar að níu reyndir dómarar stæðu þeim fimmtán jafnfætis sem nefndin hafði metið hæfasta, en fyrir lá það mat að þeir væru allir jafnhæfir. Að þessu loknu hafi ekki verið um annað að ræða en að velja úr þessum 24 manna hópi 15 umsækjendur til að leggja til við Alþingi að yrðu landsréttardómarar. Við það val þurfti ráðherra að líta til margra atriða. Innan þess knappa tímaramma sem þá var til stefnu, hafi ekki tekist að undirbyggja, með svo vönduðum hætti sem æskilegt hefði verið, tillögu með útskýringum eða rökstuðningi fyrir því af hverju einmitt þessir 15 skyldu verða fyrir valinu, fremur en stefnandi eða aðrir umsækjendur. Stefndi telur það þó ekki geta falið í sér að aðrir umsækjendur en umræddir 15 landsréttardómarar hafi orðið fyrir bótaskyldu fjártjóni. Stefndi bendir í því sambandi á að í niðurlagi IV. kafla í dómum Hæstaréttar frá 19. desember 2017 í málunum nr. 591 og 592/2017 sé fjallað um hver aðferð ráðherra átti að vera við þessar aðstæður ef vikið yrði frá áliti dómnefndar. Taldi Hæstiréttur að einkum hefði skort á að gerður væri samanburður á tillögum ráðherra um þá fjóra umsækjendur sem þar voru lagðir til og þeirra fjögurra af þeim 15 sem dómnefnd taldi hæfasta en ráðherra gerði ekki tillögu um. Er nánar um þetta fjallað í dómum Hæstaréttar þar sem niðurstaðan varð sú að málsmeðferð ráðherra um tiltekna þætti hefði verið andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga. Af því leiddi að mati Hæstaréttar að annmarki hefði verið á meðferð Alþingis. Stefndi telur að þrátt fyrir forsendur Hæstaréttar verði að gefa því frekari gaum í ljósi bótakröfu stefnanda vegna ætlaðs fjártjóns, að Alþingi var ekki bundið af áliti dómnefndar við meðferð málsins og ekki var óhjákvæmilegt að það samþykkti stefnanda og að hann yrði síðan skipaður. Þá hafi stefnandi heldur ekki getað haft réttmætar væntingar til embættisins að viðlagðri bótaskyldu stefnda. Er að mati stefnda ekki unnt að leggja til grundvallar að ætlað tjón stefnanda sé af völdum saknæmrar og ólögmætrar háttsemi. Því verði ekki fullyrt í þessu máli að skipun hefði óhjákvæmilega átt að fara á einn veg eða annan í meðförum Alþingis við þær sérstöku aðstæður sem uppi voru. Því sé ósannað að stefnandi hefði verið skipaður eða að skipa hefði átt hann í embættið. Stefndi telur að með því að auka vægi dómarareynslu hafi orðið ljóst að aðrir umsækjendur úr hópi starfandi dómara, sem höfðu langa reynslu af dómarastörfum, hlutu einnig að teljast meðal þeirra hæfustu til að hljóta embættin. Þau Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Bogi Hjálmtýsson, Hildur Briem, Jón Finnbjörnsson, Jónas Jóhannsson, Ólafur Ólafsson, Ragnheiður Bragadóttir og Sandra Baldvinsdóttir bættust af þeim sökum við þá niðurstöðu nefndarinnar hverjir teldust hæfastir. Ekki sé unnt að skilja dóma Hæstaréttar frá desember síðastliðnum þannig að ráðherra hafi verið með öllu óheimilt að leggja til grundvallar annað vægi matsþátta. Eins og fram kom í rökstuðningi ráðherra taldi hann 24 umsækjendur koma til greina og að auka þyrfti vægi dómarareynslu af ýmsum ástæðum við stofnun nýs dómstigs og horfa til laga um jafnrétti kynja. Skilmerkilega sé gerð grein fyrir þessum ástæðum í bréfi þar sem rökstuðningur var veittur. Um hafi verið að ræða nýjan dómstól með tilheyrandi álagi þar sem ráðherra taldi af ýmsum ástæðum brýnt að dómarareynsla yrði metin meiri. Því sé ástæða til að fjalla sérstaklega um fjóra af þessum umsækjendum sem dómaraembætti hlutu, en voru ekki meðal þeirra 15 sem dómnefndin taldi hæfasta en nánar er um þá fjallað í rökstuðningsbréfi 6. júlí 2017. Stefndi vísar til gagna málsins um að Arnfríður Einarsdóttir hafi verið fulltrúi og aðstoðarmaður dómara í meira en tíu ár og héraðsdómari í um það bil 14 ár. Frá því síðla árs 2010 hafi hún verið forseti Félagsdóms, en þar eru dæmd u.þ.b. 13 mál á ári að meðaltali. Þá sat hún sem varadómari í Hæstarétti Íslands í einu máli. Á starfsferli sínum hefur hún jöfnum höndum dæmt í málum í öllum málaflokkum héraðsdómstólanna, þ.e. í öllum tegundum sakamála, í almennum einkamálum af öllum gerðum, ágreiningsmálum af öllum gerðum og lögræðismálum. Auk þess hefur hún samið fjölda rannsóknarúrskurða. Arnfríður hefur einnig mikla reynslu af stjórnsýslustörfum, meðal annars í úrskurðar­nefndum. Þá hafi hún töluverða stjórnunarreynslu, en hún var skrifstofustjóri Héraðs­dóms Reykjavíkur í nærfellt fjögur ár og forseti Félagsdóms frá árinu 2010. Arnfríður eigi þannig að baki 32 ára feril við dómstóla landsins og hefur farið með dómsvald lungann af þeim tíma. Frekari umfjöllun er um reynslu Arnfríðar á bls. 11-13 í umsögn dómnefndar. Ásmundur Helgason hafi í um tvö og hálft ár verið aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt Íslands. Hann var skipaður dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur í maí 2010 og hefur gegnt embættinu í sjö ár. Á þeim tíma hafi hann dæmt í fjölmörgum einkamálum, verið meðdómsmaður í allnokkrum sakamálum og auk þess fengið fjölmörg mál til meðferðar þar sem gerð hefur verið krafa um rannsóknar- eða þvingunaraðgerðir af hálfu lögreglu og ákæruvalds. Ásmundur hafi verið fastur dómari í Félagsdómi frá ársbyrjun 2014 og ad hoc dómari í Hæstarétti Íslands í einu máli. Ásmundur býr jafnframt yfir mikilli reynslu af stjórnsýslustörfum. Hann starfaði til að mynda í um sjö ár hjá umboðsmanni Alþingis og í um tvö ár sem lögfræðingur á skrifstofu Alþingis, nær allan tímann sem aðallögfræðingur og þekkir því vel til stjórnsýslu. Þá liggja eftir hann fræðiskrif en hann hefur m.a. ritað bókarkafla, kennsluefni og fræðigreinar. Frekari umfjöllun er um reynslu Ásmundar á bls. 13-14 í umsögn dómnefndar. Er af framangreindu ljóst að Ásmundur Helgason sé a.m.k. jafn hæfur til að gegna embætti landsréttardómara og stefnandi. Hann hafi talsverða reynslu af dómstörfum, auk þess sem reynsla hans af stjórnsýslustörfum fólst að mestu í að semja rökstuddar úrlausnir. Jón Finnbjörnsson eigi að baki 28 ára feril við dómstólana og nánast allan þann tíma við dómstörf. Hann eigi jafnframt að baki langan kennsluferil en hann var stundakennari við lagadeild Háskóla Íslands í um átta ár og hefur annast kennslu við réttindanám í 11 ár. Hann hafi einnig ritað námsefni í sjórétti og fræðigreinar. Frekari umfjöllun er um reynslu Jóns á bls. 31-32 í umsögn dómnefndar. Telur stefndi ljóst að Jón Finnbjörnsson sé a.m.k. jafn hæfur til að gegna embætti landsréttardómara og stefnandi, sérstaklega þegar höfð er hliðsjón af hinni löngu reynslu hans við dómstóla landsins. Ragnheiður Bragadóttir hóf störf sem fulltrúi yfirborgardómarans í Reykjavík að loknu embættisprófi 1989 og gegndi því starfi í þrjú ár. Frá 1. júlí 1992 starfaði hún í rúm fimm ár sem dómarafulltrúi en síðan sem aðstoðarmaður hæstaréttardómara í tæpt hálft annað ár. Hún hafi 15. janúar 1999 verið sett til þess að gegna starfi héraðsdómara til 30. júní 2001 við Héraðsdóm Reykjavíkur, Héraðsdóm Vesturlands og Héraðsdóm Austurlands. Hún var skipuð dómari við Héraðsdóm Austurlands frá 15. september 2005 og gegndi því starfi til 1. september 2008, er hún sótti um flutning til Héraðsdóms Reykjaness þar sem hún hefur starfað síðan. Hún var sjálfstætt starfandi lögmaður um tíma áður en hún varð dómari og rak sína eigin lögmannsstofu, ýmist ein eða með öðrum. Hún hefur jafnframt reynslu af stjórnsýslustörfum og hefur til að mynda tekið sæti í óbyggðanefnd, úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og samkeppnisráði. Auk þess hefur hún annast stundakennslu við Háskóla Íslands. Þá var hún dómstjóri við Héraðsdóm Austurlands á árunum 2005-2008. Ragnheiður á þannig að baki rúmlega 22 ára feril við dómstólana sem dómari, dómstjóri, dómarafulltrúi og aðstoðarmaður dómara. Störf hennar hafi tekið til allra réttarsviða. Stefndi telur ljóst af framangreindu að Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Jón Finnbjörnsson og Ragnheiður Bragadóttir séu a.m.k. jafn hæf til að gegna embætti landsréttardómara og stefnandi. Mati Alþingis um þetta hefur ekki verið hnekkt. Stefndi vísar til þess að í dómum Hæstaréttar 19. desember 2017 hafi stefndi verið sýknaður af kröfu tveggja umsækjanda, sem voru í hópi þeirra sem dómnefndin taldi hæfasta og voru dæmdar miskabætur til viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna fjártjóns, þ.e. um sambærilega hagsmuni og stefnandi krefur stefnda um í þessu máli. Taldi Hæstiréttur að ekki hefði verið færð fram fullnægjandi sönnun um ætlað fjártjón og beri því „þegar af þeirri ástæðu“ að sýkna af viðurkenningarkröfu áfrýjanda. Orðalagið ber með sér að fleiri ástæður þarfnist skoðunar. Stefndi bendir á að af hans hálfu hafi verið viðurkennd sambærileg krafa til greiðslu miskabóta stefnanda til handa. Stefndi vísar til þess að þekkt sé í dómaframkvæmd að meðferð máls, þar sem ekki séu uppfyllt skilyrði stjórnsýslulaga, kunni að leiða til stofnunar bótaréttar fyrir miska. Á hinn bóginn þýði það ekki að viðkomandi hafi átt lögvarið tilkall til þess að endanleg ákvörðun yrði honum í hag, honum veitt leyfi, hann skipaður í starf eða á annan hátt orðið við umsókn. Stefndi bendir jafnframt á að við skipun dómenda í Landsrétt hið fyrsta sinn giltu ákvæði sem tæplega eiga sér hliðstæðu. Þótt annmarkar hafi verið á tillögu ráðherra og meðferð Alþingis, á þann hátt sem lagt er til grundvallar í dómum Hæstaréttar frá 19. desember 2017, breyti það því ekki að skipan dómenda við Landsrétt liggur fyrir og varð endanleg í það skiptið með því að Alþingi samþykkti tillögur ráðherra að undangenginni meðferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og umræðum. Stefndi leggur áherslu á hina sérstöku tilhögun sem lögin kváðu á um þegar skipað var í embætti dómara við Landsrétt hið fyrsta sinn og vísar um það til 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis IV með lögum nr. 15/2016. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi sem varð að dómstólalögum hafi verið sérstaklega áréttað að í ljósi þess að skipaðir yrðu samtímis 15 dómarar væri eðlilegt að tryggja aðkomu fleiri en eins handhafa ríkisvalds að því. Stefndi byggir á því að skýra verði þau ákvæði laga sem giltu við skipun landsréttardómara með þeim hætti að víkja mátti frá áliti dómnefndar um að skipa þann sem að mati dómnefndarinnar væri hæfastur. Frávikið var þá réttlætanlegt og lögmætt ef Alþingi samþykkti einhvern þann umsækjanda eftir tillögu ráðherra sem fullnægði að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. dómstólalaga. Þeir umsækjendur sem ráðherra gerði tillögu um og Alþingi samþykkti, en voru ekki meðal 15 hæfustu samkvæmt mati dómnefndarinnar uppfylltu þessi skilyrði augljóslega. Leggur stefndi áherslu á að orð bráðabirgðaákvæðisins „… frá þessu má þó víkja …“ þarfnist sérstakrar skoðunar þegar leyst er úr bótakröfu stefnanda fyrir fjártjón auk ákvæðis 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IV. Þegar til kasta Alþingis kom á grundvelli þessa bráðabirgðaákvæðis er ljóst af nefndum ákvæðum laganna að svigrúm þess var á engan hátt takmarkað með sama hætti og ef ekki hefði komið til atbeina þess. Í ákvæðum laganna sem fyrr er lýst felst hið augljósa að Alþingi var ekki bundið af niðurstöðu dómnefndarinnar. Alþingi hafði því skýlausa heimild til að samþykkja eða synja tillögu um hvern þann sem dómnefnd taldi að fullnægði skilyrðum 2. og 3. mgr. dómstólalaga og var ekki bundið af niðurstöðu dómnefndarinnar. Stefndi bendir á að í áliti meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis var bent á að þingmál af þessu tagi væri án fordæma. Kom fram að nefndin hefði fjallað um ýmis álitaefni svo sem hlutverk Alþingis, veitingavald ráðherra, hlutverk dómnefndar um mat á hæfi, stofnun Landsréttar, jafnréttissjónarmið og tillögur ráðherra. Mikilvægt sé að hafa í huga hvernig stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd litu á hlutverk Alþingis samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu við dómstólalög. Stefndi telur að þar sem Alþingi var ekki bundið af áliti dómnefndarinnar og átti lokaorð um hvern og einn umsækjanda hafi þinginu verið stætt á því að horfa einnig til jafnréttissjónarmiða, ekki síst á grundvelli meginmarkmiða laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. einkum 1. gr., 18. gr., 20. gr. og 24. gr. Á sama hátt og víkja mátti frá áliti dómefndar við meðferð málsins á Alþingi mátti þingið fjalla um málið á öðrum grundvelli, t.d. jafnréttissjónarmiðum, við skipan dómsins í heild. Stefndi telur ekki verða séð að Hæstiréttur hafi hafnað þessu með öllu í dómum sínum frá 19. desember síðastliðnum enda verði að skoða umfjöllun réttarins um þetta atriði í tengslum við málsmeðferð ráðherra á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga. Í dómi sínum nefndi Hæstiréttur að annmarki hefði af þessum sökum verið á meðferð Alþingis þar sem ekki hefði verið bætt úr annmörkum á meðferð ráðherra. Ekki hafi á hinn bóginn nokkru verið slegið föstu um að atkvæðagreiðsla og efnisleg niðurstaða Alþingis og samþykkt þingsins hafi verið andstæð lögum. Verði að líta svo á að almenn sjónarmið um jafnrétti kynja hafi verið málefnaleg þegar skipað var fyrsta sinn í 15 stöður dómara við nýjan áfrýjunardómstól eins og það horfði sérstaklega við Alþingi. Enn fremur verður ekki horft fram hjá hvers eðlis niðurstaða Alþingis er í þessu sambandi, sbr. 2. gr. stjórnarskrá og að um atkvæðagreiðslu var að ræða. Horfa verði þá sérstaklega til 48. gr. stjórnarskrár um að hver alþingismaður er eingöngu bundinn við sannfæringu sína. Af hálfu stefnda er bent á að málatilbúnaður stefnanda sé í öllum aðalatriðum reistur á niðurstöðu dómnefndarinnar. Sem fyrr segir telur stefndi Alþingi ekki hafa verið bundið af niðurstöðu dómnefndarinnar þrátt fyrir að í dómum Hæstaréttar hafi verið fundið að málsmeðferð. Þegar grannt sé skoðað sé ljóst að Alþingi var heldur ekki bundið af því að velja hæfasta umsækjandann og ekki þann sem dómnefnd taldi hæfastan. Það liggi í hlutarins eðli þar sem greiða þurfti atkvæði á Alþingi; að í því tilviki gat þingmaður t.d. setið hjá eins og raunin varð. Þá byggir stefndi einnig á því að þótt tillögugerð ráðherra hefði verið á aðra lund – eða tillaga stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar – og rökstudd með öðrum hætti og með samanburði eins og fjallað var um í dómum Hæstaréttar frá fyrra ári sé ekki unnt að leggja til grundvallar að Alþingi hefði verið bundið við þann rökstuðning í atkvæðagreiðslu eða við meðferð málsins. Stefnanda mátti vera þetta ljóst með vísan til gildandi lagaákvæða. Auk þess sé skilyrði skaðabótareglna um orsakasamband og sennilega afleiðingu ekki uppfyllt við þessar aðstæður. Fallist hafi verið á svipuð sjónarmið stefnda og voru í meginatriðum í hinum áfrýjuðu dómum héraðsdóms sem sættu endurskoðun með dómum Hæstaréttar 19. desember síðastliðinn, en þar fyrir dómi var niðurstaðan byggð á því að ekki væri sýnt fram á tjón. Í ljósi þessa byggir stefndi á því að tjón sé að fullu bætt. Um er að ræða ófjárhagslegt tjón á sama hátt og dæmt er um í nefndum dómum Hæstaréttar í málunum nr. 591 og 592/2017. Við meðferð málsins á Alþingi var unnt að hafna tillögu ráðherra, annað hvort í heild eða hvað snerti tiltekinn umsækjanda. Svo varð ekki og hlutu þeir 15 einstaklingar sem nú gegna embætti dómenda við Landsrétt lögmæta skipun. Er því ekki unnt að fallast á að borið hafi að skipa stefnanda að viðlagðri bótaskyldu stefnda. Stefndi fellst ekki á að hér gildi öfug sönnunarbyrði, enda væri það ekki í samræmi við dómafordæmi. Um rannsóknarreglu og andmælarétt byggir stefndi sérstaklega á því að ekki er unnt að fullyrða að frekari rannsókn eða andmæli hefðu leitt til þess að stefnandi hefði verið skipaður dómari við Landsrétt. Sama er ef stefnanda hefði verið gefinn kostur á frekari andmælum. Öll sjónarmið stefnanda höfðu komið fram. Um mat á dómarareynslu lágu upplýsingar um það fyrir og ekki nauðsynlegt að gefa sérstakan kost á andmælum. Fyrir liggur að stefnandi sendi einnig stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis erindi sem liggur fyrir í málinu og kom þar fram sínum sjónarmiðum. Um málsástæður um rökstuðning liggi fyrir ítarlegt svar ráðuneytis, dags. 6. júlí 2017 og vísast til þess. Hvað sem þessu líði sé ekki fram komin sönnun þess að orsakasamband hafi verið milli málsmeðferðar ráðherra og meðferðar á Alþingi, enda hafði Alþingi tækifæri til að hafna tillögu ráðherra um hvern og einn. Að undangengnum umræðum á Alþingi og umfjöllun þingnefndar samþykkti Alþingi tillöguna. Í ljósi alls framangreinds og þess að ráðherra var að sönnu heimilt að leggja til aðra sem uppfylltu hæfisskilyrði en þá sem nefndin taldi hæfasta, sem og hlutverk Alþingis, er ekki unnt að líta svo á að það sé vegna saknæmrar eða ólögmætrar háttsemi að stefnandi hlaut ekki skipun sem dómari við Landsrétt. Mótmælir stefndi því að ráðherra hafi sýnt saknæma og ólögmæta háttsemi. Auk þess er því mótmælt að meðferð og endanleg niðurstaða á Alþingi hafi verið saknæm og ólögmæt. Á sama hátt er ekki raunhæft að stefnandi hafi haft réttmætar væntingar til embættisins eða átt lögvarða kröfu til þess. Svo miklir óvissuþættir eru um það hvernig Alþingi hefði lagt til aðra niðurstöðu að ekki er unnt að fullyrða að skipa hefði átt stefnanda. Stefndi telur ekki unnt að fullyrða að borið hefði að skipa stefnanda eða hann verið skipaður í embættið þótt ráðherra hefði gert sérstakar tillögur um þá fjóra umsækjendur sem skipaðir voru en voru ekki hæfastir taldir af dómnefnd og rökstutt þær frekar á þann hátt sem Hæstiréttur taldi í dómum sínum, einkum með tilliti til úrlausnarefnis um miskabætur. Hefur hann ekki sannað að útilokað hefði verið að leggja til umsækjendur án þess að hann væri þeirra á meðal. Verður að ganga út frá því að umræddir fjórir hefðu við þær aðstæður verið samþykktir af Alþingi þótt staðið hefði verið á annað hátt að tillögum um þá og vísast þá meðal annars til þess rökstuðnings sem veittur var. Með vísan til alls þessa ber að sýkna af kröfum stefnanda varðandi bótakröfu vegna fjártjóns. Verði ekki á ofangreint fallist ber stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi verið og sé hæfari en Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Ragnheiður Bragadóttir og Jón Finnbjörnsson. Verður þá að gera þá kröfu að stefnandi sanni að hann sé hæfari en hver og einn þessara umsækjenda. Auk þessa verður eins og fyrr segir að leggja sönnunarbyrði á stefnanda um að skipun hans hefði verið samþykkt á Alþingi. Verður að hafna því sem ósönnuðu. Áliti dómnefndar hefur ekki verið hnekkt í dómum Hæstaréttar nema um atriði sem rétturinn taldi hafa óverulegt vægi en það laut að samningu dóma. Einnig er afar lítill munur á mörgum umsækjendum í einstökum matsatriðum þegar horft er á svonefnt Excel-skjal sem nefndin útbjó. Þannig voru þeir dómarar sem ráðherra gerði tillögu um og ekki voru meðal þeirra 15 sem nefndin taldi hæfasta með allháar einkunnir fyrir dómarareynslu og þrír þeirra með hærri en stefnandi. Verður að gera kröfu til þess að stefnandi sanni að hann uppfylli betur skilyrði um samningu dóma og um dómarareynslu sína en þeir fjórir sem skipaðir voru en voru ekki á meðal 15 hæfustu eftir mati dómnefndar. Stefndi leyfir sér að fullyrða að a.m.k. þrír af þessum fjórum höfðu meiri reynslu af dómarastörfum og samningu dóma og sá fjórði hafði starfað lengur í dómsýslunni. Stefndi mótmælir málsástæðum í stefnu að öðru leyti og krefst sýknu. Stefndi mótmælir einnig fjárhæðum bótakrafna og krefst verulegrar lækkunar ef ekki verður fallist á sýknukröfu. Stefndi telur ekki forsendur til að dæma bætur er nemi mismun á launum stefnanda nú og launum dómara við Landsrétt út starfsævi stefnanda, eins og byggt er á í stefnu. Að mati stefnda er óraunhæft að dæma bætur fyrir ókominn tíma og er þeirri kröfugerð mótmælt. Stefndi mótmælir kröfum sem byggjast á tryggingafræðilegum útreikningi en ekki hafi verið fallist á slíkan útreikning í dómsmálum um bætur af hliðstæðum toga. Mótmælir stefndi því sérstaklega að rök standi til að bæta stefnanda töpuð lífeyrisréttindi og að útreikningur tryggingafræðings um það verði lagður til grundvallar, en auk þess eru þar liðir sem geta ekki komið til, eins og makalífeyris- og örorkulífeyrisréttur. Telur stefndi þess í stað rétt að miða við dómaframkvæmd Hæstaréttar sem mótast hafi um langa hríð um bætur vegna óréttmæts starfsmissis. Eru þá dæmdar bætur að álitum vegna margra óvissuþátta. Hafa bætur verið dæmdar sem nemur launum í 5 mánuði eða í sumum tilvikum 12 við þær aðstæður þegar fólk með réttarstöðu eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, hefur misst starf hjá ríki og verið atvinnulaust um alllangan tíma. Stefndi byggir á því að tjón fyrir að missa starf hjá ríkinu sé mun meira og þungbærara en þegar maður í starfi með há laun fær ekki annað starf með litlu hærri launum á þeim mælikvarða. Það eigi við um stefnanda. Stefnandi sé skipaður héraðsdómari og nýtur launa samkvæmt ákvörðun kjararáðs, en þau höfðu hækkað umtalsvert fáum misserum áður en Landsréttur var stofnaður með lögum. Þá verður að horfa til þess að kjararáð ákvað ekki laun dómenda við Landsrétt fyrr en allnokkru eftir að skipun var um garð gengin. Stefnandi gat ekki vænst þess að laun myndu hækka á þann hátt sem kröfugerð hans miðar við og tæplega er unnt að ganga út frá að stefnandi hafi sótt um embættið vegna hærri launa. Stefndi telur dómkröfu stefnanda í engu samræmi við dómaframkvæmd um bætur til handa þeim sem misst hafa starf. Þá séu margvíslegir óvissuþættir uppi sem útilokað er að segja til um og geta átt við um hvern og einn. Stefnandi gæti á þessum tíma sótt um og fengið annað starf hærra launað, hugsanlega skipt um starfsvettvang, fengið starf hjá ríkinu eða í dómsýslunni, eftir atvikum við Landsrétt. Að líkindum gæti hann hafið töku lífeyris 65 ára gamall. Verður í öllum tilvikum að horfa til þess að menn geta við þær aðstæður haft aukna tekjumöguleika samfara því að hætta fyrr og litið á sem sérstök lífsgæði. Þá kunni starfsmenn að hætta störfum eða skipta um starfsvettvang af alls konar ástæðum, persónulegum eða öðrum. Hér séu fyrir hendi óvissuþættir sem útilokað er að segja til um með vissu og geta átt við um alla menn. Með vísan til alls þessa byggir stefndi á því að verði ekki fallist á sýknukröfu standi rök til þess að dæma bætur að álitum vegna margvíslegra óvissuþátta og horfa einnig til dómaframkvæmdar sem mótast hefur um áratugaskeið um ákvörðun bóta til handa þeim sem sætt hafa óréttmætum starfsmissi. Skorað er á stefnanda að leggja fram skattframtöl síðustu þriggja ára áður en Landsréttur tók til starfa, þ.e. vegna tekjuáranna 2015, 2016 og 2017. Um miskabótakröfu stefnanda Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur stefndi viðurkennt með bréfi, dags. 2. janúar 2018, að stefnandi eigi rétt á miskabótum á sama grundvelli og dæmt var í Hæstarétti þann 19. desember 2017 í málunum nr. 591 og 592/2017. Stefndi telur engin efni til að gera mun á ákvörðun bóta fyrir miska í tilviki stefnanda og áfrýjenda þeirra mála. Getur stefndi ekki fallist á að annað gildi um stefnanda þótt hann sé héraðsdómari. Engan veginn var kastað rýrð á persónu stefnanda sem héraðsdómara í tillögum ráðherra. Stefnandi hefur ekki vitjað þeirra bóta sem viðurkenndar hafa verið að fjárhæð 700 þúsund krónur. Verði sú fjárhæð dæmd verður að horfa til þess við ákvörðun málskostnaðar. IV. Niðurstaða dómsins Forsaga málsins og dómar Hæstaréttar í málum annarra umsækjenda Málatilbúnaður stefnanda byggist á því að hann eigi rétt á skaða- og miskabótum úr hendi íslenska ríkisins vegna þess að ráðherra hafi gengið fram hjá honum með ólögmætum hætti þegar hún bar fram til Alþingis og síðar til forseta Íslands tillögur sínar um hverjir skyldu skipaðir dómarar við Landsrétt. Stefnandi var í hópi 15 einstaklinga sem dómnefnd taldi á meðal 15 hæfustu umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt samkvæmt áliti frá 19. maí 2017. Ráðherra lagði hins vegar sjálf fram lista til forseta Alþingis 29. maí 2017 með eigin tillögum um hvaða 15 einstaklingar skyldu skipaðir dómarar við Landsrétt og var stefnandi ekki þar á meðal. Alþingi staðfesti tillögur ráðherra og voru tillögurnar sem fyrr segir sendar forseta Íslands sem undirritaði skipunarbréf 15 dómara við Landsrétt 8. júní 2017. Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi einkum til dóma Hæstaréttar frá 19. desember 2017 í málum nr. 591/2017 og 592/2017. Þar komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð dómsmálaráðherra við skipun í embætti dómara við Landsrétt í júní 2017 hefði verið andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga. Í ofangreindum dómum er lýst þeirri niðurstöðu Hæstaréttar að málsmeðferð ráðherra hafi ekki verið annmörkum háð varðandi þá ellefu umsækjendur sem raðast höfðu í sæti 1, 2, 3, 4, 5, 6, 8, 9 10, 13 og 15 samkvæmt stigatöflu dómnefndar. Hæfni þeirra hefði verið metin af dómnefnd sem hafði yfir að ráða sérþekkingu í þeim efnum og framkvæmdi mat sitt í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 4. gr. a laga nr. 15/1998 og reglur sem um dómnefndina gilda. Samkvæmt þessu hefði ekkert staðið því í vegi að tillaga ráðherra um samþykki Alþingis fyrir heimild til að skipa þessa umsækjendur yrði borin upp í einu lagi við atkvæðagreiðslu á Alþingi í samræmi við ákvæði þingskaparlaga og þingvenjur, að því tilskildu að kostur gæfist á að greiða atkvæði um hvern og einn sem ráðherra gerði tillögu um, kæmi fram ósk um slíkt. Hæstiréttur taldi hins vegar að öðru máli gilti um þá málsmeðferð sem ráðherra viðhafði þegar hún lagði fram tillögu til Alþingis um að vikið yrði frá áliti dómnefndar um veitingu dómaraembættis. Taldi Hæstiréttur að óhjákvæmilegt væri að slík ákvörðun væri þá reist á frekari rannsókn ráðherra eftir 10. gr. stjórnsýslulaga. Skyldi þá tryggt að fyrir hendi væri sérþekking sambærileg þeirri sem dómnefnd byggi yfir og að tekið væri tillit til fyrirmæla ráðherra í reglum nr. 620/2010 um þau atriði sem ráða skyldu hæfnismati. Var rakið í dóminum að til þessa væri enn brýnni ástæða en ella þegar álit dómnefndar væri bindandi fyrir ráðherra og óheimilt væri að skipa í embætti umsækjanda sem dómnefnd hefði ekki metið hæfastan nema að fengnu samþykki Alþingis. Gæta yrði að því að við veitingu dómaraembætta tæki ráðherra ekki ákvörðun um starf sem á undir boðvald hans sjálfs, heldur um stöðu sem tilheyrir þeirri grein ríkisvaldsins sem að stjórnlögum færi með eftirlitshlutverk gagnvart öðrum greinum þess og tryggt væri sjálfstæði í 1. málslið 61. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998. Í ljósi þess að hversu miklu leyti málatilbúnaður stefnanda byggist á dómum Hæstaréttar er fullt tilefni til að taka orðrétt eftirfarandi úr forsendum dómanna:  ,Að gættu framansögðu bar ráðherra í ljósi rannsóknarskyldu sinnar samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga að lágmarki að gera samanburð á hæfni annars vegar þeirra fjögurra umsækjenda sem dómnefnd hafði metið meðal 15 hæfustu en ráðherra gerði ekki tillögu um, og hins vegar þeirra fjögurra sem ráðherra gerði tillögu um í stað hinna fyrrnefndu. Ef niðurstaða þess samanburðar gat gefið tilefni til hefði ráðherra á þeim grundvelli borið að rökstyðja þá ákvörðun sína að leita eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri tillögu að vikið yrði frá áliti dómnefndar. Aðeins þannig hefði Alþingi á réttum grundvelli getað rækt hlutverk sitt í ferlinu og tekið afstöðu til mats ráðherra andstætt mati dómnefndar. [...] Við úrlausn þess hvort staðið hafi verið að málum af hálfu dómsmálaráðherra í samræmi við ofangreint er fyrst til þess að líta að gögn málsins bera ekki með sér, að fram hafi farið af hálfu ráðherra eða aðila á hennar vegum sérstök rannsókn sambærileg rannsókn dómnefndar á atriðum, sem vörðuðu veitingu umræddra fjögurra dómaraembætta við Landsrétt í undanfara þess að ráðherra ákvað að víkja frá dómnefndarálitinu. Er reyndar tekið fram í málatilbúnaði stefnda að ráðherra hafi haft undir höndum öll sömu gögn og dómnefndin og að ekki hafi verið byggt á öðrum eða nýjum gögnum heldur hafi ráðherra ákveðið að ljá dómarareynslu aukið vægi. “                 Í forsendum Hæstaréttar er síðan rakið í kjölfarið að með tillögum dómsmálaráðherra um hverja skyldi skipa dómara við Landsrétt hafi fylgt skjal, sem hafði að geyma rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun. Þar hafi þess fyrst verið getið hvenær ráðherra hafi borist álit dómnefndar og drög að álitinu, því næst hvaða reglur giltu um störf dómnefndar, vísað var til þess að álit nefndarinnar væri yfirgripsmikið, að ítarleg umfjöllun væri í því um þá þætti sem auðvelt væri að meta hlutlægt og að sú veiting embætta sem lægi fyrir dómsmálaráðherra væri án fordæma. Í framhaldinu var vikið að hlutverki Landsréttar sem áfrýjunardómstóls, þess getið að dómnefnd legði reynslu af dómarastörfum að jöfnu við reynslu af lögmanns- og stjórnsýslustörfum og tekið var fram að þrír nánar tilgreindir þættir hafi verið látnir liggja milli hluta með því að gera ekki upp á milli umsækjenda hvað þá varðaði. Þá hafi sagt að með því að gera ekki tilraun til að leggja þætti varðandi stjórnun þinghalda og samningu dóma til grundvallar heildarmati yrði ekki annað ráðið en að reynsla dómara hafi ekki fengið það vægi sem tilefni væri til og gert væri ráð fyrir í reglum nr. 620/2010. Þessu næst hafi verið vísað til bréfaskipta ráðherra og formanns dómnefndar, vikið að því að mat huglægra þátta væri vandasamt og ætti ekki að vera vélrænt og að ekkert í reglum nr. 620/2010 kallaði á slík vinnubrögð. Í lok fylgiskjalsins hafi sagt að eftir að hafa farið yfir öll gögn málsins væri það niðurstaða ráðherra að fleiri umsækjendur hafi komið til greina en tilteknir hafi verið í ályktarorðum dómnefndar. Þannig hafi þeir fimmtán umsækjendur sem nefndin tiltók allir komið til greina sem og aðrir sem bjuggu yfir áralangri dómarareynslu, alls 24 umsækjendur. Í framhaldinu hafði Hæstiréttur eftirfarandi orð um þessa málsmeðferð: ,,Samkvæmt því sem hér var rakið liggur ekki fyrir að frekari rannsókn af hálfu dómsmálaráðherra hafi farið fram á atriðum sem vörðuðu veitingu þeirra fjögurra dómaraembætta sem eftir stóðu. Þá fullnægði rökstuðningur ráðherra í fylgiskjali með bréfi til forseta Alþingis 29. maí 2017 og tillaga hennar til Alþingis, um skipun tilgreindra fjögurra umsækjenda í dómaraembætti í stað þeirra sem dómnefnd hafði lagt til, ekki þeim lágmarkskröfum sem að framan er lýst. Án tillits til þess hvort ráðherra gat með minnisblaði sínu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis 30. maí 2017 bætt úr þeim annmörkum, sem voru á rannsókn hennar, rökstuðningi og tillögugerð, hafði það minnisblað ekkert nýtt að geyma umfram það sem fram hafði komið í áliti dómnefndar. Þá gátu sjónarmið á grundvelli laga nr. 10/2008 um jafna stöðu karla og kvenna ekki komið til álita við veitingu ráðherra á dómaraembættunum nema tveir eða fleiri umsækjendur hefðu áður verið metnir jafnhæfir til að gegna því. Að gættum þeim kröfum sem gera bar samkvæmt framansögðu var rannsókn ráðherra ófullnægjandi til að upplýsa málið nægilega, svo ráðherra væri fært að taka aðra ákvörðun um hæfni umsækjenda en dómnefnd hafði áður tekið. Var málsmeðferð ráðherra að þessu leyti því andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga. Leiðir þá af sjálfu sér að annmarki var á meðferð Alþingis á tillögu dómsmálaráðherra þar sem ekki var bætt úr annmörkum á málsmeðferð ráðherra þegar málið kom til atkvæðagreiðslu á Alþingi. “   Réttur stefnanda til miskabóta Með ofangreindum dómum Hæstaréttar var því slegið föstu að ráðherra hefði ekki hagað málsmeðferð sinni með lögmætum hætti þegar hún lagði fram tillögu til Alþingis um að vikið yrði frá áliti dómnefndar um veitingu dómaraembættis. Telja verður ljóst að sjónarmið sem lýst er í ofangreindum dómum um að ráðherra hafi mátt vera ljóst að aðgerðir hennar að þessu leyti gætu að ófyrirsynju bitnað á orðspori og starfsheiðri aðila þeirra mála og orðið þeim þannig að meini, eigi að réttu lagi einnig við um stefnanda, enda var hann tekinn út af upphaflegum lista dómnefndarinnar með sama hætti og þeir. Auk þess verður ekkert ráðið af gögnum málsins um að málsmeðferð ráðherra hafi verið með öðrum hætti í tilviki stefnanda en aðila fyrrgreindra dómsmála. Af þeim sökum eru ekki efni til annars en að fallast á með stefnanda að ráðherranum hafi mátt vera ljóst að aðgerðir hennar við meðferð málsins gætu að ófyrirsynju bitnað á orðspori og starfsheiðri stefnanda og orðið honum þannig að meini. Verður því jafnframt að fallast á að í þeirri háttsemi ráðherra hafi falist meingerð gegn æru stefnanda og persónu, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þegar horft er til þess að ráðherra færði opinberlega fram þau rök að leggja yrði meiri áherslu á dómarareynslu og að stefnandi hefur samkvæmt gögnum málsins mun meiri reynslu af dómsstörfum en aðilar fyrrnefndu málanna verður jafnframt að fallast á þá málsástæðu stefnanda að í málsmeðferð ráðherra hafi falist stærri meingerð gagnvart honum sem hafi orðið honum til aukins miska. Þykja miskabætur til hans af þeim sökum því hæfilega ákveðnar 1.100.000 kr. Þar sem fyrir liggur að stefndi bauð stefnanda greiðslu miskabóta að fjárhæð 700.000 krónur fyrir höfðun málsins og að fjárhæð kröfu stefnanda um miskabætur er miklum mun hærri en dómurinn hefur nú fallist á telur dómurinn þó ekki efni til að fallast á kröfu stefnanda um að stefndi greiði honum dráttarvexti af miskabótum frá þingfestingardegi.   3. Réttur stefnanda til bóta fyrir fjárhagslegt tjón. Stefndi hefur í málsvörn sinni gegn því að hann beri skaðabótaábyrgð vegna fjártjóns vísað til þess að þótt stefnandi hafi verið í hópi hæfustu umsækjanda um embætti dómara við Landsrétt að mati dómnefndar, þá hafi hann ekki getað gengið að því vísu að hljóta embættið, enda hafi það verið ljóst að Alþingi þurfti að samþykkja tillögur ráðherra um hvern og einn eða hafna með þeim afleiðingum að ráðherra þurfti að leggja fram nýja tillögu. Af hálfu stefnda hefur enn fremur verið vísað til þess að ráðherra hafi verið ljóst þegar hún fékk álit dómnefndar í hendur að það myndi ekki hljóta samþykki á Alþingi óbreytt en henni hafi meðal annars verið gert þetta ljóst af forsvarsmönnum samstarfsflokka í ríkisstjórn. Telur stefndi að jafnvel þótt ráðherra hefði ákveðið að leggja tillögu dómnefndar óbreytta fyrir þingið þá hefðu athafnir hennar ekki nægt til að afstýra meintu tjóni stefnanda þar sem fyrir hafi legið að Alþingi hefði ekki samþykkt þá tillögu. Dómurinn getur ekki fallist á þessar málsástæður. Verður í því sambandi að hafa í huga að dómsmálaráðherra fór í reynd með vald til skipunar dómara við Landsrétt í samræmi við stöðu hennar sem æðsta handhafa framkvæmdarvalds og bar að stjórnlögum sérstaka ábyrgð á þeirri skipun, sbr. 13. gr. og 14. gr. stjórnarskrárinnar. Tillaga ráðherra til Alþingis um að annar verði skipaður dómari en sá sem dómnefnd hefur metið hæfastan, er einnig lögbundinn þáttur í undirbúningi þeirrar ákvörðunar að skipa mann í dómaraembætti, sjá hér til hliðsjónar dóma Hæstaréttar frá 31. júlí 2017 í málum nr. 451 og 452/2017.  Í ljósi þessa er ekki unnt að fallast á málsástæðu stefnda sem felur efnislega í sér að ráðherra hafi ekki megnað að koma í veg fyrir þá atburðarás sem átti sér stað með að gengið var fram hjá stefnanda, enda var það hún sem tók þá ákvörðun að taka hann út af listanum frekar en aðra umsækjendur. Ráðherra fór enn fremur bæði með það vald að leggja til umsækjendur og eins að ákveða hvort tillaga um skipun þeirra umsækjenda sem Alþingi hafði samþykkt yrði borin undir forseta Íslands til staðfestingar. Við þetta má enn fremur bæta að ef fallist væri á málsástæðu stefnda um að vandkvæði á því að sjá fyrir hver afdrif máls verða í meðförum Alþingis takmörkuðu eða jafnvel firrtu hann bótaskyldu myndi slík niðurstaða draga verulega úr möguleikum einstaklinga til að leita réttar síns vegna skipunar í embætti þar sem Alþingi kæmi að máli. Í þessu samhengi verður einnig að leggja áherslu á að Alþingi kemur við þessar aðstæður ekki fram í hlutverki sínu sem löggjafi heldur er því falinn ákveðinn þáttur í undirbúningi að stjórnvaldsákvörðun sem ráðherra tekur og er á ábyrgð ráðherra. Þá verður enn fremur að minna á að sú niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir að annmarki hafi verið á meðferð Alþingis á tillögu ráðherra þegar málið kom þar til atkvæðagreiðslu, sbr. þá dóma réttarins sem vitnað er til hér að framan. Af þeim dómum verður enn fremur skýrlega ráðið að þar sem á skorti að ráðherra gerði grein fyrir samanburði sínum á umsækjendum í rökstuðningi til Alþingis hafi Alþingi ekki  á réttum grundvelli getað rækt hlutverk sitt í ferlinu og tekið afstöðu til mats ráðherra andstætt mati dómnefndar. Verður af þeim sökum að hafna alfarið þeim vörnum stefnda að samþykki Alþingis á tillögum ráðherra um aðra umsækjendur hafi leitt til þess að ákvörðun um endanlegt val hafi verið lögmæt. Með vísan til þessarar niðurstöðu verður einnig að hafna þeirri málsástæðu stefnda að Alþingi hafi getað samþykkt tillögur ráðherra á grundvelli sjónarmiða sem leidd verða af lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu karla og kvenna, enda komu þau ekki til álita við veitingu ráðherra á dómaraembættunum nema tveir eða fleiri umsækjendur hefðu áður verið metnir jafnhæfir til að gegna því. Dómurinn fær heldur ekki séð að það geti haft þýðingu við úrlausn um kröfu stefnanda um skaðabætur fyrir fjártjón hvaða væntingar stefnandi mátti gera sér um meðferð málsins í kjölfar þess að umsögn dómnefndar lá fyrir. Verður þá að líta til þess að málatilbúnaður stefnanda byggist ekki á því að hann eigi rétt til bóta á grundvelli þess að réttmætar væntingar hans hafi verið virtar að vettugi, heldur því að hann telur sig mundu hafa hlotið embætti dómara við Landrétt ef ekki hefðu verið annmarkar á málsmeðferð og efnislegu mati ráðherra.  Að því er snertir kröfu stefnanda um að honum verði bætt fjárhagslegt tjón vegna ólögmætrar framgöngu ráðherra við meðferð málsins verður að hafa í huga að almennt leiða annmarkar á málsmeðferð og undirbúningi stjórnvaldsákvörðunar um veitingu embættis ekki einir og sér til bótaábyrgðar stefnda gagnvart þeim sem fær ekki slíkt embætti. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur það aftur á móti verið talið forsenda fyrir bótaskyldu stefnda við slíkar aðstæður að sá sem sækir um opinbert embætti sýni fram á að lögmæt meðferð málsins og forsvaranlegt mat á umsókn og samanburður á hæfni hans og annarra umsækjenda hefði leitt til þess að hann hefði hlotið embættið, sbr. meðal annars til hliðsjónar dóma Hæstaréttar Íslands frá 19. september 2002 í máli nr. 90/2002, frá 14. apríl 2011 í máli nr. 412/2010 og frá 7. júní 2018 í máli nr. 578/2017. Þegar tekin er afstaða til þess hvort stefnandi hafi uppfyllt þær kröfur til sönnunar sem gerðar eru samkvæmt framangreindu er óhjákvæmilegt að horfa til tilvitnaðra dóma Hæstaréttar frá 19. desember 2017. Verður þá fyrst að benda á að í þessum málum komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að tilteknir annmarkar sem Héraðsdómur Reykjavíkur taldi að hefðu verið á áliti dómnefndar hefðu verið óverulegir og samkvæmt því ekki einir og sér getað gefið tilefni til þess að vikið yrði frá dómnefndarálitinu. Þá var ekki af hálfu Hæstaréttar tekið undir sjónarmið Héraðsdóms um að sá mælikvarði sem dómnefndin beitti og sá naumi tími sem henni var ætlaður til starfa síns hafi leitt til þess að í reynd skorti á að efnislegt mat og samanburður færu fram á verðleikum umsækjenda og þar með hæfni þeirra. Af þeim sökum verður við úrlausn þess máls sem hér er til umfjöllunar að leggja til grundvallar að ekki hafi verið neinir annmarkar á dómnefndarálitinu sem réttlætt gátu að ráðherra viki frá því. Þótt Hæstiréttur hafi í fyrrgreindum dómum sínum einungis vísað með beinum hætti til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem fjallar um skyldu stjórnvalds til að afla sér fullnægjandi upplýsinga um atvik máls áður en það tekur ákvörðun í máli, verður að sama skapi ekki litið fram hjá því að í dómunum er einnig fjallað um hvernig efnislegu mati ráðherra á umsækjendum var háttað og þær ályktanir sem hún dró af því mati. Þannig er tekið svo til orða í forsendum Hæstaréttar að ráðherra hafi ,,að lágmarki borið að gera samanburð á hæfni annars vegar þeirra fjögurra umsækjenda sem dómnefnd hafði metið meðal 15 hæfustu en ráðherra gerði ekki tillögu um, og hins vegar þeirra fjögurra sem ráðherra gerði tillögu um í stað hinna fyrrnefndu“. Að mati þessa dóms verður ekki annað ráðið af þessum forsendum Hæstaréttar en að þar sé vísað til þeirrar skyldu sem hvílir á ráðherra samkvæmt grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins um mat á hæfni umsækjenda. Þannig getur stjórnvald að öllu jöfnu ekki slegið því föstu að það hafi valið hæfasta umsækjandann nema það hafi gert heildstæðan samanburð á umsækjendum með tilliti til þeirra krafna sem lög gera til þess einstaklings sem gegna má starfinu og þeirra sjónarmiða sem valið á milli umsækjenda byggist á.  Hvað varðar þær kröfur og sjónarmið sem samanburður á umsækjendum byggist á er almennt gengið út frá því að stjórnvaldið sem veitir viðkomandi embætti skuli ákveða hverju sinni á hvaða sjónarmiðum ákvörðun um skipun eigi að byggjast, að því marki sem ekki er mælt fyrir um annað í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins fela ekki í sér takmarkanir í þessu efni. Þau sjónarmið ráðast þó af eðli og viðfangsefnum þess embættis sem verið er að skipa í hverju sinni. Þannig verður að telja að veitingu dómaraembætta sé svigrúm ráðherra þrengra að þessu leyti, enda tekur ráðherra þá ekki ákvörðun um veitingu embættis sem heyrir undir boðvalds hans sjálfs, heldur um stöðu sem tilheyrir þeirri grein ríkisvaldsins sem að stjórnlögum fer með eftirlitshlutverk gagnvart öðrum greinum þess og tryggt er sjálfstæði í 1. málslið 61. gr. sem og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 24. gr. þágildandi laga nr. 15/1998, um dómstóla, sbr. dóma Hæstaréttar frá 19. desember 2017 sem áður er vitnað til. Í sömu dómum er jafnframt tekið skýrt fram að ef ráðherra hygðist víkja frá mati dómnefndar skyldi tryggt að fyrir hendi væri sérþekking sambærileg þeirri sem dómnefnd byggi yfir og að tekið væri tillit til fyrirmæla ráðherra í reglum nr. 620/2010 um þau atriði sem ráða skulu hæfnismati. Í 4. gr. þeirra reglna var kveðið sérstaklega á um það að dómnefnd skyldi gæta þess að samræmis væri gætt við mat umsækjenda þannig að jafnræði væri í heiðri haft. Þá skyldi niðurstaðan byggð á heildstæðu mati á grundvelli málefnalegra sjónarmiða út frá verðleikum umsækjenda með hliðsjón af menntun og reynslu, ráðvendni, hæfni og skilvirkni í starfi, eins og nánar greinir með tilliti til atriða sem nánar voru rakin í 1.–5. tölul. 4. gr.  Þegar litið er til þeirra fyrirmæla sem ráðherra var bundinn af samkvæmt reglum nr. 620/2010 verður ekki annað séð en að þar hafi verið sett það viðmið við mat á hæfni umsækjenda um dómaraembætti að æskilegt væri að umsækjandi hefði fjölbreytta starfsreynslu á sviði lögfræðinnar, s.s. reynslu af dómstörfum, málflutningi eða öðrum lögmannsstörfum, störfum innan stjórnsýslunnar eða fræðistörfum. Ljóst er að ekki er gert ráð fyrir því berum orðum í reglum nr. 620/2010 að ráðherra gæti lagt aukna áherslu á tiltekna þætti í starfsreynslu umsækjenda við mat á hæfni þeirra til að gegna dómaraembætti. Að sama skapi verður heldur ekki séð að ráðherra hafi samkvæmt sömu reglum verið alfarið óheimilt að ljá reynslu af dómsstörfum aukið vægi, enda var ekki í reglunum kveðið á um innbyrðis vægi matsþátta, þótt vissulega væri talið æskilegt að starfsreynsla umsækjenda væri fjölbreytt. Hvað sem leið annars heimild ráðherra til að leggja meira upp úr dómarareynslu við mat á hæfni umsækjanda, þá leikur að mati dómsins enginn vafi á því að ráðherra bar allt að einu að gera samanburð á umsækjendum með tilliti til reynslu þeirra af dómsstörfum, ef hún ákvað á annað borð að byggja á þessari tilteknu reynslu, og þess heldur ef hún kaus að auka vægi hennar. Í tilvitnuðum dómum Hæstaréttar frá 19. desember 2017 er raunar tekið svo til orða í tengslum við þessa skyldu að ráðherra hafi ,,að lágmarki“ borið ,,að gera samanburð á hæfni annars vegar þeirra fjögurra umsækjenda sem dómnefnd hafði metið meðal 15 hæfustu en ráðherra gerði ekki tillögu um, og hins vegar þeirra fjögurra sem ráðherra gerði tillögu um í stað hinna fyrrnefndu“. Að mati dómsins er þó ekki unnt að leggja þann skilning í þetta orðalag úr forsendum Hæstaréttar að skylda ráðherra að þessu leyti sé takmörkuð við að bera þá fjóra umsækjendur af lista dómnefndar, sem hún ákvað að gera ekki tillögu um að yrðu skipaðir, saman við þá fjóra umsækjendur sem hún síðar lagði til við Alþingi. Verður í því sambandi að leggja áherslu að á ráðherra hvíldi allt að einu sú skylda að sjá til þess að 15 hæfustu umsækjendurnir yrðu skipaðir dómarar við Landsrétt á grundvelli heildstæðs samanburðar á umsækjendum með tilliti til þeirra sjónarmiða sem hún taldi sjálf rétt að byggja á. Ef ráðherra taldi að rétt væri að ljá reynslu af dómsstörfum aukið vægi bar henni að réttu lagi að leggja mat á alla umsækjendur út frá því sjónarmiði. Að öðrum kosti var ráðherra ekki í aðstöðu til að slá því föstu að hún hefði valið 15 hæfustu umsækjendurna á grundvelli reynslu þeirra af dómsstörfum. Að því er varðar það sjónarmið sem lýst er í rökstuðningi ráðherra frá 6. júlí 2017 um að miklu hafi skipt að dómarahópurinn við Landsrétt væri samansettur af einstaklingum með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu og af ólíkum sviðum þá telur dómurinn það sjónarmið ekki réttlæta mælikvarða sé beitt við mat á hæfni umsækjenda sem breytist eftir því hvaða umsækjendur var um að ræða. Þannig verður í fyrsta lagi að telja ljóst að sjónarmið um mat á hæfni sem leidd voru af reglum nr. 620/2010 hafi ágætlega verið til þess fallin að stuðla að fjölbreytni. Meiru varðar þó að það leiðir af jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem gilda um veitingu opinbera embætta, að stjórnvald verður að meta hæfni umsækjenda sem keppa að því að hljóta sama embættið á grundvelli sömu sjónarmiða. Ekki verður séð hvernig sú málsmeðferð að velja einungis fjóra umsækjendur af lista dómnefndar, án nánari skýringa, til samanburðar við aðra fjóra umsækjendur, út frá sjónarmiði um reynslu af dómstörfum, samræmist þeim kröfum sem gera verður til jafnræðis umsækjenda að þessu leyti.  Að mati dómsins gefa hvorki gögn málsins né skýringar ráðherra fyrir dómi greinargóða mynd af því hvaða samanburður hafi farið fram af hálfu ráðherra á umsækjendum með tilliti til sjónarmiða um reynslu af dómsstörfum. Þannig liggur ekkert fyrir um í hverju samanburðurinn fólst og hver var niðurstaða ráðherra um innbyrðis mat einstakra þátta milli umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt, að því marki sem hún lagði annað mat á umsækjendur en dómnefndin. Telja verður að í ljósi tölvupósts setts ráðuneytisstjóra til ráðherra, dags. 28. maí 2017, hafi ráðherra haft sérstaklega ríkt tilefni til að huga að því hvernig þessum samanburði yrði háttað. Í tölvupóstinum er beinlínis vikið að þeim breytingum sem ráðherra hafði í huga á lista nefndarinnar með tilliti til aukins vægis dómsstarfa eins og hún vék sjálf að í skýrslu sinni fyrir dómi. Kemur þar jafnframt fram að ráðherra væri þá að bæta úr annmörkum sem verið hefðu með sjálfstæðu mati, sem þýddi að leggja þyrfti ,,sama mat á alla umsækjendur út frá þeim málefnalegu og lögmætu forsendum sem ráðherra gefur sér“. Best væri því að ,,veita dómarastarfaflokknum aukið vægi og geta vísað til þess gagnvart öllum hópnum“. Þrátt fyrir framangreindar ábendingar setts ráðuneytisstjóra er í gögnum málsins ekkert að finna um samanburð á umsækjendum með tilliti til reynslu af dómsstörfum. Gögn málsins, sbr. meðal annars bréf ráðherra til forseta Alþingis 29. maí 2017, hafa í reynd aðeins að geyma rökstuðning ráðherra fyrir því hvers vegna hún taldi þá fjóra umsækjendur, sem hún gerði sjálf tillögu um, hæfa til að gegna embætti dómara við Landsrétt og til hvaða upplýsinga hún leit um þá umsækjendur. Á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu er hins vegar ekki unnt að fullyrða að af hálfu ráðherra hafi farið fram samanburður á umsækjendum sem fullnægði þeim kröfum sem taldar eru hluti af grundvallarreglum í stjórnsýslurétti um undirbúning stöðuveitingar og mat á hæfni umsækjenda. Í því sambandi verður að leggja áherslu á að ákvörðun um skipun í opinbert embætti verður að byggjast á samanburði á umsækjendum á sambærilegum grundvelli sem leiði í ljós hver er hæfastur til að gegna starfinu en ekki bara réttlætingu á því hvern ráðherra vill skipa í embættið.  Eins og áður hefur verið rakið hefur það verið talið forsenda í dómaframkvæmd Hæstaréttar fyrir bótaskyldu stefnda gagnvart þeim sem sækir um opinbert embætti að viðkomandi umsækjandi sýni fram á að lögmæt meðferð málsins og forsvaranlegt mat á umsókn og samanburður á hæfni hans og annarra umsækjenda hefði leitt til þess að hann hefði hlotið umrætt embætti. Þar sem hvorugur aðila málsins hefur teflt fram málsástæðum um að dómnefnd eða ráðherra hafi ekki dregið forsvaranlegar ályktanir af gögnum málsins né lagt fram nein umsóknargögn sem gefa dóminum tækifæri til að taka afstöðu til slíkra atriða koma þau ekki til umfjöllunar í málinu. Þegar tekin er afstaða til þess hvort stefnanda hafi tekist að sýna fram á að lögmæt meðferð málsins og efnislegur samanburður á hæfni hans og annarra umsækjenda hefði leitt til þess að hann hefði verið skipaður dómari við Landsrétt þá er ekki unnt að horfa fram hjá því að af hálfu stefnda hefur ekki verið gerð viðunandi grein fyrir því hvaða samanburður fór fram á stefnanda og öðrum umsækjendum og hvernig innbyrðis mati þeirra var háttað. Þá verður heldur ekki dregin fjöður yfir það að dómnefnd hafði þegar raðað stefnanda í 11. sæti á lista yfir hæfustu umsækjendur, auk þess sem stefnandi bjó yfir talsvert meiri reynslu af dómsstörfum en margir þeirra umsækjenda sem lagt var til að skipaðir yrðu dómarar við Landsrétt. Eins og áður segir hefur Hæstiréttur enn fremur hafnað sjónarmiðum um að slíkir annmarkar hafi verið á dómnefndaráliti að tilefni hafi verið fyrir ráðherra að víkja frá því, sbr. tilvitnaða dóma frá 19. desember 2017. Með vísan til þessara atriða verður að telja að stefnandi hafi leitt nægilega sterkar líkur að því að lögmæt meðferð málsins og forsvaranlegt mat á umsókn og samanburður á hæfni hans og annarra umsækjenda hefði leitt til þess að hann hefði verið skipaður dómari við Landsrétt. Er því fallist á málsástæðu stefnanda um að stefndi beri einnig skaðabótaskyldu vegna þess fjárhagslega tjóns sem hann varð fyrir vegna ákvörðunar ráðherra. Stefnandi hefur í málatilbúnaði sínum byggt á því að ráðherra hafi brotið gegn andmælarétti samkvæmt ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga þegar hún ákvað að taka fjóra umsækjendur, sem ekki voru meðal 15 hæfustu að mati dómnefndar, fram yfir stefnanda. Héraðsdómur fjallaði um sambærilega málsástæðu í dómum sínum frá 15. september 2017 en um hana var ekki fjallað við endurskoðun dómsins á áfrýjunarstigi í Hæstarétti 19. desember 2017 í málum nr. 591 og 592/2017. Eins og bent var á í dómi Héraðsdóms hefur andmælaréttur samkvæmt ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga, og eins óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttarins, almennt verið talinn fela í sér að aðili máls eigi rétt á að tjá sig um nýjar upplýsingar sem fram koma um málsatvik við meðferð máls, ef upplýsingarnar eru honum í óhag og geta haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins. Þótt í ákveðnum tilvikum megi vissulega telja það til vandaðri stjórnsýsluhátta að stjórnvöld gefi aðilum máls kost á að tjá sig þegar þau ákveða að víkja frá mati lögbundins umsagnaraðila, eins og dómnefndarinnar sem um ræðir í máli þessu, þá verður hvorki af lögum né óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins leidd nein skylda til að gefa aðila máls slíkt færi. Þar sem ekkert kemur fram í gögnum málsins um að ráðherra hafi aflað einhverra gagna eða upplýsinga til viðbótar við þau atvik sem lágu fyrir við álit nefndar um mat á hæfi dómara, dags. 19. maí 2017, eru ekki efni til að taka undir þá málsástæðu stefnanda að ráðherra hafi brotið gegn andmælarétti hans. Er þessari málsástæðu því hafnað. Að sama skapi verður ekki séð að sá rökstuðningur sem ráðherra veitti stefnanda 6. júlí 2017 hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru til efnis rökstuðnings samkvæmt 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald, að því marki sem stjórnvaldsákvörðun byggist á mati, greina frá meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið, í rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. skal einnig, þar sem ástæða er til, rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins. Í athugasemdum við 22. gr. frumvarps þess er síðar varð að stjórnsýslulögum kemur fram að í ákvæðinu sé ekki kveðið á um hversu ítarlegur rökstuðningur skuli vera. Að meginstefnu til eigi rökstuðningur stjórnvaldsákvarðana að vera stuttur, en þó það greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hafi orðið sú sem raun varð á. Við skipun í opinbert embætti hefur verið lagt til grundvallar að það sé viðunandi rökstuðningur að skýra hvers vegna það hefur orðið niðurstaða stjórnvaldsins að ráða tiltekinn einstakling úr hópi umsækjenda. Þannig er ekki gerð krafa um að í rökstuðningi sé lýst samanburði á umsækjenda sem fékk embætti og þeim sem óskar rökstuðnings, þó að skortur á að stjórnvald geti sýnt fram á slíkan samanburð geti vitaskuld haft áhrif á hvort réttur grundvöllur hafi verið lagður að ákvörðun, sbr. það sem áður er rakið. Aðalatriðið er að sá sem óskar eftir rökstuðningi geti almennt gert sér grein fyrir því á grundvelli rökstuðningsins hvað réði ákvörðun um ráðningu í starfið. Telja verður ljóst að rökstuðningur ráðherra frá 6. júlí 2017 hafi uppfyllt ofangreindar kröfur og kemur málsástæða stefnanda honum því ekki að haldi við úrlausn málsins.   Fjárhagslegt tjón stefnanda. Stefnandi reisir skaðabótakröfu sína á niðurstöðu tryggingafræðings um mismun launakjara og lífeyrisréttinda héraðsdómara og þeirra launa sem hann hefði hlotið út starfsævina ef hann hefði verið skipaður dómari við Landsrétt og tekið við embætti 1. janúar 2018. Þótt fallast megi á að slíkur útreikningur geti haft þýðingu við mat á fjárhæð skaðabóta í máli þessu verður að taka tillit til þess að aðstæður stefnanda eru um margt háðar óvissu og tjón hans kann að takmarkast, til dæmis ef hann yrði síðar skipaður dómari við Landsrétt eða tæki við öðru starfi þar sem laun og lífeyrisréttindi eru hærri en hjá héraðsdómara. Í ljósi þessa verður að telja að bætur til stefnanda fyrir fjárhagslegt tjón séu hæfilega ákveðnar 4 milljónir króna að álitum. Þá er jafnframt fallist á kröfu stefnanda um að stefndi greiði skaðabótavexti af þessari fjárhæð samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. janúar 2018 til 6. mars 2018 þegar mál þetta var þingfest, en dráttarvexti samkvæmt III. kafla sömu laga, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna, frá þingfestingardegi til greiðslu.  Með hliðsjón af þessum úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda allan málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1,2 milljónir króna.                 Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm. Við uppkvaðningu dómsins var gætt 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Dómsorð: Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Jóni Höskuldssyni, 4.000.000 króna í skaðabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. janúar 2018 til 6. mars 2018, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna, frá 6. mars 2018 til greiðsludags. Þá skal stefndi greiða stefnanda 1.100.000 krónur í miskabætur. Stefndi greiði stefnanda alls 1.200.000 kr. í málskostnað.
Mál nr. 6/2021
Kærumál Kæruheimild Frávísun frá Hæstarétti
X hf. og Y ehf. kærðu úrskurð Landsréttar þar sem kæru þeirra á úrskurði héraðsdóms, er laut að heimild H til tiltekinna rannsóknaraðgerða, var vísað frá Landsrétti. Í dómi Hæstaréttar kom fram að kæruheimild í a-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hefði verið skýrð svo að hún tæki almennt aðeins til endanlegra úrskurða um frávísun mála sem höfðuð hefðu verið með ákæru en ekki til úrskurða Landsréttar um frávísun kæru vegna rannsóknarúrskurða eða úrskurða um réttarfarsatriði. Var því talið að X hf. og Y ehf. hefði brostið heimild til að kæra úrskurð Landsréttar og var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 29. janúar 2021, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Landsréttar 28. janúar 2021, þar sem kæru varnaraðila var vísað frá dómi. Um kæruheimild vísa varnaraðilar til a-liðar 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að Landsrétti verði gert að taka málið til efnismeðferðar. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.                               Samkvæmt a-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 er unnt að kæra frávísun máls frá Landsrétti til Hæstaréttar. Þessi kæruheimild hefur verið skýrð svo að hún taki almennt aðeins til endanlegra úrskurða um frávísun mála sem höfðuð hafa verið með ákæru en ekki til úrskurða Landsréttar um frávísun kæru vegna rannsóknarúrskurða eða úrskurða um réttarfarsatriði, sbr. dóm Hæstaréttar 15. janúar 2021 í máli nr. 1/2021. Úrskurður sá sem um ræðir í þessu máli varðar heimild til tiltekinna rannsóknaraðgerða sóknaraðila sem veitt var með úrskurði héraðsdóms samkvæmt 2. mgr. 68. gr., sbr. 2. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008. Með hinum kærða úrskurði Landsréttar var málinu vísað þaðan frá dómi.           Samkvæmt framansögðu er ekki fyrir hendi heimild til að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar. Málinu verður því vísað frá réttinum. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.     Úrskurður Landsréttar Landsréttardómarinn Oddný Mjöll Arnardóttir og Hildur Briem og Skúli Magnússon, settir landsréttardómarar, kveða upp úrskurð í máli þessu. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Varnaraðilar skutu málinu til Landsréttar með kæru 21. janúar 2021, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2020 í málinu nr. R-[…]/2020 þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að Z ehf., dótturfélagi þess Þ ehf. og Æ sé skylt að veita sóknaraðila upplýsingar og afhenda gögn varðandi þjónustu sem veitt var X hf., og eftir atvikum dótturfélögum í samstæðu X hf., á árunum 2013 til 2014 eða eftir atvikum lengur vegna gerðar skýrslu eða samantektar fyrir félögin varðandi […], að meðtöldum hvers konar tengdum vinnugögnum og samskiptagögnum. Þá var einnig fallist á kröfu sóknaraðila um að Z ehf. og dótturfélagi þess Þ ehf., ásamt öllum þeim fyrrverandi eða núverandi starfsmönnum eða eigendum sömu félaga sem kunna að hafa af hálfu félaganna veitt eða átt þátt í að veita þjónustu sem krafa sóknaraðila varðar eða búa yfir upplýsingum varðandi hana, sé skylt að veita sóknaraðila upplýsingar og afhenda gögn varðandi bókhald og reikningsskil félaganna X hf., Y ehf. og allra dóttur- eða hlutdeildarfélaga sömu félaga á tímabilinu 2011 til 2020, að meðtöldum hvers konar undir- eða frumgögnum og tengdum vinnugögnum og samskiptagögnum. Um kæruheimild er vísað til g-liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. 2        Sóknaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar. Til vara krefst hann staðfestingar hins kærða úrskurðar að því er fyrri kröfu hans varðar en breytingar á úrskurðinum að því er seinni kröfu hans varðar þannig að í stað þess að ná til „allra dóttur- eða hlutdeildarfélaga“ X hf. og Y ehf. verði skylda til veitingar upplýsinga og afhendingar gagna afmörkuð við nánar tilgreind […] félög. 3        Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.   Niðurstaða 4        Samkvæmt kröfu sóknaraðila 3. desember 2020 er efni hennar „krafa um afléttingu þagnarskyldu samkvæmt lögum nr. 94/2019, um endurskoðendur og endurskoðun“. Í reit þar sem greind eru þau lagaákvæði sem krafan er byggð á er þó hvergi vísað til umræddra laga, heldur „IX. kafla, einkum 68. gr., sbr. 2. mgr. 69. gr., og X. kafla, einkum 74. gr., sbr. 1. mgr. 75. gr., laga nr. 88/2008, sbr. 102.-105. gr. sömu laga“. Ef frá er talin umfjöllun um 30. gr. laga nr. 94/2019 er þó hvergi í kröfunni nánar vikið að þeim lagaákvæðum sem krafan er sögð byggð á. 5        Kröfu sóknaraðila var sem áður greinir beint að Z ehf., Þ ehf., Æ og „öllum þeim fyrrverandi eða núverandi starfsmönnum eða eigendum“ framangreindra félaga sem kynnu að hafa veitt eða átt þátt í að veita, eða byggju yfir upplýsingum um, nánar tiltekna þjónustu sem veitt var varnaraðilum eða dóttur- eða hlutdeildarfélögum þeirra á nánar tilteknu tímabili. Laut krafan að því að framangreindir aðilar myndu veita sóknaraðila „upplýsingar og afhenda gögn“ varðandi þessa þjónustu. Með vísan til 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008 var þess jafnframt beiðst að krafan hlyti meðferð fyrir dómi án þess að þeir sem hún beindist að yrðu kvaddir fyrir dóm. Í kröfu sóknaraðila greinir enn fremur að ástæða hennar sé rannsókn á […] starfsmanna eða fyrirsvarsmanna varnaraðila í tengslum við […] varnaraðila […] og eru ætluð brot talin varða við ákvæði 109. gr., 264. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og eftir atvikum einnig ákvæði XXVI. kafla þeirra laga. Samkvæmt kröfu sóknaraðila hafa bæði félög úr samstæðu varnaraðila og einstaklingar úr hópi starfsmanna og stjórnenda réttarstöðu sakbornings. 6        Samkvæmt dómi Hæstaréttar 23. mars 2011 í máli nr. 139/2011 ber að skýra ákvæði 1. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008 svo að þegar krafa um rannsóknaraðgerð beinist að öðrum en sakborningi, og þess er krafist að sá aðili verði ekki boðaður á dómþing, komi ekki til álita að sakborningur verði boðaður á dómþing. Í samræmi við framangreint verður að líta svo á að varnaraðilar hafi ekki átt aðild að málinu í héraði. Við þessar aðstæður njóta varnaraðilar hins vegar víðtæks réttar til að leggja fyrir dóm ágreining um lögmæti yfirstandandi rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda á grundvelli 2. mgr. 102. gr., sbr. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 30. maí 2012 í máli nr. 356/2012. Þar sem þeir áttu ekki aðild að máli þessu í héraði er þeim aftur á móti ekki heimilt að kæra úrskurð héraðsdóms til Landsréttar, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 139/2011. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá Landsrétti. 7        Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laga nr. 88/2008 leggur ákærandi eða lögreglustjóri, telji hann þörf á atbeina dómara til aðgerðar á rannsóknarstigi, skriflega og rökstudda kröfu um hana fyrir héraðsdóm. Eftir því sem við á skal koma þar skýrlega fram hver krafan er, að hverjum hún beinist og á hvaða grunni hún er reist. Þá segir að kröfunni skuli fylgja þau gögn sem hún styðst við. Það athugast að samkvæmt endurriti úr þingbók héraðsdóms lágu rannsóknargögn málsins frammi við fyrirtöku þess. Rannsóknargögnin fylgdu ekki með kæru varnaraðila til Landsréttar. Af hálfu Landsréttar var kallað eftir gögnunum frá héraðsdómi sem þá upplýsti að þau hefðu ekki legið frammi við fyrirtöku málsins. Í því skyni að ganga úr skugga um hvort lagaskilyrði væru uppfyllt fyrir því að fallast á kröfu sóknaraðila hefði héraðsdómara verið rétt að krefja sóknaraðila um þessi gögn áður en hann tók kröfuna til úrskurðar. Er aðfinnsluvert að svo var ekki gert. Úrskurðarorð: Máli þessu er vísað frá Landsrétti.   Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 3. desember 2021 Héraðssaksóknari hefur krafist þess að endurskoðunarfyrirtækinu Z ehf., kt. […], dótturfélagi þess Þ ehf., kt. […] og Æ, kt. […], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur gert skylt að veita embætti héraðssaksóknara upplýsingar og afhenda gögn varðandi þjónustu sem veitt var X hf., kt. […], og eftir atvikum dótturfélögum í samstæðu X hf., á árunum 2013 til 2014 eða eftir atvikum lengur vegna gerðar skýrslu eða samantektar fyrir félögin varðandi […], að meðtöldum hvers konar tengdum vinnugögnum og samskiptagögnum, svo sem minnisblöðum, myndum, glærukynningum, skjaladrögum, upptökum eða endurritum munnlegra samtala, bréfum og tölvupóstsamskiptum. Þess er einnig krafist að úrskurðað verði að endurskoðunarfyrirtækinu Z ehf, kt. […], og dótturfélagi þess Þ ehf., kt. […], ásamt öllum þeim fyrrverandi eða núverandi starfsmönnum eða eigendum sömu félaga sem kunna að hafa af hálfu félaganna veitt eða átt þátt í að veita þjónustu sem krafan varðar eða búa yfir upplýsingum varðandi hana sé skylt að veita embætti héraðssaksóknara upplýsingar og afhenda gögn varðandi bókhald og reikningsskil félaganna X hf., kt. […], Y ehf., kt. […], og allra dóttur- eða hlutdeildarfélaga sömu félaga á tímabilinu 2011 til 2020, að meðtöldum hvers konar undir- eða frumgögnum varðandi einstök félög og tengdum vinnugögnum og samskiptagögnum, svo sem minnisblöðum, myndum, glærukynningum, skjaladrögum, upptökum eða endurritum munnlegra samtala, bréfum og tölvupóstsamskiptum. Í greinargerð sækjanda kemur fram að embætti héraðssaksóknara hafi til rannsóknar mál nr. 300-2019-[…]. Til rannsóknar séu atvik sem tengist X hf., Y ehf. og félögum í samstæðu þeirra félaga (hér eftir einnig sameiginlega: Ö), einkum í tengslum við starfsemi […], frá 2011 og fram á árið 2019 eða lengur. Sakarefni í málinu séu [...] starfsmanna eða fyrirsvarsmanna X hf. og/eða tengdra félaga til […], eða til manna sem áhrif hafi getað haft á ákvarðanatöku slíkra manna, þar á meðal eftir atvikum þannig að […] hafi runnið til félaga á vegum sömu manna, í tengslum við […] Ö […]. Ætluð brot teljist kunna að varða við ákvæði 109. gr. og 264. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 […], 264. gr. sömu laga um peningaþvætti og eftir atvikum ákvæðum XXVI. kafla sömu laga um auðgunarbrot. Fram kemur að rannsókn embættisins beinist meðal annars að því að upplýsa hvaða starfsmenn eða stjórnendur einstakra félaga í samstæðu X hf. sem málið varði hafi með einum eða öðrum hætti tekið ákvörðun um og átt þátt í þeirri háttsemi sem til rannsóknar sé eða eftir atvikum verið upplýstir og haft vitneskju um hana á hverjum tíma. Í þeim þætti rannsóknarinnar telji embættið að þýðingu geti haft meðal annars að upplýst verði eins og unnt sé hvernig stjórnskipulagi, ákvarðanatöku og boðleiðum eða boðvaldi innan samstæðunnar hafi almennt verið háttað á hverjum tíma. Enn fremur segir að við rannsóknina hafi réttarstöðu sakbornings bæði félög úr samstæðu Ö og einstaklingar úr hópi starfsmanna og stjórnenda Ö sem samkvæmt fyrirliggjandi gögnum virðist kunna að hafa tengst með einum eða öðrum hætti þeirri meintu háttsemi sem til rannsóknar sé. […] Ö […] hafi verið rekin undir merkjum […] dótturfélaga Ö en fleiri […] dótturfélög í samstæðunni hafi einnig tengst þeim rekstri og þeim atvikum sem séu til rannsóknar, svo sem dótturfélög Ö […]. Samstæða Ö hafi á rannsóknartímabilinu tekið og taki enn yfir mikinn fjölda félaga […]. Skipulag samstæðunnar verði að telja tiltölulega flókið og yfirgripsmikið og hafi það auk þess tekið meiri eða minni breytingum frá einum tíma til annars. Enn fremur hafi nöfn einstakra félaga tekið breytingum. Af þessum sökum væri torvelt, og auk þess óskýrt og flókið vegna stærðar og uppbyggingar samstæðunnar, að afmarka í kröfugerð þessari, einkum þá síðari lið hennar, hvert og eitt þeirra félaga sem krafan beinist að. Telja verði því óhjákvæmilegt og auk þess skýrara og réttara, þar sem samstæðan hafi þó á öllum þessum tíma endanlega heyrt undir móðurfélögin […] sem krafan tilgreini, að afmarka kröfuna með þeim hætti sem gert sé gagnvart samstæðunni í heild. Því til viðbótar megi nefna að ekki sé unnt að útiloka fyrirfram að fjárstreymi eða reikningsfærslur varðandi atvik sem til rannsóknar séu hafi varðað fleiri félög innan samstæðunnar heldur en þau sem á þessu stigi rannsóknar sé komið fram að hafi tengst þeim. Saksóknari tekur fram að vegna rannsóknarinnar þyki tilefni til að afla þeirra gagna frá endurskoðunarfyrirtækinu Z sem krafa þessi varði. Líkt og nánar er fjallað um fyrir neðan sé ekki skýrt af fyrirliggjandi gögnum hvort eða þá með hvaða hætti sú þjónusta við Ö sem krafan varði hafi verið aðgreind með einhverjum hætti innan einstakra sviða Z. Tilvísanir til Z í kröfunni taki til alls fyrirtækisins óháð því hvort eða þá hvaða einstöku svið þess hafa farið með viðkomandi verkefni fyrir Ö. Enn fremur greinir saksóknari frá því að rétt sé að fram komi að hvorki Z né neinn starfsmaður þess félags liggi á þessu stigi rannsóknar undir grun vegna meintra brota í málinu. Nauðsynlegt sé hins vegar vegna þagnarskyldu endurskoðenda að krefjast dómsúrskurðar til aðgangs að þeim gögnum og upplýsingum sem krafan varði. Þess sé krafist að aflétt verði samkvæmt nánari afmörkun kröfugerðarinnar lögbundinni þagnarskyldu sem hvíli á endurskoðendum, sbr. ákvæði 30. gr. núgildandi laga nr. 94/2019, um endurskoðendur og endurskoðun. Efnislega samhljóða ákvæði um þagnarskyldu hafi áður verið í 30. gr. eldri laga nr. 79/2008, um endurskoðendur. Í báðum ákvæðum hafi verið og sé gert ráð fyrir að þagnarskyldu megi aflétta með úrskurði dómara, þar á meðal um skyldu til að veita lögreglu upplýsingar. Þá segir að kröfugerðin sé tvíþætt og sé hvor þáttur fyrir sig rakinn nánar hér á eftir. Í fyrsta lagi lúti krafan að aðgangi að gögnum varðandi skýrslu um […] sem Z hafi unnið fyrir Ö. Fram kemur að rannsóknin felist meðal annars í að rannsaka og greina umfangsmikil rafræn gögn úr kerfum Ö, meðal annars gögn um tölvupóstsamskipti ýmissa viðkomandi starfsmanna þeirra félaga í samstæðunni sem rannsókn beinist helst að. Þau gögn nái allt aftur til ársins 2010. Af rannsókn á þessum gögnum megi meðal annars ráða að á árunum 2013 og 2014 og eftir atvikum síðar hafi Ö notið þjónustu endurskoðunarfyrirtækisins Z, […], í verkefni sem hafi meðal annars lotið að gerð skýrslu eða samantektar um stjórnskipulag og ákvarðanatöku innan samstæðunnar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum virðist verkefnið hafa falið í sér heildarúttekt á þessum atriðum innan samstæðunnar og falið í sér greiningu á starfsemi þess og skipulagi […]. Undirliggjandi tilgangur skýrslunnar muni hafa verið að á grundvelli hennar hafi mátt meta hvernig starfsemi samstæðunnar hafi horft við eða hafi átt að fara fram með tilliti til […]. Þá segir að við leit í fyrirliggjandi rafrænum gögnum málsins hafi komið fram tölvupóstsamskipti á árunum 2013 og 2014 milli fulltrúa Z og starfsmanna Ö varðandi þetta verkefni og drög að skýrslu eða hlutum hennar, frá mismunandi tímum og í mismunandi langt komnum drögum, um framangreind efni. Elstu þess háttar drög sem liggi nú fyrir í rafrænum gögnum málsins séu word skjal með drögum að skýrslunni sem A, […] hjá Ö, hafi sent með tölvupósti til B, […] Ö […], þann 13. ágúst 2014 með orðunum „prenta út“ í yfirskrift. Word skjalið hafi borið með sér ýmsar athugasemdir sem innfærðar hafa verið með ritvinnsluforriti og sé notandi sem þær gerði auðkenndur „Fundarherbergi“. Heiti skjalsins „Ö […].docx“ bendi til þess að þau drög ásamt athugasemdum hafi verið dagsett 14. febrúar sama ár og skammstöfunin „[…]“ kunni að benda til þess að yfirlesarinn hafi verið A. Skjalið sjálft sé hins vegar tímasett í janúar 2014 samkvæmt forsíðu sinni sem beri fulla titilinn „X hf. – […]“. Samkvæmt 1 kafla skjalsins um markmið og afmörkun (e. Objective and scope) hafi það verið byggt á staðreyndum og aðstæðum (e. facts and circumstances) sem X hf. hafi veitt Z á tímabilinu nóvember-desember 2013. Einnig komi fram að Z hafi reitt sig á upplýsingar veittar af Ö í viðtölum án endurskoðunar eða staðfestingar. Enn fremur segir að í köflum 3 og 4 í þessum skýrsludrögum sé meðal annars að finna drög Z að skipuriti fyrir stjórnkerfi Ö og umfjöllun um stjórn og ákvarðanatöku innan samstæðunnar. Í kafla 4 sé umfjöllun um hlutverk og valdssvið hvers og eins af æðstu stjórnendum Ö. Lengst og ítarlegust þar á meðal sé umfjöllun um stjórnarformann (CEO) Ö, C. Sú lýsing Z einkennist í aðalatriðum af því að undirstrikuð séu mikil og fjölþætt áhrif stjórnarformannsins á starfsemi samstæðunnar. Meðal annars komi fram að hann sé eini framkvæmdastjóri (e. Managing Director) Ö og að engin formleg framkvæmdastjórn sé innan X hf. Hins vegar njóti stjórnarformaðurinn þar aðstoðar nánar tilgreindra millistjórnenda (CFO (fjármálastjóra), CAO (aðalbókara), CC (væntanlega yfirlögfræðings)), auk starfsmanns sem sinni viðskiptaþróun (business development officer) og persónulegs aðstoðarmanns. Aðrir lykilstarfsmenn í samstæðunni séu dreifðir um viðkomandi fyrirtæki samstæðunnar og stjórnarformaðurinn sé í samskiptum við þá daglega. Stjórnarformaðurinn sé miðpunktur starfseminnar og hafi bein áhrif á áætlanagerð um […]. Nánari umfjöllun í skjalinu um hlutverk og störf stjórnarformannsins í einstökum atriðum að meginstefnu í sömu átt um áhrif hans á starfsemi Ö í einstökum atriðum. Fyrrgreindar athugasemdir skráðar á notandann „Fundarherbergi“ sem skjalið hafi borið með sér séu margar við þessa umfjöllun Z um hlutverk og áhrif stjórnarformanns innan samstæðunnar. Efni þeirra megi nánar rekja við fyrirtöku kröfunnar en þær beri að meginstefnu með sér að sá eða sú sem athugasemdirnar geri af hálfu Ö hafi ekki fellt sig við efni og/eða framsetningu þessara upplýsinga í skýrslunni og haft athugasemdir þar við sem lýst sé eða gefnar séu í skyn í athugasemdunum. Fram kemur að fyrir liggi einnig í gögnum málsins tölvupóstsamskipti milli Æ og A, auk D, starfsmanns Ö, varðandi þetta verkefni frá og með 1. september 2014, eða um 2 vikum eftir að A hafi sent B fyrrnefnd skýrsludrög með athugasemdum. Í tölvupósti Æ til A og D 1. september 2014 komi meðal annars fram: „[…].“ Um viku síðar eða 9. september 2014 hafi Æ sent A og D tölvupóst þar sem hann þakki þeim fyrir „góða og gagnlega endurgjöf á skýrslurnar“ og sendi uppfærð drög að skýrslunum sem hann taki fram að hafi verið „uppfærðar til samræmis við athugasemdir ykkar“. Uppfærð drög að þeirri skýrslu sem hér um ræðir („20140907_Draft_Ö […].docx“) beri með sér að hafa tekið töluverðum breytingum í þá átt að draga úr fyrri umfjöllun um hlutverk og áhrif stjórnarformannsins í starfsemi Ö. Fram kemur að samkvæmt framangreindu virðist mega ráða af fyrirliggjandi gögnum að innan Ö hafi komið fram athugasemdir við þá umfjöllun í skýrsludrögum Z sem um ræði, sem eins og fyrr segir hafi verið byggð á upplýsingum og að því er virðist viðtölum Z við starfsmenn Ö fáeinum mánuðum fyrr. Ljóst sé einnig að einhverjir ótilgreindir „ákveðnir þættir“ í þessari vinnu Z fyrir Ö hafi vakið óánægju Ö sem komið hafi verið á framfæri á fundi C með yfirmönnum þess starfsmanns Z, Æ, sem virðist hafa haft þetta verkefni með höndum af hálfu Z gagnvart Ö. Af skrifum hans til A og D í framhaldinu megi ráða að Z hafi brugðist við með því að uppfæra skýrslur sínar í samræmi við óskir eða athugasemdir Ö. Ekki sé þó unnt að ráða með ótvíræðum hætti af þessum gögnum hverjar þessar athugasemdir hafi nákvæmlega verið eða óánægja Ö beinst að. Þá segir að við rannsókn embættisins hafi meðal annars þýðingu að leitast við að upplýsa með að því marki sem unnt sé hvernig töku ákvarðana hafi verið háttað og stefnumörkunar innan Ö varðandi starfsemi samstæðunnar […] og einstaka þætti hennar, vitaskuld þá einkum varðandi þau meintu brot sem til rannsóknar séu í málinu. Ljóst sé að sú starfsemi og þau ætluðu brot hafi átt sér meðal annars stað á þeim tíma sem unnið hafi verið að gerð þessarar skýrslu Z. Einnig kunni að hafa þýðingu hvort, hvernig, á hvaða tímum og með hvaða hætti vitneskja um einstaka þætti í þeirri starfsemi kunni að hafa verið fyrir hendi hjá æðstu stjórnendum samstæðunnar […]. Til að upplýsa þetta telji embættið að haft geti þýðingu hvers konar gögn sem varpað geti ljósi, almennt eða um afmörkuð atriði, á stjórnarhætti og skipulag starfsemi Ö í reynd á viðkomandi tíma. Ekki síst eigi það við um gögn eða upplýsingar sem aflað hafi verið af endurskoðunarfyrirtæki frá samstæðunni sjálfri í tengslum við sérstaka samantekt á þessum atriðum, líkt og hér eigi við. Embættið leitist því við með kröfu þessari að afla frá Z allra viðkomandi gagna varðandi þessa vinnu Z fyrir Ö, eins og nánar sé lýst í kröfunni. Í fyrirliggjandi gögnum um þessi efni komi fram að Z […] hafi sinnt þessu verkefni fyrir Ö. Ekki sé ljóst með nokkra hugsanlega nánari skiptingu eða ábyrgð á verkefninu innan einstakra sviða Z, til að mynda milli endurskoðunar-, ráðgjafar- eða skatta- og lögfræðisviða fyrirtækisins, en svo virðist sem Z ehf., kt. […], og dótturfélag þess Þ ehf., kt. […], séu rekin í nánum tengslum og ekki endilega unnt að greina mikið á milli þeirra eins og félagið birtist út á við. Þar sem eðli máls samkvæmt sé ekki unnt af fyrirliggjandi gögnum að afmarka nánar undir hvaða tilteknu merkjum eða kennitölu innan Z umrædd þjónusta hafi formlega séð verið veitt, og raunar verði ekki séð að það geti yfir höfuð skipt máli með hliðsjón af eðli kröfu af þessum toga, beinist krafan að báðum þessum félögum í sameiningu. Rétt sé að nefna að tengt nafni og rekstri Z í dag sé þriðja félagið með sjálfstæða kennitölu, E ehf., kt. […], en líkt og ráða megi af kennitölunni hafi það félag ekki verið til þegar þau atvik hafi gerst sem krafan varði. Því þyki ekki ástæða til að beina kröfunni einnig að því félagi. Í öðru lagi beinist krafan að gögnum og upplýsingum sem Z kunni að búa yfir vegna starfa við reikningsskil og bókhald fyrir X hf. og Y ehf. ásamt dóttur- eða hlutdeildarfélögum þeirra. Samkvæmt upplýsingum embættisins hafi bókhald og reikningsskil félaga í samstæðu Ö verið unnið af Z frá árinu 2011 og fram á árið 2020. Félög tengd […]starfsemi Ö hafi lengst af heyrt undir X hf. sem dótturfélög en hafi verið færð undir Y ehf. við skipulagsbreytingar á samstæðunni árið 2018. X hf. og Y ehf. skili samstæðureikningi […] sem Z hafi sem fyrr segir fært fyrir félögin. Við gerð samstæðureiknings við reikningsskil sé meginreglan að reikningar móðurfélags og allra dótturfélaga þess séu sameinaðir í eitt, sbr. ákvæði laga nr. 3/2006, um ársreikninga, og 11. gr. reglugerðar nr. 696/2019, um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga. Samkvæmt þessu og í ljósi ofangreindra upplýsinga um þjónustu Z við Ö á árunum sem rannsókn taki til sé talin ástæða til að ætla að hjá Z kunni þannig að vera fyrir hendi gögn eða upplýsingar um þann […]rekstur Ö […] undir dótturfélögum í samstæðunni og tengd atvik sem rannsókn beinist að. Fyrirhuguð gagna- og upplýsingaöflun samkvæmt þessum lið kröfunnar stefni að því að ganga úr skugga um hvort svo sé. Við það megi bæta að vegna rannsóknar á ætluðu peningaþvætti tengdu frumbrotum í málinu sé einnig nauðsynlegt að leitast við að upplýsa atriði varðandi fjárhag- og rekstrarafkomu viðkomandi félaga í samstæðu Ö. Í ljósi hlutverks Z við reikningsskil á samstæðugrundvelli fyrir samstæðuna megi telja líklegt að þau gögn sem kunni að vera til um reikningsskil viðkomandi félaga innan samstæðunnar, að meðtöldum tengdum gögnum, svo sem vinnugögnum og samskiptagögnum, sé að finna hjá Z. Saksóknari greinir frá því að á sama hátt og með fyrri lið kröfunnar hafi embættið ekki upplýsingar á þessu stigi, og engin tök á að upplýsa nánar, hvort eða með hvaða hætti fyrrgreind þjónusta sem Z hafi veitt Ö í sambandi við reikningsskil, eða einstaka þætti hennar, hafi verið að einhverju leyti greind niður eftir einstökum sviðum félagsins. Í ljósi þessarar óvissu verði krafan hér einnig að beinast bæði að Z ehf. og Þ ehf., sbr. nánari afmörkun í kröfunni. Þessi síðari liður kröfunnar lúti einnig að því að viðkomandi starfsmönnum Z sem hafi átt þátt í gerð reikningsskila fyrir samstæðu Ö verði gert skylt að veita embættinu upplýsingar um þau efni. Telja megi ljóst að starfsmenn Z sem hafi unnið að þessum verkefnum hafi haft yfirgripsmikla þekkingu á fjármálum og stjórnskipulagi Ö og einstakra félaga innan samstæðunnar og kunni að geta varpað ljósi á rekstur og hlutverk einstakra félaga í samstæðunni sem og raunverulegan þátt einstaklinga í starfsemi einstakra hluta samstæðunnar. Embættið hafi eðli máls samkvæmt ekki á þessu stigi upplýsingar um það hvaða tilteknu starfsmenn Z hafi átt þátt í að sinna þessum verkefnum fyrir Ö og taki afmörkun kröfunnar mið af því. Áður hafi verið fjallað um afmörkun kröfunnar gagnvart samstæðunni í heild og vísast til þeirrar umfjöllunar. Þess sé óskað með vísan til 1. mgr. 104. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, að krafa þessi hljóti meðferð fyrir dómi án þess að þeir sem hún beinist að verði kvaddir á dómþing. Sú ósk sé sett fram með vísan til rannsóknarhagsmuna og almennra varúðarsjónarmiða þar að lútandi. Beinir hagsmunir Z sjálfs af andlagi kröfunnar verði að mati embættisins ekki taldir verulegs eðlis, enda hafi rannsókn ekki beinst að Z sjálfu sem félagi eða starfsmönnum þess heldur sé krafa þessi eingöngu sett fram, óhjákvæmilega að lögum, til að óska heimildar til afléttingar lögbundinni þagnarskyldu Z og starfsmanna þess um gögn og upplýsingar frá þriðja aðila, þ.e. Ö. Enda þótt embættið hafi haft upplýsingar um að Z sinni ekki lengur þeim samstæðureikningsskilum fyrir Ö sem það gerði áður samkvæmt framangreindu hafi embættið á sama tíma engar áreiðanlegar upplýsingar um hvort eða með hvaða hætti viðskipta- eða hagsmunasamband kunni enn að vera á milli Ö og Z að öðru leyti. Hafa verði í huga þar stærð Ö og víðtækar eignir eða yfirráð þess í öðrum félögum í íslensku atvinnulífi og um leið einnig stærð og tiltölulega fyrirferð Z sem þjónustuveitanda. Óhjákvæmilegt sé einnig hér að taka mið af að enda þótt rannsókn hafi ekki beinst að Z samkvæmt framangreindu sé almennt séð ekki unnt að útiloka að gögn og upplýsingar sem aflað yrði á grundvelli úrskurðar í samræmi við kröfuna gætu leitt í ljós atriði sem beina myndu rannsókn að Z eða starfsmönnum þess. Þar sem embættið hafi ekki, og sé ófært að öðlast, áreiðanlega yfirsýn yfir framangreind atriði fyrirfram teljist rétt í ljósi varúðar við gæslu rannsóknarhagsmuna að setja fram þessa ósk. Saksóknari greinir frá því að atvik málsins samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verði nánar reifuð fyrir dóminum við fyrirtöku sé þess óskað. Með vísan til málsatvika og röksemda sé þess farið á leit að rannsóknaraðgerðir samkvæmt kröfu þessari verði heimilaðar eins og krafist sé. Niðurstaða: Í máli þessu hefur héraðssaksóknari til rannsóknar ætluð brot gegn ákvæðum 109. og 264. gr., 264. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og eftir atvikum ákvæði XXVI. kafla sömu laga. Er rökstutt að í þágu rannsóknar málsins sé héraðssaksóknara nauðsynlegt að fá aflétt þagnarskyldu endurskoðenda samkvæmt 30. gr. núgildandi laga um endurskoðendur, nr. 94/2019, og 30. gr eldri laga nr. 79/2008 og heimild til leitar og haldlagningar gagna samkvæmt lögum nr. 88/2008. Að virtum gögnum málsins og með vísan til 2. mgr. 68. gr. sbr. 2. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 er fallist á kröfu héraðssaksóknara eins og hún er fram sett.   Ú R S K U R Ð A R O R Ð: Endurskoðunarfyrirtækinu Z ehf., kt. […], dótturfélagi þess Þ ehf., kt. […] og Æ, kt. […], er skylt að veita embætti héraðssaksóknara upplýsingar og afhenda gögn varðandi þjónustu sem veitt var X hf., kt. […], og eftir atvikum dótturfélögum í samstæðu X hf., á árunum 2013 til 2014 eða eftir atvikum lengur vegna gerðar skýrslu eða samantektar fyrir félögin varðandi […], að meðtöldum hvers konar tengdum vinnugögnum og samskiptagögnum, svo sem minnisblöðum, myndum, glærukynningum, skjaladrögum, upptökum eða endurritum munnlegra samtala, bréfum og tölvupóstsamskiptum. Endurskoðunarfyrirtækinu Z ehf., kt. […], og dótturfélagi þess Þ ehf., kt. […], er ásamt öllum þeim fyrrverandi eða núverandi starfsmönnum eða eigendum sömu félaga sem kunna að hafa af hálfu félaganna veitt eða átt þátt í að veita þjónustu sem krafan varðar eða búa yfir upplýsingum varðandi hana skylt að veita embætti héraðssaksóknara upplýsingar og afhenda gögn varðandi bókhald og reikningsskil félaganna X hf., kt. […], Y ehf., kt. […], og allra dóttur- eða hlutdeildarfélaga sömu félaga á tímabilinu 2011 til 2020, að meðtöldum hvers konar undir- eða frumgögnum varðandi einstök félög og tengdum vinnugögnum og samskiptagögnum, svo sem minnisblöðum, myndum, glærukynningum, skjaladrögum, upptökum eða endurritum munnlegra samtala, bréfum og tölvupóstsamskiptum.
Mál nr. 9/2020
Ærumeiðingar Tjáningarfrelsi Friðhelgi einkalífs Stjórnarskrá Sératkvæði
B höfðaði mál gegn J og krafðist ómerkingar fimm nánar tiltekinna ummæla sem birst höfðu í bók J. Þá gerði B kröfu um að J yrði gert að greiða sér miskabætur vegna þeirra. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ummælin hefðu verið liður í rökstuddri umfjöllun J um mikilsvert málefni sem rúmt tjáningarfrelsi gildi um og þótt ummælin hefðu haft á sér býsna sterkt yfirbragð staðhæfinga yrði talið rétt að líta svo á að í þeim öllum hefði falist gildisdómur J eða ályktanir sem hann taldi sig hafa getið dregið af atvikum máls og aðstæðum öllum. Þótt ummælin hefðu bæði verið beinskeytt og afar hvöss yrði ekki talið að þau hefðu verið svo úr hófi fram að þörf væri á því í lýðræðislegu samfélagi, í þágu orðspors annarra eða trausts á dómstólum, að takmarka tjáningarfrelsi J með því að ómerkja þau. Þá kom fram í dómi réttarins að þótt ljóst væri að ummælin hefðu meðal annars átt við um B og kynnu að hafa vegið að starfsheiðri hans yrði hvorki talið að í þeim hefði falist hrein móðgun né sérstaklega gróf eða persónuleg aðdróttun. Einnig var talið að þótt færa mætti gild rök fyrir því að engin þörf hefði verið á því að J tæki svo sterkt og fyrirvaralaust til orða sem hann gerði þá yrði ekki hjá því litið að vernd tjáningarfrelsisins tæki ekki aðeins til efnis ummæla heldur einnig til framsetningar þeirra. Að því gættu að rétturinn til að tjá ósanngjörn, móðgandi og stuðandi ummæli nyti verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar yrði að líta svo á að J hefði með ummælum sínum ekki vegið svo að æru B að það hefði farið út fyrir þau mörk tjáningarfrelsisins sem lög og réttarframkvæmd hafi mótað. Var J því sýknaður af kröfum B.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Árni Vilhjálmsson lögmaður, Hildur Briem settur landsréttardómari, Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari, Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari og Þórunn Guðmundsdóttir lögmaður. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. febrúar 2020. Hann krefst þess að ómerkt verði síðargreind ummæli sem nánar eru tiltekin í fimm liðum sem gagnáfrýjandi viðhafði um hann í bókinni „Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“. Hann krefst þess einnig að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 2.000.000 króna í miskabætur með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. nóvember 2017 til 15. desember sama ár en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum. Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 21. apríl 2020. Hann krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað og að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér málskostnað á öllum dómstigum. I Ágreiningur málsins lýtur að því hvort ummæli sem gagnáfrýjandi viðhafði um aðaláfrýjanda í bók sinni „Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“ fela í sér ærumeiðandi aðdróttanir sem brjóti gegn lögvörðum rétti aðaláfrýjanda til friðhelgi einkalífs samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar eða hvort ummælin rúmast innan tjáningarfrelsis gagnáfrýjanda sem varið er af 73. gr. stjórnarskrárinnar. Með héraðsdómi var gagnáfrýjandi sýknaður af kröfum aðaláfrýjanda og var sú niðurstaða staðfest með hinum áfrýjaða dómi. Í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms var vísað til þess að þótt ummæli gagnáfrýjanda í fyrrnefndri bók hefðu á sér mynd staðhæfinga um staðreyndir yrði að telja að gagnáfrýjandi hefði verið að fella gildisdóm með því að lýsa eigin skoðunum og ályktunum. Að því virtu og því að rétturinn til að tjá ósanngjörn, móðgandi og stuðandi ummæli í þessu samhengi nyti einnig verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar var talið að með ummælum sínum hefði gagnáfrýjandi ekki vegið svo að æru aðaláfrýjanda að það hefði farið út fyrir þau mörk tjáningarfrelsisins sem lög og réttarframkvæmd hefðu mótað. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að dómur í málinu myndi hafa almennt gildi um frelsi lögmanna, og annarra sérfróðra aðila sem gegna ábyrgðarhlutverki innan réttarvörslukerfisins til að tjá sig opinberlega um embættisverk dómara. Því gæti úrlausn málsins að því leyti haft verulegt almennt gildi umfram úrlausnir sem áður hafa gengið. II Aðaláfrýjandi er hæstaréttardómari og var skipaður dómari við réttinn árið 2012. Gagnáfrýjandi var hæstaréttardómari í tæp átta ár en lét af störfum í september 2012 og starfar nú sem lögmaður, auk þess sem hann hefur fengist við kennslu á háskólastigi. Gagnáfrýjandi ritaði bók, sem gefin var út á árinu 2017, er hann nefndi „Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“. Fjallar bókin samkvæmt inngangi hennar um störf Hæstaréttar Íslands síðustu ár og skoðun höfundar á því hvernig dómstóllinn hefði staðið sig við að fást við þau dómsmál sem tengst hefðu efnahagsáföllunum haustið 2008. Bókin var gefin út í enskri þýðingu árið 2018 og ber þá heitið „When justice failed“. Í 3. kafla bókarinnar sem ber heitið „Hugarástand við Hæstarétt“ fjallar gagnáfrýjandi ítarlega um dóm Hæstaréttar frá 17. febrúar 2012 í máli nr. 279/2011. Í því máli var ákærði sakfelldur fyrir innherjasvik og gert að sæta fangelsi í tvö ár og upptöku á tilgreindum peningainnstæðum. Aðaláfrýjandi, sem þá var settur hæstaréttardómari, myndaði meirihluta réttarins í málinu ásamt þremur öðrum dómurum og eru allir dómendur nafngreindir í lok kaflans. Í bók gagnáfrýjanda birtust ummæli sem aðaláfrýjandi telur ærumeiðandi fyrir sig. Ummælin er að finna í 3. og 5. kafla bókarinnar. Í inngangi 3. kafla segir að í honum verði vikið að hugarástandi sem bersýnilega hafi ríkt í Hæstarétti þegar fjallað hafi verið um mál sem tengdust „hruninu“. Er þeirri skoðun gagnáfrýjanda lýst í upphafi kaflans að Hæstiréttur hafi virst tilbúinn til að víkja til hliðar skyldum sínum til að dæma einungis eftir lögum í þágu ætlaðra viðhorfa almennings á hverjum tíma. Jafnframt segir gagnáfrýjandi að sér hafi fundist sem dómararnir væru sérstaklega áhugasamir um að sýna nú þjóðinni að þeir myndu standa sig í að láta nú „þrjótana“ í hruninu finna fyrir því og kveðst hann fyrst hafa merkt þetta hugarfar á ákvörðunum réttarins um gæsluvarðhald í rannsóknarskyni yfir fyrrverandi stjórnendum bankanna. Ef frá er talin almenn umfjöllun í inngangi kaflans fjallar hann um framangreindan dóm Hæstaréttar nr. 279/2011. Aðaláfrýjandi krefst í fyrsta lagi ómerkingar á tvennum ummælum sem er að finna á bls. 61 og 63 í bókinni en þar segir „Dómsmorð“ og er í báðum tilvikum um að ræða millifyrirsagnir. Í öðru lagi eru tvenn önnur ummæli á bls. 63 þar sem segir: „Ég hika ekki við að segja að á Baldri hafi við meðferð Hæstaréttar verið framið það sem kallað hefur verið dómsmorð“ og „Þessi skilgreining á vel við málið gegn Baldri. Felldur var dómur, sem dómararnir vissu, eða að minnsta kosti hlutu að vita, að ekki stóðst hlutlausa lagaframkvæmd.“ Í þriðja lagi er krafist ómerkingar á ummælum í 5. kafla bókarinnar sem ber heitið „Dómar eftir „hrun““ á bls. 114 en þar segir: „Þar voru færð rök að því að meirihluti réttarins hefði fellt dóm yfir ákærða sem að mínum dómi félli undir hugtakið dómsmorð eins og það hefur verið skýrt.“ Í umræddri bók á bls. 63 vísar gagnáfrýjandi til eftirfarandi skilgreiningar úr bókinni „Dómsmorð“ eftir norska lögmanninn J.B. Hjort sem hann segir hafa komið út í íslenskri þýðingu árið 1954: „Dómsmorð er ... dráp af ásettu ráði, þar sem réttarfarið verður að morðtólinu. Hér er því um „intentional (ásetnings-) miscarriage of justice“ að ræða. Með orðinu dómsmorð er einnig átt við hitt, þegar verknaðurinn leiðir eigi til dauða fórnarlambsins, heldur óverðskuldaðrar refsingar, eins og t.d. í Dreyfusar málinu; og hægt er að fremja það, þar sem lögmál þau, er gilda um vandaðan málsrekstur, eru brotin, svo sem með þarf, til þess að komast megi að rangri niðurstöðu.“ Er það sú skilgreining sem vísað er til í umstefndum ummælum á bls. 63 í bókinni. Gagnáfrýjandi hefur áður fjallað opinberlega um gagnrýni sína á nefndan dóm réttarins í máli nr. 279/2011 í riti sínu „Í krafti sannfæringar“ sem kom út árið 2014. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi gerir aðaláfrýjandi grein fyrir því í stefnu í héraði að gagnáfrýjandi hafi verið vanhæfur til að taka þátt í meðferð framangreinds sakamáls fyrir Hæstarétti vegna vinatengsla sinna við ákærða en samt freistað þess, eftir flutning málsins og meðan á samningu dóms stóð, að sannfæra aðaláfrýjanda og tvo aðra nafngreinda dómara sem dæmdu málið um að sýkna ákærða í málinu. Í skriflegri aðilaskýrslu gagnáfrýjanda kemur fram að hann fellst á að ekki hefði verið, við þær aðstæður sem uppi voru, viðeigandi af honum að hafa afskipti af samningu dómsins í umræddu máli og á því hefði hann beðist afsökunar á sínum tíma. III 1 Af hálfu aðaláfrýjanda er í meginatriðum á því byggt að með öllum framangreindum ummælum hafi verið vegið harkalega að æru hans og starfsheiðri. Í ummælunum felist fyrirvaralaus staðhæfing um að aðaláfrýjandi hafi misfarið með dómsvald og dæmt saklausan mann í fangelsi vitandi vits. Ómögulegt sé að skilja ummælin öðruvísi en svo að aðaláfrýjanda sé borin á brýn háttsemi sem varðað geti fangelsisrefsingu samkvæmt almennum hegningarlögum. Gagnáfrýjandi hafi í engu sýnt fram á að staðhæfingar hans séu réttar. Við mat á ummælum gagnáfrýjanda beri í fyrsta lagi að gæta þess að hann hafi verið dómari við Hæstarétt og af þeirri ástæðu hafi ummæli hans meiri áhrif í almennri umræðu. Þá sé hann jafnframt starfandi lögmaður og bundinn af siðareglum lögmanna og því verði að gera frekari kröfur til hans en annarra. Í öðru lagi telur aðaláfrýjandi að röng ummæli gagnáfrýjanda verði með engu réttlætt með því að þau eigi erindi við almenning. Í þriðja lagi sé þess að gæta að aðaláfrýjandi hafi ekki með nokkru móti gefið á sér slíkt færi að hann þurfi að þola ummæli af þessu tagi. Telur aðaláfrýjandi að ummælin séu ærumeiðandi aðdróttanir og feli í sér brot gegn 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ummælin hafi jafnframt verið höfð í frammi, birt og borin út gegn betri vitund, sbr. 1. og 2. mgr. 236. gr. sömu laga. Því beri að ómerkja þau með vísan til 1. mgr. 241. gr. þeirra laga. Öll ummælin séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta æru aðaláfrýjanda. Réttur hans til æruverndar njóti verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og XXV. kafla almennra hegningarlaga. Þá byggir aðaláfrýjandi á því að gagnáfrýjandi hafi vegið með alvarlegum hætti að æru hans og því framið ólögmæta meingerð gagnvart honum sem gagnáfrýjandi beri skaðabótaábyrgð á, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. 2 Gagnáfrýjandi byggir í meginatriðum kröfu sína á því að ummæli hans um „dómsmorð“ hafi beinst að Hæstarétti Íslands sem stofnun en ekki að aðaláfrýjanda sem persónu og beri því að sýkna hann vegna aðildarskorts aðaláfrýjanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá byggir gagnáfrýjandi á því að umrædd ummæli njóti tjáningarfrelsisverndar samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Telur hann að um störf Hæstaréttar Íslands og störf einstaka hæstaréttardómara gildi rúmt tjáningarfrelsi og þá sérstaklega um dóma réttarins í sakamálum eftir efnahagshrunið 2008. Byggir hann á því að ummæli hans hafi falið í sér gildisdóm en ekki staðhæfingar um staðreyndir og því þurfi hann ekki að sanna réttmæti ummælanna. Verði að skoða ummæli hans um að framið hafi verið „dómsmorð“ í umræddu máli í samhengi við umfjöllun í bók hans í heild sinni og þá sérstaklega í samhengi við þá kafla þar sem gagnrýnin hafi komið fram. Fullt tilefni hafi verið fyrir gildisdómi hans og ummælin því þegar af þeirri ástæðu innan marka leyfilegrar tjáningar. Byggir gagnáfrýjandi á að hvassyrði, stóryrði, ögrun og ýkjur njóti sérstakrar tjáningarfrelsisverndar þegar um sé að ræða málefni sem hafi þjóðfélagslega þýðingu. Hann mótmælir því sérstaklega að hann hafi í bók sinni sakað aðaláfrýjanda um refsiverða háttsemi. Að lokum byggir gagnáfrýjandi á því að verði ummælin talin fela í sér staðhæfingu um staðreynd þá sé umfjöllun hans rétt og því beri að sýkna hann. Enn fremur vísar hann til þeirra „kælingaráhrifa“ á frjálsa tjáningu um málefni Hæstaréttar sem dómur í málinu kynni að hafa ef fallist yrði á dómkröfur aðaláfrýjanda á hendur honum. Gagnáfrýjandi mótmælir því að aðaláfrýjandi hafi orðið fyrir miska vegna ummælanna, sbr. 26. gr. laga nr. 50/1993. Í fyrsta lagi hafi orðið „dómsmorð“ einnig verið notað um sama dóm og hér ræðir í annarri tilgreindri bók eftir gagnáfrýjanda. Í öðru lagi sé miski hans enginn þar sem gagnrýnin hafi beinst að stofnuninni Hæstarétti Íslands en ekki honum persónulega. Í þriðja lagi þá hafi gagnáfrýjandi slegið þann varnagla við umfjölluninni að aðaláfrýjandi „hljóti“ að hafa verið ljóst að dómurinn stæðist ekki. Í fjórða lagi telur hann ummælin varin af tjáningarfrelsi sínu og geti því aldrei talist ólögmæt meingerð í skilningi fyrrnefnds ákvæðis. IV 1 Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar en hann verður að ábyrgjast þær fyrir dómi sbr. 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Tjáningarfrelsinu má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra enda teljist þær takmarkanir nauðsynlegar og samræmast lýðræðishefðum. Tjáningarfrelsið nýtur jafnframt verndar í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Friðhelgi einkalífs nýtur jafnframt verndar svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Æra og mannorð eru þáttur í einkalífi manna sem nýtur verndar samkvæmt ákvæðunum, svo sem margoft hefur verið staðfest í dómum réttarins og jafnframt dómum Mannréttindadómstóls Evrópu. Ágreiningur þessa máls lýtur að því hvort gagnáfrýjandi hefur með umdeildum ummælum sínum gengið gegn framangreindri vernd einkalífs aðaláfrýjanda. Í dómaframkvæmd réttarins og dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hafa mótast viðmið og reglur sem beita ber við úrlausn um framangreint álitaefni. Við úrlausn þessa atriðis þarf því að meta sjónarmið beggja aðila í ljósi þess að hvort tveggja, tjáningarfrelsi gagnáfrýjanda og æruvernd aðaláfrýjanda, eru meðal mannréttinda sem njóta verndar stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Í 235. gr. almennra hegningarlaga er því lýst sem refsiverðu athæfi að drótta að öðrum manni einhverju því sem verða myndi virðingu hans til hnekkis eða bera slíka aðdróttun út. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 236. gr. sömu laga er refsivert að bera slíka aðdróttun út opinberlega eða gegn betri vitund. Samkvæmt 1. mgr. 241. gr. sömu laga má í meiðyrðamáli dæma óviðurkvæmileg ummæli ómerk, ef sá krefst þess, sem misgert er við. Þá er í b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga að finna heimild til þess að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Framangreind ákvæði almennra hegningarlaga fela í sér skorður við tjáningarfrelsi sem settar hafa verið með lögum í þágu markmiðs sem rúmast innan 3. mgr. 73. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. 2 Gagnáfrýjandi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, því að umdeild ummæli hafi ekki beinst að aðaláfrýjanda heldur að Hæstarétti sem stofnun. Umdeild ummæli gagnáfrýjanda verða ekki skilin öðruvísi en sem gagnrýni á störf þeirra fjögurra dómara sem mynduðu meirihluta í hæstaréttarmáli nr. 279/2011. Nöfn þeirra eru birt í dóminum á vefsíðu réttarins og auk þess nafngreinir gagnáfrýjandi þá á bls. 83 í bók sinni. Fer því ekki á milli mála að þeim ummælum er beint að aðaláfrýjanda ásamt fleiri nafngreindum dómurum. Samkvæmt þessu er því hafnað að sýkna beri gagnáfrýjanda á grundvelli aðildarskorts aðaláfrýjanda. 3 Gagnáfrýjandi byggir á því að hann njóti rýmkaðs tjáningarfrelsis, meðal annars vegna þess að umdeild ummæli hafi verið þáttur í mikilvægri þjóðfélagsumræðu sem eigi brýnt erindi við almenning. Dómsvaldið er einn þriggja þátta ríkisvaldsins og einn af hornsteinum lýðræðislegs samfélags. Meðferð dómsvalds er því þýðingarmikil starfsemi og varðar það almenning miklu hvernig farið er með slíkt vald. Gagnrýni á meðferð dómsvalds og almennt á starfsemi dómstóla er af þessum sökum mikilvægur þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í fjölmörgum dómum tekið fram að þeir sem taka þátt í umfjöllun um mikilvæg málefni sem eiga brýnt erindi við almenning njóti almennt rúms tjáningarfrelsis og að lítið svigrúm felist í 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans til að skerða það frelsi. Umfjöllun um dómstóla hefur verið talin til slíkra mikilvægra málefna. Rit gagnáfrýjanda fjallar um starfsemi dómstóla, einkum Hæstaréttar, og þau ummæli sem sakarefni málsins varða snúa að gagnrýni á tiltekinn dóm réttarins í einu af fyrstu sakamálunum sem átti rót að rekja til atvika er tengdust hruni fjármálakerfisins hér á landi árið 2008. Efni ummælanna varðar því ótvírætt málefnasvið sem rúmt tjáningarfrelsi gildir um. 4 Í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hefur, með hliðsjón af framangreindri stöðu dómsvaldsins í lýðræðislegu samfélagi, verið á því byggt að dómarar þurfi vegna embættisstarfa sinna og stöðu að þola harðari gagnrýni en gildir um almenna borgara. Takmarkast sú gagnrýni sem þeir kunna að þurfa að þola stöðu sinnar vegna ekki við fræðilega eða almenna gagnrýni heldur geta þeir þurft að þola persónulega gagnrýni upp að vissu marki, sbr. til hliðsjónar dóma Mannréttindadómstóls Evrópu 23. apríl 2015 í máli Morice gegn Frakklandi (mgr. 131) og 8. desember 2020 í máli Panioglu gegn Rúmeníu (mgr. 113). Í þessu efni hefur staða dómara þó ekki verið lögð að jöfnu við stöðu stjórnmálamanna sem geta vegna stöðu sinnar þurft að þola enn hvassari umfjöllun. Í dómum Mannréttindadómstólsins hefur þó verið áréttað að í opinberri umfjöllun um dómstóla beri að gæta að hlutverki þeirra í réttarskipaninni og að mikilvægi þess að dómstólar njóti trausts almennings til að þeir geti staðið vörð um þau gildi sem réttarríkið hvílir á og rækt skyldur sínar í því efni. Það geti því þurft að vernda dómskerfið og dómara fyrir meiðandi tjáningu. Hafa mörkin í því efni verið dregin við mjög alvarleg eða gróflega meiðandi ummæli sem eiga sér ekki viðhlítandi grundvöll. Í þessu efni hefur verið á það bent að dómarar, stöðu sinnar vegna, eigi erfitt með verjast slíkri gagnrýni með þátttöku í opinberri umræðu, sbr. til hliðsjónar áðurnefndan dóm Mannréttindadómstólsins í máli Morice gegn Frakklandi (mgr. 128). Þá má vísa um þetta til dóms sama dómstóls frá 26. apríl 1995 í máli Prager o.fl. gegn Austurríki og áðurnefnds dóms í máli Panioglu gegn Rúmeníu. Tjáningarfrelsi starfandi dómara sætir vissum takmörkunum, meðal annars þeim að dómarar tjá sig alla jafna ekki um niðurstöður sínar að öðru leyti en því sem fram kemur í dómsúrlausn þeirra. Dómarar hafa því takmarkað svigrúm til að taka þátt í opinberri umræðu um störf sín og svara gagnrýni á dómsúrlausnir sínar. Á þessum forsendum verður að telja að mjög alvarlegar ásakanir í garð dómara sem eru í raun tilhæfulausar njóti ekki verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. 5 Aðila greinir á um hvaða áhrif staða gagnáfrýjanda hefur við mat á lögmæti ummæla hans. Gagnáfrýjandi byggir á því að tjáningarfrelsi hans sé rýmra en ella sökum stöðu hans sem fyrrverandi hæstaréttardómari og starfandi lögmaður, en vegna þeirrar stöðu hafi hann betri forsendur en aðrir til að koma auga á bresti í dómsýslu réttarins. Aðaláfrýjandi byggir hins vegar á því að gera beri strangari kröfur til gagnáfrýjanda um að gæta varkárni í orðfæri enda megi gera ráð fyrir að orð hans hafi meiri áhrif en ella sökum stöðu hans. Sem lögmaður sé hann bundinn af siðareglum þeirrar stéttar. Vísar aðaláfrýjandi jafnframt til siðareglna dómara en upplýst er að þær voru ekki til á skráðu formi fyrr en þær höfðu verið samþykktar á aðalfundi Dómarafélags Íslands 24. nóvember 2017, fimm árum eftir að gagnáfrýjandi lét af störfum sem dómari og eftir að bók hans sem mál þetta er risið af kom út. Siðareglur Dómarafélagsins geta því ekki haft gildi í þessu máli. Það er vafalaust að lögmenn hafa mikilvægu hlutverki og skyldum að gegna í réttarvörslukerfinu, bæði í störfum sínum fyrir einstaka umbjóðendur og í samskiptum við aðra sem starfa innan þessa kerfis, þ.m.t. dómstóla. Endurspeglast þessar skyldur lögmanna meðal annars í siðareglum stéttarinnar sem Lögmannafélag Íslands hefur sett, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 með síðari breytingum. Í III. kafla siðareglna lögmanna, þar sem fjallað er um skyldur lögmanna í samskiptum við dómstóla, er sú meginregla sett fram í 1. mgr. 19. gr. að lögmaður skuli sýna dómstólum fulla tillitssemi og virðingu í ræðu, riti og framkomu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins hefur verið vísað til siðareglna evrópsku lögmannasamtakanna (CCBE), sem Lögmannafélag Íslands er aðili að og tekið fram að þær styðji vernd réttarkerfisins, sjá t.d. Morice gegn Frakklandi (mgr. 134). Af eðli starfa lögmanna leiðir, svo sem einnig má ráða af framangreindum siðareglum í heild sinni, að margháttaðar starfsskyldur lögmanna tengjast framgöngu þeirra í málsvarnarstörfum í einstökum málum. Í málflutningsstörfum innan dómstóla er lögmönnum jafnan játað rúmt tjáningarfrelsi að gættum framangreindum ákvæðum siðareglna. Enn fremur er þeim frjálst að tjá sig utan réttar um það sem þeir telja gagnrýnisvert innan dómskerfisins og verður að skoða slíka gagnrýni í ljósi hlutverks lögmanna og sérþekkingar þeirra á málefnum dómskerfisins. Á hinn bóginn verður ekki dregin sú ályktun af siðareglum starfsstéttarinnar að skyldan til að sýna dómstólum fulla tillitssemi og virðingu sé bundin við málflutningsstörf við dómstóla. Hvað gagnáfrýjanda varðar verður þannig að meta háttsemi hans út frá framangreindum kröfum sem gerðar eru til lögmanna. Ekki er unnt að fallast á það með gagnáfrýjanda að fyrrverandi staða hans og áralöng reynsla af starfi hæstaréttardómara rýmki sérstaklega tjáningarfrelsi hans og veiti honum svigrúm út fyrir þær kröfur sem gerðar eru til háttsemi lögmanna. Þvert á móti er það mat dómsins að sú staðreynd að gagnáfrýjandi var um árabil hæstaréttardómari hefði átt að gefa honum ríkt tilefni til að gæta varkárni í orðavali þegar hann setti fram gagnrýni sína á niðurstöðu meirihluta dómenda í máli réttarins nr. 279/2011, þótt sú gagnrýni hans geti átt fullt erindi í almenna þjóðfélagsumræðu, sjá til hliðsjónar áðurnefnt mál Mannréttindadómstólsins í máli Morice gegn Frakklandi og dóm sama dómstóls 30. júní 2015 í máli Peruzzi gegn Ítalíu (mgr. 51). Samkvæmt framangreindu hefur það ótvírætt áhrif á mat á lögmæti ummæla gagnáfrýjanda að hann var starfandi lögmaður þegar hann setti ummælin fram. Jafnframt hefur það þýðingu að þau voru sett fram utan réttar, opinberlega og án nokkurra tengsla við málflutningsstarf gagnáfrýjanda í einstöku máli. Þá er til þess að líta að gagnáfrýjanda var í lófa lagið að haga umfjöllun sinni á þann hátt sem samræmdist stöðu hans, enda gafst honum nægt ráðrúm til þess þar sem ummælin birtust í útgefinni bók hans en ekki til að mynda í beinni útsendingu í ljósvakamiðli. Þá er fallist á það með aðaláfrýjanda að óumdeildur vinskapur gagnáfrýjanda við ákærða í máli nr. 279/2011 sé ekki til þess fallinn að rýmka tjáningarfrelsi hans um það dómsmál. 6 Við mat á því hvort umdeild ummæli gagnáfrýjanda fela í sér ólögmætar ærumeiðingar í garð aðaláfrýjanda skiptir máli hvort líta ber á ummælin sem gildisdóm eða staðhæfingu um staðreynd, en aðila greinir á um það í hvorn flokkinn ummælin falli. Almennt njóta menn rýmra tjáningarfrelsis þegar gildisdómar eru felldir en þegar staðhæfingar eru hafðar uppi um staðreyndir. Það birtist meðal annars í því að mönnum verður almennt ekki gert að sanna gildisdóma, eða refsað fyrir þá takist ekki slík sönnun, öfugt við það sem gildir um staðhæfingar um staðreyndir. Þá eru gildisdómar fremur skilgreindir rúmt þegar viðfangsefnið er liður í almennri þjóðfélagsumræðu, svo sem hér háttar til. Jafnframt verður að gæta að þeim sjónarmiðum sem að framan eru rakin varðandi stöðu þess sem ber fram ummælin og að hverjum eða hverju þau beinast. Loks er að gæta að því að jafnvel þótt ekki sé gerð krafa um að þeim sem fellir gildisdóm beri að sanna ummæli sín verður gildisdómurinn engu að síður að eiga sér einhvern grundvöll í staðreyndum. Að endingu ber að hafa í huga það sjónarmið að jafnvel gildisdómar, sem eiga sér einhverja stoð í staðreyndum, kunna að ganga of langt séu þeir of meiðandi og rúmast þá ekki innan tjáningarfrelsis 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmálans. Hin umstefndu ummæli eru rakin í kafla II hér að framan. Við heildstætt mat á þeim er fyrst til þess að líta að öll skírskota þau, beint eða óbeint, til hugtaksins dómsmorð. Aðaláfrýjandi byggir á því að með því að vísa til skilgreiningar J.B. Hjort, sem einnig er rakin í kafla II, hafi gagnáfrýjandi sjálfur afmarkað með hvaða hætti skilja beri orðið „dómsmorð“ í texta bókar hans. Því skipti engu máli hvernig það hugtak verði skilið í almennri umræðu. Verði ummælin ekki skilin öðruvísi en svo að gagnáfrýjandi fullyrði að það hafi verið ætlun aðaláfrýjanda og annarra dómenda sem stóðu að niðurstöðu meirihluta réttarins í nefndu sakamáli að komast að ranglátri og löglausri niðurstöðu með því að sakfella ákærða og refsa honum án tilefnis. Í því felist staðhæfing um staðreynd, nánar tiltekið um refsiverða háttsemi. Gagnáfrýjandi mótmælir öllu framanrituðu og byggir á að um gildisdóm sé að ræða. Þótt það skipti vissulega máli að gagnáfrýjandi vísar til nefndrar skilgreiningar á hugtakinu „dómsmorð“ í bók sinni í samhengi við ummæli sín þykir þó óhjákvæmilegt að líta einnig til þess hver merking hugtaksins er í almennu máli, sé hún önnur en í framangreindri skilgreiningu J.B. Hjort. Má enda ætla að hinn almenni lesandi hafi almenna merkingu hugtaksins jafnframt í huga við lesturinn en ekki einungis hvernig höfundur kýs að skilgreina það. Í orðabók Menningarsjóðs er hugtakið dómsmorð skilgreint svo: „Dauðadómur yfir saklausum manni“. Skylt hugtak, „réttarmorð“, er þar skilgreint sem „það að fella rangan sektardóm í máli (einkum ef sakfelldur er dæmdur til dauða)“. Í Lögfræðiorðabók með skýringum eftir Pál Sigurðsson er hugtakið skilgreint svo: „Það að saklaus maður hefur verið dæmdur sekur, sér í lagi ef hann hefur verið dæmdur til dauða og tekinn af lífi“. Hvergi er í framangreindum skilgreiningum vísað til saknæmisstigs þess sem á þátt í að fremja dómsmorð, svo sem ásetnings. Þá hefur gagnáfrýjandi lagt fram ýmis dæmi um notkun hugtaksins dómsmorð í fjölmiðlaumfjöllun undanfarin ár og eiga þau dæmi það sammerkt að af þeim verður almennt ekki ráðið að ásetningur til þeirra athafna sem dómsmorð er talið lýsa sér í sé talið nauðsynlegt hugtaksskilyrði. Leggja verður þannig til grundvallar að merking hugtaksins „dómsmorð“, þótt hún virðist ekki einhlít, feli almennt ekki í sér staðhæfingu um tiltekið saknæmisstig, svo sem ásetning, af hálfu þeirra sem taldir eru hafa átt þátt í því. Þótt ef til vill megi líta svo á að um „lagalegt“ hugtak sé að ræða felur það ekki í sér heiti brots eða beina tilvísun í tiltekið brot gegn almennum hegningarlögum eða öðrum refsilögum. Með því að tengja hugtakið dómsmorð við þá skilgreiningu J.B. Hjort sem tekin er upp í bók hans jók gagnáfrýjandi sannarlega á alvarleika ummæla sinna. Hvorki í umstefndum ummælum né annars staðar í bók gagnáfrýjanda er þó berum orðum vísað til þess að hann telji þá dómara sem stóðu að niðurstöðu meirihlutans í máli Hæstaréttar nr. 279/2011 seka um refsivert athæfi. Þá verður ekki fallist á að óhjákvæmlegt sé að lesandi bókarinnar dragi þá ályktun. Á það jafnt við um fjórðu ummælin þar sem segir: „Þessi skilgreining á vel við málið gegn Baldri. Felldur var dómur sem dómararnir vissu, eða minnsta kosti hlutu að vita, að ekki stóðst hlutlausa lagaframkvæmd.“ Orðin „vissu, eða minnsta kosti hlutu að vita“ standa þar í beinu samhengi við lokaorð setningarinnar um „hlutlausa lagaframkvæmd“ sem telja verður að feli í sér gildisdóm eins og orðið dómsmorð. Umstefnd ummæli ber að skoða eins og þau koma fyrir samkvæmt orðanna hljóðan og gæta ber þess að ljá þeim ekki alvarlegri merkingu en efni standa til. Jafnframt ber þó að virða þau í því heildarsamhengi sem þau standa í, hvort sem litið er til bókar gagnáfrýjanda í heild eða horft sérstaklega til þeirra kafla bókarinnar sem þau tilheyra. Í 3. kafla bókarinnar sem ber heitið „Hugarástand við Hæstarétt“, þar sem fjögur umstefnd ummæli af fimm standa, leitast gagnáfrýjandi við það að rökstyðja eða gagnrýna út frá lögfræðilegum sjónarmiðum þá skoðun sína að meirihluti Hæstaréttar hafi komist að rangri niðurstöðu í máli nr. 279/2011 og að rétt aðferðafræði samkvæmt hans rökstuddu skoðun hefði leitt til annarrar niðurstöðu. Gagnrýni gagnáfrýjanda er á köflum mjög hvöss og óvægin og í bókinni, meðal annars inngangi 3. kafla, er að finna fleiri hvöss ummæli sem einkum lúta að „hugarástandi“ sem hann telur hafa ríkt í Hæstarétti í kjölfar efnahagshrunsins, svo sem rakið er í kafla II hér að framan. Að þeim ummælum lýtur málssókn þessi ekki þótt þau komi til skoðunar við heildstætt mat á efni hinna umstefndu ummæla. Þegar ummæli gagnáfrýjanda eru virt í ljósi alls framanritaðs verður fallist á að hann hafi notað hugtakið dómsmorð í táknrænni og yfirfærðri merkingu en ekki í bókstaflegri merkingu, til að leggja áherslu á þá skoðun sína að illa hafi tekist til við niðurstöðu meirihluta réttarins. Þótt umdeild ummæli hafi á sér býsna sterkt yfirbragð staðhæfinga telur dómurinn rétt að líta svo á að í þeim öllum felist gildisdómur gagnáfrýjanda eða ályktanir sem hann telur sig geta dregið af atvikum máls og aðstæðum öllum, svo sem einnig var niðurstaða hins áfrýjaða dóms. 7 Tjáningarfrelsið er ein þýðingarmesta grunnstoð lýðræðisþjóðfélags. Það nær ekki aðeins til upplýsinga og hugmynda sem eru taldar hagstæðar eða sem móðga ekki heldur nær frelsið einnig til þeirra sem móðga, stuða eða setja fólk úr jafnvægi. Slíkar kröfur eru gerðar í krafti fjöldans, vegna umburðarlyndis og til að stuðla að víðsýni en án þess er ekki til neitt sem kallast getur lýðræðisþjóðfélag. Samkvæmt dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hefur á síðastliðnum árum þróunin verið markvisst í átt til aukins tjáningarfrelsis. Þótt setja megi því skorður í þágu friðhelgi einkalífs verður að túlka allar skorður á tjáningarfrelsinu þröngt og þörfin fyrir þær verður að vera sannfærandi. Víkur þá að því hvort gildisdómur gagnáfrýjanda hefur falið í sér svo alvarlega og tilhæfulausa atlögu að aðaláfrýjanda að tjáningarfrelsi hins fyrrnefnda verði að víkja fyrir friðhelgi einkalífs hins síðarnefnda. Í því efni kemur fyrst til skoðunar hvort gildisdómur hans á sér einhverja stoð í staðreyndum eða atvikum. Gagnáfrýjandi byggir á því að fullt tilefni hafi verið fyrir gildisdómi hans og ummælin séu þegar af þeirri ástæðu innan marka leyfilegrar tjáningar. Um tilefnið vísar hann, í greinargerð sinni í héraði, til níu nánar tilgreindra atriða með vísan til blaðsíðunúmera í bók sinni. Flest þeirra lúta að lögfræðilegum rökstuðningi og ályktunum gagnáfrýjanda byggðum á efni dóms í máli Hæstaréttar nr. 279/2011. Sum þeirra styðjast auk þess öðrum þræði við staðreyndir eða atvik sem fallast má á að geti rennt vissum stoðum undir sumar ályktanir gagnáfrýjanda. Má þar nefna þá skoðun hans að álagið á Hæstarétt hafi verið of mikið eftir efnahagshrunið, en um það álag hefur verið fjallað á ýmsum vettvangi, m.a. í fjölmiðlum. Þá má nefna dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 25. febrúar 2020 í máli Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur gegn Íslandi þar sem fjallað var um hæfi sama dómara Hæstaréttar og gegndi hlutverki dómsformanns í máli nr. 279/2011. Í ljósi framanritaðs er ekki unnt að segja að sá gildisdómur sem fólst í ummælum gagnáfrýjanda eigi sér enga stoð í staðreyndum eða atvikum. Ummælin voru sem áður segir liður í rökstuddri umfjöllun gagnáfrýjanda um mikilsvert málefni sem rúmt tjáningarfrelsi gildir um. Eins og hér stendur á verður að telja að tengsl ummælanna við framangreindar staðreyndir séu nægilega náin og að þau eigi sér viðhlítandi stoð í þeim staðreyndum, sjá til hliðsjónar mál Morice gegn Frakklandi (mgr. 139 og 165–166). Þótt ummælin séu bæði beinskeytt og afar hvöss, samkvæmt orðanna hljóðan og í því samhengi sem þau standa, verður ekki talið að þau séu svo úr hófi fram að þörf sé á því í lýðræðislegu samfélagi, í þágu orðspors annarra eða trausts á dómstólum, að takmarka tjáningarfrelsi gagnáfrýjanda með því að ómerkja þau. Á það jafnt við þrátt fyrir það sem fyrr sagði, í kafla IV.5, um að gera megi þær kröfur til gagnáfrýjanda að hann vandi orðaval sitt vegna stöðu sinnar sem lögmanns og fyrrverandi hæstaréttardómara og þeirra kringumstæðna sem þar greinir. Þótt ljóst sé að ummælin eigi meðal annars við um aðaláfrýjanda og kunni að hafa vegið að starfsheiðri hans þá verður hvorki talið að í þeim felist hrein móðgun né sérstaklega gróf eða persónuleg aðdróttun. Þótt færa megi fyrir því gild rök að engin þörf hafi verið á því að gagnáfrýjandi tæki svo sterkt og fyrirvaralaust til orða sem hann gerði þá verður ekki hjá því litið að vernd tjáningarfrelsis tekur ekki aðeins til efnis ummæla heldur einnig til framsetningar þeirra. Þá helgast framangreind niðurstaða ekki síst af því að traust til dómstóla til lengri tíma litið þykir fremur verða reist á því að stuðlað sé að frjálsri umfjöllun um málefni þeirra en því að takmarka slíka umfjöllun, jafnvel þótt hún gangi nærri því að geta skaðað það traust til skemmri tíma. Loks verður ekki séð að ummæli gagnáfrýjanda og útgáfa bókar hans hafi í reynd haft nokkrar sérstakar afleiðingar í för með sér fyrir aðaláfrýjanda aðrar en óþægindi. Með vísan til alls framanritaðs og að því gættu að rétturinn til að tjá ósanngjörn, móðgandi og stuðandi ummæli í þessu samhengi nýtur verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar verður að líta svo á að gagnáfrýjandi hafi með ummælum sínum ekki vegið svo að æru aðaláfrýjanda að það hafi farið út fyrir þau mörk tjáningarfrelsisins sem lög og réttarframkvæmd hafa mótað. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms er því staðfest. Með hliðsjón af því að efni ummæla gagnáfrýjanda eru til þess fallin að vekja verulegar efasemdir um það hvort með þeim hafi verið farið út fyrir þau mörk tjáningarfrelsisins, sem gagnáfrýjandi nýtur samkvæmt framansögðu, þykir rétt með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.     Sératkvæði Ingibjargar Þorsteinsdóttur og Kristrúnar Kristinsdóttur Um helstu málavexti, málsástæður og lagarök vísum við til atkvæðis meirihluta dómenda, kafla I, II, III og IV.1. Við erum sammála niðurstöðu þeirra í kafla IV.2 um að ekki verði sýknað vegna aðildarskorts. Við erum í öllum meginatriðum sammála þeim sjónarmiðum sem rakin eru í köflum IV.3, IV.4 og IV.5, þar á meðal því að gagnáfrýjandi njóti rýmkaðs tjáningarfrelsis þar sem viðfangsefni hans hafi verið þáttur í þjóðfélagsumræðu sem eigi brýnt erindi til almennings. Að teknu tilliti til þess og í ljósi stöðu málsaðila erum við sammála því að þau sjónarmið sem rakin eru í þessum köflum leiði til þess að draga beri mörk heimillar tjáningar gagnáfrýjanda við það að hann setji ekki fram um aðaláfrýjanda mjög alvarleg eða gróflega meiðandi ummæli sem eigi sér ekki viðhlítandi grundvöll og þá einnig því að á þeim forsendum verði að telja að mjög alvarlegar ásakanir í garð dómara sem séu í raun tilhæfulausar njóti ekki verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Á hinn bóginn erum við ósammála meirihluta dómenda um niðurstöðu málsins. Röksemdir okkar og afstaða er eftirfarandi: I Hin umstefndu ummæli snúast um millifyrirsagnirnar „Dómsmorð“ og tvær tilvitnanir þar sem sama hugtak kemur fyrir, annars vegar „Ég hika ekki við að segja að á Baldri hafi við meðferð Hæstaréttar verið framið það sem kallað hefur verið dómsmorð“ og hins vegar „Þar voru færð rök að því að meirihluti réttarins hefði fellt dóm yfir ákærða sem að mínum dómi félli undir hugtakið dómsmorð eins og það hefur verið skýrt.“ Auk þessa er í einum ummælunum vísað til hugtaksins með þessum hætti: „Þessi skilgreining [þ.e. skilgreining á dómsmorði] á vel við málið gegn Baldri. Felldur var dómur, sem dómararnir vissu, eða að minnsta kosti hlutu að vita, að ekki stóðst hlutlausa lagaframkvæmd.“ Líta ber heildstætt á hin umstefndu ummæli og jafnframt í samhengi við umfjöllun kaflans í heild þar sem flest þeirra birtast. Kaflinn ber heitið „Hugarástand við Hæstarétt“. Umstefnd ummæli lúta að því viðfangsefni og fjalla að meginstefnu til um það hvernig ætlað hugarástand dómara birtist í meðferð máls ákæruvaldsins gegn ákærða í dómi Hæstaréttar 17. febrúar 2012 í máli nr. 279/2011. Af þeirri umfjöllun í heild má í fyrsta lagi ráða að gagnáfrýjandi leggur tiltekinn skilning á hugtakinu dómsmorð til grundvallar í umfjöllun sinni. Í öðru lagi er ljóst að umdeild ummæli áttu við aðaláfrýjanda og aðra dómara Hæstaréttar sem stóðu að niðurstöðu meirihlutans í málinu  og eru þeir nafngreindir í lok kaflans. Vísast til þess sem áður greinir um þá afstöðu okkar að hafna beri þeirri málsástæðu gagnáfrýjanda að aðaláfrýjandi sé ekki réttur aðili að málinu. Í þriðja lagi verður að skoða ummælin í því ljósi að þau, ásamt umfjöllun kaflans í heild, fela í sér harða gagnrýni á niðurstöðu dóms Hæstaréttar í þessu tiltekna sakamáli og umfjöllun bókarinnar í heild er gagnrýni á réttinn á tilteknu tímabili eftir efnahagshrunið árið 2008, einkum að því er varðar meðferð sakamála vegna fjármunaréttarbrota. Í kaflanum þar sem fjögur af fimm umdeildum ummælum er að finna er víða vikið að ætluðu hugarástandi dómara réttarins svo sem yfirskrift kaflans ber með sér. Ummælin sem krafist er ómerkingar á vísa til þess að framið hafi verið dómsmorð við meðferð máls nr. 279/2011. Þótt fallast megi á það með gagnáfrýjanda að finna megi allmörg dæmi þess í almennri umræðu að það hugtak sé notað um dóma hér á landi og jafnframt að hugtakið hafi hvorki ákveðna lagalega merkingu né heldur sé það einhlítt hvað við sé átt, verður í málinu að miða við að það hafi þá merkingu hér sem gagnáfrýjandi sjálfur leggur til grundvallar umfjöllun sinni. Á sömu blaðsíðu bókarinnar og þrjú hinna umdeildu ummæla birtast segir svo: „Um skilgreiningu á hugtakinu dómsmorð vísa ég til ritsins „Dómsmorð“ eftir norska hæstaréttarlögmanninn J.B.Hjort, sem kom út í íslenskri þýðingu á árinu 1954. Í inngangi á bls. 10–11 skýrir hann þetta hugtak m.a. með þessum orðum: Dómsmorð er ... dráp af ásettu ráði, þar sem réttarfarið verður að morðtólinu. Hér er því um „intentional (ásetnings-) miscarriage of justice“ að ræða. Með orðinu dómsmorð er einnig átt við hitt, þegar verknaðurinn leiðir eigi til dauða fórnarlambsins, heldur óverðskuldaðrar refsingar, eins og t.d. í Dreyfusar-málinu; og hægt er að fremja það, þar sem lögmál þau, er gilda um vandaðan málsrekstur, eru brotin, svo sem með þarf, til þess að komast megi að rangri niðurstöðu.“ Í beinu framhaldi koma þau umdeildu ummæli sem hefjast á orðunum: Þessi skilgreining á vel við málið gegn Baldri. Við erum ósammála því áliti meirihluta dómenda að gagnáfrýjandi noti í bók sinni hugtakið dómsmorð í táknrænni og yfirfærðri merkingu, enda ekki skýrt hver sú merking þá sé. Teljum við að ekki verði litið fram hjá því að gagnáfrýjandi vísar sjálfur til framangreindrar skilgreiningar í tengslum við ummæli sín um dómsmorð. Sú skilgreining á dómsmorði sem gagnáfrýjandi kýs að nota felur í sér ásetning til að misfara með dómsvald. Gagnáfrýjandi byggir á því að með því að taka fram að nefndir dómarar hafi vitað „eða hlotið að vita“ þá hafi hann slegið fullnægjandi varnagla og því beri ekki að skilja umdeild ummæli hans á þann veg að í þeim felist staðhæfing um að ásetningur þeirra hafi staðið til þess brots sem felst í tilvitnaðri skilgreiningu á dómsmorði. Áréttar hann í því sambandi að honum verði ekki gert að sanna gildisdóm um huglæga afstöðu þriðja manns, slík sönnun sé ómöguleg. Í þessu efni ber að hafa í huga að orðalagið „veit eða má vita“ felur samkvæmt almennri hugtakanotkun í lögfræði í sér lýsingu á ásetningsstigi, þ.e. að um sé að ræða beinan ásetning eða slíkan ásetning að viðkomandi skeyti ekki um afleiðingar gerða sinna og láti allt að einu skeika að sköpuðu. Að okkar mati hefur þetta orðfæri út af fyrir sig ekki úrslitaþýðingu í málinu. Svo sem áður greinir ber að líta heildstætt á ummæli gagnáfrýjanda og í samhengi við umfjöllun kaflans í heild. Önnur ummæli kaflans sem lúta að huglægri afstöðu dómara vísa jafnframt í þá átt að um ásetning hafi verið að ræða. Vísast í því efni til inngangsorða kaflans þar sem segir að þar verði vikið að því hugarástandi sem bersýnilega hafi ríkt í Hæstarétti, að gagnáfrýjanda hafi virst sem rétturinn væri tilbúinn til að víkja til hliðar skyldum sínum til að dæma einungis eftir lögunum í þágu ætlaðra viðhorfa almennings. Jafnframt að gagnáfrýjanda hafi fundist dómararnir sérstaklega áhugasamir um að sýna nú þjóðinni að þeir myndu standa sig í að láta nú „þrjótana“ í hruninu finna fyrir því. Framangreind inngangsorð er erfitt að skilja á annan veg en þann að umrætt hugarástand dómara við Hæstarétt hafi falið í sér að þeir hafi haft fyrirfram mótaðar hugmyndir um að sakfella fremur en sýkna í málum tengdum efnahagshruninu í samræmi við þær væntingar sem gagnáfrýjandi kveður almenning hafa haft til þeirra. Þá er síðar í kaflanum jafnframt vísað til þess að umræddur dómur hafi verið „fjarri því að standast kröfur um sakfellingar í refsimálum“ og að dómurinn sé líklega skýrasta dæmið um það hugarástand sem er umfjöllunarefni kaflans. Enn fremur er vikið að huglægri afstöðu dómara í umfjöllun um ákæruvaldið og segir meðal annars að það sé eins og handhafa þess hafi verið ljóst að „móttökuskilyrðin“ við dómstóla fyrir ákærum á hendur sakborningum eftir „hrun“ hafi verið einkar álitleg og að fyrir honum hafi hreinlega vakað að kanna „þanþol“ dómstólanna. Í beinu framhaldi segir síðan að tilraunastarfsemin hafi oft borið óvæntan árangur „að því er virðist vegna brenglaðs hugarfars við dómstólana. Þar virðist hafa ríkt sérstök löngun til að sakfella ákærða menn fremur en að láta þá njóta vafa um refsiskilyrði eins og meginreglur kveða á um. Í tilviki Baldurs er þetta augljóst.“ Enga fyrirvara er að finna í umfjöllun kaflans, eða í ritinu að öðru leyti, sem geta leitt til þess að lesandi geti ályktað á annan veg en þann að aðaláfrýjandi hafi, ásamt fleiri dómurum, gegn betri vitund kveðið upp rangan dóm og sakfellt saklausan mann. Jafnframt að gagnáfrýjandi telji að þessa háttsemi þeirra megi rekja til þess að þeir hafi látið undan þrýstingi almennings í þessa átt. II Við mat á því hvort umdeild ummæli gagnáfrýjanda fela í sér ólögmætar ærumeiðingar í garð aðaláfrýjanda skiptir máli hvort líta ber á ummælin sem gildisdóm eða staðhæfingu um staðreynd, svo sem gerð er grein fyrir í inngangi kafla IV.6 í atkvæði meirihluta dómenda. Við tökum undir það sem þar segir um að menn njóti almennt rýmra tjáningarfrelsis þegar gildisdómar eru felldir en þegar staðhæfingar eru hafðar uppi um staðreyndir, ekki síst þegar viðfangsefnið er liður í almennri þjóðfélagsumræðu svo sem hér háttar til. Einnig tökum við undir það sem þar segir um að mönnum verði almennt ekki gert að sanna gildisdóma, þeir verði engu að síður að eiga sér einhvern grundvöll í staðreyndum, en kunni jafnvel þá, séu þeir of meiðandi, að ganga of langt til að rúmast innan tjáningarfrelsis 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmálans. Þótt umdeild ummæli hafi á sér býsna sterkt yfirbragð staðhæfinga teljum við rétt að líta svo á að fremur sé um að ræða gildisdóma gagnáfrýjanda, svo sem einnig er niðurstaða meirihluta dómenda. Ræðst sú afstaða okkar ekki síst af því að eðli ummæla um hugarástand annars manns getur vart leitt til annarrar niðurstöðu, auk þess sem yfirbragð kaflans í heild er þannig að víða er vísað til þess sem gagnáfrýjandi kveðst hafa talið vera eða kveður hafa virst vera. Gæta verður að þeim sjónarmiðum sem rakin eru í köflum IV.4 og IV.5 í atkvæði meirihluta dómenda varðandi stöðu þess sem ber fram ummælin og að hverjum þau beinast, með hliðsjón af þeirri dómaframkvæmd sem þar er vísað til. Svo sem áður hefur verið gerð grein fyrir erum við sammála þessum sjónarmiðum og teljum að þau leiði til þess að ummæli, jafnvel gildisdómar, sem feli í sér alvarlegar ásakanir sem í meginatriðum eru órökstuddar eða tilhæfulausar falli utan þeirrar verndar sem tjáningarfrelsi gagnáfrýjanda nýtur. Þó að slík mörk séu dregin felst ekki í því takmörkun á frelsi gagnáfrýjanda til þess að hafa uppi gagnrýni, jafnvel óvægna, á dómstóla eða einstakar úrlausnir þeirra. Ræðst því mat á því hvort um ærumeiðandi ummæli er að ræða annars vegar af því hve alvarlegar ásakanir felast í þeim og hins vegar af því hvort þær ásakanir eiga sér einhverja stoð í staðreyndum málsins.  Hvað alvarleika umræddra ásakana varðar þá verða ummælin, svo sem áður er rakið, ekki skilin á annan veg en þann að aðaláfrýjandi hafi gegn betri vitund kveðið upp rangan dóm og sakfellt saklausan mann. Slík háttsemi af hálfu hæstaréttardómara felur í sér afar alvarlegt brot, hvort sem horft er til lögbundins hlutverks dómara og starfskyldna þeirra, sbr. 61. gr. stjórnarskrárinnar og VIII. kafla laga um dómstóla nr. 50/2016, einkum 43. gr laganna, eða þeirra siðferðilegu krafna sem gerðar eru til dómara. Að auki kann slík háttsemi að varða við 130. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Vandfundin er alvarlegri ávirðing í garð dómara. Fela ummælin því í sér grófa aðdróttun í garð aðaláfrýjanda í ljósi stöðu hans. Jafnvel þótt dómarar verði almennt að þola harða gagnrýni vegna stöðu sinnar ganga ummæli af þessu tagi lengra en unnt er að fallast á að aðaláfrýjandi þurfi að þola enda verður ekki séð að þau eigi sér viðhlítandi stoð í atvikum eða staðreyndum máls og er staðhæfingum gagnáfrýjanda um annað hafnað. Í því efni er þess að gæta að sú afstaða gagnáfrýjanda að niðurstaða umrædds dóms í máli nr. 279/2011 hafi verið lögfræðilega röng, sem hann rökstyður ítarlega í viðkomandi kafla bókarinnar, er ekki viðhlítandi grundvöllur undir hin alvarlegu ummæli hans sem lúta að huglægri afstöðu aðaláfrýjanda. Breytir engu í því efni þó að fleiri hafi orðið til að gagnrýna dóminn opinberlega. Á sama hátt verður stoð umræddra ummæla hvorki fundin í því að reifun dóms hafi verið breytt skömmu eftir birtingu hans né heldur í því að mikið álag kunni að hafa verið á Hæstarétti eftir efnahagshrunið. Þá er heldur ekki unnt að líta svo á að það geti verið grundvöllur umræddra ummæla um aðaláfrýjanda þó að gagnáfrýjandi hafi talið, og Mannréttindadómstóll Evrópu hafi síðar tekið undir, að öðrum dómara hafi borið að víkja sæti í málinu á grundvelli g. liðar 1.mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þessi atriði, sem sum hver vísa vissulega til atvika eða staðreynda málsins, renna á hinn bóginn ekki stoðum undir þau ummæli um aðaláfrýjanda sem deilt er um í málinu. Við mat á alvarleika ummælanna ber jafnframt að horfa til þess sem áður er fram komið um þær kröfur sem með réttu má gera til gagnáfrýjanda stöðu hans vegna. Hann er starfandi lögmaður með langa reynslu af dómstörfum við Hæstarétt og hefur með umfangsmiklum hætti tekið þátt í umræðu um dómskerfið, bæði á opinberum vettvangi, með ritun bóka og greina, og í háskólakennslu. Verður að leggja til grundvallar að menn í þessari stöðu hafi alla jafna ríkan trúverðugleika í augum almennings og megi því ætla að orð þeirra hafi meiri þunga og séu tekin alvarlegar en ummæli þeirra sem ekki búa yfir sömu reynslu. Þetta gaf gagnáfrýjanda tilefni til að gæta sérstaklega að orðum sínum og framsetningu gagnrýni sinnar, ekki síst í riti sem, eins og segir í inngangi þess, hefur þann tilgang að draga upp mynd af starfi Hæstaréttar og því hvernig rétturinn hafi staðið sig við að fást við dómsmál sem tengst hafa efnahagsáföllum haustið 2008. Þar segir og að hvatinn að ritun þess sé löngunin til að koma fram endurbótum á starfsháttum sem allir Íslendingar ættu að kynna sér. Ritið er samkvæmt því ætlað öllum almenningi og hefur það síðar einnig verið gefið út í enskri þýðingu. Gagnáfrýjandi lætur þess ekki getið í umfjöllun sinni að hann sjálfur er tengdur ákærða í umræddu sakamáli á þann veg að hann var vanhæfur til að dæma í máli hans og gefur þannig lesendum ekki færi á að meta hvaða áhrif sú staða kann að hafa á óhlutdrægni hans gagnvart viðfangsefninu. Að virtu öllu því sem að framan er rakið er það niðurstaða okkar að umdeild ummæli feli í sér alvarlega aðdróttun sem ekki á sér neina stoð í staðreyndum málsins. Í þeim felst meiðandi aðdróttun í garð aðaláfrýjanda í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga. Með því að viðhafa þau fór gagnáfrýjandi út fyrir það tjáningarfrelsi sem hann nýtur á grundvelli 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og braut gegn þeim réttindum sem aðaláfrýjandi nýtur til friðhelgi einkalífs samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmálans. Teljum við því að hin umdeildu ummæli gagnáfrýjanda beri að ómerkja í samræmi við kröfu aðaláfrýjanda, sbr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Ærumeiðing felur í sér miska fyrir þann sem fyrir verður og er nægur grundvöllur þess að heimilt sé að dæma honum miskabætur samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við mat á því hvort dæma ber miskabætur er til þess að líta að ummæli gagnáfrýjanda birtust í útgefnu riti á Íslandi sem einnig hefur verið gefið út í enskri þýðingu. Ummælunum var því ætluð almenn útbreiðsla innanlands og erlendis. Þá hefur gagnáfrýjandi hvorki dregið ummælin til baka né beðist á þeim afsökunar. Þvert á móti byggir hann öðrum þræði á því að þau séu rétt. Í ljósi þessa teljum við að aðaláfrýjandi eigi rétt til miskabóta úr hendi gagnáfrýjanda vegna hinna ólögmætu ummæla og jafnframt að gagnáfrýjanda beri, með hliðsjón af 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að greiða aðaláfrýjanda málskostnað. Að teknu tilliti til niðurstöðu meirihluta dómenda hefur það þó ekki þýðingu að fjalla hér um fjárhæðir miskabóta eða málskostnaðar.     Dómur Landsréttar 22. nóvember 2019. Mál þetta dæma landsréttardómarinn Kristbjörg Stephensen og Arngrímur Ísberg og Sigríður Ingvarsdóttir, settir landsréttardómarar. Málsmeðferð og dómkröfur aðila Aðaláfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 28. júní 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjaness 21. júní 2018 í málinu nr. E-1146/2017. Aðaláfrýjandi krefst ómerkingar á fimm nánar tilteknum ummælum, sem rakin eru í hinum áfrýjaða dómi. Þá krefst hann þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. nóvember 2017 til 15. desember 2017 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt krefst hann þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 10. júlí 2018. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og að aðaláfrýjandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. Niðurstaða Atvikum málsins og helstu málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Svo sem þar er rakið er gagnáfrýjandi, sem er fyrrum hæstaréttardómari, höfundur bókarinnar „Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“. Í inngangi að bókinni segir að gagnáfrýjandi hyggist með bókinni „reyna að draga upp mynd af starfi Hæstaréttar Íslands síðustu árin og þá ekki síst að skoða hvernig dómstóllinn hefur staðið sig við að fást við þau dómsmál sem tengst hafa efnahagsáföllunum haustið 2008“. Bókin fjalli „um eina mikilvægustu stofnun okkar litlu þjóðar, Hæstarétt. Hvatinn að ritun bókarinnar [sé] löngunin til að koma fram endurbótum á starfsháttum sem allir Íslendingar ættu að kynna sér.“ Á bls. 56-86 í bókinni er að finna kafla sem ber heitið „Hugarástand við Hæstarétt“ og segir í inngangsorðum kaflans að þar sé „vikið að hugarástandi sem bersýnilega ríkti í Hæstarétti þegar fjallað var um mál sem tengdust „hruninu“. Virðist rétturinn vera tilbúinn að víkja til hliðar skyldum sínum til að dæma einungis eftir lögum í þágu ætlaðra viðhorfa almennings á hverjum tíma.“ Segir þar jafnframt að gagnáfrýjanda hafi fundist „sem dómararnir væru sérstaklega áhugasamir um að sýna nú þjóðinni að þeir myndu standa sig í að láta nú „þrjótana“ í hruninu finna fyrir því“. Í framangreindum bókarkafla á bls. 61-83 er að finna undirkafla með fyrirsögninni „Dómsmorð“. Í inngangsorðum að undirkaflanum segir að „í þessum kafla [sé] fjallað um mál ákæruvaldsins gegn Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu. [Sé] farið yfir efnisatriði málsins og sýnt fram á að dómur Hæstaréttar yfir Baldri var fjarri því að standast kröfur um sakfellingar í refsimálum.“ Nafngreinir gagnáfrýjandi í lok kaflans þá fimm hæstaréttardómara sem dæmdu í málinu, þar á meðal aðaláfrýjanda. Í framangreindum undirkafla er að finna þau fimm ummæli, sem aðaláfrýjandi krefst ómerkingar á og nánar er gerð grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Meginefni bókarinnar, sem samtals telur rúmar 200 blaðsíður með viðaukum, er hvöss og óvægin gagnrýni á störf Hæstaréttar Íslands. Það fær þó ekki breytt því að í þeim ummælum, sem aðaláfrýjandi krefst ómerkingar á, felast alvarlegar ásakanir í garð dómaranna í málinu, séu þau virt ein og sér. Að þessu gættu verður ekki fallist á með gagnáfrýjanda að aðaláfrýjandi geti ekki átt aðild að kröfu á hendur honum vegna tilvitnaðra ummæla. Samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar verður tjáningarfrelsið takmarkað vegna réttinda eða mannorðs annarra. Það er þó ávallt skilyrði að þær skorður séu nauðsynlegar og samræmist lýðræðishefðum. Engum blöðum er um það að fletta að umræður og gagnrýni á störf dómstóla eiga ríkt erindi við almenning og að játa verður mönnum rúmu frelsi til tjáningar af þeim sökum. Við úrlausn á því hvort gagnáfrýjandi hafi með ummælum sínum vegið að æru aðaláfrýjanda verður að líta til þess á hvern hátt og í hvaða samhengi hin umdeildu ummæli eru sett fram en bókin er, eins og áður er komið fram, hvöss gagnrýni á störf Hæstaréttar á tilteknu tímabili.  Í þeim kafla bókarinnar, þar sem ummælin koma fyrir, fjallar gagnáfrýjandi um dómsniðurstöðu í tilteknu máli. Þar lýsir hann með rökstuddum hætti niðurstöðu sinni um sakleysi dómþola. Þótt ummælin hafi á sér mynd staðhæfinga um staðreyndir, þ.e. um ásetning dómara í málinu til þess að komast að annarri niðurstöðu, verður að telja að þarna sé gagnáfrýjandi að fella gildisdóm með því að lýsa eigin skoðunum og ályktunum sem hann hefur dregið af því sem hann telur að hafi legið fyrir í málinu. Að þessu virtu og að því gættu að rétturinn til að tjá ósanngjörn, móðgandi og stuðandi ummæli í þessu samhengi nýtur einnig verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar verður að líta svo á að gagnáfrýjandi hafi með ummælum sínum ekki vegið svo að æru aðaláfrýjanda að það hafi farið út fyrir þau mörk tjáningarfrelsisins sem lög og réttarframkvæmd hafa mótað. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest. Með hliðsjón af því að efni ummæla gagnáfrýjanda eru til þess fallin að vekja verulegar efasemdir um það hvort með þeim hafi verið farið út fyrir mörk tjáningarfrelsisins, sem gagnáfrýjandi nýtur samkvæmt framansögðu, þykir rétt með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að hvor aðili verði látinn bera sinn kostnað af málinu fyrir Landsrétti. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður Málskostnaður fyrir Landsrétti fellur niður.     Dómur Héraðsdóms Reykjaness 21. júní 2018.   Mál þetta var þingfest 15. nóvember 2017 og tekið til dóms 5. júní sl. Stefnandi er Benedikt Bogason, [...], Reykjavík, en stefndi er Jón Steinar Gunnlaugsson, [...], Garðabæ. Dómkröfur stefnanda eru þær að eftirtalin ummæli, sem stefndi viðhafði um stefnanda á blaðsíðum 61, 63 og 114 í ritinu ,,Með lognið í fangið - Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“, útgefnu í Reykjavík 2017, verði dæmd dauð og ómerk: 1. Dómsmorð (bls. 61), 2. Dómsmorð (bls. 63), 3. Ég hika ekki við að segja að á Baldri hafi við meðferð Hæstaréttar verið framið það sem kallað hefur verið dómsmorð (bls. 63), 4. Þessi skilgreining á vel við málið gegn Baldri. Felldur var dómur, sem dómararnir vissu, eða að minnsta kosti hlutu að vita, að ekki stóðst hlutlausa lagaframkvæmd (bls. 63) og 5. Þar voru færð rök að því að meirihluti réttarins hefði fellt dóm yfir ákærða sem að mínum dómi félli undir hugtakið dómsmorð eins og það hefur verið skýrt (bls. 114). Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. ml. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. nóvember 2017 til 15. desember 2017 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti. Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málkostnaðar úr hendi hans. I Stefnandi tekur fram varðandi aðild og ábyrgðargrundvöll að stefndi sé höfundur ritsins ,,Með lognið í fangið - Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“. Stefndi sé því höfundur hinna umstefndu ummæla og beri á þeim ábyrgð að lögum. Um ábyrgð stefnda á hinum umstefndu ummælum sé vísað til XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 235. gr., 1. og 2. mgr. 236. gr. og 1. mgr. 241. gr. laganna, sbr. 1., 2. og 13. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Stefnandi sé hæstaréttardómari og hafi verið einn dómara í máli Hæstaréttar nr. 279/2011, ákæruvaldið gegn Baldri Guðlaugssyni. Á blaðsíðu 83 í riti stefnda tilgreini hann nöfn þeirra hæstaréttardómara sem hafi skipað dóm í málinu. Þar á meðal sé tilgreint nafn stefnanda. Það sé því vafalaust að hinum umstefndu ummælum sé meðal annars beint að stefnanda. Stefnandi lýsir málavöxtum svo að í ritinu sé kafli sem beri heitið dómsmorð (bls. 61-84) þar sem fjallað sé um fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 279/2011, ákæruvaldið gegn Baldri Guðlaugssyni. Dómurinn hafi verið kveðinn upp 17. febrúar 2012. Ákærði hafi verið sakfelldur og dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik. Stefnandi hafi myndað meirihluta Hæstaréttar í málinu ásamt dómurunum Viðari Má Matthíassyni, Garðari Gíslasyni og Grétu Baldursdóttur. Einn dómari, Ólafur Börkur Þorvaldsson, hafi skilað sératkvæði og viljað sýkna ákærða.  Í ritinu sé stefnandi ásamt öðrum dómurum sem mynduðu meirihluta Hæstaréttar í málinu sakaður um að hafa framið dómsmorð á ákærða. Um skilgreiningu á hugtakinu dómsmorð vísi stefndi til bókarinnar ,,Dómsmorð“ eftir norska hæstaréttarlögmanninn J. B. Hort. Stefndi birti skilgreininguna á blaðsíðu 63 í riti sínu eða á sömu blaðsíðu og flest hinna umstefndu ummæla séu viðhöfð og geri skilgreiningu Norðmannsins að sinni, en skilgreiningin sé eftirfarandi: „Dómsmorð er ... dráp af ásettu ráði, þar sem réttarfarið verður að morðtólinu. Hér er því um ,,intentional (ásetnings-) miscarriage of justice” að ræða. Með orðinu dómsmorð er einnig átt við hitt, þegar verknaðurinn leiðir eigi til dauða fórnarlambsins, heldur óverðskuldaðrar refsingar, eins og t.d. í Dreyfusar-málinu; og hægt er að fremja það, þar sem lögmál þau, er gilda um vandaðan málsrekstur, eru brotin, svo sem með þarf, til þess að komast megi að rangri niðurstöðu.“ Stefndi hafi verið dómari við Hæstarétt Íslands í tæp átta ár. Hann hafi verið skipaður dómari við réttinn 15. október 2004 og látið af störfum 30. september 2012. Stefndi hafi verið dómari við Hæstarétt allan þann tíma sem rétturinn hafi haft mál nr. 279/2011 til meðferðar. Rétt sé að halda því til haga, sem alkunna sé, að stefndi og dómfelldi í málinu séu vinir og hafi verið um áratugaskeið. Einnig hafi þeir rekið saman lögmannsstofu um árabil. Því hafi legið ljóst fyrir frá upphafi meðferðar Hæstaréttar á málinu að stefndi hafi verið vanhæfur til þess að eiga þátt í meðferð málsins. Eftir að mál Hæstaréttar nr. 279/2011 var flutt 25. janúar 2012 og fram að því að dómur var kveðinn upp 17. febrúar sama ár hafi stefndi herjað á stefnanda og tvo aðra dómara í málinu og leitast við að hafa áhrif á hvernig þeir myndu dæma málið efnislega. Þessi ágangur stefnda hafi farið fram með þeim hætti að stefndi hafi gert sér ferð inn á skrifstofu stefnanda og hinna dómaranna í málinu og rætt málið efnislega. Þetta hafi stefndi gert þvert gegn venju og óskráðum siðareglum sem fylgt sé í Hæstarétti, enda eigi dómari, sem ekki sitji í máli og hefur ekki hlýtt á málflutning í málinu, ekkert með að blanda sér með þessum hætti í meðferð þess. Þetta eigi enn frekar við þegar viðkomandi dómari, í þessu tilviki stefndi, sé vanhæfur til þess að fara með viðkomandi mál sökum vinatengsla við aðila máls. Svo virðist sem stefnda hafi fundist hann flytja málið fyrir daufum eyrum á skrifstofum stefnanda og hinna dómaranna tveggja því að hann hafi í framhaldinu lagt skjal inn á borð til þeirra með skriflegum punktum sem hann taldi að ætti að leiða til sýknu ákærða. Þegar þetta skjal sé borið saman við blaðsíður 64-68 í riti stefnda megi sjá að þar sé á köflum að finna sama texta orðrétt. Þegar hæstaréttardómarinn, sem hafi verið forseti í málinu, hafi komist að þessu hafi hann haft samband við stefnda og gert athugasemdir við þessa háttsemi hans. Stefnandi ætlar ekki hér að staðhæfa að með þessari hegðun hafi stefndi misnotað aðstöðu sína freklega og eftir atvikum gerst sekur um spillingu og brot á almennum hegningarlögum nr. 19/1940, sbr. einkum 139. gr. laganna, sbr. 141. gr. a sömu laga. Hvað sem því líður hafi hegðun stefnda bersýnilega farið gegn 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla þar sem segi að dómarar séu sjálfstæðir í dómsstörfum sínum, leysi þau af hendi á eigin ábyrgð og fari við úrlausn máls eingöngu eftir lögum og lúti þar aldrei boðvaldi annarra. Með hinum umstefndu ummælum gefi stefndi stefnanda að sök að hafa af ásetningi komist að rangri niðurstöðu í máli Hæstaréttar nr. 279/2011 og þannig gerst sekur um ranglæti við meðferð og úrlausn dómsmáls. Í því sambandi sé rétt að hafa í huga að Hæstiréttur hafi með framangreindum dómi staðfest sakfellingardóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Í framhaldi af dómi Hæstaréttar hafi ákærði í málinu skotið því til Mannréttindadómstóls Evrópu sem hafi ákveðið að taka málið ekki til efnismeðferðar. Málið hafi því verið til úrlausnar hjá þremur dómstólum og hafi enginn þeirra talið að réttur hefði verið brotinn á ákærða. Af öllu framansögðu sé ljóst að þær ásakanir sem stefndi bar á stefnanda með hinum umstefndu ummælum séu úr lausu lofti gripnar og eini maðurinn sem hugsanlega hafi gerst sekur um siðferðislega ámælisverða háttsemi og brot á lögum þegar mál nr. 279/2011 var til meðferðar í Hæstarétti hafi verið stefndi sjálfur. II Stefndi kveðst hafa verið skipaður dómari við Hæstarétt Íslands 2004 og gegnt því starfi til ársins 2012. Árið 2011 hafi hann verið gerður að heiðursfélaga í LMFÍ. Eftir að starfstíma hjá Hæstarétti lauk hafi stefndi aftur hafið störf sem lögmaður. Stefndi hafi átt þátt í rekstri þúsunda dómsmála, ýmist sem lögmaður eða hæstaréttardómari.             Sérstakt hugðarefni stefnda á löngum starfsferli hans hafi verið meðferð ríkisvalds, einkum dómsvalds, gagnvart borgurunum. Hann sé m.a. höfundur bókanna „Deilt á dómarana“ (1987), „Um fordæmi og valdmörk dómstóla“ (2003), „Veikburða Hæstiréttur“ (2013), „Í krafti sannfæringar“ (2014) og „Með lognið í fangið - um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“ (2017). Umfjöllunarefni í fyrstu bókinni hafi veið hneigð dómstóla til að dæma ríkinu í vil í ágreiningsmálum þess við einstaklinga og lögaðila. Hinar bækurnar fjalli fremur um meðferð dómsvalds almennt þar sem stefndi hafi meðal annars gagnrýnt dómstóla, einkum Hæstarétt. Stefndi sé einnig höfundur fjölmargra greina um meðferð dómsvalds, málefni dómstólanna og stöðu einstaklingsins gangvart ríkisvaldinu. Af handahófi megi nefna: „Rökstuðningur er ekki síst fyrir dómarann sjálfan“ (1989), „Hugleiðing um handhafa ríkisvaldsins“ (1991), „Dómarar og opinber gagnrýni“ (1992), „Nokkrar hugleiðingar um rétt manna til að standa utan félaga“ (1994), „Fer réttaröryggi borgaranna gagnvart ríkisvaldinu vaxandi?“ (1998), „Dómstólar setja ekki lög“ (1999), „Lausung í lagaframkvæmd“ (2000), „Um valdmörk dómstóla“ (2000), „Hverjir verða dómarar framtíðarinnar?“ (2000), „Réttaröryggi og munnlegur málflutningur“ (2006), „Skipun hæstaréttardómara. Er breytinga þörf?“ (2006), „Nokkur orð um sératkvæði í dómum“ (2007), „Mál af þessu tagi“ (2008), „Æskilegt að dómarar taki þátt í almennum umræðum um verkefni dómstóla“ (2008), o.fl. Þá hafi stefndi staðið fyrir fundi um endurbætur á íslensku dómskerfinu í Háskólanum í Reykjavík þann 20. maí 2015. Loks skuli nefnt að stefndi hafi allan sinn feril verið ötull við að skrifa stuttar greinar í dagblöð þar sem meðal annars hafi verið vakin athygli á ýmsum álitaefnum og misfellum í starfi dómstóla. Af framangreindu sé ljóst að á starfsferli sínum hafi stefndi fjallað opinskátt um eigin afstöðu til málefna, einkum þeirra er snúa að dómskerfinu. Stefndi sé eindregið þeirrar skoðunar að slíkum umræðum sé verulega ábótavant á Íslandi. Dómstóla skorti aðhald og opinber umfjöllun sé alltof lítil um dómsniðurstöður. Hann hafi í skrifum sínum leitast við að fjalla um álitaefnin á einfaldan og aðgengilegan hátt fyrir almenna lesendur sem ekki séu lögfræðingar. Þá telji stefndi að það sé þáttur í starfi dómara að verk þeirra séu skoðuð og gagnrýnd og það harkalega ef svo ber undir. Þeir verði að vera reiðubúnir til að taka slíkri gagnrýni. Bók stefnda „Með lognið í fangið - Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“ hafi komið út 2. nóvember 2017. Nafn bókarinnar, „Með lognið í fangið“, feli í sér tilvísun til þess að gagnrýni, sem hann hafði haft uppi á starfsemi íslenskra dómstóla, hafi ekki verið svarað með öðru en þögninni. Bókin sé í heild sinni ákall um gagnrýna umræðu um starfsemi Hæstaréttar í kjölfar efnahagshrunsins. Stefna þessa máls sé dagsett 6. nóvember 2017, einungis fjórum dögum eftir útgáfu bókarinnar. Með stefnunni krefjist stefnandi ómerkingar ummæla, greiðslu 2.000.000 króna miskabóta, auk vaxta og málskostnaðar. Tilefnið sé að stefndi hafi tjáð þá skoðun sína í bókinni að „dómsmorð“ hefði verið framið með dómi Hæstaréttar í máli nr. 279/2011, ákæruvaldið gegn Baldri Guðlaugssyni, en í því máli hafi ákærði verið sakfelldur fyrir innherjasvik og dæmdur til fangelsisvistar. Stefndi vísi í þessu efni til þekktrar skilgreiningar hugtaksins „dómsmorð“, sem norski lögmaðurinn J.B. Hort hafði sett fram í samnefndri bók sinni. Tekið skuli fram að nafn stefnanda komi hvergi sérstaklega fram í samhengi við hin umstefndu ummæli þó að nefnt væri á einum stað (bls. 83) hvaða dómarar hefðu myndað meirihluta í málinu. Gagnrýni stefnda hafi beinst að starfsemi dómstólsins í heild sinni en ekki að stefnanda persónulega. Stefndi hafi talið skilgreiningu J.B. Hort eiga vel við um mál Baldurs Guðlaugssonar. Grunnskoðun stefnda á dómi Hæstaréttar hafi verið sú að dómarar málsins hefðu látið þrýsting frá almenningi um sakfellingar í kjölfar efnahagshrunsins hafa áhrif á sig. Þeir hafi því verið hallir undir ákæruvaldið í málinu. Brotið hafi verið gegn réttindum ákærða með ýmsum hætti og hann hafi verið saklaus dæmdur til fangelsisvistar. Í gagnrýni sinni hafi stefndi sett fram sína eigin lögfræðilegu skoðun á málsmeðferð og niðurstöðu Hæstaréttar. Hann hafi búist við, eða vonast að minnsta kosti til, að hún yrði tilefni til tjáningar og gagntjáningar í framhaldinu. Stefnandi, sem sé starfandi hæstaréttardómari, hafi hins vegar ákveðið að svara með því að stefna þessu ærumeiðingarmáli fyrir dómstóla, einungis fjórum dögum eftir útgáfu bókarinnar, án þess að leita sátta við stefnda fyrir málshöfðun. Stefndi gerir athugasemd við að í stefnu sé einungis hluti tilvitnunar á bls. 63 í bók stefnda birtur. Stefnandi hafi þannig valið að sleppa því að geta mikilvægs fyrirvara við notkun orðsins „dómsmorð“. Tilvitnunin sé í heild sinni svona:  „Ég hika ekki við að segja að á Baldri hafi við meðferð Hæstaréttar verið framið það sem kallað hefur verið dómsmorð. Um skilgreiningu á hugtakinu dómsmorð vísa ég til ritsins Dómsmorð eftir norska hæstaréttarlögmanninn J. B. Hjort, sem kom út í íslenskri þýðingu á árinu 1954. Í inngangi á bls. 10-11 skýrir hann þetta hugtak m.a. með þessum orðum: Dómsmorð er … dráp af ásettu ráði, þar sem réttarfarið verður að morðtólinu. Hér er því um „intentional (ásetnings-) miscarriage of justice“ að ræða. Með orðinu dómsmorð er einnig átt við hitt, þegar verknaðurinn leiðir eigi til dauða fórnarlambsins, heldur óverðskuldaðrar refsingar, eins og t.d. í Dreyfusar-málinu; og hægt er að fremja það, þar sem lögmál þau, er gilda um vandaðan málsrekstur, eru brotin, svo sem með þarf, til þess að komast megi að rangri niðurstöðu.           Þessi skilgreining á vel við málið gegn Baldri. Felldur var dómur, sem dómararnir vissu, eða að minnsta kosti hlutu að vita, að ekki stóðst hlutlausa lagaframkvæmd.“         Með orðalaginu „hlutu að vita“ hafi stefndi talið sig vera að slá þann varnagla við umfjöllunina að hann vissi ekki hver huglæg afstaða einstakra hæstaréttardómara væri. Hann teldi þó að þeir hefðu átt að vita betur en að sakfella ákærða eins og rök séu færð fyrir í bókinni. Þá sé gerð athugasemd við að málsatvikalýsing í stefnu snúi aðallega að framlögðu minnisblaði sem hafi enga þýðingu um sakarefni málsins. Um minnisblaðið sé að öðru leyti fjallað í aðilaskýrslu stefnda. Þar segi meðal annars að stefndi hafi beðist á sínum tíma afsökunar á að hafa lagt minnisblaðið til dómaranna þótt hann teldi efni þess rétt. Hann hafi ekki vitað annað en að afsökunarbeiðninni hefði verið tekið. Í málsatvikalýsingu í stefnu segi loks að mál ákærða nr. 279/2011 hafi verið til umfjöllunar á þremur dómstigum, þ.e. í héraði, Hæstarétti og fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Enginn þessara dómstóla hafi talið að réttur hefði verið brotinn á honum. Þetta sé ekki alls kostar nákvæmt því að síðastnefndi dómstóllinn hafi ekki tekið málið til efnislegrar meðferðar af réttarfarsástæðum. Í því felist ekki efnisleg afstaða til málsins. Þá hafi ofangreindir dómstólar ekki allir tekið athugasemdir stefnda við málið til skoðunar, t.a.m. um vanhæfi dómara til að fara með málið vegna fjárhagslegra hagsmuna í íslensku bönkunum fyrir efnahagshrun (bls. 167 í bók stefnda) og tilraunir Hæstaréttar til að breyta forsendum dómsins eftir að hann hafði fallið. Þá sé vandséð hvaða þýðingu þessi umfjöllun í stefnu hafi fyrir sakarefnið. Kjarninn í gagnrýni stefnda sé að dómsúrlausn Hæstaréttar standist ekki. Bók stefnda „Með lognið í fangið“ hafi sem fyrr segir verið gefin út 2. nóvember 2017. Engin samskipti hafi átt sé stað milli aðila þessa máls í kjölfarið. Stefna hafi verið gefin út fjórum dögum eftir útgáfu bókarinnar. Stefnda hafi því aldrei verið gefinn kostur á að ná samkomulagi um málssóknina utan réttar, leiðrétta ummælin eða draga þau til baka. III Stefnandi byggir á því að með hinum umstefndu ummælum í kröfuliðum 1-4 ásaki stefndi stefnanda meðal annarra berum orðum um dómsmorð. Í því felist að stefnandi hafi af ásetningi komist að rangri niðurstöðu í dómsmáli með þeim afleiðingum að saklaus maður hafi verið sakfelldur og dæmdur í fangelsi. Við mat á því hvað stefndi eigi við með ummælum sínum um dómsmorð sé nærtækast að horfa til þess hvernig hugtakið sé skilgreint á blaðsíðu 63 í riti stefnda en þar segi: Dómsmorð er ... dráp af ásettu ráði, þar sem réttarfarið verður að morðtólinu. Hér er því um ,,intentional (ásetnings-) miscarriage of justice” að ræða. Með orðinu dómsmorð er einnig átt við hitt, þegar verknaðurinn leiðir eigi til dauða fórnarlambsins, heldur óverðskuldaðrar refsingar, eins og t.d. í Dreyfusar-málinu; og hægt er að fremja það, þar sem lögmál þau, er gilda um vandaðan málsrekstur, eru brotin, svo sem með þarf, til þess að komast megi að rangri niðurstöðu. Að mati stefnanda sé óhjákvæmilegt annað en að leggja þessa skilgreiningu til grundvallar við mat á því hvort hin umstefndu ummæli séu ærumeiðandi aðdróttanir, enda ljóst að stefndi hafi verið með þessa skilgreiningu á hugtakinu í huga, hafandi sett hana sjálfur fram til skýringar á umfjöllun sinni þegar hann ásakaði stefnanda og fleiri hæstaréttardómara um dómsmorð. Þannig sé ljóst að með skilgreiningunni hafi stefndi tekið af allan vafa um hvernig skilja ætti fullyrðinguna um dómsmorð. Það sé ljóst að notkun hugtaksins dómsmorðs af hálfu stefnda, í þeim skilningi sem það er sett fram af hans hálfu og í ljósi hans eigin skilgreiningar, feli í sér beina fullyrðingu um að stefnandi hafi misbeitt dómsvaldi sem sé ein alvarlegasta ásökun sem hægt sé að setja fram gagnvart dómara. Fyrirsagnir þær sem krafist sé ómerkingar á standi í beinu sambandi við skilgreiningu stefnanda á hugtakinu. Að því virtu og í samhengi við önnur ummæli stefnda sé ljóst að fyrirsagnirnar feli í sér ásökun um refsiverða og siðlausa háttsemi sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Fyrirsögnin dómsmorð komi fyrir í tvígang í riti stefnda, sbr. kröfulið 1 og 2 í stefnu. Annars vegar á blaðsíðu 61 og hins vegar á blaðsíðu 63. Í báðum tilvikum sé fyrirsögnin tilvísun til málsmeðferðar í máli Hæstaréttar nr. 279/2011 þar sem meirihlutinn, þ. á m. stefnandi, hafi sakfellt ákærða og dæmt hann í tveggja ára fangelsi. Stefnandi sé nafngreindur ásamt öðrum dómurum sem skipuðu meirihluta Hæstaréttar í ofangreindu máli á blaðsíðu 83 í riti stefnda. Það sé því ljóst að með fyrirsögninni sé verið að vísa til starfa stefnanda sem dómara og dómsmáls sem hann dæmdi. Með ummælunum í kröfulið 3 í stefnu fullyrði stefndi að við meðferð Hæstaréttar á máli Baldurs, vinar stefnda, hafi verið framið dómsmorð. Stefnandi sé embættismaður og um störf hans gildi ákvæði XIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um brot í opinberu starfi. Hvort heldur sem ummælin séu metin sjálfstætt eða í samhengi með öðrum ummælum, sem krafist sé ómerkingar á, sé ljóst að í þeim felist ásökun þess efnis að stefnandi hafi gerst sekur um ranglæti við meðferð og úrlausn dómsmáls. Slík brot geti varðað fangelsisrefsingu, sbr. 130., 132. og 139. gr. laga nr. 19/1940. Með ummælunum í kröfulið 4 í stefnu segi stefndi fullum fetum að sú skilgreining sem hann leggi til grundvallar á hugtakinu dómsmorð og vísað sé til á blaðsíðu 63 í riti stefnda eigi við um málsmeðferð Hæstaréttar á máli nr. 279/2011. Eins og áður hafi komið fram segi meðal annars í skilgreiningunni að dómsmorð sé misbeiting á dómsvaldi af ásettu ráði þar sem réttarfarið sér morðvopnið. Síðan árétti stefndi að hæstaréttardómararnir sem dæmdu málið, þ. á m. stefnandi, hafi af ásetningi kveðið upp hlutdrægan og þar með ranglátan dóm. Ummælin í kröfulið 5 í stefnu séu af sama meiði og ummælin í kröfulið 4 í stefnu. Þar vísi stefndi á ný til fyrrnefndrar skilgreiningar á dómsmorði sem sé að finna á blaðsíðu 63 í riti stefnda. Eins og áður fullyrði stefndi að þeir dómarar sem mynduðu meirihluta í máli Hæstaréttar nr. 279/2011, meðal annars stefnandi, hafi með dómsúrlausn sinni framið dómsmorð á ákærða í málinu. Við mat á ummælum stefnda sé þess að gæta í fyrsta lagi að hann sé fyrrverandi dómari við Hæstarétt. Af þeirri ástæðu hafi ummæli hans meiri áhrif í almennri umræðu. Jafnframt sé hann starfandi lögmaður og bundinn af siðareglum lögmanna. Af þessum ástæðum verði að gera meiri kröfur til hans en annarra. Í öðru lagi verði efnislega röng ummæli hans með engu móti réttlætt með því að þau eigi erindi við almenning. Í þriðja lagi sé þess að gæta að stefnandi hafi ekki með nokkru móti gefið á sér slíkt færi að hann þurfi að þola ummæli af þessu tagi. Með öllum hinum umstefndu ummælum sé vegið harkalega gegn æru stefnanda og starfsheiðri. Stefnandi hafi verið skipaður héraðsdómari árið 2001 og dómari við Hæstarétt Íslands árið 2012. Hann eigi að baki 16 ára flekklausan feril sem embættisdómari. Með öllum hinum umstefndu ummælum sé stefnanda gefið að sök refsiverð og siðlaus háttsemi sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Hin umstefndu ummæli séu ærumeiðandi aðdróttanir og feli í sér brot gegn 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ummælin hafi jafnframt verið höfð í frammi, birt og borin út gegn betri vitund, sbr. 1. og 2. mgr. 236. gr. sömu laga. Því beri að ómerkja ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. áðurgreindra laga. Öll hin umstefndu ummæli séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta æru stefnanda. Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir. Í því samhengi megi ennfremur benda á ákvæði 5. töluliðar 2. mgr. 4. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Samkvæmt því sé eitt hæfisskilyrða fyrir embættisgengi hæstaréttardómara að þeir hafi hvorki gerst sekir um refsivert athæfi, sem telja megi svívirðilegt að almenningsáliti, né sýnt af sér háttsemi sem geti rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta. Stefnandi byggir á því að stefndi hafi vegið með alvarlegum hætti að æru stefnanda. Með því hafi stefndi framið ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda sem hann beri skaðabótaábyrgð á, enda um ærumeiðandi aðdróttanir að ræða sem bæði séu rangar og bornar út og birtar opinberlega. Fjárhæð miskabótakröfu stefnanda taki mið af alvarleika aðdróttana stefnda. Miskabótakrafa stefnanda sé því hófleg en rétt sé að taka fram að verði stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda miskabætur muni þær renna til góðgerðarmála. Einnig sé ljóst að virðing stefnanda hafi beðið hnekki, sem og æra hans og persóna. Réttur stefnanda til æruverndar njóti verndar 71. gr. stjórnarskrár, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um nánari rökstuðning miskabótakröfu sé vísað til sjónarmiða sem sett séu fram í málsatvika- og málsástæðukafla. Krafa stefnanda um miskabætur sé byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda sé um að ræða skýr og ótvíræð brot á réttarreglum sem ætlað sé að vernda æru stefnanda, sbr. 235. gr. eða 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hvað fjárhæð miskabóta varði sé rétt að horfa til ferils stefnda en með dómi Hæstaréttar í máli nr. 306/2001 hafi stefndi verið dæmdur til þess að greiða brotaþola í kynferðisbrotamáli, þar sem hann var verjandi ákærða, miskabætur vegna brota gegn æru og friðhelgi einkalífs brotaþola. Þá hafi stefnda verið gert að sæta áminningu með úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna í máli nr. 14/2017, uppkveðnum 26. mars 2017. Þar hafi stefndi verið talinn hafa farið langt úr fyrir þau mörk sem ákvæði 19. gr. siðareglna lögmanna setji í samskiptum hans við þáverandi dómstjóra héraðsdóms Reykjavíkur. Stefndi hafi því í a.m.k. tvígang gerst brotlegur við lög og reglur með ummælum sínum í garð annarra. Öll skilyrði séu því uppfyllt til þess að dæma stefnanda háar miskabætur úr hendi stefnda. Um vaxta- og dráttarvaxtakröfu stefnanda er vísað til laga nr. 38/2001, einkum 4., 6., 8. og 9. gr. laganna. Þess er krafist að miskabótakrafa stefnanda beri vexti frá tjónsdegi sem er útgáfudagur rits stefnda, 2. nóvember 2017. Krafist er dráttarvaxta á miskabótakröfu frá 15. desember 2017 en þá var liðinn mánuður frá þingfestingu málsins. Um lagarök vísar stefnandi meðal annars til 235. gr., 1. mgr. 236. gr. og 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1., 2. og 13. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Einnig vísar stefnandi til 71. gr. stjórnarskrár og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá er vísað til ákvæðis 5. tl. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Loks er vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, s.s. hvað varðar varnarþing og málskostnað. IV             Stefndi byggir sýknukröfu sína á aðildarskorti. Ummælum stefnda um „dómsmorð“ hafi verið beint að Hæstarétti Íslands sem stofnun en ekki að stefnanda sem persónu. Eigi það við hvort sem ummælin séu metin ein og sér eða í samhengi við aðra umfjöllun í bókinni. Í Hrd. 1997, bls. 3618, hafi verið talið að fangelsismálastjóri ríkisins yrði að sæta því að vera nafngreindur og honum samsamað stofnuninni sem hann var í forsvari fyrir þar sem „meginefni“ greinarinnar hafi varðað störf stofnunarinnar. Hið sama eigi við í þessu máli. „Meginefni“ umfjöllunar stefnda sé um Hæstarétt Íslands en ekki stefnanda. Þá vísist til hliðsjónar til Hrd. nr. 36/2003 sem sé sama efnis. Samkvæmt þessu ber að sýkna stefnda vegna sóknaraðildarskorts stefnanda, sbr. ákvæði 2. mgr. 16. gr. nr. 91/1991. Stefndi bendir einnig á að aðrir dómarar sem mynduðu meirihlutann taki ekki þátt í þessari málssókn. Hugsanlegir annmarkar á málssókninni sem af þessu stafi komi til athugunar hjá dóminum án kröfu. Af hálfu stefnda sé tekið fram að hann telji af persónulegum ástæðum æskilegt að um sakarefni málsins verði fjallað fyrir dóminum. Því gerir hann ekki kröfu um frávísun málsins.             Í málsástæðukafla stefnu byggi stefnandi á því að notkun stefnda á orðinu „dómsmorð“, samkvæmt skilgreiningu þriðja manns (J.B. Hort), sé ærumeiðandi fyrir hann. Þar virðist helst byggt á því að ærumeiðandi sé að vísað sé til „ásetnings“ um dómsmorð í skilgreiningunni. Þá virðist stefnandi byggja á því að stefnda verði gert að sanna huglægan ásetning stefnanda til að fremja dómsmorð. Annars teljist ummælin ekki varin af tjáningarfrelsi. Stefndi mótmælir málatilbúnaði stefnanda í heild sinni.             Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hin umstefndu ummæli njóti tjáningarfrelsisverndar samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrár og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Við matið á því hvort tjáning sé leyfileg sé metið hvort efni geti hafa talist „þáttur í þjóðfélagsumræðu“ og eigi „erindi til almennings“, sbr. t.d. hrd. 103/2014. Samkvæmt ofangreindum dómi gildi rúmt tjáningarfrelsi bæði um störf Hæstaréttar Íslands og störf einstaka hæstaréttardómara. Þá byggir stefndi á því að sérstaklega rúmt tjáningarfrelsi gildi um sakamál. Þýðingarmesta hlutverkið sem dómara sé fengið sé að standa vörð um grunnreglur sakamálaréttarfars, eins og að maður skuli teljast saklaus uns sekt er sönnuð, vafi skuli skýrður sakborningi í hag, refsingu verði ekki komið fram án skýrrar lagaheimildar og að sakfelling eigi sér einungis stað á grundvelli þess sem ákært sé fyrir.             Þá byggir stefndi á því að sérstaklega rúmt tjáningarfrelsi gildi um dóma Hæstaréttar í sakamálum eftir efnahagshrun árið 2008. Vandfundið sé þýðingarmeira málefni fyrir íslenskt þjóðfélag en hvort réttarkerfið hafi staðist reiði almennings og þrýsting um sakfellingar í kjölfar hrunsins. Hæstiréttur hafi sjálfur talið að tjáningarfrelsi sé rýmra þegar um sé að ræða málefni tengd hruninu, sbr. t.d. forsendur í máli nr. 100/2011. Því skuli haldið til haga að í kjölfar efnahagshrunsins hafi opinberar umræður um sakamál vegna efnahagsbrota verið afar einhliða. Óhætt sé að segja að þar hafi mjög hallað á sakborninga. Við þessar aðstæður sé þýðingarmikið að reyndir dómarar og lögmenn bendi á ágalla á réttlátri málsmeðferð og dómsniðurstöðum þannig að læra megi af meðferð málanna til frambúðar. Búast megi við því, a.m.k. til skemmri tíma, að tjáning slíkra skoðana kunni að verða óvinsæl hjá þeim sem fara með ákæru- eða dómsvald. Til lengri tíma litið skipti það hins vegar gríðarlega miklu máli að frelsi til gagnrýni á dómsýslu eftir efnahagshrun verði ekki skert og þá skipti mestu að óvinsælar eða umdeildar skoðanir sæti ekki þöggun. Hæstiréttur Íslands sé æðsti dómstóll Íslands. Málssóknir frá einstökum dómurum við réttinn vegna gagnrýni á dómsúrlausnir þeirra dragi mjög úr hvata til að gagnrýna beitingu dómsvalds. Slíkar málssóknir séu til þess fallnar að hafa „kælingaráhrif“ (e. chilling effect) og skaða tjáningarfrelsi hérlendis til lengri tíma. Reikna megi með því að hvorki almenningi né lögfræðingum hugnist að standa í málaferlum við hæstaréttardómara fyrir það eitt að tjá skoðanir á réttmæti dómsúrlausna. Þá áréttar stefndi að dómurum sé veitt sérstök starfsvernd að íslenskum lögum. Þeir séu skipaðir til starfa sinna ótímabundið, til aldursmarka og séu almennt ekki dregnir til ábyrgðar fyrir mistök í dómsýslu sinni. Engin dæmi séu heldur um það hérlendis að dómarar séu dregnir til refsiábyrgðar fyrir að brjóta gegn réttlátri málsmeðferð eða kveða upp dóm sem færa mætti rök fyrir því að dómari hafi vitað fyrirfram að stæðist ekki lögfræðilega skoðun. Af þessum ástæðum einskorðist aðhald að dómurum almennt við frjálsa tjáningu um verk þeirra. Stefndi byggir einnig á því að frjáls og gagnrýnin umræða um málefni dómstóla sé sérstaklega nauðsynleg á Íslandi. Að mati stefnda hafi íslenskt fræðasamfélag á sviði lögfræðinnar verið svo gott sem lamað í umfjöllun um dóma Hæstaréttar eftir efnahagshrun. Um sé að ræða örsmátt samfélag þar sem menn tengjast innbyrðis í allar áttir. Við slíkar aðstæður sé óhjákvæmilegt að fræðimenn, lögmenn, dómarar o.fl. veigri sér við að gagnrýna verk kollega, kunningja, vina, skólafélaga o.s.frv. Að mati stefnda hafi sú litla gagnrýni sem komið hafi fram frá fræðasamfélaginu verið veikburða. Þegar dómur sé gagnrýndur á þeim grundvelli að menn hafi verið dæmdir í fangelsi án fullnægjandi rökstuðnings telur stefndi við hæfi að nota sterk orð þar um. Slík tjáning sé nauðsynleg til að fá almennan lesanda til að skilja hversu alvarlegt það er ef Hæstiréttur Íslands virðir ekki réttindi sakaðra manna.             Þá byggir stefndi á því að hann njóti, sem fyrrverandi hæstaréttardómari, sérstaklega rúms tjáningarfrelsis um öll málefni dómstólsins. Fáir núlifandi Íslendingar séu í stöðu stefnda sem gefi þeim forsendur umfram aðra til að koma auga á bresti í dómsýslu Hæstaréttar. Því sé þýðingarmikið að þessir aðilar hafi rúmt frelsi til tjáningar. Stefndi áréttar loks að samkvæmt dómum Mannréttindadómstólsins á síðastliðnum árum hafi þróunin mjög markvisst verið í átt til aukins tjáningarfrelsis. Hér vísist sérstaklega til dóms í máli Erdogan o.fl. gegn Tyrklandi (nr. 346/04 og 39779/04). Í málinu hafi verið deilt um greinaskrif prófessors í stjórnskipunarrétti í tímarit um tiltekinn dóm stjórnskipunarréttar í Tyrklandi. Stefndi byggir á því að hin umstefndu ummæli í þessu máli séu miklu vægari og ópersónulegri en þau sem um getur í máli Erdogan o.fl. gegn Tyrklandi. Þau njóti þegar af þeirri ástæðu tjáningarfrelsisverndar samkvæmt 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.             Löng hefð sé fyrir því að nota orðið „dómsmorð“ bæði í fræðilegri og almennri umfjöllun hér á landi. Í skýrslum Árna Magnússonar og Páls Vídalíns til ríkisstjórnarinnar í Kaupmannahöfn um íslenskt réttarfar hafi verið fjallað um mál Ara Pálssonar sem sakfelldur hafði verið, m.a. fyrir að hafa farið með „óleyfilega fjölkynngi“ árið 1681. Í skýrslunum hafi verið rakið að allur „málatilbúnaður“ hefði verið „meingallaður“ og því væri um „dómsmorð“ að ræða. Þekktasta notkunin á hugtakinu í umræðum um dómsmál sé sjálfsagt í tengslum við meðferð lögreglu, ákæruvalds og dómstóla á svonefndu Guðmundar- og Geirfinnsmáli. Forsætisráðherra hafi lýst þeirri skoðun sinni árið 1998 að mönnum „hafi orðið á í messunni í stórkostlegum mæli á öllum stigum málsins“. Framin hafi verið „ekki eitt dómsmorð heldur mörg“. Ummælin hafi í framhaldinu verið borin undir verjendur og sakborninga í málinu. Jón Oddsson hrl., verjandi eins dómfelldu, hafi látið hafa eftir sér að ekkert hafi legið fyrir í málinu um sekt ákærðu og „rannsóknaraðferðir og meðferð, þar sem okkur verjendum var haldið frá málinu virðist hafa verið með þeim hætti að orð Davíðs um dómsmorð eiga fullkomlega rétt á sér“. Hilmar Ingimundarson hrl. lét hafa eftir sér að skjólstæðingur hans hefði verið „ranglega sakfelldur og ef hann er ranglega sakfelldur þá heitir það dómsmorð“. Einn dómfelldu, Sævar Ciesielski, hafi gefið út bókina „Dómsmorð“ árið 1997. Þar hafi hann lýst þeirri skoðun sinni að umfangsmikil og vísvitandi brot gegn réttindum sakborninga hefðu átt sér stað við meðferð málsins hjá lögreglu og dómstólum. Ragnar Aðalsteinsson hrl. og Lúðvík Bergvinsson hdl. hafi einnig notað orðið „dómsmorð“ til að lýsa niðurstöðu Hæstaréttar í málinu í viðtali við www.visir.is. árið 2017. Annað þekkt dæmi sé hið svokallaða Hafskipsmál. Árið 1990 hafi fallið dómur í Sakadómi Reykjavíkur í málinu. Einn sakborninga hafi látið hafa eftir sér fyrir uppkvaðningu dóms: „Ég kom ekki til að hlusta á dómsmorð“. Annar sakborninga hafi notað orðið „réttarmorð“ í sjónvarpsviðtali. Þessi orðnotkun sakborninganna hafi orðið tilefni gagntjáningar en ekki málssókna. Þá hafi „dómsmorð“ einnig verið notað um dóma Hæstaréttar í efnahagsbrotamálum eftir hrun. Stefndi sé því ekki einn um að telja hugtakið eiga við um niðurstöður réttarins. Þannig hafi Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, sagt að „dómsmorð hafi verið framið í Hæstarétti“, í hinu svokallaða Al Thani máli. Annar sakfelldu í málinu, Ólafur Ólafsson, bætti því við að dómarar í Hæstarétti hefðu „komist að niðurstöðu fyrirfram“. Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, hafi lýst þeirri skoðun sinni að „dómsmorð“ hafi verið framið þegar hann var sakfelldur í Hæstarétti í hinu svokallaða Ímon máli: „Í mínum huga er þetta dómsmorð“. Ummælin hafi hann látið falla þar sem hann taldi Hæstarétt hafa brotið gegn meginreglum um skýrleika refsiheimilda. Hann hafi verið sakfelldur með vísan til „óskráðra reglna“ sem „enginn vissi hverjar voru“. Dómurinn væri „rangur“. Hugtakið „dómsmorð“ sé ekki einvörðungu notað af lögmönnum og sakborningum. Hugtakið sé í mjög almennri notkun. Þannig hafi fjölmiðillinn DV notað „dómsmorð“ til að lýsa því að Sigurþór Arnarson hafi setið „saklaus“ í fangelsi, sbr. hrd. 512/2012. Sami fjölmiðill hafi notað orðið „dómsmorð“ um hrd. 158/2011 þar sem blaðamaður hafi verið  dæmdur til greiðslu 400.000 króna miskabóta en hafi verið sýknaður af refsikröfu vegna ærumeiðinga. Ummæli DV hafi verið eftirfarandi: „Íslenska réttarríkið er uppvíst að fjölda dómsmorða sem endurspeglast í þeim löglega níðingshætti að svipta launafólk árslaunum vegna orða annarra.“ Þá hafi faðir sakbornings í máli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-362/2017, látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að „dómsmorð“ hafi verið framið á syni hans. Þannig hafi „dómsvaldið einfaldlega [...] verið búið að ákveða niðurstöðuna fyrirfram.“ Stefndi áréttar að hugtakið „dómsmorð“ eigi sér langa notkunarsögu erlendis. Ágreiningslaust sé m.v. stefnu að ensk þýðing hugtaksins sé „Miscarriage of Justice“. Í úttekt á umfjöllun breska dagblaðsins The Guardian, dags. 4. september 2014, á ranglátum sakfellingum fyrir breskum dómstólum hafi hugtakið dómsmorð verið notað um slíka dóma. Þar hafi því verið lýst að „kerfislæg“ (e. systemic) hætta væri á ranglátum sakfellingum fyrir breskum dómstólum og að slíkir dómar bærust á „hverjum degi“ (e. „every single day“). Þá megi t.d. nefna að verjandi norsks stjórnarerindreka, sem dæmdur hafi verið í tuttugu ára fangelsi fyrir njósnir í þágu Sovétríkjanna, hafi skrifað bók um réttarhöldin þar sem hann hafi lýsti því að framið hefði verið „dómsmorð“ á sakborningnum. Dómstólar hefðu m.a. sakfellt á grundvelli falsaðra skjala.             Af framangreindu sé ljóst að ummæli stefnda um „dómsmorð“ séu í samræmi við almenna lögfræðilega orðnotkun. Þá sé orðnotkunin í samræmi við almenna málvenju. Ef dómur í máli þessu félli stefnanda í vil hefði það ófyrirséðar afleiðingar fyrir tjáningarfrelsi lögfræðinga, fræðimanna, fjölmiðlamanna, sakborninga, aðstandendur þeirra og allan almenning.             Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hafi ummæli verið flokkuð annars vegar í gildisdóma og hins vegar staðhæfingar um staðreyndir. Meginmunurinn sé að málsaðilum verði ekki gert að sanna gildisdóma. Gildisdómar séu skilgreindir rúmt í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Mat dómstólsins á því hvort ummæli teljist staðhæfing um staðreynd eða gildisdómur fari fram með því að ummæli séu skoðuð í samhengi við málsatvik, í samhengi við önnur ummæli í umfjöllun, efni umfjöllunar í heild sinni og með tilliti til stöðu málsaðila. Þá leggi dómstóllinn til grundvallar „táknræna“ eða „yfirfærða“ merkingu orða fremur en bókstaflega merkingu. Þannig sé ekki nægjanlegt fyrir stefnanda þessa máls að vísa til þess að einstaka setningar eða orð í lengri umfjöllun teljist staðhæfingar um staðreyndir ef umfjöllunin í því samhengi, sem hún sé sett í, feli í heild sinni í sér gildisdóm. Ummæli sem hafi einungis á sér „staðreyndabrag“ hafa verið talin fela í sér gildisdóma. Til dæmis hafi staðhæfing um að ráðherra væri með „fasistafortíð“ verið talin vera gildisdómur í máli Feldek gegn Slóvakíu (nr. 29032/95) en ekki staðhæfing um beina þátttöku í starfi fasistahreyfingar sem viðkomandi þyrfti að sanna. Í máli Scharsach og News Verlagsgeselleschaft gegn Austurríki (39394/98) hafi verið talið að orðalagið „leyninasisti“ væri gildisdómur en ekki staðhæfing um að viðkomandi væri í raun þátttakandi í starfi nasistahreyfingar. Stefndi byggir á því að það sé gildisdómur hans að framið hafi verið „dómsmorð“ með dómi Hæstaréttar í máli Baldurs Guðlaugssonar. Stefndi byggir á því að ummæli hans verði að skoða í samhengi við umfjöllunina í bók hans í heild sinni og þá sérstaklega í samhengi við þá kafla þar sem gagnrýnin komi fram. Óréttlátt sé að taka einstök ummæli um „dómsmorð“ út úr umfjölluninni og krefjast þess að það verði sannað, þegar umfjöllunin í heild sinni sé rökstudd afstaða þess sem í hlut á og teljist því gildisdómur. Fullt tilefni hafi verið fyrir gildisdómi stefnda eins og í máli Erdogans o.fl. gegn Tyrklandi og ummælin séu þegar af þeirri ástæðu innan marka leyfilegrar tjáningar. Lögfræðilegar skoðanir stefnda á málinu hafi í stuttu máli verið eftirfarandi: Álagið á Hæstarétti Íslands hafi verið of mikið eftir efnahagshrunið árið 2008. Það hafi leitt til óvandaðra dómsniðurstaðna sem væri sérstaklega gagnrýnivert í sakamálum. Hæstiréttur hafi ekki staðist þrýsting um að sakfella í máli Baldurs Guðlaugssonar, fyrsta efnahagsbrotamálinu sem kom til kasta dómstólsins eftir hrun. Dómsformaður, Viðar Már Matthíasson, hafi verið vanhæfur til að taka þátt í meðferð málsins vegna hlutabréfaeignar í Landsbankanum. Upplýsingar þær um stöðu Landsbankans sem ákærði bjó yfir hafi ekki verið innherjaupplýsingar samkvæmt 120. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Hæstiréttur Íslands hafi ekki tekið afstöðu til þess hvaða þýðingu það hefði að ákærða væri gefið að sök að hafa misnotað upplýsingar um miðjan september 2008 sem hann fékk í júlí og ágúst. Landsbankanum hafi verið skylt að birta upplýsingarnar „eins fljótt og auðið er“ samkvæmt 122. gr. laga um verðbréfaviðskipti og FME skylt að hafa með því eftirlit. Sakfelling ákærða hafi verið afleiðing þeirrar vanrækslu þar sem að við birtingu hættu upplýsingar að vera innherjaupplýsingar. Ákærða Baldri hafi þannig „óbeint“ verið refsað fyrir „lögbrot íslenska ríkisins“ . Ákærði Baldur hafi verið dæmdur fyrir annað en það sem hann hafi verið ákærður fyrir. Hann hafi verið ákærður fyrir að vera „annar innherji“ samkvæmt 3. tl. 121. gr. laga um verðbréfaviðskipti en sakfelldur fyrir að vera „tímabundinn innherji“. Honum hafi aldrei verið gefinn kostur á því að verjast því að vera tímabundinn innherji. Úrlausn Hæstaréttar fæli í sér „alvarlegt brot á réttindum ákærða“ og væri með öllu óheimil samkvæmt 180. gr. laga nr. 88/2008. Samantekt um efni dómsins hafi verið breytt eftir birtingu dómsins og staðhæfingu um að ákærði hefði verið „tímabundinn innherji“ hefði verið breytt. Þetta væri óvenjulegt og gæfi enn frekara tilefni til efasemda um réttmæti niðurstöðunnar. Brotið hafi verið gegn Ne bis in Idem reglu sakamálaréttarfars með því að hefja rannsókn málsins aftur á stjórnsýslustigi með tilvísun til þess að ný gögn hefðu borist í málinu. Stefndi hafi vísað nánar til umfjöllunar Róberts R. Spanó, dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, sem hafi gagnrýnt að málið hefði verið tekið upp aftur eftir að því hefði verið lokið á stjórnsýslustigi.              Þá verði að hafa í huga að gildisdómurinn um dómsmorð hafi komið fyrir í sérstökum kafla í bókinni um „hugarástand“ sem ríkt hafi í Hæstarétti í kjölfar efnahagshrunsins. Ef umfjöllunin í kaflanum sé skoðuð í heild sinni fari ekki á milli mála að stefndi hafi verið að tjá skoðun sína á því hugarástandi sem hann taldi ríkja hjá dómurum Hæstaréttar á þessum tíma. Á bls. 56 segi t.d.: „Mér fannst sem dómararnir væru sérstaklega áhugasamir um að sýna nú þjóðinni að þeir myndu standa sig í að láta nú þrjótana í hruninu finna fyrir því. Líklega mátti strax merkja mengað hugarfar dómaranna af ákvörðunum sem þeir tóku um gæsluvarðhald í rannsóknarskyni yfir fyrrverandi stjórnendum bankanna löngu eftir að þeir höfðu látið af störfum“. Meta þurfi hin umstefndu ummæli um „dómsmorð“ í samhengi við umfjöllun í kaflanum um að stefnda hafi „fundist“ sérstakt hugarástand ríkja innan Hæstaréttar Íslands og efni bókar stefnda í heild sinni. Þá beri að líta á táknræna og yfirfærða merkingu ummæla um „dómsmorð“, en ekki bókstaflega merkingu þeirra. Þá komi berum orðum fram í umfjölluninni að stefndi hefði ekki vissu um það hver huglæg afstaða einstakra dómara var: „Felldur var dómur, sem dómararnir vissu, eða að minnsta kosti hlutu að vita, að ekki stóðst hlutlausa lagaframkvæmd.“ Þá áréttar stefndi að það teljist sjálfstætt brot á tjáningarfrelsi hans að gera honum að sanna gildisdóm um huglæga afstöðu þriðja manns. Slík sönnun sé ómöguleg. Þá samræmist það málvenju að nota orðið „dómsmorð“, þegar mengað hugarástand dómara leiði til sakfellingar, sbr. ofangreind ummæli um að dómarar hafi „komist að niðurstöðu fyrirfram“, og það hafi verið „búið að ákveða niðurstöðu fyrirfram“. Hingað til hafa slík ummæli ekki verið túlkuð þannig að verið sé að saka einstaka dómara um refsiverða háttsemi eins og miðað sér við í stefnu.             Af þessum ástæðum mótmæli stefndi því sérstaklega að hann hafi í bók sinni sakað stefnanda um refsiverða háttsemi samkvæmt 130., 132. eða 139. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og gefið sé í skyn í stefnu. Hvergi hafi staðið í umfjölluninni að háttsemi þeirra dómara sem stóðu að meirihlutaatkvæði væri refsiverð. Hvergi hafi verið vísað til ofangreindra ákvæða almennra hegningarlaga. Hið rétta sé að gagnrýni stefnda hafi beinst að stofnuninni Hæstarétti Íslands og menguðu hugarástandi innan dómstólsins. Sú umfjöllun tengist svo aftur afar þýðingarmiklu umfjöllunarefni fyrir íslenskan almenning, þ.e. hvort íslenskir dómstólar hafi staðist þrýsting um að sakfella í kjölfar efnahagshruns. Þá sé því sérstaklega mótmælt að það sé meira ærumeiðandi að setja fram þá skoðun að dómarar Hæstaréttar „hljóti að vita“ að dómur sé rangur en að dómur sé rangur af gáleysi. Stefndi telur sjálfur að það hefði verið meira ærumeiðandi að halda því fram að dómarar við Hæstarétt Íslands hefðu ekki kunnáttu á grunnatriðum við meðferð sakamála. Loks mótmælir stefndi því að skilyrði sé til þess að ummæli hans falli undir ákvæði 235. gr., 1. mgr. 236. gr. og 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga.             Stefndi bendir á að hvassyrði, stóryrði, ögrun og ýkjur njóti sérstakrar tjáningarfrelsisverndar þegar um sé að ræða málefni sem hafa þjóðfélagslega þýðingu samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, t.d. Willem gegn Frakklandi (nr. 10883/05). Frelsi til að tjá sig með slíkum hætti sé oft nauðsynlegur þáttur í því að vekja athygli almennings á þjóðfélagslega mikilvægum málefnum. Tjáning sem „móðgar, hneykslar og raskar ró manna“ njóti sérstakrar tjáningarfrelsisverndar samkvæmt dómi Mannréttindadómstólsins í máli Þorgeirs Þorgeirssonar gegn Íslandi (nr. 13778/88). Loks njóti fræðileg gagnrýni sérstakrar tjáningarfrelsisverndar og þá sérstaklega ef hún er á verk opinberra stofnana eins og dómstóla, sbr. t.d. dóm Mannréttadómstólsins í málum Mustafa Erdogan o.fl. gegn Tyrklandi (málsnr. 346/04 og 39779/04). Samkvæmt framansögðu sé ljóst að jafnvel þótt það teldist ofmælt að nota orðið „dómsmorð“ um mál Baldurs Guðlaugssonar eða að dómarar „hljóti að vita“ að sakfellingardómurinn hafi verið rangur njóti ummæli stefnda tjáningarfrelsisverndar. Ef talið verði, gegn mótmælum stefnda, að ummælin um dómsmorð teljist staðhæfing um staðreynd byggir stefndi á því að umfjöllun hans sé rétt og því beri að sýkna hann. Framið hafi verið dómsmorð á Baldri Guðlaugssyni með dómi Hæstaréttar af þeim ástæðum sem tilgreindar séu í bók hans.             Eftir því sem stefndi best veit sé þetta fyrsta málssókn sinnar tegundar hérlendis, þ.e. þar sem starfandi dómari við Hæstarétt Íslands stefni manni fyrir gildisdóm um dómsúrlausn réttarins. Stefndi bendir á að dómur í þessu máli stefnanda í vil myndi fela í sér hættulegt fordæmi. Ef allir fjórir dómararnir, sem stóðu að meirihlutaatkvæðinu, ættu miskabótarétt á hendur stefnda þurfi vart að fjölyrða um kælingaráhrif á frjálsa tjáningu um málefni Hæstaréttar. Hætt væri við því að þeir örfáu menn sem hygðust dirfast að gagnrýna dómstólinn hættu við það.             Verði ekki fallist á að sýkna stefnda af þeirri ástæðu að hann hafi notið tjáningarfrelsis til að viðhafa hin umstefndu ummæli, byggir hann á því til vara að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfur sínar þar sem óhögguð myndu standa orð sem stefndi birti um þennan dóm í bók sinni „Í krafti sannfæringar“, sem út kom 2014. Þar hafi einnig verið notað orðið „dómsmorð“ um þennan sama dóm.             Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi orðið fyrir miska vegna umfjöllunarinnar, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 37/1993. Í fyrsta lagi hafi orðið dómsmorð einnig verið notað um dóm í máli Baldurs Guðlaugssonar í bókinni „Í krafti sannfæringar“, sem hafi komið út þremur árum fyrr. Í öðru lagi sé miski hans enginn þar sem gagnrýni stefnda hafi beinst að stofnuninni Hæstarétti Íslands en ekki að honum persónulega. Í þriðja lagi hafi stefndi slegið þann varnagla við umfjöllunina að stefnanda „hljóti“ að hafa verið ljóst að dómurinn stæðist ekki. Þannig hafi stefndi ekki staðhæft um huglæga afstöðu stefnanda þegar hann kvað upp dóminn. Í fjórða lagi vísar stefndi til ofangreindrar umfjöllunar í heild sinni. Ljóst sé af henni að ummælin teldust aldrei ólögmæt meingerð í skilningi 26. gr. skaðabótalaga, enda séu þau varin af tjáningarfrelsi stefnda.             Stefnandi krefjist 2.000.000 króna miskabótagreiðslu vegna hinna umstefndu ummæla. Stefndi mótmælir kröfunni á þeim grundvelli að hún sé óhóflega há. Krafan sé ekki í nokkru samræmi við áratuga dómaframkvæmd Hæstaréttar í ærumeiðingarmálum. Rökstuðningur í stefnu fyrir hárri bótakröfu er þar að auki haldlaus. Í stefnu segir, í fyrstu efnisgrein um kröfuna, að verði stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda miskabætur muni þær renna til góðgerðarmála. Engin lagaheimild stendur til þess að ákvarða bótafjárhæð með tilliti til fyrirætlana bótakrefjandans um ráðstöfun miskabóta. Bótunum er eingöngu ætlað það hlutverk að rétta hlut bótakrefjandans sjálfs. Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi til meginreglna um tjáningarfrelsi sem m.a. koma fram í 73. gr. íslensku stjórnarskrárinnar og 9. – 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem veitt var lagagildi á Íslandi með lögum nr. 62/1994. Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. laganna. VI Eins og rakið er hér að framan er upphaf máls þessa að stefndi gaf út bókina „Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“ sem út kom 2. nóvember 2017. Í þriðja þætti bókarinnar, sem ber heitið „Hugarástandi við Hæstarétt“, lýsir stefndi þeirri skoðun sinni að dómarar Hæstaréttar hafi látið þrýsting almennings um sakfellingu í kjölfar efnahagshrunsins hafa áhrif á sig. Dómarar hafi dregið taum ákæruvaldsins í málum og að brotið hafi verið gegn réttindum ákærðu með ýmsum hætti. Í undirkafla í þriðja þætti bókarinnar, sem ber heitið „Dómsmorð“, en þar er að finna hin umstefndu ummæli nr. 1-4, fjallar stefndi á 23 síðum um mál ákæruvaldsins á hendur Baldri Guðlaugssyni en í því máli var ákærði sakfelldur fyrir innherjasvik og dæmdur til fangelsisvistar. Rekur stefndi í bókinni lögfræðileg sjónarmið sín um að dómurinn hafi verið rangur og að sýkna hefði átt ákærða. Rekur hann ennfremur forsendur og þær ástæður sem hann telur að leitt hafi til rangrar niðurstöðu meirihluta Hæstaréttar í málinu. Þá vitnar stefndi í bók sinni til skýringar J. B. Hort á hugtakinu „dómsmorð“ og segir að sú skilgreining eigi vel við í máli Baldurs en hún er svohljóðandi: „Dómsmorð er ... dráp af ásettu ráði, þar sem réttarfarið verður að morðtólinu. Hér er því um ,,intentional (ásetnings-) miscarriage of justice” að ræða. Með orðinu dómsmorð er einnig átt við hitt, þegar verknaðurinn leiðir eigi til dauða fórnarlambsins, heldur óverðskuldaðrar refsingar, eins og t.d. í Dreyfusar-málinu; og hægt er að fremja það, þar sem lögmál þau, er gilda um vandaðan málsrekstur, eru brotin, svo sem með þarf, til þess að komast megi að rangri niðurstöðu.“             Stefnandi byggir málssókn sína á því að ummælin „dómsmorð“ séu ærumeiðandi aðdróttanir eins og þau birtast í framangreindum kafla bókarinnar um mál Baldurs Guðlaugssonar og ennfremur þar sem þau birtast í sama samhengi á blaðsíðu 114 í bókinni. Byggir stefnandi á því að leggja verði til grundvallar tilvitnaða skilgreiningu J. B. Hort, sem stefndi vísar til í riti sínu, á því hvað felst í hugtakinu „dómsmorð“. Stefndi hafi með þessari tilvitnun að mati stefnanda fullyrt að stefnandi hafi af ásetningi komist að rangri niðurstöðu í dómsmáli með þeim afleiðingum að saklaus maður hafi verið sakfeldur og dæmdur í fangelsi. Ásökun stefnda sé því ásökun um refsiverða háttsemi.             Líta verður til þess að stefndi dregur nokkuð úr skoðun sinni um að dómsmorð hafi verið framið þegar hann segir í framhaldi af tilvitnun sinni í hinn norska lögfræðing: „Felldur var dómur, sem dómararnir  vissu, eða að minnsta kosti hlutu að vita, að ekki stóðst hlutlausa lagaframkvæmd.“ Þrátt fyrir framangreinda skilgreiningu J. B. Hort, en bók hans kom út í íslenskri þýðingu 1954, verður einnig að hafa í huga, eins og stefndi hefur sýnt fram á, að orðið „dómsmorð“ hefur í almennri umræðu síðustu áratugi verið notað í þeirri merkingu að dómstóll hafi komist að rangri niðurstöðu. Sérstaklega hafa dæmdir sakborningar, sem hlotið hafa refsingu, notað orðið í þeirri merkingu að þeir hafi saklausir verið dæmdir til refsingar. Verjendur þeirra og aðrir lögmenn hafa einnig í almennri umræðu komist svo að orði að niðurstaða refsidóms hafi verið dómsmorð og þá átt við að ákærði hafi verið sakfelldur án þess að hafa til sakar unnið.               Almennt gildir rúmt tjáningarfrelsi um starfsemi dómstóla vegna þjóðfélagslegs mikilvægis þeirra. Játa verður stefnda rúmt tjáningarfrelsi um þá dóma Hæstaréttar sem fjalla um sakamál eftir bankahrunið haustið 2008, þ. á. m. hvort réttarkerfið hafi staðist þrýsting og reiði almennings í kjölfar hrunsins en það er skoðun stefnda að svo hafi ekki verið.             Við mat á því hvort hin umstefndu ummæli séu gildisdómur eða staðhæfing um staðreyndir verður að meta skrif stefnda í heild sinni. Verður að skoða hin umstefndu ummæli í samhengi við umfjöllun hans í heild í þessum kafla bókarinnar en þar leitast hann við að rökstyðja og gagnrýna út frá lögfræðilegum sjónarmiðum þá skoðun sína að meirihluti Hæstaréttar hafi komist að rangri niðurstöðu í máli Baldurs Guðlaugssonar og að rétt aðferðarfræði, samkvæmt hans skoðun, sem hann rökstyður í bók sinni,  hefði leitt til annarrar niðurstöðu. Hvergi í þessum kafla bókarinnar  er stefnandi, eða aðrir þeir dómarar, sem áttu sæti í umræddu dómsmáli, sakaður um refsiverða háttsemi. Stefndi tekur í riti sínu stundum sterkt til orða í gagnrýni sinni á Hæstarétt en þegar umfjöllun hans er virt í heild verður talið að hann hafi notað hugtakið dómsmorð í óeiginlegri eða yfirfærði merkingu, aðallega til þess að leggja áherslu á orð sín. Verður því talið að umfjöllun stefnda í heild sinni feli í sér ályktun hans eða gildisdóm um framangreindan dóm Hæstaréttar en ekki staðhæfingu um að refsivert brot hafi verið framið.             Þá er einnig til þess að líta að hin umstefndu ummæli og umfjöllun stefnda í framangreindum kafla bókarinnar er gagnrýni á störf Hæstaréttar en beinast ekki að stefnanda persónulega. Nafn hans er ekki nefnt í þessum kafla bókarinnar að öðru leyti en því að nafna dómenda, er sátu í dómi í máli Baldurs Guðlaugssonar, er getið.             Þegar allt framangreint er virt verður ekki talið að í ummælum stefnda hafi falist refsiverð ærumeiðing samkvæmt 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga. Að gættum rétti stefnda samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar verða ummælin því ekki ómerkt. Stefndi verður því sýknaður af kröfum stefnanda í málinu. Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila.             Gunnar Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsorð             Stefndi, Jón Steinar Gunnlaugsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Benedikts Bogasonar, í málinu.             Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 28/2020
Lánssamningur Lausafjárkaup Kröfugerð Vanreifun Aðild Frávísun frá héraðsdómi
D ehf. krafðist þess að S yrði gert að greiða sér tiltekna skuld sem hann taldi tilkomna vegna uppgjörs á samningi sem D ehf. og S höfðu gert með sér um allt að 45.000.000 króna lán í formi lánalínu til að fjármagna dekkjakaup fyrirtækja í eigu S af D ehf. Til vara hafði D ehf. kröfuna uppi á hendur B ehf. og krafðist greiðslu á eftirstöðvum þeirrar skuldar sem hann taldi fyrir hendi vegna viðskipta með dekkin. Í dómi Hæstaréttar kom fram að gögn málsins bæru ekki með sér hvort, hvenær eða með hvaða hætti D ehf. hefði veitt S lán samkvæmt hinni svokölluðu „lánalínu“ og engin gögn lægju fyrir um stöðu lánsviðskiptanna á hverjum tíma eða um endurgreiðslu þess. Í reikningum sem gefnir hefðu verið út á hendur B ehf. til uppgjörs á seldum dekkjum hefði heldur ekkert komið fram um að útgáfa þeirra eða greiðslur fyrir dekkin tengdust lánssamningi. Þá hefði krafa um greiðslu vaxta af ætluðu láni fyrst verið sett fram þegar ríflega tvö ár voru liðin frá afhendingu dekkjanna. Var málatilbúnaður D ehf. talinn óljós og í ósamræmi við gögn málsins auk þess sem gögnin sjálf væru misvísandi um viðskipti aðila. Þar sem þessi málatilbúnaður D ehf. var talinn í berhögg við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var kröfum D ehf. á hendur S vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. júlí 2020. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar á öllum dómstigum. Gagnáfrýjandi skaut málinu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 7. október 2020. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 32.111.779 krónur með nánar tilgreindum vöxtum frá 10. júní 2015 til greiðsludags, allt að frádregnum nánar tilgreindum innborgunum samtals að fjárhæð 10.627.741 króna. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum úr hendi gagnáfrýjanda. I Mál þetta lýtur að ágreiningi vegna viðskipta með dekk af gerðinni Infinity sem gagnáfrýjandi flutti til landsins frá Kína og afhenti Bílastofunni ehf. en aðaláfrýjandi var fyrirsvarsmaður þess félags. Um var að ræða sex gáma með um 6.000 dekkjum, sem komu til landsins haustið 2015, en hluta af þeim var ráðstafað til annarra viðskiptamanna gagnáfrýjanda. Þá mun gagnáfrýjandi hafa afhent Bílastofunni ehf. um 850 dekk til viðbótar á árunum 2016 og 2017. Loks mun gagnáfrýjandi sjálfur hafa ráðstafað hluta dekkjanna á tímabilinu frá september 2015 til júní 2017. Gagnáfrýjandi höfðaði mál þetta aðallega á hendur aðaláfrýjanda til efnda á lánssamningi en til vara á hendur Bílastofunni ehf. og krafðist greiðslu á eftirstöðvum þeirrar skuldar sem hann taldi fyrir hendi vegna viðskiptanna með dekkin. Héraðsdómur sýknaði aðaláfrýjanda og Bílastofuna ehf. af kröfum gagnáfrýjanda en með dómi Landsréttar voru kröfur hans að hluta til teknar til greina bæði á hendur aðaláfrýjanda og Bílastofunni ehf. Aðaláfrýjandi óskaði eftir leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar og reisti hann beiðni sína meðal annars á því að rétturinn hefði farið út fyrir málatilbúnað gagnáfrýjanda í niðurstöðu sinni þannig að í bága færi við 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að á hinum áfrýjaða dómi kynnu að vera þeir ágallar að rétt væri að samþykkja beiðnina samkvæmt heimild í 4. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Af hálfu Bílastofunnar ehf. var ekki leitað eftir heimild til að áfrýja dóminum en félagið mun vera undir gjaldþrotaskiptum. II Tildrög málsins eru þau að fyrri hluta árs 2015 áttu fyrirsvarsmenn gagnáfrýjanda í samskiptum við aðaláfrýjanda um kaup á dekkjum sem til stóð að flytja til landsins. Á þessum tíma rak aðaláfrýjandi bílaleigu og var að koma á fót dekkjaverkstæði í Reykjanesbæ. Vegna fyrirhugaðra viðskipta sendi gagnáfrýjandi tölvubréf 10. maí 2015 til aðaláfrýjanda þar sem gert var ráð fyrir kaupum á sex gámum með um 6.000 dekkjum. Við pöntun dekkjanna yrðu þau staðgreidd hjá framleiðanda en aðaláfrýjandi greiddi 6.000.000 króna í staðfestingargjald. Í bréfinu stóð síðan að þegar dekkin hefðu verið tollafgreidd yrði reikningur gefinn út samkvæmt „almennum samningi Dekkjavina um dekkjakaup“ en samhliða yrði „gerður við þig persónulega sérstakur lánasamningur varðandi lánalínu sem mun dekka kostnaðarverð dekkjanna út árið 2015“. Einnig var tekið fram að lánið myndi bera 15% ársvexti. Gagnáfrýjandi sendi aðaláfrýjanda aftur tölvubréf 15. maí 2015 þar sem fram kom að tekin hefði verið saman pöntun á þremur gámum af dekkjum af nánar tilgreindum gerðum. Einnig sagði að pöntunin yrði afgreidd til framleiðanda um leið og aðaláfrýjandi staðfesti að hann samþykkti þetta fyrir sitt leyti. Aðaláfrýjandi svaraði erindinu með tölvubréfi 18. sama mánaðar þar sem hann óskaði eftir að pöntunin yrði afgreidd. Hinn 10. júní 2015 var gerður lánssamningur milli gagnáfrýjanda sem lánveitanda og aðaláfrýjanda sem lántaka. Tekið var fram að lántaki gerði samninginn vegna fyrirtækja í eigu hans og að samningurinn væri til að fjármagna dekkjakaup. Samkvæmt samningnum var lántaka veitt allt að 45.000.000 króna lán til að standa straum af kaupum á um 6.000 dekkjum af gagnáfrýjanda. Einnig sagði að lánið væri veitt „í formi lánalínu sem lántaki getur greitt inná kjósi hann að gera svo hvenær sem er á lánstíma“. Þá sagði að aðaláfrýjandi hefði þegar fengið að láni 6.551.500 krónur til að greiða inn á fyrstu 3.000 dekkin. Samkvæmt samningnum átti lánið að bera yfirdráttarvexti Landsbankans hf. á hverjum tíma auk 3% vaxtaálags en lánstími var til 31. maí 2016. Þann dag átti að gera lánið upp að fullu með áföllnum vöxtum en lánið framlengdist sjálfkrafa væri því ekki sagt upp af hálfu aðila. Samkvæmt gögnum málsins voru þrír gámar af dekkjum fluttir á starfsstöð Bílastofunnar ehf. í september 2015. Hluti dekkjanna í gámunum var ætlaður öðrum viðskiptavinum gagnáfrýjanda og var fluttur annað þegar við tæmingu gámanna. Samkvæmt yfirliti gagnáfrýjanda urðu alls 2.618 dekk eftir hjá Bílastofunni ehf. Til viðbótar þessu munu þrír gámar af dekkjum hafa komið á starfsstöðina 27. október sama ár með 3.012 dekkjum. Enn fremur heldur gagnáfrýjandi því fram að 334 dekk hafi verið afhent 28. september 2015, 491 dekk á árinu 2016 og 389 dekk á árinu 2017. Alls hafi því verið afhent 6.844 dekk en gagnáfrýjandi heldur því fram að þar af hafi hann á tímabilinu frá september 2015 til júní 2017 tekið til baka 1.629 dekk og selt öðrum til að aðstoða aðaláfrýjanda. Af hálfu aðaláfrýjanda eru þessar tölur vefengdar og því haldið fram að gagnáfrýjandi hafi tekið mun fleiri dekk til baka. Einnig hefur hann byggt málatilbúnað sinn á því að hann hafi aðeins pantað þrjá gáma með um 3.000 dekkjum með fyrrgreindu tölvubréfi 18. maí 2015. Gagnáfrýjandi og Nýiðn hf. gerðu með sér samkomulag 10. júní 2015 um að síðargreinda félagið tæki yfir alla reikningsgerð vegna dekkjakaupa aðaláfrýjanda og fyrirtækja á hans vegum. Á tímabilinu frá 7. desember 2015 til 4. desember 2017 gaf Nýiðn hf. út 15 reikninga á hendur Bílastofunni ehf. samtals að fjárhæð 50.548.670 krónur. Þar af voru 12 reikningar greiddir samtals að fjárhæð 20.907.395 krónur. Gagnáfrýjandi heldur því fram að fimm þessara reikninga hafi tekið til fyrrgreindra dekkja sem afhent voru Bílastofunni ehf. að andvirði samtals 10.627.741 króna. Að öðru leyti hafi greiðslur Bílastofunnar ehf., samtals að fjárhæð 10.279.654 krónur, verið vegna annarra viðskipta og þessu máli óviðkomandi. Gagnáfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að gert hafi verið samkomulag við aðaláfrýjanda um að fyrst um sinn yrði uppgjöri hagað þannig að gefnir yrðu út reikningar á hendur honum eða félaga á hans vegum eftir því sem dekk yrðu seld eða notuð af bílaleigu hans. Á síðari hluta ársins 2016  hafi gagnáfrýjandi hins vegar gert kröfu um fullnaðaruppgjör vegna viðskiptanna og ítrekað þá kröfu  fram eftir árinu 2017. Vegna þessa hafi loks verið gefnir út þrír reikningar af Nýiðn hf. á hendur Bílastofunni ehf., sem ekki hafi verið greiddir, samtals að fjárhæð 29.641.275 krónur. Annars vegar var um að ræða reikninga 21. október 2017 vegna dekkjakaupa á árinu 2016 að fjárhæð 4.757.923 krónur og vegna dekkjakaupa á árinu 2017 að fjárhæð 3.199.493 krónur. Með hinum áfrýjaða dómi var Bílastofunni ehf. gert að greiða fjárhæð sem svaraði til þessara reikninga. Hins vegar var um að ræða reikning 4. desember 2017 að fjárhæð 21.683.859 krónur vegna heildaruppgjörs á viðskiptum aðila með dekkin. Enn fremur gaf gagnáfrýjandi út reikning 2. desember 2017 á hendur Bílastofunni ehf. að fjárhæð 10.744.120 krónur vegna vaxta samkvæmt fyrrgreindum lánssamningi 10. júní 2015, en þar kemur fram að þeim samningi hafi verið sagt upp 2. nóvember sama ár. Með innheimtubréfi 8. desember 2017 krafðist gagnáfrýjandi þess að aðaláfrýjandi stæði skil á lánssamningnum 10. júní 2015. Þar kom fram að heildarúttekt „á lánalínu“ án vaxta næmi 32.573.775 krónum. Einnig sagði að fimm greiðslur hefðu borist inn á kröfuna en þrír reikningar væru útistandandi og var þá átt við fyrrgreinda reikninga 21. október og 4. desember 2017. Þessu erindi var svarað með bréfi 24. janúar 2018 þar sem öllum kröfum á hendur aðaláfrýjanda var hafnað. Málið var síðan höfðað í héraði 2. október sama ár. III Svo sem hér hefur verið rakið flutti gagnáfrýjandi haustið 2015 inn sex gáma með dekkjum sem hann hafði keypt af framleiðanda þeirra í Kína. Þessir gámar munu hafa verið fluttir á starfsstöð Bílastofunnar ehf. en hluti dekkjanna var þó tekinn strax frá til að afhenda öðrum viðsemjendum gagnáfrýjanda. Hann mun einnig hafa tekið síðar til baka nokkurn hluta dekkjanna og ráðstafað þeim til annarra. Vegna þessara viðskipta hafði verið gerður lánssamningur 10. júní 2015 um allt að 45.000.000 króna lán með nánar tilgreindum vöxtum. Á grundvelli samkomulags 10. júní 2015 við gagnáfrýjanda gaf Nýiðn hf. út reikninga á hendur Bílastofunni ehf. á tímabilinu frá 7. desember 2015 til 4. desember 2017. Gagnáfrýjandi heldur því fram að fimm af þeim reikningum sem þá voru greiddir hafi verið vegna þeirra dekkja sem fyrirtækinu voru afhent haustið 2015, en andvirði þeirra dekkja hafi numið 10.627.741 krónu. Þegar frekari efndir fengust ekki hafi verið gefnir út þrír reikningar, annars vegar tveir reikningar 21. október 2017 vegna dekkjakaupa á árunum 2016 og 2017 og hins vegar heildarreikningur 4. desember 2017 sem hafi falið í sér uppgjör og tekið til þeirra dekkja sem ekki hafði þá verði greitt fyrir. Fjárhæð síðastgreinda reikningsins nam 21.683.859 krónum. Í stefnu til héraðsdóms segir að gagnáfrýjandi reisi kröfu sína á lánssamningi aðila. Þar sem peningalánið hafi ekki fengist greitt þrátt fyrir tilraunir til innheimtu þess hafi verið nauðsynlegt að höfða málið. Jafnframt er tekið fram í stefnunni að strax við undirritun lánssamningsins 10. júní 2015 hafi verið dregnar „á lánalínu“ 44.049.681 króna vegna kaupa á dekkjum af gagnáfrýjanda, en um hafi verið að ræða dekk sem pöntuð hafi verið hjá honum samhliða undirritun lánssamningsins. Í 1. grein lánssamningsins segir að lánveitandi láni lántaka „allt að kr. 45.000.000 til að standa straum af kaupum á 6.000 dekkjum (+/- 5% eftir því hvernig raðast í gámana) af lánveitanda. Lánið er veitt í formi lánalínu sem lántaki getur greitt inná kjósi hann að gera svo hvenær sem er á lánstíma.“ Þá segir í 2. grein að lánveitandi hafi þegar lánað lántaka 6.551.500 krónur sem „notað var til þess að greiða inn á fyrstu 3.000 dekkin, þann 18. maí ...“. Eins og hér hefur verið rakið bera gögn málsins um viðskiptin ekki með sér hvort, hvenær eða með hvaða hætti gagnáfrýjandi hafi veitt aðaláfrýjanda lán samkvæmt umræddri „lánalínu“ umfram þá fjárhæð sem fram kemur í lánssamningnum sjálfum að gagnáfrýjandi hafi þegar lánað aðaláfrýjanda. Engin gögn liggja heldur fyrir um stöðu lánsviðskiptanna á hverjum tíma eða um endurgreiðslu þess. Þannig voru reikningar fram til haustsins 2017 gefnir út á hendur Bílastofunni ehf. vegna þeirra dekkja sem fyrirtækið mun hafa notað í rekstri sínum eða aðaláfrýjandi nýtt fyrir bílaleigu sína rétt eins og dekkin hefðu verið seld af lager gagnáfrýjanda en þessir reikningar voru greiddir jafnharðan. Í þessum reikningsviðskipum kom ekkert fram um að útgáfa reikninganna eða greiðslur fyrir dekkin tengdust lánssamningi aðila þessa máls. Þá liggur fyrir í málinu yfirlit Nýiðnar hf. um hreyfingar skuldunautarins Bílastofunnar ehf. en þar kemur fram að Bílastofan ehf. greiddi alla útgefna reikninga Nýiðnar hf. fram í september 2017 og að eftir innborgun 26. þess mánaðar hafi hvorugur skuldað hinum. Einnig var útgáfa reiknings 4. desember 2017 til uppgjörs á seldum dekkjum í ósamræmi við að stofnast hefði skuld á grundvelli lánssamnings en þá voru ríflega tvö ár liðin frá því að dekkin voru afhent. Jafnframt er til þess að líta að fyrst þá eða 2. sama mánaðar var með reikningi sett fram krafa um greiðslu vaxta af ætluðu láni. Samkvæmt þessu er málatilbúnaður gagnáfrýjanda, eins og honum er lýst í stefnu, óljós og í ósamræmi við gögn málsins auk þess sem gögnin sjálf eru misvísandi um viðskipti aðila án þess að gefnar hafi verið viðhlítandi skýringar á því eða úr því bætt með fullnægjandi hætti undir rekstri málsins. Samkvæmt e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal í stefnu til héraðsdóms greina svo glöggt sem verða má málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, en þessi lýsing skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er. Þessum áskilnaði verður að vera fullnægt svo stefnda sé kleift með viðhlítandi hætti að taka til varna og dómur verði síðan lagður á málið á réttum grundvelli. Málatilbúnaður gagnáfrýjanda gengur í berhögg við þetta vegna þeirrar vanreifunar málsins sem hér hefur verið lýst og verður því að vísa kröfum hans á hendur aðaláfrýjanda frá héraðsdómi. Það athugast að þeirri fjárhæð sem aðaláfrýjanda var gert að greiða með hinum áfrýjaða dómi var hvorki teflt fram sem sjálfstæðum kröfulið né byggt á því að þessi hluti lánsins sérstaklega væri ógreiddur. Þvert á móti var kröfugerðin reist á því að innborganir inn á lánið að fjárhæð 10.627.741 króna bæri að draga frá skuld samkvæmt lánssamningnum. Með því að dæma aðaláfrýjanda til greiðslu fjárhæðarinnar fór Landsréttur því út fyrir kröfur og málatilbúnað gagnáfrýjanda í bága við 1. og 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991. Þess er einnig að gæta að gagnáfrýjandi höfðaði málið aðallega á hendur aðaláfrýjanda en til vara gegn Bílastofunni ehf., samkvæmt heimild í 2. mgr. 19. gr. laganna, og hafði upp sömu fjárkröfu á hendur þessum aðilum. Því gat að réttu lagi ekki komið til þess að aðal- og varastefndi yrðu dæmdir til að greiða hvor sinn hluta kröfunnar eins og um samlagsaðild væri að ræða samkvæmt 1. mgr. sömu greinar. Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað á öllum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Kröfum gagnáfrýjanda, Dekkjavina ehf., á hendur aðaláfrýjanda, Sigurði Friðrikssyni, er vísað frá héraðsdómi. Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti og Hæstarétti.                                                                                      Dómur Landsréttar föstudaginn 22. maí 2020. Mál þetta dæma landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson og Jóhannes Sigurðsson og Björg Thorarensen, settur landsréttardómari. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 16. október 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2019 í málinu nr. E-3182/2018. 2        Áfrýjandi krefst þess aðallega að aðalstefndi, Sigurður Friðriksson, en til vara varastefndi, Bílastofan ehf., verði dæmdur til að greiða áfrýjanda 40.344.036 krónur auk 15,20% samningsvaxta af 32.111.779 krónum frá 10. júní 2015 til 20. júní 2015, 15,70% samningsvaxta frá 21. júní 2015 til 31. ágúst 2015, 16,20% samningsvaxta frá 1. september 2015 til 10. nóvember 2015, 16,45% samningsvaxta frá 11. nóvember 2015 til 31. ágúst 2016, 16% samningsvaxta frá 1. september 2016 til 2. nóvember 2016, 16% samningsvaxta af 37.061.718 krónum frá 3. nóvember 2016 til 20. desember 2016, 15,75% samningsvaxta frá 21. desember 2016 til 20. maí 2017, 15,50% samningsvaxta frá 21. maí 2017 til 20. júní 2017, 15,25% samningsvaxta frá 21. júní 2017 til 29. september 2017, 15,25% samningsvaxta af 37.099.895 krónum frá 30. september 2017 til 10. október 2017, 15% samningsvaxta frá 11. október 2017 til 30. október 2017, 15% samningsvaxta af 40.344.036 krónum frá 31. október 2017 til 30. nóvember 2017, 15,41% samningsvaxta frá 1. desember 2017 til 31. desember 2017 og 15% samningsvaxta frá 1. janúar 2018 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð 3.702.058 krónur 7. desember 2015, 4.058.741 króna 2. maí 2016, 854.392 krónur 8. júní 2016, 738.775 krónur 5. október 2016 og 1.273.775 krónur 18. nóvember 2016. 3        Til þrautavara krefst áfrýjandi þess að varastefndi verði dæmdur til að greiða áfrýjanda 40.344.036 krónur auk vaxta samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 32.111.779 krónum frá 10. júní 2015 til 3. nóvember 2016 en af 37.061.718 krónum frá þeim degi til 30. september 2017 en af 37.099.895 krónum frá þeim degi til 31. október 2017 en af 40.344.036 krónum frá þeim degi til 8. janúar 2018, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 40.344.036 krónum frá 8. janúar 2018 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð 3.702.058 krónur 7. desember 2015, 4.058.741 króna 2. maí 2016, 854.392 krónur 8. júní 2016, 738.775 krónur 5. október 2016 og 1.273.775 krónur 18. nóvember 2016. 4        Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. 5        Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að dómkröfur áfrýjanda verði lækkaðar. Þá krefjast stefndu hvor um sig málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. 6        Stefndu hafa ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti og kemur krafa þeirra um endurskoðun á málskostnaði í héraði því ekki til álita. Málsatvik og sönnunarfærsla 7        Á vormánuðum 2015 áttu aðilar málsins í samskiptum um kaup aðalstefnda, Sigurðar Friðrikssonar, og félaga í hans eigu á dekkjum af gerðinni ,,Infinity“ sem áfrýjandi hugðist flytja til landsins frá kínverskum dekkjaframleiðanda. Óumdeilt er að aðilar ræddu upphaflega um kaup á allt að 6.000 dekkjum sem skyldu afhent í sex gámum. Kemur þetta meðal annars fram í tölvupósti fyrirsvarsmanns áfrýjanda 15. maí 2015 til aðalstefnda. Þar kemur jafnframt fram að áfrýjandi ráðgerði að staðgreiða dekkin við pöntun en að aðalstefndi skyldi greiða 6.000.000 króna í staðfestingargjald. Í tölvupóstsamskiptum aðila frá 15. til 18. maí 2015 staðfesti aðalstefndi pöntun á fyrstu 3.000 dekkjunum. Í málinu er deilt um hvort komist hafi á samningur um kaup á 3.000 dekkjum til viðbótar auk 468 dekkja sem voru flutt til landsins af áfrýjanda í september 2016 og 376 dekkja í október 2017. Í málinu er ekki að finna neinar skriflegar pantanir á þessum viðbótardekkjum. 8        Upphaflega gerði áfrýjandi ráð fyrir því að stefndu fjármögnuðu kaupin með því að greiða verulegan hluta af kaupverðinu við pöntun í því skyni að ná fram sem hagstæðustu verði. Frá þessu var horfið og tókust samningar um að áfrýjandi myndi lána aðalstefnda til dekkjakaupanna. Í málinu liggur fyrir lánasamningur 10. júní 2015 á milli áfrýjanda og aðalstefnda en í 1. gr. samningsins segir að áfrýjandi láni aðalstefnda allt að 45.000.000 króna til kaupa á 6.000 dekkjum. Í 2. gr. samningsins kemur fram að áfrýjandi hafi þegar lánað aðalstefnda „krónur 6.551.500,-. sem notað var til þess að greiða inn á fyrstu 3.000 dekkinn, þann 18.maí sem ber sömu vexti og vaxtaálag sem um getur í samningi þessum“. Í 3. gr. samningsins er mælt fyrir um að lánið beri yfirdráttarvexti Landsbanka Íslands á hverjum tíma auk 3% vaxtaálags. Þá er í 4. gr. samningsins kveðið á um að lánstíminn sé til 31. maí 2016 en lánalínan skyldi framlengjast um einn mánuð í senn yrði henni ekki sagt upp. 9        Í septembermánuði 2015 komu þrír gámar með dekkjum á vegum áfrýjanda til landsins. Voru þeir fluttir á starfsstöð stefndu að Njarðarbraut 11 í Reykjanesbæ dagana 14., 15. og 29. september 2015. Af gögnum málsins má ráða að starfsmaður varastefnda, Bílastofunnar ehf., Bjarni Þór Sigurjónsson, hafi kvittað fyrir móttöku á 2.952 dekkjum. Af yfirliti sem virðist stafa frá Sigurveigu Grímsdóttur, sem annaðist bókhald fyrir áfrýjanda á þessum tíma, kemur fram að 2.968 dekk hafi verið afhent stefndu í septembermánuði 2015. 10       Af tölvupóstsamskiptum sem liggja fyrir í málinu á milli fyrirsvarsmanna áfrýjanda dagana 28. og 29. september 2015 kemur fram að hluti af þeim dekkjum sem komu í þremur fyrstu gámunum hafi verið ætlaður öðrum viðskiptamönnum áfrýjanda. Má ráða af samskiptunum að um 500 dekk úr gámunum þremur hafi verið ætluð öðrum og að þau dekk hafi verið tekin af starfsstöð stefndu. Þar kemur einnig fram að aðalstefndi hafi kvartað yfir því að hann hafi ekki pantað tiltekna dekkjategund sem hafði komið í gámunum. 11       Þann 27. október 2015 komu að auki þrír gámar af dekkjum á starfsstöð stefndu að Njarðarbraut sem áfrýjandi flutti til landsins. Í málinu liggur fyrir staðfesting Bjarna Þórs Sigurjónssonar, starfsmanns varastefnda, á móttöku 3.012 dekkja úr þessum seinni þremur gámum. 12       Í gögnum málsins er að finna fjölmörg tölvuskeyti á milli starfsmanna áfrýjanda og starfsmanna stefndu sem staðfesta að áfrýjandi hafi á árunum 2015 og 2017 tekið dekk af dekkjalagernum að Njarðarbraut í Reykjanesbæ. Samkvæmt yfirliti frá áfrýjanda í málinu tók hann 1.663 dekk út af dekkjalagernum á tímabilinu september 2015 til júní 2017.  13       Á tímabilinu 7. desember 2015 til 18. nóvember 2016 gaf Nýiðn hf., sem hafði samkvæmt samkomulagi við áfrýjanda tekið að sér að gefa út reikninga til stefndu vegna viðskipta við áfrýjanda, út fimm reikninga vegna kaupa á dekkjum og fleiru. Fram hefur komið hjá málsaðilum að reikningar þessir voru gefnir út samkvæmt listum frá starfsmönnum varastefnda um fjölda dekkja sem varastefndi hafði selt. Ekki er um það deilt að allir þessir reikningar eru greiddir. 14       Nýiðn hf. gaf síðan út tvo reikninga 21. október 2017 annars vegar að fjárhæð 4.757.923 krónur vegna 468 dekkja sem afhent voru 30. september 2016 og hins vegar að fjárhæð 3.199.493 krónur vegna dekkja sem afhent voru í október 2017. Í gögnum málsins er að finna staðfestingar Bjarna Þórs Sigurjónssonar, starfsmanns varastefnda, um móttöku á 468 dekkjum 30. september 2016 og á 376 dekkjum í október 2017. Hinn 4. desember 2017 gaf Nýiðn hf. síðan út reikning að fjárhæð 21.683.859 krónur sem lokauppgjör á dekkjakaupum stefndu. 15       Varastefndi gaf síðan út reikning á Nýiðn hf. 31. október 2017 fyrir leigu á gámastæði og húsnæði svo og fyrri afgreiðslu og birgðagjald í tvö ár, samtals að fjárhæð 8.795.688 krónur. Áfrýjandi hefur mótmælt þessum reikningi sem tilhæfulausum þar sem hann hafi aldrei leigt húsnæði eða gámastæði af varastefnda. 16       Í hinum áfrýjaða dómi voru stefndu sýknaðir af kröfum áfrýjanda meðal annars á þeim grundvelli að áfrýjanda hafi ekki tekist að sanna að stefndu hafi pantað þau dekk sem krafa hans byggist á og væru umfram þau 3.000 dekk sem fyrir liggur að hann hafi pantað. Þá taldi dómurinn að stefndu hefðu þegar greitt fyrir dekkin sem sannað væri að hefðu verið pöntuð. Niðurstaða 17       Fjárkröfur áfrýjanda eru reistar á því að stefndu hafi keypt 5.202 dekk af áfrýjanda á árunum 2015 til 2017. Þeir hafi pantað og móttekið 6.865 dekk en til frádráttar komi 1.663 dekk sem áfrýjandi tók af dekkjalagernum að Njarðarbraut. Samtals hafi stefndu því keypt dekk fyrir 40.344.036 krónur. Til frádráttar kröfunni komi síðan innborganir vegna reikninga vegna dekkjakaupa sem hafi þegar verið greiddir samkvæmt því sem að framan greinir. Þá krefst áfrýjandi þess að á fjárkröfurnar reiknist yfirdráttarvextir Landsbanka Íslands hf. auk 3% álags frá dagsetningu lánasamningsins 10. júní 2015. Áfrýjandi byggir einkum á því að lánasamningur aðila og tölvupóstsamskipti staðfesti að stefndu hafi skuldbundið sig til þess að kaupa fyrst 6.000 dekk og síðar þau dekk sem afhent voru í september 2016 og október 2017. Fyrir liggi staðfestingar starfsmanns varastefnda um móttöku á þessum dekkjum.   18       Stefndu reisa sýknukröfu sína aðallega á því að ekki liggi fyrir neinar sannanir fyrir því að stefndu hafi pantað meira en 3.000 dekk. Telja þeir að þau dekk séu að fullu greidd með þeim reikningum sem áfrýjandi staðfesti að hafi verið greiddir. Þótt dekkin hafi verið afhent á starfsstöð stefndu liggi fyrir í málinu að áfrýjandi fékk að geyma dekkjalager sinn í húsnæði stefndu. Gögn málsins og framburðir starfsmanna stefndu sýni að áfrýjandi hafi á árunum 2015 til 2017 tekið dekk út af lagernum eftir því sem honum hentaði. Þá staðfesti starfsmenn stefnda að þeir hafi talið að um væri að ræða sameiginlegan dekkjalager áfrýjanda og varastefnda. 19       Óumdeilt er í málinu að aðalstefndi hafi pantað 3.000 dekk af áfrýjanda 18. maí 2015. Byggir aðalstefndi á því að dekkin hafi verið pöntuð fyrir hönd varastefnda, enda séu allir reikningar sem Nýiðn hf. gaf út fyrir hönd áfrýjanda stílaðir á það fyrirtæki. Þá liggur fyrir í málinu tölvupóstur fyrirsvarsmanns áfrýjanda 18. ágúst 2015 þar sem óskað er eftir upplýsingum frá aðalstefnda um á hvaða fyrirtæki eigi að stíla reikninga. Enn fremur kemur fram í lánasamningnum 10. júní 2015 að hann sé gerður vegna fjármögnunar á dekkjakaupum fyrirtækja í eigu aðalstefnda. Samkvæmt þessu verður lagt til grundvallar að pöntunin hafi verið gerð í nafni varastefnda, Bílastofunnar ehf. en ekki aðalstefnda. 20       Fyrir liggur að Nýiðn hf. gaf út fimm reikninga til varastefnda sem að hluta til voru vegna dekkjakaupa og að þeir reikningar hafi verið greiddir. Áfrýjandi byggir á því að fjárhæðin sem varastefndi greiddi fyrir dekk samkvæmt framangreindum fimm reikningum hafi verið 10.627.741 króna. Mismunurinn á þeirri fjárhæð og heildarfjárhæð reikninganna sé vegna hjólastillinga. Aðrir reikningar sem koma fram á hreyfingayfirliti úr bókhaldi Nýiðnar hf. vegna varastefnda séu vegna annarra viðskipta en dekkjaviðskipta. Það sé því ekki rétt sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi að varastefndi hafi greitt 20.907.395 krónur inn á dekkjakaupin. Þessum útreikningum áfrýjanda sem styðjast við gögn málsins hafa stefndu ekki hnekkt og verður því lagt til grundvallar að varastefndi hafi greitt 10.627.741 krónu inn á dekkjakaupin með greiðslu þessara fimm reikninga. 21       Svo sem áður er rakið kemur fram í lánasamningnum 10. júní 2015 að áfrýjandi sem lánveitandi hafi lánað aðalstefnda 6.551.500 krónur sem notaðar voru til að greiða innborgun á fyrstu 3.000 dekkin 18. maí 2015. Stefndu hafa ekki lagt fram nein gögn um að lán þetta hafi verið greitt. Samkvæmt því verður aðalstefnda gert að greiða áfrýjanda 6.551.500 krónur auk yfirdráttarvaxta Landsbanka Íslands hf. á hverjum tíma með 3% álagi eins og nánar greinir í dómsorði. Stefndu hafa ekki sérstaklega andmælt þeim vaxtafæti sem kröfugerð áfrýjanda byggist á og tekur mið af framangreindum vöxtum. 22       Í málinu nýtur ekki nákvæms yfirlits yfir þau 3.000 dekk sem áfrýjandi byggir á að stefndu hafi pantað og fengið afhent þar sem fram kemur tegund dekkja og einingarverð. Af þessum sökum verður ekki nákvæmlega ráðið hvað mörg dekk varastefndi fékk afhent upp í þessa pöntun og þá hvert söluverð þeirra var. Áfrýjandi byggir á því að í fylgiskjali með pöntun sem aðalstefndi staðfesti 18. maí 2015 komi fram að heildarverð fyrir 1.000 dekk í einum gámi sé 8.512.320 krónur. Samkvæmt því ættu 3.000 dekk sem pöntuð voru að hafa kostað 25.536.960 krónur. Svo sem áður er rakið fór hluti þeirra dekkja sem voru afhent úr fyrstu þremur gámunum til annarra aðila. Þá liggur fyrir að áfrýjandi tók að minnsta kosti 1.663 dekk af dekkjalagernum á árunum 2015 til 2017. Af þessum sökum er ekki unnt að staðreyna af gögnum málsins hvað mörg dekk voru nákvæmlega afhent upp í pöntunina og hvert verð einstakra dekkja var. Fyrir liggur samkvæmt framangreindu að stefndu hafa greitt áfrýjanda eða fengið að láni frá honum til umræddra dekkjakaupa samtals 17.179.241 krónu. Þótt allnokkur munur sé á þeirri fjárhæð sem kemur fram á fylgiskjali pöntunarinnar og þeirri fjárhæð sem liggur fyrir að hafi verið greidd eða fengin að láni verður áfrýjandi að bera hallann af því að ekki liggi fyrir nákvæmar upplýsingar um þetta atriði í málinu. 23       Fallist er á það með stefndu að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að stefndu hafi pantað þau 3.012 dekk sem afhent voru á dekkjalager að Njarðarbraut 11 í Reykjanesbæ 27. október 2015. Þótt starfsmaður varastefnda hafi staðfest móttöku á dekkjunum liggur fyrir að áfrýjandi gaf ekki út reikninga fyrir þeim á þeim tíma sem þau voru afhent auk þess sem fyrir liggur að hann taldi sig hafa heimildir til þess að taka dekk út af lagernum án þess að stefndu gæfu út reikninga til hans vegna þeirra úttekta. Þá liggur fyrir í málinu að starfsmenn varastefnda, þau Bjarni Þór Sigurjónsson og Lilja Björk Jónsdóttir, sem einkum áttu í samskiptum við fyrirsvarsmann áfrýjanda um móttöku á dekkjum og úttektir litu svo á að dekkjalagerinn væri að hluta í eigu áfrýjanda og að hluta í eigu varastefnda. Verður því að hafna kröfum áfrýjanda sem byggjast á því að kaup hafi komist á með aðilum á þessum 3.012 dekkjum í október 2015. 24       Eins og áður hefur verið rakið gaf Nýiðn hf. út tvo reikninga 21. október 2017, annars vegar að fjárhæð 4.757.923 krónur vegna 468 dekkja sem afhent voru varastefnda 30. september 2016 og hins vegar að fjárhæð 3.199.493 krónur vegna dekkja sem afhent voru varastefnda í október 2017. Bjarni Þór Sigurjónsson, starfsmaður varastefnda, hefur staðfest að hafa móttekið dekkin. Stefndu mótmæla því hins vegar að hafa pantað þessi dekk. Fyrir liggur að fyrrnefndur Bjarni Þór staðfesti fyrir héraðsdómi að hafa pantað dekk fyrir varastefnda af áfrýjanda á árunum 2016 og 2017. Í málinu liggur fyrir tölvupóstur frá aðalstefnda til fyrirsvarsmanns áfrýjanda 19. október 2017 með viðhengi þar sem segir: „Ég vil fá reikning fyrir dekkjunum sem ég fékk í síðustu viku og um helgina.“ Samkvæmt þessu verður byggt á því að varastefndi hafi pantað dekk þau sem liggja til grundvallar framangreindum tveimur reikningum. Verður varastefnda því gert að greiða 7.957.416 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. janúar 2018, svo sem krafist er í þrautavarakröfu áfrýjanda.  25       Rétt þykir að málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti falli niður. Dómsorð: Aðalstefndi, Sigurður Friðriksson, greiði áfrýjanda, Dekkjavinum ehf., 6.551.500 krónur auk 15,20% samningsvaxta frá 10. júní 2015 til 20. júní 2015, 15,70% samningsvaxta frá 21. júní 2015 til 31. ágúst 2015, 16,20% samningsvaxta frá 1. september 2015 til 10. nóvember 2015, 16,45% samningsvaxta frá 11. nóvember 2015 til 31. ágúst 2016, 16% samningsvaxta frá 1. september 2016 til 20. desember 2016, 15,75% samningsvaxta frá 21. desember 2016 til 20. maí 2017, 15,50% samningsvaxta frá 21. maí 2017 til 20. júní 2017, 15,25% samningsvaxta frá 21. júní 2017 til 29. september 2017, 15,25% samningsvaxta frá 30. september 2017 til 10. október 2017, 15% samningsvaxta frá 11. október 2017 til 30. nóvember 2017, 15,41% samningsvaxta frá 1. desember 2017 til 31. desember 2017 og 15% samningsvaxta frá 1. janúar 2018 til greiðsludags. Varastefndi, Bílastofan ehf., greiði áfrýjanda 7.957.416 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. janúar 2018 til greiðsludags.  Málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti fellur niður.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2019   Mál þetta var höfðað 2. október 2018 og dómtekið 3. september sl. Stefnandi er Dekkjavinir ehf., Gilsbúð 7, 210 Garðabæ. Stefnt er Sigurði Friðrikssyni, [...], en til vara er stefnt Bílastofunni ehf., Funahöfða 6, 110 Reykjavík.                 Stefnandi krefst þess aðallega að aðalstefndi, Sigurður Friðriksson, verði dæmdur til að greiða stefnanda 40.344.036 kr. auk 15,20% samningsvaxta af 32.111.779 kr. frá 10. júní 2015 til 20. júní 2015, 15,70% samningsvaxta frá 21. júní 2015 til 31. ágúst 2015, 16,20% samningsvaxta frá 1. september 2015 til 10. nóvember 2015, 16,45% samningsvaxta frá 11. nóvember 2015 til 31. ágúst 2016, 16% samningsvaxta frá 1. september 2016 til 2. nóvember 2016, en 16% samningsvaxta af 37.061.718 kr. frá 3. nóvember 2016 til 20. desember 2016, 15,75% samningsvaxta frá 21. desember 2016 til 20. maí 2017, 15,50% samningsvaxta frá 21. maí 2017 til 20. júní 2017, 15,25% samningsvaxta frá 21. júní 2017 til 29. september 2017, en 15,25% samningsvaxta af 37.099.895 kr. frá 30. september 2017 til 10. október 2017, 15% samningsvaxta frá 11. október 2017 til 30. október 2017, en 15% samningsvaxta af 40.344.036 kr. frá 31. október 2017 til 30. nóvember 2017, 15,41% samningsvaxta frá 1. desember 2017 til 31. desember 2017 og 15% samningsvaxta frá 1. janúar 2018 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð 3.702.058 kr. þann 7. desember 2015, 4.058.741 kr. þann 2. maí 2016, 854.392 kr. þann 8. júní 2016, 738.775 kr. þann 5. október 2016 og 1.273.775 kr. þann 18. nóvember 2016.                 Til vara er þess krafist að varastefnda, Bílastofunni ehf., verði gert að greiða stefnanda 40.344.036 kr. auk 15,20% samningsvaxta af 32.111.779 kr. frá 10. júní 2015 til 20. júní 2015, 15,70% samningsvaxta frá 21. júní 2015 til 31. ágúst 2015, 16,20% samningsvaxta frá 1. september 2015 til 10. nóvember 2015, 16,45% samningsvaxta frá 11. nóvember 2015 til 31. ágúst 2016, 16% samningsvaxta frá 1. september 2016 til 2. nóvember 2016, en 16% samningsvaxta af 37.061.718 kr. frá 3. nóvember 2016 til 20. desember 2016, 15,75% samningsvaxta frá 21. desember 2016 til 20. maí 2017, 15,50% samningsvaxta frá 21. maí 2017 til 20. júní 2017, 15,25% samningsvaxta frá 21. júní 2017 til 29. september 2017, en 15,25% samningsvaxta af 37.099.895 kr. frá 30. september 2017 til 10. október 2017, 15% samningsvaxta frá 11. október 2017 til 30. október 2017, en 15% samningsvaxta af 40.344.036 kr. frá 31. október 2017 til 30. nóvember 2017, 15,41% samningsvaxta frá 1. desember 2017 til 31. desember 2017 og 15% samningsvaxta frá 1. janúar 2018 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð 3.702.058 kr. þann 7. desember 2015, 4.058.741 kr. þann 2. maí 2016, 854.392 kr. þann 8. júní 2016, 738.775 kr. þann 5. október 2016 og 1.273.775 kr. þann 18. nóvember 2016. Þá er til þrautavara gerð sú krafa að varastefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 40.344.036 kr. auk vaxta skv. 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 32.111.779 kr. frá 10. júní 2015 til 3. nóvember 2016, en af 37.061.718 kr. frá þeim degi til 30. september 2017 en af 37.099.895 kr. frá þeim degi til 31. október 2017 en af 40.344.036 kr. frá þeim degi til 8. janúar 2018, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 40.344.036 kr. frá 8. janúar 2018 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð: 3.702.058 kr. þann 7. desember 2015, 4.058.741 kr. þann 2. maí 2016, 854.392 kr. þann 8. júní 2016, 738.775 kr. þann 5. október 2016 og 1.273.775 kr. þann 18. nóvember 2016. Af hálfu stefnanda er í öllum tilvikum gerð krafa um málskostnað.   Aðal- og varastefndi krefjast sýknu af kröfum stefnanda og til þrautavara að dómkröfur verði lækkaðar verulega. Aðalstefndi gerir sérstaka sýknukröfu sér til handa vegna aðildarskorts til varnar. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda. Í greinargerð var þess krafist að málinu yrði vísað frá dómi en því var hafnað með úrskurði héraðsdóms 21. mars 2019. I. Forsaga þessa máls er sú að árið 2014 og fram á vorið 2015 áttu fyrirsvarsmenn stefnanda í samskiptum við stefnda um möguleg dekkjakaup, en stefndi rak þá bílaleigu auk þess sem hann var að koma á fót dekkjaverkstæði í Reykjanesbæ.                 Aðilum ber saman um að framangreind samskipti hafi leitt til þess að samningur hafi komist á um kaup á dekkjum af stefnda, en deilt er um fjölda þeirra dekkja sem samið var um og einnig hvort stefndi hafi gert samninginn aðeins í eigin nafni eða fyrir hönd varastefnda. Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi samið um kaup á um 6.000 dekkjum og hefur því til stuðnings vísað í „lánasamning“ stefnanda við stefnda, sem undirritaður var 10. júní 2015. Stefndi hefur svarað því til að hann hafi fyrir hönd varastefnda einungis samþykkt að kaupa þrjá fjörutíu feta gáma eða samtals um 3.000 dekk.  Ekki er um það deilt að dekkin sem mál þetta snýst um voru öll flutt til landsins á vegum stefnanda. Heildarfjöldi dekkja sem stefnandi lét aka til stefnda og geymd voru á lager á vegum stefnda mun alls hafa verið 5.981. Stefnandi heldur því fram að síðar, eða á árunum 2016 og 2017, hafi stefndi pantað fleiri dekk hjá stefnanda og fengið alls 491 dekk afhent á árinu 2016 og 389 dekk á árinu 2017, sbr. dskj. nr. 16–19 og 47. Af hálfu stefnanda er viðurkennt að hluta þessara dekkja hafi stefnandi tekið aftur til baka, að beiðni stefnda, eða alls 1.663 dekk. Mismuninn beri stefnanda að greiða.                  Af gögnum málsins má sjá að stefnandi gaf út reikninga sem greiddir voru að fullu af hálfu stefnda eða félags í hans eigu, allt fram á haustið 2017 þegar gefnir voru út tveir reikningar, nánar tiltekið í október 2017, sem ekki voru greiddir af stefnda. Í kjölfarið höfðaði stefnandi mál þetta. Við upphaf aðalmeðferðar gáfu skýrslu fyrir dóminum Friðrik H. Vigfússon, fyrirsvarsmaður stefnanda, stefndi Sigurður Friðriksson, Olaf Forberg, einn af eigendum stefnanda, Kristinn R. Sigurðsson, einn af stofnendum stefnanda og Sigurveigu Grímsdóttur, eiginkonu Kristins. Eftirtaldir aðilar gáfu einnig skýrslu við aðalmeðferð: Viðar Ellertsson, sem átt hafði viðskipti við stefnda, Bjarni Þór Sigurjónsson, starfsmaður varastefnda og Ólafur Bragason, sem starfar í nágrenni við starfsstöð varastefnda. Loks gaf skýrslu í gegnum síma Lilja B. Jónsdóttir, fyrrum starfsmaður varastefnda, sem var skrifstofustjóri þar á hluta þess tímabils sem hér um ræðir, nánar tiltekið 2015-2017. Gerð verður grein fyrir framburði þeirra eftir því sem tilefni þykir til. II. Stefnandi byggir á því að stefnda beri að greiða umstefnda kröfu samkvæmt almennum reglum kröfu- og samningaréttar. Stefndi hafi með samkomulagi í sumarbyrjun 2015 skuldbundið sig til að kaupa hjá stefnanda 6.000 dekk, sem stefnandi hafi pantað og flutt inn frá Kína. Til að fjármagna umrædd viðskipti hafi aðilar gert með sér lánasamning, þar sem stefnandi, sem lánveitandi, hafi lofað að lána stefnda, sem lántaka, allt að 45.000.000 kr. til að standa straum af dekkjakaupum og skyldi lánið bera yfirdráttarvexti Landsbankans á hverjum tíma auk 3% vaxtaálags. Eins og samningurinn beri með sér hafi lánið verið veitt í formi lánalínu og lántaka verið heimilt að greiða inn á lánið hvenær sem hann kysi á lánstíma. Upphaflegir skilmálar hafi verið þeir að lánstími væri til 31. maí 2016 og skyldi lánið gert upp á þeim tíma að fullu ásamt áföllnum vöxtum, en í samningnum hafi þó einnig verið kveðið á um að lánstíminn framlengdist um einn mánuð í senn yrði samningnum ekki sagt upp. Lánasamningnum hafi verið sagt upp síðla árs 2017. Þegar við undirritun lánasamnings hafi stefnandi lánað stefnda 6.551.500 kr. til að greiða staðfestingargjald fyrir pöntun á fyrstu 3.000 dekkjunum. Haustið 2015 hafi stefnandi afhent stefnda alls 5.981 dekk. Á árinu 2016 hafi stefndi óskað eftir að kaupa hjá stefnanda enn fleiri dekk og haustið 2016 hafi stefnandi afhent stefnda alls 491 dekk og á árinu 2017 hafi stefnandi afhent honum alls 389 dekk. Alls hafi stefnandi því afhent 6.861 dekk frá september 2015 og fram til október 2017. Stefnda beri að greiða fyrir umrædd dekk, sbr. skyldu kaupanda til að greiða kaupverð vöru sem sannanlega er afhent, sbr. VI. kafla laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, að frádregnum dekkjum sem stefnandi tók til baka. Af þessum fjölda, 6.861 eintaki, sem stefnda var afhentur hafi stefnandi tekið alls 1.663 dekk til baka á árunum 2015–2017. Eftir standi að stefndi hafi fengið afhent alls 5.198 dekk á árunum 2015–2017. Aðilar á vegum stefnda hafi staðfest móttöku á þessum dekkjum og óumdeilt sé að umrædd dekk hafi verið flutt og geymd í húsnæði á vegum stefnda allt frá haustinu 2015. Stefnandi skírskotar til þess að fyrir liggi í málinu að aðilar hafi gert með sér samkomulag um kaup á dekkjum og fjármögnun á þeim kaupum og auk þess liggi fyrir að stefnandi hafi staðið við sitt, þ.e. afhent stefnda öll þau dekk sem hann óskaði eftir að kaupa af stefnanda, og fjármagnað þau kaup f.h. stefnda á grundvelli fyrirliggjandi lánasamnings aðila. Stefndi hafi á hinn bóginn aðeins greitt fyrir brot af þeim dekkjum sem honum hafa sannanlega verið afhent. Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar og meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga beri stefnda að greiða þá dómkröfu sem hér er sett fram af hálfu stefnanda.   Stefnufjárhæð í aðalkröfu sundurliðar stefnandi með eftirfarandi hætti: Kröfufjárhæð Gjalddagi   32.111.779 10.6.2015 *fyrsta pöntun að frádregnum öllum dekkjum sem stefnandi tók til baka 4.949.939 3.11.2016 *dekk afhent í september, október og nóvember 2016   38.177 30.9.2017 *sumardekk afhent í september 2017   3.244.141 31.10.2017 *dekk afhent í apríl og október 2017   40.344.036       Allt að frádregnum innborgunum:     Fjárhæð innb. Greiðsludags.   3.702.058 7.12.2015   4.058.741 2.5.2016   854.392 8.6.2016   738.775 5.10.2016   1.273.775 18.11.2016                     Að sögn stefnanda var þegar við undirritun lánasamnings 10. júní 2015 dregið á lánalínu, samtals 44.049.681 kr., vegna kaupa stefnda á 5.981 dekki af stefnanda. Dekk þessi hafi stefndi pantað hjá stefnanda í júní 2015 samhliða undirritun lánasamningsins, en þau verið afhent stefnda á tímabilinu 15. september til 27. október 2015. Gjalddagi miðist við undirritun lánasamnings 10. júní 2015, enda um að ræða staðgreiðsluviðskipti, færð á lánalínu þegar við pöntun. Í stefnufjárhæð dragi stefnandi frá höfuðstól á gjalddaga þann 10. júní 2015 öll þau dekk sem stefnandi tók til baka á tímabilinu september 2015 til júní 2017, þ.e. andvirði allra dekkjanna dregið frá miðað við júní 2015 stefnda til hagsbóta, en verðmæti þeirra hafi numið alls 11.937.902 kr. Stefnufjárhæð er miðuð við að fyrsti gjalddagi, 10. júní 2015, sé að fjárhæð 32.111.779 kr. Aðrir gjalddagar, þ.e. 3. nóvember 2016, 30. september 2017 og 31. október 2017, eru að sögn stefnanda vegna viðskipta á árunum 2016–2017 og miðist gjalddagi við það hvenær þau dekk voru afhent. Miðað er við að krafa vegna vetrardekkja, afhentra haustið 2016, hafi verið á gjalddaga við síðustu afhendingu það haust, þ.e. 3. nóvember 2016, krafa vegna sumardekkja sem afhent voru 30. september 2017 hafi verið á gjalddaga samdægurs og dekk afhent á árinu 2017 hafi verið á gjalddaga við síðustu afhendingu það ár, þ.e. í lok október 2017. Til frádráttar komi innborganir stefnda, alls fimm greiðslur að fjárhæð 10.627.741 kr., miðað við stöðu skuldar á innborgunardegi. Stefnandi vísar til þess að í lánasamningi málsaðila sé kveðið á um að lán beri vexti sem séu yfirdráttarvextir Landsbankans á hverjum tíma auk 3% vaxtaálags.                 Telji dómurinn stefnda ekki aðila að lánasamningnum og viðskiptunum sem stefnandi byggir málshöfðun sína á krefst stefnandi þess til vara að Bílastofunni ehf. verði gert að greiða stefnanda útistandandi skuld á grundvelli umrædds lánasamnings með sömu rökum og áður hafa verið reifuð. Fari svo að dómari telji varastefnda ekki aðila að umræddum lánasamningi en aðila að þeim viðskiptum sem hér eru undir, þá gerir stefnandi þá kröfu til þrautavara að varastefnda verði gert að greiða stefnanda útistandandi skuld vegna umræddra dekkjaviðskipta auk almennra vaxta og dráttarvaxta, skv. lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Til stuðnings og grundvallar þrautavarakröfunni vísist til umfjöllunar um aðalkröfu hér að framan, eins og við á og auk þess til skyldu kaupanda til að greiða kaupverð vöru sem sannanlega er afhent, sbr. VI. kafla laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Verði litið svo á að varastefndi sé gagnaðili stefnanda í þeim viðskiptum sem hér eru undir beri varastefnda að greiða útistandandi kröfu vegna viðskiptanna, enda hafi þau dekk sem fjárkrafa þessa máls byggist á sannanlega verið afhent, en séu að stærstum hluta ógreidd. Telur stefnandi augljóst af samskiptum aðila að umrædd krafa skuli bera samningsvexti. Eðli máls samkvæmt hafi það ekki verið ætlun aðila að umrætt peningalán skyldi vera vaxtalaust. Gerir stefnandi þ.a.l. þá þrautavarakröfu að fjárkrafan beri almenna vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá hverjum gjalddaga fyrir sig, en dráttarvexti frá því að mánuður var liðinn frá því að fyrirsvarsmaður varastefnda var sannanlega krafinn um greiðslu kröfunnar, þ.e. frá 8. janúar 2018 til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 6. gr., sbr. 3. mgr. 5. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.                 Um aðild varastefnda er vísað til 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. sé stefnanda heimilt að beina kröfum sínum aðallega að aðalstefnda en til vara að varastefnda, enda sé skilyrðum 1. mgr. ákvæðisins fullnægt þar sem krafa á aðalstefnda og krafa á varastefnda eigi rætur að rekja til sömu atvika, aðstöðu og löggernings.   III. Sýknukrafa aðalstefnda er byggð á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Aðalstefndi geti ekki talist aðili málsins þar sem öll viðskipti vegna dekkjakaupanna hafi verið gerð við varastefnda en ekki aðalstefnda persónulega, eins og beinlínis komi fram í samkomulagi aðila á dskj. 3. Í samningnum sé sérstaklega tilgreint að lánið sé veitt til dekkjakaupa vegna „fyrirtækja í eigu lántaka“, en aðalstefndi sé eini hluthafi varastefnda. Aðalstefndi hafi sjálfur aldrei keypt nein dekk fyrir eigin reikning, eins og reikningarnir sjálfir gefi til kynna, enda ekki með neinn rekstur í sínu nafni eða fyrir sína áhættu. Hann geti því ekki talist réttur aðili málsins heldur varastefndi, sem verið hafi kaupandi dekkjanna í raun. Allir reikningar hafi verið gefnir út á varastefnda sem hafi greitt þá í kjölfarið. Því sé kröfum stefnanda ranglega beint að aðalstefnda í málinu. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna aðalstefnda. Að öðru leyti byggi stefndu sameiginlega á því að sýkna beri þá af kröfum stefnanda þar sem engin skuld sé fyrir hendi milli aðila. Stefndu hafni því að þeir, annar eða báðir, hafi gert samning við stefnanda um kaup á 6.000 dekkjum. Á einhverjum tímapunkti kunni að hafa komið til álita að slíkt magn yrði keypt, en sú hafi ekki orðið raunin. Pantaðir hafi verið þrír gámar af dekkjum, sem greidd hafi verið eftir því sem þau seldust, sbr. framlagða reikninga. Önnur dekk hafi ekki verið keypt.  Hefði það var verið ætlun stefndu að kaupa samtals 6.000 dekk fyrir 45.000.000 kr., eins og málatilbúnaður stefnanda er byggður á, þá hefði væntanlega verið gefinn út reikningur við afhendingu og hann greiddur niður í samræmi við lánalínuna. Ráða megi af framlögðum skjölum stefnanda sjálfs að það hafi ekki verið gert. Stefndu hafna því að gerð samningsins á dskj. nr. 3 hafi falið í sér peningalán frá stefnanda til stefnda, sem eigi að bera yfirdráttarvexti með 3% álagi frá gerð samningsins. Engir peningar hafi farið milli aðila og því hafi ekki verið um peningalán að ræða. Eingöngu hafi verið um að ræða sölu á dekkjum gegn útgáfu reikninga, sem hafi verið greiddir jafnóðum. Við slíkar aðstæður beri ekki að greiða vexti.  Sýknukrafan er einnig á því byggð að stefnandi hafi ítrekað tekið dekk sem hann afhenti stefndu og notað í eigin þágu. Stefnandi reyni samt sem áður með málshöfðun þessari, í vondri trú, að innheimta dekk sem stefndu hafi aldrei selt, og hann sjálfur tekið. Loks byggja stefndu á að víkja beri samkomulagi málsaðila til hliðar í heild sinni á grundvelli 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sem og ólögfestra réttarreglna um brostnar forsendur. Stefndu telja að það sé bæði óheiðarlegt og bersýnilega ósanngjarnt af stefnanda að bera samninginn fyrir sig. Samningurinn sé ósanngjarn gagnvart stefndu. Um sé að ræða „lánasamning“ sem í raun hafi verið ígildi ádráttarlínu. Ekkert eiginlegt lán hafi verið veitt af hálfu stefnanda til stefndu heldur hafi verið um að ræða hefðbundin reikningsviðskipti milli aðila. Að mati stefndu leiðir þetta til þess að óheiðarlegt sé af stefnanda að vilja byggja á ákvæðum samningsins í skilningi 33. gr. sml.  Eins hljóti samningurinn að teljast ósanngjarn í skilningi 36. gr. sml., enda hljóti það í besta falli að teljast ósanngjarnt að annar aðili samnings hagnist með óréttmætum hætti í vondri trú með þessum hætti. Stefndu vísa bæði til hins stutta efndatíma samningsins og þeirra vaxtakjara sem stefnandi styður kröfu sína við. Sýknukrafa er einnig á því byggð að stefndu hafi ekki haft neitt forræði á efni samningsins eða skilmálum hans. Skilmálar samningsins hafi verið samdir einhliða af hálfu stefnanda en stefndu hvergi komið nærri þeirri vinnu fyrir utan það eitt að aðalstefndi hafi skrifað nafn sitt undir samkomulagið fyrir hönd varastefnda.  Að mati stefndu sé slík háttsemi í besta falli andstæð góðum viðskiptaháttum og venjum og sýni svo ekki verði um villst að stefnandi neyti allra bragða við gæslu eigin hagsmuna á kostnað hagsmuna stefndu. Leiði það eitt og sér til þess að samningur aðila teljist ósanngjarn í skilningi 36. gr. sml. Stefndu byggja jafnframt á því að forsendur fyrir samkomulagi aðila hafi brostið enda hafi stefnandi ítrekað gengið í fyrrnefndan dekkjalager og tekið dekk bæði til eigin nota og til sölu til þriðja aðila. Fari svo að dæmt verði um kröfur þeirra, hvort sem er í heild eða að hluta, er gerð sú krafa að reikningi verði skuldajafnað við kröfuna, þar sem fyrir liggi og óumdeilt sé að stefnandi nýtti húsnæði varastefnda til geymslu á dekkjalager, sem hann seldi til þriðju aðila. Fyrir þau afnot hafi ekki verið greitt. Stefndu vísa til meginreglna samninga- og kröfuréttar, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, og ólögfestrar auðgunarreglu íslensks kröfuréttar. Kröfu um málskostnað byggja stefndu á 130. gr. eml. IV. Til grundvallar þeim viðskiptum málsaðila sem hér er deilt um liggur „lánasamningur“, dagsettur 10. júní 2015, milli stefnanda annars vegar og aðalstefnda, Sigurðar Friðrikssonar, hins vegar. Fram kemur í samningnum að hann sé gerður „vegna fjármögnunar á dekkjakaupum vegna fyrirtækja í eigu lántaka“. Þar segir jafnframt að lánveitandi láni lántaka allt að 45.000.000 kr. „til þess að standa straum af kaupum á 6.000 [...] dekkjum [...] af lánveitanda. Lánið er veitt í formi lánalínu sem lántaki getur greitt inná kjósi hann að gera svo hvenær sem er á lánstíma.“ Í 2. gr. samningsins kemur fram að lánveitandi hafi þegar lánað lántaka 6.551.500 kr. „sem notað var til þess að greiða inn á fyrstu 3.000 dekkin, þann 18. maí sem ber sömu vexti og vaxtaálag sem um getur í samningi þessum“. Í 3. gr. samningsins er ákvæði um vexti og með 4. gr. sömdu aðilar um það að lánstími skyldi vera til 31. maí 2016, en lánið skyldi þá „gert upp að fullu ásamt áföllnum vöxtum. Lánalína þessi framlengist sjálfkrafa um einn mánuð í senn“ komi ekki til uppsagnar af hálfu aðila. 5. gr. samningsins geymir ákvæði um mögulega framlengingu lánalínunnar með samningi þar að lútandi og með 6. gr. skuldbatt lánveitandi sig til að skila lántaka yfirliti yfir stöðu lánsins þegar eftir því væri óskað. Gögn málsins, þ.m.t. upphaflegur „lánasamningur“ stefnanda og stefnda 10. júní 2015 og síðari tölvupóstsamskipti bera vott um að upphaflega hafi verið stefnt að innflutningi á 6.000 dekkjum. Þannig er í tölvupósti Friðriks Vigfússonar til stefnda 10. maí 2015, sem sendur var í aðdraganda samningsgerðarinnar, lagt upp með að fluttir verði inn sex gámar eða allt að 6.000 dekk og samningurinn sem gerður var mánuði síðar var í sama dúr. Við úrlausn um ágreining málsaðila verður þó ekki fram hjá því litið að einungis eitt skjal hefur verið lagt fram sem sýnir eiginlega pöntun í nafni stefnda með samþykki hans, en nánar er þar um að ræða tölvusamskipti Kristins R. Sigurðssonar, þáverandi fyrirsvarsmanns stefnanda, og stefnda, sem send voru þeirra á milli dagana 15. og 18. maí 2015. Í pósti Kristins til stefnda kemur fram að búið sé að taka saman pöntun „í framhaldi af samtali ykkar Friðriks“ og að um sé að ræða 3x40 feta gáma sem hver og einn hafi innihaldið 1.000 dekk, sbr. viðhengi sem fylgdi tölvupóstinum. Í svari stefnda 18. sama mánaðar staðfesti stefndi að hann væri „sáttur við pöntunina“. Með hliðsjón af þessu má leggja til grundvallar að stefndi Sigurður hafi samþykkt að stefnandi pantaði til landsins þrjá fjörutíu feta dekkjagáma. Með framlögðum tölvupóstsamskiptum stefnda Sigurðar við Kristin R. Sigurðsson fylgdi sundurliðun þar sem fram kemur að heildarverð hvers gáms án virðisaukaskatts er 6.864.774 kr., samtals 20.594.322 kr. án virðisaukaskatts fyrir alla þrjá gámana. Málsaðila greinir á um það hvort mismunur þessa dekkjafjölda og þess fjölda sem tilgreindur er í fyrrgreindum lánasamningi, þ.e. um 3.000 dekk til viðbótar, hafi verið fluttur til landsins að beiðni stefnda þannig að stofnast hafi lögmæt krafa stefnanda vegna þess innflutnings á hendur stefnda eða varastefnda. Með hliðsjón af öllu því sem fram hefur komið undir rekstri málsins má teljast óumdeilt að dekk sem flutt voru inn í nafni stefnanda á árunum 2015 til 2017 hafi verið geymd í og við starfsstöð varastefnda við Stórhöfða 22 í Reykjavík. Af skýrslum núverandi og fyrrverandi starfsmanna varastefnda, svo og skýrslu Friðriks H. Vigfússonar sjálfs, svo og með hliðsjón af framlögðum tölvuskeytum Friðriks um dekkjaúttektir af lager Bílastofunnar, m.a. úttekt 30. september 2016, má álykta að Friðrik hafi haft allfrjálsan aðgang að lagernum og tekið þaðan dekk í nafni stefnanda, sem hann gerði starfsmönnum varastefnda grein fyrir jafnóðum. Í skýrslum sínum hér fyrir dómi staðfestu bæði Friðrik og Lilja B. Jónsdóttir að haldið hefði verið utan um úttektir þessar í sérstökum excel-skjölum. Sigurveig Grímsdóttir, kannaðist við að haldið hefði verið slíkt bókhald yfir afhendingu á dekkjum. Fram kom í máli hennar að dekkjagámar þeir sem hér um ræðir hafi innihaldið dekk sem tilheyrðu öðrum en aðilum þessa máls og því hafi þurft að telja dekk út úr gámunum og taka frá dekk sem tilheyrðu öðrum, en dekkin hafi þó fyrst farið inn í húsnæði þar hýsti starfsaðstöðu varastefnda. Í skýrslu Friðriks kom fram að eftir að Lilja hvarf af vettvangi sökum veikinda hafi ekki verið haldið jafn vel utan um birgðastöðuna og áður. Skjöl málsins bera með sér að Friðrik hafi viljað að útbúið yrði yfirlit yfir „heildarstöðu“ á dekkjalagernum, sbr. t.a.m. tölvupóst hans til Lilju 25. október 2016. Telja verður þetta til marks um að óvissa hafi ríkt um birgðastöðuna og hvað tilheyrði hverjum. Eftir stendur bagalegur skortur á skriflegum gögnum, svo sem samningum eða yfirlýsingum, um það grundvallaratriði málsins hvernig eignarhaldi á dekkjalagernum var nákvæmlega háttað. Friðrik, fyrirsvarsmaður stefnanda, virðist hafa litið svo á að dekkin væru öll seld stefnda eða varastefnda, en stefndi og starfsmenn varastefnda virðast hafa talið að dekkin tilheyrðu stefnanda. Þannig kom fram í máli Lilju B. Jónsdóttur að varastefndi ætti aðeins að greiða fyrir seld dekk. Skjöl málsins sýna að í ágústmánuði fóru bréf á milli stefnda og Friðriks, fyrirsvarsmanns stefnanda, þar sem sá síðarnefndi óskaði m.a. upplýsinga um það á hvaða fyrirtæki ætti að stíla reikning vegna innflutningsins. Af framlögðu reikningsyfirliti og afritum einstakra reikninga má ráða að niðurstaðan hafi verið sú að stíla reikninga á varastefnda, Bílastofuna ehf. Í samræmi við þetta gaf stefnandi út reikninga á hendur varastefnda og fyrir liggur að varastefndi hafi greitt alla reikninga sem hér um ræðir og gefnir voru út á tímabilinu 7. desember 2015 til 26. september 2017. Nánar ber framlagt „hreyfingayfirlit“ með sér að gefnir hafi verið út tveir reikningar á varastefnda á árinu 2015, samtals að fjárhæð 4.890.871 kr. Þá voru samtals gefnir út sex reikningar á varastefnda á árinu 2016, samtals að fjárhæð 11.787.025 kr. Á árinu 2017 voru fram í septembermánuð gefnir út fjórir reikningar á varastefnda, samtals að fjárhæð 4.229.479 kr. Samanlögð fjárhæð allra greiðslna varastefnda til stefnanda á þessu árabili er 20.907.395 kr. Af áðurnefndu „hreyfingayfirliti“ má ráða að þessir tilgreindu reikningar á árunum 2015 til 2017 hafi verið greiddir jafnóðum, án óhæfilegra tafa, og undir rekstri málsins hefur ekkert verið lagt fram sem bendir til þess að reikningar þessir hafi verið greiddir með fjármunum sem sóttir voru á „lánalínu“ samkvæmt fyrrgreindum lánasamningi sem vísað er til í stefnu. Þrír reikningar, samtals að fjárhæð 29.641.275 kr., sem gefnir voru út á tímabilinu október til desember 2017 hafa ekki verið greiddir. Stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir því að samið hafi verið við stefnda eða varastefnda um þessi viðskipti. Af hálfu stefnanda hafa engin gögn verið lögð fram sem renna skýrum stoðum undir að slíkir samningar hafi komist á. Móttökukvittanir starfsmanna á yfirlitsblöðum verða ekki taldar jafngilda formlegum pöntunum í þessum skilningi, enda ekkert verið lagt fram sem stutt getur að hlutaðeigandi starfsmenn hafi haft heimild til að skuldbinda stefnda eða fyrirtæki hans með undirritun sinni. Þá veikir það einnig málatilbúnað stefnanda að engir reikningar hafa verið gefnir út vegna ætlaðra pantana á umræddum 3.000 dekkjum fyrr en löngu eftir að þau viðskipti áttu að hafa farið fram, en nánar tiltekið gaf stefnandi út reikninga fyrir þessum síðasta hluta kröfunnar í október og desember 2017, eða rúmum tveimur árum eftir að ætluð viðskipti fóru fram að hans sögn. Stefnandi hefur engar viðhlítandi skýringar getað gefið á þeim drætti sem varð á útgáfu reikninganna. Hefur dómurinn í því samhengi haft hliðsjón af framlögðu yfirliti stefnanda sjálfs um „hreyfingar skuldunauta“ sem ber með sér að reikningar sem gefnir voru út á varastefnda á árunum 2015 og 2016 voru allir greiddir innan fárra vikna og sumir samdægurs, án þess að séð verði að nokkur andmæli eða athugasemdir hafi fylgt þeim greiðslum, öfugt við síðustu þrjá reikningana sem andmælt var af hálfu stefnda með bréfi í janúar 2018.                 Undir rekstri málsins hafa engin gögn verið lögð fram sem sýna að síðari hluti dekkjainnflutningsins sem hér um ræðir, þ.e. þau 3.000 dekk til viðbótar sem ágreiningur málsaðila lýtur að, hafi verið fluttur inn að beiðni stefnda, í hans nafni eða fyrirtækja á hans vegum. Þvert á móti verður ekki annað ráðið af framlögðum gögnum en að sá innflutningur hafi verið í nafni stefnanda sjálfs, sbr. framlagðar staðfestingar frá skipafélaginu Eimskipum Íslandi ehf. þar sem fram kemur að innflytjandinn sé stefnandi.                 Gagnvart öllu þessu hefur stefnandi ekki lagt fram gögn, leitt vitni eða með öðrum hætti axlað þá sönnunarbyrði sem á honum sjálfum hvílir um það að innflutningur umræddra dekkja hafi verið gerður að beiðni stefnda eða varastefnda. Stefnanda hefur ekki tekist að sýna fram á að stefndi hafi dregið á títtnefndan lánasamning sem gerður var 10. júní 2015 þannig að komið geti heim og saman við kröfur stefnanda í máli þessu. Verður stefnandi sjálfur að bera hallann af þeirri óvissu sem af framangreindum sönnunarskorti leiðir.  Með því að stefnandi hefur ekki sýnt fram á að stefndi eða varastefndi hafi samþykkt þann innflutning sem stefnukröfur eru byggðar á og með því að áritanir almennra starfsmanna varastefnda á kvittanir nægja ekki í þessu samhengi verða bæði stefndi og varastefndi sýknaðir af kröfum stefnanda.                 Í samræmi við þessi úrslit málsins verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 750.000 kr. til hvors stefndu um sig.                 Arnar Þór Jónsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.   Dómsorð: Aðalstefndi, Sigurður Friðriksson, og varastefndi, Bílastofan ehf., eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Dekkjavina ehf., í máli þessu. Stefnandi greiði stefndu hvorum um sig 750.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 18/2020
Málefni aldraðra Fjárlög Jafnræðisregla Stjórnarskrá Eignarréttur
G og D, sem reka hjúkrunar- og dvalarheimili, kröfðust þess að Í yrði gert að greiða þeim nánar tilgreinda fjárhæð í endurgjald fyrir fasteignir sem þeir lögðu til undir starfsemina á árunum 2013 til og með 2016. Kröfurnar reistu G og D einkum á því að þeir veittu öldruðum þjónustu sem Í væri skylt að leggja þeim til samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar og því bæri Í að greiða allan kostnað af starfseminni. Þá gætti Í ekki jafnræðis við greiðslu húsnæðiskostnaðar til hjúkrunarheimila þar sem sumum rekstraraðilum væru látin í té endurgjaldslaust húsnæði undir starfsemina eða fengju greidda húsaleigu auk þess sem brotið væri gegn eignarrétti þeirra. Í dómi Hæstaréttar kom fram að réttur til þeirrar aðstoðar sem getið væri í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar væri bundinn við menn en tæki ekki til lögaðila. Þá var ekki talið að um skerðingu á eignarrétti G og D hefði verið að ræða þannig að í bága færi við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá kom fram að bygging á húsnæði þeirra sem samið hefðu við Í um rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila hefði verið fjármögnuð með mismunandi hætti á ólíkum tímum eftir lagafyrirmælum sem hefðu gilt á hverjum tíma. Yrði að ætla löggjafanum heimild og svigrúm til að kveða í lögum á um nýjar leiðir við aðkomu Í að uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarheimila aldraðra, án þess að það teldist ólögmæt mismunun gagnvart rétti rekstraraðila sem fyrir væru og hefðu hafið rekstur að undangenginni annars konar fjármögnun bygginga. Hefðu G og D ekki sýnt fram á að sá greinarmunur sem gerður væri á greiðslum Í til rekstraraðila hvíldi á ólögmætum sjónarmiðum með þeim hætti að brotið hefði verið gegn rétti þeirra samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Var Í því sýknað af kröfum G og D.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 28. apríl 2020. Áfrýjandi Grund krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 634.753.745 krónur „með dráttarvöxtum frá 17. október 2017 til greiðsludags“ en til vara 611.755.523 krónur með sömu vöxtum. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum. Áfrýjandi Dvalarheimilið Ás krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 675.567.255 krónur „auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags“. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I 1         Áfrýjandinn Grund er sjálfseignarstofnun sem meðal annars hefur með höndum rekstur hjúkrunar- og dvalarheimilisins Grundar við Hringbraut í Reykjavík í eigin fasteignum. Áfrýjandinn Dvalarheimilið Ás er rekstrarfélag í eigu áfrýjandans Grundar og rekur það hjúkrunar- og dvalarheimili í Hveragerði. Fasteignir heimilisins munu vera í eigu beggja áfrýjenda. Í málinu krefur hvor áfrýjenda um sig stefnda um endurgjald fyrir notkun fasteigna sem þeir lögðu til undir starfsemina á árunum 2013 til og með 2016. Áfrýjendur reisa kröfur sínar á matsgerð dómkvadds manns 3. september 2017 um eðlilegt leigugjald fyrir fasteignirnar væru þær leigðar stefnda. Í aðalkröfum áfrýjenda eru húsnæðisgjöld sem þeir fengu greidd frá stefnda á kröfutímabilinu dregin frá leigugjaldinu en í varakröfum eru til viðbótar dregin frá framlög til áfrýjenda úr Framkvæmdasjóði aldraðra á sama tímabili. 2         Ágreiningur aðila snýst um hvort stefnda hafi borið að greiða áfrýjendum endurgjald fyrir notkun fasteignanna í starfsemi þeirra sem svari til stofnkostnaðar húsnæðis, afskrifta og meiri háttar breytinga og endurbóta á því. Áfrýjendur telja niðurstöðu matsgerðar endurspegla hæfilegt endurgjald fyrir afnot fasteignanna. Þeir reisa kröfur sínar á því að þeir veiti öldruðum þjónustu sem stefnda beri lagaskylda til að veita samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar og lögum nr. 125/1999 um málefni aldraðra og beri því að greiða allan kostnað af starfseminni. Um skyldu stefnda vísa áfrýjendur jafnframt til laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, einkum 39. gr. um samningsgerð um veitingu heilbrigðisþjónustu svo og 43. gr. um endurgjald fyrir slíka þjónustu og 32. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Þá halda áfrýjendur því fram að brotið sé gegn eignarréttindum þeirra sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar með því að stefndi krefji þá um að leggja fasteignir til starfseminnar án endurgjalds. Loks byggja áfrýjendur á því að brotið sé gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar með því að tiltekin hjúkrunar- og dvalarheimili fái fasteignir undir starfsemi sína endurgjaldslaust frá stefnda eða fái greidda leigu en önnur, líkt og áfrýjendur, leggi sjálf til eða leigi fasteignir frá þriðja aðila án þess að fá greiðslur frá stefnda vegna þess kostnaðar.         Samkvæmt framansögðu byggja áfrýjendur á því að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart þeim þar sem hann hafi með ólögmætum hætti brotið gegn skyldum sínum en ella á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um að greiða beri sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir þær fasteignir sem áfrýjendur leggi til á grundvelli samninga þeirra við Sjúkratryggingar Íslands um að veita þjónustu á hjúkrunar- og dvalarheimilum.         Með héraðsdómi var stefndi sýknaður af kröfum áfrýjenda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjunarleyfi var veitt 27. apríl 2020. II 1         Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi mæla lög nr. 112/2008 meðal annars fyrir um samningsgerð um heilbrigðisþjónustu og um endurgjald ríkisins fyrir þjónustuna. Samkvæmt 5. gr., sbr. IV. kafla laganna, annast sjúkratryggingastofnun, sem síðar varð Sjúkratryggingar Íslands, samningsgerðina fyrir hönd stefnda. Lögin tóku gildi 1. október 2008 en ákvæði IV. kafla laganna komu ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2015 að því er varðar gerð samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili, sbr. 2. málslið 2. mgr. 56. gr. laganna. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði IV með lögunum var ráðherra fram til þess tíma heimilt að ákveða með reglugerð daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt var í hjúkrunarrýmum sjúkrahúsa, öldrunarstofnana og hjúkrunarheimila. Daggjöld skyldu ákveðin með hliðsjón af mati á hjúkrunarþyngd, sbr. 4. mgr. 43 gr. laganna. Á þeim grundvelli kvað ráðherra á um daggjöld fyrir hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrými sem ekki voru á föstum fjárlögum í reglugerð nr. 1217/2012 fyrir árið 2013, reglugerð nr. 99/2014 fyrir árið 2014 og reglugerð nr. 1185/2014 fyrir árið 2015. Þar kom fram að daggjöldum væri ætlað að mæta eðlilegum rekstrarkostnaði án viðhalds húsnæðis. Að auki var kveðið á um greiðslu húsnæðisgjalds sem ætlað væri að mæta kostnaði vegna fasteignagjalda, trygginga, viðhalds, eftirlits og umsýslu húsnæðis sem nýtt væri til rekstrar hjúkrunarrýma. Viðhaldshluta húsnæðisgjaldsins var ætlað að standa undir öllu almennu viðhaldi en ekki stofnkostnaði, afskriftum og meiri háttar breytingum og endurbótum á húsnæði.         Rammasamningur milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila um þjónustu hjúkrunarheimila var undirritaður 21. október 2016, með gildistíma frá 1. janúar sama árs til ársloka 2018. Ákvæði um húsnæðisgjald var að finna í 8. gr. samningsins og var það hliðstætt ákvæðum framangreindra reglugerða. Áfrýjendur staðfestu aðild að samningnum 27. október 2016. Samningnum fylgdi bókun þess efnis að einstök hjúkrunar- og dvalarheimili teldu aðild að honum ekki fela í sér viðurkenningu þeirra á því að endurgjaldið fyrir þjónustuna væri að einhverju leyti fullnægjandi og takmarkaði ekki heimildir þeirra til málssóknar eða kröfugerðar gagnvart stefnda.         Með beiðni til héraðsdóms 8. nóvember 2016 óskuðu áfrýjendur, ásamt Sjómannadagsráði, Hrafnistu Laugarási og Hrafnistu Hraunvangi, eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta eðlilegt leigugjald fasteigna. Matsgerð lá fyrir 3. september 2017 og höfðuðu áfrýjendur mál þetta 13. október sama ár.         Í hinum áfrýjaða dómi er nánari grein gerð fyrir lagagrundvelli dag- og húsnæðisgjalda. Í málinu er óumdeilt að greiðslur til áfrýjenda voru í samræmi við áðurgreindar reglugerðir um daggjöld fyrir hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrými sem ekki voru á föstum fjárlögum og við rammasamning eftir að hann tók gildi. Lýtur mál þetta þannig eingöngu að því hvort áfrýjendur eiga á grundvelli þeirra réttarheimilda sem málssóknin er reist á rétt til frekara endurgjalds úr hendi stefnda sem taki mið af stofnkostnaði, afskriftum og meiri háttar breytingum og endurbótum á fasteignum. 2         Í 54. gr. laga nr. 112/2008 er kveðið á um að kostnaður við sjúkratryggingar greiðist úr ríkissjóði, að því marki sem ákveðið er samkvæmt lögunum eða sérlögum og reglugerðum settum með stoð í þeim. Árleg heildarútgjöld sjúkratrygginga skuli vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum hvers árs. Fyrir liggur að hlutdeild einstakra hjúkrunarheimila í fjárveitingu hvers árs er ákveðin með reiknilíkani, svokölluðu daggjaldalíkani. Með því er leitast við að skipta þeim fjármunum sem stjórnvöld ráðstafa hverju sinni til málaflokksins milli heimilanna á málefnalegan og gagnsæjan hátt og að gætt sé jafnræðis. Líkaninu er aftur á móti ekki ætlað að ákvarða raunkostnað við rekstur hjúkrunarheimilis. Á grundvelli 1. mgr. 39. gr. laga nr. 112/2008 semja Sjúkratryggingar Íslands, sem fyrr segir, um veitingu heilbrigðisþjónustu við þá sem reka hjúkrunarheimili og um endurgjald stefnda vegna hennar. Kom ákvæðið til framkvæmda 1. janúar 2015 og er rammasamningur milli Sjúkratrygginga Íslands og áfrýjenda um þjónustu hjúkrunarheimila gerður með stoð í því.          Fallist er á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að lög nr. 112/2008 hafi ekki að geyma ákvæði sem mæla fyrir um skyldu stefnda til að standa áfrýjendum skil á endurgjaldi vegna notkunar á fasteignum í rekstri hjúkrunar- og dvalarheimila umfram það sem stefndi hefur greitt í formi húsnæðisgjalds. Þá verður þeirri skyldu heldur ekki fundin stoð í reglugerðum, og síðar rammasamningi, sem giltu um greiðslur til áfrýjenda á árunum 2013 til 2016. Auk þess verður slík skuldbinding hvorki byggð á ákvæðum laga nr. 125/1999 né laga nr. 40/2007.         Eins og áður greinir hafa áfrýjendur reist kröfur sínar á því að þar sem þeir veiti öldruðum þjónustu sem stefnda sé skylt að leggja þeim til samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar beri stefnda að greiða allan kostnað af starfseminni. Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, skal öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi að lögum nr. 97/1995 kemur fram að í ákvæðinu séu taldar ástæður sem geta  orðið til þess að maður þarfnist opinberrar aðstoðar af þessum toga. Jafnframt segir að gengið sé út frá því að nánari reglur um félagslega aðstoð af þessum meiði verði settar með lögum en með ákvæðinu sé markaður sá rammi að til þurfi að vera reglur sem tryggi þessa aðstoð. Af þessum orðum um verndarandlag og skyldur stefnda samkvæmt 1. mgr. 76. gr. er ljóst að réttur til þeirrar aðstoðar sem þar er getið er bundinn við menn en tekur ekki til lögaðila, sbr. einnig  dóm Hæstaréttar 16. júní 2020 í máli nr. 3/2020.         Af hálfu áfrýjenda hefur verið vísað til þess að þeir væru jafnframt að sækja rétt þeirra einstaklinga sem nytu vistar á heimilum þeirra og tryggður væri með þessu stjórnarskrárákvæði. Áfrýjendur hafa hvorki fært fram gögn né haldbær rök fyrir þessari staðhæfingu sinni. Verður ekki fallist á að áfrýjendur séu með málssókn sinni að sækja persónubundinn rétt vistmanna á hjúkrunarheimilum sem þeir reka. Samkvæmt framangreindu er ljóst að áfrýjendur geta ekki reist kröfur sínar um endurgjald frá stefnda vegna leigugreiðslna á 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og er þeirri kröfu því hafnað. 3         Af hálfu áfrýjenda er jafnframt á því byggt að sú afstaða stefnda að greiða þeim ekki endurgjald fyrir notkun fasteigna sem þeir útvegi undir hjúkrunar- og dvalarheimili feli í sér brot á eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar.         Samkvæmt ákvæðinu er eignarrétturinn friðhelgur og má engan skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og skal fullt verð koma fyrir. Áfrýjendur eru einkaaðilar sem tóku ákvörðun um að ganga til samninga við stefnda um rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila. Stefndi hefur greitt áfrýjendum fyrir þessa þjónustu, fyrst á grundvelli reglugerða en síðan á grundvelli rammasamnings. Þótt áfrýjendur telji að stefnda beri að greiða hærra endurgjald fyrir þjónustuna en hann hefur samkvæmt framansögðu greitt verður ekki fallist á að í samningssambandi áfrýjenda og stefnda hafi falist slík þvingun hvað varðar nýtingu fasteignanna að jafnað verði til skerðingar á eignarrétti sem í bága fari við 72. gr. stjórnarskrárinnar.   4         Málatilbúnaður áfrýjenda lýtur loks að því að ólögmæt mismunun sé fólgin í að stefndi neiti kröfum þeirra en láti á hinn bóginn tilteknum aðilum, sem veiti öldruðum sambærilega þjónustu og áfrýjendur, í té endurgjaldslaust húsnæði undir starfsemina eða greiði þeim húsaleigu. Vísa áfrýjendur í því sambandi einkum til svokallaðrar leiguleiðar, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999. Áfrýjendur byggja á því að stefndi gæti ekki jafnræðis hvað varðar greiðslu húsnæðiskostnaðar til hjúkrunarheimila.         Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir vera jafnir fyrir lögum. Í því banni við mismunun sem í ákvæðinu felst er meðal annars gerð sú krafa að við lagasetningu og framkvæmd laga sé farið með sambærilegum hætti með sambærileg tilvik og að ólík meðferð sambærilegra tilvika verði aðeins réttlætt með vísan til hlutlægra og málefnalegra sjónarmiða.             Þeir aðilar sem áfrýjendur hafa borið sig saman við eru í sambærilegum rekstri og áfrýjendur. Í hinum áfrýjaða dómi er rakið að bygging á húsnæði þeirra sem hafa samið við stefnda um rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila hefur verið fjármögnuð með mismunandi hætti á ólíkum tímum eftir lagafyrirmælum sem hafa gilt á hverjum tíma. Með 2. gr. laga nr. 38/2004 kom inn það nýmæli í 4. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999 að Framkvæmdasjóði aldraðra var heimilað að greiða þann hluta húsaleigu sem telst stofnkostnaður vegna leigu á hjúkrunarheimili fyrir aldraða sem samþykkt hefur verið að byggja eftir 1. janúar 2005, að undangengnu útboði, á kostnað annarra aðila en ríkisins. Frumvarp að lögum nr. 38/2004 tók mið af tillögum samráðshóps um málefni eldri borgara frá nóvember 2002 og tillögum vinnuhóps heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra frá maí 2003. Skilyrði fyrir greiðslu á húsaleigu er að ekki hafi verið veittur styrkur úr Framkvæmdasjóði aldraðra eða annar styrkur frá ríkinu til að byggja hjúkrunarheimilið eða til viðhalds fasteignarinnar. Rekstraraðilar sem byggt hafa hjúkrunarheimili eftir 1. janúar 2005 og uppfylla skilyrði um greiðslu húsaleigu njóta ekki réttar til framlaga úr Framkvæmdasjóði aldraðra, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna, né heldur fá þeir greidd húsnæðisgjöld eins og áfrýjendur samkvæmt rammasamningnum við stefnda.          Forsenda fyrir húsaleigugreiðslum er samkvæmt áðursögðu að samþykkt hafi verið að reisa byggingar eftir 1. janúar 2005 og að rekstraraðili hafi fjármagnað byggingu hjúkrunarheimilis að öllu leyti án þátttöku hins opinbera og ekki þegið fjármagn til viðhalds húsnæðisins. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi háttaði ekki svo til um fasteignir þær sem áfrýjendur nota til rekstrarins en þær voru reistar með þeim fjárstuðningi opinberra aðila sem stóð til boða samkvæmt heimildum á hverjum tíma. Auk þess hefur stefndi um langt skeið veitt fjárstuðning vegna endurbóta þeirra og viðhalds. Að þessu leyti verður stöðu áfrýjenda og rekstraraðila sem uppfylla skilyrði til leigugreiðslna samkvæmt 4. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999 ekki jafnað saman. Sama gildir um aðrar leiðir sem farnar hafa verið eins og þá er stefndi og sveitarfélög reisa húsnæði fyrir hjúkrunarheimili, sbr. 5. mgr. 9. gr. sömu laga, sem með samningi hefur verið lagt undir rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila á hendi einkaaðila. Verður að ætla löggjafanum heimild og svigrúm til að kveða í lögum á um nýjar leiðir við aðkomu stefnda að uppbyggingu dvalar- og hjúkrunarheimila aldraðra, án þess að það teljist ólögmæt mismunun gagnvart rétti rekstraraðila sem fyrir eru og hófu rekstur að undangenginni annars konar fjármögnun bygginga. Áfrýjendur hafa ekki sýnt fram á að sá greinarmunur sem gerður er á greiðslum stefnda til rekstraraðila dvalar- og hjúkrunarheimila samkvæmt framansögðu hvíli á ólögmætum sjónarmiðum með þeim hætti að brotið sé gegn rétti þeirra samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.          Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.         Rétt er að hver aðila greiði sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.  Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.                                                                                    Dómur Landsréttar 28. febrúar 2020. Mál þetta dæma landsréttardómararnir Jóhannes Sigurðsson, Kristbjörg Stephensen og Þorgeir Ingi Njálsson. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Áfrýjendur skutu málinu til Landsréttar 23. apríl 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2019 í málinu nr. E-3247/2017. 2        Áfrýjandi, Grund hjúkrunarheimili, krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða honum 634.753.745 krónur með dráttarvöxtum frá 17. október 2017 til greiðsludags, og til vara 611.755.523 krónur með dráttarvöxtum frá 17. október 2017 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. 3        Áfrýjandi, dvalarheimilið Ás, krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 675.567.255 krónur auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags. Þá gera áfrýjendur hvor fyrir sig kröfu um málskostnað fyrir héraðsdómi og Landsrétti. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. 4        Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi áfrýjenda. Málsatvik 5        Áfrýjandinn, Grund hjúkrunarheimili, er sjálfseignarstofnun sem hefur það einkum  að markmiði að veita öldruðum heimili og umönnun. Rekur það nú tvö hjúkrunarheimili í Reykjavík, annars vegar Grund við Hringbraut og hins vegar Mörk hjúkrunarheimili sem staðsett er í Mörkinni. Fasteignin við Hringbraut er í eigu Grundar hjúkrunarheimilis en fasteignin í Mörkinni er í eigu stefnda. Svo sem nánar verður rakið hér á eftir er rekstur Markar hjúkrunarheimilis grundvallaður á sérstökum samningi við stefnda. 6        Áfrýjandinn, Dvalarheimilið Ás, er í eigu áfrýjandans, Grundar hjúkrunarheimilis, og rekur það hjúkrunarheimili í Hveragerði. Fasteignir hjúkrunarheimilisins í Hveragerði eru í eigu beggja áfrýjenda. 7        Áfrýjendur hafa um langt skeið fengið greiðslur í formi daggjalda frá stefnda til reksturs hjúkrunar- og dvalarrýma. Í þeim greiðslum hefur ekki verið tekið tillit til stofnkostnaðar, afskrifta og meiri háttar viðhalds fasteigna sem fylgt hefur rekstri áfrýjenda. Áfrýjendur lýsa því að þeir hafi í kjölfar setningar laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar bundið vonir við að þeir næðu samningum við stefnda um að greiðslur sem þeir fengju til rekstursins  tækju einnig til stofnkostnaðar, afskrifta og meiri háttar viðhalds. 8        Fyrir setningu laga nr. 112/2008 var í 2. mgr. 44. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sem var í þeim kafla laganna sem þá tók til sjúkratrygginga, kveðið á um að ráðherra skyldi með reglugerð ákveða daggjöld vegna reksturs dvalarheimila aldraðra, hjúkrunarrýma á öldrunarstofnunum og hjúkrunarheimila sem ekki væru á föstum fjárlögum. Ráðherra skyldi áður en daggjöld væru ákveðin óska eftir tillögum viðkomandi stofnana. Daggjöld hjúkrunarheimila og hjúkrunarrýma skyldu ákveðin með hliðsjón af mati á hjúkrunarþyngd. Samanlagðar tekjur stofnunar skyldu standa undir eðlilegum rekstrarkostnaði á hverjum tíma miðað við þá þjónustu sem kveðið væri á um í lögum um málefni aldraðra og reglugerðum með stoð í þeim lögum. Í 47. gr. sömu laga sagði að kostnaður við sjúkratryggingu greiddist úr ríkissjóði, að því marki sem ákveðið væri samkvæmt lögunum eða sérlögum og reglugerðum settum með stoð í þeim. Árleg heildarútgjöld sjúkratrygginga skyldu vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum hvers árs. 9        Þegar lög nr. 112/2008 voru sett var gert ráð fyrir því að sérstök sjúkratryggingastofnun tæki yfir það hlutverk sem Tryggingastofnun ríkisins hafði áður haft gagnvart hjúkrunar- og dvalarheimilum. Nefnist stofnunin Sjúkratryggingar Íslands. Í 24. gr. laganna er kveðið á um að sjúkratrygging taki til þjónustu sem veitt sé í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og í dagdvöl, sem samið hefði verið um samkvæmt IV. kafla laganna. Gildistöku umrædds IV. kafla, sem fjallar meðal annars um samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarrými, dvalarrými og dagdvöl, var þó ítrekað frestað og tók hann ekki gildi að því leyti fyrr en 1. janúar 2015, sbr. 2. málslið 2. mgr. 56. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 131/2012. Í ákvæði IV til bráðabirgða með lögunum, eftir breytingu sem gerð var á því með 3. gr. laga nr. 131/2012, var kveðið á um að fram til 1. janúar 2015 væri ráðherra heimilt að ákveða með reglugerð daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt væri í hjúkrunarrýmum sjúkrahúsa, öldrunarstofnana og hjúkrunarheimila. 10       Í 54. gr. laga nr. 112/2008 er kveðið á um að kostnaður við sjúkratryggingar greiðist úr ríkissjóði, að því marki sem ákveðið er samkvæmt lögunum eða sérlögum og reglugerðum settum með stoð í þeim. Þá segir að árleg heildarútgjöld sjúkratrygginga skuli vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum hvers árs. 11       Á grundvelli framangreindrar reglugerðarheimildar í bráðabirgðaákvæði IV með lögum nr. 112/2008 setti velferðarráðherra reglugerð nr. 1217/2012 um daggjöld fyrir hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrými sem ekki eru á föstum fjárlögum, fyrir árið 2013, og reglugerð nr. 99/2014, með sama heiti, fyrir árið 2014. Í 1. gr. reglugerðanna sagði að daggjöldum á stofnunum sem ekki væru á föstum fjárlögum væri ætlað að mæta eðlilegum rekstrarkostnaði, án húsnæðisgjalds. Í ákvæðinu var kveðið á um fjárhæð daggjalda til áfrýjenda. Í 4. gr. reglugerðanna var að auki mælt fyrir um að Tryggingastofnun ríkisins skyldi greiða húsnæðisgjald til þeirra sem reka hjúkrunar- og dvalarheimili en því gjaldi var ætlað að mæta kostnaði vegna fasteignagjalda, trygginga, viðhalds, eftirlits og umsýslu húsnæðis. Í ákvæðinu var sérstaklega tekið fram að húsnæðisgjaldinu væri ætlað að standa undir almennu viðhaldi húsnæðis en ekki stofnkostnaði, afskriftum og meiri háttar breytingum og endurbótum á húsnæði. 12       Lagagrundvöllur daggjaldanna breyttist nokkuð þegar fyrrnefnt bráðabirgðaákvæði með lögum nr. 112/2008 rann sitt skeið í árslok 2014 og lögin komu að fullu til framkvæmda. Daggjöld fyrir dvalarrými, dagdvalarrými og hjúkrunarrými voru á árinu 2015 greidd á grundvelli gjaldskrár Sjúkratrygginga Íslands og reglugerðar nr. 1185/2014, sbr. heimild í 1. og 2. mgr. 38. gr. laga nr. 112/2008. Í reglugerðinni var mælt fyrir um fjárhæð almenns daggjalds vegna dvalarrýma fyrir aldraða og vegna dagdvalar aldraðra sem ætlað var að mæta eðlilegum rekstrarkostnaði án viðhalds húsnæðis. Einnig var þar að finna sambærilegt ákvæði um húsnæðisgjald og í fyrri reglugerðum. Þá voru í reglugerðinni ákveðnar fjárhæðir daggjalda til einstakra aðila, þar með talið áfrýjenda, vegna sérhæfðrar dvalar. Í gjaldskránni var á hinn bóginn mælt fyrir um daggjöld tiltekinna aðila fyrir hjúkrunarþjónustu og voru daggjöld til áfrýjenda þar sérstaklega tilgreind. 13       Ákvæði IV. kafla laga nr. 112/2008 um heimild Sjúkratrygginga Íslands til að gera samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili komu eins og áður sagði til framkvæmda 1. janúar 2015. Á grundvelli þessarar heimildar undirrituðu Sjúkratryggingar Íslands, velferðarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga samkomulag 6. september 2016 um gerð rammasamnings milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila vegna þjónustu í hjúkrunar- og dvalarrýmum hjúkrunarheimila. Rammasamningurinn sem gerður var í framhaldinu er dagsettur 21. október 2016. Áfrýjendur samþykktu aðild að honum með tölvuskeyti 27. október 2016 og var hún staðfest sama dag. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga gerðu bókun við rammasamninginn þar sem fram kom að aðild að honum fæli ekki í sér viðurkenningu einstakra hjúkrunar- og dvalarheimila á því að endurgjaldið sem greitt væri fyrir þjónustuna væri fullnægjandi og að áskilinn væri réttur til að gera frekari kröfur eftir atvikum með málsókn. Þá kemur fram í bókun 2 við rammasamninginn að aðilar séu sammála um að skoða nánar húsnæðismál hjúkrunarheimila, meðal annars eignarhald á húsnæði, kostnað við eignarhald og framlög opinberra aðila.  14       Í 1. mgr. 32. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu kemur fram að kostnaður við byggingu sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva greiðist úr ríkissjóði. Þátttaka sveitarfélaga í kostnaði við byggingu og búnað hjúkrunarheimila skuli vera 15% af stofnkostnaði og teljist meiri háttar viðhald og tækjakaup til stofnkostnaðar. Þá kemur fram í 2. mgr. að sveitarfélög leggi til lóðir undir byggingarnar án endurgjalds. 15       Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra skal Framkvæmdasjóður aldraðra stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um allt land. Í 3. mgr. ákvæðisins kemur meðal annars fram að sjóðurinn veiti fjármunum til byggingar stofnana fyrir aldraða, viðhalds þeirra, breytinga og endurbóta. Þá er að finna heimild fyrir sjóðinn í 4. mgr. sömu greinar til að greiða þann hluta húsaleigu sem teljist til stofnkostnaðar vegna leigu á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða. Heimildin er bundin við hjúkrunarheimili sem samþykkt hefur verið að byggja eftir 1. janúar 2005. Skilyrðið fyrir greiðslu húsaleigu er að ekki hafi verið veittur styrkur úr sjóðnum eða frá stefnda til byggingar hjúkrunarheimilisins. Þá kemur fram í 5. mgr. að þegar ríki og sveitarfélög standa saman að uppbyggingu hjúkrunarheimila skuli þátttaka sveitarfélaga ekki vera minni en 15% af stofnkostnaðinum eða leigunni.    16       Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn um byggingarkostnað hjúkrunarheimila á 128. löggjafarþingi 2002-2003 kemur fram að um fjármögnun annarra hjúkrunarrýma og stofnana fyrir aldraða, sem ekki er stofnað til á grundvelli laga nr. 40/2007, gildi lög nr. 125/1999. Í svarinu kemur fram að styrkir úr Framkvæmdasjóði aldraðra hafi á árunum 1980 til 2002 numið á bilinu 35-40% af byggingarkostnaði. 17       Áfrýjendur hafa lagt fram í málinu upplýsingar um samninga sem stefndi hefur gert við nokkra aðila um uppbyggingu og fjármögnun hjúkrunarheimila. Fyrsti samningurinn er á milli félags- og tryggingamálaráðuneytisins við Seltjarnarneskaupstað 30. desember 2010 um byggingu og þátttöku í leigu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða. Í samningnum kemur fram að stefndi muni greiða hluta af leigu fyrir húsnæðið sem teljist ígildi stofnkostnaðar og jafngildi leigugreiðsla stefnda 85% af reiknaðri leigu. Samningstíminn er til 40 ára. Annar samningurinn er samningur til sex ára milli félags- og tryggingamálaráðuneytisins og áfrýjandans, Grundar hjúkrunarheimilis, um þjónustu og rekstur Markar hjúkrunarheimilis 18. júní 2010. Áfrýjendur hafa upplýst að í þessu tilviki hafi Grund hjúkrunarheimili fengið endurgjaldslaus afnot af fasteignum í eigu stefnda til rekstursins. Hefur stefndi ekki mótmælt því. Þriðji samningurinn er á milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Öldungs ehf. 28. apríl 2000 um uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimilisins Sóltúns. Samkvæmt samningnum sem grundvallaður var á útboði er gert ráð fyrir endurgjaldi frá stefnda sem svari til leigu eða fjármögnunar stofnkostnaðar. Samningstíminn er til 27 ára. 18       Áfrýjendur óskuðu eftir dómkvaðningu matsmanna 8. nóvember 2016 til þess að meta hvert væri eðlilegt leigugjald fyrir fasteignirnar, sem þeir nota til að veita þjónustu sína, ef stefndi væri leigutaki. Matsmenn skiluðu matsgerð 3. september 2017 og byggjast fjárkröfur áfrýjenda á niðurstöðum hennar um hæfilegt leigugjald. Frá leigugjaldi samkvæmt matsgerð er dregið húsnæðisgjald sem áfrýjendur fengu greitt á árunum 2013 til 2016. Í málinu liggur fyrir yfirlit sem sýnir að áfrýjandinn, Grund hjúkrunarheimili, hefur fengið greiðslur úr Framkvæmdasjóði aldraðra á árunum 2011 til 2016, sbr. III. kafla laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, vegna viðhalds, endurbóta og breytinga á húsnæði sem þeir nota í starfsemi sinni. Varakrafa hans er byggð á því að núvirtar greiðslur frá Framkvæmdasjóði aldraðra á árunum 2013 til 2016 dragist frá leigugjaldinu.   Niðurstaða 19       Í málinu er deilt um hvort áfrýjendur eigi rétt á greiðslum úr hendi stefnda sem svari til eðlilegs leigugjalds á árunum 2013 til 2016 fyrir þær fasteignir sem þeir nota við rekstur á hjúkrunar- og dvalarrýmum fyrir aldraða. Svo sem áður er komið fram hafa áfrýjendur um árabil fengið greiðslur úr sjúkratryggingum samkvæmt lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar vegna starfsemi sinnar en í þeim greiðslum felst ekki endurgjald vegna stofnkostnaðar við fasteignir, afskriftir eða meiri háttar viðhald. 20       Áfrýjendur byggja kröfur sínar á því að Sjúkratryggingum Íslands sé skylt samkvæmt lögum nr. 112/2008 að greiða allan rekstrarkostnað við hjúkrunar- og dvalarheimili áfrýjenda, þar með talið endurgjald eða leigugjald sem endurspegli stofnkostnað, afskriftir og meiri háttar viðhald fasteignanna. Þessi skylda byggi einnig á ákvæði 76. gr. stjórnarskrárinnar um rétt aldraðra til aðstoðar, 21. gr. laga nr. 125/1999 og 32. gr. laga nr. 40/2007. Þar sem lagaskyldunni hafi ekki verið sinnt af Sjúkratryggingum Íslands hafi starfsmenn stefnda sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem leitt hafi til tjóns fyrir áfrýjendur. Einnig byggja áfrýjendur kröfur sínar á því að þeir eigi rétt á eðlilegu endurgjaldi vegna húsnæðiskostnaðar á grundvelli samninga þeirra við Sjúkratryggingar Íslands um að veita þjónustu á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Framangreindar málsástæður eru einnig reistar á þeim grunni að áfrýjendum hafi verið mismunað þar sem aðrir rekstraraðilar hjúkrunar- og dvalarheimila hafi ýmist fengið greiddan stofnkostnað við fasteignir með sérstökum samningum við stefnda eða fengið endurgjaldslaus afnot af húsnæði undir starfsemi sína. Með þessari háttsemi hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Skylda til greiðslu alls kostnaðar af veittri þjónustu 21       Í 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að stefndi verður ekki skuldbundinn til greiðslu fjármuna nema samkvæmt heimild í almennum lögum eða fjárlögum. Í 54. gr. laga nr. 112/2008 kemur skýrt fram að heildarútgjöld sjúkratrygginga skuli vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum eða fjáraukalögum hvers árs. Áfrýjendur hafa ekki lagt fram gögn sem sýna að heimilt hafi verið samkvæmt fjárlögum fyrir árin 2013 til 2016 eða fjáraukalögum að greiða leigu fyrir húsnæði umfram húsnæðisgjald. 22       Svo sem áður er rakið voru greiðslur daggjalda til áfrýjenda á árunum 2013 til 2016 annars vegar reistar á ákvæðum reglugerða og gjaldskrár á grundvelli 38. gr. og bráðabirgðaákvæðis IV í lögum nr. 112/2008 og hins vegar á rammasamningi sem gerður var á grundvelli 38. gr. laganna. Hvorki í lögunum né reglugerðunum er að finna ákvæði sem skyldar stefnda til greiðslu á leigu, stofnkostnaði, afskriftum eða meiri háttar viðhaldi vegna fasteigna sem notaðar eru í rekstri á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Þvert á móti kemur fram í reglugerðunum að þessi kostnaður sé ekki greiddur og í rammasamningnum er ekki að finna ákvæði sem heimilar slíkar greiðslur. Breytir í þessu sambandi engu þótt í ákvæði 3. mgr. 43. gr. laganna komi fram að við kostnaðargreiningu heilbrigðisstofnana eigi að taka mið af öllum hagrænum kostnaði við þjónustuna, þar með töldum kostnaði vegna húsnæðis. Lýtur ákvæðið að tiltekinni aðferð við kostnaðargreiningu en mælir ekki fyrir um rétt til greiðslu alls húsnæðiskostnaðar. Þá er ekki mælt fyrir um slíka skuldbindingu í tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 125/1999 eða lögum nr. 40/2007. Loks er tekið undir það með héraðsdómi að réttindi samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar verða eingöngu sótt af einstaklingum en ekki lögpersónum og verður réttur áfrýjenda til leigugreiðslna þegar af þeirri ástæðu ekki byggður á því ákvæði. 23       Samkvæmt því sem að framan er rakið hafa áfrýjendur ekki sýnt fram á að þeir eigi, á grundvelli áðurnefndra laga eða samninga, lögvarða kröfu á hendur stefnda um greiðslu á leigu fyrir notkun á umræddum fasteignum í starfsemi sinni. Brot á jafnræðisreglu 24       Áður er rakið að áfrýjendur byggja kröfur sínar einnig á því að þeim hafi verið mismunað af stefnda þar sem þeir hafi ekki fengið sömu meðferð og aðrir sem veita þjónustu á þessu sviði. Brjóti það gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Vísa áfrýjendur til þess að aðilar sem veita sambærilega þjónustu hafi í gegnum tíðina fengið greidda leigu eða kostnað vegna byggingar húsnæðis, afskrifta og meiri háttar viðhalds með samningum við stefnda og eftir atvikum endurgjaldslaus afnot af húsnæði í eigu stefnda. 25       Frá jafnræðisreglu stjórnarskrár, sem tekur bæði til einstaklinga og lögpersóna, verður ekki vikið nema hlutlægar og málefnalegar ástæður réttlæti það. Eiga dómstólar úrskurðarvald um hvort löggjafinn hafi að þessu leyti gætt réttra sjónarmiða við lagasetningu og einnig hvort framkvæmdavaldið hafi afgreitt mál innan þess ramma sem jafnræðisreglur setja. 26       Fyrir liggur í gögnum málsins, og er því ekki andmælt, að stefndi hefur gert samninga við ýmsa aðila um fjármögnun og uppbyggingu á húsnæði til reksturs hjúkrunar- og dvalarrýma. Fyrirkomulagið hefur verið með ýmsum hætti en leggja má til grundvallar við úrlausn málsins að stefndi hafi í ýmsum tilvikum greitt fyrir kostnað við byggingu fasteigna í formi þess að gerður er samningur um greiðslu á leigu fyrir húsnæðið. Þessir samningar hafi gengið lengra í því að greiða fyrir stofnkostnað fasteigna en venja var til með framlögum úr Framkvæmdasjóði aldraðra, að minnsta kosti á árunum 1980 til 2002. Þá eru dæmi um að rekstraraðilar hjúkrunar- og dvalarrýma hafi fengið endurgjaldslaus afnot af fasteignum í eigu stefnda til notkunar í starfseminni. Þá liggur fyrir að samkvæmt lögum nr. 16/1973 um happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna, var Dvalarheimili aldraðra sjómanna sem er í eigu Sjómannadagsráðs veitt leyfi til að stofnsetja og reka happdrætti í því skyni að fjármagna rekstur dvalarheimila. Í 3. gr. laganna er mælt fyrir um að ágóði happdrættisins skuli renna til byggingarframkvæmda fyrir aldraða á vegum Sjómannadagssamtakanna í Reykjavík og Hafnarfirði. 27       Áfrýjendur reka hjúkrunar- og dvalarrými fyrir aldraða. Þótt ekki liggi fyrir í málinu heildstæðar upplýsingar um hvernig fjármögnun á byggingu hjúkrunar- og dvalarrýma hefur verið háttað í gegnum tíðina og hver aðkoma stefnda hafi verið liggur fyrir að hún hefur verið með mismunandi hætti. Eins og áður hefur verið gerð grein fyrir hefur í framkvæmd og á grundvelli laga verið gerður greinarmunur á milli annars vegar fjármögnunar sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva sem felst í greiðslum úr ríkissjóði og hins vegar fjármögnunar hjúkrunar- og dvalarrýma fyrir aldraða sem felst í framlögum frá stefnda, sveitarfélögum, Framkvæmdasjóði aldraðra og með sjálfsaflafé. 28       Áfrýjendur hafa upplýst að þeir hafi með fjáröflunum og styrkjum fjármagnað uppbyggingu á fasteignum til reksturs hjúkrunar- og dvalarrýma. Fram hefur komið að áfrýjandinn, Grund hjúkrunarheimili, hefur í tilviki Markar hjúkrunarheimilis fengið endurgjaldslaus afnot af fasteign í eigu stefnda til reksturs hjúkrunar- og dvalarrýma í Mörkinni. Þá liggur fyrir í málinu að áfrýjandinn, Grund hjúkrunarheimili, hefur  notið greiðslna úr Framkvæmdasjóði aldraðra, sbr. 9. gr. laga nr. 125/1999, en hlutverk þess sjóðs er að fjármagna byggingu húsnæðis fyrir aldraða, nauðsynlegar breytingar á því húsnæði og viðhald þess. Stefndi hefur bent á að þeir aðilar sem hafa, með beinum samningnum við stefnda, fengið greiddan stofnkostnað í formi leigugreiðslna fái ekki greiðslur úr Framkvæmdasjóði aldraðra, sbr. 4. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999. 29       Af framangreindum upplýsingum, sem gefa þó takmarkað yfirlit yfir aðkomu stefnda að fjármögnun og uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarrýma, er ljóst að aðstaða þeirra sem hafa verið að byggja upp og reka hjúkrunar- og dvalarrými er og hefur í gegnum tíðina verið með mismunandi hætti. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að með 4. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999, eins og henni var breytt með lögum nr. 38/2004, voru settar reglur sem heimila Framkvæmdasjóði aldraðra að greiða húsaleigu til að mæta stofnkostnaði við byggingu á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða að því tilskildu að þau hafi verið byggð eftir 1. janúar 2005. Reglur um fjármögnun húsnæðis fyrir þessa þjónustu hafa því tekið breytingum í áranna rás. Í málinu liggur ekki fyrir hvenær þær fasteignir voru byggðar sem málsókn áfrýjanda lýtur að. Ljóst er þó að stærstur hluti þeirra hefur verið byggður fyrir 1. janúar 2005 og að hluta verið fjármagnaður með greiðslum úr Framkvæmdasjóði aldraðra samkvæmt eldri reglum. 30       Samkvæmt því sem að framan er rakið liggur fyrir að áfrýjendur hafa að nokkru leyti fengið aðstöðu og fjármuni til að afla fjár til uppbyggingar á húsnæði til starfseminnar sem viðmiðunaraðilum hefur ekki staðið til boða. Áfrýjendur hafa ekki sýnt fram á með samanburðargögnum að þeim hafi í gegnum tíðina verið mismunað við uppbyggingu og viðhald á þeim fasteignum sem þeir hafa byggt og notað í starfsemi sinni. Þá er einnig ósannað að þeir séu í meginatriðum í sömu stöðu og þeir aðilar sem hafa gert sérstaka samninga um leigugreiðslur til þess að fjármagna uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarrýma. 31       Í 76. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að með lögum skuli tryggja rétt einstaklinga til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Ákvæðið felur í sér að á stefnda hvíla ákveðnar lágmarksskyldur til þess að tryggja réttindi einstaklinga og ráðstafa fjármagni til þessara málaflokka. Nánar um það hvernig útgjöldum stefnda er ráðstafað til uppbyggingar á þessum málaflokkum fer eftir ákvæðum laga hverju sinni og þá einkum fjárlaga hvers árs. Ljóst er að stefndi hefur nokkurt svigrúm við forgangsröðun fjármuna til uppbyggingar og þjónustu við mismunandi málaflokka umfram lágmarksskyldurnar. Fyrir liggur að með lögum nr. 112/2008 hefur stefndi markað þá stefnu að Sjúkratryggingar Íslands skuli greiða viðurkenndum þjónustuaðilum, sem eru háðir fjárlögum á hverjum tíma, nánar skilgreinda fjármuni til almenns rekstrar á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Ekki liggur annað fyrir í málinu en að þar sé gætt jafnræðis að teknu tilliti til eðlis og umfangs þjónustunnar sem veitt er. 32       Í framangreindum ákvæðum laga nr. 112/2008 er ekki gert ráð fyrir því að greitt sé fyrir stofnkostnað við byggingu hjúkrunar- og dvalarrýma, afskriftir eða meiri háttar viðhald. Svo sem fram hefur komið í málinu hefur stefndi með ýmsum hætti reynt að byggja upp þjónustu á sviði hjúkrunar- og dvalarrýma í gegnum árin. Með samningi um hjúkrunarheimilið Sóltún sem áfrýjendur vísa til var gerð tilraun með einkaframkvæmd á þessu sviði og fór það verkefni fram með útboði. Fram hefur komið hjá stefnda að svokölluð leiguleið, þar sem ríkið greiðir 85% af húsaleigu og sveitarfélög 15%, hafi einkum verið notuð til þess að fjármagna uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarrýma eftir fall bankakerfisins á árinu 2008 og þá efnahagskreppu sem fylgdi í kjölfarið. Þá liggur fyrir að ýmis fyrirtæki og samtök hafa í gegnum tíðina með frjálsum framlögum lagt fram umtalsverða fjármuni til uppbyggingar eins og sést vel á framlögum áfrýjenda til þessarar starfsemi. Aðstaða og aðgangur aðila að fjármagni til uppbyggingar hefur verið misjafn samkvæmt lögum frá einum tíma til annars. Sama hefur gilt um forgangsröðun stefnda og kröfur sem gerðar hafa verið til umfangs og gæða þjónustunnar. Játa verður stefnda visst svigrúm til að bregðast við nýjum þörfum með nýjum úrræðum og þjónustuleiðum. Þótt stefndi hafi kosið að fjármagna uppbyggingu á sviði hjúkrunar- og dvalarrýma með ýmsum hætti í gegnum tíðina eiga einstakir aðilar sem starfa á því sviði ekki kröfur á að fá í öllum atriðum sömu greiðslur frá stefnda. Ekki verður ráðið af þeim upplýsingum sem liggja fyrir í málinu að ákvarðanir stefnda um uppbyggingu og fjármögnun hjúkrunar- og dvalarrýma hafi verið ómálefnalegar gagnvart áfrýjendum í gegnum tíðina og að þar hafi ekki verið gætt meðalhófs, sem leitt hafi til mismununar í andstöðu við grunnreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði. 33       Með vísan til þess sem að framan er rakið og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er niðurstaða hans um sýknu stefnda staðfest. 34       Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest. 35       Rétt þykir að málskostnaður fyrir Landsrétti falli niður. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Landsrétti fellur niður.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2019 I Mál þetta, sem tekið var til dóms að lokinni aðalmeðferð 31. janúar 2019, er höfðað af Grund hjúkrunarheimili, Hringbraut 50, Reykjavík og Dvalarheimilinu Ási, Hverahlíð 20, Hveragerði, á hendur íslenska ríkinu, með stefnu birtri 13. október 2017. Dómkröfur stefnanda, Grund hjúkrunarheimilis, eru þær aðallega að stefnda verði gert að greiða 634.753.745 krónur, auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags, og til vara 611.755.523 krónur, auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags. Dómkröfur stefnanda, Dvalarheimilisins Áss, eru þær aðallega að stefnda verði gert að greiða 675.567.255 krónur, auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags. Þá gera stefnendur hvor um sig sjálfstæða kröfu til málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins. Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda og að stefnendur verði dæmdir til að greiða honum málskostnað að mati dómsins. Til vara gerir stefndi kröfu um stórfellda lækkun kröfugerðar stefnenda og að málskostnaður verði þá felldur niður. Með úrskurði héraðsdóms 14. júní 2018 var kröfu stefnenda, Grundar hjúkrunarheimilis til þrautavara og Dvalarheimilisins Áss til vara, vísað frá dómi.   II Málavextir og yfirlit ágreiningsefna Samkvæmt stefnu rekur stefnandi, Grund hjúkrunarheimili (Grund), tvö hjúkrunar- og dvalarheimili fyrir aldraða einstaklinga í Reykjavík, Grund við Hringbraut og Mörk sem rekið er af dótturfélagi Grundar sem heitir Mörk hjúkrunarheimili. Stefnandi, Dvalarheimilið Ás (Ás), er í eigu Grundar og rekur hjúkrunar- og dvalarheimili í Hveragerði, sem heitir Ás, í mörgum mismunandi fasteignum. Fasteignir undir hjúkrunar- og dvalarheimili Grundar við Hringbraut eru í eigu Grundar, fasteignir undir Mörk eru í eigu stefnda og fasteignir undir hjúkrunar- og dvalarheimilið Ás eru í eigu Grundar og Áss. Ágreiningsefni máls þessa á rætur sínar að rekja til þess að stefnendur telja að aðstæður rekstraraðila hjúkrunar- og dvalarheimila séu mismunandi þar sem sum rekstrarfélög slíkra heimila fái fasteignir undir starfsemi sína endurgjaldslaust frá stefnda á meðan önnur leggi sjálf til fasteignir eða leigi frá þriðja aðila án þess að fá greiðslur frá stefnda vegna þess kostnaðarliðar. Þeir byggja á því að á stefnda hafi hvílt sú skylda að semja um greiðslur til stefnenda fyrir þá þjónustu sem stefnda bar að sinna en stefnendur tóku að sér, sbr. IV. kafla laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar. Það hafi dregist og hafi þá farið um greiðslur til stefnenda eftir reglugerðum settum af stefnda og gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands, sbr. 38. gr. laga nr. 112/2008, hvorar tveggja settar án aðkomu stefnenda. Þann 21. október 2016 tók gildi rammasamningur milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila um þjónustu hjúkrunarheimila, hér eftir nefndur rammasamningur, og gerðust stefnendur aðilar að samningnum með tilkynningu 27. sama mánaðar. Í stefnu er það rakið að stefnandi Grund sé sjálfseignarstofnun sem hafi þann tilgang fyrst og fremst að veita öldruðum heimilisvist og góða umönnun. Í því skyni hafi stefnandi veitt viðtöku gjöfum og styrktarfé. Beri honum að ávaxta fé sitt og ef afgangur er að nota það í þágu aldraðra. Eitt af höfuðeinkennum sjálfseignarstofnunar sé að hún eigi sig sjálf og með stofnun hennar hafi verið mynduð sjálfstæð stjórn um fjármuni sem stofnuninni hafi verið afhentir með óafturkræfum hætti. Þá kemur fram í stefnu að rekstur Markar hjúkrunarheimilis sé greindur frá rekstri annarra hjúkrunar- og dvalarrýma stefnanda. Í samningi við félags- og tryggingamálaráðuneytið frá 18. júní 2010 taki Mörk hjúkrunarheimili að sér að sjá um rekstur hjúkrunarheimilis í Mörk og fái samkvæmt samningi greitt fyrir reksturinn samkvæmt gildandi reglugerðum og rammasamningi á sambærilegan hátt og önnur hjúkrunarheimili hér á landi. Það sem einkenni rekstur Markar í samanburði við önnur heimili stefnanda sé að fasteignir undir hjúkrunarheimilið séu í eigu ríkisins, sem leggi til endurgjaldslaus afnot fasteigna til starfseminnar. Rekstraraðilar hjúkrunar- og dvalarheimila fái því sömu greiðslur frá stefnda hvort sem stefnendur eiga fasteign undir reksturinn eða ekki. Stefnendur byggja málatilbúnað sinn á því að þeir fái ekki endurgjald fyrir húsnæði undir dvalar- og hjúkrunarheimili í þeim tilvikum þar sem þeir leggi sjálfir til húsnæði undir starfsemina og gera þá kröfu í máli þessu að stefndu greiði þeim endurgjald vegna þeirra fasteigna sem þeir leggja til rekstrarins. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 112/2008 skal sjúkratryggingastofnun gera samninga um veitingu þjónustu í rýmum fyrir aldraða, þ.m.t. á dvalar- og hjúkrunarheimilum, og greiða endurgjald til þeirra aðila sem taka það að sér. Séu samningar ekki til staðar fer um greiðslur samkvæmt reglugerðum og gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands sem settar hafa verið á grundvelli 38. gr. sömu laga. Samkvæmt þeim greiði Sjúkratryggingar rekstraraðilum gjald fyrir þjónustu í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvalarrýmum sem ætlað er að mæta hvers konar þjónustu við notendur og er einnig ætlað að mæta rekstrarútgjöldum. Þá sé greitt sérstakt húsnæðisgjald til rekstraraðila vegna tiltekinna kostnaðarliða, þ.e. vegna fasteignagjalda, trygginga, viðhalds, eftirlits og umsýslu húsnæðis. Sérstaklega sé tekið fram að húsnæðisgjaldi sé ætlað að standa undir almennu viðhaldi húsnæðis en ekki stofnkostnaði húsnæðis, afskriftum og meiriháttar breytingum og endurbótum á húsnæði. Byggja stefnendur málatilbúnað sinn á því að endurgjald stefnda fyrir þjónustuna sé ófullnægjandi að þessu leyti. Ágreiningur aðila varðar það hvort stefnda beri að greiða endurgjald vegna afnota stefnenda af húsnæði sínu í þágu reksturs hjúkrunarheimila. Stefnendur telja að sú staða að stefndi leggi endurgjaldslaust til fasteignir undir starfsemi sumra rekstrarfélaga hjúkrunar- og dvalarheimila staðfesti það fyrirkomulag að stefndi eigi að greiða fyrir húsnæði undir hjúkrunarheimilin. Þá sé hægt að líta á endurgjaldslaus afnot húsnæðis frá stefnda sem ígildi húsaleigu. Stefnendur krefjast þess að stefndi bæti þeim þann kostnað sem þeir hafa haft á árunum 2013 til 2016 af því að leggja til fasteignir undir rekstur hjúkrunarheimila. Byggja þeir annars vegar á því að stefndi verði dæmdur skaðabótaskyldur gagnvart stefnendum þar sem hann hafi með ólögmætum hætti brotið gegn skyldum sínum gagnvart þeim og hins vegar á því að á grundvelli almennra reglna kröfuréttar og samningaréttar beri stefnda að greiða sanngjarnt og eðlilegt leigugjald fyrir fasteignir þær sem stefnendur hafi lagt til. Taka kröfur stefnenda til áranna 2013 til 2016 og byggir fjárhæð kröfu stefnenda á niðurstöðu dómkvadds matsmanns. Við rammasamninginn frá 21. október 2016 var m.a. gerð bókun SFV og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar kemur m.a. fram: Einstök hjúkrunar- og dvalarheimili hafa þegar hafið eða eru með í undirbúningi málsókn á hendur ríkinu vegna vangoldinna greiðslna vegna reksturs heimilanna. Samningsaðilar eru meðvitaðir um þetta. Aðild að rammasamningi felur ekki í sér viðurkenningu á því að endurgjaldið fyrir þjónustuna sé að einhverju leyti fullnægjandi og takmarkar ekki heimildir einstaka heimilis til málssóknar eða kröfugerðar gagnvart ríkinu. Þá er það skilningur okkar að aðild að rammasamningi verði ekki skilyrt með þeim hætti að heimilin verði að falla frá slíkum kröfum á hendur ríkinu til að fá aðild að samningnum. Þá gerðu SÍ og ráðuneytin, í tilefni af framangreindri bókun, einnig bókun við samninginn. Segir þar: Með undirritun á samkomulagi þessu er á engan hátt viðurkennt að um vangoldnar greiðslur sé að ræða af hálfu ríkisins og því ekki fallist á kröfur einstakra hjúkrunar- og dvalarheimila um greiðslur. Nefndin gengur út frá að við gerð samkomulags þessa að kröfugerð heimilanna nái til tímabils fyrir gildistöku fyrirhugaðs rammasamnings og eigi þ.a.l. ekki við um greiðslur á grundvelli rammasamnings. Í 6. mgr. 23. gr. rammasamningsins er kveðið á um að samstarfsnefnd aðila skuli skipa fulltrúa í starfshóp í samræmi við lýsingu og verkefnaáætlun starfshópa í fylgiskjali X. Er þar m.a. kveðið á um að verkefni starfshópsins verði að skoða eignarhald á húsnæði hjúkrunarheimila, kostnað við eignarhald, framlög opinberra aðila til byggingar og viðhalds hjúkrunarheimila og uppsafnaða þörf fyrir viðhald og endurbætur eldri heimila. Þá séu aðilar sammála um að leggja mat á eðlilegan kostnað við rekstur húsnæðis hjúkrunarheimila. Við aðalmeðferð málsins gaf skýrslu Haukur Óskarsson, vélaverkfræðingur og dómkvaddur matsmaður.   III Málsástæður og lagarök stefnenda Stefnendur byggja dómkröfur sínar á því að samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944, með síðari breytingum, skuli öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra tilvika. Um þessi málefni hafa verið sett lög nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Af ákvæðum laganna verður nánar ráðið um skyldur ríkisins gagnvart öldruðum, tilhögun og fyrirkomulag öldrunarmála, gæðaviðmið o.fl. Megi vera ljóst að stefnda beri að annast um og greiða allan kostnað sem af starfseminni hlýst í samræmi við ákvæði laganna. Til að inna verkefni og skyldur af hendi hafi stefndi samið við nokkur hjúkrunar- og dvalarheimili, sem ekki eru starfrækt af stefnda, um að annast þjónustu við aldraða og falla stefnendur þar undir. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar skulu greiðslur til hjúkrunar- og dvalarheimila fara samkvæmt samningum sjúkratrygginga og rekstraraðila hjúkrunar- og dvalarheimila. Þar kemur jafnframt fram að séu samningar ekki til staðar fari um greiðslur samkvæmt reglugerðum og gjaldskrám sjúkratrygginga Íslands, sbr. 38. gr. laganna. Stefnendur byggja á því að á stefnda hafi óumdeilanlega hvílt sú skylda að greiða fullt endurgjald til hjúkrunar- og dvalarheimila sem annist þjónustu við aldraða og að húsnæðiskostnaður slíkra stofnana sé þar ekki undanskilinn. Í því tilviki sem hér er til umfjöllunar liggi fyrir að stefndi hefur ekki greitt stefnendum fullt og eðlilegt endurgjald vegna húsnæðis sem stefnendur hafa lagt til rekstrar heilbrigðisþjónustunnar en tilvist húsnæðisins er grundvallarforsenda þess að unnt sé að veita öldruðum þjónustuna. Í því sambandi ber að hafa í huga að margvíslegar skyldur hvíla á stefnendum að því er aðbúnað húsnæðis varðar, þ.e. stefnendur þurfa að uppfylla kröfur um gæðaviðmið samkvæmt lögum nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu og reglugerð nr. 786/2007 um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu og faglegar lágmarkskröfur um húsnæði, tæki, búnað, mönnun og annað sem tengist rekstri á heilbrigðisþjónustu. Stefnendur beri því umtalsverðan kostnað af húsnæðinu sem nýtt er í þjónustuna sem stefndi ber ábyrgð á og ber að kosta lögum samkvæmt. Stefnendur vísa til þess að stefndi hafi, þrátt fyrir framangreint, bæði við gerð rammasamnings og áður við setningu reglugerða og gjaldskráa undanskilið greiðslu fyrir fasteignir öldrunarstofnana. Vísa þeir hvað þetta varðar til m.a. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar, áður en rammasamningur var undirritaður og til 8. gr. rammasamnings, sbr. liður 4.00. Það sem er innfalið í húsnæðisgjaldi samkvæmt nefndum ákvæðum reglugerða og rammasamnings séu aðeins fasteignagjöld, tryggingar, almennt viðhald, eftirlit og umsýsla húsnæðis en undanskilið er stofnkostnaður húsnæðis, afskriftir, meiri háttar viðhald og endurbætur húsnæðis. Stefnendur telja að engin rök hnígi til þess að slíkur greinarmunur sé gerður á einstökum kostnaðarliðum vegna húsnæðis sem nýtt er til rekstrarins og hann stríði beinlínis gegn þeirri skyldu sem á stefnda hvílir til að standa straum af kostnaði við öldrunarþjónustu. Benda stefnendur á að útilokað sé að litið verði svo á að stefnendur beri að leggja til húsnæði til starfseminnar án sanngjarns og eðlilegs endurgjalds úr hendi stefnda. Stefnendur byggja aðalkröfu á því að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnendum þar sem stefndi hafi með ólögmætum hætti brotið gegn skyldum sínum gagnvart stefnendum og hins vegar á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um að greiða beri sanngjarnt og eðlilegt leigugjald fyrir fasteignir sem stefnendur leggi til. Útreikningur kröfufjárhæðar byggir á matsgerð þar sem leigufjárhæð er reiknuð út fyrir tímabilið frá janúar 2013 og út desember 2016 en áskilinn réttur til að krefjast síðar greiðslu fyrir tímabilið eftir desember 2016. Taka stefnendur sérstaklega fram að eftir að matsgerð var unnin hafi komið í ljós að fjórar íbúðir, samtals 252,4 fermetrar að stærð, eru þar teknar með sem eign Grundar en eru í eigu dótturfélags Grundar Mörk ehf. og taka dómkröfur mið af þessu. Hvað varðar skaðabótakröfu þá byggja stefnendur á því að sú skylda hafi hvílt á stefnda að semja um greiðslur við þá fyrir þá þjónustu sem stefnda bar að sinna en stefnendur tóku að sér, sbr. IV. kafli laga nr. 112/2008. Gildistöku kaflans var frestað til 1. janúar 2015 og fór á sama tímabili um greiðslur samkvæmt reglugerðum settum af stefnda og gjaldskrá sjúkratrygginga Íslands, sbr. 38. gr. laga nr. 112/2008 en rammasamningur um þjónustuna öðlaðist síðan ekki gildi fyrr en 21. október 2016. Reglugerðirnar og gjaldskrárnar voru settar einhliða af stefnda án allrar aðkomu stefnenda eða annarra sem slíka þjónustu veittu. Byggja stefnendur á því að við slíkar kringumstæður komi stefndi fram sem stjórnvald og ákvarðanir sem þannig eru til komnar þurfi að uppfylla ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglur íslensks stjórnsýsluréttar, þ.m.t. ólögfestar grundvallarreglur. Byggir sú afstaða á því að reglugerðir og gjaldskrár tóku til og beindust að fáum en þekktum aðilum og vísast um sjónarmið því tengdu m.a. til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4340/2005 og 4341/2005. Stefnendur telji sýnt að setning reglugerða og gjaldskráa hafi ekki uppfyllt nauðsynleg skilyrði t.d. að því er varðar rannsóknarreglur, jafnræðisreglu, meðalhófsreglu, andmælareglu, ákvæði um undirbúning ákvarðana sem og ólögfestar meginreglur stjórnsýsluréttarins, eins og t.d. þær er varða réttmætar væntingar. Þá hafi annmarkar verið á efni reglugerða og gjaldskráa þannig að skilyrðum laga nr. 112/2008 hafi ekki verið fullnægt þar sem ekki hafi verið tekið tillit til alls kostnaðar sem greiða átti fyrir þjónustuna. Vegna þessa hafi ákvarðanir sem fólust í setningu reglugerða og gjaldskráa verið ólögmætar. Þá byggja stefnendur á því að þeim hafi verið þröngvað til að ganga að samningi sjúkratrygginga Íslands annars hefðu greiðslur til þeirra verið óbreyttar. Gerðust stefnendur aðilar að rammasamningnum með fyrirvara sem kom fram í bókun með samningnum. Stefnendur telja að samningurinn byggi á sömu grundvallarsjónarmiðum og reglugerðir og gjaldskrár gerðu áður, þ.e. ekki er gert ráð fyrir greiðslu kostnaðar vegna fasteigna undir rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila. Stefnda beri að greiða allan kostnað sem hlýst af málaflokknum og er húsnæðiskostnaður þar ekki undanskilinn. Ákvæði samningsins um greiðslur án þess að tekið sé tillit til húsnæðiskostnaðar gangi gegn lögum nr. 112/2008. Bent er á að samkvæmt 3. mgr. 43. gr. laganna þurfi þeir sem veita heilbrigðisþjónustu að kostnaðargreina þjónustu sína samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum aðferðum. Við þá greiningu skuli taka mið af öllum hagrænum kostnaði, þ.m.t. kostnaði vegna húsnæðis, fjármagns og afskrifta. Verður það ekki skilið öðruvísi en svo að slík kostnaðargreining skuli fara fram varðandi þann kostnað sem stefndi á að taka tillit til við ákvörðun greiðslna og/eða sem fjalla á um í rammasamningi um slíka þjónustu. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laga nr. 112/2008 segi m.a. um þetta atriði: Sjúkratryggingastofnunin ákveður í samráði við veitendur heilbrigðisþjónustu þær aðferðir sem notaðar skulu við kostnaðargreininguna. Samræmdar aðferðir eru forsenda þess að unnt sé að bera saman kostnað ólíkra aðila. Í þessu sambandi er gert ráð fyrir því að kostnaðargreiningin taki mið af öllum hagrænum kostnaði, þ.m.t. kostnað vegna húsnæðis, fjármagns og afskrifta. Hluti kostnaðar opinberra aðila kemur ekki fram í reikningsskilum þeirra en taka verður tillit til hans til að hægt sé að bera kostnað opinberra aðila saman við kostnað einkaaðila. Stefnendur byggja á því að sú afstaða stefnda að greiða ekki fyrir húsnæði undir starfsemi hjúkrunar- og dvalarheimila feli í sér brot á stjórnarskrárvörðum réttindum, þ.m.t. jafnræðisreglu. Þannig mæli 65. gr. stjórnarskrárinnar svo fyrir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Ákvæðið beri að skýra svo að mismunun, sem ekki felst í málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum sé óheimil. Í jafnræðisreglunni felist að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og eigi að njóta jafnra og hliðsettra réttinda. Þá leiði af reglunni að stjórnvöld geti ekki mismunað með því að afgreiða sambærileg mál með ólíkum hætti. Stefnendur benda í þessu sambandi á að ólík afstaða stefnda til greiðslna vegna húsnæðiskostnaðar þeirra sem taka að sér að sinna þjónustu hjúkrunar- og dvalarheimila í þágu ríkis brjóti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og sé því ólögmæt. Þá benda stefnendur á að þeir útvegi þær fasteignir sem nýttar eru undir hjúkrunar- og dvalarheimili í þágu stefnda og stefndi eigi ekkert tilkall til hagnýtingar umræddra eigna. Sú afstaða stefnda að greiða ekki fyrir húsnæðið feli í sér brot á stjórnarskrárvörðum réttindum, þ. á m. eignaréttarákvæðum. Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar er eignarréttur friðhelgur og þar kemur fram að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema að almenningsþörf krefji og þá þurfi lagafyrirmæli til og komi fullt verð fyrir. Stefnendur telja að sú afstaða stefnda að greiða ekki gjald vegna húsnæðisins sé brot gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar og geri stefndi með því kröfu um að stefnendur leggi til húsnæði undir starfsemi í þágu stefnda án endurgjalds og brjóti slík tilhögun gegn ákvæðinu og sé því ólögmæt. Stefnendur telja að með framangreindri tilhögun sé verið að haga greiðslum til stefnenda með þeim hætti að ekki er tekið tillit til kostnaðar stefnenda af öflun og rekstri húsnæðis, afskrifta, meiri háttar endurbóta og viðhalds. Sé þannig með ólögmætum hætti brotið gegn þeim skyldum sem á stefnda hvíli samkvæmt lögum nr. 112/2008 til að standa straum af kostnaði við starfsemina, til að haga endurgreiðslu til stefnenda vegna starfseminnar þannig að tekið sé tillit til alls hagræns kostnaðar af þjónustunni og til að gæta að því að jafnræði sé með stefnendum og öðrum aðilum sem sinna sömu þjónustu. Með því hafi stefndi gerst sekur um saknæma háttsemi gagnvart stefnendum sem valdið hafi þeim fjártjóni sem stefnda beri að bæta. Þá hafi stefndi með því að taka ekki tillit til kostnaðar stefnenda af öflun og rekstri húsnæðis brotið gegn þessum skyldum sínum gagnvart lögunum auk þess sem þá hafi ekki verið gætt jafnræðis með stefnendum og öðrum sem slíka þjónustu reka. Byggja stefnendur á því að umfang fjártjónsins nemi því hæfilega endurgjaldi sem stefnda hefði borið að greiða stefnendum að teknu tilliti til alls hagræns kostnaðar stefnenda af húsnæðinu, að frádregnu því húsnæðisgjaldi sem þeir hafa fengið greitt á sama tímabili á grundvelli reglugerða og ákvæða rammasamnings eins og áður var rakið. Stefnendur telja að hæfilegt endurgjald stefnda vegna húsnæðisins megi jafna til niðurstöðu matsgerðar um eðlilegt leigugjald til stefnenda vegna leigu á þeim fasteignum sem stefnendur leggja sjálfir til og notaðar eru undir rekstur á hjúkrunar- og dvalarheimilum fyrir tímabilið nóvember 2013 til 31. desember 2016. Stefnendur reisa dómkröfu á niðurstöðu matsgerðar að frádregnu húsnæðisgjaldi. Ástæðan fyrir því að húsnæðisgjald er dregið frá er að í matsgerð er metið eðlilegt leigugjald ef stefndi væri að leigja þessar fasteignir af stefnendum. Þegar slíkt leigugjald er metið innifelur það kostnaðarliði sem myndu falla undir leigusala samkvæmt húsaleigulögum og er þar m.a. um að ræða tiltekna kostnaðarþætti, s.s. fasteignagjöld og tryggingar. Stefnendur draga frá allt húsnæðisgjald þrátt fyrir að nokkrir liðir þess séu þess eðlis að leigutaki að húsnæði myndi almennt greiða slíkan kostnað, s.s. almennt viðhald innandyra. Sú aðferð að draga frá allt húsnæðisgjaldið gerir kröfu stefnenda lægri en ella en er sett fram með þeim hætti til einföldunar. Stefnendur byggja kröfu sína um hæfilegt endurgjald fyrir þjónustu á því að það leiði af meginreglum kröfu- og samningaréttar að stefndu beri að greiða þeim sérstaklega vegna húsnæðisþáttar enda verði sú krafa aldrei gerð að stefnendur leggi fram húsnæði til starfseminnar án endurgjalds. Þar sem ekki hafi verið samið um það beri að greiða sanngjarnt og eðlilegt endurgjald. Stefnendur hafi óskað eftir greiðslu fyrir húsnæðið en stefndi neitað að greiða en haldið áfram að beina öldruðum einstaklingum til stefnenda. Stefndi verði að bera hallann af því að halda áfram að nýta sér þjónustu stefnenda án þess að semja fyrir fram um slíka þjónustu. Aðilar geti ekki haft réttmætar væntingar um annað en að stefndi greiði eðlilegt endurgjald fyrir fasteignirnar. Stefnendur byggja á því að hæfilegt endurgjald vegna leigu á fasteignunum fyrir tímabilið nóvember 2013 til 31. desember 2016 megi jafna til niðurstöðu matsgerðar um eðlilegt leigugjald til stefnenda og reisa aðalkröfu sína á niðurstöðinni að frádreginni greiðslu stefnda vegna húsnæðisgjalds eins og það er ákveðið í rammasamningi og reglugerðum. Húsnæðisgjaldið sé dregið frá þar sem í matsgerð er verið að meta eðlilegt leigugjald ef stefndi leigði eignirnar af stefnendum. Þegar það er metið innifelur það kostnaðarþætti sem mundu falla undir leigusala samkvæmt húsaleigulögum og er þar um að ræða tiltekna kostnaðarþætti, s.s. fasteignagjöld og tryggingar. Stefnendur fá allt húsnæðisgjald þrátt fyrir að nokkrir liðir séu þess eðlis að leigutaki að húsnæði mundi almennt greiða slíkan kostnað, s.s. almennt viðhald innandyra. Það sé almennt á kostnað leigutaka ef um er að ræða hefðbundna leigu á húsnæði. Sú aðferð að draga frá allt húsnæðisgjaldið gerir kröfu stefnenda gagnvart stefnda lægri en ella og er krafan sett fram með þeim hætti til einföldunar. Stefnandi Grund krefst þess til vara að stefnda verði gert að inna af hendi aðra og lægri greiðslu. Er þá við það miðað að talið verði að draga beri frá framlög vegna endurgjalds fyrir húsnæði sem stefnandi hafi fengið úr framkvæmdasjóði aldraðra vegna stofnkostnaðar húsnæðis fyrir þann tíma sem stefnukrafa tekur til. Þrátt fyrir að framlögin hafi ekki verið veitt með skilyrðum setji Grund fram varakröfu sem tekur mið af umræddum framlögum. Ás hafi hins vegar engar greiðslur fengið úr framkvæmdasjóði fyrir það tímabil er krafan tekur til. Þeir aðilar sem taka við greiðslum frá ríkinu vegna fasteigna undir hjúkrunar- og dvalarheimili, s.s. í tilviki hjúkrunarheimilisins Sóltúns, geti ekki sótt um styrki úr framkvæmdasjóði aldraðra, sbr. 7. gr. samningsins. Þar sem krafa þessi byggir á skaðabótarétti ásamt almennum reglum kröfu- og samningaréttar og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga er varakrafan sett upp með þeim hætti að Grund sé jafn sett og aðrir. Nefni stefnandi sem dæmi að Sóltún taki við leigugreiðslum vegna fasteigna en geti ekki sótt um styrki úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Hvað þetta varðar vísa stefnandi til framlagðra gagna þar sem saman hafa verið tekin gögn um framlög frá stefnda fyrir sama tímabil og dómkrafa tekur til og sú fjárhæð dregin frá kröfufjárhæð. Loks vísa stefnendur til þess að þrátt fyrir ítrekaðar kröfur þeirra og réttmætar væntingar hafi kröfur þeirra ekki fengist greiddar. Hafi einungis verið færðar fram þær röksemdir fyrir höfnun að hvorki hafi verið samið um eða ákveðnar fjárhæðir í þessu skyni. Lagafyrirmæli um rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila hljóti að byggja á því að ríkið útvegi húsnæði til rekstrarins. Reglugerð um endurgjald fyrir þennan rekstur eða rammasamningur verður því að ákveða hæfilegt endurgjald í þessu skyni og ráðherrann að útvega nægilegt endurgjald til greiðslu þess náist ekki samningar við Sjúkratryggingar Íslands um þetta. Stefnendur byggja kröfu sína á meginreglum kröfu- og samningaréttar auk almennra skaðabótareglna, bæði utan og innan samninga. Um jafnræði er vísað til 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Um málsmeðferð er jafnframt vísað til ákvæða stjórnsýslulaga, þ.m.t. 10., 12. og 13. gr. sem og ólögfestra meginreglna stjórnsýsluréttar, eins og t.d. reglunnar um réttmætar væntingar. Um eignarréttindi er vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar. Hvað varðar skyldu stefnda til að sinna öldruðum, sem og aðrar skyldur stefnda í því sambandi, vísast til 76. gr. stjórnarskrárinnar og laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Um varnarþing vísast til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sérstaklega 3. mgr. 33. gr. og krafa um málskostnað er reist á 129. og 130. gr. sömu laga. Krafa um virðisaukaskatt byggir á ákvæðum laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt en stefnendur eru ekki virðisaukaskattskyldir aðilar.   IV Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnenda og byggir þá kröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem aðild sé vanreifuð og ekki sér gerð grein fyrir stefnendum eins og þörf er á. Einnig byggir stefndi á því að stefnendur geti ekki stutt kröfu sína við 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem ákvæðið snúi ekki að vernd lögaðila auk þess sem lög hafi verið sett í samræmi við ákvæðið.                 Stefndi byggir á því að tilvísun stefnenda til 72. gr. stjórnarskrárinnar sé haldlaus. Stefnendur byggðu sjálfir fasteignirnar og tóku ákvörðun um nýtingu þeirra. Grund fékk löggildingu 26. febrúar 1937 og síðar, eða 1951, var gert samkomulag milli Grundar og elliheimilisnefndar Árnessýslu og hófst rekstur þar í júlí 1952. Er algjörlega látið vera að rökstyðja eða gera grein fyrir því í stefnu hvenær það gerðist að eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar hafi verið brotið. Hafi það verið strax í upphafi sé um stórfellt tómlæti að ræða af hálfu stefnenda að hafa ekki gert athugasemdir fyrr. Þá komi ekki fram hvort einhverjar forsendur milli stefnanda og stefnda hafi breyst. Það sé ekki rökstutt með neinum hætti í stefnu og erfitt að átta sig á tilvísun til 72. gr. stjórnarskrárinnar og er því mótmælt harðlega að sú grein geti átt við í máli þessu. Það komi einnig fram í stefnu að stefnendum beri engin skylda til að reka hjúkrunar- og dvalarheimili og geti þeir hvenær sem er ákveðið að hætta þeirri starfsemi og nota eignir með öðrum hætti. Sú ályktum stefnenda, sem eru reyndar leigutakar, fari illa saman við tilvísun þeirra til 72. gr. stjórnarskrárinnar.                 Hvað varðar tilvísun stefnenda til 39. gr. laga nr. 112/2008, sem þeir byggja á að skapi þá greiðsluskyldu sem hér er fjallað um, þá byggir stefndi á því að svo sé ekki né heldur hvað varðar 38. gr. sömu laga. Stefnendur virðast telja að með setningu þessara laga hafi stofnast sú greiðsluskylda sem stefnendur byggi á. Stefndi telur það vera fráleitt og bendir á að ekkert í lögskýringargögnum styðji þá skoðun stefnenda og er þessari túlkun því mótmælt.                 Stefndi mótmælir því einnig að ekki hafi verið greitt fullt og eðlilegt endurgjald vegna húsnæðis. Stefndi hafi staðið við sínar samningsskuldbindingar og kröfugerð stefnenda nú sé umfram bæði samninga og lagalegar skyldur stefnda. Því megi ekki gleyma að stefndi verði að fara að gildandi lögum frá Alþingi og er þar hvergi getið um þá greiðsluskyldu sem nú er gerð krafa um. Er í kröfugerð stefnenda þannig farið fram á að í dómsorði verði kveðið á um skyldu umfram almenn lög og fjárlög.                 Stefndi bendir á að þegar farið er yfir rökstuðning stefnenda fyrir kröfugerð vegna skaðabótakröfu þá sé þar hvergi minnst á skilyrði skaðabóta. Ekkert komi fram um orsakasamhengi né heldur saknæmi og tjón. Vísað er til þess að tjón sé það sem stefnendur telji vera hæfilegt endurgjald. Í skaðabótarétti sé tjón hins vegar skilgreint sem skerðing eða eyðilegging lögvarinna hagsmuna, oftast fjárhagslegra. Þegar af þessari ástæðu sé krafa um skaðabætur röng auk þess sem stefnendur hvorki sanna né reyna að sanna tjón sem sé skilyrði skaðabóta. Virðist skaðabótakrafan helst byggjast á því að á stefnda hafi hvílt sú skylda að semja við stefnda um greiðslur fyrir þá þjónustu sem stefnda bar að sinna en stefnendur tóku að sér, sbr. ákvæði IV. kafla laga nr. 112/2008. Engu að síður hefur stefndi ávallt greitt stefnendum í samræmi við gildandi lög og reglur og samninga milli aðila. Það að stefnendur setji nú fram nýjar kröfur getur ekki gert stefnda skaðabótaskyldan gagnvart stefnendum. Hvað þetta varðar er af hálfu stefnda vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 547/2011. Einnig bendir stefndi á að reglugerðir og gjaldskrár byggi á þeim fjárhagslegu viðmiðunum sem sett eru í fjárlögum og beri hverju ráðuneyti og stofnun að halda sig innan þess ramma, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 464/2017, um þær skorður sem fjárlög setji þjónustu á hverjum tíma. Þá vísar hann til 41. gr. stjórnarskrárinnar en samkvæmt ákvæðinu er það ekki á valdi dómstóla að auka við fjárheimildir þær sem Alþingi hefur ákveðið. Einnig vísar stefndi til þess að stefnendur byggir á því að fara verði að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 við setningu reglugerða og gjaldskráa. Þetta fullyrði stefnendur þrátt fyrir það sem fram komi í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1993 og sé þessu því hafnað sem röngu. Einnig sé því hafnað að stefnendum hafi verið þröngvað til að ganga að rammasamningi. Er vísað til þess sem báðir aðilar hafi látið bóka við gerð samningsins. Þá sé því mótmælt að brotið sé gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar með því að haga greiðslum til stefnenda eins og gert er. Mismunandi leiðir séu farnar á mismunandi tímum í þessum efnum líkt og öðrum án þess að um sé að ræða brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Stefnendur hófu starfsemi fyrir mörgum áratugum síðan og tímarnir hafi breyst síðan þá. Rétt sé að hafa í huga að stefnendur byggðu að eigin frumkvæði það húsnæði sem stefnendur gera nú kröfu um að stefndi greiði fullt verð fyrir. Þessi krafa sé gerð án þess að fyrir liggi neinn samningur um slíkt eða lagafyrirmæli, hvað þá heldur fjárheimild frá Alþingi. Það að stefndi fari að gildandi lögum geti aldrei verið saknæmt þannig að valdi skaðabótaskyldu. Þá geti það heldur ekki verið fjártjón að telja sig eiga kröfu á annan um greiðslu vegna notkunar húsnæðis samkvæmt þeim samningum og lögum sem um það gilda hverju sinni. Jafnvel þó að stefnendur telji sig eiga kröfu vegna þess þá geti það ekki verið fjártjón. Þó að stefnendur teldust eiga kröfu um leigugjald gæti slík krafa aldrei talist vera skaðabótakrafa í samræmi við almennu skaðabótaregluna. Vert sé að benda á að stefnendur undirgengust rammasamning eins og fram kemur í gögnum málsins en gera engu að síður kröfur sem ná yfir gildistíma rammasamningsins. Slík kröfugerð hlýtur að vera í andstöðu við skuldbindingargildi samningsins. Þá sé hún andstæð meginreglum kröfu- og samningaréttar. Verði því að sýkna stefndu af kröfu byggðri á því að um skaðabótaskyldu stefnda sé að ræða gagnvart stefnendum. Hvað varðar kröfu stefnenda um hæfilegt endurgjald fyrir þjónustu þá byggir hún á því að það leiði af meginreglum kröfu- og samningaréttar að stefnda beri að greiða þeim sérstaklega vegna húsnæðisþáttar enda verði sú krafa aldrei gerð að stefnendur leggi fram húsnæði til slíkrar starfsemi án sanngjarns og eðlilegs endurgjalds. Stefndi mótmælir því að slík meginregla, ef til er, gildi í samskiptum stefnenda og stefnda þar sem stefndi greiði öll gjöld sem kveðið er á um í lögum og reglum. Stefnendur reistu húsnæðið á eigin vegum en samkvæmt síðar gerðum samningum við stefnda hefur það verið nýtt til ákveðinnar þjónustu. Þannig sé því mótmælt og hafnað sem röngu að einhvers konar greiðsluskylda hafi stofnast umfram það sem þegar er samið um og greitt samkvæmt lögum og reglugerðum. Auk þess sem að framan hefur verið rakið vísar stefndi til þess að kröfugerðin sé einhliða þrátt fyrir mat en þá niðurstöðu hefði stefndi alltaf þurft að fallast á ef hann vildi undirgangast greiðsluskyldu. Auk þess þurfi fjárlagaheimild frá Alþingi að liggja fyrir. Stefndi mótmælir einnig varakröfu stefnanda Grundar og vísar til sömu málsástæðna og í aðalkröfu. Þá séu engin rök sem mæli með greiðsluskyldu stefnda í þeim samanburði sem stefnendur geri í kafla í stefnu um varakröfur. Beri því einnig að sýkna stefnda af varakröfum. Loks mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu enda sé hún órökstudd og án lagaraka. Hvað varðar málskostnaðarkröfu stefnda þá er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr. Þá gerir stefndi til vara kröfu um að kröfur stefnenda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður þá felldur niður. Stefndi byggir þessa kröfu sína á því sem að framan hefur verið rakið varðandi sýknukröfu svo og á því að stefnendur hafi ekki sannað tjón né gert líklegt að einhver meginregla kröfu- og samningaréttar eigi hér við. Það sé ekki nóg að vísa til slíkrar reglu án þess að gera grein fyrir henni nánar. Þá nái kröfugerðin fyrir hluta þess tímabils sem rammasamningurinn gildi um. Stefnendur gerðust aðilar að þeim rammasamningi og geti ekki gert sérstaka fjárkröfu vegna sama tímabils. Verði því alltaf að lækka kröfuna sem nemur þeim greiðslum á samningstíma auk þeirra greiðslna sem borist hafa úr Framkvæmdasjóði aldraða. Loks vísi stefndi til þess að krafan sé sett fram sem skaðabótakrafa og það geti ekki komið til skoðunar. Einnig er hún sett fram sem krafa vegna þess að stefnendur leggi fram húsnæði og fyrir það beri að greiða leigugjald. Slíkt leigugjald hljóti alltaf að vera samkomulagsatriði og ekki unnt að komast að niðurstöðu um það með dómkvöddum matsmanni.   V Forsendur og niðurstaða Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal öllum, sem þess þurfa, tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í 1. gr. laga um málefni aldraðra nr. 125/1999 kemur fram að markmið laganna sé að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast miðað við þörf og ástand hins aldraða. Samkvæmt 14. gr. laganna eru stofnanir fyrir aldraða dvalarheimili og hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými á öldrunarstofnunum. Óumdeilt er að stefnendur annast slíkan rekstur. Stefnendur gera í máli þessu kröfur um greiðslu vegna húsnæðiskostnaðar vegna þeirra dvalar- og hjúkrunarheimila sem þeir reka. Stefnendur sækja mál þetta í félagi á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Þeir setja kröfur sína fram annars vegar sem skaðabótakröfu og vísa bæði til skaðabótareglna utan og innan samninga og hins vegar sem kröfu um sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir þjónustu og byggja þá kröfu á meginreglum kröfu- og samningaréttar. Þá eru kröfur stefnenda útskýrðar svo í stefnu að umfang fjártjónsins nemi því hæfilega endurgjaldi sem stefnda hefði borið að greiða stefnendum að teknu tilliti til alls hagræns kostnaðar stefnenda af húsnæðinu, að frádregnu því húsnæðisgjaldi sem þeir hafa fengið greitt á sama tímabili á grundvelli reglugerða og ákvæða rammasamnings. Stefnendur byggja á því að hæfilegt endurgjald stefnda vegna húsnæðisins megi jafna til niðurstöðu matsgerðar um eðlilegt leigugjald til stefnenda vegna leigu á þeim fasteignum sem stefnendur leggja sjálfir til og notaðar eru undir rekstur á hjúkrunar- og dvalarheimilum fyrir tímabilið nóvember 2013 til 31. desember 2016. Í málatilbúnaði stefnenda kemur fram að upphafstími kröfu afmarkast af fyrningarreglum. Í matsgerð er húsnæðisgjald dregið frá þegar metið er eðlilegt leigugjald ef stefndi væri að leigja þessar fasteignir af stefnendum. Þegar slíkt leigugjald er metið innifelur það kostnaðarliði sem myndu falla undir leigusala samkvæmt húsaleigulögum og er þar m.a. um að ræða tiltekna kostnaðarþætti, s.s. fasteignagjöld og tryggingar. Stefnendur draga frá allt húsnæðisgjald þrátt fyrir að nokkrir liðir þess séu þess eðlis að leigutaki að húsnæði myndi almennt greiða slíkan kostnað s.s. almennt viðhald innanhúss. Samningssamband aðila nú um rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila byggir á rammasamningi sem stefnendur gerðust aðilar að 27. október 2016 og taka því kröfur stefnenda til þess tímabils að hluta til. Áður en samningurinn tók gildi fengu stefnendur greiðslur vegna starfseminnar á grundvelli þágildandi reglugerða og gjaldskráa. Samkvæmt 8. gr. lið 4.0 í rammasamningnum er húsnæðisgjald breytilegt eftir stærð og fjölda rýma á hjúkrunarheimili. Taki gjaldið til viðhalds, umsjónar, umsýslu, fasteignagjalda og trygginga vegna húsnæðis. Segir í ákvæðinu að gjaldinu sé þannig ætlað að standa undir öllu almennu viðhaldi húsnæðis en ekki stofnkostnaði, afskriftum og meiri háttar breytingum og endurbótum á húsnæði. Sambærilegt ákvæði var í þeim reglugerðum sem giltu um greiðslur til stefnenda áður en þeir gengust undir rammasamninginn. Þá er sérstaklega tekið fram í þessu ákvæði samningsins að þessi gjaldliður taki ekki til hjúkrunarheimila sem fái greiðslur á grundvelli samninga um byggingu og þátttöku í leigu, svokallaðri leiguleið. Af hálfu stefnda er krafist sýknu á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 19/1991 á grundvelli aðildarskorts og telur hann að aðild sé vanreifuð og ekki sé gerð grein fyrir stefnendum sem skyldi. Í stefnu er það rakið að Grund reki tvö hjúkrunarheimili í Reykjavík og setji í málinu fram kröfur vegna annars þeirra sem staðsett er að Hringbraut 50. Þá kemur einnig fram í stefnu að Ás sé í eigu Grundar og sjái Ás um rekstur á dvalar- og hjúkrunarheimili í Hveragerði. Þá séu fasteignir undir hjúkrunarheimili Grundar við Hringbraut í eigu Grundar og fasteignir undir hjúkrunar- og dvalarheimilið Ás eru í eigu Grundar og Áss. Málatilbúnaður stefnenda byggir á því samningssambandi sem er á milli aðila á grundvelli rammasamningsins. Verður málatilbúnaður stefnenda ekki skilinn öðruvísi en svo að ekki sé verið að gera kröfu um greiðslu húsnæðiskostnaðar vegna starfseminnar þó að það viðmið sé notað við kröfugerð að byggja á því hvað teljist vera hæfilegt gjald fyrir leigu á húsnæðinu samkvæmt niðurstöðu matsgerðar. Þá komi fram í stefnu að stefnendur séu eigendur þeirra fasteigna sem notaðar eru undir starfsemina. Verður, með hliðsjón af framangreindu, ekki fallist á að sýkna beri stefnda vegna aðildarskorts. Hvað varðar skaðabótakröfu þá byggja stefnendur á því að stefndi hafi með ólögmætum hætti brotið gegn skyldum sínum gagnvart stefnendum. Stefndi hafi vanrækt þá skyldu sína að semja við stefnendur um greiðslur fyrir þjónustu og vísa hvað það varðar til IV. kafla laga nr. 112/2008 en gildistöku kaflans hafi verið frestað til 2016 þegar rammasamningurinn öðlaðist gildi. Þá hafi eldra fyrirkomulag, þar sem greiðslur voru ákvarðaðar á grundvelli reglugerða og gjaldskráa, verið ólögmætt m.a. með hliðsjón af reglum stjórnsýsluréttar. Einnig byggja stefnendur á því að þeim hafi verið þröngvað til að ganga að rammasamningi og á því að stefndi hafi brotið m.a. gegn 65., 72. og 76. gr. stjórnarskrárinnar. Fyrir liggur að stefnendur völdu að gangast undir rammasamninginn á árinu 2016 og er ekkert fram komið sem styður þá málsástæðu þeirra að þeir hafi verið þvingaðir til þess en ljóst er af bókunum við samninginn að þá þegar var uppi ágreiningur milli aðila um húsnæðiskostnað. Fram kemur í málatilbúnaði þeirra að þeir töldu þann kost hagstæðari rekstrarlega en að fá greiðslur frá stefnda á grundvelli reglugerða og gjaldskráa en sú hagkvæmni sneri þó ekki að húsnæðiskostnaði. Þá er sú málsástæða að vanræksla stefnda á að fresta gildistöku rammasamnings leiði til bótaskyldu ekki rökstudd með fullnægjandi hætti og kemur því ekki til frekari skoðunar. Á það sama við um málsástæðu byggða á því að á stefnda hafi hvílt skylda til að semja við stefnendur um kostnað vegna öflunar húsnæðis en ekki er annað fram komið en að stefndi hafi greitt stefnendum í samræmi við rammasamning og áður á grundvelli reglugerða og gjaldskráa. Stefnendur telja að setning reglugerða og gjaldskráa hafi ekki uppfyllt skilyrði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglur íslensks stjórnsýsluréttar auk þess sem annmarkar hafi verið á gjaldskrám hvað það varðar að þar hafi ekki verið tekið tillit til alls kostnaðar sem greiða átti fyrir þjónustuna. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 37/1993 gilda þau ekki um samningu reglugerða né annarra almennra stjórnvaldsfyrirmæla. Í greinargerð með frumvarpi til stjórnsýslulaga er sérstaklega tekið fram að þau taki einungis til einstaklegra ákvarðana, þ.e. ákvarðana sem varða ákveðna einstaklinga eða lögaðila, einn eða fleiri. Af hálfu stefnenda hefur ekki verið nægilega leitt í ljós til hverra reglugerðirnar og gjaldskrárnar taka og þar með hefur ekki með fullnægjandi hætti verið sýnt fram á að ákvörðunin varði réttindi eða skyldur tiltekinna aðila. Eru því ekki forsendur til að fallast á að um stjórnvaldsákvörðun hafi verið að ræða skilningi stjórnsýslulaga. Af hálfu dómsins er þessari málsástæðu stefnenda þegar af þessari ástæðu hafnað. Þá byggja stefnendur á því að stefnda beri að greiða allan kostnað sem af þessum málaflokki hlýst, þ.m.t. húsnæðiskostnað og gangi annað gegn megininntaki og ákvæðum laga nr. 112/2008. Vísa þeir sérstaklega til 3. mgr. 43. gr. laganna þar sem fram komi að heilbrigðisstofnanir og aðrir veitendur heilbrigðisþjónustu skuli kostnaðargreina þjónustu sína samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum aðferðum. Þá skuli við kostnaðargreiningu taka mið af öllum hagrænum kostnaði, þ.m.t. kostnaði vegna húsnæðis, fjármagns og afskrifta. Telja stefnendur að þetta verði að skilja svo að um þennan kostnað beri að fjalla í rammasamningi og telur að í greinargerð sem fylgdi frumvarpi sem varð að lögum nr. 112/2008 komi fram stuðningur við þetta sjónarmið. Þá hafi stefndi með því að taka ekki tillit til kostnaðar stefnenda af öflun og rekstri húsnæðis brotið gegn þessum skyldum sínum gagnvart lögunum auk þess sem þá hafi ekki verið gætt jafnræðis með stefnendum og öðrum sem slíka þjónustu reka. Af hálfu stefnda er því hafnað að með lögum nr. 112/2008 hafi stofnast sú greiðsluskylda sem stefnendur byggja á eða að orð greinargerðar styðji það. Í lögum nr. 112/2008 og greinargerð sem þeim fylgdu er gert ráð fyrir kostnaðargreiningu, m.a. vegna húsnæðis. Sú staða er uppi í máli þessu að stefnendur krefjast húsnæðiskostnaðar þar sem þeir afli húsnæðis frá öðrum aðila undir starfsemina sem þeir þurfi að greiða fyrir en virðist þó ekki hafa gert það samkvæmt málatilbúnaði þeirra. Ætla verður að stofnkostnaður vegna þeirra fasteigna sem hér eru til umfjöllunar hafi fallið til fyrir það tímabil er krafa stefnenda tekur til. Af málsgögnum má ráða að öflun húsnæðisins hafi verið fjármögnuð með m.a. gjöfum og styrkjum. Þá liggur fyrir að mismunandi leiðir hafa verið farnar í gegnum tíðina til að afla húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili. Síðar tilkomar leiðir, eins og t.d. leiguleið, eiga ekki við um starfsemi stefnenda sem þegar var hafin þegar stjórnvöld ákváðu fyrst að fara þá leið. Þá eru kröfur stefnenda ekki grundvallaðar á þeim leiðum. Einnig verður að líta til þess að stefnendur hafa ekki gert grein fyrir því hver raunverulegur kostnaður þeirra er vegna öflunar húsnæðis undir starfsemina eða notkunar eigin húsnæðis og þá til hvaða niðurstöðu kostnaðargreining eins og sú sem fjallað er um í lögunum gæti leitt til yrði sérstaklega fjallað um þeirra stöðu. Samkvæmt málsgögnum var ætlunin að stofna starfshóp til að rýna m.a. kostnað vegna húsnæðismála hjúkrunarheimila, sbr. fylgiskjal X með rammasamningi, en ekkert liggur fyrir um framvindu þeirrar vinnu. Þrátt fyrir það og með vísan til framangreinds verður ekki talið að dráttur á að ljúka þeirri vinnu, jafnvel þó hann teldist fara í bága við skyldur stefnda samkvæmt samningnum, styðji skaðabótaskyldu stefnda. Málatilbúnaður stefnenda hvað varðar 65. gr. stjórnarskrárinnar byggir á því að ekki sé gætt jafnræðis þegar fjárhæð húsnæðiskostnaðar til hjúkrunarheimila sé ákveðin af stefnda. Afstaða stefnda til greiðslu hans sé mismunandi eftir stofnunum. Í 32. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu er gert ráð fyrir áðurnefndri leiguleið. Þar kemur fram að ríkið skuli greiða kostnað við byggingu og búnað hjúkrunarheimila og að þátttaka sveitarfélaga í kostnaði við byggingu og búnað hjúkrunarheimila skuli vera 15% af stofnkostnaði. Stefnendur leggja hins vegar sjálfir til fasteignir og vísa m.a. til leiguleiðarinnar til samanburðar. Þá vísa þau einnig til fleiri stofnana sem þeir telja fái greitt gjald frá stefnda fyrir að leggja til húsnæði undir reksturinn. Fyrir liggur að þær stofnanir sem stefnendur vísa til eru í annarri stöðu en stefnendur, t.d. hvað varðar greiðslur úr framkvæmdasjóði, greiðslur vegna húsnæðisgjalds eða hvort viðkomandi hafi lagt til eign eða fengið hana undir reksturinn frá stefnda. Í ljósi framangreinds og þess sem fyrir liggur um aðstæður stefnenda verður ekki á það fallist að jafnræðis með rekstraraðilum sé ekki gætt þannig að talið verði að um brot gegn ákvæðinu sé að ræða. Hvað varðar málsástæðu stefnenda byggða á 76. gr stjórnarskrárinnar þá kom fram við meðferð málsins af hálfu stefnenda að framsetning málsástæðunnar sé að einhverju leyti misvísandi og voru settar fram frekari skýringar. Vísuðu stefnendur til þess að um málefni þeirra einstaklinga sem ákvæðið tekur til hefðu verið sett lög nr. 125/1999 um málefni aldraða. Af þeim verði nánar ráðið um skyldur ríkisins gagnvart öldruðum, tilhögun og fyrirkomulag öldrunarmála, gæðaviðmið o.fl. Í samræmi við ákvæði laganna megi vera ljóst að stefnda beri að annast um og greiða allan kostnað sem af starfsemi hlýst. Stefndi hafi til að inna verkefnin og skyldur sínar af hendi, samið við nokkur hjúkrunar- og dvalarheimili, m.a. stefnendur. Þannig byggi stefnendur á því að á þessum grundvelli hafi hvílt sú skylda á stefnda að greiða fullt endurgjald til heimilanna og að húsnæðiskostnaður þeirra verði þar ekki undanskilinn. Það er mat dómsins að ákvæði 76. gr. sé ætlað að tryggja einstaklingum þann rétt sem þar er tilgreindur og í því skyni voru m.a. lög nr. 125/1999 sett. Verður sá réttur einungis sóttur af eða í þágu viðkomandi einstaklinga gegn stefnda á grundvelli aðstæðna þess sem í hlut á. Verður ekki á það fallist að það með stefnendum að þeir geti leitt rétt sinn til greiðslu af rétti þeirra einstaklinga sem ákvæðið tekur til. Þá byggja stefnendur á því að stefndi hafi brotið gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt ákvæðinu megi engan skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji og þá þurfi lagafyrirmæli til og komi fullt verð fyrir. Stefnendur leggi fram fasteignir til starfseminnar, sjálfir eða í gegnum móðurfélag. Telja stefnendur að sú afstaða stefnda að greiða ekki gjald fyrir þær sé brot gegn 72. gr. og sé þessi tilhögun því ólögmæt. Stefndi hefur mótmælt þessari túlkun stefnda. Það er mat dómsins að aðstæðum stefnenda verði ekki jafnað til þeirra tilvika sem 72. gr. tekur til enda er ekki annað komið fram en það hafi verið ákvörðun þeirra að leggja fasteignirnar til rekstrarins og kemur málsástæða þessi því ekki til frekari skoðunar. Þá er ekki fallist á það með stefnendum að taka beri kröfu þeirra til greina á þeim forsendum að stefndi haldi áfram að vísa öldruðum einstaklingum til þeirra þrátt fyrir að neita að greiða húsnæðiskostnað enda er ekki annað fram komið en að stefnendur séu enn aðilar að rammasamningnum. Loks verður ekki á það fallist að stefnendur hafi fært fram aðrar málsástæður er leiða eigi til þess að til skaðabótaskyldu hafi stofnast á hendur stefnda vegna krafna þeirra. Í samræmi við framangreint er það mat dómsins að af hálfu stefndu hafi ekki verið sýnt fram á að háttsemi stefnda hafi verið saknæm og ólögmæt eða að slík háttsemi hafi leitt til tjóns. Verður, í ljósi framangreinds, ekki fallist á að skilyrði séu til að dæma stefnda til greiðslu skaðabóta. Þá byggja stefnendur á þeirri málsástæðu, byggðri á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um sanngjarnt og eðlilegt endurgjald, að þar sem ekki hafi verið samið um endurgjald beri stefnda að greiða sanngjarnt og eðlilegt endurgjald og vísa hvað þetta til þeirra meginreglna sem koma fram í lögum um þjónustukaup og lögum um lausafjárkaup. Þessari málsástæðu hefur stefndi alfarið mótmælt. Fyrir liggur að við byggingu þeirra fasteigna sem stefnendur nota undir dvalarheimilin fengust að einhverju leyti styrkir frá Framkvæmdasjóði aldraðra og að stefndi hefur fengið greitt húsnæðisgjald. Þá verður að ætla að á því tímabili sem krafa stefnenda tekur til hafi ekki fallið á stofnkostnaður vegna þeirra fasteigna sem þeir nýta í starfsemi sína. Eins og rakið hefur verið var fjárveiting til starfsemi stefnenda ákvörðuð á grundvelli tveggja ólíkra aðferða á því tímabili sem hér er til umfjöllunar, annars vegar á grundvelli reglugerða og gjaldskráa og hins vegar á grundvelli rammasamnings. Byggja stefnendur á því að hvorug aðferðin hafi tekið til þess að greiða þeim kostnað vegna öflunar húsnæðis undir starfsemina án þess að greina sérstaklega á milli þeirra. Stefndu byggja á því að hvorki sé lagaheimild né fjárheimild til greiðslu þeirra gjalda sem krafist er. Það sé hlutverk Alþingis að ákveða í fjárlögum fjárveitingar til reksturs hjúkrunarheimila ár hvert og er þar tiltekið hvaða fjárhæð hvert og eitt heimili fær. Þar verða ekki settir fram frekari gjaldaliðir en fram koma í rammasamningi, reglugerðum og gjaldskrám og ekki er þar heimild fyrir þeim greiðslum sem stefnendur krefjast í máli þessu. Þá taka þessar heimildir ekki til stofnkostnaðar eða öflunar húsnæðis. Í ljósi framangreinds verður að ætla að það hafi ekki verið ætlunin að greiða leigu eða annað gjald vegna húsnæðis sem rekstraraðilar leggja sjálfir til, utan húsnæðisgjalds. Stefnendur vísa sérstaklega til þess að Alþingi hafi aldrei tekið afstöðu til þeirra kostnaðarliða sem hér eru tilgreindir en stefndi telur að það hafi verið gert með hverri reglugerð og hverjum fjárlögum. Greiðslur til hjúkrunarheimila vegna einstakra gjaldliða eru ákvarðaðar af stefnda á ákveðnum forsendum. Sá kostnaður sem krafa stefnenda varðar byggir ekki á ófyrirséðum útgjöldum. Má af bókun stefnenda við rammasamninginn ráða að þegar stefnendur gengust undir hann töldu þeir hann ekki, frekar en skipan mála áður, taka á þessum kostnaði þeirra. Í samningnum er rakið fyrir hvaða kostnaðarliði stefndi greiðir og er ekkert fram komið um að hann hafi skuldbundið sig til frekari greiðslna til stefnenda vegna húsnæðiskostnaðar eða óskað sérstaklega eftir að tilteknar fasteignir yrðu notaðar í hans þágu þannig að greiðsluskylda stofnaðist á hendur honum sérstaklega vegna þess. Þá er það ekki á valdi dómstóla að mæla fyrir um frekari fjárheimildir en Alþingi hefur gert, sbr. 2., 41. og 42. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944. Með vísan til framangreinds er þessari málsástæðu stefnenda hafnað og verður því ekki á það fallist að stefnda beri, án þess að um það hafi verið samið milli aðila, að greiða stefnendum kostnað vegna öflunar húsnæðis. Samkvæmt framangreindu er stefndi sýknaður af aðalkröfum stefnenda. Með sömu rökum og að framan eru rakin eru ekki forsendur til að fallast á varakröfu stefnanda Grundar.                 Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en aðilar og dómari voru sammála um að ekki væri þörf á endurflutningi málsins. Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari. D Ó M S O R Ð: Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af öllum kröfum stefnenda, Grundar hjúkrunarheimilis og Dvalarheimilisins Áss.                 Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 17/2020
Málefni aldraðra Fjárlög Jafnræðisregla Eignarréttur Stjórnarskrá Aðildarhæfi
HL og HH, sem reka hjúkrunar- og dvalarheimili, kröfðust þess að Í yrði gert að greiða þeim nánar tilgreinda fjárhæð í endurgjald fyrir fasteignir sem þeir lögðu til undir starfsemina á árunum 2013 til og með 2016. Kröfurnar reistu HL og HH einkum á því að þeir veittu öldruðum þjónustu sem Í væri skylt að leggja þeim til samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar og því bæri Í að greiða allan kostnað af starfseminni. Þá gætti Í ekki jafnræðis við greiðslu húsnæðiskostnaðar til hjúkrunarheimila þar sem sumum rekstraraðilum væru látin í té endurgjaldslaust húsnæði undir starfsemina eða fengju greidda húsaleigu auk þess sem brotið væri gegn eignarrétti þeirra. Í dómi Hæstaréttar kom fram að réttur til þeirrar aðstoðar sem getið væri í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar væri bundinn við menn en tæki ekki til lögaðila. Þá var ekki talið að um skerðingu á eignarrétti HL og HH hefði verið að ræða þannig að í bága færi við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá kom fram að bygging á húsnæði þeirra sem samið hefðu við Í um rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila hefði verið fjármögnuð með mismunandi hætti á ólíkum tímum eftir lagafyrirmælum sem hefðu gilt á hverjum tíma. Yrði að ætla löggjafanum heimild og svigrúm til að kveða í lögum á um nýjar leiðir við aðkomu Í að uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarheimila aldraðra, án þess að það teldist ólögmæt mismunun gagnvart rétti rekstraraðila sem fyrir væru og hefðu hafið rekstur að undangenginni annars konar fjármögnun bygginga. Hefðu HL og HH ekki sýnt fram á að sá greinarmunur sem gerður væri á greiðslum Í til rekstraraðila hvíldi á ólögmætum sjónarmiðum með þeim hætti að brotið hefði verið gegn rétti þeirra samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Var Í því sýknað af kröfum HL og HH.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 28. apríl 2020. Áfrýjandi Hrafnista Laugarási krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 1.437.559.534 krónur „auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags“ en til vara 1.375.699.410 krónur með sömu vöxtum. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum. Áfrýjandi Hrafnista Hraunvangi krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 1.217.453.803 krónur „auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags“ en til vara 1.183.857.803 krónur með sömu vöxtum. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I 1         Áfrýjendur eru rekstrarfélög í eigu Sjómannadagsráðs og annast rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila annars vegar að Laugarási í Reykjavík og hins vegar að Hraunvangi í Hafnarfirði. Í málinu krefur hvor áfrýjenda um sig stefnda um endurgjald fyrir notkun fasteigna sem þeir lögðu til undir starfsemina á árunum 2013 til og með 2016. Áfrýjendur reisa kröfur sínar á matsgerð dómkvadds manns 3. september 2017 um eðlilegt leigugjald fyrir fasteignirnar væru þær leigðar stefnda. Áfrýjendur voru eigendur þeirra fasteigna sem málið varðar til ársloka 2014 en frá árinu 2015 hefur Sjómannadagsráð verið eigandi þeirra og leigir áfrýjendum þær undir starfsemina. Í aðalkröfum áfrýjenda eru húsnæðisgjöld sem þeir fengu greidd frá stefnda á kröfutímabilinu dregin frá leigugjaldinu en í varakröfum eru til viðbótar dregin frá framlög til áfrýjenda úr Framkvæmdasjóði aldraðra á sama tímabili. 2         Ágreiningur aðila snýst um hvort stefnda hafi borið að greiða áfrýjendum endurgjald fyrir notkun fasteignanna í starfsemi þeirra sem svari til stofnkostnaðar húsnæðis, afskrifta og meiri háttar breytinga og endurbóta á því. Áfrýjendur telja niðurstöðu matsgerðar endurspegla hæfilegt endurgjald fyrir afnot fasteignanna. Þeir reisa kröfur sínar á því að þeir veiti öldruðum þjónustu sem stefnda beri lagaskylda til að veita samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar og lögum nr. 125/1999 um málefni aldraðra og beri því að greiða allan kostnað af starfseminni. Um skyldu stefnda vísa áfrýjendur jafnframt til laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, einkum 39. gr. um samningsgerð um veitingu heilbrigðisþjónustu svo og 43. gr. um endurgjald fyrir slíka þjónustu og 32. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Þá halda áfrýjendur því fram að brotið sé gegn eignarréttindum þeirra sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar með því að stefndi krefji þá um að leggja fasteignir til starfseminnar, í gegnum móðurfélag sitt, án endurgjalds. Loks byggja áfrýjendur á því að brotið sé gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar með því að tiltekin hjúkrunar- og dvalarheimili fái fasteignir undir starfsemi sína endurgjaldslaust frá stefnda eða fái greidda leigu en önnur, líkt og áfrýjendur, leggi sjálf til eða leigi fasteignir frá þriðja aðila án þess að fá greiðslur frá stefnda vegna þess kostnaðar.         Samkvæmt framansögðu byggja áfrýjendur á því að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart þeim þar sem hann hafi með ólögmætum hætti brotið gegn skyldum sínum en ella á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um að greiða beri sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir þær fasteignir sem áfrýjendur leggi til á grundvelli samninga þeirra við Sjúkratryggingar Íslands um að veita þjónustu á hjúkrunar- og dvalarheimilum.        Með héraðsdómi var stefndi sýknaður af kröfum áfrýjenda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjunarleyfi var veitt 27. apríl 2020. II 1         Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi mæla lög nr. 112/2008 meðal annars fyrir um samningsgerð um heilbrigðisþjónustu og um endurgjald ríkisins fyrir þjónustuna. Samkvæmt 5. gr., sbr. IV. kafla laganna, annast sjúkratryggingastofnun, sem síðar varð Sjúkratryggingar Íslands, samningsgerðina fyrir hönd stefnda. Lögin tóku gildi 1. október 2008 en ákvæði IV. kafla laganna komu ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2015 að því er varðar gerð samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili, sbr. 2. málslið 2. mgr. 56. gr. laganna. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði IV með lögunum var ráðherra fram til þess tíma heimilt að ákveða með reglugerð daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt var í hjúkrunarrýmum sjúkrahúsa, öldrunarstofnana og hjúkrunarheimila. Daggjöld skyldu ákveðin með hliðsjón af mati á hjúkrunarþyngd, sbr. 4. mgr. 43 gr. laganna. Á þeim grundvelli kvað ráðherra á um daggjöld fyrir hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrými sem ekki voru á föstum fjárlögum í reglugerð nr. 1217/2012 fyrir árið 2013, reglugerð nr. 99/2014 fyrir árið 2014 og reglugerð nr. 1185/2014 fyrir árið 2015. Þar kom fram að daggjöldum væri ætlað að mæta eðlilegum rekstrarkostnaði án viðhalds húsnæðis. Að auki var kveðið á um greiðslu húsnæðisgjalds sem ætlað væri að mæta kostnaði vegna fasteignagjalda, trygginga, viðhalds, eftirlits og umsýslu húsnæðis sem nýtt væri til rekstrar hjúkrunarrýma. Viðhaldshluta húsnæðisgjaldsins var ætlað að standa undir öllu almennu viðhaldi en ekki stofnkostnaði, afskriftum og meiri háttar breytingum og endurbótum á húsnæði.         Rammasamningur milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila um þjónustu hjúkrunarheimila var undirritaður 21. október 2016, með gildistíma frá 1. janúar sama árs til ársloka 2018. Ákvæði um húsnæðisgjald var að finna í 8. gr. samningsins og var það hliðstætt ákvæðum framangreindra reglugerða. Áfrýjendur staðfestu aðild að samningnum 25. október 2016. Samningnum fylgdi bókun þess efnis að einstök hjúkrunar- og dvalarheimili teldu aðild að honum ekki fela í sér viðurkenningu þeirra á því að endurgjaldið fyrir þjónustuna væri að einhverju leyti fullnægjandi og takmarkaði ekki heimildir þeirra til málssóknar eða kröfugerðar gagnvart stefnda.     Með beiðni til héraðsdóms 8. nóvember 2016 óskuðu áfrýjendur, ásamt Sjómannadagsráði, Grund og Dvalarheimilinu Ási eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta eðlilegt leigugjald fasteigna. Matsgerð lá fyrir 3. september 2017 og höfðuðu áfrýjendur mál þetta 13. október sama ár.         Í hinum áfrýjaða dómi er nánari grein gerð fyrir lagagrundvelli dag- og húsnæðisgjalda. Í málinu er óumdeilt að greiðslur til áfrýjenda voru í samræmi við áðurgreindar reglugerðir um daggjöld fyrir hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrými sem ekki voru á föstum fjárlögum og við rammasamning eftir að hann tók gildi. Lýtur mál þetta þannig eingöngu að því hvort áfrýjendur eiga á grundvelli þeirra réttarheimilda sem málssóknin er reist á rétt til frekara endurgjalds úr hendi stefnda sem taki mið af stofnkostnaði, afskriftum og meiri háttar breytingum og endurbótum á fasteignum. 2        Stefndi byggir sýknukröfu í fyrsta lagi á aðildarskorti áfrýjenda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vísar hann einkum til þess að frá ársbyrjun 2015 hafi Sjómannadagsráð verið eigandi þeirra fasteigna sem nýttar séu í rekstri áfrýjenda og samkvæmt grein 13 í lögum þess fari ráðið með öll réttindi og skyldur varðandi eignir þess. Þá sé í gögnum málsins hvergi vikið að samningum Sjómannadagsráðs og áfrýjenda um fasteignirnar eða leigugreiðslur fyrir þær.         Áfrýjendur voru eigendur þeirra fasteigna sem málið varðar til ársloka 2014 en frá þeim tíma munu þeir hafa haft þær á leigu undir starfsemina. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir samstæðuársreikningi Sjómannadagsráðs fyrir árið 2015. Þar kemur fram að Sjómannadagsráð hafi tekið yfir rekstur fasteigna áfrýjenda og hafi tekjur á móti í formi leigu. Leigufjárhæðin samanstandi af húsnæðisgjaldi sem áfrýjendur fái greitt frá stefnda og tilgreindri fjárhæð sem taki mið af stofnkostnaði, afskriftum og meiri háttar breytingum og endurbótum. Áfrýjendur hafi gert kröfu á hendur stefnda um frekari greiðslur vegna nýtingar fasteignanna í þágu starfsemi sinnar. Vegna óvissu um það hvort krafan innheimtist hafi hún ekki verið færð til tekna í rekstrarreikningi hjúkrunarheimilanna. Af sömu ástæðu hafi skuld hjúkrunarheimilanna við Sjómannadagsráð vegna stofnkostnaðarhluta leigunnar ekki verið færð í ársreikning þeirra og heldur ekki krafa á hjúkrunarheimilin í ársreikningi Sjómannadagsráðs.         Áfrýjendur eru aðilar að rammasamningi milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila og fá samkvæmt honum meðal annars greiðslur í formi húsnæðisgjalda frá stefnda fyrir að leggja húsnæði til rekstursins.         Að framangreindu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á að áfrýjendur teljist rétthafar þeirra hagsmuna sem fjárkröfur þeirra lúta að. 3          Í 54. gr. laga nr. 112/2008 er kveðið á um að kostnaður við sjúkratryggingar greiðist úr ríkissjóði, að því marki sem ákveðið er samkvæmt lögunum eða sérlögum og reglugerðum settum með stoð í þeim. Árleg heildarútgjöld sjúkratrygginga skuli vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum hvers árs. Fyrir liggur að hlutdeild einstakra hjúkrunarheimila í fjárveitingu hvers árs er ákveðin með reiknilíkani, svokölluðu daggjaldalíkani. Með því er leitast við að skipta þeim fjármunum sem stjórnvöld ráðstafa hverju sinni til málaflokksins milli heimilanna á málefnalegan og gagnsæjan hátt og að gætt sé jafnræðis. Líkaninu er aftur á móti ekki ætlað að ákvarða raunkostnað við rekstur hjúkrunarheimilis. Á grundvelli 1. mgr. 39. gr. laga nr. 112/2008 semja Sjúkratryggingar Íslands, sem fyrr segir, um veitingu heilbrigðisþjónustu við þá sem reka hjúkrunarheimili og um endurgjald stefnda vegna hennar. Kom ákvæðið til framkvæmda 1. janúar 2015 og er rammasamningur milli Sjúkratrygginga Íslands og áfrýjenda um þjónustu hjúkrunarheimila gerður með stoð í því.          Fallist er á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að lög nr. 112/2008 hafi ekki að geyma ákvæði sem mæla fyrir um skyldu stefnda til að standa áfrýjendum skil á endurgjaldi vegna notkunar á fasteignum í rekstri hjúkrunar- og dvalarheimila umfram það sem stefndi hefur greitt í formi húsnæðisgjalds. Þá verður þeirri skyldu heldur ekki fundin stoð í reglugerðum, og síðar rammasamningi, sem giltu um greiðslur til áfrýjenda á árunum 2013 til 2016. Auk þess verður slík skuldbinding hvorki byggð á ákvæðum laga nr. 125/1999 né laga nr. 40/2007.         Eins og áður greinir hafa áfrýjendur reist kröfur sínar á því að þar sem þeir veiti öldruðum þjónustu sem stefnda sé skylt að leggja þeim til samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar beri stefnda að greiða allan kostnað af starfseminni. Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, skal öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi að lögum nr. 97/1995 kemur fram að í ákvæðinu séu taldar ástæður sem geta  orðið til þess að maður þarfnist opinberrar aðstoðar af þessum toga. Jafnframt segir að gengið sé út frá því að nánari reglur um félagslega aðstoð af þessum meiði verði settar með lögum en með ákvæðinu sé markaður sá rammi að til þurfi að vera reglur sem tryggi þessa aðstoð. Af þessum orðum um verndarandlag og skyldur stefnda samkvæmt 1. mgr. 76. gr. er ljóst að réttur til þeirrar aðstoðar sem þar er getið er bundinn við menn en tekur ekki til lögaðila, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 16. júní 2020 í máli nr. 3/2020.         Af hálfu áfrýjenda hefur verið vísað til þess að þeir væru jafnframt að sækja rétt þeirra einstaklinga sem nytu vistar á heimilum þeirra og tryggður væri með þessu stjórnarskrárákvæði. Áfrýjendur hafa hvorki fært fram gögn né haldbær rök fyrir þessari staðhæfingu sinni. Verður ekki fallist á að áfrýjendur séu með málssókn sinni að sækja persónubundinn rétt vistmanna á hjúkrunarheimilum sem þeir reka. Samkvæmt framangreindu er ljóst að áfrýjendur geta ekki reist kröfur sínar um endurgjald frá stefnda vegna leigugreiðslna á 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og er þeirri kröfu því hafnað. 4         Af hálfu áfrýjenda er jafnframt á því byggt að sú afstaða stefnda að greiða þeim ekki endurgjald fyrir notkun fasteigna sem þeir útvegi undir hjúkrunar- og dvalarheimili feli í sér brot á eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar.        Samkvæmt ákvæðinu er eignarrétturinn friðhelgur og má engan skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og skal fullt verð koma fyrir. Hluta þess tímabils sem dómkröfur áfrýjenda taka til voru þeir eigendur umræddra fasteigna sem þeir hafa nýtt við rekstur öldrunarþjónustu. Frá árinu 2015, þegar eignarhald á fasteignunum var fært yfir til Sjómannadagsráðs, hafa þeir ekki verið eigendur fasteignanna heldur haft umráð þeirra til rekstrarins og skuldbundið sig til að greiða eiganda þeirra, Sjómannadagsráði, leigugreiðslur. Leigugreiðslurnar áttu annars vegar að taka mið af því húsnæðisgjaldi sem áfrýjendur njóta frá stefnda og hins vegar af stofnkostnaði húsnæðis, afskriftum og kostnaði við meiri háttar breytingar og endurbætur á því. Samkvæmt gögnum málsins hafa þessar leigugreiðslur þó ekki verið inntar af hendi til Sjómannadagsráðs eða bókfærðar. Samkvæmt grein 13 í lögum Sjómannadagsráðs fer ráðið með öll réttindi og skyldur varðandi eignir þessar.     Á því tímabili sem dómkröfur áfrýjenda taka til hafa þeir samkvæmt framansögðu rekið öldrunarþjónustu í húsnæði sem í upphafi tímabilsins var í þeirra eigu en Sjómannadagsráð tók yfir árið 2015. Stefndi hefur greitt áfrýjendum fyrir þessa þjónustu, fyrst á grundvelli reglugerða en síðan á grundvelli rammasamnings. Þótt áfrýjendur telji að stefnda beri að greiða hærra endurgjald fyrir þjónustuna en hann hefur samkvæmt framansögðu gert verður ekki fallist á að í samningssambandi áfrýjenda og stefnda hafi falist þvingun hvað varðar nýtingu fasteignanna sem jafnað verði til skerðingar á eignarrétti sem í bága fari við 72. gr. stjórnarskrárinnar.   5         Málatilbúnaður áfrýjenda lýtur loks að því að ólögmæt mismunun sé fólgin í að stefndi neiti kröfum þeirra en láti á hinn bóginn tilteknum aðilum, sem veiti öldruðum sambærilega þjónustu og áfrýjendur, í té endurgjaldslaust húsnæði undir starfsemina eða greiði þeim húsaleigu. Vísa áfrýjendur í því sambandi einkum til svokallaðrar leiguleiðar, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999. Áfrýjendur byggja á því að stefndi gæti ekki jafnræðis hvað varðar greiðslu húsnæðiskostnaðar til hjúkrunarheimila.         Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir vera jafnir fyrir lögum. Í því banni við mismunun sem í ákvæðinu felst er meðal annars gerð sú krafa að við lagasetningu og framkvæmd laga sé farið með sambærilegum hætti með sambærileg tilvik og að ólík meðferð sambærilegra tilvika verði aðeins réttlætt með vísan til hlutlægra og málefnalegra sjónarmiða.         Þeir aðilar sem áfrýjendur hafa borið sig saman við eru í sambærilegum rekstri og áfrýjendur. Í hinum áfrýjaða dómi er rakið að bygging á húsnæði þeirra sem hafa samið við stefnda um rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila hefur verið fjármögnuð með mismunandi hætti á ólíkum tímum eftir lagafyrirmælum sem hafa gilt á hverjum tíma. Með 2. gr. laga nr. 38/2004 kom inn það nýmæli í 4. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999 að Framkvæmdasjóði aldraðra var heimilað að greiða þann hluta húsaleigu sem telst stofnkostnaður vegna leigu á hjúkrunarheimili fyrir aldraða sem samþykkt hefur verið að byggja eftir 1. janúar 2005, að undangengnu útboði, á kostnað annarra aðila en ríkisins. Frumvarp að lögum nr. 38/2004 tók mið af tillögum samráðshóps um málefni eldri borgara frá nóvember 2002 og tillögum vinnuhóps heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra frá maí 2003. Skilyrði fyrir greiðslu á húsaleigu er að ekki hafi verið veittur styrkur úr Framkvæmdasjóði aldraðra eða annar styrkur frá ríkinu til að byggja hjúkrunarheimilið eða til viðhalds fasteignarinnar. Rekstraraðilar sem byggt hafa hjúkrunarheimili eftir 1. janúar 2005 og uppfylla skilyrði um greiðslu húsaleigu njóta ekki réttar til framlaga úr Framkvæmdasjóði aldraðra, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna, né heldur fá þeir greidd húsnæðisgjöld eins og áfrýjendur samkvæmt rammasamningnum við stefnda.        Forsenda fyrir húsaleigugreiðslum er samkvæmt áðursögðu að samþykkt hafi verið að reisa byggingar eftir 1. janúar 2005 og að rekstraraðili hafi fjármagnað byggingu hjúkrunarheimilis að öllu leyti án þátttöku hins opinbera og ekki þegið fjármagn til viðhalds húsnæðisins. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi háttaði ekki svo til um fasteignir þær sem áfrýjendur nota til rekstrarins. Þær voru reistar á sjötta og áttunda áratug síðustu aldar meðal annars með þeim fjárstuðningi opinberra aðila sem stóð til boða samkvæmt heimildum á þeim tíma. Auk þess hefur stefndi veitt fjárstuðning vegna endurbóta þeirra og viðhalds. Að þessu leyti verður stöðu áfrýjenda og rekstraraðila sem uppfylla skilyrði til leigugreiðslna samkvæmt 4. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999 ekki jafnað saman. Sama gildir um aðrar leiðir sem farnar hafa verið eins og þá er stefndi og sveitarfélög reisa húsnæði fyrir hjúkrunarheimili, sbr. 5. mgr. 9. gr. sömu laga, sem með samningi hefur verið lagt undir rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila á hendi einkaaðila. Verður að ætla löggjafanum heimild og svigrúm til að kveða í lögum á um nýjar leiðir við aðkomu stefnda að uppbyggingu dvalar- og hjúkrunarheimila aldraðra, án þess að það teljist ólögmæt mismunun gagnvart rétti rekstraraðila sem fyrir eru og hófu rekstur að undangenginni annars konar fjármögnun bygginga. Áfrýjendur hafa ekki sýnt fram á að sá greinarmunur sem gerður er á greiðslum stefnda til rekstraraðila dvalar- og hjúkrunarheimila samkvæmt framansögðu hvíli á ólögmætum sjónarmiðum með þeim hætti að brotið sé gegn rétti þeirra samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.           Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.         Rétt er að hver aðila greiði sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.  Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.                                    Dómur Landréttar 28. febrúar 2020 Mál þetta dæma landsréttardómararnir Jóhannes Sigurðsson, Kristbjörg Stephensen og Þorgeir Ingi Njálsson. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Áfrýjendur skutu málinu til Landsréttar 23. apríl 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2019 í málinu nr. E-3246/2017. 2        Áfrýjandi Hrafnista dvalarheimili aldraðra í Reykjavík krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða honum 1.437.559.534 krónur með dráttarvöxtum frá 17. október 2017 til greiðsludags og til vara 1.375.699.410 krónur með dráttarvöxtum frá 17. október 2017 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. 3        Áfrýjandi Hrafnista dvalarheimili aldraðra í Hafnarfirði krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða honum 1.217.453.803 krónur auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags og til vara 1.183.857.803 krónur auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. 4        Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi áfrýjenda. Málsatvik 5        Áfrýjendur eru fyrirtæki í eigu Sjómannadagsráðs sem hafa um áratuga skeið rekið hjúkrunar- og dvalarrými fyrir aldraða. Sjómannadagsráð er samkvæmt 1. gr. samþykkta þess, 29. maí 2012, fulltrúaráð félaga sjómanna á höfuðborgarsvæðinu. Í héraðsdómsstefnu er Sjómannadagsráði lýst sem sambandi eða samtökum stéttarfélaga. Áfrýjendur byggja á því að þeir séu sérstök rekstrarfélög í eigu Sjómannadagsráðs sem fari með rekstur hjúkrunar- og dvalarrýma. Áfrýjendur áttu þær fasteignir, sem nýttar eru í rekstri hjúkrunar- og dvalarrýma þeirra, fram til ársins 2015 er þær voru færðar til Sjómannadagsráðs. 6        Áfrýjendur hafa um langt skeið fengið greiðslur í formi daggjalda frá stefnda til reksturs hjúkrunar- og dvalarrýma. Í þeim greiðslum hefur ekki verið tekið tillit til stofnkostnaðar, afskrifta og meiri háttar viðhalds fasteigna sem fylgt hefur rekstri áfrýjenda. Áfrýjendur lýsa því að þeir hafi í kjölfar setningar laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar bundið vonir við að þeir næðu samningum við stefnda um að greiðslur sem þeir fengju til rekstursins tækju einnig til stofnkostnaðar, afskrifta og meiri háttar viðhalds. 7        Fyrir setningu laga nr. 112/2008 var í 2. mgr. 44. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sem var í þeim kafla laganna sem þá tók til sjúkratrygginga, kveðið á um að ráðherra skyldi með reglugerð ákveða daggjöld vegna reksturs dvalarheimila aldraðra, hjúkrunarrýma á öldrunarstofnunum og hjúkrunarheimila sem ekki væru á föstum fjárlögum. Ráðherra skyldi áður en daggjöld væru ákveðin óska eftir tillögum viðkomandi stofnana. Daggjöld hjúkrunarheimila og hjúkrunarrýma skyldu ákveðin með hliðsjón af mati á hjúkrunarþyngd. Samanlagðar tekjur stofnunar skyldu standa undir eðlilegum rekstrarkostnaði á hverjum tíma miðað við þá þjónustu sem kveðið væri á um í lögum um málefni aldraðra og reglugerðum með stoð í þeim lögum. Í 47. gr. sömu laga sagði að kostnaður við sjúkratryggingu greiddist úr ríkissjóði, að því marki sem ákveðið væri samkvæmt lögunum eða sérlögum og reglugerðum settum með stoð í þeim. Árleg heildarútgjöld sjúkratrygginga skyldu vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum hvers árs. 8        Þegar lög nr. 112/2008 voru sett var gert ráð fyrir því að sérstök sjúkratryggingastofnun tæki yfir það hlutverk sem Tryggingastofnun ríkisins hafði áður haft gagnvart hjúkrunar- og dvalarheimilum. Nefnist stofnunin Sjúkratryggingar Íslands. Í 24. gr. laganna er kveðið á um að sjúkratrygging taki til þjónustu sem veitt sé í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og í dagdvöl, sem samið hefði verið um samkvæmt IV. kafla laganna. Gildistöku umrædds IV. kafla, sem fjallar meðal annars um samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarrými, dvalarrými og dagdvöl, var þó ítrekað frestað og tók hann ekki gildi að því leyti fyrr en 1. janúar 2015, sbr. 2. málslið 2. mgr. 56. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 131/2012. Í ákvæði IV til bráðabirgða með lögunum, eftir breytingu sem gerð var á því með 3. gr. laga nr. 131/2012, var kveðið á um að fram til 1. janúar 2015 væri ráðherra heimilt að ákveða með reglugerð daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt væri í hjúkrunarrýmum sjúkrahúsa, öldrunarstofnana og hjúkrunarheimila. 9        Í 54. gr. laga nr. 112/2008 er kveðið á um að kostnaður við sjúkratryggingar greiðist úr ríkissjóði, að því marki sem ákveðið er samkvæmt lögunum eða sérlögum og reglugerðum settum með stoð í þeim. Þá segir að árleg heildarútgjöld sjúkratrygginga skuli vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum hvers árs. 10       Á grundvelli framangreindrar reglugerðarheimildar í bráðabirgðaákvæði IV með lögum nr. 112/2008 setti velferðarráðherra reglugerð nr. 1217/2012 um daggjöld fyrir hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrými sem ekki eru á föstum fjárlögum, fyrir árið 2013, og reglugerð nr. 99/2014, með sama heiti, fyrir árið 2014. Í 1. gr. reglugerðanna sagði að daggjöldum á stofnunum sem ekki væru á föstum fjárlögum væri ætlað að mæta eðlilegum rekstrarkostnaði, án húsnæðisgjalds. Í ákvæðinu var kveðið á um fjárhæð daggjalda til áfrýjenda. Í 4. gr. reglugerðanna var að auki mælt fyrir um að Tryggingastofnun ríkisins skyldi greiða húsnæðisgjald til þeirra sem reka hjúkrunar- og dvalarheimili en því gjaldi var ætlað að mæta kostnaði vegna fasteignagjalda, trygginga, viðhalds, eftirlits og umsýslu húsnæðis. Í ákvæðinu var sérstaklega tekið fram að húsnæðisgjaldinu væri ætlað að standa undir almennu viðhaldi húsnæðis en ekki stofnkostnaði, afskriftum og meiri háttar breytingum og endurbótum á húsnæði. 11       Lagagrundvöllur daggjaldanna breyttist nokkuð þegar fyrrnefnt bráðabirgðaákvæði með lögum nr. 112/2008 rann sitt skeið í árslok 2014 og lögin komu að fullu til framkvæmda. Daggjöld fyrir dvalarrými, dagdvalarrými og hjúkrunarrými voru á árinu 2015 greidd á grundvelli gjaldskrár Sjúkratrygginga Íslands og reglugerðar nr. 1185/2014, sbr. heimild í 1. og 2. mgr. 38. gr. laga nr. 112/2008. Í reglugerðinni var mælt fyrir um fjárhæð almenns daggjalds vegna dvalarrýma fyrir aldraða og vegna dagdvalar aldraðra sem ætlað var að mæta eðlilegum rekstrarkostnaði án viðhalds húsnæðis. Einnig var þar að finna sambærilegt ákvæði um húsnæðisgjald og í fyrri reglugerðum. Þá voru í reglugerðinni ákveðnar fjárhæðir daggjalda til einstakra aðila, þar með talið áfrýjenda, vegna sérhæfðrar dvalar. Í gjaldskránni var á hinn bóginn mælt fyrir um daggjöld tiltekinna aðila fyrir hjúkrunarþjónustu og voru daggjöld til áfrýjenda þar sérstaklega tilgreind. 12       Ákvæði IV. kafla laga nr. 112/2008 um heimild Sjúkratrygginga Íslands til að gera samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili komu eins og áður sagði til framkvæmda 1. janúar 2015. Á grundvelli þessarar heimildar undirrituðu Sjúkratryggingar Íslands, velferðarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga samkomulag 6. september 2016 um gerð rammasamnings milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila vegna þjónustu í hjúkrunar- og dvalarrýmum hjúkrunarheimila. Rammasamningurinn sem gerður var í framhaldinu er dagsettur 21. október 2016. Áfrýjendur samþykktu aðild að honum með tölvuskeyti 25. október 2016 og var hún staðfest með tölvuskeyti daginn eftir. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga gerðu bókun við rammasamninginn þar sem fram kom að aðild að honum fæli ekki í sér viðurkenningu einstakra hjúkrunar- og dvalarheimila á því að endurgjaldið sem greitt væri fyrir þjónustuna væri fullnægjandi og að áskilinn væri réttur til að gera frekari kröfur eftir atvikum með málsókn. Þá kemur fram í bókun 2 við rammasamninginn að aðilar séu sammála um að skoða nánar húsnæðismál hjúkrunarheimila, meðal annars eignarhald á húsnæði, kostnað við eignarhald og framlög opinberra aðila.  13       Í 1. mgr. 32. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu kemur fram að kostnaður við byggingu sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva greiðist úr ríkissjóði. Þátttaka sveitarfélaga í kostnaði við byggingu og búnað hjúkrunarheimila skuli vera 15% af stofnkostnaði og teljist meiri háttar viðhald og tækjakaup til stofnkostnaðar. Þá kemur fram í 2. mgr. að sveitarfélög leggi til lóðir undir byggingarnar án endurgjalds. 14       Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra skal Framkvæmdasjóður aldraðra stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um allt land. Í 3. mgr. ákvæðisins kemur meðal annars fram að sjóðurinn veiti fjármunum til byggingar stofnana fyrir aldraða, viðhalds þeirra, breytinga og endurbóta. Þá er að finna heimild fyrir sjóðinn í 4. mgr. sömu greinar til að greiða þann hluta húsaleigu sem teljist til stofnkostnaðar vegna leigu á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða. Heimildin er bundin við hjúkrunarheimili sem samþykkt hefur verið að byggja eftir 1. janúar 2005. Skilyrðið fyrir greiðslu húsaleigu er að ekki hafi verið veittur styrkur úr sjóðnum eða frá stefnda til byggingar hjúkrunarheimilisins. Þá kemur fram í 5. mgr. að þegar ríki og sveitarfélög standa saman að uppbyggingu hjúkrunarheimila skuli þátttaka sveitarfélaga ekki vera minni en 15% af stofnkostnaðinum eða leigunni.    15       Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn um byggingarkostnað hjúkrunarheimila á 128. löggjafarþingi 2002-2003 kemur fram að um fjármögnun annarra hjúkrunarrýma og stofnana fyrir aldraða, sem ekki er stofnað til á grundvelli laga nr. 40/2007, gildi lög nr. 125/1999. Í svarinu kemur fram að styrkir úr Framkvæmdasjóði aldraðra hafi á árunum 1980 til 2002 numið á bilinu 35-40% af byggingarkostnaði. Í yfirliti um þessa kostnaðarskiptingu kemur meðal annars fram að áfrýjandi Hrafnista dvalarheimili aldraðra í Hafnarfirði hafi á árunum 1982 og 2000 fengið styrk úr sjóðnum sem nam 40% af byggingarkostnaði en 60% byggingarkostnaðar höfðu verið greidd af sjálfsaflafé. 16       Áfrýjendur hafa lagt fram í málinu upplýsingar um samninga sem stefndi hefur gert við nokkra aðila um uppbyggingu og fjármögnun hjúkrunarheimila. Fyrsti samningurinn er á milli félags- og tryggingamálaráðuneytisins við Seltjarnarneskaupstað 30. desember 2010 um byggingu og þátttöku í leigu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða. Í samningnum kemur fram að stefndi muni greiða hluta af leigu fyrir húsnæðið sem teljist ígildi stofnkostnaðar og jafngildi leigugreiðsla stefnda 85% af reiknaðri leigu. Samningstíminn er til 40 ára. Annar samningurinn er samningur til sex ára milli félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Grundar hjúkrunarheimilis um þjónustu og rekstur Markar hjúkrunarheimilis 18. júní 2010. Áfrýjendur hafa upplýst að í þessu tilviki hafi Grund hjúkrunarheimili fengið endurgjaldslaus afnot af fasteignum í eigu stefnda til rekstursins. Hefur stefndi ekki mótmælt því. Þriðji samningurinn er á milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Öldungs ehf. 28. apríl 2000 um uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimilisins Sóltúns. Samkvæmt samningnum sem grundvallaður var á útboði er gert ráð fyrir endurgjaldi frá stefnda sem svari til leigu eða fjármögnunar stofnkostnaðar. Samningstíminn er til 27 ára. 17       Áfrýjendur óskuðu eftir dómkvaðningu matsmanna 8. nóvember 2016 til þess að meta hvert væri eðlilegt leigugjald fyrir fasteignirnar, sem þeir nota til að veita þjónustu sína, ef stefndi væri leigutaki. Matsmenn skiluðu matsgerð 3. september 2017 og byggjast fjárkröfur áfrýjenda á niðurstöðum hennar um hæfilegt leigugjald. Frá leigugjaldi samkvæmt matsgerð er dregið húsnæðisgjald sem áfrýjendur fengu greitt á árunum 2013 til 2016. Í málinu liggur fyrir yfirlit sem sýnir að áfrýjendur hafa fengið greiðslur úr Framkvæmdasjóði aldraðra á árunum 2011 til 2016, sbr. III. kafla laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, vegna viðhalds, endurbóta og breytinga á húsnæði sem þeir nota í starfsemi sinni. Á þessu tímabili fékk áfrýjandinn Hrafnista dvalarheimili aldraðra í Reykjavík greiddar úr sjóðnum 204.450.000 krónur og áfrýjandinn Hrafnista dvalarheimili aldraðra í Hafnarfirði 66.750.000 krónur. Varakröfur áfrýjenda eru byggðar á því að núvirtar greiðslur frá Framkvæmdasjóði aldraðra á árunum 2013 til 2016 dragist frá leigugjaldinu. Niðurstaða 18       Í málinu er deilt um hvort áfrýjendur eigi rétt á greiðslum úr hendi stefnda sem svari til eðlilegs leigugjalds á árunum 2013 til 2016 fyrir þær fasteignir sem þeir nota við rekstur á hjúkrunar- og dvalarrýmum fyrir aldraða. Svo sem áður er komið fram hafa áfrýjendur um árabil fengið greiðslur úr sjúkratryggingum samkvæmt lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar vegna starfsemi sinnar en í þeim greiðslum felst ekki endurgjald vegna stofnkostnaðar við fasteignir, afskriftir eða meiri háttar viðhald. 19       Áfrýjendur byggja kröfur sínar á því að Sjúkratryggingum Íslands sé skylt samkvæmt lögum nr. 112/2008 að greiða allan rekstrarkostnað við hjúkrunar- og dvalarheimili áfrýjenda, þar með talið endurgjald eða leigugjald sem endurspegli stofnkostnað, afskriftir og meiri háttar viðhald fasteignanna. Þessi skylda byggi einnig á ákvæði 76. gr. stjórnarskrárinnar um rétt aldraðra til aðstoðar, 21. gr. laga nr. 125/1999 og 32. gr. laga nr. 40/2007. Þar sem lagaskyldunni hafi ekki verið sinnt af Sjúkratryggingum Íslands hafi starfsmenn stefnda sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem leitt hafi til tjóns fyrir áfrýjendur. Einnig byggja áfrýjendur kröfur sínar á því að þeir eigi rétt á eðlilegu endurgjaldi vegna húsnæðiskostnaðar á grundvelli samninga þeirra við Sjúkratryggingar Íslands um að veita þjónustu á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Framangreindar málsástæður eru einnig reistar á þeim grunni að áfrýjendum hafi verið mismunað þar sem aðrir rekstraraðilar hjúkrunar- og dvalarheimila hafi ýmist fengið greiddan stofnkostnað við fasteignir með sérstökum samningum við stefnda eða fengið endurgjaldslaus afnot af húsnæði undir starfsemi sína. Með þessari háttsemi hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Aðildarhæfi 20       Fyrir héraðsdómi krafðist stefndi frávísunar á öllum kröfum áfrýjenda. Byggði stefndi meðal annars á því að aðild áfrýjenda í málinu væri ekki nægjanlega skýrð í stefnu þar sem Sjómannadagsráð væri nú eigandi þeirra fasteigna sem krafist væri leigugjalds fyrir. Héraðsdómur hafnaði frávísunarkröfum stefnda með úrskurði 14. júní 2018 að öðru leyti en því að þrautavarakröfu áfrýjenda um viðurkenningu á því að þeir ættu rétt til endurgjalds vegna fasteigna var vísað frá dómi. Eftir standa þær fjárkröfur sem áfrýjendur gera í málinu. 21       Stefndi gerir ekki kröfu um frávísun fyrir Landsrétti en vekur athygli á því að það geti komið til álita að vísa málinu frá dómi án kröfu. Við flutning málsins fyrir Landsrétti mátti ráða að stefndi teldi að áfrýjendur hefðu ekki aðildarhæfi samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og því bæri að vísa málinu frá dómi. 22       Í 12. gr. samþykkta Sjómannadagsráðs kemur fram að stjórn ráðsins fari með yfirstjórn allra Hrafnistuheimilanna og annarra fyrirtækja þess. Stjórnin ákveði fjölda stjórnarmanna í fyrirtækjum ráðsins. Þá kemur fram í 14. gr. samþykktanna að stjórnarmenn fái stjórnarlaun greidd frá Hrafnistuheimilunum. Upplýst er í málinu að ekki eru til neinar samþykktir fyrir áfrýjendur. Þá liggja ekki fyrir nánari upplýsingar um stofnun þeirra og skipulag. Í ársreikningi Sjómannadagsráðs fyrir árið 2015 sem liggur fyrir í málinu kemur þó fram að áfrýjendur séu eign Sjómannadagsráðs. Ársreikningurinn inniheldur móðurfélagsreikning fyrir Sjómannadagsráð svo og samstæðureikning þar sem teknar eru saman niðurstöður úr ársreikningum dótturfélaga Sjómannadagsráðs. Í skýrslu stjórnar sem er í ársreikningnum kemur fram að fasteignir og rekstur þeirra hafi verið færður frá áfrýjendum til Sjómannadagsráðs á árinu 2015 og að Sjómannadagsráð innheimti leigutekjur af áfrýjendum. Af ársreikningnum má ráða að rekstrartekjur vegna daggjalda eru færðar sem tekjur hjá dótturfélögum en ekki Sjómannadagsráði. 23       Fyrir liggur að áfrýjendur hafa um árabil fengið daggjöld greidd frá stefnda vegna reksturs hjúkrunar- og dvalarrýma fyrir aldraða. Þá eru áfrýjendur aðilar að rammasamningi milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila frá 21. október 2016 en samkvæmt þeim samningi hafa áfrýjendur fengið greiðslur til reksturs hjúkrunar- og dvalarrýma frá ársbyrjun 2016. Svo sem að framan er rakið eru áfrýjendur fyrirtæki í eigu Sjómannadagsráðs og hafa sérstaka stjórn. Þá verður ráðið af gögnum málsins að áfrýjendur hafi um langt skeið haft með höndum umtalsverðan rekstur, sjálfstæðan fjárhag og geri sérgreindan ársreikning fyrir starfsemi sína. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands má sjá að áfrýjandinn Hrafnista dvalarheimili aldraðra í Reykjavík hefur átt aðild að dómsmálum vegna skaðabótakröfu fyrir vinnuslys, sbr. dóm 13. október 2011 í máli nr. 663/2010, skaðabótakröfu sökum ólögmætrar uppsagnar, sbr. dóm 7. febrúar 2013 í máli nr. 384/2012 og ágreinings um skyldu til greiðslu söluskatts, sbr. dóm 26. mars 1971 í máli nr. 202/1970. Þá voru áfrýjendur aðilar í máli Félagsdóms 30. júní 2003 nr. 3/2003. 24       Kröfur áfrýjenda eru reistar á því að þeir eigi rétt á hærri greiðslum frá Sjúkratryggingum Íslands vegna þeirra fasteigna sem þeir leggja til reksturs hjúkrunar- og dvalarrýma fyrir aldraða. Þar sem áfrýjendur hafi verið samningsaðilar sjúkratryggingastofnunar samkvæmt lögum nr. 112/2008 um langan tíma er ljóst að þeir eru rétthafar þeirra hagsmuna sem fjárkröfur þeirra lúta að. Samkvæmt þessu og með vísan til þess sem að framan er rakið hafa þeir aðildarhæfi samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.  Skylda til greiðslu alls kostnaðar af veittri þjónustu 25       Áfrýjendur byggja mál sitt á því að Sjúkratryggingum Íslands beri lögum samkvæmt að greiða allan kostnað við þá þjónustu sem þeir láta í té við rekstur hjúkrunar- og dvalarrýma, þar með talinn stofnkostnað fasteigna, afskriftir og meiri háttar viðhald. Eins og áður er rakið telja þeir þessa skyldu koma fram í ákvæði 76. gr. stjórnarskrárinnar um rétt aldraðra til aðstoðar, 21. gr. laga nr. 125/1999 og 32. gr. laga nr. 40/2007 svo og lögum nr. 112/2008, einkum IV. kafla þeirra laga. 26       Í 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að stefndi verður ekki skuldbundinn til greiðslu fjármuna nema samkvæmt heimild í almennum lögum eða fjárlögum. Í 54. gr. laga nr. 112/2008 kemur skýrt fram að heildarútgjöld sjúkratrygginga skuli vera í samræmi við ákvörðun Alþingis samkvæmt fjárlögum eða fjáraukalögum hvers árs. Áfrýjendur hafa ekki lagt fram gögn sem sýna að heimilt hafi verið samkvæmt fjárlögum fyrir árin 2013 til 2016 eða fjáraukalögum að greiða leigu fyrir húsnæði umfram húsnæðisgjald. 27       Svo sem áður er rakið voru greiðslur daggjalda til áfrýjenda á árunum 2013 til 2016 annars vegar reistar á ákvæðum reglugerða og gjaldskrár á grundvelli 38. gr. og bráðabirgðaákvæðis IV í lögum nr. 112/2008 og hins vegar á rammasamningi sem gerður var á grundvelli 38. gr. laganna. Hvorki í lögunum né reglugerðunum er að finna ákvæði sem skyldar stefnda til greiðslu á leigu, stofnkostnaði, afskriftum eða meiri háttar viðhaldi vegna fasteigna sem notaðar eru í rekstri á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Þvert á móti kemur fram í reglugerðunum að þessi kostnaður sé ekki greiddur og í rammasamningnum er ekki að finna ákvæði sem heimilar slíkar greiðslur. Breytir í þessu sambandi engu þótt í ákvæði 3. mgr. 43. gr. laganna komi fram að við kostnaðargreiningu heilbrigðisstofnana eigi að taka mið af öllum hagrænum kostnaði við þjónustuna, þar með töldum kostnaði vegna húsnæðis. Lýtur ákvæðið að tiltekinni aðferð við kostnaðargreiningu en mælir ekki fyrir um rétt til greiðslu alls húsnæðiskostnaðar. Þá er ekki mælt fyrir um slíka skuldbindingu í tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 125/1999 eða lögum nr. 40/2007. Loks er tekið undir það með héraðsdómi að réttindi samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar verða eingöngu sótt af einstaklingum en ekki lögpersónum og verður réttur áfrýjenda til leigugreiðslna þegar af þeirri ástæðu ekki byggður á því ákvæði. 28       Samkvæmt því sem að framan er rakið hafa áfrýjendur ekki sýnt fram á að þeir eigi, á grundvelli áðurnefndra laga eða samninga, lögvarða kröfu á hendur stefnda um greiðslu á leigu fyrir notkun á umræddum fasteignum í starfsemi sinni. Brot á jafnræðisreglu 29       Áður er rakið að áfrýjendur byggja kröfur sínar einnig á því að þeim hafi verið mismunað af stefnda þar sem þeir hafi ekki fengið sömu meðferð og aðrir sem veita þjónustu á þessu sviði. Brjóti það gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Vísa áfrýjendur til þess að aðilar sem veita sambærilega þjónustu hafi í gegnum tíðina fengið greidda leigu eða kostnað vegna byggingar húsnæðis, afskrifta og meiri háttar viðhalds með samningum við stefnda og eftir atvikum endurgjaldslaus afnot af húsnæði í eigu stefnda. 30       Frá jafnræðisreglu stjórnarskrár, sem tekur bæði til einstaklinga og lögpersóna, verður ekki vikið nema hlutlægar og málefnalegar ástæður réttlæti það. Eiga dómstólar úrskurðarvald um hvort löggjafinn hafi að þessu leyti gætt réttra sjónarmiða við lagasetningu og einnig hvort framkvæmdavaldið hafi afgreitt mál innan þess ramma sem jafnræðisreglur setja. 31       Fyrir liggur í gögnum málsins, og er því ekki andmælt, að stefndi hefur gert samninga við ýmsa aðila um fjármögnun og uppbyggingu á húsnæði til reksturs hjúkrunar- og dvalarrýma. Fyrirkomulagið hefur verið með ýmsum hætti en leggja má til grundvallar við úrlausn málsins að stefndi hafi í ýmsum tilvikum greitt fyrir kostnað við byggingu fasteigna í formi þess að gerður er samningur um greiðslu á leigu fyrir húsnæðið. Þessir samningar hafi gengið lengra í því að greiða fyrir stofnkostnað fasteigna en venja var til með framlögum úr Framkvæmdasjóði aldraðra, að minnsta kosti á árunum 1980 til 2002. Þá eru dæmi um að rekstraraðilar hjúkrunar- og dvalarrýma hafi fengið endurgjaldslaus afnot af fasteignum í eigu stefnda til notkunar í starfseminni. 32       Áfrýjendur reka hjúkrunar- og dvalarrými fyrir aldraða. Þótt ekki liggi fyrir í málinu heildstæðar upplýsingar um hvernig fjármögnun á byggingu hjúkrunar- og dvalarrýma hefur verið háttað í gegnum tíðina og hver aðkoma stefnda hafi verið liggur fyrir að hún hefur verið með mismunandi hætti. Eins og áður hefur verið gerð grein fyrir hefur í framkvæmd og á grundvelli laga verið gerður greinarmunur á milli annars vegar fjármögnunar sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva sem felst í greiðslum úr ríkissjóði og hins vegar fjármögnunar hjúkrunar- og dvalarrýma fyrir aldraða sem felst í framlögum frá stefnda, sveitarfélögum, Framkvæmdasjóði aldraðra og með sjálfsaflafé. 33       Áfrýjendur hafa upplýst að þeir hafi með fjáröflunum og styrkjum fjármagnað uppbyggingu á fasteignum til reksturs hjúkrunar- og dvalarrýma, allt frá árinu 1957 í tilviki áfrýjandans Hrafnistu dvalarheimilis aldraðra í Reykjavík og frá árinu 1977 í tilviki áfrýjandans Hrafnistu dvalarheimilis aldraðra í Hafnarfirði. Með lögum nr. 71/1954 um happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna, sbr. nú lög nr. 16/1973, var Dvalarheimili aldraðra sjómanna sem var í eigu Sjómannadagsráðs veitt leyfi til að stofnsetja og reka happdrætti í því skyni að fjármagna rekstur dvalarheimila. Allur ágóði af happdrættinu skyldi renna til uppbyggingar á Dvalarheimili aldraðra sjómanna. Með lögum nr. 52/1963 var áðurgreindum lögum breytt á þann veg að 60% af ágóða happdrættisins skyldu renna til uppbyggingar á Dvalarheimili aldraðra sjómanna en afgangurinn til byggingarsjóðs aldraðra. Í 3. gr. núgildandi laga nr. 16/1973 er mælt fyrir um að ágóði happdrættisins skuli renna til byggingarframkvæmda fyrir aldraða á vegum Sjómannadagssamtakanna í Reykjavík og Hafnarfirði. Þá liggur fyrir í málinu að áfrýjendur hafa um árabil notið greiðslna úr Framkvæmdasjóði aldraðra, sbr. 9. gr. laga nr. 125/1999, en hlutverk þess sjóðs er að fjármagna byggingu húsnæðis fyrir aldraða, nauðsynlegar breytingar á því húsnæði og viðhald þess. Stefndi hefur bent á að þeir aðilar sem hafa, með beinum samningnum við stefnda, fengið greiddan stofnkostnað í formi leigugreiðslna fái ekki greiðslur úr Framkvæmdasjóði aldraðra, sbr. 4. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999. 34       Af framangreindum upplýsingum, sem gefa þó takmarkað yfirlit yfir aðkomu stefnda að fjármögnun og uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarrýma, er ljóst að aðstaða þeirra sem hafa verið að byggja upp og reka hjúkrunar- og dvalarrými er og hefur í gegnum tíðina verið með mismunandi hætti. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að með 4. mgr. 9. gr. laga nr. 125/1999, eins og henni var breytt með lögum nr. 38/2004, voru settar reglur sem heimila Framkvæmdasjóði aldraðra að greiða húsaleigu til að mæta stofnkostnaði við byggingu á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða að því tilskildu að þau hafi verið byggð eftir 1. janúar 2005. Reglur um fjármögnun húsnæðis fyrir þessa þjónustu hafa því tekið breytingum í áranna rás. Í málinu liggur ekki fyrir hvenær þær fasteignir voru byggðar sem málsókn áfrýjanda lýtur að. Ljóst er þó að stærstur hluti þeirra hefur verið byggður fyrir 1. janúar 2005 og að hluta verið fjármagnaður með greiðslum úr Framkvæmdasjóði aldraðra samkvæmt eldri reglum. 35       Samkvæmt því sem að framan er rakið liggur fyrir að áfrýjendur hafa að nokkru leyti fengið aðstöðu og fjármuni til að afla fjár til uppbyggingar á húsnæði til starfseminnar sem viðmiðunaraðilum hefur ekki staðið til boða. Áfrýjendur hafa ekki sýnt fram á með samanburðargögnum að þeim hafi í gegnum tíðina verið mismunað við uppbyggingu og viðhald á þeim fasteignum sem þeir hafa byggt og notað í starfsemi sinni. Þá er einnig ósannað að þeir séu í meginatriðum í sömu stöðu og þeir aðilar sem hafa gert sérstaka samninga um leigugreiðslur til þess að fjármagna uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarrýma. 36       Í 76. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að með lögum skuli tryggja rétt einstaklinga til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Ákvæðið felur í sér að á stefnda hvíla ákveðnar lágmarksskyldur til þess að tryggja réttindi einstaklinga og ráðstafa fjármagni til þessara málaflokka. Nánar um það hvernig útgjöldum stefnda er ráðstafað til uppbyggingar á þessum málaflokkum fer eftir ákvæðum laga hverju sinni og þá einkum fjárlaga hvers árs. Ljóst er að stefndi hefur nokkurt svigrúm við forgangsröðun fjármuna til uppbyggingar og þjónustu við mismunandi málaflokka umfram lágmarksskyldurnar. Fyrir liggur að með lögum nr. 112/2008 hefur stefndi markað þá stefnu að Sjúkratryggingar Íslands skuli greiða viðurkenndum þjónustuaðilum, sem eru háðir fjárlögum á hverjum tíma, nánar skilgreinda fjármuni til almenns rekstrar á hjúkrunar- og dvalarheimilum. Ekki liggur annað fyrir í málinu en að þar sé gætt jafnræðis að teknu tilliti til eðlis og umfangs þjónustunnar sem veitt er. 37       Í framangreindum ákvæðum laga nr. 112/2008 er ekki gert ráð fyrir því að greitt sé fyrir stofnkostnað við byggingu hjúkrunar- og dvalarrýma, afskriftir eða meiri háttar viðhald. Svo sem fram hefur komið í málinu hefur stefndi með ýmsum hætti reynt að byggja upp þjónustu á sviði hjúkrunar- og dvalarrýma í gegnum árin. Með samningi um hjúkrunarheimilið Sóltún sem áfrýjendur vísa til var gerð tilraun með einkaframkvæmd á þessu sviði og fór það verkefni fram með útboði. Fram hefur komið hjá stefnda að svokölluð leiguleið, þar sem ríkið greiðir 85% af húsaleigu og sveitarfélög 15%, hafi einkum verið notuð til þess að fjármagna uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarrýma eftir fall bankakerfisins á árinu 2008 og þá efnahagskreppu sem fylgdi í kjölfarið. Þá liggur fyrir að ýmis fyrirtæki og samtök hafa í gegnum tíðina með frjálsum framlögum lagt fram umtalsverða fjármuni til uppbyggingar eins og sést best á framlögum áfrýjenda til þessarar starfsemi. Aðstaða og aðgangur aðila að fjármagni til uppbyggingar hefur verið misjafn samkvæmt lögum frá einum tíma til annars. Sama hefur gilt um forgangsröðun stefnda og kröfur sem gerðar hafa verið til umfangs og gæða þjónustunnar. Játa verður stefnda visst svigrúm til að bregðast við nýjum þörfum með nýjum úrræðum og þjónustuleiðum. Þótt stefndi hafi kosið að fjármagna uppbyggingu á sviði hjúkrunar- og dvalarrýma með ýmsum hætti í gegnum tíðina eiga einstakir aðilar sem starfa á því sviði ekki kröfur á að fá í öllum atriðum sömu greiðslur frá stefnda. Ekki verður ráðið af þeim upplýsingum sem liggja fyrir í málinu að ákvarðanir stefnda um uppbyggingu og fjármögnun hjúkrunar- og dvalarrýma hafi verið ómálefnalegar gagnvart áfrýjendum í gegnum tíðina og að þar hafi ekki verið gætt meðalhófs, sem leitt hafi til mismununar í andstöðu við grunnreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði. 38       Með vísan til þess sem að framan er rakið og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er niðurstaða hans um sýknu stefnda staðfest. 39       Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest. 40       Rétt þykir að málskostnaður fyrir Landsrétti falli niður. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Landsrétti fellur niður.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2019 I Mál þetta, sem tekið var til dóms að lokinni aðalmeðferð 31. janúar 2019, er höfðað af Hrafnistu dvalarheimili aldraðra í Reykjavík og Hrafnistu dvalarheimili aldraðra í Hafnarfirði, á hendur íslenska ríkinu, með stefnu birtri 13. október 2017. Dómkröfur stefnanda, Hrafnistu dvalarheimilis aldraðra í Reykjavík, eru þær aðallega að stefnda verði gert að greiða 1.437.559.534 krónur, auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags, og til vara 1.375.699.410 krónur, auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags. Dómkröfur stefnanda, Hrafnistu dvalarheimilis aldraðra í Hafnarfirði, eru þær aðallega að stefnda verði gert að greiða 1.217.453.803 krónur, auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags, og til vara 1.183.857.203 krónur, auk dráttarvaxta frá 17. október 2017 til greiðsludags. Þá gera stefnendur hvor um sig sjálfstæða kröfu til málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins. Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda og að stefnendur verði dæmdir til að greiða honum málskostnað að mati dómsins. Til vara gerir stefndi kröfu um stórfellda lækkun kröfugerðar stefnenda og að málskostnaður verði þá felldur niður. Með úrskurði héraðsdóms 14. júní 2018 var þrautavarakröfum stefnenda vísað frá dómi.   II Málavextir og yfirlit ágreiningsefna Stefnendur reka hjúkrunar- og dvalarheimilin Hrafnistu í Laugarási og Hrafnistu í Hafnarfirði. Ágreiningsefni máls þessa á rætur sínar að rekja til þess að stefnendur telja að aðstæður rekstraraðila hjúkrunar- og dvalarheimila séu mismunandi þar sem sum rekstrarfélög slíkra heimila fái fasteignir undir starfsemi sína endurgjaldslaust frá stefnda á meðan önnur leggi sjálf til fasteignir eða leigi frá þriðja aðila án þess að fá greiðslur frá stefnda vegna þess kostnaðarliðar. Þeir byggja á því að á stefnda hafi hvílt sú skylda að semja um greiðslur til stefnenda fyrir þá þjónustu sem stefnda bar að sinna en stefnendur tóku að sér, sbr. IV. kafla laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar. Það hafi dregist og hafi þá farið um greiðslur til stefnenda eftir reglugerðum settum af stefnda og gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands, sbr. 38. gr. laga nr. 112/2008, hvorar tveggja settar án aðkomu stefnenda. Þann 21. október 2016 tók gildi rammasamningur milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila um þjónustu hjúkrunarheimila, hér eftir nefndur rammasamningur, og gerðust stefnendur aðilar að samningnum með tilkynningu 25. sama mánaðar. Í málatilbúnaði stefnenda kemur fram að Sjómannadagsráð sé samband stéttarfélaga sjómanna á höfuðborgarsvæðinu og hafi ráðið sett sér lög/samþykktir um starfsemi sína. Sjómannadagsráð hafi upphaflega reist fasteignir sínar til að tryggja öldruðum sjómönnum og sjómannsekkjum vistun á elliheimili, Dvalarheimili aldraðra sjómanna. Samkvæmt stefnu eru stefnendur sérstök rekstrarfélög í eigu Sjómannadagsráðs sem stofnuð voru fyrst og fremst til að sinna rekstri hjúkrunar- og dvalarheimila. Engar sérstakar samþykktir gildi fyrir stefnendur og sé þeim stýrt af Sjómannadagsráði bæði í gegnum eignarhald og skipun stjórnar þar sem Sjómannadagsráð skipi stjórn stefnenda. Þá leggi ráðið stefnendum til fasteignir undir hjúkrunar- og dvalarheimili Hrafnistu, að Laugarási og í Hafnarfirði. Þar dvelji nú einungis einstaklingar sem ekki hafi getu til að búa á eigin heimili samkvæmt færnimati. Í stefnu er það rakið að stefnendum beri að greiða leigu til Sjómannadagsráðs vegna afnota af fasteignum. Þar sem stefnendur fái ekki greitt frá stefnda fyrir húsnæðisþátt þeirrar þjónustu sem mál þetta varðar geti þeir ekki greitt leigu til Sjómannadagsráðs. Stefnendur lýsa því svo í stefnu, og er það óumdeilt, að Sjómannadagsráð hafi fyrst og fremst fjármagnað það húsnæði sem ráðið leggur stefnendum til. Það hafi verið gert með frjálsum framlögum, fyrir lánsfé og annarri fjáröflun. Einnig hafi það fengið framlög frá hinu opinbera úr Framkvæmdasjóði aldraðra en það hafi verið mjög lítill hluti af kostnaði. Þrátt fyrir að uppbygging húsnæðis hafi verið fjármögnuð með beinum hætti úr framkvæmdasjóði eigi ríkið ekki rétt á endurgjaldslausum afnotum húsnæðis eða lægra endurgjaldi en ella. Þá kom fram við meðferð málsins að stefnendur hafi áður verið eigendur þeirra fasteigna sem notaðar eru undir starfsemina en eignarhald á þeim hafi verið fært til Sjómannadagsráðs árið 2015. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 112/2008 skal sjúkratryggingastofnun gera samninga um veitingu þjónustu í rýmum fyrir aldraða, þ.m.t. á dvalar- og hjúkrunarheimilum, og greiða endurgjald til þeirra aðila sem taka það að sér. Séu samningar ekki til staðar fer um greiðslur samkvæmt reglugerðum og gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands sem settar hafa verið á grundvelli 38. gr. sömu laga. Samkvæmt þeim greiði Sjúkratryggingar rekstraraðilum gjald fyrir þjónustu í hjúkrunarrýmum, dvalarrýmum og dagdvalarrýmum sem ætlað er að mæta hvers konar þjónustu við notendur og er einnig ætlað að mæta rekstrarútgjöldum. Þá sé greitt sérstakt húsnæðisgjald til rekstraraðila vegna tiltekinna kostnaðarliða, þ.e. vegna fasteignagjalda, trygginga, viðhalds, eftirlits og umsýslu húsnæðis. Sérstaklega sé tekið fram að húsnæðisgjaldi sé ætlað að standa undir almennu viðhaldi húsnæðis en ekki stofnkostnaði húsnæðis, afskriftum og meiriháttar breytingum og endurbótum á húsnæði. Byggja stefnendur málatilbúnað sinn á því að endurgjald stefnda fyrir þjónustuna sé ófullnægjandi að þessu leyti. Ágreiningur aðila varðar það hvort stefnda beri að greiða endurgjald vegna afnota stefnenda af húsnæði Sjómannadagsráðs í þágu reksturs hjúkrunarheimila. Stefnendur telja að sú staða að stefndi leggi endurgjaldslaust til fasteignir undir starfsemi sumra rekstrarfélaga hjúkrunar- og dvalarheimila staðfesti það fyrirkomulag að stefndi eigi að greiða fyrir húsnæði undir hjúkrunarheimilin. Þá sé hægt að líta á endurgjaldslaus afnot húsnæðis frá stefnda sem ígildi húsaleigu. Stefnendur krefjast þess að stefndi bæti þeim þann kostnað sem þeir hafa haft á árunum 2013 til 2016 af því að leggja til fasteignir undir rekstur hjúkrunarheimila. Byggja þeir annars vegar á því að stefndi verði dæmdur skaðabótaskyldur gagnvart stefnendum þar sem hann hafi með ólögmætum hætti brotið gegn skyldum sínum gagnvart þeim og hins vegar á því að á grundvelli almennra reglna kröfuréttar og samningaréttar beri stefnda að greiða sanngjarnt og eðlilegt leigugjald fyrir fasteignir þær sem stefnendur hafi lagt til. Taka kröfur stefnenda til áranna 2013 til 2016 og byggir fjárhæð kröfu stefnenda á niðurstöðu dómkvadds matsmanns. Við rammasamninginn frá 21. október 2016 var m.a. gerð bókun SFV og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar kemur m.a. fram: Einstök hjúkrunar- og dvalarheimili hafa þegar hafið eða eru með í undirbúningi málsókn á hendur ríkinu vegna vangoldinna greiðslna vegna reksturs heimilanna. Samningsaðilar eru meðvitaðir um þetta. Aðild að rammasamningi felur ekki í sér viðurkenningu á því að endurgjaldið fyrir þjónustuna sé að einhverju leyti fullnægjandi og takmarkar ekki heimildir einstaka heimilis til málssóknar eða kröfugerðar gagnvart ríkinu. Þá er það skilningur okkar að aðild að rammasamningi verði ekki skilyrt með þeim hætti að heimilin verði að falla frá slíkum kröfum á hendur ríkinu til að fá aðild að samningnum. Þá gerðu SÍ og ráðuneytin, í tilefni af framangreindri bókun, einnig bókun við samninginn. Segir þar: Með undirritun á samkomulagi þessu er á engan hátt viðurkennt að um vangoldnar greiðslur sé að ræða af hálfu ríkisins og því ekki fallist á kröfur einstakra hjúkrunar- og dvalarheimila um greiðslur. Nefndin gengur út frá að við gerð samkomulags þessa að kröfugerð heimilanna nái til tímabils fyrir gildistöku fyrirhugaðs rammasamnings og eigi þ.a.l. ekki við um greiðslur á grundvelli rammasamnings. Í 6. mgr. 23. gr. rammasamningsins er kveðið á um að samstarfsnefnd aðila skuli skipa fulltrúa í starfshóp í samræmi við lýsingu og verkefnaáætlun starfshópa í fylgiskjali X. Er þar m.a. kveðið á um að verkefni starfshópsins verði að skoða eignarhald á húsnæði hjúkrunarheimila, kostnað við eignarhald, framlög opinberra aðila til byggingar og viðhalds hjúkrunarheimila og uppsafnaða þörf fyrir viðhald- og endurbætur eldri heimila. Þá séu aðilar sammála um að leggja mat á eðlilegan kostnað við rekstur húsnæðis hjúkrunarheimila. Við aðalmeðferð málsins gaf skýrslu Haukur Óskarsson, vélaverkfræðingur og dómkvaddur matsmaður.   III Málsástæður og lagarök stefnenda Stefnendur byggja dómkröfur sínar á því að samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944, með síðari breytingum, skuli öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra tilvika. Um þessi málefni hafa verið sett lög nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Af ákvæðum laganna verður nánar ráðið um skyldur ríkisins gagnvart öldruðum, tilhögun og fyrirkomulag öldrunarmála, gæðaviðmið o.fl. Megi vera ljóst að stefnda beri að annast um og greiða allan kostnað sem af starfseminni hlýst í samræmi við ákvæði laganna. Til að inna verkefni og skyldur af hendi hafi stefndi samið við nokkur hjúkrunar- og dvalarheimili, sem ekki eru starfrækt af stefnda, um að annast þjónustu við aldraða og falla stefnendur þar undir. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar skulu greiðslur til hjúkrunar- og dvalarheimila fara samkvæmt samningum sjúkratrygginga og rekstraraðila hjúkrunar- og dvalarheimila. Þar kemur jafnframt fram að séu samningar ekki til staðar fari um greiðslur samkvæmt reglugerðum og gjaldskrám sjúkratrygginga Íslands, sbr. 38. gr. laganna. Stefnendur byggja á því að á stefnda hafi óumdeilanlega hvílt sú skylda að greiða fullt endurgjald til hjúkrunar- og dvalarheimila sem annist þjónustu við aldraða og að húsnæðiskostnaður slíkra stofnana sé þar ekki undanskilinn. Í því tilviki sem hér er til umfjöllunar liggi fyrir að stefndi hefur ekki greitt stefnendum fullt og eðlilegt endurgjald vegna húsnæðis sem stefnendur hafa lagt til rekstrar heilbrigðisþjónustunnar en tilvist húsnæðisins er grundvallarforsenda þess að unnt sé að veita öldruðum þjónustuna. Í því sambandi ber að hafa í huga að margvíslegar skyldur hvíla á stefnendum að því er aðbúnað húsnæðis varðar, þ.e. stefnendur þurfa að uppfylla kröfur um gæðaviðmið samkvæmt lögum nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu og reglugerð nr. 786/2007 um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu og faglegar lágmarkskröfur um húsnæði, tæki, búnað, mönnun og annað sem tengist rekstri á heilbrigðisþjónustu. Stefnendur beri því umtalsverðan kostnað af húsnæðinu sem nýtt er í þjónustuna sem stefndi ber ábyrgð á og ber að kosta lögum samkvæmt. Stefnendur vísa til þess að stefndi hafi, þrátt fyrir framangreint, bæði við gerð rammasamnings og áður við setningu reglugerða og gjaldskráa, undanskilið greiðslu fyrir fasteignir öldrunarstofnana. Vísa þeir hvað þetta varðar til m.a. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar, áður en rammasamningur var undirritaður, og til 8. gr. rammasamnings, sbr. lið 4.00. Það sem er innfalið í húsnæðisgjaldi samkvæmt nefndum ákvæðum reglugerða og rammasamnings séu aðeins fasteignagjöld, tryggingar, almennt viðhald, eftirlit og umsýsla húsnæðis en undanskilið er stofnkostnaður húsnæðis, afskriftir, meiriháttar viðhald og endurbætur húsnæðis. Stefnendur telja að engin rök hnígi til þess að slíkur greinarmunur sé gerður á einstökum kostnaðarliðum vegna húsnæðis sem nýtt er til rekstrarins og hann stríði beinlínis gegn þeirri skyldu sem á stefnda hvílir til að standa straum af kostnaði við öldrunarþjónustu. Benda stefnendur á að útilokað sé að litið verði svo á að stefnendur beri að leggja til húsnæði til starfseminnar án sanngjarns og eðlilegs endurgjalds úr hendi stefnda. Stefnendur byggja aðalkröfu á því að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnendum þar sem stefndi hafi með ólögmætum hætti brotið gegn skyldum sínum gagnvart stefnendum og hins vegar á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um að greiða beri sanngjarnt og eðlilegt leigugjald fyrir fasteignir sem stefnendur leggi til. Útreikningur kröfufjárhæðar byggir á matsgerð þar sem leigufjárhæð er reiknuð út fyrir tímabilið frá janúar 2013 og út desember 2016 en áskilinn réttur til að krefjast síðar greiðslu fyrir tímabilið eftir desember 2016. Hvað varðar skaðabótakröfu þá byggja stefnendur á því að sú skylda hafi hvílt á stefnda að semja um greiðslur við þá fyrir þá þjónustu sem stefnda bar að sinna en stefnendur tóku að sér, sbr. IV. kafli laga nr. 112/2008. Gildistöku kaflans var frestað til 1. janúar 2015 og fór á sama tímabili um greiðslur samkvæmt reglugerðum settum af stefnda og gjaldskrá sjúkratrygginga Íslands, sbr. 38. gr. laga nr. 112/2008 en rammasamningur um þjónustuna öðlaðist síðan ekki gildi fyrr en 21. október 2016. Reglugerðirnar og gjaldskrárnar voru settar einhliða af stefnda án allrar aðkomu stefnenda eða annarra sem slíka þjónustu veittu. Byggja stefnendur á því að við slíkar kringumstæður komi stefndi fram sem stjórnvald og ákvarðanir sem þannig eru til komnar þurfi að uppfylla ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglur íslensks stjórnsýsluréttar, þ.m.t. ólögfestar grundvallarreglur. Byggir sú afstaða á því að reglugerðir og gjaldskrár tóku til og beindust að fáum en þekktum aðilum og vísast um sjónarmið því tengdu m.a. til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4340/2005 og 4341/2005. Stefnendur telji sýnt að setning reglugerða og gjaldskráa hafi ekki uppfyllt nauðsynleg skilyrði t.d. að því er varðar rannsóknarreglur, jafnræðisreglu, meðalhófsreglu, andmælareglu, ákvæði um undirbúning ákvarðana sem og ólögfestar meginreglur stjórnsýsluréttarins, eins og t.d. þær er varða réttmætar væntingar. Þá hafi annmarkar verið á efni reglugerða og gjaldskráa þannig að skilyrðum laga nr. 112/2008 hafi ekki verið fullnægt þar sem ekki hafi verið tekið tillit til alls kostnaðar sem greiða átti fyrir þjónustuna. Vegna þessa hafi ákvarðanir sem fólust í setningu reglugerða og gjaldskráa verið ólögmætar. Þá byggja stefnendur á því að þeim hafi verið þröngvað til að ganga að samningi sjúkratrygginga Íslands annars hefðu greiðslur til þeirra verið óbreyttar. Gerðust stefnendur aðilar að rammasamningnum með fyrirvara sem kom fram í bókun með samningnum. Stefnendur telja að samningurinn byggi á sömu grundvallarsjónarmiðum og reglugerðir og gjaldskrár gerðu áður, þ.e. ekki er gert ráð fyrir greiðslu kostnaðar vegna fasteigna undir rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila. Stefnda beri að greiða allan kostnað sem hlýst af málaflokknum og er húsnæðiskostnaður þar ekki undanskilinn. Ákvæði samningsins um greiðslur án þess að tekið sé tillit til húsnæðiskostnaðar gangi gegn lögum nr. 112/2008. Bent er á að samkvæmt 3. mgr. 43. gr. laganna þurfi þeir sem veita heilbrigðisþjónustu að kostnaðargreina þjónustu sína samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum aðferðum. Við þá greiningu skuli taka mið af öllum hagrænum kostnaði, þ.m.t. kostnaði vegna húsnæðis, fjármagns og afskrifta. Verður það ekki skilið öðruvísi en svo að slík kostnaðargreining skuli fara fram varðandi þann kostnað sem stefndi á að taka tillit til við ákvörðun greiðslna og/eða sem fjalla á um í rammasamningi um slíka þjónustu. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laga nr. 112/2008 segi m.a. um þetta atriði: Sjúkratryggingastofnunin ákveður í samráði við veitendur heilbrigðisþjónustu þær aðferðir sem notaðar skulu við kostnaðargreininguna. Samræmdar aðferðir eru forsenda þess að unnt sé að bera saman kostnað ólíkra aðila. Í þessu sambandi er gert ráð fyrir því að kostnaðargreiningin taki mið af öllum hagrænum kostnaði, þ.m.t. kostnað vegna húsnæðis, fjármagns og afskrifta. Hluti kostnaðar opinberra aðila kemur ekki fram í reikningsskilum þeirra en taka verður tillit til hans til að hægt sé að bera kostnað opinberra aðila saman við kostnað einkaaðila. Stefnendur byggja á því að sú afstaða stefnda að greiða ekki fyrir húsnæði undir starfsemi hjúkrunar- og dvalarheimila feli í sér brot á stjórnarskrárvörðum réttindum, þ.m.t. jafnræðisreglu. Þannig mæli 65. gr. stjórnarskrárinnar svo fyrir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Ákvæðið beri að skýra svo að mismunun, sem ekki felst í málefnalegum og hlutlægum sjónarmiðum sé óheimil. Í jafnræðisreglunni felist að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og eigi að njóta jafnra og hliðsettra réttinda. Þá leiði af reglunni að stjórnvöld geti ekki mismunað með því að afgreiða sambærileg mál með ólíkum hætti. Stefnendur benda í þessu sambandi á að ólík afstaða stefnda til greiðslna vegna húsnæðiskostnaðar þeirra sem taka að sér að sinna þjónustu hjúkrunar- og dvalarheimila í þágu ríkis brjóti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og sé því ólögmæt. Þá benda stefnendur á að þeir, í gegnum móðurfélag sitt Sjómannadagsráð, útvegi þær fasteignir sem nýttar eru undir hjúkrunar- og dvalarheimili í þágu stefnda og stefndi eigi ekkert tilkall til hagnýtingar umræddra eigna. Sú afstaða stefnda að greiða ekki fyrir húsnæðið feli í sér brot á stjórnarskrárvörðum réttindum, þ. á m. eignaréttarákvæðum. Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar er eignarréttur friðhelgur og þar kemur fram að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema að almenningsþörf krefji og þá þurfi lagafyrirmæli til og komi fullt verð fyrir. Stefnendur telja að sú afstaða stefnda að greiða ekki gjald vegna húsnæðisins sé brot gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar og geri stefndi með því kröfu um að stefnendur leggi til húsnæði undir starfsemi í þágu stefnda án endurgjalds og brjóti slík tilhögun gegn ákvæðinu og sé því ólögmæt. Stefnendur telja að með framangreindri tilhögun sé verið að haga greiðslum til stefnenda með þeim hætti að ekki er tekið tillit til kostnaðar stefnenda af öflun og rekstri húsnæðis, afskrifta, meiriháttar endurbóta og viðhalds. Sé þannig með ólögmætum hætti brotið gegn þeim skyldum sem á stefnda hvíli samkvæmt lögum nr. 112/2008 til að standa straum af kostnaði við starfsemina, til að haga endurgreiðslu til stefnenda vegna starfseminnar þannig að tekið sé tillit til alls hagræns kostnaðar af þjónustunni og til að gæta að því að jafnræði sé með stefnendum og öðrum aðilum sem sinna sömu þjónustu. Með því hafi stefndi gerst sekur um saknæma háttsemi gagnvart stefnendum sem valdið hafi þeim fjártjóni sem stefnda beri að bæta. Þá hafi stefndi með því að taka ekki tillit til kostnaðar stefnenda af öflun og rekstri húsnæðis brotið gegn þessum skyldum sínum gagnvart lögunum auk þess sem þá hafi ekki verið gætt jafnræðis með stefnendum og öðrum sem slíka þjónustu reka. Byggja stefnendur á því að umfang fjártjónsins nemi því hæfilega endurgjaldi sem stefnda hefði borið að greiða stefnendum að teknu tilliti til alls hagræns kostnaðar stefnenda af húsnæðinu, að frádregnu því húsnæðisgjaldi sem þeir hafa fengið greitt á sama tímabili á grundvelli reglugerða og ákvæða rammasamnings eins og áður var rakið. Stefnendur telja að hæfilegt endurgjald stefnda vegna húsnæðisins megi jafna til niðurstöðu matsgerðar um eðlilegt leigugjald til stefnenda vegna leigu á þeim fasteignum sem stefnendur leggja sjálfir til og notaðar eru undir rekstur á hjúkrunar- og dvalarheimilum fyrir tímabilið nóvember 2013 til 31. desember 2016. Stefnendur reisa dómkröfu á niðurstöðu matsgerðar að frádregnu húsnæðisgjaldi. Ástæðan fyrir því að húsnæðisgjald er dregið frá er að í matsgerð er metið eðlilegt leigugjald ef stefndi væri að leigja þessar fasteignir af stefnendum. Þegar slíkt leigugjald er metið innifelur það kostnaðarliði sem myndu falla undir leigusala samkvæmt húsaleigulögum og er þar m.a. um að ræða tiltekna kostnaðarþætti, s.s. fasteignagjöld og tryggingar. Stefnendur draga frá allt húsnæðisgjald þrátt fyrir að nokkrir liðir þess séu þess eðlis að leigutaki að húsnæði myndi almennt greiða slíkan kostnað, s.s. almennt viðhald innandyra. Sú aðferð að draga frá allt húsnæðisgjaldið gerir kröfu stefnenda lægri en ella en er sett fram með þeim hætti til einföldunar. Stefnendur byggja kröfu sína um hæfilegt endurgjald fyrir þjónustu á því að það leiði af meginreglum kröfu- og samningaréttar að stefndu beri að greiða þeim sérstaklega vegna húsnæðisþáttar enda verði sú krafa aldrei gerð að stefnendur leggi fram húsnæði til starfseminnar án endurgjalds. Þar sem ekki hafi verið samið um það beri að greiða sanngjarnt og eðlilegt endurgjald. Stefnendur hafi óskað eftir greiðslu fyrir húsnæðið en stefndi neitað að greiða en haldið áfram að beina öldruðum einstaklingum til stefnenda. Stefndi verði að bera hallann af því að halda áfram að nýta sér þjónustu stefnenda án þess að semja fyrir fram um slíka þjónustu. Aðilar geti ekki haft réttmætar væntingar um annað en að stefndi greiði eðlilegt endurgjald fyrir fasteignirnar. Stefnendur byggja á því að hæfilegt endurgjald vegna leigu á fasteignunum fyrir tímabilið nóvember 2013 til 31. desember 2016 megi jafna til niðurstöðu matsgerðar um eðlilegt leigugjald til stefnenda og reisa aðalkröfu sína á niðurstöðinni að frádreginni greiðslu stefnda vegna húsnæðisgjalds eins og það er ákveðið í rammasamningi og reglugerðum. Húsnæðisgjaldið sé dregið frá þar sem í matsgerð er verið að meta eðlilegt leigugjald ef stefndi leigði eignirnar af stefnendum. Þegar það er metið innifelur það kostnaðarþætti sem mundu falla undir leigusala samkvæmt húsaleigulögum og er þar um að ræða tiltekna kostnaðarþætti, s.s. fasteignagjöld og tryggingar. Stefnendur fá allt húsnæðisgjald þrátt fyrir að nokkrir liðir séu þess eðlis að leigutaki að húsnæði mundi almennt greiða slíkan kostnað, s.s. almennt viðhald innandyra. Það sé almennt á kostnað leigutaka ef um er að ræða hefðbundna leigu á húsnæði. Sú aðferð að draga frá allt húsnæðisgjaldið gerir kröfu stefnenda gagnvart stefnda lægri en ella og er krafan sett fram með þeim hætti til einföldunar. Stefnendur krefjast þess til vara að stefnda verði gert að inna af hendi aðra og lægri greiðslu. Er þá við það miðað að talið verði að draga beri frá framlög vegna endurgjalds fyrir húsnæði sem stefnendur hafi fengið úr Framkvæmdasjóði aldraðra vegna stofnkostnaðar húsnæðis fyrir þann tíma sem stefnukrafa tekur til. Þrátt fyrir að framlögin hafi ekki verið veitt með skilyrðum setja stefnendur fram varakröfu sem tekur mið af umræddum framlögum. Þeir aðilar sem taka við greiðslum frá ríkinu vegna fasteigna undir hjúkrunar- og dvalarheimili, s.s. í tilviki hjúkrunarheimilisins Sóltúns, geti ekki sótt um styrki úr Framkvæmdasjóði aldraðra, sbr. 7. gr. samningsins. Þar sem krafa þessi byggir á skaðabótarétti ásamt almennum reglum kröfu- og samningaréttar og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga er varakrafan sett upp með þeim hætti að stefnendur séu jafn settir og aðrir. Nefna stefnendur sem dæmi að Sóltún sem taki við leigugreiðslum vegna fasteigna geti ekki sótt um styrki úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Hvað þetta varðar vísa stefnendur til framlagðra gagna þar sem saman hafa verið tekin gögn um framlög frá stefnda fyrir sama tímabil og dómkrafa tekur til og sú fjárhæð dregin frá kröfufjárhæð. Loks vísa stefnendur til þess að þrátt fyrir ítrekaðar kröfur þeirra og réttmætar væntingar hafi kröfur þeirra ekki fengist greiddar. Hafi einungis verið færðar fram þær röksemdir fyrir höfnun að hvorki hafi verið samið um eða ákveðnar fjárhæðir í þessu skyni. Lagafyrirmæli um rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila hljóti að byggja á því að ríkið útvegi húsnæði til rekstrarins. Reglugerð um endurgjald fyrir þennan rekstur eða rammasamningur verður því að ákveða hæfilegt endurgjald í þessu skyni og ráðherrann að útvega nægilegt endurgjald til greiðslu þess náist ekki samningar við Sjúkratryggingar Íslands um þetta. Stefnendur byggja kröfu sína á meginreglum kröfu- og samningaréttar auk almennra skaðabótareglna, bæði utan og innan samninga. Um jafnræði er vísað til 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Um málsmeðferð er jafnframt vísað til ákvæða stjórnsýslulaga, þ.m.t. 10., 12. og 13. gr. sem og ólögfestra meginreglna stjórnsýsluréttar, eins og t.d. reglunnar um réttmætar væntingar. Um eignarréttindi er vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar. Hvað varðar skyldu stefnda til að sinna öldruðum, sem og aðrar skyldur stefnda í því sambandi, vísast til 76. gr. stjórnarskrárinnar og laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Um varnarþing vísast til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sérstaklega 3. mgr. 33. gr. og krafa um málskostnað er reist á 129. og 130. gr. sömu laga. Krafa um virðisaukaskatt byggir á ákvæðum laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt en stefnendur eru ekki virðisaukaskattskyldir aðilar.   IV Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnenda og byggir þá kröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem í stefnu komi fram að stefnendur eru ekki eigendur þess húsnæðis sem kröfugerðin snýr að heldur Sjómannadagsráð. Vísar hann sérstaklega til þess að í 13. gr. laga Sjómannadagsráðs komi fram að eignir þess séu allt eignir sem skráðar hafa verið á sjómannadaginn og Fulltrúaráð sjómannadagsráðs í Reykjavík og Hafnarfirði. Fari ráðið með öll réttindi og skyldur varðandi þessar eignir. Einnig byggir stefndi á því að stefnendur geti ekki stutt kröfu sína við 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem ákvæðið snúi ekki að vernd lögaðila auk þess sem lög hafi verið sett í samræmi við ákvæðið.             Stefndi byggir á því að tilvísun stefnenda til 72. gr. stjórnarskrárinnar sé haldlaus. Sjómannadagsráð byggði viðkomandi fasteignir og tók ákvörðun um nýtingu þeirra. Hrafnista í Laugarási virðist hafa hafið sína starfsemi 2. júní 1957 og Hrafnista í Hafnarfirði 19. nóvember 1977. Er algjörlega látið vera að rökstyðja eða gera grein fyrir því í stefnu hvenær það gerðist að eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar hafi verið brotið. Hvort það hafi verið strax í upphafi og hafi svo verið sé um stórfellt tómlæti að ræða af hálfu Sjómannadagsráðs að hafa ekki gert athugasemdir fyrr. Þá komi ekki fram hvort einhverjar forsendur milli stefnanda og Sjómannadagsráðs hafi breyst. Það sé ekki rökstutt með neinum hætti í stefnu og erfitt að átta sig á tilvísun til 72. gr. stjórnarskrárinnar og er því mótmælt harðlega að sú grein geti átt við í máli þessu. Það komi einnig fram í stefnu að stefnendum beri engin skylda til að reka hjúkrunar- og dvalarheimili og þeir geti hvenær sem er ákveðið að hætta þeirri starfsemi og nota eignir með öðrum hætti. Sú ályktum stefnenda, sem eru reyndar leigutakar, fari illa saman við tilvísun þeirra til 72. gr. stjórnarskrárinnar.             Hvað varðar tilvísun stefnenda til 39. gr. laga nr. 112/2008, sem þeir byggja á að skapi þá greiðsluskyldu sem hér er fjallað um, þá byggir stefndi á því að svo sé ekki né heldur hvað varðar 38. gr. sömu laga. Stefnendur virðast telja að með setningu þessara laga hafi stofnast sú greiðsluskylda sem stefnendur byggi á. Stefndi telur það vera fráleitt og bendir á að ekkert í lögskýringargögnum styðji þá skoðun stefnenda og er þessari túlkun því mótmælt.             Stefndi mótmælir því einnig að ekki hafi verið greitt fullt og eðlilegt endurgjald vegna húsnæðis. Stefndi hafi staðið við sínar samningsskuldbindingar og kröfugerð stefnenda nú sé umfram bæði samninga og lagalegar skyldur stefnda. Því megi ekki gleyma að stefndi verði að fara að gildandi lögum frá Alþingi og er þar hvergi getið um þá greiðsluskyldu sem nú er gerð krafa um. Er í kröfugerð stefnenda þannig farið fram á að í dómsorði verði kveðið á um skyldu umfram almenn lög og fjárlög.             Stefndi bendir á að þegar farið er yfir rökstuðning stefnenda fyrir kröfugerð vegna skaðabótakröfu þá sé þar hvergi minnst á skilyrði skaðabóta. Ekkert komi fram um orsakasamhengi né heldur saknæmi og tjón. Vísað er til þess að tjón sé það sem stefnendur telji vera hæfilegt endurgjald. Í skaðabótarétti sé tjón hins vegar skilgreint sem skerðing eða eyðilegging lögvarinna hagsmuna, oftast fjárhagslegra. Þegar af þessari ástæðu sé krafa um skaðabætur röng auk þess sem stefnendur hvorki sanna né reyna að sanna tjón sem sé skilyrði skaðabóta. Virðist skaðabótakrafan helst byggjast á því að á stefnda hafi hvílt sú skylda að semja við stefnda um greiðslur fyrir þá þjónustu sem stefnda bar að sinna en stefnendur tóku að sér, sbr. ákvæði IV. kafla laga nr. 112/2008. Engu að síður hefur stefndi ávallt greitt stefnendum í samræmi við gildandi lög og reglur og samninga milli aðila. Það að stefnendur setji nú fram nýjar kröfur getur ekki gert stefnda skaðabótaskyldan gagnvart stefnendum. Hvað þetta varðar er af hálfu stefnda vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 547/2011. Einnig bendir stefndi á að reglugerðir og gjaldskrár byggi á þeim fjárhagslegu viðmiðunum sem sett eru í fjárlögum og beri hverju ráðuneyti og stofnun að halda sig innan þess ramma, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 464/2017, um þær skorður sem fjárlög setji þjónustu á hverjum tíma. Þá vísar hann til 41. gr. stjórnarskrárinnar en samkvæmt ákvæðinu er það ekki á valdi dómstóla að auka við fjárheimildir þær sem Alþingi hefur ákveðið. Einnig vísar stefndi til þess að stefnendur byggi á því að fara verði að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 við setningu reglugerða og gjaldskráa. Þetta fullyrði þeir þrátt fyrir það sem fram komi í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1993 og sé þessu því hafnað sem röngu. Einnig sé því hafnað að stefnendum hafi verið þröngvað til að ganga að rammasamningi. Er vísað til þess sem báðir aðilar hafi látið bóka við gerð samningsins. Þá sé því mótmælt að brotið sé gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar með því að haga greiðslum til stefnenda eins og gert er. Mismunandi leiðir séu farnar á mismunandi tímum í þessum efnum líkt og öðrum án þess að um sé að ræða brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Rétt sé að hafa í huga að Sjómannadagsráð byggði að eigin frumkvæði það húsnæði sem stefnendur gera nú kröfu um að stefndi greiði fullt verð fyrir. Þessi krafa sé gerð án þess að fyrir liggi neinn samningur um slíkt eða lagafyrirmæli, hvað þá heldur fjárheimild frá Alþingi. Það að stefndi fari að gildandi lögum geti aldrei verið saknæmt þannig að valdi skaðabótaskyldu. Þá geti það heldur ekki verið fjártjón að telja sig eiga kröfu á annan um greiðslu vegna notkunar húsnæðis samkvæmt þeim samningum og lögum sem um það gilda hverju sinni. Jafnvel þó að stefnendur telji sig eiga kröfu vegna þess þá geti það ekki verið fjártjón. Þó að stefnendur teldust eiga kröfu um leigugjald gæti slík krafa aldrei talist vera skaðabótakrafa í samræmi við almennu skaðabótaregluna. Vert sé að benda á að stefnendur undirgengust rammasamning eins og fram kemur í gögnum málsins en gera engu að síður kröfur sem ná yfir gildistíma rammasamningsins. Slík kröfugerð hlýtur að vera í andstöðu við skuldbindingargildi samningsins. Þá sé hún andstæð meginreglum kröfu- og samningaréttar. Verði því að sýkna stefndu af kröfu byggðri á því að um skaðabótaskyldu stefnda sé að ræða gagnvart stefnendum. Hvað varðar kröfu stefnenda um hæfilegt endurgjald fyrir þjónustu þá byggir hún á því að það leiði af meginreglum kröfu- og samningaréttar að stefnda beri að greiða þeim sérstaklega vegna húsnæðisþáttar enda verði sú krafa aldrei gerð að stefnendur leggi fram húsnæði til slíkrar starfsemi án sanngjarns og eðlilegs endurgjalds. Stefndi mótmælir því að slík meginregla, ef til er, gildi í samskiptum stefnenda og stefnda þar sem stefndi greiði öll gjöld sem kveðið er á um í lögum og reglum. Stefnendur reistu húsnæðið á eigin vegum en samkvæmt síðar gerðum samningum við stefnda hefur það verið nýtt til ákveðinnar þjónustu. Þannig sé því mótmælt og hafnað sem röngu að einhvers konar greiðsluskylda hafi stofnast umfram það sem þegar er samið um og greitt samkvæmt lögum og reglugerðum. Auk þess sem að framan hefur verið rakið vísar stefndi til þess að kröfugerðin sé einhliða þrátt fyrir mat en þá niðurstöðu hefði stefndi alltaf þurft að fallast á ef hann vildi undirgangast greiðsluskyldu. Auk þess þurfi fjárlagaheimild frá Alþingi að liggja fyrir. Stefndi mótmælir einnig varakröfum stefnenda og vísar til sömu málsástæðna og í aðalkröfu. Þá séu engin rök sem mæli með greiðsluskyldu stefnda í þeim samanburði sem stefnendur geri í kafla í stefnu um varakröfur. Beri því einnig að sýkna stefnda af varakröfum. Loks mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu enda sé hún órökstudd og án lagaraka. Hvað varðar málskostnaðarkröfu stefnda þá er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr. Þá gerir stefndi til vara kröfu um að kröfur stefnenda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður þá felldur niður. Stefndi byggir þessa kröfu sína á því sem að framan hefur verið rakið varðandi sýknukröfu svo og á því að stefnendur hafi ekki sannað tjón né gert líklegt að einhver meginregla kröfu- og samningaréttar eigi hér við. Það sé ekki nóg að vísa til slíkrar reglu án þess að gera grein fyrir henni nánar. Þá nái kröfugerðin fyrir hluta þess tímabils sem rammasamningurinn gildi um. Stefnendur gerðust aðilar að þeim rammasamningi og geti ekki gert sérstaka fjárkröfu vegna sama tímabils. Verði því alltaf að lækka kröfuna sem nemur þeim greiðslum á samningstíma auk þeirra greiðslna sem borist hafa úr Framkvæmdasjóði aldraða. Loks vísi stefndi til þess að krafan sé sett fram sem skaðabótakrafa og það geti ekki komið til skoðunar. Einnig er hún sett fram sem krafa vegna þess að stefnendur leggi fram húsnæði og fyrir það beri að greiða leigugjald. Slíkt leigugjald hljóti alltaf að vera samkomulagsatriði og ekki unnt að komast að niðurstöðu um það með dómkvöddum matsmanni.   V Forsendur og niðurstaða Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal öllum, sem þess þurfa, tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í 1. gr. laga um málefni aldraðra nr. 125/1999 kemur fram að markmið laganna sé að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast miðað við þörf og ástand hins aldraða. Samkvæmt 14. gr. laganna eru stofnanir fyrir aldraða dvalarheimili og hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými á öldrunarstofnunum. Óumdeilt er að stefnendur annast slíkan rekstur. Stefnendur gera í máli þessu kröfur um greiðslu vegna húsnæðiskostnaðar vegna þeirra dvalar- og hjúkrunarheimila sem þeir reka. Stefnendur sækja mál þetta í félagi á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Þeir setja kröfur sínar fram annars vegar sem skaðabótakröfu og vísa bæði til skaðabótareglna utan og innan samninga og hins vegar sem kröfu um sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir þjónustu og byggja þá kröfu á meginreglum kröfu- og samningaréttar. Þá eru kröfur stefnenda útskýrðar svo í stefnu að umfang fjártjónsins nemi því hæfilega endurgjaldi sem stefnda hefði borið að greiða stefnendum að teknu tilliti til alls hagræns kostnaðar stefnenda af húsnæðinu, að frádregnu því húsnæðisgjaldi sem þeir hafa fengið greitt á sama tímabili á grundvelli reglugerða og ákvæða rammasamnings. Stefnendur byggja á því að hæfilegt endurgjald stefnda vegna húsnæðisins megi jafna til niðurstöðu matsgerðar um eðlilegt leigugjald til stefnenda vegna leigu á þeim fasteignum sem stefnendur leggja sjálfir til og notaðar eru undir rekstur á hjúkrunar- og dvalarheimilum fyrir tímabilið nóvember 2013 til 31. desember 2016. Í málatilbúnaði stefnenda kemur fram að upphafstími kröfu afmarkast af fyrningarreglum. Í matsgerð er húsnæðisgjald dregið frá þegar metið er eðlilegt leigugjald ef stefndi væri að leigja þessar fasteignir af stefnendum. Þegar slíkt leigugjald er metið innifelur það kostnaðarliði sem myndu falla undir leigusala samkvæmt húsaleigulögum og er þar m.a. um að ræða tiltekna kostnaðarþætti, s.s. fasteignagjöld og tryggingar. Stefnendur draga frá allt húsnæðisgjald þrátt fyrir að nokkrir liðir þess séu þess eðlis að leigutaki að húsnæði myndi almennt greiða slíkan kostnað, s.s. almennt viðhald innanhúss. Samningssamband aðila nú um rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila byggir á rammasamningi sem stefnendur gerðust aðilar að 25. október 2016 og taki því kröfur stefnenda til þess tímabils að hluta til. Áður en samningurinn tók gildi fengu stefnendur greiðslur vegna starfseminnar á grundvelli þágildandi reglugerða og gjaldskráa. Samkvæmt 8. gr. lið 4.0 í rammasamningnum er húsnæðisgjald breytilegt eftir stærð og fjölda rýma á hjúkrunarheimili. Taki gjaldið til viðhalds, umsjónar, umsýslu, fasteignagjalda og trygginga vegna húsnæðis. Segir í ákvæðinu að gjaldinu sé þannig ætlað að standa undir öllu almennu viðhaldi húsnæðis en ekki stofnkostnaði, afskriftum og meiri háttar breytingum og endurbótum á húsnæði. Sambærilegt ákvæði var í þeim reglugerðum sem giltu um greiðslur til stefnenda áður en þeir gengust undir rammasamninginn. Þá er sérstaklega tekið fram í þessu ákvæði samningsins að þessi gjaldliður taki ekki til hjúkrunarheimila sem fái greiðslur á grundvelli samninga um byggingu og þátttöku í leigu, svokallaðri leiguleið. Af hálfu stefnda er krafist sýknu á grundvelli 2. mgr. 16. gr. laga nr. 19/1991 á grundvelli aðildarskorts eða óglöggrar aðildar. Í málatilbúnaði stefnenda komi fram að þeir eru ekki eigendur þeirra fasteigna sem nýttar eru til reksturs dvalar- og hjúkrunarheimilanna og krafa um húsnæðiskostnað varðar, heldur Sjómannadagsráð. Stefnendur séu því ekki réttir aðilar að málinu eða a.m.k. sé aðild þeirra vanreifuð. Málatilbúnaður stefnenda byggir á því samningssambandi sem er á milli aðila á grundvelli rammasamningsins. Verður málatilbúnaður stefnenda ekki skilinn öðruvísi en svo að ekki sé verið að gera kröfu um greiðslur sem Sjómannadagsráð eigi kröfu um á hendur stefnda vegna leigu á húsnæði heldur húsnæðiskostnað vegna starfseminnar þó að það viðmið sé notað við kröfugerð að byggja á því hvað teljist vera hæfilegt gjald fyrir leigu á húsnæðinu samkvæmt niðurstöðu matsgerðar. Þá kom fram við meðferð málsins að stefnendur hafi áður verið eigendur þeirra fasteignar sem notaðar eru undir starfsemina en eignarhald á þeim hafi verið fært til Sjómannadagsráðs árið 2015 og hefur því ekki verið mótmælt að hálfu stefnda. Þegar með hliðsjón af því er ekki fallist á að sýkna beri stefnda vegna aðildarskorts. Hvað varðar skaðabótakröfu þá byggja stefnendur á því að stefndi hafi með ólögmætum hætti brotið gegn skyldum sínum gagnvart stefnendum. Stefndi hafi vanrækt þá skyldu sína að semja við stefnendur um greiðslur fyrir þjónustu og vísa hvað það varðar til IV. kafla laga nr. 112/2008 en gildistöku kaflans hafi verið frestað til 2016 þegar rammasamningurinn öðlaðist gildi. Þá hafi eldra fyrirkomulag, þar sem greiðslur voru ákvarðaðar á grundvelli reglugerða og gjaldskráa, verið ólögmætt m.a. með hliðsjón af reglum stjórnsýsluréttar. Einnig byggja stefnendur á því að þeim hafi verið þröngvað til að ganga að rammasamningi og á því að stefndi hafi brotið m.a. gegn 65., 72. og 76. gr. stjórnarskrárinnar. Fyrir liggur að stefnendur völdu að gangast undir rammasamninginn á árinu 2016 og er ekkert fram komið sem styður þá málsástæðu þeirra að þeir hafi verið þvingaðir til þess en ljóst er af bókunum við samninginn að þá þegar var uppi ágreiningur milli aðila um húsnæðiskostnað. Fram kemur í málatilbúnaði þeirra að þeir töldu þann kost hagstæðari rekstrarlega en að fá greiðslur frá stefnda á grundvelli reglugerða og gjaldskráa en sú hagkvæmni sneri þó ekki að húsnæðiskostnaði. Þá er sú málsástæða að vanræksla stefnda á að fresta gildistöku rammasamnings leiði til bótaskyldu ekki rökstudd með fullnægjandi hætti og kemur því ekki til frekari skoðunar. Á það sama við um málsástæðu byggða á því að á stefnda hafi hvílt skylda til að semja við stefnendur um kostnað vegna öflunar húsnæðis en ekki er annað fram komið en að stefndi hafi greitt stefnendum í samræmi við rammasamning og áður á grundvelli reglugerða og gjaldskráa. Stefnendur telja að setning reglugerða og gjaldskráa hafi ekki uppfyllt skilyrði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglur íslensks stjórnsýsluréttar auk þess sem annmarkar hafi verið á gjaldskrám hvað það varðar að þar hafi ekki verið tekið tillit til alls kostnaðar sem greiða átti fyrir þjónustuna. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 37/1993 gilda þau ekki um samningu reglugerða né annarra almennra stjórnvaldsfyrirmæla. Í greinargerð með frumvarpi til stjórnsýslulaga er sérstaklega tekið fram að þau taki einungis til einstaklegra ákvarðana, þ.e. ákvarðana sem varða ákveðna einstaklinga eða lögaðila, einn eða fleiri. Af hálfu stefnenda hefur ekki verið nægilega leitt í ljós til hverra reglugerðirnar og gjaldskrárnar taka og þar með hefur ekki með fullnægjandi hætti verið sýnt fram á að ákvörðunin varði réttindi eða skyldur tiltekinna aðila. Eru því ekki forsendur til að fallast á að um stjórnvaldsákvörðun hafi verið að ræða skilningi stjórnsýslulaga. Af hálfu dómsins er þessari málsástæðu stefnenda þegar af þessari ástæðu hafnað. Þá byggja stefnendur á því að stefnda beri að greiða allan kostnað sem af þessum málaflokki hlýst, þ.m.t. húsnæðiskostnað og gangi annað gegn megininntaki og ákvæðum laga nr. 112/2008. Vísa þeir sérstaklega til 3. mgr. 43. gr. laganna þar sem fram komi að heilbrigðisstofnanir og aðrir veitendur heilbrigðisþjónustu skuli kostnaðargreina þjónustu sína samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum aðferðum. Þá skuli við kostnaðargreiningu taka mið af öllum hagrænum kostnaði, þ.m.t. kostnaði vegna húsnæðis, fjármagns og afskrifta. Telja stefnendur að þetta verði að skilja svo að um þennan kostnað beri að fjalla í rammasamningi og að í greinargerð sem fylgdi frumvarpi sem varð að lögum nr. 112/2008 komi fram stuðningur við þetta sjónarmið. Þá hafi stefndi með því að taka ekki tillit til kostnaðar stefnenda af öflun og rekstri húsnæðis brotið gegn þessum skyldum sínum gagnvart lögunum auk þess sem þá hafi ekki verið gætt jafnræðis með stefnendum og öðrum sem slíka þjónustu reka. Af hálfu stefnda er því hafnað að með lögum nr. 112/2008 hafi stofnast sú greiðsluskylda sem stefnendur byggja á eða að orð greinargerðar styðji það. Í lögum nr. 112/2008 og greinargerð sem þeim fylgdu er gert ráð fyrir kostnaðargreiningu, m.a. vegna húsnæðis. Sú staða er uppi í máli þessu að stefnendur krefjast húsnæðiskostnaðar þar sem þeir afli húsnæðis frá öðrum aðila undir starfsemina sem þeir þurfi að greiða fyrir en virðist þó ekki hafa gert það samkvæmt málatilbúnaði þeirra. Þá hafa þeir ekki lagt fram samninga eða önnur gögn sem skýra frekar samband þeirra við Sjómannadagsráð og skyldur þessara aðila gagnvart hvor öðrum vegna notkunar stefnenda á húsnæðinu. Ætla verður að stofnkostnaður vegna þeirra fasteigna sem hér eru til umfjöllunar hafi fallið til fyrir það tímabil er krafa stefnenda tekur til. Af málsgögnum má ráða að öflun húsnæðisins hafi verið fjármögnuð með m.a. frjálsum framlögum, lánsfé, annarri fjáröflun og greiðslum úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Þá liggur fyrir að mismunandi leiðir hafa verið farnar í gegnum tíðina til að afla húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili. Síðar tilkomnar leiðir, eins og t.d. leiguleið, eiga ekki við um starfsemi stefnenda sem þegar var hafin þegar stjórnvöld ákváðu fyrst að fara þá leið. Þá eru kröfur stefnenda ekki grundvallaðar á þeim leiðum. Einnig verður að líta til þess að stefnendur hafa ekki gert grein fyrir því hver raunverulegur kostnaður þeirra er vegna öflunar húsnæðis undir starfsemina eða notkunar eigin húsnæðis og þá til hvaða niðurstöðu kostnaðargreining eins og sú sem fjallað er um í lögunum gæti leitt yrði sérstaklega fjallað um þeirra stöðu. Samkvæmt málsgögnum var ætlunin að stofna starfshóp til að rýna m.a. kostnað vegna húsnæðismála hjúkrunarheimila, sbr. fylgiskjal X með rammasamningi, en ekkert liggur fyrir um framvindu þeirrar vinnu. Þrátt fyrir það og með vísan til framangreinds verður ekki talið að dráttur á að ljúka þeirri vinnu, jafnvel þó hann teldist fara í bága við skyldur stefnda samkvæmt samningnum, styðji skaðabótaskyldu stefnda. Málatilbúnaður stefnenda hvað varðar 65. gr. stjórnarskrárinnar byggir á því að ekki sé gætt jafnræðis þegar fjárhæð húsnæðiskostnaðar til hjúkrunarheimila sé ákveðin af stefnda. Afstaða stefnda til greiðslu hans sé mismunandi eftir stofnunum. Vísa stefnendur m.a. til þess að önnur hjúkrunarheimili Hrafnistu en þau sem mál þetta varðar séu rekin í fasteignum í eigu stefnda og/eða sveitarfélaga. Í 32. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu er gert ráð fyrir áðurnefndri leiguleið. Þar kemur fram að ríkið skuli greiða kostnað við byggingu og búnað hjúkrunarheimila og að þátttaka sveitarfélaga í kostnaði við byggingu og búnað hjúkrunarheimila skuli vera 15% af stofnkostnaði. Stefnendur leggja hins vegar sjálfir til fasteignir og vísa m.a. til leiguleiðarinnar til samanburðar. Þá vísa þau einnig til fleiri stofnana, t.d. SÁÁ, og telja að hún fái greitt gjald frá stefnda fyrir að leggja til húsnæði undir reksturinn. Fyrir liggur að þær stofnanir sem stefnendur vísa til eru í annarri stöðu en stefnendur, t.d. hvað varðar greiðslur úr framkvæmdasjóði, greiðslur vegna húsnæðisgjalds eða hvort viðkomandi hafi lagt til eign eða fengið hana undir reksturinn frá stefnda. Í ljósi framangreinds og þess sem fyrir liggur um aðstæður stefnenda verður ekki á það fallist að jafnræðis með rekstraraðilum sé ekki gætt þannig að talið verði að um brot gegn ákvæðinu sé að ræða. Hvað varðar málsástæðu stefnenda byggða á 76. gr stjórnarskrárinnar þá kom fram við meðferð málsins af hálfu stefnenda að framsetning málsástæðunnar sé að einhverju leyti misvísandi. Voru af þeirra hálfu settar fram frekari skýringar. Vísuðu stefnendur til þess að um málefni þeirra einstaklinga sem ákvæðið tekur til hefðu verið sett lög nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Af þeim verði nánar ráðið um skyldur ríkisins gagnvart öldruðum, tilhögun og fyrirkomulag öldrunarmála, gæðaviðmið o.fl. Í samræmi við ákvæði laganna megi vera ljóst að stefnda beri að annast um og greiða allan kostnað sem af starfsemi hlýst. Stefndi hafi, til að inna verkefnin og skyldur sínar af hendi, samið við nokkur hjúkrunar- og dvalarheimili, m.a. stefnendur. Þannig byggi stefnendur á því að á þessum grundvelli hafi hvílt sú skylda á stefnda að greiða fullt endurgjald til heimilanna og að húsnæðiskostnaður þeirra verði þar ekki undanskilinn. Það er mat dómsins að ákvæði 76. gr. sé ætlað að tryggja einstaklingum þann rétt sem þar er tilgreindur og í því skyni voru m.a. lög nr. 125/1999 sett. Verður sá réttur einungis sóttur af eða í þágu viðkomandi einstaklinga gegn stefnda á grundvelli aðstæðna þess sem í hlut á. Verður ekki á það fallist með stefnendum að þeir geti leitt rétt sinn til greiðslu af rétti þeirra einstaklinga sem ákvæðið tekur til. Þá byggja stefnendur á því að stefndi hafi brotið gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt ákvæðinu megi engan skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji og þá þurfi lagafyrirmæli til og komi fullt verð fyrir. Stefnendur leggi fram fasteignir í gegnum móðurfélag sitt til starfseminnar. Telja stefnendur að sú afstaða stefnda að greiða ekki gjald fyrir þær sé brot gegn 72. gr. og sé þessi tilhögun því ólögmæt. Stefndi hefur mótmælt þessari túlkun stefnda. Það er mat dómsins að aðstæðum stefnenda verði ekki jafnað til þeirra tilvika sem 72. gr. tekur til enda er ekki annað komið fram en það hafi verið ákvörðun þeirra að leggja fasteignirnar til rekstrarins og kemur málsástæða þessi því ekki til frekari skoðunar. Þá er ekki fallist á það með stefnendum að taka beri kröfu þeirra til greina á þeim forsendum að stefndi haldi áfram að vísa öldruðum einstaklingum til þeirra þrátt fyrir að neita að greiða húsnæðiskostnað enda er ekki annað fram komið en að stefnendur séu enn aðilar að rammasamningnum. Loks verður ekki á það fallist að stefnendur hafi fært fram aðrar málsástæður er leiða eigi til þess að til skaðabótaskyldu hafi stofnast á hendur stefnda vegna krafna þeirra. Í samræmi við framangreint er það mat dómsins að af hálfu stefndu hafi ekki verið sýnt fram á að háttsemi stefnda hafi verið saknæm og ólögmæt eða að slík háttsemi hafi leitt til tjóns. Verður, í ljósi framangreinds, ekki fallist á að skilyrði séu til að dæma stefnda til greiðslu skaðabóta. Þá byggja stefnendur á þeirri málsástæðu, byggðri á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um sanngjarnt og eðlilegt endurgjald, að þar sem ekki hafi verið samið um endurgjald beri stefnda að greiða sanngjarnt og eðlilegt endurgjald og vísa hvað þetta til þeirra meginreglna sem koma fram í lögum um þjónustukaup og lögum um lausafjárkaup. Þessari málsástæðu hefur stefndi alfarið mótmælt. Fyrir liggur að við byggingu þeirra fasteigna sem stefnendur nota undir dvalarheimilin fengust að einhverju leyti styrkir frá Framkvæmdasjóði aldraðra og að stefndi fær reglulega greitt húsnæðisgjald vegna starfseminnar. Þá verður að ætla að á því tímabili sem krafa stefnenda tekur til hafi ekki fallið á stofnkostnaður vegna þeirra fasteigna sem þeir nýta í starfsemi sína. Eins og rakið hefur verið var fjárveiting til starfsemi stefnenda ákvörðuð á grundvelli tveggja ólíkra aðferða á því tímabili sem hér er til umfjöllunar, annars vegar á grundvelli reglugerða og gjaldskráa og hins vegar á grundvelli rammasamnings. Byggja stefnendur á því að hvorug aðferðin hafi tekið til þess að greiða þeim kostnað vegna öflunar húsnæðis undir starfsemina án þess að greina sérstaklega á milli þeirra eða þeirra tímabila þegar eignirnar voru í eigu annars vegar þeirra og hins vegar Sjómannadagsráðs. Stefndu byggja á því að hvorki sé lagaheimild né fjárheimild til greiðslu þeirra gjalda sem krafist er. Það sé hlutverk Alþingis að ákveða í fjárlögum fjárveitingar til reksturs hjúkrunarheimila ár hvert og er þar tiltekið hvaða fjárhæð hvert og eitt heimili fær. Þar verða ekki settir fram frekari gjaldaliðir en fram koma í rammasamningi, reglugerðum og gjaldskrám og ekki er þar heimild fyrir þeim greiðslum sem stefnendur krefjast í máli þessu. Þá taka þessar heimildir ekki til stofnkostnaðar eða öflunar húsnæðis. Í ljósi framangreinds verður að ætla að það hafi ekki verið ætlunin að greiða leigu eða annað gjald vegna húsnæðis sem rekstraraðilar leggja sjálfir til, utan húsnæðisgjalds. Stefnendur vísa sérstaklega til þess að Alþingi hafi aldrei tekið afstöðu til þeirra kostnaðarliða sem hér eru tilgreindir en stefndi telur að það hafi verið gert með hverri reglugerð og hverjum fjárlögum. Greiðslur til hjúkrunarheimila vegna einstakra gjaldliða eru ákvarðaðar af stefnda á ákveðnum forsendum. Sá kostnaður sem krafa stefnenda varðar byggir ekki á ófyrirséðum útgjöldum. Má af bókun stefnenda við rammasamninginn ráða að þegar stefnendur gengust undir hann töldu þeir hann ekki, frekar en skipan mála áður, taka á þessum kostnaði þeirra. Í samningnum er rakið fyrir hvaða kostnaðarliði stefndi greiðir og er ekkert fram komið um að hann hafi skuldbundið sig til frekari greiðslna til stefnenda vegna húsnæðiskostnaðar eða óskað sérstaklega eftir að tilteknar fasteignir yrðu notaðar í hans þágu þannig að greiðsluskylda stofnaðist á hendur honum sérstaklega vegna þess. Þá er það ekki á valdi dómstóla að mæla fyrir um frekari fjárheimildir en Alþingi hefur gert, sbr. 2., 41. og 42. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944. Með vísan til framangreinds er þessari málsástæðu stefnenda hafnað og verður því ekki á það fallist að stefnda beri, án þess að um það hafi verið samið milli aðila, að greiða stefnendum kostnað vegna öflunar húsnæðis. Samkvæmt framangreindu er stefndi sýknaður af aðalkröfum stefnenda. Með sömu rökum og að framan eru rakin eru ekki forsendur til að fallast á varakröfu stefnenda. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en aðilar og dómari voru sammála um að ekki væri þörf á endurflutningi málsins. Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari.   D Ó M S O R Ð: Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af öllum kröfum stefnenda, Hrafnistu dvalarheimilis aldraðra í Reykjavík, og Hrafnistu dvalarheimilis aldraðra í Hafnarfirði.             Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 23/2021
Kærumál Kröfugerð Óvígð sambúð Dánarbú Frávísunarúrskurður Landsréttar felldur úr gildi
Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem kröfu A um að viðurkenndur yrði réttur hennar til helmings allra nettóeigna dánarbús H var vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að krafa A hefði verið til umfjöllunar á þremur skiptafundum dánarbúsins án þess að athugasemdir hefðu komið fram um form hennar á þeim vettvangi. Taldi dómurinn að grundvöllur málatilbúnaðar A væri nægilega skýr um það að hún teldi sig hafa öðlast hlutdeild í þeirri eignaaukningu sem varð á sambúðartímanum. Loks var bent á að mótmæli varnaraðila við gögnum sem lögð hefðu verið fram af hálfu A og málsástæðum reistum á þeim vörðuðu efnishlið málsins og leiddu ekki til frávísunar þess. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. maí 2021. Kærumálsgögn bárust réttinum 1. júní sama ár. Kærður er úrskurður Landsréttar 10. maí 2021 þar sem kröfu sóknaraðila um að viðurkenndur verði réttur hennar til helmings allra nettóeigna sem skráðar eru á dánarbú H var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1990 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti. 4. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti. Ágreiningsefni 5. Sóknaraðili var sambýliskona H sem lést 31. júlí 2019. Lögerfingjar hans eru sex systkini hans og fengu þau leyfi til einkaskipta 27. ágúst 2019. Með bréfi 28. nóvember sama ár til héraðsdóms kröfðust þau opinberra skipta á dánarbúinu. Var fallist á kröfuna í úrskurði héraðsdóms Suðurlands 15. janúar 2020. Lögerfingjar ábyrgjast skuldir dánarbúsins. 6. Sóknaraðili lýsti kröfu sinni með bréfi til skiptastjóra 19. mars 2020 og krafðist helmings af hreinni eign búsins auk þess sem krafist var viðurkenningar á ábúðarrétti hennar. Því var mótmælt af hálfu varnaraðila með bréfi 24. mars 2020. 7. Á skiptafundi dánarbúsins 2. apríl 2020 var fjallað um kröfulýsingu sóknaraðila án þess að sættir næðust. Krafan var einnig rædd á skiptafundi 8. sama mánaðar og bókað að skiptastjóri myndi vísa ágreiningnum til úrlausnar hjá héraðsdómi. Enn var bókað um ágreininginn á skiptafundi 21. apríl 2020 þar sem fram kom að skiptastjóri myndi vísa ágreiningi aðila um kröfu sóknaraðila um að henni tilheyrði helmingur „af nettó eignum dánarbús [H] og að hún hafi ábúðarrétt á jörðunum [...], [...] og [...]“ til héraðsdóms. Á fyrrgreindum skiptafundi var meðal annars bókað um þá afstöðu sóknaraðila að hún hefði ekki samþykkt að skiptastjóri hefði „opna heimild til að ráðstafa þeim eignum sem tilheyrðu [H] og [A] á sambúðartíma þeirra“. Af því tilefni var bókað af hálfu lögmanns lögerfingja að staða sóknaraðila væri „alveg óráðin og krafa hennar um að hún sé eigandi helmings eigna dánarbúsins á leið til úrlausnar í dóm“. 8. Í bréfi skiptastjóra 5. maí 2020 til héraðsdóms sagði að ágreiningur aðila væri þríþættur. Í fyrsta lagi hvort helmingur af „nettó eignum“ dánarbúsins tilheyrði sóknaraðila, í öðru lagi hvort sóknaraðili hefði ábúðarrétt á jörðunum [...], [...] og [...] sem væru eign dánarbúsins og í þriðja lagi hvort sóknaraðila væri skylt að greiða fyrir afnot af þeim húsum á [...] sem hún hefði haft til umráða auk rekstrarkostnaðar þeirra. Málið barst héraðsdómi 6. maí 2020 og voru upphaflegir varnaraðilar sex lögerfingjar dánarbúsins. Með bréfum 14. september 2020 lýstu tveir þeirra því yfir að þeir féllu frá varnaraðild sinni og lýstu jafnframt yfir stuðningi við kröfur sóknaraðila. Hefur málið þar eftir verið rekið milli sóknaraðila og fjögurra lögerfingja dánarbúsins. 9. Með úrskurði héraðsdóms 9. mars 2021 var fallist á kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á rétti hennar til helmings allra nettóeigna sem skráðar eru á dánarbúið, en kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á ábúðarrétti vísað frá dómi. Þá var sóknaraðila gert að greiða helming rekstrarkostnaðar íbúðarhússins að [...] frá 1. janúar 2020 þar til skiptum væri lokið. 10. Í úrskurði Landsréttar 10. maí 2021 kom fram að sóknaraðili hefði gert líklegt að töluverð fjárhagsleg samstaða hefði verið með henni og sambýlismanni hennar þrátt fyrir að þau hefðu ekki talið sameiginlega fram til skatts, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Hins vegar hafi sóknaraðili krafist helmings af öllum nettóeignum dánarbúsins óháð því hvort þær eignir hefðu orðið til fyrir eða eftir að sambúð þeirra hófst. Af gögnum málsins mætti ráða að meðal þeirra væru nokkrar jarðir og húseignir sem á þeim stæðu ásamt vélum, tækjum og 300.000 lítra greiðslumarki mjólkur. Hefðu eignirnar ýmist verið nýttar í tengslum við búskap eða ferðaþjónustu. Að auki hefðu verið framkvæmdir við hluta húseignanna, meðal annars á íbúðarhúsi að [...]. Kom fram í úrskurði Landsréttar að þrátt fyrir að dómstólar hefðu heimilað kröfugerð sem lyti að því að krafist væri helmings eigna við fjárslit sambúðarfólks yrði, eins og atvikum væri háttað í málinu, talið að nauðsynlegt hefði verið að rökstyðja eignartilkall sóknaraðila sérstaklega vegna einstakra eigna en ólík sjónarmið kynnu að ráða niðurstöðu í hverju tilviki. Því væri krafa sóknaraðila vanreifuð og yrði henni vísað frá héraðsdómi. Niðurstaða 11. Málinu var vísað til héraðsdóms eftir 122. gr., sbr. 2. mgr. 64. gr., laga nr. 20/1991. Í XVII. kafla laganna er fjallað um úrlausn ágreinings eftir ákvæðum þeirra. Í 131. gr. segir að leiði annað ekki af ákvæðum laganna gildi almennar reglur um meðferð einkamála. Við úrlausn málsins verður því beitt meginreglum einkamálaréttarfars þar sem ákvæðum laga nr. 20/1991 sleppir, þar á meðal reglunni um frjálst sönnunarmat dómara og málsforræðisreglunni, sbr. einkum 44. og 46. gr. laga nr. 91/1991. 12. Sóknaraðili hefur krafist þess að fá í sinn hlut helming eigna dánarbúsins að frádregnum skuldum. Í gögnum málsins kemur fram að hinn látni var einn skráður eigandi þeirra fasteigna sem eru meðal eigna dánarbúsins og var það áður en sambúð hans og sóknaraðila hófst. Sóknaraðili byggir á því, gegn andmælum varnaraðila, að niðurgreiðsla áhvílandi skulda á sambúðartíma þeirra hafi komið til með framlagi þeirra beggja sem og að skuldir hafi verið hærri en verðmæti eigna þegar sambúð þeirra hófst. Til viðbótar byggir sóknaraðili á því að hún hafi ásamt hinum látna staðið að umtalsverðum endurbótum og uppbyggingu á fasteignum sem eru skráðar eignir dánarbúsins. 13. Fjölmörg gögn hafa verið lögð fram við meðferð málsins, þar á meðal skattframtöl sóknaraðila vegna áranna 2006 til 2019 sem og skattframtöl hins látna vegna sömu ára. Þá liggja fyrir ársreikningar félagsins [...] fyrir árin 2011 til 2017, auk ársreikninga [...] vegna áranna 2007 til 2014 og áranna 2017 og 2018. Auk þess hafa verið lagðir fram kaupsamningar og afsöl vegna sölu á fasteign sóknaraðila í Garðabæ árið 2015, kaup hennar sama ár á fasteigninni [...] og kaup félagsins [...] á sumarhúsi árið 2016. 14. Krafa sóknaraðila var til umfjöllunar á þremur skiptafundum dánarbúsins án þess að athugasemdir kæmu fram um form hennar á þeim vettvangi. Grundvöllur málatilbúnaðar hennar er nægilega skýr um það að hún telji sig hafa öðlast hlutdeild í þeirri eignaaukningu sem varð á sambúðartímanum, sbr. til hliðsjónar kröfugerð sem höfð var uppi í dómum Hæstaréttar frá 15. nóvember 2007 í máli nr. 565/2007, 25. janúar 2016 í máli nr. 811/2015 og 26. ágúst 2016 í máli nr. 472/2016. Hefur málatilbúnaður sóknaraðila frá upphafi lotið að því að sýna fram á umrædda eignaaukningu og ætlað framlag sóknaraðila til hennar gegn mótmælum varnaraðila. Mótmæli varnaraðila við gögnum sem lögð hafa verið fram af hálfu sóknaraðila og málsástæðum reistum á þeim varða efnishlið málsins og leiða ekki til frávísunar þess. 15. Samkvæmt framansögðu verður því ekki fallist á með Landsrétti að dómkrafa sóknaraðila hafi verið vanreifuð. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og úrskurðar að nýju. 16. Rétt er að aðilar beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og úrskurðar að nýju. Kærumálskostnaður fellur niður. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?Id=5f0f62ad-2162-443f-9f5d-94a3ce1ebc64&verdictid=44c6d589-bf37-408c-85e1-45a38ea51ee9
Mál nr. 8/2021
Börn Forsjá Umgengni Matsgerð Gjafsókn
A og B deildu um forsjá dóttur sinnar og umgengni en B hafði sakað A um að hafa brotið kynferðislega gegn barninu og tálmað umgengni. Að öllu því virtu sem komið hefði fram í málið var lagt til grundvallar að barninu stafaði ekki hætta af A. Við úrlausn um forsjá var vísað til þess að heildarmat á hæfi A og B til að fara með forsjána og þarfir barnsins leiddu til þeirrar niðurstöðu að hagsmunir þess stæðu til þess að B væri falin forsjáin. Eins og málið væri vaxið hefði hæfi B sem uppalanda, tengsl barnsins við hana og mikilvægi þess að varðveita stöðugleika í lífi þess meira vægi en önnur atriði. Á hinn bóginn var talið rétt að barnið nyti ríflegrar umgengi við A til að viðhalda og efla tengsl þeirra og lögð á það rík áhersla að B bæri að hlíta því og stuðla að umgengninni í þágu barnsins.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. febrúar 2021. Hann krefst þess aðallega að sér verði falin forsjá barnsins C. Til vara krefst hann þess að forsjáin verði sameiginleg en lögheimili barnsins hjá sér og stefndu verði gert að greiða einfalt meðlag með því. Í báðum tilvikum krefst hann þess að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar. Loks krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt. 3. Stefnda krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms um forsjá en til vara að forsjá barnsins verði sameiginleg og að lögheimili þess verði hjá sér. Í báðum tilvikum krefst hún þess að hafnað verði að ákveða inntak umgengni áfrýjanda við barnið. Þá krefst hún málskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. Ágreiningsefni 4. Málsaðilar voru í óvígðri sambúð á árunum 2013 til 2017 og eignuðust barnið C [...] 2015. Í málinu deila þau um forsjá barnsins og umgengni þess við áfrýjanda. Ágreiningur aðila verður einkum rakinn til þess að stefnda hefur sakað áfrýjanda um að hafa brotið kynferðislega gegn barninu og telur hún það ekki öruggt í hans umsjá. Af þeirri ástæðu hefur stefnda takmarkað umgengni barnsins við áfrýjanda allt frá hausti 2018. 5. Eftir að aðilar slitu sambúð haustið 2017 munu þau hafa gert samkomulag um sameiginlega forsjá barnsins en að lögheimili þess væri hjá stefndu. Með héraðsdómi 26. maí 2020 var áfrýjanda einum falin forsjáin en sú niðurstaða var reist á því að ásakanir stefndu í garð hans gætu ekki haft áhrif á úrlausn málsins um forsjá og umgengnisrétt barnsins við hann. Vegna samskiptavanda aðila taldi dómurinn ekki efni til að þau færu sameiginlega með forsjá barnsins. Að virtri matsgerð dómkvadds manns var komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri slíkur munur á forsjárhæfni aðila eða aðstæðum þeirra að unnt væri að gera upp á milli þeirra á þeim grundvelli. Aftur á móti yrði ekki annað ráðið af yfirlýsingum stefndu fyrir dómi en að hún ætlaði sér að hafa að engu skyldur sínar að lögum til að tryggja rétt barnsins til umgengni við áfrýjanda. Ef fallist yrði á að stefnda færi ein með forsjá taldi dómurinn einsýnt að sú óbilgjarna afstaða sem stefnda hefði lýst til umgengni myndi líklega koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barnsins til að njóta tengsla við áfrýjanda og föðurfjölskyldu sína og þar með til að alast upp við þroskavænleg skilyrði. Hins vegar var talið að áfrýjandi væri líklegri en stefnda til að stuðla að góðri samvinnu um uppeldið og að barnið nyti áfram umönnunar hennar. Samkvæmt þessu og eftir heildarmati á öllum málsatvikum var talið þjóna best hagsmunum barnsins að áfrýjandi færi með forsjána. Að því er varðaði umgengni taldi dómurinn mikilvægt vegna mikilla tengsla barnsins við stefndu að viðhalda þeim og tryggja að það nyti áfram ríkulegra samvista við báða foreldra sína. Því var komist að þeirri niðurstöðu að barnið skyldi dvelja aðra hverja viku hjá hvoru foreldri en því fyrirkomulagi átti að koma á með aðlögunartímabili sem átti að standa í þrjá mánuði frá uppkvaðningu dómsins. Dæmt var að áfrýjun frestaði ekki réttaráhrifum dómsins, sbr. 1. mgr. 44. gr. barnalaga nr. 76/2003. 6. Með dómi Landsréttar 11. desember 2020 var stefndu einni falin forsjá barnsins. Rétturinn féllst á þá niðurstöðu héraðsdóms að ekki væru efni til að aðilar færu saman með forsjána vegna samskiptavanda þeirra. Jafnframt var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ekki væri unnt að leggja til grundvallar að áfrýjandi hefði á nokkurn hátt brotið kynferðislega gegn barninu og var talið ósannað að umgengni barnsins við hann væri andstæð hagsmunum þess eða þörfum. Við úrlausn um forsjá vísaði Landsréttur til þess að hagsmunir barnsins yrðu að hafa forgang. Óumdeilt væri að barninu liði vel hjá stefndu og að hún væri vel hæf til að fara með forsjána. Gögn málsins voru talin bera með sér að áfrýjandi veitti barninu hlýju og örvun og sinnti því vel að öðru leyti en hvað varðar samband þess við áfrýjanda. Einnig yrði ráðið af gögnum málsins að barnið væri í nánari tengslum við stefndu en áfrýjanda. Breyting á forsjá gæti því reynst barninu erfið. Jafnframt var talið að forsjá stefndu væri líklegri til að tryggja stöðugleika í umönnun þess. Þá var vísað til þess að barnið hefði ekki myndað tengsl við sambúðarkonu áfrýjanda og unga hálfsystur sína á heimili þeirra auk þess sem þau ættu von á öðru barni [...]. Þannig ríkti óvissa um það svigrúm sem áfrýjandi og maki hans myndu hafa til að sinna þörfum barnsins sem yrði fyrirsjáanlega krefjandi vegna neikvæðrar afstöðu stefndu í garð áfrýjanda. Eftir heildarmati á hagsmunum barnsins var talið best samræmast högum þess og þörfum að stefnda færi með forsjána. Í því tilliti gæti ekki ráðið úrslitum þótt hún hefði tálmað umgengni barnsins við áfrýjanda en leggja yrði til grundvallar að ráðin yrði bót á því með öðru móti en breytingu á forsjánni að því gefnu að aðrar aðstæður kölluðu ekki jafnframt á slíka breytingu. Landsréttur komst einnig að þeirri niðurstöðu að umgengni barnsins við áfrýjanda ætti að vera aðra hvora helgi frá föstudegi til mánudags að liðnum sex mánaða aðlögunartíma frá uppkvaðningu dómsins. Á því tímabili var gert ráð fyrir að umgengnin yrði stigvaxandi og undir eftirliti til að styðja aðila og stuðla að því að hún færi vel fram. Einn dómari Landsréttar skilaði sératkvæði og vildi staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um að áfrýjanda yrði falin forsjá barnsins. 7. Með ákvörðun Hæstaréttar 9. febrúar 2021 var veitt heimild til að áfrýja málinu til réttarins. Í ákvörðuninni sagði að líta yrði svo á að dómur í því gæti haft fordæmisgildi, einkum með tilliti til þess hvaða áhrif tálmun á umgengni barns gæti haft á niðurstöðu um forsjárhæfni foreldris sem hindraði umgengni. Tildrög málsins 8. Málsaðilum ber saman um að þau kynntust árið 2011 og voru skráð í sambúð í maí 2013 þegar þau bjuggu [...]. Í ágúst 2014 munu þau hafa flutt til Reykjavíkur en sem fyrr greinir fæddist barn þeirra [...] 2015. Aðilar slitu sambúð sinni um haustið 2017. 9. Hinn 25. september 2018 tilkynnti stefnda Barnavernd Reykjavíkur þann grun sinn að áfrýjandi hefði brotið kynferðislega gegn dóttur þeirra. Stefnda mætti síðan hjá lögreglu 12. október sama ár og lagði fram kæru á hendur áfrýjanda. Hún gaf skýrslu hjá lögreglu þann dag og greindi frá því að áfrýjandi hefði sagt sér vorið 2013 að hann hefði brotið kynferðislega gegn hálfsystur sinni samfeðra, en um er að ræða atvik frá sumri [...] þegar hann var 13 ára en stúlkan 5 ára. Einnig sagði stefnda að hún hefði tekið eftir því að áfrýjanda hefði risið hold þegar hann annaðist dóttur þeirra og jafnframt í samskiptum við hund sem kom inn á heimilið árið 2014. Hún sagði að þetta hefði valdið því að þau rifust og hann í eitt sinn leitað til sálfræðings af þessu tilefni. Þá greindi hún frá því að haustið 2016 hefði hún komið heim og þótt aðstæður grunsamlegar þar sem hún hitti áfrýjanda fyrir lausgyrtan og bleyja barnsins eins og hún hefði verið toguð niður að framan. Auk þess nefndi hún fleiri tilvik sem henni þóttu grunsamleg. Eitt þeirra hefði átt sér stað um sumarið 2018 en þá hefði stúlkan sagt við stefndu án nokkurs tilefnis þegar hún var að skipta á henni: „En ekki margir puttar“. Loks hefði stúlkan í september sama ár, þegar stefnda var að svæfa hana, klórað sér í klofinu og sagt „pabbi skegg kitlar“. Um morguninn hefði stefnda síðan tekið eftir að útferð var í nærbuxum barnsins. 10. Áfrýjandi var handtekinn 15. október 2018 og færður til yfirheyrslu. Hann neitaði eindregið að hafa brotið gegn dóttur sinni og kvaðst ekki hafa neinar óeðlilegar kenndir til barna. Hann kannaðist þó við að vera viðkvæmur þannig að sér risi hold af engu tilefni án þess að ástæður þess væru kynferðislegar. Nánar spurður sagði hann að þetta hefði ekkert að gera með barnið fremur en eitthvað annað. Jafnframt kannaðist áfrýjandi við að hafa rifist af þessu tilefni við stefndu og í eitt sinn rætt um þetta við sálfræðing. 11. Með bréfum 21. febrúar 2019 var málsaðilum tilkynnt að rannsókn lögreglu gagnvart áfrýjanda vegna kæru stefndu hefði verið hætt þar sem ekki væru efni til að halda henni áfram. Í bréfinu til stefndu kom fram að lögregla hefði leitað í tölvubúnaði áfrýjanda án þess að finna nokkuð saknæmt. Með bréfi 27. mars 2019 skaut stefnda þessari ákvörðun til ríkissaksóknara og staðfesti hann ákvörðun lögreglu með bréfi 20. júní sama ár. Í bréfi ríkissaksóknara kom fram að reynt hefði verið að framkvæma læknisrannsókn á barninu í Barnahúsi 31. október 2018 en það hefði ekki verið unnt nema með því að svæfa barnið. Stefnda hefði ekki samþykkt það og þeir sem sinntu málinu í Barnahúsi ekki talið efni til aðgerðar af því tagi miðað við það sem fram væri komið í málinu. 12. Þegar áfrýjandi höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi 5. apríl 2019 krafðist hann þess að sér yrði til bráðabirgða falin forsjá barnsins, þar til dómur félli í málinu, og að úrskurðað yrði um umgengni barnsins við stefndu, auk þess sem henni yrði gert að greiða meðlag með því. Stefnda andmælti þessu og krafðist þess að sér yrði einni falin forsjáin meðan á rekstri málsins stæði og að umgengni barnsins við áfrýjanda yrði undir eftirliti. Með úrskurði héraðsdóms 16. júlí 2019 var kröfum beggja aðila um að gera breytingu á sameiginlegri forsjá þeirra hafnað, auk þess sem ekki þóttu efni til að hrófla við lögheimili barnsins hjá stefndu. Jafnframt var umgengni barnsins við áfrýjanda ákveðin þannig að hún yrði hálfa viku í senn hjá hvorum aðila en þó með þriggja mánaða aðlögunartímabili, sem fælist í því að umgengnin yrði fyrstu þrjár vikurnar dagspartur en lengdist síðan jafnt og þétt þar til barnið yrði til jafns hjá aðilum. Í ljósi þess að barninu var ekki talin stafa hætta af áfrýjanda var ekki tekin til greina krafa stefndu um að umgengnin yrði undir eftirliti. Þá var áfrýjanda gert að greiða einfalt meðlag með barninu. Stefnda skaut málinu til Landsréttar sem með úrskurði 4. september 2019 í máli nr. 578/2019 staðfesti úrskurð héraðsdóms um forsjá og lögheimili barnsins hjá stefndu og að áfrýjandi greiddi meðlag með því. Jafnframt var ákveðið að umgengni barnsins við áfrýjanda yrði frá laugardegi til þriðjudags en umgengninni yrði komið í það horf á þriggja mánaða tímabili þar sem hún stæði í upphafi dagspart en yrði síðan aukin jafnt og þétt. Tekið var fram í úrskurði Landsréttar að ekkert væri komið fram um að umgengni við áfrýjanda væri andstæð hagsmunum barnsins. 13. Vitnið D, hálfsystir áfrýjanda, kom fyrir héraðsdóm og staðfesti yfirlýsingu sína 22. maí 2019 um að áfrýjandi hefði brotið gegn sér kynferðislega þegar hún var 5 ára. Hann hefði látið hana snerta kynfæri sín og síðan snert hana þannig að þvaglát í kjölfarið voru sársaukafull. Í aðilaskýrslu sinni fyrir Landsrétti kannaðist áfrýjandi við að hafa árið [...] brotið gegn systur sinni þegar hann var 13 ára með því að láta hana snerta sig. Hann sagðist hins vegar ekki muna hvort hann hefði snert hana en kvaðst ekki vefengja þá frásögn hennar. Hann tók þó fram að hann hefði ekki meitt hana líkamlega. 14. Vitnið E, sem er stjúpdóttir föður áfrýjanda, kom fyrir héraðsdóm og staðfesti yfirlýsingu sína 29. júlí 2019. Þar lýsti hún kynferðislegu áreiti áfrýjanda í sinn garð árið [...] þegar hún var 13 ára en áfrýjandi 16 ára. Þetta hefði meðal annars falist í því að áfrýjandi snerti sig innan klæða. Í aðilaskýrslu sinni fyrir Landsrétti neitaði áfrýjandi því að hafa misnotað E en kannaðist við að á milli þeirra hefði verið eitthvert daður sem hefði hætt. Umgengni barnsins við áfrýjanda Umgengni í kjölfar sambúðarslita málsaðila og undir rekstri málsins í héraði 15. Frá því að málsaðilar slitu sambúð sinni haustið 2017 og þar til stefnda sakaði áfrýjanda um að hafa brotið kynferðislega gegn dóttur þeirra ári síðar mun stúlkan hafa dvalið til jafns hjá aðilum. Jafnframt mun hún hafa dvalið í rúman mánuð hjá áfrýjanda vorið 2018 þegar stefnda fór í áfengismeðferð. Um það leyti sem stefnda kærði áfrýjanda til lögreglu í október sama ár tók hún fyrir umgengni barnsins við áfrýjanda en samþykkti þó að hann hitti barnið í skamma stund hverju sinni á heimili þess að henni viðstaddri. Einnig takmarkaði stefnda samgang barnsins við móður og stjúpföður áfrýjanda en féllst á að þau mættu hitta barnið á heimili þess. 16. Eftir að stefnda takmarkaði umgengni barnsins við áfrýjanda haustið 2018 leitaði hann til sýslumanns í nóvember það ár með kröfu um að honum yrði falin forsjá barnsins og að úrskurðað yrði um umgengni þess við sig. Því máli var 17. janúar 2019 vísað til sáttameðferðar, sbr. 33. gr. a barnalaga, og samkvæmt vottorði sáttamanns lauk henni 12. febrúar sama ár. Í vottorðinu kom fram að báðir aðilar vildu einir fara með forsjá barnsins og því yrði sá ágreiningur borinn undir dómstóla. Að því er varðaði umgengnina gerðu aðilar tímabundinn samning 21. febrúar 2019 en hann átti að gilda þar til dæmt yrði um forsjána. Samkvæmt samningnum fólst regluleg umgengni í því að áfrýjandi hitti stefndu ásamt barninu á leiksvæði nærri heimili hennar eða á öðrum stað sem foreldrar væru sammála um annan hvern miðvikudag milli klukkan 17 og 18. Einnig var tekið fram að umgengni færi fram undir eftirliti sem fælist í því að stefnda yrði viðstödd hana. 17. Eins og áður greinir úrskurðaði héraðsdómur 16. júlí 2019 um umgengni barnsins við áfrýjanda til bráðabirgða meðan málið var rekið þar fyrir dómi og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með úrskurði 4. september sama ár. Í 8. lið í úrskurði Landsréttar kom fram að umgengni hefði ekki farið fram í samræmi við úrskurð héraðsdóms þótt kæra frestaði ekki réttaráhrifum úrskurðarins. Einnig sagði að stefnda hefði dvalið erlendis með barnið sumarið 2019 og þegar kom að umgengni 25. ágúst hefði hún hafnað því að barnið færi til áfrýjanda og boðið honum þess í stað að hitta barnið á heimili sínu. Því hefði áfrýjandi hafnað. Þrátt fyrir úrskurð Landsréttar um umgengnina mun stefnda hafa setið föst við sinn keip um að barnið færi ekki til áfrýjanda heldur gæti hann hitt það á heimili þess. Umgengni að gengnum héraðsdómi 18. Svo sem fyrr greinir var áfrýjanda með héraðsdómi 26. maí 2020 falin forsjá barnsins. Gert var ráð fyrir því að forsjánni yrði komið á með aðlögunartímabili til þriggja mánaða frá uppkvaðningu dómsins þar sem barnið dveldi hjá áfrýjanda dagspart í upphafi en síðan yrði umgengnin aukin jafnt og þétt þar til barnið dveldist til frambúðar jafnt hjá hvorum aðila viku í senn. Með tölvubréfi lögmanns áfrýjanda, sem sent var daginn eftir að dómurinn gekk, var óskað upplýsinga um hvort umgengni færi ekki fram í samræmi við dóminn. Því erindi svaraði lögmaður stefndu með tölvubréfi 4. júní 2020 þar sem fram kom að stefnda treysti sér ekki til að afhenda barnið í umgengni eftir dóminum og að hún væri mjög ósátt við niðurstöðuna. 19. Vegna kröfu áfrýjanda um að forsjá barnsins yrði komið á með beinni aðfarargerð var málinu vísað til sáttameðferðar 14. júlí 2020 í samræmi við 33. gr. a barnalaga. Í vottorði sáttamanns 25. september 2020 kom fram að stefnda neitaði að afhenda áfrýjanda barnið í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms. Hún gæti aldrei samþykkt að barnið væri eitt með honum og sakaði hann um kynferðislegt ofbeldi gegn því. Aftur á móti hefði hún lýst vilja til þess að faðir fengi meiri umgengni við barnið og þá jafnvel þannig að hann hitti barnið tvisvar í viku, einn eða tvo tíma í senn, undir eftirliti hennar eða fagaðila. Einnig kæmi til greina að faðir ætti samskipti við barnið um fjarfundarbúnað. Þá var í vottorðinu haft eftir stefndu að föðurfjölskyldu og maka föður væri velkomið að heimsækja barnið. Um afstöðu áfrýjanda kom fram að hann væri reiðubúinn til að hafa umgengni undir eftirliti fagaðila en án stefndu í örfá skipti áður en barnið gisti hjá honum. Hann mótmælti einnig þeirri afstöðu móður að barnið fengi aldrei að koma til hans og dvelja hjá honum án eftirlits. Í niðurlagi vottorðsins var tekið fram að foreldrar væru sammála um að fundir þeirra í nágrenni við heimili barnsins í klukkustund í senn á þriggja vikna fresti ásamt dóttur þeirra og hálfsystur hennar hefðu gengið ágætlega. 20. Í aðilaskýrslu stefndu fyrir Landsrétti kom fram að hún treysti ekki áfrýjanda fyrir barninu og teldi að það væri ekki öruggt í hans umsjá. Einnig lýsti stefnda því yfir að hún myndi ekki hlíta dómi um umgengni barnsins við áfrýjanda án faglegs eftirlits. Jafnframt hafnaði hún því að móðir áfrýjanda eða maki hans gætu annast þetta eftirlit. Umgengni að gengnum dómi Landsréttar 21. Svo sem áður greinir komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu í dómi sínum 11. desember 2020 að umgengni barnsins við áfrýjanda ætti að vera aðra hvora helgi frá föstudegi til mánudags að liðnum sex mánaða aðlögunartíma frá uppkvaðningu dómsins. Á því tímabili var gert ráð fyrir að umgengnin ykist smátt og smátt og yrði undir eftirliti til að styðja aðila og stuðla að því að hún færi vel fram. 22. Fyrsta umgengni í samræmi við dóminn fór fram 19. desember 2020 frá klukkan 13 til 15.30. Þeir sérfræðingar sem höfðu eftirlit með umgengninni rituðu skýrslu um hana en þar kom fram að barnið hefði rakleitt farið í fang föður þegar þau hittust og glaðst yfir komu hans. Jafnframt hefði barnið verið öruggt í návist föður og sótt í nærveru hans. Einnig var tekið fram að samskipti föður og dóttur hefðu verið eðlileg og náin og barnið í góðu jafnvægi í samveru við föður sinn. Barnið hefði hins vegar verið óöruggt gagnvart sambúðarkonu áfrýjanda en hún hefði nálgast barnið af hlýju og haldið fjarlægð við það. 23. Umgengni barnsins við föður fór í annað sinn fram 2. janúar 2021 frá klukkan 12.45 til 16. Í skýrslu sérfræðings kom fram að þegar stúlkan hitti föður hefði hún strax farið í fangið á honum. Þau hefðu síðan hitt ömmu barnsins í föðurætt nærri heimili þess. Öll samskipti hefðu farið vel fram en sérfræðingurinn gerði þó athugasemd við að umgengni færi fram í sameiginlegu rými fjölbýlishúss þar sem barnið býr og í grennd við það sökum þess að önnur börn væru þar að leik og hefðu truflandi áhrif. Í kjölfar þessarar umgengni ritaði stefnda tölvubréf 6. janúar 2021 til dómsmálaráðuneytisins og sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar sem hún gerði athugasemd við að áfrýjandi hefði boðið vinkonu dóttur sinnar með í göngutúr án þess að afla heimildar móður þess barns. Taldi stefnda þetta bera vott um dómgreindarbrest áfrýjanda en þetta ábyrgðarleysi hans kæmi henni ekki á óvart heldur staðfesti að hennar mati þörfina á að umgengni færi fram undir eftirliti í ljósi upplýsinga um kynferðislega misnotkun áfrýjanda gegn þremur börnum, þar með talið hans eigin barni. Einnig sagði stefnda að traust sitt gagnvart þeim sem önnuðust eftirlitið væri „mjög brotið“ þar sem ekki hefði verið betur fylgst með og gripið inn í þegar öryggi og velferð annars barns var í húfi. Þessu erindi svaraði sýslumaður með bréfi 8. janúar 2021 þar sem fram kom að þeir sem önnuðust eftirlitið hefðu ekki hlutverki að gegna gagnvart vinkonu barnsins eða móður hennar. 24. Umgengni í þriðja sinn fór fram 16. janúar 2021 frá klukkan 13 til 16.30. Í skýrslu sérfræðinga kom fram að barnið hefði hlaupið til móts við föður sinn og stokkið í fang hans. Í upphafi hefði annað barn verið í sameiginlegu leikrými innandyra þar sem umgengnin hófst og hefði það haft truflandi áhrif á umgengnina. Einnig fundu sérfræðingarnir sem önnuðust eftirlitið að því að móðir hefði ekki hvatt dóttur sína til að fara út með föður sínum þar sem lítið sem ekkert næði hefði verið til samskipta og tengslamyndunar við barnið í leikrýminu þar sem móðirin vildi að umgengnin færi fram. Þá kom fram í skýrslunni að barnið sækti í nánd og snertingu við föður, hjúfraði sig í fang hans og virtist una sér vel þar. Eftir að barnið og faðirinn fóru út hefði maki föður ásamt hálfsystur barnsins komið og síðar amma í föðurætt og hefðu samskipti allra verið glaðleg og eðlileg. 25. Fjórða umgengnin fór fram 30. janúar 2021 frá klukkan 13 til 17. Í skýrslu sérfræðinga var tekið fram að barnið hefði fagnað föður sínum. Um samskipti við móður kom fram að hún hefði fundið að því að þeir sem önnuðust eftirlitið hefðu látið föðurinn vera skamma stund eftirlitslausan með barnið. Einnig hefði hún tekið fram að áfrýjandi væri ofbeldismaður og að barnið hefði mátt þola kynferðisbrot af hans hálfu. Þá gagnrýndi hún skýrslur sérfræðinganna um fyrri umgengni. Um samskipti föður við barnið sagði að þau hefðu farið út á leiksvæði og síðar hefði maki föður komið ásamt ungu barni þeirra. Öll samskipti hefðu gengið vel og verið þægileg. 26. Umgengni í fimmta sinn fór fram 13. febrúar 2021 frá klukkan 12 til 17. Í skýrslu sérfræðinga sagði að umgengni hefði í fyrstu farið fram í leikrými innandyra þar sem stúlkan býr en síðan hefði faðir ásamt stúlkunni og hálfsystur hennar farið gangandi að leikrými í Þjóðminjasafninu. Einnig var tekið fram að barnið hefði virst öruggt og glatt með föður sínum. Nokkru síðar hefði maki föður komið og þar á eftir móðir hans en barnið hefði virst glatt að sjá ömmu sína. Að þessu loknu hefði verið gengið aftur að heimili barnsins. 27. Í sjötta sinn fór umgengni fram 27. febrúar 2021 frá klukkan 12 til 17. Í skýrslu sérfræðinga kom fram að barnið hefði hlaupið á móti föður sínum þegar hann kom að sækja það og virst spennt að sjá hann. Skömmu síðar hefði maki föður komið og spjallað við barnið. Frá heimili þess hefði verið gengið að Þjóðminjasafninu og barnið verið glatt og spjallað við föður sinn á leiðinni. Einnig segir að á safninu hefði barnið verið öruggt og sótt í föður sinn og maka hans. Næst hefði verið gengið að Norræna húsinu en þar hefði verið dvalið í leikrými. Þar hefði barnið leikið við föður sinn, sótt í hann og „knúsast“ í honum. Að lokum hefði verið gengið að heimili barnsins. Í lok umgengni hefði barnið faðmað föður og kvatt. 28. Umgengni fór fram í sjöunda sinn 13. mars 2021 frá klukkan 12 til 17. Í skýrslu sérfræðinga kom fram að barnið hefði fagnað föður sínum. Til stóð að barnið ásamt föður og fjölskyldu hans færu í leikhús. Stefnda hefði spurt hvort þeir sérfræðingar sem önnuðust eftirlitið yrðu ekki með barninu allan tímann og einnig inni í leikhússalnum og hefði hún fengið það staðfest. Farið var á sýninguna og um hana sagði að barnið hefði verið spennt en óöruggt í ókunnugum aðstæðum og leitað öryggis hjá föður. Fyrir og þegar leið á sýninguna hefði barnið sest í fang föður og setið hjá honum þar til sýningu lauk. Eftir sýninguna hefði hópurinn farið heim til móður áfrýjanda en þar hefði einnig verið maki hennar og síðar hefði komið þangað bróðir áfrýjanda með unga dóttur sína. Þegar komið hefði verið að því að ljúka umgengni hefði faðir spurt barnið hvað hefði verið skemmtilegast og barnið þá svarað „mest skemmtilegt hjá ömmu“. Um framhaldið eftir að komið var á heimili barnsins kom fram í skýrslunni að stefnda hefði sagt við þá sem önnuðust eftirlitið að barnið hefði greint sér frá því að það hefði farið til ömmu sinnar. Þetta teldi stefnda hafa farið gegn því sem hún samþykkti um að umgengni færi aðeins fram á stöðum fyrir almenning. 29. Í áttunda sinn fór umgengni fram 27. mars 2021 frá klukkan 12 til 20. Í skýrslu sérfræðinga sagði að fyrir umgengnina hefði móðir samþykkt að faðir mætti fara með barnið til móður sinnar. Þegar faðir kom hefði barnið verið í fangi móður sinnar og sagt glaðlega „pabbi minn“. Eftir að hafa dvalið saman um hríð á sameiginlegu leiksvæði innandyra þar sem barnið býr hefði verið farið á kaffihús en fram kemur að barnið hefði í upphafi ekki verið viljugt til að fara með. Um dvölina á kaffihúsinu sagði að faðir hefði setið í sófa og barnið verið í fangi hans og sóst eftir nánd við hann. Þegar komið var að heimili ömmu hefði barnið faðmað hana og gengið óhikað inn. Eftir dvölina þar hefði faðir þess ekið því heim og það kvatt hann í lok umgengni. 30. Umgengni samkvæmt hinum áfrýjaða dómi átti næst að fara fram 10. og 24. apríl 2021 en af því varð ekki þar sem barnið fór með stefndu til [...] í heimsókn til foreldra hennar. 31. Umgengni í níunda sinn fór fram 8. maí 2021 frá klukkan 12 til 20. Í skýrslu sérfræðinga um hana kom fram að barnið hefði í upphafi verið ögn hlédrægt og feimið við föður en fljótlega farið í fang hans og spjallað við hann. Farið hefði verið með barnið í verslunarmiðstöðina Kringluna þar sem amma þess hefði keypt skó á barnið. Þaðan hefði verið haldið í Fjölskyldugarðinn í Laugardal og síðan hefði staðið til að fara heim til áfrýjanda. Þeir sem önnuðust eftirlitið hefðu þá greint honum frá því að stefnda samþykkti ekki að barnið færi heim til hans. Þess í stað hefði verið ákveðið að fara heim til ömmu barnsins og dvalið þar uns umgengni lauk. 32. Loks fór umgengni fram í tíunda sinn 22. maí 2021 og átti hún að standa í sólarhring frá klukkan 12 samkvæmt hinum áfrýjaða dómi. Daginn fyrir umgengnina hafði stefnda sent áfrýjanda og þeim sem önnuðust eftirlit með umgengninni tölvubréf þar sem fram kom að hún samþykkti ekki að barnið gisti hjá áfrýjanda heldur vildi að umgengnin yrði eins og síðast og stæði frá klukkan 12 til 20. Jafnframt að hún samþykkti aðeins að umgengnin færi fram á almenningsstöðum og á heimili ömmu barnsins. Í skýrslu sérfræðinga um umgengnina kom fram að barnið hefði verið mjög glatt að sjá föður sinn og hlaupið til hans. Farið var á leiksýningu og segir að barnið hefði setið í fangi föður alla sýninguna og virst skemmta sér vel. Um framhaldið kom fram í skýrslunni að áfrýjandi hefði greint þeim sem önnuðust eftirlitið frá því að hann ætlaði með barnið heim til sín að lokinni sýningu og myndi taka afleiðingum af því. Töldu sérfræðingarnir sér ekki annað fært en að fylgja áfrýjanda og barninu heim til hans. Þar hitti barnið föðurfjölskyldu og var tekið fram í skýrslunni að ekki hefði verið annað að sjá en að stúlkunni hefði liðið vel og hún verið óþvinguð með föður sínum og fjölskyldu. Við lok umgengni ók áfrýjandi barninu heim til sín ásamt öðrum sérfræðingnum. Matsgerð um forsjárhæfni aðila 33. Að tilhlutan héraðsdóms fékk áfrýjandi dómkvaddan sálfræðing 20. júní 2019 til að taka saman matsgerð um nánar tilgreind atriði sem lúta að forsjárhæfni aðila, aðstæðum þeirra og tengslum barnsins við þau. Sálfræðingurinn skilaði matsgerð sinni 25. október sama ár. Verða nú raktar helstu niðurstöður matsgerðarinnar. Um áfrýjanda 34. Fram kemur að áfrýjandi er [...] að mennt og starfar sem [...]. Hann hefur einnig lokið BA-prófi í [...]. Hann býr með fjölskyldu sinni í eigin húsnæði. Um líðan áfrýjanda í æsku er haft eftir honum að hann hafi verið óöruggur og með lítið sjálfstraust. Jafnframt hafi hann verið mjög meðvirkur og átt erfitt með að standa með sjálfum sér. Þá hafi það verið mikið áfall í lífi hans þegar hann 13 ára misnotaði hálfsystur sína kynferðislega en hann hafi árum saman verið mjög sakbitinn og haft mikla skömm á því sem hann gerði. Líkamleg heilsa hans hafi aftur á móti verið góð. Um sambúðina við stefndu segir að áfrýjandi telji að hún hafi beitt sig miklu andlegu ofbeldi og samskipti þeirra litast mjög af afbrýðissemi hennar. Einnig er haft eftir honum að stefnda hafi í einhver skipti sakað hann um hafa kynferðislegan áhuga á hundi sem þau voru með. 35. Um ásakanir í garð áfrýjanda kemur fram að hann hafi í upphafi sambands síns við stefndu greint henni frá atvikinu þegar hann misnotaði systur sína og hvernig sá atburður hafi sett mark sitt á líf hans. Þetta telji hann að hún nýti sér nú til að koma höggi á sig. Hann vísi því jafnframt á bug að sér hafi risið hold þegar hann var að annast dóttur þeirra eða klappa hundi. Aftur á móti fái hann auðveldlega stinningu án þess að vera kynferðislega örvaður. Einnig kannaðist hann við að hafa tvisvar rifist um þetta við stefndu eftir að barnið fæddist en oft fyrir þann tíma. Í fyrra skiptið hafi þau legið í rúminu og barnið, sem þá var ekki orðið eins árs, farið að gráta í sínu rúmi. Hann hafi þá farið til barnsins á nærbuxunum með stinningu. Í seinna skiptið hafi þau setið í sófa með barnið um árs gamalt og áfrýjandi strokið stefndu um bakið en henni misboðið þegar hún sá að hann var með stinningu. Þá segir að áfrýjandi hafi bent á að stefnda hafi treyst honum fyrir barninu bæði meðan á sambúðinni stóð og í um ár eftir að henni lauk. Um stefndu 36. Þegar matið fór fram var stefnda í meistaranámi í [...]. Fram kemur að hún hafi verið í [...]. Einnig segir að hún hafi fæðst í [...] og dvalið fyrstu tvö árin [...] þar til [...]. Hún ólst upp í [...] og telur sig hafa hlotið gott uppeldi við reglusemi og öryggi. Hún hafi verið hlýðið barn og ekkert skort [...]. Stefnda kynntist fólki héðan [...] og flutti til landsins þegar hún var [...]. Um heilsufar stefndu segir að hún hafi alltaf verið líkamlega hraust. Eftir fæðingu dóttur hennar hafi hún þjáðst af þunglyndi og kvíða og verið lengi að jafna sig eftir barnsburðinn. Kvíðinn hafi náð hámarki þegar fæðingarorlofi lauk og valdið því að hún gat ekki stundað nám eða vinnu. Hún hafi byrjað á þunglyndislyfjum vorið 2017 og þá um haustið leitað aðstoðar sálfræðings. Um vorið 2018 hafi hún svo farið í áfengismeðferð. 37. Um samband sitt og áfrýjanda er haft eftir stefndu að í upphafi hafi þau verið mjög náin en sambandið þróast í að vera mjög óheilbrigt. Þau hafi verið mikið saman og hún verið „ástsjúk“ og alltaf hrædd um að hún væri ekki nóg fyrir hann og að hann myndi slíta sambandinu. Hún hafi verið mjög stjórnsöm og hann undirgefinn og ágreiningur þeirra snúist um afbrýðissemi hennar. Um tengslarof barnsins við föður eftir að stefnda takmarkaði umgengnina haustið 2018 er haft eftir henni að þau hafi haft mjög góð áhrif á barnið. Það sé ekki eins grátgjarnt og sýni ekki kvíðahegðun eins og áður. Rakti stefnda þetta til þess að barnið væri ekki í umsjá áfrýjanda. Um ásakanir í garð áfrýjanda 38. Athugun matsmanns vegna ásakana stefndu um kynferðisbrot áfrýjanda gegn barninu byggðist á frásögnum aðila, viðtölum við réttarsálfræðing og lækni, fræðiskrifum og umræðum feðra á erlendum samfélagsmiðli. 39. Um kynferðislega misnotkun áfrýjanda í æsku á hálfsystur sinni er vísað til þess að áfrýjandi hafi sagt stefndu frá því í upphafi sambands þeirra og komið hafi fram að atvikið hafi þjakað hann fram á fullorðinsár. Rannsóknir og viðtal matsmanns við réttarsálfræðing bendi til að langflest ungmenni láti af slíkri hegðan gagnvart yngri börnum. 40. Að því er varðar holdris áfrýjanda kemur fram að matsmaður hafi rætt við nafngreindan þvagfæraskurðlækni sem hafi greint frá því að alþekkt sé að karlmönnum geti risið hold án þess að það verði rakið til kynlöngunar. Einnig hafi matsmaður kannað umræðu feðra á samfélagsmiðlum um vanda af þessum toga sem ekki verði rakinn til kynferðislegrar örvunar. 41. Um ásakanir í garð áfrýjanda um að hafa brotið kynferðislega gegn dóttur sinni telur matsmaður hæpið að álykta um kynferðislega misnotkun í hennar garð úr frá þeim tilvikum sem stefnda vísi til. Frásögn stefndu beri þess merki að vera eftiráskýringar á hegðun barnsins sem hún telur benda til misnotkunar. Hvað varðar tilvikið þar sem stúlkan talaði um fingur sæti furðu að stefnda hafi, þrátt fyrir skilning sinn á því, sent barnið til föðurins eftir það en um það bil fjórir mánuðir hafi liðið frá því áður en hún kærði hann til lögreglu. Atvikið þegar stúlkan á að hafa sagt „pabbi skegg kitlar“ hafi ekki orðið til þess að stefnda skoðaði strax kynsvæði stúlkunnar heldur hefði hún gert það daginn eftir og ekki leitað eftir læknisskoðun. Þetta bendi að áliti matsmanns ekki til að stefndu hafi verið alvarlega brugðið þegar atvikið átti sér stað. 42. Í ljósi sambúðarsögu málsaðila og samskipta í kjölfar sambúðarslita telur matsmaður ekki annað að sjá en stefnda hafi borið fullt traust til áfrýjanda til að annast barnið frá fæðingu þess þar til hún kærir hann til lögreglu í október 2018. Á þeim tíma hafi áfrýjandi tekið ríkan þátt í umönnun barnsins og séð um það einn ákveðin tímabil þótt stefndu hafi verið fullkunnugt um að hann hefði misnotað hálfsystur sína kynferðislega þegar hann var barn. Umgengi málsaðila við barnið hafi verið jöfn í eitt ár eftir sambúðarslit en viðsnúningur hafi orðið í október 2018. Matsmaður tekur fram að áfrýjandi skýri þessar breytingar með því að stefnda hafi brugðist þannig við vegna óska hans um að dregið yrði úr samskiptum þeirra á milli en stefnda haldi því fram að augu hennar hafi á þessum tíma opnast fyrir því að áfrýjandi væri hættulegur barninu og hún fyrst þá haft styrk til að grípa til aðgerða. Niðurstaða um matsatriði 43. Í matsgerðinni kemur fram að matsmaður hafi ekki getað lagt mat á tengsl barns við foreldra með áhorfi þar sem umgengni við áfrýjanda hafi legið niðri. Því studdist matsmaður við frásögn aðila um samskiptin. Um þetta segir síðan svo í matsgerðinni: Þegar saga málsaðila er skoðuð sést að báðir hafa sinnt barninu nokkuð jafnt á sambúðartíma og í eitt ár eftir að sambúð lauk. Það má því gera ráð fyrir að grunntengsl [C] hafi myndast bæði við föður og móður. Báðir foreldrar þekkja vel til eiginleika stúlkunnar og eru lýsingar þeirra nokkuð samhljóðandi. Báðir foreldrar virðast vera mildir uppalendur, áhugasamir um stúlkuna og velferð hennar. Ætla má að tengsl þeirra beggja við [C] hafi verið náin og kærleiksrík. Tengslarof hefur átt sér stað milli föður og barns og samskipti þeirra á milli verið mjög lítil síðastliðið eitt ár. Það má því ætla að tengsl stúlkunnar við föður hafi rýrnað til muna og hún ekki háð honum um uppfyllingu daglegra þarfa. 44. Um daglega umönnun og umsjá barnsins kemur fram að báðir foreldrar virðist færir um að sinna barninu svo vel fari en ekki hafi komið fram að barnið hafi einhverjar sérþarfir. Síðastliðið ár fyrir matið hafi umsjá verið hjá móður og hún fái góða umsögn hvað það varðar frá þeim sem til þekkja. 45. Varðandi persónulega eiginleika og hagi hvors aðila er í fyrstu vikið að skilningi þeirra á þörfum barnsins en um hvorn aðila segir svo: [Áfrýjandi hefur] haft velferð dóttur sinnar að leiðarljósi þar sem hann hefur ekki gengið hart fram í því að fá umgengni við hana sem honum hefði verið stætt á þar sem hann er með sameiginlega forsjá og hefur fengið úrskurð tveggja dómstiga um rétt til umgengni. Þess í stað hefur hann reynt að fara samningaleiðina við móður barnsins en án árangurs. [Stefnda hefur] ekki sett þarfir barnsins ofar sínum þegar hún tók fyrir eðlilega umgengni þess við föðurforeldra. Það virðist sem það hafi ráðið ákvörðun hennar að föðurforeldrar lögðu ekki trúnað á ásakanir hennar og hún var ekki lengur velkomin á heimili þeirra. Það nægði til þess að hún tók fyrir heimsóknir barnsins til þeirra. Matsmaður álitur það sýna að [stefnda] greinir ekki á milli eigin hagsmuna og hagsmuna barnsins sem er nauðsynlegt að foreldri sé fært um þar sem hagsmunir þeirra fara ekki alltaf saman við hagsmuni barna þeirra. Matsmanni finnst afstaða [stefndu] til umgengni stúlkunnar við hennar nánustu ættingja endurspegla skort á skilningi á þörfum barnsins til að viðhalda góðum tengslum við föðurforeldra sína og á afleiðingum tengslarofs við föður sinn. ... [Stefnda] segir stúlkuna hafa verið kvíðið barn og fram kemur í máli hennar og leikskólastarfsmanna að líðan [C] hefur batnað til muna eftir að hún hætti að fara í umgengni til föður. Móðir er þess fullviss að betri líðan barnsins sé því að þakka. Móðir lítur framhjá því að skýringin geti legið í auknum þroska stúlkunnar og félagslegri aðlögun hennar. Eins ber að líta til þess að á fyrstu tveimur æviárum barnsins var móðir þess illa haldin af kvíða og þunglyndi auk þess að misnota áfengi. Það er velþekkt og margar rannsóknir sem styðja það að kvíði og þunglyndi mæðra ungra barna getur sett mark sitt á þroska barna, líðan og aðlögun. Það að móðir [C] er nú komin í betra andlegt ástand á án efa þátt í betri líðan stúlkunnar. Það er álit matsmanns að báðir foreldrar séu hæfir til að fara með forsjá barnsins. Faðir hefur umfram móður að búa við meiri stöðugleika varðandi húsnæði og getur boðið barninu rík samskipti við nána ættingja þess. Móðir hefur umfram föður að hafa meiri reynslu og þekkingu í uppeldismálum. Varðandi ásakanir móður um að föður sé ekki treystandi fyrir barninu telur matsmaður rök hennar fyrir því ekki standast nánari skoðun. 46. Um vilja barnsins kemur fram í matsgerðinni að vegna ungs aldurs þess og þroska hafi matsmaður ekki talið unnt að afla afstöðu þess. Einnig segir að báðir aðilar geti boðið barninu upp á góðar heimilisaðstæður. Faðir hafi umfram móður að búa við meiri stöðugleika í húsnæðismálum þar sem hann búi í eigin húsnæði en móðir búi í leiguhúsnæði [...]. Um liðsinni vandamanna segir að á því sé mikill munur. Faðir sé í miklum og góðum samskiptum við foreldra sína en foreldrar móður búi í [...]. Einnig hafi maki föður sýnt að hún vilji taka þátt í lífi barnsins og stuðla að heilbrigðum tengslum þess við fjölskylduna. Þá telji þeir sem þekki til barnsins að breytingar gætu reynst stúlkunni erfiðar. Loks segir svo í niðurlagi matsgerðarinnar um umgengni við það foreldri sem barnið búi ekki hjá: Tvö dómstig hafa úrskurðað að faðir skuli hafa umgengni við barnið sem móðir hefur kosið að fara ekki eftir. Matsmaður telur það mjög mikilvægt að eðlileg umgengni stúlkunnar við föður geti komist á sem fyrst. Það er réttur barnsins að fá að umgangast föður sinn, systur og aðra nána ættingja. Matsmaður telur að faðir sé líklegri en móðir til að viðhalda eðlilegri umgengni. 47. Í skýrslu fyrir héraðsdómi áréttaði matsmaður að málsaðilar væru báðir mjög hæfir uppalendur. Einnig taldi matsmaður ekki hættu á að stefnda myndi einangra barnið því að hún væri í samskiptum við vini sem ættu börn. Þá sagði matsmaður að barninu virtist vera mjög vel sinnt hjá stefndu. Hún léti hana fara í [...], gerði ýmislegt með henni, léti hana hitta vini og því búi barnið við mjög góða rækt. Enn fremur kom fram að matsmaður teldi „dramatískt“ fyrir barnið að fara „algjörlega“ úr umsjón móður sinnar og legði það alls ekki til. 48. Stefnda krafðist þess 18. nóvember 2019 að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn til að endurmeta þau atriði sem metin höfðu verið og til að meta önnur atriði sem vörðuðu aðstæður og líðan barnsins. Með úrskurði héraðsdóms 6. desember 2019 var þeirri beiðni hafnað og var sú niðurstaða staðfest með úrskurði Landsréttar 14. janúar 2020 í máli nr. 857/2019. Stefnda óskaði eftir leyfi til að kæra þann úrskurð til Hæstaréttar en þeirri beiðni synjaði rétturinn 14. febrúar 2020 á þeim grunni að kæruheimild væri ekki fyrir hendi, sbr. ákvörðun nr. 2020-43. Niðurstaða Lagagrundvöllur 49. Samkvæmt 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal börnum tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Með þessu er sú skylda lögð á almenna löggjafann að móta nánar með lögum hvernig og með hvaða hætti velferð barna verður tryggð. Þótt þetta eigi að gera með lagasetningu mælir ákvæðið sjálft fyrir um að markmið slíkra laga sé að tryggja sem best velferð barna. Hæstiréttur hefur túlkað þetta svo að í ákvæðinu sé fólgin sú grunnregla barnaréttar að hagsmunir barna skuli hafðir í fyrirrúmi, eftir því sem velferð þeirra krefst, sbr. dóm réttarins 10. mars 2020 í máli nr. 58/2019. Er þá jafnframt haft í huga að markmið 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar var meðal annars að tryggja að íslenskur réttur væri í samræmi við alþjóðasamning um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989 en hann hefur lagagildi hér á landi, sbr. lög nr. 19/2013. Í umræddum samningi birtist fyrrgreind grunnregla í fyrirmælum 1. mgr. 3. gr. um að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar gerðar eru ráðstafanir sem varða börn. Hliðstæð regla er í 2. mgr. 1. gr. barnalaga en þar segir að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. 50. Þegar foreldrar deila um forsjá barns eða lögheimili ber í samræmi við umrædda grunnreglu að komast að þeirri niðurstöðu sem best hentar hagsmunum barns. Nánari lýsingu á þessu er að finna í 2. mgr. 34. gr. barnalaga, sbr. lög nr. 61/2012, þar sem fram kemur að dómari eigi meðal annars að líta til hæfis foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili þess hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska. Eins og tekið er fram í lögskýringargögnum er upptalningin ekki tæmandi en hefur að geyma helstu mælikvarða sem liggja til grundvallar mati á því sem barni er fyrir bestu til að gefa því hugtaki frekari merkingu. Hér má einnig benda á að í athugasemdum við 34. gr. í upphaflegu frumvarpi til laganna er að finna nánari upptalningu á þessu í ellefu töluliðum án þess að hún verði rakin hér. Innbyrðis vægi þessara atriða getur verið misjafnt en það sem ræður úrslitum er heildarmat á öllu sem skiptir máli í hverju tilviki. Með slíku heildarmati verður frekast tryggt að niðurstaðan sé í samræmi við það sem barni er fyrir bestu. Um þetta má til hliðsjónar benda á dóm Hæstaréttar 6. febrúar 1997 í máli nr. 133/1996, sem birtist í dómasafni þess árs á bls. 474, og dóm réttarins 24. febrúar 2011 í máli nr. 350/2010. 51. Samkvæmt 3. mgr. 34. gr. barnalaga getur dómari ákveðið að kröfu foreldris að forsjá barns verði sameiginleg ef dómari telur þær aðstæður fyrir hendi að slíkt geti þjónað hagsmunum barnsins. Þá ber að kveða á um hjá hvoru foreldri barnið skuli eiga lögheimili. Við mat á því hvort forsjá skuli vera sameiginleg ber dómara, auk fyrrgreindra atriða sem nefnd eru í 2. mgr. 34. gr. laganna, að taka mið af því hvort forsjáin hefur áður verið sameiginleg og aldri og þroska barnsins. Þá ber sérstaklega að líta til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra eru líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði, sbr. 4 mgr. sömu greinar. Í lögskýringargögnum um þetta ákvæði er lögð áhersla á að sameiginlega forsjá eigi aðeins að dæma ef fyrir liggur að um jafnhæfa forsjárforeldra sé að ræða, ágreiningur þeirra á milli sé ekki svo djúpstæður að hann sé líklegur til að hafa áhrif á barnið, foreldrarnir séu líklegir til að geta unnið í sameiningu að velferð barnsins og síðast en ekki síst að í hverju tilfelli fari fram mat á því hvort sameiginleg forsjá er barni fyrir bestu. Ef ágreiningur foreldra sé slíkur að ætla megi að hann stríði gegn hagsmunum barnsins beri ekki að dæma sameiginlega forsjá. Jafnframt segir að í raun megi telja að forsenda þess að dómara sé kleift að dæma sameiginlega forsjá sé að ágreiningur foreldra lúti að tiltölulega veigalitlum atriðum. Forsjá barnsins 52. Eins og hér hefur verið rakið hafa aðilar um langa hríð átt mjög erfitt með öll samskipti sín á milli og milli þeirra er djúpstæður ágreiningur sem snertir málefni barnsins. Af þeim sökum verður að fallast á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að ekki séu fyrir hendi forsendur til að aðilar fari saman með forsjána. Verður því að fela öðrum hvorum málsaðila hana. 53. Eins og áður greinir verður ágreiningur aðila rakinn til þess að stefnda hefur sakað áfrýjanda um að hafa brotið kynferðislega gegn dóttur þeirra og telur hún barnið ekki öruggt í hans umsjá. Áfrýjandi hefur gengist við því að hafa árið [...], þegar hann var 13 ára, misnotað hálfsystur sína er hún var 5 ára. Frá þessu atviki mun hann hafa sagt stefndu árið 2013 eins og hún greindi frá þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglu 12. október 2018 í tilefni af kæru sinni á hendur áfrýjanda. Einnig hefur áfrýjandi kannast við að vera viðkvæmur þannig að honum rísi hold af engu eða litlu tilefni og að um þetta hafi aðilar deilt á sambúðartímanum vegna þess að þetta hafi gerst í einhver skipti þegar barnið var nálægt. Þá ber aðilum saman um að áfrýjandi hafi af þessum sökum farið í eitt viðtal hjá sálfræðingi. Þessi atriði gætu að sínu leyti skýrt að stefnda treysti áfrýjanda ekki fyrir barninu. Aftur á móti var það hvorki raunin á sambúðartímanum né heldur í um það bil ár eftir að sambúð var slitið haustið 2017. Þvert á móti var barnið jafnt hjá aðilum eftir sambúðarslitin og dvaldi í rúman mánuð hjá áfrýjanda vorið 2018 þegar stefnda fór í áfengismeðferð. Er einnig til þess að líta að ekki urðu sinnaskipti að þessu leyti hjá stefndu þótt hún staðhæfi að barnið hafi um sumarið 2018, þegar hún var að skipta á því, sagt við sig: „En ekki margir puttar“ og hún dregið af þeim orðum þá ályktun að áfrýjandi hafi brotið kynferðislega gegn barninu. Engar einhlítar ályktanir verða dregnar af þessum orðum barnsins eða þeirri staðhæfingu stefndu að barnið hafi í september sama ár, þegar stefnda var að svæfa það, klórað sér í klofinu og sagt „pabbi skegg kitlar“. Með hliðsjón af þessu og að öllu því virtu sem komið hefur fram í málinu verður hér fyrir dómi, á sama veg og gert var í héraði og fyrir Landsrétti, lagt til grundvallar að barninu stafi ekki hætta af áfrýjanda. 54. Svo sem hér hefur verið rakið tók stefnda fyrir umgengni barnsins við áfrýjanda haustið 2018 en samþykkti þó að hann hitti barnið í skamma stund á heimili þess að henni viðstaddri. Einnig takmarkaði stefnda samgang barnsins við móður og stjúpföður áfrýjanda en gaf þeim til kynna að þau mættu hitta barnið á heimili þess. Þá virti stefnda að vettugi úrskurð héraðsdóms 16. júlí 2019 um umgengni barnsins við áfrýjanda til bráðabirgða meðan málið var rekið þar fyrir dómi en Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu með úrskurði 4. september sama ár. Það sama var uppi á teningnum þegar áfrýjanda var dæmd forsjá barnsins í héraði 26. maí 2020. Frá því að hinn áfrýjaði dómur gekk 11. desember sama ár hefur umgengni farið fram undir eftirliti í samræmi við dóminn að því frátöldu að stefnda hafnaði því að barnið dveldi yfir nótt hjá föður aðfaranótt sunnudagsins 23. maí 2021. Auk þess setti stefnda það skilyrði fyrir umgengninni að hún færi fram á almenningsstöðum og samþykkti ekki að barnið dveldi á heimili áfrýjanda og lengst af hafnaði hún því einnig að barnið færi til ömmu sinnar. Með því sem hér hefur verið rakið hefur stefnda ekki aðeins tálmað umgengni barnsins við áfrýjanda heldur einnig gengið mun lengra en helgast gat af þeim beyg sem hún segist hafa af því að áfrýjandi annist barnið vegna fyrrgreindra ásakana hennar í hans garð. Er þess þá að gæta að umgengnin í samræmi við hinn áfrýjaða dóm var undir stöðugu eftirliti tveggja sérfræðinga og því stóðu engin rök til þess að meina áfrýjanda að dvelja með barnið á heimili sínu og á heimili ömmu barnsins. Þannig hefur stefnda tekið eigin hagsmuni fram yfir rétt barnsins til að njóta umgengni við áfrýjanda og föðurfjölskyldu þess. Jafnframt hefur hún með þessu sýnt skort á innsæi í þarfir barnsins til að halda góðum tengslum við ættmenni sín. Að þessu virtu verður að telja að áfrýjandi hafi betri skilning á þessum þörfum barnsins og muni virða rétt þess til umgengni, sbr. 1. mgr. 46. gr. barnalaga, enda liggur fyrir að hann telur afar brýnt fyrir velferð stúlkunnar að hún njóti umönnunar stefndu. Verður jafnframt að hafa í huga að hann hefur ekki fylgt eftir ýtrasta rétti sínum gagnvart stefndu heldur sætt sig við þau skilyrði sem hún hefur sett honum vegna umgengninnar ef frá er talið að hann hefur í eitt sinn farið í óþökk hennar með barnið á heimili sitt sem þó var í samræmi við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um umgengnina. 55. Eins og áður greinir taldi matsmaður að báðir foreldrar væru hæfir til að fara með forsjána. Áfrýjandi hefði umfram stefndu að búa við meira öryggi í húsnæðismálum og gæti boðið barninu rík samskipti við nána ættingja þess. Aftur á móti hefði stefnda það umfram áfrýjanda að hafa meiri reynslu og þekkingu í uppeldismálum. Jafnframt sagði matsmaður í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að barninu væri mjög vel sinnt hjá stefndu og það byggi við mjög góða rækt. Þá er þess að gæta að barnið hefur alla sína tíð verið í umönnun stefndu og frá hausti 2018 hefur áfrýjandi ekki annast það ef frá er talin sú óverulega umgengni sem áður er lýst. Af þessu verður í fyrsta lagi ráðið að stefnda sé mjög hæfur uppalandi, þó að því frátöldu sem rakið er um innsæisskort hennar í þarfir barnsins vegna deilunnar við áfrýjanda. Í öðru lagi leikur ekki vafi á því að tengsl hennar og barnsins eru meiri en tengsl þess við áfrýjanda í ljósi þess að hann hefur sinnt barninu takmarkað frá hausti 2018. Þess er þó að gæta að samskipti barnsins og áfrýjanda í umgengni eftir að hinn áfrýjaði dómur gekk bera með sér að góð tengsl eru á milli þeirra. Í þriðja lagi felst meiri stöðugleiki í því fyrir barnið að dvelja áfram hjá stefndu en að gera þá róttæku breytingu á högum þess að fela áfrýjanda forsjána. Vissulega er það svo að stefnda hefur með einhliða aðgerðum sínum, þvert gegn niðurstöðum dómstóla, treyst stöðu sína að þessu leyti. Það fær þó ekki breytt því að hún stendur áfrýjanda framar með tilliti til tengsla við barnið og að viðhalda stöðugleika í lífi þess, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga. Hér er þess einnig að gæta að barnið er aðeins [...] ára. Því mæla hagsmunir barnsins með stefndu í þessu tilliti þótt hún hafi náð að skapa sér þetta forskot með háttsemi sinni. 56. Að öllu því virtu sem hér hefur verið rakið leiðir heildarmat á hæfi foreldra til að fara með forsjána og þarfir barnsins til þeirrar niðurstöðu að hagsmunir stúlkunnar standi til þess að stefnda fari með forsjána. Við þá úrlausn, eins og mál þetta er vaxið, hefur hæfi stefndu sem uppalanda, tengsl barnsins við hana og mikilvægi þess að varðveita stöðugleika í lífi þess meira vægi en önnur atriði. Þó skal tekið fram að ekki verður fallist á það með Landsrétti að við matið hafi áhrif óvissa um svigrúm áfrýjanda og maka hans vegna fjölskylduaðstæðna þeirra til að sinna þörfum barnsins sem verði fyrirsjáanlega krefjandi vegna neikvæðrar afstöðu stefndu til áfrýjanda. Samkvæmt öllu þessu verður staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að stefndu verði falin forsjá barnsins. Í samræmi við það verður einnig staðfest niðurstaða dómsins um skyldu áfrýjanda til að greiða meðlag með barninu. Umgengni barnsins við áfrýjanda 57. Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. barnalaga á barn rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Einnig segir að þegar foreldrar búa ekki saman hvíli sú skylda á þeim báðum að grípa til þeirra ráðstafana sem við verður komið til að tryggja að þessi réttur barnsins sé virtur. Í 2. mgr. sömu greinar segir síðan að það foreldri sem barn býr ekki hjá eigi í senn rétt og beri skylda til að rækja umgengnina og það foreldri sem barn býr hjá sé skylt að stuðla að því að það njóti umgengni við hitt foreldri sitt nema hún sé andstæð hag og þörfum barns að mati dómara eða lögmæts stjórnvalds. Að baki þessum fyrirmælum býr friðhelgi fjölskyldu sem nýtur verndar samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. 58. Svo sem fyrr greinir verður barninu ekki talin stafa hætta af áfrýjanda. Þvert á móti liggur fyrir að áfrýjandi er hæfur uppalandi, sýnir góðan skilning á þörfum þess og samkvæmt matsgerð er talið að grunntengsl hafi myndast milli hans og barnsins. Einnig bera samskipti í umgengni með sér að góð tengsl séu milli þeirra. Þá ber að líta til þess að hagsmunir barnsins mæla eindregið með að það fái notið fjölskyldu sinnar í föðurætt. Að þessu virtu er rétt að barnið njóti ríflegrar umgengni við áfrýjanda til að viðhalda og efla tengsl þeirra og er lögð rík áhersla á að stefndu beri að hlíta því og stuðla að umgengninni í þágu barnsins. Að öðrum kosti standa skilyrði til þess að umgengninni verði komið á eftir þeim úrræðum sem lög bjóða. Þá skal tekið fram að engin efni eru til að umgengnin verði undir eftirliti í ljósi þess hvernig hún hefur gengið undanfarið, svo sem áður er rakið. 59. Umgengni barnsins við áfrýjanda skal hagað þannig að hún verði aðra hverja viku frá síðdegi á fimmtudegi til mánudagsmorguns og fari þannig fram að stúlkan sé sótt og skilað í skóla eða þegar það á við á heimili hennar. Umgengni í fyrsta sinn skal fara fram 24. til 27. júní 2021. Jafnframt skal barnið á tveggja mánaða tímabili dvelja hjá áfrýjanda í viku í senn frá klukkan 16 á föstudegi og skal áfrýjandi með mánaðar fyrirvara tilkynna stefndu hvaða viku innan hvers tveggja mánaða tímabils hann kjósi að stúlkan dvelji hjá honum. Þetta á þó ekki við um júlí og ágúst hvert ár en sérstaklega er mælt fyrir um umgengni í sumarleyfi. Fyrsta tveggja mánaða tímabilið skal vera september og október 2021. 60. Í sumarleyfi skal barnið dvelja hjá áfrýjanda í fjórar vikur annaðhvort frá 15. júní eða 15. júlí ár hvert eftir ákvörðun stefndu sem hún skal tilkynna áfrýjanda fyrir 1. apríl ár hvert. Sumarið 2021 skal barnið þó dvelja hjá föður í tvær vikur frá 22. júlí. Í jólaleyfi frá 20. til 27. desember og 28. desember til 2. janúar ár hvert skal barnið dveljast til skiptis hjá foreldrum sínum, fyrst hjá stefndu um komandi jól en áfrýjanda um áramót, og síðan koll af kolli. Um páska frá skírdegi til annars í páskum skal barnið dvelja til skiptis hjá aðilum, fyrst hjá áfrýjanda páskana 2022. Í vetrarleyfum grunnskóla skal barnið dvelja til skiptis hjá aðilum, fyrst hjá áfrýjanda. 61. Málskostnaður milli aðila á öllum dómstigum fellur niður og ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð. Um gjafsóknarkostnað fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um forsjá barnsins C og greiðslu meðlags með því. Umgengni barnsins við áfrýjanda, A, skal vera aðra hverja viku frá síðdegi á fimmtudegi til mánudagsmorguns og skal barnið sótt og skilað í skóla eða á heimili þess. Umgengni í fyrsta sinn skal fara fram 24. til 27. júní 2021. Jafnframt skal barnið á tveggja mánaða tímabili dvelja hjá áfrýjanda í viku í senn frá klukkan 16 á föstudegi og skal áfrýjandi með mánaðar fyrirvara tilkynna stefndu, B, hvaða viku innan hvers tveggja mánaða tímabils hann kjósi að stúlkan dvelji hjá honum. Þetta á þó ekki við um júlí og ágúst hvert ár. Fyrsta tveggja mánaða tímabilið skal vera september og október 2021. Í sumarleyfi skal barnið dvelja hjá áfrýjanda í fjórar vikur annaðhvort frá 15. júní eða 15. júlí ár hvert eftir ákvörðun stefndu sem hún skal tilkynna áfrýjanda fyrir 1. apríl ár hvert. Sumarið 2021 skal barnið dvelja hjá föður í tvær vikur frá 22. júlí. Í jólaleyfi frá 20. til 27. desember og 28. desember til 2. janúar ár hvert skal barnið dveljast til skiptis hjá foreldrum sínum, fyrst hjá stefndu um komandi jól en áfrýjanda um áramót, og síðan koll af kolli. Um páska frá skírdegi til annars í páskum skal barnið dvelja til skiptis hjá aðilum, fyrst hjá áfrýjanda páskana 2022. Í vetrarleyfum grunnskóla skal barnið dvelja til skiptis hjá aðilum, fyrst hjá áfrýjanda. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans 1.200.000 krónur. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 1.200.000 krónur. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=32413425-484d-4c9f-b356-2cf5eb6cc758
Mál nr. 12/2021
Kynferðisbrot Nauðgun Refsiákvörðun Tafir á meðferð máls Miskabætur
L og T voru sakfelldir fyrir nauðgun með því að hafa haft samræði við A án hennar samþykkis með því að beita hana ólögmætri nauðung. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot L og T hefðu verið alvarleg og beinst gegn ungri stúlku sem hefði verið stödd ein og ölvuð um nótt á heimili ókunnugra manna og að þeim hefði ekki getað dulist að um barn var að ræða. Þá var að nokkru litið til tafa sem hefðu orðið á rannsókn lögreglu. Var refsing L og T ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði auk þess sem þeim var hvorum um sig gert að greiða A 1.800.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. febrúar 2021. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd. 3. Ákærði Lukasz Soliwoda krefst aðallega sýknu en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög heimila og sú refsing verði bundin skilorði. Þá krefst hann þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af henni en að því frágengnu að hún verði lækkuð. 4. Ákærði Tomasz Walkowski krefst þess að refsing hans verði milduð og bundin skilorði. Þá krefst hann þess að bótakrafa verði lækkuð. 5. Brotaþoli, A, krefst þess aðallega að ákærðu verði hvorum um sig gert að greiða henni 2.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. febrúar 2017 til 27. júní 2019 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún staðfestingar hins áfrýjaða dóms um kröfuna. Ágreiningsefni 6. Með ákæru héraðssaksóknara 2. maí 2019 var ákærðu gefin að sök nauðgun með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 4. febrúar 2017 haft samfarir við A án hennar samþykkis. Hefðu ákærðu beitt brotaþola ólögmætri nauðung með því að notfæra sér ölvunarástand hennar og yfirburðastöðu sína þar sem hún var stödd með ókunnugum mönnum fjarri öðrum og sökum aldurs- og þroskamunar. Var háttsemin talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 7. Ákærðu voru sakfelldir fyrir brot í samræmi við ákæru með héraðsdómi 22. nóvember 2019, að því frátöldu að ekki var fallist á að atvik hefðu gerst fjarri öðrum. Var refsing þeirra ákveðin þriggja ára fangelsi. Ákærðu var auk þess hvorum um sig gert að greiða brotaþola 1.300.000 króna miskabætur auk vaxta. Með dóminum var þriðji maður sem einnig var ákærður fyrir kynferðisbrot gagnvart brotaþola umrædda nótt sýknaður. 8. Með hinum áfrýjaða dómi var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærðu, en refsing þeirra ákveðin fangelsi í tvö ár og þeim hvorum um sig gert að greiða brotaþola 1.500.000 króna miskabætur auk vaxta. 9. Að ósk ríkissaksóknara var veitt leyfi til áfrýjunar málsins til Hæstaréttar. Í ákvörðun réttarins 2. febrúar 2021 sagði að mikilvægt væri að fá úrlausn um ákvörðun viðurlaga í því, sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þar kom einnig fram að niðurstaða Landsréttar um sakfellingu væri að hluta byggð á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðu, vitna og brotaþola en það mat yrði ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. sömu laga. Málsatvik og meðferð máls 10. Brotaþoli leitaði til neyðarmóttöku Landspítala 4. febrúar 2017 og hófst rannsókn málsins með tilkynningu til lögreglu sama dag. Eins og greinir í héraðsdómi hitti brotaþoli þá um nóttina ungan pilt í miðbæ Reykjavíkur. Síðar um kvöldið hringdi pilturinn í ákærða Tomasz sem var á bifreið umrædda nótt og sóttu ákærðu piltinn og brotaþola þar sem þau voru við tónlistarhúsið Hörpu. Þaðan fóru þau fjögur í bifreiðinni að heimili ákærðu en þeir og pilturinn leigðu hver sitt herbergið í kjallara fjölbýlishúss. Þegar þangað var komið dvöldu þau fyrst um sinn í herbergi ákærða Tomasz og drukku þar bjór saman. Hafði ákærði Tomasz samræði við brotaþola eftir að hinir höfðu yfirgefið herbergið. Í framhaldi af því hafði ákærði Lukasz samræði við brotaþola í sínu herbergi. Að því loknu fór brotaþoli í herbergi unga piltsins en að skammri stundu liðinni yfirgaf hún húsnæðið og hringdi í móður sína sem sótti hana um klukkan fjögur um nóttina. Um hádegisbil næsta dag sagði brotaþoli móður sinni frá því sem gerst hafði og leitaði hún í kjölfarið til neyðarmóttöku Landspítala. 11. Með héraðsdómi voru ákærðu sakfelldir fyrir nauðgun samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga og var refsing þeirra ákveðin fangelsi í þrjú ár. Þeir voru taldir hafa misnotað sér ástand og aðstæður ungrar stúlku í því skyni að ná fram vilja sínum og engu skeytt um velferð hennar. Ættu þeir sér engar málsbætur. Brot ákærðu voru talin alvarleg og ófyrirleitin og til refsiþyngingar var litið til 1., 2., 6. og 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr. sömu laga. Brotaþoli hefði verið 16 ára þegar atvik gerðust og brot ákærðu sérstaklega þungbær í ljósi þess hvernig atvikum var háttað og því bæði litið til a- og c-liðar 195. gr. laganna við ákvörðun refsingar. Með hliðsjón af alvarleika brota ákærðu væru ekki efni til að skilorðsbinda refsingu þeirra þrátt fyrir að meðferð málsins hefði dregist úr hófi. Þannig hefðu 27 mánuðir liðið frá því að brot ákærðu voru framin og þar til ákæra vegna málsins var gefin út en ákærðu yrði ekki kennt um þann drátt. 12. Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að ákærðu hefðu gerst sekir um nauðgun með því að hafa hvor um sig haft samfarir við brotaþola gegn vilja hennar og til þess beitt brotaþola ólögmætri nauðung með því að notfæra sér yfirburðastöðu sína gagnvart henni sökum aldurs- og þroskamunar og þeirra aðstæðna sem hún var í þar sem hún var ein og ölvuð með þremur ókunnugum og sér eldri mönnum á heimili þeirra. Voru brot ákærðu talin réttilega heimfærð til 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 2. gr. sömu laga. Vísað var til röksemda héraðsdóms fyrir refsingu ákærðu en sérstaklega til 1. töluliðar 70. gr. og a-liðar 195. gr. sömu laga. Refsing ákærðu var ákveðin fangelsi í tvö ár, meðal annars með vísan til þess að óhóflegur dráttur hefði orðið á málsmeðferðinni sem ákærðu yrði ekki kennt um. Niðurstaða Krafa um sýknu 13. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu ákærðu byggist að hluta á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðu, vitna og brotaþola. Það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærðu og heimfærslu til refsiákvæða. Ákvörðun refsingar 14. Í 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga segir að refsing þess sem brýtur gegn ákvæðinu sé fangelsi ekki skemur en eitt ár og allt að sextán árum. Dómstólar hafa svigrúm til ákvörðunar refsingar fyrir brot gegn ákvæðinu innan fyrrgreindra refsimarka, en við ákvörðun refsingar er litið til málavaxta með heildstæðum hætti. Í VIII. kafla almennra hegningarlaga er fjallað um almenn atriði sem hafa áhrif á refsihæð og í 1. mgr. 70. gr. laganna eru tiltekin í níu töluliðum atriði sem einkum á að taka til greina við ákvörðun refsingar. Sérstakar refsiþyngingarástæður eiga jafnframt við þegar um brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga er að ræða, sbr. 195. gr. almennra hegningarlaga. Segir þar að við ákvörðun refsingar fyrir brot gegn 194. gr. skuli virða til þyngingar ef þolandi er barn yngra en 18 ára, sbr. a-lið ákvæðisins, ef ofbeldi geranda er stórfellt, sbr. b-lið þess, og ef brotið er framið á sérstaklega sársaukafullan eða meiðandi hátt, sbr. c-lið. 15. Brot ákærðu voru alvarleg og beindust gegn ungri stúlku sem stödd var ein og ölvuð um nótt á heimili ókunnugra manna. Gat þeim ekki dulist að um barn væri að ræða en ákærði Tomasz er nítján árum eldri en brotaþoli og ákærði Lukasz fimmtán árum eldri. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi beittu ákærðu brotaþola ólögmætri nauðung með því að nýta sér yfirburðastöðu sína sökum aldurs- og þroskamunar og þeirra aðstæðna sem stúlkan var í og höfðu gegn vilja hennar samræði við hana sem stóð yfir í nokkuð langan tíma. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 61/2007, en með 5. gr. þeirra var 195. gr. almennra hegningarlaga í núverandi mynd lögleidd, segir um a-lið greinarinnar að það segi sig sjálft að ungir þolendur hafi lítinn sálfræðilegan og líkamlegan styrk til þess að verjast nauðgunum. Tiltölulega lítið ofbeldi eða lítilfjörleg hótun geti því virkað mjög ógnvekjandi gagnvart börnum. Séu markmið með lögfestingu ákvæðisins meðal annars að leggja áherslu á hve alvarleg kynferðisbrot gegn börnum væru og ámælisverð og að það skyldi virða til þyngingar refsingu ef þolandi væri barn yngra en 18 ára. Verður samkvæmt framansögðu tekið mið af því við ákvörðun refsingar ákærðu að brotaþoli var sextán ára þegar ákærðu brutu gegn henni. Brot ákærðu fólust jafnframt í samræði við brotaþola og fellur það undir að vera sérlega meiðandi aðferð og sársaukafull í skilningi c-liðar 195. gr. almennra hegningarlaga þegar um barn er að ræða við þessar aðstæður. Verður litið til fyrrgreindra atriða við ákvörðun refsingar ákærðu sem og til 1., 2., 6. og 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr. sömu laga. Ákærðu eiga sér engar málsbætur. 16. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, ber sérhverjum þeim sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér innan hæfilegs tíma. Í greinargerð með 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 segir að mat á því hvað telst hæfilegur tími velti mjög á atvikum hvers máls en unnt sé að hafa nokkur atriði til hliðsjónar þegar metið er hvort ástæður séu fyrir seinagangi í rekstri dómsmáls sem verði taldar réttlætanlegar. Í fyrsta lagi getur komið til álita hvort mál er sérstaklega umfangsmikið og flókið og hvort sönnunargagna er þörf sem erfitt getur reynst að afla, til dæmis ef þörf er verulegs fjölda vitna. Í öðru lagi getur skipt máli hverjum er um að kenna að rekstur dómsmáls dregst úr hófi og í þriðja lagi eru gerðar meiri kröfur til að mál gangi hratt fyrir sig ef telja má að úrlausn þess sé sérstak¬lega mikilvæg fyrir þann sem í hlut á. 17. Í 2. málslið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um að þeir sem rannsaka sakamál skuli hraða meðferð mála eins og kostur er. Sama skylda hvílir samkvæmt 2. málslið 3. mgr. 18. gr. laganna á ákærendum. Þá er í 1. mgr. 171. gr. sömu laga mælt fyrir um að hraða skuli meðferð máls fyrir dómi eftir föngum. Kröfunni um að leyst sé úr máli innan hæfilegs tíma er ætlað að stuðla að trausti almennings til réttarvörslukerfisins og jafnframt að vernda aðila gegn óhóflegum drætti á meðferð máls og í sakamálum sérstaklega ætlað að koma í veg fyrir að sakborningur sé of lengi í óvissu um réttarstöðu sína. Við mat á því hvort brotið hefur verið gegn rétti sakaðs manns til að fá leyst úr ákæru á hendur sér innan hæfilegs tíma ber að líta til atvika í hverju máli fyrir sig með hliðsjón af umfangi og eðli þess, hvort tafir eru á ábyrgð sakaðs manns eða stjórnvalds sem hefur haft málið til meðferðar og hvort úrlausn þess er sérstaklega mikilvæg fyrir þann sem í hlut á, sbr. til dæmis dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 10. maí 2011 í máli nr. 48059/06 og 2708/09, Dimitrov og Hamanov gegn Búlgaríu. 18. Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt yfirlit yfir feril rannsóknar málsins. Rannsókn lögreglu hófst 4. febrúar 2017 og stóð yfir fram í miðjan maí sama ár þegar hlé varð á henni. Af gögnum málsins má þó ráða að í október 2017 hafi lögregla átt samskipti við réttargæslumann brotaþola sem setti fram bótakröfu 25. þess mánaðar. Í mars 2018 var rannsókninni fram haldið og var málið sent héraðssaksóknara 8. október sama ár. Ákæra var gefin út 2. maí 2019 og var fyrsta fyrirtaka héraðsdóms 27. sama mánaðar. Héraðsdómur var kveðinn upp 22. nóvember sama ár. Áfrýjunarstefna var gefin út 10. desember 2019, greinargerðir ákærðu og ákæruvaldsins bárust Landsrétti í júní 2020 og fór aðalmeðferð fram í nóvember sama ár. Hinn áfrýjaði dómur var svo kveðinn upp 11. desember það ár. 19. Við mat á því hvort um er að ræða tafir sem áhrif eigi að hafa við ákvörðun refsingar verður annars vegar að meta í heild hvort málsmeðferðartíminn frá upphafi rannsóknar telst úr hófi langur og hins vegar hvort óafsakanlegar tafir hafa orðið á málsmeðferð á einstaka stigum hennar. Hefur í þeim efnum verið litið til umfangs lögreglurannsóknar, sbr. dóm Hæstaréttar 28. apríl 2016 í máli nr. 223/2015, og jafnframt hvort lögregla láti hjá líða að grípa til nauðsynlegra úrræða til að geta lokið rannsókn máls, sbr. dóm réttarins 25. september 2008 í máli nr. 96/2008. Hafi mál tafist á upphafsstigum málsmeðferðar er jafnframt sérlega brýnt að ekki verði frekari tafir við dómsmeðferð þess, sbr. dóm réttarins 29. janúar 2015 í máli nr. 336/2014. Þá hefur verið talið sérstaklega brýnt að meðferð og rannsókn máls sé hraðað eins og kostur er ef sakborningur sætir gæsluvarðahaldi, sbr. dóma réttarins 11. september 2009 í máli nr. 521/2009 og 7. mars 2014 í máli nr. 162/2014. 20. Fjögur ár og fjórir mánuðir eru liðnir síðan rannsókn lögreglu hófst og er málið nú til meðferðar á þriðja dómstigi. Samkvæmt framangreindu liðu 27 mánuðir frá því að rannsókn málsins hófst og þar til ákæra var gefin út. Fyrir liggur að hlé varð að mestu á rannsókninni um tíu mánaða skeið, auk þess sem ákæra var gefin út sjö mánuðum eftir að málið barst ákæruvaldi. Rannsókn málsins var ekki mjög yfirgripsmikil þótt hún beindist að þremur sakborningum en brýnt var að henni væri hraðað eins og kostur var þar sem við brotum ákærðu liggja þungar refsingar. Á hinn bóginn sættu ákærðu hvorki gæsluvarðhaldi né farbanni á tímabilinu eða öðrum þungbærum takmörkunum á réttindum sínum. Þá verður ekki talið að sá tími sem leið frá því að málið barst héraðssaksóknara þar til ákæra var gefin út hafi verið úr hófi. Þá hefur eðlilegur framgangur verið í meðferð málsins á þremur dómstigum. Að öllu þessu gættu verður með hliðsjón af dómaframkvæmd að nokkru litið til framangreindra tafa á rannsókn lögreglu við ákvörðun refsingar ákærðu. Þegar þetta er virt og með tilliti til alvarleika brota ákærðu gagnvart barni og þeirrar refsingar sem liggur við háttsemi þeirra samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga verður refsing þeirra, hvors um sig, ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Ákvörðun miskabóta 21. Bótakrafa brotaþola barst lögreglu 25. október 2017. Með henni kröfðust þáverandi lögráðamenn brotaþola, fyrir hönd hennar, greiðslu 5.000.000 króna miskabóta óskipt úr hendi þriggja sakborninga auk vaxta. Í héraðsdómi var komist að þeirri niðurstöðu að ekki væru forsendur til að dæma ákærðu sameiginlega bótaskylda þar sem ekki væri á því byggt í ákæru að um samverknað þeirra hefði verið að ræða. Voru ákærðu hvor um sig dæmdir til að greiða brotaþola 1.300.000 króna miskabætur auk vaxta. Fyrir Landsrétti krafðist brotaþoli þess að ákærðu yrðu dæmdir til að greiða henni 5.000.000 króna miskabætur auk vaxta. Ekki var tilgreint í kröfunni hver hlutur hvors ákærðu skyldi vera í þeirri kröfufjárhæð. Allt að einu var í hinum áfrýjaða dómi komist að þeirri niðurstöðu að ákærðu skyldu hvor um sig greiða brotaþola 1.500.000 króna miskabætur auk vaxta. 22. Fyrir Hæstarétti gerir brotaþoli kröfu um að ákærðu verði hvorum um sig gert að greiða henni 2.500.000 króna miskabætur að viðbættum vöxtum. Hvað sem líður framsetningu kröfu brotaþola fyrir Landsrétti verður talið að krafan, eins og hún er nú sett fram, komist að fyrir Hæstarétti. Er þá litið til þess að í henni felst í reynd að upphaflegri óskiptri bótakröfu á hendur ákærðu er skipt upp og breyting á kröfugerð þeim því til hagsbóta. 23. Í kynferðisbroti felst brot gegn stjórnarskrárvörðum rétti einstaklings til friðhelgi einkalífs samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar sem veldur miska þeim er fyrir verður. Með miskabótum er brotaþola bættur sá andlegi miski sem hann verður fyrir við kynferðisbrot á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í brotum ákærðu fólst ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði og persónu brotaþola í skilningi þessa ákvæðis. Við mat á fjárhæð bóta verður meðal annars litið til alvarleika verknaða ákærðu og þeirra afleiðinga sem brotin hafa haft á hagi brotaþola. 24. Brot ákærðu voru framin við auðmýkjandi aðstæður gagnvart brotaþola sem þá var barn að aldri. Ákærðu brutu báðir gegn kynfrelsi hennar þar sem hún var ein með þremur ókunnugum og sér eldri mönnum á heimili þeirra og stóðu brot ákærðu yfir í nokkuð langan tíma. Hvorutveggja var til þess fallið að auka enn á vanlíðan hennar við atburðinn og eftir hann. Í málinu liggja fyrir upplýsingar sérfræðinga um hvaða afleiðingar brotið hefur haft á andlega heilsu hennar en einnig er rétt að taka mið af þeim afleiðingum sem ætla verður að brotið muni hafa í för með sér á líf hennar til framtíðar eftir því sem hún mun öðlast meiri þroska, sbr. dóm Hæstaréttar 7. október 1999 í máli nr. 217/1999. Brot ákærðu voru þannig til þess fallin að hafa stórfelldan miska í för með sér fyrir brotaþola og má ráða af málsgögnum að þau hafa haft umtalsverðar afleiðingar, en þar verður ekki greint á milli afleiðinga brota hvors ákærðu fyrir sig. Þá verður jafnframt litið til þess að brotaþoli er í enn viðkvæmari stöðu þar sem hún hefur verið greind á einhverfurófi en telja verður að það hafi leitt til alvarlegri afleiðinga fyrir brotaþola, sbr. dóm réttarins 2. maí 2002 í máli nr. 52/2002. 25. Að öllu framangreindu virtu verður ákærðu hvorum um sig gert að greiða brotaþola 1.800.000 króna miskabætur með vöxtum eins og í dómsorði greinir. 26. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verður staðfest. 27. Ákærðu verður í samræmi við 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar á meðal málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna og þóknun réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærði, Lukasz Soliwoda, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Ákærði, Tomasz Walkowski, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Ákærðu greiði hvor fyrir sitt leyti brotaþola, A, 1.800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. febrúar 2017 til 27. júní 2019 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Ákærði Lukasz greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðbjarna Eggertssonar lögmanns, 992.000 krónur. Ákærði Tomasz greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hauks Arnar Birgissonar lögmanns, 992.000 krónur. Ákærðu greiði óskipt annan áfrýjunarkostnað málsins samtals 434.480 krónur, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Hilmars Gunnarssonar lögmanns, 311.250 krónur. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?Id=c860f8e6-f475-4f32-b365-571866f7b9f4
Mál nr. 5/2021
Líkamstjón Slys Slysatrygging Uppgjör
Ágreiningur aðila laut að uppgjöri bóta úr slysatryggingu launþega sem I ohf. tók hjá V hf. en A varð fyrir fjöláverka af völdum slyss í júlí 2015 þegar hann var starfsmaður I ohf. V hf. taldi að við uppgjör bóta ætti ekki að leggja saman miskastig vegna orkutaps af völdum hvers áverka um sig samkvæmt miskatöflum örorkunefndar heldur beita svokallaðri hlutfallsreglu. A taldi hins vegar að við uppgjörið ætti að leggja saman miskastig samkvæmt þeirri miskatöflu örorkunefndar sem í gildi var þegar örorka hans var metin. Í dómi Hæstaréttar var talið að við skýringu á skilmálum slysatryggingarinnar bæri að beita andskýringarreglu og skýra umdeilanleg ákvæði í samningi þeim í óhag sem samdi þau en ekki hefði annað komið fram í málinu en að um einhliða staðlaða skilmála hafi verið að ræða sem V hf. hefði samið. Í reglunni fælist jafnframt að sá sem hefði átt að tjá sig skýrar yrði að bera hallann af því að hafa ekki gert það. Talið var að V hf. hefði ekki sýnt fram á að skaðabótalög, kjarasamningar, lög um vátryggingarsamninga, skilmálar slysatryggingar launþega, eins og þeir yrðu túlkaðir í ljósi andskýringarreglunnar, eða sú miskatafla örorkunefndar frá árinu 2006 sem í gildi var þegar mat á varanlegri örorku A fór fram styddi málatilbúnað hans. Þá hefði hann ekki heldur með tilvísun til dómaframkvæmdar eða með öðrum hætti sýnt fram á tilvist venju um beitingu hlutfallsreglu við mat á heildarmiska af völdum fjöláverka á grundvelli miskatöflu örorkunefndar frá árinu 2006. Voru kröfur A því teknar til greina.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. janúar 2021. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar á öllum dómstigum en ella að málskostnaður verði látinn niður falla. 3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt. Ágreiningsefni 4. Mál þetta lýtur að ágreiningi málsaðila um uppgjör bóta úr slysatryggingu launþega sem Isavia ohf. tók hjá áfrýjanda. Stefndi varð fyrir fjöláverka af völdum slyss 4. júlí 2015 þegar hann var starfsmaður Isavia ohf. Krafa stefnda í málinu tekur mið af mismun bóta annars vegar miðað við 45% og hins vegar miðað við 38% læknisfræðilega örorku en bætur voru greiddar eftir lægra örorkustiginu. Áfrýjandi telur að við uppgjör bóta eigi ekki að leggja saman miskastig vegna orkutaps af völdum hvers áverka um sig samkvæmt miskatöflum örorkunefndar heldur beita svokallaðri hlutfallsreglu. Stefndi telur hins vegar að við uppgjörið eigi að leggja saman miskastig samkvæmt þeirri miskatöflu örorkunefndar sem í gildi var þegar örorka hans var metin. Hann telur að hlutfallsreglan eigi sér hvorki stoð í þeirri töflu né skilmálum vátryggingarinnar. 5. Áfrýjandi var sýknaður í héraði af kröfum stefnda. Í hinum áfrýjaða dómi var hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að hann hefði skort að lögum heimild til að skerða bætur til stefnda fyrir varanlega læknisfræðilega örorku með beitingu framangreindrar hlutfallsreglu og var krafa stefnda tekin til greina að fullu. 6. Beiðni um áfrýjunarleyfi var meðal annars studd þeim rökum að með dómi Landsréttar væri komin upp óvissa um beitingu miskataflna örorkunefndar og að dómurinn væri bersýnilega rangur að formi og efni til. Hlutfallsreglan væri reikniregla í tengslum við læknisfræðilegt mat á fjöláverkum eftir að þeir hefðu verið heimfærðir undir ákvæði miskataflna. Reglan byggði á því að einföld samlagning á miska vegna einstakra áverka fæli í sér ofmat á heildarafleiðingum. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að með tilliti til gagna málsins gætu úrslit þess meðal annars haft fordæmisgildi um mat á örorku vegna fjöláverka á grundvelli miskatöflu örorkunefndar. Málsatvik 7. Stefndi slasaðist 4. júlí 2015 er hann féll af reiðhjóli á leið heim úr vinnu hjá Isavia ohf. Við fallið hlaut hann ýmsa áverka á höfði og fann einnig fyrir verkjum í hálsi og baki og náladofa í vinstri handlegg og hendi. 8. Isavia ohf. hafði sem fyrr segir í gildi slysatryggingu launþega hjá áfrýjanda sem tók til tímabundinnar og varanlegrar örorku vegna slyss stefnda. Tryggingin var keypt á grundvelli kjarasamnings 29. maí 2012 milli Isavia ohf. og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem framlengdur var til 28. febrúar 2017 með tilteknum breytingum með kjarasamningi 29. apríl 2014 milli annars vegar Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, SFR – Stéttarfélags í almannaþjónustu og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og hins vegar Samtaka atvinnulífsins vegna Isavia ohf. Í kafla 7 í kjarasamningnum var fjallað um tryggingar og í grein 7.1 um slysatryggingar. Í grein 7.1.1 sagði að starfsmenn skyldu „slysatryggðir fyrir dauða eða vegna varanlegrar örorku“ og í grein 7.1.3 kom fram að bætur vegna varanlegrar örorku skyldu greiðast í hlutfalli við tryggingafjárhæðina, 18.102.513 krónur, þó þannig að hvert örorkustig frá 26—50% skyldi vega tvöfalt en frá 51—100% þrefalt. Í grein 7.1.6 var mælt fyrir um að um trygginguna skyldu, að öðru leyti en tekið væri fram í kaflanum, gilda skilmálar viðkomandi tryggingafélags og ákvæði laga um vátryggingarsamninga. Tryggingin skyldi samkvæmt grein 7.1.7 gilda allan sólarhringinn. 9. Stefndi krafði áfrýjanda um bætur á grundvelli fyrrnefndrar tryggingar vegna afleiðinga slyssins. Í kjölfarið óskuðu málsaðilar sameiginlega eftir mati bæklunarskurðlæknis á tímabundinni og varanlegri læknisfræðilegri örorku stefnda. Endanleg matsgerð lá fyrir 9. júlí 2018. Niðurstaða hennar var meðal annars að varanleg læknisfræðileg örorka væri 45%. Ef tekið væri tillit til hlutfallsreglu væri „heildar varanleg læknisfræðileg örorka metin 37%“. Varanleg örorka vegna heilaáverka var metin 20%, vegna breytinga á bragð- og lyktarskyni 5%, vegna raddbreytingar og lömunar á öðru raddbandi 5% og vegna hálseinkenna með taugarótareinkennum 15%. 10. Samkvæmt grein 10.2 í skilmálum vátryggingarinnar skyldi meta örorku í hundraðshlutum samkvæmt þeim töflum örorkunefndar um miskastig sem í gildi væru þegar örorkumat færi fram. Þegar matið fór fram var í gildi miskatafla örorkunefndar frá 21. febrúar 2006. Núgildandi miskatafla örorkunefndar er frá 5. júní 2019. 11. Áfrýjandi greiddi stefnda 10. september 2018 bætur að fjárhæð 10.837.347 krónur og tóku þær mið af 38% varanlegri örorku „að teknu tilliti til hlutfallsreglu“. Stefndi gerði fyrirvara um beitingu hlutfallsreglu og lækkun mats á varanlegri læknisfræðilegri örorku. Hann taldi að óheimilt væri að beita slíkri reglu við uppgjör bótanna og áskildi sér rétt til að bera ákvörðun áfrýjanda undir dómstóla. Krafa stefnda tekur mið af því að fjárhæð bótanna hefði átt að nema 13.824.502 krónum. Niðurstaða Hlutfallsregla í ljósi lagafyrirmæla, kjarasamnings og vátryggingarskilmála 12. Þeir skilmálar slysatryggingar launþega sem til umfjöllunar eru í málinu eru hluti af vátryggingarsamningi sem áfrýjandi og Isavia ohf. gerðu með sér til hagsbóta fyrir launþega í starfi hjá síðarnefnda félaginu á grundvelli kjarasamnings sem það var aðili að. Vátryggingarsamningurinn var þannig hópvátryggingarsamningur þar sem stefndi var vátryggður en hafði jafnframt stöðu þriðja manns sem persónutryggður launþegi hjá Isavia ohf. 13. Ekki er annað komið fram í málinu en að um einhliða staðlaða skilmála hafi verið að ræða sem áfrýjandi hafi samið. Við skýringu á þeim er rétt að beita svokallaðri andskýringarreglu en samkvæmt henni ber að skýra umdeilanleg ákvæði í slíkum samningi þeim í óhag sem samdi þau en í reglunni felst jafnframt að sá sem hefði átt að tjá sig skýrar, í þessu tilviki áfrýjandi, verður að bera hallann af því að hafa ekki gert það. 14. Óumdeilt er að samkvæmt fyrrnefndum kjarasamningi og skilmálum þeirrar vátryggingar sem Isavia ohf. tók hjá áfrýjanda á grundvelli hans skyldu afleiðingar slyss bættar á grundvelli mats á læknisfræðilegri örorku samkvæmt töflum örorkunefndar um miskastig. Ekkert verður hins vegar ráðið af kjarasamningnum hvaða reiknireglu eigi að beita við heildarmat á orkutapi vegna fjöláverka við ákvörðun bóta úr slysatryggingu launþega vegna varanlegrar örorku. 15. Um þann vátryggingarsamning sem krafa um bætur er reist á giltu ákvæði um persónutryggingar í lögum nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga sem nú eru í III. hluta laganna. Af þeim lagaákvæðum verða engar ályktanir dregnar um það ágreiningsefni sem uppi er í málinu. 16. Í skilmálum slysatryggingar launþega sem Isavia ohf. keypti hjá áfrýjanda og tóku til slyss stefnda var fjallað um bætur fyrir varanlega örorku í grein 10. Í grein 10.2 sagði að örorku skyldi meta í hundraðshlutum samkvæmt töflum örorkunefndar um miskastig sem í gildi væru þegar örorkumat færi fram. Meta skyldi skerðingu á líkamlegri færni án tillits til starfs, sérstakra hæfileika eða þjóðfélagsstöðu hins slasaða (læknisfræðilega örorku). Væri áverka hins slasaða ekki getið í töflum örorkunefndar um miskastig skyldi meta örorkuna sérstaklega með hliðsjón af töflunum. Tekið var fram að örorka gæti aldrei talist meiri en 100%. Í grein 10.3 sagði að örorkubætur skyldu greiðast í hlutfalli við vátryggingarfjárhæð samkvæmt fyrirmælum í kjarasamningi. Við útreikning örorkubóta skyldi ekki tekið tillit til örorku sem til staðar hefði verið fyrir slysið. Loks sagði í grein 10.4 að við ákvörðun örorkubóta skyldi að auki fylgja nánar tilteknum reglum svo sem þeirri að missir eða bæklun á útlim eða líffæri sem ónothæft hefði verið fyrir slysið skapaði ekki rétt til örorkubóta. Meta skyldi örorku vegna missis eða bæklunar á útlim eða líffæri sem áður hefði verið bæklað með hliðsjón af fyrri bæklun. Tekið skal fram að í dómi Landsréttar var vísað til greinar 10.3 og ranglega sagt að í henni kæmi fram að við útreikning örorkubóta skyldi tekið tillit til örorku sem til staðar hefði verið fyrir slys. 17. Grundvöllur örorkubóta samkvæmt slysatryggingunni er þannig í höfuðatriðum læknisfræðilegt mat á orkuskerðingu vegna slyss sem er sambærilegt hinu almenna mati á varanlegum miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga. Eins og um önnur sérfræðileg atriði sem ágreiningur er um fyrir dómi skera dómstólar endanlega úr um hvaða miskastig skuli lagt til grundvallar niðurstöðu um bætur. 18. Töflur örorkunefndar um miskastig sem vísað er til í grein 10.2 í vátryggingarskilmálunum eru samdar á grundvelli fyrirmæla í 3. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í 1. mgr. 4. gr. laganna segir að þegar fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska sé ákveðin skuli litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns séu frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það valdi í lífi tjónþola. Varanlegan miska skuli meta til stiga og miða við heilsufar tjónþola þegar það væri orðið stöðugt. Í almennum athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því sem varð að skaðabótalögum sagði meðal annars að bætur fyrir varanlegan miska væru staðlaðar og að þær skyldi ákveða á grundvelli miskastigs samkvæmt sérstakri töflu. Í athugasemdum við 4. gr. í greinargerðinni sagði jafnframt að við gerð taflnanna skyldi lagt til grundvallar að tiltekinn varanlegur miski bitnaði jafnþungt á hverjum þeim sem fyrir honum yrði þannig að sami áverki eða sams konar líkamsspjöll leiddu að jafnaði til sama miskastigs. Töflurnar ættu því að sýna læknisfræðilega orkuskerðingu eða miska en ekki skerðingu til að afla tekna. Samkvæmt þessu ber að leggja miskatöflu örorkunefndar til grundvallar við þann hluta ákvörðunar um fjárhæð miskabóta samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga sem lýtur að almennu mati á því hversu miklar afleiðingar tjóns eru frá læknisfræðilegu sjónarmiði. 19. Ekkert verður samkvæmt framansögðu ráðið af 4. gr. og 3. mgr. 10. gr. skaðabótalaga eða athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að þeim lögum hvort rétt er að leggja saman miskastig vegna orkutaps af völdum hvers áverka um sig samkvæmt miskatöflum við mat á heildarmiska vegna fjöláverka eða beita annarri aðferð. 20. Þegar örorka stefnda var metin af lækni að ósk beggja málsaðila með endanlegri matsgerð 9. júlí 2018 var í gildi miskatafla sem örorkunefnd hafði gefið út 21. febrúar 2006. Í inngangi töflunnar var vísað til 3. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, og meðal annars sagt að í slíkri töflu væri metin skerðing á líkamlegri og eftir atvikum andlegri færni hjá þeim sem orðið hefðu fyrir líkamstjóni. Taflan væri fyrst og fremst leiðbeinandi um mat á miskastigi vegna tiltekinna tegunda líkamstjóns. Þá var þar tekið fram að áverka sem ekki væri getið um í töflunni yrði að meta með hliðsjón af svipuðum áverkum í henni og hafa til hliðsjónar miskatöflur annarra landa sem getið væri um í hliðsjónarritum. Í miskatöflunni var miski fyrir hverja tegund áverka fyrir sig gefinn upp sem hlutfall af hundraði. 21. Í fyrrnefndri miskatöflu var ekki vikið að því með almennum hætti hvernig meta skyldi heildarmiska vegna tjóns á fleiri en einum líkamshluta. Þá var heldur ekki vikið að því hvaða áhrif miski vegna eldra líkamstjóns ætti að hafa við mat á miska vegna síðara orkutaps. Í kafla VII um útlimaáverka var sérstakur liður um miska vegna finguráverka. Þar var gert ráð fyrir að samanlagðan miska vegna missis fleiri en eins fingurs ætti að meta minni en sem næmi samtölu miska vegna missis hvers fingurs fyrir sig. Í töflunni var ekki að finna önnur sambærileg tilvik og engar öruggar vísbendingar eða leiðbeiningar um hvort beita ætti samlagningu eða hlutfallsreglu við mat á heildarmiska vegna orkutaps sem tengdist fleiri en einum líkamshluta. 22. Örorkunefnd gaf út nýja töflu um miskastig í júní 2019 eftir að fyrrnefnd matsgerð var unnin. Í inngangi töflunnar er að finna sambærilegar upplýsingar og í þeirri eldri. Í VIII. kafla er sett fram sú regla að þegar um er að ræða útbreiddar afleiðingar slyss með færniskerðingu og miska frá fleiri en einu líkamssvæði skuli beita svokallaðri hlutfallsreglu og um hana vísað til hliðsjónarrita og tilgreindrar vefslóðar. Jafnframt er vísað til þess að ef tjónþoli hefur orðið fyrir líkamstjóni í eldra slysi og „verið metinn til varanlegs miska vegna þess“ skuli einnig beita hlutfallsreglu með þeim hætti sem lýst hafi verið. Þá kemur fram í kaflanum að frá þessari reglu séu undantekningar bæði til hækkunar og lækkunar og sem dæmi tekið líkamstjón á pöruðum líffærum, svo sem augum, eyrum og nýrum. Í niðurlagi kaflans eru ítarlegar reiknitöflur til að auðvelda útreikninga á grundvelli hlutfallsreglunnar. 23. Svo sem fyrr greinir segir í grein 10.2 í vátryggingarskilmálunum að örorku skuli meta í hundraðshlutum samkvæmt töflum örorkunefndar um miskastig sem í gildi eru þegar örorkumat fer fram en ekki vikið að því hvaða reiknireglu beri að beita ef slys hefur valdið orkutapi sem tengist fleiri en einum líkamshluta eða líffæri. Orðalag greinar 10.3 um að við „útreikning örorkubóta [skuli] ekki tekið tillit til örorku sem var til staðar fyrir slysið“ verður samkvæmt orðanna hljóðan skilið með þeim hætti að ekki skuli miða greiðslu miskabóta vegna slyss við lægra miskastig en samkvæmt töflum örorkunefndar þótt tjónþoli hafi áður orðið fyrir líkamstjóni sem metið hafi verið til miska. Frá þeirri meginreglu er hins vegar gerð sú undantekning í grein 10.4 að missir eða bæklun á útlim eða líffæri sem ónothæft var fyrir slys skuli ekki hafa í för með sér bótarétt og að missir eða bæklun á útlim eða líffæri sem áður var bæklað skuli meta með hliðsjón af bæklun fyrir slys. Ekki er útfært í skilmálunum hvernig reikna eigi slíka lækkun miska vegna forskaða. Í ljósi andskýringarreglunnar og þeirrar meginreglu sem kemur fram í grein 10.3 í vátryggingarskilmálunum um að hlutfallsreglu verði ekki beitt þegar um forskaða er að ræða stóð það áfrýjanda nær að kveða á um það með skýrum hætti í skilmálunum ef hann taldi að beita ætti hlutfallsreglu við læknisfræðilegt heildarmat á miska af völdum fjöláverka. Samkvæmt því verður áfrýjandi að bera hallann af því að ekkert í skilmálum slysatryggingarinnar styður málatilbúnað hans um beitingu hlutfallsreglu. Hlutfallsregla sem meginregla í matsfræðum við mat á miska vegna fjöláverka 24. Hvað sem líður framangreindu er því jafnframt haldið fram af hálfu áfrýjanda að sú hlutfallsregla sem kemur fram í miskatöflu örorkunefndar frá árinu 2019 hafi verið viðurkennd meginregla í þeim matsfræðum sem læknar hafi unnið eftir við mat á læknisfræðilegri örorku vegna fjöláverka á grundvelli miskatöflu örorkunefndar frá árinu 2006. 25. Í 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga segir að bætur fari eftir aldri tjónþola á tjónsdegi og skuli vera í samræmi við töflu sem fram kemur í greininni „fyrir algeran, 100 stiga, miska“. Í 3. mgr. 4. gr. laganna er heimild til að ákveða allt að 50% hærri miskabætur en samkvæmt umræddri töflu. Ekki verður lagður rýmri skilningur í ákvæði 2. mgr. 4. gr. skaðabótalaga um að alger miski samsvari 100 stigum en að það teljist hámarksmiski og bætur verði ekki greiddar umfram það ef 3. mgr. 4. gr. er ekki beitt. Umrædd ákvæði geta því ekki talist vísbending um að beita beri hlutfallsreglu þegar afleiðingar fjöláverka eru metnir til miska og samanlagður miski nær ekki 100 stigum. 26. Í miskatöflu örorkunefndar frá árinu 2006 eru ákvæði um finguráverka eins og áður hefur verið rakið. Regla þessi er í ætt við hlutfallsregluna og hefur sérstöðu í þessari miskatöflu. Þrátt fyrir upptöku hlutfallsreglunnar í miskatöflu örorkunefndar frá árinu 2019 er sérregluna um áverka á fleiri en einum fingri einnig þar að finna. Tilvist þessarar reglu í eldri miskatöflu frá árinu 2006 getur því ekki stutt þá málsástæðu áfrýjanda að hlutfallsreglan hafi verið meginreglan við læknisfræðilegt mat á miska í gildistíð þeirrar miskatöflu enda hefði sérreglan þá verið óþörf. 27. Í framkvæmd hefur verið litið til mats á varanlegum miska samkvæmt dönskum miskatöflum þegar hinum íslensku sleppir og hefur sú framkvæmd stoð í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til skaðabótalaga, sbr. dóm Hæstaréttar 14. mars 2013 í máli nr. 608/2012. Í þeim dómi var fjallað um mat á varanlegum miska vegna líkamstjóns. Í honum sagði meðal annars að miskatafla örorkunefndar frá árinu 2006 svari að stórum dráttum til sambærilegrar danskrar töflu um mat á varanlegum miska sem þó hafi í ýmsum efnum verið ítarlegri. Í dóminum var því aftur á móti hafnað að styðjast mætti við bandaríska töflu um mat á varanlegri örorku. 28. Þau almennu viðmið í dönsku miskatöflunni frá 1. febrúar 2017, sem vísað hefur verið til í málinu, gera meðal annars ráð fyrir að við mat á heildarmiska þegar um fjöláverka af völdum sama slyss er að ræða verði ekki sjálfkrafa beitt samlagningu á miska vegna hvers áverka fyrir sig. Nánar tiltekið er þar gert ráð fyrir að heildarmiski vegna fjöláverka geti ýmist verið metinn til fleiri, jafnmargra eða færri miskastiga en samanlagður miski vegna hvers áverka um sig. Það ræðst af því hvort einstakir áverkar magna upp afleiðingar hinna, afleiðingar hvers þeirra um sig séu óháðar afleiðingum hinna eða einkenni fleiri en eins áverka skarist. Svipuð viðmið koma þar fram um mat á miska þegar um forskaða er að ræða. Danska miskataflan mælir því ekki fyrir um beitingu hlutfallsreglu við mat á fjöláverka með eins afdráttarlausum hætti og miskatafla örorkunefndar frá árinu 2019 þótt í henni segi að frá hlutfallsreglunni geti verið undantekningar bæði til hækkunar og lækkunar. Hún rennir því heldur ekki stoðum undir þá ætluðu meginreglu um beitingu hlutfallsreglu sem áfrýjandi styður málatilbúnað sinn við. Af hálfu áfrýjanda hefur heldur ekki verið sýnt fram á með hvaða hætti sambærilegar töflur í öðrum löndum renni stoðum undir þá meginreglu í matsfræðum sem hann byggir á í máli þessu. 29. Af hálfu áfrýjanda hefur verið vísað til dóms Hæstaréttar 17. maí 2018 í máli nr. 488/2017. Í því máli var um að ræða kröfu um miskabætur samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga en þar sem ekki var ágreiningur um aðferðafræði við mat á miska hefur dómurinn ekki fordæmisgildi í máli þessu. 30. Af hálfu áfrýjanda hefur jafnframt verið vísað til nokkurra úrskurða úrskurðarnefndar velferðarmála sem varða kröfur á hendur Sjúkratryggingum Íslands um bætur fyrir varanlega læknisfræðilega örorku af völdum slysa á grundvelli laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga. Áfrýjandi dregur þá ályktun af þeim að þótt ekki sé í umræddum lögum kveðið á um hvernig meta skuli læknisfræðilega örorku hafi sú venja skapast í framkvæmd á því sviði að beita hlutfallsreglu við slíkt mat. 31. Sem fyrr segir er bótakrafa stefnda í þessu máli reist á vátryggingarsamningi sem gerður var við áfrýjanda af hálfu vinnuveitanda stefnda á grundvelli kjarasamnings sem stéttarfélag hans átti aðild að. Réttarstaða stefnda gagnvart áfrýjanda er því önnur en þeirra sem krefja Sjúkratryggingar Íslands um bætur. 32. Samkvæmt öllu framangreindu hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að skaðabótalög, kjarasamningar, lög um vátryggingarsamninga, skilmálar slysatryggingar launþega, eins og þeir verða túlkaðir í ljósi andskýringarreglunnar, eða sú miskatafla örorkunefndar sem í gildi var þegar mat á varanlegri örorku fór fram styðji málatilbúnaði hans. Þá hefur hann heldur ekki með tilvísun til dómaframkvæmdar eða með öðrum hætti sýnt fram á tilvist venju um beitingu hlutfallsreglu við mat á heildarmiska af völdum fjöláverka á grundvelli miskatöflu örorkunefndar frá árinu 2006. 33. Þar sem skilmálar fyrrnefndrar slysatryggingar launþega mæltu fyrir um að meta skyldi örorku í hundraðshlutum samkvæmt töflum örorkunefndar um miskastig sem í gildu væru þegar örorkumat færi fram er ekki tilefni til þess að taka til þess afstöðu í málinu hvort miskatafla örorkunefndar frá árinu 2019 á sér lagastoð svo sem gert var í dómi Landsréttar. 34. Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. 35. Um málskostnað og gjafsóknarkostnað hér fyrir dómi fer eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Vörður tryggingar hf., greiði 1.000.000 króna í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.000.000 króna. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/$Verdict/Download/?docId=6fe7fa02-6466-4a8a-a624-76dd8350d9c2&pageitemid=bc17135c-20a8-11e9-85de-94b86df896cb
Mál nr. 4/2021
Samning dóms Málsástæða Ómerking héraðsdóms
Í málinu var deilt um heimild Í til að krefja Ó og M í nóvember 2019 um þóknun vegna uppgreiðslu á 40 ára húsnæðisláni sem þau höfðu í júlí 2008 tekið hjá Í með útgáfu ÍLS-veðbréfs. Ó og M byggðu á því annars vegar að skilmálar í veðbréfinu hefðu ekki verið í samræmi við áskilnað þágildandi laga um neytendalán nr. 121/1994 og hins vegar að efni stæðu til þess að víkja skilmálum veðbréfsins um uppgreiðslugjald til hliðar á grundvelli 36. gr. og 36. gr. a–c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að í forsendum hins áfrýjaða dóms hefði fyrst verið vikið að fyrrnefndu málsástæðunni og réttilega verið komist að þeirri niðurstöðu að í nefndu veðbréfi hefði ekki verið gætt fyrirmæla 3. mgr. 16. gr. a laga nr. 121/1994 um að tilgreina hvernig uppgreiðslugjald væri reiknað út og hvenær slíkur kostnaður félli til. Í dóminum hefði á hinn bóginn í engu verið getið hverju sá ágalli varðaði eða hvernig hann leiddi til þess að fallast bæri á kröfur Ó og M. Var því talið að hinn áfrýjaði dómur uppfyllti ekki áskilnað f-liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Því næst hefði dómurinn tekið til úrlausnar hvort nánar tilgreind ákvæði reglugerða hefðu átt sér fullnægjandi lagastoð í heimildarákvæði laga nr. 44/1998 um húsnæðismál en þeirri málsástæðu hefði hvergi séð stað í stefnu Ó og M til héraðsdóms. Þrátt fyrir það hefðu forsendur dómsins að stærstum hluta verið umfjöllun um þessa málsástæðu og virtist úrlausn dómsins um kröfu Ó og M á hendur Í að mestu leyti reist á henni auk ætlaðs brots á lögum nr. 121/1994 án þess þó að þar væri greint á milli. Var tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 mætti dómari ekki byggja niðurstöðu sína á málsástæðum sem hefðu mátt koma fram við meðferð máls en gerðu það ekki. Væri óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon og Þorgeir Örlygsson fyrrverandi hæstaréttardómari. 2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. janúar 2021. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefndu en til vara að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 3. Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Ágreiningsefni 4. Í málinu er deilt um heimild áfrýjanda til að krefja stefndu um þóknun við uppgreiðslu á húsnæðisláni í nóvember 2019 sem þau tóku hjá áfrýjanda (sem þá hét Íbúðalánasjóður) í júlí 2008. 5. Stefndu höfðuðu málið 21. apríl 2020. Með héraðsdómi 17. desember sama ár var fallist á kröfu þeirra um endurgreiðslu á uppgreiðslugjaldi sem þau höfðu innt af hendi til áfrýjanda þegar þau 5. nóvember 2019 greiddu upp 40 ára húsnæðislán sem þau höfðu tekið hjá Íbúðalánasjóði 1. júlí 2008 með útgáfu ÍLS-veðbréfs. Niðurstaða héraðsdóms var annars vegar reist á því að mjög skorti á að skilmálar veðbréfsins væru fullnægjandi, sbr. 16. gr. a laga nr. 121/1994 um neytendalán, þar sem engar upplýsingar væri þar að finna um hvernig uppgreiðslugjaldið skyldi reiknað út. Hins vegar var einnig talið að reglusetning um uppgreiðslugjald, sem ákvörðuð var með reglugerð nr. 1017/2005 um breytingu á reglugerð nr. 522/2004 um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf og reglugerð nr. 1016/2005 um gjaldskrá Íbúðalánasjóðs, stæðist ekki áskilnað 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál um heimild ráðherra til að setja áfrýjanda ramma um heimild til að bjóða lán með uppgreiðslugjaldi og hafi því ekki verið grundvöllur að löglegri álagningu slíks gjalds. 6. Leyfi var veitt 19. janúar 2021 til að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var áfrýjunarleyfi veitt á þeim grunni að málið hefði þýðingu fyrir fjölda lántakenda og varðaði mikla hagsmuni þeirra og ríkissjóðs. Einnig var því slegið föstu að brýnt væri að fá niðurstöðu Hæstaréttar í málinu með skjótum hætti en það væri fordæmisgefandi og hefði almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna. Þá lægi fyrir að ekki væri þörf á að leiða vitni í málinu og skýrslur hefðu ekki verið gefnar við meðferð þess þannig að ekki reyndi á mat á sönnunargildi munnlegs framburðar í héraði. Laga- og starfsumhverfi Íbúðalánasjóðs Um Íbúðalánasjóð 7. Hér á eftir verður gerð grein fyrir laga- og starfsumhverfi Íbúðalánasjóðs á þeim tíma sem lánið var tekið en jafnframt bent á að með gildistöku laga nr. 137/2019 um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun 31. desember 2019 var heiti Íbúðalánasjóðs breytt í ÍL-sjóð, sem er áfrýjandi máls þessa, sbr. 4. mgr. 18. gr. laganna og samhliða átti sér stað breyting á starfssviði sjóðsins. 8. Íbúðalánasjóður starfaði á þeim tíma þegar lánið var tekið á grundvelli þágildandi laga um húsnæðismál nr. 44/1998 eins og þeim hafði meðal annars verið breytt með lögum nr. 57/2004, 120/2004 og 137/2005. Í 1. gr. laganna kom fram að tilgangur þeirra væri að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn gætu búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum yrði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna skyldi stofna sérstakan lánasjóð, Íbúðalánasjóð, sem samkvæmt 9. gr. þeirra skyldi lána til íbúðakaupa, nýbygginga eða endurbóta íbúðarhúsnæðis hér á landi. Eignasafn sjóðsins samanstóð því eðli máls samkvæmt af útlánum til einstaklinga og fyrirtækja sem veitt voru gegn veði í fasteignum, svo sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð frá árinu 2013. Íbúðalánasjóður fjármagnaði þau verkefni sem honum voru falin samkvæmt lögunum með tekjum af eigin fé sjóðsins, það er afborgunum, vöxtum og verðtryggingu af veittum lánum, með útgáfu og sölu íbúðabréfa, lántöku samkvæmt fjárlögum hverju sinni og með þjónustugjöldum, sbr. 10. gr. laga nr. 44/1998 eins og þeim var breytt með lögum nr. 57/2004. Íbúðalánasjóður var því fjárhagslega sjálfstæð stofnun og gert ráð fyrir að ekki þyrfti bein fjárframlög úr ríkissjóði til þess að standa undir starfsemi hans, þótt það hafi verið gert tímabundið með sérstökum framlögum af fjárlögum, sbr. ákvæði VIII til bráðabirgða með lögum nr. 44/1998. Löggjöf og þróun hennar 9. Með lögum nr. 57/2004 um breytingu á lögum nr. 44/1998 var ákveðið að Íbúðalánasjóður myndi gefa út ÍLS-veðbréf í stað húsbréfa og húsnæðisbréfa. ÍLS-veðbréf eru skuldabréf sem kaupandi eða eigandi íbúðarhúsnæðis gaf út til Íbúðalánasjóðs með veði í húsnæðinu, sbr. 2. gr. laga nr. 44/1998. Með þeim breytingum var stefnt að því að bæta hag lántakenda sjóðsins bæði með lægri fjármögnunarkostnaði og áhættuminni fasteignaviðskiptum. Byggðust breytingarnar að mestu leyti á áliti nefndar um endurskipulagningu á útgáfumálum Íbúðalánsjóðs sem út kom í október 2003. 10. Með 12. gr. laga nr. 57/2004 voru lögfestar þágildandi 1. og 2. mgr. 23. gr. í lögum nr. 44/1998 en greinin bar yfirskriftina: Greiðslur lána. Í 1. mgr. 23. gr. sagði að Íbúðalánasjóður innheimti afborganir, verðbætur og vexti af ÍLS-veðbréfum og ráðstafaði því fé sem þannig innheimtist til endurgreiðslu fjármögnunar bréfa sjóðsins. Skuldurum ÍLS-veðbréfa væri heimilt að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga. Í 2. mgr. kom inn heimild þess efnis að ráðherra gæti, við sérstakar aðstæður og að fenginni umsögn stjórnar Íbúðalánasjóðs, ákveðið að aukaafborganir og uppgreiðsla ÍLS-veðbréfa yrðu aðeins heimilar gegn greiðslu þóknunar sem jafnaði út að hluta eða að öllu leyti muninn á uppgreiðsluverði ÍLS-veðbréfs og markaðskjörum sambærilegs íbúðabréfs. Geta skyldi um þessa heimild í skilmálum ÍLS-veðbréfa. Í almennum athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 57/2004 kom fram að nauðsynlegt væri að kveða á um möguleika sjóðsins til að áskilja að uppgreiðsla yrði aðeins heimil gegn greiðslu þóknunar sem myndi jafna mun á uppgreiðsluverði ÍLS-veðbréfs og markaðskjörum sambærilegra íbúðabréfa, við ófyrirséð atvik þegar uppgreiðslur gætu ógnað stöðu sjóðsins. Þá kom fram í athugasemdum við 12. gr. frumvarpsins að gert væri ráð fyrir að heimild þessari yrði eingöngu beitt sem „neyðarúrræði“ þegar hefðbundnar áhættustýringaraðferðir og svigrúm sjóðsins við vaxtaákvörðun nægðu ekki til að verja hag hans. Umrædd lög nr. 57/2004 tóku gildi 1. júlí 2004. Þá var að finna nánast samhljóða ákvæði í 15. gr. þágildandi reglugerðar nr. 522/2004 um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf sem tók gildi á sama tíma. Samkvæmt tillögum fyrrnefndrar nefndar um endurskipulagningu á útgáfumálum Íbúðalánasjóðs var lagt til að heimild lántakenda til uppgreiðslu fasteignalána yrði þrengd þannig að uppgreiðsla veðbréfa yrði aðeins heimiluð gegn greiðslu þóknunar sem yrði jafnhá mismun á markaðsverðmæti sambærilegs íbúðabréfs og fasteignaveðlánsins. Með því móti gæti Íbúðalánasjóður keypt íbúðabréf á markaðnum fyrir andvirði uppgreiðslu án þess að „bera skarðan hlut frá borði“. Þessi leið var þó ekki farin við setningu laga nr. 57/2004 þar sem talið var að slíkt ákvæði gæti mögulega sett íbúðakaupendur í erfiða stöðu, torveldað sölu fasteigna vegna áhvílandi lána og veikt samkeppnisstöðu banka í útlánum til húsnæðiskaupa. Hins vegar var talið nauðsynlegt að kveða á um framangreint úrræði sjóðsins til að áskilja sér þóknun við uppgreiðslu þegar ófyrirséð atvik gætu ógnað stöðu hans, sbr. 2. mgr. 23. gr. laganna. 11. Eins og fram kemur í fyrrnefndri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð fóru íslensku viðskiptabankarnir veturinn 2003–2004 að færa sig inn á íbúðalánamarkaðinn. Í ágúst 2004 bauð KB-banki upp á íbúðalán með 4,4% verðtryggðum vöxtum með veðhlutfalli allt að 80%. Nokkrum dögum síðar buðu hinir viðskiptabankarnir sambærileg kjör. Á þessum tíma bauð Íbúðalánasjóður lán á 4,5% vöxtum með veðhlutfalli allt að 70%. Þegar viðskiptabankarnir hófu að veita íbúðalán leiddi það til vandkvæða í starfsemi Íbúðalánasjóðs þar sem hrina uppgreiðslna hófst á lánum sjóðsins. 12. Með lögum nr. 120/2004, sem tóku gildi 2. desember 2004, var 3. mgr. bætt við 23. gr. laga nr. 44/1998. Samkvæmt henni var Íbúðalánasjóði heimilt að bjóða lántakendum ÍLS-veðbréfa að afsala sér rétti til þess að greiða upp lán án þóknunar gegn lægra vaxtaálagi. Ef til uppgreiðslu kæmi mætti slík þóknun á hinn bóginn ekki vera hærri fjárhæð en sem næmi kostnaði Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslu viðkomandi láns. 13. Ákvæðið var lögfest á grundvelli breytingartillögu félagsmálanefndar Alþingis. Í nefndaráliti kom fram að með þessari breytingu gæti ráðherra heimilað Íbúðalánasjóði sama svigrúm við lánveitingar og aðrar fjármálastofnanir nytu samkvæmt almennum lögum á hverjum tíma, sbr. þágildandi lög nr. 121/1994 um neytendalán. Þá var tekið fram að nokkur óvissa ríkti um heimildir fjármálastofnana í þessum efnum, það er um áskilnað uppgreiðslugjalds, og Samkeppnisstofnun hefði málið til skoðunar.Var því talið rétt að bíða með setningu reglugerðar á grundvelli ákvæðisins þar til niðurstaða lægi fyrir í því máli. Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 6. október 2005 í máli nr. 11/2005 var vísað til þess að í lögum nr. 121/1994 væri ekki að finna sérstakt ákvæði um uppgreiðslugjald og með vísan til meginreglunnar um samningsfrelsi og forsögu 16. gr. þeirra laga um greiðslur fyrir gjalddaga var ekki talið að í greininni fælist bann við uppgreiðslugjaldi. Í kjölfar úrskurðarins var sett reglugerð nr. 1017/2005 um breytingu á reglugerð um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004, með síðari breytingum. Reglugerðin var sett með heimild í 3. mgr. 23. gr. og 29. gr. laga nr. 44/1998 og tók gildi 21. nóvember 2005. Með henni var tveimur nýjum málsgreinum bætt við 15. gr. reglugerðar nr. 522/2004. Samkvæmt fyrri málsgreininni var Íbúðalánasjóði heimilt að bjóða þeim sem undirrituðu yfirlýsingu um að þeir afsöluðu sér heimild til að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða endurgreiða skuld að fullu fyrir gjalddaga lán með lægra vaxtaálagi sem næmi þeim hluta álagsins sem var ætlað að mæta vaxtaáhættu sjóðsins. Í seinni málsgreininni var tekið fram að ef lántaki sem tekið hefði lán með lægra vaxtaálagi óskaði eftir því að greiða af því aukaafborganir eða greiða skuldabréfið upp að fullu fyrir lok lánstímans skyldi hann greiða sérstaka þóknun til Íbúðalánasjóðs samkvæmt gjaldskrá sjóðsins. Þá var einnig bætt við 3. gr. reglugerðarinnar málsgrein um að sjóðurinn gæti að fenginni ákvörðun ráðherra, samkvæmt 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998, boðið þeim lántakendum sem undirrituðu yfirlýsingu um að þeir afsöluðu sér heimild til að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða endurgreiddu skuldina að fullu fyrir gjalddaga, sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna, lægra vaxtaálag sem næmi allt að þeim hluta álagsins sem ætlað var að mæta vaxtaáhættu sjóðsins. 14. Samhliða framangreindri reglugerð var sett reglugerð nr. 1016/2005 um gjaldskrá Íbúðalánasjóðs. Í 7. gr. hennar segir að þóknun vegna uppgreiðslu lána og aukaafborgana reiknist af mismun á vaxtastigi láns sem greitt er og markaðsvöxtum sambærilegra nýrra lána hjá Íbúðalánasjóði ef þeir eru lægri, miðað við uppreiknaðar eftirstöðvar lánsins, núvirt frá uppgreiðsludegi til lokagjalddaga eða miðað við innborgaða fjárhæð ef um aukaafborgun væri að ræða. 15. Með lögum nr. 63/2008 var ákvæði 16. gr. a um uppgreiðslugjald bætt við þágildandi lög um neytendalán nr. 121/1994 og tók sú breyting gildi 11. júní 2008. Í lagagreininni kom fram að óheimilt væri að krefjast uppgreiðslugjalds af láni í íslenskum krónum með breytilegum vöxtum sem greitt væri upp fyrir þann tíma sem umsaminn var ef upphaflegur höfuðstóll lánsins var að jafnvirði 50 milljóna króna eða minna. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins bar í þeim tilvikum sem heimilt væri að semja um uppgreiðslugjald að kveða á um slíkt í lánssamningi. Tilgreina bar upplýsingar um hvernig gjaldið væri reiknað út og hvenær slíkur kostnaður gæti komið til. Þá kom fram í 4. mgr. að fjárhæð gjaldsins mætti að hámarki samsvara því tjóni sem lánveitandi yrði fyrir vegna uppgreiðslunnar. 16. Eftir framangreindar breytingar á lögum og reglugerðum um starfsemi Íbúðalánasjóðs bauð sjóðurinn upp á tvenns konar lán. Annars vegar lán sem báru lægri vexti og voru án heimildar til uppgreiðslu nema gegn greiðslu sérstakrar þóknunar til sjóðsins og hins vegar lán sem heimilt var að greiða upp án þóknunar en var með hærri vöxtum. Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. þágildandi laga nr. 44/1998 ákvað stjórn Íbúðalánasjóðs vexti ÍLS-veðbréfa með hliðsjón af fjármögnunarkostnaði í reglulegum útboðum íbúðabréfa og fjármagnskostnaði vegna uppgreiddra lána samkvæmt 23. gr. laganna að viðbættu vaxtaálagi, sbr. 28. gr. þeirra. Í 28. gr. kom jafnframt fram að Íbúðalánasjóði væri heimilt að áskilja sér vaxtaálag til að mæta rekstrarkostnaði, áætluðum útlánatöpum og vaxtaáhættu sjóðsins. Ráðherra ákvað vaxtaálag að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins. Þá skyldu vextir vera óbreytanlegir allan lánstímann, sbr. 4. mgr. 21. gr. laganna. Málsatvik 17. Stefndu tóku lán hjá Íbúðalánasjóði 1. júlí 2008 með útgáfu ÍLS-veðbréfs að fjárhæð 20.000.000 króna. Í fyrirsögn veðbréfsins kom fram að það væri ÍLS-veðbréf án heimildar til uppgreiðslu eða aukaafborgana nema gegn sérstakri þóknun. Síðan segir svo í fyrirsögninni: „Skv. lögum um húsnæðismál nr. 44/1998 með síðari breytingum. Jafngreiðslulán (annuitet) verðtryggt skv. vísitölu neysluverðs.“ Skuldin var tryggð með 1. veðrétti í fasteigninni Norðurbakka 25C í Hafnarfirði og bar 5,05% ársvexti. Í skilmálum skuldabréfsins sem fram komu á bakhlið þess var tekið fram í 5. tölulið að skuldari afsalaði sér með undirritun þess heimild til að greiða aukaafborganir af „skuldabréfum sínum“ eða endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga nema gegn sérstakri þóknun. Þar kom á hinn bóginn hvorki fram hvernig uppgreiðslugjaldið skyldi reiknað út né hvenær slíkur kostnaður gæti komið til. 18. Íbúðalánasjóður samþykkti 27. ágúst 2014 veðflutning á láni stefndu af eigninni Norðurbakka 25C í Hafnarfirði yfir á nýja eign þeirra að Þrastarlundi 12 í Garðabæ. 19. Stefndu greiddu afborganir af láninu án athugasemda frá útgáfu veðbréfsins og allt fram til þess að þau greiddu það upp 5. nóvember 2019. Við uppgreiðsluna krafði áfrýjandi þau um greiðslu sérstakrar þóknunar á grundvelli 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005 um gjaldskrá Íbúðalánasjóðs, sbr. 4. mgr. 15. gr. þágildandi reglugerðar nr. 522/2004 um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, með síðari breytingum. Í 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005 er tiltekið að þóknun vegna uppgreiðslu lána og aukaafborgana reiknist af mismun á vaxtastigi láns sem greitt er og markaðsvöxtum sambærilegra nýrra lána hjá Íbúðalánasjóði ef þeir eru lægri, miðað við uppreiknaðar eftirstöðvar lánsins, núvirt frá uppgreiðsludegi til lokagjalddaga eða miðað við innborgaða fjárhæð ef um aukaafborgun er að ræða. Þegar stefndu greiddu upp lánið 5. nóvember 2019 voru vextir nýrra lána hjá áfrýjanda 4,2% eða 0,85% lægri en vextir á láni stefndu. Samkvæmt því krafði áfrýjandi stefndu um uppgreiðslugjald að fjárhæð 2.744.856 krónur sem nam 10,06% af eftirstöðvum lánsins. Við uppgreiðsluna gerðu stefndu fyrirvara um réttmæti gjaldsins. Málsástæður 20. Málsaðila greinir á um lögmæti fyrrnefnds uppgreiðslugjalds á veðbréfinu. Stefndu krefjast þess að áfrýjanda verði gert að endurgreiða þeim gjaldið sem þau telja ólögmætt. 21. Af hálfu stefndu er annars vegar byggt á því að skilmálar í veðbréfinu sem þau gáfu út 1. júlí 2008 hafi ekki verið í samræmi við áskilnað þágildandi laga um neytendalán nr. 121/1994 og hins vegar að efni standi til þess að víkja skilmálum veðbréfsins um uppgreiðslugjald til hliðar á grundvelli 36. gr. og 36. gr. a–c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga þar sem þeir hafi verið ósanngjarnir og ekki í samræmi við góða viðskiptahætti. 22. Af hálfu áfrýjanda er framangreindum málsástæðum stefndu mótmælt. Vísar áfrýjandi í fyrsta lagi til þess að ekki sé hægt að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms þar sem hún hafi að stærstum hluta verið reist á málsástæðum um skort á lagastoð reglugerðar sem ekki hafi verið haldið fram af stefndu hálfu við meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Þá vísar áfrýjandi til þess að komist sú málsástæða þrátt fyrir það að sé á því byggt að umrædd reglugerðarákvæði hafi átt sér fullnægjandi lagastoð og fullnægt skilyrðum 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998. Þá hafi upplýsingagjöf áfrýjanda og skilmálar veðbréfsins verið í samræmi við ákvæði þágildandi laga um neytendalán nr. 121/1994. Enn fremur mótmælir áfrýjandi því að unnt sé að fallast á dómkröfur stefndu á þeim grundvelli að áskilnaður veðbréfsins um greiðslu uppgreiðslugjalds hafi verið haldinn ógildingarannmörkum og að skilyrði séu til þess að víkja umræddu ákvæði þess til hliðar á grundvelli 36. gr. og 36. gr. a–c laga nr. 7/1936. Loks mótmælir áfrýjandi því, verði fallist á kröfu stefndu um endurgreiðslu uppgreiðsluþóknunar, að hún skuli bera dráttarvexti frá uppgreiðsludegi lánsins. Niðurstaða 23. Eins og áður hefur verið gerð grein fyrir byggja stefndu dómkröfur sínar á tveimur málsástæðum. 24. Í forsendum hins áfrýjaða dóms er fyrst vikið að fyrrnefndu málsástæðunni þess efnis að skilmálar veðbréfsins um uppgreiðslu hafi ekki samræmst ákvæðum þágildandi laga um neytendalán nr. 121/1994 og réttilega komist að þeirri niðurstöðu að í nefndu veðbréfi hafi ekki verið gætt fyrirmæla 3. mgr. 16. gr. a laga nr. 121/1994 um að tilgreina hvernig uppgreiðslugjald skyldi reiknað út og hvenær slíkur kostnaður félli til. Í dóminum er þess á hinn bóginn í engu getið hverju sá ágalli varði eða hvernig hann leiði til þess að fallast beri á kröfur stefndu. Er þess þá að gæta að í 3. mgr. 16. gr. a laganna er ekki mælt fyrir um afleiðingarnar ef þessa er ekki gætt, sbr. til samanburðar 1. mgr. 14. gr. laganna þar sem tekið er fram að séu vextir og annar lántökukostnaður ekki tilgreindur í lánssamningi sé lánveitanda ekki heimilt að krefja lántaka um slíkan kostnað. Þó svo að ágalli á skilmálum af þessu tagi kunni að brjóta í bága við tiltekna lagareglu leiðir slíkt ekki þegar af þeirri ástæðu til þess að viðkomandi ráðstöfun sé ógild milli aðila. Slíkt er þvert á móti athugunarefni hverju sinni og bar héraðsdómi að taka rökstudda afstöðu til þess hvort og þá á hvaða grundvelli umræddur ágalli leiddi til þess að fallist yrði á kröfur stefndu. Uppfyllti hinn áfrýjaði dómur því ekki áskilnað f-liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 að þessu leyti. Í stað þess að leysa til fullnustu úr málinu á framangreindum grunni er í forsendum hins áfrýjaða dóms það eitt sagt að rök standi til þess að fallast á kröfur stefndu á þeim grundvelli að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 121/1994, en fleira komi þó til. 25. Þessu næst er vikið að því að þrátt fyrir málatilbúnað aðila hafi dómurinn heimild til þess að byggja niðurstöðu sína á „lagareglum samkvæmt sinni eigin lögskýringu innan þeirra marka sem honum samkvæmt málsforræðisreglu eru sett af kröfugerð og málsástæðum aðilanna“. Því næst tekur dómurinn til úrlausnar hvort ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 1017/2005, sem breytti 15. gr. reglugerð nr. 522/2004 og 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005 hafi átt sér fullnægjandi lagastoð samkvæmt 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998. Þessarar málsástæðu sér hins vegar hvergi stað í skriflegum málatilbúnaði stefndu í stefnu til héraðsdóms. Þrátt fyrir það eru forsendur dómsins að stærstum hluta umfjöllun um þessa málsástæðu og virðist úrlausn dómsins um kröfu stefndu á hendur áfrýjanda að mestu leyti reist á henni. Samkvæmt 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 má dómari ekki byggja niðurstöðu sína á málsástæðum sem hefðu mátt koma fram við meðferð máls en gerðu það ekki. Að auki reisir héraðsdómur niðurstöðu sína, þar sem fallist er á kröfur stefndu, á báðum framangreindum málsástæðum án þess að ljóst sé hvort þær báðar þurfi til þeirra málsúrslita eða hvor þeirra um sig geti leitt til þeirrar niðurstöðu sem komist var að í málinu. Verður með vísan til framanritaðs ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar. 26. Það athugist enn fremur að sá ágalli er jafnframt á úrlausn héraðsdóms að þar er fallist á þann málatilbúnað áfrýjanda að stefndu hefðu á lánstímanum, og gegn því að undirgangast skyldu til greiðslu uppgreiðslugjalds, sparað sér fé án þess að tekið væri tillit til þess í kröfugerð þeirra. Bar héraðsdómi að beina því til aðila á grundvelli 2. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 eða beita eftir atvikum úrræði 104. gr. laganna til að afla fullnægjandi gagna um þennan mögulega ávinning stefndu. Þessa gætti héraðsdómur ekki og var málið dæmt án tillits til þessa þáttar og því borið við að slíkt væri tækt vegna þess hvernig aðilar hefðu hagað kröfugerð sinni og málatilbúnaði. 27. Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Héraðsdómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. https://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=63dde049-5daf-451e-923b-eb800a4fcff7
Mál nr. 3/2021
Reglugerðarheimild Lögmætisregla Skuldamál Samningur Skuldabréf Ógilding samnings Neytendalán EES-samningurinn Gjafsókn
Í málinu var deilt um heimild Í til að krefja E og F í desember 2019 um þóknun vegna uppgreiðslu á 40 ára húsnæðisláni sem þau höfðu í apríl 2008 tekið hjá Í með útgáfu ÍLS-veðbréfs. E og F byggðu meðal annars á því að þær reglugerðir sem Í reisti rétt sinn á til að innheimta uppgreiðslugjald skorti lagastoð og uppfylltu ekki þau skilyrði sem heimildarákvæði laga nr. 44/1998 um húsnæðismál mæltu fyrir um og stæðust því ekki lögmætisreglu. Þá vísuðu E og F til þess að þau hefðu ekki afsalað sér heimild sinni til að greiða upp lánið án þóknunar. Einnig töldu E og F að hvað sem liði lagastoð tilgreindra reglugerðarákvæða, hefði ákvæði veðbréfsins um uppgreiðslugjald verið ólögmætt og Í hefði verið óheimilt að byggja á því, meðal annars með vísan til meginreglu samningaréttar um ógildi ólögmætra löggerninga. Jafnframt byggðu þau á því að gjaldtakan hefði verið ósanngjörn og andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig ákvæði veðbréfsins um uppgreiðsluþóknun og því bæri að víkja því til hliðar á grundvelli ógildingarreglna samningaréttar, sbr. 36. gr. og 36. gr. a–c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í dómi Hæstaréttar var ekki á það fallist með E og F að ákvæði umþrættra reglugerða skorti fullnægjandi lagastoð samkvæmt heimildarákvæði laga nr. 44/1998. Þá var fallist á með Í að E og F hefðu með fullnægjandi og bindandi hætti afsalað sér rétti til uppgreiðslu lánsins án greiðslu þóknunar enda hefðu þau undirritað veðbréfið með þeim skilmálum. Loks var ekki talið koma til álita að ákvæði veðsamningsins yrðu metin ógild á grundvelli meginreglu samningaréttar um ógildi ólögmætra löggerninga, að þeim yrði vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. a–c. laga nr. 7/1936 né að ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju væri fyrir Í að bera þau fyrir sig, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Var Í því sýknað af kröfum E og F.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon og Þorgeir Örlygsson fyrrverandi hæstaréttardómari. 2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. janúar 2021. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefndu en til vara að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 3. Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt. Ágreiningsefni 4. Í málinu er deilt um heimild áfrýjanda til að krefja stefndu í desember 2019 um þóknun vegna uppgreiðslu á húsnæðisláni sem þau tóku hjá áfrýjanda (sem þá hét Íbúðalánasjóður) í apríl 2008. 5. Stefndu höfðuðu málið 12. maí 2020. Með héraðsdómi 4. desember sama ár var fallist á kröfu þeirra um endurgreiðslu á uppgreiðslugjaldi sem þau höfðu innt af hendi til áfrýjanda þegar þau 12. desember 2019 greiddu upp 40 ára húsnæðislán sem þau höfðu tekið hjá áfrýjanda 10. apríl 2008 með útgáfu ÍLS-veðbréfs. Niðurstaða héraðsdóms var reist á því að reglusetning um uppgreiðslugjald, sem ákvörðuð var með reglugerð nr. 1017/2005 um breytingu á reglugerð nr. 522/2004 um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf og reglugerð nr. 1016/2005 um gjaldskrá Íbúðalánasjóðs, stæðist ekki áskilnað þágildandi 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál um heimild ráðherra til að setja áfrýjanda ramma um heimild til að bjóða lán með uppgreiðslugjaldi og hefði því ekki verið grundvöllur að löglegri álagningu slíks gjalds. 6. Leyfi var veitt 19. janúar 2021 til að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í ákvörðuninni kom fram að málið hefði þýðingu fyrir fjölda lántakenda og varðaði mikla hagsmuni þeirra og ríkissjóðs. Einnig var því slegið föstu að brýnt væri að fá niðurstöðu Hæstaréttar í málinu með skjótum hætti en það væri fordæmisgefandi og hefði almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna. Þá lægi fyrir að ekki væri þörf á að leiða vitni í málinu og skýrslur hefðu ekki verið gefnar við meðferð þess þannig að ekki reyndi á mat á sönnunargildi munnlegs framburðar í héraði. Laga- og starfsumhverfi Íbúðalánasjóðs Um Íbúðalánasjóð 7. Nauðsynlegt er að gera hér grein fyrir laga- og starfsumhverfi Íbúðalánasjóðs á þeim tíma sem lánið var tekið en jafnframt bent á að með gildistöku laga nr. 137/2019 um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun 31. desember 2019 var heiti Íbúðalánasjóðs breytt í ÍL-sjóð, sem er áfrýjandi máls þessa, sbr. 4. mgr. 18. gr. laganna og samhliða átti sér stað breyting á starfssviði sjóðsins. 8. Íbúðalánasjóður starfaði á þeim tíma þegar lánið var tekið á grundvelli þágildandi laga um húsnæðismál nr. 44/1998 eins og þeim hafði meðal annars verið breytt með lögum nr. 57/2004, 120/2004 og 137/2005. Í 1. gr. laganna kom fram að tilgangur þeirra væri að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn gætu búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum yrði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna skyldi stofna sérstakan lánasjóð, Íbúðalánasjóð, sem samkvæmt 9. gr. laganna skyldi lána til íbúðakaupa, nýbygginga eða endurbóta íbúðarhúsnæðis hér á landi. Eignasafn sjóðsins samanstóð því eðli máls samkvæmt af útlánum til einstaklinga og fyrirtækja sem veitt voru gegn veði í fasteignum, svo sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð frá árinu 2013. Íbúðalánasjóður fjármagnaði þau verkefni sem honum voru falin samkvæmt lögunum með tekjum af eigin fé sjóðsins, það er afborgunum, vöxtum og verðtryggingu af veittum lánum, með útgáfu og sölu íbúðabréfa, lántöku samkvæmt fjárlögum hverju sinni og með þjónustugjöldum, sbr. 10. gr. laga nr. 44/1998 eins og þeim var breytt með lögum nr. 57/2004. Íbúðalánasjóður var því fjárhagslega sjálfstæð stofnun og gert ráð fyrir að ekki þyrfti bein fjárframlög úr ríkissjóði til þess að standa undir starfsemi hans, þótt það hafi verið gert tímabundið með sérstökum framlögum af fjárlögum, sbr. ákvæði VIII til bráðabirgða með lögum nr. 44/1998. Löggjöf og þróun hennar 9. Með lögum nr. 57/2004 um breytingu á lögum nr. 44/1998 var ákveðið að Íbúðalánasjóður skyldi gefa út ÍLS-veðbréf í stað húsbréfa og húsnæðisbréfa. ÍLS-veðbréf eru skuldabréf sem kaupandi eða eigandi íbúðarhúsnæðis gaf út til Íbúðalánasjóðs með veði í húsnæðinu, sbr. 2. gr. laga nr. 44/1998. Með þeim breytingum var stefnt að því að bæta hag lántakenda sjóðsins bæði með lægri fjármögnunarkostnaði og áhættuminni fasteignaviðskiptum. Byggðust breytingarnar að mestu leyti á áliti nefndar um endurskipulagningu á útgáfumálum Íbúðalánasjóðs sem út kom í október 2003. 10. Með 12. gr. laga nr. 57/2004 voru lögfestar þágildandi 1. og 2. mgr. 23. gr. í lögum nr. 44/1998 en greinin bar yfirskriftina: Greiðslur lána. Í 1. mgr. 23. gr. sagði að Íbúðalánasjóður innheimti afborganir, verðbætur og vexti af ÍLS-veðbréfum og ráðstafaði því fé sem þannig innheimtist til endurgreiðslu fjármögnunar bréfa sjóðsins. Skuldurum ÍLS-veðbréfa væri heimilt að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga. Í 2. mgr. kom inn heimild þess efnis að ráðherra gæti, við sérstakar aðstæður og að fenginni umsögn stjórnar Íbúðalánasjóðs, ákveðið að aukaafborganir og uppgreiðsla ÍLS-veðbréfa yrðu aðeins heimilar gegn greiðslu þóknunar sem jafnaði út að hluta eða að öllu leyti muninn á uppgreiðsluverði ÍLS-veðbréfs og markaðskjörum sambærilegs íbúðabréfs. Geta skyldi um þessa heimild í skilmálum ÍLS-veðbréfa. Í almennum athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 57/2004 kom fram að nauðsynlegt væri að kveða á um möguleika sjóðsins til að áskilja að uppgreiðsla yrði aðeins heimil gegn greiðslu þóknunar sem myndi jafna mun á uppgreiðsluverði ÍLS-veðbréfs og markaðskjörum sambærilegra íbúðabréfa, við ófyrirséð atvik þegar uppgreiðslur gætu ógnað stöðu sjóðsins. Þá kom fram í athugasemdum við 12. gr. frumvarpsins að gert væri ráð fyrir að heimild þessari yrði eingöngu beitt sem „neyðarúrræði“ þegar hefðbundnar áhættustýringaraðferðir og svigrúm sjóðsins við vaxtaákvörðun nægðu ekki til að verja hag hans. Umrædd lög nr. 57/2004 tóku gildi 1. júlí 2004. Þá var að finna nánast samhljóða ákvæði í 15. gr. þágildandi reglugerðar nr. 522/2004 um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf sem tók gildi á sama tíma. Samkvæmt tillögum fyrrgreindrar nefndar um endurskipulagningu á útgáfumálum Íbúðalánasjóðs var lagt til að heimild lántakenda til uppgreiðslu fasteignalána yrði þrengd þannig að uppgreiðsla veðbréfa yrði aðeins heimiluð gegn greiðslu þóknunar sem yrði jafnhá mismun á markaðsverðmæti sambærilegs íbúðabréfs og fasteignaveðlánsins. Með því móti gæti Íbúðalánasjóður keypt íbúðabréf á markaðnum fyrir andvirði uppgreiðslu án þess að „bera skarðan hlut frá borði“. Þessi leið var þó ekki farin við setningu laga nr. 57/2004 þar sem talið var að slíkt ákvæði gæti mögulega sett íbúðakaupendur í erfiða stöðu, torveldað sölu fasteigna vegna áhvílandi lána og veikt samkeppnisstöðu banka í útlánum til húsnæðiskaupa. Hins vegar var talið nauðsynlegt að kveða á um framangreint úrræði sjóðsins til að áskilja sér þóknun við uppgreiðslu þegar ófyrirséð atvik gætu ógnað stöðu hans, sbr. 2. mgr. 23. gr. laganna. 11. Eins og fram kemur í fyrrnefndri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð fóru íslensku viðskiptabankarnir veturinn 2003 til 2004 að færa sig inn á íbúðalánamarkaðinn. Í ágúst 2004 bauð KB-banki upp á íbúðalán með 4,4% verðtryggðum vöxtum með veðhlutfalli allt að 80%. Nokkrum dögum síðar buðu hinir viðskiptabankarnir sambærileg kjör. Á þessum tíma bauð Íbúðalánasjóður lán á 4,5% vöxtum með veðhlutfalli allt að 70%. Þegar viðskiptabankarnir hófu að veita íbúðalán leiddi það til vandkvæða í starfsemi Íbúðalánasjóðs þar sem hrina uppgreiðslna hófst á lánum sjóðsins. 12. Með lögum nr. 120/2004, sem tóku gildi 2. desember 2004, var 3. mgr. bætt við 23. gr. laga nr. 44/1998. Samkvæmt henni var Íbúðalánasjóði heimilt að bjóða lántakendum ÍLS-veðbréfa að afsala sér rétti til þess að greiða upp lán án þóknunar gegn lægra vaxtaálagi. Ef til uppgreiðslu kæmi mætti slík þóknun á hinn bóginn ekki vera hærri fjárhæð en sem næmi kostnaði Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslu viðkomandi láns. 13. Ákvæðið var lögfest á grundvelli breytingartillögu félagsmálanefndar Alþingis. Í nefndaráliti kom fram að með þessari breytingu gæti ráðherra heimilað Íbúðalánasjóði sama svigrúm við lánveitingar og aðrar fjármálastofnanir nytu samkvæmt almennum lögum á hverjum tíma, sbr. þágildandi lög nr. 121/1994 um neytendalán. Þá var tekið fram að nokkur óvissa ríkti um heimildir fjármálastofnana í þessum efnum, það er um áskilnað uppgreiðslugjalds, og Samkeppnisstofnun hefði málið til skoðunar.Var því talið rétt að bíða með setningu reglugerðar á grundvelli ákvæðisins þar til niðurstaða lægi fyrir í því máli. Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 6. október 2005 í máli nr. 11/2005 var vísað til þess að í lögum nr. 121/1994 væri ekki að finna sérstakt ákvæði um uppgreiðslugjald og með vísan til meginreglunnar um samningsfrelsi og forsögu 16. gr. þeirra laga um greiðslur fyrir gjalddaga var ekki talið að í greininni fælist bann við uppgreiðslugjaldi. Í kjölfar úrskurðarins var sett reglugerð nr. 1017/2005 um breytingu á reglugerð um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004, með síðari breytingum. Reglugerðin var sett með heimild í 3. mgr. 23. gr. og 29. gr. laga nr. 44/1998 og tók gildi 21. nóvember 2005. Með henni var tveimur nýjum málsgreinum bætt við 15. gr. reglugerðar nr. 522/2004. Samkvæmt fyrri málsgreininni var Íbúðalánasjóði heimilt að bjóða þeim sem undirrituðu yfirlýsingu um að þeir afsöluðu sér heimild til að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða endurgreiða skuld að fullu fyrir gjalddaga lán með lægra vaxtaálagi sem næmi þeim hluta álagsins sem var ætlað að mæta vaxtaáhættu sjóðsins. Í seinni málsgreininni var tekið fram að ef lántaki sem tekið hefði lán með lægra vaxtaálagi óskaði eftir því að greiða af láni aukaafborganir eða greiða skuldabréfið upp að fullu fyrir lok lánstímans skyldi hann greiða sérstaka þóknun til Íbúðalánasjóðs samkvæmt gjaldskrá sjóðsins. Þá var einnig bætt við 3. gr. reglugerðarinnar málsgrein um að sjóðurinn gæti að fenginni ákvörðun ráðherra, samkvæmt 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998, boðið þeim lántakendum sem undirrituðu yfirlýsingu um að þeir afsöluðu sér heimild til að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða endurgreiddu skuldina að fullu fyrir gjalddaga, sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna, lægra vaxtaálag sem næmi allt að þeim hluta álagsins sem ætlað var að mæta vaxtaáhættu sjóðsins. 14. Samhliða framangreindri reglugerð var sett reglugerð nr. 1016/2005 um gjaldskrá Íbúðalánasjóðs. Í 7. gr. hennar segir að þóknun vegna uppgreiðslu lána og aukaafborgana reiknist af mismun á vaxtastigi láns sem greitt er og markaðsvaxta sambærilegra nýrra lána hjá Íbúðalánasjóði ef þeir eru lægri, miðað við uppreiknaðar eftirstöðvar lánsins, núvirt frá uppgreiðsludegi til lokagjalddaga eða miðað við innborgaða fjárhæð ef um aukaafborgun væri að ræða. 15. Með lögum nr. 63/2008 var ákvæði 16. gr. a um uppgreiðslugjald bætt í þágildandi lög um neytendalán nr. 121/1994. 16. Eftir framangreindar breytingar á lögum og reglugerðum um starfsemi Íbúðalánasjóðs bauð sjóðurinn upp á tvenns konar lán. Annars vegar lán sem báru lægri vexti og voru án heimildar til uppgreiðslu nema gegn greiðslu sérstakrar þóknunar til sjóðsins og hins vegar lán sem heimilt var að greiða upp án þóknunar en var með hærri vöxtum. Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. þágildandi laga nr. 44/1998 ákvað stjórn Íbúðalánasjóðs vexti ÍLS-veðbréfa með hliðsjón af fjármögnunarkostnaði í reglulegum útboðum íbúðabréfa og fjármagnskostnaði vegna uppgreiddra lána samkvæmt 23. gr. laganna að viðbættu vaxtaálagi, sbr. 28. gr. þeirra. Í 28. gr. kom jafnframt fram að Íbúðalánasjóði væri heimilt að áskilja sér vaxtaálag til að mæta rekstrarkostnaði, áætluðum útlánatöpum og vaxtaáhættu sjóðsins. Ráðherra ákvað vaxtaálag að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins. Þá skyldu vextir vera óbreytanlegir allan lánstímann, sbr. 4. mgr. 21. gr. laganna. Málsatvik 17. Stefndu sóttu 2. apríl 2008 um lán hjá Íbúðalánasjóði vegna byggingar húsnæðis að Stöðulsholti 36 í Borgarnesi. Í umsókninni var tekið fram að sótt væri um 40 ára lán að fjárhæð 16.153.401 króna og að tegund lánsins sem sótt væri um væri veðbréf með uppgreiðsluþóknun. Á þeim tíma stóðu lántakendum, svo sem áður er rakið, til boða tvenns konar kjör á ÍLS-veðbréfum. Annars vegar lán með 5,5% vöxtum og án uppgreiðsluheimildar og hins vegar lán með 5,75% vöxtum og heimild til uppgreiðslu án þóknunar. Á umsóknareyðublaðinu kom fram að sótt væri um „Veðbréf með uppgreiðsluþóknun“ og fjárhæð lánsins næmi 16.153.401 krónu. 18. Starfsmaður Íbúðalánasjóðs sendi stefndu Erlu tölvubréf 9. apríl 2008 þar sem fram kom að veðbréfið væri tilbúið í „Sparisjóðnum“ og gáfu stefndu veðbréfið út degi síðar. Í fyrirsögn þess kom fram að það væri ÍLS-veðbréf án heimildar til uppgreiðslu eða aukaafborgana nema gegn sérstakri þóknun. Síðan sagði svo í fyrirsögninni „Skv. lögum nr. 57/2004 um breytingu á lögum um húsnæðismál nr. 44/1998. Jafngreiðslulán (annuitet) verðtryggt skv. vísitölu neysluverðs.“ Þá sagði að skuldin væri tryggð með 1. veðrétti í fasteigninni Stöðulsholti 36 í Borgarnesi og bæri 5,5% ársvexti. Í skilmálum veðbréfsins, sem komu fram á bakhlið þess, var tekið fram í 5. tölulið að skuldari afsalaði sér með undirritun ÍLS-veðbréfsins heimild til að greiða aukaafborganir af „skuldabréfum sínum“ eða endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga nema gegn sérstakri þóknun. Þá sagði í 6. tölulið að „þóknun vegna uppgreiðslu skuldar og vegna aukaafborgana reiknast af mismun á vaxtastigi ÍLS-veðbréfsins sem greitt er og markaðsvaxta sambærilegra nýrra lána hjá Íbúðalánasjóði ef þeir eru lægri, miðað við uppreiknaðar eftirstöðvar lánsins, núvirt frá uppgreiðsludegi til lokagjalddaga eða miðað við innborgaða fjárhæð ef um aukaafborgun er að ræða.“ 19. Af áfrýjanda hálfu hafa verið lögð fram gögn um lántökur hjá sjóðnum sem hann heldur fram að lántakendum hafi verið kynnt í aðdraganda lántökunnar en stefndu neita að svo hafi verið. Meðal þeirra er skjal sem ber heitið „Uppgreiðsluþóknun“. Í því er að finna upplýsingar til lántaka sem sótt hafa um ÍLS-veðbréf án heimildar til uppgreiðslu eða aukaafborgana nema gegn sérstakri þóknun og koma þar meðal annars fram sömu upplýsingar og í 5. og 6. töluliðum skilmála veðbréfsins. Jafnframt kemur þar fram að uppgreiðsluþóknun sé tilgreind í gjaldskrá Íbúðalánasjóðs og þóknunin geti því verið mishá. Er sérstaklega tekið fram að ef vextir hækkuðu eftir lántöku eða yrðu óbreyttir þegar lánið væri greitt upp þyrfti ekki að greiða uppgreiðsluþóknun en ef vextir lækkuðu eftir lántöku þyrfti á hinn bóginn að greiða þóknun sem yrði reiknuð á uppgreiðsludegi. Þá er í skjalinu að finna töflu með dæmum um hvernig uppgreiðsluþóknun breyttist miðað við mismunandi vexti og lánstíma. Sambærilegar upplýsingar var á þessum tíma að finna á heimasíðu Íbúðalánasjóðs. 20. Íbúðalánasjóður samþykkti 21. febrúar 2018 veðflutning á láni stefndu af fyrrgreindri eign að Stöðulsholti 36 yfir á nýja eign þeirra að Dalseli 17 í Reykjavík. 21. Stefndu greiddu afborganir af láninu frá útgáfu veðbréfsins og allt fram til þess að þau greiddu það upp 12. desember 2019. Við uppgreiðsluna krafði áfrýjandi þau um greiðslu sérstakrar þóknunar á grundvelli 6. töluliðar skilmála veðbréfsins, sbr. 4. mgr. 15. gr. þágildandi reglugerðar nr. 522/2004 og 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005. Eins og áður hefur verið rakið kemur fram í 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005 að þóknun vegna uppgreiðslu lána og aukaafborgana reiknist af mismun á vaxtastigi láns sem greitt er og markaðsvöxtum sambærilegra nýrra lána hjá Íbúðalánasjóði ef þeir eru lægri, miðað við uppreiknaðar eftirstöðvar lánsins, núvirt frá uppgreiðsludegi til lokagjalddaga eða miðað við innborgaða fjárhæð ef um aukaafborgun er að ræða. Þegar stefndu greiddu upp lánið 12. desember 2019 voru vextir nýrra lána hjá áfrýjanda 4,2% eða 1,3% lægri en vextir á láni stefndu. Á þeim grundvelli krafði áfrýjandi stefndu um uppgreiðslugjald að fjárhæð 3.764.811 krónur sem nam 15,58% af eftirstöðvum lánsins. Við uppgreiðsluna gerðu stefndu fyrirvara um réttmæti uppgreiðslugjaldsins. Málsástæður 22. Málsaðila greinir á um lögmæti fyrrnefnds uppgreiðslugjalds á veðbréfinu. Stefndu telja gjaldið ólögmætt og krefjast þess að áfrýjanda verði gert að endurgreiða það en fjárhæð þess nemur 3.764.811 krónum. 23. Af hálfu stefndu er í fyrsta lagi á því byggt að þær reglugerðir sem áfrýjandi reisir rétt sinn á til að innheimta uppgreiðslugjald skorti lagastoð og uppfylli ekki þau skilyrði sem heimildarákvæði laga nr. 44/1998 mæltu fyrir um. Fyrrnefnd ákvæði reglugerðanna standist ekki lögmætisreglu þar sem efni þeirra endurspegli ekki markmið löggjafans sem fram komi í lagaheimildinni en samkvæmt henni hafi verið skylt að kveða á um hlutfall uppgreiðslugjaldsins í reglugerð auk þess sem áskilið hafi verið að uppgreiðsluþóknun mætti aldrei nema hærri fjárhæð en kostnaði áfrýjanda vegna uppgreiðslu viðkomandi láns. Í öðru lagi byggja stefndu á því að eigi gjaldtakan að styðjast við neyðarúrræði 2. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 hafi skilyrði þeirrar heimildar ekki verið fyrir hendi. Í þriðja lagi hafi stefndu ekki afsalað sér heimild sinni til að greiða upp lánið án þóknunar en teljist þau hafa gert það hafi það aðeins verið að mjög takmörkuðu leyti enda hafi þau ekki undirritað sérstaka yfirlýsingu þess efnis. Í fjórða lagi telja stefndu, að hvað sem líði lagastoð tilgreindra reglugerðarákvæða, sé samningsákvæði veðbréfsins um uppgreiðslugjald ólögmætt og áfrýjanda óheimilt að byggja á því, meðal annars með vísan til meginreglu samningaréttar um ógildi ólögmætra löggerninga. Að lokum byggja stefndu á því að gjaldtakan hafi verið ósanngjörn og andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig ákvæði veðbréfsins um uppgreiðsluþóknun og því beri að víkja því til hliðar á grundvelli ógildingarreglna samningaréttar, sbr. 36. gr. og 36. gr. a–c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. 24. Af hálfu áfrýjanda er öllum framangreindum málsástæðum stefndu mótmælt. Umrædd reglugerðarákvæði hafi átt sér næga lagastoð og þau fullnægt skilyrðum 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998, en tilvísanir stefndu til 2. mgr. 23. gr. laganna séu án þýðingar enda hafi umrædd gjaldtaka ekki sótt stoð í þá lagaheimild. Þá liggi fyrir að stefndu hafi afsalað sér heimild til að greiða lánið upp án þóknunar þótt ekki liggi fyrir sjálfstæð yfirlýsing þess efnis. Vísar áfrýjandi um þetta til lánsumsóknar stefndu, upplýsinga í notendahandbók um greiðslumat og skilmála skuldabréfsins sjálfs. Þá hafi upplýsingagjöf áfrýjanda verið í samræmi við ákvæði þágildandi laga nr. 121/1994. Enn fremur mótmælir áfrýjandi því að unnt sé að fallast á dómkröfur stefndu á þeim grundvelli að áskilnaður um greiðslu uppgreiðslugjalds hafi verið haldinn ógildingarannmörkum og að skilyrði séu til þess að víkja umræddu ákvæði veðbréfsins til hliðar á grundvelli heimilda 36. gr. og 36. gr. a–c laga nr. 7/1936. Loks mótmælir áfrýjandi þeirri kröfu stefndu að dæmd fjárhæð beri dráttarvexti frá uppgreiðsludegi lánsins. Niðurstaða 25. Við úrlausn málsins kemur fyrst til skoðunar sú málsástæða stefndu að reglugerðir sem áfrýjandi byggði á rétt sinn til að innheimta uppgreiðslugjald skorti lagastoð. Í hinum áfrýjaða dómi var á það fallist með stefndu að sú útlistun sem fram kæmi í 3. og 4. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 522/2004 um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1017/2005 og 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005 stæðist ekki áskilnað 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998. Þessar reglugerðir frá árinu 2005 voru settar eftir að ákvæðið var lögfest með lögum nr. 120/2004 en það hljóðaði svo: Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. getur félagsmálaráðherra heimilað Íbúðalánasjóði með reglugerð, í samræmi við almennar lagaheimildir á hverjum tíma, að bjóða skuldurum ÍLS-veðbréfa að afsala sér rétti til þess að greiða án þóknunar upp lán eða greiða aukaafborganir, gegn lægra vaxtaálagi. Jafnframt skal í reglugerðinni kveðið á um hlutfall þóknunar sem Íbúðalánasjóður getur áskilið sér ef lántaki, sem afsalar sér umræddum rétti, hyggst greiða upp lán fyrir lok lánstíma. Slík þóknun skal aldrei nema hærri fjárhæð en nemur kostnaði Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslu viðkomandi láns. 26. Eins og áður segir eru fyrrnefnd reglugerðarákvæði, sem sett voru á grundvelli þessarar lagaheimildar, í fyrsta lagi 3. og 4. mgr. 15. gr. þágildandi reglugerðar nr. 522/2004, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1017/2005, en ákvæðin eru svohljóðandi: Íbúðalánasjóði er heimilt að bjóða þeim, sem undirrita yfirlýsingu um að þeir afsali sér heimild til að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga, lán með lægra vaxtaálagi sem nemur þeim hluta álagsins sem er ætlað að mæta vaxtaáhættu sjóðsins. Óski lántaki sem tekið hefur lán með lægra vaxtaálagi en ella býðst, sbr. 3. mgr., eftir því að greiða af láni aukaafborganir eða greiða skuldabréfið upp að fullu fyrir lok lánstímans skal hann greiða sérstaka þóknun til Íbúðalánasjóðs samkvæmt gjaldskrá Íbúðalánasjóðs. 27. Í öðru lagi er um að ræða 7. gr. reglugerðar um gjaldskrá nr. 1016/2005 sem var orðuð svo: Þóknun vegna uppgreiðslu lána og aukaafborgana reiknast af mismun á vaxtastigi láns sem greitt er og markaðsvaxta sambærilegra nýrra lána hjá Íbúðalánasjóði ef þeir eru lægri, miðað við uppreiknaðar eftirstöðvar lánsins, núvirt frá uppgreiðsludegi til lokagjalddaga eða miðað við innborgaða fjárhæð ef um aukaafborgun er að ræða. 28. Í 5. tölulið skilmála umrædds veðbréfs 10. apríl 2008 kemur fram að skuldari afsali sér heimild til uppgreiðslu lánsins eða greiðslu aukaafborgana nema gegn sérstakri þóknun og í 6. tölulið er tekin upp regla um fjárhæð þeirrar þóknunar sem er samhljóða 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005. 29. Málatilbúnaður stefndu, sem fallist er á í hinum áfrýjaða dómi, lýtur að því að í 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 séu sett fjögur skilyrði sem lúti að setningu og efni reglugerðar. Í fyrsta lagi að heimildin ætti sér stoð í reglugerð og þyrfti að vera í samræmi við almennar lagaheimildir, í öðru lagi að skuldari yrði að taka um það upplýsta ákvörðun að hann afsalaði sér rétti til uppgreiðslu án þóknunar, í þriðja lagi að kveðið væri á um hlutfall uppgreiðsluþóknunar í reglugerðinni og í fjórða lagi að uppgreiðsluþóknun mætti ekki nema hærri upphæð en kostnaði áfrýjanda vegna uppgreiðslu lánsins. Með setningu fyrrgreindra reglugerðarákvæða hafi þess ekki verið gætt að fullnægja þriðja og fjórða skilyrðinu og hafi með því verið brotið gegn lögmætisreglunni. 30. Hér fyrr í dóminum hefur ítarlega verið fjallað um starfsemi og grundvöll áfrýjanda á þeim tíma sem hér um ræðir, þar með talið hlutverk, skipulag, fjármögnunarkosti og þær tegundir lána sem sjóðurinn bauð. Við mat á lagastoð tilvitnaðra reglugerðarákvæða er fyrst ástæða til þess að árétta það viðurkennda sjónarmið að kröfur til þeirra kunna að taka nokkurt mið af því hversu íþyngjandi ákvæði viðkomandi reglugerðar eru. Umrædd ákvæði 15. gr. reglugerðar nr. 522/2004 og 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005 varða lögskipti einkaréttarlegs eðlis en ekki einhliða og íþyngjandi skilmála sem stefndu bar að hlíta. Hvað sem líður ágreiningi um þá kynningu á lánakjörum sem stefndu fengu í aðdraganda lántökunnar hagar þannig til að á árinu 2008 áttu lántakar almennt nokkurra kosta völ við fjármögnun fasteignakaupa sem fram fór á samkeppnismarkaði. Í fyrsta lagi voru þeir ekki bundnir af því að taka lán hjá áfrýjanda enda buðu fleiri fjármálastofnanir lán til íbúðakaupa. Í öðru lagi gátu lántakendur í sporum stefndu valið á milli þess annars vegar að taka hefðbundið lán hjá áfrýjanda með 0,25% hærri vöxtum án þess að undirgangast kvaðir um uppgreiðslukostnað og hins vegar þann kost sem varð raunin í þeirra tilviki og fólst í töku láns með lægri vöxtum en áskilnaði um uppgreiðslugjald ef vextir lækkuðu. Í þriðja lagi áttu lántakendur að jafnaði val um hvort og þá hvenær þau greiddu upp viðkomandi lán. Hlaut slík ákvörðun að taka mið af tilteknum þáttum svo sem vöxtum á þeim tíma, líklegri vaxtaþróun og jafnframt mögulegum ávinningi af endurfjármögnun með nýju og hagstæðara láni, hvað sem leið óhagstæðu hlutfalli uppgreiðsluþóknunar. 31. Svo sem rakið hefur verið hafa stefndu aðallega byggt á því að reglugerðarákvæðin, einkum 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005, uppfylli hvorki áskilnað 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998, með því að þar sé ekki getið um fast hlutfall uppgreiðsluþóknunar, né tryggi reglugerðarákvæðið að uppgreiðsluþóknun nemi ekki hærri fjárhæð en svari kostnaði áfrýjanda. Hér er til þess að líta að með 5. gr. laga nr. 120/2004 var innleidd sjálfstæð heimild áfrýjanda, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998, til þess að bjóða lán með lægri vöxtum gegn greiðslu uppgreiðslugjalds að settri reglugerð þar um. Þessa heimild verður að skýra í samhengi við meginreglu 1. mgr. 23. gr. um uppgreiðsluheimild skuldara og reglu 2. mgr. 23. gr. þess efnis að við sérstakar aðstæður geti ráðherra, að fenginni umsögn stjórnar áfrýjanda, ákveðið að uppgreiðsla lána og aukaafborganir verði aðeins heimilar gegn greiðslu þóknunar sem „jafni út að hluta eða öllu leyti muninn á uppgreiðsluverði ÍLS-veðbréfs og markaðskjörum sambærilegs íbúðabréfs“. Það skal tekið fram að til beitingar síðastnefndu heimildarinnar gat komið þótt lántaki hefði upphaflega samið um heimild til greiðslu láns án uppgreiðsluþóknunar, sbr. 1. mgr. 23. gr. laganna. 32. Á það má fallast með stefndu að ákjósanlegra hefði verið að nefndar heimildir, bæði lagaheimildin í 3. mgr. 23. gr. og tilvitnaðar reglur í 15. gr. reglugerðar nr. 1017/2005 og 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005, hefðu verið nokkuð skýrari í framsetningu enda nýtur takmarkaðra lögskýringargagna við um tilurð lagareglunnar. Það fær hins vegar ekki staðist að við setningu 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998, en þó einkum setningu umþrættra reglugerðarákvæða, hafi orðið einhvers konar samsláttur á heimildum 2. og 3. mgr. 23. gr. eða að umrædd ákvæði verði fortakslaust skilin á þann veg að þau geri ráð fyrir mismunandi aðferðum við útreikning og ákvörðun uppgreiðslugjalds. Þess ber þá fyrst að gæta að á þeim tíma sem umrædd lánveiting átti sér stað hafði hugtakið uppgreiðslugjald ekki einhlíta og samræmda merkingu að lögum en það var fyrst í júní 2008 með 16. gr. a í lögum nr. 121/1994 eftir umrædda lántöku sem gildi tóku sérstakar takmarkanir á heimildum lánveitanda til samninga um slíka þóknun. Í fyrrnefndri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl. frá 2013 er í kafla 9.5.1 gerð grein fyrir fjórum tegundum heimilda til uppgreiðslu lána hjá sjóði eins og áfrýjanda. Þær eru þar flokkaðar í lán sem væru óuppgreiðanleg; lán sem heimilt væri að greiða upp á grundvelli uppgreiðslugjalds sem tæki mið af kostnaði lánveitanda vegna uppgreiðslunnar; lán sem væru uppgreiðanleg gegn fyrirfram ákveðnu uppgreiðslugjaldi og loks lán sem væru uppgreiðanleg án uppgreiðslugjalds. Með hliðsjón af þessu er ekki unnt að fallast á það með héraðsdómi að á þessum tíma hafi verið fyrir hendi almenn venja um tilhögun uppgreiðslugjalds, í formi fasts hlutfalls af eftirstöðvum láns, á íslenskum fasteignalánamarkaði og skiptir þá ekki máli hvað tíðkaðist við lánveitingar á almennum markaði, en viðskiptabankar störfuðu þess utan á öðrum grundvelli og rekstrarlegum forsendum en áfrýjandi, eins og ráðið verður af umfjöllun hér að framan. 33. Fyrirmæli 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 um að í reglugerð skuli kveðið á um „hlutfall þóknunar“ verða því þegar af þeirri ástæðu ekki skýrð með þeim fortakslausa hætti að tiltaka hafi þurft fast hlutfall með því að tilgreina það sem hundraðshluta af eftirstöðvum. Þá verður að skýra tilvísun ákvæðisins til hlutfalls með hliðsjón af niðurlagsorðum þess þar sem fram kemur að umrædd þóknun megi ekki vera hærri en sem nemi kostnaði Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslu viðkomandi láns. Af því leiðir að ekki var gert ráð fyrir því að mælt væri fyrir um fast hlutfall heldur tæki uppgreiðsluþóknun hverju sinni mið af einstaklingsbundnum forsendum um kostnað vegna uppgreiðslu viðkomandi láns. Sú útfærsla sem fram kemur í 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005 uppfyllir því þennan áskilnað enda er þar mælt fyrir um að umrætt hlutfall, sem heimildin til uppgreiðsluþóknunar ræðst af hverju sinni, nemi muninum á vöxtum viðkomandi láns og markaðsvöxtum sambærilegra nýrra lána áfrýjanda á uppgreiðsludegi séu þeir þá lægri. 34. Héraðsdómur féllst jafnframt á þann málatilbúnað stefndu að ekki væri með 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005 gætt áskilnaðar 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 um að uppgreiðsluþóknun mætti ekki nema hærri fjárhæð en kostnaði áfrýjanda vegna uppgreiðslu viðkomandi láns. Eins og réttilega er bent á í forsendum héraðsdóms er 7. gr. reglugerðarinnar nánast samhljóða 2. mgr. 23. gr. laganna utan þess að í síðarnefndu heimildinni er vísað til markaðskjara sambærilegra íbúðabréfa en í 7. gr. reglugerðarinnar til markaðsvaxta sambærilegra nýrra útlána áfrýjanda. Er jafnframt fallist á þá ályktun héraðsdóms að af þeim völdum yrði þóknun samkvæmt reglugerðinni almennt lægri en fjárhæð uppgreiðsluþóknunar á grundvelli 2. mgr. 23. gr. laganna. Svo sem rakið hefur verið úr lögskýringargögnum og tillögum nefndar um endurskipulagningu á útgáfumálum Íbúðalánasjóðs miðaði 2. mgr. 23. gr. að því að áfrýjandi sem lánveitandi bæri ekki „skarðan hlut frá borði“ vegna vaxtamunar kæmi til uppgreiðslu lána við þær sérstöku aðstæður sem gert er ráð fyrir í ákvæðinu. Með öðrum orðum að áfrýjanda yrði haldið skaðlausum af uppgreiðslu viðkomandi láns. Stefndu hafa enga grein gert fyrir því um hvaða annan og lægri kostnað geti verið að ræða þegar vísað er til þess orðs í niðurlagi 3. mgr. 23. gr. Í forsendum héraðsdóms, þar sem tekið er undir málatilbúnað stefndu þessa efnis, er ekki tilgreint með hvaða hætti útreikningur á uppgreiðslugjaldi í tilviki stefndu hafi leitt til þess að tekin hafi verið þóknun umfram þann kostnað sem áfrýjandi varð fyrir vegna uppgreiðslunnar. Raunar er í dóminum ranglega vísað til 1. mgr. 16. gr. laga nr. 121/1994 en það ákvæði tók ekki til útreiknings fyrir fram umsamins uppgreiðslugjalds, sbr. þær breytingar sem gerðar voru með lögfestingu 16. gr. a. 35. Þeir lántakendur sem nýttu heimild til að taka lán með lægri vöxtum gegn því að afsala sér rétti til uppgreiðslu án þóknunar hjá áfrýjanda gátu því ekki gengið út frá því að heimild 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 til töku þóknunar takmarkaðist við hlutfall í formi fastrar prósentutölu eða fasts hundraðshluta sem heimilt væri að heimta af uppgreiðsluvirði lánsins. Þá stóðu ekki rök til þess að túlka heimild 3. mgr. 23. gr. til töku uppgreiðsluþóknunar án tillits til 2. mgr. 23. gr. Í báðum tilvikum búa sambærileg skaðleysissjónarmið að baki. Þá gera báðar reglurnar ráð fyrir ákveðnu svigrúmi þegar í 2. mgr. 23. gr. er ráðgert að þóknunin megi jafna út að hluta eða öllu leyti muninn á uppgreiðsluverði viðkomandi veðbréfs og markaðskjörum sambærilegs íbúðabréfs en í niðurlagi 3. mgr. 23. gr. ráðgert að þóknun geti mest numið kostnaðinum við uppgreiðslu viðkomandi láns. Með setningu 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005 var augljóslega tekin ákvörðun um að nýta umrædda gjaldtökuheimild til fulls. Jafnframt hafa ekki verið leidd rök að því að umrædd gjaldtaka hafi gengið lengra en að halda áfrýjanda skaðlausum af uppgreiðslunni. Á hinn bóginn hefur áfrýjandi vísað til þess að frá árinu 2004 hafi sjóðurinn fjármagnað sig með útgáfu óuppgreiðanlegra íbúðabréfa. Vextir af þeim hafi numið um 4,35% og það því endurspeglað fjármögnunarkostnað sjóðsins. Hafa stefndu hvorki mótmælt því né hnekkt útreikningum áfrýjanda á kostnaði hans vegna uppgreiðslu lánsins. Það fær enn fremur ekki staðist að áfrýjanda, á grundvelli þess einhliða inngrips í umsamda samningsskilmála sem gert er ráð fyrir í 2. mgr. 23. gr., sé ætluð rýmri heimild til gjaldtöku í því skyni en á grundvelli þess samnings um þóknun vegna uppgreiðslu sem aðilum er heimilt en ekki skylt að gera á grundvelli 3. mgr. 23. gr. 36. Að öllu framangreindu virtu verður hvorki á það fallist með stefndu að ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 1017/2005, sem breytti 15. gr. reglugerðar nr. 522/2004, né 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005 skorti fullnægjandi lagastoð samkvæmt 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998. 37. Stefndu byggja jafnframt á því að þau hafi ekki afsalað sér rétti til greiðslu lánsins án uppgreiðslugjalds, sbr. fyrirmæli 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998, og vísa um það til 2. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 522/2004 þar sem fram kemur að kjósi lántaki að afsala sér heimild til uppgreiðslu láns án sérstakrar þóknunar skuli hann undirrita yfirlýsingu þess efnis. Halda stefndu því fram að þau hafi ekki afsalað sér rétti til greiðslu án uppgreiðslugjalds með þeim hætti. Þá byggja stefndu á því að í fyrirsögn veðbréfsins sé sérstaklega vísað til laga nr. 57/2004, sem hafi aðeins falið í sér lögfestingu hinnar sérstöku heimildar 2. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998, en þar sé ekki vísað til laga nr. 120/2004 en með þeim hafi umrædd regla 3. mgr. verið lögleidd. Hafi undirritun þeirra á veðbréfið ekki uppfyllt framangreindan áskilnað og þau aðeins mátt vænta þess að vera að afsala sér rétti til greiðslu án uppgreiðslugjalds samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laganna. Enn fremur mótmæla stefndu því að þeim hafi í aðdraganda lántökunnar verið kynntir mismunandi möguleikar lántaka þar að lútandi og áfrýjandi veitt þeim slíkar upplýsingar. 38. Áfrýjandi upplýsti það við málflutning fyrir Hæstarétti að á umræddum tíma hefði verið sótt rafrænt um lán hjá sjóðnum. Umsækjendur hefðu fyrst þurft að standast greiðslumat en að því fengnu að sækja sérstaklega um lán. Ekki hefði verið boðið upp á aðra möguleika við lántökur en þó hefði verið unnt að leita aðstoðar starfsmanna sparisjóðanna við að fylla út viðeigandi umsóknir. Hefur áfrýjandi lagt fram útprentað umsóknareyðublað stefndu auk upplýsinga úr svokallaðri notendahandbók Íbúðalánasjóðs og af vefsíðu sjóðsins. Í síðarnefndu gögnunum er að finna nokkuð nákvæmar upplýsingar um þá mismunandi kosti sem lántakandi stóð frammi fyrir og fólust fyrst og fremst í því annars vegar að taka hefðbundið lán án uppgreiðslugjalds en með hærri vöxtum og hins vegar lán með lægri vöxtum gegn því að afsala sér rétti til uppgreiðslu án gjaldtöku. Stefndu hafa mótmælt því að þeim hafi verið kynnt umrædd gögn og sérstaklega aðspurður við flutning málsins fyrir Hæstarétti taldi lögmaður þeirra sig ekki geta svarað því hvernig þau stóðu nákvæmlega að því að sækja um lánið og hvort það hefði verið í samræmi við þá aðferð sem áfrýjandi lýsti. Gegn neitun stefndu verður ekki staðhæft að þeim hafi verið sérstaklega kynnt það efni sem unnt var að nálgast með rafrænum hætti. Hins vegar hefur ekki af þeirra hálfu verið upplýst um það með hvaða öðrum hætti en áfrýjandi hefur lýst þau undirgengust greiðslumat og sóttu um lánið. Verður því lagt til grundvallar niðurstöðu málsins að framangreind lánsumsókn stafi frá þeim. Af henni verður ráðið að einn þeirra þátta sem umsækjandi þurfti að taka afstöðu til laut að tegund láns og kemur þar fram að sótt sé um „Veðbréf með uppgreiðsluþóknun“. Í fyrirsögn veðbréfsins 10. apríl 2008 er sérstaklega tekið fram: „Án heimildar til uppgreiðslu eða aukaafborgunar nema gegn sérstakri þóknun.“ Þó svo að á sama stað sé eingöngu vísað til breytingarlaga nr. 57/2004 en ekki laga 120/2004 hlutu öll tvímæli um tilvist og tilhögun uppgreiðslugjalds að vera tekin af með fyrrgreindum 5. tölulið veðbréfsins. Þá var regla 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005 jafnframt tekin orðrétt upp í 6. tölulið bréfsins. Stefndu undirrituðu umrætt veðbréf með þessum skilmálum. Því verður ekki fallist á þann skilning þeirra að leggja beri þá bókstaflegu merkingu í 3. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 522/2004 að undirrita hafi þurft sérstaka yfirlýsingu þessa efnis til viðbótar undirritun veðsamningsins. Varð á þessu stigi ekki viðkomið frekari upplýsingagjöf en að tilvist og fjárhæð umsamins uppgreiðslugjalds réðist af ófyrirséðri vaxtaþróun sem hefði þannig úrslitaþýðingu fyrir tilvist og fjárhæð mögulegrar þóknunar sem greiða bæri ef til uppgreiðslu lánsins kæmi. Að þessu gættu verður á það fallist með áfrýjanda að stefndu hafi með fullnægjandi og bindandi hætti afsalað sér rétti til uppgreiðslu lánsins án greiðslu uppgreiðslugjalds, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998. 39. Stefndu hafa jafnframt byggt á því að ákvæði veðsamningsins 10. apríl 2008 verði ógilt á grundvelli meginreglu samningaréttar um ógildi ólögmætra gerninga eða heimilt sé að víkja ákvæðinu til hliðar á grundvelli 36. gr. og 36. gr. a–c laga nr. 7/1936 enda sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera það fyrir sig. 40. Um tilvísun stefndu til 36. gr. a–c laga nr. 7/1936 er þess að gæta að ákvæðið á rætur að rekja til þeirra breytinga sem gerðar voru á þeim lögum með lögum nr. 14/1995 sem sett voru til að innleiða hér á landi ákvæði tilskipunar ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar er tilgangur hennar að samræma lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkjanna um ósanngjarna skilmála í samningum milli atvinnurekenda og neytenda. Fram kemur í 1. og 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar að ákvæðum hennar sé ætlað að taka til skilmála í slíkum samningum sem ekki hefur sérstaklega verið samið um. Slíkir skilmálar teljist ósanngjarnir ef þeir stríða gegn góðum viðskiptaháttum og raska til muna jafnvægi milli samningsskyldna aðilanna neytanda í óhag. Á hinn bóginn er tekið fram í 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar að hún taki ekki til samningsskilmála sem endurspegli lög og bindandi stjórnsýslufyrirmæli. Þó svo að við lögfestingu fyrirmæla tilskipunarinnar með lögum nr. 14/1995 hafi ekki verið lögbundinn fyrirvari, sem svarar til fyrirmæla 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar, gildir hann allt að einu um samningsákvæði sem eigi sér samsvörun í ófrávíkjanlegri lagareglu, sbr. dóm Hæstaréttar 13. maí 2015 í máli nr. 160/2015. Hin umdeildu ákvæði 5. og 6. töluliða veðskuldabréfsins 10. apríl 2008 eru, svo sem rakið hefur verið, reist á fyrirmælum 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 og svo sem þau eru nánar útfærð í ákvæðum reglugerða nr. 522/2004 og 1016/2005. Hefur þegar verið komist að þeirri niðurstöðu að umrædd reglugerðarákvæði, sem meðal annars eru tekin upp í 6. tölulið bréfsins, eigi sér fullnægjandi lagastoð. Getur því hvorki komið til álita að þau verði metin ógild á grundvelli meginreglu samningaréttar um ógildi ólögmætra löggerninga né vikið til hliðar með vísan til 36. gr. a–c. laga nr. 7/1936. 41. Kemur þá að lokum til skoðunar hvort til greina komi að umþrættri skuldbindingu stefndu verði vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Í öllum meginatriðum eiga þá við sömu sjónarmið og rakin hafa verið enda verður ekki hróflað við samningsskuldbindingum sem eiga sér viðhlítandi lagastoð á grundvelli almennrar ógildingarreglu í hliðsettum lögum. Við mat á grundvelli 36. gr. laganna stendur það eitt eftir hvort að möguleiki lántakenda, þar með talið stefndu, til þess að velja á milli umræddra tveggja tegunda lána geti fallið undir gildissvið reglunnar. Getur það eitt og sér hvorki talist ósanngjarnt né andstætt góðri viðskiptavenju í skilningi 1. mgr. ákvæðisins. 42. Að frágenginni framangreindri niðurstöðu um takmarkað svigrúm til endurskoðunar hinna lögbundnu skilmála hafa stefndu byggt á því að sú vaxtalækkun sem varð og endurspeglast á sinn hátt í því að þóknun vegna uppgreiðslu nam 15,58% af uppgreiðsluverði veðbréfsins hafi falið í sér að þær forsendur sem byggt var á við lántökuna hafi verið algjörlega brostnar þegar þau greiddu lánið upp. Sýnast stefndu um þetta meðal annars vísa til þeirrar aðstöðu sem ráðgerð er í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 og felst í því að mat á grundvelli 1. mgr. greinarinnar geti tekið til síðar tilkominna atvika. Til þess er þá að líta að við lántökuna vorið 2008 gátu hvorki málsaðilar né aðrir séð fyrir hvernig vextir kæmu til með að þróast og er þá áréttað að lánið var til 40 ára. Standa ekki efni til þess að láta áfrýjanda fremur bera áhættuna þar af, en sem almennum neytendum mátti stefndu vera ljóst, meðal annars með tilliti til vaxtaþróunar fram til þess tíma, að útilokað væri til lengri tíma að spá fyrir um hana. Gátu vextir raunar hækkað frá því sem var við lántökuna og nutu stefndu þá þess ávinnings að búa við fasta lægri vexti og möguleikann á því að greiða lánið upp án nokkurs kostnaðar. Jafnframt skal áréttað að upphaflega höfðu stefndu kost á því að velja á milli þess láns sem þau tóku og hefðbundins láns með 0,25% hærri vöxtum og þá án þess að undirgangast kvaðir um uppgreiðslugjald. Þá áttu stefndu val um hvort og þá hvenær þau greiddu upp viðkomandi lán og hlaut slík ákvörðun þeirra að taka mið af tilteknum þáttum svo sem stöðu vaxta, líklegri vaxtaþróun og jafnframt mögulegum ávinningi þeirra af endurfjármögnun lánsins. 43. Samkvæmt öllu framangreindu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefndu. 44. Rétt þykir að að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum en um gjafsóknarkostnað stefndu hér fyrir dómi fer eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Áfrýjandi, ÍL-sjóður, er sýkn af kröfum stefndu, Erlu Stefánsdóttur og Finnbjarnar Barkar Ólafssonar. Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 1.500.000 krónur. https://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=6670fd5a-ac8d-4d3c-8f86-e0b224ca0aab
Mál nr. 20/2021
Kærumál Hæfi dómara
Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu X um að sérfróður meðdómsmaður viki sæti í máli Á gegn X.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. maí 2021, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 11. maí 2021, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að Jón Baldursson, sérfróður meðdómsmaður, viki sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í b-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. 3. Varnaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. 4. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Málsatvik 5. Í ákæru er varnaraðila gefið að sök að hafa laugardaginn 28. mars 2020 banað eiginkonu sinni með því að þrengja að hálsi hennar með þeim afleiðingum að hún lést af völdum köfnunar. Er háttsemin talin varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 6. Með dómi héraðsdóms var varnaraðili sakfelldur samkvæmt ákæru, en dóminum var áfrýjað til Landsréttar þar sem málið er til meðferðar. Þar hefur Jón Baldursson sérfræðingur í bráðalækningum verið kvaddur til setu í dóminum sem sérfróður meðdómsmaður. 7. Héraðsdóm skipuðu tveir embættisdómarar auk sérfróðs meðdómsmanns, Hjalta Más Björnssonar, sem mun starfa sem sérfræðilæknir á bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss. 8. Réttarmeinafræðingurinn A vann að krufningu á brotaþola í þágu rannsóknar málsins, en hann mun vera starfsmaður Landspítala-háskólasjúkrahúss. Niðurstöður réttarlæknisfræðilegrar rannsóknar hans bentu sterklega til þess að dánarorsök brotaþola hefði verið þrýstingur á háls með köfnun í kjölfarið. 9. Varnaraðili hefur dregið í efa að dánarorsök brotaþola sé sú sem í ákæru greinir og telur niðurstöðu réttarmeinafræðingsins í ýmsu áfátt. Varnaraðili telur meðal annars að allt eins líklegt sé að dánarorsök brotaþola hafi verið eitrunaráhrif vegna samverkandi áhrifa áfengis og slævandi lyfja. 10. Krafa varnaraðila um að hinn sérfróði meðdómsmaður víki sæti er á því byggð að annars vegar séu tengsl hans og réttarmeinafræðingsins A og hins vegar tengsl hans við Hjalta Má Björnsson sérfræðilækni ,,augljós og of mikil“ til þess að með réttu sé unnt að draga óhlutdrægni meðdómsmannsins í efa. Varnaraðili vísar til þess að hinn sérfróði meðdómsmaður sé fyrrverandi samstarfsmaður Hjalta Más á bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss og sé nú samstarfsmaður réttarmeinafræðingsins A. Þá hafi hinn sérfróði meðdómsmaður ritað fræðigrein með Hjalta Má sem birt hafi verið árið 2018. Enn fremur séu þeir allir starfsmenn Landspítala-háskólasjúkrahúss. Kröfu sína reisir varnaraðili á g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. 11. Af hálfu ákæruvalds er bent á að ekki liggi fyrir að milli hins sérfróða meðdómsmanns í héraði og þess sem tilkvaddur hefur verið til setu í dómi fyrir Landsrétti séu frekari eða nánari tengsl en milli samstarfsfélaga sem áður störfuðu á sama sviði og starfi nú báðir á stórum vinnustað. Hið sama eigi við um réttarmeinafræðinginn sem gert hafi réttarlæknisfræðilega rannsókn á brotaþola. Niðurstaða 12. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, ber öllum réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að fyrrnefndum lögum segir að skilyrðið um óhlutdrægan dómstól feli í sér áskilnað um að dómari í máli þurfi að vera hlutlaus og að aðilar njóti jafnræðis að því leyti. Verður ákvæðið skýrt í ljósi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um sama efni. 13. Samkvæmt g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 er dómari vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru atvik eða aðstæður sem fallnar eru til þess að draga megi óhlutdrægni hans með réttu í efa. Þegar mat er lagt á hæfi dómara til að fara með mál verður að gæta að því að tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er ekki einungis að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum máls og efni þess, heldur einnig að tryggja traust aðilanna jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari standi að úrlausn máls í tilviki þar sem réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans. 14. Því hefur ekki verið haldið fram af hálfu varnaraðila að hinn sérfróði meðdómsmaður Jón Baldursson sérfræðilæknir hafi vegna starfa sinna á sjúkrahúsinu komið að rannsókn þess máls sem hér er til úrlausnar. Þá er í greinargerð varnaraðila í engu getið atriða sem gætu gefið til kynna að frekari tengsl séu milli hins sérfróða meðdómsmanns og réttarmeinafræðingsins A en almennt má ætla að séu fyrir hendi milli starfsmanna á stórum vinnustað. Hið sama á við um tengsl milli meðdómsmannsins og sérfræðilæknisins Hjalta Más Björnssonar. Í þessu samhengi ræður ekki úrslitum um ætlað vanhæfi meðdómsmannsins þótt fyrir liggi að hann og Hjalti Már hafi ritað ásamt þriðja manni fræðigrein, ótengda máli þessu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 26. nóvember 2016 í máli nr. 792/2016, þar sem getið er um þá meginreglu um sjálfstæði dómara í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, að dómarar séu sjálfstæðir í dómstörfum og leysi þau af hendi á eigin ábyrgð, en við úrlausn máls fari þeir eingöngu eftir lögum og lúti þar aldrei boðvaldi annarra. 15. Samkvæmt framangreindu eru þær aðstæður sem hér hefur verið lýst ekki að réttu lagi til þess fallnar að draga megi í máli þessu í efa óhlutdrægni hins sérfróða meðdómsmanns. Þá hefur varnaraðili ekki bent á önnur atvik eða aðstæður sem geta verið til þess fallnar að draga megi óhlutdrægni hans í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. 16. Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=38d2fd8c-c25c-46ad-b28a-963d5ddb3276&verdictid=5bc2338c-168a-49c3-a339-a7e43d7ddf93
Mál nr. 2/2021
Samningur Húsaleiga Þjónustukaup Skaðabætur Málsástæða Gjafsókn
Í málinu kröfðust J og E viðurkenningar á bótaábyrgð G ehf. á tjóni sem varð í bruna í húsnæði þar sem J og E geymdu tilteknar eigur sínar á grundvelli samnings J við G ehf. Reistu þau kröfuna einkum á því að G ehf. ræki þjónustustarfsemi um geymslu á lausafjármunum samkvæmt lögum nr. 42/2000 um þjónustukaup. Með hliðsjón af ákvæðum samningsins, þar sem fram kom að J tæki á leigu tilgreinda, afmarkaða og aflokaða geymslu, og að G ehf. hefði ekki haft afskipti af því hvaða lausafjármunum J kaus að koma þar fyrir eða vitneskju um hvaða munir væru geymdir þar á hverjum tíma, var ekki fallist á með J að samningurinn hefði verið um geymslu lausafjármuna gegn endurgjaldi í skilningi 3. töluliðar 1. mgr. 1. gr. laga um þjónustukaup. Á hinn bóginn var talið að samningurinn félli undir gildissvið húsaleigulaga nr. 36/1994. Ekki kæmi því til álita að með honum hefði verið vikið frá ákvæðum þjónustukaupalaga neytendum í óhag andstætt fyrirmælum 3. gr. eða að ábyrgð yrði felld á G ehf. á grundvelli 25. og 26. gr. þeirra. Jafnframt var kröfu J um að víkja ákvæðum samningsins til hliðar á grundvelli ógildingarreglna samningaréttar hafnað. Þá var talið ósannað að tjón J og E yrði rakið til vanrækslu eða annars konar saknæmrar háttsemi G ehf. Var G ehf. því sýknað af kröfum J og E.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson. 2. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 12. janúar 2021. Þau krefjast aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms en til vara að viðurkennt verði að stefndi beri ábyrgð á tjóni þeirra sem varð í bruna 5. apríl 2018 í húsnæði sem stefndi hafði á leigu að Miðhrauni 4 í Garðabæ. Þá krefjast þau málskostnaðar á öllum dómstigum án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. 3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Ágreiningsefni 4. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort stefndi ber skaðabótaábyrgð á tjóni áfrýjenda sem varð í bruna 5. apríl 2018 í húsnæði að Miðhrauni 4 í Garðabæ þar sem áfrýjendur geymdu tilteknar eigur sínar á grundvelli samnings áfrýjandans Jóhanns við stefnda. Áfrýjendur byggja á því að stefndi reki þjónustustarfsemi um geymslu á lausafjármunum sem falli undir gildissvið laga nr. 42/2000 um þjónustukaup og því gildi reglur VI. kafla þeirra um tjón á eignum neytenda. Þá byggja þau ábyrgð stefnda á sakarreglu skaðabótaréttar. Stefndi telur hins vegar að samningurinn hafi verið leigusamningur um afnot af geymsluhúsnæði í skilningi húsaleigulaga nr. 36/1994, tjón áfrýjenda verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi hans og bótaábyrgð hans verði ekki fundin stoð í reglum skaðabótaréttar. 5. Með héraðsdómi 5. júní 2019 var stefndi sýknaður af kröfum áfrýjenda. Var niðurstaðan byggð á því að samningur aðila hefði fremur borið einkenni leigusamnings um afnot af húsnæði en samnings um kaup á geymsluþjónustu. Bótaábyrgð yrði því ekki reist á ákvæðum laga um þjónustukaup eða öðrum reglum um bótaábyrgð vörslumanns muna. Þá var tjón áfrýjenda ekki rakið til vanrækslu stefnda eða annars konar saknæmrar háttsemi hans. Í skilmálum samningsins kæmi auk þess fram að stefndi bæri ekki ábyrgð á þeim munum sem væru settir í geymslu heldur væri á ábyrgð leigutaka að tryggja þá ef hann svo kysi. Í ljósi þess að um leigusamning var að ræða milli aðila var ekki fallist á að víkja þessum skilmála til hliðar með vísan til ógildingarreglna samningaréttar enda væri hann í samræmi við gildandi reglur á þessu sviði. Áfrýjendur skutu málinu til Landsréttar sem með dómi 30. október 2020 staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með vísan til forsendna hans. 6. Áfrýjunarleyfi var veitt 12. janúar 2021, meðal annars á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um hvort geymsla á búslóð falli undir gildissvið laga um þjónustukaup eða húsaleigulaga. Málsatvik 7. Stefndi er einkahlutafélag stofnað árið 2014 og er tilgangur þess útleiga á sérhæfðu geymsluhúsnæði, almenn byggingarstarfsemi, kaup og rekstur fasteigna, lánastarfsemi og annar skyldur atvinnurekstur. Árið 2015 keypti stefndi rekstur samnefnds félags sem hafði frá árinu 2005 leigt út geymsluhúsnæði að Miðhrauni 4 í Garðabæ. Húsnæðið hafði félagið á leigu frá einkahlutafélaginu FF 11. Í auglýsingu stefnda um starfsemina var meðal annars tekið fram að þar væri fylgt ströngustu öryggiskröfum með tilliti til bruna, innbrota, vatnsleka og annarra þátta. Áfrýjendur geymdu ýmsar eigur sínar í geymsluhúsnæðinu á grundvelli samnings við stefnda, þar á meðal hluta búslóðar sinnar og aðra persónulega muni. Þessar eigur eyðilögðust að öllu leyti þegar eldur kom upp í húsinu 5. apríl 2018 og var það að mestu ónýtt eftir brunann. 8. Starfsemi stefnda byggðist á því að gera samning við hvern viðskiptavin um afnot af geymslu. Gerðu stefndi og áfrýjandinn Jóhann slíkan samning 14. desember 2015 undir yfirskriftinni „Húsaleigusamningur 40093 um geymslu G704 að Miðhrauni 4, 210 Garðabæ“, sem undirritaður var af áfrýjanda og fulltrúa stefnda. Þar kom fram að áfrýjandi tæki á leigu geymslu með tilteknu númeri og skyldi húsnæðið afhent samdægurs. Leigugreiðsla væri 18.107 krónur á mánuði, bundin byggingarvísitölu, og uppsagnarfrestur væri þrjátíu dagar. Við undirritun skyldi leigutaki greiða einn mánuð fyrir fram og annan mánuð fyrir fram sem greiðslutryggingu. Í lokaákvæði samningsins kom fram að leigutaki hefði móttekið og kynnt sér leiguskilmála stefnda frá 31. janúar 2013 sem væru hluti samningsins og samþykkti öll ákvæði þeirra. Tekið var fram að nýjustu útgáfu skilmálanna mætti nálgast á vefslóðinni www.geymslur.com/skilmalar.pdf. Umræddir skilmálar höfðu að geyma þrjátíu ákvæði og er efni þeirra ítarlega rakið í héraðsdómi. Nýir skilmálar voru gefnir út og birtir á vefslóð stefnda 31. desember 2017 með óverulegum breytingum sem ekki hafa þýðingu í máli þessu. 9. Á meðal almennra ákvæða í skilmálunum var grein 12 með yfirskriftinni „Leigutaki ber ábyrgð á að tryggja muni í geymslu“ sem hljóðaði svo: „Samningur þessi er húsaleigusamningur en ekki þjónustusamningur. Af því leiðir, meðal annars, að leigusali ber ekki ábyrgð á þeim munum sem eru settir í geymslu. Það er á ábyrgð leigutaka að tryggja munina ef hann svo kýs, t.d. með því að hafa samband við tryggingarfélag sitt og tilkynna að innbú eða eigur séu staðsettar í geymslunni.“ Þá var í grein 14 fjallað um það sem óheimilt væri að geyma í húsnæðinu, svo sem hættuleg eða eldfim efni. Í greinum 15 og 16 var lýst ástandi geymslunnar við afhendingu og ábyrgð leigutaka á skemmdum á húsnæðinu. Fjallað var um umgengni, notkun og framleigu í grein 17 og meðal annars tekið fram að leigutaka væri óheimilt að nota geymsluna sem lögheimili eða starfsstöð eða til annars en til geymslu muna og gagna. Í grein 22 kom fram að leigutaki ætti engar kröfur á leigusala ef „brunaviðvörunarkerfi, brunavarnir, aðgangsstýrikerfi, þjófavarnarkerfi, vatnsleka¬viðvörunarkerfi, vatnsúðakerfi, öryggismyndavélar, hreyfiskynjarar, meindýravarnir, vatnsleiðslur eða rafmagn bila eða virka ekki í samræmi við væntingar leigutaka“. Samkvæmt grein 23 hafði leigutaki aðgang að geymslunni á öllum tímum sólarhrings árið um kring og því lýst hvað leigutaki þyrfti að gera til að komast í geymsluna utan skrifstofutíma. 10. Eldsvoðinn 5. apríl 2018 kom upp í þeim hluta fasteignarinnar í Miðhrauni 4 sem var í eigu félagsins RA 6 ehf. og var aðliggjandi húsnæðinu þar sem starfsemi stefnda fór fram. Hafði sá hluti áður verið nýttur sem kvikmyndaver en frá árinu 2016 hafði einkahlutafélagið Drífa rekið þar starfsemi undir merkjum Icewear og nýtti húsnæðið meðal annars undir vörulager. Eldurinn breiddist hratt um allt húsið og tókst slökkviliði ekki að ráða niðurlögum hans fyrr en það var að mestu brunnið og mestallt innan húss. Í héraðsdómi er rakið efni minnisblaðs slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa Garðabæjar um eldsvoðann sem er meðal gagna málsins. Þar kom fram að þegar byggingarleyfi var samþykkt 28. september 2000 hefði verið fyrirhugað að nýta húsið sem iðnaðar- og geymsluhús og gert ráð fyrir vatnsúðakerfi í því öllu. Fallið hefði verið frá því síðar þegar fyrir lá að húsið yrði nýtt sem kvikmyndaver og undir geymslur og samþykkti byggingarfulltrúi breytingu á innra skipulagi hússins 14. nóvember 2003. Þar sem brunaálag hefði þá verið umtalsvert minna en gert hefði verið ráð fyrir hafi vatnsúðakerfi verið tekið út úr hönnun þess og í staðinn komið fyrir reyklúgum í þaki og eldvörn á burðarvirki. Þá kom fram að húsið hefði tvívegis verið skoðað af eldvarnaeftirliti, í janúar 2004 og í janúar 2015. Í síðara skiptið hefði skoðun aðeins lotið að þeim hluta húsnæðisins þar sem stefndi var með starfsemi sína. Gerðar hefðu verið smávægilegar athugasemdir við eldvarnir í báðum tilvikum en málum lokið með viðunandi hætti. Niðurstaðan í minnisblaðinu var að við fyrri notkun hússins sem kvikmyndavers hefði bruni af þessum toga aldrei verið mögulegur. Breytt notkun húsnæðisins fyrir mikið magn af hraðbrennanlegri vöru á lager Icewear án þess að brunavarnir hefðu verið uppfærðar með tilliti til þess hefði verið ástæða þess að svo fór sem fór. 11. Eftir að héraðsdómur gekk lauk Mannvirkjastofnun ítarlegri skýrslu um brunann í Miðhrauni 4. Skýrslan er dagsett 29. nóvember 2019 og var lögð fram af hálfu áfrýjenda við meðferð málsins fyrir Landsrétti. Um eldsupptök kom fram að líklega hafi kviknað í út frá rafmagni neðarlega á suðurvegg í lagerrými Icewear sem sneri að húsnæði stefnda og eldur komist í varning sem þar var. Helsta orsök þess að bruninn varð svo mikill og byggingin eyðilagðist var að brunaálag í miðrými þess, þar sem vörulager Icewear var staðsettur, hafi verið langt yfir þeim mörkum sem hentaði byggingunni. Þannig hefði brunahraðinn í brennanlegum varningi í hillum sem náðu upp undir þak verið mikill og rýmið orðið alelda á mjög skömmum tíma. Eina lausnin við svo mikið brunaálag hefði verið vatnsúðakerfi fyrir háa áhættu ásamt vatnsúðakerfi í allar hillur. Eðlilegt hefði verið að setja slík kerfi upp þegar breytingar urðu á notkun hússins. Hefðu eigandi og forráðamaður húsnæðisins átt að gera sér fulla grein fyrir auknu brunaálagi vegna geymslurýmis Icewear. Þá kom fram að engin brunahönnun hefði verið fyrir suðurhluta byggingarinnar, sem er það rými sem starfsemi stefnda var í. 12. Stefndi var með frjálsa ábyrgðartryggingu hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vegna starfsemi í Miðhrauni 4 og á þremur öðrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt d-lið greinar 6 í skilmálum tryggingarinnar var tjón vegna skemmda á munum sem hlytist af eldsvoða undanskilið. Samkvæmt gögnum málsins hafði áfrýjandinn Elfa innbústryggingu hjá Verði tryggingum hf. og 25. apríl 2018 fékk hún greiddar 1.968.861 krónu í samkomulagsbætur frá tryggingafélaginu vegna altjóns á þeim hluta búslóðar áfrýjenda sem var í geymslunni. Fram kom í stefnu til héraðsdóms að samkomulag hefði orðið um að félagið greiddi áfrýjendum 15% af hámarksbótum fyrir innbú samkvæmt innbústryggingu en að áfrýjendur teldu tjón sitt mun meira. Niðurstaða Krafa um ómerkingu 13. Áfrýjendur byggja kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms einkum á því Landsréttur hafi enga afstöðu tekið til upplýsinga í fyrrgreindri skýrslu Mannvirkjastofnunar. Þar komi fram að engin eiginleg brunahönnun hafi verið gerð í því svæði hússins sem stefndi hafði á leigu og nýtti undir starfsemi sína og að vatnsúðakerfi hefði þurft að vera þar. Auk þess segi þar að stefndi hafi ekki óskað eftir lokaúttekt byggingarfulltrúa þegar húsnæðið var tekið í notkun. Loks hafi engin umfjöllun verið í dómi Landsréttar um þýðingu þess að aðgangur áfrýjenda að geymsluhúsnæðinu var takmarkaður. Um sé að ræða ágalla á dóminum sem leiði eigi til ómerkingar hans og heimvísunar málsins. 14. Við meðferð málsins fyrir Landsrétti lögðu áfrýjendur fram ný gögn þar á meðal skýrslu Mannvirkjastofnunar og upplýsingar af heimasíðu stefnda og forvera hans um opnunartíma geymsluhúsnæðis að Miðhrauni 4 eins og þær birtust á vefsíðu fyrirtækisins 2. nóvember 2005, 10. október 2015 og 29. febrúar 2016. Við meðferð málsins í Landsrétti lágu þessi gögn fyrir, ásamt öðrum gögnum, til grundvallar niðurstöðu réttarins um sakarefni málsins, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sú skylda hvílir ekki á Landsrétti að taka með rökstuddum hætti afstöðu til nýrra gagna fyrir réttinum umfram það sem úrlausn málsins krefst. Verður ekki fallist á að slíkir annmarkar hafi verið á samningu dóms Landsréttar að fallast beri á kröfu áfrýjenda um ómerkingu dómsins, sbr. 3. og 4. mgr. 164. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt framansögðu verður kröfu áfrýjenda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms hafnað. Um gildissvið laga um þjónustukaup og húsaleigulaga 15. Dómkröfur áfrýjenda um að viðurkennt verði að stefndi beri ábyrgð á tjóni þeirra eru reistar á því að stefndi hafi rekið geymsluþjónustu á grundvelli laga um þjónustukaup. Í 3. tölulið 1. mgr. 1. gr. komi fram að þau taki til hvers kyns samninga um kaup á þjónustu við neytendur um geymslu á lausafjármunum. Í lögskýringargögnum sé í þessu tilliti sérstaklega tekið fram að undir þetta falli búslóðageymsla. Viðskiptavinir stefnda hafi að mestu verið einstaklingar sem hafi geymt lausafé í þessum geymslum og stefndi hafi haft af þessu atvinnu gegn endurgjaldi fyrir þjónustuna. Stefndi hafi sýnt af sér vanrækslu við brunavarnir húsnæðisins og beri að bæta áfrýjendum tjón sem af því hafi hlotist samkvæmt 25. gr. laganna en ella beri hann hlutlæga ábyrgð samkvæmt 26. gr. þeirra. Verði litið svo á að samningur aðila sé húsaleigusamningur í skilningi húsaleigulaga eigi að víkja honum til hliðar enda sé óheimilt að víkja frá lögum um þjónustukaup neytendum í óhag og einnig sé rétt að horfa til ógildingarreglna 36. gr., sbr. 36. gr. a- til c-liða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. 16. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að samningur við áfrýjandann Jóhann hafi verið gerður á grundvelli húsaleigulaga og uppfylli öll skilyrði sem rakin eru í ákvæðum þeirra. Bótareglur laga um þjónustukaup eigi því ekki við í málinu. Samningurinn hafi lotið að afnotum áfrýjanda af tilteknu húsnæði en ekki geymslu muna fyrir hann og hafi stefndi aldrei veitt nokkrum hlut viðtöku. Ekki hafi verið greitt gjald fyrir geymslu á tilgreindum munum heldur leigugjald fyrir húsnæði og hefði stefndi enga vitneskju haft um hvað áfrýjandi myndi geyma þar. Þá hafnar stefndi því að tjón áfrýjenda megi rekja til vanrækslu eða annarrar saknæmrar háttsemi hans. Húsnæðið sem hann leigði að Miðhrauni 4 hefði uppfyllt öll skilyrði laga og reglna um brunavarnir og hann hefði ekkert getað aðhafst til að afstýra brunanum sem kom upp í aðliggjandi húsnæði. Loks standi engin haldbær rök til þess að víkja samningi aðila til hliðar á grundvelli laga nr. 7/1936, enda hafi áfrýjendur hvorki bent á nein samningsákvæði sem teljist ósanngjörn né rökstutt í hverju meint ósanngirni sé fólgin. 17. Við úrlausn um réttindi og skyldur aðila framangreinds samnings ber fyrst að líta til þess að stefndi var einungis í samningssambandi við áfrýjandann Jóhann en ekki áfrýjandann Elfu. Af þeirri ástæðu getur hún ekki átt aðild til sóknar að þeim þætti málsins sem snýr að kröfum á grundvelli samningsins án tillits til þess hvaða lög eiga við um hann. Á hinn bóginn er ágreiningslaust að umræddir lausafjármunir voru í eigu beggja áfrýjenda og getur krafa hennar því aðeins komið til úrlausnar verði ábyrgð stefnda á eignatjóninu byggð á almennum reglum skaðabótaréttar. 18. Sem fyrr greinir bar samningur aðila yfirskriftina „Húsaleigusamningur 40093 um geymslu G704 að Miðhrauni 4…“. Jafnframt kom fram í grein 12 í skilmálum með honum að samningurinn væri húsaleigusamningur en ekki þjónustusamningur. Heiti skjalsins eða framangreint ákvæði í skilmálum ræður þó ekki úrslitum. Verður þannig að meta heildstætt efni hans og eðli þeirra samningsskyldna sem í honum fólust til að leysa úr hvort um var að ræða þjónustukaup í skilningi laga þar um sem óheimilt er að víkja frá með samningi, sbr. 3. gr. laganna, fremur en leigusamning um afnot af húsnæði samkvæmt húsaleigulögum. 19. Samkvæmt 1. gr. laga um þjónustukaup taka þau til hvers kyns samninga um kaup á þjónustu sem veitt er neytendum í atvinnuskyni gegn endurgjaldi og er í 3. tölulið 1. mgr. tilgreint að þjónusta geti falið í sér geymslu á lausafjármunum. Í almennum athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til umræddra laga kom fram að ákvæðum þess væri meðal annars ætlað að ná til nýrra þjónustugreina sem hefðu bæst við á seinni árum, eins og geymslu á lausafjármunum þar sem engin eiginleg vinna væri tengd hlutunum, til dæmis búslóðageymsla og frystigeymslur. Þá kom fram í skýringum við fyrrgreindan 3. tölulið að ákvæðinu væri ætlað að taka til þjónustustarfsemi sem eingöngu fælist í því að taka hluti til geymslu. Sem dæmi um þjónustu sem þar gæti fallið undir væri búslóðageymsla, en einnig voru tekin dæmi um aðra lausafjármuni svo sem geymslu fatnaðar á hótelum og veitingastöðum enda kæmi endurgjald fyrir. Verður í ljósi lögskýringargagna að skýra ákvæðið svo að með geymslu sé vísað til þess að umráð lausafjármuna færist frá eiganda til seljanda þjónustu. Þannig séu munir teknir til geymslu þegar þeir eru afhentir þeim sem þjónustuna veitir eða hann leggi til rými í geymsluhúsi eða vöruskála fyrir muni sem hann veitir viðtöku. Það getur til dæmis átt við um búslóð sem komið er fyrir í geymslu á vörubretti ásamt öðrum munum í opnu húsrými sem seljandi geymsluþjónustu hefur umráð yfir. Þessi skýring sækir einnig stoð til orðalags 25. og 26. gr. laganna sem mæla fyrir um ábyrgð seljanda þjónustu á tjóni á hlut sem honum hefur verið afhentur. 20. Í máli þessu verður fyrst að líta til skýrra ákvæða í texta samningsins þar sem fram kemur að áfrýjandinn Jóhann tók á leigu tilgreinda, afmarkaða og aflokaða geymslu. Samkvæmt samningnum fékk hann umráð geymslunnar eftir að hafa skoðað húsnæðið og undirritað samninginn ásamt yfirlýsingu um að hafa kynnt sér skilmála með honum. Að öðru leyti hafði stefndi ekki frekari afskipti af því hvaða lausafjármuni áfrýjandi kaus að koma fyrir og geyma í húsnæðinu eða vitneskju um hvaða munir væru geymdir þar á hverjum tíma. 21. Áfrýjandi hafði samkvæmt grein 23 í samningsskilmálum aðgang að geymslunni á öllum tímum sólarhrings með lyklum að útidyrum og öryggisnúmeri á öryggiskerfi sem nota skyldi utan skrifstofutíma stefnda. Þá er því lýst í stefnu að áfrýjandinn Elfa hafi fengið aðgang að geymslunni í gegnum rafræn skilríki. Það gefur til kynna að aðgangur áfrýjenda að geymslunni hafi verið opinn án tillits til auglýsts afgreiðslutíma. Ekki verður séð að skjáskot sem áfrýjandi hefur lagt fram af vefsíðu stefnda 10. október 2015, tveimur mánuðum áður en aðilar gerðu samninginn, þar sem fram kemur að sólahringsaðgangur að geymsluhúsnæði að Miðhrauni 4 sé „væntanlegur í náinni framtíð“ hafi þýðingu í þessu sambandi eða önnur skjáskot af vefsíðu þar sem lýst er tilgreindum opnunartímum. Þá eru ekki komin fram önnur gögn sem hnekkja framangreindu ákvæði skilmálanna um að geymslan hefði verið aðgengileg leigutaka allan sólarhringinn. Þess utan ræður ekki úrslitum við mat á því hvort um var að ræða leigusamning hvort aðgangur leigutaka að húsnæðinu hafi að einhverju leyti verið takmarkaður. 22. Þegar framangreint er virt verður ekki fallist á þá meginmálsástæðu áfrýjandans Jóhanns að samningur hans við stefnda hafi verið um geymslu lausafjármuna gegn endurgjaldi í skilningi 3. töluliðar 1. mgr. 1. gr. laga um þjónustukaup. Kemur því ekki til álita að með honum hafi verið vikið frá ákvæðum laganna neytendum í óhag andstætt fyrirmælum 3. gr. eða að ábyrgð verði felld á stefnda á grundvelli 25. og 26. gr. þeirra. Það breytir ekki þeirri niðurstöðu að útleiga stefnda á geymsluhúsnæði var þáttur í atvinnustarfsemi hans sem boðin var neytendum en um slíka starfsemi verður að líta til réttarreglna sem almennt gilda um útleigu húsnæðis. 23. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. húsaleigulaga gilda þau um leigusamninga um afnot af húsnæði eða hluta af húsnæði gegn endurgjaldi, en með leigusamningi í þessum skilningi er almennt átt við gagnkvæman samning þar sem leigusali heimilar öðrum aðila afnot tiltekins húsnæðis gegn endurgjaldi sem er að jafnaði tilgreint í peningum, svo sem með greiðslu tiltekinnar fjárhæðar í hverjum mánuði. Þegar samningur aðila var gerður árið 2015 voru lögin talin ná jafnt til íbúðar- og atvinnuhúsnæðis svo og annars húsnæðis. Sérstakri tilvísun til þess síðastnefnda var síðar bætt inn í 3. mgr. 1. gr. með lögum nr. 63/2016. Í 7. mgr. sömu greinar (nú 4. mgr.) kom fram að samningar um tilgreind afnot húsnæðis væru undanskilin gildissviði laganna, þar á meðal um skammtímaleigu á geymsluhúsnæði þegar leigugjald væri miðað við viku, sólarhring eða skemmri tíma. Þá kom fram í 8. mgr. (nú 4. mgr.) að lögin giltu ekki um samninga um afnot húsnæðis sem sérreglur giltu um samkvæmt öðrum lögum. Loks verður ráðið af 1. tölulið 1. mgr. 56. gr. laganna að þeim sé ætlað að ná til ótímabundins leigusamnings á geymsluskúrum og „þess háttar húsnæðis til hvers sem það er notað“ og mælt fyrir um að uppsagnarfrestur slíks samnings skuli vera einn mánuður. 24. Ljóst er að samningur áfrýjandans Jóhanns og stefnda laut að afnotum tilgreinds húsnæðis, annars en íbúðar- eða atvinnuhúsnæðis. Umræddur samningur var ótímabundinn, með fastri fjárhæð mánaðarlegrar leigugreiðslu, með ákvæði um uppsagnarfrest, að lágmarki einn mánuður, og greiðslutryggingu leigutaka auk þess sem honum fylgdu frekari skilmálar sem leigutaki kynnti sér. Ekki verður fallist á að sérreglur hafi gilt samkvæmt lögum um leigu á geymsluhúsnæði, eins og áfrýjendur halda fram, enda gilda lög um þjónustukaup ekki um starfsemi sem felst í því að leigja út húsnæði og geta því ekki talist sérlög í skilningi húsaleigulaga. Af þessu leiðir að umræddur leigusamningur sem laut aðeins að afnotum hins leigða fellur undir gildissvið húsaleigulaga og ber að skýra réttarstöðu aðila málsins í því ljósi. Ógildingarreglur samningaréttar 25. Af hálfu áfrýjanda er byggt á því að víkja beri samningi aðila til hliðar á grundvelli 36. gr., sbr. 36. gr. a- til c-liða laga nr. 7/1936. Vísar hann einkum til skilmála húsaleigusamninga stefnda um að leigusali beri ekki ábyrgð á þeim munum sem settir væru í geymslu og að leigutakar beri ábyrgð á að tryggja muni sína. Hann hafi verið í viðskiptum við stefnda sem neytandi og keypt þjónustu hans gegn gjaldi sem stefndi hafi ákveðið einn á sínum forsendum. Markmið breytinga á lögum nr. 7/1936 með lögum nr. 14/1995 hafi verið að auka við rétt neytenda og vernda þá gegn ósanngjörnum samningsskilmálum. Þannig hafi dómstólar fengið víðtækari heimildir til að leiðrétta ósanngjarna samninga, einkum skilmála sem voru fyrirfram samdir einhliða, en það eigi við um leigusamning hans við stefnda. 26. Samkvæmt 11. gr. húsaleigulaga gilda ákvæði laga nr. 7/1936 um heimild til að víkja húsaleigusamningi til hliðar í heild eða að hluta eða til að breyta honum ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Áfrýjendur hafa hvorki tilgreint frekar en að framan greinir á hvaða grundvelli skilmálar leigusamningsins teljast vera ósanngjarnir né rökstutt hvernig sjónarmið um ósanngirni sem rakin eru í 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi við um samninginn. Leigusamningur áfrýjandans Jóhanns við stefnda var einfaldur að gerð en í honum var vísað til skilmála stefnda 31. janúar 2013 og tekið fram að leigutaki hefði móttekið og kynnt sér þá og samþykkt efni þeirra. Verður að telja að áfrýjendum hafi við þessar aðstæður staðið nær að kynna sér efni þeirra skilmála sem giltu um samningssamband þeirra, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 18. desember 2003 í máli nr. 297/2003 sem birtur var í dómasafni réttarins það ár á bls. 4674. 27. Þótt skilmálar leigusamningsins hafi verið samdir af stefnda leiðir það eitt og sér ekki til þess að samningur teljist ósanngjarn, en áfrýjandinn Jóhann hefur í þeim efnum ekki sýnt fram á að sá hluti skilmála stefnda sem hér reynir á sé andstæður samningsskilmálum sem almennt eru notaðir í viðskiptum sem þessum. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að samningurinn fari gegn ákvæðum II. kafla húsaleigulaga um efni leigusamninga sem meðal annars hafa það markmið að vernda rétt leigjenda. Verður kröfu áfrýjanda um að víkja samningi aðila til hliðar því hafnað. Um bótaábyrgð vegna tjóns áfrýjenda 28. Í húsaleigulögum er ekki almennt ákvæði um skaðabótaskyldu aðila leigusamnings vegna tjóns sem verður í leiguhúsnæði. Samkvæmt skilmála með leigusamningi aðila í grein 12, sem fyrr var lýst, ber leigusali ekki ábyrgð á þeim munum sem settir eru í geymslu og það er á ábyrgð leigutaka að tryggja munina kjósi hann svo. Verður ábyrgð stefnda því ekki reist á ákvæðum samningsins. Allt að einu verður að líta til þess hvort stefndi ber skaðabótaábyrgð á eignatjóni áfrýjenda á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttarins. 29. Af hálfu áfrýjenda er því haldið fram að tjón þeirra verði rakið til saknæmrar háttsemi stefnda. Hann hafi vanrækt þá skyldu sína að sjá til þess að brunavarnir væru í lagi. Vísa áfrýjendur til auglýsinga um starfsemi stefnda þar sem fram hefði komið að fylgt væri ströngustu öryggiskröfum með tilliti til bruna, innbrota og vatnsleka. Vatnsúðakerfi sem upphaflega átti að vera í húsinu hafi ekki verið sett upp og í skýrslu Mannvirkjastofnunar hafi komið fram að engin brunahönnun hafi verið til staðar í þeim hluta hússins sem stefndi hafði á leigu fyrir starfsemi sína. Þá hafi stefndi kosið að hafa starfsemi sína í fjöleignarhúsi og því falli ábyrgð á hann sem leigutaka húsnæðisins samkvæmt 1., 6. og 8. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. 30. Í héraðsdómi var sú ályktun dregin af gögnum málsins, þar á meðal minnisblaði slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa og skýrslum þeirra fyrir dómi, að brunavarnir í húsnæði stefnda hefðu verið í samræmi við það sem tíðkaðist um slíka starfsemi og ekki hefðu verið gerðar athugasemdir þar um eftir skoðun eldvarnareftirlits. Í skýrslu Mannvirkjastofnunar kemur ekkert fram sem breytir þeirri niðurstöðu jafnvel þótt þar sé tekið fram að ekki hafi verið fyrir hendi sérstök brunahönnun í því húsnæði sem stefndi hafði á leigu undir starfsemi sína. Verður hvorki séð að stefnda hafi sem leigutaka verið skylt að setja upp vatnsúðakerfi né heldur að slíkt kerfi í þeim hluta hússins þar sem hann hafði starfsemi sína hefði getið stöðvað hraða útbreiðslu eldsins. 31. Skýrslan fjallar að mestu um brunavarnir í miðrými hússins þar sem eldurinn kom upp og er rakið hvernig brunaálag þar hefði gjörbreyst þegar notkun þess var breytt í lagerhúsnæði og farið langt yfir þau mörk sem hentaði byggingunni. Niðurstöðu skýrslunnar um að rétt hefði verið að setja upp vatnsúðakerfi fyrir mikla áhættu í miðrými hússins á þeim tíma sem það var tekið undir vörulager verður að skilja svo að hún hafi beinst að eiganda og forráðamanni þess húsnæðis sem hefðu átt að gera sér fulla grein fyrir auknu brunaálagi við þá breytingu. Verður því fallist á niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var með hinum áfrýjaða dómi, að ósannað sé að tjón áfrýjenda verði rakið til vanrækslu stefnda eða annarrar saknæmrar háttsemi hans sem leigutaka í aðliggjandi rými hússins. 32. Málsástæðum áfrýjenda sem lúta að því að stefndi hafi borið skyldur á grundvelli laga um fjöleignarhús var fyrst teflt fram við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Komast þær því ekki að við úrlausn málsins enda standa ekki til þess lagaskilyrði 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991. 33. Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. 34. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður en um gjafsóknarkostnað áfrýjenda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda, Jóhanns Konráðs Birgissonar og Elfu Hannesdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 1.000.000 króna. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?Id=876f4621-3c7e-4369-92f2-15cfdc17f093
Mál nr. 40/2020
Brot í opinberu starfi Persónuvernd Friðhelgi einkalífs Refsiheimild Málshraði
K var sakfelld fyrir brot gegn 139. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í opinberu starfi sínu sem landamæravörður ítrekað flett upp tveimur tilgreindum einstaklingum í LÖKE-lögreglukerfinu og skoðað þar upplýsingar um þau og lögreglumál þeim tengd án þess að uppflettingarnar hefðu tengst starfi hennar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að K hefði misnotað sér stöðu sína sem opinber starfsmaður og hallað réttindum þeirra sem upplýsingaöflunin hefði beinst að. Ásetningur hennar hefði staðið til þess að afla sér upplýsinga um tilgreinda einstaklinga og þannig misnota sér aðstöðu sína og skipti þá að öðru leyti engu hvort hún hefði um leið búið yfir ásetningi til þess að brjóta með þeirri háttsemi gagngert gegn réttindum einstakra manna samkvæmt 139. gr. almennra hegningarlaga. Var K gert að greiða 100.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins en sæta ella átta daga fangelsi í stað sektarinnar.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. nóvember 2020 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms. 3. Ákærða krefst þess að hún verði sýknuð af kröfum ákæruvaldsins. Ágreiningsefni 4. Með ákæru héraðssaksóknara 31. júlí 2017 var ákærðu gefið að sök brot í opinberu starfi sem landamæravörður með því að hafa á tímabilinu 17. september 2015 til 21. mars 2016 ítrekað flett upp málum í LÖKE-lögreglukerfinu tengdum A, fyrrverandi unnusta ákærðu og B sem ákærða hafði átt í samskiptum við vegna lögreglumáls og skoðað þar upplýsingar um þau og lögreglumál þeim tengd án þess að uppflettingarnar tengdust starfi hennar sem landamæravörður. Hún hefði þannig misnotað stöðu sína með þeim afleiðingum að hallaði á réttindi A og B. Í ákæru eru tilgreindar uppflettingar í 60 málum sem tengdust fyrrgreindum einstaklingum. Háttsemi ákærðu var talin varða við 139. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 5. Ákærða var sakfelld í samræmi við ákæru með héraðsdómi 31. janúar 2019 og refsing hennar ákveðin 100.000 króna sekt í ríkissjóð. Með dómi Landsréttar 23. október 2020 var héraðsdómur staðfestur. 6. Með ákvörðun Hæstaréttar 26. nóvember 2020 var veitt leyfi til að áfrýja málinu til réttarins. Í ákvörðuninni sagði að líta yrði svo á að úrlausn um beitingu 139. gr. almennra hegningarlaga í málinu myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Málsatvik 7. Ákærða gegndi starfi sem landamæravörður hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum þegar atvik þau sem ákæra lýtur að áttu sér stað. Í starfslýsingu, dagsettri 22. maí 2015, sem hún undirritaði kemur fram að hún sé opinber starfsmaður og starfsheiti hennar landamæravörður. Um helstu viðfangsefni er vísað til 14. töluliðar 3. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1212/2007 um för yfir landamæri þar sem fram kemur að landamæravörður sé lögreglumaður eða annar opinber starfsmaður sem framfylgi reglum um landamæraeftirlit og landamæragæslu við landamærastöð eða landamæri. Meðal meginstarfsskyldna sé að sinna fyrsta stigs landamæraeftirliti undir stjórn lögreglu, aðstoða lögreglu við skráningu á málum sem varði flugstöðvardeild í lögreglukerfið og framlenging vegabréfa. Í starfslýsingunni er einnig kveðið á um að framfylgja skuli reglum og fyrirmælum er varði för fólks yfir landamæri, aðstoða lögreglu við skráningu í svokallað G-kerfi og fleira. Um ábyrgð í starfi er svo meðal annars vísað til þess að starfsmanni beri að fylgja eftir farþegalistagreiningu og upplýsa yfirmenn sína um óvenjulega eða alvarlega atburði og sérlega vandasöm mál. 8. Ákærða ritaði undir yfirlýsingu 6. maí 2014 um að hafa kynnt sér reglur ríkislögreglustjóra um aðgang að landskerfum lögreglunnar sem og um þagnarskyldu. Þar kom fram að hún hefði meðal annars kynnt sér reglur um aðgang að landskerfum lögreglu, lagagreinar varðandi þagnarskyldu um það sem hún kynni að verða áskynja um í starfinu og ákvæði um refsiábyrgð fyrir brot á þagnarskyldu. Einnig lýsti hún því yfir að hún gerði sér grein fyrir að hún gæti í starfi sínu meðal annars komist að viðkvæmum persónuupplýsingum sem vörðuðu einkamál almennra borgara og að refsiábyrgð lægi við broti á þagnarskyldu. 9. Í yfirlýsingunni er kafli um aðgang að landskerfum lögreglu þar sem fram kemur að aðgangur starfsmanna að þeim skuli aldrei vera meiri en störf þeirra krefjist hverju sinni. Engum skuli veittur aðgangur að landskerfum lögreglunnar nema viðkomandi hafi ritað undir yfirlýsingu um að hafa kynnt sér reglur um aðgang að þeim. Í yfirlýsingunni er einnig tekinn upp kafli úr reglum ríkislögreglustjóra þar sem meðal annars kemur fram að notendum sé óheimilt að veita óviðkomandi aðilum upplýsingar úr landskerfum lögreglunnar eða gera fyrirspurnir um mál eða einstaklinga ef þær tengist ekki málum sem þeir vinni við eða þurfi á að halda í þágu starfa sinna. Starfsmaður sem geri fyrirspurn í landskerfi geti búist við því síðar að verða spurður um ástæður hennar. Einnig segir þar að óheimilt sé að nýta upplýsingar úr landskerfunum í eigin þágu eða veita upplýsingar úr þeim til óviðkomandi aðila utan lögreglu. 10. Í umræddri yfirlýsingu er jafnframt sérstakur kafli um þagnarskyldu. Þar segir að lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, lögreglulög nr. 90/1996 og almenn hegningarlög hafi öll að geyma ákvæði sem mæli fyrir um að þeir sem umgangist ákveðnar upplýsingar séu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir kunni að verða áskynja um í starfi sínu og sumum þessum lagaákvæðum fylgi refsiheimildir. Þar eru einnig birt ákvæði 22. gr. lögreglulaga, 91., 92., 136. og 230 gr. almennra hegningarlaga sem og 18. gr. laga nr. 70/1996. Málsmeðferð 11. Vegna ábendinga til lögreglu um miðjan aprílmánuð 2016 hófst rannsókn á uppflettingum ákærðu og var máli hennar vísað til héraðssaksóknara með bréfi lögreglustjórans á Suðurnesjum 28. apríl 2016. Ákærða gaf skýrslu hjá héraðssaksóknara 18. júlí sama ár. Við skýrslugjöfina viðurkenndi hún að hafa margítrekað flett upp og skoðað mál í lögreglukerfinu sem ekki tengdust starfinu og kvaðst hún hafa gert það fyrir forvitni sakir. Í nokkrum tilvikum hefði hún þó verið að afla sér upplýsinga um aðila sem hún hefði óttast. Hún kvaðst ekki hafa miðlað þeim upplýsingum sem hún komst yfir með þessum hætti til annarra. 12. Hinn 31. júlí 2017 gaf héraðssaksóknari út ákæru á hendur ákærðu og var sakamál þingfest fyrir héraðsdómi 4. október 2017. Í þinghaldi 19. sama mánaðar var bókað eftir ákærðu að hún viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sek um þá háttsemi sem henni var gefin að sök. Með dómi héraðsdóms 30. nóvember 2017 var ákærða sakfelld fyrir háttsemina og gert að greiða 100.000 króna sekt auk sakarkostnaðar. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar 28. desember sama ár. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 49/2016, sbr. 76. gr. laga nr. 117/2016 og 4. gr. laga nr. 53/2017, leysti Landsréttur úr málinu á áfrýjunarstigi, en þangað bárust gögn málsins 5. janúar 2018. 13. Með dómi Landsréttar 11. maí 2018 var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar á ný. Ástæðan var að játning ákærðu hefði ekki verið skýlaus í skilningi 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 þar sem hún hefði ekki játað að hafa hallað réttindum einstakra manna eða hins opinbera þótt hún hefði játað að hafa flett upp í málum í LÖKE-lögreglukerfinu án þess að það tengdist starfi hennar sem landamæravörður. 14. Eins og rakið hefur verið var ákærða sakfelld í samræmi við ákæru með nýjum héraðsdómi 31. janúar 2019 og var sá dómur staðfestur með hinum áfrýjaða dómi. Ákærða viðurkennir að hafa flett upp þeim einstaklingum sem tilgreindir eru í ákæru og skoðað þar upplýsingar um þá og lögreglumál þeim tengd án þess að það tengdist starfi hennar. Ákærða neitar því hins vegar að með þessu athæfi hafi hún misnotað stöðu sína með þeim afleiðingum að hallaði á réttindi þeirra. Með vísan til þess neitar hún sök í málinu. Um sókn og vörn málsins 15. Í ákæru er háttsemi ákærðu heimfærð til 139. gr. almennra hegningarlaga sem heyrir undir XIV. kafla laganna sem tekur til brota í opinberu starfi. Í tilvitnuðu ákvæði er kveðið á um að hafi opinber starfsmaður, í öðrum tilvikum en lýst er að öðru leyti í fyrrnefndum kafla laganna, misnotað stöðu sína, sér eða öðrum til ávinnings eða til þess að gera nokkuð það sem hallar réttindum einstakra manna eða hins opinbera, varði það sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Ekki nýtur við neinna lögskýringargagna um skýringu ákvæðisins í athugasemdum við greinargerð að frumvarpi með lögunum, að öðru leyti en því að það sé efnislega samhljóða 142. gr. almennra hegningarlaga frá árinu 1869, sem voru fyrstu heildstæðu refsilögin hér á landi, en í athugasemdum við greinargerð með frumvarpi að þeim lögum nýtur heldur engra lögskýringargagna við um skýringu ákvæðisins. 16. Af hálfu ákæruvalds er á því byggt að ákærða hafi hallað réttindum þeirra sem hún fletti upp til að njóta verndar varðandi persónuupplýsingar um þá og hallað rétti þeirra til að vinnsla upplýsinganna og notkun þeirra væri í samræmi við tilganginn með geymslu þeirra og söfnun. Í tilvikum þeim sem ákæra lýtur að hafi ákærða ekki flett upp þeim einstaklingum sem þar greinir í lögmætum tilgangi vegna starfs síns heldur hafi persónuleg forvitni ráðið för. Í þessu sambandi skipti afstaða þeirra sem flett var upp engu máli enda hvíli söfnun upplýsinga þeirra sem um ræðir og vinnsla þeirra á lögum og sé ekki háð samþykki þeirra sem hlut eigi. 17. Ákærða byggir, eins og áður segir, sýknukröfu sína á því að hún hafi ekki misnotað aðstöðu sína með þeim afleiðingum að hallað hafi á réttindi þeirra einstaklinga sem tilgreindir eru í ákæru eða hins opinbera. Þá liggi ekkert fyrir um hvort þeir hafa verið inntir eftir því hvort þeir hygðust leggja fram kæru á hendur ákærðu fyrir meingerð gegn sér. Enn fremur liggi ekki fyrir að embætti lögreglunnar hafi skaðast vegna uppflettinga ákærðu og ekkert sé fram komið um að ætluð misnotkun hennar á aðstöðu hafi orðið henni eða öðrum til ávinnings. Að auki sé ákvæði 139. gr. almennra hegningarlaga ekki fullnægjandi sem refsiheimild vegna þeirrar háttsemi sem ákærðu er gefin að sök. Niðurstaða 18. Samkvæmt lögum nr. 70/1996 eru lagðar sérgreindar lagaskyldur á opinbera starfsmenn við meðferð opinberra hagsmuna og að sama skapi njóta þeir ákveðinna réttinda samkvæmt lögunum. 19. Ákvæðum XIV. kafla almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi er ætlað að taka til þeirra tilvika þegar opinber starfsmaður misnotar aðstöðu sína í skjóli lögbundinna valdheimilda og er tilgangur þeirra að vera varnagli við misnotkun ríkisvalds. Ríkir almannahagsmunir standa til þess að koma í veg fyrir slíka misnotkun sem fallin er til þess að valda einstaklingum og lögaðilum tjóni og rýra traust almennings til stjórnsýslu og réttarkerfis. Lagaþróun hefur miðað að aukinni áherslu á réttinn til friðhelgi einkalífs, meðal annars með 9. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og setningu eldri laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. gildandi lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þessi þróun gefur skýrt til kynna þann vilja löggjafans að veita einstaklingum aukna lagavernd gagnvart brotum á friðhelgi einkalífs og rétti til verndar persónuupplýsinga. 20. Við mat á því hvort háttsemi ákærðu verði felld undir 139. gr. almennra hegningarlaga verður að líta til efnisreglna sem giltu um starfsskyldur hennar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 14. janúar 2016 í máli nr. 279/2015. Ákærða var opinber starfsmaður og staðfesti fyrir dómi að hafa undirritað og kynnt sér framangreinda yfirlýsingu þar sem fram kemur að hún hafi kynnt sér reglur ríkislögreglustjóra um aðgang að landskerfum lögreglunnar og almenna notkun þeirra, en sem fyrr segir var hluti þeirra reglna tekinn beint upp í yfirlýsingunni. Í umræddum reglum ríkislögreglustjóra er jafnframt kveðið svo á um að aðgangur starfsmanna að landskerfum lögreglu skuli aldrei vera meiri en störf þeirra krefjist hverju sinni og að notendum sé óheimilt að veita óviðkomandi aðilum upplýsingar úr kerfinu eða gera fyrirspurnir um mál eða einstaklinga ef þær tengjast ekki málum sem þeir vinni við eða þurfi á að halda í þágu starfa sinna. 21. Samkvæmt því sem rakið hefur verið um lagaþróun á sviði persónuverndar og réttarins til friðhelgi einkalífs njóta upplýsingar um persónuleg málefni einstaklinga sérstakrar og ríkrar lagaverndar. Ótvírætt er að þær upplýsingar um þá einstaklinga sem í ákæru greinir falla undir hugtakið persónuupplýsingar samkvæmt 1. tölulið 2. gr. laga nr. 77/2000, sem voru í gildi á þeim tíma er atvik málsins áttu sér stað og töldust jafnframt til viðkvæmra persónuupplýsinga samkvæmt 8. tölulið sömu greinar. Reglur um rafræna vinnslu upplýsinga hjá lögreglu voru jafnframt ítarlega útfærðar í reglugerð nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu. Ákærða hefur játað að hafa flett þessum einstaklingum upp, skoðað upplýsingar um þá og lögreglumál sem þeim tengdust án þess að upplýsingarnar tengdust starfi hennar sem landamæravörður. 22. Þegar metið er hvort ákærða hafi hallað réttindum einstakra manna eins og áskilið er í 139. gr. almennra hegningarlaga ber að líta til þess að uppflettingar hennar á persónuupplýsingum um viðkomandi tvo einstaklinga í rafrænum upplýsingakerfum lögreglunnar fólu ótvírætt í sér vinnslu á persónuupplýsingum í skilningi 2. töluliðar 2. gr. laga nr. 77/2000 án þess að til þess stæði heimild að lögum. Þá var vinnslan ekki í samræmi við tilganginn með söfnun þeirra og varðveislu í landskerfum lögreglunnar. Með þeim fjölmörgu uppflettingum ákærðu í gagnagrunni lögreglunnar sem ákært er fyrir, þar sem hún aflaði sér upplýsinga um persónuleg málefni þeirra einstaklinga sem í ákæru greinir án þess að leitin tengdist starfi hennar að nokkru leyti var hallað rétti þeirra til verndar persónuupplýsinga og fól háttsemin í sér misnotkun á þeim aðgangi sem hún hafði vegna starfa sinna sem landamæravörður að landskerfum lögreglunnar. Í þessu fólst einnig skýrt brot gegn starfsskyldum, reistum á sérstökum reglum sem hún undirgekkst við upphaf starfs síns, um að öll vinnsla persónuupplýsinga í lögreglukerfinu væri óheimil nema hún tengdist beinlínis störfum hennar. Þá var háttsemin alvarleg og stóð lengi yfir þar sem hún fletti ítrekað upp þeim einstaklingum sem í ákæru greinir. 23. Samkvæmt öllu framangreindu misnotaði ákærða sér stöðu sína sem opinber starfsmaður og hallaði réttindum þeirra sem upplýsingaöflunin beindist að. Ásetningur hennar stóð til þess að afla sér upplýsinga um þá einstaklinga sem ákæra lýtur að og misnota þannig aðstöðu sína, án þess að uppflettingarnar tengdust starfi hennar og skiptir þá að öðru leyti engu hvort hún hafi um leið búið yfir ásetningi til þess að brjóta með þeirri háttsemi gagngert gegn réttindum einstakra manna samkvæmt 139. gr. almennra hegningarlaga. 24. Að öllu framangreindu virtu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um heimfærslu brots ákærðu til refsiákvæðis og sakfellingu hennar. 25. Sakaferill ákærðu hefur ekki áhrif við ákvörðun refsingar en við ákvörðun hennar verður einkum litið til þess að þau brot sem ákært er fyrir voru mörg og tóku til langs tímabils, eða allt frá 17. september 2015 til 21. mars 2016. Á hinn bóginn verður einnig horft til þess að langur tími er liðinn frá því að brot ákærðu áttu sér stað og verður henni ekki kennt um þann drátt sem orðið hefur á meðferð málsins hjá ákæruvaldi og dómstólum. Að þessu gættu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærðu staðfest í samræmi við kröfu ákæruvalds á þann hátt sem í dómsorði greinir. 26. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verður staðfest. 27. Ákærðu verður í samræmi við 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar á meðal málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærða, Kristín Valgerður Gallagher, greiði 100.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 8 daga. Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 800.587 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Steingríms Þormóðssonar lögmanns, 744.000 krónur. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=6f54c8f2-88e9-4a2e-af19-874ba45ca1f1
Mál nr. 16/2021
Kærumál Vanreifun Áfrýjun Frávísun frá héraðsdómi
Staðfestur var dómur Landsréttar þar sem máli þrotabús K ehf. á hendur E ehf. var vísað frá héraðsdómi. Talið var að reifun málsins í stefnu væri óskýr og að verulega skorti á að málsástæður sem þrotabú K ehf. byggði á væru skýrar svo og önnur atvik sem þyrfti að greina til þess að samhengi málsástæðna væri ljóst, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. apríl 2021. Kærumálsgögn bárust réttinum 13. sama mánaðar. Kærður er dómur Landsréttar 26. mars 2021 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í Landsrétti í þessum þætti málsins og kærumálskostnað. 4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða dóms og kærumálskostnaðar. 5. Sóknaraðili höfðaði málið til að fá rift „greiðslu“ einkahlutafélagsins Kansas, sem þá hét Janúar, til varnaraðila að fjárhæð 4.585.920 krónur, sem hann byggir á að fram hafi farið 29. janúar 2015, með afhendingu tækja samkvæmt reikningi útgefnum þann dag. Jafnframt krafðist sóknaraðili endurgreiðslu sömu fjárhæðar úr hendi varnaraðila auk dráttarvaxta frá 29. janúar 2015 til greiðsludags. Til stuðnings kröfu um riftun vísaði sóknaraðili til 131., 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en krafa um endurgreiðslu var reist á 142. gr. sömu laga. Varnaraðili krafðist aðallega frávísunar málsins en til vara sýknu af kröfum sóknaraðila. Með úrskurði héraðsdóms 13. september 2018 var frávísunarkröfunni hrundið og með héraðsdómi 12. febrúar 2020 voru kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila teknar til greina. Með fyrrgreindum dómi Landsréttar var málinu vísað frá héraðsdómi. 6. Í málatilbúnaði sínum vísar sóknaraðili til þess að í áfrýjunarstefnu til Landsréttar hafi ekki verið leitað endurskoðunar á fyrrgreindum úrskurði héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að málinu yrði vísað frá dómi. Það hafi hann fyrst gert í greinargerð sinni til Landsréttar og því hafi krafa um endurskoðun úrskurðarins komið of seint fram. Þessa málsástæðu hafði sóknaraðili uppi fyrir Landsrétti en hennar er í engu getið í dómi réttarins. 7. Samkvæmt 1. mgr. 151. gr. laga nr. 91/1991 má við áfrýjun til Landsréttar leita endurskoðunar á úrskurðum og ákvörðunum sem gengið hafa undir rekstri máls í héraði. Þetta tekur til úrskurða héraðsdóms sem sæta ekki kæru til Landsréttar eftir 143. gr. laganna. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 155. gr. laganna skal taka fram í áfrýjunarstefnu til Landsréttar í hvaða skyni áfrýjað er og því ber að geta þess ef leitað er endurskoðunar á úrskurðum sem gengið hafa undir rekstri máls í héraði. Í ljósi þess að í áfrýjunarstefnu varnaraðila til Landsréttar kom fram að gerð væri krafa um frávísun málsins frá héraðsdómi var augljóst að leitað var endurskoðunar á úrskurði héraðsdóms þar að lútandi þótt að réttu lagi hefði átt að tiltaka það sérstaklega í stefnunni. Þess utan var úrskurðurinn reistur á réttarfarsatriðum sem dómstólum ber að taka afstöðu til af sjálfsdáðum. 8. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða dóms verður hann staðfestur. 9. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði dómur er staðfestur. Sóknaraðili, þrotabú Kansas ehf., greiði varnaraðila, Eignarhaldi ehf., 500.000 krónur í kærumálskostnað. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?Id=f3637e65-f9eb-46c2-8344-1396818775bc
Mál nr. 7/2021
Kærumál Aðfarargerð Innsetningargerð Málsforræði Upplýsingaréttur
H ehf. krafðist þess að fram færi bein aðfarargerð til að fá I ehf. til að afhenda sér afrit af eða veita sér aðgang að „öllum gögnum og skjölum til staðfestingar á því að Allrahanda GL ehf. og Hópbílar hf. hafi greitt gjöld vegna afnota af svonefndum nær- og fjærstæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar að fullu frá 1. mars 2018 til 1. apríl 2020, þ.m.t. reikninga, greiðslukvittanir og innheimtubréf“. Með kröfunni freistaði H ehf. þess að afla gagna til að leggja fram í öðru dómsmáli sem H ehf. hafði höfðað á hendur I ohf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að reglur réttarfarslaga girtu ekki fyrir að aðili gæti nýtt sér rétt til öflunar gagna eða upplýsinga á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012 enda mæltu þau fyrir um sjálfstæðan rétt almennings að gögnum sem lægju fyrir hjá stjórnvöldum eða öðrum sem lögin tækju til og vörðuðu tiltekið mál. Á hinn bóginn var ekki talið að lagaskilyrði stæðu til að með beinni aðfarargerð eftir 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför o.fl. færi fram athugun á gögnum I ohf., hvort sem er skjallegum eða rafrænum, til að ganga úr skugga um hvort þar fyndust gögn sem hefðu að geyma þær upplýsingar sem H ehf. leitaði eftir. Var kröfu H ehf. þegar af þeirri ástæðu hafnað.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon og Helgi I. Jónsson fyrrverandi hæstaréttardómari. 2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. desember 2020 en kærumálsgögn bárust réttinum 11. janúar 2021. Kærður er úrskurður Landsréttar 18. desember 2020 þar sem staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að synja um aðför samkvæmt aðfararbeiðni sóknaraðila. 3. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að fram fari bein aðfarargerð „til að fá varnaraðila til að afhenda sóknaraðila ljósrit eða afrit af öllum gögnum og skjölum til staðfestingar á því að Allrahanda GL ehf. og Hópbílar hf. hafi greitt gjöld vegna afnota af svonefndum nær- og fjærstæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar að fullu frá 1. mars 2018 til 1. apríl 2020, þ.m.t. reikninga, greiðslukvittanir og innheimtubréf“. Til vara krefst sóknaraðili þess að gerðin fari fram til að veita sóknaraðila fullan og ótakmarkaðan aðgang að sömu gögnum svo að hann geti ljósritað þau eða afritað, en til þrautavara að honum verði veittur sami aðgangur að gögnunum svo að hann geti staðreynt hvort fyrirtækin hafa greitt fyrir stæðin á tímabilinu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti. 4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti. Ágreiningsefni 5. Sóknaraðili veitir ferðaþjónustu og býður meðal annars upp á áætlunarferðir milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli og höfuðborgarsvæðisins. Varnaraðili starfar á grundvelli laga nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., en félagið rekur bæði flugvöllinn og fyrrgreinda flugstöð á honum. Af lögunum leiðir að meðal verkefna varnaraðila er að byggja upp og annast umferðarmannvirki og bifreiðastæði við flugstöðina. 6. Að undangengnu útboði gerðu málsaðilar rekstrarleyfissamning 4. apríl 2018 um aðgang sóknaraðila að svokölluðum nærstæðum við flugstöðina vegna áætlunaraksturs milli hennar og höfuðborgarsvæðisins. Samhliða var gerður samningur við fyrirtækið Hópbíla hf. um aðgang að nærstæðunum. Fyrir útboðið hafði fyrirtækið Allrahanda GL ehf. haft aðgang að nærstæðunum en missti hann í kjölfar útboðsins og hefur upp frá því sinnt áætlunarakstri frá svokölluðum fjærstæðum við flugstöðina en þau eru, eins og nafnið gefur til kynna, fjær henni. Sóknaraðili telur að sér hafi í þessum lögskiptum verið mismunað í samanburði við gjaldtöku varnaraðila fyrir aðgang að fjærstæðunum. Af því tilefni höfðaði sóknaraðili mál 24. maí 2019 á hendur varnaraðila og krafðist þess að gerðar yrðu viðeigandi breytingar á rekstrarleyfissamningnum til leiðréttingar á því sem hann taldi fela í sér mismunun gagnvart sér auk þess sem hann krafðist tiltekinnar endurgreiðslu úr hendi varnaraðila. Varnaraðili krafðist sýknu af þessum kröfum en dómur í málinu hefur enn ekki gengið í héraði. 7. Með þeirri aðfararbeiðni sem mál þetta tekur til krafðist sóknaraðili þess að fá afhent afrit af eða fá aðgang að gögnum til staðfestingar á því að Allrahanda GL ehf. og Hópbílar hf. hefðu greitt fyrir aðgang að nær- og fjærstæðum við flugstöðina á tímabilinu frá 1. mars 2018 til 1. apríl 2020. Héraðsdómur hafnaði kröfunni með úrskurði 15. september 2020. Sú niðurstaða var reist á því að með aðfararbeiðninni freistaði sóknaraðili þess að afla gagna frá varnaraðila til framlagningar í fyrrgreindu dómsmáli. Taldi héraðsdómur þetta stangast á við meginreglu einkamálaréttarfars um milliliðalausa sönnunarfærslu. Jafnframt færi það í bága við málsforræðisregluna sem fæli í sér að hvor aðili fyrir sig hefði forræði á sönnunarfærslu og gagnaframlagningu og yrði ekki knúinn af gagnaðila sínum til að leggja fram skjöl eða önnur sýnileg sönnunargögn. Landsréttur staðfesti þessa niðurstöðu með fyrrgreindum úrskurði 18. desember 2020. Taldi rétturinn að krafa sóknaraðila um beina aðför færi í bága við meginreglur réttarfars. Af þeim leiddi að sóknaraðila bæri að fara eftir þeim gagnaöflunarleiðum sem lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála gerðu ráð fyrir. Því væri það í höndum þess dómara sem færi með fyrrgreint einkamál milli aðila að taka afstöðu til þess hvort gögnin kynnu að hafa þýðingu við úrlausn þess máls og hvernig með ætti að fara ef þau yrðu ekki lögð fram, sbr. X. kafla og eftir atvikum VIII. kafla þeirra laga. Málið væri því ekki rekið á réttum lagagrundvelli. 8. Með ákvörðun Hæstaréttar 12. febrúar 2021 var sóknaraðila veitt leyfi til að kæra úrskurðinn til réttarins á grundvelli 5. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Í ákvörðuninni kom fram að dómur í málinu gæti meðal annars haft fordæmisgildi um rétt málsaðila til afhendingar gagna í vörslu hins opinbera með beinni aðfarargerð þegar rekið væri einkamál milli aðilanna þar sem krafist væri afhendingar sömu gagna á grundvelli 67. og 68. gr. laga nr. 91/1991. Málsatvik 9. Í maí 2017 efndi varnaraðili til útboðs fyrir aðgang að nærstæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrir hópferðabifreiðar í áætlunarakstri til höfuðborgarsvæðisins. Í útboðinu var gert ráð fyrir að samið yrði við tvo rekstrarleyfishafa sem hvor um sig átti að fá aðgang að þremur stæðum og aðstöðu í flugstöðinni fyrir miðasölu. Alls tóku þrjú hópferðafyrirtæki þátt í útboðinu og kom hæsta boð frá sóknaraðila. Næsthæsta boð kom frá Hópbílum hf. og lægsta boð frá Allrahanda GL ehf. Eins og áður greinir var í kjölfar útboðsins gerður rekstrarleyfissamningur 4. apríl 2018 við sóknaraðila og samhliða var gerður slíkur samningur við Hópbíla hf. Gjaldtaka eftir samningunum miðaðist við 1. mars sama ár. 10. Í kjölfar útboðsins missti Allrahanda GL ehf. aðstöðu sem það hafði haft á nærstæðum við flugstöðina og hefur upp frá því ekið til og frá fjærstæðum í ferðum milli flugstöðvar og höfuðborgarsvæðis. Hinn 1. desember 2017 tilkynnti varnaraðili að frá og með 1. mars 2018 yrði innheimt gjald fyrir afnot af fjærstæðum eftir gjaldskrá félagsins en fram að því höfðu stæðin verið nýtt endurgjaldslaust. Samkvæmt gjaldskránni var innheimt 7.900 króna gjald fyrir hópferðabifreiðar með 19 eða færri farþegasæti en 19.900 krónur fyrir bifreiðar með fleiri sætum. Allrahanda GL ehf. kvartaði með bréfi 10. janúar 2018 til Samkeppniseftirlitsins yfir gjaldtöku varnaraðila og með bréfi þess 6. febrúar sama ár var honum tilkynnt að ákveðið hefði verið að taka kvörtunina til meðferðar með hliðsjón af hugsanlegu broti gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 54. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Eftir frekari bréfaskipti milli Samkeppniseftirlitsins og málsaðila tilkynnti varnaraðili um breytingar á tilhögun gjaldtökunnar. Ákveðið var að gjaldið yrði lægra á sex mánaða aðlögunartímabili frá 1. mars til 31. ágúst 2018 og skiptist þannig að greiddar yrðu 3.200 krónur fyrir hópferðabifreiðar með 19 eða færri farþegasæti, 8.900 krónur fyrir bifreiðar með 20 til 45 sæti og 12.900 krónur vegna bifreiða fyrir 46 eða fleiri farþega. Frá 1. september 2018 yrði gjaldið 4.900 krónur fyrir minnstu bifreiðarnar, 12.500 krónur fyrir millistærð og 19.900 krónur fyrir þær stærstu. 11. Hinn 17. júlí 2018 birti Samkeppniseftirlitið bráðabirgðaákvörðun samkvæmt heimild í 3. og 4. mgr. 16. gr. samkeppnislaga um að stöðva þá gjaldtöku á fjærstæðum við flugstöðina sem hófst 1. mars 2018 en ákvörðunin gilti til loka þess árs. Sama dag og ákvörðunin var birt tilkynnti varnaraðili að gjaldtöku vegna fjærstæða yrði hætt meðan hún væri í gildi. Engar breytingar munu hins vegar hafa verið gerðar vegna gjaldtöku á nærstæðum. Með bréfi 24. júlí 2018 kærði varnaraðili bráðabirgðaákvörðunina til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem hafnaði með úrskurði 22. október sama ár kröfu hans um ógildingu eða breytingu á ákvörðuninni. 12. Þegar málið var til meðferðar hjá áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafði Samkeppniseftirlitið í bréfi 28. ágúst 2018 til varnaraðila tekið fram að bráðabirgðaákvörðunin fæli ekki í sér að honum væri með öllu óheimilt að innheimta gjald fyrir afnot af fjærstæðum heldur eingöngu að sú gjaldtaka sem hófst 1. mars það ár yrði stöðvuð. Einnig var bent á að varnaraðili hefði kosið að innheimta ekkert gjald fyrir fjærstæðin án þess að gera nokkuð til að leiðrétta eða jafna stöðu hópferðafyrirtækjanna sem nýttu nærstæðin, en þetta kynni að fara í bága við 11. gr. samkeppnislaga um misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Hinn 2. nóvember 2018 tilkynnti varnaraðili um nýja gjaldskrá fyrir fjærstæðin frá 5. sama mánaðar. Í tilkynningunni kom fram að verðlagningunni væri ætlað að verja samkeppnishagsmuni og gæta jafnræðis milli þeirra sem notuðu innviði varnaraðila við farþegaflutninga til og frá flugstöðinni. Samkvæmt gjaldskránni bar að greiða 3.200 krónur fyrir hópferðabifreiðar með sæti fyrir 19 farþega eða færri, 7.400 krónur fyrir bifreiðar með 20 til 45 sæti og 9.900 krónur vegna bifreiða fyrir 46 eða fleiri farþega. Jafnframt var ákveðið að á tímabilinu frá 1. mars til 4. nóvember 2018 yrði innheimt áðurgreint gjald sem hafði verið ákveðið á aðlögunartímabili. 13. Með bréfi sóknaraðila 6. nóvember 2018 var því haldið fram að ný gjaldskrá varnaraðila væri ekki til þess fallin að gæta jafnræðis milli þeirra sem nýttu innviði varnaraðila heldur skekkti hún þvert á móti samkeppni milli rekstrarleyfishafa og þeirra sem nýttu fjærstæðin. Krafðist sóknaraðili þess að varnaraðili lækkaði gjald gagnvart sér fyrir nærstæðin með sama hætti og gert hefði verið vegna hópferðabifreiða fyrir 46 eða fleiri farþega á fjærstæðum eða um 50%. Þessu hafnaði varnaraðili með bréfi 9. sama mánaðar. Af þeim sökum höfðaði sóknaraðili fyrrgreint mál 24. maí 2019 á hendur varnaraðila til að fá rekstrarleyfissamningi sínum við varnaraðila breytt til samræmis við þetta auk þess sem höfð var uppi krafa um endurgreiðslu. 14. Í stefnu sóknaraðila til héraðsdóms í umræddu máli kom fram að hann hefði ástæðu til að ætla að Allrahanda GL ehf. hefði ekki greitt gjald fyrir fjærstæðin frá 5. nóvember 2018 eða að minnsta kosti ekki greitt fullt gjald. Jafnframt hefði hann grun um að Hópbílar hf. hefðu ekki greitt að fullu gjald fyrir nærstæðin samkvæmt rekstrarleyfissamningi við varnaraðila. Af þessum sökum skoraði sóknaraðili á varnaraðila, með vísan til 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991, að leggja fram gögn til staðfestingar á því að þessi fyrirtæki hefðu greitt gjöld vegna afnota af nær- og fjærstæðum að fullu frá 1. mars 2018 til þess dags er málið var höfðað, svo sem með reikningum, greiðslukvittunum eða innheimtubréfum. Einnig var tekið fram að sóknaraðili ætti rétt á þessum gögnum á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012. Í greinargerð varnaraðila til héraðsdóms var þessari áskorun hafnað. Til stuðnings því var bent á að um væri að ræða upplýsingar um rekstur samkeppnisaðila sóknaraðila á markaði. Framlagning slíkra gagna gæti meðal annars falið í sér brot gegn 10. gr. samkeppnislaga og væri varnaraðila því óheimilt að verða við áskoruninni. 15. Með tölvubréfum 7. febrúar 2020 ítrekaði sóknaraðili áskorun sína til varnaraðila um afhendingu umræddra gagna og tók fram að óskað væri eftir gögnum til þess dags. Til stuðnings þessu vísaði hann til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 13. desember 2019 í máli nr. 857/2019 sem laut meðal annars að upplýsingum um gjaldtöku vegna aðstöðu fyrir hópferðabifreiðar á stæðum við Keflavíkurflugvöll á árinu 2017. Þetta erindi áréttaði sóknaraðili í tölvubréfi 26. mars 2020 til lögmanns varnaraðila og tók fram að hann íhugaði að leggja málið fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál eða höfða dómsmál ef umbeðnar upplýsingar yrðu ekki veittar. Erindið áréttaði sóknaraðili svo öðru sinni með tölvubréfi 31. sama mánaðar. Þessu var svarað með tölvubréfi 1. apríl sama ár en þar kom fram að fyrri afstaða varnaraðila stæði óhögguð og breytti fyrrgreindur úrskurður nefndarinnar engu þar um. Með fyrrgreindri aðfararbeiðni 14. sama mánaðar krafðist sóknaraðili þess að fá afrit af gögnunum eða aðgang að þeim með beinni aðfarargerð. Niðurstaða Réttarfarsreglur 16. Með kröfu sinni um beina aðför freistar sóknaraðili þess að afla gagna til að leggja fram í öðru dómsmáli sem hann hefur höfðað á hendur varnaraðila. Jafnframt telur sóknaraðili að upplýsingar sem kunni að koma fram í þessum gögnum geti kallað á frekari aðgerðir af sinni hálfu, svo sem að hafa uppi bótakröfu á hendur varnaraðila eða beina kvörtun til Samkeppniseftirlitsins. Eins og áður greinir komust bæði héraðsdómur og Landsréttur að þeirri niðurstöðu að krafa sóknaraðila um beina aðför við þessar aðstæður færi í bága við meginreglur einkamálaréttarfars. 17. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga nr. 91/1991 skal öflun sönnunargagna að jafnaði fara fram fyrir þeim dómara sem fer með mál. Frá þessu gilda þó ákveðnar undantekningar eins og greinir í ákvæðinu. Þetta er í samræmi við meginreglu einkamálaréttarfars um milliliðalausa málsmeðferð. Jafnframt gildir sú regla samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laganna að aðilar afla sönnunargagna og er það í samræmi aðra meginreglu einkamálaréttarfars um málsforræði aðila. Í henni felst meðal annars að aðilar hafa forræði á sönnunarfærslu máls og ræður hver þeirra fyrir sig hvort hann leggur fram gögn sem hann ýmist hefur þegar undir höndum eða aflar frá öðrum. Við slíka öflun sönnunargagna getur málsaðili ekki knúið gagnaðila sinn til að láta af hendi skjöl eða önnur sýnileg sönnunargögn. Verði gagnaðili hins vegar ekki við áskorun um að leggja fram skjal, sem hann hefur í vörslum sínum og er skylt að láta í té, sbr. 2. mgr. 67. gr. laganna, getur dómari skýrt neitun hans á þann veg að hann samþykki frásögn áskorandans um efni skjalsins, sbr. 1. mgr. 68. gr. laganna. Aftur á móti getur aðili krafist atbeina þriðja manns til sönnunarfærslu undir rekstri máls með því að fá hann skyldaðan til að afhenda tiltekið skjal til framlagningar, sbr. 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. laganna. Í dómum sínum hefur Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að reglan um að aðili verði ekki knúinn til að afhenda gagnaðila sínum gögn til framlagningar í dómsmáli verði ekki sniðgengin með því að óska matsgerðar sem snertir sakarefnið í því skyni að matsmaður kynni sér skjöl í vörslu gagnaðila matsbeiðanda og varpi ljósi á efni þeirra, sbr. dóma réttarins 17. mars 2016 í máli nr. 132/2016, 13. mars 2017 í máli nr. 43/2017 og 21. mars 2017 í máli nr. 147/2017. Jafnframt hafnaði Hæstiréttur í dómi 1. desember 2016 í máli nr. 763/2016 kröfu um beina aðför hjá skiptastjóra þrotabús til að afla gagna í máli sem rekið var persónulega á hendur þrotamanni. Var sú niðurstaða reist á því að viðhafa yrði þær aðferðir við gagnaöflun sem lög nr. 91/1991 gerðu ráð fyrir. Upplýsingalög 18. Þær réttarfarsreglur um öflun skjala undir rekstri dómsmáls sem hér hafa verið raktar girða ekki fyrir að aðili geti nýtt sér rétt til öflunar gagna eða upplýsinga á grundvelli upplýsingalaga, enda mæla þau lög fyrir um sjálfstæðan rétt almennings til aðgangs að gögnum sem liggja fyrir hjá stjórnvöldum eða öðrum sem lögin taka til og varða tiltekið mál. Frá þessu gilda þó ákveðnar undantekningar sem koma fram í 6. til 10. gr. laganna sem meta ber í hverju tilviki hvort eigi við um upplýsingabeiðni. Engin takmörkun er gerð á þessum rétti gagnvart borgara sem á aðild að dómsmáli gegn þeim sem upplýsingaskylda hvílir á eftir lögunum þótt sakarefnið snerti gögnin með einhverju móti. Samkvæmt því verður aðfararbeiðni sóknaraðila ekki synjað þegar af þeirri ástæðu að hún fari í bága við réttarfarsreglur. Að öðrum kosti væri sá sem neytti réttar síns til að bera undir dómstóla ágreining um réttindi sín og skyldur gagnvart þeim sem skylda hvílir á eftir upplýsingalögum útilokaður frá upplýsingarétti sínum meðan allir aðrir ættu rétt á sömu upplýsingum. Það sama ætti við ef sá sem upplýsingaskylda hvílir á höfðaði málið. Þetta gæti jafnframt leitt til þess að gögnum sem vörðuðu sakarefnið yrði ekki komið að í dómsmáli, gegn vilja þess sem upplýsingaskylda hvílir á, svo dómur yrði lagður á málið á þeim grundvelli, meðan allir aðrir sem fjölluðu um málið hefðu aðgang að þessum sömu gögnum. 19. Varnaraðili styður andmæli sín við kröfu um beina aðför þeim rökum að sóknaraðili hafi aldrei sett fram beiðni um afhendingu gagna á grunni upplýsingalaga. Í því sambandi vísar hann til þess að samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laganna skuli senda beiðni um aðgang að gögnum í máli til þess sem tekið hefur eða mun taka ákvörðun í því. Annars skuli beiðni beint til þess sem hefur gögnin í vörslu sinni. Varnaraðili telur áskoranir sóknaraðila undir rekstri dómsmáls og fyrrgreind erindi hans til lögmanns síns ófullnægjandi í þessu tilliti. Í stefnu í umræddu dómsmáli tók sóknaraðili fram, til stuðnings því að fá þau gögn sem hann skoraði á varnaraðila að leggja fram, að hann ætti rétt á þeim á grundvelli upplýsingalaga. Í tölvubréfi sóknaraðila 7. febrúar 2020 til lögmanns varnaraðila var einnig vísað í tiltekinn úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál, en sú nefnd starfar á grundvelli laganna. Þegar þetta erindi var ítrekað með tölvubréfi 26. mars sama ár var tekið fram að sóknaraðili íhugaði að leggja málið fyrir nefndina eða höfða dómsmál yrðu umbeðnar upplýsingar ekki veittar. Í svari varnaraðila við þessum erindum með tölvubréfi lögmanns hans 1. apríl það ár var tekið fram að fyrri neitun stæði óhögguð og breytti úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál engu þar um. Í ljósi þess að sóknaraðili hafði til stuðnings beiðni sinni um afhendingu gagna vísað til upplýsingalaga og gefið til kynna að hann myndi hugsanlega bera málið undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál bar lögmanni varnaraðila við þessar aðstæður að gera fyrirvara ef hann teldi að slíkri beiðni yrði ekki að réttu lagi beint til sín. Þar sem það var ekki gert mátti sóknaraðili gera ráð fyrir að kröfu hans yrði komið á framfæri við varnaraðila með viðhlítandi hætti af lögmanni hans. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á það með varnaraðila að beiðni um afhendingu gagna eftir upplýsingalögum hafi aldrei verið sett fram heldur verður að leggja til grundvallar að þeirri beiðni hafi verið synjað af honum. 20. Þar sem varnaraðili varð ekki við ósk sóknaraðila um að afhenda þau gögn sem leitað var eftir á grundvelli upplýsingalaga var sóknaraðila heimilt að bera synjunina undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna. Á það verður hins vegar ekki fallist með varnaraðila að sóknaraðila hafi borið að leggja málið fyrir úrskurðarnefndina áður en hann leitaði til dómstóla, enda er það ekki skilyrði fyrir málsókn að máli hafi áður verið vísað til kærunefndar innan stjórnsýslunnar nema annað leiði ótvírætt af lögum. Um þetta má til hliðsjónar vísa til dóma Hæstaréttar 27. nóvember 1995 í máli nr. 375/1995, sem birtur var í dómasafni réttarins það ár á bls. 2871, og 20. janúar 2015 í máli nr. 808/2014. Í stað þess að höfða almennt einkamál með kröfu um að synjun varnaraðila yrði hnekkt og eftir atvikum skylda lögð á hann að afhenda umbeðin gögn, hugsanlega að viðlögðum dagsektum, kaus sóknaraðili að bera málið undir dóm með kröfu um afhendingu gagna eða aðgang að þeim með beinni aðfarargerð. Til að fallist verði á kröfu af því tagi verður málatilbúnaður sóknaraðila að fullnægja réttarfarsskilyrðum 78. gr. laga nr. 90/1989, þar með talið hvers konar réttindum verður fullnægt með slíkri gerð. Bein aðför 21. Samkvæmt 78. gr. laga nr. 90/1989 getur bein aðför aðeins farið fram til að framfylgja skyldu þess efnis sem getur í 72. og 73. gr. laganna. Ákvæði 72. gr. lýtur eingöngu að fasteignum en í 73. gr. kemur fram að til að fullnægja skyldu gerðarþola til að veita gerðarbeiðanda umráð annars en fasteignar skuli sýslumaður taka það með valdi úr umráðum gerðarþola og afhenda gerðarbeiðanda. Í þessu felst að áþreifanlegur hlutur er tekinn frá gerðarþola og fenginn gerðarbeiðanda til frambúðar á grundvelli þess að hann eigi rétt til umráðanna vegna eignarréttar eða annarra réttinda sem fela í sér heimild til umráðanna, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 20. mars 1968 í máli nr. 190/1967, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 315. Jafnframt hefur rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að með beinni aðfarargerð verði gerðarbeiðanda sem á lögverndaðan rétt til aðgangs að tilteknu skjali veitt heimild til aðgangs að slíku skjali í umráðum gerðarþola í því skyni að gerðarbeiðandi fái að skrá niður upplýsingar úr því, sbr. dóm réttarins 3. september 2002 í máli nr. 373/2002, sem birtist í dómasafni hans það ár á bls. 2657. Hér má einnig benda á sambærilegt tilvik í dómi réttarins 18. apríl 1975 í máli nr. 74/1974, sem birtist í dómasafni hans það ár á bls. 423, en þar var fallist á kröfu Rafmagnsveitu Reykjavíkur um innsetningu til að fá aðgang að rafmagnsmæli í húsnæði sem gerðarþoli hafði á leigu til að rjúfa straum vegna skuldar fyrir notkun raforku. Einnig er til að taka dóm réttarins 31. ágúst 2009 í máli nr. 461/2009 en þar var með beinni aðfarargerð veittur aðgangur að neysluvatni í vatnslögn. 22. Kröfugerð sóknaraðila felur það í sér að honum verði með beinni aðfarargerð fengið afrit af eða veittur aðgangur að „öllum gögnum og skjölum til staðfestingar á því að Allrahanda GL ehf. og Hópbílar hf. hafi greitt gjöld vegna afnota af svonefndum nær- og fjærstæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar að fullu frá 1. mars 2018 til 1. apríl 2020, þ.m.t. reikninga, greiðslukvittanir og innheimtubréf“. Þannig tekur kröfugerðin ekki til nánar tiltekinna skjala heldur allra þeirra gagna sem kunna að hafa að geyma upplýsingar um hvort fyrirtækin hafa staðið skil á greiðslum fyrir nær- og fjærstæði við flugstöðina á fyrrgreindu tímabili. Jafnframt er hugsanlegt að þessara gagna njóti ekki við ef ekki hefur verið greitt fyrir stæðin, eins og sóknaraðili telur ástæðu til að ætla. Samkvæmt því sem áður er rakið um kröfu eftir 73. gr. laga nr. 90/1989 standa lagaskilyrði ekki til að með beinni aðfarargerð eftir 78. gr. laganna fari fram athugun á gögnum varnaraðila, hvort sem er skjallegum eða rafrænum, til að ganga úr skugga um hvort þar finnast gögn sem hafi að geyma þær upplýsingar sem sóknaraðili leitar eftir. Þess heldur verður athafnaskylda ekki lögð á varnaraðila með beinni aðfarargerð til að afrita gögn sín og afhenda sóknaraðila eins og hann leggur til grundvallar í aðalkröfu sinni. Þegar af þessum ástæðum verður að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar og hefur þá hvorki verið tekin afstaða til þess hvort ákvæði upplýsingalaga eða önnur lagaskilyrði standa því í vegi að réttindum hans verði fylgt eftir með beinni aðfarargerð. 23. Rétt er að aðilar beri sjálfir kostnað sinn af rekstri málsins á öllum dómstigum. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað. Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fyrir Landsrétti og Hæstarétti fellur niður. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?Id=125faf00-376f-4d90-ae6a-2ab182579a19
Mál nr. 29/2020
Peningaþvætti Sjálfsþvætti Fyrning Afturvirkni laga Sératkvæði
J var ákærður fyrir peningaþvætti samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa á árunum 2010 til 2014 geymt ávinning af skattalagabrotum inni á erlendum bankareikningi í sínu nafni og ráðstafað þeim fjármunum á árinu 2014 inn á annan erlendan bankareikning sem var í eigu vörslusjóðs sem skráður var í Panama og J var rétthafi að. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í málinu væru uppfylltar þær kröfur um sönnun frumbrots og ávinnings sem væru gerðar í peningaþvættismálum. Óumdeilt var að skattalagabrot J voru fyrnd og að ávinningur brotanna féll til fyrir þann tíma er sjálfsþvætti var gert refsivert með lögum nr. 149/2009. Í dóminum var rakið að sú háttsemi J sem lýst væri í ákæru hefði staðið yfir þegar sjálfsþvætti var gert refsivert 1. janúar 2010 og þar til J ráðstafaði ávinningnum inn á annan bankareikning 2014. Kæmi því ekki til álita að 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar, um bann við afturvirkri beitingu refsilaga, kæmi í veg fyrir að verknaður J teldist refsiverður. Með vísan til forsögu 264. gr. almennra hegningarlaga, tilgangs ákvæðisins og þeirra hagsmuna sem því væri ætlað að vernda var talið að brot gegn því sem fælu í sér ástandsbrot fyrndust ekki fyrr en ástandinu lyki, sbr. 1. mgr. 82. gr. laganna. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu J var því staðfest. Refsing J var ákveðin fangelsi í sex mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. júlí 2020 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd. 3. Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Ágreiningsefni 4. Með ákæru héraðssaksóknara 28. júní 2018 var ákærða gefið að sök peningaþvætti með því að hafa árin 2010 til 2014 geymt á tilgreindum reikningi sínum hjá bankanum UBS á Ermarsundseyjunni Jersey andvirði 131 til 146 milljóna króna, í bandaríkjadölum, evrum og sterlingspundum, sem að hluta voru ávinningur refsiverðra brota, þar sem um var að ræða tekjur sem ákærða höfðu hlotnast nokkrum árum fyrr, en ekki talið fram til skatts og því ekki greitt tekjuskatt og útsvar af þeim í samræmi við ákvæði skattalaga, ásamt vöxtum af því fé. Jafnframt var ákærða gefið að sök að hafa árið 2014 ráðstafað umræddum fjármunum af reikningnum í UBS inn á tilgreindan reikning í bankanum Julius Bär í Sviss, sem tilheyrði vörslusjóðnum Silwood Foundation, en rétthafar þess sjóðs voru ákærði, eiginkona hans og börn. Loks segir í verknaðarlýsingu ákærunnar að fjárhæð hins ólögmæta ávinnings hafi verið á bilinu 49 til 57 milljónir króna. Þetta var talið varða við 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 5. Ákærði var sakfelldur í samræmi við ákæru með héraðsdómi 18. desember 2018 og refsing hans ákveðin fangelsi í tíu mánuði skilorðsbundið til tveggja ára. Með dómi Landsréttar 8. maí 2020 var sú niðurstaða staðfest bæði um sakfellingu og refsingu. 6. Með ákvörðun Hæstaréttar 27. júlí 2020 var veitt leyfi til að áfrýja málinu til réttarins. Í ákvörðuninni sagði að líta yrði svo á að úrlausn um meðal annars beitingu 1. og 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga í málinu myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Málsatvik 7. Með bréfi 29. apríl 2016 tilkynnti Skattrannsóknarstjóri ríkisins ákærða að hafin væri rannsókn á skattskilum hans vegna tekjuáranna 2010 til og með 2015. Að undangenginni gagnaöflun og skýrslutökum lauk skattrannsóknarstjóri rannsókn sinni með skýrslu 29. desember sama ár. 8. Samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra leiddi rannsókn á bankareikningum í eigu ákærða í útibúum banka á Ermarsundseyjunni Jersey í ljós að fjármunir þeir sem ákæra lýtur að hafi orðið til í tengslum við starfsemi bílaumboðsins Ingvars Helgasonar hf. 9. Undir rannsókn málsins afhenti ákærði bréf 20. maí 2016 ásamt fylgigögnum sem svar við fyrrgreindri tilkynningu skattrannsóknarstjóra 29. apríl sama ár. Með bréfinu fylgdi yfirlit yfir bankareikning ákærða hjá UBS á Jersey frá stofnun og þar til honum var lokað árið 2014 þegar fjármunirnir voru fluttir á bankareikning Silwood Foundation hjá Julius Bär í Sviss. Þá fylgdi bréfinu afrit af beiðni til ríkisskattstjóra 1. apríl 2016 um leiðréttingu á útreikningi auðlegðarskatts. 10. Við rannsókn málsins hjá skattrannsóknarstjóra hafði ákærði réttarstöðu sakbornings. Hann gaf skýrslu hjá embættinu 6. september 2016 og staðfesti að hafa átt fjármuni á bankareikningi hjá UBS á eyjunni Jersey. Bankareikningurinn hefði verið stofnaður árið 2005 og verið „dormant account”. Ákærði sagðist hafa eignast þessa fjármuni fyrir árið 2005 en þeir hefðu komið til vegna samninga, þóknana og viðskipta sem hann hefði átt þátt í þegar hann gegndi starfi framkvæmdastjóra og var hluthafi í Ingvari Helgasyni hf. Ákærði kvaðst ekki geta lagt fram gögn um hvernig hann hefði eignast fjármunina. Þá greindi hann frá því að ekki hefðu verið greiddir skattar af þeim en tók fram að greiddur yrði tekjuskattur af fjármununum þegar greitt yrði úr vörslusjóðnum. 11. Ákærði gaf aftur skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra 24. nóvember 2016. Þá voru lagðar fyrir hann þrjár millifærslukvittanir sem aflað var hjá skattyfirvöldum á Jersey. Sú fyrsta, 5. október 2005, sýnir færslu að fjárhæð 57.247,42 bresk pund inn á bankareikning ákærða í UBS. Fram kemur að millifært var af reikningi í eigu „Ingvar Helgason ... Sigríður G. Helgason ... Helgi Ingvarsson ... Guðmundur Ágúst Ingvarsson ... Júlíus Ingvarsson”. Næsta millifærslukvittun, 18. nóvember 2005, sýnir færslu að fjárhæð 162.526,91 bandaríkjadal inn á bankareikning ákærða í UBS af reikningi í eigu „Helgason I+S +Ingvarsson´s”. Sú þriðja, 21. nóvember 2005, sýnir færslu að fjárhæð 312.654,78 evrur sem kom af reikningi í eigu „Helgason I+S + Ingvarsson´s”. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að fyrsta millifærslan hafi komið af reikningi í SG Hambros á Jersey en hinar tvær af reikningum hjá Standard Chartered á Jersey. Við fyrrnefnda skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra sagði ákærði að þessir fjármunir hefðu orðið til í viðskiptum Ingvars Helgasonar hf. Hann kvað samkomulag hafa verið milli sín, bræðra sinna og foreldra um að gera þetta með þessum hætti en ekki hefðu verið greiddir skattar af þessum fjármunum. 12. Í sömu skýrslutöku var lögð fyrir ákærða millifærslukvittun sem aflað var hjá skattyfirvöldum á Jersey þar sem fram kom að lagðar voru 301.338,29 evrur inn á reikning ákærða í UBS á Jersey 16. apríl 2010. Fram kom á kvittuninni að greiðslan væri frá Standard Chartered og væri gerð að beiðni „J V Ingvarsson”. Ákærði óskaði þá eftir að fá að skýra þetta síðar. Með tölvupósti 14. desember 2016 lagði ákærði fram yfirlit yfir reikning hjá Standard Chartered ásamt bréfi þar sem fram kom að reikningurinn hefði verið stofnaður í mars 2004 í nafni ákærða og eiginkonu hans. Við stofnun hans voru lagðar inn 290.000 evrur og var fjárhæðin ekki hreyfð fyrr en honum var lokað í apríl 2010 en þá var fjárhæðin ásamt vöxtum lögð inn á bankareikning ákærða hjá UBS. 13. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra 29. desember 2016 kemur fram að allir þessir fjármunir hafi verið geymdir á erlendum bankareikningum í þeim tilgangi, að því er virtist, að komast hjá skattlagningu þeirra. Niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra voru að ákærði hefði staðið skil á efnislega röngum skattframtölum og að auðlegðarskattstofn væri vantalinn vegna innstæðna á erlendum bankareikningum. 14. Með bréfi 5. janúar 2017 vísaði skattrannsóknarstjóri máli ákærða til héraðssaksóknara. Þar kom fram að málið væri sent til lögreglurannsóknar á grundvelli fyrirliggjandi gagna um rannsókn á skattskilum ákærða. Hann hefði ekki gert skattyfirvöldum grein fyrir umræddum fjármunum, hvorki er hann fékk þá í hendur með yfirfærslu yfir á bankareikninga í hans eigu né gert grein fyrir erlendum innstæðum sínum vegna þeirra á skattframtölum. Ákærða hefði borið að gera skattyfirvöldum grein fyrir fjármununum þegar hann fékk þá í hendur og greiða af þeim skatt í samræmi við skattalög. Kynni háttsemi ákærða að varða við 1. og 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði mætti til skýrslutöku hjá héraðssaksóknara 11. september 2017 og var honum meðal annars gefið að sök peningaþvætti. Hann neitaði að tjá sig um sakargiftir en lagði fram yfirlýsingu um afstöðu sína til þeirra og rannsóknar málsins. Að lokinni rannsókn héraðssaksóknara var mál þetta höfðað með fyrrgreindri ákæru 28. júní 2018. Niðurstaða Löggjöf og þróun hennar 15. Í 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að 6 árum. Þá segir í 2. mgr. að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. skuli sæta sömu refsingu og þar greinir og ákvæði 77. gr. laganna gildi þá eftir því sem við eigi. 16. Refsiákvæði gegn peningaþvætti komu inn í íslenska löggjöf með lögum nr. 80/1993 um aðgerðir gegn peningaþvætti. Samkvæmt 2. gr. laganna lutu þau að skyldu fjármálastofnana til að taka ekki þátt í að varðveita, yfirfæra eða hagnýta eign eða breyta henni úr einu eignarformi í annað þegar vitneskja eða rökstuddur grunur væri til staðar um að rekja mætti uppruna eignar til brots á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni. Samhliða var með 1. gr. laga nr. 39/1993, um breyting á almennum hegningarlögum, lögfest ákvæði 173. gr. b þess efnis að hver sem tæki við eða aflaði sér eða öðrum ávinnings af fíkniefnalagabroti samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga skyldi sæta fangelsi allt að 10 árum. Sömu refsingu skyldi sá sæta sem geymdi eða flytti slíkan ávinning, aðstoðaði við afhendingu hans eða stuðlaði á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíku broti. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 39/1993 kom fram að fyrri hluta þess hafi verið ætlað að ná beint til þeirra sem stæðu að fíkniefnaviðskiptum, þar sem unnt væri að sanna að þeir hefðu tekið á móti peningum eða öðrum ávinningi af viðskiptunum. Með því að refsing væri ekki einungis lögð við því að taka við eða útvega sér ávinning af fíkniefnabroti heldur einnig útvega öðrum slíkan ávinning væri stefnt að því að viðkomandi gæti ekki losnað undan refsiábyrgð með því að afhenda maka sínum eða öðrum fjármunina. Síðari hluti greinarinnar hafði það að markmiði að takmarka fíkniefnaviðskipti með því að leggja refsingu við hinum ýmsu aðferðum sem unnt væri að viðhafa til að aðstoða aðra við undanskot ávinnings. Með 1. gr. laga nr. 49/1993 kom sams konar viðbót inn í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Þetta var gert til innleiðingar á tilskipun ráðs Evrópubandalagsins 10. júní 1991 nr. 91/308/EBE um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið væri notað til peningaþvættis. 17. Með 1. gr. laga nr. 39/1995 um breyting á almennum hegningarlögum voru færð inn í 262. gr. ákvæði er mæltu fyrir um allt að sex ára fangelsisrefsingu við meiri háttar skattsvika- og bókhaldsbrotum sem unnin væru af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi. 18. Með lögum nr. 10/1997, um breyting á almennum hegningarlögum o.fl., voru gerðar umtalsverðar breytingar á refsiákvæðum um peningaþvætti. Með 4. gr. laganna kom nýtt ákvæði um peningaþvætti inn í 264. gr. laganna. Samkvæmt því varð þvætti ávinnings af brotum á almennum hegningarlögum gert að sjálfstæðu refsiverðu broti án tillits til þess um hvaða brotategund samkvæmt þeim lögum var að ræða. Lagabreytingin var liður í að fullgilda tvo alþjóðasamninga á sviði refsiréttar, annars vegar samning Sameinuðu þjóðanna gegn ólögmætri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 20. desember 1988 og hins vegar samning um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum frá 8. nóvember 1990 sem gerður var á vettvangi Evrópuráðsins. Eftir breytinguna var í 264. gr. mælt fyrir um að hver sem tæki við eða aflaði sér eða öðrum ávinnings af broti samkvæmt almennum hegningarlögum skyldi sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum. Sömu refsingu skyldi sá sæta sem geymdi eða flytti slíkan ávinning, aðstoðaði við afhendingu hans eða stuðlaði á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af broti. Væri brot ítrekað eða stórfellt gat refsing orðið varðhald eða fangelsi allt að fjórum árum. Við lögfestingu 264. gr. var 173. gr. b almennra hegningarlaga felld brott þar sem verknaðarlýsing þeirrar greinar rúmaðist innan hins nýja ákvæðis. Hins vegar þótti ekki rétt að lækka refsihámark fyrir þvætti ávinnings af fíkniefnabrotum frá því sem þá var og var því sérregla sett í þágildandi 2. mgr. 264. gr. þar sem hámarksrefsing fyrir þau brot var áfram 10 ár. Með lögum nr. 10/1997 var jafnframt bætt ákvæðum inn í fern sérrefsilög, það er áfengis-, lyfja- og tollalög og lög um ávana- og fíkniefni, þess efnis að meðferð ávinnings af brotum á þeim lögum væri refsiverð eftir því sem segði í 264. gr. almennra hegningarlaga. 19. Í athugasemdum við fyrrgreinda 4. gr. laga nr. 10/1997 kemur fram að með ákvæðinu væri komið til móts við 1. mgr. 6. gr. fyrrgreinds samnings um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum og næði skilgreining þess á þvætti til allra atriða sem talin væru upp í samningnum vegna orðanna „stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af broti”. Ákvæðið gerði, á samsvarandi hátt og 173. gr. b áður, ekki aðeins skýrlega refsiverða þá háttsemi að njóta ávinnings af broti sem annar hefur framið, heldur einnig þá háttsemi að aðstoða mann við að koma undan ávinningi, án skilyrðis um að viðkomandi hefði nokkurn ábata af slíkri aðstoð. Þá var áréttað að sérreglur um aðstoð við að koma undan ávinningi af auðgunarbrotum, sbr. 254. gr. og 263. gr. almennra hegningarlaga, stæðu áfram óbreyttar. 20. Með 2. gr. laga nr. 38/1999 um breytingu á lögum nr. 80/1993 var hugtakið peningaþvætti í þeim lögum skilgreint til samræmis við þær breytingar sem leiddu af lögum nr. 10/1997. Við gildistöku laga nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka voru lög nr. 80/1993 felld úr gildi. Um sama efni gilda nú lög nr. 140/2018. Samkvæmt skilgreiningu laganna, og áður laga nr. 64/2006, er um peningaþvætti að ræða þegar einstaklingur eða lögaðili tekur við ávinningi, nýtir ávinning eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti sem er refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum lögum; einnig þegar einstaklingur eða lögaðili umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu, ráðstöfun eða flutningi ávinnings eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíkum refsiverðum brotum. Með lögunum var innleidd tilskipun Evrópusambandsins 20. maí 2015, nr. 2015/849/EB, um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka. 21. Með lögum nr. 32/2001 um breytingu á almennum hegningarlögum var hámarksrefsing vegna brota gegn 173. gr. a hækkuð í 12 ár og var refsimörkum 264. gr. vegna þvættis ávinnings vegna slíks fíkniefnalagabrots breytt til samræmis við það. 22. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 149/2009, sem tóku gildi 1. janúar 2010 og breyttu 264. gr. almennra hegningarlaga í núverandi horf, segir að við breytingar á ákvæðinu sé horft til 6. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi frá 15. nóvember 2000, svonefnds Palermo-samnings, og athugasemda í skýrslu FATF (Financial Action Task Force) um aðgerðir gegn peningaþvætti á Íslandi frá 13. október 2006. Með breytingunni sé gildissvið peningaþvættisbrotsins samkvæmt 1. mgr. 264. gr. rýmkað þannig að það taki ekki einungis til frumbrota á almennum hegningarlögum, heldur einnig til refsiverðra frumbrota á öðrum lögum sem fullnægi að öðru leyti hlutrænum og huglægum efnisskilyrðum ákvæðisins. Jafnframt væri markmið lagabreytingarinnar að gera ákvæðið skýrara með því að orða í lokamálslið 1. mgr. greinarinnar sérstaklega þær verknaðaraðferðir sem slíkt brot tæki til, með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 6. gr. Palermo-samningsins. Við túlkun einstakra verknaðarþátta yrði sem fyrr að horfa til þess að peningaþvætti væri í megindráttum hver sú starfsemi sem lyti að því að fela uppruna og eiganda fjár sem væri ávinningur af brotastarfsemi. Meginmarkmiðið væri að gera háttsemina refsiverða og höggva að rótum afbrota með því að uppræta aðalhvata þeirra, þann ávinning sem af þeim kynni að leiða. 23. Þá var með fyrrgreindum lögum nr. 149/2009 lögfest ákvæði um sjálfsþvætti í 2. mgr. 264. gr. sem felur í sér að sá sem framið hefur frumbrot, og fremur jafnframt peningaþvættisbrot samkvæmt 1. mgr., skuli sæta sömu refsingu og þar greini. Fram kemur í athugasemdum í greinargerð með frumvarpinu að með málsgreininni sé horft til athugasemda í skýrslu FATF-nefndarinnar um að óljóst væri hvort gildandi lagareglur tækju til sjálfsþvættis. Þá segir enn fremur að þar sem frumbrot og síðar tilkomið sjálfsþvætti á ávinningi sem af því stafi verði þannig tvö sjálfstæð brot væri áréttað að 77. gr. almennra hegningarlaga um brotasamsteypu gilti eftir því sem við ætti. Í athugasemdunum er tekið fram að hvað varði mat á því hvort nægilega sé sýnt fram á að ávinningur stafi af frumbroti raski þær breytingar sem lagðar séu til í frumvarpinu í engu þeirri túlkun á 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sem lögð hafi verið til grundvallar í dómi Hæstaréttar 8. nóvember 2001 í máli nr. 200/2001. Með rýmkun á gildissviði ákvæðisins skuli sömu sjónarmið lögð til grundvallar þegar metið sé hvort ávinningur stafi af broti samkvæmt öðrum refsilögum en almennum hegningarlögum. Frumbrotið 24. Ákærði byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að ætluð brot hans gegn skattalögum, sem myndað hafi hinn ólögmæta ávinning sem í ákæru greini, sé órannsökuð og ósönnuð. Ákærði mótmælir þeirri afstöðu ákæruvaldsins að á honum hvíli að sanna hver hafi verið uppruni fjármunanna og að ekki hafi verið um skattskyldar tekjur að ræða. Hann hefur haldið því fram að vegna þess hversu langt sé um liðið frá ætluðu skattalagabroti sé engin leið að staðreyna hver uppruni fjármunanna hafi verið og ef um tekjur hafi verið að ræða sé ekki nokkur leið að staðreyna í hvaða löndum tekjumyndunin hafi verið, hvort um hafi verið að ræða fjármagnstekjur eða launatekjur og hvort horfa þurfi til tvísköttunarsamninga í þeim efnum. 25. Hinn ólögmæti ávinningur var, eins og í ákæru greinir, talinn hafa numið milli 49 og 57 milljónum króna. Í dómi Landsréttar er rakið að við munnlegan flutning málsins hafi verið upplýst af hálfu ákæruvaldsins að fjárhæð hins ólögmæta ávinnings væri fengin með því að reikna samtals 38% tekjuskatt og útsvar á fjárhæðir þær sem verið hefðu á reikningum ákærða og í ákæru greindi, á tímabilinu 2010 til 2014, en sú prósenta væri lægsta hlutfall tekjuskatts og útsvars á þessu tímabili. Enn fremur væri ljóst að fjármunirnir sem ákærði fékk inn á reikning sinn væru tekjur sem honum hefði borið að greiða af tekjuskatt og útsvar. 26. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi liggur fyrir að á því árabili sem ákæra tekur til voru fjármunir í bandaríkjadölum, evrum og sterlingspundum, að andvirði 131 til 146 milljóna króna, á bankareikningi í eigu ákærða í UBS á Jersey. Ákærði færði fjármunina árið 2014 á bankareikning í Sviss í eigu vörslusjóðsins Silwood Foundation með lögheimili í Panama sem ákærði var rétthafi að. Ákærði bar fyrir héraðsdómi að umræddir fjármunir væru þóknunargreiðslur og umboðslaun sem samið hefði verið um við erlenda viðskiptamenn Ingvars Helgasonar hf. en þar hefði hann hafið störf árið 1982. Greiðslurnar hefðu lagst af um 10 árum síðar. Um þessar greiðslur vísaði hann til skýrslu sinnar við rannsókn skattrannsóknarstjóra á ætluðum skattalagabrotum sínum. Í þeim skýrslum kom meðal annars fram að um hefði verið að ræða þóknanir og umboðslaun sem runnið hefðu inn á sameiginlega reikninga ákærða, foreldra hans og tveggja bræðra. Samkomulag hefði verið um skiptingu fjármunanna en eftir andlát föður síns og eins bróður hefði hlut ákærða verið ráðstafað inn á reikninga í eigu ákærða árið 2005. Ákærði bar jafnframt fyrir héraðsdómi að hann hefði búið á Íslandi frá árinu 1982 en ekki talið umræddar þóknanir og umboðslaun fram til skatts. Hann kvaðst hins vegar ekki geta fullyrt um hver skattskyldan hefði verið. 27. Eins og lýst er í hinum áfrýjaða dómi bar ákærði fyrir héraðsdómi að þær innstæður sem voru á umræddum reikningum á hans nafni á tímabilinu 2010 til 2014, og hann síðan ráðstafaði inn á bankareikning sjóðs sem hann var rétthafi að, hafi verið hans hluti af tekjum í formi þóknana og umboðslauna á árunum 1982 til 1992 frá erlendum viðskiptamönnum félags sem hann starfaði hjá. Ákærði hefur viðurkennt að hann hafi verið búsettur hér á landi frá árinu 1982 en ekki talið umræddar tekjur fram til skatts hér á landi. Hann hefur ekki borið því við að hafa greitt skatt af þessum tekjum annars staðar en hér á landi. 28. Í 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, sem vísað er til í 2. mgr. greinarinnar sem tekur til sjálfsþvættis, er áskilið að um ávinning sé að ræða af broti samkvæmt þeim lögum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum. Með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 200/2001 og þegar litið er til eðlis og tilgangs ákvæðanna verður hins vegar ekki gerð sú krafa að fyrir liggi hvaða brot sé nákvæmlega um að ræða. Verður að meta í ljósi atvika hverju sinni hvort sýnt sé nægilega fram á að ávinningur stafi af refsiverðri háttsemi. 29. Fallist er á með Landsrétti að með vísan til framburðar ákærða og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu sé hafið yfir vafa að á umræddum reikningum hafi verið fjármunir sem voru að stofni til skattskyldar tekjur ákærða og að hluti þeirra hafi verið ávinningur af skattalagabrotum hans. Þótt einhver hluti þessara fjármuna hafi verið til kominn vegna vaxtatekna og gengishagnaður eru, með vísan til framburðar ákærða og þeirra sjónarmiða sem ákæruvaldið hefur teflt fram um áætlaðan ávinning ákærða, uppfylltar þær kröfur um sönnun frumbrots og ávinnings hans af því sem samkvæmt framansögðu eru gerðar í peningaþvættismálum. 30. Með vísan til alls framangreinds er ekki fallist á að rannsókn af hálfu skattyfirvalda eða ákæruvalds á skattalagabrotum ákærða sé svo áfátt að sýkna beri hann af þeim sökum. Samkvæmt því er staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að hafið sé yfir vafa að sá hluti fjármunanna sem ákæra tekur til hafi verið ólögmætur ávinningur af skattalagabrotum hans. Heimfærsla til refsiákvæða, afturvirk beiting refsilaga og fyrning sakar 31. Ákærði hefur viðurkennt að hafa geymt umrædda fjármuni sína á reikningi sínum í UBS á Ermarsundseyjunni Jersey á árunum 2010 til 2014 og jafnframt þá ráðstöfun fjárins að hafa lagt það á árinu 2014 inn á bankareikning í Julius Bär í Sviss í nafni vörslusjóðs sem skráður er í Panama og hann er rétthafi að. Hann hefur hins vegar neitað að hafa gerst sekur um peningaþvætti. 32. Af hálfu ákærða er annars vegar byggt á því að ætlað brot hans gegn 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga sé fyrnt og hins vegar á því að bann 1. mgr. 2. gr. laganna við afturvirkri beitingu refsilaga og grundvallarreglur stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu komi í veg fyrir sakfellingu þar sem sjálfsþvætti hafi ekki verið refsivert fyrr en lög nr. 149/2009 tóku gildi 1. janúar 2010. Óumdeilt er að þeir fjármunir sem um ræðir hafi verið komnir í eigu og vörslu ákærða í síðasta lagi árið 2005. 33. Í 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga segir meðal annars að hafi refsilöggjöf breyst frá því að verknaður var framinn til þess er dómur gengur skuli dæma eftir nýrri lögunum, bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu. Aldrei megi þó dæma refsingu nema heimild hafi verið til þess í lögum þegar verk var framið og ekki þyngri refsingu en orðið hefði eftir þeim lögum. Sama leiðir einnig af 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. 34. Um upphaf fyrningarfrests sakar er meðal annars fjallað í 1. og 2. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. Í 1. málslið 1. mgr. kemur fram sú meginregla að fyrningarfrestur teljist frá þeim degi er refsiverðum verknaði eða refsiverðu athafnaleysi lauk. Í 2. mgr. segir hins vegar að ef refsinæmi er háð því að nokkru leyti eða öllu að háttsemi hafi í för með sér tiltekna afleiðingu hefjist fyrningarfrestur ekki fyrr en afleiðing þessi kemur fram. Hinu sama gegni að sínu leyti ef refsinæmi er háð því að tiltekið atvik beri að höndum eftir að háttsemi er uppi höfð og tekur sök þá ekki að fyrnast fyrr en atvik þetta hefur gerst. 35. Niðurstaða um það hvort fallist verður á umræddar varnir ákærða um fyrningu sakar og bann við afturvirkni refsilaga ræðst fyrst og fremst af því hvenær sú háttsemi ákærða sem lýst er í ákæru og þar er talin fela í sér brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga telst hafa staðið yfir og hvenær henni telst hafa lokið. 36. Í 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga er aðeins vísað til þess að sá sem framið hafi frumbrot og jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. skuli sæta sömu refsingu og þar greini. Um verknaðarlýsingu er þannig vísað til 1. mgr. sem kveður á um að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að sex árum. 37. Ákvæði 1. mgr. 264. gr. felur í sér samsetta brotalýsingu en í refsirétti eru slíkar brotalýsingar taldar til rýmkaðra brota. Í ákvæðinu er annars vegar lýst ólögmætu ástandi beinlínis, það er verknaðarþáttunum að nýta, geyma og leyna sem fela í sér nokkurn varanleika, og hins vegar afmarkaðri verknaðarþáttum sem standa stutt yfir, svo sem að taka við, afla sér, umbreyta, flytja eða senda. Ákvæðið er þannig upptalning á verknaðarþáttum sem hver um sig gæti verið sjálfstætt peningaþvættisbrot en jafnframt verður að líta svo á að það lýsi háttsemi þar sem einn verknaðarþáttur getur tekið við af öðrum og myndað brotaheild sem virða beri sem eitt brot. 38. Í ákæru er annars vegar lýst þeirri háttsemi ákærða að geyma ávinning skattalagabrota á tilteknum bankareikningi sínum í banka á Ermarsundseyjunni Jersey frá árinu 2010 til ársins 2014. Þessi lýsing á háttsemi, sem staðið hefur yfir á tilgreindu árabili, felur í sér lýsingu á ástandsbroti sem svarar til verknaðarlýsingar í 1. mgr. 264. gr. og felur samkvæmt eðli og tilgangi ákvæðisins í sér refsivert sjálfsþvætti. Samkvæmt ákæru ráðstafaði ákærði árið 2014 fjármununum af umræddum bankareikningi inn á annan reikning hjá Julius Bär í Sviss, sem tilheyrði vörslusjóðnum Silwood Foundation en rétthafar vörslusjóðsins voru ákærði, eiginkona hans og börn. Ákærði lét þessara fjármuna ekki getið í skattframtali sínu. Hann leyndi ávinningnum enn frekar með því að færa hann á milli erlendra bankareikninga í ríkjum sem hafa ríka bankaleynd og inn í sjóð skráðan í Panama þangað sem afar litlar líkur voru á að ávinningurinn yrði rakinn. Þannig er í ákæru lýst ráðstöfun sem fól í sér að ávinningi var umbreytt og uppruna hans, eðli og staðsetningu leynt og fellur að verknaðarlýsingu 1. mgr. 264. gr. 39. Samkvæmt framansögðu var sú háttsemi sem lýst er í ákæru brotaheild sem stóð yfir frá þeim tíma sem sjálfsþvætti var gert refsivert 1. janúar 2010 með lögum nr. 149/2010 og þar til ákærði ráðstafaði á árinu 2014 ávinningi skattalagabrotanna inn á bankareikning í Sviss á nafni vörslusjóðs sem hann var rétthafi að. Fyrir liggur að ákærði geymdi þennan sama ávinning á reikningum sínum fyrir árið 2010 og að sú háttsemi var ekki refsiverð á þeim tíma. Ákærða er hins vegar í máli þessu aðeins gefið að sök að hafa geymt og síðar ráðstafað ávinningnum eftir að sjálfsþvætti var gert refsivert. Með vísan til þess að það refsiverða ástand sem lýst er í refsiákvæðinu var til staðar við gildistöku laganna og sú brotaheild sem ákærða er gefin að sök stóð enn yfir á árinu 2014 telst sá verknaður sem lýst er í ákæru hafa verið framinn eftir að sjálfsþvætti var gert refsivert 1. janúar 2010. Ekki kemur því til álita að 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar komi í veg fyrir að verknaður ákærða teljist refsiverður. 40. Ákvæði 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga mælir sem fyrr segir fyrir um að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. greinarinnar skuli sæta sömu refsingu og þar greinir og skuli ákvæði 77. gr. laganna þá gilda eftir því sem við á. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi að framangreindum lögum nr. 149/2009 er áréttað að frumbrot og síðar tilkomið sjálfsþvætti sem af því stafi verði tvö sjálfstæð brot. Tilvísun ákvæðisins til brotasamsteypu mælir gegn því að litið verði svo á að annað brotanna tæmi sök gagnvart hinu. Af þessu samspili frumbrots og sjálfsþvættisbrots leiðir jafnframt að ekki verður litið svo á að upphafstími fyrningar teljist sá sami fyrir frumbrot og sjálfsþvættisbrot. Fyrning frumbrots leiðir þannig ekki sjálfkrafa til þess að sjálfsþvættisbrot teljist fyrnt. 41. Af hálfu ákærða er vísað til þess að miða beri upphafstíma fyrningar sjálfsþvættisbrots við tileinkun verðmæta. Að mati ákærða eigi sömu sjónarmið við um upphafstíma fyrningar peningaþvættis og hylmingar samkvæmt 254. gr. almennra hegningarlaga. Í athugasemd í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 20/1981 um breyting á almennum hegningarlögum er meðal annars fjallað um breytingar á 82. gr. laganna um upphaf fyrningarfrests. Þar segir að ekki séu lagðar til breytingar á 1. mgr. 82. gr. en þó fjallað um ákvæðið eins og það var og sagt að ýmsir örðugleikar væru á að afmarka upphaf fyrningarfrests en ógerlegt væri að leysa úr þeim álitamálum öllum í lagatexta. Tekið var fram að við nokkur auðgunarbrot sem leiddu til eða fælu í sér tiltekið ástand er ríkti um lengri eða skemmri tíma þætti réttmætt að miða upphaf fyrningar við það er maður kasti eign sinni á mun, sbr. 246. gr. laganna eða legði launung á hann eða veitti honum viðtöku enda væri hugrænum refsiskilyrðum fullnægt, sbr. 254. gr. laganna. Þessi athugasemd gengur í berhögg við orðalag 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga sem þó var ekki talin ástæða til að breyta með frumvarpinu. Hún verður helst skilin á þann veg að talið hafi verið óeðlilegt að upphaf fyrningarfrests ólögmætrar meðferðar fundins fjár og hylmingar yrði ákvarðað með öðrum hætti en annarra auðgunarbrota. Þetta getur hins vegar engu breytt um upphafstíma fyrningar annarra brota sem 1. mgr. 82. gr. laganna tekur til samkvæmt ótvíræðu orðalagi sínu. 42. Sjálfsþvætti samkvæmt 2. mgr. 264. gr. er utan auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga. Með vísan til forsögu ákvæðisins, tilgangs þess og þeirra hagsmuna sem því er ætlað að vernda er ekkert tilefni til annars en að brot gegn ákvæðinu sem fela í sér verknaðarþætti sem falla að skilgreiningu ástandsbrota fyrnist ekki fyrr en því ástandi lýkur í samræmi við ótvírætt orðalag 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. 43. Brot það sem ákærða er gefið að sök varðar allt að sex ára fangelsi og fyrnist því á tíu árum samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. Þar sem sú háttsemi sem lýst er í ákæru og telst refsiverð sem sjálfsþvætti samkvæmt verknaðarlýsingu 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga stóð enn yfir á árinu 2014 var brotið ófyrnt þegar skýrsla var tekin af ákærða hjá héraðssaksóknara 11. september 2017 vegna rannsóknar á hendur honum sem sakborningi vegna meðal annars brots gegn fyrrnefndu lagaákvæði, sbr. 4. mgr. 82. gr. sömu laga. Samkvæmt þessu er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um heimfærslu brots ákærða til refsiákvæða og sakfellingu hans. Refsing og sakarkostnaður 44. Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun hennar, við þær aðstæður að frumbrotið er fyrnt, ber einkum að líta til þess að af 3. mgr. 264. gr. má ráða að eðlilegt sé að refsing fyrir sjálfsþvættisbrot taki mið af þeirri refsingu sem við frumbrotinu hefði legið. Með hliðsjón af því en að öðru leyti með vísan til hins áfrýjaða dóms verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í sex mánuði sem bundin verður skilorði eins og í dómsorði greinir. 45. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verður staðfest. 46. Af hálfu ákærða var því lýst yfir í greinargerð og við flutning málsins fyrir Hæstarétti að kæmi til þess að hinn áfrýjaði dómur yrði staðfestur um sakfellingu ákærða væri ekki gerð krafa um ákvörðun málsvarnarlauna vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti. Samkvæmt úrslitum málsins og framansögðu verður ákærði dæmdur til að greiða annan áfrýjunarkostnað málsins eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Ákærði, Júlíus Vífill Ingvarsson, sæti fangelsi í 6 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað eru staðfest. Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, 166.963 krónur. Sératkvæði Ólafs Barkar Þorvaldssonar 1. Ég er sammála meirihluta dómenda um að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að á bankareikningum þeim sem nefndir eru í ákæru hafi verið fjármunir sem voru að stofni til skattskyldar tekjur ákærða og að hluti fjármunanna hafi verið ávinningur af skattalagabrotum hans. Jafnframt er ég sammála því að meðferð ákærða á þessum ávinningi hafi falið í sér peningaþvætti samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Á hinn bóginn er ég ekki samþykkur niðurstöðu meirihlutans um að þetta brot hans skuli teljast ófyrnt. 2. Eins og greinir í atkvæði meirihluta dómenda hefur yfirlýst markmið með lagasetningu um peningaþvætti verið að samræma íslenskar reglur alþjóðlegum samningum og gerðum Evrópusambandsins sem ætlað er að koma í veg fyrir skipulagða glæpastarfsemi, einkum vegna fíkniefnabrota, kynferðisbrota og mansals. Að öðru leyti en því sem hér síðar verður rakið vísast í atkvæði meirihlutans þegar kemur að umfjöllun um þá margvíslegu lagasetningu sem átt hefur sér stað um málefnið allt frá árinu 1993. 3. Með lögum nr. 10/1997 um breytingu á almennum hegningarlögum var þvættisbrot látið ná til ávinnings af öllum brotum á þeim lögum og ákveðnum sérrefsilögum en ekki einvörðungu til þvættis ávinnings af fíkniefnabrotum og auðgunarbrotum, sbr. umfjöllun í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi að lögunum. Þar er rakið hvers vegna ekki þótti rétt að fara þá leið að víkka út ákvæði hegningarlaga um hlutdeild svo að uppfylla mætti alþjóðlegar skuldbindingar Íslands varðandi aðgerðir gegn peningaþvætti, heldur setja sérstakt ákvæði í hegningarlögin þar um, 264. gr. Þar sagði einnig að nýyrðið „peningaþvætti“ lýsti best inntaki þessa erlenda hugtaks sem ætti sér enga skýra samsvörun á sviði íslensks refsiréttar. Hugtakið „hylming“ þætti til dæmis of þröngt til að þjóna þessu hlutverki þótt það væri mjög eðlisskylt. Jafnframt sagði að ákvæði 22. gr. almennra hegningarlaga um hlutdeild næðu að nokkru leyti til þvættisbrota. Í 4. mgr. þeirrar greinar væri gerð refsiverð eftirfarandi hlutdeild sem fælist í því að veita brotamanni eða öðrum, eftir að brot væri fullframið, liðsinni til þess að halda við ólögmætum afleiðingum brots eða njóta hagnaðar af því. Ákvæði þetta áskildi þó að sá sem veitti liðsinni til að koma undan ávinningi nyti sjálfur hagnaðar af því, en það væri þrengri verknaðarlýsing en kæmi fram í 6. gr. svokallaðs þvættissamnings sem var annar af tveimur alþjóðasamningum er lágu til grundvallar lagasetningunni. Að auki sagði að ekki yrði þá unnt að refsa fyrir tilraun eða hlutdeild í þvættisbroti eins og krafist væri í þvættissamningnum þar sem brot samkvæmt 4. mgr. 22. gr. gæti ekki verið sjálfstætt brot heldur væri órjúfanlega tengt öðru broti. 4. Markmið lagabreytingarinnar var sagt tvíþætt. Annars vegar væri skýrlega gert refsivert að maður nyti ávinnings af broti sem annar hefði framið. Hins vegar væri lögð refsing við ýmsum aðferðum sem viðhafa mætti til að aðstoða við undanskot á ávinningi afbrota, án skilyrðis um að viðkomandi hefði nokkurn ábata af aðstoðinni. Væri tiltekin í ákvæðinu sú háttsemi að geyma, flytja eða aðstoða við afhendingu ávinnings en ekki reynt að telja með tæmandi hætti hvers konar aðstoð félli undir ákvæðið. Þannig yrði refsivert að stuðla á hvers konar annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af afbroti. Í dæmaskyni var nefnt að undir ákvæðið félli sú háttsemi að leyna, senda, millifæra af bankareikningum, umbreyta, veðsetja eða fjárfesta með ávinningnum. Síðan var áréttað að ákvæði 254. og 263. gr. almennra hegningarlaga um hylmingu í tengslum við auðgunarbrot stæðu áfram óbreytt en væru ekki felld inn í 264. gr. samkvæmt frumvarpinu. Yrði að líta á þessi ákvæði sem sérreglur gagnvart 264. gr. með gildissvið sem yrði eftir sem áður bundið við auðgunarbrot í XXVI. kafla laganna. 5. Með lögum nr. 149/2009 voru að nýju gerðar viðamiklar breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga um peningaþvætti, jafnframt því sem aukið var mjög við heimildir til upptöku eigna í tengslum við brot gegn peningaþvætti, sbr. VII. kafli A hegningarlaganna. Leiddi þetta til þess að ákvæði 264. gr. laganna spanna nú afar víðtækt svið og umfram þær lágmarkskröfur sem Ísland hefur að þjóðarétti skuldbundið sig til að uppfylla. Verður einnig ráðið að ákvæði 264. gr. séu víðtækari en sambærileg ákvæði sumstaðar annarsstaðar á Norðurlöndunum. 6. Ákvæði 1. mgr. 264. gr. taka nú eftir orðanna hljóðan yfir það að hver sá sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af refsiverðu broti eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að sex árum. Þá tekur 2. mgr. greinarinnar um sjálfsþvætti einnig til framangreindrar háttsemi að viðlagðri sömu refsingu. Samkvæmt 3. mgr. eru refsimörk vegna þvættis ávinnings af meiri háttar fíkniefnalagabroti samkvæmt 173. gr. a laganna höfð hærri eða 12 ár. Auk þess er peningaþvætti samkvæmt 1. mgr. 264. gr. refsivert að viðlagðri allt að sex mánaða fangelsisrefsingu þótt framið sé af gáleysi, sbr. 4. mgr. greinarinnar. 7. Til viðbótar þessu voru gerðar tvær breytingar með lögum nr. 149/2009 á 264. gr. sem í ljósi XXII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður einnig að telja að skipti máli í þessu sambandi. Fyrir breytinguna hafði í 3. mgr. 264. gr. sérstaklega verið kveðið á um að væri ávinningur smávægilegur og engin sérstök atvik ykju saknæmi brotsins skyldi mál ekki höfðað nema almannahagsmunir krefðust. Jafnframt hafði verið í síðari málslið 4. mgr. greinarinnar ákvæði um að fella mætti niður refsingu ef brotið sem ávinningur stafaði frá varðaði ekki þyngri refsingu en fangelsi allt að einu ári. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi að lögunum voru bæði þessi ákvæði felld brott með skírskotun til þess að í skýrslu svokallaðrar FATF-nefndar hefði verið vikið að því að ekki hefðu fengist skýringar á því af hálfu Íslands hvað teldist „smávægilegur“ ávinningur í þessu sambandi. Hvorki í ákvæðinu sjálfu né lögskýringargögnum væri að finna hlutlægt viðmið um þetta. Í ljósi eðlis og alvarleika peningaþvættis og þar sem refsihámark vegna slíks brots myndi hækka umtalsvert við breytingu á lögunum væri lagt til að ákvæði 3. mgr. 264. gr. félli brott. Þá sagði að sömu röksemdir væru fyrir þeirri tillögu að fella brott síðari málslið 4. mgr. greinarinnar, en efnislega væri ekki hróflað við því að refsa mætti fyrir gáleysisbrot. 8. Samkvæmt framansögðu ná ákvæði 264. gr. eftir efni sínu yfir hvers kyns háttsemi vegna smárra sem stórra refsiverðra brota sem hafa í för með sér einhvers konar fjárhagslegan ávinning og verður ekki séð að höfuðmáli skipti um heimfærslu hvort andlagið er mikils eða lítils virði og þá enn síður hvort það tengist skipulagðri brotastarfsemi eða ekki. Þá er heldur ekki gerð krafa um að fyrir liggi um hvaða frumbrot sé nákvæmlega að ræða sem liggur til grundvallar heldur nægir að ávinningur sé ekki af lögmætum toga og til kominn vegna refsiverðs brots, hvort heldur sem er á sérrefsilögum eða almennum hegningarlögum. Þarf heldur ekki að skipta máli hvort frumbrot er fyrnt eða ekki. Brot samkvæmt greininni má telja samhverft en ekki þarf að sína fram á tjón eða aðrar afleiðingar háttsemi svo hún verði heimfærð undir greinina. Til viðbótar ber að hafa í huga að samkvæmt orðalagi 264. gr. er leynd ekki nauðsynlegt skilyrði brots. Samkvæmt þessu má segja að hugtakið peningaþvætti sé ekki lýsandi um þá háttsemi sem greinin tekur til heldur fjallar hún almennt um ólögmæta meðferð ávinnings, eða margvíslega meðferð ólögmæts ávinnings, af ásetningi eða eftir atvikum af gáleysi og af fyrndum sem ófyrndum brotum. 9. Það er viðurkennd skýringarregla að sérhæfð refsiákvæði tæmi sök gagnvart öðrum almennari ef verknaðarlýsingar tveggja eða fleiri ákvæða taka til eins og sama afbrotsins þannig að einungis einu þeirra verði beitt um háttsemina. Getur þetta einkum komið til ef verknaðarlýsing í ákvæði er hluti af lýsingu þess ákvæðis sem látið er tæma sökina, háttsemin er metin sem einn verknaður og ákvæðið leggur að minnsta kosti jafnháa eða þyngri refsingu við henni. Við mat á þessu síðastnefnda hlýtur að koma til álita að líta ekki einungis til refsiramma heldur einnig til þess hvenær fyrningarfrestir byrja að líða. Ef ákvæði er látið tæma sök gagnvart einu eða fleiri ákvæðum þá er frumskilyrði að heimfæra megi háttsemina undir hvert og eitt það ákvæði sem um ræðir. Þegar litið er til þess hversu almenn og víðtæk ákvæði 264. gr. eru er síður en svo loku fyrir það skotið að önnur refsiákvæði geti í einhverjum tilvikum tæmt sök gagnvart greininni. Við mat á því skiptir ekki síst máli hvort viðtaka ávinnings af broti telst nauðsynlegur hluti fullframningar frumbrots eða hvort einhverjar viðbótarathafnir koma til í kjölfar frumbrotsins. Ætla má að fyrningarfrestur tæki þá að líða við fullframningu brotsins sem tæmir sökina. 10. Í 1. málslið 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga segir að fyrningartími taki að líða frá þeim degi er refsiverðum verknaði eða refsiverðu athafnaleysi lauk. Samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 81. gr. laganna fyrnast á 10 árum brot sem ekki liggur við þyngri refsing en 10 ára fangelsi, en samkvæmt 4. tölulið fyrnast brot á 15 árum ef þyngsta refsing við broti er meira en 10 ára tímabundið fangelsi. Eins og áður segir nær refsirammi fyrir brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. sex ára fangelsi og fyrnast þau brot því á 10 árum. Á hinn bóginn er refsihámark vegna peningaþvættis á ágóða vegna meiri háttar fíkniefnalagabrota allt að 12 ára fangelsi og fyrnast þau því á 15 árum. 11. Eins og að framan hefur verið nefnt eru ákvæði 254. gr. almennra hegningarlaga um hylmingu um margt keimlík ákvæðum 264. gr. laganna. Þannig varða báðar greinarnar geymslu og ýmiss konar meðferð ágóða sem fenginn er fyrir auðgunarbrot þótt verknaðarlýsing 264. gr. sé bæði víðtækari og taki einnig til ávinnings vegna annarra hagnaðarbrota. Þá er hún nokkuð fjarlægari háttsemislýsingu frumbrots en 254. gr. sem felur í raun í sér eftirfarandi hlutdeild, þótt ekki sé skilyrði refsiábyrgðar fyrir hylmingu að frumbrot sannist í refsimáli gegn þeim sem það framdi. Einnig er í 263. gr. laganna, líkt og í 4. mgr. 264. gr., gerð refsiverð viðtaka eða kaup á hlutum af gáleysi sem fengnir hafa verið fyrir auðgunarglæp. Gáleysið þarf þó að vera stórfellt. 12. Samkvæmt ákvæðum 254. gr. nægir til fullframningar brots að maður haldi ólöglega fyrir eiganda hlut eða öðru verðmæti sem aflað hefur verið með tilgreindum auðgunarbrotum, tekur þátt í ávinningi af slíku broti, aðstoðar annan mann til þess að halda slíkum ávinningi eða stuðlar á annan hátt að því að halda við ólöglegum afleiðingum brots. Með sambærilegum hætti eru brot samkvæmt 264. gr. fullframin þegar viðhöfð er einhver sú háttsemi sem tiltekin er í greininni. Í báðum þessum greinum felst efnisleg lýsing á fleiri en einu broti þótt virða megi þau sem eitt brot, brotaeind eða brotaheild, sem eftir atvikum getur falið í sér svokallað rýmkað ástandsbrot. Þegar svo háttar til er meginreglan sú að upphaf fyrningarfrests miðast við lok síðasta refsiverða verknaðar eða verknaðarþáttar, sbr. 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. 13. Þrátt fyrir þá brotaflokkun sem færa má ákvæði 254. gr. undir, eins og að framan er rakið, hefur upphafstími fyrningarfrests hylmingarbrota eigi að síður verið talinn hefjast um leið og brot er fullframið, óháð því hvort ástand það sem kemst á með hylmingunni varir um langa eða skamma hríð. Verður ekki séð að máli þurfi að skipta hvort á þeim tíma sé ráðist í áframhaldandi aðgerðir til að viðhalda hylmingu sama brotaandlags svo sem eins og að færa fjármuni milli bankareikninga. 14. Í refsirétti er almennt viðurkennt að það sé einkum alvarleiki brots sem ráða eigi lengd fyrningarfresta þótt vissulega skipti einnig máli önnur sjónarmið svo sem það hversu broti er auðleynt. Þá er meginreglan sú að miða fyrningarfresti við almenn refsimörk og sagði um það í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 20/1981 um breyting á almennum hegningarlögum að lögfesting þeirrar aðferðar horfði til að létta álagi af rannsóknar-, ákæru- og dómsvaldi, en refsimörk sem slík væru talin veita vísbendingu um það hversu alvarlegt brot sé. Jafnframt sagði að ýmsir örðugleikar væru í lagaframkvæmd við að afmarka upphaf fyrningarfrests en ógerlegt væri að leysa úr þeim álitamálum öllum í lagatexta. 15. Þrátt fyrir framanritað hefur 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga síðar tekið breytingum að þessu leyti. Þannig var með lögum nr. 23/2016 sett ákvæði í 2. málslið 1. mgr. greinarinnar þar sem talin eru upp nokkur dæmi þess að við tiltekin brot skuli miða við annan upphafstíma fyrningarfrests en í 1. málslið greinir. Líkt og framangreind ákvæði um peningaþvætti voru þessi ákvæði sett með vísan til alþjóðlegs samnings. 16. Í lögskýringargögnum með frumvarpi að lögum nr. 20/1981 var einnig sérstaklega tekið fram að við nokkur auðgunarbrot, sem leiða eigi til eða fela í sér tiltekið ástand er ríkir um lengri eða skemmri tíma, þyki réttmætt að miða upphaf fyrningar við það er maður kastar eign sinni á mun, sbr. 246. gr. almennra hegningarlaga, eða leggur launung á hann eða veitir honum viðtöku, enda sé hugrænum refsiskilyrðum fullnægt, sbr. 254. gr. laganna. Á hinn bóginn verður ekki séð að orð hafi verið haft um upphaf fyrningarfrests í lögskýringargögnum við setningu laga nr. 149/2009 eða fyrri laga er varða peningaþvætti en þó var höfðað mjög til skyldleika 264. gr. við 254. gr. og 263. gr. laganna. 17. Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið verður alls ekki með öruggum hætti ráðið hvernig fara skal með fyrningu vegna peningaþvættisbrota. Verði önnur regla um upphafstímamark fyrningarfrests látin gilda um 264. gr. en 254. gr. leiðir það til þess að unnt verður að koma höndum yfir ávinning af ýmsum brotum mörgum árum eftir að móttaka hans átti sér stað hafi hinn brotlegi eða annar móttakandi ávinnings ekki losað sig við hann. Verður að telja að brýnt tilefni hafi verið til að taka af skarið um það í lögum ef ætlunin var að haga málum með öðrum hætti en í tilviki hylmingarbrota, eins og upphafstíma fyrningar þeirra brota hefur mótast í framkvæmd og áréttað var í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 20/1981. Var löggjafanum í lófa lagið að haga skipan mála með skýrari hætti en gert er. Að þessu virtu og til samræmis við skýringarreglur sem gilda í refsirétti um jafn víðtæk ákvæði eins og um ræðir í 264. gr. almennra hegningarlaga, ber að beita þeirri lögskýringu af tveimur tækum sem er ákærða hagfelldari. Þegar allt framanritað er haft í huga er varhugavert annað en að telja að miða skuli upphafstíma fyrningarfrests þess brots sem um ræðir í máli þessu við fullframningu þess, líkt og gert hefur verið vegna eðlislíkra brota gegn 254. gr. almennra hegningarlaga. 18. Samkvæmt framansögðu verður einnig við það að miða að síðari millifærsla sama brotaandlags á árinu 2014 hafi ekki þýðingu við mat á upphafstíma fyrningarfrests. Fyrningartími var því liðinn er ákærði gaf fyrst skýrslu við rannsókn málsins og ber að sýkna hann af refsikröfu ákæruvalds og leggja sakarkostnað á öllum dómstigum á ríkissjóð. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=776e6999-051d-4ed9-98fc-713e34115e06
Mál nr. 38/2020
Atvinnuleysisbætur Viðurkenningarkrafa Vextir Dráttarvextir Eignarréttur Stjórnarskrá Lögskýring
Í málinu höfðu VR og J uppi kröfur sem reistar voru á því að A bæri að greiða dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu en ekki vexti samkvæmt 8. gr. sömu laga, á grundvelli 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, af atvinnuleysisbótum sem A hefði greitt J og félagsmönnum VR í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 501/2016. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að í 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 væri aðeins vísað um vexti af vangreiddum atvinnuleysisbótum til 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001. Talið var að orðalag 5. mgr. 39. gr. laganna og athugasemdir í greinargerð tækju af öll tvímæli um að kröfur um vangreiddar atvinnuleysisbætur skyldu aðeins bera vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 til þess dags sem þær væru greiddar en ekki dráttarvexti. Þótt tilefni vangreiðslu atvinnuleysisbóta hefði verið óvenjulegt væri ákvæði 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 svo skýrt og afdráttarlaust að því yrði með hliðsjón af 1. gr. laga nr. 38/2001 beitt framar almennum vaxtaákvæðum síðargreindu laganna. Þessi niðurstaða fengi einnig stoð í almennum lögskýringarsjónarmiðum um að sérlög gangi framar almennum lögum og yngri lög framar þeim eldri. Einnig var tekið fram að þótt krafa launamanns til atvinnuleysisbóta gæti notið verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar leiddi ekki af því eða meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar að hann gæti átt sjálfstæðan rétt til þess að vextir sem slík krafa bæri væru aðrir en kveðið væri á um í 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Var A því sýknað af kröfum VR og J.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 17. nóvember 2020. Áfrýjandi VR krefst þess að viðurkennt verði að félagsmenn hans „sem urðu fyrir því að atvinnuleysisbætur til þeirra voru skertar með óheimilum hætti á grundvelli 14. gr., sbr. e-lið 30. gr., laga nr. 125/2014 frá og með 1. janúar 2015, eigi kröfu um að stefnda, Atvinnuleysistryggingasjóði, sé skylt að greiða hinar vangoldnu bótagreiðslur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá og með gjalddögum hverrar greiðslu samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 54/2006 til greiðsludags.‟ Jafnframt krefst áfrýjandi VR þess að viðurkennt verði að höfðun máls þessa hafi rofið fyrningu krafna hlutaðeigandi félagsmanna hans til vangoldinna dráttarvaxta úr hendi stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum. 3. Áfrýjandi Jón krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 610.143 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 2. febrúar 2015 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 24. október 2017 að fjárhæð 653.924 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum. 4. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Ágreiningsefni 5. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort stefnda beri að greiða dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 eða vexti samkvæmt 8. gr. sömu laga, í samræmi við 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, af atvinnuleysisbótum sem hann greiddi áfrýjanda Jóni og félagsmönnum áfrýjanda VR í kjölfar dóms Hæstaréttar 1. júní 2017 í máli nr. 501/2016. 6. Áfrýjendur höfðuðu málið fyrir héraðsdómi 17. desember 2018. Niðurstaða héraðsdóms 5. júní 2019 var reist á því að réttur til dráttarvaxta eftir gjalddaga væri að jafnaði óaðskiljanlegur hluti peningakröfu. Með hliðsjón af sjónarmiðum um skýringu sérákvæða í lögum um rétt til dráttarvaxta var það niðurstaða dómsins að ákvæði 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 yrði ekki skýrt svo rúmt að það tæki til dráttarvaxta eftir að réttur hins tryggða til atvinnuleysisbóta yrði gjaldkræfur, svo sem gera yrði ráð fyrir að ætti við í málinu. Fallist var á að áfrýjendur ættu rétt til dráttarvaxta af kröfum sínum. 7. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms 25. september 2020 var meðal annars reist á því að réttur til atvinnuleysisbóta og fjárhæð þeirra væru að lögum háð ýmsum ytri þáttum sem gætu breyst eða fyrst komið í ljós eftir að hinum tryggða hefðu upphaflega verið ákvarðaðar bætur og hann hafið töku þeirra. Landsréttur taldi enn fremur að með vísan til orðalags 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 og lögskýringargagna með ákvæðinu yrði ályktað að sú vaxtaregla sem þar kæmi fram tæki til allra tilvika þar sem hinum tryggða hefðu ekki verið greiddar allar þær bætur sem hann ætti rétt á samkvæmt lögunum, hver svo sem ástæða þess væri. Efni ákvæðisins væri skýrt að þessu leyti og gengi það sem sérregla framar ákvæðum laga nr. 38/2001. Loks taldi Landsréttur að af stjórnarskrárvernd kröfu til atvinnuleysisbóta yrði ekki leiddur sjálfstæður réttur til þess að slíkar bætur væru með tilteknum hætti eða að vextir af kröfu til greiðslu þeirra væru aðrir en kveðið væri á um í viðeigandi löggjöf. Stefndi var því sýknaður af öllum kröfum beggja áfrýjenda. 8. Áfrýjunarleyfi var veitt 16. nóvember 2020 á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um rétt til vaxta vegna vangreiddra atvinnuleysisbóta en fyrir lægi að úrslit þess gætu skipt máli fyrir fjölda bótaþega. Málsatvik 9. Með 14. gr. laga nr. 125/2014 var tímabil sem atvinnuleysisbætur eru greiddar samkvæmt 29. gr. laga nr. 54/2006 stytt úr 36 í 30 mánuði. Í e-lið 30. gr. fyrrnefndu laganna var tekið fram að framangreind breyting tæki gildi 1. janúar 2015. Áfrýjendur halda því fram að þessi skerðing bótaréttar hafi tekið til að minnsta kosti 219 félagsmanna áfrýjanda VR, þar á meðal áfrýjanda Jóns. 10. Áfrýjendur höfðuðu upphaflega mál á hendur stefnda í þessu máli, Vinnumálastofnun, Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga og íslenska ríkinu 9. janúar 2015 og kröfðust viðurkenningar á því að fyrrnefnd stytting tímabils atvinnuleysisbóta hefði verið óheimil að því marki sem hún hefði skert virkan bótarétt félagsmanna áfrýjanda VR. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 501/2016 var viðurkenningarkrafa áfrýjenda á hendur stefndu í máli þessu tekin til greina en málinu vísað frá héraðsdómi hvað aðra stefndu varðaði. 11. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að þótt réttur til atvinnuleysisbóta teldist, eins og atvikum var háttað í því máli, til eignarréttinda sem nytu verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar gæti löggjafinn samkvæmt 2. gr. hennar sett þessum réttindum takmörk án þess að bætur þyrftu að koma fyrir. Þegar lög fælu í sér þungbæra skerðingu á eignarréttindum, sem félli undir 72. gr. stjórnarskrárinnar og fælist í virkum rétti til greiðslna sem væru grundvöllur framfærslu rétthafans, yrði að gera kröfur til eðlilegs samræmis milli þess markmiðs með skerðingunni sem löggjafinn stefndi að og þeirra leiða sem notaðar væru til þess að ná því. Í því fælist að löggjafinn yrði auk annars að gæta meðalhófs við slíka skerðingu eignarréttinda. Í ljósi markmiðs skerðingar á rétti til atvinnuleysisbóta hefði löggjafanum borið að gæta meðalhófs og tryggja að skerðingin kæmi ekki sérstaklega harkalega niður á þeim sem notið hefðu bóta eða átt virkan rétt til þeirra. Hæstiréttur taldi ljóst að það hefði ekki verið gert, að minnsta kosti ekki gagnvart hópi þeirra sem þegar hefðu notið bóta og misst þann rétt strax eða fljótlega í kjölfar gildistöku laganna. Hæstiréttur féllst því á kröfur áfrýjenda um viðurkenningu á því að stytting á tímabili atvinnuleysisbóta úr 36 mánuðum í 30, sem gerð var með lögum nr. 125/2014, hefði verið óheimil að því marki sem hún skerti bótarétt áfrýjanda Jóns og félagsmanna áfrýjanda VR sem þegið hefðu atvinnuleysisbætur 31. desember 2014 eða sótt um slíkar bætur 1. janúar 2015 eða síðar og hefðu haldið áfram að nýta rétt sinn til bótanna samkvæmt 4. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. 12. Í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 501/2016 greiddi stefndi atvinnuleysisbætur til þeirra félagsmanna áfrýjanda VR sem fengu ekki þær bætur sem þeim bar vegna setningar laga nr. 125/2014 og dómurinn tók til. Vextir af bótunum voru greiddir samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 á grundvelli 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Áfrýjandi Jón fékk þær atvinnuleysisbætur sem hann varð af vegna setningar laganna greiddar 24. október 2017 með þeim vöxtum. Niðurstaða 13. Dómkröfur áfrýjenda eru reistar á því að þeir eigi rétt til dráttarvaxta af kröfum um atvinnuleysisbætur sem stefndi greiddi á grundvelli viðurkenningardóms Hæstaréttar í máli nr. 501/2016. Ekki er ágreiningur um aðild málsins. 14. Sem fyrr greinir var ástæða þess að áfrýjandi Jón og þeir félagsmenn áfrýjanda VR sem málið varðar fengu ekki greiddar þær atvinnuleysisbætur frá stefnda sem krafa þeirra um dráttarvexti lýtur að sú að 14. gr. laga nr. 54/2006 var breytt með lögum nr. 125/2014 á þann veg að bótatímabil var stytt úr 36 í 30 mánuði. Í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 501/2016 voru atvinnuleysisbætur greiddar þeim sem niðurstaða dómsins tók til, í samræmi við réttindi hvers og eins samkvæmt lögum nr. 54/2006, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001. Áfrýjandi Jón fékk þannig greiddar atvinnuleysisbætur 24. október 2017 fyrir mánuðina janúar til apríl 2015 auk vaxta frá hverjum gjalddaga til greiðsludags samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 með vísan til 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. 15. Í máli þessu þarf fyrst og fremst að skera úr um það hvort fyrirmæli 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 verði túlkuð með þeim hætti að þau taki til vaxta af þeim kröfum sem um ræðir í máli þessu allt til þess dags sem þær voru greiddar eða hvort greiða beri dráttarvexti af kröfunum frá þeim gjalddögum þegar hefði átt að greiða bæturnar eftir almennum reglum III. kafla laga nr. 38/2001. 16. Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum þegar hinn tryggði hefur fengið lægri eða hærri bætur en hann átti rétt á. Í 1. mgr. greinarinnar er sérstaklega fjallað um leiðréttingu bóta þegar breytingar hafa orðið á tekjuskattsálagningu hins tryggða vegna tekna sem tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru byggðar á. Í 4. mgr. greinarinnar segir meðal annars að um innheimtu ofgreidds fjár fari samkvæmt 3. gr. laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda en ekki vísað til þeirra laga að öðru leyti. Í 5. mgr. greinarinnar er fjallað um greiðslu vaxta af vangreiddum atvinnuleysisbótum og segir þar: Hafi hinn tryggði fengið lægri atvinnuleysisbætur en honum bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber Vinnumálastofnun að greiða þá fjárhæð sem vangreidd var til hins tryggða ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Skulu vextir þessir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Sama á við þegar niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála leiðir til þess að hinn tryggði hafi átt rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum þessum en hafði áður verið synjað um þær eða reiknaðar lægri atvinnuleysisbætur. Þegar greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði eru vangreiddar vegna skorts á upplýsingum frá hinum tryggða falla vextir niður. 17. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars að stefndi greiði vexti fyrir tímabilið frá því að féð hefði átt að vera greitt úr sjóðnum til þess tíma að greiðslan væri innt af hendi og að miðað væri við að þeir yrðu jafnháir þeim vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákvæði að skyldu greiddir af skaðabótakröfum og kveðið væri á um í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001. 18. Þótt 39. gr. laga nr. 54/2006 fjalli einkum um leiðréttingu atvinnuleysisbóta til lækkunar eða hækkunar til samræmis við álagningu skattyfirvalda verður ekki af orðalagi 5. mgr. greinarinnar og fyrrnefndum athugasemdum annað ráðið en að þessu sérstaka vaxtaákvæði hafi verið ætlað að taka til vaxta af öllum vangreiddum atvinnuleysisbótum til þess tíma sem bæturnar færu úr vörslum stefnda þegar greiðsla þeirra væri innt af hendi. Hefði þá ekki þýðingu hvaða ástæða lægi að baki þeirri vangreiðslu og heldur ekki hvort of lítið eða ekkert hafi verið greitt á tilteknum gjalddaga. Ekki er þannig gert ráð fyrir því í 5. mgr. 39. gr. að dráttarvextir greiðist af slíkum kröfum. 19. Almenn fyrirmæli um vexti er að finna í lögum nr. 38/2001. Gildissvið laganna hvað vexti varðar er afmarkað í 1. mgr. 1. gr. með orðunum: „Lög þessi gilda um vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar og á öðrum sviðum réttarins, eftir því sem við getur átt, svo og um annað endurgjald sem áskilið er eða tekið fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar.“ 20. Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, sem vísað er til í 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, segir að kröfur um skaðabætur skuli bera vexti frá og með þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað. Þeir skuli á hverjum tíma vera jafnháir tveimur þriðju hlutum vaxta sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna. Í 9. gr. laganna segir hins vegar að skaðabótakröfur skuli bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. þeirra að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Dómstólar geti þó ef sérstaklega stendur á ákveðið annan upphafstíma dráttarvaxta. 21. Hin almennu ákvæði um dráttarvexti eru í III. kafla laga nr. 38/2001. Í 5. gr. laganna er kveðið á um hvenær kröfuhafa sé heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti. Segir þar að þegar gjalddagi kröfu hafi verið ákveðinn fyrirfram sé kröfuhafa heimilt að krefjast slíkra vaxta af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Í 1. mgr. 6. gr. laganna segir að dráttarvextir skuli vera samtala gildandi vaxta algengustu skammtímalána Seðlabanka Íslands til lánastofnana, auk sjö hundraðshluta álags, nema um annað sé samið samkvæmt 2. mgr. greinarinnar. 22. Dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 eru samkvæmt framansögðu mun hærri en vextir af skaðabótakröfum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna. Fyrirmæli 5. mgr. 39. gr. um að vextir af vangreiddum atvinnuleysisbótum skuli einungis bera vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. leiða þannig til mun lægri vaxtagreiðslna stefnda en ef fylgt væri almennum fyrirmælum 8. og 9. gr. laganna um vexti af skaðabótakröfum. Síðastnefnda ákvæðið mælir fyrir um að slíkar kröfur beri að jafnaði dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. 23. Af hálfu áfrýjenda er litið svo á að þegar réttur til atvinnuleysisbóta hefur stofnast og gjalddagi þeirra er kominn hafi stofnast krafa sem lúti ekki lengur ákvæðum laga nr. 54/2006 heldur fari um hana eftir almennum reglum kröfuréttar, svo sem um fyrningu, vexti og dráttarvexti. Ekki verður á þetta fallist. Þær kröfur um atvinnuleysisbætur sem mál þetta lýtur að eru af félagslegum toga og því allsherjarréttarlegs eðlis. Stefndi annast útreikninga á þeim í samræmi við ákvæði laga nr. 54/2006 og breytir það ekki eðli krafnanna þótt gjalddagi einstakra greiðslna sé upp runninn. Samkvæmt 1. gr. hinna almennu laga um vexti nr. 38/2001 taka þau til vaxta af slíkum kröfum eftir því sem við getur átt. Í athugasemdum við umrætt ákvæði í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 38/2001 er sérstaklega áréttað að lögin séu almenn lög og þeim sé ekki ætlað að raska ákvæðum sérlaga um vexti. 24. Í lögum á sviði allsherjarréttar má víða finna sérákvæði um vexti áþekk 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Þannig er til að mynda sambærilegt ákvæði um vexti í 3. mgr. 26. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur og er þar aðeins gert ráð fyrir greiðslu vaxta af vangreiddum húsnæðisbótum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 en ekki greiðslu dráttarvaxta. Í 5. mgr. 41. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof er fjallað um leiðréttingu vangreiddra greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í þeim tilvikum þegar greitt er minna en foreldri ber samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða þegar niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála leiðir til þess að foreldri telst hafa átt rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði en áður verið synjað um þær eða reiknaðar lægri greiðslur. Í ákvæðinu er ekki vísað til þess að það taki til vangreiðslu af „öðrum ástæðum” en vaxtafyrirmæli þess eru að öðru leyti sambærileg þeim sem er að finna í 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Í 8. gr. laga nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda er fjallað um endurgreiðslu oftekins fjár. Þar er aftur á móti gert ráð fyrir greiðslu bæði vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 og dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Í 4. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 segir að um innheimtu ofgreidds fjár úr Atvinnuleysistryggingarsjóði fari eftir 3. gr. fyrrnefndu laganna en það ákvæði mælir fyrir um að innheimtumenn ríkissjóðs annist innheimtuna. Að öðru leyti er ekki í lögum nr. 54/2006 vísað til laga nr. 150/2019 og verður vaxtaákvæðum 8. gr. þeirra því ekki beitt um vangreiddar atvinnuleysisbætur. Samkvæmt framangreindu er fyrirmælum um vaxtagreiðslur opinberra aðila háttað með ýmsum hætti í lögum. 25. Með hliðsjón af 1. gr. laga nr. 38/2001 má ætla að ef ekki er kveðið sérstaklega á um vexti af vangreiddum fjármunum í lögum á sviði allsherjarréttar fari um slíka vexti og eftir atvikum dráttarvexti eftir ákvæðum almennra vaxtalaga. Slíka vaxtaákvörðun er til dæmis að finna í dómi Hæstaréttar 16. október 2003 í máli nr. 549/2002 en þar var fallist á fjárkröfu einstaklings sem taldi sig eiga rétt til greiðslu tekjutryggingar án skerðingar vegna tekna maka og honum dæmdir dráttarvextir af kröfunni samkvæmt III. kafla eldri vaxtalaga nr. 25/1987. Fjárkrafan var höfð uppi með stoð í dómi Hæstaréttar 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000 þar sem viðurkennt var að óheimilt hefði verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap á þann hátt sem gert var í 5. mgr. 17. gr. þágildandi laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998. Þótt sú aðstaða sem uppi var í fyrrnefndum málum sé að mörgu leyti svipuð þeirri sem uppi er í þessu máli ber það á milli að gagnstætt því sem er í lögum nr. 54/2006 voru ekki nein ákvæði um vexti af vangreiddum bótum í lögum nr. 117/1993, sbr. hins vegar nú 4. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þá var ekki ágreiningur um vexti í málinu. Niðurstaða dóms Hæstaréttar í máli nr. 549/2002 hefur því ekki fordæmisgildi í þessu máli. 26. Sem fyrr segir er í 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 aðeins vísað um vexti af vangreiddum atvinnuleysisbótum til 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001. Orðalag 5. mgr. 39. gr. laga og athugasemdir í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 54/2006 taka þannig af öll tvímæli um að kröfur um vangreiddar atvinnuleysisbætur skuli aðeins bera vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 til þess dags sem þær eru greiddar en ekki dráttarvexti. Enda þótt tilefni vangreiðslu atvinnuleysisbóta hafi verið óvenjulegt er ákvæði 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 samkvæmt öllu framansögðu svo skýrt og afdráttarlaust að því verður með hliðsjón af 1. gr. laga nr. 38/2001 beitt framar almennum vaxtaákvæðum síðargreindu laganna. Þessi niðurstaða fær einnig stoð í almennum lögskýringarsjónarmiðum um að sérlög gangi framar almennum lögum og yngri lög framar þeim eldri. 27. Af hálfu áfrýjenda er jafnframt byggt á því að beiting 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um þær kröfur sem málið varði brjóti í bága við friðhelgi eignarréttar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar. Fallist er á þá forsendu hins áfrýjaða dóms að þótt krafa launamanns til atvinnuleysisbóta geti notið verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar leiði ekki af því eða meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar að hann eigi sjálfstæðan rétt til þess að vextir sem slík krafa beri séu aðrir en kveðið er á um í 5. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. 28. Að þeirri niðurstöðu fenginni að ekki hafi stofnast réttur til greiðslu dráttarvaxta af þeim atvinnuleysisbótum sem stefndi greiddi áfrýjanda Jóni og félagsmönnum áfrýjanda VR í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 501/2016 þarf ekki að skera úr um það í málinu hvort þeir hafi átt gjaldkræfa peningakröfu á réttum greiðsludögum bótanna. 29. Samkvæmt öllu framangreindu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. 30. Rétt er að hver aðili greiði sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=40f8ab4d-763f-4bc8-98a9-359cf938ec70
Mál nr. 14/2021
Kærumál Lögbirtingablað Stefnubirting Frávísun frá Landsrétti staðfest
Kærður var dómur Landsréttar þar sem máli D ehf. gegn F ehf. og P var vísað frá Landsrétti án kröfu. Var talið að ekki hefði verið heimild til að birta áfrýjunarstefnu málsins er varðaði P í Lögbirtingablaði samkvæmt b-lið 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem ekki hefði verið lögð fram beiðni um birtingu stefnunnar á Spáni þar sem P væri búsettur. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að áfrýjunarstefna hefði hvorki í tilviki F ehf. né P verið birt með þeim hætti sem lög áskilja. Var hinn kærði dómur því staðfestur en tekið fram að borið hefði að leiða það til lykta með úrskurði en ekki dómi sbr. 2. mgr. 164. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. febrúar 2021 sem barst réttinum degi síðar. Kærumálsgögn bárust réttinum 5. mars. Kærður er dómur Landsréttar 12. febrúar 2021 þar sem málinu var vísað frá réttinum. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. 4. Réttinum barst greinargerð varnaraðila þar sem þeir krefjast staðfestingar hins kærða dóms og kærumálskostnaðar. 5. Svo sem fram kemur í hinum kærða dómi var áfrýjunarstefna í tilviki hvorugs varnaraðila birt með þeim hætti sem lög áskilja, en ekki hefur verið leitt í ljós að yfirvöld á Spáni hafi neitað eða látið hjá líða að verða við ósk um birtingu áfrýjunarstefnu á hendur varnaraðila Pétri, sbr. b-lið 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991. Að þessu gættu og með vísan til forsendna hins kærða dóms verður hann staðfestur. 6. Kærumálskostnaður verður felldur niður. 7. Það athugast að þar sem úrlausn Landsréttar fól í sér lyktir máls án þess að það væri flutt um efni bar að leiða það til lykta með úrskurði en ekki dómi, sbr. 2. málsliður 2. mgr. 164. gr. laga nr. 91/1991. Dómsorð: Hinn kærði dómur er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=3e3b119a-c9c3-41d7-8082-dc812ce5e61f
Mál nr. 34/2020
Fíkniefnalagabrot Sönnunarmat Stjórnarskrá Réttlát málsmeðferð Milliliðalaus málsmeðferð Sannleiksregla Ómerking dóms Landsréttar
X var ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa ásamt Y staðið að innflutningi á fíkniefnum ætluðum til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Með héraðsdómi var Y sakfelldur en X sýknaður af ákærunni þar sem sök þótti ekki sönnuð gegn neitun hans. Með dómi Landsréttar var X sakfelldur fyrir brotið og gert að sæta fangelsi í 5 ár. Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti skoraðist X undan að gefa skýrslu um sakargiftir. Engin frekar sönnunarfærsla fór fram fyrir réttinum utan þess að spiluð var hljóðupptaka af skýrslu lögreglumanns. Í dómi Hæstaréttar kom fram að sá háttur Landsréttar að endurskoða þrátt fyrir þetta sönnunargildi munnlegra framburða X og Y, hefði verið í bága við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu og því í ósamræmi við áskilnað um réttláta málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hinn áfrýjaði dómur var því ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. nóvember 2020 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd. 3. Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verið ómerktur en til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Til þrautavara krefst hann þess að refsing sín verði milduð. Ágreiningsefni 4. Með ákæru héraðssaksóknara 21. desember 2017 var ákærða og Y (hér eftir nefndur meðákærði) gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið saman að innflutningi á samtals 11.550 millilítrum af vökva sem innihélt amfetamínbasa, sem hafði 23% styrkleika, ætlaðan til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Í verknaðarlýsingu ákærunnar sagði að þeir hefðu flutt fíkniefnin frá Póllandi til Íslands í 23 hálfslítraplastflöskum sem faldar voru í eldsneytistanki bifreiðar af gerðinni Citroen C5 með skráningarnúmerið [...] sem meðákærði var farþegi í og ákærði ók frá [...] í Póllandi til Þýskalands, þaðan til [...] í Danmörku og þaðan með farþegaferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar þriðjudaginn [...] 2017. Var þetta talið varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 5. Ákærði var sýknaður með héraðsdómi 25. apríl 2018 af brotinu þar sem sök þótti ekki sönnuð. Meðákærði var hins vegar sakfelldur fyrir brotið og refsing hans ákveðin fangelsi í 6 ár og 6 mánuði. Hann undi dóminum. Ákæruvaldið áfrýjaði málinu og krafðist þess að ákærði yrði sakfelldur í samræmi við ákæru og honum gerð refsing. Með dómi Landsréttar 20. desember 2019 var ákærði sakfelldur fyrir brotið og gert að sæta fangelsi í 5 ár. 6. Með ákvörðun Hæstaréttar 30. október 2020 var ákærða veitt leyfi til að áfrýja málinu til réttarins. Í ákvörðuninni var tekið fram að mikilvægt væri að fá úrlausn réttarins um hvort málsmeðferðin í Landsrétti hefði verið fullnægjandi með tilliti til meginreglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu. Þá væri jafnframt haft í huga að ákærði hefði verið sakfelldur í Landsrétti eftir að hafa verið sýknaður í héraði. Málsatvik 7. Eins og greinir í ákæru fóru ákærði og meðákærði akandi á Citroen bifreið frá [...] í Póllandi um Þýskaland og til [...] í Danmörku. Þeir munu hafa lagt af stað 29. september 2017 og ók ákærði bifreiðinni. Frá Danmörku tóku þeir ferjuna Norrænu til Seyðisfjarðar og komu til landsins 3. október sama ár. 8. Samkvæmt skýrslu tollgæslunnar voru ákærði og meðákærði teknir í úrtaksskoðun við komu til landsins. Töldu tollverðir að frásögn þeirra um að tilgangur fararinnar væri að leita sér að byggingarvinnu hér á landi hefði verið ótrúverðug í ljósi þess að þeir höfðu ekki með sér fatnað til slíkra starfa. Við ítarlega leit í bifreiðinni hefði seta aftursæta verið fjarlægð en við það hefði gosið upp mikil bensínlykt. Þar undir var eldsneytistankur bifreiðarinnar og hefði bensínsmit á loki tanksins bent til þess að átt hefði verið við hann. Þegar tankurinn var opnaður hefðu komið í ljós 23 flöskur með fíkniefnum en hver þeirra rúmaði hálfan lítra. Samtals nam það efni sem lagt var hald á 11.550 millilítrum. Eftir að efnin fundust voru ákærði og meðákærði handteknir og gert að sæta gæsluvarðhaldi frá 4. október 2017. Ákærði sætti gæsluvarðhaldi til 25. apríl 2018. 9. Tekin voru til rannsóknar sýni úr öllum flöskunum sem fundust í bifreiðinni. Samkvæmt matsgerðum Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði hjá Háskóla Íslands 16. október 2017 og 4. apríl 2018 reyndist amfetamínbasi vera 23% af þunga sýnis í þrettán flöskum og 24% í tíu flöskum. Með bréfi 13. október 2017 fór lögregla þess á leit að rannsóknarstofan léti í ljós álit á því, miðað við styrkleika efnisins, hvert magn þess gæti orðið í neyslustyrkleika. Í matsgerð rannsóknarstofunnar 23. sama mánaðar var talið að magn þess gæti orðið um 42 kílógrömm ef styrkleiki amfetamíns yrði um 5,8%, en það hlutfall tæki mið af meðaltalsstyrkleika þess efnis sem lögregla hefði lagt hald á árin 2005 og 2006. Miðað var við að 2% af efninu færu forgörðum við að breyta vökva í duft. Það tap gæti ekki verið minna en yrði væntanlega meira í höndum viðvaninga. Sönnunarfærsla fyrir Landsrétti 10. Í greinargerð til Landsréttar kom fram að ákæruvaldið teldi ekki nauðsynlegt að teknar yrðu munnlegar skýrslur fyrir réttinum. Þó tók ákæruvaldið fram að það teldi upplýsandi að spiluð yrði í réttinum skýrsla nafngreinds lögreglumanns fyrir héraðsdómi en hann hefði borið um óvenjuleg hljóð í bifreiðinni sem heyrst hefðu þegar hann ók henni frá Seyðisfirði til Egilsstaða. Í greinargerð ákærða til Landsréttar kom fram að ekki væri talin þörf á munnlegum skýrslum fyrir réttinum. Því væri hins vegar ekki andmælt að skýrsla lögreglumannsins yrði spiluð en það væri þó þarflaust sökum þess að vitnið væri eitt til frásagnar um hljóð í bifreiðinni og skýrsla þess lægi orðrétt fyrir í endurriti. 11. Landsréttur hélt undirbúningsþinghald 24. október 2019, samkvæmt 3. mgr. 204. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með sækjanda og verjanda ákærða. Þar kom fram breytt afstaða ákæruvaldsins til þess hvort ákærði gæfi skýrslu fyrir réttinum. Við nánari skoðun teldi ákæruvaldið í það minnsta nauðsynlegt að spila upptöku af skýrslu ákærða fyrir héraðsdómi og teldi rétturinn ástæðu til að ákærði gæfi skýrslu væri því ekki andmælt. Af hálfu verjanda ákærða kom fram að hann teldi ekki nauðsynlegt að ákærði gæfi skýrslu aftur fyrir Landsrétti en ekki væru gerðar athugasemdir við það. Loks áréttaði ákæruvaldið að spiluð yrði í réttinum fyrrgreind skýrsla lögreglumanns og var því ekki andmælt af hálfu verjanda ákærða. 12. Hinn 25. október 2019 tók Landsréttur þá ákvörðun, samkvæmt 2. mgr. 110. gr. og 1. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008, að beina því til ákæruvaldsins að leiða ákærða fyrir réttinn til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins. Einnig var ákveðið að spila við aðalmeðferðina skýrslu lögreglumannsins fyrir héraðsdómi en þar gaf hann símaskýrslu. 13. Við aðalmeðferð málsins í Landsrétti kom ákærði fyrir dóminn og neytti réttar síns samkvæmt 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 til að skorast undan að gefa skýrslu fyrir dómi um þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Einnig var spiluð hljóðupptaka af skýrslu lögreglumannsins. Frekari munnleg sönnunarfærsla fór ekki fram fyrir Landsrétti. Úrlausn málsins Meginreglan um milliliðalausa sönnunarfærslu 14. Svo sem áður greinir var ákvörðun Hæstaréttar um að heimila áfrýjun málsins reist á því að mikilvægt væri að fá úrlausn réttarins um hvort sú málsmeðferð sem fram fór í Landsrétti væri fullnægjandi með tilliti til meginreglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu. Ef annmarki verður talinn á aðferð við sönnunarmat sem er til þess fallinn að hafa áhrif á niðurstöðu máls getur það leitt til þess að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, sbr. dóm Hæstaréttar 15. október 2020 í máli nr. 16/2020. 15. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar ber öllum réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér með réttlátri málsmeðferð fyrir dómi. Efnislega hliðstætt ákvæði er í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur lagagildi hér á landi eftir lögum nr. 62/1994. Þáttur í réttlátri málsmeðferð hefur verið talinn að sönnunarfærsla í sakamálum skuli vera milliliðalaus, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 29. nóvember 2012 í máli nr. 429/2012. Nánari útfærslu á áskilnaðinum um réttláta málsmeðferð er að finna d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans, sem mælir fyrir um að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli ekki njóta minni réttar en að fá að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum. Jafnframt skuli séð til þess að vitni sem beri honum í vil komi fyrir dóm og séu spurð á sama hátt og þau vitni sem leidd eru gegn honum. Eins og nánar er rakið í dómi réttarins 18. febrúar 2021 í máli nr. 30/2020 er þessi áskilnaður talinn liður í réttlátri málsmeðferð samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. 16. Reglan um milliliðalausa sönnunarfærslu birtist einnig í 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 en þar segir að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð séu fram við meðferð máls fyrir dómi. Þá segir í 1. mgr. 112. gr. sömu laga að öflun sönnunargagna skuli að jafnaði fara fram fyrir þeim dómara sem fer með málið og kveður upp dóm í því. Þessar reglur gilda um meðferð máls fyrir Landsrétti, sbr. 210. gr. laganna. 17. Í umræddri reglu felst að ákærði og vitni, sem leidd eru fyrir dóm, skuli gefa skýrslu fyrir þeim dómendum sem skera úr um sekt eða sýknu ákærða, auk þess sem skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn skulu lögð fyrir þá. Að baki þessu búa þau rök að með því að dómari kynni sér sönnunargögn af eigin raun, þar á meðal hlýði sjálfur á framburð ákærða og vitna, sé líklegra að hann dæmi málið á réttum grundvelli. Þetta er í samræmi við aðra meginreglu sem gildir í sakamálaréttarfari um að leiða skuli hið sanna í ljós eða það sem nefnt hefur verið sannleiksreglan. 18. Hæstiréttur hefur ítrekað slegið því föstu að líta beri til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu við skýringu ákvæða mannréttindasáttmálans þegar reynir á hann sem hluta af landsrétti. Jafnframt ber að skýra önnur lög til samræmis við sáttmálann og úrlausnir mannréttindadómstólsins enda verður að gera ráð fyrir að þau samrýmist skuldbindingum Íslands að þjóðarétti í samræmi við þá venjuhelguðu reglu í norrænum rétti að lög verði túlkuð til samræmis við þjóðréttarsamninga eftir því sem frekast er kostur. Hér má meðal annars vísa til dóms Hæstaréttar 19. maí 2005 í máli nr. 520/2004 þar sem vísað var til túlkunar mannréttindadómstólsins á d-lið 3. mgr. 6. gr. sáttmálans. 19. Í dómaframkvæmd mannréttindadómstólsins hefur ítrekað reynt á þær kröfur sem gerðar eru til milliliðalausrar sönnunarfærslu til að tryggja réttláta málsmeðferð á áfrýjunarstigi við endurskoðun á dómi undirréttar sem sýknað hefur ákærða. Hér má nefna dóma 19. febrúar 1996 í máli nr. 16206/90, Botten gegn Noregi, 5. júlí 2011 í máli 8999/07, Dan gegn Moldóvu, og 9. janúar 2018 í máli nr. 36676/06, Ghincea gegn Rúmeníu. Að því er varðar dómsmál rekin hér á landi má benda á dóm réttarins 15. júlí 2003 í máli nr. 44671/98, Sigurþór Arnarsson gegn Íslandi, og dóma réttarins 16. júlí 2019 í máli nr. 36292/14, Styrmir Þór Bragason gegn Íslandi, og máli nr. 38797/17, Júlíus Þór Sigurþórsson gegn Íslandi. Af þessum dómum má meðal annars draga þá ályktun að á dómstóli á áfrýjunarstigi geti hvílt frumkvæðisskylda við sönnunarfærslu svo að til álita komi að ákærði verði sakfelldur fyrir æðri dómi eftir að hafa verið sýknaður á lægra dómstigi. 20. Í samræmi við fyrrgreinda sannleiksreglu getur dómari þurft að hafa frumkvæði að því að viðhlítandi upplýsingar komi fram í máli svo að það verði dæmt á réttum grundvelli. Þannig segir í 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 að eftir því sem dómari telur nauðsynlegt til að upplýsa mál eða skýra það sé honum rétt að beina því til ákæranda að afla gagna um tiltekin atriði þess. Þessi grunnregla kemur einnig fram í 168. gr. sömu laga en þar segir að telji dómari eftir dómtöku máls nauðsynlegt að fram komi frekari gögn ellegar að spyrja þurfi ákærða eða vitni nánar skuli hann kveðja aðila fyrir dóm og eftir atvikum leggja spurningar fyrir þá og beina því til ákæranda að afla frekari gagna eða leiða tiltekin vitni fyrir dóm. Þetta á einnig við um meðferð mála fyrir Landsrétti, sbr. 210. gr. laganna. Jafnframt segir í 2. mgr. 204. gr. laganna að Landsréttur geti beint því til aðila að afla gagna um tiltekin atriði til að ráða bót á málatilbúnaði sem er áfátt. Hvað sem þessu líður skal áréttað að sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag hvílir á ákæruvaldinu, auk þess sem allan skynsamlegan vafa um sönnun ber að virða honum í hag, sbr. 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laganna. Af þessu leiðir að ákærði verður sýknaður ef ákæruvaldið axlar ekki þá sönnunarbyrði sem á því hvílir. Hér er þess jafnframt að gæta að enn ríkari skyldur hvíla á ákæruvaldinu að þessu leyti við meðferð áfrýjaðs máls þegar ákærði hefur verið sýknaður í héraði enda hefur ákærði skiljanlega síður hagsmuni af því að sönnunarfærsla verði endurtekin þegar þannig hagar til. Reglur um sönnunarfærslu fyrir Landsrétti 21. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 196. gr. laga nr. 88/2008 verður héraðsdómi áfrýjað til Landsréttar til að fá endurskoðun á niðurstöðum sem byggðar eru á mati á sönnunargildi gagna eða munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi. Í e-lið 2. mgr. 203. gr. laganna segir síðan að í greinargerð málsaðila skuli koma fram hvort hann telur nauðsynlegt að afla munnlegra skýrslna fyrir Landsrétti, og þá hverra, ásamt rökstuðningi þar að lútandi, þar á meðal fyrir því hvers vegna ekki sé nægjanlegt að byggja á hljóð- og myndupptökum, sbr. 3. mgr. 13. gr. laganna. Jafnframt skal koma fram hvaða upptökur af skýrslum fyrir héraðsdómi aðili telji nauðsynlegt að spila við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti. Dómsformaður tekur að jafnaði einn ákvörðun um hvaða skýrslur verði teknar fyrir dóminum eða spilaðar þar, eftir atvikum að undangengnu undirbúningsþinghaldi, sbr. 3. mgr. 204. gr. og 3. málslið 2. mgr. 205. gr. laganna. Aðalmeðferð með sönnunarfærslu fer síðan fram í samræmi við 1. mgr. 206 gr. laganna. 22. Umræddum ákvæðum laga nr. 88/2008 var komið í þetta horf með lögum nr. 49/2016 en þau ásamt lögum nr. 50/2016 um dómstóla fólu í sér þá breytingu á dómstólaskipaninni að dómstigum var fjölgað úr tveimur í þrjú með Landsrétt sem millidómstig. Í því fólst sú meginbreyting að heimilt var að leita endurskoðunar á áfrýjunarstigi á öllum þáttum héraðsdóms, þar á meðal mati á sönnunargildi munnlegs framburðar eftir þeim reglum sem hér hafa verið raktar. 23. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 49/2016 kom fram að meðal helstu nýmæla frumvarpsins var að allar skýrslutökur í héraði yrðu teknar upp í hljóði og mynd til að unnt yrði að spila upptökurnar við aðalmeðferð fyrir Landsrétti ef þess gerðist þörf við endurskoðun sönnunarmats. Í athugasemdum við 59. gr. frumvarpsins sagði jafnframt að talsverðar breytingar yrðu á sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi við aðalmeðferð í sakamálum með tilkomu Landsréttar og væru þær fyrst og fremst í anda meginreglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu. Í frumvarpinu væri gert ráð fyrir að málsaðilum gæfist kostur á að leiða ný vitni og taka viðbótarskýrslur af ákærðu og vitnum sem gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Þá yrðu allar skýrslur í héraði teknar upp í hljóði og mynd og afrit af upptökunum send Landsrétti sem hluti af gögnum máls. Myndupptökurnar yrðu þannig aðgengilegar dómurum sakamáls í Landsrétti en að auki yrði unnt að fara fram á að einstakar skýrslur eða hluti af þeim yrðu spilaðar við aðalmeðferð máls ef þörf þætti vegna endurmats á sönnunargildi munnlegs framburðar. Eftir sem áður væri þó gert ráð fyrir að við sönnunarfærslu fyrir Landsrétti yrði að miklu leyti stuðst við endurrit af framburði ákærðu og vitna fyrir héraðsdómi, enda væri mikið hagræði í því fólgið fyrir málsaðila og dómendur og málsmeðferðin yrði til muna skilvirkari með því móti. Sá möguleiki að leiða ný vitni og taka viðbótarskýrslur, svo og að spila upptökur af skýrslum sem teknar voru í héraði, væri til þess fallinn að Landsréttur gæti endurskoðað sönnunargildi munnlegs framburðar og skorið úr um sekt eða sýknu á grundvelli heildarmats á öllum sönnunargögnum, þar með talið munnlegum framburði. Niðurstaða 24. Í niðurstöðu sinni vísaði héraðsdómur til þess að meðákærði hefði fengið ákærða til ferðarinnar til Íslands sem bílstjóra. Ekkert lægi fyrir um að ákærði hefði haft nokkur samskipti við aðra í Póllandi en meðákærða fyrir ferðina. Ákærði hefði ekki vitað hvaða erindi meðákærði átti til landsins og ekkert vitað um þann mann sem meðákærði kvað hafa fengið sig til fararinnar. Þá væru hvorki fyrir hendi upplýsingar um símtöl né smáskilaboð sem tengdu ákærða við málið þannig að benti til sektar hans eins og raunin væri með meðákærða. Enginn vitnisburður eða önnur gögn tengdu ákærða þannig við málið að unnt væri að draga af þeim þá ályktun að hann hefði vitað eða mátt vita af fíkniefnum sem falin voru í eldsneytistanki bifreiðarinnar. Að öllu þessu og öðrum gögnum málsins virtum þótti sök ákærða ósönnuð gegn neitun hans og var hann sýknaður. Af þessu má ætla að héraðsdómur hafi talið að ekkert væri komið fram sem dregið gæti úr trúverðugleika framburðar ákærða. Aftur á móti taldi héraðsdómur frásögn meðákærða ótrúverðuga um þátt hans og sakfelldi hann. 25. Með hliðsjón af þessari niðurstöðu héraðsdóms um sýknu ákærða og þegar virt er sönnunarstaða málsins var óhjákvæmilegt að sönnunarfærsla færi fram fyrir Landsrétti og þurfti hún að vera milliliðalaus í samræmi við þær reglur sem hér hafa verið raktar. Við þetta sönnunarmat þurfti ákærði og eftir atvikum meðákærði að gefa skýrslu fyrir réttinum og ef það var ekki unnt, svo sem vegna þess að þeir neyttu réttar til að skorast undan því, gat endurskoðun á sönnunarmati héraðsdóms farið fram með því að spila upptökur í hljóði og mynd af skýrslum þeirra í héraði í samræmi við fyrrgreindar reglur laga nr. 88/2008. Um gildi slíkrar sönnunarfærslu má til hliðsjónar benda á fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 30/2020. Í þessum efnum verður aftur á móti ekki fallist á með ákæruvaldinu að það eitt dugi að dómurinn hafi haft aðgang að upptökunum sem eru meðal gagna málsins án þess að nokkuð liggi fyrir um hvort dómendur hafi skoðað þær. Til að rétturinn geti með viðhlítandi hætti endurskoðað sönnunarmat héraðsdóms að þessu leyti er nauðsynlegt að upptökur sem skipta máli við sönnunarmat séu spilaðar við aðalmeðferð málsins þannig að málflutningur í kjölfarið geti tekið til þeirrar sönnunarfærslu. Jafnframt getur að þessu leyti hvílt skylda á réttinum til að hafa frumkvæði að slíkri sönnunarfærslu sem lýtur að upptökum sem liggja fyrir í gögnum málsins. 26. Eins og áður er rakið skoraðist ákærði undan að gefa skýrslu um sakargiftir fyrir Landsrétti. Því fór engin sönnunarfærsla fram fyrir réttinum ef frá er talið að spiluð var símaskýrsla fyrir héraðsdómi af lögreglumanni sem ók bifreiðinni með fíkniefnunum frá Seyðisfirði til Egilsstaða. Þrátt fyrir þetta endurskoðaði Landsréttur sönnunargildi munnlegra framburða og komst að þeirri niðurstöðu að skýringar ákærða og meðákærða um að tilgangur ferðarinnar hefði í og með verið atvinnuleit væru mjög óljósar og ótrúverðugar, sbr. 13. og 16. lið dómsins. Þessi aðferð við sönnunarmat Landsréttar fór í bága við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu og var því í ósamræmi við áskilnað um réttláta málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þar sem aðferð við sönnunarmatið var að þessu leyti ófullnægjandi verður að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. 27. Í málinu er ákærði saksóttur fyrir brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga. Ekki verður refsað fyrir slíkt brot nema ásetningur hafi staðið til þess enda hefur ákvæðið ekki að geyma sérstaka heimild til að refsa fyrir gáleysisbrot, sbr. 18. gr. laganna. Í hinum áfrýjaða dómi sagði að miðað við þá málsvörn ákærða að honum hefði verið alls ókunnugt um að fíkniefni væru falin í eldsneytistanki bifreiðarinnar réðist niðurstaða málsins af mati á því hvort ákærði hafi „mátt vita“ eða að líklegt væri að tilgangur fararinnar væri að flytja ólögleg fíkniefni til landsins, sbr. 12. lið dómsins. Jafnframt sagði í dóminum að gögn málsins gæfu tilefni til að ætla að ákærði hefði hlotið að vita eða „mátt vita“ eða „mátt gera sér grein fyrir“ að fíkniefnin gætu verið falin í bifreiðinni, sbr. 14. og 16. lið dómsins. Þá sagði í héraðsdómi, eins og áður greinir, að ekkert benti til að ákærði hefði vitað eða „mátt vita“ að fíkniefni væru falin í bifreiðinni. Þessi röksemdafærsla lýtur öðrum þræði að gáleysi sem grundvelli saknæmis en það á ekki við um brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga eins og rakið hefur verið. 28. Ákvörðun um sakarkostnað bíður nýs dóms í málinu. Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða með virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Bjarna G. Björgvinssonar lögmanns, 1.240.000 krónur. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=32d416ad-066d-40f3-bc41-21b10465d558&verdictid=53d76187-1ff6-41d9-b8fc-ae9e23d382c6
Mál nr. 35/2019
Endurupptaka Markaðsmisnotkun Fjármálafyrirtæki Skilorð
Í málinu var SÞÁ, sem bankastjóri L hf.,ákærður fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti með því að starfsmenn eigin fjárfestinga L hf., að hans undirlagi, hefðu með tilboðum og viðskiptum fyrir eigin reikning L hf. með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í viðskiptakerfi kauphallarinnar á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008, samtals 228 viðskiptadaga, tryggt óeðlilegt verð og búið til verð á hlutabréfunum sem gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna. Með ákvörðun Hæstaréttar 27. maí 2020 var hafnað að vísa málinu frá réttinum þar sem ekkert hefði komið fram sem hnekkt hefði því mati endurupptökunefndar að fyrir hendi hefðu verið aðstæður sem fallnar hefðu verið til að draga óhlutdrægni dómara í hæstaréttarmáli nr. 842/2014 með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Þegar af þeirri ástæðu var skilyrðum d-liðar 1. mgr. 228. gr. laganna fyrir endurupptöku málsins fullnægt og það tekið til efnismeðferðar. Í dómi Hæstaréttar var lagt til grundvallar að starfshættir deildar eigin fjárfestingar L hf. hefði gefið eða verið líklegir til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í L hf. ranglega eða misvísandi til kynna, sbr. a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Tekið var fram að eins og málið lægi fyrir réttinum kæmi einungis til álita að sakfella SÞÁ fyrir það tímabil sem hann hafði verið sakfelldur fyrir í hinum áfrýjaða dómi, það er 29. september til 3. október 2008. Þá var vísað til þess að niðurstaða um sakfellingu SÞÁ hefði ráðist fyrst og fremst af setu hans í fjármálanefnd L hf. og stöðu sem æðsta stjórnanda verðbréfasviðs bankans. Var talið sannað að starfsmenn eigin fjárfestinga hefðu ekki framkvæmt hin umfangsmiklu kaup á eigin bréfum á fyrrnefndu tímabili án vitundar og samþykkis SÞÁ og að viðskiptin sem um ræddi hefðu verið að undirlagi hans. Var því niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu SÞÁ staðfest. Var refsing SÞÁ ákveðin fangelsi í 9 mánuði en meðal annars með hliðsjón af því að meðferð málsins hefði tafist þar á meðal vegna endurupptöku þess var refsing skilorðsbundin til tveggja ára.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Karl Axelsson og Ása Ólafsdóttir og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari, Símon Sigvaldason landsréttardómari og Skúli Magnússon settur landsréttardómari. Með bréfi til endurupptökunefndar 9. febrúar 2017 leitaði Sigurjón Þorvaldur Árnason eftir því að hæstaréttarmálið nr. 842/2014, sem dæmt var 4. febrúar 2016, yrði endurupptekið á grundvelli núgildandi ákvæðis 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 228. gr. sömu laga. Nefndin varð við þeirri beiðni með úrskurði 12. maí 2019 í máli nr. 6/2017 hvað hann varðaði. Af því tilefni gaf ríkissaksóknari út fyrirkall 3. júní 2019 vegna endurupptöku málsins sem birt var fyrir dómfellda 11. júní 2019. Svo sem síðar greinir hafnaði Hæstiréttur kröfu ákæruvaldsins um frávísun málsins með ákvörðun 27. maí 2020. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá Hæstarétti. Til vara að ákærði verði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í I. kafla ákæru og dæmdur til refsingar samkvæmt ákæru. Jafnframt krefst ákæruvaldið þess í því tilviki að refsing ákærða verði þyngd. Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að sér verði gerð vægasta refsing sem lög heimila. I Með bréfi 19. október 2010 beindi Fjármálaeftirlitið kæru til embættis sérstaks saksóknara „vegna meintrar markaðsmisnotkunar með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf.“ á tímabilinu maí 2003 til október 2008. Í henni kom meðal annars fram að Kauphöll Íslands hafi í október 2008 vakið athygli Fjármálaeftirlitsins „á grunsamlegum viðskiptum í aðdraganda falls viðskiptabankanna þriggja“ og jafnframt sent minnisblað til stofnunarinnar í janúar 2009 „þar sem þessi viðskipti voru nánar útlistuð“. Þegar Fjármálaeftirlitið hóf rannsókn á málinu hafi verið „komnar fram vísbendingar um afmörkuð tilvik meintrar markaðsmisnotkunar ... í aðdraganda bankahrunsins.“ Hins vegar hafi fljótlega vaknað grunur um að deild eigin fjárfestinga í Landsbanka Íslands hf. (EFL) „hafi verið beitt með skipulögðum hætti í þeim tilgangi að hækka eða styðja við gengi hlutabréfa sem gefin voru út af Landsbankanum, yfir margra ára tímabil en ekki einungis í aðdraganda bankahrunsins.“ Í kæru Fjármálaeftirlitsins til saksóknara voru 18 fyrrverandi starfsmenn Landsbanka Íslands hf., þeirra á meðal ákærði, sakaðir um brot á lögum um verðbréfaviðskipti vegna framangreindrar háttsemi. Embætti sérstaks saksóknara gaf út ákæru 15. mars 2013 á hendur ákærða auk dómfelldu ÍG, JHS, SS, SES og SG. Þær sakargiftir sem fjallað er um í þessu máli komu fram í I. kafla ákærunnar. Þar var ákærða sem bankastjóra Landsbanka Íslands hf., dómfellda ÍG sem forstöðumanni EFL og dómfelldu JSH og SS, sem starfsmönnum þeirrar deildar, gefin að sök „markaðsmisnotkun í sameiningu í störfum sínum fyrir bankann í tilboðum og viðskiptum fyrir eigin reikning Landsbankans með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands hf. ... á tímabilinu frá og með 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008, samtals 228 viðskiptadaga, sem tryggðu óeðlilegt verð og bjuggu til verð á hlutabréfunum og gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna.“ Í ákærunni var markaðsmisnotkunin sögð „framkvæmd af“ dómfelldu JSH og SS „að undirlagi“ ákærða og dómfellda ÍG. Hefðu þeir fyrrnefndu, sem önnuðust fjárfestingar fyrir bankann sjálfan, lagt fram fyrir hans hönd „í upphafi hvers viðskiptadags á tímabilinu, röð stórra kauptilboða með litlu innbyrðis verðbili í hlutabréf í Landsbankanum í tilboðabók Kauphallarinnar. Þegar framboð á hlutabréfum í Landsbankanum í tilboðabók Kauphallarinnar hafi orðið meira en eftirspurn annarra markaðsaðila en Landsbankans“ hefðu dómfelldu JSH og SS að jafnaði mætt „auknu framboði með því að bæta við nýjum kauptilboðum jafnharðan og fyrri tilboðum þeirra var tekið“ og þannig komið ýmist í veg fyrir eða hægt á verðlækkun bréfanna. Þá hafi hlutfall kaupa þeirra á hlutabréfunum í umræddum viðskiptum að jafnaði hækkað við lok viðskiptadags og þeir þannig haft áhrif á dagslokaverð þeirra. Síðan sagði í ákærunni: „Kaup eigin fjárfestinga Landsbankans á hlutabréfum í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á áðurgreindu tímabili voru umfangsmikil og kerfisbundin, enda voru þau verulegur hluti af heildarveltu með hlutabréf í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á tímabilinu. ... Með þessum umfangsmiklu kauptilboðum og kaupum, en óverulegu magni sölutilboða og sölu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum, komu ákærðu ýmist í veg fyrir eða hægðu á lækkun á verði hlutabréfa í Landsbankanum og mynduðu þannig gólf í verðmyndun á hlutabréfunum. Um var að ræða ólögmætt inngrip í gangverk markaðarins sem hafði áhrif á markaðsgengi hlutabréfa í Landsbankanum, tryggði óeðlilegt verð á hlutabréfunum á tímabilinu, bjó til verð á hlutabréfunum og gaf eða var líklegt til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna. Með háttsemi sinni röskuðu ákærðu þeim forsendum og lögmálum sem liggja að baki eðlilegri verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði með því að auka seljanleika hlutabréfa í Landsbankanum með ólögmætum hætti.“ Í niðurlagi ákærukaflans sagði svo: „Hin miklu kaup eigin fjárfestinga Landsbankans á hlutabréfum í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum umfram sölu leiddu til þess að hlutabréfin söfnuðust upp hjá bankanum. Vegna lögbundinna takmarkana á eignarhaldi fjármálafyrirtækja á eigin hlutabréfum, reglna um flöggunarskyldu og neikvæðra áhrifa á eiginfjárhlutfall Landsbankans þurfti að losa Landsbankann við hlutabréfin til þess að unnt væri að halda áfram umfangsmiklum kaupum á hlutabréfum í Landsbankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum. Það var meðal annars gert með sölu á þeim í stórum utanþingsviðskiptum, fyrir tilstilli verðbréfamiðlunar Landsbankans.“ Var háttsemin talin varða við a- og b-liði 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Í II. kafla ákærunnar var ákærða ásamt dómfelldu SES gefin að sök umboðssvik með því að hafa veitt einkahlutafélaginu Imon lán 30. september 2008 til að fjármagna kaup þess á hlutum í Landsbanka Íslands hf. án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins. Jafnframt voru þau sökuð um markaðsmisnotkun við sölu bankans á hlutunum þar sem með viðskiptunum og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallarinnar 1. október 2008 hefði verið ranglega látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt til fé til kaupa á rúmlega 2% útgefins hlutafjár í Landsbanka Íslands hf. og borið af þeim fulla markaðsáhættu. Í III. og IV. kafla ákærunnar var ákærða ásamt dómfellda SG gefin að sök markaðsmisnotkun við sölu bankans á eigin hlutum 3. október 2008, annars vegar til Imon ehf. og hins vegar Azalea Resources Ltd., sem samtals hafi numið rúmlega 3,5% útgefins hlutafjár í Landsbanka Íslands hf., án þess að gengið hafi verið frá fjármögnun hlutabréfakaupanna. Með því hafi eftirspurn bréfanna verið gefin ranglega og misvísandi til kynna eða verið líkleg til að gera það og viðskiptin falið í sér blekkingu og sýndarmennsku þar sem með þeim og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallarinnar hafi verið ranglega látið líta svo út að fjárfestar hefðu lagt fé til kaupa á bréfunum og borið fulla markaðsáhættu af viðskiptunum. Með heimild í 2. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 ákvað héraðsdómur 12. júní 2013 að skilja sakarefni samkvæmt II., III. og IV. kafla ákærunnar frá máli því sem hér um ræðir. Með dómi Hæstaréttar 8. október 2015 í máli nr. 456/2014 var ákærði, SES og SG sakfelld með nánar tilgreindum hætti fyrir háttsemi samkvæmt ákæruköflunum þremur. Sætir það mál, nr. 34/2019, nú sambærilegri málsmeðferð fyrir Hæstarétti og mál þetta á grundvelli ákvörðunar endurupptökunefndar um endurupptöku málsins gagnvart ákærðu Sigurjóni Þorvaldi og SES með úrskurðum 12. maí 2019 í málum nr. 7 og 11/2016 og er dómur í því máli kveðinn upp samhliða þessum dómi. II 1 Mál ákæruvaldsins á hendur ákærða, auk annarra framangreindra, var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 24. apríl 2013. Héraðsdómur kvað upp efnisdóm í málinu 19. nóvember 2014 þar sem ákærði og dómfelldu ÍG og JSH voru sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt I. kafla ákærunnar, en einungis vegna tímabilsins 29. september til 3. október 2008. Dómfelldi SS var sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Var refsing ákærða ákveðin fangelsi í 12 mánuði en frestað var fullnustu níu mánaða refsingarinnar og skyldi hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins héldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 2 Ákæruvaldið og ákærði áfrýjuðu héraðsdómi til Hæstaréttar 21. nóvember 2014 sem kvað upp dóm 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014. Var ákærði sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun allt ákærutímabilið þar sem hann hefði, sem annar af bankastjórum Landsbanka Íslands hf. og formaður fjármálanefndar bankans, haft yfirsýn yfir starfsemi verðbréfasviðs bankans, þar á meðal EFL, og hefðu hin umfangsmiklu kaup deildarinnar á hlutum í Landsbanka Íslands hf., eins og að þeim hefði verið staðið, ekki getað farið fram án vilja hans og vitundar. Þá var talið sannað að dómfelldi ÍG hefði gefið dómfelldu JSH og SS fyrirmæli um hvernig þeir skyldu standa almennt að viðskiptum með hluti í Landsbanka Íslands hf. í Kauphöllinni og fylgst náið með þeim. Dómfelldu JSH og SS voru einnig sakfelldir samkvæmt ákæru þar sem talið var að ekki léki neinn vafi á því að sá mikli fjöldi tilboða sem þeir gerðu og þau umfangsmiklu viðskipti sem þeir hefðu átt þátt í að koma á hefðu gefið eða í það minnsta verið líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. ranglega eða misvísandi til kynna. Með hliðsjón af því hvernig staðið hefði verið að viðskiptunum allt ákærutímabilið var talið, öndvert við dóm héraðsdóms, að skýringar dómfelldu á viðskiptahegðun sinni á ákærutímabilinu hefðu enga þýðingu um sekt eða sýknu af þeim sökum sem þeir voru bornir. Voru brot allra framangreindra heimfærð undir a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 en ekki fallist á að brotin ættu jafnframt undir b-lið sömu málsgreinar. Um ákvörðun refsingar ákærða vísaði Hæstiréttur meðal annars til þess að hann hefði með dómi Hæstaréttar 8. október 2015 í máli nr. 456/2014 verið dæmdur í fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Refsing hans yrði því hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga eins og brotin hefðu verið dæmd í einu lagi, sbr. 77. gr. sömu laga. Að teknu tilliti til þessa var ákærði dæmdur í fangelsi í eitt ár og sex mánuði. III 1 Ákærði fór þess sem fyrr segir á leit við endurupptökunefnd með bréfi 9. febrúar 2017 að hæstaréttarmálið nr. 842/2014 yrði endurupptekið fyrir Hæstarétti hvað hann varðaði. Reisti hann beiðnina á þeirri forsendu að uppfyllt væru skilyrði a-, c-, og d-liðar núgildandi 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 232. gr. sömu laga. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt munnlega 18. maí 2020 um frávísunarkröfu ákæruvaldsins. Verður í IV. og V. kafla dómsins vísað til fyrrgreindrar ákvörðunar réttarins 27. maí 2020. Að þeirri ákvörðun stóðu Karl Axelsson hæstaréttardómari og Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómarar, Símon Sigvaldason þá dómstjóri og Skúli Magnússon þá héraðsdómari. 2 Ákærði byggði kröfu sína um endurupptöku í fyrsta lagi á að fram væru komin ný gögn sem hryndu niðurstöðu dómsins um sekt hans. Í öðru lagi á því að við rannsókn málsins hefði ekki verið gætt þeirrar hlutlægni sem rannsakendum og ákærendum bæri samkvæmt lögum. Í þriðja lagi hefðu dómstólar brotið gegn grunnreglu sakamálaréttarfars um að sérhver maður skuli talinn saklaus uns sekt hans sé sönnuð þannig að hafið væri yfir skynsamlegan vafa. Í fjórða lagi hefðu verið verulegir gallar á meðferð málsins þannig að áhrif hefðu haft á niðurstöðu þess, sbr. þágildandi d-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008, nú samhljóða d-lið 1. mgr. 228. gr. laganna. Taldi ákærði að tveir af hæstaréttardómurum málsins, Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson, hefðu verið vanhæfir til þess að dæma í málinu vegna hlutafjáreignar þeirra í Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu 2007 til 2008. Með endurupptökubeiðni fylgdu gögn sem ekki höfðu áður legið fyrir við meðferð málsins fyrir dómi en ákærði taldi hafa þýðingu fyrir beiðni sína. Ríkissaksóknari taldi að ekki stæðu skilyrði til þess að lögum að endurupptaka málið enda skorti á að áskilnaður þágildandi d-liðar 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 væri fyrir hendi. Vísaði ríkissaksóknari til þess að dómarar gættu sjálfir að hæfi sínu og að umræddir hæstaréttardómarar hefðu, áður en þeir tóku sæti í málinu, metið hæfi sitt til að taka sæti í dómi, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 88/2008. Þá tók hann fram að ekki væri unnt að skjóta slíkum ákvörðunum dómara Hæstaréttar til æðri dóms og því yrði þetta álitaefni ekki endurskoðað af endurupptökunefnd. Að lokum taldi ríkissaksóknari að hagsmunir umræddra dómara hefðu verið svo óbeinir og óverulegir að þeir gætu ekki hafa haft áhrif á niðurstöðu málsins. Ákærði mótmælti túlkun ríkissaksóknara á tilvitnaðri lagareglu. Vísaði hann til þess að það væri hlutverk endurupptökunefndar að meta sjálfstætt hæfi einstakra dómara við Hæstarétt og horfa til grundvallarmannréttinda, svo sem 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá vísaði ákærði til þess að sú skylda hvíldi á dómara að tilkynna nefnd um dómarastörf um eignarhlut í félagi sem hefði skráð gengi í verðbréfaviðskiptum næmi hluturinn 3.000.000 króna eða meira að verðmæti. Hlutir umræddra dómara næmu hærri fjárhæðum og því hefðu þeir orðið fyrir verulegu fjárhagstjóni við greiðsluþrot Landsbanka Íslands hf. Við meðferð málsins hjá endurupptökunefnd komu fram athugasemdir og upplýsingar frá hæstaréttardómurunum Eiríki Tómassyni og Viðari Má Matthíassyni um hlutabréfaeign þeirra í Landsbanka Íslands hf. við fall bankans 2008. Í bréfi Eiríks, 23. apríl 2018, kom fram að hann hefði átt hluti í bankanum að nafnvirði 87.383 krónur. Kaupverð hlutanna hefði samtals numið 374.112 krónum. Miðað við skráð gengi 3. október 2008, sem hafi numið 19,9 krónum á hlut, hafi verðmæti hlutafjáreignar hans numið 1.738.922 krónum. Í bréfi Viðars Más, 24. apríl 2018, kom fram að hann hefði átt hluti í Landsbanka Íslands hf. að nafnvirði 428.075 krónur. Samanlagt verðmæti þessara hluta þegar hann eignaðist þá hafi numið 14.753.256 krónum. Miðað við skráð gengi bréfanna 3. október 2008, 19,9 krónum á hlut, hafi verðmæti hlutafjáreignar hans numið 8.518.692 krónum. Með bréfi 18. september 2018 til endurupptökunefndar kom ákærði á framfæri athugasemdum sínum við fyrrgreindar upplýsingar um eignarhluti hæstaréttardómaranna. Vísaði hann til þess að hann teldi eignarhluti þeirra hvorki óverulega væru þeir bornir saman við laun dómaranna né væru þeir bornir saman við eignarhlut annarra hluthafa bankans. Þá lægi fyrir að hlutir í eigu Viðars Más hefðu verið langt umfram viðmið reglna nr. 463/2000 um aukastörf héraðs- og hæstaréttardómara og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækjum. Einnig vísaði ákærði til þess að uppi hefðu verið atvik eða aðstæður sem hefðu verið fallnar til þess að draga óhlutdrægni dómaranna með réttu í efa. Með öðru bréfi til endurupptökunefndar sama dag kom ákærði jafnframt á framfæri viðbótarröksemdum sínum sem reistar voru á öðrum sjónarmiðum en þeim sem lutu að ætluðu vanhæfi umræddra dómara. Með bréfinu fylgdi sérstök greinargerð 30. ágúst 2018 ásamt 12 fylgiskjölum. Ákærði vísaði einkum til þess að meginrökstuðningur Hæstaréttar fyrir niðurstöðu í málinu hefði verið byggður á gagnályktun sem hefði verið svo ófyrirsjáanleg að um hana hefði ekki verið fjallað í ákæru, greinargerðum eða munnlegum málflutningi. Að sama skapi hefði dómfellda ekki gefist kostur á að koma að athugasemdum við slíkri beitingu réttarheimilda í vörn sinni. Þá taldi ákærði að niðurstaða héraðsdóms hefði alfarið verið byggð á mati dómsins á skýringum meðákærðu fyrir dómi sem hefði með réttu ekki átt að koma til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Ákærði taldi jafnframt að tilgreind ný gögn sem hann lagði fram beiðni sinni til stuðnings sýndu að ómögulegt hefði verið fyrir ákærðu að gera sér grein fyrir að hin umþrættu viðskipti gætu farið í bága við lög. Hinar nýju upplýsingar fælu jafnframt í sér að skilyrði a- og c-liða 228. gr. laga nr. 88/2008 væru uppfyllt. Loks vísaði ákærði til þess að mjög hæpið væri að fullyrða að hann hefði haft ásetning til markaðsmisnotkunar, meðal annars þar sem hann hefði aldrei fengið upplýsingar um annað en heildarstöðu bankans í umræddum eigin bréfum og afkomu af þeim en í allra versta falli væri um afsakanlegt gáleysi að ræða. 3 Endurupptökunefnd tók afstöðu til beiðni ákærða með úrskurði 12. maí 2019. Þar sagði að til að fallist yrði á endurupptöku nægði að eitt af skilyrðum 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 væri uppfyllt. Hvað varðaði þá málsástæðu ákærða, að umræddir dómarar sem dæmt höfðu í hæstaréttarmálinu hefðu verið vanhæfir og því hefðu verið verulegir gallar á meðferð málsins í skilningi d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, væri til þess að líta að rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól teldist til grundvallarmannréttinda sakaðra manna. Væri sá réttur varinn í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt 45. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla skulu dómarar vera sjálfstæðir í störfum sínum, sbr. einnig samhljóða ákvæði eldri laga um dómstóla nr. 15/1998. Sérstaklega væri fjallað um hæfi dómara til setu í dómsmáli í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Í g-lið ákvæðisins kæmi fram að dómari væri vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi væru önnur atvik eða aðstæður en taldar væru upp í fyrri stafliðum ákvæðisins sem væru til þess fallnar að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna gæti dómari að hæfi sínu til að fara með mál af sjálfsdáðum en aðili gæti einnig krafist þess að hann viki sæti. Þá er í niðurstöðum endurupptökunefndar vikið að d-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 og bent á að í athugasemdum með greininni í frumvarpi til laga við lögfestingu hennar sé tekið sem dæmi um tilvik sem fallið gæti undir lagaregluna að í ljós komi annmarkar á hæfi dómara sem með mál hafi farið og ekki hafi áður verið um þá kunnugt. Í niðurstöðu endurupptökunefndar var hafnað þeim sjónarmiðum ákæruvaldsins að ekki væri á færi nefndarinnar að endurskoða efnislegt mat einstaks dómara á eigin hæfi. Þá var sérstaklega vísað til þess, með hliðsjón af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, sbr. 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans, að mat á hæfi dómara þurfi undir þessum kringumstæðum bæði að uppfylla huglæg og hlutlæg skilyrði. Við mat á hæfi umræddra hæstaréttardómara kæmi meðal annars til skoðunar hvort það fjárhagslega tjón sem þeir hefðu orðið fyrir væri til þess fallið að draga hafi mátt óhlutdrægni þeirra með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008, og það þá valdið því að verulegur galli hefði verið á meðferð málsins, sbr. d-lið 1. mgr. 228. gr. sömu laga. Óumdeilt væri að hæstaréttardómarinn Viðar Már Matthíasson hefði keypt hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu 8. mars til 26. september 2007 og hefði verðmæti þeirra þegar hann eignaðist þau numið 14.753.256 krónum. Verðmæti bréfanna hefði tekið breytingum allt fram til þess tíma þegar Fjármálaeftirlitið skipaði bankanum skilanefnd og bréfin urðu verðlaus. Miðað við síðasta skráða gengi bréfanna, 3. október 2008, hefði verðmæti fyrrgreindra hluta numið 8.518.692 krónum. Ljóst væri því að fjárhagslegt tjón dómarans vegna kaupa hans á hlutafé í bankanum hefði verið verulegt. Taldi nefndin að þeir fjármunir sem þannig fóru forgörðum hefðu verið slíkir að atvik eða aðstæður hefðu verið til þess fallnar að draga óhlutdrægni réttarins með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Þá var engu talið breyta þótt nokkur tími hefði liðið frá því að tjón dómarans varð og þar til hann dæmdi í málinu. Um það mætti einnig líta til þess orðalags Hæstaréttar í dóminum að brot ákærðu, sem þeir hafi verið sakfelldir fyrir, hafi verið „mjög umfangsmikil, þaulskipulögð og stóðu yfir í langan tíma. Brotin leiddu til alvarlegrar röskunar á verðbréfamarkaði með víðtækum afleiðingum fyrir fjármálamarkaðinn hér á landi og allan almenning, en tjónið, sem af þeim hlaust, verður ekki metið til fjár.“ Loks væri til þess að líta að framangreindar upplýsingar um kaup og eignarhald dómarans hefðu ekki legið fyrir við meðferð málsins í Hæstarétti og voru þær því endurupptökubeiðanda ókunnar. Samkvæmt framangreindu taldi nefndin að fram væru komnir gallar á meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Við mat á skilyrðum d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 yrði að líta til þess að endurupptökuheimild samkvæmt þeim staflið hafi komið fyrst í lög með nýjum lögum um meðferð sakamála. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga væri sérstaklega tekið fram að þar undir gætu meðal annars fallið tilvik þar sem leiddir væru í ljós annmarkar á hæfi dómara sem með málið fór og ekki hafi áður verið um þá kunnugt, en það tilvik væri uppi í málinu. Þá segði jafnframt í frumvarpinu að þessi tiltekna heimild hefði verið sett í lögin í því skyni að tryggja réttláta málsmeðferð. Með hliðsjón af þessum sjónarmiðum og þeirri grundvallarreglu sem fram kæmi í 70. gr. stjórnarskrárinnar um rétt sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól taldi nefndin uppfyllt skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Nefndin tók fram að þar sem skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 teldist uppfyllt hvað hæstaréttardómarann Viðar Má Matthíasson varðaði væri ekki þörf á að fjalla um ætlað vanhæfi annarra dómara málsins eða aðrar málsástæður ákærða. Samkvæmt því var beiðni hans um endurupptöku málsins samþykkt. 4 Þess ber jafnframt að geta í samhengi við sakarefni máls þessa að 25. febrúar 2020 kvað Mannréttindadómstóll Evrópu upp dóm sem reistur var á kvörtun SES sem sakfelld var með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 8. október 2015 í máli nr. 456/2014. Kvörtun SES byggðist á vanhæfi þriggja dómara málsins í Hæstarétti, Markúsar Sigurbjörnssonar, Viðars Más Matthíassonar og Eiríks Tómassonar. Þeir hefðu átt hlutabréf í íslensku viðskiptabönkunum á árunum 2007 og 2008 og tapað verulegum fjármunum við fall þeirra. Þessir þrír dómarar sátu jafnframt í dómi Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014 sem í þessu máli var krafist endurupptöku á. Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu var komist að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn rétti dómfelldu þar sem hún hefði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli, sbr. 1. mgr. 6. gr. sáttmálans. Mannréttindadómstóllinn vísaði til þess að óhlutdrægni hæstaréttardómarans Markúsar Sigurbjörnssonar yrði ekki dregin í efa enda hefði hann ekki átt hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. á umræddu tímabili og hlutabréfaeign hans í öðrum viðskiptabönkum gæti ekki leitt til slíkrar ályktunar. Varðandi hæstaréttardómarann Eirík Tómasson vísaði dómstóllinn til þess að tilkynningarskylda til nefndar um dómarastörf ætti ekki við nema hlutabréfaeign í félagi næmi 3.000.000 króna eða hærri fjárhæð. Þar sem hlutabréfaeign hans í bankanum hefði verið töluvert undir þeim mörkum varð það niðurstaða dómstólsins að ekki væri heldur unnt að draga óhlutdrægni hans í efa. Dómstóllinn komst á hinn bóginn að þeirri niðurstöðu að draga mætti óhlutdrægni hæstaréttardómarans Viðars Más Matthíassonar í efa. Vísaði dómstóllinn til þess að hann hefði tapað því sem næmi um þrefaldri þeirri fjárhæð sem tilkynningarskyld væri til nefndar um dómarastörf. Þá hefði tap hans vegna falls Landsbanka Íslands hf. verið mikið, sérstaklega þegar tekið væri tillit til árstekna hans sem prófessors á árunum 2007 og 2008. Einnig vísaði dómstóllinn til þess að endurupptökunefnd hefði talið skilyrði fyrir endurupptöku uppfyllt vegna hlutabréfaeignar dómarans. IV 1 Meðal þeirra gagna sem lágu fyrir Hæstarétti við töku fyrrnefndrar ákvörðunar 27. maí 2020 var upplýsingaskýrsla ákæruvaldsins 9. mars 2020 þar sem fram koma fyllri upplýsingar um hlutabréfaeign hæstaréttardómarans Viðars Más Matthíassonar í Landsbanka Íslands hf. Samkvæmt skýrslunni nam hlutabréfaeign hans samtals 462.475 krónum að nafnvirði við fall bankans. Miðað við skráð gengi 3. október 2008, sem nam 19,9 krónum á hlut, hafi verðmæti eignarinnar þann dag numið 9.203.253 krónum. 2 Í ákvörðun Hæstaréttar var vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 50/2016 væri endurupptökunefnd sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem tæki ákvörðun um hvort heimila skuli endurupptöku máls sem dæmt hafi verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti. Samkvæmt 2. mgr. 54. gr. færi að öðru leyti um endurupptöku máls eftir lögum nr. 88/2008 og lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í XXXV. kafla laga nr. 88/2008 væru ákvæði um endurupptöku sakamáls sem dæmt hefði verið í Landsrétti eða Hæstarétti. Þar kæmi fram í 232. gr. að endurupptökunefnd gæti samkvæmt beiðni leyft að mál sem dæmt hafi verið í Landsrétti eða Hæstarétti yrði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt væri þeim skilyrðum sem greinir í 228. gr. laganna um endurupptöku óáfrýjaðs máls. Samkvæmt 1. mgr. 228. gr. gæti endurupptökunefnd orðið við beiðni manns sem teldi sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hafi framið ef einhverju eftirtalinna skilyrða væri fullnægt: a) fram væru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk; b) ætla mætti að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin væru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefði valdið rangri niðurstöðu málsins; c) verulegar líkur væru leiddar að því að sönnunargögn sem færð hefðu verið fram í máli hefðu verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess eða d) verulegir gallar hefðu verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Endurupptökunefnd, sem heyrði undir framkvæmdarvaldið, væri meðal annars með 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 fengin viðfangsefni sem lytu að úrlausn dómsmála. Dómstólar ættu eftir meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar úrskurðarvald um ákvarðanir nefndarinnar, sbr. dóma Hæstaréttar 25. febrúar 2016 í máli nr. 628/2015, 27. september 2018 í máli nr. 521/2017 og 20. febrúar 2019 í máli nr. 601/2015. Samkvæmt því þyrfti að taka afstöðu til þess hvort lög hefðu með réttu staðið til þeirrar niðurstöðu sem endurupptökunefnd komst að í umræddum úrskurði sínum 12. maí 2019 um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 842/2014. 3 Krafa ákæruvaldsins um frávísun málsins frá Hæstarétti var reist á því að endurupptökunefnd hefði skort valdheimildir til að heimila endurupptöku þess og farið út fyrir heimildir sínar samkvæmt d-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Ákæruvaldið byggði í fyrsta lagi á því að fyrrnefndur liður gæti ekki tekið til hæfis hæstaréttardómara þar sem engu breytti fyrir niðurstöðu um mat dómara Hæstaréttar á hæfi sínu hvort málsaðilar hefðu vitað af hugsanlegum vanhæfisástæðum enda ættu þeir enga aðkomu að því mati með málflutningi eða á annan hátt. Í öðru lagi byggði ákæruvaldið á því að skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um að verulegir gallar hefðu verið á málsmeðferðinni hefðu ekki verið uppfyllt en það gæti ekki talist verulegur galli á meðferð máls að endurupptökunefnd hefði aðra skoðun en dómarar Hæstaréttar á túlkun g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Í þriðja lagi byggði ákæruvaldið á því að skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um að galli á málsmeðferð hefði haft áhrif á niðurstöðu sakamáls væri ekki uppfyllt. Vísaði ákæruvaldið til þess að orðalag ákvæðisins kvæði á um að það þyrfti að liggja fyrir að gallinn hefði haft áhrif en ekki einungis að hann hefði getað haft áhrif. Það hefði ekki verið gert líklegt að niðurstaða dómsins væri röng að efni til eða að ætlað vanhæfi hefði haft áhrif á niðurstöðuna eins og d-liður kvæði á um. Þá fælu ákvarðanir hæstaréttardómara um að taka sæti í dómi og mat þeirra á eigin hæfi í sér endanlegar ákvarðanir. Ummæli í greinargerð um að leyfa endurupptöku samkvæmt fyrrnefndum d-lið gæti komið til skoðunar þegar í ljós kæmi síðar að dómari hefði verið vanhæfur gætu aðeins átt við í tilviki héraðsdómara eða landsréttardómara enda yrði úrskurðum þeirra um eigið hæfi skotið til æðri dóms. Í fjórða lagi vísaði ákæruvaldið til þess að endurupptökunefnd, sem væri stjórnsýslunefnd, væri með 1. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008 falið vald til að víkja til hliðar réttaráhrifum dóms, samkvæmt 186. gr. sömu laga, og hefði því heimild til að taka ákvörðun um endurtekna málsmeðferð í máli þar sem fyrir lægi endanlegur dómur með þeim afleiðingum að hann félli niður. Taldi ákæruvaldið að þetta fyrirkomulag sem fæli framkvæmdarvaldinu umfangsmikið vald til íhlutunar í störf dómsvaldsins bryti gegn 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins. Í greinargerð sinni hér fyrir rétti varðandi frávísunarkröfu ákæruvaldsins vísaði ákærði fyrst og fremst til niðurstöðu endurupptökunefndar um grundvöll þess að málið skyldi endurupptekið. V Í tilvitnaðri ákvörðun Hæstaréttar 27. maí 2020 er niðurstaða réttarins um frávísunarkröfu ákæruvaldsins svofelld: „Af hálfu ákæruvaldsins er krafa um frávísun málsins meðal annars á því reist að það fyrirkomulag 1. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008 að fela endurupptökunefnd vald til að ákvarða hvort mál skuli endurupptekið fyrir Hæstarétti brjóti í bága við þrígreiningu ríkisvalds, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þess ber þá að gæta að í dómi Hæstaréttar 25. febrúar 2016 í máli nr. 628/2015 kom fram að sú tilhögun þágildandi ákvæðis 3. mgr. 215. gr., sbr. 1. mgr. 214. gr. laga nr. 88/2008, að ákvörðun endurupptökunefndar um endurupptöku máls fyrir Hæstarétti hefði meðal annars í för með sér að fyrri dómur Hæstaréttar félli úr gildi, mælti nefndin ekki fyrir á annan veg, væri andstæð meginreglu 2. gr. stjórnarskrárinnar. Lagaákvæðið teldist því ekki gild réttarheimild og yrði ekki beitt. Í kjölfar þess var umrædd heimild endurupptökunefndar felld úr lögum, sbr. 1. gr. laga nr. 99/2016, og er nú mælt fyrir um heimildir endurupptökunefndar í 3. mgr. 232. gr., sbr. 1. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008. Að lögunum svo breyttum hefur Hæstiréttur ítrekað fjallað um ákvarðanir nefndarinnar um endurupptöku mála, sbr. í dæmaskyni dóma réttarins frá 20. febrúar 2019 í máli nr. 601/2015 og 27. september 2018 í máli nr. 521/2017 án þess að taldir hafi verið stjórnskipulegir annmarkar á lagaákvæðunum í núverandi mynd. Á hinn bóginn var áréttað í dómunum, svo sem fyrr greinir, að dómstólar eigi eftir meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar úrskurðarvald um ákvarðanir nefndarinnar og taki þar af leiðandi afstöðu til þess hvort lög hafi með réttu staðið til þeirrar niðurstöðu sem endurupptökunefnd kemst að hverju sinni. Er kröfu um frávísun málsins á þessum grundvelli því hafnað. Forsendur úrskurðar endurupptökunefndar fyrir endurupptöku málsins voru eins og áður segir á því reistar að gallar hefðu verið á meðferð þess fyrir Hæstarétti samkvæmt þágildandi d-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008, sbr. nú d-lið 1. mgr. 228. gr. sömu laga, í ljósi vanhæfis dómarans Viðars Más Matthíassonar vegna hlutabréfaeignar hans í Landsbanka Íslands hf. Tók nefndin fram að þegar að þeirri niðurstöðu fenginni væri ekki þörf á því að fjalla um ætlað vanhæfi annarra dómara málsins eða aðrar málsástæður dómfellda. Af því tilefni skal áréttað að aðrar þær málsástæður dómfellda sem teflt var fram fyrir endurupptökunefnd og ekki komu þar til efnislegs mats geta ekki komið til frekari skoðunar hér fyrir dómi, enda er það ekki á valdi dómstóla að meta slíkt í stað nefndarinnar þótt þeir séu eftir almennum reglum bærir til að leysa eftir á úr ágreiningi um lögmæti úrskurðar hennar um slíkt efni, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 6. desember 2018 í máli nr. 857/2017. Við mat á því hvort vanhæfi dómara teljist verulegur galli, í skilningi d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga 88/2008 þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu máls, verður að horfa til þess að í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er meðal annars kveðið á um rétt manna til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól. Er sú regla og í samræmi við 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994. Í athugasemdum við það frumvarp sem varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 segir um fyrrnefnda ákvæðið að það leggi þá skyldu á löggjafann að setja skýrar reglur um hvenær dómari verði talinn vanhæfur í máli. Þá liggur fyrir að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur við skýringu 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans litið til þeirra reglna landsréttar sem giltu um hæfi dómara í einstöku tilviki, sbr. einkum áðurgreindan dóm 25. febrúar sl. í máli nr. 41382/17. Samkvæmt framansögðu er það forsenda fyrir réttlátri málsmeðferð fyrir dómstólum í skilningi stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu að reglur um hæfi dómara séu virtar og gildir þá einu á hvaða dómstigi meðferð máls fer fram og hvort dómurinn er skipaður einum eða fleiri dómurum. Vanhöld á að reglur um hæfi séu virtar hljóta því jafnan að teljast verulegir annmarkar á málsmeðferð og jafnframt þess eðlis að geta haft áhrif á niðurstöðu máls í skilningi fyrrnefnds d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Svo sem rakið er í úrskurði endurupptökunefndar fær sú lögskýring einnig beina stoð í athugasemdum þess frumvarps sem varð að lögum nr. 88/2008, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 21. maí 2019 í máli nr. 12/2018. Verður því hafnað þeirri málsástæðu ákæruvaldsins að d-liður 1. mgr. 228. gr. laganna heimili ekki endurupptöku við þær aðstæður að hæstaréttardómari hefur tekið þátt í meðferð máls í andstöðu við hæfisreglur 6. gr. laga nr. 88/2008. Áður eru raktar upplýsingar um hlutabréfaeign Viðars Más Matthíassonar hæstaréttardómara í Landsbanka Íslands hf. Þá var og rakin sú efnislega niðurstaða endurupptökunefndar að fjárhagslegt tjón dómarans hafi verið svo verulegt að draga hafi mátt óhlutdrægni hans með réttu í efa í umræddu dómsmáli, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008, ekki síst með hliðsjón af því að í forsendum dómsins voru brot ákærðu talin hafa verið til þess fallin að valda hluthöfum í bankanum, stórum sem smáum, svo og öllum almenningi fjártjóni. Laut sakarefni málsins þannig beinlínis að hagsmunum dómarans, sem jafnframt voru verulegir. Niðurstaða fyrrgreinds dóms Mannréttindadómstóls Evrópu 25. febrúar síðastliðinn, þar sem talið var að téður dómari hefði í málinu ekki fullnægt skilyrði 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans um málsmeðferð fyrir óvilhöllum dómstól og gilti þá einu þótt ekkert væri fram komið um að annarleg sjónarmið hefðu í reynd ráðið meðferð eða efnislegri niðurstöðu dómsins, samræmdist að þessu leyti forsendum endurupptökunefndar. Að öllu virtu er í málinu ekkert komið fram sem fær hnekkt því mati endurupptökunefndar að fyrir hendi hafi verið aðstæður sem fallnar voru til að draga hafi mátt óhlutdrægni dómarans með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Var þegar af þeirri ástæðu fullnægt skilyrðum d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 fyrir endurupptöku málsins, en því er ekki haldið fram í málinu að annmarkar hafi verið á málsmeðferð endurupptökunefndar sem leiða eigi til ógildis úrskurðarins.“ Kröfu ákæruvaldsins um frávísun málsins frá Hæstarétti var því hafnað og málið tekið til efnismeðferðar. Verður hér í framhaldinu gerð nánari grein fyrir meðferð málsins fyrir réttinum, þar á meðal um hverjir gáfu skýrslu við meðferð þess. Í þessu samhengi skal tekið fram að samhliða var hafnað kröfu ákæruvaldsins um frávísun máls nr. 34/2019 frá Hæstarétti en í því fólst að hæstaréttarmál nr. 456/2014 var endurupptekið að hluta til. VI Ákærði hefur nú undir áfrýjun málsins lagt fram tíu ný skjöl. Verður gerð grein fyrir þeim að því marki sem þau hafa þýðingu fyrir úrlausn málsins en ekki eru efni til að fjalla frekar um gögn sem varða hæfi þeirra hæstaréttardómara sem dæmdu hæstaréttarmál nr. 842/2014. Skjal merkt eitt er glærukynning Fjármálaeftirlitsins fyrir regluverði útgefenda skráðra verðbréfa 16. september 2005. Skjal merkt tvö er tilkynning frá Verðbréfaþingi Íslands 2. júlí 1998 um að viðskiptastofa Íslandsbanka væri að hefja viðskiptavakt á hlutabréfum fimm fyrirtækja á Verðbréfaþingi Íslands, þar á meðal í Íslandsbanka. Kom fram að viðskiptavaktin fæli sér að „á hverjum morgni eru sett fram kaup og sölutilboð að markaðsvirði 2 milljónir.“ Skjal merkt þrjú er svokölluð 4:15 dagskýrsla áhættustýringar Landsbanka Íslands hf. fyrir 30. september 2008. Skýrslan er um 30 blaðsíður og var gerð til að draga saman markaðsáhættu bankans. Í henni er meðal annars að finna yfirlit yfir stöðu hvers sviðs bankans í skuldabréfum, hlutabréfum og gjaldeyri í lok dags sem og heimildir sviðanna. Þá er í skýrslunni að finna upplýsingar um heildarstöðu Landsbanka Íslands hf. í eigin hlutabréfum og hvernig staðan breyttist milli daga. Skjal merkt fjögur er skýrsla 30. september 2008 sem ákærði leggur fram til samanburðar um framkvæmd daglegrar upplýsingagjafar í Kaupþingi banka hf. Sú skýrsla mun hafa verið send daglega til bankastjóra og starfandi stjórnarformanns Kaupþings banka hf. Í skýrslunni var að finna yfirlit yfir kaup og sölu hvers dags í bankanum. Þar kom fram hverjir væru kaupendur og seljendur og umfang viðskipta. Skjal merkt fimm er bréf 19. desember 2016 frá embætti héraðssaksóknara til ákærða þar sem tilkynnt var um niðurfellingu þriggja mála vegna ætlaðra brota í tengslum við lánveitingar Landsbanka Luxembourg S.A. til hlutabréfakaupa í Landsbanka Íslands hf. Auk þess fylgdi tilkynning 30. október 2013 um niðurfellingu fjórða málsins. Skjal merkt sex er útreikningur endurskoðanda Landsbanka Íslands hf. á hlutfalli eigin hlutabréfa af nafnverði hlutafjár í bankanum frá júní 2007 til september 2008. Við útreikninga hans var horft til eigin hlutabréfa bankans auk þeirra sem voru að veði hjá bankanum. Hins vegar var þar hvorki horft til hlutabréfa í eigu dótturfélaga né þeirra sem þau höfðu að veði. Var vísað til þess að lög hefðu á fyrrnefndu tímabili ekki gert ráð fyrir að þau bréf væru tekin inn í útreikning þeirra, en því hefði verið breytt með lögum nr. 75/2010. Samkvæmt útreikningunum fór hlutfall eigin hlutabréfa bankans tvisvar yfir 10% af nafnverði hlutafjár hans á umræddu tímabili. Var hlutfallið 10,6% 16. september 2008 og 23. sama mánaðar nam hlutfallið 10,1%. Skjal merkt sjö er minnisblað „um færsluheimildir áhættureglna Landsbankans“, unnið af ÞAI fyrrverandi forstöðumanni áhættustýringar bankans að beiðni verjanda ákærða, en minnisblaðinu fylgdu áhættureglur Landsbanka Íslands hf. frá október 2005. Í minnisblaðinu kemur fram að áhættustýring Landsbanka Íslands hf. hefði fylgst náið með heildarstöðu EFL en litið svo á að með yfirferð sinni á fjármálanefndarfundum, þar sem farið hefði verið yfir stöðu og afkomu deildarinnar í þáliðinni viku, hefðu allar ákvarðanir deildarinnar sem teknar hefðu verið milli fjármálanefndarfundanna verið staðfestar af fjármálanefnd. Við skýrslutökur fyrir Hæstarétti lagði ákærði enn fremur fram þrjú ný skjöl. Í fyrsta lagi skjal sem ber heitið: „Staða LÍ í eigin bréfum og lán með veði í eigin bréfum.“ Í skjalinu var útreikningur á stöðu Landsbanka Íslands hf. í eigin bréfum og lánum með veði í eigin bréfum miðað við 26. nóvember 2007 og 22. apríl 2008. Þá var lagt fram skjal sem ber heitið: „Þriggja þrepa rannsókn á hvort viðskipti teljist markaðsmisnotkun eða ekki.“ Loks lagði ákærði fram minnisblað frá SRÞ fyrrverandi starfsmanni EFL 7. febrúar 2021 sem ber heitið: „Línuleg aðfallsgreining til að prófa kenningu embættis sérstaks saksóknara (EES) um verðgólf – Mismunandi skilgreining á umfangi viðskipta“. Í minnisblaðinu staðfesti höfundurinn að hann hefði aðstoðað ákærða og dómfelldu við að útbúa tölfræðigreiningu sem lögð var fram í héraðsdómi 1. október 2014. Í minnisblaðinu er leitast við að nota línulega aðfallsgreiningu til að kanna hvort umsvif viðskipta EFL gætu skýrt verðbreytingar á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. á ákærutímabilinu. VII 1 Áður en afstaða verður tekin til einstakra ákæruatriða er rétt að gera grein fyrir stöðu ákærða innan Landsbanka Íslands hf. og þeim reglum bankans sem varða þau viðskipti sem I. kafli ákæru tekur til. Að auki verður vikið nokkrum orðum að stöðu fjármálamarkaða á þeim tíma sem ákært er fyrir, en ætla má að málavextir þar að lútandi séu nú alþekktir í ljósi umfangsmikillar umfjöllunar meðal annars í dómaframkvæmd Hæstaréttar. 2 Ákærði var ráðinn bankastjóri Landsbanka Íslands hf. með samningi 21. apríl 2003. Í tilkynningu bankans til Kauphallar Íslands daginn eftir kom fram að hann hafi verið ráðinn bankastjóri við hlið HJK sem hafði einn gegnt starfi bankastjóra um nokkurt skeið. Þar sagði jafnframt að bankastjórarnir myndu „fara sameiginlega með stjórnun allra málefna bankans. Verkaskipting samkvæmt nýju skipuriti er þannig að HJK fer fyrir alþjóðasviði, viðskiptabankasviði og eignastýringarsviði en Sigurjón fyrir fyrirtækjasviði, verðbréfasviði og stoðsviðum. Báðir munu fara með viðskiptatengsl og viðskiptamál.“ Þá var greint í tilkynningunni frá breytingum „á stjórnskipan bankans“ og að þrír nýir framkvæmdastjórar hafi verið ráðnir til starfa, þeirra á meðal YÖK sem framkvæmdastjóri verðbréfasviðs bankans. Enda þótt endurupptaka málsins taki ekki til annarra dómfelldu í dómi Hæstaréttar í máli nr. 842/2014 en ákærða þykir nauðsynlegt í ljósi sakargifta að gera stuttlega grein fyrir starfssviði þeirra innan bankans á þeim tíma sem I. kafli ákæru tekur til. Dómfelldi ÍG var ráðinn forstöðumaður „eiginfjárfestingadeildar á verðbréfasviði“ Landsbanka Íslands hf. með samningi 22. apríl 2003. Þar var tekið fram að yfirmaður hans væri framkvæmdastjóri verðbréfasviðs, sem var sem fyrr segir YÖK. Í samningnum sagði enn fremur: „Starfsmaðurinn ber ábyrgð á daglegum rekstri deildarinnar, framþróun hennar og uppbyggingu. Auk þess sinnir starfsmaðurinn stjórnunarstörfum og öðrum þeim störfum sem honum kunna að vera falin af yfirmanni eða bankastjórn hverju sinni.“ Dómfelldi JSH starfaði í EFL undir stjórn dómfellda ÍG og fékkst þar einkum við kaup og sölu á innlendum hlutabréfum. Þá var dómfelldi SS ráðinn til starfa sem sérfræðingur hjá EFL á árinu 2005 og var undir stjórn framkvæmdastjóra verðbréfasviðs og dómfellda ÍG. 3 Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar í máli nr. 34/2019 sem dæmt er samhliða máli þessu átti Samson eignarhaldsfélag ehf. 3. október 2008 4.684.608.801 hlut í bankanum eða 41,8539% alls hlutafjár. Þar sem félagið átti svo stóran hlut voru meðal annars skil milli bankaráðs og stjórnar bankans eins og sjá má í þeim reglum sem raktar voru í fyrrgreindum dómi. Í 20. grein samþykkta fyrir Landsbanka Íslands hf. kom til að mynda fram að bankaráð skyldi setja reglur um verkaskiptingu þess og bankastjóra. Skyldi það setja sér starfsreglur þar sem meðal annars skyldi fjallað um heimildir ráðsins til að taka ákvarðanir um einstök viðskipti. Um ábyrgð á daglegum rekstri bankans og töku ákvarðana sem ekki væru öðrum falin í lögum, reglugerðum eða samþykktum var fjallað í 21. grein samþykktanna, en þar sagði að bankastjórar færu með þá ábyrgð og heimild. Í því fólst að þeim bar að sjá um að bankareksturinn væri í samræmi við lög, reglugerðir eða samþykktir og ákvarðanir bankaráðs. Í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar í máli nr. 34/2019 kemur einnig fram að samkvæmt grein 8.1 starfsreglna bankaráðs mynduðu bankastjórar bankastjórn og í grein 8.2 að bankastjórnin bæri ábyrgð á daglegum rekstri bankans og færi með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki væru öðrum falin með lögum, samþykktum bankans eða ákvörðunum bankaráðs. Samkvæmt grein 9.1 starfsreglnanna hafði bankaráð yfirumsjón með starfsemi bankans og jafnframt almennt eftirlit með rekstri hans. Í upphafi greinar 9.2 sagði að bankaráð skyldi „annast ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar“. Í upphafi greinar 9.3 sagði svo: „Bankastjórn hefur heimild til að ákveða kaup og sölu hlutabréfa í veltubók bankans.“ Í bréfi þáverandi forstöðumanns áhættusviðs bankans 16. mars 2015 segir hann að áhættureglur bankans hafi verið skrifaðar undir sinni ritstjórn og tilgangur þeirra hafi verið „að skrá vilja bankastjórnar hvernig áhættutaka færi fram fyrir áhættuþætti verðbréfasviðs bankans og starfsemi henni tengdri.“ Í málinu liggja fyrir tvær útgáfur af áhættureglum Landsbanka Íslands hf. Sú eldri er frá október 2005, merkt 2.0.4, og sú yngri frá september 2006, merkt 2.0.5. Liggur jafnframt fyrir tölvubréf framkvæmdastjóra lögfræðisviðs Landsbanka Íslands hf. 27. september 2006 þar sem tilkynnt var um að nýjar reglur um rekstraráhættu sem bankastjórn hafi ,,samþykkt nýverið“ hefðu tekið gildi. Þrátt fyrir þetta er vafi um hvor útgáfan hafi í raun gilt á ákærutímabilinu, eins og ráða mátti af framburði ákærða við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Hvað sem líður þeim vafa er sá hluti reglnanna sem hér verður rakinn efnislega samhljóða áhættureglum Landsbanka Íslands hf. frá október 2005, merktum 2.0.4. Samkvæmt 3. grein áhættureglnanna frá september 2006 báru bankastjórar ábyrgð á daglegri stjórnun bankans gagnvart bankaráði en framkvæmdastjórar ábyrgð gagnvart bankastjórum á starfsemi hvers sviðs og að áhættan væri í samræmi við starfsreglur bankans. Þá kom fram að fjármálanefnd bankans hefði meðal annars „það hlutverk að fylgjast með áhættuþáttum í starfsemi bankans og að ákveða áhættumörk.“ Hlutverk millistjórnenda væri að sjá til þess að stefnu varðandi áhættu væri framfylgt, verkferlar væru skráðir og þeim viðhaldið og að starfsmenn þeirra færu eftir reglum og verkferlum bankans. Orðrétt sagði svo: „Reglunum er ætlað að setja fram á skipulegan hátt þau skilgreindu áhættumörk sem Landsbankinn leyfir sér að taka fyrir stöður í eigin reikning og miðlun áhættu til viðskiptavina sinna. Markmið með áhættureglunum er að tryggja að til séu heimildir um leyfilega áhættutöku og þannig stýra áhrifum áhættuþátta á rekstrarreikning bankans.“ Þá kemur fram í grein 9.5: „Stefnumótandi ákvarðanir er varða markaðsáhættu eru teknar af Fjármálanefnd.“ Í 21. grein sagði jafnframt að verkefni EFL fælust „í umsjón með öllum veltubókarviðskiptum bankans með hlutabréf og að sjá um fjárfestingar í skráðum eða óskráðum bréfum.“ Einnig sæi deildin „um sölutryggingar og viðskiptavakt á hlutabréfum“. Í grein 21.1.5.1 var fjallað um „færsluheimildir eigin fjárfestinga“ þar sem viðskiptum var skipt í fjóra flokka. Hefðu starfsmenn deildarinnar heimild til viðskipta fyrir allt að 250.000.000 króna en þyrftu að afla samþykkis forstöðumanns hennar fyrir viðskiptum að 500.000.000 króna, samþykkis framkvæmdastjóra verðbréfasviðs fyrir viðskiptum að 1.000.000.000 króna, en samþykkis fjármálanefndar eða bankastjórnar ef viðskiptin næmu hærri fjárhæð. Í ársskýrslu Landsbanka Íslands hf. fyrir árið 2007 kom fram í kafla um stjórnarhætti bankans að „bankastjórar bera ábyrgð á daglegum rekstri og áhættustýringu bankans gegnum fimm fastanefndir: Lánanefnd, fjármálanefnd, eignastýringarnefnd, rekstrarnefnd og áhættunefnd samstæðunnar. Nefndirnar eru vettvangur ákvarðanatöku, stýringar og eftirlits samstæðunnar, t.a.m. útláneftirliti, markaðsáhættu og rekstrarumhverfi.“ Um hlutverk fjármálanefndar kom svo fram að hún ætti meðal annars að hafa eftirlit með fjárfestingarbankastarfsemi og áhættuþáttum í starfsemi bankans, auk þess sem nefndin ætti að setja reglur um áhættustýringu. Samkvæmt gögnum málsins voru oftast nær haldnir fundir í fjármálanefnd Landsbanka Íslands hf. einu sinni í viku á þeim tíma sem ákæran tekur til þótt fyrir kæmi að þeir féllu niður. Ákærði var formaður nefndarinnar og fundastjóri en aðrir fastamenn voru HJK bankastjóri, BH framkvæmdastjóri alþjóðasviðs, SES framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og YÖK framkvæmdastjóri verðbréfasviðs. Einstakir forstöðumenn sóttu jafnframt fundina þegar málefni þeirra sviða voru til umfjöllunar. Í bréfi fyrrverandi forstöðumanns áhættustýringar bankans, ÞAI 16. mars 2015, sagði að á vikulegum fjármálanefndarfundum hefðu deildirnar farið yfir sína stöðu og breytingar frá síðasta fjármálanefndarfundi og þannig ,,fengu starfsmenn samþykkt á stöðu og því sem þeir höfðu gert frá bankastjórn.“ Samkvæmt gögnum málsins var dagskrá fundanna að jafnaði á þann veg að þar fór fram kynning greiningardeildar, verðbréfamiðlunar, gjaldeyris- og afleiðumiðlunar bankans, fjárstýringar, alþjóðasviðs, eigin fjárfestinga og áhættustýringar bankans. Annaðist dómfelldi ÍG kynningu EFL á fundum nefndarinnar. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að ákærði hafi stjórnað fundum fjármálanefndar á tímabilinu 31. október 2007 til 1. október 2008, alls 32 fundum, og sat dómfelldi ÍG þá alla, stöðu sinnar vegna, að undanskildum þremur fundum sem haldnir voru 19. og 26. mars 2008 og 23. júlí sama ár. 4 Eitt af því sem kemur til skoðunar við úrlausn málsins eru aðstæður á fjármála- og hlutafjármörkuðum á ákærutímabilinu og hvernig þeir horfðu við stjórnendum Landsbanka Íslands hf. á hverjum tíma. Umfjöllun um það tekur óhjákvæmilega mið af því að um þá þróun hefur ítarlega verið fjallað meðal annars í dómaframkvæmd Hæstaréttar og Landsdóms. Eru margir þættir þeirrar atburðarásar alkunnir nú þegar liðið er á þrettánda ár frá falli viðskiptabankanna þriggja og annarra fjármálafyrirtækja. Eins og fram kemur í gögnum málsins átti EFL viðskipti með hlutabréf í bankanum, bæði kaup og sölu, fyrir eigin reikning á ákærutímabilinu 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008 eða samtals 228 viðskiptadaga. Þau viðskipti sem ákært er fyrir áttu sér stað með sjálfvirkum pörunum í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands. Auk þess munu viðskipti hafa átt sér stað með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. í utanþingsviðskiptum og er að hluta til fjallað um þau í ákæru málsins. Á árinu 2008 fór að gæta vaxandi alþjóðlegrar lánsfjárkreppu og óróa á fjármálamörkuðum sem magnaðist til muna við fall fjárfestingarbankans Lehman Brothers um miðjan september 2008. Um aðstæður á mörkuðum hér á landi á árinu 2008 má líta til dóms Landsdóms 23. apríl 2012 í máli nr. 3/2011, sem hefur samkvæmt 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 51. gr. laga nr. 3/1963 um Landsdóm, fullt sönnunargildi um málsatvik sem í honum greinir. Þar er greint frá því að á vettvangi Seðlabanka Íslands hafi farið fram ýmiss konar vinna í tengslum við vaxandi erfiðleika íslensku bankanna við fjármögnun á markaði á árinu 2008. Í fundargerð starfshóps seðlabankans um lausafjárvanda 23. janúar 2008 hafi verið fjallað um þessa erfiðleika og þar sérstaklega getið Landsbanka Íslands hf. og meðal annars tekið fram að búið hefði verið að loka á lánalínur bankans. Hafi það verið mat bankastjórnar Seðlabanka Íslands í febrúar 2008 að íslensku bankarnir þrír væru í mikilli hættu og þar með íslenskt efnahagslíf og að á þessum tíma hefðu legið fyrir nægar vísbendingar um að bankarnir ættu í verulegum erfiðleikum með að fjármagna starfsemi sína með lánum á alþjóðlegum mörkuðum. Alþjóðlegt umhverfi fjármögnunar viðskiptabanka, þar á meðal Landsbanka Íslands hf., var til umfjöllunar á fundi fjármálanefndar Landsbanka Íslands hf. 24. september 2008 sem ákærði sat. Í upphafi fundarins fór forstöðumaður greiningardeildar bankans yfir greiningar og rannsóknir. Samkvæmt fundargerð kom þar meðal annars fram að gert væri ráð fyrir „að krónan styrkist frá öfgagildi“, en áfram væri fyrirsjáanlegur mikill halli á utanríkisviðskiptum. Millibankamarkaðir væru enn í uppnámi og samkeppni um innlán orðin mikil á Íslandi sem sýndi skort á krónum. Þá var vikið að svonefndum Icesave-innlánsreikningum hjá útibúi bankans í London þar sem orðrétt var bókað: „Útflæði upp á ca 10 mGPB á dag. Áhættufælni og menn þurfa að nota í annað ásamt því að væntingar eru til þess að vextir lækki. Barclays fer nú fram á að útflæði verði prefundað. Farið yfir flæðið.“ Samkvæmt fundargerð sýndi sérfræðingur hjá greiningadeild „yfirlit um aðgerðir í stærsta bail-outi sögunnar í USA. Bandaríska ríkið og Seðlabankinn hafa gripið til umfangsmikilla björgunaraðgerða. Gengi fjármálafyrirtækja hefur tekið kipp við þetta.“ Þá greindi BH framkvæmdastjóri alþjóðasviðs frá því að alþjóðamarkaðir væru „í raun lokaðir.“ Á fundinum skýrði dómfelldi ÍG meðal annars einnig svo frá samkvæmt fundargerð varðandi eigin fjárfestingar bankans: „Síðustu viku er staðan upp um rúma 2 ma.kr. sem skýrist af hækkun á íslenskum bréfum ... Jákvætt er að Marel hefur komið hressilega tilbaka síðustu daga ... Mikið magn af Landsbankabréfum hefur verið að fara inn á markaðinn ... Staða niður um 6,5 ma.kr. á ársfjórðungnum. Má gera ráð fyrir að verði skilað á núlli ef uppfærsla á Iceland eign gengur eftir.“ Í áðurnefndum dómi Landsdóms kemur fram að vaxandi órói hafi verið á fjármálamörkuðum eftir því sem leið á árið 2008 og að 25. september það ár muni formaður stjórnar Glitnis banka hf. hafa átt fund með einum af bankastjórum Seðlabanka Íslands þar sem hann gerði grein fyrir erfiðri lausafjárstöðu bankans og óskaði eftir því að seðlabankinn veitti bankanum lán í því skyni að bæta hana. Að loknum fundahöldum, sem á eftir fóru, var fulltrúum Glitnis banka hf. tilkynnt að kvöldi sunnudags 28. sama mánaðar að bankanum stæði til boða hlutafjárframlag að fjárhæð 600.000.000 evra gegn 75% eignarhluta ríkisins í honum. Að morgni næsta dags mun stjórn Glitnis banka hf. hafa tilkynnt seðlabankanum að hún hefði ásamt stærstu hluthöfum í félaginu ákveðið fyrir sitt leyti að samþykkja þetta boð en efnt yrði til hluthafafundar til að taka endanlega afstöðu til þess. Þessi ráðagerð var kynnt að morgni mánudagsins 29. september 2008. Á fundi fjármálanefndar Landsbanka Íslands hf. miðvikudaginn 1. október 2008, sem ákærði sat, var forstöðumaður greiningardeildar bankans meðal annars viðstaddur og lagði hann fram yfirlit yfir breytingar á langtímaeinkunnum fjármálafyrirtækja í september og bókaði í fundargerð: „væntingar aukast en það er mjög líklega tímabundið.“ Þá var bókað eftir SG forstöðumanni verðbréfamiðlunar í fundargerðinni: „Bara færeysk félög sem hækka undanfarið. Miklar lækkanir undanfarið en velta hefur aukist. Mikil velta með LAIS en lífeyrissjóðir hafa verið sölumegin. Mikill fjöldi viðskipta á tímabilinu. KAUP hefur lækkað umtalsvert minna en önnur fjármálafyrirtæki ... Heimsvístölur. Hrávörur hafa verið aðeins verið að koma til baka. Hráolía upp um 12% á árinu.“ Eftir dómfellda ÍG var meðal annars fært til bókar um EFL: „Síðasta vika erfið á mörkuðum ef ekki tekið tillit til LAIS. Ársfjórðungur niður í heild um 8,3 ma.kr. Síðan er óljóst með FL stöðu upp á 2,1 ma.kr. sem er væntanlega á núll. Ef tekið með þá 10,4 ma. kr. Mikil lækkun á Intrum en íslenskar eignir hafa margar verið seldar meira niður en aðrar undanfarið. Greiningaraðilar hafa komið með góðar greiningar undanfarið.“ Þá var jafnframt bókað eftir forstöðumanni fjárstýringar bankans að „veltubók í skuldabréfum tók góðan kipp, Hagnaður 7,5 ma.kr. ... ICESAVE UK hefur haldið ótrúlega vel. Í Hollandi virðist ljóst að viðskiptavinir koma inn upplýstir um stöðuna.“ Mál þróuðust áfram á fjármálamarkaði og fór svo að lokum að 7. október 2008 neytti Fjármálaeftirlitið heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja stjórn bankans frá og setja yfir hann skilanefnd en við það urðu hlutabréf í bankanum einskis virði. Reyndist föstudagurinn 3. október 2008 síðasti dagurinn þar sem viðskipti með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. fóru fram í Kauphöllinni. Með bréfi til skilanefndar bankans 8. október tilkynnti ákærði að hann segði upp starfi sínu hjá bankanum og óskaði eftir að verða leystur frá störfum þá þegar. VIII 1 Rétt er að gera sérstaka grein fyrir upphafi og rannsókn þess máls sem leiddi til útgáfu ákæru. Fyrst verður hér rakið efni bréfs Kauphallarinnar til Fjármálaeftirlitsins 27. janúar 2009, því næst kæra Fjármálaeftirlitsins 19. október 2010 til embættis sérstaks saksóknara vegna ætlaðrar markaðsmisnotkunar 18 fyrrverandi starfsmanna Landsbanka Íslands hf., þar á meðal ákærða, með hlutabréf í bankanum á tímabilinu maí 2003 til október 2008 og að lokum skýrslu embættis sérstaks saksóknara um rannsókn málsins, sem sakargiftir á hendur ákærða og dómfelldu voru reistar á. 2 Í bréfi Kauphallarinnar til Fjármálaeftirlitsins 27. janúar 2009 kom fram að hún hafi haft til athugunar verðmyndun með hlutabréf stærstu viðskiptabanka landsins, þar á meðal Landsbanka Íslands hf. Í bréfinu sagði: „Kauphöllin hefur veitt því athygli að þegar skoðuð eru viðskipti þeirra miðlara innan bankanna sem áttu viðskipti fyrir hönd eigin reiknings (eigin viðskipti) á sl. mánuðum virðist sem það magn hlutabréfa sem keypt var í eigin félagi hafi verið umtalsvert meira heldur en það sem var selt. Á stundum þar sem mikill almennur söluþrýstingur var á hlutabréfamarkaði, innlendum sem erlendum, sérstaklega gagnvart bönkum og fjármálafyrirtækjum, og í kjölfar birtingar á fréttum sem undir eðlilegum kringumstæðum teldust neikvæðar, allt að því einokuðu eigin viðskipti bankanna kauphlið tilboðabókar eigin félags. Slíkur kaupþrýstingur getur eðli málsins samkvæmt haft talsverð áhrif á verðmyndun hlutabréfanna. Til þess að kanna viðskiptahætti eigin viðskipta bankanna nánar voru tekin saman öll viðskipti í Kauphöllinni með hlutabréf hvers banka fyrir sig, yfir tímabilið 02.05.2008 – 03.10.2008. Tímabilið var valið með hliðsjón af þeim hremmingum sem höfðu átt sér stað á fjármálamörkuðum auk mikillar veltuhlutdeildar bankanna í hlutabréfum eigin félags á tímabilinu. Þó skal þess getið að þátttaka eigin viðskipta bankanna í tilboðabókum sinna félaga var einnig umtalsverð á fyrrihluta ársins. Að mati Kauphallarinnar fæst í þessu tilviki skýrust mynd af hegðun viðkomandi kauphallaraðila með því fyrst og fremst að skoða viðskipti sem verða til við sjálfvirka pörun tilboða í viðskiptakerfi Kauphallarinnar (e. autotrades), eða m.ö.o. þegar horft er framhjá tilkynntum viðskiptum. Tilkynnt viðskipti hafa ekki áhrif á síðasta viðskiptaverð nema þau séu innan verðbils og eru verðáhrif slíkra viðskipta því takmörkuð ... Vankanturinn á þessari aðferðarfræði er sá að þegar skoða á nettó kaup eða sölu á tímabilinu er vantalið það magn sem keypt er, eða selt, utan tilboðabókarinnar og tilkynnt síðan í viðskiptakerfið. Nánar verður þó vikið að þessum þætti hér á eftir.“ Í bréfi Kauphallarinnar var síðan gerð grein fyrir viðskiptum hvers banka um sig, þar á meðal Landsbanka Íslands hf., í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á tímabilinu 2. maí til 3. október 2008 og þar að auki sérstaklega viðskiptum þeirra í opnunar- og lokunartilboðum. Kom fram að á fyrrnefndu tímabili hefðu heildarkaup á eigin bréfum numið 1.557.462.744 krónum en eigin bréf verið seld fyrir 4.258.830 krónur. Þá kom fram að heildarkaup EFL í eigin bréfum umfram sölu í opnunaruppboðum hafi numið að meðaltali 54,03% af öllum viðskiptum í opnunaruppboðum og heildarkaup umfram sölu í lokunaruppboðum hafi numið að meðaltali 72,69%. Að því búnu var tekið fram í bréfinu: „Til þess að fá heilsteypta mynd af viðskiptaháttum eigin viðskipta bankanna er nauðsynlegt að líta ekki aðeins til viðskipta sem verða til við pörun tilboða í viðskiptakerfi Kauphallarinnar heldur einnig til tilkynntra viðskipta. Eins og fram hefur komið hér að framan eru kaup bankanna umfram sölu umtalsverð, þegar einungis eru skoðuð viðskipti sem orðið hafa við pörun tilboða. Sá möguleiki er aftur á móti fyrir hendi að eigin viðskipti bankanna hafi smám saman, eða í nokkrum stórum viðskiptum, selt þá hluti sem keyptir voru á tímabilinu með því að semja við aðra aðila, hvort sem um viðskiptavini eða aðra kauphallaraðila er að ræða, utan tilboðabókanna og tilkynna viðskiptin í kjölfar þess í viðskiptakerfið ... Þegar viðskipti eru tilkynnt í viðskiptakerfi Kauphallarinnar kemur ekki fram hver sé kaupandi og seljandi heldur einungis auðkenni miðlarans. Í tilvikum þar sem mótaðili viðskiptanna er einnig kauphallaraðili og samið er um að hvor aðilinn tilkynni sinn legg viðskiptanna er aftur á móti hægt að sjá auðkenni hvors miðlara fyrir sig, en ekki upplýsingar um hinn endanlega viðskiptavin – sem getur allt eins verið annar miðlari. Tilkynni starfsmaður eigin viðskipta viðskipti eru því mjög takmarkaðar leiðir til þess að sjá hvort um kaup eigin viðskipta eða sölu sé að ræða. Að auki geta aðrir kauphallaraðilar, eða miðlarar hjá sama kauphallaraðila, tilkynnt viðskipti þar sem eigin viðskipti bankanna eru hinn endanlegi kaupandi eða seljandi, m.ö.o. þar sem eigin viðskipti bankanna væru viðskiptavinur viðkomandi miðlara.“ 3 Eins og áður segir hófst málið með kæru Fjármálaeftirlitsins 19. október 2010 til embættis sérstaks saksóknara. Þar kom fram að rannsókn Fjármálaeftirlitsins hefði hafist í kjölfar framangreinds erindis frá Kauphöllinni. Rannsóknin hefði meðal annars leitt í ljós að starfsmenn EFL hafi á þessu tæplega fimm og hálfs árs tímabili keypt samtals 3.300.000.000 hlutabréfa sem útgefin voru af bankanum „nettó á markaði með sjálfvirkri pörun ... eða um 30% af útgefnu hlutafé bankans. Umfang kaupanna var stór hluti af veltu bréfanna í mörgum mánuðum á tímabilinu sem um ræðir. Sem dæmi má nefna að frá maí til október 2008 námu nettó kaup EFL, sem hlutfall af heildarkaupum í Kauphöllinni, á bilinu 40-80% í sérhverjum mánuði.“ Í kæru Fjármálaeftirlitsins var gerð svofelld grein fyrir sjálfvirkum pörunarviðskiptum: „Sjálfvirk pörun verður til í viðskiptakerfi kauphallar þegar samsvörun verður milli tilboða kaupenda og seljenda í tilboðabók. Í kerfinu verða til skrár yfir æskilegt verð (e. desired price) og magn í mismunandi kaup- og sölutilboðum sem miðlarar, sem hafa aðgang að kerfinu, setja inn. Þegar samsvörun verður milli tilboða kaupanda og seljanda verður til sjálfvirk pörun viðskiptanna og verðbréfin skipta um hendur. Sjálfvirk pörun viðskipta er því drifkrafturinn í að til verði markaðsverð verðbréfa á skipulegum verðbréfamarkaði. Þegar sjálfvirk pörun tekst verður til síðasta viðskipta- eða markaðsverð verðbréfsins og þar með einnig það verð sem notað er til útreikninga í verðbréfavísitölum. Í raun verður markaðsverð verðbréfa til við sjálfvirka pörun ... Til að hafa áhrif á markaðinn með sjálfvirkri pörun í kauphöll, þarf verðbréfasalinn stöðugt að uppfæra kauptilboð sitt svo það samsvari næsta sölutilboði í tilboðabókinni. Með því verður alltaf til kauptilboð sem samsvarar næsta sölutilboði og markaðsverðið, sem er síðasta greidda verð, ýmist hækkar, stendur í stað eða lækkar hægar en það hefði ella gert ef verðbréfasalinn hefði ekki verið til staðar. Án verðbréfasalans hefðu aðrir væntanlegir kaupendur að öllum líkindum ekki keypt hlutabréfin á því verði sem seljandinn bauð og verðið hefði lækkað til að mæta lægri kauptilboðum.“ Þá var í kærunni eftirfarandi lýsing á ferli viðskipta sem talið var að eigin fjárfestingar og verðbréfamiðlun Landsbanka Íslands hf. hefðu staðið að: „Það er álit Fjármálaeftirlitsins að fyrrgreind svið ... hafi á tímabilinu maí 2003 – október 2008 unnið saman og búið til feril viðskipta í þeim tilgangi að hafa áhrif á markaðsverð hlutabréfa útgefnum af bankanum sjálfum. Fjármálaeftirlitið telur að ferillinn hafi falist í því að kaupa stöðugt hlutabréf á markaði og selja þau síðan utan markaðar. Þessi aðferð sem var bæði skipulögð og kerfisbundin virðist hafa verið notuð í þeim tilgangi að hafa áhrif á verð hlutabréfanna ... Algengt var að verðbréfasalar EFL fóru af krafti inn á markaðinn. Þeir voru á kauphliðinni í mörgum viðskiptum og notuðu til þess fjármuni bankans, að því er virðist í þeim tilgangi að hækka verð eða viðhalda verði hlutabréfa í Landsbankanum. Þessi aukna eftirspurn varð til þess að styðja við verðið (þegar verð lækkaði á markaði) eða hækka verðið (þegar verð var stöðugt eða hækkandi) þar sem það er fyrst og fremst við sjálfvirka pörun viðskipta í kauphöll sem markaðsverð verður til. Áhrifaríkasta leið verðbréfasala, sem vill styðja við eða hreyfa við hlutabréfaverði, er að vera á kauphliðinni í eins mörgum viðskiptum og hann getur í viðskiptakerfi kauphallar. Með því styður hann við verðið í hverjum viðskiptum fyrir sig. Það er álit Fjármálaeftirlitsins að verðbréfasalar EFL hafi haft þennan háttinn á ... Vandamálið við að kaupa ítrekað hlutabréf útgefið af fjármálafyrirtækinu sjálfu er að því er óheimilt að eiga eða taka að veði meira en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár fyrirtækisins ... Þegar reynt er að hafa áhrif á hlutabréfaverð með miklum kaupum á hlutabréfum er því oftast sjálfhætt, þar sem líklegast er að tap myndist þegar reynt er að selja uppsöfnuðu hlutabréfin í kauphöll. Miðlun Landsbankans var að mati Fjármálaeftirlitsins hjálparhöndin í þessu ferli. Miðlunin hafði aðgang að viðskiptavinum sem sumir fengu óeðlilegar lánafyrirgreiðslur frá lánadeildum bankans. Miðlararnir gátu því selt mikið af þessum hlutabréfum til „útvalinna“ viðskiptavina. Margir þeirra tóku litla eða enga áhættu við kaupin þar sem kaupin voru fjármögnuð að fullu með lánum frá bankanum og voru án annarra trygginga en veða í sjálfum hlutabréfunum ... Hér virðist því vera um tvenns konar óeðlileg áhrif að ræða, fyrst umfangsmikil kaup á opnum markaði til að styðja við hlutabréfaverðið og síðan losun á þessum bréfum með sýndarviðskiptum á verði sem var undir áhrifum af kaupum EFL.“ Í kærunni var því nánar lýst hvernig hin ætlaða markaðsmisnotkun hefði verið upp byggð, bæði með kaupum og sölu Landsbanka Íslands hf. á hlutabréfum útgefnum af félaginu sjálfu. Þar sagði meðal annars um kauphliðina á grundvelli upplýsinga um kaup EFL á slíkum hlutabréfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í Kauphöllinni umfram sölu í þeim viðskiptum: „Fjármálaeftirlitið telur að EFL hafi stutt við verð hlutabréfa Landsbankans með því að auka kaup sín á bréfunum svo um munar þegar verð þeirra tók að lækka ... Eðlilegt verð á bréfum Landsbankans var aldrei vitað sökum verðstuðnings EFL við bréfin. Verð bréfanna hefði samkvæmt lögmálinu um framboð og eftirspurn lækkað mun hraðar og fyrr hefði ekki verið fyrir tilstilli falskrar eftirspurnar EFL ... Viðskipti með sjálfvirkri pörun geta verið á tvo vegu: sá aðili sem kaupir gengur að sölutilboði þess sem vill selja eða öfugt ... Allt þar til í lok árs 2007 voru flest viðskipti að frumkvæði mótaðila og telur Fjármálaeftirlitið að EFL hafi verið að dempa verðsveiflur bréfanna, þ.e.a.s. EFL var alltaf tilbúið með kauptilboð rétt undir síðasta viðskiptaverði. Frá nóvember 2007 og fram að falli bankans var verðið í frjálsu falli. „Gólf“ ... EFL réðu ekki við að halda verðinu uppi og telur Fjármálaeftirlitið að þá hafi EFL reynt að hækka verð bréfanna með því að ganga á sölutilboðahliðina, þ.e.a.s. EFL fór að kaupa meira að eigin frumkvæði til þess að hækka verðið. Þegar framboð er meira en eftirspurn á verð undir eðlilegum kringumstæðum að lækka. EFL beitti ákveðinni aðferð til þess að koma í veg fyrir þessa eðlilegu þróun. Aðferðin var sú að þegar framboð á bréfum var mikið röðuðu EFL inn kauptilboðum á verði nálægt síðasta viðskiptaverði og voru alltaf tilbúnir að kaupa bréfin á því gengi sem þeir vildu halda bréfunum á. Þannig gátu þeir komið í veg fyrir verðlækkun eða a.m.k. hægt á henni ... EFL voru virkir í viðskiptum með eigin hlutabréf og voru þátttakendur í um 14 – 20% af heildarveltu þeirra hvert ár frá 2003 – 2007 en árið 2008 var hlutfallið mun hærra eða u.þ.b. 53%. Árið 2006 var metár hvað varðar veltu með hlutabréf Landsbankans en árið eftir dróst veltan mikið saman. Það sama hefði að öllum líkindum gerst árið 2008 ef ekki hefði verið fyrir tilstilli EFL ... Þar sem EFL var svo stór aðili á markaði með hlutabréf Landsbankans á þessum árum gaf magn og seljanleiki (e. liquidity) bréfanna ranga mynd af raunverulegu virði þeirra.“ 4 Embætti sérstaks saksóknara tók málið til rannsóknar og í skýrslu þess um rannsókn málsins, sem sakargiftir á hendur ákærða og dómfelldu eru reistar á, er línurit sem sýnir kaup EFL á hlutabréfum útgefnum af bankanum, umfram sölu, sem hlutfall af heildarveltu í sjálfvirkri pörun í Kauphöll Íslands á tímabilinu 1. maí 2003 til 3. október 2008. Á línuritinu eru sýnd nettóviðskipti í sjálfvirkri pörun í hverjum mánuði, auk gengis hlutabréfanna í lok hvers mánaðar. Í skjali sem stafar frá ákæruvaldinu koma fram nettóviðskipti EFL með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. í sjálfvirkri pörun í Kauphöllinni í hverjum mánuði frá maí 2003 til október 2008, miðað við nafnverð hlutabréfanna eða fjölda hluta í bankanum, svo og lokagengi bréfanna í lok hvers mánaðar á sama tímabili. Eins og þar greinir voru kaup EFL á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. umfram sölu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum yfirleitt sögð lítil frá miðju ári 2003 fram í október 2007 í samanburði við þann tíma sem ákært er fyrir og í einstaka mánuði voru hlutirnir, sem keyptir voru, færri en þeir sem seldir voru. Þetta hafi síðast átt sér stað í október 2007 þegar sá mismunur nam 1.502.012 hlutum. Nettókaup EFL hafi verið óvenjumikil í október 2004, 88.021.633 hlutir, þegar gengi hlutabréfanna lækkaði úr 14,00 krónum á hlut frá lokum september í 12,65 krónur í októberlok. Sama mun hafa gerst í mars 2006, en þá námu kaupin 86.966.733 hlutum meðan gengið lækkaði úr 28,90 í 24,50. Reyndar hafi nettókaup á öllu árinu 2006 verið miklum mun meiri en árin áður sem sjáist á því að árið 2005 hafi þau til að mynda numið samtals 192.696.536 hlutum en 438.541.388 hlutum árið 2006. Á því ári hafi gengi hlutabréfanna lækkað ört framan af árinu, úr 25,30 frá árslokum 2005 í 20,20 í lok júní 2006, en á þeim tíma hafi verið keyptir samtals 349.349.966 hlutir umfram þá sem seldir voru. Fyrstu tíu mánuði ársins 2007, þegar gengið hækkaði úr 26,50 frá árslokum 2006 í 43,80 í lok október 2007, hafi nettókaup EFL verið í lágmarki þar sem þau hafi numið samtals 83.018.767 hlutum. Þetta hafi breyst í nóvember og desember sama ár þegar nettókaup í hvorum mánuði um sig hafi verið um 80% af því sem þau námu samtals á tíu mánaða tímabili á undan. Í nóvember 2007 hafi gengi hlutabréfanna tekið að lækka. Það hafi svo lækkað enn meira þegar kom fram á árið 2008, en að sama skapi hafi kaup EFL aukist eftir því sem á árið leið og náð hámarki í september og október það ár. Þó hafi dregið nokkuð úr kaupunum í apríl og ágúst eftir að gengið hafði hækkað lítillega frá lokum febrúar annars vegar og lokum júlí hins vegar. IX Fyrir héraðsdómi voru teknar skýrslur af 45 vitnum auk ákærða og dómfelldu. Hæstiréttur ákvað að heimila skýrslutökur við meðferð málsins. Af hálfu ákæruvaldsins var þess óskað að teknar yrðu skýrslur af ákærða og dómfelldu JSH, ÍG og SS og vitninu YÖK, fyrrverandi framkvæmdastjóra verðbréfasviðs Landsbanka Íslands hf. Af hálfu ákærða var þess óskað að tekin yrði skýrsla af vitninu SRÞ fyrrverandi starfsmanni EFL. Verður nú gerð grein fyrir framburði þeirra við meðferð málsins hér fyrir réttinum að því leyti sem nauðsynlegt þykir fyrir úrlausn þess. Ákærði ítrekaði í meginatriðum framburð sinn sem fram kom við meðferð málsins í héraði. Af hálfu bankans hefði verið óformleg viðskiptavakt á eigin bréfum allt frá árinu 1998 en hún hefði aldrei verið rædd sérstaklega á fjármálanefndarfundum. Tilvist slíkrar viðskiptavaktar hefði verið alkunna á markaði, einnig í starfsemi hinna viðskiptabankanna. Eftirlitsaðilar hefðu hvorki gert athugasemdir við þetta né aðilar innan bankans, svo sem innri endurskoðun, lögfræðingar eða regluvörður. Ákærði skýrði svo frá að fjármálanefnd hafi verið upplýsinganefnd en ekki vettvangur fyrir töku ákvarðana. Nefndin, sem hafi fundað á hverjum miðvikudegi, hafi meðal annars fjallað um málefni verðbréfasviðs. Á vettvangi hennar hafi hann ekki haft aðra stöðu en HJK sem jafnframt var bankastjóri, andstætt því sem átt hafi við til að mynda um lánanefnd. Fyrir fjármálanefnd hafi meðal annars verið lagðar skýrslur um nettóstöðu viðskipta EFL í vikunni þar á undan. Við upplýsingagjöf um viðskipti með eigin bréf bankans hafi ekki verið greint frá einstökum viðskiptum sem voru þar að baki, hvorki kaupum né sölu. Þar hafi ekki heldur verið aðgreind sala og kaup sem fóru annars vegar fram í utanþingsviðskiptum og hins vegar viðskiptum í Kauphöllinni. Á síðasta fundi nefndarinnar hafi hann fengið skýrslu um viðskipti EFL í vikunni þar á undan og því aldrei séð yfirlit yfir viðskipti EFL síðustu vikuna sem bankinn hafi verið í rekstri. Jafnframt hafi upplýsingar um afkomu verðbréfasviðs vegna viðskipta með eigin bréf bankans verið gefnar í því skyni að sýna fram á áhrif þeirra á efnahag hans. Ástæðan væri sú að tap eða hagnaður þeirra viðskipta kæmi ekki fram í rekstrarreikningi heldur sem sérstakur liður undir eigin fé í efnahagsreikningi bankans. Þá vísaði ákærði til þess að hefði hann haft áhuga á að fá upplýsingar um stöðu bankans í eigin bréfum hefði hann sjálfur óskað eftir gögnum um einstök viðskipti EFL en það hafi hann ekki gert. Þá bar ákærði að hann hefði aðallega fylgst með svokallaðri 10% reglu, sbr. 29. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, og fengið óreglulega skýrslur þar um, síðast í desember 2007 að því er hann minnti. Sem dæmi um viðbrögð sín vegna þeirrar stöðu sem hefði komið upp þegar bankinn hefði nálgast fyrrgreind mörk var að hann hafi meðal annars átt frumkvæði að því að greiða arð til hluthafa í formi hlutabréfa í bankanum og hafi sú ráðstöfun komið til framkvæmda vorið 2008. Áhættustýring bankans hafi verið undir stjórn ÞAI sem heyrði undir alþjóðasvið en framkvæmdastjóri þess hafi verið BH. Alþjóðasviðið hafi heyrt undir HJK bankastjóra. Auk þess benti ákærði á að í áhættureglum bankans, þar sem talað væri um heimildir verðbréfasviðs, væri tekið fram að leita þyrfti heimildar ,,bankastjórnar“ eða fjármálanefndar, en ekki ,,bankastjóra“. Starfsmenn verðbréfasviðs hefðu haft rúmar heimildir til að fjárfesta í eigin bréfum innan þess ramma sem ákvarðaður hafi verið af fjármálanefnd sem hafi miðast við að eign færi ekki fram úr 5% af hlutafé bankans í ljósi flöggunarskyldu. Sama regla hafi gilt um kaup á bréfum í öðrum félögum. Við slíkar aðstæður hafi þurft að afla samþykkis bankastjórnar. Erfitt hafi verið að koma við raunhæfu eftirliti með einstökum viðskiptum EFL eða meta hvort farið hafi verið út fyrir heimildir vegna þess hvernig reglum bankans um upplýsingagjöf var háttað. Hann hefði litið svo á að kæmu ekki fram athugasemdir á fjármálanefndarfundum teldust viðskipti EFL samþykkt. EFL hefði skilað miklum hagnaði fram til ársins 2008 þegar tap varð af viðskiptum. Það hafi fyrst og fremst skýrst af markaðsaðstæðum þess tíma. Vísaði ákærði ítrekað til þess að við meðferð málsins í héraði hefðu starfsmenn EFL gefið afar greinargóðar skýringar á einstökum fjárfestingum deildarinnar á ákærutímabilinu. Ákærði gerði þá meginathugasemd við lýsingu viðskipta EFL í ákæru að þar væri ekki gerð grein fyrir öllum viðskiptum EFL með hlutabréf í bankanum heldur eingöngu lýst sjálfvirkum pörunarviðskiptum í Kauphöllinni en ekki utanþingsviðskiptum, en slíkur greinarmunur hafi aldrei verið gerður í bankanum eða á markaði. Að þessu athuguðu gerði ákærði ekki tölulegar athugasemdir við framsetningu í ákærunni. Þá mótmælti hann því að EFL hefði í reynd haft áhrif á verð hlutabréfa í bankanum og vísaði þar um til skýrslu SRÞ sem var starfsmaður EFL á ákærutímabilinu. Í því samhengi vísaði ákærði einkum til þess að verð á hlutabréfum í bankanum hefði þróast í takt við hlutabréfavísitölu norrænna banka og milli þeirra verið mikil fylgni eða um 70%. Sérstaklega aðspurður tók hann fram að á þeim tíma sem leið frá því að tilkynnt var um fyrirhuguð kaup ríkisins á 75% hlut í Glitni banka hf. mánudaginn 29. september 2008 hafi EFL brugðist við aukinni eftirspurn, meðal annars vegna kaupa í gegnum Landsbankann í Lúxembourg, með því að kaupa bréf í auknum mæli á markaði. Ákærði tók þó fram að slíkar upplýsingar hefði hann ekki haft á þessum tíma. Þá tók ákærði fram að hann myndi ekki eftir umræðu um eign bankans í eigin bréfum á fundi fjármálanefndar miðvikudaginn 1. október 2008 eins og vísað sé til í fundargerð þess fundar. Ákærði áréttaði jafnframt að hann hefði þekkt dómfellda ÍG og átt í samskiptum við hann vegna einstakra málefna bankans, en hann hafði hins vegar hvorki þekkt dómfelldu JSH né SS, hvað þá gefið þeim fyrirmæli vegna starfa þeirra fyrir EFL. Dómfelldu, JSH, SS og ÍG, voru kvaddir til skýrslutöku við meðferð málsins fyrir Hæstarétti þar sem þeir töldust að lögum hafa réttarstöðu ákærðu. Neyttu þeir allir réttar síns samkvæmt 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 og neituðu að gefa skýrslu um sakarefnið við meðferð málsins fyrir réttinum. YÖK, framkvæmdastjóri verðbréfasviðs Landsbanka Íslands hf. á ákærutímabilinu, gaf skýrslu við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Hann ítrekaði það sem fram kom í framburði hans í héraði að kaup EFL á bréfum í bankanum hefðu verið rædd á fundum fjármálanefndar og stefnan verið mótuð þar. Dómfelldi ÍG hefði sem forstöðumaður EFL stjórnað ákvörðunum deildarinnar innan hvers viðskiptadags. Hann tók fram að Landsbanki Íslands hf. hefði verið viðskiptavaki á eigin bréfum. Tilgangur þess hefði verið að skapa seljanleika hlutabréfa í bankanum sem og að setja kaup- og sölutilboð fram. Nánar tiltekið vísaði hann til þess að hefði verið um eftirspurn að ræða hefðu bréf bankans verið seld en við aukið framboð þeirra hefði viðskiptavakinn keypt. Fjármálanefnd hefði ekki gefið fyrirmæli um einstök kaup EFL. Hagnaður og tap hefði verið af viðskiptum með eigin bréf og hefði það meðal annars komið fram í svokölluðum 4:15-skýrslum innan bankans og á einstökum fjármálanefndarfundum. Vitnið staðfesti enn fremur að einstakir meðlimir fjármálanefndar hefðu haft yfirsýn yfir stöðu bankans í eigin bréfum á hverjum tíma. Vitnið SRÞ, fyrrverandi starfsmaður EFL, kom fyrir Hæstarétt. Hann staðfesti að hafa unnið að tölfræði í ódagsettri skýrslu sem lögð var fram við meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Auk þess staðfesti hann að hafa gert framlagt skjal um ,,línulega aðfallsgreiningu“ 7. febrúar 2021. Hann tók fram að hvort heldur litið væri til heildarviðskipta með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. eða einungis viðskipta í sjálfvirkri pörun á ákærutímabilinu, sýndu útreikningar að viðskipti EFL hefðu ekki haft áhrif á verðbreytingar hlutabréfa í bankanum á tímabilinu. X 1 Með dómi héraðsdóms var ákærði sakfelldur ásamt dómfelldu ÍG og JSH fyrir markaðsmisnotkun vegna tímabilsins 29. september til 3. október 2008 en dómfelldi SS sýknaður. Byggðist niðurstaða dómsins á því að á grundvelli mats á munnlegum framburðum væri ekki talið unnt að sakfella fyrir viðskipti nema vegna tímabilsins 29. september til 3. október 2008. Í tilviki dómfellda SS var ekki talið unnt vegna „ekki ótrúverðugs“ framburðar hans að sakfella hann fyrir neinn hluta ákærutímabilsins. Var ákærða gert að sæta fangelsi í 12 mánuði en þar af skyldi fresta fullnustu níu mánaða af refsingunni og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins héldi hann almennt skilorð eftir 57. gr. almennra hegningarlaga. Refsing dómfelldu ÍG og JSH var ákveðin fangelsi níu mánuðir en fresta skyldi fullnustu sex mánaða af refsingunni og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins héldu þeir almennt skilorð eftir 57. gr. almennra hegningarlaga. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 842/2014, sem hér er endurupptekinn í tilviki ákærða, voru hann og allir dómfelldu sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun vegna alls ákærutímabilsins. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að skýringar ákærða og annarra dómfelldu hefðu enga þýðingu um sekt eða sýknu þar sem af hálfu bankans hefði verið stunduð ólögmæt markaðsmisnotkun allt ákærutímabilið án þess að þar væri vikið sérstaklega að áskilnaði 1. mgr. 147. gr. laga nr. 108/2007. Var refsing ákærða ákveðin fangelsi eitt ár og sex mánuðir, dómfellda ÍG tvö ár, dómfellda JSH eitt ár og dómfellda SS níu mánuðir. 2 Við skýrslugjöf fyrir Hæstarétti lögðu dómfelldu ÍG, JSH og SS fram bókanir. Dómfelldi SS vísaði til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði tekið tvær kvartanir hans vegna framangreinds dóms Hæstaréttar til meðferðar en málið hefði ekki enn þá verið til lykta leitt á þeim vettvangi. Dómfelldi ÍG vísaði til þess að hann hefði kvartað yfir málsmeðferð Hæstaréttar í fyrrgreindu máli til dómstólsins og fyrir lægi viðurkenning íslenska ríkisins í formi yfirlýsingar 18. september 2020 um að brotinn hafi verið á honum réttur samkvæmt 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í bókunum allra dómfelldu kom fram að þeir teldu uppfyllt skilyrði til endurupptöku málsins, en enginn þeirra hefði enn tekið afstöðu til þess hvort þeir myndu óska hennar. Neyttu þeir allir réttar síns samkvæmt 2. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008 og neituðu að gefa skýrslu um sakarefnið við meðferð málsins fyrir Hæstarétti svo sem fyrr segir. Eftir að málið hafði verið dómtekið óskaði Hæstiréttur, með vísan til 168. gr. laga nr. 88/2008, eftir upplýsingum með bréfum til ákæruvaldsins 19. og 22. febrúar 2021 um hvort fyrir lægju kvartanir frá dómfelldu til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna meðferðar hæstaréttarmáls nr. 842/2014. Ef svo væri var jafnframt óskað eftir upplýsingum um afstöðu íslenska ríkisins til þeirra kvartana. Með bréfi 20. febrúar 2021 frá ákæruvaldinu var staðfest að dómfelldu SS og ÍG hefðu lagt fram kvartanir til dómstólsins og fylgdi með sátt í máli dómfellda ÍG og einhliða yfirlýsing íslenska ríkisins í máli dómfellda SS, en tekið fram að hún hefði ekki verið til lykta leidd af dómstólnum. Með sáttinni við dómfellda ÍG 18. september 2020 viðurkennir íslenska ríkið að brotinn hafi verið réttur á honum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð með vísan til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu 16. júlí 2019 í máli Styrmis Þórs Bragasonar gegn Íslandi. Málinu mun hafa lokið á þeim grundvelli með niðurfellingu þess 4. mars 2021. Í yfirlýsingu íslenska ríkisins 8. desember 2020 í máli dómfellda SS viðurkennir það að brotinn hafi verið á honum réttur samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð með vísan til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu 25. febrúar 2020 í máli Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur gegn Íslandi og þess hvernig staðið var að sakfellingu hans fyrir Hæstarétti. Í sáttinni og yfirlýsingu íslenska ríkisins er vísað til þess að dómfelldu geti sótt um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 842/2014. Í bréfi ákæruvaldsins 22. febrúar 2021 kom fram að ekki lægi fyrir kvörtun dómfellda JSH til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna málsmeðferðar í málinu. Með bréfinu fylgdi hins vegar samkomulag 30. júní 2020 þar sem íslenska ríkið féllst á að greiða honum miskabætur og lögmannskostnað vegna hlerunar á rannsóknarstigi málsins.             Málið var endurupptekið í Hæstarétti miðvikudaginn 3. mars 2021, sakflytjendum gefinn kostur á að tjá sig um framangreind gögn og endurflytja málið. Var málið því næst dómtekið að nýju. Af 2. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu leiðir að fyrrgreindur dómur Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014 stendur að sínu leyti óraskaður í tilfelli dómfelldu ÍG, JSH og SS hvað sem líður áðurgreindum lyktum mála þeirra fyrir Mannréttindadómstólnum. 3 Samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er sökuðum manni tryggður réttur til þess að vera talinn saklaus þar til sekt hans er sönnuð, sbr. einnig 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 108. gr. laga nr. 88/2008. Í máli þessu er einungis til umfjöllunar sá hluti I. kafla ákæru þar sem fjallað er um ætlaða háttsemi ákærða, en ekki annarra dómfelldu í hæstaréttarmáli nr. 842/2014. Forsendur Hæstaréttar fyrir að hafna frávísunarkröfu ákæruvaldsins í málinu og fallast á endurupptöku þess á hendur ákærða leiða til þess að aðrir dómfelldu eiga að öðrum lagaskilyrðum uppfylltum sambærilegan rétt til endurupptöku málsins leiti þeir eftir því. Að þessu virtu ber að árétta þá grunnreglu sakamálaréttarfars, sbr. meðal annars ákvæði þágildandi 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008, að sönnunargildi framburðar annarra dómfelldu fyrir héraðsdómi verður ekki endurmetið við meðferð máls þessa. Sú sérstaka staða sem að lögum hefur skapast vegna þessarar takmörkuðu endurupptöku málsins setur réttinum frekari skorður en ella væri við úrlausn Hæstaréttar um sakargiftir á hendur ákærða einum. XI 1             Verður nú gerð grein fyrir efnislegri úrlausn sakargifta á hendur ákærða. Fyrst er vikið nánar að lýsingu í ákæru, því næst gerð grein fyrir samskiptum starfsmanna EFL sem og verðbréfasviðs á ákærutímabilinu. Þá verður gerð grein fyrir fundargerðum fjármálanefndar og tölvubréfum ákærða á sama tímabili. Því næst verður vikið að vörnum ákærða, einkum er varðar áskilnað 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrár um skýrleika refsiheimilda sem og verknaðarlýsingu í ákæru. Að lokum er tekin afstaða til þess hvort á vegum Landsbanka Íslands hf. hafi verið stunduð markaðsmisnotkun á ákærutímabilinu og hvort ákærði hafi í því tilliti gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. 2 Samkvæmt ákæru keypti EFL 2.325.395.153 hluti af þeim 4.801.255.966 hlutum í félaginu sem viðskipti voru gerð með í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í Kauphöllinni á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008 eða 48,4% af heildarveltu með hlutina í þeim viðskiptum á þessum liðlega ellefu mánuðum. Á sama tíma seldi deildin 57.213.029 hluti í félaginu eða 1,2% af heildarveltunni. Sagði í ákærunni að kaup umfram sölu hafi því samtals numið 47,2% af heildarveltu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf., samtals 2.268.182.124 hlutum eða 56.240.113.876 krónum að markaðsvirði. Þar af hafi kaup umfram sölu verið 46% af heildarveltu með hlutabréf í félaginu í opnunaruppboðum og kaup umfram sölu 63% af heildarveltunni í lokunaruppboðum. Nafnverð kauptilboða EFL í hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. hafi á fyrrgreindu tímabili numið 43% af heildarnafnverði kauptilboða í hlutabréfin, en nafnverð sölutilboða deildarinnar í þau hlutabréf aðeins um 3% af heildarnafnverði sölutilboða. Samtals hafi kaup EFL á hlutabréfum í bankanum, umfram sölu, á tímabilinu verið um 20% af öllu útgefnu hlutafé þess. Í töflu í ákærunni er að finna skiptingu á framangreindum nettóviðskiptum á umræddu tímabili eftir mánuðum. Þar kemur fram að þau hafi tekið til 67.705.455 hluta eða 15% af heildarveltu í þeim viðskiptum í nóvember 2007, 67.214.212 hluta eða 33% af heildarveltunni í desember sama ár, 195.885.014 hluta eða 39% af heildarveltunni í janúar 2008, 171.587.476 hluta eða 44% af heildarveltunni í febrúar sama ár, 154.885.306 hluta eða 42% af heildarveltunni í mars, 57.700.747 hluta eða 19% af heildarveltunni í apríl, 137.995.707 hluta eða 43% af heildarveltunni í maí, 241.609.648 hluta eða 57% af heildarveltunni í júní, 125.348.530 hluta eða 50% af heildarveltunni í júlí, 64.867.026 hluta eða 48% af heildarveltunni í ágúst, 569.989.300 hluta eða 61% af heildarveltunni í september og loks 413.393.703 hluta eða 79% af heildarveltunni í október 2008, en þann mánuð hafi viðskiptin sem fyrr segir aðeins staðið þrjá fyrstu dagana. Í annarri töflu, sem er að finna í ákærunni, eru umrædd viðskipti sundurliðuð eftir viðskiptadögum sem voru alls 228 talsins á tímabilinu. Samkvæmt henni var yfirleitt um að ræða kaup umfram sölu á eigin bréfum og oftast nær munaði þar miklu. Í töflunni eru einnig upplýsingar um skráð gengi hlutabréfanna í lok hvers viðskiptadags. Þar kemur meðal annars fram að gengið hafi verið 43,40 krónur á hlut 1. nóvember 2007, 37,60 krónur 30. sama mánaðar, 35,50 krónur 28. desember sama ár, 30,80 krónur 31. janúar 2008, 26,80 krónur 29. febrúar sama ár, 29,60 krónur 31. mars, 29,90 krónur 30. apríl, 25,20 krónur 30. maí, 23,10 krónur 30. júní, 22,80 krónur 31. júlí, 24,00 krónur 29. ágúst, 20,40 krónur 30. september og loks 19,90 krónur 3. október 2008 þegar viðskiptum með hlutabréf í bankanum var hætt. Samkvæmt ákæru voru framangreind viðskipti EFL framkvæmd að undirlagi ákærða. Um hafi verið að ræða ólögmætt inngrip í gangverk markaðarins sem hafi haft áhrif á markaðsgengi hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf., tryggt óeðlilegt verð á hlutabréfunum á tímabilinu, búið til verð á þeim og gefið eða verið líklegt til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega eða misvísandi til kynna. Þannig hafi ákærði raskað þeim forsendum og lögmálum sem liggja að baki eðlilegri verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði með því að auka seljanleika hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. með ólögmætum hætti. 3 Meðal málsgagna eru tölvubréf sem meðal annars dómfelldu ÍG, JSH og SS ýmist sendu eða fengu, svo og upptökur af símtölum þeirra á ákærutímabilinu og varða með einum eða öðrum hætti kaup EFL á hlutum í bankanum og mögulega skyldu til flöggunar vegna þeirra viðskipta vegna svonefndrar 5% reglu sbr. 93. gr. laga nr. 108/2007. Enda þótt í máli þessu sé eingöngu til úrlausnar ætluð refsiverð háttsemi ákærða þykir engu að síður rétt að rekja fyrrnefnd samskipti. Að kvöldi 20. nóvember 2007 sendi dómfelldi JSH dómfellda ÍG svofellt tölvubréf: „Keyptum netto 17,4 m að nv í LAIS í dag (meðalverð 37,05) og heildar eignin er þá 150 m að nv í lok dags. Lokagengið var 37,90. Hvaða svigrúm höfum við í framhaldinu í LAIS ef mkt heldur áfram í ræpu á morgun?“ Að kvöldi 27. febrúar 2008 framsendi dómfelldi JSH í tölvupósti til dómfellda ÍG tölvubréf sem honum og dómfellda SS hafði rétt áður borist frá starfsmanni áhættustýringar Landsbanka Íslands hf. með fyrirsögninni: „Nálgumst flöggunarmörk í LAIS“. Upphaf tölvubréfsins var svohljóðandi: „Nálgumst flöggunarmörkin í eigin bréfum. Staðan við lok dags var 523 milljónir hluta eða 4,67% af útgefnu hlutafé, um 36 milljón hlutum frá flöggun.“ Af þessu tilefni lét dómfelldi JSH eftirfarandi orð fylgja um leið og hann framsendi tölvubréfið til dómfellda ÍG: „Thad er ahyggjuefni hvernig stada mala er i lais. Verdum ekki lengi ad na floggunarmorkunum mv hvernig overhangid er og almenn stemmning a markadi. Hversu stift eigum vid ad taka a moti eigin brefum afram?“ Í símtali sama starfsmanns áhættustýringar við dómfellda SS að morgni 5. mars 2008 ræddu þeir um að hafa verið mjög nálægt flöggunarmörkum við lok markaðar daginn áður. Undir lok símtalsins spurði sá fyrrnefndi: „Er ekki ætlunin að flagga ekki eða?“ Því svaraði dómfelldi SS: „Jú jú, það er, geri allt til að komast hjá því.“ Viðmælandinn svaraði: „Já já, mig grunaði það.“ Síðdegis föstudaginn 14. mars 2008 sendi sami starfsmaður áhættustýringar tölvubréf til dómfelldu JSH og SS með fyrirsögninni: „Staðan í LAIS 4,85%“, þar sem sagði meðal annars: „Staðan í LAIS er 542,6 milljón hlutir, 4,85% eða 17 milljón hlutum frá flöggun ... Miðlun á eitthvað eftir að klára í dag. Veit samt ekki hvort það lækkar stöðuna. Veit að 3 milljónir eiga að fara yfir á valréttina. Skilst einnig að þessar 10 sem SG var með séu enn ófarnar út.“ Þremur dögum síðar, að morgni mánudagsins 17. sama mánaðar, sendi sami starfsmaður þeim dómfelldu JSH og SS tölvubréf með fyrirsögninni: „Staðan í LAIS 4,86%“, og hófst það þannig: „Update á þessu. EOD var 544,1 milljón hlutir eða 4,86%. 15,5 milljón hlutum frá flöggun.“ Þetta tölvubréf framsendi dómfelldi JSH til dómfellda ÍG sem svaraði að bragði: „Sendu þetta líka ávallt á mig.“ Annar starfsmaður áhættustýringar hringdi til dómfellda JSH skömmu eftir hádegi 11. september 2008 og sagði: „Þið eruð komnir hérna yfir 5% inn í LAIS.“ Því svaraði dómfelldi JSH: „Uhh við vitum allt um það.“ Viðmælandinn: „Þið vitið allt um það?“ Dómfelldi JSH : „Já.“ Viðmælandinn: „Okei, hérna verður þetta flaggað eða er þetta að fara út aftur eða hvernig er þetta?“ Dómfelldi JSH : „Uh ... þessu verður ekki flaggað.“ Síðan bætti hann við: „Og ... það er bara verið að vinna í því að koma þessu út.“ Fyrir hádegi mánudaginn 29. september ræddust dómfelldi SS og sami starfsmaður áhættustýringar tvívegis við. Í fyrra símtalinu spurði dómfelldi SS: „Heyrðu hérna, flöggunarmörk ... eigum við að flagga í Landsbankanum eða?“ Því svaraði viðmælandi hans: „Erum við ekki komnir yfir bara eftir þessar hreyfingar þarna í morgun?“ Í því síðara, sem átti sér stað tæpum tveimur klukkustundum síðar, spurði starfsmaður áhættustýringar: „Heyrðu hafið þið litið eitthvað á stöðuna hvað þið ætlið að gera?“ Dómfelldi SS: „Já hérna, við þurfum bara að sjá hvernig dagurinn spilast. Annars verðum við þá bara að flagga í lok dags ef ...“ Viðmælandinn: „Já. Nægir það eða? Hefðuð þið ekki þurft að gera þetta fyrir tíu eða?“ Dómfelldi SS: „Ég veit það ekki.“ Nokkru síðar í símtalinu sagði hann: „En þú veist þetta kom óvænt upp á sko. Þetta eru viðskipti sem gengu til baka. Þannig að það er alveg hægt að, hérna þú veist, við vissum ekkert af þessu.“ Viðmælandinn: „Nei, það er hægt að færa rök fyrir því að þetta hafi gerst líka í dag sko.“ Dómfelldi SS: „Já ... þú sendir meilið til okkar, eða eitthvað svoleiðis, 10 mínútur 10 eða eitthvað þannig. Þannig að, það hefði heldur ekki verið skynsamlegt að senda út flöggun án þess að vera búinn að átta sig á hvað staðan var sko.“ Viðmælandinn: „Nei nákvæmlega.“ Dómfelldi SS: „Það verður bara að meta stöðuna núna og, og það verður bara flaggað í lok dags ... ef þess þarf.“ Síðdegis sama dag sendi sami starfsmaður áhættustýringar tölvubréf til dómfelldu JSH og SS með fyrirsögninni: „LAIS staða yfir flöggunarmörkum – lokastaða dagsins“. Í tölvubréfinu var greint frá flöggunarstöðunni í lok dagsins sem væri alls „705,127,218 eða 6,3% af útgefnu hlutafé.“ Í svari dómfelldar JSH sem sent var í tölvupósti með afriti til dómfellda ÍG sagði: „Það verður trade á eftir. Munum ekki flagga.“ Þá áframsendir starfsmaður Landsbanka Íslands hf. meðal annars til ÞAI, forstöðumanns áhættustýringar bankans, með eftirfarandi viðbót „Til upplýsinga. 200 nom á víst að fara út á til kúnna í Lux. Síðdegis daginn eftir, þriðjudaginn 30. september 2008, kom meðal annars fram í tölvubréfi frá dómfellda JSH til dómfellda ÍG: „Erum 53,6 að nv. yfir flöggunarmörkum m.v. að miðlun sé óbr. frá því í gær.“ Þá hefur verið lögð fram upptaka af símtali milli SG, forstöðumanns verðbréfamiðlunar bankans, og dómfellda JSH sem átti sér stað fyrir hádegi 14. mars 2008. Er ástæða til að gera hér nokkra grein fyrir þeim samskiptum. Í símtalinu spurði SG: „Hvernig er staðan?“ Dómfelldi JSH svaraði: „Þetta er að gappa aðeins upp, upp um tæpt prósent.“ Stuttu síðar sagði SG: „Já já, þetta verður fínt. Þetta, við erum að fara með þetta yfir 30 núna.“ Dómfelldi JSH: „Eigum við ekki bara að stefna á að setja það yfir það?“ SG: „Jú 32-3. Það er fínt. Eða 35, bara eins og árslokagengið. Ef þú ert sáttur við það.“ Dómfelldi JSH: „Já, er ekki fínt að fá þetta í eitthvað svoleiðis. Ég held það ... við þurfum að fá ... færri svona viðbjóðslega daga eins og í gær. Þetta var hræðilegur dagur maður.“ SG: „Já, en samt engin velta samt.“ Dómfelldi JSH: „En, það er ... nei engin velta. En það sem er jákvætt í þessu og það sem maður er svona að skynja. Sjáðu fyrir sex mánuðum ef að krónan hefði fallið um 4% hvað hlutabréfamarkaðurinn hefði gjörsamlega misst fæturna.“ 4 Í skjölum málsins eru fundargerðir fjármálanefndar á ákærutímabilinu og tölvubréf ákærða. Verður efni þeirra hér rakið að svo miklu leyti sem það varðar ákæruatriði. Um er að ræða 32 fundi fjármálanefndar sem haldnir voru frá því í lok október 2007 og fram í byrjun október árið eftir. Þar mun dómfelldi ÍG 24 sinnum hafa dreift skýrslu sem tekin hafði verið saman af EFL og bar yfirskriftina „Report 4:15/Prop Trading Total/Prop Trading“. Í hverri skýrslu komu fram breytingar á eign EFL í einstökum verðbréfaflokkum undanfarinnar viku eða frá því að síðasti fundur fjármálanefndar hafði verið haldinn, miðað við nafnverð og markaðsverð verðbréfanna, svo og hagnaður eða tap vegna viðskipta með bréfin. Samkvæmt fundargerðum af fundum fjármálanefndar, sem lagðar hafa verið fram, var dreift yfirliti yfir stöðu Landsbanka Íslands hf. í eigin hlutabréfum á fundum nefndarinnar 9. apríl, 16. apríl, 14. maí, 2. júlí, 23. júlí, 6. ágúst, 20. ágúst og 1. október 2008, undir dagskrárliðnum „Umfjöllun um stöðu Landsbankans í eigin bréfum“. Mun útlánaeftirlit bankans hafa tekið þessi yfirlit saman á grundvelli 29. gr. laga nr. 161/2002. Meðal gagna málsins eru einnig skýrslur sem teknar voru nánast vikulega saman á tímabilinu frá 5. nóvember 2007 til 30. september 2008 og báru yfirskriftina: „Yfirlit yfir eign bankans í sjálfum sér skv. 29. gr. laga nr. 161 um fjármálafyrirtæki“. Af þessum skýrslum eru átta sem bera með sér að hafa verið lagðar fram á áðurnefndum fundum fjármálanefndar þar sem þær voru dagsettar einum eða tveimur dögum áður en fundirnir voru haldnir. Þá hafa verið lögð fram 19 tölvubréf sem send voru dómfellda ÍG frá starfsmanni útlánaeftirlits Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu 27. febrúar til 30. september 2008 þar sem fram komu upplýsingar um „eign bankans í sjálfum sér“. Segir í minnisblaði ÞAI, fyrrverandi forstöðumanns áhættustýringar bankans, 16. desember 2015, sem áður hefur verið rakið, að á vikulegum fjármálanefndarfundum hefðu deildirnar farið yfir sína stöðu og breytingar frá síðasta fundi og starfsmenn þannig fengið samþykkt á því sem þeir höfðu gert. Samkvæmt fundargerðum þeirra funda fjármálanefndar sem dómfelldi ÍG sat frá því í lok október 2007 og fram í byrjun október árið eftir gerði hann þar grein fyrir starfsemi EFL og fór yfir stöðuna á verðbréfamarkaði. Á fundi nefndarinnar 19. desember 2007 var meðal annars bókað eftir honum: „Lækkun á síðustu tveimur vikum eru 631 m.kr., sé ekki tekið tillit til LAIS er lækkunin 500 m.kr. ... Þessi vika er búin að vera erfið á mörkuðum en náðist að selja í LAIS á ágætu verði.“ Á fundi 27. sama mánaðar var auk annars fært til bókar þegar fjallað var um kynningu dómfellda: „Staða þróast jákvætt frá síðasta fundi. Innan við 100 m.kr. niður á Q4 að teknu tilliti til LAIS. Markaðir opna upp í dag og stefnir í að verðum réttu megin við núllið um áramótin.“ Þá sagði: „hugsanleg vakt Landsbankans við Kaupþing. Hugmyndum að samningi hefur verið kastaða á milli. KAUP með vakt á okkur 1m. kr. að nafnvirði tilboð inni, 400 m.kr. markaðsvirði á dag ... Við gerum sambærilegan samning um vakt á kaupþingsbréfum. Við viljum segja upp samningi við STRB.“ Hinn 23. janúar 2008 var eftirfarandi skráð í fundargerð eftir honum: „Heildarstaða niður um 5,4 ma.kr. ... frá áramótum, 4,8 ma.kr. ef LAIS staða er tekin út. Staða niður um 3,8 ma.kr. síðustu tvær vikur.“ Í fundargerð 6. febrúar sama ár var haft eftir dómfellda ÍG: „Stóra myndin er sú að síðustu tvær vikur hafa komið ágætlega til baka. Fyrir utan LAIS bréf er staðan 2,4 ma.kr. niður á árinu.“ Á fundi viku síðar var fært til bókar eftir honum: „Síðasta vika var erfið á öllum mörkuðum. Staða niður um 1300 m.kr. síðustu vikuna ef tekið er tillit til Landsbanka bréfa. Frá áramótum er staðan niður um 3,9 ma.kr.“ Í fundargerð 27. sama mánaðar var frásögn hans af stöðunni lýst svo: „Síðustu tvær vikur eru í heild niður 82 m.kr. ... fyrir utan Landsbankann. Staðan á árinu er niður um 4 ma.kr. ef tekið er tillit til LAIS.“ Á fundi viku síðar, 5. mars 2008, var haft eftir honum: „Lækkun í vikunni er um 246 m.kr. án LAIS. Á árinu 4,2 ma. niður.“ Hinn 9. apríl sama ár var gerð svofelld grein fyrir umfjöllun dómfellda ÍG um stöðuna: „Farið yfir niðurstöðu síðasta ársfjórðungs en staða er niður um 4,2 ma.kr á síðasta ársfjórðungi. Jákvætt að Intrum og Marel koma sterkt til baka í lok ársfjórðungs. Hagnaður á Straumsstöðu upp á 200 m.kr. Lok ársfjórðungs var góður. Draga verður 977 m.kr. frá vegna Landsbankabréfa. Af hlutdeildarfélögum er LME með hagnað upp á 2,2 m€ og Lánstraust var selt sem skilaði hagnaði upp á 340m. kr. Merrion er ekki inni en hagnaður upp á 1,5m€. Heildarstaða því tap upp á 2,6 ma.kr.“ Í fundargerð 14. maí 2008 var skráð þegar fjallað var um kynningu dómfellda ÍG: „Farið í þróun síðustu viku sem var viðunandi. Vika upp um 366 m.kr. ef ekki er tekið tillit til LAIS, ársfjórðungur upp um ca. 900 m.kr. þegar allt er tekið saman“. Þá sagði: „Markaður er almennt erfiður og LAIS á undir högg að sækja. Fáir kaupendur á markaði. Trading á grundvelli frétta hefur ekki komið fram. Er ákveðið áhyggjuefni ásamt því að neikvæður orðrómur er um Landsbankann.“ Á fundi hálfum mánuði síðar var bókað um umfjöllun hans um stöðuna: „Síðasta vika var mjög erfið á mörkuðum ... Vikan er niður um 548 m.kr. ef leiðrétt er fyrir Landsbankanum.“  Hinn 11. júní sama ár var kynningu dómfellda ÍG á stöðunni lýst svo í fundargerð: „Síðustu tvær vikur er niður um rúmar 1,5 ma.kr. ef tekið er tillit til Landsbankabréfa og ársfjórðungur er því um 200 m.kr. í plús.“ Í fundargerð fjármálanefndar 25. júní 2008 var bókað: ,,Farið yfir tvær síðustu vikur. Niður um 1 ma.kr. sem er það sama og ársfjórðungurinn en án LAIS er staðan niður um 500 m.kr. á ársfjórðungnum.“ Þá var bókað í fundargerð 2. júlí 2008: ,,Síðasta vika var jákvæð og er niðurstaða ársfjórðungs ... upp um 855 m.kr.“ Í fundargerð 20. ágúst 2008 var haft eftir dómfellda ÍG: „Síðasta vika upp um rúmar 800 m.kr. sé ekki tekið tillit til Landsbanka bréfa. Þessi ársfjórðungur er þá niður um 3,8 ma.kr. ... LAIS hefur verið að hækka síðustu vikuna en framboð hefur þornað upp og eftirspurn leiddi til hækkunar.“ Á fundi 24. september var bókað eftir dómfellda ÍG: „Síðustu viku er staðan upp um rúma 2 ma.kr. sem skýrist af hækkun á íslenskum bréfum.“ Þá kom fram að „Mikið magn af Landsbankabréfum hefur verið að fara inn á markaðinn.“ Í síðustu fundargerðinni, 1. október 2008, var meðal annars fært til bókar eftir honum: „Síðasta vika erfið á mörkuðum ef ekki tekið tillit til LAIS. Ársfjórðungur niður í heild um 8,3 ma.kr.“ Af gögnum málsins verður enn fremur ráðið að á tímabilinu 13. júní 2001 til 3. október 2008 hafi „eftir hvern bankadag“, eins og komist var að orði í bréfi þáverandi regluvarðar Landsbanka Íslands hf. til Fjármálaeftirlitsins 26. apríl 2010, verið tekin saman fyrrnefnd „4–15 skýrsla“ sem send var ákærða og HJK sem bankastjórum og nokkrum öðrum stjórnendum og starfsmönnum bankans með tölvubréfi. Mun deild áhættustýringar í bankanum hafa tekið þessar skýrslur saman á ákærutímabilinu. Í bréfi regluvarðarins sagði um hana: „Tilgangur skýrslunnar var að gefa mynd af þeirri markaðsáhættu sem bankinn hafði tekist á hendur hverju sinni.“ Í gögnum málsins er jafnframt að finna tölvubréf frá forstöðumanni á lögfræðisviði Landsbanka Íslands hf. til ákærða 13. mars 2008 með minnisblaði sem forstöðumaðurinn og tveir aðrir starfsmenn bankans höfðu tekið saman 5. sama mánaðar um efnið: „niðurstaða af skoðun á möguleikanum á að lækka hlutafé og hækka á einum og sama hluthafafundi.“ Í upphafi minnisblaðsins sagði: „Landsbanki Íslands hf. á talsvert stóran hlut af eigin hlutabréfum um þessar mundir. Talsverðar hræringar hafa verið á fjármálamörkuðum og hætt er við að ef reynt verður að losa umrædda hluti út á markað muni það valda talsverðri verðlækkun á gengi bankans með tilheyrandi auknum óróa. Leita þarf leiða til að losna við hlutina með öðrum aðferðum en sölu ... Spurning er hvort unnt er að lækka hlutafé Landsbankans með ákvörðun hluthafafundar og hækka það síðan aftur með útgáfu jöfnunarhluta þannig að heildarhlutafé eftir fundinn sé hið sama og fyrir fundinn. Meta þarf hvort slík aðferð sé tæk eftir hlutafélagalögum annars vegar og hver skattaleg áhrif hennar eru hins vegar.“ Auk þess hafa verið lögð fram tvö tölvubréf sem ákærði sendi BTB í ágúst og september 2008. Með fyrra tölvubréfinu 22. ágúst fylgdi kynning um hvernig haga mætti hugsanlegri sameiningu Landsbanka Íslands hf. og Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf., en sá banki mun að stórum hluta hafa verið í eigu félaga sem BTB og BG réðu yfir. Í síðara tölvubréfinu 17. september 2008 sagði meðal annars í umfjöllun um hugsanlegan samruna bankanna tveggja: „Kjarni málsins er að það er of mikið flot á bréfum hvors banka fyrir sig, þ.e. okkur vantar í endakaupendur af bréfum sem og fjármögnunaraðila á bréfin almennt ... Landsbankinn á erfitt með að kaupa meira af eigin bréfum án eiginfjáraukningar ... Sameining við Landsbanka býður hins vegar upp á að færa eiginfjárhlutfallið sameinaðs banka í c.a. 11% en við það losnar um ríflega 600 milljónir evra af eigin fé. Þetta er einmitt það eigið fé sem við höfum gert ráð fyrir að nota annars vegar í að þurrka upp eigin bréf og hins vegar til að leysa ákv. mál ... Jafnframt verður að hafa í huga að skv. reglum eru báðir bankarnir takmarkaðir af því að fjármagna eigin bréf við 10% af nafnverði hlutafjár. Það eru hins vegar minni takmarkanir á að fjármagna bréf hvors annars beint og óbeint ... Þetta hafa bankarnir verið að gera í töluverðum mæli. Þannig að það er umtalsvert magn af rými til fjármögnunar hlutabréfa sem fellur út við sameiningu þar sem lán út á Straumsbréf koma til með að flokkast sem lán út á eiginbréf eftir sameiningu og lán út á Landsbankabréf í Straumi verða lán út á eigin bréf í sameinuðum banka ... Þegar þetta er skoðað þá verður niðurstaðan sú að lán út á Straumsbréf/Samson Global í Landsbanka sem verði áfram til eftir sameininguna og lán í Straumi út á Landsbanka/Samson ehf. verða um 10% af hlutafé sameinaðs banka. Þetta er auðvitað vandamál þar sem til viðbótar eru auðvitað núverandi lán Landsbankans út á eigin bréf sem verða eftir sameininguna um 7-8% af heildarbréfum bankans þrátt fyrir að ég geri ráð fyrir að fella niður umtalsvert magn bréfa. Samtals er þetta um 17-18% sem auðvitað er nokkuð yfir 10% mörkunum. Þetta verður ekki leyst nema í samvinnu við KB og Glitni. En í því samhengi er rétt að muna að við erum núna að semja við Glitni um að taka 27 milljarða á Samson ehf. sem ekki er meðtalið í þessari umræðu.“ 5 5.1 Ákærði neitar sem fyrr segir sök og vísar einnig til þess að hann hafi ranglega verið sakfelldur í héraði. Engin skjalleg sönnunargögn eða framburður vitna gefi vísbendingu um að viðskiptin á ákærutímabilinu hafi verið að undirlagi hans og sé aðkoma hans að þeim viðskiptum með öllu ósönnuð. Á engum tíma hafi komið fram athugasemd frá eftirlitsaðilum eða þar til bærum aðilum innan bankans um að framkvæmdin færi í bága við lög. Auk þess andmælir ákærði því sérstaklega að hann einn sé dreginn til ábyrgðar umfram aðra stjórnendur Landsbanka Íslands hf. Ákærði hefur einnig borið um að seta hans í fjármálanefnd hafi ekki veitt honum nokkrar vísbendingar um viðskipti EFL og aðrar skýrslur um eign bankans í eigin bréfum hafi tengst því að hann hafi sem bankastjóri viljað hafa góða yfirsýn yfir eiginfjárgrunn bankans, meðal annars vegna svonefndrar 10% reglu. Varnir ákærða fyrir héraðsdómi eru nánar raktar í hinum áfrýjaða dómi. Fyrir Hæstarétti byggir ákærði enn fremur á því að í hinum áfrýjaða dómi hafi verið fallist á framburð dómfelldu SS og JSH og metið trúverðugar skýringar þeirra á þeim viðskiptum sem ákæran taki til, þó að undanskildu tímabilinu 29. september til 3. október 2008. Þá hafi hann verið ranglega sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 á grundvelli gagnályktunar frá ákvæðum 115. og 116. gr. þeirra laga sem brjóti í bága við meginregluna um skýrleika refsiheimilda. Auk þess hefðu viðskipti EFL, hvað sem öðru líður, ekki verið framkvæmd „að undirlagi hans“ eins og fram komi í ákæru. Verður nú nánar vikið að vörnum ákærða. 5.2 Í 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að engum verði gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða megi fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Í þessu ákvæði felst grunnregla íslensks réttar um skýrleika refsiheimilda, sem á sér hliðstæðu í 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í henni felst áskilnaður um að refsiheimild sé lögbundin og svo skýr og ótvíræð að ljóst sé af lestri lagaákvæðis hvaða háttsemi sé refsiverð. Vafa um hvort refsiákvæði taki til háttsemi ber að virða ákærða í hag, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 14. desember 1995 sem birtur var á bls. 3149 í dómasafni réttarins það ár. Dómstólar túlka og skýra inntak refsiákvæða eins og annarra lagaákvæða, sbr. dóm Hæstaréttar 18. febrúar 2021 í máli nr. 30/2020. Við mat þess hvort ákvæði 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 hafi verið nægilega skýrt á verknaðarstundu með tilliti til þeirrar háttsemi sem ákærða er gefin að sök ber að líta til þess hvort orðalag ákvæðisins hafi verið svo afdráttarlaust og fyrirsjáanlegt að ekki hafi á verknaðarstundu verið vafi um að í háttsemi hans fælist markaðsmisnotkun í skilningi 1. mgr. 117. gr. laganna. Er því nauðsynlegt að fjalla um forsögu ákvæðisins í þessu samhengi og þá hagsmuni sem því er ætlað að vernda. Ákvæði um markaðsmisnotkun voru fyrst tekin upp í lög hér á landi árið 1996 með 30. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti. Með samnefndum lögum nr. 33/2003 urðu nokkrar breytingar á ákvæðinu um markaðsmisnotkun og enn var gerð breyting að þessu leyti með breytingu á þeim lögum, sbr. 13. gr. laga nr. 31/2005 og 55. gr. laga nr. 33/2003 þannig breyttum. Með þessum breytingum, sem tóku mið af tilskipun Evrópubandalagsins nr. 2003/6 frá 28. janúar 2003 um innherjaviðskipti og markaðsmisnotkun, voru ákvæði um markaðsmisnotkun gerð ítarlegri. Á grundvelli laganna var sett reglugerð nr. 630/2005 um innherjaupplýsingar og markaðssvik. Var í 8. til 9. gr. reglugerðarinnar fjallað nánar um hvað teldist markaðsmisnotkun í skilningi laganna. Þá var í 10. gr. hennar fjallað um þá þætti sem Fjármálaeftirlitið skyldi taka tillit til við mat á því hvort um væri að ræða „viðurkennda markaðsframkvæmd“. Lög nr. 108/2007 tóku gildi 1. nóvember 2007 og voru ákvæði 1. mgr. 117. gr. þeirra um markaðsmisnotkun óbreytt frá eldri lögum. Eitt af helstu markmiðum laganna er að stuðla að eðlilegri verðmyndun á markaðstorgi fjármálagerninga eða skipulegum verðbréfamarkaði, þar á meðal í kauphöll, en reglur um þá markaði er einkum að finna í IV. og XII. kafla laganna. Samkvæmt því eiga lögmál um framboð og eftirspurn að ráða þar ríkjum þannig að sé framboð á tilteknum hlutabréfum meira en eftirspurn lækki verð þeirra en sé eftirspurnin meiri en framboðið hækki verðið. Í samræmi við fyrrgreint markmið laganna beinast mörg ákvæði þeirra, svo og laga nr. 110/2007 um kauphallir, að því að koma í veg fyrir að fjárfestar og aðrir sem hagsmuna hafa að gæta láti freistast til að hafa áhrif á þessa verðmyndun með ótilhlýðilegum hætti og geri þeir það eru lögð ströng viðurlög við þeim brotum. Þrátt fyrir framangreindar lagabreytingar er litið svo á að reglugerð nr. 630/2005 sé enn í gildi, nú með stoð í lögum nr. 108/2007. Í III. kafla laga nr. 108/2007 er fjallað um gagnsæi við verðbréfaviðskipti og taka ákvæði þess kafla til fjármálafyrirtækja sem hafa heimild til þeirra viðskipta, sbr. 27. gr. laganna. Samkvæmt 29. gr. þeirra skal fjármálafyrirtæki sem á viðskipti utan skipulegra verðbréfamarkaða eða markaðstorga fjármálagerninga, annaðhvort fyrir eigin reikning eða fyrir hönd viðskiptavina, með hlutabréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, gera opinberar upplýsingar um verð, umfang og tímasetningu viðskiptanna. Fyrir gildistöku laga nr. 108/2007 var litið svo á að þótt fjármálafyrirtæki teldist fruminnherji gagnvart viðskiptum með eigin bréf hefði þróun og styrking svonefndra ,,kínamúra“ sem lutu eftirliti Fjármálaeftirlitsins leitt til þess að viðskipti veltubókar slíks fyrirtækis, sem sett hafði sér reglur um meðferð trúnaðarupplýsinga um eigin viðskipti, þyrfti ekki að tilkynna sem innherjaviðskipti til Kauphallar, enda þyrfti ekki að tilkynna slík viðskipti af öðrum ástæðum, til dæmis vegna reglna um flöggun. Umrædd heimild veltubókar fjármálafyrirtækis til viðskipta með eigin bréf, sem í tilviki Landsbanka Íslands hf. var hjá EFL, byggðist á því að slík viðskipti væru í eðli sínu ekki verðmótandi og hefðu því ekki upplýsingagildi fyrir fjárfesta. Grundvallaðist þetta fyrirkomulag þannig á því að vegna reglna um ,,kínamúra“ samkvæmt reglum um innri starfsemi banka hefði EFL ekki aðgang að innherjaupplýsingum og mætti því jafna slíkum viðskiptum til viðskipta ótengds aðila. Áttu þessi rök þar af leiðandi ekki við þegar um var að ræða ákvarðanir um viðskipti veltubókar með eigin bréf sem teknar voru af yfirstjórn bankans eða bankastjórum og voru stórfelld eða óvenjuleg í sögulegu ljósi. Þótt framangreind undanþága hafi verið viðurkennd í framkvæmd í tíð eldri laga var með gildistöku laga nr. 108/2007 ekki lengur um það að ræða að Fjármálaeftirlitið staðfesti reglur fjármálafyrirtækis um innri starfsemi sína, þar á meðal reglur um starfsemi veltubókar og þar af leiðandi þá undanþágu sem EFL hafði til viðskipta með eigin bréf. Hins vegar liggur fyrir að þrátt fyrir þetta héldu viðskipti eigin fjárfestinga íslensku viðskiptabankanna þriggja, þar á meðal Landsbanka Íslands hf., áfram óbreytt og án þess að séð verði að það hafi sætt athugasemdum af hálfu eftirlitsaðila. Í 93. gr. laga nr. 108/2007 er mælt fyrir um flöggunarskyldu vegna viðskipta með eigin hluti við ákveðnar aðstæður. Í 1. mgr. segir að ef útgefandi aflar eða ráðstafar eigin hlutum skuli hann birta opinberlega hlutfall þeirra ef öflunin eða ráðstöfunin leiðir til þess að hlutfallið nær, hækkar yfir eða lækkar niður fyrir 5% eða 10% atkvæðisréttar. Skal reikna hlutfallið út á grundvelli heildarfjölda hluta sem atkvæðisréttur fylgir, jafnvel þótt nýting atkvæðisréttarins falli niður. Samkvæmt 2. mgr. skulu upplýsingarnar birtar opinberlega eins fljótt og auðið er og eigi síðar en fyrir klukkan 12 næsta viðskiptadag eftir öflunina eða ráðstöfunina. Í XII. kafla laganna er fjallað um verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði. Þar er í 116. gr. kveðið á um viðskiptavaka. Eftir 1. mgr. getur fjármálafyrirtæki sem hefur heimild til verðbréfaviðskipta með samningi við útgefanda fjármálagerninga skuldbundið sig til að vera viðskiptavaki, það er kaupa og selja fyrir eigin reikning eða reikning útgefanda tiltekna fjármálagerninga í því skyni að greiða fyrir að markaðsverð skapist á þeim. Skal viðskiptavaki tilkynna um samninginn til skipulegs verðbréfamarkaðar þar sem viðkomandi fjármálagerningar hafa verið teknir til viðskipta, svo sem nánar er kveðið á um í 2. mgr. Geri fjármálafyrirtæki viðskiptavakasamning um viðskipti fyrir reikning útgefanda skal samkvæmt 4. mgr. tryggt að útgefanda sé ekki unnt að hafa áhrif á ákvarðanir um viðskipti á grundvelli samningsins. Í 117. gr. laganna eru ákvæði um markaðsmisnotkun sem lýst er óheimil í upphafi 1. mgr. þeirrar greinar. Samkvæmt 1. tölulið málsgreinarinnar er meðal annars með markaðsmisnotkun átt við að eiga viðskipti eða gera tilboð sem gefa eða eru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna, sbr. a-lið, eða tryggja óeðlilegt verð eða búa til verð á einum eða fleiri fjármálagerningum, nema sá sem átti viðskiptin eða gaf fyrirmæli um þau geti sýnt fram á að ástæður að baki þeim séu lögmætar og að viðskiptin eða fyrirmælin hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði, sbr. b-lið. Þó er tekið fram í 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. laganna að ákvæði 117. gr. þeirra eigi ekki við þegar um er að ræða viðskipti með eigin hluti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga, enda hafi viðskiptin farið fram í samræmi við reglugerð sem sett skuli á grundvelli 118. gr. laganna. Í a-lið 2. töluliðar 1. gr. fyrrgreindrar tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 2003/6, þar sem hugtakið markaðsmisnotkun er skilgreint, eru ákvæði sem svara til a- og b-liða 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Þó er sá munur á að eftir tilskipuninni nær undantekningarreglan, sem fram kemur í síðari hluta b-liðar, til þeirrar háttsemi sem lýst er í báðum stafliðunum. Eins og hér stendur á ber þar af leiðandi, í samræmi við 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið og almennar reglur, að skýra a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 svo að það að eiga viðskipti eða gera tilboð, sem gefa eða eru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna, teljist ekki markaðsmisnotkun ef sá sem í hlut á getur sýnt fram á að ástæður að baki viðskiptunum eða fyrirmælum um þau séu lögmætar og að viðskiptin eða fyrirmælin hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á skipulegum verðbréfamarkaði. Þá er til þess að líta að samkvæmt 13. tölulið 2. gr. laga nr. 108/2007 er um viðurkennda markaðsframkvæmd að ræða í skilningi þeirra ef eðlilegt er að gera ráð fyrir að hún sé viðhöfð á einum eða fleiri fjármálamörkuðum og Fjármálaeftirlitið hefur viðurkennt hana með þeim hætti, sem kveðið er á um í reglugerð sem sett skal á grundvelli 118. gr. laganna. Slíkt reglugerðarákvæði hafði ekki verið sett á ákærutímabilinu. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 110/2007 skal kauphöll setja reglur um aðild að skipulegum verðbréfamarkaði þar sem gerð er grein fyrir þeim skyldum sem hvíla á markaðsaðilum. Skulu reglurnar vera gagnsæjar, hlutlægar og byggðar á jafnræði. Á grundvelli þessarar lagagreinar höfðu verið settar aðildarreglur sem tóku til Kauphallar Íslands. Í þessum reglum var sjálfvirk pörun tilboða skilgreind þannig að með henni væri átt við „ferli í tilboðabók þar sem kaup- og sölutilboð eru pöruð sjálfkrafa þegar verð, magn og önnur skilyrði í tilteknu tilboði samsvara tilboði sem áður hefur verið skráð í tilboðaskrá.“ Í grein 4.6.1 í reglunum sagði að tilboð, sem skráð væru í tilboðaskrá, viðskipti sem parast sjálfkrafa og tilkynnt kauphallarviðskipti skyldu „endurspegla gildandi markaðsverð viðkomandi verðbréfa og ... samanstanda af raunverulegum tilboðum og viðskiptum.“ Þegar eldri lög um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 tóku gildi var í fyrsta skipti kveðið á um viðskiptavakt í lögum á sama hátt og gert er í 116. gr. laga nr. 108/2007. Með þeim breytingum sem gerðar voru með lögum nr. 31/2005 var skilgreiningunni á markaðsmisnotkun breytt í það horf, sem nú er kveðið á um í 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007, auk þess sem tekið var fram eins og nú er gert í 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. laganna að ákvæðin um markaðsmisnotkun ættu ekki við þegar um væri að ræða viðskipti með eigin hluti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga. Eftir þessar breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti verður að skýra ákvæði XII. kafla laga nr. 108/2007 um verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði til samræmis við 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. og 116. gr. laganna á þá leið að fjármálafyrirtækjum, sem hafa heimild til verðbréfaviðskipta, sé óheimilt að stunda viðskipti með eigin hluti á slíkum markaði í því skyni að greiða fyrir að markaðsverð skapist á þeim, sbr. niðurlag 1. mgr. 116. gr., nema um sé að ræða viðskipti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. laganna, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. mars 2011 í máli nr. 52/2010. Verður í máli þessu byggt á þeirri skýringu laganna, enda í fullu samræmi við þann tilgang þeirra að tryggja trúverðuga verðmyndun á skipulögðum markaði með skráð hlutabréf. Samkvæmt öllu framangreindu verður ekki fallist á með ákærða að skort hafi á skýrleika refsiheimildar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. 5.3 Í ákæru eru sakargiftir á hendur ákærða reistar á því að viðskiptin sem þar er nánar lýst hafi verið framkvæmd „að undirlagi“ hans. Telur ákærði hvað sem öðru líður að þessi verknaðarlýsing sé röng enda hafi hann hvorki tekið ákvarðanir né gefið fyrirmæli til starfsmanna EFL í þessa veru. Skilja verður þetta orðalag ákærunnar á þá leið að ákærða sé gefið að sök að hafa átt aðild að ákvörðun og lagt á ráðin um hvernig almennt skyldi staðið að viðskiptum með eigin bréf Landsbanka Íslands hf. í Kauphöllinni á ákærutímabilinu af hálfu EFL, þannig að brotið hafi gegn a- og b-liðum 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 svo sem lagt var til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi. 6 Sönnunarbyrði í sakamálum hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 1. mgr. 108. gr. laga nr. 88/2008. Í 1. mgr. 109. gr. laganna segir að dómari meti hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafa, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn. Eftir 1. mgr. 115. gr. laganna metur dómari við úrlausn máls sönnunargildi framburðar ákærða, þar á meðal trúverðugleika hans en við það mat skal meðal annars hugað að ástandi og hegðun ákærða við skýrslugjöf og stöðugleika í frásögn hans. Af öllu þessu leiðir að ríkar kröfur eru gerðar til ákæruvaldsins um sönnun. Verður niðurstaða málsins auk annars byggð á skjölum málsins og mati héraðsdóms á munnlegum framburðum, eins og áður var rakið. Þá gaf ákærði skýrslu við meðferð málsins fyrir Hæstarétti, auk þess sem vitnin YÖK, fyrrverandi framkvæmdastjóri verðbréfasviðs, og SRÞ, fyrrverandi starfsmaður EFL, gáfu skýrslu við meðferð málsins eins og einnig er fram komið. 7 Áður en afstaða verður tekin til þáttar ákærða samkvæmt ákæru verður að leysa úr því hvort viðskiptin sem þar er fjallað um hafi, sem slík, farið í bága við a- og b-liði 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi og staðfest var í skýrslu ákærða og YÖK fyrir Hæstarétti var rekin óformleg viðskiptavakt á vegum EFL í þeim tilgangi að „mynda markað“ um viðskipti með hlutabréf í bankanum. Í tilvitnuðum skýrslum fyrir Hæstarétti kom fram að tilgangur þessa hefði ekki verið sá að hafa óeðlileg áhrif á verð bréfanna heldur að skapa seljanleika þeirra. Einnig bar ákærði á þann veg að tilvist óformlegrar viðskiptavaktar hjá stóru viðskiptabönkunum þremur hefði verið á allra vitorði. EFL hafi jafnframt verið ætlað að hagnast á viðskiptum með eigin bréf bankans með sama hætti og gilti um önnur hlutabréfaviðskipti, en hann hefði ekki skipt sér af ákvörðunum um einstök viðskipti. Ákærði hefur ekki andmælt því að þau viðskipti með eigin bréf bankans sem lýst er í I. kafla ákærunnar hafi átt sér stað og að þær tölur sem þar koma fram séu réttar. Hefur hann þó sem fyrr segir vísað til þess að þar vanti stóran hluta þeirra viðskipta sem átt hafi sér stað á ákærutímabilinu þar sem ákæruvaldið hafi í málatilbúnaði sínum einvörðungu litið til sjálfvirkra pörunarviðskipta EFL án þess að taka tillit til utanþingsviðskipta. Þetta megi ráða af samantekt ákærða um viðskipti í Kauphöllinni þar sem fram komi að á ákærutímabilinu hafi kaup EFL á eigin bréfum bankans numið samtals 3.013.958.117 krónum, þar af hafi kaupin verið 2.325.153 krónur í ,,þingviðskiptum“ en 688.562.964 krónur í utanþingsviðskiptum. Sé litið til sölu EFL á bréfum í bankanum á sama tímabili, hafi hún numið alls 2.852.518 krónum. Þar af hafi sala í ,,þingviðskiptum“ numið 57.213.029 krónum en í utanþingsviðskiptum 2.794.916.489 krónum. Nettókaup EFL á eigin bréfum bankans hafi því einungis numið 161.828.599 krónum á ákærutímabilinu. Raunveruleg viðskipti EFL með eigin bréf bankans hafi því verið með allt öðrum hætti en lýst sé í ákæru. Af gögnum málsins verður ráðið að viðskipti með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. í sjálfvirkri pörun í Kauphöllinni hafi haft meiri áhrif á skráð gengi þeirra í lok dags en önnur hlutabréfaviðskipti þar með talin utanþingsviðskipti. Eigi að síður er fallist á með ákærða að hin síðartöldu geti einnig haft áhrif á markaðsverð hlutabréfa. Þó verður ekki litið fram hjá því að sjálfvirk pörunarviðskipti í kauphöll eru annars eðlis en utanþingsviðskipti, jafnvel þótt þau séu tilkynnt kauphöll um leið eða skömmu eftir að þau eru gerð. Í fyrrnefnda tilvikinu geta margir komið að viðskiptunum í einu án þess að vita hver af öðrum. Slík viðskipti komast á við það að kaup- og sölutilboð, sem skráð hafa verið í tilboðaskrá, eru pöruð sjálfkrafa ef þau samsvara tilboði sem áður hefur verið skráð þar. Með þessu móti er leitast við að tryggja að viðskiptin séu gerð milli ótengdra aðila þannig að verð á hlutabréfum ráðist af raunverulegu framboði og eftirspurn á markaði. Engin slík umgjörð er um kaup og sölu hlutabréfa utan kauphallar eða skipulegs verðbréfamarkaðar. Slík viðskipti geta að vísu verið milli ótengdra aðila og endurspeglað raunverulegt framboð og eftirspurn hlutabréfa og þar með gefið skilaboð til markaðarins, en aftur á móti er engin trygging fyrir því að svo sé í reynd enda geta ástæður fyrir slíkum viðskiptum verið ókunnar hinum skipulega verðbréfamarkaði. Af þessum sökum er réttlætanlegt að gera greinarmun á þessum tvenns konar viðskiptum þegar skorið er úr um hvort markaðsmisnotkun í skilningi a- og b-liða 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 hefur átt sér stað.  Í röksemdum með ákæru er greint frá því að gripið hafi verið til ýmissa ráða í því skyni að losa Landsbanka Íslands hf. við eigin bréf sín sem safnast höfðu upp í veltubók. Í fyrsta lagi var skipt við Straum-Burðarás Fjárfestingabanka hf. á eigin hlutabréfum á tímabilinu 17. til 31. mars 2008 þar sem EFL seldi 201.000.000 hluta í félaginu til Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka hf. og keypti í staðinn 507.000.000 hluta í því félagi í utanþingsviðskiptum. Í öðru lagi var hlutafé Landsbanka Íslands hf. lækkað með ákvörðun aðalfundar bankans 23. apríl 2008 um 300.000.000 hluta og hækkað aftur um sömu fjárhæð með útgáfu jöfnunarhlutabréfa til hluthafa bankans í formi arðgreiðslu. Í skýrslu ákærða fyrir Hæstarétti kom fram að hann hefði komið að framangreindri ráðstöfun. Í þriðja lagi seldi Landsbanki Íslands hf. 91.000.000 hluta í bankanum til Hunslow S.A. í utanþingsviðskiptum 12. september 2008 og voru þau kaup að fullu fjármögnuð með því að hinu erlenda félagi var veitt lán frá dótturfélagi bankans í Lúxembourg en bankinn ábyrgðist sjálfur endurgreiðslu lánsins. Í fjórða lagi skipti Landsbanki Íslands hf. á eigin hlutabréfum við Glitni banka hf. á tímabilinu 17. til 30. september 2008 þar sem EFL seldu 168.000.000 eigin hluta og keypti þess í stað 462.000.000 hluta af Glitni banka hf. í því félagi í utanþingsviðskiptum. Í fimmta lagi seldi Landsbanki Íslands hf. 210.000.000 eigin hluta til Pro-Invest Partners Corp. í utanþingsviðskiptum 30. september 2008 og voru kaupin að fullu fjármögnuð með því að hinu erlenda fyrirtæki var veitt lán frá dótturfélagi bankans í Lúxembourg en bankinn ábyrgðist sjálfur endurgreiðslu lánsins. Að frátöldum hlutabréfaskiptum við Glitni banka hf. hefur ákærði mótmælt að hafa haft vitneskju um fyrrgreindar ráðstafanir. Þá er í sjötta og sjöunda lagi vísað til þeirra viðskipta sem fjallað er um í II. og III. kafla ákærunnar, sbr. dóm réttarins í máli nr. 34/2019 sem kveðinn er upp samhliða dómi þessum. Eins og þar kemur fram hefur ákærði borið að honum hafi verið kunnugt um og samþykkt að Landsbanki Íslands hf. seldi 250.000.000 eigin hluta til Imon ehf. í utanþingsviðskiptum 30. september 2008, með fjármögnun frá bankanum sjálfum, en ágreiningslaust er að þar var um að ræða stærstu einstöku viðskipti með bréf bankans á árinu 2008. Þá er í dómnum talið sannað að ákærði hafi ákveðið frekari sölu á eigin bréfum til Imon ehf. sem tilkynnt var til Kauphallarinnar 3. október 2008, sbr. III. kafla ákærunnar. Hefur sú niðurstaða fullt sönnunargildi í máli þessu, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008. Loks er vísað til þeirra viðskipta sem fjallað er um í IV. kafla ákærunnar en ákærði var sýknaður í héraðsdómi af sakargiftum samkvæmt þeim kafla og kom sú niðurstaða ekki til endurskoðunar með dómi Hæstaréttar í máli nr. 34/2019. Með vísan til þess sem að framan greinir er hafið yfir allan vafa að á vegum Landsbanka Íslands hf. hafi kerfisbundið verið stunduð kaup á eigin bréfum bankans í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í Kauphöllinni á ákærutímabilinu. Á sú niðurstaða sér bæði stoð í tölulegum gögnum málsins og munnlegum skýrslum fyrir Hæstarétti um óformlega viðskiptavakt bankans með eigin bréf. Þá er sannað, meðal annars með framburði ákærða sjálfs, að hin umfangsmiklu kaup EFL á hlutabréfum í bankanum leiddu til þess að þau söfnuðust upp hjá bankanum þótt það hafi einnig átt sér aðrar skýringar. Áður hefur verið rakið að Landsbanka Íslands hf. var lögum samkvæmt ekki heimilt án samþykkis Fjármálaeftirlitsins að eiga eða taka að veði eigin hlutabréf sem næmu hærri fjárhæð en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár og var skylt að flagga á grundvelli 93. gr. laga nr. 108/2007 ef farið var yfir 5% mörk í þeim efnum. Af þeim ástæðum sem áður hafa verið raktar, meðal annars skyldu til flöggunar og þeirrar stefnu bankans að eignarhlutur veltubókar færi ekki yfir 5% mörkin, þurfti að losa bankann reglulega við bréfin. Var þetta einkum gert í umfangsmiklum utanþingsviðskiptum en einnig var gripið til þess ráðs að greiða út arð í hlutabréfum, svo sem áður greinir. Verður ekki fram hjá því litið að með því var bankanum í reynd gert kleift að halda áfram kaupum á eigin bréfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum án flöggunar og hafa þannig áhrif á markaðsgengi bréfanna án þess að þurfa að bjóða þau til sölu á skipulegum verðbréfamarkaði. Að mati réttarins gat ekki farið á milli mála að umrædd viðskiptahegðun EFL var til þess fallin að hafa áhrif á markaðsgengi bréfa í Landsbanka Íslands hf. og var þar af leiðandi líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð hlutabréfa bankans ranglega eða misvísandi til kynna og í reynd koma í veg fyrir að verð bréfanna réðist af raunverulegu framboði og eftirspurn. Er í því efni ekki rétt að líta til heildarumfangs viðskipta bankans með eigin bréf eða nettóstöðu kaupa og sölu, svo sem borið er við af ákærða, heldur skiptir mestu máli sú staðreynd að um var að ræða, að langmestu leyti, kaup í sjálfvirkum pörunarviðskiptum en bréfin síðan að stærstum hluta seld eða ráðstafað af bankanum utan skipulegs verðbréfamarkaðar. Svo sem áður greinir verða ákvæði laga nr. 108/2007 skýrð með þeim hætti að lagt sé bann við því að fjármálafyrirtæki stundi skipuleg viðskipti með eigin hluti í þeim tilgangi að greiða fyrir því að markaðsverð skapist á hlutunum nema í þeim tilvikum sem vísað er til í 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. laganna og þá með því að tilkynna þær fyrirhuguðu ráðstafanir opinberlega. Hvað sem líður þeim skilningi stjórnenda Landsbanka Íslands hf. að heimilt væri að láta það viðgangast að EFL viðhefði óformlega viðskiptavakt með eigin bréf bankans, er jafnframt vafalaust að viðskiptin með bréfin gengu lengra og voru umfangsmeiri en samrýmdust starfsemi formlegs viðskiptavaka í eðlilegu viðskiptaumhverfi, sbr. 116. gr. laga nr. 108/2007. Má um það meðal annars líta til upplýsinga sem liggja fyrir í málinu um að hinir viðskiptabankarnir voru nettóseljendur á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf., á sama tíma og EFL keypti 47,2% meira en deildin seldi af hlutabréfum í bankanum í sjálfvirkri pörun. Til þess er einnig að líta að EFL keypti samtals nettóhlut bréfa í Landsbanka Íslands hf. að markaðsvirði 13.861.904.361 krónu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum dagana 29. september til 3. október 2008, en eins og fram kemur í héraðsdómi voru þau kaup langt umfram heimildir samkvæmt áhættureglum bankans. Er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að ekki hafi mátt líta svo á að um væri að ræða viðskipti í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd í skilningi lokaorða b-liðar 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Samkvæmt öllu framangreindu ber að leggja til grundvallar að fyrrgreindir starfshættir hafi gefið eða verið líklegir til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. ranglega eða misvísandi til kynna, sbr. a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Hins vegar þarfnast þáttur ákærða og ætluð refsiverð háttsemi hans nánari úrlausnar. 8 Ákærði var annar tveggja bankastjóra Landsbanka Íslands hf. sem fóru sameiginlega með stjórn bankans. Þá hefur að framan verið rakið meginefni áhættureglna Landsbanka Íslands hf., en samkvæmt 3. gr. þeirra báru bankastjórarnir báðir ábyrgð á daglegri stjórnun bankans gagnvart bankaráði. Framkvæmdastjórar báru ábyrgð gagnvart bankastjórum á starfsemi hvers sviðs og að áhætta væri í samræmi við starfsreglur bankans. Einnig hefur ítarlega verið fjallað um fjármálanefnd og það hlutverk hennar að fylgjast með áhættuþáttum í starfsemi bankans og ákveða áhættumörk. Eins og áður sagði sat ákærði í fjármálanefnd sem formaður. Heyrði verðbréfasvið bankans, og þar með EFL, undir nefndina. Á vettvangi hennar var fylgst með stöðu bankans í eigin bréfum, meðal annars vegna fyrrgreindrar 5% reglu um flöggun, og var nefndin helsti vettvangur eftirlits stjórnenda bankans með starfsemi EFL. YÖK, fyrrverandi framkvæmdastjóri verðbréfasviðs, bar einnig í skýrslu fyrir Hæstarétti að á fundum fjármálanefndar hefði verið rætt um kaup EFL á bréfum í bankanum og stefna EFL verið mótuð þar. Áður er fram komið að ákærði fékk reglulega upplýsingar um nettóviðskipti EFL með hlutabréf í bankanum á vettvangi nefndarinnar. Þótt ákærði hafi borið að hann hafi ekki lagt sig sérstaklega eftir því að fá þessar upplýsingar og heldur ekki óskað eftir upplýsingum um einstök viðskipti deildarinnar verður að líta til stöðu hans innan Landsbanka Íslands hf. og þeirrar ábyrgðar sem henni fylgdi, auk þess sem ákærði hefur borið að hann hafi lagt ríka áherslu á að EFL færi ekki yfir 5% eignarhlut í einstökum félögum, þar á meðal Landsbanka Íslands hf.  Eins og málið horfir við réttinum getur aðkoma annarra stjórnenda bankans að þessu leyti ekki ráðið úrslitum. Niðurstaða um sakfellingu ákærða ræðst þannig fyrst og fremst af setu hans í fjármálanefnd og stöðu sem æðsta stjórnanda verðbréfasviðs bankans. Ákærði átti sem fyrr greinir þátt í því sem bankastjóri og formaður fjármálanefndar að marka EFL ramma við kaup á eigin bréfum bankans. Einnig liggur fyrir að af ýmsum ástæðum var tilefni til þess fyrir ákærða sem bankastjóra að fylgjast í stórum dráttum með stöðu veltubókar í eigin bréfum, enda sá hann ástæðu til þess í fleiri en eitt skipti að bregðast við stöðu bankans í eigin bréfum, svo sem áður er lýst. Að öllu virtu er því hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærða voru ljós hin umfangsmiklu og kerfisbundnu kaup EFL á eigin bréfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum þótt hann kæmi ekki að ákvörðunum um einstök viðskipti. Jafnframt er sannað að ákærða var kunnugt um þá viðskiptahætti innan bankans að hinir keyptu hlutir voru einungis að óverulegu leyti seldir aftur í sjálfvirkum pörunarviðskiptunum á markaði en þess í stað seldir í stórum viðskiptum utan skipulegra markaða og gildir þá einu þótt honum hafi ekki verið kunnugt um nánara fyrirkomulag allra slíkra viðskipta. Ákærða er gefin að sök markaðsmisnotkun sem byggist á einstökum viðskiptum EFL í samtals 228 viðskiptadaga 1. nóvember 2007 til 3. október 2008. Er í ákæru lagt til grundvallar að viðskiptin hafi verið framkvæmd af dómfelldu JSH og SS að undirlagi dómfellda ÍG og ákærða. Í hinum áfrýjaða dómi var á grundvelli mats á munnlegum framburðum sakfellt fyrir viðskipti vegna tímabilsins 29. september til 3. október 2008. Eins og áður er rakið eiga aðrir dómfelldu, að öðrum lagaskilyrðum uppfylltum, sambærilegan rétt og ákærði til að leita endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 842/2014. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 er ekki unnt að endurskoða munnlega framburði annarra en ákærða. Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti samkvæmt öllu framanröktu kemur einungis til álita að sakfella ákærða fyrir það tímabil sem hann var sakfelldur fyrir í hinum áfrýjaða dómi, það er 29. september til 3. október 2008. Í því sambandi er til þess að líta að þegar ljóst varð 29. september 2008 að íslenska ríkið hygðist kaupa 75% hlutafjár í Glitni banka hf. skapaðist enn ríkara tilefni en áður fyrir ákærða að fylgjast í meginatriðum með kaupum EFL á eigin bréfum bankans enda höfðu slík kaup neikvæð áhrif á eiginfjárgrunn bankans. Fyrir liggur að á þessum fimm síðustu viðskiptadögum með bréf bankans var EFL kaupandi allt að 79% bréfa bankans í Kauphöllinni eða 686.059.427 hlutum á gengi á bilinu 19,1 til 21,5 krónur á hlut. Í sögulegu ljósi var því um að ræða óvenjuleg og stórfelld viðskipti EFL sem höfðu augljósa þýðingu fyrir hagsmuni bankans á viðsjárverðum tímum. Er því ótrúverðugur sá framburður ákærða að honum hafi ekki á þessum tíma verið ljós hin umfangsmiklu kaup EFL á bréfum bankans. Í ljósi stöðu ákærða er í þeim efnum haldlaus sú skýring hans hér fyrir dómi að hin stórauknu kaup EFL á tímabilinu hafi verið til að anna aukinni eftirspurn hlutabréfa, meðal annars erlendis frá, sem honum hafi að stórum hluta verið ókunnugt um á þeim tíma. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á niðurstöðu hans um að sannað sé að EFL hefðu ekki framkvæmt hin umfangsmiklu kaup á eigin bréfum á tímabilinu 29. september til 3. október 2008 án vitundar og samþykkis ákærða. Samkvæmt framansögðu þykir því sannað að viðskiptin sem um ræðir hafi verið að undirlagi ákærða, eins og í ákæru greinir. Samkvæmt þessu og að gættum fyrirmælum 5. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008 verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn a-lið 1. töluliðar 1. mgr.. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr., laga nr. 108/2007 vegna tímabilsins 29. september til 3. október 2008. XII Samkvæmt framansögðu var brot ákærða til þess fallið að hafa veruleg áhrif á verð hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. og þar með raska tiltrú fjárfesta og almennings á fjármálamarkaðinum.Verða þeir hagsmunir sem hér voru í húfi ekki metnir til fjár. Við ákvörðun refsingar verður horft til þess að um var að ræða kerfisbundna markaðsmisnotkun sem beindist að verulegum hagsmunum og fjölda viðskiptamanna að ógleymdum hagsmunum almennings alls af heilbrigðum mörkuðum. Jafnframt ber að líta til þess að ákærði gegndi starfi bankastjóra Landsbanka Íslands hf. Fyrir liggur að meðferð málsins hefur tafist verulega, meðal annars vegna endurupptöku þess. Þær tafir eru ekki á ábyrgð ákærða. Þá tók rannsókn málsins langan tíma en til þess er þó að líta í þeim efnum að nauðsyn bar til að rannsaka það sakarefni sem leyst er úr að þessu sinni samhliða sakarefnum samkvæmt II., III. og IV. kafla ákæru. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 34/2019, sem kveðinn er upp samhliða þessum dómi, er ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í 12 mánuði skilorðsbundið eftir því sem nánar greinir í dóminum. Við ákvörðun refsingar vegna beggja málanna verður ákærða, eins og hér stendur á, gerð refsing í hvoru máli fyrir sig en þó með hliðjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt þessu og að teknu tilliti til 1., 3. og 7. tölulið 70. gr. almennra hegningarlaga verður refsing hans í þessu máli ákveðin níu mánaða fangelsi og verður refsingin skilorðsbundin eins og greinir í dómsorði. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest. Allur sakarkostnaður vegna fyrri málsmeðferðar fyrir Hæstarétti sem lauk með dómi Hæstaréttar nr. 842/2014 greiðist að öllu leyti úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns 7.440.000 krónur. Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 6. mgr. 232. gr., sbr. 4. mgr. 231. gr., laga nr. 88/2008. Fer um málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða eftir því sem í dómsorði greinir, en í fjárhæð þeirra er innifalinn virðisaukaskattur. Dómsorð: Ákærði Sigurjón Þorvaldur Árnason sæti fangelsi í níu mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Allur sakarkostnaður vegna reksturs hæstaréttarmáls nr. 842/2014 greiðist úr ríkissjóði með þeim fjárhæðum sem ákveðnar voru með dómi réttarins 4. febrúar 2016. Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Sigurjóns Þorvaldar, Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns 4.500.000 krónur.  
Mál nr. 34/2019
Endurupptaka Umboðssvik Markaðsmisnotkun Hlutdeild Fjármálafyrirtæki Verðbréfaviðskipti Skilorð
Í málinu voru SÞÁ, sem bankastjóri L hf., og SES, sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs L hf., ákærð fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa 30. september 2008 veitt I ehf. 5.163.000.000 króna lán til að fjármagna að fullu kaup félagsins á 250.000.000 hlutum í L hf., án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins. Þá voru þau ákærð fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti fyrir að hafa ranglega látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt fé til framangreindra hlutabréfakaupa og borið af þeim fulla markaðsáhættu. Ennfremur var SÞÁ gefin að sök markaðsmisnotkun samkvæmt 117. gr. við sölu L hf. á 200.000.000 hlutum í bankanum, sem voru í eigu hans, til I ehf. 3. október 2008 og þannig gefið eftirspurn hlutabréfa í L hf. ranglega og misvísandi til kynna. Með ákvörðun Hæstaréttar 27. maí 2020 var hafnað að vísa málinu frá réttinum þar sem ekkert hefði komið fram sem hnekkt hefði því mati endurupptökunefndar að fyrir hendi hefðu verið aðstæður sem fallnar hefðu verið til að draga óhlutdrægni dómara í hæstaréttarmáli nr. 456/2014 með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Þegar af þeirri ástæðu var skilyrðum d-liðar 1. mgr. 228. gr. laganna fyrir endurupptöku málsins fullnægt og það tekið til efnismeðferðar. Í dómi Hæstaréttar var talið að ekki hefði legið fyrir að SÞÁ og SES hefðu með ákvörðun um að veita I ehf. lán 30. september 2008 mátt vera ljóst að með henni hefðu þau stofnað hagsmun L hf. í hættu eða hefðu getað gert það þannig að líta bæri svo á þau hefðu misnotað af ásetningi aðstöðu sína hjá L hf. og með því gerst brotleg við 249. gr. almennra hegningarlaga. Voru þau af þeirri ástæðu sýknuð af þeim ákærulið. Hins vegar var talið að með ákvörðun SÞÁ um framangreint lán til I ehf. sem hefði verið forsenda viðskiptanna, stöðu sinnar sem æðsta yfirmanns verðbréfa- og fyrirtækjasviðs bankans og fullri vitneskju um tilgang viðskiptanna að öðru leyti hefði hann brotið gegn a-lið 1. töluliðar 117. gr. laga nr. 108/2007. Þá var SES sakfelld fyrir hlutdeild í því broti þar sem talið var að hún hefði hlotið að gera sér grein fyrir, meðal annar með setu sinni í fjármálanefnd L hf., að viðskiptin hefðu gefið ranga mynd af verðmæti bréfanna eða hefðu verið líkleg til að gera það. Þá var talið hafið yfir vafa að SÞÁ hefði með ákvörðun sinni 3. október 2008 mátt vita að með viðskiptunum hefði eftirspurn eftir bréfum L hf. og verðmæti þeirra verið ranglega eða misvísandi gefið til kynna. Var því talið að SÞÁ hefði með því gerst sekur um brot gegn a-lið 1. töluliðar 117. gr. laga nr. 108/2007. Var refsing SÞÁ ákveðin fangelsi í 12 mánuði en meðal annars með hliðsjón af því að meðferð málsins hefði tafist þar á meðal vegna endurupptöku þess var refsing skilorðsbundin til tveggja ára. Með sömu rökum kom fram að hæfileg refsing SES hefði numið fjögurra mánaða fangelsi skilorðsbundið en þar sem hún hefði afplánað fangelsisrefsingu á grundvelli dóms Hæstaréttar í máli nr. 456/2014 var henni ekki gerð refsing.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Karl Axelsson og Ása Ólafsdóttir og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari, Símon Sigvaldason landsréttardómari og Skúli Magnússon settur landsréttardómari. Með bréfum til endurupptökunefndar 19. september 2016 og 2. desember sama ár leituðu Sigurjón Þorvaldur Árnason og Sigríður Elín Sigfúsdóttir eftir því við endurupptökunefnd að hæstaréttarmálið nr. 456/2014, sem dæmt var 8. október 2015, yrði endurupptekið á grundvelli núgildandi ákvæðis 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 228. gr. sömu laga. Nefndin varð við þeim beiðnum með úrskurðum 12. maí 2019 í málum nr. 7 og 11/2016 hvað þessi dómfelldu varðaði. Af því tilefni gaf ríkissaksóknari út fyrirkall 3. júní 2019 vegna endurupptöku málsins sem birt var fyrir ákærða Sigurjóni Þorvaldi 11. júní 2019 en ákærðu Sigríði Elínu 19. sama mánaðar. Svo sem síðar greinir hafnaði Hæstiréttur kröfu ákæruvaldsins um frávísun málsins með ákvörðun 27. maí 2020. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá Hæstarétti. Til vara að ákærðu Sigurjón Þorvaldur og Sigríður Elín verði sakfelld fyrir þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í a- og b-lið II. kafla ákæru og ákærði Sigurjón Þorvaldur einnig vegna III. kafla sömu ákæru og þeim gerð refsing. Ákærðu Sigurjón Þorvaldur og Sigríður Elín krefjast aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og þau sýknuð en til vara að þeim verði gerð vægasta refsing sem lög heimila. I Fjármálaeftirlitið vísaði máli vegna kaupa einkahlutafélagsins Imon á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. af eigin fjárfestingum bankans (EFL) sem átt höfðu sér stað í byrjun október 2008 til embættis sérstaks saksóknara 20. maí 2009. Með bréfi 19. október 2010 beindi Fjármálaeftirlitið kæru til sérstaks saksóknara í tilefni af ætlaðri markaðsmisnotkun með hlutabréf í bankanum á tímabilinu maí 2003 til október 2008. Í síðarnefnda bréfinu var meðal annars greint frá framangreindum kaupum Imon ehf. á hlutum í Landsbanka Íslands hf. 30. september og 3. október 2008, samtals að nafnvirði 450.000.000 króna, og kaupum Azalea Resources Ltd. á hlutum í bankanum 3. október sama ár, að nafnvirði 199.000.000 króna. Sérstakur saksóknari gaf út ákæru 15. mars 2013 á hendur ákærðu í máli þessu auk SG,ÍG, JSH og SS. Í I. kafla ákærunnar var ákærða Sigurjóni Þorvaldi ásamt dómfelldu ÍG, JSH og SS gefin að sök markaðsmisnotkun í störfum sínum fyrir Landsbanka Íslands hf. „í tilboðum og viðskiptum fyrir eigin reikning Landsbankans með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands hf. ... á tímabilinu frá og með 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008 ... sem tryggðu óeðlilegt verð og bjuggu til verð á hlutabréfunum og gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna.“ Var háttsemin talin varða við a- og b-liði 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Með heimild í 2. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 ákvað héraðsdómur 12. júní 2013 að skilja sakarefni samkvæmt I. kafla ákærunnar frá því máli sem hér um ræðir og rekið var gegn ákærðu Sigurjóni Þorvaldi og Sigríði Elínu svo og dómfellda SG. Með dómi Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014 var ákærði Sigurjón Þorvaldur og fyrrnefndir þrír þáverandi starfsmenn Landsbanka Íslands hf. sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt I. kafla ákærunnar. Sætir það mál nú sambærilegri málsmeðferð fyrir Hæstarétti og mál þetta á grundvelli ákvörðunar endurupptökunefndar um endurupptöku málsins gagnvart ákærða Sigurjóni Þorvaldi, sbr. úrskurð nefndarinnar 12. maí 2019 í máli nr. 6/2017 og ákvörðun Hæstaréttar 27. maí 2020 í máli nr. 35/2019, og er dómur í því máli kveðinn upp samhliða þessum dómi. Þær sakargiftir sem fjallað er um í þessu máli og úrskurðir endurupptökunefndar taka til varða a- og b-lið II. kafla og III. kafla ákærunnar. Helstu efnisatriði þeirra eru sem hér segir: Í a-lið II. kafla ákærunnar voru ákærða Sigurjóni Þorvaldi sem bankastjóra og ákærðu Sigríði Elínu sem framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands hf., er bæði sátu í lánanefnd bankans, gefin að sök umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 30. september 2008 í störfum sínum fyrir bankann misnotað aðstöðu sína og stefnt fé hans í verulega hættu. Var háttsemi ákærðu nánar lýst svo að þau hefðu farið „út fyrir heimildir til lánveitinga er þau í sameiningu veittu Imon ehf. ... 5.163.000.000 króna lán til að fjármagna að fullu kaup félagsins á 250.000.000 hluta í Landsbankanum, án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins, þar sem ekki voru fyrir hendi aðrar tryggingar en veð í hinum keyptu hlutabréfum og allsherjarveð í stofnfjárhlutum félagsins í Byr sparisjóði.“ Í b-lið II. kafla ákærunnar voru ákærðu Sigurjóni Þorvaldi og Sigríði Elínu gefin að sök markaðsmisnotkun, sem varði við a-lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007, við sölu Landsbanka Íslands hf. á fyrrgreindum 250.000.000 hluta í bankanum, sem voru í eigu hans, til Imon ehf. 30. september 2008 fyrir 20,60 krónur á hlut. Með viðskiptunum og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallar Íslands 1. október 2008 hefði verið „ranglega látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt fé til kaupa á rúmlega 2,23% útgefins hlutafjár í Landsbankanum og borið af þeim fulla markaðsáhættu.“ Í III. kafla ákærunnar var ákærða Sigurjóni Þorvaldi og dómfellda SG gefin að sök markaðsmisnotkun, sem varðaði við a-lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007, við sölu Landsbanka Íslands hf. á 200.000.000 hluta í bankanum, sem voru í eigu hans, til Imon ehf. 3. október 2008 fyrir 19,11 krónur á hlut. Var tekið fram í ákærunni að viðskiptin hefðu gefið „eftirspurn hlutabréfa í Landsbankanum ranglega og misvísandi til kynna, eða voru líkleg til að gera það, og fólu í sér blekkingu og sýndarmennsku, en með viðskiptunum og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallarinnar sama dag var ranglega látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt fé til kaupa á tæplega 1,79% hlut í Landsbankanum og borið fulla markaðsáhættu af viðskiptunum.“ Hefði ákærði Sigurjón Þorvaldur tekið ákvörðun um viðskiptin og dómfelldi SG tilkynnt þau „þrátt fyrir vitneskju hans um að hin seldu hlutabréf kæmu frá eigin fjárfestingum Landsbankans og án þess að gengið hefði verið frá fjármögnun viðskiptanna.“ Í IV. kafla ákærunnar var ákærða Sigurjóni og dómfellda SG gefin að sök markaðsmisnotkun sem varðaði við a-lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007, við sölu Landsbanka Íslands hf. á 199.000.000 hluta í bankanum, sem voru í eigu hans, til Azalea Resources Ltd. 3. október 2008 fyrir 19 krónur á hlut. Var tekið fram í ákærunni að viðskiptin hefðu gefið „eftirspurn hlutabréfa í Landsbankanum ranglega og misvísandi til kynna, eða voru líkleg til að gera það, og fólu í sér blekkingu og sýndarmennsku, en með viðskiptunum og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallarinnar sama dag var ranglega látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt fé til kaupa á tæplega 1,78% hlut í Landsbankanum og borið fulla markaðsáhættu af viðskiptunum.“ Hefði ákærði Sigurjón Þorvaldur tekið ákvörðun um viðskiptin og dómfelldi SG tilkynnt þau „þrátt fyrir vitneskju hans um að hin seldu hlutabréf kæmu frá eigin fjárfestingum Landsbankans og að til stæði að Landsbankinn fjármagnaði kaupin að fullu en án þess að staðfesting lægi fyrir um fjármögnunina.“ II 1 Mál ákæruvaldsins á hendur ákærðu og dómfellda SG var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. júní 2013. Af hálfu ákærðu voru hafðar uppi nánar rökstuddar kröfur um frávísun en þeim hafnað með úrskurði héraðsdóms 16. janúar 2014. Héraðsdómur kvað upp efnisdóm í málinu 5. júní 2014 þar sem ákærðu voru sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins. Varðandi a-lið II. kafla ákærunnar var talið ósannað annars vegar að þau hefðu með háttsemi sinni stefnt fé Landsbanka Íslands hf. í verulega hættu og hins vegar að þau hefðu misnotað aðstöðu sína, sökum þess að þau hefðu hvorki brotið gegn útlánareglum bankans né öðrum þeim reglum sem vísað hefði verið til í ákæru. Taldi dómurinn með hliðsjón af aðdraganda viðskiptanna, þar með talið markaðsáhættu vegna bréfanna og reglna um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja um slík viðskipti, óvarlegt að slá því föstu að viðskiptin og upplýsingagjöf um þau hefðu verið til þess fallin að gefa ranga og misvísandi mynd af eftirspurn hlutabréfa í bankanum eða verið líkleg til að gera það. Jafnframt hefðu viðskiptin ekki falið í sér blekkingu og sýndarmennsku svo að varðaði ákærðu refsingu samkvæmt a-lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Vegna IV. kafla ákærunnar taldi dómurinn að með vísan til 108. gr. og 109. gr. laga nr. 88/2008 væri gegn eindreginni neitun ákærða Sigurjóns ósannað að hann hefði tekið ákvörðun um viðskiptin og var hann því sýknaður af þeirri kröfu ákæruvaldsins. Dómurinn sakfelldi hins vegar dómfellda SG á grundvelli framangreindrar verknaðarlýsingar ákæru. 2 Ríkissaksóknari áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar 2. júlí 2014 sem kvað upp dóm 8. október 2015 í máli nr. 456/2014. Í dómi Hæstaréttar var komist að þeirri niðurstöðu um sakargiftir samkvæmt a-lið II. kafla ákæru um að ákærðu hefðu átt að gera sér grein fyrir því að með því að veita Imon ehf. lán gegn tryggingum, sem metnar höfðu verið til verðs á alls ónothæfum grunni og að auki verið langt frá því sem almennt skyldi miða við samkvæmt útlánareglum Landsbanka Íslands hf., hefðu þau, við þær aðstæður sem þá ríktu á fjármála- og verðbréfamörkuðum, vikið á freklegan hátt frá því sem af þeim var krafist í störfum þeirra fyrir bankann. Var því talið að þau hefðu misnotað aðstöðu sína sem hefði valdið því að bankinn varð bundinn við þær ráðstafanir fjármuna sem áttu sér stað 30. september 2008 sem hefði leitt til verulegrar fjártjónshættu fyrir bankann, en líta yrði svo á að fjármunirnir væru bankanum glataðir. Voru þau því sakfelld fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga. Þá var ákærði Sigurjón Þorvaldur sakfelldur fyrir brot gegn a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 vegna framangreindra viðskipta samkvæmt b-lið II. kafla ákæru þar sem hann hefði, sem annar af bankastjórum Landsbanka Íslands hf., haft yfirsýn yfir hin umfangsmiklu kaup bankans á eigin hlutabréfum, auk þess sem hann hefði ásamt ákærðu Sigríði Elínu tekið ákvörðun um að veita Imon ehf. fyrrgreint lán 30. september 2008. Ákærða Sigríður Elín var sakfelld fyrir hlutdeild í umræddu broti. Ákærði Sigurjón Þorvaldur var enn fremur sakfelldur fyrir þátt sinn í sölu hlutabréfanna til Imon ehf. 3. október 2008 sem og dómfelldi SG, sbr. III. kafla ákæru. Var talið að þau viðskipti, sem tilkynnt höfðu verið sama dag til Kauphallar Íslands, hefðu gefið eftirspurn og þar með verð hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. ranglega til kynna eða verið líkleg til að gera það, sbr. a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Þá var dómfelldi SG sakfelldur fyrir brot samkvæmt IV. kafla ákæru, gegn a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 vegna viðskipta við Azalea Resources Ltd. 3. október 2008 þar sem hann hefði sem miðlari viðskiptanna tilkynnt þau til Kauphallar Íslands og að honum hafi hlotið að vera ljóst að markaðsáhætta af viðskiptunum héldist áfram hjá bankanum. Ákærði Sigurjón Þorvaldur var hins vegar sýknaður af þeim ákærulið. Ákærði Sigurjón Þorvaldur var dæmdur í fangelsi í 3 ár og 6 mánuði, ákærða Sigríður Elín var dæmd í fangelsi í 18 mánuði en dómfelldi SG í fangelsi í 9 mánuði. III 1 Ákærðu Sigurjón Þorvaldur og Sigríður Elín fóru þess sem fyrr segir á leit við endurupptökunefnd með bréfum ákærðu Sigurjóns Þorvaldar 19. september 2016 og Sigríðar Elínar 2. desember sama ár að hæstaréttarmálið nr. 456/2014 yrði endurupptekið hvað þau varðaði. Reistu þau beiðnirnar á þeirri forsendu að uppfyllt væru skilyrði a-, c- og d-liða núgildandi 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 232. gr. sömu laga. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið um frávísunarkröfu ákæruvaldsins flutt munnlega 18. maí 2020. Verður í V og VI kafla dómsins fjallað um fyrrgreinda ákvörðunar réttarins 27. maí 2020 og forsendur hennar. Að henni stóðu Karl Axelsson hæstaréttardómari og Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómarar, Símon Sigvaldason þá dómstjóri og Skúli Magnússon þá héraðsdómari. 2 Ákærði Sigurjón Þorvaldur byggði kröfu sína um endurupptöku í fyrsta lagi á því að fram væru komin ný gögn sem hryndu niðurstöðu dómsins um sekt hans. Í öðru lagi að við rannsókn málsins hefði ekki verið gætt þeirrar hlutlægni sem rannsakendum og ákærendum bæri samkvæmt lögum. Í þriðja lagi hefðu dómstólar brotið gegn grunnreglu sakamálaréttarfars um að sérhver maður skuli talinn saklaus uns sekt hans sé sönnuð þannig að hafið væri yfir skynsamlegan vafa. Í fjórða lagi hefðu verið búin til ný og áður óþekkt viðmið í refsirétti varðandi það hvenær aðili teldist hafa misnotað aðstöðu sína eða umboð í skilningi 249. gr. almennra hegningarlaga og í fimmta lagi hefðu ekki verið lögð fram nein gögn sem sannað hefðu auðgunarásetning ákærða. Í sjötta lagi að verulegir gallar hefðu verið á meðferð málsins þannig að áhrif hefðu haft á niðurstöðu þess, sbr. þágildandi d-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008, nú samhljóða d-lið 1. mgr. 228. gr. laganna. Taldi ákærði að tveir af hæstaréttardómurum málsins, þeir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson, hefðu verið vanhæfir til þess að dæma í því vegna hlutafjáreignar þeirra í Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu 2007 til 2008. Með endurupptökubeiðni fylgdu gögn, alls 26 fylgiskjöl, sem ekki höfðu áður legið fyrir við meðferð málsins fyrir dómi og ákærði Sigurjón Þorvaldur taldi hafa þýðingu fyrir beiðni sína. Ríkissaksóknari taldi að ekki stæðu skilyrði til þess að lögum að endurupptaka málið enda skorti á að áskilnaður þágildandi d-liðar 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 væri fyrir hendi. Vísaði ríkissaksóknari til þess að dómarar gættu sjálfir að hæfi sínu og að umræddir hæstaréttardómarar hefðu, áður en þeir tóku sæti í málinu, metið hæfi sitt til að taka sæti í dómi, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 88/2008. Þá tók hann fram að ekki væri unnt að skjóta slíkum ákvörðunum dómara Hæstaréttar til æðri dóms og því yrði þetta álitaefni ekki endurskoðað af endurupptökunefnd. Að lokum taldi ríkissaksóknari að hagsmunir umræddra dómara hefðu verið svo óbeinir og óverulegir að þeir gætu ekki hafa haft áhrif á niðurstöðu málsins.  Ákærði Sigurjón Þorvaldur mótmælti túlkun ríkissaksóknara á tilvitnaðri lagareglu. Vísaði hann til þess að það væri hlutverk endurupptökunefndar að meta sjálfstætt hæfi einstakra dómara við Hæstarétt og horfa til grundvallarmannréttinda, svo sem 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá vísaði ákærði Sigurjón Þorvaldur til þess að sú skylda hvíldi á dómara að tilkynna nefnd um dómarastörf um eignarhlut í félagi sem hefði skráð gengi í verðbréfaviðskiptum, næmi hluturinn 3.000.000 króna eða meira að verðmæti. Hlutir umræddra dómara næmu hærri fjárhæðum og því hefðu þeir orðið fyrir verulegu fjárhagstjóni við greiðsluþrot Landsbanka Íslands hf. Við meðferð málsins hjá endurupptökunefnd komu fram athugasemdir og upplýsingar frá hæstaréttardómurunum Eiríki Tómassyni og Viðari Má Matthíassyni um hlutabréfaeign þeirra í Landsbanka Íslands hf. við fall bankans 2008. Í bréfi Eiríks, 23. apríl 2018, kom fram að hann hefði átt hluti í bankanum að nafnvirði 87.383 krónur. Kaupverð hlutanna hefði samtals numið 374.112 krónum. Miðað við skráð gengi 3. október 2008, sem hafi numið 19,9 krónum á hlut, hafi verðmæti hlutafjáreignar hans numið 1.738.922 krónum. Í bréfi Viðars Más, 24. apríl 2018, kom fram að hann hefði átt hluti í Landsbanka Íslands hf. að nafnvirði 428.075 krónur. Samanlagt verðmæti þessara hluta þegar hann eignaðist þá hafi numið 14.753.256 krónum. Miðað við skráð gengi bréfanna 3. október 2008, 19,9 krónur á hlut, hafi verðmæti hlutafjáreignar hans numið 8.518.692 krónum. Með bréfi 18. september 2018 til endurupptökunefndar kom ákærði Sigurjón Þorvaldur á framfæri athugasemdum sínum við upplýsingar um eignarhluti hæstaréttardómaranna. Vísaði hann til þess að hann teldi eignarhluti þeirra hvorki óverulega væru þeir bornir saman við laun dómaranna né bornir saman við eignarhlut annarra hluthafa bankans. Þá lægi fyrir að hlutir í eigu Viðars Más hefðu verið langt umfram viðmið reglna nr. 463/2000 um aukastörf héraðs- og hæstaréttardómara og eignarhlut þeirra í félögum og atvinnufyrirtækjum. Einnig vísaði ákærði Sigurjón Þorvaldur til þess að uppi hefðu verið atvik eða aðstæður sem hefðu verið fallnar til þess að draga óhlutdrægni dómaranna með réttu í efa. 3 Endurupptökunefnd tók afstöðu til beiðni ákærða Sigurjóns Þorvaldar með úrskurði 12. maí 2019. Þar kom fram að til að fallist yrði á endurupptöku nægði að eitt af skilyrðum 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 væri uppfyllt. Hvað varðaði þá málsástæðu ákærða Sigurjóns Þorvaldar, að umræddir dómarar sem dæmt hefðu í hæstaréttarmálinu hefðu verið vanhæfir og því hefðu verið verulegir gallar á meðferð málsins í skilningi d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, væri til þess að líta að rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól teldist til grundvallarmannréttinda sakaðra manna. Væri rétturinn varinn í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt 45. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla skulu dómarar vera sjálfstæðir í störfum sínum, sbr. samhljóða ákvæði eldri laga nr. 15/1998. Sérstaklega væri fjallað um hæfi dómara til setu í dómsmáli í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Í g-lið ákvæðisins kæmi fram að dómari væri vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi væru önnur atvik eða aðstæður, en taldar væru upp í fyrri stafliðum ákvæðisins, sem væru til þess fallnar að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna gæti dómari að hæfi sínu til að fara með mál af sjálfsdáðum, en aðili gæti einnig krafist þess að hann víki sæti. Þá var í niðurstöðum endurupptökunefndar vikið að d-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 og bent á að í athugasemdum með greininni í frumvarpi til laga við lögfestingu hennar væri tekið sem dæmi um tilvik sem fallið gæti undir lagaregluna að í ljós komi annmarkar á hæfi dómara sem með mál hafi farið og ekki hafi áður verið um þá kunnugt. Í niðurstöðum endurupptökunefndar var hafnað þeim sjónarmiðum ákæruvaldsins að ekki væri á færi nefndarinnar að endurskoða efnislegt mat einstaks dómara á eigin hæfi. Þá var sérstaklega vísað til þess, með hliðsjón af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, sbr. 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans, að mat á hæfi dómara þyrfti undir þessum kringumstæðum bæði að uppfylla huglæg og hlutlæg skilyrði.  Við mat á hæfi umræddra hæstaréttardómara kæmi meðal annars til skoðunar hvort það fjárhagslega tjón sem þeir hefðu orðið fyrir væri til þess fallið að draga hafi mátt óhlutdrægni þeirra með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 og það þá valdið því að verulegur galli hefði verið á meðferð málsins, sbr. d-lið 1. mgr. 228. gr. sömu laga. Óumdeilt væri að hæstaréttardómarinn Viðar Már Matthíasson hefði keypt hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu 8. mars til 26. september 2007 og hefði verðmæti þeirra þegar hann eignaðist þau numið 14.753.256 krónum. Verðmæti bréfanna hefðu tekið breytingum allt fram til þess tíma þegar Fjármálaeftirlitið skipaði bankanum skilanefnd og bréfin urðu verðlaus. Miðað við síðasta skráða gengi bréfanna 3. október 2008 hefði verðmæti fyrrgreindra hluta numið 8.518.692 krónum. Ljóst væri því að fjárhagslegt tjón dómarans vegna kaupa hans á hlutafé í bankanum hefði verið verulegt. Taldi nefndin að þeir fjármunir sem þannig fóru forgörðum hefðu verið slíkir að atvik eða aðstæður hefðu verið til þess fallnar að draga óhlutdrægni réttarins með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Þá var engu talið breyta þótt nokkur tími hefði liðið frá því tjón dómarans varð og þar til hann dæmdi í málinu. Um það mætti einnig líta til þess orðalags Hæstaréttar í dómi hans í málinu að óvarlegar ákvarðanir ákærðu um lánveitingar ,,gátu því valdið hluthöfum í Landsbanka Íslands hf., stórum sem smáum, svo og öllum almenningi fjártjóni.“ Loks væri til þess að líta að framangreindar upplýsingar um kaup og eignarhald dómarans hefðu ekki legið fyrir við meðferð málsins í Hæstarétti og því verið endurupptökubeiðanda ókunnar. Samkvæmt framangreindu taldi nefndin að fram væru komnir gallar á meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Við mat á skilyrðum d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 yrði að líta til þess að endurupptökuheimild samkvæmt þeim staflið hefði komið fyrst í lög með nýjum lögum um meðferð sakamála. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga væri sérstaklega tekið fram að þar undir gætu meðal annars fallið tilvik þar sem leiddir væru í ljós annmarkar á hæfi dómara sem með málið fór og ekki hafi áður verið um þá kunnugt, en það tilvik væri uppi í málinu. Þá segði jafnframt í frumvarpinu að þessi tiltekna heimild hefði verið sett í lögin í því skyni að tryggja réttláta málsmeðferð. Með hliðsjón af þessum sjónarmiðum og þeirri grundvallarreglu sem fram kæmi í 70. gr. stjórnarskrárinnar um rétt sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól taldi nefndin uppfyllt skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Nefndin tók fram að þar sem skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 teldist uppfyllt hvað hæstaréttardómarann Viðar Má Matthíasson varðaði væri ekki þörf á því að fjalla um ætlað vanhæfi annarra dómara málsins eða aðrar málsástæður ákærða Sigurjóns Þorvaldar. Samkvæmt því var beiðni hans um endurupptöku málsins samþykkt. 4 Ákærða Sigríður Elín byggði endurupptökubeiðni sína á því að fram væru komin ný gögn sem verulega miklu hefðu skipt fyrir niðurstöðu málsins hefðu þau komið fram áður en dómur gekk, sbr. nú a-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Þá taldi hún að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hefðu verið rangt metin svo að áhrif hefðu haft á niðurstöðu þess, sbr. c-lið sömu málsgreinar. Að lokum taldi ákærða að verulegir gallar hefðu verið á meðferð málsins þannig að áhrif hefði haft á niðurstöðu þess, sbr. þágildandi d-lið, 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 og vísaði þar til þess að hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Markús Sigurbjörnsson hefðu verið vanhæfir til að dæma í málinu, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Með endurupptökubeiðninni fylgdu gögn, alls 24 fylgiskjöl, sem ekki höfðu legið fyrir við meðferð málsins fyrir dómi en ákærða Sigríður Elín taldi hafa þýðingu fyrir beiðni sína. Ríkissaksóknari taldi, með vísan til sömu sjónarmiða og vörðuðu beiðni ákærða Sigurjóns Þorvaldar og rakin eru hér að framan, að ekki stæðu skilyrði til þess að lögum að endurupptaka mál ákærðu Sigríðar Elínar. Með bréfi 27. apríl 2017 til endurupptökunefndar mótmælti ákærða Sigríður Elín túlkun ríkissaksóknara á tilvitnaðri lagareglu. Vísaði hún til þess að það væri hlutverk endurupptökunefndar að meta sjálfstætt hæfi einstakra dómara við Hæstarétt og endurskoða þannig mat þeirra á eigin hæfi. Þá mótmælti ákærða Sigríður Elín því að umræddir dómarar hefðu ekki verið vanhæfir sökum þess að hagsmunir þeirra af niðurstöðu málsins hefðu verið óbeinir og óverulegir heldur hefðu þeir átt eignarhlut í hinum föllnu bönkum og tapað tugum milljóna króna. Endurupptökunefnd tók afstöðu til beiðni ákærðu Sigríðar Elínar með úrskurði 12. maí 2019 í máli nr. 11/2016 og taldi að skilyrði þágildandi d-liðar 1. mgr. 211. gr., sbr. 215. gr. laga nr. 88/2008, væri uppfyllt með sama rökstuðningi og í máli nefndarinnar nr. 7/2016, sbr. umfjöllun hér að framan. IV Ákærða Sigríður Elín lagði fram kvörtun fyrir Mannréttindadómstól Evrópu 2. júní 2017 á þeim grundvelli að hún hefði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir Hæstarétti. Kvörtun ákærðu Sigríðar Elínar byggðist á vanhæfi þriggja dómara málsins í Hæstarétti, þeirra Markúsar Sigurbjörnssonar, Viðars Más Matthíassonar og Eiríks Tómassonar. Þeir hefðu átt hlutabréf í íslensku viðskiptabönkunum á árunum 2007 og 2008 og tapað verulegum fjármunum við fall þeirra. Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp dóm vegna þessarar kvörtunar 25. febrúar 2020. Var þar komist að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn rétti ákærðu Sigríðar Elínar þar sem hún hefði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstól, sbr. 1. mgr. 6. gr. sáttmálans. Mannréttindadómstóllinn vísaði til þess að óhlutdrægni hæstaréttardómarans Markúsar Sigurbjörnssonar yrði ekki dregin í efa enda hefði hann ekki átt hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. á umræddu tímabili og hlutabréfaeign hans í öðrum viðskiptabönkum gæti ekki leitt til slíkrar ályktunar. Varðandi hæstaréttardómarann Eirík Tómasson vísaði dómstóllinn til þess að tilkynningarskylda til nefndar um dómarastörf ætti ekki við nema hlutabréfaeign í félagi næmi 3.000.000 króna eða hærri fjárhæð. Þar sem hlutabréfaeign hans í bankanum hefði verið töluvert undir þeim mörkum varð það niðurstaða dómstólsins að ekki væri heldur unnt að draga óhlutdrægni hans í efa. Dómstóllinn komst á hinn bóginn að þeirri niðurstöðu að draga mætti óhlutdrægni hæstaréttardómarans Viðars Más Matthíassonar í efa. Vísaði dómstóllinn til þess að hann hefði tapað því sem næmi um þrefaldri þeirri fjárhæð sem tilkynningarskyld væri til nefndar um dómarastörf. Þá hefði tap hans vegna falls Landsbanka Íslands hf. verið mikið, sérstaklega þegar tekið væri tillit til árstekna hans sem prófessors á árunum 2007 og 2008. Einnig vísaði dómstóllinn til þess að endurupptökunefnd hefði talið skilyrði fyrir endurupptöku uppfyllt vegna hlutabréfaeignar dómarans. V 1 Meðal þeirra gagna sem lágu fyrir Hæstarétti við töku fyrrnefndrar ákvörðunar 27. maí 2020 var upplýsingaskýrsla ákæruvaldsins 9. mars 2020 þar sem fram koma fyllri upplýsingar um hlutabréfaeign hæstaréttardómarans Viðars Más Matthíassonar í Landsbanka Íslands hf. Samkvæmt skýrslunni nam hlutabréfaeign hans samtals 462.475 krónum að nafnvirði við fall bankans. Miðað við skráð gengi 3. október 2008, sem nam 19,9 krónum á hlut, hafi verðmæti eignarinnar numið 9.203.253 krónum. 2 Í téðri ákvörðun Hæstaréttar var vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 50/2016 væri endurupptökunefnd sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem tæki ákvörðun um hvort heimila skuli endurupptöku máls sem dæmt hafi verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti. Samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laganna færi að öðru leyti um endurupptöku máls eftir lögum nr. 88/2008 og nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í XXXV. kafla laga nr. 88/2008 væru ákvæði um endurupptöku sakamáls sem dæmt hefði verið í Landsrétti eða Hæstarétti. Þar kæmi fram í 232. gr. að endurupptökunefnd gæti samkvæmt beiðni leyft að mál sem dæmt hafi verið í Landsrétti eða Hæstarétti yrði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt væri þeim skilyrðum sem greinir í 228. gr. laganna um endurupptöku óáfrýjaðs máls. Samkvæmt 1. mgr. 228. gr. gæti endurupptökunefnd orðið við beiðni manns, sem teldi sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hafi framið, ef einhverju eftirtalinna skilyrða væri fullnægt: a) fram væru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk; b) ætla mætti að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin væru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefði valdið rangri niðurstöðu málsins; c) verulegar líkur væru leiddar að því að sönnunargögn sem færð hefðu verið fram í máli hefðu verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess eða d) verulegir gallar hefðu verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Endurupptökunefnd, sem heyrði undir framkvæmdarvaldið, væri meðal annars með 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 fengin viðfangsefni sem lytu að úrlausn dómsmála. Dómstólar ættu eftir meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar úrskurðarvald um ákvarðanir nefndarinnar, sbr. dóma Hæstaréttar 25. febrúar 2016 í máli nr. 628/2015, 27. september 2018 í máli nr. 521/2017 og 20. febrúar 2019 í máli nr. 601/2015. Samkvæmt því þyrfti að taka afstöðu til þess hvort lög hefðu með réttu staðið til þeirrar niðurstöðu sem endurupptökunefnd komst að í umræddum úrskurðum sínum 12. maí 2019 um endurupptöku máls nr. 456/2014. 3 Krafa ákæruvaldsins um frávísun málsins frá Hæstarétti var reist á því að endurupptökunefnd hefði skort valdheimildir til að heimila endurupptöku þess og farið út fyrir heimildir sínar samkvæmt d-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Ákæruvaldið byggði í fyrsta lagi á því að fyrrnefndur liður gæti ekki tekið til hæfis hæstaréttardómara þar sem engu breytti fyrir niðurstöðu um mat dómara Hæstaréttar á hæfi sínu hvort málsaðilar hefðu vitað af hugsanlegum vanhæfisástæðum, enda ættu þeir enga aðkomu að því mati með málflutningi eða á annan hátt. Í öðru lagi byggði ákæruvaldið á því að skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um að verulegir gallar hefðu verið á málsmeðferðinni hefðu ekki verið uppfyllt en það gæti ekki talist verulegur galli á meðferð máls að endurupptökunefnd hefði aðra skoðun en dómarar Hæstaréttar á túlkun g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Í þriðja lagi byggði ákæruvaldið á því að skilyrði d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um að galli á málsmeðferð hefði haft áhrif á niðurstöðu sakamáls væri ekki uppfyllt. Vísaði ákæruvaldið til þess að orðalag ákvæðisins kvæði á um að það þyrfti að liggja fyrir að gallinn hefði haft áhrif en ekki einungis að hann hefði getað haft áhrif. Það hefði ekki verið gert líklegt að niðurstaða dómsins væri röng að efni til eða að ætlað vanhæfi hefði haft áhrif á niðurstöðuna eins og d- liður kvæði á um. Þá fælu ákvarðanir hæstaréttardómara um að taka sæti í dómi og mat þeirra á eigin hæfi í sér endanlegar ákvarðanir. Ummæli í athugasemdum í frumvarpi við lagagreinina þess efnis að það geti komið til skoðunar að leyfa endurupptöku samkvæmt fyrrnefndum d-lið ef síðar kemur í ljós að dómari hafi verið vanhæfur geti, að mati ákæruvaldsins, aðeins átt við í tilviki héraðsdómara eða landsréttardómara enda yrði úrskurðum þeirra um eigið hæfi skotið til æðri dóms. Í fjórða lagi vísaði ákæruvaldið til þess að endurupptökunefnd, sem væri stjórnsýslunefnd, væri með 1. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008 falið vald til að víkja til hliðar réttaráhrifum dóms, samkvæmt 186. gr. sömu laga, og hefði því heimild til að taka ákvörðun um endurtekna málsmeðferð í máli þar sem fyrir lægi endanlegur dómur með þeim afleiðingum að hann félli niður. Taldi ákæruvaldið að þetta fyrirkomulag sem fæli framkvæmdarvaldinu umfangsmikið vald til íhlutunar í störf dómsvaldsins bryti gegn 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins. Í greinargerð sinni hér fyrir rétti varðandi frávísunarkröfu ákæruvaldsins vísaði ákærði Sigurjón Þorvaldur fyrst og fremst til niðurstöðu endurupptökunefndar um grundvöll þess að málið skyldi endurupptekið. Ákærða Sigríður Elín vísaði með sama hætti til úrskurðar endurupptökunefndar sem og málatilbúnaðar síns fyrir nefndinni því til stuðnings að lagaskilyrði stæðu til þess að endurupptaka hæstaréttarmál nr. 456/2014 og að dæma ætti það að nýju af óháðum og óhlutdrægum dómi til að tryggja að hún fengi notið grundvallarréttinda til réttlátrar málsmeðferðar. VI Í tilvitnaðri ákvörðun Hæstaréttar 27. maí 2020 er niðurstaða réttarins um frávísunarkröfu ákæruvaldsins svofelld: „Af hálfu ákæruvaldsins er krafa um frávísun málsins meðal annars á því reist að það fyrirkomulag 1. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008 að fela endurupptökunefnd vald til að ákvarða hvort mál skuli endurupptekið fyrir Hæstarétti brjóti í bága við þrígreiningu ríkisvalds, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þess ber þá að gæta að í dómi Hæstaréttar 25. febrúar 2016 í máli nr. 628/2015 kom fram að sú tilhögun þágildandi ákvæðis 3. mgr. 215. gr., sbr. 1. mgr. 214. gr. laga nr. 88/2008, að ákvörðun endurupptökunefndar um endurupptöku máls fyrir Hæstarétti hefði meðal annars í för með sér að fyrri dómur Hæstaréttar félli úr gildi, mælti nefndin ekki fyrir á annan veg, væri andstæð meginreglu 2. gr. stjórnarskrárinnar. Lagaákvæðið teldist því ekki gild réttarheimild og yrði ekki beitt. Í kjölfar þess var umrædd heimild endurupptökunefndar felld úr lögum, sbr. 1. gr. laga nr. 99/2016, og er nú mælt fyrir um heimildir endurupptökunefndar í 3. mgr. 232. gr., sbr. 1. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008. Að lögunum svo breyttum hefur Hæstiréttur ítrekað fjallað um ákvarðanir nefndarinnar um endurupptöku mála, sbr. í dæmaskyni dóma réttarins frá 20. febrúar 2019 í máli nr. 601/2015 og 27. september 2018 í máli nr. 521/2017 án þess að taldir hafi verið stjórnskipulegir annmarkar á lagaákvæðunum í núverandi mynd. Á hinn bóginn var áréttað í dómunum, svo sem fyrr greinir, að dómstólar eigi eftir meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar úrskurðarvald um ákvarðanir nefndarinnar og taki þar af leiðandi afstöðu til þess hvort lög hafi með réttu staðið til þeirrar niðurstöðu sem endurupptökunefnd kemst að hverju sinni. Er kröfu um frávísun málsins á þessum grundvelli því hafnað. Forsendur úrskurðar endurupptökunefndar fyrir endurupptöku málsins voru eins og áður segir á því reistar að gallar hefðu verið á meðferð þess fyrir Hæstarétti samkvæmt þágildandi d-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008, sbr. nú d-lið 1. mgr. 228. gr. sömu laga, í ljósi vanhæfis dómarans Viðars Más Matthíassonar vegna hlutabréfaeignar hans í Landsbanka Íslands hf. Tók nefndin fram að þegar að þeirri niðurstöðu fenginni væri ekki þörf á því að fjalla um ætlað vanhæfi annarra dómara málsins eða aðrar málsástæður dómfelldu Sigurjóns Þorvaldar og Sigríðar Elínar. Af því tilefni skal áréttað að aðrar þær málsástæður dómfelldu sem teflt var fram fyrir endurupptökunefnd og ekki komu þar til efnislegs mats geta ekki komið til frekari skoðunar hér fyrir dómi, enda er það ekki á valdi dómstóla að meta slíkt í stað nefndarinnar þótt þeir séu eftir almennum reglum bærir til að leysa eftir á úr ágreiningi um lögmæti úrskurðar hennar um slíkt efni, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 6. desember 2018 í máli nr. 857/2017. Við mat á því hvort vanhæfi dómara teljist verulegur galli, í skilningi d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga 88/2008 þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu máls, verður að horfa til þess að í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er meðal annars kveðið á um rétt manna til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól. Er sú regla og í samræmi við 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994. Í athugasemdum við það frumvarp sem varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 segir um fyrrnefnda ákvæðið að það leggi þá skyldu á löggjafann að setja skýrar reglur um hvenær dómari verði talinn vanhæfur í máli. Þá liggur fyrir að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur við skýringu 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans litið til þeirra reglna landsréttar sem giltu um hæfi dómara í einstöku tilviki, sbr. einkum áðurgreindan dóm 25. febrúar sl. í máli nr. 41382/17. Samkvæmt framansögðu er það forsenda fyrir réttlátri málsmeðferð fyrir dómstólum í skilningi stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu að reglur um hæfi dómara séu virtar og gildir þá einu á hvaða dómstigi meðferð máls fer fram og hvort dómurinn er skipaður einum eða fleiri dómurum. Vanhöld á að reglur um hæfi séu virtar hljóta því jafnan að teljast verulegir annmarkar á málsmeðferð og jafnframt þess eðlis að geta haft áhrif á niðurstöðu máls í skilningi fyrrnefnds d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Svo sem rakið er í úrskurði endurupptökunefndar fær sú lögskýring einnig beina stoð í athugasemdum þess frumvarps sem varð að lögum nr. 88/2008, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 21. maí 2019 í máli nr. 12/2018. Verður því hafnað þeirri málsástæðu ákæruvaldsins að d-liður 1. mgr. 228. gr. laganna heimili ekki endurupptöku við þær aðstæður að hæstaréttardómari hefur tekið þátt í meðferð máls í andstöðu við hæfisreglur 6. gr. laga nr. 88/2008. Áður eru raktar upplýsingar um hlutabréfaeign Viðars Más Matthíassonar hæstaréttardómara í Landsbanka Íslands hf. Þá var og rakin sú efnislega niðurstaða endurupptökunefndar að fjárhagslegt tjón dómarans hafi verið svo verulegt að draga hafi mátt óhlutdrægni hans með réttu í efa í umræddu dómsmáli, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008, ekki síst með hliðsjón af því að í forsendum dómsins voru brot ákærðu talin hafa verið til þess fallin að valda hluthöfum í bankanum, stórum sem smáum, svo og öllum almenningi fjártjóni. Laut sakarefni málsins þannig beinlínis að hagsmunum dómarans sem jafnframt voru verulegir. Niðurstaða fyrrgreinds dóms Mannréttindadómstóls Evrópu 25. febrúar síðastliðinn, þar sem talið var að téður dómari hefði í málinu ekki fullnægt skilyrði 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans um málsmeðferð fyrir óvilhöllum dómstól og gilti þá einu þótt ekkert væri fram komið um að annarleg sjónarmið hefðu í reynd ráðið meðferð eða efnislegri niðurstöðu dómsins, samræmdist að þessu leyti forsendum endurupptökunefndar. Að öllu virtu er í málinu ekkert komið fram sem fær hnekkt því mati endurupptökunefndar að fyrir hendi hafi verið aðstæður sem fallnar voru til að draga hafi mátt óhlutdrægni dómarans með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Var þegar af þeirri ástæðu fullnægt skilyrðum d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 fyrir endurupptöku málsins, en því er ekki haldið fram í málinu að annmarkar hafi verið á málsmeðferð endurupptökunefndar sem leiða eigi til ógildis úrskurðanna.“ Kröfu ákæruvaldsins um frávísun málsins frá Hæstarétti var því hafnað og málið tekið til efnismeðferðar. Verður hér í framhaldinu gerð nánari grein fyrir meðferð málsins fyrir réttinum, þar á meðal um hverjir gáfu skýrslu við meðferð þess. Í því samhengi skal tekið fram að samhliða var hafnað kröfu ákæruvaldsins um frávísun máls nr. 35/2019 frá Hæstarétti en í því fólst að hæstaréttarmál nr. 842/2014 var endurupptekið, en það tekur eins og fyrr greinir til sakargifta á hendur ákærða Sigurjóni Þorvaldi samkvæmt I. kafla ákærunnar auk þriggja annarra dómfelldu sem ekki eiga aðild að endurupptöku þess máls. VII  Ákærðu hafa nú undir áfrýjun lagt fram ný gögn sem varða sakarefni málsins. Verður gerð grein fyrir þeim en ekki þykja efni til að fjalla frekar um gögn sem varða hæfi þeirra hæstaréttardómara sem dæmdu mál nr. 456/2014. 1 Ákærði Sigurjón Þorvaldur lagði fram 37 ný skjöl fyrir Hæstarétt. Í meginatriðum varða þau annars vegar verðmæti viðbótarveðs í stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði og samskipti sparisjóðsins og Glitnis banka hf. á tímabilinu 19. september 2008 til 27. sama mánaðar. Er meginefni þeirra skjala sem ákærði merkti 1 til 18 rakin nánar í 5. lið kafla VIII. Hins vegar fjalla framlögð gögn um aðkomu og yfirsýn ákærða um viðskipti EFL. Verður nú gerð grein fyrir þeim skjölum. Skjal merkt 19 er bréf frá ÁM, forstöðumanni á fyrirtækjasviði, til lögmanna ákærðu 16. febrúar 2016 þar sem hann áréttar nokkur atriði sem komu fram í dómi Hæstaréttar nr. 456/2014. Vísar hann meðal annars til þess að önnur lán hefðu verið veitt með sambærilegum veðhlutföllum á árunum 2004 og 2007 og þau lán sem ákært er fyrir og að þau lán hefðu einnig verið afgreidd milli lánanefndarfunda. Auk þess hefði nær alltaf verið notast við verðmöt sem unnin voru innanhúss, eins og raunin var við mat á virði stofnfjárbréfa í Byr sparisjóði, en ekki leitað til utanaðkomandi sérfræðinga. Skjal merkt 20 er skýrsla EFL 1. október 2008. Skýrslan mun hafa verið lögð fram sama dag á fundi fjármálanefndar bankans. Þar kemur fram yfirlit og breytingar á viðskiptum á verðbréfasviði bankans vikuna 23. til 30. september 2008. Í yfirlitinu koma einnig fram heildarbreytingar á viðskiptum með hlutabréf, það er upphafsstaða, sala/kaup og lokastaða, meðal annars í Landsbanka Íslands hf. Í skýrslunni er hins vegar ekki að finna sundurliðuð viðskipti. Skjal merkt 21 er svokölluð 4-15 skýrsla frá 30. september 2008 sem var dagskýrsla áhættustýringar Landsbanka Íslands hf. Þar eru meðal annars upplýsingar um hvernig heildarstaða bankans í eigin hlutabréfum breyttist milli daga. Skjal merkt 22 er skýrsla 30. september 2008 sem ákærði leggur fram til samanburðar um framkvæmd daglegrar upplýsingargjafar í Kaupþingi banka hf. Sú skýrsla mun hafa verið send daglega til bankastjóra og starfandi stjórnarformanns bankans. Skýrslan hafði að geyma yfirlit yfir kaup og sölu hvers dags í bankanum. Þar kom fram hverjir væru kaupendur og seljendur og umfang viðskipta. Skjöl merkt 23 og 24 eru tölvupóstsamskipti milli ákærða Sigurjóns Þorvaldar og ÞÖ regluvarðar bankans frá apríl og maí 2016 þar sem sá fyrrnefndi óskar eftir ákvörðunartökublöðum og fundargerðum frá árunum 2003 til 2008 vegna 15 nánar tiltekinna lánveitinga. ÞÖ taldi ekki unnt að verða við þeirri beiðni ákærða þar sem það væri mat bankans að skjölin féllu undir 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Skjal merkt 25 eru tíu fundargerðir lánanefndar Landsbanka Íslands hf. þar sem bókað var um lánveitingar sem teknar voru á milli lánanefndafunda. Er tilefni til þess að rekja þær helstu hér. Samkvæmt fundargerð 6. júní 2007 voru 17 lánamál afgreidd milli funda. Meðal annars var nafngreindu hlutafélagi veitt lánalína til fimm ára að fjárhæð 2.800.000.000 króna til kaupa á hlutabréfum í Glitni banka hf., með 65 eða 75% veðsetningu, sem tók mið af vaxtakjörum og var trygging veitt í hlutabréfum í bankanum sjálfum með sama veðsetningarhlutfalli. Samkvæmt fundargerð 11. júlí 2007 voru 24 lánamál afgreidd milli funda og meðal annars var öðru nafngreindu félagi veitt 4.500.000.000 króna eingreiðslulán til fimm ára til að gera upp og fjármagna nánar tiltekna fjármálagerninga. Var veitt handveð í hlutabréfasafni félagsins sem var í Landsbanka Íslands hf., Glitni banka hf., FL Group og Boreas Capital Fund með 75% veðhlutfalli. Samkvæmt fundargerð 22. ágúst 2007 voru 12 lánamál afgreidd milli funda og nafngreindu félagi meðal annars veitt lánalína að fjárhæð 13.650.000.000 króna til 30. nóvember 2007 til kaupa á bréfum í öðru félagi. Til tryggingar voru hlutabréf í síðastnefndu félaginu sem var skráð á markað í Amsterdam en veðhlutfallið var 65%. Samkvæmt fundargerð 3. október 2007 voru 29 lánamál afgreidd milli funda og meðal annars var tilteknu félagi veitt 1.200.000.000 króna eingreiðslulán til tveggja ára vegna kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. og var veðhlutfallið 80%. Samkvæmt fundargerð 24. október 2007 voru 15 lánamál afgreidd milli funda og einkahlutafélagi meðal annars veitt 1.000.000.000 króna eingreiðslulán til tveggja og hálfs árs vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Til tryggingar voru hin keyptu hlutabréf og var veðhlutfall 87%. Var tekið fram að eftir kaupin yrði heildarveðhlutfall á móti hlutabréfum 74%. Samkvæmt fundargerð 19. desember 2007 voru 37 lánamál afgreidd milli funda og tilteknu einkahlutafélagi meðal annars veitt 3.200.000.000 króna eingreiðslulán til 18 mánaða vegna stofnfjáraukningar í Byr sparisjóði og vegna yfirtöku á láni hjá MP banka hf. Til tryggingar var þáverandi veð í safnreikningum einkahlutafélagsins og annars nafngreinds félags auk nýrra veða í stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði. Veðhlutfall var um 74%. Samkvæmt fundargerð 6. febrúar 2008 voru 19 lánamál afgreidd milli funda. Samkvæmt fundargerð 24. september 2008 voru 13 lánamál afgreidd milli funda og meðal annars var einkahlutafélagi veitt 50.000.000.000 króna lán til tveggja ára til uppgreiðslu lána. Til tryggingar var 29,7% hlutur í óskráðu félagi og hlutabréf í öðru félagi. Var veðhlutfallið 70%. Samkvæmt ,,fundargerð“ 8. október 2008, eftir yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Landsbanka Íslands hf., kemur fram að 19 lánamál hafi verið afgreidd milli funda og meðal annars lán til Imon ehf. að fjárhæð 5.163.000.000 króna til 20 mánaða til kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. og hefðu bréfin verið sett að handveði til tryggingar auk þáverandi trygginga í stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði, sbr. a-lið II kafla ákærunnar. Var veðhlutfall 86 til 95%. Skjal merkt 26 er fundargerð lánanefndar Landsbanka Íslands hf. 16. maí 2007 en þar kom fram að Imon ehf. hefði verið veitt 279.000.000 króna eingreiðslulán til tveggja ára gegn handveði í 9,095% hlut í stofnfjárbréfum Byr sparisjóðs. Áætlað veðhlutfall var 43%. Skjal merkt 27 er fundargerð lánanefndar Landsbanka Íslands hf. 15. ágúst 2007 en þar kom fram að Imon ehf. hafði verið veitt 1.140.000.000 króna eingreiðslulán til tveggja ára gegn handveði í 9,587% eða alls 12.593.331 stofnfjárbréfi í Byr sparisjóði og yrði veðhlutfallið þá 43,5%. Um þessar lánveitingar verður fjallað nánar í 6.2 lið kafla VIII. Skjal merkt 28 er minnisblað um færsluheimildir áhættureglna Landsbanka Íslands hf., sem ritað var af þáverandi yfirmanni áhættustýringar að beiðni lögmanns ákærða Sigurjóns Þorvaldar, en minnisblaðinu fylgdu áhættureglur bankans frá október 2005. Í minnisblaðinu kom fram að áhættustýring bankans hefði fylgst náið með heildarstöðu EFL en litið svo á að með yfirferð sinni á fjármálanefndarfundum, þar sem farið hefði verið yfir stöðu og afkomu einingarinnar í þáliðinni viku, hefðu allar ákvarðanir deildarinnar sem teknar hefðu verið milli funda í nefndinni verið „staðfestar af Fjármálanefnd, þ.e. Bankastjórn.“ Skjal merkt 29 er bréf Landsbankans hf. 7. október 2011 í tilefni af beiðni embættis sérstaks saksóknara 14. október 2011 þar sem meðal annars var óskað eftir upplýsingum sem vörðuðu viðskipti Imon ehf. við bankann með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. í september og október 2008 og um áhættuflokkun Imon ehf. fyrir ágúst, september og október 2008. Í bréfinu kom fram að Imon ehf. hefði verið flokkað í áhættuflokk átta en taldar voru 4,73% líkur á að félög í þeim flokki myndu lenda í vanskilum í 90 daga á næstu 12 mánuðum. Var tekið fram að vinna útlánaeftirlits varðandi áhættuflokka hefði ekki verið notuð af yfirstjórn Landsbanka Íslands hf. við ákvarðanatöku útlána. Skjöl merkt 30 og 31 eru útlánareglur Byrs sparisjóðs, „útlánaheimildir-starfsregla stjórnar, Starfsregla um veðsetningarhlutföll tryggingarandlaga“, samþykktar 24. janúar 2008 og starfsreglur um framkvæmd starfa stjórnar og sparisjóðsstjóra auk viðauka samþykktar 22. febrúar 2007. Samkvæmt starfsreglunum voru sett mörk heimilda sparisjóðsstjóra í útlánareglum og tekið fram að þau væru ákvörðuð af stjórn sparisjóðsins. Í starfsreglum um veðsetningarhlutföll kom fram að veðsetningarhlutfall skráðra hlutabréfa væri að jafnaði 60%. Skjal merkt 32 er samstæðuársreikningur Byrs sparisjóðs 2008 en 19. mars 2008 samþykkti Fjármálaeftirlitið samruna Byrs sparisjóðs og Sparisjóðs Norðlendinga. Skjal merkt 33 er frétt af vefsvæðinu mbl.is 3. janúar 2009 með yfirskriftinni „Týndir stofnfjáreigendur BYRS“. Skjal merkt 34 eru bréf frá embætti héraðssaksóknara 19. desember 2016 til ákærða Sigurjóns Þorvaldar þar sem tilkynnt var um niðurfellingu þriggja mála vegna ætlaðra brota í tengslum við lánveitingar Landsbanka Luxembourg S.A. til hlutabréfakaupa í Landsbanka Íslands hf. Auk þess fylgdi tilkynning 30. október 2013 um niðurfellingu fjórða málsins. Skjal merkt 35 er tafla sem sýnir eigið fé og veðhlutföll skulda á móti eignum Imon ehf. miðað við tvennskonar mat ÁM forstöðumanns á fyrirtækjasviði samkvæmt ákvörðunartökublöðum um lánveitingar til félagsins. Skjal merkt 36 er skipurit Landsbanka Íslands hf. 1. október 2008 og ýmsar verklagsreglur bankans frá janúar og maí 2007 Skjöl merkt 14 og 37 lágu þegar fyrir í gögnum málsins og verða efni þeirra því ekki rakin nánar hér. 2 Ákærða Sigríður Elín lagði alls fram 11 ný skjöl fyrir Hæstarétt. Verður nú rakið meginefni þeirra. Skjal merkt eitt eru upplýsingar úr ársreikningi Imon ehf. fyrir árið 2008. Samkvæmt honum var MÁ eigandi alls hlutafjár í félaginu. Í árslok 2008 námu bókfærðar eignir þess 3.919.967.952 krónum, þar af voru áhættufjármunir 3.803.351.153 krónur, sem var bókfært virði 7,7% eignarhluta félagsins í Byr sparisjóði. Skuldir félagsins námu 3.987.298.940 krónum og var eigið fé þess því neikvætt um 67.330.988 krónur. Þá er tekið fram í skýringum að: „Viðskipti með eignarhluti í Landsbanka Íslands hf. eru ekki færð í efnahagsreikning þar sem talið er að hafa beri þau að engu þar sem hlutabréfin hafi verið verðlaus þegar við kaup.“ Þá sagði „Landsbankinn leysti til sín stofnfjárbréfin í Byr sparisjóði í mars 2009 og ágreiningur er á milli bankans og félagsins um verðmæti þeirra á þeim tíma. Endanlegt verðmæti þeirra kann því að reynast annað og er matið sett fram með þeim fyrirvara.“ Skjal merkt tvö er ársreikningur Gruppen ehf. fyrir árið 2013 (áður Imon ehf.). Samkvæmt honum námu skuldir félagsins í árslok 2013 rúmum átta milljónum króna og eigið fé tæpum 69 milljónum króna. Skjal merkt þrjú eru ódagsettar verklagsreglur Landsbanka Íslands hf. um verðbréfaviðskipti. Í þeim var meðal annars fjallað um svokallaða kínamúra. Í grein sex kom fram að þess skyldi gætt „að eigin viðskipti bankans, verðbréfamiðlun, fyrirtækjaráðgjöf og eignastýring séu aðskilin með fullnægjandi hætti.“ Skjal merkt fjögur eru aðildarreglur Norex-kauphallarinnar frá október 2008. Samkvæmt grein 5.6.13 í reglunum átti að tilkynna viðskipti sem stofnað var til eftir að viðskiptatíma lauk, svokölluð utanþingsviðskipti, á forviðskiptatímabilinu og eigi síðar en 15 mínútum áður en viðskiptatíminn hæfist næsta viðskiptadag. Þá kom fram í grein 5.6.6 að „Kauphallaraðilarnir sem hlut eiga að kauphallarviðskiptum skulu tilkynna viðskiptin í viðskiptakerfið ... Ef aðeins annar aðilanna er kauphallaraðili skal hann tilkynna viðskiptin sem innanhúsviðskipti. Eftirfarandi upplýsingar skulu gefnar: auðkenni tilboðaskrár; hvort um er að ræða kaup- eða sölu; viðskiptaverð; magn; auðkenni mótaðila; dagsetning og tíma viðskiptanna; tegund viðskipta; flokkur eiganda (viðskiptamaður/eigin reikningur/eigin bréf útgefandi/verðjöfnun); dagsetning uppgjörs.“ Skjal merkt fimm er 12. kafli úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um markaðsvirði hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. samkvæmt skráðum upplýsingum úr Kauphöll Íslands. Í skjalinu er að finna skráð gengi bréfa bankans frá 28. desember 2004 til og með 3. október 2008. Skjal merkt sex hafði þegar verið lagt fram af ákærða Sigurjóni Þorvaldi, sbr. skjal merkt 29, og skjöl merkt sjö til 11 eru bréf frá Mannréttindadómstól Evrópu og varða ekki efnishluta málsins sérstaklega.  VIII 1   Áður en afstaða verður tekin til einstakra liða ákæru er rétt að gera grein fyrir stöðu ákærðu innan Landsbanka Íslands hf. Þá verður í öðru lagi gerð grein fyrir þeim reglum sem giltu um starfsemi bankans á umræddum tíma. Þá verður í þriðja lagi vikið að stöðu fjármálamarkaða í aðdraganda þeirra viðskipta sem um ræðir en ætla má að málavextir þar að lútandi séu nú alþekktir í ljósi umfangsmikillar umfjöllunar meðal annars í dómaframkvæmd Hæstaréttar. Í fjórða lagi verður fjallað um Byr sparisjóð í tengslum við verðmæti hans tengt þeim viðskiptum sem fjallað er um í köflum II og III í ákæru. Þá verður í fimmta lagi gerð grein fyrir félaginu Imon ehf. og viðskiptum þess við Landsbanka Íslands hf. á árunum 2007 og 2008. 2   Ákærði Sigurjón Þorvaldur var ráðinn bankastjóri Landsbanka Íslands hf. með samningi 21. apríl 2003 og ákærða Sigríður Elín sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans með samningi sama dag. Í tilkynningu Landsbanka Íslands hf. til Kauphallar Íslands 22. apríl 2003 kom fram að ákærði hafi verið ráðinn bankastjóri við hlið HJK sem hafði einn gegnt starfi bankastjóra um nokkurt skeið. Í tilkynningunni sagði jafnframt: „Bankastjórarnir munu fara sameiginlega með stjórnun allra málefna bankans. Verkaskipting samkvæmt nýju skipuriti er þannig að HJK fer fyrir alþjóðasviði, viðskiptabankasviði og eignastýringarsviði en Sigurjón fyrir fyrirtækjasviði, verðbréfasviði og stoðsviðum. Báðir munu fara með viðskiptatengsl og viðskiptamál.“ Þá var í tilkynningunni greint frá breytingum „á stjórnskipan bankans“ og að þrír nýir framkvæmdastjórar hefðu verið ráðnir til starfa, þeirra á meðal ákærða Sigríður Elín. Myndu nýju framkvæmdastjórarnir starfa við hlið þeirra framkvæmdastjóra sem fyrir væru en einn þeirra, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs, væri staðgengill bankastjóra. 3   Samþykktir Landsbanka Íslands hf. voru upphaflega settar á stofnfundi félagsins 10. september 1997. Þeim var síðar breytt nokkrum sinnum, síðast á aðalfundi félagsins 23. apríl 2008. Samkvæmt 18. grein samþykktanna var stjórn félagsins, bankaráð, skipuð fimm mönnum, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Í 20. grein var kveðið á um að bankaráð hefði „yfirumsjón með starfsemi bankans í samræmi við lög sem um starfsemina gilda, reglur og samþykktir og hefur eftirlit með rekstri bankans.“ Þá kemur fram í sömu grein að bankaráð setji sér starfsreglur þar sem meðal annars skyldi kveða á um heimildir þess til töku ákvarðana um einstök viðskipti. Svofelld ákvæði voru í 21. grein samþykktanna: „Framkvæmdastjórar félagsins, skv. lögum um fjármálafyrirtæki, nefnast bankastjórar. Bankastjórar bera ábyrgð á daglegum rekstri bankans og fara með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin í lögum, reglugerðum eða samþykktum. Þeim ber að sjá um að bankareksturinn sé í samræmi við lög, reglugerðir eða samþykktir og ákvarðanir bankaráðs ... Bankastjórar halda gerðabók þar sem þeir skrá helstu ákvarðanir sínar.“ Meðal gagna málsins er yfirlit yfir 50 stærstu hluthafa Landsbanka Íslands hf. 3. október 2008 og samkvæmt því átti Samson eignarhaldsfélag ehf. á þeim tíma 4.684.608.801 hlut í bankanum eða 41,8539% alls hlutafjár í honum. Þar sem félagið átti svo stóran hlut voru meðal annars skil milli bankaráðs og stjórnar bankans eins og sjá má í þeim reglum sem hér verða raktar. Starfsreglur fyrir bankaráð Landsbanka Íslands hf., sem vísað var til í 20. grein samþykkta félagsins, voru samþykktar á fundi ráðsins 29. júlí 2004 og þeim síðar breytt tvívegis á fundum þess 2005. Samkvæmt 6. grein starfsreglnanna skyldi bankaráð gera skriflega ráðningarsamninga við bankastjóra. Í grein 8.1 reglnanna sagði: „Bankastjórar mynda bankastjórn. Þar sem mælt er fyrir um heimildir eða ábyrgð bankastjórnar þarf ávallt atbeina beggja bankastjóra til nýtingar heimilda eða ákvarðana. Í forföllum annars bankastjóra er þó heimilt að einn bankastjóri standi að máli ásamt staðgengli bankastjóra.“ Þá var svohljóðandi ákvæði í grein 8.2: „Bankastjórn ber ábyrgð á daglegum rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin með lögum, samþykktum bankans eða ákvörðunum bankaráðs. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur bankastjórn aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild bankaráðs nema ekki sé unnt að bíða ákvörðunar bankaráðs án verulegs óhagræðis fyrir bankann. Í slíkum tilvikum skal bankaráði tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina. Bankastjórn ber að sjá um að reksturinn sé í öllum greinum samkvæmt lögum, reglugerðum eða samþykktum og ákvörðunum bankaráðs.“ Samkvæmt grein 9.1 starfsreglnanna hafði bankaráð yfirumsjón með starfsemi bankans og jafnframt almennt eftirlit með rekstri hans. Í upphafi greinar 9.2 sagði að bankaráð skyldi „annast ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar sem tekur m.a. til eftirfarandi ráðstafana.“ Síðar voru þær taldar upp í tólf töluliðum og meðal þeirra var, sbr. 5. tölulið, „að setja almennar reglur um lánveitingar og ábyrgðir bankans, hvort tveggja að fenginni umsögn bankastjórnar, sbr. þó gr. 9.3 í reglum þessum.“ Í upphafi greinar 9.3 sagði: „Bankastjórn hefur heimild til að ákveða kaup og sölu hlutabréfa í veltubók bankans.“ Í 12. grein var kveðið á um upplýsingagjöf til bankaráðs, þar á meðal skyldi bankastjórn samkvæmt grein 12.1 leggja „mánaðarlegt fjárhagsuppgjör bankans fyrir bankaráð á fyrsta reglulega bankaráðsfundi eftir að það liggur fyrir“ og jafnframt eftir grein 12.6 „mánaðarlega gefa bankaráði sundurliðað yfirlit um stöðu og þróun markaðsáhættu bankans.“ Í málinu liggja fyrir almennar útlána- og áhættureglur, sem bankaráð Landsbanka Íslands hf. setti haustið 2005, að fenginni tillögu bankastjórnar, með vísan til 5. töluliðar greinar 9.2 í starfsreglum ráðsins. Samkvæmt 1. grein útlána- og áhættureglnanna bar bankastjórn „ábyrgð gagnvart bankaráði á útlánum bankans og ábyrgðum.“ Jafnframt skyldi hún „bera ábyrgð á öðrum áhættuþáttum bankans þ.m.t. markaðs- og rekstraráhættu.“ Í 2. grein reglnanna sagði meðal annars: „Lánveitingar bankans skulu taka mið af þeirri meginstefnu bankans að vera alhliða fjármálafyrirtæki sem veitir framúrskarandi fjármálaþjónustu í alþjóðlegu umhverfi. Að öðru leyti skulu lánveitingar bankans vera í samræmi við markaða stefnu bankans á hverjum tíma. Við útlánaákvarðanir og áhættutökur skal bankastjórn sjá til þess að hagsmuna bankans sé ætíð gætt, fjárhagsstaða hans treyst og að ákvarðanir brjóti ekki í bága við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Þá skal bankastjórn hafa hliðsjón af stöðu og horfum í efnahags- og atvinnulífi, svo og þróun peningamarkaða, við ákvarðanir sínar. Bankastjórn skal setja ítarlegar útlánareglur um framkvæmd lánveitinga og ábyrgða. Reglurnar skulu m.a. hafa að geyma ákvæði um eftirfarandi atriði: Meginregla um að við ákvörðun um lánveitingu skuli taka mið af greiðslugetu lánþega, framboðnum tryggingum og viðskiptasögu. Upplýsingaöflun og áhættumat fyrir ákvörðunartöku. Hámarksáhættu til viðskiptamanna. Útlánaheimildir einstakra starfsmanna. Verkaskiptingu innan bankans varðandi útlánaákvarðanir. Tryggingar ... Almennt skulu öll útlán bankans vera vel tryggð annað hvort með formlegum tryggingum eða haldi á greiðsluflæði. Heimilt er þó að veita lán án sérstakra formlegra trygginga til bestu fyrirtækja í viðskiptum við bankann, sé greiðsluflæði félagsins sterkt ... Bankastjórn skal reglulega gefa bankaráðinu upplýsingar um stöðu og þróun útlána og vanskila, þróun áhættuflokkunar og framlög í afskriftarsjóð útlána.“ Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir efni útlánareglna Landsbanka Íslands hf. sem gefnar voru út af útlánaeftirliti bankans 20. ágúst 2008 og í gildi voru þegar atvik þessa máls urðu. Í 1. kafla reglnanna var tekið fram að tilgangur þeirra væri „að setja meginreglur um öll útlán til viðskiptamanna sem bankinn veitir á Íslandi og úr erlendum útibúum sínum. Í reglunum kemur fram hvaða aðilar innan bankans hafa útlánaheimildir og hvaða takmörkunum þær eru háðar. Einnig kemur fram hvaða kröfur bankinn gerir til þeirra trygginga sem hann fer fram á að lántakar setji fyrir lánum sínum og hvernig bankinn verðleggur útlán sín. Útlánareglunum er ætlað að taka til almennra lánveitinga í starfsstöðvum Landsbanka Íslands hf. ... Ef um er að ræða ákvarðanir um lánveitingu sem fellur ekki innan ramma þessara reglna eða vafi leikur á að lánveiting falli undir reglurnar þarf skriflega ákvörðun frá Lánanefnd eða viðkomandi fagsviði.“ Í upphafi greinar 1.1 um áhættustýringu sagði síðan: „Bankaráð Landsbanka Íslands hf. ber ábyrgð á stefnumörkun í áhættu- og útlánamálum Landsbankasamstæðunnar og felur ráðið bankastjórninni að setja ítarlegar reglur um framkvæmd og eftirlit með þessum þáttum.“ Í framhaldinu kom fram að: „Bankastjórn ber ábyrgð á daglegum rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin. Bankastjórn á að sjá til þess að reksturinn sé í öllum greinum samkvæmt lögum, reglugerðum og samþykktum og ákvörðunum bankaráðs.“ Þá sagði meðal annars í grein 1.2: „Bankastjórar setja ítarlegar Útlánareglur um framkvæmd lánveitinga og ábyrgða. Tilgangurinn með reglunum er að stýra útlánaáhættunni, mæla hana og hafa eftirlit með henni. Úrræði bankans til þess að lágmarka tap vegna útlána er m.a. að skoða viðskiptasögu lántaka, meta greiðslugetu hans og framboðnar tryggingar ... Lánanefnd bankans er æðsta vald í útlánamálum bankans. Nefndin hefur þríþætt hlutverk: Í fyrsta lagi tekur Lánanefndin ákvarðanir um lánveitingar sem eru umfram útlánaheimildir annarra aðila innan bankans. Í öðru lagi veitir hún ákveðnum aðilum innan bankans útlánaheimildir. Í þriðja lagi hefur nefndin eftirlit með stærstu áhættum í samstæðu bankans, bæði er varðar einstaka viðskiptamenn og flokka útlána.“ Í 12. kafla reglnanna var kveðið á um útlánaheimildir fyrirtækjasviðs og kom fram í grein 12.1 að næmi heildarskuldbinding viðskiptamanns hærri fjárhæð en 1.000.000.000 króna eftir „einstaka fyrirgreiðslu“ þyrfti að leggja málið „fram til samþykktar í Lánanefnd“. Þá voru í 13. kafla reglur um tryggingar fyrirtækjasviðs. Samkvæmt grein 13.1 var það meginreglan „að útlán bankans skulu vera tryggð með tryggingum innan skilgreindra veðmarka. Trygging innan veðmarka er trygging sem er innan við þau veðsetningarhlutföll sem skilgreind eru í Útlánareglum hér að neðan ... Útlán sem eru með tryggingum umfram þessi mörk skoðast sem lán utan veðmarka.“ Í grein 13.4 sagði: „Fyrirtækjasviði er heimilt að samþykkja veðsetningu í neðangreindum veðandlögum sem eru umfram þau hámörk sem þar koma fram.“ Mismunandi tegundir tryggingarandlaga og veðsetningarhlutföll voru svo talin upp í grein 13.5 í 17 liðum. Í grein 13.5.13, þar sem fjallað var um hlutabréf og hluti í einkahlutafélögum, sagði meðal annars: „Almenna reglan er að veita einungis lán með veði í skráðum hlutabréfum. Ef taka á veð í hlutabréfum eða hlutum í einkahlutafélagi skal lánaákvörðun um það tekin á Fyrirtækjasviði. Veðsetningarhlutfall skal taka mið af seljanleika og viðskiptum með bréfin. Veðhæf bréf teljast þau sem uppfylla eftirfarandi tvö skilyrði: Meðal viðskiptadagsvelta á 12 mánaða tímabili ˃ 40 m. kr. Viðskiptadagar/heildarfjöldi viðskiptadaga á 12 mánaða tímabili ˃ 95%. Hámarksveðsetningarhlutfall á skráðum innlendum hlutabréfum á Aðallista Kauphallar og erlendum skráðum hlutabréfum er 50% af markaðsverði. Hámarksveðsetningarhlutfall annarra innlendra skráðra hlutabréfa er 30% ... Heimilt er þó að veita lán með veði í óskráðum hlutabréfum en sú ákvörðun skal tekin af Fyrirtækjasviði/Lánanefnd. Óskráð hlutabréf skulu aldrei veðsett hærra en 30% af matsverði.“ Samkvæmt grein 13.5.16 var fyrirtækjasviði heimilt að taka veð í öðrum veðandlögum en talin voru upp í greinum 13.5.1 til 13.5.15 og ákveða veðmörk þeirra. Í 16. kafla reglnanna var fjallað um lánanefnd og útlánaheimildir hennar. Samkvæmt grein 16.1 sátu bankastjórar og framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs í nefndinni. Hún var æðsta vald í útlánamálum bankans og gat „vikið frá gildandi útlánareglum Landsbanka Íslands við lánaákvarðanir sínar.“ Þá kom fram í grein 16.3 að gild samþykkt lánanefndar og fundargerð hennar væri árituð af báðum bankastjórum, en í fjarveru annars þeirra og staðgengils bankastjóra undirrituðu bankastjóri og framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs umrædd skjöl. Í grein 16.4 var kveðið á um samþykktir milli funda. Sagði þar að til að flýta fyrir afgreiðslu mála á milli funda lánanefndar væri framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs heimilt að samþykkja lánsfjárhæðir allt að 400.000.000 króna. Væru málin talin óvanaleg eða áhættusöm skyldi þó ætíð hafa fyrst samráð við bankastjóra. Sömu undirskriftarreglur giltu varðandi útlánaákvarðanir sem samþykktar væru á milli funda. Samþykkt lánsbeiðni skyldi staðfest af formanni lánanefndar á næsta lánanefndarfundi en aðrir samþykktu utanfundarsamþykktirnar með því að undirrita fundargerð lánanefndar þar sem utanfundaákvarðanir voru tilgreindar. Loks sagði í 3. mgr. greinarinnar: „Að höfðu samráði við bankastjóra er heimilt að afgreiða stærri fjárhæðir en 400 m.kr. á milli funda enda séu þau staðfest á næsta fundi.“ 4 Eitt af því sem kemur til skoðunar við úrlausn sakargifta á hendur ákærðu eru aðstæður á fjármála- og hlutafjármörkuðum síðari hluta september og fyrstu dagana í október 2008 og hvernig þeir horfðu við stjórnendum Landsbanka Íslands hf. á þeim tíma. Eru ýmis atvik þeirrar atburðarrásar sem fyrr segir alkunn nú þegar liðið er á þrettánda ár frá því að þeir atburðir urðu sem leiddu til falls viðskiptabankanna þriggja og síðar annarra fjármálafyrirtækja. Eins og fram kemur í I. kafla ákæru áttu EFL viðskipti með hlutabréf í bankanum, bæði kaup og sölu, fyrir eigin reikning á ákærutímabilinu 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008 eða samtals 228 viðskiptadaga. Þau viðskipti sem ákært er fyrir áttu sér stað með sjálfvirkum pörunum í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands svo sem fjallað er um í hæstaréttarmáli nr. 35/2019. Til viðbótar áttu viðskipti sér stað með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. í utanþingsviðskiptum og til þeirra taka meðal annars b-liður II. og III. kafli ákærunnar. Sem fyrr greinir fór á árinu 2008 að gæta vaxandi alþjóðlegrar lánsfjárkreppu og óróa á fjármálamörkuðum sem magnaðist til muna við fall fjárfestingarbankans Lehman Brothers um miðjan september. Um aðstæður á mörkuðum á umræddum tíma má meðal annars líta til dóms Landsdóms 23. apríl 2012 í máli nr. 3/2011, sem hefur samkvæmt 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 51. gr. laga nr. 3/1963 um Landsdóm, fullt sönnunargildi um málsatvik sem í honum greinir. Þar er greint frá því að á vettvangi Seðlabanka Íslands hafi farið fram ýmiss konar vinna í tengslum við vaxandi erfiðleika íslensku bankanna við fjármögnun á markaði á árinu 2008. Í fundargerð starfshóps Seðlabanka Íslands um lausafjárvanda 23. janúar 2008 hafi verið fjallað um þessa erfiðleika og þar sérstaklega getið um Landsbanka Íslands hf. og meðal annars tekið fram að búið hefði verið að loka á lánalínur bankans. Hafi það verið mat bankastjórnar Seðlabanka Íslands í febrúar 2008 að íslensku bankarnir þrír væru í mikilli hættu og þar með íslenskt efnahagslíf og að á þessum tíma hefðu legið fyrir vísbendingar um að bankarnir ættu í verulegum erfiðleikum með að fjármagna starfsemi sína með lánum á alþjóðlegum mörkuðum. Í gögnum málsins er að finna minnisblað sem ákærði Sigurjón Þorvaldur sendi BTB í tölvupósti 17. september 2008. Í minnisblaðinu fjallar ákærði um mögulegan samruna Landsbanka Íslands hf. og annars banka er þá bar heitið Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. Í minnisblaðinu sagði meðal annars: „Kjarni málsins er að það er of mikið flot á bréfum hvors banka fyrir sig, þ.e. okkur vantar í endakaupendur af bréfum sem og fjármögnunaraðila á bréfin almennt ... Landsbankinn á erfitt með að kaupa meira af eigin bréfum án eiginfjáraukningar ... Sameining við Landsbanka býður hins vegar upp á að færa eiginfjárhlutfallið sameinaðs banka í c.a. 11% en við það losnar um ríflega 600 milljónir evra af eigin fé. Þetta er einmitt það eigið fé sem við höfum gert ráð fyrir að nota annars vegar í að þurrka upp eigin bréf og hins vegar til að leysa ákv. mál ... Jafnframt verður að hafa í huga að skv. reglum eru báðir bankarnir takmarkaðir af því að fjármagna eigin bréf við 10% af nafnverði hlutafjár. Það eru hins vegar minni takmarkanir á að fjármagna bréf hvors annars beint og óbeint ... Þetta hafa bankarnir verið að gera í töluverðum mæli. Þannig að það er umtalsvert magn af rými til fjármögnunar hlutabréfa sem fellur út við sameiningu þar sem lán út á Straumsbréf koma til með að flokkast sem lán út á eiginbréf eftir sameiningu og lán út á Landsbankabréf í Straumi verða lán út á eigin bréf í sameinuðum banka ... Þegar þetta er skoðað þá verður niðurstaðan sú að lán út á Straumsbréf/Samson Global í Landsbanka sem verði áfram til eftir sameininguna og lán í Straumi út á Landsbanka/Samson ehf. verða um 10% af hlutafé sameinaðs banka. Þetta er auðvitað vandamál þar sem til viðbótar eru auðvitað núverandi lán Landsbankans út á eigin bréf sem verða eftir sameininguna um 7-8% af heildarbréfum bankans þrátt fyrir að ég geri ráð fyrir að fella niður umtalsvert magn bréfa. Samtals er þetta um 17-18% sem auðvitað er nokkuð yfir 10% mörkunum. Þetta verður ekki leyst nema í samvinnu við KB og Glitni. En í því samhengi er rétt að muna að við erum núna að semja við Glitni um að taka 27 milljarða á Samson ehf. sem ekki er meðtalið í þessari umræðu.“ Alþjóðlegt umhverfi fjármögnunar viðskiptabanka, þar á meðal Landsbanka Íslands hf., var til umfjöllunar á fundi fjármálanefndar þess banka 24. september 2008, en fundinn sátu meðal annarra ákærðu Sigurjón Þorvaldur og Sigríður Elín. Í upphafi fundarins fór forstöðumaður greiningardeildar bankans yfir greiningar og rannsóknir. Samkvæmt fundargerð kom þar meðal annars fram að gert væri ráð fyrir „að krónan styrkist frá öfgagildi“, en áfram væri fyrirsjáanlegur mikill halli á utanríkisviðskiptum. Millibankamarkaðir væru enn í uppnámi og samkeppni um innlán orðin mikil á Íslandi sem sýndi skort á krónum. Þá var vikið að svonefndum Icesave-innlánsreikningum hjá útibúi bankans í London þar sem orðrétt var bókað: „Útflæði upp á ca 10 mGPB á dag. Áhættufælni og menn þurfa að nota í annað ásamt því að væntingar eru til þess að vextir lækki. Barclays fer nú fram á að útflæði verði prefundað. Farið yfir flæðið.“ Samkvæmt fundargerð sýndi sérfræðingur hjá greiningardeild „yfirlit um aðgerðir í stærsta bail-outi sögunnar í USA. Bandaríska ríkið og Seðlabankinn hafa gripið til umfangsmikilla björgunaraðgerða. Gengi fjármálafyrirtækja hefur tekið kipp við þetta.“ Þá greindi framkvæmdastjóri alþjóðasviðs frá því að alþjóðamarkaðir væru „í raun lokaðir“. Samkvæmt fundargerð skýrði forstöðumaður EFL meðal annars einnig svo frá: „Síðustu viku er staðan upp um rúma 2 ma.kr. sem skýrist af hækkun á íslenskum bréfum ... Jákvætt er að Marel hefur komið hressilega tilbaka síðustu daga ... Mikið magn af Landsbankabréfum hefur verið að fara inn á markaðinn ... Staða niður um 6,5 ma.kr. á ársfjórðungnum. Má gera ráð fyrir að verði skilað á núlli ef uppfærsla á Iceland eign gengur eftir.“ Í fyrrgreindum dómi Landsdóms kemur fram að 25. september 2008 hafi formaður stjórnar Glitnis banka hf. átt fund með einum af bankastjórum Seðlabanka Íslands þar sem hann hafi gert grein fyrir erfiðri lausafjárstöðu bankans og óskað eftir því að Seðlabankinn veitti bankanum lán í því skyni að bæta hana. Að loknum fundahöldum, sem á eftir fóru, var fulltrúum Glitnis banka hf. tilkynnt að kvöldi 28. sama mánaðar að bankanum stæði til boða hlutafjárframlag að fjárhæð 600.000.000 evra gegn 75% eignarhluta ríkisins í bankanum. Á þetta var fallist af hálfu fyrirsvarsmanna Glitnis banka hf. og að morgni mánudagsins 29. september 2008 var kynnt ráðagerð um að ríkið tæki yfir 75% eignarhluta í bankanum gegn framangreindu hlutafjárframlagi. Við þetta lækkaði gengi á hlutabréfum í bankanum verulega. Sama dag var fundað í bankaráði Landsbanka Íslands hf. og sátu ákærðu fundinn. Af fundargerðinni verður ráðið að eftir að grein hafði verið gerð fyrir yfirlýsingu forsætisráðuneytis og efni tilkynningar bankastjóra til starfsmanna hafi verið vikið að mati á áhrifum aðgerðarinnar. Þar segir meðal annars: „Mat á áhrifum aðgerðarinnar á Landsbankann stendur yfir, en þrátt fyrir jákvæðan tón í yfirlýsingu bankastjórnar var ljóst að mjög skiptar skoðanir voru almennt um málið. Lækkun á verðmæti veða í hlutabréfum í Glitni sem hefur neikvæð áhrif á Landsbankann. Rætt var um hvort Glitnir hefði átt rétt á lausafjárstuðningi fremur en eigin fé. Aðferðin við yfirtöku Glitnis var óvenjuleg og ætti sér væntanlega fá fordæmi. Fimm ára CDS álag á ríkið hefur rokið upp í kjölfar tilkynningarinnar. ... Þá var rætt um hugmyndir um hugsanlega sameiningu Landsbankans, Glitnis, Straums og að bæta sparisjóðnum Byr síðan við. HJK nefndi að reynt hafi verið að koma fram hugmyndum um sameiningu, t.d. Glitnis, Landsbanka og Straums, ásamt eiginfjár- og lausafjárstuðningi ríkis og Seðlabanka, sem hefði þýtt minni heildaráhættu fyrir kerfið heldur en sú leið sem farin var þýddi. Sú vinna var unnin um helgina og komið á framfæri á fundum með bankastjórum Seðlabankans og forsætisráðherra. Farsælla hefði verið að víðtækari leið hefði náðst fram og ná með því fram styrkingu kerfisins, aukinni hagræðingu og afstýra frekara tjóni. Kjartan sagði bankastjórn leita allra skynsamlegra leiða til að treysta og styrkja eiginfjárstöðu Landsbankans og treysta innlánagrunn hans innanlands og erlendis. CDS álög bankans eru nú langt, langt yfir öllum eðlilegum viðmiðunum. Sigurjón fór síðan yfir yfirlit um lausafjárstöðu. Þrátt fyrir ásættanlegt lausafé er mikillar varúðar þörf í núverandi umhverfi að mati Sigurjóns. Farið hefur verið reglulega yfir stöðu og horfur á fundum bankaráðs í ár. Skipulegur samruni a.m.k. Landsbankans og Glitnis, hefði að mati bankastjóra og bankaráðs verið heppilegri leið en þetta varð niðurstaðan. Moody‘s og Fitch hafa ekki skilað enn áliti sínu vegna beiðna okkar um mat þeirra á áhrifum hugsanlegs samruna Landsbankans og Straums á lánshæfismat Landsbankans.“ Í fyrrnefndum dómi Landsdóms kemur fram að þriðjudaginn 30. september 2008 hafi Seðlabanki Íslands tilkynnt að matsfyrirtækið Moody´s Investors Service hefði lækkað lánshæfiseinkunnir ríkisins og Glitnis banka hf. og jafnframt sett Kaupþing banka hf. og Landsbanka Íslands hf. á athugunarlista vegna hugsanlegrar lækkunar á einkunnum þeirra. Þá mun matsfyrirtækið Fitch Ratings hafa lækkað lánshæfiseinkunnir ríkisins og allra viðskiptabankanna þriggja þennan sama dag. Á fundi fjármálanefndar Landsbanka Íslands hf. miðvikudaginn 1. október 2008, sem ákærðu sátu, var forstöðumaður greiningardeildar bankans meðal annars viðstaddur og lagði fram yfirlit yfir breytingar á langtímaeinkunnum fjármálafyrirtækja í september. Bókað var í fundargerð: „væntingar aukast en það er væntanlega tímabundið.“ Þá var bókað eftir dómfellda SG í fundargerðinni: „Bara færeysk félög sem hækka undanfarið. Miklar lækkanir undanfarið en velta hefur aukist. Mikil velta með LAIS en lífeyrissjóðir hafa verið sölumegin. Mikill fjöldi viðskipta á tímabilinu. KAUP hefur lækkað umtalsvert minna en önnur fjármálafyrirtæki ... Heimsvístölur. Hrávörur hafa verið aðeins verið að koma til baka. Hráolía upp um 12% á árinu.“ Eftir forstöðumanni EFL var meðal annars fært til bókar um eigin fjárfestingar: „Síðasta vika erfið á mörkuðum ef ekki tekið tillit til LAIS. Ársfjórðungur niður í heild um 8,3 ma.kr. Síðan er óljóst með FL stöðu upp á 2,1 ma.kr. sem er væntanlega á núll. Ef tekið með þá 10,4 ma. kr. Mikil lækkun á Intrum en íslenskar eignir hafa margar verið seldar meira niður en aðrar undanfarið. Greiningaraðilar hafa komið með góðar greiningar undanfarið.“ Þá var jafnframt bókað eftir forstöðumanni fjárstýringar bankans að „veltubók í skuldabréfum tók góðan kipp, hagnaður 7,5 ma.kr. ... ICESAVE UK hefur haldið ótrúlega vel. Í Hollandi virðist ljóst að viðskiptavinir koma inn upplýstir um stöðuna.“ Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja stjórn bankans frá og setja yfir hann skilanefnd. Við það urðu hlutabréf í bankanum einskis virði svo sem áður greinir. Með bréfi til nefndarinnar daginn eftir tilkynnti ákærði Sigurjón Þorvaldur að hann segði upp starfi sínu hjá bankanum og óskaði eftir að verða leystur frá störfum þá þegar. 5 Við úrlausn málsins er svo sem fyrr segir nauðsynlegt að gera grein fyrir ætluðu verðmæti Byrs sparisjóðs eins og það horfði við ákærðu á þeim tíma sem ákæran fjallar um en stofnfjárbréf sjóðsins í eigu Imon ehf. voru sett að allsherjarveði vegna þeirra viðskipta sem um er fjallað í II. kafla ákærunnar og að sínu leyti III. kafla hennar. Hefur ákærði Sigurjón Þorvaldur lagt fram ný gögn er varða gang og stöðu viðræðna um sameiningu Glitnis banka hf. og Byrs sparisjóðs síðari hluta septembermánaðar 2008, sbr. tilvísun til þeirra í 1. lið VII. kafla. Hafa þau þýðingu við mat á því hvort ákærðu máttu með réttu vænta þess að um hefði verið að ræða viðbótarveðrými í stofnfjárbréfum þeim í sparisjóðnum sem Landsbanki Íslands hf. hafði allsherjarveð í þegar til viðskiptanna kom í lok septembermánaðar 2008, svo sem gengið var út frá í fyrrnefndu ákvarðanatökublaði ÁM forstöðumanns á fyrirtækjasviði. Verður í eftirfarandi umfjöllun vikið að þessum gögnum eftir því sem efni standa til. Stjórn Glitnis banka hf. bauð stjórn Byrs sparisjóðs 19. september 2008 til viðræðna um hugsanlegan samruna félaganna. Lagði stjórn Glitnis banka hf. til að bankinn yrði yfirtökufélag við hugsanlegan samruna þar sem greitt yrði með hlutafé í Glitni banka hf. miðað við verðmat á Byr sparisjóði sem samsvaraði 65.000.000.000 króna og að greitt yrði með hlutabréfum í bankanum á genginu 14,5. Á stjórnarfundi Byrs sparisjóðs 20. september 2018 samþykkti stjórnin að ganga til viðræðna við Glitni banka hf. um hugsanlegan samruna félaganna en hafnaði verðmatshugmyndum bankans. Samkomulag um samrunaviðræður var gert milli Glitnis banka hf. og Byrs sparisjóðs 21. september 2008. Í 3. grein þess kom fram að samningsaðilar stefni “að því að ljúka viðræðum innan tveggja vikna frá undirritun samkomulags þessa með samþykkt samrunaáætlunar í stjórnum beggja félaga.“ Þá var tekið fram í 5. grein að gert væri ráð fyrir að framkvæma áreiðanleikakönnun „fjárhagslega og lagalega“ á félögunum.  Hinn 22. september 2008 var tilkynnt bæði í fjölmiðlum og innan Glitnis banka hf. að bankinn og Byr sparisjóður hefðu hafið viðræður um sameiningu. Í gögnum málsins er að finna glærukynningu dagsetta sama dag fyrir starfsmenn Glitnis banka hf. um samrunaviðræðurnar. Þar kom fram að Glitnir banki hf. teldi Byr sparisjóð traustan viðskiptabanka sem væri með litla áhættu tengda verðbreytingum hlutabréfa þar sem Byr hefði ólíkt mörgum öðrum íslenskum sparisjóðum óverulega áhættu af þróun hlutabréfamarkaða. Þá var tekið fram að bókfært eigið fé Byrs sparisjóðs í lok fyrri árshelmings 2008 hefði verið 45.000.000.000 króna og að eiginfjárhlutfall hans væri 23,5%. Var vísað til þess að samruninn myndi styrkja eiginfjárhlutfall Glitnis banka hf. verulega. Í tölvupóstsamskiptum að kvöldi 22. september 2008 milli starfsmanna Glitnis banka hf., þar á meðal bankastjóra, kom fram: „Við þurfum að klára í eigendahópnum verðið. RZ var alveg klár á því að verðið væri 70,2 og gengið væri 14,5 í Glitni.“ Hinn 23. september sendi Deloitte fjármálaráðgjöf ósk til Glitnis banka hf. um nánar tilgreindar upplýsingar og gögn vegna áreiðanleikakönnunar á Byr sparisjóði í tengslum við fyrirhugaðan samruna. Meðal gagna málsins er skjal með yfirskriftinni „Viðræðurammi Glitnis banka hf. og Byrs sparisjóðs hf.“, dagsett 24. september. Gert var ráð fyrir að skjalið yrði undirritað af hálfu beggja en á því eintaki sem lagt hefur verið fram hefur það aðeins verið undirritað af hálfu sparisjóðsins. Samkvæmt 1. grein skilmálanna var gert ráð fyrir að Glitnir banki hf. og Byr sparisjóður myndu sameinast í eitt félag, miðað við 1. júlí 2008, og skyldi sparisjóðnum slitið án skuldaskila og eignir hans og skuldir ganga inn í bankann. Í 3. grein þar sem fjallað var um endurgjald sagði: „Við samrunann fá hluthafar í Byr, hluti í Glitni sem endurgjald fyrir hluti sína. Skiptahlutfallið verður reiknað á grundvelli eftirfarandi forsendna: a) Að endurmetið eigið fé Byrs að mati Glitnis miðað við 31. ágúst 2008, þar með talið þegar tekið hefur verið tillit til óskráðra eigna félagsins, sé að lágmarki 49 milljarðar króna. b) Kaupverðið jafngildir því að greitt er að lágmarki 1,4326 krónur fyrir hverja krónu endurmetins eigin fjár Byrs, og er kaupverðið greitt með hlutabréfum í Glitni. c) Að gengi hlutabréfa í Glitni í samrunanum verði að minnsta kosti 14,5 krónur fyrir hvern hlut í bankanum og kaupverð alls hlutafjár Byrs verði minnsta kosti 70,2 milljarðar króna.“ Í 4. grein voru greind ýmis skilyrði fyrir samrunanum, svo sem samþykki lánveitenda beggja aðila og Fjármálaeftirlitsins, auk þess sem fyrir lægi „ásættanleg niðurstaða áreiðanleikakönnunar á fjárhag og rekstri Byrs og Glitnis að mati beggja fyrirtækja.“ Var skjalið sent bankaráði Glitnis banka hf. 24. september og samkvæmt tölvupóstsamskiptum starfsmanna bankans daginn áður átti að leita eftir samþykki stjórnar til að ganga til viðræðna á þeim grundvelli sem tilgreindur var í viðræðuskjalinu. Samkvæmt kynningu fyrir bankaráði Glitnis sama dag kom fram að eigið fé Byrs sparisjóðs væri metið á 49.000.000.000 króna miðað við hálfsársuppgjör þeirra árið 2008. Þá var talið að viðskiptavild vegna samrunans yrði 21.000.000.000 króna og því talið að 70.000.000.000 króna væri ásættanlegt verðmat fyrir Byr sparisjóð. Einnig kom fram að síðasta gengi Byrs sparisjóðs í viðskiptum 22. ágúst 2008 hefði numið 1,6 og að Capacent hefði verðmetið sparisjóðinn 31. mars 2008 á 57.500.000.000 króna. Samkvæmt fundargerð bankaráðs Glitnis banka hf. 24. september 2008 var ákveðið að halda áfram samrunaviðræðum miðað við þær forsendur sem fram komu í viðræðurammanum með þeim fyrirvara að ekki væri hægt að vísa til eða miða við eldri áreiðanleikakönnun á Byr sparisjóði. Samkvæmt gögnum málsins var vinnu við samrunann haldið áfram til laugardagsins 27. september 2008 en ekkert varð úr frekari viðræðum vegna áformaðra kaupa íslenska ríkisins á 75% hlut í Glitni banka hf. sem ráðin voru degi síðar eða sunnudaginn 28. september og tilkynnt að morgni mánudagsins 29. sama mánaðar. Þá liggja fyrir í málinu upplýsingar af heimasíðu Byrs sparisjóðs um viðskipti með stofnfjárbréf í sparisjóðnum á svonefndum stofnfjármarkaði Byrs. Samkvæmt þeim áttu síðustu viðskipti með stofnfjárbréf sér stað 22. ágúst 2008 þegar bréf að nafnvirði 30.000 voru seld á genginu 1,6. Samkvæmt því nam heildarsöluverðið í þessum viðskiptum 48.000 krónum. Í dómi Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 442/2011 greinir frá því að í bréfi Fjármálaeftirlitsins 7. september 2009 til embættis sérstaks saksóknara hafi meðal annars komið fram að umræddur stofnfjármarkaður, sem MP banki hf. hafi haft umsjón með, hafi ekki verið skipulegur verðbréfamarkaður eða markaðstorg fjármálagerninga í skilningi laga heldur í raun venjuleg verðbréfamiðlun með óskráð verðbréf þótt birt hafi verið á vefsíðu MP banka hf. hagstæðasta kaup- og sölutilboð sem í gildi hafi verið hverju sinni. Síðustu viðskipti fyrir lokun stofnfjármarkaðarins hafi verið á genginu 1,6, en tekið var fram í bréfi Fjármálaeftirlitsins að markaðinum hefði verið lokað í ágúst 2008 vegna fyrirhugaðrar breytingar Byrs sparisjóðs í hlutafélag og mögulegrar sameiningar hans við annað fjármálafyrirtæki. 6 Þessu næst eru efni til þess að gera grein fyrir einkahlutafélaginu Imon sem var mótaðili Landsbanka Íslands hf. í þeim viðskiptum sem um ræðir í II. og III. kafla ákærunnar, auk viðskiptasögu aðilanna. Verður hér í framhaldinu gerð grein fyrir þeirri sögu, þar á meðal þeim viðskiptum sem ákært er vegna. 6.1 Imon ehf. var stofnað 8. febrúar 2006 og samkvæmt vottorði úr fyrirtækjaskrá 24. júní 2009 skipaði MÁ einn stjórn félagsins og var eigandi þess. Tilgangur félagsins var fjárfestingar og tengdur rekstur og var hlutafé þess 500.000 krónur. Meðal gagna málsins eru upplýsingar úr endurskoðuðum ársreikningi félagsins 2007. Samkvæmt honum námu bókfærðar eignir þess í árslok 2007 alls 3.818.250.000 krónum, þar af voru „áhættufjármunir og langtímakröfur“ 3.803.351.000 krónur. Skuldir félagsins voru alls 4.132.643.000 krónur og var eigið fé þess því neikvætt sem nam 314.393.000 krónum. Á árinu 2007 varð tap á rekstri félagsins að fjárhæð 319.751.000 krónur. 6.2 Hinn 27. mars 2007 var gerður samningur milli Imon ehf. og Landsbanka Íslands hf. um lán til félagsins að fjárhæð 638.000.000 króna. Lánstíminn var tvö ár og skyldi greiða lánið að fullu með einni afborgun í lok lánstímans 23. mars 2009. Á lánstímanum bar þó að greiða vexti af láninu á sex mánaða fresti, í fyrsta skipti 23. september 2007. Samkvæmt lánssamningnum setti Imon ehf. bankanum að veði stofnfjárhluti sína í Byr sparisjóði að nafnvirði 10.633.431 krónu með handveðsyfirlýsingu sama dag. Í ákvörðunartökublaði bankans 15. mars 2007 vegna lánveitingarinnar kom meðal annars fram að Imon ehf. hafi óskað eftir láni til að fjármagna kaup á 4,2874% hlut í Byr sparisjóði, en fyrir ætti félagið tæpan 4% hlut í sparisjóðnum sem væri óveðsettur. Að veði fyrir láninu yrði því 8,095% hlutur í sparisjóðnum en samkvæmt stofnfjármarkaði hefði hagstæðasta kauptilboð í stofnfjárbréf hans verið 75 krónur og miðað við það væri verðmæti veðsins „um 1,3 milljarður“. Í veðsamningnum 27. mars 2007 sagði meðal annars: „Ofangreindir stofnfjárhlutir eru settir að handveði til tryggingar á skaðlausri greiðslu á skuldum þeim, sem veðsali nú eða síðar, á hvaða tíma sem er, stendur í við veðhafa ... Arður vegna stofnfjárhlutanna er innifalinn í veðsetningunni. Komi til útgreiðslu arðs vegna stofnfjárhlutanna er veðhafa heimilt að krefjast greiðslu hans beint og milliliðalaust frá útgefanda ... Samkvæmt samningnum voru hin veðsettu stofnfjárbréf í vörslum Byrs sparisjóðs og var samningurinn áritaður, því til staðfestingar, af hálfu sparisjóðsins.“ Hinn 7. ágúst 2007 tók Imon ehf. nýtt lán hjá Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 1.140.000.000 króna. Lánstíminn var þrjú ár og skyldi greiða lánið að fullu með einni greiðslu í lok lánstímans, 30. júlí 2010. Á lánstímanum bar þó að greiða vexti af láninu á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 30. janúar 2008. Tekið var fram í samningnum að til tryggingar láninu hefði félagið sett bankanum að handveði hluti í Byr sparisjóði að nafnvirði 12.593.331 krónu. Í tölvupósti 7. ágúst 2007 frá lögfræðingi í útlánaþjónustu Landsbanka Íslands hf. til starfsmanns bankans kom fram að „að beiðni V og með samþykki frá ÁM. er heimilt að greiða út lán til Imon ehf. að fjárhæð 1.140.000.000,- með núverandi tryggingum og án þess að ný handveðsyfirlýsing sé undirrituð og samþykkt frá stjórn BYR.“ Meðal gagna málsins frá sama tíma eru drög að nýjum samningi um allsherjarveð í stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði í eigu Imon ehf. Fyrirliggjandi eintak er ódagsett og óundirritað að öðru leyti en því að það hefur verið áritað af hálfu Byrs sparisjóðs sem vörsluaðila stofnfjárhlutanna. Voru skilmálar þeir sömu og í samningnum frá 27. mars 2007. Í ákvörðunartökublaði bankans 1. ágúst 2007 vegna lánveitingarinnar kom fram að Imon ehf. hefði beðið um nýtt lán að fjárhæð 1.140.000.000 króna. Af upphæðinni væru 550.000.000 króna „nýtt lán“ en afgangurinn, 590.000.000 króna, yrði notaður til að greiða upp yfirdrátt félagsins á einum af reikningum þess hjá bankanum. Félagið ætti 9,587% af stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði eða 12.593.331 hlut sem væri að verðmæti 4.170.974.193,86 krónur, miðað við kauptilboð í stofnfjárbréfin á genginu 175 krónur og að teknu tilliti til uppreiknistuðuls 1,8926. Í skjalinu kom einnig fram að Imon ehf. væri „í eigu MÁ sem er gríðarlega sterkur fjárfestir og hefur átt í góðum viðskiptum við Landsbankann.“ Þá kom fram að veðhlutfall fyrir lánaveitinguna hafi verið 30% en yrði eftir hana 43,5%. Ný lántaka af hálfu Imon ehf. fór fram 24. september 2007 en þá tók félagið lán hjá Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 285.446.453 krónur. Lánstíminn skyldi vera tvö ár og bæri að greiða það að fullu í einu lagi í lok lánstímans 30. júlí 2009. Á lánstímanum bar þó að greiða vexti af láninu á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 30. janúar 2008. Í lánssamningum kom fram að til tryggingar láninu yrðu „núverandi allsherjarveð tryggð með veði í ýmsum eignum lántaka.“ Í ákvörðunartökublaði bankans 18. september 2007 vegna lánveitingarinnar kom fram að Imon ehf. hefði beðið um nýtt lán að fjárhæð 300.000.000 króna vegna stofnfjáraukningar í Byr sparisjóði. Kom fram að nýlega hefði farið fram stofnfjáraukning í sjóðnum og eftir hana ætti Imon ehf. stofnfjárbréf í sparisjóðnum að markaðsverðmæti „um 5,5 ma. kr.“. Þá kom fram að Imon ehf. væri stærsti eigandinn í Byr sparisjóði. Hinn 21. nóvember 2007 var gerður nýr veðsamningur um allsherjarveð í stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði í eigu Imon ehf. og setti félagið bankanum að veði stofnfjárhluti í Byr sparisjóði að nafnvirði 163.479.473 króna. Veðið skyldi vera í vörslum sparisjóðsins og var samningurinn áritaður af hálfu hans. Ákvæði samningsins voru að mestu leyti þau sömu og eldri veðsamninga sem grein var gerð fyrir hér að framan. Hins vegar hafði svofellt ákvæði verið tekið upp í hinn nýja samning: „Ef eftirstöðvar þeirra skulda sem handveðið á að tryggja nema hærra hlutfalli en 70% af markaðsverði hinna veðsettu stofnfjárbréfa skal veðsala gefinn þriggja bankadaga frestur til að bæta við nægilegum tryggingum þannig að framangreindu hlutfalli milli trygginga og skulda sé náð að mati veðhafa. Verði veðsali ekki við beiðni veðhafa um að leggja fram viðbótartryggingar í samræmi við framangreint jafngildir það vanskilum á þeim skuldum sem handveðið á að tryggja.“ Landsbanki Íslands hf. og Imon ehf. gerðu með sér samning um svokallaða lánalínu (viðskiptasamning) 19. desember 2007 þar sem bankinn samþykkti að veita félaginu „rekstrarfjármögnun í formi reikningslánalínu að fjárhæð 2.022.500.000“ krónur og var því samkvæmt samningnum heimilt að taka lán hjá bankanum innan þeirra marka. Hámarkslánstími hvers lánshluta skyldi takmarkast af gildistíma samningsins, sem var til 11. desember 2008. Til tryggingar greiðslu allra lánshluta samkvæmt samningnum hafi félagið sett bankanum að handveði „hlutabréf“ í Byr sparisjóði að nafnvirði 158.544.000 krónur. Á ákvörðunartökublaði bankans, 17. desember 2007, sem virðist hafa verið tekið saman vegna umrædds viðskiptasamnings, þótt fjárhæðin þar greind væri aðeins lægri en raunin varð, kom fram að Imon ehf. óski eftir láni að fjárhæð 1.991.500.000 krónur vegna stofnfjáraukningar í Byr sparisjóði. Þá sagði: „Imon ehf. er í eigu MÁ sem hefur farið frekar illa út úr hræringum undanfarið á fjármagnsmarkaði. Imon ehf. er félag sem hann á einn og er það stærsti hluthafinn í Byr sparisjóði. Núverandi skuldir nema um 2,2ma. kr. og eftir nýja lánveitingu alls um 4,1ma. kr. Markaðsverðmæti hlutarins í Byr er hins vegar langt umfram það, markaðsverðmæti Byrs hefur verið um 48ma.kr. á markaði með stofnfé að undanförnu og 8,4% hlutur Imons því amk 4ma. kr. - aukningin nemur nú um 23,7ma. kr. og fer markaðsverðmætið verulega upp með því. Gera má ráð fyrir að góð arðgreiðsla komi inn á lánið á vormánuðum og greiði það niður um 50-60%.“ Sama dag var enn gerður nýr samningur um allsherjarveð í stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði í eigu Imon ehf. þar sem félagið setti Landsbanka Íslands hf. að veði stofnfjárhluti í Byr sparisjóði að nafnvirði 1.023.401.431 krónu. Veðið skyldi sem fyrr vera í vörslum sparisjóðsins og var samningurinn áritaður af hálfu hans. Ákvæði samningsins voru að mestu leyti þau sömu og áðurgreindra veðsamninga frá 27. mars og 21. nóvember 2007 og samningsdraga frá ágúst 2007. Þó hafði verið fellt brott ákvæðið í samningnum frá 21. nóvember 2007 um rétt veðhafa til að krefjast viðbótartrygginga næmu eftirstöðvar skuldanna, sem veðinu væri ætlað að tryggja, hærra hlutfalli en 70% af markaðsverði hinna veðsettu stofnfjárhluta. Í staðinn var tekið upp í hinn nýja samning svohljóðandi ákvæði: „Falli markaðsverð hinna veðsettu hlutabréfa þannig að eftirstöðvar lána veðsala við bankann fari upp fyrir hámarks lánshlutfall bankans miðað við markaðsverð og veðhæfi í samræmi við útlánareglur bankans á hverjum tíma skal veðsali greiða niður lánin og/eða bæta við nýjum tryggingum jafnóðum svo jafnvægi náist á milli útlána og veðs að mati bankans. Verði veðsali ekki við beiðni bankans í samræmi við ofangreint jafngildir það vanskilum.“ Nýr samningur um lántöku var gerður 25. júní 2008 sambærilegum þeim sem gerður hafði verið 19. desember 2007 þar sem bankinn samþykkti að veita Imon ehf. „rekstrarfjármögnun í formi lánalínu að fjárhæð kr. 161.000.000.“ Hámarkslánstími hvers lánshluta skyldi takmarkast af gildistíma samningsins sem var til 23. mars 2009. Til tryggingar lánum sem veitt kynnu að verða samkvæmt samningnum „verða núverandi allsherjarveð tryggð með veði í ýmsum eignum lántaka.“ Í ákvörðunartökublaði bankans 18. júní 2008 vegna samningsins var meðal annars tekið fram að óskað væri eftir láni til að greiða „gjaldfallna vaxtagjalddaga á lánum félagsins“ samtals að fjárhæð 160.730.320 krónur. Síðan sagði: „Imon ehf. er í eigu MÁ sem hefur farið frekar illa út úr hræringum undanfarið á fjármagnsmarkaði. Imon ehf. er félag sem hann á einn og er það stærsti hluthafinn í Byr sparisjóði. Núverandi skuldir nema um 3,6 mö.kr. Kom arðgreiðsla frá Byr þann 11/4 og fór arðurinn til niðurgreiðslu á skuldbindingum Imons, lánið sem var veitt vegna aukningarinnar var greitt vel niður eða um 935 m.kr. Staða félagsins í þús.kr.: Innlend lán 3.584.458 Tryggingar 3.571.016 (miðað við síðasta viðskiptagengi sem var 1,4) Veðhlutfall: 100% ... Lagt er til að beiðnin verði samþykkt. Lánalína til 9 mán, dregið er á línuna til að stemma við gjaldfallna vaxtagjalddaga. Um 108 m.kr. dregnar miðað við 30/1/2008 og 52,5 m.kr. dregnar miðað við 25/3/2008.“ Hinn 30. september 2008 var undirritaður af hálfu Landsbanka Íslands hf. og Imon ehf. viðauki við áðurnefndan viðskiptasamning frá 25. júní sama ár þar sem lánsheimild samkvæmt samningnum var hækkuð þannig „að bankinn skal hafa til reiðu fyrir lántaka Kr. 332.122.000“. Í ákvörðunartökublaði bankans 23. september 2008 vegna þessar hækkunar á lánalínu Imon ehf. kom fram að óskað væri eftir láni til að greiða upp „gjaldfallna vaxtagjalddaga á lánum félagsins“, samtals að fjárhæð 170.121.981 krónu. Þar sagði jafnframt: „Imon ehf. er í eigu MÁ sem hefur farið illa út úr hræringum undanfarið á fjármálamörkuðum. Imon ehf. er félag sem hann á einn og er það stærsti hluthafinn í Byr sparisjóði. Núverandi skuldir nema um 3,75 mö. kr. Kom arðgreiðsla frá Byr þann 11/4 og fór arðurinn til niðurgreiðslu á skuldbindingum Imons, lánið sem var veitt vegna aukningarinnar var greitt vel niður eða um 935 m.kr. Staða félagsins í þús.kr.: Innlend lán 3.752.281,- Tryggingar 4.211.035,- (miðað við síðasta viðskiptagengi sem var 1,6) Veðhlutfall: 89% ... Lagt er til að beiðnin verði samþykkt. Hækkun á lánalínu ... dregið yrði á línuna þann 30/7/2008 og 23/9/2008 til að stemma við gjaldfallna vaxtagjalddaga.“ 6.3 Eins og greinir ítarlegar í hinum áfrýjaða dómi var lánssamningur sá sem ákært er vegna í a-lið II. kafla ákæru milli Imon ehf. og Landsbanka Íslands hf. dagsettur 30. september 2008 og undirritaður af ÁM, forstöðumanni á fyrirtækjasviði, og ákærðu Sigríði Elínu fyrir hönd bankans og MÁ fyrir hönd félagsins. Í upphafsorðum samningsins kom fram að um væri að ræða „langtímalán til 19 mánaða að fjárhæð kr. 5.163.000.000“. Samkvæmt grein 2.1. bar félaginu að endurgreiða lánið í einu lagi í lok lánstímans, 10. maí 2010. Vexti bar þó að greiða 10. maí 2009 og á fyrrnefndum „lokagjalddaga“. Í grein 8.1 var kveðið á um heimild bankans til að fella lán samkvæmt samningnum í gjalddaga „einhliða og fyrirvaralaust og án aðvörunar eða sérstakrar uppsagnar“ við nánar greind skilyrði sem talin voru upp í níu stafliðum. Síðasttalda skilyrðið var svohljóðandi: „Ef eftirstöðvar þeirra skulda sem handveðið skv. gr. 10.2. á að tryggja nema hærra hlutfalli en 98% af markaðsverði hinna veðsettu hlutabréfa skal veðsala gefinn þriggja bankadaga frestur, frá dagsetningu tilkynningar veðhafa til veðsala, til að bæta við nægilegum tryggingum þannig að framangreindu hlutfalli milli trygginga og skulda sé náð að mati veðhafa. Verði veðsali ekki við beiðni veðhafa um að leggja fram viðbótartryggingar í samræmi við framangreint skal veðhafa heimilt að líta svo á að brotið hafi verið gegn ákvæðum yfirlýsingarinnar.“ Fjallað er um tryggingar í 10. grein samningsins og voru þær tvíþættar. Í fyrsta lagi voru þær samkvæmt grein 10.1 „núverandi allsherjarveð, tryggð með veði í ýmsum eignum lántaka.“ Í öðru lagi samkvæmt grein 10.2: „Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra lánshluta skv. samningi þessum hefur lántaki sett bankanum að handveði hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. að nv. kr. 250.000.000,- með útgáfu handveðsyfirlýsingar.“ Hinn 30. september 2008 setti Imon ehf. að handveði hin keyptu bréf í Landsbanka Íslands hf. í samræmi við fyrrnefnda grein 10.2 lánssamningsins. Í handveðsyfirlýsingunni sagði meðal annars: „Fjármálagerningarnir eru hér með settir að handveði til tryggingar skaðlausri greiðslu á skuldum þeim, sem veðsali nú eða síðar, á hvaða tíma sem er, stendur í við veðhafa ... Ef eftirstöðvar þeirra skulda sem handveðið á að tryggja nema hærra hlutfalli en 56% af markaðsverði hinna veðsettu fjármálagerninga skal veðsala gefinn þriggja bankadaga frestur til að bæta við nægilegum tryggingum þannig að framangreindu hlutfalli milli trygginga og skulda sé náð að mati veðhafa. Verði veðsali ekki við beiðni veðhafa um að leggja fram viðbótartryggingar í samræmi við framangreint jafngildir það vanskilum á þeim skuldum sem handveðið á að tryggja og er veðhafa þá heimilt að ganga að hinu handveðsetta í samræmi við handveðsyfirlýsingu þessa ....“ Í samræmi við lánssamninginn frá 30. september 2008 óskaði Imon ehf. eftir því 2. október sama ár að lánið yrði greitt út þann dag og lagt inn á nánar greindan bankareikning félagsins hjá Landsbanka Íslands hf. Degi síðar, 3. október, var lánsfjárhæðin, að frádregnu 0,25% lántökugjaldi og kostnaði við skjalagerð, 5.150.079.700 krónur, greidd félaginu. Meðal skjala málsins eru tvö eintök af ákvörðunartökublaði sem útbúið var af Landsbanka Íslands hf. 30. september 2008 vegna umræddrar lánveitingar til Imon ehf. Reyndar er aðeins á öðru eintakinu að finna forsíðu skjalsins en forsíðu og baksíðu á hinu. Á baksíðunni kemur fram að ÁM, forstöðumaður á fyrirtækjasviði, hefði haft umsjón með lánveitingunni af hálfu bankans. Þar var greint frá fimm nýjustu beiðnum Imon ehf. um lánafyrirgreiðslu hjá bankanum. Einnig var lýst viðskiptum félagsins við bankann síðustu tvö ár þar sem vanskil þess voru sögð 175.000.000 króna 29. september 2008. Þá var vísað til ársreiknings félagsins 2006 þar sem meðal annars kom fram að tap á rekstri þess hefði numið 5.000.000 króna og eigið fé þess væri sömu fjárhæðar. Á forsíðu þessa eintaks af ákvörðunartökublaðinu, sem var augljóslega eldra en hitt, var greind fyrirhuguð lánsfjárhæð, 5.163.000.000 krónur, lánstíminn 1,67 ár og aðrir skilmálar lánsins. Dagsetningin „3/10 08“ var handrituð í viðeigandi reit og þar fyrir neðan, þar sem gert var ráð fyrir samþykkt lánveitingarinnar, höfðu ákærða Sigríður Elín og ÁM ritað upphafsstafi sína. Meginmál skjalsins var svohljóðandi: „Óskað er eftir láni til kaupa á bréfum í Landsbankanum nom. 400.000.000 Kaupverð 5.150m.kr. Viðskiptamaður: Imon ehf. er í eigu MÁ sem hefur farið illa út úr hræringum undanfarið á fjármálamörkuðum. Imon ehf. er félag sem hann á einn og er það stærsti hluthafinn í Byr sparisjóði og það stendur ágætlega. Núverandi skuldir nema um 3,75 mö.kr. Staða félagsins í þús.kr.: Innlend lán 3.759.400,- Tryggingar 4.211.035,- (miðað við síðasta viðskiptagengi sem var 1,6) Tryggingar 5.269.063,- (miðað við fyrirhugað gengi í samruna við Glitni sem hætt var við) Eftir kaupin Innlend lán 12.359.400.000,- Tryggingar Landsbankinn 5.150.000.000,- Byr 4.211 - 5.269.000.000,- Alls 3.365 - 10.419.063.074,- Veðhlutfall 86-95% ... Lagt er til að beiðnin verði samþykkt. Lán til 20 mánaða Vaxtagreiðsla í maí og síðan ári síðar Reibor + 3%.“ Forsíða hins eintaksins var eins að öðru leyti en því að upphæð hlutabréfanna, sem ætlunin var að kaupa, hafði verið breytt úr 400.000.000 króna í 250.000.000 króna að nafnvirði með því að strika yfir 400 og rita 250 í staðinn. Einnig hafði fjárhæð innlendra lána Imon ehf. eftir hina fyrirhuguðu lántöku félagsins verið leiðrétt með því að strikað hafði verið yfir hana og  í staðinn skrifað 8.992.000.000 króna. Loks hafði ákærði Sigurjón Þorvaldur sett upphafsstafi sína neðst á skjalið. Síðasti formlegi fundur lánanefndar Landsbanka Íslands hf., áður en Fjármálaeftirlitið tók yfir rekstur bankans, var haldinn 24. september 2008 þannig að lánveitingin var afgreidd milli funda eins og sést í „fundargerð Lánanefndar“ 8. október 2008 en þá hafði Fjármálaeftirlitið tekið yfir stjórn bankans svo sem áður greinir. Síðdegis þriðjudaginn 30. september 2008 keypti verðbréfamiðlun Landsbanka Íslands hf. hlutabréf í bankanum að nafnvirði 250.000.000 króna á genginu 20,5382 af EFL. Samkvæmt því var kaupverðið í viðskiptunum 5.134.550.000 krónur. Uppgjörsdagur var 3. október 2008. Skömmu síðar þennan sama dag seldi verðbréfamiðlunin hlutabréfin til Imon ehf. á genginu 20,60 og nam kaupverðið í þessum síðari viðskiptum því 5.150.000.000 króna. Kom fram að bréfin færu inn á „Geymslusafn“. Dómfelldi SG var skráður miðlari í báðum viðskiptunum og voru þau síðarnefndu tilkynnt Kauphöll Íslands að morgni miðvikudagsins 1. október 2008. Miðað við skráningu 3. október 2008 varð Imon ehf. með framangreindum kaupum níundi stærsti hluthafi í Landsbanka Íslands hf. með 2,2336% hlut. Landsbanki Íslands hf., sem þá var í greiðslustöðvun og laut stjórn skilanefndar samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, tilkynnti Imon ehf. 26. mars 2009 að hann hefði gengið að handveðsettum stofnfjárhlutum félagsins í Byr sparisjóði á grundvelli heimildar í fyrirliggjandi veðsamningum vegna vanskila á þeim skuldum sem veðið hefði átt að tryggja. Bankinn hafi ákveðið að leysa veðið beint til sín og „að rétt verð fyrir stofnfjárhlutina er 1 kr. fyrir hverja nafnverðskrónu.“ Í innheimtubréfi, sem sent var Imon ehf. sama dag, kom fram að heildarskuld vegna lánsins 30. september 2008 næmi 5.919.578.138 krónum að meðtöldum vöxtum og innheimtuþóknun. Var skorað á félagið að greiða kröfuna innan 14 daga eða semja um hana, en að öðrum kosti yrði hún „innheimt með aðför eða atbeina dómstóla“. Áður, eða 19. mars 2009, hafði lögmaður Imon ehf. tilkynnt bankanum að honum hefði verið falið að kanna réttarstöðu félagsins gagnvart bankanum vegna sölu á eigin bréfum í lok september og byrjun október 2008. Var vísað til þess að viðskiptin hefðu átt sér stað nokkrum dögum áður en stjórn bankans hafði óskað eftir við Fjármálaeftirlitið að bankinn yrði yfirtekinn. Hinn 10. júní 2009 höfðaði Landsbanki Íslands hf. mál á hendur Imon ehf. til heimtu lánsins ásamt vöxtum og kostnaði en málið mun hafa verið fellt niður. Á árinu 2011 krafðist bankinn þess að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta en þeirri kröfu var hafnað af dómstólum. Fyrir liggur bréf Landsbankans hf. til embættis sérstaks saksóknara 4. nóvember 2011. Bréfinu fylgdi yfirlit yfir skuldastöðu Imon ehf. við Landsbanka Íslands hf. og kom þar fram að heildarskuld félagsins næmi 12.446.035.460 krónum miðað við þennan dag. Samkvæmt ársreikningi Gruppen ehf. (áður Imon ehf.) fyrir árið 2013, sem lagður var fram af hálfu ákærðu Sigríðar Elínar við meðferð málsins fyrir Hæstarétti, voru skuldir félagsins í árslok 2013 rúmar átta milljónir og eigið fé tæpar 69 milljónir króna. Hins vegar segir í bréfi LBI hf., áður Landsbanka Íslands hf., til embættis sérstaks saksóknara 5. maí 2014 að félagið væri eigandi kröfu á hendur Imon ehf. á grundvelli lánssamningsins 30. september 2008 og hefði staða hennar 28. apríl 2014 numið 10.989.002.822 krónum, að meðtöldum vöxtum, og hefði krafan ekki verið afskrifuð. Yngri upplýsingar sýnast ekki liggja fyrir í gögnum málsins. 6.4 Eins og greinir ítarlega í hinum áfrýjaða dómi voru þau viðskipti sem ákært var fyrir í III. kafla ákæru framkvæmd með þeim hætti að verðbréfamiðlun Landsbanka Íslands hf. keypti síðdegis föstudaginn 3. október 2008 hlutabréf í bankanum að nafnvirði 115.000.000 króna á genginu 19,09255 af EFL. Nokkrum mínútum síðar keypti verðbréfamiðlunin hlutabréf í bankanum að nafnvirði 85.000.000 króna sömuleiðis af EFL á genginu 18,99285. Samkvæmt þessu nam kaupverðið í viðskiptunum tveimur samtals 3.810.035.500 krónum. Svo til samstundis seldi verðbréfamiðlunin hlutabréfin til Imon ehf. á genginu 19,11 og var kaupverðið í þeim viðskiptum því 3.822.000.000 króna. Sama dag voru tilkynnt þrenn viðskipti með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. til Kauphallar Íslands sem tóku samtals til 200.000.000 hluta í bankanum og er óumdeilt að hér hafi verið um að ræða sömu viðskipti og lýst er að framan. Í frétt sem birtist í Fréttablaðinu laugardaginn 4. október 2008, kom fram að mikil viðskipti hefðu verið með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. daginn áður og hefði gengi bréfanna hækkað um 4,2%. Heildarviðskipti á hlutabréfamarkaði hafi numið „tæpum 18,7 milljörðum króna.“ Þar af hafi velta með bréf í Landsbanka Íslands hf. numið „11,3 milljörðum“ og af þeim viðskiptum „skáru utanþingsviðskiptin sig úr en þau námu 8,2 milljörðum króna.“ Síðan sagði í fréttinni: „Tvenn utanþingsviðskipti með bréf bankans upp á tæpa 3,8 milljarða skáru sig úr.“ Meðal gagna málsins eru ódagsett og óundirrituð drög að lánssamningi milli Imon ehf. og Landsbanka Íslands hf. þar sem áformað var að félaginu yrði veitt „langtímalán til 19 mánaða að fjárhæð kr. 3.831.600.000.“ Einnig liggur fyrir óundirritað ákvörðunartökublað vegna láns að sömu fjárhæð að beiðni Imon ehf. Þar sagði að óskað væri „eftir láni til kaupa á bréfum í Landsbankanum nom. 200.000.000“ og kaupverð sagt „3.822m.kr.“. Á skjalinu kom fram að lagt væri til að beiðnin yrði samþykkt en ekkert var skráð í þann reit þar sem gert var ráð fyrir áritun um samþykki fyrir lánveitingunni. Þótt hvorki hafi verið gengið frá þessum skjölum né fjármögnun viðskiptanna fór salan fram og tilkynnt var um viðskiptin til Kauphallar Íslands eins og ákært er fyrir í III. kafla ákærunnar. Imon ehf. hefur ekki greitt kaupverð vegna þessara viðskipta. Í áðurnefndu bréfi LBI hf. til embættis sérstaks saksóknara 5. maí 2014 sagði að félagið væri eigandi kröfu á hendur Imon ehf. á grundvelli viðskipta með hluti í Landsbanka Íslands hf. 3. október 2008 og væri staða hennar miðað við 28. apríl 2014 8.299.840.814 krónur. Ekki liggja fyrir í gögnum málsins frekari upplýsingar um afdrif umræddrar kröfu. IX Fyrir héraðsdómi var auk ákærðu teknar skýrslur af 28 vitnum. Hæstiréttur ákvað að heimila skýrslutökur við endurupptöku málsins. Af hálfu ákæruvaldsins var þess óskað að teknar yrðu skýrslur af ákærðu Sigurjóni Þorvaldi og Sigríði Elínu auk vitnisins ÁM, forstöðumanni á fyrirtækjasviði Ákærði Sigurjón Þorvaldur bar í meginatriðum á sama veg og rakið er í héraðsdómi. Þar á meðal að stjórnskipulag Landsbanka Íslands hf. hefði verið með öðrum hætti en í hinum viðskiptabönkunum vegna stöðu eigenda Samson eignarhaldsfélags ehf. sem farið hefði með stærstan eignarhlut í bankanum. Það hefði þýtt að endanlegt vald um lánveitingar hefði legið hjá bankastjórunum tveimur en ekki lánanefnd stjórnar. Bankastjórar hefðu einnig samið lánareglurnar og samþykkt en þær hefðu ekki verið bornar undir bankaráðið til samþykktar. Ákærði staðfesti fyrri framburð þess efnis að hann hefði allan septembermánuð 2008 vitað af áhuga eiganda Imon ehf. á kaupum á bréfum í bankanum og hefði þeim upplýsingum verið miðlað til hans af ÁM forstöðumanni á fyrirtækjasviði bankans. Þá bar hann á sama veg og fyrir héraðsdómi um þýðingu þess að stærsti eigandi Byrs sparisjóðs, Imon ehf., hefði með kaupum á hlutafjár í Landsbanka Íslands hf. orðið stór hluthafi í bankanum. Áhugi hefði verið á því innan Landsbanka Íslands hf. að sameinast Byr sparisjóði eftir að sameiningaráform sparisjóðsins við Glitni banka ehf. runnu út í sandinn sunnudaginn 28. september 2008. Hafi sá möguleiki meðal annars verið ræddur á bankaráðsfundi mánudaginn 29. september 2008. Slík sameining hefði falið í sér styrkingu á eiginfjárgrunni bankans auk fjölþættrar hagræðingar og ávinnings fyrir hann. Þau áform hefðu verið ein forsenda viðskiptanna með hlutabréfin þriðjudaginn 30. september 2008. Benti ákærði sérstaklega á að Byr sparisjóður hefði ólíkt öðrum fjármálafyrirtækjum borið óverulega áhættu af viðskiptum með hlutabréf. Staðfesti ákærði að hann vissi að verið væri að selja bréf til Imon ehf. úr eigu bankans enda hefði bankinn ekki getað lánað fyrir kaupum bréfa á markaði vegna svonefndrar 10% reglu. Þá rakti ákærði ítarlega þau nýju gögn sem hann lagði fram um sameiningarviðræður Glitnis banka hf. og Byrs sparisjóðs og verðmat á sparisjóðnum á þeim tíma. Hann lagði áherslu á að þær ráðstafanir sem honum eru gefnar að sök í II. og III. kafla ákærunnar hefðu meðal annars verið gerðar í þeim tilgangi að styrkja eiginfjárgrunn bankans. Hvað varðar eftirlit með viðskipti EFL með eigin bréf tók ákærði fram að hann hefði verið upplýstur daglega um nettóhreyfingar en á vikulegum fjármálanefndarfundum hafi hann verið upplýstur um heildareign bankans í eigin bréfum. Þar fyrir utan hafi yfirmaður áhættustýringar reglulega kynnt skýrslur um 10% reglu 29. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 55. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Að öðru leyti hefði ekki verið virkt eftirlit bankastjórnar með viðskiptum bankans með eigin bréf. Ákærði ítrekaði jafnframt þann fyrri framburð sinn að hann kannaðist ekki við að hafa mælt fyrir um þau viðskipti sem ákært væri fyrir í III. kafla ákæru í ætluðu samtali við ÁM, forstöðumanni á fyrirtækjasviði, að kvöldi fimmtudagsins 2. október 2008. Aðspurður kvaðst ákærði Sigurjón Þorvaldur fyrst hafa áttað sig á því síðdegis föstudaginn 3. október 2008 að mögulega stefndi í þrot bankans. Um þá helgi hefðu þó skapast vonir til að því mætti afstýra en þær að engu orðið mánudaginn 6. október og fyrirsvarsmenn bankans í framhaldinu skilað inn starfsleyfi til Fjármálaeftirlitsins. Ákærða Sigríður Elín bar jafnframt í meginatriðum á sama veg og hún gerði fyrir héraðsdómi. Hún áréttaði að hún hafi talið lánveitinguna til Imon ehf. hagfellda fyrir Landsbanka Íslands hf. og að hún hafi hvorki komið að ákvörðun um viðskiptin þar að baki né þekkt að neinu verulegu til starfsemi verðbréfasviðs bankans. Hún tók sérstaklega fram að hún hefði hvorki starfaði á verðbréfasviði bankans né haft aðkomu eða heimildir þar enda hefði það verið brot á reglum fjármálafyrirtækja ef hún, forstöðumaður fyrirtækjasviðs, hefði skipt sér af því sem fram fór á verðbréfasviði. Að morgni mánudags 29. september 2008 hafi hún verið bjartsýnni en áður um framtíð bankans og styrkingu fjármálakerfisins í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um kaup á hlutum í Glitni banka hf. og að sú bjartsýni hafi endurspeglast á bankaráðsfundinum sama dag. Þar hefði verið rætt um sameiningu við Byr sparisjóð sem lið í því að styrkja eiginfjárgrunn bankans og rekstur hans til framtíðar. Ef til greiðslufalls hefði komið hjá Imon ehf. hefði bankinn gengið að undirliggjandi tryggingum en hún hefði talið eignarhluti í Byr áhugaverða eign meðal annars í ljósi þess sem fram hefði komið á framangreindum bankaráðsfundi. Án þess að hafa um slíkt beina vitneskju hefði hún gengið út frá því að um hefði verið að ræða lántöku til kaupa á eigin bréfum bankans. Þá skoðun byggði hún meðal annars á því að ákærði Sigurjón Þorvaldur hefði aldrei heimilað lánveitingu fyrir kaupum á öðrum landsbankabréfum nema þeirra eigin. Aðspurð taldi hún veðhlutfallið við lánveitinguna hátt en hún hafi litið til þess að þar sem um sölu á eigin bréfum væri að ræða gæti veðhlutfallið verið hærra en ella. Hún tók fram að hún hefði ekki sjálf metið verðmæti veða í bréfum Byrs sparisjóðs við ákvörðun um lánveitingu 30. september 2008. Hún hefði treyst því mati ÁM forstöðumanns á fyrirtækjasviði sem fram kæmi á ákvörðunartökublaði vegna lánveitingarinnar. Um þýðingu vanskila Imon ehf. við bankann, sem gerð voru upp í aðdraganda lánveitingarinnar 30. september 2008, tók hún fram að hún hefði eins og í tilviki annarra sambærilegra eignarhaldsfélaga viljað hafa virkt eftirlit og í því skyni samið um fleiri en færri vaxtagjalddaga á lánum þeirra. Með því hefði skapast aukið aðhald en það hefði hins vegar leitt til þess að semja hefði þurft reglulega um uppgjör ógreiddra vaxta ýmist með greiðslu arðs, frekari lánveitingu bankans eða beitingu veðkalla. Aldrei hefði hvarflað að henni að tilkynna lánveitinguna til Imon ehf. 30. september 2008 til markaðarins og markaðurinn sem slíkur hefði ekki verið „til í mínum huga“. Vitnið ÁM, forstöðumaður á fyrirtækjasviði, bar í meginatriðum á sama veg og hann gerði fyrir héraðsdómi og benti á að 12 ár væru liðin. Hann myndi lítið umfram það sem hann hefði áður borið um það hvernig hefði verið staðið að því mati sem kemur fram á ákvörðunartökublaði vegna lánveitinga til Imon ehf. sem fjallað er um í ákæru. Hann staðfesti að hann hefði ekki sjálfur gert verðmat á Byr sparisjóði en á þessum tíma hefði verið fyrir hending þekking innan lánasviðs Landsbanka Íslands hf. á verðmæti bréfa Byrs sparisjóðs bæði vegna fyrri lána til Imon ehf. sem og til annarra félaga, þar sem stofnfjárbréf Byrs sparisjóðs hefðu verið sett til tryggingar. Þá benti hann á að einnig hefði verið horft til mögulegrar sameiningar Landsbanka Íslands hf. og Byrs sparisjóðs en samkeppni hefði verið meðal bankanna um að sameinast Byr sparisjóði. Þá ítrekaði hann fyrri framburð þess efnis að ákærði Sigurjón Þorvaldur hefði hringt í sig að kvöldi fimmtudagsins 2. október 2008 og spurt hvort fyrir hendi væri veðrými til frekari lánveitinga til Imon ehf. vegna kaupa á bréfum í bankanum. Hafi hann talið svo vera og sett í kjölfarið af stað vinnu við skjalagerð vegna fyrirhugaðrar lánveitingar. Hann hefði talið sig vita að bréfin sem Imon ehf. keypti í bankanum umrædd skipti hefðu verið bréf sem bankinn átti sjálfur enda hefði lánveitingin aldrei verið veitt ef kaupa hefði þurft hlutabréfin á markaði. Enn fremur staðfesti vitnið efni bréfs síns 15. febrúar 2016 til lögmanna ákærðu þar sem rakin eru dæmi um lánveitingar bankans þar sem um há veðhlutföll var að ræða. X 1 Eftir að málið hafði verið dómtekið óskaði Hæstarétti, með vísan til 168. gr. laga nr. 88/2008, eftir upplýsingum með bréfi 22. febrúar 2021 um hvort fyrir lægi kvörtun frá dómfellda SG til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna meðferðar hæstaréttarmáls nr. 456/2014. Ef svo væri var jafnframt óskað eftir upplýsingum um afstöðu íslenska ríkisins til þeirra kvartana. Með bréfi þann sama dag frá ákæruvaldinu var staðfest að dómfelldi hefði lagt fram kvörtun til dómstólsins og meðfylgjandi var einhliða yfirlýsing íslenska ríkisins í máli hans en tekið fram að hún hefði ekki verið leidd til lykta af dómstólnum. Í yfirlýsingu íslenska ríkisins 8. desember 2020 viðurkennir það að brotinn hafi verið á dómfellda réttur samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð með vísan til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu 25. febrúar 2020 í máli Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur gegn Íslandi. Í yfirlýsingunni er jafnframt vísað til þess að dómfelldi geti sótt um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 456/2014. Af 2. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu leiðir að fyrrgreindur dómur Hæstaréttar 8. október 2015 í máli nr. 456/2014 stendur að sínu leyti óraskaður í tilfelli dómfellda SG hvað sem líður lyktum málsins fyrir Mannréttindadómstólnum. Málið var endurupptekið í Hæstarétti miðvikudaginn 3. mars 2021, sakflytjendum gefinn kostur á að tjá sig um framangreind gögn og endurflytja málið. Var málið síðan dómtekið að nýju. Forsendur Hæstaréttar fyrir að hafna frávísunarkröfu ákæruvaldsins í málinu og fallast á endurupptöku þess á hendur ákærðu leiða hins vegar til þess að dómfelldi SG á að öðrum lagaskilyrðum uppfylltum sambærilegan rétt til endurupptöku málsins gagnvart sér leiti hann eftir því. Að þessu virtu ber að árétta þá grunnreglu sakamálaréttarfars, sbr. meðal annars ákvæði þágildandi 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008, að sönnunargildi framburðar dómfellda SG fyrir héraðsdómi verður ekki endurmetið við meðferð þessa máls. Sú sérstaka staða sem að lögum hefur skapast vegna þessarar takmörkuðu endurupptöku málsins setur réttinum frekari skorður en ella væri við úrlausn Hæstaréttar um sakargiftir á hendur ákærðu einum. 2 Samhengis vegna er nauðsynlegt að gera grein fyrir ákæruefni samkvæmt I. kafla ákærunnar en sem fyrr segir er leyst úr því samhliða máli þessu með dómi Hæstaréttar í máli nr. 35/2019. Áður hefur verið greint frá því að samkvæmt I. kafla er ákærða Sigurjóni Þorvaldi ásamt þremur öðrum gefin að sök markaðsmisnotkun í störfum sínum fyrir Landsbanka Íslands hf. með tilboðum og viðskiptum með hlutabréf í félaginu fyrir eigin reikning bankans í svonefndum sjálfvirkum pörunarviðskiptum í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008. Í ákærunni kemur fram að „nettó viðskipti“ EFL hafi á þessu tímabili tekið til samtals 2.268.182.124 hluta í bankanum og numið alls 56.240.113.876 krónum eða 47,2% af heildarveltu sjálfvirkra pörunarviðskipta í Kauphöllinni þennan tíma. Samkvæmt yfirliti í ákæru yfir viðskiptin jukust þau til mikilla muna 29. september 2008, sama dag og ljóst varð að ríkið hygðist eignast 75% hlut í Glitni banka hf., og voru mjög mikil þá fjóra daga sem á eftir fylgdu en viðskipti með bréfin fóru síðast fram í Kauphöllinni 3. október sama ár. Samkvæmt ákæru tóku „nettó viðskipti“ EFL til samtals 685.059.427 hluta í bankanum þessa fimm daga eða 78,8% af heildarveltu sjálfvirkra pörunarviðskipta í Kauphöllinni þá daga. Í ákærunni koma enn fremur fram upplýsingar um gengi hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008. Í upphafi þess var gengið 43,40 krónur á hlut en fór síðan lækkandi og var komið niður í 21,50 krónur í lok mánudagsins 29. september 2008. Næstu þrjá daga lækkaði gengið og var 19,10 krónur í lok fimmtudags 2. október sama ár, en hækkaði svo daginn eftir og endaði í 19,90 krónum. Reyndist föstudagurinn 3. október 2008 síðasti dagurinn þar sem viðskipti með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. fóru fram í Kauphöllinni. Í I. kafla ákærunnar er því lýst að þessi miklu kaup bankans hafi leitt til þess að hlutabréfin söfnuðust upp hjá honum. Vegna lögbundinna takmarkana á eignarhaldi fjármálafyrirtækja, sbr. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 161/2002 eins og hún hljóðaði þá, reglna um flöggunarskyldu, sbr. 1. mgr. 93. gr. laga nr. 108/2007 og neikvæðra áhrifa á eiginfjárhlutfall Landsbanka Íslands hf., sökum þágildandi reglna 4. og 5. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002, hafi þurft að losa bankann við bréfin til að unnt væri að halda áfram umfangsmiklum kaupum á eigin hlutum í félaginu. Í ákærunni kemur fram að þetta hafi meðal annars verið gert með sölu á þeim í stórum utanþingsviðskiptum fyrir tilstilli verðbréfamiðlunar bankans, en tvenn þessara viðskipta eru til meðferðar í máli þessu, sbr. II. og III. kafla ákærunnar. Í dómi Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014 var ákærði Sigurjón Þorvaldur og þrír aðrir fyrrverandi starfsmenn bankans sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun vegna alls ákærutímabilsins samkvæmt I. kafla ákærunnar. Var refsing ákærða ákveðin fangelsi í eitt ár og sex mánuði. Eins og að framan er rakið hefur verið fallist á endurupptökubeiðni ákærða Sigurjóns Þorvaldar vegna málsins og er það nú rekið sem hæstaréttarmál nr. 35/2019 sem dæmt er samhliða máli þessu. 3 Ákærðu Sigurjóni Þorvaldi og Sigríði Elínu eru samkvæmt a-lið II. kafla ákæru gefin að sök umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa 30. september 2008 í störfum sínum fyrir Landsbanka Íslands hf. misnotað aðstöðu sína og stefnt fé hans í verulega hættu með því að hafa farið „út fyrir heimildir til lánveitinga er þau í sameiningu veittu Imon ehf. ... 5.163.000.000 króna lán til að fjármagna að fullu kaup félagsins á 250.000.000 hluta í Landsbankanum, án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins, þar sem ekki voru fyrir hendi aðrar tryggingar en veð í hinum keyptu hlutabréfum og allsherjarveð í stofnfjárhlutum félagsins í Byr sparisjóði en Imon ehf. hafði þegar fullnýtt veðrými stofnfjárhlutanna við aðrar lántökur.“ Í ákæru er því síðan lýst með nánari tilvísunum í reglur bankans hvernig umrædd lánveiting hafi í einstökum atriðum brotið í bága við skráðar reglur sem um starfsemi bankans giltu og gerð var grein fyrir hér að framan. Við meðferð hins endurupptekna máls fyrir Hæstarétti var því hins vegar lýst yfir af hálfu ákæruvaldsins að fallið væri frá þeim hluta verknaðarlýsingar í a-lið II. kafla ákæru að með lánveitingunni hafi verið brotið í bága við téðar reglur Landsbanka Íslands hf. Eftir sem áður stendur verknaðarlýsing ákæru þess efnis að ákærðu hafi gerst sek um umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir sínar til lánveitinga. Skilyrði þess að háttsemi teljist refsiverð samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga er að viðkomandi aðili hafi verið í aðstöðu til að gera eitthvað sem annar verður bundinn við og að hann hafi misnotað sér þá aðstöðu. Mat á því skilyrði fer ekki aðeins fram með vísan til brota á heimildum samkvæmt skráðum reglum, en sé slíkum formlegum viðmiðum ekki til að dreifa þarf ákæruvaldið þó að sýna fram á veruleg eða gróf frávik frá þeim starfsháttum sem gera mátti kröfu um að fylgt væri. Þá er til þess að líta að til þess að framangreind háttsemi teljist refsiverð samkvæmt 249. gr. laganna er jafnframt gerð krafa um að fyrir hendi hafi verið auðgunarásetningur þess sem sakaður er um slíkt brot, sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga. Til þess að það skilyrði teljist uppfyllt er almennt viðurkennt að nægilegt sé að sýnt sé fram á að háttsemin hafi valdið verulegri fjártjónshættu fyrir þann sem bundinn varð af ráðstöfun. Til sakfellingar þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt. Hér að framan hefur ítarleg grein verið gerð fyrir því undir hvaða kringumstæðum lánveiting sú sem ákært er fyrir í a-lið II. kafla ákæru átti sér stað þriðjudaginn 30. september 2008. Þá hefur verið fjallað um þær lántökur Imon ehf. hjá Landsbanka Íslands hf. sem átt höfðu sér stað fyrir hina umdeildu lánveitingu sem og fjárhagslega stöðu þess félags á umræddum tíma. Einnig hefur verið gerð grein fyrir stöðu Byrs sparisjóðs og þeirra samtíma upplýsinga sem tiltækar voru um líklegt verðmæti hans 30. september 2008. Enn fremur hefur verið fjallað um stöðu Landsbanka Íslands hf. á umræddu tímamarki og þá meðal annars í samhengi við þá viðsjárverðu stöðu sem hafði skapast á fjármálamörkuðum á ofanverðum septembermánuði 2008. Nánari málsatvik sem að þessum ákærulið snúa eru að mestu óumdeild. Ákærða Sigurjóni Þorvaldi og vitninu ÁM, forstöðumanni á fyrirtækjasviði, ber í meginatriðum saman um aðdraganda þess að stofnað var til viðskipta 30. september 2008 um kaup Imon ehf. á 250.000.000 hluta í Landsbanka Íslands hf. af bankanum sjálfum. Hefur framburður ákærða Sigurjóns Þorvaldar frá upphafi verið á þann veg að hann hafi verið samþykkur umræddum viðskiptum og tilhögun þeirra, sem hann hafi talið bankanum hagstæð, þar með talið fjármögnun af hálfu bankans með þeim tryggingum sem boðnar voru fram af hálfu Imon ehf. Þá hefur ákærðu Sigurjóni Þorvaldi og Sigríði Elínu jafnframt borið saman um forsendur og samþykkt umræddrar lántöku þó þannig að ákærða Sigríður Elín telur sig hvorki hafa áritað ákvarðanatökublaðið né lánssamninginn fyrr en föstudaginn 3. október og ákærði Sigurjón Þorvaldur hefur ekki getað fullyrt með vissu hvenær hann skrifaði undir ákvarðanatökublaðið en telur að það geti hafa gerst enn síðar. Áður hefur verið rakin yfirlýsing ákæruvaldsins undir rekstri málsins hér fyrir Hæstarétti á þá leið að við lánveitinguna hafi verið gætt þeirra skráðu reglna sem um hana giltu í starfsemi bankans. Að henni virtri verður ekki talið að misræmi um einstakar dagsetningar í þessu sambandi skipti máli við úrlausn ákæruefnisins og verður lagt til grundvallar að ákvörðun um lánið hafi verið tekin þriðjudaginn 30. september 2008, svo sem miðað er við í ákæru og hafi hið ætlaða brot því verið fullframið þann dag. Í forsendum hins áfrýjaða dóms segir að ákærðu hafi bæði verið í aðstöðu til að skuldbinda Landsbanka Íslands hf. vegna stöðu sinnar hjá bankanum. Þá liggi fyrir að þau hafi samþykkt að veita Imon ehf. umrætt lán til kaupa á 250.000.000 hluta í Landsbanka Íslands hf. sem voru í eigu bankans sjálfs og höfðu verið keypt í umfangsmiklum viðskiptum sem fjallað er um í I. kafla ákæru. Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að við mat á því hvort háttsemi ákærðu hafi haft í för með sér verulega fjártjónshættu fyrir Landsbanka Íslands hf. hafi skipt máli að bréfin sem seld voru Imon ehf. höfðu áður verið keypt af bankanum með tilheyrandi fjárútlátum og þau handveðsett honum, og bankinn því getað leyst þau til sín á ný hefði komið til vanefnda á lánssamningnum. Þá hefði ákæruvaldið ekki sýnt fram á að veðrými allsherjarveðs bankans í stofnfjárhlutum Imon ehf. í Byr sparisjóði, sem jafnframt voru sett til tryggingar endurgreiðslu lánsins, hafi á þessum tíma verið fullnýtt vegna annarra skuldbindinga Imon ehf. við bankann. Við mat á tryggingum taldi héraðsdómur að líta yrði til þeirra gagna sem fyrir lágu um gengi stofnfjárbréfanna á þeim tíma sem lánveitingin fór fram. Þótt ákvörðun um lánveitinguna hefði verið tekin á viðsjárverðum tímum í íslensku efnahagslífi væri ekki unnt að leggja til grundvallar að ákærðu hefðu getað séð það fyrir að Fjármálaeftirlitið myndi taka yfir rekstur Landsbanka Íslands hf. með þeim afleiðingum að hlutabréf í bankanum yrðu verðlaus. Væri því ósannað að ákærðu hefðu með háttsemi sinni stefnt fé bankans í verulega hættu þannig að fullnægt væri skilyrðum auðgunarásetnings samkvæmt 243. gr. almennra hegningarlaga. Þá var jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að við lánveitinguna hefði hvorki verið brotið í bága við starfsreglur bankaráðs né útlánareglur bankans og því ekki sýnt fram á að ákærðu hefðu misnotað aðstöðu sína í skilningi 249. gr. almennra hegningarlaga. Væri því ekki fullnægt skilyrðum til að ákærðu yrði gerð refsing samkvæmt þeirri grein og þau sýknuð af kröfum ákæruvalds þar um. Þótt leggja beri til grundvallar, meðal annars með hliðsjón af fyrrnefndri yfirlýsingu ákæruvaldsins, að ákærðu sem höfðu í reynd undir framangreindum kringumstæðum sameiginlega lítt takmarkaða heimild til þess að taka ákvarðanir um lán og ráðstafa þannig hagsmunum Landsbanka Íslands hf. hafi ekki brotið gegn skráðum útlánareglum við ákvörðun um veitingu umrædds láns til Imon ehf. 30. september 2008, haggaði það ekki skyldum þeirra sem stjórnenda til þess að haga hvers kyns ákvörðunum með hagsmuni bankans að leiðarljósi og í því sambandi fara eftir eðlilegum varúðarsjónarmiðum, þar á meðal við mat á tryggingum, sbr. í dæmaskyni dóma Hæstaréttar frá 10. mars 2016 í máli nr. 781/2014, frá 5. ágúst 2014 í máli nr. 525/2015 og frá 7. júní 2012 í máli nr. 442/2011. Áður er rakið að téð lán nam hárri fjárhæð, verulega umfram heimildir fyrirtækjasviðs samkvæmt lánareglum, og ber skýrslum fyrir dómi saman um að veðsetningarhlutfall þeirra hluta sem settir voru til tryggingar láninu hafi verið óvenjuhátt, eða 86 til 95%. Gat lækkun á þeim hlutum sem settir voru til tryggingar láninu, hvort heldur á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. eða stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði, því fyrirsjáanlega leitt til þess að tryggingar fyrir láninu yrðu ónógar og taka þyrfti ákvörðun um hvort gjaldfella bæri lánið og ganga að tryggingum að því marki sem þær hrykkju til. Gat talist tvísýnt á þeim tíma sem hér um ræðir að gera ráð fyrir því að Imon ehf. gæti í nánustu framtíð lagt fram frekari tryggingar fyrir láninu. Til þess ber á hinn bóginn að líta að samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 hvílir sönnunarbyrðin á ákæruvaldinu um að fullnægt sé öllum skilyrðum fyrir því að framin hafi verið umboðssvik í skilningi 249. gr. almennra hegningarlaga. Eykur það kröfur til sönnunar undir þessum kringumstæðum að því er ekki lengur haldið fram af ákæruvaldsins hálfu að skráðar reglur bankans um lánveitingar hafi verið brotnar. Eru slík formleg viðmið því að meginstefnu án þýðingar við mat á því hvort ákærðu hafi í umrætt sinn misnotað aðstöðu sína og gert sér ljóst að þau stefndu fé bankans þar með í verulega hættu, svo sem þeim er gefið að sök í a-lið II. kafla ákæru. Fram er komið að eftir tilkynningu Seðlabanka Íslands um fyrirhuguð kaup íslenska ríkisins á 75% hlut í Glitni banka hf. mánudaginn 29. september 2008 hafi verið lögð á það rík áhersla af hálfu stjórnenda Landsbanka Íslands hf. að styrkja eiginfjárgrunn bankans með ýmsum ráðstöfunum og var sú stefna meðal annars rædd á fundi bankaráðs þann dag, svo sem áður er rakið. Verður einnig að miða við að viðleitni ákærðu í þessa veru hafi verið ætlað að þjóna lögmætum hagsmunum bankans við þær viðsjárverðu aðstæður sem komnar voru upp í íslenska bankakerfinu svo sem þau hafa haldið fram. Umræddur lánssamningur við Imon ehf. var þáttur í sölu á eigin hlutum Landsbanka Íslands hf. og hafði salan í för með sér að þau verðmæti sem fólust í eigin hlutunum töldust nú til eiginfjár í reikningum bankans. Styrktist eiginfjárgrunnur bankans þar af leiðandi. Þá er ekki ástæða til að draga í efa þann framburð ákærða Sigurjóns Þorvaldar að ráðstöfunin hafi einnig átt að þjóna þeim tilgangi að auka líkur á sameiningu Landsbanka Íslands hf. og Byrs sparisjóðs sem hefði hugsanlega leitt til frekari og varanlegri styrkingar á eigin fé bankans. Við mat á tryggingum Landsbanka Íslands hf. vegna lánveitingarinnar 30. september 2008 verður fyrst og fremst að horfa til fyrrnefnds ákvarðanatökublaðs sem útbúið var af ÁM, sem var forstöðumaður á fyrirtækjasviði og sérfræðingur á sviði lánamála, og því mati bankans sem þar kom fram á tryggingum vegna lánsins. Samkvæmt því skyldi Imon ehf. eins og áður segir annars vegar setja að handveði hin keyptu hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. og hins vegar allsherjarveð í stofnfjárbréfunum í Byr sparisjóði. Fram kom á ákvarðanatökublaðinu að umræddan dag hafi heildarskuldir Imon ehf. við bankann, að teknu tilliti til hinnar nýju lántöku, numið samtals 8.922.400.000 krónum. Samkvæmt ákvörðunartökublaðinu taldist verðmæti hlutabréfanna í bankanum sama og kaupverð þeirra sem miðaðist við gengið 20,60 krónur á hlut og nam markaðsverð hinna 250.000.000 hluta því 5.150.000.000 króna. Að því er snerti verðmæti stofnfjárbréfa í Byr sparisjóði var það sett fram með tvennum hætti. Tók hærri upphæðin, 5.269.063.000 krónur, mið af því gengi sem vitnið ÁM, forstöðumaður á fyrirtækjasviði, taldi að lagt hefði verið til grundvallar í sameiningarviðræðum sparisjóðsins við Glitni banka hf. sem ítarleg grein er gerð fyrir í kafla 5. lið VIII. kafla. Lægri upphæðin, 4.211.035.000 krónur, miðaðist við gengi stofnfjárbréfanna í síðustu þekktu viðskiptum með þá 22. ágúst 2008, en ekki er fram komið að áðurnefndur starfsmaður hafi á þeim tíma þekkt umfang þeirra viðskipta. Hins vegar liggur fyrir að lokað var fyrir viðskipti með stofnfjárbréf í Byr sparisjóði í ágúst 2008 vegna fyrirhugaðrar breytingar Byrs sparisjóðs í hlutafélag og orðróms um sameiningu við annað fjármálafyrirtæki. Samkvæmt þessum forsendum nam veðhlutfallið í stofnfjárbréfunum sem sett voru að allsherjarveði 30. september 2008 86 til 95% og var ónýtt veðrými því á bilinu 500.000.000 til 1.500.000.000 króna eftir því hvort litið var til neðri eða efri marka matsins. Þegar tekin er afstaða til umrædds mats ÁM verður að taka mið af þeim upplýsingum sem lágu fyrir á þeim degi þegar lánveitingin var afráðin. Er á það fallist með héraðsdómi að útilokað sé að ákærðu hafi getað séð fyrir þriðjudaginn 30. september 2008 þá atburðarás sem á eftir fór næstu daga og vikuna og lyktaði með falli bankans. Andstætt því sem til dæmis átti við í þeim málum sem leyst var úr með dómum Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 442/2011 og 6. október 2016 í máli nr. 498/2015 verður að leggja til grundvallar að ákærðu hafi ekki brotið skráðar reglur bankans við lánveitinguna auk þess sem settar voru frekari tryggingar fyrir henni en þau eigin bréf sem voru andlag viðskiptanna. Um reglur bankans hefur þegar verið fjallað. Hins vegar þarf að leysa úr því hvort ákærðu hafi, á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram komu á ákvarðanatökublaðinu sem og eigin þekkingar sem stjórnendur bankans, mátt reikna með því að í umræddu allsherjarveði í stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði fælist trygging fyrir láninu umfram þau eigin bréf bankans sem voru andlag viðskiptanna. Fyrst er til þess að líta að undir rekstri máls þessa fyrir Hæstarétti voru af hálfu ákærða Sigurjóns Þorvaldar lögð fram gögn frá 19. til 28. september 2008 um sameiningarviðræður Glitnis banka hf. og Byrs sparisjóðs. Fyrir gögnum þessum hefur verið gerð rækileg grein í 5. lið VIII. kafla. Þau staðfesta það sem fram kom í meðferð málsins fyrir héraðsdómi og vitnið ÁM forstöðumaður á fyrirtækjasviði endurtók í skýrslu við meðferð málsins fyrir Hæstarétti að viðræður um sameiningu umræddra fjármálafyrirtækja hafi verið vel á veg komnar. Í þeim hefði verið byggt á því að verðmæti Byrs sparisjóðs í sameinuðu félagi lægi mjög nærri því sem miðað var við sem efri mörk verðmætis stofnfjárbréfanna á ákvarðanatökublaði vegna lánveitingarinnar. Eins og rakið hefur verið runnu viðræðurnar út í sandinn helgina 27. til 28. september 2008 í kjölfar þess að samkomulag varð um það að íslenska ríkið yrði eigandi 75% hlutafjár í Glitni banka hf. Umrædd viðræðuslit munu í sjálfu sér ekkert hafa haft með Byr sparisjóð að gera og er óvarlegt að ganga út frá því að ákærðu hafi mátt gera ráð fyrir að atburðir þeirrar helgar myndu leiða til verulegrar og varanlegrar lækkunar á virði stofnfjárbréfa Byrs sparisjóðs sem hélt raunar áfram starfsemi fram á árið 2010. Fyrir dómi hefur ákærði Sigurjón Þorvaldur borið að áhugi hafi verið fyrir hendi hjá öðrum fjármálafyrirtækjum á að sameinast Byr sparisjóði eftir að sameiningaráform hans við Glitni banka hf. urðu að engu. Því hafi ráðið sterk eiginfjárstaða sparisjóðsins og óveruleg áhætta hans af þróun hlutabréfamarkaða. Sú staðhæfing fær stoð í kynningu Glitnis banka hf. 22. september 2008 fyrir starfsmenn bankans um samrunaviðræður félagsins við Byr sparisjóð. Er jafnframt fram komið að sameining við sjóðinn hafi verið talinn kostur í stöðunni fyrir Landsbanka Íslands hf. líkt og áður greinir um umræður á bankaráðsfundi 29. september 2008. Þá eru ekki efni til að draga í efa þann framburð ákærða Sigurjóns Þorvaldar að þriðjudaginn 30. september hafi enn verið litið á fyrirhuguð kaup ríkisins á hlut í Glitni banka hf. sem hluta af viðleitni til endurskipulagningar íslensks fjármálakerfis til framtíðar litið. Bar ákærða Sigríður Elín á sama veg í skýrslutöku hér fyrir dómi. Við mat á þeirri stöðu sem uppi var við ákvörðun um lánveitinguna 30. september 2008 verður að lokum að líta til þess að fyrir liggur að umræddir stofnfjárhlutir í Byr sparisjóði höfðu áður verið notaðir til trygginga á lánum Landsbankans, bæði til Imon ehf. og annarra lántakenda. Einnig kom fram að síðasta gengi Byrs sparisjóðs í viðskiptum 22. ágúst 2008 hefði verið 1,6 og að Capacent hefði verðmetið sparisjóðinn 31. mars 2008 á 57.500.000.000 króna. Svipar þessum tveimur viðmiðum til lægra matsins á fyrrnefndum ákvörðunartökublöðum um verðmæti trygginga í Byr sparisjóði við þau viðskipti sem ákært er fyrir í II. og III. kafla ákærunnar. Er því ekki ósennilegur sá framburður vitnisins ÁM forstöðumanns á fyrirtækjasviði fyrir dómi að á þessum tíma hafi verið fyrir hendi þekking innan fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands hf. á verðmæti stofnfjárbréfa sjóðsins. Verður jafnframt ályktað að ákærðu hafi mátt treysta því að slík þekking hafi verið fyrir hendi. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 442/2011 kemur jafnframt fram að eigið fé Byrs sparisjóðs, samkvæmt efnahagsreikningi 30. september 2008, hafi numið rúmum 48.000.000.000 króna. Hafði það rýrnað um 16,1% frá áramótum en þó aukist um rúma þrjá milljarða frá 30. júní 2008. Hvað sem líður almennri þekkingu fjárfesta hvað þetta varðar á þeim tíma styður þetta frekar réttmæti þess mats sem fram kom á ákvörðunartökublaði vegna lántökunnar. Af framangreindu gættu verður ekki ályktað á þann veg að mat vitnisins ÁM á fyrrgreindu ákvörðunartökublaði hafi verið rangt eða að ákærðu hafi mátt vera það ljóst.             Samkvæmt framangreindu er ekki komin fram næg sönnun, sbr. 1. mgr. 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, um að ákærðu hafi mátt vera ljóst að engin viðbótartrygging væri fyrir lánveitingunni og því borið að synja henni. Svo sem áður greinir voru þau innan formlegra heimilda sinna þegar þau tóku ákvörðun um að veita lánið og eru skýringar þeirra á tilgangi viðskiptanna og lánveitingunni í sjálfu sér ekki ósennilegar með hliðsjón af þeim aðstæðum sem uppi voru þriðjudaginn 30. september 2008. Að öllu þessu virtu er það niðurstaða réttarins að ekki liggi fyrir að ákærðu hafi við umrædda ákvörðun mátt vera ljóst að með henni væru þau að stofna hagsmunum Landsbanka Íslands hf. í hættu eða gætu gert það þannig að líta beri svo á að þau hafi misnotað af ásetningi aðstöðu sína hjá bankanum með því að veita Imon ehf. lán það sem hér um ræðir og með því gerst brotleg við 249. gr. almennra hegningarlaga, svo sem þeim er gefið að sök í a-lið II. kafla ákærunnar. Af þessari ástæðu verða ákærðu sýknuð af þessum ákærulið. 4 Ákærðu Sigurjóni Þorvaldi og Sigríði Elínu er í b. lið II. kafla ákæru gefin að sök markaðsmisnotkun, sem varði við a-lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007, við sölu Landsbanka Íslands hf. á fyrrgreindum 250.000.000 hluta í bankanum, sem voru í eigu hans, til Imon ehf. 30. september 2008 fyrir 20,60 krónur á hlut. Með viðskiptunum og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallar Íslands 1. október 2008 hafi verið „ranglega látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt fé til kaupa á rúmlega 2,23% útgefins hlutafjár í Landsbankanum og borið af þeim fulla markaðsáhættu.“ Þá er í ákæru vísað til þess að markaðsáhætta af hlutabréfunum hafi ekki færst frá Landsbanka Íslands hf. til Imon ehf. þar sem bankinn hefði fjármagnað kaupin að fullu með lánveitingu og lánið aðeins verið tryggt með veði í hinu selda hlutafé og allsherjarveði í stofnfjárhlutum félagsins í Byr sparisjóði en Imon ehf. hefði þegar fullnýtt veðrými stofnfjárhlutanna við aðrar lántökur hjá bankanum. Þar sem fjárfestar hefðu ekki verið upplýstir um skilmála þessara umfangsmiklu viðskipta hafi þau verið til þess fallin að gefa ranga og misvísandi mynd af eftirspurn hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. eða verið líkleg til að gera það og auk þess falið í sér blekkingu og sýndarmennsku. Ákærðu hafi veitt Imon ehf. lánið í framangreindum tilgangi þrátt fyrir vitneskju sína um að hin seldu hlutabréf kæmu frá EFL. Auk þess hefði þeim verið kunnugt um að staða Imon ehf. væri bágborin og þær tryggingar sem félagið hefði lagt fram í tengslum við lánveitinguna væru ófullnægjandi. Þá hefðu viðskiptin verið afar umfangsmikil, enda um að ræða stærstu viðskipti með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. á árinu 2008. Í forsendum hins áfrýjaða dóms kemur meðal annars fram að þó svo að lagt yrði til grundvallar að sala bréfanna hefði verið liður í því að losa bankann við uppsafnaða hlutafjáreign yrði ekki horft fram hjá því að til viðbótar veði í hinum keyptu hlutabréfum hefði verið sett trygging á grundvelli allsherjarveðs í stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði sem voru í eigu lántaka. Þætti því ekki sýnt fram á að engin breyting hefði orðið á markaðsáhættu bankans vegna viðskiptanna. Með hliðsjón af því og vísan til þess sem rakið hefði verið um aðdraganda viðskiptanna og reglur um upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja um slík viðskipti þætti óvarlegt að slá því föstu að viðskiptin og upplýsingagjöf um þau hefði verið til þess fallin að gefa ranga og misvísandi mynd af eftirspurn hlutabréfa í bankanum, eða verið líkleg til að gera það, og jafnframt falið í sér blekkingu og sýndarmennsku, svo að varðaði ákærðu refsingu samkvæmt tilgreindum ákvæðum laga nr. 108/2007. Voru ákærðu því sýknuð af þessum ákærulið. Af forsendum sýknu ákærðu af broti gegn 249. gr. almennra hegningarlaga samkvæmt a-lið II. kafla ákæru leiðir að á það hefur verið fallist að Imon ehf. bar einhverja markaðsáhættu af viðskiptunum. Voru þau þar af leiðandi ekki hrein sýndarviðskipti eða tilbúningur svo sem áskilið er í 2. tölulið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 og vísað er til í b-lið II. kafla ákærunnar. Sú niðurstaða ræður hins vegar ekki úrslitum um hvort viðskiptin gáfu eða voru líkleg til þess að gefa framboð, eftirspurn eða verð hlutabréfa í bankanum ranglega eða misvísandi til kynna, sbr. a-lið 1. töluliðar 1. mgr. greinarinnar. Hér verður enn á ný að líta til þess að veðsetningarhlutfall í þeim hlutabréfum sem sett voru til tryggingar láninu var óvenjuhátt eða 86 til 95%. Samkvæmt nánari ákvæðum lánssamningsins, sem ágreiningslaust er að hér átti við, gat bankinn gjaldfellt lánið ef eftirstöðvar þeirra skulda sem handveðið átti að tryggja nam hærra hlutfalli en 98% af markaðsverði hinna veðsettu hlutabréfa í bankanum. Ef gert var ráð fyrir að lántaki gæti fyrirsjáanlega orðið ófær um að leggja fram frekari tryggingar var þannig ljóst að áhætta Imon ehf. af viðskiptunum var í reynd takmörkuð við þau verðmæti sem fólust í allsherjarveði í stofnfjárbréfum Byrs sparisjóðs að teknu tilliti til þess veðrýmis sem þar var fyrir hendi og heildarlántöku félagsins hjá bankanum. Fyrir dómi bar ákærða Sigríður Elín að samþykki hennar fyrir lánveitingunni hefði grundvallast á þeirri forsendu að um væri að ræða fjármögnun á eigin bréfum Landsbanka Íslands hf. og hefði því ekki verið um það að ræða að „peningar færu út úr bankanum“. Er þetta svo sem fyrr segir efnislega í samræmi við framburði ákærða Sigurjóns Þorvaldar og vitnisins ÁM, forstöðumanns á fyrirtækjasviði. Verður ekki önnur ályktun dregin af þessu, svo og atvikum málsins að öðru leyti, en að aldrei hefði komið til greina að veita Imon ehf. lán á sömu kjörum ef ekki hefði verið um að ræða sölu á eigin bréfum bankans. Samræmist sú niðurstaða einnig þeim viðmiðum sem fram komu í lánareglum bankans og gerðu ráð fyrir mun lægra veðsetningarhlutfalli við lánveitingu til kaupa á hlutabréfum almennt svo og áðurlýstum framburði ákærðu og vitna fyrir dómi á þá leið að veðsetningarhlutfall við lánveitinguna hafi verið óvenjuhátt. Verður viðskiptunum því ekki jafnað til hefðbundinna viðskipta þar sem fjárfestir leitar eftir fjármögnun banka við almenn hlutabréfakaup og bankinn sér hag sinn í lánafyrirgreiðslu gegn viðhlítandi tryggingum. Samkvæmt þessu var ekki aðeins um að ræða utanþingsviðskipti með verulegt magn hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. heldur voru öll atvik við sölu og fjármögnun bréfanna óvenjuleg og helguðust af vilja bankans til að selja mikið magn eigin bréfa með fullri fjármögnun frá bankanum sjálfum vegna aðstæðna sem stjórnendur bankans báru sumpart ábyrgð á, svo sem slegið er föstu með dómi réttarins í máli nr. 35/2019 sem kveðinn er upp samhliða dómi þessum. Þótt áður hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að ákærðu hafi við þessar sérstöku aðstæður í sjálfu sér borið hag bankans fyrir brjósti við ákvörðun um fjármögnun og framkvæmd viðskiptanna er óhjákvæmilegt að líta til þess að matið byggðist í reynd ekki á markaðslegu verðmæti þeirra hlutabréfa sem voru andlag viðskiptanna heldur öðrum og óskyldum þáttum, svo sem markmiðum bankans um að styrkja eiginfjárgrunn sinn, skapa forsendur fyrir samruna við Byr sparisjóð og losna við eigin bréf sem safnast höfðu upp vegna umfangsmikilla kaupa EFL. Er hafið yfir allan vafa að opinberar upplýsingar um að bankinn hefði selt svo mikið magn af eigin bréfum, og fjármagnað söluna með þeim hætti sem gert var í umrætt sinn, hefðu verið til þess fallnar að hafa önnur og neikvæðari áhrif á gengi bréfanna á markaði en ef til þeirra hefði verið stofnað án slíkrar aðkomu bankans. Við þetta mat er einnig til þess að líta að um var að ræða stærstu einstöku viðskipti með bréf í Landsbanka Íslands hf. á árinu 2008 sem kallaði enn frekar á að upplýsingar yrðu veittar til markaðarins um hvernig fjármögnun þeirra hefði verið háttað. Samkvæmt framangreindu gat ákærða Sigurjóni Þorvaldi ekki dulist að þau viðskipti með eigin bréf Landsbanka Íslands hf. sem hann kom að með framangreindum hætti voru að óbreyttu líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna. Er hafið yfir skynsamlegan vafa að aldrei hafi staðið til af hálfu bankans að kynna markaðnum raunveruleg atvik að baki viðskiptunum og var ákærða sem bankastjóra það fullljóst. Ekki er á það fallist með honum að lögmætir hagsmunir bankans hafi við þessar aðstæður getað réttlætt að eftirspurn eftir bréfum Landsbanka Íslands hf. væri gefin ranglega eða misvísandi til kynna. Með ákvörðun sinni um lán til Imon ehf., sem var forsenda viðskiptanna, stöðu sinni sem æðsta yfirmanns verðbréfasviðs og fyrirtækjasviðs bankans og fullri vitneskju um tilgang viðskiptanna að öðru leyti braut ákærði Sigurjón Þorvaldur þar af leiðandi gegn a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007. Ákærða Sigríður Elín var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands hf., kom í stað staðgengils bankastjóra á fundum lánanefndar og bar ábyrgð á ákvörðunum um lán í samræmi við það. Óumdeilt er að umrædd lánveiting hefði ekki getað farið fram án hennar samþykkis og var aðkoma hennar því forsenda viðskiptanna. Þá sat ákærða jafnframt í fjármálanefnd bankans og hafði stöðu sinnar vegna yfirsýn yfir starfsemi allra sviða hans. Fyrir liggur að ákærðu var kunnugt um markmið þeirra viðskipta sem lántakan byggðist á og bar hún sjálf um það fyrir dómi að mat hennar á tryggingum fyrir láninu hefði verið háð því að um var að ræða sölu á eigin bréfum bankans með handveði í þeim sjálfum. Þótt viðskipti með eigin bréf bankans og miðlun verðbréfa að öðru leyti hafi ekki heyrt undir ákærðu er samkvæmt þessu hafið yfir vafa að henni var kunnugt um tilgang viðskiptanna. Af skýrslu ákærðu fyrir dómi verður ráðið að hún hafi ekki talið það heyra undir sitt verksvið að ganga úr skugga um hvort og hvernig viðskiptin yrðu tilkynnt á markaði eða kynnt opinberlega að öðru leyti. Það fær hins vegar ekki breytt því að samþykki hennar fyrir lánveitingunni var forsenda fyrir því að af sölu hlutabréfanna til Imon ehf. gæti orðið. Átti hún þannig þátt í því með liðsinni sínu að brot það sem ákærði Sigurjón Þorvaldur hefur verið sakfelldur fyrir var framið enda hlaut hún að gera sér grein fyrir, meðal annars með setu sinni í fjármálanefnd bankans, að viðskiptin gæfu ranga mynd af verðmæti bréfanna eða væru líkleg til að gera það. Samkvæmt því verður ákærða sakfelld fyrir hlutdeild í broti gegn a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. og 3. mgr. 147. gr. laga nr. 108/2007, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Sú niðurstaða er samrýmanleg 4. málslið 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008, enda verður litið svo á að vörn ákærðu hafi ekki verið áfátt að þessu leyti. 5 Með III. kafla ákærunnar er ákærða Sigurjóni Þorvaldi, ásamt dómfellda SG, sem forstöðumanni verðbréfamiðlunar, gefin að sök markaðsmisnotkun við sölu bankans á 200.000.000 hluta í Landsbanka Íslands hf., sem voru í eigu hans, til Imon ehf. 3. október 2008 fyrir 19,11 krónur á hvern hlut. Undir rekstri máls þessa sætir aðeins þáttur ákærða Sigurjóns Þorvaldar endurskoðunar svo sem fyrr greinir. Umrædd viðskipti eru í ákæru sögð hafa gefið eftirspurn hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. ranglega og misvísandi til kynna, eða verið líkleg til að gera það, og falið í sér blekkingu og sýndarmennsku, en með viðskiptunum og tilkynningu þeirra sem utanþingsviðskipta til Kauphallarinnar sama dag hafi ranglega verið látið líta svo út að fjárfestir hefði lagt fé til kaupa á tæplega 1,79% hlut í bankanum og borið fulla markaðsáhættu af viðskiptunum þótt ekki hefði verið gengið frá fjármögnun hlutabréfakaupanna. Ákærði Sigurjón Þorvaldur er ákærður fyrir að hafa tekið ákvörðun um viðskiptin og brot hans talið varða við a-lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr., laga nr. 108/2007 og umfjöllun í b-lið II. kafla ákæru. Í forsendum hins áfrýjaða dóms er fjallað um tilurð umræddra viðskipta. Hvað sem nánari atriðum þeirrar atburðarásar líður er í hinum áfrýjaða dómi lagt til grundvallar að um eiginleg viðskipti með 200.000.000 hluta í Landsbanka Íslands hf. hafi verið að ræða og ákvörðun legið fyrir um fjármögnun í samræmi við óundirrituð gögn sem ÁM, forstöðumaður á fyrirtækjasviði, hafði látið útbúa. Þá taldi héraðsdómur, einkum á grundvelli vitnisburðar ÁM, sannað að ákærði Sigurjón Þorvaldur hefði tekið ákvörðun um viðskiptin með hlutabréfin. ÁM bar á sama veg í skýrslutöku fyrir Hæstarétti. Er ekkert nýtt fram komið fyrir réttinum sem gerir líklegt að þessi niðurstaða hafi verið röng. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður því lagt til grundvallar að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi tekið ákvörðun um umrædd viðskipti. Ekki fer á milli mála að markmiðið með ráðstöfun hlutabréfanna til Imon ehf. umrætt sinn var, eins og við fyrrgreinda sölu hlutabréfa 30. september, að losa bankann við eigin hlutabréf, sem hann hafði áður keypt í ríkum mæli, og þá án þess að áhrif hefði til lækkunar á gengi hlutabréfa í félaginu í Kauphöll. Líkt og áður greinir í niðurstöðu réttarins um b-lið II. kafla ákærunnar getur ekki ráðið úrslitum hvort Imon ehf. bar einhverja markaðsáhættu af viðskiptunum, enda ljóst að áhætta félagsins var lítil miðað við heildarfjárhæð þeirra og byggðist hagkvæmni þeirra fyrir bankann ekki á markaðslegum forsendum tengdum verðmæti bréfanna og ávöxtun lána heldur fremur öðrum og óskyldum þáttum, einkum þeim markmiðum bankans að styrkja eiginfjárgrunn sinn, skapa forsendur fyrir samruna við Byr sparisjóð og losna við eigin bréf sem safnast höfðu upp vegna umfangsmikilla kaupa EFL á eigin bréfum. Þótt ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna að umrædd viðskipti hafi verið hrein sýndarviðskipti eða tilbúningur þannig að háttsemi ákærða verði heimfærð til 2. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 er allt að einu hafið yfir vafa að með ákvörðun sinni um viðskiptin mátti ákærði Sigurjón Þorvaldur vita að eftirspurn eftir bréfum bankans og þar með verðmæti þeirra væri gefið ranglega eða misvísandi til kynna. Er ekki á það fallist með ákærða að lögmætir hagsmunir bankans hafi við þessar aðstæður getað réttlætt að eftirspurn eftir bréfum Landsbanka Íslands hf. væri gefin ranglega eða misvísandi til kynna. Gerðist ákærði því með þessu sekur um brot gegn a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007 svo sem honum er gefið að sök í III. kafla ákæru. XI Samkvæmt framansögðu voru brot ákærðu til þess fallin að hafa veruleg áhrif á verð hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. og þar með raska tiltrú fjárfesta og almennings á fjármálamarkaðinum. Verða þeir hagsmunir sem hér voru í húfi ekki metnir til fjár. Við ákvörðun refsingar ákærða Sigurjóns Þorvaldar verður horft til þess að brot hans voru þáttur í kerfisbundinni markaðsmisnotkun bankans sem fjallað er um í I. kafla ákæru og leyst er úr með dómi réttarins í máli nr. 35/2019 sem kveðinn er upp samhliða máli þessu en með þeim dómi er ákærði dæmdur til 9 mánaða skilorðsbundnar fangelsisrefsingar. Jafnframt ber að líta til þess að ákærði Sigurjón Þorvaldur gegndi starfi bankastjóra Landsbanka Íslands hf. Á hinn bóginn verður það metið ákærða til málsbóta að hann vann verkið með hagsmuni bankans að leiðarljósi og hefur að nokkru gengist við þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök. Við ákvörðun refsingar vegna beggja málanna verður ákærða, eins og hér stendur á, gerð refsing í hvoru máli fyrir sig en þó með hliðjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt þessu og að teknu tilliti til 1., 3. og 7. töluliða 70. gr. almennra hegningarlaga verður refsing hans ákveðin 12 mánaða fangelsi. Fyrir liggur að meðferð málsins hefur tafist verulega, meðal annars vegna endurupptöku þess. Þær tafir eru ekki á ábyrgð ákærða. Þá tók rannsókn málsins langan tíma, en til þess er þó að líta í þeim efnum að nauðsyn bar til að rannsaka það sakarefni, sem leyst er úr að þessu sinni, samhliða sakarefnum samkvæmt I. kafla ákæru. Í þessu ljósi þykir rétt að skilorðsbinda refsinguna svo sem nánar greinir í dómsorði. Komi til afplánunar refsingar ber að draga að fullu frá refsingu ákærða gæsluvarðhald frá 14. til 21. janúar 2011. Ákærða Sigríður Elín var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans og þar með einn af æðstu stjórnendum hans. Þótt ljóst sé að þau viðskipti sem hún er sakfelld fyrir samkvæmt b-lið II. kafla ákæru hefðu ekki getað átt sér stað nema með samþykki hennar verður að horfa til þess að innan bankans bar hún ábyrgð á lánamálum. Kaup og sala á verðbréfum, svo og tilkynningar þar um, féllu utan venjulegs starfssviðs hennar. Eins og áður greinir um ákærða Sigurjón Þorvald léði ákærða einnig atbeina sinn til verksins með hagsmuni bankans að leiðarljósi og hefur að nokkru gengist við háttsemi sinni. Samkvæmt þessu og að teknu tilliti til 1., 3. og 7. töluliða 70. gr. almennra hegningarlaga hefði hæfileg refsing hennar numið fjögra mánaða fangelsi, sem skilorðsbundið hefði verið vegna tafa á meðferð málsins á sömu forsendum og í tilviki ákærða Sigurjóns Þorvaldar. Ákærða hefur hins vegar á grundvelli dóms Hæstaréttar í máli nr. 456/2014 afplánað 18 mánaða fangelsisrefsingu og verður henni því ekki gerð refsing í málinu. Ákærðu verður gert að greiða helming sakarkostnað málsins í héraði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna eins og þau eru þar ákveðin. Allur sakarkostnaður vegna reksturs hæstaréttarmáls nr. 456/2014 greiðist úr ríkissjóði með þeim fjárhæðum sem ákveðnar voru með dómi réttarins 8. október 2015. Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 6. mgr. 232. gr., sbr. 4. mgr. 231. gr., laga nr. 88/2008. Fer um málsvarnarlaun verjenda ákærðu eftir því sem í dómsorði greinir, en í fjárhæð þeirra er innifalinn virðisaukaskattur. Dómsorð: Ákærði Sigurjón Þorvaldur Árnason sæti fangelsi í 12 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Komi til afplánunar refsingar dregst óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 14. til 21. janúar 2011 frá refsingu. Ákærðu Sigríði Elínu Sigfúsdóttur er ekki gerð sérstök refsing. Helmingur málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða Sigurjóns Þorvaldar, Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns, 17.783.350 krónur, og ákærðu Sigríðar Elínar, Helgu Melkorku Óttarsdóttur lögmanns, 9.045.814 krónur fyrir héraðsdómi, greiðist úr ríkissjóði en helming málsvarnarlauna greiði ákærðu sjálf. Allur sakarkostnaður vegna reksturs hæstaréttarmáls nr. 456/2014 greiðist úr ríkissjóði með þeim fjárhæðum sem ákveðnar voru með dómi réttarins 8. október 2015. Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjenda ákærða Sigurjóns Þorvaldar, Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns 6.700.000 krónur og skipaðs verjanda Sigríðar Elínar, Helgu Melkorku Óttarsdóttur lögmanns 5.300.000 krónur.  
Mál nr. 10/2021
Kærumál Börn Barnavernd Lögvarðir hagsmunir Frávísunarúrskurður felldur úr gildi Gjafsókn
Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem máli A gegn BR var vísað frá dómi á þeim grundvelli að A skorti lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu um kröfu sína. Með úrskurði héraðsdóms 15. janúar 2021 hafði úrskurður BR verið staðfestur um að dóttir A yrði vistuð utan heimilis til 24. janúar sama ár á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sama dag höfðaði BR mál á hendur A og krafðist þess að hún yrði svipt forsjá dóttur sinnar á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. A kærði úrskurð héraðsdóms til Landsréttar 29. janúar 2021. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að í samræmi við ákvæði 2. mgr. 28. gr. laganna héldist sú ráðstöfun BR að vista barn A utan heimilis þar til dómur gengi um kröfu BR um sviptingu forsjár, enda hefði héraðsdómur ekki fallist á að fella úr gildi úrskurð BR um tímabundna vistun barns A utan heimilis. Var talið að þar sem sú ráðstöfun sem ákveðin hefði verið með úrskurði BR væri enn í gildi vegna ákvæðis 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga hefði A lögvarða hagsmuni af því að fá endurskoðaða fyrir æðri dómi niðurstöðu héraðsdóms um þann úrskurð. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst Landsrétti 17. febrúar 2021. Kærumálsgögn bárust Hæstarétti sama dag. Kærður er úrskurður Landsréttar 11. febrúar 2021 þar sem málinu var vísað frá réttinum. Kæruheimild er í 3. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir Landsrétt að taka kröfur hennar til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða sér kærumálskostnað án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. I Með úrskurði varnaraðila 24. nóvember 2020 var dóttir sóknaraðila vistuð utan heimilis í tvo mánuði eða til 24. janúar 2021 á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili bar úrskurð varnaraðila undir héraðsdóm með heimild í 2. mgr. 27. gr. laganna. Með úrskurði dómsins 15. janúar 2021 var úrskurður varnaraðila staðfestur, málskostnaður felldur niður milli aðila og mælt fyrir um að gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.100.000 krónur, skyldi greiddur úr ríkissjóði. Sama dag höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðila og krafðist þess að hún yrði svipt forsjá dóttur sinnar á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Málið var þingfest fyrir héraðsdómi 22. janúar 2021 og mun sæta þar flýtimeðferð, sbr. 53. gr. b barnaverndarlaga. Sóknaraðili kærði úrskurð héraðsdóms til Landsréttar 29. janúar 2021 og krafðist þess að úrskurður varnaraðila um vistun dóttur sinnar utan heimilis í tvo mánuði yrði felldur úr gildi, varnaraðila yrði gert að greiða sér kærumálskostnað, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, og að þóknun lögmanns hennar vegna meðferðar málsins í héraði yrði ákveðin 1.741.775 krónur. Með hinum kærða úrskurði Landsréttar 11. febrúar 2021 var máli sóknaraðila vísað frá réttinum á þeim grundvelli að varnaraðili hafi krafist þess að sóknaraðili yrði svipt forsjá dóttur sinnar áður en þeim tíma lauk sem hún var vistuð utan heimilis. Við þær aðstæður og með vísan til afdráttarlauss orðalags 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga yrði að líta svo á að áframhaldandi vistun stúlkunnar utan heimilis sóknaraðila sækti með ,,sjálfstæðum hætti“ stoð í það lagaákvæði allt þar til dómur gengi í forsjármálinu. Hefði sóknaraðili því ekki lögvarða hagsmuni af kröfu sinni um ógildingu ,,hins kærða úrskurðar“. Málinu var vísað frá Landsrétti og kærumálskostnaður felldur niður. Þá var í hinum kærða úrskurði kveðið á um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Landsrétti og þóknun lögmanns hennar fyrir réttinum. II 1 Sóknaraðili byggir kröfu sína um að hinum kærða úrskurði verði hnekkt í fyrsta lagi á því að í honum sé ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu hennar að úrskurður varnaraðila 24. nóvember 2020 yrði ógiltur. Í hinum kærða úrskurði sé á hinn bóginn tekið fram að sóknaraðila skorti lögvarða hagsmuni af kröfu sinni um ,,ógildingu hins kærða úrskurðar“. Sú krafa hafi ekki komið fram af hálfu sóknaraðila. Einnig skorti á að í hinum kærða úrskurði sé tekin afstaða til kröfu sóknaraðila um hækkun málflutningsþóknunar sem ákveðin hafi verið í héraðsdómi. Í annan stað reisir sóknaraðili kröfu sína á því að ráðstöfun samkvæmt a- og b-liðum 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga framlengist meðan dómari leysi úr kröfu barnaverndarnefndar um lengri vistun samkvæmt 27. eða 28. gr. laganna, eða kröfu um sviptingu forsjár samkvæmt 29. gr. þeirra. Sóknaraðili bendir á að niðurstaða Landsréttar feli í sér að ekki sé unnt að vinda ofan af ráðstöfun barnaverndarnefndar, þegar ekki eru uppfyllt skilyrði fyrir því að vista barn utan heimilis, fyrr en dómur gangi í máli sem höfðað hefur verið til sviptingar forsjár. Þótt ætla megi að slík tilvik séu fátíð vegi slík niðurstaða að réttaröryggi og hagsmunum foreldra og barna. Í þriðja lagi telur sóknaraðili að niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vistun barns utan heimilis sæki ,,með sjálfstæðum hætti“ stoð í 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga, eins og það sé orðað í hinum kærða úrskurði, verði ekki skilin á annan hátt en þann að réttur foreldra og þeirra barna sem náð hafa 15 ára aldri til að bera úrskurð barnaverndarnefndar undir héraðsdómara og síðan æðri dóm, ónýtist ef nefndin höfði mál gegn foreldri til sviptingar forsjár. Slík niðurstaða standist ekki enda sé sérstaklega mælt fyrir um réttinn til að leita úrlausnar dómstóla um úrskurð sem kveðinn er upp samkvæmt b-lið 1. mgr. 27. gr. laganna í 2. mgr. ákvæðisins. Í fjórða lagi bendir sóknaraðili á að löggjafinn hafi metið það svo að brýnt sé að héraðsdómur leysi úr málum af þeim toga sem hér um ræðir eins fljótt og auðið er og að heimilt sé að leita eftir endurskoðun Landsréttar á þeirri niðurstöðu. Í því ljósi sé örðugt að átta sig á hvers vegna talið sé að sóknaraðili hafi ekki lögvarða hagsmuni af kröfu sinni. Að lokum reisir sóknaraðili kröfu sína á að niðurstaða hins kærða úrskurðar samrýmist ekki stjórnarskrárvörðum rétti hennar til að bera úrskurð varnaraðila undir dómstóla, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar, auk þess sem hún fari gegn rétti hennar til að leita úrlausnar dómstóla um þá ákvörðun að taka dóttur hennar úr hennar umsjá, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Niðurstaða Landsréttar leiði til þess að réttur sóknaraðila samkvæmt 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga til að bera úrskurð varnaraðila undir æðri dóm sé í reynd ekki fyrir hendi þegar barnaverndarnefnd höfði á sama tíma mál til sviptingar forsjár. 2 Varnaraðili heldur því fram að dóttir sóknaraðila sé nú vistuð utan heimilis á grundvelli skýrs lagaákvæðis 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Í hinum kærða úrskurði Landsréttar hafi einungis verið til úrlausnar úrskurður varnaraðila 24. nóvember 2020 um vistun dóttur sóknaraðila utan heimilis til tveggja mánaða. Það vistunartímabil hafi runnið sitt skeið. Því hafi niðurstaða hins kærða úrskurðar verið sú að sóknaraðili hefði ekki lögvarða hagsmuni af kröfum sínum fyrir Landsrétti. Byggt er á því að fyrir liggi skýr fordæmi um að ef vistunartíma lýkur áður en úrskurður er kveðinn upp af hálfu dómstóla, séu lögvarðir hagsmunir sóknaraðila af því að fá úrskurði barnaverndarnefndar hnekkt ekki lengur fyrir hendi, sbr. dóma Hæstaréttar 7. desember 2011 í máli nr. 633/2011, 22. mars 2012 í máli nr. 168/2012 og 14. júní 2016 í máli nr. 422/2016. Varnaraðili bendir á að þegar kæra sóknaraðila hafi borist Landsrétti hafi tveggja mánaða vistunartíma verið lokið. Tafir á því að nýta málskotsrétt leiði til þess að málskot til Landsréttar ónýtist ef vistunartímabili úrskurðar varnaraðila er þá lokið. Varnaraðili telur að slíkt fyrirkomulag gangi ekki í berhögg við ákvæði 1. mgr. 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Varnaraðili bendir á að áframhaldandi vistun dóttur sóknaraðila að loknum tveggja mánaða vistunartíma á grundvelli úrskurðar varnaraðila byggist á skýru lagaboði 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Þar sem varnaraðili hafi krafist sviptingar forsjár áður en vistunartíma samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar lauk haldist sú ráðstöfun að vista barnið tímabundið utan heimilis að loknum gildistíma úrskurðarins. Þar sem viðbótarvistunartími á grundvelli framangreinds lagaákvæðis hafi verið hafinn er sóknaraðili kærði úrskurð héraðsdóms til Landsréttar hafi sóknaraðili ekki lengur lögvarða hagsmuni af kröfu sinni. Varnaraðili mótmælir málskostnaðarkröfu sóknaraðila og bendir á að þegar sóknaraðili krafðist endurskoðunar á úrskurði barnaverndarnefndar fyrir Landsrétti hafi vistunartími samkvæmt úrskurðinum verið liðinn. Lögmæti úrskurðarins hafi því verið borið undir dóm að ófyrirsynju. III Í 27. gr. barnaverndarlaga er fjallað um úrskurð barnaverndarnefndar um vistun barns utan heimilis. Í a-lið 1. mgr. greinarinnar segir að með þeim skilyrðum sem kveðið er á um í 26. gr. laganna og ef brýnir hagsmunir barns mæli með því geti barnaverndarnefnd með úrskurði gegn vilja foreldra og/eða barns sem náð hefur 15 ára aldri kveðið á um að barn skuli vera kyrrt á þeim stað þar sem það dvelst í allt að tvo mánuði. Í b-lið 1. mgr. 27. gr. kemur meðal annars fram að barnaverndarnefnd geti með úrskurði kveðið á um töku barns af heimili í allt að tvo mánuði og um nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi þess eða til að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barni og veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu. Í 2. mgr. 27. gr. segir að foreldrum eða barni sem náð hefur 15 ára aldri sé heimilt að bera úrskurð barnaverndarnefndar undir héraðsdómara innan tilskilins frests. Málskot til dómstóla komi þó ekki í veg fyrir að úrskurður barnaverndarnefndar komi til framkvæmda. Eins og rakið hefur verið kvað varnaraðili upp úrskurð 24. nóvember 2020 á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga um að dóttir sóknaraðila skyldi vistuð á heimili á vegum varnaraðila í tvo mánuði til 24. janúar 2021. Samkvæmt 28. gr. laganna, sem fjallar um úrskurð dómstóls um vistun barns utan heimilis, getur barnaverndarnefnd gert kröfu um það fyrir héraðsdómi að ráðstöfun samkvæmt a- og b-liðum 27. gr. standi lengur en þar er kveðið á um og er þá heimilt með úrskurði dómara að vista barn í allt að tólf mánuði í senn frá og með þeim degi þegar úrskurður dómara er kveðinn upp. Ef krafist er framlengingar vistunar samkvæmt 27. eða 28. gr. barnaverndarlaga eða forsjársviptingar samkvæmt 29. gr. laganna áður en vistunartíma lýkur er kveðið svo á um í 2. mgr. 28. gr. laganna að ráðstöfun haldist þar til úrskurður eða dómur liggur fyrir. Að baki ákvæði 2. mgr. 28. gr. standa þau rök að hagsmunir barns séu best tryggðir með því að ákveðin samfella verði í vistun þess meðan ágreiningsmálum um áframhaldandi vistun eða forsjársviptingu er ráðið til lykta. Af hálfu varnaraðila hefur því verið haldið fram að fyrir liggi skýr fordæmi Hæstaréttar um að ef vistunartíma er lokið samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar áður en úrskurður dómstóls um vistunina liggur fyrir, hafi málskotsaðilar samkvæmt 2. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Um þetta hefur varnaraðili vísað til fyrrgreindra dóma Hæstaréttar í málum nr. 633/2011, 168/2012 og 422/2016. Dómar Hæstaréttar í málum nr. 633/2011 og 168/2012 eiga það sammerkt að sá tími sem vistun barna þeirra sem í hlut áttu var markaður hafði runnið sitt skeið þegar málið kom til kasta Hæstaréttar og ekki verður ráðið af dómum þessum að krafist hafi verið áframhaldandi vistunar eða forsjársviptingar, sbr. 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Hinir lögvörðu hagsmunir af því að fá endurskoðaða ákvörðun barnaverndarnefndar voru því ekki lengur fyrir hendi. Í því máli sem dómur Hæstaréttar í máli nr. 422/2016 tekur til hagaði svo til að héraðsdómur hafði tekið ákvörðun um að framlengja vistun barna þeirra sem í hlut áttu frá því sem upphaflega var ákveðið með úrskurði barnaverndarnefndar, sbr. 2. mgr. 28. gr. laganna. Í því ljósi hafði móðir barnanna ekki lögvarða hagsmuni af því að fá sérstaklega endurskoðaðan fyrir Hæstarétti þann úrskurð barnaverndarnefndar sem upphaflega hafði verið kveðinn upp, en þess í stað var endurskoðaður úrskurður héraðsdóms um framlengingu vistunar utan heimilis. Í máli því sem hér er til úrlausnar hagar á hinn bóginn svo til að varnaraðili hefur höfðað mál á hendur sóknaraðila og krafist þess að hún verði svipt forsjá dóttur sinnar á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, en niðurstaða dómstóls um þá kröfu liggur ekki fyrir. Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 28. gr. laganna helst því sú ráðstöfun varnaraðila að vista barn sóknaraðila utan heimilis þar til dómur gengur um kröfu varnaraðila um sviptingu forsjár, enda féllst héraðsdómur ekki á að fella úr gildi úrskurð varnaraðila um tímabundna vistun barns sóknaraðila utan heimilis. Þar sem sú ráðstöfun sem ákveðin var með úrskurði varnaraðila 24. nóvember 2020 er enn í gildi vegna ákvæðis 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga hefur sóknaraðili lögvarða hagsmuni af því að fá endurskoðaða fyrir æðri dómi niðurstöðu héraðsdóms um þann úrskurð. Í þessu samhengi verður að túlka kröfuna um lögvarða hagsmuni í ljósi 60. og 70. gr. stjórnarskrárinnar og með tilliti til friðhelgi fjölskyldu, sbr. 1. mgr. 71. gr. hennar. Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Við þá efnismeðferð komi auk þess sem að framan er rakið til skoðunar sá annmarki á hinum kærða úrskurði að ekki var tekin afstaða til kröfu sóknaraðila um endurskoðun á fjárhæð málflutningsþóknunar lögmanns hennar fyrir héraðsdómi. Kærumálskostnaður verður felldur niður en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir. Við ákvörðun þóknunar lögmanns sóknaraðila er litið til þess að samhliða þessu máli er rekið sambærilegt mál fyrir Hæstarétti vegna annars barns sóknaraðila. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Kærumálskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.     Úrskurður Landsréttar 11. febrúar 2021. Landsréttardómararnir Jóhannes Sigurðsson, Oddný Mjöll Arnardóttir og Ragnheiður Bragadóttir kveða upp úrskurð í máli þessu. Málsmeðferð og dómkröfur aðila Sóknaraðili, A, skaut málinu til Landsréttar með kæru 29. janúar 2021 en kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Greinargerð varnaraðila barst réttinum 3. febrúar 2021. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2021 í málinu nr. U-8060/2020 þar sem staðfestur var úrskurður varnaraðila 24. nóvember 2020 um að dóttir sóknaraðila, B, skyldi vistuð utan heimilis móður sinnar í tvo mánuði frá 24. nóvember 2020. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og úrskurður varnaraðila 24. nóvember 2020 verði felldur úr gildi. Þá krefst sóknaraðili þess að málflutningsþóknun lögmanns hennar vegna rekstrar málsins fyrir héraðsdómi verði ákveðin 1.741.775 krónur auk virðisaukaskatts og kærumálskostnaðar líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál. Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá Landsrétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Niðurstaða Með úrskurði varnaraðila 24. nóvember 2020 var dóttir sóknaraðila vistuð utan heimilis í tvo mánuði frá þeim degi. Varnaraðili fól jafnframt borgarlögmanni að annast fyrirsvar og gera kröfu um að sóknaraðili og faðir stúlkunnar skyldu svipt forsjá hennar á grundvelli a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Hinn 24. janúar 2021 rann út sá vistunartími sem kveðið var á um í úrskurði varnaraðila 24. nóvember 2020. Áður en vistunartímanum lauk krafðist varnaraðili þess að foreldrar stúlkunnar yrðu sviptir forsjá hennar. Réttarstefna vegna forsjársviptingarmálsins var gefin út af héraðsdómara 11. janúar 2021 og birt fyrir lögmanni sóknaraðila 15. sama mánaðar. Málið mun hafa verið þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 22. sama mánaðar og vera rekið undir málsnúmerinu E-113/2021. Málið sætir flýtimeðferð samkvæmt 53. gr. b barnaverndarlaga. Í 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga segir að ef krafist er framlengingar vistunar samkvæmt 27. eða 28. gr. laganna eða forsjársviptingar samkvæmt 29. gr. áður en vistunartíma lýkur haldist ráðstöfun þar til úrskurður eða dómur liggur fyrir. Með ákvæðinu er tryggð samfella í vistun barns meðan ágreiningsmálum varðandi áframhaldandi vistun eða forsjársviptingu er ráðið til lykta fyrir dómstólum. Eins og að framan greinir krafðist varnaraðili þess, áður en fyrrgreindum vistunartíma lauk, að sóknaraðili yrði svipt forsjá dóttur sinnar. Við þessar aðstæður og með vísan til afdráttarlauss orðalags 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga verður að líta svo á að áframhaldandi vistun stúlkunnar utan heimilis sæki með sjálfstæðum hætti stoð í það lagaákvæði allt þar til dómur gengur í forsjársviptingarmálinu. Sóknaraðili hefur því ekki lögvarða hagsmuni af kröfu sinni um ógildingu hins kærða úrskurðar. Samkvæmt því verður málinu vísað frá Landsrétti. Kærumálskostnaður fellur niður. Um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Landsrétti fer eins og í úrskurðarorði greinir en þóknun lögmanns hennar er þar tilgreind án virðisaukaskatts í samræmi við venju. Við ákvörðun þóknunar lögmannsins hefur verið litið til þess að sambærilegt mál vegna annars barns sóknaraðila er rekið samhliða þessu máli. Úrskurðarorð: Máli þessu er vísað frá Landsrétti. Kærumálskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, 323.000 krónur.    
Mál nr. 11/2021
Kærumál Börn Barnavernd Lögvarðir hagsmunir Frávísunarúrskurður felldur úr gildi Gjafsókn
Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem máli A gegn BR var vísað frá dómi á þeim grundvelli að A skorti lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu um kröfu sína. Með úrskurði héraðsdóms 15. janúar 2021 hafði úrskurður BR verið staðfestur um að sonur A yrði vistaður utan heimilis til 24. janúar sama ár á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sama dag höfðaði BR mál á hendur A og krafðist þess að hún yrði svipt forsjá sonar síns á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. A kærði úrskurð héraðsdóms til Landsréttar 29. janúar 2021. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að í samræmi við ákvæði 2. mgr. 28. gr. laganna héldist sú ráðstöfun BR að vista barn A utan heimilis þar til dómur gengi um kröfu BR um sviptingu forsjár, enda hefði héraðsdómur ekki fallist á að fella úr gildi úrskurð BR um tímabundna vistun barns A utan heimilis. Var talið að þar sem sú ráðstöfun sem ákveðin hefði verið með úrskurði BR væri enn í gildi vegna ákvæðis 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga hefði A lögvarða hagsmuni af því að fá endurskoðaða fyrir æðri dómi niðurstöðu héraðsdóms um þann úrskurð. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst Landsrétti 17. febrúar 2021. Kærumálsgögn bárust Hæstarétti sama dag. Kærður er úrskurður Landsréttar 11. febrúar 2021 þar sem málinu var vísað frá réttinum. Kæruheimild er í 3. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir Landsrétt að taka kröfur hennar til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða sér kærumálskostnað án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.  I Með úrskurði varnaraðila 24. nóvember 2020 var sonur sóknaraðila vistaður utan heimilis í tvo mánuði eða til 24. janúar 2021 á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili bar úrskurð varnaraðila undir héraðsdóm með heimild í 2. mgr. 27. gr. laganna. Með úrskurði dómsins 15. janúar 2021 var úrskurður varnaraðila staðfestur, málskostnaður felldur niður milli aðila og mælt fyrir um að gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur, skyldi greiddur úr ríkissjóði. Sama dag höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðila og krafðist þess að hún yrði svipt forsjá sonar síns á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Málið var þingfest fyrir héraðsdómi 22. janúar 2021 og mun sæta þar flýtimeðferð, sbr. 53. gr. b barnaverndarlaga. Sóknaraðili kærði úrskurð héraðsdóms til Landsréttar 29. janúar 2021 og krafðist þess að úrskurður varnaraðila um vistun sonar síns utan heimilis í tvo mánuði yrði felldur úr gildi, varnaraðila yrði gert að greiða henni kærumálskostnað eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, og að þóknun lögmanns hennar vegna meðferðar málsins í héraði yrði ákveðin 620.000 krónur. Með hinum kærða úrskurði Landsréttar 11. febrúar 2021 var máli sóknaraðila vísað frá réttinum á þeim grundvelli að varnaraðili hafi krafist þess að sóknaraðili yrði svipt forsjá sonar síns áður en þeim tíma lauk sem hann var vistaður utan heimilis. Við þær aðstæður og með vísan til afdráttarlauss orðalags 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga yrði að líta svo á að áframhaldandi vistun drengsins utan heimilis sóknaraðila sækti með ,,sjálfstæðum hætti“ stoð í það lagaákvæði allt þar til dómur gengi í forsjármálinu. Hefði sóknaraðili því ekki lögvarða hagsmuni af kröfu sinni um ógildingu ,,hins kærða úrskurðar“. Málinu var vísað frá Landsrétti og kærumálskostnaður felldur niður. Þá var í hinum kærða úrskurði kveðið á um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Landsrétti og þóknun lögmanns hennar fyrir réttinum. II 1 Sóknaraðili byggir kröfu sína um að hinum kærða úrskurði verði hnekkt í fyrsta lagi á því að í honum sé ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu hennar að úrskurður varnaraðila 24. nóvember 2020 yrði ógiltur. Í hinum kærða úrskurði sé á hinn bóginn tekið fram að sóknaraðila skorti lögvarða hagsmuni af kröfu sinni um ,,ógildingu hins kærða úrskurðar“. Sú krafa hafi ekki komið fram af hálfu sóknaraðila. Einnig skorti á að í hinum kærða úrskurði sé tekin afstaða til kröfu sóknaraðila um hækkun málflutningsþóknunar sem ákveðin hafi verið í héraðsdómi. Í annan stað reisir sóknaraðili kröfu sína á því að ráðstöfun samkvæmt a- og b-liðum 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga framlengist meðan dómari leysi úr kröfu barnaverndarnefndar um lengri vistun samkvæmt 27. eða 28. gr. laganna, eða kröfu um sviptingu forsjár samkvæmt 29. gr. þeirra. Sóknaraðili bendir á að niðurstaða Landsréttar feli í sér að ekki sé unnt að vinda ofan af ráðstöfun barnaverndarnefndar, þegar ekki eru uppfyllt skilyrði fyrir því að vista barn utan heimilis, fyrr en dómur gangi í máli sem höfðað hefur verið til sviptingar forsjár. Þótt ætla megi að slík tilvik séu fátíð vegi slík niðurstaða að réttaröryggi og hagsmunum foreldra og barna. Í þriðja lagi telur sóknaraðili að niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vistun barns utan heimilis sæki ,,með sjálfstæðum hætti“ stoð í 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga, eins og það sé orðað í hinum kærða úrskurði, verði ekki skilin á annan hátt en þann að réttur foreldra og þeirra barna sem náð hafa 15 ára aldri til að bera úrskurð barnaverndarnefndar undir héraðsdómara og síðan æðri dóm, ónýtist ef nefndin höfði mál gegn foreldri til sviptingar forsjár. Slík niðurstaða standist ekki enda sé sérstaklega mælt fyrir um réttinn til að leita úrlausnar dómstóla um úrskurð sem kveðinn er upp samkvæmt b-lið 1. mgr. 27. gr. laganna í 2. mgr. ákvæðisins. Í fjórða lagi bendir sóknaraðili á að löggjafinn hafi metið það svo að brýnt sé að héraðsdómur leysi úr málum af þeim toga sem hér um ræðir, eins fljótt og auðið er og að heimilt sé að leita eftir endurskoðun Landsréttar á þeirri niðurstöðu. Í því ljósi sé örðugt að átta sig á hvers vegna talið sé að sóknaraðili hafi ekki lögvarða hagsmuni af kröfu sinni. Að lokum reisir sóknaraðili kröfu sína á að niðurstaða hins kærða úrskurðar samrýmist ekki stjórnarskrárvörðum rétti hennar til að bera úrskurð varnaraðila undir dómstóla, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar, auk þess sem hún fari gegn rétti hennar til að leita úrlausnar dómstóla um þá ákvörðun að taka son hennar úr hennar umsjá, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Niðurstaða Landsréttar leiði til þess að réttur sóknaraðila samkvæmt 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga til að bera úrskurð varnaraðila undir æðri dóm sé í reynd ekki fyrir hendi þegar barnaverndarnefnd höfði á sama tíma mál til sviptingar forsjár. 2 Varnaraðili  heldur því fram að sonur sóknaraðila sé nú vistaður utan heimilis á grundvelli skýrs lagaákvæðis 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Í hinum kærða úrskurði Landsréttar hafi einungis verið til úrlausnar úrskurður varnaraðila 24. nóvember 2020 um vistun sonar sóknaraðila utan heimilis til tveggja mánaða. Það vistunartímabil hafi runnið sitt skeið. Því hafi niðurstaða hins kærða úrskurðar verið sú að sóknaraðili hefði ekki lögvarða hagsmuni af kröfum sínum fyrir Landsrétti. Byggt er á því að fyrir liggi skýr fordæmi um að ef vistunartíma lýkur áður en úrskurður er kveðinn upp af hálfu dómstóla, séu lögvarðir hagsmunir sóknaraðila af því að fá úrskurði barnaverndarnefndar hnekkt ekki lengur fyrir hendi, sbr. dóma Hæstaréttar 7. desember 2011 í máli nr. 633/2011, 22. mars 2012 í máli nr. 168/2012 og 14. júní 2016 í máli nr. 422/2016. Varnaraðili bendir á að þegar kæra sóknaraðila hafi borist  Landsrétti hafi tveggja mánaða vistunartíma verið lokið. Tafir á því að nýta málskotsrétt leiði til þess að málskot til Landsréttar ónýtist ef vistunartímabili úrskurðar varnaraðila er þá lokið. Varnaraðili telur að slíkt fyrirkomulag gangi ekki í berhögg við ákvæði 1. mgr. 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Varnaraðili bendir á að áframhaldandi vistun sonar sóknaraðila að loknum tveggja mánaða vistunartíma á grundvelli úrskurðar varnaraðila byggist á skýru lagaboði 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Þar sem varnaraðili hafi krafist sviptingar forsjár áður en vistunartíma samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar lauk hafi haldist sú ráðstöfun að vista barnið tímabundið utan heimilis að loknum gildistíma úrskurðarins. Þar sem viðbótarvistunartími á grundvelli framangreinds lagaákvæðis hafi verið hafinn er sóknaraðili kærði úrskurð héraðsdóms til Landsréttar hafi sóknaraðili ekki lengur lögvarða hagsmuni af kröfu sinni. Varnaraðili mótmælir málskostnaðarkröfu sóknaraðila og bendir á að þegar sóknaraðili krafðist endurskoðunar á úrskurði barnaverndarnefndar fyrir Landsrétti hafi vistunartími samkvæmt úrskurðinum verið liðinn. Lögmæti úrskurðarins hafi því verið borið undir dóm að ófyrirsynju. III Í 27. gr. barnaverndarlaga er fjallað um úrskurð barnaverndarnefndar um vistun barns utan heimilis. Í a-lið 1. mgr. greinarinnar segir að með þeim skilyrðum sem kveðið er á um í 26. gr. laganna og ef brýnir hagsmunir barns mæli með því geti barnaverndarnefnd með úrskurði gegn vilja foreldra og/eða barns sem náð hefur 15 ára aldri kveðið á um að barn skuli vera kyrrt á þeim stað þar sem það dvelst í allt að tvo mánuði. Í b-lið 1. mgr. 27. gr. kemur meðal annars fram að barnaverndarnefnd geti með úrskurði kveðið á um töku barns af heimili í allt að tvo mánuði og um nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi þess eða til að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barni og veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu. Í 2. mgr. 27. gr. segir að foreldrum eða barni sem náð hefur 15 ára aldri sé heimilt að bera úrskurð barnaverndarnefndar undir héraðsdómara innan tilskilins frests. Málskot til dómstóla komi þó ekki í veg fyrir að úrskurður barnaverndarnefndar komi til framkvæmda. Eins og rakið hefur verið kvað varnaraðili upp úrskurð 24. nóvember 2020 á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga um að sonur sóknaraðila skyldi vistaður á heimili á vegum varnaraðila í tvo mánuði til 24. janúar 2021. Samkvæmt 28. gr. laganna, sem fjallar um úrskurð dómstóls um vistun barns utan heimilis, getur barnaverndarnefnd gert kröfu um það fyrir héraðsdómi að ráðstöfun samkvæmt a- og b-liðum 27. gr. standi lengur en þar er kveðið á um og er þá heimilt með úrskurði dómara að vista barn í allt að tólf mánuði í senn frá og með þeim degi þegar úrskurður dómara er kveðinn upp. Ef krafist er framlengingar vistunar samkvæmt 27. eða 28. gr. barnaverndarlaga eða forsjársviptingar samkvæmt 29. gr. laganna  áður en vistunartíma lýkur er kveðið svo á um í 2. mgr. 28. gr. laganna að ráðstöfun haldist þar til úrskurður eða dómur liggur fyrir. Að baki ákvæði 2. mgr. 28. gr. standa þau rök að hagsmunir barns séu best tryggðir með því að ákveðin samfella verði í vistun þess meðan ágreiningsmálum um áframhaldandi vistun eða forsjársviptingu er ráðið til lykta. Af hálfu varnaraðila hefur því verið haldið fram að fyrir liggi skýr fordæmi Hæstaréttar um að ef vistunartíma er lokið samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar áður en úrskurður dómstóls um vistunina liggur fyrir, hafi málskotsaðilar samkvæmt 2. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Um þetta hefur varnaraðili vísað til fyrrgreindra dóma Hæstaréttar í málum nr. 633/2011, 168/2012 og 422/2016. Dómar Hæstaréttar í málum nr. 633/2011 og 168/2012 eiga það sammerkt að sá tími sem vistun barna þeirra sem í hlut áttu var markaður hafði runnið sitt skeið  þegar málið kom til kasta Hæstaréttar og ekki verður ráðið af dómum þessum að krafist hafi verið áframhaldandi vistunar eða forsjársviptingar, sbr. 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Hinir lögvörðu hagsmunir af því að fá endurskoðaða ákvörðun barnaverndarnefndar voru því ekki lengur fyrir hendi. Í því máli sem dómur Hæstaréttar í máli nr. 422/2016 tekur til hagaði svo til að héraðsdómur hafði tekið ákvörðun um að framlengja vistun barna þeirra sem í hlut áttu frá því sem upphaflega var ákveðið með úrskurði barnaverndarnefndar, sbr. 2. mgr. 28. gr. laganna. Í því ljósi hafði móðir barnanna ekki lögvarða hagsmuni af því að fá sérstaklega endurskoðaða fyrir Hæstarétti þá ákvörðun barnaverndarnefndar sem upphaflega hafði verið tekin, en þess í stað var endurskoðaður úrskurður héraðsdóms um framlengingu vistunar utan heimilis. Í máli því sem hér er til úrlausnar hagar á hinn bóginn svo til að varnaraðili hefur höfðað mál á hendur sóknaraðila og krafist þess að hún verði svipt forsjá sonar síns á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, en niðurstaða dómstóls um þá kröfu liggur ekki fyrir. Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 28. gr. laganna helst því sú ráðstöfun varnaraðila að vista barn sóknaraðila utan heimilis þar til dómur gengur um kröfu varnaraðila um sviptingu forsjár, enda féllst héraðsdómur ekki á að fella úr gildi úrskurð varnaraðila um tímabundna vistun barns sóknaraðila utan heimilis. Þar sem sú ráðstöfun sem ákveðin var með úrskurði varnaraðila 24. nóvember 2020 er enn í gildi vegna ákvæðis 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga hefur sóknaraðili lögvarða hagsmuni af því að fá endurskoðaða fyrir æðri dómi niðurstöðu héraðsdóms um þann úrskurð. Í þessu samhengi verður að túlka kröfuna um lögvarða hagsmuni í ljósi 60. og 70. gr. stjórnarskrárinnar og með tilliti til friðhelgi fjölskyldu, sbr. 1. mgr. 71. gr. hennar. Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Við þá efnismeðferð komi auk þess sem að framan er rakið til skoðunar sá annmarki á hinum kærða úrskurði að ekki var tekin afstaða til kröfu sóknaraðila um endurskoðun á fjárhæð málflutningsþóknunar lögmanns hennar fyrir héraðsdómi. Kærumálskostnaður verður felldur niður en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir. Við ákvörðun þóknunar lögmanns sóknaraðila er litið til þess að samhliða þessu máli er rekið sambærilegt mál fyrir Hæstarétti vegna annars barns sóknaraðila. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Kærumálskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.   Úrskurður Landsréttar 11. febrúar 2021. Landsréttardómararnir Jóhannes Sigurðsson, Oddný Mjöll Arnardóttir og Ragnheiður Bragadóttir kveða upp úrskurð í máli þessu. Málsmeðferð og dómkröfur aðila Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 29. janúar 2021 en kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Greinargerð varnaraðila barst réttinum 3. febrúar 2021. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2021 í málinu nr. U-8061/2020 þar sem staðfestur var úrskurður varnaraðila 24. nóvember 2020 um að sonur sóknaraðila, B, skyldi vistaður utan heimilis sóknaraðila í tvo mánuði frá 24. nóvember 2020. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og úrskurður varnaraðila 24. nóvember 2020 verði felldur úr gildi. Þá krefst sóknaraðili þess að málflutningsþóknun lögmanns hennar vegna rekstrar málsins fyrir héraðsdómi verði ákveðin 620.000 krónur auk virðisaukaskatts og málskostnaðar fyrir Landsrétti líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál. Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá Landsrétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Niðurstaða Með úrskurði varnaraðila 24. nóvember 2020 var sonur sóknaraðila vistaður utan heimilis í tvo mánuði frá þeim degi. Varnaraðili fól jafnframt borgarlögmanni að annast fyrirsvar og gera kröfu um að sóknaraðili skyldi svipt forsjá drengsins á grundvelli a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Hinn 24. janúar 2021 rann út sá vistunartími sem kveðið var á um í úrskurði varnaraðila 24. nóvember 2020. Áður en vistunartímanum lauk krafðist varnaraðili þess að sóknaraðili yrði svipt forsjá drengsins. Réttarstefna vegna forsjársviptingarmálsins var gefin út af héraðsdómara 11. janúar 2021 og birt fyrir lögmanni sóknaraðila 15. sama mánaðar. Málið mun hafa verið þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 22. sama mánaðar og vera rekið undir málsnúmerinu E-104/2021. Málið sætir flýtimeðferð samkvæmt 53. gr. b barnaverndarlaga. Í 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga segir að ef krafist er framlengingar vistunar samkvæmt 27. eða 28. gr. laganna eða forsjársviptingar samkvæmt 29. gr. áður en vistunartíma lýkur haldist ráðstöfun þar til úrskurður eða dómur liggur fyrir. Með ákvæðinu er tryggð samfella í vistun barns meðan ágreiningsmálum varðandi áframhaldandi vistun eða forsjársviptingu er ráðið til lykta fyrir dómstólum. Eins og að framan greinir krafðist varnaraðili þess, áður en fyrrgreindum vistunartíma lauk, að sóknaraðili yrði svipt forsjá sonar síns. Við þessar aðstæður og með vísan til afdráttarlauss orðalags 2. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga verður að líta svo á að áframhaldandi vistun drengsins utan heimilis sóknaraðila sæki með sjálfstæðum hætti stoð í það lagaákvæði allt þar til dómur gengur í forsjársviptingarmálinu. Sóknaraðili hefur því ekki lögvarða hagsmuni af kröfu sinni um ógildingu hins kærða úrskurðar. Samkvæmt því verður málinu vísað frá Landsrétti. Kærumálskostnaður fellur niður. Um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Landsrétti fer eins og í úrskurðarorði greinir en þóknun lögmanns hennar er þar tilgreind án virðisaukaskatts í samræmi við venju. Við ákvörðun þóknunar lögmannsins hefur verið litið til þess að sambærilegt mál vegna annars barns sóknaraðila er rekið samhliða þessu máli. Úrskurðarorð: Máli þessu er vísað frá Landsrétti. Kærumálskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, 323.000 krónur.  
Mál nr. 26/2020
Samkeppni Stjórnvaldssekt Misnotkun á markaðsráðandi stöðu Upplýsingaskylda Stjórnarskrá
Í ákvörðun S í júlí 2016 var komist að þeirri niðurstöðu að MS ehf. hefði verið í markaðsráðandi stöðu á nánar tilteknum markaði og að félagið hefði misnotað þá stöðu og brotið með því gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Þá var MS ehf. einnig talið hafa brotið gegn 19. gr. samkeppnislaga með því að hafa gefið rangar upplýsingar og ekki lagt fram framlegðar- og verkaskiptasamkomulag við KS ehf. við rannsókn S. Var MS ehf. gert að greiða 480.000.000 krónur í stjórnvaldssekt. MS ehf. kærði ákvörðun S til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem felldi hana úr gildi með úrskurði í nóvember 2016 að öðru leyti en því að MS ehf. skyldi greiða 40.000.000 krónur vegna brots gegn 19. gr. samkeppnislaga. Bæði S og MS ehf. höfðuðu í kjölfarið mál til ógildingar á framangreindum úrskurði að hluta og voru málin sameinuð í héraði. Í dómi Hæstaréttar var frávísunarkröfu MS ehf. hafnað og ekki talið að dómstólar færu út fyrir stjórnskipulegt hlutverk sitt samkvæmt 2. og 60. gr. stjórnarskrárinnar með því að leggja á sekt í samkeppnismáli samhliða ógildingu á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Þá taldi Hæstiréttur ljóst að markmið samkomulags MS ehf. og KS ehf. um framlegðar- og verkaskipti hefði ekki verið einskorðað við afkomuskiptingu vegna einstaka tegunda framleiðsluvara tengdum verkaskiptingunni heldur miðaði einnig að heildarjöfnun á hlutfallslegri framlegð í greininni óháð verkaskiptingu afurðastöðva. Var samkomulagið ekki talið geta rúmast innan heimilda 71. gr. búvörulaga nr. 99/1993 eða hvílt á öðrum heimildum laganna. Hæstiréttur taldi ekki undirorpið vafa að MS ehf. hafi verið í markaðsráðandi stöðu á viðkomandi markaði. Félagið hefði selt hrámjólk til tengdra aðila á mun lægra verði en ótengdum aðilum og sú mismunun hafi veitt hinum tengdu aðilum óeðlilegt forskot í samkeppni á markaði málsins. MS ehf. var því talið hafa mismunað viðskiptaaðilum sínum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og þannig veikt samkeppnisstöðu þeirra og með því brotið með alvarlegum hætti gegn c-lið 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga. Þá hafi sú mikla mismunun sem var á verðlagningu MS ehf. til ótengdra aðila og verði til eigin framleiðslu falið í sér alvarlegan og langvarandi verðþrýsting sem hafi einnig verið til þess fallinn að verja markaðsráðandi stöðu félagsins. Hæstiréttur taldi jafnframt að MS ehf. hefði brotið gegn 19. gr. samkeppnislaga með því að leggja ekki fram áðurnefnt samkomulag sitt og KS ehf. við rannsókn S. Hvað varðaði fjárhæð stjórnvaldssektarinnar vísaði Hæstiréttur til þess að brot MS ehf. hafi verið alvarlegt auk þess sem það hafi staðið lengi. Þá fólst í broti MS ehf. ítrekun á fyrra broti þótt að ekki hafi verið ákveðin sekt í fyrra málinu. Var MS ehf. gert að greiða samtals 480.000.000 krónur í ríkissjóð vegna brota gegn 11. og 19. gr. samkeppnislaga.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. maí 2020. Hann krefst aðallega annars vegar sýknu af þeirri kröfu stefnda Samkeppniseftirlitsins að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 18. nóvember 2016 í máli nr. 4/2016 verði ógiltur að því leyti sem þar er felldur úr gildi sá hluti ákvörðunar stefnda Samkeppniseftirlitsins nr. 19/2016 að áfrýjandi skuli greiða 440.000.000 króna stjórnvaldssekt í ríkissjóð, vegna brots á 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, og hins vegar að vísað verði frá dómi kröfu stefnda um að áfrýjanda verði gert að greiða 440.000.000 króna sekt í ríkissjóð. Áfrýjandi krefst þess jafnframt að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála verði ógiltur að því leyti sem honum var gert að greiða 40.000.000 króna sekt vegna brots gegn 19. gr. samkeppnislaga. Þá krefst hann þess gagnvart stefnda íslenska ríkinu að því verði gert að endurgreiða sér 40.000.000 króna með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Til vara krefst áfrýjandi þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnda Samkeppniseftirlitsins um að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála verði ógiltur að nánar tilteknu leyti og honum gert að greiða 440.000.000 króna sekt í ríkissjóð. Áfrýjandi krefst þess jafnframt að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála verði ógiltur að því leyti sem honum var gert að greiða 40.000.000 króna sekt vegna brots gegn 19. gr. samkeppnislaga. Þá krefst áfrýjandi þess gagnvart stefnda íslenska ríkinu að því verði gert að endurgreiða sér 40.000.000 króna með nánar tilgreindum dráttarvöxtum.  Til þrautavara krefst áfrýjandi þess að jafnvel þótt fallist verði á kröfu stefnda Samkeppniseftirlitsins um ógildingu úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála verði sekt ekki lögð á hann. Áfrýjandi krefst þess jafnframt að úrskurðinum verði breytt á þann veg að sektin sem lögð var á hann verði felld niður. Þá krefst áfrýjandi þess gagnvart stefnda íslenska ríkinu að því verði gert að endurgreiða 40.000.000 króna með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Að því frágengnu krefst áfrýjandi þess að krafa stefnda Samkeppniseftirlitsins um greiðslu 440.000.000 króna sektar í ríkissjóð verði ákveðin mun lægri. Áfrýjandi krefst þess jafnframt að úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála verði breytt á þann veg að sektin sem lögð var á hann verði lækkuð verulega. Þá krefst hann þess að stefnda íslenska ríkinu verði gert að endurgreiða honum mismun á 40.000.000 króna og þeirri sekt sem ákvörðuð kann að verða með dómi með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Áfrýjandi krefst í öllum tilvikum málskostnaðar á öllum dómstigum. Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort áfrýjandi hafi misnotað markaðsráðandi stöðu með því að selja hrámjólk til vinnslu mjólkurafurða á hærra verði til keppinauta en til eigin framleiðsludeildar og tengdra aðila og þannig brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga og hvort honum skuli gerð stjórnvaldssekt af þeim sökum. Í því sambandi er deilt um hvort lægri verðlagning til tengdra aðila falli utan gildissviðs samkeppnislaga vegna samkomulags á grundvelli 71. gr. búvörulaga nr. 99/1993. Jafnframt er deilt um hvort áfrýjandi vanrækti upplýsingaskyldu sína samkvæmt 19. gr. samkeppnislaga með því að afhenda ekki tilgreint skjal, svokallað framlegðar- og verkaskiptasamkomulag við Kaupfélag Skagfirðinga svf. 15. júlí 2008, við fyrri rannsókn stefnda Samkeppniseftirlitsins í málinu og hvort gera skuli honum sekt fyrir brot á því ákvæði. Enn fremur er ágreiningur um hvort endurskoðunarvald dómstóla gagnvart sektarákvörðunum samkeppnisyfirvalda nái aðeins til þess að ógilda slíkar ákvarðanir en ekki til að taka ákvörðun um að leggja sekt á áfrýjanda og leysa úr um brot á samkeppnislögum vegna fyrirmæla 2. og 60. gr. stjórnarskrárinnar. Með héraðsdómi var áfrýjandi talinn hafa brotið gegn 11. og 19. gr. samkeppnislaga, honum gert að greiða 440.000.000 króna sekt vegna brots á 11. gr. laganna og staðfest niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnislaga um 40.000.000 króna sekt vegna brots á 19. gr. laganna. Með hinum áfrýjaða dómi var sú niðurstaða staðfest. Áfrýjunarleyfi var meðal annars veitt á þeim grunni að málið hefði fordæmisgildi um skýringu á 71. gr. búvörulaga um undantekningar frá samkeppnislögum í samstarfi afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Þá reyndi í fyrsta skipti á túlkun 19. gr., sbr. 37. gr. samkeppnislaga um brot fyrirtækis gegn upplýsingaskyldu. Loks hefði málið fordæmisgildi um fjárhæð sektar vegna brots gegn 11. gr. samkeppnislaga svo og mörk endurskoðunarvalds dómstóla gagnvart sektarákvörðunum samkeppnisyfirvalda. Með tilvísunum til stefnda verður hér eftir átt við stefnda Samkeppniseftirlitið eingöngu en þess getið sérstaklega ef stefndi íslenska ríkið á í hlut. II 1 Áfrýjandi er eina fyrirtækið hér á landi sem selur hrámjólk í heildsölu til annarra mjólkurvöruframleiðenda og nýtir hana auk þess til eigin framleiðslu. Hrámjólk er ógerilsneydd mjólk sem er undirstöðuhráefni við framleiðslu á hvers kyns mjólkurvörum. Áfrýjandi hóf starfsemi í núverandi mynd árið 2007 en þá urðu miklar breytingar á skipulagi fyrirtækja í mjólkuriðnaði í landinu sem fólust í því að allar helstu afurðastöðvar á mjólkurmarkaði og Osta- og smjörsalan runnu saman í áfrýjanda. Hann er að 90,1% hluta í eigu Auðhumlu svf. og að 9,9% hluta í eigu Kaupfélags Skagfirðinga svf. Auðhumla er samvinnufélag rúmlega 550 mjólkurbænda víðs vegar um landið. Kaupfélag Skagfirðinga er samvinnufélag meðal annars um 60 mjólkurbænda og í blönduðum rekstri en ein af helstu rekstrareiningum þess er mjólkurafurðastöð. Bæði áfrýjandi og Kaupfélag Skagfirðinga svf. kaupa ógerilsneydda hrámjólk af félagsmönnum sínum og vinna úr henni mjólkurafurðir. Afurðastöðin Mjólka ehf. hóf starfsemi árið 2005 (hér eftir Mjólka I). Mjólka I keypti eins og Kaupfélag Skagfirðinga svf. hrámjólk af áfrýjanda og framleiddi í upphafi fetaost en hóf síðar að framleiða aðrar mjólkurafurðir svo sem jógúrt, sýrðan rjóma, rifinn ost, skyr og skyrtertur. Árið 2009 komst Mjólka I í eigu Kaupfélags Skagfirðinga svf. (frá því tímamarki verður hér eftir rætt um Mjólku II). Eftir breytingar á eignarhaldinu hélt Mjólka II áfram að framleiða meðal annars fetaost og sýrðar mjólkurvörur og keypti hrámjólk til framleiðslunnar af áfrýjanda. Fyrri helsti eigandi Mjólku I stofnaði á hinn bóginn ásamt öðrum nýtt fyrirtæki, Mjólkurbúið Kú ehf., sem hóf vinnslu og sölu á mjólkurafurðum á árinu 2010, meðal annars ostum og sýrðum rjóma. Mjólkurbúið Kú ehf. hefur keypt hrámjólk af áfrýjanda. Í desember 2012 barst stefnda ábending frá Mjólkurbúinu Kú ehf. um að áfrýjandi hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga með því að mismuna keppinautum sínum í verði á hrámjólk til vinnslu mjólkurafurða. Því til stuðnings fylgdu reikningar áfrýjanda til Mjólkurbúsins Kú ehf. þar sem lítraverð á hrámjólk var 90,74 krónur og reikningar til Mjólku II þar sem verðið var 77,69 krónur. Stefndi sendi áfrýjanda tölvubréf 20. desember 2012 ásamt fyrrgreindum gögnum þar sem óskað var skýringa hans á ástæðum mismunandi verðs á hrámjólk. Í svari forstjóra áfrýjanda 7. janúar 2013 kom meðal annars fram að um væri að ræða tvenn ólík viðskipti. Annars vegar sölu á mjólk í lausu máli með afslætti en án frekari kostnaðar og skuldbindinga af hálfu kaupanda en hins vegar miðlun á hráefni á kostnaðargrunni innan viðskiptasambands sem axlaði aukakostnað af söfnun, lyfjaeftirliti, gæðaeftirliti, frumvinnslu og dreifingu auk sölutryggingar til bænda. Vísað var til þess að áfrýjandi og Kaupfélag Skagfirðinga svf. hefðu með sér samstarf og verkaskiptingu um framleiðslu á mjólkurvörum á grundvelli 71. gr. búvörulaga. Einnig kom fram að verðið sem tilgreint væri í reikningi áfrýjanda til Mjólkurbúsins Kú ehf. væri verð á mjólk í lausu máli ákvarðað af verðlagsnefnd búvöru í samræmi við 8. gr. þágildandi laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (nú búvörulög), að frádregnum afslætti vegna hagræðis sem fælist í reglulegri afhendingu á magni. Í kjölfarið hófst rannsókn stefnda sem lauk 22. september 2014 með ákvörðun nr. 26/2014. Varð niðurstaða stefnda að áfrýjandi hefði með því að selja hrámjólk til vinnslu mjólkurafurða á hærra verði til keppinauta en til eigin framleiðsludeildar og tengdra aðila brotið gegn c-lið 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga og var honum gert að greiða 370.000.000 króna í stjórnvaldssekt. Áfrýjandi kærði ákvörðun stefnda til áfrýjunarnefndar samkeppnismála en við meðferð málsins hjá nefndinni lagði hann fyrst fram fyrrgreint gagn, framlegðar- og verkaskiptasamkomulag 15. júlí 2008 milli sín og Kaupfélags Skagfirðinga svf. Hafði samkomulagið meðal annars að geyma ítarleg ákvæði um tilflutning milli aðila í framleiðslu tiltekinna mjólkurvara og viðskiptakjör í viðskiptum með hráefni. Áfrýjandi hélt því fram að samkomulagið birti skýrlega þá meginforsendu í samstarfi aðila að hið lága verð á hrámjólk til Kaupfélags Skagfirðinga svf. væri liður í því að skipta aukinni framlegð áfrýjanda vegna verkaskiptingar þeirra í milli. Áfrýjunarnefndin felldi ákvörðun stefnda úr gildi með úrskurði 16. desember 2014 í máli nr. 5/2014 með vísan til þess að frekari rannsóknar væri þörf að því er varðaði umrætt samkomulag og fól nefndin stefnda að taka nýja ákvörðun að undangenginni slíkri rannsókn. 2   Stefndi hóf á ný rannsókn á ætluðum brotum áfrýjanda á 11. gr. samkeppnislaga og ákvað samhliða að rannsaka hvaða ástæður lægju að baki því að áfrýjandi lagði ekki umrætt framlegðar- og verkaskiptasamkomulag fram við fyrri rannsókn málsins í ljósi upplýsingaskyldu aðila samkvæmt 19. gr. laganna. Tók rannsóknartímabilið til áranna 2008 til 2013. Hinn 7. júlí 2016 tók stefndi ákvörðun nr. 19/2016 og komst að þeirri niðurstöðu, eins og í fyrri ákvörðun, að áfrýjandi hefði brotið gegn 11. samkeppnislaga og einnig 19. gr. laganna. Var honum gert að greiða 440.000.000 króna sekt vegna brots á 11. gr. og 40.000.000 króna sekt vegna brots á 19. gr.   Í II. kafla ákvörðunar stefnda var fjallað ítarlega um þá meginmálsvörn áfrýjanda að verðlagningin ætti stoð í 71. gr. búvörulaga, eins og henni var breytt með lögum nr. 85/2004, og hún veitti áfrýjanda undanþágu frá 11. gr. samkeppnislaga. Lýst var aðdraganda þeirrar lagasetningar ásamt lögskýringargögnum og ályktað að markmið hennar hefði ekki verið að veita undanþágur frá samkeppnislögum umfram það orðalag sem kæmi beinlínis fram í ákvæðinu, auk þess sem frávik frá almennum reglum laganna bæri að túlka þröngt. Stefndi komst að þeirri niðurstöðu að sala áfrýjanda á hrámjólk á lægra verði til Kaupfélags Skagfirðinga svf. en til keppinauta hefði ekki verið verið órjúfanlegur eða nauðsynlegur hluti af verkaskiptingu sem 71. gr. búvörulaga heimilaði milli afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Auk þess var talið að ákvörðun áfrýjanda um verðlagningu gæti ekki hvílt á 4. mgr. 13. gr. búvörulaga um heimildir afurðastöðva til að semja sín í milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða enda hefði samkomulag aðila stefnt að því að jafna hlutfallslega framlegð þeirra afurðastöðva sem stæðu að eignarhaldi áfrýjanda óháð verkaskiptingu hverju sinni í framleiðslu mjólkurvara með ólíka framlegð. Loks hefði sala áfrýjanda á hrámjólk til Mjólku II á sama lága verði og til Kaupfélags Skagfirðinga svf. ekki verið órjúfanlegur eða nauðsynlegur hluti af samstarfi sem ákvæði 71. gr. búvörulaga heimilaði, enda hefði Mjólka II ekki verið aðili að neinum samningi við áfrýjanda þar um. Í III. kafla ákvörðunar stefnda var markaðurinn skilgreindur og lagt mat á hvort áfrýjandi hefði markaðsráðandi stöðu í ljósi ákvæða 4. og 5. töluliðar 4. gr. samkeppnislaga. Fram kom að markaður með hrámjólk hefði þá sérstöðu að hún hefði mjög takmarkaða staðgöngu við aðrar vörur. Hrámjólk væri notuð sem hráefni til að framleiða ýmiss konar mjólkurafurðir, svo sem drykkjarmjólk, osta eða jógúrt og ekki væri hægt að skipta henni út fyrir annað hráefni. Áfrýjandi væri í eigu nánast allra mjólkurframleiðenda á Íslandi, fyrirtækið safnaði hrámjólk frá eigendum sínum um allt land og flytti í fimm mjólkurstöðvar en einnig væri það stærsta dreifingarfyrirtæki landsins. Áfrýjandi hefði bæði notað umrædda hrámjólk til eigin afurðavinnslu og selt hana til Kaupfélags Skagfirðinga svf., Mjólku I, Mjólku II og Mjólkurbúsins Kú ehf., óháð því til hvaða nota hún væri keypt þar. Þegar áfrýjandi seldi umræddum viðskiptavinum hrámjólk til framleiðslu mjólkurafurða hefði verið um að ræða markað fyrir heildsölu. Hefðu keppinautar áfrýjanda í vinnslu og sölu mjólkurafurða, á borð við Mjólku I og Mjólkurbúið Kú ehf., því einnig verið viðskiptavinir áfrýjanda sem annaðist dreifingu á hrámjólk í heildsölu beint til vinnsluaðilanna. Við úrlausn um hvort áfrýjandi væri í markaðsráðandi stöðu á mjólkurmarkaði var litið til þess að á rannsóknartímabilinu hefði hann keypt yfir 90% af allri hrámjólk sem mjólkurbændur seldu í landinu. Staða áfrýjanda í sölu mjólkurvara væri afar sterk og auk þess hefði fyrirtækið eignatengsl og nána viðskiptalega samvinnu við næststærsta fyrirtækið á mjólkurmarkaði, Kaupfélag Skagfirðinga svf. Heildarvelta áfrýjanda hefði verið 22 milljarðar króna árið 2013 og ljóst að fyrirtækið byggi við umtalsverðan fjárhagslegan styrk umfram keppinauta sína. Niðurstaða stefnda í málinu var því að áfrýjandi væri ekki aðeins markaðsráðandi á skilgreindum markaði fyrir hrámjólk heldur einnig í einstakri yfirburðastöðu á mjólkurmarkaði. Í ljósi þess var 11. gr. samkeppnislaga talin taka til áfrýjanda á rannsóknartímabili málsins. Í IV. kafla ákvörðunar stefnda var lagt mat á aðgerðir áfrýjanda gagnvart Mjólku I og Mjólkurbúinu Kú ehf., borin saman viðskiptakjör sem áfrýjandi veitti tengdum og ótengdum aðilum og lagt mat á forsendur þeirra. Niðurstaða stefnda var sú að áfrýjandi hefði miðað verð sitt á hrámjólk til ótengdra aðila, Mjólku I og Mjólkurbúsins Kú ehf., við verðákvörðun verðlagsnefndar á unninni mjólk. Á sama tímabili hefði áfrýjandi selt hrámjólk til tengdra aðila, Kaupfélags Skagfirðinga svf. og Mjólku II, á mun lægra verði eða lágmarksverði verðlagsnefndar til bænda í viðskiptum félagsins með hrámjólk. Sú verðmismunun sem Mjólka I og síðar Mjólkurbúið Kú ehf. hefðu sætt af hálfu áfrýjanda hefði verið veruleg og þessi fyrirtæki þurft að borga verð sem var á bilinu 9,05% til 17,39% hærra en tengdir aðilar. Ekki var talið að áfrýjandi hefði sýnt fram á að mismunandi kostnaður við sölu eða afhendingu vörunnar eða annað kostnaðarlegt hagræði réttlætti hið hærra verð á mjólk til Mjólku I og Mjólkurbúsins Kú ehf. Stefndi komst að þeirri niðurstöðu að framlegðar- og verkaskiptasamkomulag áfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga svf. 15. júlí 2008 ásamt síðari breytingum hefði ekki verið framkvæmt til jöfnunar á tapaðri framlegð þess síðargreinda vegna verkaskiptingarinnar eins og upphaflega stóð til. Þess í stað hefði Kaupfélag Skagfirðinga svf. greitt áfrýjanda um 175 milljónir króna í verðtilfærslu frá árinu 2008 til ársins 2013 þegar tekið væri mið af inn- og útgreiðslum Kaupfélags Skagfirðinga svf. vegna verðtilfærslu á sama tíma. Þær greiðslur hefðu verið ætlaðar til að bæta upp framlegð áfrýjanda vegna verkaskiptingarinnar samkvæmt samkomulaginu 15. júlí 2008. Það varð einnig niðurstaða stefnda að áfrýjandi hefði veitt Kaupfélagi Skagfirðinga svf. fjárhagslegan ávinning með eftirgjöf á umboðslaunum og skuldum á rannsóknartímabili málsins sem námu alls um 328 milljónum króna. Þá væri ljóst að hefði Kaupfélagi Skagfirðinga svf. og Mjólku II verið gert að greiða sama verð fyrir hrámjólk og keppinautum þeirra hefði hráefniskostnaður þeirra fyrrnefndu orðið um 239 milljónum krónum hærri á árunum 2008 til 2013 en raun varð á. Það varð niðurstaða stefnda að þessi mismunun hefði veitt Kaupfélagi Skagfirðinga svf. og Mjólku II óeðlilegt forskot í samkeppni á skilgreindum markaði málsins. Í V. kafla ákvörðunar stefnda var lagt mat á aðgerðir áfrýjanda í ljósi 11. gr. samkeppnislaga um bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Var komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hefði ekki sett fram nein málefnaleg sjónarmið sem gætu réttlætt þessi viðskiptakjör gagnvart fyrirtækjum sem voru bæði í samkeppni við áfrýjanda og tengd fyrirtæki á næsta sölustigi fyrir neðan. Áfrýjandi væri öflugt fyrirtæki með mikla þekkingu á mjólkuriðnaði og mjólkurviðskiptum og starfsmenn hans hefðu setið í verðlagsnefnd búvöru á rannsóknartímabilinu. Hefði áfrýjandi vegið mjög að samkeppnisstöðu Mjólku I og Mjólkurbúsins Kú ehf. sem hefði verið háð áfrýjanda um aðgang að þessu hráefni. Þessi ómálefnalegu viðskiptakjör væru ekki í samræmi við þær ríku skyldur sem hvíldu á áfrýjanda sem markaðsráðandi fyrirtæki samkvæmt 11. gr. samkeppnislaga. Í sama kafla í ákvörðun stefnda var einnig fjallað um áhrif verðþrýstings á verðlagningu áfrýjanda en hann hafði við meðferð hins fyrra máls gert athugasemdir við að stefndi hefði ekki lagt mat á þetta atriði. Í umfjöllun stefnda var rakið hvernig markaðsráðandi fyrirtæki getur brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga með verðþrýstingi sem snúist í aðalatriðum um ósanngjarnan mun á heildsöluverði viðkomandi aðfangs og smásölu-/afurðaverði á neðra vinnslu- og sölustigi sem geri keppinautum markaðsráðandi fyrirtækja erfitt eða ómögulegt að keppa á neðra sölustigi. Skilyrði slíks verðþrýstings hefðu verið fyrir hendi í þessu máli þar sem áfrýjandi hefði verið markaðsráðandi fyrirtæki og til staðar verið lóðrétt samþætting þar sem áfrýjandi var í senn birgir og keppinautur viðskiptavina sinna. Þá væri til marks um alvarleika háttsemi áfrýjanda að hann hefði selt ótengdum keppinautum sínum hrámjólk á mun hærra verði en hans eigin framleiðsludeild og tengdir keppinautar þurftu að greiða. Ótengdir keppinautar hefðu þannig þurft að greiða allt að 21% hærra verð fyrir hrámjólk en áfrýjandi til eigin mjólkurvöruframleiðslu. Hefði áfrýjandi þurft að greiða sama verð og Mjólkurbúið Kú ehf. fyrir hrámjólk til eigin vinnslu hefði rekstur hans skilað umtalsverðu tapi. Þannig væri dregið fram með enn skýrari hætti hversu alvarleg og samkeppnishamlandi verðmismunun áfrýjanda hefði í eðli sínu verið gagnvart Mjólku I og Mjólkurbúinu Kú ehf. og voru aðgerðir áfrýjanda metnar sem mjög alvarlegur og langvarandi ólögmætur verðþrýstingur. Loks var rannsakað hvort um ólögmæt viðskiptakjör væri að ræða gagnvart ótengdum fyrirtækjum og ályktað að áfrýjandi hefði ekki sett fram nein málefnaleg sjónarmið sem gætu réttlætt þessi viðskiptakjör gagnvart fyrirtækjum sem hefðu verið bæði háð áfrýjanda um hrámjólk og í samkeppni við hann og tengd fyrirtæki á næsta sölustigi fyrir neðan. Varð það niðurstaða stefnda að háttsemi áfrýjanda fæli í sér alvarlegt brot á 11. gr. samkeppnislaga. Fælist brotið í ólögmætum verðmismun samkvæmt c-lið 2. mgr. 11. gr. laganna en einnig væri um að ræða alvarleg brot á reglum 11. gr. um verðþrýsting og óhagkvæm viðskiptakjör. Í VI. kafla ákvörðunar stefnda var fjallað um brot gegn 19. gr. samkeppnislaga. Rakið var að allt frá því að stefndi hefði fyrst óskað skýringa frá áfrýjanda á þeim mun sem var á verðlagningu fyrirtækisins á hrámjólk í desember 2012 og í eftirfarandi rannsókn vegna meintra brota á 11. gr. samkeppnislaga hefði áfrýjandi aldrei afhent framlegðar- og verkaskiptasamkomulag sitt frá 15. júlí 2008 við Kaupfélag Skagfirðinga svf. Í ákvörðun stefnda kom fram að áfrýjanda hefði ekki getað dulist mikilvægi þessara gagna þegar hann fékk upplýsingabeiðnir stefnda í hendur. Það var niðurstaða stefnda að áfrýjandi hefði brotið gegn 19. gr. samkeppnislaga með því annars vegar að hafa gefið rangar upplýsingar um að Kaupfélag Skagfirðinga svf. hefði fært sig úr framleiðslu á vörum með hærri framlegð í vörur með lægri framlegð og hins vegar að hafa hvorki vísað til né lagt fram umrætt skjal við rannsókn stefnda sem leiddi til ákvörðunar nr. 26/2014. Í VII. kafla ákvörðunar stefnda var fjallað um viðurlög. Lagt var mat á eðli og umfang brots á 11. gr. samkeppnislaga í ljósi viðmiða 37. gr. laganna. Vísað var til þess að áfrýjandi, sem væri með yfirburðastöðu á íslenskum mjólkurmarkaði, hefði beitt keppinauta sína verðmismunun við kaup þeirra á hrámjólk. Til viðbótar hefði verð á hrámjólk til keppinauta miðast við verð á annarri og dýrari vöru, nánar tiltekið gerilsneyddri mjólk í lausu máli. Keppinautar áfrýjanda hefðu ekki aðeins þurft að sæta því að markaðsráðandi fyrirtæki beitti þá mismunun í verði heldur einnig að félög tengd áfrýjanda (og áfrýjandi sjálfur) fengju þetta hráefni á mun lægra verði sem var til þess fallið að veita þeim verulegt samkeppnisforskot gagnvart Mjólkurbúinu Kú ehf. og áður Mjólku I. Með þessu móti hefði geta Mjólkurbúsins Kú ehf. og Mjólku I til þess að keppa við áfrýjanda og tengd félög á markaði fyrir sölu mjólkurafurða verið skert með alvarlegum hætti og markaðsráðandi staða áfrýjanda varin. Það væri til þess fallið að skaða á endanum hagsmuni neytenda. Við mat á fjárhæð sekta var einnig litið til ítrekunaráhrifa, sbr. 1. mgr. 37. gr. laganna, en í ákvörðun stefnda nr. 39/2006 og úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 13. desember 2006 í máli nr. 8/2006 hefði Osta- og smjörsalan, sem síðar varð hluti af áfrýjanda, verið talin hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína og brotið gegn c-lið 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga með því að beita Mjólku I verðmismunun við sölu á undanrennudufti. Í ljósi alvarleika brota áfrýjanda taldi stefndi ekki hjá því komist að leggja verulega íþyngjandi viðurlög á áfrýjanda. Að þessu gættu var sekt ákveðin 440.000.000 króna. Um viðurlög vegna brots á 19. gr. samkeppnislaga var í ákvörðun stefnda litið til þess að um alvarlegt brot hefði verið að ræða sem hefði tafið meðferð málsins. Í því ljósi og til að skapa bæði almenn og sérstök varnaðaráhrif taldi stefndi nauðsynlegt að leggja 40.000.000 króna sekt á áfrýjanda vegna þessa brots. 3 Hinn 4. ágúst 2016 beindi áfrýjandi kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess aðallega að ákvörðun stefnda yrði felld úr gildi en til vara að hin álagða sekt yrði felld niður eða fjárhæð hennar lækkuð verulega. Með úrskurði nefndarinnar 18. nóvember 2016 í máli nr. 4/2016 var ákvörðunin felld úr gildi að öðru leyti en því að áfrýjandi skyldi greiða 40.000.000 króna stjórnvaldssekt vegna brots á 19. gr. samkeppnislaga. Allir þrír nefndarmenn áfrýjunarnefndarinnar voru sammála um brot áfrýjanda gegn 19. gr. laganna og álagða stjórnvaldssekt vegna þess. Niðurstaða tveggja nefndarmanna var að samkomulag áfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga svf. 15. júlí 2008 um framlegð og verkaskiptingu og síðari breytingar rúmaðist innan 71. gr. búvörulaga og félli utan gildissviðs samkeppnislaga. Þá hefði ekki verið sýnt fram á nein þau atriði við forsendur eða framkvæmd samkomulagsins eða síðari samninga sem gæti orðið grundvöllur sektarákvörðunar í málinu. Loks var tekið fram að þótt stefndi hefði aflað ýmissa gagna og reifað málið að hluta til út frá því að um verðþrýsting eða önnur ólögmæt viðskiptakjör væri að ræða af hálfu áfrýjanda hefðu þessi atriði ekki verið metin sjálfstætt. Af því leiddi að ekki væri unnt að taka þau til sérstakrar skoðunar og var þeim því hafnað. Ákvörðun stefnda um brot áfrýjanda á 11. gr. samkeppnislaga var því felld úr gildi.  Einn nefndarmaður taldi í séráliti að staðfesta ætti ákvörðun stefnda um brot áfrýjanda gegn 11. gr. samkeppnislaga og álagða sekt vegna þess. Byggði hann á því að þótt 71. gr. búvörulaga um verkaskiptingu á framleiðslu tiltekinna mjólkurafurða gæti falið í sér heimild til að kveða á um verðtilfærslu því samfara til að jafna framlag mismunandi framleiðslutegunda milli mjólkurbúa, fælist ekki í ákvæðinu sjálfstæð heimild til að gera samninga um heildarjöfnun á framlegð í greininni. Því yrði að skoða mismunun í verðlagningu áfrýjanda í ljósi 11. gr. samkeppnislaga. 4 Bæði áfrýjandi og stefndu höfðuðu mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndarinnar, sbr. 41. gr. samkeppnislaga. Málin voru sameinuð í héraðsdómi 3. maí 2018 með vísan til b-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Héraðsdómur gekk 29. maí sama ár. Með honum var úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála ógiltur að því leyti sem þar var felldur úr gildi sá hluti ákvörðunar stefnda að áfrýjandi skyldi greiða 440.000.000 króna stjórnvaldssekt í ríkissjóð. Var áfrýjandi talinn hafa brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga með mismunun í verðlagningu til tengdra og ótengdra aðila og honum gert að greiða 440.000.000 króna sekt í ríkissjóð. Þá var hafnað kröfum áfrýjanda um að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála yrði ógiltur að því leyti sem honum var gert að greiða 40.000.000 króna sekt vegna brots gegn 19. gr. samkeppnislaga. Dóminum var áfrýjað til Landsréttar með áfrýjunarstefnu birtri 2. júlí 2018. Undir rekstri málsins í Landsrétti féllst rétturinn á ósk áfrýjanda um dómkvaðningu matsmanns til að leggja mat á eftirfarandi: „1. Hvort Kaupfélag Skagfirðinga hafi við verkaskiptingu samkvæmt svonefndu framlegðar- og verkaskipta­samkomulagi frá 15. júlí 2008 látið frá sér sölu á vörum sem voru með hærri framlegð og tekið við framleiðslu vara með lægri framlegð? 2. Að frádreginni millisölu á hráefnum og fullunnum vörum, hver var framlegð 1 af vinnslu mjólkur á tímabilinu 2008 – 2013 hjá annars vegar Kaupfélagi Skagfirðinga, og hins vegar áfrýjanda af eigin framleiðslu?“ Til að vinna matið var löggiltur endurskoðandi dómkvaddur og skilaði hann matsgerð 26. júní 2019. Einnig gaf hann skýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti. Landsréttur taldi að umrætt samkomulag og atvik málsins yrðu ekki undanskilin gildissviði samkeppnislaga á grundvelli ákvæða búvörulaga og að áfrýjandi hefði með háttsemi sinni brotið gegn c-lið 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga. Var niðurstaða héraðsdóms um mat á háttsemi áfrýjanda svo og álagning og fjárhæð sekta vegna brota á 11. og 19. gr. samkeppnislaga staðfest. Í forsendum dóms Landsréttar var meðal annars vísað til þess að ekki yrði séð hvernig sá þáttur samkomulagsins, þar sem mælt var fyrir um sölu áfrýjanda á allt að 3,5 milljónum lítra hrámjólkur til Kaupfélags Skagfirðinga svf. á því lágmarksverði sem gilti um kaup frá bændum, hefði talist nauðsynlegur vegna þeirrar verkaskiptingar sem samkomulagið kvað á um til að bæta tapaða framlegð Kaupfélags Skagfirðinga svf. Meðal annars var litið til fyrrgreindrar matsgerðar um að miðað við forsendur á árinu 2007 hefði Kaupfélag Skagfirðinga svf. haft 23.000.000 króna ávinning af samkomulaginu. 5 Eftir að málinu var áfrýjað til Hæstaréttar óskaði áfrýjandi þess í beiðni 9. júní 2020 til héraðsdóms að fyrrgreindur matsmaður yrði kvaddur á ný til að svara einni matsspurningu í tilefni af matsgerð sinni 26. júní 2019. Héraðsdómur féllst á það 26. júní 2020. Fram kom að tilgangur hins umbeðna mats væri að hnekkja þeirri fullyrðingu Landsréttar að matsmaðurinn hefði komist að þeirri niðurstöðu að Kaupfélag Skagfirðinga svf. hefði haft 23.000.000 króna ávinning af samkomulaginu. Var þess óskað að matsmaður léti í ljós skriflegt og rökstutt álit á eftirfarandi atriðum: „Er í svari matsmanns við spurningu 1 í matsgerð dags. 26. júní 2019, tekið tillit til þeirra breytinga sem verkaskiptasamkomulagið hafði á verðtilfærslu matsbeiðanda og KS, þ.e. þau áhrif sem samkomulagið hafði á úthlutun til þeirra úr verðtilfærslusjóði árlega? Ef ekki, er óskað eftir því að matsmaður leggi mat á hvort og þá hvaða áhrif þetta hafi á niðurstöðu hans. Óskað er eftir því að tekið verði tillit til allra þeirra atriða sem matsmaður telur að geti skipt máli.“ Matsmaður skilaði viðbótarmatsgerð 3. september 2020 og gaf skýrslu um hana fyrir héraðsdómi 21. sama mánaðar. III 1 Áfrýjandi byggir frávísunarkröfu sína á því að heimildir dómstóla til að endurskoða úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála samkvæmt 1. mgr. 41. gr. samkeppnislaga geti aðeins náð til þess að ógilda úrskurð hennar en ekki að taka nýja ákvörðun um brot á 11. gr. laganna og álagningu sektar. Í máli þessu hafi áfrýjunarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að samstarf áfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga svf. rúmaðist að fullu innan 71. gr. búvörulaga og því ekkert fjallað um hvort áfrýjandi hafi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga eða um álagningu sektar vegna slíks brots. Eins og fram komi í 1. og 5. mgr. 37. gr. samkeppnislaga sé það hlutverk stefnda og áfrýjunarnefndar samkeppnismála að leggja á stjórnvaldssektir en dómstólar hafi enga slíka heimild. Með niðurstöðu sinni hafi Landsréttur tekið fram fyrir hendur á áfrýjunarnefnd samkeppnismála og ákveðið að framkvæma lögin í stað þess að dæma um lögmæti stjórnvaldsákvörðunar í málinu en það samrýmist ekki 2. og 60. gr. stjórnarskrárinnar. Af hálfu stefnda er byggt á því að dómstólar hafi óskorað vald til að ákvarða sektir í málum sem fjalla um brot á samkeppnislögum svo og um fjárhæð þeirra eins og staðfest hafi verið í dómaframkvæmd. Það væri í ósamræmi við markmið málskotsheimildar stefnda samkvæmt 1. mgr. 41. gr. samkeppnislaga ef jafnræði aðila væri ekki tryggt í þessu tilliti og stefndi gæti ekki krafist þess að sekt, sem hann hefur gert fyrirtæki að greiða og áfrýjunarnefnd síðan lækkað eða fellt niður, verði færð til fyrra horfs með dómi. Einnig sé ljóst að í evrópskum samkeppnisrétti og aðildarríkjum Evrópusambandsins sé skilvirk framkvæmd samkeppnisreglna talin fela í sér áskilnað um að dómstólar hafi óskorað endurskoðunarvald við ákvörðun sektarfjárhæða. 2 Sú meginregla hefur verið leidd af fyrirmælum stjórnarskrárinnar í 2. gr. um þrígreiningu ríkisvalds og 60. gr. um endurskoðun dómstóla á stjórnvalds­ákvörðunum að dómstólar séu almennt ekki bærir til að taka efnislegar ákvarðanir um málefni sem lögum samkvæmt eru á hendi handhafa framkvæmdarvalds. Frá þessari meginreglu er þó að finna ýmsar undantekningar í framkvæmd dómstóla en rök að baki þeim verður að meta í ljósi þess hvers eðlis hin umþrætta stjórnvaldsákvörðun er. Ákvörðun um refsingu eða önnur viðurlög við lögbrotum telst í eðli sínu falla undir verksvið dómsvalds en ekki framkvæmdarvalds. Engu að síður hefur löggjafanum verið talið heimilt að fela stjórnvöldum úrskurðarvald um tiltekin viðurlög á hendur einstaklingum og lögaðilum, svo sem um stjórnvaldssektir vegna brota á lögum, án þess að í bága fari við 2. gr. stjórnarskrárinnar. Slík heimild helgast þó af því að dómstólar skuli eiga lokaorðið eftir að ákvörðun um viðurlög liggur fyrir og hafi víðtækt vald til að endurskoða efnislega lögmæti slíkrar stjórnvaldsákvörðunar, svo og sönnunaratriði, túlkun lagaatriða og fjárhæð sekta. Þannig er réttur einstaklinga og lögaðila til að bera stjórnvaldsákvarðanir um réttindi sín og skyldur undir dómstóla tryggður svo sem áskilið er í 1. mgr. 70. gr. stjórnar­skrárinnar. Þegar dómstólar fjalla um álagningu stjórnvaldssekta sem einstaklingar eða lögaðilar skjóta til þeirra mæla sjónarmið um réttaröryggi og skilvirkni auk þess með því að þeir geti tekið nýja efnislega ákvörðun í máli, þar á meðal að lækka fjárhæð sektar fremur en að ógilda sektarákvörðun og vísa máli til nýrrar sektarákvörðunar fyrir stjórnvaldi. Um slíka framkvæmd við endurskoðun stjórnvaldsákvarðana vitna meðal annars þau fordæmi sem vísað er til í hinum áfrýjaða dómi, sbr. dóma Hæstaréttar 2. október 2008 í máli nr. 640/2007 og 9. febrúar 2012 í máli nr. 205/2011, þar sem dómstólar lækkuðu sektir á fyrirtæki vegna brota á samkeppnislögum.           Stefndi sem stjórnvald nýtur ekki hliðstæðs stjórnarskrárvarins réttar og borgararnir til að bera ákvarðanir æðra stjórnvalds í kærumáli undir dómstóla. Löggjafinn getur engu að síður mælt fyrir um slíka málskotsheimild á grundvelli þess að ríkir almannahagsmunir séu bundnir við að fá úrlausn dómstóla um tiltekið álitaefni, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 22. september 1998 í máli nr. 297/1998 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 2821. Þegar málskotsheimild stjórnvalds er þannig bundin í lög styðja sömu rök að dómstólar hafi einnig óskorað endurskoðunarvald gagnvart viðkomandi sektarákvörðun og með því mæla einnig rök um skilvirkni. Dómstólar geta því bæði ógilt ákvörðun og komist að annarri efnislegri niðurstöðu um skýringu laga, álagningu sektar eða fjárhæð út frá mati á saknæmi og alvarleika brots. Þetta markmið birtist glöggt í lögskýringargögnum með 4. gr. laga nr. 14/2011 sem bættu í 41. gr. samkeppnislaga málskotsheimild til handa stefnda til að höfða mál fyrir dómstólum til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála vilji hann ekki una honum. Í skýringum við framangreint ákvæði í greinargerð með frumvarpi til laganna er tekið fram að hlutverk Samkeppnis­­­eftirlitsins sé meðal annars að vernda þá lögvörðu almannahagsmuni sem felist í virkri samkeppni og því óeðlilegt að það geti ekki gætt almannahagsmuna til sóknar fyrir dómstólum. Mikilvægt sé að eftirlitið geti varið fyrir dómstólum niðurstöðu ákvarðana sinna sem áfrýjunarnefndin hefur ógilt eða breytt. Slíkt leiði til jafnræðis aðila máls og einnig megi leiða líkur að því að það stuðli að vandaðri málsmeðferð hjá áfrýjunarnefndinni.           Með vísan til framangreinds verður ekki fallist á þá málsástæðu áfrýjanda að dómstólar fari út fyrir stjórnskipulegt hlutverk sitt með því að leggja á sekt í samkeppnismáli samhliða ógildingu á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í ljósi þess að stefnda er gert kleift að verja upphaflega ákvörðun sína sem áfrýjunarnefndin hefur ógilt miðast efri mörk sektar við þá fjárhæð sem þar er ákveðin. Í héraðsstefnu eru raktar málsástæður að baki kröfu stefnda um ógildingu á þeim hluta úrskurðar áfrýjunarnefndar þar sem ákvörðun stefnda var felld úr gildi. Þær byggjast á ítarlegri rannsókn sem lýst var í ákvörðun stefnda þar sem tekin var afstaða til atriða sem þýðingu hafa við mat á því hvort áfrýjandi hafi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Það samrýmist því markmiði breytingar á 41. gr. samkeppnislaga með lögum nr. 14/2011 sem fyrr er lýst að dómstólar geti tekið afstöðu til þess hvort áfrýjandi hafi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 7. janúar 2021 í máli nr. 42/2019.           Samkvæmt framansögðu er hrundið kröfu áfrýjanda um frávísun á kröfum stefnda. IV 1 Áfrýjandi byggir kröfu sína um sýknu af kröfum stefnda vegna brots gegn 11. gr. samkeppnislaga á því að 71. gr. búvörulaga sé ætlað að gera fyrirtæki sem efnir til samstarfs á þeim grundvelli sem þar getur undanþegið ákvæðum samkeppnislaga, þar með talinni 11. gr. um verðlagningu. Jöfnun framlegðar sé óhjákvæmilegur fylgifiskur samkomulags um heildstæða verkaskiptingu afurðastöðva til framtíðar. Nauðsynleg forsenda þess að Kaupfélag Skagfirðinga svf. féllist á að láta af framleiðslu á framlegðarháum vörum eins og ferskvörum sem færðist til áfrýjanda og einskorða sig við framleiðslu á vörum sem hafa að meðaltali lægri framlegð eins og ostum hafi verið að koma á ákveðinni framlegðarjöfnun. Í því sambandi bendir áfrýjandi á að það hefði verið óvenjuleg ráðstöfun af hálfu löggjafans að heimila afurðastöðvum að skipta verkum milli mjólkursamlaga en banna þeim samhliða að jafna þann mun á framlegð sem af slíkri verkaskiptingu leiddi. Því hefði þurft að taka það fram sérstaklega í ákvæðinu. Til að bæta Kaupfélagi Skagfirðinga svf. framlegðartap hafi félaginu meðal annars verið seld hrámjólk á kostnaðarverði en einnig með öðrum hætti eins og ákvæðum um gagnkvæma söluþóknun og skiptingu flutningskostnaðar. Framlegðarjöfnun hafi tekist afar vel eins og fram komi í fyrirliggjandi matsgerð og ekki skipti máli hvort framlegðin hafi verið jöfnuð með peningagreiðslum eða sölu á hrámjólk á lægra verði en til annarra fyrirtækja sem ekki ættu í slíku samstarfi. Áfrýjandi telur að í hinum áfrýjaða dómi sé dregin sú ranga ályktun af matsgerð að Kaupfélag Skagfirðinga svf. hafi ekki tapað framlegð vegna samkomulagsins heldur haft af því 23 milljóna króna ávinning. Ekki sé rétt að horfa einangrað til vöruframlegðar. Í dóminum hafi þannig ekki verið tekið tillit til greiðslna úr verðtilfærslusjóðum sem breyttust vegna verkaskiptingarinnar. Í samkomulaginu hafi sérstaklega verið tilgreint sem framlegðartap Kaupfélags Skagfirðinga svf. að í stað þess að fá 25 milljóna króna tekjur árlega úr verðtilfærslusjóðum vegna framleiðslu sinnar á ferskvörum þyrfti félagið að greiða árlega 31 milljón króna í sjóðinn þar sem framleiðslan hefði færst eingöngu yfir í osta. Þetta hefði því þýtt 56 milljóna króna tekjutap félagsins. Niðurstaða matsmanns hafi rímað í öllum meginatriðum við þessa forsendu í samkomulaginu sem hafi verið staðfest í viðbótarmatsgerð sem áfrýjandi hafi óskað eftir. Stefndi byggir á því að samkomulagi aðila hafi í reynd verið ætlað að jafna framlegð félaganna óháð slíkri verkaskiptingu þannig að þau hefðu hlutfallslega svipaða framlegð og að breyting á söluþóknun hafi verið notuð til að færa verðmæti á milli þegar hallað hafi á annað hvort þeirra. Þetta sé staðfest með skýrum hætti í samtímagögnum sem stefndi hafi aflað frá áfrýjanda við meðferð málsins, meðal annars í samantekt sem hann afhenti stefnda 28. janúar 2015 um framkvæmd samkomulagsins við Kaupfélag Skagfirðinga svf. Þar komi fram að samstarfið hafi í raun skilað mun hagstæðari niðurstöðu fyrir Kaupfélag Skagfirðinga svf. en gert var ráð fyrir. Þetta hafi einnig kallað á breytingar á samkomulaginu. Þannig hafi fyrirtækin á árinu 2010 gert samkomulag um sérstaka greiðslu Kaupfélags Skagfirðinga svf. til áfrýjanda vegna þess að framlegðarmunurinn hafi breyst félaginu í hag vegna umtalsverðrar veltuaukningar sem hafi fylgt tilfærslu verkefna á borð við rifostagerð. Af framlegð fyrirtækjanna tveggja á árunum 2010 og 2011 sé ljóst að sveiflan hafi verið Kaupfélagi Skagfirðinga svf. í hag en áfram hafi verið framlegðarvöntun hjá áfrýjanda og því hafi verið gert samkomulag um 40 milljóna króna greiðslu félagsins til áfrýjanda á árinu 2012. Um framlegð fyrirtækjanna á árunum 2012 og 2013 segir síðan að ljóst sé að halla muni á áfrýjanda í verkaskiptunum. Vafalaust sé að framlegð Kaupfélags Skagfirðinga svf. hafi margfaldast eftir að verkaskiptingin komst á. Staðhæfing áfrýjanda um að bæta hafi þurft Kaupfélagi Skagfirðinga svf. upp tapaða framlegð eigi því ekki við rök að styðjast. Auk þess veiti ákvæði búvörulaga enga heimild fyrir afurðastöð í markaðsráðandi stöðu til að krefja smáa og ótengda keppinauta um mun hærra verð en sína eigin framleiðsludeild. 2 Efni framlegðar- og verkaskiptasamkomulags áfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga svf. 15. júlí 2008 og síðari breytinga á því er ítarlega rakið í hinum áfrýjaða dómi og ákvörðun stefnda. Markmið þess var að fastsetja verkaskiptingu í framleiðslu mjólkurvara og samhliða því framlegðarskipti vegna framleiddra mjólkurvara með tilliti til verkaskiptingar í mjólkurvinnslu og sölu hráefnis og fullunninna vara milli áfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga svf. Þar kom fram að til að mæta framlegðartapi Kaupfélags Skagfirðinga svf. vegna samkomulagsins skyldi áfrýjandi selja félaginu allt að 3,5 milljónir lítra af mjólk á ársgrunni á verðlagi sem tæki mið af skráðu lágmarksverði Verðlagsnefndar búvöru fyrir meðalmjólk (afurðastöðvaverði), en ofan á skráð lágmarksverð skyldu bætast lítratengd sjóðagjöld. Var umrætt framlegðartap Kaupfélags Skagfirðinga svf. sett í samhengi við lækkun tekna úr verðtilfærslusjóði um 56 milljónir króna árlega auk þess sem heildsölutekjur félagsins af því að framleiða eingöngu ost í stað ferskvara myndu minnka um 47 milljónir króna til viðbótar eða samtals um 103 milljónir króna. Þegar einnig væri tekið tillit til 62 milljóna króna lægri kostnaðar félagsins vegna breyttrar verkaskiptingar yrðu nettóáhrifin 41 milljónar króna framlegðartap. Þann mismun yrði að leiðrétta auk 24 milljóna króna viðbótar út af skiptingu framlegðar vegna verkaskiptingar á markaði. Eftir að ákvörðun stefnda nr. 26/2014 lá fyrir 22. september 2014 ákváðu fyrirtækin að breyta samkomulaginu. Þaðan í frá væru verðmætatilfærslur í samstarfinu gerðar samkvæmt reikningi eftir uppreikning hvers árs. Með því greiddu aðilar að framleiðslusamstarfinu fyrir ávinning með beinum peningatilfærslum en ekki í gegnum hráefnis- og vöruverð. Í ákvörðun stefnda og hinum áfrýjaða dómi er lýst forsögu og markmiði með setningu laga nr. 85/2004 sem færðu 71. gr. búvörulaga í núverandi mynd. Með sömu lögum var breytt ákvæði 3. mgr. 13. gr. laganna, sem síðar færðist í 4. mgr. með lögum nr. 102/2016, og kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga sé afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að gera samninga sín í milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða og leggja skuli slíka samninga fyrir verðtilfærslunefnd til upplýsingar. Samkvæmt greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 85/2004 var því ætlað að „eyða þeirri réttaróvissu sem skapast hefur um að gildandi búvörulög, nr. 99/1993, tryggi ekki með nægjanlegri vissu að samráð, samruni og verðtilfærsla í mjólkuriðnaði sé undanskilið gildissviði samkeppnislaga í samræmi við ætlan löggjafans.“ Þá var vísað til þess markmiðs með breytingu á framangreindum ákvæðum búvörulaga að gera afurðastöðvum í mjólkuriðnaði kleift að mæta harðnandi samkeppni erlendis frá þar sem líklegt væri að tollar myndu lækka á samkeppnisvörum í kjölfar skuldbindinga ríkisins vegna samninga aðildarríkja Alþjóða­við­skiptastofnunarinnar og þeirrar stefnu stjórnvalda að verðlagning á landbúnaðarvörum yrði gefin frjáls þegar markaðsaðstæður sköpuðust til þess að verðmyndun gæti orðið á grundvelli framboðs og eftirspurnar. Samkvæmt 71. gr. búvörulaga er afurðastöðvum í mjólkuriðnaði, þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga, heimilt að gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstaka mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða. Slíkt samstarf getur stuðlað að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur og þannig þjónað þeim markmiðum sem sett eru í 1. gr. laganna. Fallast verður á með áfrýjanda að forsenda samstarfs afurðastöðva um að skipta með sér verkum til að ná fram ákveðinni sérhæfingu og hagræðingu geti verið að bæta þá tilfærslu á framlegð sem beinlínis leiðir af slíkri verkaskiptingu, en ella væri enginn hvati til að gera slíkt samkomulag fyrir afurðastöðvar sem tapa framlegð. Af 4. mgr. 13. gr. búvörulaga, forsögu hennar og tengslum við 71. gr. laganna, sem ítarlega eru rakin í ákvörðun stefnda og hinum áfrýjaða dómi, verður ályktað að afurðastöðvum sé heimilt að semja um að jafna út tapaða framlegð sem beinlínis leiðir af slíkri verkaskiptingu þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga. Um það hvaða aðferð aðilar megi beita sín í milli til jöfnunar framlegðar er engar vísbendingar að finna í ákvæðum búvörulaga eða lögskýringargögnum. Í ákvörðun meirihluta áfrýjunarnefndar kemur fram að sú aðferð að selja hrámjólk á tilteknu lágu verði til að jafna framlegð vegna verkaskiptingar við framleiðslu á mjólkurvörum sé ekki bönnuð samkvæmt búvörulögunum heldur ein af mörgum aðferðum sem til greina getur komið. Hvað sem því líður er ljóst að markmið samkomulags áfrýjanda við Kaupfélag Skagfirðinga svf. 15. júlí 2008 og framkvæmd þess voru ekki einskorðuð við afkomuskiptingu vegna einstaka tegunda framleiðsluvara tengdum verkaskiptingunni svo sem vegna breytinga á tekjum og gjöldum úr verðtilfærslusjóði. Samkomulagið miðaði einnig að heildarjöfnun á hlutfallslegri framlegð í greininni óháð þeirri verkaskiptingu afurðastöðva, eins og hún kynni að vera ákveðin hverju sinni. Þetta markmið er ekki eingöngu sett skýrlega fram í 1. gr. samkomulagsins heldur er það stutt af gögnum málsins sem aflað var í rannsókn stefnda og stafa meðal annars frá áfrýjanda sjálfum í útskýringum á framkvæmd samkomulagsins. Á grundvelli árlegs mats sem fram fór á þróun í sölu einstaka mjólkurafurða og framlegðar var uppgjör framkvæmt með verðmætatilfærslum milli áfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga svf., svo sem með beinum greiðslum eða breytingum á söluþóknun. Þannig kemur ótvírætt fram að greiðslur hafi farið á milli aðila til að jafna framlegð fyrirtækjanna á báða bóga. Þá var orðið ljóst að enn hallaði á áfrýjanda í framlegð í árslok 2013. Óskaði áfrýjandi þá eftir því að forsendur samstarfsins við Kaupfélag Skagfirðinga svf. yrðu endurskoðaðar í heild, nýjar forsendur settar fyrir framlegðarskiptum félaganna og samningurinn endurgerður frá grunni en ekki tókust samningar um það. Um mat á áhrifum samkomulagsins á framlegð Kaupfélags Skagfirðinga svf. er meðal annars fjallað í matsgerð 26. júní 2019 sem áður var lýst. Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var í síðari matsspurningunni sett fram tafla um framlegð 1 í tilviki áfrýjanda annars vegar og Kaupfélags Skagfirðinga svf. hins vegar. Með framlegð 1 er átt við nettósölutekjur að frádreginni vörunotkun. Kemur þar meðal annars fram að ætluð framlegðarprósenta áfrýjanda án viðskipta við Kaupfélag Skagfirðinga svf. hafi verið 36,45% fyrir árið 2007, 34,53% 2008, 32,10% 2009, 34,56% 2010, 34% 2011, 35,61% 2012 og 34,62% 2013. Áætluð framlegðarprósenta Kaupfélags Skagfirðinga svf. af vinnslu mjólkur hafi hins vegar verið 30,21% fyrir árið 2007, 34,44% 2008, 31,23% 2009, 35,42% 2010, 32,56% 2011, 33,23% 2012 og 32,51% 2013. Eins kemur fram yfirlit yfir framlegð 1 í krónutölu fyrir Kaupfélag Skagfirðinga svf. en af því sést að frá árinu 2007 til og með árinu 2013 jókst árleg heildarframlegð Kaupfélags Skagfirðinga svf. úr 243.732.763 krónum í 1.209.585.956 krónur. Eins og fram kom í skýrslu matsmanns fyrir héraðsdómi er hér um að ræða heildartölur um framlegð af öllum vörum sem Kaupfélag Skagfirðinga svf. framleiddi að teknu tilliti til verðhækkana og framleiðslubreytinga. Af framangreindu verður ályktað að á næstu fimm árum eftir að aðilar gerðu samkomulagið 15. júlí 2008, sem fól í sér að Kaupfélag Skagfirðinga svf. lét frá sér framleiðslu á ferskvörum en tók við framleiðslu á ostum, þar með talið rifostum, nærfellt fimmfaldaðist heildarframlegð félagsins. Áfrýjandi hefur í málatilbúnaði sínum lagt höfuðáherslu á að í mjólkurvöruframleiðslu hafi ostar að meðaltali lægri framlegð en ferskvörur, meðal annars vegna minni tekna úr verðtilfærslusjóði og að markmið með lækkuðu verði á hrámjólk til Kaupfélags Skagfirðinga svf. hafi verið að bæta upp þetta framlegðartap. Ekki verður þó litið fram hjá því að samkomulagið 15. júlí 2008 leiddi sem fyrr segir í reynd til mikillar veltuaukningar Kaupfélags Skagfirðinga svf. vegna gríðarlegrar söluaukningar á rifosti og er aukin framlegð 1 vegna framleiðslu rifosts meðtalin í framangreindum tölum um framlegð félagsins. Hvað sem líður framlegðartapi Kaupfélags Skagfirðinga svf., meðal annars vegna lægri tekna úr verðtilfærslusjóði eftir að hafa tekið við framleiðslu á ostum, verður ekki fallist á að þurft hafi að bæta Kaupfélagi Skagfirðinga svf. upp tapaða framlegð enda staðfesta gögn um framkvæmd samkomulagsins það gagnstæða, að samstarfið skilaði því mun hagstæðari niðurstöðu en gert var ráð fyrir. Sem fyrr segir getur samkomulag um verkaskiptingu við framleiðslu mjólkurafurða á grundvelli 71. gr. búvörulaga falið í sér fjárhagslegt uppgjör vegna tapaðrar framlegðar sem leiðir beinlínis af slíkri verkaskiptingu. Á hinn bóginn verður ekki ályktað af umræddum breytingarlögum nr. 85/2004, sem ætlað var að eyða ákveðinni réttaróvissu, eins og að framan var rakið, að með þeim yrði markaðsráðandi afurðastöð í mjólkuriðnaði undanþegin gildissviði 11. gr. samkeppnislaga og hún gæti með verðlagningu sinni á grundvallarhráefni mismunað afurðastöðvum tengdra og ótengdra aðila sem þætti í samkomulagi um að jafna hlutfallslega framlegð fyrirtækja. Má enn fremur benda á þau ummæli í greinargerð með frumvarpi til fyrrgreindra laga að fara bæri varlega þegar lagður væri sá skilningur í lagaákvæði að þau undanskildu tiltekna þætti í atvinnustarfsemi gildissviði samkeppnislaga. Slík frávik frá almennum reglum bæri jafnan að túlka þröngt og því þyrfti með skýrum lagatexta að undanskilja ákveðna þætti landbúnaðarins gildissviði samkeppnislaga. Verður að álykta af þessu að hefði ætlun löggjafans verið að heimila mismunun í verðlagningu og frávik frá 11. gr. laganna við þær aðstæður sem uppi eru í máli þessu hefði slík undantekning frá samkeppnislögum þurft að vera orðuð með skýrum hætti.  Í samkomulagi aðila skuldbatt áfrýjandi sig til að selja Kaupfélagi Skagfirðinga svf. og síðar einnig Mjólku II ákveðið magn hrámjólkur á verði sem var allt að 17% lægra en til ótengdra afurðastöðva svo sem Mjólku I og Mjólkurbúsins Kú ehf. Tók áfrýjandi að selja Kaupfélagi Skagfirðinga svf. mikið magn hrámjólkur á þessu lága verði strax þegar samkomulagið tók gildi 2008 þrátt fyrir að verkaskipting um það samkvæmt samkomulaginu hæfist ekki í eiginlegri mynd fyrr en seint á árinu 2009. Á sama tíma var ótengdum afurðastöðvum seld sama vara, ógerilsneydd hrámjólk, á sama verði og gerilsneydd mjólk sem er meira unnin vara. Áfrýjanda hefur samkvæmt framansögðu ekki tekist að sýna fram á að þessi mismunun í verðlagningu hafi verið óhjákvæmilegur þáttur í samstarfi aðila á grundvelli 71. gr. búvörulaga eða hvílt á öðrum heimildum laganna. Í því sambandi ber einnig að líta til þess sérstaklega að Mjólka II var ekki aðili að umræddu samkomulagi áfrýjanda við Kaupfélag Skagfirðinga svf. um verkaskiptingu og framlegðarjöfnun. Samkvæmt gögnum málsins var það hins vegar markmið áfrýjanda að tryggja nægilega afkomu Mjólku II til að greiða niður skuldir með því að fyrirtækið fengi allt að 600.000 lítra af hrámjólk á sama lágmarksverðinu og greitt væri til bænda. Að öllu framangreindu virtu verður að hafna þeirri niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála að samkomulagið 15. júlí 2008 og framkvæmd þess hafi rúmast innan heimilda 71. gr. búvörulaga. Þar með er einnig hafnað þeirri málsástæðu áfrýjanda að 11. gr. samkeppnislaga um misnotkun á markaðsráðandi stöðu hafi ekki gilt um verðlagningu á hrámjólk til Mjólkurbúsins Kú ehf. og Mjólku II. Því verður að meta hvort mismunun áfrýjanda á verðlagningu hrámjólkur á milli tengdra og ótengdra aðila hafi samræmst 11. gr. samkeppnislaga. V 1           Áfrýjandi mótmælir því að mismunandi verðlagning á hrámjólk feli í sér verðmismunun í skilningi c-liðar 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga, enda séu ekki uppfyllt skilyrði ákvæðisins að um sams konar viðskipti sé að ræða gagnvart viðskiptaaðilum. Hafi viðskipti hans við Kaupfélag Skagfirðinga svf. svo og Mjólku II hvílt á margþættu samstarfi á grundvelli 71. gr. búvörulaga og margvíslegra gagnkvæmra skyldna svo sem um framleiðslu á vörum óháð framlegð þeirra og kaup á vörum hvors annars. Niðurstaða um það hvort viðskipti séu sams konar ráðist af fjöldamörgum þáttum sem litið hafi verið fram hjá í hinum áfrýjaða dómi. Þá sé niðurstaða í ákvörðun stefnda um skilgreiningar á markaði og skaðleg áhrif verðlagningar áfrýjanda á hrámjólk á samkeppni ófullnægjandi og engar vísbendingar um að samkeppnisstaða Mjólku I eða Mjólkurbúsins Kú ehf. hafi verið veikt vegna hennar. Loks séu engin gögn í málinu um meinta innri verðlagningu áfrýjanda, enda ljóst að eigin framleiðsludeild hans geti ekki talist viðskiptaaðili samkvæmt c-lið 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga.           Stefndi telur þvert á móti að viðskipti áfrýjanda hafi falið í sér eins skýrt brot á c-lið 1. mgr. 11. gr. samkeppnislaga og hugsast getur. Ákvæðið banni að viðskiptaaðilum sé mismunað með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og samkeppnisstaða þeirra veikt. Með viðskiptaaðila sé hvort heldur átt við aðila sem sé tengdur eða ótengdur hinu markaðsráðandi fyrirtæki eða einingu eða deild innan fyrirtækisins. Þannig eigi brot gegn c-lið 2. mgr. 11. gr. einnig við ef keppinautur fyrirtækis eins og áfrýjanda sem sé í markaðsráðandi stöðu á hráefnismarkaði þurfi að greiða hærra verð fyrir hráefni en framleiðsludeild þess. Þá hafi enn frekari verðmismunun milli eigin framleiðsludeildar og keppinauta á hrámjólk falið í sér mismunun áfrýjanda á markaðsráðandi stöðu sé hún metin eftir reglum 11. gr. samkeppnislaga um ólögmætan verðþrýsting og ólögmæt viðskiptakjör. Með þessu móti hafi geta ótengdra aðila til þess að keppa við áfrýjanda og tengd félög verið skert með alvarlegum hætti og markaðsráðandi staða samstæðu áfrýjanda varin. 2           Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi og ákvörðun stefnda er áfrýjandi eina fyrirtækið hér á landi sem selur öðrum mjólkurvöruframleiðendum hrámjólk í heildsölu, ásamt því að nýta hana til eigin framleiðslu, og er hann jafnframt talinn taka við 90% af þeirri hrámjólk sem bændur framleiða. Er því ekki undirorpið vafa að áfrýjandi hafi verið í markaðsráðandi stöðu, sbr. 4. tölulið 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga. Kemur þá til úrlausnar hvort áfrýjandi hafi í skilningi 11. gr. samkeppnislaga misnotað þá stöðu sína á mörkuðum málsins. Taka verður mið af þeirri sérstöðu hrámjólkur á markaði að hún hefur mjög takmarkaða staðgöngu við aðrar vörur og er undirstöðuhráefni til að framleiða margvíslegar mjólkurafurðir sem ekki væri hægt að skipta út fyrir annað hráefni. Kostnaður við hana vegur þungt við framleiðslu á öllum mjólkurvörum óháð því hvaða afurðir eru framleiddar úr henni. Hefur því ekki þýðingu eins og áfrýjandi heldur fram hvort ótengdir keppinautar og fyrirtæki tengd áfrýjanda framleiddu sams konar mjólkurvörur úr hrámjólkinni. Er því fallist á röksemdir stefnda um að ekki ráði úrslitum hvort báðir aðilar framleiða nákvæmlega sömu vöruna úr hrámjólk enda nægir að þeir geti gert það.           Fyrir liggur að áfrýjandi miðaði verð sitt á hrámjólk til Mjólku I og Mjólkurbúsins Kú ehf. við verðákvörðun verðlagsnefndar búvara á mjólk í lausu máli jafnvel þótt að um ógerilsneydda mjólk hafi verið að ræða. Í gögnum málsins liggur fyrir staðfesting frá nefndinni 10. desember 2013 um að með mjólk í lausu máli hafi á þessum tíma verið átt við gerilsneydda en ópakkaða mjólk. Á sama tíma miðaði áfrýjandi verð á hrámjólk til tengdra aðila, Kaupfélags Skagfirðinga svf. og Mjólku II, við mun lægra verð eða það lágmarksverð sem verðlagsnefnd ákvað fyrir mjólk til bænda. Af þessum sökun var sú verðmismunun sem Mjólka I og síðar Mjólkurbúið Kú ehf. sætti af hálfu áfrýjanda veruleg og þurftu þessi fyrirtæki að borga verð sem nam allt að 17% hærra verði en Mjólka II og Kaupfélag Skagfirðinga svf. greiddu fyrir vöruna. Hefði hinum tengdu félögum verið gert að greiða sama háa verð og keppinautar þeirra fyrir hrámjólk hefði hráefniskostnaður þeirra orðið um 239 milljónum krónum hærri á árunum 2008 til 2013 en raun varð á.           Fallist er á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að þessi mismunun hafi veitt Kaupfélagi Skagfirðinga svf. og Mjólku II óeðlilegt forskot í samkeppni á skilgreindum markaði málsins. Í ljósi yfirburða áfrýjanda og veikri samkeppni á hinum skilgreinda markaði málsins var með þessu verklagi vegið mjög að samkeppnisstöðu Mjólku I og Mjólkurbúsins Kú ehf. sem voru háð áfrýjanda um aðgang að þessu hráefni. Þá verður að fallast á að þessi ómálefnalegu viðskiptakjör hafi ekki samrýmst þeim skyldum sem hvíldu á áfrýjanda sem markaðsráðandi fyrirtæki samkvæmt 11. gr. samkeppnislaga. Áfrýjandi er fyrirtæki með mikla þekkingu á mjólkuriðnaði og mjólkurviðskiptum og í reynd með yfirburðastöðu á mjólkurmarkaði. Í þessu ljósi var háttsemi áfrýjanda sérlega alvarleg.            Mismunun í verðlagningu verður ekki réttlætt með vísan til ákvæða búvörulaga svo sem fyrr var lýst. Þá hefur áfrýjanda ekki tekist að sýna fram á hlutlægar ástæður sem réttlættu hana, en sönnunarbyrði um slíkt hvílir á honum. Verður að öllu framangreindu virtu og öðru leyti með vísan til forsendna dóms Landsréttar fallist á niðurstöðu hans að með mismunandi kjörum hafi áfrýjandi, sem markaðsráðandi fyrirtæki, mismunað viðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum, veikt þannig samkeppnisstöðu þeirra og með því brotið með alvarlegum hætti gegn c-lið 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga.           Stefndi byggir einnig á því að með verðlagningu áfrýjanda á hrámjólk til eigin framleiðsludeildar, sem var ekki þáttur í framangreindu samkomulagi frá 15. júlí 2008, hafi verið brotið gegn c-lið 2. mgr. 11. gr. laganna og telur staðhæfingu í hinum áfrýjaða dómi um annað ekki standast. Í þessu sambandi verður að byggja á þeirri viðurkenndu túlkun í samkeppnisrétti að með viðskiptaaðila í skilningi ákvæðisins sé átt við aðila með sjálfstæða efnahagslega starfsemi en ekki hluta af sama fyrirtæki, sbr. einnig dóm EFTA-dómstólsins frá 22. september 2016 í máli E-29/15 Sorpa bs. gegn Samkeppniseftirlitinu, þar sem reyndi á skýringu hliðstæðs hugtaks í c-lið 2. mgr. 54. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Stefndi hefur ekki lagt fram gögn til að sýna fram á hvernig framleiðsludeild áfrýjanda uppfylli þetta skilyrði eða hvernig skipulagi og stöðu hennar gagnvart fyrirtækinu er háttað.             Í ákvörðun stefnda er hins vegar rökstutt hvernig verðlagning áfrýjanda á hrámjólk til eigin framleiðsludeildar hafi í eðli sínu verið bæði alvarleg og samkeppnishamlandi gagnvart Mjólku I og Mjólkurbúinu Kú ehf. sem þurftu að greiða allt að 21% hærra verð fyrir hrámjólk. Hér verður lagt til grundvallar að áfrýjandi er lóðrétt samþætt og markaðsráðandi fyrirtæki í heildsölu á hrámjólk og jafnframt keppinautur viðskiptavina sinna í heildsölu á mjólkurvörum framleiddum úr hráefninu. Þannig er áfrýjandi í yfirburðastöðu á því sviði sem gerir samkeppnisumhverfið enn viðkvæmara. Færð eru töluleg rök fyrir því í ákvörðun stefnda að rekstur áfrýjanda hefði ekki staðið undir sér heldur skilað umtalsverðu tapi á tímabilinu 2008 til 2013 hefði hann þurft að greiða sama verð og Mjólka I og Mjólkurbúið Kú ehf. fyrir hrámjólk til mjólkurafurðaframleiðslu sinnar. Þótt áfrýjanda hafi gefist kostur á að taka til andsvara við ályktunum stefnda um þessar málsástæður allt frá því hann fékk andmælaskjal stefnda 22. október 2015 kaus hann að gera það ekki með rökstuddum hætti. Verður samkvæmt framangreindu fallist á þá niðurstöðu stefnda að sú mikla mismunum sem var á verðlagningu áfrýjanda á hrámjólk til ótengdra aðila og verði til eigin framleiðslu hafi falið í sér alvarlegan og langvarandi verðþrýsting sem var einnig fallinn til að verja markaðsráðandi stöðu áfrýjanda og þannig hafi þessi háttsemi falið í sér brot á 11. gr. samkeppnislaga. VI   Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. samkeppnislaga getur Samkeppniseftirlitið krafið einstök fyrirtæki, fyrirtækjahópa og samtök fyrirtækja, sem lögin taka til, um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við athugun einstakra mála. Upplýsinga er hægt að krefjast munnlega eða skriflega og skulu þær gefnar innan hæfilegs frests sem stofnunin setur. Þá getur það samkvæmt 2. mgr., með sömu skilyrðum og greinir í 1. mgr., krafist þess að fá gögn afhent til athugunar og skulu þau þá afhent innan hæfilegs frests sem stofnunin setur. Af hálfu áfrýjanda er byggt á því að hann hafi ekki vanrækt upplýsingaskyldu samkvæmt 19. gr. samkeppnislaga með því að afhenda ekki framlegðar- og verkaskiptasamkomulagið við Kaupfélaga Skagfirðinga svf. fyrr en með kæru sinni til áfrýjunarnefndar í fyrri meðferð samkeppnisyfirvalda á málinu. Stefndi hafi aldrei farið fram á að umrætt samkomulag yrði afhent og ljóst sé að 1. og 2. mgr. 19. gr. laganna feli ekki í sér skyldu fyrirtækja til að afhenda gögn að eigin frumkvæði. Jafna megi stjórnvaldssekt fyrir brot á samkeppnislögum til refsiviðurlaga í skilningi 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og því beri að skýra þröngt ákvæði um álagningu sekta. Með því að fallast á frumkvæðisskyldu fyrirtækja í þessu tilliti verði í raun lögð hlutlæg refsiábyrgð á fyrirtæki sem engin lagaheimild sé fyrir. Stefndi leitaði upplýsinga og gagna frá áfrýjanda í fyrri rannsókn sinni á málinu sem nauðsynlegar töldust til að útskýra mismunandi verðlagningu á hrámjólk. Voru svör áfrýjanda í fyrstu misvísandi en þar var í senn vísað til þess að um ólík viðskipti væri að ræða og verðlagningin skýrðist af mismunandi kostnaði. Þá komu einnig fram skýringar áfrýjanda sem ekki stóðust að hið lága verð á hrámjólk til Kaupfélags Skagfirðinga svf. væri ákveðið af verðlagsnefnd búvara samkvæmt 1. mgr. 8. gr. búvörulaga. Þótt áfrýjandi hafi tekið fram að samstarf og verkaskipting milli aðila hafi hvílt á 71. gr. búvörulaga, þegar hann var inntur eftir skýringum og gögnum í rannsókn stefnda, lét hann hjá líða að afhenda eða greina frá að fyrir lægi skriflegt samkomulag um skyldu hans til að selja Kaupfélagi Skagfirðinga svf. allt að 3,5 milljónir lítra af hrámjólk sem jafngilti lágmarksverði fyrir mjólk til bænda. Þegar áfrýjandi lagði samkomulagið fyrst fram með kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála á fyrri ákvörðun stefnda var auk þess ljóst að hann taldi það sjálfur mikilvægasta gagnið til skýringar á þeim verðmun sem hann var spurður um í upphafi. Eins og rakið er í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála og í hinum áfrýjaða dómi var stefnda ekki ljós tilvist samkomulagsins við fyrri rannsókn málsins og því var honum ókleift að krefjast þess að áfrýjandi afhenti það. Umrætt skjal hafði hins vegar grundvallarþýðingu til útskýringar fyrir málið. Verður sú rökrétta krafa leidd af 1. mgr. 19. gr. samkeppnislaga að áfrýjanda hafi verið skylt að afhenda stefnda samkomulagið þegar stefndi innti hann eftir skýringum á verðlagningu hrámjólkur til Kaupfélags Skagfirðinga svf. Jafnframt er hafnað þeirri málsástæðu áfrýjanda að með slíkri skýringu á 19. gr. laganna sé með ólögmætum hætti lögð á hann frumkvæðisskylda eða hlutlæg refsiábyrgð sem fari í bága við 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í því sambandi skal áréttað að þagnarréttur lögaðila nýtur ekki sérstakrar verndar framangreinds ákvæðis hvað varðar skyldu til að leggja fram gögn sem þegar eru til við rannsókn samkeppnisyfirvalda, sbr. til hliðsjónar dóm undirréttar Evrópudómstólsins 14. mars 2014 í máli T-297/11, Buzzi Unicem SpA gegn framkvæmdastjórninni. Að framangreindu virtu verður fallist á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að í þessari háttsemi áfrýjanda hafi falist brot gegn 19. gr. samkeppnislaga. VII           Í b- og i-lið 1. mgr. 37. gr. samkeppnislaga er kveðið á um að Samkeppniseftirlitið leggi stjórnvaldssekt á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja sem brjóta gegn banni samkvæmt 11. gr. laganna og skyldu til að veita upplýsingar og afhenda gögn samkvæmt 19. gr. Í 2. mgr. 37. gr. laganna er mælt fyrir um að sektir geti numið allt að 10% af heildarveltu síðasta rekstrarárs hjá hverju því fyrirtæki eða þeim samtökum fyrirtækja sem aðild eigi að broti. Við ákvörðun um fjárhæð sekta skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota, hvað brot hafa staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ýmsir aðrir þættir geta þó haft áhrif við ákvörðun sektarfjárhæðar, þar á meðal að álögð sekt sé til þess fallin að skapa varnaðaráhrif meðal annars með tilliti til fjárhagslegs styrkleika aðila. Í ákvörðun sinni lagði stefndi 440.000.000 króna stjórnvaldssekt á áfrýjanda fyrir brot gegn 11. gr. samkeppnislaga og 40.000.000 króna stjórnvaldssekt fyrir brot gegn 19. gr. sömu laga. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti síðarnefndu sektina en felldi hina fyrrnefndu úr gildi í ljósi þess að ekki var talið um brot áfrýjanda að ræða á 11. gr. laganna. Eins og rakið er að framan er fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms og ákvörðun stefnda, andstætt niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar, að áfrýjandi hafi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Í ákvörðun stefnda um fjárhæð sektar var virt til þyngingar að um ítrekuð brot áfrýjanda væri að ræða. Var í því sambandi vísað til úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála 13. desember 2006 í máli nr. 8/2006 um að Osta- og smjörsalan, forveri áfrýjanda, hefði brotið gegn c-lið 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga og misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja tengdum aðila, Ostahúsinu, og ótengdum, Mjólku I, undanrennuduft á mismunandi verði. Óumdeilt er að þegar fyrirtæki áfrýjanda var stofnað í árslok 2006 gekk Osta- og smjörsalan inn í hið nýja rekstrarfélag og færðist framleiðslan jafnframt þangað auk þess sem áfrýjandi tók við öllu sölu- og markaðsstarfi fyrirtækisins. Er því ljóst að sú efnahagslega starfsemi sem Osta- og smjörsalan hafði með höndum var að öllu leyti færð til áfrýjanda. Af skýringu á hugtakinu fyrirtæki í 11. og 37. gr. samkeppnislaga leiðir að brot sem eru framin í nafni eins lögaðila geta leitt til ítrekunaráhrifa gagnvart öðrum ef viðkomandi aðilar eru í raun hluti af sama fyrirtækinu. Fallist verður á að fyrrgreint brot hafi ítrekunaráhrif þótt ekki hafi verið ákveðin sekt í fyrra málinu, sbr. einnig dóm Evrópudómstólsins 8. febrúar 2007 í máli C-3/06 P, Groupe Danone gegn framkvæmdastjórninni. Hefði áfrýjanda af þessari ástæðu enn frekar mátt vera ljóst að samkomulag hans um mismunandi viðskiptakjör með hrámjólk gagnvart tengdum og ótengdum aðilum myndi raska samkeppni, en samkomulagið kom til framkvæmda innan við tveimur árum eftir að fyrrgreindur úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 8/2006 lá fyrir. Telja verður að brot áfrýjanda gegn 11. gr. samkeppnislaga, sem fólst í því að fyrirtæki ótengd honum þurftu að greiða mun hærra verð fyrir hrámjólk en félög tengd áfrýjanda og áfrýjandi sjálfur, hafi verið alvarlegt auk þess sem það stóð lengi og var augljóslega mjög til þess fallið að raska samkeppnisstöðu. Þá laut það að mikilvægri neysluvöru og snerti á þann hátt almenning í landinu. Að þessu virtu er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að áfrýjanda verði gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 440.000.000 króna. Er sú sektarfjárhæð auk þess langt innan fyrrgreinds 10% hámarks af heildarveltu fyrirtækis. Heildarvelta áfrýjanda árið 2015 mun hafa verið um 26.700.000.000 króna og fjárhæð sektarinnar nemur því um 1,65% af heildarveltunni. Við ákvörðun sektar vegna brots áfrýjanda á 19. gr. samkeppnislaga tók stefndi ekki aðeins mið af því að áfrýjandi hefði ekki lagt fram umrætt samkomulag við rannsókn stefnda heldur að áfrýjandi hefði ranglega sagt í bréfi 13. febrúar 2013 að Kaupfélag Skagfirðinga svf. hefði fært sig úr framleiðslu á vörum með hærri framlegð í vörur með lægri framlegð. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála taldi að ekki ætti að byggja á síðara atriðinu. Engu að síður væri brot áfrýjanda, að leggja ekki fram samkomulagið, svo alvarlegt að það réttlætti sömu sektarfjárhæð og stefndi hefði ákveðið eða 40.000.000 króna. Álykta verður að áfrýjandi hafi af ásetningi leynt fyrir stefnda skjali sem honum mátti vera ljóst að hefði grundvallarþýðingu fyrir rannsókn máls samkvæmt 19. gr. samkeppnislaga, en stöðu sinnar vegna hafði hann sérlega ríkar skyldur til að upplýsa um grundvöll viðskiptakjaranna. Í stað þess að gefa hina réttu útskýringu með vísan til skilmála samkomulagsins færði hann fram misvísandi svör um ástæður mismunandi viðskiptakjara. Þannig flækti hann í senn rannsókn málsins auk þess sem skortur á þessari meginforsendu í fyrri rannsókn stefnda á verðlagningu áfrýjanda leiddi til að fyrri ákvörðun hans ónýttist. Að þessu virtu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms að öðru leyti verður staðfest að áfrýjanda sé gerð 40.000.000 króna sekt fyrir brot á 19. gr. samkeppnislaga. Áfrýjandi hefur þegar greitt umrædda sekt en af framangreindri niðurstöðu leiðir að hafnað er kröfu hans gagnvart stefnda íslenska ríkinu um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar ásamt dráttarvöxtum. Áfrýjanda verður gert að greiða báðum stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Mjólkursamsalan ehf., greiði stefnda Samkeppniseftirlitinu 3.000.000 króna og stefnda íslenska ríkinu 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.                                       Dómur Landsréttar. Mál þetta dæma landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson, Eiríkur Jónsson og Þorgeir Ingi Njálsson. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 22. júní 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2018 í málinu nr. E-1613/2017. 2        Áfrýjandi gerir aðallega eftirfarandi kröfur: Í fyrsta lagi að vísað verði frá dómi þeim kröfum stefnda Samkeppniseftirlitsins, sem hafðar voru uppi með gagnsök í héraði, annars vegar um að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 18. nóvember 2016 í máli nr. 4/2016 verði ógiltur að því leyti sem þar er felldur úr gildi sá hluti ákvörðunar þessa stefnda nr. 19/2016 að áfrýjandi skuli greiða 440.000.000 króna stjórnvaldssekt í ríkissjóð vegna brots á 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, og hins vegar að áfrýjanda verði gert að greiða 440.000.000 króna sekt í ríkissjóð. Í öðru lagi krefst áfrýjandi þess gagnvart stefnda Samkeppniseftirlitinu að fyrrnefndur úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála verði ógiltur að því leyti sem áfrýjanda var gert að greiða 40.000.000 króna sekt vegna brots gegn 19. gr. samkeppnislaga. Í þriðja lagi gerir áfrýjandi þá kröfu á hendur stefnda íslenska ríkinu að því verði gert að endurgreiða honum 40.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. maí 2017 til greiðsludags. 3        Til vara gerir áfrýjandi eftirfarandi kröfur: Í fyrsta lagi að hann verði sýknaður af fyrrnefndum kröfum stefnda Samkeppniseftirlitsins, sem hafðar voru uppi með gagnsök í héraði, um að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 4/2016 verði ógiltur að tilteknu leyti og áfrýjanda gert að greiða 440.000.000 króna sekt í ríkissjóð. Í öðru lagi krefst áfrýjandi þess gagnvart stefnda Samkeppniseftirlitinu að fyrrnefndur úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 4/2016 verði ógiltur að því leyti sem áfrýjanda var gert að greiða 40.000.000 króna sekt vegna brots gegn 19. gr. samkeppnislaga. Í þriðja lagi gerir áfrýjandi þá kröfu á hendur stefnda íslenska ríkinu að því verði gert að endurgreiða honum 40.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. maí 2017 til greiðsludags. 4        Að þessu frágengnu gerir áfrýjandi eftirfarandi kröfur: Í fyrsta lagi að jafnvel þótt fallist verði á kröfu stefnda Samkeppniseftirlitsins, sem höfð var uppi með gagnsök í héraði, um ógildingu úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 4/2016, verði sekt ekki lögð á áfrýjanda. Í öðru lagi krefst hann þess að úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 4/2016 verði breytt á þann veg að sekt sú sem lögð var á áfrýjanda verði felld niður. Í þriðja lagi krefst áfrýjandi þess gagnvart stefnda íslenska ríkinu að því verði gert að endurgreiða honum 40.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. maí 2017 til greiðsludags. 5        Að því frágengnu gerir áfrýjandi eftirfarandi kröfur: Í fyrsta lagi að krafa stefnda Samkeppniseftirlitsins um greiðslu 440.000.000 króna sektar í ríkissjóð, sem höfð var uppi með gagnsök í héraði, verði ákveðin mun lægri en stefndi Samkeppniseftirlitið gerir kröfu um. Í öðru lagi að úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 4/2016 verði breytt á þann veg að sekt sú sem lögð var á áfrýjanda verði lækkuð verulega. Í þriðja lagi að stefnda íslenska ríkinu verði gert að endurgreiða áfrýjanda mismun á 40.000.000 króna og þeirri sekt sem ákvörðuð kann að verða með dómi með dráttarvöxtum frá 15. maí 2017 til greiðsludags. 6        Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. 7        Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti. Málsatvik og sönnunarfærsla 8        Áfrýjandi er í eigu Auðhumlu svf. (90,1%) og Kaupfélags Skagfirðinga (9,9%). Seint á árinu 2012 sendi áfrýjandi Mjólkurbúinu Kú ehf. fyrir misgáning reikning vegna kaupa Mjólku ehf. á hrámjólk. Stofnandi fyrrnefnda félagsins hafði áður verið helsti eigandi síðarnefnda félagsins en Mjólka ehf. var á þessum tíma komið í eigu Kaupfélags Skagfirðinga. Líkt og í úrlausnum samkeppnisyfirvalda og hinum áfrýjaða dómi verður heitið Mjólka I hér eftir notað um Mjólku ehf. þar til það komst í eigu Kaupfélags Skagfirðinga en heitið Mjólka II um félagið eftir það tímamark. Þá er með tilvísunum til stefnda hér eftir vísað til stefnda Samkeppniseftirlitsins eingöngu, en þess getið sérstaklega ef stefndi íslenska ríkið á í hlut.  9        Af fyrrnefndum reikningi varð Mjólkurbúinu Kú ehf. ljóst að félagið hefði greitt mun hærra verð fyrir hrámjólk en Mjólka II. Beindi það því ábendingu og síðan kvörtun til stefnda. Stefndi sendi forstjóra áfrýjanda tölvupóst 20. desember 2012 með reikningi áfrýjanda til Mjólkurbúsins Kú ehf. annars vegar, þar sem lítraverð var 90,74 krónur, og reikningi til Mjólku II hins vegar, þar sem verðið var 77,69 krónur. Í tölvupóstinum var óskað skýringa áfrýjanda á ástæðum hins mismunandi verðs. Í kjölfarið hófst rannsókn stefnda sem lauk með ákvörðun 22. september 2014 nr. 26/2014. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hefði með aðgerðum sínum brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga og honum gert að greiða 370.000.000 króna í stjórnvaldssekt. 10       Áfrýjandi kærði ákvörðun stefnda til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Með úrskurði nefndarinnar 16. desember 2014 í máli nr. 5/2014 var ákvörðunin felld úr gildi og lagt fyrir stefnda að rannsaka málið frekar og taka síðan ákvörðun á ný að því loknu. Byggðist sú niðurstaða á því að frekari rannsóknar væri þörf að því er varðaði samkomulag milli áfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga frá 15. júlí 2008, en áfrýjandi lagði það samkomulag fyrst fram á kærustigi.  11       Að aflokinni frekari rannsókn tók stefndi ákvörðun 7. júlí 2016 nr. 19/2016. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hefði brotið gegn 11. og 19. gr. samkeppnislaga og var honum gert að greiða 480.000.000 króna stjórnvaldssekt, 440.000.000 króna vegna brots á 11. gr. laganna og 40.000.000 króna vegna brots á 19. gr. þeirra. Áfrýjandi kærði ákvörðunina til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Með úrskurði nefndarinnar 18. nóvember 2016 í máli nr. 4/2016 var ákvörðunin felld úr gildi að öðru leyti en því að áfrýjandi skyldi greiða 40.000.000 króna stjórnvaldssekt vegna brots á 19. gr. samkeppnislaga. Byggðist niðurstaðan á því að áðurgreint samkomulag áfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga rúmaðist innan 71. gr. búvörulaga nr. 99/1993 og ekki hefði verið sýnt fram á nein þau atriði við forsendur eða framkvæmd þess, eða síðari samninga, sem gæti orðið grundvöllur sektarákvörðunar í málinu. Áfrýjunarnefndin klofnaði í málinu. Í sératkvæði eins nefndarmanns var komist að þeirri niðurstöðu að staðfesta ætti ákvörðun stefnda um brot áfrýjanda gegn 11. gr. samkeppnislaga og álagða sekt vegna þess. Allir þrír nefndarmenn voru á hinn bóginn sammála um brot áfrýjanda gegn 19. gr. laganna og álagða stjórnvaldssekt vegna þess. 12       Aðilar málsins höfðuðu báðir mál vegna úrskurðar áfrýjunarnefndarinnar, áfrýjandi í því skyni að fá hnekkt niðurstöðunni um brot gegn 19. gr. samkeppnislaga en stefndi í því skyni að fá hnekkt þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið brotið gegn 11. gr. laganna. Málin voru sameinuð í héraði og í hinum áfrýjaða dómi komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hefði brotið gegn báðum þessum ákvæðum. Var stefndi þannig sýknaður af kröfu áfrýjanda um ógildingu þess hluta úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála þar sem honum var gert að greiða 40.000.000 króna sekt vegna brots gegn 19. gr. samkeppnislaga, og um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar, en úrskurðurinn ógiltur að því leyti sem felld hafði verið úr gildi ákvörðun stefnda um að áfrýjandi skyldi greiða 440.000.000 króna sekt vegna brots gegn 11. gr. samkeppnislaga, og var hann dæmdur til að greiða þá fjárhæð í ríkissjóð. Var niðurstaða hins áfrýjaða dóms því á sömu lund og í ákvörðun stefnda og samkvæmt sératkvæði hjá áfrýjunarnefnd samkeppnismála.   13       Fyrrnefnt samkomulag áfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga frá 15. júlí 2008, sem deila málsaðila lýtur að verulegu leyti að, ber heitið „Framlegðar- og verkaskiptasamkomulag“. Í 1. mgr. 1. gr. þess segir að markmið samkomulagsins sé að fastsetja helstu forsendur í samstarfi samningsaðila um: a) Verkaskiptingu í framleiðslu mjólkurvara; b) Framlegðarskipti framleiddra mjólkurvara með tilliti til verkaskiptingar í mjólkurvinnslu og sölu hráefnis og fullunninna vara milli áfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga sem liðar í framlegðar- og verkaskiptingu; c) Aðrar forsendur eins og verðlagsmál og breytingar á sjóðakerfi mjólkurvara samkvæmt breytingum á búvörulögum. Í 3. mgr. 1. gr. segir: „Svo unnt verði að koma á frekari verkaskiptingu í mjólkuriðnaði, og ná nauðsynlegri lækkun á vinnslu- og dreifingarkostnað mjólkurvara, skulu samningsforsendur stuðla að jöfnun framlegðar milli mjólkurvara. Þetta skal gert í þeim tilgangi að þeir lögaðilar sem standa að eignarhaldi og rekstri MS ehf., hafi sambærilega rekstrarafkomu við vinnslu mjólkur, óháð þeirri verkaskiptingu afurðastöðva eins og hún kann að verða ákveðin hverju sinni með hagsmuni greinarinnar í heild sinni að leiðarljósi.“ 14       Í kjölfar 1. gr. kemur A-hluti samkomulagsins sem ber yfirskriftina „Verkaskipting í framleiðslu mjólkurvara“. Þar kemur meðal annars fram að framleiðslu og pökkun eftirtalinna ferskvara verði hætt á Sauðárkróki: Nýmjólkur, léttmjólkur, undanrennu, rjóma og mysu. Áfrýjandi muni annast framleiðslu og pökkun þessara vara fyrir sölu- og þjónustusvæði Kaupfélags Skagfirðinga. Þá verði framleiðslu og pökkun súrmjólkur hætt á Sauðárkróki. Einnig kemur fram að framleiðsla á rifnum osti skuli flytjast á Sauðárkrók og hjá mjólkursamlagi Kaupfélags Skagfirðinga verði lögð áhersla á framleiðslu fastra osta og viðbits úr þeirri mjólkurfitu sem til falli við ostagerð. 15       Í B-hluta samkomulagsins, sem ber yfirskriftina „Framlegðarskipti mjólkurvara“, segir að aðilar séu sammála um að framlegðarskipti verði framkvæmd milli fyrirtækjanna á grunni mjólkurvara og hráefnis. Um forsendur þeirra skipta segir að gert sé ráð fyrir að verðtilfærsla mjólkurvara verði aflögð, bæði lögbundin tilfærsla og verðtilfærsla Samtaka afurðamiðstöðva í mjólkuriðnaði sem framkvæmd hafi verið samkvæmt heimildarákvæðum búvörulaga. Þó sé í byrjun gert ráð fyrir innheimtu og útgreiðslu lögbundinnar verðtilfærslu. Síðan segir: „Áhrif þessara ráðstafana á KS og MS eru að KS fer úr því að hafa 25 millj. kr. í tekjur vegna verðtilfærslu árlega (verðtilfærslutekjur – verðtilfærslugjöld), í að þurfa að greiða árlega 31 millj. kr. í verðtilfærslu. Breytingin nemur því um 56 millj. kr. framlegðartap fyrir KS en að sama skapi jafnhá framlegðaraukning fyrir fyrir MS (sjá meðfylgjandi útreikninga). Þessi niðurstaða er að teknu tilliti til þess að mjólkurpökkun og framleiðsla sýrðra vara færist til MS frá KS. Við að framleiða eingöngu ost í stað ferskvara minnka [heildsölutekjur] KS um 47 millj. kr. til [viðbótar] – eða samtals um 103 millj. kr. Áhrif breyttrar verkaskiptingar á aðra vörunotkun og sölu- og dreifingarkostnað nemur um 62 millj. kr lægri kostnað fyrir KS en að sama skapi sömu upphæð hærri fyrir MS. Nettóáhrif þessara breytinga vegna verkaskiptingar og verðtilfærslubreytinga nemur því (103 – 62) = 41 millj. kr. Þennan mismun þarf því að leiðrétta auk 24 millj. kr. viðbót vegna skiptingu framlegðar vegna verkaskiptingu á markaði.“ 16       Í samkomulaginu segir næst undir yfirskriftinni „Magn hrámjólkur frá MS til KS og verðlagning þess“: „Til að mæta [framlegðartapi] KS (samsvarandi framlegðaraukningu MS) vegna breytinga í verkaskiptingu og verðtilfærslu svo og sem lið í framlegðarútjöfnun, skal framkvæma eftirfarandi: 1. MS ehf. skal selja KS sem nemur allt að 3,5 millj. ltr af mjólk á ársgrunni. 2. Verðlagning mjólkurinnar skal taka mið af skráðu lágmarksverði Verðlagsnefndar búvöru fyrir meðalmjólk (afurðastöðvaverð). Ofan á skráð lágmarksverð skulu bætast lítratengd sjóðagjöld (Lögbundin verðtilfærsla og Verðmiðlunarsjóðsgjald meðan lagaskylda er til staðar). Ekki skal leggja fast álag ofan á framangreint verð mjólkurinnar eins og tíðkast hefur skv. [ákvörðun] SAM. Á sama hátt skal verðleggja hráundanrennu og hrárjóma í [viðskiptum] aðila, ef til þeirra kemur. 3. Kostnaður af flutningi hráefnis milli aðila (viðbótarkostnaður umfram söfnunarkostnað mjólkur) skal skiptast jafn milli aðila (50/50). Kostnaður skal reiknast skv. samtals eknum km. í hverjum mánuði með hráefni milli aðila.“ Í samkomulaginu kemur síðan fram að af skráðu heildsöluverði mjólkurvara skuli innheimta 10% söluþóknun í viðskiptum milli aðila. 17       Gerð var breyting á framangreindu samkomulagi með samningi 26. febrúar 2009 þar sem hámark var sett á söluþóknun til áfrýjanda. Uppfært samkomulag um verkaskiptingu og framlegð var síðan gert 2. mars 2010 þar sem hámarkið á söluþóknun var hækkað. Frekari breytingar voru gerðar á samkomulaginu síðar það sama ár og meðal annars var árlegt magn hrámjólkur sem áfrýjandi seldi Kaupfélagi Skagfirðinga fastsett 3,5 milljónir lítra, sem áður var hámark þeirra viðskipta. Í málinu liggja fyrir frekari gögn um endurskoðun og uppgjör samkomulagsins sem til samræmis við efni þess var ætlað að miða að jöfnun framlegðar. Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála segir að leiðréttingarnar hafi einkum farið fram á þann hátt að umboðslaun til samningsaðila hafi verið leiðrétt eftir því sem efni hafi staðið til. Fleiri aðferðir hafi þó verið notaðar. Leiðréttingarnar hafi farið fram á grundvelli ýmissa reikningslegra gagna málsins, meðal annars tölvupóstum milli forsvarsmanna aðila, og endað að lokum með einhvers konar samkomulagi milli þeirra. Hinn 2. október 2014, í kjölfar fyrri ákvörðunar stefnda í málinu, gerðu áfrýjandi og Kaupfélag Skagfirðinga með sér nýjan samstarfssamning sem ekki er til umfjöllunar hér.   18       Fyrir Landsrétti óskaði áfrýjandi dómkvaðningar matsmanns til að leggja mat á eftirfarandi: „1. Hvort Kaupfélag Skagfirðinga hafi við verkaskiptingu samkvæmt svonefndu Framlegðar- og verkaskiptasamkomulagi frá 15. júlí 2008 látið frá sér sölu á vörum sem voru með hærri framlegð og tekið við framleiðslu vara með lægri framlegð? 2. Að frádreginni millisölu á hráefnum og fullunnum vörum, hver var framlegð 1 af vinnslu mjólkur á tímabilinu 2008 – 2013 hjá annars vegar Kaupfélagi Skagfirðinga og hins vegar [áfrýjanda] af eigin framleiðslu?“ Var Ingvar Garðarsson, löggiltur endurskoðandi, dómkvaddur til að framkvæma umbeðið mat. Skilaði hann matsgerð 26. júní 2019 og gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Líkt og rakið er í ákvörðun stefnda er framlegð 1 skilgreind af áfrýjanda sem sölutekjur að frádregnu hráefni, umbúðum og hjálparefnum. 19       Í svari við fyrri matsspurningunni framkvæmdi matsmaðurinn samanburð á áætlaðri framlegð fyrir og eftir samkomulagið miðað við árið 2007 annars vegar og árið 2010 hins vegar. Um fyrrnefnda árið var komist að eftirfarandi niðurstöðu: „Miðað við framlegð 1 á hverja einingu eins og hún var á árinu 2007 og óbreytt magn af móttekinni og keyptri mjólk til vinnslu, þá hefði heildarframlegð KS aukist um 23 milljónir króna vegna verkaskiptasamkomulagsins þegar áhrif þess voru að fullu komin fram.“ Um árið 2010 var hins vegar komist að eftirfarandi niðurstöðu: „Miðað við framlegð 1 á hverja einingu eins og hún var á árinu 2010 og ef KS hefði unnið úr sama magni af móttekinni og keyptri mjólk til vinnslu á árinu 2007 eins og það gerði á árinu 2010, þá hefði heildarframlegð KS lækkað um 145 milljónir króna vegna verkaskiptasamkomulagsins þegar áhrif þess voru að fullu komin fram.“ Í kaflanum „Ígrundun“ segir síðan meðal annars um matsspurninguna: „Það er niðurstaða matsmanns að KS tapaði heildarframlegð á verkaskiptasamkomulaginu og er tapið áætlað 145 milljónir króna miðað við vinnslumagn, verðlag og framlegð einstakra vara eins og það var eftir að áhrif verkaskiptasamkomulagsins voru að fullu fram komin árið 2010. Í þessari niðurstöðu felst að matsmaður lítur framhjá orðinu „voru“ í matsspurningunni. Þetta orð vísar til fortíðar og gefur til kynna að spurningin vísi til framlegðar einstakra vara eins og hún var fyrir verkaskiptasamkomulagið. Er þá nærtækast að líta til ársins 2007 og gaumgæfa áhrif samkomulagsins á heildarframlegð KS miðað við magn, verðlag og framlegð á hverja einingu eins og hún var á þeim tíma. Á þann mælikvarða nam ávinningur KS 23 milljónum króna. Matsmaður lítur svo á að matsspurningin vísi til þess sem raunverulega gerðist, frekar en þeirra væntinga sem aðilar samkomulagsins hefðu mögulega getað haft til ávinnings af því, ef þeir hefðu með nákvæmum hætti getað séð fyrir hvernig eftirspurn eftir einstökum vörum myndi þróast fram til ársins 2010.“ 20       Í svari við síðari matsspurningunni er sett fram tafla um framlegð áfrýjanda annars vegar og Kaupfélags Skagfirðinga hins vegar. Kemur þar meðal annars fram að ætluð framlegðarprósenta áfrýjanda án viðskipta við Kaupfélag Skagfirðinga hafi verið 36,45% fyrir árið 2007, 34,53% 2008, 32,10% 2009, 34,56% 2010, 34% 2011, 35,61% 2012 og 34,62% 2013. Áætluð framlegðarprósenta Kaupfélags Skagfirðinga hafi hins vegar verið 30,21% fyrir árið 2007, 34,44% 2008, 31,23% 2009, 35,42% 2010, 32,56% 2011, 33,23% 2012 og 32,51% 2013. 21       Um málsatvik vísast að öðru leyti til hins áfrýjaða dóms.      Málsástæður aðila 22       Áfrýjandi byggir þá kröfu sína, að kröfum stefnda verði vísað frá dómi, í meginatriðum á því að stefnda skorti heimild til að skjóta málinu til dómstóla. Þá feli sú krafa stefnda, að áfrýjanda verði gert að greiða 440.000.000 króna sekt í ríkissjóð, í sér að dómstólar taki nýja stjórnvaldsákvörðun en það fái ekki samrýmst meginreglu stjórnskipunarréttar. Varakröfu um sýknu af nefndum kröfum stefnda byggir áfrýjandi einkum á því að sá verðmunur sem málið lúti að hafi verið liður í samkomulagi og samstarfi áfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga sem heimilt hafi verið samkvæmt 71. gr. búvörulaga. Þá teldist verðlagning áfrýjanda ekki fela í sér mismunun samkvæmt c-lið 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga jafnvel þótt greinin yrði talin eiga við. Kröfu sína um ógildingu niðurstöðu um brot gegn 19. gr. samkeppnislaga byggir áfrýjandi á því að hann hafi aldrei vanrækt upplýsingaskyldu sína. Ef talið verði að brotið hafi verið gegn 11. og/eða 19. gr. samkeppnislaga beri að fella niður sektir eða ákveða þær mun lægri en stefndi hafi gert og krefjist.  23       Stefndi byggir einkum á því að áfrýjanda hafi ekki verið heimilt að selja ótengdum keppinautum hrámjólk á hærra verði en hans eigin framleiðsludeild annars vegar og tengdir keppinautar hins vegar hafi þurft að greiða fyrir slíka mjólk. Þetta hafi falið í sér brot gegn 11. gr. samkeppnislaga og ákvæði búvörulaga breyti því ekki. Þá hafi áfrýjandi brotið gegn 19. gr. samkeppnislaga með því að upplýsa ekki um framlegðar- og verkaskiptasamkomulag hans og Kaupfélags Skagfirðinga fyrr en eftir að stefndi tók fyrri ákvörðun sína í málinu. Ekki sé ástæða til þess að fella niður eða lækka þær sektir sem stefndi hafi ákvarðað og dæmdar hafi verið í hinum áfrýjaða dómi.             24       Um nánari málsástæður aðila vísast til hins áfrýjaða dóms og þess sem á eftir greinir. Niðurstaða 25       Samkvæmt framangreindu lýtur deila aðila að því hvort áfrýjandi hafi brotið gegn 11. og 19. gr. samkeppnislaga og skuli gerð stjórnvaldssekt af þeim sökum. Stefndi taldi áfrýjanda hafa brotið gegn báðum ákvæðunum og gerði honum að greiða 440.000.000 króna vegna brots á 11. gr. laganna og 40.000.000 króna vegna brots á 19. gr. þeirra. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi fyrrgreindu niðurstöðuna úr gildi en staðfesti þá síðargreindu. Mál þetta var höfðað í því skyni að fá úrskurði áfrýjunarnefndarinnar hnekkt, af hálfu áfrýjanda til að fá breytt niðurstöðunni um brot gegn 19. gr. samkeppnislaga en af hálfu stefnda til að fá breytt þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið brotið gegn 11. gr. sömu laga. Með hinum áfrýjaða dómi var fallist á kröfur stefnda.   Um frávísunarkröfur áfrýjanda 26       Sú meginregla gildir í stjórnsýslurétti að lægra sett stjórnvald getur því aðeins hlutast til um að fá úrskurði æðra setts stjórnvalds hnekkt að fyrir hendi sé ótvíræð lagaheimild fyrir stjórnvaldið til að skjóta deiluefninu til dómstóla, sbr. dóm Hæstaréttar 22. september 1998 í máli nr. 297/1998 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 2821. Með 4. gr. laga nr. 14/2011 var slík heimild fyrir stefnda lögfest í 41. gr. samkeppnislaga. Þar segir nú í 1. málslið að vilji aðili, þar með talið Samkeppniseftirlitið, ekki una úrskurði áfrýjunarnefndar geti hann höfðað mál til ógildingar hans fyrir dómstólum. Í skýringum við 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 14/2011 segir meðal annars að sú staðreynd að stefndi hafi ekki málskotsrétt til dómstóla takmarki möguleika hans til þess að gæta hagsmuna almennings í samkeppnismálum. Hlutverk hans sé meðal annars að vernda þá lögvörðu almannahagsmuni sem felist í virkri samkeppni og því óeðlilegt að hann geti ekki gætt þeirra hagsmuna til sóknar fyrir dómstólum. Mikilvægt sé að stefndi geti, eftir atvikum, varið fyrir dómstólum niðurstöðu ákvarðana sinna sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur ógilt eða breytt. Þar segir einnig að mikilvægt sé að stefndi geti borið úrskurði áfrýjunarnefndarinnar undir dómstóla. 27       Með málsókn sinni bar stefndi úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála undir dómstóla að því leyti sem þar var felld úr gildi niðurstaða stefnda um að áfrýjandi hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga og sekt sem stefndi lagði á hann af þeim sökum. Til þessa hafði stefndi ótvíræða heimild samkvæmt framangreindu ákvæði í 41. gr. samkeppnislaga og eru því engin efni til frávísunar á þeim grunni að slíka heimild hafi skort. Þá er dómaframkvæmd Hæstaréttar skýr um að dómstólar fara með fullt endurskoðunarvald á úrlausnum samkeppnisyfirvalda, þar á meðal á niðurstöðu þeirra um sektir, en fyrir liggja fjölmargir dómar þar sem sektarfjárhæðum samkeppnisyfirvalda hefur verið breytt og þannig vikið frá meginreglunni um að dómstólar geti aðeins ógilt ákvarðanir stjórnvalda en ekki tekið aðrar efnislegar ákvarðanir í staðinn. Er þetta og í samræmi við framangreinda umfjöllun í lögskýringargögnum. Í þessu sambandi má meðal annars benda á dóma Hæstaréttar 2. október 2008 í máli nr. 640/2007 og 9. febrúar 2012 í máli nr. 205/2011, svo og dóm Landsréttar 14. júní 2019 í máli nr. 490/2018. Sú sérstaða er þó uppi í því máli sem hér er til úrlausnar að krafa stefnda lýtur að því að lögð verði á sekt vegna brots sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála taldi ekki vera fyrir hendi og tók því ekki ákvörðun um stjórnvaldssekt. Til þess er hins vegar að líta að stefndi hafði áður komist að niðurstöðu um brot gegn 11. gr. samkeppnislaga og lagt á 440.000.000 króna sekt vegna þess. Fyrsta krafa stefnda er um ógildingu á þeim hluta úrskurðar áfrýjunarnefndarinnar sem felldi nefnda niðurstöðu stefnda úr gildi. Afleiðing slíkrar ógildingar væri óhjákvæmilega sú að ákvörðun stefnda stæði og krafa stefnda um greiðslu fyrrnefndrar fjárhæðar felur í sér að niðurstaðan verði sú sem þar greindi. Með þessu leitast stefndi við að verja fyrir dómstólum niðurstöðu ákvörðunar sinnar, að því marki sem áfrýjunarnefndin ógilti hana, og koma á því ástandi sem í ákvörðuninni fólst. Verður samkvæmt þessu hvorki talið að fyrrgreind meginregla um að dómstólar taki ekki stjórnvaldsákvarðanir né 41. gr. samkeppnislaga leiði til frávísunar á kröfu stefnda um að áfrýjandi greiði 440.000.000 króna í ríkissjóð. Dómur Hæstaréttar 1. desember 2011 í máli nr. 116/2011 breytir ekki þeirri niðurstöðu en í því sambandi er meðal annars til þess að líta að það mál laut að formannmarka, þar sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafði hvorki rannsakað málið nægilega né fullnægt lágmarkskröfum um rökstuðning. Enginn slíkur formannmarki telst vera fyrir hendi í þessu máli heldur lúta álitaefnin að því hvort áfrýjunarnefndin hafi komist að efnislega réttri niðurstöðu. Standa engin rök til annars en að dómstólar leiði málið til lykta. Um tengsl samkeppnislaga og búvörulaga 28       Deila aðila um hvort áfrýjandi hafi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga snýst að verulegu leyti um skil samkeppnislaga annars vegar og búvörulaga nr. 99/1993 hins vegar. Líkt og áður er rakið hófst málið með því að áfrýjandi var í desember 2012 krafinn skýringa á mismunandi verði á hrámjólk samkvæmt reikningum til Mjólkurbúsins Kú ehf. annars vegar og Mjólku II hins vegar, en lítraverð samkvæmt fyrrgreinda reikningnum var 90,74 krónur en 77,69 krónur samkvæmt þeim síðargreinda. Rannsókn stefnda leiddi í ljós að á tímabilinu 2008 til 2013 þurfti Mjólka I og síðan Mjólkurbúið Kú ehf. að greiða allt að 17% hærra verð fyrir hrámjólkina en Kaupfélag Skagfirðinga og Mjólka II, en verðið til hinna síðargreindu var það sama og hið opinbera lágmarksverð til mjólkurbænda. Framangreind atriði eru óumdeild en deilt er um hvort þau hafi falið í sér brot gegn 11. gr. samkeppnislaga. Stefndi telur svo vera en áfrýjandi ekki og byggir einkum á því að hin mismunandi verðlagning hafi verið heimil samkvæmt 71. gr. búvörulaga þar sem hún hafi byggt á samkomulagi afurðastöðva um verkaskiptingu. 29       Áður er rakið efni þess framlegðar- og verkaskiptasamkomulags sem áfrýjandi og Kaupfélag Skagfirðinga gerðu með sér 15. júlí 2008. Var samkomulaginu samkvæmt 1. gr. ætlað að „stuðla að jöfnun framlegðar milli mjólkurvara“ í þeim tilgangi „að þeir lögaðilar sem standa að eignarhaldi og rekstri MS ehf., hafi sambærilega rekstrarafkomu við vinnslu mjólkur, óháð þeirri verkaskiptingu afurðastöðva eins og hún kann að verða ákveðin hverju sinni“. Bera samkomulagið sjálft, síðari breytingar á því og gögn um uppgjör vegna þess með sér að ætlun samningsaðila hafi verið að jafna framlegð á milli áfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga hlutfallslega, þannig að heildarframlegð þeirra af framleiðslu og sölu mjólkurafurða yrði sem jöfnust í prósentum talið. Fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála var áfrýjandi til að mynda inntur eftir því hvort það væri réttur skilningur á málatilbúnaði hans að tilgangur samkomulagsins hafi verið „að jafna almennt og ótímabundið hlutfallslega framlegð (framlegð 1) á milli KS og MS við framleiðslu og sölu mjólkurvara“. Svaraði hann þessu játandi og tók fram að samkomulaginu „hafi verið ætlað að tryggja að aðilar hefðu sem jafnasta hlutfallslega framlegð (1) af hverjum innvegnum mjólkurlítra“. Í þessu fólst í reynd að sá sem lægri framlegð fengi skyldi fá greiðslu frá þeim sem hærri framlegð hefði til að jafna framlegð þeirra á hverju uppgjörstímabili. Byggir áfrýjandi á því að verðið sem Kaupfélag Skagfirðinga greiddi fyrir hrámjólkina hafi þannig verið liður í að bæta félaginu framlegðartap sem það hafi orðið fyrir vegna verkaskiptingar þeirra og því verið liður í samkomulagi sem undanskilið sé samkeppnislögum samkvæmt 71. gr. búvörulaga. 30       Núgildandi 71. gr. búvörulaga var sett með lögum nr. 85/2004, sem breytti auk þess 3. mgr. 13. gr. laganna, sem eftir setningu laga nr. 102/2016 er í 4. mgr. greinarinnar. Í síðarnefnda ákvæðinu segir að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga sé afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða. Leggja skuli slíka samninga fyrir verðlagsnefnd til upplýsingar. Í 71. gr. segir að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga sé afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða.  31       Forsaga framangreindra ákvæða búvörulaga er sú að í 59. gr. laganna, sem fram til setningar laga nr. 46/2015 báru heitið lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sagði, eftir endurútgáfu laganna samkvæmt lögum nr. 112/1992: „Framleiðsluráði landbúnaðarins og afurðastöðvum í mjólkuriðnaði er heimilt að gera samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara fyrir innlendan og erlendan markað. Í slíku samkomulagi er heimilt að kveða á um verðtilfærslu til að jafna framlegð mismunandi framleiðslutegunda á milli mjólkurbúa. Fimmmannanefnd getur gripið inn í verðtilfærslu milli afurða telji hún það nauðsynlegt. Verðtilfærsla má aldrei verða hærri fjárhæð en sem svarar hráefnisverði hverrar afurðar. Samkomulagið öðlast ekki gildi fyrr en landbúnaðarráðherra hefur staðfest það.“ Með lögum nr. 69/1998 var svohljóðandi ákvæði tekið upp í 3. mgr. 13. gr. laganna: „Verðlagsnefnd getur, að fengnum tillögum afurðastöðva eða samtaka þeirra, heimilað afurðastöðvum að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða. Samningar þessir skulu hljóta staðfestingu verðlagsnefndar.“ Í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 69/1998 sagði að síðastnefnt ákvæði væri efnislega samhljóða 59. gr. gildandi laga sem heimilaði samninga milli Framleiðsluráðs landbúnaðarins og afurðastöðva í mjólkuriðnaði „er kveði á um verðtilfærslu til að jafna framlegð mismunandi framleiðslutegunda milli mjólkurbúa“. Samhliða upptöku ákvæðisins í 3. mgr. 13. gr. var 2. til 4. málsliður 59. gr. því felldur úr gildi. Með lögum nr. 112/1999 var Framleiðsluráð landbúnaðarins tekið út úr 59. gr., sem eftir það hljóðaði í heild sinni svo: „Afurðastöðvum í mjólkuriðnaði er heimilt að gera samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara fyrir innlendan og erlendan markað. Samkomulagið öðlast ekki gildi fyrr en landbúnaðarráðherra hefur staðfest það.“ Þannig stóðu 3. mgr. 13. gr. og 71. gr. laganna þar til lög nr. 85/2004 færðu þau í fyrrnefnt og núgildandi horf.  32       Samkvæmt greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 85/2004 var því ætlað að „eyða þeirri réttaróvissu sem skapast hefur um að gildandi búvörulög, nr. 99/1993, tryggi ekki með nægjanlegri vissu að samráð, samruni og verðtilfærsla í mjólkuriðnaði sé undanskilið gildissviði samkeppnislaga í samræmi við ætlan löggjafans“. Lagaákvæði sem feli í sér frávik frá almennum reglum beri jafnan að túlka þröngt. Í þessu felist að fara beri varlega þegar lagður sé sá skilningur í lagaákvæði að þau undanskilji tiltekna þætti í atvinnustarfsemi gildissviði samkeppnislaga og þar með íhlutunarvaldi samkeppnisyfirvalda. Því þurfi með skýrum lagatexta að lögfesta vilja löggjafans til þess að undanskilja ákveðna þætti landbúnaðarins gildissviði samkeppnislaga. Í greinargerðinni segir og að með þeim breytingum sem felist í frumvarpinu sé verið að styrkja grundvöll til hagræðingar og tryggja að sú hagræðing njóti enn um sinn undanþágu frá gildissviði samkeppnislaga sé það gert í þeim tilgangi að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða. 33       Framangreind löggjafarsaga ber ekki með sér að búvörulög undanskilji samkomulag, af þeim toga sem áfrýjandi og Kaupfélag Skagfirðinga gerðu með sér, samkeppnislögum á þann hátt að ekki komi til athugunar hvort áfrýjandi hafi brotið gegn 11. gr. síðarnefndu laganna í málinu. Samkomulagið fól líkt og að framan greinir í sér hlutfallslega jöfnun á framlegð fyrirtækjanna. Hvorki í 4. mgr. 13. gr. né 71. gr. búvörulaga er vikið að slíkri jöfnun framlegðar. Í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 69/1998 er að vísu vikið að jöfnun framlegðar en þá í tengslum við heimildina til verðtilfærslu, sem færðist með þeim lögum í 3. mgr. 13. gr. og er nú í 4. mgr. sömu greinar. Jöfnunin sem í samkomulaginu fólst getur ekki talist til slíkrar verðtilfærslu enda er þannig færsla annars eðlis og felur í sér verðtilfærslu á milli tiltekinna afurða en ekki hlutfallslega jöfnun á framlegð fyrirtækja. Eftir stendur þá hvort nefnd jöfnun falli undir 71. gr. búvörulaga. Þar er sem fyrr segir hvergi minnst á jöfnun framlegðar og ekki heldur í lögskýringargögnum með greininni eins og hún hefur verið síðan verðtilfærsluhluti hennar færðist í 3. mgr. og síðan 4. mgr. 13. gr. Í ljósi framangreinds verður að telja nærtækast að skýra ákvæðin í samhengi svo að hyggist afurðastöðvar jafna framlegð vegna samkomulags um verkaskiptingu skuli það gert með verðtilfærslu samkvæmt 4. mgr. 13. gr. búvörulaga. Það var ekki gert samkvæmt framansögðu.  34       Lögskýringargögn með lögum nr. 85/2004 benda ekki í aðra átt. Markmið þess frumvarps sem varð að lögunum var að tryggja að „samráð, samruni og verðtilfærsla“ í mjólkuriðnaði væru undanskilin gildissviði samkeppnislaga. Fyrstnefndu tvö atriðin vísa nokkuð skýrlega til þess að sameiningar og samstarf sem búvörulög heimila skuli vera undanskilin reglum samkeppnislaga um samráð og samruna á meðan hið síðastnefnda vísar til þess að það samkomulag um verðtilfærslu, sem 3. mgr. 13. gr. heimili, sé undanskilið reglum samkeppnislaga. Ekkert í frumvarpinu vísar sérstaklega til undanþágu frá 11. gr. laganna og gögn sem tengjast aðdraganda lagasetningarinnar benda fremur í gagnstæða átt. Þá er sem fyrr segir ekkert í lögskýringargögnum með því frumvarpi sem varð að lögunum sem rennir stoðum undir að jöfnun framlegðar af þeim toga sem margnefnt samkomulag miðaði að hafi verið undanskilið samkeppnislögum. Eins er þess að gæta að eitt er að hafa heimild til að sameinast, hafa með sér verkaskiptingu og samstarf og semja um verðtilfærslur á tilteknum vörum, en annað að hafa heimild til þess að semja um hlutfallslega jöfnun á framlegð fyrirtækja. Rök áfrýjanda um að stefndi hafi með nánar tilteknum ummælum í ákvörðun sinni viðurkennt að framlegðarskipti geti verið samrýmanleg 71. gr. búvörulaga og sé bundinn af þeirri afstöðu eru haldlaus enda geta þau engu breytt um heimild dómstóla til skýringar umræddra ákvæða auk þess sem afstaða stefnda var ótvírætt sú frá upphafi að undanþága ákvæðisins ætti ekki við um hið umdeilda samkomulag. 35       Til viðbótar því sem hér hefur verið rakið, um heimildir til samkomulags um hlutfallslega jöfnun framlegðar fyrirtækja, er til þess að líta að eigi verðlagning sú sem á reynir að falla utan samkeppnislaga nægir ekki að búvörulög hafi undanskilið samkomulagið sem slíkt, heldur þurfa þau að hafa undanskilið verðlagninguna sjálfa, þar sem áfrýjandi seldi ótengdum aðilum hrámjólk á mun hærra verði en Kaupfélagi Skagfirðinga og Mjólku II. Í því sambandi er þess að gæta að jafnvel þótt heimild til að semja um hlutfallslega jöfnun á framlegð fyrirtækja teldist fyrir hendi myndi það ekki leiða til þess að allt sem af þeirri jöfnun og framkvæmd hennar hlytist gæti ekki talist til brots gegn 11. gr. samkeppnislaga. Ljóst er að verðið til annarra en Kaupfélags Skagfirðinga og Mjólku II gæti aldrei talist undanþegið samkeppnislögum vegna samkomulagsins enda er það ótengt því. Sú ákvörðun áfrýjanda að selja Mjólku I og síðar Mjólkurbúinu Kú ehf. hrámjólk, sem er ógerilsneydd, á sama verði og notað hafði verið um gerilsneydda mjólk, sem er meira unnin vara, getur þannig á engan hátt talist þáttur í nefndu samkomulagi. Þá verður að telja mjög óljóst hvernig sá þáttur samkomulagsins, þar sem mælt var fyrir um sölu áfrýjanda á allt að 3,5 milljónum lítra hrámjólkur til Kaupfélags Skagfirðinga á því lágmarksverði sem gilti um kaup frá bændum, taldist nauðsynlegur vegna þeirrar verkaskiptingar sem samkomulagið kvað á um. Í þeim efnum má vísa til þess sem áður er rakið að matsmaðurinn, sem áfrýjandi fékk dómkvaddan, komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að miðað við forsendur á árinu 2007 hafi Kaupfélag Skagfirðinga haft 23.000.000 króna ávinning af samkomulaginu. Af þessu og öðrum fyrirliggjandi gögnum verður ekki séð hvernig nauðsyn gat staðið til þess árið 2008 að semja um hina umfangsmiklu mjólkursölu milli aðila á lágmarksverðinu til bænda í því skyni að bæta upp tapaða framlegð Kaupfélags Skagfirðinga vegna verkaskiptingarinnar. Þá er það til marks um hina óljósu tengingu framangreindra kjara Kaupfélags Skagfirðinga við þá verkaskiptingu sem aðilar tóku upp að tilgangur samkomulagsins var að tryggja aðilum þess „sambærilega rekstrarafkomu við vinnslu mjólkur, óháð þeirri verkaskiptingu“, sbr. 1. gr. samkomulagsins, og aðilar notuðu aðrar leiðir til að jafna framlegðina í uppgjörum sínum á milli á meðan hrámjólkurmagnið stóð svo til óbreytt. Loks verður ekki séð hvað í verkaskiptingu og samkomulagi aðila hafi kallað á að Mjólku II yrði seld hrámjólk á sama verði. Þannig er óljóst hvaða tap Mjólku II af verkaskiptingu aðila var verið að bæta félaginu og raunar verður ráðið af fyrirliggjandi samantekt áfrýjanda um framkvæmd samkomulagsins að ætlunin með þessu lága verði til Mjólku II hafi verið að veita félaginu svigrúm til þess að greiða niður skuldir sínar, en þar segir orðrétt: „Mjólkurmagnið er takmarkað við um 600 þúsund [lítra] og þannig er Mjólku II tryggð nægileg afkoma til að greiða niður skuldir.“                  36       Sem fyrr greinir var í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 85/2004 tekið fram að lagaákvæði sem feli í sér frávik frá almennum reglum beri jafnan að túlka þröngt. Því beri að fara varlega þegar lagður sé sá skilningur í lagaákvæði að þau undanskilji tiltekna þætti í atvinnustarfsemi gildissviði samkeppnislaga. Líkt og hér hefur verið rakið bera 4. mgr. 13. gr. og 71. gr. búvörulaga og lögskýringargögn með þeim ekki með sér að lögin undanskilji samkomulag, af þeim toga sem áfrýjandi og Kaupfélag Skagfirðinga gerðu með sér, samkeppnislögum á þann hátt að ekki komi til athugunar hvort áfrýjandi hafi brotið gegn 11. gr. síðarnefndu laganna með þeirri háttsemi sem á reynir í málinu. Þá gæti umrætt samkomulag raunar aldrei undanskilið nema hluta háttseminnar, það er verðlagninguna til Kaupfélags Skagfirðinga og Mjólku II, og tengslin á milli þess verðs og þeirrar verkaskiptingar sem aðilar sömdu um eru í besta falli óljós. Samkvæmt framangreindu verður ekki talið að nefnd ákvæði búvörulaga undanskilji þau atvik sem hér reynir á með nokkrum hætti samkeppnislögum. Verður því að meta hvort sú tvenns konar verðlagning, sem málið spratt af, hafi samræmst 11. gr. samkeppnislaga.   Nánar um ætluð brot áfrýjanda gegn 11. gr. samkeppnislaga 37       Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. samkeppnislaga er misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu bönnuð. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 11. gr. getur misnotkun samkvæmt 1. mgr. meðal annars falist í því að viðskiptaaðilum sé mismunað með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og samkeppnisstaða þeirra þannig veikt. 38       Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála er rakið að áfrýjandi sé eina fyrirtækið hér á landi sem selji öðrum mjólkurvöruframleiðendum hrámjólk í heildsölu, ásamt því að nýta hana til eigin framleiðslu. Áfrýjandi sé talinn taka við 90% af þeirri hrámjólk sem bændur framleiði. Enginn vafi er á því að áfrýjandi var í markaðsráðandi stöðu, sbr. 4. tölulið 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga, líkt og stefndi byggði á í ákvörðun sinni, svo og bæði meirihluti og minnihluti áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Bera samtímagögn raunar með sér að áfrýjanda hafi verið þetta ljóst. 39       Sem fyrr greinir seldi áfrýjandi Kaupfélagi Skagfirðinga og Mjólku II hrámjólk á allt að 17% lægra verði en öðrum aðilum. Var sama vara því seld ólíkum aðilum á mjög mismunandi verði. Þessi háttsemi veikti ótvírætt samkeppnisstöðu þeirra sem hærra verðinu sættu, sem voru í samkeppni við Kaupfélag Skagfirðinga, Mjólku II og áfrýjanda sjálfan við sölu mjólkurafurða. Í því sambandi er þess að gæta að hrámjólk er undirstöðuhráefni við vinnslu mjólkurafurða og mikill verðmunur á henni augljóslega til þess fallinn að hafa áhrif á samkeppnisrekstur fyrirtækis sem borga þarf hærra verð fyrir hana. Líkt og áður er rakið réttlætist verðmunurinn ekki af ákvæðum búvörulaga og ekki verður talið að fyrir hendi séu aðrar hlutlægar ástæður sem réttlæti hann, en sönnunarbyrði fyrir því að slíkar ástæður séu fyrir hendi hvílir á áfrýjanda. Samkvæmt þessu verður að telja að með hinum mismunandi kjörum hafi áfrýjandi, sem markaðsráðandi fyrirtæki, mismunað viðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum, veikt þannig samkeppnisstöðu þeirra og með því brotið gegn c-lið 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga. Ekki er talin þörf á að fjalla sérstaklega um verðlagningu áfrýjanda til sinnar eigin framleiðsludeildar, sem stefndi hefur lagt áherslu á fyrir Landsrétti, enda er ljóst að við sektarákvörðun stefnda vegna brotsins, sem afstaða er tekin til hér á eftir, var ekki litið til þeirrar háttsemi.       Um ætluð brot áfrýjanda gegn 19. gr. samkeppnislaga 40       Deila aðila um hvort áfrýjandi hafi brotið gegn 19. gr. samkeppnislaga snýst um hvort brot hafi falist í því að leggja ekki fram margnefnt samkomulag áfrýjanda og Kaupfélags Skagfirðinga frá 2008, og önnur gögn sem því tengjast, fyrr en eftir að stefndi tók fyrri ákvörðun sína í málinu. 41       Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. samkeppnislaga getur stefndi krafið fyrirtæki sem lögin taka til um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við athugun einstakra mála. Upplýsinga er hægt að krefjast munnlega eða skriflega og skulu þær gefnar innan hæfilegs frests sem stofnunin setur. Þá kemur fram í 2. mgr. sömu greinar að stefndi geti með sömu skilyrðum og í 1. mgr. krafist þess að fá gögn afhent til athugunar og skulu þau þá afhent innan hæfilegs frests sem stofnunin setur. 42       Óumdeilt er að stefndi fór aldrei með beinum hætti fram á að honum yrði afhent nefnt samkomulag. Tildrög málsins voru á hinn bóginn þau að stefndi leitaði eftir því að áfrýjandi skýrði ástæður hinnar mismunandi verðlagningar til Mjólku II annars vegar og Mjólkurbúsins Kú ehf. hins vegar. Áfrýjandi setti fram skýringar og að þeim fengnum leitaði stefndi ýmissa upplýsinga og gagna en samkomulagið var ekki lagt fram fyrr en með kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Af málatilbúnaði áfrýjanda er þó ljóst að hann telur samkomulagið vera það grundvallargagn sem skýri og réttlæti hina mismunandi verðlagningu. Af þessu leiddi að stefndi leysti úr málinu fyrra sinnið án þess að fyrir lægi það gagn sem áfrýjandi sjálfur telur mestu skipta við skýringu á þeim verðmun sem hann var spurður um í upphafi. Augljóst er að stefndi gat ekki óskað eftir afhendingu samkomulagsins eða tengdra gagna, sem hann vissi ekki að væri til, og áfrýjanda, sem líkt og fyrr greinir er markaðsráðandi fyrirtæki, mátti vera fulljóst að með því að leggja ekki fram það gagn sem hann sjálfur telur skýra verðmuninn væri hann að torvelda rannsókn málsins. Verður í ljósi þessa að telja að í þessari háttsemi áfrýjanda hafi falist brot gegn 19. gr. samkeppnislaga.     Um sektarákvarðanir 43       Með ákvörðun sinni lagði stefndi 440.000.000 króna stjórnvaldssekt á áfrýjanda fyrir brot gegn 11. gr. samkeppnislaga og 40.000.000 króna stjórnvaldssekt fyrir brot gegn 19. gr. sömu laga. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti síðarnefndu sektina en felldi hina fyrrnefndu úr gildi, sem minnihluti nefndarinnar vildi staðfesta. 44       Samkvæmt því sem að framan er rakið er fallist á það með stefnda, öndvert niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála, að áfrýjandi hafi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 37. gr. laganna leggur stefndi stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóta gegn banni samkvæmt 11. gr. þeirra. Það gerði stefndi með ákvörðun sinni á grundvelli þeirra sjónarmiða sem fram koma í 2. mgr. 37. gr., en þar segir í 3. málslið að við ákvörðun á fjárhæð sekta skuli hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota, hvað brot hafi staðið lengi og hvort um ítrekað brot sé að ræða. Þá kemur fram í 1. málslið sömu málsgreinar að sektir geti numið allt að 10% af heildarveltu síðasta rekstrarárs hjá hverju því fyrirtæki eða samtökum fyrirtækja sem aðild eiga að broti. 45       Fjárhæð þeirrar stjórnvaldssektar sem stefndi lagði á er langt innan þeirra 10% marka sem greinir í síðastgreindu ákvæði. Þá verður ekki talið að þær forsendur sem litið var til við ákvörðun sektarfjárhæðarinnar hafi verið rangar eða ómálefnalegar. Telja verður brot áfrýjanda gegn 11. gr. samkeppnislaga alvarlegt auk þess sem það stóð lengi og var augljóslega mjög til þess fallið að raska samkeppnisstöðu. Þá laut það að mikilvægri neysluvöru og snerti á þann hátt allan almenning í landinu. Þegar litið er til framangreindra atriða verður áfrýjanda gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 440.000.000 króna, eins og ákveðið var í ákvörðun stefnda og hinum áfrýjaða dómi.  46       Stjórnvaldssektin sem stefndi lagði á vegna brots gegn 19. gr. samkeppnislaga byggðist ekki eingöngu á því að framlegðar- og verkaskiptasamkomulagið hefði ekki verið lagt fram heldur einnig á því að áfrýjandi hefði ranglega sagt í bréfi frá 13. febrúar 2013 að Kaupfélag Skagfirðinga hefði fært sig úr framleiðslu á vörum með hærri framlegð í vörur með lægri framlegð. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála féllst ekki á að hið síðarnefnda teldist brot gegn 19. gr. samkeppnislaga en staðfesti engu að síður þá 40.000.000 króna stjórnvaldssekt sem stefndi lagði á vegna brota á greininni. Þrátt fyrir að áfrýjunarnefndin hafi þannig ekki talið nema annað atriðið sem stefndi byggði á að þessu leyti til brots gegn 19. gr. er ljóst að hún taldi það brot eitt og sér það alvarlegt að það réttlætti sömu sektarfjárhæð og stefndi hafði ákvarðað fyrir bæði brotin. Á þá niðurstöðu verður fallist enda fólst í brotinu að markaðsráðandi fyrirtæki, sem krafið var skýringa á ástæðum verðmismunar sem var fyrir hendi, lagði ekki fram helsta gagnið sem það telur skýra verðmuninn fyrr en eftir að stefndi hafði tekið ákvörðun í málinu. Eru því engin efni til að ákveða lægri stjórnvaldssekt vegna þessa brots en ákveðin var í úrlausnum samkeppnisyfirvalda. 47       Önnur sjónarmið sem áfrýjandi hefur fært fram í málinu geta ekki leitt til þess að kröfur hans verði teknar til greina. Verður samkvæmt þessu fallist á kröfu stefndu um staðfestingu hins áfrýjaða dóms, þar á meðal um málskostnað. 48       Þótt forsendur hins áfrýjaða dóms beri með sér að kröfu áfrýjanda á hendur stefnda íslenska ríkinu sé hafnað þá er sýknu af þeirri kröfu ekki getið í dómsorði auk þess sem ekki er tekin afstaða til málskostnaðarkröfu stefnda íslenska ríkisins á hendur áfrýjanda. Ekki þykir þó nægilegt tilefni til ómerkingar hins áfrýjaða dóms af þessum sökum eða til breytinga á dómsorði, meðal annars í ljósi þeirrar afstöðu stefnda íslenska ríkisins hér fyrir dómi að krefjast engu að síður staðfestingar hins áfrýjaða dóms. 49       Samkvæmt úrslitum málsins verður áfrýjanda gert að greiða báðum stefndu málskostnað fyrir Landsrétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Mjólkursamsalan ehf., greiði stefnda Samkeppniseftirlitinu 2.000.000 króna og stefnda íslenska ríkinu 500.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2018 Mál þetta, sem var dómtekið 14. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, annars vegar af Mjólkursamsölunni ehf., Bitruhálsi 1, Reykjavík gegn Samkeppniseftirlitinu, Borgartúni 26, Reykjavík og íslenska ríkinu, Vegmúla 3, Reykjavík, og hins vegar af Samkeppniseftirlitinu gegn Mjólkursamsölunni ehf. Mál ofangreindra aðila voru sameinuð í þinghaldi 3. maí 2018 með vísan til b-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þannig að í aðalsök er leyst úr kröfum aðalstefnanda, Mjólkursamsölunnar ehf., en í gagnsök er leyst úr kröfum gagnstefnanda, Samkeppniseftirlitsins. Í aðalsök gerir aðalstefnandi aðallega þá dómkröfu á hendur gagnstefnanda, Samkeppniseftirlitinu, að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 18. nóvember 2016 í máli nr. 4/2016 verði ógiltur að því leyti sem aðalstefnanda var gert að greiða 40.000.000 króna vegna brots gegn 19. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Til vara er þess krafist að dómstólar felli fyrrgreinda sekt áfrýjunarnefndarinnar niður og til þrautavara að sektin verði lækkuð verulega. Gagnvart stefnda, íslenska ríkinu, krefst aðalstefnandi þess aðallega að stefnda, íslenska ríkinu, verði gert að endurgreiða aðalstefnanda 40.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. maí 2017 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefnda, íslenska ríkinu, verði gert að endurgreiða aðalstefnanda mismun á 40.000.000 króna og þeirri sekt sem ákvörðuð kann að verða með dómi, með dráttarvöxtum frá 15. maí 2017 til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst aðalstefnandi málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda og stefnda, íslenska ríkisins. Gagnstefnandi og stefndi, íslenska ríkið, krefjast báðir sýknu í aðalsök auk málskostnaðar.    Í gagnsök krefst gagnstefnandi þess að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 18. nóvember 2016 í máli nr. 4/2016 verði ógiltur að því leyti sem þar er felldur úr gildi sá hluti ákvörðunar gagnstefnanda frá 7. júlí sama árs, nr. 19/2016 að aðalstefnandi skuli greiða 440.000.000 kr. stjórnvaldssekt í ríkissjóð, vegna brots á 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, eigi síðar en einum mánuði eftir dagsetningu ákvörðunarinnar. Þá er þess krafist að aðalstefnanda verði gert að greiða 440.000.000 kr. sekt í ríkissjóð. Gagnstefnandi krefst málskostnaðar úr hendi aðalstefnanda     Aðalstefnandi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda í gagnsök en til vara að sekt verði ekki lögð á aðalstefnanda eða að hún verði mun lægri en krafist er. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda. Í öndverðu krafðist aðalstefnandi þess aðallega að kröfum gagnstefnanda í gagnsök yrði vísað frá dómi. Með úrskurði 25. janúar 2018 var þeirri kröfu hafnað.   I Mál þetta varðar ógerilsneydda mjólk, þ.e. hrámjólk sem er grundvallarhráefni við framleiðslu á hvers konar mjólkurvörum. Aðalstefnandi er eina fyrirtækið hér á landi sem selur hrámjólk í heildsölu til annarra mjólkurframleiðenda, ásamt því að nýta hana til eigin framleiðslu. Aðalstefnandi hefur tekið við um 90% af þeirri hrámjólk sem bændur framleiða. Í árslok 2012 urðu þau mistök hjá aðalstefnanda að hann sendi Mjólkurbúinu reikning fyrir kaupum á hrámjólk en reikningurinn átti að fara til Mjólku II. Varð Mjólkurbúinu þá ljóst að það þyrfti að greiða umtalsvert hærra verð fyrir hrámjólk en keppinauturinn. Í ársbyrjun 2013 sendi Mjólkurbúið gagnstefnanda kæru og hófst þá rannsókn málsins. Til skoðunar var hvort aðalstefnandi hefði á árunum 2008–2013 misnotað markaðsráðandi stöðu annars vegar gagnvart Mjólku I og hins vegar gagnvart Mjólkurbúinu. Hinn 22. september 2014 tók gagnstefnandi ákvörðun nr. 26/2014 og komst að þeirri niðurstöðu að aðalstefnandi hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína og raskað samkeppni á umræddu tímabili. Rannsókn gagnstefnanda leiddi í ljós að Mjólka I og síðar Mjólkurbúið höfðu þurft að greiða allt að 17% hærra verð fyrir hrámjólkina en það verð sem KS og Mjólka II greiddu. Verðmunurinn hafi verið allt að 21% þegar horft væri til þess verðs sem framleiðsludeild aðalstefnanda greiddi fyrir hrámjólkina. Þá var aðalstefnanda gert að greiða 370 milljónir króna í sekt. Aðalstefnandi skaut málinu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Fyrir áfrýjunarnefndinni lagði aðalstefnandi í fyrsta sinn fram framlegðar- og verkaskiptasamkomulag við KS, dags. 15. júlí 2008. Aðalstefnandi taldi skjal þetta mikilvægt til að sýna lögmæti aðgerða sinna. Hins vegar var það aldrei kynnt gagnstefnanda undir rekstri málsins þar. Með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 5/2014 frá 16. desember 2014 var ákvörðun gagnstefnanda nr. 26/2014 felld úr gildi. Í forsendum úrskurðarins kom m.a. fram að áfrýjunarnefndin teldi það vera grundvallaratriði í málinu að efni samkomulagsins frá 15. júlí 2008 yrði rannsakað og fengin fram sjónarmið er vörðuðu þýðingu samningsins milli aðalstefnanda og KS, uppgjör milli aðila og efndir á því tímabili er ætluð brotastarfsemi stóð. Þar sem samkomulagið hefði ekki legið fyrir við meðferð málsins hjá gagnstefnanda taldi nefndin sér ekki unnt að taka efnislega afstöðu til málsins. Var ákvörðunin því felld úr gildi og lagt fyrir gagnstefnanda að rannsaka málið að teknu tilliti til nefnds samkomulags. Hinn 19. desember 2014 hófst ný rannsókn hjá gagnstefnanda. Í bréfinu var vísað til þess að aðalstefnandi hefði ekki lagt samkomulagið frá 15. júlí 2008 fram í aðdraganda ákvörðunar gagnstefnanda nr. 26/2014. Vegna þessa hygðist gagnstefnandi taka afstöðu til þess hvort upplýsingagjöf aðalstefnanda hefði verið ófullnægjandi eða villandi í skilningi samkeppnislaga. Var í því sambandi óskað eftir ítarlegum upplýsingum og gögnum sem voru tilgreind í 14 töluliðum í bréfinu. Aðalstefnandi svaraði umræddri beiðni um gögn með bréfi 28. janúar 2015 og hafnaði því að hafa brotið gegn 19. gr. samkeppnislaga. Hinn 22. október 2015 barst aðalstefnanda andmælaskjal, þar sem frumniðurstöðu gagnstefnanda var lýst. Hinn 12. janúar 2016 sendi aðalstefnandi frá sér athugasemdir sínar. Hinn 7. júlí 2016 var aðalstefnanda birt ákvörðun gagnstefnanda nr. 19/2016. Niðurstaða ákvörðunarinnar var sú að aðalstefnandi hefði brotið gegn 11. og 19. gr. samkeppnislaga. Var honum gert að greiða samtals 480.000.000 króna í stjórnvaldssekt vegna umræddra brota, 440.000.000 króna vegna brots á 11. gr. og 40.000.000 króna vegna brots á 19. gr. Hinn 4. ágúst 2016 kærði aðalstefnandi ákvörðun gagnstefnanda til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að hún yrði felld niður. Meirihluti áfrýjunarnefndarinnar taldi að aðalstefnanda hefði á grundvelli 71. gr. laga nr. 99/1993 verið heimilt að mismuna tengdum og ótengdum aðilum. Í niðurstöðu meirihlutans er hins vegar ekki tekin afstaða til þess hvort aðalstefnanda var heimilt að mismuna sinni eigin framleiðsludeild og ótengdum aðilum og lýtur gagnsök málsins að þessu atriði. Niðurstaða minnihluta áfrýjunarnefndarinnar var að staðfesta bæri ákvörðun gagnstefnanda um að aðalstefnandi hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Í atkvæði minnihlutans kemur fram að verðlagning aðalstefnanda á hrámjólk hafi leitt til þess að samkeppnisstaðan á markaði hafi skekkst „með eins skýrum hætti og hugsast getur“. Taldi minnihlutinn að staðfesta bæri niðurstöðu gagnstefnanda um fjárhæð þeirrar stjórnvaldssektar sem var lögð á stefnda vegna þessa. Niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar var hins vegar einróma um að aðalstefnandi hefði brotið gegn 19. gr. samkeppnislaga með því að upplýsa ekki gagnstefnanda um tilvist framlegðar- og verkaskiptasamkomulagsins. Taldi áfrýjunarnefndin að brotið væri alvarlegt. Á hinn bóginn féllst hún ekki á að aðalstefnandi hefði brotið ákvæðið með því að staðhæfa að hann hefði tekið að sér að framleiða vörur með lægri framlegð. Taldi áfrýjunarnefndin að málsvörn aðalstefnanda væri innan marka þess svigrúms sem yrði að játa þeim sem verði hendur sínar. Niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar var því að ekki væru efni til að hrófla við ákvörðun gagnstefnanda um fjárhæð þeirrar stjórnvaldssektar sem stefnda var gert að greiða fyrir brot gegn 19. gr. laganna. Í aðalsök er fjallað um þetta atriði.   II Helstu málsástæður og lagarök aðalstefnanda í aðalsök Ágreiningur í aðalsök lýtur að því hvort aðalstefnandi hafi brotið gegn 19. gr. samkeppnislaga með því að afhenda gagnstefnanda ekki, að eigin frumkvæði, samkomulag sitt við KS frá 15. júlí 2008 og samningana við KS frá 26. febrúar 2009 og 12. mars 2009 í aðdraganda ákvörðunar gagnstefnanda nr. 26/2014. Aðalstefnandi telur það kjarna málsins að hann hafi veitt allar þær upplýsingar og afhent öll þau gögn sem óskað hafi verið eftir af hálfu gagnstefnanda í aðdraganda ákvörðunar nr. 26/2014. Sé þetta raunar óumdeilt, enda hafi samkeppnisyfirvöld aldrei haldið því fram að gagnstefnandi hafi beðið aðalstefnanda sérstaklega um samkomulagið, heldur leggi þau til grundvallar að aðalstefnandi hefði að eigin frumkvæði átt að afhenda það. Aðalstefnandi taki það fram að engin almenn gagna- og upplýsingabeiðni hafi komið frá gagnstefnanda í aðdraganda ákvörðunarinnar. Beiðnirnar hafi allar verið afmarkaðar og óskað hafi verið eftir tilgreindum upplýsingum og gögnum sem aðalstefnandi hafi veitt undanbragðalaust. Annars vegar byggir aðalstefnandi á því að upplýsingaskylda hans hafi aldrei verið vanrækt. Samstarfi aðalstefnanda, KS og Mjólku II hafi verið ítarlega lýst í öllum bréfasamskiptum aðalstefnanda við gagnstefnanda og til þess vísað að verðlagningin til KS og Mjólku II væri liður í samstarfi þessara aðila á grundvelli 71. gr. búvörulaga. Gagnstefnanda hefði verið í lófa lagið að óska eftir frekari upplýsingum og gögnum um samstarfið ef hann hefði haft áhuga á því að grennslast fyrir um það eða talið fyrirliggjandi upplýsingar um það ekki fullnægjandi til töku efnislegrar ákvörðunar í málinu. Hins vegar byggir aðalstefnandi á því að engin frumkvæðis- eða hlutlægnisskylda hvíli á honum samkvæmt 19. gr. samkeppnislaga. Af 1. og 2. mgr. lagaákvæðisins sé augljóst að fyrirtæki beri einungis að veita þær upplýsingar sem gagnstefnandi krefst afhendingar á. Óumdeilt sé að aðalstefnandi vanrækti aldrei slíka skyldu. Sé því útilokað að gera honum viðurlög á grundvelli i-liðar 1. mgr. 37. gr. laganna. Til vara sé þess krafist að sektin verði felld niður, en til þrautavara að hún verði lækkuð verulega. Til stuðnings kröfunum sé vísað til þeirra sjónarmiða sem áður séu rakin. Aðalstefnandi telur að ætlað brot sé óverulegt, enda hvorki framið af ásetningi né gáleysi. Þá telji aðaláfrýjandi að ekki sé þörf á sektum í málinu til að stuðla að og efla virka samkeppni, enda hafi aðalstefnandi hvorki leynt né gefið rangar upplýsingar við meðferð málsins. Fullt tilefni sé til þess að fella sektina niður, sbr. 4. mgr. 37. gr. samkeppnislaga. Sé ekki fallist á það hljóti að þurfa að lækka sektina verulega. Sekt að fjárhæð 40.000.000 kr. fyrir brot gegn 19. gr. sé verulega há og úr öllu hófi með hliðsjón af hinu ætlaða broti. Kröfur aðalstefnanda gegn stefnda íslenska ríkinu byggjast á öllum sömu málsástæðum og kröfur aðalstefnanda gegn gagnstefnanda.   Helstu málsástæður og lagarök gagnstefnanda og stefnda, ísl. ríkisins í aðalsök Gagnstefnandi byggir á því að aðalstefnandi hafi brotið gegn 19. gr. samkeppnislaga með því að upplýsa ekki um framlegðar- og verkaskiptasamkomulag það sem hann gerði við Kaupfélag Skagfirðinga svf. 15. júlí 2008, og síðari breytingar á því, í tilefni af kröfu gagnstefnanda um að aðalstefnandi skýrði þann mismun sem væri á verði á þeirri mjólk sem hann seldi Mjólkurbúinu ehf. og Mjólku II. Í samkomulaginu hafi verið kveðið á um skyldu aðalstefnanda til að selja Kaupfélagi Skagfirðinga svf. allt að 3,5 m. lítra af hrámjólk á verði sem jafngilti lágmarksverði til bænda. Í stað þess að upplýsa um samkomulagið hafi aðalstefnandi haldið því fram að verðið á þeirri mjólk sem væri seld Mjólkurbúinu ehf. væri ákveðið af verðlagsnefnd búvara. Þó að aðalstefnandi hafi vísað til verkaskiptingar félaganna samkvæmt 71. gr. laga nr. 99/1993 og síðar bent á heimild félaganna til að gera með sér samning um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða, sbr. 3. mgr. 13. gr. sömu laga, hafi hann aldrei upplýst að fyrir lægi skriflegt samkomulag milli sín og Kaupfélags Skagfirðinga svf. þar sem kveðið væri um á viðskipti félaganna með hrámjólk. Það hafi ekki verið fyrr en gagnstefnandi hafði gert aðalstefnanda að greiða 370 m. kr. sekt í ríkissjóð fyrir brot á 11. gr. samkeppnislaga sem aðalstefnandi hafi séð ástæðu til að upplýsa um samkomulagið og leggja það fram. Breyti engu í þessu sambandi þótt aðalstefnandi hafi greint frá því að hann og Kaupfélag Skagfirðinga svf. hafi skipt með sér verkum. Í þeim bréfum sem aðalstefnandi sendi gagnstefnanda hafi aldrei verið gerð nákvæm grein fyrir ákvæðum samkomulagsins um viðskipti félaganna með hrámjólk. Gagnstefnandi hafni vara- og þrautavarakröfum aðalstefnanda og bendi á að aðalstefnandi hafi ekki aðeins látið hjá líða að upplýsa um framlegðar- og verkaskiptasamkomulagið heldur hafi hann gefið skýringar á verðmismuninum sem hann vissi að ættu ekki við rök að styðjast. Gagnstefnandi mótmæli þess vegna því að aðalstefnandi hafi gefið allar upplýsingar eftir bestu vitund. Varðandi fjárhæð sektarinnar liggi fyrir að aðalstefnandi hafi torveldað rannsókn málsins og brot hans leitt til þess að hefja þurfti rannsóknina að nýju. Brotið hafi því leitt til tafa og kostnaðar sem komast hefði mátt hjá. Þá verði að hafa í huga að aðalstefnandi hafi áður brotið samkeppnislög. Með þetta í huga og að teknu tilliti til veltu og efnahags aðalstefnanda og nauðsynjar þess að sektin hafi bæði almenn og sérstök varnaðaráhrif byggi gagnstefnandi á því að fjárhæð sektarinnar sé hæfileg. Stefndi, íslenska ríkið, krefst sýknu af kröfunum á þeim grundvelli að verði gagnstefnandi, Samkeppniseftirlitið, sýknaður af þeim kröfum sem beinast að honum, hvort heldur að hluta eða öllu leyti, beri með sama hætti að sýkna stefnda, íslenska ríkið. III Helstu málsástæður og lagarök gagnstefnanda í gagnsök 1.               Gagnstefnandi krefst þess að úrskurður áfrýjunarnefndarinnar verði ógiltur að því leyti sem þar er felldur úr gildi sá hluti ákvörðunar gagnstefnanda nr. 19/2016 að aðalstefnandi skuli greiða 440.000.000 kr. stjórnvaldssekt í ríkissjóð vegna brots á 11. gr. samkeppnislaga, eigi síðar en einum mánuði eftir dagsetningu ákvörðunarinnar. Krafan byggist á því að aðalstefnandi hafi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga með þeim aðgerðum sem gerð er grein fyrir í ákvörðun nr. 19/2016 og að lög nr. 99/1993 hafi ekki heimilað aðgerðirnar. Gagnstefnandi byggir meðal annars á því að meirihluti áfrýjunarnefndarinnar hafi hvorki reist niðurstöðu sína á réttri skýringu á ákvæðum laga nr. 99/1993 né á réttu mati á þeim gögnum og upplýsingum sem aflað var við meðferð málsins. Þá hafi meirihlutinn ekki byggt niðurstöðu sína á réttum málsatvikum. Þetta sé verulegur annmarki á úrskurði áfrýjunarnefndarinnar. Einnig hafi rökstuðningi meirihlutans verið ábótavant.   2 Gagnstefnandi byggir á því að aðgerðir aðalstefnanda hafi ekki samræmst 11. gr. samkeppnislaga. Aðalstefnandi hafi verið í markaðsráðandi stöðu á hinum ráðandi markaði fyrir sölu á hrámjólk til vinnslu mjólkurafurða. Aðalstefnandi hafi tekið við u.þ.b. 90% af þeirri hrámjólk sem var framleidd hér á landi og verið eina fyrirtækið sem seldi hrámjólk í heildsölu. Þá hafi aðalstefnandi verið með ráðandi stöðu á markaðinum fyrir vinnslu mjólkurafurða þar sem hlutdeild hans hafi verið 80–90%. Styrkur aðalstefnanda hafi verið slíkur að hann hafði einstaka yfirburði á hvorum tveggja, hinum ráðandi markaði málsins (markaði fyrir heildsölu á hrámjólk) og hinum fráliggjandi markaði (markaði fyrir vinnslu mjólkurafurða). Fyrir liggi að á því tímabili sem rannsókn gagnstefnanda tók til hafi aðalstefnandi selt keppinautum sínum hrámjólk á hærra verði en hans eigin framleiðsludeild og aðilar tengdir honum greiddu fyrir slíka mjólk. Þannig hafi þeir greitt allt að 21% hærra verð en framleiðsludeild aðalstefnanda og allt að 17% hærra verð en aðilar tengdir aðalstefnanda. Hráefniskostnaður KS og Mjólku II hafi verið 239 m. kr. lægri en hefði verið ef þau félög hefðu greitt sama verð og aðilar ótengdir aðalstefnanda, þ.e. Mjólka I og Mjólkurbúið ehf. Sú mismunun sem aðalstefnandi hafi beitt fyrirtækin hafi veikt samkeppnisstöðu þeirra og haft bein áhrif á vöxt þeirra og viðgang. Samkvæmt 11. gr. samkeppnislaga sé misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu bönnuð. Í c-lið 2. mgr. 11. gr. segi að misnotkun geti falist í því að viðskiptaaðilum sé mismunað með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og samkeppnisstaða þeirra þannig veikt. Viðskiptaaðili í skilningi ákvæðisins geti verið deild eða eining innan hins markaðsráðandi fyrirtækis sem starfar á hinum fráliggjandi markaði. Af framansögðu leiði að fyrirtæki sem sé í markaðsráðandi stöðu á markaði fyrir sölu hráefnis geti brotið gegn c-lið 2. mgr. 11. gr. ef það selur sinni eigin framleiðsludeild hráefni á lægra verði en ótengdum keppinauti á fráliggjandi markaði. Hið sama eigi við ef viðskiptaaðili sem er tengdur hinu markaðsráðandi fyrirtæki fær hráefni á lægra verði en ótengdur viðskiptaaðili.   3.               Gagnstefnandi byggir á því að lög nr. 99/1993 hafi ekki haft að geyma heimild fyrir aðgerðum aðalstefnanda. Ákvæði samkeppnislaga gildi um starfsemi afurðastöðva í mjólkuriðnaði nema í þeim tilvikum þar sem ákvæði laga nr. 99/1993 mæla fyrir um annað. Í niðurstöðu meirihluta áfrýjunarnefndarinnar sé litið svo á að aðgerðir aðalstefnanda hafi verið heimilar á grundvelli 71. gr. laga nr. 99/1993, sbr. 2. gr. laga nr. 85/2004. Áður en lög nr. 85/2004 voru samþykkt hafi landbúnaðarráðherra falið Árna Vilhjálmssyni hrl. og Eiríki Tómassyni að rita álitsgerð um tengsl búvörulaga og samkeppnislaga og gera tillögur til breytinga. Í álitsgerðinni 30. apríl 2004 komi fram að höfundum hennar hafi sérstaklega verið falið að meta hvernig hægt væri „að tryggja virka samkeppni í framleiðslu og sölu búvara án þess að hagsmunir bænda og íslensks landbúnaðar væru fyrir borð bornir“. Í álitsgerðinni sé lagt til að gerðar verði breytingar á 13. og 71. gr. laga nr. 99/1993 og tekið fram að þær muni þýða að banni 10. gr. samkeppnislaga við samráði verði ekki beitt nema að mjög takmörkuðu leyti „þegar um [sé] að ræða starfsemi þessara afurðastöðva og samskipti þeirra innbyrðis“ en hins vegar muni önnur ákvæði samkeppnislaga „gilda um innlendan mjólkuriðnað“. Í því sambandi sé sérstaklega vísað til 11. gr. samkeppnislaga. Í almennum athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 85/2004 sé vísað til álitsgerðarinnar og tekið fram að frumvarpið sé lagt fram til „að eyða þeirri réttaróvissu sem skapast [hafi] um að gildandi búvörulög, nr. 99/1993, tryggi ekki með nægjanlegri vissu að samráð, samruni og verðtilfærsla í mjólkuriðnaði sé undanskilið gildissviði samkeppnislaga í samræmi við ætlan löggjafans“. Í áliti meirihluta landbúnaðarnefndar Alþingis var hnykkt á því að tilgangurinn væri að veita undanþágu frá samruna- og samráðsákvæðum samkeppnislaga. Frumvarpið byggði á þeirri tillögu álitsgjafanna þeirra, Eiríks og Árna, að undanskilja aðeins tiltekna þætti í mjólkuriðnaði gildissviði samkeppnislaga. Þannig hafi bannið við misnotkun á markaðsráðandi stöðu átt að gilda áfram í mjólkuriðnaði. Frumvarpið hafi orðið óbreytt að lögum nr. 85/2004 en með þeim hafi meðal annars verið gerðar breytingar á 3. mgr. 13. gr. og 71. gr. laga nr. 99/1993. Ákvæðin hafi veitt undanþágu frá þeim ákvæðum samkeppnislaga sem banna eða veita heimildir til inngripa í samruna eða tiltekið samstarf fyrirtækja. Ákvæðin feli hins vegar ekki í sér undanþágu frá banni 11. gr. laganna við því að fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu grípi til einhliða aðgerða. Hafi þáverandi landbúnaðarráðherra tekið það skýrt fram á Alþingi að þrátt fyrir heimild afurðastöðva samkvæmt 71. gr. laga nr. 99/1993 geti þær „ekki beitt markaðsráðandi stöðu sinni, það er auðvitað ekkert sem samkeppnislögin eða búvörulögin eða nein önnur lög heimila þeim að gera“.   4.               Því er haldið fram að 71. gr. laga 99/1993 hafi ekki falið í sér heimild fyrir aðalstefnanda og KS til að jafna framlegðina. Niðurstaða meirihluta áfrýjunarnefndarinnar um að ákvæðið hafi að geyma slíka heimild sé ekki reist á réttri lögskýringu. Gagnstefnandi hafni rúmri túlkun meirihluta áfrýjunarnefndar á 71. gr., sem og því að viðskipti aðalstefnanda með hrámjólk á lágu verði hafa falið í sér „eina af mörgum aðferðum sem til greina getur komið til að jafna framlegð við svipaðar aðstæður og greinir í þessu máli“. Í forsendum meirihluta áfrýjunarnefndarinnar sé vísað til þess að í 20. gr. laga nr. 112/1992, sem var undanfari 71. gr. laga nr. 99/1993, hafi verið kveðið á um að í samkomulagi mjólkursamlaga um framleiðslu einstakra mjólkurvara, væri „heimilt að kveða á um verðtilfærslu til að jafna framlegð mismunandi framleiðslutegunda á milli mjólkurbúa.“ Í forsendunum segi að telja megi ákveðna framlegðarjöfnun milli afurðastöðva „eðlilega og nauðsynlega til að ná fram samningum um sjálfa verkaskiptinguna“. Þessu sé hafnað og byggt á því að breytingar þær sem gerðar hafi verið á 71. gr. staðfesti að ákvæðið feli eingöngu í sér heimild fyrir afurðastöðvar til að skipta með sér verkum en ekki til að jafna framlegð. Sú heimild sem afurðastöðvar hafi til að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu (jöfnun framlegðar) sé í 3. mgr. 13. gr. laganna, en þar sé þeim veitt heimild til að semja sín á milli um verðtilfærslu „milli tiltekinna afurða“. Ákvæði 71. gr. laganna hafi hins vegar ekki að geyma neina slíka heimild.   5.               Gagnstefnandi byggir á því að niðurstaða meirihluta áfrýjunarnefndar um túlkun á 71. gr., sbr. 3. mgr. 13. gr. búvörulaga, samræmist ekki forsögu ákvæðanna. Í lögum hafi upphaflega verið gert ráð fyrir því að afurðastöðvum í mjólkuriðnaði væri skylt að skipta með sér verkum, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 46/1985. Með 20. gr. laga nr. 112/1992 hafi verið gerð sú breyting að það hafi ekki lengur verið skylt heldur gátu afurðastöðvar starfað algerlega sjálfstætt. Einnig hafi verið gerð sú breyting að ekki hafi verið gert ráð fyrir að heimild afurðastöðva til að jafna framlegð sín á milli (verðtilfærsla) væri innifalin í heimild þeirra til að skipta með sér verkum. Þannig þyrfti að semja sérstaklega um slíka jöfnun framlegðar. Lög nr. 46/1985 voru síðan endurútgefin sem lög nr. 99/1993. Með 4. gr. laga nr. 69/1998 um breytingu á lögum nr. 99/1993 hafi heimildin til að jafna framlegð með verðtilfærslu verið færð úr 59. gr. (áður 56. gr.) í 3. mgr. 13. gr. laganna, sem kvað á um að afurðastöðvum var heimilt að gera samninga um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða, en verðlagsnefnd skyldi staðfesta þá. Eftir þá breytingu sem hafi verið gerð á 59. gr. með 18. gr. laga nr. 69/1998 hafi ákvæðið orðið efnislega samhljóða 71. gr. Með lögum nr. 85/2004 hafi, sem fyrr segir, verið gerðar breytingar á ákvæðum 3. mgr. 13. gr. og 71. gr. laga nr. 99/1993. Þessar breytingar hafi hins vegar ekki haft áhrif á það fyrirkomulag að heimild afurðastöðva til að skipta með sér verkum sé í 71. gr. á meðan heimildin til að semja um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða sé í 3. mgr. 13. gr. (nú 4. mgr. 13. gr.) laganna. Niðurstaða meirihluta áfrýjunarnefndarinnar um að 71. gr. laganna feli í sér heimild til að jafna framlegð samræmist því ekki forsögu ákvæðanna.   6.               Þá samræmist niðurstaða meirihluta áfrýjunarnefndarinnar ekki því sjálfstæði sem afurðastöðvum hafi verið veitt með lögum nr. 112/1992 og 69/1998. Breytingarnar hafi átt rætur að rekja til þjóðarsáttarsamninganna frá 1990 og tillagna svokallaðrar sjömannanefndar. Breytingarnar hafi verið í frjálsræðisátt og þótt „mjög byltingarkenndar“ Með lögum nr. 69/1998 hafi þeim afurðastöðvum sem svo kusu verið heimilað að starfa sjálfstætt og veita samkeppnislegt aðhald, meðal annars til hagsbóta fyrir bændur. Reynslan hafi sýnt að þetta fyrirkomulag gat gefið góða raun. Athugun gagnstefnanda hafi t.d. sýnt að samkeppni Mjólku I leiddi til þess að það verð sem afurðastöðvar greiddu mjólkurbændum fyrir hrámjólk hækkaði á meðan verð á mjólkurvörum til neytenda lækkaði, sbr. álit stefnanda nr. 1/2006. Gildistaka laga nr. 85/2004 hafi ekki breytt framangreindu enda séu heimildir laganna valkvæðar. Samkvæmt því hafi afurðastöðvar eins og Mjólka I áfram getað starfað sjálfstætt. Gagnstefnandi byggir á því að meirihluti áfrýjunarnefndarinnar hafi litið fram hjá því markmiði löggjafans að á mjólkurmarkaði geti starfað sjálfstæðar afurðastöðvar. Með setningu 71. gr. laga nr. 99/1993, sbr. 2. gr. laga nr. 85/2004, hafi ekki verið stefnt að því að markaðsráðandi afurðastöð gæti með verðlagningu sinni á grundvallarhráefni takmarkað eða gert möguleika sjálfstæðra afurðastöðva til að starfa og veita samkeppnislegt aðhald að engu. Því standist ekki niðurstaða meirihluta áfrýjunarnefndarinnar.   7.               Gagnstefnandi byggir á því að niðurstaða meirihluta áfrýjunarnefndarinnar samræmist ekki því að samkeppnislög gilda um viðskipti með búvörur nema annað sé tekið fram í sérlögum. Allt frá setningu laga nr. 46/1985, sbr. nú lög nr. 99/1993, hafi verið miðað við að samkeppnisreglur gildi um viðskipti með búvörur nema annað sé skýrt tekið fram í lögunum. Í þeim tilvikum þar sem verð á búvöru sé ákveðið á grundvelli laganna sé verðlagsnefnd búvara, þar sem fulltrúar neytenda hafa átt sæti, falið að gæta almannahagsmuna. Í þeim tilvikum þar sem verðlagningin sé frjáls sé samkeppnisreglum hins vegar ætlað að tryggja almannahagsmuni. Í athugasemdum með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum nr. 46/1985 segi að með þessu sé „verðákvörðun allra búvara búinn staður í lögum á þann veg, að taka megi tillit til mismunandi aðstæðna við verslun með þær.“ Í ákvörðun gagnstefnanda sé bent á að á rannsóknartímabilinu hafi verðlagning aðalstefnanda á þeirri hrámjólk sem hann seldi tengdum og ótengdum aðilum verið frjáls. Í niðurstöðu meirihluta áfrýjunarnefndarinnar sé ekki gætt að því að í slíkum tilvikum banni 11. gr. samkeppnislaga markaðsráðandi afurðastöð að misnota stöðu sína í viðskiptum með hina „frjálsu“ búvöru.   8.               Gagnstefnandi byggir á því að niðurstaða meirihluta áfrýjunarnefndarinnar samræmist ekki því að 71. gr. laga nr. 99/1993 feli aðeins í sér takmarkaðar undanþágur frá 10. gr. samkeppnislaga. Meirihluti áfrýjunarnefndarinnar horfi fram hjá því að 10. gr. samkeppnislaga bannar hvers konar verðsamráð og markaðsskiptingu milli keppinauta, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í máli nr. 360/2015. Í 71. gr. laga nr. 99/1993 sé afurðastöðvum hins vegar aðeins veitt heimild til þess samráðs sem þar er sérstaklega tilgreint. Með öðrum orðum gildi undanþágan aðeins um „þær aðgerðir sem þar koma fram“, sbr. athugasemdir með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 85/2004. Samkvæmt þessu eigi undanþágan í 71. gr. aðeins við ef samráð afurðastöðva tekur til þeirrar verkaskiptingar og samstarfs sem þar er tilgreint. Eins og orðalag 71. gr. ber með sér heimili ákvæðið ekki samráð um verð, skiptingu/jöfnun framlegðar eða afkomu af sölu mjólkurafurða. Eðli málsins samkvæmt feli slíkt verðsamráð heldur ekki í sér verkaskiptingu eða aðgerðir til að halda niðri kostnaði við framleiðslu mjólkurvara. Ákveðin tegund verðsamráðs sé þó heimil samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laga nr. 99/1993. Þannig geti afurðastöðvar samið um verðtilfærslu milli nánar tiltekinna afurða í því skyni að styðja við samvinnu samkvæmt 71. gr. laganna enda við það miðað að þeim afurðastöðvum sem semji um verkaskiptingu sé „jafnframt heimilt“ að beita verðtilfærslu til þess að „jafna framlegð mismunandi framleiðslutegunda“.            Sú túlkun að 71. gr. feli í sér ólögfesta heimild til tiltekins samráðs keppinauta (framlegðarjöfnunar) sé í ósamræmi við hvor tveggja lög nr. 99/1993 og samkeppnislög.   9.               Í niðurstöðu meirihluta áfrýjunarnefndarinnar komi fram að 3. mgr. 13. gr. laga nr. 99/1993 varði atvik málsins og niðurstöðu án þess að það sé rökstutt nánar. Gagnstefnandi byggir á því að þetta sé verulegur annmarki á úrskurðinum. Í rökstuðningi fyrir niðurstöðu meirihlutans sé eingöngu tekið fram að áskilnaður 3. mgr. 13. gr. um að afurðastöðvar skuli leggja samninga um verðtilfærslu fyrir verðlagsnefnd til upplýsingar feli „hvorki í sér skilyrði fyrir beitingu 13. gr. né 71. gr. laganna“. Af úrskurðinum verði hins vegar ekki ráðið með hvaða hætti meirihlutinn telji ákvæðið varða atvik málsins. Hvað sem því líður byggir gagnstefnandi á því að niðurstaða meirihlutans um skýringu ákvæðisins eigi ekki við rök að styðjast. Það verðsamráð sem heimilað sé í 3. mgr. 13. gr. sé afar viðkvæmt samkeppnislega (eins og allt verðsamráð keppinauta og ekki síst þegar markaðsráðandi fyrirtæki á aðild að því) og geti raskað hagsmunum viðskiptavina og almennings. Sökum þessa hafi fram til gildistöku laga nr. 85/2004 verið mælt fyrir um beint eftirlit með efni slíkra samninga, sem hafi meðal annars falist í því að þeir skyldu hljóta staðfestingu verðlagsnefndar búvara. Með lögum nr. 85/2004 hafi þessu fyrirkomulagi verið breytt og mælt fyrir um skyldu til að leggja samninga um verðtilfærslu fyrir verðlagsnefnd búvara til upplýsingar. Þetta hafi verið liður í að „færa ábyrgð og endanlega ákvörðunartöku um verðlagningu mjólkurafurða sem ekki falla undir verðlagsnefnd til afurðastöðva“. Þetta þýðir hins vegar ekki að skyldan til að upplýsa verðlagsnefnd sé í raun þýðingarlaust formsatriði, eins og meirihluti áfrýjunarnefndar leggi til grundvallar. Lögskýringargögn sýni að upplýsingaskyldan sé mikilvægur liður í eftirliti þó það sé með breyttu sniði. Í áliti meirihluta landbúnaðarnefndar hafi verið fallist á að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt, meðal annars „með hliðsjón af skipun verðlagsnefndar og því eftirlitshlutverki sem henni er ætlað samkvæmt lögum, að séð sé fyrir því að hagsmunir bænda, framleiðenda, neytenda og stjórnvalda verði tryggðir á hverjum tíma“. Samkvæmt þessu sé mjög brýnt að afurðastöðvar virði þá lagaskyldu að leggja samninga um verðtilfærslu fyrir verðlagsnefnd búvara til upplýsingar. Telji verðlagsnefndin að slíkir samningar fari gegn almannahagsmunum geti hún beitt verðákvörðunarvaldi sínu eða eftir atvikum vakið athygli gagnstefnanda á því að afurðastöð kunni að misnota markaðsráðandi stöðu sína með tiltekinni útfærslu á verðtilfærslu. Hvorki aðalstefnandi né KS hafi upplýst verðlagsnefnd búvara um verkaskiptasamkomulagið eða þá framlegðarjöfnun sem hafi farið fram á grundvelli þess enda hafi aðalstefnandi ítrekað lýst því yfir að hann teldi 3. mgr. 13. gr. laga nr. 99/1993 ekki eiga við í málinu.   10.             Gagnstefnandi byggir á því að 11. gr. samkeppnislaga gildi um aðgerðir markaðsráðandi fyrirtækis nema í lögum sé mælt fyrir um skyldu þess til að grípa til þeirra aðgerða sem um ræði, sbr. til hliðsjónar dóm dómstóls ESB 14. október 2010 í máli nr. C-280/08 (81. mgr.). Samkvæmt því gildi 11. gr. samkeppnislaga um þær aðgerðir markaðsráðandi fyrirtækis sem koma í veg fyrir, takmarka eða raska samkeppni þegar í lögum sé aðeins mælt fyrir um heimild en ekki skyldu fyrirtækisins til að grípa til slíkra aðgerða, sbr. dóm EFTA-dómstólsins 22. september 2016 í máli nr. E-29/15 (86. mgr.). Samkvæmt því sé fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu áfram bundið af 11. gr. samkeppnislaga þótt lög hvetji það til eða geri því auðveldara að misnota slíka stöðu sína enda ráði það þá sjálft því hvort það verður við slíkri hvatningu eða nýtir sér slíka heimild, sbr. áðurnefndan dóm dómstóls ESB (82. mgr. o.áfr.). Ákvæði 71. gr. laga nr. 99/1993 hafi ekki falið í sér skyldu aðalstefnda til að mismuna keppinautum sínum við verðlagningu á hrámjólk. Í þessu sambandi verði að hafa í huga að aðalstefnandi hafi getað hagað fyrirkomulagi samstarfsins við Kaupfélag Skagfirðinga svf. þannig að það samræmdist 11. gr. samkeppnislaga enda hafi hann breytt því eftir að gagnstefnandi hóf rannsókn á málinu. Með vísan til þessa byggir gagnstefnandi á því að aðalstefnanda hafi ekki verið skylt að grípa til aðgerðanna eða þær verið óhjákvæmilegar vegna samstarfs félaganna.   11.   Í niðurstöðu meirihluta áfrýjunarnefndarinnar sé lagt til grundvallar að aðalstefnanda og Kaupfélagi Skagfirðinga svf. hafi verið heimilt að jafna framlegð sína, meðal annars með verðtilfærslu, árlegri endurskoðun á ákvæðum um söluþóknun og sölu hrámjólkur á lágmarksverði. Að mati áfrýjunarnefndarinnar hafi gagnstefnanda ekki tekist að sýna fram á „nein þau atriði við forsendur eða framkvæmd umrædds framlegðar- og verkaskiptisamkomulags frá 2008 eða síðari samninga sem geti orðið grundvöllur sektarákvörðunar í málinu“. Gagnstefnandi byggir á því að þessi staðhæfing meirihluta áfrýjunarnefndarinnar sé órökstudd og að þetta sé verulegur annmarki á úrskurðinum.   12.             Gagnstefnandi byggir á því að meirihluti áfrýjunarnefndarinnar hafi ekki reist niðurstöðu sína á réttum ályktunum af þeim gögnum og upplýsingum sem aflað var við meðferð málsins og hafi því ekki byggt niðurstöðu sína á réttum málsatvikum. Í niðurstöðu meirihlutans sé í fyrsta lagi horft fram hjá upplýsingum og gögnum sem gagnstefnandi hafi aflað, í öðru lagi séu lagðar til grundvallar staðhæfingar aðalstefnanda og starfsmanna hans sem samræmist ekki áðurnefndum upplýsingum og gögnum og í þriðja lagi sé beitt sönnunarreglum í ósamræmi við hefðbundin viðmið í samkeppnisrétti. Gagnstefnandi byggir á því að meirihlutinn hafi ekki rökstutt hvers vegna hann hafi ekki litið til niðurstaðna gagnstefnanda af þeirri rannsókn sem fór fram í samræmi við fyrirmæli í fyrri úrskurði áfrýjunarnefndarinnar.   13.             Gagnstefnandi byggir á því að aðalstefnanda hafi ekki verið heimilt að selja hrámjólk á hinu lága verði til Mjólku II enda hafði hann aldrei samið um verkaskiptingu við félagið á grundvelli 71. gr. laga nr. 99/1993. Gagnstefnandi byggir á því að hvað sem öðru líði verði ákvæðið ekki skýrt rýmra en svo að öll jöfnun á framlegð sé bundin við það að afurðastöðvar hafi sannanlega gert með sér samkomulag um verkaskiptingu á grundvelli 71. gr. laganna. Enginn slíkur samningur hafi verið á milli stefnda og Mjólku II. Gagnstefnandi byggir á því að þetta sé verulegur annmarki á úrskurðinum.   14.             Gagnstefnandi byggir á því að í niðurstöðu meirihluta áfrýjunarnefndarinnar sé eingöngu fjallað um hluta þeirra aðgerða sem gagnstefnandi taldi að fælu í sér brot aðalstefnanda. Meirihlutinn hafi talið að aðalstefnanda hefði verið heimilt að selja tengdum aðilum hrámjólk á lægra verði en hann seldi ótengdum aðilum slíka mjólk. Hins vegar sé ekkert fjallað um þá mismunun sem hafi falist í því að hann krafði aðila ótengda sér um mun hærra verð fyrir hrámjólk en hans eigin framleiðsludeild greiddi fyrir slíka mjólk.   15.             Verði fallist á ógildingarkröfu gagnstefnanda verði úrskurður áfrýjunarnefndarinnar aðeins ógildur að því leyti sem þar sé felldur úr gildi sá hluti ákvörðunar gagnstefnanda að aðalstefnandi skuli greiða 440.000.000 kr. stjórnvaldssekt í ríkissjóð vegna brots á 11. gr. samkeppnislaga. Með því sé hins vegar ekki tekin bein afstaða til þeirrar sektar sem aðalstefnanda beri að greiða vegna brotsins. Gagnstefnandi geri því sérstaka kröfu um að aðalstefnanda verði gert að greiða sekt í ríkissjóð. Krafa gagnstefnanda um að aðalstefnanda verði gert að greiða 440.000.000 kr. sekt í ríkissjóð sé reist á því að aðalstefnandi hafi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga með þeim aðgerðum sem gerð sé grein fyrir í ákvörðun gagnstefnanda og að fjárhæðin sé hófleg sekt þegar litið sé til eðlis og umfangs brotsins. Gagnstefnandi byggir á því að brotið sé alvarlegt og að það hafi staðið yfir í langan tíma, þ.e. á tímabilinu frá 2008 til 2013. Aðgerðir aðalstefnanda hafi tengst umfangsmiklum viðskiptum með grundvallarhráefni til vinnslu mikilvægrar neysluvöru. Aðgerðirnar hafi verið til þess fallnar að skaða samkeppni og neytendur með alvarlegum hætti. Þær séu alvarlegar. Gagnstefnandi byggir á því að um ítrekað brot sé að ræða, en með úrskurði áfrýjunarnefndarinnar 14. desember 2006 í máli nr. 8/2006 hafi verið staðfest að Osta- og smjörsalan sf., fyrirrennari aðalstefnanda, hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga með því að beita Mjólku I verðmismunun. Gagnstefnandi byggir á því að sektir sem lagðar séu á samkvæmt 37. gr. samkeppnislaga verði að fullnægja því markmiði að hafa varnaðaráhrif og stuðla að framkvæmd samkeppnislaga. Til að tryggja fullnægjandi varnaðaráhrif sekta sé nauðsynlegt að þær taki mið af styrkleika hins brotlega fyrirtækis. Í því sambandi komi til skoðunar heildarvelta viðkomandi fyrirtækis á síðasta reikningsári áður en sekt sé lögð á það. Samkvæmt samstæðureikningi Auðhumlu svf. fyrir árið 2015 hafi heildarvelta félagsins verið u.þ.b. 26,7 ma. kr. Velta af starfsemi Auðhumlu svf. hafi verið óveruleg og því í reynd um að ræða heildarveltu aðalstefnanda umrætt ár. Gagnstefnandi byggir á því að 440.000.000 kr. sekt sé hófleg, eða um 1,6% af veltunni á árinu 2015. Sektin sé því vel innan leyfilegs 10% sektarhámarks 2. mgr. 37. gr. samkeppnislaga, en það eigi að tryggja að sektir sem lagðar séu á fyrirtæki séu ekki óhóflega háar.   Málsástæður og lagarök aðalstefnanda í gagnsök 1.               Aðalstefnandi hafnar því að úrskurður áfrýjunarnefndarinnar sé haldinn annmarka. Hann sé hvorki haldinn form- né efnisannmörkum og því standi engin rök til þess að ógilda hann.   2.               Aðalstefnandi byggir á því að verðlagning hans á hrámjólk til KS og Mjólku II hafi verið hluti af samstarfi þessara aðila á grundvelli 71. gr. búvörulaga. Byggt sé á því að í 71. gr. laganna sé skýr og ótvíræð undanþága frá ákvæðum samkeppnislaga fyrir afurðastöðvar í mjólkuriðnaði til að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða. Kjósi afurðastöðvar að gera með sér slíkt samkomulag og hafa með sér slíkt samstarf séu því allir þættir viðkomandi samkomulags og samstarfs undanþegnir ákvæðum samkeppnislaga. Kjarni málsins sé að löggjafinn hafi kosið að láta sérstök ákvæði gilda um samstarf í mjólkuriðnaði og tekið af skarið um að almenn ákvæði samkeppnislaga eigi ekki við. Aðalstefnandi hafi kosið að nýta sér þessa heimild og ágreiningur aðila snúi að því hvort það samstarf sem um ræðir hafi gengið lengra eða verið annars eðlis en lögin heimila. Samkvæmt framlegðar- og verkaskiptasamkomulagi aðalstefnanda við KS, dags. 15. júlí 2008, sem og þeim gögnum málsins sem framkvæmd þess tengjast, hafi miðlun aðalstefnanda á hrámjólk til KS og Mjólku II á lægra verði en til annarra verið liður í að bæta tapaða framlegð vegna slíks samkomulags og samstarfs. Það liggi í hlutarins eðli að til þess að unnt sé að gera slíkt samkomulag eða viðhafa slíkt samstarf þurfi að tryggja að framlegð aðila þess breytist ekki eftir því hvaða vörur þeir taki að sér að framleiða á grundvelli þess samkomulags og samstarfs sem talið sé hagkvæmast og best til þess fallið að ná þeim markmiðum sem tilgreind séu í 71. gr. búvörulaga. Væri það ekki gert væri ekki hægt að koma á slíku samkomulagi með hámarkshagkvæmni að leiðarljósi þar sem aðilar þyrftu þá samhliða að taka mið af eigin framlegð og markmið 71. gr. búvörulaga myndu þar með ekki ná fram að ganga. Áréttað sé að vegna þess fyrirkomulags sem gildi um verðlagningu sé sú framlegð sem tilteknar mjólkurvörur hafi ekki á valdi afurðastöðva heldur verðlagsnefndar búvara og hafi þær á grundvelli ákvarðana hennar mjög ólíka framlegð Sú staðreynd hafi það í för með sér að ef afurðastöðvar gera með sér samkomulag um verkaskiptingu að því er framleiðslu einstakra mjólkurvara varðar eða hafa með sér annars konar samstarf á grundvelli 71. gr. búvörulaga sé nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að jafna framlegð þeirra á milli samhliða. Ella mundi markmið ákvæðis 71. gr. ekki ná fram að ganga þar sem þær afurðastöðvar sem gengjust undir slíkt samkomulag eða tækju þátt í annars konar samstarfi þyrftu þá samhliða að taka mið af framlegð þeirra vara sem þeim væri ætlað að framleiða. Að mati aðalstefnanda skipti ekki máli fyrir samkeppnisstöðu annarra afurðastöðva hvort sú nauðsynlega jöfnun eigi sér stað við verðlagningu hrámjólkur í innbyrðis viðskiptum aðila að samkomulagi um verkaskiptingu á grundvelli 71. gr. búvörulaga eða með öðrum hætti. Eðlilegt sé að hún eigi sér stað með þeim hætti sem talið sé hagkvæmast hverju sinni, en lögin setji ekki skorður í þeim efnum. Aðalstefnandi kveður að farið hafi verið yfir framlegð aðila reglulega og fylgst með þróun hennar. Öll gögn málsins um framkvæmd framlegðar- og verkaskiptasamkomulagsins og fyrirliggjandi samskipti aðila þar að lútandi beri ótvírætt vott um að aðilar hafi leitast við að tryggja að framlegð þeirra af vinnslu mjólkur væri sambærileg líkt og að hafi verið stefnt. Ekkert í málinu styðji staðhæfingar gagnstefnanda um að miðlun aðalstefnanda á hrámjólk til KS og Mjólku II hafi verið í öðru skyni eða haft í för með sér röskun á samkeppni enda aðrir kaupendur hrámjólkur ekki bundnir af því að framleiða tilteknar vörur. Aðalstefnandi telji að vilji löggjafans sé til að undanþiggja samstarf af framangreindum toga gildissviði samkeppnislaga án frekari afmörkunar á einstökum þáttum slíks samstarfs eða þeim ákvæðum samkeppnislaga sem undanþágan taki til. Sá þáttur slíks samstarf sem lúti að því að aðilar jafni framlegð sín á milli í tilefni af verkaskiptingu að því er framleiðslu einstakra mjólkurafurða varðar falli því einnig þar undir. Þannig telji aðalstefnandi ljóst að ef ákvæði 71. gr. búvörulaga sé virt með hliðsjón af lögskýringargögnum og þeim tilgangi sem því sé ætlað að þjóna rúmist samstarf hans við KS og Mjólku II að öllu leyti innan þess. Þá skipti ekki máli þótt slíkt samstarf hafi mögulega þau áhrif að aðrir greiði hærra verð fyrir vöruna en sú afurðastöð sem á í viðkomandi samstarfi. Slíkt feli ekki í sér verðmismunun í neinum skilningi, enda sé aðeins um að ræða útfærslu á því hvernig framlegð sé jöfnuð. Með hinum umþrætta úrskurði hafi áfrýjunarnefnd samkeppnismála komist að þeirri niðurstöðu að framlegðar- og verkaskiptasamkomulag aðalstefnanda og KS frá 15. júlí 2008, með síðari breytingum, hafi rúmast að fullu innan heimildar 71. gr. búvörulaga. Þannig hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að „einhvers konar réttlát jöfnun á framlegð á milli þeirra fyrirtækja sem gera með sér verkaskiptingu til að halda niðri kostnaði [væri] rökrétt aðferð til að auðvelda samninga um verkaskiptingu og ná þannig þeim markmiðum sem 71. gr. búvörulaga er reist á“. Niðurstaða nefndarinnar hafi því verið sú að gagnstefnandi hefði ekki sýnt fram á nein þau atriði við forsendur eða framkvæmd umrædds framlegðar- og verkaskiptasamkomulags eða síðari samninga sem gæti orðið grundvöllur sektarákvörðunar í málinu. Aðalstefnandi byggir á því að niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar að þessu leyti sé reist á réttri skýringu á ákvæðum búvörulaga og réttu mati á þeim gögnum og upplýsingum sem aflað hafi verið við meðferð málsins og þar með réttum málsatvikum. Engin lagaskilyrði séu því fyrir hendi til að ógilda umræddan hluta úrskurðarins, enda engir annmarkar á honum. Þá tekur aðalstefnandi fram að þótt samkomulagið falli ekki með beinum hætti undir 3. mgr. (nú 4. mgr.) 13. gr. búvörulaga hafi samkomulag um framlegðarjöfnun sama markmið og sambærileg áhrif og samningur um verðtilfærslu. Eigi því sömu sjónarmið við um samninga, hvort sem þeir séu gerðir eftir 71. gr. eða 13. gr. laganna.   3.               Aðalstefnandi heldur því fram að aðgerðir hans hafi ekki falið í sér brot gegn 11. gr. samkeppnislaga.    Í fyrsta lagi beri að ógilda úrskurðinn þegar af þeirri ástæðu og hefja rannsókn málsins á nýjan leik. Aðalstefnandi telji að 11. gr. samkeppnislaga, og ætlað brot á henni, geti ekki komið til úrlausnar dómstóla þar sem áfrýjunarnefndin hafi ekki fjallað um þessi atriði í úrskurði sínum. Verði hér að hafa í huga að í málinu sé einungis krafist ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndarinnar, en ekki t.d. staðfestingar á ákvörðun gagnstefnanda. Úrskurður áfrýjunarnefndar sé því eina stjórnvaldsákvörðunin sem sæti endurskoðun í máli þessu. Það væri bersýnilega í andstöðu við endurskoðunarvald dómstóla og þrígreiningu ríkisvaldsins ef dómstólar tækju afstöðu til atriða sem komu ekki til skoðunar hjá hinu æðra setta stjórnvaldi. Í öðru lagi hafi aðalstefnandi frá upphafi byggt á því að jafnvel þó svo að ráðstafanir til jöfnunar á framlegð yrðu ekki taldar rúmast innan heimildar 71. gr. búvörulaga hafi umrædd verðlagning hans ekki falið í sér brot á 11. gr. samkeppnislaga þar sem skilyrði ólögmætrar verðmismununar séu ekki uppfyllt, sbr. c-lið 2. mgr. umrædds ákvæðis. Þannig hafi viðskiptin hvorki verið sambærileg né viðskiptavinum verið mismunað með ólíkum skilmálum. Þá gefi gögn málsins engar vísbendingar um að samkeppnisstaða Mjólku I eða Mjólkurbúsins hafi verið veikt vegna viðskipta þeirra við aðalstefnanda.   4.               Aðalstefnandi hafnar því að búvörulögin hafi ekki að geyma heimild fyrir aðgerðum hans. Ef um sé að ræða samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varði framleiðslu einstakra mjólkurvara eða annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða falli slíkt samkomulag eða samstarf því í heild utan gildissviðs samkeppnislaga samkvæmt skýru ákvæði 71. gr. búvörulaga, óháð því undir hvaða ákvæði samkeppnislaga einstakir þættir slíks samkomulags eða samstarfs hefðu hugsanlega fallið ella. Óumdeilt sé að samkomulag og samstarf aðalstefnanda við KS og Mjólku II hafi verið slíkt samkomulag og samstarf og því falli allir þættir þess undir heimild 71. gr. búvörulaga. Aðalstefnandi hafnar því að forsaga 71. gr. búvörulaga styðji ekki niðurstöðu meirihluta áfrýjunarnefndar og hann telji umfjöllun gagnstefnanda um þróun búvörulaga villandi. Þá sé ítrekað að sömu og sambærileg sjónarmið eigi við um samkomulag sem falli undir 71. gr. og samkomulag um verðtilfærslu samkvæmt 3. mgr. (nú 4. mgr.) 13. gr. Lögskýringargögnin séu afdráttarlaus um að samráð, samruni og verðtilfærsla í mjólkuriðnaði sé undanskilin gildissviði samkeppnislaga. Aðalstefnandi telji niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar fráleitt þá að markaðsráðandi afurðastöð geti með verðlagningu sinni á grundvallarhráefni takmarkað eða gert möguleika sjálfstæðra afurðastöðva til að starfa og veita samkeppnislegt aðhald að engu. Niðurstaða nefndarinnar hafi þvert á móti verið sú að sú verðlagning sem mál þetta snýst um hafi ekki falið í sér mismunun þar sem hún hafi verið liður í að jafna framlegð á milli aðila samkomulags og samstarfs á grundvelli 71. gr. búvörulaga. Aðalstefnandi hafnar því að niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar samræmist ekki því að samkeppnislög gildi um viðskipti með búvörur, nema annað sé tekið fram í sérlögum. Aðalstefnandi áréttar að verðlagning hans á hrámjólk sem ekki hafi verið liður í að jafna framlegð á grundvelli fyrrgreinds samkomulags og samstarfs hafi tekið mið af ákvörðun verðlagsnefndar búvara um verð á mjólk í lausu máli. Þá áréttar aðalstefnandi að ákvæði 71. gr. búvörulaga heimili tiltekið samkomulag og samstarf þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga. Ekkert í niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar gangi gegn því að samkeppnislög gildi um viðskipti með búvörur þar sem sérákvæðum búvörulaga sleppi. Aðalstefnandi hafnar því að rökstuðningur áfrýjunarnefndarinnar sé óljós um 3. mgr. (nú 4. mgr.) 13. gr. búvörulaganna. Þótt gert sé ráð fyrir því í ákvæðinu að samningar um verðtilfærslu séu lagðir fyrir verðlagsnefnd „til upplýsingar“ sé ekki gert ráð fyrir því að gildi samningsins sé háð því skilyrði eða að nefndin þurfi að samþykkja efni hans. Slíkt hafi verið gert að skilyrði áður en lög nr. 85/2004 tóku gildi, en ljóst sé að það hafi verið eindreginn vilji löggjafans með frumvarpinu sem síðar varð að þeim lögum að draga úr aðkomu verðlagsnefndar að þessu leyti.   5.               Aðalstefnandi hafnar því að aðgerðir hans væru andstæðar 11 gr. samkeppislaganna þótt búvörulögin yrðu talin hafa veitt honum heimild til þeirra. Hann áréttar að það liggi í hlutarins eðli að engu skipti fyrir samkeppnisstöðu keppinauta hans, KS og Mjólku II, hvort framlegð sé jöfnuð með miðlun tiltekins magns af hrámjólk á innvigtunarverði eða með öðrum hætti og eðlilegt að sú leið sem sé hagkvæmust sé valin í því skyni.   6.               Aðalstefnandi hafnar því sjónarmiði gagnstefnanda að sú niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála að gagnstefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á „nein þau atriði við forsendur eða framkvæmd umrædds framlegðar- og verkaskiptasamkomulags frá 2008 eða síðari samninga sem geti orðið grundvöllur sektarákvörðunar í málinu“ sé ekki rökstudd með fullnægjandi hætti. Þvert á móti hafi niðurstaða gagnstefnanda að þessu leyti í ákvörðun hans nr. 19/2016 verið byggð á forsendum sem ekki stóðust skoðun líkt og ítarlega hafi verið rakið við meðferð málsins á stjórnsýslustigi. Aðalstefnandi áréttar að KS hafi sannanlega tekið að sér framleiðslu á vörum sem beri lægri framlegð en þær vörur sem aðalstefnandi hafi tekið að sér að framleiða. Þá hafi verkaskiptingin sannanlega gengið eftir og forsendur samkomulagsins ekki brostið. Þá hafi samkomulagið ekki leitt til þess að framlegð KS yrði hærri en framlegð aðalstefnanda. Þá sé vísað til skýrslu KPMG dags. 22. ágúst 2016 til stuðnings niðurstöðunni. Skýrslan sé í fullu samræmi við þau samtímagögn sem aðalstefnandi hafi lagt fram í málinu.   7.               Aðalstefnandi byggir á því að áfrýjunarnefndin hafi reist niðurstöðu sína á réttum ályktunum af þeim gögnum og upplýsingum sem aflað hafi verið við meðferð málsins og þar með byggt niðurstöðu sína á réttum málsatvikum.    Samtímagögn hafi verið lögð fram, en gagnstefnandi hafi við rannsókn sína litið fram hjá stærstum hluta þeirra samtímagagna sem aðalstefnandi hafi lagt fram og dregið af öðrum gögnum ályktanir sem byggðar hafi verið á röngum forsendum.    Aðalstefnandi áréttar að öll gögn málsins beri vott um að framlegðar- og verkaskiptasamkomulag aðalstefnanda og KS og öll framkvæmd þess hafi miðað að því að aðilar þess hefðu sem jafnasta framlegð í vinnslu mjólkur.    Þá mótmælir aðalstefnandi sérstaklega þeirri fullyrðingu að sala aðalstefnanda á hrámjólk til KS á innvigtunarverði „hafi haft þann tilgang að veita KS aukinn slagkraft til þess að keppa við minni keppinauta á markaði sem sérhæfðu sig í framleiðslu á framlegðarháum vörum á markaði og þá sér í lagi Mjólku I“. Þessi fullyrðing sé úr lausu lofti gripin og eigi sér enga stoð í gögnum málsins. Hið sama gildi um þá staðhæfingu gagnstefnanda að eftir að Mjólka var keypt af KS hafi aðalstefnandi og KS hafið „að skipuleggja verðhækkun á framlegðarháum vörum, þ.e. á vörum sem voru ekki verðlagðar af verðlagsnefnd búvara“. Ekkert sé í gögnum málsins sem styðji slíkt.   8.               Aðalstefnandi hafnar því að niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála sé að verulegu leyti byggð á einhliða staðhæfingum hans og byggir á því að niðurstaða nefndarinnar sé í fullu samræmi við fyrirliggjandi samtímagögn. Þau gögn sem hann lagði fram fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála séu í fullu samræmi við þau samtímagögn sem hann hafi látið gagnstefnanda í té við rannsókn málsins og séu þeim ýmist til frekari skýringar eða stuðnings. Sönnunarbyrðin um það að fjárhagslegar forsendur framlegðarjöfnunarinnar hafi ekki staðist hvíli eðli málsins samkvæmt á gagnstefnanda, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Rannsókn málsins hafi þó fyrst og fremst snúist um að draga eigin ályktanir af fyrirliggjandi gögnum og freista þess að bera brigður á skýringar aðalstefnanda. Aðalstefnandi telji því að gagnstefnandi hafi á engan hátt axlað sönnunarbyrði sína fyrir þessu atriði.   9.               Aðalstefnandi hafnar því að rökstuðningur áfrýjunarnefndarinnar um aðild Mjólku II að framleiðslusamstarfi aðalstefnanda og KS sé ófullnægjandi og úrskurður nefndarinnar haldinn annmörkum af þeim sökum.    Aðild Mjólku II að framleiðslustarfinu sé byggð á munnlegum samningi líkt og Mjólka II hafi staðfest með bréfi dags. 12. febrúar 2015. Þá beri það skýran vott um aðild Mjólku II að umræddu samstarfi að framleiðsla Mjólku II var að stærstum hluta flutt til annars vegar KS og hins vegar aðalstefnanda.   10               Gagnstefnandi byggir á því að það sé verulegur annmarki á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála að í niðurstöðu hennar sé „ekkert fjallað um þá mismunun sem fólst í því að [aðalstefnandi] krafði aðila ótengda sér um mun hærra verð fyrir hrámjólk en hans eigin framleiðsludeild greiddi fyrir slíka mjólk“. Þessu hafni aðalstefnandi og bendi á að verðlagning aðalstefnanda á hrámjólk til hans eigin framleiðsludeildar hafi ekki á nokkru stigi verið hluti af rannsókn gagnstefnanda enda engri slíkri verðlagningu fyrir að fara.   11.             Varðandi sýknukröfu um greiðslu sektar tekur aðalstefnandi fram að hann hafi hafnað því að hafa gerst brotlegur við 11. gr. samkeppnislaga enda hafi það samstarf sem málið snúist um rúmast innan þeirra heimilda sem 71. gr. búvörulaga veiti afurðastöðum í mjólkuriðnaði. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að ekki séu forsendur fyrir álagningu sektar og því beri að sýkna aðalstefnanda af umræddri kröfu.    Krafan um niðurfellingu eða lækkun sektar byggist á því að aðalstefnandi hafi ávallt talið alla starfsemi sína, þar með talið framlegðar- og verkaskiptasamkomulagið og samstarf hans við KS og Mjólku II, vera í samræmi við samkeppnislög, enda hafi umræddur samningur verið gerður á grundvelli 71. gr. búvörulaga. Verði komist að gagnstæðri niðurstöðu í máli þessu telji aðalstefnandi ljóst að ætlað brot hans á samkeppnislögum stafi eingöngu af skilningi hans á 71. gr. búvörulaga, sem fram til þessa hafi hvorki reynt á fyrir samkeppnisyfirvöldum, öðrum stjórnvöldum né dómstólum. Sú staðreynd að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi komist að algerlega öndverðri niðurstöðu við gagnstefnanda að því leyti sýni í öllu falli að ætlað brot aðalstefnanda geti ekki talist jafn vítavert og gagnstefnandi byggi á. Álagning hárrar sektar á aðalstefnanda, líkt og gagnstefnandi krefjist, geti við þessar aðstæður ekki samrýmst markmiði sekta á grundvelli samkeppnislaga og vegi að réttaröryggi fyrirtækja. Þá verði ekki litið fram hjá því að aðalstefnandi hafi í allri starfsemi sinni lagt mikla áherslu á að haga henni til samræmis við ákvæði samkeppnislaga. Sé viðleitni hans til að eiga í samstarfi við gagnstefnanda, veita upplýsingar um starfsemina og leita eftir leiðsögn um skyldur félagsins samkvæmt samkeppnislögum, langt umfram skyldu, til marks um viðhorf aðalstefnanda til samkeppnislaga.   12.             Verði af einhverjum ástæðum talið rétt að leggja sekt á aðalstefnanda sé þess krafist að sektin verði lækkuð verulega. Styðjist lækkunarkrafan við allar sömu málsástæður og krafa hans um niðurfellingu sektar og vísist til þeirra. Aðalstefnandi telji röksemdir gagnstefnanda fyrir álagningu sektar ekki standast. Þannig sé sjónarmiðum gagnstefnanda á umfangi hinna ætluðu brota í fyrsta lagi mótmælt. Í því sambandi sé bent á að þau viðskipti sem aðalstefnandi hafi átt við KS og Mjólku II með hrámjólk, á grundvelli 71. gr. búvörulaga, séu allt annars eðlis og ekki hæf til samanburðar við viðskipti aðalstefnanda við ótengda aðila með hrámjólk. Þá megi ljóst vera að sala aðalstefnanda á hrámjólk til ótengdra aðila hafi í raun einungis haft áhrif á afar takmarkaðan hluta mjólkurmarkaðar, þar sem umrædd hrámjólk hafi að meginstefnu verið notuð til framleiðslu á mygluostum. Því sé mótmælt að raunveruleg áhrif ætlaðra brota stefnda hafi haft víðtækari áhrif. Aðalstefnandi mótmælir því að hin ætlaða brotlega háttsemi hafi staðið yfir í langan tíma, þ.e. á tímabilinu 2008–2013. Hið rétta sé að Mjólka I keypti hrámjólk af aðalstefnanda frá mars 2008 til júlí 2009 (í eitt ár og þrjá mánuði) og Mjólkurbúið keypti hrámjólk af aðalstefnanda frá árslokum 2010 til ársloka 2013 (í þrjú ár). Þannig hafi verið um að ræða tvö aðskilin tímabil með um eins og hálfs árs millibili. Gera verði skýran greinarmun á þessum tveimur tímabilum, enda hafi aðstæður verið ólíkar í hvoru tilviki fyrir sig. Gagnstefnandi hafi ekki gert reka að því að rökstyðja hvers vegna hin ætlaðu brot séu talin hafa varað samfellt öll árin, en fyrir því beri hann sönnunarbyrði. Aðalstefnandi hafnar því að ætluð brot hans séu ítrekuð, svo sem gagnstefnandi heldur fram með því að vísa til þess að Osta- og smjörsalan sf. („OSS“) hafi áður brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga, með því að beita Mjólku I verðmismunun, sbr. úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 8/2006. Þarna sé að mati aðalstefnanda um að ræða verulega einföldun og byggi aðalstefnandi á því að grundvallarmunur sé á þessum tveimur málum. Í hinu fyrra máli hafi verið um að ræða sölu á undanrennudufti til tveggja aðila á misháu verði fyrir mistök, en í því máli sem hér sé til umfjöllunar hafi verið um að ræða verðlagningu sem var liður í að jafna framlegð í samstarfi á grundvelli 71. gr. búvörulaga. Þar sem OSS hafi ekki verið afurðastöð í skilningi búvörulaga hafi undanþáguheimildir 71. gr. búvörulaga ekki átt við um starfsemi þess félags. Þær réttarheimildir sem komi til skoðunar í hvoru máli fyrir sig séu ólíkar í grundvallaratriðum og geti úrskurður í máli OSS því ekki leitt til ítrekunaráhrifa í máli þessu. Með vísan til þess sem að framan sé rakið telji aðalstefnandi að sanngirnissjónarmið leiði til þess að fella beri niður sekt í málinu, eða lækka beri hana verulega, enda séu varnaðaráhrif sekta mun meiri þegar um sé að ræða meðvitaða ákvörðun um brot gegn samkeppnislögum en þegar slíkt brot eigi sér stað vegna mismunandi skilnings á lagaákvæði sem undanþiggi tiltekna háttsemi gildissviði samkeppnislaga. Loks byggir aðalstefnandi á því að ótækt sé að horfa til veltu félagsins við ákvörðun viðurlaga, enda starfi aðalstefnandi ekki með sama hætti og fyrirtæki sem rekin séu í hagnaðarskyni. Þvert á móti eigi tekjur og gjöld í ársuppgjöri hans að jafnast út þannig að tryggt sé að bæði bændur og neytendur skipti með sér öllum þeim ávinningi sem búvörulögum sé ætlað að tryggja. Álagning hárrar sektar muni því hafa áhrif á hag bæði bænda og neytenda. Aðalstefnandi byggir á því, með hliðsjón af atvikum málsins og þeim sjónarmiðum sem rakin hafa verið, að sú fjárhæð sektar sem gagnstefnandi lagði á aðalstefnda með ákvörðun nr. 19/2016, og gagnstefnandi krefst nú að verði lögð á aðalstefnanda með dómi, sé langt fram úr hófi og í engu samræmi við þá háttsemi aðalstefnanda sem talin sé brotleg. Um sé að ræða mjög háa sekt í samanburði við það sem þekkst hafi hér á landi fram til þessa vegna ætlaðra brota á 11. gr. samkeppnislaga og séu að mati aðalstefnanda engar forsendur til að ákvarða slík viðurlög í máli þessu.   IV 1.               Aðalstefnandi málsins er rekstrarfélag mjólkuriðnaðarins á Íslandi og er í eigu tveggja samvinnufélaga, Auðhumlu svf. sem á 90,1%, og KS, þ.e. Kaupfélags Skagfirðinga svf., sem á 9,9%. Auðhumla er samvinnufélag u.þ.b. 550 kúabænda og fjölskyldna þeirra víðs vegar um landið. KS er samvinnufélag á markaðssvæði Skagafjarðar. Fyrirtækið Mjólka ehf. var stofnað árið 2005 og var í eigu aðila ótengdum aðalstefnanda fram til ársins 2009 eða þar til KS keypti 100% hlutafjár í fyrirtækinu. Við meðferð málsins fyrir samkeppnisyfirvöldum var fyrirtækið til aðgreiningar iðulega nefnt Mjólka I þegar vísað var til atvika áður en fyrirtækið sameinaðist KS (2005–2009), en Mjólka II þegar vísað var til atvika sem áttu sér stað eftir samrunann og verður sami háttur hafður á hér. Helsti eigandi Mjólku I, Ólafur F. Magnússon, stofnaði ásamt öðrum nýtt fyrirtæki, Mjólkurbúið ehf., sem hóf vinnslu og sölu á mjólkurafurðum árið 2010.   2.               Svo sem greinir hér að framan er upphaf málsins að rekja til þess að aðalstefnandi sendi fyrir mistök reikning til Mjólkurbúsins ehf. sem átti að fara til Mjólku II. Reikningurinn bar með sér að lítraverð á hrámjólk væri 77,69 kr. í viðskiptum aðalstefnanda við Mjólku II. Hins vegar var lítraverðið 90,74 kr. í viðskiptum aðalstefnanda og Mjólkurbúsins. Sendi Mjólkurbúið því kvörtun til gagnstefnanda hinn 18. janúar 2013. Rannsókn hófst og lauk henni með ákvörðun gagnstefnanda 22. september 2014, nr. 26/2014. Þar komst gagnstefnandi að þeirri niðurstöðu að aðalstefnandi hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Í ákvörðuninni var bent á að verðlagsnefnd búvara hefði aðeins ákveðið það lágmarksverð sem bæri að greiða framleiðendum mjólkur fyrir ógerilsneydda mjólk (hrámjólk). Verðlagsnefndin hefði hins vegar ekki ákveðið verð á ógerilsneyddri mjólk í viðskiptum milli afurðastöðva. Því stæðust ekki þær skýringar aðalstefnanda að verðlagsnefndin hefði ákveðið verð á þeirri hrámjólk sem málið tæki til. Með því að selja keppinautum sínum hrámjólk á verði sem verðlagsnefnd búvara ákvað fyrir unna vöru (gerilsneydda mjólk í lausu máli) hefði aðalstefnandi að vissu marki knúið þá til að greiða tvisvar fyrir sömu kostnaðarliðina. Þá taldi gagnstefnandi að með því að selja Mjólku I og Mjólkurbúinu ehf. hrámjólk á mun hærra verði en hans eigin framleiðsludeild og aðilar tengdir honum hefðu þurft að greiða fyrir slíka mjólk hefði aðalstefndi mismunað fyrirtækjunum en slík háttsemi markaðsráðandi fyrirtækis væri andstæð 11. gr. samkeppnislaga. Með þessu hefði aðalstefnandi skert getu fyrirtækjanna til að keppa við sig og aðila tengda sér á markaðinum fyrir vinnslu mjólkurvara. Var aðalstefnanda gert að greiða sekt að fjárhæð 370.000.000 kr. fyrir brot á 11. gr. samkeppnislaga.    Ákvörðunin var hinn 20. október 2014 kærð til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Með kærunni var lagt fram svonefnt Framlegðar- og verkaskiptasamkomulag milli aðalstefnanda og KS. Samkomulagið er undirritað 15. júlí 2008 og er gerð grein fyrir því hér síðar.    Í úrskurði sínum frá 16. desember 2014 komst áfrýjunarnefndin að þeirri niðurstöðu að ógilda bæri ákvörðun gagnstefnanda frá 20. október 2014 og leggja fyrir hann að taka að nýju afstöðu til málsins að undangenginni rannsókn á þýðingu samkomulagsins frá 15. júlí 2008, uppgjöri milli aðila og efndum.    Að lokinni þeirri rannsókn leit ný ákvörðun gagnstefnanda dagsins ljós hinn 7. júlí 2016 með þeirri niðurstöðu að aðalstefnandi hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Talið var að háttsemi aðalstefnanda hefði falið í sér verðmismunun í andstöðu við 11. gr. samkeppnislaga. Aðalstefnandi kærði ákvörðunina hinn 4. ágúst 2016 til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem klofnaði í niðurstöðu sinni um ætlað brot á 11. gr. samkeppnislaga. Meirihluti nefndarinnar taldi að ekki hefði verið sýnt fram á nein þau atriði við forsendur eða framkvæmd umrædds framlegðar- og verkaskipta-samkomulags frá 2008 eða síðari samninga sem gæti orðið grundvöllur sektarákvörðunar í málinu. Minnihlutinn taldi að staðfesta bæri ákvörðun gagnstefnanda um að aðalstefnandi hefði brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga.   3.               Þá verður vikið að samkomulagi aðalstefnanda og KS, svonefndu Framlegðar og verkaskiptasamkomulagi sem var undirritað 15. júlí 2008. Í 1. gr. samkomulagsins segir: „Svo unnt verði að koma á frekari verkaskiptingu í mjólkuriðnaði, og ná nauðsynlegri lækkun á vinnslu- og dreifingarkostnaði mjólkurvara, skulu samningsforsendur stuðla að jöfnun framlegðar milli mjólkurvara. Þetta skal gert í þeim tilgangi að þeir lögaðilar sem standa að eignarhaldi og rekstri MS ehf., hafi sambærilega rekstrarafkomu við vinnslu mjólkur, óháð þeirri verkaskiptingu afurðastöðva eins og hún kann að verða ákveðin hverju sinni með hagsmuni greinarinnar í heild sinni að leiðarljósi.“    Í A-hluta samkomulagsins er í 2. gr. fjallað um breytingu á framleiðslu-skipulagi milli aðalstefnanda og KS. KS hætti framleiðslu og pökkun á ferskum og sýrðum mjólkurvörum og fluttist það yfir til aðalstefnanda. Véla- og tækjabúnaður er tilheyrði rifostagerð skyldi flytjast á Sauðárkrók, en þar átti að leggja áherslu á framleiðslu fastra osta og viðbits.    Í B-hluta samkomulagsins var kveðið á um framlegðarskipti mjólkurvara milli aðalstefnanda og KS á grunni mjólkurvara og hráefnis. Síðan segir í samkomulaginu: „Forsendur: Verðtilfærsla mjólkurvara: a)                   Gert er ráð fyrir að verðtilfærsla mjólkurvara verði aflögð, bæði lögbundin tilfærsla sem og verðtilfærsla SAM sem framkvæmd hefur verið skv. heimildarákvæðum laga nr. 99/1993 b)                   Í byrjun er þó gert ráð fyrir innheimtu og útgreiðslu lögbundinnar verðtilfærslu skv. lögum 99/1993. Jafnframt er gert ráð fyrir því verðtilfærsla SAM leggist af, og er stuðst við áhrif þess í útreikningum sem samningur þessi byggir á. Áhrif þessara ráðstafana á KS og MS eru að KS fer úr því að hafa 25 millj. kr. í tekjur vegna verðtilfærslu árlega (verðtilfærslutekjur – verðtilfærslugjöld), í að þurfa að greiða árlega 31 millj. kr. í verðtilfærslu. Breytingin nemur því um 56 millj. kr. framlegðartap fyrir KS en að sama skapi jafnhá framlegðaraukning fyrir MS (sjá meðfylgjandi útreikninga). Þessi niðurstaða er að teknu tilliti til þess að mjólkurpökkun og framleiðsla sýrðra vara færist til MS frá KS. Við að framleiða eingöngu ost í stað ferskvara minnka heildsölutekjur KS um 47 millj. kr. til viðbótar – eða samtals um 103 millj. kr. Áhrif breyttrar verkaskiptar á aðra vörunotkun og sölu- og dreifingarkostnað nemur um 62 millj. kr lægri kostnað fyrir KS en að sama skapi sömu upphæð hærri fyrir MS. Nettóáhrif þessara breytinga vegna verkaskiptingar og verðtilfærslubreytinga nemur því (103-62) = 41 millj. kr. Þennan mismun þarf því að leiðrétta auk 24 mill. kr. viðbót vegna skiptingar framlegðar vegna verkaskiptingar á markaði.   MAGN HRÁMJÓLKUR FRÁ MS TIL KS OG VERÐLAGNING ÞESS: c)                   Til að mæta framlegðartapi KS (samsvarandi framlegðaraukningu MS) vegna breytinga í verkaskiptingu og verðtilfærslu svo og sem lið í framlegðarútjöfnun, skal framkvæma eftirfarandi: 1.       Ms ehf. skal selja KS sem nemur allt að 3,5 millj. ltr af mjólk á ársgrunni. 2.       Verðlagning mjólkurinnar skal taka mið af skráðu lágmarksverði Verðlagsnefndar búvöru fyrir meðalmjólk (afurðastöðvaverð). Ofan á skráð lágmarksverð skulu bætast lítratengd sjóðagjöld. (Lögbundin verðtilfærla og Verðmiðlunarsjóðsgjald meðan lagaskylda er til staðar). Ekki skal leggja fast álag ofan á framangreint verð mjólkurinnar eins og tíðkast hefur skv. ákvörðun SAM. Á sama hátt skal verðleggja hráundanrennu og hrárjóma í viðskiptum aðila, ef til þeirra kemur. 3.       Kostnaður af flutningi hráefnis milli aðila (viðbótarkostnaður umfram söfnunarkostnað mjólkur) skal skiptast jafn milli aðila (50/50). Kostnaður skal reiknast skv. samtals eknum km. í hverjum mánuði með hráefni milli aðila.“ Í d- og e-liðum 2. gr. er kveðið á um gagnkvæma söluþóknun fyrir fullunnar mjólkurvörur í viðskiptum. Í 3. gr. er síðan kveðið á um gagnkvæma skuldbindingu samningsaðila til sölu á framleiðsluvörum hvors annars. Í 4. gr. er fjallað um uppgjör og í 5. gr. er kveðið á um gildistíma og endurskoðunarákvæði samningsins. Þá voru gerðir viðaukar við og breytingar á samkomulaginu á tímabilinu 26. febrúar 2009 til 27. ágúst 2010.    Með framlegð í skilningi samkomulagsins er átt við „framlegð I“ sem er nettósölutekjur að frádreginni vörunotkun. Með nettósölutekjum er átt við reikningsfærða sölu, að viðbættum eða frádregnum sjóðagjöldum og/eða úthlutun úr verðjöfnunarsjóðum. Frá þeirri fjárhæð er dregin vörunotkun samkvæmt nánari skilgreiningu, en hrámjólkin er stærsti kostnaðarliðurinn í vörunotkuninni.                Eins og fram kemur í 1. gr. samkomulagsins er tilgangurinn með samkomulaginu að koma á frekari verkaskiptingu í mjólkuriðnaði og ná nauðsynlegri lækkun á vinnslu- og dreifingarkostnaði mjólkurvara. Til að ná því markmiði áttu samningsaðilar að stuðla að „jöfnun framlegðar“ milli mjólkurvara. Tilgangurinn var því að viðhafa framlegðarskipti milli aðalstefnanda og KS á grundvelli mjólkurvara og hráefnis og var ætlunin að samningsaðilar hefðu sem jafnasta framlegð. Slíkt getur leitt til lækkunar á framleiðslu-, geymslu- og dreifingarkostnaði og fallið undir 71. gr. búvörulaga. Þá geta aðilar haft með sér viðskipti um tiltekið magn, svo sem gert er í samkomulaginu, og það verið samrýmanlegt 71. gr. búvörulaga. En það eru raunveruleg áhrif samkomulagsins sem skipta máli. Í samkomulaginu segir að til að mæta framlegðartapi KS vegna áhrifa samkomulagsins, og sem lið í framlegðarútjöfnun, skuli aðalstefnandi selja KS sem nemi allt að 3,5 millj. l af mjólk á ársgrunni. Skjöl málsins sýna að verkaskiptingin leiddi til þess að framleiðsla á framlegðarlágum afurðum, svo sem ferskum mjólkurvörum, færðist frá KS til aðalstefnanda og KS einbeitti sér að framleiðslu á framlegðarháum afurðum, t.d. rifnum osti, ostum í blokkum og viðbiti. Sést þetta í töflu er stafar frá fjármálastjóra aðalstefnanda, en þar kemur fram að sala KS á ferskum mjólkurvörum árið 2008 nam tæpum 100 millj. kr. En svo dæmi sé tekið af rifnum osti var sala á honum árið 2009 tæpar 800 millj. kr. Því virðist samkomulagið hafa haft í för með sér mikla framlegðaraukningu hjá KS. Það sem gerist í framhaldinu kemur fram á yfirliti um framlegðarskipti 2008–2013. Sést þar að framlegð aðalstefnanda án KS-viðskiptanna og framlegð KS er mjög svipuð og hluta tímabilsins hafi ekki þurft að koma til sérstaks uppgjörs þeirra á milli. Því verður ekki séð að nauðsyn hafi borið til að selja KS 3,5 millj. lítra af hrámjólk í því skyni að bæta KS framlegðartap vegna breytinga á verkaskiptingu og verðtilfærslu svo og framlegðarjöfnun eins og segir í c lið samkomulagsins. Því verður ekki fallist á að vernd 71. gr. búvörulaga eigi við, sbr. hér síðar. Varðandi skýrslu KPMG dags. 22. ágúst 2016, sem aðalstefnandi vísar til, þá var hennar aflað einhliða af hálfu aðalstefnanda og á hans kosnað og verður því ekki litið til hennar í niðurstöðu málsins. Ekki verður fram hjá því litið að keppinautur eins og Mjólka framleiddi einungis vörur með háa framlegð. Því gáfu kaup KS á hrámjólk á lægra verði KS aukinn kraft í samkeppni þeirra.                    4.               Í aðalsök gerir aðalstefnandi, Mjólkursamsalan ehf., aðallega þá dómkröfu á hendur gagnstefnanda að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 18. nóvember 2016 í máli nr. 4/2016 verði ógiltur að því leyti sem aðalstefnanda var gert að greiða 40.000.000 króna vegna brots gegn 19. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Til vara er þess krafist að dómstólar felli fyrrgreinda sekt áfrýjunarnefndarinnar niður og til þrautavara að sektin verði lækkuð verulega. Samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. 19. gr. samkeppnislaga getur gagnstefnandi krafið einstök fyrirtæki, hópa þeirra og samtök um allar upplýsingar sem honum þykja nauðsynlegar við athugun einstakra mála, svo og um gögn til athugunar, og skal orðið við slíkri kröfu innan hæfilegs frests, sem hann setur. Í i-lið 1. mgr. 37. gr. samkeppnislaga er mælt fyrir um að gagnstefnandi leggi stjórnvaldssektir á fyrirtæki eða samtök þeirra, sem brjóta gegn skyldu til að veita upplýsingar og afhenda gögn samkvæmt 19. gr. laganna. Samkvæmt gögnum málsins óskaði gagnstefnandi skýringa á því, í bréfi 20. desember 2012 til aðalstefnanda, hvað ylli ólíku verði á reikningunum til Mjólkurbúsins ehf. og Mjólku II. Svaraði aðalstefnandi því með bréfi 7. janúar 2013. Þar segir að verið sé að bera saman tvenn ólík viðskipti. Annars vegar sé sala á mjólk í lausu máli með afslætti, en án frekari kostnaðar og skuldbindinga af hálfu kaupanda. Hins vegar sé um að ræða miðlun á hráefni á kostnaðargrunni innan viðskiptasambands sem axli aukakostnað af söfnun, lyfjaeftirliti, gæðaeftirliti, frumvinnslu og dreifingu auk sölutryggingar til bænda. Þá var tilgreint í bréfinu að í reikningi aðalstefnanda væri verð á mjólk í lausu máli ákvarðað af verðlagsnefnd búvöru í samræmi við 8. gr. búvörulaga. Í öðru bréfi aðalstefnanda frá 13. febrúar 2013, sem er svarbréf hans við bréfi gagnstefnanda frá 30. janúar 2013 um frekari gögn og upplýsingar, kemur fram að KS sé eigandi Mjólku II. Þá hafi aðalstefnandi og KS samstarf um verkaskiptingu og framleiðslustýringu á grundvelli 71. gr. búvörulaga og um sama aðilann sé að ræða í viðskiptalegu tilliti. Verið væri að bera saman tvenns konar ólík viðskipti í kærunni, það er annars vegar miðlun mjólkurhráefnis í samstarfi tveggja fyrirtækja og hins vegar sölu mjólkur á verðlistaverði (að frádregnum afslætti) án frekari skuldbindinga þess sem keypti hráefnið.    Fyrirspurnir gagnstefnanda byggjast á 19. gr. samkeppnislaga. Sú skylda hvíldi á aðalstefnanda að upplýsa um öll nauðsynleg atriði innan þess frests sem gefinn var. Í svarbréfinu frá 7. janúar 2013 var ekki minnst á það að umsamið hrámjólkurverð ætti að mæta röskun á framlegð vegna verkaskiptingar og ekki var heldur á það minnst að samningur lægi þar að baki, sem þó verður að telja grundvallargagn í málinu. Þá var ekki minnst á að aðalstefnandi skyldi selja KS sem næmi allt að 3,5 millj. lítra hrámjólkur á ársgrunni. Það dugar í engu að vísa til þess að aðalstefnandi og KS hafi haft samstarf um verkaskiptingu og framleiðslustýringu á grundvelli 71. gr. búvörulaga, svo sem bent er á í bréfinu frá 13. febrúar 2013. Sú skylda hvíldi á aðalstefnanda að leggja fram öll gögn, en ekki gagnstefnanda að kalla eftir gögnum sem hann vissi ekki að væru til. Í málinu liggur fyrir að aðalstefnandi hafði mörg tilefni til þess að leggja fram umræddan samning aðila frá 15. júlí 2008 en lét hjá líða að gera svo. Gagnstefnandi óskaði eftir öllum samningum aðila við 50 stærstu viðskiptavini félagsins. Telur dómurinn að aðalstefnandi geti ekki borið það fyrir sig að hafa ekki vitað að leggja ætti fram umrætt skjal, sem þýðingu gæti haft í málinu. Með því að leggja ekki Framlegðar- og verkaskiptasamkomulag Kaupfélags Skagfirðinga svf. og MS fram hafi aðalstefnandi brugðist þeirri skyldu sinni að veita upplýsingar og afhenda gögn, sbr. 19. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Eins og mál þetta liggur fyrir þykja engin efni til þess að lækka sektina. Er þá litið til þeirra skýringa sem aðalstefnandi gaf í bréfum sínum og hve augljóst er að mati dómsins að einfaldast hafi verið fyrir aðalstefnanda að leggja samkomulagið strax fram til að upplýsa málið. Með háttalagi sínu torveldaði aðalstefnandi rannsókn málsins og því þurfti að hefja rannsóknina að nýju. Þegar litið er til veltu og efnahags aðalstefnanda, sem og nauðsynjar þess að sektir hafi sérstök varnaðaráhrif, þykir fjárhæð sektarinnar hæfileg.   5.               Í gagnsök krefst gagnstefnandi, Samkeppniseftirlitið, þess að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 4/2016 verði ógiltur að því leyti sem þar er felldur úr gildi sá hluti ákvörðunar gagnstefnanda frá 7. júlí sama árs, nr. 19/2016, að aðalstefnandi skuli greiða 440.000.000 kr. stjórnvaldssekt í ríkissjóð, vegna brots á 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, eigi síðar en einum mánuði eftir dagsetningu ákvörðunarinnar.    Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins varðaði ætluð brot aðalstefnanda á 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Niðurstaðan varð sú að aðalstefnandi hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína á markaði fyrir heildsölu á hrámjólk til vinnslu mjólkurafurða. Fælist misnotkunin í því að á árunum 2008–2013 hefði aðalstefnandi selt keppinautum sínum hrámjólk á hærra verði en hans eigin framleiðsludeild annars vegar og aðilar tengdir honum hins vegar þurftu að greiða fyrir slíka mjólk. Deilt er um hvort þessi mismunun hafi veikt samkeppnisstöðu keppinauta aðalstefnanda á markaði fyrir vinnslu mjólkurafurða.    Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála er nr. 4/2016, frá 18. nóvember 2016. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til þess hvort aðalstefnandi hefði brotið gegn banni 11. gr. samkeppnislaga við misnotkun markaðsráðandi stöðu. Meirihluti nefndarinnar taldi að aðalstefnandi hefði, á grundvelli 71. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, mátt mismuna tengdum og ótengdum aðilum. Minnihluti nefndarinnar taldi hins vegar að staðfesta bæri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um brot aðalstefnanda gegn 11. gr. samkeppnislaga.   6.               Í málinu liggur fyrir að aðalstefnandi seldi á rannsóknartímabilinu tengdum fyrirtækjum, KS og Mjólku II, hrámjólk á verði sem var það sama og hið opinbera lágmarksverð sem gilti gagnvart mjólkurbændum. Verð aðalstefnanda á sömu hrámjólk til ótengdra aðila, Mjólku I og Mjólkurbúsins, var hins vegar mun hærra og nam allt að 17%. Miðaðist verð aðalstefnanda á hrámjólkinni til ótengdra aðila við verð á annarri vöru, þ.e. gerilsneyddri mjólk. Ágreiningsefnið lýtur að því hvort aðalstefnandi hafi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga, en þar segir að misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu sé bönnuð og að misnotkunin geti, samanber c-lið ákvæðisins, falist í því að viðskiptaaðilum sé mismunað með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og samkeppnisstaða þeirra þannig veikt. Aðalstefnandi byggir á því að ekki geti verið um brot á samkeppnislögum að ræða og vísar aðallega til 71. gr. búvörulaga, en þar segir: „Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða.“ Því lýtur ágreiningur málsins að því atriði hvort 71. gr. búvörulaga víki ákvæðum samkeppnislaga til hliðar.   7.               Verður þá vikið að forsögu 3. mgr. 13 gr. og 71. gr. búvörulaga. Ákvæði 1. mgr. 48. gr. laga nr. 46/1985 um framleiðslu og sölu á búvörum o.fl. (endurútgefin sem lög nr. 99/1993) var svohljóðandi: „Framleiðsluráð landbúnaðarins og samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði skulu gera samkomulag um verkaskiptingu á milli mjólkursamlaga, að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara með tilliti til heildarafkomu framleiðslugreinarinnar og hagsmuna mjólkurframleiðenda og neytenda.“ Þessu ákvæði var breytt með 21. gr. laga nr. 112/1992 um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 46 1985, með síðari breytingum. Samsvarandi ákvæði var þá í 56. gr., svohljóðandi: „Framleiðsluráði landbúnaðarins og afurðastöðvum í mjólkuriðnaði er heimilt að gera samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara fyrir innlendan og erlendan markað. Í slíku samkomulagi er heimilt að kveða á um verðtilfærslu til að jafna framlegð mismunandi framleiðslutegunda á milli mjólkurbúa. Fimmmannanefnd getur gripið inn í verðtilfærslu milli afurða telji hún það nauðsynlegt. Verðtilfærsla má aldrei verða hærri fjárhæð en sem svarar hráefnisverði hverrar afurðar. Samkomulagið öðlast ekki gildi fyrr en landbúnaðarráðherra hefur staðfest það.“    Með þessari lagabreytingu var það ekki lengur skylda að gera samkomulag um verkaskiptingu á milli mjólkursamlaga, að því er varðaði framleiðslu einstakra mjólkurvara, heldur var það heimilt og gátu þær starfað algerlega sjálfstætt. Jafnframt var í slíku samkomulagi heimilt að kveða á um verðtilfærslu til að jafna framlegð mismunandi framleiðslutegunda á milli mjólkurbúa. Þannig er um sitt hvort atriðið að ræða, það er samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hins vegar samkomulag um verðtilfærslu til að jafna framlegð mismunandi framleiðslutegunda á milli mjólkurbúa. Héðan í frá verður kveðið á um samninga um jöfnun framlegðar í einu ákvæði og heimildir til að gera verkaskiptasamninga í öðru ákvæði. Lög nr. 46/1985 voru síðan endurútgefin sem lög nr. 99/1993 og varð fyrrnefnd 56. gr. að 59. gr. Með 4. gr. laga nr. 69/1998 um breyting á lögum nr. 99/1993 var heimildin til að jafna framlegð með verðtilfærslu í 3. mgr. 13. gr. laganna, sem varð svohljóðandi: „Verðlagsnefnd getur, að fengnum tillögum afurðastöðva eða samtaka þeirra, heimilað afurðastöðvum að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða. Samningar þessir skulu hljóta staðfestingu verðlagsnefndar.“ Efnislega er ákvæði þetta samhljóða eldra ákvæði. Eftir þá breytingu sem var gerð á 59. gr. með 18. gr. laga nr. 69/1998 hljóðaði ákvæðið svo: „Framleiðsluráði landbúnaðarins og afurðastöðvum í mjólkuriðnaði er heimilt að gera samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara fyrir innlendan og erlendan markað. Samkomulagið öðlast ekki gildi fyrr en landbúnaðarráðherra hefur staðfest það.“ Með lögum nr. 112/1999 var tilvísun laganna til framleiðsluráðs landbúnaðarins felld niður. Í kjölfarið voru gerðar breytingar á lögum nr. 99/1993 sem leiddu til þess að 59. gr. varð að 71. gr. laganna. Þannig kvað 71. gr. búvörulaganna á um heimild til afurðastöðva til að gera samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga varðandi einstakar mjólkurvörur og 13. gr. 3. mgr. sömu laga kvað á um heimild afurðastöðva til að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða. Í maí 2004 var lagt fram á Alþingi stjórnarfrumvarp um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (verðsamráð í mjólkuriðnaði). Frumvarpið var samið að tilhlutan landbúnaðarráðherra „í því skyni“, eins og segir í upphafi þess (þingskjal 1665 á 130. löggjafarþingi), „að lögfesta ákvæði sem ætlað er að eyða þeirri réttaróvissu sem skapast hefur um að gildandi búvörulög, nr. 99/1993, tryggi ekki með nægjanlegri vissu að samráð, samruni og verðtilfærsla í mjólkuriðnaði sé undanskilið gildissviði samkeppnislaga í samræmi við ætlan löggjafans“. Í frumvarpinu var kveðið á um breytingu á tveimur ákvæðum, það er 3. mgr. 13. gr. og 71. gr. Í frumvarpinu kemur fram að til þess að kanna tengsl laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (búvörulaga) nr. 99/1993 og samkeppnislaga hafi landbúnaðarráðherra falið Árna Vilhjálmssyni hrl. og Eiríki Tómassyni prófessor að skrifa álitsgerð um efnið og gera tillögur til breytinga á búvörulögum. Sérstaklega hafi þeim verið falið að leggja mat á hvernig hægt væri að tryggja virka samkeppni í framleiðslu og sölu búvara án þess að hagsmunir bænda og íslensks landbúnaðar væru fyrir borð bornir. Skiluðu þeir álitsgerð sinni til landbúnaðarráðherra 30. apríl 2004.    Í kjölfarið fór fram endurskoðun á búvörulögunum og í megindráttum var það niðurstaða endurskoðunarinnar að í ljósi skuldbindandi samninga ríkisins við framleiðendur um styrki, og að teknu tilliti til markaðsaðstæðna, gæti verið nauðsynlegt að lögfesta skýr ákvæði í búvörulög sem undanskildu ákveðna þætti verðmyndunar á heildsöluverði gildissviði samkeppnislaga. Í álitsgerðinni komu fram viðamiklar breytingar en sérstaklega var tekið fram að frumvarpið gerði ekki ráð fyrir þeim öllum, að svo komnu máli.    Í frumvarpinu kemur fram að þar sé fylgt landbúnaðarstefnu búvörulaga, samanber 1. gr. laganna, það er að tryggja jöfnuð á milli framleiðenda og viðunandi kjör bænda, og einnig kemur fram sú stefna löggjafans að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu. Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um breytingar á 3. mgr. 13. gr. búvörulaganna en þar segir að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga sé afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða. Leggja skuli slíka samninga fyrir verðlagsnefnd til upplýsingar.  Í 2. gr. var kveðið á um breytingu á 71. gr. búvörulaga, það er um heimild til handa afurðastöðvum í mjólkuriðnaði að gera samkomulag um verkaskiptingu um framleiðslu einstakra mjólkurvara. Samkomulagið öðlast þó ekki gildi fyrr en landbúnaðarráðherra hefði staðfest það.    Þá kom fram í frumvarpinu að með breytingunum á 71. gr. væri verið að styrkja framangreindan grundvöll til hagræðingar og tryggja eðlilega að sú hagræðing nyti enn um sinn undanþágu frá gildissviði samkeppnislaga ef það væri gert í þeim tilgangi að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða. Í breytingunni felst einnig að afurðastöðvarnar þurfi ekki lengur leyfi landbúnaðarráðherra til þess að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til samræmis við aukna ábyrgð afurðastöðvanna sjálfra á verðlagningu.  Af 71. gr. búvörulaganna og lögskýringargögnum með því ákvæði verður ekki annað ráðið en að tilgangur ákvæðisins sé að undanþiggja afurðastöðvar í mjólkuriðnaðinum ákvæðum samkeppnislaga og að þeim sé heimilt að gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og einnig að hafa með sér annars konar samstarf. Tilgangurinn verði þó að vera að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða. Þegar nefndri 71. gr. var breytt á Alþingi kom einnig til breytingar á 3. mgr. 13. gr. laganna. Þar segir að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga sé afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða, en leggja skuli slíka samninga fyrir verðlagsnefnd til upplýsingar. Málflutningur aðalstefnanda er sá að með samkomulaginu frá 15. júlí 2008 hafi tilgangurinn verið að jafna framlegðina milli hans og KS, þó samkvæmt gögnum málsins virðist sem framlegð KS hafi aukist til muna með samkomulaginu. Jöfnun framlegðar er ekkert annað en verðtilfærsla sem nýtur ekki verndar 71. gr. búvörulaganna heldur 3. mgr. 13. gr. sömu laga þar sem kveðið er á um slíka samninga. Hins vegar er ekki byggt á því ákvæði af hálfu aðaláfrýjanda. Hefði það verið gert þá liggur ekki fyrir í málinu hvort aðalstefnandi eða KS hefði lagt samninginn fyrir verðlagsnefnd til upplýsingar. Með því að engin staðfesting liggur fyrir verður að líta svo á að henni sé ekki til að dreifa. Meirihluti áfrýjunarnefndar virðist hafa talið að ekki væri þörf á að upplýsa verðlagsnefnd um samninginn. Dómurinn telur hins vegar að um fortakslaust ákvæði sé að ræða. Er þá hvoru tveggja litið til orðalags ákvæðisins, sem beinlínis kveður á um skyldu, sem og til forsögu þess. Fram til gildistöku laga nr. 85/2004 var mælt fyrir um beint eftirlit með efni slíkra samninga, sem fólst meðal annars í því að þeir skyldu hljóta staðfestingu verðlagsnefndar búvara. Með lögum nr. 85/2004 var þessu fyrirkomulagi breytt og mælt fyrir um skyldu til að leggja samninga um verðtilfærslu fyrir verðlagsnefnd búvara til upplýsingar. Í athugasemdum með frumvarpinu, segir „Með breytingunni er því aðeins verið að færa formið og ábyrgðina til afurðastöðvanna frá verðlagsnefnd í samræmi við venjubundna framkvæmd samkvæmt búvörulögum og undanskilja verðtilfærsluna skýrlega gildissviði samkeppnislaga. Þó er talið rétt að verðlagsnefnd sé upplýst um þessa samninga og því er lögð skylda á afurðastöðvarnar að senda nefndinni þá til upplýsingar. Breytingarnar kalla hvorki á afnám lögbundins verðtilfærslugjalds skv. 22. gr. búvörulaga, en það gjald stendur undir verðtilfærslu milli tiltekinna mjólkurafurða, né breytingar á verðmiðlunargjaldi skv. 19. gr. búvörulaga.“ Ljóst má því vera að upplýsingaskyldan er mikilvægur liður í eftirliti þó það sé með breyttu sniði. Kemur þetta einnig fram í áliti meirihluta landbúnaðarnefndar að fallist var á að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt, meðal annars „með hliðsjón af skipun verðlagsnefndar og því eftirlitshlutverki sem henni er ætlað samkvæmt lögum, að séð sé fyrir því að hagsmunir bænda, framleiðenda, neytenda og stjórnvalda verði tryggðir á hverjum tíma.“ Telja verður að aðalstefnandi verði að bera hallann af því að hafa ekki lagt samninginn fyrir nefndina. Með vísan til þess sem að framan greinir og þess sem fram kemur í 3. kafla hér að framan er það niðurstaða dómsins að samningurinn frá 15. júlí 2008 njóti hvorki verndar 71. gr. né 3. mgr. 13. gr. búvörulaganna.   8.               Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. samkeppnislaga er misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu bönnuð. Misnotkun skv. 1. mgr. getur m.a. falist í því að viðskiptaaðilum sé mismunað með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og samkeppnisstaða þeirra þannig veikt samanber c-lið 2. mgr. 11. gr. laganna. Það er ágreiningslaust að aðalstefnandi er með markaðsráðandi stöðu á hinum ráðandi markaði fyrir sölu á hrámjólk til vinnslu mjólkurafurða. Hann tók við um það bil 90% af þeirri hrámjólk sem framleidd er í landinu og var eina fyrirtækið sem seldi hrámjólk í heildsölu. Gagnvart keppinautum sínum var hann birgir þeirra vegna kaupa á hrámjólk, sem og öflugasti keppinautur þeirra. Samkvæmt gögnum málsins greiddu keppinautar aðalstefnanda hrámjólk á hærra verði en aðilar sem voru tengdir aðalstefnanda. Munurinn á rannsóknartímabilinu er um 239 millj. kr., þ.e. hversu miklu minna tengdir aðilar aðalstefnanda greiddu  en ótengdir aðilar. Því er fallist á að aðalstefnandi hafi veikt samkeppnisstöðu ótengdu aðilanna og haft bein áhrif á vöxt þeirra. Með vísan til þess sem að framan greinir lítur dómurinn svo á að aðalstefnandi hafi brotið gegn 11. gr. samkeppnislaganna. Aðalstefnandi byggir á því að dómstólinn skorti heimild til að fjalla um 11. gr. samkeppnislaganna þar sem ekki var fjallað um það ákvæði fyrir áfrýjunarnefndinni með því að meirihluti hennar taldi að samkomulagið frá 15. júlí 2008 nyti verndar 71. gr. búvörulaganna. Á þetta sjónarmið er ekki fallist. Heimild gagnstefnanda til að verja ákvörðun sína styðst við 41. gr. samkeppnislaga, sbr. 4. gr. laga nr. 14/2011. Þar segir: „Nú vill aðili, þ.m.t. Samkeppniseftirlitið, ekki una úrskurði áfrýjunarnefndar og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hans fyrir dómstólum.“ Í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins er sérstaklega tekið fram að mikilvægt sé að samkeppniseftirlitið geti eftir atvikum varið fyrir dómsólum niðurstöðu ákvarðana sinna sem áfrýjunarnefndin hefur „ógilt eða breytt“. Meirihluti áfrýjunarnefndar felldi niður sekt þá er gagnstefnandi ákvarðaði. Hefur gagnáfrýjandi því heimild til að bera úrskurðinn undir dómstóla.   9.               Með vísan til þess sem að framan greinir verður krafa gagnstefnanda í gagnsök tekin til greina og úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 18. nóvember 2016 í máli nr. 4/2016 verður ógiltur að því leyti sem þar er felldur úr gildi sá hluti ákvörðunar gagnstefnanda frá 7. júlí sama árs, nr. 19/2016, um að aðalstefnandi skuli greiða 440.000.000 kr. stjórnvaldssekt í ríkissjóð, vegna brots á 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, eigi síðar en einum mánuði eftir dagsetningu ákvörðunarinnar. Ber því aðalstefnanda að greiða sekt í ríkissjóð. Varðandi fjárhæð sektarinnar er litið til þess að brot aðalstefnanda er alvarlegt og stóð í langan tíma. Það varðaði vinnslu á mikilvægri neysluvöru og voru aðgerðir aðalstefnanda fallnar til að skaða samkeppni og neytendur með alvarlegum hætti. Þá er litið til þess að um ítrekað brot er að ræða, sbr. úrskurð áfrýjunarnefndarinnar 14. desember 2006 í máli nr. 8/2006. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. samkeppnislaga getur sekt numið allt að 10% af heildarveltu síðasta rekstrarár þeirra sem aðild eiga að brotinu. Mun heildarvelta aðalstefnanda árið 2015 hafa verið um það bil 26,7 ma. kr. Sekt gagnstefnanda nemur um það bil 1,6% af veltunni, sem telja verður hóflegt þegar litið er til heimildar 2. mgr. 37. gr. Verður aðalstefnanda því gert að greiða 440.000.000 kr. í sekt. Við aðalmeðferð málsins kvaðst lögmaður gagnstefnanda ekki gera kröfu um vexti og kvaðst miða við að sektin yrði greidd innan mánaðar frá dómsuppsögu. Var því ekki andmælt af aðalstefnanda. Eftir þessari niðurstöðu ber aðalstefnanda að greiða gagnstefnanda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.            Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.   DÓMSORÐ:    Í aðalsök er gagnstefnandi, Samkeppniseftirlitið, sýknað af kröfum aðalstefnanda, Mjólkursamsölunnar ehf.    Í gagnsök er úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 18. nóvember 2016 í máli nr. 4/2016 ógiltur að því leyti sem þar er felldur úr gildi sá hluti ákvörðunar gagnstefnanda frá 7. júlí sama árs, nr. 19/2016, um að aðalstefnandi skuli greiða 440.000.000 króna stjórnvaldssekt í ríkissjóð.    Aðalstefnandi greiði ríkissjóði 440.000.000 króna    Aðalstefnandi greiði gagnstefnanda 3.000.000 króna í málskostnað.
Mál nr. 36/2020
Kærumál Gjaldþrotaskipti Réttindaröð Forgangskrafa Laun
Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem krafa S að fjárhæð 14.345.323 krónur var viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti á þb. W hf. S hafði verið framkvæmdastjóri fjármálasviðs W hf. frá júlí 2015 og þar til bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipa í mars 2019. Ágreiningur aðila laut að því hvort S hefði verið nákominn W hf. í skilningi 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 112. gr. laganna. Taldi Hæstiréttur með vísan til gagna málsins að S hefði talist til lykilstjórnenda W hf. og hefði sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs haft yfirsýn yfir fjármál þess á hverjum tíma. Þá taldi rétturinn meðal annars í ljósi stöðu S í skipuriti félagsins, stærðar þess og eðlis rekstrarins, heimilda S til að skuldbinda félagið, yfirsýnar hans yfir fjárhagsstöð þess auk stjórnunarheimilda yfir starfsfólki að S hefði stýrt daglegum rekstri félagsins og teldist nákominn í skilningi fyrrnefndra ákvæða. Jafnframt taldi rétturinn engu breyta um þá niðurstöðu þótt eigandi félagsins og á tímabili aðstoðarforstjóri hefði jafnframt stýrt daglegum rekstri þess né að launakröfur annarra framkvæmdastjóra hefðu verið viðurkenndar sem forgangskröfur við gjaldþrotaskiptin. Var því kröfu S um viðurkenningu á að krafa hans nyti stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við gjaldþrotaskipti á þb. W hf. hafnað.
Dómur Hæstaréttar Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. október 2020 en kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 7. október 2020 þar sem krafa varnaraðila að fjárhæð 14.345.323 krónur var viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði að skipa kröfunni á þennan hátt í réttindaröð. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var mál þetta munnlega flutt 11. janúar 2021. I Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðili ráðinn ,,framkvæmdastjóri fjármálasviðs/fjármálastjóri“ WOW air, sem þá var einkahlutafélag, með ráðningarsamningi 21. júlí 2015. Í samningnum kom fram að varnaraðili sæti einnig í framkvæmdastjórn félagsins. Hann hóf störf 14. ágúst 2015 og starfaði hjá félaginu þar til bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta 28. mars 2019. Með bréfi til skiptastjóra 7. apríl 2019 lýsti varnaraðili kröfu við gjaldþrotaskiptin og krafðist þess að henni yrði skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Skiptastjóri hafnaði því 8. ágúst 2019 að krafan fengi notið slíks forgangsréttar. Afstaða skiptastjóra var reist á því að varnaraðili hefði haft stöðu nákomins í skilningi 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 112. gr. laganna. Ekki tókst að jafna ágreining aðila og með bréfi 10. september 2019 krafðist skiptastjóri úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um ágreininginn samkvæmt 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 171. gr. laganna. Í úrskurði héraðsdóms 19. júní 2020 var fallist á að krafa varnaraðila nyti forgangs við gjaldþrotaskiptin. Með hinum kærða úrskurði Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest. Kæruleyfi til Hæstaréttar var veitt 11. nóvember 2020 á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem úrlausn málsins um skýringu á hugtakinu nákomnir í skilningi 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991 var talin hafa fordæmisgildi. Upphafleg krafa varnaraðila var 39.901.424 krónur en varnaraðili féll frá hluta hennar fyrir héraðsdómi. Í héraðsdómi var fallist á kröfu varnaraðila að fjárhæð 15.594.304 krónur en frá henni var dregin 1.248.981 króna vegna atvinnuleysisbóta sem varnaraðili þáði á uppsagnarfresti. Samtals var krafa varnaraðila samþykkt að fjárhæð 14.345.323 krónur. Ekki er tölulegur ágreiningur milli aðila. II Mál þetta lýtur samkvæmt framansögðu að kröfu varnaraðila um að viðurkennt verði að krafa sem hann lýsti við gjaldþrotaskipti WOW air hf. njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili hafnar því að krafan njóti slíks forgangs þar sem varnaraðili sé nákominn WOW air hf. í skilningi 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 112. gr. laganna. Hann hafi verið framkvæmdastjóri fjármálasviðs og átt sæti í framkvæmdastjórn félagsins frá 14. ágúst 2015 til 28. mars 2019 þar sem næsti yfirmaður hans hafi verið forstjóri. Hann hafi jafnframt þegið laun í samræmi við ábyrgð sína sem einn æðsti yfirmaður félagsins og stýrt daglegum rekstri þess. Sóknaraðili bendir á að varnaraðili hafi meðal annars stýrt fjármálum, fjárhagsáætlanagerð og samþykkt reikninga auk þess sem hann hafi skuldbundið félagið á grundvelli prókúruumboðs sem og á grundvelli reglna stjórnar. Hann hafi stýrt bókhaldsdeild félagsins, hagdeild, lögfræðisviði og innkaupasviði auk þess að vera yfirmaður sjóðsstýringar. Hafi hann sem æðsti yfirmaður fjármálasviðs haft bestu yfirsýnina yfir fjármál og fjárhagsstöðu félagsins. Auk þess mótmælir sóknaraðili því sem röngu og ósönnuðu að varnaraðili hafi einungis notið umboðs til skuldbindingar félagsins í fjarveru forstjóra þess og að hann hafi einungis skrifað undir skuldbindingar eftir samþykki forstjóra. Varnaraðili hafi þvert á móti nýtt prókúruumboðið við daglegan rekstur félagsins. Af hálfu varnaraðila er byggt á því að við mat á hvort hann telst nákominn í skilningi 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991 verði að líta til eðlis rekstrar flugfélaga. Hjá WOW air hf. hafi verið tvö meginsvið, flugrekstrarsvið og þjónustusvið. Á flugrekstrarsviði hafi verið teknar ákvarðanir um flugflota en stjórn ákveðið flugleiðir og flugáætlun. Varnaraðili hafi enga aðkomu átt að þeim ákvörðunum sem hafi tekið til um 90% af öllum rekstrarkostnaði. Þjónustusvið hafi tekið allar ákvarðanir um tekjur félagsins, svo sem um verð á flugmiðum og annarri þjónustu og hafi varnaraðili ekki heldur komið að þeim. Varnaraðili vísar til þess að forstjóri félagsins, sem jafnframt var eigandi þess, hafi stýrt daglegum rekstri auk þess að stýra þjónustusviði. Þann tíma sem aðstoðarforstjóri starfaði hjá félaginu hafi daglegur rekstur jafnframt fallið undir starfssvið hans. Starf varnaraðila hafi einkum falist í ráðgjöf, uppbyggingu innviða í rekstri og eftirliti með ákvörðunum. Hann hafi ekki tekið ákvarðanir um daglegan rekstur, hvorki um tekjur né útgjöld. Auk þess hafi varnaraðili enga heimild haft til að draga úr útgjöldum eða auka tekjur með eigin ákvörðunum. Heimildir varnaraðila til að skuldbinda félagið hafi einungis verið formlegs eðlis og til komnar vegna tíðra fjarvista forstjóra. Varnaraðili hafi því ekki haft raunverulegar heimildir til að taka ákvarðanir um daglegan rekstur félagsins. Þá hafi varnaraðili verið einn fimm framkvæmdastjóra stoðdeilda sem heyrðu undir forstjóra og aðstoðarforstjóra. Kjör þeirra hafi verið sambærileg og allir nema varnaraðili fengið kröfur sínar viðurkenndar sem forgangskröfur. Með því væri viðurkennt að framkvæmdastjórar stoðdeilda hafi ekki tekið ákvarðanir sem vörðuðu daglegan rekstur félagsins. III 1 Í 112. gr. laga nr. 21/1991 er kveðið á um forgangsrétt fyrir tilteknum kröfum við gjaldþrotaskipti að frágengnum kröfum samkvæmt 109. til 111. gr. laganna. Þar á meðal eru kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns sem hafa fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag og bætur vegna slita á vinnusamningi á sama tímabili eða eftir frestdag, sbr. 1. og 2. tölulið ákvæðisins. Hinu sama gegnir um kröfu um orlofsfé eða orlofslaun sem réttur hefur unnist til á fyrrgreindu tímabili, sbr. 3. tölulið ákvæðisins. Ákvæðið skipar vissum kröfum framar öðrum í réttindaröð og víkur frá grundvallarreglu laga nr. 21/1991 um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti. Samkvæmt 3. mgr. 112. gr. laganna njóta þeir sem eru nákomnir þrotamanni eða félagi eða stofnun sem er til gjaldþrotaskipta ekki réttar eftir 1. til 3. tölulið 1. mgr. fyrir kröfum sínum. Hefur löggjafinn ekki talið ástæðu til að víkja frá meginreglunni um jafnræði kröfuhafa þegar svo háttar til. Því geta einstaklingar sem eru í slíkri stöðu ekki haldið áfram daglegum rekstri félags eða stofnunar í trausti þess að launakröfur þeirra njóti forgangs umfram almennar kröfur við gjaldþrotaskipti. 2 Ákvæði sambærilegt 112. gr. laga nr. 21/1991 var áður að finna í 84. gr. laga nr. 3/1878 um skipti á dánarbúum og félagsbúum, eins og þeim var breytt með lögum nr. 32/1974. Þar var ekki að finna takmörkun á forgangsrétti krafna, en í athugasemdum með frumvarpi til laganna kom fram að á hinum Norðurlöndunum væri forgangur miðaður við að launakröfur manna ,,sem hafa stjórnað fyrirtækjum, er verða gjaldþrota“ væru ekki forgangskröfur. Hið sama gilti um ,,launakröfur þeirra, sem eru í nánum fjölskyldutengslum við stjórnendur fyrirtækjanna eða eru sjálfir eigendur.“ Ekki hefðu verið ákvæði af þessu tagi í íslenskum rétti og ekki lagt til að þau yrðu tekin upp. Við setningu laga nr. 21/1991 var lagt til að í 3. mgr. 112. gr. væri tekin upp regla að danskri fyrirmynd til að ,,fyrirbyggja að forráðamenn gjaldþrota félaga og menn nákomnir þrotamanni geti notið forgangsréttar fyrir kröfum sínum um vinnulaun, laun í uppsagnarfresti og orlofsfé.“ Í greinargerð með frumvarpi til laganna kom fram að sambærilegrar takmörkunar gætti ekki í þágildandi 84. gr. laga nr. 3/1878 og hefði það ,,stundum leitt til mjög óeðlilegra niðurstaðna í framkvæmd.“ Forgangsréttur krafna samkvæmt 1., 2., og 3. tölulið 1. mgr. 112. gr. var takmarkaður við þá sem ekki töldust nákomnir þrotamanni eða höfðu átt sæti í stjórn félags eða haft með höndum framkvæmdastjórn. Ákvæði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 var breytt með lögum nr. 95/2010. Með þeim var rýmkuð skilgreining hugtaksins nákomnir í 3. gr. laganna þannig að hún tók jafnframt til stjórnarmanna og þeirra sem stýrðu daglegum rekstri. Var þar af leiðandi talið óþarft að hafa fyrrgreinda upptalningu í 3. mgr. 112. gr. laganna en í staðinn lagt til að nákomnir nytu ekki forgangsréttar fyrir kröfum sínum. Eftir fyrrgreinda breytingu þarf því að meta hvort einstaklingur hefur stýrt daglegum rekstri félags eða stofnunar sem tekin er til gjaldþrotaskipta og fellur þar með undir nákomna í skilningi 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991. 3 Í dómaframkvæmd Hæstaréttar um 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, eins og ákvæðið var orðað fram til gildistöku laga nr. 95/2010, var litið til ýmissa þátta við mat þess hvort einstaklingur hefði haft með höndum framkvæmdastjórn félags, svo sem möguleika til áhrifa innan þess, stjórnunarheimilda, verksviðs og launakjara. Matið miðaði að því að leiða í ljós hvort viðkomandi færi með raunverulega yfirmannsstöðu, sbr. dóma Hæstaréttar 13. ágúst 2010 í máli nr. 440/2010 og 15. apríl 2011 í máli nr. 177/2011. Ekki væri eingöngu átt við þann sem að forminu til væri titlaður framkvæmdastjóri í samræmi við 68. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 og tilkynntur sem slíkur til hlutafélagaskrár, sbr. dóm Hæstaréttar 21. mars 2011 í máli nr. 114/2011. Þar var talið að ákvæði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 bæri ekki að skýra á þann veg að hlutverk viðkomandi þyrfti að verulegu leyti að samræmast heimildum, skyldum og ábyrgð framkvæmdastjóra í skilningi hlutafélagalaga. Í dómi Hæstaréttar 1. febrúar 2011 í máli nr. 709/2010 var ekki fallist á forgangsrétt launakröfu framkvæmdastjóra fjármálasviðs og til þess litið að starfsmaðurinn hefði haft upplýsingar um rekstrarafkomu félags og setið í framkvæmdastjórn. Þóttu launakjör hans styðja þá niðurstöðu. 4 Sóknaraðili hafnaði forgangsrétti kröfu varnaraðila við gjaldþrotaskipti sóknaraðila á þeim grundvelli að hann væri nákominn í skilningi 4. töluliðar 3. gr., sbr. 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt framansögðu verður að leysa úr því hvort varnaraðili hafi stýrt daglegum rekstri WOW air hf. Samkvæmt samþykktum WOW air hf. var tilgangur þess flugrekstur og annar tengdur rekstur, ferðaþjónusta, lánastarfsemi tengd rekstrinum og annar skyldur rekstur. Árið 2018 var velta félagsins 620 milljónir bandaríkjadala og var það með um 1.200 starfsmenn. Tvö meginsvið voru í félaginu, flugrekstrarsvið og þjónustusvið auk fimm stoðsviða, þar á meðal fjármálasvið undir stjórn varnaraðila. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. samþykkta félagsins gat stjórn ráðið framkvæmdastjóra og ákveðið starfskjör hans. Nýtti stjórnin sér þá heimild og réð eiganda félagsins til starfa sem forstjóra. Var hann einn skráður sem framkvæmdastjóri í hlutafélagaskrá. Í 2. mgr. 18. gr. samþykktanna sagði að framkvæmdastjóri hefði með höndum stjórn á daglegum rekstri og kæmi fram fyrir hönd félagsins í öllum málum, sæi um reikningshald og ráðningu starfsliðs. Ekki var gefin út lýsing fyrir starf forstjóra þótt gert væri ráð fyrir því í 6. gr. starfsreglna stjórnar 2. nóvember 2017. Varnaraðili var ráðinn til starfa sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs/fjármálastjóri með ráðningarsamningi 21. júlí 2015 með gagnkvæmum sex mánaða uppsagnarfresti og hóf störf 14. ágúst sama ár. Voru laun hans við úrskurð um gjaldþrotaskipti 2.400.000 krónur á mánuði auk 100.000 króna bifreiðastyrks og farmiðahlunninda. Í ráðningarsamningnum kom fram að gefin yrði út starfslýsing auk þess sem stöðunni fylgdi sæti í framkvæmdastjórn. Óumdeilt er að starfslýsing var aldrei gefin út og þá voru engar skráðar reglur um samsetningu og hlutverk framkvæmdastjórnar félagsins. Af skjölum málsins og framburði varnaraðila fyrir héraðsdómi má ráða að framkvæmdastjórn hafi ekki farið með formlegt ákvörðunarvald innan félagsins heldur fyrst og fremst verið til ráðgjafar fyrir stjórn þess og forstjóra. Samkvæmt skipuriti félagsins fór varnaraðili með forstöðu fjármálasviðs, sem var eitt fimm stoðsviða félagsins. Undir það féll sjóðsstýring, innkaupadeild, bókhaldsdeild, hagdeild og lögfræðideild. Staða hans heyrði undir forstjóra félagsins og aðstoðarforstjóra á þeim tíma sem hann starfaði í félaginu. Fyrir héraðsdómi bar varnaraðili að 22 starfsmenn hefðu starfað á fjármálasviði. Á fyrri hluta starfstíma hans hefði forstjóri samþykkt allar mannaráðningar. Þegar félagið var komið í hefðbundnara áætlanakerfi hefði varnaraðili haft tiltekinn ramma sem hann gat unnið eftir og gengið frá ráðningum þótt hann hefði alltaf þurft að upplýsa um allar breytingar. Starf hans hefði einkum falist í að stýra mánaðarlegu uppgjöri og bókun reikninga sem hefðu verið um þrjú til fjögur þúsund í hverjum mánuði. Hann hefði séð til að stofnuð væri hagdeild til að sjá um uppbyggingu á innra skipulagi félagsins, gert áætlanir, komið á kostnaðaraðhaldi og unnið að hagræðingu, einkum í innkaupum. Allar veigameiri ákvarðanir um útgjöld og tekjur hefðu þó ekki verið í höndum hans, heldur flugrekstrarsviðs og þjónustusviðs. Með bréfi 1. september 2015 til ríkisskattstjóra var tilkynnt um prókúru varnaraðila fyrir félagið, sbr. 25. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, en á þeim tíma voru prókúruhafar félagsins tveir, varnaraðili og forstjóri. Aðstoðarforstjóri fór einnig með prókúruumboð frá ágúst 2017 til ársbyrjunar 2019 þegar hann starfaði hjá félaginu. Í ódagsettum reglum stjórnar félagsins, ,,Agreement Approval Policy WOW air ehf.“, var jafnframt fjallað um heimildir starfsmanna til að skuldbinda það. Samkvæmt þeim hafði forstjóri félagsins einn svokallaða A-heimild til að skuldbinda það. Varnaraðili naut B-heimildar samkvæmt sömu reglum og gat gert skuldbindandi samninga fyrir allt að 500.000 bandaríkjadali án aðkomu forstjóra eða annarra starfsmanna. Féllu þar undir viðskiptasamningar, lántökur, samningar um ábyrgðir og aðrir samningar. Sömu heimild hafði einungis aðstoðarforstjóri félagsins. Auk þess veittu reglurnar varnaraðila heimild til að skuldbinda félagið ásamt aðstoðarforstjóra fyrir allt að 1.000.000 bandaríkjadala. Meðal gagna málsins eru skjöl undirrituð af varnaraðila í skjóli umboðs hans, en aðila greinir á um hvort hann hafi haft raunverulega heimild til að taka sjálfstæðar ákvarðanir fyrir hönd félagsins. Hefur varnaraðili haldið því fram að hann hafi einungis nýtt heimildina að undangengnu samþykki forstjóra en ástæða þess að honum var veitt umboð til að skuldbinda félagið hafi einkum verið tíð fjarvera forstjórans. Þótt varnaraðili hafi haft samráð við forstjóra félagsins um einstakar ákvarðanir og jafnvel þótt honum hafi verið falin samningsgerð á grundvelli ákvarðana annarra innan þess verður ekki fram hjá því litið að varnaraðili fór með ríkar heimildir til að skuldbinda félagið sem voru án annarra takmarkana en þeirra sem leiddu af lögum nr. 42/1903 og reglum stjórnar, en félagið hafði á þeim tíma með höndum umfangsmikinn alþjóðlegan rekstur. Hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu varnaraðila að heimild hans til að skuldbinda félagið hafi í öllum tilvikum verið háð samþykki forstjóra félagsins. Þvert á móti var varnaraðili í stöðu til að hafa áhrif á stefnumótun félagsins og hafði raunverulegt vald til mikilsverðra ákvarðana á grundvelli fyrrgreindra heimilda. Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðili hafi sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs setið fundi stjórnar og veitt henni upplýsingar um fjárhagslega stöðu félagsins. Í skýrslu formanns stjórnar hjá skiptastjóra kom fram að stjórnarformaður hafi haft aukna viðveru tímabundið í janúar 2019, eftir að aðstoðarforstjóri hafi hætt hjá félaginu, til að ,,aðstoða við að halda öllu á floti og til að ... tryggja tengslin á milli félagsins og stjórnar eftir brotthvarf hennar“ en aðstoðarforstjórinn hefði verið mikilvægur tengiliður á milli félagsins og stjórnarinnar ,,ásamt Stefáni og oft Bjarka líka.“ Stjórnin hefði verið í góðum tengslum við ,,lykilstjórnendur félagsins, s.s. aðstoðarforstjóra, fjármálastjóra og yfirlögfræðing, en þessir starfsmenn undirbjuggu og sátu flesta stjórnarfundi.“ Jafnframt hefðu fjármálastjóri og aðstoðarforstjóri verið með sjóðsstreymisskjal sem stjórnin hefði farið vel yfir. Viðbót við ráðningarsamning varnaraðila var gerð 1. október 2018 þar sem uppsagnarfrestur var lengdur í 12 mánuði og tekið fram að laun sem unnið væri til hjá öðrum vinnuveitanda kæmu ekki til frádráttar uppgjöri launa á uppsagnarfresti. Fyrir héraðsdómi kom fram að um hefði verið að ræða hóp starfsmanna sem hefði verið í ströngum viðræðum við hugsanlegan kaupanda félagsins. Hugsunin hefði verið sú að tryggja þyrfti gagnvart nýjum eiganda að stjórnendateymið myndi ekki allt hverfa frá við sölu félagsins. Af öllu framansögðu verður ráðið að varnaraðili hafi talist til lykilstjórnenda félagsins og hafi sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs haft yfirsýn yfir fjármál þess á hverjum tíma. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið, meðal annars í ljósi stöðu varnaraðila í skipuriti félagsins, stærðar þess og eðlis rekstrarins, heimilda varnaraðila til að skuldbinda það, yfirsýnar hans yfir fjárhagsstöðuna auk stjórnunarheimilda yfir starfsfólki er fallist á með sóknaraðila að varnaraðili hafi stýrt daglegum rekstri félagsins og teljist nákominn í skilningi 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 112. gr. laganna. Breytir engu um þá niðurstöðu þótt eigandi félagsins og á tímabili aðstoðarforstjóri hafi jafnframt stýrt daglegum rekstri þess eða hvort launakröfur framkvæmdastjóra annarra stoðsviða hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur við gjaldþrotaskiptin. Samkvæmt öllu framangreindu verður ekki fallist á að krafa varnaraðila njóti forgangsréttar við skipti á sóknaraðila. Rétt er að hvor aðili beri sinn málskostnað vegna reksturs málsins á öllum dómstigum. Dómsorð: Kröfu varnaraðila, Stefáns Eysteins Sigurðssonar, um viðurkenningu á að krafa hans að fjárhæð 14.345.323 krónur njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti á sóknaraðila, þrotabúi WOW air hf., er hafnað. Málskostnaður í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti fellur niður.       Úrskurður Landsréttar 7. október 2020. Landsréttardómararnir Jón Höskuldsson, Kristbjörg Stephensen og Ragnheiður Harðardóttir kveða upp úrskurð í máli þessu. Málsmeðferð og dómkröfur aðila Sóknaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 2. júlí 2020. Greinargerð varnaraðila barst réttinum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2020 í málinu nr. X-4676/2019 þar sem krafa, er varnaraðili lýsti við gjaldþrotaskipti sóknaraðila að fjárhæð 14.345.323 krónur, var viðurkennd með stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfur hans fyrir héraðsdómi verði teknar til greina, sem eru þær að kröfum varnaraðila verði hafnað og að staðfest verði sú ákvörðun sóknaraðila að synja því að krafa varnaraðila njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við gjaldþrotaskipti sóknaraðila. Til vara krefst sóknaraðili þess að kröfur varnaraðila verði lækkaðar verulega. Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði auk kærumálskostnaðar. Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti til Landsréttar 3. júlí 2020. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur að undanskyldri ákvörðun um málskostnað. Varnaraðili krefst málskostnaðar í héraði auk kærumálskostnaðar. Niðurstaða 4. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða að varnaraðili, þrátt fyrir að hafa gegnt starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs WOW air hf. og átt sæti í framkvæmdastjórn félagsins, falli ekki undir hugtakið nákomnir í skilningi 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi hann ekki stýrt daglegum rekstri félagsins og þannig haft raunverulegar valdheimildir til að hafa áhrif á ákvarðanir sem teknar voru innan félagsins. Eins og fram kemur í úrskurði Landsréttar 27. febrúar 2019 í máli númer 78/2019 getur ekki ráðið úrslitum við mat á því hvort varnaraðili í máli þessu teljist nákominn í skilningi fyrrnefnds ákvæðis, sbr. 3. gr. laga nr. 21/1991, hvort varnaraðili hafi borið starfsheitið framkvæmdastjóri eða fjármálastjóri og hafi setið í framkvæmdastjórn félagsins heldur beri að líta til þess hvaða stjórnunarheimildir varnaraðili hafði og hvort hann hafi haft vald til að hafa áhrif á ákvarðanir sem teknar voru innan félagsins og skuldbundu það. Verður hinn kærði úrskurður staðfestur um annað en málskostnað. 5. Málskostnaður milli aðila var felldur niður með hinum kærða úrskurði með skírskotun til þess að fjárhæð kröfu varnaraðila hafi í upphafi verið tvöfalt hærri en verið lækkuð verulega við munnlegan flutning málsins. 6. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að varnaraðili hafi við upphaf málflutnings lækkað upphaflega kröfu sína þar sem hann hafi fallið frá kröfu um bifreiðastyrk og laun á uppsagnarfresti frá ágúst 2019 til mars 2020, auk orlofs á laun fyrir sama tímabil. Eftir þessa breytingu fékk varnaraðili kröfu sína viðurkennda með hinum kærða úrskurði að fráteknum greiðslum frá Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir þrjá mánuði, samtals 1.248.981 krónu. Samkvæmt þessu verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og greinir í úrskurðarorði. Úrskurðarorð:         Hinn kærði úrskurður er staðfestur.         Sóknaraðili, þrotabú WOW air hf., greiði varnaraðila, Stefáni Eysteini Sigurðssyni, samtals 1.000.000 króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.     Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2020   Mál þetta sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur með bréfi mótteknu 16. september 2019 var tekið til úrskurðar þann 25. maí sl. Sóknaraðili er Stefán Eysteinn Sigurðsson, Laugarásvegi 47, Reykjavík, og varnaraðili þb. Wow air hf., Grjótagötu 7, Reykjavík.   Sóknaraðili krefst þess að krafa hans á hendur varnaraðila að fjárhæð 15.594.304 krónur, auk dráttarvaxta, frá 1. apríl 2019 af 2.400.000 krónum til 1. maí 2019 og frá þeim degi af 4.800.000 krónum til 1. júní 2019 og frá þeim degi af 7.200.000 krónum til 1. júlí 2019 og frá þeim degi af 15.594.304 krónum til greiðsludags auk málskostnaðar, verði viðurkennd sem forgangskrafa við skiptin, sbr. 112. gr. laga nr. 21/1991.   Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði sú ákvörðun varnaraðila að synja því að krafa sóknaraðila njóti forgangs skv. 112. gr. laga 21/1991 um gjaldþrotaskipti við skipti á þrotabúi WOW air hf. Þá er þess krafist að kröfur sóknaraðila verði lækkaðar verulega. Varnaraðili krefst einnig málskostnaðar.   Við upphaf málflutnings var sérstaklega bókað að sóknaraðili félli frá kröfu sinni um bifreiðastyrk, laun í uppsagnarfresti frá ágúst 2019 til mars 2020 auk orlofs á laun í uppsagnarfresti fyrir það tímabil.    II Sóknaraðili hóf störf hjá Wow air hf. þann 14. ágúst 2015 samkvæmt ráðningarsamningi dagsettum 21. júlí 2015 sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs eða fjármálastjóri og átti sæti í framkvæmdastjórn félagsins. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur samkvæmt samningnum var sex mánuðir. Umsamin mánaðarlaun samkvæmt útgefnum launaseðlum voru 2.400.000 krónur á mánuði. Þann 1. október 2018 var gerður viðauki við ráðningarsamninginn þar sem uppsögn skyldi miðast við tólf mánuði í stað sex mánaða. Jafnframt var ákvæði um að sóknaraðili yrði ekki krafinn um vinnuframlag umfram tvo mánuði í uppsagnarfresti og laun sem hann ynni sér inn hjá öðrum en varnaraðila í uppsagnarfresti kæmu ekki til frádráttar.   Þann 28. mars 2019 var bú Wow air. hf. tekið til gjaldþrotaskipta. Fyrri innköllun var birt í Lögbirtingablaði 3. apríl 2019 og veittur fjögurra mánaða kröfulýsingarfrestur. Sóknaraðili sendi kröfulýsingu í þrotabúið sem var móttekin 17. apríl 2019 og fór fram á að þrotabúið viðurkenndi forgangskröfu hans um laun í marsmánuði, tólf mánaða laun í uppsagnarfresti, bifreiðastyrk, orlof og desemberuppbót, samtals að fjárhæð 39.901.424 krónur, með vísan til 112. gr. laga nr. 21/1991. Með bréfi 8. ágúst 2019 hafnaði skiptastjóri varnaraðila því að viðurkenna kröfu sóknaraðila sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 með vísan til þess að sóknaraðili væri framkvæmdastjóri fjármálasviðs WOW air hf. og því nyti krafa hans ekki forgangs, sbr. 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. sömu laga. Þá var því alfarið hafnað að taka mið af viðauka við ráðningarsamning WOW air hf. og sóknaraðila frá 1. október 2019 þar sem uppsagnarfrestur sóknaraðila var lengdur úr 6 mánuðum í 12 mánuði og að laun í uppsagnarfresti drægjust ekki frá við uppgjör launa í uppsagnarfresti.   Ekki tókst að jafna ágreining sem uppi var um afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar kröfu sóknaraðila á fundi sem haldinn var þann 9. september 2019 og var ágreiningi aðila því vísað til úrlausnar héraðsdóms í samræmi við 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991.   III Sóknaraðili vísar til þess að ábyrgð á daglegum rekstri Wow air var í höndum forstjóra og aðstoðarforstjóra sem tóku nær allar ákvarðanir um daglegan rekstur, hvort sem það voru útgjöld eða tekjur. Varnaraðili hafi verið með mjög stóran efnahag miðað við íslensk félög og hafi rekstrartekjur numið um 618 milljónum bandaríkjadala eða 77 milljörðum íslenskra króna.   Sóknaraðili vísar til sérstöðu flugrekstrar miðað við önnur félög. Allur rekstur flugfélaga gangi út á flugáætlun sem leggi grunninn að tekju- og kostnaðarhlið rekstursins. Slíkar ákvarðanir séu teknar í rekstrardeild og komi fjármálastjóri ekki beint að slíkum ákvörðunum. Það sé flókið verkefni að raða saman flugáætlun og leiðakerfi, ákveða áfangastaði og tryggja sem besta nýtingu á flugvélum og áhöfnum í samræmi við þá flugafgreiðslutíma (slot) sem viðkomandi félag hefur til umráða. Þessar áætlanir hafi verið unnar í sérstakri deild í nánu samstarfi við forstjóra félagsins og samþykktar af stjórn WOW, án þess að sóknaraðili kæmi að þeim ákvörðunum. Með því að samþykkja flugáætlun hafi um leið allur fastur kostnaður sem fólst í því að fljúga á viðkomandi flugvöll verið ákveðinn.   Sóknaraðili vísar jafnframt til þess að við gerð flugáætlana séu ákvarðanir teknar um hversu margar flugvélar séu nýttar. Sérstakur starfsmaður hafi séð um gerð leigu- og kaupsamninga um flugvélar, sem endanlega hafi verið samþykktar af stjórn félagsins, samkvæmt verklagsreglum þess. Þessum ákvörðunum hafi fylgt ýmis kostnaður, eins og viðhaldskostnaður, leigugreiðslur, tryggingar, greiðslur til áhafna o.fl. sem hafi ekkert haft með störf sóknaraðila að gera, enda hafi hann hvorki getað tekið ákvörðun um þennan kostnað né sett sig á móti honum.   Sóknaraðili vísar til þess að leiðakerfi og fjöldi flugvéla ráði nánast allri starfsemi flugfélags og bindi um 90% af öllum rekstrarkostnaði. Ákvarðanir um þessa þætti hafi verið teknar af rekstrardeild og stjórn WOW air hf. Hlutverk sóknaraðila hafi verið að vinna úr þessum ákvörðunum.   Sóknaraðili vísar til þess að starfsemi Wow air hf. hafi verið skipt upp í tvö svið, rekstrarsvið og þjónustusvið, sem hafi stjórnað kostnaði og tekjum í daglegum rekstri. Fimm stoðsvið hafi síðan verið til stuðnings þessum tveimur sviðum. Rekstrarsvið hafi borið ábyrgð á flugrekstri gagnvart Samgöngustofu. Þessi hluti starfseminnar sé undir ströngu eftirliti og starfi eftir umfangsmiklum reglum Evrópusambandsins og alþjóðlegum skilmálum. Þeir sem beri ábyrgð á flugrekstrinum þurfi að standast próf og hljóta samþykki Samgöngustofu áður en þeir hefji störf, svo sem flugrekstrarstjóri, tæknistjóri og yfirmaður þjálfunarmála. Fjármálastjóri verði að virða ákvarðanir flugrekstrarstjóra enda lúti þær að flugöryggi. Undir rekstrarsviðið heyri síðan viðhaldsdeild, þjálfunardeild og öryggisdeild. Loks sé ákveðinn eftirlitsaðili eða endurskoðunaraðili (e compliance) sem geri reglulega úttektir á öllum þáttum flugrekstrarins og skili skýrslum til Samgöngustofu. Ákvarðanir um viðhald, þjálfun flugmanna, viðbrögð við bilunum og annað séu teknar á flugrekstrarsviði. Hitt meginsviðið hafi verið þjónustusvið sem hafi stjórnað sölukerfi og tekjustýringu félagsins. Þessu sviði stýrði forstjóri og hafi sóknaraðili ekkert með þær ákvarðanir haft að gera.   Sóknaraðili hafi veitt forstöðu einni af fimm stoðdeildum félagsins, sem tók ekki ákvarðanir um daglegan rekstur heldur tryggði uppbyggingu innviða, innheimtu, samskipti við lánardrottna, greiningar á fjárhagslegum upplýsingum, samskipti við yfirvöld þar sem félagið var með starfsemi og veitti öðrum sviðum aðhald þegar kom að kostnaði og hvernig mætti ná sem mestri hagræðingu úr þeim ákvörðunum sem teknar höfðu verið. Langstærsti hlutinn hafi snúist um bókhald, greiðslu á reikningum, mánaðarleg uppgjör og gerð ársreikninga. Í skipuriti hafi hagdeild einnig fallið undir fjármálastjóra, en hún hafi séð um kostnaðargreiningar og áætlanagerð, lögfræðisvið sem annaðist yfirlestur samninga, innkaupasvið sem afgreiddi samþykktar innkaupabeiðnir og sjóðstýring sem sá um greiningar á inn- og útflæði og fylgdi eftir ákvörðunum sem forstjóri hafði samþykkt. Stór hluti daglegs rekstrar, eins og t.d. markaðsdeild, söludeild, tölvudeild, og mannauðssvið, hafi hvorki verið undir né á ábyrgð fjármálastjóra. Hlutverk fjármálastjóra hafi verið að tryggja að rekstrarupplýsingar bærust tímanlega, leita tilboða og ná fram hagræðingu varðandi kostnað, vinna alls kyns greiningar til að bæta nýtingu og veita öðrum deildum aðhald, en hann hafi hvorki tekið ákvarðanir varðandi kostnað né tekjuöflun. Heimild fjármálastjóra til að skuldbinda félagið hafi einungis verið 500.000 bandaríkjadalir, sem sé lág fjárhæð í samhengi við heildarrekstur félagsins.   Sóknaraðili vísar til þess að í dómi Landsréttar nr. 78/2019 sé reynt að skýra hvað sé átt við með orðalaginu að koma að daglegum rekstri í skilningi 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Þar komi fram að horfa eigi til þess hvaða stjórnunarheimildir menn hafi og hvort í því hafi falist raunverulegt vald til að hafa áhrif á mikilsverðar ákvarðanir sem skuldbundu félagið. 90% af rekstrarkostnaði hafi verið ákvarðanir sem teknar voru af rekstrarsviði og stjórn án aðkomu sóknaraðila. Þá hafi hann lotið boðvaldi aðstoðarforstjóra og forstjóra og ekki getað skuldbundið félagið nema að mjög takmörkuðu leyti. Þá komi prókúra ekkert við heimild til ákvörðunartöku í rekstri, eins og hér um ræði. Það fái ekki staðist að þetta orðalag geti tekið til allra sem hafi með einhverja daglega stjórnun að gera við að halda daglegum rekstri gangandi og þeir falli þar með undir hugtakið nákominn. Með orðalaginu „dagleg stjórnun“ sé átt við þann sem stýri rekstri félagsins og það að ákvarðanir hans geti haft áhrif á afkomu fyrirtækis og hans eigin afkomu. Sóknaraðili stjórnaði ekki daglegum rekstri og bar ekki meiri ábyrgð á honum en aðrir yfirmenn. Því veki það furðu að hann einn sé tekinn út af öllum yfirmönnum og gerður ábyrgur fyrir rekstri félagsins. Það sé varnaraðila að sýna fram á að hlutverk sóknaraðila hafi verið annað og meira en annarra yfirmanna og að 3.mgr. 112. gr. eigi frekar við um hann en aðra millistjórnendur.   IV Varnaraðili byggir á því að hafna beri því að viðurkenna kröfu sóknaraðila sem forgangskröfu þar sem sóknaraðili hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs WOW air hf. og jafnframt setið í framkvæmdastjórn félagsins. Sóknaraðili hafi því verið nákominn WOW air hf. í skilningi 3. mgr. 112. gr. gþl., sbr. 3. gr. sömu laga, einkum 5. tölulið, og því beri að hafna kröfu hans.   Varnaraðili bendir á að skv. ráðningarsamningi hafi sóknaraðili verið ráðinn sem „Framkvæmdastjóri fjármálasviðs/Fjármálastjóri (CFO)“ og heyrt beint undir forstjóra. Sóknaraðili hafi sem einn af æðstu stjórnendum sinnt daglegum rekstri félagsins, fjármálum þess, áætlanagerð o.fl. og haft sem slíkur bestu yfirsýn yfir fjárhagsstöðu félagsins og jafnframt tekið ákvarðanir um fjárhagsmálefni. Þá hafi hann haft prókúruumboð og því heimild til að skuldbinda félagið og rita firma þess, sbr. 25. gr. laga um verslanaskrá, firmu og prókúruumboð nr. 42/1903, sem og sóknaraðili gerði. Starf hans hafi falist í að stýra fjármálum WOW air hf. og daglegum rekstri félagsins. Samkvæmt 3. mgr. 112. gr. gþl. njóti þeir sem nákomnir eru félagi sem er til gjaldþrotaskipta ekki réttar skv. 1.–3. tl. 1. mgr. 112. gr. fyrir kröfum sínum. Af þeim sökum beri að hafna forgangskröfu sóknaraðila.   Varnaraðili mótmælir því sem fram kemur í greinargerð sóknaraðila, að daglegur rekstur WOW air hf. hafi verið í höndum aðstoðarforstjóra fram í janúar 2019 og frá þeim tíma í höndum forstjóra félagsins. Í samþykktum WOW air hf., sbr. 18. gr.,. komi fram að stjórn félagsins ráði framkvæmdastjóra og ákveði starfskjör hans. Framkvæmdastjóri hafi með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins og komi fram fyrir þess hönd Það sé því ljóst að fullyrðing sóknaraðila um að forstjóri félagsins hafi séð um allan daglegan rekstur félagsins sé í ósamræmi við það sem fram komi í samþykktum félagsins. Samkvæmt skipuriti hafi ekki einn aðili verið framkvæmdastjóri félagsins, heldur verið til staðar framkvæmdastjórn, sem allir framkvæmdastjórar félagsins áttu sæti í, þ.á.m. sóknaraðili.   Samkvæmt samþykktum félagsins hafi staða fjármálastjóra falið í sér að sóknaraðili hafði með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins á fjármálasviði og kom fram fyrir þess hönd í öllum málum sem vörðuðu daglegan rekstur þess sviðs. Sóknaraðili hafi jafnframt haft ákvörðunarvald um allt það sem viðkom daglegum rekstri félagsins og varðaði fjármál þess. Sóknaraðili hafi skuldbundið félagið með ákvörðunum sínum og m.a. haft ákvörðunarvald um greiðslu reikninga á hendur félaginu, staðið að gerð fjármálaáætlana og gerð ársreikninga félagsins og fleira.   Samkvæmt 3. mgr. 112. gr. gþl. njóti þeir sem hafa með höndum framkvæmdastjórn félags ekki forgangsréttar fyrir kröfum um laun og annað endurgjald. Tilgangur ákvæðisins sé að fyrirbyggja að forráðamenn gjaldþrota félaga sem hafa farið með ákvörðunarvald um málefni félagsins, og þá aðallega ákvörðunarvald um fjárhagsleg málefni, njóti forgangsréttar fyrir kröfum sínum. Byggir varnaraðili á því að sóknaraðili falli ótvírætt undir þá skilgreiningu enda komi fram í ráðningarsamningi að hann hafi verið ráðinn sem framkvæmdastjóri og farið með daglegan rekstur félagsins á fjármálasviði þess.   Varnaraðili telur að gögn málsins sýni fram á að sóknaraðili hafi sem fjármálastjóri félagsins haft með höndum daglegan rekstur félagsins á fjármálasviði og af þeim sökum geti launakrafa hans ekki talist til forgangskrafna við skipti á þrotabúinu, sbr. 3. mgr. 112. gr. gþl. Telur varnaraðili að þær fullyrðingar sem fram koma í greinargerð sóknaraðila þess efnis að daglegur rekstur hafi verið í höndum annarra aðila geti engu breytt þar um, enda séu fullyrðingarnar ósannaðar og í ósamræmi við gögn málsins, þ.á.m. samþykktir WOW air hf. og ráðningarsamning sóknaraðila, auk tilheyrandi ákvæða hlutafélagalaga. Þá telur varnaraðili að þó sóknaraðili hafi ekki haft með höndum allan daglegan rekstur WOW air hf. hafi hann haft með höndum daglegan rekstur sem hafi varðað fjárhagsleg málefni fyrirtækisins, þ.á.m. greiðslu reikninga, gerð mánaðarlegra uppgjöra og ársreikninga, greiningu á inn- og útflæði sjóðsstýringar, afgreiðslu á samþykktum innkaupabeiðnum, bókhaldsmál, kostnaðaraðhald, kostnaðargreiningu o.fl. Daglegur rekstur hafi því sannarlega verið í höndum sóknaraðila í skilningi gjaldþrotalaga.   Þá telur varnaraðili að ekki sé hægt að leggja stöðugildi varnaraðila, sem framkvæmdastjóra fjármálasviðs, að jöfnu við t.d. stöðu framkvæmdastjóra leiðakerfis eða framkvæmdastjóra samskiptasviðs, eins og sóknaraðili byggi á í greinargerð sinni, enda leiði það af eðli máls að hlutverk framkvæmdastjóra fjármálasviðs með prókúruumboð og umboð til ritunar firma feli í sér víðtækar heimildir til að skuldbinda félagið og jafnframt hafi framkvæmdastjóri slíks sviðs að sjálfsögðu víðtækari upplýsingar um fjárhagsleg málefni félags. Telur varnaraðili því rétt að fullyrða að ákvarðanir aðila í slíkri stöðu séu líklegri til að eiga þátt í gjaldþroti félags en ákvarðanir framkvæmdastjóra annarra sviða.   Varnaraðili byggir á því að vegna stöðu sinnar hafi sóknaraðili haft upplýsingar um bága fjárhagsstöðu WOW air hf. í langan tíma fyrir gjaldþrot félagsins og að honum hafi m.a. átt að vera kunnugt um að félagið stefndi í gjaldþrot. Þá ákvörðun hans að fyrirskipa gjaldkera félagsins að greiða Títan fjárfestingarfélagi, félagi í eigu forstjóra félagsins, yfir 100 milljónir þann 6. febrúar 2019, löngu fyrir gjalddaga þeirrar kröfu, verði að telja ámælisverða, en hún staðfesti m.a. stöðu sóknaraðila hjá félaginu.   Fari svo að krafa sóknaraðila eigi að njóta forgangs skv. 112. gr. gþl. byggir varnaraðili á því að ekki skuli taka mið af viðauka við ráðningarsamning frá 20. desember 2018., þar sem uppsagnarfrestur var lengdur úr sex mánuðum í tólf og kveðið á um að laun í uppsagnarfresti drægjust ekki frá við uppgjör launa á þeim tíma. Viðaukinn hafi verið gerður einungis þremur mánuðum áður en WOW air hf. var úrskurðað gjaldþrota og ljóst hvert stefndi. Sóknaraðila sem framkvæmdastjóra fjármálasviðs/fjármálastjóra mátti vera það ljóst að um óforsvaranlegan örlætisgerning væri að ræða, sem hefði engan veginn haldið gagnvart riftunarreglum gjaldþrotaréttarins hefði komið til greiðslna samkvæmt honum. Slíkur uppsagnarfrestur sé auk þess úr öllum takti við það sem tíðkist á almennum vinnumarkaði. Varnaraðili vísar jafnframt il 96. gr. gþl. og Hrd. nr. 671/2012. Þá byggir varnaraðili á því að krafa sóknaraðila vegna uppsafnaðs orlofs sé vanreifuð, enda hvorki í kröfulýsingu né í greinargerð sóknaraðila útskýrt hvernig hún sé fundin. Þá byggir varnaraðili á því að lækka beri kröfur sóknaraðila sem nemi tekjum hans hjá öðrum í uppsagnarfresti. Skorað er á sóknaraðila að leggja fram í málinu staðgreiðsluyfirlit er staðfesti tekjur hans hjá öðrum í uppsagnarfresti og mótmæli varnaraðili fjárhæð kröfu sóknaraðila, m.a. um orlof, orlofsuppbót, desemberuppbót, bifreiðastyrk o.fl.   IV Samkvæmt 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 skulu þeir sem nákomnir eru félagi sem er tekið til gjaldþrotaskipta ekki njóta forgangsréttar skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. fyrir kröfum sínum. Þessu ákvæði var breytt með lögum nr. 95/2010 í tengslum við breytingu á hugtakinu nákomnir í 3. gr. frumvarpsins. Hugtakið nákomnir er skilgreint í 3. gr. laganna en þar segir að átt sé við mann og félag sem hann eða maður honum nákominn á verulegan hlut í eða þar sem hann eða maður honum nákominn situr í stjórn eða stýrir daglegum rekstri.   Samkvæmt 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, eins og hún hljóðaði fyrir breytingu laga nr. 95/2010, gat sá sem hafði með höndum framkvæmdastjórn félags sem var til gjaldþrotaskipta ekki notið forgangsréttar fyrir kröfum sínum, sem ella hefði verið skipað í réttindaröð samkvæmt 1., 2. eða 3. tölulið 1. mgr. fyrrnefndu lagagreinarinnar. Í 3. mgr. 112. gr. laganna var ekki rætt um starfsheiti þeirra sem ákvæðið tók til, heldur tók það samkvæmt orðanna hljóðan til þeirra sem fóru með framkvæmdastjórn félags eða stofnunar.   Í greinargerð með lögum nr. 95/2010 er vísað til þess að við stjórn félaga eða annarra lögaðila hafi þeir helst áhrif sem sitja í stjórn eða stýra daglegum rekstri. Yfirleitt séu stjórnendur lögaðila í þeirri aðstöðu í krafti eignaraðildar og teljist því nákomnir í skilningi 3. gr. laganna. Það sé þó ekki sjálfgefið að sá sem situr í stjórn eða stýrir daglegum rekstri sé eigandi og því þyki rétt að rýmka hugtakið nákomnir þannig að það taki einnig til stjórnenda. Hvorki nákomnir né þeir sem átt hafa sæti í stjórn eða hafa haft með höndum framkvæmdastjórn félags njóta forgangsréttar í þrotabú fyrir launum en með því að rýma hugtakið nákomnir taki það jafnframt til stjórnarmanna og þeirra sem stýra daglegum rekstri.   Af framangreindu verður ráðið að þegar horft er til þess hver sé nákominn í skilningi ákvæðisins sé ekki eingöngu átt við þann sem er titlaður framkvæmdastjóri í samræmi við 68. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 heldur geti það einnig tekið til forráðamanns félags sem hefur raunverulega yfirmannsstöðu sem felur í sér stjórn á daglegum rekstri félagsins.   Við mat á því hvort sóknaraðili teljist nákominn í skilningi 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. gr. laganna, ræður ekki úrslitum að hann hafi borið titilinn fjármálastjóri og setið í framkvæmdastjórn félagsins, heldur ber að horfa til þess, meðal annars, hvaða stjórnunarheimildir hann hafði og hvort í stöðu hans hafi falist raunverulegt vald til að hafa áhrif á mikilsverðar ákvarðanir sem teknar voru innan félagsins og gátu skuldbundið það. Með mikilsverðum ákvörðunum verður að miða við að átt sé við ákvarðanir sem hafi afgerandi áhrif í rekstri félagsins.   Sóknaraðili í þessu máli var fjármálastjóri félagsins. Samkvæmt skipuriti felur verkefni fjármálastjóra í sér yfirstjórn á fjármálasviði fyrirtækisins þar sem fjármálastjóri ber ábyrgð á uppgjöri bókhalds, gerð fjárhagsáætlana, fjármögnun, lögfræðisviði, innkaupum og samræmingu fjármála hjá erlendum starfsstöðvum. Fjármálastjóri sækir umboð sitt til forstjóra, a.m.k. eftir að sérstakur aðstoðarforstjóri hætti störfum, og fylgir því skipulagi sem stjórn félagsins hefur samþykkt. Starfið felur ekki í sér að taka ákvarðanir heldur að sjá til þess að fyrir hendi séu verkferlar innan félagsins til að framfylgja þeim ákvörðunum sem hafa verið teknar þannig að þær skili sér m.a. inn í bókhald og rekstraruppgjör félagsins.   Sóknaraðili er endurskoðandi að mennt, sem er dæmigerð menntun fyrir fjármálastjóra, a.m.k. í stærri fyrirtækjum. Sem fjármálastjóri var hann mikilvægur ráðgjafi fyrir stjórnendur félagsins þar sem hann hafði yfirsýn yfir ýmsar rekstrarforsendur, eins og viðskiptakjör, fjármagnskostnað, lausafjárstýringu o.fl. Starfið var dæmigert ráðgjafarstarf þar sem fjármálastjórinn var mikilvægur álitsgjafi varðandi þær afleiðingar sem einstakar ákvarðanir kynnu að hafa, t.d. við stýringu á lausafé félagsins o.fl. Hann tók hins vegar sem fjármálastjóri engar ákvarðanir um að ráðstafa fjármunum og gat hvorki komið í veg fyrir né borið ábyrgð á því hvaða ákvarðanir væru teknar sem skiptu sköpum um rekstur félagsins. Almennt verður að telja að fjármálastjórar falli ekki undir hugtakið nákomna í skilningi 3. mgr. 112. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991, nema eitthvað annað og meira komi til, sbr. t.d. Hrd. 440/2010, þar sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs var jafnframt aðstoðarforstjóri félagsins.   Samkvæmt skipuriti félagsins skiptist rekstur þess í tvö meginsvið sem voru annars vegar flugrekstrarsvið, (e Flight operations safety and efficiency) og viðskiptavið (e Commercioal customer expericence). Forstjóri félagsins og aðaleigandi þess var jafnframt framkvæmdastjóri fyrir viðskiptasvið félagsins. Fyrir þessi tvö svið voru síðan fimm stoðsvið og var fjármálasvið eitt þeirra og sóknaraðili framkvæmdastjóri þess. Varnaraðili hefur vísað til þess að samkvæmt 18. gr. samþykkta félagsins hafi verið starfandi sérstök framkvæmdastjórn skipuð framkvæmdastjórum félagsins. Þessu hefur ekki verið mótmælt af hálfu sóknaraðila, en hvorki liggja fyrir í gögnum málsins samþykktir né starfsreglur um hlutverk framkvæmdastjórnar og hversu oft hún kom saman. Verður ekki fallist á að slík framkvæmdastjórn í félagi, sem heyrði undir forstjóra og einnig aðstoðarforstjóra, stærsta hluta þess tíma sem sóknaraðili gegndi störfum í félaginu, hafi farið með daglegan rekstur félagsins í skilningi 3. mgr. 112 gr. laga nr. 21/1991. Þá verður ekki séð af skipuriti að framkvæmdastjórn félagsins hafi verið skipuð öðrum en forstjóra og aðstoðarforstjóra, þó hugsanlegt sé að einstakar ákvarðanir sem lutu að rekstri félagsins hafi verið teknar á vettvangi framkvæmdastjórnar. Sóknaraðili var einungis einn af sjö framkvæmdastjórum og gat því haft takmörkuð áhrif á rekstur félagsins á þeim vettvangi, a.m.k. sem verði jafnað til þess að hafa séð um daglegan rekstur og tekið mikilsverðar ákvarðanir sem höfðu afgerandi áhrif á afkomu félagsins. Verður því ekki talið að seta hans í framkvæmdastjórn hafi falið í sér raunverulegt vald til að hafa áhrif á mikilsverðar ákvarðanir sem teknar voru innan félagsins, sbr. einnig Lrd. 61/2019 og Lrd. 78/2019. Þá hefur sóknaraðili vísað til þess að aðrir framkvæmdastjórar í félaginu hafi fengið kröfur sínar viðurkenndar sem forgangskröfur og hefur þeirri fullyrðingu ekki verið mótmælt af hálfu varnaraðila.   Sóknaraðili hafði prókúru fyrir félagið, sem getur skipt máli við mat á því hvort hann teljist nákominn í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991, enda hluti af stjórnunarheimildum. Þetta atriði getur þó ekki eitt og sér ráðið úrslitum um það hvort sóknaraðili teljist nákominn heldur þarf að meta hvers vegna sóknaraðili hafði slíkt umboð og þá um leið hvort það var veitt vegna þátttöku sóknaraðila í daglegum rekstri félagsins eða til að veita honum svigrúm til þess að taka ákvarðanir um að skuldbinda félagið. Í málinu eru hvorki lögð fram gögn um það að umrætt prókúruumboð hafi komið til vegna þátttöku sóknaraðila í daglegum rekstri félagsins né að sóknaraðili hafi tekið mikilsverðar ákvarðanir á grundvelli þessa umboðs. Hvort tveggja verður auk þess að teljast fremur ólíklegt miðað við stöðu sóknaraðila og stjórnskipulag félagsins. Í rekstri félags af þessum toga, þar sem gera má ráð fyrir töluverðri fjarveru daglegra stjórnenda vegna starfsemi félagsins, hlýtur það að vera óhjákvæmilegt að fela einhverjum öðrum starfsmanni slíkt umboð, og þá hugsanlega fjármálastjóra sem ætti að þekkja til stærstu samninga félagins þó hann taki ekki ákvörðun um þá. Ganga má út frá því að slík tilhögun komi fyrst og fremst til vegna hagnýtra sjónarmiða en endurspegli ekki aukna þátttöku í daglegum rekstri eða aukin völd sóknaraðila til að taka mikilsverðar ákvarðanir, enda hafa engin gögn verið lögð fram um það.      Laun sóknaraðila voru 2.400.000 krónur á mánuði. Þó að slík laun séu vissulega há liggja engin gögn fyrir um það hvort fjármálastjóri hafi haft hærri laun en aðrir framkvæmdastjórar félagsins. Ekkert liggur fyrir um annað en að launin, þó há séu, endurspegli frekar laun millistjórnanda hjá stóru félagi en forstjóra eða stjórnanda í svipaðri stöðu.     Með vísan til framangreinds verður fallist á kröfu sóknaraðila í málinu að öðru leyti en því að frá kröfunni dragast greiðslur frá Atvinnuleysistryggingasjóði í apríl, maí og júní, 1.248.981 kr., út frá þeirri meginreglu vinnu- og skaðabótaréttar að greiðslur frá þriðja aðila dragist frá kröfu um laun í uppsagnarfresti, sbr. einnig 2. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.   Með vísan til þess að fjárhæðarkrafa sóknaraðila, sem í upphafi var rúmlega tvöfalt hærri, var lækkuð verulega við munnlegan málflutning þykir rétt að málskostnaður falli niður.    Af hálfu sóknaraðila flutti málið Guðmundur B. Ólafsson lögmaður. Af hálfu varnaraðila flutti málið Þorsteinn Einarsson,lögmaður.   Helgi Sigurðsson kveður upp úrskurð þennan. Málinu var úthlutað til dómara 28. febrúar sl.   Úrskurðarorð: Samþykkt er að krafa sóknaraðila að fjárhæð 14.345.323 krónur, auk dráttarvaxta frá 1. apríl 2019, af 1.983.673 krónum til 1. maí 2019 og frá þeim degi af 3.967.346 krónum til 1. júní 2019 og frá þeim degi af 5.951.019 krónum til 1. júlí 2019 og frá þeim degi af 14.345.323 krónum njóti forgangs við gjaldþrotaskiptin samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 1/2021
Kærumál Kæruheimild Frávísunarúrskurður Landsréttar staðfestur Nálgunarbann
Staðfestur var úrskurður Landsréttar um frávísun frá dómi þar sem kæran fullnægði ekki áskilnaði 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að þar sem úrskurður um nálgunarbann á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili fæli í sér endanlega ákvörðun um íþyngjandi ráðstöfun gagnvart einstaklingi en væri ekki þáttur í rannsókn sakamáls væri hann kæranlegur til Hæstaréttar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. janúar 2021, sem barst réttinum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 5. janúar 2021, þar sem kæru varnaraðila var vísað frá dómi. Um kæruheimild vísar varnaraðili til 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, sbr. 40. gr. laga nr. 76/2019 og 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt á þann veg að lagt verði fyrir Landsrétt að kveða upp efnislegan úrskurð í málinu. Þá krefst hann þóknunar til handa verjanda sínum.           Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011, eins og henni var breytt með lögum nr. 76/2019, má kæra til Landsréttar úrskurð dómara um hvort lagt verði á nálgunarbann, svo og úrskurð sem gengur í máli um slíka kröfu, ef hann getur sætt kæru eftir almennum reglum 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. Aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 211. gr. laganna verða ekki kærðir til Hæstaréttar. Samkvæmt a-lið þeirrar málsgreinar er unnt að kæra frávísun máls frá Landsrétti til Hæstaréttar. Þessa kæruheimild verður að skýra með þeim hætti að hún taki almennt aðeins til endanlegra úrskurða um frávísun mála sem höfðuð hafa verið með ákæru en ekki til úrskurða Landsréttar um frávísun kæru vegna rannsóknarúrskurða eða úrskurða um réttarfarsatriði. Þar sem úrskurður um nálgunarbann á grundvelli laga nr. 85/2011 felur í sér endanlega ákvörðun um íþyngjandi ráðstöfun gagnvart einstaklingi en er ekki þáttur í rannsókn sakamáls er úrskurður Landsréttar um frávísun í slíku máli kæranlegur til Hæstaréttar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008. Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði lýsti verjandi varnaraðila því yfir í tölvupósti 31. desember 2020 til héraðsdómara, eftir að hann hafði móttekið úrskurð um nálgunarbann, að úrskurðurinn yrði kærður til Landsréttar. Í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um hvað greina skuli í skriflegri kæru til Landsréttar ef kæru á úrskurði er ekki lýst yfir í þinghaldi. Þar segir að greint skuli frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæra sé reist á. Í umræddri yfirlýsingu verjandans er ekki með beinum hætti lýst yfir að úrskurðurinn sé kærður og í engu vikið að því hvaða kröfur séu gerðar um breytingu á honum eða ástæðum kæru. Umrædd yfirlýsing fullnægði þannig ekki þeim kröfum sem gerðar eru til kæru til Landsréttar þegar kæru á úrskurði er ekki lýst yfir í þinghaldi. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 38. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.     Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Þóknun verjanda varnaraðila, Sigurðar Jónssonar lögmanns, fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 37/2020
Kærumál Forkaupsréttur Fasteign Aðild Ómerking dóms Landsréttar
V krafðist þess að viðurkenndur yrði forkaupsréttur hans að helmingi jarðarinnar R og að dánarbúi J yrði gert skylt að selja og afsala til hans eignarhlutnum. V byggði á því að forkaupsréttur hans hefði orðið virkur við sölu á eignarhlutnum með kaupsamningi J og JJ ehf. Fyrir lá að J og JJ ehf. féllu frá samningnum eftir að V hafði beint yfirlýsingu um forkaupsrétt að J og í kjölfarið hefði J ráðstafað eignarhlutnum til Á o.fl. með yfirlýsingu um fyrirframgreiddan arf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að við þessar aðstæður hefði JJ ehf. enga hagsmuni af úrslitum málsins og væri því ekki nauðsyn á aðild þess svo V gæti fengið úrlausn dómstóla um kröfur sínar. Var hinn kærði dómur felldur úr gildi og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. nóvember 2020, en kærumálsgögn bárust réttinum 20. sama mánaðar. Kærður er dómur Landsréttar 30. október 2020, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá Landsrétti. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðilar krefjast þess að „kæru sóknaraðila verði vísað frá ... Hæstarétti Íslands og dómur í Landsréttarmálinu nr. 444/2019 verði staðfestur.“ Þá krefjast varnaraðilar kærumálskostnaðar. Eftir að málið var kært til Hæstaréttar andaðist Jón Sigurður Eiríksson og hefur dánarbú hans tekið við aðild að málinu. I Í efnisþætti málsins greinir aðila á um hvort sóknaraðili eigi forkaupsrétt að helmingi jarðarinnar Reykja í Skagafirði á grundvelli leigusamnings 30. mars 2011 og hvort sá réttur hafi orðið virkur við sölu á eignarhlutanum með kaupsamningi Jóns Sigurðar Eiríkssonar og einkahlutafélagsins Jóhönnu og Jónssona 2. desember 2017. Sóknaraðili krefst viðurkenningar forkaupsréttar og að dánarbúi Jóns Sigurðar verði gert skylt að selja og afsala til hans eignarhlutnum. Enn fremur krefst hann ógildingar á yfirlýsingu 26. janúar 2018 um fyrirframgreiddan arf. Héraðsdómur vísaði frá dómi kröfu sóknaraðila á hendur félaginu en sýknaði aðra varnaraðila af öðrum kröfum. Með áfrýjun til Landsréttar krafðist sóknaraðili þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur yrði ómerktur og að málinu yrði vísað heim í hérað að nýju til löglegrar meðferðar. Til vara gerði hann sömu kröfur og fyrir héraðsdómi sem að framan greinir. Með hinum kærða dómi var málinu vísað frá Landsrétti. Er sú úrlausn til endurskoðunar hér fyrir dómi. II Sóknaraðili og Jón Sigurður gerðu leigusamning 30. mars 2011 um helming jarðarinnar Reykja á Reykjaströnd í Skagafirði og bátinn Nýja Víking SK-95. Lauk leiguumráðum sóknaraðila 1. janúar 2016. Í leigusamningnum var kveðið á um forkaupsrétt sóknaraðila að hinu leigða hygðist ,,leigusali selja hið leigða, bæði á leigutímanum og að honum loknum“. Samningur um sölu Jóns Sigurðar á helmingi jarðarinnar 2. desember 2017 til Jóhönnu og Jónssona ehf. var afhentur til þinglýsingar 8. desember 2017. Samhliða var gerður kaupsamningur ,,til viðbótar þinglýstum samningnum“. Þar kom fram að til viðbótar kaupverði í hinum þinglýsta samningi skyldi kaupandi greiða seljanda 10.000.000 króna á næstu sjö árum. Með bréfi 22. desember 2017 beindi sóknaraðili yfirlýsingu um nýtingu forkaupsréttar til Jóns Sigurðar. Í kjölfarið felldu aðilar niður fyrrgreindan kaupsamning og var hann afturkallaður úr þinglýsingu 8. janúar 2018. Með yfirlýsingu 26. janúar 2018 um fyrirframgreiddan arf var helmingi jarðarinnar ráðstafað til varnaraðilanna Sigfúsar Agnars, Björns Sigurðar, Ástu Birnu, Brynjólfs Þórs og Jóns Kolbeins. III Sóknaraðili höfðaði mál þetta á hendur varnaraðilum og Jóhönnu og Jónssonum ehf. með fyrrgreindum kröfum. Með dómi héraðsdóms var viðurkenningarkröfu sóknaraðila á hendur Jóhönnu og Jónssonum ehf. vísað frá dómi. Í dómi Landsréttar kom fram að þar sem frávísun á hendur félaginu hefði ekki verið borin undir réttinn eftir reglum XXIV. kafla laga nr. 91/1991, sbr. c-lið 2. mgr. 143. gr. og 1. mgr. 144. gr. laganna, gæti frávísunarákvæði héraðsdóms ekki sætt endurskoðun Landsréttar. Því væri sá annmarki á málatilbúnaði sóknaraðila fyrir Landsrétti að Jóhanna og Jónssynir ehf. ætti ekki aðild að málinu, en óhjákvæmilegt væri að málsókn um forkaupsrétt væri beint að báðum aðilum fyrrgreinds kaupsamnings 2. desember 2017. Af þeim sökum var málinu í heild vísað frá Landsrétti án kröfu enda byggðu aðrar efniskröfur sóknaraðila á kröfu um viðurkenningu forkaupsréttarins. IV Sóknaraðili skaut málinu upphaflega til Landsréttar 16. apríl 2019. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu 22. maí 2019 og var málinu áfrýjað öðru sinni 18. júní sama ár samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991. Varnaraðilar hafa krafist þess fyrir Hæstarétti að ,,kæru sóknaraðila verði vísað frá“ réttinum og að ,,dómur í Landsréttarmálinu nr. 444/2019 verði staðfestur“. Varnaraðilar hafa engin haldbær rök fært fram fyrir frávísunarkröfu sinni og verður henni hafnað. Eins og fram kemur í hinum kærða dómi kærði sóknaraðili ekki frávísunarþátt héraðsdóms til Landsréttar og sætti sá hluti dómsins því ekki endurskoðun réttarins. Af því leiðir að Jóhanna og Jónssynir ehf. átti ekki aðild að málinu fyrir Landsrétti. Í hinum kærða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að óhjákvæmilegt væri að málsókn um viðurkenningu forkaupsréttar væri beint að báðum aðilum kaupsamningsins 2. desember 2017, meðal annars með hliðsjón af dómum Hæstaréttar 6. júní 2008 í máli nr. 291/2008 og 16. júní 2010 í máli nr. 318/2010. Var málinu því vísað frá Landsrétti án kröfu. Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 291/2008 kemur fram að vilji forkaupsréttarhafi sem telur að réttur sinn hafi ekki verið virtur við sölu til þriðja manns höfða mál til að neyta forkaupsréttar síns, verði hann að beina þeirri málsókn að aðilum þess samnings sem hann telur að hafi gert forkaupsréttinn virkan. Kröfugerð forkaupsréttarhafa verði þá tvíþætt. Verði fyrri þætti kröfunnar beint bæði að seljendum eða framseljendum og kaupendum eða viðtakendum samkvæmt viðkomandi samningi. Geti það gerst með þeim hætti að leitað sé viðurkenningar forkaupsréttar þess sem málið höfðar í tilefni af umræddri sölu en einnig hafi verið látið óátalið að hann sé látinn beinast að því að samningsaðilum verði gert að þola ógildi samningsins. Síðari þáttur kröfugerðarinnar snúi svo að seljandanum eða framseljandanum einum og gangi efnislega út á að hann selji eða afsali umræddri eign til forkaupsréttarhafans gegn nánar tilgreindu endurgjaldi. Frá þessu eru þó undantekningar, til að mynda ef kaupsamningur hefur fallið niður milli seljanda og upphaflegs kaupanda, sbr. dóm Hæstaréttar 19. nóvember 1998 í máli nr. 107/1998 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár, bls. 3771. Í máli þessu er óumdeilt að þeir aðilar sem gerðu með sér kaupsamninginn 2. desember 2017 féllu sín á milli frá honum eftir að sóknaraðili hafði beint yfirlýsingu um forkaupsrétt að seljanda 22. sama mánaðar. Var kaupsamningurinn jafnframt afturkallaður úr þinglýsingu 8. janúar 2018 með sameiginlegri beiðni seljanda og kaupanda. Eftir þetta ráðstafaði seljandi helmingi jarðarinnar með yfirlýsingu 26. janúar 2018 um fyrirframgreiddan arf. Við þessar aðstæður hefur kaupandi samkvæmt samningnum 2. desember 2017, Jóhanna og Jónssynir ehf., því enga hagsmuni af úrslitum málsins. Samkvæmt framansögðu er því ekki fallist á það með Landsrétti að nauðsyn hafi verið á aðild félagsins svo sóknaraðili gæti fengið úrlausn dómstóla um kröfur sínar. Hinn kærði dómur verður því felldur úr gildi og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar þar og dómsálagningar að nýju. Rétt er að aðilar beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu. Dómsorð: Hinn kærði dómur er felldur úr gildi og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Kærumálskostnaður fellur niður.   Dómur Landsréttar Mál þetta dæma landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Eiríkur Jónsson og Hervör Þorvaldsdóttir. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 18. júní 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra 12. mars 2019 í málinu nr. E-18/2018. 2        Áfrýjandi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur „þ.m.t. varðandi frávísun krafna á hendur Jóhönnu og Jónssynir ehf.“ og að málinu verði vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. 3        Til vara krefst áfrýjandi þess að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið „þ.m.t. varðandi frávísun krafna á hendur Jóhönnu og Jónssynir ehf.“ og breytt í þá veru að viðurkennt verði með dómi að forkaupsréttur áfrýjanda að 50% eignarhlut í jörðinni Reykjum í Skagafirði, landnúmer 125950 [svo], fastanúmer 213-9923, ásamt öllum gögnum og gæðum hverju nafni sem þau nefnast, hafi orðið virkur á grundvelli kaupsamnings milli stefnda, Jóns Sigurðar Eiríkssonar og Jóhönnu og Jónssona ehf. 2. desember 2017. Jafnframt er þess krafist að stefnda Jóni Sigurði verði með dómi gert skylt að selja og afsala til áfrýjanda fyrrgreindum eignarhlut í jörðinni gegn greiðslu á 25.000.000 króna með sömu kjörum og skilmálum og greinir í fyrrgreindum kaupsamningi. Loks krefst hann ógildingar á yfirlýsingu 26. janúar 2018 „vegna fyrirframgreidds arfs“ þar sem stefndi Jón Sigurður ráðstafaði fyrrgreindum eignarhlut til meðstefndu. 4        Stefndu krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefjast þau málskostnaðar fyrir Landsrétti. Stefndi Jón Sigurður gerir kröfu um málskostnað úr hendi áfrýjanda án tillits til gjafsóknar hans hér fyrir dómi. Málsatvik 5        Áfrýjandi og stefndi Jón Sigurður, sem eru feðgar, gerðu með sér leigusamning 30. mars 2011. Hið leigða var 50% eignarhlutur þess síðarnefnda í jörðinni Reykjum í Skagafirði og báturinn Nýi Víkingur SK-95 ásamt veiðarfærum og öllu því sem honum fylgdi. Gildistími samningsins var frá 20. maí sama ár til 1. janúar 2016. Þrátt fyrir að samningurinn væri tímabundinn var hann uppsegjanlegur af beggja hálfu með sex mánaða fyrirvara. Jafnframt var kveðið á um að samningurinn myndi framlengjast sjálfkrafa um tvö ár yrði honum ekki sagt upp með minnst sex mánaða fyrirvara áður en hann rynni út 1. janúar 2016. Samkvæmt samningnum átti áfrýjandi „forkaupsrétt að hinu leigða hyggist leigusali selja hið leigða, bæði á leigutímanum og að honum loknum“. Leigusamningnum var þinglýst 20. apríl 2012. 6        Óumdeilt er að leigutímanum lauk 1. janúar 2016 án þess að til framlengingar samningsins kæmi. Í beinu framhaldi af því, 7. janúar 2016, gerðu stefndi Jón Sigurður og Handtak ehf., sem mun vera félag í eigu áfrýjanda, samkomulag um framsal á bátnum Nýja Víkingi SK-95 til áfrýjanda í skiptum fyrir kaffihús sem áfrýjandi hafði sett upp að Reykjum ásamt salerni og ýmsu ótilgreindu lausafé. Í samkomulaginu kemur fram í 1. gr. að það hafi verið gert „í framhaldi af leigusamningi sem gerður var 2011 milli sömu aðila vegna leigu Handtaks ehf. á aðstöðu í eigu Jóns Eiríkssonar á Reykjum á Reykjaströnd en sá samningur [hefði runnið] út um síðustu áramót“. Þrátt fyrir síðastnefnt orðalag er óumdeilt að aðilar að leigusamningnum frá 2011 hafi verið áfrýjandi og stefndi Jón Sigurður en félagið Handtak ehf. hafi ekki átt þar aðild. 7        Með kaupsamningi 2. desember 2017 seldi stefndi Jón Sigurður fyrrgreindan 50% eignarhlut sinn í jörðinni Reykjum til félagsins Jóhönnu og Jónssona ehf. sem sonur hans, stefndi Jón Kolbeinn, var í fyrirsvari fyrir ásamt eiginkonu sinni Jóhönnu Ey Harðardóttur. Samkvæmt framburði hennar fyrir héraðsdómi átti hún helmings eignarhlut í félaginu á móti eiginmanni sínum en hún hefur persónulega ekki átt aðild að málarekstri þessum. Umsamið kaupverð var 25.000.000 króna sem áttu að greiðast á sjö árum og bera nánar tilgreinda vexti. Samhliða var gengið frá öðru skjali um viðbótargreiðslu fyrir eignarhlutinn að fjárhæð 10.000.000 króna sem áttu að greiðast á jafnlöngum tíma ásamt sömu vöxtum. Kaupsamningurinn var afhentur til þinglýsingar 8. desember 2017 en ekki síðarnefnda skjalið. 8        Áfrýjandi tilkynnti stefnda Jóni Sigurði með bréfi 22. desember 2017 að hann hefði í hyggju að nýta forkaupsrétt sem hann teldi sig eiga á grundvelli fyrrgreinds leigusamnings frá 30. mars 2011. Kom þar meðal annars fram að hann teldi ákvæði leigusamningsins vera skýrt um að forkaupsrétturinn hefði ekki einungis átt að gilda á leigutímanum heldur einnig að honum loknum. Þar með hefði hann orðið virkur við sölu eignarhlutans samkvæmt fyrrgreindum kaupsamningi 2. desember 2017. 9        Í bréfi sýslumanns 11. janúar 2018, sem var meðal annars sent til fyrrgreindra aðila kaupsamningsins frá 2. desember 2017, var upplýst að þinglýsingastjóri hefði orðið þess „áskynja“ að farist hefði fyrir að geta um forkaupsréttinn samkvæmt leigusamningnum 30. mars 2011 á veðbókarvottorði fyrir eignina en það hefði þá verið leiðrétt. Með bréfi stefnda Jóns Sigurðar 19. janúar 2018 til áfrýjanda og sýslumanns lýsti hann því meðal annars yfir að hann hefði ekki lengur í hyggju að selja eignarhlut sinn í jörðinni. Fram kom að hann sæti í óskiptu búi og hefði í hyggju að framselja eignina með fyrirframgreiddum arfi til barna sinna, meðstefndu. Í kjölfarið var eignin framseld þeim með yfirlýsingu um fyrirframgreiddan arf 26. janúar 2018 sem var þinglýst 30. janúar sama ár. Í framburði stefnda Jóns Kolbeins og Jóhönnu eiginkonu hans fyrir héraðsdómi kom fram að í kjölfar þess að áfrýjandi hefði sent fyrrgreinda tilkynningu um beitingu forkaupsréttar 22. desember 2017 hefðu þau og stefndi Jón Sigurður ákveðið að fella kaupsamninginn niður og taka hann úr þinglýsingu sem þá var ekki lokið hjá embætti sýslumanns. 10       Samkvæmt framangreindu varðar ágreiningur málsins það álitaefni hvort áfrýjandi hafi átt forkaupsrétt að 50% eignarhlut í jörðinni Reykjum í Skagafirði sem hafi orðið virkur við gerð kaupsamningsins milli stefnda Jóns Sigurðar og Jóhönnu og Jónssona ehf. 2. desember 2017. Í hinum áfrýjaða dómi var kröfum áfrýjanda á hendur Jóhönnu og Jónssonum ehf. vísað frá dómi á þeim grundvelli að í kjölfar þess að síðastnefndur kaupsamningur hefði verið felldur niður ætti áfrýjandi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins gagnvart félaginu. Voru aðrir stefndu fyrir héraðsdómi sýknaðir af kröfum áfrýjanda á þeim grundvelli að áfrýjandi hefði ekki notið forkaupsréttar á þeim tíma er fyrrgreindur kaupsamningur var gerður. Var lagt til grundvallar að rétturinn hefði þá verið fallin niður. Niðurstaða 11       Áfrýjandi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verðir ómerktur, þar með talið „varðandi frávísun krafna á hendur Jóhönnu og Jónssynir ehf.“. Um þessa málsástæðu vekur áfrýjandi meðal annars athygli á því að héraðsdómur hafi vísað kröfum á hendur félaginu frá áður en tekin hafi verið efnisleg afstaða til meints forkaupsréttar hans. 12       Eins og fyrr greinir var kröfum áfrýjanda á hendur Jóhönnu og Jónssonum ehf. vísað frá héraðsdómi. Áfrýjandi hefur ekki borið ákvæði hins áfrýjaða dóms um frávísun undir Landsrétt með kæru eftir reglum XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. c-lið 2. mgr. 143. gr. og 1. mgr. 144. gr. þeirra laga, líkt og honum bar að gera vildi hann ekki una þeirri niðurstöðu, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 11. október 2001 í máli nr. 110/2001. Frávísunarákvæði héraðsdóms getur af þeim sökum ekki sætt endurskoðun Landsréttar óháð því hvort rétturinn telji, miðað við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að öðru leyti, að réttara hefði verið að sýkna Jóhönnu og Jónssyni ehf. fremur en vísa kröfu á hendur félaginu frá. Af þeirri niðurstöðu leiðir að sá annmarki er á málatilbúnaði áfrýjanda hér fyrir dómi að félagið Jóhanna og Jónssynir ehf. á ekki aðild að málinu en óhjákvæmilegt er að málsókn um forkaupsrétt sé beint að báðum aðilum þess samnings sem áfrýjandi telur að hafi gert forkaupsrétt sinn virkan, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 6. júní 2008 í máli nr. 291/2008 og 16. júní 2010 í máli nr. 318/2010. Er af þessum sökum óhjákvæmilegt að vísa málinu í heild frá Landsrétti án kröfu en aðrar efniskröfur áfrýjanda byggja á viðurkenningu þeirrar fyrstu um gildi forkaupsréttarins. 13       Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Landsrétti eins og í dómsorði greinir. Gjafsóknarkostnaður stefnda, Jóns Sigurðar, fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði. 14       Samkvæmt 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 128. gr. og 166. gr., laga nr. 91/1991 verður áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað í ríkissjóð vegna stefnda Jóns Sigurðar eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Landsrétti. Áfrýjandi, Viggó Jónsson, greiði stefndu, Sigfúsi Agnari Jónssyni, Birni Sigurði Jónssyni, Ástu Birnu Jónsdóttur, Brynjólfi Þór Jónssyni og Jóni Kolbeini Jónssyni, hverju um sig 120.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti. Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, Jóns Sigurðar Eiríkssonar, fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 120.000 krónur. Áfrýjandi greiði í ríkissjóð málskostnað fyrir Landsrétti, 120.000 krónur.
Mál nr. 42/2019
Samkeppni Stjórnvaldssekt Réttlát málsmeðferð EES-samningurinn
Með ákvörðun nr. 11/2015 komst S að þeirri niðurstöðu að B ehf. hefði á nánar tilgreindu tímabili brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 53. gr. EES-samningsins með samfelldu samráði við H ehf. sem hefði meðal annars falist í reglubundnum, yfirleitt vikulegum, símtölum við keppinautinn þar sem skipst hefði verið á upplýsingum sem lágu til grundvallar verðákvörðunum þeirra. Þá var lýst fleiri brotatilvikum sem voru talin hluti af hinu samfellda samráði. Var N hf., móðurfélagi B ehf., gert að greiða 650.000.000 króna í stjórnvaldssekt. Með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 6/2015 var ákvörðun S staðfest að hluta og sektin lækkuð í 65.000.000 króna. Í kjölfarið höfðaði S mál gegn B ehf. og N hf., þar sem þess var krafist að N hf. yrði gert að greiða 650.000.000 krónur í stjórnvaldssekt vegna brotanna. B ehf. og N hf. höfðuðu mál á hendur S og Í og kröfðust ógildingar úrskurðar áfrýjunarnefndarinnar að því leyti sem brot B ehf. voru staðfest og um greiðslu stjórnvaldssektar en ella að sektin yrði lækkuð og voru málin tvö sameinuð. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samskipti B ehf. og H ehf. hafi gert þeim kleift að fá mikið magn upplýsinga um verð, tilboðsverð og birgðastöðu á flóknum markaði grófvöru með reglubundnari, einfaldari og skjótvirkari hætti en öðrum á markaði og viðskiptavinum hafi staðið til boða og dregið úr óvissu á milli fyrirtækjanna um framtíðarhegðun keppinautarins. Háttsemi fyrirtækjanna hafi haft það að markmiði að raska samkeppni í andstöðu við 10. gr. samkeppnislaga. Með hliðsjón af því að fyrirtækin voru í yfirburðastöðu á skilgreindum mörkuðum málsins og aðgerðir þeirra beindust að vörum sem voru að stórum hluta fluttar inn frá öðrum EES-ríkjum og endurseldar á Íslandi, auk þess sem þau gátu torveldað að mögulegir keppinautar frá öðrum EES-ríkjum næðu fótfestu á mörkuðum málsins, var talið að hin ólögmætu samskipti hefðu verið til þess fallin að hafa áhrif á mynstur viðskipta milli EES-ríkjanna í skilningi 53. gr. EES-samningsins. B ehf. var því jafnframt talið hafa gerst brotlegt gegn því ákvæði. Um ákvörðun sektarfjárhæðar vísaði Hæstiréttur til þess að brot B ehf. hefðu verið alvarleg og falið í sér skipulagt og kerfisbundið samráð milli fyrirtækja sem voru nánast einráð á markaði sem væri mikilvægur almenningi. Þegar litið var til þessa, lengdar brotatímabilsins og því að sektum vegna brota gegn samkeppnislögum væri ætlað að tryggja almenn og sérstök varnaðaráhrif var N hf. gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 400.000.000 króna.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon og Árni Kolbeinsson og Þorgeir Örlygsson fyrrverandi hæstaréttardómarar. Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 13. ágúst 2019. Aðaláfrýjandinn Samkeppniseftirlitið krefst þess að gagnáfrýjandanum Norvik hf. verði gert að greiða 650.000.000 króna sekt í ríkissjóð samhliða því að fellt verði úr gildi ákvæði um sekt gagnáfrýjenda í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 28. september 2015 í máli nr. 6/2015. Aðaláfrýjendur krefjast hvor fyrir sitt leyti sýknu af kröfum gagnáfrýjenda. Þá krefjast þeir málskostnaðar fyrir Hæstarétti og staðfestingar á málskostnaðarákvæði í dómi Landsréttar. Gagnáfrýjendur skutu málinu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 22. október 2019. Þeir krefjast þess aðallega að felldur verði úr gildi sá hluti úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála 28. september 2015 í máli nr. 6/2015 sem staðfesti að hluta ákvörðun aðaláfrýjandans Samkeppniseftirlitsins 15. maí 2015 í máli nr. 11/2015 um að gagnáfrýjandinn Byko ehf. hefði brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og að gagnáfrýjendur skyldu greiða 65.000.000 króna stjórnvaldssekt, og að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins verði felld úr gildi. Gagnáfrýjendur krefjast þess jafnframt að aðaláfrýjandanum íslenska ríkinu verði gert að greiða gagnáfrýjandanum Norvik hf. 400.000.000 króna með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Til vara krefjast gagnáfrýjendur þess að ákvæði úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála um að gagnáfrýjendur skuli greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 65.000.000 króna verði fellt úr gildi eða sektarfjárhæðin lækkuð verulega. Þá krefjast þeir þess að aðaláfrýjandanum íslenska ríkinu verði gert að greiða gagnáfrýjanda Norvik hf. mismun á 400.000.000 króna og þeirri sekt sem ákvörðuð er með dómi, með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Að því frágengnu krefjast gagnáfrýjendur sýknu af kröfum aðaláfrýjenda og að aðaláfrýjandanum íslenska ríkinu verði gert að greiða gagnáfrýjandanum Norvik hf. 335.000.000 króna með nánar tilgreindum dráttarvöxtum en ella staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Gagnáfrýjendur krefjast í öllum tilvikum málskostnaðar á öllum dómstigum. I Meginágreiningur málsins snýst um hvort starfsmenn gagnáfrýjandans Byko ehf. hafi átt samskipti við starfsmenn Húsasmiðjunnar ehf., Múrbúðarinnar ehf. og Úlfsins lagerverslunar ehf. á tímabilinu frá nóvember 2008 til mars 2011 sem falið hafi í sér samstilltar aðgerðir keppinauta á svokölluðum grófvörumarkaði í byggingavörum sem höfðu það að markmiði og eftir atvikum leiddu til þess að komið væri í veg fyrir samkeppni, hún takmörkuð eða henni raskað í skilningi 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Jafnframt er deilt um lengd ætlaðs brotatímabils og einstök samráðstilvik sem og fjárhæð sektar samkeppnisyfirvalda. Enn fremur er ágreiningur um hvort gagnáfrýjendur hafi við meðferð málsins fyrir dómi notið réttlátrar málsmeðferðar. II 1 Hinn 15. október 2010 sneru fyrirsvarsmenn Múrbúðarinnar ehf. sér til aðaláfrýjandans Samkeppniseftirlitsins og óskuðu eftir fundi þar sem þeir vildu upplýsa um ,,tilraunir Byko og Húsasmiðjunnar“ til þess að fá Múrbúðina ehf. til að taka þátt í ólögmætu samráði. Á fundum sem aðaláfrýjandinn hélt með þeim 21. sama mánaðar og 3. nóvember sama ár komu fram upplýsingar sem urðu til þess að ákveðið var að hefja rannsókn á ætluðum brotum gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. á samkeppnislögum. Aðaláfrýjandinn Samkeppniseftirlitið beindi kæru til ríkislögreglustjóra 30. nóvember 2010, samkvæmt 1. mgr. 42. gr. samkeppnislaga með áorðnum breytingum, þar sem tilgreindir starfsmenn gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. voru sakaðir um brot á 41. gr. a, sbr. 4. gr. laga nr. 52/2007 um breytingu á samkeppnislögum. Kæran varð tilefni þess að lögregla hóf rannsókn á því hvort starfsmennirnir hefðu brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga, en rannsókn aðaláfrýjandans Samkeppniseftirlitsins beindist á hinn bóginn að því hvort fyrirtækin hefðu brotið ákvæði samkeppnislaga og samsvarandi ákvæði EES-samningsins. Lögregla aflaði við rannsókn málsins símagagna, meðal annars með því að hlusta á símtöl þeirra sem grunaðir voru um brot gegn samkeppnislögum, auk þess sem húsleitir fóru fram hjá gagnáfrýjandanum Byko ehf., Húsasmiðjunni ehf. og Úlfinum lagerverslun ehf. og var þar lagt hald á gögn. Að lokinni lögreglurannsókn gaf sérstakur saksóknari, sem tekið hafði við rannsókn málsins af ríkislögreglustjóra, út ákæru 23. apríl 2014 á hendur 13 nafngreindum mönnum þar sem þeim var gefið að sök refsivert samráð á tímabilinu 13. september 2010 til 3. mars 2011. Með úrskurði héraðsdóms 10. desember 2014, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 9. janúar 2015 í máli nr. 844/2014, var ákæru á hendur einum ákærða vísað frá héraðsdómi. Af þeim tólf ákærðu sem eftir stóðu voru ellefu sýknaðir af sakargiftum með dómi héraðsdóms 9. apríl 2015. Ákæruvaldið undi niðurstöðu héraðsdóms varðandi tvo þeirra en áfrýjaði dómi héraðsdóms til Hæstaréttar varðandi þá tíu sem eftir stóðu. Með dómi Hæstaréttar 1. desember 2016 í máli nr. 360/2015 voru átta af fyrrgreindum tíu ákærðu sakfelldir fyrir refsivert verðsamráð í störfum sínum hjá fyrirtækjunum á tímabilinu 13. september 2010 til 3. mars 2011. Nokkrir dómfelldu báru fram kvörtun við Mannréttindadómstól Evrópu. Hún var reist á því að við meðferð málsins í Hæstarétti hefði verið brotið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar þar sem skýrslur sem teknar hefðu verið af ákærðu og vitnum í héraðsdómi hefðu þar verið lagðar til grundvallar. Mannréttindadómstóllinn kvað upp dóm 16. júlí 2019 í máli eins kærenda nr. 38797/17 og komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þar sem kærandi hafði hlotið sýknudóm í héraði en verið sakfelldur með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar án þess að rétturinn hlýddi á framburð hans, meðákærðu og vitna. 2 Að lokinni frumathugun sinni í stjórnsýslumálinu sendi aðaláfrýjandinn Samkeppniseftirlitið 2. maí 2014 andmælaskjal til gagnáfrýjenda og Holtavegar 10 ehf., sem rak Húsasmiðjuna á rannsóknartímabili málsins, sem og til móðurfélagsins, Landsbankans hf. Þá var andmælaskjalið einnig sent Húsasmiðjunni ehf. sem þá var komið í eigu danska félagsins Bygma Ísland Holding ehf. Í andmælaskjalinu var komist að þeirri frumniðurstöðu að gagnáfrýjandinn Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf. hefðu haft með sér ólögmætt samráð sem hefði haft það að markmiði að raska samkeppni á markaði þar sem félögin hefðu saman yfirburða markaðshlutdeild. Væri um að ræða mjög alvarlegt brot á 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Eftir útgáfu andmælaskjalsins óskaði Holtavegur 10 ehf. eftir því að gera sátt í málinu á grundvelli 17. gr. f. samkeppnislaga. Í sáttinni, sem undirrituð var 9. júlí 2014, viðurkenndi Holtavegur 10 ehf. að Húsasmiðjan ehf. hefði brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins með samfelldu samráði við gagnáfrýjandann Byko ehf. á rannsóknartímabilinu, frá nóvember 2008 til og með mars 2011. Féllst Holtavegur 10 ehf. á að greiða 325.000.000 króna í stjórnvaldssekt vegna brotanna. Í sáttinni var meðal annars viðurkennt að brotið hefði falist í reglubundnum, yfirleitt vikulegum, samskiptum við gagnáfrýjandann Byko ehf. um verð, birgðastöðu og fleira í því skyni að hækka verð eða vinna gegn verðlækkunum á grófvörum (verðkannanir), samráði í nóvember og desember 2010 um verð á miðstöðvarofnum og samráði sem átti sér stað í símtali 28. febrúar 2011 og fól í sér sérstakt átak til að hækka verð og draga úr samkeppni. Einnig með því að félögin hafi gert sameiginlega tilraun til að fá Múrbúðina ehf. til að taka þátt í samráði um verð á grófvöru og með því að hafa ákveðið með gagnáfrýjandanum Byko ehf. að fylgjast með aðgerðum Múrbúðarinnar ehf. á markaðnum. Félagið viðurkenndi samráð með því að hafa greint gagnáfrýjandanum Byko ehf. frá mikilvægum viðskiptalegum upplýsingum sem nánar tiltekið fólust í því að Húsasmiðjan ehf. veitti gagnáfrýjandanum Byko ehf. upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á rekstri fyrirtækisins í nóvember 2008 og upplýsti um viðskiptaleyndarmál í febrúar 2010. Þá var tekið fram að Holtavegur 10 ehf. væri ekki í aðstöðu til að slá því föstu með hvaða hætti upplýsingar í október 2010 um fyrirhugaðar mikilvægar breytingar á verðstefnu fyrirtækisins hefðu borist frá Húsasmiðjunni ehf. til gagnáfrýjandans Byko ehf. Með sáttinni lauk þætti Húsasmiðjunnar ehf. í stjórnsýslumálinu. Athugasemdir gagnáfrýjenda við andmælaskjal aðaláfrýjandans bárust með bréfi 1. október 2014. Þar var því mótmælt að samskipti gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. hefðu falið í sér brot á ákvæðum 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins með vísan til þess að samskiptin hefðu byggst á opinberum upplýsingum. Þá var því haldið fram að símtal framkvæmdastjóra gagnáfrýjandans Byko ehf. og starfsmanns Húsasmiðjunnar ehf. 28. febrúar 2011 hefði falið í sér einangrað tilvik sem gagnáfrýjandinn Byko ehf. bæri ekki ábyrgð á. 3 Aðaláfrýjandinn Samkeppniseftirlitið tók ákvörðun í málinu 15. maí 2015 þar sem móðurfélagi gagnáfrýjandans Byko ehf., gagnáfrýjandanum Norvik hf., var gert að greiða 650.000.000 króna sekt í ríkissjóð. Í ákvörðuninni var gerð nákvæm grein fyrir samskiptum gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. á tímabilinu frá nóvember 2008 fram í mars 2011. Því var lýst að samskiptin hefðu falið í sér skipulagt, markvisst og samfellt samráð yfir tveggja og hálfs árs tímabil. Þau hafi átt sér stað í vikulegum símtölum sem gátu varað allt að 30 mínútum og haft það að markmiði að takmarka verðsamkeppni fyrirtækjanna. Samskiptin hefðu verið tíð en almennt átt sér stað á miðvikudögum eða fimmtudögum og hefðu komist í fastari skorður er liðið hafi á tímabilið. Þau hefðu tekið til um 105 svokallaðra grófvara sem hefðu verið mikilvægustu söluvörur fyrirtækjanna. Fyrirtækin hefðu skipst á upplýsingum sem lágu til grundvallar verðákvörðunum þeirra. Í ákvörðuninni var einnig gerð grein fyrir fleiri brotatilvikum sem talin voru hluti af hinu samfellda samráði. Þannig var lýst tilraunum fyrirtækjanna til að fá Múrbúðina ehf. til að taka þátt í ólögmætum verðsamskiptum og símtali 28. febrúar 2011 þar sem fyrirtækin hefðu ákveðið að ráðast í átak í því skyni að hækka verð og samráði á vettvangi stjórna fyrirtækjanna um viðkvæmar viðskiptaupplýsingar. Í III. kafla ákvörðunarinnar var vörumarkaður og landfræðilegur markaður í máli þessu skilgreindur. Þar sagði að markaðurinn hefði verið sala á alhliða byggingarvörum hérlendis. Líta mætti á landið heilt og óskipt sem landfræðilegan markað þessa máls og til einföldunar væri miðað við höfuðborgarsvæðið sem landfræðilegan markað málsins, enda hefðu atvik málsins mest áhrif á þann markað þar sem velta Húsasmiðjunnar ehf. og gagnáfrýjandans Byko ehf. á því landsvæði væri margfalt meiri en utan þess. Á grundvelli tölfræðilegra upplýsinga væri áætlað að markaðshlutdeild gagnáfrýjandans Byko ehf. hefði verið á bilinu frá 55% til 60% á árinu 2010 og milli 60% og 65% á fyrri helmingi ársins 2011. Á sama tímabili hefði markaðshlutdeild Húsasmiðjunnar ehf. verið á bilinu frá 30% til 35% og Múrbúðarinnar ehf. milli 5% og 10%. Í IV. kafla ákvörðunarinnar var gerð grein fyrir efni 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Var komist að þeirri niðurstöðu að gagnáfrýjandinn Byko ehf. hefði brotið gegn umræddum greinum með því að stunda samfellt samráð á rannsóknartímabilinu. Í ákvörðuninni greinir að í 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins sé lagt bann við samráði keppinauta. Efnisákvæði 53. gr. EES-samningsins séu að því leyti fyllilega sambærileg 10. gr. samkeppnislaga. Framkvæmd í EES/ESB-samkeppnisrétti sé því leiðbeinandi við túlkun 10. gr. samkeppnislaga en þar segi að allir samningar, samþykktir og samstilltar aðgerðir á milli fyrirtækja, sem hafi það að markmiði eða af þeim leiði að samkeppni sé raskað séu bannaðar. Bann þetta taki meðal annars til samninga, samþykkta og samstilltra aðgerða sem ,,áhrif hafa á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör með beinum eða óbeinum hætti“. Í ákvörðuninni er rakið að geti samkeppnisyfirvöld sannað samstilltar aðgerðir keppinauta, til dæmis tölvupóstsamskipti eða umræður um verð, þurfi þau ekki að sýna fram á að hinar samstilltu aðgerðir hafi haft nokkur áhrif á markaðnum heldur sé það viðkomandi fyrirtækis að sanna að þær hafi engin áhrif haft á hegðun þess á markaðnum. Þá sé skýrt í samkeppnisrétti að ólögmætar samstilltar aðgerðir geti bæði falist í einhliða og tvíhliða upplýsingaskiptum. Um brot sé að ræða nema viðtakandi bregðist við með ótvíræðri yfirlýsingu um að hann vilji ekki fá í hendur slíkar upplýsingar. Í ákvörðuninni er jafnframt fjallað um hugtakið markmið í 10. gr. samkeppnislega og bent á að það vísi ekki til huglægrar afstöðu þeirra sem standi að tilteknu samráði. Markmið samnings eða samstilltra aðgerða í skilningi samkeppnisréttarins sé þess í stað fundið með því að leggja hlutlægt mat á efni og eðli viðkomandi ráðstafana. Hér dugi að samráðið geti mögulega raskað samkeppni. Þá er skírskotað til þess að samráð keppinauta sem tengist verðlagningu og öðrum viðkvæmum viðskiptalegum málefnum feli í sér augljósar samkeppnishindranir og teljist nær undantekningarlaust hafa það að markmiði að raska samkeppni. Þá er rakið að í samkeppnisrétti hafi verið talið að líta beri á samráð sömu keppinauta, sem varað hafi í ákveðinn tíma og stefnt hafi að sama markmiði, sem eitt áframhaldandi brot sem allir þátttakendur samráðsins beri ábyrgð á. Þegar svo sé, beri ekki að líta til hvers brots fyrir sig eins og um ótengd brot væri að ræða, heldur verði talið að brotastarfsemi ljúki ekki fyrr en síðasta broti ljúki. Í V. og VI. kafla ákvörðunarinnar, sem fjalla um samráðstilvikin, greinir að gögn málsins sýni að gagnáfrýjandinn Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf. hafi átt í reglubundnum og skipulögðum samskiptum á rannsóknartímabili málsins. Í þeim hafi falist að fyrirtækin hafi látið í té upplýsingar um verð, afslætti/tilboð og eftir atvikum birgðastöðu á grófvöru. Fyrirtækin hafi vísað til þessara samskipta sem „verðkannana“. Slíkar verðkannanir hafi verið gerðar á árunum 2000 til 2009 og með reglubundnum hætti á árunum 2010 og 2011. Frá október 2010 hafi verðkannanir einnig beinst að Múrbúðinni ehf. og Úlfinum lagerverslun ehf. sem einnig seldu grófvörur til byggingariðnaðar á þeim tíma. Þær hafi á því tímabili sem rannsókn málsins tæki til verið notaðar sem aðferð til að halda með ólögmætum hætti uppi verði og samhæfa verðlagningu milli gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. Þá er um atvik fram til ársins 2009 meðal annars rakið að á skrifstofu Sigurðar E. Ragnarssonar, forstjóra gagnáfrýjandans Byko ehf., hafi fundist tölvupóstur sem hann sendi stjórn fyrirtækisins 26. nóvember 2008. Þar hafi meðal annars komið fram upplýsingar um að Húsasmiðjan ehf. væri með almennan starfsmannafund um kvöldið. Hann grunaði að tilkynnt yrði um hópuppsagnir, sem þýddi að meira en 30 manns yrði sagt upp, og um breyttan opnunartíma. Hann ætti ekki von á að tilkynnt yrði um neinar lokanir á verslunum en kristaltært væri að ,,þeir eru að skoða það“. Í tölvupóstinum hafi hann jafnframt greint frá því að Byko væri að leggja lokahönd á sams konar aðhaldsaðgerðir. Einnig hafi fundist færsla 19. febrúar 2010 í dagbók forstjórans. Titill hennar sé ,,19/2 Samtal“. Nafn viðmælandans sé hvergi skráð niður. Dagbókarfærslan lúti að fjölmörgum þáttum í starfsemi Húsasmiðjunnar ehf. á árunum 2008 til 2009 og sé þar meðal annars að finna upplýsingar um áætlaða framlegð fyrirtækisins árið 2009 og afkomu í tilteknum vöruflokkum. Einnig sé þar að finna upplýsingar um ýmis innanhússmálefni Húsasmiðjunnar ehf. Þá er í ákvörðuninni lýst samskiptum gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. í október 2010 við Múrbúðina ehf., en sú verslun hóf að selja grófvörur í samkeppni við fyrirtækin haustið 2010. Talið var sannað að gagnáfrýjandinn Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf. hefðu gert samstilltar tilraunir til þess að fá Múrbúðina ehf. til þess að taka þátt í hinum ólögmætu verðsamskiptum, en ástæða þess hafi eflaust verið innkoma Múrbúðarinnar ehf. á markað fyrir sölu á grófvörum. Hin nýja samkeppni hafi augljóslega verið til þess fallin að gera samráð Húsasmiðjunnar ehf. og gagnáfrýjandans Byko ehf. flóknara. Jafnframt greinir í ákvörðuninni að einn þáttur ætlaðs samráðs hafi verið á vettvangi stjórna fyrirtækjanna og falist í því að stjórnarformaður Húsasmiðjunnar ehf. hafi veitt stjórnarmanni gagnáfrýjandans Byko ehf. upplýsingar um meiri háttar breytingar á verðstefnu þess fyrrgreinda sem áformaðar hafi verið á árinu 2010 og gengið hafi undir nafninu Project Red. Þessar breytingar hafi átt að stuðla að aukinni framlegð hjá fyrirtækinu og meðal annars falist í nýju afsláttarkerfi. Er þar vísað til tölvupósts sem forstjóri gagnáfrýjandans Norvik hf. sendi framkvæmdastjóra og tilteknum stjórnarmönnum félagsins 25. október 2010 undir yfirskriftinni ,,um húsa“ og til tölvupósts forstjóra gagnáfrýjandans Byko ehf. til framkvæmdastjórnar 27. sama mánaðar, þar sem settar voru fram hugleiðingar um að breyta verðstefnu Byko ehf. Í fyrrnefnda póstinum kemur fram að ,,Húsasmiðjan hefur haft í undirbúningi stórt verkefni sem tengist verðstefnu og verðímynd félagsins- Project Red. Mat stjórnarformanns Húsasmiðjunnar er að hér sé um að ræða forsendu fyrir því að Húsasmiðjan lifi af fyrirsjáanlega samkeppni við Bauhaus Ef af verður er um að ræða kerfisbreytingu á starfsemi félagsins“. Um klukkustund síðar hafi stjórnarformaður gagnáfrýjandans Byko ehf. sent tölvupóst eingöngu á forstjórann þar sem sagði: ,,Bara svo við höfum það á hreinu að við eigum að fara varlega með þessar upplýsingar og ekki að vera vitna beint í þær.“ Í ákvörðuninni er einnig bent á að í sátt Húsasmiðjunnar ehf. segi að fyrir liggi að gagnáfrýjandanum Byko ehf. hafi borist upplýsingar um fyrirhugaðar mikilvægar breytingar á verðstefnu Húsasmiðjunnar ehf. í október 2010 (Project Red) en fyrirtækið sé ekki í aðstöðu til að slá því föstu með hvaða hætti upplýsingarnar hafi borist frá Húsasmiðjunni ehf. til gagnáfrýjandans Byko ehf. Enn fremur er í ákvörðuninni lýst símtali 28. febrúar 2011 milli framkvæmdastjóra fagsölusviðs gagnáfrýjandans Byko ehf. og vörustjóra timbursölu Húsasmiðjunnar ehf. Í símtalinu, sem var 11 mínútur að lengd, var rætt um Múrbúðina ehf. og kvaðst vörustjóri timbursölu Húsasmiðjunnar ehf. ætla að fylgjast með ,,honum“. Síðar í símtalinu sagði framkvæmdastjóri fagsölusviðsins: ,,Ég hef nú aldrei gert þetta áður ... við erum að ... þetta eru orðin hjaðningavíg ef þetta heldur svona áfram sko ... og ég mun núna, í allri tilboðsgerð ... þá mun ég ýta öllu upp. Öllu ... Ég mun handstýra allri tilboðsgerð núna í heilan mánuð.“ Vörustjóri timbursölu Húsasmiðjunnar ehf. svaraði og sagði: ,,Við erum bara að drepa hvern annan ... Við lifum þetta ekki af ef við ætlum að halda þessu áfram sko.“ Í símtalinu var nánar rætt um að fyrirtækin myndu hækka í áföngum verð í öllum tilboðum á grófvöru, grípa til sérstakra aðgerða til að minnka samkeppni í tilboðum á Selfossi og Akureyri, vinna gegn verðsamkeppni og reyna að hækka verðið á gagnvörðu timbri á aðalsölutíma þess og hækka verð á miðstöðvarofnum. Í símtalinu greindi starfsmaður gagnáfrýjandans Byko ehf. jafnframt frá þeirri fyrirætlun að hækka verð á öðrum vörum en grófvöru, til dæmis heimilistækjum. Í ákvörðuninni er því lýst að starfsmaður Húsasmiðjunnar ehf. hafi tekið við þessum upplýsingum án þess að bera fram mótmæli. Þar er einnig rakið að því verðhækkunarátaki sem þar er lýst hafi í megindráttum verið hrundið í framkvæmd og að forstjóri gagnáfrýjandans Byko ehf. hafi lýst því yfir að framlegð fyrirtækisins hefði aukist vegna aðgerða til að hækka verð. Í ákvörðuninni er einnig rakið að gögn málsins sýni að í nóvember og desember 2010 hafi átt sér stað samráð milli gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. í tengslum við sölu og verð á miðstöðvarofnum. Í gögnum málsins liggi fyrir samskipti þeirra í milli sem gefi til kynna óánægju stjórnenda gagnáfrýjandans með lága verðlagningu Húsasmiðjunnar ehf. og Múrbúðarinnar ehf. á ofnum. Í ákvörðuninni kemur fram að gögn málsins sýni að hið samfellda samráð Húsasmiðjunnar ehf. og gagnáfrýjandans hafi einnig tekið til viðskipta með miðstöðvarofna. Þá varði þessi samskipti einnig nýjan keppinaut í sölu á miðstöðvarofnum, en það hafi verið Múrbúðin ehf. Í símtalinu 28. febrúar 2011 hafi átt sér stað viðræður um verðlagningu á þeim. Í ákvörðuninni er stuttlega gerð grein fyrir inntaki 26. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Þá er fjallað um efni 93. mgr. tilkynningar Eftirlitsstofnunar EFTA, Leiðbeiningar um hugtakið áhrif á viðskipti eins og það er notað í 53. og 54. gr. EES-samningsins. Þar segir að grípi fyrirtæki sem nýtur markaðsráðandi stöðu í einu EES-ríki í heild til markaðshindrandi misnotkunar geti viðskipti milli EES-ríkjanna venjulega orðið fyrir áhrifum. Misnotkun af því tagi geri keppinautum í öðrum EES-ríkjum yfirleitt erfiðara um vik að komast inn á markaðinn og viðskiptamynstur geti þá orðið fyrir áhrifum. Í ákvörðun aðaláfrýjandans Samkeppniseftirlitsins segir að sömu sjónarmið eigi við um samráð sem taki til heils aðildarríkis eða verulegs hluta þess en líta beri á landið heilt og óskipt sem landfræðilegan markað málsins. Enn fremur segir í ákvörðuninni að ekki þurfi að sýna fram á raunveruleg áhrif á viðskipti til þess að bannákvæði EES-samningsins geti átt við. Mál þetta taki til fyrirtækja sem saman hafi verið í yfirburðastöðu á skilgreindum mörkuðum málsins. Áhrif af brotum málsins séu til þess fallin að hindra núverandi og mögulega keppinauta frá öðrum EES-ríkjum í því að ná fótfestu á íslenska markaðnum. Í ljósi þessa og með hliðsjón af atvikum málsins verði að telja að brotin hafi verið til þess fallin að hafa áhrif á viðskipti milli EES-ríkja í skilningi 53. gr. EES-samningsins. Verði því einnig að beita því ákvæði í málinu. Í niðurlagi ákvörðunarinnar er rakið að á rannsóknartímabili málsins hafi gagnáfrýjandinn Byko ehf. átt í samfelldu samráði við Húsasmiðjuna ehf. Hafi brotin falist í því að eiga í reglubundnum, yfirleitt vikulegum, samskiptum við Húsasmiðjuna ehf. um verð, birgðastöðu og fleira í því skyni að hækka verð og vinna gegn verðlækkunum á grófvörum. Einnig með því að hafa haft samráð við Húsasmiðjuna ehf. í nóvember og desember 2010 um verð á miðstöðvarofnum og með samráði við Húsasmiðjuna ehf. sem átt hafi sér stað í símtali 28. febrúar 2011 og falið í sér sérstakt átak til að hækka verð og draga úr samkeppni. Samráðið hafi einnig falist í því að gagnáfrýjandinn Byko ehf. hafi gert sameiginlega tilraun með Húsasmiðjunni ehf. til að fá Múrbúðina ehf. til að taka þátt í samráði um verð á grófvöru og með því að hafa ákveðið með Húsasmiðjunni ehf. að fylgjast með aðgerðum Múrbúðarinnar ehf. á markaðnum. Einnig fyrir að hafa tekið við mikilvægum viðskiptalegum upplýsingum frá Húsasmiðjunni ehf. og að hafa átt í verðsamráði við Úlfinn lagerverslun ehf. Brotin, sem talin voru varða við 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins, voru talin hafa átt sér stað á tímabilinu 2008 til 2011 og var 650.000.000 króna stjórnvaldssekt lögð á móðurfélag gagnáfrýjandans Byko ehf., gagnáfrýjandann Norvik hf., auk þess sem fyrirmæli til gagnáfrýjandans Byko ehf. voru gefin í ákvörðuninni. 4 Hinn 11. júní 2015 beindu gagnáfrýjendur kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og kröfðust þess aðallega að ákvörðun aðaláfrýjandans Samkeppniseftirlitsins yrði felld úr gildi en til vara að hin álagða sekt yrði felld niður eða fjárhæð hennar lækkuð. Þá var þess krafist að nánar tiltekin fyrirmæli í ákvörðuninni yrðu felld úr gildi. Með úrskurði 28. september 2015 í máli nr. 6/2015 staðfesti áfrýjunarnefndin niðurstöðu aðaláfrýjandans Samkeppniseftirlitsins um brot gagnáfrýjandans Byko ehf. á 10. gr. samkeppnislaga en féllst ekki á að brotið hefði verið gegn 53. gr. EES-samningsins. Áfrýjunarnefndin hafnaði því einnig að draga mætti þá ályktun af tölvupósti forstjóra gagnáfrýjandans Byko ehf. 26. nóvember 2008 að hann hefði fengið upplýsingar um yfirvofandi aðhaldsaðgerðir frá Húsasmiðjunni ehf. Enn fremur var hafnað þeirri ályktun að Múrbúðinni ehf. hefði verið boðin þátttaka í ætluðu verðsamráði. Þá var hafnað þeirri niðurstöðu aðaláfrýjandans Samkeppniseftirlitsins að einhvers konar samráð hefði verið með gagnáfrýjandanum Byko ehf. og Húsasmiðjunni ehf. um hið ætlaða boð. Einnig var því hafnað að brot gagnáfrýjandans Byko ehf. hefði jafnframt tekið til samráðs við Húsasmiðjuna ehf. í tengslum við sölu og verðlagningu á miðstöðvarofnum. Varðandi ætlað brot gegn 53. gr. EES-samningsins taldi áfrýjunarnefndin að í hinni kærðu ákvörðun hefði ekki verið rökstutt á hvaða hátt umrædd brot hefðu getað raskað samkeppni á EES-svæðinu. Málið hafi ekki verið reifað út frá því sjónarmiði að háttsemi gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. hafi haft áhrif á erlenda birgja eða aðra viðskiptamenn í EES-ríkjum. Áfrýjunarnefndin taldi að gengið hefði verið of langt í að draga ályktanir af gögnum málsins og að brot gagnáfrýjandans Byko ehf. hefðu ekki verið eins umfangsmikil og kerfisbundin og lagt hefði verið til grundvallar í hinni kærðu ákvörðun.  Með úrskurði áfrýjunarnefndar var sektin sem ákvörðuð hafði verið lækkuð verulega og ákveðin 65.000.000 króna. Jafnframt voru felld úr gildi tilgreind ákvæði í hinni kærðu ákvörðun um viðurlög og fleira í tengslum við fyrirmæli sem gefin voru í ákvörðuninni. 5 Aðaláfrýjandinn Samkeppniseftirlitið skaut málinu til héraðsdóms með stefnu birtri 10. febrúar 2016 á hendur gagnáfrýjendum en þeir skutu málinu til héraðsdóms með stefnu birtri 26. sama mánaðar á hendur aðaláfrýjendum. Málin voru sameinuð í héraðsdómi 22. september 2016. Héraðsdómur var kveðinn upp 16. maí 2018. Dómurinn taldi að gagnáfrýjandinn Byko ehf. hefði brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og jafnframt 53. gr. EES-samningsins og féllst með örfáum undantekningum á þá niðurstöðu er fram kom í ákvörðun aðaláfrýjandans. Þá gerði dómurinn gagnáfrýjandanum Norvik hf. að greiða 400.000.000 króna sekt í ríkissjóð. Dóminum var áfrýjað til Landsréttar sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að tilgreind háttsemi gagnáfrýjandans Byko ehf. hefði falið í sér brot gegn 10. gr. samkeppnislaga en hafnaði því að 53. gr. EES-samningsins yrði beitt í málinu. Gagnáfrýjandanum Norvik hf. var gert að greiða stjórnvaldssekt í ríkissjóð að fjárhæð 325.000.000 króna og aðaláfrýjandanum íslenska ríkinu gert að greiða gagnáfrýjanda Norvik hf. 75.000.000 króna. Eftirlitsstofnun EFTA sendi héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti skriflegar athugasemdir sínar á grundvelli 2. mgr. 28. gr. samkeppnislaga. Þá voru sjónarmið stofnunarinnar reifuð munnlega fyrir Hæstarétti. 6 Undir rekstri málsins í Landsrétti óskuðu gagnáfrýjendur eftir því að dómkvaddur yrði sérfróður maður til þess að leggja mat á tvö tilgreind atriði. Laut önnur matsspurningin að því að lagt yrði mat á hvort verðmyndun á markaði fyrir grófvörur á byggingamarkaði á tímabilinu frá nóvember 2008 til og með mars 2011 hafi verið ólík verðmyndun á markaðnum á tímabilinu frá nóvember 2003 til og með október 2008 annars vegar og frá apríl 2011 til og með júní 2018 hins vegar. Ef um frávik væri að ræða var þess óskað að matsmaður kannaði hvort finna mætti aðstæður á markaði sem skýrðu frávik og greindu frá því hvaða aðstæður það væru. Með ákvörðun 8. október 2018 heimilaði Landsréttur að aflað yrði mats um þessi atriði. Nafngreindur rekstrarhagfræðingur var kvaddur til starfans með ákvörðun Landsréttar 16. sama mánaðar. Hafnað var að kveðja til matsmann vegna hinnar matsspurningarinnar. Undir rekstri málsins féllu gagnáfrýjendur á hinn bóginn frá því að matsgerðar yrði aflað. Í endurriti úr þingbók Landsréttar 25. mars 2019 kemur fram að fjallað hafi verið um kröfu gagnáfrýjenda um að fá að leiða vitni fyrir Landsrétt og einnig kröfu þeirra um að spilaðar yrðu upptökur af framburði þeirra í héraði. Hafi gagnáfrýjendur stutt kröfu sína um viðbótarskýrslugjöf fyrir Landsrétti þeim rökum að lítið hafi verið fjallað um sönnunargildi framburðar vitna í héraðsdómi heldur hafi dómurinn í forsendum sínum tekið mið af niðurstöðum í máli því sem lauk með dómi Hæstaréttar 1. desember 2016 í máli nr. 360/2015. Í ákvörðun Landsréttar 27. sama mánaðar um þessar kröfur greinir að meðal gagna málsins séu endurrit með framburði þeirra 17 vitna sem gefið hafi skýrslu við aðalmeðferð málsins í héraði. Þá hafi dómendur haft aðgang að upptökum af framburði þeirra. Í skýrslugjöf þeirra fyrir héraðsdómi hafi þeir verið beðnir um að staðfesta framburð þann sem þeir hafi gefið í sakamáli því sem lokið hafi með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar. Í ljósi framangreinds hafnaði Landsréttur því að vitni yrðu leidd fyrir dóminn og að spilaðar yrðu upptökur af framburði þeirra. III        Gagnáfrýjendur telja sig ekki hafa notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi og vísa til þess að dómur Hæstaréttar 1. desember 2016 í máli nr. 360/2015 hafi verið lagður til grundvallar í héraði og fyrir Landsrétti. Nú hátti svo til að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi komist að þeirri niðurstöðu í dómi 16. júlí 2019 í máli nr. 38797/17, Júlíus Þór Sigurþórsson gegn Íslandi, að með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar hafi verið brotið gegn rétti kærandans til réttlátrar málsmeðferðar, sbr. 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.        Í þessu sambandi ber að árétta að þótt Mannréttindadómstóll Evrópu hafi komist að þeirri niðurstöðu í fyrrgreindu máli að brotið hafi verið gegn rétti kæranda til réttlátrar málsmeðferðar í máli því sem ákæruvaldið höfðaði á hendur honum vegna refsiverðra brota gegn samkeppnislögum og laut þeim sönnunarreglum sem um sakamál gilda að réttarfarslögum, breytir það engu um meðferð og úrlausn máls þess sem fyrir réttinum er. Mál þetta er einkamál þar sem til endurskoðunar eru stjórnvaldsákvarðanir samkeppnisyfirvalda sem beindust að fyrirtækjum. Það lýtur þeim sönnunarreglum sem um slík mál gilda. Sönnunarkröfur varðandi brot fyrirtækja á samkeppnislögum verða meðal annars skýrðar í ljósi ummæla í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 52/2007 og fólu í sér endurskoðun á viðurlagaákvæðum samkeppnislaga. Þar er lýst því helsta markmiði lagabreytinganna að slík brot skuli ákveðin á grundvelli sjónarmiða stjórnsýsluréttar og fái prófun sem stjórnsýslumál en einnig að tryggja skuli eftir föngum að íslensk samkeppnislög séu túlkuð í samræmi við EES/ESB-samkeppnisrétt. Jafnframt er tilgreint að í stjórnsýslumálum vegna brota fyrirtækja á samkeppnislögum séu sönnunarkröfur ekki jafn strangar og í refsimálum sem greiði fyrir því að hægt sé að uppræta samráð fyrirtækja í stjórnsýslumáli. Af þessu er ljóst að beita verður þeim sönnunarsjónarmiðum sem EFTA-dómstóllinn og Evrópudómstóllinn hafa lagt til grundvallar í samráðsmálum um ætluð brot fyrirtækja á samkeppnislögum. Fallist hefur verið á þetta í framkvæmd mannréttindadómstólsins varðandi þýðingu 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu í samkeppnismálum og litið til þess að ríkir almannahagsmunir séu bundnir við skilvirka framkvæmd samkeppnislaga. Þannig hefur mannréttinda­dómstóllinn staðfest að þótt sektir sem samkeppnisyfirvöld leggja á fyrirtæki teljist í eðli sínu viðurlög við refsiverðu broti í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu geti þar gilt sérstakar sönnunarreglur sem ekki eru jafn strangar og í sakamálum, sbr. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 14. febrúar 2019 í máli nr. 5556/10, SA-Capital Oy gegn Finnlandi. Heildstætt mat verður því lagt á þau sönnunargögn sem liggja fyrir í málinu í samræmi við framangreind sjónarmið.         Við mat á því hvað telst sannað í málinu er byggt á gögnum sem liggja fyrir í því, þar á meðal rökstuddri ákvörðun aðaláfrýjanda Samkeppniseftirlitsins sem reist er á fjölmörgum og umfangsmiklum rannsóknargögnum sem aflað var við rannsókn aðaláfrýjandans Samkeppniseftirlitsins og lögð voru fram á fyrri dómstigum, auk þess sem fram kom í vitnisburði þeirra er fyrir héraðsdóm komu. Við meðferð málsins í héraði komu margir þeirra fyrir dóm sem vitni og áður höfðu gefið skýrslu í því sakamáli sem lauk með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar. Staðfestu þeir allir þann framburð sem þeir höfðu áður gefið. Þá gafst málsaðilum kostur á að leggja fyrir vitnin frekari spurningar varðandi sakarefni máls þessa. Enn fremur liggur fyrir að gagnáfrýjendum gafst fyrir Landsrétti kostur á að afla matsgerðar um hluta þeirra atriða sem tilgreind voru í matsbeiðni þeirra. Þeir ákváðu á hinn bóginn að falla frá matsbeiðni sinni. Jafnframt verður af þingbók Landsréttar ráðið að þeim hafi verið gefinn kostur á að reifa sjónarmið sín varðandi kröfu um að teknar yrðu skýrslur af vitnum fyrir Landsrétti. Þeirri kröfu hafnaði Landsréttur með rökstuðningi sem fram kemur í endurriti þingbókar.        Ekki verður samkvæmt framangreindu fallist á að gagnáfrýjendum hafi verið synjað um að setja fram sjálfstæðar varnir um sakarefni málsins. Um þær kröfur sem gerðar eru til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi skal einnig tekið fram að þótt sekt gagnáfrýjenda hafi verið ákveðin af stjórnvöldum hefur málið fengið endurskoðun fyrir dómstólum, bæði hvað varðar sönnunaratriði, túlkun lagaatriða og fjárhæð sektar, sbr. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 27. september 2011 í máli nr. 43509/08, A. Menarini Diagnostics S.R.L gegn Ítalíu. Þegar allt þetta er virt verður ekki fallist á að brotið hafi verið gegn rétti gagnáfrýjenda til réttlátrar málsmeðferðar við meðferð máls þessa fyrir dómi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, eins og sá réttur er einnig tryggður í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. IV 1 Í 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga er kveðið svo á um að allir samningar og samþykktir milli fyrirtækja, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir, sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað, séu bannaðar. Samkvæmt a-lið 2. mgr. lagagreinarinnar tekur bannið til samninga, samþykkta og samstilltra aðgerða sem áhrif hafa á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör með beinum eða óbeinum hætti. Með 3. gr. laga nr. 107/2000, sem færði 10. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993 í núverandi horf, voru reglur samkeppnislaga um bann við samráði og samkeppnishamlandi samstarfi milli fyrirtækja færðar til samræmis við reglur sem gilda í samkeppnisrétti á Evrópska efnahagssvæðinu. Í athugasemdum með 3. gr. í frumvarpi til laga nr. 107/2000 kom fram að með hugtakinu samstilltar aðgerðir væri átt við að „tvö eða fleiri fyrirtæki samræmi aðgerðir sínar, án þess að eiginlegur samningur sé gerður þar um. Það verður þó að teljast skilyrði að fyrirtækin sem um ræðir hafi átt með sér einhvers konar bein eða óbein samskipti, t.d. í formi fundahalda eða með því að skiptast á upplýsingum.“ Þá sagði að „skýra ber hugtakið samstilltar aðgerðir fyrirtækja rúmt og í samræmi við evrópskan samkeppnisrétt á þann hátt að hugtakið taki til sérhverra beinna eða óbeinna samskipta milli fyrirtækja, sem hafa þann tilgang að hafa áhrif á samkeppni eða hafa slík áhrif í reynd.“ Í þessu gæti meðal annars falist að fyrirtæki skiptist á upplýsingum um verð sem leiði til samræmdrar markaðshegðunar. Í 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins kemur fram að bannaðir skuli og taldir ósamrýmanlegir framkvæmd samningsins, allir samningar milli fyrirtækja, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltar aðgerðir sem geta haft áhrif á viðskipti milli samningsaðila og hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað á því svæði sem samningurinn taki til.  Samkvæmt 2. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skal meginmál EES-samningsins hafa lagagildi hér á landi. Við úrlausn málsins verður litið til 3. gr. sömu laga en samkvæmt henni skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja, sbr. dóm Hæstaréttar 27. nóvember 2019 í máli nr. 38/2019. Jafnframt verður litið til 6. gr. EES-samningsins, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993, hvað þýðingu dómsúrlausna Evrópudómstólsins og EFTA-dómstólsins varðar. Ákvæði 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins leggja ekki bann við því að fyrirtæki fylgist með hegðun keppinauta sinna og verðbreytingum þeirra og aðlagi sig að hegðun keppinautanna á skynsamlegan hátt. Verðkannanir í þeim tilgangi þjóna mikilvægu hlutverki til að tryggja virka samkeppni á markaði. Ákvæðunum er hins vegar ætlað að tryggja að samkeppnisaðilar hegði sér með sjálfstæðum hætti á markaði og taki ákvarðanir upp á eigin spýtur. Í ákvæðunum felst þannig bann við hvers konar beinum og óbeinum samskiptum milli keppinauta sem draga úr óvissu fyrirtækjanna um hegðan keppinauta þeirra með þeim afleiðingum að samkeppni er raskað, sbr. til hliðsjónar dóm Evrópudómstólsins 19. mars 2015 í máli C-286/13, Dole Food Company gegn framkvæmdastjórninni. Fákeppnismarkaðir eru sérstaklega viðkvæmir fyrir hvers konar samstarfi keppinauta þar sem auðveldara er að viðhafa samráð eða samkeppnishamlandi samhæfingu við slíkar aðstæður og því enn ríkari ástæða til að standa vörð um sjálfstæða ákvarðanatöku keppinauta og þá samkeppni sem ríkt getur á markaðnum þrátt fyrir fákeppnina, sbr. til hliðsjónar dóm Evrópudómstólsins 2. október 2003 í máli C-194/99 P, Thyssen Stahl gegn framkvæmdastjórninni. Til þess að samningar milli fyrirtækja og samstilltar aðgerðir í skilningi 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. EES-samningsins verði taldar hafa það að markmiði að raska samkeppni er nægilegt að samráðið geti mögulega raskað samkeppni. Litið er svo á að ákveðin samvinna eða samskipti milli fyrirtækja séu í eðli sínu skaðleg samkeppni. Við þær aðstæður er ekki þörf á að sýna fram á að samningarnir eða aðgerðirnar hafi haft áhrif á verðlagningu til neytenda, enda er ákvæðinu ekki einungis ætlað að vernda einstaka keppinauta eða neytendur heldur jafnframt uppbyggingu markaðarins og undirstöður samkeppninnar, sbr. til hliðsjónar dóm Evrópudómstólsins 4. júní 2009 í máli C-8/08, T-Mobile Netherlands. Við mat á því hvort upplýsingaskipti milli keppinauta feli í sér ólögmætt samráð hefur verið litið til þess hvort miðlun þeirra dregur úr eða eyðir óvissu á markaðnum þannig að samkeppni sé raskað. Af því leiðir að upplýsingaskipti geta haft það að markmiði að raska samkeppni þótt þau taki ekki til endanlegs söluverðs, eða varði upplýsingar sem unnt hafi verið að nálgast með öðrum hætti, sbr. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Evrópudómstólsins í máli Dole Food Company gegn framkvæmdastjórninni. Þá er það ekki skilyrði brots að gagnkvæm upplýsingaskipti eigi sér stað heldur nægir að einn keppinautur greini öðrum frá áformum sínum eða athöfnum á markaðnum að beiðni þess síðarnefnda eða að minnsta kosti að sá veiti upplýsingunum viðtöku, sbr. til hliðsjónar dóm undirréttar Evrópudómstólsins 8. júlí 2008 í máli nr. T-53/03, BPB gegn framkvæmdastjórninni. 2 Ágreiningslaust er að starfsmenn gagnáfrýjandans Byko ehf. höfðu árum saman kannað verð á svokölluðum grófvörum hjá Húsasmiðjunni ehf. með ýmsum hætti, þar með talið með því að afla upplýsinga um verð og skoða verðlista sem lágu frammi í verslunum. Þótt samkeppnisaðilum á markaði sé almennt heimilt að kanna verð hjá keppinautum og nota upplýsingar sem þannig er aflað sem grundvöll fyrir eigin verðákvarðanir eru samskiptum aðila í tengslum við slíkar verðkannanir skorður settar, sérstaklega á fákeppnismarkaði, þar sem tryggja verður að í samskiptunum felist ekki beint eða óbeint samráð um verð. Fyrir liggur að tilhögun verðkannana gagnáfrýjandans Byko ehf. þróaðist með tímanum á þá leið að starfsmenn félagsins öfluðu reglulega upplýsinga símleiðis frá starfsmönnum Húsasmiðjunnar ehf. einu sinni til tvisvar í mánuði til að byrja með en frá haustmánuðum 2008 allt að því vikulega. Á rannsóknartímabili málsins, frá nóvember 2008 og til og með mars 2011, voru á verðkönnunarskjali gagnáfrýjandans Byko ehf., nöfn tilgreindra starfsmanna Húsasmiðjunnar ehf. og bein símanúmer á starfsstöð þeirra. Þá var þar að finna símanúmer á aðalskrifstofu Húsasmiðjunnar ehf. og þriggja verslana. Á skjalinu voru tilgreindar meira en 100 vörutegundir í flokki grófvara sem áttu það sameiginlegt að teljast meðal mikilvægustu söluvara fyrirtækjanna. Þar voru einnig dálkar fyrir verð Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf., verðmun í prósentum auk dálks þar sem tilgreint var hvort viðkomandi vara væri á tilboðsverði eða sérmerktu/stjörnumerktu verði en þá lá fyrir að ekki yrði veittur viðbótarafsláttur af því verði. Í október 2010 bættust við dálkar fyrir Múrbúðina ehf. og Úlfinn lagerverslun ehf.  Meðal gagna málsins er eftirfarandi tölvupóstur 25. nóvember 2008 sem Stefán Pálsson, sölustjóri timbursölu gagnáfrýjandans Byko ehf., sendi Leifi Erni Gunnarssyni, verslunarstjóra timbursölu fyrirtækisins: ,,Vilt þú klára fyrir mig í dag eftirfarandi: 1. Skoða verð í aðrar tegundir í MDF, spónaplötur. 2. Athuga hvort tegundir sem ekki eru til samkvæmt verðkönnun séu til í öðrum verslunum Húsasmiðjunnar. 3. Breyta verðum hjá okkur og taka út SV og TB merkingar þar sem við á.“ Meðfylgjandi tölvupóstinum var verðkönnunarskjal fyrirtækisins 11. nóvember 2008 þar sem meðal annars kom fram að tilteknar vörur væru ekki til hjá Húsasmiðjunni ehf. og bað sölustjórinn um að ný könnun yrði gerð hjá Húsasmiðjunni ehf. Það var gert og útfyllt verðkönnunarskjal 27. nóvember 2008 sent fyrrgreindum Stefáni og Leifi Erni. Hinn 28. nóvember 2008, sem mun hafa verið föstudagur, sendi Stefán Leifi Erni aftur tölvupóst og sagði að það vantaði eitthvað ,,nýtt eins og við töluðum um. Ég verð að fá þetta fyrir kl. 8.30“. Í ákvörðun aðaláfrýjandans Samkeppniseftirlitsins er rakið að framkvæmdastjórnarfundir hafi iðulega verið haldnir á föstudagsmorgnum og að það hafi verið ástæða þess að óskað hafi verið eftir að upplýsingarnar bærust ,,fyrir kl. 8.30.“ Framkvæmdastjóri fagsölusviðs gagnáfrýjandans Byko ehf. mun hafa setið hina reglulegu framkvæmdastjórnarfundi. Í dagbók hans 28. nóvember 2008 er svohljóðandi færsla: ,,Verðkönnun grófum vörum Húsa talsvert hærri og upp ... í krossvið. Hækkum verð á vöru eftir vandlega skoðun á samkeppnisaðilum og verði þeirra. SBB/Pand búið annað kvöld.“ Meðal gagna málsins er skýrsla sem Ragnar Már Amazeen, þáverandi starfsmaður gagnáfrýjandans Byko ehf., gaf hjá lögreglu 8. mars 2011. Þar staðfesti hann að hafa kannað verð í að lágmarki þrjú ár hjá Húsasmiðjunni ehf. Það er í samræmi við framburð Kristjáns Jóns Ágústssonar hjá lögreglu 14. sama mánaðar, en hann starfaði í þjónustuveri Húsasmiðjunnar ehf. Fram er komið í málinu að á árunum 2008 og 2009 hafi eðli samskipta fyrirtækjanna breyst þannig að í stað nafnlausra símtala starfsmanna gagnáfrýjandans Byko ehf. við ýmsa starfsmenn Húsasmiðjunnar ehf. hafi einkum einn starfsmaður gagnáfrýjandans Byko ehf., samkvæmt fyrirmælum yfirmanns, byrjað að hringja í tvo tilgreinda starfsmenn Húsasmiðjunnar ehf., kynnt sig og aflað verðupplýsinga. Gögn málsins sýna enn fremur að frá janúar 2010 hafi starfsmenn Húsasmiðjunnar ehf. notað sama verðkönnunarskjal og gagnáfrýjandinn Byko ehf. í samskiptum fyrirtækjanna. Eins og rakið hefur verið verður af gögnum málsins skýrlega ráðið að upplýsingum sem fengust í samtölum starfsmannanna hafi verið miðlað áfram til stjórnenda gagnáfrýjandans Byko ehf. og fjallað um þær á framkvæmdastjórnarfundum félagsins. Ekki verður önnur ályktun dregin af framangreindu og því sem fram kemur í gögnum málsins að öðru leyti en að tilgangur samskiptanna hafi verið að fá gleggri mynd af vöruverði og stöðu keppinautarins á markaði málsins, þar með talið birgðastöðu hans, en viðskiptavinum og öðrum samkeppnisaðilum fyrirtækjanna stóð til boða. Framangreind ályktun fær stoð í þeirri sátt sem Húsasmiðjan ehf. gerði við aðaláfrýjandann Samkeppniseftirlitið, þótt við mat á þýðingu hennar verði að taka nokkurt tillit til þeirra aðstæðna sem uppi voru hjá Húsasmiðjunni ehf. þegar hún var gerð. Við mat á sönnun á atvikum í máli þessu þykir mega horfa til þess sem fram kemur í sáttinni, sbr. dóm Hæstaréttar 27. nóvember 2014 í máli nr. 112/2014. Í sáttinni viðurkennir Húsasmiðjan ehf. að hafa á rannsóknartímabilinu brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins með hinum reglubundnu, yfirleitt vikulegu, samskiptum við gagnáfrýjandann Byko ehf. um verð, birgðastöðu og fleira í því skyni að hækka verð og vinna gegn verðlækkun á grófvörum. Evrópudómstóllinn hefur slegið því föstu að það fari ekki gegn grundvallarréttindum aðila máls að styðjast við viðurkenningu eins aðila við mat á sönnun um brot annars að samráði, sbr. til hliðsjónar dóm 19. desember 2013 í sameinuðum málum C-239/11 P, Siemens o.fl. gegn framkvæmdastjórninni. Samskipti gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. gerðu fyrirtækjunum kleift að fá mikið magn upplýsinga um verð, tilboðsverð og birgðastöðu keppinautar á flóknum markaði með reglubundnari, einfaldari, skjótvirkari og beinni hætti en öðrum á markaði og viðskiptavinum stóð til boða. Þessi samskipti voru til þess fallin að draga úr óvissu á milli fyrirtækjanna um framtíðarhegðun keppinautarins sem varð fyrir vikið gagnsærri og fyrirsjáanlegri, sbr. til hliðsjónar dóm Evrópudómstólsins 19. mars 2015 í máli C-286/13, Dole Food Company gegn framkvæmdastjórninni. Samskiptin fólu í sér samstilltar aðgerðir sem höfðu það að markmiði að halda uppi verði og röskuðu þar með samkeppni á milli fyrirtækjanna í andstöðu við 10. gr. samkeppnislaga. Að virtu framangreindu getur það ekki haft úrslitaþýðingu í þessu sambandi hvort verðupplýsingar, sem látnar voru í té, hafi að hluta til verið upplýsingar um gildandi verð og aðgengilegar sem slíkar. 3 Eins og rakið hefur verið hófst mál þetta í kjölfar þess að fyrirsvarsmenn Múrbúðarinnar ehf. sneru sér til aðaláfrýjandans Samkeppniseftirlitsins 15. október 2010 og óskuðu eftir fundi, þar sem þeir vildu upplýsa um ,,tilraunir Byko og Húsasmiðjunnar“ til þess að fá Múrbúðina ehf. til að taka þátt í ólögmætu samráði. Í kjölfar þessa hófst rannsókn á brotum Húsasmiðjunnar ehf. og gagnáfrýjandans Byko ehf. á samkeppnislögum.  Í ákvörðun aðaláfrýjandans Samkeppniseftirlitsins er því lýst að starfsmenn gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. hafi gengið hart fram í því að fá upplýsingar um verð á grófvöru, birgja og fleira frá Múrbúðinni ehf., en á þeim tíma hafði hún ekki enn opnað verslun sína með grófvöru á byggingavörumarkaði. Símtöl lykilstarfsmanna gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. á sviði grófvöru við starfsmenn Múrbúðarinnar ehf. voru einnig tíð en að auki komu starfsmennirnir oft í húsnæði Múrbúðarinnar ehf. Framangreind sátt Húsasmiðjunnar ehf. við aðaláfrýjandann Samkeppniseftirlitið 9. júlí 2014 rennir jafnframt stoðum undir að gagnáfrýjandinn Byko ehf. hafi gert tilraun til að fá Múrbúðina ehf. til að taka þátt í samráði um verð á grófvöru og með því að hafa ákveðið með Húsasmiðjunni ehf. að fylgjast með aðgerðum Múrbúðarinnar ehf. á markaðnum. Er því fallist á að þessi samskipti gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. hafi verið liður í ólögmætu samráði fyrirtækjanna. Fallist er á það mat hins áfrýjaða dóms, með þeim röksemdum er þar greinir, að staðfesta beri þá niðurstöðu í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála að dagbókarfærsla forstjóra gagnáfrýjandans Byko ehf. 19. febrúar 2010 gefi til kynna að honum hafi borist upplýsingar um fjölmarga þætti í rekstri og starfsemi Húsasmiðjunnar ehf. á árunum 2008 til 2009 og að í því hafi falist ólögmætt samráð. Þá er fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að um ólögmætt samráð hafi verið að ræða í október 2010 á vettvangi stjórna gagnáfrýjenda og Húsasmiðjunnar ehf. sem hafi falist í því að gagnáfrýjandanum Byko ehf. voru veittar upplýsingar frá Húsasmiðjunni ehf. um fyrirhugaðar breytingar á verðstefnu félagsins. Jafnframt er fallist á það mat hins áfrýjaða dóms að í símtali 28. febrúar 2011 milli framkvæmdastjóra fagsölusviðs gagnáfrýjandans Byko ehf. og vörustjóra í timbursölu Húsasmiðjunnar ehf. hafi falist víðtækt og alvarlegt verðsamráð. Einnig er fallist á það mat hins áfrýjaða dóms að ekki verði talið sannað að gagnáfrýjandinn Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf. hafi haft ólögmætt samráð um sölu og verð á miðstöðvarofnum í nóvember og desember 2010 og febrúar 2011. 4 Samkvæmt ákvörðun aðaláfrýjandans Samkeppniseftirlitsins markaðist upphaf samráðstímabilsins af tölvupósti þáverandi forstjóra gagnáfrýjandans Byko ehf. til stjórnar félagsins 26. nóvember 2008. Með þeim röksemdum er greinir í hinum áfrýjaða dómi er fallist á það mat dómsins að tilvikið verði ekki talið hluti af samfelldu samráði félagsins og Húsasmiðjunnar ehf. Á hinn bóginn verður lagt til grundvallar, með vísan til þess sem að framan er rakið um tilhögun verðkannana gagnáfrýjandans Byko ehf., að aðaláfrýjandanum Samkeppniseftirlitinu hafi tekist sönnun þess að samskipti gagnáfrýjandans Byko ehf. við Húsasmiðjuna ehf. hafi á rannsóknartímabili málsins verið til þess fallin að raska samkeppni á þeim markaði er málið lýtur að. Breytir engu um þá niðurstöðu þótt samskipti félaganna hafi í upphafi rannsóknartímabilsins ekki verið jafn gagnkvæm og kerfisbundin og raun varð á síðar. 5 Í ákvörðun aðaláfrýjandans Samkeppniseftirlitsins er byggt á því að í háttsemi gagnáfrýjandans Byko ehf., sem lýst hefur verið, hafi ekki einungis falist brot gegn 10. gr. samkeppnislaga heldur einnig brot gegn 53. gr. EES-samningsins. Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. samkeppnislaga skulu Samkeppniseftirlitið, áfrýjunarnefnd samkeppnismála og íslenskir dómstólar beita 53. gr. EES-samningsins eftir því sem kveðið er á um í lögum. Í 1. mgr. 26. gr. samkeppnislaga kemur fram að ef fyrrnefndar stofnanir eða dómstólar beiti ákvæðum laganna vegna samninga fyrirtækja, ákvarðana samtaka fyrirtækja eða samstilltra aðgerða í skilningi 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, sem gætu haft áhrif á viðskipti milli aðila að EES-samningnum, skuli þau einnig beita 53. gr. EES-samningsins að því er varðar slíka samninga, ákvarðanir eða samstilltar aðgerðir. Í athugasemdum með 26. gr. í frumvarpi til samkeppnislaga segir að í ákvæðinu, sem sé nýmæli, sé fjallað um samspil samkeppnislaga og samkeppnisreglna EES-samningsins. Ef áhrifa af aðgerðum fyrirtækja gæti á Evrópska efnahagssvæðinu og hér á landi þannig að 53. EES-samningsins eigi við, svo og 10. gr. samkeppnislaga, skuli báðum bálkum beitt. Samhliða beiting geti haft í för með sér ólíkar niðurstöður eftir því hvort regluverkið er lagt til grundvallar. Stangist ákvæðin á skuli innlendur samkeppnisréttur víkja. Þá segir að ef skilyrðið um áhrif á viðskipti á Evrópska efnahagssvæðinu sé ekki uppfyllt verði 53. gr. EES-samningsins ekki beitt heldur aðeins samkeppnislögum. Þar sem ákvæðið sé samhljóða 10. gr. samkeppnislaga sé lítil hætta á að beiting ákvæðanna skarist. Skilyrðið um áhrif á viðskipti er sjálfstætt skilyrði EES-réttar sem ber að meta með sjálfstæðum hætti í hverju máli. Skilyrðið takmarkar gildissvið 53. gr. EES-samningsins við samninga og samstilltar aðgerðir sem geta haft áhrif umfram tiltekið lágmark á viðskipti milli ríkja á því landsvæði sem EES-samningurinn tekur til. Við mat á því hvort skilyrðið er uppfyllt ber að horfa til þess hvort unnt er að sjá fyrir með nægjanlegum líkum út frá hlutlægum viðmiðum að samningar eða samstilltar aðgerðir geti haft bein eða óbein, raunveruleg eða hugsanleg, áhrif á mynstur viðskipta milli EES-ríkjanna, sbr. til hliðsjónar dóm Evrópudómstólsins 16. júlí 2015 í máli C-172/14, ING Pensii. Þarf því ekki að sýna fram á að samningar eða samstilltar aðgerðir muni hafa eða hafi haft áhrif á viðskipti milli EES-ríkjanna heldur er nægilegt að þau séu til þess fallin að hafa slík áhrif. Meðal þeirra þátta sem þarf að meta er eðli samninganna og samstilltu aðgerðanna og þeirra vara sem þau taka til og stöðu hlutaðeigandi fyrirtækja á viðeigandi markaði.  Samningar og samstilltar aðgerðir í skilningi 53. gr. EES-samningsins sem taka til eins EES-ríkis í heild geta venjulega haft áhrif á viðskipti milli EES-ríkjanna, sbr. til hliðsjónar dóm Evrópudómstólsins 11. júlí 2013 í máli C-439/11 P, Ziegler gegn framkvæmdastjórninni. Áður hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að þau samskipti sem fjallað er um í málinu á milli gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. hafi haft það að markmiði að raska samkeppni og brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga. Líta verður á landið heilt og óskipt sem landfræðilegan markað málsins og náðu samkeppnishamlandi aðgerðir gagnáfrýjenda þannig til landsvæðis ríkis, innan Evrópska efnahagssvæðisins, í heild sinni. Í ljósi þess að fyrirtækin voru í yfirburðastöðu á skilgreindum mörkuðum málsins og aðgerðir þeirra beindust að vörum sem voru að stórum hluta fluttar inn frá öðrum EES-ríkjum og endurseldar á Íslandi, auk þess sem þau gátu torveldað að mögulegir keppinautar frá öðrum EES-ríkjum næðu fótfestu á mörkuðum málsins, verður að telja að hin ólögmætu samskipti hafi verið til þess fallin að hafa áhrif á mynstur viðskipta milli EES-ríkjanna í skilningi 53. gr. EES-samningsins. Af þessu leiðir að í málinu ber að beita ákvæði 53. gr. EES-samningsins samhliða 10. gr. samkeppnislaga. Háttsemi gagnáfrýjandans Byko ehf. var því bæði í andstöðu við 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins. V Í a- og j-lið 1. mgr. 37. gr. samkeppnislaga er kveðið á um að Samkeppniseftirlitið leggi stjórnvaldssekt á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja sem brjóti gegn banni samkvæmt 10. gr. laganna og 53. gr. EES-samningsins. Í 2. mgr. 37. gr. laganna er mælt fyrir um að sektir geti numið allt að 10% af heildarveltu síðasta rekstrarárs hjá hverju því fyrirtæki eða þeim samtökum fyrirtækja sem aðild eigi að broti. Ef brot samtaka fyrirtækja tengjast starfsemi aðila þeirra skal fjárhæð sektar ekki vera hærri en 10% af heildarveltu hvers aðila þeirra sem er virkur á þeim markaði sem brot samtakanna tekur til. Við ákvörðun um fjárhæð sekta skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota, hvað brot hafa staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ýmsir aðrir þættir hafa þó áhrif við ákvörðun sektarfjárhæðar, þar á meðal að álögð sekt sé til þess fallin að skapa varnaðaráhrif meðal annars með tilliti til fjárhagslegs styrkleika aðila. Hugtakið fyrirtæki í samkeppnisrétti sætir sjálfstæðri skýringu og vísar til efnahagslegrar einingar fremur en lögformlegrar, sbr. dóm Hæstaréttar 27. nóvember 2014 í máli nr. 112/2014. Um efnahagslega einingu er að ræða í tilviki móðurfélags og dótturfélags þegar hið síðarnefnda hefur ekki raunverulegt frelsi til að ákveða aðgerðir sínar á markaði. Hefur samkeppnisyfirvöldum í slíkum tilvikum verið játuð heimild til að leggja sekt á móðurfélagið fyrir brot dótturfélagsins á 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins með þeim rökum að eðlilegt sé að sá, sem á endanum hefur arð af starfsemi hins brotlega fyrirtækis, hlíti viðurlögum vegna brotsins. Fyrir liggur að gagnáfrýjandinn Byko ehf. var á öllu rannsóknartímabili málsins alfarið í eigu gagnáfrýjandans Norvik hf. Samkvæmt dómaframkvæmd eru löglíkur fyrir því að félög séu, þegar þannig háttar til, ein efnahagsleg eining í skilningi samkeppnislaga og teljist eitt og sama fyrirtækið í skilningi 37. gr. þeirra. Þeim löglíkum hafa gagnáfrýjendur ekki hnekkt í máli þessu. Samkvæmt því var aðaláfrýjandanum Samkeppniseftirlitinu heimilt að beita gagnáfrýjandann Norvik hf. viðurlögum, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Í ákvörðun aðaláfrýjandans Samkeppniseftirlitsins og hinum áfrýjaða dómi eru rakin sjónarmið um fjárhagslegan styrkleika gagnáfrýjenda. Eins og þar kemur fram var heildarvelta móðurfélags gagnáfrýjandans Byko ehf., gagnáfrýjandans Norvik hf., á árinu 2014, 36,6 milljarðar króna og eigið fé í árslok 2014, 14,2 milljarðar króna. Fjárhagslegur styrkur gagnáfrýjandans Norvik hf. var því töluverður og sekt sú sem félaginu var gert að greiða með ákvörðun aðaláfrýjandans Samkeppniseftirlitsins því langt innan þeirra marka sem kveðið er á um í 2. mgr. 37. gr. samkeppnislaga. Samkvæmt því sem rakið hefur verið fólust brot gagnáfrýjenda gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins í reglubundnum og tíðum samskiptum gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. þar sem meðal annars var aflað upplýsinga um verð, þeim miðlað áfram til stjórnenda fyrirtækjanna og fjallað um þær á fundum framkvæmdastjórnar gagnáfrýjandans Byko ehf. Þá skiptust stjórnir gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. á upplýsingum í febrúar 2010 um afkomu og rekstur þess síðarnefnda og hugmyndum um breytingar á verðstefnu þess á haustmánuðum 2010. Auk þess var um ólögmætt samráð gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. að ræða í tilraun þeirra til að fá Múrbúðina ehf. til þess að taka þátt í verðsamráðinu. Loks liggur fyrir endurrit símtals sem framkvæmdastjóri fagsölusviðs gagnáfrýjandans Byko ehf. átti við starfsmann Húsasmiðjunnar ehf. 28. febrúar 2011 þar sem hvatt var til víðtæks verðsamráðs. Í þessu símtali kemur fram einbeittur vilji til alvarlegs samráðs og fólst í því gróft brot gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Öll brot gagnáfrýjandans Byko ehf. voru alvarleg og fólu í sér skipulagt og kerfisbundið samráð milli fyrirtækja sem voru nánast einráð á þeim markaði sem brotin tóku til. Markaður málsins er mikilvægur fyrir almenning og beindust brotin því að mikilsverðum hagsmunum neytenda. Eins og rakið hefur verið telst hið samfellda samráð hafa staðið allt rannsóknartímabil málsins. Við ákvörðun fjárhæðar sektarinnar er horft til mikilvægis þess að tryggja almenn og sérstök varnaðaráhrif vegna brota gegn samkeppnislögum en jafnframt til þess hversu lengi samráð gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. stóð. Að öllu framangreindu virtu verður gagnáfrýjandanum Norvik hf. gert að greiða 400.000.000 króna sekt í ríkissjóð, en tekið skal fram að hann greiddi 65.000.000 króna af þeirri fjárhæð í ríkissjóð með fyrirvara 30. október 2015 í kjölfar úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála og 335.000.000 króna til viðbótar 29. maí 2018 í kjölfar héraðsdóms. Samhliða er fellt úr gildi ákvæði í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 28. september 2015 í máli nr. 6/2015 um 65.000.000 króna sekt gagnáfrýjenda í ríkissjóð. Jafnframt verða aðaláfrýjendur sýknaðir af kröfum gagnáfrýjenda. Eftir þessum úrslitum verður staðfest ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gagnáfrýjendum gert að greiða aðaláfrýjendum málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Fellt er úr gildi ákvæði í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 28. september 2015 í máli nr. 6/2015 um 65.000.000 króna sekt gagnáfrýjenda, Byko ehf. og Norvik hf., í ríkissjóð. Gagnáfrýjandinn Norvik hf. greiði 400.000.000 króna sekt í ríkissjóð. Aðaláfrýjendur, Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið, eru sýkn af kröfum gagnáfrýjenda. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skulu vera óröskuð. Gagnáfrýjendur greiði óskipt aðaláfrýjandanum Samkeppniseftirlitinu, 2.000.000 króna í málskostnað fyrir Hæstarétti og aðaláfrýjandanum íslenska ríkinu, 1.000.000 króna í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Dómur Landsréttar Mál þetta dæma landsréttardómararnir Hervör Þorvaldsdóttir, Jóhannes Sigurðsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.   Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1 Aðaláfrýjendur skutu málinu til Landsréttar 12. júní 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2018 í málinu nr. E-550/2016. Héraðsdómi var gagnáfrýjað 13. júní 2018. 2 felldur verði úr gildi úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 28. september 2015 í málinu nr. 6/2015, að felld verði úr gildi ákvörðun gagnáfrýjanda Samkeppniseftirlitsins 15. maí 2015 nr. 11/2015 og að stefnda íslenska ríkið greiði aðaláfrýjandanum Norvik hf. 400.000.000 króna með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Til vara að sekt að fjárhæð 65.000.000 króna sem aðaláfrýjandanum Norvik hf. var þar gert að greiða, verði felld niður eða lækkuð og að stefnda íslenska ríkinu verði gert að greiða aðaláfrýjandanum Norvik hf. mismun á 400.000.000 króna og þeirri sekt sem ákvörðuð verður með dómi ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Þá krefjast aðaláfrýjendur málskostnaðar fyrir héraðsdómi og Landsrétti. 3          Gagnáfrýjandi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en því að aðaláfrýjandanum Norvik hf. verði gert að greiða 650.000.000 króna sekt er renni í ríkis­sjóð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Lands­rétti. 4          Stefndi íslenska ríkið krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um sýknu af kröfum aðaláfrýjenda og skyldu aðaláfrýjenda til greiðslu málskostnaðar, auk málskostnaðar fyrir Landsrétti. Málsatvik og sönnunarfærsla 5          Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi er upphaf máls þessa að gagnáfrýjanda barst ábending 15. október 2010 frá Múrbúðinni ehf. um mögulegt brot aðaláfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. á 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 vegna tilraunar þeirra til að fá Múrbúðina ehf. til að taka þátt í ólöglegu verðsamráði á haustmánuðum 2010. Í framhaldi af ábendingunni hóf gagnáfrýjandi rannsókn og kærði jafnframt málið til ríkissaksóknara 30. nóvember 2010. Í tengslum við þá rannsókn í mars 2011 fóru fram húsleitir auk þess sem símar voru hlustaðir. 6          Að lokinni lögreglurannsókn gaf sérstakur saksóknari út ákæru á hendur 12 einstaklingum vegna brota á ákvæðum 10. gr. samkeppnislaga um ólögmætt verðsamráð. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 9. apríl 2015 voru allir ákærðu utan einn sýknaðir af ákærum. Sá sakfelldi var dæmdur í mánaðarlangt fangelsi fyrir að hafa hvatt til verðsamráðs en fullnustu refsingarinnar var frestað. Með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 360/2015 1. desember 2016 voru átta hinna ákærðu dæmdir fyrir brot gegn 10. gr. samkeppnislaga og dæmdir til fangelsisrefsingar en tveir ákærðu voru sýknaðir. 7          Að lokinni frumathugun á stjórnsýslumálinu gegn aðaláfrýjandanum Byko ehf. og Húsasmiðjunni ehf. gaf gagnáfrýjandi út andmælaskjal 2. maí 2014. Í andmælaskjalinu var komist að þeirri frumniðurstöðu að aðaláfrýjandinn Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf. hefðu haft með sér ólögmætt verðsamráð sem bryti gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem lögfestur var með lögum nr. 2/1993. Í framhaldi af útgáfu andmælaskjalsins 9. júlí 2014 gerði Húsasmiðjan ehf. sátt við gagnáfrýjanda þar sem hún féllst á að greiða 325.000.000 króna vegna samráðsbrota. 8          Með ákvörðun gagnáfrýjanda 15. maí 2015 var komist að þeirri niðurstöðu að aðaláfrýjandinn Byko ehf. hefði brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Var aðaláfrýjandanum Norvik hf. gert að greiða 650.000.000 króna í stjórnvaldssekt. Ákvörðun gagnáfrýjanda var einkum byggð á því að verðkannanir á svonefndri grófvöru á byggingamarkaði og önnur samskipti aðaláfrýjandans Byko ehf. við Húsasmiðjuna ehf. á tímabilinu nóvember 2008 til mars 2011 hafi falið í sér skipulagt, markvisst og samfellt samráð sem hafi haft það að markmiði að takmarka verðsamkeppni fyrirtækjanna. Undir grófvörur falla meðal annars vörutegundirnar timbur, spónaplötur, krossviður, gifsplötur, stálprófílar, kambstál, steinull, bárustál, þakpappi og gagnvarið pallaefni. Í ákvörðuninni var einkum á því byggt að með vikulegum verðkönnunum aðaláfrýjandans Byko ehf. á um það bil 105 tegundum af grófvörum, sem hafi í fyrstu verið einhliða en síðar á rannsóknartímabilinu orðið gagnkvæmar, hafi átt sér stað upplýsingaskipti sem hafi orðið grundvöllur verðákvarðana fyrirtækjanna og dregið úr nauðsynlegri óvissu um verðákvarðanir á markaðinum. Ákvörðunin byggðist einnig á því að í nánar tilgreindum tilvikum hafi aðaláfrýjandinn Byko ehf. hvatt til eða haft verðsamráð meðal annars með því að fá fyrirtæki á sama markaði, Múrbúðina ehf. og Úlfinn ehf., til verðsamráðs. Þá var einnig byggt á því að í nokkrum tilvikum hefði aðaláfrýjandinn Byko ehf. fengið trúnaðarupplýsingar um rekstur og starfsemi Húsasmiðjunnar ehf. sem hafi verið liður í ólögmætum upplýsingaskiptum. Tilvik þessi eru ítarlega rakin í hinum áfrýjaða dómi og verða þeim gerð nánari skil hér síðar eftir því sem tilefni er til við endurskoðun hins áfrýjaða dóms. 9          Aðaláfrýjendur skutu ákvörðun gagnáfrýjanda til áfrýjunarnefndar samkeppnismála 11. júní 2015. Áfrýjunarnefndin úrskurðaði 28. september 2015 að aðaláfrýjandinn Byko ehf. hefði brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga í öllum nema þremur af þeim tilvikum sem ákvörðun gagnáfrýjanda byggðist á. Nefndin hafnaði því að tilraunir til öflunar verðupplýsinga hjá Múrbúðinni ehf. hafi falið í sér samráðsbrot. Þá var því einnig hafnað að upplýsingaskipti um gæðavottun og verðlagningu miðstöðvarofna hafi falið í sér brot svo og að upplýsingar um yfirvofandi aðhaldsaðgerðir Húsasmiðjunnar ehf. hafi falið í sér skipti á trúnaðarupplýsingum. Þá taldi nefndin að gagnáfrýjandi hefði ekki sýnt fram á það með rökum að brotið hafi verið gegn ákvæði 53. gr. EES-samningsins. Komst áfrýjunarnefndin að þeirri niðurstöðu að gagnáfrýjandi hefði gengið of langt í ályktunum sínum af gögnum málsins og að brot aðaláfrýjandans Byko ehf. hafi ekki verið jafn umfangsmikil og kerfisbundin og gagnáfrýjandi lagði til grundvallar í ákvörðun sinni. Sektarfjárhæðin væri því úr hófi fram há og lækkaði áfrýjunarnefndin stjórnvaldssektina í 65.000.000 króna. 10         Gagnáfrýjandi höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu 10. febrúar 2016 til þess að fá ákvörðun áfrýjunarnefndarinnar hnekkt. Aðaláfrýjendur gáfu út gagnstefnu 26. febrúar 2016 í þeim tilgangi að fá ákvörðun áfrýjunarnefndarinnar fellda úr gildi. Í hinum áfrýjaða dómi sem kveðinn var upp 16. maí 2018 var fallist á niðurstöður áfrýjunarnefndarinnar um brot aðaláfrýjandans Byko ehf. gegn 10. gr. samkeppnislaga og að auki talið að brotið hefði verið gegn 53. gr. EES-samningsins. Í dóminum var jafnframt talið að samskipti starfsmanna aðaláfrýjandans Byko ehf. við starfsmenn Múrbúðarinnar ehf. hefðu falið í sér brot gegn 10. gr. samkeppnislaga. Í ljósi atvika taldi héraðsdómur að fjárhæð stjórnsýslusektarinnar skyldi vera 400.000.000 króna. 11         Ekki er ágreiningur um að atvikum málsins sé réttilega lýst í hinum áfrýjaða dómi en að ágreiningsefni málsins snúi fyrst og fremst að því hvernig meta beri háttsemi starfsmanna aðaláfrýjandans Byko ehf. í tengslum við framkvæmd verðkannana og hvor málsaðila beri sönnunarbyrði um tiltekna þætti málsins. Þá er deilt um það hvað nánar fólst í samskiptum starfsmanns Byko ehf. við starfsmann Múrbúðarinnar ehf. Af þessum sökum er ekki tilefni til að rekja atvik málsins nánar umfram það sem gert verður í niðurstöðukafla þessa dóms þegar tekið verður til skoðunar hvort meint samráðstilvik hafi falið í sér brot gegn 10. gr. samkeppnislaga og eftir atvikum 53. gr. EES-samningsins. 12         Undir rekstri málsins fyrir Landsrétti lögðu aðaláfrýjendur fram matsbeiðni. Í matsbeiðninni kom fram að tilgangur matsins væri að afla álits sérfróðs og óvilhalls manns á eftirfarandi spurningum: „1. Var verðmyndun á markaði fyrir grófvörur á byggingarmarkaði á tímabilinu frá nóvember 2008 til og með mars 2011, ólík verðmyndun á markaðnum á tímabilinu frá nóvember 2003 til og með október 2008 annars vegar, og frá apríl 2011 til og með júní 2018 hins vegar? Ef um frávik var að ræða, er þess óskað að matsmaður kanni hvort finna megi aðstæður á markaði sem skýri frávik, og greini frá því hvaða aðstæður það voru. 2. Var sú aðferð við verðkannanir sem viðhöfð var af hálfu Byko ehf. og Húsasmiðjunnar hf. sem lýst er í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015, frábrugðin þeim sem almennt eru notaðar við verðkannanir: (i) á smásölumörkuðum hérlendis, (ii) á smásölumörkuðum erlendis, eða (iii) á byggingarvörumörkuðum erlendis. Ef hún var frábrugðin, meti matsmaður í hverju frávikin fólust og hver voru áhrif þeirra.“ Landsréttur samþykkti 8. október 2018 dómkvaðningu matsmanns til þess að svara fyrri spurningunni þar sem ekki væri útlokað að svör við henni gætu haft þýðingu við úrlausn málsins. Seinni spurningunni var á hinn bóginn hafnað, einkum á þeim grundvelli að ekki yrði séð að upplýsingar um fyrirkomulag á verðkönnunum í öðrum löndum gæti haft nokkra þýðingu við úrlausn á því álitaefni sem uppi er í málinu. Ekki væri um það deilt að verðkannanir samkeppnisaðila væru heimilar og í raun æskilegar út frá samkeppnissjónarmiðum. Til þess að verðkannanir gætu talist þáttur í samstilltum aðgerðum sem hafa að markmiði eða af þeim leiði að komið sé í veg fyrir samkeppni þarf eitthvað sérstakt að koma til, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 360/2015. Með bréfi aðaláfrýjenda til Landsréttar 26. febrúar 2019 var upplýst að fallið væri frá matsbeiðninni. Niðurstaða Um formhlið málsins 13         Í greinargerð aðaláfrýjenda til Landsréttar er því haldið fram að brotið hafi verið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar við meðferð málsins í héraði. Í fyrsta lagi þar sem ósk þeirra um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins í málinu hafi verið hafnað. Í öðru lagi þar sem þeim hafi verið synjað um að afla matsgerðar. Í þriðja lagi þar sem ekki hafi verið talin þörf á að dómurinn væri fjölskipaður og í fjórða lagi að ekkert mat sé lagt á framburð vitna sem gefið hafi skýrslu fyrir dóminum. 14         Með dómi Hæstaréttar Íslands 1. júní 2017 í málinu nr. 298/2017 var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að ekki yrði aflað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Vísað var til þess að með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 360/2015 hafi 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga, sem sé sama efnis og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins verið skýrð með þeim hætti að sú háttsemi, sem ákært var fyrir og sé sú sama og mál þetta er sprottið af, hafi verið ólögmæt. Því hafi Hæstiréttur á grundvelli viðeigandi íslenskra laga leyst úr þeim álitaefnum sem aðaláfrýjendur hafi krafist að leitað skyldi álits á fyrir EFTA-dómstólnum. 15         Með dómi 27. apríl 2017 í málinu nr. 224/2017 staðfesti Hæstiréttur jafnframt úrskurð héraðsdóms að hafna beiðni aðaláfrýjenda um dómkvaðningu matsmanns. Byggði dómurinn niðurstöðu sína á því að samkvæmt 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri matsgerð tilgangslaus til sönnunar þar sem ekki þyrfti annarrar sérþekkingar við til að meta það sem óskað var eftir mati á en lagaþekkingar, sbr. 2. mgr. 60. gr. sömu laga. Sem fyrr greinir fengu aðaláfrýjendur undir rekstri þessa máls fyrir Landsrétti dómkvaddan matsmann til að meta aðra af tveimur spurningum sem beiðnin laut að. Þannig liggur fyrir að aðaláfrýjendur hafa með þessum hætti í tvígang leitast við að færa sönnur að því að háttsemi starfsmanna þeirra hafi ekki brotið gegn 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins. Þótt ákvæði laga nr. 91/1991 geri ráð fyrir að unnt sé að hnekkja sönnunarmati Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 360/2015 um málsatvik, þá þarf sú sönnunarfærsla, líkt og almennt gildir, allt að einu að rúmast innan þeirra heimilda sem ákvæði laganna marka og getið er um að framan, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 224/2017 og fyrrgreinda ákvörðun Landsréttar. 16         Þá er til þess að líta að 1. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 mælir fyrir um þá meginreglu að einn dómari skipi dóm í hverju máli í héraði. Ákvæði 2. og 3. mgr. sömu greinar heimila undantekningu þar frá ef héraðsdómur telur þörf á, að þar tilgreindum skilyrðum uppfylltum. Í fyrirliggjandi máli lá fyrir héraðsdómi að meta hvort tiltekin háttsemi bryti gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Það lögfræðilega mat var grundvallað á framburði vitna og öðrum gögnum sem lögð voru fyrir héraðsdóm. Þá þykir málið ekki þannig vaxið að 3. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 eigi við. 17         Með hinum áfrýjaða dómi var til samræmis við 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála lagt til grundvallar að þau málsatvik sem um var fjallað í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 360/2015 hefðu sönnunargildi við meðferð málsins þar til hið gagnstæða sannaðist. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur tekið til efnismeðferðar kvörtun dómfelldu í nefndu máli Hæstaréttar nr. 360/2015 sem er reist á því að Hæstiréttur hafi endurskoðað mat héraðsdóms á framburði vitna og ákærðu án þess að þau hafi komið fyrir Hæstarétt. Ákærðu og vitni sem gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi, sem síðar lauk með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 360/2015, komu að nýju fyrir dóm sem vitni við meðferð þessa máls í héraði og staðfestu þar skýrslur sínar í sakamálinu auk þess sem þau svöruðu viðbótarspurningum. Þar gafst aðaláfrýjendum fullt tækifæri til að fá nánari upplýsingar frá vitnum og færa þannig fram sönnur sem eftir atvikum gætu hnekkt sönnunarmati Hæstaréttar í málinu nr. 360/2015. Héraðsdómara bar því að meta hvað teldist sannað með hliðsjón af dómi Hæstaréttar, vitnisburðum fyrir héraðsdómi við meðferð þessa máls og skjallegum gögnum. Af forsendum hins áfrýjaða dóms er ljóst að það mat fór fram og það mat sætir nú endurskoðun Landsréttar. 18         Í ljósi þess sem að framan er rakið verður ekki talið að brotið hafi verið gegn rétti aðaláfrýjenda til réttlátrar málsmeðferðar fyrir héraðsdómi í skilningi 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Samráðstilvik 19         Meginágreiningsefni þessa máls er hvort verðkannanir sem framkvæmdar voru af starfsmönnum aðaláfrýjandans Byko ehf. á grófvörum á byggingamarkaði og samskipti starfsmanna Byko ehf. við starfsmenn Húsasmiðjunnar ehf., Úlfsins Lagerverslunar ehf. og Múrbúðarinnar ehf. á rannsóknartímabilinu frá nóvember 2008 til mars 2011 í tengslum við þær verðkannanir hafi falið í sér samstilltar aðgerðir keppinauta á grófvörumarkaði sem höfðu það að markmiði, og eftir atvikum hafi leitt til þess, að komið væri í veg fyrir samkeppni, hún takmörkuð eða henni raskað samkvæmt ákvæði 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga og eftir atvikum 1. mgr. 53. EES-samningsins. Þá er einnig deilt um það hvort nánar tilteknar upplýsingar um starfsemi og afkomu Húsasmiðjunnar ehf. og um verð á miðstöðvarofnum hafi verið liður í þessum samstilltu aðgerðum og eftir atvikum sjálfstæð brot gegn samkeppnislögum. Þá er deilt um það hvort framkvæmdastjóri fagsölusviðs aðaláfrýjandans Byko ehf. hafi í símtali þann 28. febrúar 2011 beinlínis hvatt til samráðs um verðlagningu og tilboðsgerð á grófvöru og miðstöðvarofnum. Þá reynir á mat á fjárhæð stjórnsýslusektar en verulegur munur er á mati áfrýjunarnefndar samkeppnismála og gagnáfrýjanda.   a. Þróun og framkvæmd reglulegra verðkannana á grófvörum   20         Í málinu er ekki deilt um að starfsmenn Byko ehf. hafa um langt skeið kannað verð á grófvörum hjá Húsasmiðjunni ehf. Í málinu liggja fyrir afrit af verðkönnunum Byko ehf. sem sýna það og hvernig umfang þeirra kannana hefur þróast í áranna rás. Frá október 2010 beindust þessar verðkannanir einnig að Múrbúðinni ehf. og Úlfinum Lagerverslun ehf. sem einnig seldu grófvörur til byggingariðnaðar á þeim tíma. Þær verðkannanir voru mun takmarkaðri auk þess sem illa gekk að afla upplýsinga hjá Múrbúðinni. Samkvæmt framburði starfsmanna aðaláfrýjandans Byko ehf. voru verðkannanir þeirra framkvæmdar með ýmsum hætti í gegnum tíðina, með gagnaöflun af heimasíðum samkeppnisaðila, heimsóknum í verslanir, skoðun á verðlistum sem lágu frammi í verslunum og sölubæklingum og með símtölum við starfsmenn keppinauta. 21         Verðkannanir starfsmanna Byko ehf. á grófvörum fóru í seinni tíð einkum fram með símtölum við starfsmenn í þjónustuveri Húsasmiðjunnar ehf. Verðkannanir Byko ehf. á grófvörum sem liggja fyrir í málinu benda til þess að þær hafi farið fram með reglulegu millibili á rannsóknartímabilinu, einu sinni til tvisvar í mánuði framan af en oftar er leið á tímabilið. Samkvæmt tölvupósti 22. desember 2009 kemur fram að starfsmaður Húsasmiðjunnar ehf. gerði ráð fyrir að verðkönnun færi fram á tilteknum dögum og samkvæmt tölvupósti sama starfsmanns 27. janúar 2010 kemur fram að Byko ehf. gerði verðkannanir alla miðvikudaga. Af þessu má ráða að að minnsta kosti frá seinni hluta árs 2009 og til loka rannsóknartímabilsins hafi verðkannanir Byko ehf. á grófvöru farið fram því sem næst vikulega. Samkvæmt framburði starfsmanns Byko ehf., sem annaðist að mestu leyti verðkannanirnar á grófvörum fyrir fyrirtækið á tímabilinu, og framburði starfsmanna í þjónustuveri Húsasmiðjunnar ehf. voru verðkannanir á grófvörum framan af gerðar undir nafnleynd en síðar hafi starfsmaður Byko ehf. kynnt sig fyrir starfsmönnum þjónustuvers Húsasmiðjunnar ehf. Ekki liggja fyrir í málinu nákvæmar upplýsingar um það hvenær þessi breyting varð. 22         Á fyrri hluta rannsóknartímabilsins virðist sem verðkannanir Húsasmiðjunnar ehf. á grófvörum hafi verið mun ómarkvissari en kannanir aðaláfrýjandans Byko ehf. Í tölvupósti vörustjóra Húsasmiðjunnar ehf. 27. janúar 2010, sem hann sendi vörustjóra í timbursölu og yfirmanni sínum sem var framkvæmdastjóri vörustýringarsviðs, fylgdi listi yfir vörur sem sendandinn segir að Byko ehf. kanni verðið á alla miðvikudaga. Í póstinum segir jafnframt: „Hugmyndin er að Kristján og þeir í þjónustuverinu spyrji um sömu vöru á sama tíma og BYKO gerir könnun hjá okkur.“ Af gögnum málsins verður ekki ráðið að hugmyndinni hafi verið hrint í framkvæmd á þeim tíma. Þannig báru þeir starfsmenn í þjónustuveri Húsasmiðjunnar ehf. að þeir hefðu ekki framkvæmt þessar hugmyndir um gagnkvæmni í verðkönnunum á grófvörum. Þeir hafi þó í einhverjum tilvikum hringt í þann starfsmann Byko ehf. sem annaðist verðkannanir á grófvöru og spurt hann um verð á tilteknum vörum. Þá liggja fyrir í málinu upplýsingar um að í verðkönnun Húsasmiðjunnar á 80 tegundum af grófvörum hjá Byko ehf. 11. júní 2010 hafi verðupplýsingar verið fengnar af heimasíðu Byko ehf. Í ákvörðun gagnáfrýjanda er byggt á því að ekki sé hægt að slá því föstu að verðkönnunarsamskiptin hafi verið gagnkvæm að fullu fram til haustsins 2010 en þó hafi þau verið gagnkvæm að hluta. 23         Að frumkvæði nýs forstjóra Húsasmiðjunnar ehf., sem ráðinn var í janúar 2010, var ráðist í að efla og koma betra skipulagi á verðkannanir Húsasmiðjunnar ehf. Samkvæmt framburði framkvæmdastjóra vörustýringarsviðs Húsasmiðjunnar ehf., var ákveðið á árinu 2010 að gera breytingar á Concord-tölvukerfi félagsins þannig að unnt væri að færa inn upplýsingar um vöruverð af heimasíðu Byko ehf. inn í tölvukerfið. Umsjón með þessu verkefni var í höndum aðstoðarframkvæmdastjóra innkaupasviðs, sem tók við því starfi í byrjun árs 2010. Þessar breytingar á tölvukerfinu virðast hafa komist í notkun seinni hluta árs 2010. 24         Í tengslum við þessar áherslubreytingar í verðkönnunum Húsasmiðjunnar ehf. og til að fylgja þeim eftir var í lok september 2010 ákveðið að ráða sérstakan starfsmann til þess að annast verðkannanir. Sá starfsmaður staðfesti að hafa átt í samskiptum við þann starfsmanna Byko ehf. sem annaðist verðkannanir á grófvöru í kjölfar þess að hann var ráðinn í starfið og að þau samskipti hafi haldið áfram allt til loka rannsóknartímabilsins. Þá staðfesti hann jafnframt að hann hafi þegar á leið spurt út í verð Byko ehf. á grófvörum þótt hann taki fram að hann hafi einnig staðreynt þær verðupplýsingar með því að fá þær af heimasíðu Byko ehf. Þá staðfesti starfsmaðurinn að endurrit af símhlustun af símtali við starfsmanninn gæfi rétta mynd af því hvernig þessi samtöl þeirra fóru fram. Þótt ekki liggi nákvæmlega fyrir hvenær samskiptin urðu gagnkvæm má leggja til grundvallar að verðkannanir á grófvöru hafi að minnsta kosti verið orðnar gagnkvæmar í lok rannsóknartímabilsins. Í endurriti af samtali þeirra kemur fram að þeir hafi skipst á upplýsingum um verð á grófvörum og sérmerkingar á þeim grófvörum sem voru á sérstöku tilboðsverði sem almennt var ekki veittur afsláttur af. 25         Eins og áður er rakið tóku verðkannanir Byko ehf. einnig til verðs á grófvörum hjá Úlfinum Lagerverslun ehf. Í málinu liggja fyrir upplýsingar um símtöl milli starfsmanna félaganna frá 15. október 2010 til 17. febrúar 2011. Í símtali 17. febrúar 2011 ræða starfsmaður Byko ehf. sem annaðist verðkannanir á grófvöru og starfsmaður Úlfsins Lagerverslunar ehf. um verð á grófvöru, um birgja og verðhækkanir frá þeim, hvernig sala hafi gengið og um tiltekna viðskiptamenn. 26         Í málinu liggur fyrir að þeir stjórnendur hjá aðaláfrýjandans Byko ehf. og yfirmenn þess starfsmanns sem annaðist verðkannanir á grófvöru fengu reglulega upplýsingar um verðkannanir starfsmannsins.   b. Tölvupóstur stjórnarformanns Byko ehf. 26. nóvember 2008 með spá um aðhaldsaðgerðir Húsasmiðjunnar ehf.   27         Í ákvörðun gagnáfrýjanda er byggt á því að upplýsingar í tölvupósti sem forstjóri Byko ehf. sendi stjórn fyrirtækisins 26. nóvember 2008, um fyrirhugaðan starfsmannafund hjá Húsasmiðjunni ehf. og væntanlegar aðhaldsaðgerðir, hafi verið trúnaðarupplýsingar sem fengnar hafi verið frá Húsasmiðjunni ehf. Af texta tölvupóstsins má ráða að upplýsingarnar sem forstjórinn vísar til eru ekki hafðar eftir öruggum heimildum samanber orðalagið „mig grunar“ og „ég á ekki vona á“. Þá reyndust upplýsingarnar ekki mjög nákvæmar miðað við þær upplýsingar sem Húsasmiðjan ehf. opinberaði um aðhaldsaðgerðirnar í kjölfar fundarins. Af þessum sökum er allt eins líklegt að efni tölvupóstsins séu almennar vangaveltur forstjórans sem kunna að einhverju leyti að hafa byggst á orðrómi. Þá ber að hafa í huga að atburðurinn átti sér stað í kjölfar bankahrunsins. Aðhaldsaðgerðir byggingarvöruverslana voru því óhjákvæmilegar. Samkvæmt þessu er ósannað að um trúnaðarupplýsingar hafi verið að ræða sem borist hafi frá Húsasmiðjunni ehf. 28         Með vísan til framangreinds er fallist á niðurstöðu héraðsdóms að umrætt tilvik teljist ekki hluti af samráði fyrirtækjanna og beri því að staðfesta niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála að þessu leyti.   b. Dagbókarfærsla forstjóra Byko ehf. 19. febrúar 2010 um rekstur og starfsemi Húsasmiðjunnar ehf.   29         Í ákvörðun gagnáfrýjanda er byggt á því að upplýsingar sem komi fram í dagbókarfærslu forstjóra Byko ehf. 19. febrúar 2010 sýni að hann hafi fengið upplýsingar um viðskiptaleyndarmál Húsasmiðjunnar ehf. frá starfsmanni eða stjórnarmanni Húsasmiðjunnar ehf. Af efni dagbókarfærslunnar sést að upplýsingarnar lúta að fjölmörgum þáttum í starfsemi Húsasmiðjunnar ehf. á árunum 2008 til 2009. Þar er meðal annars að finna upplýsingar um áætlaða framlegð fyrirtækisins á árinu 2009 og afkomu í tilteknum vöruflokkum. Einnig er þar að finna upplýsingar um ýmis innanhússmálefni Húsasmiðjunnar ehf. sem eru viðkvæmar trúnaðarupplýsingar og bera glögglega með sér að sá sem veitir upplýsingarnar hafi þekkt vel til og líklega verið starfsmaður fyrirtækisins á þeim tíma sem upplýsingarnar tóku til. 30         Aðaláfrýjendur byggja á því að upplýsingarnar séu ekki í samræmi við ársreikning Húsasmiðjunnar ehf. fyrir árið 2009 og því sé ljóst að viðmælandinn hafi verið að villa um fyrir forstjóranum. Þá er byggt á því að upplýsingarnar kunni að hafa komið frá fyrrverandi starfsmanni. 31         Í ljósi þeirra upplýsinga sem er að finna í dagbókarfærslunni og þess að þær hljóti að hafa komið frá manni sem þekkti vel til starfsemi Húsasmiðjunnar ehf., og hafi að öllum líkindum verið starfsmaður þar á árunum 2008 til 2009, verður að telja að það standi aðaláfrýjendum nær að skýra frá því hvaðan upplýsingarnar voru fengnar og þá hvaða fyrrverandi starfsmaður Húsasmiðjunnar ehf. veitti þær. Því er fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að staðfesta beri úrskurð áfrýjunarnefndar um að þessi upplýsingagjöf sé hluti af upplýsingaskiptum milli fyrirtækjanna.   d. Samskipti starfsmanna Byko ehf. við Múrbúðina ehf. í ágúst til október 2010   32         Múrbúðin ehf. hóf að selja grófvörur í október 2010. Í ákvörðun gagnáfrýjanda eru rakin ýmis samskipti starfsmanna Byko ehf. við starfsmenn Múrbúðarinnar ehf. á tímabilinu ágúst til október 2010. Fyrir liggur að á þessum tíma hafi starfsmenn Byko ehf. bæði heimsótt verslanir Múrbúðarinnar ehf. og hringt í starfsmenn hennar í því skyni að afla upplýsinga um verð. Þá liggur fyrir í málinu að 15. október 2010 gerðu starfsmenn Húsasmiðjunnar ehf. og starfsmenn Byko ehf. ítrekaðar tilraunir til að afla upplýsinga um verð hjá Múrbúðinni ehf., bæði með símtölum og heimsóknum. Af gögnum málsins má ráða að starfsmenn Húsasmiðjunnar ehf. hafi gengið harðar fram í þessum efnum en starfsmenn Byko ehf. Í málinu liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um að þessar verðkannanir Byko ehf. og Húsasmiðjunnar hafi verið gerðar í samráði og verður því að meta háttsemi starfsmanna Byko ehf. sjálfstætt. 33         Seljendum byggingarvara er skylt að veita viðskiptamönnum upplýsingar um verð og vöruúrval og eiga þessar upplýsingar að vera aðgengilegar, sbr. 17. gr. laga nr. 57/2005. Verðkannanir eru snar þáttur í virkri samkeppni á markaði. Ekki er deilt um að þau samskipti sem lýst er í ákvörðuninni áttu sér stað og að starfsmenn Byko ehf. hafi gert ítrekaðar tilraunir til að fá uppgefið verð á vörum Múrbúðarinnar ehf. Hins vegar er deilt um hvert efni þeirra samskipta var nákvæmlega. Nánar tiltekið er byggt á því í ákvörðun gagnáfrýjanda að starfsmaður Byko ehf. hafi óskað eftir því við forstöðumann grófvörudeildar Múrbúðarinnar ehf. að þeir skiptust á upplýsingum um verð og vöruúrval. Upplýst er í málinu að tilraunir starfsmanna Byko ehf. til að afla upplýsinga frá Múrbúðinni um verð og vöruúrval báru ekki mikinn árangur. 34         Í málinu liggur fyrir að orð stendur gegn orði um hvað kom fram í samtölum milli starfsmannanna. Starfsmaður Byko ehf. hefur staðfastlega neitað að hafa óskað eftir því að skipst yrði á upplýsingum um vöruverð og vöruúrval. Ekki liggja fyrir önnur gögn í málinu sem styðja framburð starfsmanns Múrbúðarinnar ehf. um óskir um upplýsingaskipti. Af þessum sökum verður ekki talið að gagnáfrýjandi hafi fært sönnur fyrir því að tilraunir starfsmanna Byko ehf. til upplýsingaöflunar hafi gengið lengra en eðlilegt má telja við þær aðstæður að nýr samkeppnisaðili kemur inn á markað. Verður því ekki talið að í háttseminni felist hvatning til upplýsingaskipta og verðsamráðs. 35         Í samræmi við það sem að fram er rakið er niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála hvað þetta varðar staðfest.   e. Upplýsingar frá Húsasmiðjunni ehf. um breytingar á verðstefnu (Project Red) í október 2010   36         Gagnáfrýjandi telur í ákvörðun sinni að stjórnarformaður aðaláfrýjandans Byko ehf. hafi í októbermánuði 2010 fengið upplýsingar frá stjórnarformanni Húsasmiðjunnar ehf. um fyrirhugaðar breytingar á verðstefnu félagsins. Verkefnið gekk undir heitinu Project Red og gerði ráð fyrir kerfisbreytingum í verðlagningu á vörum hjá Húsasmiðjunni ehf. sem fælu í sér að verð yrði lækkað og afsláttur minnkaður. Vísar gagnáfrýjandi til þess að með tölvupósti stjórnarformanns Byko ehf. 25. október 2010 hafi hann upplýst stjórnarmenn um verkefnið. Í póstinum er tekið fram að það sé mat stjórnarformanns Húsasmiðjunnar ehf. að um sé að ræða forsendu fyrir því að Húsasmiðjan ehf. lifi af fyrirsjáanlega samkeppni við Bauhaus. 37         Af gögnum málsins má ráða að stjórnendur og starfsmenn Byko ehf. töldu þetta mikilvægar upplýsingar og brugðust við þeim með því að greina nánar þessa verðstefnu. Samkvæmt upplýsingum í ákvörðun gagnáfrýjanda virðist ekki hafa orðið af þessum kerfisbreytingum hjá Húsasmiðjunni ehf. á rannsóknartímabilinu. 38         Aðaláfrýjendur byggja vörn sína að þessu leyti á því að upplýsingarnar hafi ekki komið frá stjórnarformanni Húsasmiðjunnar ehf., heldur hafi þær lekið frá fyrirtækinu. Aðaláfrýjendur hafa ekki upplýst nánar um hvernig upplýsingarnar komu til vitundar stjórnarformanns aðaláfrýjandans Byko ehf. Fallist er á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að staðfesta beri úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála um að það standi aðaláfrýjendum nær í ljósi efnis upplýsinganna að gera grein fyrir því hvaðan þær voru fengnar. Verður því lagt til grundvallar að upplýsingarnar hafi borist frá Húsasmiðjunni ehf. og teljist hluti af upplýsingaskiptum milli fyrirtækjanna.   f. Samskipti Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. um verðlagningu ofna í desember 2010 og janúar 2011   39         Á því er byggt í ákvörðun gagnáfrýjanda að í desember 2010 og janúar 2011 hafi átt sér stað samráð á milli Húsasmiðjunnar ehf. og Byko ehf. um verð á ofnum. Vísar gagnáfrýjandi til þess að sölustjóri ofna hjá aðaláfrýjandanum Byko ehf. hafi átt í samskiptum við starfsmenn Húsasmiðjunnar ehf., Múrbúðarinnar ehf. og Ofnasmiðju Reykjavíkur ehf. annars vegar um verðlagningu á ofnum og hins vegar um gæðavottun þeirra. Samskipti þessi virðast hafa sprottið af því að sölustjórinn taldi Múrbúðina ehf. selja ofna sem ekki væru réttilega vottaðir og að verðlagning Húsasmiðjunnar ehf. tæki ekki mið af þeim orkueiningum sem ofnar gæfu. 40         Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að samskiptin hafi verið takmörkuð og hafi annars vegar snúist um reglur um gæðavottun og hins vegar um aðferðafræði við verðlagningu á ofnum út frá orkueiningum. Engin merki eru í málinu um að þeir sem áttu þarna í samskiptum hafi rætt verð á ofnunum eða verið í reglulegum samskiptum um verðlagningu þessarar vörutegundar. 41         Fallist er á niðurstöðu héraðsdóms um að staðfesta beri niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála um að framangreind samskipti feli ekki í sér brot gegn 10. gr. samkeppnislaga og að einnig sé ósannað að þau séu hluti af reglubundnum upplýsingaskiptum aðila.   g. „Samráðssamtalið“ 28. febrúar 2011   42         Ákvörðun gagnáfrýjanda byggist á því að í samtali milli framkvæmdastjóra fagsölusviðs Byko ehf. við vörustjóra í timbursölu Húsasmiðjunnar ehf., 28. febrúar 2011 hafi sá fyrrnefndi hvatt Húsasmiðjuna ehf. til samráðs um verðlagningu á grófvöru og tilboðsgerð í þeim vöruflokki. Sérstök áhersla hafi verið lögð á það í símtalinu að draga úr samkeppni í verðlagningu á gagnvörðu efni og þá einkum á Akureyri og Selfossi. Þá hvatti framkvæmdastjóra fagsölusviðs Byko ehf. starfsmann Húsasmiðjunnar ehf. til að hækka verð á miðstöðvarofnum. Gagnáfrýjandi telur að símtalið hafi verið hluti af framlegðarátaki hjá Byko ehf. sem hafði verið í undirbúningi frá desember 2010 og hleypt var af stokkunum í byrjun mars 2011. 43         Í málinu liggur fyrir að starfsmaður Húsasmiðjunnar ehf. upplýsti yfirmenn sína um samtalið og að forstjóri Húsamiðjunnar ehf. hafi einnig fengið upplýsingar um það. Yfirmennirnir og forstjórinn staðfestu fyrir dómi að hafa verið upplýstir um efni samtalsins og tóku jafnframt fram að ákveðið hefði verið að vinna ekkert með upplýsingarnar sem þar komu fram. Í framburði framkvæmdastjóra fagsölusviðs Byko ehf. kemur fram að hann hafi ekki upplýst neinn innan Byko ehf. um samtalið. Jafnframt tók hann fram að þetta hefði verið einangrað tilvik sem hafi verið vanhugsað af hans hálfu og í raun hafi hann verið að gefa starfsmanni Húsasmiðjunnar ehf. rangar og villandi upplýsingar. Í þessu samhengi benti framkvæmdastjórinn á að hann hefði talað um hækkun upp á 4% á nokkrum vikum þegar framlegðarátak aðaláfrýjandans Byko ehf. gerði ráð fyrir 1,5% hækkun á árinu. 44         Af efni símtalsins má skýrlega ráða að framkvæmdastjóri fagsölusviðs Byko ehf. hvatti starfsmann Húsasmiðjunnar ehf. til samráðs um verð og tilboðsgerð á grófvöru og miðstöðvarofnum. Markmiðið með hvatningunni var augljóslega að hækka verð á þessum vörum. Þótt af endurritinu megi ráða að um einangrað tilvik hafi verið að ræða, samanber orð framkvæmdastjóra fagsölusviðs „Ég hef nú aldrei gert þetta áður [….]“ er það mat dómsins að um sé að ræða skýrt og alvarlegt brot á 10. gr. samkeppnislaga. Því er fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að staðfesta beri úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála að þessu leyti.   h. Þróun verðlagningar í grófvöru og samkeppni   45         Af gögnum málsins má ráða að talsverð samkeppni hafi ríkt á grófvörumarkaði árið 2010. Í ákvörðun gagnáfrýjanda og tölvupóstssamskiptum sem liggja frammi í málinu kemur fram að mikil samkeppni var í sölu á gagnvörðu pallaefnin frá mars til ágúst 2010. Þá má ráða af gögnum málsins að nokkur samkeppni var í sölu á öðrum tegundum grófvöru sumarið 2010. Koma Múrbúðarinnar inn á grófvörumarkaðinn haustið 2010 virðist einnig hafa aukið samkeppnina eins og nánar er byggt á í ákvörðun gagnáfrýjanda. 46         Af gögnum málsins, meðal annars tölvupóstssamskiptum innanhúss hjá aðaláfrýjandanum Byko ehf. og Húsasmiðjunni ehf., verður ekki annað ráðið en að árið 2010 hafi verð á grófvörum ýmist hækkað eða lækkað í kjölfar verðkannana. Í sumum tilvikum aðlagaði aðaláfrýjandinn Byko ehf. verðlagningu sína verði Húsasmiðjunnar ehf. en í öðrum tilvikum var það ekki gert. Má meðal annars sjá af tölvupóstssamskiptum stjórnenda Húsasmiðjunnar ehf. að þeir amast við því að Byko ehf. fylgi þeim ekki eftir í verðhækkunum. 47         Af gögnum málsins má ráða að frá lokum árs 2010 og fyrri hluta árs 2011 hafi verið lögð mikil áhersla á það bæði hjá Húsasmiðjunni ehf. og aðaláfrýjandans Byko ehf. að auka framlegð í vörusölu félaganna. Kemur fram að stjórnendur félaganna hafi talið framlegð á árinu 2010 vera óviðunandi. Var þessu fylgt eftir með verðhækkunum á flestum vöruflokkum hjá báðum fyrirtækjunum á fyrri hluta árs 2011. Þá kemur fram í tölvupóstssamskiptum innanhúss hjá Húsasmiðjunni ehf. í byrjun árs 2011 að stjórnendur væntu þess að verðhækkanirnar í janúar 2011 muni leiða til hærra vöruverðs hjá aðaláfrýjandans Byko ehf. Einnig liggur fyrir í endurritum af símtölum 16. og 23. febrúar 2011 milli starfsmanna Húsasmiðjunnar ehf. að þeir hafi ætlað að koma upplýsingum um væntanlegar verðhækkanir Húsasmiðjunnar ehf. til aðaláfrýjandans Byko ehf.   i. Niðurstaða um samráðstilvik   48         Í 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga kemur fram að allir samningar og samþykktir milli fyrirtækja, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir, sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað, séu bannaðar. Samkvæmt a-lið 2. mgr. lagagreinarinnar tekur bannið til samninga, samþykkta og samstilltra aðgerða sem áhrif hafa á verð, afslátt, álagningu eða önnur viðskiptakjör með beinum eða óbeinum hætti. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 107/2000, sem breyttu 10. gr. þágildandi samkeppnislaga, nr. 8/1993, í núverandi horf, sbr. 10. gr. laga nr. 44/2005, sagði að skýra bæri hugtakið samstilltar aðgerðir rúmt á þann hátt að það tæki til sérhverra beinna eða óbeinna samskipta fyrirtækja sem hefðu þann tilgang að hafa áhrif á samkeppni eða hefðu slík áhrif í reynd. Í þessu gæti meðal annars falist að fyrirtæki skiptust á upplýsingum um verð og af því leiddi samræmd markaðshegðun. 49         Í 53. gr. EES-samningsins kemur fram að allir samningar milli fyrirtækja, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltar aðgerðir sem geta haft áhrif á viðskipti milli samningsaðila og hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað á því svæði sem samningurinn tekur til séu bannaðir. Er þar meðal annars vísað til samninga, ákvarðana og aðgerða sem ákveða kaup- eða söluverð eða önnur viðskiptakjör með beinum eða óbeinum hætti. 50        Með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 360/2015 frá 1. desember 2016 voru eins og áður sagði átta starfsmenn aðaláfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. sakfelldir fyrir brot gegn 10. gr. samkeppnislaga vegna samstilltra aðgerða í tengslum við gagnkvæmar verðkannanir sem höfðu það að markmiði að raska samkeppni og einnig vegna verðsamráðs og hvatningar til verðsamráðs í nánar greindum tilvikum. Ákærurnar á hendur starfsmönnum aðaláfrýjandans Byko ehf. lutu að þátttöku starfsmannanna og Húsasmiðjunnar ehf. í skipulagðri upplýsingagjöf um verð og tilboðskjör á grófvöru á tímabilinu 13. september 2010 til 3. mars 2011. Þá var ákært fyrir skipulagða upplýsingagjöf um verð og tilboðskjör á grófvöru með Úlfinum Lagerverslun ehf. á tímabilinu 15. október 2010 til 17. febrúar 2011. Ákærur beindust einnig að símtalinu sem átti sér stað 28. febrúar 2011 og samskiptum við Múrbúðina ehf. þann 15. október 2010. Sakfellt var fyrir alla ákæruliðina utan samskiptin við Múrbúðina ehf. 51        Tímabilið sem framangreindur dómur Hæstaréttar tekur til er mun skemmra en rannsóknartímabilið 26. nóvember 2008 til mars 2011 sem ákvörðun gagnáfrýjanda byggist á. Þá lýtur ákvörðun gagnáfrýjanda að fleiri þáttum í meintum upplýsingaskiptum og verðsamráði aðila eins og þegar hefur verið rakið. 52        Í dómi Hæstaréttar var því slegið föstu að 10. gr. samkeppnislaga leggi ekki bann við því að fyrirtæki kanni verð hjá keppinautum sínum á markaði, enda séu slíkar verðkannanir snar þáttur í virkri samkeppni á markaði. Samkvæmt þessu er verðkönnun, sem framkvæmd er einhliða af fyrirtæki með því til dæmis að kynna sér verðlista keppinautar eða verð á vefsíðu hans eins og hver annar viðskiptavinur, fyllilega lögmæt. Af þessum sökum þarf eitthvað sérstakt til að koma svo að þær aðgerðir teljist ólögmætar. Í dóminum er tekið fram að ef starfsmaður eins fyrirtækis hefur samband við starfsmann samkeppnisaðila geti stofnast til gagnkvæmra samskipta sem býður þeirri hættu heim að samkeppni milli þeirra raskist, ekki síst ef starfsmennirnir fara að skiptast á upplýsingum um verð. Þá er tekið fram í dóminum að eftir því sem samskipti eins og þessi verða tíðari, reglubundnari og víðtækari aukist líkur á að þau dragi úr óvissu fyrirtækjanna um hegðun keppinautanna en sú óvissa er ein af meginforsendum þess að óheft verðsamkeppni geti átt sér stað. Þetta eigi ekki síst við á fákeppnismarkaði þar sem gagnkvæm skipti á upplýsingum um verð geta auðveldað ráðandi fyrirtækjum að halda uppi vöruverði. 53         Að mati Hæstaréttar voru hin tíðu og reglubundnu samskipti aðaláfrýjandans Byko ehf. við Húsasmiðjuna ehf. og Úlfinn Lagerverslun ehf. talin hafa haft það að markmiði að raska samkeppni milli fyrirtækjanna og væru því samstilltar aðgerðir sem brytu gegn 10. gr. samkeppnislaga. Dómurinn hafnaði því að upplýsingarnar um verð og kjör sem látnar voru í té hafi verið opinberar og öllum aðgengilegar á verðlistum og vefsíðum fyrirtækjanna. Nefndi dómurinn þar til upplýsingar um stjörnumerktar vörur á verðlistum Húsasmiðjunnar ehf. án þess að þar kæmi fram hvaða skilning bæri að leggja í þá merkingu. Þótt þær upplýsingar hefðu legið fyrir í almennum viðskiptaskilmálum á vefsíðu fyrirtækisins og hefðu þar með átt að vera á vitorði þeirra sem voru í föstum reikningsviðskiptum væri ekki þar með sagt að þessi vitneskja hefði verið aðgengileg öllum viðskiptavinum. Taldi dómurinn þó mestu skipta við mat á þessu að tilgangurinn með hinum gagnkvæmu samskiptum hefði augljóslega verið að fá gleggri mynd af verði keppinautarins á samkeppnisvörum og þróun þess en kostur var fyrir fyrirtækin með því að kynna sér einungis verðið með þeim aðferðum sem neytendum stóðu til boða. 54        Samkvæmt 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hefur dómur fullt sönnunargildi um málsatvik sem í honum greinir þar til hið gagnstæða hefur verið sannað. Sömu reglu er að finna í 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 55        Aðaláfrýjendur byggja málatilbúnað sinn á því að tvær meginforsendur í sönnunarmati Hæstaréttar í málinu nr. 360/2015 séu rangar. Annars vegar byggja aðaláfrýjendur á því að það sé ekki rétt ályktun hjá Hæstarétti að upplýsingar um sérmerkingar á grófvörum hafi ekki verið að fullu opinberar upplýsingar. Byggja þeir á því að í viðskiptaskilmálum á vefsíðu Húsasmiðjunnar ehf., á þeim tíma sem mál þetta tekur til, hafi komið fram skýringar á því hvað fælist í tilboðsverði eða stjörnumerktri vöru en í skilmálunum komi fram að „Afslættir viðskiptamanns reiknist ekki af tilboðsverði eða stjörnumerktri vöru (stjörnuverð) sem er sérstaklega merkt í verslunum“. Þessir viðskiptaskilmálar hafi verið aðgengilegir öllum viðskiptamönnum Húsasmiðjunnar ehf. en ekki bara þeim sem voru í föstum reikningsviðskiptum. Til frekari stuðnings þessari málsástæðu bendaaðaláfrýjendur á framburði starfsmanna Húsasmiðjunnar ehf. fyrir héraðsdómi sem þeir telja að lýsi því að viðskiptamenn hafi verið upplýstir um þýðingu sérmerkinga. Af dómi Hæstaréttar má ráða að málflytjendur hafi upplýst við flutning sakamálsins fyrir Hæstarétti að upplýsingar um þýðingu sérmerkinga væri að finna í viðskiptaskilmálum sem viðskiptamenn sem væru í reikningsviðskiptum hefðu aðgang að. Þótt ráða megi af framangreindum framburðum starfsmanna Húsasmiðjunnar ehf. að viðskiptamönnum hafi mátt vera ljóst hvað fælist í sérmerkingu vara þá staðfesta þeir ekki að upplýsingarnar hafi verið öllum aðgengilegar á heimsíðu félagsins. Af framlögðum gögnum af vefsíðunni vefsafn.is kemur fram að viðskiptaskilmálar þeir sem vísað er til gildi fyrir viðskiptamenn sem eru í reikningsviðskiptum. Jafnvel þótt staðfest væri að skilmálar þessir hafi almennt verið aðgengilegir viðskiptamönnum á heimasíðu Húsasmiðjunnar ehf. má gera ráð fyrir að þessum upplýsingum hafi fyrst og fremst verið beint að viðskiptamönnum í reikningsviðskiptum. 56        Hin málsástæðan sem aðaláfrýjendur byggja á að hnekki sönnunarmati Hæstaréttar er að það sé rangt að tilgangurinn með hinum gagnkvæmu samskiptum hafi augljóslega verið að fá gleggri mynd af verði keppinautarins á samkeppnisvörum og þróun þeirra en kostur var fyrir fyrirtækin með því að kynna sér einungis verðið með þeim aðferðum sem neytendum stóðu til boða. Benda aðaláfrýjendur á í þessu sambandi að almennum viðskiptavinum stóð til boða að hringja í þjónustuver Húsasmiðjunnar ehf. og fá sömu upplýsingar. Um þetta hafi starfsmenn þjónustuversins borið fyrir dómi. Þá byggja aðaláfrýjendur á því að þeir starfsmenn sem höfðu með verðlagningu á grófvörum að gera vissu ekki hvernig verðkönnunarsímtölin fóru fram. Auk þess hafi þær upplýsingar sem sendar voru stjórnendum einungis innihaldið verð á vörunum. Að því er varðar þessa forsendu í dómi Hæstaréttar þá byggist hún öðru fremur á lögfræðilegu mati á atvikum sem ekki er deilt um í málinu. Fyrir liggur að verðkannanir voru tíðar, reglubundnar, tóku til fjölda vörutegunda og voru gagnkvæmar að minnsta kosti síðasta hluta rannsóknartímabilsins. Við þessar aðstæður var talið í dómi Hæstaréttar að líkur mundu aukast á því að samskiptin drægju úr óvissu fyrirtækjanna um hegðun keppinautanna, sem er ein af meginforsendum þess að óheft verðsamkeppni geti átt sér stað. Þessi aðstaða mundi bjóða heim hættunni á að samkeppni milli aðila raskaðist og ætti það ekki síst við á fákeppnismarkaði þar sem gagnkvæm skipti á upplýsingum um verð geta auðveldað ráðandi fyrirtækjum að halda uppi vöruverði og auka þar með framlegð sína. 57        Í málinu er ekki deilt um að umrædd samskipti áttu sér stað þótt deilt sé um hvernig meta beri samskipti með tilliti til ákvæða 10. gr. samkeppnislaga. Gögn málsins og framburðir starfsmanna aðaláfrýjandans Byko ehf. sem liggja fyrir í málinu staðfesta í megindráttum þau atvik sem dómur Hæstaréttar byggist á. Hafa aðaláfrýjendur við meðferð málsins ekki hnekkt mati Hæstaréttar á atvikum í áðurgreindu sakamáli. Þá hefur hinu lögfræðilega mati Hæstaréttar um að í verðkönnunarsamskiptunum hafi falist samstilltar aðgerðir sem hafi verið til þess fallnar að raska samkeppni ekki heldur verið hnekkt. Verður því lagt til grundvallar að með háttsemi sinni á seinni hluta rannsóknartímabilsins hafi aðaláfrýjandinn Byko ehf. brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga með hinum tíðu, reglubundnu og gagnkvæmu samskiptum við Húsasmiðjuna ehf. og Úlfinn Lagerverslun ehf. í tengslum við verðkannanir. 58         Eins og áður er rakið var komist að þeirri niðurstöðu að aðaláfrýjandinn Byko ehf. hafi tekið við trúnaðarupplýsingum annars vegar í febrúar 2010, sem lutu að rekstarupplýsingum Húsasmiðjunnar ehf. á árunum 2008 og 2009, og hins vegar upplýsingum um hugmyndir Húsasmiðjunnar ehf. í október 2010, um breytingar á verðstefnu félagsins. Styrktu upplýsingasamskiptin því þá stöðu sem komin var upp á seinni hluta rannsóknartímabilsins og fólst í hinum reglubundnu, tíðu og gagnkvæmu samskiptum í tengslum við verðkannanir. 59         Samkvæmt því sem að framan er rakið er fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að staðfesta beri þann úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála að framangreind háttsemi starfsmanna aðaláfrýjandans Byko ehf. teljist brot gegn 10. gr. samkeppnislaga. Ekki eru efni til að fjalla um þann þátt kröfu aðaláfrýjenda að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015 frá 15. maí 2015 verði felld úr gildi. Brot gegn 53. gr. EES-samningsins 60         Í ákvörðun gagnáfrýjanda er byggt á því að beita eigi 53. gr. EES-samningsins í málinu þar sem brotin gætu haft áhrif á viðskipti milli aðila að EES-samningnum. Í ákvörðuninni kemur fram að hinn landfræðilegi markaður í málinu sé Ísland í heild og að líta beri á það svæði sem verulegan hluta af Evrópska efnahagssvæðinu. Vísar gagnáfrýjandi til þess að samkvæmt 93. mgr. leiðbeiningarreglna Eftirlitsstofnunar EFTA geti markaðshindrandi misnotkun markaðsráðandi aðila gert keppinautum erfiðara um vik að komast inn á markaðinn og misnotkunin þannig haft áhrif á viðskiptamynstur á Evrópska efnahagssvæðinu. Telur gagnáfrýjandi að brot aðaláfrýjandans Byko ehf. gætu haft þau áhrif að hindra keppinauta frá EES-ríkjum í að ná fótfestu á íslenska markaðnum. 61         Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála kemur fram að ákvörðun gagnáfrýjanda byggðist á því að brot aðaláfrýjandans Byko ehf. hefði leitt til verðhækkana. Taldi nefndin að sú aðstaða mundi frekar leiða til svigrúms fyrir samkeppni frá keppinautum á EES-svæðinu. Í ákvörðun gagnáfrýjanda væri ekki byggt á því að háttsemi aðaláfrýjandans Byko ehf. hefði haft áhrif á erlenda birgja eða aðra viðskiptamenn í EES-ríkjum heldur væri rökstuðningurinn almenns eðlis. Taldi nefndin að gagnáfrýjandi hefði ekki sýnt fram á að beita ætti 53. gr. ESS- samningsins í málinu. 62         Líkt og rakið er í hinum áfrýjaða dómi skulu gagnáfrýjandi, áfrýjunarnefnd samkeppnismála og íslenskir dómstólar á grundvelli 1. mgr. 21. gr. samkeppnislaga beita 53. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, eftir því sem kveðið sé á um í lögunum. Þá segir í 1. mgr. 26. gr. laganna að beiti áðurnefndar stofnanir og dómstólar ákvæðum laganna vegna samninga fyrirtækja, ákvarðana samtaka fyrirtækja eða samstilltra aðgerða í skilningi 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, sem gætu haft áhrif á viðskipti milli aðila að EES-samningnum, skuli þau einnig beita 53. gr. EES-samningsins að því er varðar slíka samninga, ákvarðanir eða samstilltar aðgerðir. Í athugasemdum með 26. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 44/2005 segir að í ákvæðinu, sem sé nýmæli, sé fjallað um samspil samkeppnislaga og samkeppnisreglna EES-samningsins. Ef áhrifa af aðgerðum fyrirtækja gætir á Evrópska efnahagssvæðinu og hér á landi þannig að 53. gr. samningsins eigi við, svo og 10. gr. samkeppnislaga, skuli báðum ákvæðunum beitt. Í 1. og 2. mgr. ákvæðisins sé áréttað að hafi tiltekin athöfn fyrirtækis áhrif á viðskipti á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 53. gr. EES-samningsins, auk þess að hafa áhrif á Íslandi, falli sú athöfn innan beggja kerfa. Efnisinntak reglnanna er það sama og þeim því beitt samtímis ef áhrifa brotanna gætir á viðskipti á ESS-svæðinu. 63         Við mat á því hvort brot geti haft áhrif á ESS-svæðinu verður að horfa til þess hvort unnt sé að sjá það fyrir með nægjanlegum líkum út frá hlutlægum viðmiðum sem liggja fyrir í málinu að aðgerðin geti haft bein eða óbein, raunveruleg eða hugsanleg áhrif á mynstur viðskipta á milli ríkja. Grundvallarsjónarmiðið að baki reglunni er að tryggja jafna aðstöðu fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu og koma í veg fyrir viðskiptalegar hindranir. Samkvæmt þessu þarf ekki að sýna fram á raunveruleg áhrif af brotum á ESS-svæðinu, heldur er nægjanlegt að leiddar séu líkur að því að áhrifin séu möguleg. 64         Eins og áður er komið fram er hinn landfræðilegi markaður í málinu skilgreindur sem alhliða byggingarvörumarkaður á Íslandi. Þessi landfræðilega takmörkun gagnáfrýjanda ein og sér kemur ekki í veg fyrir að brotin gætu hafa haft áhrif á Evrópska efnahagssvæðinu þótt hún gefi vísbendingar um að áhrifa brotanna gæti einkum á Íslandi. Fyrir liggur að gagnáfrýjandi og Húsasmiðjan ehf. voru samtals með nálægt 100% markaðshlutdeild á hinum skilgreinda markaði málsins og höfðu aðgerðir þeirra því mikil áhrif á byggingarvörumarkað á Íslandi. Þegar á hinn bóginn er litið til eðli brotanna og markaðarins sem þau beindust að verður að taka undir það með áfrýjunarnefnd samkeppnismála að gagnáfrýjandi hafi ekki sýnt fram á með nægjanlegum líkum að brotin gætu hafa haft áhrif á Evrópska efnahagssvæðinu. Norvik hf. og Byko ehf. ein fjárhagsleg eining 65         Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, er fallist á það mat áfrýjunarnefndar samkeppnismála að Byko ehf. og Norvik hf. séu ein efnahagsleg eining í skilningi samkeppnislaga, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga, þannig að heimilt sé að leggja sekt á Norvik hf. Sektarheimild og fjárhæð stjórnsýslusektar 66         Samkvæmt a- og j-lið 1. mgr. 37. gr. samkeppnislaga leggur Samkeppniseftirlitið stjórnvaldssektir á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja sem brjóta gegn banni samkvæmt 10. gr. laganna og 53. gr. EES-samningsins. Í 2. mgr. 37. gr. er mælt fyrir um að sektir geti numið allt að 10% af heildarveltu síðasta rekstrarárs hjá hverju því fyrirtæki eða samtökum fyrirtækja sem aðild eiga að broti. Ef brot samtaka fyrirtækja tengjast starfsemi aðila þeirra skal fjárhæð sektar ekki vera hærri en 10% af heildarveltu hvers aðila þeirra sem er virkur á þeim markaði sem brot samtakanna tekur til. Við ákvörðun á fjárhæð sekta skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota, hvað brot hafa staðið lengi og hvort um ítrekað brot sé að ræða. 67         Áður er rakið að með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála var komist að þeirri niðurstöðu að gagnáfrýjandi hafi dregið of víðtækar ályktanir af gögnum málsins um eðli og umfang brota aðaláfrýjandans Byko ehf.. Taldi nefndin að brotin hefðu ekki verið jafn umfangsmikil, alvarleg og kerfisbundin eins og gagnáfrýjandi lagði til grundvallar í ákvörðun sinni. Þá taldi nefndin að jafnvel þótt fallist væri á forsendur gagnáfrýjanda um háttsemi aðaláfrýjandans Byko ehf. hafi sektarfjárhæðin verið úr hófi. Að teknu tilliti til þess að um mikilvægan markað væri að ræða þar sem fyrirtækin tvö voru nær einráð, heildarveltu og eigin fjár aðaláfrýjandans Norvik hf. og að brotin væru ekki eins alvarleg og kerfisbundin og í hæstaréttarmálinu nr. 37/2003, sem meðal annars var haft til hliðsjónar við ákvörðun gagnáfrýjanda, úrskurðaði nefndin að sektin skyldi lækkuð í 65.000.000 króna. 68         Ákvörðun gagnáfrýjanda um 650.000.000 króna sekt byggist á því að um hafi verið að ræða kerfisbundin og skipuleg upplýsingaskipti sem stóðu í langan tíma og höfðu það að markmiði að hækka verð á grófvöru. Byggingarvörumarkaður sé mjög þýðingarmikill markaður og félögin hefðu haft 95-100% markaðshlutdeild á þeim tíma sem brotin voru framin. Samráðsbrot séu alltaf alvarleg og brotin hafi verið framin af ásetningi. Samráðið hafi leitt til þess að verð á grófvörum hafi hækkað á tímabilinu. Þá var horft til mikils fjárhagslegs styrkleika aðaláfrýjenda. Heildarvelta Norvik hf. á árinu 2014 hafði verið 36,6 milljarðar og eigið fé í árslok 2013 12,1 milljarður króna. Heildarvelta Norvik hf. hafði verið 66 milljarðar á árinu 2013 áður en það seldi fyrirtækin Kaupás og Elko úr samstæðunni. Heildarvelta Byko ehf. á árunum 2012 til 2014 fór úr 10,3 milljörðum í 12,1 milljarð. Hagnaður ársins 2014 var 131 milljón króna og eigið féð í árslok 1,2 milljarðar. Þá var sérstaklega horft til þess að varnaðaráhrif sektarfjárhæðarinnar yrðu að vera nægjanleg. Við ákvörðun sektarfjárhæðarinnar var við það miðað að einnig hafi verið brotið gegn 53. gr. EES-samningsins. 69         Eins og áður er rakið skal við ákvörðun á fjárhæð sekta hafa hliðsjón af eðli og umfangi brots, hvað brot hafi staðið lengi og hvort um ítrekað brot sé að ræða. Þá er viðurkennt í samkeppnisrétti að ýmsir aðrir þættir komi til skoðunar við ákvörðun sektarfjárhæðar, þar með talið varnaðaráhrif hennar og fjárhagslegur styrkleiki aðila eins og nánar er rakið í ákvörðun gagnáfrýjanda. 70         Sektarákvörðun gagnáfrýjanda, 650.000.000 króna, er sú hæsta sem lögð hefur verið á fyrirtæki á Íslandi vegna brota á samkeppnislögum. Til samanburðar var hæsta sekt sem gagnáfrýjandi hafði áður beitt, 500.000.000 króna en sú ákvörðun var staðfest með dómi Hæstaréttar 28. apríl 2016 í málinu nr. 419/2015. Þar var talið að fyrirtækið hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína í færsluhirðingu á Íslandi og brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga og 54. gr. EES-samningsins. Voru brotin talin snerta allan almenning í landinu, fjárhagslegur styrkur fyrirtækisins mikill og ávinningur af brotunum álitinn verulegur. Brotin voru talin umfangsmikil og stóðu þau í tvö og hálft ár. Þau voru að hluta til einnig brot gegn eldri samkeppnisbrotasátt og því var um ítrekun að ræða.   a. Eðli brota   71         Svo sem rakið hefur verið hér að framan komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu í málinu nr. 360/2015 að verðkannanir aðaláfrýjandans Byko ehf. hefðu þróast í að verða tíðar, reglubundnar og gagnkvæmar. Verðkannanirnar sem og samskiptin í tengslum við þær drógu úr óvissu fyrirtækjanna um hegðun keppinautanna en sú óvissa væri ein af meginforsendum þess að óheft verðsamkeppni gæti átt sér stað. Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að háttsemin væri til þess fallin að hafa áhrif á verðlagningu og raska samkeppni. Verðkönnunarsamskiptin fólu ekki í sér beint samráð um verðlagningu en slíkt samráð átti sér hins vegar stað í samráðssamtalinu 28. febrúar 2011. 72         Í ákvörðun gagnáfrýjanda er um fjárhæð sektarákvörðunarinnar meðal annars vísað til hliðsjónar í dóm Hæstaréttar 30. október 2003 í málinu nr. 37/2003 þar sem um var að ræða mjög alvarleg brot sem fólust í skipulögðu og kerfisbundnu samráði um verðlagningu og skiptingu markaða sem stóð yfir í um fjögur ár. Ljóst er að brot aðaláfrýjenda eru ekki jafn gróf og í því máli auk þess sem þau stóðu í skemmri tíma. 73         Á það er hins vegar fallist með gagnáfrýjanda að markaður fyrir grófvörur sé mjög þýðingarmikill fyrir starfsemi alhliða byggingarvöruverslana og augljóslega afar mikilvægur fyrir almenning. Tekið er undir það með gagnáfrýjanda að þegar brot aðaláfrýjandans Byko ehf. eru metin heildstætt verður að leggja til grundvallar að um sé að ræða alvarleg brot sem beinast gegn mjög mikilsverðum hagsmunum neytenda. Brotin voru framin af ásetningi. 74         Áður er rakið að auk verðkönnunarsamskiptanna áttu sér stað upplýsingaskipti milli aðaláfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. um afkomu og rekstur þess síðarnefnda á árunum 2008 og 2009 og hugmyndir um breytingar á verðstefnu þess fyrirtækis á haustmánuðum 2010. Brotin sem áttu sér stað í febrúar og október 2010 verður að telja til hluta af upplýsingaskiptum sem hafi leitt til röskunar á samkeppni. 75         Alvarlegasta brotið í málinu er augljóslega samtalið sem framkvæmdastjóri fagsölusviðs hjá aðaláfrýjandans Byko ehf. átti við starfsmann Húsasmiðjunnar ehf. 28. febrúar 2011. Þar var hvatt til verðsamráðs og samráðs um tilboðsgerð á grófvörum og miðstöðvarofnum. Brot þetta er gróft eins og nánar kemur fram í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 360/2015 en þar hlaut framkvæmdastjórinn þyngstu refsinguna af þeim sem ákærðir voru. Þótt öðrum stjórnendum aðaláfrýjandans Byko ehf. hafi ekki verið kunnugt um símtalið átti brotið sér stað skömmu áður en framlegðarátaki Byko ehf. var hrundið af stað í byrjun marsmánaðar 2011 og er því greinilega tengt þeirri ákvörðun. Þótt fram komi í samtalinu að framkvæmdastjórinn hafi ekki gert þetta áður og ráða megi af viðbrögðum stjórnenda Húsasmiðjunnar ehf. að um hafi verið að ræða sérstakt tilvik er ljóst að brotið er það alvarlegt að það vegur þungt við ákvörðun sektarfjárhæðar í málinu.   b. Umfang brota   76         Samkvæmt ákvörðun gagnáfrýjanda er markaðurinn sem brotin snúa að sala á alhliða byggingarvörum. Brotin fólust aðallega í verðlagningu á grófvörum og hin reglubundnu og tíðu verðkönnunarsamskipti lutu að um það bil 105 vörutegundum í þeim flokki. Brotin vörðuðu því þýðingarmikinn hluta af starfsemi aðaláfrýjandans Byko ehf. 77         Fyrir liggur í málinu að aðaláfrýjandinn Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf. höfðu 95 til 100% markaðshlutdeild á brotatímabilinu á hinum skilgreinda markaði og ríkti því fákeppni á markaðinum. Vegna þessarar stöðu var mjög mikilvægt að stjórnendur fyrirtækjanna gættu sérstaklega að því að starfsemi þeirra og samskipti við keppinauta leiddu ekki til röskunar á samkeppni. 78         Í málinu liggja ekki fyrir gögn sem sanna að á rannsóknartímabilinu hafi verð á grófvöru almennt hækkað í tengslum við verðkannanir. Þá má ráða að á tímabilinu hafi ríkti verðsamkeppni um tilteknar grófvörur, einkum á gagnvörðu pallaefni, frá mars til ágúst 2010. Í ákvörðun gagnáfrýjanda kemur fram að koma Múrbúðarinnar ehf. inn á grófvörumarkaðinn í október 2010 hafi aukið samkeppnina. Ekki er að finna í málinu neina greiningu á þróun á söluverði á grófvörum og kostnaði við innkaup á þeim. Ekkert verður því fullyrt um það hvort hinar samstilltu aðgerðir hafi í raun haft áhrif á vöruverð í þessum vöruflokki þótt komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að markmiðið með þeim hafi verið að raska samkeppni. 79         Eins og fram hefur komið er það niðurstaða dómsins að ekki hafi verið færð fram haldbær rök fyrir því að brotin hafi getað haft áhrif á viðskipti milli aðila á Evrópska efnahagssvæðinu og eigi 53. gr. EES-samningsins því ekki við í málinu. Umfang brotanna er því takmarkaðra en ákvörðun gagnáfrýjanda byggist á.   c. Brotatími   80         Tímabilið sem var til umfjöllunar í máli Hæstaréttar nr. 360/2015 var september 2010 til mars 2011 eða um sex mánuðir. Sektarfjárhæð í ákvörðun gagnáfrýjanda miðar hins vegar við að hin kerfisbundnu og skipulegu upplýsingaskipti á rannsóknartímabilinu sem höfðu að markmiði að hækka verð á grófvörum hafi að minnsta kosti staðið frá nóvember 2008 til mars 2011 eða í tvö og hálft ár. Í málinu liggur fyrir að verðkannanirnar urðu ekki gagnkvæmar fyrr en á síðasta hluta tímabilsins. Af gögnum málsins má ráða að tíðni verðkannananna á fyrri hluta rannsóknartímabilsins hafi verið minni en á seinni hluta þess. Samkvæmt þessu styðja gögn málsins ekki ályktanir gagnáfrýjanda um að hin kerfisbundnu og skipulegu upplýsingaskipti sem höfðu að markmiði að hækka verð hafi átt sér stað á öllu tímabilinu. Þótt ekki sé unnt að tímasetja það nákvæmlega má við það miða að á árinu 2010 hafi samskiptin verið komin í þann farveg að þau brutu gegn 10. gr. samkeppnislaga. Alvarlegustu brotin voru framin á árinu 2011 en þá fóru starfsmenn aðaláfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. að veita hver öðrum upplýsingar um fyrirætlanir í verðlagningu og hvetja til samráðs um verðlagningu og tilboðsgerð. 81         Leggja verður til grundvallar við ákvörðun sektarfjárhæðar að brotatímabilið hafi verið skemmra en ákvörðun gagnáfrýjanda er reist á og að taka verði nokkurt mið af því.   d. Fjárhagslegur styrkleiki   82         Áður er rakið að sektarákvörðun gagnáfrýjanda er vel innan 10% veltumarka sem 37. gr. samkeppnislaga setur. Við mat á fjárhagslegum styrkleika aðila verður annars vegar að horfa til eiginfjárstöðu fyrirtækis og hins vegar til hagnaðar þess. Áður hafa verið raktar tölur um veltu, hagnað og eigið fé aðaláfrýjenda árin 2013 og 2014. Í málinu liggja fyrir ársreikningar aðaláfrýjandans Byko ehf. fyrir árin 2008 til 2011. Af þeim upplýsingum má sjá að 740.000.000 króna hagnaður hafi verið af rekstri aðaláfrýjandans Byko ehf. á árinu 2008 en rekstartap var um 128 milljónir króna á árinu 2009, 416 milljónir króna á árinu 2010 og 500 milljónir króna á árinu 2011. Í málinu liggur ekki fyrir sundurgreining á afkomu á einstökum sviðum í starfsemi aðaláfrýjandans Byko ehf. 83         Fyrir liggur að fjárhagslegur styrkur aðaláfrýjandans Norvik hf. er umtalsverður en eigið fé hans í árslok 2013 nam 12,1 milljarði króna. Ekki liggja fyrir upplýsingar um eigið fé hans í árslok 2014 en gera má þó ráð fyrir að það hafi aukist vegna sölu á aflagðri starfsemi eins og áður er rakið. Eigið fé aðaláfrýjandans Byko ehf. var 1,2 milljarðar króna í árslok 2014. Fjárhæðar sektarinnar sem gagnáfrýjandi lagði á aðaláfrýjandann Norvik hf. nemur því meira en helmingi af eigin fé hins brotlega fyrirtækis. Þá hefur verið rakið að ekki er að sjá af gögnum málsins að brotin hafi leitt til umtalsverðs fjárhagslegs ávinnings fyrir aðaláfrýjandann Byko ehf. enda taprekstur á starfseminni nánast allt rannsóknartímabilið. 84         Í samræmi við framangreindar niðurstöður um brot gegn 10. gr. samkeppnislaga og sjónarmið við ákvörðun sektar verður úrskurður áfrýjunarnefndar því staðfestur um annað en fjárhæð sektar. Þegar fyrrgreind atriði eru metin heildstætt og horft til þess að sektarfjárhæðin verður að hafa nægjanleg varnaðaráhrif er hún hæfilega ákveðin 325.000.000 króna. 85         Stefnda, íslenska ríkinu, verður gert að greiða aðaláfrýjandanum Norvik hf. 75.000.000 króna. Ekki eru lagaskilyrði til þess að taka kröfu aðaláfrýjandans Norvik hf. um dráttarvexti á endurgreiðslukröfuna til greina. 86         Aðaláfrýjendur greiði gagnáfrýjanda og stefnda málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Gagnáfrýjandi, Samkeppniseftirlitið, skal vera sýkn af kröfum aðaláfrýjenda, Norvik hf. og Byko ehf. Úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 28. september 2015 í máli nr. 6/2015 er breytt þannig að aðaláfrýjandinn, Norvik hf., greiði 325.000.000 króna sekt í ríkissjóð. Stefndi, íslenska ríkið, greiði aðaláfrýjandanum Norvik hf. 75.000.000 króna. Aðaláfrýjendur greiði óskipt gagnáfrýjanda 4.000.000 króna og stefnda 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, miðvikudaginn 16. maí 2018 Mál þetta, sem dómtekið var 27. mars sl., er höfðað annars vegar 10. febrúar 2016 af Samkeppniseftirlitinu, Borgartúni 26, Reykjavík, gegn Byko ehf., Skemmuvegi 2a, Kópavogi, og Norvik hf., Skemmuvegi 2a, Kópavogi, og hins vegar 26. febrúar 2016 af Byko ehf., Skemmuvegi 2a, Kópavogi og Norvik hf., Skemmuvegi 2a, Kópavogi, gegn Samkeppniseftirlitinu, Borgartúni 26, Reykjavík, og íslenska ríkinu, Vegmúla 3, Reykjavík. Mál framangreindra aðila voru sameinuð í þinghaldi 22. september 2016 með vísan til 30. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Eins og málið þannig liggur fyrir dóminum þykir verða að líta svo á að í aðalsök sé leyst úr kröfum aðalstefnanda, Samkeppniseftirlitsins, en í gagnsök sé leyst úr kröfum gagnstefnenda, Byko ehf. og Norvik hf. Málið var endurupptekið 24. apríl 2018 á grundvelli 104. gr. laga nr. 91/1991. Í aðalsök krefst aðalstefnandi, Samkeppniseftirlitið, þess að gagnstefnandanum, Norvik hf., verði gert að greiða 650.000.000 króna sekt, er renni í ríkissjóð, og að ógilt verði ákvæði í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 28. september 2015 í máli nr. 6/2015 um að stefndu skuli greiða sekt í ríkissjóð að fjárhæð 65.000.000 króna og að sektin skuli greiðast eigi síðar en einum mánuði frá dagsetningu úrskurðarins. Þá krefst aðalstefnandi þess að stefndu, Byko ehf. og Norvik hf., verði gert að greiða sér málskostnað. Gagnstefnendur, Norvik hf. og Byko ehf., krefjast aðallega sýknu í aðalsök, en til vara að krafa aðalstefnanda, Samkeppniseftirlitsins, um greiðslu sektar í ríkissjóð verði lækkuð stórlega. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi aðalstefnanda. Í gagnsök krefjast gagnstefnendur, Norvik hf. og Byko ehf., þess aðallega að felldur verði úr gildi sá hluti úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála 28. september 2015 í máli nr. 6/2015, sem staðfesti að hluta ákvörðun stefnda Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015 frá 15. maí 2015 um að gagnstefnandinn Byko ehf. hefði brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og gagnstefnendum gert að greiða 65.000.000 króna í stjórnvaldssekt, svo og að felld verði úr gildi ákvörðun stefnda Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2015 frá 15. maí 2015. Þá er þess krafist að gagnstefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda Norvik hf. 65.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá málshöfðunardegi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að ákvæði úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 6/2015 um að gagnstefnendur skuli greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 65.000.000 króna verði fellt úr gildi að öllu leyti eða sektarfjárhæðin lækkuð verulega. Þá er þess krafist að stefndi, íslenska ríkið, greiði gagnstefnanda, Norvik hf., mismun á 65.000.000 króna og þeirri sekt sem ákvörðuð er með dómi, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá málshöfðunardegi til greiðsludags. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu. Aðalstefnandi og stefndi, íslenska ríkið, krefjast sýknu í gagnsök og málskostnaðar úr hendi gagnstefnenda. Með úrskurði dómsins 22. mars 2017 var kröfu gagnstefnenda um dómkvaðningu matsmanns hafnað og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti með dómi réttarins í máli nr. 224/2017 frá 27. apríl 2017. Þá var kröfu gagnstefnenda um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins hafnað með úrskurði dómsins 27. apríl 2017 og var sú niðurstaða staðfest í Hæstarétti með dómi réttarins í máli nr. 298/2017 frá 1. júní 2017. Sakarefni máls þessa í aðalsök og gagnsök eru samtvinnuð og eru röksemdir aðila fyrir kröfu sinni í flestum tilvikum jafnframt gagnrök við kröfu gagnaðila. Verður því fjallað um röksemdir þeirra í næstu tveimur köflum nokkuð í einu lagi í aðalsök og gagnsök til að forðast tvítekningar. Þá er jafnframt til einföldunar í eftirfarandi köflum talað um Samkeppniseftirlitið sem aðalstefnanda og íslenska ríkið sem stefnda en um Byko ehf. og Norvik hf. sem gagnstefnendur. Þó kunna hugtökin aðalstefndu og gagnstefndu að vera notuð í þeim tilvikum þar sem það þykir nauðsynlegt samhengis og skýrleika vegna. Þá er í kafla um málsatvik til einföldunar notuð heiti þeirra félaga sem þar koma við sögu. I Málsatvik Gagnstefnandinn, Byko ehf., rekur byggingarvöruverslanir í Reykjavík og víða um land og er gagnstefnandinn, Norvik hf., móðurfélag fyrrnefnda félagsins. Forsaga máls þessa er sú að á árinu 2010 barst aðalstefnanda ábending um möguleg brot Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. á ákvæðum samkeppnislaga nr. 44/2005. Er tildrögum þessa nánar lýst svo í gögnum málsins að tveir fyrirsvarsmenn Múrbúðarinnar ehf. hafi snúið sér til aðalstefnanda 15. október 2010 og óskað eftir fundi þar sem þeir vildu upplýsa stofnunina „um tilraunir Byko og Húsasmiðjunnar til að fá Múrbúðina til þess að taka þátt í ólögmætu samráði“ auk þess sem þeir vildu „upplýsa um verðsamráð“ milli tveggja fyrrgreindu fyrirtækjanna. Tveir fundir voru haldnir með fyrirsvarsmönnunum 21. október og 3. nóvember 2010. Að mati aðalstefnanda komu þar fram upplýsingar sem gáfu tilefni til þess að rannsaka hvort samskipti á milli fyrirtækjanna tveggja og við Múrbúðina ehf. samræmdust ákvæðum samkeppnislaga. Múrbúðin mun skömmu áður hafa hafið samkeppni við Byko ehf. og Húsasmiðjuna ehf. um sölu á grófvörum og opnað verslun sína á Smiðjuvegi í Reykjavík 15. október 2010. Í kjölfar þess að aðalstefnandi hóf rannsókn sína beindi hann kæru til ríkislögreglustjóra 30. nóvember 2010, samkvæmt 1. mgr. 42. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 með áorðnum breytingum, þar sem tíu nafngreindir starfsmenn Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. voru sakaðir um brot á 41. gr. a. og 42. gr. laganna. Í kærunni var tekið fram að fyrirtækin tvö stunduðu smásöluverslun með byggingarvörur og rækju verslanir víða um land, auk þess sem þriðja fyrirtækið, Múrbúðin ehf., ræki þrjár byggingarvöruverslanir. Væru fyrirtækin þrjú keppinautar á þessum markaði. Staða Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. væri sterk á markaðnum, en Múrbúðin ehf. ætti þar mun minni hlutdeild. Reyndist grunur um ólögmætt samráð fyrirtækjanna tveggja, sem væru öflugir keppinautar á mikilvægum markaði, á rökum reistur gæti það haft í för með sér mikið tjón fyrir neytendur og atvinnulífið. Með bréfum aðalstefnanda til ríkislögreglustjóra 23. febrúar og 7. mars 2011 voru tólf starfsmenn Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. til viðbótar kærðir fyrir ætluð brot á 41. gr. a. samkeppnislaga, auk tveggja annarra manna sem tengdust Úlfinum Lagerverslun ehf. Munu þessar viðbótarkærur hafa verið byggðar á gögnum sem ríkislögreglustjóri hafði aflað við rannsókn á upphaflega kæruefninu, sem að framan er lýst, og látið aðalstefnanda í té samkvæmt 6. mgr. 42. gr. samkeppnislaga. Kæran varð svo tilefni þess að lögregla hóf rannsókn á því hvort starfsmennirnir hefðu brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga en rannsókn aðalstefnanda beindist á hinn bóginn að því hvort fyrirtækin hefðu brotið ákvæði samkeppnislaga og samsvarandi ákvæði EES-samningsins. Samhengis vegna og til skýringar þykir rétt að greina nokkuð ítarlega frá málsmeðferð og lyktum beggja málanna. Við rannsókn málsins aflaði lögregla símagagna og framkvæmdi símhlustanir auk þess sem lögregla gerði húsleit hjá Byko ehf., Húsasmiðjunni ehf. og Úlfinum Lagerverslun hf. 8. mars 2011 og lagði þar hald á nokkurt magn gagna. Sama dag tók lögregla skýrslur af starfsmönnum fyrirtækjanna og aftur 14. sama mánaðar. Gögn þessi liggja fyrir í málinu. Í kjölfar húsleitarinnar mun Húsasmiðjan ehf. hafa óskað eftir því að gera sátt við aðalstefnanda á þeim grundvelli að fyrirtækið hefði brotið samkeppnislög með samskiptum sínum við Byko ehf. Aðalstefnandi taldi ekki forsendur til að ljúka málinu á slíkum grundvelli þar sem fyrir hendi væru vísbendingar um að ætluð brot væru víðtækari en sáttatillagan gerði ráð fyrir og varð ekki af gerð sáttar á þessum tíma af þessum sökum. Að lokinni lögreglurannsókn gaf sérstakur saksóknari, sem þá hafði tekið við rannsókninni af ríkislögreglustjóra, út ákæru 23. apríl 2014 í málinu. Var starfsmönnum áðurnefndra fyrirtækja gefið að sök refsivert samráð á tímabilinu 13. september 2010 til 3. mars 2011. Voru átta þeirra sakaðir um refsivert verðsamráð með skipulagðri upplýsingagjöf um verð og tilboðskjör sérgreindra grófvörutegunda í símtölum á milli starfsmanna fyrirtækjanna. Þá voru fjórum ákærðu gefin að sök sams konar brot í störfum sínum fyrir Byko hf. í símtölum milli eins þeirra og starfsmanna þriðja fyrirtækisins. Þá voru tveir ákærðu sakaðir um refsiverða hvatningu til verðsamráðs milli Byko hf. og Húsasmiðjunnar hf. með símtölum sem þeir áttu hvor í sínu lagi, og aðrir tveir um refsivert verðsamráð milli fyrirtækjanna og hvatningu til þess í enn öðru símtali. Loks var þremur gefin að sök, hverjum fyrir sig, tilraun til þess að koma á slíku samráði í símtölum við starfsmann fjórða fyrirtækisins.   1. Dómur Héraðsdóms Reykjaness og niðurstaða Hæstaréttar Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 9. apríl 2015 í málinu nr. S-218/2014 var framkvæmdastjóri fagsölusviðs Byko ehf. sakfelldur fyrir að hafa hvatt til verðsamráðs og samráðs um gerð tilboða. Aðrir ákærðu voru sýknaðir. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar og var dómur réttarins kveðinn upp 1. desember 2016 í máli nr. 360/2015. Í dómi Hæstaréttar var talið sannað, með vísan til þeirra gagna sem lögð höfðu verið fram í málinu, að Byko hefði upphaflega spurst fyrir um verð hjá Húsasmiðjunni í símtölum, en samskiptin síðan þróast úr því að vera einhliða í að verða gagnkvæm þar sem þeir sem ræðst hefðu við skiptust á upplýsingum um verð hjá fyrirtækjunum í sömu eða sambærilegum vörutegundum sem einkum hefðu tilheyrt svokallaðri grófvöru. Hefði tilgangurinn með upplýsingagjöfinni augljóslega verið sá að fá gleggri mynd af verðum keppinautarins á samkeppnisvörum og þróun þeirra en kostur hefði verið fyrir fyrirtækin, hvort um sig, með því að kynna sér einungis verðin með þeim aðferðum sem neytendum stóðu til boða. Var talið að hin tíðu og reglubundnu samskipti milli Byko og Húsasmiðjunnar hefðu falið í sér samstilltar aðgerðir sem hefðu haft það að markmiði að raska samkeppni milli fyrirtækjanna og því brotið gegn 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Hið sama var talið eiga við um samskipti Byko og þriðja fyrirtækisins þótt umfang þeirra hafi verið takmarkað. Þar sem um hefði verið að ræða samráð um verð milli fyrirtækja á sama sölustigi hefðu þeir sem framkvæmdu, hvöttu til þess eða létu framkvæma það borið refsiábyrgð samkvæmt 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 41. gr. a. laganna. Við mat á sekt eða sýknu ákærðu var meðal annars litið til þess að tveir hinna ákærðu störfuðu báðir sem sölumenn í þjónustuveri Húsasmiðjunnar, fyrst og fremst við að svara í síma, og var talið ósannað að þeir hefðu með háttsemi sinni brotið með saknæmum hætti gegn áðurgreindum ákvæðum samkeppnislaga. Voru þeir því sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins í málinu. Hins vegar var talið að Guðmundur Loftsson, starfsmaður í þjónustuveri Húsasmiðjunnar ehf., og Ragnar Már Amazeen, starfsmaður í timbursölu Byko ehf., hefðu, hvor hjá sínu fyrirtæki, borið ábyrgð á framkvæmd þess samráðs sem átt hefði sér stað milli Byko og Húsasmiðjunnar og skipti í því sambandi ekki máli þótt þeir teldu sig hafa tekið þátt í samráðinu með vitund eða vilja yfirmanna sinna. Voru þeir sakfelldir fyrir brot af ásettu ráði gegn 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 41. gr. a. samkeppnislaga, sbr. 1. mgr. 10. gr. þeirra. Þá voru þrír starfsmenn Byko, þeir Steingrímur Birkir Björnsson, framkvæmdastjóri fagsölusviðs Byko ehf., Stefán Ingi Valsson, sölustjóri fagsölusviðs Byko ehf., og Leifur Örn Gunnarsson, verslunarstjóri timbursölu, sakfelldir fyrir brot á sömu ákvæðum samkeppnislaga með skírskotun til þeirra stjórnunarstarfa sem þeir gegndu innan fyrirtækisins og þess að þeim bárust reglulega upplýsingar um að borin hefðu verið saman verð hjá fyrirtækinu og Húsasmiðjunni á yfir 100 vörutegundum. Var talið ótvírætt sannað að þeir hefðu af hálfu Byko stýrt samráði um verð milli þess fyrirtækis annars vegar og Húsasmiðjunnar og þriðja fyrirtækisins hins vegar. Við mat á refsiábyrgð Stefáns Árna Einarssonar, framkvæmdastjóra vörustýringarsviðs Húsasmiðjunnar ehf., var aðallega litið til þess að hann hefði verið yfirmaður Guðmundar og borið ábyrgð á því að verðkannanir voru gerðar á grófvöru. Þá þóttu gögn málsins bera með sér að honum hefði verið kunnugt um að Byko aflaði reglulega á ákærutímabilinu upplýsinga um verð á fjölmörgum vörutegundum hjá Húsasmiðjunni með því að hringja í starfsmenn síðarnefnda fyrirtækisins. Vegna þeirra stöðu sem hann gegndi, og vitneskju hans um hið refsiverða samráð, var hann sakfelldur fyrir brot á áðurgreindum ákvæðum samkeppnislaga fyrir aðkomu sína, þó aðeins að því er tók til þeirra tilvika þar sem Byko hefðu verið látnar í té upplýsingar um verð. Þá voru Kenneth Breiðfjörð, vörustjóri timbursölu Húsasmiðjunnar ehf., og áðurnefndur Stefán Árni Einarsson sakfelldir fyrir að hafa hvatt til refsiverðs verðsamráðs milli Byko og Húsasmiðjunnar hvor í sínu símtali og voru brot þeirra heimfærð undir áðurnefnd ákvæði samkeppnislaga. Loks var talið að áðurnefndur Steingrímur og Júlíus Þór Sigurþórsson, vörustjóri timburdeildar Húsasmiðjunnar, hefðu í símtali sín á milli brotið af ásettu ráði og á alvarlegan hátt gegn 1. mgr. og a- og d-liðum 2. mgr. 41. gr. a. laganna þar sem ekki fór á milli mála í umræddu símtali að ákærðu hvöttu hvor annan til að halda uppi verðum hjá Byko og Húsasmiðjunni í grófvöru, þar á meðal við gerð tilboða. Hins vegar var talið ósannað að áðurnefndir starfsmenn Ragnar, Kenneth og Júlíus hefðu gerst sekir um tilraunir til að koma á samráði við starfsmann fjórða fyrirtækisins í símtölum við hann. Að lokinni frumathugun sinni í stjórnsýslumálinu gegn Byko ehf. og Húsasmiðjunni ehf. sendi aðalstefnandi 2. maí 2014 andmælaskjal til Byko ehf., Norvikur hf. og fyrrum eiganda Húsasmiðjunnar, þ.e. Holtavegar 10 ehf., sem og móðurfélags Holtavegar, Landsbankanum hf. Þá var andmælaskjalið einnig sent hinni nýju Húsasmiðju, þ.e. undir nýju eignarhaldi. Í andmælaskjalinu var komist að þeirri frumniðurstöðu að Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf. hefðu haft með sér ólögmætt, samfellt samráð sem hefði haft það að markmiði að raska samkeppni á markaði fyrir alhliða byggingarvöru, þar sem fyrirtækin hefðu saman yfirburðamarkaðshlutdeild. Samráðið hefði m.a. falist í beinum og reglubundnum samskiptum fyrirtækjanna um verð og afslætti af ákveðnum tegundum grófvöru sem og um birgðastöðu sína. Markmiðið með verðsamskiptunum hefði verið að ná fram verðhækkunum og sporna við verðlækkunum til að viðhalda eða auka framlegð fyrirtækjanna. Væri um að ræða mjög alvarlegt brot á 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Í kjölfar útgáfu andmælaskjalsins mun Holtavegur 10 ehf., sem rak fyrirtækið Húsasmiðjuna á rannsóknartímabilinu, hafa óskað eftir því að gera sátt í málinu á grundvelli 17. gr. samkeppnislaga og var sátt milli Samkeppniseftirlitsins og Holtavegar 10 ehf. undirrituð 9. júlí 2014. Með henni féllst félagið á að greiða 325.000.000 króna vegna brota þess á 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Eftir að rannsóknartímabilinu lauk mun Húsasmiðjan hafa verið seld til nýs eiganda. Með sáttinni var viðurkennt að Húsasmiðjan ehf. hefði á rannsóknartímabili málsins, þ.e. frá nóvember 2008 til mars 2011, brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins með samfelldu samráði við Byko ehf. um m.a. verð á byggingarvörum. Nánar tiltekið var meðal annars viðurkennt að brotið hefði falist í reglubundnum, yfirleitt vikulegum, samskiptum við Byko um verð, birgðastöðu o.fl. í því skyni að hækka verð/vinna gegn verðlækkunum á grófvörum (verðkannanir), samráði við Byko í nóvember og desember 2010 um verð á miðstöðvarofnum og samráði við Byko sem átti sér stað í símtali þann 28. febrúar 2011 og fól í sér sérstakt átak til að hækka verð og draga úr samkeppni. Einnig með því að hafa gert sameiginlega tilraun með Byko til að fá Múrbúðina til að taka þátt í samráði um verð á grófvöru og með því að hafa ákveðið með Byko að fylgjast með aðgerðum Múrbúðarinnar á markaðnum. Þá viðurkenndi félagið samráð með því að hafa greint Byko ehf. frá mikilvægum viðskiptalegum upplýsingum sem nánar tiltekið fólust í því að Húsasmiðjan veitti Byko upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á rekstri fyrirtækisins í nóvember 2008 og upplýsti um viðskiptaleyndarmál í febrúar 2010. Þá var tekið fram að Húsasmiðjan væri ekki í aðstöðu til slá því föstu með hvaða hætti upplýsingar í október 2010 um fyrirhugðar mikilvægar breytingar á verðstefnu fyrirtækisins „Prjocect Red“ hefðu borist frá Húsasmiðjunni ehf. til Byko. Vegna þessa féllst Holtavegur 10 ehf. á að greiða 325.000.000 krónur í stjórnvaldssekt. Lauk þar með þætti Húsasmiðjunnar í stjórnsýslumálinu. Dómur í sakamálinu í héraði gekk 9. apríl 2015 en aðalstefnandi tók hina umþrættu ákvörðun 15. maí 2015 í máli nr. 11/2015 um ætluð brot Byko ehf. á 10. gr. samkeppnislaga á þeim tíma sem ákærur í sakamálinu tóku til. Þeirri ákvörðun var skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem felldi 28. september 2015 úrskurð sinn í máli nr. 6/2015. Lágu þessar tvær úrlausnir samkeppnisyfirvalda fyrir Hæstarétti er það kvað upp dóm sinni í málinu nr. 360/2015.   2. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins 15. maí 2015 Af hálfu Byko ehf. var því mótmælt að fyrirtækið hefði brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga með samskiptum sínum við Húsasmiðjuna ehf. og önnur fyrirtæki. Sökum þess tók aðalstefnandi ákvörðun í málinu 15. maí 2015 þar sem stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að Byko ehf. hefði brotið gegn lagagreininni með margvíslegum hætti á tímabilinu frá nóvember 2008 til mars 2011 og var móðurfélagi þess, Norvik hf., meðal annars af þeim sökum gert að greiða 650.000.000 króna í stjórnvaldssekt. Umrædd ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er ítarlega rökstudd og henni fylgir gríðarlegur fjöldi gagna. Þar er í III. kafla ákvörðunarinnar skilgreindur sá markaður sem Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf. störfuðu á, og talið að verslanir fyrirtækjanna tveggja, sem boðið hafi breitt úrval byggingarvöru og skyldra vara, séu sérstakur flokkur verslana sem starfað hafi á aðgreindum markaði. Samkvæmt því hafi markaðurinn verið sala á alhliða byggingarvöru hér á landi og til einföldunar miðað við höfuðborgarsvæðið. Á grundvelli tölfræðilegra upplýsinga væri áætlað að hlutdeild Byko ehf. hafi verið á bilinu frá 55% til 60% á þeim markaði árið 2010 og milli 60% og 65% á fyrri helmingi ársins 2011. Á sama tíma hafi markaðshlutdeild Húsasmiðjunnar ehf. verið á bilinu frá 30% til 35% og Múrbúðarinnar milli 5% og 10%. Þá er í IV. kafla ákvörðunarinnar gerð á ítarlegan hátt grein fyrir efni 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Þannig kemur fram að umrædd ákvæði banni alla samninga og samstilltar aðgerðir fyrirtækja sem hafi það að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún takmörkuð eða henni raskað. Í því sambandi er bent á að það hafi ekki þýðingu hvort um sé að ræða samninga eða samstilltar aðgerðir enda taki hugtakið samráð til allra samskipta fyrirtækja sem séu bönnuð samkvæmt 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, sbr. 4. mgr. 41. gr. a. samkeppnislaga. Banninu við samráði keppinauta sé ætlað að vinna gegn því að þeir eigi samskipti sín á milli sem séu til þess fallin að draga úr sjálfstæði þeirra og æskilegri óvissu á markaði. Slíkt sjálfstæði og óvissa sé frumforsenda fyrir því að samkeppni geti ríkt. Í ákvörðuninni er gerð nákvæm grein fyrir samskiptum og aðgerðum umræddra fyrirtækja á tímabilinu frá nóvember 2008 fram í mars 2011. Telur aðalstefnandi þetta hafa falið í sér skipulagt, markvisst og samfellt samráð yfir tveggja og hálfs árs tímabil. Samskiptin hafi haft það að markmiði að takmarka verðsamkeppni fyrirtækjanna. Þau hafi verið tíð en almennt átt sér stað vikulega, á miðviku- eða fimmtudögum, en komist í fastari skorður er liðið hafi á tímabilið. Samskiptin hafi tekið til um 105 grófvara sem hafi verið mikilvægustu söluvörur fyrirtækjanna. Upplýsingarnar sem fyrirtækin hafi skipst á hafi verið grundvöllur verðákvarðana þeirra í framhaldi af upplýsingagjöf. Í ákvörðuninni er komist að þeirri niðurstöðu að á þeim tíma sem rannsókn stofnunarinnar tók til hafi Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf. átt í reglubundnu samráði, sem aðallega hafi tengst viðskiptum með grófvörur, og tækju flest tilvikin „til ársins 2010 og fram í mars 2011“. Hafi Úlfurinn Lagerverslun ehf. tekið að hluta þátt í samráðinu. Vörunúmer sem fyrstnefndu tvö fyrirtækin seldu hafi skipt tugþúsundum, en umrædd verðsamskipti hafi tekið „til 105 vörutegunda í flokki grófvara sem eiga það sameiginlegt að teljast til mikilvægustu og söluhæstu grófvara þeirra“. Eðli þessarar vöru væri þannig að torvelt væri að bera saman verð á henni. „Hin skipulögðu verðsamskipti gerðu hins vegar Byko og Húsasmiðjunni kleift að bera saman verð á fullkomlega sambærilegum grundvelli.“ Aðalstefnandi kemst að þeirri niðurstöðu í ákvörðun sinni að Byko ehf. hafi brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins með því að stunda samfellt samráð á rannsóknartímabilinu. Í ákvörðuninni er lýst samskiptum sem aðalstefnandi telur lýsa samráði fyrirtækjanna á tilteknum tímabilum allt frá árinu 2000 og fram til ársins 2009 og á árinu 2009 til febrúar 2010. Jafnframt er í sérstökum köflum fjallað um samráð á árinu 2010 vegna breytinga á verðstefnu Húsasmiðjunnar ehf. og í tengslum við sölu og verðlagningu á miðstöðvarofnum. Þá er fjallað um samráð frá mánuði til mánaðar á tímabilinu febrúar 2010 til mars 2011. Jafnframt er lýst samráðstilvikum sem fólust að mati Samkeppniseftirlitsins í heimsóknum til keppinauta í febrúar 2011 og svokölluðu samráðssímtali sem átti sér stað 28. febrúar 2011, aðdraganda þess og áhrifum á samkeppnislega hegðun fyrirtækjanna, og í VI. kafla ákvörðunarinnar er brotunum skipt í eftirfarandi flokka:   2.1. Bein og reglubundin samskipti um verð o.fl. Samráð Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. hafi meðal annars falist í því að fyrirtækin hafi átt samskipti um verð, afsláttarkjör og eftir atvikum birgðastöðu á 105 tegundum grófvöru sem hafi verið mikilvægustu söluvörur fyrirtækjanna. Samskiptin hafi verið bein, reglubundin og skipulögð. Samskiptin hafi átt sér stað í símtölum sem hafi varað í allt að þrjátíu mínútur. Þannig hafi fyrirtækin saman ákveðið til hvaða vörutegunda samráðið tæki og tíðni þess. Samráðið hafi haft það að markmiði að koma í veg fyrir samkeppni fyrirtækjanna með því að halda uppi eða hækka verð á þeim vörum sem það tók til. Upplýsingum um yfirvofandi verðhækkanir hafi þannig verið komið á framfæri til að koma í veg fyrir verðsamkeppni og tapaða markaðshlutdeild. Með svokölluðum „verðkönnunum“ fyrirtækjanna hafi þau í raun verið að senda ólögmæt skilaboð um verðhækkanir. Samráðið hafi átt sér stað með vilja og vitneskju stjórnenda fyrirtækjanna. Stjórnendurnir hafi lagt fyrir undirmenn sína að eiga í samskiptunum. Forstjóri Byko ehf. hafi t.d. lagt áherslu á að samskiptunum væri lokið fyrir fundi framkvæmdastjórnar fyrirtækisins á föstudagsmorgnum. Þá hafi fyrirtækin gert sér grein fyrir því að varasamt væri að eiga í verðsamskiptum með tölvupósti. Samráðið hafi þess vegna átt sér stað í símtölum milli starfsmanna fyrirtækjanna.   2.2 Tilraunir til að fá Múrbúðina ehf. til samráðsins Í ákvörðuninni er lýst þeim samskiptum er leiða til þess að talið verði að Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf. hafi gert samstillta tilraun til að fá Múrbúðina ehf. til að taka þátt í verðsamráðinu. Ástæðan hafi verið sú að Múrbúðin ehf. hafi byrjað að selja grófvörur í samkeppni við fyrirtækin haustið 2010. Samkeppnin hafi verið til þess fallin að gera samráðið flóknara og erfiðara. Þetta skýri áherslu Byko ehf. og Húsa­smiðjunnar ehf. á að fá Múrbúðina ehf. til samráðsins. Í ákvörðuninni er því einnig lýst að Múrbúðin ehf. hafi hafnað því að taka þátt í samráðinu. Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf. hafi hins vegar skipst á upplýsingum um hinn nýja keppinaut og greint hvort öðru frá neikvæðu viðhorfi í hans garð. Þá hafi fyrirtækin komið sér saman um að „fylgjast með“ starfsemi hins nýja keppinautar. Slíkt samstarf sé andstætt 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins og til þess fallið að raska samkeppni. Þá sé það sérstaklega alvarlegt þegar tvö fyrirtæki með nánast 100% markaðshlutdeild beini í sameiningu sjónum sínum að starfsemi nýs keppinautar er reyni að ná fótfestu á markaðnum.   2.3. Samráð um sérstakt átak til að hækka verð og draga úr samkeppni Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er því lýst að 28. febrúar 2011 hafi stefndi og Húsasmiðjan ehf. ákveðið í sameiningu í svokölluðu samráðssímtali að hækka verð og draga úr samkeppni. Í símtali milli starfsmanna fyrirtækjanna þennan dag hafi þeir haft samráð um að fyrirtækin myndu hækka í áföngum verð í öllum tilboðum á grófvöru, grípa til sérstakra aðgerða til að minnka samkeppni í tilboðum á Selfossi og Akureyri, vinna gegn verðsamkeppni og reyna að hækka verðið á gagnvörðu timbri grænu efni, eins og það er kallað í gögnum málsins) á aðalsölutíma þess og hækka verð á miðstöðvarofnum. Í samtalinu hafi starfsmaður Byko ehf. jafnframt greint starfsmanni Húsasmiðjunnar ehf. frá þeirri ætlan þess fyrrnefnda að hækka verð á öðrum vörum en grófvöru, t.d. heimilistækjum, og hafi hinn síðarnefndi tekið við þeim upplýsingum án þess að bera fram mótmæli. Því hafi verið um fullframið brot að ræða. Í ákvörðun stefnanda er því lýst að samráðinu hafi í megindráttum verið hrint í framkvæmd og að forstjóri stefnda hafi lýst því yfir að framlegð fyrirtækisins hefði aukist vegna aðgerða til að hækka verð.   2.4. Samráð á vettvangi stjórna Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. Í ákvörðun stefnanda er því lýst að samráð fyrirtækjanna hafi jafnframt tekið til stjórna þeirra. Alvarlegasti þáttur þess hafi falist í því að stjórnarformaður Húsasmiðjunnar ehf. hafi veitt stjórnarmanni Byko ehf., sem hafi jafnframt átt sæti í stjórn Norvik hf., upplýsingar um meiri háttar breytingar sem voru ráðgerðar á verðstefnu Húsasmiðjunnar ehf., svokallað „Project Red“. Þessar breytingar munu hafa átt að stuðla að aukinni framlegð hjá fyrirtækinu og m.a. falist í nýju afsláttarkerfi. Er þar vísað til tölvuskeytis sem forstjóri Norvikur hf. sendi framkvæmdastjóra og tilteknum stjórnarmönnum 25. október 2010 undir yfirskriftinni „um húsa“ og tölvuskeytis forstjórans til framkvæmdastjórnar 27. október 2010. Í fyrrnefnda skeytinu kemur fram að Húsasmiðjan „hefur haft í undirbúningi stórt verkefni sem tengist verðstefnu og verðímynd félagsins. Mat stjórnarformanns Húsasmiðjunnar er að hér sé um að ræða forsendu fyrir því að Húsasmiðjan lifi af fyrirsjáanlega samkeppni við Bauhaus. Ef af verður er um að ræða kerfisbreytingu á starfsemi félagsins.“ Um klukkustund síðar sendir framkvæmdastjóri Norvikur hf. tölvuskeyti eingöngu á forstjóra þar sem segir „Bara svo við höfum það á hreinu að við eigum að fara varlega með þessar upplýsingar og ekki vera að vitna beint í þær.“ Telur aðalstefnandi að gögn málsins beri með sér að í hinu samfellda samráði hafi ekki aðeins falist reglubundin samskipti um verð á grófvörum og tengd atriði, heldur einnig samskipti um grundvallaratriði í hegðun þessara fyrirtækja á markaði. Þetta samfellda samráð hafi haft það að markmiði að raska samkeppni. Taldi eftirlitið gögn sem forstjórinn sendi 27. október 2010 eina birtingarmynd þess óeðlilega ástands sem ríkti á markaðnum á þessum tíma. Í ákvörðuninni er því einnig lýst að forstjóri stefnda hafi upplýst stjórn félagsins um viðkvæmar viðskiptaupplýsingar sem hann hafi átt að hafa fengið frá Húsasmiðjunni ehf. Er þar vísað til færslu í dagbók forstjóra Byko ehf. 19. febrúar 2010 sem haldlögð var í húsleit 8. mars 2011. Titill færslunnar er „19/2 Samtal“ en nafn viðmælanda er ekki skráð. Taldi aðalstefnandi að draga yrði þá ályktun af efni færslunnar að umrætt samtal forstjórans hafi annaðhvort verið við starfsmann eða stjórnarmann hjá Húsasmiðjunni ehf. og að eðli þessara upplýsinga styðji eindregið þá ályktun. Var það mat Samkeppniseftirlitsins að í samtalinu hefðu farið fram skipti á mikilvægum upplýsingum, sbr. tilvísun til verðs á steypustáli og timbri, til afkomu í grófri og fínni vöru, skuldastöðu, birgðastýringar og útlánastöðu. Hafi þetta þannig verið liður í samfelldu samráði fyrirtækjanna. Í VI. kafla ákvörðunarinnar er svo fjallað á ítarlegan hátt um svokölluð samráðstilvik, þar á meðal þau sem áttu sér stað á sama tímabili og reyndi á í áðurnefndu sakamáli. Er þar rakið mánuð fyrir mánuð hvernig samskiptunum var háttað með vísan til gagna málsins og hvernig aðalstefnandi taldi að með þeim hefðu fyrirtækin gefið upplýsingar um atriði sem þýðingu höfðu fyrir verðlagningu á grófvöru. Þá var gerð grein fyrir því hvernig stofnunin taldi fyrirtækin hafa nýtt upplýsingagjöf sín á milli til samráðs á sviði verðákvarðana, m.a. til að hafa áhrif á hegðun keppinautarins en um hafi verið að ræða tvo höfuðkeppinauta sem störfuðu á fákeppnismarkaði þar sem verðupplýsingaskipti væru almennt talin varhugaverð. Var það mat Samkeppniseftirlitsins að samskiptin bæru með sér að óeðlileg samkeppnisskilyrði hefðu skapast á markaðnum. Dregið hafi úr sjálfstæði í hegðun fyrirtækjanna og hvata til samkeppni með þeim afleiðingum að verðsamkeppni gat verið raskað með alvarlegum hætti. Segir í ákvörðuninni að fram komi skýrt mynstur um samhæfðar aðgerðir á grundvelli ítarlegra og tíðra upplýsingaskipta sem hafi miðað að því að halda uppi og hækka verð á markaðnum. Jafnframt segir að „margvísleg ummæli lykilstarfsmanna gefi til kynna að um gagnkvæman og samkvæman skilning hafi verið að ræða á samhæfingunni innan beggja fyrirtækjanna. Mynstur samstillingarinnar sem kemur fram í verðákvörðunum fyrirtækjanna er skýrt og er að mati Samkeppniseftirlitsins afleiðing af samningi og/eða samstilltum aðgerðum milli þeirra. Var um að ræða áframhaldandi aðgerðir sem fólu í sér samfellt samráð í skilningi samkeppnisréttarins.“ Í upphafi kafla um samráð í júlí 2010 sagði: „Gögn málsins bera með sér að í júlí 2010 hafi brotist út verðsamkeppni á milli Byko og Húsasmiðjunnar í græna efninu. Gögnin sýna einnig að þarna hafi komist á samkeppni sem Byko og Húsasmiðjan reyndu á síðari stigum að koma í veg fyrir að myndi aftur koma upp, sbr. t.d. ummæli í símtali framkvæmdastjóra fagsölusviðs Byko og vörustjóra timbursölu Húsasmiðjunnar þann 28. febrúar 2011“. Í VIII. kafla ákvörðunarinnar, þar sem meðal annars var fjallað um viðurlög, var komist svo að orði um eðli og umfang brots Byko ehf.: „Fólst brot Byko nánar tiltekið í eftirfarandi aðgerðum: Með reglubundnum, yfirleitt vikulegum, samskiptum við Húsasmiðjuna um verð, birgðastöðu o.fl. í því skyni að hækka verð/vinna gegn verðlækkunum á grófvörum ... Með samráði við Húsasmiðjuna sem átti sér stað í símtali þann 28. febrúar 2011 og fól í sér sérstakt átak til að hækka verð og draga úr samkeppni. Nánar tiltekið fólst eftirfarandi í þessu: Samráð um að hækka verð í öllum tilboðum á grófvöru í áföngum. Samráð um að grípa til sérstakra aðgerða til að draga úr samkeppni í tilboðum til viðskiptavina á Selfossi og Akureyri. Samráð um að vinna gegn verðsamkeppni í sölu á gagnvörðu timbri („græna efninu“) á aðalsölutíma þeirrar vöru og reyna þess í stað að hækka verð ... Upplýsingagjöf um fyrirætlanir Byko um að hækka verð á annarri vöru en grófvöru (svokallaðri „valvöru“). Með því að hafa gert sameiginlega tilraun með Húsasmiðjunni til að fá Múrbúðina til að taka þátt í samráði um verð á grófvöru og með því að hafa ákveðið með Húsasmiðjunni að fylgjast með aðgerðum Múrbúðarinnar á markaðnum. Með því að hafa tekið við mikilvægum viðskiptalegum upplýsingum frá Húsasmiðjunni. Þá fólst brot Byko einnig í verðsamráði við Úlfinn.“ Síðan sagði: „Þetta umfangsmikla og tíða samráð átti sér stað á mikilvægum markaði. Augljóst er að það hefur mikla þýðingu fyrir bæði fyrirtæki og neytendur að samkeppni sé ekki raskað í sölu á byggingarvörum. Þá höfðu þátttakendur í samráðinu samanlagt nánast 100% markaðshlutdeild. Þá ber að líta til þess að samráð keppinauta um verð er í eðli sínu ávallt alvarlegt og skaðlegt brot ... Var brot Byko því til þess fallið að valda alvarlegri röskun á samkeppni á mjög mikilvægu sviði viðskipta.“ Þá hafi samráðið hafi ekki aðeins verið skipulagt heldur hafi því verið hrint í framkvæmd og stefndi framið brotin af ásetningi en honum hafi ekki getað dulist að aðgerðirnar gætu strítt gegn samkeppnislögum.   3. Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 28. september 2015 Með kæru 11. júní 2015 kærðu Byko ehf. og Norvik hf. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Fyrir nefndinni kröfðust félögin þess aðallega að ákvörðunin yrði felld úr gildi. Til vara var þess krafist að hin álagða sekt yrði felld niður eða fjárhæð hennar lækkuð og að nánar tiltekin fyrirmæli í ákvörðuninni yrðu felld úr gildi. Með úrskurði 28. september 2015 í máli nr. 6/2015 staðfesti áfrýjunarnefndin í öllum tilvikum utan þremur niðurstöðu stefnanda um brot stefnda á 10. gr. samkeppnislaga. Þá taldi áfrýjunarnefndin að ekki hefði verið sýnt fram á brot stefnda á 53. gr. EES-samningsins. Áfrýjunarnefndin taldi verðsamskipti stefnda og Húsasmiðjunnar ehf. hafa verið skipulögð og kerfisbundin og tók fram að þau hefðu stuðlað að óæskilegum friði á markaðnum, dregið úr óvissu og minnkað sjálfstæði fyrirtækjanna til verðákvarðana. Í úrskurðinum var tekið fram að í meginatriðum snerist „málið um að Húsasmiðjan og ... Byko, hafi reglubundið skipst á upplýsingum um verð á tilteknum söluvörum, svokölluðum grófvörum, einkum timbri í stöðluðum lengdum og þykkt. Þessi upplýsingaskipti eru talin hafa dregið úr óvissu um hegðun keppinauta sem er einn meginþátturinn í að verðsamkeppni geti átt sér stað. Það form sem haft var á upplýsingaskiptunum hafi því raskað samkeppni. Hér háttar þannig til að fyrirtækin gáfu ekki beinlínis upplýsingar um væntanlegar verðákvarðanir sínar, heldur einskorðuðust samskiptin að mestu leyti við gildandi verð. Þá hefur því heldur ekki verið hnekkt að verð þeirra vörutegunda sem málið tekur til hafi getað verið aðgengilegt fyrir viðskiptamenn eða aðra þá sem hefðu haft tíma og áhuga á því að skoða heimasíður fyrirtækjanna, hringja í þjónustuver og mæta á sölustað til að fá verð gefin upp ... Þegar metið er hvort samskipti („verðkannanir“) um gildandi verð samkeppnisaðilans hafi falið í sér samráðsbrot verður jafnframt að hafa í huga þá staðreynd að tíðar verðkannanir samkeppnisaðila eru þáttur í virkri samkeppni. Allir samkeppnisaðilar, og óháðir aðilar, fylgjast reglubundið með verðum. Ekkert bannar þetta og því þarf eitthvað sérstakt að koma til svo fyrirkomulagið á slíkum aðgerðum teljist ólögmætt.“ Í úrskurðinum var lagt „til grundvallar að verðkannanir ... Byko, og samskipti við Húsasmiðjuna í tengslum við þær, hafi almennt farið fram með þeim hætti á rannsóknartímabilinu að nafngreindur starfsmaður ... hafi hringt vikulega í starfsmenn í þjónustuveri Húsasmiðjunnar til að fá upplýsingar um gildandi verð á tilteknum vörunúmerum ... Svo virðist sem fyrirkomulagið hafi með tímanum orðið fastara í forminu ... hafi samskiptin þróast úr því að vera einhliða, þ.e. starfsmaður Byko spurðist fyrir um það verð sem gilti hjá samkeppnisaðilanum, í það að þau urðu tvíhliða. Með því er átt við að starfsmaður Húsasmiðjunnar fékk þá við sama tækifæri upplýsingar um verðið sem Byko var með á sömu eða sambærilegum vörum.“ Var komist að þeirri niðurstöðu í úrskurðinum að þetta form á verðkönnununum og öðrum samskiptum fyrirtækjanna tveggja hefði verið „tvímælalaust andstætt samkeppnislegum sjónarmiðum“. Fyrirkomulagið hafi ekki aðeins verið „til þess fallið að bjóða hættunni heim heldur leiddi af því röskun á samkeppni og þá frekar í þá átt að verð hækkaði“. Jafnframt var talið að skilgreining markaðarins, sem um ræddi í málinu, hefði verið fullnægjandi í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Ætlað samráðsbrot lyti „að kjarnastarfsemi alhliða byggingavöruverslana en á þeim markaði voru ... Byko og Húsasmiðjan nánast einráðandi“. Þá var í úrskurðinum vikið að einstökum þáttum í hinu ætlaða samráði. Var tekið svo til orða að segja mætti „að flest atvikin sem aðalstefnandi leggur til grundvallar tengist þeirri háttsemi að ... Byko og Húsasmiðjan skiptust reglubundið á verðupplýsingum og eftir atvikum upplýsingum sem gátu haft áhrif á markaðsverð. Ekki er umdeilt að slík samskipti áttu sér stað á brotatímabilinu og verður lagt til grundvallar að báðir aðilar hafi haft fulla vitneskju um hver var mótaðili í þeim upplýsingaskiptum ... Að mati áfrýjunarnefndarinnar teljast upplýsingaskipti af þessu tagi, og sú hegðun sem hún er fallin til að stuðla að í þessu tilviki, brot í skilningi 10. gr. samkeppnislaga“. Hins vegar leit nefndin svo á að í sumum tilvikum hefði aðalstefnandi „dregið of víðtækar ályktanir af gögnum málsins“. Ætti það við um samskiptin við Múrbúðina sem væru „ekki þess eðlis að hægt sé að segja að Múrbúðinni hafi verið boðin þátttaka í verðsamráði“ og ekki lægju fyrir gögn um að „einhvers konar samráð“ hefði verið með Byko ehf. og Húsasmiðjunni ehf. „um það að bjóða Múrbúðinni að taka þátt í verðsamráði“. Í úrskurðinum var sérstaklega tekið fram að áðurgreint símtal 28. febrúar 2011 hefði falið í sér brot á 10. gr. samkeppnislaga og yrði „það að teljast alvarlegt“. Í úrskurðinum er tekið fram að þessi skipulögðu og kerfisbundnu samskipti hafi leitt til „ástands sem þróaðist í þá átt að gera báðum aðilum kleift að hækka verð sín“. Samskiptin hafi „tvímælalaust“ verið andstæð samkeppnislegum sjónarmiðum og fyrirkomulagið „ekki bara [verið] til þess fallið að bjóða hættunni heim heldur leiddi af því röskun á samkeppni og þá frekar í þá átt að verð hækkaði“. Þannig taldi áfrýjunarnefndin að ólögmætt verðsamráð hefði ekki aðeins átt sér stað heldur að það hefði í raun raskað samkeppni á markaði. Í úrskurðinum var því fallist á það með Samkeppniseftirlitinu að í verðkönnunarsímtölunum hefði falist brot gegn 10. gr. samkeppnislaga. Byggði sú niðurstaða á gögnum málsins í heild, markaðsstyrk fyrirtækjanna og því að hlutlæg gögn bæru með sér að fyrirkomulagið á símtölunum hefði verið til þess fallið að auðvelda að halda verði uppi. Þó kemur fram í þessum niðurstöðulið úrskurðarins það mat nefndarinnar að í einhverjum tilvikum hafi verið dregnar of víðtækar ályktanir af gögnum málsins og að „ekki teljist allt sannað um eðli brotanna“ sem byggt var á í ákvörðun stefnda, eins og það er orðað. Í úrskurðinum er hafnað þeirri niðurstöðu ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins að draga mætti þá ályktun af tölvuskeyti forstjóra stefnanda Byko dags. 26. nóvember 2008 að hann hefði fengið upplýsingar um yfirvofandi aðhaldsaðgerðir frá Húsasmiðjunni. Um sé að ræða almennar vangaveltur um samkeppnisaðila og þær bollaleggingar forstjórans sem fram komi í tölvupóstinum hafi reynst í veigamiklum atriðum rangar. Á hinn bóginn fellst áfrýjunarnefndin á þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að af dagbókarfærslu þáverandi forstjóra stefnanda Byko 19. febrúar 2010 megi ráða að upplýsingar sem þar er að finna hafi borist frá Húsasmiðjunni. Áfrýjunarnefndin hafnar á hinn bóginn þeirri niðurstöðu í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að Múrbúðinni hafi verið boðin þátttaka í ætluðu verðsamráði. Þá er hafnað þeirri niðurstöðu að einhvers konar samráð hafi verið með Byko og Húsasmiðjunni um það ætlaða boð. Þá er staðfest sú niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að Byko hafi ekki tekist að sýna fram á að upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á verðstefnu Húsasmiðjunnar, „Project Red“, hafi ekki borist frá Húsasmiðjunni og sönnunarbyrðin sé því lögð á Byko hvað þetta varðar, líkt og aðalstefnandi gerði í niðurstöðu sinni. Þá hafnar áfrýjunarnefndin ýmsum ályktunum sem aðalstefnandi dregur í ákvörðun sinni af gögnum málsins, m.a. að draga megi þá ályktun að í janúar 2011 hafi Byko ehf. fallist á tillögu Húsasmiðjunnar ehf. um verðhækkun. Þá er því hafnað að ráða megi af efni innanhússtölvuskeytis starfsmanns Byko, þar sem greint er frá heimsóknum í byggingarvöruverslunina Úlfinn og Múrbúðina, að þau samskipti hafi falið í sér ólögmætt samráð. Sérstaklega er tiltekið að önnur samskipti, sem rakin séu í viðkomandi kafla í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, séu í samræmi við afstöðu áfrýjunarnefndar til lögmætis verðkönnunarsímtalanna. Óumdeilanlegt sé að Húsasmiðjan hafi hækkað verð í þeirri von að gagnstefnandinn Byko ehf. fylgdi á eftir, en virðist hafa verið reiðubúin að draga slíkar hækkanir til baka, væri það ekki gert. Með því hafi komist „á ástand á markaðnum sem verður að teljast í andstöðu við ákvæði 10. gr. samkeppnislaga“, eins og segir í úrskurðinum. Þá er hafnað þeirri niðurstöðu stefnda að Byko og Húsasmiðjan hafi viðhaft ólögmætt samráð um verðlagningu á miðstöðvarofnum. Eru skýringar Byko á þeim samskiptum, sem raktar eru í ákvörðun stefnda, taldar trúverðugar og lagðar til grundvallar. Þá er staðfest sú niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að í símtali tiltekins starfsmanns stefnanda Byko við starfsmann Húsasmiðjunnar þann 28. febrúar 2011, hinu svokallaða samráðssímtali, hafi falist brot gegn 10. gr. samkeppnislaga. Þannig hafi í símtalinu falist hvatning til samráðs. Hins vegar hafnar nefndin því að fyrir liggi að Húsasmiðjan hafi brugðist við efni símtalsins með þátttöku í ólögmætu samráði. Þá taldi áfrýjunarnefndin dóm Héraðsdóms Reykjaness, sem þá hafði gengið í sakamálinu, hafa takmarkaða þýðingu fyrir úrslit stjórnsýslumálsins enda væri ábyrgð fyrirtækjanna óháð refsiábyrgð starfsmanna. Í úrskurði áfrýjunarnefndar er jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að aðalstefnandi hafi dregið of víðtækar ályktanir, miðað við það sem gögn málsins gefi til kynna, um umfang þess samráðs sem nefndin telur sannað og huglæga afstöðu starfsmanna, auk þeirra atriða sem að framan greinir. Þá er því hafnað að sýnt hafi verið fram á að í hinu ætlaða samráði hafi jafnframt falist brot gegn 53. gr. EES-samningsins. Líkt og að framan greinir var það niðurstaða áfrýjunarnefndar að stjórnvaldssekt væri hæfilega ákveðin 65.000.000 króna. Til stuðnings þeirri niðurstöðu var vísað til þess að brot Byko ehf. hafi ekki verið „jafn umfangsmikil, alvarleg og kerfisbundin“ og aðalstefnandi lagði til grundvallar. Þá lagði nefndin til grundvallar að jafnvel þótt fallist yrði á þær forsendur sem stefndi gaf sér um háttsemina væri sektin „úr hófi fram há“. Til rökstuðnings sektarfjárhæðinni vísaði áfrýjunarnefndin til þess að um væri að ræða mikilvægan markað og markaðshlutdeild aðila væri há. Þá taldi nefndin að í þessu máli yrði ekki talið að sátt sú sem Húsasmiðjan gerði við aðalstefnanda hefði sérstök áhrif, hvorki hvað varðaði mat á hinni brotlegu háttsemi né fjárhæð sektar. Þá vísaði nefndin til þess að í Hæstaréttarmálinu nr. 37/2003, sem aðalstefnandi hafði fjallað um í tengslum við fjárhæð sektarinnar, hefði verið um að ræða mun alvarlegra og kerfisbundnara brot í því skyni að breyta markaði, draga úr samkeppni, og auka markvisst framlegð með skipulögðu samráði. Það mál sem hér um ræddi hefði ekki yfir sér sama yfirbragð að mati nefndarinnar. Þá var það niðurstaða nefndarinnar að sektinni væri réttilega beint að Norvik hf., móðurfélagi Byko ehf. Áfrýjunarnefndin tiltekur í umfjöllun sinni um sektarfjárhæðina að í ákvörðun stefnanda sé gert of mikið úr alvarleika, umfangi og skipulagi brotanna, huglægri afstöðu stjórnenda og starfsmanna stefnda og viðurkenningu Húsasmiðjunnar á þætti fyrirtækisins í brotunum, ekki sé sýnt fram á brot stefnda á 53. gr. EES-samningsins og að nokkur samráðstilvik séu ósönnuð. Loks var það niðurstaða áfrýjunarnefndar að staðfesta þau fyrirmæli sem beint var til Byko í gr. 2.1 í ákvörðunarorðunum, en fella úr gildi gr. 2.2 í þeim. Norvik hf. greiddi álagða sekt til ríkissjóðs 30. október 2015. Var sektin greidd með fyrirvara um lögmæti úrskurðarins, ákvörðun stefnda og endurkröfurétt á hendur íslenska ríkinu. Í máli þessu reynir á gildi framangreindra ákvarðana samkeppnisyfirvalda, þýðingu niðurstöðu Hæstaréttar í áðurnefndu refsimáli gegn starfsmönnum Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf., sbr. dóm réttarins í máli nr. 360/2015, og fjárhæð sektar, verði fallist á sjónarmið Samkeppniseftirlitsins og íslenska ríkisins um brot gegn ákvæðum 10. gr. samkeppnislaga og eftir atvikum einnig hvort um brot hafi verið að ræða á 53. gr. EES-samningsins. Verður nú gerð grein fyrir sjónarmiðum aðila hvað þetta varðar og til einföldunar, skýringar og glöggvunar er í einu lagi fjallað um sjónarmið hvors aðila í aðalsök og gagnsök. Áréttað er að í eftirfarandi köflum er talað um Samkeppniseftirlitið sem aðalstefnanda og íslenska ríkið sem stefnda en um Byko ehf. og Norvik hf. sem gagnstefnendur. Þegar rætt er um gagnstefnanda í eintölu eða með ákveðnum greini er í flestum tilvikum átt við Byko ehf. nema annað verði skýrlega ráðið af samhenginu.   II Málsástæður og lagarök aðalstefnanda, Samkeppniseftirlitsins, í aðalsök og jafnframt gagnstefnda í gagnsök og málsástæður og lagarök stefnda, íslenska ríkisins, í gagnsök Málatilbúnaður aðalstefnanda er byggður á því að gagnstefnandinn Byko ehf. hafi, með þeim aðgerðum og í öllum þeim atriðum sem lýst sé í ákvörðun aðalstefnanda og sé grundvöllur ákvörðunar hans frá 15. maí 2015 í máli nr. 11/2015, brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 53. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993. Ákvæði 10. gr. samkeppnislaga leggi bann við öllu samráði milli keppinauta sem raskað geti samkeppni. Hið sama geri 53. gr. EES-samningsins. Ekki skipti máli hvort háttsemin sem um ræði teljist vera samningur, samþykkt eða samstillt aðgerð. Með samráði sé átt við hvers konar samvinnu eða samskipti milli keppinauta, allt frá formlegum samningum til lauslegra óbeinna samskipta. Þannig sé um samráð að ræða ef fyrirtæki tekur, án mótmæla, við tilteknum upplýsingum frá keppinauti á fundi eða í síma og ekki sé áskilið að sá sem taki við upplýsingunum veiti upplýsingar á móti. Ákvæði 10. gr. samkeppnislaga sé ætlað að tryggja sjálfstæði keppinauta og æskilega óvissu á markaði. Þessir þættir séu grunnstoðin fyrir virkri samkeppni í skilningi samkeppnisréttarins. Af þessu leiði að allt samráð keppinauta sem geti unnið gegn þessu sjálfstæði og óvissu teljist raska samkeppni í skilningi 10. gr. samkeppnislaga. Hnykkt hafi verið á þessari grundvallarreglu í dómi dómstóls ESB í máli nr. C-286/13. Krafan um sjálfstæði sé sérstaklega rík varðandi öll atriði sem tengist verðlagningu keppinauta. Í a. lið 2. mgr. 10. gr. samkeppnislaga sé lagt bann við öllu samráði sem geti haft áhrif á verð með „beinum eða óbeinum hætti.“ Það samræmist því ekki 10. gr. samkeppnislaga þegar keppinautar skiptast „reglulega á upplýsingum sem hafa þýðingu fyrir verðákvörðun…“, sbr. um slíka aðstöðu úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 3/2004 og dóma Hæstaréttar Íslands frá 4. febrúar 2016 í málum nr. 272, 277 og 278/2015. Lagaleg þýðing þess að samráð hafi það að markmiði að raska samkeppni í framangreindum skilningi sé sú að brotið sé gegn 10. gr. samkeppnislaga með því einu að tiltekin samskipti/háttsemi eigi sér stað. Ekki sé nauðsynlegt að sýna fram á að samráðið hafi „raunveruleg eða hugsanleg“ samkeppnishamlandi áhrif, sbr. um þetta atriði dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 37/2003, dóm dómstóls ESB í máli nr. C-286/13 og leiðbeiningar Eftirlitsstofnunar EFTA um beitingu 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins. Aðalstefnandi byggir á því að samráð milli keppinauta hafi það að markmiði að raska samkeppni í ofangreindum skilningi þegar það sé beinlínis tilgangur þess, t.d. ef viðskiptaupplýsingum er miðlað í því skyni að hækka verð eða ef efni/andlag samráðsins eru atriði sem hafa þýðingu fyrir m.a. verðákvörðun eða þegar þessi atriði, og eftir atvikum framkvæmd samráðsins, draga að öðru leyti úr sjálfstæði og óvissu á markaði. Aðalstefnandi byggir á því að það feli í sér sterka vísbendingu um að upplýsingaskipti séu ólögmæt þegar þau eigi sér aðeins stað milli viðkomandi keppinauta, en fari ekki fram fyrir opnum tjöldum (bein upplýsingaskipti). Hið sama gildi þegar upplýsingaskipti einfaldi samhæfingu á flóknum markaði, m.a. með því að búa til gagnsæi („tilbúið gagnsæi“) og þegar þau taki til verðs eða annarra mikilvægra viðskiptaupplýsinga og séu milli fyrirtækja sem starfi á samanþjöppuðum fákeppnismarkaði. Þau séu reglubundin og tíð og taki til upplýsinga sem ekki séu „fyllilega opinberar“ í skilningi samkeppnisréttarins. Þá sé það einnig vísbending þegar upplýsingaskipti hafi ekki í för með sér skuldbindingargildi. Samskipti fyrirtækjanna sem mál þetta fjalli um og ákvarðanir samkeppnisyfirvalda taki til beri öll þessi einkenni. Aðalstefnandi byggir á því að álögð sekt að fjárhæð 650.000.000 króna hafi verið hæfileg en ekki „úr hófi fram há“, eins og áfrýjunarnefndin hafi komist að orði í úrskurði sínum. Verði í þessu sambandi m.a. að horfa til til alvarleika og umfangs málsins, þess tíma sem samráðið stóð yfir, að það átti sér stað á mikilvægum markaði þar sem samráðsfyrirtækin höfðu nálægt 100% markaðshlutdeild, og að taka beri tillit til veltu og efnahagslegs styrkleika gagnstefnenda. Þá hafi áfrýjunarnefndin í þeim atriðum er hún tiltaki sérstaklega að ekki hafi verið um brot að ræða á 10. gr. samkeppnislaga dregið rangar ályktanir af gögnum málsins. Þá geti þau atriði sem gagnstefnendur byggi á málatilbúnað sinn í gagnsök og varði ætluð brot á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar ekki valdið því að ákvarðanir samkeppnisyfirvalda í málinu verði taldar ógildar. Bendir aðalstefnandi á að í þessu máli sé lögmæti rannsóknaraðgerða lögreglu ekki til umfjöllunar en auk þess hefði mögulegt ólögmæti þeirra ekki nokkur áhrif á rekstur stjórnsýslumálsins. Þá hafi verið fylgt öllum málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Aðalstefnandi hafnar því að nokkurt tilefni hafi verið fyrir áfrýjunarnefndina til að lækka sektina á grundvelli þeirra sjónarmiða sem rakin séu í úrskurði hennar. Í fyrsta lagi séu brot gagnstefnandans Byko ehf. mjög alvarleg. Samráð fyrirtækisins og Húsasmiðjunnar ehf. hafi verið umfangsmikið, skipulagt og staðið yfir í langan tíma. Í öðru lagi sé niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar þess efnis að ekki hafi verið sýnt fram á brot á 1. mgr. 53 gr. EES-samningsins í andstöðu við rétta skýringu ákvæðisins. Í þriðja lagi hafi samráðið náð til allra þeirra tilvika sem áfrýjunarnefndin hafi í úrskurði sínum talið ósönnuð. Niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar að þessu leyti hafi ekki verið reist á réttu mati á gögnum málsins. Þau gögn sem aflað hafi verið undir rekstri málsins hjá aðalstefnanda og hann byggði ákvörðun sína á feli í sér fullnægjandi sönnun um samráðið. Hvað sem því líði hafi samráðið verið svo alvarlegt, umfangsmikið og staðið yfir í það langan tíma að jafnvel þó umrædd tilvik væru undanskilin eigi það ekki að leiða til lækkunar á fjárhæð sektarinnar, líkt og áfrýjunarnefndin hafi ákveðið í úrskurði sínum. Aðalstefnandi byggir einnig á því að ákvörðun áfrýjunarnefndarinnar um 65.000.000 króna sekt hafi ekki næg varnaðaráhrif, hvorki gagnvart gagnstefnendum né fyrirtækjum sem íhugi háttsemi sem sé andstæð samkeppnislögum og EES-samningnum. Þá sé hún ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu til viðurlaga fyrir brot gegn 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES- samningsins, eins og ákvæðin hafi verið skýrð af dómstólum í íslenskum rétti og EES-/ESB-samkeppnisrétti og taki ekki mið af eðli, umfangi og tímalengd brotanna eða veltu og fjárhagslegum styrk gagnstefnenda. Hafa verði í huga að brot samkvæmt umræddum ákvæðum séu meðal alvarlegustu brota í samkeppnisrétti. Aðalstefnandi bendir jafnframt á að rökstuðningur með úrskurði áfrýjunarnefndarinnar sé ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu til slíkra úrskurða. Enda þótt áfrýjunarnefndin hafi staðfest niðurstöðu aðalstefnanda um nánast öll samráðstilvikin hafi hún talið sektina úr hófi fram háa. Áfrýjunarnefndin hafi hins vegar ekki rökstutt að hvaða leyti aðalstefnandi legði rangt eða ómálefnalegt mat á brotin eða önnur atriði sem þýðingu hafi við ákvörðun sektar. Úrskurðurinn sé því ekki rökstuddur með fullnægjandi hætti, eftir atvikum að undangenginni nauðsynlegri rannsókn. Nánar tiltekið byggir aðalstefnandi á eftirtöldum málsástæðum til stuðnings kröfum sínum:   1. Sektin sem aðalstefnandi ákvað hafi verið í samræmi við 37. gr. samkeppnislaga Í fyrsta lagi hafi sektin sem aðalstefnandi lagði á gagnstefnandann Norvik hf. verið í samræmi við 37. gr. samkeppnislaga. Sektin hafi verið hæfileg með hliðsjón af eðli, alvarleika, umfangi og tímalengd brotanna, veltu og fjárhagslegum styrk gagnstefnenda. Við ákvörðun um fjárhæð sektarinnar hafi verið tekið mið af þeim atriðum sem mælt sé fyrir um í 2. mgr. 37. gr. samkeppnislaga ásamt öðrum málefnalegum sjónarmiðum. Aðalstefnandi bendir á að brot gagnstefnandans Byko ehf. hafi verið alvarleg, umfangsmikil og staðið yfir í langan tíma. Þau hafi falist í þátttöku í skipulögðu og samfelldu verðsamráði. Brotin hafi átt sér stað á fákeppnismarkaði þar sem stefndi og Húsasmiðjan ehf. hafi verið saman með nálægt 100% markaðshlutdeild og það geri brot fyrirtækjanna alvarlegri en ella. Ólögmætt verðsamráð keppinauta á slíkum markaði sé mjög alvarlegt brot gegn samkeppnislögum og leiði almennt til hárra sekta. Brotin hafi átt sér stað á mikilvægum markaði fyrir viðskiptavini og neytendur. Þau hafi verið til þess fallin að hækka byggingarkostnað og skaða hagsmuni almennings. Það geri brotin alvarlegri en ella. Velta gagnstefnandans Byko ehf. á hinum skilgreinda markaði hafi verið um 16 milljarðar króna árið 2010 og þar af 8,7 milljarðar króna vegna sölu á grófvöru. Umfangið hafi því verið verulegt. Brotin hafi átt sér stað frá nóvember 2008 fram í mars 2011 og því staðið yfir í langan tíma. Sekt vegna brotanna eigi því að vera hærri en ella. Aðalstefnandi byggir á því að brot gagnstefnanda og Húsasmiðjunnar ehf. hafi haft það að markmiði að raska samkeppni í skilningi samkeppnislaga og EES-samningsins. Þó að áfrýjunarnefndin hafi staðfest niðurstöðu stefnanda að þessu leyti hafi nefndin talið að það drægi úr alvarleika brotanna að verðsamskipti fyrirtækjanna hefðu að mestu einskorðast við gildandi verð. Aðalstefnandi geti ekki fallist á þetta enda séu brotin alvarleg fyrir það eitt að þau hafi haft það að markmiði að raska samkeppni. Hvað sem því líði sé það þó ekki rétt að verðsamskiptin hafi að mestu einskorðast við gildandi verð. Þá komi það og fram í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 360/2015. Í ákvörðun aðalstefnanda sé bent á að fyrirtækin hafi veitt hvort öðru upplýsingar um fyrirhugaðar verðbreytingar. Staðfesti áfrýjunarnefndin „að verðupplýsingar Húsasmiðjunnar hafi í raun ávallt verið með þeim fyrirvara að þær yrðu dregnar til baka ef [gagnstefnandi] hækkaði ekki sínar vörur í sambærilegum tilvikum“. Með vísan til þessa byggir aðalstefnandi á því að verðsamskiptin hafi falið í sér upplýsingar um verðáform í skilningi samkeppnisréttar. Það sé því ekki rétt að verðsamskiptin hafi að mestu einskorðast við gildandi verð. Þá sé í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar lagt til grundvallar að upplýsingar sem hafi legið til grundvallar verðsamskiptum gagnstefnanda og Húsasmiðjunnar ehf. hafi verið opinberar. Aðalstefnandi bendir á að niðurstaða um þetta atriði hafi raunar ekki þýðingu við mat á því hvort um brot hafi verið að ræða þar sem verðsamskiptin hafi haft það að markmiði að raska samkeppni. Verði ekki á það fallist byggir aðalstefnandi á því að upplýsingarnar hafi ekki verið opinberar. Ljóst sé af gögnum málsins að vandasamt gat verið að bera verð á grófvörutegundum saman, jafnvel fyrir starfsmenn fyrirtækjanna, vegna þess hve verðumhverfið var flókið. Hin skipulögðu verðsamskipti hafi hins vegar gert alla verðsamhæfingu mögulega og eftir atvikum skilvirkari. Gagnstefnandi hafi enda ekki gefið skýringar á því hvers vegna hann og Húsasmiðjan ehf. ákváðu að eiga í beinum verðsamskiptum ef fyrirtækin töldu sig geta aflað upplýsinganna án þess að eiga samskipti sín á milli. Fram hjá þessu sé litið í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar. Aðalstefnandi byggir á því að það sé bæði heimilt og málefnalegt að leggja umtalsverðar sektir á fyrirtæki sem fremji brot sem séu alvarleg í eðli sínu, án tillits til áhrifa slíkra brota á markaði, sbr. meðal annars 83. mgr. dóms dómstóls ESB frá 13. júní 2013 í máli nr. C-511/11. Ákvæði 37. gr. samkeppnislaga geri ekki þá kröfu að sektir séu ákvarðaðar með hliðsjón af þeim áhrifum sem viðkomandi brot hafi í raun haft á markaði. Sé ólögmætum aðgerðum á hinn bóginn hrint í framkvæmd sé málefnalegt að líta til áhrifa þeirra við ákvörðun um fjárhæð sektar, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar Íslands 27. nóvember 2014 í máli nr. 112/2014. Aðalstefnandi byggir á því að samráði fyrirtækjanna hafi verið hrint í framkvæmd og að það hafi leitt til þess að verð á grófvörum hækkaði eða stóð í stað. Í samræmi við almenn sjónarmið um ákvörðun sekta fyrir brot gegn samkeppnislögum taldi aðalstefnandi því að þetta leiddi til þess að sekt vegna brotanna ætti að vera hærri en ella. Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar hafi samráðið verið talið hafa „leitt til ástands sem þróaðist í þá átt að gera báðum aðilum kleift að hækka verð sín“ og verðsamskiptin „tvímælalaust“ talin andstæð samkeppnislegum sjónarmiðum. Þannig hafi ástandið „ekki bara [verið] til þess fallið að bjóða hættunni heim heldur [hafi leitt] af því röskun á samkeppni og þá frekar í þá átt að verð hækkaði“. Þó að áfrýjunarnefndin telji þannig að brot gagnstefnanda hafi raskað samkeppni á mikilvægum fákeppnismarkaði víki hún ekki að því hvort slík röskun eigi að hafa áhrif á sekt vegna brotanna né rökstyðji hún hvers vegna það hafi þá verið rangt hjá aðalstefnanda að láta það horfa til þyngingar að brotin röskuðu samkeppni. Aðalstefnandi byggir á því að þessar málsástæður ásamt öðrum leiði til þess að taka beri kröfu hans um sektarfjárhæð til greina. Aðalstefnandi byggir á því að gagnstefnandi hafi framið brotin af ásetningi og að það eigi að leiða til hærri sektar stefnda en ella. Honum hafi ekki getað dulist að verðsamskiptin og aðrar aðgerðir hans og Húsasmiðjunnar ehf. gætu raskað samkeppni. Í ákvörðun aðalstefnanda sé vísað til fjölmargra gagna sem staðfesti að fyrirtækin hafi gert sér grein fyrir því að það væri óeðlilegt eða áhættusamt að samráðið ætti sér stað í tölvupóstsamskiptum milli fyrirtækjanna. Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar sé jafnframt bent á að æðstu stjórnendur fyrirtækjanna hafi virst líta svo á að verðsamskiptin væru andstæð samkeppnislegum sjónarmiðum „þegar þeim varð ljóst í hvaða átt mál höfðu þróast“. Í úrskurðinum sé ekki gerð grein fyrir því hvaða áhrif mat áfrýjunarnefndarinnar á huglægri afstöðu stjórnenda og starfsmanna gagnstefnandans hafi á sekt vegna brotanna. Í úrskurðinum sé aðeins tekið fram að ummæli stjórnenda og starfsmanna, eftir að málið kom upp, hafi ekki þýðingu við mat á brotum stefnda og að aðalstefnandi hafi í tveimur tilvikum gengið of langt í ályktunum sínum. Á það kveðst aðalstefnandi raunar ekki geta fallist. Ákvörðun hans hafi verið reist á hlutlægu og málefnalegu mati á samtímagögnum. Niðurstaðan hafi ekki í neinu tilviki verið reist á ummælum stjórnenda eða starfsmanna stefnda eingöngu. Aðalstefnandi byggir á því að málefnalegt sé að líta til atriða sem snerti huglæga afstöðu í þeim tilvikum þar sem gögn um hana liggi á annað borð fyrir. Í því sambandi hafi ekki þýðingu þótt ásetningur sé hvorki skilyrði brots gegn ákvæðum 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins né skilyrði sektar sem er lögð á fyrir slíkt brot, en hann geti haft áhrif á fjárhæð sektar. Aðalstefnandi byggir á því að aðgerðir gagnstefnandans Byko ehf. hafi haft það að markmiði að raska samkeppni. Í samkeppnisrétti sé litið svo á að brot sé framið af ásetningi þegar viðkomandi megi vera ljóst að aðgerðir hans hafi það að markmiði að raska samkeppni, sbr. dóm EFTA-dómstólsins frá 18. apríl 2012 í máli nr. E-15/10 og dóm dómstóls ESB frá 18. júní 2013 í máli nr. C-681/11. Aðgerðir gagnstefnandans hafi því verið framkvæmdar af ásetningi í þessum skilningi. Aðalstefnandi byggir á því að sú sekt sem áfrýjunarnefndin hafi ákveðið í málinu jafngildi 26.000.000 króna sekt fyrir hvert ár sem brotin hafi staðið yfir. Slík sekt sé of lág, sér í lagi í ljósi þess að aðgerðir gagnstefnanda hafi verið til þess fallnar að auka bæði veltu hans og hagnað. Aðalstefnandi byggir á því að sektir vegna brota á 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins verði að hafa í senn almenn og sérstök varnaðaráhrif. Af þeim sökum sé m.a. nauðsynlegt að líta til fjárhagslegs styrks hins brotlega fyrirtækis og heildarveltu þess, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands frá 14. mars 2013 í máli nr. 355/2012. Aðalstefnandi byggir á því að gagnstefnendur séu ein efnahagsleg eining, en gagnstefnandinn Byko ehf. sé dótturfélag gagnstefnandans Norvikur hf. Félögin tvö séu því eitt og sama fyrirtækið í skilningi samkeppnislaga, sbr. um slíka aðstöðu dóm Hæstaréttar Íslands frá 27. nóvember 2014 í máli nr. 112/2014. Undir þetta hafi áfrýjunarnefndin tekið en beint sekt að báðum gagnstefnendum. Aðalstefnandi byggir á því að þegar svo hátti til að um eina efnahagslega einingu sé að ræða sé rétt að líta til heildarveltu samstæðunnar til að tryggja fullnægjandi varnaðaráhrif. Að öðrum kosti sé hætta á að sektin sé óveruleg miðað við þann fjárhagslega styrk sem endurspeglist í heildarveltu samstæðunnar. Aðalstefnandi bendir á að ársvelta gagnstefnandans Norvikur hf. hafi verið um 60 milljarðar króna á hverju ári á brotatímabilinu og allt fram til ársins 2014 þegar hún hafi lækkað um helming vegna sölu á eignum. Sekt samkvæmt úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála hafi aðeins verið um 0,1% af ársveltu gagnstefnandans á brotatímabilinu og 0,2% af ársveltu eftir að félagið hafi selt eignir. Aðalstefnandi byggir á því að slík sekt sé óvenjulega lág og á engan hátt til þess fallin að tryggja næg varnaðaráhrif, sbr. 37. gr. samkeppnislaga. Aðalstefnandi byggir á því að varnaðaráhrif þeirrar sektar sem áfrýjunarnefndin lagði á gagnstefnendur séu ekki fullnægjandi þegar litið sé til veltu þeirra og hagnaðar. Heildarvelta gagnstefnandans Byko ehf. hafi numið u.þ.b. 10,9 milljörðum króna á árinu 2013 og um 12,1 milljarði króna á árinu 2014. Á árinu 2014 hafi velta gagnstefnandans Norvikur hf. verið u.þ.b. 36,6 milljarðar króna og hagnaður félagsins fyrir afskriftir um 8,2 milljarðar króna. Árið áður hafi heildarvelta þess félags verið u.þ.b. 66 milljarðar króna eins og áður sagði. Aðalstefnandi telur að niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar um sektarfjárhæð sé í ósamræmi við fyrri úrlausnir dómstóla um sektir fyrir brot gegn samkeppnislögum. Enda þótt meta þurfi hvert og eitt mál sérstaklega liggi fyrir að dómstólar hafi gert fyrirtækjum að greiða sektir að áþekkri fjárhæð vegna brota sem séu augljóslega ekki eins alvarleg og brot gagnstefnanda og hafi ekki verið til þess fallin að valda jafn miklu þjóðhagslegu tjóni og í máli þessu. Aðalstefnandi byggir einnig á því að niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar hvað varði sektarfjárhæð sé til þess fallin að draga úr hvata fyrirtækja til að leita sátta þegar upp komist um brot á samkeppnislögum og upplýsa um brot. Sekt að fjárhæð 65 milljónir króna vinni gegn því að markmiðum samkeppnislaga sé náð. Með vísan til alls framangreinds telur aðalstefnandi því að sú sektarfjárhæð sem hann lagði á gagnstefnandann Norvik hf. hafi verið hæfileg og tryggt fullnægjandi varnaðaráhrif. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. samkeppnislaga geti sekt numið allt að 10% af heildarveltu síðasta almanaksárs hjá því fyrirtæki sem aðild á að broti. Aðalstefnandi byggir á því að tilgangur þessa formlega sektarhámarks sé að tryggja að ekki séu lagðar á óhóflega háar sektir miðað við efnahagslega stærð fyrirtækja. Í dómum dómstóls ESB hafi verið áréttað að 10% hámarkið feli ekki í sér hámarkssekt sem verði aðeins lögð á vegna alvarlegustu brota heldur formlegt þak sem sé ætlað að tryggja að aldrei sé lögð á fyrirtæki hærri sekt en 10% af heildarveltu. Samkvæmt því getur sekt aldrei talist úr hófi fram af þeirri ástæðu einni að hún sé allt að 10% af heildarveltu. Bendir aðalstefnandi á að álögð sekt hans hafi verið langt frá umræddu hámarki, en sektin nam 1,8% af veltu félagsins á árinu 2014. Það jafngildi 0,75% fyrir hvert ár sem brot stefnda stóðu yfir. Þegar litið sé til eðlis, alvarleika, umfangs og tímalengdar brotanna geti slík sekt ekki talist úr hófi fram há. Aðalstefnandi byggir á því að ákvörðun hans um fjárhæð sektarinnar hafi ekki verið úr hófi fram há þegar litið sé til hefðbundinna viðmiða við álagningu sekta fyrir brot á samkeppnisreglum. Hið sama eigi við þegar litið sé til framkvæmdar í EES/ESB-samkeppnisrétti. Við skýringu 37. gr. samkeppnislaga sé rétt að hafa hliðsjón af EES/ESB-samkeppnisrétti enda sé í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 52/2007, sem breyttu ákvæðum samkeppnislaga, tekið fram að ákvæðið byggi á fyrirmyndum úr EES/ESB-samkeppnisrétti. Vísar aðalstefnandi um þetta til leiðbeininga Eftirlitsstofnunar ETA um útreikning sekta sem lagðar eru á samkvæmt a-lið 2. mgr. 23. gr. í II. kafla bókunar 4 við samninginn um eftirlitsstofnun og dómstól (2006/EES/63/03). Leiðbeiningarnar geri því ráð fyrir að sektin nemi 3.660 milljónum króna. Með hliðsjón af þessu byggir aðalstefnandi á því að því verði ekki haldið fram að sú sekt sem hann lagði á gagnstefnandann Norvik hf. hafi verið úr hófi fram há. Aðalstefnandi mótmælir því jafnframt að fella eigi stjórnvaldssekt niður á grundvelli brota gegn réttindum gagnstefnenda til réttlátrar málsmeðferðar. Aðalstefnandi byggir á því að honum sé heimilt að beina sekt að gagnstefnandanum Norvik hf. vegna brota gagnstefnandans Byko ehf. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 37. gr. samkeppnislaga leggi aðalstefnandi stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóti gegn banni 10. gr. laganna og 53. gr. EES-samningsins. Hugtakið fyrirtæki sé skilgreint í 2. tölulið 1. mgr. 4. gr. laganna og vísi það til efnahagslegrar einingar en ekki lögformlegrar. Af því leiði að um slíka einingu sé að ræða í tilviki móðurfélags og dótturfélags þar sem hið síðarnefnda hafi ekki raunverulegt frelsi til að ákveða aðgerðir sínar á markaði, svo sem tekið var fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 107/2000 og breytti 10. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993 í það horf sem greinin er í nú. Hafi þessi skilgreining á hugtakinu fyrirtæki í samkeppnislögunum, sem samrýmist skilgreiningu á hugtakinu í EES-samkeppnisrétti, verið staðfest í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 112/2014. Þegar svo beri undir að móður- og dótturfélag myndi eina efnahagslega einingu, og teljist því eitt og sama fyrirtækið í skilningi samkeppnislaga, sé heimilt að leggja sekt á móðurfélagið vegna brota dótturfélagsins. Aðalstefnandi byggi á því að löglíkur séu fyrir því að móður- og dótturfélag séu ein efnahagsleg eining sé dótturfélagið í 100% eigu móðurfélagsins á brotatímabilinu, sbr. meðal annars fyrrnefndan dóm Hæstaréttar. Reglan um löglíkur fyrir efnahagslegri einingu móður- og dótturfélags, sem alfarið eða nær alfarið sé í eigu móðurfélagsins, byggi á því að móðurfélagið geti í slíkum tilvikum haft „virk yfirráð“ yfir dótturfélaginu og að móðurfélagið hafi nær undantekningarlaust slík yfirráð í reynd og geti á þann hátt beitt áhrifum sínum í rekstri dótturfélagsins. Á brotatímabilinu hafi gagnstefnandinn Norvik hf. verið eini eigandi gagnstefnandans Byko ehf. Þegar af þeirri ástæðu séu löglíkur fyrir því að félögin tvö myndi eina efnahagslega einingu. En þetta fái líka stoð í miklum stjórnunartengslum félaganna. Þannig hafi forstjóri gagnstefnandans Byko ehf. setið í stjórn gagnstefnandans Norvikur hf. og aðrir stjórnarmenn í síðarnefnda félaginu hafi einnig átt sæti í stjórn dótturfélagsins. Auk þess sýni gögn málsins fram á að forstjóri og stjórnarformaður Norvikur hf., og framkvæmdastjóri þess, hafi töluvert komið að rekstri Byko ehf. og ákvörðunum af ýmsu tagi. Styrki þessi atriði það að gagnstefnendur teljist tilheyra einni efnahagslegri einingu. Aðalstefnandi byggir á því að gagnstefnandinn Norvik hf. beri sönnunarbyrðina fyrir því að gagnstefnandinn Byko hf. hafi verið sjálfstæður þrátt fyrir eignarhaldið, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 112/2014. Í því sambandi nægi ekki almennar staðhæfingar heldur verði gagnstefnandinn að leggja fram gögn sem sýni með nákvæmum hætti að dótturfélag hans hafi í raun starfað sjálfstætt á markaði. Áfrýjandi byggir á því að slík gögn þurfi að snerta efnahagsleg, skipulagsleg eða lagaleg tengsl milli stefndu, sbr. dóm dómstóls ESB 20. janúar 2011 í máli nr. C-90/09. Gagnstefnandinn hafi ekki fært fram slíka sönnun. Þá byggir aðalstefnandi á því að löglíkur séu fyrir efnahagslegri einingu móður- og dótturfélags þótt hið fyrrnefnda sé eignarhaldsfélag. Engu skipti þótt móðurfélagið hafi ekki eiginlegan rekstur með höndum eða afli takmarkaðra tekna, sbr. meðal annars dóm undirréttar ESB í máli nr. T-69/04 og dóm dómstóls ESB í máli nr. C-440/11. Í síðarnefnda málinu lagði framkvæmdastjórn ESB sekt á móðurfélag en tilgangur félagsins var að halda utan um eignarhald fjölskyldu á rekstrarfélögum. Að öðru leyti hafði móðurfélagið enga starfsemi með höndum og engar tekjur. Dómstóllinn féllst ekki á að framkvæmdastjórnin hefði ekki mátt leggja sekt á móðurfélagið. Í þessu sambandi benti dómstóllinn á að ekki mætti horfa fram hjá þeim óformlegu samskiptum sem leiddu af stjórnunartengslum félaga. Þannig skipti ekki máli þótt eignarhaldsfélagið hefði ekki tekið formlegar ákvarðanir á stjórnarfundum. Í þessu sambandi kveðst aðalstefnandi árétta að ekki þurfi að sanna að móðurfélag hafi í reynd beitt áhrifum sínum til þess að bera ábyrgð á brotum dótturfélags síns, sbr. dóm dómstóls ESB í máli nr. C-97/08. Með vísan til þessa mótmæli aðalstefnandi staðhæfingum gagnstefnanda Norvik hf. um að félögin geti ekki talist ein efnahagsleg eining og að óheimilt hafi verið að leggja stjórnvaldssekt á félagið. Þá mótmæli aðalstefnandi kröfum um niðurfellingu eða lækkun á sekt á grundvelli sjónarmiða við álagningu sekta vegna samkeppnislagabrota. Í því sambandi árétti aðalstefnandi og leggi áherslu á að samráð gagnstefnandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. hafi staðið yfir í langan tíma og snert umfangsmikil viðskipti en á tímabilinu sem athugunin tók til hafi fyrirtækin átt í tugum ólögmætra samskipta. Brot sem þessi séu í eðli sínu alvarleg enda hafi þau tengst mikilvægum vörum fyrir neytendur og viðskiptaaðila og verið til þess fallin að valda þjóðfélaginu miklu tjóni. Viðurlög vegna brotanna verði að vera hæfileg með tilliti til alvarleika þeirra auk þess að hafa næg varnaðaráhrif. Þá árétti aðalstefnandi að brot gagnstefnandans hafi verið alvarleg og umfangsmikil og staðið yfir í langan tíma: Þau hafi falist í þátttöku í skipulögðu og samfelldu verðsamráði. Slíkt ólögmætt verðsamráð keppinauta á fákeppnismarkaði sé mjög alvarlegt brot gegn samkeppnislögum og leiði almennt til hárra sekta. Þá hafi brotin átt sér stað á fákeppnismarkaði þar sem gagnstefnandinn Byko hf. og Húsasmiðjan ehf. hafi verið saman með nálægt 100% markaðshlutdeild. Svo há markaðshlutdeild geri brot fyrirtækjanna alvarlegri en ella. Brotin hafi átt sér stað á mikilvægum markaði fyrir viðskiptavini og neytendur. Þau hafi verið til þess fallin að hækka byggingarkostnað og skaða hagsmuni almennings. Það geri þau alvarlegri en ella. Velta gagnstefnandans Byko ehf. á hinum skilgreinda markaði hafi verið um 16 milljarðar árið 2010 og þar af 8,7 milljarðar vegna sölu á grófvöru. Umfangið hafi því verið verulegt. Brotin hafi átt stað frá nóvember 2008 fram í mars 2011 og því staðið yfir í langan tíma, sbr. um sambærilegt tímabil dóm Hæstaréttar Íslands 28. apríl 2016 í málinu nr. 419/2015. Sekt vegna brotanna eigi því að vera hærri en ella. Gagnstefnanda hefði ekki getað dulist að verðsamskipti hans og Húsasmiðjunnar ehf. gætu raskað samkeppni. Hið sama eigi við um aðrar aðgerðir fyrirtækjanna. Þar með sé um ásetningsbrot að ræða í skilningi samkeppnisréttar. Til viðbótar sé í ákvörðun aðalstefnanda vísað til fjölmargra gagna sem staðfesti að fyrirtækin hafi gert sér grein fyrir því að það væri óeðlilegt eða áhættusamt að samráðið ætti sér stað í tölvupóstsamskiptum milli fyrirtækjanna. Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar sé bent á að æðstu stjórnendur fyrirtækjanna hafi virst líta svo á að verðsamskiptin væru andstæð samkeppnislegum sjónarmiðum „þegar þeim varð ljóst í hvaða átt mál höfðu þróast“. Aðalstefnandi kveðst þó árétta í þessu sambandi að ásetningur sé hvorki skilyrði brots gegn ákvæðum 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins né skilyrði sektar sem er lögð á fyrir slíkt brot. Að öðru leyti en framan greinir vísar aðalstefndi til ákvörðunar sinnar og þeirra sjónarmiða sem rakin eru í aðalsök fyrir því að sekt á gagnstefnandann Norvik hf. verði ákveðin 650.000.000 króna.   2 Sekt áfrýjunarnefndar tók ekki mið af broti gegn 53. gr. EES-samningsins Í öðru lagi byggir aðalstefnandi á því að stefndi hafi brotið gegn 53. gr. EES-samningsins. Áfrýjunarnefndin hafi hins vegar talið að ekki hefði verið sýnt fram á það og álögð sektarfjárhæð taki því ekki mið af broti gegn áðurnefndu ákvæði. Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar sé beitingu ákvæðisins hafnað á þeim grunni að ekki hafi verið rökstutt „á hvaða hátt umrædd brot hafi getað raskað samkeppni á EES-svæðinu í skilningi 53. gr.“. Áfrýjunarnefndin leggur til grundvallar að samkeppnislagabrot sem hafi í för með sér verðhækkanir skapi svigrúm fyrir lægri verð og íslenskir neytendur geti þá í slíkum tilvikum beint „beinum pöntunum á byggingarvöruefni til útlanda, eða með því að erlendar byggingavöruverslanir hefji starfsemi hér á landi eins og raunin hafi orðið.“ Áfrýjunarnefndin vísi jafnframt til þess að málið hafi ekki verið reifað með tilliti til þess hvort samráðið „hafi haft áhrif á erlenda birgja eða aðra viðskiptamenn í EES-ríkjum“. Aðalstefnandi byggir á því að þessi niðurstaða sé ekki í samræmi við rétta skýringu á 53. gr. EES-samningsins. Þvert á móti staðfesti þau atriði sem áfrýjunarnefndin tiltaki að ákvæðið taki til brota stefnda. Í 1. mgr. 21. gr. samkeppnislaga sé kveðið á um að aðalstefnandi, áfrýjunarnefnd samkeppnismála og íslenskir dómstólar skuli beita 53. gr. EES-samningsins eftir því sem kveðið sé á um í lögum, meðal annars 25.–28. gr. samkeppnislaga. Beiti áðurnefndir aðilar ákvæðum laganna vegna samninga fyrirtækja, ákvarðana samtaka fyrirtækja eða samstilltra aðgerða í skilningi 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, sem gætu haft áhrif á viðskipti milli aðila að EES-samningnum, skuli þau einnig beita 53. gr. samningsins að því er varðar slíka samninga, ákvarðanir eða samstilltar aðgerðir, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna. Aðalstefnandi vísar til þess að í tilkynningu Eftirlitsstofnunar EFTA, Leiðbeiningar um hugtakið áhrif á viðskipti eins og það er notað í 53. og 54. gr. EES-samningsins (2006/EES/59/06), komi fram að skilyrðið um „áhrif á viðskipti“ sé sjálfstætt skilyrði sem afmarki lögsögu að því er snerti gildissvið EES-samkeppnisréttar. Skilyrðið feli ekki í sér efnisreglu heldur lögsögureglu. Þannig geti aðgerðir fyrirtækja haft áhrif á viðskipti í skilningi ákvæðisins án tillits til þess hvort þær í raun raski samkeppni eða hafi áhrif á viðskiptamenn í öðrum EES-ríkjum. Til að lögsaga EES-réttar verði virk þurfi þannig ekki að sýna fram á raunveruleg áhrif heldur nægir að aðgerðin sem um ræðir sé til þess fallin að hafa áhrif á viðskipti milli EES-ríkja. Þaðan af síður þurfi að sýna fram á að aðgerðin hafi dregið úr eða takmarkað viðskipti milli EES-ríkja. Þá hafi dómstóll ESB slegið því föstu að taki ólögmætt samráð til eins aðildarríkis í heild hafi það að öllu jöfnu áhrif á viðskipti milli aðildarríkja, sbr. meðal annars dóm dómstóls ESB frá 11. júlí 2013 í máli nr. C-439/11. Þetta eigi enn frekar við í þeim tilvikum þar sem samráð tekur til endursölu á vörum sem eru fluttar inn frá öðrum EES-ríkjum, sbr. 82. mgr. leiðbeininganna. Þá skipti máli hvort þeir sem hafa með sér samráð séu með háa markaðshlutdeild, sbr. dóm dómstóls ESB frá 11. júlí 1989 í máli nr. C-246/86. Aðalstefnandi byggir á því að gagnstefnandinn Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf. hafi verið með nálægt 100% markaðshlutdeild á hinum skilgreinda markaði málsins. Þær vörur sem samráðið hafi tekið til, meðal annars timbur, hafi nær allar verið fluttar inn frá öðrum EES-ríkjum. Samráð fyrirtækjanna um verð á slíkum vörum geti þess vegna haft áhrif á samkeppnisaðstæður og viðskiptamynstur milli EES-ríkja. Aðalstefnandi byggir á því að ákvæði 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins feli efnislega í sér sama bann við samráði keppinauta. Aðgerðir gagnstefnandans Byko ehf. hafi því jafnframt falið í sér brot á 53. gr. EES-samningsins. Með vísan til þessa byggir aðalstefnandi á því að beita beri 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins um brot stefnda, sbr. 21. og 26. gr. samkeppnislaga, líkt og aðalstefnandi hafi gert í ákvörðun sinni. Aðalstefnandi byggir á því að sú sekt sem áfrýjunarnefnd hafi lagt á gagnstefnendur sé ekki í samræmi við brot stefnda og tryggi ekki fullnægjandi varnaðaráhrif. Af skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum leiði hins vegar að varnaðaráhrif sektar vegna brota gegn 1. mgr. 53. gr. verði að vera fullnægjandi.   3. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála lagði rangt mat á tiltekna þætti samráðsins Í þriðja lagi byggir aðalstefnandi á því að áfrýjunarnefndin hafi ekki lagt rétt mat á nánar tiltekna þætti í verðsamskiptum gagnstefnandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. og þær aðgerðir sem fyrirtækin gripu til á grundvelli þeirra. Niðurstöður áfrýjunarnefndarinnar séu að þessu leyti ekki í samræmi við samtímagögn. Það eigi við um símtal sem hafi átt sér stað milli starfsmanna stefnda og Húsasmiðjunnar ehf. 28. febrúar 2011, svokallað „samráðssímtal“ og þau atvik sem hafi átt sér stað í kjölfarið. Símtalið hafi farið fram á milli lykilstarfsmanna fyrirtækjanna á sviði grófvöru, framkvæmdastjóra fagsölusviðs gagnstefnandans Byko ehf. og vörustjóra timbursölu Húsasmiðjunnar ehf. Áfrýjunarnefndin hafi ekki talið brot fyrirtækjanna í símtalinu jafn alvarleg og aðalstefnandi hafi miðað við og lagt til grundvallar að Húsasmiðjan ehf. hefði „ekki brugðist við efni símtalsins“. Aðalstefnandi vísar um þetta til endurrits símtalsins sem sé að finna í heild sinni í gögnum málsins. Í ákvörðun aðalstefnanda sé fjallað um efni símtalsins, m.a. með hliðsjón af skýringum viðkomandi starfsmanna og gögnum málsins. Jafnframt sé því lýst hvaða reglur gildi um slík samskipti keppinauta með vísan til innlendra fordæma og fordæma í EES/ESB-samkeppnisrétti. Þannig brjóti fyrirtæki gegn banninu við samráði taki það á móti upplýsingum frá keppinauti um verðlagsmálefni, séu upplýsingar t.d. veittar á fundi eða í símtali, ef það hvorki mótmælir né gerir skýran fyrirvara af því tilefni. Ekki sé áskilið að upplýsingar séu veittar í stað þeirra upplýsinga sem tekið er við. Brot sé fullframið við það eitt að tekið sé við upplýsingum án mótmæla og því sé ekki þörf á að sanna hvort viðkomandi fyrirtæki hafi reynt að hrinda því í framkvæmd sem um var rætt. Brot sé þó talið enn alvarlegra ef fyrirtæki samþykkir tillögur sem miða að því að raska samkeppni eða ef það á frumkvæði að samráðstillögum. Aðalstefnandi byggir á því að eftirtalin brot á 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins hafi átt sér stað í símtalinu: Fyrirtækin ákváðu að hækka verð í áföngum í öllum tilboðum fyrirtækjanna á grófvöru, að grípa til sérstakra aðgerða í þeim tilgangi að minnka samkeppni í tilboðum á Selfossi og Akureyri, að vinna gegn verðsamkeppni í sölu á gagnvörðu timbri (svokölluðu „grænu efni“) og reyna þess í stað að hækka verð á því, að hækka verð á miðstöðvarofnum og að fylgjast með aðgerðum Múrbúðarinnar ehf. á markaðnum. Þá greindi gagnstefnandinn Húsasmiðjunni ehf. frá þeirri fyrirætlan sinni að hækka verð á annarri vöru en grófvöru, t.d. heimilistækjum. Símtalið sé skýrt samtímagagn og framangreind brot hafi verið fullframin er símtalinu lauk. Ljóst sé að niðurstaða áfrýjunarnefndar um að ekki verði „byggt á því að sérstakt samráð hafi átt sér stað við að vinna gegn verðsamkeppni á gagnvörðu timbri, umfram það sem almennt var, eða að sérstakar aðgerðir á Selfossi og Akureyri hafi hér þýðingu“ byggi á rangri lagatúlkun. Aðalstefnandi bendir á að í ákvörðun sinni sé að finna skýra og nákvæma lýsingu á því sem gerðist næstu klukkustundir eftir að símtalinu lauk og næstu daga eftir. Áfrýjunarnefndin rökstyðji ekki þá niðurstöðu sína að aðalstefnandi hafi lagt rangt mat á þau atvik heldur staðhæfi aðeins að ekkert verði fullyrt um að Húsasmiðjan ehf. hafi brugðist við. Þetta sé ekki rétt ályktun. Aðalstefnandi bendir í fyrsta lagi á að í símtalinu hafi gagnstefnandinn Byko ehf. gert afdráttarlausa tilraun til að fá Húsasmiðjuna ehf. til að ráðast í samkeppnishamlandi aðgerðir. Ætlaður efi um eftirfarandi viðbrögð Húsasmiðjunnar ehf. hafi ekki í för með sér að brot gagnstefnandans teljist að þessu leyti ekki eins alvarlegt eða eigi að leiða til lægri sektar. Í ákvörðun aðalstefnanda sé þætti gagnstefnanda í brotinu lýst, en Húsamiðjan ehf. hafi viðurkennt sinn þátt í því í sátt sinni við aðalstefnanda. Aðalstefnandi bendir í öðru lagi á það að gagnstefnandinn hafi metið viðbrögð Húsasmiðjunnar ehf. með þeim hætti að óhætt væri að byrja að hækka verð í grófvörutilboðum. Tilgangur gagnstefnandans með símtalinu hafi ekki síst verið sá að tryggja að Húsasmiðjan ehf. myndi fylgja honum eftir því ella hefði verið hætta á að tilraun hans til að hækka verðið rynni út í sandinn og hann missti viðskipti til Húsasmiðjunnar ehf. Jafnframt liggi fyrir að gagnstefnandi hafi hrint aðgerðum sínum í framkvæmd. Með vísan til þessa byggir aðalstefnandi á því að það sé órökrétt að láta ætlaðan efa um viðbrögð Húsasmiðjunnar ehf. hafa áhrif á mat á alvarleika brots stefnda. Aðalstefnandi bendir í þriðja lagi á það að afstaða og viðbrögð Húsasmiðjunnar ehf. liggi fyrir. Húsasmiðjan ehf. hafi ekki haldið sig til hlés í símtalinu heldur tekið undir og samþykkt að hækka verð á öllum tilboðum í grófvöru. Strax eftir símtalið hafi starfsmaður Húsasmiðjunnar ehf. staðið við loforð sitt um að koma samráðsskilaboðunum á „rétta staði“ með því að ræða við hlutaðeigandi framkvæmdastjóra. Einnig hafi hann beitt áhrifum sínum með því að segja sölumanni að hætta að gefa afslætti í tilboðum á grófvöru eða draga stórlega úr því. Hin skaðlegu áhrif samráðsins hafi meðal annars birst í því að Húsasmiðjan ehf. gat gripið til þessara aðgerða án þess að óttast að tapa viðskiptum þar sem fyrirtækið hafi búið yfir vitneskju um að gagnstefnandi fylgdi sömu stefnu. Húsasmiðjan ehf. hafi því þegar í stað hrint í framkvæmd þeirri sameiginlegu ákvörðun að hækka verð í tilboðum. Meira hafi þó komið til. Síðar sama dag hafi forstjóri Húsasmiðjunnar ehf. og framkvæmdastjóri hjá fyrirtækinu rætt saman í síma um símtalið við gagnstefnanda. Hvergi í því símtali eða í öðrum gögnum málsins megi greina að koma ætti tafarlausum mótmælum á framfæri við gagnstefnanda eða upplýsa yfirvöld. Þvert á móti hafi æðstu stjórnendur Húsasmiðjunnar ehf. verið sammála um að fara með vitneskju um símtalið „eins og mannsmorð“ og að það þyrfti að vera „strategísk pæling“ hvað þeir segðu við sölumenn sína, m.ö.o. hvernig samráðið skyldi framkvæmt án þess að almennir starfsmenn gerðu sér grein fyrir því. Stjórnendurnir hafi verið sammála um að samskiptin við gagnstefnanda væru „fín“ og framkvæmdastjórinn verið ánægður með að gagnstefnandinn væri farinn að „spá í framleiðni hjá sér“. Þá hafi þeir rætt með velþóknun um að vörustjórinn hefði „notað tækifærið“ til að ræða um græna efnið við gagnstefnanda og „að það mætti ekki endurtaka sig sem gerðist þar“. Með þessu hafi þeir vísað til þeirrar verðsamkeppni sem hafði ríkt í sölu á græna efninu sumarið áður. Í samráðssímtalinu hafi gagnstefnandi og Húsasmiðjan ehf. verið sammála um að sú samkeppni mætti ekki endurtaka sig og ákveðið þess í stað að hækka verðin. Aðalstefnandi byggir á því að Húsasmiðjan ehf. hafi hækkað verð á græna efninu síðar sama dag. Þó að verð Húsasmiðjunnar ehf. hafi á þeim tíma verið 2–8% hærra en verð gagnstefnanda hafi fyrirtækið engu að síður ákveðið að hækka sitt verð um 4%. Upplýsingar um verðhækkunina hafi borist gagnstefnanda síðan í gegnum hin reglulegu verðsamskipti. Gagnstefnandi hafi lýst verðhækkuninni með velþóknun sem „hressilegri“ og ákveðið í kjölfarið að hækka verð á græna efninu hjá sér. Þessum þætti samráðsins hafi því verið hrint í framkvæmd. Aðalstefnandi telur því ljóst að í kjölfar samráðssímtalsins 28. febrúar 2011 hafi verið hert á hinu samfellda samráði fyrirtækjanna. Aðalstefnandi byggir einnig á því að áfrýjunarnefndin hafi lagt rangt mat á þau þrjú samráðstilvik sem hún hafi talið ósönnuð. Aðalstefnandi telji að samskipti gagnstefnanda og Húsasmiðjunnar ehf. hafi falið í sér samfellt samráð sem hafi haft það að markmiði að raska samkeppni. Um samfellt samráð sé að ræða þegar fyrirtæki starfi reglubundið saman á ákveðnu tímabili til að ná fram sameiginlegu markmiði um að raska samkeppni. Eðli slíks brots valdi því að hvert og eitt sönnunargagn verði ekki metið einangrað heldur verði sönnunargögn metin með heildstæðum hætti. Af því leiði að ekki þurfi öll sönnunargögn að vera jafn afdráttarlaus heldur sé fullnægjandi að þau sýni saman fram á brot. Vísar aðalstefnandi um þetta til dóms EFTA-dómstólsins frá 18. apríl 2012 í máli nr. E-15/10 og dóms undirréttar ESB frá 9. september 2015 í máli nr. T-82/13. Aðalstefnandi bendir jafnframt á að ekki megi gera óraunhæfar kröfur til sönnunar um að samráð hafi átt sér stað og vísar um það til dóms dómstóls ESB frá 17. september 2015 í máli nr. C-634/13 og dóms dómstólsins frá 25. janúar 2007 í sameinuðum málum nr. C-403/04 og C-405/04. Aðalstefnandi áréttar að öll þau tilvik sem gerð sé grein fyrir í ákvörðun hans feli í sér brot gegn 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins. Verði ekki á það fallist byggi aðalstefnandi á því að niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar um þau þrjú tilvik sem hún telur ósönnuð breyti engu um eðli, alvarleika og umfang samráðsins eða að þau hafi nokkur áhrif á fjárhæð sektarinnar, enda séu umrædd tilvik hluti af mun stærra broti. Á skrifstofu þáverandi forstjóra gagnstefnanda hafi fundist tölvuskeyti sem hann sendi stjórn fyrirtækisins 26. nóvember 2008 klukkan 16:21. Í andmælaskjali hafi aðalstefnandi rökstutt það frummat sitt að draga yrði þá ályktun af efni tölvuskeytisins að upplýsingar sem þar kæmu fram hefðu borist frá Húsasmiðjunni ehf. Gagnstefnandi hafi mótmælt þessu með vísan til þess að ónafngreindur verktaki hefði veitt forstjóranum upplýsingarnar. Gagnstefnandi hafi ekki lagt fram gögn sem styðji þessa staðhæfingu, hvorki við meðferð málsins hjá samkeppnisyfirvöldum né fyrir dóminum. Þá hafi hann heldur ekki útskýrt hvers vegna hinn ónafngreindi verktaki hafi fengið upplýsingar um viðkvæm viðskiptaleg málefni Húsasmiðjunnar ehf. áður en þær voru gerðar opinberar. Í ákvörðun aðalstefnanda sé rökstutt að upplýsingarnar hafi borist frá Húsasmiðjunni ehf. og að upplýsingaskiptin hafi verið hluti af samráði fyrirtækjanna. Áfrýjunarnefndin hafi hins vegar ekki talið ástæðu til að láta gagnstefnanda bera hallann af því að veita ófullnægjandi skýringar á því hver hefði veitt forstjóra hans upplýsingarnar. Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar kemur fram að efni tölvuskeytisins feli í sér almennar vangaveltur sem hafi í aðalatriðum ekki gengið eftir. Þessi lýsing sé ekki rétt að mati aðalstefnanda. Aðalstefnandi byggir á því að við mat á sönnunargildi tölvuskeytisins verði að hafa í huga að það hafi verið sent aðaleiganda gagnstefnanda og stjórn fyrirtækisins og að ætla verði að það hefði ekki verið gert nema að vel athuguðu máli. Það sé og í samræmi við efni gagnsins þar sem forstjórinn leggi áherslu á hluti sem hann telji 99% örugga eða kristaltæra. Tölvuskeytið feli þannig ekki í sér getgátur eða almennar vangaveltur forstjórans heldur sé beinlínis vísað til þess að um sé að ræða utanaðkomandi upplýsingar um áform Húsasmiðjunnar ehf. Aðalstefnandi telji gagnstefnanda ekki hafa gefið trúverðugar skýringar á þeirri staðhæfingu að honum hafi borist upplýsingarnar frá ónafngreindum verktaka en ekki frá Húsasmiðjunni ehf., en það standi honum nær að gera það, sérstaklega í ljósi þess að forstjóra og öðrum fyrirsvarmönnum hans hafi í fleiri tilvikum borist viðskiptaupplýsingar frá Húsasmiðjunni ehf. Í þessu sambandi hafi þýðingu fyrri samráðssamskipti forstjórans við lykilstarfsmenn Húsasmiðjunnar ehf. Þá skipti máli að Húsasmiðjan ehf. skuli í sátt sinni við aðalstefnanda hafa viðurkennt að hafa veitt gagnstefnanda upplýsingarnar. Með vísan til þessa byggir gagnstefnandi á því að framangreint tilvik hafi verið hluti af samfelldu ólögmætu samráði gagnstefnanda og Húsasmiðjunnar ehf. Ályktun áfrýjunarnefndarinnar hvað þetta varðar fái því ekki staðist. Aðalstefnandi byggir einnig á því að hann hafi lagt rétt mat á aðgerðir sem tengist Múrbúðinni ehf. Aðalstefnandi bendi á að haustið 2010 hafi Múrbúðin ehf. byrjað að keppa við gagnstefnanda og Húsasmiðjuna ehf. í sölu á grófvöru, en Múrbúðin ehf. opnaði grófvörudeild sína 15. október 2010. Sama dag hafi Múrbúðin ehf. haft samband við aðalstefnanda og óskað eftir að greina frá samráði gagnstefnanda og Húsasmiðjunnar ehf. og tilraunum fyrirtækjanna til að fá Múrbúðina ehf. til að taka þátt í því. Eigandi Múrbúðarinnar ehf. og forstöðumaður grófvörudeildar fyrirtækisins hafi svo upplýst aðalstefnanda um háttsemina á fundum 21. október og 3. nóvember 2010, eins og fram komi í staðfestum fundargerðum og greint sé frá í gögnum málins. Í fundargerðunum hafi þeir staðfest að rétt væri eftir þeim haft og að þeim væri ljóst að röng upplýsingagjöf gæti varðað þá refsingu. Aðalstefnandi byggir á því að upplýsingarnar hafi verið nákvæmar, trúverðugar og í samræmi við önnur gögn málsins. Þannig staðfesti símagögn sem lögregla aflaði að Múrbúðin ehf. hafi veitt réttar upplýsingar um tímasetningu símtala. Þá staðfesti önnur samtímagögn atburðarásina í ákvörðun aðalstefnanda. Jafnframt hafi þeir starfsmenn gagnstefnanda og Húsasmiðjunnar ehf. sem um ræði staðfest að hafa umrædda daga átt samskipti við Múrbúðina ehf. Í sátt Holtavegar 10 ehf. við aðalstefnanda sé viðurkennt að Húsasmiðjan ehf. hafi brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga með því að „hafa gert sameiginlega tilraun með Byko til að fá Múrbúðina til að taka þátt í samráði um verð á grófvöru …“. Aðalstefnandi byggir á því að úrskurður áfrýjunarnefndarinnar um framangreind atriði sé óskýr. Í úrskurðinum segi að samskiptin séu „ekki þess eðlis að hægt sé að segja að Múrbúðinni hafi verið boðin þátttaka í verðsamráði. Þótt segja megi að starfsmenn áfrýjandans hafi gengið hart fram í því að fá fram þau verð sem Múrbúðin bauð sem nýr þátttakandi á markaði var það ekki umfram það sem búast mátti við og ekki liggja fyrir gögn um að einhvers konar samráð hafi verið með áfrýjanda og Húsasmiðjunni um það að bjóða Múrbúðinni að taka þátt í verðsamráði.“ Aðalstefnandi byggi á því að við mat á samskiptum gagnstefnanda við Múrbúðina ehf. verði ekki horft fram hjá því að þau verðsamskipti sem fyrirtækin hafi átt á umræddum tíma hafi falið í sér ólögmætt verðsamráð. Þá liggi fyrir að fyrirtækin hafi reynt að fá Múrbúðina ehf. til að taka þátt í verðsamskiptunum. Tilraunir þeirra til að fá Múrbúðina ehf. til að taka þátt í verðsamskiptunum séu því, eðli málsins samkvæmt, tilraunir til að fá Múrbúðina ehf. til að taka þátt í verðsamráði. Jafnframt liggi fyrir að stjórnendur gagnstefnanda og lykilmenn hans á sviði grófvöru hafi mætt endurtekið á starfsstöð Múrbúðarinnar ehf. áður en fyrirtækið hóf sölu á grófvörum, þ.e. 25. ágúst, 9. september og 8. október 2010. Í þessum heimsóknum hafi þeir viljað ræða um fyrirhugaða verðlagningu Múrbúðarinnar ehf., birgja fyrirtækisins og fleiri atriði er hafi tengst hinni fyrirhuguðu samkeppni. Múrbúðinni ehf. hafi m.a. verið boðið að koma í heimsókn til gagnstefnanda. Gagnstefnandi hafi ekki mótmælt því að þessar heimsóknir hafi átt sér stað heldur réttlætt þær með vísan til þess að hann hafi viljað vekja athygli Múrbúðarinnar ehf. á lagaskyldu fyrirtækisins til þess að birta verð. Aðalstefnandi kveðst ekki hafa fallist á þessar skýringar, m.a. af þeirri ástæðu að á þessum tíma hafði grófvörudeild Múrbúðarinnar ehf. ekki hafið starfsemi. Þá hafi heldur ekki komið fram skýringar á því hvers vegna lykilstarfsmenn stefnda á sviði grófvöru hafi talið það hlutverk sitt að eiga bein samskipti við nýjan keppinaut til að benda honum á gildandi lög eða tryggja að hann færi að þeim. Jafnframt liggi fyrir að lykilstarfsmenn Húsasmiðjunnar ehf. hafi heimsótt Múrbúðina ehf. í sams konar erindagjörðum. Viðkomandi starfsmenn hafi staðfest þetta. Aðalstefnandi byggir enn fremur á því, máli sínu til stuðnings, að símagögn frá deginum sem grófvörudeildin var opnuð, þ.e. 15. október 2010, staðfesti að þeir starfsmenn gagnstefnanda og Húsasmiðjunnar ehf. sem hafi verið falið að annast hin ólögmætu verðsamskipti hafi rætt tvisvar saman í síma. Símagögnin sýni einnig að sama dag hafi viðkomandi starfsmaður gagnstefnanda haft samband við Múrbúðina ehf. Starfsmaðurinn sem um ræði hafi upplýst lögreglu um að yfirmaður hans, þ.e. sölustjóri timbursölu, hefði falið honum að eiga í sams konar verðsamskiptum við Múrbúðina ehf. og hann hafi átt við Húsasmiðjuna ehf. Sá yfirmaður hjá gagnstefnanda hafi staðfest að hafa farið í heimsókn í Múrbúðina ehf. 8. október 2010. Sama dag hafi framkvæmdastjóri hjá gagnstefnanda lagt það fyrir starfsmanninn sem hafi annast verðsamskiptin við Húsasmiðjuna ehf. að hafa „dálk fyrir Múrbúðina“ í skjalinu, sem hann hafi útfyllt af því tilefni. Þá hafi símagögn og tölvuskeyti Húsasmiðjunnar ehf. staðfest að annars vegar þeir starfsmenn sem heimsóttu Múrbúðina ehf. daginn á undan og hins vegar sá starfsmaður sem falið var að annast verðsamskiptin við gagnstefnanda hafi átt samskipti við Múrbúðina ehf. vegna verðs á grófvöru 15. október 2010. Fyrir lögreglu hafi annar þessara starfsmanna Húsasmiðjunnar ehf. staðfest þá frásögn Múrbúðarinnar ehf. að hann hefði sagt að það væri varhugavert að senda verðupplýsingar í tölvupósti og að hann hefði minnst á eftirlitsaðila í því sambandi. Aðalstefnandi byggir á því að framangreind lýsing sé að öllu leyti í samræmi við undirritaða yfirlýsingu Múrbúðarinnar ehf. Aðalstefnandi geti því ekki fallist á þá niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar að samskipti gagnstefnanda og Húsasmiðjunnar ehf. hafi verið eðlileg og ekki „umfram það sem búast mátti við“. Sú niðurstaða sé órökstudd og í ósamræmi við meginreglu samkeppnisréttar um sjálfstæði keppinauta, ekki síst á fákeppnismarkaði þar sem fyrir eru tvö fyrirtæki með nálægt 100% markaðshlutdeild og nýr keppinautur reynir að ná fótfestu á markaðnum. Aðalstefnandi byggir á því að hann hafi lagt rétt mat á upplýsingar frá Múrbúðinni ehf. og önnur gögn málsins um umrædd atvik. Þá hafi hann litið til þess að gagnaðili gagnstefnanda að samráðinu hafi játað brot sitt að þessu leyti. Með vísan til þessa byggir aðalstefnandi á því að umrætt tilvik sé sannað og ályktun áfrýjunarnefndarinnar fái ekki staðist að þessu leyti. Þá byggir aðalstefnandi á því að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi ekki komist að réttri niðurstöðu um samráð gagnstefnanda og Húsasmiðjunnar ehf. um sölu og verð á miðstöðvarofnum. Í ákvörðun aðalstefnanda sé rökstutt að fyrirtækin hafi haft ólögmætt samráð um sölu og verð á miðstöðvarofnum í nóvember og desember 2010. Í ákvörðuninni sé einnig fjallað um samráðssímtalið 28. febrúar 2011 sem hafi tekið til samráðs um verð á miðstöðvarofnum. Þá sé í ákvörðuninni jafnframt gerð grein fyrir samtali forstjóra gagnstefnanda Byko ehf. og framkvæmdastjóra gagnstefnandans Norvikur hf. þar sem fram komi að sölustjóri miðstöðvarofna hjá gagnstefnanda hafi verið í „miklu sambandi“ við Húsamiðjuna ehf. og að forstjórinn hafi greint frá því að gagnstefnandinn og Húsasmiðjan ehf. væru að skiptast á upplýsingum til að „reyna að loka á þá“, þ.e. takmarka samkeppni frá Múrbúðinni ehf. Áfrýjunarnefndin hafi á hinn bóginn ekki fallist á að um brot væri að ræða með svofelldum rökstuðningi: „Í kæru sinni skýrir áfrýjandi umrædd ummæli og þessi atvik að öðru leyti, m.a. með því að með orðunum „ósamræmi“ í tölvupóstinum hafi verið átt við framsetningu verða með tilliti til fjölda „watta“, þannig að minni ofnar voru jafnvel dýrari en hinir öflugri. Því hafi ekki verið átt við samræmingu á milli verða Byko og Húsasmiðjunnar eins og Aðalstefnandi byggir á í hinni kærðu ákvörðun. Þær skýringar sem gefnar eru á samskiptunum eru að mati áfrýjunarnefndarinnar trúverðugar og verða hér lagðar til grundvallar. Að mati áfrýjunarnefndarinnar eru framangreind atvik ekki þáttur í broti gegn 10. gr. samkeppnislaga. Samhengi þessara samskipta er heldur ekki þannig að þau teljist þáttur í hinu almenna broti sem lýtur að verðlagningu allt annarra vöruflokka, þ.e. hinna svokölluðu grófvara.“ Í ákvörðun stefnanda sé með rökstuddum hætti fjallað um framangreindar skýringar gagnstefnanda og þær taldar í ósamræmi við gögn málsins. Áfrýjunarnefndin rökstyðji ekki að hvaða leyti það mat aðalstefnanda sé rangt. Hvað sem því líði byggi aðalstefnandi á því að um brot hafi verið að ræða, jafnvel þótt lögð væri til grundvallar sú skýring gagnstefnanda að samskiptin við Húsasmiðjuna ehf. hefðu tekið til „ósamræmis“ milli styrkleika og verðs ofna. Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar sé hvorki tekin afstaða til þessa né vikið að þýðingu samskipta forstjóra gagnstefnandans Byko ehf. og framkvæmdastjóra Norvikur hf. sem hér hafi verið getið að framan. Þá horfi áfrýjunarnefndin fram hjá því að fyrirtækin höfðu jafnframt samráð um verð á miðstöðvarofnum í símtalinu 28. febrúar 2011. Áfrýjunarnefndin leggi því ranglega til grundvallar að þessi atvik séu ótengd samráði fyrirtækjanna um verð á grófvöru. Aðalstefnandi byggir á því að niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar um þetta atriði sé ekki í samræmi við gögn málsins. Þá geti aðalstefnandi ekki fallist á niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar um þýðingu þeirrar sáttar sem Holtavegur 10 ehf. (áður Húsasmiðjan ehf.) hafi gert við aðalstefnanda. Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar sé tekið fram að sáttin „geti ekki takmarkað varnir“ gagnstefnanda og að hún sé ekki bindandi. Af úrskurðinum sé ekki ljóst hvort áfrýjunarnefndin telur sáttina hafa sönnunargildi. Á einum stað segi að hún hafi „takmarkað sönnunargildi“ í málinu og að líta verði til þess að gagnstefnandi hafi bent á að sáttin hefði átt sér sérstakan aðdraganda vegna sölu á rekstri Húsasmiðjunnar. Aðalstefnandi byggir á því að í ákvörðun hans sé hvorki lagt til grundvallar að gagnstefnendur séu bundnir af sáttinni né að hún hafi með einhverjum hætti takmarkað varnir þeirra. Aðalstefnandi hafi tekið sjálfstæða afstöðu til þess hvort gagnstefnandi hefði brotið 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins, óháð efni sáttarinnar. Umfjöllun áfrýjunarnefndarinnar sé því tilefnislaus. Hvað sem framansögðu líði byggi aðalstefnandi þó á því að viðurkenning fyrirtækis á broti hafi umtalsverða þýðingu. Það sé málefnalegt að líta til yfirlýsingar fyrirtækis sem hafi tekið þátt í samráði við mat á þætti annarra samráðsfyrirtækja. Sönnunargildi slíkrar yfirlýsingar sem gangi gegn hagsmunum þess sem hana veitir sé almennt mjög mikið. Í þessu sambandi sé rétt að hafa í huga að þótt viðurkenning á broti geti leitt til niðurfellingar eða lækkunar á sekt þá geti hún skapað grundvöll skaðabóta. Með vísan til þessa byggi aðalstefnandi á því að sáttin styðji niðurstöðu hans um brot gagnstefnanda. Þá kveðst aðalstefnandi ekki geta fallist á að viðskiptalegir hagsmunir tengdir sölu á Húsasmiðjunni ehf. hafi ráðið gerð sáttarinnar en af úrskurði áfrýjunarnefndarinnar virðist sem nefndin taki undir þá málsástæðu gagnstefnenda. Húsasmiðjan hafi verið seld í desember 2011 en seljandi hennar, Holtavegur 10 ehf., hafi undirritað sátt við aðalstefnanda 9. júlí 2014. Þar sem fyrrum eigandi hafi enn verið til að lögum og gjaldfær hafi það verið í samræmi við meginreglur samkeppnisréttar að hann greiddi sektina. Þegar sáttin hafi verið gerð hafi salan á Húsasmiðjunni verið að fullu um garð gengin. Fyrirliggjandi gögn sýni að salan hafi ekki verið háð lyktum samkeppnismálsins og að skýrt hafi legið fyrir hjá seljanda og kaupanda að hinn fyrrnefndi bæri ábyrgð á greiðslu mögulegrar sektar. Þess vegna hafi engin óvissa verið til staðar sem þurfti að eyða er Holtavegur 10 ehf. hafi ákveðið að ganga til sátta við aðalstefnanda sumarið 2014, tæpum tveimur árum eftir söluna. Þá hafnar aðalstefnandi því að gagnstefnendur hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar. Hafnar aðalstefnandi sjónarmiðum gagnstefnenda um að kæran sem hann hafi beint til lögreglu hafi verið ólögmæt þar sem hún hafi eingöngu verið reist á staðhæfingum fyrirsvarsmanna keppinautar gagnstefnandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. Kæran hafi þannig verið grundvöllur fyrir heimildum sem hafi verið veittar til símhlerana. Slíkar rannsóknaraðgerðir séu ólögmætar ef grundvöllur þeirra er ófullnægjandi, sbr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Með þessu hafi einnig verið brotið gegn rétti gagnstefnenda samkvæmt 6. gr. sáttmálans og 70. gr. stjórnarskrárinnar. Ákvörðun aðalstefnanda sé nær eingöngu reist á gögnum sem hafi verið aflað með símhlerunum og húsleitum. Aðalstefnandi tekur fram að samkvæmt 42. gr. samkeppnislaga sé honum ætlað að meta, með tilliti til grófleika brots og réttarvörslusjónarmiða, hvort sá hluti máls sem varði refsiábyrgð einstaklings skuli kærður til lögreglu. Ákvæðið áskilji ekki að grunur um brot sé af tilteknum styrkleika svo mál verði kært til lögreglu. Að undangenginni kæru aðalstefnanda leggi lögregla svo á það sjálfstætt mat, á grundvelli laga um meðferð sakamála, hvort ástæða sé til að hefja rannsókn sakamáls og hvort skilyrði séu til að beita rannsóknarúrræðum þeirra laga. Málsástæða gagnstefnenda hvað þetta varðar sé því þýðingarlaus. Allt að einu byggi stefndi á því að sú ákvörðun hans að vísa til lögreglu þeim hluta málsins sem varðaði ætlaða refsiábyrgð einstaklinga hafi verið forsvaranleg. Þá bendir aðalstefnandi á að rannsóknaraðgerð fari ekki gegn 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu liggi fyrir rökstuddur grunur um ætlaða refsiverða háttsemi á þeim tíma sem hún fer fram. Engu breyti um lögmæti aðgerðarinnar þótt sakborningur sé síðar sýknaður í viðkomandi refsimáli. Aðalstefnandi bendir á að ákvörðun lögreglu um að leita heimildar dómstóla til símhlerana, og síðar til húsleitar, hafi ekki aðeins verið byggð á staðhæfingum fyrirsvarsmanna Múrbúðarinnar ehf. Aflað hafi verið símagagna sem hafi staðfest munnlegan framburð fyrirsvarsmannanna, hvort tveggja um fjölda og tímasetningu símtala frá keppinautum fyrirtækisins og gögnin hafi auk þess sýnt fram á umfangsmikil, reglubundin og tíð símasamskipti gagnstefnandans, Byko hf., og Húsasmiðjunnar ehf. Af gögnunum hafi mátt ráða að samskiptin hefðu verið nánast vikuleg 30–40 mínútna löng símtöl. Niðurstaða dómstóla hvað varðar þessar rannsóknaraðgerðir hafi verið sú að rökstuddur grunur væri fyrir hendi. Sú niðurstaða sæti ekki endurskoðun í þessu máli. Allt að einu byggir aðalstefnandi á því að skilyrði 8. gr. mannréttindasáttamála Evrópu um rökstuddan grun hafi verið uppfyllt. Aðalstefnandi bendir jafnframt á að rannsókn á ætluðu samkeppnislagabroti sé ekki háð því að fyrir liggi skjalleg sönnunargögn. Þannig hafi dómstólar ESB talið framkvæmdastjórn ESB heimilt að byggja rannsókn á munnlegum upplýsingum sem hún teldi trúverðugar, svo sem þegar þátttakandi í samráði snýr sér til þess sem hefur eftirlit og óskar eftir því að sekt hans sé lækkuð eða felld niður gegn því að hann veiti upplýsingar um brotið. Í þessu sambandi mótmælir aðalstefnandi því jafnframt sem röngu og þýðingarlausu að „verulegt ósamræmi“ hafi verið í framburði eiganda og starfsmanns Múrbúðarinnar ehf. við skýrslutöku í héraðsdómi í málinu nr. S-218/2014. Hvað sem öðru líði byggi aðalstefnandi á því að ætluð ólögmæt kæra hans til lögreglu eða ætlaðar ólögmætar símhleranir og húsleitir lögreglu á grundvelli laga um meðferð sakamála hafi ekki áhrif á stjórnsýslumeðferð málsins eða gildi ákvarðana samkeppnisyfirvalda. Gagnstefnendur byggi einnig á því að við „framkvæmd þeirrar húsleitar sem stefndi framkvæmdi í málinu“ og eftirfarandi rannsókn á haldlögðum gögnum hafi verið brotið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar og engu breyti hvort samskiptin hafi verið lögð til grundvallar niðurstöðu málsins. Þannig hafi verið haldlögð samskipti þeirra við utanaðkomandi lögmenn og ekki tryggt að slík gögn yrðu ekki skoðuð, sbr. 68. gr. og 2. mgr. 119. gr. laga um meðferð sakamála og 70. og 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. og 2. mgr. 6. gr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Aðalstefnandi mótmælir þessari málsástæðu sem vanreifaðri enda hafi gagnstefnendur hvorki lagt fram umrædd gögn né tilgreint efni þeirra. Verði ekki á það fallist mótmælir aðalstefnandi málsástæðunni og vekur athygli á því að það hafi verið lögregla sem framkvæmdi umrædda húsleit. Það hafi henni verið heimilt á grundvelli laga um meðferð sakamála og úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur og að leggja hald á þau gögn sem um ræðir. Hið sama gildi um þau gögn sem voru afrituð í húsleitinni. Aðalstefnanda hafi verið heimilt að taka þátt í húsleitinni og fá afhent gögn frá lögreglu, sbr. 5. og 6. mgr. 42. gr. samkeppnislaga. Rannsóknaraðgerðum lögreglu hafi ekki verið hnekkt fyrir dómi og séu sjónarmið gagnstefnenda því haldlaus Aðalstefnandi vekur jafnframt athygli á því að í athugasemdum sínum við andmælaskjal aðalstefnanda hafi gagnstefnandi ekki byggt á því aðalstefnandi hefði aflað og/eða skoðað gögn sem vörðuðu samskipti stefnanda við utanaðkomandi lögmenn. Gagnstefnandi hafi heldur ekki látið reyna á lögmæti umræddrar haldlagningar/afritunar gagna í húsleitinni fyrir dómi og því síður hafi hann tilgreint þau ætluðu ólögmætu sönnunargögn sem ákvörðun aðalstefnanda eða úrskurður áfrýjunarnefndarinnar sé reistur á. Gagnstefnandi geti því ekki með réttu byggt á því að brotið hafi verið gegn rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar, sbr. um slíkt atriði dóm Hæstaréttar í málinu nr. 419/2015. Aðalstefnandi vekur athygli á því að samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 sé óheimilt að leggja hald á muni hafi þeir að geyma upplýsingar um það sem sakborningi og verjanda hans hafi farið á milli, svo og upplýsingar sem 2. mgr. 119. gr. tekur til. Við húsleit lögreglu hjá gagnstefnanda hafi verið tekið afrit af öllum gögnum, sem höfðu farið um og verið vistuð á póstþjóni og heimasvæði í tölvum tiltekinna starfsmanna gagnstefnanda. Vegna þessa hafi verið óhjákvæmilegt að afrituð væru gögn sem tengdust ekki rannsókn lögreglu með beinum hætti. Hæstiréttur Íslands hefur ekki fundið að því að þessi háttur sé hafður á framkvæmd rannsóknaraðgerða, sbr. meðal annars dóm réttarins í málinu nr. 177/2002, sem varðar atvik í tíð þágildandi laga um meðferð opinberra mála, og dóm réttarins í málinu nr. 633/2009. Samkvæmt því hafi lögreglu verið heimilt að leggja hald á gögnin og aðalstefnanda heimilt að skoða þau enda hefði hann að öðrum kosti ekki getað tekið afstöðu til þess hvort þau tengdust rannsókn á brotum gagnstefnandans. Gagnstefnandi hafi ekki gert kröfu um að tilteknum gögnum yrði eytt. Samkvæmt þessu sé málsástæða hans haldlaus. Aðalstefnandi árétti í þessu sambandi almennu regluna um frjálst mat sönnunargagna í samkeppnismálum. Í því felist að almennt verði sönnunargögnum ekki hafnað fyrir fram. Við endanlega ákvörðun komi hins vegar til álita hvort og að hvaða marki sönnunargögn verði notuð. Gildi það einnig um sönnunargögn sem óheimilt væri að styðjast við. Gagnstefnendur hafi hins vegar ekki bent á nein slík. Samkvæmt c-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu skuli hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi eiga kost á því að halda uppi vörnum með aðstoð verjanda. Ákvæðið hafi verið skýrt svo að sakborningur eigi rétt á að njóta virkrar lögfræðiaðstoðar. Húsleit lögreglu hafi farið fram á grundvelli laga um meðferð sakamála og heimildar frá dómstóli. Aðalstefnandi byggir á því að samskipti við lögmenn njóti aðeins verndar mannréttindasáttmálans tengist þau því máli sem sé til úrlausnar. Gagnstefnendur hafi hvorki tilgreint efni umræddra gagna né byggt á því að þau varði vörn þeirra í málinu. Þeir hafi heldur ekki byggt á því að úrskurður áfrýjunarnefndarinnar eða ákvörðun aðalstefnanda séu reist á gögnunum eða að þau hafi einhverja þýðingu haft við rannsókn málsins. Með vísan til þessa mótmælir aðalstefnandi því að brotið hafi verið gegn rétti gagnstefnenda samkvæmt mannréttindasáttmálanum og stjórnarskrá. Hvað sem framansögðu líði byggi aðalstefnandi á því að hann hafi ekki haft undir höndum gögn um samskipti gagnstefnenda við utanaðkomandi lögmenn sem hafi varðað efni málsins eða hafi slík gögn verið lögð til grundvallar niðurstöðu í málinu. Óháð því hvort 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 hafi tekið til einhverra gagna sem hald hafi verið lagt á við húsleit lögreglu byggi aðalstefnandi á því að ætlað brot að þessu leyti geti engin áhrif haft á gildi ákvörðunar hans. Þaðan af síður geti það haft áhrif á gildi úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 37/2003, þar sem fram komi að áfrýjunarnefndin geti bætt úr annmörkum sem kunni að hafa verið á meðferð samkeppnismála á lægra stjórnsýslustigi, en slík gögn hafi ekki verið hluti málsins og hafi ekki komið áfrýjunarnefnd samkeppnismála fyrir sjónir. Gagnstefnendur byggi einnig á því að aðalstefnandi hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og ekki gætt að hlutlægnisskyldu sinni. Hann hafi horft fram hjá gögnum sem hafi bent til samkeppni fyrirtækjanna og verðlækkana á brotatímabilinu. Jafnframt hafi aðalstefnandi ranglega lagt til grundvallar að upplýsingar um verð hafi verið gefnar á báða bóga á öllu rannsóknartímabilinu. Einnig hafi aðalstefnanda láðst að framkvæma nauðsynlegt kostnaðarmat. Aðalstefnandi mótmæli þessum málsástæðum gagnstefnanda og telji þau ekki eiga við rök að styðjast. Í þessu sambandi vísi gagnstefnendur til fimm nánar tiltekinna tölvupóstsendinga máli sínu til stuðnings. Aðalstefnandi vekur athygli á því að í fjórum af þessum tilvikum varði gögnin annaðhvort verðlækkanir á vörum sem ekki teljist til grófvara eða tilheyri ekki þeim 105 vörutegundum sem hafi verið á hinu hefðbundna verðsamanburðarskjali gagnstefnanda og Húsasmiðjunnar ehf. og verðsamskiptin hafi tekið til. Að því er snerti fimmta tilvikið, þ.e. verðlækkun á svokölluðu grænu efni vorið 2010, árétti aðalstefnandi umfjöllun sína um þetta atriði. Samkeppni fyrirtækjanna hafi takmarkast við það að Húsasmiðjan ehf. lagaði sig að lækkunum á verðum gagnstefnanda. Á hinn bóginn hafi Húsasmiðjan ehf. ekki boðið betri verð. Í ákvörðun aðalstefnanda sé vísað til ólögmæts samráðs fyrirtækjanna um að koma í veg fyrir að slík samkeppni eigi sér stað aftur sem og samkomulag um að hækka verð á græna efninu. Í þessu sambandi byggi aðalstefnandi jafnframt á því að tímabundin samkeppni á milli samráðsaðila breyti ekki lögmæti samráðsaðgerða þegar viðkomandi fyrirtæki, líkt og hér um ræðir, hafi áfram með sér samráð. Aðalstefnandi mótmæli því að þessi tilvik hnekki niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar um ólögmæti hinna reglulegu verðsamskipta. Verðsamskiptin hafi haft þýðingu við ákvörðun á verði á 105 mikilvægustu grófvörum fyrirtækjanna og haft það að markmiði að raska samkeppni. Þau tilvik sem gagnstefnendur nefni bendi hins vegar mögulega til þess að samkeppni hafi ríkt milli fyrirtækjanna þegar um hafi verið að ræða aðrar vörur en verðsamskiptin tóku til. Það breyti hins vegar engu um ólögmæti þess verðsamráðs sem tók til umræddra grófvara. Með vísan til þessa mótmæli stefndi því að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Aðalstefnandi ítrekar að í máli þessu sé um að ræða brot sem hafi haft það að markmiði að raska samkeppni í skilningi 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins og falist í vikulegum samskiptum með upplýsingar um verð, og eftir atvikum um birgðastöðu og afslátt. Hann árétti í þessu sambandi að í réttarframkvæmd hafi því verið slegið föstu að það sé ekki skilyrði slíks brots að sönnuð séu neikvæð áhrif ólögmætra samskipta keppinauta á markað. Sönnun slíkra áhrifa hafi þá einu mögulegu þýðingu að viðurlög geti orðið harðari en ella. Þá kveðst aðalstefnandi mótmæla því að hann hafi lagt rangt mat á eðli verðsamskipta Húsasmiðjunnar ehf. og gagnstefnanda. Í ákvörðuninni sé sýnt fram á að a.m.k. frá árinu 2007, og á öllu rannsóknartímabilinu, hafi fyrirtækin haft vikuleg bein samskipti, undir nafni, um verð á grófvörum. Það sé ekki rétt sem gagnstefnendur haldi fram, að í ákvörðuninni sé lagt til grundvallar að á rannsóknartímabilinu hafi verðsamskiptin ávallt verið gagnkvæm, þ.e. að fyrirtækin hafi ávallt veitt hvort öðru verðupplýsingar. Í ákvörðuninni sé lagt til grundvallar að samskiptin hafi ekki orðið að öllu leyti gagnkvæm fyrr en á haustmánuðum 2010. Húsasmiðjan ehf. hafi veitt gagnstefnanda verðupplýsingar á öllu rannsóknartímabilinu, en gagnstefnandi hafi byrjað að veita Húsamiðjunni ehf. reglulega sömu upplýsingar á árinu 2010. Enda þótt Húsasmiðjan ehf. hafi fengið upplýsingar frá gagnstefnanda fyrir þann tíma hafi það ekki verið með eins reglubundnum hætti og síðar varð. Í ákvörðun aðalstefnanda segi um þetta að ekki sé „unnt að slá því föstu að fram á haustið 2010 hafi verðsamskipti Byko og Húsasmiðjunnar í öllum tilvikum verið gagnkvæm [...]. Hins vegar [sé] óhætt að leggja til grundvallar að þau hafi a.m.k. verið það að hluta. Eins og Byko hefur bent á urðu verðsamskiptin hins vegar að meginreglu gagnkvæm […] haustið 2010. Fyrir sitt leyti hefur Húsasmiðjan (Holtavegur 10) viðurkennt að hin beinu verðsamskipti við Byko hafi á öllu rannsóknartímabilinu verið ólögmæt.“ Í ákvörðuninni er rökstutt að ólögmætar samstilltar aðgerðir geti bæði falist í einhliða upplýsingaskiptum, þar sem fyrirtæki greini frá upplýsingum, keppinautur meðtaki þær og setji ekki fram mótmæli, og tvíhliða upplýsingaskiptum, þar sem keppinautarnir beinlínis skiptist á upplýsingum. Verðsamskipti fyrirtækjanna hafi því verið ólögmæt á öllu rannsóknartímabilinu í skilningi samkeppnisréttar. Þá tekur aðalstefnandi fram að verðsamskipti fyrirtækjanna tveggja hafi ekkert átt skylt við hefðbundnar og eðlilegar verðkannanir. Ólögmæti þessara samskipta verði enn ljósara þegar horft sé til þess að félögin hafi sagt almennum starfsmönnum sínum ósatt um raunverulegar ástæður tiltekinna hækkana á grófvörum. Verðhækkanir sem hafi leitt af samráðinu hafi ranglega verið sagðar stafa af hækkunum birgja eða hækkun á heimsmarkaðsverði. Þá sýni gögn málsins að báðum fyrirtækjunum hafi verið ljós nauðsyn þess að þessi samskipti færu leynt og að þau væru ekki eðlileg. Aðalstefnandi mótmæli því þeim sjónarmiðum gagnstefnenda að verðsamskiptin hafi ekki falið í sér brot á 10. gr. samkeppnislaga þar sem þau hafi í fyrsta lagi lotið að skiptum á upplýsingum um gildandi smásöluverð og í öðru lagi hafi upplýsingarnar lotið að opinberum smásöluverðum. Bendir aðalstefnandi á að í raun hafi Hæstiréttur í máli nr. 360/2015 þegar komist að þeirri niðurstöðu að samskiptin hafi falið í sér brot á umræddu ákvæði. Allt að einu byggi aðalstefnandi á því að samskipti keppinautanna hafi verið ólögmæt og alvarleg fyrir það eitt að þau höfðu það að markmiði að raska samkeppni. Þegar af þeirri ástæðu sé málsástæða gagnstefnenda um að samskiptin hafi lotið að gildandi og opinberum smásöluverðum þýðingarlaus. Hvað sem því líði sé þó ekki rétt að verðsamskiptin hafi að mestu einskorðast við gildandi verð. Í ákvörðun aðalstefnanda sé fjallað um það undir hvaða kringumstæðum upplýsingaskipti um verð teljist í raun lúta að áformum um verðlagningu. Í ákvörðuninni sé útskýrð þýðing þess að upplýsingaskiptin eigi sér stað í beinum samskiptum keppinauta og hafi ekki í för með sér skuldbindingargildi. Í slíkum tilvikum geti fyrirtæki auðveldlega afturkallað verðhækkun ef keppinautur hækkar ekki líka. Í ákvörðun aðalstefnanda sé gerð grein fyrir samtímagögnum málsins sem sýni að í raun hafi það falist í hinum beinu verðsamskiptum stefnanda og Húsasmiðjunnar ehf. að send hafi verið tilboð/skilaboð um verðhækkanir eða veittar upplýsingar um verðáform í skilningi samkeppnisréttarins. Staðfesti þetta alvarleika brota málsins. Í samtímagögnum komi skýrt fram að Húsasmiðjan ehf. hafi einfaldlega afturkallað verðhækkun, sem hún hafði upplýst gagnstefnanda um í hinum beinu verðsamskiptum, ef hann hækkaði ekki verð sitt í viðkomandi tilviki. Þetta hafi áfrýjunarnefndin staðfest og tekið fram „að verðupplýsingar Húsasmiðjunnar hafi í raun ávallt verið með þeim fyrirvara að þær yrðu dregnar til baka ef [stefnandi] hækkaði ekki sínar vörur í sambærilegum tilvikum“. Með vísan til þessa byggi aðalstefnandi á því að verðsamskiptin hafi falið í sér upplýsingar um verðáform eða verðfyrirætlanir í skilningi samkeppnisréttar. Það sé því ekki rétt að verðsamskiptin hafi að mestu einskorðast við gildandi verð. Aðalstefnandi mótmæli því að hafa lagt rangt mat á málið að þessu leyti og hafni þeim sjónarmiðum gagnstefnanda að þetta lýsi „mjög virkum samkeppnismarkaði og raunar tilgangi virkrar samkeppni í sinni hreinustu mynd“ eins og gagnstefnendur haldi fram. Þá mótmæli aðalstefnandi því einnig að verðsamskiptin hafi ekki falið í sér brot á 10. gr. samkeppnislaga af þeirri ástæðu að þau hafi lotið að skiptum á opinberum smásöluverðum. Aðalstefnandi byggir á því að ljóst sé að upplýsingarnar hafi ekki verið opinberar í skilningi samkeppnisréttar. Vísi aðalstefnandi um þetta til samtímagagna sem sýni að mjög vandasamt gat verið að bera saman verð á grófvörutegundum, jafnvel fyrir starfsmenn fyrirtækjanna, vegna þess hversu verðumhverfið var flókið. Á fundi með aðalstefnanda 25. mars 2011 þar sem Húsasmiðjan óskaði fyrst eftir að gera sátt hafi verið bent á af hálfu fyrirtækisins að „almennt væri erfitt að finna verð á þessum grófvörum“. Hin skipulögðu verðsamskipti hafi hins vegar gert verðsamhæfingu mögulega og eftir atvikum skilvirkari. Það hafi enda verið tilgangur þeirra. Í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar var framangreint samráð fyrirtækjanna talið hafa „leitt til ástands sem þróaðist í þá átt að gera báðum aðilum kleift að hækka verð sín“ og verðsamskiptin „tvímælalaust“ talin andstæð samkeppnislegum sjónarmiðum. Þannig hafi ástandið „ekki bara [verið] til þess fallið að bjóða hættunni heim heldur [hafi leitt] af því röskun á samkeppni og þá frekar í þá átt að verð hækkaði“. Þá mótmæli aðalstefnandi þýðingu umfjöllunar gagnstefnenda um skyldu fyrirtækja til að verðmerkja vörur og um verðkönnunarsímtöl viðskiptavina, ekki síst verktaka. Í ákvörðun aðalstefnanda og úrskurði áfrýjunarnefndarinnar sé ekki lagt til grundvallar að leynd hafi átt að hvíla yfir verði fyrirtækjanna Þannig séu það samskipti fyrirtækjanna sem feli í sér brot á 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Lagafyrirmæli um verðmerkingar heimili ekki samskipti milli keppinauta sem ella færu gegn þessum ákvæðum. Þá sé á engan hátt unnt að bera saman annars vegar hin umfangsmiklu verðsamskipti fyrirtækjanna og hins vegar verðfyrirspurnir viðskiptavina. Aðalstefnandi áréttar að öll þau atriði sem talin eru veita vísbendingu um að upplýsingaskipti séu ólögmæt eigi við um verðsamskipti fyrirtækjanna. Þau hafi ekki átt sér stað fyrir opnum tjöldum heldur farið fram í gegnum síma. Þau hafi verið reglubundin og tekið til mikilvægra viðskiptaupplýsinga fyrirtækja sem saman hafi verið með 90–95% markaðshlutdeild og því höfuðkeppinautar á viðkvæmum fákeppnismarkaði. Ljóst sé að verðumhverfi þessara fyrirtækja sé mjög flókið og að verðsamskiptin hafi a.m.k. auðveldað verðsamhæfingu. Þá sé ljóst að verðsamskiptin hafi ekki haft í för með sér skuldbindingargildi þar sem verðbreytingar hefði verið hægt að draga til baka eftir því hver viðbrögð keppinautarins voru. Með vísan til framangreinds byggir aðalstefnandi á því að það myndi engu breyta þótt fallist yrði á það með gagnstefnendum að andlag verðsamskiptanna hafi verið opinberar upplýsingar. Eftir sem áður hafi verið um að ræða bein verðsamskipti umræddra höfuðkeppinauta sem ljóslega hafi verið til þess fallin að raska samkeppni og haft það að markmiði. Hvað sem framansögðu líði byggi aðalstefnandi á því að gagnstefnendur leggi rangan skilning í það hvað teljist vera opinberar upplýsingar í skilningi samkeppnisréttarins og hvað felist í leiðbeinandi reglum Eftirlitsstofnunar EFTA um gildi 53. gr. EES-samningsins gagnvart láréttum samstarfssamningum frá 2013. Svo að upplýsingar teljist opinberar í skilningi samkeppnisréttarins verði þær að vera „fyllilega opinberar“. Í leiðbeiningareglunum komi fram að upplýsingar séu aðeins opinberar í þessum skilningi ef það er jafn auðvelt fyrir annars vegar viðkomandi keppinauta, sem eiga í upplýsingaskiptunum, og hins vegar fyrir neytendur og önnur fyrirtæki að afla þeirra. Af þessu leiði m.a. að þótt upplýsingar séu, sem slíkar, opinberlega aðgengilegar séu þær ekki endilega fyllilega opinberar. Af þessu leiði jafnframt að ef upplýsingaskipti keppinauta gera þeim auðveldara en öðrum að nálgast þær, t.d. ef upplýsingaskipti skapa tilbúið eða aukið gagnsæi sem gagnast keppinautunum en ekki öðrum, sé ekki um að ræða fyllilega opinberar upplýsingar. Þannig sæti það þröngri skýringu hvort upplýsingar teljast opinberar í framangreindum skilningi. Þá hafnar aðalstefnandi þeim málatilbúnaði gagnstefnenda að hann hafi ekki framkvæmt „kostnaðarmat“ við mat á því hvort andlag verðsamskiptanna hafi verið fyllilega opinberar upplýsingar. Að mati aðalstefnanda leggi gagnstefnendur hér rangan skilning í 92. mgr. leiðbeinandi reglna Eftirlitsstofnunar EFTA um gildi 53. gr. EES-samningsins gagnvart láréttum samstarfssamningum. Þessar reglur geri ekki kröfu um að gerðar séu kostnaðarúttektir heldur skal metið hvort það sé jafn auðvelt fyrir þann sem stendur fyrir utan upplýsingaskiptin að afla viðkomandi upplýsinga. Ef það er m.a. tímafrekara eða flóknara fyrir utanaðkomandi að afla sér viðkomandi upplýsinga eru þær ekki jafn aðgengilegar fyrir hann og þar með hefur hann meiri kostnað af því að afla þeirra. Þessari aðstöðu hafi jafnframt verið lýst sem svo að án samskiptanna væri ekki jafn þægilegt að afla upplýsinganna. Litið sé svo á að ósennilegt sé að keppinautar myndu fara þá leið að skiptast á fyllilega opinberum upplýsingum. Með því að skiptast á upplýsingum séu keppinautar í mörgum tilvikum að sýna fram á að þær séu einmitt ekki fyllilega opinberar, enda væri ella engin ástæða fyrir þá til að taka þá áhættu sem fylgi beinum samskiptum keppinauta. Aðalstefnandi kveðst sérstaklega árétta í þessu sambandi að gögn málsins sýni svo ekki verði um villst að æðstu stjórnendur gagnstefnandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. hafi ekki talið þessi reglulegu verðsamskipti óþörf heldur þvert á móti lagt mikla áherslu að þau færu fram í hverri viku. Þannig skyldi verðkönnunarskjal á grófvöru ávallt vera tilbúið þegar framkvæmdastjórn gagnstefnandans Byko ehf. kæmi saman á föstudagsmorgnum þar sem forstjóri félagsins varpaði verðkönnunarskjalinu upp á skjá og framkvæmdastjórnin tók ákvarðanir um verðlagningu á grófvöru. Gagnstefnandinn hafi engar skýringar gefið á því hvers vegna fyrirtækin hafi ákveðið að eiga í beinum verðsamskiptum ef þau töldu sig geta aflað upplýsinganna án þess að eiga samskipti sín á milli. Er með öðrum orðum óútskýrt hvers vegna gagnstefnandinn hafi lagt í alla þá fyrirhöfn, umstang og áhættu sem fólst í hinum vikulegu símtölum hafi raunverulega verið um fyllilega opinberar upplýsingar að ræða. Kjarni málsins sé sá að verðsamskipti fyrirtækjanna hafi ekki farið fram fyrir opnum tjöldum heldur í símtölum milli fyrirtækja sem hafi verið með hátt í 100% markaðshlutdeild. Hafi upplýsingaskiptin augljóslega verið til þess fallin að leiða til gagnkvæmrar vissu fyrirtækjanna um verðstefnu keppinautarins og stuðla með þeim hætti að samráðsstöðu og samkeppnishömlum. Sú staðreynd að stjórnendur fyrirtækjanna nýttu sér verðsamskiptin og lögðu mikla áherslu á framkvæmd þeirra sýni öðru fremur að verðsamskiptin hafi ekki aðeins verið ólögmæt af þeirri ástæðu að þau gátu raskað samkeppni heldur jafnframt að verðsamskiptin hafi verið hluti af víðtækara ólögmætu samráði keppinautanna sem hafi haft það að markmiði að hækka verð og vinna gegn verðlækkunum. Aðalstefnandi hafni þeirri röksemd gagnstefnenda að andlag verðsamskiptanna hafi verið listaverð með litla eða enga þýðingu fyrir 90% kaupenda á grófvöru enda sé það ekki skilyrði brots gegn 10. gr. samkeppnislaga að sannað sé að samráðið hafi leitt til verðhækkana. Í ákvörðun aðalstefnanda sé rökstutt að viðmiðunargildi almennrar verðskrár gagnvart verktökum og öðrum fagaðilum sé verulegt. Hafi listaverð varanna með þeim hætti haft áhrif á verð til verktaka. Þá segi í ákvörðun aðalstefnanda að ólögmætt samráð hafi átt sér stað á vettvangi stjórna gagnstefnandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. en þessu mótmæli gagnstefnendur. Af þeirra hálfu sé byggt á því að í dagbókarfærslu forstjóra félagsins frá 19. febrúar 2010 felist ekki upplýsingar um starfsemi Húsasmiðjunnar ehf. Í dagbókarfærslunni sé þó m.a. minnst á framlegð, verð á timbri, afskriftarfjárhæðir, birgðastýringu, útlánastarfsemi og fleira. Gagnstefnendur haldi því þannig fram að það sé hugtaksskilyrði að upplýst sé um staðreyndir svo að um brot sé að ræða en hér hafi aftur á móti verið reynt að villa um fyrir móttakandanum. Gagnstefnendur geti sér til um að viðmælandi forstjórans kunni að hafa verið fyrrverandi starfsmaður Húsasmiðjunnar ehf. en upplýsi ekki um það frá hverjum upplýsingarnar séu þá runnar. Þá sé í ákvörðun aðalstefnanda gerð grein fyrir því að gagnstefnandinn Byko ehf. hafi fengið viðkvæmar upplýsingar um breytingar á verðstefnu Húsasmiðjunnar ehf. í október 2010. Hafi þetta verið liður í samráði fyrirtækjanna. Gagnstefnendur geti sér þess til að umræddar viðskiptaupplýsingar hafi lekið út frá keppinauti félagsins og borist stjórnarmanni gagnstefnanda frá þriðja aðila en upplýsi ekki um það frá hverjum upplýsingarnar séu þá runnar. Aðalstefnandi mótmæli því að það sé ósannað að gagnstefnandi hafi í framangreindum tveimur tilvikum fengið upplýsingar frá aðilum á vegum Húsasmiðjunnar ehf. Aðalstefnandi árétti í þessu sambandi að dómstólar ESB hafa hafnað því að sönnun fyrir samkeppnislagabroti þurfi að vera hafin yfir skynsamlegan vafa, sbr. meðal annars dóm undirréttar ESB frá 8. júlí 2008 í máli nr. T-53/03. Einkenni samráðsbrota sé að þau séu falin og skjalleg sönnunargögn oft á tíðum takmörkuð. Þetta eðli brotanna valdi því að fyrirliggjandi sönnunargögn séu metin með heildstæðum hætti en ekki hvert og eitt þeirra með einangruðum hætti. Þannig sé litið svo á að samkeppnisyfirvöld hafi axlað sönnunarbyrði sína ef sönnunargögn sem færð eru fram, og eru metin með heildstæðum hætti, sýna fram á brot. Komi þá í hlut viðkomandi fyrirtækis sem sakað sé um slíkt ólögmætt atferli að sanna að svo hafi ekki verið. Gagnstefnandi hafi haft tækifæri til að hrekja framkomna sönnun í tilvikunum tveimur en hafi þess í stað kosið að greina hvorki frá því hver viðmælandi forstjóra stefnanda í símtalinu frá 19. febrúar 2010, sem umrædd dagbókarfærsla forstjórans fjalli um, hafi verið né frá hvaða aðila stjórnarformanni gagnstefnandans hafi borist upplýsingar um breytingar á verðstefnu Húsasmiðjunnar ehf. í október 2010. Í ákvörðun aðalstefnanda sé lýst samráðssímtali framkvæmdastjóra fagsölusviðs gagnstefnandans Byko ehf. og vörustjóra timbursölu Húsasmiðjunnar ehf., sem voru lykilstarfsmenn fyrirtækjanna á sviði grófvöru, sem hafi átt sér stað 28. febrúar 2011. Gagnstefnendur byggi á því að um einangrað tilvik sé að ræða sem ekki sé til marks um samráð fyrirtækjanna og þeir geti ekki borið ábyrgð á háttsemi starfsmanns sem hafi farið þvert gegn skýrum fyrirmælum forstjóra félagsins. Jafnframt hafni gagnstefnendur því að símtalið sé sett í samhengi við framlegðarátak fyrirtækisins þar sem þeir starfsmenn sem hafi haft ákvörðunarvald um framlegðarátakið hafi ekki haft vitneskju um símtalið. Jafnframt hafi skort á viðbrögð af hálfu Húsasmiðjunnar ehf. við símtalinu sem leiði til þess að í símtalinu geti ekki falist samningur, samþykkt eða samstillt aðgerð í skilningi 10. gr. samkeppnislaga. Að lokum byggi gagnstefnendur á því að tilgangur símtalsins hafi hlotið að vera að villa um fyrir samkeppnisaðila. Aðalstefnandi kveðst hafna öllum framangreindum sjónarmiðum gagnstefnenda sem röngum og þýðingarlausum. Gagnstefnandi beri fulla ábyrgð á athöfnum allra starfsmanna sinna og geti ekki firrt sig ábyrgð á broti með því að vísa til einstaks starfsmanns og einstaks tilviks. Beri fyrirtæki fulla ábyrgð á háttsemi starfsmanns, jafnvel þótt starfsmaður þess hafi ekki haft heimild til verknaðarins eða hann sé framinn án vitneskju stjórnenda fyrirtækisins. Viðkomandi starfmaður hafi verið einn helsti stjórnandi gagnstefnandans. Hann hafi m.a. borið ábyrgð á tilboðum á grófvörum og komið almennt að verðlagningu á grófvöru og miðstöðvarofnum. Hann hafi einnig verið einn þriggja stjórnenda sem hafi borið ábyrgð á því framlegðarátaki sem símtalið við Húsasmiðjuna ehf. tengdist. Enginn vafi geti leikið á því að gagnstefnandi beri fulla ábyrgð á háttsemi þessa framkvæmdastjóra sem hann viðhafði í nafni fyrirtækisins. Í ákvörðun stefnda sé fjallað ítarlega um efni símtalsins, meðal annars með hliðsjón af skýringum viðkomandi starfsmanna og gögnum málsins. Gagnstefnendur setji fram sams konar sjónarmið að þess leyti og þeir hafi gert við meðferð málsins hjá aðalstefnanda og fyrir áfrýjunarnefndinni. Aðalstefnandi hafi þegar gert grein fyrir því hér að framan hvaða brot á 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins hann telji að hafi átt sér stað í símtalinu og hvaða reglur gildi um slík samskipti keppinauta með vísan til innlendra fordæma og fordæma í EES/ESB-samkeppnisrétti og vísist til þeirrar umfjöllunar. Aðalstefnandi byggir á því að Húsamiðjan ehf. hafi hvorki sett fram mótmæli né slitið símtalinu er við hafi blasað hvaða erindi starfsmaður gagnstefnanda ætti við starfsmann fyrirtækisins. Þvert á móti hafi Húsasmiðjan ehf. samþykkt samráðstillögur gagnstefnanda og átt frumkvæði að samráði sem gagnstefnandi hafi samþykkt. Aðalstefnandi telji gögn málsins sýna að í kjölfar samráðssímtalsins 28. febrúar 2011 hafi verið hert á hinu samfellda samráði fyrirtækjanna. Hafi félögin á þessum tímapunkti verið tilbúin að nota enn beinskeyttari aðferðir en verðsamskiptin í hinu samfellda samráði. Þá sýni gögn málsins hvernig ákvörðun framkvæmdastjórans um að hringja umrætt símtal hafi verið nátengd framangreindu verkefni, sem innan Byko hafi verið kallað „framlegðarátak í tilboðsgerð“ enda hafi framkvæmdastjórinn viðurkennt það hjá lögreglu að það væri „klárlega mikil hætta“ á því að fyrirtækið myndi missa viðskipti yfir til keppinauta sinna með kerfisbundnum hækkunum á verðum í tilboðum. Augljóst sé að einn tilgangur símtalsins hafi verið að vinna gegn þeirri hættu og tryggja framgang framlegðarátaksins. Aðalstefnandi kveðst mótmæla því sem röngu og ósönnuðu að gagnstefnandi hafi í símtalinu verið að „villa um“ fyrir keppinaut sínum. Er það sjónarmið gagnstefnanda í beinni mótsögn við samtímagögn málsins. Stefndi í gagnsök, íslenska ríkið, byggi kröfu sína um sýknu af kröfu um endurgreiðslu sektarfjárhæðarinnar á því að lög standi ekki til þess að endurgreiða sektarfjárhæðina í heild eða að hluta nema ákvörðun aðalstefnanda og úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála séu felld úr gildi með dómi eða fallist sé á lækkun sektarinnar. Í því sambandi vísar stefndi til allra sömu málsástæðna og aðalstefnandi hefur teflt fram í málinu, bæði í aðalsök og gagnsök. Krafa um málskostnað í aðalsök og gagnsök styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.   III Málsástæður og lagarök gagnstefnenda í gagnsök, Byko ehf. og Norvikur hf., og jafnframt aðalstefndu í aðalsök Aðalstefndu í aðalsök vekja athygli dómsins á því að málatilbúnaður aðalstefnanda sé í andstöðu við ákvæði 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með þeim hætti að varða kunni frávísun málsins án kröfu. Annars vegar séu dómkröfur aðalstefnanda ekki settar fram með svo skýrum og glöggum hætti að unnt sé að taka þær óbreyttar upp í dómsorð. Í aðalsök sé gerð sú krafa að gagnstefnandanum Norvik hf. verði gert að greiða 650.000.000 króna sekt er renni í ríkissjóð, þó að fyrir liggi að hann hafi þegar greitt þá 65.000.000 króna sektarfjárhæð sem ákvörðuð var með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Yrði þannig fallist á dómkröfuna óbreytta yrði endanleg sektargreiðsla gagnstefnandans í ríkissjóð 715.000.000 króna, eða 65.000.000 króna hærri fjárhæð en upphafleg sektarákvörðun aðalstefnanda. Fái það eðli málsins samkvæmt ekki staðist. Þá sé þess krafist með dómkröfu aðalstefnanda að sú sekt sem gerð sé krafa um greiðslu á skuli greiðast eigi síðar en einum mánuði frá dagsetningu úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála 28. september 2015. Eðli máls samkvæmt sé ómögulegt að verða við þeirri kröfu. Gagnstefnendur byggja á því að hvoru tveggja ofangreindra atriða fari í bága við ákvæði d-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með þeim hætti að varða kunni frávísun málsins án kröfu. Hins vegar sé í mörgum tilvikum í umfjöllun um málsástæður í stefnu látið við það sitja að vísa til dómskjala. Eigi þetta við um ýmis atriði sem aðalstefnandi telji að ranglega hafi verið komist að niðurstöðu um í úrskurði áfrýjunarnefndar, svo sem að samskiptin hafi haft það að markmiði að raska samkeppni, að þau hafi verið framin af ásetningi, að símtal 28. febrúar 2011 hafi falið í sér samráð um fleiri atriði en lögð hafi verið til grundvallar í úrskurði áfrýjunarnefndar, að samráð hafi, þvert á niðurstöðu áfrýjunarnefndar, tekið til verðlagningar á miðstöðvarofnum o.fl. Gagnstefnendur byggja á því að þessi málatilbúnaður sé í andstöðu við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1990, sem feli í sér að greina verði málsástæður á tæmandi hátt í stefnu, með þeim hætti að varða kunni frávísun málsins án kröfu.   1. Gagnstefnandinn Byko ehf. braut ekki gegn 10. gr. samkeppnislaga eða 53. gr. EES-samningsins Í málinu er á því byggt af hálfu gagnstefnanda að gagnstefnandinn Byko ehf. hafi ekki brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga. Er þessu sjónarmiði teflt fram til stuðnings sýknu í aðalsök og til stuðnings kröfu um ógildingu ákvarðana samkeppnisyfirvalda í gagnsök. Gagnstefnendur hafni því að þau tilvik sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála lagði til grundvallar að hefðu falið í sér brot á áðurnefndu ákvæði í samræmi við ákvörðun aðalstefnanda fái ekki staðist. Á hinn bóginn taki þeir undir með áfrýjunarnefndinni um þau tilvik sem hún taldi ekki fela í sér brot á ákvæðinu og aðalstefnandi gerir athugasemdir við í stefnu sinni í aðalsök. Aðalstefnandi byggi á því að áfrýjunarnefnd hafi í ákveðnum atriðum lagt rangt mat á efni símtals 28. febrúar 2011 og atburði í kjölfar þess. Gögn málsins gefi skýrt til kynna að um algjörlega einangrað tilvik hafi verið að ræða. Símtalið sé ekki í nokkru samræmi við önnur gögn málsins, sem sýni fram á harða verðsamkeppni allt rannsóknartímabilið. Þess utan komi þetta einfaldlega skýrt fram í símtalinu sjálfu, þegar starfsmaður gagnstefnandans segir, í aðdraganda þess að samtalið tekur að lúta að verðlagsmálum: „En hérna, ég eiginlega. Veistu, ég hringdi. Ég hef nú aldrei gert þetta áður, en ég held að... og ég er núna ... ég stjórna tilboðsmálunum hjá okkur, allavega varðandi grófu vöruna.“ Hið sama sýni einnig önnur samtímagögn, þ.e., þau viðbrögð innan Húsasmiðjunnar sem lýst sé í ákvörðun stefnda. Bendi þau ekki til þess að um vanalegan viðburð hafi verið að ræða heldur megi þvert á móti merkja undrun í viðbrögðum félagsins, eins og fram komi í símtali framkvæmdastjóra verslunarsviðs Húsasmiðjunnar við forstjóra fyrirtækisins. Gera megi ráð fyrir að viðbrögðin hefðu verið önnur ef um lið í einhverju samfelldu samráði hefði verið að ræða. Víðtækar ályktanir aðalstefnanda um eðli símtalsins, inntak þess og ætluð tengsl við ýmis önnur sakarefni málsins fái, að mati gagnstefnenda, ekki nokkra stoð í gögnum málsins. Í ákvörðun aðalstefnanda sé fjallað um það sem nefnt sé „aðdragandi símtalsins“ og hann settur í samhengi við svokallað „framlegðarátak“ gagnstefnandans Byko ehf. og á því byggt að símtalið hafi tengst því „með beinum hætti“. Þessu hafni gagnstefnendur alfarið. Framlegðarátakið hafi verið ákveðið á vettvangi framkvæmdastjórnar félagsins og endanlega samþykkt af forstjóra. Enginn þessara aðila, utan framkvæmdastjóra fagsölusviðs sem var þátttakandi í símtalinu, hafi haft nokkra vitneskju um það, hvorki fyrir það né eftir. Geti símtalið þannig ekki verið í beinum tengslum við eða liður í framlegðarátakinu eins og lagt sé til grundvallar í ákvörðun aðalstefnanda. Aðalstefnandi leggi jafnframt til grundvallar niðurstöðu sinni þá ályktun að símtalið hafi falið í sér „markvissa ráðagerð um að fá Húsasmiðjuna til að taka þátt í auknu ólögmætu samráði“. Þeirri ályktun hafni gagnstefnendur alfarið. Aðgerðir eins starfsmanns sem samstarfsmenn hans og yfirmenn hafi enga vitneskju um geti aldrei falið sér í markvissa ráðagerð fyrirtækis. Þá verði ekki ráðið af yfirheyrslum yfir nefndum starfsmanni eða framburði hans fyrir dómi í sakamálinu að um markvissa ráðagerð hafi verið að ræða, heldur þvert á móti. Í málatilbúnaði aðalstefnanda sé fjallað um viðbrögð Húsasmiðjunnar við símtalinu og komist að þeirri niðurstöðu að félagið hafi fallist á allar þær „tillögur“ sem lagðar hafi verið fram í símtali starfsmanns gagnstefnandans Byko ehf., og félögin því brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga. Gagnstefnendur telji þetta ekki í nokkru samræmi við efni þeirra gagna sem rakin séu í ákvörðun aðalstefnanda. Í ákvörðun aðalstefnanda sé dregin sú ályktun af þeim hluta símtalsins sem laut að samkeppni við Múrbúðina að Byko og Húsasmiðjan hafi skipst á viðskiptalegum upplýsingum um keppinautinn Múrbúðina. Þá sé dregin sú ályktun að starfsmennirnir hafi „sammælst“ um að nauðsynlegt væri að fylgjast með starfsemi Múrbúðarinnar. Virðist reyndar í stefnu í aðalsök nokkuð dregið úr þessu þar sem aðeins síðarnefndi liðurinn sé tiltekinn. Gagnstefnendur hafni þessu og telji þessar ályktanir aðalstefnanda vera reistar á hæpnum grundvelli. Fái gagnstefnendur ekki séð hvaða viðskiptalegu upplýsingar það eru sem starfsmennirnir eigi að hafa skipst á í símtalinu. Þá kveðast þeir ekki fá séð hvar í símtalinu félögin tvö eigi að hafa sammælst um að fylgjast með starfsemi Múrbúðarinnar. Verði ekki annað ráðið af þessum hluta símtalsins en að einungis sé um almennt spjall að ræða þar sem þeir bölvi samkeppninni. Þá sé í engu rökstutt í ákvörðun aðalstefnanda eða í stefnu með hvaða hætti það að „fylgjast með“ starfsemi samkeppnisaðila brjóti gegn 10 gr. samkeppnislaga enda fylgist öll fyrirtæki með starfsemi samkeppnisaðila sinna eðli málsins samkvæmt. Þá sé jafnt í stefnu sem og ákvörðun aðalstefnanda vikið að því sem þar sé kallað „viðræður um að hækka verð í áföngum í öllum tilboðum og um sérstakar aðgerðir til að raska samkeppni á Selfossi og Akureyri“. Ekkert liggi fyrir um að eitt einasta tilboð hafi verið hækkað í kjölfar símtalsins eða það hafi yfir höfuð staðið til. Í ákvörðun aðalstefnanda sé jafnframt dregin sú ályktun af þeim hluta símtalsins sem laut að verðlagningu á ofnum að starfsmaðurinn hafi veitt Húsasmiðjunni upplýsingar um að fyrirtækið þyrfti ekki að bjóða svo lágt verð við tilboðsgerð í sölu á ofnum. Starfsmaðurinn hafi aftur á móti borið við skýrslutökur að tilgangur hans hafi verið að blekkja Húsasmiðjuna og hann hafi því verið að ýkja í þeim tilgangi að gagnstefnandinn Byko ehf. gæti haft betur í samkeppni við keppninautinn. Gagnstefnendur bendi á að ekkert í gögnum málsins hreki þennan framburð starfsmannsins. Þá sé ekkert í gögnum málsins sem bendi til þess að dæmi starfsmannsins um ætlaðan 18% verðmun í tilboði hafi verið byggt á staðreyndum, eða hvort um tilbúið dæmi hafi verið að ræða í því skyni að blekkja samkeppnisaðilann. Verði að ætla að slíkt dæmi hefði komið í ljós við húsleitina sem var gerð hefði það verið til staðar. Benda gagnstefnendur á að það geti ekki talist ólögmætt samráð í andstöðu við 10. gr. samkeppnislaga ef gerð er tilraun til að villa um fyrir samkeppnisaðila í því skyni að hafa betur í samkeppni. Verði að leggja sönnunarbyrðina á aðalstefnanda fyrir því að um raunverulegt dæmi hafi verið að ræða, en það sé með öllu ósannað. Loks sé það lagt til grundvallar í ákvörðun aðalstefnanda að af efni símtalsins megi draga þá ályktun af umræðu um verðlagningu á hinu svokallaða „græna efni“ að „Byko og Húsasmiðjan hafi komið sér saman um að lyfta verðinu á græna efninu upp fyrir sumarið 2011 og halda því uppi yfir sumarið“. Telji aðalstefnandi jafnframt að orðanotkun í símtalinu um þá hörðu samkeppni sem ríkti í græna efninu sumarið 2010 hafi verið „lýsandi fyrir hið samfellda samráð fyrirtækjanna“. Þessum ályktunum hafni gagnstefnendur alfarið. Með engu móti sé unnt að leiða það af þeim stutta hluta símtalsins sem fjallaði um hið svokallaða græna efni, að viðkomandi starfsmenn hafi komið sér saman um verðhækkun og að halda skyldi því háu yfir sumarið. Fái gagnstefnendur einfaldlega ekki séð hvernig unnt sé að draga þá ályktun af símtalinu. Þá benda gagnstefnendur á að umræddur starfsmaður hafi ekki einn haft valdheimildir til að beita sér fyrir hækkun á verði hins svokallaða græna efnis. Þar sem hann hafi engan annan starfsmann stefnda Byko látið vita af símtalinu hafi verið ómögulegt að þetta spjall um verðlagningu græna efnisins gæti haft áhrif á verðlagningu og þannig verið skaðlegt samkeppni í skilningi 10. gr. samkeppnislaga. Loks byggi gagnstefnendur á því að þau lýsingarorð sem starfsmaðurinn noti um þær miklu verðlækkanir sem urðu á græna efninu sumarið 2010, sem og ýmis önnur lýsingarorð símtalsins, geti ekki lýst öðru en persónulegum viðhorfum hans og hafi enga þýðingu til sönnunar á ætluðu samfelldu samráði yfir allt brotatímabilið þvert á önnur gögn málsins. Jafnt í ákvörðun aðalstefnanda sem stefnu sé fjallað um viðbrögð og ýmis atvik eftir símtalið. Sé þar m.a. dregin sú ályktun að bæði félögin hafi gripið til aðgerða til að hrinda ætluðu samráði í framkvæmd. Gagnstefnendur hafni því alfarið að gagnstefnandinn Byko ehf. hafi gripið til einhverra aðgerða til að hrinda ætluðu samráði í framkvæmd eða að gögn málsins bendi til þess. Í ákvörðun aðalstefnanda sé því lýst hvernig gagnstefnandinn Byko ehf. hringdi verðkönnunarsímtal síðar þann sama dag. Gagnstefnendur ítreki að verðkönnunarsímtölin hafi ekki verið brot á 10. gr. samkeppnislaga og hafi engin skaðleg áhrif haft á samkeppni enda um opinber verð að ræða. Af því leiði jafnframt að verðhækkun gagnstefnanda þann dag geti ekki verið afleiðing ætlaðra ólögmætra upplýsingaskipta. Í ákvörðun aðalstefnanda sé því jafnframt lýst hvernig Húsasmiðjan hafi gripið til þess að hækka verð á hinu svokallaða græna efni. Byggi gagnstefnendur á því að gögn málsins sýni ekki fram á að sú verðhækkun hafi tengst umræddu símtali. Í þessum hluta ákvörðunar aðalstefnanda sé því næst vikið að vitneskju lykilstarfsmanna Húsasmiðjunnar um símtalið. Gagnstefnendur geti eðli málsins samkvæmt ekki svarað fyrir eða borið ábyrgð á innri viðbrögðum Húsasmiðjunnar. Auk þess sé ekkert í gögnum málsins sem bendi til vitneskju neinna starfsmanna gagnstefnandans Byko ehf. um tilvist eða efni símtalsins. Jafnframt árétta stefndu að öll viðbrögð lykilstarfsmanna Húsasmiðjunnar sýni skýrt fram á að um einangrað tilvik hafi verið að ræða. Gagnstefnendur hafni alfarið þeirri ályktun sem aðalstefnandi dragi að Húsasmiðjan hafi með einhverjum hætti hrint ætluðu samráði í framkvæmd. Þvert á móti virðist framburður allra starfsmanna fyrirtækisins styðja að tekin hafi verið sú ákvörðun að hunsa það og bendi ekkert í gögnum málsins til þess að sá framburður sé rangur. Þá sé í þessum hluta ákvörðunar aðalstefnanda dregin sú ályktun af tilteknum verðhækkunum gagnstefnandans Byko ehf. að félagið hafi hrint ætluðu samráði í framkvæmd. Þessu hafni gagnstefnendur. Þær verðhækkanir sem fjallað sé um í þessum hluta ákvörðunarinnar hafi verið liður í framlegðarátaki sem samþykkt hafði verið í framkvæmdastjórn og endanlega samþykkt af forstjóra félagsins. Enginn þeirra aðila sem hafi verið bær til að samþykkja umrædd verðhækkunaráform hafi haft vitneskju um efni símtalsins. Af þeirri ástæðu geti umræddar verðhækkanir ekki talist fela það í sér að ætluðu samráði hafi verið hrint í framkvæmd. Aðalstefnandi byggi jafnframt á því að áfrýjunarnefnd hafi ranglega lagt til grundvallar að af tölvupósti forstjóra gagnstefnandans Byko ehf., sem hann sendi stjórn félagsins þann 26. nóvember 2008, verði ekki ráðið að samráð hafi verið viðhaft um efni starfsmannafundar sem fram fór í Húsasmiðjunni þann sama dag. Telji gagnstefnendur það réttilega lagt til grundvallar í úrskurði áfrýjunarnefndar að í tölvupóstinum komi ekki annað fram en almennar vangaveltur forstjórans sem í aðalatriðum hafi ekki gengið eftir. Grundvallaratriði þessa þáttar málsins sé sú einfalda staðreynd að spá forstjórans hafi reynst í öllum grundvallaratriðum röng, eins og opinberlega aðgengilegar upplýsingar sýni glöggt. Þá benda gagnstefnendur á að það felist í eðli hugtaksins upplýsingar að um staðreyndir sé að ræða. Forstjóri gagnstefnandans Byko ehf. hafi engar upplýsingar haft um inntak fundarins, aðeins að hann yrði haldinn, enda eðli máls samkvæmt erfitt að halda trúnað um boðaðan starfsmannafund hundraða starfsmanna samdægurs, hafi hann yfir höfuð verið trúnaðarmál, sem raunar ekkert liggi fyrir um í gögnum málsins. Í tölvuskeytinu hafi ekki falist ein einasta staðreynd, heldur þvert á móti spá sem hafi reynst röng í öllum tilvikum. Byggja gagnstefnendur á því að tölvuskeytið sé þvert á móti skýrt sönnunargagn um að ekkert samráð hafi verið á milli félaganna. Hafni gagnstefnendur því að í þessu hafi falist brot stefnda Byko á 10. gr. samkeppnislaga og taki undir með áfrýjunarnefndinni hvað það varðar. Aðalstefnandi byggi enn fremur á því að gagnstefnandinn Byko ehf. og Húsasmiðjan hafi gert sameiginlega tilraun til að fá Múrbúðina til þátttöku í verðsamráði. Byggi röksemdafærslan m.a. á þeirri forsendu að veiting og öflun upplýsinga um gildandi smásöluverð milli fyrirtækjanna hafi falið í sér ólögmætt verðsamráð. Því sé alfarið hafnað og taki gagnstefnendur undir með áfrýjunarnefndinni hvað þennan lið varðar. Þá bendi gagnstefnendur á að Hæstiréttur hafi í málinu nr. 360/2015 sýknað ákærðu hvað þetta varðar. Gagnstefnandinn Byko ehf. hafi eingöngu verið að leita eftir upplýsingum um gildandi opinber smásöluverð Múrbúðarinnar og geti slíkar tilraunir, óháð því hversu ítrekaðar þær séu, með engu móti falið í sér ólögmætt verðsamráð. Þá styðji engin gögn málsins, önnur en sátt Húsasmiðjunnar, að fyrirtækin hafi með einhverjum hætti gert slíka tilraun sameiginlega. Hafi starfsmenn gagnstefnandans einfaldlega bent forsvarsmönnum verslunarinnar á þá lagaskyldu að verðmerkja vörur í verslunum og upplýsa þar með um verð þeirra og þá staðreynd að ef þeir færu í verslanir gagnstefnandans gætu þeir eðli máls samkvæmt skoðað verð þar eins og aðrir viðskiptavinir. Þetta virðist forsvarsmenn Múrbúðarinnar hafa túlkað, hvort sem það var viljandi eða fyrir misskilning, sem boð um þátttöku í verðsamráði. Leggi aðalstefnandi þann framburð til grundvallar gagnrýnislaust. Slíkt orð gegn orði sé bersýnilega ekki fullnægjandi sönnun fyrir sekt í máli sem varði brot gegn 10. gr. samkeppnislaga. Sér í lagi eigi það við þegar litið sé til þess að Múrbúðin og forsvarsmaður hennar hafa tvisvar verið dæmd fyrir meiðyrði og framburður forsvarsmanna hennar hafi verið í algjörri andstöðu við framburð starfsmanna gagnstefnandans í skýrslutökum, bæði fyrir lögreglu og fyrir héraðsdómi í sakamálinu. Í þessi sambandi bendi gagnstefnendur sérstaklega á það ósamræmi sem hafi verið í framburði fyrirsvarsmanna Múrbúðarinnar fyrir Héraðsdómi Reykjaness í máli S-218/2014. Þannig hafi vitnið Einar Gunnar Sigurðsson greint ítrekað frá því fyrir dómi að starfsmenn Byko og Húsasmiðjunnar hefðu verið að falast eftir upplýsingum frá Múrbúðinni en hann vísi ekki til upplýsingaskipta. Það hafi þó verið umkvörtunarefni hans til aðalstefnanda. Sé það þvert á það sem lagt sé til grundvallar í ákvörðun aðalstefnanda og í stefnu um að leitað hafi verið eftir því að skiptast á upplýsingum. Þá sé verulegt ósamræmi milli framburðar þessa vitnis og framburðar vitnisins Baldurs Björnssonar, framkvæmdastjóra Múrbúðarinnar. Þannig hafi sá síðarnefndi sagst hafa orðið vitni að símtali Júlíusar Þórs, starfsmanns Húsasmiðjunnar, við vitnið Einar Gunnar, þar sem hann hafi boðist til að skiptast á verðupplýsingum. Sé það þvert á framburð vitnisins Einars Gunnars sem tiltók sérstaklega að það hefði ekki verið gert, eingöngu óskað eftir verðupplýsingum. Þá byggi aðalstefnandi loks á því að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi ranglega talið ætlað samráð um sölu og verð á miðstöðvarofnum vera ósannað. Gagnstefnendur telji að áfrýjunarnefndin hafi þvert á móti komist að réttri niðurstöðu um þetta og gögn málsins séu í samræmi við málatilbúnað gagnstefnenda. Atvik hvað þetta varðar hafi verið með þeim hætti að sölustjóri miðstöðvarofna hafði tekið eftir því að ofnar sem Múrbúðin seldi í verslunum sínum hefðu ekki fullnægjandi vottun fyrir sölu á EES-svæðinu. Hafði hann vakið athygli þar til bærra yfirvalda á þessu, án þess að til íhlutunar kæmi af einhverjum ástæðum. Taldi starfsmaðurinn það, réttilega, skapa óeðlilegar samkeppnisaðstæður ef einn aðili á markaðnum seldi ofna án fullnægjandi vottunar á meðan öðrum aðilum væri það ekki kleift. Engin viðbrögð hafi hins vegar orðið við þessu hjá viðkomandi eftirlitsaðilum. Starfsmaðurinn hafi því gripið til þess ráðs að vekja athygli á þessari staðreynd á markaðnum, jafnt innan sem utan gagnstefnandans Byko ehf. Hafi viðkomandi starfsmaður Húsasmiðjunnar aðeins verið einn þeirra sem starfsmaðurinn hafi bent á þessa staðreynd. Gagnstefnendur byggja á því að það geti ekki falið í sér samráð í skilningi 10. gr. samkeppnislaga þó starfsmaður félagsins hefði séð ástæðu til að vekja athygli á þessu. Bendi gagnstefnendur á að ekki verði séð að viðkomandi starfsmaður Húsasmiðjunnar hafi svarað þessum tölvuskeytum starfsmannsins. Þá hafi starfsmaður gagnstefnandans Byko ehf. ekki veitt Húsasmiðjunni neinar viðskiptaupplýsingar um Byko ehf. í tölvuskeytinu. Byggja gagnstefnendur á því að með öllu sé órökstutt í ákvörðun aðalstefnanda hvernig það geti falið í sér ólögmætt samráð í andstöðu við 10. gr. samkeppnislaga þegar hvorki sé um að ræða gagnkvæm samskipti milli samkeppnisaðila né einhliða veitingu viðskiptaupplýsinga. Í ákvörðun aðalstefnanda sé sérstaklega vísað til svofelldrar setningar í niðurlagi síðasta tölvuskeytis starfsmannsins: „Annað mál ég var að skoða verðlistann hjá ykkur á netinu um daginn og fannst nokkuð ósamræmi í nokkrum stærðum.“ Af þessari setningu dragi aðalstefnandi þá ályktun í ákvörðun sinni að þessir aðilar hafi áður rætt saman um verð á ofnum, og að með henni sé átt við að „verðlagning fyrirtækjanna tveggja á ofnum sé ekki nægilega samræmd“. Þessari ályktun hafi gagnstefnendur hafnað ítrekað enda ekki í samræmi við gögn málsins, eins og áfrýjunarnefnd hafi komist réttilega að niðurstöðu um. Þarna hafi starfsmaðurinn ekki átt við að ekki væri nægilegt samræmi milli verða félaganna tveggja á ofnum heldur hafi starfsmaðurinn talið vera innra ósamræmi í verðskrá Húsasmiðjunnar yfir ofna, líkt og réttilega sé lagt til grundvallar í úrskurði áfrýjunarnefndar. Í verðskrá Húsasmiðjunnar á þessum tíma komi einmitt fram „ósamræmi í nokkrum stærðum“. Þannig hafi minni ofnar með minni fjölda vatta jafnvel í einhverjum tilvikum verið dýrari en stærri ofnar með mun meiri fjölda vatta, og þannig sé það enn í dag. Þá benda gagnstefnendur á að starfsmaðurinn geti tæplega hafa átt við að ósamræmi væri í verðlagningu milli fyrirtækjanna vegna þeirrar staðreyndar að gríðarlegur munur hafi verið á verðlistaverði félaganna beggja í öllum stærðum. Gagnstefnendur geta fallist á að ekki hafi verið sérstök ástæða fyrir starfsmanninn til að nefna þetta atriði í tölvupóstinum. Fær sú afstaða stuðning í því símtali sem vísað sé til í stefnu í aðalsök, þar sem framkvæmdastjóri gagnstefnandans Norvikur ehf., sagði sér ekki „vera sérlega skemmt“ yfir þessum tölvuskeytum. Gagnstefnendur hafna því hins vegar alfarið að leiða megi þá ályktun af símtalinu að þáverandi forstjóra gagnstefnandans Byko ehf. hafi verið kunnugt um annað en að starfsmaðurinn hefði vakið athygli á því að Múrbúðin væri að selja ofna með ófullnægjandi vottun, enda ekki um annað að ræða. Ekki sé óeðlilegt að forstjórinn hafi stutt það að komið yrði í veg fyrir slíka sölu, sem gagnstefnandinn Byko ehf. taldi ólögmæta, sbr. orðalagið að þeir væru að reyna að „loka á þá“. Aðalstefnandi staðhæfi að jafnvel þó framangreint yrði lagt til grundvallar væri eftir sem áður um brot gegn 10. gr. samkeppnislaga að ræða. Þessu hafni gagnstefnendur. Því fari fjarri að 10. gr. samkeppnislaga leggi bann við hvers konar samskiptum starfsmanna keppinauta, enda þurfi slík samskipti annaðhvort að hafa þau áhrif eða markmið að samkeppni raskist svo um brot geti verið að ræða. Sé í engu útskýrt af hálfu aðalstefnanda með hvaða hætti svo gæti verið. Loks er því alfarið hafnað að samskiptin hafi tengst símtali þann 28. febrúar 2011, enda sú staðhæfing þvert á öll gögn málsins og í engu rökstudd af hálfu aðalstefnanda. Í stefnu í aðalsök sé vikið að nokkrum ályktunum sem aðalstefnandi dragi í ákvörðun sinni um ætluð brot gagnstefnandans Byko ehf. gegn 10. gr. samkeppnislaga. Sé þar í fyrsta lagi vikið að þeirri ályktun að ætluð brot hafi haft það að markmiði að raska samkeppni í skilningi 10. gr. samkeppnislaga. Í öðru lagi að ætluð brot hafi haft það í för með sér að verð á grófvöru hækkaði eða stóð í stað og í þriðja lagi að ætluð brot hafi verið framin af ásetningi. Gagnstefnendur kveðast hafna öllum þessum ályktunum. Þó að ákvörðun aðalstefnanda sé gríðarleg að umfangi séu engin gögn sem styðji þá ályktun að ætluð brot hafi haft það að markmiði að raska samkeppni í skilningi 10. gr. samkeppnislaga. Þvert á móti sýni gögn málsins að verð ýmist hækkuðu eða lækkuðu í kjölfar verðkönnunarsímtala. Markmið verðkönnunarsímtalanna hafi einfaldlega verið að kanna verð samkeppnisaðilans, líkt og stundað sé á öllum samkeppnismörkuðum. Því sé alfarið hafnað að áfrýjunarnefnd hafi staðfest ákvörðun stefnanda að þessu leyti. Ekkert slíkt komi fram í úrskurði nefndarinnar. Í stefnu í aðalsök sé í umfjöllun um þetta vikið að því að fyrirtækin hafi veitt hvort öðru upplýsingar um fyrirhugaðar verðbreytingar, eða að upplýsingaskiptin hafi „í raun lotið að upplýsingum um framtíðarbreytingar“. Þessu sé alfarið hafnað. Í úrskurði áfrýjunarnefndar sé lagt til grundvallar að Húsasmiðjan hefði haft hug á að draga verðhækkanir til baka fylgdi gagnstefnandinn Byko ehf. ekki verðhækkun félagsins. Þetta breyti því ekki að veiting og öflun upplýsinganna tók eingöngu til gildandi verðlistaverða en ekki framtíðarverðákvarðana. Benda gagnstefnendur á að verðhækkanir Húsasmiðjunnar höfðu tekið gildi þegar upplýst var um þær og að þær hafi verið skuldbindandi í þeim skilningi. Þannig hafi verið búið að selja vörur á því verði áður en hækkunin hafi verið dregin til baka. Grundvallaratriði málsins sé að æskileg óvissa á markaðnum gat og getur aldrei tekið til gildandi opinberra verðlistaverða sem skylt er samkvæmt lögum að séu opinber. Æskilegt sé aftur á móti að á markaðnum ríki óvissa um framtíðarákvarðanir keppinautarins. Gagnstefnandinn Byko ehf. geti ekki borið ábyrgð á því að Húsasmiðjan hafi vonast til þess að fyrrnefnda félagið fylgdi því í verðhækkunum. Grundvallaratriði málsins sé að þeim einhliða væntingum hafi ekki verið komið á framfæri við gagnstefnandann heldur hafi hann eingöngu, líkt og viðskiptavinir og aðrir, fengið upplýsingar um gildandi opinber verðlistaverð félagsins. Þar með hafi æskilegri óvissu á markaðnum ekki verið eytt. Þá fái ályktun aðalstefnanda og áfrýjunarnefndar samkeppnismála um að ætluð brot hafi haft það í för með sér að verð á grófvöru hafi hækkað eða staðið í stað ekki staðist. Veiting og öflun upplýsinga um gildandi smásöluverð, sem skylt er samkvæmt lagaboði að séu opinber, geti aldrei haft áhrif á markaðinn þannig að dregið sé úr óvissu um framtíðarhegðun keppinautar. Loks hafni gagnstefnendur þeirri ályktun aðalstefnanda að ætluð brot hafi verið framin af ásetningi og æðstu stjórnendum gagnstefnenda hafi verið um þau kunnugt. Þetta sé rangt. Þessi ályktun sé dregin af þeirri staðreynd að nöfn og símanúmer starfsmanna Húsasmiðjunnar hafi komið fram á þeim verðkönnunarskjölum sem send hafi verið yfirmönnum gagnstefnandans Byko ehf. Það liggi í augum uppi að slíkt feli ekki í sér neina sönnun þess að stjórnendum hafi verið kunnugt um annað en að verðkannanir hefðu verið framkvæmdar. Ályktunin sé einnig dregin af tveimur tölvuskeytum þar sem verðkönnunarskjal er framsent, annars vegar með ummælunum: „Ekki láta þetta frá ykkur á prenti“ og hins vegar að skjalið ætti ekki að fara á „vergang“. Gagnstefnendur hafni því alfarið að þetta sé til marks um vonda trú þeirra starfsmanna sem tölvuskeytin sendu. Benda gagnstefnendur á að um sé að ræða tvö tölvuskeyti af mörgum hundruðum þar sem verðkönnunarskjal sé áframsent. Hafi starfsmenn raunverulega verið í vondri trú komi það spánskt fyrir sjónir að einungis hafi verið séð ástæða til að taka þetta fram í tveimur tölvuskeytum af mörgum hundruðum. Gagnstefnendur telji það raunar liggja í augum uppi að ummælin séu ekki til marks um vonda trú. Þannig komi í báðum þessum tilvikum fram í verðkönnunarskjalinu sem var verið að senda að Húsasmiðjan væri með lægri verð en gagnstefnandinn Byko ehf. í tilteknum vöruflokkum. Umræddir starfsmenn hafi bersýnilega ekki verið mjög fúsir til að auglýsa það sérstaklega fyrir viðskiptavinum. Verði að telja augljóst að ummæli starfsmannanna í þessum tveimur tilvikum, af mörgum hundruðum, hafi lotið að því atriði, en ekki mögulegri afstöðu samkeppnisyfirvalda, enda fái slík túlkun ekki nokkra stoð í öðrum gögnum málsins. Aðalstefnendur byggja á því að í ætluðu broti gagnstefnandans Byko ehf. hafi jafnframt falist brot gegn 53. gr. EES-samningsins. Hafi áfrýjunarnefnd samkeppnismála fellt þann hluta ákvörðunar stefnanda úr gildi, m.a. með þeim rökum að málið hefði ekki verið flutt fyrir nefndinni með hliðsjón af því. Í stefnu í aðalsök sé að finna allnokkrar röksemdir sem ætlað sé að styðja þetta en nær engar þeirra hafi komið fram í ákvörðun aðalstefnanda, þar sem rökstuðningur fyrir ætluðu broti gegn EES-samningnum sé svo til enginn. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna þessum röksemdum aðalstefnanda, enda hafi áfrýjunarnefndin réttilega komist að þeirri niðurstöðu að málið hafi af hálfu aðalstefnanda ekki verið flutt fyrir nefndinni hvað þetta varðar. Að þessu sögðu taki gagnstefnendur fram að þeir hafni því alfarið að í ætluðu broti gagnstefnandans hafi jafnframt falist brot gegn EES-samningnum. Aðalstefnandi hafi ekki sýnt fram á að ætluð brot hafi verið til þess fallin að geta haft áhrif á viðskipti milli aðila að EES-samningnum. Beri því að staðfesta niðurstöðu áfrýjunarnefndar hvað þennan lið varðar.   2. Gagnstefnendur nutu ekki réttlátrar málsmeðferðar og rannsókn var háð annmörkum Gagnstefnendur byggja á því í málinu að aðalstefnandi hafi við rannsókn málsins brotið með svo alvarlegum hætti gegn þeirri hlutlægnisskyldu sem á honum hvíli sem stjórnvaldi að það valdi ógildi ákvörðunar hans. Þannig séu gögn málsins ekki skoðuð með hlutlægum hætti heldur þvert á móti löguð að þeirri kenningu sem sé upplegg aðalstefnanda í málinu. Þá séu gögn rangtúlkuð svo þau samræmist kenningunni en gögnum sem ekki geri það sé gefið lítið eða ekkert vægi. Byggja gagnstefnendur á því að séu gögn málsins skoðuð heildstætt með hlutlægum hætti liggi í augum uppi að ákvörðun aðalstefnanda fái ekki staðist. Til marks um þetta vísa gagnstefnendur til dóms fjölskipaðs Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-218/2014 og dóms Hæstaréttar í máli nr. 360/2015. Í málinu hafi tólf starfsmenn gagnstefnandans Byko ehf., Húsasmiðjunnar ehf. og Úlfsins byggingarvöruverslunar verið ákærðir fyrir verðsamráð. Ellefu hafi verið sýknaðir í héraði og einn starfsmaður gagnstefnandans Byko ehf. sakfelldur í málinu fyrir hvatningu til samráðs í símtali þann 28. febrúar 2011. Dómurinn tengist náið sakarefni máls þessa enda sé þar ráðið efnislega til lykta sakarefnum sem varði stærsta hluta þeirrar ætluðu brotlegu háttsemi sem lýst sé í ákvörðun stefnanda og um sé deilt í þessu máli. Þá hafi lögreglurannsóknin sem var grundvöllur ákæru í sakamálinu verið sameiginleg með þeirri rannsókn stefnanda sem hafi verið grundvöllur ákvörðunar hans. Í Hæstarétti hafi níu hinna ákærðu verið sakfelldir en tveir sýknaðir. Gagnstefnendur telji að niðurstaða Hæstaréttar byggi á röngum forsendum. Auk þess leggi Hæstiréttur til grundvallar sambærileg brot og áfrýjunarnefndin gerði en málatilbúnaður gagnstefnenda byggist einmitt á því að úrskurð nefndarinnar beri að fella úr gildi á þeim forsendum m.a. að gagnstefnandinn Byko ehf. hafi ekki á nokkurn hátt brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga. Þá vísi aðalstefnandi ítrekað til sáttar félagsins Holtavegar 10 ehf. undir rekstri stjórnsýslumálsins og byggi á því að hún hafi þýðingu fyrir úrlausn þessa máls. Gagnstefnendur telja sáttina ekki geta falið í sér neina sönnun um þá háttsemi sem gagnstefnandanum Byko ehf. sé gefin að sök og þaðan af síður fullægjandi sönnun um heimfærslu þeirrar háttsemi undir ákvæði 10. gr. samkeppnislaga. Gagnstefnendur benda á að ljóst sé að viðskiptalegar forsendur hafi búið að baki þeirri ákvörðun að félagið undirritaði sátt í málinu en ekki mat á lögmæti viðkomandi háttsemi. Komi þetta m.a. skýrt fram í vitnisburði vitnisins Jóns Hólmars Steingrímssonar í máli nr. S-218/2014 fyrir Héraðsdómi Reykjaness en hann hafi undirritað sáttina f.h. Holtavegar 10 ehf. Þetta hafi hann svo staðfest í framburði sínum fyrir dómi í máli þessu. Þá hafi jafnframt komið fram í skýrslutökum í sakamálinu yfir áðurnefndu vitni að „eigandi kennitölunnar hefði ekki haft áhuga á því að fara fyrir rétt“. Rétt sé að benda á að Holtavegur 10 ehf. var á þeim tíma sem sáttin var undirrituð félag sem hafði engan rekstur og þann eina tilgang að halda utan um tilteknar fullnustueignir. Eigandi þess var Landsbanki Íslands hf., sem er að nær öllu leyti í eigu íslenska ríkisins. Þá sé í ákvörðun aðalstefnanda vísað til samskipta við lögmann félagsins þar sem fram komi að þar sem Holtavegur 10 ehf. beri „ábyrgð á rekstri og málalokum samkeppnismálsins sem hófst 8. mars 2011 sé mikilvægt að hann geti gert upp og lokið starfsemi sem fyrst.“ Sá skammi tími sem hafi liðið frá birtingu andmælaskjals þar til Holtavegur 10 ehf. óskaði eftir gerð sáttar sé því til enn frekari staðfestingar að viðskiptalegir hagsmunir hafi búið að baki ákvörðun um að ganga til sáttar. Benda gagnstefnendur á að engin gögn hafi fylgt andmælaskjalinu og gögn málsins, sem mælast í þúsundum blaðsíðna, hafi ekki borist gagnstefnendum fyrr en rúmur mánuður var liðinn frá birtingu þess, þ.e. þó nokkru eftir að Holtavegur 10 ehf. óskaði eftir sátt. Útilokað sé að eitthvert mat hafi verið lagt á þá háttsemi sem fyrirtækinu hafi verið gefin að sök, hvað þá lögfræðileg greining á ætluðu ólögmæti þeirrar háttsemi. Ekki verði annað ráðið en að Holtavegur 10 ehf. hafi ekki haft gögn málsins undir höndum við undirritun sáttarinnar. Með vísan til 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 skori stefndu á aðalstefnanda að leggja fram endurrit af öllum samskiptum sínum við Holtaveg 10 ehf. frá birtingu andmælaskjals til undirritunar sáttarinnar. Ella byggi gagnstefnendur á því, með vísan til 1. mgr. 68. gr. sömu laga, að leggja beri til grundvallar að Holtavegur 10 ehf. hafi ekki haft gögn málsins undir höndum við undirritun sáttarinnar. Jafnframt hafi komið fram í skýrslutökum í framangreindu sakamáli yfir áðurgreindu vitni að engar eiginlegar „viðræður“ hafi átt sér stað við aðalstefnanda. Aðalstefnandi hafi einfaldlega stillt upp þeim brotum sem félaginu voru gefin að sök og félagið hafi haft val um að annaðhvort viðurkenna þau öll eða ekki yrði af sátt. Gagnstefnendur telja þetta raunar fá skýra stoð í inntaki sáttarinnar. Í henni séu viðurkennd brot sem geti augljóslega ekki talist brot gegn 10. gr. samkeppnislaga. Nægi þar í dæmaskyni að nefna að Holtavegur 10 ehf. viðurkennir að hafa brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga með því að hafa veitt gagnstefnandanum Byko „mikilvægar viðskiptalegar upplýsingar“ í nóvember 2008. Byggja gagnstefnendur á því að þetta sé til marks um að engin könnun á staðreyndum, og þaðan af síður lögfræðilegt mat, hafi farið fram hjá Holtavegi 10 ehf. fyrir gerð sáttarinnar. Opinberar staðreyndir sýni skýrt fram á að Húsasmiðjan hafi ekki veitt gagnstefnandanum neinar slíkar upplýsingar eins og komist sé réttilega að niðurstöðu um í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar og nánar verði rakið hér á eftir um einstök samráðstilvik. Gagnstefnendur benda á að það sé þekkt í samkeppnisrétti að fyrirtæki gangist við brotum sem þau hafi ekki framið eða veik sönnunargögn styðji að þau hafi framið. Leiði það af þeirri staðreynd að fyrirtæki geti fengið vægari sektir fyrir viðurkenningu sína á samráðsbroti. Þannig sé ekki óeðlilegt að fyrirtæki sjái sér hag í því að viðurkenna brot fyrir stjórnvöldum og losna þannig undan miklum kostnaði við málarekstur, neikvæðu umtali með tilheyrandi tapaðri viðskiptavild yfir langan tíma, og annars konar umstangi og tímaeyðslu sem kunni að fylgja íþyngjandi rannsóknum samkeppnisyfirvalda. Það að aðili gangist undir sátt og viðurkenni samráð sé ekki staðfesting á því að samráð hafi átt sér stað, og þaðan af síður þegar um sé að ræða síðar tilkominn eiganda sem ekkert hafi vitað um málsatvik eins og eigi við í máli þessu. Gagnstefnendur geti eðli málsins samkvæmt ekki verið bundnir af lagatúlkun Holtavegar 10 ehf. á því hvort hin umdeildu verðkönnunarsímtöl teljist vera ólögmætt samráð í skilningi 10. gr. samkeppnislaga. Á stjórnvöldum hvíli rannsóknarskylda samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Af þeirri reglu leiði m.a. að stjórnvöldum sé óheimilt að grípa til mats- eða sönnunargagna fyrr en þau hafi reynt árangurslaust að rannsaka mál á tilhlýðilegan hátt. Aðalstefnendur byggi á því að strangar kröfur verði að gera til rannsóknar samkeppnisyfirvalda þegar um íþyngjandi refsikennd viðurlög er að ræða líkt og í fyrirliggjandi máli. Rannsóknarreglan eigi að stuðla að því að það stjórnvald sem ákvörðun tekur beri ábyrgð á því að mál hafi verið nægjanlega rannsakað áður en ákvörðun er tekin. Veruleg vanræksla á því eins, og lýst hafi verið hér að framan, leiði að jafnaði til þess að ákvörðun teljist ógildanleg. Eigi þetta ekki síst við þegar um íþyngjandi ákvarðanir er að ræða. Byggja gagnstefnendur á því að aðalstefnandi hafi gefið sátt Húsasmiðjunnar verulegt vægi við úrlausn málsins, þvert á staðreyndir þess, í andstöðu við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Gagnstefnendur telja samkvæmt öllu framansögðu að í umræddri sátt felist engin sönnun á þeirri háttsemi sem gagnstefnandanum Byko er gefin af sök og þaðan af síður fullnægjandi sönnun fyrir meintu broti félagsins gegn 10. gr. samkeppnislaga. Að því marki sem háttsemi sé óumdeild feli sáttin eðli máls samkvæmt ekki í sér neina sönnun fyrir réttri túlkun á inntaki 10. gr. samkeppnislaga. Óljóst sé hvort byggt sé sjálfstætt á því af hálfu aðalstefnanda að fella beri úrskurð áfrýjunarnefndar úr gildi af þeim sökum að hann sé ekki nægilega rökstuddur, sbr. tilvísun hans til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 116/2011. Gagnstefnendur hafna þessu og byggja á því að úrskurðurinn sé, hvað sektarfjárhæð varðar, nægilega rökstuddur og raunar betur rökstuddur en ákvörðun aðalstefnanda. Byggja gagnstefnendur á því að þær kröfur sem meginreglur stjórnsýsluréttar geri til rökstuðnings lúti að gæðum hans en ekki magni. Þá hafni gagnstefnendur því að afleiðing þess að úrskurðum áfrýjunarnefnda í málum sem þessum kunni að vera áfátt hvað rökstuðning varði skuli vera sú að úrskurðurinn falli úr gildi en ákvörðun aðalstefnanda haldi gildi sínu. Allar kröfur stjórnsýslulaga séu lágmarkskröfur, sem gerðar séu í þeim tilgangi að tryggja réttaröryggi borgaranna. Það gengi þvert á markmið og tilgang laganna ef mögulegt brot æðra stjórnvalds gegn ákvæðum þeirra leiddi til margfalt meira íþyngjandi refsikenndra viðurlaga á hendur aðila máls en ella, líkt og ástatt væri í máli þessu. Er því þessari röksemdafærslu aðalstefnanda alfarið hafnað. Gagnstefnendur byggja á því í máli þessu að gagnstefnandinn Byko ehf. hafi ekki með samskiptum þeim sem lýst er í ákvörðun aðalstefnanda og úrskurði áfrýjunarnefndarinnar brotið á nokkurn hátt gegn 10. gr. samkeppnislaga. Það sé meginforsenda þessa að þeir telji að hafna beri kröfum aðalstefnanda í aðalsök og fyrir aðalkröfu þeirra í gagnsök að fella beri úrskurð áfrýjunarnefndar úr gildi og álagða sektarfjárhæð niður eða lækka hana umtalsvert eins og fram kemur í varakröfu í gagnsök. Í málinu hátti svo til að í kjölfar úrskurðar áfrýjunarnefndar standi eftir fjögur tilgreind tilvik sem nefndin hafi talið fela í sér brot gegn ákvæðinu og tekið þar með undir með aðalstefnanda hvað þau tilvik varði en því séu gagnstefnendur ósammála. Telja gagnstefnendur ekkert þessara tilvika styðja það að brotið hafi verið gegn 10. gr. samkeppnislaga og því sé enginn grundvöllur í málinu fyrir ákvörðun og álagningu sektar. Í fyrsta lagi benda gagnstefnendur á að áfrýjunarnefndin hafi staðfest þá niðurstöðu aðalstefnanda að í svokölluðum verðkönnunarsímtölum hafi falist brot gegn 10. gr. samkeppnislaga. Þetta geri nefndin þó að hún virðist hafna ýmsum ályktunum aðalstefnanda um tilgang símtalanna og huglæga afstöðu. Í niðurstöðu nefndarinnar virðist litið til gagna málsins í heild og markaðsstyrks fyrirtækjanna og sú ályktun dregin að hlutlæg gögn beri með sér að fyrirkomulagið á símtölunum hafi verið til þess fallið að auðvelda fyrirtækjunum að halda uppi verði. Óumdeilanlegt sé að Húsasmiðjan hafi hækkað verð í þeirri von að gagnstefnandinn Byko fylgdi á eftir, en verið reiðubúin að draga slíkar hækkanir til baka væri það ekki gert. Með því hafi komist „á ástand á markaðnum sem verður að teljast í andstöðu við ákvæði 10. gr. samkeppnislaga.“ Þessu hafni gagnstefnendur alfarið. Grundvallaratriði málsins sé að veiting og öflun upplýsinga í hinum svokölluðu verðkönnunarsímtölum laut að gildandi og opinberum smásöluverðum. Verðin hafi verið opinber, bæði á heimasíðum félaganna og verðlistum sem lágu frammi á sölustöðum þeirra, en eðli varanna hafi gert það að verkum að í fæstum tilvikum hafi verið unnt að verðmerkja þær sjálfar, sbr. 2. mgr. 3. gr., sbr. c-lið 1. mgr. 4. gr., reglna nr. 536/2011 um verðmerkingar og einingaverð við sölu á vörum. Verðlistarnir og verðin hafi verið aðgengileg öllum sem áhuga höfðu á að afla þeirra, líka keppinautum. Hafi þetta verið í samræmi við þá lagaskyldu sem hvíli á smásölufyrirtækjum hér á landi að verðmerkja allar vörur, sbr. ákvæði 17. gr. laga nr. 57/2005 og ákvæði áðurgreindra reglna. Staðreynd málsins sé sú að þegar verðbreytingar urðu hjá gagnstefnandanum Byko ehf. hafi tölvukerfi félagsins verið uppfært þannig að það breytti verðlistum félagsins, sem vistaðir voru á sameiginlegu drifi, og verðlistum á heimasíðu félagsins. Tilkynningar um verðbreytingar hafi þá verið sendar verslunarstjórum gagnstefnanda og fyrirmæli gefin um að prenta út hina uppfærðu verðlista og skipta þeim út fyrir þá sem fyrir voru í verslununum. Finna megi slíkt fyrirmæli meðal gagna málsins. Sé sérstaklega tekið fram hverju sinni að skipta skuli út eldri verðlistum fyrir hina nýju, sbr. t.d. svofellt orðalag í tölvuskeyti 21. janúar 2011: „Vinsamlegast takið niður viðkomandi verðlista sem liggja frammi hjá ykkur og prentið út nýja á morgun.“ Rík áhersla hafi verið lögð á það innan gagnstefnandans Byko ehf. að uppfæra opinbera verðlista þegar í stað í samræmi við skyldur um réttar verðmerkingar samkvæmt lögum nr. 57/2005. Þau verð sem Húsasmiðjan hafi veitt gagnstefnandanum Byko ehf. hafi einnig verið aðgengileg með sambærilegum hætti, a.m.k. í verslunum félagsins, enda hafi starfsmenn gagnstefnandans oft kannað verð félagsins með þeim hætti. Virðist jafnframt sem framkvæmdin hvað þetta varðar hafi verið sambærileg hjá fyrirtækjunum, þ.e., að tölvuskeyti með uppfærðum verðlistum voru sendir í verslanir félagsins. Finna megi dæmi um slík fyrirmæli í gögnum málsins, t.d. tölvuskeyti 16. febrúar 2011, þar sem tilkynnt er um verðbreytingar með svofelldum fyrirmælum: „Þið passið uppá að laga merkingar hjá ykkur auk þess að laga verðlista.“ Ekkert hafi verið athugavert við þessa framsetningu og þessi fyrirmæli. Gagnstefnendur benda á að þau verð sem gefin voru upp í umræddum verðkönnunum hafi eingöngu verið verðlistaverð. Um 90% viðskiptavina sem kaupi þær vörur sem um ræði hjá gagnstefnandanum Byko ehf., svokallaðar grófvörur, séu verktakar, sem almennt njóti allir ýmiss konar afsláttarkjara, bæði fastra afslátta, auk þess sem gerð séu tilboð í mörg verk. Í engu tilvikanna hafi verið skipst á upplýsingum um slíka afslætti eða tilboð og því í nær engum tilvikum raunverulega um upplýsingar um endanleg verð að ræða. Allir sem hafi hringt í félagið hafi, eðli málsins samkvæmt, getað fengið sambærilegar upplýsingar, enda hæpið að það samræmdist lögum nr. 57/2005 að neita að gefa upplýsingar um gildandi verðlistaverð. Í þessu sambandi bendi gagnstefnendur á að umfjöllun aðalstefnanda um veitingu upplýsinga um það hvort vörur væru merktar „SV“ (sérverð) eða „TB“ (tilboðsverð) hjá félögunum er á misskilningi byggð. Staðreynd málsins sé sú að þegar vörur hafi verið merktar með þessum hætti hafi það haft þá þýðingu að umsaminn fastur afsláttur viðkomandi viðskiptavinar frá verðlistaverðum gilti ekki um viðkomandi vöru. Hafi það síðan verið útskýrt á heimasíðu fyrirtækisins hver þýðing þessara merkinga væri. Eðli málsins samkvæmt skipti það viðskiptavini miklu máli að sjá hvort umsaminn fastur afsláttur gildi við vörukaup. Ekki sé hins vegar útilokað að brugðið hafi verið frá verðinu við tilboðsgerð, s.s. í stærri verk, þegar tilboð tók t.d. til margra vöruflokka. Upplýsingar um sérverð eða tilboðsverð séu því, líkt og verðlistaverð, opinberlega aðgengilegar upplýsingar. Hið sama hafi gilt í tilviki Húsasmiðjunnar. Sé því ljóst að veiting upplýsinga tók einungis til opinberra gildandi verða en ekki framtíðarverðlagningar. Gagnstefnendur benda á að samkvæmt 10. gr. samkeppnislaga séu allir samningar og samþykktir milli fyrirtækja, hvort heldur sem er bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir sem hafi það að markmiði eða af þeim leiði að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún takmörkuð eða henni raskað, bannaðar. Svo að um brot gegn 10. gr. samkeppnislaga sé að ræða þurfi því aðgerð að lágmarki að vera samstillt og hafa það annaðhvort að markmiði, eða að af henni leiði, að samkeppni sé raskað. Byggja gagnstefnendur á því að túlka beri 10. gr. samkeppnislaga til samræmis við 53. gr. EES-samningsins sem túlkuð sé til samræmis við 101. gr. EB-sáttmálans. Í ákvörðun aðalstefnanda sé vikið að leiðbeiningarreglum Eftirlitsstofnunar EFTA um mat á því við hvaða aðstæður upplýsingaskipti geti falið í sér brot gegn 101. gr. EB-sáttmálans. Í 60–61 mgr. reglnanna komi fram sú meginregla að skipti á opinberum upplýsingum séu að meginreglu ólíkleg til að stríða gegn 101. gr. EB-sáttmálans, sem er efnislega samhljóða 10. gr. samkeppnislaga. Meginreglan sé því að sú háttsemi sem viðhöfð var í verðkönnunarsímtölunum sé lögmæt. Í leiðbeiningarreglunum komi jafnframt fram sú undantekning að hafi fyrirtæki lagt út í kostnað við að fá upplýsingarnar kunni það að horfa öðruvísi við. Þannig sé notaður mælikvarði kostnaðar á það hvort upplýsingar séu sannanlega opinberar, þ.e. hvort það sé jafn kostnaðarsamt fyrir viðskiptavin að afla upplýsinganna og samkeppnisaðilann. Hvergi sé í ákvörðun aðalstefnda eða úrskurði áfrýjunarnefndarinnar rökstutt að það hafi verið kostnaðarsamara fyrir gagnstefnandann Byko ehf. að afla gildandi smásöluverða Húsasmiðjunnar ehf. með verðkönnunarsímtölunum og öfugt en það hefði verið fyrir viðskiptavini fyrirtækjanna að afla sömu upplýsinga með símtölum. Látið sé að því liggja að öflun upplýsinganna hafi verið einfaldari og þar með ódýrari en öflun þeirra á heimasíðum félaganna eða í verslunum. Því sé mótmælt, en allt að einu sé það ekki sá mælikvarði sem leggja beri til grundvallar samkvæmt leiðbeiningarreglum Eftirlitsstofnunar EFTA. Eftir standi að ósannað sé að það hafi verið kostnaðarsamara fyrir gagnstefnandann Byko og Húsasmiðjuna að afla upplýsinganna en það hafi verið fyrir viðskiptavini félaganna. Gagnstefnendur byggja á því að það sé gildandi réttur, sem auk framangreindra leiðbeiningarreglna birtist í dómaframkvæmd dómstóla Evrópusambandsins og fræðiskrifum, að leggja þann mælikvarða á lögmæti upplýsingaskipta að þau geti brotið gegn 101. gr. EB-sáttmálans, sbr. 10. gr. samkeppnislaga, ef þau eru til þess fallin að draga úr óvissu um framtíðarhegðun keppinautar, s.s. með veitingu upplýsinga um framtíðarverðhækkanir eða atriði sem hafa þýðingu um framtíðarverð. Af þeim sökum sé það meginregla að veiting og öflun upplýsinga um gildandi smásöluverð, sem eru opinber samkvæmt lagaboði, feli ekki í sér brot gegn 101. gr. EB-sáttmálans, sbr. 10. gr. samkeppnislaga, enda geti þau í eðli sínu ekki verið til þess fallin að draga úr óvissu um framtíðarhegðun keppinautarins. Það sé alkunn staðreynd að fyrirtæki á smásölumörkuðum fylgist grannt með verðlagningu hvert annars. Á mörgum mörkuðum sé þetta gert daglega, s.s. á smásölumarkaði fyrir dagvöru, þar sem alkunna er að starfsmenn mæti daglega í verslanir samkeppnisaðilanna, merktir sínum vinnuveitanda, og geri verðkannanir. Sé þetta enda fyllilega eðlileg og rökrétt framkvæmd. Tilgangur fyrirtækjareksturs sé eðli málsins samkvæmt sá að skila hluthöfum arði. Til að svo megi vera þurfi a.m.k. tvær forsendur að vera fyrir hendi. Annars vegar þurfa viðskiptavinir að vilja kaupa vörur fyrirtækisins. Hins vegar þarf fyrirtækið að geta selt vörurnar með einhverri framlegð. Við verðákvarðanir á vörum þurfi því m.a. að taka mið af báðum þessum atriðum. Þannig þurfi bæði að gæta að því að verðlagningin skili ásættanlegri framlegð, en einnig að verð séu samkeppnishæf svo að viðskiptavinir kaupi vörur fyrirtækisins. Af þessum ástæðum sé það augljóst að fyrirtæki geti ekki verðlagt sig á markaði án tillits til verðlagningar samkeppnisaðilans. Það sé eðli virkrar samkeppni að reynt sé að bjóða betra verð en samkeppnisaðilinn til að auka sölu, þó oftast með því skilyrði að sala skili eftir sem áður einhverri framlegð. Gagnstefnendur hafni alfarið þeirri ályktun áfrýjunarnefndar að hlutlæg gögn beri með sér að „fyrirkomulagið á símtölunum hafi verið til þess fallið að auðvelda að halda verði uppi“. Þvert á móti sýni gögn málsins skýrt að verð félaganna hafi ýmist hækkað eða lækkað í kjölfar verðkönnunarsímtala, sbr. t.d. tölvuskeyti 31. maí 2010 og 5. og 11. febrúar 2011. Það að gildandi smásöluverð séu opinber samkvæmt lagaboði auðveldi fyrirtækjum að fylgjast með verðlagningu hvers annars og þar með bregðast við henni, hvort sem er til hækkunar eða lækkunar. Verðkönnunarsímtölin hafi hins vegar ekki breytt þeim aðstæðum með nokkrum hætti og hafi fyrirkomulag þeirra engin áhrif haft umfram það sem vænta hafi mátt af framangreindri staðreynd, að gildandi smásöluverð eru opinber samkvæmt lagaboði. Gagnstefnendur telji raunar nokkuð óljóst í úrskurði áfrýjunarnefndar hvað átt sé við þar sem vísað er til „fyrirkomulags“ símtalanna. Sé verið að vísa til þess að aðilum hafi verið ljóst að um starfsmann samkeppnisaðilans hafi verið að ræða hafi sú framkvæmd verið í samræmi við leiðbeinandi reglur Samkeppnisstofnunar um framkvæmd verðkannana þar sem skýrt sé kveðið á um að sá sem geri verðkönnun skuli kynna sig. Sé verið að vísa til þess að símtölin hafi verið gagnkvæm, þ.e. að starfsmenn fyrirtækjanna hafi kannað verð hvor annars í sama símtali, þá byggja gagnstefnendur í fyrsta lagi á því að slíkt geti bersýnilega ekki leitt til þess að símtölin teljist fela í sér ólögmætt samráð. Engu geti breytt fyrir áhrif á markaðinn hvort það sé gert í sama símtali eða aðskildum símtölum. Í öðru lagi byggja gagnstefnendur á því að gögn málsins sýni skýrt að slík gagnkvæmi hafi a.m.k. ekki verið fyrir hendi fram á árið 2010 og það eigi því því eingöngu við hluta hins ætlaða brotatímabils. Þessu til stuðnings megi vísa til orða í tölvuskeyti starfsmanns Húsasmiðjunnar 22. desember 2009: „hvar eru okkar verðkannanir í dag?“. Virðist sú hugmynd að spyrja um verð gagnstefnandans Byko ehf. á móti í fyrsta lagi hafa kviknað hjá Húsasmiðjunni í lok janúar 2010, sbr. tölvuskeyti milli starfsmanna Húsasmiðjunnar 27. janúar 2010 þar sem segir: „Hérna er listinn sem BYKO gerir verðkönnun eftir alla miðvikudaga. Hugmyndin er að Kristján og þeir í þjónustuverinu spyrji um sömu vörur á sama tíma og BYKO gerir könnun hjá okkur.“ Séu þessi orð raunar einnig skýr sönnun þess að félögin hafi ekki „sammælst“ um hvaða vörur skyldu vera á listanum, eins og staðhæft sé í ákvörðun stefnda. Þá hafni gagnstefnendur alfarið þeirri röksemdafærslu áfrýjunarnefndar að það hafi þýðingu að óumdeilanlegt sé að Húsasmiðjan hafi verið reiðubúin að draga verðhækkanir til baka hækkaði gagnstefnandinn Byko ehf. ekki sín verð í kjölfar verðhækkana þeirra. Slíkt sé einfaldlega forsenda verðhækkana allra fyrirtækja á virkum samkeppnismarkaði. Fyrirtæki sem telji sig knúið til að hækka verð, hvort sem er vegna tapreksturs eða tilraunar til að auka framlegð, verði að taka tillit til verðlagningar samkeppnisaðila. Hækki samkeppnisaðilar sín verð ekki tapi félagið viðskiptum yfir til þeirra. Gögn málsins sýni skýrt að aðstæður voru með þessum hætti á byggingarvörumarkaði á ætluðu brotatímabili, t.d. í apríl 2010. Húsasmiðjan hafi neyðst til að draga verðhækkanir til baka þegar gagnstefnandinn Byko hækkaði ekki sín verð. Slíkar aðstæður lýsi mjög virkum samkeppnismarkaði og raunar tilgangi virkrar samkeppni í sinni hreinustu mynd. Fyrirtæki komist ekki upp með að hækka verð sín umfram það sem samkeppnisaðilinn bjóði. Verðkönnunarsímtölin hafi þar enga þýðingu haft, enda um gildandi opinber smásöluverð að ræða. Gagnstefnendur hafni því alfarið að símtölin hafi „skapað ástand“ á markaðnum sem hafi verið í andstöðu við 10. gr. samkeppnislaga. Ástand markaðarins hafi falist í því að verðlagning hafi verið opinber samkvæmt lagaboði og á honum þrifist afar virk samkeppni sem hafi lýst sér í því að fyrirtækin hafi ekki getað verðlagt sig án tillits til samkeppnisaðilans. Þannig sé lögð áhersla á það í ákvörðun aðalstefnanda að upplýsingar um verð hafi verið veittar með gagnkvæmum hætti, og samskiptunum þannig lýst sem „samskiptakerfi“ og það talið „grundvallaratriði“. Um leið komist aðalstefnandi svo að þeirri niðurstöðu að gagnkvæmni samskiptanna sé ekki skilyrði þess að um brot sé að ræða. Þrátt fyrir það sé þeim fyrirmælum beint til gagnstefnandans Byko ehf. í ákvörðunarorðum aðalstefnanda, að það að veita fyrirspyrjanda, sem ekki kynnir sig, upplýsingar um smásöluverð, sé dæmi um samskipti sem „eru augljóslega ekki til þess fallin að raska samkeppni“. Gagnstefnendum sé með öllu hulið eftir þennan lestur hvernig standa skuli að gerð verðkannana með lögmætum hætti. Virðist það eina sem eftir standi í málatilbúnaði aðalstefnanda vera að starfsmenn félaganna hafi ekki mátt kynna sig, þó að beinlínis sé kveðið á um það í leiðbeinandi reglum Samkeppnisstofnunar um framkvæmd verðkannana að það skuli viðkomandi gera. Auk þess geti það ekki haft nein áhrif á samkeppni hvort starfsmenn kynni sig eða ekki þegar upplýsingar eru eingöngu veittar um gildandi, opinber smásöluverð. Byggja stefnendur á því að þegar um sé að ræða svo íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem hér um ræði beri að túlka allan vafa stefnendum í hag. Grundvallaratriði málsins sé að kannanir á verðlagningu samkeppnisaðila, verðlagningu sem bæði er opinber og lagaskylda hvílir á fyrirtækjum að birta opinberlega, geti hreinlega ekki verið til þess fallnar að raska samkeppni í skilningi 10. gr. samkeppnislaga. Á þeirri forsendu hvíli þó allur meginþorri röksemdafærslu aðalstefnanda sem fallist virðist vera á í úrskurði áfrýjunarnefndar. Þessi röksemdafærsla fái ekki staðist. Beri því að fella hinar umþrættu stjórnvaldsúrlausnir úr gildi hvað varðar ætlað ólögmæti verðkönnunarsímtalanna. Í annan stað hafi með úrskurði áfrýjunarnefndar verið fallist á þá niðurstöðu ákvörðunar aðalstefnanda að ráða mætti af dagbókarfærslu forstjóra gagnstefnandans Byko ehf. 19. febrúar 2010 að félagið hefði fengið viðskiptaupplýsingar frá Húsasmiðjunni. Þessu hafni gagnstefnendur. Í dagbókarfærslunni komi þannig í fyrsta lagi fram að EBITDA árið 2009 hafi verið um það bil 160 milljónir króna. Samkvæmt ársreikningi Húsasmiðjunnar sem birtur var síðar hafi EBITDA það ár hins vegar verið 699.302.000 krónur eða meira en fjórfalt hærri. Í öðru lagi komi fram að orðið hafi „tæp minnkun ca. 1.5-2 milljarðar frá 2008“. Sé átt við minnkun í sölu, sem telja verði líklegt, sé ljóst að það er fjarri lagi, en samkvæmt ársreikningi Húsasmiðjunnar dróst sala milli áranna 2008 og 2009 saman um tæpa sex milljarða króna, eða  rúmlega þrefalt meira. Í þriðja lagi komi fram í færslunni að afskriftir hafi árið 2008 numið 200 milljónum króna og virðist viðmælandi forstjórans hafa giskað á að þær yrðu meiri árið 2009. Samkvæmt ársreikningi Húsasmiðjunnar hafi afskriftir árið 2008 hins vegar numið rúmum 300 milljónum króna, og drógust þær verulega saman árið 2009 þegar þær námu rúmum 200 milljónum króna. Gagnstefnendur byggi á því að framangreint gefi skýrt til kynna að viðmælandi forstjórans í símtalinu sem vitnað sé til í færslunni hafi hvorki verið starfsmaður né stjórnarmaður Húsasmiðjunnar. Miðað við orðalag færslunnar kunni e.t.v. að hafa verið um fyrrverandi starfsmann að ræða en það geti ekki falið í sér samráð í andstöðu við 10. gr. samkeppnislaga enda skorti með því á hugtaksskilyrði greinarinnar að um samskipti keppinauta sé að ræða. Þá byggi gagnstefnendur á því að það sé hugtaksskilyrði þess að „upplýsingaskipti“ milli keppinauta geti brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga að þau taki til raunverulegra upplýsinga um staðreyndir, enda vandséð hvernig samskipti geti með öðrum hætti haft það annaðhvort að markmiði eða þau áhrif að samkeppni sé raskað. Ákvæði 10. gr. samkeppnislaga leggi ekki bann við því að fyrirtæki reyni að villa um fyrir keppinauti sínum. Er hvorki í ákvörðun aðalstefnda né úrskurði áfrýjunarnefndar bent á neitt í færslunni sem innihaldi sannanlega staðreyndir um Húsasmiðjuna eða rekstur fyrirtækisins. Þvert á móti virðist flest það sem fram kemur í færslunni rangt. Í úrskurði áfrýjunarnefndar sé sönnunarbyrðin lögð á gagnstefnendur þess efnis að viðmælandinn hafi ekki verið á vegum Húsasmiðjunnar. Það fái ekki staðist. Um sé að ræða verulega íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun þar sem sönnunarbyrðin hvíli á stjórnvaldinu og þá sönnunarbyrði hafi stjórnvaldið einfaldlega ekki axlað. Því sé í málinu ósannað að gagnstefnandinn Byko ehf. hafi í febrúar 2010 fengið viðskiptaupplýsingar frá Húsasmiðjunni, og því beri að fella þann hluta umþrættra stjórnvaldsúrlausna úr gildi. Í þriðja lagi hafi með úrskurði áfrýjunarnefndar verið staðfest sú niðurstaða að gagnstefnandinn Byko ehf. hafi í október 2010 fengið upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á verðstefnu Húsasmiðjunnar með þeim hætti að í því hafi falist brot gegn 10. gr. samkeppnislaga. Þessu hafni gagnstefnendur og bendi á að þessi ályktun samkeppnisyfirvalda byggi einvörðungu á tölvuskeyti sem stjórnarformaður gagnstefnandans Norvikur hf. sendi tilteknum stjórnarmönnum félagsins 25. október 2010. Benda gagnstefnendur á að þetta tilvik sé ekki meðal þeirra sem félagið Holtavegur 10 ehf. tiltók sem brot gegn 10. gr. samkeppnislaga í sátt sinni við aðalstefnanda. Ályktun samkeppnisyfirvalda virðist einkum byggja á svofelldri setningu í tölvupóstinum: „Mat stjórnarformanns Húsasmiðjunnar er að hér sé um að ræða forsendu fyrir því að Húsasmiðjan lifi af fyrirsjáanlega samkeppni við Bauhaus.“ Gagnstefnendur hafni því alfarið að þáverandi stjórnarformaður Húsasmiðjunnar hafi veitt félaginu nokkrar upplýsingar um þessar fyrirhugðu breytingar á verðstefnu félagsins eða að framangreint orðalag í tilvitnuðum tölvupósti feli í sér sönnun þess. Svo virðist sem upplýsingar um þessar fyrirhuguðu breytingar hafi lekið út úr Húsasmiðjunni, eins og forstjóri félagsins hafði einmitt áhyggjur af að myndi gerast, sbr. ummæli hans í tölvuskeyti rétt um fjórum vikum fyrr, 1. október 2010, og bendi raunar skýrt til þess að vilji þess félags hafi ekki staðið til þess að veita upplýsingar. Gagnstefnandinn Byko ehf. geti ekki borið ábyrgð á því að viðkvæmar viðskiptaupplýsingar leki út úr samkeppnisaðila félagsins, og stjórnarmaður þess fái þær síðan frá þriðja aðila. Þá geti slíkt ekki falið í sér samráð í andstöðu við 10. gr. samkeppnislaga, enda ekki um nein samskipti keppinauta að ræða. Gagnstefnendur hafni því að unnt sé að leggja sönnunarbyrðina á þá um að upplýsingarnar hafi ekki borist frá stjórnarformanni Húsasmiðjunnar. Þá beri viðbrögð starfsmanna gagnstefnandans Byko ehf. í tölvupósti sama dag tvennt með sér. Annars vegar að fyrirtækið hugðist nýta sér það að hafa aflað þessara upplýsinga til að hafa betur í samkeppninni við Húsasmiðjuna, sbr. ummælin: „Það skiptir lykilmáli hver er fyrstur í þessa vegferð“, og hins vegar vangaveltur um hvað fælist í fyrirhugðum breytingum Húsasmiðjunnar, sbr. ummælin: „Mér sýnist einsýnt að þetta sé EDLP- getur ekki verið neitt annað.“ Er ljóst að hvorugt hefði átt sér stað ef upplýsingarnar hefðu raunverulega stafað frá Húsasmiðjunni og verið liður í samráði félaganna. Með vísan til alls framangreinds sé ósannað að gagnstefnandinn Byko ehf. hafi brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga með einhverjum samskiptum við Húsasmiðjuna í tengslum við fyrirhugaðar breytingar á verðstefnu félagsins. Beri því að fella þann hluta umþrættra stjórnvaldsúrlausna úr gildi. Loks sé í fjórða lagi í úrskurði áfrýjunarnefndar staðfest sú niðurstaða aðalstefnanda að gagnstefnandinn Byko ehf. hafi brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga með símtali sem tiltekinn starfsmaður félagsins hafi átt við starfsmann Húsasmiðjunnar 28. febrúar 2011. Í úrskurði áfrýjunarnefndar sé lagt til grundvallar að starfsmaður gagnstefnandans hafi hvatt til samráðs, kynnt eigin áform um hækkanir og bent á einstök tilvik þar sem nauðsynlegt væri að hans mati að Húsasmiðjan breytti verðstefnu sinni. Ekki verði fullyrt að Húsasmiðjan hafi brugðist við efni símtalsins og ætluðu samráði þannig verið hrint í framkvæmd en gagnstefnendur verði engu að síður að bera fulla ábyrgð á efni símtalsins. Gagnstefnendur hafni því að símtalið feli í sér brot gegn 10. gr. samkeppnislaga sem þeir beri ábyrgð á og vísa til fyrri umfjöllunar þar að lútandi en árétta að gögn málsins gefi skýrt til kynna að um algjörlega einangrað tilvik hafi verið að ræða. Þá árétta gagnstefnendur að framkvæmdastjórinn hafi með þessu símtali farið þvert á fyrirmæli og stefnu fyrirtækisins. Þannig hafði forstjóri félagsins lýst þeirri stefnu félagsins skýrt á framkvæmdastjórnarfundum að engin samskipti skyldu vera við samkeppnisaðila félagsins. Verði að telja að með því hafi framkvæmdastjórinn farið út fyrir heimildir sínar í starfi að því marki sem í símtalinu geti yfirleitt talist felast brot á 10. gr. samkeppnislaga. Í því samhengi vilja gagnstefnendur jafnframt benda á að símtalið var alfarið að eigin frumkvæði framkvæmdastjórans og sjálfstæð ákvörðun hans. Hafi hann ekki látið neinn innan fyrirtækisins vita af símtalinu, hvorki fyrir það né eftir, og hafi því þaðan af síður fengið nokkur fyrirmæli um að eiga þau samskipti sem í símtalinu felist. Komi þetta bæði fram í skýrslutökum af umræddum framkvæmdastjóra, jafnt fyrir lögreglu sem héraðsdómi í sakamálinu, sem og af öðrum sakborningum og vitnum. Benda gagnstefnendur á að umfangsmiklar símhleranir hafi farið fram hjá gagnstefnendum í marga daga eftir umrætt símtal auk þess sem bróðurpartur rafrænna gagna og tölvupóstsamskipta fyrirtækisins hafi verið haldlögð við húsleit. Þrátt fyrir það bendi engin samtímagögn til nokkurrar vitneskju neinna starfsmanna stefnenda um tilvist eða efni símtalsins, öfugt við Húsasmiðjuna. Verði að telja afar ósennilegt annað en að slík gögn fyndust hefði starfsmaðurinn upplýst einhvern starfsmann fyrirtækisins um tilvist eða efni símtalsins. Gagnstefnendur byggja á því að að því marki sem í símtalinu geti talist felast ólögmætt samráð í andstöðu við 10. gr. samkeppnislaga hafi verið um tímabundinn dómgreindarskort starfsmannsins að ræða. Hann hafi með því farið út fyrir valdheimildir sínar, þvert á skýr fyrirmæli forstjóra um hið gagnstæða. Verði gagnstefnendur ekki gerðir ábyrgir fyrir slíkri háttsemi eins einstaks starfsmanns enda ekkert sem félögin hafi getað gert til að koma í veg fyrir símtalið. Í þriðja lagi hafni gagnstefnendur því að í efni símtalsins felist brot gegn 10. gr. samkeppnislaga og að símtalið sé sett í samhengi við framlegðarátak sem hafi staðið fyrir dyrum hjá gagnstefnandanum Byko ehf. í upphafi árs 2011. Framlegðarátakið hafi verið ákveðið á vettvangi framkvæmdastjórnar félagsins og endanlega samþykkt af forstjóra. Enginn þessara aðila, utan framkvæmdastjóra fagsölusviðs, hafi nokkra vitneskju haft um símtalið. Byggja stefnendur á því að símtalið hafi augsýnilega verið tilfallandi, óvænt og óundirbúið. Grundvallaratriði málsins sé þó að í símtalinu hafi umræddur starfsmaður engar tilteknar réttar upplýsingar veitt um starfsemi gagnstefnandans Byko ehf. Þá felist það óhjákvæmilega í skorti á viðbrögðum Húsasmiðjunnar, sem áfrýjunarnefnd leggur til grundvallar, að í símtalinu geti ekki falist samningur, samþykkt eða samstillt aðgerð fyrirtækjanna í skilningi 10. gr. samkeppnislaga. Í úrskurði áfrýjunarnefndar sé umfjöllun um efni símtalsins takmörkuð og þær ályktanir sem af því eru dregnar. Gagnstefnendur taka því fram að þeir hafni alfarið þeim ályktunum sem aðalstefnandi dregur í ákvörðun sinni, eins og þegar hefur verið gerð grein fyrir. Eigi þetta við um ályktanir sem varða samskipti við Múrbúðina, hækkun á öllum tilboðum um 2% í tvígang, verðlagningu á ofnum og á svokölluðu grænu efni. Gagnstefnendum sé ókunnugt um hver tilgangur starfsmannsins með þessum símtali hafi verið. Hins vegar sé vart hægt að draga aðra ályktun en að tilgangurinn kunni að hafa verið að villa með þessum hætti um fyrir samkeppnisaðila félagsins, eins og starfsmaðurinn hafi borið fyrir héraðsdómi. Ljóst sé að í slíku geti ekki falist brot gegn 10. gr. samkeppnislaga. Þessa ályktun byggja gagnstefnendur einkum á tveimur lykilatriðum. Annars vegar hafi markmið framlegðarátaks gagnstefnandans Byko ehf. verið að auka framlegð félagsins um 1,5%. Fari það fjarri því sem starfsmaðurinn hafi tjáð starfsmanni Húsasmiðjunnar um 2% hækkun framlegðar í tvígang. Þrátt fyrir umfangsmiklar símhleranir, og gríðarlega umfangsmiklar húsleitir liggi ekkert fyrir í gögnum málsins um að gagnstefnandinn Byko ehf. hafi hækkað verð með þeim hætti sem starfsmaðurinn lýsti í símtalinu eða að það hafi staðið til. Hafi ekki verið bent á eitt tilboð sem hafi verið hækkað í kjölfar símtalsins, þaðan af síður með þeim hætti sem starfsmaðurinn greindi frá. Í öðru lagi hafi starfsmaðurinn ekki haft upp á sitt eindæmi valdheimildir til að breyta verðstefnu gagnstefnandans Byko með þeim hætti sem hann hafi lýst í símtalinu. Hafi starfsmaðurinn því ekki getað gert neitt slíkt samkomulag við starfsmann Húsasmiðjunnar um verðlagsmálefni þannig að í bága færi við 10. gr. samkeppnislaga. Meðal þátta framlegðarátaksins hafi verið að senda skyldi öll tilboð yfir 250.000 krónur á netfangið [email protected], og hafi nefndur starfsmaður verið einn viðtakenda þess. Þrátt fyrir hinar gífurlega umfangsmiklu húsleitir hafi aðalstefnandi ekki sýnt fram á neitt dæmi þess að tilboð hafi yfirhöfuð verið sent á nefnt netfang, þaðan af síður að þau hafi verið hækkuð af umræddum starfsmanni, og enn síður hækkuð með þeim hætti sem hann greindi starfsmanni Húsasmiðjunnar frá. Þá hafi aðalstefnandi ekki svo mikið sem sýnt fram á að það hafi yfirleitt staðið til. Þar sem aðalstefnandi hafi ekki sýnt fram á að þær ætluðu fyrirætlanir sem starfsmaður gagnstefnandans Byko ehf. greindi starfsmanni Húsasmiðjunnar frá í símtalinu hafi staðið til, verið framkvæmdar eða starfsmaðurinn haft valdheimildir til þess, verði ekki önnur ályktun dregin af símtalinu en að ætlun starfsmannsins hafi verið að villa um fyrir Húsasmiðjunni. Þar sem gagnstefnandinn Byko ehf. hafi í engu tilviki brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga beri því að fallast á aðalkröfu gagnstefnenda í málinu og fella þennan hluta umþrættra stjórnvaldsúrlausna úr gildi. Gagnstefnendur byggja jafnframt á því að fella verði umþrættar stjórnvaldsúrlausnir úr gildi þar sem rannsókn málsins hafi verið haldin svo verulegum annmörkum að réttarvernd þeirra og réttur til réttlátrar málsmeðferðar hafi ekki verið tryggður. Með þessu hafi verið brotið gegn ákvæðum 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, með ítrekuðum og ámælisverðum hætti. Þá hafi málsmeðferð aðalstefnanda falið í sér alvarlegt brot gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Gagnstefnendur byggja á því að kæra aðalstefnanda til lögreglu, sem markað hafi upphaf rannsóknar málsins og verið grundvöllur símhlerana sem aftur voru grundvöllur umfangsmikilla húsleita, hafi verið ólögmæt. Upphaf málsins megi rekja til þess að forsvarsmenn Múrbúðarinnar ehf., samkeppnisaðila gagnstefnandans Byko, hafi leitað til aðalstefnanda og hafi verið haldnir með þeim tveir fundir. Hafi forsvarsmennirnir „upplýst“ um heimsóknir og símtöl frá gagnstefnandanum Byko ehf. og Húsasmiðjunni í tengslum við opnun Múrbúðarinnar á grófvörudeild við Smiðjuveg. Aðalstefnandi hafi metið þessar staðhæfingar forsvarsmanna félagsins „trúverðugar“ og talið að rökstuddur grunur væri um að gagnstefnandinn og Húsasmiðjan hefðu með sér ólögmætt verðsamráð sem tæki a.m.k. til upplýsingaskipta um verð. Þá hafi verið talinn rökstuddur grunur um að félögin hefðu gert tilraunir til þess að fá Múrbúðina til að taka þátt í hinu ætlaða ólögmæta samráði. Aðalstefnandi hafi eingöngu á grundvelli þessara upplýsinga tekið ákvörðun um að kæra tiltekna starfsmenn gagnstefnandans og Húsasmiðjunnar til lögreglu. Í kjölfarið hafi verið heimilaðar símhleranir hjá starfsmönnum félaganna sem staðið hafi yfir um nokkurt skeið. Af þessu sé ljóst að upphaf málsins hafi eingöngu grundvallast á upplýsingum sem forsvarsmenn samkeppnisaðila, sem eðli málsins samkvæmt hafi átt verulegra hagsmuna að gæta, hafi veitt gagnstefnanda munnlega án þess að nokkurn gögn hafi verið því til stuðnings. Liggi enda fyrir niðurstaða bæði áfrýjunarnefndar samkeppnismála og fjölskipaðs héraðsdóms og Hæstaréttar um að ekki hafi verið um brot gegn samkeppnislögum að ræða í þessu tilviki. Þá hafi einnig verið verulegt ósamræmi í framburði fyrirsvarsmanna Múrbúðarinnar fyrir dómi í áðurnefndu sakamáli varðandi það hvort skipst hafi verið á upplýsingum eða eingöngu falast eftir upplýsingum um verð, eins og áður sé getið um. Í ákvörðun aðalstefnanda sé hins vegar lagt til grundvallar að leitað hafi verið eftir því að skiptast á upplýsingum um verð. Byggja gagnstefnendur á því að framburður forsvarsmanna Múrbúðarinnar fyrir héraðsdómi dragi enn úr ætluðum trúverðugleika tilkynningar þeirra til gagnstefnanda sem hafi verið grundvöllur kæru stefnda til lögreglu. Mannréttindasáttmála Evrópu var veitt lagagildi hér á landi með lögum nr. 62/1994, og um langt skeið hafi verið litið svo á að túlka beri ákvæði íslenskra laga með hliðsjón af ákvæðum sáttmálans og skýringum og túlkunum Mannréttindadómstóls Evrópu. Samkvæmt 8. gr. sáttmálans eigi sérhver maður rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskrifta. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skuli opinber stjórnvöld eigi ganga á rétt þennan nema að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Megi finna 8. gr. sáttmálans samsvörun í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar þar sem kveðið sé á um friðhelgi einkalífs. Hafi ákvæðið verið túlkað þannig af Mannréttindadómstólnum að það taki ekki aðeins til einstaklinga heldur einnig til hvers kyns lögaðila sem geti borið réttindi og skyldur. Mannréttindadómstóllinn hafi slegið því föstu að séu kröfur opinberra aðila um þvingunaraðgerðir byggðar á rangfærslum eða misskilningi, sem hefði auðveldlega verið hægt og hefði átt að koma í veg fyrir með réttum varúðarráðstöfunum, þá sé grundvöllur aðgerðarinnar ófullnægjandi, og það leiði til þess að hún sé ólögmæt í skilningi 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Með vísan til úrskurðar áfrýjunarnefndar, sem fær einnig stoð í dómi fjölskipaðs héraðsdóms og dómi Hæstaréttar, liggi fyrir að staðhæfingar forsvarsmanna Múrbúðarinnar um eðli og tilgang þeirra heimsókna og símtala sem vitnað var til hafi verið rangar. Verði ekki séð að aðalstefnandi hafi gripið til neinna ráðstafana til að afla gagna eða upplýsinga sem gætu stutt þær staðhæfingar sem þar voru settar fram, áður en kæra var lögð fram til lögreglu. Var þó, sem fyrr segir, sérstakt tilefni til þess í ljósi þess að forsvarsmenn Múrbúðarinnar höfðu tvívegis hlotið dóm fyrir meiðyrði. Þegar af þeirri ástæðu byggja stefnendur á því að þær símhleranir og eftirfarandi húsleitir sem byggðu á þessum staðhæfingum hafi verið ólögmætar. Fyrir liggi að aðalstefnandi byggi í málinu nær eingöngu á þeim gögnum sem aflað hafi verið með símhlerunum lögreglu og eftirfarandi húsleitum. Gagnstefnendur benda á að íþyngjandi stjórnvaldssektir samkeppnisyfirvalda teljist refsing í skilningi 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Verði að túlka 70. gr. stjórnarskrárinnar með hliðsjón af því. Byggja gagnstefnendur á því að þeim verði ekki gerð refsing í málinu þar sem fyrir liggi að þeir hafi ekki notið þeirra réttinda við rannsókn málsins sem kveðið sé á um í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Beri því að fella hinar umþrættu stjórnvaldsúrlausnir úr gildi þegar af þessari ástæðu. Í öðru lagi byggja gagnstefnendur á því að brotið hafi verið gegn réttindum þeirra við húsleit sem aðalstefnandi gerði í málinu ásamt lögreglu og með eftirfarandi rannsókn haldlagðra gagna. Í 2. mgr. 20. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 sé kveðið á um að við húsleitir aðalstefnanda skuli fylgja ákvæðum laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 um leit og hald á munum. Sé þar vísað til 68. gr. laganna, en hún kveði á um að óheimilt sé að leggja hald á tiltekin gögn, þar á meðal gögn sem innihaldi upplýsingar sem 2. mgr. 119. gr. laganna taki til. Lúti sú grein m.a. að upplýsingum sem mönnum hafi verið trúað fyrir í tilteknum störfum, þar á meðal sem lögmenn. Við húsleitir hjá gagnstefnendum hafi verið lagt hald á gríðarlegt magn gagna. Þar á meðal voru pósthólf og heimasvæði tiltekinna starfsmanna afrituð í heilu lagi. Af því leiði að aðalstefnandi haldlagði óhjákvæmilega gögn sem ólögmætt sé að leggja hald á samkvæmt framangreindum ákvæðum, þar á meðal samskipti gagnstefnenda við lögmenn sína. Eftir dóm Hæstaréttar í máli nr. 178/2002 hafi framkvæmd aðalstefnanda almennt verið með þeim hætti að fulltrúum leitarþola hafi verið gefinn kostur á að vera viðstaddir skoðun haldlagðra rafrænna gagna. Sú hafi hins vegar ekki verið raunin við rannsókn þessa máls. Gagnstefnendur byggja á því að ótvírætt sé að haldlagning og skoðun aðalstefnanda á samskiptum gagnstefnenda við lögmenn sína brjóti gegn 1. mgr. 6. gr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eins og ítrekað hafi verið staðfest af Mannréttindadómstólnum. Í ljósi þess að mannréttindasáttmáli Evrópu hafi verið lögfestur hér á landi og þeirrar staðreyndar að 70. og 71. gr. stjórnarskrárinnar séu í meginatriðum sama efnis og 1. og 2. mgr. 6. gr. og 8. gr. sáttmálans verði að skýra haldlagningarheimildir aðalstefnanda til samræmis við úrlausnir Mannréttindadómstóls Evrópu. Ekkert hafi verið gert til að tryggja að gagnstefnendur gætu gengið úr skugga um að slík gögn hefðu ekki verið skoðuð og því útilokað að tryggt hafi verið að stefnendur nytu réttlátrar málsmeðferðar í málinu í skilningi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Með þessu hafi jafnræðisregla einnig verið brotin þar sem annar málsaðilinn, stjórnvaldið, hafi haft undir höndum samskipti aðila við lögmenn sína án þess að þeim hefði verið gefinn nokkur kostur á að tryggja að svo væri ekki. Slíkt grafi undan reglum réttarríkisins enda sé trúnaðarsamband lögmanna og skjólstæðinga varið í 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, auk 1. mgr. 6. gr. og 17. gr. siðareglna lögmanna. Gagnstefnendur taka fram að engu breyti hvort samskiptin sem skoðuð voru hafi beinlínis verið lögð til grundvallar niðurstöðu málsins. Við þessar aðstæður sé óhjákvæmilegt að fella umþrættar stjórnvaldsúrlausnir úr gildi, Í þriðja lagi byggja gagnstefnendur á því að aðalstefnandi hafi við rannsókn málsins brotið með svo stórfelldum hætti gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga að óhjákvæmilegt sé að fella umþrættar stjórnvaldsúrlausnir úr gildi. Í ákvæðinu sé kveðið á um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Í ákvæðinu felist að stjórnvald skuli við rannsókn mála gæta hlutlægni, þannig að jafnt sé litið til þátta sem séu málsaðila til hagsbóta og þeirra sem séu á annan veg. Fái það einnig stoð í óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins. Gera verði einkar ríkar kröfur til þess að stjórnvald gæti að hlutlægnisskyldu sinni við meðferð mála þar sem lögð sé á verulega íþyngjandi refsikennd viðurlög, sér í lagi þeirra sem teljist til refsingar í skilningi Mannréttindasáttmála Evrópu. Gagnstefnendur byggja á því að við rannsókn málsins hafi verið brotið gegn þessari hlutlægnisskyldu. Horft hafi verið fram hjá gögnum sem aðalstefnandi hafði undir höndum og bentu til harðrar samkeppni og ítrekaðra verðlækkana á ætluðu brotatímabil en samræmdust ekki þeirri mynd sem gerð hafi verið tilraun til að teikna upp í ákvörðun aðalstefnanda. Einungis hafi verið fjallað stuttlega um slík gögn á nokkrum síðum í lok ákvörðunarinnar. Ekki hafi verið bætt úr þessum annmarka með úrskurði áfrýjunarnefndarinnar. Þá séu í ákvörðun aðalstefnanda skýr dæmi um ályktanir sem séu í beinu ósamræmi við gögn sem hann hafi haft undir höndum en látið ógetið. Aðalstefnandi leggi t.d. til grundvallar að verðkönnunarsímtölin hafi verið gagnkvæm allt hið ætlaða brotatímabil, þrátt fyrir skýra sönnun þess að svo hafi ekki verið í tölvupóstsamskiptum starfsmanna Húsasmiðjunnar í desember 2009 og janúar 2010. Þá leggi aðalstefnandi til grundvallar að markmið verðkönnunarsímtala í mars og apríl 2010 hafi verið að hækka verð þó að fyrir liggi að verðkönnunarsímtal þann 24. mars 2010 leiddi til þess að gagnstefnandi tók ákvörðun um verðlækkun a.m.k. 18 vöruflokka. Gagnstætt ítarlegri umfjöllun um hverja verðhækkun á ætluðu brotatímabili í ákvörðun aðalstefnanda sé enga umfjöllun að finna um verðlækkanir á sama tímabili utan þess að um verðlagningu í maí 2010 segi: „Líkt og sjá má hafði verðið lækkað allnokkuð frá því 24. mars, sbr. töflu sem birt var hér að framan“. Engin frekari orð séu höfð um þessa staðreynd. Þrátt fyrir þetta leggi aðalstefnandi til grundvallar að markmið verðkönnunarsímtala í maí 2010 hafi verið að hækka verð. Hið sama megi segja um ályktun aðalstefnanda um markmið verðkönnunarsímtala í október 2010 þó að fyrir liggi að verðkönnunarsímtal þann 11. október hafi leitt til þess að gagnstefnandinn Byko ehf. ákvað verðlækkun og í desember 2010 þó að fyrir liggi að verðkönnunarsímtöl 16. og 29. desember hafi leitt til þess að gagnstefnandinn ákvað verðlækkun í alls 44 vöruflokkum. Það sama sé upp á teningnum í janúar 2011 en þar hafi verðkönnunarsímtal leitt til þess að gagnstefnandi ákvað verðlækkun. Einnig benda gagnstefnendur á að ekkert kostnaðarmat hafi verið framkvæmt við mat á því hvort það hafi verið kostnaðarsamara fyrir viðskiptavini fyrirtækjanna að afla verðupplýsinganna en fyrir fyrirtækin sjálf með verðkönnunarsímtölunum þó að aðalstefnandi leggi sjálfur til grundvallar ákvörðuninni að það sé sá mælikvarði sem beita skuli. Telja gagnstefnendur liggja í augum uppi að niðurstaða slíks kostnaðarmats hefði verið að svo væri ekki. Með vísan til alls framangreinds byggja gagnstefnendur á því að rannsókn aðalstefnanda hafi verið svo áfátt að óhjákvæmilegt sé að fella umþrættar stjórnvaldsúrlausnir úr gildi.   3. Sektarheimild og ákvörðun um sektarfjárhæð Gagnstefnandinn Norvik hf. byggir í fyrsta lagi á því að óheimilt hafi verið að beina sektarákvörðun að félaginu, en því sé hvorki gefið að sök að hafa brotið gegn samkeppnislögum í umþrættum stjórnvaldsúrlausnum né að hafa átt nokkurn þátt í ætluðum brotum. Stjórnvaldssektir á grundvelli samkeppnislaga séu verulega íþyngjandi refsikennd viðurlög og verði álagning þeirra að styðjast við skýra lagaheimild. Íslensk lög heimili ekki álagningu sekta á önnur fyrirtæki en þau sem viðhafi brotlega háttsemi. Þegar af þeirri ástæðu geti ekki komið til álita að leggja sekt á gagnstefnandann Norvik í málinu. Verði talið að sjónarmið úr EB-rétti geti haft þýðingu í þessu samhengi, líkt og lagt er til grundvallar í úrskurði áfrýjunarnefndar, byggir gagnstefnandi Norvik á því að þau leiði jafnframt til þess að óheimilt sé að leggja sekt á félagið. Byggir gagnstefnandinn á því að löglíkur EB-réttar um að 100% eignarhlutur bendi til þess að móðurfélag hafi komið að eða stjórnað ákvörðunum dótturfélags á markaði eigi ekki við eins og atvikum þessa máls sé háttað. Þessu til stuðnings vísar gagnstefnandinn í fyrsta lagi til þess að félagið er eignarhaldsfélag en hafi sem slíkt ekki eiginlegan sjálfstæðan rekstur. Allur rekstur samstæðunnar fari fram í fjölmörgum sjálfstæðum dótturfélögum í nokkrum löndum. Stærstur hluti starfsemi samstæðunnar sé erlendis og í rekstri óskyldum rekstri stefnanda Byko. Ekkert liggi fyrir í gögnum málsins um að gagnstefnandinn Norvik hf. hafi komið að eða stjórnað ákvörðunum gagnstefnandans Byko á markaði. Byggir gagnstefnandinn Norvik hf. á því að rökstuðningi hinna umþrættu stjórnvaldsúrlausna sé verulega áfátt enda takmarkist hann við það að 100% eignarhlutdeild og stjórnunarleg tengsl leiði til þess að félögin séu ein efnahagsleg eining og þau hafi ekki lagt fram nein gögn sem bendi til þess að þau hafi notið sjálfstæðis frá gagnstefnandanum Norvik hf. Byggir gagnstefnandinn á því að þvert á móti hvíli sönnunarbyrðin á aðalstefnanda og hana hafi hann ekki axlað. Í öðru lagi hafi viðskiptalegar ákvarðanir gagnstefnandans Byko aldrei verið háðar samþykki gagnstefnandans Norvikur hf. Fyrrnefnda félagið sé rekið líkt og hvert annað einkahlutafélag, þar sem ákvarðanir séu teknar af forstjóra og stjórn. Hafi gagnstefnandinn Norvik hf. enga aðkomu haft að ákvarðanatöku innan félagsins. Þá hafi gagnstefnandinn Norvik ekki verið upplýstur sérstaklega um aðgerðir gagnstefnandans Byko ehf. á markaði og síðarnefnda félagið hafi haft fulla heimild til að undirgangast stóra samninga án aðkomu þess fyrrnefnda. Önnur framkvæmd væri í andstöðu við lög um einkahlutafélög nr. 138/1994 þar sem stjórnarseta sé bundin við einstaklinga. Stjórnarmaður í félagi megi ekki framkvæma ákvarðanir eða framfylgja viðskiptastefnu sem einvörðungu hafi þann tilgang að þóknast þeim aðila sem tilnefndi eða kaus viðkomandi í stjórn. Stjórnarmenn megi ekki hygla hluthöfum á kostnað annarra eða taka ákvarðanir sem séu skaðlegar fyrir félagið. Loks vísar gagnstefnandinn í þriðja lagi til þess að ekkert bendi til annars en að aðilar á markaði hafi upplifað gagnstefnandann Byko ehf. sem félag aðskilið frá gagnstefnandanum Norvik hf. Þegar litið sé til allra aðstæðna verði að telja að gagnstefnandinn Byko ehf. hafi notið fulls sjálfstæðis í rekstri og ekkert bendi til þess að gagnstefnandinn Norvik hf. hafi komið að ákvörðunum félagsins á markaði. Sé því ekki heimilt að leggja stjórnvaldssekt á gagnstefnandann Norvik hf. vegna atvika málsins og beri af þeirri ástæðu einni að fella álagða stjórnvaldssekt úr gildi. Verði talið að lögmætt hafi verið að leggja stjórnvaldssekt á þennan gagnstefnanda byggja gagnstefnendur á því að eftir sem áður beri að fella álagða stjórnvaldssekt úr gildi, eða í öllu falli ákvarða hana sem óverulega fjárhæð. Stjórnvaldssektir á grundvelli 37. gr. samkeppnislaga séu refsikennd viðurlög, og teljist til refsingar í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Það sé grundvallarregla íslensks réttar að refsiheimildir skuli vera skýrar. Þannig sé ekki unnt að gera einstaklingi refsingu á grundvelli óskýrrar refsiheimildar. Af því leiði jafnframt að við málsmeðferð samkeppnisyfirvalda beri að tryggja gagnstefnendum sömu réttindi og sakborningi við meðferð málsins. Gagnstefnendur byggja á því að þau brot gegn réttindum þeirra til réttlátrar málsmeðferðar sem rakin hafi verið hér framar leiði í öllu falli til þess að fella beri álagða stjórnvaldssekt niður, verði ekki fallist á að brotin leiði til þess að fella beri umþrættar stjórnvaldsúrlausnir úr gildi. Ella sé stjórnvöldum játuð heimild til ítrekaðra og alvarlegra brota gegn réttindum aðila sem sæti rannsókn án þess að það hafi nokkur réttaráhrif. Þá byggja gagnstefnendur á því að verði talið að háttsemi gagnstefnandans Byko ehf. hafi farið gegn 10. gr. samkeppnislaga hafi eðli og umfang ætlaðra brota verið afar takmarkað. Hvað varðar svokölluð verðkönnunarsímtöl sé ljóst að ekki hafi verið um markmiðsbrot að ræða verði talið að framkvæmd þeirra hafi af einhverjum ástæðum farið í bága við 10. gr. samkeppnislaga. Hvað símtal tiltekins starfsmanns þessa gagnstefnanda 28. febrúar 2011 áhræri geti í allra mesta lagi verið um að ræða eitt einangrað símtal eins tiltekins starfsmanns, sem hafi falið í sér hvatningu til samráðs, en ekki fullframið samráðsbrot. Þá verði ekki séð að gagnstefnendur hafi haft nokkurn möguleika á að koma í veg fyrir símtalið eða grípa til aðgerða vegna þess þar sem þeir höfðu ekki vitneskju um að það stæði til eða hefði átt sér stað. Þá verði að líta svo á að ætlað brotatímabil geti ekki verið lengra en sem nemi tímalengd símtalsins þar sem framkvæmd svokallaðra verðkönnunarsímtala hafi ekki farið í bága við 10. gr. samkeppnislaga. Þá byggi gagnstefnendur á því að önnur sjónarmið sem vægi hafa við ákvörðun viðurlaga hnígi öll í sömu átt. Þannig séu ítrekunaráhrif ekki fyrir hendi, enda hafi hvorki stefnendur né raunar nokkur önnur félög í eigu gagnstefnandans Norvikur hf. nokkru sinni verið talin brotleg gegn ákvæðum samkeppnislaga. Enginn ásetningur hafi verið fyrir hendi og ætluðum brotum hafi ekki verið hrint í framkvæmd. Þá verði að taka tillit til þess við álagningu mögulegrar sektar að rúm fjögur og hálft ár liðu frá upphafi rannsóknar þar til ákvörðun aðalstefnanda var tekin. Byggja gagnstefnendur á því að sá verulegi dráttur á meðferð málsins, sem í engu sé skýrður í ákvörðun aðalstefnanda, sé í andstöðu við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga. Gagnstefnendur byggja á því að verði af einhverjum ástæðum talið að í hinum svokölluðu verðkönnunarsímtölum hafi falist brot gegn 10 gr. samkeppnislaga geti það ekki með nokkrum hætti talist alvarlegt og eigi það að hafa áhrif á sektarfjárhæð. Sé þá um að ræða fyrsta málið á heimsvísu þar sem fyrirtæki séu talin brjóta gegn 10. gr. samkeppnislaga með því að veita og afla upplýsinga um gildandi smásöluverð sem séu opinber samkvæmt lagaboði. Gagnstefnendur kveðast taka undir tilvísun áfrýjunarnefndar til samanburðar við mál nr. 37/2003 fyrir Hæstarétti Íslands sem sérstaklega hafi verið vísað til í ákvörðun aðalstefnanda. Þannig hafi ætlað brot gagnstefnandans Byko ekki verið skipulagt verðsamráð, líkt og fyrri mál hér á landi, heldur einfaldar verðkannanir, sem gerðar séu daglega á flestum eða öllum samkeppnismörkuðum landsins. Ekkert samráð hafi verið um verðlagningu og engar upplýsingar veittar um framtíðarverðlagningu. Verði að skilja þessa tilvísun áfrýjunarnefndar svo, í samhengi við ákvarðaða sektarfjárhæð, að ætlað brot hafi ekki verið talið alvarlegt. Aðalstefnandi staðhæfi að þessi athugasemd áfrýjunarnefndar hafi verið tilefnislaus. Eingöngu hafi verið vísað til dómsins í ákvörðuninni til þess að sýna fram á hve samráðsbrot séu litin alvarlegum augum. Í ákvörðuninni hafi ekki verið að finna neinn samanburð á brotum stefnda og þeim brotum sem fjallað sé um í dómi Hæstaréttar. Í einmitt því verður að telja að kjarni athugasemdar áfrýjunarnefndar sé falinn. Þannig vísi aðalstefnandi til dómsins í því skyni að sýna fram á alvarleika samkeppnisbrota, að hans eigin sögn án þess að gera neinn samanburð á málunum tveimur. Sá samanburður, líkt og áfrýjunarnefnd bendi réttilega á, sýni skýrt að ætluð brot í máli þessu beri engin merki skipulagðs verðsamráðs þar sem aðilar á markaði komi sér saman um verð. Gagnstefnendur byggi á því að þar sem mál þetta sé hið fyrsta sinnar tegundar, jafnt hér á landi sem erlendis, beri að fella niður sektir, eða í öllu falli ákvarða óverulega sektarfjárhæð, verði af einhverjum ástæðum talið að það geti brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga að afla og veita upplýsingar um gildandi smásöluverð sem eru opinber samkvæmt lagaboði. Byggja gagnstefnendur á því að það séu ríkjandi viðmið, jafnt hér á landi sem erlendis, að mál sem séu með þessum hætti fyrstu sinnar tegundar og byggi þannig á nýrri lagatúlkun, séu þess eðlis að ekki beri að ákvarða sektir. Vísa stefndu því til stuðnings til úrskurða áfrýjunarnefndar samkeppnismála, auk fræðiumfjöllunar og dómaframkvæmdar í Evrópurétti. Þá vísi gagnstefnendur jafnframt til þess að ítrekunaráhrif, sem gefið hafi verið verulegt vægi í framkvæmd samkeppnisyfirvalda hér á landi, séu engin í máli þessu. Hvorugir gagnstefnenda, né nokkur félög í eigu gagnstefnandans Norvikur hf., hafi nokkru sinni verið talinn brjóta gegn ákvæðum samkeppnislaga. Aðalstefnandi geri mikið úr umfjöllun um leiðbeiningar Eftirlitsstofnunar EFTA um sektarfjárhæðir. Gagnstefnendur hafni því að þær leiðbeiningar geti haft nokkra þýðingu fyrir úrlausn málsins. Reglurnar hafa enga lagastoð hér á landi og beiting þeirra í málum hér á landi geti ekki uppfyllt þær kröfur sem gera verði til skýrleika refsiheimilda sem leiði af 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Þá telji gagnstefnendur útreikninga aðalstefnanda á því sektarhámarki sem samkeppnislög kveði á um, eða 10% af heildarveltu gagnstefnandans Norvikur hf., fjarstæðukennda. Í fyrsta lagi taki þeir ekki tillit til þess sem fram kemur hér að framan, að ríkjandi viðmið í EES/EB-rétti sýni að ekki beri að leggja á sektir eða þá ákvarða þær óverulegar ef mál er hið fyrsta sinnar tegundar. Í öðru lagi taki þeir ekkert mið af alvarleika ætlaðs brots. Líkt og réttilega sé lagt til grundvallar í úrskurði áfrýjunarnefndar beri ætlað brot gagnstefnandans engin merki skipulagðs verðsamráðs. Hljóti alvarleiki brots að vera ráðandi þáttur við ákvörðun viðurlaga, líkt og við ákvörðun viðurlaga annarra brota almennt í þjóðfélaginu. Í þriðja lagi taki útreikningarnir ekkert mið af þeim kröfum sem gera verði til þess að jafnræðis og samræmis sé gætt við sektarákvarðanir aðalstefnanda. Sektarákvarðarnir í málum hér á landi hafi aldrei verið nálægt 10% sektarhámarki samkeppnislaga. Í fjórða lagi sé ranglega lagt til grundvallar í þessum útreikningum að ætlað brotatímabil sé tvö og hálft ár. Brotatímabil geti í mesta lagi numið um hálfu til einu ári enda sýni gögn málsins skýrt að hin svokölluðu verðkönnunarsímtöl hafi ekki orðið gagnkvæm fyrr en á árinu 2010. Sé með öllu óútskýrt af hálfu aðalstefnanda hvernig einhliða öflun upplýsinga um gildandi opinber smásöluverð samkeppnisaðila geti brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga. Af þeirri ástæðu einni lækki ætluð álögð sekt samkvæmt útreikningum um 67–80%. Loks í fimmta lagi sé upphafsforsenda útreikninga aðalstefnanda röng. Verðmæti vegna sölu á þeim vöruflokkum sem verðkönnunarsímtölin tóku til á árinu 2010 hafi ekki verið 8.777 milljónir króna, heldur 2.733 milljónir króna. Af þeirri ástæðu einni lækki ætluð álögð sekt samkvæmt útreikningum um meira en 75%. Af öllu framangreindu leiði að útreikningar aðalstefnanda séu að vettugi virðandi og vart til annars fallnir en að drepa málinu á dreif. Þá telji gagnstefnendur að svo virðist sem aðalstefnandi leggi meiri áherslu á varnaðaráhrif við ákvörðun sektarfjárhæðar en alvarleika brota. Í málinu séu gagnstefnandanum Byko ehf. að meginstefnu til gefin að sök tvenns konar brot sem annars vegar séu talin felast í hinum svokölluðu verðkönnunarsímtölum þar sem upplýst hafi verið um opinber, gildandi verð. Málið sé hið fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu og það hafi verið útilokað fyrir gagnstefnendur að sjá fyrir að þessi samskipti yrðu talin brjóta gegn 10. gr. samkeppnislaga, enda alkunn framkvæmd á öllum samkeppnismörkuðum. Engin varnaðaráhrif geti skapast með ákvörðun hárra fjársekta fyrir brot sem engin leið hafi verið fyrir hinn brotlega að sjá fyrir að yrðu talin ólögmæt. Hins vegar sé um að ræða ætlað brot sem sé talið felast í símtali 28. febrúar 2011. Líkt og ítarlega er rakið í gagnsök máls þessa verði að telja sannað í málinu að starfsmaðurinn hafi átt símtalið upp á sitt eindæmi, þvert á fyrirmæli gagnstefnandans Byko ehf., og ekki látið neinn samstarfsmann sinn vita af efni þess eða tilvist, hvorki fyrir né eftir símtalið. Geti engin varnaðaráhrif skapast af því að beita háum fjársektum fyrir brot sem hinn brotlegi hafi engin tök á að koma í veg fyrir. Með hliðsjón af öllu framansögðu byggja gagnstefnendur á því að rétt sé að fella álagða sekt niður, en til vara að ákvarða beri sektarfjárhæð sem óverulega fjárhæð. Beri því að hafna fjárkröfu aðalstefnanda í málinu. Hvað sektarfjárhæð varðar byggja gagnstefnendur á því, verði ekki fallist á kröfu þeirra um ógildingu ákvarðana samkeppnisyfirvalda, að eins og mál þetta sé vaxið beri að fella stjórnvaldssekt niður, eða í öllu falli ákvarða hana sem óverulega fjárhæð. Að lokum taka gagnstefnendur fram að með úrskurði áfrýjunarnefndar hafi að hluta til verið staðfest sú niðurstaða aðalstefnanda að beina fyrirmælum til gagnstefnandans Byko ehf. á grundvelli 16. gr. samkeppnislaga. Hafi nánar tiltekið verið staðfestur sá hluti fyrirmælanna sem beint hafi verið til gagnstefnandans í gr. 2.1 í ákvörðunarorðum aðalstefnanda. Byggt sé á því að fyrirmælin séu óskýr og uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu til fyrirmæla sem beint sé að félögum með íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun. Þá séu fyrirmælin í engu rökstudd, hvorki í ákvörðun aðalstefnanda né úrskurði áfrýjunarnefndar, eða ætluð nauðsyn þeirra. Beri því að fella þau úr gildi. Verði fallist á aðalkröfu um ógildingu eða varakröfu gagnstefnenda í gagnsök um niðurfellingu sektarfjárhæðar gerir gagnstefnandinn Norvik hf. þá kröfu á hendur stefnda íslenska ríkinu að stefndi endurgreiði sér 65.000.000 króna, eða sem nemi þeirri sektargreiðslu sem félagið innti af hendi með fyrirvara 30. október 2015. Verði fallist á varakröfu gagnstefnenda um verulega lækkun stjórnvaldssektar gerir gagnstefnandinn Norvik hf. kröfu um endurgreiðslu á mismun þeirrar fjárhæðar sem hann greiddi annars vegar og þeirrar sektarfjárhæðar sem ákvörðuð verði með dómi enda ljóst að gagnstefnandinn hafi þá ofgreitt sektarfjárhæðina sem því nemi. Í báðum tilvikum sé krafist dráttarvaxta á endurgreiðslufjárhæðina frá málshöfðunardegi, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað í aðalsök og gagnsök styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.   IV Niðurstaða Ágreiningsefni máls þessa lýtur að ákvörðunum samkeppnisyfirvalda eftir að tekið var til athugunar hvort gagnstefnandinn Byko ehf. hefði með samskiptum sínum við Húsasmiðjuna ehf., á tímabilinu frá nóvember 2008 til og með mars 2011, brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins í tengslum við verð á byggingarvörum ,og hvort gagnstefnandinn hefði brotið gegn þessum ákvæðum með tilteknum samskiptum við Úlfinn Lagerverslun ehf. Er hér um að ræða ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, aðalstefnanda máls þessa, frá 15. maí 2015 í máli nr. 11/2015 og úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 28. september 2015 í máli nr. 6/2015. Hinn 9. júlí 2014 var undirrituð sátt milli aðalstefnanda og Holtavegar 10 ehf., áður Húsasmiðjunnar ehf., þar sem viðurkennt var að á fyrrnefndu tímabili hefði Húsasmiðjan ehf. brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga „með samfelldu samráði við Byko ehf. um m.a. verð á byggingarvörum“. Vegna þessa féllst Holtavegur 10 ehf. á að greiða 325.000.000 króna í stjórnvaldssekt. Í ákvörðun sinni komst aðalstefnandi að þeirri niðurstöðu að á áðurnefndu tímabili hefði gagnstefnandinn Byko ehf. átt samskipti við Húsasmiðjuna ehf. og önnur fyrirtæki sem falið hefðu í sér brot á áðurnefndum ákvæðum. Var gagnstefnandanum Norvik ehf. sem móðurfélagi Byko ehf. gert að greiða 650.000.000 króna í stjórnvaldssekt. Ákvörðun aðalstefnandans var skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og með úrskurði hennar var ákvörðun aðalstefnanda um brot á 10. gr. samkeppnislaga staðfest en stjórnvaldssektin lækkuð niður í 65.000.000 króna og hún lögð á báða gagnstefnendur. Samhliða stjórnsýslumálinu var, eins og þegar hefur verið rakið, rekið sakamál á hendur nokkrum starfsmönnum Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. vegna áðurgreindra samskipta. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness voru þeir allir sýknaðir utan einn sem sakfelldur var fyrir hvatningu til verðsamráðs. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 360/2015 voru átta starfsmenn fyrirtækjanna sakfelldir. Hér að framan hefur verið gerð ítarleg grein fyrir efni fyrrgreindra ákvarðana samkeppnisyfirvalda, umræddrar sáttar Holtavegar ehf. og áðurnefndra dómsúrlausna í köflum II og III, að því marki sem nauðsynlegt hefur þótt samhengis vegna. Rétt þykir þó að árétta hér nokkur atriði vegna úrlausnar máls þessa. Í fyrrgreindri ákvörðun aðalstefnanda var samráðinu markaður upphafstími 26. nóvember 2008. Jafnframt kemur fram í ákvörðuninni að fyrirtækin hafi átt samskipti töluvert löngu fyrir þann tíma og eru þau tilvik nánar rakin. Umrædd tilvik séu ekki hluti af samráði fyrirtækjanna en þau eru talin vera því til frekari stuðnings að á milli fyrirtækjanna hafi átt sér stað upplýsingaskipti sem bendi til samráðs á því tímabili sem ákvörðunin tekur til. Er því þar slegið föstu að á þeim tíma sem rannsókn aðalstefnanda tók til hafi gagnstefnandinn Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf. haft með sér reglubundið samráð sem aðallega hafi tengst viðskiptum með grófvörur og taki flest tilvikin til ársins 2010 og fram í mars 2011. Hafi Úlfurinn Lagerverslun ehf. að hluta tekið þátt í samráðinu. Nánar tiltekið hafi brot gagnstefnandans Byko ehf. falist í reglubundnum, yfirleitt vikulegum, samskiptum við Húsasmiðjuna ehf. um verð, birgðastöðu o.fl. í því skyni að hækka verð/vinna gegn verðlækkunum á grófvörum. Í ákvörðuninni var einnig talið að Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf. hefðu gert ítrekaðar tilraunir til að fá Múrbúðina til að taka þátt í samráði því sem þegar átti sér stað milli fyrirtækjanna tveggja um verð á grófvöru. Jafnframt taldi aðalstefnandi í ákvörðun sinni að með svokölluðu „samráðssímtali“ sem átti sér stað 28. febrúar 2011 hefðu fyrirtækin ákveðið að herða á samráði sínu með samkomulagi um að ráðast í sérstakt átak í því skyni að hækka verð. Hafi þetta átt sér stað í framangreindu símtali fulltrúa fyrirtækjanna, verið að frumkvæði gagnstefnandans Byko ehf. og verið liður í svokölluðu „framlegðarátaki“ félagsins. Í því átaki hafi átt að hækka verð „almennt eftir verðkönnunum“, þ.e. hækka verð í kjölfar verðsamskiptanna við Húsasmiðjuna ehf. Í ákvörðun aðalstefnanda var nánar tiltekið talið felast í símtalinu að fyrirtækin hefðu ákveðið að hækka í áföngum verð í öllum tilboðum á grófvöru, grípa til sérstakra aðgerða til að minnka samkeppni í tilboðum á Selfossi og Akureyri, vinna gegn verðsamkeppni í sölu á „græna efninu“ á aðalsölutíma þeirrar vöru og reyna þess í stað að hækka verð, og hækka einnig verð á miðstöðvarofnum. Þá hafi gagnstefnandinn Byko ehf. greint Húsasmiðjunni ehf. frá þeirri fyrirætlan fyrirtækisins að hækka verð á annarri vöru en grófvöru, t.d. heimilistækjum. Þá var gagnstefnandinn Byko ehf. talinn hafa tekið við mikilvægum viðskiptalegum upplýsingum frá Húsasmiðjunni ehf. í febrúar og október 2010 og einnig var brot hans talið felast í verðsamráði við Úlfinn Lagerverslun ehf. Með úrskurði sínum 28. september 2015 í máli nr. 6/2015 staðfesti áfrýjunarnefndin í öllum tilvikum nema þremur niðurstöðu aðalstefnanda um brot gagnstefnandans Byko ehf. á 10. gr. samkeppnislaga. Þannig taldi nefndin tilraunir gagnstefnandans til að fá Múrbúðina til að taka þátt í verðsamráði ekki vera sannaðar og þar hefði aðalstefnandi dregið of víðtækar ályktanir af gögnum málsins. Þá var hafnað þeirri niðurstöðu aðalstefnanda að ráða mætti af tölvupósti forstjóra gagnstefnandans Byko ehf. 26. nóvember 2008 að hann hefði fengið upplýsingar um yfirvofandi aðhaldsaðgerðir frá Húsasmiðjunni ehf., sem væri til marks um verðsamráð fyrirtækjanna. Þá var hafnað þeirri niðurstöðu aðalstefnanda að fyrirtækin tvö hefðu viðhaft ólögmætt samráð um verðlagningu á miðstöðvarofnum. Áfrýjunarnefndin taldi að ekki hefði heldur verið sýnt fram á brot stefnda á 53. gr. EES-samningsins, en málið hefði ekki verið flutt með tilliti til þess fyrir nefndinni, eins og komist er að orði í niðurstöðum úrskurðar hennar. Jafnframt taldi nefndin sátt þá sem aðalstefnandi hafði gert við Húsasmiðjuna ehf. hafa takmarkaða þýðingu í málinu, svo og niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness, en er nefndin kvað upp úrskurð sinn hafði málinu verið áfrýjað og það var til meðferðar fyrir Hæstarétti. Þá staðfesti áfrýjunarnefndin þá niðurstöðu aðalstefnanda að í símtalinu frá 28. febrúar 2011 hefði falist brot gegn 10. gr. samkeppnislaga. Þannig hafi í símtalinu falist hvatning til samráðs. Á hinn bóginn hafnaði nefndin því að fyrir lægi að Húsasmiðjan ehf. hefði brugðist við efni símtalsins með þátttöku í ólögmætu samráði. Jafnframt féllst áfrýjunarnefndin á þá niðurstöðu aðalstefnanda að af dagbókarfærslu þáverandi forstjóra gagnstefnandans Byko ehf. 19. febrúar 2010 mætti ráða að upplýsingar sem þar er að finna hefðu borist frá Húsasmiðjunni ehf. Enn fremur var staðfest sú niðurstaða aðalstefnanda að gagnstefnandanum Byko ehf. hefði ekki tekist að sýna fram á að upplýsingar um fyrirhugðar breytingar á verðstefnu Húsasmiðjunnar ehf., svokallað „Project Red“, hefðu ekki borist frá Húsasmiðjunni og sönnunarbyrðin yrði því lögð á gagnstefnandann hvað þetta varðaði, líkt og aðalstefnandi gerði í niðurstöðu sinni. Lagði áfrýjunarnefndin í úrskurðarorði sínu 65.000.000 króna sekt á gagnstefnendur. Með stefnu útgefinni 10. febrúar 2016 höfðaði aðalstefnandi mál til hækkunar á álagðri stjórnvaldssekt og ógildingar á ákvæði í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar um sektarfjárhæð. Gagnstefnendur tóku til varna í málinu og kröfðust sýknu en til vara lækkunar sektarinnar. Þeir höfðuðu jafnframt annað mál með stefnu útgefinni 26. febrúar 2016 þar sem þess var aðallega krafist að sá hluti úrskurðar áfrýjunarnefndarinnar sem staðfesti að hluta ákvörðun aðalstefnanda um brot gegn 10. gr. samkeppnislaga og greiðslu sektar að fjárhæð 65.000.000 króna yrði felldur úr gildi, svo og að ákvörðun aðalstefnanda yrði felld úr gildi í heild sinni. Þá var þess krafist að aðalstefnandi endurgreiddi gagnstefnandanum Norvik hf. álagða sektarfjárhæð. Til vara var þess krafist að ákvæði í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar um greiðslu stjórnvaldssektar að fjárhæð 65.000.000 króna yrði fellt úr gildi að öllu leyti eða sektarfjárhæðin lækkuð verulega. Þá var þess einnig krafist að stefndi, íslenska ríkið, greiddi gagnstefnandanum Norvik hf. mismun á 65.000.000 króna sekt sem ákvarðaður yrði með dómi. Málin voru sameinuð í þinghaldi 22. september 2016 með vísan til 30. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Eins og málið þannig liggur fyrir dóminum þykir verða að líta svo á að í aðalsök sé leyst úr kröfum aðalstefnanda, Samkeppniseftirlitsins, en í gagnsök sé leyst úr kröfum gagnstefnenda, Byko ehf. og Norvikur hf. Má því segja að í þeim búningi sem málið er sé í aðalsök fjallað um fjárhæð sektarinnar og sektarheimild gagnvart móðurfélaginu, gagnstefnandanum Norvik hf., en í gagnsök um gildi ákvarðana aðalstefnanda og áfrýjunarnefndarinnar þegar það á við. Umfang málsins fyrir dóminum er mikið og málatilbúnaður aðila einnig. Hér framar hefur verið gerð ítarleg grein fyrir sjónarmiðum þeirra, en eins og fram kom í þeirri umfjöllun var fjallað um röksemdir aðila samhliða í aðalsök og gagnsök til einföldunar og til að forðast tvítekningar. Rauði þráðurinn í málatilbúnaði beggja aðila er þó það álitaefni hvort þau samskipti milli umræddra fyrirtækja sem áttu sér stað á rannsóknartímabilinu hafi falið í sér brot á 10. gr. samkeppnislaga, og þá eftir atvikum hvort um brot á 53. gr. EES-samningsins hafi einnig verið að ræða, og ákvörðun sektarfjárhæðar, verði talið að um brot hafi verið að ræða. Þá er einnig til úrlausnar fyrir dóminum hvort málsmeðferð aðalstefnanda hafi verið í samræmi við lög. Dómurinn tekur fram að ágreiningur aðila fyrir dóminum lýtur ekki að skilgreiningu markaðarins í fyrrgreindum ákvörðunum samkeppnisyfirvalda. Samandregið eru röksemdir aðalstefnanda í málinu byggðar á því að gagnstefnandinn Byko ehf. hafi í öllum þeim tilvikum sem lýst sé í ákvörðun aðalstefnanda frá 15. maí 2015 brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 53. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993. Aðalstefnandi byggir þannig á því að 650.000.000 króna sekt sé hæfileg en ekki „úr hófi fram há“, eins og kveðið var að orði í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 28. september 2015, þegar litið sé m.a. til alvarleika brotanna, umfangs þeirra og þess tíma sem samráðið stóð yfir, þess að samráðið átti sér stað á mikilvægum markaði þar sem samráðsfyrirtækin höfðu nálægt 100% markaðshlutdeild, og að teknu tilliti til veltu og efnahagslegs styrkleika fyrirtækjanna. Ekki hafi því verið tilefni fyrir áfrýjunarnefndina til að lækka álagða sekt. Þá sé niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar, þess efnis að ekki hafi verið sýnt fram á brot á 1. mgr. 53 gr. EES-samningsins, í andstöðu við rétta skýringu ákvæðisins. Jafnframt hafi samráðið náð til allra þeirra tilvika sem áfrýjunarnefndin hafi talið ósönnuð í úrskurði sínum og lutu að tölvuskeyti forstjóra gagnstefnandans 26. nóvember 2008, samskiptum við Múrbúðina og samráði um verð á miðstöðvarofnum. Byggir aðalstefnandi á því að niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar sé ekki reist á réttu mati á gögnum að því leyti sem hún greini sig á þennan hátt frá niðurstöðu hans. Þá hafi nefndin ranglega talið að sáttin við Holtaveg ehf. hefði ekki þýðingu í málinu. Hvað sem þessu atriðum líði hafi samráðið þó verið svo alvarlegt, umfangsmikið og staðið yfir í svo langan tíma, að jafnvel þó umrædd tilvik væru undanskilin samráðinu ætti það ekki að leiða til lækkunar á fjárhæð sektarinnar, líkt og áfrýjunarnefndin hafi ákveðið. Aðalstefnandi og stefndi íslenska ríkið hafna því öllum sjónarmiðum gagnstefnenda sem lúta að ógildi ákvarðana samkeppnisyfirvalda á þeim forsendum að ekki hafi verið um að ræða brot á 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins og um meint brot á rannsóknar- og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, ákvæðum stjórnarskrárinnar eða ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu. Aðalstefnandi byggir á því að ályktanir hans og niðurstöður um brot gagnstefnandans Byko ehf. hafi fengið stoð í gögnum málsins. Komi ekki til álita að lækka sektina, hvað þá að fella hana niður. Þá bendir aðalstefnandi á, vegna röksemda gagnstefnenda um rannsóknaraðgerðir lögreglu, að lögmæti þeirra sé ekki til umfjöllunar í þessu máli, auk þess sem mögulegt ólögmæti þeirra gæti aldrei haft þau áhrif sem gagnstefnendur byggja á. Krefjast þeir því sýknu af kröfum gagnstefnenda í gagnsök málsins. Samandregnar röksemdir gagnstefnenda í málinu eru reistar á því að þau samskipti sem orðið hafi tilefni máls þessa og fjallað sé um í áðurnefndum ákvörðunum samkeppnisyfirvalda feli ekki í sér brot á 10. gr. samkeppnislaga eða 53. gr. EES-samningsins. Er þessu sjónarmiði teflt fram til stuðnings sýknu í aðalsök og til stuðnings kröfu um ógildingu ákvarðana samkeppnisyfirvalda í gagnsök. Um hafi verið að ræða opinberar upplýsingar um gildandi verð sem öllum hafi verið aðgengilegar, annaðhvort á heimasíðu gagnstefnandans Byko ehf. eða með því að hafa samband við fyrirtækið og fá upplýsingar um verð í síma. Samskiptin hafi einungis falið í sér öflun upplýsinga um verð keppinauta á markaði sem sé alvanaleg og fyrirtækjum nauðsynleg í samkeppni. Ekkert ólögmætt hafi því verið við þessi samskipti. Þá hafi ályktanir aðalstefnanda um ýmis meint samráðstilvik ekki verið í samræmi við gögn málsins og því verið rangar. Eigi það við um tilvik frá því í nóvember 2008 sem markað hafi upphaf rannsóknartímabilsins, dagbókarfærslu forstjóra í febrúar 2010 og tölvupóstsamskipti í nóvember 2010 vegna verðstefnu Húsasmiðjunnar. Þá byggja gagnstefnendur á því að aðalstefnandi hafi við rannsókn málsins brotið með alvarlegum hætti gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins og þeirri hlutlægnisskyldu sem á honum hvíli sem stjórnvaldi. Jafnframt hafi upphaf rannsóknar málsins byggt á veikum grunni og verið ólögmætt. Þannig hafi allar eftirfarandi rannsóknaraðgerðir lögreglu með þátttöku aðalstefnanda verið ólögmætar, bæði hvað varðar húsleit og haldlagningu gagna og símhleranir í kjölfarið. Þá sé ákvörðun aðalstefnanda um sekt allt of há og í engu samræmi við staðreyndir málsins. Af framansögðu má sjá að í málinu hefur aðalstefnandi lagt áherslu á að áfrýjunarnefndin hafi ekki dregið réttar ályktanir af gögnum og því ekki komist að réttri niðurstöðu í þeim tilvikum sem hann og nefndina greinir á um hvort samráð hafi átt sér stað og hversu alvarlegt það hafi verið. Að sama skapi hafa gagnstefnendur lagt áherslu á að aðalstefnandi hafi ranglega komist að niðurstöðu um að samráð hafi átt sér stað í öllum þeim tilvikum sem hann hafi fjallað um í ákvörðun sinni og áfrýjunarnefndin þá einnig í þeim tilvikum sem hún tekur undir eða staðfestir niðurstöðu aðalstefnanda. Þá taka gagnstefnendur undir með nefndinni hvað þau tilvik varðar þar sem hún taldi samráð ekki hafa átt sér stað og að aðalstefnandi hefði dregið of víðtækar ályktanir af gögnum málsins. Dómurinn mun í eftirfarandi umfjöllun taka afstöðu til umræddra tilvika eftir því sem þurfa þykir samhengis vegna. Gagnstefnendur hafa einnig gert athugasemdir við málatilbúnað aðalstefnanda og talið hann vera í andstöðu við d- og e-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og varða hugsanlega frávísun málsins án kröfu. Aðalstefnandi taki þannig ekki tillit til þess að gagnstefnandinn Norvik hf. hefur þegar innt af hendi þá sekt er áfrýjandinn lagði á gagnstefnendur, að fjárhæð 65.000.000 króna, og yrði fallist á kröfu hans í aðalsök næmi endanleg sektargreiðsla 715.000.000 króna, sem eðli málsins samkvæmt fái ekki staðist. Þá sé þess krafist að greiðslan verði innt af hendi einum mánuði frá dagsetningu úrskurðar nefndarinnar, en ómögulegt sé að verða við þeirri skyldu. Þá láti aðalstefnandi við það sitja í umfjöllun um málsástæður að vísa til dómskjala í ákvörðun sinni. Eigi það við um ýmis atriði sem aðalstefnandi telur að áfrýjunarnefndin hafi ranglega komist að niðurstöðu um í úrskurði sínum. Dómurinn telur að framangreind atriði séu ekki með þeim hætti að varði frávísun málsins og krafa aðalstefnanda sé dómtæk þrátt fyrir vissan óskýrleika. Þá verður ekki heldur talið að framsetning aðalstefnanda á málsástæðum sínum geti leitt til frávísunar málsins á grundvelli vanreifunar, enda verður ekki séð að hún hafi haft nokkur áhrif eða komið nokkuð niður á vörnum gagnstefnanda í málinu, sem eru umfangsmiklar og ítarlegar eins og gögn málsins bera með sér. Í máli þessu liggur fyrir að Holtavegur ehf., áður Húsasmiðjan ehf., gerði sátt við aðalstefnanda 9. júlí 2014 og hefur efni hennar verið ítarlega rakið. Aðila máls þessa greinir á um hvort og þá hvaða þýðingu sáttin eigi að hafa við úrlausn máls þessa. Byggja gagnstefnendur á því að aðalstefnandi hafi gefið sáttinni verulegt vægi við úrlausn málsins, þvert á staðreyndir þess, í andstöðu við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Þessu hefur aðalstefnandi mótmælt og bent á að tekin hafi verið sjálfstæð afstaða til þess hvort gagnstefnandinn Byko ehf. hefði brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins, óháð efni sáttarinnar. Dómurinn telur óhjákvæmilegt að líta svo á sáttin hafi ákveðið sönnunargildi, sér í lagi þar sem hún styður við gögn málsins, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 112/2014. Er það haft í huga við úrlausn málsins hér á eftir. Í 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga kemur fram að allir samningar og samþykktir milli fyrirtækja, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstillar aðgerðir, sem hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað, séu bannaðar. Samkvæmt a-lið 2. mgr. greinarinnar tekur bannið til samninga, samþykkta og samstilltra aðgerða sem áhrif hafa á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör með beinum eða óbeinum hætti. Í athugasemdum með 3. gr. í frumvarpi til laga nr. 107/2000, sem færði 10. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993 í núverandi horf, sagði að með hugtakinu „samstilltar aðgerðir“ væri „átt við að tvö eða fleiri fyrirtæki samræmi aðgerðir sínar, án þess að eiginlegur samningur sé gerður þar um. Það verður þó að teljast skilyrði að fyrirtækin sem um ræðir hafi átt með sér einhvers konar bein eða óbein samskipti, t.d. í formi fundahalda eða með því að skiptast á upplýsingum.“ Þá sagði að erfitt kynni að vera í einstökum tilvikum að greina annars vegar á milli samræmdra eða samstilltra aðgerða fyrirtækja, sem þau meðvitað tækju þátt í til þess að takmarka samkeppni, og hins vegar þegar fyrirtæki hagi sér eins eða líkt á markaði vegna samkeppninnar. Sem dæmi um hið síðarnefnda megi nefna fákeppnismarkað þar sem fyrirtæki á slíkum markaði hafi sífellt í huga hver viðbrögð keppinautanna á markaðnum verða við tiltekinni markaðshegðun, t.d. verðlækkun. Yfirleitt eigi þó athugun á markaðnum og markaðsaðstæðum að geta leitt í ljós hvort um samstilltar aðgerðir sé að ræða. Á grundvelli slíkra athugana taki samkeppnisyfirvöld ákvörðun um viðeigandi ráðstafanir. Þannig muni samkeppnisyfirvöld geta lagt á stjórnvaldssekt telji þau að undangenginni slíkri athugun að yfirgnæfandi líkur séu á að um samstilltar aðgerðir sé að ræða, enda þótt engin skjalfest sönnun liggi fyrir. Þá segir að skýra beri „hugtakið samstilltar aðgerðir rúmt og í samræmi við evrópskan samkeppnisrétt á þann hátt að hugtakið taki til sérhverra beinna eða óbeinna samskipta milli fyrirtækja, sem hafa þann tilgang að hafa áhrif á samkeppni eða hafa slík áhrif í reynd. Í þessu getur m.a. falist að fyrirtæki skiptist á upplýsingum um verð eða framleiðslumagn eða öðrum slíkum viðskiptaupplýsingum og af því leiði samræmd markaðshegðun. Með því að tilgreina einnig samstilltar aðgerðir í ákvæðinu má segja að ekki skipti máli hver grundvöllurinn að hinum ólögmætu samkeppnishömlum er, þ.e. hvort þær byggjast á samningi, samþykkt eða þegjandi samkomulagi sem lýsir sér í samstilltum aðgerðum. Liggi fyrir að markmið aðgerðanna sé að takmarka samkeppni eða hún sé í raun takmörkuð af aðgerðum fyrirtækja sem leiðir af samanteknum ráðum er um að ræða brot á þessari grein.“ Í 1. mgr. 21. gr. samkeppnislaga segir að aðalstefnandi, áfrýjunarnefnd samkeppnismála og íslenskir dómstólar skuli beita 53. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, eftir því sem kveðið sé á um í lögunum. Þá segir í 1. mgr. 26. gr. laganna að beiti áðurnefndar stofnanir og dómstólar ákvæðum laganna vegna samninga fyrirtækja, ákvarðana samtaka fyrirtækja eða samstilltra aðgerða í skilningi 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, sem gætu haft áhrif á viðskipti milli aðila að EES-samningnum, skuli þau einnig beita 53. gr. EES-samningsins að því er varðar slíka samninga, ákvarðanir eða samstilltar aðgerðir. Í athugasemdum um 26. gr. í frumvarpi því er að varð að lögum nr. 44/2005 segir að í ákvæðinu, sem sé nýmæli, sé fjallað um samspil samkeppnislaga og samkeppnisreglna EES-samningsins. Ef áhrifa af aðgerðum fyrirtækja gætir á Evrópska efnahagssvæðinu og hér á landi þannig að 53. gr. samningsins eigi við, svo og 10. gr. samkeppnislaga, skuli báðum bálkum beitt. Í 1.–2. mgr. ákvæðisins sé áréttað að hafi tiltekin athöfn fyrirtækis áhrif á viðskipti á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 53. gr. EES-samningsins, auk þess að hafa áhrif á Íslandi, falli sú athöfn innan beggja kerfa. Þeim sé með öðrum orðum beitt samtímis. Sé skilyrðið um áhrif á viðskipti á Evrópska efnahagssvæðinu ekki uppfyllt verði 53. gr. ekki beitt heldur aðeins samkeppnislögum. Ákvæði 10. gr. núgildandi samkeppnislaga er samhljóða 10. gr. eldri samkeppnislaga, en það var lögfest með lögum nr. 107/2000 um breytingu á samkeppnislögum nr. 8/1993. Í frumvarpi sem varð að þeim lögum segir að fyrirmynd ákvæðisins sé sótt til 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins og sé framkvæmd Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins, auk dómstóla EB og framkvæmdastjórnar ESB, leiðbeinandi við túlkun ákvæðisins eftir því sem við eigi um markaðsaðstæður hér á landi. Samkvæmt 53. gr. EES-samningsins eru bannaðir allir samningar milli fyrirtækja, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltar aðgerðir sem geta haft áhrif á viðskipti milli samningsaðila og hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað á því svæði sem samningurinn tekur til. Eins og áður er fram komið er ákvörðun aðalstefnanda ítarleg og studd fjölmörgum gögnum. Má ljóst vera að rannsókn málsins var gríðarlega umfangsmikil. Hefur uppbyggingu ákvörðunarinnar þegar verið lýst en rétt er að árétta hér að í henni er gerð grein fyrir samskiptum starfsmanna gagnstefnandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. á öllu rannsóknartímabilinu og raunar fyrir þann tíma, þau greind á nákvæman hátt eftir efni og tímabilum og af þeim dregnar ályktanir. Þá er í öllum tilvikum gerð grein fyrir sjónarmiðum og útskýringum gagnstefnandans gagnvart ályktunum aðalstefnandans í umfjöllun um einstaka efnisþætti málsins. Dómurinn tekur því fram strax í upphafi að hann telur ekkert í ákvörðun aðalstefnanda benda til þess að rannsóknarregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin við meðferð málsins hjá aðalstefnanda eins og gagnstefnendur halda fram. Benda gögn málsins raunar til þess, eins og áður sagði, að rannsóknin hafi þvert á móti verið ítarleg og nákvæm og miðað að því að draga fram þau atriði sem leiddu til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en ákvörðun yrði tekin í því. Á það einnig við um tilvik sem gagnstefnendur benda á því til stuðnings að ekki hafi verið horft til tímabila og atriða er bentu til þess að samkeppni væri milli fyrirtækjanna tveggja og styddu því ekki samráð þeirra á milli. Tekur dómurinn fram að ekkert sé að athuga við framsetningu og umfjöllun aðalstefnanda hvað þetta varðar sem er að finna í lok ákvörðunarinnar. Bendir dómurinn á að rannsókn aðalstefnanda beindist að samráði fyrirtækjanna í tilteknum vöruflokkum á tilteknu tímabili sem fram fór með tilteknum hætti. Þótt fyrirtækin hafi á sama tíma átt í samkeppni um aðrar vörur í öðrum vöruflokkum sýni það ekki fram á að aðalstefnandi verði ekki talinn hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni eða hafa beitt nægilegri hlutlægni við meðferð málsins. Er sjónarmiðum gagnstefnenda hvað þetta varðar því hafnað. Í samkeppnisrétti hefur verið litið svo á að starfi fyrirtæki reglubundið saman á ákveðnu tímabili til að ná fram sameiginlegu markmiði um að raska samkeppni andstætt ákvæðum 10. gr. samkeppnislaga megi líta svo á að um samfellt samráð þeirra hafi verið að ræða. Hefur þegar verið gerð grein fyrir efni 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins og hugtakinu „samstilltar aðgerðir“. Í máli þessu liggur fyrir að lykilstarfsmenn í þeim samskiptum sem lýst er í ákvörðun aðalstefnanda voru með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 360/2015 sakfelldir fyrir samráðsbrot sem fóru gegn ákvæðum samkeppnislaga, en eins og áður er fram komið hafði héraðsdómur einungis sakfellt einn þeirra en sýknað hina. Hæstiréttur taldi sannað, með vísan til þeirra gagna sem lögð höfðu verið fram í málinu, að samráðið hefði verið með þeim hætti að gagnstefnandinn Byko ehf. hefði upphaflega spurst fyrir um verð hjá Húsasmiðjunni ehf. í símtölum en samskiptin hefðu síðan þróast úr því að vera einhliða í að verða gagnkvæm þar sem þeir sem ræðst hefðu við skiptust á upplýsingum um verð hjá fyrirtækjunum á sömu eða sambærilegum vörutegundum sem einkum hefðu tilheyrt svokallaðri grófvöru. Hefði tilgangurinn með upplýsingagjöfinni augljóslega verið sá að fá gleggri mynd af verðum keppinautarins á samkeppnisvörum og þróun þeirra en kostur hefði verið fyrir fyrirtækin hvort um sig með því að kynna sér einungis verðin með þeim aðferðum sem neytendum stóðu til boða. Taldi dómurinn að hin tíðu og reglubundnu samskipti fyrirtækjanna hefðu falið í sér samstilltar aðgerðir með það að markmiði að raska samkeppni milli þeirra og því brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga. Hið sama var talið eiga við um samskipti gagnstefnandans og þriðja fyrirtækisins þótt umfang þeirra hefði verið takmarkað. Þar sem um hefði verið að ræða samráð um verð milli fyrirtækja á sama sölustigi hefðu þeir sem framkvæmdu, hvöttu til þess eða létu framkvæma það borið refsiábyrgð samkvæmt 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 41. gr. a. laganna. Gagnstefnendur hafa í máli þessu byggt á því að dómur Hæstaréttar byggi á röngum forsendum og verður að skilja grundvöll málatilbúnaðar þeirra hér fyrir dóminum á þann veg að í framangreindum samskiptum, sem er fjallað um í dóminum og ákvarðanir samkeppnisyfirvalda taka til, hafi ekki falist brot á 10. gr. samkeppnislaga. Þau hafi verið upplýsingagjöf um gildandi, opinber verð sem öllum voru aðgengileg sem á annað borð vildu nálgast þau. Þannig geti háttsemin ekki talist brot gegn ákvæðinu þar sem hún hafi hvorki verið til þess fallin að hafa áhrif á verð á markaði né gert það í raun, en bæði þessi atriði hafi verulega þýðingu við mat á því hvort háttsemi verði talin brjóta gegn áðurnefndu ákvæði, og þá á alvarleikastig slíks brots. Undir rekstri þessa máls freistuðu gagnstefnendur þess að færa sönnur á framangreint með öflun matsgerðar um að háttsemi gagnstefnandans Byko ehf. hefði ekki verið til þess fallin að hafa áhrif á verðmyndun á markaði. Þessari kröfu var hafnað í héraði og sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar í máli nr. 224/2017. Þar kemur fram að með dómi Hæstaréttar í máli nr. 360/2015, sem áður er getið, hefði verið komist að þeirri niðurstöðu að háttsemi gagnstefnandans hefði á ákveðnu tímabili brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og hefði sá dómur fullt sönnunargildi um það atriði þar til hið gagnstæða væri sannað, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 og 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008. Í málinu leiddu gagnstefnendur fram fjölmörg vitni fyrir dóminn, sem mörg hver sættu ákæru í áðurnefndu sakamáli, þar sem þau lýstu því að um venjuleg samskipti keppinauta hefði verið að ræða sem væru alvanaleg á þeim samkeppnismarkaði sem fyrirtækin störfuðu á og að skipst hefði verið á opinberum upplýsingum um gildandi smásöluverð sem hefðu verið aðgengilegar öllum þeim sem vildu nálgast þær. Þá voru einnig lögð fram í málinu endurrit af skýrslutökum yfir fjölmörgum ákærðu í fyrrnefndu sakamáli. Þrátt fyrir þetta verður að telja að því hafi ekki verið hnekkt fyrir dóminum að gagnstefnandinn Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf. hafi með samskiptum sínum, sem lýst er í ákvörðunum samkeppnisyfirvalda og fá stoð í gögnum málsins, brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og hafa ekki verið færðar sönnur á annað. Fólust samskiptin í samstilltum aðgerðum sem höfðu það að markmiði að halda uppi verði og takmörkuðu þannig og röskuðu samkeppni milli fyrirtækjanna. Fyrirkomulag samskiptanna, sem voru regluleg og tíð, oftast milli sömu starfsmanna fyrirtækjanna og um sömu vöruflokkana, leiddi til þess að ástand skapaðist milli fyrirtækjanna sem dró úr óvissu en gerði hegðun keppinautarins gagnsærri og gerði þeim kleift að sjá fyrir framtíðarhegðun keppinautarins. Getur það ekki verið nokkrum vafa undirorpið að um var að ræða samráð í skilningi samkeppnisréttar. Auk þess þykja gögn málsins sýna hvernig hin reglulegu verðsamskipti í umræddum verðkönnunarsímtölum voru notuð til að halda verði uppi og að framkvæmd þeirra gerði fyrirtækjunum kleift að takmarka þannig samkeppni í sölu á grófvöru. Með 10. gr. samkeppnislaga er ekki lagt bann við því að fyrirtæki kanni verð hjá keppinautum sínum. Þótt dómurinn fallist þannig á að í samkeppni sé mikilvægt fyrir fyrirtæki að fylgjast með verðbreytingum á markaðnum í því skyni að ná til sín viðskiptum er engan veginn hægt að líta svo á að svo markviss upplýsingasöfnun í formi tíðra og skipulagðra samskipta geti talist eðlileg og til marks um heilbrigða samkeppni. Þegar litið er til tíðni samskiptanna, áframsendingar og miðlunar þeirra til næstu yfirmanna og þannig til þeirra sem tóku ákvarðanir um verð, útfærslu kannananna og framsetningar í hinum svokölluðu verðkönnunarskjölum er óhjákvæmilegt að telja að stjórnendum gagnstefnandans hafi ekki getað dulist að slík samskipti gætu ekki talist eðlileg milli keppinauta á samkeppnismarkaði. Þá gat þeim heldur ekki dulist að upplýsinganna var aflað með reglubundnum símtölum milli fyrirtækjanna, en fram er komið í málinu að fjallað var um verðkannanir á framkvæmdastjórafundum gagnstefnandans Byko ehf. og ákvarðanir um verðbreytingar voru teknar á þeim fundum í kjölfar verðkannana. Þá er hafnað þeim sjónarmiðum gagnstefnenda að samskiptin hafi ekki getað falið í sér brot gegn 10. gr. samkeppnislaga þar sem veittar hafi verið upplýsingar um gildandi, opinber verð. Fyrir það fyrsta er því slegið föstu í áðurnefndum dómi Hæstaréttar að svo hafi ekki verið í öllum tilvikum. Þannig hafi sumar vörur verið tilboðs- eða stjörnumerktar. Dómurinn telur að þessar merkingar hafi í sjálfu sér ekki nein úrslitaáhrif á þá niðurstöðu hvort verðin voru talin opinber eða ekki, þegar það er haft í huga að afleiðing samskiptanna var sú að fyrirtækjunum var gert kleift að laga sig að verðum keppinautarins og tryggja þannig að vera ávallt hæfilega nálægt hvort öðru. Virðist þá hafa verið misjafnt hvort fyrirtækið „elti“ hitt. Með þessu héldu fyrirtækin uppi vöruverði og bættu framlegð sín á kostnað viðskiptavina. Er því tekið undir með aðalstefnanda hvað það varðar að verðin hafi ekki verið „fyllilega opinber“ í skilningi samkeppnisréttar þar sem þau fólu ekki í sér „skuldbindingargildi“ að þessu leyti. Raunar verður að fallast á með aðalstefnanda að það myndi engu breyta þótt andlag verðsamskiptanna hafi verið opinberar upplýsingar um gildandi verð. Eftir sem áður var um bein verðsamskipti höfuðkeppinauta að ræða, sem ljóslega voru til þess fallin að raska samkeppni, og það eru samskiptin sem fela í sér brot. Auk þess verður að hafa í huga að framkvæmd verðkönnunarsímtalanna sýnir að fyrirtækin höfðu nokkuð fyrir því að fá umræddar verðupplýsingar, enda gátu símtölin tekið langan tíma og inn í verðkönnunarskjölin voru færðar upplýsingar um yfir 100 vöruflokka. Líta verður svo á að fyrirkomulag þessara símtala hafi gert fyrirtækjunum auðveldara en t.d. almennum neytendum að fá umræddar verðupplýsingar. Er í það minnsta ekki sýnt fram á það af hálfu gagnstefnenda af hverju fyrirtækin lögðu í svo mikil samskipti vegna annars en þess að þetta gerði þeim auðveldara fyrir en öðrum og skapaði meira hagræði við upplýsingaöflun en ella og þau hafi séð sér hag í því. Er tekið undir það með aðalstefnanda að hafi keppinautar fyrir því að eiga í beinum upplýsingaskiptum gefi það til kynna að viðkomandi upplýsingar séu ekki að öllu leyti opinberar í þessum skilningi. Er því ekki unnt að líta svo á að upplýsingarnar hafi verið jafn aðgengilegar fyrir almenna viðskiptavini fyrirtækjanna. Telur dómurinn að þau sjónarmið gagnstefnenda að af hálfu aðalstefnanda hafi ekki hafi farið fram kostnaðarmat hvað þetta varðar hafi ekki nokkra þýðingu í þessu sambandi. Samkvæmt ofansögðu verður að telja að framangreind háttsemi hafi haft það að markmiði og verið til þess fallin að raska samkeppni. Verður því staðfest sú niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála að gagnstefnandinn Byko ehf. hafi á rannsóknartímabilinu brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga að þessu leyti, en nefndin staðfesti með því niðurstöðu aðalstefnanda. Hefur gagnstefnendum ekki lánast sönnun fyrir öðru í málinu eins og áður sagði. Í ákvörðun aðalstefnanda er því lýst að umrædd fyrirtæki, Byko ehf. og Húsasmiðjan ehf., hafi um langt árabil átt samskipti um verðlagningu á byggingarvörum og önnur viðskiptaleg málefni. Þannig hafi við húsleit fundist gögn sem gefi til kynna að verðsamskipti hafi átt sér stað milli fyrirtækjanna allt frá árinu 2000. Þá bendi gögn málsins einnig til þess að á milli fyrirtækjanna hafi ríkt samkomulag um afsláttarmál allt frá árinu 1996. Þótt framangreind tilvik hafi ekki verið talin hluti af hinu samfellda samráði eru þau talin hafa þýðingu við að varpa ljósi á samskipti fyrirtækjanna í aðdraganda rannsóknartímabilsins. Er rakið í ákvörðun aðalstefnanda og málatilbúnaði hans fyrir dóminum hvernig litið er heildstætt á samskipti fyrirtækja þegar skorið er úr um hvort samráð hafi átt sér stað. Í framangreindum tilvikum hafi verið um að ræða yfirmenn hjá fyrirtækjunum sem síðar hafi gegnt lykilhlutverki í því samráði sem málið taki til. Eins og áður sagði markast upphaf samráðstímabilsins í ákvörðun aðalstefnanda við tölvuskeyti sem þáverandi forstjóri Byko ehf. sendi stjórn fyrirtækisins 26. nóvember 2008 og það er talið vera hluti af samfelldu broti sem staðið hafi frá þeim tíma og fram í mars 2011. Tölvuskeytið varðaði upplýsingar um almennan starfsmannafund hjá Húsasmiðjunni ehf. það kvöld, hópuppsagnir, breytta opnunartíma, ýmsar aðhaldsaðgerðir o.fl. Af þeim upplýsingum sem þar komu fram dró aðalstefnandi þá ályktun að gagnstefnandinn hefði fengið þær frá Húsasmiðjunni ehf. Þá er í ákvörðuninni sérstaklega tiltekið að síðarnefnda fyrirtækið hafi viðurkennt í sáttinni að hafa í nóvember 2008 brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga með því að hafa veitt gagnstefnandanum upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á rekstri fyrirtækisins. Í úrskurði sínum féllst áfrýjunarnefnd samkeppnismála ekki á þetta og taldi ljóst að ekki yrði fullyrt að umræddar upplýsingar hefðu komið frá starfsmanni Húsasmiðjunnar. Dómurinn tekur undir það sjónarmið nefndarinnar og áréttar í því sambandi að efni tölvupóstsins beri frekar merki þess að vera „almennar vangaveltur“ um stöðu fyrirtækisins á erfiðum markaði, en alkunna er að aðstæður í samfélaginu á þessum tíma höfðu breyst frá því sem verið hafði nokkrum árum áður. Hafnar dómurinn því þeim sjónarmiðum aðalstefnanda að þetta tilvik sé hluti af samfelldu samráði fyrirtækjanna tveggja, en staðfestir ályktun áfrýjunarnefndarinnar að þessu leyti. Þykir ekki breyta í þessu samhengi þótt Húsasmiðjan ehf. hafi að þessu leyti viðurkennt brot á 10. gr. samkeppnislaga í sátt sinni við aðalstefnanda. Hvað varðar dagbókarfærslu forstjóra gagnáfrýjandans Byko ehf. frá 19. febrúar 2010, þar sem fjallað er um framlegð, verð á timbri, afskriftarfjárhæðir o.fl., tekur dómurinn undir það með aðalstefnanda að færslan beri með sér að þar hafi einhver stjórnandi Húsasmiðjunnar veitt viðkvæmar viðskiptaupplýsingar. Þykir dóminum ljóst að þarna hafi átt sér stað miðlun upplýsinga um rekstur samkeppnisaðilans, þess eðlis að ekki gat annað verið en að þær kæmu frá honum. Þetta tilvik sé því til marks um og hluti af samfelldu samráði fyrirtækjanna.Verður því að telja að um sé að ræða tilvik sem styðji að um samráðsbrot hafi verið að ræða og tilvikið sé til marks um og hluti af samfelldu samráði fyrirtækjanna. Sjónarmiðum gagnstefnenda um annað er því hafnað og niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar hvað þetta varðar staðfest. Eins og rakið hefur verið taldi aðalstefnandi í ákvörðun sinni að fyrirspurnir starfsmanna gagnstefnandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. í október 2010 hefðu falið í sér samstillt tilboð um verðsamráð. Áfrýjunarnefndin taldi samskiptin ekki hafa verið þess eðlis að hægt væri að segja að Múrbúðinni hefði verið boðin þátttaka í samráði og ekki umfram það sem búast mætti við þegar gengið væri eftir verðum sem nýr þáttakandi á markaði byði. Dómurinn fellst ekki á þessi sjónarmið áfrýjunarnefndarinnar, heldur telur hann að gögn málsins bendi til þess að starfsmenn fyrirtækjanna hafi gengið mjög hart fram í því að fá upplýsingar um verð grófvöru, birgja o.fl. frá væntanlegum samkeppnisaðila á markaðnum. Hafa verður í huga að þegar starfsmennirnir gengu sem harðast fram í þessu hafði Múrbúðin ekki opnað verslun sína. Er ekki unnt að fallast á að þessi samskipti hafi falið í sér eðlilegar fyrirspurnir um verð. Er þá horft til tíðni símtala fyrirtækjanna tveggja við Múrbúðina og heimsókna lykilstarfsmanna á sviði grófvöru í húsnæði hennar. Þá telur dómurinn að ummæli starfsmanna í símtali sem átti sér stað 28. febrúar 2011 styðji það að samráð hafi átt sér stað vegna innkomu Múrbúðarinnar í október 2010. Telur dómurinn að gögn málsins bendi eindregið til þess að samráð hafi átt sér stað varðandi Múrbúðina og hefur því ekki verið hnekkt í málinu. Er tekið undir sjónarmið aðalstefnanda að þessu leyti. Hvað varðar tölvuskeyti stjórnarmanns gagnstefnandans Norvikur hf. 25. október 2010 til samstarfsmanna sinna þar sem vísað er til mats „stjórnarformanns Húsasmiðjunnar“ vegna breyttrar verðstefnu síðarnefnda fyrirtækisins sem gekk undir heitinu „Project Red“ þykir dóminum ljóst að þarna hafi átt sér stað miðlun upplýsinga um rekstur samkeppnisaðilans sem ekki hefur verið sýnt fram á að hafi komið frá öðrum en þeim sem nefndur er í skeytinu. Verður því, rétt eins og hér greinir að framan, að telja að um sé að ræða tilvik sem styðji að um samráðsbrot sé að ræða, sem þar að auki hafi átt sér stað á vettvangi stjórna gagnstefnenda. Er sjónarmiðum gagnstefnenda um annað hafnað. Dómurinn tekur fram að verðstefna keppinautarins mun ekki hafa verið komin til framkvæmda á þessum tíma, og raunar ekki orðin opinber, og má ráða af gögnum að stjórnendur gagnstefnandans Byko ehf. undirbjuggu viðbrögð í ljósi þessara upplýsinga. Verður því staðfest niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar hvað þetta varðar. Hvað varðar símtal lykilstarfsmanna fyrirtækjanna á sviði grófvöru 28. febrúar 2011 er lagt til grundvallar í úrskurði áfrýjunarnefndar að starfsmaður gagnstefnandans Byko ehf. hafi hvatt til samráðs, kynnt eigin áform um hækkanir og bent á einstök tilvik þar sem nauðsynlegt væri að hans mati að Húsasmiðjan breytti verðstefnu sinni. Ítarlega hefur verið gerð grein fyrir efni símtalsins hér framar og helstu efnisatriði þess rakin þar. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 360/2015 kemur fram að ekki fari á milli mála að í símtalinu hafi hinir ákærðu hvatt hvor annan til að haldi uppi verðum hjá fyrirtækjunum í grófvöru, þ. á m. við gerð tilboða. Starfsmaður gagnstefnandans Byko ehf. hafi þó gengið lengra í þá veru. Dómurinn telur að ekkert sé fram komið í málinu sem hrakið geti það að um brot á 10. gr. samkeppnislaga hafi verið að ræða í þessu tilviki, og það alvarlegt brot. Verður niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar hvað þetta varðar því staðfest. Dómurinn telur raunar að áfrýjunarnefndin hafi gengið of skammt í ályktunum sínum, en tekur undir það með aðalstefnanda að í símtalinu hafi fyrirtækin ákveðið að hækka verð í áföngum í öllum tilboðum sínum á grófvöru, að grípa til sérstakra aðgerða í þeim tilgangi að minnka samkeppni í tilboðum á Selfossi og Akureyri, að vinna gegn verðsamkeppni í sölu á gagnvörðu timbri, græna efninu svokallaða, og reyna þess í stað að hækka verð á því, að hækka verð á miðstöðvarofnum og að fylgjast með aðgerðum Múrbúðarinnar ehf. á markaðnum. Þá greindi gagnstefnandinn Húsasmiðjunni ehf. frá þeirri fyrirætlan sinni að hækka verð á annarri vöru en grófvöru, t.d. heimilistækjum. Þá tekur dómurinn undir það með aðalstefnanda að brotið hafi verið fullframið er símtalið átti sér stað en auk þess sé skýrt af samtímagögnum að bæði fyrirtækin brugðust við og hækkuðu verð. Dómurinn hafnar því að um einangrað tilvik sé að ræða og fyrirtækin geti ekki borið ábyrgð á dómgreindarskorti eins starfsmanns síns. Dómurinn telur það engum vafa undirorpið að fyrirtæki bera ábyrgð á slíkri samkeppnisskaðandi háttsemi starfsmanna sinna. Árétta verður að þau samskipti sem þróast höfðu með fyrirtækjunum þegar þarna var komið sögu sköpuðu jarðveg til að víkka útsamráðið og ganga sífellt lengra í samstilltum aðgerðum og höfðu þannig eflt samvinnu fyrirtækjanna frekar en ekki. Þá áréttar dómurinn einnig að ekkert í samtalinu eða atvikum eftir að það átti sér stað gefur til kynna að gagnstefnandi hafi haft uppi einhver mótmæli eða sett fram skýra fyrirvara þegar vitneskjan var látin því í té. Er því um skýrt brot gegn 10. gr. samkeppnislaga að ræða. Þá tekur dómurinn fram að hann fellst á þá niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar að fyrirtækin hafi ekki haft ólögmætt samráð um sölu og verð á miðstöðvarofnum í nóvember og desember 2010, og telur þau samskipti ekki tengjast því samráði sem komst á í símtalinu 28. febrúar 2011 og getið er hér að framan. Dómurinn tekur fram að ályktanir um einstök samráðstilvik hafa fyrst og fremst þýðingu við mat á alvarleika samráðsins. Er tekið undir með áfrýjunarnefndinni að þessu leyti. Þá tekur dómurinn einnig undir það með nefndinni að upplýsingaskiptin á rannsóknartímabilinu hafi verið til þess fallin að raska samkeppni og því brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga. Dómurinn telur þó rétt að árétta að gögn málsins benda til þess að samskipti fyrirtækjanna hafi ekki í upphafi rannsóknartímabilsins verið jafnkerfisbundin og raunin varð síðar. Virðast samskiptin þó hafa verið orðin nokkuð regluleg í upphafi ársins 2010 og komin í nokkuð fastar skorður um haustið það ár og í flestum tilvikum orðin gagnkvæm. Horfir dómurinn þar sérstaklega til gagna sem rakin eru um samskipti innan fyrirtækjanna á þessum tíma og styðja þetta, t.d. verðhækkun gagnstefnandans Byko ehf. 14. janúar 2010 og tölvuskeyti vörustjóra timbursölu Húsasmiðjunnar 27. janúar 2010. Á þessum tíma fer að skapast ástand þar sem keppninauturinn er meðvitaður um líkleg viðbrögð við hækkunum og það leiðir til þess að nauðsynleg óvissa á markaðnum minnkar en að sama skapi verður til vissa hjá keppinautunum um hegðun hvors annars. Virðist sem fyrirtækin hafi verið farin að ganga út frá því að samskiptin ættu sér stað með reglulegum hætti og jafnvel á tilteknum vikudögum. Þá verður ekki fram hjá því litið að verðsamskiptin fólu einnig í sér upplýsingar um verðáform eða verðfyrirætlanir í skilningi samkeppnisréttar, þ.e. upplýsingar um framtíðarhegðun. Var þá í rauninni upplýst um áform um að hækka verð eða tilboð gert um verðhækkun. Það er því ekki heldur í þessu ljósi hægt að taka undir að verðsamskiptin hafi að mestu einskorðast við gildandi verð. Þá áréttar dómurinn að ekki skipti máli þótt í einhverjum tilvikum hafi verð lækkað eða samkeppni verið milli fyrirtækjanna í öðrum vöruflokkum en rannsókn aðalstefnanda tók til. Horfa verði til heildarmats á gögnum að þessu leyti. Þá verður að árétta að það er eðli samskiptanna og fyrirkomulag þeirra sem gerir þau ólögmæt. Undir rekstri þessa mál óskuðu gagnstefnendur eftir því að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á túlkun 53. gr. EES-samningsins. Þessari kröfu var hafnað í héraðsdómi og var sú niðurstaða staðfest í dómi Hæstaréttar í máli nr. 298/217. Þar er áréttað að með dómi réttarins í máli nr. 360/2015 hafi starfsmenn fyrirtækjanna verið sakfelldir fyrir brot gegn 41. gr. a. samkeppnislaga nr. 44/2005, sbr. 10. gr. laganna. Í dóminum hafi 1. mgr. 10. gr. samkeppnislaga, sem sé sama efnis og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, verið skýrð með þeim hætti að sú háttsemi sem ákært var fyrir, sem sé sú sama og mál þetta sé sprottið af, hafi verið ólögmæt. EFTA-dómstóllinn hefði í dómi sínum í máli nr. E-3/2016 vísað til þess hvernig 53. gr. samningsins og samsvarandi ákvæði í sáttmálum Evrópubandalagsins og Evrópusambandsins hefðu verið túlkuð í dómaframkvæmd. Samkvæmt henni væri augljóst að vissar tegundir samráðs milli fyrirtækja feli í eðli sínu í sér slíka röskun á samkeppni, svo sem vegna markmiðs samráðsins, að unnt sé að slá því föstu að um sé að ræða brot án þess að þörf sé á að kanna hverjar afleiðingar þess hafi verið. Í ljósi þessara ummæla EFTA-dómstólsins yrði ekki fallist á að túlkun hans á 53. gr. EES-samningsins hefði ekki samrýmst afstöðu Hæstaréttar í fyrrnefndum dómi, að háttsemin, sem þar var fjallað um, hefði samkvæmt markmiði sínu verið til þess fallin að raska samkeppni í skilningi 10. gr. samkeppnislaga. Þegar hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að þau samskipti sem um er fjallað í máli þessu hafi haft það að markmiði og verið til þess fallin að raska samkeppni og því brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga. Hafi gagnstefnendum ekki lánast sönnun fyrir öðru. Ákvæði 53. gr. EES-samningsins bannar samninga og samstilltar aðgerðir fyrirtækja sem raskað geta samkeppni og gildir ef sú háttsemi getur haft áhrif á viðskipti milli samningsaðila EES-samningsins, sbr. dóm EFTA-dómstólsins í máli nr. E-4/05. Líta verður svo á að orðalagið að samningur eða aðgerðir „geti haft áhrif“ milli EES-ríkja feli í sér að samningurinn eða aðgerðin geti haft áhrif, bein eða óbein, raunveruleg eða hugsanleg, á mynstur viðskipta milli EES-ríkjanna. Þá hefur verið talið að þótt samráð sé bundið við aðeins eitt ríki sé það ekki nægilegt til að útiloka möguleikann á því að viðskipti milli ríkja geti, beint eða óbeint, orðið fyrir áhrifum. Dómurinn telur ljóst að 53. gr. EES-samningsins verði túlkað á þann hátt að nægjanlegt sé að háttsemi aðila á markaði verði talin fela í sér brot gegn ákvæðinu geti hún haft skaðleg áhrif, þ.e. sé til þess fallin að raska samkeppni, þó að hún hafi ekki raunverulega haft slík áhrif. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Dómurinn telur raunar að þetta hafi Hæstiréttur nú þegar gert varðandi 10. gr. samkeppnislaga, sbr. 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, sbr. dóm réttarins í málinu nr. 360/2015. Dómurinn telur því engum vafa undirorpið að beita beri 53. gr. EES-samningsins samhliða 10. gr. samkeppnislaga í máli þessu. Er sjónarmiðum og röksemdum gagnstefnanda um annað hafnað. Það er því niðurstaða dómsins hvað þetta varðar að gagnstefnandinn Byko ehf. hafi í verðkönnunarsímtölum á framangreindu tímabili og í þeim tilvikum sem að framan eru rakin brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Telur dómurinn heimfærslu aðalstefnanda rétta hvað þetta varðar . Í málinu hafa gagnstefnendur byggt á því að þeir hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar undir rekstri málsins, að því er virðist bæði hjá lögreglu og aðalstefnanda. Dómurinn tekur fram að upphaf málsins hjá aðalstefnanda geti ekki haft neina þýðingu varðandi gildi ákvarðana samkeppnisyfirvalda sem deilt er um í máli þessu. Þó að ábendingar hefðu borist frá keppinauti fyrirtækjanna gat það ekki eitt og sér orðið til þess að aðalstefnandi myndi ekki aðhafast í málinu. Kemur enda fram í gögnum málsins að þær upplýsingar sem forsvarsmenn Múrbúðarinnar gáfu aðalstefnanda fengu stoð í símagögnum sem aðalstefnandi aflaði, varðandi fjölda og tímasetningu símtala. Er þessum sjónarmiðum gagnstefnenda hafnað. Í 1. mgr. 20. gr. samkeppnislaga er kveðið á um að gagnáfrýjandi geti við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstað fyrirtækis og samtaka fyrirtækja og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögunum eða ákvörðunum samkeppnisyfirvalda. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skal við framkvæmd aðgerða fylgja ákvæðum um leit og hald muna í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Dómurinn bendir á að rannsóknaraðgerðir í málinu, eins og húsleit og haldlagning gagna, byggðu á heimildum dómstóla sem töldu á þeim tíma að rökstuddur grunur væri fyrir hendi um brot og heimiluðu aðgerðirnar á þeim forsendum. Lögmæti þessara aðgerða var ekki hnekkt fyrir dómi og þær sæta ekki endurskoðun í þessu máli. Gagnstefnendur telja einnig þann annmarka hafa verið á málsmeðferð aðalstefnanda að aflað hafi verið gagna sem ekki hafi tengst rannsókn málsins, eins og trúnaðarsamskipta við utanaðkomandi lögmenn hans. Dómurinn fær ekki séð að byggt hafi verið á slíkum gögnum í úrlausnum samkeppnisyfirvalda og raunar tilgreina gagnstefnendur ekki nánar hvaða gögn er um að ræða. Er þessum sjónarmiðum því hafnað. Dómurinn tekur þó fram hvað varðar símhleranir sem áttu sér stað eftir 8. mars 2011, þegar ákærðu höfðu gefið skýrslu hjá lögreglu og höfðu þá réttarstöðu sakaðs manns og Hæstiréttur gerir að umtalsefni í dómi sínum í máli nr. 360/2015, að rétt þyki vegna þeirra mikilsverðu réttinda sem þar reynir á að líta einnig fram hjá gögnum er til urðu eftir þann tíma við úrlausn þessa máls. Samkvæmt a. lið 1. mgr. 37. gr. samkeppnislaga leggur aðalstefnandi stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóta gegn banni 10. gr. laganna. Samkvæmt 2. gr. lagagreinarinnar geta sektir numið allt að 10% af heildarveltu síðasta rekstrarárs hjá hverju því fyrirtæki eða samtökum fyrirtækja sem aðild eiga að broti. Við ákvörðun á fjárhæð sektar skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota, hversu lengi brot hafa staðið og hvort um ítrekað brot er að ræða. Þannig skiptir tímalengd brots, umfang og huglæg afstaða máli þegar fjárhæð sektar er ákveðin innan þessara marka, en einnig er litið til fjárhagslegs styrkleika viðkomandi fyrirtækja. Hugtakið fyrirtæki er skilgreint í 2. tölulið 1. mgr. 4. gr. samkeppnislaga og hefur það verið skýrt þannig að með því sé fremur vísað til efnahagslegrar einingar en lögformlegrar. Af því leiðir að um slíka einingu er að ræða í tilviki móðurfélags og dótturfélags þar sem hið síðarnefnda hefur ekki raunverulegt frelsi til að ákveða aðgerðir sínar á markaði, svo sem tekið var fram í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til laga nr. 107/2000, sem færði 10. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993 í núverandi horf. Þegar svo hefur staðið á hefur samkeppnisyfirvöldum verið játuð heimild til að leggja sekt á móðurfélagið fyrir brot dótturfélagsins á 10. gr. samkeppnislaga með þeim rökum að eðlilegt sé að sá sem á endanum hefur arð af starfsemi hins brotlega félags hlíti viðurlögum vegna brotsins. Í máli þessu liggur fyrir að aðalstefnandi lagði 650.000.000 króna sekt á gagnstefnandann Norvik hf. með ákvörðun sinni 15. maí 2015 en áfrýjunarnefndin lækkaði sektina niður í 65.000.000 króna í úrskurði sínum 28. september 2015 og beindi henni að báðum gagnstefnendum. Eins og fram er komið var gagnstefnandinn Norvik hf. á þeim tíma sem mál þetta tekur til eini eigandi gagnstefnandans Byko ehf. Þá háttar svo til að stjórnendur þess síðarnefnda áttu sæti í stjórn þess fyrrnefnda. Þegar litið er til þessara eignar- og stjórnunartengsla hníga rök að því líta svo á að um eina efnahagslega einingu sé að ræða í skilningi samkeppnislaga. Hafa gagnstefnendur ekki hnekkt þeim löglíkum sem þessi staða felur í sér. Var aðalstefnanda því heimilt að leggja stjórnvaldssekt á gagnstefnandann Norvik hf. vegna samkeppnisbrota gagnstefnandans Byko ehf. Verður fallist á sjónarmið aðalstefnanda hvað þetta varðar. Þykir ekki breyta þessari niðurstöðu þótt gagnstefnandinn Norvik hf. sé eignarhaldsfélag líkt og byggt hefur verið á af hálfu gagnstefnenda. Með hliðsjón af niðurstöðu dómsins um brot, brotatímabil og alvarleika brota þykir sú sekt sem áfrýjunarnefndin lagði á of lág. Hér hefur helst þýðingu að um alvarlegt brot var að ræða á markaði milli markaðsráðandi fyrirtækja sem framin voru í þeim tilgangi að styrkja stöðu þeirra á kostnað neytenda. Var með því brotið gegn mikilvægum hagsmunum þorra almennings. Er þá einnig litið hvoru tveggja til almennra og sérstakra varnaraðaráhrifa stjórnvaldssekta í samkeppnismálum. Jafnframt þykir verða að horfa til þess að gagnstefnandinn Byko ehf. er hluti af öflugri efnahagslegri einingu sem dótturfélag gagnstefnandans Norvikur hf. Er óhjákvæmilegt að horfa til fjárhagslegs styrkleika þess síðarnefnda við sektarákvörðun. Hefur þeim tölulegu viðmiðum sem fram eru sett í ákvörðun aðalstefnanda um heildarveltu, hagnað og eigið fé ekki verið hnekkt hér fyrir dóminum. Þá þykir dóminum ekki óvarlegt, eins og máli þessu er háttað, að horfa til hliðsjónar til dóms Hæstaréttar í máli nr. 419/2015 hvað sektarfjárhæð varðar. Tekið skal þó fram að í því máli hafði ítrekun brots áhrif á sektarfjárhæð og þá var einnig talið að bæði væri um brot gegn 10. og 11. gr. samkeppnislaga að ræða. Dómurinn telur, að teknu tilliti til alls framangreinds, með vísan til þeirra viðmiða sem fram eru sett hér að framan, og að lögðu heildarmati á aðstæður í máli þessu, að sektarfjárhæð vegna brotanna sé hæfilega ákveðin 400.000.000 króna. Eins og rakið er í upphafi forsendna dómsins er ekki í kröfugerð aðalstefnanda tekið tillit til þess að gagnstefnandinn Norvik hf. innti af hendi 65.000.000 króna sektargreiðslu að gengnum úrskurði áfrýjunarnefndar. Dómurinn taldi þó að þetta varðaði ekki frávísun málsins. Á hinn bóginn stoðar ekki fyrir aðalstefnanda að vísa til þess að í framkvæmd myndi þessi greiðsla dragast frá þegar þar að kæmi, féllist dómurinn á annað borð á hærri sektargreiðslu úr hendi gagnstefnanda en sem næmi fyrrgreindri greiðslu, sbr. 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Dómurinn telur því óhjákvæmilegt að mæla svo fyrir í dómsorði að til frádráttar dæmdri sektarfjárhæð, 400.000.000 króna, komi sú fjárhæð sem gagnstefnandinn hefur þegar innt af hendi, þ.e. 65.000.000 króna. Telur dómurinn að það felist efnislega í kröfu aðalstefnanda og rúmist innan kröfugerðar hans. Af öllu framangreindu leiðir að dómurinn fellst á niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála um brot gagnstefnandans Byko ehf. gegn 10. gr. samkeppnislaga, sem staðfesti með því niðurstöðu aðalstefnanda hvað þetta varðar, með framangreindum undantekningum um tiltekna háttsemi og heimfærslu undir 53. gr. EES-samningsins, en hvað þá þætti varðar tekur dómurinn undir sjónarmið aðalstefnanda. Dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að af þessum sökum beri að gera gagnstefnandanum Norvik hf. að inna af hendi sektargreiðslu vegna brota gagnstefnandans Byko ehf. sem nemur 400.000.000 króna. Verður ákvæði úrskurðar áfrýjunarnefndarinnar um sektarfjárhæð fellt úr gildi, eins og nánar greinir í dómsorði, og fallist að öðru leyti á kröfu aðalstefnanda í aðalsök. Í samræmi við þetta er kröfum gagnstefnenda í aðalsök og gagnsök hafnað og aðalstefnandi og stefndi, íslenska ríkið, sýknaðir af aðal- og varakröfu gagnstefnenda. Líta verður svo á að krafa gagnstefnenda, sem kemur fram í málsástæðukafla þeirra í stefnu í gagnsök málsins, um að fellt verði úr gildi ákvæði gr. 2.1 í ákvörðun aðalstefnanda, sé hluti af kröfu þeirra um ógildingu ákvarðana samkeppnisyfirvalda, en krafa þessi er ekki sérstaklega orðuð í dómkröfum gagnstefnenda. Telja gagnstefnendur að fyrirmælin séu óskýr og órökstudd og uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu til fyrirmæla sem beint er að félögum með íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun. Sjónarmið gagnstefnenda voru ekki reifuð frekar við meðferð málsins en að framan greinir. Dómurinn telur enga ástæðu til að hrófla við þessum fyrirmælum og hafnar sjónarmiðum gagnstefnenda þar að lútandi. Þar sem sjónarmiðum gagnstefnenda í málinu hefur að meginstefnu til verið hafnað, en fallist að mestu leyti á sjónarmið aðalstefnanda, ber með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að gera gagnstefnendum að greiða aðalstefnanda og stefnda málskostnað í gagnsök og aðalsök, sem þykir hæfilega ákveðinn samtals 3.500.000 krónur að teknu tilliti til umfangs málsins og alls reksturs þess fyrir dóminum en fyrir liggur að málið var á fyrri stigum bæði flutt um kröfu gagnstefnenda um dómkvaðningu matsmanns og um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins. Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 3. janúar 2018.   D Ó M S O R Ð: Aðalstefnandi, Samkeppniseftirlitið, og stefndi, íslenska ríkið, eru sýknaðir af öllum kröfum gagnstefnenda, Norvik hf. og Byko ehf., í aðalsök og gagnsök. Ákvæði í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 28. september 2015 í máli nr. 6/2015, um 65.000.000 króna sektargreiðslu gagnstefnenda og að sektin skuli greiðast eigi síðar en mánuði frá dagsetningu þess úrskurðar, er fellt úr gildi. Gagnstefnandinn, Norvik hf., greiði 400.000.000 króna sekt í ríkissjóð að frádregnum 65.000.000 króna sem hann hefur þegar innt af hendi með greiðslu 30. október 2015. Gagnstefnendur greiði aðalstefnanda og stefnda samtals 3.500.000 krónur í málskostnað í aðalsök og gagnsök.
Mál nr. 24/2020
Jörð Hefð Ítak
B krafðist þess að viðurkenndur yrði réttur hans til beitarafnota af þeim hluta jarðarinnar Króks í Borgarbyggð sem óþinglýstur samningur BB og Upprekstrarfélags Þ 26. maí 1924 hefði tekið til. Ágreiningur málsins snérist annars vegar um hvort B hefði unnið rétt til beitarafnota fyrir hefð á landinu sem var í eigu G og hins vegar hvort og þá með hvaða hætti B eða aðilum á hans vegum væri heimilt að safna fé sem rynni af fjalli og reka um land Króks á leið til réttar. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að B hefði sýnt fram á að fjárbændur hefðu í skjóli Upprekstarfélags Þ og síðar B nýtt landið til beitarafnota fyrir fjölda fjár í að minnsta kosti tæpa öld í góðri trú um heimild til þess þótt landið hefði laust fyrir miðja öldina komist úr eigu upprekstrarfélagsins samkvæmt þinglýstum afsölum. Hefði sú nýting landsins átt sér stað allt til dagsins í dag og hefði hefðartíminn þannig löngu verið fullnaður samkvæmt 7. gr. laga nr. 46/1905 er G hófst handa við að vefengja rétt B til ítaksins. Var því fallist á kröfu B um rétt hans til beitarafnota af umræddu landi og fæli sú niðurstaða jafnframt í sér að hafnað væri kröfu G um að B væri óheimilt að safna fé af fjalli að hausti á þessu sama landi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. maí 2020. Hann krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til beitarafnota af þeim hluta jarðarinnar Króks í Borgarbyggð, landnúmer 134817, sem óþinglýstur samningur Brynjólfs Bjarnasonar og Upprekstrarfélags Þverárréttar 26. maí 1924 tekur til. Einnig krefst áfrýjandi sýknu af þeim kröfum sem stefndi hafði uppi í gagnsök í héraði. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda á öllum dómstigum. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Dómendur fóru á vettvang 8. desember 2020. I 1 Eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi er ágreiningur aðila annars vegar um hvort áfrýjandi hefur unnið rétt til beitarafnota fyrir hefð á tilgreindum hluta jarðarinnar Króks í Borgarbyggð sem er í eigu stefnda. Hins vegar er deilt um hvort og þá með hvaða hætti áfrýjanda eða aðilum á hans vegum er heimilt að safna fé sem rennur af fjalli og reka um land Króks á leið til réttar. Ekki er deila með aðilum um stærð eða mörk þess lands sem um ræðir.    2 Ágreiningur málsaðila um framangreindan hluta jarðarinnar Króks hefur áður komið til úrlausnar Hæstaréttar. Árið 2012 höfðaði stefndi mál á hendur áfrýjanda til viðurkenningar á beinum eignarrétti sínum að landinu. Með dómi Hæstaréttar 3. apríl 2014 í máli nr. 718/2013 var fallist á kröfu stefnda. Var niðurstaðan reist á því að þinglýst afsal stefnda 20. september 1990 frá Hauki Péturssyni, þáverandi eiganda jarðarinnar, hefði útrýmt eldri óþinglýstum rétti áfrýjanda til landsins á grundvelli samnings 26. maí 1924, sbr. 2. mgr. 29. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Breytti engu um þá niðurstöðu þótt stefndi hefði síðar öðlast vitneskju sem gefið hefði honum tilefni til að ætla að einhver hluti lands þess sem hann hefði keypt kynni áður að hafa verið seldur undan jörðinni. Í dóminum sagði jafnframt að ómdeilt væri að hið umþrætta land hefði verið nýtt sem afréttarland af hálfu áfrýjanda og forvera hans, Upprekstrarfélags Þverárréttar. Þegar virt væru þau not sem áfrýjandi hefði haft af hinu umþrætta landi hefði honum ekki tekist sönnun þess að hann hefði frá þeim tíma er jörðinni var afsalað til stefnda unnið eignarhefð að landinu í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. II 1 Jörðin Krókur í Borgarbyggð gekk alloft kaupum og sölum á öldinni sem leið. Var um stærð hennar í viðkomandi skjölum einatt vísað til landamerkjaskrár frá júlí 1923 sem lesin var á manntalsþingi 2. júlí 1924. Eins og fram kemur í dómi réttarins í máli nr. 718/2013 seldu hreppsnefndarmenn fyrir hönd Norðurárdalshrepps Brynjólfi Bjarnasyni jörðina til eignar með kaupsamningi 5. ágúst 1916. Í samningnum sagði að jörðin væri seld ásamt „öllum þeim rjettindum og hlunnindum sem jörðinni fylgja og fylgja eiga til lands og vatns. Þau skilyrði setjum við kaupanda að á jörðina verði komið býli ekki síðar en í fardögum 1918 ella verði tjeð jörð eign Norðurárdalshrepps fyrir sama verð og hún nú er seld, ennfremur selji kaupandi nokkurn hluta af Krókslandi, að þá gangi upprekstrarfjelag Þverárréttar fyrir kaupum á því að öðru jöfnu.“ Kaupsamningurinn var lesinn á manntalsþingi 19. maí 1918.     Á árinu 1924 voru þrjú nær samhljóða skjöl gerð um sölu Brynjólfs á hluta lands undan jörðinni Króki til Upprekstrarfélags Þverárréttar. Í hinu fyrsta, sem undirritað var af hálfu kaupanda og seljanda 26. maí það ár, var hinu selda lýst sem hluta „af landi jarðarinnar Króks allt það land sem nú er afrjettarmegin við afrjettargirðingu Norðdælinga undanskilið er vetrarbeit og slægjur en ekki má styggja afrjettarfjenað eða verja slægjur fyrir honum.“ Á öðru eintaki fylgdi áritun Brynjólfs um kvittun fyrir greiðslu hluta kaupverðs 19. júní 1924 og loks var í hinni þriðju útgáfu, sem ekki var undirrituð af hálfu kaupanda, hinu selda lýst þannig: ,,Það sem selt er, er fjallland úr eignarjörð minni Krók í Norðurárdal svokallaðir Selhagar og ræður landamerkjum á landi þessu að neðan verðu frá Norðurá Króksgirðing og eftir háhálsi Hermundarstaðamerki og svo Hellisgil Hellisá og Norðurá að norðanverðu að fyrrnefndri girðingu, undantekið er vetrarbeit, slægjur og veiðiréttindi.“ Var það niðurstaða Hæstaréttar í framangreindu máli að af efni skjalanna yrði ráðið að Brynjólfur Bjarnason hefði afsalað því landi sem hann átti afréttarmegin við afréttargirðingu og samkvæmt reikningum upprekstrarfélagsins hefði það greitt umsamið kaupverð fyrir landið. Brynjólfur hefði kvittað fyrir móttöku hluta kaupverðs á því skjali sem greinilega hefði verið endanleg gerð þess. Brynjólfur seldi syni sínum Haraldi jörðina Krók samkvæmt afsalsbréfi 1. maí 1958 með ,,öllum húsum og mannvirkjum sem eru á jörðinni ... og með öllum gögnum og gæðum“. Um landamerki var vísað til framangreindrar landamerkjaskrár frá 1923. Afsalið var móttekið til þinglýsingar 13. maí 1958 og fært í þinglýsingabækur. Haraldur seldi síðan Friðgeiri Sörlasyni jörðina með afsali 7. febrúar 1979 með ,,gögnum og gæðum, sem jörðinni fylgja og fylgja ber til lands og vatns, að undanskilinni afgirtri spildu, sem er getið í kaupsamningi dags. 4.11.1977, nefnd Efra Melatún ... Landamerki jarðarinnar eru svo sem segir í merkjaskrá þinglýstri á manntalsþingi Norðurárdalshrepps. Hefur kaupandi kynnt sér landamerkin og eru þau ágreiningslaus.“ Ágreiningur máls þessa tekur ekki til spildunnar sem var undanskilin við kaupin. Mun afsalinu hafa verið þinglýst án athugasemda 20. júní 1979. Með afsalsbréfi 23. nóvember 1982 afsalaði Friðgeir svo jörðinni til Hauks Péturssonar ,,með öllum mannvirkjum, svo sem húsum, ræktun, girðingum og öðrum gögnum og gæðum til lands og vatns ásamt öllu sem fylgir og fylgja ber ... Landamerki jarðarinnar eru sem segir í merkjaskrá þinglýstri á manntalsþingi Norðurárdalshrepps. Kaupandi hefur kynnt sér landamerkin og eru þau ágreiningslaus.“ Mun afsalinu hafa verið þinglýst án athugasemda 30. nóvember 1982. Loks seldi Haukur Pétursson stefnda jörðina með kaupsamningi árið 1989. Í afsali til stefnda 20. september 1990, sem þinglýst var 30. sama mánaðar, segir að seljandi afsali til kaupanda jörðinni Króki „með öllum mannvirkjum ... gæðum og hlunnindum til lands og vatns, sem jörðinni fylgja og fylgja ber. Ekkert er undanskilið í kaupunum nema spilda sem liggur með þjóðveginum ... Landamerki jarðarinnar eru skv. landamerkjaskrá dags. 02.07.1924.“ Nær ágreiningur málsins ekki til þeirrar spildu sem undanskilin var í kaupunum. 2 Í ódagsettri lýsingu á afrétti Upprekstrarfélags Þverárréttar segir um umþrætt landssvæði: „Með kaupsamningi dags. 26. maí 1924 keypti upprekstrarfélagið af eiganda Króks í Norðurárdal, Brynjólfi Bjarnasyni, þann hluta af landi Króks, sem er afréttarmegin við fjallgirðinguna. Undanskilin er vetrarbeit og slægjur, sem þó má ekki verja, né styggja afréttarfé. Land þetta hefur síðan verið notað sem afréttarland.“ Þá kemur fram í annarri lýsingu á afréttarlöndum í Mýrasýslu að Upprekstrarfélag Þverárréttar hafi „keypt til afréttarins þessi lönd ... Úr Krókslandi í Norðurárdal allt það land jarðarinnar Króks „sem nú er afréttarmegin við afréttargirðingu Norðdælinga.“ samkv. kaupsamningi dags. 26/5 1924.“ Lýsing þessi er einnig ódagsett. Hún mun vera yngri en sú fyrri en í henni er meðal annars vísað til fjallskilareglugerðar frá 1975. Hinn 25. júlí 1995 ritaði stefndi bréf til stjórnar Veiðifélags Norðurár, með afriti til formanns Upprekstrarfélags Þverárréttar, vegna fyrirhugaðs endurmats á arði veiðiréttarhafa vatnasvæðis árinnar. Fram að því hafði upprekstrarfélagið talist til veiðiréttarhafa vatnasvæðis hennar á grundvelli eignarhalds á hluta Krókslands. Í bréfinu sagði meðal annars: „Ég undirritaður Gunnar Jónsson ... mun sem eigandi jarðarinnar Króks krefjast þess að arður af Norðurá Króksmegin frá afréttargirðingu að Hellisá og arður af Hellisá (Króksmegin) falli til jarðar minnar. Hinn 26. maí árið 1924 seldi þáverandi eigandi Króks, Brynjólfur Bjarnason, Upprekstrarfélagi Þverárréttar sneið af Krókslandi, þ.e. landspilduna frá afréttargirðingu að Hellisá. Þessa landsneið hefur kaupandinn nýtt sem afrétt. Á veiðiréttindi fyrir hinum selda landskika var ekki minnst í kaupsamningnum. Þau munu reyndar þá hafa skipt litlu sem engu máli. Kaupandinn var eingöngu að kaupa beitarland og Veiðifélag Norðurár náði fyrst til árinnar ofan Króksfoss árið 1961, eftir þann tíma mun Upprekstrarfélagið hafa notið arðs af Norðurá fyrir landspildunni. Ég hef ekki fengið upplýst hvort eða hvenær afsal fyrir landspildunni var útgefið né heldur hvort því eða kaupsamningnum var þinglýst. Kröfu mína um að til Króks falli arður af Norðurá og Hellisá fyrir tilgreindri landspildu styð ég við 4. mgr. 2. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 76/1970.“  Í kjölfarið var fallist á þessa kröfu stefnda.  Áfrýjandi tók við réttindum og skyldum Upprekstrarfélags Þverárréttar á árinu 2006 við sameiningu sveitarfélaga í Borgarfirði. Á árinu 2008 sendi stefndi áfrýjanda kvörtun um að framangreind girðing sem reist hefði verið um 1920 í landi Króks frá Norðurá til merkja milli Króks og Hermundarstaða væri ekki fjárheld og rynni fjallfé upprekstrarfélagsins í skógræktarland sitt. Krafðist stefndi þess að girðingin yrði gerð fjárheld og lét áfrýjandi lagfæra girðinguna á árinu 2008 á sinn kostnað.   Hinn 18. febrúar 2010 sendi lögmaður stefnda tilkynningu til Upprekstrarfélags Þverárréttar um bann við upprekstri og beit sauðfjár á jörðinni Króki. Þar var rakin forsaga þess að stefndi eignaðist jörðina og þau heimildarskjöl sem henni tengdust. Vísað var til þess að allt frá árinu 1958 hefði ítaksréttar hvergi verið getið í þinglýstum afsölum fyrir jörðinni og því andmælt að félagið ætti nokkurn „ítaks- eða eignarrétt í landinu.“ Auk þess sagði í bréfinu að bændur, sem væru aðilar að félaginu, hefðu „gert lítið sem ekkert til að stemma stigu við fjárrennsli í afréttinn um land Króks“ og hefði það valdið ómældu tjóni á skógrækt stefnda. Eftir því sem trjám hefði fjölgað hefði sífellt meiri tími farið í smalamennsku til varnar landinu og væri nú svo komið að stefndi teldi sig knúinn „til að fjarlægja beitarálag frá skógræktarlandinu og verður það ekki gert á annan hátt en að afnema með öllu og banna beit Upprekstrarfélags Þverárréttar á landi Króks framan fjallgirðingar (varnargirðingar).“ Ef framhald yrði á umræddum rekstri og áframhaldandi tjóni á skógræktarlandi stefnda myndi hann leita réttar síns. Loks sagði að stefndi vildi „vekja sérstaka athygli á og gera kröfur um ... að undinn verði bráður bugur á að gengið verði frá rekstrarleiðinni með þjóðveginum þannig að Króksland neðan brúarinnar verði friðað fyrir ágangi sauðfjár sem og landið með Norðurá frá Króksbrú að ósi Hellisár. Séð verði til þess að gengið sé frá þessari rekstrarleið með tilliti til þarfa veiðimanna og hestamanna.“  Að gengnum dómi Hæstaréttar í máli nr. 718/2013 héldu deilur áfram milli aðila um nýtingu landsins og á árunum 2016 og 2017 voru allnokkur bréfaskipti þeirra í millum er lutu einkum að ágreiningi um kostnað við girðingar á merkjum milli Króks og nærliggjandi lands áfrýjanda og um rekstur sauðfjár um land Króks til réttar. Lýsti stefndi því meðal annars að ætlaður afnota- eða umferðarréttur, sem áfrýjandi teldi sig njóta, ætti að hafa áhrif á skyldu áfrýjanda til að girða á merkjum, en áfrýjandi lagði áherslu á að fyrirhugaðar girðingarframkvæmdir skyldu tengjast hefðbundinni leið fjársafns af afrétti. Kom meðal annars fram í bréfi lögmanns stefnda til Upprekstrarfélags Þverárréttar 16. september 2016 að eftir dóm Hæstaréttar væri ljóst að upprekstrarfélagið telji „ekki til neins réttar innan merkja jarðarinnar Króks.“ Myndi stefndi ekki una því að fé á vegum áfrýjanda verði rekið um landið að hausti og neyta þeirra heimilda sem lög áskildu honum til að „halda uppi réttindum sínum gagnvart þeim sem í hlut eiga og ábyrgir kunna að vera fyrir heimildarlausum ágangi á land jarðarinnar með tilheyrandi tjóni.“ Fór svo að lögmaður stefnda sendi lögreglustjóranum á Vesturlandi bréf 5. september 2017 þar sem óskað var eftir að lögregla myndi rannsaka opnun hliða á skógræktargirðingu stefnda og hafa eftirlit með aðgerðum áfrýjanda við rekstur fjár af fjalli, en allt safnið væri um 10.000 fjár. Þá var í erindinu kvartað yfir því að áfrýjandi hefði hafnað að taka þátt í kostnaði við að girða land Króks. Sagði að áfrýjandi teldi sig ranglega eiga rétt til að láta fé, sem rynni af fjalli áður en leitir hæfust, safnast saman á landi Króks og vera þar á beit um það bil tvær vikur áður en það væri rekið til réttar. 3             Áfrýjandi höfðaði síðan mál þetta 15. ágúst 2017 og krafðist þess, eins og áður segir, að viðurkenndur yrði réttur hans til beitarafnota af þeim hluta jarðarinnar sem samningurinn 26. maí 1924 tók til. Hinn 4. október sama ár höfðaði stefndi gagnsök í málinu með kröfu um að viðurkennt yrði að áfrýjanda eða aðilum á hans vegum væri óheimilt að safna fé sem rynni af fjalli að hausti á land jarðarinnar Króks og reka fé af fjalli á leið til réttar um land Króks. Til vara var þess krafist að viðurkennt yrði að áfrýjanda eða aðilum á hans vegum væru óheimil önnur not af landi jarðarinnar Króks „en að reka fé, sem kemur af fjalli að hausti, um óræktað land Króks viðstöðulaust án dvalar í landi jarðarinnar næstu þrjú árin, eða til og með 2020.“             Héraðsdómur féllst á dómkröfu áfrýjanda og sýknaði hann af gagnkröfum stefnda. Með hinum áfrýjaða dómi var stefndi á hinn bóginn sýknaður af kröfu áfrýjanda og jafnframt viðurkennt að áfrýjanda eða aðilum á vegum hans væri óheimilt að safna fé sem rynni af fjalli að hausti á land jarðarinnar Króks og reka fé af fjalli á leið til réttar um land Króks. Áfrýjunarleyfi var veitt meðal annars með vísan til þess að málið varðaði brýna hagsmuni áfrýjanda og sauðfjárbænda á svæðinu. Um væri að ræða mikilvægt afréttarsvæði sem áfrýjandi teldi að hann mætti fyrir hefð nýta til beitarafnota en á ári hverju rynni um það eitt stærsta fjársafn landsins á leið til réttar. Þá var talið að í málinu reyndi á ýmis grundvallaratriði um skilyrði hefðar. IV             Áfrýjandi reisir kröfu sína um viðurkenningu á beitarafnotum á lögum nr. 46/1905. Hafi hann og áður Upprekstrarfélag Þverárréttar óslitið og óátalið nýtt landið til beitar, allt frá kaupum á því á árinu 1924 til dagsins í dag. Landið sé innan afréttargirðingar sem reist hafi verið til að aðskilja þann hluta jarðarinnar Króks er nýttur hafi verið sem beitiland frá þeim hluta jarðarinnar sem ekki hafi verið undirorpinn slíkum notum. Verði að telja beitarafnotin sýnilegt ítak sem hefðist á 20 árum samkvæmt 7. gr. laganna, en jafnvel þótt afnotin teldust ósýnilegt ítak væri skilyrðum 8. gr. þeirra um 40 ára hefðartíma fullnægt. Breyti lög nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum engu hér um. Stefndi kveður kröfugerð áfrýjanda óljósa um umfang og eðli þess réttar sem um ræðir. Óljóst sé til hvaða tegunda kvikfjár krafan taki og áfrýjandi sé sveitarfélag sem ekki stundi búskap. Rangt sé og ósannað að áfrýjandi og forveri hans hafi farið með landið og nýtt það til beitar í fullan hefðartíma. Að svo miklu leyti sem áfrýjandi hafi nýtt landið til beitar á afmörkuðum tímabilum hafi hann hvorki verið ráðvandlega að þeim afnotum kominn né gert það grandlaus um kvaðalausan eignarrétt þinglesinna eigenda jarðarinnar sem hafi verið án nokkurs fyrirvara um afnot eða ítök annarra. Auk þess hafi stefndi lagt formlegt bann við beit á landinu með bréfi til Upprekstrarfélags Þverárréttar 18. febrúar 2010. Við kaup á jörðinni Króki árið 1990 hafi stefndi verið grandlaus bæði um ætlaðan beitarrétt og að hluti landsins kynni vera talinn afréttur. Ekkert af skjölunum frá 1924 jafngildi bindandi samningi, enda sé óljóst hver hefur átt að vera endanleg gerð samnings um kaup á hluta jarðarinnar, auk þess sem vanti undirritanir á þau samningsdrög. Einnig sé ósannað að greiðslur hafi farið fram á grundvelli þeirra skjala og hafi engu þeirra verið þinglýst. Þá verði með engu móti talið að stofnast hafi sýnilegt ítak á landinu. Girðing sú sem áfrýjandi vísi til hafi verið reist 1920 en verið opin til afréttar þannig að fé hafi af þeim sökum leitað inn á landið. Hún hafi verið reist í þágu eigenda Króks til verndar slægjum og gróðri en hvorki samningur né sérstakt samþykki hafi legið til grundvallar þeirri framkvæmd. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 46/1905 þurfi notkun, sem ætlað sé að skapa afnotahefð, að uppfylla sömu skilyrði og til stofnunar eignarhefðar, en með dómi Hæstaréttar í máli nr. 718/2013 hafi niðurstaðan orðið sú að áfrýjandi hafi ekki unnið landið til eignar vegna hefðar. Loks vísar stefndi til þess að ætluð afnot til ítaks hafi annaðhvort fallið niður vegna vanlýsingar, sbr. lög nr. 113/1952, eða fyrir tómlæti.    V 1 Ekki verður tekið undir með stefnda að kröfugerð áfrýjanda eða aðild sé svo óskýr að dómur verði ekki lagður á málið. Verður hún ekki skilin með öðrum hætti en að viðurkenna skuli ítaksrétt sem skapast hafi honum til handa fyrir hefð sem feli í sér rétt til beitar búfjár á því landsvæði jarðarinnar Króks er óþinglýstur samningur Brynjólfs Bjarnasonar og Upprekstrarfélags Þverárréttar 26. maí 1924 tók til, en áfrýjandi tók við hinum ætluðu réttindum á árinu 2006.   Eins og áður hefur komið fram var það niðurstaða Hæstaréttar í fyrra máli milli aðila að áfrýjandi hefði vegna nota af landinu ekki eignast beinan eignarrétt að því á grundvelli hefðar. Á hinn bóginn verður ekki fallist á með stefnda að dómurinn hafi, samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, jafnframt skorið úr um það sakarefni milli aðila sem nú er til meðferðar og lýtur að því hvort þessi not skulu leiða til þess að ítaksréttur hafi skapast til handa áfrýjanda fyrir hefð. Dómurinn hefur hins vegar fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir, þar til það gagnstæða er sannað, sbr. 4. mgr. greinarinnar. 2 Samkvæmt 1. gr. laga nr. 46/1905 má vinna hefð á hverjum hlut, jafnt fasteign sem lausafé, er getur verið eign einstakra manna, án tillits til þess hvort hann var áður eign einstaks manns eða opinber eign. Skapar fullnuð hefð eignarrétt yfir þeim hlut sem í eignarhaldi var og þarf hefðandi ekki að styðjast við aðra eignarheimild, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Lög geta þó staðið í vegi fyrir að réttindi sem um ræðir geti orðið undirorpin hefð. Sönnunarbyrði um upphaf hefðarhalds hvílir eðli málsins samkvæmt að jafnaði á hefðanda, sbr. dóm Hæstaréttar 14. júní 2012 í máli nr. 554/2011. Skilyrði fyrir eignarhefð á fasteign er 20 ára óslitið eignarhald, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, að öðrum skilyrðum greinarinnar uppfylltum. Getur óslitið eignarhald tveggja manna eða fleiri talist til hefðartíma, sbr. 3. gr. laganna, hafi eignarhaldið gengið löglega frá manni til manns og eignarhald hvers einstaks hefðanda fullnægir skilyrðum 2. gr. Þá skapar notkun, með samsvarandi skilyrðum og þeim er gilda um eignarhefð, afnotarétt, sbr. 7. gr. laganna. Felst í afnotahefð að hefðandi fer með umráð sem svara til óbeinna eignarréttinda yfir eign. Notkun af því tagi er talin fullnægjandi heimild fyrir slíkum réttindum að öðrum ákvæðum laganna uppfylltum og eru skilyrði um óslitna notkun miðuð við eðli þeirra nota sem um er að ræða. Nær afnotaréttur samkvæmt ákvæðinu einnig til sýnilegra ítaksréttinda, auk þess sem í 8. gr. laganna er sérstakt ákvæði um að hefð á ósýnilegum ítökum „svo sem slægjum, beit, reka o.s.frv.“ geti aðeins unnist með 40 ára notkun og öðrum skilyrðum sömu sem eignarhefð.   Í athugasemdum með 7. og 8. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 46/1905 kemur fram um ósýnilegt ítak að „þar sem notkun ítaksins útheimtir engan útbúning, er eingöngu er gjörður í þessu skyni, þar er notkunin ekki að sama skapi stöðug eins og eignarhaldið, og uppfyllir því ekki þau skilyrði, er gilda um 20 ára nothefð.“ Er þetta í samræmi við að hefðarþola verði síður notin ljós þegar þeim fylgja ekki sérstakar tilfæringar sem gefa þau til kynna og koma að gagni vegna ítaksnota og gefa þannig tilefni til aðgerða af hálfu ítaksþola vilji hann ekki þola þau. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna slitnar hefðarhald venjulega er hefðandi missir umráðin, en samkvæmt 2. mgr. greinarinnar telst hefðarhald einnig rofið ef réttur hefðanda til eignarhaldsins er vefengdur með birtingu stefnu. Þá má hefð heldur ekki vinna ef hefðandi fær vitneskju áður en hefð er fullnuð að eignarhald sé til komið með glæp eða óráðvandlegu atferli, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna.     3 Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 718/2013 var á því byggt að Brynjólfur Bjarnason hefði á árinu 1924 selt tiltekinn hluta lands undan eignarjörð sinni Króki til Upprekstrarfélags Þverárréttar. Við kaupin voru undanskilin vetrarbeit og slægjur. Eftir það gekk öll jörðin ítrekað kaupum og sölum, allt þar til stefndi eignaðist hana með kaupsamningi 1989 og þinglýstu afsali ári síðar. Hafði sá er seldi stefnda jörðina, Haukur Pálsson, eignast hana samkvæmt þinglýstu afsali frá Friðgeiri Sörlasyni árið 1982, sem aftur hafði eignast jörðina samkvæmt þinglýstu afsali árið 1979 frá Haraldi syni Brynjólfs sem keypt hafði jörðina samkvæmt þinglýstu afsali frá föður sínum 1958. Í afsölunum var einatt tiltekið að jörðin væri seld með öllum gögnum sínum og gæðum. Jafnframt var í þeim öllum vísað til þinglýstrar landamerkjaskrár frá 1923 um stærð hinnar seldu jarðar og fylgdi hið umþrætta land með í kaupunum. Vilja báðir aðilar við það miða í máli þessu að við þessi síðari kaup og sölur á landinu hafi átt sér stað yfirfærsla kvaðalauss eignarréttar þinglesinna eigenda jarðarinnar. Sá réttur var án nokkurs fyrirvara um afnot eða ítök annarra og er ekkert annað komið fram en að hinar síðari þinglýstu eignarheimildir fyrir jörðinni hafi gengið framar hinum óþinglýsta grunneignarrétti áfrýjanda til landsins á grundvelli samningsins frá 1924 í samræmi við reglur um traustfang sem nú er að finna í 2. mgr. 29. gr. þinglýsingarlaga. Gögn málsins bera einnig með sér að þinglýstir eigendur landsins hafi umliðið notkun áfrýjanda og forvera hans á landinu, allt þar til stefndi sendi bréf sitt 18. febrúar 2010. Á hinn bóginn var það ekki fyrr en með höfðun gagnsakar í máli þessu 4. október 2017 að vefengdur var með málsókn réttur áfrýjanda til nýtingar landsins eftir 2. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1905. Stóð breyting á eignarrétti þannig ekki í vegi fyrir afnotunum og freistaði enginn af eigendum jarðarinnar Króks þess að fylgja fram rétti sínum til traustfangs gagnvart notkun upprekstrarfélagsins á landinu með málshöfðun samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 16. gr. þinglýsingarlaga. 4 Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að girðing sú sem reist var um 1920 og síðar hefur verið lagfærð markaði það land sem forveri áfrýjanda keypti árið 1924 gagnvart þeim hluta jarðarinnar sem ekki var seldur. Þá verður ráðið að upprekstrarfélagið keypti landið til beitarafnota í samræmi við tilgang félagsins, eins og er lýst í afréttarskrám. Sami skilningur á tilgangi kaupanna og nýtingu landsins kemur fram í bréfaskiptum milli málsaðila um ágang fjár í landi Króks og einnig í bréfi stefnda til stjórnar veiðifélags Norðurár 25. júlí 1995 um endurmat á arði vegna vatnasvæðis Norðurár. Samræmist þetta lýsingu stefnda og fyrirsvarsmanna áfrýjanda fyrir dómi á nýtingu landsins í gegnum tíðina. Þannig bar stefndi fyrir dómi í hinu fyrra máli að hann hefði einatt talið að upprekstrarfélaginu hefði verið seldur beitarréttur á landinu. Þá bar hann við meðferð þessa máls að hann hefði upphaflega verið mjög feginn að girðingin hefði verið til staðar en hún hefði nýst til frekari girðingarframkvæmda til verndar skógrækt hans á landinu. Jafnframt kom fram hjá honum að áfrýjandi hefði í engu breytt nýtingu sinni á landinu þrátt fyrir framangreint bréf hans 18. febrúar 2010 þar sem hann, eins og áður segir, vildi banna beit á landi Króks „framan fjallgirðingar (varnargirðingar).“ Verður að telja að nýting áfrýjanda og forvera hans á landinu fyrir þann fjölda sauðfjár sem um ræðir hafi verið enn sýnilegri en ella vegna þeirra tilfæringa sem fólust í umræddri girðingu. Er þetta í samræmi við það er sagði í dómi Hæstaréttar í máli nr. 718/2013 að óumdeilt væri að umrætt land hefði verið nýtt sem afréttarland af hálfu áfrýjanda og þar áður forvera hans, Upprekstrarfélags Þverárréttar.   Að virtum þeim gögnum sem rakin hafa verið er nægilega í ljós leitt að ekki hafi orðið verulegt eða óeðlilegt hlé á nýtingu beitarlandsins, heldur þvert á móti bera þau með sér að nýting áfrýjanda og forvera hans á landinu til beitar hafi verið óslitin að minnsta kosti allt frá árinu 1924 og haldið áfram þrátt fyrir að landið hafi komist úr eigu Upprekstrarfélags Þverárréttar samkvæmt síðari þinglýstum afsölum. Þá verður ekki við annað miðað en að forveri áfrýjanda og síðar áfrýjandi hafi nýtt landið í góðri trú allt frá því að samningur um kaup á landinu var gerður 1924 og þar til framangreindur dómur Hæstaréttar gekk 3. apríl 2013. Samkvæmt framansögðu verður heldur ekki fallist á með stefnda að 1. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1905 standi í vegi fyrir því að hefðartími fyrir ítaksréttindum hafi tekið að líða er landið komst úr eigu forvera áfrýjanda. Stefndi hefur loks vísað til þess að þar sem forvera áfrýjanda hafi láðst að lýsa ítaki sínu eftir lögum nr. 113/1952 hafi það fallið úr gildi samkvæmt 4. gr. þeirra. Umrætt ákvæði kvað á um að á næstu 6 mánuðum, eftir að lögin tóku gildi, skyldu héraðsdómarar birta þrisvar í Lögbirtingablaði áskorun til þeirra, er töldu sig eiga ítök í jarðir innan lögsagnarumdæmisins, um að lýsa ítaksrétti sínum innan 12 mánaða frá síðustu birtingu áskorunarinnar. Í lýsingunni til héraðsdómara skyldi greina efni ítaksins, hagnýtingu þess að undanförnu, og eftir því sem unnt væri, hversu það í fyrstu væri tilkomið. Væri það ekki gert félli ítakið úr gildi, sbr. 5. gr., og hefði því áður verið þinglýst skyldi afmá það úr veðmálabókum. Í 2. mgr. 5. gr. laganna var svo kveðið á um að væri ítaki eigi lýst samkvæmt framansögðu félli það þá úr gildi. Á þeim tíma er ákvæði laganna tóku til var Upprekstrarfélag Þverárréttar eigandi umrædds lands samkvæmt kaupsamningi 18. maí 1924 og að minnsta kosti allt til ársins 1958. Samkvæmt ákvæðum laganna, sbr. 1. gr. þeirra, bar upprekstrarfélaginu sem eiganda landsins ekki að lýsa nýtingu sinni á landinu. Þessari málsástæðu stefnda er því hafnað og verður heldur ekki fallist á að áfrýjandi hafi misst rétt sinn til nýtingar landsins vegna einhvers konar tómlætis. 5 Samkvæmt öllu framansögðu hefur áfrýjandi sýnt fram á að fjárbændur hafi í skjóli Upprekstrarfélags Þverárréttar og síðar áfrýjanda nýtt landið til beitarafnota fyrir fjölda fjár í að minnsta kosti tæpa öld í góðri trú um heimild til þess þótt landið hafi laust eftir miðja öldina komist úr eigu upprekstrarfélagsins samkvæmt þinglýstum afsölum. Hefur þessi nýting landsins átt sér stað allt til dagsins í dag og var hefðartíminn þannig löngu fullnaður samkvæmt 7. gr. laga nr. 46/1905 er stefndi hófst handa við að vefengja rétt áfrýjanda til ítaksins. Með því að fallist er á kröfu áfrýjanda um rétt hans til beitarafnota af umræddu landi felur sú niðurstaða jafnframt í sér að hafnað er kröfu stefnda um að áfrýjanda sé óheimilt að safna fé af fjalli að hausti á þessu sama landi og til að reka fé af fjalli um það eins og hann hefur gert í áratugi. Rétt er að hvor aðila beri sinn hluta málskostnaðar vegna reksturs málsins á öllum dómstigum. Dómsorð: Viðurkenndur er réttur áfrýjanda, Borgarbyggðar, til beitarafnota af þeim hluta jarðarinnar Króks í Borgarbyggð, landnúmer 134817, sem óþinglýstur samningur Brynjólfs Bjarnasonar og Upprekstrarfélags Þverárréttar 26. maí 1924 tekur til. Áfrýjandi er sýkn af gagnkröfu stefnda, Gunnars Jónssonar, um að viðurkennt skuli að áfrýjanda sé óheimilt að safna fé á landinu eða reka fé um það á leið til réttar. Málskostnaður fellur niður á öllum dómstigum.     Dómur Landsréttar 6. mars 2020   Mál þetta dæma landsréttardómararnir Kristbjörg Stephensen og Þorgeir Ingi Njálsson og Hjörtur O. Aðalsteinsson, settur landsréttardómari. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 12. apríl 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Vesturlands 8. apríl 2019 í málinu nr. E-81/2017. 2        Áfrýjandi krefst þess að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og breytt á þá leið að áfrýjandi verði sýknaður af kröfu stefnda í aðalsök í héraði um viðurkenningu á rétti hans til beitarafnota á hluta jarðar áfrýjanda, Króks í Borgarbyggð. Þá krefst áfrýjandi þess „að viðurkennt verði með dómi að stefnda, Borgarbyggð, eða aðilum á vegum Borgarbyggðar sé óheimilt að safna fé sem rennur af fjalli að hausti á land jarðarinnar Króks og reka fé af fjalli á leið til réttar um land Króks“. Til vara krefst áfrýjandi þess „að viðurkennt verði með dómi, að stefnda, Borgarbyggð, eða aðilum á vegum Borgarbyggðar, sé óheimil önnur not af landi jarðarinnar Króks en að reka fé, sem kemur af fjalli að hausti, um óræktað land Króks viðstöðulaust án dvalar í landi jarðarinnar til og með ársins 2020“. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. 3        Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti. Málsatvik 4        Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi afsalaði þáverandi eigandi jarðarinnar Króks, Brynjólfur Bjarnason, 26. maí 1924 þeim hluta jarðarinnar, sem ágreiningur málsaðila snýr að, til Upprekstrarfélags Þverárréttar en óumdeilt er með aðilum að stefndi hafi við sameiningu sveitarfélaga í Borgarfirði árið 2006 tekið við réttindum og skyldum félagsins. Samningi vegna þessara kaupa var ekki þinglýst. Brynjólfur seldi syni sínum, Haraldi, jörðina 1. maí 1958 sem seldi Friðgeiri Sörlasyni hana 7. febrúar 1979. Friðgeir seldi svo Hauki Péturssyni jörðina 23. nóvember 1982, sem afsalaði henni til áfrýjanda 20. september 1990 „með öllum mannvirkjum, þ.e. húsum, ræktun, girðingum og öllum gögnum og gæðum og hlunnindum til lands og vatns, sem jörðinni fylgja og fylgja ber“. Þá kom fram að ekkert væri undanskilið í kaupunum nema nánar tilgreind spilda, sem lægi með þjóðveginum. Þessi spilda tengist ekki ágreiningi aðila. Afsalið var móttekið til þinglýsingar 30. sama mánaðar. 5        Með dómi Hæstaréttar 3. apríl 2014 í máli nr. 718/2013 var leyst úr ágreiningi aðila er laut að eignarhaldi á þeim hluta jarðarinnar sem fyrrum eigandi hennar, Brynjólfur Bjarnason, afsalaði til Upprekstrarfélags Þverárréttar. Féllst Hæstiréttur á kröfu áfrýjanda um að hann hefði með kaupum sínum á jörðinni einnig eignast framangreindan hluta jarðarinnar enda hefði þinglýst afsal hans útrýmt eldri óþinglýstum rétti til landsins sem stefndi byggði kröfu sína á, sbr. 2. mgr. 29. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Niðurstaða 6        Í máli þessu krefst áfrýjandi viðurkenningardóms fyrir því að stefnda eða aðilum á hans vegum sé óheimilt „að safna fé sem rennur af fjalli að hausti á land jarðarinnar Króks og reka fé af fjalli á leið til réttar um land Króks“. Hann hafi lagt bann við beit á landinu 18. febrúar 2010 en stefndi hafi ekki virt það. 7        Stefndi byggir tilkall sitt til beitarafnota að hinu umdeilda landi á því að hann og forveri hans, Upprekstrarfélag Þverárréttar, hafi unnið beitarafnot fyrir hefð á grundvelli laga nr. 46/1905 um hefð. Upprekstrarfélagið og síðar stefndi hafi farið með landið og nýtt það til beitar, enda talið sig með réttu eiga það, óslitið í fullan hefðartíma eða allt frá árinu 1924 fram til dagsins í dag. Skipti þá engu hvort beitarafnotin verði talin sýnilegt ítak samkvæmt 7. gr. laga nr. 46/1905 eða ósýnilegt ítak samkvæmt 8. gr. sömu laga. 8        Svo sem fram er komið komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu 3. apríl 2014 í máli nr. 718/2013 að eldri óþinglýstur réttur stefnda til hins umdeilda hluta jarðarinnar Króks hafi vikið fyrir þinglýstum rétti áfrýjanda samkvæmt afsali 20. september 1990. Þessi eldri óþinglýsti réttur stefnda til þessa hluta jarðarinnar virðist hafa verið almennt þekktur þótt áfrýjandi hafi ekki þekkt til hans, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar. Í gögnum málsins liggur fyrir ódagsett endurrit lýsingar á afréttarlöndum í Mýrasýslu þar sem fram kemur að Upprekstrarfélag Þverárréttar hafi meðal annars keypt til afréttar Þverárréttar „[ú]r Krókslandi í Norðurárdal allt það land jarðarinnar Króks, „sem nú er afréttarmegin við afréttargirðingu Norðdælinga“ samkv. kaupsamningi dags. 26/5. 1924“. Þá segir í ódagsettri lýsingu á afrétti Upprekstrarfélags Mýrasýslu að „[m]eð kaupsamningi dags. 26. maí 1924 keypti upprekstrarfélagið af eiganda Króks í Norðurárdal, Brynjólfi Bjarnasyni, þann hluta af landi Króks, sem er afréttarmegin við fjallgirðinguna. Undanskilin er vetrarbeit og slægjur, sem þó má ekki verja, né styggja afréttarfé. Land þetta hefur síðan verið notað sem afréttarland.“ Jafnframt segir í útdrætti úr ritinu Byggðir Borgarfjarðar III frá 1993 að nokkur spilda af Krókslandi hafi verið „seld til Upprekstrarfélagsins fyrir allmörgum árum [...]“. Enn fremur liggja fyrir gögn í málinu um að Upprekstrarfélag Þverárréttar hafi talist til veiðirétthafa vatnasvæðis Norðurár á grundvelli eignarhalds á jarðarhlutanum allt til 25. júlí 1995 er áfrýjandi krafðist þess að arðurinn félli til hans. 9        Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður því slegið föstu að allt til þess að áfrýjandi þinglýsti afsali sínu hafi enginn annar átt ríkari rétt til landsins en stefndi sem hafi því farið með full eignarráð yfir landinu til þess dags. 10       Samkvæmt 1. gr. laga nr. 46/1905 má vinna hefð á hverjum hlut, jafnt fasteign sem lausafé, er getur verið eign einstakra manna án tillits til þess hvort hann var áður eign einstaks manns eða opinber eign. Samkvæmt þessu er hefð sjálfstæður og útrýmandi stofnunarháttur eignarréttinda en eignarréttindi, sem stofnast fyrir hefð, valda því að eldri ósamrýmanleg eignarréttindi þriðja aðila, ef þeim er til að dreifa, falla niður. 11       Áður er fram komið að stefndi fór með full eignarráð yfir landinu á grundvelli óþinglýsts afsals þegar þau viku fyrir þinglýstum rétti áfrýjanda á grundvelli afsals í september 1990 sem var kvaðalaust um annað en tilgreinda spildu sem ekki tengist ágreiningi aðila. Hefðarhald ítaks í formi afnota- eða beitarréttar stefnda getur þá fyrst hafa hafist. Óumdeilt er að stefndi nýtti áfram hinn umdeilda jarðarhluta sem afréttarland með sama hætti og hann hafði áður gert. Hefðartími sýnilegra ítaka er 20 ára óslitin nýting samkvæmt 7. gr., sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 46/1905. Samkvæmt 8. gr., sbr. 2. og 3. gr. sömu laga, vinnst hefð á ósýnilegum ítökum með 40 ára notkun. Með bréfi 18. febrúar 2010 lagði áfrýjandi bann við því að landið væri beitt, eða tæpum 20 árum eftir að mögulegt hefðarhald stefnda hófst en það rofnaði í síðasta lagi á þeim tíma. Samkvæmt framansögðu hefur stefndi ekki haft beitarafnot af landinu í fullan hefðartíma. Verður kröfum hans því hafnað og fallist á þá viðurkenningarkröfu sem áfrýjandi hefur aðallega uppi í málinu. 12       Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Áfrýjandi, Gunnar Jónsson, er sýknaður af kröfum stefnda, Borgarbyggðar. Viðurkennt er að stefnda eða aðilum á vegum hans, sé óheimilt að safna fé sem rennur af fjalli að hausti á land jarðarinnar Króks og reka fé af fjalli á leið til réttar um land Króks.  Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.                           Dómur Héraðsdóms Vesturlands 8. apríl 2019   I. Mál þetta, sem dómtekið var 11. mars sl., er höfðað með stefnu birtri 15. ágúst 2017 af Borgarbyggð, Ráðhúsinu við Borgarbraut 14, Borgarnesi, á hendur Gunnari Jónssyni, Króki í Norðurárdal, Borgarbyggð.   Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til beitarafnota af þeim hluta jarðarinnar Króks í Borgarbyggð, landnúmer 134817, sem óþinglýstur samningur Brynjólfs Bjarnasonar og Upprekstrarfélags Þverárréttar 26. maí 1924 tekur til. Jafnframt krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda.   Stefndi krafðist þess í greinargerð aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en með úrskurði uppkveðnum 23. maí 2018 var þeirri kröfu hafnað. Stefndi krefst þess nú að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.   Með gagnstefnu birtri 4. október 2017 höfðaði stefndi gagnsök í málinu. Krefst hann þess í gagnsökinni aðallega að viðurkennt verði að gagnstefnda, Borgarbyggð, eða aðilum á vegum Borgarbyggðar, sé óheimilt að safna fé sem rennur af fjalli að hausti á land jarðarinnar Króks og reka fé af fjalli á leið til réttar um land Króks. Til vara er þess krafist að viðurkennt verði að gagnstefnda, Borgarbyggð, eða aðilum á vegum Borgarbyggðar, séu óheimil önnur not af landi jarðarinnar Króks en að reka fé, sem kemur af fjalli að hausti, um óræktað land Króks viðstöðulaust án dvalar í landi jarðarinnar næstu þrjú árin, eða til og með 2020. Jafnframt er krafist málskostnaðar í gagnsökinni.   Gagnstefndi krefst sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda og málskostnaðar að skaðlausu úr hans hendi.   II. Í maímánuði 1924 afsalaði þáverandi eigandi jarðarinnar Króks í Norðurárdal, Brynjólfur Bjarnason, þeim hluta jarðarinnar sem var afréttarmegin við afréttargirðingu til Upprekstrarfélags Þverárréttar, forvera aðalstefnanda. Samkvæmt reikningum upprekstrarfélagsins greiddi það umsamið kaupverð fyrir landið. Samningi vegna þessara kaupa var ekki þinglýst. Þrátt fyrir þessa sölu á landinu seldi Brynjólfur syni sínum Haraldi jörðina með afsali 1. maí 1958, sem var þinglýst 13. sama mánaðar. Haraldur seldi síðan Friðgeiri Sörlasyni jörðina með afsali 7. febrúar 1979 og með afsali 23. nóvember 1982 afsalaði Friðgeir jörðinni áfram til Hauks Péturssonar. Haukur afsalaði loks jörðinni til aðalstefnda með afsali 20. september 1990. Kom fram í því afsali að jörðinni væri afsalað með öllum mannvirkjum, gæðum og hlunnindum til lands og vatns sem jörðinni fylgdi og fylgja bæri. Þá var í afsalinu tekið fram að landamerki jarðarinnar væru eins og greinir í merkjaskrá, lesinni á manntalsþingi Norðurárdalshrepps. Loks var í afsalinu áréttað að ekkert væri undanskilið í kaupunum nema spilda sem liggur með þjóðveginum og tengist ekki ágreiningi aðila.   Í greinargerð aðalstefnda kemur fram að jörðin Krókur sé skógræktarjörð og sé hún því sérlega viðkvæm fyrir ágangi sauðfjár. Skógræktin sé að vísu afgirt frá því landi sem aðalstefnandi geri kröfu um afnot af, en engin leið sé að koma í veg fyrir að sauðfé komist í skógræktina með tilheyrandi tjóni.   Með bréfi þáverandi lögmanns aðalstefnda til Upprekstrarfélags Þverárréttar, dags. 18. febrúar 2010, tilkynnti aðalstefndi að hann teldi sig „knúinn til að fjarlægja beitarálag frá skógræktarlandinu og verður það ekki gert á annan hátt en að afnema með öllu og banna beit Upprekstrarfélags Þverárréttar á landi Króks framan fjallgirðingar (varnargirðingar).“   Ágreiningur reis með aðilum vegna fyrrgreinds hluta jarðarinnar Króks sem Rekstrarfélag Þverárréttar keypti á árinu 1924. Taldi aðalstefndi sig hafa keypt alla jörðina og að umræddur hluti hennar hefði ekki verið þar undanskilinn, enda hefði hann verið grandlaus um fyrrgreint afsal landsins á árinu 1924. Var úr þessum ágreiningi skorið með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 3. apríl 2014, í málinu nr. 718/2013. Var þar fallist á kröfu aðalstefnda í máli þessu, Gunnars Jónssonar, um að hann hefði með kaupum sínum einnig eignast þann hluta jarðarinnar Króks sem óþinglýstur samningur Brynjólfs Bjarnasonar og Upprekstrarfélags Þverárréttar 26. maí 1924 tekur til, enda hefði þinglýst afsal hans útrýmt þeim eldri óþinglýstum rétti til landsins sem sveitarfélagið hefði byggt rétt sinn á, sbr. 2. mgr. 29. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978, og ekkert lægi fyrir um grandsemi hans um þann samning. Þá segir svo í niðurlagi dómsins: „Þegar virt eru þau not sem stefndi hefur haft af hinu umþrætta landi hefur honum ekki tekist sönnun þess að hann hafi frá þeim tíma er jörðinni var afsalað til áfrýjanda unnið eignarhefð að landinu í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð.“   Við aðalmeðferð málsins voru teknar skýrslur af Gunnlaugi A. Júlíussyni, sveitarstjóra aðalstefnanda, og af aðalstefnda, Gunnari Jónssyni, auk þess sem tekin var vitnaskýrsla af Kristjáni Franklín Axelssyni, formanni Upprekstrarfélags Þverárréttar.   III. Aðalstefnandi kveðst byggja tilkall sitt til beitarafnota af umræddu landi jarðarinnar Króks á því að hann og forveri hans, Upprekstrarfélag Þverárréttar, hafi unnið beitarafnotarétt að landinu fyrir hefð á grundvelli laga nr. 46/1905 um hefð. Kveðst aðalstefnandi hafa tekið við réttindum og skyldum upprekstrarfélagsins við sameiningu hreppa í Borgarfirði á árinu 2006.   Á því sé byggt að upprekstrarfélagið og síðar aðalstefnandi hafi farið með landið og nýtt það til beitar, enda talið sig með réttu hafa átt það óslitið í fullan hefðartíma, eða allt frá árinu 1924 til dagsins í dag. Hafi þessi notkun hans skapað honum lögvarinn rétt í skilningi hefðarlaga.   Samkvæmt 7. gr. laga nr. 46/1905 skapi notkun, með samsvarandi skilyrðum og þeim er gildi um eignarhefð, afnotarétt. Samkvæmt 1. gr. sömu laga megi vinna hefð á hverjum hlut, jafnt fasteign sem lausafé, er geti verið eign einstakra manna, án tillits til þess hvort hann hafi verið áður einstaks manns eign eða opinber eign. Um skilyrði eignarhefðar sé fjallað í 2.-4. gr. laganna. Þannig sé í 1. mgr. 2. gr. gert að skilyrði fyrir hefð að óslitin notkun eða óslitið eignarhald af hálfu hefðanda hafi haldist um tiltekinn tíma. Lítilfjörleg not annarra útiloki þó ekki ítakshefð. Sama gildi um hefð á ítökum að breyttu breytanda. Meðal annarra skilyrða sé að hefðandi megi ekki hafa náð umráðum með glæp eða óráðvandlegu atferli, sbr. 2. mgr. 2. gr., og að hefð geti ekki unnist á hlutum sem hefðandi hafi fengið að veði, til geymslu, til láns eða á leigu, sbr. 3. mgr. 2. gr. Til hefðartíma megi enn fremur telja óslitið eignarhald tveggja eða fleiri manna hafi eignarhald löglega gengið á milli þeirra, sbr. 3. gr. Missi hefðandi umráð yfir eign slitni hefðarhaldið nema hefðandi hafi misst umráðin óviljandi og náð þeim aftur innan 6 mánaða með lögsókn, sbr. 1. mgr. 4. gr.   Hefð á grundvelli 7. gr. hefðalaga sé á því reist að um sýnilegt ítak hafi verið að ræða, þar sem umrætt landsvæði hafi allt frá því að Upprekstrarfélag Þverárréttar hafi keypt afréttarland Króks verið notað sem afréttarland og verið innan afréttargirðingar. Hafi girðingin verið reist í þeim tilgangi að aðskilja þann hluta jarðarinnar Króks sem nýttur hafi verið sem beitarland frá þeim hluta sem ekki hafi verið undirorpinn slíkum notum. Hafi stefnandi og áður upprekstrarfélagið nýtt hið afgirta land til beitar óátalið af stefnda frá árinu 1924 og fram til ársins 2010. Notkunin hafi því alla tíð verið sýnileg og stefnda ljós og sé því fullnægt skilyrðum tilvitnaðrar 7. gr. um notkun sem skapi afnotarétt.   Verði ekki fallist á að aðalstefnandi eigi beitarafnotarétt á grundvelli 7. gr. sé á því byggt að sá réttur hafi stofnast á grundvelli 8. gr. laganna. Samkvæmt þeirri grein geti hefð á ósýnilegum ítökum, svo sem slægjum, beit, reka o.fl., unnist með 40 ára notkun og öðrum skilyrðum sömu sem eignarhefð. Að þessu leyti sé byggt á sömu málsástæðum og áður hafi verið raktar.   Loks sé áréttað að aðalstefnandi byggi á því að hafi einhvern tímann í kjölfar gildistöku laga nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum risið vafi um tilvist beitarréttarins þá hafi hin óslitnu afnot eftir gildistöku þeirra laga og fram til dagsins í dag engu að síður skapað stefnanda rétt að landinu fyrir hefð.   IV. Aðalstefndi mótmælir þeirri málsástæðu aðalstefnanda sem rangri og ósannaðri að hann og forveri hans hafi allt frá árinu 1924 farið með umrætt land og nýtt það óslitið til beitar í fullan hefðartíma. Eigendur jarðarinnar á framangreindu tímabili hafi haft þinglýstar eignarheimildir fyrir henni, án nokkurs fyrirvara um afnot og ítök annarra. Hafi aðalstefnandi því ekki getað verið grandlaus um fyrirvaralausan og kvaðalausan rétt þinglesinna eigenda jarðarinnar á hverjum tíma. Að svo miklu leyti sem aðalstefnandi hafi beitt land Króks á afmörkuðum tímabilum sé hann hvorki ráðvandlega að þeim afnotum kominn né geti hann hafa verið grandlaus um kvaðalausan eignarrétt þinglesinna eigenda jarðarinnar. Þá sé á það minnt að aðalstefndi hafi lagt formlegt bann við beit á landinu með bréfi til upprekstrarfélagsins hinn 18. febrúar 2010.   Þegar aðalstefndi hafi fengið afsal fyrir jörðinni Króki á árinu 1990 hafi hann verið grandlaus um að gert væri tilkall til beins eða óbeins réttar yfir hluta jarðarinnar, enda hafi afsalinu verið þinglýst án athugasemda, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 718/2013. Sé því mótmælt sem röngu sem fram komi í stefnu að aðalstefnda hafi verið kunnugt um að hluti landsins væri „afréttur“.       Á því sé byggt að aðalstefnanda hafi verið kunnugt um fyrirvaralaus og óskert eignarréttindi annarra á umræddu landi, sem komi í veg fyrir að hann geti unnið afnotahefð að því, jafnvel þótt önnur skilyrði væru uppfyllt, sem þau séu þó ekki. Ljóst sé að ekkert þeirra draga að samningum um kaup upprekstrarfélagsins á hluta úr jörðinni Króki á árinu 1924 jafngildi bindandi samningi, enda vanti ýmist undirritanir eða umboð til undirritunar og ekki sé ljóst hvort nokkurn tíma hafi orðið til lokatexti samnings. Engu þessara skjala hafi verið þinglýst og hafi aðalstefnda verið ókunnugt um þau er hann keypti jörðina. Sé ósannað að fram hafi farið greiðslur á grundvelli þessara draga. Hvað sem öðru líði hafi afsalið til aðalstefnda útrýmt réttaráhrifum greindra þriggja draga að kaupsamningum, hafi þau einhver verið.   Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar milli sömu aðila sé niðurstaðan sú að þegar virt séu þau afnot sem aðalstefnandi hafi haft af hinu umþrætta landi hafi honum ekki tekist sönnun þess að hann hafi frá þeim tíma er jörðinni var afsalað til aðalstefnda unnið eignarhefð í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Hæstiréttur miði hér við tímamark afsals til aðalstefnda og eigi það einnig við um hina meintu afnotahefð. Hafi aðalstefnandi sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi unnið afnotahefð á landinu með óslitinni 40 ára afnotum á því, sem útrýmt hafi afnotum annarra. Það hafi honum hins vegar ekki tekist.   Sú notkun sem aðalstefnandi byggi á geti ekki talist sýnilegt ítak. Girðingin á milli umrædds lands og skógræktarinnar frá 1920 sé ekki sýnileg tilfæring í skilningi 7. gr. hefðarlaga, enda ekki reist í þágu aðalstefnanda eða forvera hans, heldur bóndans á jörðinni til verndar slægjum og gróðri. Girðing hafi verið sett upp árið 1920 og hafi verið opin til afréttar. Hafi afréttarfé af þeim sökum leitað inn á landið. Byggist það hvorki á samningi né samþykki. Aðalstefnandi telji sig hafa komið að málinu á árinu 1924, eða eftir að girðingin hafi verið reist.   Bent sé og á að teljist meint afnot aðalstefnanda til ítaks sé það niður fallið vegna vanlýsingar, sbr. lög nr. 113/1952.   Samkvæmt 7. gr. hefðarlaga nr. 46/1905 þurfi notkun sem ætlað sé að skapa afnotahefð að uppfylla sömu skilyrði og stofnun eignarhefðar. Í fyrrnefndu máli Hæstaréttar nr. 718/2013 hafi niðurstaðan verið sú að skilyrði eignarhefðar væru ekki til staðar. Samkvæmt því séu skilyrði afnotahefðar heldur ekki uppfyllt. Þá beri að hafa í huga að í umræddu dómsmáli hafi aðalstefnandi ekki gert kröfu um viðurkenningu á beitarafnotarétti fyrir afnotahefð. Hafi það fyrst verið í ágúst 2017, tæplega þremur og hálfu ári eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar, að aðalstefnandi hafi ákveðið að viðhalda ágreiningi aðila með því að byggja nú á afnotahefð í stað eignarhefðar áður. Þó verði að skilja dóm Hæstaréttar þannig að skilyrði afnotahefðar séu ekki uppfyllt. Þá hafi aðalstefndi á árinu 2010 bannað aðalstefnanda öll not af umræddum hluta jarðarinnar. Hafi aðalstefnandi átt einhvern afnotarétt byggðan á hefð sé hann fallin niður fyrir tómlæti.   V. Í gagnsök vísar gagnstefnandi til þess að gagnstefndi og aðilar á hans vegum hafi annars vegar heimilað afréttarmönnum að láta fé, sem rási af fjalli síðustu vikurnar fyrir leitir og réttir, safnast á landi jarðarinnar og vera þar á beit þar til það sé rekið til réttar og hins vegar að reka safnið af fjalli inn á land jarðarinnar og hafa það þar á beit í eina nótt þar til það sé rekið til Þverárréttar. Hafi menn á vegum gagnstefnda í þessu skyni opnað hlið á landi Króks og haldið þeim opnum, jafnvel gegn vilja og banni gagnstefnanda. Gagnstefnandi sé þinglesinn eigandi jarðarinnar Króks og engar kvaðir hvíli á henni sem lúti að greindum athöfnum gagnstefnda og hans manna. Vegna þessara einhliða aðgerða gagnstefnda hafi gagnstefnandi lögvarða hagsmuni af því að fá dóm á hendur gagnstefnda þar sem viðurkennd séu réttindi hans yfir jörðinni. Sé þetta meðal annars nauðsynlegt til að koma í veg fyrir ágang kvikfjár á vegum gagnstefnda, en jörðin Krókur sé skógræktarjörð og því sérstaklega viðkvæm fyrir slíku.   Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að gagnstefndi eigi rétt til að reka fé til réttar um land Króks að hausti sé þess krafist að sá réttur takmarkist við varakröfuna, þ.e. að reka féð viðstöðulaust um óræktað land Króks án dvalar á landinu. Gagnstefnandi telji þó að slíkan rétt verði að tímabinda þannig að hann falli niður að loknum fjallskilum 2020, þar sem allt land Króks verði þá tekið til skógræktar. Þau not gagnstefnanda útrými hugsanlegum rétti gagnstefnda til að reka fé um land jarðarinnar til réttar að hausti.   VI. Gagnstefndi vísar til þess í gagnsök að hann telji sig hafa fært rök fyrir því að hann hafi unnið fyrir hefð beitarafnot af því landi Króks sem um ræðir. Í slíkum rétti felist eðli málsins samkvæmt heimild til að reka sauðfé um það sama land. Sé og vísað til þeirra sömu sjónarmiða í gagnsök.   Á það sé bent að dómkröfur gagnstefnanda í gagnsök miði að því að koma í veg fyrir að gagnstefndi og einstakir upprekstraraðilar geti rekið fjársafn af fjalli í gegnum jörðina Krók. Um sé að ræða rekstrarleið sem hafi verið notuð allt frá árinu 1959. Nánar tiltekið sé safnið rekið yfir Þverárdal og niður með Litlu-Þverá í gegnum Krók, Hermundarstaði og fleiri jarðir. Aðrar rekstrarleiðir af fjalli komi ekki til greina og séu beinlínis hættulegar mönnum og skepnum.   Hvað sem öllum beitarrétti líði í landi Króks þá hafi gagnstefndi hefðað rétt til þess að reka fjársafnið af afrétti í gegnum land jarðarinnar. Sé hefðartími fullnaður hvort heldur miðað sé við 7. gr. eða 8. gr. hefðarlaga nr. 46/1905. Jafnframt sé vísað til 9. gr. fjallskilasamþykktar gagnstefnda, Borgarbyggðar, og fleiri sveitarfélaga frá 14. júlí 2015, en þar sé tekið fram að heimilt sé að reka fé á afrétt í gegnum heimalönd gerist þess þörf. Sé samþykkt þessi sett með heimild í lögum nr. 21/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. Styðjist réttur gagnstefnda til að nýta framangreinda rekstrarleið við þessi lög. Hagnýting afrétta sé víðast háð þeirri grundvallarforsendu að heimilt sé að reka fjársöfn í gegnum heimalönd. Verði jarðeigendum játuð heimild til að loka fornum rekstrarleiðum væri nýting afrétta í uppnámi.   Á því sé byggt að gagnstefnanda hafi verið fullkunnugt um upprekstarleiðina og tilhögun fjárleita þegar hann hafi eignast jörðina Krók á árinu 1990. Hafi umrædd rekstrarleið og verið nýtt síðan þá í meira en aldarfjórðung.   VII. Eins og áður er fram komið var með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 3. apríl 2014, í málinu nr. 718/2013, leyst úr ágreiningi aðila máls þessa um eignarhald á hinu umþrætta landi jarðarinnar Króks. Var í dóminum fallist á kröfu eiganda Króks, aðalstefnda í máli þessu, um að þegar hann eignaðist jörðina með afsali 20. september 1990 hafi hann einnig eignast umræddan hluta jarðarinnar, enda hafi þinglýst afsal hans útrýmt þeim eldri óþinglýstum rétti til landsins sem sveitarfélagið hefði byggt rétt sinn á, sbr. 2. mgr. 29. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978, og ekkert lægi fyrir um grandsemi hans um þann samning. Þá hefði sveitarfélaginu, að virtum þeim notum sem það eða forveri þess hefði haft af hinu umþrætta landi, ekki tekist sönnun þess að það hefði frá þeim tíma er jörðinni var afsalað til aðalstefnda unnið eignarhefð að landinu í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Byggir aðalstefnandi kröfur sínar í máli þessu á því að þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu Hæstaréttar hafi hann unnið beitarafnot af landinu fyrir hefð á grundvelli ákvæðis í 7. gr. tilvitnaðra laga um afnotahefð eða á grundvelli 8. gr. um hefð á ósýnilegum ítökum, beit, reka o.s.frv.   Með hliðsjón af gögnum málsins og rökstuðningi Hæstaréttar í tilvitnuðum dómi verður að telja að aðalstefndi og forveri hans hafi í raun talið til beins eignarréttar yfir hinu umþrætta landi á grundvelli hins óþinglýsta samnings við þáverandi eiganda Króks, Brynjólf Bjarnason, allt þar til þinglýst afsal aðalstefnda útrýmdi þeim rétti á árinu 1990. Í dóminum kemur og fram að óumdeilt sé að umrætt land hafi verið nýtt sem afréttarland af hálfu aðalstefnanda og áður af forvera hans, Upprekstrarfélagi Þverárréttar. Þá verður og ráðið af öðrum gögnum, þ. á m. bréfi aðalstefnda til stjórnar Veiðifélags Norðurár, dags. 25. júlí 1995, að hið umþrætta land hafi verið notað sem afréttarland fyrir Þverárrétt. Liggur og fyrir að girðing sú, sem liggur á mörkum heimalands Króksjarðarinnar og hins umþrætta lands, og aðalstefndi telur í aðilaskýrslu sinni að sett hafi verið upp á árinu 1920 í því skyni að afmarka heimalandið frá því landi sem nýtt var sem beitiland, hefur verið þar samfellt síðan og er þar enn. Að framangreindu virtu verður ekki annað ráðið en að umrætt land hafi verið notað samfellt og átölulaust sem beitarland fyrir sauðfé í þágu Upprekstrarfélags Þverárréttar allt frá framangreindum kaupum á landinu á árinu 1924 og á grundvelli þeirra allt til ársins 2010, en fyrir liggur að í febrúar það ár lagði aðalstefndi bann við notum aðalstefnanda á landinu, án þess að því hafi í öllu verið sinnt. Verður því á það fallist með aðalstefnanda að fullnægt sé áskilnaði 1. mgr. 2. gr., sbr. 8. gr., laga nr. 46/1905 og að hann hafi því öðlast beitarafnotarétt að umræddu landi fyrir hefð. Verður í því sambandi ekki talið skipta máli þótt upprekstrarfélagið hafi ekki lýst ítaki í umrætt landsvæði á grundvelli 4. gr. laga nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum, enda mátti félagið þá með réttu líta svo á að það ætti í raun beinan eignarrétt að svæðinu á grundvelli samningsins frá 1924.   Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu í aðalsök málsins um að aðalstefnandi eigi beitarafnotarétt að umræddu landi Króks felst í þeim rétti, eðli málsins samkvæmt, heimild til að reka sauðfé um það sama land. Á sama hátt felur sá réttur einnig í sér að ekki er unnt að taka til greina varakröfu gagnstefnanda í gagnsökinni um að viðurkennt verði að gagnstefnda, Borgarbyggð, eða aðilum á vegum Borgarbyggðar séu óheimil önnur not af landi jarðarinnar Króks en að reka fé, sem kemur af fjalli að hausti, um óræktað land Króks viðstöðulaust án dvalar í landi jarðarinnar næstu þrjú árin, eða til og með 2020. Verður því að sýkna gagnstefnda bæði af aðalkröfu og varakröfu gagnstefnanda í gagnsök.   Aðalstefndi greiði aðalstefnanda 800.000 krónur í málskostnað.   Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.   Dómsorð: Viðurkenndur er réttur aðalstefnanda, Borgarbyggðar, til beitarafnota af þeim hluta jarðarinnar Króks í Borgarbyggð, landnúmer 134817, sem óþinglýstur samningur Brynjólfs Bjarnasonar og Upprekstrarfélags Þverárréttar 26. maí 1924 tekur til.   Gagnstefndi, Borgarbyggð, er sýkn af kröfum gagnstefnanda, Gunnars Jónssonar, í gagnsök.   Aðalstefndi, Gunnar Jónsson, greiði aðalstefnanda 800.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 25/2020
Skipulag Byggingarleyfi Eignarréttur Grennd Aðfarargerð
J og B kröfðust þess að felldar yrðu úr gildi samþykktir byggingarfulltrúa Reykjavíkur þar sem veitt var byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við einbýlishús sem M o.fl. áttu í óskiptri sameign, auk þess sem þau kröfðust ógildingar byggingarleyfis sem gefið var út á grundvelli samþykktanna. Reistu J og B kröfuna aðallega á því að byggingarleyfið hefði verið í andstöðu við gildandi deiliskipulag sem kvæði á um að óheimilt væri að hafa fleiri en eina íbúð í hverju húsi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að hvorki í skipulagslögum né öðrum réttarheimildum um fasteignir væri að finna fyrirmæli um hvenær fleiri en ein íbúð teldist óhjákvæmilega vera í húsi eða haldbærar vísbendingar um að hlutlægt mat á innra skipulagi og öðrum eiginleikum húss samkvæmt aðaluppdráttum ætti að ráða við mat á því hvort hús teldist einbýlishús. Þvert á móti væru eigendur fasteigna frjálsir að því að ákveða, innan þeirra marka sem réttarheimildir á sviði skipulags- og mannvirkjamála, um brunavarnir, hollustuhætti og mengunarvarnir svo og skipulagsskilmálar kvæðu á um, hvernig innra skipulagi fasteigna þeirra væri háttað. Jafnframt lægi fyrir að hús M o.fl., eftir að byggt hafði verið við það, væri skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands sem einbýlishús í óskiptri sameign þeirra og að ekki hefði verið óskað eftir breytingu á þeirri skipan. M o.fl. voru sýknuð af kröfum J og B.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 20. maí 2020. Þau krefjast þess að felldar verði úr gildi samþykktir byggingarfulltrúa Reykjavíkur 10. maí 2016 þar sem veitt var byggingarleyfi fyrir 246,1 m2 viðbyggingu vestan við einbýlishús nr. 12 á lóðinni nr. 10 - 16 við Traðarland og 4. október sama ár þar sem heimilaðar voru breytingar á áður samþykktum byggingaráformum. Þá krefjast þau þess að ógilt verði byggingarleyfi til handa stefnda, Mikael Smára Mikaelssyni, sem gefið var út 21. október 2016 á grundvelli fyrrnefndra samþykkta. Loks krefjast þau málskostnaðar á öllum dómstigum óskipt úr hendi stefndu. Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Dómendur fóru á vettvang 1. desember 2020. I Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort byggingarleyfi sem byggingarfulltrúinn í Reykjavík gaf út 21. október 2016 vegna stækkunar á húsi stefndu að Traðarlandi 12 í Reykjavík hafi samrýmst gildandi deiliskipulagi fyrir viðkomandi svæði en í ákvæðum þess segir meðal annars að óheimilt sé „að hafa meira en eina íbúð“ í hverju húsi. Aðila greinir á um hvort aðaluppdrættir, sem fylgdu umsókn um byggingarleyfi vegna viðbyggingarinnar, hafi gert ráð fyrir einni eða tveimur íbúðum í húsinu. Jafnframt lýtur ágreiningur aðila að því hvort veggur við norðurhlið húss stefndu brýtur í bága við skilmála deiliskipulags um að þar skuli vera steyptur, 22 m langur og 2,1 m hár, gluggalaus veggur. Þá greinir aðila á um hvort 5 m langur veggur við vesturhlið húss stefndu, sem snýr að húsi áfrýjenda, hafi verið hluti af þeim framkvæmdum sem byggingarleyfið tók til og hvort veggurinn hafi brotið gegn gildandi deiliskipulagi. Loks er deilt um hvort gluggar á vesturhlið viðbyggingarinnar sem snúa að húsi áfrýjenda brjóta gegn grenndarrétti þeirra. Héraðsdómur féllst á kröfur áfrýjenda um að samþykktir byggingarfulltrúa Reykjavíkur fyrir byggingaráformum að Traðarlandi 12 yrðu felldar úr gildi og um ógildingu byggingarleyfis 21. október 2016. Stefndu skutu málinu til Landsréttar sem sýknaði þau af öllum kröfum áfrýjenda. Hæstiréttur veitti áfrýjunarleyfi á þeim grundvelli að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um túlkun skipulagsskilmála er kveði á um að óheimilt sé að hafa fleiri en eina íbúð í hverju húsi. II Áfrýjendur eru eigendur einbýlishúss að Traðarlandi 14 í Reykjavík en stefndu eigendur húss að Traðarlandi 12. Eignarhlutföll stefndu í húsinu eru þau að Mikael Smári og  Rosemary Lea eiga hvort um sig 33,335% en Mikael Marlies og Barbara Belle hvort um sig 16,665%. Einbýlishús málsaðila standa ásamt tveimur öðrum á sameiginlegri lóð nr. 10 - 16 en lóðin skiptist í fjóra lóðarhluta. Upphaflegir skipulagsskilmálar fyrir einbýlishús á hinni sameiginlegu lóð eru frá árinu 1966 og var samhljóða deiliskipulag samþykkt í borgarráði 6. febrúar 1968. Árið 1999 voru samþykktar breytingar á deiliskipulaginu, sem hér skipta máli, og voru þær auglýstar í B-deild Stjórnartíðinda 3. febrúar 2000. Breytingar á deiliskipulaginu voru samþykktar tvívegis á árinu 2006 en þær voru auglýstar í B-deild Stjórnartíðinda 23. nóvember 2006 og 8. mars 2007. Stefndu Mikael Smári og  Rosemary Lea keyptu einbýlishúsið að Traðarlandi 12 árið 2015. Stefndi Mikael Smári lagði inn umsókn til byggingarfulltrúans í Reykjavík 5. apríl 2016 um leyfi til að rífa bílskúr og byggja 246,1 m2 viðbyggingu á tveimur hæðum vestan við húsið. Í umsókninni kom fram að um væri að ræða „kynslóðahús“. Sótt væri um að reisa viðbyggingu við núverandi einbýli og væri um að ræða órjúfanlegan hluta núverandi íbúðarhluta. Bílageymsla skyldi endurbyggð og íbúðarhluti byggður með kjallara undir. Í þeim aðaluppdrætti sem fylgdi umsókninni var gert ráð fyrir tengibyggingu milli gamla og nýja húshlutans með sameiginlegu anddyri fyrir báða hlutana en inn af því yrði gengið annars vegar beint inn í nýja húshlutann en hins vegar inn í annað anddyri sem fyrir var í eldri hluta hússins. Frá anddyrinu lægi stigi niður í kjallara viðbyggingarinnar sem skyldi hýsa þvottahús og geymslur. Uppdrátturinn sýndi eldhúsaðstöðu, svefnherbergi og baðherbergi í báðum húshlutunum. Gert var ráð fyrir sameiginlegu hita- og rafmagnskerfi og sameiginlegum mælum fyrir báða húshluta. Byggingarfulltrúinn í Reykjavík samþykkti byggingaráformin 10. maí 2016 og breytingar á þeim 4. október sama ár. Hann gaf út byggingarleyfi fyrir viðbyggingunni 21. október 2016 í samræmi við endanleg byggingaráform. Stefndu Mikael Smári og  Rosemary Lea afsöluðu 10. nóvember 2017 samtals þriðjungseignarhluta í húsinu Traðarlandi 12 til stefndu Mikaels Marlies og Barböru Belle en þau eru foreldrar Mikaels Smára. Samið var um gagnkvæman forkaupsrétt. Eftir að framkvæmdir við viðbygginguna voru hafnar sendu áfrýjendur byggingarfulltrúanum í Reykjavík kvörtun 23. febrúar 2017. Þau kröfðust þess að byggingarleyfið yrði afturkallað á þeim grundvelli að verið væri að breyta einbýlishúsinu Traðarlandi 12 í tvíbýlishús. Auk þess yrði bætt við gluggum á vesturhlið hússins og reistur skrautveggur við göngustíg sem skildi að lóðir áfrýjenda og stefndu. Áfrýjendur töldu að grenndarkynning hefði átt að fara fram samkvæmt 43. og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Byggingarfulltrúi hafnaði erindinu með tölvubréfi 27. sama mánaðar og taldi byggingarleyfið hafa verið í samræmi við gildandi deiliskipulag. Þar kom einnig fram að ekki væri verið að breyta einbýlishúsi í tvíbýlishús en þess hefði sérstaklega verið getið í umsögn skipulagsfulltrúa að ekki væri heimilt að hafa fleiri en eina íbúð í húsinu. Áfrýjendur kærðu samþykki byggingarfulltrúa Reykjavíkur fyrir breytingum og viðbyggingu við íbúðarhúsið að Traðarlandi 12 til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 22. mars 2017. Kærunni var vísað frá með úrskurði 21. júlí sama ár með þeim rökum að kærufrestur hefði verið liðinn þegar hún barst nefndinni. III Af hálfu áfrýjenda er á því byggt að mat á því hvort húsið Traðarland 12 skiptist í tvær íbúðir eigi að vera hlutlægt. Miða eigi við þær skilgreiningar á íbúð sem hafi verið að finna í lögum á þeim tíma þegar samþykktir hafi verið skilmálar í deiliskipulagi frá árinu 1968, sem kvað á um að óheimilt væri að hafa nema eina íbúð í húsinu. Niðurstaða matsins eigi að ráðast af því hvort skoðun á aðaluppdráttum leiðir í ljós að í viðbyggingunni séu til staðar öll nauðsynleg rými þannig að um sé að ræða sérstaka íbúð. Engu skipti hvort stefndu hafa ætlað að skipta húsinu formlega upp í tvær íbúðir. Fasteignaeigendur geti ekki haft það í hendi sér hvort þeir ákveða að gera eignaskiptayfirlýsingu og hús teljist þá formlega fjöleignarhús sem falli undir lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús og íbúðir sem tilheyri því fái þá sérstakt fasteignanúmer. Áfrýjendur halda því jafnframt fram að stefndu hafi við framkvæmdirnar farið á svig við skýra skilmála deiliskipulagsins um steyptan, 22 m langan og 2,1 m háan, gluggalausan vegg norðanmegin við húsið Traðarland 12. Á teikningum vegna fyrirhugaðra breytinga á húsinu hafi verið gert ráð fyrir slíkum vegg en raunin sé hins vegar sú að stefndu hafi rofið hann. Þá reisa áfrýjendur jafnframt kröfur sínar á því að 5 m langur veggur sem stefndu hafi reist vestan við hús sitt á mörkum lóða málsaðila, í samræmi við teikningar sem fylgdu umsókn þeirra um byggingarleyfi, brjóti í bága við þá skilmála deiliskipulags að lóðarhluta skuli afmarka með limgirðingum. Í samþykktum byggingarfulltrúa hafi komið fram að hafa eigi samráð við lóðarhafa aðliggjandi lóða um frágang á lóðamörkum en slíkt samráð hafi stefndu ekki haft við byggingu veggjarins. Áfrýjendur telja að veggurinn torveldi aðgang þeirra að lóð sinni. Loks telja áfrýjendur að gluggar á vesturhlið viðbyggingar stefndu, sem snúi beint að húsi þeirra, brjóti gegn grenndarhagsmunum þeirra, ásamt framangreindum atriðum. Stefndu vísa aftur á móti til þess að húsið að Traðarlandi 12 sé skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands sem einbýlishús með einni íbúð. Hönnun viðbyggingarinnar eigi sér bæði fagurfræðilegar og hagnýtar ástæður en tilgangur þeirra hafi ekki verið sá að koma annarri íbúð fyrir í húsinu. Hefði það verið ætlun stefndu hefðu þau ekki haft sameiginlegt anddyri fyrir húshlutana, þar sem gengið væri niður í sameiginlegan kjallara og heldur ekki eina geymslu og sama rafmagns- og lagnakerfi. Stefndu telja að til þess að unnt sé að skipta húsinu að Traðarlandi 12 upp í tvær íbúðir þannig að það verði fjöleignarhús þurfi að liggja fyrir eignaskiptayfirlýsing eða önnur þinglýst heimild um skiptingu hússins í fleiri en eina afmarkaða einingu eða séreignarhluta, sbr. 4. gr. laga nr. 26/1994 og 8. tölulið 5. gr. reglugerðar nr. 406/1978 um fasteignaskráningu og fasteignamat. Engra slíkra gagna njóti við í málinu. Stefndu telja að með vísan til gildandi deiliskipulags, aðaluppdrátta hússins, byggingaráforma, framkvæmda stefndu, laga, reglna og alls annars í málinu liggi fyrir að fasteign þeirra sé og geti aldrei orðið annað en einbýlishús með einni íbúð. Stefndu byggja á því að teikningar sem fylgt hafi umsókn um byggingarleyfi hafi verið í samræmi við skilmála deiliskipulags hvað varðar vegg við norðurhlið hússins. Til standi að fylla upp í skarð í umræddum vegg en málaferli þau sem áfrýjendur hafi stofnað til hafi gert það að verkum að stefndu hafi neyðst til að stöðva framkvæmdir. Ekki komi því til álita að fella byggingarleyfið úr gildi þótt umræddum framkvæmdum við vegginn sé ólokið. Stefndu telja einnig að 5 m langur skrautveggur vestan við hús þeirra sé ekki á mörkum lóðar þeirra og lóðar stefndu heldur á lóðarmörkum stefndu austan við þriggja metra breiðan göngustíg sem skilji lóðirnar að. Veggurinn brjóti því ekki í bága við ákvæði deiliskipulags um limgirðingu á lóðamörkum. Stefndu telja að þótt gert hafi verið ráð fyrir veggnum á teikningum sem fylgt hafi umsókn um byggingarleyfi þá hafi ekkert komið fram um vegginn í texta umsóknarinnar og hæð hans hafi ekki verið tilgreind. Ekki verði ráðið af byggingarleyfinu að veitt hafi verið leyfi fyrir byggingu hans og því verði það ekki fellt úr gildi þótt veggurinn hafi verið reistur. Þá sé veggurinn nú aðeins um 1,2 m á hæð og verði mun lægri þegar lóð verði komin í endanlega hæð. Hæð veggjarins og fjarlægð frá lóðarmörkum geri það að verkum að ekki hafi þurft byggingarleyfi vegna hans. Loks telja stefndu að gluggar á vesturhlið viðbyggingarinnar séu ekki í andstöðu við skipulagsskilmála og hafi ekki, frekar en aðrar byggingarframkvæmdir þeirra, grenndaráhrif á áfrýjendur. Stefndu telja að byggingaráform og framkvæmdir við fasteign sína muni ekki hafa nein áhrif á hagsmuni áfrýjenda, eignarrétt eða nábýlis- og grenndarrétt þeirra eða að minnsta kosti ekki meiri áhrif en áður hafi verið til staðar. IV 1 Áfrýjendur eru eigendur hússins Traðarlands 14 sem stendur við hliðina á húsi stefndu að Traðarlandi 12. Áfrýjendur hafa því lögvarða hagsmuni af því að hafa uppi í máli þessu dómkröfur á hendur stefndu, sem lúta meðal annars að ógildingu á byggingarleyfi vegna umræddrar viðbyggingar við húsið Traðarland 12 á þeim grundvelli að það fari í bága við gildandi deiliskipulag. Byggingarfulltrúi veitir byggingarleyfi á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki en í 5. tölulið 3. gr. laganna er að finna svohljóðandi skilgreiningu á byggingarleyfi: „Skriflegt leyfi byggingarfulltrúa eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til að byggja hús eða önnur mannvirki, breyta þeim eða rífa, eða breyta notkun þeirra, útliti eða formi. Leyfið felur í sér samþykkt aðaluppdrátta og framkvæmdaáforma, og heimild til að hefja framkvæmdir að uppfylltum skilyrðum, sbr. 13. gr.“ Samkvæmt 11. gr. laganna gengur byggingarfulltrúi, eða eftir atvikum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, meðal annars úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Þá er samþykkt byggingaráforma háð því að fyrirhuguð mannvirkjagerð sé í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Um skipulagsáætlanir er fjallað í skipulagslögum en samkvæmt 7. tölulið 2. gr. þeirra er deiliskipulag skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reiti innan sveitarfélags sem byggð er á aðalskipulagi og kveður nánar á um útfærslu þess. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna eru í deiliskipulagi teknar ákvarðanir „um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa. Deiliskipulag skal gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem mynda heildstæða einingu.“ Í 43. skipulagslaga er fjallað um breytingar á samþykktu deiliskipulagi og segir þar í 1. mgr. að um slíkar breytingar fari eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Í 2. mgr. greinarinnar er mælt fyrir um að telji sveitarstjórn að gera þurfi svo óverulega breytingu á deiliskipulagi að ekki sé talin ástæða til meðferðar samkvæmt 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning. Loks segir í 3. mgr. að við útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis geti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Reykjavíkurborg gerði upphaflega leigusamning 22. desember 1971 um lóðina Traðarland 12 í því skyni að byggt yrði á henni íbúðarhús. Í leigusamningnum kom fram að lóðin Traðarland 10 - 16 væri ein og óskipt lóð en lóðin Traðarland 12 væri hluti hennar. Um lóðina giltu upphaflega skilmálar frá 15. febrúar 1966 fyrir einbýlishús í Fossvogi. Í 1. grein þeirra var kveðið á um að á hverri lóð skyldi reisa fjögur einnar hæðar einbýlishús en lóðirnar væri heimilt að aðgreina eins og mæliblað sýndi þannig að sérlóðarhluti fylgdi hverju húsi. Skyldi sú afmörkun þá gerð með limgirðingum. Eiganda mannvirkja á mörkum lóðarhluta væri þó heimilaður nauðsynlegur umgangur vegna viðhalds og byggingarframkvæmda. Í öðru lagi sagði í 2. grein að óheimilt væri „að hafa meira en eina íbúð í húsinu.“ Í þriðja lagi var kveðið á um það í 4. grein að steypa skyldi 2,1 m háan vegg frá hæð gólfplötu að norðanverðu í hverjum lóðarhluta og skyldi sá veggur vera 22 m langur og gluggalaus. Deiliskipulag fyrir einbýlishús í Fossvogi var samþykkt í borgarráði 6. febrúar 1968 en óumdeilt er að framangreindir skilmálar hafi verið hluti af því. Samkvæmt auglýsingu um deiliskipulag 3. febrúar 2000 voru gerðar þær breytingar á framangreindum skilmálum um einbýlishús í Fossvogi að nýtingarhlutfall lóða skyldi verða 0,24 fyrir hvern lóðarhluta. Með breytingum á þessum skilmálum, sem auglýstar voru 23. nóvember 2006 og 8. mars 2007, var heimilað að hafa kjallara undir einbýlishúsum og hámark nýtingarhlutfalls á lóð ofanjarðar hækkað úr 0,24 í 0,3. 2 Ekki liggur annað fyrir en að viðbygging við húsið Traðarland 12 hafi verið reist í samræmi við aðaluppdrátt sem fylgdi umsókn um byggingarleyfi að því leyti sem framkvæmdum er lokið. Þá er óumdeilt að húsið að Traðarlandi 12 uppfyllir, eftir að byggt hefur verið við það, ákvæði gildandi deiliskipulags um staðsetningu innan byggingarreits, hámarksstærð og nýtingarhlutfall. Í málinu eru til endurskoðunar tvær samþykktir byggingarfulltrúa á byggingaráformum varðandi viðbyggingu við húsið Traðarland 12 og byggingarleyfi sem gefið var út í samræmi við þær 21. október 2016. Við þá endurskoðun reynir aðallega á mat á því hvort áform um viðbygginguna standist skilmála gildandi deiliskipulags um að óheimilt sé að hafa fleiri en eina íbúð í húsinu. Fyrir liggur að byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsið var veitt á þeim grundvelli að það yrði áfram einbýlishús. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands um fasteignina Traðarland 12 í Reykjavík, með fastanúmer 203-8205, stendur 466 m2 einbýlishús ásamt bílskúr á lóðinni í óskiptri eigu stefndu í þeim hlutföllum sem að framan greinir. Engir samningar eða önnur gögn liggja fyrir í málinu um skiptingu hússins milli þeirra. 3 Í ákvæðum skipulagslaga er ekki að finna skilgreiningu á einbýlishúsi eða íbúð eða annað það sem varpað getur ljósi á hvenær ein eða fleiri íbúðir teljast vera í húsi í skilningi framangreindra skipulagsskilmála fyrir einbýlishús í Fossvogi. Slíkar skilgreiningar eða viðmið er heldur ekki að finna í lögum nr. 160/2010. Í málinu reynir á þá hagsmuni eigenda fasteignarinnar Traðarlands 12 að geta nýtt hana á þann hátt sem þjónar þeim best. Sá réttur nýtur verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar en takmarkast af ýmsum lagaákvæðum meðal annars á sviði skipulags- og mannvirkjamála og af nábýlis- og grenndarhagsmunum stefndu sem einnig njóta verndar sama stjórnarskrárákvæðis. Með hliðsjón af þeirri vernd sem eignarréttindi stefndu njóta samkvæmt framansögðu verður hugtakið íbúð í skilmálum deiliskipulags fyrir einbýlishús í Fossvogi ekki skýrt þröngt. Er það reist á því að hagsmunir stefndu í þessu tilliti verða taldir ganga framar nábýlis- og grenndarhagsmunum áfrýjenda. Við úrlausn málsins er nauðsynlegt að skoða hvort í öðrum réttarheimildum en að framan greinir er að finna skýrar reglur eða viðmiðanir sem styðja að synja hefði átt um útgáfu byggingarleyfis fyrir umræddri viðbyggingu á þeim grunni að skipulag hússins samkvæmt aðaluppdráttum fæli í sér að í því væru fleiri en ein íbúð. Áfrýjendur hafa vísað til þess að þegar deiliskipulag fyrir einbýlishús í Fossvogi var samþykkt á árinu 1968 hafi íbúð verið skilgreind í 2. mgr. 1. gr. þágildandi laga nr. 19/1959 um sameign fjölbýlishúsa sem hvert það herbergi sem eldhús fylgdi. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að þeim lögum hafi komið fram að þessi skilgreining á íbúð væri í samræmi við ákvæði heilbrigðissamþykktar Reykjavíkur og þarfnaðist ekki frekari skýringa. Áfrýjendur telja nærtækast að álykta að orðinu íbúð í skilmála deiliskipulags hafi verið gefin sama merking og í fyrrnefndu lagaákvæði og heilbrigðissamþykkt. Þá benda áfrýjendur á að orðið íbúð hafi verið skilgreint með sama hætti í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1976 um fjölbýlishús sem leyst hafi fyrrgreind lög af hólmi. Áfrýjendur hafa ekki sýnt fram á að bein tengsl séu milli skilgreiningar á orðinu íbúð í eldri lagaákvæðum um fjölbýlishús og merkingar sama orðs í umræddum skilmálum deiliskipulags. Líta verður svo á að með skilgreiningu á orðinu íbúð í fyrrnefndum lögum um fjölbýlishús hafi fyrst og fremst verið ætlunin að tilgreina þær lágmarkskröfur sem gerðar yrðu til húsnæðis til þess að kalla mætti það íbúð en ekki að útiloka að fleiri en eitt rými tiltekinnar tegundar, svo sem eldhús, gætu verið í sömu íbúð. Sú skilgreining á íbúð sker því ekki úr um hvenær telst vera um fleiri en eina íbúð að ræða í einbýlishúsi í skilningi skilmála deiliskipulagsins. Í grein 6.7.1 byggingarreglugerðar nr. 112/2012, með síðari breytingum, er kveðið á um almennar kröfur til íbúða. Þar segir meðal annars að hver einstök íbúð skuli sérstaklega afmörkuð með gólfi, lofti og veggjum ásamt hurðum og gluggum, sem hver um sig uppfylli ákvæði reglugerðarinnar um hljóðvist, loftræsingu, eldvarnir og varmaeinangrun. Íbúð skuli hafa að lágmarki eitt íbúðarherbergi, eldunaraðstöðu og baðherbergi. Öll slík rými innan íbúðar skuli tengd innbyrðis og ekki skuli þurfa að fara um sameign á milli rýmanna. Íbúð skuli tilheyra geymslurými og þvottaaðstaða í séreign eða sameign. Anddyri skuli vera í íbúðum en þó heimilt að sleppa anddyri ef hönnuður sýni fram á að kröfur um hljóðvist, loftræsingu og eldvarnir séu uppfylltar og að öryggi vegna vindálags sé tryggt. Af hinum almennu kröfum til íbúða samkvæmt byggingarreglugerð verður ráðið að um sé að ræða lágmarkskröfur til hönnunar innra rýmis íbúðarhúsnæðis svo að það geti talist sjálfstæð íbúð. Reglugerðin sker þannig heldur ekki úr um hvort hús stefndu hafa að geyma fleiri en eina íbúð í skilningi skilmála umrædds deiliskipulags. Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna er mælt fyrir um að skrá skuli allar fasteignir í landinu í fasteignaskrá. Fasteign er skilgreind í 1. mgr. 3. gr. laganna sem afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt. Sömu skilgreiningu á fasteign er að finna í 2. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup að því viðbættu að þar segir að með fasteign sé einnig átt við eignarhluta í húsi eða öðru mannvirki sem skiptist í fleiri en einn slíkan. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 skal meðal annars skrá séreignarhluta í fjöleignarhúsum, samkvæmt lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús, sem sérstakar eindir í fasteignaskrá. Samkvæmt 11. gr. síðastgreindra laga telst hver eignarhluti sérstök fasteign. Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 26/1994 er hugtakið fjöleignarhús skilgreint sem hvert það hús sem skiptist í séreignir í eigu fleiri en eins aðila og í sameign sem bæði geti verið allra og sumra. Séreign er skilgreind þannig í 4. gr. laganna að hún sé „afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum er lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, skiptasamningi og/eða öðrum þinglýstum heimildum um húsið, ásamt því sem honum fylgir sérstaklega hvort heldur er húsrými í húsinu sjálfu, bílskúr á lóð þess eða sameiginlegri lóð margra húsa, lóðarhluti, búnaður eða annað samkvæmt sömu heimildum, ákvæðum laga þessara eða eðli máls.“ Í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 26/1994 er mælt fyrir um að gera skuli eignaskiptayfirlýsingu um öll fjöleignarhús, enda liggi ekki fyrir þinglýstur fullnægjandi og glöggur skiptasamningur. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 916/2000 um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning hlutfallstalna o.fl. í fjöleignarhúsum skal eignaskiptayfirlýsing hafa að geyma lýsingu á húsinu og lóð þess og mæla fyrir um skiptingu þess í séreignir, sameign allra og sameign sumra og ákvarða hlutdeild hvers eiganda í sameign. Samkvæmt 4. mgr. 17. gr. laga nr. 26/1994 skal afhenda byggingarfulltrúa eignaskiptayfirlýsingu til staðfestingar og er honum skylt að senda Þjóðskrá Íslands afrit af henni. Með kröfu um staðfestingu byggingarfulltrúa á eignaskiptayfirlýsingu er samkvæmt framangreindu tryggt að eigandi geti ekki skipt upp fasteign sinni án þess að fá staðfestingu byggingarfulltrúa en eðli máls samkvæmt reynir þá á hvort skiptingin stenst ákvæði gildandi skipulagsskilmála. Eins og rakið hefur verið er ekki að finna í skipulagslögum eða öðrum réttarheimildum um fasteignir fyrirmæli um hvenær fleiri en ein íbúð telst óhjákvæmilega vera í húsi. Þá er heldur ekki að finna í framangreindum réttarheimildum neinar haldbærar vísbendingar um að hlutlægt mat á innra skipulagi og öðrum eiginleikum húss samkvæmt aðaluppdráttum eigi að ráða við mat á því hvort hús telst einbýli og fullnægir þar með skilmálum deiliskipulags sem mæla fyrir um að óheimilt sé að hafa fleiri en eina íbúð í húsi. Þvert á móti eru eigendur fasteigna frjálsir að því að ákveða, innan þeirra marka sem réttarheimildir á sviði skipulags- og mannvirkjamála, um brunavarnir, hollustuhætti og mengunarvarnir svo og skipulagsskilmálar kveða á um, hvernig innra skipulagi fasteigna þeirra er háttað, svo sem um fjölda svefnherbergja, baðherbergja og herbergja með eldunaraðstöðu. Einbýlishúsið að Traðarlandi 12 er, eftir að byggt hefur verið við það, skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands sem einbýlishús í óskiptri sameign stefndu og þau hafa ekki óskað eftir breytingu á þeirri skipan með því að skipta því í séreignar- og sameignarhluta. Að öllu áðurgreindu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna dóms Landsréttar er þeirri málsástæðu áfrýjenda hafnað að ógilda beri byggingarleyfi 21. október 2016 fyrir viðbyggingu við hús stefndu að Traðarlandi 12 af þeirri ástæðu að byggingaráformin hafi farið gegn því ákvæði í gildandi deiliskipulagi að óheimilt sé að hafa nema eina íbúð í húsinu. Samkvæmt því reyndi ekki að þessu leyti á ákvæði 43. gr. skipulagslaga við útgáfu byggingarleyfisins. 4 Eins og áður segir gerði aðaluppdráttur sem fylgdi umsókn um byggingarleyfi vegna viðbyggingar við húsið Traðarland 12 ekki ráð fyrir öðru en að við norðurhlið þess yrði steyptur, 22 m langur og 2,1 m hár, gluggalaus veggur í samræmi við ákvæði gildandi deiliskipulags og var byggingarleyfið veitt á þeim grundvelli. Engu breytir um gildi byggingarleyfisins þótt veggurinn hafi verið rofinn að hluta og honum enn ekki verið komið í endanlegt horf. Áfrýjendur reisa kröfur sínar jafnframt á því að stefndu hafi í andstöðu við skilmála deiliskipulags látið reisa 5 m vegg vestan við hús sitt. Aðila greinir á um hvort byggingarleyfið 21. október 2016 hafi tekið til byggingar hans. Umræddur veggur kemur fram á aðaluppdráttum sem fylgdu umsókn um byggingarframkvæmdir þær sem byggingarleyfið 21. október 2016 laut að. Veggurinn var hins vegar hvorki tilgreindur í texta umsóknarinnar né í byggingarleyfinu sjálfu. Stefndu telja að ekki hafi verið þörf á að sækja um byggingarleyfi vegna hans. Í ljósi þess að þriggja metra breiðum stíg er ætlað að skilja að lóðarhluta áfrýjenda og stefndu taka skilmálar gildandi deiliskipulags um afmörkun lóða með limgirðingum ekki til lóðarmarka stefndu við umræddan stíg. Af þeirri ástæðu kemur ekki til álita að fella samþykktir byggingarfulltrúa Reykjavíkur og byggingarleyfi sem gefið var út á grundvelli þeirra úr gildi sökum þess að veggurinn feli í sér brot á skilmálum gildandi deiliskipulags. Af hálfu áfrýjenda hefur ekki verið sýnt fram á að gluggar á vesturhlið viðbyggingar við hús stefndu að Traðarlandi 12, sem fram komu á aðaluppdrætti er fylgdi umsókn um byggingarleyfi, brjóti í bága við gildandi deiliskipulag, aðra skipulagsskilmála, skipulagslög, lög nr. 160/2010 eða reglugerðir sem settar hafa verið samkvæmt þeim. Kröfur áfrýjenda verða því ekki teknar til greinar á þeim grundvelli. Samkvæmt framansögðu hafa áfrýjendur ekki sýnt fram á að byggingarleyfi hafi ekki mátt gefa út nema að undangenginni grenndarkynningu og breytingu á deiliskipulagi, sbr. 1. mgr. 43. og 44. gr. skipulagslaga eða grenndarkynningu á grundvelli 2. mgr. 43. gr. sömu laga. Þeir hafa heldur ekki sýnt fram á önnur nábýlis- eða grenndarsjónarmið sem leitt geta til þess að kröfur þeirra í máli þessu verði teknar til greina. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur. Eftir framangreindum úrslitum verða áfrýjendur dæmdir til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjendur, Jóhann Friðrik Haraldsson og Bryndís Haraldsdóttir, greiði óskipt stefndu, Mikael Smára Mikaelssyni,  Rosemary Lea Jones, Mikael Marlies Karlssyni og Barböru Belle Nelson, sameiginlega 1.000.000 króna í málskostnað fyrir Hæstarétti.     Dómur Landsréttar 27. mars 2020 Mál þetta dæma landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson og Jóhannes Sigurðsson og Björg Thorarensen, settur landsréttardómari. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Áfrýjendur skutu málinu til Landsréttar 29. maí 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2019 í málinu nr. E-1546/2018. 2        Áfrýjendur krefjast sýknu af kröfum stefndu auk málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu í héraði og fyrir Landsrétti. 3        Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms auk málskostnaðar óskipt úr hendi áfrýjenda fyrir Landsrétti. Málsatvik og sönnunarfærsla 4        Atvik málsins eru í stórum dráttum óumdeild. Áfrýjendur, Mikael Smári Mikaelsson og Rosemary Lea Jones, keyptu einbýlishúsið að Traðarlandi 12 í Reykjavík á árinu 2015 og kveða ástæðu kaupanna þá að þau leituðu að stóru og hentugu húsnæði fyrir fjölskylduna. Gerðu þau ráð fyrir að foreldrar Mikaels Smára mundu búa með þeim og börnum þeirra í húsinu en fyrir hafi legið að unnt væri að stækka húsið umtalsvert samkvæmt skipulagsáætlunum. Með afsali 10. nóvember 2017 afsöluðu þau áfrýjendunum, Mikael Marlies Karlsson og Barböru Belle Nelson, hvoru um sig 16,67% eignarhlut í húsinu. Húsið stendur á sameiginlegri lóð fyrir hús númer 10-16 að Traðarlandi í Reykjavík en lóðarhlutar hvers húss um sig eru þó sérstaklega afmarkaðir. 5        Með umsókn 5. apríl 2016 sótti áfrýjandinn Mikael Smári um byggingarleyfi hjá Reykjavíkurborg. Framkvæmdinni var lýst sem viðbyggingu við núverandi einbýlishús sem væri órjúfanlegur hluti af því. Um væri að ræða svokallað „kynslóðahús“ en eins og áður er rakið gerðu áfrýjendur ráð fyrir að þrjár kynslóðir sömu fjölskyldu gætu búið í húsinu. Byggingarfulltrúi Reykjavíkur samþykkti umsóknina 10. maí 2016. Hinn 4. október 2016 var samþykkt breyting á byggingaráformum sem fólust í því að notaðar yrðu forsteyptar einingar í stað staðsteypu, komið yrði fyrir innsteyptum styrktarbita í þaki viðbyggingar og útliti suðurhliðar hússins yrði breytt. Byggingarleyfi var síðan gefið út 21. október 2016. 6        Stefndu eru eigendur að einbýlishúsinu að Traðarlandi 14 í Reykjavík. Með bréfi til byggingarfulltrúa Reykjavíkur 23. febrúar 2017 óskaði stefndi Jóhann Friðrik Haraldsson eftir því að byggingar- eða framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda við Traðarland 12 yrði afturkallað þar sem það samræmdist ekki skilmálum deiliskipulags. Byggingarfulltrúi Reykjavíkur hafnaði erindinu með tölvupósti 27. febrúar 2017 og vísaði til þess að það væri álit hans að samþykkt byggingarleyfi væri í samræmi við gildandi deiliskipulag hverfisins. 7        Stefndu kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 22. mars 2017. Með úrskurði nefndarinnar 21. júlí 2017 í máli nr. 34/2017 var málinu vísað frá þar sem kæran barst að liðnum kærufresti. 8        Í kjölfarið höfðuðu stefndu mál sem þingfest var í héraðsdómi Reykjavíkur 17. maí 2018 þar sem þess var krafist að felldar yrðu úr gildi samþykktir byggingarfulltrúa Reykjavíkur dagsettar 10. maí 2016, þar sem veitt var byggingarleyfi fyrir 246,1 m2 viðbyggingu vestan við einbýlishús nr. 12 á lóðinni nr. 10–16 við Traðarland, og 4. október 2016, þar sem heimilaðar voru breytingar á áður samþykktum byggingaráformum. Þá var þess jafnframt krafist að ógilt yrði með dómi byggingarleyfi til handa áfrýjendum 21. október 2016 sem gefið var út á grundvelli nefndra ákvarðana. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2019 var fallist á kröfur stefndu um ógildingu samþykktanna og byggingarleyfisins. Niðurstaðan byggðist á því að samþykkt byggingarleyfisins hafi ekki farið eftir viðkomandi lagafyrirmælum og byggingarleyfið verið í andstöðu við gildandi deiliskipulag þar sem skýrt væri kveðið á um að óheimilt væri að hafa fleiri en eina íbúð í hverju húsi. Óheimilt hefði verið að víkja frá deiliskipulaginu nema að undangenginni grenndarkynningu. 9        Við aðalmeðferð málsins í Landsrétti gengu dómarar á vettvang ásamt lögmönnum málsaðila. Málsástæður aðila Málsástæður stefndu 10       Stefndu byggja kröfur sínar á því að skilmálar deiliskipulags fyrir einbýlishús í Fossvogi mæli fyrir um að óheimilt sé að hafa meira en eina íbúð í hverju húsi. Þegar teikningar hússins séu skoðaðar hlutlægt sé ljóst að í húsinu séu tvær íbúðir. Samkvæmt teikningum séu í viðbyggingunni öll nauðsynleg rými sem þarf fyrir sjálfstæðar íbúðir enda sé þar að finna svefnherbergi, stofu, bað og eldhús. Orðalag umsóknar um byggingarleyfi gefi þetta að auki skýrlega til kynna en húsið er þar nefnt „kynslóðahús“ sem geti ekki þýtt annað en að þar séu fleiri en ein íbúð. Fyrir liggi að tengibygging sé sameiginlegur inngangur svo sem tíðkast í fjölbýlishúsum og að auðvelt sé að loka á milli íbúðanna. Samkvæmt 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé áskilið að mannvirki séu byggð í samræmi við skipulagsáætlanir á hlutaðeigandi svæði. 11       Að auki reisa stefndu kröfur sínar á því að deiliskipulagið geri ráð fyrir að norður-veggur hússins eigi að vera 2,10 metra hár og 22 metrar á lengd. Þótt samþykktar teikningar geri ráð fyrir óbrotnum vegg hafi áfrýjendur brotið skarð í vegginn. Jafnframt byggja stefndu á því að skrautveggur á mörkum vesturhluta lóðar Traðarlands 12 sé ekki í samræmi við deiliskipulag þar sem skipulagið geri ráð fyrir limgerði á milli lóðarhluta. Veggurinn þrengi að aðgengi stefndu að afmörkuðum lóðarhluta sínum og sameiginlegri lóð. Að endingu byggja stefndu kröfur sínar á því að gluggar hafi verið heimilaðir á vesturhlið viðbyggingarinnar en engir gluggar hafi verið á þeirri hlið bílskúrs sem þar stóð áður. 12       Stefndu byggja á því að skipulagsyfirvöldum hafi í öllu falli borið að fara með umsóknina í grenndarkynningu samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem vikið væri frá deiliskipulagi auk þess sem breytingar hefðu veruleg áhrif á eignarréttindi stefndu. Málsástæður áfrýjenda 13       Áfrýjendur byggja kröfu sína um sýknu á því að samþykkt umsóknar þeirra og útgáfa byggingarleyfisins hafi verið í samræmi við lög og deiliskipulag. Innanhúshönnun hússins snerti ekki hagsmuni stefndu á neinn hátt heldur sé hún alfarið háð ákvörðunum áfrýjenda og samþykkt byggingaryfirvalda. Engar lagareglur banni það innanhússkipulag sem teikningar gera ráð fyrir. Húsið sé einbýlishús eftir breytingarnar og í því sé einungis ein íbúð. Teikningar geri ráð fyrir að opið verði á milli viðbyggingar og eldri hluta hússins. Húsið sé í fasteignaskrám eftir sem áður skráð sem einbýlishús í samræmi við deiliskipulag. Sameiginlegt lagnakerfi fyrir rafmagn, vatn og frárennsli sé í húsinu. 14       Áfrýjendur kveða ástæðuna fyrir því að norðurveggur hússins hafi verið rofinn þá að koma hafi þurft fyrir forsteyptum einingum í viðbygginguna. Framkvæmdum við húsið sé ekki lokið og veggnum verði lokað í samræmi við samþykktar teikningar að þeim loknum. Þá telji þau uppsetningu á skrautvegg sem sé lægri en 1,5 metrar ekki vera háðan samþykkt byggingaryfirvalda auk þess sem hann kemur fram á samþykktum teikningum. Veggurinn trufli á engan hátt aðkomu stefndu að afmarkaðri lóð sinni eða nýtingu þeirra á sameiginlegri lóð. Gluggar á vesturhlið viðbyggingar séu allir hátt uppi nema einn svefnherbergisgluggi. Telja áfrýjendur ótvírætt að ekkert mæli gegn þessari hönnun glugga í deiliskipulaginu auk þess sem þetta hafi engin áhrif á nýtingu eða rétt stefndu sem eigenda Traðarlands 14. 15       Jafnframt byggja áfrýjendur á því að þær breytingar sem byggingarnefndarteikningar geri ráð fyrir séu að öllu leyti í samræmi við deiliskipulag og að breytingarnar séu í öllu falli óverulegar og skerði ekki hagsmuni stefndu á neinn hátt. Því hafi ekki verið þörf á grenndarkynningu sbr. undanþáguákvæði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Niðurstaða 16       Til grundvallar hönnun viðbyggingar við húsið að Traðarlandi 12 lá sú hugmynd að í húsinu gætu búið þrjár kynslóðir sömu fjölskyldu. Fallast má á það með stefndu að þegar horft er til skipulags á viðbyggingunni er þar að finna öll nauðsynleg rými til þess að húshlutinn gæti talist sjálfstæð íbúðareining. Ekki verður þó fram hjá því horft að allt lagnakerfi hússins er sameiginlegt auk þess sem endanlegar teikningar gera ráð fyrir að opið sé á milli húshlutanna í gegnum tengibyggingu. Þá er húsið skilgreint sem ein eining með eitt fastanúmer í fasteignaskrá. Ákvörðunarvald um fyrirkomulag á innanhúshönnun húss liggur almennt hjá eigendum þess að því tilskildu að lagafyrirmælum sé fylgt. Samkvæmt því verður fyrirkomulag á innanhússkipulagi húss eitt og sér ekki ráðandi um það hvort í húsi séu tvær íbúðir í skilningi deiliskipulags. 17       Stefndu hafa bent á að byggingarnefndarteikningar hússins og skýringar með þeim beri með sér að húsinu sé í raun ætlað að vera fjöleignarhús. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús er fjöleignarhús skilgreint sem hvert það hús sem skiptist í séreignir í eigu fleiri en eins aðila og í sameign sem bæði getur verið allra og sumra. Í 4. gr. laganna er tilgreint að séreign samkvæmt lögunum sé afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum er lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, skiptasamningi og/eða öðrum þinglýstum heimildum um húsið. Afmörkun séreignar verður samkvæmt þessu að byggjast á eignaskiptayfirlýsingu, skiptasamningi eða annarri þinglýstri heimild. Ekki nýtur neinna slíkra gagna við í málinu og verður því að leggja til grundvallar að húsið að Traðarlandi 12 sé ekki fjöleignarhús í skilningi laganna. 18       Stefndu halda því fram að með tveimur íbúðum í húsinu og þremur kynslóðum verði meiri umgangur við húsið og á sameiginlegri lóð en þau hefðu mátt vænta samkvæmt deiliskipulaginu. Skerði þetta fyrirkomulag eignarréttindi sem fylgja fasteign þeirra. Ekki er unnt að fallast á það með stefndu að skipulagsskilmálar eða lög komi í veg fyrir að eigandi einbýlishúss geti ákveðið að í því búi þrjár kynslóðir sömu fjölskyldu. Þótt það fyrirkomulag sé nú fátíðara en áður er almennt þekkt að í gegnum tíðina hafi þrjár kynslóðir búið saman í húsnæði án þess að það hafi talist skerðing á eignarréttindum nágranna vegna mögulega aukins umgangs. 19       Ekki er um það deilt að óheimilt er að hafa fleiri en tvær íbúðir í húsinu að Traðarlandi 12 samkvæmt skilmálum deiliskipulags. Í skipulagslögum er hugtakið íbúð ekki sérstaklega skilgreint. Þá liggur ekki fyrir að eigendur hafi nein áform um að skipta húsinu í tvo afmarkaða séreignarhluta. Í ljósi þess að eigandi húsnæðis hefur í grunninn ákvörðunarvald um skipulag og hönnun þess að innan verður lagt til grundvallar, að minnsta kosti eins og atvikum er hér háttað, að það hefði þurft að liggja fyrir með eignaskiptayfirlýsingu eða öðrum hætti að ætlunin væri að skipta húsinu upp í fleiri en eina afmarkaða einingu til þess að unnt væri að skilgreina húsnæðið sem tvær íbúðir í skilningi deiliskipulagsins. Af þessu leiðir að samþykkt teikninga og byggingarleyfis braut ekki gegn grenndarrétti stefndu. Því verður að hafna þeirri málsástæðu þeirra að í húsinu séu tvær íbúðir sem brjóti í bága við deiliskipulagið og réttindi stefndu. 20       Samkvæmt samþykktum byggingarnefndarteikningum er gert ráð fyrir að norðurveggur hússins að Traðarlandi 12 sé órofinn. Verða ákvarðanir um byggingarleyfið því ekki ógiltar þótt enn hafi ekki verið lokið við frágang veggjarins. 21       Hinn umdeildi skrautveggur er sýndur á samþykktum teikningum. Áfrýjendur hafa bent á að samkvæmt f-lið ákvæðis 2.3.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 séu skjólveggir og girðingar sem eru allt að 1,8 metrar að hæð og standa ekki nær lóðarmörkum en 1,8 metrar undanþegnir byggingarleyfi. Stefndu hafa hins vegar bent á að samkvæmt ákvæði 7.2.3 í byggingarreglugerð séu skjólveggir og girðingar háð byggingaleyfi ef þau uppfylla ekki framangreind skilyrði. Við skoðun á veggnum á vettvangi er ljóst að hæð hans er talsvert undir framangreindum mörkum. Óumdeilt er að veggurinn stendur við mörk afmarkaðs lóðarhluta Traðarlands 12 og stígs sem er á milli afmarkaðra lóðarhluta Traðarlands 12 og 14. Áfrýjendur telja stíginn vera um 3 metra á breidd og vegginn 1,5 metra á hæð. Eins og aðstæðum er háttað á hinni sameiginlegu lóð verður ekki talið að lágreistur steyptur veggur hafi meiri áhrif á eignarréttindi stefndu en limgerði á sama stað. Þar sem veggurinn stendur um 3 metra frá afmörkuðum lóðarhluta Traðarlands 14 verður að telja að hann sé í öllu falli óverulegt frávik frá deiliskipulagi og skerði í raun í engu hagsmuni stefndu. Þótt skipulag kvæði á um að lóðamörk skyldu aðgreind með limgerði verður samkvæmt framangreindu talið að ekki hafi verið þörf á sérstakri grenndarkynningu, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga. 22       Gluggar á vesturhlið viðbyggingar eru litlir og mjög ofarlega á vegg hússins. Við venjulega umgengni verður hvorki litið inn um gluggana né út um þá. Einn svefnherbergisgluggi er nyrst á veggnum við hlið bílskúrshurðar. Ekki er fallist á með stefndu að þau hafi fært fyrir því haldbær rök að fyrirkomulag glugganna og þær breytingar sem gerðar voru frá fyrri hönnun skerði á einhvern hátt hagsmuni þeirra til landnotkunar, útsýnis, skuggavarps eða innsýni umfram það sem deiliskipulag gerir ráð fyrir og grenndarréttur hans stendur til. Sérstakrar grenndarkynningar var því ekki þörf vegna þessa þáttar, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga. 23       Í samræmi við það sem að framan er rakið verður kröfu stefndu um ógildingu samþykkta byggingarfulltrúa Reykjavíkur og útgáfu byggingarleyfisins hafnað. 24       Stefndu verður gert að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti eins og í dómsorði greinir.  Dómsorð: Áfrýjendur, Mikael Smári Mikaelsson, Rosemary Lea Jones, Mikael Marlies Karlsson og Barbara Belle Nelson skulu vera sýkn af kröfum stefndu, Jóhanns Friðriks Haraldssonar og Bryndísar Haraldsdóttur. Stefndu greiði óskipt áfrýjendum 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.         Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2019             Mál þetta, sem dómtekið var þann 11. mars sl., er höfðað með stefnu útgefinni17. maí 2018 af Jóhanni Friðrik Haraldssyni og Bryndísi Haraldsdóttur, Traðarlandi 14, Reykjavík, á hendur Mikael Smára Mikaelssyni, Rosemary Lea Jones, Mikael Marlies Karlssyni og Barböru Belle Nelson, Traðarlandi 12, Reykjavík.   I.         gildi samþykktir byggingarfulltrúa Reykjavíkur, dagsettar 10. maí 2016 annars vegar, þar sem veitt var byggingarleyfi fyrir 246,1 m2 viðbyggingu vestan við einbýlishús nr. 12 á lóðinni nr. 10–16 við Traðarland, og hins vegar dagsett þann 4. október 2016, þar sem heimilaðar voru breytingar á áður samþykktum byggingaráformum. Þá er þess jafnframt krafist að ógilt verði með dómi byggingarleyfi til handa stefndu sem gefið var út á grundvelli nefndra ákvarðana 21. október 2016.         Þá er þess krafist að stefndu verði dæmd til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.            Stefndu krefjast þess að verða sýknuð af öllum dómkröfum stefnenda.         Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnenda, in solidum, samkvæmt mati dómsins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti.   II. Málsatvik         Helst málsatvik eru þau að stefnendur eru þinglýstir eigendur að einbýlishúsinu að Traðarlandi 14 í Reykjavík og halda þar heimili. Stefndu eru þinglýstir eigendur að einbýlishúsinu að Traðarlandi 12 í Reykjavík. Byggingarfulltrúi Reykjavíkur samþykkti 10. maí 2016 umsókn stefndu um leyfi fyrir 246,1 fermetra viðbyggingu vestan við einbýlishúsið nr. 12 á heildarlóðinni að Traðarlandi 10–16. Í umsókn um byggingarleyfi, dagsettri 5. apríl 2016, kemur fram að sótt sé um leyfi til að byggja svokallað „kynslóðahús“. Fyrirhugað sé að rífa bílageymslur sem standi á lóðinni og reisa viðbyggingu við íbúðarhúsið. Í stað bílageymslna komi íbúðarhluti með kjallara undir. Þann 4. október 2016 var enn fremur samþykkt breyting á byggingaráformum sem fólust í því að notaðar yrðu forsteyptar einingar í stað staðsteypu, komið yrði fyrir innsteyptum styrktarbita í þaki viðbyggingar og útliti suðurhliðar hússins yrði breytt. Byggingarleyfi var síðan gefið út þann 21. október 2016 (dskj. nr. 8).           Síðla árs 2016, þegar stefnendur urðu varir við að framkvæmdir væru hafnar að Traðarlandi 12, grennsluðust þau fyrir um framkvæmdirnar og hvaða breytingar væru fyrirhugaðar á húsnæði stefndu. Þau sendu síðan bréf til byggingarfulltrúa Reykjavíkur þann 23. febrúar 2017 og óskuðu eftir því að byggingar- eða framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda við Traðarland 12 yrði afturkallað þar sem það samræmdist ekki skilmálum deiliskipulags. Stefnendur fengu svar frá byggingarfulltrúa með tölvupósti þann 27. febrúar 2017 þar sem hafnað var kröfum stefnenda og vísaði hann til þess að það væri hans álit að samþykkt byggingarleyfi væri í samræmi við gildandi deiliskipulag hverfisins.         Ákvörðun byggingarfulltrúa kærðu stefnendur síðan til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þann 22. mars 2017. Úrskurðarnefndin komst að niðurstöðu með úrskurði í málinu þann 21. júlí 2017, sbr. úrskurð nr. 34/2017. Nefndin vísaði málinu frá þar sem kæran hefði borist að liðnum kærufresti. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Taldi nefndin að kærufrestur hefði byrjað að líða um mánaðamótin nóvember-desember 2016.         Þann 10. nóvember 2017 varð breyting á eignarhaldi fasteignarinnar að Traðarlandi 12. Stefndu Mikael Smári og Rosemary Lea afsöluðu hvort um sig 16,675 eignarhlut fasteignarinnar til stefndu Mikaels Marlies og Barböru Belle. Afsalinu var þinglýst hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu þann 17. nóvember 2017. Eftir að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar lá fyrir héldu stefndu áfram framkvæmdum. III. Málsástæður og lagarök stefnenda         Kröfu sína um að samþykktir byggingarfulltrúa Reykjavíkur, dags. 10. maí 2016 og 4. október 2016, um byggingarleyfi að Traðarlandi 12, og byggingarleyfi á grundvelli nefndra ákvarðana, dags. 21. október 2016, verði felldar úr gildi byggi stefnendur á því að umrætt byggingarleyfi samræmist ekki gildandi deiliskipulagi og því beri að ógilda samþykktirnar og byggingarleyfið með dómi.         Aðild stefnenda byggist á 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en þau séu sameigendur að fasteigninni að Traðarlandi 14. Aðild stefndu byggist á sama ákvæði þar sem þau séu sameigendur að fasteigninni að Traðarlandi 12. Krafa stefnenda beinist að stefndu sem eigendum fasteignarinnar að Traðarlandi 12 og handhöfum hins samþykkta byggingarleyfis, í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar.         Í 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segi að fyrirhuguð mannvirkjagerð skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Þá segi í 13. gr. sömu laga að það sé eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Stefnendur byggi á því að samþykkt byggingaráform að Traðarlandi 12 séu í andstöðu við gildandi deiliskipulag svæðisins.         Í gildi sé deiliskipulag frá árinu 1968 fyrir einbýlishúsahverfið neðst í Fossvogi. Samkvæmt deiliskipulaginu skuli á hverri lóð reisa fjögur einnar hæðar einbýlishús. Heimilt sé að aðgreina lóðirnar þannig að sér lóðarhluti fylgi hverju húsi og skuli sú afmörkun gerð með limgirðingum. Þá segi að bifreiðageymsla skuli vera í húsinu sjálfu eða áföst við það og að minnsta kosti eitt bifreiðastæði skuli vera á hverjum lóðarhluta. Þá segi að óheimilt sé að hafa meira en eina íbúð í hverju húsi. Loks mæli deiliskipulagið fyrir um að norðanmegin á hverjum lóðarhluta skuli vera steyptur veggur, 2,10 metrar á hæð og 22 metrar á lengd, og sá veggur skuli vera gluggalaus.         Samþykktar hafi verið breytingar á deiliskipulaginu árið 2000 og 2007 þar sem nýtingarhlutfall var hækkað í 0,3 og byggingarreitir voru stækkaðir. Framangreind ákvæði um afmörkun lóðarhluta með limgirðingum og bifreiðastæði hafi þó verið óbreytt. Þá hafi enn fremur verið óbreytt ákvæði deiliskipulags þess efnis að óheimilt væri að hafa meira en eina íbúð í hverju húsi.         Eins og að framan greini felist í hinu samþykkta byggingarleyfi stefndu heimild til þess að í stað eldri bílageymslna vestanmegin á lóðarhluta stefndu verði reist 246,1 m2 viðbygging. Viðbyggingin liggi að lóðarhluta stefnenda, sem sé vestanmegin við lóðarhluta stefndu og verði gluggar á þeirri hlið sem snýr að fasteign stefnenda. Í umsókn stefndu um byggingarleyfi komi fram að sótt sé um leyfi til byggingar svokallaðs „kynslóðahúss“, sem verði órjúfanlegur hluti af núverandi íbúðarhluta. Þannig verði bílageymsla endurbyggð og íbúðarhluti byggður með kjallara undir. Nýtingarhlutfall lóðarhluta eftir breytingar verði 0,27 ofanjarðar. Í teikningum, sem samþykktar voru af byggingarfulltrúa vegna breytinga á Traðarlandi 12, komi fram nánari lýsing á fyrirhuguðum framkvæmdum. Þar segi meðal annars: Um er að ræða að búa til svokallað „kynslóðahús“ þar sem 3 kynslóðir búa saman. Byggt er við [sic] núverandi íbúðarhús sem reist var 1973. Núverandi bílgeymsla, byggða [sic] á sama tíma og íbúðarhús, verður rifin og einnig sambyggð bílageymsla sem var breytt úr „porti“ í bílgeymslu. Með niðurrifi þessara bygginga skapast rými fyrir viðbygginguna. Viðbygging er íbúðarhluti sem verður órjúfanlegur hluti af núverandi íbúðarhúsi. Léttbyggð tengibygging sem hýsir nýtt anddyri tengir þessar tvær meginbyggingar saman. Nýr bílskúr er endurbyggður í norðurhluta byggingarreits.“            Á teikningunum sjálfum megi sjá að í hinni nýju viðbyggingu sé gert ráð fyrir svefnherbergi, gestaherbergi/skrifstofu, baðherbergi, stofu og eldhúsi, eða „alrými“ og „eldhúshorni“. Þá sé hin svokallaða tengibygging merkt á teikningunum sem „forstofa f. bæði hús“. Núverandi íbúðarhluti hafi þó einnig sína eigin forstofu, sem taki við af tengibyggingunni.         Stefnendur telji einsýnt, með hliðsjón af öllu framangreindu, að hin samþykktu byggingaráform feli í sér að þeim loknum verði tvær íbúðir á lóðarhlutanum að Traðarlandi 12, þvert á ákvæði gildandi deiliskipulags. Þannig styðji orðalag byggingarlýsingar með teikningum það að á lóðarhlutanum verði í raun tvær íbúðir að loknum framkvæmdum, þ.e. að gert sé ráð fyrir því að þrjár kynslóðir búi saman. Gert sé ráð fyrir öllum nauðsynlegum rýmum íbúðar í hinni nýju viðbyggingu, þ.e. salerni, eldhúsi, stofu og svefnherbergi. Að loknum framkvæmdum muni því standa á lóðarhlutanum tvö hús hvort með sinni íbúðinni og á milli þeirra sé afar takmörkuð tenging sem felist í hinni svokölluðu tengibyggingu. Af teikningum verði ekki annað ráðið en að unnt verði að loka algerlega á milli íbúðanna tveggja, auk þess sem tengibyggingin aðskilji íbúðirnar. Hið samþykkta byggingarleyfi samræmist því ekki áðurnefndum skilmála gildandi deiliskipulags þess efnis að óheimilt sé að hafa meira en eina íbúð í hverju húsi.         Stefnendur hafni því að unnt sé að komast hjá því að fylgja skýrum skilmálum gildandi deiliskipulags með þeirri nýstárlegu orðnotkun að hér sé um „kynslóðahús“ að ræða. Slík orðnotkun breyti ekki þeirri staðreynd að hið samþykkta byggingarleyfi feli í sér heimild til handa stefndu til að byggja á lóðarhlutanum tvær íbúðir með afar takmarkaðri tengingu. Stefnendur bendi enn fremur á að stefndu hafi við framkvæmdirnar farið á svig við skýran skilmála deiliskipulagsins um óbrotinn, steyptan, gluggalausan vegg norðanmegin á lóðarhlutanum. Sem fyrr segi mæli deiliskipulagið fyrir um að sá veggur skuli vera 22 metrar á lengd og 2,10 metrar á hæð. Á teikningum vegna breytinga á Traðarlandi 12 að umræddur veggur er heill og óbrotinn. Raunin sé hins vegar sú að stefndu hafi opnað umræddan vegg þannig að hann myndi aðgengi að tengibyggingunni norðanmegin, sbr. mynd sem tekin var 22. nóvember sl. Framkvæmd stefndu að þessu leyti sé ekki í samræmi við framlagðar teikningar og brjóti í bága við skilmála deiliskipulagsins. Að mati stefnenda styðji þessi framkvæmd enn fremur að hér sé í raun um tvær íbúðir að ræða með aðgengi að tengibyggingunni úr tveimur áttum.          Til viðbótar við allt framangreint hafi stefndu látið reisa tæplega 5 metra langan steyptan vegg, 1,5 metra á hæð, vestanmegin við hina nýju viðbyggingu og við mörk lóðarhluta Traðarlands 12. Umræddur veggur liggi að göngustíg á milli lóðarhluta stefnenda og stefndu. Að mati stefnenda sé ljóst að umræddur veggur sé á mörkum lóðarhluta Traðarlands 12.         Stefnendur bendi á að umræddur veggur samræmist ekki skilmálum deiliskipulags, en þar segi að heimilt sé að aðgreina hvern lóðarhluta með limgerði. Þá segi í samþykktum byggingarfulltrúa að frágangur á lóðarmörkum skuli gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Sama orðalag sé einnig að finna á hinum samþykktu teikningum. Loks segi í gr. 7.2.3 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að girðing eða skjólveggur á mörkum lóða sé alltaf háður samþykki beggja lóðarhafa, óháð hæð girðingar eða skjólveggjar. Samþykkis skuli leitað áður en hafist sé handa við smíði girðingar eða skjólveggjar.         Ekki hafi verið leitað eftir samþykki stefnenda fyrir umræddum vegg á lóðarmörkum. Veggurinn þrengi verulega aðkomu að húsi stefnenda, auk þess sem hann þrengi aðkomu að húsi stefndu. Þar sem ekki hafi verið leitað eftir samþykki stefnenda við gerð umrædds veggjar sé ljóst að hann samræmist ekki hinu samþykkta byggingarleyfi. Þá sé ljóst að hann samræmist ekki ákvæðum byggingarreglugerðar, sbr. framangreinda umfjöllun.         Með hliðsjón af framangreindu samræmist samþykkt byggingaráform að Traðarlandi 12 ekki deiliskipulagi, auk þess sem þau fari gegn ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2010. Engin breyting hafi verið gerð á deiliskipulagi vegna framkvæmdanna og ekki hafi farið fram grenndarkynning vegna þeirra, sbr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafi ekki verið fengið samþykki hjá stefnendum fyrir framkvæmdum og breytingum sem lögum samkvæmt krefjist samþykkis.         Til viðbótar við framangreint vísi stefnendur til stuðnings kröfum sínum til ákvæða 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1994 um eignarrétt, og til meginreglna nábýlis- og grenndarréttar. Hin samþykktu byggingaráform og breytingar á Traðarlandi 12 muni hafa mikil áhrif á hagsmuni stefnenda, sem séu eigendur lóðarhlutans sem standi vestan við Traðarland 12. Í stað bílageymslu á vesturhluta lóðarhlutans muni nú rísa ný íbúð. Á vesturhlið hinnar nýju viðbyggingar verði gluggar sem snúi beint að fasteign stefnenda. Það að á lóðarhluta nr. 12 að Traðarlandi verði eftir breytingu í reynd tvær íbúðir í stað einnar áður muni hafa veruleg áhrif á hagsmuni stefnenda. Það liggi í augum uppi að allur umgangur við Traðarland 12 verði mun meiri eftir breytingar þegar þar verði tvær íbúðir í stað einnar. Þannig sé til dæmis aðeins gert ráð fyrir einu bílastæði á lóðarhluta Traðarlands 12. Þá skerði hinn steypti veggur á mörkum lóðarhluta Traðarlands 12 verulega aðgengi að báðum fasteignum, á lóðarhlutum 12 og 14.         Stefnendur telji ljóst af öllu framangreindu að hin samþykktu byggingaráform að Traðarlandi 12 séu haldin slíkum annmörkum og brjóti svo í bága við gildandi deiliskipulag svæðisins að taka beri kröfu þeirra um ógildingu með dómi til greina.         Um lagarök sé vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, meginreglna nábýlis- og grenndarréttar, skipulagslaga nr. 123/2010, laga nr. 160/2010 um mannvirki, laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, ákvæða byggingarreglugerðar nr. 112/2010 og ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.         Varðandi málskostnaðarkröfu sé vísað til 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. IV. Málsástæður og lagarök stefndu         Stefndu byggi kröfu sína um sýknu á því að stefnendur hafi hvorki með nokkrum hætti sannað né fært viðhlítandi rök fyrir því að samþykktir eða útgáfa byggingarleyfis byggingarfulltrúans í Reykjavík á grundvelli þeirra séu haldnar annmörkum eða samræmist ekki gildandi deiliskipulagi eða lögum og reglum. Þá hafi stefnendur heldur ekki sýnt fram á að byggingaráform eða framkvæmdir stefndu við breytingar á húsinu að Traðarlandi 12 hafi ekki verið í samræmi við samþykktir byggingarfulltrúans í Reykjavík, byggingarleyfi, gildandi deiliskipulag, lög eða reglur. Allar breytingar stefndu á húsinu hafi farið fram í fullu samræmi við lög og reglur sem og löglegar samþykktir byggingarfulltrúa og útgefið byggingarleyfi. Ljóst megi vera að byggingarfulltrúi hefði aldrei veitt samþykki sitt fyrir slíkum framkvæmdum hefðu fyrirliggjandi teikningar ekki samræmst gildandi lögum, reglum eða skipulagi að öllu leyti. Allar hugrenningar og málsástæður stefnenda um annað eigi einfaldlega ekki við rök að styðjast og því krefjist stefndu þess að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda í málinu.          Fyrir svæðið sem húsið að Traðarlandi 12 falli inn í gildi deiliskipulag sem samþykkt var í borgarráði Reykjavíkur árið 1968. Samkvæmt ákvæðum þess, sem snerta ágreiningsefni þessa máls, sé heimilt að reisa fjögur einnar hæðar hús á hverri lóð og heimilt sé að afmarka lóðirnar eins og mæliblað sýni með limgerðum. Þá komi fram að bifreiðageymsla skuli vera í húsinu sjálfu eða áföst við það og a.m.k. eitt bifreiðastæði sé á hverjum lóðarhluta. Einnig komi fram að óheimilt sé að hafa meira en eina íbúð í húsi. Jafnframt segi þar að steypa skuli 2,10 metra háan vegg frá gólfplötu að norðanverðu á hverjum lóðarhluta. Sá veggur skuli vera gluggalaus og 22 metrar á lengd.         Árið 1999 hafi svo verið samþykktar breytingar á deiliskipulagi á þann veg að nýtingarhlutfall var skilgreint að hámarki 0,24 fyrir hvern lóðarhluta og byggingarreitur hafi verið stækkaður um fjóra metra til suðurs. Árið 2006 og 2007 hafi svo verið gerðar breytingar á deiliskipulaginu þannig að heimilt hafi verið að hafa kjallara undir húsunum og nýtingarhlutfall lóðar ofanjarðar hafi verið hækkað í 0,3 fyrir hvern lóðarhluta.         Stefnendur styðji kröfur sínar í máli þessu við það að hið samþykkta byggingarleyfi og framkvæmdir stefndu við breytingar á húsi sínu séu ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og lagafyrirmæli, og vísa því til stuðnings til ýmissa atriða sem þeir telja að sýni fram á þetta.          Fyrir liggi, miðað við samþykktir byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 10. maí og 4. október 2016, samþykkt byggingarleyfi, dags. 21. október 2016, og framkvæmdir við húsið að Traðarlandi 12 að ákvæði deiliskipulags og annarra viðkomandi laga og reglna séu uppfyllt að öllu leyti.               Stefnendur byggi í fyrsta lagi á því að eins og skipulagi húss stefndu sé háttað séu stefndu að fara á svig við gildandi deiliskipulag og ætli sér í raun að hafa í húsinu tvær íbúðir með „takmarkaðri tengingu“ á milli. Stefndu hafni þessu með öllu. Húsið sé teiknað og hannað samkvæmt þörfum stefndu og fjölskyldu þeirra og ekki standi til á neinn hátt að nýta það með öðrum hætti en eingöngu sem eitt og sama heimilið fyrir fjölskyldu stefndu. Allar teikningar af húsinu beri það með sér að um sé að ræða stækkun og breytingu á því húsi sem sé á lóðinni. Enda verði húsið með eitt og sama fastanúmer, eitt og sama rafmagns- og vatnsinntak og -kerfi, auk þess sem einn inngangur og anddyri verði í húsinu. Skoðanir stefnenda á því hvernig innra skipulagi hússins sé háttað, t.a.m. hvar svefnherbergi, stofur og salerni séu staðsett og hvort sé gert ráð fyrir aukaeldhúsaðstöðu eða ekki, skipti engu máli í þessu samhengi og þessi atriði séu stefnendum með öllu óviðkomandi. Stefndu sé frjálst að haga skipulagi hússins á þann veg sem þeim henti best, svo lengi sem slíkt rúmist innan gildandi deiliskipulags og sé samkvæmt öðrum lögum og reglum sem um framkvæmdirnar gildi. Fullkomlega eðlilegt og rökrétt sé að í húsi af þessari stærð séu fleiri en eitt og fleiri en tvö baðherbergi. Einnig sé eðlilegt að svefnherbergi séu aðskilin og ekki öll á sama stað í húsinu. Þá sé eðlilegt og alvanalegt að í nýlegum húsum af sambærilegri stærð sé gert ráð fyrir aukaeldhúskrók eða -horni án þess að það merki að um sé að ræða aukaíbúð. Engin skilyrði sé að finna í deiliskipulagi eða öðrum byggingarskilmálum hússins, eða íbúðarhúsa almennt, um að óheimilt sé að hafa í þeim aukaeldhúsaðstöðu. Algengt sé í nútímahúsum að fólk komi fyrir einhvers konar aukaeldhúsaðstöðu sem hægt sé að nýta í tengslum við betri stofu eða með öðrum hætti eftir þörfum húseigenda hverju sinni.         Í öðru lagi byggi stefnendur á því að í húsinu muni að loknum framkvæmdum standa tvö hús með „afar takmarkaðri tengingu á milli“ og því verði í raun tvær íbúðir í húsinu. Sú „tenging milli húsa“ sem stefnendur vísi til sé óumdeilanlega hluti hússins og byggð í því skyni að tengja saman viðbyggingu og eldra hús. Þessi háttur sé oftar en ekki hafður á við viðbyggingu eldri húsa og liggi fyrir því bæði fagurfræðilegar og praktískar ástæður Þannig fylgi því mun minni kostnaður að tengja viðbygginguna við eldri hluta hússins með slíkri tengingu en að tengja viðbygginguna við það að öllu leyti. Ef stefndu hefðu ætlað að tengja viðbygginguna að öllu leyti við eldri hluta hússins hefði þurft að brjóta niður allan vestanverðan útvegg eldri hluta hússins og styrkja allt burðarþol þess. Slíkt hefði falið í sér verulega aukinn kostnað við framkvæmdirnar auk þess sem alls óvíst sé hvort slíkt hefði einfaldlega verið framkvæmanlegt út frá verkfræðilegum forsendum. Þar að auki muni húsið og skipulag þess nýtast betur með þessum hætti. Stefndu sé til dæmis með því gert kleift að halda gluggum á vesturhlið eldri hluta hússins og hafa jafnframt glugga á austurhlið viðbyggingar, sem eðli málsins samkvæmt, hefði ekki verið hægt ef viðbygging hefði verið tengd að öllu leyti við eldri hluta hússins. Ekki sé að finna nánari röksemdir fyrir því hjá stefnendum með hvaða hætti þeir telji þessa tengingu viðbyggingar við eldri hluta hússins stríða gegn deiliskipulagi eða lögum og reglum. Óumdeilt hljóti að teljast að tengingunni sé ætlað að tengja viðbygginguna við eldri hluta hússins og að eftir sem áður verði um eitt og sama húsið að ræða.         Í þriðja lagi byggi stefnendur á því að eftir breytingar verði hægt að loka á milli eldri hluta hússins og viðbyggingar frá „tengibyggingu“ og að ætlun stefnenda sé að hafa einnig inngang í húsið að norðanverðu þar verði sér inngangur í aukaíbúð. Stefndu telji þetta ekki eiga við nein rök að styðjast. Á fyrirliggjandi teikningum komi skýrt og greinilega fram að um einn inngang og anddyri í húsið sé að ræða. Af teikningum sjáist einnig glögglega að illmögulegt sé að loka algjörlega á milli viðbyggingar og eldri hluta frá tengibyggingu. Af teikningum megi sjá að á engan hátt sé gert ráð fyrir hurð eða annarri lokun frá anddyri í eldri hluta hússins. Lokun á milli myndi auk þess ávallt leiða til þess að einn og sami inngangurinn yrði inn í húsið í gegnum eitt og sama anddyrið. Enn fremur þá myndi lokun á milli viðbyggingar og eldri hluta hússins hafa það í för með sér að kjallari hússins yrði eingöngu aðgengilegur frá viðbyggingu þess. Hvað varði meintan inngang í húsið að norðanverðu, þá liggi fyrir að vegg á norðurhlið hússins verði lokað að fullu, í samræmi við deiliskipulag, áður en framkvæmdum ljúki og því einungis hægt að komast inn um dyr á norðurhlið anddyris að innanverðu. Þ.e.a.s. einungis því í raun um útgang frá anddyri hússins að ræða. Þá liggi fyrir, með vísan til fyrirliggjandi teikninga, að ómögulegt væri með öllu að haga því þannig að hægt væri að nota hvorar tveggja dyrnar frá anddyri sem inngang í húsið og loka á milli viðbyggingar og eldri hluta hússins með þeim hætti að sinn hvor inngangurinn yrði í hvorn hluta.         Í fjórða lagi byggi stefnendur á því að vísun til hússins sem kynslóðahúss í samþykktum teikningum fari gegn ákvæðum gildandi deiliskipulags. Ekki verði séð með hvaða hætti stefnendur telji þessa tilvísun vera í andstöðu við deiliskipulag eða benda til þess að í húsinu verði fleiri en ein íbúð. Stefndu hafni þessari málsástæðu stefnenda með öllu, m.a. með vísan til þess sem þegar hefur verið rakið. Það orðalag sem sé notað um húsið í teikningum feli á engan hátt í sér vísbendingar eða hugmyndir um að í húsinu eigi að vera meira en ein íbúð eða að því sé ekki ætlað að vera einbýli. Þvert á móti megi glögglega sjá af samþykktum teikningum og byggingarlýsingu hússins að það verði áfram einbýli eftir stækkun, enda verði viðbyggingin órjúfanlegur hluti af þeim hluta hússins sem fyrir var á lóðinni, eins og fram komi í byggingarlýsingu. Það sé því með öllu óskiljanlegt með hvað hætti kærandi telji orðið kynslóðahús benda til þess að húsinu sé ekki ætlað að vera einbýli eða í því eigi að verða tvær íbúðir. Þessi málsástæða kæranda feli því ekki annað í sér en vangaveltur hans og skoðanir um notkun og hönnun hússins og sé ekki studd við nein efnisleg eða viðhlítandi rök sem hægt sé að byggja á. Stefnendur hafi ekkert forræði á því hvernig stefndu hagi skipulagi hússins eða hverjum stefndu, sem eigendur hússins, kjósa að leyfa að búa í því. Þessi málsástæða stefnenda því auðvitað fráleit og yrði fallist á hana myndi það hafa það í för með sér að fólki væri meinað að festa kaup á húsi eða stækka það þar sem þá gæti orðið meiri umgangur um það eða að fólki væri ekki heimilt að stækka hús á þeim forsendum að fjölskylda þess væri umfram ákveðin stærðarmörk.         Í fimmta lagi byggi stefnendur á því að veggur á norðurhlið hússins sé ekki óbrotinn, eins og kveðið sé á um í gildandi deiliskipulagi. Eins og áður hafi komið fram, og stefnendur vísi til, sé kveðið á um það í gildandi deiliskipulagi að slíkur veggur skuli vera 22 metrar á lengd og 2,10 metrar á hæð. Á samþykktum teikningum gert ráð fyrir því að umræddur veggur sé óbrotinn og uppfylli kröfur um lengd og hæð. Stefnendur byggi á því að stefndu hafi í framkvæmdum sínum opnað vegginn og slíkt sé í andstöðu við gildandi deiliskipulag og ekki í samræmi við samþykktar teikningar. Hið rétta sé að þegar stefndu hófu framkvæmdir sínar hafi þurft að rífa bílskúr, sem var fyrir á lóðinni, og hluta þessa veggjar sem tengdi saman bílskúr og húsið. Það sé því í raun alrangt að stefndu hafi opnað þennan vegg, eins og stefnendur haldi fram, heldur hafi hluti hans verið fjarlægður til að koma fyrir viðbyggingu hússins. Eftir að viðbyggingin var svo sett upp,komin hafi hluti þessa veggjar myndast aftur. Aldrei hafi annað staðið til að en þessum vegg yrði lokað að fullu í samræmi við gildandi deiliskipulag og samþykktar teikningar áður en framkvæmdum lyki. Ástæða þess að það hafi þó ekki verið gert sé tvíþætt. Fyrri ástæðan sé sú að viðbyggingin hafi verið byggð úr forsteyptum einingum og því ekki verið hægt að gera ráð fyrir þessari tengingu við framleiðslu eininganna þar sem nákvæm fjarlægð á milli viðbyggingar og eldri hluta hússins yrði ekki ljós fyrr en viðbygging hefði risið. Því hafi verið ákveðið að koma þessari tengingu fyrir eftir að viðbyggingin hefði verið reist. Síðari ástæða þess að þessi tenging sé ekki komin snúi að því að enn standi yfir framkvæmdir við bygginguna og það þurfi að vera unnt að komast að lögnum og öðru sem tengist kjallararými hússins. Það auðveldi því allt aðgengi að húsinu og minnki rask og ónæði fyrir nærliggjandi íbúa að hægt sé að komast að húsinu og kjallara þess að norðanverðu á meðan framkvæmdir standi yfir en ekki þurfi að fara inn um aðalinngang og þaðan út um dyr að norðanverðu til að komast að kjallara. Þegar framkvæmdum á lögnum og í kjallara verði lokið þá verði umrædd tenging sett upp og veggurinn verði heill og óbrotinn. Þessi málsástæða kæranda eigi því ekki við rök að styðjast og falli um sig sjálfa þegar framkvæmdum ljúki. Í þessu samhengi sé ítrekað að framkvæmdir séu enn í fullum gangi og lokaúttekt hússins hafi ekki farið fram. Stefnendur geti því ekki borið því við, á þessu stigi máls, að húsið sé ekki að öllu leyti í samræmi við teikningar eða deiliskipulag.         Með vísan til þess sem rakið hefur verið styðji þessi málsástæða stefnenda ekki þær hugmyndir þeirra að  stækkun hússins sé gert ráð fyrir því að tvær íbúðir verði í því. Í raun staðfesti þetta enn frekar það að húsið verði, eftir breytingar, einbýlishús með einni íbúð. Ljóst sé af öllu framangreindu að stefnendur hafi myndað sér skoðanir á því að hús stefndu eigi að vera tveggja íbúða hús án þess þó að færa fyrir því viðhlítandi eða málefnaleg rök. Augljóst megi vera að hefði ætlun stefndu verið sú að hafa fleiri en eina íbúð í húsinu hefði skipulag þess verið með allt öðrum hætti. T.a.m. hefðu stefndu ekki haft anddyri hússins með þeim hætti að einungis einn inngangur yrði í húsið eða aðgangur að kjallara yrði frá anddyri. Stefndu hefðu þá væntanlega reynt að haga skipulagi hússins þannig að sérinngangur yrði í hvorn hluta þess fyrir sig, kjallari yrði aðgengilegur annars staðar frá úr húsinu eða hægt yrði að loka á milli hluta hússins með einföldum og skynsamlegum hætti. En telja megi að það sé ein meginforsenda þess að hús geti talist tvíbýlishús að hægt sé að aðskilja inngang og aðgengi að hvorum íbúðarhluta með einföldum hætti.         Samkvæmt samþykktum teikningum sé gert ráð fyrir tæplega fimm metra löngum vegg u.þ.b. fyrir miðju húsi vestan við viðbyggingu. Þessum vegg hafi þegar verið komið upp og sé hann u.þ.b. 1,2 metrar á hæð nú en verði u.þ.b. 1 metri þegar frágangi lóðar hefur verið lokið. Það sé því rangt sem stefnendur haldi fram að þessi veggur sé 1,5 metra hár. Í fyrsta lagi vilji stefndu í þessu samhengi benda á það að umræddur veggur sé innan lóðarmarka stefndu og mun lengra en 1,2 metra frá lóðarmörkum stefnenda, líkt eins og glögglega megi sjá á samþykktum teikningum og mæliblöðum um skiptingu lóða. Frá veggnum og milli lóðar stefnenda og stefndu liggi síðan stígur sem sé um þrír metrar á breidd.         Í öðru lagi sé þessi umræddi veggur einnig í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag þar sem hann sé ekki á lóðarmörkum. Að því virtu eigi skilmálar deiliskipulagsins um aðgreiningu lóðarhluta með limgerðum ekki við, sbr. framangreinda umfjöllun. Þó að þessir skilmálar ættu við um umræddan vegg megi fulljóst vera að sé aðgreining lóða sé heimil með limgerðum sé hún einnig heimil með öðrum hætti, svo framarlega sem hún samræmist öðrum gildandi lögum og reglum á viðkomandi tíma. Stefndu telji að fjölmörg fordæmi séu fyrir því að veggir hafi verið reistir á lóðarmörkum, til aðgreiningar á lóðarhlutum, í hverfinu í stað limgerða sem voru áður. Ljóst sé að byggingarfulltrúi hefði aldrei samþykkt teikningar sem gerðu ráð fyrir umræddum vegg á þessum stað ef staðsetning hans hefði ekki verið í samræmi við gildandi deiliskipulag, sem og lög og reglur.         Þá þrengi umræddur veggur ekki meira að lóð en limgerði og gróðurbeð sem hafi verið þarna til afmörkunar á lóðarhluta stefnenda áður en framkvæmdir stefndu við viðbygginguna hófust. Í raun sé komið meira rými á milli lóðanna með tilkomu veggjarins en áður var. Það sé því með öllu óskiljanlegt að stefnendur geri athugasemdir við þennan vegg. Telji stefnendur vera þrengsli á milli lóða eða húss síns og stefndu sé það ekki sökum umrædds veggjar heldur vegna afmörkunar á lóðum samkvæmt gildandi skipulagi.          Í þriðja lagi vilji stefndu hvað þetta varðar benda á það að stefnendur hafi sjálfir staðið í nokkrum framkvæmdum á lóð sinni og við hús sitt. M.a. hafi stefnendur breytt bílaplani við húsið og stækkað það, að því er virðist þannig að það nái a.m.k. að lóðarmörkum stefnenda. Stefndu virðist hvorki hafa fengið samþykki byggingarfulltrúa fyrir þessum framkvæmdum sínum né heldur hafi þau haft nokkurt samráð við stefnendur um þær. Ekki verði því annað séð en að stefnendur hafi talið þessar framkvæmdir sínar í samræmi við gildandi deiliskipulag og aðrar reglur og því ekki talið þörf á samþykki stefndu fyrir þeim.          Þá byggi stefnendur kröfur sínar á því að auk þess sem byggingaráform stefnenda og byggingarleyfi fari gegn gildandi deiliskipulagi og lagaboðum þau gegn ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2010, þar sem engin breyting hafi verið gerð á deiliskipulagi vegna framkvæmdanna. Af þeim sökum hafi grenndarkynning, sbr. 43. gr. laga nr. 123/2010, ekki farið fram. Þá byggi stefnendur á því að breytingar á húsi stefndu hafi veruleg áhrif á hagsmuni stefnenda, af því er virðist af þeim sökum að á vesturhlið viðbyggingar hússins að Traðarlandi 12 verði gluggar sem snúi að eign stefnenda, í húsinu að Traðarlandi 12 verði í raun tvær íbúðir, og það muni hafa meiri umgang í för með sér, aðeins sé gert ráð fyrir einu bílastæði á lóð stefndu og veggur á lóðarmörkum skerði aðgengi að báðum eignum. Stefndu hafni þessu með öllu. Hvað varði breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þá beri að líta til ákvæða 43. gr. laga nr. 123/2010. Í 1. og 2. mgr. ákvæðisins sé kveðið á um það hvernig sveitarstjórn beri að standa að breytingum á deiliskipulagi, telji viðkomandi sveitarstjórn þess þörf, og undir hvaða kringumstæðum grenndarkynning þurfi að fara fram. Í 3. mgr. 43. gr. komi svo fram að við útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis geti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá kröfum 2. mgr. ákvæðisins, um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu, þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Með hliðsjón af þessu og orðalagi 43. gr. laga nr. 123/2010 sé það í fyrsta lagi alfarið mat og ákvörðun sveitarstjórnar hvort hún telji þörf á að láta fara fram tilteknar breytingar á deiliskipulagi og grenndarkynningu vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Í máli þessu liggi fyrir að byggingarfulltrúinn í Reykjavík taldi þess ekki þörf og því sé ljóst að hvorki hafi borið að gera breytingar á deiliskipulagi né láta fara fram grenndarkynningu vegna framkvæmda við hús stefndu. Í öðru lagi sé ljóst, með vísan til 3. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010, að byggingaráform stefndu hafi óumdeilanlega falið í sér óveruleg frávik, og í raun engin frávik, frá gildandi deiliskipulagi þannig að hagsmunir nágranna hafi skerst með einhverjum þeim hætti sem vísað sé til í 3. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010, eða á nokkurn annan hátt sem stefnendur byggi á. Af þessum sökum hafi ekkert tilefni verið til þess að gera breytingu á deiliskipulagi eða láta grenndarkynningu fara fram vegna framkvæmda við hús stefndu, enda allar samþykktar breytingar í samræmi við gildandi deiliskipulag. Vilji stefndu í þessu samhengi vísa til þess að gluggar á vesturhlið húss skerði með engu hagsmuni stefnenda. Í fyrsta lagi þá sé ekkert á um það kveðið í gildandi deiliskipulagi að ekki sé heimilt að hafa glugga á þessari hlið hússins. Í öðru lagi hafi stefnendur ekki haft réttmætar væntingar til þess að húsi stefndu yrði aldrei breytt og aldrei yrði bætt við gluggum á vesturhlið þess. Í þriðja lagi þá hafi þessir gluggar engin grenndaráhrif á stefnendur. Við hönnun hússins hafi verið reynt eftir fremsta megni að haga gluggasetningu á vesturhlið með þeim hætti að þeir væru ekki of áberandi til vesturs. Það sé enda ljóst að slíkt hefði haft mun meiri óþægindi í för með sér fyrir stefndu en stefnendur. Allir gluggar, að undanskildum einum, séu því hafðir hátt uppi þannig að hvorki sé í raun hægt að horfa út né inn um þá við hefðbundnar aðstæður. Eini glugginn sem ekki sé hafður með þessum hætti sé gluggi á svefnherbergi. Í fjórða lagi hafi umræddir gluggar ekki í för með sér meiri áhrif á hagsmuni stefnenda en áður en húsi stefndu var breytt. Fyrir breytingar hafi húsið verið þannig að fyrir aftan bílskýli var port sem var opið til vesturs og til austurs í átt að húsinu. Jafnframt hafi verið dyr frá bílskýli inn í portið og í því sorptunnuskýli fyrir hús stefndu og inngang í geymslu. Því megi ætla að nokkur umgangur hafi verið um þetta port. Þá vilja stefndu jafnframt benda á það að eftir að viðbyggingin við hús stefndu hafi verið reist standi hún í raun á sama stað og bílskýli og port var áður, að því undanskildu að hún nái aðeins lengra til suðurs, sem sé í samræmi við gildandi deiliskipulag. Að þessu virtu megi því telja að viðbygging við hús stefndu og gluggasetning á vesturhlið þess hafi síst meiri áhrif á hagsmuni stefnenda en áður var.          Hvað varði bílastæði á lóðarhluta stefndu þá sé það í samræmi við gildandi deiliskipulag þar sem aðeins sé kveðið á um eitt bílastæði á hverjum lóðarhluta. Þrátt fyrir það sé gert ráð fyrir því að fleiri bílastæði verði á lóðarhluta stefndu þegar framkvæmdum verði lokið.         Af öllu framangreindu virtu sé ljóst að byggingaráform framkvæmdir við fasteign stefndu muni ekki hafa nein áhrif á hagsmuni stefnenda, eignarrétt eða nábýlis- og grenndarrétt þeirra, eins og þau byggi á. Allar framkvæmdir og samþykkt byggingaráform á lóð stefndu séu í einu og öllu í samræmi við gildandi deiliskipulag, lög og reglur.         Með vísan til alls sem fram hefur komið liggi fyrir að stefndu í einu og öllu farið að gildandi lögum og reglum við framkvæmdir sínar, m.a. gildandi deiliskipulagi sem og samþykktum teikningum, sbr. samþykktir byggingarfulltrúa, dags. 10. maí og 4. október 2016, og byggingarleyfi, dags. 21. október 2016. Allar hugrenningar stefnenda um annað séu með öllu haldlausar, sem og tilraunir stefnenda til að rökstyðja meint ólögmæti framkvæmda við hús stefndu. Beri af þeim sökum að sýkna stefndu af öllu kröfum stefnenda í máli þessu.          Stefndu krefjist málskostnaðar úr hendi stefnenda, óskipt, samkvæmt mati dómsins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti. Málskostnaðarkrafa stefndu sé byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.          Vísað sé til helstu lagaraka í umfjöllun um málsástæður. Stefndu vilji sérstaklega vísa til skipulagslaga nr. 123/2010, einkum 43. og 44. gr., laga nr. 160/2010 um mannvirki, laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, byggingarreglugerðar nr. 112/2010 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.        V. Niðurstaða         Ágreiningur aðila í máli þessu snýr fyrst og fremst að því hvort umþrætt byggingarleyfi samrýmist gildandi skipulagi, en stefnendur byggja á því að byggingarleyfi samræmist ekki gildandi deiliskipulagi og því beri að ógilda það með dómi.         Við upphaf aðalmeðferðar lýsti lögmaður stefnenda því yfir að af hálfu þeirra væri fallið frá þeirri málsástæðu að auk fasteigna stefndu og stefnenda væru staðsettar á einni og sömu lóðinni fasteignirnar Traðarland 10 og 16. Engin umfjöllun verður því um þetta atriði.          Í 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segir að sé mannvirki háð byggingarleyfi samkvæmt 9. gr. fari byggingarfulltrúi eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun yfir byggingarleyfisumsókn og gangi úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laga þessara og reglugerða sem settar hafi verið á grundvelli þeirra og að tilkynnt hafi verið um hönnunarstjóra mannvirkisins. Byggingarfulltrúi, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, tilkynni umsækjanda skriflega um samþykkt byggingaráforma hans, enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði.        Í 13. gr. laganna segir síðan að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis séu eftirfarandi: 1.     Mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu….       Í gildandi deiliskipulagi frá árinu 1968 fyrir einbýlishúsahverfið neðst í Fossvogi segir að á hverri lóð skuli reisa fjögur einnar hæðar einbýlishús, en lóðirnar sé heimilt að aðgreina eins og mæliblað sýni þannig að sér lóðarhluti fylgi hverju húsi og skuli sú afmörkun gerð með limgirðingum. Þá er kveðið á um það að bifreiðageymsla (eða geymslur) skuli vera í húsinu sjálfu eða áföst við það. Síðan segir að óheimilt sé að hafa meira en eina íbúð í húsinu.         Þá er kveðið á um það að steypa skuli 2,10 m háan vegg frá gólfplötu að norðanverðu á hverjum lóðarhluta og veggurinn skuli vera 22 m langur og gluggalaus.         Breytingar voru gerðar á deiliskipulaginu árið 2000 og aftur 2007. Nýtingarhlutfall lóða var hækkað í 0,3 og byggingarreitir stækkaðir. Annað var óbreytt áfram og óheimilt að hafa fleiri en eina íbúð í hverju húsi.         Stefnendur byggja á því að viðbygging sú sem hér um ræðir sé sjálfstæð íbúð en því er mótmælt af hálfu stefndu.         Í samþykktu byggingarleyfi er heimilað að reisa 246,1 m2 viðbyggingu í staðinn fyrir eldri bílageymslu vestanmegin á lóð stefndu. Fram kemur á samþykktum teikningum lýsing á fyrirhugðum framkvæmdum og þar segir: „Um er að ræða að búa til svokallað „kynslóðahús“ þar sem 3 kynslóðir búa saman. Byggt er við núverandi íbúðarhús sem reist var 1973. Núverandi bílageymsla, byggða á sama tíma og íbúðarhús, verður rifin og einnig sambyggð bílageymsla sem var breytt úr „porti“ í bílgeymslu. Með niðurrifi þessara bygginga skapast rými fyrir viðbygginguna. Viðbyggingin er íbúðarhluti sem verður órjúfanlegur hluti af núverandi íbúðarhúsi. Léttbyggð tengibygging sem hýsir nýtt andyri tengir þessar tvær meginbyggingar saman. Nýr bílskúr er endurbyggður í norðurhluta  byggingarreits.“        Eins og rakið hefur verið er gert ráð fyrir að þrjár kynslóðir búi í húsinu og eignarhald hússins er þannig að Mikael Smári og Rosemary Lea eiga hvort um sig 33,3350% eignarinnar. Þau afsöluðu með afsali dagsettu 10. nóvember 2017, hvort um sig 16,67% af sínum eignarhluta til stefndu Mikaels Marlies Karlssonar og Barböru Belle Nelson ásamt öllum tilheyrandi réttindum og sameign, samtals 33,33% heildareignarinnar. Umrætt afsal fór því fram eftir að fyrir lá frávísunarúrskurður kærunefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. júlí 2017.                 Stefnendur telja hið samþykkta byggingarleyfi fela í sér heimild til að byggja tvær íbúðir með takmarkaðri tengingu og að orðnotkunin kynslóðahús breyti ekki þeirri staðreynd. Þá kveða þau stefndu hafa farið á svig við skilmála deiliskipulagsins þar sem kveðið sé á um óbrotinn steyptan og gluggalausan vegg norðanmegin á lóðarhlutanum. Stefndu gefa þá skýringu að vegna framkvæmda hafi veggurinn verið rofinn tímabundið. Þá gera stefnendur þær athugasemdir við 5 metra langan vegg við nýju viðbygginguna og við lóðarmörk Traðarlands 12 að hann sé ekki í samræmi við skilmála deiliskipulags. Þar sem engin breyting hafi verið gerð á deiliskipulagi vegna framkvæmdanna og þar sem ekki hafi farið fram grenndarkynning vegna þeirra, sbr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, beri að fallast á stefnukröfur stefnenda. Þá vísa stefnendur til þess að í stað bílageymslu á vesturhluta lóðarhlutans rísi nú ný íbúð og á vesturglugga hennar verði gluggar sem snúi beint að fasteign stefnenda.         Stefnendur telja að sú staðreynd að eftir breytingar verði tvær íbúðir  að Traðarlandi 12 muni hafa veruleg neikvæð áhrif á hagsmuni sína, allur umgangur verði meiri og til dæmis sé aðeins gert ráð fyrir einu bílastæði á lóðarhluta Traðarlands 12.                   Í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi skuli fara um breytinguna eins og um nýtt skipulag væri að ræða. Í 2. mgr. 43. gr. segir að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingu á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. gr. laganna skuli fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkunn, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Í 3. mgr. 43. gr. segir síðan að við útgáfu framkvæmda- eða byggingarleyfis geti sveitarstjórn vikið frá kröfum 2. mgr. um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik sé að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.         Af svari byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar við erindi stefnenda frá 23. febrúar 2017, má ráða að ekki sé verið að víkja frá kröfum 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga með vísan til 3. mgr. 43. gr. þar sem ekki sé verið að breyta umræddu einbýlishúsi í tvíbýlishús og byggingarleyfið sé því í samræmi við skilmála gildandi skipulags. Síðan segir að í þeim tilvikum þegar umsókn um byggingarleyfi samræmist skilmálum gildandi deiliskipulags sé hún ekki grenndarkynnt. Í svari byggingarfulltrúa er enginn frekari rökstuðningur eða tekin afstaða til einstakra athugasemda og atriða í kæru stefnenda vegna framkvæmdaleyfisins.        Dómurinn telur að það sem hér skipti meginmáli sé að við skoðun á aðaluppdrætti að Traðarlandi 12, breytingu/viðbyggingu, verði ekki dregin önnur ályktun en sú að um sé að ræða tvær íbúðir með sameiginlegum inngangi í tengibygginguna eða þannig hefðbundið tvíbýlishús. Á uppdrætti segir að í tengibyggingu sé „forstofa f. bæði hús“. Einnig kemur fram á teikningum að í hinni nýju viðbyggingu er gert ráð fyrir svefnherbergi, gestaherbergi/skrifstofu, baðherbergi, stofu og eldhúsi. Þá er fallist á það með stefnendum að af teikningum verði ekki annað ráðið en að unnt verði að loka milli íbúðanna tveggja sem eru aðskildar með tengibyggingunni. Aðkoma er því ekki frábrugðin því sem á við um fjölda tvíbýlishúsa. Þá verður að telja að framangreind breyting á eignarhaldi styðji þá niðurstöðu, svo og að orðið kynslóðahús sé notað til að fara í kringum reglur. Þó fallist sé á sjónarmið stefndu um að gluggar á vesturhlið nýbyggingarinnar séu ekki andstæðir skipulagsskilmálum, þá er ljóst að þeir breyta ásýnd til og frá húsinu verulega. Ekki verður fallist á það með stefndu að enga þýðingu hafi hvernig skipulag sé innanhúss og það veiti enga vísbendingu um í húsinu tvær íbúðir. Þá verður ekki fallist á að þessari niðurstöðu breyti fyrirkomulag hita- og rafmagnsintaka. Ljóst er að umræddar framkvæmdir að Traðarlandi 12 munu hafa veruleg áhrif á hagsmuni stefnenda og allur umgangur verður meiri eftir breytingar í tvær íbúðir.            Telja verður að við samþykkt framangreinds byggingarleyfis hafi ekki verið farið eftir viðkomandi lagafyrirmælum og byggingarleyfið sé í andstöðu við gildandi deiliskipulag þar sem skýrt er kveðið á um í því að óheimilt sé að hafa fleiri en eina íbúð í hverju húsi. Óheimilt var því að víkja frá gildandi deiliskipulagi nema að undangenginni grenndarkynningu.           Það er því niðurstaða dómsins að fallast beri á dómkröfur stefnenda og fella úr gildi samþykktir byggingarfulltrúa Reykjavíkur, samþykkt dagsetta 10. maí 2016 annars vegar, þar sem veitt var byggingarleyfi fyrir 246,1 m2 viðbyggingu vestan við einbýlishús nr. 12 á lóðinni nr. 10-16 við Traðarland, og hins vegar samþykkt dagsetta 4. október 2016, þar sem heimilaðar voru breytingar á áður samþykktum byggingaráformum. Þá er ógilt byggingarleyfi til handa stefndu, sem gefið var út á grundvelli nefndra ákvarðana 21. október 2016.         Að fenginni þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 ber að dæma stefndu til að greiða stefnendum málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn eins og nánar er kveðið á um í dómsorði.         Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist umfram frest skv. 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála. Aðilar eru sammála dómara um að ekki sé þörf á endurflutningi málsins.         Þórður Clausen Þórðarson kveður upp dóminn.   Dómsorð:         Felldar eru úr gildi samþykktir byggingarfulltrúa Reykjavíkur, samþykkt dagsett 10. maí 2016 annars vegar, þar sem veitt var byggingarleyfi fyrir 246,1 m2 viðbyggingu vestan við einbýlishús nr. 12 á lóðinni nr. 10–16 við Traðarland, og hins vegar samþykkt dagsett 4. október 2016, þar sem heimilaðar voru breytingar á áður samþykktum byggingaráformum. Þá er ógilt byggingarleyfi til handa stefndu sem gefið var út á grundvelli nefndra ákvarðana 21. október 2016.         Stefndu, Mikael Smári Mikaelsson, Rosemary Lea Jones, Mikael Marlies Karlsson og Barbara Belle Nelson, greiði stefnendum, Jóhanni Friðrik Haraldssyni og Bryndísi Haraldsdóttur, 900.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 21/2020
Lánssamningur Sjálfskuldarábyrgð Gengistrygging Hæfi dómara
L hf. höfðaði mál gegn E og krafðist greiðslu skuldar samkvæmt lánssamningi í breskum pundum. Lánið hafði E tekið vegna uppgjörs á sjálfskuldarábyrgð sem hann hafði gengist undir ásamt öðrum fyrir greiðslu á fjölmyntaláni milli L hf. og H ehf. (síðar E ehf.) Vegna vanskila E ehf. hafði L hf. beint kröfum sínum að sjálfskuldarábyrgðarmönnum til uppgjörs á samningnum. L hf. lýsti í framhaldinu kröfu í þrotabú E ehf. en lækkaði hana síðar vegna greiðslna frá ábyrgðarmönnum sem ráðstafað hafði verið inn á lánið. Ágreiningur málsins laut í fyrsta lagi að ætluðu vanhæfi tveggja dómara Landsréttar, í öðru lagi hvort lánssamningurinn milli L hf. og H ehf. sem E gekkst í ábyrgð fyrir hefði verið lögmætt lán í erlendri mynt, í þriðja lagi hvort það lán hefði verið uppgreitt og að lokum var ágreiningur um túlkun á 103. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í dómi Hæstaréttar kom fram að enda þótt landsréttardómarinn A hefði í lögmannsstörfum sínum gætt réttar L hf. í málum er vörðuðu svipaða lánssamninga og reyndi á í málinu hefði ekkert komið fram um að dómarinn hefði á nokkru stigi komið að lögfræðilegri ráðgjöf eða hagsmunagæslu fyrir L hf. í tengslum við sakarefni þessa máls. Var hann því ekki talinn vanæfur á grundvelli b-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá var meðal annars með vísan til forsendna dóms Hæstaréttar 26. mars 2019 í máli nr. 14/2019 ekki fallist á að dómarinn A hefði á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 verið vanhæfur til að fara með málið. Að því er varðaði landsréttardómarann H kom fram í dómi réttarins að enda þótt hún hefði sem héraðsdómari dæmt í öðrum málum sem hefðu varðað sama lánssamning og þetta mál laut að þá teldist hún ekki hafa annast dómstörf í þessu máli á lægra dómstigi og var hún því ekki talin vanhæf til meðferðar málsins fyrir Landsrétti á grunni g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Þá taldi Hæstiréttur með vísan til dóms réttarins 11. maí 2017 í máli nr. 587/2016 og annarra atriða varðandi lánssamninginn milli L hf. og H ehf. að samningurinn hefði ekki verið lán í íslenskum krónum með ólögmætri bindingu við gengi erlends gjaldmiðils. Ekki var fallist á að sú skuld hefði verið uppgreidd og að greiðslur E samkvæmt lánssamningi hans og L hf. myndu leiða til ólögmætrar auðgunar L hf. Að lokum vísaði rétturinn til þess að með yfirlýsingu hefði E lýst því yfir að hann hefði fengið hlutabréf í H ehf. í skiptum fyrir ábyrgð sína og ætti enga aðra kröfu á hendur þrotabúi E ehf. Var tekið fram að óháð því hvort réttur E til greiðslu á grundvelli 103. gr. og 104. gr. laga nr. 21/1991 hefði verið fyrir hendi væri ljóst að með yfirlýsingunni hefði hann fallið frá kröfum um greiðslur úr þrotabúi E ehf. og gæti því ekki borið fyrir sig ætlað tjón af völdum L hf. vegna þess að L hf. hefði lækkað kröfulýsingu sína í þrotabúð. Var krafa L hf. því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. maí 2020. Hann krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar á öllum dómstigum. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Ágreiningur málsins lýtur í fyrsta lagi að ætluðu vanhæfi tveggja þeirra dómara Landsréttar sem lögðu dóm á málið og ætluðum annmörkum á samningu dómsins. Þá er í annan stað deilt um það hvort lánssamningur 27. júlí 2005 milli Landsbanka Íslands hf. og Hydra ehf., sem áfrýjandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir ásamt 23 öðrum einstaklingum og einu einkahlutafélagi, hafi verið lögmætt lán í erlendri mynt. Í þriðja lagi er um það deilt hvort lánið er uppgreitt. Að síðustu er ágreiningur um túlkun á 103. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og réttaráhrif ákvæðisins. Í málinu krefur stefndi áfrýjanda um greiðslu á 6.300.599 króna eftirstöðvum láns sem áfrýjandi tók til uppgjörs á fyrrgreindri sjálfskuldarábyrgð sinni. Með dómi Landsréttar var áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda umkrafða fjárhæð með dráttarvöxtum. Í dóminum var     vísað til þess að fyrrgreindur lánssamningur 27. júlí 2005 hefði verið lögmætt lán í erlendum gjaldmiðli, en auk þess lægi fyrir að áfrýjandi hefði gengist í ábyrgð fyrir tiltekinni fjárhæð í sterlingspundum og verið skuldbundinn gagnvart stefnda samkvæmt henni. Þá taldi Landsréttur að 103. gr. laga nr. 21/1991 tæki samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til óskiptrar ábyrgðar og yrði því ekki beitt um skipta ábyrgð eins og hér hagaði til. Með vísan til þess taldi Landsréttur engin efni til að fallast á að víkja bæri samningi áfrýjanda og stefnda til hliðar á grundvelli ógildingarreglna laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Enn fremur sagði í dómi Landsréttar að gögn málsins bæru með sér að fyrir hendi væri skuld samkvæmt lánssamningnum sem ekki hefði verið greidd og því væri áfrýjandi greiðsluskyldur. Í beiðni um áfrýjunarleyfi vísaði áfrýjandi til þess að hann teldi dóm Landsréttar rangan, bæði að formi til og efni. Um formið vísaði hann til vanhæfis tveggja dómara Landsréttar á grundvelli b- og     g-liða 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í tilviki annars þeirra en á grundvelli g-liðar sömu greinar í tilviki hins. Þá uppfyllti dómurinn ekki þær kröfur sem gera yrði til rökstuðnings í dómum samkvæmt f-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 3. og 4. mgr. 164. gr. sömu laga. Enn fremur taldi áfrýjandi að ekki hefði farið fram heildarmat á öllum atvikum í þeim tilgangi að skera úr um hvort lánssamningurinn 27. júlí 2005 hefði haft að geyma ólögmætt gengistryggingarákvæði. Þá hefði málið einnig verulegt almennt gildi um túlkun á 103. gr. laga nr. 21/1991. Var fallist á beiðni um áfrýjunarleyfi á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðnin var reist á. II 1 Áfrýjandi gekkst ásamt 23 einstaklingum og einu einkahlutafélagi í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu á „fjölmyntaláni“ til fimm ára samkvæmt lánssamningi 27. júlí 2005 milli Landsbanka Íslands hf. og Hydra ehf. að ,,jafnvirði kr. 80.000.000,- krónur áttatíumilljónir 00/100, í neðanskráðum myntum og hlutföllum: GBP 100%“. Lánsfjárhæðin, að frádregnum lántökukostnaði, 79.190.000 krónur, var greidd inn á íslenskan bankareikning Hydra ehf. 2. ágúst 2005 í samræmi við viðauka samningsins um útborgun 27. júlí sama ár. Samkvæmt grein 3.1 í lánssamningnum lofaði lántaki að greiða bankanum vexti sem skyldu vera breytilegir vextir jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2,25% vaxtaálags. Í 10. grein samningsins var fjallað um tryggingar og sagði þar: ,,Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra lánshluta samnings þessa takast eftirfarandi aðilar á hendur sjálfskuldarábyrgð pro rata fyrir nánar tilgreindri upphæð á fullum efndum allra skuldbindinga skv. samningi þessum ... Einar Dagbjartsson ... GBP 44.918“. Sjálfskuldarábyrgðin tók til ,,greiðslu höfuðstóls allra lánshluta, auk vaxta, dráttarvaxta og vaxtavaxta, svo og alls kostnaðar, sem af vanskilum kann að leiða. Ábyrgðin gildir jafnt þótt greiðslufrestur verði veittur á skuldbindingum skv. samningi þessum einu sinni eða oftar, uns skuldin er að fullu greidd.“ Fjárhæð ábyrgðarskuldbindingar áfrýjanda og hinna 24 ábyrgðaraðilanna ákvarðaðist af þeirri hlutafjáraukningu sem þeir voru skráðir fyrir í Hydra ehf. á þessum tíma. Lánið bar að greiða að fullu með tuttugu jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti. Fyrsti gjalddagi afborgana skyldi vera 10. september 2005. Hydra ehf. greiddi fyrstu þrjár afborganir lánsins en eftir það fór lánið í vanskil. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 20/2020 sem flutt var og er dæmt samhliða þessu máli var gerð grein fyrir tveimur viðaukum við lánssamninginn. Þar sagði að endursamið hafi verið um greiðsluskilmála lánssamningsins, fyrst 1. nóvember 2006 og síðan 27. nóvember 2007. Samkvæmt fyrri viðaukanum voru eftirstöðvar lánsins 12.695.404 krónur og 528.680,94 sterlingspund miðað við 11. september 2006. Í viðaukanum kom fram að eftirleiðis skyldi sú grein samningsins sem fjallaði um lánstíma og endurgreiðslur vera á þann hátt að Hydra ehf., sem þá hafði fengið nafnið Eignarhaldsfélagið City Star Airlines ehf., bæri að greiða 12.695.404 krónur og 89.184 sterlingspund 25. mars 2007 sem ráðstafa ætti til greiðslu áfallinna vaxta og lækkunar höfuðstóls lánsins. Þegar sú greiðsla hefði verið innt af hendi myndaðist nýr höfuðstóll lánsins í sterlingspundum sem bæri að endurgreiða að fullu með 13 jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti, fyrst 25. júní 2007. Jafnframt þessu var þeirri grein samningsins sem fjallaði um vaxtakjör breytt. Í framhaldinu greiddi Eignarhaldsfélagið City Star Airlines ehf. að hluta til inn á umsamda afborgun með gjalddaga í mars 2007, í fernu lagi, en síðan fór lánið aftur í vanskil. Voru greiðslurnar ýmist í íslenskum krónum eða sterlingspundum. Í síðari viðaukanum 27. nóvember 2007 kom fram að eftirstöðvar lánsins miðað við 25. október 2007 næmu 551.934,87 sterlingspundum og gjaldfallnar afborganir 11.722.422 krónum. Lántaki skyldi greiða áfallna vexti og dráttarvexti til 25. október 2007, nánar tiltekið 21.189,64 sterlingspund og 1.019.701 krónu. Gegn þeirri greiðslu átti Landsbanki Íslands hf. að endurfjármagna eftirstöðvar lánsins miðað við gengi sterlingspunds þann dag sem     undirritaður viðauki bærist bankanum. Umsaminn lánstími var þrjú ár og lánið skyldi greiðast með tíu jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti og var fyrsti gjalddagi afborgana 25. mars 2008. Vexti skyldi greiða á þriggja mánaða fresti út lánstímann, fyrst 25. desember 2007. Lántaki greiddi fyrsta vaxtagjalddagann 28. sama mánaðar vegna áfallinna vaxta frá 25. október 2007 til 27. desember sama ár, en það var síðasta greiðsla félagsins inn á lánið. Eftirstöðvar höfuðstóls eftir síðustu greiðslu voru 615.477,04 sterlingspund. 2 Vegna vanskila Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. á greiðslu afborgana samkvæmt lánssamningnum 27. júlí 2005 beindi Landsbanki Íslands hf. kröfum sínum að sjálfskuldarábyrgðarmönnum, þar á meðal áfrýjanda, til uppgjörs á samningnum. Í kjölfar þess gerði áfrýjandi lánssamning við bankann 25. júní 2008 að fjárhæð 45.053,16 sterlingspund. Lánið var til þriggja ára og skyldi greiða með sex jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti og skyldi greiða afborganir, vexti, dráttarvexti og aðrar greiðslur í íslenskum krónum. Skilyrði fyrir útborgun lánsins var að bankanum bærist beiðni um útborgun. Áfrýjandi óskaði eftir því að lánið yrði greitt út 6. ágúst 2008 og var útborgaðri lánsfjárhæð, 41.918 sterlingspundum, ráðstafað til greiðslu inn á fyrrgreindan lánssamning 27. júlí 2005 í samræmi við fyrirmæli í viðauka 25. júní 2008 við síðari lánssamninginn. Hinn 17. maí 2010 var gerður viðauki við lánssamninginn. Samkvæmt viðaukanum var eftirstöðvum lánsins myntbreytt í íslenskar krónur og höfuðstóll lánsins lækkaður um 25%. Samkvæmt honum voru eftirstöðvar lánsins þann dag 22.526,58 sterlingspund og 3.075.254 krónur og gjaldfallnir ógreiddir vextir 280,41 sterlingspund og 801.736 krónur sem áfrýjandi greiddi. Lánstímanum var breytt þannig að eftirstöðvar lánsins 6.238.773 krónur skyldu greiðast að fullu með 18 jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti og var fyrsti gjalddagi lánsins 1. júlí 2010. Vextir voru breytilegir og skyldu reiknast frá 17. maí 2010 og voru þá 5,8%. Lánið var verðtryggt samkvæmt vísitölu neysluverðs og skyldi höfuðstóll breytast í hlutfalli við breytingar á grunnvísitölu sem var við gerð viðaukans 362,9 stig. Með viðauka við lánssamninginn 17. ágúst 2010 var gjalddagi lánsins færður til 1. janúar 2011 en að öðru leyti hélst hann óbreyttur. Hinn 11. ágúst 2011 var aftur gerður viðauki við lánssamninginn. Samkvæmt honum voru eftirstöðvar lánsins 1. júlí 2011 með gjaldföllnum afborgunum og vöxtum 6.404.311 krónur. Lánstímanum var breytt þannig að eftirstöðvarnar skyldu greiðast að fullu með 120 jöfnum afborgunum á mánaðar fresti. Enn var gerður viðauki við lánssamninginn 20. júní 2012. Samkvæmt honum voru eftirstöðvar lánsins 1. júní 2012 með gjaldföllnum afborgunum og vöxtum 6.308.322 krónur. Lánstímanum var breytt þannig að eftirstöðvarnar skyldu greiðast að fullu með 103 jöfnum afborgunum á mánaðar fresti og lánið bundið við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar með grunnvísitölu í júní 2012 sem var 398,2 stig. Með innheimtubréfi 25. september 2013 gjaldfelldi stefndi höfuðstól lánsins. Þar kemur fram að eftirstöðvar höfuðstóls séu þá 6.189.204 krónur og samningsvextir og verðbætur 111.395 krónur. Samtala eftirstöðva nam því 6.300.599 krónum og er það stefnufjárhæð málsins. Auk áfrýjanda gerðu 19 aðrir sjálfskuldarábyrgðarmenn upp sína ábyrgðarhluta á tímabilinu 19. júní til 4. september 2008 og voru þannig samtals 78.960.613 krónur greiddar inn á skuld samkvæmt lánssamningnum 27. júlí 2005. Bú Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines     ehf. (áður Hydra ehf.) hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta 28. maí 2008 og námu þá vanskil vegna lánsins 93.204.643 krónum. Aðrir sjálfskuldarábyrgðarmenn munu ekki hafa gert upp sína ábyrgðarhluta. 3 Með kröfulýsingu 28. júlí 2008 lýsti Landsbanki Íslands hf. kröfu í bú Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. að fjárhæð 93.204.643 krónur vegna fyrrgreinds lánssamnings 27. júlí 2005.     Með bréfi Landsbanka Íslands hf. til skiptastjóra þrotabúsins 15. september 2008 var tilkynnt að verið væri að vinna í því að fá sjálfskuldarábyrgðarmenn til þess að ,,kaupa sig út úr láninu“. Vinnu við það væri næstum lokið. Í samræmi við þetta sendi bankinn nýja kröfulýsingu en samkvæmt henni var krafa hans lækkuð í 21.333.498 krónur vegna greiðslna frá ábyrgðarmönnum sem ráðstafað hafði verið inn á lánið. Þá kröfu samþykkti skiptastjóri þrotabúsins með fyrirvara um endanlega fjárhæð kröfunnar vegna greiðslna ábyrgðarmanna. Eftir að dómur Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 gekk freistaði skiptastjóri þess að breyta afstöðu sinni til viðurkenningar kröfunnar með því að hafna henni eða lækka. Ágreiningi um viðurkenningu hennar var vísað til dómstóla og í dómi Hæstaréttar 1. mars 2013 í máli nr. 116/2013 var komist að þeirri niðurstöðu að krafan hefði verið endanlega samþykkt á skiptafundi 29. júní 2010 sem almenn krafa í þrotabúið að fjárhæð 21.339.723 krónur, enda hefðu engin mótmæli komið fram gegn afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar á kröfunni, sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991.     Áfrýjandi lýsti ekki kröfu í þrotabúið en á fyrrgreindum skiptafundinum 29. júní 2010 var meðal annars fjallað um lýstar kröfur tveggja ábyrgðarmanna vegna ábyrgðarinnar. Skiptastjóri samþykkti kröfur þeirra með fyrirvara um endanlega fjárhæð ábyrgðarinnar, þar sem fyrir lá að stefndi hafði þá höfðað mál á hendur þeim tveimur til innheimtu kröfu samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu þeirra. Á fundinum var jafnframt lögð fram yfirlýsing annarra ábyrgðarmanna, þar á meðal áfrýjanda, þar sem sagði: ,,Við undirrituð, sem erum í ábyrgð á láni ... hjá Landsbanka Íslands sem Eignarhaldsfélagið City Star ... tók 27.07.2005, vottum með undirskrift okkar hér að neðan, að við fengum hlutabréf í skiptum fyrir ábyrgð okkar og eigum enga aðra kröfu á hendur þrotabúi Eignarhaldsfélagsins City Star. Þ.a.l. mótmælum við kröfu þeirri sem 2 aðrir ábyrgðarmenn á þessu láni ... hafa gert í þrotabúið.“ Hinn 15. mars 2013 úthlutaði skiptastjóri þrotabúsins til stefnda 6.373.959 krónum upp í kröfuna og 15. janúar 2014 var úthlutað 598.938 krónum upp í hana eða samtals 6.972.897 krónum. Í málinu er ekki tölulegur ágreiningur með aðilum um að hefði Landsbanki Íslands hf. haldið sig við upphaflega kröfulýsingu í þrotabúið að fjárhæð 93.204.643 krónur, og sú krafa verið samþykkt, hefði honum verið úthlutað 19.822.624 krónum upp í kröfuna. Með bréfi stefnda til áfrýjanda 11. janúar 2012 var tilkynnt að lán áfrýjanda samkvæmt lánssamningnum 25. júní 2008, sem hann tók til að gera upp ábyrgð á lánssamningnum 27. júlí 2005, félli ekki undir fordæmisgildi dóms Hæstaréttar í máli nr. 155/2011 og yrði ekki endurútreiknað. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008, sem tekin var í kjölfar þess að það tók yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf., vék stjórn félagsins frá og setti yfir það skilanefnd, eignaðist stefndi kröfu þá sem um er deilt á hendur áfrýjanda. III 1 Áfrýjandi telur annmarka að formi til á dómi Landsréttar eiga að leiða til þess að dómurinn verði ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Í fyrsta lagi byggir hann á því að tveir þeirra dómara sem lögðu þar dóm á málið hafi verið vanhæfir. Annar þeirra, Aðalsteinn E. Jónasson, á grundvelli b- og g-liða 5. gr. laga nr. 91/1991 og hinn, Hervör Þorvaldsdóttir, á grundvelli g-liðar sömu greinar. Í annan stað byggir hann á því að dómurinn uppfylli ekki kröfur réttarfarslaga um rökstuðning dóma. Varðandi ætlað vanhæfi Aðalsteins bendir áfrýjandi á að hann hafi margsinnis áður sem starfandi lögmaður gætt réttar stefnda varðandi sama sakarefni og jafnframt veitt honum ólögskyldar leiðbeiningar um það sem ráðgjafi bankans um gengistryggingarmál á árunum 2011 til 2017. Hann hafi síðast flutt mál fyrir stefnda í apríl 2017 og verið skipaður dómari við Landsrétt tveimur mánuðum síðar. Í þessu ljósi hafi áfrýjandi réttmætar ástæður til að draga óhlutdrægni hans í efa. Þá bendir áfrýjandi á að hann hafi verið lögmaður stefnda í máli nr. 155/2011, sem skapað hafi fordæmi um ólögmæt gengislán, en áfrýjandi byggi málsgrundvöll sinn meðal annars á því máli. Einnig hafi hann verið lögmaður stefnda í máli nr. 602/2013 sem dæmt var í Hæstarétti 6. mars 2014, en vísað hafi verið til þess í hinum áfrýjaða dómi Landsréttar og byggt þar á því að dómurinn styðji það að lánssamningurinn sem um er deilt hafi verið lögmætt erlent lán. Auk þess hafi hann flutt fjölmörg önnur mál sem vörðuðu gengistryggingu lána stefnda. Samkvæmt þessu sé með öllu óviðunandi að dómarinn hafi setið í dómi Landsréttar. Áfrýjandi telur að dómur Hæstaréttar 26. mars 2019 í máli nr. 14/2019, sem stefndi átti einnig aðild að og þar sem tekist var á um vanhæfi Aðalsteins, hafi ekki fordæmisgildi fyrir þetta mál, þar sem ekki hafi reynt á b-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 með sama hætti og í þessu máli. Þá hafi í því máli ekki verið byggt á því að persónuleg afstaða dómarans til efnis máls væri með þeim hætti að draga megi óhlutdrægni hans í efa. Jafnframt hafi þar ekki verið byggt á því að mörg þeirra mála sem vísað væri til í máli þessu, hefðu verið flutt af honum þegar hann sinnti hagsmunagæslu fyrir stefnda. Til stuðnings þeirri kröfu stefnda að hafna beri kröfu áfrýjanda um ómerkingu dóms Landsréttar bendir stefndi á að Aðalsteinn hafi hvorki gætt réttar síns varðandi hið áfrýjaða mál né veitt sér nokkrar leiðbeiningar í því. Ákvæði b-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 eigi við um það tiltekna mál sem sé fyrir dómi en ekki önnur óskyld mál sem dómari kunni að hafa haft aðkomu að áður sem dómari eða lögmaður. Dómarinn verði því ekki talinn vanhæfur til að fara með málið á grundvelli b-liðar 5. gr. laganna. Um ætlað vanhæfi landsréttardómarans, byggt á g-lið laga nr. 91/1991 bendir stefndi á dóm Hæstaréttar 26. mars 2019 í máli nr. 14/2019. Með honum hafi verið staðfestur úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu um að umræddur dómari viki sæti í máli, en stefndi hafi átt aðild að því. Í málinu hafi, eins og í þessu máli, verið byggt á sömu málsástæðum um vanhæfi dómarans til að dæma í málum er vörðuðu stefnda, sökum hagsmunagæslu hans fyrir bankann á meðan hann starfaði sem lögmaður á árunum 2011 til 2017. Varðandi ætlað vanhæfi Hervarar Þorvaldsdóttur á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 kveður áfrýjandi hana hafa dæmt sem héraðsdómari í málum sem varðað hafi túlkun á sama lánssamningi og deilt sé um í málinu, sbr. dóma Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2016 í málum nr. E-2419/2014 og E-4364/2014. Sami dómari hafi samkvæmt framangreindu dæmt um sama lánssamning á tveimur dómstigum en sami maður sé vanhæfur til að dæma um sama atriði í undirrétti og hjá áfrýjunardómstól og að það séu aðstæður sem fallnar séu til að draga óhlutdrægni dómarans með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Til stuðnings kröfu sinni um að hafna beri kröfu áfrýjanda um ómerkingu dóms Landsréttar vegna ætlaðs vanhæfis landsréttardómarans Hervarar bendir stefndi meðal annars á að dómarinn hafi ekki haft neina aðkomu að málinu áður en því var áfrýjað til Landsréttar. Það breyti engu um hæfi hennar að hún hafi sem héraðsdómari dæmt í tveimur málum er vörðuðu sama lánssamning og mál þetta fjallar um. Hún verði ekki við það vanhæf til að fjalla um lán til annarra aðila sem veitt hafi verið í tengslum við uppgjör ábyrgða vegna lánssamningsins 27. júlí 2005. Í annan stað telur áfrýjandi að skortur á rökstuðningi í dómi Landsréttar leiði til þess að ómerkja beri dóminn og vísa málinu til Landsréttar til löglegrar meðferðar á ný. Því til stuðnings bendir hann á að niðurstaða dómsins hafi verið sú að lánssamningurinn 27. júlí 2005 hafi verið talinn     lögmætur án þess að heildarmat á gögnum málsins hafi farið fram. Þá sjái þess ekki stað í dómi Landsréttar að farið hafi fram mat á tölulegum staðreyndum sem bendi til að krafa stefnda hafi verið greidd. Loks hafi ekki verið tekin í dóminum afstaða til réttmætis höfuðstóls- og vaxtakrafna áfrýjanda. Stefndi telur á hinn bóginn að í dómi Landsréttar sé að finna fullnægjandi röksemdir fyrir niðurstöðu og telur dóminn uppfylla áskilnað 3. og 4. mgr. 164. gr. laga nr. 91/1991, sbr. f-lið 1. mgr. 114. gr. sömu laga. 2 Fjallað var um hæfi landsréttardómarans Aðalsteins E. Jónassonar í úrskurði Landsréttar 21. febrúar 2019 í máli nr. 445/2018 vegna kröfu um að hann viki sæti þar sem hann hefði sem lögmaður unnið mikið fyrir stefnda og flutt tugi mála fyrir hann. Í úrskurðinum var því slegið föstu að ekki væru fyrir hendi atvik eða aðstæður sem væru til þess fallnar að draga mætti óhlutdrægni dómarans með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991, og vísað til þess að hann hefði hætt störfum sem lögmaður í árslok 2017, lagt inn lögmannsréttindi sín og gegnt starfi sem dómari síðan í ársbyrjun 2018. Fyrir lægi að hann hefði gætt hagsmuna stefnda við rekstur nokkurra dómsmála á árunum 2011 til 2017, tæplega fjögur dómsmál á ári, en flest þeirra hafi verið rekin árin 2013 og 2015. Hafi vinna hans fyrir stefnda á umræddu tímabili verið óverulegur hluti af störfum hans og hafi hann ekki gegnt annars konar trúnaðarstörfum fyrir stefnda en sem lögmaður. Þá lægi fyrir að hann hefði enga aðkomu haft að því máli sem væri til umfjöllunar og engin hagsmunatengsl væru við aðila málsins. Með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 14/2019 var úrskurðurinn staðfestur með vísan til forsendna hans. Í máli þessu byggir áfrýjandi á flestum sömu málsástæðum og byggt var á í síðastgreindum dómi Hæstaréttar til stuðnings því að ómerkja beri dóm Landsréttar á grundvelli vanhæfis dómarans, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991, en auk þess er á því byggt að persónuleg afstaða dómarans til efnis málsins sé með þeim hætti að draga megi óhlutdrægni hans í efa. Jafnframt byggir áfrýjandi kröfu sína á b-lið 5. gr. Samkvæmt b-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 er dómari vanhæfur til að fara með mál ef hann hefur gætt réttar aðila varðandi sakarefnið eða veitt aðila ólögskyldar leiðbeiningar um það. Enda þótt Aðalsteinn hafi, er hann gegndi lögmannsstarfi, gætt réttar stefnda í málum er vörðuðu svipaða lánssamninga og reynir á í máli þessu, eða veitt ráðgjöf í því tilliti, hefur ekkert komið fram um að dómarinn hafi á nokkru stigi málsins komið að lögfræðilegri ráðgjöf eða hagsmunagæslu fyrir stefnda í tengslum við sakarefni þessa máls. Verður hann því ekki talinn vanhæfur á þessum grundvelli. Samkvæmt dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hefur við úrlausn um það hvort dómari teljist óvilhallur í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verið greint á milli athugunar er miðar að því að ganga úr skugga um hvaða viðhorf hafi ráðið hjá dómara í tilteknu máli (huglægur mælikvarði) og athugunar á því hvort til staðar eru hlutlæg atriði sem gefi réttmætt tilefni til að draga í efa að dómari sé óvilhallur (hlutlægur mælikvarði). Samkvæmt hinum huglæga mælikvarða um hæfi dómara verður, varðandi persónulega afstöðu hans, að gera ráð fyrir því að dómari sé hæfur til meðferðar máls, nema sýnt sé fram á hið gagnstæða. Af hálfu áfrýjanda hafa ekki verið lögð fram gögn eða sýnt fram á með öðrum hætti að Aðalsteinn hafi þá persónulegu afstöðu til málsaðila eða sakarefnis máls þessa að hæfi hans verði með réttu dregið í efa. Með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 14/2019 var skorið úr um að dómarinn viki ekki sæti sem dómari í Landsrétti á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 en stefndi í því máli var aðili að þessu máli og það varðaði lánssamning, eins og í þessu máli. Þótt vísað hafi verið til fleiri atriða í þessu máli til stuðnings vanhæfi dómarans en til skoðunar voru í fyrrnefndu máli þykja þau ekki hafa slíka þýðingu að þau haggi fordæmisgildi dómsins hvað varðar hæfi dómarans. Í því sambandi hefur einnig þýðingu að lengri tími var liðinn frá því að lögmannsstörfum Aðalsteins í þágu stefnda lauk þegar hann tók þátt í dómstörfum í þessu máli en máli því sem lauk með dómi Hæstaréttar í máli nr. 14/2019. Með vísan til forsendna umrædds dóms og annars framangreinds verður ekki fallist á að dómarinn hafi á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 verið vanhæfur til að fara með mál þetta. Um ætlað vanhæfi landsréttardómarans Hervarar Þorvaldsdóttur er til þess að líta að enda þótt dómarinn hafi sem héraðsdómari dæmt í öðrum málum sem vörðuðu sama lánssamning og mál þetta lýtur að hluta til að, telst dómarinn ekki hafa annast dómstörf í þessu máli á lægra dómstigi. Ríkari kröfur verða ekki gerðar til hæfis dómara á áfrýjunarstigi í þessu tilliti. Dómarinn var því ekki vanhæfur til meðferðar málsins fyrir Landsrétti á grunni g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Að síðustu verður ekki fallist á að slíkir annmarkar hafi verið á samningu dóms Landsréttar að fallast beri á kröfu áfrýjanda um ómerkingu dómsins, sbr. f-lið 1. mgr. 114. gr. og 3. og 4. mgr. 164. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt öllu framansögðu verður kröfu áfrýjanda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms hafnað. IV 1 Málsaðila greinir á um lögmæti fyrrgreinds lánssamnings Hydra ehf. og Landsbanka Íslands hf. 27. júlí 2005 og uppgjör á ábyrgðarskuldbindingu áfrýjanda samkvæmt lánssamningi bankans og áfrýjanda 25. júní 2008. Áfrýjandi byggir á því að þeim samningi skuli vikið til hliðar í heild eða að hluta á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Af hálfu áfrýjanda er í fyrsta lagi á því byggt að lánssamningurinn 27. júlí 2005 hafi verið lán í íslenskum krónum með ólögmætri bindingu við gengi erlends gjaldmiðils. Af þeim sökum hefði átt að endurreikna hann og lækka þá fjárhæð sem stefndi krefst nú að áfrýjandi greiði sér vegna síðari lánssamningsins. Ágreiningur um lögmæti umrædds lánssamnings hefur áður komið til kasta Hæstaréttar. Í dómi réttarins 11. maí 2017 í máli nr. 587/2016, þar sem fjallað var um málsástæðu þess efnis að lánssamningurinn væri í íslenskum krónum með ólögmætri bindingu við erlendan gjaldmiðil, sagði að hvað sem liði skuldbindingu aðalskuldarans, Hydra ehf., hefði áfrýjandi í því máli, Elín Þóra Dagbjartsdóttir, sem var ein þeirra sem gengist höfðu í sjálfskuldarábyrgð, gengist undir ábyrgð sína með tiltekinni fjárhæð í sterlingspundum og hafi hún verið skuldbundin gagnvart lánveitanda samkvæmt því. Sömu sjónarmið og rakin voru í dóminum eiga hér við, auk þess sem fyrir liggur að lán það sem áfrýjandi fékk hjá Landsbanka Íslands hf. til þess að gera upp ábyrgð sína var í sterlingspundum og er áfrýjandi skuldbundinn gagnvart stefnda samkvæmt því.  Enn fremur hefur í dómum Hæstaréttar, þar sem fjallað hefur verið um hvort lán sé í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla og skýring á texta samningsins tekur ekki af tvímæli um hvers efnis skuldbinding er að því leyti, verið meðal annars litið til þess hvernig skuldin er tilgreind í viðaukum um skilmálabreytingar. Eins og rakið hefur verið kom fram í fyrri viðauka samningsins 1. nóvember 2006 að eftir að greiðsla 25. mars 2007 yrði innt af hendi myndaðist nýr höfuðstóll lánsins í sterlingspundum og var fjárhæð skuldarinnar tilgreind í þeirri mynt. Í síðari viðauka um skilmálabreytingar 27. nóvember 2007 voru eftirstöðvar lánsins tilgreindar í sterlingspundum og kom þar einnig fram að eftir að tilgreind greiðsla yrði innt af hendi yrðu eftirstöðvar endurfjármagnaðar miðað við gengi sterlingspunds. Jafnframt liggur fyrir að afborganir af láninu voru ýmist greiddar í íslenskum krónum eða sterlingspundum. Að öllu þessu virtu er ekki fallist á að lánssamningurinn 27. júlí 2005 hafi verið lán í íslenskum krónum með ólögmætri bindingu við gengi erlends gjaldmiðils. 2 Í annan stað byggir áfrýjandi á því að lánssamningurinn 27. júlí 2005 sé uppgreiddur með innborgunum aðalskuldara inn á samninginn á árunum 2005 til 2007 og með innborgunum ábyrgðarmanna inn á lánssamninginn. Þá vanti þrjár innborganir ábyrgðarmanna inn í útreikninga stefnda. Framangreint leiði til þess að lánið sé uppgreitt og vísar áfrýjandi um það til skjals sem stefndi lagði fram um innborganir á lánið. Enn fremur telur áfrýjandi að stefndi hafi fellt niður lánssamninginn sem stefndi krefur hann um efndir á í þessu máli og vísar um það til tölvupóstssamskipta 10. apríl 2019 sem stefndi lagði fram. Þar kemur fram að tilgreind lán hafi verið ,,bakfærð og felld niður þann 1.9.2008 þar sem þessi lán voru tvíkeypt“. Samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingum sínum gengust ábyrgðarmenn í ábyrgð fyrir tiltekinni fjárhæð auk vaxta og dráttarvaxta og alls kostnaðar sem af vanskilum kynni að leiða.     Af skjali því sem áfrýjandi vísar til um ætlaða uppgreiðslu lánssamningsins verður ekki ráðið að umrætt lán hafi verið uppgreitt heldur sýnir það einvörðungu innborganir aðalskuldara og ábyrgðarmanna inn á lánið, þar með talda innborgun áfrýjanda sjálfs. Samkvæmt fyrri kröfulýsingu Landsbanka Íslands hf. í þrotabú aðalskuldara 28. júlí 2008 voru eftirstöðvar lánsins 93.204.643 krónur, með áföllnum vöxtum, þann dag. Þegar stefndi hafði dregið frá innborganir ábyrgðarmanna og lýst kröfu í samræmi við það voru eftirstöðvar lánsins með dráttarvöxtum 21.333.498 krónur. Áfrýjandi hefur einnig haldið því fram að í útreikninga stefnda á eftirstöðvum lánssamningsins vanti þrjár innborganir, samtals að fjárhæð 14.093.472 krónur, sem allar hefðu verið greiddar 30. júní 2008. Við meðferð málsins í héraði lagði stefndi fram þrjár bakfærslukvittanir að sömu fjárhæð og innborganirnar þrjár. Gögn sem stefndi hefur síðar lagt fram benda ótvírætt til þess að þessar bakfærslur stafi af því að sömu greiðslur hafi verið tvífærðar inn á lánið. Af hálfu áfrýjanda hefur ekki verið skýrt hvort og þá hvers vegna sumir ábyrgðarmenn hafi greitt tvívegis fjárhæð sem svaraði til skuldbindinga þeirra. Er því ósannað að stefndi hafi ekki tekið tillit til allra innborgana inn á lánið. Af gögnum málsins verður ráðið að áfrýjandi greiddi af láninu sem stefndi krefur hann um efndir á í þessu máli til ársins 2013. Sú málsástæða hans að Landsbanki Íslands hf. hafi fellt niður lánssamninginn 1. september 2008 er því með öllu haldlaus. Í ljósi framangreinds verður ekki fallist á að skuld samkvæmt lánssamningnum 27. júlí 2005 sé uppgreidd og að greiðslur áfrýjanda samkvæmt lánssamningi hans og Landsbanka Íslands hf. muni leiða til ólögmætrar auðgunar stefnda.     3 Af málatilbúnaði áfrýjanda verður ráðið að hann byggi enn á því að ábyrgð hans samkvæmt lánssamningi 27. júlí 2005 sé ógild frá upphafi þar sem greitt hafi verið fyrir hlutafjáraukningu í Hydra ehf. með sjálfskuldarábyrgð ábyrgðarmanna, þar á meðal áfrýjanda. Þar sem Landsbanka Íslands hf. hafi verið þetta kunnugt hafi verið brotið gegn ákvæði 11. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Áfrýjanda var í lófa lagið að skýra nánar eða leggja fram gögn til stuðnings þessari málsástæðu en það hefur hann ekki gert. Ekkert er heldur í ljós leitt í málinu um vitneskju stefnda um þennan ætlaða ólögmæta tilgang lánveitingarinnar. Er þessari málsástæðu hafnað.  Jafnframt verður af málatilbúnaði áfrýjanda ráðið að hann haldi enn fram þeirri málsástæðu að Landsbanki Íslands hf. hafi með nýrri lánveitingu til Hydra ehf. í janúar 2006 brotið gegn 9. grein í lánssamningnum 27. júlí 2005 með því að taka veð í eignum félagsins til tryggingar efndum þess samnings. Ákvæði 9. greinar lánssamningsins fjalla um skyldur lántaka gagnvart lánveitanda en fela ekki í sér sjálfstæða skyldu lánveitanda til að gæta hagsmuna sjálfskuldarábyrgðarmanna og engin gögn hafa verið lögð fram til stuðnings því að áfrýjandi hafi sett fyrirvara um sjálfskuldarábyrgð sína. Er þessari málsástæðu því einnig hafnað. 4 Áfrýjandi byggir í fjórða lagi á því að bankinn hafi valdið sér tjóni með því að lækka kröfulýsingu sína og lýsa ekki heildarkröfu sinni í þrotabú Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines     ehf., sbr. 103. gr. laga nr. 21/1991. Af málatilbúnaði áfrýjanda verður ráðið að hann telji tjón sitt felast í því að við lækkun kröfulýsingarinnar hafi bankinn fallið frá rétti til greiðslu úr þrotabúinu á kostnað áfrýjanda. Afleiðingar þessa hafi verið þær að bankinn hefði þá farið á mis við að fá greiddar 12.849.727 krónur til viðbótar frá þrotabúinu sem koma hefðu átt áfrýjanda til góða og nægt hefðu til að gera upp skuld hans við stefnda. Eins og rakið var í kafla II undir 3. lið var á skiptafundi í þrotabúinu lögð fram yfirlýsing ábyrgðarmanna, þar á meðal áfrýjanda, þar sem fram kom að þeir lýstu því yfir að þeir ættu enga kröfu á hendur þrotabúinu. Stefndi hefur frá upphafi mótmælt því að áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni af þeim sökum að bankinn hafi lækkað kröfulýsingu sína í þrotabúið og meðal annars bent á að áfrýjandi hefði ekki lýst kröfu sinni í það, en fyrir því gætu verið ýmsar ástæður. Við málflutning stefnda fyrir Hæstarétti kom fram að það hafi fyrst verið eftir fyrirspurn til skiptastjóra þrotabúsins í tilefni af fyrirhuguðum málflutningi sem honum hafi borist í hendur framangreind yfirlýsing sjálfskuldarábyrgðarmanna á lánssamningnum. Yfirlýsingin var lögð fram fyrir Hæstarétti áður en frestur til framlagningar gagna var liðinn og var um hana fjallað í munnlegum málflutningi fyrir réttinum. Þegar af þeirri ástæðu að yfirlýsingin stafar frá áfrýjanda sjálfum verður á henni byggt þrátt fyrir mótmæli hans. Áfrýjandi ritaði undir umrædda yfirlýsingu um að hann hefði fengið hlutabréf í Hydra ehf. ,,í skiptum fyrir ábyrgð“ og ætti enga ,,aðra“ kröfu á hendur þrotabúinu. Af þessari yfirlýsingu er áfrýjandi bundinn og fyrir liggur að hann lýsti ekki kröfu í búið. Óháð því hvort réttur áfrýjanda til greiðslu á grundvelli 103. og 104. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið fyrir hendi er ljóst að með fyrrgreindri yfirlýsingu féll hann frá kröfu um greiðslur úr þrotabúi Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. og getur því ekki borið fyrir sig ætlað tjón af völdum stefnda vegna þess að hann hafi lækkað kröfulýsingu sína í þrotabúið. Við þetta er hann bundinn og ber að greiða þá kröfu sem stefndi hefur uppi í málinu á hendur honum á grundvelli lánssamnings 25. júní 2008. Að öllu framangreindu virtu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur og áfrýjandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Einar Dagbjartsson, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.                                                                                    Dómur Landsréttar 6. mars 2020 Mál þetta dæma landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Hervör Þorvaldsdóttir og Ragnheiður Harðardóttir. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 11. apríl 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-84/2018 2        Áfrýjandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 6.300.599 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. janúar 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar á báðum dómstigum. 3        Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar á báðum dómstigum. Málsatvik og sönnunarfærsla 4        Áfrýjandi lagði fram ný gögn við meðferð málsins fyrir Landsrétti. Þar var meðal annars um að ræða tvo viðauka við lánssamning nr. 3372, dagsetta 1. nóvember 2006 og 27. nóvember 2007, gögn um innborganir og bakfærslur inn á framangreint lán, og ábyrgðarmenn þess auk útreiknings áfrýjanda á stöðu lánsins 4. september 2008. Niðurstaða 5        Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi deila aðilar um kröfu áfrýjanda á hendur stefnda samkvæmt lánssamningi 25. júní 2008 og síðari viðaukum við hann. Sá samningur var gerður til að gera upp skuldbindingu stefnda samkvæmt skiptri sjálfskuldarábyrgð á lánssamningi 27. júlí 2005 milli Hydra ehf., sem síðar fékk nafnið Eignarhaldsfélagið City S.A. ehf., og Landsbanka Íslands hf. Kröfum bankans samkvæmt þessum samningum var síðar ráðstafað til áfrýjanda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. 6        Með lánssamningnum 27. júlí 2005 veitti Landsbanki Íslands hf. lán til Hydra ehf. að jafnvirði 80.000.000 króna í breskum pundum. Telur stefndi að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum með ólögmætri bindingu við gengi erlends gjaldmiðils. Við uppgjör á ábyrgð stefnda á láninu með lánssamningi hans við bankann 25. júní 2008 hafi hins vegar verið lagt til grundvallar að upphaflega lánið hafi verið í erlendum gjaldmiðli. Fyrir liggur að gerðir voru viðaukar við lánssamninginn 27. júlí 2005 þar sem eftirstöðvar láns voru skýrlega tilteknar í breskum pundum. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar hefur verið lagt til grundvallar að við slíkar aðstæður væri um lögmætt lán í erlendum gjaldmiðlum að ræða, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 6. mars 2014 í máli nr. 602/2013. Hvað sem þessu líður um skuldbindingu aðalskuldara gekkst stefndi í ábyrgð með tiltekinni fjárhæð í pundum og var skuldbundinn gagnvart lánveitanda samkvæmt því, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 11. maí 2017 í málinu nr. 587/2016. 7        Stefndi teflir fram þeirri málsástæðu að áfrýjandi hafi valdið sér tjóni með því að lækka kröfu samkvæmt kröfulýsingu sinni í þrotabú Eignarhaldsfélagsins City S.A. ehf. úr 93.210.868 krónum í 21.339.723 krónur. Með þessu hafi hann fallið frá rétti til greiðslu úr þrotabúinu á kostnað stefnda og annarra sjálfskuldarábyrgðarmanna, en um þetta fari eftir reglum 103. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ákvæði 103. gr. laga nr. 21/1991 tekur samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til óskiptrar ábyrgðar. Með því verður ákvæðinu ekki beitt um skipta ábyrgð, eins og hagar til í þessu máli. 8        Að virtum þeim forsendum sem að framan er lýst eru engin efni til að fallast á að víkja beri samningnum sem mál þetta snýst um til hliðar á grundvelli ógildingarreglna laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Aðrar málsástæður sem stefndi heldur fram breyta ekki framangreindri niðurstöðu, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar frá 11. maí 2017 í máli nr. 587/2016, þar sem leyst var úr sams konar ágreiningi. 9        Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að skuld samkvæmt lánssamningnum sem um ræðir hefur ekki verið greidd og ber stefnda því greiðsluskylda. Gögn málsins bera ekki með sér að krafa áfrýjanda hafi verið greidd með öðrum hætti. Verður krafan því tekin til greina eins og hún er fram sett, sem er í samræmi við ákvæði lánssamningsins. 10       Eftir þessari niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum, eins og í dómsorði greinir. 11       Það athugist að eins og mál þetta er vaxið verður ekki talið að héraðsdómara hafi verið rétt að kveðja til sérfróðan meðdómsmann samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Dómsorð: Stefndi, Einar Dagbjartsson, greiði áfrýjanda, Landsbankanum hf., 6.300.599 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. janúar 2014 til greiðsludags. Stefndi greiði áfrýjanda 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.       Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2019   I. Dómkröfur o.fl.: Mál þetta var höfðað 2. janúar 2018 og dómtekið 18. febrúar 2019. Stefn­andi er Lands­­bankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík. Stefndi er Einar Dagbjartsson, [...]. Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjár­­­­hæð 6.300.599 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 6.300.599 krónum frá 11. janúar 2014 til greiðslu­­­­­­dags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins og tekið verði tillit til virðis­­­­aukaskatts.    Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnukrafa verði lækkuð verulega. Til viðbótar við aðal- og vara­­kröfu krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðar­yfir­liti og tekið verði tillit til virðis­aukaskatts.   II. Málsatvik: Mál þetta má rekja til lánssamnings milli Hydra ehf. og Landsbanka Íslands hf., nr. 3372, dagsettur 27. júlí 2005, hér nefnt fyrra lánið eða fyrri lánssamningur eftir því sem við á. Lánið var jafn­­­framt sam­þykkt af tuttugu og fimm sjálfskuldar­ábyrgðar­aðilum, þar með talið stefnda, og var ábyrgð þeirra hlutfallsleg (l. pro rata). Um var að ræða samning um fjöl­­­myntalán til fimm ára að jafnvirði 80.000.000 króna og var mið­að við sterlings­pund (e. Pound sterling, GBP). Lánsfjárhæðin var greidd í íslenskum krón­­um inn á bankabók Hydra ehf. þann 2. ágúst 2005 í samræmi við viðauka samn­ings­ins um út­borgun sem var undir­­ritaður 27. júlí sama ár. Stefndi var í ábyrgð fyrir 44.911 sterlings­pundum. Samkvæmt g- og h-liðum 9. gr. lánssamningsins var lántaka, Hydra ehf., óheimilt að setja nokkrar eignir sínar eða dótturfélaga sinna að veði um­fram það sem þegar hefði verið gert við gerð samningsins, auk þess sem félagið skuld­batt sig til að setja ekki sérstakar tryggingar fyrir lánum sem það tók eða öðrum fjár­hags­legum skuld­bindingum, hverju nafni sem þær nefndust, nema sams konar trygg­ing væri jafn­framt sett fyrir skuldbindingu félagsins samkvæmt lánssamningnum. Að sögn stefnda veð­setti Hydra ehf., í janúar 2006, þrátt fyrir fyrrgreint bannákvæði, flug­vélar og aðrar eignir til Landsbanka Íslands hf. vegna tveggja lánasamninga sem gerðir voru á þeim tíma, sbr. umfjöllun í dómi Hæstaréttar í máli nr. 119/2009. Láninu var skuld­breytt með við­auk­­um, dagsettum 1. nóvember 2006 og 22. nóv­­ember 2007. Á ár­unum 2005-2007 greiddi Hydra ehf. átta sinnum inn á lánið. Vanskil urðu vegna láns­­ins og beindi bankinn þá kröfum sínum að ábyrgðar­­mönnunum, þar með talið að stefnda. Vegna vanskila Hydra ehf. og vegna kröfu Landsbanka Íslands hf. á hendur stefnda til þess að standa undir ábyrgð sinni vegna lánsins gerði stefndi láns­samn­ing við bankann, dagsettan 25. júní 2008, nr. 64627, hér eftir nefnt síðara lánið eða síðari lánssamningur eftir því sem við á. Lán þetta var að fjárhæð 45.053,16 sterlings­­pund. Með síð­­­­­ara lán­inu gerði stefndi upp ábyrgð sína vegna fyrra lánsins. Fleiri sjálf­skuldar­­­ábyrgðar­aðilar vegna fyrra lánsins gerðu einnig upp ábyrgðir sínar á svip­­­uðum tíma, þar með talið með því að taka nýtt lán hjá bankanum. Stefnandi eign­aðist kröfu á hendur stefnda með almennri ákvörðun Fjár­málaeftirlitsins frá 9. október 2008 um ráð­stöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. Stefndi hætti síðar að greiða af lán­inu. Hydra ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 28. maí 2008 en á þeim tíma hafði nafni félagsins verið breytt í Eignarhaldsfélagið City S.A. ehf. Landsbanki Íslands hf. lýsti upp­­­­­­­haflega almennri kröfu í þrotabúið út af fyrra láninu. Kröfu­lýsingin var síðar lækkuð vegna innborgana sem komu inn á lánið. Við lok gjald­þrota­skipta á árinu 2013 fékk bankinn aðeins úthlutað að hluta upp í kröfu sína. Með almennri tilkynningu 10. júní 2011 á vefsíðu stefn­anda var vísað til dóms Hæsta­­­­réttar Íslands frá 9. sama mánaðar í máli nr. 155/2011. Tekið var fram að með dóm­­­­inum hefði verið fallist á röksemd annars aðila málsins, skuldara sem tekið hafði lán hjá forvera stefnanda á árinu 2007, að lánið væri ekki í erlendri mynt heldur í ís­lensk­um krónum með ólögmætri gengistryggingu við erlenda mynt. Að því virtu bæri stefn­­anda að endurreikna lánið í samræmi við lög nr. 38/2001. Þá var tekið fram í til­kynn­­ingunni að bankinn myndi jafnframt endurreikna önnur sambærileg lán og miða endur­útreikning við lægstu óverðtryggðu útlánsvexti Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Samhliða sendi stefn­andi bréf þar sem stefnda var tilkynnt að bankinn væri að skoða hvort skilmálar síð­ara lánsins féllu undir for­dæmis­­­gildi dóms­ins varðandi ólög­­mæta gengistryggingu. Með bréfi stefn­­­anda 29. nóv­­­­ember 2011 var stefnda til­kynnt að það væri mat bank­ans að síðara lánið félli ekki undir efnisatriði dómsins og að því virtu yrði það ekki endur­­útreiknað. Einar Pétursson, starfsmaður Landsbankans hf., gaf skýrslu vitnis við aðal­meðferð.   III. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda: Stefnandi reisir dómkröfur sínar á síðara láninu, sbr. lánssamning Landsbanka Íslands hf. og stefnda, dagsettan 25. júní 2008. Samkvæmt þeim samningi hafi Lands­banki Íslands hf., sem lán­veit­­andi, og stefndi, sem lántaki, samið um fjöl­mynta­lán til þriggja ára að fjárhæð 45.053,16 sterlings­­pund. Í samn­ingnum hafi verið miðað við að ef stefndi greiddi af­borg­anir, vexti og dráttar­vexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krón­­­­­­­um þá skyldi hann greiða samkvæmt sölu­gengi bankans á gjalddaga. Stefndi hafi lofað að taka að láni og bankinn að lána um­samda fjár­hæð, sbr. gr. 1.1 í samningnum. Stefndi skyldi greiða lánveitanda 0,30% lán­töku­gjald af heildarfjárhæðinni og skyldi lán­­­­­­­­­­töku­gjaldið dragast af við útborgun láns­ins, sbr. gr. 5.1 í samningnum. Stefnandi vísar til þess að stefndi hafi með beiðni 25. júní 2008 óskað eftir út­greiðslu lánsins 6. ágúst 2008 til samræmis við gr. 1.2 og við­auka 1 í samn­ingnum. Hafi það leitt til þess að greidd voru til hans 44.918,00 sterlings­pund. Stefnandi vísar til þess að borið hafi að greiða lánið að fullu á næstu þremur árum með sex jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti. Fyrsti gjalddagi afborgana og vaxta hafi verið 1. janúar 2009, sbr. gr. 2.1 í samningnum. Stefndi hafi lofað að greiða bank­anum vexti sem skyldu vera breytilegir vextir jafnháir LIBOR-vöxtum (e. London Inter Bank Offered Rate) í sam­ræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 3,75% vaxta­­­­­­­álags. Með LIBOR-vöxtum hafi verið átt við vexti á millibankamarkaði í London eins og þeir voru auglýstir kl. 11:00 fyrir hádegi að staðartíma í London á BBA-síðu Reuters eða sambærilega vexti eins og þeir birtust á síðu 3750 á Dow Jones Telerate skjá tveimur virkum dögum fyrir hvert vaxtatímabil, sbr. gr. 3.2 í samningnum. Þessu til við­­­­­­­­­bótar hafi verið kveðið á um að vextir skyldu reiknast frá útborgunardegi lánsins og þeir greiðast eftir á á gjald­­­dögum á sex mánaða fresti í fyrsta skipti 1. janúar 2009, sbr. gr. 2.1 og 3.3 í samningnum. Þá skyldi við vaxtaútreikning taka mið af vaxta­reglum er varða daga­fjölda sem í gildi væru á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum á hverjum tíma, sbr. gr. 3.4 í samningnum. Stefnandi vísar til þess að stefnda beri skylda til að greiða dráttarvexti samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð, frá gjalddaga til greiðslu­­dags, standi hann ekki skil á greiðslu vaxta eða afborgunar á gjalddaga. Í gr. 6.1 í lánssamn­­­ingnum sé kveðið á um að lánveitandi skyldi hafa val um það hvort krafist yrði dráttar­­­vaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt, eða af skuldinni breyttri í ís­lenskar krónur. Þá sé þar einnig kveðið á um að séu dráttarvextir krafðir í erlendum mynt­­­um þá skyldu þeir vera vextir samkvæmt gr. 3.1 í lánssamningnum, auk við­eigandi álags að við­bættu 10% viðbótarálagi. Ef skuldinni yrði hins vegar breytt í íslenskar krónur á gjald­daga þá skyldu dráttarvextir reiknast á íslenskar krónur eftir ákvörðun Seðla­­­banka Íslands samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001. Þá vísar stefn­andi til gr. 6.2 í láns­­­samn­ingnum varðandi vanefndir stefnda. Þar sé kveðið á um skyldu hans til að greiða lán­veit­anda, auk vaxta og dráttarvaxta, allan kostnað sem bankinn legði út í vegna van­efnd­anna, málssóknar eða annarra réttargjalda, lögmanns­þóknunar eða annars sem bank­anum bæri að greiða, svo og annan lögfræðilegan kostnað vegna inn­­heimtu alls láns­ins. Stefnandi vísar til viðauka við lánssamninginn, sem dagsettur er 17. maí 2010, þar sem bankinn hafi samþykkt beiðni stefnda um breytingar á láninu. Með þeim hafi erlendu láni verið breytt í íslenskar krónur. Höfuðstólslækkun vegna breytingarinnar skyldi verða 25% af hverri mynt. Höfuðstóll sem gefinn yrði upp í íslenskum krónum skyldi miðast við sölugengi Landsbankans á viðkomandi mynt við útgáfudag við­aukans, 192,37 sterlings­pund. Skilmálar lánsins eftir breytinguna urðu með þeim hætti að höfuð­­­stóll skyldi vera 6.328.773 krónur. Lánstíminn skyldi vera níu ár. Fjöldi af­borg­ana skyldi vera átján. Gjalddagi fyrstu afborgunar og fyrstu vaxtagreiðslu skyldi vera 1. júlí 2010. Mán­uðir á milli gjalddaga skyldu vera sex. Vextir skyldu reiknast frá 17. maí 2010. Vextir myndu vera samkvæmt viðmiðuninni K1 en þeir voru 5,80% við undir­­­ritun viðaukans. Grunn­vísi­talan skyldi verða 362,9. Lánið skyldi greiðast með jöfn­­­­um afborgunum. Vextir skyldu vera breytilegir ársvextir eins og þeir yrðu ákveðnir á hverjum tíma af stefn­anda og tæki það jafnt til kjörvaxta og vaxtaálags. Vext­ir­nir skyldu vera eftir á greiddir á sömu gjald­dögum og afborganir nema um annað yrði samið. Stefnanda skyldi vera heimilt hvenær sem er á lánstímanum að hækka eða lækka framangreinda vexti, þar með talið vaxta­álag, í samræmi við vaxta­ákvarðanir Landsbankans á hverjum tíma og/eða færa lánið á milli vaxtaflokka, svo sem ef breytingar yrðu á fjár­hagsstöðu og endur­greiðslu­möguleikum útgefanda, ef breyt­­­ingar yrðu á kjörvaxtakerfi bankans eða aðrar að­stæður gæfu tilefni til, sbr. 4. gr. við­aukans. Höfuðstóll skuldar­innar skyldi breytast í hlut­falli við breytingar á vísi­töl­unni frá grunnvísitölunni til fyrsta gjalddaga og síðan í hlut­falli við breytingar á vísi­tölunni á milli gjalddaga. Höfuð­­stóll lánsins skyldi reikn­aður út á hverjum gjalddaga áður en afborganir og vextir yrðu reiknaðir út. Afborganir skyldu reiknaðar út þannig að á hverjum gjald­daga væri vísitöluálagi bætt við höfuð­stól skuldarinnar og síðan deilt í útkomuna með þeim fjölda gjalddaga sem þá yrðu eftir, að meðtöldum þeim gjald­­daga sem yrði í það sinn, sbr. gr. 6 í viðaukanum. Við vaxtaútreikning og útreikn­ing van­­skilavaxta skyldi mið­að við að 30 dagar væru í hverjum mánuði og 360 dagar í ári, sbr. gr. 7 viðaukans. Að öðru leyti var miðað við að skil­málar lánsins héldust óbreyttir.  Stefnandi vísar einnig til viðauka við lánssamninginn, sem dagsettur er 17. ágúst 2010, þar sem lánveitandi og stefndi hafi orðið ásáttir um breytingar á láns­samn­ingnum. Nánar til­tekið hafi verið gerð breyting á lánstíma samkvæmt gr. 2.1 með þeim hætti að eftir­stöðvar lánsins skyldi endurgreiða að fullu með átján jöfnum af­borg­un­um á sex mán­aða fresti. Næsti gjalddagi afborgana og vaxta skyldi vera 1. janúar 2011 og vextir skyldu reiknast frá 17. maí 2010. Að öðru leyti hafi verið lagt til grund­­vallar að láns­samningurinn skyldi haldast óbreyttur. Enn fremur vísar stefnandi til viðauka við lánssamninginn, dags. 11. ágúst 2011, þar sem lánveitandi og stefndi hafi aftur orðið ásáttir um breytingar á láns­samn­ingn­um. Nánar tiltekið hafi verið gerð breyting á lánstíma samkvæmt gr. 2.1 í láns­samn­ingnum með þeim hætti að eftirstöðvar lánsins skyldi greiða að fullu á næstu tíu árum með eitt hundrað og tuttugu jöfnum afborgunum á eins mánaðar fresti. Næsti gjald­dagi af­borgana skyldi vera 1. ágúst 2011 og þá skyldu vextir reiknast frá 1. júlí sama ár. Að öðru leyti hafi verið lagt til grundvallar að lánssamningurinn héldist óbreyttur. Þessu til viðbótar vísar stefnandi til viðauka við lánssamninginn, dags. 20. júní 2012, þar sem lánveitandi og stefndi hafi enn orðið ásáttir um breytingar á láns­­­­­samningnum. Lánstíma samkvæmt gr. 2.1 lánssamningsins hafi verið breytt þannig að eftirstöðvar lánsins skyldi endurgreiða að fullu með eitt hundrað og þremur jöfn­­­­­­um af­borgunum á eins mánaðar fresti. Næsti gjalddagi afborgana skyldi vera 1. jan­úar 2013 en vexti hafi þó borið að greiða á eins mánaðar fresti út lánstímann og næst 1. júlí 2012. Þá var bætt við nýrri grein, 3.6, þar sem kveðið var á um að lánið skyldi bundið vísi­tölu neysluverðs til verðtryggingar með grunnvísitölu í júnímán­uði 2012, 398,2 stig. Höfuðstóll skuldarinnar skyldi breytast í hlutfalli við breyt­ingar á vísi­­­tölunni frá grunn­vísitölunni til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfali við breyt­ingar á vísi­­tölunni á milli gjalddaga. Skyldi höfuðstóll lánsins reiknaður út á hverjum gjald­­daga áður en afborganir og vextir yrðu reiknaðir út. Afborganir skyldu reiknast út þannig að á hverjum gjalddaga skyldi vísitöluálagi bætt við höfuðstól skuldarinnar og síðan deilt í út­komuna með þeim fjölda gjalddaga sem þá yrðu eftir, að meðtöldum þeim gjalddaga sem yrði í það sinn. Vextir samkvæmt gr. 3.1 í lánssamningnum skyldu breytast þannig að lántaki lofaði að greiða bankanum vexti, sem skyldu vera kjör­­­­­­­­­vextir bankans samkvæmt kjörvaxtaflokki 2 eins og þeir skyldu ákveðnir á hverjum tíma af bankanum, eða samtals 6,15% ársvextir við undirritun viðaukans. Þá var miðað við að vextir skyldu reiknast frá 1. júní 2012. Að öðru leyti hafi verið lagt til grundvallar að láns­samningurinn skyldi haldast óbreyttur. Stefnandi vísar til 10. gr. lánssamningsins varðandi uppsagnarákvæði. Þar sé kveðið á um heimild lánveitanda til gjaldfellingar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Nánar til­tekið sé þar um að ræða heimild til að fella lán samkvæmt samningnum í gjald­­­­­­­­­­daga ein­­hliða, fyrirvaralaust og án viðvörunar eða sérstakrar uppsagnar. Heimildin sé meðal annars til staðar hafi vanskil á greiðslu afborgana eða vöxtum varað í fjórtán daga eða lengur, sbr. a-lið gr. 10.1 í lánssamningnum. Þá sé í grein 10.2 sama samnings, þegar þannig stendur á, jafnframt kveðið á um að lánveitanda sé heimilt að umreikna skuld­­ina í ís­lenskar krónur á gjalddaga eða uppsagnardegi miðað við skráð sölugengi bank­ans á þeim mynt­­­­um sem hver lánshluti samanstandi af og krefja stefnda um greiðslu í sam­ræmi við ákvæði lánssamningsins. Þessu til viðbótar sé í grein 10.3 í láns­samn­­ingnum kveðið á um það að komi til gjaldfellingar sam­kvæmt gr. 10.1 í sama samningi þá beri allar skuldir í öllum tilvikum dráttarvexti í sam­­­ræmi við gr. 6.1 í samn­ingnum af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð. Varðandi stöðu vanskila tekur stefnandi fram að elsti ógreiddi gjalddagi lánsins sé 1. mars 2013. Stefnandi tekur fram að stefnda hafi verið sent innheimtubréf 25. sept­ember 2013 þar sem fram hafi komið að höfuðstóll lánsins hafi verið gjaldfelldur. Þann dag hafi staða lánsins verið 6.300.599 krónur, sem sé stefnufjárhæð málsins, auk dráttar­­­vaxta og kostnaðar. Nánar tiltekið séu eftirstöðvar höfuðstóls 6.189.204 krónur, samn­ingsvextir til 1. mars 2013 séu samtals 31.720 krónur. Verðbætur á höfuðstól séu 79.269 krónur og verðbætur á vexti séu 406 krónur. Stefnandi gerir kröfu um dráttar­vexti af stefnufjárhæð frá 11. janúar 2014, eða fjórum árum fyrir þingfestingardag máls­­­­­ins. Stefnandi tekur fram að skuldin hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir inn­heimtu­­til­raunir. Stefnandi tekur fram að um samninginn gildi íslensk lög. Þá sé í gr. 15.1 í samn­ingnum kveðið á um að mál vegna ágreinings um réttindi og skyldur aðila skuli rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Um aðild að málinu vísar stefnandi til fyrrgreindrar ákvörðunar Fjár­­­­málaeftirlitsins frá 9. október 2008. Um lagarök að öðru leyti vísar stefn­­­andi til meginreglna kröfu- og samningsréttar um greiðsluskyldu fjárskuld­bind­inga og efndaskyldu loforða. Kröfur um dráttarvexti, þar með talið vaxtavexti, styður stefn­andi við lög nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Þá er krafa um virðis­auka­skatt af málflutnings­þóknun reist á lögum númer 50/1988 en stefnandi tekur fram að hann sé ekki virðis­auka­­­skattsskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Þessu til viðbótar vísar stefnandi til samningsskilmála og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 að því er varðar varnarþing.   Helstu málsástæður og lagarök stefnda: Stefndi reisir varnir sínar á því að víkja eigi síðari lánssamningnum til hliðar á grundvelli sanngirnissjónarmiða samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, vegna síð­ari atvika sem komu til eftir að hann gekkst undir sjálfskuldarábyrgð út af fyrri láns­­samn­ingnum. Eigi það bæði við um aðal- og varakröfu hans. Í því sambandi vísar stefndi til þess að stefnandi hafi þann 28. júlí 2008 upp­­­haflega lýst kröfu að fjárhæð 93.210.868 krónur í þrotabú Eignar­halds­­félags­ins City S.A. ehf., áður Hydra ehf., vegna fyrri láns­samn­ings­ins. Stefnandi hafi hins vegar síðar breytt kröfu­lýsingunni og lækkað kröfuna í þrot­a­búið í 21.339.723 krónur. Stefndi byggir á því að með því að stefnandi hafi ekki lýst ýtrustu kröf­um í þrota­búið þá hafi hann ekki gætt hags­muna sinna til fulls og með því fallið frá rétti til greiðslu af óveð­­­­settum eignum úr búinu. Hafi það verið gert á kostn­að stefnda og annarra sjálf­skuldar­­­ábyrgðar­aðila enda hafi stefnandi gengið að ábyrgðar­­aðilum lánsins áður en ljóst var hversu mikið fékkst greitt upp í lánið frá upp­haflegum lán­taka. Um þetta fari eftir 103. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­­þrotaskipti o.fl. Þessu til frekari rökstuðnings vísar stefndi til þess að stefn­anda hefði samkvæmt fyrr­greindri laga­grein verið rétt að lýsa heildar­kröfu í þrotabúið en þar sem hann hafi ekki gert það þá hafi hann ekki gætt að því að ganga að lögmæt­um réttindum sínum í búinu og tryggja sér greiðslur og þar með takmarka tjón sitt. Það hafi hann hins vegar ekki gert. Þá hafi ekkert sam­ráð verið haft við stefnda þegar krafan í þrotabúið var lækkuð. Telur stefndi að þessi háttsemi stefn­anda gangi gegn almennum sjónar­mið­­­um um tjóns­­­takmörkun og að hún samrýmist ekki skýrum ákvæðum 103. gr. laga nr. 21/1991. Þá verði þessi sjónarmið að teljast sér­staklega mikils­­­­verð í ljósi þess sem aðilar bein­línis sömdu um með 9. gr. lánssamningsins, um tak­­­­markanir Hydra ehf. á veð­­­setningu á eignum félagsins. Með lækkun á kröf­unni í þrot­a­búið, eftir að stefndi gerði upp ábyrgð sína með síð­­ari láns­samn­ingnum, hafi stefn­andi fengið um­tals­vert lægri fjárhæð úthlutað úr þrota­­­búinu sem nam um þrettán milljón­um króna. Hefði stefn­­andi hins vegar haldið sig við upp­haflega kröfu­­lýsingu hefði hann bæði tak­mark­að eigið tjón og tjón þeirra ábyrgðar­aðila sem stóðu að baki láns­samn­ingnum. Með þessari háttsemi hafi stefn­­andi valdið stefnda tjóni samhliða því að hann féll frá rétti sínum til greiðslna úr þrota­bú­inu. Jafnframt taka varn­­­­­­­irnar til þess að víkja eigi síðari láns­­samningnum til hliðar og ógilda hann á grund­­­­­­velli 36. gr. laga nr. 7/1936 vegna fleiri nánar tilgreindra atvika, um­fram það sem áður greinir varðandi kröfu­­­lýsingu í þrotabúið. Í því sam­bandi vísar stefndi til þess að aðrar lán­­­veitingar hafi átt sér stað frá Landsbanka Íslands hf. til Hydra ehf. á árinu 2006 gegn veði í eignum félagsins og án þess að þeim væri ætlað að tryggja réttindi sam­­­kvæmt fyrri lánssamningnum. Með því hafi verið brotið gegn 9. gr. lánssamningsins sem kvað á um bann á veðsetningu eigna félagsins. Bannið hafi verið í þágu stefnda og annarra ábyrgðarmanna. For­sendur hafi þannig brostið hjá stefnda fyrir því að gangast undir ábyrgðarskuld­bind­ing­una. Enn fremur og ekki síður, til stuðnings því að 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi við í málinu, byggir stefndi á því að allar lögvarðar kröfur stefnda á grundvelli fyrra lánsins séu uppgreiddar enda hafi allir þeir sem greiddu upp í ábyrgðir sínar sam­kvæmt kröf­um stefnanda greitt miklu hærri fjárhæð en sem nam hlutfalli af heildar­­­skuldinni sem þeir ábyrgðust í upphafi. Fyrra lánið hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu sem hafi farið í bága við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Með gengis­falli krón­unnar hafi höfuð­stóll skuldarinnar marg­­faldast og einbeittur vilji stefn­anda um að færa inn­heimt­una ekki í krónur hafi verið til þess fallinn að hagnast á stefnda og öðrum ábyrgðar­mönn­um og hann notið verulegrar ofgreiðslu. Stefnandi hafi miðað við erlenda mynt varðandi fyrri lánssamninginn og einnig varðandi þann síðari sem stefndi telur að hann hafi ranglega gengist undir á ár­inu 2008. Stefn­andi hafi ekki endur­reiknað fyrri láns­samn­inginn til samræmis við dóm Hæsta­réttar frá 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 sem honum hafi borið að gera þar sem láns­­samningurinn hafi verið sams konar og lá til grund­­vallar í fyrrgreindum dómi. Stefn­­andi hafi með þessu einnig farið gegn eigin opin­berri yfir­­­lýsingu um endur­útreikn­­­ing slíkra lána. Þá hafi stefnandi ekki tekið tillit til út­hlut­unar úr þrotabúinu sem kom til eftir að stefndi og aðrir gerðu upp ábyrgðir sínar. Hið sama eigi við um greiðslur sem fengust frá öðrum ábyrgðar­mönnum. Með þessu fari stef­n­­­andi fram gagn­­­­vart stefnda með ólög­mæt­um hætti og andstætt 19. gr. laga nr. 161/2002 og 3. mgr. 36. gr. c í lögum nr. 7/1936, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1995. Telur stefndi að stefn­andi reyni að auðgast á hans kostn­að með því að krefja hann um greiðslu á ábyrgð á láni sem þegar sé upp­greitt. Þá kunni háttsemi stefnanda og starfs­manna hans að fara á svig við 248. gr. almennra hegn­ingarlaga nr. 19/1940. Varnir stefnda taka einnig til þess að ábyrgð stefnda samkvæmt fyrri láns­samn­ingnum hafi verið ógild frá upphafi þar sem hún hafi tengst hlutafjáraukningu hjá Hydra ehf. án þess að greiðslur kæmu á móti frá stefnda o.fl. Að því virtu hafi verið um að ræða brot gegn 11. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þessu öllu til við­bótar vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar, auk þess sem hann vísar til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 varðandi málskostnað. Varðandi vara­kröfu þá tekur stefndi sérstaklega fram að líta skuli til þess að fyrri lánssamningi eigi að víkja til hliðar að því leyti sem fjárhæð skuldar sé umfram hlut stefnda í ábyrgð á upphaf­legum höfuðstól hins gengistryggða samnings og taka eigi tillit til allra inn­borgana á skuldina, þar á meðal greiðslu vegna úthlutunar úr fyrrgreindu þrotabúi. Stefndi tekur fram að stefnandi hafi með aðilaskiptum af kröfunni, sbr. ákvörðun Fjár­­­mála­eftirlits­ins frá 9. október 2008, ekki öðlast rýmri rétt gagnvart stefnda en forveri hans hafði. Stefndi haldi því öllum mótbárum sínum þrátt fyrir aðilaskiptin, sbr. dóm Hæsta­­réttar í máli nr. 348/2013. Með hliðsjón af úrlausn málsins þykja ekki efni til að greina nánar frá máls­ástæðum og lagarökum stefnda, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 10. gr. laga nr. 78/2015. IV. Niðurstöður: Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort stefnda beri greiðsluskylda eftirstöðva láns samkvæmt síð­ari láns­samningnum, dagsettum 25. júní 2008. Óumdeilt er að stefndi undirritaði umræddan lánssamning sem lántaki. Sam­­kvæmt láns­­­­samningnum var fjárhæð lánsins þar skýrlega tilgreind í ster­lings­­­pundum og var því um lögmætt lán í erlendri mynt að ræða. Með viðauka 17. maí 2010 var láninu breytt yfir í íslenskar krónur og höfuðstóll þess lækkaður um 25%. Þá voru síðar gerðir þrír við­­­­­­­aukar, dag­settir 17. ágúst 2010, 11. ágúst 2011 og 20. júní 2012, varð­andi breytingu á lánstíma o.fl. Í málinu liggur fyrir að tilefni þess að síðari lánssamningurinn var gerður var upp­gjör á sjálfskuldarábyrgð stefnda vegna fyrri láns­samn­­­­ings­ins milli Lands­­banka Íslands hf. og Hydra ehf. en stefndi var í hlutfallslegri ábyrgð sem nam 44.911 sterlings­pundum vegna þess samnings. Með viðauka 1 með síðari lánssamningnum, dag­settum 25. júní 2008, óskaði stefndi eftir ráðstöfun lánsins inn á fyrra lánið 6. ágúst sama ár. Fyrir liggur að aðilaskipti urðu á kröfu stefnanda á hendur stefnda, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Stefndi heldur öllum mótbárum gegn kröfu stefnanda þrátt fyrir aðilaskiptin, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 21. nóvember 2013 í máli nr. 348/2013. Annað hliðstætt mál út af öðrum sjálfsskuldar­ábyrgðaraðila, sem var í hlutfalls­legri ábyrgð út af sama láni til Hydra ehf., hefur áður verið til um­fjöllunar fyrir dóm­­stól­­um, sbr. dóm Hæstaréttar frá 11. maí 2017 í máli nr. 587/2016. Mála­­tilbún­aður aðila í því máli er að mörgu leyti hliðstæður mála­tilbúnaði aðila í þessu máli enda samkynja sakarefni og atvik máls keimlík. Að því virtu hefur dóm­ur­inn leiðbeiningar­gildi fyrir úrlausn þessa máls. Í máli þessu háttar svo til að stefnandi lýsti fyrst kröfu í fyrrgreint þrotabú, aðal­skuld­ara samkvæmt fyrri lánssamningnum, með kröfulýsingu 28. júlí 2008, samtals að fjárhæð 93.210.868 krónur, sem send var innan kröfulýsingarfrests. Í niður­lagi kröfu­lýs­­ingar­innar var tekið fram að hún myndi taka breytingum vegna skuld­breytinga sjálf­­­­­­­­skuldar­ábyrgðaraðila. Þá var kröfulýsingin lækkuð 15. september sama ár, að liðn­­­­­­­­­­­­um kröfu­lýsingar­fresti, niður í 21.339.723 krónur, án samráðs við stefnda og var ástæðan fyrir lækkuninni sú að flestir ábyrgðaraðilar höfðu gert upp ábyrgðir sínar, þar með talið stefndi með síð­ara láninu sem hér er til umfjöllunar. Með þessu fékk stefn­­­­­andi lægri úthlutun úr þrota­­­­­búinu sem nam 12.849.727 krónum. Þá liggur fyrir að stefndi lýsti ekki kröfu í um­rætt þrotabú. Hið sama á við um aðra ábyrgðarmenn sem gerðu upp ábyrgðir sínar. Stefndi reisir dómkröfur sínar á því að með þessu hafi stefn­­andi ekki lýst ýtrustu kröfum og þar með ekki gætt hagsmuna sinna til fulls og fallið frá rétti til greiðslu af óveðsettum eignum úr þrotabúinu. Þá hafi þetta verið gert án sam­ráðs við stefnda og leitt til tjóns fyrir hann og aðra sjálfskuldarábyrgðaraðila enda hafi stefnandi gengið að ábyrgðar­aðilunum áður en ljóst var hversu mikið fengist upp í lánið frá þrota­­­búinu. Með þessu hafi verið farið gegn 103. gr. laga nr. 21/1991. Hátt­semi stefn­anda hafi að þessu leyti þýðingu við mat á ábyrgð hans og hvort víkja eigi til hliðar og ógilda fjárskuldbindingu hans sam­­kvæmt síðari lánssamningnum á grund­velli 36. gr. laga nr. 7/1936.  Stefnandi mótmælir framangreindum vörnum stefnda og tekur fram að 103. gr. laga nr. 21/1991 taki aðeins til óskiptrar ábyrgðar en ekki til hlutfallslegrar ábyrgðar. Stefn­­­andi bendir einnig á að stefnda hefði verið unnt að beina kröfu að þrotabúinu jafn­vel þótt kröfulýsingarfrestur væri liðinn. Það hafi hann hins vegar ekki gert og stefn­­andi geti ekki borið ábyrgð á því og hann ekki haft leiðbeiningarskyldu í því sam­bandi. Síðari lánssamningurinn hafi verið gerður þegar um mánuður var liðinn frá því þrotabúið var tekið til skipta með úrskurði 28. maí 2008. Kröfu­lýsingar­frestur hafi verið til 18. ágúst 2008. Þegar stefnandi hafi fengið ­­fyrirmæli frá stefnda 25. júní sama ár um greiðslu inn á fyrra lánið þann 6. ágúst sama ár út af ábyrgðinni, hafi kröfu­lýsingar­frestur­inn ekki verið liðinn. Þetta hafi nítján aðrir ábyrgðar­aðilar gert með sama hætti og sumir tekið ný lán eins og stefndi en aðrir greitt með pen­ing­um á tíma­bili frá júní til september 2008. Enginn þeirra sem staðið hafi við ábyrgðir sínar hafi hins vegar lýst kröfum í þrotabúið. Þá hafi skipta­lok í búinu verið 20. sept­­­ember 2013 en fyrri út­hlutun úr því hafi verið í mars sama ár. Að þessu virtu hafi liðið um fimm ár frá greiðslu stefnda þar til byrjað var að úthluta úr búinu. Stefn­andi bendir á að hann hafi ekki verið eini kröfuhafi þrota­búsins og því sé ljóst að bank­inn hafi ekki getað staðið á því að fá úthlutað miðað við upp­haf­lega kröfulýsingu þar sem ábyrgðar­­­menn­irnir lýstu ekki kröfum í búið. Ef það hefði gerst þá hefði það bitnað á öðrum kröfu­höfum sem lýstu kröfum í búið. Þá komi hvergi fram í lögum að stefnanda, sem kröfu­hafa, hafi verið óheimilt að lækka kröfuna í þrotabúið en sú ráðstöfun hafi verið eðli­leg og sam­rýmst 104. gr. laga nr. 21/1991. Það liggur í eðli sjálfskuldarábyrgðar að ­ábyrgðarmaður tekur að sér skuld aðal­skuld­ara eins og hann hefði sjálfur stofnað hana. Að því virtu verður hann almennt sjálfur að gæta að því að hann bíði ekki tjón við sjálf­skuldar­­ábyrgð­­ina eins og hverju öðru er hann kann að ráðast í. Kröfu­hafi hefur almennt ekki skyldu til að gæta hags­muna sjálfskuldar­ábyrgðarmanns í þessu tilliti. Annað mál er það að samkvæmt megin­­­­­­­­­­­­­reglum kröfuréttar getur kröfuhafi ekki með því að gæta ekki að rétti sínum aukið skuld­bind­­­ingu ábyrgðar­manns. Í máli þessu háttar svo til að ábyrgð stefnda vegna skuldar þrotabúsins var hlutfallsleg en ekki óskipt. Ákvæði 103. gr. laga nr. 21/1991 taka samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til óskiptrar ábyrgðar. Sambærilegum ákvæðum er ekki til að dreifa í þeim lögum sem taka til hlutfallslegrar ábyrgðar í þessu tilliti. Markmið og tilgangur ákvæðanna er að standa vörð um hagsmuni kröfu­hafa og ábyrgðarmanna. Við skýringu á 103. gr. laga nr. 21/1991 verður að líta til þess til­gangs lagagreinarinnar, að tryggja að úthlutun vegna tiltekinnar kröfu fari ekki um­fram þá hlutdeild sem í hennar hlut skal koma miðað við heildarfjárhæð kröfunnar en þessi verkan greinarinnar tryggir rétt annarra kröfuhafa. Þá ber einnig að leggja til grund­­vallar þá reglu lagagreinarinnar að kröfuhafa er rétt að lýsa heildarfjárhæð kröfu í þrota­bú skuldara, þótt hún hafi að einhverju leyti fengist greidd frá ábyrgðar­mönnum, eða líkur standi til þess að greiðsla muni berast frá þeim. Síðar, eða við lok skipta, skal svo koma til lokauppgjörs ef hallar á einhvern í þeim lögskiptum, sbr. 104. gr. sömu laga. Ekki verður séð að skilsmunur óskiptrar og hlutfallslegrar sjálfskuldar­ábyrgðar hafi þýð­­­ingu í þessu sambandi þegar svo háttar til sem í þessu máli að þrota­maður er einn skuldari og ber ábyrgð á skuldinni allri. Að þessu virtu þykir rétt að beita ákvæðum 103. gr. laga nr. 21/1991 um hlutfallslega sjálfskuldarábyrgð í framan­greindu tilliti eins og um væri að ræða óskipta sjálfskuldarábyrgð. Fyrir liggur að stefn­­­­­a­ndi lýsti upp­haflega kröfu í þrotabúið 28. júlí 2008 en lækkaði kröfu­lýsingu sína í það 15. september sama ár, eftir að hann fékk greitt frá stefnda, sem leiddi til þess að hann fékk lægri úthlutun við skiptalok sem nam 12.849.727 krón­um. Fjár­hæðin er óumdeild milli aðila og er hún hærri en stefnu­fjár­hæð í þessu máli. Með þessu gerði stefn­­andi ekki ýtrustu kröfur á hendur þrota­­búinu til að tak­marka tjón sitt vegna van­efnda þrota­búsins sem aðalskuldara á greiðslu skuld­­­­­ar­­innar. Lækkunin á kröfu­­­­lýsing­unni var and­stæð því sem til var ætlast sam­kvæmt 103. gr. laga nr. 21/1991 og hún var gerð án sam­­­­ráðs við stefnda. Stefnandi gætti því ekki að rétti sínum í sam­ræmi við lög við skipti á þrotabúinu og til tjóns fyrir stefnda. Að virtum þessum atvik­um verður að telja að stefnandi hafi í raun ekki sýnt fram á að hann eigi lögvarða kröfu á hendur stefnda og verður því fallist á með stefnda að rétt sé að víkja síðari láns­­samn­­ingnum til hliðar á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Þessu til viðbótar liggur fyrir að undir rekstri máls þessa, eftir að varnir stefnda komu fram um að krafan á hendur honum væri upp­greidd, voru lögð fram gögn af hálfu stefnanda, útreikningar og fylgiskjöl, þar sem leitast var við að sýna fram á hið gagn­­­­stæða. Stefndi gerði athugasemdir við þau gögn og lagði meðal annars fram þrjár kvittanir, dagsettar 30. júní 2008, vegna innborgana sem hann taldi að ekki hefði verið tekið tillit til, sam­tals að fjárhæð 14.093.472 krónur, vegna fyrra lánsins. Sú fjárhæð er hærri en stefnu­fjárhæð í máli þessu. Þegar að því virtu væri ljóst að lánið, sem stefndi var í ábyrgð fyrir, væri upp­greitt. Stefn­­andi brást við þessu með því að leggja fram þrjár bak­færslukvittanir vegna sama láns með sömu fjárhæð, auk þess sem hann lagði fram yfir­lýsingu frá innheimtu­stýr­ingu stefnanda, dagsetta 21. september 2018, ásamt tveimur yfirlitum auðkenndum nr. I og II með fylgiskjölum. Í yfir­­lýs­ing­unni greinir meðal annars að ekki hafi varð­veist í kerfum stefn­­anda skýr­ingar á bakfærslunum að öðru leyti en því að greiðslur sem fóru inn á lánið 30. júní 2008 hafi ekki átt að fara inn á það. Til að bak­færa greiðslurnar hafi þurft að bak­færa allar aðrar greiðslur frá þeim tíma til 1. sept­ember 2008 og setja þær svo aftur inn á lánið. Stefndi byggði á því við aðal­meðferð að stefnandi hefði með hliðsjón af framan­greindum gögnum ekki sýnt fram á það að krafan á hendur honum væri lögvarin og ekki þegar ­greidd. Þá tók stefn­­andi efnis­lega afstöðu til varna stefnda á þessum grund­velli og vís­aði til fyrr­greindra gagna og fylgiskjala og gerði nánar grein fyrir þeim. Að þessu virtu komast fyrr­­greindar máls­­ástæður að í málinu. Vitnið Einar Pétursson, starfsmaður stefn­anda, kom ekki að gerð fyrrgreindrar yfir­­lýsingar innheimtustýringar og gat ekki borið um hvaða forsendur lágu henni til grundvallar. Þá leiddi stefnandi ekki önnur vitni til að skýra bak­færslurnar eða efni yfirlýsingar­innar og gögn sem henni fylgdu. Bakfærslu­kvitt­anirnar eru dagsettar 16. og 18. maí 2018, sem er eftir að mál þetta var höfðað og stuttu áður en skjölin voru lögð fram. Skjölin bera því ekki með sér að vera sam­­tíma­gögn um bak­færslur sem hefði verið eðlilegt í almennu tilliti í máli af þessum toga. Bak­færslukvittanirnar eru gefnar út af stefnanda en ekki forvera hans, Landsbanka Íslands hf. Nöfn starfs­manna koma ekki fram á bak­færslukvitt­unum gagn­stætt því sem almennt á við um greiðslu­kvitt­anir sem liggja fyrir í málinu. Þá er ósamræmi í greiðslu­­­­auðkennum samkvæmt yfirliti nr. I um inn­borganir á lánið og yfirliti nr. II um bak­­færslur, sbr. fyrrgreinda yfir­lýsingu inn­heimtu­stýringar. Að mati dóms­­­ins eru fyrr­greind sóknar­gögn svo ófull­komin að ekki fæst sam­rýmst því sem ætlast má til um gæði og áreiðanleika gagna sem stafa frá fjár­mála­­stofnun til fram­­lagn­ingar í þágu með­­­­­ferðar máls fyrir dómi og ætlað er að sýna fram á lögvarða kröfu á hendur skuld­ara. Af þessu leiðir að stefnandi hefur ekki fært fram viðhlítandi sönnur fyrir því að krafa hans á hendur stefnda sé ekki þegar greidd. Að öllu framangreindu virtu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.   Með vísan til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem ræðst af málskostnaðaryfirliti stefnda, 1.013.173 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.  Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Ásgeir Jónsson lögmaður. Af hálfu stefnda flutti málið Björn Þorri Viktorsson lögmaður. Daði Kristjánsson, héraðsdómari og dómsformaður, kveður upp dóm þennan ásamt með­dómsmönn­unum Ástráði Haraldssyni héraðsdómara og Sigurbirni Einars­syni við­skipta­fræðingi.   D Ó M S O R Ð:        Stefndi, Einar Dagbjartsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Landsbankans hf.        Stefnandi greiði stefnda 1.013.173 krónur í málskostnað.  
Mál nr. 20/2020
Lánssamningur Sjálfskuldarábyrgð Gengistrygging Hæfi dómara
L hf. höfðaði mál gegn S og krafðist greiðslu skuldar samkvæmt lánssamningi í breskum pundum. Lánið hafði S tekið vegna uppgjörs á sjálfskuldarábyrgð sem hann hafði gengist undir ásamt öðrum fyrir greiðslu á fjölmyntaláni milli L hf. og H ehf. (síðar E ehf.) Vegna vanskila E ehf. hafði L hf. beint kröfum sínum að sjálfskuldarábyrgðarmönnum til uppgjörs á samningnum. L hf. lýsti í framhaldinu kröfu í þrotabú E ehf. en lækkaði hana síðar vegna greiðslna frá ábyrgðarmönnum sem ráðstafað hafði verið inn á lánið. Ágreiningur málsins laut í fyrsta lagi að ætluðu vanhæfi tveggja dómara Landsréttar, í öðru lagi hvort lánssamningurinn milli L hf. og H ehf. sem S gekkst í ábyrgð fyrir hefði verið lögmætt lán í erlendri mynt, í þriðja lagi hvort það lán hefði verið uppgreitt og að lokum var ágreiningur um túlkun á 103. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í dómi Hæstaréttar kom fram að enda þótt landsréttardómarinn A hefði í lögmannsstörfum sínum gætt réttar L hf. í málum er vörðuðu svipaða lánssamninga og reyndi á í málinu hefði ekkert komið fram um að dómarinn hefði á nokkru stigi komið að lögfræðilegri ráðgjöf eða hagsmunagæslu fyrir L hf. í tengslum við sakarefni þessa máls. Var hann því ekki talinn vanæfur á grundvelli b-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá var meðal annars með vísan til forsendna dóms Hæstaréttar 26. mars 2019 í máli nr. 14/2019 ekki fallist á að dómarinn A hefði á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 verið vanhæfur til að fara með málið. Að því er varðaði landsréttardómarann H kom fram í dómi réttarins að enda þótt hún hefði sem héraðsdómari dæmt í öðrum málum sem hefðu varðað sama lánssamning og þetta mál laut að þá teldist hún ekki hafa annast dómstörf í þessu máli á lægra dómstigi og var hún því ekki talin vanhæf til meðferðar málsins fyrir Landsrétti á grunni g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Þá taldi Hæstiréttur með vísan til dóms réttarins 11. maí 2017 í máli nr. 587/2016 og annarra atriða varðandi lánssamninginn milli L hf. og H ehf. að samningurinn hefði ekki verið lán í íslenskum krónum með ólögmætri bindingu við gengi erlends gjaldmiðils. Ekki var fallist á að sú skuld hefði verið uppgreidd og að greiðslur S samkvæmt lánssamningi hans og L hf. myndu leiða til ólögmætrar auðgunar L hf. Að lokum vísaði rétturinn til þess að með yfirlýsingu hefði S lýst því yfir að hann hefði fengið hlutabréf í H ehf. í skiptum fyrir ábyrgð sína og ætti enga aðra kröfu á hendur þrotabúi E ehf. Var tekið fram að óháð því hvort réttur S til greiðslu á grundvelli 103. gr. og 104. gr. laga nr. 21/1991 hefði verið fyrir hendi væri ljóst að með yfirlýsingunni hefði hann fallið frá kröfum um greiðslur úr þrotabúi E ehf. og gæti því ekki borið fyrir sig ætlað tjón af völdum L hf. vegna þess að L hf. hefði lækkað kröfulýsingu sína í þrotabúð. Var krafa L hf. því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. maí 2020. Hann krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar á öllum dómstigum. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en dráttarvexti sem hann krefst af dæmdri fjárhæð frá 2. febrúar 2015. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Ágreiningur málsins lýtur í fyrsta lagi að ætluðu vanhæfi tveggja þeirra dómara Landsréttar sem lögðu dóm á málið og ætluðum annmörkum á samningu dómsins. Þá er í annan stað deilt um það hvort lánssamningur 27. júlí 2005 milli Landsbanka Íslands hf. og Hydra ehf., sem áfrýjandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir ásamt 23 öðrum einstaklingum og einu einkahlutafélagi, hafi verið lögmætt lán í erlendri mynt. Í þriðja lagi er um það deilt hvort lánið er uppgreitt. Að síðustu er ágreiningur um túlkun á 103. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og réttaráhrif ákvæðisins. Í málinu krefur stefndi áfrýjanda um greiðslu á 7.352.406 króna eftirstöðvum láns sem áfrýjandi tók til uppgjörs á fyrrgreindri sjálfskuldarábyrgð sinni. Með dómi Landsréttar var áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda umkrafða fjárhæð með dráttarvöxtum. Í dóminum var vísað til þess að fyrrgreindur lánssamningur 27. júlí 2005 hefði verið lögmætt lán í erlendum gjaldmiðli, en auk þess lægi fyrir að áfrýjandi hefði gengist í ábyrgð fyrir tiltekinni fjárhæð í sterlingspundum og verið skuldbundinn gagnvart stefnda samkvæmt henni. Þá taldi Landsréttur að 103. gr. laga nr. 21/1991 tæki samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til óskiptrar ábyrgðar og yrði því ekki beitt um skipta ábyrgð eins og hér hagaði til. Með vísan til þess taldi Landsréttur engin efni til að fallast á að víkja bæri samningi áfrýjanda og stefnda til hliðar á grundvelli ógildingarreglna laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Enn fremur sagði í dómi Landsréttar að gögn málsins bæru með sér að fyrir hendi væri skuld samkvæmt lánssamningnum sem ekki hefði verið greidd og því væri áfrýjandi greiðsluskyldur. Í beiðni um áfrýjunarleyfi vísaði áfrýjandi til þess að hann teldi dóm Landsréttar rangan, bæði að formi til og efni. Um formið vísaði hann til vanhæfis tveggja dómara Landsréttar á grundvelli b- og g-liða 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í tilviki annars þeirra en á grundvelli g-liðar sömu greinar í tilviki hins. Þá uppfyllti dómurinn ekki þær kröfur sem gera yrði til rökstuðnings í dómum samkvæmt f-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 3. og 4. mgr. 164. gr. sömu laga. Enn fremur taldi áfrýjandi að ekki hefði farið fram heildarmat á öllum atvikum í þeim tilgangi að skera úr um hvort lánssamningurinn 27. júlí 2005 hefði haft að geyma ólögmætt gengistryggingarákvæði. Þá hefði málið einnig verulegt almennt gildi um túlkun á 103. gr. laga nr. 21/1991. Var fallist á beiðni um áfrýjunarleyfi á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðnin var reist á. II 1 Áfrýjandi gekkst ásamt 23 einstaklingum og einu einkahlutafélagi í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu á ,,fjölmyntaláni“ til fimm ára samkvæmt lánssamningi 27. júlí 2005 milli Landsbanka Íslands hf. og Hydra ehf. að ,,jafnvirði kr. 80.000.000,- krónur áttatíumilljónir 00/100, í neðanskráðum myntum og hlutföllum: GBP 100%“. Lánsfjárhæðin, að frádregnum lántökukostnaði, 79.190.000 krónur, var greidd inn á íslenskan bankareikning Hydra ehf. 2. ágúst 2005 í samræmi við viðauka samningsins um útborgun 27. júlí sama ár. Samkvæmt grein 3.1 í lánssamningnum lofaði lántaki að greiða bankanum vexti sem skyldu vera breytilegir vextir jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2,25% vaxtaálags. Í 10. grein samningsins var fjallað um tryggingar og sagði þar: ,,Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra lánshluta samnings þessa takast eftirfarandi aðilar á hendur sjálfskuldarábyrgð pro rata fyrir nánar tilgreindri upphæð á fullum efndum allra skuldbindinga skv. samningi þessum ... Sigmar Júlíus Eðvarðsson ... GBP 44.671“. Sjálfskuldarábyrgðin tók til ,,greiðslu höfuðstóls allra lánshluta, auk vaxta, dráttarvaxta og vaxtavaxta, svo og alls kostnaðar, sem af vanskilum kann að leiða. Ábyrgðin gildir jafnt þótt greiðslufrestur verði veittur á skuldbindingum skv. samningi þessum einu sinni eða oftar, uns skuldin er að fullu greidd.“ Fjárhæð ábyrgðarskuldbindingar áfrýjanda og hinna 24 ábyrgðaraðilanna ákvarðaðist af þeirri hlutafjáraukningu sem þeir voru skráðir fyrir í Hydra ehf. á þessum tíma. Lánið bar að greiða að fullu með tuttugu jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti. Fyrsti gjalddagi afborgana skyldi vera 10. september 2005. Hydra ehf. greiddi þrjár fyrstu afborganir lánsins en eftir það fór það í vanskil. Gerðir voru tveir viðaukar við lánssamninginn þar sem endursamið var um greiðsluskilmála hans, hinn fyrri 1. nóvember 2006 og hinn síðari 27. nóvember 2007. Samkvæmt fyrri viðaukanum voru eftirstöðvar lánsins 12.695.404 krónur og 528.680,94 sterlingspund miðað við 11. september 2006. Í viðaukanum kom fram að eftirleiðis skyldi sú grein samningsins sem fjallaði um lánstíma og endurgreiðslur vera á þann hátt að Hydra ehf., sem þá hafði fengið nafnið Eignarhaldsfélagið City Star Airlines ehf., bæri að greiða 12.695.404 krónur og 89.184 sterlingspund 25. mars 2007 sem ráðstafa ætti til greiðslu áfallinna vaxta og lækkunar höfuðstóls lánsins. Þegar sú greiðsla hefði verið innt af hendi myndaðist nýr höfuðstóll lánsins í sterlingspundum sem bæri að endurgreiða að fullu með 13 jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti, fyrst 25. júní 2007. Jafnframt þessu var þeirri grein samningsins sem fjallaði um vaxtakjör breytt. Í framhaldinu greiddi Eignarhaldsfélagið City Star Airlines ehf. að hluta til inn á umsamda afborgun með gjalddaga í mars 2007, í fernu lagi, en síðan fór lánið aftur í vanskil. Voru greiðslurnar ýmist í íslenskum krónum eða sterlingspundum. Í síðari viðaukanum 27. nóvember 2007 kom fram að eftirstöðvar lánsins miðað við 25. október 2007 næmu 551.934,87 sterlingspundum og gjaldfallnar afborganir 11.722.422 krónum. Lántaki skyldi greiða áfallna vexti og dráttarvexti til 25. október 2007, nánar tiltekið 21.189,64 sterlingspund og 1.019.701 krónu. Gegn þeirri greiðslu átti Landsbanki Íslands hf. að endurfjármagna eftirstöðvar lánsins miðað við gengi sterlingspunds þann dag sem undirritaður viðauki bærist bankanum. Umsaminn lánstími var þrjú ár og lánið skyldi greiðast með tíu jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti og var fyrsti gjalddagi afborgana 25. mars 2008. Vexti skyldi greiða á þriggja mánaða fresti út lánstímann, fyrst 25. desember 2007. Lántaki greiddi fyrsta vaxtagjalddagann 28. sama mánaðar, vegna áfallinna vaxta frá 25. október 2007 til 27. desember sama ár, en það var síðasta greiðsla félagsins inn á lánið. Eftirstöðvar höfuðstóls eftir síðustu greiðslu voru 615.477,04 sterlingspund. 2 Vegna vanskila Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. á greiðslu afborgana samkvæmt lánssamningnum 27. júlí 2005 beindi Landsbanki Íslands hf. kröfum sínum að sjálfskuldarábyrgðarmönnum, þar á meðal áfrýjanda, til uppgjörs á samningnum. Í kjölfar þess gerði áfrýjandi lánssamning við bankann 27. apríl 2008 að fjárhæð 42.000 sterlingspund. Lánið var til þriggja ára og skyldi greiða með sex jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti og átti að greiða afborganir, vexti, dráttarvexti og aðrar greiðslur í íslenskum krónum. Skilyrði fyrir útborgun lánsins var að bankanum bærist beiðni um útborgun. Áfrýjandi óskaði eftir því að lánið yrði greitt út 31. júlí 2008 og var útborgaðri lánsfjárhæð, 41.874 sterlingspundum, ráðstafað til greiðslu inn á fyrrgreindan lánssamning 27. júlí 2005 í samræmi við fyrirmæli í viðauka 25. júlí 2008 við síðari lánssamninginn. Hinn 16. apríl 2009 var gerður viðauki við lánssamninginn. Samkvæmt honum greiddi áfrýjandi gjaldfallna ógreidda vexti á þeim degi að fjárhæð 1.757,06 sterlingspund og var tekið fram að eftirstöðvar lánsins miðað við 5. janúar 2009 væru 42.000 sterlingspund. Lánstímanum var breytt þannig að eftirstöðvar lánsins skyldu greiðast að fullu með sex jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti. Vextir skyldu reiknast frá 5. janúar 2009. Að öðru leyti skyldi lánssamningurinn haldast óbreyttur. Hinn 30. september 2009 greiddi áfrýjandi fyrstu afborgun lánsins í samræmi við skilmálabreytinguna og námu þá eftirstöðvar 35.000 sterlingspundum. Hinn 26. júlí 2010, 20. desember sama ár og 20. janúar 2011 greiddi áfrýjandi einungis hluta af áföllnum vöxtum, en ekkert var greitt inn á eftirstöðvar höfuðstóls lánsins. Samkvæmt stöðuyfirliti stefnda 2. febrúar 2015 var staða lánsins reiknuð yfir í íslenskar krónur. Þar kom fram að eftirstöðvar höfuðstóls væru 7.018.550 krónur og ógreiddir samningsvextir 333.856 krónur. Samtala eftirstöðva nam því 7.352.406 krónum miðað við tilgreint myntgengi 2. febrúar 2015 og er það stefnufjárhæð málsins.  Auk áfrýjanda gerðu 19 aðrir sjálfskuldarábyrgðarmenn upp sína ábyrgðarhluta á tímabilinu 19. júní til 4. september 2008 og voru þannig samtals 78.960.613 krónur greiddar inn á skuld samkvæmt lánssamningnum 27. júlí 2005. Bú Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. (áður Hydra ehf.) hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta 28. maí 2008 og námu þá vanskil vegna lánsins 93.204.643 krónum. Aðrir sjálfskuldarábyrgðarmenn munu ekki hafa gert upp sína ábyrgðarhluta. 3 Með kröfulýsingu 28. júlí 2008 lýsti Landsbanki Íslands hf. kröfu í bú Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. að fjárhæð 93.204.643 krónur vegna fyrrgreinds lánssamnings 27. júlí 2005. Með bréfi Landsbanka Íslands hf. til skiptastjóra þrotabúsins 15. september 2008 var tilkynnt að verið væri að vinna í því að fá sjálfskuldarábyrgðarmenn til þess að ,,kaupa sig út úr láninu“. Vinnu við það væri næstum lokið. Í samræmi við þetta sendi bankinn nýja kröfulýsingu en samkvæmt henni var krafa hans lækkuð í 21.333.498 krónur vegna greiðslna frá ábyrgðarmönnum sem ráðstafað hafði verið inn á lánið. Þá kröfu samþykkti skiptastjóri þrotabúsins með fyrirvara um endanlega fjárhæð kröfunnar vegna greiðslna ábyrgðarmanna. Eftir að dómur Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 gekk freistaði skiptastjóri þess að breyta afstöðu sinni til viðurkenningar kröfunnar með því að hafna henni eða lækka. Ágreiningi um viðurkenningu hennar var vísað til dómstóla og í dómi Hæstaréttar 1. mars 2013 í máli nr. 116/2013 var komist að þeirri niðurstöðu að krafan hefði verið endanlega samþykkt á skiptafundi 29. júní 2010 sem almenn krafa í þrotabúið að fjárhæð 21.339.723 krónur, enda hefðu engin mótmæli komið fram gegn afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar á kröfunni, sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991.  Áfrýjandi lýsti ekki kröfu í þrotabúið en á fyrrgreindum skiptafundi 29. júní 2010 var meðal annars fjallað um lýstar kröfur tveggja ábyrgðarmanna vegna ábyrgðarinnar. Skiptastjóri samþykkti kröfur þeirra með fyrirvara um endanlega fjárhæð ábyrgðarinnar, þar sem fyrir lá að stefndi hafði þá höfðað mál á hendur þeim tveimur til innheimtu kröfu samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu þeirra. Á fundinum var jafnframt lögð fram yfirlýsing annarra ábyrgðarmanna, þar á meðal áfrýjanda, þar sem sagði: ,,Við undirrituð, sem erum í ábyrgð á láni ... hjá Landsbanka Íslands sem Eignarhaldsfélagið City Star ... tók 27.07.2005, vottum með undirskrift okkar hér að neðan, að við fengum hlutabréf í skiptum fyrir ábyrgð okkar og eigum enga aðra kröfu á hendur þrotabúi Eignarhaldsfélagsins City Star. Þ.a.l. mótmælum við kröfu þeirri sem 2 aðrir ábyrgðarmenn á þessu láni ... hafa gert í þrotabúið.“ Hinn 15. mars 2013 úthlutaði skiptastjóri þrotabúsins til stefnda 6.373.959 krónum upp í kröfuna og 15. janúar 2014 var úthlutað 598.938 krónum upp í hana eða samtals 6.972.897 krónum. Í málinu er ekki tölulegur ágreiningur með aðilum um að hefði Landsbanki Íslands hf. haldið sig við upphaflega kröfulýsingu í þrotabúið að fjárhæð 93.204.643 krónur, og sú krafa verið samþykkt, hefði honum verið úthlutað 19.822.624 krónum upp í kröfuna. Með bréfi stefnda til áfrýjanda 29. nóvember 2011 var tilkynnt að lán áfrýjanda samkvæmt lánssamningnum 27. apríl 2008, sem hann tók til að gera upp ábyrgð á lánssamningnum 27. júlí 2005, félli ekki undir fordæmisgildi dóms Hæstaréttar í máli nr. 155/2011 og yrði ekki endurútreiknað. Í bréfi áfrýjanda til stefnda 12. desember 2011 kom meðal annars fram að eldri lánssamningurinn væri ólöglegt lán og það lán væri ástæða þess að hann tók lán sitt hjá bankanum. Taldi hann greinilegt af gögnum sem honum hefðu borist frá stefnda að ekki væri tekið tillit til uppruna síðara lánsins. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008, sem tekin var í kjölfar þess að það tók yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf., vék stjórn félagsins frá og setti yfir það skilanefnd, eignaðist stefndi kröfu þá sem um er deilt á hendur áfrýjanda. III 1 Áfrýjandi telur annmarka að formi til á dómi Landsréttar eiga að leiða til þess að dómurinn verði ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Í fyrsta lagi byggir hann á því að tveir þeirra dómara sem lögðu þar dóm á málið hafi verið vanhæfir. Annar þeirra, Aðalsteinn E. Jónasson, á grundvelli b- og g-liða 5. gr. laga nr. 91/1991 og hinn, Hervör Þorvaldsdóttir, á grundvelli g-liðar sömu greinar. Í annan stað byggir hann á því að dómurinn uppfylli ekki kröfur réttarfarslaga um rökstuðning dóma. Varðandi ætlað vanhæfi Aðalsteins bendir áfrýjandi á að hann hafi margsinnis áður sem starfandi lögmaður gætt réttar stefnda varðandi sama sakarefni og jafnframt veitt honum ólögskyldar leiðbeiningar um það sem ráðgjafi bankans um gengistryggingarmál á árunum 2011 til 2017. Hann hafi síðast flutt mál fyrir stefnda í apríl 2017 og verið skipaður dómari við Landsrétt tveimur mánuðum síðar. Í þessu ljósi hafi áfrýjandi réttmætar ástæður til að draga óhlutdrægni hans í efa. Þá bendir áfrýjandi á að hann hafi verið lögmaður stefnda í máli nr. 155/2011, sem skapað hafi fordæmi um ólögmæt gengislán, en áfrýjandi byggi málsgrundvöll sinn meðal annars á því máli. Einnig hafi hann verið lögmaður stefnda í máli nr. 602/2013 sem dæmt var í Hæstarétti 6. mars 2014 en vísað hafi verið til þess í hinum áfrýjaða dómi Landsréttar og byggt þar á því að dómurinn styðji það að lánssamningurinn sem um er deilt hafi verið lögmætt erlent lán. Auk þess hafi hann flutt fjölmörg önnur mál sem vörðuðu gengistryggingu lána stefnda. Samkvæmt þessu sé með öllu óviðunandi að dómarinn hafi setið í dómi Landsréttar. Áfrýjandi telur að dómur Hæstaréttar 26. mars 2019 í máli nr. 14/2019, sem stefndi átti einnig aðild að og þar sem tekist var á um vanhæfi Aðalsteins, hafi ekki fordæmisgildi fyrir þetta mál, þar sem ekki hafi reynt á b-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 með sama hætti og í þessu máli. Þá hafi í því máli ekki verið byggt á því að persónuleg afstaða dómarans til efnis máls væri með þeim hætti að draga mætti óhlutdrægni hans í efa. Jafnframt hafi þar ekki verið byggt á því að mörg þeirra mála sem vísað væri til í máli þessu, hefðu verið flutt af honum þegar hann sinnti hagsmunagæslu fyrir stefnda. Til stuðnings þeirri kröfu stefnda að hafna beri kröfu áfrýjanda um ómerkingu dóms Landsréttar bendir stefndi á að Aðalsteinn hafi hvorki gætt réttar síns varðandi hið áfrýjaða mál né veitt sér nokkrar leiðbeiningar í því. Ákvæði b-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 eigi við um það tiltekna mál sem sé fyrir dómi en ekki önnur óskyld mál sem dómari kunni að hafa haft aðkomu að áður sem dómari eða lögmaður. Dómarinn verði því ekki talinn vanhæfur til að fara með málið á grundvelli b-liðar 5. gr. laganna. Um ætlað vanhæfi landsréttardómarans, byggt á g-lið laga nr. 91/1991 bendir stefndi á dóm Hæstaréttar 26. mars 2019 í máli nr. 14/2019. Með honum hafi verið staðfestur úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu um að umræddur dómari viki sæti í máli, en stefndi hafi átt aðild að því. Þar hafi, eins og í þessu máli, verið byggt á sömu málsástæðum um vanhæfi dómarans til að dæma í málum er vörðuðu stefnda, sökum hagsmunagæslu hans fyrir bankann á meðan hann starfaði sem lögmaður á árunum 2011 til 2017. Varðandi ætlað vanhæfi Hervarar Þorvaldsdóttur á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 kveður áfrýjandi hana hafa dæmt sem héraðsdómari í málum sem varðað hafi túlkun á sama lánssamningi og deilt sé um í málinu, sbr. dóma Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2016 í málum nr. E-2419/2014 og E-4364/2014. Sami dómari hafi samkvæmt framangreindu dæmt um sama lánssamning á tveimur dómstigum en sami maður sé vanhæfur til að dæma um sama atriði í undirrétti og hjá áfrýjunardómstól og að það séu aðstæður sem fallnar séu til að draga óhlutdrægni dómarans með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Til stuðnings kröfu sinni um að hafna beri kröfu áfrýjanda um ómerkingu dóms Landsréttar vegna ætlaðs vanhæfis landsréttardómarans Hervarar bendir stefndi meðal annars á að dómarinn hafi ekki haft neina aðkomu að málinu áður en því var áfrýjað til Landsréttar. Það breyti engu um hæfi hennar að hún hafi sem héraðsdómari dæmt í tveimur málum er vörðuðu sama lánssamning og mál þetta fjallar um. Hún verði ekki við það vanhæf til að fjalla um lán til annarra aðila sem veitt hafi verið í tengslum við uppgjör ábyrgða vegna lánssamningsins 27. júlí 2005. Í annan stað telur áfrýjandi að skortur á rökstuðningi í dómi Landsréttar leiði til þess að ómerkja beri dóminn og vísa málinu til Landsréttar til löglegrar meðferðar á ný. Því til stuðnings bendir hann á að niðurstaða dómsins hafi verið sú að lánssamningurinn 27. júlí 2005 hafi verið talinn lögmætur án þess að heildarmat á gögnum málsins hafi farið fram. Þá sjái þess ekki stað í dómi Landsréttar að farið hafi fram mat á tölulegum staðreyndum sem bendi til að krafa stefnda hafi verið greidd. Loks hafi ekki verið tekin í dóminum afstaða til réttmætis höfuðstóls- og vaxtakrafna áfrýjanda. Stefndi telur á hinn bóginn að í dómi Landsréttar sé að finna fullnægjandi röksemdir fyrir niðurstöðu og telur dóminn uppfylla áskilnað 3. og 4. mgr. 164. gr. laga nr. 91/1991, sbr. f-lið 1. mgr. 114. gr. sömu laga. 2 Fjallað var um hæfi landsréttardómarans Aðalsteins E. Jónassonar í úrskurði Landsréttar 21. febrúar 2019 í máli nr. 445/2018 vegna kröfu um að hann viki sæti þar sem hann hefði sem lögmaður unnið mikið fyrir stefnda og flutt tugi mála fyrir hann. Í úrskurðinum var því slegið föstu að ekki væru fyrir hendi atvik eða aðstæður sem væru til þess fallnar að draga mætti óhlutdrægni dómarans með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991, og vísað til þess að hann hefði hætt störfum sem lögmaður í árslok 2017, lagt inn lögmannsréttindi sín og gegnt starfi sem dómari síðan í ársbyrjun 2018. Fyrir lægi að hann hefði gætt hagsmuna stefnda við rekstur nokkurra dómsmála á árunum 2011 til 2017, tæplega fjögur dómsmál á ári, en flest þeirra hafi verið rekin árin 2013 og 2015. Hafi vinna hans fyrir stefnda á umræddu tímabili verið óverulegur hluti af störfum hans og hafi hann ekki gegnt annars konar trúnaðarstörfum fyrir stefnda en sem lögmaður. Þá lægi fyrir að hann hefði enga aðkomu haft að því máli sem væri til umfjöllunar og engin hagsmunatengsl væru við aðila málsins. Með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 14/2019 var úrskurðurinn staðfestur með vísan til forsendna hans.  Í máli þessu byggir áfrýjandi á flestum sömu málsástæðum og byggt var á í síðastgreindum dómi Hæstaréttar til stuðnings því að ómerkja beri dóm Landsréttar á grundvelli vanhæfis dómarans, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991, en auk þess er á því byggt að persónuleg afstaða dómarans til efnis málsins sé með þeim hætti að draga megi óhlutdrægni hans í efa. Jafnframt byggir áfrýjandi kröfu sína á b-lið 5. gr. Samkvæmt b-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 er dómari vanhæfur til að fara með mál ef hann hefur gætt réttar aðila varðandi sakarefnið eða veitt aðila ólögskyldar leiðbeiningar um það. Enda þótt Aðalsteinn hafi, er hann gegndi lögmannsstarfi, gætt réttar stefnda í málum er vörðuðu svipaða lánssamninga og reynir á í máli þessu, eða veitt ráðgjöf í því tilliti, hefur ekkert komið fram um að dómarinn hafi á nokkru stigi málsins komið að lögfræðilegri ráðgjöf eða hagsmunagæslu fyrir stefnda í tengslum við sakarefni þessa máls. Verður hann því ekki talinn vanhæfur á þessum grundvelli. Samkvæmt dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hefur við úrlausn um það hvort dómari teljist óvilhallur í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verið greint á milli athugunar er miðar að því að ganga úr skugga um hvaða viðhorf hafi ráðið hjá dómara í tilteknu máli (huglægur mælikvarði) og athugunar á því hvort til staðar eru hlutlæg atriði sem gefi réttmætt tilefni til að draga í efa að dómari sé óvilhallur (hlutlægur mælikvarði). Samkvæmt hinum huglæga mælikvarða um hæfi dómara verður, varðandi persónulega afstöðu hans, að gera ráð fyrir því að dómari sé hæfur til meðferðar máls, nema sýnt sé fram á hið gagnstæða. Af hálfu áfrýjanda hafa ekki verið lögð fram gögn eða sýnt fram á með öðrum hætti að Aðalsteinn hafi þá persónulegu afstöðu til málsaðila eða sakarefnis máls þessa að hæfi hans verði með réttu dregið í efa. Með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 14/2019 var skorið úr um að dómarinn viki ekki sæti sem dómari í Landsrétti á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 en stefndi í því máli var aðili að þessu máli og það varðaði lánssamning, eins og í þessu máli. Þótt vísað hafi verið til fleiri atriða í þessu máli til stuðnings vanhæfi dómarans en til skoðunar voru í fyrrnefndu máli þykja þau ekki hafa slíka þýðingu að þau haggi fordæmisgildi dómsins hvað varðar hæfi dómarans. Í því sambandi hefur einnig þýðingu að lengri tími var liðinn frá því að lögmannsstörfum Aðalsteins í þágu stefnda lauk þegar hann tók þátt í dómstörfum í þessu máli en máli því sem lauk með dómi Hæstaréttar í máli nr. 14/2019. Með vísan til forsendna umrædds dóms og annars framangreinds verður ekki fallist á að dómarinn hafi á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 verið vanhæfur til að fara með mál þetta. Um ætlað vanhæfi landsréttardómarans Hervarar Þorvaldsdóttur er til þess að líta að enda þótt dómarinn hafi sem héraðsdómari dæmt í öðrum málum sem vörðuðu sama lánssamning og mál þetta lýtur að hluta til að, telst dómarinn ekki hafa annast dómstörf í þessu máli á lægra dómstigi. Ríkari kröfur verða ekki gerðar til hæfis dómara á áfrýjunarstigi í þessu tilliti. Dómarinn var því ekki vanhæfur til meðferðar málsins fyrir Landsrétti á grunni g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Að síðustu verður ekki fallist á að slíkir annmarkar hafi verið á samningu dóms Landsréttar að fallast beri á kröfu áfrýjanda um ómerkingu dómsins, sbr. f-lið 1. mgr. 114. gr. og 3. og 4. mgr. 164. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt öllu framansögðu verður kröfu áfrýjanda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms hafnað. IV 1 Málsaðila greinir á um lögmæti fyrrgreinds lánssamnings Hydra ehf. og Landsbanka Íslands hf. 27. júlí 2005 og uppgjör á ábyrgðarskuldbindingu áfrýjanda samkvæmt lánssamningi bankans og áfrýjanda 27. apríl 2008. Áfrýjandi byggir á því að þeim samningi skuli vikið til hliðar í heild eða að hluta á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Af hálfu áfrýjanda er í fyrsta lagi á því byggt að lánssamningurinn 27. júlí 2005 hafi verið lán í íslenskum krónum með ólögmætri bindingu við gengi erlends gjaldmiðils. Af þeim sökum hefði átt að endurreikna hann og lækka þá fjárhæð sem stefndi krefst nú að áfrýjandi greiði sér vegna síðari lánssamningsins. Ágreiningur um lögmæti umrædds lánssamnings hefur áður komið til kasta Hæstaréttar. Í dómi réttarins 11. maí 2017 í máli nr. 587/2016, þar sem fjallað var um málsástæðu þess efnis að lánssamningurinn væri í íslenskum krónum með ólögmætri bindingu við erlendan gjaldmiðil, sagði að hvað sem liði skuldbindingu aðalskuldarans, Hydra ehf., hefði áfrýjandi í því máli, Elín Þóra Dagbjartsdóttir, sem var ein þeirra sem gengist höfðu í sjálfskuldarábyrgð, gengist undir ábyrgð sína með tiltekinni fjárhæð í sterlingspundum og hafi hún verið skuldbundin gagnvart lánveitanda samkvæmt því. Sömu sjónarmið og rakin voru í dóminum eiga hér við, auk þess sem fyrir liggur að lán það sem áfrýjandi fékk hjá Landsbanka Íslands hf. til þess að gera upp ábyrgð sína var í sterlingspundum og er áfrýjandi skuldbundinn gagnvart stefnda samkvæmt því.  Enn fremur hefur í dómum Hæstaréttar, þar sem fjallað hefur verið um hvort lán sé í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla og skýring á texta samningsins tekur ekki af tvímæli um hvers efnis skuldbinding er að því leyti, verið meðal annars litið til þess hvernig skuldin er tilgreind í viðaukum um skilmálabreytingar. Eins og rakið hefur verið kom fram í fyrri viðauka samningsins 1. nóvember 2006 að eftir að greiðsla 25. mars 2007 yrði innt af hendi myndaðist nýr höfuðstóll lánsins í sterlingspundum og var fjárhæð skuldarinnar tilgreind í þeirri mynt. Í síðari viðauka um skilmálabreytingar 27. nóvember 2007 voru eftirstöðvar lánsins tilgreindar í sterlingspundum og kom þar einnig fram að eftir að tilgreind greiðsla yrði innt af hendi yrðu eftirstöðvar endurfjármagnaðar miðað við gengi sterlingspunds. Jafnframt liggur fyrir að afborganir af láninu voru ýmist greiddar í íslenskum krónum eða sterlingspundum.  Að öllu þessu virtu er ekki fallist á að lánssamningurinn 27. júlí 2005 hafi verið lán í íslenskum krónum með ólögmætri bindingu við gengi erlends gjaldmiðils. 2 Í annan stað byggir áfrýjandi á því að lánssamningurinn 27. júlí 2005 sé uppgreiddur með innborgunum aðalskuldara inn á samninginn á árunum 2005 til 2007 og með innborgunum ábyrgðarmanna inn á lánssamninginn. Þá vanti þrjár innborganir ábyrgðarmanna inn í útreikninga stefnda. Framangreint leiði til þess að lánið sé uppgreitt og vísar áfrýjandi um það til skjals sem stefndi lagði fram um innborganir á lánið. Samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingum sínum gengust ábyrgðarmenn í ábyrgð fyrir tiltekinni fjárhæð auk vaxta og dráttarvaxta og alls kostnaðar sem af vanskilum kynni að leiða. Af skjali því sem áfrýjandi vísar til um ætlaða uppgreiðslu lánssamningsins verður ekki ráðið að umrætt lán hafi verið uppgreitt heldur sýnir það einvörðungu innborganir aðalskuldara og ábyrgðarmanna inn á lánið, þar með talda innborgun áfrýjanda sjálfs. Samkvæmt fyrri kröfulýsingu Landsbanka Íslands hf. í þrotabú aðalskuldara 28. júlí 2008 voru eftirstöðvar lánsins 93.204.643 krónur, með áföllnum vöxtum, þann dag. Þegar stefndi hafði dregið frá innborganir ábyrgðarmanna og lýst kröfu í samræmi við það voru eftirstöðvar lánsins með dráttarvöxtum 21.333.498 krónur. Áfrýjandi hefur einnig haldið því fram að í útreikninga stefnda á eftirstöðvum lánssamningsins vanti þrjár innborganir, samtals að fjárhæð 14.093.472 krónur, sem allar hefðu verið greiddar 30. júní 2008. Við meðferð málsins í héraði lagði stefndi fram þrjár bakfærslukvittanir að sömu fjárhæð og innborganirnar þrjár. Gögn sem stefndi hefur síðar lagt fram benda ótvírætt til þess að þessar bakfærslur stafi af því að sömu greiðslur hafi verið tvífærðar inn á lánið. Af hálfu áfrýjanda hefur ekki verið skýrt hvort og þá hvers vegna sumir ábyrgðarmenn hafi greitt tvívegis fjárhæð sem svaraði til skuldbindinga þeirra. Er því ósannað að stefndi hafi ekki tekið tillit til allra innborgana inn á lánið. Í ljósi framangreinds verður ekki fallist á að skuld samkvæmt lánssamningnum 27. júlí 2005 sé uppgreidd og að greiðslur áfrýjanda samkvæmt lánssamningi hans og Landsbanka Íslands hf. muni leiða til ólögmætrar auðgunar stefnda. 3 Áfrýjandi byggir í þriðja lagi á því að bankinn hafi valdið sér tjóni með því að lækka kröfulýsingu sína og lýsa ekki heildarkröfu sinni í þrotabú Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf., sbr. 103. gr. laga nr. 21/1991. Af málatilbúnaði áfrýjanda verður ráðið að hann telji tjón sitt felast í því að við lækkun kröfulýsingarinnar hafi bankinn fallið frá rétti til greiðslu úr þrotabúinu á kostnað áfrýjanda. Afleiðingar þessa hafi verið þær að bankinn hefði þá farið á mis við að fá greiddar 12.849.727 krónur til viðbótar frá þrotabúinu sem koma hefðu átt áfrýjanda til góða og nægt hefðu til að gera upp skuld hans við stefnda. Eins og rakið var í kafla II undir 3. lið var á skiptafundi í þrotabúinu lögð fram yfirlýsing ábyrgðarmanna, þar á meðal áfrýjanda, þar sem fram kom að þeir lýstu því yfir að þeir ættu enga kröfu á hendur þrotabúinu.  Stefndi hefur frá upphafi mótmælt því að áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni af þeim sökum að bankinn hafi lækkað kröfulýsingu sína í þrotabúið og meðal annars bent á að áfrýjandi hefði ekki lýst kröfu sinni í það, en fyrir því gætu verið ýmsar ástæður. Við málflutning stefnda fyrir Hæstarétti kom fram að það hafi fyrst verið eftir fyrirspurn til skiptastjóra þrotabúsins í tilefni af fyrirhuguðum málflutningi sem honum hafi borist í hendur framangreind yfirlýsing sjálfskuldarábyrgðarmanna á lánssamningnum. Yfirlýsingin var lögð fram fyrir Hæstarétti áður en frestur til framlagningar gagna var liðinn og var um hana fjallað í munnlegum málflutningi fyrir réttinum. Þegar af þeirri ástæðu að yfirlýsingin stafar frá áfrýjanda sjálfum verður á henni byggt þrátt fyrir mótmæli hans. Áfrýjandi ritaði undir umrædda yfirlýsingu um að hann hefði fengið hlutabréf í Hydra ehf. ,,í skiptum fyrir ábyrgð“ og ætti enga ,,aðra“ kröfu á hendur þrotabúinu. Af þessari yfirlýsingu er áfrýjandi bundinn og fyrir liggur að hann lýsti ekki kröfu í búið. Óháð því hvort réttur áfrýjanda til greiðslu á grundvelli 103. og 104. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið fyrir hendi er ljóst að með fyrrgreindri yfirlýsingu féll hann frá kröfu um greiðslur úr þrotabúi Eignarhaldsfélagsins City Star Airlines ehf. og getur því ekki borið fyrir sig ætlað tjón af völdum stefnda vegna þess að hann hafi lækkað kröfulýsingu sína í þrotabúið. Við þetta er hann bundinn og ber að greiða þá kröfu sem stefndi hefur uppi í málinu á hendur honum á grundvelli lánssamningsins 27. apríl 2008. Að öllu framangreindu virtu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með breytingu á upphafsdegi dráttarvaxta í samræmi við endanlega kröfu stefnda. Auk þess verður áfrýjandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en dráttarvexti sem greiðist frá 2. febrúar 2015 til greiðsludags. Áfrýjandi, Sigmar Júlíus Eðvarðsson, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.   Dómur Landsréttar 6. mars 2020. Mál þetta dæma landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Hervör Þorvaldsdóttir og Ragnheiður Harðardóttir. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 11. apríl 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2019 í málinu nr. E-3056/2017. 2        Áfrýjandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 7.352.406 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. september 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar bæði í héraði og fyrir Landsrétti. 3        Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar á báðum dómstigum. Málsatvik og sönnunarfærsla 4        Áfrýjandi lagði fram ný gögn við meðferð málsins fyrir Landsrétti. Þar var meðal annars um að ræða gögn um innborganir og bakfærslur inn á lán nr. 3372 og ábyrgðarmenn þess auk útreiknings áfrýjanda á stöðu lánsins 28. maí 2008 og 4. september 2008. Niðurstaða 5        Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi deila aðilar um kröfu áfrýjanda á hendur stefnda samkvæmt lánssamningi 27. apríl 2008. Sá samningur var gerður til að gera upp skuldbindingu stefnda samkvæmt skiptri sjálfskuldarábyrgð á lánssamningi 27. júlí 2005 milli Hydra ehf., sem síðar fékk nafnið Eignarhaldsfélagið City S.A. ehf., og Landsbanka Íslands hf. Kröfum bankans samkvæmt þessum samningum var síðar ráðstafað til áfrýjanda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. 6        Með lánssamningnum 27. júlí 2005 veitti Landsbanki Íslands hf. lán til Hydra ehf. að jafnvirði 80.000.000 króna í breskum pundum. Telur stefndi að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum með ólögmætri bindingu við gengi erlends gjaldmiðils. Við uppgjör á ábyrgð stefnda á láninu með lánssamningi hans við bankann 27. apríl 2008 hafi hins vegar verið lagt til grundvallar að upphaflega lánið hafi verið í erlendum gjaldmiðli. Fyrir liggur að gerðir voru viðaukar við lánssamninginn 27. júlí 2005 þar sem eftirstöðvar láns voru skýrlega tilteknar í breskum pundum. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar hefur verið lagt til grundvallar að við slíkar aðstæður væri um lögmætt lán í erlendum gjaldmiðlum að ræða, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 6. mars 2014 í máli nr. 602/2013. Auk þess liggur fyrir að stefndi gekkst í ábyrgð sína með tiltekinni fjárhæð í pundum og var skuldbundinn gagnvart lánveitanda samkvæmt því, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 11. maí 2017 í málinu nr. 587/2016. 7        Stefndi teflir fram þeirri málsástæðu að áfrýjandi hafi valdið sér tjóni með því að lækka kröfu samkvæmt kröfulýsingu sinni í þrotabú Eignarhaldsfélagsins City S.A. ehf. úr 93.210.868 krónum í 21.339.723 krónur. Með þessu hafi hann fallið frá rétti til greiðslu úr þrotabúinu á kostnað stefnda og annarra sjálfskuldarábyrgðarmanna, en um þetta fari eftir reglum 103. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ákvæði 103. gr. laga nr. 21/1991 tekur samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til óskiptrar ábyrgðar. Með því verður ákvæðinu ekki beitt um skipta ábyrgð, eins og hagar til í þessu máli. 8        Að virtum þeim forsendum sem að framan er lýst eru engin efni til að fallast á að víkja beri samningnum sem mál þetta snýst um til hliðar á grundvelli ógildingarreglna laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Aðrar málsástæður sem stefndi heldur fram breyta ekki framangreindri niðurstöðu, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar frá 11. maí 2017 í máli nr. 587/2016, þar sem leyst var úr sams konar ágreiningi. 9        Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að skuld samkvæmt lánssamningnum sem um ræðir hefur ekki verið greidd og ber stefnda því greiðsluskylda. Gögn málsins bera ekki með sér að krafa áfrýjanda hafi verið greidd með öðrum hætti. Verður krafan því tekin til greina eins og hún er fram sett, sem er í samræmi við ákvæði lánssamningsins. 10       Eftir þessari niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum,eins og í dómsorði greinir. 11   Það athugist að eins og mál þetta er vaxið verður ekki talið að héraðsdómara hafi verið rétt að kveðja til sérfróðan meðdómsmann samkvæmt  2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Dómsorð: Stefndi, Sigmar Júlíus Eðvarðsson, greiði áfrýjanda, Landsbankanum hf., 7.352.406 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. september 2013 til greiðsludags. Stefndi greiði áfrýjanda 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2019. I. Dómkröfur o.fl.: Mál þetta var höfðað 19. september 2017 og dómtekið 18. febrúar 2019. Stefn­andi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík. Stefndi er Sigmar Júlíus Eðvarðs­­­­son, [...].  Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjár­­­hæð 7.352.406 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 7.352.406 krónum frá 28. september 2013 til greiðslu­­dags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins og tekið verði tillit til virðis­aukaskatts.  Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, til vara að stefnukrafan verði lækkuð verulega. Til viðbótar við aðal- og varakröfu krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum máls­­kostnaðar­reikningi.   II. Málsatvik: Mál þetta má rekja til lánssamnings milli Hydra ehf. og Landsbanka Íslands hf., nr. 3372, dagsettur 27. júlí 2005, hér nefnt fyrra lánið eða fyrri lánssamningur eftir því sem við á. Lánið var jafn­­­framt sam­­þykkt af tuttugu og fimm sjálfskuldar­ábyrgðar­aðilum, þar með talið stefnda, og var ábyrgð þeirra hlutfallsleg (l. pro rata). Um var að ræða samning um fjöl­­­myntalán til fimm ára að jafnvirði 80.000.000 króna og var mið­að við sterlings­pund (e. Pound sterling, GBP). Lánsfjárhæðin var greidd í íslenskum krón­­um inn á bankabók Hydra ehf. þann 2. ágúst 2005 í samræmi við viðauka samn­ingsins um út­borgun sem var undir­ritaður 27. júlí sama ár. Hlutfallsleg ábyrgð hvers og eins sjálfs­skuldarábyrgðaraðila var í sam­ræmi við hlutafjáraukningu sem þeir voru skráðir fyrir í Hydra ehf. á þess­um tíma. Stefndi var í ábyrgð fyrir 44.671 sterlings­pundum. Samkvæmt g- og h-liðum 9. gr. lánssamningsins var lántaka, Hydra ehf., óheimilt að setja nokkrar eignir sínar eða dótturfélaga sinna að veði umfram það sem þegar hefði verið gert við gerð samningsins, auk þess sem félagið skuldbatt sig til að setja ekki sérstakar tryggingar fyrir lánum sem það tók eða öðrum fjárhagslegum skuld­­bindingum, hverju nafni sem þær nefndust, nema sams konar trygging væri jafn­framt sett fyrir skuldbindingu félagsins samkvæmt lánssamningnum. Að sögn stefnda veð­­setti Hydra ehf., í janúar 2006, þrátt fyrir fyrrgreint bannákvæði, flugvélar og aðrar eignir til Landsbanka Íslands hf. vegna tveggja lánasamninga sem gerðir voru á þeim tíma, sbr. umfjöllun í dómi Hæstaréttar í máli nr. 119/2009. Láninu var skuld­breytt með við­auk­­um, dagsettum 1. nóv­ember 2006 og 22. nóv­­ember 2007. Á ár­unum 2005-2007 greiddi Hydra ehf. átta sinnum inn á lánið. Van­­skil urðu vegna lánsins og beindi bank­inn þá kröfum sínum að ábyrgðar­­mönnunum, þar með talið að stefnda. Vegna vanskila Hydra ehf. og vegna kröfu Landsbanka Íslands hf. á hendur stefnda til þess að standa undir ábyrgð sinni vegna lánsins gerði stefndi láns­samn­ing við bankann, dagsettan 27. apríl 2008, nr. 11874, hér eftir nefnt síðara lánið eða síðari láns­samningur eftir því sem við á. Lán þetta var að fjárhæð 42.000 sterlings­­pund. Með síð­­­­­ara lán­inu gerði stefndi upp ábyrgð sína vegna fyrra lánsins. Fleiri sjálfskuldar­ábyrgðar­aðilar vegna fyrra lánsins gerðu einnig upp ábyrgðir sínar á svipuðum tíma, þar með talið með því að taka nýtt lán hjá bankanum. Stefnandi eign­aðist kröfu á hendur stefnda með almennri ákvörðun Fjár­málaeftirlitsins frá 9. október 2008 um ráð­­stöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. Stefndi hætti síðar að greiða af lán­inu. Hydra ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 28. maí 2008 en á þeim tíma hafði nafni félagsins verið breytt í Eignarhaldsfélagið City S.A. ehf. Landsbanki Íslands hf. lýsti upp­­­­­­­­haflega almennri kröfu í þrotabúið út af fyrra láninu. Kröfu­lýsingin var síðar lækkuð vegna innborgana sem komu inn á lánið. Við lok gjald­þrota­skipta á árinu 2013 fékk bankinn aðeins úthlutað að hluta upp í kröfu sína. Með almennri tilkynningu 10. júní 2011 á vefsíðu stefn­anda var vísað til dóms Hæsta­­­­réttar Íslands frá 9. sama mánaðar í máli nr. 155/2011. Tekið var fram að með dóm­­­­inum hefði verið fallist á röksemd annars aðila málsins, skuldara sem tekið hafði lán hjá forvera stefnanda á árinu 2007, að lánið væri ekki í erlendri mynt heldur í ís­lensk­um krónum með ólögmætri gengistryggingu við erlenda mynt. Að því virtu bæri stefn­anda að endurreikna lánið í samræmi við lög nr. 38/2001. Þá var tekið fram í til­kynn­ingunni að bankinn myndi jafnframt endurreikna önnur sambærileg lán og miða endur­útreikning við lægstu óverðtryggðu útlánsvexti Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Samhliða sendi stefn­andi bréf þar sem stefnda var tilkynnt að bankinn væri að skoða hvort skilmálar síð­ara lánsins féllu undir for­dæmis­­­gildi dóms­ins varðandi ólög­­mæta gengistryggingu. Með bréfi stefn­­­anda 29. nóv­­­­ember 2011 var stefnda til­kynnt að það væri mat bank­ans að síðara lánið félli ekki undir efnisatriði dómsins og að því virtu yrði það ekki endur­­útreiknað. Með bréfi til stefnanda 12. des­ember 2011 til­kynnti stefndi að hann teldi að fyrra lánið hefði verið ólögmætt og taka ætti tillit til þess til lækkunar á síðara lán­inu.  Einar Pétursson, starfsmaður Landsbankans hf., gaf skýrslu vitnis við aðal­meðferð.   III. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda: Stefnandi reisir dómkröfur sínar á síðara láninu, sbr. lánssamning Landsbanka Íslands hf. og stefnda, dagsettan 27. apríl 2008. Samkvæmt þeim samningi hafi Lands­banki Íslands hf., sem lán­veit­­andi, og stefndi, sem lántaki, samið um fjöl­mynta­lán til þriggja ára að fjárhæð 42.000 sterlings­­pund. Í samn­ingnum hafi verið miðað við að ef stefndi greiddi af­borg­anir, vexti og dráttar­vexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krón­­­­­um þá skyldi hann greiða samkvæmt sölu­gengi bankans á gjalddaga. Stefndi hafi lofað að taka að láni og bankinn að lána um­samda fjár­hæð, sbr. gr. 1.1 í samningnum. Stefndi skyldi greiða lánveitanda 0,30% lán­töku­gjald af heildarfjárhæðinni og skyldi lán­­­­­­töku­gjaldið dragast af við útborgun láns­ins, sbr. gr. 5.1 í samningnum. Stefnandi vísar til þess að stefndi hafi með beiðni 25. júlí 2008 óskað eftir út­greiðslu lánsins 31. sama mán­aðar til samræmis við gr. 1.2 og við­auka nr. 1 í samn­ingnum. Hafi það leitt til þess að greidd voru til hans 41.874,00 sterlings­pund. Stefnandi vísar til þess að borið hafi að greiða lánið að fullu á næstu þremur árum með sex jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti. Fyrsti gjalddagi afborgana og vaxta hafi verið 1. janúar 2009, sbr. gr. 2.1 í samningnum. Stefndi hafi lofað að greiða bank­anum vexti sem skyldu vera breytilegir vextir jafnháir LIBOR-vöxtum (e. London Inter Bank Offered Rate) í sam­ræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 3,75% vaxta­­­­­­álags. Með LIBOR-vöxtum hafi verið átt við vexti á millibankamarkaði í London eins og þeir voru auglýstir kl. 11:00 fyrir hádegi að staðartíma í London á BBA-síðu Reuters eða sambærilega vexti eins og þeir birtust á síðu 3750 á Dow Jones Telerate skjá, tveimur virkum dögum fyrir hvert vaxtatímabil, sbr. gr. 3.2 í samningnum. Þessu til við­­­­­­­­bótar hafi verið kveðið á um að vextir skyldu reiknast frá útborgunardegi lánsins og þeir greiðast eftir á á gjald­­­dögum á sex mánaða fresti í fyrsta skipti 1. janúar 2009, sbr. gr. 2.1 og 3.3 í samn­ingnum. Þá skyldi við vaxtaútreikning taka mið af vaxta­reglum er varða daga­fjölda sem í gildi væru á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum á hverjum tíma, sbr. gr. 3.4 í samn­­ingnum. Stefnandi vísar til þess að stefnda beri skylda til að greiða dráttarvexti samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001 af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð, frá gjalddaga til greiðslu­­dags, standi hann ekki skil á greiðslu vaxta eða afborgunar á gjalddaga. Í gr. 6.1 í lánssamn­­­ingnum sé kveðið á um að lánveitandi skyldi hafa val um það hvort krafist yrði dráttar­­­vaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt, eða af skuldinni breyttri í ís­lenskar krónur. Þá sé þar einnig kveðið á um að séu dráttarvextir krafðir í erlendum myntum þá skyldu þeir vera vextir samkvæmt gr. 3.1 í lánssamningnum, auk við­eigandi álags að við­bættu 10% viðbótarálagi. Ef skuldinni yrði hins vegar breytt í íslenskar krónur á gjald­daga þá skyldu dráttarvextir reiknast á íslenskar krónur eftir ákvörðun Seðla­banka Íslands samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001. Þá vísar stefn­andi til gr. 6.2 í láns­samn­ingnum varðandi vanefndir stefnda. Þar sé kveðið á um skyldu hans til að greiða lán­veit­anda, auk vaxta og dráttarvaxta, allan kostnað sem bankinn legði út í vegna van­efnd­anna, málssóknar eða annarra réttargjalda, lögmanns­þóknunar eða annars sem bank­anum bæri að greiða, svo og annan lögfræðilegan kostnað vegna inn­­heimtu alls láns­ins. Stefnandi vísar til viðauka við lánssamninginn, dagsettan 16. apríl 2009, þar sem fram komi að eftirstöðvar lánsins 5. janúar 2009 hafi verið 42.000,00 sterlingspund. Auk þess hafi gjald­fallnir vextir á þeim tíma verið 1.757,06 sterlingspund og hafi þeir átt að greiðast við undirritun við­aukans. Samkvæmt skilmálabreytingunni hafi lán­veit­andi og stefndi orðið ásáttir um breytingar á lánssamningnum. Nánar tiltekið hafi verið gerð breyting á lánstíma samkvæmt gr. 2.1 í lánssamningnum með þeim hætti að eftir­stöðvar lánsins hafi átt að greiða að fullu með sex jöfnum afborgunum á sex mán­aða fresti. Næsti gjalddagi afborgana og vaxta hafi átt að vera 15. júlí 2009 og þá hafi vextir átt að reiknast frá 5. janúar sama ár. Að öðru leyti hafi verið lagt til grundvallar að lánssamningurinn skyldi haldast óbreyttur. Stefnandi vísar til 10. gr. lánssamningsins varðandi uppsagnarákvæði. Þar sé kveðið á um heimild lánveitanda til gjaldfellingar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Nánar til­tekið sé þar um að ræða heimild til að fella lán samkvæmt samningnum í gjald­­daga ein­­hliða, fyrirvaralaust og án viðvörunar eða sérstakrar uppsagnar. Heimildin sé meðal annars til staðar hafi vanskil á greiðslu afborgana eða vöxtum varað í fjórtán daga eða lengur, sbr. a-lið gr. 10.1 í lánssamningnum. Þá sé í grein 10.2 sama samnings, þegar þannig stendur á, jafnframt kveðið á um að lánveitanda sé heimilt að umreikna skuld­ina í ís­lenskar krónur á gjalddaga eða uppsagnardegi miðað við skráð sölugengi bankans á þeim mynt­­­­um sem hver lánshluti samanstandi af og krefja stefnda um greiðslu í sam­ræmi við ákvæði lánssamningsins. Þessu til viðbótar sé í grein 10.3 í láns­samn­ingnum kveðið á um það að komi til gjaldfellingar sam­kvæmt gr. 10.1 í sama samningi þá beri allar skuldir í öllum tilvikum dráttarvexti í sam­ræmi við gr. 6.1 í samningnum af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð. Varðandi stöðu vanskila tekur stefnandi fram að elsti ógreiddi gjalddagi lánsins sé 15. janúar 2010. Þá hafi lokagjalddagi samkvæmt samningnum verið 16. janúar 2012. Þann 2. febrúar 2015 hafi eftirstöðvar lánsins verið 35.000,00 sterlingspund og áfallnir samn­­ingsvextir verið 1.664,87 sterlingspund, eða samtals 36.664,87 sterlingspund. Þann dag hafi sölugengi sterlingspunds verið 200,53. Umreiknaðar eftirstöðvar lánsins hafi því verið 7.352.406 krónur sem sé stefnufjárhæð málsins, auk dráttarvaxta og kostn­­­aðar. Stefnandi gerir kröfu um dráttarvexti af stefnufjárhæð frá 28. september 2013, eða fjórum árum fyrir þingfestingardag málsins. Dráttarvextir fyrir tímabilið 15. júlí 2010 til 27. september 2013 hafi hins vegar fallið niður fyrir fyrningu og því sé ekki krafist dráttarvaxta fyrir það tímabil. Stefnandi tekur fram að stefnda hafi verið sent innheimtubréf 2. febrúar 2015 en skuldin ekki fengist greidd þrátt fyrir inn­heimtu­­­­tilraunir. Stefnandi tekur fram að um samninginn gildi íslensk lög. Þá sé í gr. 15.1 í samn­ingnum kveðið á um að mál vegna ágreinings um réttindi og skyldur aðila skuli rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Um aðild að málinu vísar stefnandi til fyrrgreindrar ákvörðunar Fjár­­­­málaeftirlitsins frá 9. október 2008. Um lagarök að öðru leyti vísar stefnandi til meginreglna kröfu- og samningsréttar um greiðsluskyldu fjárskuld­bind­inga og efndaskyldu loforða. Kröfur um dráttarvexti, þar með talið vaxtavexti, styður stefnandi við lög nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Þá er krafa um virðis­auka­skatt af málflutnings­þóknun reist á lögum númer 50/1988 en stefnandi tekur fram að hann sé ekki virðis­auka­skattsskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Þessu til viðbótar vísar stefnandi til samningsskilmála og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 að því er varðar varnarþing.   Helstu málsástæður og lagarök stefnda: Stefndi reisir varnir sínar aðallega á því að samningi aðila frá 27. apríl 2008 vegna síðara lánsins eigi að víkja til hliðar í heild eða að hluta þar sem það sé ósann­gjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að stefnandi beri samninginn fyrir sig, sbr. 36. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ólögmæta löggerninga. Eigi það bæði við um aðal- og varakröfu hans. Stefndi tekur fram að við mat á þessu eigi að líta til efnis samn­ings, stöðu samningsaðila, atvika við samnings­gerð og atvika sem síðar komu til. Þá byggir stefndi á því að við mat á því hvort laga­ákvæðið eigi við um þann samning eigi að líta til atriða í samn­ingi milli sömu aðila vegna fyrra lánsins sem tengist gerð samn­­ingsins vegna síðara lánsins. Um þetta vísar stefndi meðal annars til sjónarmiða sem fram koma í 36. gr. c laga nr. 7/1936, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1995. Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi eignast kröfu Landsbanka Íslands hf. á hendur honum á grund­velli fyrrgreindrar ákvörð­unar Fjár­mála­eftirlits­ins 9. okt. 2008. Að því virtu og sam­kvæmt almennum reglum um aðila­­­skipti að kröfuréttindum þá öðlist stefnandi ekki rýmri rétt á hendur stefnda með þeirri ráð­stöfun en forveri hans naut. Stefndi byggir á því að hann haldi öllum mót­bárum þrátt fyrir aðila­skiptin, sbr. dóm Hæsta­réttar í máli nr. 348/2013. Til rökstuðnings fyrir sýknu á framangreindum lagagrundvelli byggir stefndi á því að lækkun kröfulýsingar Landsbanka Íslands hf. í þrotabú Eignarhaldsfélagsins City S. A. ehf., áður Hydra ehf., hafi valdið honum tjóni. Stefndi vísar til þess að bank­inn hafi upp­­haflega lýst almennri kröfu í þrotabúið að fjárhæð 93.204.643 krónur út af fyrra lán­­inu. Úrskurðardagur þrotabúsins hafi verið 28. maí 2008 og kröfulýsing bank­ans hafi verið dagsett 28. júlí sama ár. Kröfulýsingin hafi síðan verið lækkuð miðað við kröfu­­­­skrá bankans 8. september 2008 og hún verið send skiptastjóra með tölvu­skeyti 15. sama mán­aðar. Bankinn hafi þá verið búinn að taka tillit til inn­borgana sem komið höfðu inn á fyrra lánið 31. júlí 2008 og 6. ágúst sama ár frá ábyrgðar­mönnum þess láns. Að því virtu hafi endanleg fjárhæð á kröfu bankans í búið vegna fyrr­­greinds láns verið um­talsvert lægri en ella, nánar tiltekið 21.333.498 krónur. Með lækkun kröf­unnar hafi bankinn fengið umtalsvert lægri fjárhæð greidda við búskiptin eða sem nam 12.849.727 krónum. Niðurstaða samkvæmt úthlutunargerð hafi því verið sú að bank­inn fékk upp í kröfu sína, í september/október 2013, samtals 6.972.897 krónur. Þá tekur stefndi fram að fyrrgreind lækkun hafi verið sett fram af bank­anum eftir að kröfu­­­­­­­­lýsingar­fresti lauk í þrotabúið. Að því virtu hafi stefndi ekki haft nokkurn mögu­leika á því að lýsa kröfu í búið vegna tjóns síns út af ábyrgðinni. Stefndi byggir á því að það hafi verið alvarleg mistök hjá bankanum að lækka kröf­­­una í þrotabúið eins og að framan greinir. Þá hafi ekkert samráð verið haft við stefnda í þessu sambandi. Með þessu hafi bankinn fallið frá rétti til greiðslu úr þrota­búinu á kostnað stefnda en um þetta fari eftir reglum samkvæmt 103. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með þessu hafi bankinn valdið stefnda tjóni sem sé senni­­­­leg afleiðing af saknæmri hátt­­semi bankans. Stefndi byggir á því að ef kröfu­lýs­ingin hefði ekki verið lækkuð þá hefði framangreind fjárhæð, 12.849.727 krónur, átt að greiðast til hans sem ábyrgðar­manns, að öllu leyti eða hluta, og lækka dóm­­kröfuna í þessu máli. Stefndi gerir því þá kröfu að öll framangreind fjárhæð komi til lækk­unar á stefnukröfu í þessu máli. Þá telur stefndi að framangreind háttsemi stefn­anda séu enn frek­­­ari rök fyrir því að víkja beri láns­samn­ingnum til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 svo leiði til sýknu. Varnir stefnda taka einnig til þess að víkja eigi síðari lánssamningnum til hliðar á fyrr­greindum lagagrundvelli þar sem fyrra lánið hafi verið með ólögmætri gengis­trygg­­ingu. Nánar tiltekið byggir stefndi á því að höfuðstóll fyrra lánsins, milli Hydra ehf., Landsbanka Íslands hf. og tuttugu og fimm ábyrgðaraðila, hafi verið í íslenskum krónum en tekið breytingum miðað við gengi erlends gjaldmiðils. Slík gengistrygging lána sé ólögmæt. Að því virtu hafi gengis­­­­trygging fyrra lánsins farið í bága við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi vísar til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 155/2011 og stefnanda hafi verið skylt að endurreikna lánið í kjölfar fyrrgreinds dóms. Þá hafi bank­­inn gefið út skuldbindandi loforð með opinberri yfirlýsingu 10. júní 2011. Höfuð­stóll fyrra lánsins hafi því verið of hár. Ef bank­inn hefði endurreiknað lánið þá hefði krafa hans á ábyrgðaraðila orðið mun lægri en lögð var til grundvallar uppgjöri við þá. Stefn­andi hafi því fengið verulega ofgreiðslu á sínum tíma. Stefnandi verði því að endur­reikna fyrra lánið en það leiði til þess að hann þurfi að lækka kröfu sína í þessu máli enda hafi höfuðstóll síðara lánsins verið of hár sem nemur hinni ólögmætu gengis­tryggingu fyrri lánssamningsins. Þessu til viðbótar byggir stefndi á því að það sé ljóst að fyrra lánið sé löngu upp greitt og rúmlega það. Í fyrsta lagi með inn­borg­unum Hydra ehf. inn á lánið á árunum 2005-2007. Í annan stað með innborgunum ábyrgðar­­aðila inn á lánið á árinu 2008 en þær hafi miðast við að gera bank­ann skað­lausan og gera lánið upp miðað við að um væri að ræða lögmætt erlent lán. Í þriðja lagi þegar tekið sé tillit til úthlutunargerðar úr búi Hydra ehf. en þar hafi stefnandi í sept­ember/október 2013 fengið 6.972.897 krónur upp í kröfu sína. Þá hafi þessi greiðsla komið til stefnanda löngu eftir að ábyrgðar­aðilar gerðu upp ábyrgðir sínar vegna fyrra lánsins með peninga­greiðslum og nýjum láns­samningum. Að því virtu hefði stefnandi átt að ráð­stafa henni til að lækka kröfuna samkvæmt stefnu í þessu máli en það hafi hann ekki gert. Stefndi reisir varnir sínar einnig á því að 36. gr. laga nr. 7/1936 eigi við þar sem líkur bendi til þess að stefnandi hafi þegar fengið greidda fjármuni vegna fyrra lánsins sem geri hann skaðlausan. Stefnandi hafi ekki endurreiknað lánið til samræmis við dóma­­­­­­fordæmi Hæstaréttar. Að því virtu telur stefndi að frekari greiðslur inn á síðara lánið myndu leiða til ólögmætrar auðgunar stefnanda. Höfuð­stóll skuldar hans sam­kvæmt síðara lán­­­inu hafi verið alltof hár í upphafi enda hafi fjár­hæðin tekið mið af ólög­­mætum út­reikn­ingum stefnanda vegna fyrra láns­ins. Staða samn­­ingsaðila hafi verið ójöfn við samn­­ingsgerðina, stefnandi sé fjármálafyrirtæki sem hafi á að skipa sér­­­fróðum starfs­mönnum en stefndi sé einstaklingur og neytandi. Mjög hafi hallað á stefnda við samn­ings­­­gerðina og öll ákvæði samningsins verið samin einhliða af stefn­anda. Stefndi vísar nánar til atvika í tengslum við síðari láns­samn­inginn sem stangist á við góða við­skipta­­hætti og venjur, sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Stefndi eigi ekki að bera hallann af því að hafa gengist í ábyrgð vegna fyrra lánsins sem starfsmenn stefnanda máttu vita að var ólögmætt frá upp­hafi. Síðara lánið hafi verið allt of hátt. Meginþorri sjálfskuldarábyrgðarmanna fyrra lánsins hafi gert upp ábyrgðir sínar en ábyrgð þeirra hafi ávallt miðast við að fyrra lánið væri lögmætt erlent lán. Þá hafi stefnandi fengið greiddar inn á lánið 6.972.897 krónur frá þrota­bú­inu. Þeir fjármunir eigi að koma til lækkunar stefnu­kröfu í máli þessu geti stefn­andi ekki sýnt fram á eðlilega ráðstöfun þeirra.  Til viðbótar framangreindum málsástæðum til stuðnings aðal- og varakröfu þá gerir stefndi rökstuddar athugasemdir við höfuðstóls- og vaxtakröfu stefnanda vegna síðara láns­ins sem hann telur að geti haft áhrif á formhlið málsins og kunni að leiða til frá­vísunar þess frá dómi án kröfu. Krafa samkvæmt stefnu málsins sé ekki gerð í íslensk­um krónum enda hafi stefnandi aldrei tilkynnt honum að síðari láninu hafi verið um­breytt í íslenskar krónur. Þá komi ekki fram í vaxtakröfu hvort verið sé að fara fram á innlenda eða erlenda dráttarvexti og engin leið sé fyrir stefnda að átta sig á því. Enn fremur gerir stefndi athugasemd við kröfu stefnanda um virðisaukaskatt á mál­flutn­­ings­­­þóknun. Telur stefndi þá kröfu vera óréttmæta þar sem stefnandi geti inn­skatt­að virðisaukaskatt á málflutnings­þóknun. Um lagarök að öðru leyti vísar stefndi til laga nr. 38/2001, einkum 13. og 14. gr. þeirra laga. Þá vísar stefndi til laga nr. 7/1936, einkum 36. gr. og 36. gr. c. Varð­­andi kröfu um málskostnað vísar stefndi til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 en því til viðbótar vísar stefndi til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og tekur fram að hann sé ekki virðis­­auka­skattsskyldur og því sé nauðsynlegt að taka tillit til þess við ákvörðun máls­kostn­aðar. Með hliðsjón af úr­lausn málsins þykja ekki efni til að greina nánar frá máls­­ástæðum og lagarökum stefnda, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 10. gr. laga nr. 78/2015.   IV. Niðurstöður: Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort stefnda beri greiðsluskylda eftirstöðva láns samkvæmt síð­ari láns­samningnum, dagsettum 27. apríl 2008. Óumdeilt er að stefndi undirritaði umræddan lánssamning sem lántaki. Sam­­kvæmt láns­­­­samningnum var fjárhæð lánsins þar skýrlega tilgreind í ster­lings­­­pundum og var því um lögmætt lán í erlendri mynt að ræða. Með viðauka 16. apríl 2009 var gerð breyting á lánstíma o.fl. Í málinu liggur fyrir að tilefni þess að síðari lánssamningurinn var gerður var uppgjör á sjálfskuldarábyrgð stefnda vegna fyrri láns­samn­­­­ings­ins milli Lands­­banka Íslands hf. og Hydra ehf. en stefndi var í hlutfallslegri ábyrgð sem nam 44.671 sterlings­pundi vegna þess samnings. Með viðauka 1 með síðari lánssamningnum, dagsettum 25. júlí 2008, óskaði stefndi eftir ráðstöfun lánsins inn á fyrra lánið 31. sama mánaðar. Fyrir liggur að aðilaskipti urðu á kröfu stefnanda á hendur stefnda, sbr. ákvörðun Fjár­mála­eftirlitsins 9. október 2008. Stefndi heldur öllum mótbárum gegn kröfu stefnanda þrátt fyrir aðilaskiptin, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 21. nóvember 2013 í máli nr. 348/2013. Annað hliðstætt mál út af öðrum sjálfsskuldar­ábyrgðaraðila, sem var í hlut­falls­­legri ábyrgð út af sama láni til Hydra ehf., hefur áður verið til umfjöllunar fyrir dóm­­­stól­­um, sbr. dóm Hæstaréttar frá 11. maí 2017 í máli nr. 587/2016. Mála­tilbún­aður aðila í því máli er að mörgu leyti hliðstæður mála­tilbúnaði aðila í þessu máli enda samkynja sakarefni og atvik máls keimlík. Að því virtu hefur dóm­ur­inn leið­bein­ingar­­gildi fyrir úrlausn þessa máls. Í máli þessu háttar svo til að stefnandi lýsti fyrst kröfu í fyrrgreint þrotabú, aðal­skuld­ara samkvæmt fyrri lánssamningnum, með kröfulýsingu 28. júlí 2008, samtals að fjárhæð 93.210.868 krónur, sem send var innan kröfulýsingarfrests. Í niður­lagi kröfu­lýs­­ingar­innar var tekið fram að hún myndi taka breytingum vegna skuld­breytinga sjálf­­­­­­­­skuldar­ábyrgðaraðila. Þá var kröfulýsingin lækkuð 15. september sama ár, að liðn­­­­­­­­­­um kröfu­lýsingar­fresti, niður í 21.339.723 krónur, án samráðs við stefnda og var ástæðan fyrir lækkuninni sú að flestir ábyrgðaraðilar höfðu gert upp ábyrgðir sínar, þar með talið stefndi með síð­ara láninu sem hér er til umfjöllunar. Með þessu fékk stefn­­­­andi lægri úthlutun úr þrota­­­­­búinu sem nam 12.849.727 krónum. Þá liggur fyrir að stefndi lýsti ekki kröfu í um­rætt þrotabú. Hið sama á við um aðra ábyrgðarmenn sem gerðu upp ábyrgðir sínar. Stefndi reisir dómkröfur sínar á því að með þessu hafi stefn­­andi ekki lýst ýtrustu kröfum og þar með ekki gætt hagsmuna sinna til fulls og fallið frá rétti til greiðslu af óveðsettum eignum úr þrotabúinu. Þá hafi þetta verið gert án sam­ráðs við stefnda og leitt til tjóns fyrir hann og aðra sjálfskuldarábyrgðaraðila enda hafi stefnandi gengið að ábyrgðar­aðilunum áður en ljóst var hversu mikið fengist upp í lánið frá þrota­­búinu. Með þessu hafi verið farið gegn 103. gr. laga nr. 21/1991. Hátt­semi stefn­anda hafi að þessu leyti þýðingu við mat á ábyrgð hans og hvort víkja eigi til hliðar og ógilda fjárskuldbindingu hans sam­­kvæmt síðari lánssamningnum á grund­velli 36. gr. laga nr. 7/1936.  Stefnandi mótmælir framangreindum vörnum stefnda og tekur fram að 103. gr. laga nr. 21/1991 taki aðeins til óskiptrar ábyrgðar en ekki til hlutfallslegrar ábyrgðar. Stefn­­­andi bendir einnig á að stefnda hefði verið unnt að beina kröfu að þrotabúinu jafn­­vel þótt kröfulýsingarfrestur væri liðinn. Það hafi hann hins vegar ekki gert og stefn­­­andi geti ekki borið ábyrgð á því og hann ekki haft leiðbeiningarskyldu í því sam­bandi. Síðari lánssamningurinn hafi verið gerður um mánuði áður en þrotabúið var tekið til skipta með úrskurði 28. maí 2008. Kröfu­lýsingar­frestur hafi verið til 18. ágúst 2008. Þegar stefnandi hafi fengið ­­fyrirmæli frá stefnda 25. júlí sama ár um greiðslu inn á fyrra lánið þann 31. sama mánaðar út af ábyrgðinni, hafi kröfulýsingarfresturinn ekki verið lið­inn. Þetta hafi nítján aðrir ábyrgðar­aðilar gert með sama hætti og sumir tekið ný lán eins og stefndi en aðrir greitt með pen­ing­um á tímabili frá júní til sept­ember 2008. Enginn þeirra sem staðið hafi við ábyrgðir sínar hafi hins vegar lýst kröfum í þrota­búið. Þá hafi skipta­lok í búinu verið 20. sept­­­ember 2013 en fyrri út­hlutun úr því hafi verið í mars sama ár. Að þessu virtu hafi liðið um fimm ár frá greiðslu stefnda þar til byrjað var að úthluta úr búinu. Stefn­andi bendir á að hann hafi ekki verið eini kröfu­hafi þrota­búsins og því sé ljóst að bank­inn hafi ekki getað staðið á því að fá úthlutað miðað við upp­haf­lega kröfulýsingu þar sem ábyrgðar­­­mennirnir lýstu ekki kröfum í búið. Ef það hefði gerst þá hefði það bitnað á öðrum kröfuhöfum sem lýstu kröfum í búið. Þá komi hvergi fram í lögum að stefnanda, sem kröfuhafa, hafi verið óheimilt að lækka kröfuna í þrotabúið en sú ráðstöfun hafi verið eðlileg og sam­rýmst 104. gr. laga nr. 21/1991. Það liggur í eðli sjálfskuldarábyrgðar að ­ábyrgðarmaður tekur að sér skuld aðal­skuld­ara eins og hann hefði sjálfur stofnað hana. Að því virtu verður hann almennt sjálfur að gæta að því að hann bíði ekki tjón við sjálf­skuldar­­ábyrgð­­ina eins og hverju öðru er hann kann að ráðast í. Kröfu­hafi hefur almennt ekki skyldu til að gæta hags­muna sjálfskuldar­ábyrgðarmanns í þessu tilliti. Annað mál er það að samkvæmt megin­­­­­­­­­­­­reglum kröfuréttar getur kröfuhafi ekki með því að gæta ekki að rétti sínum aukið skuld­bind­­­ingu ábyrgðar­manns. Í máli þessu háttar svo til að ábyrgð stefnda vegna skuldar þrotabúsins var hlutfallsleg en ekki óskipt. Ákvæði 103. gr. laga nr. 21/1991 taka samkvæmt orðanna hljóðan aðeins til óskiptrar ábyrgðar. Sambærilegum ákvæðum er ekki til að dreifa í þeim lögum sem taka til hlutfallslegrar ábyrgðar í þessu tilliti. Markmið og tilgangur ákvæðanna er að standa vörð um hagsmuni kröfu­hafa og ábyrgðarmanna. Við skýringu á 103. gr. laga nr. 21/1991 verður að líta til þess til­gangs lagagreinarinnar, að tryggja að úthlutun vegna tiltekinnar kröfu fari ekki um­fram þá hlutdeild sem í hennar hlut skal koma miðað við heildarfjárhæð kröfunnar en þessi verkan greinarinnar tryggir rétt annarra kröfuhafa. Þá ber einnig að leggja til grund­­­vallar þá reglu lagagreinarinnar að kröfuhafa er rétt að lýsa heildarfjárhæð kröfu í þrota­bú skuldara, þótt hún hafi að einhverju leyti fengist greidd frá ábyrgðar­mönnum, eða líkur standi til þess að greiðsla muni berast frá þeim. Síðar, eða við lok skipta, skal svo koma til lokauppgjörs ef hallar á einhvern í þeim lögskiptum, sbr. 104. gr. sömu laga. Ekki verður séð að skilsmunur óskiptrar og hlutfallslegrar sjálfskuldar­ábyrgðar hafi þýð­­­ingu í þessu sambandi þegar svo háttar til sem í þessu máli að þrota­maður er einn skuldari og ber ábyrgð á skuldinni allri. Að þessu virtu þykir rétt að beita ákvæðum 103. gr. laga nr. 21/1991 um hlutfallslega sjálfskuldarábyrgð í framan­greindu tilliti eins og um væri að ræða óskipta sjálfskuldarábyrgð. Fyrir liggur að stefn­­­­­andi lýsti upp­haflega kröfu í þrotabúið 28. júlí 2008 en lækkaði kröfu­lýsingu sína í það 15. september sama ár, eftir að hann fékk greitt frá stefnda, sem leiddi til þess að hann fékk lægri úthlutun við skiptalok sem nam 12.849.727 krón­um. Fjárhæðin er óumdeild milli aðila og er hún hærri en stefnu­fjár­hæð í þessu máli. Með þessu gerði stefn­­andi ekki ýtrustu kröfur á hendur þrota­­búinu til að tak­marka tjón sitt vegna van­efnda þrota­búsins sem aðalskuldara á greiðslu skuld­­­­­ar­­innar. Lækkunin á kröfu­­­lýsing­unni var and­stæð því sem til var ætlast sam­kvæmt 103. gr. laga nr. 21/1991 og hún var gerð án sam­­­­ráðs við stefnda. Stefnandi gætti því ekki að rétti sínum í sam­ræmi við lög við skipti á þrotabúinu og til tjóns fyrir stefnda. Að virtum þessum atvik­um verður að telja að stefnandi hafi í raun ekki sýnt fram á að hann eigi lögvarða kröfu á hendur stefnda og verður því fallist á með stefnda að rétt sé að víkja síðari láns­samn­­ingnum til hliðar á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Þessu til viðbótar liggur fyrir að undir rekstri máls þessa, eftir að varnir stefnda komu fram um að krafan á hendur honum væri upp­greidd, voru lögð fram gögn af hálfu stefnanda, útreikningar og fylgiskjöl, þar sem leitast var við að sýna fram á hið gagn­­­­­stæða. Stefndi gerði athugasemdir við þau gögn og lagði meðal annars fram þrjár kvittanir, dagsettar 30. júní 2008, vegna innborgana sem hann taldi að ekki hefði verið tekið tillit til, sam­tals að fjárhæð 14.093.472 krónur, vegna fyrra lánsins. Sú fjárhæð er hærri en stefnu­fjárhæð í máli þessu. Þegar að því virtu væri ljóst að lánið, sem stefndi var í ábyrgð fyrir, væri upp­greitt. Stefn­­andi brást við þessu með því að leggja fram þrjár bak­færslukvittanir vegna sama láns með sömu fjárhæð, auk þess sem hann lagði fram yfir­lýsingu frá innheimtu­stýr­ingu stefnanda, dagsetta 21. september 2018, ásamt tveimur yfirlitum auðkenndum nr. I og II með fylgiskjölum. Í yfir­­lýs­ing­unni greinir meðal annars að ekki hafi varð­veist í kerfum stefn­­anda skýr­ingar á bakfærslunum að öðru leyti en því að greiðslur sem fóru inn á lánið 30. júní 2008 hafi ekki átt að fara inn á það. Til að bak­færa greiðslurnar hafi þurft að bak­færa allar aðrar greiðslur frá þeim tíma til 1. sept­ember 2008 og setja þær svo aftur inn á lánið. Stefndi byggði á því við aðal­meðferð að stefnandi hefði með hliðsjón af framan­greindum gögnum ekki sýnt fram á það að krafan á hendur honum væri lögvarin og ekki þegar ­greidd. Þá tók stefn­andi efnis­lega afstöðu til varna stefnda á þessum grund­velli og vís­aði til fyrr­greindra gagna og fylgiskjala og gerði nánar grein fyrir þeim. Að þessu virtu komast fyrr­­greindar máls­­ástæður að í málinu. Vitnið Einar Pétursson, starfsmaður stefn­anda, kom ekki að gerð fyrrgreindrar yfir­­lýsingar innheimtustýringar og gat ekki borið um hvaða forsendur lágu henni til grundvallar. Þá leiddi stefnandi ekki önnur vitni til að skýra bak­færslurnar eða efni yfirlýsingar­innar og gögn sem henni fylgdu. Bakfærslu­kvittanirnar eru dagsettar 16. og 18. maí 2018, sem er eftir að mál þetta var höfðað og stuttu áður en skjölin voru lögð fram. Skjölin bera því ekki með sér að vera sam­­tíma­gögn um bak­færslur sem hefði verið eðlilegt í almennu tilliti í máli af þessum toga. Bak­­færslukvittanirnar eru gefnar út af stefnanda en ekki forvera hans, Landsbanka Íslands hf. Nöfn starfs­manna koma ekki fram á bak­færslukvitt­unum gagn­stætt því sem almennt á við um greiðslu­kvitt­anir sem liggja fyrir í málinu. Þá er ósamræmi í greiðslu­­­­auðkennum samkvæmt yfirliti nr. I um inn­borganir á lánið og yfirliti nr. II um bak­færslur, sbr. fyrrgreinda yfir­lýsingu inn­heimtu­stýringar. Að mati dóms­­­ins eru fyrr­greind sóknar­gögn svo ófull­komin að ekki fæst sam­rýmst því sem ætlast má til um gæði og áreiðanleika gagna sem stafa frá fjár­mála­­stofnun til fram­­lagn­ingar í þágu með­­­­­ferðar máls fyrir dómi og ætlað er að sýna fram á lögvarða kröfu á hendur skuld­ara. Af þessu leiðir að stefnandi hefur ekki fært fram viðhlítandi sönnur fyrir því að krafa hans á hendur stefnda sé ekki þegar greidd. Að öllu framan­greindu virtu verður stefndi sýknaður af kröfum stefn­anda. Með vísan til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem ræðst af málskostnaðarreikningi stefnda, 2.369.035 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.   Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Ásgeir Jónsson lögmaður. Af hálfu stefnda flutti málið Hjalti S. Mogensen lögmaður. Daði Kristjánsson, héraðsdómari og dómsformaður, kveður upp dóm þennan ásamt með­­dómsmönn­unum Ástráði Haraldssyni héraðsdómara og Sigurbirni Einars­syni við­skipta­­­fræðingi.   D Ó M S O R Ð:        Stefndi, Sigmar Júlíus Eðvarðsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Landsbankans hf.        Stefnandi greiði stefnda 2.369.035 krónur í málskostnað.
Mál nr. 31/2020
Kærumál Hæfi dómara Stjórnarskrá Mannréttindasáttmáli Evrópu Réttlát málsmeðferð
A og B kröfðust þess að landsréttardómarinn AE viki sæti í máli þeirra á hendur C vegna ætlaðrar neikvæðrar afstöðu hennar til lögmanns þeirra vegna starfa hans við rekstur dómsmáls fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu er varðaði skipun hennar við Landsrétt. Máli sínu til stuðnings vísuðu A og B til opinberlega birtra skrifa eiginmanns AE annars vegar í yfirlýsingu sem lögð var fram fyrir Mannréttindadómstólnum og hins vegar í Facebook-færslu hans og til ummæla mágs AE við þá færslu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt vinátta eða fjandskapur dómara eða einstaklinga sem nákomnir væru dómaranum við lögmann aðila geti undir vissum kringumstæðum valdið því að óhlutdrægni dómara verði með réttu dregin í efa, yrði þó ekki beitt jafn ströngum mælikvarða og þegar málsaðili ætti í hlut. Þá yrðu ummælum einstaklinga nákominna dómaranum ekki jafnað til ummæla dómarans sjálfs. Að virtu efni ummæla eiginmanns AE og mágs hennar taldi Hæstiréttur ekkert komið fram í málinu sem valdið gæti því að draga mætti óhlutdrægni AE með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu A og B um að AE viki sæti í málinu var því hafnað.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 19. október 2020 en kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Kærður er úrskurður Landsréttar 9. október 2020 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að landsréttardómarinn Arnfríður Einarsdóttir viki sæti í máli varnaraðila gegn sóknaraðilum. Kæruheimild er í b-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að fyrrnefnd krafa þeirra verði tekin til greina. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. I 1 Sóknaraðilar höfðuðu málið á hendur varnaraðila til ómerkingar ummæla og greiðslu miskabóta 20. september 2018. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2019 voru kröfur sóknaraðila teknar til greina. Varnaraðili skaut málinu til Landsréttar 15. október 2019. Í kjölfar þess að aðilum var tilkynnt um hvaða dómarar tækju sætu í dómi í málinu kröfðust sóknaraðilar þess að einum dómaranna, Arnfríði Einarsdóttur, yrði gert að víkja sæti. Þeirri kröfu hafnaði Landsréttur með hinum kærða úrskurði. 2 Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson var lögmaður sóknaraðila í þessu máli fyrir héraðsdómi og Landsrétti og er það einnig fyrir Hæstarétti. Hann var jafnframt verjandi manns, Guðmundar Andra Ástráðssonar, sem ákærður var í janúar 2017 í öðru máli, alls ótengdu þessu máli og dæmdur þar til refsingar í dómi uppkveðnum í héraði 23. mars sama ár. Sá dómur var staðfestur með dómi Landsréttar 23. mars 2018. Síðastnefndum dómi var áfrýjað til Hæstaréttar 20. apríl sama ár og krafðist ákærði í því máli þess aðallega að dómurinn yrði ómerktur. Var krafan reist á því í meginatriðum að nánar tilgreindir annmarkar hefðu verið á skipun Arnfríðar Einarsdóttur, eins þriggja dómara í málinu fyrir Landsrétti og hefðu þeir valdið því að ekki væri fullnægt skilyrði 59. gr. stjórnarskrárinnar og 2. málsliðar 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um að skipun dómara skuli vera ákveðin með lögum. Þetta hafi að auki leitt til þess að fyrir Landsrétti hafi ákærði í því máli ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. málslið 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans. Þessari kröfu var hafnað í dómi Hæstaréttar 24. maí 2018 í máli nr. 10/2018 og dómur Landsréttar staðfestur. Dómfelldi í hæstaréttarmálinu nr. 10/2018 bar fram kvörtun við Mannréttindadómstól Evrópu 31. maí 2018, sem reist var á sama grunni og fyrrnefnd aðalkrafa hans fyrir Hæstarétti og gætti sami lögmaður hagsmuna dómfellda á þeim vettvangi. Mannréttindadómstóllinn kvað upp dóm 12. mars 2019 í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn Íslandi og komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu með því að kærandi hafi ekki við meðferð máls síns fyrir Landsrétti notið réttar til að fá leyst úr því fyrir dómstóli sem skipaður hafi verið að lögum. Byggðist sú niðurstaða einkum á því að málsmeðferð við skipun dómarans hefði falið í sér alvarleg brot á lögum sem gilt hafi um skipunina. Íslenska ríkið óskaði eftir því að málinu yrði vísað til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu, sbr. 43. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og var orðið við þeirri beiðni. Dómur yfirdeildar í málinu var kveðinn upp 1. desember 2020. Þar var staðfest að íslenska ríkið hefði brotið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Niðurstaða dómstólsins byggðist á því að svo alvarlegir ágallar hefðu verið á málsmeðferð við skipun dómarans að vegið hefði verið að kjarna réttar kæranda til meðferðar fyrir dómstóli sem skipaður væri að lögum. 3 Arnfríður Einarsdóttir var öðru sinni skipuð dómari við Landsrétt með skipunarbréfi forseta Íslands 16. júní 2020 að undangengnu hæfnismati þar sem hún var metin hæfust umsækjenda og hefur frá þeim tíma sinnt dómstörfum við dómstólinn. Sóknaraðilar reisa kröfu sína um að dómarinn víki sæti á því að hún hafi beinna og verulegra hagsmuna að gæta af niðurstöðu dómsmáls þess sem lögmaður þeirra rak fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Neikvæð afstaða dómarans í garð lögmanns þeirra sé ekkert leyndarmál enda hafi hún farið víða með þá skoðun sína. Það sama eigi við um eiginmann dómarans, Brynjar Níelsson alþingismann. Sóknaraðilar telja að óánægja og reiði dómarans og eiginmanns hennar vegna þeirra afleiðinga sem dómur mannréttindadómstólsins hafi nú þegar haft fyrir hana hafi því beinst að lögmanni þeirra. Þá sé óvíst hvaða afleiðingar endanlegur dómur Mannréttindadómstóls Evrópu muni hafa fyrir dómarann. Séu því til staðar atvik og aðstæður til þess fallnar að draga megi óhlutdrægni dómarans með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991.  Sóknaraðilar benda á að í greinargerð lögmanns þeirra fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu hafi meðal annars verið á því byggt að ,,spilling og valdníðsla“ hafi átt þátt í skipun dómarans og hún hafi verið liður í ,,pólitískum hrossakaupum“ innan Sjálfstæðisflokksins en Brynjar Níelsson eiginmaður dómarans sé þingmaður flokksins. Benda sóknaraðilar því til stuðnings á að fyrir mannréttindadómstólinn hafi verið lögð skrifleg yfirlýsing eiginmannsins 10. janúar 2020 sem beri með sér að hafa verið send að beiðni ríkislögmanns vegna reksturs framangreinds máls fyrir mannréttindadómstólnum. Í upphafsorðum yfirlýsingarinnar komi fram að efni hennar varði viðbrögð við samsæriskenningum um meinta spillingu sem komi fram í greinargerð lögmanns sóknaraðila í framangreindu máli. Sóknaraðilar vísa sérstaklega til eftirfarandi setninga og setningarhluta í yfirlýsingunni:  ,,Þessar aðdróttanir og samsæriskenningar eru hugarburður og eiga sér enga stoð í veruleikanum. Hér er verið að reyna að skapa andrúmsloft spillingar og hrossakaupa án þess að nokkur gögn styðji slíkt ... Þessi tillaga mín virðist vera kveikjan að framangreindum  aðdróttunum og samsæriskenningum kæranda, eða lögmanns hans, en lögmaðurinn skrifaði grein undir eigin nafni í víðlesnasta dagblaði á Íslandi snemma í júlí 2018 þar sem þessar aðdróttanir komu fram ... Að lokum er rétt að taka fram að ég starfaði sem lögmaður á Íslandi í áratugi fram að lokum árs 2015. Ég var einnig formaður Lögmannafélags Íslands frá 2010 til 2012. Ég hef ekki á öllum þeim lögmannsferli mínum orðið vitni að slíkum rakalausum aðdróttunum lögmanns sem koma fram í greinargerð lögmanns kæranda þessa máls.“ Að mati sóknaraðila verði framangreind orð eiginmanns dómarans ekki skilin með öðrum hætti en þeim að lögmaður þeirra hafi gerst sekur um stórkostlegar ærumeiðingar í garð dómarans, eiginmanns hennar og Sigríðar Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, og verði að ætla að dómarinn sé sömu skoðunar. Telja sóknaraðilar fullyrðingu eiginmanns dómarans hlutlægt séð til þess fallna að draga megi með réttu í efa óhlutdrægni dómarans við úrlausn þess máls sem lögmaðurinn reki fyrir þeirra hönd. Sóknaraðilar vísa enn fremur til skrifa eiginmanns dómarans á opinni Facebook-síðu hans 10. júlí 2018 þar sem hann geri blaðagrein lögmanns sóknaraðila um skipan dómara í Landsrétt að umfjöllunarefni. Í færslunni vísi hann ávirðingum lögmannsins um tengsl tilnefningar Sigríðar Á. Andersen í oddvitasæti lista Sjálfstæðisflokksins og skipun eiginkonu hans í Landsrétt á bug og lýsi þeim sem spörkum í pólitíska andstæðinga. Sóknaraðilar vísa jafnframt til athugasemda Gústafs Níelssonar mágs dómarans við færsluna, en þar spái hann því að lögmannsstörfin verði lögmanni sóknaraðila „þungbær brekka í framtíðinni“. Telja sóknaraðilar opinber skrif eiginmanns dómarans og fyrrgreind ummæli mágs hennar almennt vera til þess fallin að dregið verði með réttu í efa hlutleysi dómarans við úrlausn mála sem lögmaður þeirra reki þar sem hún situr í dómi. Í málinu hefur auk ofangreindra skjala verið lagt fram skjal á ensku sem ber yfirskriftina „Statement“ og virðist vera ritað 15. janúar 2020 af Sigríði Á. Andersen að beiðni ríkislögmanns til framlagningar í fyrrgreindu máli fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Þar vísa sóknaraðilar sérstaklega til eftirfarandi setningarhluta: ,,As regards AE, which this case is all about“. Enn fremur hefur verið lagt fram skjal af hálfu sóknaraðila á ensku sem mun vera afrit af spurningum dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, Egidijus Kuris, til lögmanna aðila í fyrrgreindu máli fyrir yfirdeild dómstólsins. II 1 Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að fyrrnefndum lögum segir að skilyrðið um óhlutdrægan dómstól feli í sér áskilnað um að dómari í máli þurfi að vera hlutlaus og að aðilar njóti jafnræðis að því leyti, en ákvæðið sæki fyrirmynd sína til 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Samkvæmt g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 er dómari vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru atvik eða aðstæður sem fallnar eru til þess að draga megi óhlutdrægni hans með réttu í efa. Þegar lagt er mat á hæfi dómara til að fara með mál verður að gæta að því að tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er ekki einungis að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum máls og efni þess, heldur einnig að tryggja traust aðilanna jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari standi að úrlausn máls í tilviki þar sem réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans. Sé réttmætur vafi um óhlutdrægni dómara er óhjákvæmilegt að hann víki sæti í máli, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 1. júní 2017 í máli nr. 90/2016 og 22. apríl 2015 í máli nr. 511/2014. Af hálfu sóknaraðila er krafa þeirra um að landsréttardómarinn víki sæti einvörðungu reist á því að hún hafi neikvæða afstöðu til lögmanns þeirra vegna starfa hans í þágu kæranda í fyrrnefndu máli fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu og hafa sóknaraðilar því til stuðnings meðal annars lagt fram framangreind gögn um opinberlega birt skrif eiginmanns dómarans og ummæli mágs hennar við færslu eiginmanns hennar á Facebook-síðu hans.   2 Samkvæmt dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hefur við úrlausn um það hvort dómari telst óvilhallur í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verið greint á milli athugunar er miðar að því að ganga úr skugga um hvaða viðhorf hafa ráðið hjá dómara í tilteknu máli (huglægur mælikvarði) og athugunar á því hvort til staðar eru hlutlæg atriði sem gefi réttmætt tilefni til að draga í efa að dómari sé óvilhallur (hlutlægur mælikvarði). Samkvæmt hinum huglæga mælikvarða um hæfi dómara verður, varðandi persónulega afstöðu hans, að gera ráð fyrir því að dómari sé hæfur til meðferðar máls nema sýnt sé fram á hið gagnstæða. Af hálfu sóknaraðila hafa ekki verið lögð fram gögn er sýna fram á að Arnfríður Einarsdóttir hafi þá persónulegu afstöðu til málsaðila, sakarefnisins eða lögmanns málsaðila að hæfi hennar verði með réttu dregið í efa. Árétta ber að enda þótt lögmaður sóknaraðila hafi lýst því yfir að ,,spilling og valdníðsla“ hafi átt þátt í skipun dómarans og hún hafi verið liður í ,,pólitískum hrossakaupum“ getur hann ekki með slíkum ummælum valdið því að dómarinn verði talinn vanhæfur til meðferðar máls, enda þótt ummælin eða yfirlýsingin gætu verið til þess fallin að vekja neikvæð hughrif hjá dómara gagnvart þeim sem ummælin stafa frá. Það færi í bága við þá grundvallarreglu, sem er einn þáttur í réttarríki, að aðilar velji sér ekki dómara og dómarar velji sér ekki þau mál sem þeir dæma.  3 Þegar meta skal hvort draga má óhlutdrægni dómarans með réttu í efa ber jafnframt að líta til þess út frá hlutlægum mælikvarða hvort fyrir hendi eru sýnileg ytri atvik eða aðstæður sem gefi réttmætt tilefni til að óttast megi um hlutlægni hennar í þessu máli. Ekki er nægilegt að dómari sjálfur telji sig óhlutdrægan heldur verður ásýnd dómstóls að vera með þeim hætti að ekki sé uppi réttmætur vafi um hlutlægni dómara. Eins og rakið hefur verið hlaut Arnfríður Einarsdóttir öðru sinni skipun í embætti dómara við Landsrétt 16. júní 2020. Ekki hefur verið sýnt fram á að hún hafi slíka persónulega eða fjárhagslega hagsmuni af fyrrgreindu máli sem lögmaður sóknaraðila hefur rekið fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu og lauk með dómi 1. desember 2020 að réttmætt tilefni sé af þeirri ástæðu til að draga óhlutdrægni hennar í máli þeirra í efa. Þau tilvik sem sóknaraðilar telja valda því að draga megi hlutlægni dómarans í efa eru annars vegar ummæli eiginmanns hennar í færslu á Facebook-síðu hans og athugasemd mágs hennar við þá færslu og hins vegar yfirlýsing sem eiginmaður hennar gaf við rekstur fyrrgreinds máls sem lögmaður aðila málsins rak fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Um þessi atriði ber að horfa til þess að þótt vinátta eða fjandskapur dómara eða einstaklinga sem nákomnir eru dómaranum við lögmann aðila geti undir vissum kringumstæðum valdið því að óhlutdrægni dómara verði með réttu dregin í efa verður þó ekki beitt jafn ströngum mælikvarða og þegar málsaðili á í hlut, sbr. dóm Hæstaréttar 7. febrúar 2007 í máli nr. 57/2007. Ummæli eiginmanns dómarans voru sett fram á opinni Facebook-síðu hans þar sem hann brást við skrifum í blaðagrein lögmanns sóknaraðila sem fjallaði um aðdraganda að skipun dómara í Landsrétt í tengslum við framangreint mál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Yfirlýsing eiginmanns dómarans sem hann gaf að ósk ríkislögmanns var sett fram vegna þess sama máls. Í upphafsorðum yfirlýsingarinnar kom fram að efni hennar varði viðbrögð við samsæriskenningum um meinta spillingu sem settar séu fram í greinargerð lögmanns sóknaraðila fyrir mannréttindadómstólnum. Ummælin, sem rakin voru í I. kafla undir lið 3, fela í báðum tilvikum í sér neikvæða afstöðu til málatilbúnaðar lögmanns sóknaraðila í því máli. Á hitt ber að líta að þau lutu einvörðungu að störfum lögmannsins í tengslum við málið sem hann rak fyrir mannréttindadómstólnum en með engum hætti að sakarefni máls þessa eða aðilum þess. Þá verður slíkum ummælum eiginmanns dómarans, sem fela í sér neikvæða afstöðu til starfa lögmanns sóknaraðila í tilteknu máli, ekki jafnað til ummæla dómarans sjálfs.   Ummæli mágs dómarans á Facebook-síðu eiginmanns hennar um að lögmanni sóknaraðila muni reynast lögmannstörfin ,,þungbær brekka“ í framtíðinni lúta á hinn bóginn ekki að tilteknu máli heldur að störfum lögmanns sóknaraðila í framtíðinni. Ummælin eru gildishlaðin en þau ber að skoða í ljósi þess sem að framan er rakið að neikvæð afstaða einstaklinga nákominna dómaranum til lögmanns aðila verða ekki lögð að jöfnu við slíka afstöðu dómarans sjálfs. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að dómarinn hafi hvatt til ummæla eiginmanns síns og mágs, samþykkt þau eða að þau endurspegli huglæga afstöðu dómarans til lögmanns sóknaraðila, sbr. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 18. júlí 2019 í máli Rustavi 2 Broadcasting Company LTD og fleiri gegn Georgíu. Þegar allt framangreint er virt hefur ekkert komið fram í málinu sem valdið getur því að draga megi óhlutdrægni landsréttardómarans Arnfríðar Einarsdóttur með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Kröfu sóknaraðila um að hún víki sæti í málinu er því hafnað og hinn kærði úrskurður staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.   Úrskurður Landsréttar 9. október 2020 Landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson og Oddný Mjöll Arnardóttir kveða upp úrskurð í máli þessu. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1      Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 15. október 2019 að fengnu áfrýjunarleyfi. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2019 í málinu nr. E-3247/2018. Í þessum þætti málsins er aðeins til úrlausnar krafa stefndu um að einum dómara málsins, Arnfríði Einarsdóttur, verði gert að víkja sæti vegna vanhæfis. 2      Af hálfu áfrýjanda hefur því verið lýst yfir að hún láti málið ekki til sín taka að þessu leyti og geri engar kröfur í þessum þætti málsins. Málsástæður aðila 3      Í bréfi lögmanns stefndu sem barst Landsrétti 31. júlí 2020 kom fram krafa um að fyrrgreindur dómari viki sæti í málinu. Munnlegur málflutningur fór fram um kröfuna í þinghaldi 28. september 2020. 4      Stefndu reisa kröfuna á g-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í fyrrgreindu bréfi lögmanns stefndu er vísað til þess að lögmaðurinn sé einnig lögmaður Guðmundar Andra Ástráðssonar í máli hans gegn íslenska ríkinu sem rekið sé fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, mál nr. 26374/2018. Með dómi undirdeildar mannréttindadómstólsins, uppkveðnum 12. mars 2019, hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að lög hafi verið brotin við skipun Arnfríðar í embætti dómara við Landsrétt vorið 2017 og að hún sé því ekki með réttu handhafi dómsvalds þar sem skipun hennar hafi ekki uppfyllt áskilnað 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þess efnis að skipan dóms skuli ákveðin með lögum. Íslenska ríkið hafi skotið þessari niðurstöðu undirdeildarinnar til yfirdeildar dómstólsins og hafi málið verið flutt þar og dómtekið 5. febrúar 2020 en bíði dóms.  5      Í bréfi lögmannsins er jafnframt rakið að í máli umbjóðanda hans fyrir mannréttindadómstólnum sé meðal annars byggt á því að það hafi verið spilling og valdníðsla að skipa Arnfríði sem dómara við Landsrétt á kostnað annarra umsækjenda sem hafi verið metnir hæfari. Hafi það meðal annars verið rökstutt með vísan til þess að tæpum þremur mánuðum eftir að Sigríður Á. Andersen, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, hafi skipað Arnfríði sem dómara við Landsrétt, hafi eiginmaður Arnfríðar, Brynjar Níelsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, látið Sigríði eftir efsta sætið á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður við alþingiskosningar sem fram hafi farið í október 2017. 6      Lögmaður stefndu segir jafnframt í bréfinu: „Afstaða Arnfríðar til mín persónulega vegna þessara lögmannstarfa minna í þágu umbjóðanda míns Guðmundar Andra Ástráðssonar er að mínu mati ekkert leyndarmál enda hefur hún ekki farið leynt með þá skoðun sína og viðrað hana víða. Það sama á við um eiginmann Arnfríðar, Brynjar Níelsson.“ Síðan er tekið fram að þótt Arnfríði sé frjálst að hafa hverja þá skoðun á lögmanninum og lögmannsstörfum hans sem henni sýnist sé augljóst að þessi afstaða hennar til lögmannsins og starfa hans í þágu umbjóðanda hans í máli Mannréttindadómstóls Evrópu nr. 26374/2018, sem varði hana beint og persónulega, leiði til þess að hana bresti hæfi til að taka sæti í dómi í máli Landsréttar nr. 678/2019. Eigi stefndu enda skýlausan og ótvíræðan rétt á því að mál þeirra fái réttláta málsmeðferð fyrir sjálfstæðum og óhlutdrægum dómstóli. 7      Fyrir liggur að Arnfríður Einarsdóttir var öðru sinni skipuð til að gegna embætti landsréttardómara með skipunarbréfi forseta Íslands dagsettu 16. júní 2020. Áður en til þeirrar skipunar kom hafði hún verið metin hæfust umsækjenda til starfans af dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara samkvæmt lögum nr. 50/2016 um dómstóla.  Niðurstaða 8      Í máli þessu er til úrlausnar krafa áfrýjanda, C, um að áfrýjuðum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2020 verði hrundið og breytt á þá leið að áfrýjandi verði sýknuð af öllum kröfum stefndu en til vara að dómkröfur stefndu verði lækkaðar verulega. Stefndu krefjast þess fyrir Landsrétti að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjandi verði dæmd til að greiða stefndu málskostnað. Með hinum áfrýjaða dómi voru ómerkt tilgreind ummæli, sem áfrýjandi lét falla á Facebook-síðu sinni vegna sakamáls þar sem stefndu voru sakborningar, og áfrýjanda gert að greiða stefndu miskabætur, auk þess sem henni var gert að greiða málskostnað stefndu. 9      Af hálfu stefndu er krafa þeirra um að Arnfríður Einarsdóttir landsréttardómari víki sæti ekki reist á því að hún sé vanhæf til að fara með málið vegna þess að hún eða einstaklingar nákomnir henni hafi á einhvern hátt hagsmuna að gæta í tengslum við sakarefni þessa máls, aðila máls eða vitni í málinu. Byggist krafan einvörðungu á því að Arnfríður hafi neikvæða afstöðu til lögmanns stefndu vegna starfa hans í þágu umbjóðanda hans í máli Mannréttindadómstóls Evrópu nr. 26374/2018 svo sem áður er rakið. 10     Af hálfu stefndu hafa verið lögð fram fjögur skjöl til stuðnings kröfunni um að Arnfríður víki sæti sem dómari í þessu máli. Í fyrsta lagi er um að ræða útprentun á Facebook-færslu eiginmanns hennar 10. júlí 2018. Eru þar af hálfu stefndu undirstrikuð eftirfarandi ummæli: „Stundum ber kappið fegurðina ofurliði þegar sparka þarf í pólitíska andstæðinga. Slíkt henti gamlan kollega, Vilhjálm H. Vilhjálmsson, eða Villa Vill, eins og hann er gjarnan nefndur, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í morgun um skipan í Landsrétt“ og „[h]ún var einkum tilkomin af feminískum áhuga flokksbróðursins.“ Þá eru í útprentuninni undirstrikuð ummæli bróður eiginmannsins og mágs Arnfríðar, Gústafs Níelssonar, við færsluna: „Þessi Villi Vill er dæmigerður Con Man, hrappur eða svindlari“ og jafnframt hluti annarra ummæla þar sem segir: „Lífið er létt, þangað til að þú „hleypur“ á vegginn. Spái því að lögmannsstörfin verið honum þungbær brekka í framtíðinni.“ 11     Í öðru lagi er lagt fram skjal á ensku sem ber yfirskriftina Statement og ber þess merki að vera ritað 15. janúar 2020 af Sigríði Á. Andersen að beiðni ríkislögmanns til framlagningar í framangreindu máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn íslenska ríkinu. Þar hefur eftirfarandi setningarhluti verið undirstrikaður: „As regards AE, which this case is all about, ...“ 12     Þriðja skjalið er yfirlýsing eiginmanns Arnfríðar 10. janúar 2020 sem ber með sér að hafa verið send að beiðni ríkislögmanns vegna reksturs framangreinds máls fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Kemur fram í upphafsorðum skjalsins að efni þess varði viðbrögð við samsæriskenningum um meinta spillingu sem komi fram í greinargerð lögmanns kæranda í framangreindu máli. Í skjalinu hafa eftirfarandi setningar eða setningarhlutar verið undirstrikaðir af hálfu stefndu: „... sem fram koma í greinargerð lögmanns kæranda ...“, „[í] greinargerð Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, lögmanns, til MDE fyrir hönd kæranda ...“, „[þ]essar aðdróttanir og samsæriskenningar eru hugarburður og eiga sér enga stoð í veruleikanum. Hér er verið að reyna að skapa andrúmsloft spillingar og hrossakaupa án þess að nokkur gögn styðji slíkt.“, „[þ]essi tillaga mín virðist vera kveikjan að framangreindum aðdróttunum og samsæriskenningum kæranda, eða lögmanns hans, en lögmaðurinn skrifaði grein undir eigin nafni í víðlesnasta dagblaði á Íslandi snemma í júlí 2018 þar sem þessar aðd[r]óttanir komu fram“ og „[a]ð lokum er rétt að taka fram að ég starfaði sem lögmaður á Íslandi í áratugi fram að lokum árs 2015. Ég var einnig formaður Lögmannafélags Íslands frá 2010 til 2012. Ég hef ekki á öllum þeim lögmannsferli mínum orðið vitni að slíkum rakalausum aðdróttunum lögmanns sem koma fram í greinargerð lögmanns kæranda þessa máls.“    13     Fjórða og síðasta skjalið sem lagt var fram af hálfu stefndu í tengslum við þá kröfu þeirra, sem hér er til úrlausnar, er á ensku og mun vera afrit af hluta af spurningum dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, Egidijus Kuris, til lögmanna aðila í máli dómstólsins nr. 26374/2018 undir rekstri þess og svör við þeim. Þar hafa eftirfarandi setningar eða setningarhlutar verið undirstrikaðir: „Was there any logic in that? Specially in the light of Applicant´s representative remark that a female judge who was numer 22 was not selected to the new composition but a female judge (sic) that was number 30 was selected?“ og „[m]y third question is partly promoted from judge´s PPDA question about this alleged swap of services or horse trading the chairman of the parliamentarian committee given his place on the party´s list to the Minister not just long after his wife nomination to the judicial position. My question would be a very straight forward: Could you please tell whether that was: A coincidence, a lack of judgement or a quit pro quo?“ 14     Samkvæmt g-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991 er dómari vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður en þær sem taldar eru í a- til f-liðum sama ákvæðis sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. 15     Tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum máls og efni þess en einnig að tryggja traust aðila jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari standi að úrlausn í máli þar sem réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans. Sé með réttu vafi um óhlutdrægni dómara er óhjákvæmilegt að hann víki sæti í máli. 16     Svo sem áður er rakið var Arnfríður að nýju skipuð í embætti dómara við Landsrétt með skipunarbréfi forseta Íslands dagsettu 16. júní 2020 eftir að hún hafði verið metin hæfust allra umsækjenda. Ekki hefur komið fram nein athugasemd við þá skipun og ljóst að Arnfríður hefur ekki lengur hagsmuni af niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í framangreindu máli. 17     Þrátt fyrir að stefndu byggi á því að Arnfríður hafi neikvæða afstöðu til lögmanns þeirra og fullyrt sé að hún hafi ekki legið á þeirri skoðun sinni, er hvergi í gögnum málsins að finna upplýsingar um að Arnfríður hafi viðrað neikvæðar skoðanir í garð lögmannsins. Málsástæða þessi er því með öllu haldlaus og verður ekki á henni byggt. 18     Kemur þá til úrlausnar hvort skrif Brynjars Níelssonar, eiginmanns Arnfríðar, og Gústafs Níelssonar, mágs hennar, og önnur þau gögn, sem lýst er hér að framan, leiði til þess að draga megi óhlutdrægni dómarans með réttu í efa. 19     Samkvæmt hinum hlutlægu reglum d- til f-liða 5. gr. laga nr. 91/1991 er dómari ávallt vanhæfur ef einstaklingur honum nákominn er aðili máls, fyrirsvarsmaður aðilans, málflytjandi, vitni, mats- eða skoðunarmaður eða maður sem neitar að láta af hendi sönnunargögn í málinu. Þegar lagt er mat á hæfi dómara samkvæmt g-lið sama ákvæðis verður einnig að líta til þess hvort aðilar nákomnir honum tengist dómsmálinu á þann hátt að draga megi óhlutdrægni dómarans með réttu í efa og verður í hverju tilviki að leggja heildstætt mat á þau atvik eða aðstæður sem eru uppi hverju sinni. Í því sambandi getur skipt máli hvort talið verði að einstaklingar nákomnir dómaranum hafi á einhvern hátt hagsmuna að gæta í tengslum við sakarefnið, aðila máls, fyrirsvarsmann aðila eða vitni í málinu. Þá er ekki útilokað að vinskapur eða deilur aðila máls, fyrirsvarsmanns aðila eða vitna í máli við maka dómara eða aðra honum nákomna séu þess eðlis að líta verði svo á að draga megi óhlutdrægni dómarans með réttu í efa. Í því sambandi ber þó að hafa í huga að í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 50/2016 er mælt fyrir um að dómarar séu sjálfstæðir í dómstörfum sínum, leysi þau af hendi á eigin ábyrgð, fari við úrlausn máls eingöngu eftir lögum og lúti þar aldrei boðvaldi annarra. Verða tengsl vináttu eða fjandskapar við maka dómara eða aðra honum nákomna því ekki lögð að jöfnu við sambærileg tengsl við dómarann sjálfan. Jafnframt er til þess að líta að þegar um tengsl við lögmann er að ræða hefur í dómaframkvæmd ekki verið talið að gerðar verði jafn strangar kröfur og varðandi aðila máls, enda verður lögmaður ekki samsamaður málstað umbjóðanda síns, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 7. febrúar 2007 í máli nr. 57/2007.  20     Færsla eiginmanns Arnfríðar á Facebook er eftir efni sínu rituð sem viðbrögð við blaðagrein lögmanns stefndu um fyrrgreint mál sem hann rekur fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Þar er að finna skýringar færsluhöfundar á aðdraganda þess að hann vék sæti fyrir Sigríði Á. Andersen við uppstillingu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir alþingiskosningar 2017. Efni yfirlýsingar hans, sem gefin var að ósk ríkislögmanns í tengslum við rekstur framangreinds máls fyrir mannréttindadómstólnum, hefur sömuleiðis að geyma ítarlega lýsingu á sömu atvikum. Ummælin sem þar eru viðhöfð lýsa viðbrögðum eiginmanns Arnfríðar við málatilbúnaði lögmanns stefndu í máli þar sem störf eiginmannsins á vettvangi stjórnmála komu til umfjöllunar. Í báðum tilvikum kemur einnig fram tjáning á neikvæðri afstöðu höfundar til þessa málatilbúnaðar lögmannsins. Aftur á móti verða ummæli eiginmanns Arnfríðar í ljósi alls hins framangreinda ekki talin vera þess eðlis að þau leiði til vanhæfis dómarans, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 5. nóvember 2018 í máli nr. 23/2018. 21     Ummæli mágs Arnfríðar á Facebook-síðu eiginmanns hennar fela í sér gildishlaðin ummæli um lögmanninn og órökstudda fullyrðingu um að honum muni reynast lögmannsstörfin „þungbær brekka í framtíðinni“. Ummæli þessi gefa í ljósi sjálfstæðis dómarans ekkert tilefni til tortryggni um óhlutdrægni hans. Verður því ekki fallist á það með stefndu að þau valdi vanhæfi dómarans.  22       Svo sem áður er rakið hafa stefndu ekki bent á nein gögn sem styðja þá fullyrðingu að Arnfríður hafi lýst yfir neikvæðri afstöðu til lögmanns þeirra. Þá verður ekki séð að tilgreind ummæli eiginmanns Arnfríðar í Facebook-færslu og fyrrgreindri greinargerð, ummæli mágs hennar í athugasemd á Facebook-síðu eiginmannsins eða ummæli í öðrum gögnum, sem vísað er til af hálfu stefndu, séu þess eðlis að þau hafi áhrif á hæfi Arnfríðar til að dæma í því máli sem hér er til umfjöllunar. Þannig liggur ekkert fyrir í málinu sem gefur tilefni til að ætla að lögmaður stefndu geti ekki gætt hagsmuna stefndu í málinu fyrir hlutlausum og óvilhöllum dómstóli. Er því ekki á það fallist að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem eru til þess fallin að draga megi óhlutdrægni landsréttardómarans Arnfríðar Einarsdóttur með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Af þeim sökum er hafnað kröfu stefndu um að hún víki sæti í málinu. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu stefndu, A og B, um að Arnfríður Einarsdóttir landsréttardómari víki sæti í málinu.
Mál nr. 32/2020
Kærumál Hæfi dómara Stjórnarskrá Mannréttindasáttmáli Evrópu Réttlát málsmeðferð
A og B kröfðust þess að landsréttardómarinn AE viki sæti í máli þeirra á hendur C vegna ætlaðrar neikvæðrar afstöðu hennar til lögmanns þeirra vegna starfa hans við rekstur dómsmáls fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu er varðaði skipun hennar við Landsrétt. Máli sínu til stuðnings vísuðu A og B til opinberlega birtra skrifa eiginmanns AE annars vegar í yfirlýsingu sem lögð var fram fyrir Mannréttindadómstólnum og hins vegar í Facebook-færslu hans og til ummæla mágs AE við þá færslu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt vinátta eða fjandskapur dómara eða einstaklinga sem nákomnir væru dómaranum við lögmann aðila geti undir vissum kringumstæðum valdið því að óhlutdrægni dómara verði með réttu dregin í efa, yrði þó ekki beitt jafn ströngum mælikvarða og þegar málsaðili ætti í hlut. Þá yrðu ummælum einstaklinga nákominna dómaranum ekki jafnað til ummæla dómarans sjálfs. Að virtu efni ummæla eiginmanns AE og mágs hennar taldi Hæstiréttur ekkert komið fram í málinu sem valdið gæti því að draga mætti óhlutdrægni AE með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu A og B um að AE viki sæti í málinu var því hafnað.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 19. október 2020 en kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Kærður er úrskurður Landsréttar 9. október 2020 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að landsréttardómarinn Arnfríður Einarsdóttir viki sæti í máli varnaraðila gegn sóknaraðilum. Kæruheimild er í b-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að fyrrnefnd krafa þeirra verði tekin til greina. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. I 1 Sóknaraðilar höfðuðu málið á hendur varnaraðila til ómerkingar ummæla og greiðslu miskabóta 20. september 2018. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2019 voru kröfur sóknaraðila teknar til greina. Varnaraðili skaut málinu til Landsréttar 15. október 2019. Í kjölfar þess að aðilum var tilkynnt um hvaða dómarar tækju sætu í dómi í málinu kröfðust sóknaraðilar þess að einum dómaranna, Arnfríði Einarsdóttur, yrði gert að víkja sæti. Þeirri kröfu hafnaði Landsréttur með hinum kærða úrskurði. 2 Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson var lögmaður sóknaraðila í þessu máli fyrir héraðsdómi og Landsrétti og er það einnig fyrir Hæstarétti. Hann var jafnframt verjandi manns, Guðmundar Andra Ástráðssonar, sem ákærður var í janúar 2017 í öðru máli, alls ótengdu þessu máli og dæmdur þar til refsingar í dómi uppkveðnum í héraði 23. mars sama ár. Sá dómur var staðfestur með dómi Landsréttar 23. mars 2018. Síðastnefndum dómi var áfrýjað til Hæstaréttar 20. apríl sama ár og krafðist ákærði í því máli þess aðallega að dómurinn yrði ómerktur. Var krafan reist á því í meginatriðum að nánar tilgreindir annmarkar hefðu verið á skipun Arnfríðar Einarsdóttur, eins þriggja dómara í málinu fyrir Landsrétti og hefðu þeir valdið því að ekki væri fullnægt skilyrði 59. gr. stjórnarskrárinnar og 2. málsliðar 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um að skipun dómara skuli vera ákveðin með lögum. Þetta hafi að auki leitt til þess að fyrir Landsrétti hafi ákærði í því máli ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. málslið 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans. Þessari kröfu var hafnað í dómi Hæstaréttar 24. maí 2018 í máli nr. 10/2018 og dómur Landsréttar staðfestur. Dómfelldi í hæstaréttarmálinu nr. 10/2018 bar fram kvörtun við Mannréttindadómstól Evrópu 31. maí 2018, sem reist var á sama grunni og fyrrnefnd aðalkrafa hans fyrir Hæstarétti og gætti sami lögmaður hagsmuna dómfellda á þeim vettvangi. Mannréttindadómstóllinn kvað upp dóm 12. mars 2019 í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn Íslandi og komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu með því að kærandi hafi ekki við meðferð máls síns fyrir Landsrétti notið réttar til að fá leyst úr því fyrir dómstóli sem skipaður hafi verið að lögum. Byggðist sú niðurstaða einkum á því að málsmeðferð við skipun dómarans hefði falið í sér alvarleg brot á lögum sem gilt hafi um skipunina. Íslenska ríkið óskaði eftir því að málinu yrði vísað til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu, sbr. 43. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og var orðið við þeirri beiðni. Dómur yfirdeildar í málinu var kveðinn upp 1. desember 2020. Þar var staðfest að íslenska ríkið hefði brotið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Niðurstaða dómstólsins byggðist á því að svo alvarlegir ágallar hefðu verið á málsmeðferð við skipun dómarans að vegið hefði verið að kjarna réttar kæranda til meðferðar fyrir dómstóli sem skipaður væri að lögum. 3 Arnfríður Einarsdóttir var öðru sinni skipuð dómari við Landsrétt með skipunarbréfi forseta Íslands 16. júní 2020 að undangengnu hæfnismati þar sem hún var metin hæfust umsækjenda og hefur frá þeim tíma sinnt dómstörfum við dómstólinn. Sóknaraðilar reisa kröfu sína um að dómarinn víki sæti á því að hún hafi beinna og verulegra hagsmuna að gæta af niðurstöðu dómsmáls þess sem lögmaður þeirra rak fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Neikvæð afstaða dómarans í garð lögmanns þeirra sé ekkert leyndarmál enda hafi hún farið víða með þá skoðun sína. Það sama eigi við um eiginmann dómarans, Brynjar Níelsson alþingismann. Sóknaraðilar telja að óánægja og reiði dómarans og eiginmanns hennar vegna þeirra afleiðinga sem dómur mannréttindadómstólsins hafi nú þegar haft fyrir hana hafi því beinst að lögmanni þeirra. Þá sé óvíst hvaða afleiðingar endanlegur dómur Mannréttindadómstóls Evrópu muni hafa fyrir dómarann. Séu því til staðar atvik og aðstæður til þess fallnar að draga megi óhlutdrægni dómarans með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991.  Sóknaraðilar benda á að í greinargerð lögmanns þeirra fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu hafi meðal annars verið á því byggt að ,,spilling og valdníðsla“ hafi átt þátt í skipun dómarans og hún hafi verið liður í ,,pólitískum hrossakaupum“ innan Sjálfstæðisflokksins en Brynjar Níelsson eiginmaður dómarans sé þingmaður flokksins. Benda sóknaraðilar því til stuðnings á að fyrir mannréttindadómstólinn hafi verið lögð skrifleg yfirlýsing eiginmannsins 10. janúar 2020 sem beri með sér að hafa verið send að beiðni ríkislögmanns vegna reksturs framangreinds máls fyrir mannréttindadómstólnum. Í upphafsorðum yfirlýsingarinnar komi fram að efni hennar varði viðbrögð við samsæriskenningum um meinta spillingu sem komi fram í greinargerð lögmanns sóknaraðila í framangreindu máli. Sóknaraðilar vísa sérstaklega til eftirfarandi setninga og setningarhluta í yfirlýsingunni:  ,,Þessar aðdróttanir og samsæriskenningar eru hugarburður og eiga sér enga stoð í veruleikanum. Hér er verið að reyna að skapa andrúmsloft spillingar og hrossakaupa án þess að nokkur gögn styðji slíkt ... Þessi tillaga mín virðist vera kveikjan að framangreindum  aðdróttunum og samsæriskenningum kæranda, eða lögmanns hans, en lögmaðurinn skrifaði grein undir eigin nafni í víðlesnasta dagblaði á Íslandi snemma í júlí 2018 þar sem þessar aðdróttanir komu fram ... Að lokum er rétt að taka fram að ég starfaði sem lögmaður á Íslandi í áratugi fram að lokum árs 2015. Ég var einnig formaður Lögmannafélags Íslands frá 2010 til 2012. Ég hef ekki á öllum þeim lögmannsferli mínum orðið vitni að slíkum rakalausum aðdróttunum lögmanns sem koma fram í greinargerð lögmanns kæranda þessa máls.“ Að mati sóknaraðila verði framangreind orð eiginmanns dómarans ekki skilin með öðrum hætti en þeim að lögmaður þeirra hafi gerst sekur um stórkostlegar ærumeiðingar í garð dómarans, eiginmanns hennar og Sigríðar Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, og verði að ætla að dómarinn sé sömu skoðunar. Telja sóknaraðilar fullyrðingu eiginmanns dómarans hlutlægt séð til þess fallna að draga megi með réttu í efa óhlutdrægni dómarans við úrlausn þess máls sem lögmaðurinn reki fyrir þeirra hönd. Sóknaraðilar vísa enn fremur til skrifa eiginmanns dómarans á opinni Facebook-síðu hans 10. júlí 2018 þar sem hann geri blaðagrein lögmanns sóknaraðila um skipan dómara í Landsrétt að umfjöllunarefni. Í færslunni vísi hann ávirðingum lögmannsins um tengsl tilnefningar Sigríðar Á. Andersen í oddvitasæti lista Sjálfstæðisflokksins og skipun eiginkonu hans í Landsrétt á bug og lýsi þeim sem spörkum í pólitíska andstæðinga. Sóknaraðilar vísa jafnframt til athugasemda Gústafs Níelssonar mágs dómarans við færsluna, en þar spái hann því að lögmannsstörfin verði lögmanni sóknaraðila „þungbær brekka í framtíðinni“. Telja sóknaraðilar opinber skrif eiginmanns dómarans og fyrrgreind ummæli mágs hennar almennt vera til þess fallin að dregið verði með réttu í efa hlutleysi dómarans við úrlausn mála sem lögmaður þeirra reki þar sem hún situr í dómi. Í málinu hefur auk ofangreindra skjala verið lagt fram skjal á ensku sem ber yfirskriftina „Statement“ og virðist vera ritað 15. janúar 2020 af Sigríði Á. Andersen að beiðni ríkislögmanns til framlagningar í fyrrgreindu máli fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Þar vísa sóknaraðilar sérstaklega til eftirfarandi setningarhluta: ,,As regards AE, which this case is all about“. Enn fremur hefur verið lagt fram skjal af hálfu sóknaraðila á ensku sem mun vera afrit af spurningum dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, Egidijus Kuris, til lögmanna aðila í fyrrgreindu máli fyrir yfirdeild dómstólsins. II 1 Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að fyrrnefndum lögum segir að skilyrðið um óhlutdrægan dómstól feli í sér áskilnað um að dómari í máli þurfi að vera hlutlaus og að aðilar njóti jafnræðis að því leyti, en ákvæðið sæki fyrirmynd sína til 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Samkvæmt g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 er dómari vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru atvik eða aðstæður sem fallnar eru til þess að draga megi óhlutdrægni hans með réttu í efa. Þegar lagt er mat á hæfi dómara til að fara með mál verður að gæta að því að tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er ekki einungis að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum máls og efni þess, heldur einnig að tryggja traust aðilanna jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari standi að úrlausn máls í tilviki þar sem réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans. Sé réttmætur vafi um óhlutdrægni dómara er óhjákvæmilegt að hann víki sæti í máli, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 1. júní 2017 í máli nr. 90/2016 og 22. apríl 2015 í máli nr. 511/2014. Af hálfu sóknaraðila er krafa þeirra um að landsréttardómarinn víki sæti einvörðungu reist á því að hún hafi neikvæða afstöðu til lögmanns þeirra vegna starfa hans í þágu kæranda í fyrrnefndu máli fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu og hafa sóknaraðilar því til stuðnings meðal annars lagt fram framangreind gögn um opinberlega birt skrif eiginmanns dómarans og ummæli mágs hennar við færslu eiginmanns hennar á Facebook-síðu hans.   2 Samkvæmt dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hefur við úrlausn um það hvort dómari telst óvilhallur í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verið greint á milli athugunar er miðar að því að ganga úr skugga um hvaða viðhorf hafa ráðið hjá dómara í tilteknu máli (huglægur mælikvarði) og athugunar á því hvort til staðar eru hlutlæg atriði sem gefi réttmætt tilefni til að draga í efa að dómari sé óvilhallur (hlutlægur mælikvarði). Samkvæmt hinum huglæga mælikvarða um hæfi dómara verður, varðandi persónulega afstöðu hans, að gera ráð fyrir því að dómari sé hæfur til meðferðar máls nema sýnt sé fram á hið gagnstæða. Af hálfu sóknaraðila hafa ekki verið lögð fram gögn er sýna fram á að Arnfríður Einarsdóttir hafi þá persónulegu afstöðu til málsaðila, sakarefnisins eða lögmanns málsaðila að hæfi hennar verði með réttu dregið í efa. Árétta ber að enda þótt lögmaður sóknaraðila hafi lýst því yfir að ,,spilling og valdníðsla“ hafi átt þátt í skipun dómarans og hún hafi verið liður í ,,pólitískum hrossakaupum“ getur hann ekki með slíkum ummælum valdið því að dómarinn verði talinn vanhæfur til meðferðar máls, enda þótt ummælin eða yfirlýsingin gætu verið til þess fallin að vekja neikvæð hughrif hjá dómara gagnvart þeim sem ummælin stafa frá. Það færi í bága við þá grundvallarreglu, sem er einn þáttur í réttarríki, að aðilar velji sér ekki dómara og dómarar velji sér ekki þau mál sem þeir dæma.  3 Þegar meta skal hvort draga má óhlutdrægni dómarans með réttu í efa ber jafnframt að líta til þess út frá hlutlægum mælikvarða hvort fyrir hendi eru sýnileg ytri atvik eða aðstæður sem gefi réttmætt tilefni til að óttast megi um hlutlægni hennar í þessu máli. Ekki er nægilegt að dómari sjálfur telji sig óhlutdrægan heldur verður ásýnd dómstóls að vera með þeim hætti að ekki sé uppi réttmætur vafi um hlutlægni dómara. Eins og rakið hefur verið hlaut Arnfríður Einarsdóttir öðru sinni skipun í embætti dómara við Landsrétt 16. júní 2020. Ekki hefur verið sýnt fram á að hún hafi slíka persónulega eða fjárhagslega hagsmuni af fyrrgreindu máli sem lögmaður sóknaraðila hefur rekið fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu og lauk með dómi 1. desember 2020 að réttmætt tilefni sé af þeirri ástæðu til að draga óhlutdrægni hennar í máli þeirra í efa. Þau tilvik sem sóknaraðilar telja valda því að draga megi hlutlægni dómarans í efa eru annars vegar ummæli eiginmanns hennar í færslu á Facebook-síðu hans og athugasemd mágs hennar við þá færslu og hins vegar yfirlýsing sem eiginmaður hennar gaf við rekstur fyrrgreinds máls sem lögmaður aðila málsins rak fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Um þessi atriði ber að horfa til þess að þótt vinátta eða fjandskapur dómara eða einstaklinga sem nákomnir eru dómaranum við lögmann aðila geti undir vissum kringumstæðum valdið því að óhlutdrægni dómara verði með réttu dregin í efa verður þó ekki beitt jafn ströngum mælikvarða og þegar málsaðili á í hlut, sbr. dóm Hæstaréttar 7. febrúar 2007 í máli nr. 57/2007. Ummæli eiginmanns dómarans voru sett fram á opinni Facebook-síðu hans þar sem hann brást við skrifum í blaðagrein lögmanns sóknaraðila sem fjallaði um aðdraganda að skipun dómara í Landsrétt í tengslum við framangreint mál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Yfirlýsing eiginmanns dómarans sem hann gaf að ósk ríkislögmanns var sett fram vegna þess sama máls. Í upphafsorðum yfirlýsingarinnar kom fram að efni hennar varði viðbrögð við samsæriskenningum um meinta spillingu sem settar séu fram í greinargerð lögmanns sóknaraðila fyrir mannréttindadómstólnum. Ummælin, sem rakin voru í I. kafla undir lið 3, fela í báðum tilvikum í sér neikvæða afstöðu til málatilbúnaðar lögmanns sóknaraðila í því máli. Á hitt ber að líta að þau lutu einvörðungu að störfum lögmannsins í tengslum við málið sem hann rak fyrir mannréttindadómstólnum en með engum hætti að sakarefni máls þessa eða aðilum þess. Þá verður slíkum ummælum eiginmanns dómarans, sem fela í sér neikvæða afstöðu til starfa lögmanns sóknaraðila í tilteknu máli, ekki jafnað til ummæla dómarans sjálfs.   Ummæli mágs dómarans á Facebook-síðu eiginmanns hennar um að lögmanni sóknaraðila muni reynast lögmannstörfin ,,þungbær brekka“ í framtíðinni lúta á hinn bóginn ekki að tilteknu máli heldur að störfum lögmanns sóknaraðila í framtíðinni. Ummælin eru gildishlaðin en þau ber að skoða í ljósi þess sem að framan er rakið að neikvæð afstaða einstaklinga nákominna dómaranum til lögmanns aðila verða ekki lögð að jöfnu við slíka afstöðu dómarans sjálfs. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að dómarinn hafi hvatt til ummæla eiginmanns síns og mágs, samþykkt þau eða að þau endurspegli huglæga afstöðu dómarans til lögmanns sóknaraðila, sbr. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 18. júlí 2019 í máli Rustavi 2 Broadcasting Company LTD og fleiri gegn Georgíu. Þegar allt framangreint er virt hefur ekkert komið fram í málinu sem valdið getur því að draga megi óhlutdrægni landsréttardómarans Arnfríðar Einarsdóttur með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Kröfu sóknaraðila um að hún víki sæti í málinu er því hafnað og hinn kærði úrskurður staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.   Úrskurður Landsréttar 9. október 2020. Landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson og Oddný Mjöll Arnardóttir kveða upp úrskurð í máli þessu. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1      Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 15. október 2019 að fengnu áfrýjunarleyfi. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2019 í málinu nr. E-3248/2018. Í þessum þætti málsins er aðeins til úrlausnar krafa stefndu um að einum dómara málsins, Arnfríði Einarsdóttur, verði gert að víkja sæti vegna vanhæfis. 2      Af hálfu áfrýjanda hefur því verið lýst yfir að hún láti málið ekki til sín taka að þessu leyti og geri engar kröfur í þessum þætti málsins. Málsástæður aðila 3      Í bréfi lögmanns stefndu sem barst Landsrétti 31. júlí 2020 kom fram krafa um að fyrrgreindur dómari viki sæti í málinu. Munnlegur málflutningur fór fram um kröfuna í þinghaldi 28. september 2020. 4      Stefndu reisa kröfuna á g-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í fyrrgreindu bréfi lögmanns stefndu er vísað til þess að lögmaðurinn sé einnig lögmaður Guðmundar Andra Ástráðssonar í máli hans gegn íslenska ríkinu sem rekið sé fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, mál nr. 26374/2018. Með dómi undirdeildar mannréttindadómstólsins, uppkveðnum 12. mars 2019, hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að lög hafi verið brotin við skipun Arnfríðar í embætti dómara við Landsrétt vorið 2017 og að hún sé því ekki með réttu handhafi dómsvalds þar sem skipun hennar hafi ekki uppfyllt áskilnað 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þess efnis að skipan dóms skuli ákveðin með lögum. Íslenska ríkið hafi skotið þessari niðurstöðu undirdeildarinnar til yfirdeildar dómstólsins og hafi málið verið flutt þar og dómtekið 5. febrúar 2020 en bíði dóms.  5      Í bréfi lögmannsins er jafnframt rakið að í máli umbjóðanda hans fyrir mannréttindadómstólnum sé meðal annars byggt á því að það hafi verið spilling og valdníðsla að skipa Arnfríði sem dómara við Landsrétt á kostnað annarra umsækjenda sem hafi verið metnir hæfari. Hafi það meðal annars verið rökstutt með vísan til þess að tæpum þremur mánuðum eftir að Sigríður Á. Andersen, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, hafi skipað Arnfríði sem dómara við Landsrétt, hafi eiginmaður Arnfríðar, Brynjar Níelsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, látið Sigríði eftir efsta sætið á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður við alþingiskosningar sem fram hafi farið í október 2017. 6      Lögmaður stefndu segir jafnframt í bréfinu: „Afstaða Arnfríðar til mín persónulega vegna þessara lögmannstarfa minna í þágu umbjóðanda míns Guðmundar Andra Ástráðssonar er að mínu mati ekkert leyndarmál enda hefur hún ekki farið leynt með þá skoðun sína og viðrað hana víða. Það sama á við um eiginmann Arnfríðar, Brynjar Níelsson.“ Síðan er tekið fram að þótt Arnfríði sé frjálst að hafa hverja þá skoðun á lögmanninum og lögmannsstörfum hans sem henni sýnist sé augljóst að þessi afstaða hennar til lögmannsins og starfa hans í þágu umbjóðanda hans í máli Mannréttindadómstóls Evrópu nr. 26374/2018, sem varði hana beint og persónulega, leiði til þess að hana bresti hæfi til að taka sæti í dómi í máli Landsréttar nr. 680/2019. Eigi stefndu enda skýlausan og ótvíræðan rétt á því að mál þeirra fái réttláta málsmeðferð fyrir sjálfstæðum og óhlutdrægum dómstóli. 7      Fyrir liggur að Arnfríður Einarsdóttir var öðru sinni skipuð til að gegna embætti landsréttardómara með skipunarbréfi forseta Íslands dagsettu 16. júní 2020. Áður en til þeirrar skipunar kom hafði hún verið metin hæfust umsækjenda til starfans af dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara samkvæmt lögum nr. 50/2016 um dómstóla.  Niðurstaða 8      Í máli þessu er til úrlausnar krafa áfrýjanda, C, um að áfrýjuðum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2020 verði hrundið og breytt á þá leið að áfrýjandi verði sýknuð af öllum kröfum stefndu en til vara að dómkröfur stefndu verði lækkaðar verulega. Stefndu krefjast þess fyrir Landsrétti að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjandi verði dæmd til að greiða stefndu málskostnað. Með hinum áfrýjaða dómi voru ómerkt tilgreind ummæli sem áfrýjandi viðhafði vegna sakamáls þar sem stefndu voru sakborningar, og áfrýjanda gert að greiða stefndu miskabætur, auk þess sem henni var gert að greiða málskostnað stefndu. 9      Af hálfu stefndu er krafa þeirra um að Arnfríður Einarsdóttir landsréttardómari víki sæti ekki reist á því að hún sé vanhæf til að fara með málið vegna þess að hún eða einstaklingar nákomnir henni hafi á einhvern hátt hagsmuna að gæta í tengslum við sakarefni þessa máls, aðila máls eða vitni í málinu. Byggist krafan einvörðungu á því að Arnfríður hafi neikvæða afstöðu til lögmanns stefndu vegna starfa hans í þágu umbjóðanda hans í máli Mannréttindadómstóls Evrópu nr. 26374/2018 svo sem áður er rakið. 10     Af hálfu stefndu hafa verið lögð fram fjögur skjöl til stuðnings kröfunni um að Arnfríður víki sæti sem dómari í þessu máli. Í fyrsta lagi er um að ræða útprentun á Facebook-færslu eiginmanns hennar 10. júlí 2018. Eru þar af hálfu stefndu undirstrikuð eftirfarandi ummæli: „Stundum ber kappið fegurðina ofurliði þegar sparka þarf í pólitíska andstæðinga. Slíkt henti gamlan kollega, Vilhjálm H. Vilhjálmsson, eða Villa Vill, eins og hann er gjarnan nefndur, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í morgun um skipan í Landsrétt“ og „[h]ún var einkum tilkomin af feminískum áhuga flokksbróðursins.“ Þá eru í útprentuninni undirstrikuð ummæli bróður eiginmannsins og mágs Arnfríðar, Gústafs Níelssonar, við færsluna: „Þessi Villi Vill er dæmigerður Con Man, hrappur eða svindlari“ og jafnframt hluti annarra ummæla þar sem segir: „Lífið er létt, þangað til að þú „hleypur“ á vegginn. Spái því að lögmannsstörfin verið honum þungbær brekka í framtíðinni.“ 11     Í öðru lagi er lagt fram skjal á ensku sem ber yfirskriftina Statement og ber þess merki að vera ritað 15. janúar 2020 af Sigríði Á. Andersen að beiðni ríkislögmanns til framlagningar í framangreindu máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn íslenska ríkinu. Þar hefur eftirfarandi setningarhluti verið undirstrikaður: „As regards AE, which this case is all about, ...“ 12     Þriðja skjalið er yfirlýsing eiginmanns Arnfríðar 10. janúar 2020 sem ber með sér að hafa verið send að beiðni ríkislögmanns vegna reksturs framangreinds máls fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Kemur fram í upphafsorðum skjalsins að efni þess varði viðbrögð við samsæriskenningum um meinta spillingu sem komi fram í greinargerð lögmanns kæranda í framangreindu máli. Í skjalinu hafa eftirfarandi setningar eða setningarhlutar verið undirstrikaðir af hálfu stefndu: „... sem fram koma í greinargerð lögmanns kæranda ...“, „[í] greinargerð Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, lögmanns, til MDE fyrir hönd kæranda ...“, „[þ]essar aðdróttanir og samsæriskenningar eru hugarburður og eiga sér enga stoð í veruleikanum. Hér er verið að reyna að skapa andrúmsloft spillingar og hrossakaupa án þess að nokkur gögn styðji slíkt.“, „[þ]essi tillaga mín virðist vera kveikjan að framangreindum aðdróttunum og samsæriskenningum kæranda, eða lögmanns hans, en lögmaðurinn skrifaði grein undir eigin nafni í víðlesnasta dagblaði á Íslandi snemma í júlí 2018 þar sem þessar aðd[r]óttanir komu fram“ og „[a]ð lokum er rétt að taka fram að ég starfaði sem lögmaður á Íslandi í áratugi fram að lokum árs 2015. Ég var einnig formaður Lögmannafélags Íslands frá 2010 til 2012. Ég hef ekki á öllum þeim lögmannsferli mínum orðið vitni að slíkum rakalausum aðdróttunum lögmanns sem koma fram í greinargerð lögmanns kæranda þessa máls.“    13     Fjórða og síðasta skjalið sem lagt var fram af hálfu kæranda í tengslum við þá kröfu hans, sem hér er til úrlausnar, er á ensku og mun vera afrit af hluta af spurningum dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, Egidijus Kuris, til lögmanna aðila í máli dómstólsins nr. 26374/2018 undir rekstri þess og svör við þeim. Þar hafa eftirfarandi setningar eða setningarhlutar verið undirstrikaðir: „Was there any logic in that? Specially in the light of Applicant´s representative remark that a female judge who was numer 22 was not selected to the new composition but a female judge (sic) that was number 30 was selected?“ og „[m]y third question is partly promoted from judge´s PPDA question about this alleged swap of services or horse trading the chairman of the parliamentarian committee given his place on the party´s list to the Minister not just long after his wife nomination to the judicial position. My question would be a very straight forward: Could you please tell whether that was: A coincidence, a lack of judgement or a quit pro quo?“ 14     Samkvæmt g-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991 er dómari vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður en þær sem taldar eru í a- til f-liðum sama ákvæðis sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. 15     Tilgangur hæfisreglna í réttarfarslögum er að tryggja að dómari sitji ekki í máli nema hann sé óhlutdrægur gagnvart bæði aðilum máls og efni þess en einnig að tryggja traust aðila jafnt sem almennings til dómstóla með því að koma í veg fyrir að dómari standi að úrlausn í máli þar sem réttmæt tortryggni gæti risið um óhlutdrægni hans. Sé með réttu vafi um óhlutdrægni dómara er óhjákvæmilegt að hann víki sæti í máli. 16     Svo sem áður er rakið var Arnfríður að nýju skipuð í embætti dómara við Landsrétt með skipunarbréfi forseta Íslands dagsettu 16. júní 2020 eftir að hún hafði verið metin hæfust allra umsækjenda. Ekki hefur komið fram nein athugasemd við þá skipun og ljóst að Arnfríður hefur ekki lengur hagsmuni af niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í framangreindu máli. 17     Þrátt fyrir að stefndu byggi á því að Arnfríður hafi neikvæða afstöðu til lögmanns þeirra og fullyrt sé að hún hafi ekki legið á þeirri skoðun sinni, er hvergi í gögnum málsins að finna upplýsingar um að Arnfríður hafi viðrað neikvæðar skoðanir í garð lögmannsins. Málsástæða þessi er því með öllu haldlaus og verður ekki á henni byggt. 18     Kemur þá til úrlausnar hvort skrif Brynjars Níelssonar, eiginmanns Arnfríðar, og Gústafs Níelssonar, mágs hennar, og önnur þau gögn, sem lýst er hér að framan, leiði til þess að draga megi óhlutdrægni dómarans með réttu í efa. 19     Samkvæmt hinum hlutlægu reglum d- til f-liða 5. gr. laga nr. 91/1991 er dómari ávallt vanhæfur ef einstaklingur honum nákominn er aðili máls, fyrirsvarsmaður aðilans, málflytjandi, vitni, mats- eða skoðunarmaður eða maður sem neitar að láta af hendi sönnunargögn í málinu. Þegar lagt er mat á hæfi dómara samkvæmt g-lið sama ákvæðis verður einnig að líta til þess hvort aðilar nákomnir honum tengist dómsmálinu á þann hátt að draga megi óhlutdrægni dómarans með réttu í efa og verður í hverju tilviki að leggja heildstætt mat á þau atvik eða aðstæður sem eru uppi hverju sinni. Í því sambandi getur skipt máli hvort talið verði að einstaklingar nákomnir dómaranum hafi á einhvern hátt hagsmuna að gæta í tengslum við sakarefnið, aðila máls, fyrirsvarsmann aðila eða vitni í málinu. Þá er ekki útilokað að vinskapur eða deilur aðila máls, fyrirsvarsmanns aðila eða vitna í máli við maka dómara eða aðra honum nákomna séu þess eðlis að líta verði svo á að draga megi óhlutdrægni dómarans með réttu í efa. Í því sambandi ber þó að hafa í huga að í 1. mgr. 43. gr. laga nr. 50/2016 er mælt fyrir um að dómarar séu sjálfstæðir í dómstörfum sínum, leysi þau af hendi á eigin ábyrgð, fari við úrlausn máls eingöngu eftir lögum og lúti þar aldrei boðvaldi annarra. Verða tengsl vináttu eða fjandskapar við maka dómara eða aðra honum nákomna því ekki lögð að jöfnu við sambærileg tengsl við dómarann sjálfan. Jafnframt er til þess að líta að þegar um tengsl við lögmann er að ræða hefur í dómaframkvæmd ekki verið talið að gerðar verði jafn strangar kröfur og varðandi aðila máls, enda verður lögmaður ekki samsamaður málstað umbjóðanda síns, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 7. febrúar 2007 í máli nr. 57/2007.  20     Færsla eiginmanns Arnfríðar á Facebook er eftir efni sínu rituð sem viðbrögð við blaðagrein lögmanns stefndu um fyrrgreint mál sem hann rekur fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Þar er að finna skýringar færsluhöfundar á aðdraganda þess að hann vék sæti fyrir Sigríði Á. Andersen við uppstillingu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir alþingiskosningar 2017. Efni yfirlýsingar hans, sem gefin var að ósk ríkislögmanns í tengslum við rekstur framangreinds máls fyrir mannréttindadómstólnum, hefur sömuleiðis að geyma ítarlega lýsingu hans á sömu atvikum. Ummælin sem þar eru viðhöfð lýsa viðbrögðum eiginmanns Arnfríðar við málatilbúnaði lögmanns stefndu í máli þar sem störf eiginmannsins á vettvangi stjórnmála komu til umfjöllunar Í báðum tilvikum kemur einnig fram tjáning á neikvæðri afstöðu höfundar til þessa málatilbúnaðar lögmannsins. Aftur á móti verða framangreind ummæli í ljósi alls hins framangreinda ekki talin vera þess eðlis að þau leiði til vanhæfis dómarans, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 5. nóvember 2018 í máli nr. 23/2018.. 21     Ummæli mágs Arnfríðar á Facebook-síðu eiginmanns hennar fela í sér gildishlaðin ummæli um lögmanninn og órökstudda fullyrðingu um að honum muni reynast lögmannsstörfin „þungbær brekka í framtíðinni“. Ummæli þessi gefa í ljósi sjálfstæðis dómarans ekkert tilefni til tortryggni um óhlutdrægni hans. Verður því ekki fallist á það með stefndu að þau valdi vanhæfi dómarans.  22     Svo sem áður er rakið hafa stefndu ekki bent á nein gögn sem styðja þá fullyrðingu að Arnfríður hafi lýst yfir neikvæðri afstöðu til lögmanns þeirra. Þá verður ekki séð að tilgreind ummæli eiginmanns Arnfríðar í Facebook-færslu og fyrrgreindri greinargerð, ummæli mágs hennar í athugasemd á Facebook-síðu eiginmannsins eða ummæli í öðrum gögnum, sem vísað er til af hálfu stefndu, séu þess eðlis að þau hafi áhrif á hæfi Arnfríðar til að dæma í því máli sem hér er til umfjöllunar. Þannig liggur ekkert fyrir í málinu sem gefur tilefni til að ætla að lögmaður stefndu geti ekki gætt hagsmuna stefndu í málinu fyrir hlutlausum og óvilhöllum dómstóli. Er því ekki á það fallist að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem eru til þess fallin að draga megi óhlutdrægni landsréttardómarans Arnfríðar Einarsdóttur með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Af þeim sökum er hafnað kröfu stefndu um að hún víki sæti í málinu. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu stefndu, A og B, um að Arnfríður Einarsdóttir landsréttardómari víki sæti í málinu.
Mál nr. 46/2021
Kærumál Skattalög Tekjuskattur Ákæra Peningaþvætti Mannréttindasáttmáli Evrópu Málskostnaður Kæruheimild
Kærður var dómur Landsréttar þar sem máli ákæruvaldsins gegn X var vísað frá héraðsdómi. Í niðurstöðu um 1. ákærulið málsins vísaði Hæstiréttur til þess að málsmeðferð hjá skattyfirvöldum annars vegar og héraðssaksóknara hins vegar hefði ekki verið nægilega samþætt í tíma svo að talið yrði að fullnægt væri þeim skilyrðum sem fram hefðu komið í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu um skýringu og beitingu 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Þeim sakargiftum á hendur X var því vísað frá héraðsdómi. Varðandi 2. ákærulið málsins fyrir peningaþvætti samkvæmt 264. gr. almennra hegningarlaga kom meðal annars fram að í ákæru væri í engu lýst í hverju þær athafnir X til viðbótar ætluðum brotum samkvæmt 1. ákærulið hefðu falist. Þá væri ætlað brot ekki afmarkað í tíma með neinum hætti og enga sundurliðun að finna um það fé sem X átti að hafa nýtt með þessum hætti annars vegar persónulega en hins vegar á vettvangi félaga í sinni eigu. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ágallar á 2. ákærulið væru svo verulegir að óhjákvæmilegt væri að vísa honum frá héraðsdómi, sbr. c–lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Hinn kærði dómur um frávísun málsins frá héraðsdómi var því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. október 2021 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er dómur Landsréttar 22. október 2021 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. 3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. 4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða dóms og að sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda. Þá krefst hann hækkunar málsvarnarlauna skipaðs verjanda í héraði og fyrir Landsrétti. 5. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt munnlega 7. febrúar 2022. Ágreiningsefni 6. Mál þetta var höfðað með ákæru héraðssaksóknara 11. apríl 2019 þar sem varnaraðila voru samkvæmt 1. ákærulið gefin að sök meiri háttar brot gegn skattalögum, sbr. 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Þá var honum gefið að sök peningaþvætti samkvæmt 2. ákærulið sem talið var varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. 7. Með úrskurði héraðsdóms Reykjaness 19. desember 2019 hafnaði dómurinn kröfu varnaraðila um frávísun málsins og með héraðsdómi 6. maí 2020 var hann sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Ákæruvaldið áfrýjaði málinu til Landsréttar og krafðist þess að varnaraðili yrði sakfelldur í samræmi við ákæru og honum gerð refsing. 8. Með dómi Landsréttar 22. október 2021 var málinu vísað frá héraðsdómi. Ákærulið 1 um meiri háttar brot gegn skattalögum var vísað frá á þeim grundvelli að beiting álags vegna brota á skattalögum og sú meðferð málsins fyrir skattyfirvöldum sem varnaraðili hafði undirgengist væri í eðli sínu sakamál í skilningi 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og rekstur þessa máls í andstöðu við 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við sáttmálann. Ákærulið 2 um brot gegn 264. gr. almennra hegningarlaga um peningaþvætti vísaði Landsréttur frá héraðsdómi. Sú niðurstaða var öðrum þræði reist á því að ákæruliðurinn fullnægði ekki áskilnaði c–liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Málsatvik 9. Með bréfi 17. febrúar 2016 var varnaraðila tilkynnt að hafin væri rannsókn skattrannsóknarstjóra á skattskilum hans vegna tekjuáranna 2010 til 2013 á grundvelli heimildar í 103. gr. laga nr. 90/2003. Umfang rannsóknarinnar var síðar aukið með bréfi 15. mars 2017 og tekjuárið 2014 einnig tekið til skoðunar. Varnaraðili kom þrisvar til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra, fyrst 9. maí 2016, næst 12. október 2016 og loks 24. apríl 2017. Varnaraðili hafði réttarstöðu sakbornings í öllum tilvikum og var verjandi hans viðstaddur. 10. Með skýrslu 27. október 2017 lauk rannsókn skattrannsóknarstjóra. Niðurstöður hennar voru meðal annars þær að varnaraðili hefði skilað efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2011 til og með 2015, vegna tekjuáranna 2010 til og með 2014, með því að vantelja skattskyldar tekjur vegna stjórnarlauna frá [...] A/S [...] GmbH. Varnaraðili hefði þannig vanrækt að gera grein fyrir tekjum að fjárhæð 121.731.361 króna. Í skýrslunni kom fram að skattrannsóknarstjóri teldi að háttsemi varnaraðila varðaði refsingu samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, og eftir atvikum samkvæmt 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Varnaraðila var með bréfi 30. október 2017 tilkynnt um lok rannsóknar málsins hjá skattrannsóknarstjóra og veittur 15 daga frestur til að tjá sig um fyrirhugaða ákvörðun um refsimeðferð. Varnaraðili krafðist þess með bréfi 4. desember 2017 að málið yrði fellt niður. Með bréfi til varnaraðila 19. febrúar 2018 tilkynnti skattrannsóknarstjóri að ákvörðun hefði verið tekin um að vísa málinu til héraðssaksóknara á grundvelli meðal annars 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003. Jafnframt hefði verið ákveðið að vísa máli hans til ríkisskattstjóra á grundvelli heimildar í 6. mgr. 103. gr. sömu laga. 11. Með úrskurði 24. janúar 2019 endurákvarðaði ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld varnaraðila gjaldárin 2011 til 2015 vegna tekjuáranna 2010 til 2014. Bætti ríkisskattstjóri 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 við hækkun skattstofna varnaraðila umrædd gjaldár. Varnaraðili kærði úrskurðinn til yfirskattanefndar með bréfi 7. maí 2019. Með úrskurði 11. desember 2019 í máli nr. 197/2019 hafnaði nefndin kröfu varnaraðila um niðurfellingu áðurgreinds álags sem ríkisskattstjóri bætti við. Þá staðfesti nefndin úrskurð ríkisskattstjóra að því frátöldu að hún lækkaði tekjuskatts- og útsvarsstofn varnaraðila um 5.075.140 krónur gjaldárið 2011, um 5.183.260 krónur gjaldárið 2012 og um 4.638.811 krónur gjaldárið 2013 frá því sem kveðið var á um í úrskurði ríkisskattstjóra. 12. Varnaraðili mætti einu sinni til skýrslutöku hjá héraðssaksóknara og fór hún fram 27. júní 2018. Hafði hann réttarstöðu sakbornings og var verjandi hans viðstaddur. Þá gaf endurskoðandi varnaraðila skýrslu hjá embættinu 7. nóvember 2018. 13. Ákæra var gefin út 11. apríl 2019 og voru varnaraðila gefin að sök meiri háttar brot gegn skattalögum og peningaþvætti fyrir eftirfarandi brot: 1. Með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2011 til og með 2015, vegna tekjuáranna 2010 til og með 2014, með því að láta undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum tekjur að fjárhæð 121.731.361 krónur frá félögunum [...]A/S og [...] GmbH sem skattskyldar eru samkvæmt 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. einnig 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, en með framangreindu komst ákærði undan greiðslu tekjuskatts og útsvars að fjárhæð 55.982.873 krónur, sem sundurliðast sem hér greinir (...). 2. Með því að hafa nýtt ávinning af brotum skv. 1. tölulið ákæru, samtals að fjárhæð 55.982.873 krónur, í eigin þágu og í þágu félaga í eigu ákærða. Háttsemi varnaraðila samkvæmt 1. ákærulið var talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995. Þá var háttsemi samkvæmt 2. ákærulið talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. 14. Í kjölfar úrskurðar yfirskattanefndar í máli varnaraðila lagði ákæruvaldið fram bókun 17. janúar 2020 þar sem fjárhæðir samkvæmt 1. ákærulið voru lækkaðar í annars vegar 106.834.150 krónur og hins vegar 49.105.280 krónur. 15. Í fyrrgreindum sýknudómi héraðsdóms kom fram að dómurinn teldi að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna að varnaraðili hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum hefði verið gefin að sök í ákæru. 16. Fyrir Landsrétti krafðist varnaraðili þess aðallega að málinu yrði vísað frá héraðsdómi þar sem skilyrðum 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu væri ekki fullnægt. Í hinum kærða dómi kom fram að efnisleg samþætting málsins fyrir skattyfirvöldum annars vegar og héraðssaksóknara hins vegar hefði „verið viðunandi.“ Á hinn bóginn hefðu málin verið rekin samhliða hjá skattyfirvöldum annars vegar og héraðssaksóknara hins vegar í sjö mánuði en rekstur þeirra samtals tekið um fimm ár og átta mánuði. Málin hefðu þannig verið rekin samhliða um óverulegan hluta heildarmálsmeðferðartímans. Af þeim sökum væri skilyrði um samþættingu í tíma við rekstur málanna ekki uppfyllt. Var sakargiftum á hendur varnaraðila samkvæmt 1. ákærulið um meiri háttar brot gegn skattalögum því vísað frá héraðsdómi. Þá var 2. ákærulið jafnframt vísað frá héraðsdómi þar sem talið var að hann fullnægði ekki áskilnaði c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Málatilbúnaður aðila 17. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá kröfu byggir hann á því að málsmeðferð fullnægi áskilnaði 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Telur hann að Landsréttur hafi ranglega komist að þeirri niðurstöðu að málin hafi ekki verið nægilega samþætt í tíma. Ekki sé hægt að fallast á þá túlkun Landsréttar að miða eigi við að meðferð skattyfirvalda hafi lokið 24. janúar 2019 þegar úrskurður ríkisskattstjóra í máli varnaraðila var kveðinn upp. Hið rétta sé að málsmeðferð skattyfirvalda hafi lokið endanlega með úrskurði yfirskattanefndar 11. desember 2019. Þá telur sóknaraðili að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu 31. ágúst 2021 í máli nr. 12951/18, Bragi Guðmundur Kristjánsson gegn Íslandi, hafi takmarkað fordæmisgildi í máli þessu, meðal annars í ljósi þess að dómendur voru ekki einhuga í afstöðu til sakarefnisins og það mál hafi ekki verið sambærilegt því máli sem hér er til úrlausnar hvað varðar samþættingu í tíma. Loks telur sóknaraðili að frávísun Landsréttar á 2. ákærulið málsins um peningaþvætti sé röng. Ómögulegt sé að lýsa í smáatriðum eða rekja hvert einstaka fjárhæðir ávinnings brotsins hafi runnið í því skyni að lýsa broti varnaraðila með nákvæmari hætti. 18. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða dóms. Byggir hann á því að efnismeðferð og sakfelling bryti í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Þá er hann ósammála þeirri niðurstöðu Landsréttar að rekstur málanna tveggja hafi verið nægilega samþættur hvað efni varðar enda hafi málsmeðferð héraðssaksóknara verið algjör endurtekning á fyrri rannsókn skattyfirvalda. Varnaraðili er hins vegar sammála forsendum og niðurstöðu dómsins hvað varðar samþættingu í tíma og tekur einnig undir niðurstöðu Landsréttar um frávísun 2. ákæruliðar um peningaþvætti. Loks telur varnaraðili að ágalli sé á niðurstöðu Landsréttar um sakarkostnað og krefst þess að málsvarnarlaun skipaðs verjanda verði endurskoðuð og hækkuð. Lagaumhverfi og réttarframkvæmd 19. Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003 skal skattrannsóknarstjóri hafa með höndum rannsóknir samkvæmt þeim lögum og lögum um aðra skatta og gjöld sem á eru lögð af ríkisskattstjóra eða honum falin framkvæmd á nema máli sé vísað til meðferðar hjá lögreglu. Þá segir að skattrannsóknarstjóri geti tekið mál eða tiltekna þætti þess til rannsóknar að beiðni lögreglu. Í 2. mgr. 108. gr. laganna kemur fram að séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr. þeirra, eða einstakir liðir ranglega fram taldir megi ríkisskattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna. Þó megi ekki beita hærra álagi en 15% ef skattaðili bætir úr annmörkum eða leiðréttir einstaka liði á framtali áður en álagning fer fram. 20. Samkvæmt því sem segir í 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu skal enginn sæta lögsókn né refsingu að nýju í sakamáli innan lögsögu sama ríkis fyrir brot sem hann hefur þegar verið sýknaður af eða sakfelldur fyrir með lokadómi samkvæmt lögum og sakamálaréttarfari viðkomandi ríkis. Á grundvelli viðmiða sem Mannréttindadómstóll Evrópu setti í dómi 8. júní 1976 í máli Engel o.fl. gegn Hollandi hefur hann byggt á því að beiting álags af hálfu skattyfirvalda vegna brota á skattalögum sé í eðli sínu sakamál í skilningi 6. gr. mannréttindasáttmálans og 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðaukans, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 21. september 2017 í máli nr. 283/2016. Þá hefur verið miðað við að um „sama mál“ í skilningi ákvæðisins væri að ræða ef sömu atvik eða í meginatriðum sambærileg atvik lægju til grundvallar endurtekinni saksókn eða refsingu, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar. 21. Í dómi yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu 10. febrúar 2009 í máli nr. 14939/03, Zolotukhin gegn Rússlandi, var niðurstaða dómstólsins að hverfa frá að ljá því vægi við afmörkun á skilyrðinu um sama brot hvort fyrra og síðara mál væru reist á lagaákvæðum sem eru samsvarandi í grundvallaratriðum. Þess í stað ætti nú aðeins að meta hvort hið fyrra og síðara mál hafi lotið að sömu málsatvikum eða atvikum sem eru sambærileg í meginatriðum. Sé það skilyrði uppfyllt teljist vera um sama brot að ræða. 22. Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 22. september 2010 í máli nr. 371/2010 hefur gætt nokkurrar óvissu um skýringu á bæði gildissviði og inntaki 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, enda ekki verið fullt samræmi í skýringum á nefndu ákvæði í úrlausnum Mannréttindadómstóls Evrópu. Þróun réttarframkvæmdar, í raun bæði fyrir og eftir þann tíma sem tilvitnaður dómur féll, hefur ekki að öllu leyti verið til þess fallin að varpa skýrara ljósi á framangreint. 23. Í dómi yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu 15. nóvember 2016 í málum 24130/11 og 29758/11, A og B gegn Noregi, var ákvæði 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðaukans skýrt þannig að það útilokaði ekki beitingu staðlaðs skattálags hjá skattyfirvöldum vegna vangreiðslu skatta í alvarlegri málum þar sem jafnframt gæti verið viðeigandi að efna til saksóknar fyrir refsivert brot. Í slíkum tilvikum þyrfti rekstur málanna þó að vera nægilega tengdur að efni til og í tíma til að úr yrði samþætt heild, allt í því skyni að meðalhófs væri gætt og hin samþætta málsmeðferð legði ekki óhóflegar byrðar á viðkomandi. 24. Eftir að framangreindur dómur í málinu gegn Noregi gekk hefur reynt á málsmeðferð þessa efnis í nokkrum málum gegn Íslandi. Í málum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar o.fl. gegn Íslandi 18. maí 2017 nr. 22007/11, Ragnars Þórissonar gegn Íslandi 12. febrúar 2019 nr. 52623/14 og Bjarna Ármannssonar gegn Íslandi 16. apríl 2019 nr. 72098/14 var komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn 1. mgr. 4. mgr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu en öndverð niðurstaða varð í ákvörðun dómsins vegna kæru Matthildar Ingvarsdóttur gegn Íslandi 4. desember 2018 í máli nr. 22779/14. 25. Af framangreindum dómum mannréttindadómstólsins verða þær ályktanir dregnar að við mat á því hvort málsmeðferð telst nægilega samþætt að efni til beri í fyrsta lagi að líta til þess hvort meðferð seinna málsins hefur verið til fyllingar eða viðbótar meðferð hins fyrra, í öðru lagi hvort hin tvíþætta málsmeðferð hefur verið fyrirsjáanleg afleiðing þeirrar háttsemi sem um ræðir, í þriðja lagi hvort leitast hefði verið við af fremsta megni að forðast endurtekna öflun og mat á sönnunargögnum og í fjórða lagi hvort í síðari málsmeðferðinni hefur verið tekið tillit til þeirra viðurlaga sem áður voru á lögð. 26. Við mat á því hvort rekstur mála telst nægilega samþættur í tíma er ekki gerð krafa um að meðferð beggja mála hafi farið fram samhliða frá upphafi til enda en þó þurfa tímaleg tengsl þeirra að vera nægilega náin til að koma í veg fyrir óhóflegt óhagræði, óvissu og tafir vegna málareksturs sem dregst yfir lengri tíma. Jafnframt hefur því verið slegið föstu að þrátt fyrir að orðalag ákvæðisins gefi til kynna að um endanlega ákvörðun þurfi að vera að ræða í fyrra málinu, sem hefur í framkvæmd mannréttindadómstólsins verið metið með tilliti til þess hvort kæru- eða málshöfðunarfrestir séu liðnir, sé í málum af þessu tagi ekki nauðsynlegt að taka afstöðu til þess hvort eða hvenær ákvörðun er orðin endanleg þar sem það hafi ekki áhrif á mat á því hvort nægileg tengsl, í framangreindum skilningi, séu á milli meðferðar málanna. Samandregið sýnist um samþættingu í tíma öðru fremur hafa verið litið til fjögurra atriða: heildartíma sem málsmeðferð tekur, tímans sem málsmeðferð skattyfirvalda og meðferð sakamáls fer fram samhliða, tímans sem líður frá endanlegri niðurstöðu skattyfirvalda til endanlegrar niðurstöðu sakamáls og hvort ákæra í máli er gefin út fyrir eða eftir endanlega niðurstöðu skattyfirvalda. 27. Í fyrrgreindum dómi mannréttindadómstólsins, Bragi Guðmundur Kristjánsson gegn Íslandi, komust fjórir dómarar af sjö að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn ákvæði 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðaukans. Í dóminum kom fram sú breyting frá fyrri dómaframkvæmd réttarins að við mat á því hvort samþætting í tíma hefði verið nægjanleg var talið að ekki bæri að líta til þess tíma sem mál hefur verið rekið fyrir yfirskattanefnd enda yrði að öðrum kosti dregið úr þeirri vernd sem 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við sáttmálann sé ætlað að veita gegn tvöfaldri málsmeðferð og refsingu. 28. Háttsemi sú sem varnaraðila er gefin að sök í 2. ákærulið er heimfærð undir 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Í 1. mgr. er peningaþvætti gert refsivert, það er að taka við, nýta eða afla sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum eða meðal annars umbreyta slíkum ávinningi, flytja hann, senda, geyma, aðstoða við afhendingu hans, leyna honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun. Í 2. mgr. er síðan kveðið á um að svokallað sjálfsþvætti sé jafnframt refsivert en það felst nánar tiltekið í því að sami aðili fremji frumbrot og þvætti síðar ávinning þess með þeim hætti sem tilgreint er í 1. mgr. 29. Gildissvið 264. gr. almennra hegningarlaga var fært til núverandi horfs með lögum nr. 149/2009 og tekur það til ávinnings af öllum refsiverðum brotum. Um tilurð og skýringu ákvæðisins í þeirri mynd, sbr. 7. gr. laga nr. 149/2009, hefur ítarlega verið fjallað í dómum Hæstaréttar, sbr. meðal annars dóma 25. mars 2021 í máli nr. 29/2020 og 25. nóvember 2021 í máli nr. 28/2021. 30. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 10/1997 og bættu ákvæði um peningaþvætti fyrst í almenn hegningarlög kemur fram að líta beri á peningaþvætti sem sjálfstætt brot sem refsað verði fyrir þótt ekki sé samhliða ákært fyrir tiltekið frumbrot. Í frumvarpi því sem varð að fyrrnefndum lögum nr. 149/2009 kemur fram að markmið lagabreytingarinnar sé að gera ákvæðið skýrara með því að orða í lokamálslið 1. mgr. 264. gr. almennra hegningalaga sérstaklega þær verknaðaraðferðir sem slíkt brot tæki til, með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 6. gr. Palermo-samningsins. Við túlkun einstakra verknaðarþátta yrði sem fyrr að horfa til þess að peningaþvætti væri í megindráttum hver sú starfsemi sem lyti að því að fela uppruna og eiganda fjár sem væri ávinningur af brotastarfsemi. Þá var tekið fram að meginmarkmiðið með því að gera háttsemina refsiverða væri að höggva að rótum afbrota með því að uppræta aðalhvata þeirra, þann ávinning sem af þeim kynni að leiða. Niðurstaða Niðurstaða um 1. ákærulið 31. Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir málatilbúnaði aðila og þeim sjónarmiðum sem almennt skipta máli við mat á því hvort rekstur mála þar sem bæði á sér stað beiting staðlaðs álags skattyfirvalda og saksókn fyrir refsivert brot fær staðist áskilnað 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Svo sem fyrr greinir skiptir þá grundvallarmáli að rekstur beggja málanna sé svo tengdur að efni til og í tíma að úr verði samþætt heild með það að markmiði að meðalhófs sé gætt og hin samþætta málsmeðferð leggi ekki óhóflegar byrðar á viðkomandi. 32. Við mat á framangreindum grundvelli standa hvorki lög né rökbundin nauðsyn til þess að jafnan þurfi í dómi að fjalla um báða framangreinda þætti ellegar í ákveðinni röð og þá þannig að fyrst sé tekin afstaða til hinnar efnislegu samþættingar og sé hún talin fullnægjandi sé þá í kjölfarið fjallað um samþættingu í tíma. 33. Í hinum kærða dómi er gerð grein fyrir tímasetningum í málsmeðferð sem þýðingu hafa, annars vegar fyrir skattyfirvöldum og hins vegar í því refsimáli sem hér um ræðir. Eru þær tilgreindar með hliðsjón af þeim fjórum viðmiðum sem fyrr er getið og felast í heildartíma málsmeðferðar, tímans sem mál fyrir skattyfirvöldum og sakamál eru rekin samhliða, tímans sem líður frá endanlegri niðurstöðu skattyfirvalda til endanlegrar niðurstöðu sakamáls og loks hvort ákæra í máli er gefin út fyrir eða eftir endanlega niðurstöðu skattyfirvalda. Landsréttur tekur réttilega fram að við mat á samþættingu eigi ekki að líta til þess tíma sem mál hefur verið rekið fyrir yfirskattanefnd og vísar um það til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Braga Guðmundar Kristjánssonar gegn Íslandi. Að því gættu liggur fyrir að málsmeðferð beggja mála stóð yfir í ríflega sex ár, sá tími sem málin voru rekin samhliða nam sjö mánuðum, tíminn frá endanlegri niðurstöðu skattyfirvalda til endanlegrar niðurstöðu sakamáls nam ríflega þremur árum og ákært var í málinu eftir að úrskurður ríkisskattstjóra lá fyrir. Að þessu virtu verður staðfest niðurstaða hins kærða dóms að málsmeðferð hjá skattyfirvöldum annars vegar og héraðssaksóknara hins vegar hafi ekki verið nægilega samþætt í tíma svo að talið verði að fullnægt sé þeim skilyrðum sem fram hafa komið í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu um skýringu og beitingu 4. gr. 7. samningsviðauka við sáttmálann. Kemur því ekki til sérstakrar skoðunar efnisleg samþætting máls þess sem skattyfirvöld ráku og refsimáls þessa. 34. Samkvæmt framanrituðu verður vísað frá héraðsdómi sakargiftum á hendur varnaraðila um meiri háttar brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, samkvæmt 1. ákærulið. Niðurstaða um 2. ákærulið 35. Svo sem fyrr greinir vísaði Landsréttur 2. ákærulið um brot gegn 1. mgr. sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga um peningaþvætti frá héraðsdómi, meðal annars á grundvelli þess að ákæruliðurinn fullnægði ekki áskilnaði c–liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Því til stuðnings vísaði rétturinn til þess að í ákærunni væri aðeins vísað til þess að varnaraðili hefði nýtt sér ávinning af brotum samkvæmt 1. ákærulið í eigin þágu og í þágu félaga í sinni eigu án frekari skýringar á því um hvaða viðbótarathafnir hans væri að ræða. 36. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti áréttaði ákæruvaldið að það byggði á því að það ætlaða sjálfsþvættisbrot sem ákært væri fyrir fæli í sér sjálfstætt og eftirfarandi brot gagnvart þeim brotum sem ákært væri fyrir í 1. ákærulið. Það væri jafnframt útilokað við þessar aðstæður að lýsa broti varnaraðila með nákvæmari hætti eða greina í einstökum atriðum hvernig ávinningi af skattalagabrotum þeim sem 1. ákæruliður tekur til hefði verið varið. Við sama tilefni var kallað eftir svörum ákæruvaldsins við því hvers vegna fjárhæð samkvæmt 2. ákærulið hefði ekki, með sama hætti og fjárhæðir samkvæmt 1. ákærulið, verið lækkuð að gengnum úrskurði yfirskattanefndar en ekki fengust skýr svör við því. 37. Hér að framan, undir umfjöllun um lagaumhverfi, hefur nokkur grein verið gerð fyrir tilurð og efni 264. gr. almennra hegningarlaga. Til þess ber jafnframt að líta að samkvæmt c–lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal greina í ákæru svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brot er framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa þessi fyrirmæli verið skýrð svo að lýsing á háttsemi sem ákærða er gefin að sök í ákæru verði að vera svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni hvaða háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa gerst brotlegur við. Mega ekki vera slík tvímæli um hverjar sakargiftir eru að ákærða verði með réttu talið torvelt að taka afstöðu til þeirra og halda uppi vörnum. Að þessu leyti verður ákæra að vera svo skýr að dómara sé kleift af henni einni að gera sér grein fyrir hvað ákærði er sakaður um og hvernig sú háttsemi verður talin refsiverð. Ákæra verður því að leggja viðhlítandi grundvöll að saksókn svo að dómur verði lagður á málið í samræmi við ákæru enda verður ákærði ekki sakfelldur fyrir aðra hegðun en þar greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Þess er jafnframt að gæta að lýsing á ætlaðri refsiverðri háttsemi ákærða þarf að samsvara verknaðarlýsingu í því refsiákvæði eða þeim refsiákvæðum sem honum eru gefin að sök. Það veltur síðan óhjákvæmilega á atvikum máls og eðli brots hvaða nánari kröfur verða gerðar samkvæmt framansögðu til skýrleika ákæru. 38. Svo sem ítrekað hefur komið fram er ætluð refsiverð háttsemi varnaraðila á grundvelli 2. ákæruliðar útlistuð með þeim hætti einum að hann hafi nýtt sér ávinning af brotum samkvæmt 1. ákærulið í eigin þágu og félaga í sinni eigu. Hvað sem líður framangreindum ályktunum um þá skýringu 264. gr. almennra hegningarlaga, sem sést staður í lögskýringargögnum, fá þau ekki raskað framangreindri meginreglu sakamálaréttarfars um tilhögun ákæru sem fram kemur í c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Þá er þess jafnframt að gæta að samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. og 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, ber sérhverjum þeim sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli, auk þess sem hvorki má dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir né heldur dæma aðrar kröfur á hendur honum, sbr. 180. gr. laga nr. 88/2008. 39. Í ákæru er í engu lýst í hverju þær athafnir varnaraðila til viðbótar ætluðum brotum samkvæmt 1. ákærulið hafi falist. Sú fjárhæð sem þar er tilgreind, 55.982.873 krónur, er ekki í samræmi við þær fjárhæðir sem ákæruvaldið, að gengnum úrskurði yfirskattanefndar, leggur til grundvallar um ávinning af skattabrotum samkvæmt 1. ákærulið. Þá er ætlað brot samkvæmt 2. ákærulið ekki afmarkað í tíma með neinum hætti, hvorki um upphafstíma þess né hvenær því lauk. Enn fremur er ekki að finna neina sundurliðun þess fjár sem varnaraðili á að hafa nýtt með þessum hætti annars vegar persónulega en hins vegar á vettvangi félaga í sinni eigu. Þá hefur ákæran ekki að geyma sértækari upplýsingar um fjárhagslegar ráðstafanir varnaraðila, svo sem nýtingu bankareikninga eða sambærileg gögn sem stutt gætu sönnun um brot gegn 264. gr. almennra hegningarlaga. Sé sá ómöguleiki fyrir hendi á nánari tilgreiningu brotsins, sem ákæruvaldið ber við í málinu, hlaut að koma til álita hvort yfirhöfuð væri við slíkar aðstæður tækt að ákæra á grundvelli 264. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt framansögðu eru framangreindir ágallar á 2. ákærulið svo verulegir að óhjákvæmilegt er að vísa þessum ákærulið frá héraðsdómi, sbr. c–lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. 40. Að öllu framangreindu virtu verður hinn kærði dómur staðfestur um frávísun málsins frá héraðsdómi. 41. Varnaraðili hefur krafist þess að ákvæði í dómi Landsréttar um málsvarnarlaun vegna reksturs málsins í héraði og fyrir Landsrétti verði breytt og þau hækkuð. Þetta atriði er ekki kæranlegt samkvæmt 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 og kemur því ekki til álita hér fyrir dómi. 42. Allur kostnaður vegna reksturs málsins fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda varnaraðila. Er fjárhæð málsvarnarlauna ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði dómur er staðfestur. Kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda varnaraðila, Halldórs Jónssonar lögmanns, samtals 1.240.000 krónur. https://www.landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?Id=faf0c71f-d021-4e0e-aee6-5e338e4de5c5&verdictid=21645b28-cdef-427d-bd82-61890e6d4b2a
Mál nr. 49/2021
Kærumál Opinber skipti Fjárslit Óvígð sambúð Kröfugerð Sönnunarmat Málskostnaður Frávísun
Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem leyst var úr ágreiningi A og B í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna slita óvígðrar sambúðar. Fyrir Hæstarétti afmarkaðist kröfugerð aðila af því hvort leggja skyldi til grundvallar við skiptin að B hefði á viðmiðunardegi skipta átt 500.000.000 króna á erlendum bankareikningum, líkt og A gerði kröfu um og fallist var á í dómi Landsréttar, eða hvort fallist yrði á kröfu B um að hann hefði á þeim degi átt 5.717.589 krónur á erlendum bankareikningum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að engin gögn eða töluleg útlistun hefði verið lögð fram til stuðnings kröfu A. Engu að síður hefði A leitt að því sterkum líkum að innstæðurnar hefðu verið hærri en B hefði upplýst um og því væri ekki hægt að leggja efnisdóm á kröfuna með því að hafna henni. Vegna vanreifunar kröfunnar varð á hinn bóginn ekki komist hjá því að vísa henni sjálfkrafa frá héraðsdómi. Að því er varðaði kröfu B vísaði rétturinn til þess að hún hefði fyrst komið fram við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Þá fyrst hefði B falið skiptastjóra umboð til að afla umbeðinna upplýsinga og í kjölfarið lagt fram yfirlit frá erlendum banka sem hann studdi kröfu sína við. Af því sem lá fyrir í málinu um tilraunir skiptastjóra til að afla fyrrnefndra upplýsinga og viðbrögð B við þeim var með engu móti talið afsakanlegt að krafa hans hefði fyrst verið höfð uppi fyrir Hæstarétti. Kröfu B var því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. október 2021. Kærumálsgögn bárust réttinum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 29. september 2021 þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningsefnum í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli aðila vegna slita óvígðrar sambúðar. 3. Sóknaraðili krefst þess að ákvæði hins kærða úrskurðar um að lagt verði til grundvallar við opinber skipti til fjárslita milli aðila að sóknaraðili hafi á viðmiðunardegi skipta átt á erlendum bankareikningum 500.000.000 króna verði hrundið og lagt verði til grundvallar að hann hafi átt þar 5.717.589 krónur á sama tímamarki. Þá krefst hann kærumálskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti. 4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti. 5. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt munnlega 26. janúar 2022. Ágreiningsefni 6. Með bréfi 16. nóvember 2020 vísaði skiptastjóri, sem skipaður hafði verið við opinber skipti til fjárslita milli aðila, margþættum ágreiningi til Héraðsdóms Reykjaness. Þar á meðal var krafa varnaraðila um að lagt yrði til grundvallar við skiptin að sóknaraðili hafi átt 500.000.000 króna á erlendum bankareikningum á viðmiðunardegi skipta. Þeirri kröfu hafnaði héraðsdómur með úrskurði 15. júlí 2021. Öðrum kröfum varnaraðila var ýmist hafnað, á þær fallist eða þeim vísað sjálfkrafa frá dómi. Varnaraðili kærði úrskurðinn til Landsréttar 29. júlí 2021 sem staðfesti hann 29. september sama ár að öðru leyti en því að lagt var til grundvallar að sóknaraðili hafi átt 500.000.000 króna á erlendum bankareikningum á viðmiðunardegi skipta. 7. Sóknaraðili kærði hluta úrskurðar Landsréttar til Hæstaréttar. Afmarkast kröfugerð aðila fyrir Hæstarétti af því að skorið verði úr hvort leggja skuli til grundvallar við opinber skipti til fjárslita milli aðila að sóknaraðili hafi á viðmiðunardegi skipta átt 500.000.000 króna á erlendum bankareikningum eða hvort fallist verði á kröfu sóknaraðila um að hann hafi á þeim degi átt 5.717.589 krónur á erlendum bankareikningum. 8. Með ákvörðun Hæstaréttar 17. nóvember 2021 var sóknaraðila veitt leyfi til að kæra úrskurðinn á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í ákvörðuninni kom meðal annars fram að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um túlkun og beitingu 1. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991. Málsatvik Upphaf skipta og meðferð ágreiningsefna 9. Aðilar máls þessa hófu sambúð árið 1998 sem lauk í febrúar 2015. Varnaraðili krafðist 18. mars 2015 opinberra skipta til fjárslita milli aðila. Krafan var tekin til greina með úrskurði héraðsdóms 29. apríl sama ár og skiptastjóri skipaður sama dag. 10. Á fyrsta skiptafundi 8. maí 2015 bókaði skiptastjóri að sóknaraðili skyldi afla upplýsinga um bankainnstæður og hlutafjáreign erlendis og leggja fram á næsta fundi. Á þeim fundi, 16. júní 2015, var bókað að enn væri verið að afla upplýsinga um bankainnstæður erlendis. Á skiptafundi 7. september sama ár ítrekaði skiptastjóri kröfu sína um að sóknaraðili legði fram þessar upplýsingar. Á skiptafundi 6. nóvember sama ár var ákveðið að beina tilgreindum ágreiningsefnum til héraðsdóms, meðal annars um það hvort skipta skyldi eignum aðila jafnt milli þeirra og við hvaða tímamark skyldi miða. 11. Í úrskurði héraðsdóms 29. júní 2016 var kveðið svo á að við opinber skipti til fjárslita milli aðilanna bæri að miða við að skipta yrði að jöfnu þeim eignum sem þau áttu við upphaf skipta óháð því hvernig skráningu einstakra eigna væri háttað. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar sem með dómi 15. september sama ár í máli nr. 511/2016 staðfesti úrskurðinn á þann veg að skipta skyldi jafnt eignum þeirra á viðmiðunardegi skipta, 23. febrúar 2015, án tillits til þess hvernig skráningu þeirra hefði verið háttað. 12. Enn var bókað á skiptafundi 11. júlí 2018 að á fyrri fundi hefði komið fram áskorun af hálfu varnaraðila um að sóknaraðili upplýsti um ákveðnar eignir en ekki lægju enn fyrir svör og unnið væri að því að afla umbeðinna upplýsinga. Óskaði lögmaður varnaraðila eftir því á þeim fundi að sóknaraðili yrði kvaddur fyrir dóm til að veita þessar upplýsingar. Jafnframt var bókað eftir lögmanni varnaraðila að skattframtali 2015, vegna tekjuársins 2014, hefði verið skilað af hálfu varnaraðila. Einvörðungu hefði verið um skil á forskráðu framtali að ræða. Því væri ljóst að síðasta sameiginlega skattframtalið hefði verið 2014, vegna tekjuársins 2013, og leggja ætti það til grundvallar við skiptin. Á skiptafundi 7. september 2018 kom fram að skiptastjóri hefði ákveðið að fara þess á leit við héraðsdóm að sóknaraðili yrði kvaddur fyrir dóm til að veita upplýsingar um eignir aðila með heimild í 2. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991. Skýrslugjöf sóknaraðila fyrir héraðsdómi 13. Sóknaraðili gaf skýrslu fyrir héraðsdómi 29. nóvember 2018 og var meðal annars inntur eftir því hvort reikningur sá sem tilgreindur væri á sameiginlegu skattframtali aðila árið 2014 við fjármálastofnunina F með 10.467.059 króna innstæðu væri enn til. Hann kvað reikninginn vera til og kvaðst enn vera að bíða eftir yfirliti frá bankanum um innstæðu á viðmiðunardegi skipta. Hann kvaðst myndu leggja fram þau gögn til skiptastjóra þegar þau bærust. Nánar spurður um hvaða bankareikninga hann ætti erlendis svaraði sóknaraðili því til að það væri hjá F. Spurður um hvort hann ætti reikninga hjá einhverjum öðrum erlendum bönkum svaraði hann því til að það væru ,,nokkrir reikningar“. Enn frekar spurður kvaðst hann ekki eiga fé í öðrum erlendum bönkum en F. Hann hefði átt reikning hjá „G“ en lokað honum. 14. Spurður um hvort hann hefði skilað skattframtölum eftir árið 2014 svaraði hann neitandi. Þá kvað hann einhverja hluti í erlendu félögunum D og C hafa verið til á viðmiðunardegi skipta en einhverja hluti verið selda. Hann kvaðst ekki muna í hvað andvirðinu hefði verið ráðstafað, „væntanlega í aðrar fjárfestingar eða bara bankainnstæður“. Hann kvaðst hafa óskað eftir yfirlitum yfir þau viðskipti frá F og myndi leggja þau fyrir skiptastjóra þegar þau bærust. Spurður um sölu á erlendum hlutabréfum á árinu 2013 fyrir um 110 milljónir króna kvað hann eitthvað hafa verið ,,keypt á móti ... og eitthvað greitt út sko, ég bara man það ekki“. Hann kvað eitthvað af þessum bréfum hafa verið í „G bankanum í New York“ og þeim reikningi hefði verið lokað. Hann kvaðst því ekki vita hvernig gengi að afla upplýsinga þaðan. Spurður um hvort sala á hlutabréfum hefði farið fram í gegnum þann banka kvað hann einhvern hluta sölunnar hafa gert það. Eitthvað hefði farið til F og eitthvað í neyslu. Hann kvað reikninginn hjá „G“ ekki hafa verið til á viðmiðunardegi skipta. 15. Þá var sóknaraðili inntur eftir greiðslu skattskuldar sem fram kæmi á skattframtali árið 2015 en skuldin var greidd um tveimur mánuðum eftir viðmiðunardag skipta. Sóknaraðila var kynnt að gögn lægju fyrir um það hjá skiptastjóra en á viðskiptakvittun um greiðslu skuldarinnar hefði númer þess bankareiknings sem notaður hefði verið til greiðslu verið afmáð. Sóknaraðili kvaðst þá telja að skuldin, sem var um 15.000.000 króna, hefði verið greidd með peningum erlendis frá og þá reikna með að það hefði verið frá F. Hann kvaðst ekki muna inn á hvaða innlenda reikning féð hefði runnið frá F. Upplýsingaöflun skiptastjóra 16. Á skiptafundi 22. maí 2019 var enn bókað að fram hefði komið í skýrslutöku fyrir héraðsdómi að sóknaraðili ætti bankareikninga erlendis. Skiptastjóri bókaði að nýju áskorun til sóknaraðila um afhendingu gagna sem sýndu hvaða erlendu innstæður hann hefði átt á viðmiðunardegi skipta. Jafnframt var fært til bókar að yrði sóknaraðili ekki við þessari áskorun myndi skiptameðferð verða fram haldið án gagnanna og á grundvelli þeirra gagna sem fyrirliggjandi væru um eignastöðu á viðmiðunardegi. Sóknaraðili varð ekki við þessari áskorun. 17. Samkvæmt tölvubréfum skiptastjóra í mars og apríl 2020 fór hann þess á leit við F að veittar yrðu upplýsingar um erlendar innstæður í eigu sóknaraðila á viðmiðunardegi skipta. Af hálfu bankans var ekki orðið við þeirri beiðni og því borið við að ekki væri fyrir hendi heimild til að veita slíkar upplýsingar án umboðs frá sóknaraðila. Mun skiptastjóri á þeim tíma ekki haft slíkt umboð. Frumvarp til úthlutunar 18. Í frumvarpi skiptastjóra til úthlutunar 12. október 2020 kom fram að engar haldbærar upplýsingar lægju fyrir um erlendar bankainnstæður sóknaraðila sem hann hefði þó viðurkennt að hafa átt á viðmiðunardegi, eins og fram hefði komið í skýrslutöku fyrir héraðsdómi. Vegna skorts á upplýsingum og gögnum þar um miði skiptastjóri við að engar slíkar innstæður hafi verið í eigu sóknaraðila á viðmiðunardegi skipta. Í frumvarpinu kom enn fremur fram að skiptastjóri hefði gert tilraunir til að afla upplýsinga frá bönkum erlendis en án árangurs. 19. Í fundargerð skiptafundar 5. nóvember 2020 sem haldinn var til að fjalla um frumvarp skiptastjóra samkvæmt 3. mgr. 113. gr. laga nr. 20/1991 komu meðal annars fram mótmæli varnaraðila við því að ekki væri tekið tillit til innstæðna sóknaraðila sem vitað væri að væru til staðar. Bókað var eftir lögmanni varnaraðila að sóknaraðili hefði á meðan á skiptameðferð stóð keypt sér einbýlishús og bifreið í gegnum einkahlutafélög sín og áætlað virði þeirra eigna væri um 150.000.000 króna. Af þeim sökum krefðist varnaraðili þess að lagt yrði til grundvallar að innstæður erlendis í eigu mannsins á viðmiðunardegi næmu 500.000.000 krónum. Af hálfu sóknaraðila var þessari kröfu mótmælt á fundinum. Þegar fundi var fram haldið 13. sama mánaðar bókaði skiptastjóri að hann vísaði til röksemda fyrir niðurstöðu í frumvarpi til úthlutunar og teldi að miðað við fyrirliggjandi skort á upplýsingum um innstæður erlendis og hlutabréfaeign væru ekki efni til að breyta þeirri niðurstöðu. Í lok fundargerðar var fært til bókar að málefnum sem ágreiningur væri um yrði beint til héraðsdóms. Upplýsingar um erlendar innstæður í kjölfar úrskurðar Landsréttar 20. Öndvert við niðurstöðu héraðsdóms var með úrskurði Landsréttar fallist á kröfu varnaraðila um að við opinber skipti til fjárslita milli aðila yrði lagt til grundvallar að sóknaraðili ætti 500.000.000 króna á erlendum bankareikningum. Í kjölfarið óskaði lögmaður sóknaraðila eftir því við skiptastjóra 4. október 2021 að kallað yrði eftir upplýsingum um innstæður og aðrar eignir sóknaraðila hjá F á viðmiðunardegi skipta og á tímabilinu 31. desember 2014 til viðmiðunardags skipta. Sóknaraðili veitti skiptastjóra jafnframt umboð sitt til þess að kalla eftir slíkum upplýsingum. Samkvæmt yfirliti frá F 12. október 2021 sem skiptastjóra barst 13. sama mánaðar var þar innstæða að jafnvirði 5.717.589 króna miðað við verðmæti í svissneskum frönkum á viðmiðunardegi skipta og tekur krafa sóknaraðila hér fyrir dómi mið af þeirri fjárhæð. Málsástæður sóknaraðila 21. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að erlendar bankainnstæður hans á viðmiðunardegi skipta hafi ekki verið nálægt þeirri fjárhæð sem varnaraðili haldi fram. Hinn kærði úrskurður sé því bersýnilega rangur þar sem innstæður hafi einungis numið 5.717.589 krónum samkvæmt hinu nýja skjali sem sóknaraðili hafi lagt fram fyrir Hæstarétti. Þá bendir hann á að skiptastjóri hafi í frumvarpi til úthlutunar kosið að byggja á upplýsingum úr forskráðu framtali aðila 2015, sem ekki hafi gefið rétta mynd af eignum, en þar sé til að mynda ekki að finna upplýsingar um innstæðu sóknaraðila erlendis. 22. Þá bendir sóknaraðili á að hann hafi ekki haft vitneskju um að skiptastjóri hefði verið í samskiptum við F til að afla upplýsinga um erlendar bankainnstæður sínar. Fjármálastofnunin hefði óskað eftir umboði frá sér til þess að geta orðið við beiðni skiptastjóra um afhendingu umbeðinna gagna en skiptastjóri hefði ekki leitað eftir slíku umboði. Eftir að hinn kærði úrskurður lá fyrir hefði sóknaraðili hins vegar haft frumkvæði að því að veita skiptastjóra slíkt umboð. Þá hefði skiptastjóri leitað eftir upplýsingum frá endurskoðanda sóknaraðila en ekki fylgt því nægilega vel eftir. Í ljósi hinnar ríku upplýsingaskyldu skiptastjóra verði sóknaraðili ekki látinn bera halla af því að skiptastjóri fékk ekki umbeðnar upplýsingar í hendur fyrr en nýverið. 23. Sóknaraðili leggur jafnframt áherslu á að ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991 hafi ekki að geyma lagareglu um að aðili skiptamáls geti sett fram hvaða órökstöddu kröfu sem er um eignastöðu aðila. Ákvæðið kveði á um upplýsingagjöf til skiptastjóra samkvæmt beiðni en segi ekkert um það hvaða áhrif það kunni að hafa ef ekki er orðið við beiðni um upplýsingar. Í hinum kærða úrskurði sé ranglega á því byggt að ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991 feli beint eða óbeint í sér lagareglu þess efnis að byggja skuli á einhliða og órökstuddum upplýsingum um eignir annars aðila skipta í þeim tilvikum þar sem skiptastjóri hafi ekki leitt gagnaöflun til lykta. Vísar sóknaraðili til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 20/1991 um skyldu skiptastjóra til að afla upplýsinga um eignir sem falla undir skipti. 24. Gögn sem nú hafi verið lögð fram fyrir Hæstarétt sýni að eign sóknaraðila á erlendum reikningum hafi numið 5.717.589 krónum á viðmiðunardegi skipta. Sú fjárhæð sé ekki í námunda við þá fjárhæð sem varnaraðili leggi til grundvallar kröfu sinni. 25. Að lokum telur sóknaraðili að með hinum kærða úrskurði sé vikið frá niðurstöðu Hæstaréttar í fyrrgreindu máli nr. 511/2016 milli aðila um að skipta bæri jafnt eignum aðila á viðmiðunardegi skipta, auk þess sem vikið yrði frá ákvæði 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991. Yrði niðurstaða máls þessa sú að lagt yrði til grundvallar að sóknaraðili ætti 500.000.000 króna á erlendum bankareikningum dygðu eignir hans ekki fyrir slíkri greiðslu til varnaraðila ef tekið er mið af eignum sóknaraðila í frumvarpi til úthlutunar. Eignum aðila yrði þá ekki skipt jafnt heldur myndi varnaraðili eignast allar eignir sóknaraðila. Byggi slík niðurstaða ekki á gildum lagaheimildum. Málsástæður varnaraðila 26. Varnaraðili byggir á því að þau gögn sem sóknaraðili hafi lagt fram í Hæstarétti eigi ekki að komast að í málinu, sbr. 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991. Þar á meðal sé yfirlit F um eignastöðu sóknaraðila sem hann hefði auðveldlega getað lagt fram á fyrri stigum málsins hjá skiptastjóra og héraðsdómi. Við meðferð málsins í héraði og fyrir Landsrétti hefði varnaraðili byggt á því að sóknaraðili ætti 500.000.000 króna á erlendum bankareikningum og sóknaraðili haft fullt tilefni til þess að leggja skjalið fram á fyrri dómstigum. Um þetta vísar varnaraðili til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar í máli nr. 511/2016. Hún bendir á að sóknaraðili hafi fram til þessa neitað að leggja fram nokkur gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að hann ætti enga fjármuni á erlendum bankareikningum á viðmiðunardegi skipta. Eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar hafi sóknaraðili fyrst veitt skiptastjóra umboð til að sækja upplýsingar hjá einni fjármálastofnun, F. Því liggi engar upplýsingar fyrir um að niðurstaða hins kærða úrskurðar sé röng. 27. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi lýst því yfir í skýrslugjöf fyrir héraðsdómi að hann hafi greitt um það bil 15.000.000 króna skattskuld af erlendum bankareikningi hjá F rétt eftir viðmiðunardag skipta en hann hafi á þeim tíma einungis átt 975.000 krónur á innlendum bankareikningum. Í greinargerð sóknaraðila komi á hinn bóginn fram að hann hafi átt jafnvirði 5.717.589 króna á þeim reikningi á viðmiðunardegi skipta. Um sé að ræða fjármuni sem skiptastjóri hafi aldrei verið upplýstur um og hafi því ekki komið fram í frumvarpi til úthlutunargerðar. Af framangreindu verði ráðið að sóknaraðili hafi ekki getað greitt skattskuldina með innstæðu hjá F og 975.000 króna innlendri innstæðu. Sé því einsýnt að sóknaraðili hafi greitt skuldina með fjármunum af bankareikningi í öðrum erlendum banka en F. Því leiki enginn vafi á að sóknaraðili hafi enn ekki upplýst um erlendar innstæður sínar nema að litlu leyti. 28. Sóknaraðili hafi allt frá árinu 2015 brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991 með því að bregðast ekki við áskorunum skiptastjóra um öflun upplýsinga og gagna um innstæður hans á erlendum bankareikningum. Brot gegn því ákvæði eigi að hafa í för með sér að sönnunarbyrði fyrir málsatvikum sem hægt væri að sanna ef aðili færi að fyrirmælum ákvæðisins færist yfir á þann aðila sem hundsi þessi bindandi lagafyrirmæli. Þannig þurfi varnaraðili að sanna að hann eigi ekki 500.000.000 króna á erlendum bankareikningum vilji hann ekki að sú eign sé lögð til grundvallar við opinber skipti til fjárslita milli aðila. Sóknaraðili sé sá eini sem geti sannað það. 29. Þá mótmælir varnaraðili þeirri staðhæfingu sóknaraðila að verði niðurstaða hins kærða úrskurðar lögð til grundvallar komi meira en helmingur eigna aðila í hlut varnaraðila. Þær 500.000.000 króna sem Landsréttur lagði til grundvallar að væru á erlendum bankareikningum sóknaraðila leggist við eignastöðu hans samkvæmt frumvarpi skiptastjóra og eignir aðila skiptist eftir sem áður til helminga. Sú fjárhæð komi síðan til skipta samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991. 30. Varnaraðili bendir á að ekki sé að finna sérstaka sönnunarreglu um tilvist og umfang eigna sem falli undir skipti eða fjárslit samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991. Það leiði því af 2. mgr. 131. gr. laganna að um slíka sönnun gildi almennar reglur einkamálaréttarfars, þar á meðal ákvæði 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 sem kveður á um frjálst sönnunarmat dómara. Við sönnunarmat sitt hafi Landsréttur augljóslega beitt meginreglu sem fram komi í 2. mgr. 50. gr. laganna um að sá málsaðili sem að lögum skuli stuðla að því að staðreyndir máls liggi fyrir beri hallann af því ef hann uppfyllir ekki þá skyldu. Niðurstaða 31. Með bréfi skiptastjóra 16. nóvember 2020 var máli þessu beint til héraðsdóms samkvæmt 3. mgr. 79. gr., sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991. Í XVII. kafla þeirra er fjallað um málsmeðferð fyrir héraðsdómi. Í 2. mgr. 131. gr. laganna er kveðið á um að leiði ekki annað af ákvæðum þeirra gildi almennar reglur um meðferð einkamála í héraði um meðferð mála samkvæmt þeim kafla, sbr. einnig 3. mgr. 133. gr. laganna. Við úrlausn málsins verður því beitt ákvæðum laga nr. 91/1991 og meginreglum einkamálaréttarfars þar sem ákvæðum laga nr. 20/1991 sleppir, þar á meðal reglunni um frjálst sönnunarmat dómara og málsforræðisreglunni, sbr. 44. og 46. gr. laga nr. 91/1991. 32. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991 er þeim sem hafa eignir bús í umráðum sínum skylt að veita skiptastjóra þær upplýsingar og láta honum í té þau gögn um málefni búsins sem hann krefst. Skylda þessi er fortakslaus, enda ber skiptastjóra að tryggja að upplýst sé um allar eignir aðila svo að unnt sé að haga skiptingu milli þeirra í samræmi við þær raunverulegu eignir sem til staðar eru. 33. Eins og rakið hefur verið báru ítrekaðar áskoranir skiptastjóra til sóknaraðila um að hann upplýsti um innstæður sínar á erlendum bankareikningum engan árangur. Virti sóknaraðili með öllu að vettugi þær margítrekuðu óskir um upplýsingaöflun sem skiptastjóri beindi til hans á mörgum skiptafundum, enda þótt ítrekað hefði verið lofað af hans hálfu að upplýsinga yrði aflað um þær. Sóknaraðila hlaut að vera ljóst að hann gat einn aflað upplýsinga um innstæður á erlendum bankareikningum sínum eða eftir atvikum veitt skiptastjóra umboð sitt til þess. Engu að síður aðhafðist hann ekkert og við skýrslutöku fyrir héraðsdómi, sem skiptastjóri hlutaðist til um á grundvelli 2. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991, voru svör hans um innstæður á bankareikningum erlendis mjög óljós. Bar hann því enn við að hann væri að bíða eftir upplýsingum um innstæður á viðmiðunardegi skipta. Þó kom þar fram að skattskuld sem fram kæmi á skattframtali árið 2015, um 15.000.000 króna, hefði verið greidd með ,,peningum erlendis frá“ og kvaðst hann reikna með að það hefði verið ,,frá F“ en skuldin var greidd í apríl 2015 um tveimur mánuðum eftir viðmiðunardag skipta. 34. Krafa varnaraðila um að lagt yrði til grundvallar að við opinber skipti til fjárslita milli aðila hafi sóknaraðili átt 500.000.000 króna á erlendum bankareikningum kom fyrst fram á skiptafundi 5. nóvember 2020 og vísaði hún þá til þess að sóknaraðili hefði fest kaup á fasteign og bifreið í gegnum einkahlutafélög sín að verðmæti um 150.000.000 króna. Þá væri sóknaraðila í lófa lagið að upplýsa um fjármuni sína erlendis en það hefði hann ekki gert. Varnaraðili hefur ekki fært fram frekari röksemdir fyrir kröfunni sem máli geta skipt að öðru leyti en því að sóknaraðili beri hallann af því að hafa ekki upplýst skiptastjóra um innstæður á erlendum bankareikningum á viðmiðunardegi skipta, sbr. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991, og beri því að leggja til grundvallar þá fjárhæð sem varnaraðili krefst. 35. Dómari getur að sönnu skýrt óljós svör eða þögn sóknaraðila á þann hátt sem varnaraðila er hagfelldast, sbr. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991, enda er sóknaraðili annar aðila máls þessa þótt skýrsla hans fyrir héraðsdómi hafi verið gefin á grundvelli 2. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991 þar sem hann hafði í orði kveðnu stöðu vitnis. Það breytir því á hinn bóginn ekki að til þess að unnt sé að fallast á kröfu varnaraðila verður hún að leiða að henni gild rök og styðja hana fullnægjandi gögnum. 36. Engin gögn eða töluleg útlistun hefur verið lögð fram til stuðnings þeirri staðhæfingu varnaraðila að erlendar innstæður nemi þeirri fjárhæð sem krafist er að lögð verði til grundvallar við skiptin. Þá skortir með öllu á að með markvissum hætti hafi verið skírskotað til þeirra gagna málsins sem hugsanlega hefðu að einhverju marki getað leitt líkur að fjárhæð innstæðna á erlendum bankareikningum, þar á meðal skattframtala málsaðila og engar ályktanir hafa verið dregnar af þeim gögnum sem gætu rennt stoðum undir staðhæfingu um fjárhæð innstæðnanna á viðmiðunardegi skipta. Varnaraðili hefur því ekki lagt þann grundvöll að kröfu sinni að tækt sé að fella á sóknaraðila sönnunarbyrði um að hann hafi ekki átt 500.000.000 króna innstæðu á erlendum bankareikningum á viðmiðunardegi skipta. Þar sem varnaraðili hefur engu að síður leitt að því sterkum líkum að innstæðurnar hafi verið hærri en sóknaraðili hefur upplýst um er ekki unnt að leggja efnisdóm á kröfuna með því að hafna henni. Vegna vanreifunar kröfunnar verður á hinn bóginn ekki hjá því komist að vísa henni sjálfkrafa frá héraðsdómi. 37. Sóknaraðili hefur fyrir sitt leyti krafist þess að lagt verði til grundvallar við skiptin að hann hafi á viðmiðunardegi skipta átt á erlendum bankareikningum 5.717.589 krónur. Varnaraðili hefur mótmælt því að krafan og skjalið sem hún er grundvölluð á fái komist að í málinu. 38. Samkvæmt útilokunarreglu einkamálaréttarfars skulu aðilar hafa uppi kröfur sínar, lýsingu á málsatvikum og röksemdir svo og mótmæli gegn kröfum, rökum og yfirlýsingum gagnaðila jafnharðan og tilefni verður til en að öðrum kosti komast þær ekki að. Útilokunarreglan hefur einnig áhrif fyrir Hæstarétti samkvæmt 2. mgr. 187. gr., sbr. 5. mgr. 174. gr. laga nr. 91/1991, en að meginreglu er óheimilt við meðferð máls fyrir Hæstarétti að gera nýjar kröfur eða bera fram nýjar málsástæður frá því sem gert var á fyrra dómstigi, með þeirri undantekningu þó að Hæstiréttur getur byggt á þeim við úrlausn máls hafi þær komið fram í greinargerð aðilans, grundvelli máls er ekki raskað á þann hátt, afsakanlegt er að þær voru ekki hafðar uppi á fyrra dómstigi og að það yrði aðilanum til réttarspjalla að ekki yrði tekið tillit til þeirra. Þá má styðja kæru nýjum sönnunargögnum, sbr. 2. mgr. 169. gr. laga nr. 91/1991, en sú heimild takmarkast jafnframt af fyrrnefndri útilokunarreglu og ber aðila því að leggja fram sönnunargögn af sinni hálfu svo fljótt sem verða má og í síðasta lagi áður en fresti til gagnaöflunar lýkur. Eftir það er aðilum að jafnaði óheimilt að leggja fram sýnileg sönnunargögn en frá því má þó víkja meðal annars af þeirri ástæðu að ekki hafi áður verið unnt að afla tiltekinna gagna, sbr. 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991. 39. Eins og rakið hefur verið kom fyrrgreind krafa sóknaraðila fyrst fram við meðferð málsins hér fyrir dómi í kjölfar hins kærða úrskurðar. Þá fyrst fól sóknaraðili skiptastjóra umboð til að afla upplýsinga um innstæður og aðrar eignir sínar hjá F á tímabilinu 31. desember 2014 til viðmiðunardags skipta og lagði í kjölfarið fram yfirlit frá bankanum dagsett 12. október 2021. Af því sem rakið hefur verið um tilraunir skiptastjóra til að afla upplýsinga um innstæður sóknaraðila á erlendum bankareikningum og viðbrögð sóknaraðila við þeim er með engu móti afsakanlegt að krafa hans hafi fyrst verið höfð uppi hér fyrir dómi. Honum var í lófa lagið að afla þeirra gagna eða hlutast til um við skiptastjóra að þeirra gagna sem hann byggir sína síðbúnu kröfu á yrði aflað á fyrri stigum málsins. Hefði þá varnaraðila gefist tilefni til sönnunarfærslu og mótmæla sem tekið hefðu mið af hinni nýju kröfu. Samkvæmt þessu fær krafa sóknaraðila ekki komist að hér fyrir dómi nema að því leyti sem í henni felst bindandi ráðstöfun á sakarefninu varnaraðila til hagsbóta. 40. Sóknaraðili bar um það fyrir héraðsdómi að hann hefði greitt um 15.000.000 króna skattskuld tveimur mánuðum eftir viðmiðunardag skipta og kvaðst „reikna með“ að peningar til að greiða þá skuld hefðu komið erlendis frá og þá frá F. Sú skýring hans að hann hafi átt um 15.000.000 króna handbærar á þessum erlenda bankareikningi tveimur mánuðum eftir viðmiðunardag skipta er í engu samræmi við það sem fram kemur í gögnum málsins að innstæður á reikningi þar hafi numið 5.717.589 krónum á viðmiðunardegi skipta. Verður vart önnur ályktun dregin af framburði sóknaraðila fyrir héraðsdómi en að fyrrgreind greiðsla hafi runnið frá öðrum erlendum bankareikningi hans en hjá F sem ekki hefur verið upplýst um í málinu. Óljós svör hans um uppruna fjárins sem nýtt var til að greiða ofangreinda skattskuld verða skýrð með hliðsjón af 2. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991. 41. Niðurstaða skiptastjóra í frumvarpi til úthlutunar um að engar innstæður á erlendum bankareikningum hafi verið í eigu sóknaraðila á viðmiðunardegi skipta fær samkvæmt öllu ofangreindu ekki staðist. Til viðbótar við þá fjárhæð sem svarar til 5.717.589 króna og sóknaraðili hefur vísað til í greinargerð sinni eru líkur fyrir innstæðu á einum eða eftir atvikum fleiri erlendum bankareikningum sem skiptastjóri hefur ekki haft vitneskju um. Verður því frumvarp til úthlutunar ekki lagt til grundvallar um innstæður á erlendum bankareikningum sóknaraðila. Samkvæmt þessu ber skiptastjóra að afla upplýsinga um þær innstæður sem kunna að hafa verið fyrir hendi á erlendum bankareikningum sóknaraðila á viðmiðunardegi skipta en á sóknaraðila hvílir á hinn bóginn fortakslaus skylda til að veita skiptastjóra upplýsingar um þær eignir, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991, eða eftir atvikum að veita skiptastjóra umboð sitt til afla upplýsinga þar um. Verði sóknaraðili á hinn bóginn ekki við beiðni skiptastjóra um að upplýsingar verði veittar um fyrrgreindar eignir er óhjákvæmilegt að skiptastjóri áætli fjárhæð innstæðna á erlendum bankareikningum sóknaraðila á grundvelli gagna málsins og í ljósi þeirra fjárhagslegu umsvifa sóknaraðila sem gögnin endurspegla. Að því loknu ber skiptastjóra að gera nýtt frumvarp til úthlutunar til samræmis við það sem fram hefur komið um eignastöðu aðila og ber þá að boða á ný til skiptafundar, sbr. 77.–79. gr. laga nr. 20/1991. Komi fram mótmæli við frumvarpi skiptastjóra til úthlutunar verður farið að sem greinir í 3. mgr. 79. gr. laganna, sbr. 122. gr. þeirra. 42. Af miklu skeytingarleysi virti sóknaraðili að vettugi ítrekaðar beiðnir skiptastjóra um að upplýsa um fjárhæð innstæðna á erlendum bankareikningum og gaf óljós og misvísandi svör þar um fyrir héraðsdómi. Með því olli hann drætti á meðferð málsins hjá skiptastjóra og varð þess valdandi að frumvarp skiptastjóra til úthlutunar gaf ekki rétta mynd af eignum málsaðila er það fór fyrir dóm. Af þeim sökum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði, sbr. b- og c- lið 1. mgr. 131. gr., sbr. 5. mgr. 174. gr. laga nr. 91/1991. Dómsorð: Kröfu sóknaraðila, B, er vísað frá Hæstarétti. Kröfu varnaraðila, A, er vísað frá héraðsdómi. Sóknaraðili greiði varnaraðila samtals 1.800.000 króna í kærumálskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=85e2a01e-111e-47f1-b99f-7fc15111cb58&verdictid=ccde1a44-e27f-445d-ac5a-f26005db4812
Mál nr. 37/2021
Skaðabætur Líkamstjón Eigin sök Vátryggingarsamningur Slysatrygging Tilkynningarskylda Tómlæti Stórkostlegt gáleysi Gjafsókn
A varð fyrir líkamstjóni á árinu 2013 þegar hann ók bifhjóli aftan á bifreið sem ekið var í sömu akstursstefnu. Hann var tryggður lögboðinni slysatryggingu hjá V hf. og féllst félagið með tölvubréfi 17. febrúar 2015 á bótaskyldu vegna líkamstjónsins. Aftur á móti skerti félagið rétt A til bóta um helming vegna stórkostlegs gáleysis hans við akstur bifhjólsins á ætluðum hraða samkvæmt útreikningi langt umfram hámarkshraða á veginum. Hæstiréttur taldi að V hf. hefði vegna tómlætis glatað rétti til að bera þetta fyrir sig samkvæmt 94. gr. laga nr. 30/2004. Var krafa A á hendur V hf. því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 2. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. ágúst 2021. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 66.646.608 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 7.913.230 krónum frá […] 2013 til […] 2014 og af 66.646.608 krónum frá þeim degi til 9. júlí 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 21. október 2015 að fjárhæð 34.778.722 krónur. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar úr hendi gagnáfrýjanda án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt fyrir Hæstarétti. 3. Gagnáfrýjandi skaut málinu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 18. október 2021. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar úr hendi hans á öllum dómstigum. Til vara krefst hann þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur en að málskostnaður verði felldur niður á öllum dómstigum. Ágreiningsefni 4. Mál þetta lýtur að líkamstjóni sem aðaláfrýjandi varð fyrir […] 2013 þegar hann ók bifhjóli aftan á bifreið sem ekið var í sömu akstursstefnu. Aðaláfrýjandi var tryggður lögboðinni slysatryggingu hjá gagnáfrýjanda en aðilar deila um hvort lækka megi bætur til aðaláfrýjanda á grundvelli þess að slysið verði rakið til stórkostlegs gáleysis hans. 5. Með héraðsdómi var aðaláfrýjanda gert að bera tjón sitt sjálfur að þriðjungi og var sú niðurstaða staðfest með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar. 6. Áfrýjunarleyfi var veitt 20. ágúst 2021 á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi, einkum um túlkun á 94. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga sem fjallar um tilkynningarskyldu vátryggingafélags ef það hyggst bera sig rétt til takmörkunar á ábyrgð. Málsatvik 7. Sunnudaginn […] 2013, laust eftir klukkan 14, varð aðaláfrýjandi fyrir alvarlegu umferðarslysi í […]. Hann var að aka bifhjóli sínu með skráningarnúmerinu […] […]veg þegar hann lenti aftan á pallbifreið með skráningarnúmerinu […] sem ekið var í sömu átt. Slysið varð á veginum skammt vestan við gatnamót […]vegar og […]vegar. Þegar var óskað eftir sjúkrabifreið og lögregla kölluð til. Samkvæmt frumskýrslu hennar var mikil umferð á veginum en dagsbirta og sól, vegurinn malbikaður, yfirborðið þurrt og allar aðstæður til aksturs því góðar. 8. Í frumskýrslu lögreglu var haft eftir ökumanni bifreiðarinnar […] að hann hefði ekið eftir veginum á hraðanum 75 til 80 km/klst. þegar mikið högg kom aftan á hana. Hann hefði þá litið í baksýnisspegilinn og séð bifhjólið liggja á hliðinni í vegöxlinni. Í skýrslunni var einnig haft eftir tveimur vitnum, sem komu akandi úr gagnstæðri átt, að pallbifreiðin hefði skyndilega sveigt til hliðar og þau séð grátt ský þyrlast upp. Eitthvað svart hefði kastast í loft upp fyrir aftan bifreiðina svo hátt að það nam við þak hennar og síðan skollið í götuna fyrir aftan hana. Eftir að hafa ekið spölkorn nær hefðu vitnin séð ökumann bifhjólsins liggjandi á götunni. Þá kom fram í frumskýrslunni að óskað hefði verið eftir aðstoð frá rannsóknardeild og tæknideild lögreglu og hefðu rannsóknarlögreglumenn frá þeim deildum komið á vettvang og tekið við rannsókninni auk þess sem fulltrúi frá Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefði komið á slysstað. 9. Rituð var lögregluskýrsla síðdegis eftir slysið í kjölfar þess að rætt var frekar á vettvangi við ökumann bifreiðarinnar […]. Þar var haft eftir honum að hann hefði skömmu fyrir slysið ekið fram hjá skilti við veginn með hraðamæli en hámarkshraði þar er 70 km/klst. Hann hefði ekið á hraðanum 70 til 80 km/klst. en hann hefði það fyrir reglu að draga úr hraða þegar hann kæmi að þessu skilti. Því næst hefði skyndilega komið mikið högg aftan á bifreiðina og í baksýnisspegli hennar hefði hann séð bifhjól og ökumann þess liggja á veginum. 10. Meðal málsgagna eru myndir sem teknar voru af bifhjólinu og pallbifreiðinni eftir slysið. Þar sést mikil ákoma á pallbifreiðinni þar sem bifhjólinu var ekið aftan á hana. Stuðari bifreiðarinnar var mjög beyglaður og mun bifhjólið hafa farið undir hana og lent á aftari höggdeyfara hennar hægra megin. 11. Aðaláfrýjandi slasaðist mikið í slysinu og var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans í Fossvogi. Hann dvaldi á gjörgæslu til […] 2013 en síðan á almennri deild til […] sama ár. Í kjölfarið fór hann í endurhæfingu, fyrst á legudeild en síðan á dagdeild þaðan sem hann útskrifaðist um jólin 2013. Aðaláfrýjandi hefur við skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi sagt að hann sé ekki til frásagnar um slysið þar sem hann myndi hvorki eftir því né atvikum í aðdraganda þess. 12. Eins og áður greinir var aðaláfrýjandi tryggður lögboðinni slysatryggingu hjá gagnáfrýjanda. Með tölvubréfi 11. nóvember 2013 sendi lögmaður aðaláfrýjanda umboð sitt frá honum til að gæta hagsmuna gagnvart gagnáfrýjanda vegna slyssins. Jafnframt óskaði lögmaðurinn eftir afriti gagna málsins og að það yrði skráð í viðeigandi tryggingu hjá félaginu. Þessu erindi svaraði gagnáfrýjandi samdægurs og staðfesti móttöku umboðsins ásamt því að senda gögn málsins með tilkynningu sem fylla þyrfti út og skila til félagsins. Aðaláfrýjandi sendi þá tilkynningu til gagnáfrýjanda 29. janúar 2014. 13. Þegar gagnáfrýjanda hafði borist umrætt tölvubréf lögmanns aðaláfrýjanda 11. nóvember 2013 færði starfsmaður félagsins eftirfarandi í yfirlit um málið: „ALLS ekki opna líkamstjónið fyrr en við fáum rannsóknarskýrslu frá lögreglu, þær eru enn ekki komnar. Spurning um ofsaakstur ??? Vitum ekki.“ Einnig var eftirfarandi fært í yfirlitið 30. janúar 2014 í kjölfar þess að fyrrgreind tilkynning um tjónið barst gagnáfrýjanda deginum áður: „Get ekki tekið afstöðu til bótaskyldu fyrr en öll gögn frá lögreglu liggja fyrir eða hafa borist okkur.“ 14. Við rannsókn á slysinu aflaði lögregla, á grundvelli 1. mgr. 86. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, útreiknings B, prófessors í vélaverkfræði, á hraða bifhjólsins í aðdraganda slyssins. Samkvæmt útreikningi hans 28. febrúar 2014 var hraðinn reiknaður út frá orkubreytingu vegna hemlunar, formbreytinga við áreksturinn og skriðs og orkubreytinga vegna viðnáms í frákasti. Miðað við þessar forsendur var áætlaður hraði hjólsins reiknaður 115 km/klst., mögulegur lágmarkshraði 105 km/klst. en hámarkshraði 126 km/klst. Þó var tekið fram að öll orkulosun sem ekki væri tekið tillit til í útreikningnum ylli því að raunverulegur hraði væri meiri en útreiknaður hraði. Aðaláfrýjandi mætti til skýrslutöku hjá lögreglu 4. mars 2014 þar sem honum var kynnt niðurstaða útreikningsins. Hann lýsti því yfir að sér þætti þetta allt of mikill hraði sem þarna kæmi fram. Honum væri kunnugt um að hámarkshraði á veginum, sem hann væri mjög vanur að aka, væri 70 km/klst. og hann æki þar alltaf á þeim hraða. 15. Með bréfi 14. febrúar 2014 óskaði gagnáfrýjandi eftir því við lögreglu að fá afrit af öllum gögnum um slysið. Því erindi mun ekki hafa verið svarað. Gagnáfrýjandi ítrekaði þessa ósk með bréfi 27. janúar 2015 og munu honum hafa borist rannsóknargögn málsins 13. febrúar sama ár. 16. Gagnáfrýjandi tilkynnti aðaláfrýjanda með tölvubréfi 17. febrúar 2015 að fallist væri á bótaskyldu vegna líkamstjónsins. Aftur á móti yrði réttur aðaláfrýjanda til bóta skertur um helming vegna stórkostlegs gáleysis hans við akstur bifhjólsins á ætluðum hraða sem samkvæmt útreikningi hefði verið langt umfram hámarkshraða á veginum. Þessu erindi svaraði lögmaður aðaláfrýjanda með tölvubréfi 19. sama mánaðar. Þar kom fram að gagnáfrýjandi hefði sent gögn málsins til aðaláfrýjanda 11. nóvember 2013, þar með talið lögregluskýrslu. Tilkynning um skerðingu bóta hefði borist rúmum 18 mánuðum eftir slysið og 15 mánuðum eftir að aðaláfrýjandi veitti lögmanninum umboð og önnur gögn málsins bárust honum. Tilkynningin hefði því borist of seint og gagnáfrýjandi glatað rétti til að bera fyrir sig takmörkun á ábyrgð, sbr. 94. gr. laga nr. 30/2004. Þessu andmælti gagnáfrýjandi með tölvubréfi sama dag og tók fram að félagið hefði strax fengið fjögurra síðna frumskýrslu lögreglu en frekari gögn frá henni hefðu ekki borist fyrr en 13. febrúar 2015. Gagnáfrýjandi áréttaði síðan með tölvubréfi 26. þess mánaðar að skerðing bóta stæði óhögguð. 17. Aðaláfrýjandi gekkst undir lögreglustjórasátt 6. júní 2014 um að greiða 15.000 króna sekt vegna of hraðs aksturs á bifhjóli sínu í aðdraganda slyssins en brotið var talið varða við 1. mgr. 36. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987. 18. Málsaðilar stóðu saman að því að afla sérfræðilegs álits 4. júní 2015 um líkamstjón aðaláfrýjanda eftir skaðabótalögum. Samkvæmt álitinu var tímabundið atvinnutjón hans 100% frá […] 2013 til 31. janúar 2014, 80% frá 1. febrúar til 30. apríl 2014 og 50% frá 1. maí til […] 2014. Tímabil þjáningabóta var frá slysdegi til […] 2014, þar af hefði aðaláfrýjandi verið rúmfastur til 1. nóvember 2013. Miðað var við að heilsufar aðaláfrýjanda hefði orðið stöðugt […] 2014 en varanleg örorka var metin 85% og varanlegur miski 68 stig. 19. Á grunni umrædds álits á tjóni aðaláfrýjanda fór fram uppgjör milli aðila 21. október 2015. Til frádráttar við uppgjörið kom 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum miðað við útreikning 8. sama mánaðar sem gagnáfrýjandi aflaði. Þá var lagt til grundvallar að aðaláfrýjandi þyrfti vegna eigin sakar að bera að hálfu leyti tjón sitt sjálfur. Í samræmi við þetta nam greiðsla gagnáfrýjanda til aðaláfrýjanda samtals 36.122.194 krónum en þar af var kostnaður fyrir þjónustu lögmanns aðaláfrýjanda 1.343.472 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Við uppgjörið gerði aðaláfrýjandi fyrirvara við sakarskiptingu og frádrátt samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. 20. Eftir að hafa borið málið undir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, sem taldi að skerða ætti bætur til aðaláfrýjanda um þriðjung, höfðaði hann málið í héraði 13. desember 2016. Undir rekstri þess var aflað matsgerðar 24. maí 2017 á ætluðum hraða bifhjólsins þegar slysið varð. Í héraðsdómi er gerð nánari grein fyrir niðurstöðum matsmannsins. Lagaumhverfi 21. Þegar slysið varð var lögboðin skylda í 1. mgr. 92. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987 til að taka sérstaka slysatryggingu fyrir hvern ökumann sem stjórnaði ökutæki, enda hefði hann ekki notað ökutækið í algeru heimildarleysi, sbr. 2. mgr. 90. gr. laganna. Samhljóða ákvæði er nú í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 30/2019 um ökutækjatryggingar. 22. Um slysatryggingu ökumanns fer eftir 90. gr. laga nr. 30/2004 ef vátryggingaratburði er valdið af gáleysi. Af 1. mgr. greinarinnar leiðir að lækka má eða fella niður ábyrgð vátryggingafélags ef vátryggður samkvæmt slíkri tryggingu hefur valdið því af stórkostlegu gáleysi að vátryggingaratburður varð eða að afleiðingar hans urðu meiri en ella hefðu orðið. Hið sama á við ef vátryggður hefur af stórkostlegu gáleysi valdið því að vátryggingaratburður varð með því að hlíta ekki varúðarreglum. Við úrlausn um þessi atriði skal litið til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti. Í 2. mgr. 90. gr. laganna segir síðan að í öðrum tilvikum en greinir í 1. mgr. ákvæðisins geti félagið ekki borið fyrir sig að vátryggður hafi af gáleysi valdið vátryggingaratburði. Með þessu er því slegið föstu að vátryggingafélag getur ekki borið fyrir sig að vátryggingaratburði hafi verið valdið með almennu gáleysi. 23. Um tilkynningarskyldu vátryggingafélags ef það ætlar að bera fyrir sig rétt til takmörkunar á ábyrgð vegna persónutrygginga fer eftir 94. gr. laga nr. 30/2004. Af 1. mgr. ákvæðisins leiðir að félagið skal, ef það hyggst bera fyrir sig að það sé samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laganna laust úr ábyrgð að öllu leyti eða að hluta, tilkynna vátryggingartaka eða þeim sem rétt á til vátryggingarbóta skriflega um afstöðu sína. Tilkynningin skal send án ástæðulauss dráttar eftir að félagið vissi um þau atvik sem veita því heimild til að beita þessum rétti sínum. Vanræki félagið að senda slíka tilkynningu glatar það rétti til að bera fyrir sig atvikin, sbr. 2. mgr. 94. gr. laganna. 24. Í athugasemdum með frumvarpi er varð að lögum nr. 30/2004 voru settar fram í einu lagi skýringar við 94. gr. um tilkynningarskyldu vátryggingafélags vegna persónutrygginga og hliðstætt ákvæði í 31. gr. um slíka tilkynningarskyldu vegna skaðatrygginga. Þar sagði að eðlilegt væri að á vátryggingafélagi hvíldi skylda til að koma því á hreint gagnvart vátryggðum hvort það ætlaði að bera fyrir sig takmörkun á ábyrgð. Tilkynningu skyldi komið á framfæri við vátryggingartaka en það gerði félagið með því að senda honum skriflega tilkynningu. Munnleg tilkynning nægði því ekki. Tilkynninguna skyldi senda án ástæðulauss dráttar en mat á því hversu mikið svigrúm félagsins væri að þessu leyti yrði að fara fram í hverju tilviki fyrir sig. Ekki yrðu gerðar þær kröfur til félagsins að það sendi strax tæmandi upplýsingar um hvernig það myndi bregðast við. Nægjanlegt væri að það tilkynnti að til athugunar væri að bera fyrir sig takmörkun á ábyrgð en nauðsynlegt væri þó í þeim tilvikum að strax og atvik væru ljós skyldi send fullnaðartilkynning. Um afleiðingar þess að félagið sinnti ekki skyldu sinni sagði að þær væru að félagið glataði rétti til að bera fyrir sig takmörkun á ábyrgð en vanrækslan gæti falist í því að það drægi of lengi að senda tilkynningu en einnig að form hennar og efni væri ófullnægjandi. Í skýringum við 94. gr. í athugasemdum með frumvarpinu var áréttað að orðalag ákvæðisins miðaðist einungis við að félagið tilkynnti að það hygðist bera fyrir sig ábyrgðartakmörkun en því væri ekki skylt að tilgreina nákvæmlega í fyrstu tilkynningu hversu mikil lækkunin yrði enda gæti það ráðist af mati á upplýsingum sem fengjust með síðari gagnaöflun. 25. Í umræddri tilkynningarskyldu, sem hvílir á vátryggingafélagi er hyggst takmarka ábyrgð sína, felst lögboðin tillitsskylda gagnvart vátryggingartaka eða þeim sem á rétt til vátryggingarbóta. Hún miðar meðal annars að því að vátryggður fái sem fyrst upplýsingar um þessa afstöðu félagsins og þjónar jafnframt þeim tilgangi að hann geti brugðist við til að gæta hagsmuna sinna. Það kann að gera honum betur kleift að varpa ljósi á málsatvik en þegar hann fær síðbúna tilkynningu þar að lútandi. Auk þess er bagalegt fyrir vátryggðan að dráttur verði á slíkri tilkynningu því að þá kunna að skapast réttmætar væntingar hjá honum um að fullar bætur verði greiddar. Þennan tilgang að baki tilkynningarskyldunni ber að hafa í huga þegar metið er í hverju tilviki fyrir sig hvort hennar hafi verið gætt með fullnægjandi hætti. 26. Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 30/2004 tekur frestur vátryggingafélags að líða þegar félagið „vissi um þau atvik sem veita því heimild til að beita rétti sínum“ til að skerða bætur. Með hliðsjón af þessum orðum verða ekki gerðar svo ríkar kröfur til vátryggingafélags að því beri að tilkynna um að það hyggist bera fyrir sig takmörkun á ábyrgð ef því mátti vera kunnugt um þessi atvik heldur verður yfirleitt að gera kröfu um raunverulega vitneskju félagsins. Þó verður talið að sterkar vísbendingar um þau geti eftir atvikum lagt ríkari skyldur á félag til að kanna og ýta á eftir því að fá tiltæk gögn um hvort þessar vísbendingar séu réttar með þeim áhrifum að fresturinn taki að líða. Þetta verður ekki talið of íþyngjandi í garð vátryggingafélags enda er því í lófa lagið að bregðast við með því að tilkynna þeim sem á rétt til vátryggingarbóta að til athugunar sé hvort félagið hyggist bera fyrir sig takmörkun á ábyrgð, eins og ráðgert er í lögskýringargögnum. Þegar fullnægjandi upplýsingar liggja fyrir getur félagið síðan tekið endanlega ákvörðun sína. 27. Frestur vátryggingafélags til að senda tilkynningu eftir 1. mgr. 94. gr. laga nr. 30/2004 er skammur enda á að senda hana „án ástæðulauss dráttar“ eins og segir í ákvæðinu. Þessi frestur getur þó ekki verið svo knappur að félagið hafi ekki eðlilegt svigrúm til að meta atvik til að taka ígrundaða afstöðu til þess hvort það beri fyrir sig takmörkun á ábyrgð sinni. Því má þó slá föstu að slíkt svigrúm geti ekki staðið mánuðum saman eftir að félagið fær upplýsingar sem gefa því tilefni til að bregðast við. Niðurstaða 28. Eins og áður greinir viðurkenndi gagnáfrýjandi bótaskyldu vegna þess líkamstjóns sem aðaláfrýjandi varð fyrir í slysinu […] 2013. Deila málsins lýtur að því hvort aðaláfrýjandi þarf að einhverju leyti að bera tjón sitt sjálfur vegna stórkostlegs gáleysis við akstur bifhjólsins í aðdraganda slyssins. Ekki er tölulegur ágreiningur um kröfu aðaláfrýjanda. 29. Af hálfu gagnáfrýjanda hefur komið fram að hann hafi fengið frumskýrslu lögreglu 19. ágúst 2013. Jafnframt staðfesti gagnáfrýjandi við meðferð málsins fyrir Hæstarétti að skömmu eftir slysið hefðu honum verið tiltækar ljósmyndir af pallbifreiðinni sem aðaláfrýjandi ók aftan á og bifhjóli hans. Samkvæmt þessum gögnum lá fyrir frásögn ökumanns bifreiðarinnar að hann hefði í umrætt sinn ekið á hámarkshraða eftir veginum eða rúmlega það og myndir sem bentu eindregið til að áreksturinn hefði verið mjög harður. Eins og áður er rakið var fært 11. nóvember 2013 í yfirlit gagnáfrýjanda um málið að alls ekki mætti „opna líkamstjónið“ fyrr en rannsóknargögn hefðu borist frá lögreglu því að spurning væri um „ofsaakstur“. Að virtu því hvernig málið var metið hjá gagnáfrýjanda, eins og efni var til í ljósi tiltækra gagna á þeim tíma, hvíldi á honum ríkari skylda en ella til að bregðast við vegna sterkra vísbendinga um að aðaláfrýjandi hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við aksturinn. 30. Þótt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 30/2004 mæli ekki berum orðum fyrir um að tilkynningarskylda hvíli á félagi um að til athugunar sé að bera fyrir sig rétt til takmörkunar á ábyrgð, án þess að endanleg ákvörðun hafi verið tekin í þeim efnum, er gert ráð fyrir þeirri málsmeðferð í lögskýringargögnum, eins og áður er rakið. Með slíkri tilkynningu er vátryggðum gert kleift að gæta hagsmuna sinna og fyrirbyggt að hjá honum skapist væntingar um fullar bætur þannig að hann hagi ráðstöfunum sínum í trausti þess. Gagnáfrýjandi sendi ekki tilkynningu af þessu tagi en með því hefði hann skapað sér frekara svigrúm til að taka afstöðu til þess hvort hann ætlaði að bera fyrir sig rétt til takmörkunnar á ábyrgð sinni. Í stað þess að bregðast við með þessu móti lét gagnáfrýjandi við það sitja að ítreka beiðni um að fá afrit af frekari gögnum um slysið með bréfi 27. janúar 2015 en þá voru liðnir ríflega 11 mánuðir frá því að sú beiðni var upphaflega send lögreglu með bréfi 14. febrúar 2014 án þess að því erindi væri svarað. Þegar hér var komið sögu hafði gagnáfrýjandi sýnt af sér slíkt tómlæti að hann hafði glatað rétti til að bera fyrir sig rétt til takmörkunar á ábyrgð vegna stórkostlegs gáleysis aðaláfrýjanda við akstur bifhjólsins, sbr. 2. mgr. 94. gr. laga nr. 30/2004. 31. Til stuðnings málatilbúnaði sínum hefur gagnáfrýjandi einnig teflt fram þeirri málsástæðu sem sjálfstæðum grundvelli til að skerða bótarétt aðaláfrýjanda að hann hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt 120. gr. laga nr. 30/2004 um að veita gagnáfrýjanda upplýsingar sem gátu haft áhrif á afstöðu hans til ábyrgðar sinnar. Þannig hafi lögregla kynnt aðaláfrýjanda 4. mars 2014 niðurstöður útreiknings á hraða bifhjólsins eða tæpu ári áður en gagnáfrýjandi fékk þann útreikning með gögnum málsins frá lögreglu. Einnig hafi aðaláfrýjandi ekki greint gagnáfrýjanda frá því að hann hafi gengist undir lögreglustjórasátt 6. júní sama ár vegna hraðaksturs í umræddu tilviki. Gagnáfrýjandi sendi aðaláfrýjanda aldrei tilkynningu þess efnis að hann hygðist bera þetta fyrir sig og hreyfði ekki þessari málsástæðu fyrr en í greinargerð sinni í héraði. Því hafði hann samkvæmt 94. gr. laga nr. 30/2004 glatað rétti til að bera þetta fyrir sig. Þess utan mátti aðaláfrýjandi gera ráð fyrir því að gagnáfrýjandi sjálfur aflaði þeirra gagna frá lögreglu sem hann teldi nauðsynleg til að taka afstöðu til málsins. 32. Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki fallist á það með gagnáfrýjanda að honum hafi verið heimilt að skerða rétt aðaláfrýjanda til bóta úr slysatryggingunni. Verður krafa hans á hendur gagnáfrýjanda því tekin til greina með ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga en um kröfuna er ekki tölulegur ágreiningur eins og áður greinir. Staðfest verður sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að krafan beri dráttarvexti frá 8. nóvember 2015 en þá var mánuður liðinn frá því að fullnægjandi upplýsingar lágu fyrir til að meta fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Jafnframt verður tekið undir það með Landsrétti að lagarök standi ekki til þess að miða upphaf dráttarvaxta við síðara tímamark vegna tafa á rekstri málsins af ástæðum sem aðilar bera ekki ábyrgð á. 33. Við ákvörðun málskostnaðar verður tekið tillit til þess að gagnáfrýjandi innti af hendi greiðslu vegna lögmannskostnaðar aðaláfrýjanda við fyrrgreint uppgjör 21. október 2015. Af þeirri ástæðu verður ákveðinn í einu lagi á öllum dómstigum málskostnaður sem gagnáfrýjanda verður gert að greiða og rennur í ríkissjóð, sbr. 4. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um gjafsókn fer eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Gagnáfrýjandi, Vörður tryggingar hf., greiði aðaláfrýjanda, A, 66.646.608 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 7.913.230 krónum frá […] 2013 til […] 2014 og af 66.646.608 krónum frá þeim degi til 8. nóvember 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 21. október 2015 að fjárhæð 34.778.722 krónur. Gagnáfrýjandi greiði samtals 2.600.000 krónur í málskostnað á öllum dómstigum sem renna í ríkissjóð. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsókn eru staðfest. Allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 800.000 krónur. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=ea224d2f-03dd-4067-838c-ca11661bb718&verdictid=4d6260bc-eb19-443a-9721-dcbbf1279324
Mál nr. 38/2021
Ærumeiðingar Tjáningarfrelsi Friðhelgi einkalífs Stjórnarskrá
R krafðist ómerkingar tveggja nánar tiltekinna ummæla sem A viðhafði í útvarpsþætti á útvarpsstöðinni Útvarp Saga 5. desember 2018. Þá gerði R kröfu um að A yrði gert að greiða sér miskabætur vegna þeirra. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að umræða um mikilvæg þjóðfélagsmál nyti aukinnar verndar tjáningarfrelsis. Ekki væri dregið í efa að ummæli A væru framlag til opinberrar umræðu um málefni er gæti varðað samfélagið miklu og væri henni játað rúmt frelsi til tjáningarinnar. Það leiði af hinu rýmkaða tjáningarfrelsi í opinberri umræðu að einstaklingar sem hefðu haslað sér völl á því sviði kunni að verða að þola harðari ummæli um sig en aðrir borgarar að því leyti sem umræðan teljist eiga erindi við almenning. Gagnrýni á störf fjölmiðlamanna kunni þannig að vera hörð og óvægin án þess að hún sæti takmörkunum. Þá kom fram í dómi réttarins að ummæli A hefðu lotið að störfum R sem fjölmiðlamanns. R hefði verið ögrandi í störfum sínum sem fjölmiðlamaður í áratugi og meðal annars ritað bók um þau störf sín. R hefði ítrekað verið stefnt fyrir ærumeiðingar af fólki sem teldi hann hafa gert á hlut sinn í þeim störfum og að R hefði hlotið dóm fyrir ósönn ummæli og ærumeiðandi fréttaflutning. Við heildstætt mat á ummælum A væri til þess að líta í hvaða samhengi ummælin hefðu verið viðhöfð og hvernig þau hefðu verið sett fram. Taldi rétturinn að A hefði verið að fella gildisdóm um störf R sem ekki skorti með öllu stoð í staðreyndum. Þótt ummælin hefðu verið óvægin var ekki talið að A hefði farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns. Var A því sýknuð af kröfum R.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. ágúst 2021. Hann krefst þess að eftirfarandi ummæli gagnáfrýjanda, sem féllu í útvarpsþætti á útvarpsstöðinni Útvarpi Sögu 5. desember 2018, verði dæmd dauð og ómerk: „Sjáðu bara eins og [...] stjórnarformann Stundarinnar, Reyni Traustason. Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf og fjölskylduhamingju á á samviskunni? Bæði frá því sem ritstjóri DV og ritstjóri Stundarinnar og þá stjórnarformaður Stundarinnar.“ Einnig: „Hvað heldurðu að hann hafi mörg mannslíf á á á samviskunni þar sem hann hefur lagt heilu fjölskyldurnar og fólk í rúst út af athugasemdakerfum sem hann lét með lygafréttum sem að eru framleiddar?“ Hann krefst þess einnig að gagnáfrýjandi verði dæmd til að greiða sér 300.000 krónur í miskabætur með nánar tilgreindum vöxtum. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum. 3. Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 12. október 2021. Hún krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað og að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér málskostnað á öllum dómstigum. Ágreiningsefni 4. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort framangreind ummæli sem gagnáfrýjandi viðhafði um aðaláfrýjanda á útvarpsstöðinni Útvarpi Sögu 5. desember 2018 feli í sér ærumeiðandi aðdróttanir sem brjóti gegn 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og friðhelgi einkalífs aðaláfrýjanda sem njóti verndar 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 eða hvort ummælin rúmist innan tjáningarfrelsis gagnáfrýjanda sem varið er af 73. gr. hennar. 5. Áfrýjunarleyfi var veitt 31. ágúst 2021 samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi á þessu réttarsviði, einkum um mörk svonefndra gildisdóma og staðhæfinga um staðreyndir. Málsatvik og meðferð máls fyrir dómi 6. Aðaláfrýjandi hefur starfað við blaðamennsku í tæp þrjátíu ár og hluta þess tíma ritstýrt og rekið fjölmiðla. Nú mun hann starfa við fararstjórn og ritstjórn netmiðilsins Mannlif.is. Hann er eigandi að 14% hlut í fjölmiðlinum Stundinni en gegnir þar ekki neinni formlegri stöðu. Gagnáfrýjandi er stofnandi og eigandi Útvarps Sögu og hefur verið útvarpsstjóri og þáttastjórnandi stöðvarinnar í nær tvo áratugi. 7. Framangreind ummæli sem krafist er ómerkingar á voru höfð uppi í þætti undir dagskrárliðnum „Spjallið“ á Útvarpi Sögu 5. desember 2018. Var þátturinn á dagskrá í kjölfar símatíma þar sem hlustendur stöðvarinnar áttu þess kost að hringja og fjalla um ýmis málefni. Þennan dag sátu gagnáfrýjandi og annar starfsmaður útvarpsstöðvarinnar að spjalli í beinni útsendingu í tæpar 20 mínútur. Ræddu þau um samræðuhefð á Íslandi, aðferðir við fréttaflutning og umræðu á netmiðlum. Sagði gagnáfrýjandi meðal annars: „Það varð gríðarlegt siðrof í þjóðfélaginu eftir hrun. Alveg ofboðslegt siðrof og það birtist meðal annars í orðræðu fólks ekki hvað síst inni á netmiðlum. Það birtist í athugasemdakerfi og inni á Facebook, það eru sumir þar óstöðvandi en það ná engin lög yfir það. Það er bara í lagalegu tómarúmi sem er mjög alvarlegur hlutur […] en ég er að reyna að sjá þetta heildstætt að hvar þjóðin er stödd mitt í þessari orðræðu og hvernig í ósköpunum það má vera að það hafi verið látið viðgangast allt það sem sagt er og öll sú orðræða sem á sér stað inni á netmiðlum og í athugasemdakerfunum. Netmiðlarnir sem slíkir, DV, Vísir og Stundin hafa átt það sammerkt að þeir eru eins og sko, þeir bara taka fyrir fólk það sem þeim dettur í hug og síðan treysta þeir því að athugasemdakerfið sjái um að afgreiða líf fólks eftir það. Athugasemdakerfið sér um það. Það er ormagryfja.“ Þá sagði viðmælandi gagnáfrýjanda: „Við komum með villandi frétt, með krassandi fyrirsögn og síðan er athugasemdakerfið sem tekur við.“ Svaraði gagnáfrýjandi: „Já það tekur við.“ Því næst sagði viðmælandinn: „Það er þannig sem þessu er stillt upp sko.“ Í framhaldi af þessu viðhafði gagnáfrýjandi ummæli þau sem krafist er ómerkingar á og bætti svo við: „Hvað heldurðu séu margir sem eru búnir að gráta úr sér augun yfir lygunum í þeim? Ég bara spyr um það. Og við skulum aðeins gæta okkar, við hljótum að vera komin lengra. Við stærum okkur af því að hafa jafnað okkur fljótt eftir hrunið í efnahagslegum tilgangi, hér sé svo mikill hagvöxtur og hér blómstrar allt. Og hvað? Þjóðin er í andlegum sárum. Bara gjörsamlega í tilfinningalegum sárum. Og það sést best á þessari orðræðu að fólk sleppir sér gjörsamlega. Hér eru bara nafnleysingjarnir látnir vaða uppi og þingið segir ekki neitt.“ Samtal þeirra hélt síðan áfram um nokkra hríð og lýsti gagnáfrýjandi þeirri skoðun sinni að löggjafarvaldið þyrfti að taka á þessum málum með lagasetningu. 8. Með héraðsdómi 11. febrúar 2020 voru hin umþrættu ummæli dæmd dauð og ómerk en gagnáfrýjandi sýknuð af kröfu aðaláfrýjanda um ómerkingu á öðrum ummælum eins og þar greinir nánar. Var gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda 300.000 krónur í miskabætur en kröfu um birtingu dóms á vefsíðunni www.utvarpsaga.is var vísað frá dómi. 9. Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu til Landsréttar sem sýknaði hana af kröfum aðaláfrýjanda með dómi 11. júní 2021. Í niðurstöðu dómsins var meðal annars horft til þess í hvaða samhengi ummælin hefðu fallið og talið að gagnáfrýjandi hefði verið að fella gildisdóm og lýsa skoðun sinni og ályktunum um aðaláfrýjanda og störf hans. Þá var vísað til þess að aðaláfrýjandi væri þjóðþekktur maður sem starfað hefði sem blaðamaður og ritstjóri í tæp þrjátíu ár þar sem hann og fjölmiðlar undir hans stjórn hefðu ekki veigrað sér við að fjalla með hvössum og gagnrýnum hætti um menn og málefni líðandi stundar. Hefðu ummælin ekki verið úr lausu lofti gripin. Að því virtu og því að rétturinn til að tjá ósanngjörn, móðgandi og stuðandi ummæli nyti einnig verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar var talið að með ummælum sínum hefði gagnáfrýjandi ekki vegið svo að æru aðaláfrýjanda að með þeim hefði hann farið út fyrir þau mörk tjáningarfrelsis sem lög og réttarframkvæmd hefðu mótað. Málsástæður og lagarök aðila 10. Af hálfu aðaláfrýjanda er í meginatriðum á því byggt að með framangreindum ummælum hafi verið vegið harkalega að æru hans og starfsheiðri. Í þeim felist fyrirvaralaus staðhæfing um að hann hafi vísvitandi birt ósannar fréttir með það að markmiði að leggja líf fólks í rúst. Ómögulegt sé að skilja þau öðruvísi en svo að aðaláfrýjanda sé borin á brýn háttsemi sem varðað geti fangelsisrefsingu samkvæmt almennum hegningarlögum. Gagnáfrýjandi hafi í engu sýnt fram á að staðhæfingar hennar séu réttar. Við mat á ummælum hennar beri að gæta þess að þegar þau féllu hefði aðaláfrýjandi ekki starfað við blaðamennsku frá miðju ári 2014 auk þess sem hann hefði ekki haft ritstjórn netmiðla með höndum. Rangfærslur þessar verði með engu réttlættar með því að þær hafi átt erindi við almenning eða hefðu verið réttlætanlegar sem hluti af þjóðfélagsumræðu. Þess sé að gæta að þótt aðaláfrýjandi hafi eitt sinn verið dæmdur fyrir ærumeiðandi ummæli hafi hann ekki með nokkru móti gefið á sér slíkt færi að hann þurfi að þola ummæli af þessu tagi. Þá hafi gagnáfrýjandi viðhaft ummælin í vondri trú og þau auk þess verið svo meiðandi að ekki rúmist innan tjáningarfrelsis hennar. Aðaláfrýjandi telur ummælin ærumeiðandi aðdróttanir og að í þeim felist brot gegn 235. gr. almennra hegningarlaga. Ummælin hafi jafnframt verið höfð í frammi gegn betri vitund, sbr. 1. og 2. mgr. 236. gr. sömu laga. Því beri að ómerkja þau með vísan til 1. mgr. 241. gr. laganna. Ummælin séu röng, særandi og ósmekkleg og til þess fallin að sverta æru aðaláfrýjanda. Réttur hans til æruverndar njóti verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og fyrrgreindra ákvæða almennra hegningarlaga. Í þeim hafi falist ólögmæt meingerð sem skapi skyldu til greiðslu miskabóta samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. 11. Gagnáfrýjandi byggir á því að umræða um fjölmiðla eigi brýnt erindi við almenning og njóti verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ummælin hafi verið að gefnu tilefni og falið í sér gildisdóm en ekki staðhæfingar um staðreyndir og því þurfi hún ekki að sanna réttmæti þeirra. Leggja verði til grundvallar táknræna eða yfirfærða merkingu ummælanna fremur en bókstaflega merkingu. Þá hafi hún varpað þeim fram í spurnarformi en í því hafi falist fyrirvari. Hún hafi eingöngu verið að lýsa skoðun sinni á störfum aðaláfrýjanda og þeirra fjölmiðla sem hann hefði komið að sem ritstjóri og eigandi. Skoða verði ummæli hennar í samhengi við umræðu í þættinum í heild og þá sérstaklega í tengslum við orðræðu fólks á netmiðlum og athugasemdakerfi fjölmiðla. Fullt tilefni hafi verið fyrir gildisdómi hennar og ummæli sem stuði, móðgi eða trufli njóti sérstakrar tjáningarfrelsisverndar þegar um er að ræða málefni sem hafi þjóðfélagslega þýðingu. Þá þurfi að hafa í huga að ummælin hafi beinst að einstaklingi sem hafi starfað í fjölmiðlum í áraraðir. Hann hafi sjálfur skapað sitt eigið orðspor enda hafi hann í áratugi viðhaft talsmáta um menn og málefni og hegðun sem almennt verði að telja lítt sæmandi. Ummælin eigi stoð í staðreyndum en aðaláfrýjanda hafi ítrekað verið stefnt fyrir ærumeiðingar og friðhelgisbrot og verið dæmdur fyrir ærumeiðingar. Gagnáfrýjandi andmælir því sérstaklega að hún hafi með ummælum sínum sakað aðaláfrýjanda um refsiverða háttsemi. Enn fremur vísar hún til þeirra „kælingaráhrifa“ á frjálsa tjáningu sem dómur í málinu kynni að hafa ef fallist yrði á dómkröfur aðaláfrýjanda. Loks byggir gagnáfrýjandi á því að fjölmiðlamenn hafi rýmra frelsi til tjáningar en aðrir borgarar vegna mikilvægis fjölmiðla í lýðræðissamfélagi. Lagaumhverfi 12. Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar, sbr. 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrár. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar en hann verður að ábyrgjast þær fyrir dómi, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Tjáningarfrelsinu má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra enda teljist þær takmarkanir nauðsynlegar og samræmast lýðræðishefðum, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Tjáningarfrelsið nýtur jafnframt verndar 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. 13. Friðhelgi einkalífs nýtur verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Æra og mannorð eru þættir í einkalífi manna sem njóta verndar samkvæmt ákvæðunum. 14. Í athugasemdum með 9. og 11. gr. frumvarps til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sem færðu ákvæði 71. og 73. gr. stjórnarskrár í það horf sem þau nú eru, var lýst því markmiði að færa ákvæðin til samræmis við efni 8. og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Verður við skýringu þessara stjórnarskrárákvæða jafnframt litið til úrlausna Mannréttindadómstóls Evrópu um inntak réttindanna og takmarkanir sem þeim eru settar. 15. Í framangreindum ákvæðum almennra hegningarlaga, sem aðaláfrýjandi vísar til, eru fólgnar heimildir til að setja tjáningarfrelsi skorður í þágu réttinda annarra, svo sem tilgreint er í 3. mgr. 73. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans. Í 235. gr. almennra hegningarlaga er því lýst sem refsiverðu athæfi að drótta að öðrum manni einhverju því sem verða myndi virðingu hans til hnekkis eða bera slíka aðdróttun út. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 236. gr. sömu laga er refsivert að bera slíka aðdróttun út opinberlega eða gegn betri vitund. Þá er eftir 1. mgr. 241. gr. laganna unnt að dæma í meiðyrðamáli óviðurkvæmileg ummæli ómerk að kröfu þess sem misgert er við. Ekki er skilyrði fyrir ómerkingu að sakfellt hafi verið fyrir brot samkvæmt öðrum ákvæðum XXV. kafla laganna. Loks er í b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga að finna heimild til þess að gera þeim sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns að greiða miskabætur til þess sem misgert er við. Forsendur og niðurstaða 16. Eins og áður greinir lýtur ágreiningur þessa máls að því hvort gagnáfrýjandi hefur með umdeildum ummælum sínum farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns og brotið gegn einkalífsréttindum aðaláfrýjanda. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu hafa mótast viðmið og reglur sem beita ber við úrlausn um álitaefnið. Meta þarf sjónarmið beggja aðila í ljósi þess að hvort tveggja, tjáningarfrelsi gagnáfrýjanda og æruvernd aðaláfrýjanda, eru meðal mannréttinda sem njóta verndar stjórnarskrárinnar og sáttmálans og finna þarf jafnvægið milli þeirra. 17. Heimildir til að takmarka tjáningarfrelsið samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu ber að skýra þröngt og þær þurfa að grundvallast á nauðsyn í lýðræðisþjóðfélagi. Þá ber að gæta meðalhófs við úrlausn þess hvort skorður á því frelsi teljist þjóðfélagsleg nauðsyn. Í samræmi við framangreint nýtur umræða um mikilvæg þjóðfélagsmál aukinnar verndar tjáningarfrelsis. Eru almennt líkur til þess að efni ummæla um slík mál teljist framlag sem eigi erindi við almenning og hefur heimild til slíkrar umfjöllunar verið túlkuð rúmt. Um þetta vísast til langrar dómaframkvæmdar Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu og má nefna dóma Hæstaréttar 24. nóvember 2011 í máli nr. 100/2011 og 28. maí 2009 í máli nr. 575/2008 svo og dóma mannréttindadómstólsins 4. maí 2017 í máli nr. 44081/13, Reynir Traustason o.fl. gegn Íslandi og 10. júlí 2012 í máli nr. 46443/09, Björk Eiðsdóttir gegn Íslandi. 18. Eins og rakið hefur verið fólu ummæli gagnáfrýjanda í sér ádeilu á orðræðu í þjóðfélaginu sem birtist á netmiðlum og hún telur vera „ormagryfju“ þannig að lagasetningarvaldið þurfi að láta til sín taka í þeim efnum. Verður gagnáfrýjanda játað rúmt frelsi til tjáningar um þetta tiltekna málefni og ekki dregið í efa að ummæli hennar séu framlag til opinberrar umræðu um málefni er getur varðað samfélagið miklu. 19. Það leiðir af hinu rýmkaða tjáningarfrelsi í opinberri umræðu að einstaklingar sem hafa haslað sér völl á því sviði kunna að verða að þola harðari ummæli um sig en aðrir borgarar að því leyti sem umræðan telst eiga erindi við almenning, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 10. desember 2015 í máli nr. 238/2015. Í lýðræðisþjóðfélagi gegna fjölmiðlar og fjölmiðlamenn að þessu leyti lykilhlutverki og njóta ríks svigrúms til tjáningar um málefni sem eiga erindi til almennings og eru hluti af þjóðfélagsumræðu, sbr. til að mynda framangreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 575/2008. Leiðir af því að gagnrýni á störf fjölmiðlamanna kann einnig að vera hörð og óvægin án þess að hún sæti takmörkunum. 20. Þótt aðila greini á um hvort aðaláfrýjandi hafi verið stjórnarformaður fjölmiðils, ritstjóri netmiðla, hversu lengi hann hafi verið ritstjóri eða blaðamaður eða hver staða hans var þegar hin umþrættu ummæli féllu liggur fyrir í gögnum málsins að hann hefur starfað sem blaðamaður eða ritstjóri á fjölmiðlum í áraraðir og vegna þeirra starfa hefur hann mikið verið í sviðsljósinu. Lutu ummæli þau sem um ræðir að störfum hans sem fjölmiðlamanns. 21. Einnig hefur verið horft til fyrri háttsemi þess einstaklings sem ummæli lúta að við mat á því hversu óvægna gagnrýni hann verði talinn þurfa að þola, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 25. september 2003 í máli nr. 36/2003. 22. Af því sem fram er komið í málinu verður ráðið að aðaláfrýjandi hafi verið ögrandi í störfum sínum sem fjölmiðlamaður í áratugi og meðal annars ritað bók um þau störf sín. Þá hefur honum ítrekað verið stefnt fyrir ærumeiðingar af fólki sem telur hann hafa gert á hlut sinn í þeim störfum. Hann hlaut dóm fyrir ósönn ummæli og ærumeiðandi fréttaflutning með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2013. Í öðrum meiðyrðamálum gegn honum hafa dómstólar talið að hið rýmkaða tjáningarfrelsi sem fjölmiðlar hafa til að fjalla um samfélagsleg málefni sem eiga erindi í opinbera umræðu ætti að ganga framar friðhelgi einkalífs stefnenda í þeim málum. 23. Þá skiptir ekki síst máli við mat á því hvort ummæli gagnáfrýjanda skuli sæta takmörkunum hvort fremur ber að líta á þau sem gildisdóm en staðhæfingu um staðreynd. Aðila greinir á um það hvernig líta ber á hin umþrættu ummæli í þessu tilliti. Gildisdómur felur venjulega í sér huglægt mat á staðreynd en ekki fullyrðingu um hana öndvert við staðhæfingar er vísa til beinna staðreynda án þess að um sé að ræða huglægt mat. Njóta gildisdómar eðli málsins samkvæmt ótvírætt almennt aukinnar verndar umfram ósannaðar staðhæfingar um staðreyndir. Það birtist meðal annars í því að mönnum verður ekki gert að sanna gildisdóma eða refsað fyrir þá takist ekki slík sönnun, andstætt því sem jafnan gildir um staðhæfingar um staðreyndir, sbr. til að mynda dóm Hæstaréttar 29. janúar 2009, nr. 321/2008. Eru gildisdómar skilgreindir fremur rúmt og þess heldur ef viðfangsefnið telst vera liður í almennri þjóðfélagsumræðu. Það á ekki síst við umræðu er tengja má stjórnmálum, sbr. meðal annars fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 575/2008. Þótt ekki sé gerð krafa um sönnun gildisdóms getur skipt máli hvernig hann er settur fram og í tilviki slíks dóms um einstakling þurfa einhver atvik eða fyrirliggjandi upplýsingar um hann að geta gefið tilefni til að draga ályktanir af því tagi sem um ræðir, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 18. febrúar 2010 í máli nr. 104/2009 og dóm mannréttindadómstólsins 13. nóvember 2003 í máli Scharsach og News Verlagsgeselleschaft gegn Austurríki í máli nr. 39394/98. 24. Við heildstætt mat á ummælum gagnáfrýjanda er til þess að líta að ummæli hennar voru ekki sett fram sem liður í fréttaflutningi heldur skírskotaði hún til almannahagsmuna og tengdi þau stjórnmálum. Lýsti hún andúð á umræðu og ósönnum fréttaflutningi sem tíðkaðist í þjóðfélaginu og taldi að Alþingi ætti að láta málefnið til sín taka. Dró hún ályktanir þar um með því að taka dæmi af aðferðum fjölmiðla og vísaði til framgöngu aðaláfrýjanda sem dæmis um hvernig fjölmiðlaumræða gæti haft áhrif á líf og lífshamingju fólks. Verður ekki annað talið en að tilvísun gagnáfrýjanda, sem sett var fram í spurnarformi, til orðasambandsins að hafa mörg mannslíf á samviskunni hafi verið notuð í yfirfærðri merkingu en ekki falið í sér fullyrðingu um að hann sjálfur hafi beinlínis orðið valdur að dauða fólks, sbr. meðal annars til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 3. maí 2018 í máli nr. 405/2017. Með allt framangreint í huga verður ekki annað séð en að gagnáfrýjandi hafi með ummælum sínum verið að fella gildisdóm um störf aðaláfrýjanda sem ekki skorti með öllu stoð í staðreyndum. 25. Þótt ummælin hafi verið óvægin verður ekki talið að virtu öllu sem rakið hefur verið að gagnáfrýjandi hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns. Heimila lög því ekki ómerkingu ummælanna og verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur. 26. Þegar litið er til alls framangreinds og eftir úrslitum málsins er rétt að dæma aðaláfrýjanda til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Aðaláfrýjandi, Reynir Traustason, greiði gagnáfrýjanda, Arnþrúði Karlsdóttur, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=048c6e02-4064-46d7-b614-227a953089c8&verdictid=fd165bc1-cfee-46ea-a4e9-7bbb208e8f3a
Mál nr. 32/2021
Starfslok Sameignarfélag Samningur Ógilding samnings Hagnaðarhlutdeild Málskostnaður Aðfinnslur
Ágreiningur málsins laut að kröfum B vegna innlausnar eignarhluta hans í D sf. samhliða starfslokum hans hjá Deloitte ehf. á árinu 2017 og hlutdeildar í hagnaði D sf. vegna þess reikningsárs þegar innlausn hluta hans fór fram. B byggði á því að um innlausnina skyldi fara eftir ákvæðum laga nr. 50/2007 þar sem hann væri hvorki bundinn af samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013, sem hefði verið fellt úr gildi með nýjum samningum sem tóku gildi 1. júní 2017, né af síðastnefndum samningum enda hefði hann ekki undirritað þá fyrir sitt leyti. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna D sf. af kröfum B. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ákvæði í samkomulaginu 14. nóvember 2013 yrðu ekki skýrð á þann veg að mismunandi reglur hafi átt að gilda á hverjum tíma um félagsmenn D sf. eftir því hvaða breytingar hver og einn þeirra samþykkti. Við þær breytingar á samkomulagi félagsmanna sem tóku gildi 1. júní 2017 hefði verið farið að þeim reglum sem félagsmenn höfðu áður samþykkt um hvernig því skyldi breytt. B hefði verið A-félagsmaður í D sf. og gengist með skýrum hætti undir að breytingar yrðu gerðar á samkomulagi þeirra með auknum meirihluta atkvæða. Var því fallist á með D sf. að um innlausn á eignarhluta B færi eftir þeim samningum sem tóku gildi 1. júní 2017 en í málinu lá fyrir að tvö skuldabréf hefðu verið gefin út til B í samræmi við það. Staðfest var niðurstaða hins áfrýjaða dóms að engin efni væru til að ógilda fyrrgreindar samningsskuldbindingar á grundvelli ógildingarreglna samningaréttar. Þá var D sf. jafnframt sýknað af kröfum B annars vegar vegna hlutdeildar í höfuðstól félagsins sem hefði myndast vegna eftirstæðs hagnaðar tilgreind reikningsár og hins vegar vegna hlutdeildar í tilgreindum fjárfestingarstyrk. Var D sf. því sýknað af kröfum B um frekari greiðslur vegna innlausnar á eignarhluta hans í félaginu. Loks var talið að um rétt B til hagnaðarhlutdeildar færi eftir þeim samningum sem tóku gildi 1. júní 2017 og því féllst Hæstiréttur á kröfu B um viðurkenningu á rétti til 235/3975 hlutdeildar í hagnaði D sf. reikningsárið 1. júní 2017 til 31. maí 2018 í réttu hlutfalli við þann tíma sem hann naut stöðu eiganda í D sf. frá 1. júní 2017 til 1. janúar 2018.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júlí 2021. Hann krefst þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 135.109.881 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2018 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 14.411.928 krónur með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Jafnframt krefst áfrýjandi þess að viðurkenndur verði réttur hans til 1/18 hlutdeildar í hagnaði stefnda vegna tímabilsins 1. júní 2017 til 1. janúar 2018, en til vara vegna tímabilsins 1. júní 2017 til 1. nóvember sama ár og að viðurkennd verði bótaskylda stefnda á tjóni áfrýjanda sem hlaust af því að eignarhlutur hans var innleystur 1. nóvember 2017 í stað 1. janúar 2018. Að því frágengnu krefst hann viðurkenningar á rétti til 235/3975 hlutdeildar í hagnaði stefnda reikningsárið 1. júní 2017 til 31. maí 2018 í réttu hlutfalli við þann tíma sem hann naut réttinda sem eigandi eignarhluta í stefnda frá 1. júní 2017 til 1. janúar 2018, en til þrautavara frá 1. júní 2017 til 1. nóvember sama ár og að viðurkennd verði bótaskylda stefnda á tjóni áfrýjanda sem hlaust af því að eignarhlutur hans var innleystur 1. nóvember 2017 í stað 1. janúar 2018. Loks krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum. 3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Ágreiningsefni 4. Ágreiningur málsins lýtur að kröfum áfrýjanda vegna innlausnar eignarhluta hans í stefnda samhliða starfslokum hans hjá Deloitte ehf. á árinu 2017. Áfrýjandi krefst þess að innlausn eignarhluta hans fari fram á grundvelli laga nr. 50/2007 um sameignarfélög og jafnframt hlutdeildar í hagnaði stefnda vegna þess reikningsárs sem var yfirstandandi þegar innlausn hluta hans fór fram og þar miðað við að hann hafi verið A-félagsmaður fram til 1. janúar 2018. Verði uppgjör hagnaðar þrátt fyrir það miðað við 1. nóvember 2017 byggir áfrýjandi á því að stefndi hafi þannig valdið honum tjóni með saknæmri og ólögmætri háttsemi. 5. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var með hinum áfrýjaða dómi, var stefndi sýknaður af öllum kröfum áfrýjanda. Í héraði beindi áfrýjandi kröfum sínum einnig að Deloitte ehf. vegna ógreidds orlofs og með dómi héraðsdóms var félagið dæmt til að greiða áfrýjanda 58.941 krónu auk vaxta. Kom sú niðurstaða ekki til endurskoðunar í Landsrétti. 6. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grundvelli að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi meðal annars um stöðu félagsmanns í sameignarfélagi sem ekki samþykkir breytingar á félagssamningi og hvort um réttarstöðu hans fari þá eftir eldri félagssamningi sem felldur hefur verið úr gildi, yngri samningi eða lögum nr. 50/2007, sbr. 3. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í ákvörðun Hæstaréttar um leyfið sagði jafnframt að ástæða væri til að ætla að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur um ákvörðun málskostnaðar, sbr. 4. málslið sama lagaákvæðis. Málsatvik 7. Áfrýjandi er löggiltur endurskoðandi og hóf störf hjá forvera Deloitte-samstæðunnar árið 1983. Fram til ársins 2017 fór starfsemi samstæðunnar á Íslandi fram í tveimur félögum. Annars vegar í stefnda sem er skráð sameignarfélag og hins vegar í einkahlutafélaginu Deloitte sem er dótturfélag stefnda. Við starfslok áfrýjanda var í gildi ráðningarsamningur hans við Deloitte ehf. frá ágúst 2009 og var áfrýjandi jafnframt A-félagsmaður í stefnda. 8. Í stofnsamningi stefnda 26. september 2015, sem leysti af hólmi stofnsamning 1. júní 2005, segir í grein 2 að tilgangur félagsins sé eignarhald um hlutabréf, önnur verðbréf og eignir í sameiginlegri eigu félagsmanna sem tengjast rekstri á sviði endurskoðunar, bókhalds og ráðgjafar svo og tengdum eignum. Í grein 3 segir að stofnframlag félagsmanna skiptist í hluti A- og B-félagsmanna. Samkvæmt grein 4 geta félagsmenn þeir einir verið sem eru fastráðnir starfsmenn samstæðu félagsins samkvæmt ráðningarsamningi en heimilt er að bæta við nýjum félagsmönnum að fengnu samþykki allra A-félagsmanna eða stjórnar félagsins samkvæmt samþykktum. Í grein 8 segir að samþykki allra A-félagsmanna þurfi til þess meðal annars að breyta tilgangi félagsins eða ákvæðum félagssamnings um hlutdeild manna í félaginu eða jafnrétti þeirra á milli. Samsvarandi ákvæði var í stofnsamningi stefnda 1. júní 2005. 9. A-félagsmenn höfðu gert með sér samkomulag 14. nóvember 2013 um „ýmis atriði í samskiptum sín á milli, sem ekki koma fram í sameignarfélagssamningi og stofnsamningi félagsins eða ráðningarsamningum við A-félagsmenn“ en það leysti af hólmi samkomulag félagsmanna sama efnis frá 16. september 2005. Í samkomulaginu 14. nóvember 2013 var fjallað um störf A-félagsmanna fyrir félagið, skiptingu hagnaðar, inn- og útgönguverð, breytingar á eignaraðild og ráðningu forstjóra. Í grein 12 samkomulagsins sagði að því yrði aðeins breytt að breytingar hlytu samþykki 4/5 hluta atkvæða á A-félagsmannafundi í félaginu. 10. Í stofnsamningum stefnda frá 2005 og síðar 2015 eru samkvæmt framansögðu samhljóða fyrirmæli um hvernig tilteknum atriðum verði breytt með samþykki allra A-félagsmanna, sbr. grein 8 beggja samninganna. Í fyrrgreindu samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013 er hins vegar að finna reglu sem mælir fyrir um heimildir 4/5 hluta A-félagsmanna til að breyta því. 11. Árin 2015 og 2016 fóru fram viðræður stjórnenda Deloitte á Íslandi um erlent samstarf. Virðist sem mótuð hafi verið sú stefna að einungis eitt aðildarfélag væri á tilteknum landsvæðum sem færi með yfirstjórn þeirra Deloitte-félaga sem þar væru. Í þeim tilgangi yrði meðal annars stofnað félagið Deloitte NWE LLP sem skráð yrði á Bretlandi og því ætlað að verða aðildarfélag alþjóðafélags Norðvestur-Evrópu í stað beinnar aðildar fyrri félaga á sama svæði. Á aðalfundi stefnda og Deloitte ehf. 24. september 2016 kynnti formaður stjórnar stefnda og Deloitte ehf. að hann hefði sótt sex samráðsfundi erlendis vegna „Nordic og NWE samstarfs“. Væru helstu málefni fram undan meðal annars „NWE vegferðin“, útfærsla á einingakerfi og eigenda- og hluthafamál. Á fundi eigenda 3. október 2016 var samþykkt að veita formanni stjórnar stefnda og Deloitte ehf. umboð til að framkvæma allar aðgerðir og undirrita öll nauðsynleg gögn fyrir hönd eigenda í tengslum við ákvörðun sem send hafði verið til þeirra 26. september sama ár um heimild til framkvæmda á svonefndu Project-Gold verkefni og málefnum því tengdu. 12. Á hluthafafundi 30. maí 2017 var lagður fram svokallaður hluthafasamningur Deloitte NWE, stefnda og A-félagsmanna til undirritunar með vísan til fundar 3. október 2016 og umboðs stjórnar til breytinga. Jafnframt voru þar bornar undir atkvæði breytingar sem gerðar höfðu verið á samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013 og þær samþykktar með fimmtán atkvæðum af sextán en enginn greiddi atkvæði gegn þeim. Tók fyrrgreindur hluthafasamningur og breytingar á samkomulagi gildi 1. júní 2017. Ágreiningslaust er að áfrýjandi skrifaði ekki undir framangreind skjöl en það gerðu aðrir A-félagsmenn stefnda. Í fundargerð var meðal annars bókað um óánægju áfrýjanda við afgreiðslu tiltekins liðar á fundinum. Í tölvupósti til stjórnar og annarra eigenda stefnda 16. sama mánaðar gerði áfrýjandi athugasemd við fyrrgreinda bókun enda hefði óánægja hans verið mun víðtækari en þar kæmi fram. Hann hefði ekkert samþykkt á fundinum og ekki skrifað undir neinn þeirra samninga sem þar voru lagðir fram. 13. Áfrýjandi fundaði með forstjóra og formanni stjórnar stefnda og Deloitte ehf. í byrjun júní 2017 meðal annars vegna afstöðu áfrýjanda til fyrrgreindra samninga. Í tölvupósti forstjóra 29. sama mánaðar kom fram að útbúin hefðu verið tvö skuldabréf vegna sérgreinds höfuðstóls og innlausnar á eignarhlut áfrýjanda í stefnda auk þess sem vísað var til þess að áfrýjandi hefði á fyrrgreindum fundi hallast að því að gerast B-félagsmaður. Þessu hafnaði áfrýjandi með tölvupósti næsta dag. Vísaði hann til fyrri samskipta og áréttaði að hann myndi aldrei sætta sig við verri kjör en A-félagsmaður. Jafnframt gerði áfrýjandi athugasemdir við að laun hans hjá Deloitte ehf. hefðu verið lækkuð til samræmis við laun B-félagsmanna. Það var í kjölfarið leiðrétt og fékk áfrýjandi greidd laun sem A-félagsmaður til starfsloka. 14. Áfrýjandi sagði upp störfum hjá Deloitte ehf. 1. júlí 2017 með sex mánaða fyrirvara og krafðist samhliða innlausnar á eignarhlut sínum með sama fresti. Í ítarlegu bréfi sama dag til A-félagsmanna mótmælti hann því að fá ekki úthlutað einingum í upphafi reikningsárs sem hófst 1. júní eins og aðrir A-félagsmenn í samræmi við reglur um einingakerfi stefnda. Í tölvupósti til formanns stjórnar stefnda og Deloitte ehf. 9. ágúst 2017 sendi áfrýjandi tillögu um úthlutun sama fjölda hagnaðareininga fyrir reikningsárið 2017-2018 og reikningsárið 2016-2017 enda væri hann enn A-félagsmaður og þótt hann hefði tilkynnt útgöngu væri ekki með öllu útilokað að hann drægi hana til baka. Því ætti hann rétt á úthlutun hagnaðareininga til jafns við aðra A-félagsmenn. Á fundi eigenda 17. sama mánaðar var fyrrgreind tillaga áfrýjanda borin undir atkvæði og felld. Í fundargerð var jafnframt bókað eftir áfrýjanda að verulegir ágallar væru á kynntum ársreikningi Deloitte ehf., meðal annars að styrkur frá alþjóðafélagi Deloitte væri þar ekki tekjufærður heldur skráður sem langtímaskuld. Í tölvupósti 22. ágúst 2017 til formanns stjórnar stefnda áréttaði áfrýjandi að hann ætti að njóta hlunninda A-félagsmanna meðan hann væri enn í þeirra hópi og í tölvupósti 12. september sama ár til formanns stjórnar stefnda og Deloitte ehf. sagði að áfrýjandi hefði þrisvar reynt án árangurs að fá úthlutað einingum fyrir reikningsárið 2017-2018 eða önnur sambærileg kjör svo að honum væri unnt að draga uppsögn sína til baka. 15. Á aðalfundi stefnda 16. september 2017 voru meðal annars til umræðu tillögur áfrýjanda um úthlutun 235 NWE-eininga fyrir reikningsárið 2017-2018 og til vara að aðalfundur samþykkti að greiða honum út sérgreindan höfuðstól hans. Fyrri tillögu áfrýjanda var vísað frá en sú seinni felld. Í fundargerð var bókað að um úthlutun NWE-eininga fyrir reikningsárið 2017-2018 færi samkvæmt sameignarfélagssamningi félagsins Deloitte NWE frá 1. júní 2017. Samkvæmt honum væri ákvörðun um úthlutun eininga í höndum stjórnar þess félags. Eigendafundur stefnda væri því ekki bær til að taka ákvarðanir um úthlutun eininga fyrir reikningsárið 2017-2018. 16. Meðal gagna málsins eru drög að samkomulagi 16. október 2017 um starfslok áfrýjanda og innlausn eignarhluta hans í stefnda. Í tölvupósti áfrýjanda 19. sama mánaðar til formanns stjórnar og forstjóra stefnda kom fram að sumt í drögunum væri þvert á það sem rætt hefði verið á fundum aðila. Meðal annars kæmi ekki til greina að innlausn eignarhluta áfrýjanda færi fram fyrr en 31. janúar 2018 enda hefði uppsögn hans og innlausnarkrafa miðast við þann tíma sem og ráðningarsamband hans við stefnda. Sex mánaða uppsagnarfrestur hefði verið í samræmi við reglur laga um sameignarfélög og reglur stefnda og gæti hann ekki samþykkt að láta af störfum í lok október. Auk þess ætti hann að halda fullum réttindum allt til 31. janúar 2018 hvort sem hann léti af störfum á þeim tíma eða fyrr að ósk félagsins. Áfrýjandi áréttaði fyrrgreinda afstöðu sína í tölvupósti til formanns stjórnar og forstjóra stefnda 21. október 2017. Í svari forstjóra 24. sama mánaðar kom fram að eins og rætt hefði verið á fyrri fundum væri gengið út frá því að áfrýjandi léti af störfum 31. október 2017. Áfrýjandi svaraði 30. sama mánaðar að hann myndi láta af störfum daginn eftir. Það breytti þó engu um að ráðningarsamningur hans gilti til 31. janúar 2018 um allt annað en vinnuframlag og yrði hann áfram A-félagsmaður til þess tíma. 17. Í bréfi forstjóra stefnda og Deloitte ehf. 1. nóvember 2017 til áfrýjanda sem bar heitið „Tilkynning um starfslok hjá Deloitte ehf. og innlausn eignarhluta í D&T sf.“ var áfrýjanda tilkynnt um innlausn eignarhluta hans í stefnda. Var þar boðað að greiðslur til áfrýjanda yrðu gerðar upp með tveimur skuldabréfum. Annars vegar að fjárhæð 21.487.000 krónur vegna innlausnar á stofnfjárhluta og hins vegar 25.414.000 krónur vegna innlausnar á sérgreindum höfuðstól. Þá skyldi áfrýjandi njóta arðs að fullu vegna reikningsársins sem lauk 31. maí 2017 samkvæmt ákvörðun aðalfundar 16. september 2017 en ekki vegna reikningsársins sem hófst 1. júní 2017, sem sagt var vera til samræmis við samninga og reglur félagsins og stefnda. Ekki var óskað eftir vinnuframlagi áfrýjanda eftir 31. október sama ár. 18. Í bréfi forstjóra Deloitte ehf. og stefnda 2. nóvember 2017 var vísað til fundar með áfrýjanda daginn áður þar sem áfrýjandi hafði neitað viðtöku bréfs um starfslok og skuldabréfanna og af þeim sökum myndi Deloitte ehf. varðveita frumrit skuldabréfanna fyrir hönd áfrýjanda. Fyrrgreindu uppgjöri var mótmælt af áfrýjanda með bréfi 9. sama mánaðar. Lagaumhverfi 19. Í málinu reynir einkum á skýringu félagssamnings sameignarfélags og þýðingu laga nr. 50/2007 í því sambandi, einkum um hvenær unnt er að víkja frá þeim með félagssamningi. Því er rétt að fjalla nánar um lögin að því marki sem nauðsynlegt er fyrir sakarefni málsins. 20. Með lögunum voru í fyrsta skipti settar reglur um sameignarfélög hér á landi. Uppbygging þeirra er með þeim hætti að I. kafli hefur að geyma almennar reglur, í II. kafla er fjallað um stofnun sameignarfélaga og ábyrgð félagsmanna, í III. kafla um stjórnkerfi og réttarstöðu félagsmanna og IV. kafli hefur að geyma reglur um meðferð fjármuna sameignarfélaga og fyrirsvar. Í V. kafla er fjallað um breytingar á félagsaðild, í VI. kafla um félagsslit og skipti, í VII. kafla er að finna reglu um skaðabótaábyrgð og reglur um skráningu sameignarfélaga eru í VIII. kafla. Í 3. gr. laganna segir að ákvæði III. kafla þeirra um stjórnkerfi og réttarstöðu félagsmanna eigi við nema kveðið sé á um annað í félagssamningi. Þar segir jafnframt að önnur ákvæði laganna séu ófrávíkjanleg nema annað sé tekið fram. 21. Í almennum athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 50/2007 segir að markmið með setningu laganna sé að setja reglur um sameignarfélög sem séu til þess fallnar að skýra réttarstöðuna einkum þegar ekki liggi fyrir ákvæði í samningi sem taki á viðkomandi álitaefni. Séu lögin að meginreglu til frávíkjanleg og þá einkum þær reglur sem lúta að innra skipulagi og sambandi félagsmanna innbyrðis og gagnvart félaginu. Reglur um réttarsamband félagsins út á við, þar á meðal ábyrgð félagsins og félagsmanna á skuldbindingum þess og skráningu í firmaskrá, séu hins vegar almennt ófrávíkjanlegar. Þá sé ekki stefnt að því að setja tæmandi reglur um hvert einasta álitaefni sem hugsanlega geti risið heldur miðað við að löggjöfin takmarkist við ákveðin efni sem séu þar með grundvallarreglur um einkenni sameignarfélaga, stofnun þeirra, ábyrgð, ákvarðanatöku, réttarstöðu félagsmanna, meðferð fjármuna, breytingar á félagsaðild, félagsslit, skaðabótaábyrgð og skráningu sameignarfélaga. Það hafi verið einn höfuðkostur sameignarfélagaformsins að um stofnun þeirra, skipulag og innri málefni hafi ríkt samningsfrelsi og stefnt væri að því að tryggja það áfram meðal annars um innri málefni sameignarfélaga. 22. Í II. kafla laga nr. 50/2007 er fjallað um félagssamninga í 7. gr. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til laganna segir að skylt sé að undirrita skriflegan félagssamning um skráð sameignarfélag og að lágmarkskröfur séu að auki gerðar um efni hans. Þá sé ekkert því til fyrirstöðu að sameignarfélagi verði jafnframt settar sérstakar samþykktir sem teljast þá hluti félagssamnings. Í 2. mgr. 7. gr. er að finna þau atriði sem að lágmarki skulu koma fram í félagssamningi. Í greinargerðinni segir að þótt ekki sé gert ráð fyrir miklum kröfum um efni félagssamnings sé mikilvægt að vanda vel til hans og útfæra í samræmi við þá starfsemi og samstarf sem félaginu sé ætlað að mynda ramma um. Þar á meðal eru reglur um skiptingu hagnaðar og taps, viðurlög við vanefndum sem og úrsögn eða brottvikningu félagsmanna en ákvæði frumvarpsins séu að mestu frávíkjanleg hvað þessa þætti varðar. Þá segir um 3. mgr. 7. gr. að í félagssamningi megi kveða á um skilyrði breytinga á honum bæði um form og efni. Ef ekki eru ákvæði í félagssamningi um breytingar þurfi allir félagsmenn að samþykkja þær með skriflegri undirritun sinni. 23. Í V. kafla laganna um breytingar á félagsaðild er fjallað um innlausnarverð í 33. gr. Það er ákveðið á grundvelli verðmætis félags á þeim tíma sem sex mánaða uppsagnarfrestur samkvæmt 32. gr. rennur út en bæði fyrrgreind lagaákvæði eru frávíkjanleg. Þá er í 44. gr. fjallað um skaðabótaskyldu vegna tjóns félags, einstakra félagsmanna eða annarra af völdum félagsmanns, stjórnarmanns, framkvæmdastjóra eða skilanefndarmanns. Fyrrgreind regla á einnig við um tjón félagsmanns vegna brota á ákvæðum laganna eða félagssamningi. Niðurstaða Úrlausn Landsréttar um kröfu stefnda um málskostnað 24. Í hinum áfrýjaða dómi var kröfum stefnda lýst. Krafðist hann sýknu af kröfum áfrýjanda og einungis málskostnaðar fyrir Landsrétti en gerði ekki kröfu um að héraðsdómur yrði staðfestur. Engu að síður staðfesti Landsréttur ákvæði héraðsdóms um greiðslu málskostnaðar þar fyrir dómi, auk þess sem áfrýjanda var gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Landsrétti sem var ákveðinn 1.000.000 króna. Með þessu fór Landsréttur út fyrir kröfur stefnda í andstöðu við 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991. 25. Hér fyrir dómi gerir stefndi þá kröfu að hann verði sýknaður af öllum kröfum áfrýjanda og honum verði gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti. Hann hefur ekki gert kröfu um staðfestingu á dómi Landsréttar og því felst hvorki í kröfugerð hans krafa um málskostnað fyrir héraðsdómi né Landsrétti. Eins og kröfugerð stefnda er háttað fyrir Hæstarétti kemur fyrrgreindur ágalli á dómi Landsréttar því ekki í veg fyrir að lagður verði efnisdómur á málið hér fyrir dómi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 23. september 1999 í máli nr. 17/1999. Krafa vegna innlausnar eignarhluta áfrýjanda 26. Áfrýjandi krefst þess að innlausnarverð eignarhluta hans í stefnda fari eftir ákvæðum laga nr. 50/2007 þar sem sé hvorki bundinn af samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013 né þeim samningum sem tóku gildi 1. júní 2017. Af hálfu stefnda er því hafnað og byggt á því að áfrýjandi hafi fengið greitt að fullu í samræmi við fyrrnefnt samkomulag A-félagsmanna en til vara eftir þeim samningum sem tóku gildi 1. júní 2017. 27. Í hinum áfrýjaða dómi var fallist á að við ákvörðun um innlausnarverð eignarhluta áfrýjanda í stefnda skyldi farið eftir fyrrgreindu samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013 sem áfrýjandi hefði samþykkt með undirritun sinni og um það vísað til meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Þá var tekið fram að áfrýjandi hefði ekki samþykkt fyrir sitt leyti neinn þeirra nýju samninga sem tóku gildi 1. júní 2017. 28. Stefndi er skráð sameignarfélag en eins og fyrr greinir er tilgangur þess eignarhald um hlutabréf, önnur verðbréf og eignir í sameiginlegri eigu félagsmanna sem tengjast rekstri á sviði endurskoðunar, bókhalds og ráðgjafar svo og tengdum eignum og er þar fyrst og fremst um að ræða eignarhald á Deloitte ehf. Vegna fyrirmæla 7. gr. laga nr. 50/2007 er nauðsynlegt að fjalla nánar um þá samninga sem félagsmenn stefnda gerðu um skipulag og stjórnun félagsins og um samskipti félagsmanna innbyrðis og lýst var að framan. Þar er annars vegar um að ræða stofnsamning 26. september 2015 og hins vegar samkomulag A-félagsmanna 14. nóvember 2013. 29. Í stofnsamningi 26. september 2015, sem tók við af stofnsamningi 1. júní 2005, er meðal annars fjallað um félagsmenn og framlög þeirra, stjórnskipulag félagsins, reikninga og endurskoðun og uppsögn og slit samnings. Segir þar í grein 8 að áskilið sé samþykki allra félagsmanna meðal annars til að breyta tilgangi félags að verulegu leyti eða breyta ákvæðum félagssamnings um hlutdeild í félagi eða jafnrétti þeirra á milli. Í samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013 er fjallað um störf þeirra fyrir félagið, inn- og útgönguverð og breytingar á eignaraðild. Segir þar í grein 12 að því verði ekki breytt nema með samþykki 4/5 hluta atkvæða á fundi A-félagsmanna. 30. Með fyrrgreindum stofnsamningi 26. september 2015 og samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013 var rekstrarfyrirkomulag stefnda formgert sem og samskipti félagsmanna innbyrðis. Geymdu þau efnisreglur um réttindi og skyldur félagsmanna þar sem að nokkru var vikið frá reglum laga nr. 50/2007 þar með talið í grein 12 í fyrrgreindu samkomulagi A-félagsmanna. Rétt er að líta svo á að samkomulagið hafi falið í sér efnislega viðbót við stofnsamning stefnda 2005 sem breyttist ekki hvað þetta varðar með nýjum stofnsamningi 2015 og ekki á því byggt í málinu. Verður samkvæmt framansögðu litið svo á samkomulagið feli í sér nánari útfærslu stofnsamnings sem félagsmönnum hafi verið heimilt að semja um sín í milli og teljist því hluti félagssamnings stefnda. 31. Þegar deilt er um skýringu og gildissvið félagssamninga sameignarfélaga verður að líta til þess að samningsfrelsi er almennt um skipulag þeirra og innri málefni, þar á meðal um réttindi félagsmanna innbyrðis. Eigendur sameignarfélaga bera ábyrgð á skuldbindingum þeirra og er því rík trúnaðarskylda milli eigenda innbyrðis og gagnvart félagi enda byggist rekstur þess á gagnkvæmu trausti félagsmanna. Tilgangur og skipulag stefnda er með þeim hætti að félaginu er ætlað að móta ramma um tiltekið rekstrarfyrirkomulag þar sem fjöldi A-félagsmanna kann að taka breytingum. Hafa félagsmenn samið svo um að útganga félagsmanns fari eftir nánar tilteknum reglum sem endurspegla fyrrgreint rekstrarfyrirkomulag, sbr. 4. mgr. 33. gr. laga nr. 50/2007. Þá er óumdeilt að þau ákvæði sem tóku gildi 1. júní 2017 eru efnislega óbreytt um innlausn eignarhluta við útgöngu félagsmanna frá því sem fram kom í samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013. Þá liggur fyrir að gefin hafa verið út tvö skuldabréf til áfrýjanda í samræmi við það. 32. Í þeim breytingum sem gerðar voru 30. maí 2017 á samkomulagi A-félagsmanna fólst meðal annars að stefndi varð sjálfur aðili að því. Í grein 2.4 í hinu nýja samkomulagi segir jafnframt að A-félagsmenn samþykki að gerður verði hluthafasamningur (Shareholders‘ Agreement for Deloitte ehf.) 1. júní 2017 milli stefnda og félagsins NWE LLP sem gildi um stjórnun stefnda og Deloitte ehf. og endurspegla skyldi svonefndan NWE-sameignarfélagssamning. Sá samningur er frá 1. júní 2017 eins og áður greinir og er á milli stefnda, meðeigenda stefnda og Deloitte NWE. Í málinu er óumdeilt að við þessar breytingar var farið eftir grein 12 fyrrgreinds samkomulags A-félagsmanna 14. nóvember 2013 en ekki grein 8 í stofnsamningi stefnda 26. september 2015. Jafnframt liggur fyrir að áskilinn meirihluti A-félagsmanna samþykkti breytinguna á fundi 30. maí 2017 auk þess sem A-félagsmenn stefnda að áfrýjanda frátöldum undirrituðu allir samningana í kjölfarið. 33. Í grein 2.3 í samkomulagi A-félagsmanna 1. júní 2017 er fjallað um þýðingu fyrrgreindra breytinga gagnvart félagsmönnum. Þar segir meðal annars að hluthafasamningurinn og NWE-sameignarfélagssamningurinn leysi af hólmi og felli úr gildi alla fyrri sameignarfélagssamninga svo og alla aðskilda samninga um stefnda að frátöldum stofnsamningi stefnda sem gildi aðeins um innlend málefni. Þar með tóku nýrri samningar við af eldri samningum um stefnda sem eftirleiðis gilda um innbyrðis samband og ábyrgð félagsmanna. Eftir þessar breytingar voru því í gildi fjórir samningar sem máli skipta við úrlausn málsins: Stofnsamningur stefnda 26. september 2015, samkomulag A-félagsmanna stefnda, hluthafasamningur og NWE-sameignarfélagssamningur en síðastgreindir þrír samningar giltu frá og með 1. júní 2017. 34. Að öllu framangreindu gættu verður grein 12 í samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013 ekki skýrð á þann veg að mismunandi reglur hafi átt að gilda á hverjum tíma um félagsmenn stefnda eftir því hvaða breytingar hver og einn þeirra samþykkti. Verður þvert á móti ráðið að í henni hafi falist heimild til fráviks frá 3. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2007 um breytingar á félagssamningi. Sætti sú heimild ekki öðrum takmörkunum en þeirri sem leiðir af skaðabótareglu 44. gr. laganna. Jafnframt er áréttað að um réttarstöðu félagsmanna stefnda innbyrðis skiptu stofnsamningur og samkomulag A-félagsmanna stefnda meginmáli enda áttu félagsmenn mikið undir því að í rekstri félagsins og við stjórnun væri farið eftir þeim reglum sem þeir höfðu sjálfir mótað um skipulag og starfsemi þess. Verður því ekki fallist á með stefnda að um réttarstöðu áfrýjanda gagnvart stefnda gildi áfram samkomulag A-félagsmanna 14. nóvember 2013 sem samkvæmt framansögðu hafði verið fellt úr gildi samkvæmt þeim reglum sem félagsmenn höfðu sjálfir sett sér í þeim efnum. 35. Að framangreindri niðurstöðu fenginni verður að leysa úr því hvort fylgja eigi 33. gr. laga nr. 50/2007 um innlausn á eignarhlut áfrýjanda eins og hann heldur fram eða hvort áfrýjandi hafi verið bundinn af þeim samningum sem tóku gildi 1. júní 2017 eins og byggt er á til vara af hálfu stefnda. 36. Eins og rakið hefur verið myndaði stofnsamningur stefnda 26. september 2015 og samkomulag A-félagsmanna 14. nóvember 2013 ramma um þau málefni sem eigendur stefnda höfðu komið sér saman um við rekstur félagsins og um lögskipti sín á milli. Við þær breytingar á samkomulagi félagsmanna sem tóku gildi 1. júní 2017 var farið að þeim reglum sem félagsmenn höfðu áður samþykkt um hvernig því skyldi breytt enda var áfrýjandi eftir sem áður A-félagsmaður í stefnda og hafði gengist með skýrum hætti undir að breytingar yrðu gerðar á samkomulagi þeirra með auknum meirihluta atkvæða. Án þess að það ráði úrslitum bera gögn málsins jafnframt með sér að áfrýjandi var áfram við störf hjá Deloitte ehf. eftir samþykki nýju samninganna fram til 31. október 2017 þegar hann lét af störfum að beiðni fyrirsvarsmanna stefnda. Í samskiptum áfrýjanda við þá kom ítrekað fram að hann teldi sig vera A-félagsmann og ætti að njóta allra þeirra réttinda sem félagsaðild fylgdu. Þá funduðu áfrýjandi og fyrirsvarsmenn stefnda um stöðu hans í félaginu og athugasemdir hans við þá samninga sem tóku gildi 1. júní 2017. Jafnframt má ráða af gögnum málsins að á þessum fundum hafi án árangurs verið reynt að leysa úr þeim ágreiningi sem upp var kominn. Auk þess tók áfrýjandi þátt í félagsfundum stefnda eftir 1. júní 2017 að því er virðist án athugasemda af hálfu annarra félagsmanna. 37. Samkvæmt framansögðu verður því fallist á að um innlausn á eignarhluta stefnda fari eftir þeim samningum sem tóku gildi 1. júní 2017. Þá er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms að engin efni séu til að fallast á að þær aðstæður hafi verið uppi í aðdraganda eða við starfslok áfrýjanda haustið 2017 sem leiði til ógildingar fyrrgreindra samningsskuldbindinga á grundvelli þeirra ógildingarreglna samningaréttar sem byggt var á af hálfu áfrýjanda. 38. Að öllu framangreindu gættu verður ekki fallist á aðalkröfu áfrýjanda um greiðslu 135.109.881 krónu vegna innlausnar á hlutum í stefnda sem byggð er á lögum nr. 50/2007. 39. Áfrýjandi hefur einnig krafist greiðslu samtals 14.411.928 krónur í tengslum við innlausn hluta hans í stefnda. Annars vegar vegna hlutdeildar áfrýjanda í höfuðstól stefnda sem hafi myndast vegna eftirstæðs hagnaðar reikningsáranna 2012-2013 til 2016-2017 sem haldið hafi verið eftir í stefnda í stað þess að greiða hann út til A-félagsmanna. Hins vegar vegna 1/17 hlutdeildar í fjárfestingarstyrk að frádreginni 20% tekjuskattsskuldbindingu sem alþjóðafélag Deloitte hafi greitt Deloitte ehf. í gegnum Deloitte Nordic. 40. Fyrst verður leyst úr kröfu áfrýjanda um hlutdeild í eftirstæðum hagnaði stefnda vegna fyrrgreindra reikningsára. Meðal skjala málsins eru ódagsettar reglur stefnda ,,um hagnaðarskiptingu – einingakerfi“. Reglurnar kveða á um hvernig úthluta skuli hagnaðareiningum og er þar tekið fram að einingakerfið byggist í grunninn á því kerfi sem var í gildi árin 2005 til 2016, þó í samhengi við kerfi þau sem væru í gildi hjá Deloitte félögum á Norðurlöndunum. Segir í reglunum að stjórn geti lagt til að greiða ekki út allan hagnað sem úthlutað er samkvæmt þeim ,,og/eða halda eftir ákveðnu hlutfalli af úttekt allra hluthafa” í stefnda sem víkjandi láni. Í síðarnefnda tilvikinu greiðist höfuðstóll lánsins út þegar hluthafi selur hlut sinn í félaginu nema stjórn eða meðeigendafundur taki ákvörðun um að greiða höfuðstólinn fyrr. Þar segir jafnframt að tillögur stjórnar um að halda hagnaði eftir í félaginu sem höfuðstól eða arði sem víkjandi láni yrðu lagðar fram með hliðsjón af markmiðum stjórnar um eiginfjármyndun hjá félaginu. 41. Orðalag fyrrgreindra reglna gefur til kynna að stjórn félagsins sé ætlað tiltekið hlutverk við ákvörðun um hvort halda eigi eftir tilgreindu hlutfalli hagnaðar í stefnda sem víkjandi láni. Ekki liggur fyrir að stjórn hafi tekið slíka ákvörðun í skilningi fyrrgreindra reglna. Gögn málsins, þar á meðal fundargerð stjórnar 3. apríl 2017, benda auk þess til að stjórn hafi tekið frá 20 hundraðshluta hagnaðar hvers árs til að mæta útstreymi vegna breytinga á eigendahópi, sbr. grein 6.15 í hluthafasamningi frá 1. júní 2017. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki fallist á kröfu áfrýjanda um hlutdeild í hagnaði sem haldið var eftir vegna reikningsáranna 2012-2013 til og með 2016-2017. 42. Þá verður jafnframt með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, sem var skipaður sérfróðum meðdómsmanni, að sýkna stefnda af kröfu áfrýjanda um hlutdeild í fyrrgreindum fjárfestingarstyrk. Hefur ekkert komið fram í málinu sem hnekkt getur þeirri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að tekjufæra mætti styrkinn í stað þess að færa hann meðal langtímaskuldbindinga dótturfélagsins Deloitte ehf. 43. Samkvæmt því sem að framan er rakið verður stefndi sýknaður af kröfum áfrýjanda um frekari greiðslur vegna innlausnar á eignarhluta hans í stefnda. Krafa um rétt til hagnaðarhlutdeildar 44. Áfrýjandi gerir kröfu um viðurkenningu á rétti til hagnaðar stefnda vegna hluta reikningsársins 2017-2018. Aðal- og varakrafa hans vegna hagnaðarhlutdeildar eru byggðar á lögum nr. 50/2007. 45. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið fer um rétt áfrýjanda til hagnaðarhlutdeildar eftir þeim samningum sem tóku gildi 1. júní 2017 en ekki lögum nr. 50/2007. Samkvæmt því er aðal- og varakröfu vegna hagnaðarhlutdeildar hafnað. 46. Með þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu krefst áfrýjandi viðurkenningar á 235/3975 hluta hagnaðar stefnda frá 1. júní 2017 til 31. maí 2018 í réttu hlutfalli við þann tíma sem hann var A-félagsmaður. Annars vegar tímabilið 1. júní 2017 til 1. janúar 2018 og hins vegar 1. júní til 1. nóvember 2017 og er þá jafnframt krafist viðurkenningar bótaskyldu stefnda þar sem innlausn hluta átti sér stað 1. nóvember 2017 í stað 1. janúar 2018. Er um þetta byggt á þeim samningum stefnda sem tóku gildi 1. júní 2017. Fallist er á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að málsástæða áfrýjanda þar að lútandi fái komist að í málinu. 47. Óumdeilt er að með hluthafasamningi sem tók gildi 1. júní 2017 var félagsmönnum stefnda veittur réttur til hlutdeildar í arðgreiðslum á því ári sem þeir láta af störfum hjá stefnda ólíkt þeirri reglu sem gilti samkvæmt samkomulagi A-félagsmanna 14. nóvember 2013. Í hluthafasamningnum er fjallað um uppgjör hagnaðar áfrýjanda og kveðið á um að reikningsár samstæðunnar sé 1. júní til 31. maí. Stefndi fái hagnað einkahlutafélagsins sem síðan sé úthlutað til eigenda samkvæmt nánar tilgreindum reglum. Hagnaði er ekki skipt jafnt heldur tekur úthlutun mið af ákveðnum einingafjölda sem byggist meðal annars á forsendum um frammistöðu. 48. Í grein 5.2 segir að framkvæmd ákvörðunar um úthlutun hagnaðar af hálfu stefnda skuli vera í höndum stjórnar og árlegs aðalfundar stefnda eftir því sem við eigi en ákvörðun um hagnað fari alfarið eftir þeim reglum sem greini í NWE-sameignarfélagssamningum, sbr. grein 5.1. Stjórn þess félags taki ákvörðun hvort og hvernig úthluta skuli hagnaði í formi svonefndra NWE-eininga til félagsmanna en stjórn stefnda sé falið að framkvæma úthlutunina. 49. Í grein 5.3 hluthafasamningsins segir að þegar meðeigandi hefur ekki notið eignaraðildar allt síðastliðið reikningsár skuli útreikningi heildarþóknunar og hagnaðarhlutdeildar frá stefnda háttað eins og greinir í NWE-sameignarfélagssamningnum. Þá kemur fram í grein 12.1 í NWE-sameignarfélagssamningnum að hlutdeild meðeiganda í hagnaði NWE-samstæðunnar á tilteknu reikningsári skuli safnast upp á jafnan hátt á viðkomandi tímabili á daglegum grundvelli. Sé meðeigandi ekki eigandi allt reikningsárið skal hlutdeild hans í hagnaði að hámarki nema þeirri fjárhæð sem safnaðist upp þann hluta reikningsársins sem hann var meðeigandi. 50. Stefndi hefur vísað til fyrrgreindra ákvæða og byggir á að réttur áfrýjanda til hagnaðarhlutdeildar fyrir reikningsárið 2017–2018 geti ekki orðið til fyrr en stjórn Deloitte NWE veiti honum þann rétt í samræmi við NWE-sameignarfélagssamninginn en fyrir liggi að svo var ekki í tilviki áfrýjanda. Þá sé jafnframt liðinn sá 60 daga frestur sem eigandi hafi til að gera athugasemdir við úthlutun NWE-eininga, sbr. grein 11.8 í NWE-sameignarfélagssamningnum. 51. Hvað sem líður málatilbúnaði stefnda liggur fyrir að hann fylgdi ekki gagnvart áfrýjanda þeim reglum um hagnaðarúthlutun sem að framan eru raktar og fjallað er um í hluthafasamningi og NWE-sameignarfélagssamningi þar sem stjórn stefnda hefur nánar tilgreint hlutverk. Er þá meðal annars litið til þess að áfrýjandi bar í tvígang upp tillögu um úthlutun sér til handa vegna reikningsársins 2017-2018 á fundi eigenda stefnda þar sem tillagan var felld í fyrra skiptið og vísað frá í það seinna. Verður því ekki borið við nú af hálfu stefnda að krafa áfrýjanda hafi fallið niður fyrir tómlæti eða að henni sé beint að röngum aðila, en fyrir liggur jafnframt að stjórn stefnda hefði verið rétt að koma sjónarmiðum áfrýjanda á framfæri við stjórn Deloitte NWE, sbr. grein 11.6 NWE-sameignarfélagssamningsins. Þá er heldur ekki fallist á að réttur áfrýjanda til úthlutunar hagnaðar hafi fallið niður af öðrum ástæðum, enda verður honum ekki kennt um að stefndi hafi ekki fylgt þeim reglum sem fram koma í hluthafasamningi um arðsúthlutun til félagsmanna stefnda með því að sniðganga áfrýjanda. 52. Áfrýjandi krefst viðurkenningar á rétti til 235/3975 hlutdeildar í hagnaði stefnda reikningsárið 1. júní 2017 til 31. maí 2018 í réttu hlutfalli við þann tíma sem hann naut stöðu eiganda í stefnda frá 1. júní 2017 til 1. janúar 2018. Fyrrgreind hlutdeild mun samsvara þeim einingum sem áfrýjandi fékk á fyrra reikningsári en af hálfu stefnda hefur þeirri viðmiðun ekki verið mótmælt sérstaklega. Tímabilið miðast við þann sex mánaða uppsagnarfrest sem mælt er fyrir um í grein 6.18 í hluthafasamningi þó þannig að áfrýjandi hefur krafist þess að miðað verði við 1. janúar 2018. Verður fallist á framangreinda þrautavarakröfu áfrýjanda en ekkert liggur fyrir annað en að í viðurkenningarkröfu áfrýjanda felist að við framkvæmd útreiknings verði farið að gildandi reglum þar á meðal um frádrátt vegna annarra greiðslna. 53. Það athugast að fyrir munnlegan flutning málsins í Hæstarétti var því beint til lögmanna að leggja fram þýðingar þeirra skjala á íslensku sem þeir byggðu málatilbúnað sinn á, sbr. 10. gr. laga nr. 91/1991, en gögn málsins voru í verulegum mæli lögð fram á erlendu tungumáli án þess að þau hefðu verið þýdd á rétt þingmál, sbr. 1. og 3. mgr. fyrrnefnds ákvæðis. Er þetta aðfinnsluvert. 54. Eftir þessum úrslitum og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða áfrýjanda hluta málskostnaðar hans á öllum dómstigum sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Viðurkenndur er réttur áfrýjanda, Birkis Leóssonar, til 235/3975 hlutdeildar í hagnaði stefnda, D&T sf., reikningsárið 1. júní 2017 til 31. maí 2018 í réttu hlutfalli við þann tíma sem áfrýjandi naut réttinda sem eigandi í stefnda frá 1. júní 2017 til 1. janúar 2018. Hinn áfrýjaði dómur skal að öðru leyti vera óraskaður um annað en málskostnað. Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.500.000 krónur í málskostnað á öllum dómstigum. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=6ff0e6cd-ab2d-4e88-9924-7fcc870c1149&verdictid=0730bbdb-f39a-4b2a-b2b7-59c2cab675b0
Mál nr. 6/2022
Kærumál Frávísun frá Hæstarétti Endurupptaka máls í héraði Þingmál
Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að hafna beiðni V um endurupptöku á máli H ehf. á hendur henni sem lauk með áritun á stefnu um aðfararhæfi dómkrafna. Hæstiréttur vísaði til þess að í 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 væru tæmandi taldar þær dómsathafnir Landsréttar sem sæta kæru til Hæstaréttar. Meðal þeirra væri ekki úrskurður um hvort dómsúrlausn í héraði verði endurupptekin. Þá væri kæra málsins rituð á ensku en slíkt skjal bæri að rita á íslensku í samræmi við 1. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991. Var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. janúar 2022 en kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 4. janúar 2022 þar sem staðfestur var úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 2021 um að hafna beiðni sóknaraðila um endurupptöku á máli varnaraðila á hendur henni sem lauk 20. apríl 2021 með áritun á stefnu um aðfararhæfi dómkrafna. Um kæruheimild vísar sóknaraðili meðal annars til 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að endurupptaka málsins verði heimiluð. 4. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. 5. Í 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 eru tæmandi taldar þær dómsathafnir Landsréttar sem sæta kæru til Hæstaréttar. Meðal þeirra er ekki úrskurður um hvort dómsúrlausn í héraði verði endurupptekin. Auk þess er ekki fyrir hendi lagaheimild til þess að veita leyfi til að slíkur úrskurður verði kærður til réttarins. Þá er kæra málsins rituð á ensku en slíkt skjal ber að rita á íslensku í samræmi við 1. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 um að þingmálið sé íslenska. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti en hvor þessara ástæðna um sig stendur til þeirrar niðurstöðu. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=fa36ac46-3d23-4881-b758-a28034ad191b&verdictid=07c72955-d4d4-4104-8f1c-21c42ca0da75
Mál nr. 1/2022
Kærumál Frávísunarúrskurður staðfestur Aðild Dánarbússkipti Kröfugerð
Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá Landsrétti. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með því að málinu hefði verið vísað frá Landsrétti hefði rétturinn ekki tekið afstöðu til kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun skiptastjóra varnaraðila um að synja úttektarmönnum aðgang að jörðinni V til að gera úttekt á henni eftir ábúðarlögum. Af þeirri ástæðu kæmi ekki til álita fyrir Hæstarétti krafa sóknaraðila þar að lútandi. Í niðurstöðu sinni vísaði Hæstiréttur til þess að þar sem varnaraðili hefði ekki umráð jarðarinnar hefðu sóknaraðilar ekki hagsmuni af því að fá endurskoðaðan úrskurð héraðsdóms um kröfu þeirra á hendur honum enda yrði slíkum úrskurði ekki framfylgt gagnvart þeim sem nú hefur umráðin. Hinn kærði úrskurður var því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. desember 2021 en kærumálsgögn bárust réttinum 12. janúar 2022. Kærður er úrskurður Landsréttar 17. desember 2021 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá Landsrétti. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 3. Sóknaraðilar krefjast þess annars vegar að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og hins vegar að úttektarmönnum samkvæmt ábúðarlögum nr. 80/2004 verði heimilaður aðgangur að jörðinni Vatnsenda í Kópavogi til að gera úttekt á henni. Þá er þess krafist að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti. 4. Varnaraðili gerir aðallega þá kröfu að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann þess að sóknaraðilum verði óskipt gert að greiða sér kærumálskostnað. 5. Með því að málinu var vísað frá Landsrétti tók rétturinn ekki afstöðu til kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun skiptastjóra varnaraðila um að synja úttektarmönnum aðgang að jörðinni til að gera úttekt á henni eftir ábúðarlögum. Af þeirri ástæðu kemur ekki til álita hér fyrir dómi síðari liður kröfu sóknaraðila um að úttektarmönnum verði heimilaður aðgangur að jörðinni til að gera úttektina, auk þess sem slíkt sakarefni yrði ekki borið undir Hæstarétt án kæruleyfis. Þessi annmarki á kröfugerðinni kemur þó ekki í veg fyrir að leyst verði úr fyrri lið kröfu sóknaraðila um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á kröfu varnaraðila um að málinu verði vísað frá Hæstarétti. 6. Með úrskurði héraðsdóms 22. október 2021 var hafnað fyrrgreindri kröfu sóknaraðila um að ákvörðun skiptastjóra yrði felld úr gildi. Sóknaraðilar kærðu úrskurðinn til Landsréttar sem vísaði málinu frá réttinum eins og áður getur. Ástæða þess var sú að með úrskurði Landsréttar 16. september 2021 í máli nr. 351/2021 hefði endanlega verið úr því skorið að varnaraðili skyldi afhenda Magnúsi Pétri Hjaltested jörðina á grundvelli sértökuréttar, svo sem nánar er rakið i úrskurðinum. Varnaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt skiptayfirlýsingu 14. janúar 2022 um þá ráðstöfun. 7. Þar sem varnaraðili hefur ekki umráð jarðarinnar hafa sóknaraðilar ekki hagsmuni af því að fá endurskoðaðan úrskurð héraðsdóms um kröfu þeirra á hendur honum enda yrði slíkum úrskurði ekki framfylgt gagnvart þeim sem nú hefur umráðin. Er þess þá að gæta að réttur til umráða jarðarinnar féll aldrei til varnaraðila og því verður aðild málsins ekki reist á þeirri meginreglu sem er að finna í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur. 8. Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðilar, dánarbú Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, Hansína Sesselja Gísladóttir, Guðmundur Gíslason, Margrét Margrétardóttir, Markús Ívar Hjaltested, Sigríður Hjaltested, Gísli Finnsson, Elísa Finnsdóttir, Sigurður Kristján Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested greiði varnaraðila, dánarbúi Þorsteins Hjaltested, óskipt 400.000 krónur í kærumálskostnað. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=9c5031c7-9132-4f4d-8821-06036b7572b2&verdictid=b804b900-69ef-4163-bcba-f40ae0595da6
Mál nr. 54/2021
Kærumál Persónuvernd Aðild Stjórnsýsla Frávísunardómur staðfestur
A kvartaði til P vegna vinnslu persónuupplýsinga um hann hjá fyrrverandi vinnuveitanda sínum, B ses., í tengslum við uppsögn hans úr starfi. Með úrskurði P var ekki fallist á að B ses. hefði verið skylt að veita A upplýsingar um uppruna skráðra persónuupplýsinga um hann. Mál þetta höfðaði A gegn P og krafðist þess að fyrrnefndur úrskurður yrði ógiltur. Með dómi héraðsdóms var fallist á kröfur A. Í Landsrétti var málinu vísað frá héraðsdómi án kröfu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að kröfu um ógildingu úrskurðarins hefði réttilega verið beint að P. Þá var vísað til þess að upphafleg kvörtun A hefði beinst að B ses. og þess meðal annars krafist að honum yrði veittur aðgangur að upplýsingum sem óumdeilt væri að voru í vörslum þess. B ses. hefði jafnframt átt aðild að málinu við meðferð þess hjá P og byggt á því að þær upplýsingar sem um ræddu væru mjög viðkvæms eðlis og að mikilvægt væri að virtur yrði sá trúnaður sem heitið hefði verið af hálfu þess gagnvart þeim einstaklingum sem veittu þær. Var því talið að B ses. ætti einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn um kröfu A. Þar sem A beindi kröfu sinni ekki að B ses. var fallist á niðurstöðu Landsréttar um að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. desember 2021 en kærumálsgögn bárust réttinum 8. sama mánaðar. Kærður er dómur Landsréttar 19. nóvember 2021 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. 3. Varnaraðili krefst þess að kærumálskostnaður falli niður. 4. Sóknaraðili kvartaði til varnaraðila 2. mars 2018 vegna vinnslu persónuupplýsinga um hann hjá fyrrverandi vinnuveitanda sínum, B ses., í tengslum við uppsögn hans úr starfi. Mun uppsögnin hafa verið byggð á upplýsingum um ásakanir sem leikhússtjóra höfðu borist um kynferðislega áreitni sóknaraðila. Honum voru þó ekki kynntar nánar þær ásakanir, sem munu hafa legið fyrir í vinnuskjali leikhússtjóra, eða hverjir hefðu lagt þær fram, sbr. dóm Hæstaréttar 23. september 2021 í máli nr. 15/2021. Sóknaraðili krafðist þess að varnaraðili beitti valdheimildum sínum til að krefja B ses. um allar upplýsingar og skriflegar skýringar sem nauðsynlegar væru til skoðunar málsins, að hann tæki afstöðu til þess hvaða upplýsingar sóknaraðili ætti rétt á að fá og hvort leikfélagið hefði brotið gegn ákvæðum þágildandi laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. 5. Varnaraðili tilkynnti B ses. um kvörtunina 26. mars 2018 og veitti því færi á að tjá sig um hana og óskaði sérstaklega eftir upplýsingum um hvort og þá hvernig gætt hefði verið að ákvæðum 18. gr. og eftir atvikum 19. gr. laga nr. 77/2000. Í svarbréfi leikfélagsins 17. apríl sama ár sagði að fyrrgreindar upplýsingar hefðu verið veittar af hálfu þeirra sem kvörtuðu undan sóknaraðila undir nafnleynd og því væri ekki unnt að verða við kröfu hans um að veita þær. Jafnframt áréttaði leikfélagið að það ætti rétt á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með sama hætti og sóknaraðili við meðferð málsins hjá varnaraðila gæfist ástæða til. Bréfið var kynnt sóknaraðila 11. maí 2018 og honum boðið að koma á framfæri andmælum og athugasemdum. Svar sóknaraðila 4. júní sama ár var sent B ses. 27. þess mánaðar. Af því tilefni sendi leikfélagið varnaraðila bréf 30. júlí 2018 og bárust athugasemdir sóknaraðila við það 1. ágúst sama ár. 6. Lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga tóku gildi 15. júlí 2018 og samhliða féllu lög nr. 77/2000 úr gildi. 7. Í bréfi varnaraðila 29. ágúst 2018 til B ses. var óskað eftir upplýsingum um allar skráðar persónuupplýsingar um sóknaraðila hjá leikfélaginu, þar með talið vinnuskjal leikhússtjóra. Í kjölfarið fóru fulltrúar varnaraðila í húsnæði leikfélagsins til að skoða þær persónuupplýsingar um sóknaraðila sem þar væru skráðar. 8. Með úrskurði varnaraðila 15. október 2018 var ekki fallist á að leikfélaginu hefði verið skylt að veita sóknaraðila upplýsingar um uppruna skráðra persónuupplýsinga um hann. Var lagt til grundvallar að skilyrðum 8. gr. laga nr. 90/2018 hefði verið fullnægt við vinnslu upplýsinganna. Í úrskurðinum kom fram að B ses. hefði þegar rækt skyldu sína gagnvart sóknaraðila samkvæmt 17. gr. laga nr. 90/2018, sbr. og 18. gr. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 77/2000 og veitt honum fullnægjandi upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga um hann samkvæmt fyrrgreindum lögum. 9. Héraðsdómur féllst á kröfu sóknaraðila um ógildingu á fyrrgreindum úrskurði varnaraðila. Með dómi Landsréttar var málinu vísað frá héraðsdómi á þeim grunni að óhjákvæmilegt hefði verið að beina kröfu um ógildingu úrskurðarins einnig B ses. sem hefði átt aðild að stjórnsýslumálinu. Þar sagði að leikfélagið ætti einstaklegra, beinna, verulegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þeirrar kröfu. Þar sem þess hefði ekki verið gætt var málinu vísað frá héraðsdómi án kröfu. Niðurstaða 10. Varnaraðili er sjálfstæð stofnun með sérstaka stjórn, sbr. 38. gr. laga nr. 90/2018. Í 39. gr. laganna segir meðal annars að stofnunin annist eftirlit með framkvæmd laganna og geti fjallað um einstök mál að eigin frumkvæði eða samkvæmt erindi þess sem telur að ekki hafi verið unnið með persónuupplýsingar um sig í samræmi við lögin og reglur sem settar eru samkvæmt þeim eða einstökum fyrirmælum. Að auki fer varnaraðili með tilteknar valdheimildir við eftirlitsstörf sín, sbr. 41. gr. og getur lagt á sektir samkvæmt 46. og 47. gr. laganna. 11. Í 1. mgr. 38. gr. laga nr. 90/2018 segir að ákvörðunum varnaraðila samkvæmt lögunum verði ekki skotið til annarra stjórnvalda en aðilum máls sé heimilt að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla með venjubundnum hætti. Í lögunum er ekki að finna nánari fyrirmæli um hvernig aðild að slíku máli skal háttað. Í lögum nr. 91/1991 er heldur ekki að finna sérstök ákvæði um aðild til varnar í málum þegar krafa er gerð um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar. Hefur sú óskráða regla mótast í réttarframkvæmd að stefna beri því stjórnvaldi sem er í senn aðildarhæft og bært til að taka þá ákvörðun sem ógildingar er krafist á nema annað leiði af lögum eða venju, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 30. mars 2000 í máli nr. 324/1999 og 29. júlí 2011 í máli nr. 370/2011. Undantekningar frá þeirri dómaframkvæmd eiga ekki við í þessu máli. 12. Samkvæmt framansögðu er varnaraðili sjálfstæð stofnun með sérstaka stjórn. Hafa henni verið fengnar með lögum eftirlitsheimildir og vald til þess að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu einstaklinga og lögaðila. Varnaraðili telst því hafa aðildarhæfi og uppfyllir jafnframt óskráðar reglur réttarfars til að eiga lögvarinna hagsmuna að gæta til að vera varnaraðili í dómsmáli um ákvarðanir sínar og standa skil gerða sinna við meðferð opinberra valdheimilda, sbr. 60. og 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Samkvæmt framansögðu var kröfu um ógildingu úrskurðarins réttilega beint að varnaraðila. 13. Að framangreindri niðurstöðu fenginni verður að leysa úr því hvort sóknaraðila hafi jafnframt verið skylt að stefna B ses. í þessu máli til að þola dóm um ógildingu úrskurðar varnaraðila. 14. Almennt hefur verið talið að þegar mál er höfðað til ógildingar úrlausnar stjórnvalds verði þeir allir að eiga aðild fyrir dómi sem voru aðilar að stjórnsýslumálinu enda hafi þeir einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 12. júní 2002 í máli nr. 231/2002 og 17. febrúar 2003 í máli nr. 568/2002. 15. Eins og fram hefur komið beindist upphafleg kvörtun sóknaraðila að B ses. og var þess meðal annars krafist að sóknaraðila yrði veittur aðgangur að upplýsingum sem óumdeilt er að voru í vörslum þess enda mun leikfélagið vera ábyrgðaraðili í skilningi 6. töluliðar 3. gr. laga nr. 90/2018. Gögn málsins bera jafnframt með sér að leikfélagið átti aðild að málinu við meðferð þess hjá varnaraðila. 16. B ses. byggði á því við meðferð málsins hjá varnaraðila að þær upplýsingar sem vinnuskjal leikhússtjóra hefði að geyma væru mjög viðkvæms eðlis og að mikilvægt væri að virtur yrði sá trúnaður sem heitið hefði verið af hálfu þess gagnvart þeim einstaklingum sem veittu upplýsingarnar. Í því ljósi og að virtum gögnum málsins verður að telja að B ses. eigi einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn um kröfu sóknaraðila. Þar sem sóknaraðili beindi kröfu sinni ekki að B ses. verður fallist á þá niðurstöðu hins kærða dóms að vísa beri málinu frá héraðsdómi án kröfu. 17. Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn kærði dómur staðfestur. Rétt er að kærumálskostnaður falli niður. Dómsorð: Hinn kærði dómur er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=b0147719-de5b-4b23-9ba0-8fd591a43b4d&verdictid=bfb8eb05-0535-46d9-b415-f5cf3ae78763
Mál nr. 56/2021
Kærumál Kæruheimild Frávísun frá Hæstarétti
Kærður var úrskurður Landsréttar sem felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns gegn andmælum varnaraðila. Um kæruheimild vísaði sóknaraðili til a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Í niðurstöðu sinni vísaði Hæstiréttur til þess að samkvæmt nefndu ákvæði væri heimilt að kæra til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar ef þar hefði verið mælt fyrir um frávísun máls frá héraðsdómi eða Landsrétti, eða niðurfellingu þess þar að hluta eða öllu leyti. Með því að úrskurður Landsréttar hefði hvorki falið í sér frávísun málsins né niðurfellingu þess, brysti heimild til kærunnar. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2021 sem barst réttinum degi síðar. Kærumálsgögn bárust réttinum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 14. desember 2021 í máli nr. 702/2021 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að felldur yrði úr gildi úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember sama ár. Með honum var fallist á beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns gegn andmælum varnaraðila. 3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður Landsréttar verði, með eða án heimvísunar að hluta eða að öllu leyti, felldur úr gildi og að staðfestur verði úrskurður héraðsdóms. Þá krefst hann þess að varnaraðilum verði hvorum um sig gert að greiða sér málskostnað á öllum dómstigum. Til vara krefst sóknaraðili þess, verði úrskurður Landsréttar efnislega staðfestur, að ákvörðun um málskostnað fyrir héraðsdómi og kærumálskostnað fyrir Landsrétti verði felld úr gildi og málskostnaður felldur niður eða lækkaður. 4. Varnaraðilar gera aðallega þá kröfu að málinu verði vísað frá Hæstarétti. Til vara krefjast þeir þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Til þrautavara krefjast þeir þess að matsmaður verði einungis dómkvaddur til þess að svara tilteknum spurningum í matsbeiðni. Í öllum tilvikum krefjast varnaraðilar kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila. 5. Málið lýtur að beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns á grundvelli 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Héraðsdómur féllst á beiðnina. Með hinum kærða úrskurði felldi Landsréttur úrskurð héraðsdóms úr gildi með vísan til þess að meginregla einkamálaréttarfars um milliliðalausa málsmeðferð stæði dómkvaðningu í vegi. 6. Sóknaraðili hefur um kæruheimild vísað til a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um að heimilt sé að kæra til Hæstaréttar dómsathafnir Landsréttar ef þar hefur verið mælt fyrir um frávísun máls frá héraðsdómi eða Landsrétti eða niðurfellingu þess að hluta eða að öllu leyti fyrir héraðsdómi eða Landsrétti. 7. Með hinum kærða úrskurði felldi Landsréttur úr gildi úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns sem laut að því að afla matsgerðar einkum til að renna stoðum undir kröfugerð sóknaraðila í gagnsök í almennu einkamáli milli aðila matsmálsins. Einkamálið var höfðað áður en matsbeiðnin var send héraðsdómi en gagnsök var þingfest degi eftir að beiðnin barst héraðsdómi. Þegar úrskurður um dómkvaðningu var kveðinn upp hafði einkamálinu verið úthlutað til annars dómara en þess sem hafði matsbeiðnina til meðferðar en dómari einkamálsins hafði þá ekki tekið málið fyrir. 8. Hinn kærði úrskurður Landsréttar felur hvorki í sér að máli hafi verið vísað frá héraðsdómi eða Landsrétti né að það hafi verið fellt þar niður að hluta eða öllu leyti. Í hinum kærða úrskurði fólst einvörðungu að dómkvaðning matsmanns geti við þær aðstæður sem uppi voru ekki farið fram á grundvelli 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 heldur skuli fela þeim dómara sem fer með einkamál milli aðila málsins að fara með matsbeiðnina og leysa úr henni. 9. Samkvæmt framansögðu er því ekki fyrir hendi heimild til að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Aðrar kæruheimildir eiga ekki við í málinu en þær eru tæmandi taldar í 1. mgr. ákvæðisins. Þar er ekki að finna heimild til að kæra til Hæstaréttar atriði sem varða matsgerðir, sbr. á hinn bóginn c-lið 1. mgr. 143. gr. laganna um slíka kæruheimild til Landsréttar. Brestur því heimild til kæru til Hæstaréttar og verður málinu þar af leiðandi vísað frá réttinum. 10. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Sóknaraðili, 105 Miðborg slhf., greiði varnaraðilum, Íslenskum aðalverktökum hf. og Vátryggingafélagi Íslands hf., hvorum um sig 300.000 krónur í kærumálskostnað. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=89450aae-083c-44b0-929f-f55ff38c5a74&verdictid=d743bd3a-78d2-47a8-9ad5-fb7d379fb1af
Mál nr. 31/2021
Kynferðisbrot Nauðgun Brot gegn blygðunarsemi Sönnun Mannréttindi Miskabætur Lögskýring Milliliðalaus málsmeðferð Frávísun frá héraðsdómi að hluta Ómerkingarkröfu hafnað
X var ákærður fyrir nauðgun og brot gegn blygðunarsemi. Háttsemi hans samkvæmt 1. ákærulið var talin varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, í 2. ákærulið var háttsemi talin varða við 1. mgr. 194. gr. sömu laga og í 3. ákærulið við 2. mgr. sömu lagagreinar en áður 209. gr. laganna. Í dómi Hæstaréttar var ekki fallist á með X að rannsókn málsins hefði verið svo ábótavant að vísa bæri því frá dómi af þeirri ástæðu. Þá var talið að talsvert skorti á að 2. liður ákærunnar væri svo greinargóður og skýr að X hefði væri fært að taka afstöðu til sakargiftanna og halda uppi vörnum gegn þeim. Væri því óhjákvæmilegt að vísa þeim ákærulið frá héraðsdómi. Um efnishlið málsins komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms að staðfesta bæri niðurstöðu hans um sakfellingu X af 1. lið ákæru. Þá var lagt til grundvallar að sú háttsemi X sem lýst var í 3. ákærulið svo og inngangsorðum ákærunnar teldist sönnuð og var háttsemi hans heimfærð undir 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga en að virtu því refsihámarki sem var í 209. gr. laganna á þeim tíma sem brotin voru framin, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Um ákvörðun refsingar kom fram að brot X hefðu verið fjölmörg og staðið yfir í langan tíma. Þau hefðu verið úthugsuð, vandlega skipulögð og framin af skeytingarleysi gagnvart brotaþola. Var refsing hans ákveðin þrjú ár og sex mánuðir. Þá var honum gert að greiða brotaþola 2.000.000 króna í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. júní 2021. Ákæruvaldið krefst þess að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu verði staðfest en að refsing ákærða verði þyngd. 3. Ákærði krefst þess aðallega að ákæru verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til þrautavara krefst ákærði sýknu en að því frágengnu að refsing verði milduð og alfarið bundin skilorði. Þá er þess krafist að skaðabótakröfu brotaþola verði vísað frá dómi en til vara að dæmdar skaðabætur verði lækkaðar. 4. Af hálfu brotaþola er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni 2.000.000 króna með nánar tilgreindum vöxtum. Ágreiningsefni 5. Með ákæru héraðssaksóknara 24. maí 2018 var ákærða gefin að sök nauðgun og brot gegn blygðunarsemi með því að hafa á tímabilinu frá mars 2015 til byrjunar árs 2017 sýnt af sér lostugt athæfi og sært blygðunarsemi brotaþola er hann beitti hana blekkingum og nýtti sér villu hennar um að hann væri annar maður í samskiptum þeirra á milli, í gegnum samskiptaforritið Snapchat, í þeim tilgangi að eiga í kynferðislegum samskiptum við hana og brjóta gegn henni eins og nánar var greint frá í þremur ákæruliðum. Samkvæmt 1. ákærulið var ákærða gefið að sök að hafa fengið brotaþola til að senda sér kynferðislegar myndir af henni sjálfri og var það talið varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í 2. ákærulið var ákærða gefið að sök að hafa þvingað brotaþola til kynferðislegra samskipta við aðra karlmenn sem meðal annars hafi falist í því að kyssa, hafa samræði um leggöng og stunda önnur kynferðismök með mönnunum og láta hana taka upp og senda sér myndir, mynd- eða hljóðupptökur af framangreindum samskiptum með því að hóta að birta opinberlega kynferðislegar myndir af brotaþola. Þessi háttsemi ákærða var talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga með síðari breytingum. Í 3. ákærulið var ákærða gefið að sök að hafa í tvö skipti, að kvöldi 9. nóvember 2015 og að kvöldi 13. mars 2016, mælt sér mót við brotaþola á tilgreindu hóteli og eftir að hún kom þangað bundið fyrir augu hennar þannig að hún sá ekki hver hann var og haft samræði við hana um leggöng. Hann hafi þannig nýtt sér það að hún var í villu um hver hann raunverulega var. Umrædd háttsemi var talin varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. áður 209. gr. sömu laga. Í ákæru var auk þess höfð uppi sú einkaréttarkrafa sem að framan er getið. 6. Ákærði var sakfelldur í héraðsdómi 21. maí 2019 samkvæmt öllum ákæruliðum og dæmdur til fjögurra ára fangelsisvistar. Þá var hann dæmdur til að greiða brotaþola 1.500.000 króna miskabætur. Við upphaf aðalmeðferðar fyrir Landsrétti var því lýst yfir af hálfu ákæruvalds að 2. liður ákærunnar tæki þeim breytingum að þau kynferðislegu samskipti sem ákærða væru þar gefin að sök einskorðuðust við kynferðismök en ekki lægi skýrt fyrir að í þeim hefðu einnig falist kossar og samræði um leggöng. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða að öðru leyti en því að rétturinn sýknaði hann af því að hafa þvingað brotaþola til kynferðislegra samskipta við einn karlmann. Landsréttur taldi hins vegar sannað að ákærði hefði þvingað brotaþola, með hótunum um að birta nektarmyndir af henni, til munnmaka við einn nafngreindan mann og tvívegis til munnmaka við annan ónafngreindan mann. Fjárhæð dæmdra miskabóta var hækkuð í 1.800.000 krónur. 7. Að beiðni ákærða óskaði ríkissaksóknari eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar. Með ákvörðun réttarins 23. júní 2021 var áfrýjunarleyfi veitt. Málsatvik og meðferð máls 8. Brotaþoli leitaði til lögreglu 4. maí 2017 vegna kynferðisofbeldis sem hún kvaðst hafa orðið fyrir af hálfu nafngreinds manns sem hún hefði verið í sambandi við um tíma. Brotaþoli gaf ítarlega skýrslu um málsatvik 5. sama mánaðar og tvær skýrslur til viðbótar síðar. Kvað brotaþoli þessi samskipti sín og mannsins hafa staðið frá því í mars 2015. Eftir skýrslutöku af fyrrgreindum manni og frekari rannsókn lögreglu kom í ljós að þau samskipti brotaþola sem hún tilkynnti höfðu ekki verið við hann heldur ákærða sem hafði um langt skeið komið fram undir fölsku flaggi sem fyrrgreindur maður. 9. Við rannsókn málsins kom í ljós að ákærði hafði átt í miklum samskiptum við brotaþola á umræddu tímabili í gegnum samskiptamiðla og smáskilaboð þar sem hann kom annars vegar fram sem hann sjálfur sem gamall skólafélagi hennar og hins vegar sem annar maður sem ákærði vissi að hún þekkti og var hrifin af. Fyrir hvatningu ákærða, undir nafni hins mannsins, hóf brotaþoli að senda ákærða nektarmyndir af sér og urðu myndirnar djarfari eftir því sem á leið. 10. Brotaþoli og ákærði hittust jafnframt tvívegis á hótelherbergi. Brotaþoli var þá með bundið fyrir augun og ákærði þóttist vera sá maður sem að framan getur. Fyrra skiptið var í nóvember 2015 en hið síðara í mars 2016 og kveður brotaþoli ákærða hafa haft samræði við hana með svipuðum hætti í bæði skiptin. Ákærði hefur viðurkennt að hafa pantað og greitt fyrir umrædd herbergi. Hann hefur hins vegar neitað að þau hafi haft þar samræði þar sem brotaþoli hafi hætt við í fyrra skiptið en hann í seinna skiptið. 11. Brotaþoli og sá maður sem hún taldi sig hafa verið í samskiptum við á Snapchat voru í nánu sambandi um tíma sumarið 2016 án þess að þau samskipti hefðu leitt til þess að upp kæmist um ákærða. 12. Brotaþoli hefur borið að ákærði hafi haft samband við hana á Snapchat sem umræddur maður undir aðgangi með ýmsum heitum. Hann hafi ýmist hafið hana upp til skýjanna eða brotið niður. Þannig hafi hann náð tökum á henni og meðal annars fengið hana til kynferðismaka með öðrum mönnum með hótunum um að senda föður hennar nektarmyndir af henni eða birta þær opinberlega. Það hafi fyrst gerst í mars, apríl eða maí árið 2016. Þá hafi ákærði fengið hana til þess að hitta ókunnugan mann, sem hann hafi fundið á netinu, í bifreið í bílakjallara við verslunarkjarna og veita honum munnmök. Sá maður hafi að kröfu ákærða tekið þau upp á síma brotaþola og sent ákærða á Snapchat. Ákærði hafi með sama hætti fengið hana til að hitta sama mann í sama tilgangi á bílastæði við sama verslunarkjarna í september sama ár og upptaka af munnmökum verið send ákærða með sama hætti. Ekki hefur tekist að hafa uppi á þessum manni. 13. Þá hefur brotaþoli borið að ákærði hafi fengið hana til að fara heim með ungum manni sem hún hafi þekkt og hafa við hann kynmök. Hún taldi það hafa verið 23. október 2016. Ákærði hafi viljað fylgjast með því sem gerðist í gegnum samskiptamiðil og orðið mjög reiður vegna þess hversu seint brotaþoli svaraði skilaboðum hans og haft í hótunum við hana, meðal annars í smáskilaboðum sem eru meðal gagna málsins. 14. Loks hefur brotaþoli greint frá því að ákærði hafi fengið hana til að stofna aðgang á stefnumótamiðlinum Tinder og fengið hana til að hitta mann sem hafði samband við hana í gegnum miðilinn og veita honum munnmök á bílastæði við verslunarkjarna. Maðurinn hafi tekið þau upp á síma brotaþola og sent ákærða að hennar beiðni. Brotaþoli telur að síðastnefnda atvikið hafi átt sér stað 12. desember 2016. Eftir útgáfu ákæru komst brotaþoli að því hver sá maður var og gaf hann skýrslu hjá lögreglu 12. febrúar 2019 en kvaðst þá ekki muna eftir atvikinu. Hann bar vitni fyrir héraðsdómi og staðfesti þá frásögn brotaþola í aðalatriðum en kvað hana hafa sagt sér að hún væri að senda kærasta sínum upptökuna. 15. Brotaþoli kveðst hafa tekið þátt í öllum fyrrgreindum kynferðismökum fyrir hvatningu ákærða og vegna þeirrar blekkingar að hún hefði talið sig vera í samskiptum við fyrrnefndan mann sem hún þekkti og hefði hrifist af. Þá kvað hún ákærða hafa þvingað sig til framangreindra munnmaka í þrjú skipti á eða við tilgreindan verslunarkjarna meðal annars með hótunum um að birta nektarmyndir sem hún hafði sent honum. Hvorki brotaþola né lögreglu hefur tekist að hafa uppi á gögnum af samskiptamiðlum þar sem slíkar hótanir ákærða koma fram. 16. Ákærði hefur viðurkennt að hafa fengið brotaþola til að senda honum nektarmyndir af sér og að hafa villt á sér heimildir í samskiptum þeirra. Fyrir héraðsdómi neitaði ákærði því að brotaþoli hafi sent sér myndir af því er hún veitti öðrum mönnum munnmök, kvaðst ekki hafa beðið hana að hitta menn í kynferðislegum tilgangi og aldrei haft í hótunum við hana um að birta myndir sem hún hefði sent honum. 17. Þrjár vinkonur brotaþola báru hjá lögreglu og fyrir dómi um að hún hefði greint þeim frá því að hún hefði átt í kynferðislegum samskiptum við ókunnuga menn vegna fyrirmæla frá ákærða og hótana hans um að birta nektarmyndir af henni. Lagaumhverfi og réttarframkvæmd 18. Eins og áður greinir eru brot þau sem ákærða eru gefin að sök samkvæmt 1. ákærulið brot gegn blygðunarsemi sem talin eru varða við 209. gr. almennra hegningarlaga. Í 2. lið ákæru er ákærði sakaður um ótiltekinn fjölda nauðgunarbrota sem talin eru varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga en samkvæmt 3. ákærulið tvö brot sem eru talin varða við 2. mgr. 194. gr. laganna, áður 209. gr. þeirra. 19. Með breytingum á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga með lögum nr. 61/2007 voru ákvæði 194. gr. um nauðgun, 195. gr. um annars konar ólögmæta nauðung og 196. gr. um kynferðislega misnotkun, sameinuð í nýtt nauðgunarákvæði í 194. gr. laganna. Þegar ákæra í málinu var gefin út höfðu lög nr. 16/2018 tekið gildi en með þeim breyttist verknaðarlýsing nauðgunar í 194. gr. eins og hún hafði verið frá árinu 2007. 20. Núgildandi ákvæði almennra hegningarlaga sem einkum reynir á í máli þessu eru eftirfarandi: 1. mgr. 2. gr. Hafi refsilöggjöf breyst frá því að verknaður var framinn til þess er dómur gengur, skal dæma eftir nýrri lögunum, bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu. Aldrei má þó dæma refsingu, nema heimild hafi verið til þess í lögum, þegar verk var framið, og ekki þyngri refsingu en orðið hefði eftir þeim lögum. Hafi refsiákvæði laga fallið úr gildi af ástæðum, sem ekki bera vitni um breytt mat löggjafans á refsinæmi verknaðar, skal dæma eftir lögum þeim, sem í gildi voru, þegar brot var framið. 194. gr. Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti. Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að beita blekkingum eða notfæra sér villu viðkomandi um aðstæður eða að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans. 209. gr. Hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis skal sæta fangelsi allt að 4 árum, en fangelsi allt að 6 mánuðum eða sektum ef brot er smávægilegt. 21. Á þeim tíma sem sú ætlaða háttsemi sem ákæra lýtur að átti sér stað var 194. gr. almennra hegningarlaga svohljóðandi: Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti. Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans. 22. Í málinu reynir einnig á 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 en c- og d-liðir ákvæðisins eru svohljóðandi: Ákærandi höfðar sakamál með útgáfu ákæru. Í henni skal greina svo glöggt sem verða má: c. hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla, ef því er að skipta d. röksemdir sem málsóknin er byggð á, ef þörf krefur, svo sem ef mál er flókið eða umfangsmikið, en röksemdafærslan skal þá vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftir eru Niðurstaða Niðurstaða um formhlið málsins 23. Aðalkrafa ákærða um frávísun málsins frá héraðsdómi er meðal annars reist á því að málið hafi ekki verið nægilega rannsakað af hálfu lögreglu. Snapchat-reikningar hafi ekki verið rannsakaðir og ekki aflað gagna um samskipti ákærða og brotaþola á öðrum samfélagsmiðlum. Þá hafi ekki verið hirt um að rannsaka síma ákærða en þar kynnu að finnast gögn sem stutt gætu kröfu hans um sýknu. Þá hafi lögregla ekki hirt um að afrita síma tilgreinds vitnis eða skoða samskipti hans og brotaþola. 24. Af hálfu ákæruvalds er því haldið fram að þau gögn sem þóttu styðja trúverðugan framburð brotaþola hafi verið fullnægjandi til sakfellingar ákærða og að engar forsendur séu til að fallast á frávísunarkröfu ákærða á þeim grundvelli að rannsókn málsins hafi verið áfátt. Vísað er til þess að samkvæmt framburði ákærða hafi hann ekki verið í þeim samskiptum við brotaþola sem honum eru gefin að sök í ákæru á öðrum samskiptamiðlum en Snapchat. Ákærði hafi getað leitað að gögnum á þeim reikningi sem hann hafi stofnað á þeim miðli og hafi lagt fram í málinu tiltekin gögn sem hann fann þar. Hann hafi einnig getað eytt gögnum. Þá er vísað til þess að sími sem ákærði telur að lögregla hafi vanrækt að afrita hafi að hans sögn ekki verið notaður í samskiptum við brotaþola. 25. Rannsókn málsins beindist að alvarlegum kynferðisbrotum þar sem samskipti ákærða og brotaþola í gegnum samskiptamiðilinn Snapchat gegndu lykilhlutverki en þau notuðu einnig smáskilaboð á hringdu.is. Virkni Snapchat mun í meginatriðum vera þannig að skilaboð, myndir og myndskeið sem send eru milli manna eyðast hjá sendanda og móttakanda þegar þau hafa verið skoðuð nema annar hvor visti þau en þá fái hinn vitneskju um það. Rannsókn á slíkum samskiptum takmarkast því við að finna þau skilaboð sem hafa verið vistuð eða að ganga úr skugga um hvort svo hafi verið. Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að brotaþoli hafði ekki vistað myndir, ætlaðar hótanir eða önnur samskipti sem beinlínis tengjast ákæruefnum. Rannsókn lögreglu á tölvu ákærða og þeim síma sem hann kvaðst hafa notað í samskiptum við brotaþola og á Snapchat-aðgangi hans bar heldur ekki þann árangur að myndir af brotaþola eða slík samskipti fyndust. Eftir ábendingu verjanda ákærða fann lögregla 11 myndir af brotaþola sem höfðu verið vistaðar á Snapchat-aðgangi hans en þær sýndu hana nakta eða fáklædda. Þótt rannsókn lögreglu á rafrænum samskiptagögnum hafi ekki skilað miklum árangri verður að líta til þess að rannsóknin tók mið af þeim upplýsingum sem ákærði og brotaþoli veittu um samskipti sín en slíkri rannsókn eru ýmsar skorður settar vegna eiginleika fyrrnefnds samskiptamiðils. 26. Þá liggur fyrir að við rannsókn málsins hjá lögreglu voru teknar mjög ítarlegar skýrslur af ákærða og brotaþola en einnig af fjölda vitna, þar á meðal vinkonum brotaþola og karlmönnum sem brotaþoli greindi frá að hún hefði haft kynferðisleg samskipti við að undirlagi ákærða. 27. Af rannsóknaraðferðum sem lýst hefur verið og rannsóknargögnum sem liggja fyrir í málinu verður ekki annað ráðið en að gætt hafi verið að fyrirmælum 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um að þeir sem rannsaki sakamál skuli vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Þá var í meginatriðum fylgt fyrirmælum 1. mgr. 54. gr. laganna. Á rannsókninni voru því ekki þeir ágallar að ákæranda hafi ekki með réttu verið fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skyldi ákærða til sakar og grundvalla á henni málatilbúnað sinn fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 53. gr. sömu laga. 28. Að teknu tilliti til framangreinds en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er ekki fallist á með ákærða að rannsókn málsins hafi verið svo ábótavant að vísa beri því frá dómi af þeirri ástæðu. 29. Ákærði telur jafnframt að 2. liður ákærunnar uppfylli ekki þau skilyrði sem gera verði til skýrleika ákæru. Þar sé honum gefin að sök nauðgun með því að hafa á tilteknu tímabili þvingað brotaþola meðal annars til kynferðislegra samskipta við aðra karlmenn án nánari afmörkunar á fjölda umræddra karlmanna, tímasetningum, dagsetningum eða verknaðarstöðum. Af hinum áfrýjaða dómi verði heldur ekki ráðið með skýrum hætti fyrir hvaða háttsemi ákærði hafi verið dæmdur samkvæmt þessum ákærulið. Þá verði ráðið af yfirlýsingu ákæruvalds fyrir Landsrétti um breytingu á ákæruliðnum að ákæruvaldinu sjálfu hafi ekki verið ljóst hvað ákærða hefði verið gefið að sök í ákæru og hann sakfelldur fyrir í héraði. Ekki hafi verið nokkur leið fyrir ákærða að verjast sakargiftum í þessum ákærulið. 30. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal sem fyrr segir greina í ákæru svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla ef því er að skipta. Teljist ákæra ekki uppfylla þessar lágmarkskröfur, þar með talið þær kröfur um skýrleika sem fram koma í c-lið, leiði það til frávísunar málsins frá héraðsdómi. Í d-lið 1. mgr. 152. gr., sem var nýmæli í lögum nr. 88/2008, er mælt fyrir um að í ákæru skuli greina svo glöggt sem verða má þær röksemdir sem málsókn er byggð á, ef þörf krefur, svo sem ef mál er flókið eða umfangsmikið. Röksemdafærslan skuli þá vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftir eru. Í athugasemdum um d-lið með frumvarpi til laganna var ákvæðið skýrt á þann veg að stundum væri ekki nægilegt að greina í ákæru þau atriði sem talin væru upp í c-lið til þess að ákærða mætti vera ljóst hverjar þær sakir væru sem á hann væru bornar. Því til viðbótar gæti þurft að gera frekari grein fyrir þeim, til dæmis með því að skýra það ákvæði sem háttsemin væri heimfærð til og sýna fram á, með vísun til málsatvika, hvers vegna hún væri talin falla undir það ákvæði. 31. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar eftir gildistöku laga nr. 88/2008 hefur kröfunni um skýrleika ákæru verið beitt með þeim hætti að lýsing á háttsemi sem ákærða er gefin að sök í ákæru verði að vera svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni og þeim röksemdum sem færðar kunna að vera fyrir sakargiftum á hendur honum hvaða refsiverðu háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa brotið. Ekki megi vera slík tvímæli um það hverjar sakargiftirnar eru að ákærða verði ekki með réttu talið fært að taka afstöðu til þeirra og halda uppi vörnum gegn þeim, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 og a-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Réttur til að halda uppi vörnum er jafnframt lykilþáttur í réttlátri málsmeðferð samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans. Ákæra verði og að vera svo skýr að þessu leyti að dómara sé fært að gera sér grein fyrir því um hvað ákærði er sakaður og hvernig telja má þá háttsemi refsiverða. Í þessum efnum verður ákæra að leggja fullnægjandi grundvöll að máli þannig að fella megi dóm á það samkvæmt því sem í henni segir, enda verður ákærði ekki dæmdur fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 10. desember 2012 í máli nr. 703/2012. 32. Þess er jafnframt að gæta að lýsing á ætlaðri refsiverðri háttsemi ákærða þarf að samsvara verknaðarlýsingu í því refsiákvæði eða þeim refsiákvæðum sem honum er gefið að sök að hafa brotið gegn. Það getur ráðist af brotategund og eðli brots hversu miklar kröfur verða gerðar til nákvæmni um lýsingu á einstökum þáttum verknaðar, svo sem hvaða háttsemi ákæran lýtur að, lýsingu á fjölda brota og hverju broti fyrir sig ef ákært er í einu lagi vegna fleiri en eins samkynja brots, verknaðarstað og verknaðarstund. Þó verður að gera þær kröfur til ákæru að hún endurspegli sem best þá háttsemi ákærða sem rannsókn er talin hafa leitt í ljós. Í sumum tegundum sakamála, svo sem málum vegna brota í nánu sambandi og kynferðisbrota gegn börnum, getur ætluð refsiverð háttsemi verið af ýmsum toga og staðið lengi yfir þannig að erfitt sé og jafnvel útilokað fyrir brotaþola að greina á milli einstakra tilvika og staðsetja þau eða tímasetja nákvæmlega. 33. Þar sem ákæruvaldið féll frá þeim hluta verknaðarlýsingar 2. ákæruliðs sem laut að þvingun til að kyssa og hafa samræði um leggöng við aðra karlmenn stendur nú eftir að ákærða er gefið að sök að hafa þvingað brotaþola til kynferðislegra samskipta við aðra karlmenn sem fólust í því að stunda önnur kynferðismök með þeim. 34. Samkvæmt upphafsorðum núgildandi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga gerist sá maður sekur um nauðgun sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án hans samþykkis. Umrædd lagagrein var hins vegar orðuð með þeim hætti þegar ætluð brot voru framin að hver sem hefði samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerðist sekur um nauðgun. 35. Istanbúlsamningurinn um „forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi“ var samþykktur á vegum Evrópuráðsins 11. maí 2011 og fullgiltur af Íslands hálfu 26. apríl 2018. Samningurinn tók þannig gildi gagnvart Íslandi eftir að atvik þessa máls urðu. Samkvæmt 36. gr. hans skulu samningsaðilar gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að tryggja að tilteknir ásetningsverknaðir séu lýstir refsiverðir, þar á meðal samkvæmt c-lið að verða valdur að því að annar einstaklingur taki þátt í kynferðislegri athöfn með þeim þriðja án gagnkvæms samþykkis þeirra. Til hliðsjónar má geta þess að í 291. gr. norsku hegningarlaganna er sú háttsemi meðal annars felld undir nauðgun að fá mann með ofbeldi eða hótunum til að hafa kynmök við annan mann. Ítarlegur kynferðisbrotakafli laganna er frá árinu 2009. Ákvæði af þessu tagi hefur hins vegar ekki verið innleitt í íslensk refsilög. 36. Þær nýju samskiptaleiðir sem samfélagsmiðlar bjóða upp á hafa valdið byltingu í samskiptum manna í milli. Þessir nýju miðlar hafa skapað möguleika á ýmiss konar áður óþekktum leiðum til að villa á sér heimildir og beita blekkingum og hótunum, þar á meðal í kynferðislegum tilgangi. Enda þótt umfangsmeiri breytingar hafi verið gerðar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga en á nokkrum öðrum kafla laganna á síðustu áratugum hefur löggjafinn átt fullt í fangi með að mæta kröfum um aukna refsivernd kynfrelsis einstaklinga og bregðast við þeim nýju tæknilegu möguleikum sem samfélagsmiðlar hafa skapað til brota í kynferðislegum tilgangi. 37. Lögregla, ákæruvald og dómstólar hafa jafnframt þurft að aðlaga rannsóknaraðferðir, ákærusmíð og beitingu refsiákvæða að nýrri tækni og nýjum samskiptamöguleikum. Rannsókn brota af þessu tagi getur verið flókin og tímafrek og tíðar breytingar á kynferðisbrotaákvæðum allt frá árinu 1992 hafa skapað vanda fyrir ákæruvald og dómstóla við að marka lagaskil milli eldri og yngri refsiákvæða en mikilvægt er að huga að þeim þætti við lagasetningu. 38. Beitingu refsiákvæða vegna kynferðisbrota eins og annarra brota eru settar skorður af 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrár sem mælir fyrir um að engum verði gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða megi fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Í þessu ákvæði felst grunnregla íslensks réttar um skýrleika refsiheimilda sem á sér hliðstæðu í 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Áskilið er að refsiheimild sé lögbundin og svo skýr og ótvíræð að ljóst sé af lestri lagaákvæðis hvaða háttsemi er refsiverð. Vafa um hvort refsiákvæði taki til háttsemi ber að virða ákærða í hag, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 14. desember 1995 sem birtur er á bls. 3149 í dómasafni réttarins það ár. 39. Upphafsmálsliður 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga er og var á þeim tíma sem ætluð brot samkvæmt 2. lið ákæru voru framin orðaður þannig að hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við brotaþola með tilteknum hætti gerist sekur um nauðgun. Ekki verður með skýrum hætti ráðið af orðalagi ákvæðisins að fjarstaddur maður sem stuðlar að því með hótunum eða annarri þvingun að annar maður eigi kynferðismök við þriðja mann teljist sjálfur hafa haft önnur kynferðismök í skilningi ákvæðisins. 40. Í dómi Hæstaréttar 12. maí 2010 í máli nr. 502/2009 var til umfjöllunar háttsemi sem að nokkru leyti svipaði til þeirrar sem 2. ákæruliður í þessu máli lýtur að. Þar voru manni gefin að sök fjölmörg brot gegn sambýliskonu sinni, þar á meðal 15 brot sem heimfærð voru í ákæru til 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Brotunum var lýst í ákæru með þeim hætti að um væri að ræða ítrekuð kynferðisbrot á sambúðartíma ákærða og brotaþola með því að hann hafi neytt hana, með hótunum um ofbeldi og annars konar ólögmætri nauðung, til samræðis og annarra kynferðismaka með öðrum mönnum og að hafa ýmist ljósmyndað kynmökin eða tekið þau upp á myndband ásamt því að hafa iðulega tekið þátt í þeim. Brotin voru ýmist tímasett á tilteknum degi, í tilteknum mánuði eða á tilteknu níu mánaða tímabili og jafnframt tilgreint hvar þau voru framin. Það sem skilur á milli sakarefnis fyrrgreinds máls og 2. liðar ákæru í þessu máli er að samkvæmt málsatvikum í fyrrgreinda málinu var ákærði viðstaddur og í flestum tilvikum þátttakandi í þeim kynmökum sem áttu sér stað og kynferðislegt gildi þeirra fyrir hann því ótvírætt en í því máli sem hér er til úrlausnar var ákærði hins vegar fjarstaddur. 41. Rannsókn málsins hjá lögreglu og fyrir dómi beindist ekki að því að leiða í ljós hvort sú háttsemi að þvinga brotaþola til kynferðismaka með öðrum mönnum og fá sendar myndir af þeim hafi komið í stað hefðbundins samræðis eða hefði bætt ákærða það upp. Í ákæru er ekki vikið að þessu atriði og ekki verður heldur séð að við meðferð málsins hafi því verið haldið fram af hálfu ákæruvaldsins. 42. Að lokinni rannsókn málsins lá fyrir skýr framburður brotaþola um að ákærði hefði þvingað hana til kynferðismaka með þremur mönnum í fjögur skipti. Brotaþoli hafði í öllum tilvikum lýst því nokkuð nákvæmlega í hverju kynferðismökin fólust, hvar þau áttu sér stað og tímasett tilvikin með því að nefna ýmist tiltekinn dag eða mánuð. Þá hafði hún meðal annars greint frá því að í þremur tilvikum hefði verið um munnmök að ræða í bifreið. Ákærði hefði með hótunum fengið hana til að láta taka myndskeið af þeim á síma hennar og senda honum. Þá hafði rannsóknin leitt í ljós hver einn þessara þriggja manna var og sá maður gefið skýrslu hjá lögreglu þar sem hann lýsti samskiptum við brotaþola. 43. Samkvæmt öllu framansögðu endurspeglaði 2. liður ákærunnar aðeins að litlu leyti þá háttsemi ákærða sem rannsókn málsins hafði leitt í ljós. Í ákæruna vantaði mikilvæg atriði sem upplýsingar lágu fyrir um svo sem í hversu mörgum tilvikum ákærði hafði stuðlað að því að brotaþoli hefði kynferðismök með öðrum mönnum, hver sá maður væri sem upplýsingar lágu fyrir um, í hverju kynferðismökin fólust, hvar þau fóru fram, við hvaða aðstæður og hvenær þau brot hefðu verið framin sem rannsóknin hafði leitt í ljós. Ekki verður því jafnað saman háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið og í ákæru sem til umfjöllunar var í framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 502/2009. Þar sem sakarefnið er samkvæmt framansögðu alls ekki dæmigert fyrir þá háttsemi sem talin hefur verið falla undir 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga var enn frekari ástæða til að öllum verknaðarþáttum væri lýst með greinargóðum og skýrum hætti og eins nákvæmlega og rannsóknarniðurstöður gáfu tilefni til. Af sömu ástæðu var jafnframt sérstaklega mikilvægt að nýta heimild d-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 til þess að færa fram í ákæru skýr og greinargóð rök fyrir því hvernig telja mætti háttsemi ákærða refsiverða samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. 44. Fyrir héraðsdómi var ákærði spurður almennt um hvort hann hefði beðið brotaþola um að hitta aðra menn í kynferðislegum tilgangi, hvort hann hafi hótað að birta myndir af brotaþola og hvort hún hefði einhvern tíma sent honum myndir af sér veita öðrum mönnum munnmök og neitaði hann því. Hann var hins vegar ekki spurður sérstaklega um einstök tilvik, með hvaða hætti hann hefði þvingað brotaþola og hótað henni í hvert og eitt skipti eða um önnur atriði sem tengdust þessum tilvikum. Þá var hann ekki spurður um annan atbeina sinn að kynferðismökunum, svo sem um samskipti við óþekktan mann sem brotaþoli hefur borið um að hafa tvívegis átt í kynferðismökum við fyrir tilstuðlan ákærða. Þessi ónákvæmni við skýrslutöku af ákærða fyrir dómi verður fyrst og fremst rakin til þess hvernig ákæran var úr garði gerð. Framangreindir annmarkar á henni höfðu þannig bein áhrif á meðferð málsins fyrir dómi og voru til þess fallnir að torvelda varnir ákærða og gera dómurum óhægt um vik að fella dóm á það. 45. Samkvæmt framangreindu skorti talsvert á að 2. liður ákærunnar væri svo greinargóður og skýr að ákærða væri fært að taka afstöðu til sakargiftanna og halda uppi vörnum gegn þeim. Ákæran var heldur ekki að þessu leyti svo skýr að hún gæti orðið grundvöllur að sönnunarfærslu fyrir dómi. Óhjákvæmilegt er því að vísa þessum ákærulið frá héraðsdómi. 46. Varakröfu um ómerkingu héraðsdóms byggir ákærði á því að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi brotið gegn meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu. Í greinargerð hans fyrir Landsrétti hafi þess verið krafist að ákærði og brotaþoli kæmu fyrir Landsrétt til skýrslugjafar svo að rétturinn gæti metið trúverðugleika framburðar þeirra af eigin raun í samræmi við fyrrnefnda meginreglu. Þrátt fyrir þá kröfu og þótt ákæruvaldið hefði ekki mótmælt henni hefði Landsréttur ákveðið að hafna því að brotaþoli kæmi fyrir réttinn til skýrslugjafar. Með sama hætti hefði Landsréttur talið að frekari skýrslutökur af vitnum eða spilun á upptökum af framburði þeirra í héraði við aðalmeðferð málsins hefðu enga þýðingu við úrlausn málsins að undanskilinni spilun á upptökum af framburði ákærða og brotaþola. Ákærði telur að ekki verði annað ráðið af dómi Landsréttar en að framburður brotaþola og þessara vitna hafi haft lykilþýðingu um sakfellingu hans. Til stuðnings þessari kröfu vísar ákærði til dóms Hæstaréttar 18. mars 2021 í máli nr. 34/2020. 47. Að mati ákæruvalds var tilhögun aðalmeðferðar fyrir Landsrétti í samræmi við ákvæði laga nr. 88/2008 um sönnunarfærslu þar fyrir dómi. Ákvörðun Landsréttar um hvaða skýrslur yrðu spilaðar við aðalmeðferð verði ekki skilin á þann veg að aðrar skýrslur vitna fyrir héraðsdómi hefðu ekki verið taldar hafa þýðingu við úrlausn málsins. Landsréttur hafi haft tök á að kynna sér bæði upptökur og endurrit af framburði þeirra vitna sem ákærði hafi vísað til. Af hálfu ákæruvaldsins er lögð áhersla á að tilvitnun ákærða til dóms Hæstaréttar í máli nr. 34/2020 eigi ekki við þar sem í því máli hafi Landsréttur snúið við sýknudómi héraðsdóms án þess að fullnægjandi sönnunarfærsla færi fram fyrir Landsrétti. Umfjöllun Hæstaréttar í dómi 18. febrúar 2021 í máli nr. 30/2020, þar sem eins hafi staðið á og í þessu máli, styðji á hinn bóginn að sönnunarfærslan hafi verið fullnægjandi og að ekki hafi verið brotið gegn rétti ákærða til milliliðalausrar málsmeðferðar. 48. Fyrirmæli 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð fyrir dómi hafa verið skýrð svo að þáttur í henni sé að sönnunarfærsla í sakamálum skuli vera milliliðalaus, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 29. nóvember 2012 í máli nr. 429/2012. Nánari útfærslu á meginreglunni er að finna í d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans sem mælir fyrir um að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli ekki njóta minni réttar en að fá að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum. Sjá skuli til þess að vitni sem beri honum í vil komi fyrir dóm og séu spurð á sama hátt og þau vitni sem leidd séu gegn honum. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarps til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sem varð að 70. gr. stjórnarskrárinnar, er meðal annars vísað til 6. gr. mannréttindasáttmálans og sagt að ekki þætti ástæða til að telja upp í greininni öll atriði sem tryggð væru í alþjóðasamningum um mannréttindi varðandi málsmeðferð fyrir dómstólum en að leiðarljósi væri haft að „taka þar aðeins upp grundvallarreglur og sleppa útfærsluatriðum sem eiga við þessar aðstæður eðli sínu samkvæmt aðeins heima í rétt¬arfarslöggjöf“. Samkvæmt því er litið svo á að þau réttindi sakbornings sem njóta verndar samkvæmt d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans séu liður í réttlátri málsmeðferð samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Hefur því þýðingu að líta til framkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu um 6. gr. sáttmálans við skýringu þessa stjórnarskrárákvæðis. 49. Mannréttindadómstóllinn hefur fjallað um þær kröfur sem gerðar eru til milliliðalausrar sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi sem þáttar í að tryggja réttláta málsmeðferð við endurskoðun dóms undirréttar í sakamáli, sbr. til dæmis dóma réttarins 19. febrúar 1996 í máli nr. 16206/90, Botten gegn Noregi, 15. júlí 2003 í máli nr. 44671/98, Sigurþór Arnarsson gegn Íslandi og 5. júlí 2011 í máli nr. 8999/07, Dan gegn Moldóvu. Í dómaframkvæmd mannréttindadómstólsins hefur verið talið sérstaklega mikilvægt að ákærði eigi þess kost að gefa munnlega skýrslu við meðferð sakamáls á áfrýjunarstigi ef hann hefur verið sýknaður á fyrsta dómstigi. 50. Réttur ákærða til milliliðalausrar sönnunarfærslu sem leiðir af 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar sem fyrr er lýst er jafnframt ein af meginreglum sakamálaréttarfars og birtist í 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 þar sem segir að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð séu fram við meðferð máls fyrir dómi. 51. Með þeim breytingum sem gerðar voru á lögum nr. 88/2008 með lögum nr. 49/2016 var tekið upp þriggja þrepa dómskerfi með Landsrétt sem millidómstig. Ein þeirra meginbreytinga sem þau lög fólu í sér var að heimilað var að leita endurskoðunar Landsréttar á öllum þáttum héraðsdóms, þar á meðal niðurstöðu sem byggð væri á mati héraðsdóms á sönnunargildi munnlegs framburðar samkvæmt c-lið 1. mgr. 196. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 58. gr. laga nr. 49/2016. Um munnlega sönnunarfærslu fyrir Landsrétti er fjallað í e-lið 2. mgr. 203. gr., 2. mgr. 205. gr. og 1. mgr. 206. gr. laganna. Með þessum málsmeðferðarreglum fyrir Landsrétti var meginreglan um milliliðalausa sönnunarfærslu á öðru dómstigi fest í sessi, sbr. einnig 210. gr. laganna. 52. Í athugasemdum við 59. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 49/2016 segir svo: Ekki er gert ráð fyrir að sú sönnunarfærsla sem fram fór fyrir héraðsdómi verði endurtekin fyrir Landsrétti, enda mæla sterk rök gegn því að sakborningar, brotaþolar, málsaðilar eða vitni séu yfirheyrð ítrekað fyrir dómi um sömu atriði eins og nánar er rakið í almennum athugasemdum með frumvarpinu. Á þetta sérstaklega við í sakamálum þar sem ætla má að upprifjun brotaþola og vitna á erfiðri lífsreynslu geti verið sársaukafull og af þeirri ástæðu varhugavert að endurtaka skýrslugjöf að nauðsynjalausu. Hins vegar er í frumvarpinu gert ráð fyrir að málsaðilum gefist kostur á að leiða ný vitni og taka viðbótarskýrslur af ákærðu og vitnum sem gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Þá verði allar skýrslur í héraði teknar upp í hljóði og mynd og afrit af þessum upptökum send Landsrétti sem hluti af gögnum máls. Myndupptökurnar verði þannig aðgengilegar dómurum sakamáls í Landsrétti en að auki verði unnt að fara fram á að einstakar skýrslur eða hluti af þeim verði spilaðar við aðalmeðferð máls ef þörf þykir vegna endurmats á sönnunargildi munnlegs framburðar. Eftir sem áður er þó gert ráð fyrir að við sönnunarfærslu fyrir Landsrétti verði að miklu leyti stuðst við endurrit af framburði ákærðu og vitna fyrir héraðsdómi, enda er mikið hagræði í því fólgið fyrir málsaðila og dómendur og málsmeðferðin til muna skilvirkari með því móti. Sá möguleiki að leiða ný vitni og taka viðbótarskýrslur, svo og að spila upptökur af skýrslum sem teknar voru í héraði, er til þess fallinn að Landsréttur geti endurskoðað sönnunargildi munnlegs framburðar og skorið úr um sekt eða sýknu á grundvelli heildarmats á öllum sönnunargögnum, þ.m.t. munnlegum framburði. 53. Í greinargerð ákærða til Landsréttar í máli þessu kom fram að nauðsynlegt væri að hann gæfi skýrslu fyrir réttinum. Þá var óskað eftir að brotaþoli gæfi skýrslu fyrir Landsrétti og það einkum rökstutt með vísan til fyrri framburðar hennar um að hún hefði hitt ákærða á tiltekinni útisamkomu. Af ákæruvaldsins hálfu var ekki talið nauðsynlegt að aflað yrði munnlegra skýrslna fyrir Landsrétti en ekki gerðar athugasemdir við að teknar yrðu skýrslur af ákærða og brotaþola. 54. Landsréttur hélt undirbúningsþinghald með sækjanda og verjanda ákærða 13. nóvember 2020 í samræmi við 3. mgr. 204. gr. laga nr. 88/2008. Þeir áréttuðu afstöðu sína til munnlegrar sönnunarfærslu og lögðu í hendur dómara að ákveða hvaða upptökur af framburði í héraði yrðu spilaðar við aðalmeðferð málsins. Réttargæslumaður greindi frá því að brotaþoli bæðist undan að koma fyrir réttinn en ef svo yrði ákveðið yrði ákærða gert að víkja úr salnum á meðan. Landsréttur ákvað sama dag að einungis ákærði kæmi fyrir dóm til skýrslugjafar og að eingöngu upptökur af framburði hans og brotaþola í héraði yrðu spilaðar. 55. Fyrir liggur að ákærði gaf viðbótarskýrslu fyrir Landsrétti og upptökur af framburði hans og brotaþola voru spilaðar við aðalmeðferð málsins. Hluti af sönnunargögnum málsins fyrir Landsrétti voru auk þess hljóð- og myndupptökur af öllum skýrslutökum í héraði og endurrit af framburði en sækjandi og verjandi gátu vísað til þessa framburðar í málatilbúnaði sínum. Þá er þess að gæta að í málinu reyndi ekki á kröfu um að sýknudómi yrði að hluta eða í heild snúið í sakfellingardóm en það er eitt þeirra atriða sem getur samkvæmt framansögðu haft áhrif á hvort eða hversu brýn þörf er á munnlegri sönnunarfærslu fyrir Landsrétti við endurskoðun dóms í sakamáli, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 34/2020. 56. Í e-lið 2. mgr. 203. gr. laga nr. 88/2008 segir að í greinargerð málsaðila til Landsréttar skuli koma fram „hvort hann telji nauðsynlegt að afla munnlegra skýrslna eða viðbótarskýrslna fyrir Landsrétti, og þá hverra, ásamt rökstuðningi þar að lútandi, þar á meðal fyrir því hvers vegna ekki sé nægilegt að byggja á upptökum, sbr. 3. mgr. 13. gr.; jafnframt hvaða upptökur af skýrslum fyrir héraðsdómi hann telur nauðsynlegt að spila við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti.” Líta verður til þess að ekki var óskað eftir því af hálfu ákæruvalds og ákærða að önnur vitni en brotaþoli gæfu skýrslu fyrir Landsrétti. Við mat á nauðsyn þess að brotaþoli gæfi þar skýrslu er til þess að líta að þar vegast á hagsmunir ákærða sem fór fram á slíka sönnunarfærslu og brotaþola sem baðst undan því að gefa skýrslu að nýju. Ósk ákærða um að brotaþoli gæfi skýrslu var í greinargerð hans einkum studd þeim rökum að hún þyrfti að gefa skýrslu um eitt tilgreint atriði sem telja verður aukaatriði í málinu en að öðru leyti var ekki tilgreint nákvæmlega að hvaða leyti framburður hennar í héraði hefði verið ótrúverðugur eða hvaða atriði önnur þyrfti að spyrja nánar um. Með vísan til framangreinds og þeirra hagsmuna brotaþola að þurfa ekki gegn vilja sínum að gefa skýrslu í málinu að nýju eftir að hafa þrisvar sinnum gefið skýrslu hjá lögreglu og ítarlega skýrslu fyrir héraðsdómi bar ekki nauðsyn til að brotaþoli gæfi viðbótarskýrslu fyrir Landsrétti. 57. Þótt ekki færi fram önnur munnleg sönnunarfærsla fyrir Landsrétti í málinu en að framan greinir var endurskoðun á sönnunarmati við þær aðstæður sem lýst hefur verið að framan í samræmi við ákvæði laga nr. 88/2008. Málsmeðferðin fyrir Landsrétti braut heldur ekki gegn rétti ákærða til milliliðalausrar sönnunarfærslu sem er þáttur í réttinum til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. og d-lið 3. mgr. mannréttindasáttmálans eins og hann hefur verið skýrður í framkvæmd mannréttindadómstólsins. Samkvæmt öllu framansögðu verður ómerkingarkröfu ákærða hafnað. Niðurstaða um efnishlið málsins 58. Krafa ákærða um sýknu af 1. lið ákæru er studd þeim rökum að ósannað sé að hann hafi þvingað brotaþola til að senda sér þær myndir sem ákæruliðurinn lýtur að heldur hafi hún haft frumkvæði að því. Þá telur ákærði að framburður hans um sakarefni samkvæmt 3. ákærulið hafi verið staðfastur, trúverðugur og á einn veg. Hann hafi lýst því að brotaþoli hafi hætt við í fyrra skiptið en hann í síðara skiptið og þau því ekki haft samræði. Hann hafi því hvorki gerst sekur um nauðgun né tilraun til nauðgunar. Ákæruvaldið verði að bera hallann af því að lögregla hafi aflað ónógra sönnunargagna sem styðji kröfu um sýknu. 59. Ákæruvaldið vísar til þess að ákærði hafi játað brot samkvæmt 1. ákærulið. Jafnframt er vísað til röksemda Landsréttar um sakfellingu ákærða fyrir þau brot sem lýst er í 3. ákærulið en sakfellingin hafi ekki síst verið byggð á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og brotaþola. Framburður brotaþola hafi verið talinn trúverðugur og fái meðal annars stoð í framburði vitna. 60. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða af 1. lið ákæru. 61. Með hinum áfrýjaða dómi var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða fyrir háttsemi sem lýst var í upphafsorðum ákærunnar og áfram í 3. lið eins og að framan hefur verið lýst. Samkvæmt því var háttsemi ákærða lýst bæði sem nauðgun sem komið er fram með blekkingum eða með því að notfæra sér villu viðkomandi í skilningi núgildandi 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga og sem broti gegn blygðunarsemi samkvæmt 209. gr. laganna. 62. Fyrrnefndur blekkinga- og svikaþáttur 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga kom inn í ákvæðið með 1. gr. laga nr. 16/2018 sem tóku gildi 5. apríl 2018 en slíkt refsiákvæði hafði ekki verið í almennum hegningarlögum frá því að 199. gr. þeirra, sem lagði allt að fjögurra ára fangelsisrefsingu við slíkri háttsemi, var felld brott með 8. gr. laga nr. 61/2007 án þess að þessi tiltekna háttsemi væri jafnframt felld undir annað ákvæði laganna. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að síðastgreindu lögunum sagði að 199. gr. væri mjög sérkennileg og ekki mjög raunhæft að á hana reyndi. Með hliðsjón af því var ekki talin þörf fyrir ákvæðið og lagt til að það yrði afnumið. Þó var vísað til tveggja eldri dóma þar sem ákvæðinu hafði verið beitt. Talið var að ýmis sú háttsemi sem fallið hefði undir ákvæðið gæti einnig fallið undir önnur ákvæði laganna en þó ekki vísað til tilvika sambærilegum þeim sem um ræðir í þessu máli. Sú háttsemi sem ákærða er gefin að sök samkvæmt 3. ákærulið var því ekki refsinæm sem nauðgun á þeim tíma sem hún átti sér stað. 63. Í frumvarpi því um breytingu á 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga sem varð að lögum nr. 16/2018 var lagt til að ákvæði um blekkingu og villu yrðu í 1. mgr. 194. gr. Í meðförum Alþingis var sá hluti ákvæðisins færður í 2. mgr. greinarinnar á grundvelli breytingartillögu allsherjar- og menntamálanefndar. Í nefndaráliti var vísað til þess að með ákvæðinu væri brugðist við dómi Hæstaréttar 20. maí 2010 í máli nr. 620/2009 þar sem brot manns sem hafði villt á sér heimildir og haft samfarir við konu sem var í þeirri trú að hann væri annar maður var talið brot gegn blygðunarsemi og fellt undir 209. gr. almennra hegningarlaga. 64. Af hálfu ákæruvaldsins er um heimfærslu til refsiákvæða vísað til þess að háttsemi ákærða samkvæmt 3. lið ákæru hafi áður varðað við 209. gr. almennra hegningarlaga. 65. Með dómi héraðsdóms var talið að lögfull sönnun væri fram komin um að ákærði hefði gerst sekur um þá háttsemi sem lýst var í 3. lið ákærunnar. Var sú niðurstaða reist á mati á trúverðugleika framburðar brotaþola og ákærða en framburður brotaþola var talinn fá stoð í frásögn tveggja nafngreindra vitna. Landsréttur staðfesti héraðsdóminn að þessu leyti um sakfellingu ákærða og heimfærslu til refsiákvæða. Samkvæmt 2. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008 getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu áfrýjaðs dóms um sönnunargildi munnlegs framburðar. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um sönnunarmat er því lagt til grundvallar að sú háttsemi ákærða sem lýst er í 3. ákærulið svo og inngangsorðum ákærunnar teljist sönnuð. 66. Háttsemi ákærða samkvæmt 3. ákærulið, eins og hún var talin sönnuð í hinum áfrýjaða dómi, var refsiverð sem blygðunarsemisbrot þegar háttsemin átti sér stað en þar sem hún er nú jafnframt refsiverð samkvæmt 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga kemur 69. gr. stjórnarskrárinnar ekki í veg fyrir að ákærða verði refsað fyrir háttsemina. Háttsemi ákærða samkvæmt þessum ákærulið verður því heimfærð undir 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga en að virtu því refsihámarki sem var í 209. gr. laganna á þeim tíma sem brotin voru framin, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Ákvörðun refsingar 67. Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um brot sem áhrif hefur á refsingu. Þau brot sem hann hefur gerst sekur um samkvæmt 1. og 3. lið ákærunnar eru fjölmörg og stóðu yfir í langan tíma. Þau voru úthugsuð, vandlega skipulögð og framin af skeytingarleysi gagnvart brotaþola. Sýnu alvarlegust er háttsemi ákærða samkvæmt 3. lið ákæru er hann braut alvarlega gegn kynfrelsi hennar með því að villa á sér heimildir og beita hana blekkingum. Blygðunarsemisbrot samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga varða allt að fjögurra ára fangelsi. Refsing fyrir eitt brot af þessu tagi var ákveðin tveggja ára fangelsi í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 620/2009. Þau blygðunarsemisbrot sem ekki verða jafnframt felld undir önnur ákvæði kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga verða vart alvarlegri og skaðlegri en þau sem ákærði gerðist sekur um. Brotin beindust gegn mikilvægum verndarhagsmunum, ollu yfirgripsmiklu tjóni og báru vitni um styrkan og einbeittan brotavilja. Refsing verður því ákveðin þrjú ár og sex mánuðir, sbr. 1., 2. og 6. tölulið 1. mgr. 70. gr., sbr. einnig 77. gr. almennra hegningarlaga. Ákvörðun miskabóta og sakarkostnaðar 68. Þau brot sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir samkvæmt 1. og 3. lið ákærunnar eru sem fyrr segir mörg og stóðu yfir í langan tíma. Til þess að fremja brotin hafði hann samskipti við brotaþola á samskiptamiðlum undir nafni annars manns sem hún var hrifin af og stóð hún í þeirri trú að samskiptin væru við hann. Alvarlegust eru brot ákærða gegn kynfrelsi brotaþola samkvæmt 3. lið ákæru. Brotin voru framin af algeru skeytingarleysi um tilfinningar og andlega heilsu brotaþola og til þess fallin að grafa undan sjálfsmynd hennar. Af gögnum málsins er ljóst að brotin ollu henni miklum og langvarandi miska. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms sem vísað var til í hinum áfrýjaða dómi verða miskabætur til brotaþola ákveðnar 2.000.000 króna. Vaxtakröfu brotaþola hefur ekki verið mótmælt sérstaklega og verða vextir ákveðnir eins og í dómsorði greinir. 69. Með hliðsjón af því að 2. lið ákæru hefur verið vísað frá héraðsdómi en ákærði sakfelldur af sakarefnum samkvæmt öðrum ákæruliðum verður hann dæmdur til að greiða tvo þriðju hluta heildarsakarkostnaðar á öllum dómstigum, en þar með eru talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi að því er varðar sakargiftir á hendur ákærða, X, samkvæmt 2. lið ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Ákærði greiði brotaþola, A, 2.000.000 króna, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. nóvember 2015 til 1. janúar 2018 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um fjárhæð sakarkostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti eru staðfest. Ákærði greiði 7.218.965 krónur sem eru tveir þriðju hlutar heildarsakarkostnaðar á öllum dómstigum, sem nemur samtals 10.828.448 krónum, en þar með eru talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns, 1.295.800 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola fyrir Hæstarétti, Arnars Þórs Stefánssonar lögmanns, 353.400 krónur. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=86122f4f-db29-486f-9280-5ebecec91348&verdictid=abf4eed4-84ce-4b8e-b24e-8c236bbf1574
Mál nr. 25/2021
Líkamstjón Umferðarslys Slysatrygging ökumanns Sönnun
A höfðaði mál til viðurkenningar á bótaskyldu V hf. úr lögbundinni slysatryggingu ökumanns vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi. V hf. hafnaði bótaskyldu af þeirri ástæðu að A hefði verið undir áhrifum lyfja og ávana- og fíkniefna við stjórn bifhjóls þegar slysið varð og hafi af þeim sökum valdið því af stórkostlegu gáleysi. Með dómi Landsréttar var fallist á kröfur A. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að V hf. bæri sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði væru til þess að lækka bætur eða fella þær niður á grundvelli 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004. Til að axla þá ábyrgð hefði V hf. meðal annars lagt fram matsgerð Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði. Þar kæmi fram að A hefði verið undir áhrifum lyfja- og fíkniefna og að fullvíst mætti telja að hann hefði ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti af þeim sökum. Að framkominni þessari matsgerð bæri A sönnunarbyrði fyrir sannleiksgildi þeirrar staðhæfingar sinnar að efnanna hefði verið neytt eftir að vátryggingaratburð bar að höndum. Hæstiréttur tók fram að endurskoðun réttarins á mati héraðsdóms á trúverðugleika munnlegs framburðar, sem Landsréttur féllst á í hinum áfrýjaða dómi, sætti takmörkunum í ljósi meginreglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu. Hæstiréttur leggi á hinn bóginn sjálfstætt mat á þau skjallegu sönnunargögn sem lögð hefðu verið fram og hvernig framburður A og vitna samrýmdust þeim gögnum að svo miklu leyti sem unnt væri án þess að endurskoða mat á trúverðugleika framburðarins. Við það mat yrði ekki fram hjá því horft að því yrði hvergi fundinn staður í framburði A eða vitna að hann hefði neytt slævandi og róandi efna eins og klónazepams eftir að slysið varð, heldur hefði honum verið gefið sterkt verkjalyf auk örvandi efna. Væri því útilokað annað en að A hefði verið undir áhrifum klónazepams við akstur bifhjólsins þegar vátryggingaratburð bar að höndum. Talið var að V hf. hefði með vátryggingarskilmálum undanskilið sig ábyrgð þegar þannig stæði á fyrir ökumanni, enda yrði lagt til grundvallar að vátryggingaratburð hefði borið að höndum vegna ástands A. Var V hf. því sýknað af kröfu A.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. júní 2021. Hann krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar á öllum dómstigum. 3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar á öllum dómstigum án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt. Ágreiningsefni 4. Í málinu krefst stefndi viðurkenningar á bótaskyldu áfrýjanda úr lögbundinni slysatryggingu ökumanns bifhjóls vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi […] júlí 2017. Bifhjólið sem stefndi ók þegar slysið varð var í eigu fyrrverandi maka hans og vátryggt hjá áfrýjanda. Stefndi byggir kröfu sína á hlutlægri ábyrgðarreglu 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sem í gildi voru þegar atvik máls þessa urðu. 5. Áfrýjandi hafnar bótaskyldu af þeirri ástæðu að stefndi hafi verið undir áhrifum lyfja og ávana- og fíkniefna við stjórn bifhjólsins þegar slys bar að höndum og hafi af þeim sökum valdið því af stórkostlegu gáleysi. Um þetta vísar hann til 2. mgr. 88. gr. þágildandi umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, einkum 2. málsliðar ákvæðisins. Bótaskylda áfrýjanda hafi því fallið niður. Þá vísar hann til 45. gr. a eldri umferðarlaga, til stuðnings kröfu sinni um að hafna beri kröfu stefnda um viðurkenningu á bótaskyldu áfrýjanda. Stefndi byggir á því að ósannað sé að hann hafi verið undir áhrifum ávana- og fíkniefna þegar slysið varð en sönnunarbyrði um það hvíli á áfrýjanda. 6. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi meðal annars um sönnun og sönnunarbyrði í málum af þessum toga, sbr. 3. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málsatvik og meðferð máls fyrir dómi Rannsókn lögreglu, vottorð læknis og bréfaskipti aðila 7. Í frumskýrslu lögreglu kom fram að lögregla hefði verið send að […] vegna tilkynningar um umferðaróhapp sem hefði átt sér stað […] júlí 2017. B hefði tekið á móti lögreglu sem kom þangað klukkan 13.39. Í skýrslunni var tilgreint að stefndi væri grunaður um akstur bifhjóls undir áhrifum ávana- og fíkniefna en neysla efna ekki verið staðfest. Fyrir lögreglu hefði B lýst því að stefndi hefði ákveðið að taka stuttan hring um hverfið á bifhjólinu. Hann hefði ekið af stað ásamt farþega og verið í um 15 til 20 mínútur í burtu en komið til baka mjög kvalinn. Hún kvaðst hafa miklar áhyggjur af stefnda vegna öndunarerfiðleika hans. Teknar voru ljósmyndir af bifhjólinu. Í skýrslu lögreglu sagði að útblásturskerfi þess hefði verið mjög heitt viðkomu. Þá hefði stefndi legið í rúmi á efri hæð hússins og átt erfitt með að anda. Í skýrslunni sagði einnig að stefndi hefði verið fluttur á slysadeild. 8. Í rannsóknarskýrslu lögreglu var haft eftir stefnda að hann hefði ekið Víkurveg til norðurs og vestur Borgarveg. Hann hefði lagt á hjólið í vinstri beygju en farþegi á hjólinu hreyft sig til og sér hefði gengið illa að rétta hjólið af. Við það hefði hann misst hjólið yfir til vinstri og lent ítrekað á vegkanti áður en þeir köstuðust báðir af hjólinu og í gras utan vegar. Hjólið hefði endað á veginum tugum metra vestar. Í skýrslunni kom fram að rætt hefði verið við stefnda og farþega hans á slysadeild sem sakborninga. Hefði komið fram hjá stefnda að hann hefði verið allsgáður en drukkið nokkra bjóra kvöldinu áður. Hann hefði ekki notað nein lyf utan „cancepta“ (mun eiga að vera Concerta) sem hann taki tvær 30 mg töflur af kvölds og morgna. Að öðru leyti hefði hann ekki verið á neinum öðrum lyfjum. 9. Samkvæmt bráðamóttökuskrá slysadeildar Landspítala–Háskólasjúkrahúss á slysdegi var stefndi við komu á deildina greindur með áverkaloftbrjóst, mörg rifbrot með blóð/loftbrjósti og viðbeinsbrot. Þar sagði einnig að hann hefði komið með sjúkrabíl eftir mótorhjólaslys. Hann væri talsvert verkjaður og tæki að eigin sögn Concerta, Tramadol og Contalgin. Í aðgerðarlýsingu sjúkrahússins kom sama greining fram og þar lýst aðgerð sem gerð var á stefnda. Þar sagði að um væri að ræða […] ára mann með sögu um „misnotkun lyfja og nýrnasteina“. 10. Blóðsýni var tekið úr stefnda við komu á slysadeild […] júlí 2017. Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 17. ágúst sama ár, sem aflað var að beiðni lögreglu við rannsókn á ætluðu umferðarlagabroti stefnda, mældust í blóði hans 40 ng/ml af 7-amínóklónazepami, 210 ng/ml af amfetamíni, 25 ng/ml af klónazepam og 35 ng/ml af kókaíni. 11. Í matsgerðinni kom fram að amfetamín og kókaín væru í flokki ávana- og fíkniefna sem óheimil væru á íslensku forráðasvæði. Ökumaður teldist því hafa verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega þegar sýnið var tekið, sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga. Um klónazepam sagði að lyfið væri flogaveikilyf og 7-amínóklónazepam væri umbrotsefni þess. Lyfið væri af flokki benzodíazepína, hefði slævandi verkun á miðtaugakerfið og drægi verulega úr aksturshæfni í lækningalegum skömmtum. Styrkur klónazepams í blóði stefnda væri eins og eftir töku lyfsins í lækningalegum skömmtum og hefði ökumaðurinn verið undir slævandi áhrifum þess. Fullvíst mætti telja að hann hefði ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti af þeim sökum. Ekkert alkóhól greindist í blóði stefnda. 12. Í vottorði heilsugæslulæknis 13. mars 2019 kom fram að stefndi hefði við slysið fengið mikla áverka á stoðkerfi, vinstra viðbein hefði brotnað og mörg rifbein vinstri brjóstkassa. Þá hefði lunga hans fallið saman. Eftir þetta hefði hann orðið óvinnufær vegna verkja og ekki með fullan styrk í vinstri efri útlim og í vinstri öxl. Taldi læknirinn að stefndi þyrfti að eiga við afleiðingar slyssins að stríða um ókomna tíð. 13. Stefndi sendi tilkynningu um umferðarslys til áfrýjanda 26. mars 2018. Þar var tilgreint að hann hefði ekki verið undir áhrifum áfengis eða lyfja þegar slysið varð. Með bréfi 27. sama mánaðar hafnaði áfrýjandi bótaskyldu og vísaði til þess að framangreind lyf og fíkniefni hefðu mælst í blóði hans. Stefndi hefði því verið óhæfur til að stjórna ökutæki í skilningi 2. mgr. 45. gr. a eldri umferðarlaga þegar slysið átti sér stað. Jafnframt hefði styrkur klónazepams í blóði verið það hár að fullvíst mætti telja að hann hefði ekki getað stjórnað bifhjólinu örugglega. Áfrýjandi taldi að slysið mætti rekja til stórkostlegs gáleysis stefnda og hafnaði bótaábyrgð með vísan til 2. mgr. 88. gr. þágildandi umferðarlaga og 90. gr. laga nr. 30/2004. Lýsingar á tilgreindum lyfjum 14. Í gögnum málsins er að finna lýsingar Lyfju hf. á tilgreindum lyfseðilsskyldum lyfjum, meðal annars hvernig verkun þau hafi og hversu langur tími líði þar til verkun komi fram. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti kom fram að ekki væri ágreiningur um réttmæti þessara upplýsinga. Um lyfið Concerta segir að það sé örvandi lyf og efli heilastarfsemi. Virka efnið í lyfinu sé metýlfenídat sem sé skylt amfetamíni. Áhrif þess séu fyrst og fremst á miðtaugakerfið þar sem það eykur athygli, einbeitingu og sjálfstraust, en minnkar þreytutilfinningu. Lyfið sé gefið í forðatöflum til inntöku og nái hámarksþéttni í blóði eftir sex til átta klukkustundir. Lyfið skerði aksturshæfni og ekki skuli aka bifreið meðan lyfið sé tekið. 15. Um lyfið Rivotril segir að það sé flogaveikilyf og virka efnið í því sé klónazepam sem tilheyri flokki lyfja sem kallist benzodíazepín. Lyf í þeim flokki hafi öll sama verkunarmáta, þau auki áhrif hamlandi boðefnis (GABA) á ákveðnar heilastöðvar. Áhrif þeirra séu í öllum tilvikum svipuð eða róandi, kvíðastillandi, krampastillandi og vöðvaslakandi. Þau séu gefin í töflum til inntöku. Ef þau eru gefin vegna floga líði 20–40 mínútur þar til verkun komi fram. Verkunartími sé sex til tólf klukkustundir. Lyfið geti skert athygli og viðbragðsflýti og þar með aksturshæfni. Ekki skuli aka bifreið meðan lyfið sé tekið. 16. Um lyfið Tramadol segir að það sé sterkt verkjalyf sem virki á svipaðan hátt og morfín. Verkjastillandi áhrif þess séu svipuð áhrifum morfíns en ólíkt morfíni sé ávanahætta hverfandi af því. Það sé notað við meðalsárum og sárum verkjum. Um notkun á lyfinu segir að það sé í hylkjaformi til inntöku. Lyfið geti skert athygli og dregið úr aksturshæfni. Ekki skuli aka bifreið fyrr en reynsla sé komin á það hvaða áhrif lyfið hefur. 17. Um lyfið Contalgin segir að það sé verkjalyf og virkt innihaldsefni þess sé morfín sem sé sterkt verkjastillandi lyf. Lyfið hafi áhrif á miðtaugakerfið og hindri að sársaukaboð berist þangað. Verkjastillandi áhrif morfíns séu tiltölulega skammvinn en til þess að fá fram lengri verkunartíma séu oft notuð lyfjaform þar sem lyfið losni hægt á lengri tíma. Lyfið sé gefið í forðatöflum til inntöku. Innan við fjórar klukkustundir líði þar til verkun komi fram og verkunartími sé fjórar til tólf klukkustundir. Sjúklingar sem þurfi á morfíni að halda séu líklegast ekki í ástandi til að stjórna ökutækjum en lyfið sjálft hafi sljóvgandi áhrif og skerði aksturshæfni. Skýrslugjöf fyrir héraðsdómi 18. Við skýrslugjöf stefnda fyrir héraðsdómi neitaði hann að hafa verið undir áhrifum vímuefna eða lyfja þegar slysið varð. Hann kvað ástæðu slyssins hafa verið þá að hann hefði misst jafnvægi á bifhjólinu þegar farþegi á því færði sig til. Eftir að hann kom að […] í kjölfar slyssins hefði vinkona sín, B, og vinkona hennar spurt hann að því hvort allt væri í lagi. Hann hefði fundið fyrir gríðarlegum verkjum en hann hafi bæði rifbeinsbrotnað og brotið viðbein. Hann hefði spurt hvort þær ættu verkjalyf. B hefði þá komið með einhver lyf, tvær eða þrjár töflur. Í kjölfar þess hefði hann byrjað að finna fyrir öndunarörðugleikum en B og vinkona hennar hefðu verið með disk með einhverjum efnum sem hann hefði fengið sér af. Eftir það hefði verið hringt á sjúkrabíl. Spurður um það sem kemur fram í bráðamóttökuskrá að hann taki að eigin sögn Concerta, Tramadol og Contalgin svaraði stefndi því til að hann hefði „aldrei tekið Contalgin“. Um Tramadol sagði hann „og Tramadol, ég held að það hafi verið það sem að, verkjalyf, gæti verið en ég man að það var ekki, ég sko Concerta, það er það ég er ávísaður af ... en ég held það hafi verið sex vikur síðan ég hafði tekið þau lyf“. Nánar spurður hvort hann ætti þar við lyfið Concerta, staðfesti hann það. Um efnið sem hann kvaðst hafa tekið af diski sem þær B og vinkona hennar réttu honum kvað hann það hafa verið „örvandi efni, hvítt efni“. 19. Fyrrgreind B, sem kvaðst við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi telja sig náinn vin eða góðan vin stefnda, kvaðst hafa spurt hann að því hvort hún ætti ekki að hringja á sjúkrabíl þegar hún sá í hvaða ástandi hann var eftir slysið. Hann hefði neitað því en beðið sig um að gefa sér verkjalyf þar sem hann hefði vitað að hún ætti slík lyf. Hún hefði náði í verkjatöflur og gefið honum en ekki vitað nákvæmlega hvaða verkjalyf þetta voru. Nánar spurð hvort um hefði verið að ræða Panodil svaraði hún „bara já, nei, já. Þetta voru held ég Tram-, einhverjar sterkari sem ég hafði fengið áður sem að ég vissi að virkuðu og ég man það ekki nákvæmlega.“ Þá kvað hún vinkonu sína hafa komið upp með efni á diski og hefði vitnið spurt stefnda hvort hann vildi taka það sem „örvandi á móti ... af því að mér fannst hann byrjaður að anda eitthvað skrítið“. Ný gögn og niðurstaða Landsréttar 20. Undir rekstri málsins fyrir Landsrétti lagði áfrýjandi fram bréf Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 13. febrúar 2020 sem hefur að geyma svör við beiðni lögmanns hans um að blóðsýni stefnda yrði rannsakað frekar, einkum út frá staðhæfingum hans um að hafa tekið tiltekin efni og lyf eftir að slysið átti sér stað. Þá var þess óskað að kannað yrði hvort Concerta hefði mælst í sýninu. Í bréfinu kom fram að líklegasta frásogsleið efnanna sem mældust í blóði stefnda hefði verið um meltingarveg enda hefði hann haldið því fram að hann hefði ekki verið í neyslu. Þar kom fram að það gæti tekið nokkurn tíma að frásoga efni frá meltingarvegi. Í bréfinu sagði að amfetamín frásogist eingöngu frá smáþörmum sé það tekið inn um munn. Umræddur styrkur þess í blóði náist því varla fyrr en eftir nokkurn tíma. Amfetamín frásogist aftur á móti mun hraðar eftir inntöku um nös. Um kókaín var í bréfinu vísað til þess að aðgengi þess frá meltingarvegi væri lélegt en hámarksstyrk þess væri náð eftir um það bil eina og hálfa klukkustund. Hefði kókaínneysla verið um nös væri frásog mjög hratt og hámarksstyrk efnisins náð á innan við hálftíma. Þá sagði í bréfinu að klónazepam næði hámarksstyrk í blóði eftir um það bil 30 til 120 mínútur, lengst eftir frásog frá meltingarvegi. Að lokum sagði að í blóðsýninu hefðu engin merki fundist um virka efnið í lyfinu Concerta. 21. Fyrir Landsrétt var einnig lagt tölvubréf Neyðarlínunnar þar sem fram kom að B hefði tilkynnt um slysið klukkan 13.39. Sjúkrabíll hefði verið skráður í útkall klukkan 13.43, komið á vettvang klukkan 13.58, farið þaðan klukkan 13.59 og mætt á bráðamóttöku klukkan 14.10. Eins og að framan var rakið var blóðsýni tekið úr stefnda á bráðadeild og hefur hann haldið því fram að það hafi í fyrsta lagi verið tekið klukkan 14.25 en þá voru lífsmörk hans skráð. 22. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms byggðist á því að áfrýjandi hefði ekki aflað sér matsgerðar dómkvadds manns í því skyni að færa sönnur á að stefndi hefði í ljósi þess magns efna sem mældust í blóði hans, eiginleika þeirra og þess sem ætla mætti um framangreindar tímasetningar verið undir áhrifum lyfja eða vímuefna þegar hann missti stjórn á bifhjólinu. Af þeim gögnum sem lögð hefðu verið fram yrði ekki ráðið að staðhæfingar stefnda um ástand sitt áður en slysið varð stæðust ekki. Væri þá meðal annars litið til þess að í fyrrgreindu bréfi Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði hefði ekki verið tekið af skarið um frásog amfetamíns úr öndunarvegi, en stefndi kvaðst „hafa tekið efnið um nös“, að öðru leyti en því að þar segði að það gerðist mun hraðar en þegar amfetamín frásogist úr meltingarvegi. Samkvæmt þessu þótti áfrýjandi ekki hafa fært fram næg sönnunargögn til að hnekkja niðurstöðu héraðsdóms sem féllst á bótaskyldu áfrýjanda. Lagaumhverfi og reglur 23. Í málinu reynir annars vegar á ákvæði þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987 og hins vegar ákvæði laga nr. 30/2004. 24. Tilvitnuð umferðarlög nr. 50/1987 voru í gildi er atvik máls þessa áttu sér stað og voru enn í gildi þegar málið var höfðað. Ný umferðarlög nr. 77/2019 og lög nr. 30/2019 um ökutækjatryggingar tóku gildi 1. janúar 2020. 25. Í 2. mgr. 44. gr. þágildandi umferðarlaga sagði að enginn mætti stjórna eða reyna að stjórna ökutæki, ef hann vegna veikinda, hrörnunar, ofreynslu, svefnleysis, neyslu áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna eða annarra orsaka væri þannig á sig kominn að hann væri ekki fær um að stjórna ökutæki örugglega. Þá sagði í 1. mgr. 45. gr. a laganna að enginn mætti stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki ef hann væri undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð væru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Í 2. mgr. 92. gr. var kveðið á um að slysatrygging ökumanns skyldi tryggja bætur fyrir líkamstjón af völdum slyss sem ökumaður yrði fyrir við stjórn ökutækis. 26. Í almennum athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum 30/2004 sagði að í öðrum hluta frumvarpsins væri fjallað um persónutryggingar en skilgreining hugtaksins kemur fram í 61. gr. laganna, þar sem segir að persónutrygging sé líftrygging, slysatrygging og sjúkratrygging. Einnig sagði að með frumvarpinu væri stefnt að því að ráða bót á einu mesta álitaefni sem tengst hefði framkvæmd eldri laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga, það er hvaða mörk ætti að setja hlutlægum ábyrgðartakmörkunum, einkum þegar þær tengdust háttsemi hins vátryggða eða manna sem yrðu samsamaðir honum. Það væri gert með því að skilgreina hugtakið varúðarreglur víðtækar en gert væri í lögum nr. 20/1954, sbr. e-lið 2. gr. frumvarpsins, en einnig með því að félögunum væri gert að upplýsa skýrlega í vátryggingarskírteini hvaða varúðarreglur væru í samningnum sem leitt gætu til takmörkunar á ábyrgð þess, sbr. 10. gr., auk þess sem 26. gr. frumvarpsins bannaði að félagið bæri fyrir sig fyrirvara vegna brota á varúðarreglum ef ekki væri við vátryggðan að sakast eða sök hans væri óveruleg. Að auki mætti leggja ábyrgð á félagið að hluta þótt það gæti samkvæmt framangreindu borið fyrir sig brot á varúðarreglum. Ætti það einnig að vera til verndar vátryggðum í takmarkatilvikum. 27. Í athugasemdunum sagði jafnframt um þau tilvik er vátryggður veldur því að vátryggingaratburður verður að sú stefna væri tekin með frumvarpinu að afleiðingar þess yrðu sveigjanlegri en væri samkvæmt lögum og réttarframkvæmd. Í frumvarpinu væri gerð tillaga um að það yrði metið sérstaklega hvort vátryggingaratburði væri valdið af stórfelldu gáleysi eða ekki, einnig þegar vátryggður væri ölvaður. Væri þetta gert vegna þess að hugsanlega væri ekki mikið við vátryggðan að sakast þótt hann hefði verið ölvaður og valdið vátryggingaratburði. Það ætti að minnsta kosti að meta það með hliðsjón af atvikum hvort það ætti að leiða til þess að réttur hans til vátryggingarbóta félli niður með öllu. 28. Í 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 er kveðið svo á um að hafi vátryggður í öðrum vátryggingum en líftryggingum valdið því af stórkostlegu gáleysi að vátryggingaratburður varð eða afleiðingar hans urðu meiri en ella hefðu orðið megi lækka eða fella niður ábyrgð vátryggingafélagsins. Hið sama eigi við ef vátryggður hafi af stórkostlegu gáleysi valdið því að vátryggingaratburður varð með því að hlíta ekki varúðarreglum. Við úrlausn á þessum atriðum skuli litið til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti. Með þessari grein frumvarpsins yrði komið í veg fyrir að vátryggingafélög gætu fyrirvaralaust undanþegið sig ábyrgð þegar vátryggingaratburði væri valdið af stórkostlegu gáleysi. 29. Í 10. gr. laga nr. 30/2004 sem er efnislega samhljóða ákvæði 12. gr. c laganna eins og þeim var breytt með lögum nr. 61/2019, er kveðið á um vátryggingarskírteini. Þar segir að þegar samningur hafi verið gerður og ákveðið hvaða skilmálar skuli gilda um trygginguna skuli félagið afhenda vátryggingartaka skírteini til staðfestingar á því að samningur sé kominn á og vísa til skilmála hans. Í vátryggingarskírteini skuli meðal annars koma fram hvaða varúðarreglur félagið hafi sett, en í því efni geti það vísað til varúðarreglna í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða hliðstæðum fyrirmælum eða reglum ef sanngjarnt sé að ætlast til að vátryggingartaki þekki efni þeirra. 30. Um varúðarreglur segir í e-lið 2. gr. laga nr. 30/2004 að þær séu fyrirmæli í vátryggingarsamningi um að vátryggður eða aðrir skuli gera tilteknar ráðstafanir sem fallnar eru til þess að fyrirbyggja eða takmarka tjón eða sjá til þess að þær verði gerðar. 31. Í vátryggingarskírteini bifhjólsins sem stefndi ók er slys varð kemur fram að um ábyrgðartryggingu ökutækis, slysatryggingu ökumanns og eiganda- og rúðutryggingu gildi skilmálar áfrýjanda nr. B-1. Skilmálar þeir sem lagðir voru fram í málinu eru dagsettir 1. janúar 2019 en upplýst var við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti að samhljóða skilmálar hafi gilt er vátryggingaratburður varð. Í 1. kafla skilmálanna, sem fjallar um lögboðna ábyrgðartryggingu ökutækja, kemur fram að vátryggingin sé samansett af þremur sjálfstæðum vátryggingum: í fyrsta lagi lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækja, í öðru lagi slysatryggingu ökumanns og eiganda og í þriðja lagi rúðutryggingu. Í 1. grein skilmálanna segir að vátryggðir séu „eigandi ökutækis ... svo og hver sá sem með samþykki hans notar ökutækið eða ekur því.“ Um gildissvið vátryggingarinnar er fjallað í 2. grein en þar segir að hún nái til hverrar skaðabótakröfu sem eiganda hins vátryggða er skylt að vátryggja gegn, samkvæmt gildandi íslenskum umferðarlögum, vegna tjóns er hljótist af ökutækinu. 32. Í 7. grein skilmálanna er fjallað um varúðarreglur. Í grein 7.1. er mælt fyrir um að vátryggðum beri að fara eftir þeim varúðarreglum sem félagið setji í skilmálunum eða í vátryggingarskírteini. Misbrestur á því geti leitt til skerðingar eða brottfalls bótaábyrgðar. Þá er í grein 7.2. svohljóðandi ákvæði: Ökumaður skal vera í líkamlegu ástandi til þess að geta stjórnað ökutækinu örugglega og ekki undir áhrifum áfengis, örvandi eða deyfandi lyfja. 33. Um slysatryggingu ökumanns og eiganda er fjallað í 2. kafla skilmálanna. Þar segir í 1. grein að félagið greiði bætur fyrir tjón vegna umferðarslyss sem ökumaður verði fyrir við stjórn ökutækis, sbr. 92. gr. umferðarlaga. Jafnframt segir í 7. grein kaflans að 1. kafli skilmálanna, sem fjallar um lögboðna ábyrgðartryggingu ökutækja eins og fyrr er rakið, gildi að öðru leyti um slysatryggingu ökumanna eftir því sem við eigi. Niðurstaða 34. Eins og rakið hefur verið bætir slysatrygging ökumanns líkamstjón af völdum slyss sem ökumaður verður fyrir við stjórn ökutækis enda verði slysið rakið til notkunar þess í merkingu 88. gr. þágildandi umferðarlaga, sbr. 2. mgr. 92. gr. laganna. Ágreiningslaust er að stefndi varð fyrir líkamstjóni er hann missti stjórn á bifhjóli sem tryggt var hjá áfrýjanda og að slysið megi rekja til notkunar þess. 35. Áfrýjandi hefur auk tilvísunar til 2. mgr. 88. gr. þágildandi umferðarlaga vísað til 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 til stuðnings kröfu um sýknu af kröfu stefnda sem og til skilmála slysatryggingarinnar. Við málflutning fyrir Hæstarétti féll áfrýjandi frá tilvísun sinni til 2. mgr. 88. gr. þágildandi umferðarlaga enda getur það ákvæði eftir efni sínu ekki átt við í málinu. 36. Samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 skal sem fyrr segir fara fram mat á því hvort vátryggður hafi við vátryggingaratburð sýnt af sér svo stórkostlegt gáleysi að lækka megi bætur eða fella þær niður. Hið sama eigi við ef vátryggður hafi af stórkostlegu gáleysi valdið því að vátryggingaratburður varð með því að hlíta ekki varúðarreglum. Við úrlausn á þessum atriðum skal litið til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti. 37. Stefndi kom fyrir héraðsdóm og bar um lyfja- og vímuefnaneyslu sína. Hann kvaðst engra vímuefna eða lyfja hafa neytt áður en akstur hófst umrætt sinn. Hann var því spurður um þau lyf sem hann hafði tjáð lækni við komu á bráðadeild að hann tæki en það voru lyfin Contalgin, Tramadol og Concerta. Fyrir dómi greindi hann hins vegar frá því að hann hefði aldrei neytt lyfsins Contalgins og lyfsins Concerta hefði hann ekki neytt í sex vikur. Um Tramadol sagði hann „ég held að það hafi verið það sem að, verkjalyf, gæti verið en ég man að það var ekki, ég sko Concerta, það er það ég er ávísaður af ... en ég held það hafi verið sex vikur síðan ég hafði tekið þau lyf.“ Hann kvað vinkonu sína, vitnið B, hafa gefið sér verkjalyf eftir slysið þar sem hann hefði verið mjög kvalinn. Fyrrgreint vitni bar á sömu lund, margítrekað spurð, að hún hefði eftir slysið gefið honum sterk verkjalyf en auk þess hefði hann neytt örvandi hvítra efna. 38. Í matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 17. ágúst 2017 kom fram að í blóði stefnda hefðu mælst 25 ng/ml af klónazepami og 40 ng/ml af 7-amínóklónazepami, sem er umbrotsefni þess, auk kókaíns og amfetamíns. Þar segir einnig að klónazepam sé af flokki benzodíasepína sem hafi slævandi verkun á miðtaugakerfið og dragi verulega úr aksturshæfni. Hið sama kemur fram í tilvitnuðum gögnum Lyfju hf. um klónazepam, auk þess sem þar segir að það sé róandi og kvíðastillandi. Í matsgerðinni sagði að styrkur klónazepams í blóði stefnda hefði verið eins og eftir töku lyfsins í lækningalegum skömmtum og hefði ökumaðurinn verið undir slævandi áhrifum þess. Fullvíst megi telja að hann hefði ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti af þeim sökum. 39. Áfrýjandi hefur neitað bótaskyldu á þeim grundvelli að í blóðsýni sem tekið var úr stefnda við komu á bráðadeild hefðu fundist bæði örvandi efni og róandi lyf. Á honum hvílir sönnunarbyrði þess að skilyrði séu til þess að lækka bætur eða fella þær niður á grundvelli 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004. Til að axla þá ábyrgð hefur áfrýjandi meðal annars lagt fram fyrrgreinda matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 17. ágúst 2017 sem lögregla aflaði við rannsókn á ætluðu umferðarlagabroti stefnda. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi var lögreglu heimilt að leita eftir sérfræðilegri rannsókn af þessum toga á grundvelli 1. mgr. 86. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og verða sönnunargögn sem lögregla aflar eftir þessari heimild lögð fram í einkamáli eftir reglum X. kafla laga nr. 91/1991. Að framkominni þessari matsgerð ber stefndi sönnunarbyrði fyrir sannleiksgildi þeirrar staðhæfingar sinnar að efnanna hafi verið neytt eftir að vátryggingaratburð bar að höndum, sbr. meðal annars til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 12. október 1995 í máli nr. 209/1993 sem birtur er í dómasafni réttarins árið 1995 á blaðsíðu 2249, 7. desember 2000 í máli nr. 226/2000, 15. febrúar 2001 í máli nr. 357/2000 og 15. febrúar 2001 í máli nr. 360/2000. 40. Til að leitast við að axla þá sönnunarbyrði hefur stefndi borið um það fyrir dómi hvernig lyfja- og vímuefnaneyslu sinni hafi verið háttað eftir að slysið bar að höndum og fyrir héraðsdóm voru einnig leidd vitni sem báru um það. 41. Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að með fyrrgreindri matsgerð væru ekki færðar viðhlítandi sönnur á að stefndi hefði gegn þeirri sönnunarfærslu sem fór fram fyrir dómi af hans hálfu verið undir áhrifum vímuefna eða lyfja þegar hann missti stjórn á bifhjólinu. Þá yrði ekki heldur ráðið af bréfi Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja– og eiturefnafræði 13. febrúar 2020 sem aflað hefði verið einhliða og án vitneskju stefnda að staðhæfingar hans um ástand sitt áður en hann hóf akstur bifhjólsins frá […] „sem hann leitaðist við að færa sönnur á með vætti tveggja vitna í héraði“ fengju ekki staðist. 42. Endurskoðun á mati héraðsdóms á trúverðugleika munnlegs framburðar, sem Landsréttur féllst á í hinum áfrýjaða dómi, sætir takmörkunum hér fyrir dómi í ljósi meginreglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu. Rétturinn leggur á hinn bóginn sjálfstætt mat á þau skjallegu sönnunargögn sem lögð hafa verið fram og hvernig framburður stefnda og vitna samrýmist þeim gögnum að svo miklu leyti sem það er unnt án þess að endurskoða mat á trúverðugleika framburðarins. Við það mat verður ekki fram hjá því horft að því verður hvergi fundinn staður í framburði stefnda eða vitna að stefndi hafi neytt slævandi og róandi efna eins og klónazepams eftir að slysið varð, heldur hafi honum verið gefið sterkt verkjalyf auk örvandi efna. Er því útilokað annað en að stefndi hafi verið undir áhrifum klónazepams við akstur bifhjólsins þegar vátryggingaratburð bar að höndum. 43. Meta verður í ljósi allra atvika hvort vátryggingaratburði er valdið af stórfelldu gáleysi og hvort réttur til vátryggingarbóta falli niður af þeim sökum. Af hálfu stefnda hefur því ekki verið haldið fram að slysið megi rekja til utanaðkomandi atburðar og verður því að leggja til grundvallar að það verði rakið til þess að hann gat ekki stjórnað bifhjólinu með öruggum hætti vegna áhrifa framangreinds efnis. Háttsemi hans var enn vítaverðari í ljósi þess að hann ók með farþega á bifhjólinu umrætt sinn. Þegar litið er til þess að samkvæmt fyrrgreindri matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði gat stefndi ekki stjórnað bifreið með öruggum hætti vegna áhrifa klónazepams og þess sem kemur fram í tilvitnuðum gögnum Lyfju hf. að ekki skuli aka bifreið meðan lyfið sé tekið verður að líta svo á að ástand hans hafi þegar hann ók bifhjólinu umrætt sinn verið með þeim hætti að fyrirmæli 1. mgr. 90. gr. laga nr. 30/2004 eigi við um hann, sbr. og varúðarreglu í 7. grein skilmála framangreinds vátryggingarskírteinis bifhjólsins. Samkvæmt þessu verður að líta svo á að áfrýjandi hafi með vátryggingarskilmálum undanskilið sig ábyrgð þegar þannig stendur á fyrir ökumanni, enda verður að leggja til grundvallar eins og áður er rakið, að vátryggingaratburð hafi borið að höndum vegna ástands stefnda. 44. Að öllu framangreindu virtu verður áfrýjandi sýknaður af kröfum stefnda. 45. Í ljósi atvika málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður á öllum dómstigum en ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað eru staðfest. Um gjafsóknarkostnað stefnda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Áfrýjandi, Vörður tryggingar hf., er sýkn af kröfu stefnda, A. Gjafsóknarákvæði hins áfrýjaða dóms skulu vera óröskuð. Málskostnaður á öllum dómstigum fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 800.000 krónur. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=7019c496-e95e-4286-be46-773fdaf0ec89&verdictid=8059dd58-9bb2-415d-b19f-234f3f932512
Mál nr. 30/2021
Ávana- og fíkniefni Umferðarlagabrot Dómvenja Ítrekunaráhrif Lagaskil Stjórnarskrá Mannréttindasáttmáli Evrópu Skilorð Tafir á meðferð máls
R var ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið í tvö skipti undir áhrifum ávana-og fíkniefna og fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum tiltekið magn af fíkniefnum. Við meðferð málsins í héraði játaði R sök en bar því við að umferðarlagabrotin væru fyrnd. Hæstiréttur vísaði til þess að löng dómvenja væri fyrir því að dæma mann til fangelsisvistar þegar hann gerðist í þriðja skipti eða oftar sekur um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þar sem ákæra lyti að brotum R af sama toga í fjórða og fimmta skipti miðaðist fyrningarfrestur við 2. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga og því hefðu brotin ekki verið fyrnd þegar ákæra var gefin út í málinu. Um ákvörðun viðurlaga vísaði Hæstiréttur til sakaferils R, þar á meðal dóms réttarins 22. apríl 2015, þar sem R var sakfelldur fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem mælst hefðu í þvagi hans, þó að sú háttsemi væri ekki lengur refsiverð samkvæmt nýjum umferðarlögum nr. 77/2019. Með fyrirmælum 3. gr. almennra hegningarlaga um ítrekunaráhrif eldri dóma og lögskýringargögnum væri tekið af skarið um að ítrekunaráhrif refsiákvörðunar standi óbreytt, þótt verknaður sá sem dæmt var fyrir í eldra málinu væri eftir yngri lögunum talinn refsilaus. Taldi Hæstiréttur að sú regla yrði ekki leidd af 69. gr. stjórnarskrárinnar eða framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu um skýringu á 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að óheimilt væri að líta til ítrekunaráhrifa fyrri brota við ákvörðun refsingar þótt refsinæmi slíkra brota hefði síðar verið fellt niður. Var R einnig talinn sekur um fíkniefnabrot. Með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga var refsing hans hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi. Þar sem tafir hefðu orðið á meðferð málsins, sem brutu í bága við 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 og meginreglu 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, var fangelsisrefsing R skilorðsbundin. Þá var R sviptur ökurétti ævilangt, sbr. 3. mgr. 99. gr. umferðarlaga. Loks var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um upptöku fíkniefna.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. júní 2021. Ákæruvaldið krefst þess að dómur Landsréttar verði staðfestur hvað varðar sakfellingu ákærða og upptöku efna. Þá er þess krafist að ákærði verði sviptur ökurétti ævilangt og að refsing hans verði þyngd. 3. Ákærði krefst aðallega sýknu af ákæruliðum I.1 og II.2 en að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa vegna ákæruliðar IV.5. Til vara krefst ákærði þess að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að sviptingu ökuréttinda verði markaður skemmri tími en í hinum áfrýjaða dómi. Ágreiningsefni 4. Með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 14. maí 2019 voru ákærða gefin að sök meðal annars eftirfarandi brot: I.1. Umferðarlagabrot með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 29. janúar 2017, ekið bifreiðinni ... óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 55 ng/ml af amfetamíni, 20 ng/ml af kókaíni og 0,40‰ vínandi, í þvagi mældist amfetamín og kókaín). Brotið var talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. II.2. Umferðarlagabrot með því að hafa, aðfaranótt mánudagsins 6. mars 2017, ekið bifreiðinni ... óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist 435 ng/ml af amfetamíni og í þvagi mældist amfetamín). Brotið var talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. IV.5. Fíkniefnalagabrot með því að hafa, þriðjudaginn 5. september 2017, haft í vörslum sínum, í félagi við […] kt. ..., 65,18 g af maríhúana, sem fannst við húsleit ... og lagt var hald á. Taldist brotið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002. 5. Auk framangreindra brota voru ákærða gefin að sök þjófnaður í ákærulið III.3, hylming í lið IV.4 og umferðarlagabrot í lið V.6. Við fyrirtöku málsins í héraði 23. september 2019 féll ákæruvaldið frá þessum ákæruliðum. 6. Með héraðsdómi 3. október 2019 var ákærði sakfelldur fyrir umferðarlagabrotin sem honum voru gefin að sök í ákæruliðum I.1 og II.2 og fyrir fíkniefnalagabrot samkvæmt ákærulið IV.5. Refsing hans var ákveðin 60 daga fangelsi. Auk þess var hann sviptur ökurétti ævilangt og haldlögð fíkniefni gerð upptæk. Með hinum áfrýjaða dómi 26. mars 2021 var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða og viðurlög en fullnustu fangelsisrefsingar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. 7. Ríkissaksóknari leitaði leyfis til áfrýjunar málsins til Hæstaréttar þar sem mikilvægt væri að fá úrlausn réttarins um 3. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um ítrekunaráhrif dóma og um röksemdir fyrir skilorðsbindingu refsingar ákærða. Með ákvörðun Hæstaréttar 8. júní 2021 var ákæruvaldinu veitt leyfið með vísan til þess að mikilvægt væri að fá úrlausn réttarins um ákvörðun viðurlaga í málinu. Málsatvik og meðferð máls 8. Við fyrirtöku málsins í héraði játaði ákærði umferðarlagabrot samkvæmt ákæruliðum I.1 og II.2 en taldi sakir fyrndar. Þá játaði hann fíkniefnalagabrot samkvæmt lið IV.5. Farið var með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sem fyrr segir féll ákæruvaldið frá öðrum ákæruliðum en við meðferð málsins kom ekki fram af hvaða ástæðum. 9. Við ákvörðun refsingar ákærða í héraðsdómi fyrir fyrrgreind tvö umferðarlagabrot var litið til sakaferils hans samkvæmt framlögðu sakavottorði sem þó geymdi ekki allar upplýsingar um fyrri umferðarlagabrot hans. Þar kom fram að ákærði hefði tvisvar áður hlotið refsingu vegna brota á umferðarlögum. Annars vegar fésekt og sviptingu ökuréttar í tvö ár með sektargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 24. febrúar 2012, meðal annars fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hins vegar hefði hann með dómi Hæstaréttar 22. apríl 2015 í máli nr. 569/2014 verið dæmdur til greiðslu sektar fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og verið sviptur ökurétti í tvö ár. Með vísan til dómvenju var ákærði í héraðsdómi dæmdur til fangelsisrefsingar auk ævilangrar ökuréttarsviptingar. Við ákvörðun um lengd fangelsisvistar var einnig litið til játningar ákærða á fíkniefnalagabroti samkvæmt lið IV.5 í ákæru og skyldi hann sæta fangelsi í 60 daga. 10. Við meðferð málsins í Landsrétti lagði ákæruvaldið fram nýtt sakavottorð sem tók til allra fyrri brota ákærða. Samkvæmt því hafði ákærði meðal annars einnig gengist undir viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Reykjaness 25. júní 2008. Var honum þá gerð sekt og svipting ökuréttar í fjóra mánuði fyrir að hafa tvisvar ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Fyrri refsiákvarðanir vegna brota ákærða á banni við akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna fyrir útgáfu ákæru í máli þessu voru því samanlagt þrjár. 11. Við ákvörðun refsingar í hinum áfrýjaða dómi var vísað til þess að sakfelling og refsing ákærða í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar 22. apríl 2015 hefði grundvallast á því að ávana- og fíkniefni hefðu mælst í þvagi hans. Þar sem sú háttsemi væri ekki lengur refsiverð samkvæmt nýjum umferðarlögum nr. 77/2019, sem höfðu tekið gildi eftir að héraðsdómur gekk, yrði ekki litið til þess dóms við mat á sakaferli hans og ákvörðun refsiviðurlaga. Ákvörðun héraðsdóms um lengd fangelsisrefsingar, „ökuleyfissviptingu“ og upptöku fíkniefna var staðfest. 12. Í hinum áfrýjaða dómi var loks tekið fram að ríflega tvö ár hefðu liðið frá síðustu rannsóknaraðgerðum lögreglu vegna umferðarlagabrota ákærða samkvæmt ákæruliðum I.1 og II.2 þar til ákæra var gefin út og 20 mánuðir frá því að fíkniefni í vörslu ákærða voru haldlögð. Þar sem engar skýringar hefðu komið fram á þeim óhóflega drætti yrði fangelsisrefsing ákærða skilorðsbundin. Lagaumhverfi og réttarframkvæmd 13. Þegar þau umferðarlagabrot sem ákært er fyrir voru framin 29. janúar og 6. mars 2017, svo og fyrri brot ákærða sömu tegundar, giltu umferðarlög nr. 50/1987. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. a laganna var lagt bann við því að stjórna vélknúnu ökutæki undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar taldist ökumaður vera undir áhrifum þeirra og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega ef slík efni mældust í blóði eða þvagi hans. Um skýringu á 2. mgr. 45. gr. a hafði í dómaframkvæmd verið vísað til þess að löggjafinn hefði tekið þá afstöðu að ökumaður teldist undir áhrifum ávana- og fíkniefna ef þau mældust í þvagi hans. Ekki væri því um sakarlíkindareglu að ræða heldur bann við akstri við þessar aðstæður sem ekki væri á valdi dómstóla að hreyfa við, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 19. júní 2008 í máli nr. 260/2008. Í 100. gr. laganna var mælt fyrir um að brot á lögunum vörðuðu sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. 14. Ný umferðarlög nr. 77/2019 tóku gildi 1. janúar 2020, eftir að héraðsdómur gekk í máli ákærða. Færðist ákvæði um bann við akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna þá efnislega í 50. gr. laganna. Sú breyting var þá jafnframt gerð frá eldri umferðarlögum að mæling á mögulegu magni ávana- og fíkniefna, til að leggja grundvöll að ályktun um að ökumaður teldist undir áhrifum slíkra efna og því óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega, færi aðeins fram á blóði hans. Þannig voru felld niður fyrirmæli sem áður komu fram í 2. mgr. 45. gr. a eldri laga um að mæling efna í þvagi gæti ein og sér verið viðhlítandi grundvöllur refsiábyrgðar. Í skýringum með 50. gr. í frumvarpi sem varð að lögum nr. 77/2019 var vísað til þess að þegar ávana- og fíkniefni, eða óvirkt umbrotsefni þess, mældist aðeins í þvagi ökumanns væri almennt rétt að álykta að efnis hefði verið neytt, en ekki unnt að ætla að hann væri enn undir áhrifum þess og því óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega í skilningi umferðarlaga. 15. Með nýjum umferðarlögum voru einnig gerðar þær breytingar á framsetningu refsiákvæða að þar er greint á milli þeirra brota sem aðeins varða sektum, sbr. 94. gr. laganna og brota sem varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 95. gr. Er 50. gr. um bann við akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna talin upp í síðarnefnda refsiákvæðinu og hefur því að þessu leyti ekki orðið breyting frá refsiákvæði eldri umferðarlaga sem gilti um brot þau sem ákært er fyrir. 16. Samkvæmt framangreindu varðar akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna sektum eða fangelsi allt að tveimur árum bæði samkvæmt eldri og núgildandi umferðarlögum. Með lögum nr. 54/1976 var fellt niður ákvæði þágildandi umferðarlaga nr. 40/1968 um að ölvunarakstur og nokkur fleiri brot á lögunum skyldu ekki varða vægari refsingu en varðhaldsrefsingu. Í lögskýringargögnum kom fram að markmið þessarar breytingar hefði verið að veita dómstólum svigrúm til að meta hvort þeir beittu sektum eða refsivist fyrir nefnd brot. Þannig er litið svo á að dómstólar skuli meta viðurlög sjálfstætt innan þess refsiramma sem settur er með umferðarlögum en jafnframt verði þeir að gæta ákveðins samræmis og jafnræðis við ákvarðanir sínar í þeim efnum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 14. janúar 1999 í máli nr. 425/1998. 17. Á þessum grundvelli hefur mótast dómvenja á undanförnum áratugum um túlkun og framkvæmd refsiákvæða fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 1. febrúar 2007 í máli nr. 390/2006. Í því sambandi ber að hafa í huga að þótt ekki sé að finna sérstaka ítrekunarheimild í umferðarlögum fyrir ölvunar- eða fíkniefnaakstur liggur refsimat almennt neðarlega í refsimörkum fyrir fyrsta brot sem varðar þá að jafnaði sektum. Þannig er svigrúm til að taka tillit til fyrri brota við ákvörðun refsingar vegna endurtekinna brota af sama toga, sbr. einnig 5. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, en með því eru varnaðaráhrif viðurlaga aukin. 18. Samkvæmt fyrrgreindri dómvenju hefur verið byggt á því að manni sem er sakfelldur fyrir að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna sé gert að greiða sektir í tvö fyrstu skiptin sem refsing er ákveðin þótt brot kunni að vera fleiri. Við þriðju refsiákvörðun sæti hann fangelsi í 30 daga og fyrir hvert endurtekið brot af þeim toga þaðan í frá hækki fangelsisrefsingin um 30 daga í hvert sinn. Frávik frá þessu var þó að finna í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar 22. apríl 2015 í máli nr. 569/2015 sem var þriðja refsiákvörðun vegna brota ákærða af þessu tagi. Taldi dómurinn hæfilegt að dæma hann til greiðslu sektar þar sem sakfelling ákærða fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna byggði einungis á mælingu á efnum í þvagi ákærða en ekki blóði. 19. Þegar refsing er ákveðin fyrir fleiri en eitt brot og um þriðju refsiákvörðun er að ræða stendur dómvenja einnig til þess að dæma fulla 30 daga fangelsisrefsingu þannig reiknaða fyrir fyrsta brotið en lægri refsingu að tiltölu fyrir önnur brot af sama toga með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 28. nóvember 2013 í máli nr. 434/2013 og 4. maí 2016 í máli nr. 815/2015. 20. Ólíkt því sem gildir samkvæmt framangreindu um ákvörðun refsingar á grundvelli dómvenju hafa bæði eldri og núgildandi umferðarlög mælt fyrir um ítrekunaráhrif fyrri brota við ákvörðun um sviptingu ökuréttar. Samkvæmt 3. mgr. 99. gr. gildandi umferðarlaga skal svipting ökuréttar vera um ákveðinn tíma, eigi skemur en einn mánuð, eða ævilangt ef sakir eru miklar eða brot er ítrekað öðru sinni. Er þessi regla óbreytt frá umferðarlögum nr. 50/1987 þar sem hana var að finna í 3. mgr. 101. gr. 21. Í 2. gr. almennra hegningarlaga er mælt fyrir um áhrif þess að refsilöggjöf breytist eftir að verknaður var framinn en áður en dómur gengur. Samkvæmt 1. mgr. skal þá dæma eftir nýrri lögunum bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu. Aldrei má þó dæma refsingu, nema heimild hafi verið til þess í lögum, þegar verk var framið, og ekki þyngri refsingu en orðið hefði eftir þeim lögum. Hafi refsiákvæði laga fallið úr gildi af ástæðum, sem ekki bera vitni um breytt mat löggjafans á refsinæmi verknaðar, skal dæma eftir lögum þeim, sem í gildi voru, þegar brot var framið. 22. Eftir gildistöku nýrra umferðarlaga 1. janúar 2020 hafa dómstólar við ákvörðun viðurlaga við umferðarlagabrotum sem framin voru fyrir þann tíma vísað til þess að sú háttsemi að mælast með ávana- og fíkniefni eingöngu í þvagi varði ekki lengur refsingu. Þar sem sú háttsemi er ekki lengur refsinæm og breytingin ber vitni um breytt mat löggjafans á refsinæmi verknaðar, svo sem fram kemur í lögskýringargögnum sem lýst er að framan, ber við þessar aðstæður að sýkna af ákæru um slíkt brot, sbr. fyrrgreinda 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga. 23. Í 3. gr. almennra hegningarlaga er að finna eftirfarandi ákvæði sem tekur til ítrekunaráhrifa refsidóma þegar refsilöggjöf hefur breyst: Þegar refsilöggjöfin lætur ítrekun brots varða aukinni refsingu eða öðrum viðurlögum, skal refsiákvörðun samkvæmt eldri lögum hafa ítrekunaráhrif eftir orðan sinni, eins og hún hefði verið gerð eftir nýrri lögunum. Í athugasemdum um efni greinarinnar í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 19/1940 var meðal annars tekið fram að um ítrekunaráhrif yrði að leggja eldri dóm eða refsiákvörðun til grundvallar eftir orðan sinni. Þannig hafi til dæmis dómur fyrir þjófnað eftir eldri lögum ítrekunaráhrif á nýjan þjófnaðardóm þótt verknaður sá sem dæmt var fyrir í eldra málinu og þá taldist til þjófnaðar væri eftir yngri lögunum talinn annað brot eða ef til vill refsilaus. Við skýringu dómstóla á lagafyrirmælum um ítrekunaráhrif brota hefur meðal annars verið litið til þess að skilyrði og áhrif ítrekunar samkvæmt lagaákvæði þurfi að vera skýr og efni þess bæði aðgengilegt og fyrirsjáanlegt þannig að maður eigi að geta séð fyrir hverjar afleiðingar brot hafa að lögum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 28. apríl 2008 í máli nr. 179/2008. Niðurstaða Krafa um sýknu vegna fyrningar 24. Ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Á hinn bóginn er því haldið fram af hans hálfu að umferðarlagabrotin séu fyrnd. Hann vísar til þess að bæði í gildistíð eldri og núgildandi umferðarlaga varði vímuefna-, ölvunar- eða lyfjaakstur sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Hefð sé fyrir því að fíkniefnaakstur varði aðeins sektum og í umferðarlögum sé hvergi getið um ítrekunaráhrif að því er varðar refsingu. Ekki geti heldur staðist að tvenns konar mislangir fyrningarfrestir gildi um sama brot á umferðarlögum. Þar sem meira en tvö ár hafi liðið frá því að brot samkvæmt þessum ákæruliðum voru framin þar til ákæra var gefin út hafi brotin verið fyrnd með vísan til 1. töluliðar 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. 25. Samkvæmt umræddu ákvæði almennra hegningarlaga fyrnist sök á tveimur árum þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en eins árs fangelsi eða refsing sú sem unnið er til fer ekki fram úr sektum. Brot á umferðarlögum sem ákærði er borinn sökum um í ákæru varða sektum eða refsingu allt að tveimur árum. Svo sem rakið er að framan byggist það á langri dómvenju að dæma mann til fangelsisvistar þegar hann gerist í þriðja skipti eða oftar sekur um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Því er ljóst að brot ákærða samkvæmt liðum I.1 og II.2 í ákæru varða þyngri refsingu en sektum enda í fjórða skipti sem honum eru ákveðin viðurlög fyrir brot af sama toga. Um mörk fyrningarfrests í þessu tilliti verður að líta til þess hvernig refsing er ákveðin í tilteknu máli (in concreto) en samkvæmt skýrum fyrirmælum 1. málsliðar 1. mgr. 81. gr. laganna gildir tveggja ára fyrningarfrestur aðeins ef refsing sú sem til er unnið fer ekki fram úr sektum. 26. Fyrning brota ákærða samkvæmt ákæruliðum I.1 og II.2 miðast því við 2. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga sem mælir fyrir um að sök fyrnist á fimm árum þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en fjögurra ára fangelsi. Voru brot ákærða samkvæmt þessu ekki fyrnd þegar ákæra var gefin út í málinu. Ákvörðun viðurlaga 27. Svo sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi er ákærða nú í fjórða skipti ákveðin refsing fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og hefur ákærði gerst sekur um tvö slík brot. Í dóminum var tekið fram að við mat á sakaferli ákærða og ákvörðun viðurlaga skyldi ekki, þrátt fyrir ákvæði 3. gr. almennra hegningarlaga um ítrekunaráhrif refsidóma, litið til dóms Hæstaréttar 22. apríl 2015 þar sem sú háttsemi ákærða sem þar hefði verið talin refsinæm á grundvelli mælingar fíkniefna í þvagi væri það ekki lengur. Því til stuðnings var vísað til 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 eins og henni var breytt með 7. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 svo og til 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, eins og Mannréttindadómstóll Evrópu hafi skýrt regluna um bann við afturvirkni refsilaga á síðustu árum. 28. Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar mega viðurlög við refsiverðri háttsemi ekki verða þyngri en heimiluð voru í lögum þá er háttsemin átti sér stað. Ákvæði þetta er efnislega hliðstætt 2. málslið 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmálans. Í skýringum um 69. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 er meðal annars vísað til þessa ákvæðis sáttmálans sem fyrirmyndar. Í hvorugu þessara ákvæða er þó mælt skýrt fyrir um að ákærður maður skuli njóta vægari refsingar hafi löggjafinn breytt löggjöf á þann veg eftir að brot var framið. Engu að síður hefur sú meginregla lengi verið fest í lög hér á landi að beita beri nýjum refsilögum hafi þau að geyma vægari refsingu en eldri lög, svo sem leiðir af 2. gr. almennra hegningarlaga eins og fyrr var lýst. Í fyrrgreindum skýringum um 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar er tekið fram að ákvæðinu sé ekki ætlað að breyta í neinu gildandi túlkun á 1. og 2. gr. almennra hegningarlaga. 29. Eins og lýst er í hinum áfrýjaða dómi hefur Mannréttindadómstóll Evrópu á síðari áratugum túlkað 7. gr. sáttmálans með rýmri hætti en leiðir af hljóðan hennar, og veitt henni sama efnislega inntak og fram kemur í 2. gr. almennra hegningarlaga, um að sakaður maður eigi að njóta þess að háttsemi sem talin var refsinæm þegar brot var framið sé það ekki lengur vegna lagabreytinga. 30. Í máli því sem hér er til úrlausnar reynir hins vegar ekki á að refsilöggjöf hafi breyst eftir að brot ákærða á umferðarlögum voru framin og beitingu 2. gr. almennra hegningarlaga. Þannig stendur óbreytt í gildandi umferðarlögum refsinæmi þeirrar háttsemi ákærða að aka bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem mælast í blóði. Lýtur álitaefnið aðeins að því hvort ítrekunaráhrif fyrri refsidóms á hendur ákærða vegna brots af sama toga sem byggðist einvörðungu á mælingu ávana- og fíkniefna í þvagi eigi áfram að hafa þýðingu við ákvörðun viðurlaga við síðari brotum þegar refsinæmi slíkrar háttsemi féll niður með gildistöku laga nr. 77/2019. Í því sambandi ber einnig að hafa í huga að með nýjum umferðarlögum var eingöngu um að ræða breytingu á þeim viðmiðum sem löggjafinn taldi áður nægilegan grundvöll til að álykta að ökumaður væri óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega. Voru þau viðmið í engu háð því að staðreynt væri hvort ökumaður væri í reynd undir áhrifum ávana- og fíkniefna, sbr. einnig til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 260/2008. 31. Þótt umferðarlög mæli ekki fyrir um lögbundin ítrekunaráhrif að því er refsingu varðar byggir dómvenja um að litið sé til brotaferils manns við ákvörðun refsingar á hliðstæðum sjónarmiðum og ítrekunaráhrif þar sem þeirra er getið í lögum. Með fyrirmælum 3. gr. almennra hegningarlaga um ítrekunaráhrif eldri dóma og lögskýringargögnum með því ákvæði er tekið af skarið um að ítrekunaráhrif refsiákvörðunar standi óbreytt þótt verknaður sá sem dæmt var fyrir í eldra málinu sé eftir yngri lögunum talinn refsilaus. Samkvæmt þessu mælir löggjafinn fyrir um að ekki skuli afmá bindandi réttaráhrif dóma sem gengið hafa um lögbrot manns í gildistíð eldri laga, haldi hann áfram brotaferli sams konar brota þótt lög mæli síðar fyrir um að refsinæmi þeirra falli niður eða breytist. Er enda fyrirsjáanlegt þegar fyrra brotið er framið og það dæmt á grundvelli gildandi laga að það hafi áhrif á ákvörðun viðurlaga við ítrekuðum brotum af sama toga sem framin eru síðar. Þá er ljóst að afstaða stjórnarskrárgjafans um að 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar væri ekki ætlað að breyta gildandi túlkun á 1. og 2. gr. almennra hegningarlaga breytti engu um gildi 3. gr. laganna. 32. Samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu felst í kjarna verndar 7. gr. mannréttindasáttmálans að engan skuli sakfella fyrir háttsemi sem ekki var refsiverð samkvæmt lögum á verknaðarstundu, ekki megi þyngja viðurlög frá því sem þau voru við það tímamark svo og að ákærður maður skuli njóta þess að refsiviðurlög hafi verið milduð með lögum sem taka gildi eftir að brot átti sér stað. Jafnframt er gerð rík krafa til skýrleika refsiheimilda samkvæmt orðum refsilaga eða dómaframkvæmd þannig að fyrirsjáanlegt sé að tilteknar athafnir manns geti leitt til refsiábyrgðar hans. Hins vegar hefur dómstóllinn tekið fram, í málum þar sem reynt hefur á álitaefni um ítrekunaráhrif refsidóma, að það sé fyrst og fremst á færi aðildarríkja en ekki dómstólsins að móta stefnu og setja lagafyrirmæli um hvaða áhrif brotaferill manns hefur á ákvörðun um refsiviðurlög. Má til hliðsjónar um það vísa til dóms yfirdeildar mannréttindadómstólsins 29. mars 2006 í máli nr. 67335/01, Achour gegn Frakklandi (44. og 51. liður), með þeirri niðurstöðu að 1. mgr. 7. gr. sáttmálans standi því ekki í vegi að löggjafinn getið ljáð ítrekun brota aukið vægi eftir að brot er framið, sbr. einnig framangreindan dóm Hæstaréttar 28. apríl 2008 í máli nr. 179/2008. 33. Sú regla verður því ekki leidd af framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu um skýringu á 7. gr. mannréttindasáttmálans að óheimilt sé að líta til ítrekunaráhrifa fyrri brota við ákvörðun refsingar þótt refsinæmi slíkra brota hafi síðar verið fellt niður. Svo að til greina komi að slá því föstu að fyrirmæli 3. gr. almennra hegningarlaga fái ekki staðist vegna ákvæða sáttmálans verður að minnsta kosti að liggja skýrt fyrir að íslensk lög fari í bága við þau eða eftir atvikum í ljósi dóma mannréttindadómstólsins. Þá er það verkefni löggjafans að taka afstöðu til hvort ákjósanlegt er að breyta eða fella niður fyrirmæli 3. gr. almennra hegningarlaga um ítrekunaráhrif eða móta nýja stefnu í þeim efnum, sbr. til hliðsjónar að þessu leyti dóm Hæstaréttar 22. september 2010 í máli nr. 371/2010. 34. Að framangreindu virtu ber við ákvörðun refsingar ákærða fyrir brot þau sem getið er í ákæruliðum I.1 og II.2 samkvæmt gildandi dómvenju einnig að líta til brots hans sem dæmt var í dómi Hæstaréttar 22. apríl 2015. Í máli þessu er ákærða í fjórða skipti gerð refsing fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og um tvö brot er að ræða. Þá hefur ákærði jafnframt gerst sekur um fíkniefnalagabrot samkvæmt ákærulið IV.5. Að því athuguðu og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga er refsing hans ákveðin þriggja mánaða fangelsi. Þá ber að svipta ákærða ökurétti ævilangt, sbr. 3. mgr. 99. gr. umferðarlaga enda er um ítrekun í þriðja sinn að ræða. Loks verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um upptöku fíkniefna. Tafir á meðferð málsins 35. Langur tími er liðinn frá því að ákærði framdi brot þau sem mál þetta lýtur að en hann játaði þau öll fyrir dómi. Umferðarlagabrotin voru framin 29. janúar og 6. mars 2017. Rannsókn brota af þessu tagi er að jafnaði einföld og af gögnum málsins er ljóst að síðustu rannsóknaraðgerðir vegna þeirra voru öflun matsgerða um mælingar á efnum í blóð- og þvagsýnum úr ákærða 17. febrúar og 17. mars 2017. Þá fjallaði ákæruliður um fíkniefnalagabrot um atvik sem urðu 5. september 2017. Rannsókn þess brots sem fólst í vörslu lítils magns fíkniefna var einnig mjög einföld í sniðum. Ákæra í málinu var ekki gefin út fyrr en 14. maí 2019 en þá voru liðin ríflega tvö ár frá því að rannsókn umferðarlagabrotanna lauk og 20 mánuðir frá umræddu fíkniefnabroti. Þótt ákæran hafi upprunalega lotið að fleiri ætluðum brotum ákærða sem samkvæmt ákærunni voru framin fram til 13. september 2018 verður ekki fram hjá því litið að fallið var án skýringa frá þessum ákæruliðum við fyrirtöku málsins og því ekki um haldbæra ástæðu að ræða fyrir töfum á meðferð þess. Ekki verður heldur séð að ákærði eigi sök á þeim. 36. Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar 14. október 2019 samkvæmt yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en dómur Landsréttar gekk rúmlega 17 mánuðum síðar. Eftir að ákæruvaldið skilaði greinargerð sinni í málinu til Landsréttar 20. maí 2020 og þar til dómur gekk 26. mars 2021 verður ráðið af málsgögnum að málið hafi legið óhreyft hjá dómstólnum í meira en níu mánuði. Í ljósi fyrri tafa á meðferð málsins hefði verið enn ríkari ástæða en ella til að hraða meðferð þess fyrir Landsrétti. 37. Þessar margþættu tafir á málsmeðferð brjóta í bága við 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 og meginreglu 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Í því ljósi er rétt að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að fangelsisrefsing ákærða verði skilorðsbundin. 38. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest. Rétt er að áfrýjunarkostnaður fyrir Hæstarétti verði felldur á ríkissjóð með vísan til 2. mgr. 238. gr. laga nr. 88/2008. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda eru ákveðin, að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Ákærði, Ragnar Ólafsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt. Staðfest er niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað og upptöku fíkniefna. Allur áfrýjunarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 620.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=2c141198-c2a1-4112-8fd4-9fe2de1079bd&verdictid=4d45f94b-a0f0-4695-b69b-3155537f2b32
Mál nr. 44/2021
Kærumál Kyrrsetning Aðild Gjafsókn
Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að synja um framgang kyrrsetningar hjá H ehf. Varnaraðilar töldu sig eiga skaðabótakröfur á hendur H ehf. vegna tjóns sem þau urðu fyrir þegar fjölbýlishúsið að Bræðraborgarstíg 1 í Reykjavík brann og kröfðust kyrrsetningar hjá félaginu til tryggingar þeim. Hæstiréttur féllst á að skilyrðum 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. væri fullnægt. Vísaði rétturinn til þess að meginstarfsemi H ehf. hefði verið rekstur og útleiga fasteigna en félagið hefði á nokkurra mánaða tímabili látið frá sér að verulegu leyti þær fasteignir sem mynduðu tekjur í rekstri þess. Var því talið sennilegt að draga myndi mjög úr líkindum þess að fullnusta krafna varnaraðila fengist eða að hún yrði verulega örðugri ef kyrrsetning færi ekki fram. Í dómi Hæstaréttar kom jafnframt fram að sýslumanni hefði borið að fara ekki í einu lagi með kyrrsetningarbeiðni varnaraðila heldur hefði hann að réttu lagi átt að gera sérstaka gerð fyrir kröfu hvers þeirra um sig. Hinn kærði úrskurður var því staðfestur og lagt fyrir sýslumann að gera kyrrsetningu hjá H ehf. fyrir kröfu hvers varnaraðila.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. september 2021 sem barst réttinum degi síðar. Kærumálsgögn bárust réttinum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 3. september 2021 þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 14. janúar sama ár um að synja um framgang kyrrsetningar hjá sóknaraðila. 3. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumanns verði staðfest og að varnaraðilum verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað í Landsrétti og Hæstarétti. 4. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefjast þeir hver fyrir sig kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi varnaraðila. 5. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt munnlega 19. nóvember 2021. Ágreiningsefni 6. Hinn 25. júní 2020 brann fjölbýlishúsið að Bræðraborgarstíg 1 í Reykjavík. Sóknaraðili var eigandi fasteignarinnar en varnaraðilar voru annars vegar íbúar hússins sem voru í því þegar það brann og hins vegar nánustu aðstandendur þeirra þriggja íbúa þess sem létust í brunanum. Varnaraðilar telja sig eiga skaðabótakröfur á hendur sóknaraðila vegna tjóns sem þau urðu fyrir í brunanum. Þennan málatilbúnað reisa þau á því að sóknaraðili beri ábyrgð á að eignin hafi ekki fullnægt lögbundnum kröfum um brunavarnir. Með beiðni 18. desember 2020 kröfðust varnaraðilar kyrrsetningar hjá sóknaraðila til tryggingar kröfum sínum en sýslumaður synjaði að gerðin færi fram með ákvörðun 14. janúar 2021. 7. Varnaraðilar kröfðust með bréfi 20. janúar 2021 úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun sýslumanns og með úrskurði 11. júní sama ár felldi héraðsdómur synjun hans úr gildi. Með hinum kærða úrskurði Landsréttar 3. september sama ár var sú niðurstaða staðfest. 8. Með ákvörðun Hæstaréttar 20. október 2021 var sóknaraðila veitt heimild til að kæra úrskurðinn á grundvelli 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 5. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í ákvörðuninni kom fram að dómur í málinu gæti meðal annars haft fordæmisgildi um mat á skilyrðum fyrir kyrrsetningu svo og framkvæmd hennar þegar fleiri en einn gerðarbeiðandi stæðu sameiginlega að kyrrsetningarbeiðni. Málsatvik 9. Orsakir brunans á fjölbýlishúsinu að Bræðraborgarstíg 1 eru raktar til íkveikju. Varnaraðilarnir L, M, N, O, P og Q voru í húsinu þegar það brann en aðrir varnaraðilar eru maki, foreldrar og systkini þriggja íbúa hússins sem létust í brunanum. 10. Húsið var þriggja hæða forskalað timburhús og mun hafa verið byggt fyrir liðlega einni öld. Í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar 18. desember 2020 um brunann kom fram að húsið hefði upphaflega ekki verið vel úr garði gert með tilliti til eldvarna. Einnig hefði notkun þess með útleigu herbergja verið allt önnur en gert var ráð fyrir á teikningum og kallað á auknar brunavarnir og eldvarnareftirlit. Þá sagði að brunavarnir, sem teikningar gerðu ráð fyrir, hefðu ekki verið fyrir hendi og skipan herbergja önnur. Brunahólfun hefði hvorki verið að stigahúsi né björgunarop í samræmi við teikningar heldur aðeins lítil opnanleg fög á gluggum. Talið var að með slíkum opum hefði hugsanlega mátt bjarga mannslífum í brunanum. Enn fremur kom fram að inngangi á 2. hæð hússins hefði verið lokað þannig að eingöngu ein flóttaleið hefði verið af hæðinni í stað tveggja áður. 11. Með ákæru 17. september 2020 var íbúa í húsinu gefið að sök að hafa verið valdur að brunanum, manndrápi og tilraun til manndráps, sbr. 164., 211. svo og 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Héraðsdómur sakfelldi ákærða fyrir brotin með dómi 3. júní 2021 en sýknaði hann af refsikröfu vegna ósakhæfis, sbr. 15. gr. sömu laga. Aftur á móti var ákærða gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. laganna. Þá voru einkaréttarkröfur varnaraðila á hendur ákærða teknar að hluta til greina. Málinu hefur að ósk ákærða verið áfrýjað til Landsréttar að fengnu áfrýjunarleyfi og bíður þar dóms. 12. Varnaraðilar kröfðust þess með beiðni 18. desember 2020 að fram færi kyrrsetning fyrir skaðabótakröfum þeirra á hendur sóknaraðila vegna brunans. Í beiðninni var krafa varnaraðila samtals talin nema 79.635.698 krónum en þar var krafa hvers þeirra jafnframt sett fram sérstaklega og sundurliðuð eftir kröfuliðum. Allir varnaraðilar töldu sig eiga miskabótakröfu á hendur sóknaraðila samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þá í tilviki íbúa í húsinu sem komust lífs af á grunni a- og b-liða 1. mgr. en í tilviki aðstandenda eftir 2. mgr. ákvæðisins. Einnig taldi varnaraðilinn I sig eiga kröfu vegna útfararkostnaðar, sbr. 1. mgr. 12. gr. laganna, og varnaraðilinn K kröfu vegna missis framfæranda, sbr. 13. gr. laganna, en eiginkona hans lést í brunanum. Þá byggðu sá varnaraðili og varnaraðilinn O á því að þeir ættu rétt á bótum vegna munatjóns. Loks töldu síðastgreindur varnaraðili og varnaraðilinn M sig eiga rétt á bótum vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna. 13. Í kyrrsetningarbeiðni varnaraðila var því haldið fram að sóknaraðili hefði með saknæmri og ólögmætri háttsemi valdið varnaraðilum fjártjóni og miska þar sem brunavarnir í húsinu hefðu ekki fullnægt áskilnaði 23. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir, auk þess sem framkvæmdir sóknaraðila á eigninni í óleyfi hefðu falið í sér brot gegn 9. og 15. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og farið í bága við nánar tilgreind ákvæði stjórnvaldsfyrirmæla. Þá var því haldið fram að ástand húsnæðisins hefði verið í ósamræmi við 14. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 þar sem kveðið er á um að leiguhúsnæði skuli vera í fullnægjandi ástandi miðað við fyrirhugaða notkun þess. Beiðnin var reist á því að eignastaða sóknaraðila færi versnandi og sökum þess væri varnaraðilum nauðsynlegt að tryggja hagsmuni sína með því að fá kyrrsetningu í eignum hans. Jafnframt var því haldið fram að hætta væri á að sóknaraðili ráðstafaði eignum sínum og því væri sennilegt að draga myndi mjög úr líkum þess að fullnusta krafnanna tækist eða yrði í öllu falli verulega örðugri ef kyrrsetning færi ekki fram, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990. 14. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu tók beiðnina fyrir 14. janúar 2021 að viðstöddum lögmönnum aðila. Hann hafnaði mótmælum sóknaraðila gegn samlagsaðild varnaraðila og vísaði til þess að kröfur þeirra síðarnefndu væru sundurliðaðar í kyrrsetningarbeiðninni. Hins vegar taldi sýslumaður að varnaraðilar hefðu ekki leitt í ljós að draga myndi úr líkindum þess að fullnusta krafnanna tækist eða yrði erfiðari ef kyrrsetning færi ekki fram. Féllst sýslumaður á andmæli sóknaraðila og synjaði framgangi gerðarinnar þar sem skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 væru ekki fyrir hendi. Við fyrirtökuna lýsti lögmaður varnaraðila því yfir að ákvörðun sýslumanns yrði borin undir héraðsdóm og var það gert með fyrrgreindu bréfi 20. janúar 2021. 15. Eftir að hinn kærði úrskurður Landsréttar gekk kröfðust varnaraðilar þess aftur með beiðni 28. október 2021 að fram færi kyrrsetning fyrir kröfum þeirra hjá sóknaraðila. Sýslumaður tók beiðnina fyrir 4. nóvember sama ár eftir að hafa fallist á ósk varnaraðila um að sóknaraðili yrði ekki boðaður til gerðarinnar á grunni heimildar í 4. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990, sbr. 2. tölulið 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989. Samkvæmt endurriti úr gerðarbók sýslumanns færði hann til bókar að kröfur varnaraðila næmu samtals 175.068.507 krónum auk þess sem hann tiltók sérstaklega kröfu hvers þeirra fyrir sig. Við gerðina synjaði sýslumaður kyrrsetningu eigna sóknaraðila til tryggingar þeim kröfum sem fyrri kyrrsetningarbeiðni tók til á þeim grundvelli að það sakarefni væri til úrlausnar fyrir dómi. Aftur á móti féllst sýslumaður á að kyrrsetning næði fram að ganga fyrir viðbótarkröfum vegna þjáningarbóta, varanlegs miska og varanlegrar örorku auk vaxta og útlagðs kostnaðar. Samkvæmt bókun sýslumanns nam fjárhæð þeirra krafna varnaraðila samtals 98.539.014 krónum og að ábendingu varnaraðila kyrrsetti hann í einu lagi fyrir kröfum þeirra annars vegar greiðslur að fjárhæð 35.000.000 króna samkvæmt kaupsamningi 14. október 2021 um fasteignina Dalveg 26 í Kópavogi og hins vegar fasteignina Kársnesbraut 96A í sama sveitarfélagi. 16. Varnaraðilar gerðu einnig kröfu um að fram færi kyrrsetning fyrir skaðabótakröfum þeirra hjá R en hann er fyrirsvarsmaður sóknaraðila og mun eiga allt hlutafé í félaginu. Sýslumaður tók beiðnina fyrir 10. nóvember 2021 eftir að hafa fallist á að gerðarþoli yrði ekki boðaður til gerðarinnar af sömu ástæðu og þegar kyrrsetningin fór fram hjá sóknaraðila. Að ábendingu varnaraðila kyrrsetti sýslumaður í einu lagi fyrir kröfum þeirra, samtals að fjárhæð 138.361.430 krónur, hlutafé gerðarþola í sóknaraðila og S ehf. Fjárhagur sóknaraðila 17. Í málinu liggja fyrir ársreikningar sóknaraðila vegna áranna 2019 og 2020 en þar eru upplýsingar um rekstur hans og efnahag á árunum 2018 til 2020. Tekjur ársins 2020 voru 114.712.007 krónur en rekstrargjöld 113.951.205 krónur. Þar af nam launakostnaður 36.039.787 krónum en sá kostnaður hafði næstu tvö ár á undan verið rétt liðlega 2.000.000 króna. Að teknu tilliti til fjármunatekna og gjalda og tekjuskatts var tap ársins 2020 samtals 84.520.569 krónur. Árið 2019 nam tapið 30.365.102 krónum en árið 2018 var það 19.659.434 krónur. Jafnframt kemur fram í ársreikningi 2020 að ójafnað tap sóknaraðila hafi numið 325.631.908 krónum, en þar af var 144.200.961 króna vegna þess samruna sem vikið er að í 20. lið dómsins. Við mat á rekstrarafkomunni er þess að gæta að endurmat á varanlegum rekstrarfjármunum sóknaraðila var fært á sérstakan endurmatsreikning eigin fjár í samræmi við 31. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga sem í árslok 2020 var 864.164.755 krónur. 18. Samkvæmt ársreikningi sóknaraðila 2020, sem fyrst var lagður fram við meðferð málsins hér fyrir réttinum, námu eignir félagsins í árslok 1.731.163.676 krónum en þá var bókfært verð fasteigna 1.637.771.929 krónur. Skuldir í árslok námu samtals 1.192.130.830 krónum en þær skiptust í langtímaskuldir að fjárhæð 1.110.128.098 krónur og skammtímaskuldir að fjárhæð 82.002.732 krónur. Af skammtímaskuldum námu næsta árs afborganir langtímalána 36.866.373 krónum. Þá kemur fram að í árslok 2020 hafi eigið fé numið 539.032.847 krónum. Enn fremur kemur fram í umræddum ársreikningum að handbært fé frá rekstri hafi verið 467.888 krónur árið 2020, 639.520 krónur árið 2019 og 1.147.174 krónur árið 2018. 19. Með samþykktu kauptilboði 19. nóvember 2020 seldi sóknaraðili í einu lagi fasteignir sínar að Bræðraborgarstíg 1 og 3. Í kjölfarið var gerður kaupsamningur 12. janúar 2021 á grundvelli tilboðsins. Í samningnum kom fram að húsið að Bræðraborgarstíg 1 væri mikið skemmt vegna brunans og fylgdu með í kaupunum brunabætur frá vátryggjanda þess. Kaupverðið nam 270.000.000 króna og átti að greiða það með rétt tæpum 80.000.000 króna við undirritun samningsins en að öðru leyti með yfirtöku áhvílandi veðskulda. 20. Samkvæmt fyrrgreindum ársreikningi 2019 sameinaðist H2o ehf. sóknaraðila 30. desember það ár en það félag mun hafa verið eigandi allra hlutabréfa í sóknaraðila. Meðal eigna þess félags var fasteignin Hjallabrekka 1 í Kópavogi en hún var seld með kaupsamningi 1. júlí 2020 og afsalað 10. september sama ár. Kaupverðið nam 235.000.000 króna en þar af voru 38.000.000 króna greiddar með íbúð að Rauðarárstíg 42 í Reykjavík. Þá eign seldi sóknaraðili síðan fyrir 35.900.000 krónur með kaupsamningi 25. febrúar 2021 en afsal var gefið út 27. apríl sama ár. 21. Með kaupsamningi 8. september 2021, eftir að hinn kærði úrskurður gekk, seldi sóknaraðili fasteignina Dalveg 24 í Kópavogi. Kaupverðið var 585.000.000 króna en þar af voru rétt tæpar 300.000.000 króna greiddar með yfirtöku áhvílandi veðskulda. Einnig var hluti kaupverðsins greiddur með þremur eignarhlutum í fasteigninni að Eiðistorgi 13 til 15 á Seltjarnarnesi og var andvirði þeirra eigna tilgreint 120.000.000 króna. Jafnframt seldi sóknaraðili fasteignina Dalveg 26 með fyrrgreindum kaupsamningi 14. október 2021 og var kaupverðið 480.000.000 króna. 22. Í eigu sóknaraðila er nú áðurgreind fasteign að Kársnesbraut 96A og þær eignir að Eiðistorgi 13 til 15 sem hann fékk sem hluta af endurgjaldi í fyrrgreindum fasteignaviðskiptum. Samkvæmt veðbandayfirliti 9. nóvember 2021 hvíla engin veðbönd á þessum eignum ef frá er talin áðurgreind kyrrsetning 4. sama mánaðar sem varnaraðilar fengu gerða í fyrstnefndu eigninni. Sóknaraðili hefur aflað verðmats fasteignasala 23. febrúar 2021 þar sem verðmæti Kársnesbrautar 96A er sagt vera 278.000.000 króna. Einnig hefur hann lagt fram verðmat fasteignasala 9. nóvember sama ár um eignarhlutana að Eiðistorgi 13 til 15 þar sem verðmæti þeirra er talið nema 105.000.000 króna. Þá hefur sóknaraðili aflað yfirlýsingar endurskoðanda 8. sama mánaðar en þar segir að öll langtímalán hans hafi verið gerð upp en skammtímaskuldir nemi 11.536.526 krónum. Einnig eigi félagið á reikningi 123.383.143 krónur auk þess sem 25.997.600 krónur liggi kyrrsettar hjá sýslumanni. Að teknu tilliti til verðmætis fasteigna sóknaraðila samkvæmt fyrrgreindum verðmötum nema eignir hans að teknu tilliti til skulda ríflega 520.000.000 króna. Niðurstaða Aðild að kyrrsetningargerð 23. Um kyrrsetningu hjá skuldara fer ekki aðeins eftir reglum laga nr. 31/1990 heldur gilda einnig tiltekin ákvæði laga nr. 90/1989 um ýmsar upphafsaðgerðir og framkvæmd gerðar. Samkvæmt þessu eiga að verulegu leyti sömu reglur við um kyrrsetningu og aðför. 24. Hvorki í lögum nr. 31/1990 né lögum nr. 90/1989 eru almennar reglur um aðild að kyrrsetningargerð eða aðfarargerð ef frá er talið að fram kemur í 2., 3. og 28. gr. síðargreindu laganna hverjir geti verið aðilar að aðfarargerð. Um þetta gilda hins vegar grunnreglur einkamálaréttarfars en þær koma fram í III. kafla laga nr. 91/1991 og verður ýmsum reglum þess kafla beitt á vettvangi umræddra fullnustugerða þótt ekki sé vísað til þeirra í nefndum lögum. Um aðildarhæfi við þessar fullnustugerðir fer því eftir þeirri grunnreglu sem kemur fram í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 og það sama á við um málflutningshæfi og fyrirsvar, sbr. 17. gr. laganna. Auk þess verður reglum 22. og 23. gr. laganna beitt um aðilaskipti við kyrrsetningu og aðfarargerð eftir því sem við gæti átt. Jafnframt er óhjákvæmilegt, þegar tveir eða fleiri eiga óskipt réttindi eða bera óskipta skyldu, með þeim hætti að samaðild væri nauðsynleg eftir 18. gr. laganna í dómsmáli um réttindin eða skylduna, að sami háttur verði hafður á við þessar fullnustugerðir. Aftur á móti gilda ekki reglur 19. gr. laganna um samlagsaðild við umræddar gerðir og helgast það af því að þær fara eftir eðli sínu fram í þeim tilgangi að tilteknum réttindum milli tveggja aðila, gerðarbeiðanda og gerðarþola, verði fullnægt. Af því leiðir að fleiri aðilar geta ekki í einu lagi við þessar gerðir leitað sameiginlega fullnustu til að sækja hver sín réttindi eða beina gerðinni sameiginlega að fleirum þegar skipt skylda hvílir á þeim og gildir þá einu þótt um sé að ræða sömu skyldu eins og á við um skyldu tveggja eða fleiri til að greiða sömu peningakröfu. 25. Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið bar sýslumanni að fara ekki í einu lagi með kyrrsetningarbeiðni varnaraðila á hendur sóknaraðila, eins og hann gerði við fyrirtöku hennar 14. janúar 2021, heldur átti hann að réttu lagi að gera sérstaka gerð fyrir kröfu hvers varnaraðila um sig. Er þess þá að gæta að fullnægjandi upplýsingar komu fram í beiðninni um kröfu hvers varnaraðila, eins og áður er getið í 12. lið dómsins. Jafnframt bar þá að innheimta gjöld af hverjum varnaraðila fyrir sig í samræmi við lög nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs. Að þessu gættu gat sá annmarki að varnaraðilar settu fram kröfur sínar í sameiginlegri beiðni ekki valdið því að henni yrði þegar af þeirri ástæðu synjað enda var sýslumanni kleift að bæta úr á þann veg sem hér hefur verið rakið. Það athugast að kyrrsetningar hjá sóknaraðila 4. nóvember sama ár og fyrirsvarsmanni hans, R, 10. sama mánaðar fóru ekki fram í samræmi við þetta. Skilyrði kyrrsetningar 26. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 má kyrrsetja eignir skuldara til tryggingar fullnustu lögvarinnar kröfu um greiðslu peninga ef henni verður ekki þegar fullnægt með aðför og sennilegt má telja, ef kyrrsetning fer ekki fram, að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta hennar takist eða fullnusta verði verulega örðugri. 27. Kröfur varnaraðila um skaðabætur vegna tjóns sem rakið verður til bruna húseignarinnar að Bræðraborgastíg 1 eru lögvarðar kröfur um peninga og þeim verður ekki fullnægt þegar með aðför. Varnaraðilar hafa jafnframt leitt nægar líkur að tilvist krafna sinna enda verður ekki ráðið af gögnum málsins að þeir eigi ekki þau réttindi sem þeir hyggjast tryggja, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990. Kemur þá til úrlausnar hvort nauðsynlegt sé að kyrrsetning fari fram vegna fullnustu krafnanna. 28. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði kemur fram í lögskýringargögnum um 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 að kyrrsetning sé ekki útilokuð þótt krafa sé að einhverju leyti tryggð með veði eða ábyrgð ef þeim skilyrðum er annars fullnægt sem ákvæðið setur fyrir kyrrsetningu. Að þessu gættu verður fallist á það með Landsrétti að hugsanleg ábyrgð ríkissjóðs gagnvart varnaraðilum á grundvelli laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota geti ekki hindrað að kyrrsetning fari fram hjá sóknaraðila. Er þá jafnframt til þess að líta að dómi í sakamáli á hendur þeim manni sem talinn er hafa verið valdur að brunanum hefur verið áfrýjað til Landsréttar en með honum voru teknar að nokkru marki til greina einkaréttarkröfur varnaraðila á hendur dómfellda. Því ríkir óvissa um afdrif krafna á hendur honum og um greiðslu bóta á grundvelli laga nr. 69/1995. Jafnframt hafa varnaraðilar uppi kröfur á hendur sóknaraðila sem eru hærri en nemur hámarksgreiðslu eftir nefndum lögum, sbr. 5. gr. þeirra. Samkvæmt þessu getur réttur varnaraðila til greiðslu bóta á þeim grunni ekki hindrað að kyrrsetning fyrir kröfum þeirra fari fram hjá sóknaraðila. 29. Í skýringum við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að kyrrsetning eigi ekki að fara fram nema raunhæfa nauðsyn beri til vegna hagsmuna kröfueiganda. Sönnunarbyrði um að fullnægt sé skilyrðinu um nauðsyn kyrrsetningar til að greiða fyrir fullnustu kröfu hvílir á þeim sem krefst hennar. Um þetta má meðal annars vísa til dóma Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 131/2004, 4. október 2016 í máli nr. 614/2016 og 25. júlí 2017 í máli nr. 427/2017. 30. Við mat á því hvort umræddu skilyrði er fullnægt er rétt að líta til athafna eða aðstæðna skuldara sem geta gefið til kynna að draga muni úr líkindum til að fullnusta kröfu takist eða að hún verði verulega örðugri ef kyrrsetning fer ekki fram meðan beðið er dóms um kröfuna. Hér er helst til að taka að skuldari hafi eytt fjármunum sínum, selt eignir, veðsett þær eða ráðstafa með öðru móti eða að gera megi ráð fyrir að hann muni gera það. Fleira getur komið til án þess að það verði rakið nánar. 31. Í kjölfar brunans að Bræðraborgarstíg 1 var að sínu leyti skiljanlegt að sóknaraðili ráðstafaði eigninni í stað þess að ráðast sjálfur í uppbyggingu á lóðinni. Er þá haft í huga að meginstarfsemi félagsins hefur verið rekstur og útleiga fasteigna eins og kemur fram í ársreikningum þess. Einnig verður að gera ráð fyrir að hagræði hafi falist í að ráðstafa samhliða aðliggjandi eign að Bræðraborgarstíg 3, eins og gert var með fyrrgreindum kaupsamningi 12. janúar 2021, þannig að framkvæmdir og starfsemi á svæðinu gæti tekið til beggja eignanna. Aftur á móti hefur sóknaraðili ekki gert viðhlítandi grein fyrir ástæðum þess að hann hefur í kjölfarið á nokkurra mánaða tímabili selt allar fasteignir sínar ef frá er talin eignin Kársnesbraut 96A og þrír eignarhlutar í fasteigninni að Eiðistorgi 13 til 15. Er þá til þess að líta að bókfært verð fasteigna sóknaraðila var samkvæmt ársreikningi 1.637.771.929 krónur í árslok 2020 en mat á andvirði þeirra eigna sem hann hefur ekki ráðstafað nemur nú 383.000.000 króna samkvæmt mati fasteignasala sem sóknaraðili hefur sjálfur aflað. Til samanburðar má nefna að fasteignamat á eignum sóknaraðila var í árslok 2020 samtals 1.260.990.000 krónur en samtals nemur fasteignamat þeirra eigna sem hann hefur ekki selt 271.550.000 krónum. Miðað við fasteignamat hefur sóknaraðili því selt ríflega 78% af eignasafni sínu. 32. Með þeim ráðstöfunum sem hér hafa verið raktar hefur sóknaraðili látið frá sér að verulegu leyti þær eignir sem mynduðu tekjur í rekstri félagsins. Jafnframt hefur hann umbreytt fasteignum í reiðufé sem kann að vera undir hælinn lagt hvort verði fyrir hendi þegar endanlega hefur verið dæmt um þær kröfur sem varnaraðilar hafa uppi á hendur honum. Samkvæmt þessu verður að telja sennilegt að draga muni mjög úr líkindum þess að fullnusta krafna varnaraðila fáist eða að hún verði verulega örðugri ef kyrrsetning hjá sóknaraðila fer ekki fram, sbr. niðurlag 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990. 33. Samkvæmt framansögðu er fullnægt skilyrðum kyrrsetningar og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur, þar með talið um málskostnað og gjafsókn, en þó þannig að kyrrsetning hjá sóknaraðila fari fram fyrir kröfu hvers varnaraðila fyrir sig í samræmi við það sem áður er rakið. 34. Sóknaraðila verður gert að greiða kærumálskostnað en um hann og gjafsóknarkostnað fer eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Úrskurður Landsréttar er staðfestur og lagt fyrir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að gera kyrrsetningu hjá sóknaraðila, HD verki ehf., fyrir kröfu hvers varnaraðila, A, B, C, D, E, F, G, H, I, J, K, L, M, N, O, P og Q. Sóknaraðili greiði varnaraðilunum C, D, E, F, G, H, I og J hverju fyrir sig 60.000 krónur í kærumálskostnað. Einnig greiði sóknaraðili 540.000 krónur í kærumálskostnað sem rennur í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðilanna A, B, K, L, M, N, O, P og Q fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, 540.000 krónur. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=fe282f26-16b2-4c48-a889-7f8a11f946b5&verdictid=cd7d318d-2d40-4c89-bf88-2e2b50cc662b
Mál nr. 26/2021
Aðgæsluskylda Fasteignakaup Galli Lögbýli Skaðabætur Upplýsingaskylda
J, M og S keyptu lögbýlið H af E og D á árinu 2017 en þau töldu hið keypta hafa verið haldið margvíslegum göllum og þá einkum íbúðarhús á jörðinni. Töldu þau sig eiga rétt á skaðabótum eða afslætti af kaupverðinu. Ágreiningur málsaðila laut í fyrsta lagi að því hvort í ákvæði í söluyfirliti um að íbúðarhúsið væri „almennt í góðu standi“ hefði falist sérstakt loforð um ástand hússins sem reynst hefði rangt í skilningi 27. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Í öðru lagi hvort E og D hefðu vanrækt upplýsingaskyldu sína samkvæmt 26. gr. sömu laga hvað varðar ástand íbúðarhússins eða J, M og S vanrækt aðgæsluskyldu sína samkvæmt 29. gr. laganna. Í þriðja lagi hvort þeir ágallar sem voru á íbúðarhúsinu hefðu rýrt verðmæti fasteignarinnar svo nokkru varðaði í skilningi 18. gr. laganna. Í dómi Hæstaréttar kom fram að yfirlýsing um ástand hússins í söluyfirliti hefði verið almenns eðlis. Ekki væri þar vísað til tilgreindra eiginleika íbúðarhússins eða hluta þess heldur væri einungis sagt að ástand þess væri almennt gott. Taldi Hæstiréttur að ekki væri um rangar upplýsingar að ræða í skilningi 27. gr. laganna. Þá taldi Hæstiréttur að E hefði vitað um ágalla á gólfefnum en vanrækt að upplýsa kaupendur um þá ágalla. Um afleiðingar þeirrar vanrækslu bæri að líta til þess að aðgæsluskylda kaupanda í fasteignakaupum samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laga nr. 40/2002 víki við þessar aðstæður fyrir upplýsingaskyldu seljanda. Því væri um að ræða galla á íbúðarhúsinu í skilningi 26. gr. laganna og voru E og D dæmd til greiðslu skaðabóta vegna þeirra. Þá taldi Hæstiréttur ekki efni til að telja að ágallar á hinni seldu fasteign í skilningi 18. gr. laga nr. 40/2002, sem námu 7,53% af kaupverði, rýrðu verðmæti hennar svo nokkru varðaði í skilningi greinarinnar. Voru E og D því sýknuð af kröfu um skaðabætur eða afslátt á þeim grunni. Loks taldi Hæstiréttur að E og D hefði borið með vísan til 10. gr. laganna skylda til að fjarlægja úr útihúsum og af jörðinni þá hluti og rusl sem ekki voru not fyrir við áframhaldandi búrekstur. Var þeim því gert með vísan til matsgerðar að greiða J, M og S skaðabætur vegna hreinsunar fasteignarinnar.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 3. júní 2021. Þeir krefjast þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 14.451.759 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2017 til 13. júlí 2018, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast þeir málskostnaðar á öllum dómstigum. 3. Stefndu krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefjast þau þess að áfrýjendur verði dæmdir til að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti. Ágreiningsefni 4. Ágreiningur málsaðila er sprottinn af kaupum áfrýjenda árið 2017 á lögbýlinu Hróðnýjarstöðum í Dalabyggð af stefndu. Áfrýjendur telja að hið keypta hafi verið haldið margvíslegum göllum og þá einkum íbúðarhús á jörðinni og að þeir eigi rétt á skaðabótum eða afslætti af kaupverði. Ágreiningur málsaðila lýtur í fyrsta lagi að því hvort í ákvæði í söluyfirliti um að íbúðarhúsið væri „almennt í góðu standi“ hafi falist sérstakt loforð um ástand hússins sem reynst hafi rangt í skilningi 27. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Í öðru lagi er deilt um hvort stefndu hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína samkvæmt 26. gr. sömu laga hvað varðar ástand íbúðarhússins eða áfrýjendur vanrækt aðgæsluskyldu sína samkvæmt 29. gr. laganna. Í þriðja lagi greinir málsaðila á um hvort þeir ágallar sem voru á íbúðarhúsinu hafi rýrt verðmæti fasteignarinnar svo nokkru varði í skilningi 18. gr. laganna en sá ágreiningur lýtur meðal annars að því hvort miða á við verðmæti hins selda í heild, hinnar seldu fasteignar eða íbúðarhússins eingöngu. 5. Stefndu voru sýknuð af öllum kröfum áfrýjenda fyrir Landsrétti en héraðsdómur hafði hins vegar dæmt áfrýjendum bætur vegna kostnaðar við hreinsun á vélageymslu og við að fjarlægja járnarusl sem var við húsin og undir barði þar nálægt. 6. Áfrýjunarleyfi var veitt 3. júní 2021 á þeim grunni að úrslit þess gætu meðal annars haft fordæmisgildi um túlkun gallaþröskuldar samkvæmt 18. gr. laga nr. 40/2002 og þá einkum um hvort líta bæri til heildarkaupverðs hins selda þegar um margþætta eign væri að ræða. Málsatvik 7. Með samþykki áfrýjenda á gagntilboði stefndu 31. maí 2017 komst á bindandi samningur milli málsaðila um kaup áfrýjenda á lögbýlinu Hróðnýjarstöðum í Dalabyggð ásamt áhöfn, greiðslumarki og vélum. Umsaminn afhendingartími var 1. ágúst 2017 en vélageymslu átti þó að afhenda 25. júlí sama ár. Kaupverðið var 100.000.000 króna. Bar stefndu að viðhalda eðlilegum rekstri búsins fram til afhendingar og vera áfrýjendum innan handar með upplýsingagjöf varðandi rekstur þess í allt að þrjá mánuði frá afhendingu eignarinnar. 8. Í söluyfirliti um eignina útprentuðu 30. maí 2017 var henni lýst sem lögbýlinu Hróðnýjarstöðum ásamt áhöfn, greiðslumarki og vélum. Þar kom fram að um væri að ræða nærri 1.700 hektara jörð og að ræktað land væri um 35 hektarar. Á henni væri rekið myndarlegt sauðfjárbú með um það bil 1.000 vetrarfóðruðum ám. Auk þess væri á jörðinni 124,3 fermetra íbúðarhús byggt árið 1972, 158 fermetra véla- og verkfærageymsla byggð árið 1982, 833 fermetra fjárhús, 183,4 fermetra hlaða og hesthús með fimm stíum. 9. Stefndu höfðu tæmt íbúðarhúsið 25. júlí 2017 þegar vélageymslan var afhent. Einn áfrýjenda sendi fasteignasala sem annaðist söluna tölvupóst 30. júlí 2017 þar sem fram kom að við skoðun á íbúðarhúsinu hefðu komið í ljós rakaskemmdir bæði í veggjum og gólfi sem áfrýjendur hefðu ekki vitað af. Skemmdum í hverju herbergi hússins var nánar lýst og send með alls 21 ljósmynd af þeim. Fasteignasalinn framsendi tölvupóstinn til stefndu og lögmanns þeirra 11. september 2017. 10. Lögmaður stefndu sendi lögmanni áfrýjenda tilkynningu 7. september 2017 þar sem vísað var til fyrirvara í kauptilboði um að kaupendur skyldu hafa skilað inn skriflegri yfirlýsingu um brottfall fyrirvara um samþykki lánardrottna um veitingu lána samkvæmt tilboðinu í síðasta lagi 30 virkum dögum eftir samþykki tilboðs. Að öðrum kosti gætu seljendur rift tilboðinu með einhliða yfirlýsingu. Í bréfinu var því lýst yfir að hið samþykkta kauptilboð væri fallið niður og óskað eftir að hinu selda yrði skilað 11. september 2017. 11. Í kjölfar afhendingar hins selda öfluðu áfrýjendur álits verkfræðistofunnar Eflu hf. á ástandi íbúðarhússins. Í úttekt verkfræðistofunnar 10. ágúst 2017 var getið um ýmis ummerki um raka og leka í íbúðarhúsinu auk þess sem sýnataka leiddi í ljós myglu á ýmsum stöðum í því. 12. Þrátt fyrir framangreint ástand íbúðarhúsnæðisins og kröfu stefndu í bréfi 7. september 2017 um að kaupin gengju til baka undirrituðu aðilar kaupsamning 22. sama mánaðar. Í honum var kaupverðið sundurliðað á eftirfarandi hátt: jörð 3.105.983 krónur, íbúðarhús 22.200.143 krónur, ræktun 4.620.787 krónur, lax- og silungsveiði 198.579 krónur, útihús 52.279.808 krónur, greiðslumark í sauðfé 5.182.200 krónur, vélar 5.250.000 krónur og áhöfn 7.162.500 krónur. Í samningnum var vísað til þess að áfrýjendur hefðu gert athugasemdir við ástand hins selda og vísað til sérstakrar yfirlýsingar þeirra dagsettrar sama dag sem stefndu undirrituðu. Athugasemdirnar í yfirlýsingunni voru í samræmi við niðurstöðu fyrrgreindrar úttektar. 13. Afsal var undirritað 19. október 2017 en áfrýjendur inntu þá af hendi lokagreiðslu kaupverðs með fyrirvara um rétt til afsláttar eða skaðabóta vegna meints tjóns þeirra. 14. Áfrýjendur óskuðu eftir dómkvaðningu matsmanns 16. janúar 2018 til að meta ætlaða galla á íbúðarhúsinu, kostnað þeirra vegna húsnæðis sem þeir komu upp til bráðabirgða á jörðinni, kostnað við að moka út úr fjárhúsum og vegna hreinsunar á útihúsum og á jörðinni sjálfri. Niðurstaða matsmanns lá fyrir 6. júní 2018. Hann mat kostnað af lagfæringum á ýmsum ætluðum ágöllum íbúðarhússins 7.714.600 krónur, vegna húsnæðis til bráðabirgða 5.498.600 krónur, við að moka út úr haughúsi og við dreifingu áburðar 1.344.000 krónur en kostnað við hreinsun úr vélageymslu og járnarusls af jörðinni 487.200 krónur. Með bréfi til stefndu 12. júní 2018 kröfðust áfrýjendur greiðslu skaðabóta eða afsláttar af kaupverði. Stefndu höfnuðu öllum kröfum þeirra með bréfi 26. júlí sama ár. Í dómi héraðsdóms er ályktunum og niðurstöðum matsmanns nánar lýst. 15. Einn áfrýjenda og annar stefndu gáfu aðilaskýrslur fyrir héraðsdómi. Samkvæmt framburði áfrýjanda Magnúsar fraus í vatnsinntaki íbúðarhússins um veturinn 2017 til 2018. Hann bar að þegar húsið var vatnslaust hefði verið skrúfað frá krana í þvottahúsi. Þegar nágrannar hefðu komið að húsinu nokkru síðar hefði komið í ljós að gleymst hefði að skrúfa fyrir kranann í þvottahúsinu og vatn lekið á gólf þar og inn í eldhús. Gólfin hefðu verið þurrkuð upp og engar skemmdir hlotist af. Þetta hefði gerst eftir athugun fyrrgreindrar verkfræðistofu en áður en dómkvaddur matsmaður skoðaði íbúðarhúsið. Í framburði matsmanns fyrir dómi kom fram að hann hefði ekki verið upplýstur um þennan atburð. Lagaumhverfi 16. Samkvæmt 18. gr. laga nr. 40/2002 telst fasteign gölluð ef hún stenst ekki þær kröfur um gæði, búnað og annað sem leiðir af lögunum og kaupsamningi. Þar segir jafnframt að notuð fasteign teljist þó ekki gölluð nema ágallinn rýri verðmæti hennar svo nokkru varði eða seljandi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. Af a-lið 1. mgr. 19. gr. laganna leiðir að fasteign telst gölluð ef hún hentar ekki til þeirra afnota sem sambærilegar eignir eru venjulega notaðar til. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 19. gr. telst fasteign einnig gölluð ef hún hentar ekki til þeirra sérstöku afnota fyrir kaupanda sem seljanda var eða mátti vera kunnugt um þegar kaupsamningur var gerður. Í niðurlagi ákvæðisins er tekið fram að þetta gildi þó ekki ef kaupandi byggði ekki á þekkingu eða mati seljanda á eiginleikum eignarinnar eða skorti réttmæta ástæðu til þess. 17. Fasteign getur talist gölluð þótt ágalli rýri ekki verðmæti hennar í þeim mæli sem 18. gr. laganna áskilur ef seljandi hefur sýnt af sér háttsemi eða vanrækslu sem lýst er í 26. eða 27 gr. þeirra með þeim takmörkunum sem leiðir af aðgæsluskyldu kaupanda samkvæmt 29. gr. en umrædd ákvæði eru svohljóðandi: 26. gr. Skortur á upplýsingum. Fasteign telst gölluð ef kaupandi hefur ekki fengið þær upplýsingar um hana sem seljandi vissi eða mátti vita um og kaupandi hafði réttmæta ástæðu til að ætla að hann fengi. Þetta gildir þó aðeins ef það hefur haft áhrif á gerð eða efni kaupsamnings að upplýsingarnar voru ekki veittar. 27. gr. Rangar upplýsingar. Fasteign telst gölluð ef hún er ekki í samræmi við upplýsingar sem seljandi, eða þeir sem koma fram fyrir hans hönd, hafa veitt kaupanda. Hið sama á við ef fasteignin er ekki í samræmi við upplýsingar sem veittar eru í auglýsingum, söluyfirliti eða öðrum sölu- eða kynningargögnum um hana. Ákvæði 1. mgr. á þó aðeins við ef upplýsingar hafa haft áhrif á gerð eða efni kaupsamnings og þær eru ekki skýrlega leiðréttar í tæka tíð. 29. gr. Skoðun og önnur rannsókn á fasteign. Kaupandi getur ekki borið fyrir sig galla á fasteign sem hann þekkti til eða átti að þekkja til þegar kaupsamningurinn var gerður. Hafi kaupandi skoðað fasteign, áður en kaup gerðust, eða án nægjanlegrar ástæðu látið undir höfuð leggjast að skoða hana, þótt seljandi skoraði á hann um það, getur hann ekki borið fyrir sig galla sem hann hefði mátt sjá við slíka skoðun. Þetta á þó ekki við ef seljandi sýndi af sér stórkostlegt gáleysi eða framferði hans stríðir með öðrum hætti gegn heiðarleika og góðri trú. Ákvæði 1. og 2. mgr. víkja fyrir efni 26. gr. um skort á upplýsingum um fasteign. Niðurstaða Réttaráhrif yfirlýsingar um ástand íbúðarhúss 18. Áfrýjendur telja að yfirlýsing sem fram hafi komið í söluyfirliti um að íbúðarhúsið væri almennt í góðu ástandi hafi falið í sér loforð um tiltekið ástand þess. Sýnt hafi verið fram á með matsgerð dómkvadds matsmanns að ástand þess hafi ekki verið í samræmi við þessa yfirlýsingu. Því liggi fyrir að hin selda fasteign sé þar með haldin göllum í skilningi 27. gr. laga nr. 40/2002 sem stefndu beri hlutlæga skaðabótaábyrgð á. Þessu mótmæla stefndu og telja yfirlýsinguna hafa verið almenns eðlis og skýra verði hana eftir orðanna hljóðan. Í henni hafi því ekki verið gefið loforð eða upplýsingar um tiltekna eiginleika íbúðarhússins. 19. Ein þeirra spurninga sem lagðar voru fyrir matsmann í matsbeiðni áfrýjenda laut að því hvort umrætt íbúðarhús hefði verið almennt í góðu ástandi þegar fasteignin hefði verið seld. Í matsgerðinni var komist að þeirri niðurstöðu að íbúðarhúsið hefði ekki verið í góðu ástandi við sölu og margvíslegum ágöllum á því nánar lýst. 20. Ákvæði 18. og 19. gr. laga nr. 40/2002 gera ráð fyrir að kaupandi fasteignar geti gert sérstakar kröfur til eiginleika og ástands hennar til viðbótar því sem leiðir af ákvæðum laganna eða öðrum reglum. Ákvæði í kaupsamningi eða söluyfirliti fasteignar um ástand og eiginleika hennar getur verið þess eðlis að rétt sé að líta á það sem loforð eða ábyrgðaryfirlýsingu um sérstaka kosti eignar. Þó hefur verið talið að almenna yfirlýsingu seljenda um ástand eða gæði eignar beri ekki að túlka sem loforð eða ábyrgðaryfirlýsingu. Slík yfirlýsing þurfi þvert á móti að vera sértæk og beinast að tilteknum eiginleikum fasteignarinnar í heild eða einstökum hlutum hennar. Þá ber kaupandi sönnunarbyrði um að yfirlýsing hafi falið í sér ábyrgð eða loforð um tiltekna eiginleika fasteignar. 21. Sú yfirlýsing sem áfrýjendur vísa til er almenns eðlis. Í henni er ekki vísað til tiltekinna eiginleika íbúðarhússins eða hluta þess heldur einungis sagt að ástand þess sé almennt gott. Eiginleikum íbúðarhússins er að öðru leyti lýst í söluyfirlitinu með hlutlausum hætti að því frátöldu að nefnt er að eldhúsið sé með fallegri innréttingu. Við túlkun á orðalagi yfirlýsingarinnar í heild verður jafnframt að líta til þess að orðið „almennt“ mætti allt eins skilja svo að ástand íbúðarhússins væri ekki endilega að öllu leyti gott. Umrædd yfirlýsing í söluyfirliti fól því samkvæmt framansögðu ekki í sér loforð um ábyrgð stefndu á tilteknum eiginleikum hennar. 22. Fyrir liggur að íbúðarhúsið var byggt árið 1972. Í söluyfirlitinu er hvorki vísað til neinna nýlegra endurbóta á því né gefið til kynna að ástand þess sé betra en sem samsvarar aldri þess. Með vísan til þessa og framangreindrar túlkunar á inntaki hinnar almennu yfirlýsingar í söluyfirliti um að ástand íbúðarhússins væri almennt gott teljast áfrýjendur ekki hafa sýnt fram á að stefndu hafi með henni veitt þeim rangar upplýsingar um ástand íbúðarhússins með þeim hætti að hin selda fasteign teljist af þeim sökum gölluð í skilningi 27. gr. laga nr. 40/2002. Til samanburðar skal tekið fram að í dómum Hæstaréttar 16. júní 2016 í máli nr. 540/2015 og 8. mars 2018 í máli nr. 172/2017 var komist að gagnstæðri niðurstöðu en þar var fjallað um upplýsingar í söluyfirliti um endurbætur á fasteignum og eiginleika þeirra sem voru mun sértækari og nákvæmari en þær sem á reynir í máli þessu. Um upplýsingaskyldu stefndu og aðgæsluskyldu áfrýjenda 23. Af hálfu áfrýjenda er í öðru lagi byggt á því að stefndu hafi búið yfir upplýsingum um ágalla á íbúðarhúsinu sem þau upplýstu áfrýjendur ekki um. Þeir vísa til þess að stefndi Einar hafi unnið við smíðar og staðið sjálfur að viðgerðum á því. Áfrýjendur hafi ekki orðið ágallanna varir við venjulega skoðun á íbúðarhúsinu þar sem húsgögn og fleira hafi hulið þá. Þá vísa þeir til þess að upplýsingaskylda seljanda í fasteignakaupum samkvæmt 26. gr. laga nr. 40/2002 gangi framar aðgæsluskyldu kaupanda, sbr. 3. mgr. 29. gr. laganna. Af hálfu stefndu er byggt á því að þeir ágallar á íbúðarhúsinu sem þau hafi vitað um hafi verið svo augljósir að áfrýjendur hafi mátt sjá þá við skoðun. Upplýsingaskylda þeirra hafi því takmarkast af aðgæsluskyldu áfrýjenda. 24. Í athugasemdum um 26. gr. í frumvarpi sem varð að lögum nr. 40/2002 sagði meðal annars að upplýsingaskylda seljanda stæði til þess að veita kaupanda upplýsingar um fasteign sem seljandi vissi eða mátti vita að kaupandi hefði réttmæta ástæðu til að ætla að hann fengi. Seljanda væri því ekki skylt að upplýsa kaupanda um atriði sem kaupandi vissi um. Ákvæðið fæli það í sér að seljandi ætti að eigin frumkvæði að veita þær upplýsingar sem hann vissi eða mætti vita um. Í því fælist að löglíkur væru fyrir því að seljandi þekkti fasteign svo að hann gæti upplýst kaupanda um galla á henni. Það stæði seljanda nær að upplýsa um þetta enda auðveldara fyrir hann en kaupanda að leita galla uppi. Þá var vísað til þess að á kaupanda hvíldi aðgæsluskylda og að sú skylda takmarkaði nokkuð upplýsingaskylduna. Þannig ætti seljandi ekki að upplýsa kaupanda um augljós atriði eða atriði sem kaupandi hefði ekki getað búist við að fá upplýsingar um. 25. Í athugasemdum um 29. gr. í fyrrgreindu frumvarpi sagði að í 1. mgr. væri mælt fyrir um almenna reglu þess efnis að kaupandi gæti ekki borið fyrir sig galla sem hann þekkti til eða ætti að þekkja til þegar kaupsamningur var gerður. Ástæða væri til að taka fram að það væri skilyrði að kaupandi hefði þekkt eða átt að þekkja til gallans. Þetta yrði að skýra svo að hann hefði vitað um gallann eða átt að vita um hann og skilið hver áhrif hann hafði. Í athugasemdum um 3. mgr. greinarinnar var tekið fram að reglur 1. og 2. mgr. högguðu ekki gildi 26. gr. um skort á upplýsingum enda varði málefnið einkum hvað kaupandi vissi eða mætti vita. Í 3. mgr. fælist að upplýsingaskylda seljanda stæði óhögguð og takmarkaðist ekki af aðgæsluskyldu kaupanda. 26. Sem fyrr segir komst á bindandi samningur um kaup áfrýjenda á jörðinni Hróðnýjarstöðum ásamt áhöfn, greiðslumarki og vélum með samþykki áfrýjenda á gagntilboði stefndu 31. maí 2017. Í samræmi við ákvæði gagntilboðsins var vélageymsla afhent 25. júlí 2017 en hið selda að öðru leyti 1. ágúst sama ár. Málsaðilar hafa ekki byggt á því að ástand hins selda hafi verið með öðrum hætti við afhendingu en það var þegar kaup komust á 31. maí 2017 eða þegar áfrýjendur skoðuðu fasteignina nokkru áður. 27. Þau gögn sem liggja fyrir í málinu um ástand íbúðarhússins við kaup eru annars vegar nokkrar ljósmyndir sem fylgdu söluyfirliti fasteignarinnar, tvær þeirra eru teknar inni í íbúðarhúsinu en nokkrar til viðbótar sýna húsið að utan úr talsverðri fjarlægð. Þá hafa verið lagðar fram í Hæstarétti nokkrar ljósmyndir sem fasteignasali sem annaðist söluna sendi einum áfrýjenda 14. júlí 2017 og nefndi „vinnu myndir af íbúðarhúsinu á Hróðnýjarstöðum“. Þessar ljósmyndir munu hafa verið teknar á sama tíma og þær sem fylgdu söluyfirliti. Þær sýna að íbúðarhúsið var búið hefðbundnum húsgögnum og öðrum húsbúnaði og má ætla að við skoðun áfrýjenda hafi þar flest verið með svipuðum brag. 28. Í málinu liggur jafnframt fyrir 21 ljósmynd sem áfrýjendur munu hafa tekið inni í íbúðarhúsinu er þeir fengu vélageymsluna afhenta sem mun hafa verið 25. júlí 2017, eftir að stefndu höfðu tæmt íbúðarhúsið en fyrir umsaminn afhendingardag þess. Þessar myndir sendu þeir fasteignasalanum með tölvupósti 30. júlí 2017. 29. Meðal þeirra ljósmynda sem sýna íbúðarhúsið með húsbúnaði er mynd úr forstofu sem sýnir augljós ummerki um raka niðri við gólf í forstofu en ógleggri ummerki um raka má sjá af ljósmynd úr stofu. Á öðrum ljósmyndum er ekki unnt að greina rakaskemmdir. Á mörgum myndanna sést að húsgögn, svo sem sófi, stólar og rúm, hafa staðið í hornum og byrgt sýn að gólfum og neðri hluta veggja. Á ljósmyndum sem áfrýjendur tóku í lok júlí 2017 og myndum sem teknar voru við skoðun verkfræðistofunnar Eflu nokkru síðar sjást hins vegar glögglega ýmis ummerki um raka, meðal annars í gólfefnum í hornum við útveggi, í neðri hluta veggja, við glugga og þar sem þvottavél og uppþvottavél stóðu. 30. Dómkvaddur matsmaður skoðaði íbúðarhúsið 16. apríl 2018. Í matsgerð hans var ágöllum á húsinu lýst. Hann kvað stofuglugga á vesturgafli og geymsluglugga á austurgafli upprunalega og töluvert fúna og skemmda og merki um að lekið hefði með þeim. Glugga á suðurhlið kvað hann hafa verið endurnýjaða árið 1999 en að öðru leyti hefðu plastgluggar verið settir í húsið árið 2008. Ekki hefði verið gengið frá plastgluggum að utanverðu og að innanverðu hefði ekki verið þétt með kítti heldur eingöngu notað þéttifrauð. Að utanverðu væru engar áfellur frá gluggum og út fyrir klæðningu. Stæði þéttifrauð milli glugga og veggja óvarið og engin kíttisþétting að innanverðu. Lekið hefði með gluggum og kuldaleiðni verið inn í húsið frá tröppum og palli utan við húsið. Ummerki um raka væru í spónaplötuklæðningu í nánast öllum herbergjum enda engin rakasperra í útveggjum. Einangrun þaks væri með „álfólíu“ á neðri hlið og rakasperra væri því til staðar að einhverju marki en ljóst að hún væri ekki þétt. Greinileg ummerki um raka væru í gólfefni og gólfílögn. Mælingar á raka í gólfi hefðu leitt í ljós hækkað gildi við útveggi nánast um allt hús. Á bak við eldhúsinnréttingu hefðu verið greinileg ummerki um leka bæði á klæðningu og sökklum undir innréttingunni. Í níu sýnum úr klæðningu og gólfmúrílögn sem send hefðu verið til rannsóknar hefði komið fram umtalsverð mygla í þremur sýnum og lítilleg í tveimur. 31. Í matsgerðinni kom enn fremur fram að ummerki eftir raka eða leka í veggjum og gólfefnum hefðu verið sýnileg í talsverðan tíma. Við skoðun á húsinu í tengslum við kaup gæti heildaryfirbragð og ástand þess sýnst vera betra en reyndist við nánari skoðun. Aftur á móti hefði ástand og frágangur glugga verið sýnilegur og sá frágangur hvorki fullnægjandi né ásættanlegur. 32. Í skýrslu matsmannsins fyrir héraðsdómi kvað hann óljóst hvort loftun þaks væri ábótavant en ástand þaks gæfi það ekki til kynna. Ekki hefði litið út fyrir að mikill raki væri í timbri í þaki og það hefði verið í lagi. Hann kvað nokkuð erfitt að segja til um hvað hefði mátt sjá við skoðun íbúðarhússins. Rakaskemmdir í spónaplötum hefði að minnsta kosti verið hægt að sjá með ítarlegri skoðun en ef til vill erfiðara þegar húsgögn væru fyrir en þá hefðu menn þurft að vita hverju þeir væru að leita að. Rakaskemmdir í gólfefnum í stofu og herbergi hefðu átt að sjást við skoðun. Í matsgerð var ekki sérstaklega fjallað um leka frá skorsteini eða rakaskemmdir tengdar slíkum leka. Fyrir dómi bar matsmaðurinn að hann myndi ekki eftir raka í lofti við skorstein. 33. Með vísan til þess sem upplýst hefur verið í málinu um ágalla sem komu í ljós á íbúðarhúsinu fyrir afhendingu þess og staðreyndir hafa verið með matsgerð er ekki tilefni til að ætla að sá vatnsleki sem varð eftir að vatnsinntak fraus veturinn eftir afhendingu hafi gert ástand þess verra en við afhendingu svo þýðingu hafi fyrir úrslit málsins. 34. Stefndi Einar bar fyrir héraðsdómi að hann hefði meðal annars starfað sem smiður. Hann hefði einangrað og klætt íbúðarhúsið, skipt um glugga og allar hurðir. Hins vegar hefði hann átt eftir að ljúka frágangi við glugga. Hann kvað rakaskemmdir hafa verið í parketi frá því að hann flutti í húsið átján árum áður en raki hefði ekki verið til staðar. Hann kvaðst hafa rofið stétt fyrir utan húsið sem tengdist plötunni og einangrað á milli. Stéttin hefði myndað kuldabrú og taldi hann það skýra hvernig parketið leit út. Stefndi Einar kvaðst hvorki hafa orðið var við myglu í húsinu né leka að öðru leyti en nýtilkominn leka við skorstein. Hann taldi að rakaskemmdir í parketi og veggjum hefðu verið augljósar og alls ekki huldar með húsgögnum. Þá hafi engin teppi verið í húsinu. 35. Áfrýjandinn Magnús bar fyrir héraðsdómi að áfrýjendur hefðu komið og skoðað íbúðarhúsið. Í söluyfirliti hefði því verið lýst í góðu ástandi og þeir enga ástæðu haft til „að gera neitt annað en að koma þarna og skoða og kíkja í kringum okkur aðeins.“ Áfrýjendur hefðu ekki orðið varir við leka- eða rakavandamál í húsinu. Eftir að stefndu hefðu tæmt það hefði ýmislegt komið í ljós sem áfrýjendur hefðu ekki áttað sig á fyrr og þá orðið ljóst að húsið hefði verið í öðru ásigkomulagi en lýsing á því hefði gefið til kynna. Hann taldi skýringuna á því að áfrýjendur hefðu ekki séð ágalla á íbúðarhúsinu við skoðun vera þá að þeir hefðu verið kyrfilega faldir fyrir þeim, „meðal annars með húsgögnum og drasli sem lá yfir þessu.“ 36. Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að stefnda Einari var kunnugt um ástand og ófullnægjandi frágang glugga og rakaskemmdir í gólfparketi við útveggi. Jafnframt verður ráðið af framburði hans, ljósmyndum sem fylgdu söluyfirliti og þeim sem teknar voru af sama tilefni, niðurstöðu matsgerðar og framburði matsmanns fyrir dómi að stefndu hljóti að hafa vitað af rakaskemmdum í öðrum gólfefnum og í veggjaplötum. Fyrir liggur að stefndi Einar réðst í ýmsar endurbætur á húsinu á árinu 1999 og aftur á árinu 2008 og hefur hann sem fyrr segir borið fyrir dómi að umræddar rakaskemmdir hafi verið til staðar frá því að hann flutti í húsið. Samkvæmt þessu og með vísan til framangreindra sönnunargagna er aftur á móti ekki í ljós leitt að stefndu hafi vitað eða mátt vita af öðrum þeim ágöllum sem dómkvaddur matsmaður taldi að krefðust úrbóta, þar á meðal um ágalla á rakasperru í þaki, skort á rakasperru í útveggjum og myglu. 37. Með vísan til framburðar stefnda Einars, söluyfirlits og ljósmynda sem fylgdu því liggur fyrir að stefndu upplýstu áfrýjendur ekki um þá ágalla sem samkvæmt matsgerð voru á íbúðarhúsinu. 38. Stefndu hafa ekki sýnt fram á að áfrýjendur hafi búið yfir sérfræðiþekkingu um eiginleika húsnæðis sem haft geti áhrif á aðgæsluskyldu þeirra. Af framburði áfrýjandans Magnúsar verða þær ályktanir dregnar að áfrýjendur hafi ekki skoðað íbúðarhúsið af kostgæfni. Af þeim ljósmyndum sem fylgdu söluyfirliti og þeim sem áfrýjendur tóku fyrir afhendingu verður ályktað að við venjulega skoðun hefðu þeir átt að sjá að ástand glugga og frágangur þeirra að utan og innan var ófullnægjandi svo og rakaskemmdir í veggjum en þessir ágallar á íbúðarhúsinu teljast hafa verið augljósir. Til þess er hins vegar að líta að ljósmyndir sýna að húsgögn og annar húsbúnaður stóð víða uppi við veggi og úti í hornum og ástand gólfefna því ekki eins sýnilegt og það var eftir að íbúðarhúsið hafði verið tæmt. Ekki verður talið að áfrýjendur hefðu mátt sjá við venjulega skoðun aðra þá ágalla sem matsmaður taldi á íbúðarhúsinu og stefndu var ókunnugt um. 39. Samkvæmt framansögðu voru ágallar á frágangi glugga sem skipt hafði verið um í íbúðarhúsinu og gluggar á austur- og vesturhliðum voru mjög illa farnir. Stefndi Einar vissi samkvæmt framansögðu um þessa ágalla en þeir voru svo augljósir að áfrýjendur hefðu átt að sjá þá við skoðun og stefndu af þeim sökum mátt ganga út frá því að óþarft væri að upplýsa sérstaklega um þá. Hvað þessa ágalla varðar takmarkast upplýsingaskylda stefndu samkvæmt 26. gr. laga nr. 40/2002 af aðgæsluskyldu áfrýjenda samkvæmt 1. mgr. 29. gr. þeirra. Stefndu verður því ekki gert að bæta áfrýjendum kostnað við úrbætur á þessum ágöllum sem samkvæmt matsgerð eru: endurnýjun glugga á göflum hússins, frágangur áfellna við plastglugga og þéttingar svo og þétting milli glugga og veggjar að innanverðu. Í matsgerð var kostnaður við úrbætur á þessum ágöllum metinn 986.300 krónur að frádregnum 60% af virðisaukaskatti af 607.500 króna vinnulið. 40. Samkvæmt framansögðu vissi stefndi Einar um ágalla á gólfefnum en stefndu vanræktu að upplýsa áfrýjendur um þá þótt þau hafi mátt vita að áfrýjendur hefðu réttmæta ástæðu til að ætla að þeir fengju slíkar upplýsingar, enda ágallarnir ekki svo augljósir að þeir hafi blasað við áfrýjendum við skoðun íbúðarhússins eða af ljósmyndum með söluyfirliti. Um afleiðingar af þessari vanrækslu á upplýsingaskyldu ber að líta til þess að aðgæsluskylda kaupanda í fasteignakaupum samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laga nr. 40/2002 víkur við þessar aðstæður fyrir upplýsingaskyldu seljanda, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 1. júlí 2021 í máli nr. 9/2021. Þessir ágallar teljast því gallar á íbúðarhúsinu í skilningi 26. gr. laganna. Þeir ágallar og úrbætur á þeim sem hér falla undir samkvæmt matsgerð eru kostnaður við endurnýjun á parketi, plastparketi og gólfdúk, hreinsun á múrílögn og flotun, samtals 936.200 krónur. 41. Þótt nauðsyn þess að hreinsa múrílögn undir gólfefnum og flota gólf tengist raka undir gólfefnum og væntanlega einnig myglu eru þessar úrbætur svo nátengdar endurnýjun gólfefna vegna rakaskemmda að rétt er að stefndu beri kostnað af þeim. Áfrýjendur áttu á þeim tíma sem mál þetta var höfðað kost á endurgreiðslu á 60% af virðisaukaskatti af vinnu á byggingarstað. Matsmaður taldi vinnuliðinn nema 491.700 krónum en virðisaukaskattur af þeirri fjárhæð nemur 95.168 krónum. Í samræmi við niðurstöður matsmanns ber við afmörkun á tjóni stefndu að miða við að 60% af virðisaukaskattinum, eða 57.101 króna, dragist frá kostnaði við endurbætur. Ber stefndu því með vísan til 26. og 43. gr. laga nr. 40/2002 að bæta áfrýjendum mismuninn, 879.099 krónur. 42. Aðra ágalla sem samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns voru á íbúðarhúsinu hefur áfrýjendum samkvæmt framansögðu ekki tekist að sýna fram á að stefndu hafi vitað eða mátt vita um, þar á meðal ágalla á rakasperru í þaki, skort á rakasperru í útveggjum og myglu en áfrýjendur vissu heldur ekki um þessa ágalla. Reynir því á hvort þessir ágallar og þeir gallar sem stefndu verður samkvæmt framansögðu gert að bæta séu svo verulegir að þeir rýri verðmæti fasteignarinnar svo nokkru varði í skilningi 18. gr. laga nr. 40/2002. Um gallaþröskuld samkvæmt 18. gr. laga nr. 40/2002 43. Í III. kafla laga nr. 40/2002 er fjallað um eiginleika fasteigna, galla, fylgifé og fleira en þar er í 18. gr. umrætt ákvæði um svonefndan gallaþröskuld. Í 37. gr. laganna er mælt fyrir um að ef fasteign telst gölluð án þess að því valdi atvik sem kaupanda er um að kenna eða hann af öðrum ástæðum ber ábyrgð á geti kaupandi beitt vanefndaúrræðum ef skilyrði þeirra eru fyrir hendi, þar á meðal getur hann krafist afsláttar samkvæmt 41. gr. eða skaðabóta samkvæmt 43. gr. Samkvæmt síðastnefnda ákvæðinu getur kaupandi, ef fasteign er gölluð, krafist skaðabóta vegna annars tjóns en óbeins tjóns samkvæmt 59. gr. þótt seljandi hafi ekki sýnt af sér saknæma háttsemi. 44. Aðila greinir á um ýmis atriði sem máli geta skipt við mat á því hvort fasteignin telst hafa verið gölluð í skilningi 18. gr. laganna. Í fyrsta lagi deila þeir um hvaða kröfur áfrýjenda um skaðabætur eða afslátt lúta að ágöllum sem falla undir ákvæðið. Í öðru lagi greinir þá á um hvaða viðmiðun á að nota um hvert hafi verið verðmæti hinnar seldu fasteignar við mat á því hvort ágallarnir hafi rýrt verðmæti hennar svo nokkru varði. Í þriðja lagi greinir þá um hversu hátt hlutfall ágalla af verðmæti fasteignar þarf að vera í þessu tilviki til þess að um galla teljist vera að ræða í skilningi 18. gr. 45. Meðal þeirra krafna sem áfrýjendur hafa uppi í málinu eru kröfur vegna 1.344.000 króna kostnaðar við að moka út úr fjár- og haughúsi og 487.200 króna kostnaðar við að hreinsa vélageymslu og járnarusl af jörðinni. Áfrýjendur fella þessar kröfur undir bótakröfur vegna galla á fasteigninni en að réttu lagi verða þær reistar á 10. gr. laga nr. 40/2002 sem fjallar um undirbúning afhendingar og mælir fyrir um að við afhendingu skuli seljandi hafa rýmt fasteign og ræst. Greinin er í II. kafla laganna sem fjallar um afhendingu og fleira. Vanefndir á umræddri skyldu falla undir vanefndaúrræði kaupanda í IV. kafla laganna sem lýtur að afhendingardrætti en samkvæmt c-lið 1. mgr. 30. gr. og 34. gr. í þeim kafla getur kaupandi að jafnaði krafist skaðabóta vegna slíkra vanefnda þótt ekki sé um saknæma háttsemi að ræða af hálfu seljanda. Af því leiðir að umræddar kröfur áfrýjenda falla ekki undir III. kafla laganna sem fjallar um eiginleika fasteignar, galla, fylgifé og fleira. Þar sem ákvæði 18. gr. um galla á fasteign er í síðastnefnda kaflanum geta vanefndir sem varða rýmingu og ræstingu á fasteign ekki fallið undir þá ágalla sem greinin tekur til. 46. Þeir ágallar á fasteign sem 18. gr. tekur til eru bæði gallar sem eru á ábyrgð seljanda á sakargrundvelli og þeir ágallar sem sýnt hefur verið fram á að hafi verið á fasteign en hvorki seljandi né kaupandi vissi eða mátti vita um. Í máli þessu hefur kostnaður við úrbætur á slíkum ágöllum verið metinn af dómkvöddum matsmanni og er ekki tölulegur ágreiningur um það mat. Í samræmi við það sem fram kemur í matsgerð ber við ákvörðun tjóns vegna slíkra ágalla að miða við kostnað við efni og vinnu vegna úrbóta að meðtöldum virðisaukaskatti en þó að frádregnum þeim 60% af virðisaukaskatti af vinnu á byggingarstað sem eigandi fasteignar gat endurkrafið úr ríkissjóði á þeim tíma sem málið var höfðað. Kostnaður við úrbætur á þeim ágöllum sem samkvæmt matsgerð voru á íbúðarhúsinu og hvorki stefndu né áfrýjendur vissu eða máttu vita um var metinn 5.792.100 krónur. Kostnaður vegna vinnuliðar var 4.004.100 krónur, þar af virðisaukaskattur 774.987 krónur en 60% af þeirri fjárhæð nema 464.992 krónum sem koma til frádráttar framangreindum kostnaði er lækkar þannig í 5.327.108 krónur. Eins og áður greinir er tjón áfrýjenda vegna þeirra ágalla sem stefndu bera á ábyrgð á sakargrundvelli 879.099 krónur. Metið tjón áfrýjenda vegna ágalla á fasteigninni sem 18. gr. laga nr. 40/2002 tekur til nemur því samtals 6.206.207 krónum. 47. Það skilyrði fyrir því að fasteign teljist gölluð í skilningi 18. gr. að ágallar rýri verðmæti hennar sem nokkru varði hefur verið skýrt þannig að ágallarnir, eða öllu heldur kostnaður við úrbætur eða verðmætarýrnun fasteignar af þeirra völdum, nemi að lágmarki tilteknu hlutfalli af verðmæti hennar. 48. Í stefnu til héraðsdóms var byggt á því að við mat á hvort ágallar á fasteigninni hefðu rýrt verðmæti hennar svo nokkru varðaði skyldi miða við verðmæti þess hluta hins selda sem teldist til fasteignar, samtals 82.405.300 krónur, samkvæmt sundurliðun kaupverðs í kaupsamningi. Ekki ætti að líta til verðmætis greiðslumarks, áhafnar eða véla. Fyrir Hæstarétti hafa áfrýjendur hins vegar haldið því fram að réttara sé að miða við verðmæti íbúðarhússins eingöngu en þeirrar málsástæðu sér hvorki stað í stefnu til héraðsdóms né í greinargerð til Landsréttar. Þessari málsástæðu hefur verið mótmælt af hálfu stefndu sem of seint fram kominni. Telja þau að miða eigi við heildarkaupverð hins selda. Þessi nýja málsástæða áfrýjenda kemst ekki að hér fyrir dómi, enda ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem áfrýjendum var í lófa lagið að reisa málatilbúnað sinn á henni í öndverðu. Allt að einu er rétt að taka fram að hið keypta, annað en greiðslumark, áhöfn og vélar, var ein fasteign í skilningi 18. gr. laga nr. 40/2002. Ekkert í hinu samþykkta gagntilboði, kaupsamningi eða öðrum gögnum málsins bendir heldur til þess að líta beri á íbúðarhúsið sem sérgreindan hluta af fasteigninni. Þannig var verðmæti þess ekki sérstaklega tilgreint í hinu samþykkta gagntilboði. 49. Lögbýli er í 7. mgr. 2. gr. jarðalaga nr. 81/2004 skilgreint sem sérhver jörð sem hefur þann húsakost og það landrými eða aðstöðu að unnt sé að stunda þar landbúnað og var skráð í jarðaskrá ráðuneytisins 1. desember 2003 eða síðar hlýtur slíka viðurkenningu. Samkvæmt 3. gr. laganna falla veiðiréttindi meðal annars undir gildissvið þeirra, en samkvæmt meginreglu 9. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði má ekki aðskilja veiðirétt að nokkru leyti eða öllu frá fasteign hvorki fyrir fullt og allt né um tiltekinn tíma. Hið selda var því annars vegar jörð, þar með talið húsakostur, land og hlunnindi, en hins vegar annað það sem tilheyrði þeim atvinnurekstri sem stundaður var á jörðinni við sölu svo sem greiðslumark fyrir sauðfé, allar vélar og áhöfn önnur en hross. 50. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 40/2002 telst fasteign í skilningi laganna vera afmarkaður hluti lands, ásamt eðlilegum hlutum þess, lífrænum og ólífrænum, og mannvirki sem varanlega eru við landið skeytt. Hlunnindi sem felast í lax- og silungsveiði teljast samkvæmt framansögðu hluti af henni. Með fasteign er einnig átt við eignarhluta í húsi eða öðru mannvirki sem skiptist í fleiri en einn slíkan. Jörð sem ekki hefur verið skipt upp telst samkvæmt því ein fasteign. 51. Ákvæði 22. til 25. gr. laganna um fylgifé fasteigna taka til jarða eins og annarra fasteigna. Þessi ákvæði eru öll í III. kafla laganna, eins og 18. gr., þannig að annmarkar á fylgifé fasteigna teljast til ágalla á fasteign í skilningi þess ákvæðis. Í 22. gr. segir að ef ekki leiði annað af kaupsamningi teljist fasteign gölluð ef hún hafi ekki þann búnað eða réttindi sem segi í 23. til 25. gr., enda hafi búnaðurinn eða réttindin verið fyrir hendi við skoðun eða átt að fylgja samkvæmt lögum, kaupsamningi, öðrum gögnum eða venju. Í 25. gr. laganna er sérákvæði um fylgifé fasteignar sem ætluð er til landbúnaðar. Til slíks fylgifjár teljast tæki og búnaður sem annað tveggja er varanlega fest við hana eða er sérstaklega að henni sniðinn en ekki ökutæki ásamt búnaði þeirra. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 40/2002 sagði í 2. mgr. 25. gr. að greiðslumark bújarðar teldist ekki til fylgifjár hennar. Sú málsgrein var felld út úr frumvarpinu í meðförum Alþingis að tillögu allsherjarnefndar með þeim rökum í nefndaráliti að nefndin teldi heppilegra að fjallað yrði um greiðslumark sem fylgifé fasteignar samfara endurskoðun á jarðalögum sem ætti sér stað í landbúnaðarráðuneytinu. Í jarðalögum nr. 81/2004 er þó ekki að finna slíka umfjöllum. Þar sem ekkert bendir til þess að vilji löggjafans hafi verið sá að gagnstæð regla skyldi gilda um greiðslumark og vegna þess að mögulegt er að færa greiðslumark sauðfjár milli lögbýla, innleysa það og selja, sbr. 38. gr. búvörulaga nr. 99/1993, er hér lagt til grundvallar að greiðslumarkið teljist ekki til fylgifjár fasteignarinnar. 52. Samkvæmt öllu framangreindu er lagt til grundvallar að hið selda í þeim viðskiptum sem um ræðir hafi verið annars vegar fasteign sem samkvæmt sundurliðun í kaupsamningi hafi verið að verðmæti samtals 82.405.300 krónur og hins vegar önnur verðmæti sem fylgdu þeirri landbúnaðarstarfsemi sem rekin var á jörðinni, samtals að verðmæti 17.594.700 krónur. Tjón áfrýjenda vegna ágalla á fasteigninni í skilningi 18. gr. nemur samkvæmt framansögðu samtals 6.206.207 krónum og teljast þeir því hafa rýrt verðmæti hennar um 7,53%. 53. Í athugasemdum um 18. gr. með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 40/2002 sagði meðal annars: Þeir sem starfa við milligöngu um fasteignaviðskipti, t.d. fasteignasalar og þeir sem koma að deilumálum um galla á fasteignum, t.d. lögmenn, eru á einu máli um að brýn nauðsyn sé á slíku ákvæði. Ástæður þess eru einkum þær að oft vill brenna við að kaupendur hafi óraunhæfar væntingar um ástand og eiginleika þeirra eigna sem þeir kaupa, en leggja þó lítið upp úr þessu fyrir kaup, t.d. við skoðun. Oft hafa kaupendur á síðustu stigum greiðslna gert kröfur um bætur vegna galla, sem þeir telja vera á eign, og eru í raun smávægilegir og aðeins í samræmi við aldur og almennt ástand fasteignar. Valda slíkar kröfur oft deilum og málaferlum þar sem kostnaður við málatilbúnað er mikill, t.d. sérfræðikostnaður lögmanna og matsmanna, og stundum í engu samræmi við þær kröfur sem hafðar eru uppi. Er víst að koma má í veg fyrir margar þrætur með ákvæði eins og því sem hér er lagt til. Þá sagði svo í athugasemdunum: Ljóst er að orðin „rýri verðmæti hennar svo nokkru varði“ verða vandskýrð. Ekki er hægt að segja að þetta þýði að verðmætisrýrnunin verði að vera 10% til þess að galli teljist vera fyrir hendi. Ástæðan er sú að það er háð ýmsum atriðum hvort hægt sé að segja að galli rýri verðmæti eignar svo nokkru varði. Sé um nýlega fasteign að ræða er víst að minna þarf til en þegar um mjög gamlar fasteignir er að ræða. Almennt ástand og útlit fasteignar kann einnig að skipta máli. Kaupandi sem kaupir eign sem lítur mjög vel út og virðist í góðu ástandi þarf ekki að sætta sig við sama lágmark og sá sem kaupir eign sem bersýnilega er í slæmu ástandi. Þannig mætti áfram telja. Það kann að vera að 10% yrði talið hæfilegt lágmark um gamlar eignir, en væri of hátt um yngri eignir. Það er eðlilegt að dómstólar skýri slíkar reglur og móti þær með tíð og tíma í réttarframkvæmd þannig að smám saman verði ljóst hver lágmörkin eru. 54. Í fjölmörgum dómum Hæstaréttar hefur verið fjallað um hvort tilteknir ágallar á notuðum fasteignum ná gallaþröskuldi 18. gr. laga nr. 40/2002 en ekki hefur verið afmarkað með almennum hætti hversu hátt hlutfallið þarf að vera til þess að þröskuldinum væri náð. Í dómi réttarins 20. apríl 2005 í máli nr. 414/2004 nam hlutur kaupanda í viðgerðum á húsi 7,76% af kaupverði og það hlutfall talið vera undir lágmarki 18. gr. laga nr. 40/2002. Í dómi 9. mars 2006 í máli nr. 397/2005 nam kostnaður við að bæta úr ágöllum á fasteign 5,56% af kaupverði og töldust þeir ekki rýra verðmæti hennar svo nokkru varðaði. Í dómi 15. júní 2006 í máli nr. 7/2006 voru ágallar á fasteign aftur á móti metnir 11,6% af kaupverði og 18. gr. laga nr. 40/2002 ekki talin standa bótakröfu vegna galla í vegi. 55. Samkvæmt dómaframkvæmd eftir gildistöku laga nr. 40/2002 hafa ágallar á notuðum fasteignum sem nema allt að 7,76% af verðmæti þeirra ekki talist hafa náð þeim gallaþröskuldi sem 18. gr. kveður á um en ágallar sem nema 11,6% af verðmæti hafa hins vegar talist ná þeim þröskuldi. Ef litið er til fyrrnefndra ummæla í athugasemdum með frumvarpi til laganna geta rök hnigið að því að miða beri við lægra hlutfall en þau 10% sem þar er vísað til ef tilteknar aðstæður eru fyrir hendi, til dæmis ef um er að ræða tiltölulega nýlega fasteign eða hún hefur nýlega verið endurbætt verulega og virðist í góðu ástandi. 56. Íbúðarhúsið var eins og áður greinir byggt árið 1972. Fyrir liggur að það var klætt að utan árið 1999 og skipt um hluta af gluggum í því árið 2008. Þá hefur verið skipt um eldhúsinnréttingu. Íbúðarhúsið var því ekki nýlegt og ekki hefur verið ráðist í umfangsmiklar endurbætur á því. Af þeim ljósmyndum sem fylgdu söluyfirliti eða voru teknar við sama tækifæri verður ráðið að útlit íbúðarhússins samræmdist fyrirliggjandi upplýsingum um aldur þess. Breytir engu í því sambandi þótt í söluyfirliti hafi komið fram að íbúðarhúsið væri almennt í góðu standi. 57. Samkvæmt öllu framangreindu eru ekki efni til að telja að ágallar á hinni seldu fasteign í skilningi 18. gr. laga nr. 40/2002, sem nema 7,53% af kaupverði, rýri verðmæti hennar svo nokkru varði í skilningi greinarinnar. Verða stefndu því sýknuð af framangreindum kröfum áfrýjenda um skaðabætur eða afslátt öðrum en þeim sem falla samkvæmt framansögðu undir skaðabótaábyrgð þeirra samkvæmt 27. gr. laganna. Aðrar bótakröfur 58. Áfrýjendur krefja stefndu um 5.498.600 króna skaðabætur vegna kostnaðar við svokallað stöðuhýsi sem þeir telja að hafi verið nauðsynlegt að koma upp á jörðinni þar sem íbúðarhúsið hafi verið óíbúðarhæft eða mjög varasamt til langrar dvalar. Þeir vísa meðal annars til niðurstöðu úttektar verkfræðistofunnar Eflu um að það væri óíbúðarhæft vegna raka og myglu og að nokkru leyti til matsgerðar dómkvadds matsmanns. Fjárhæð kröfunnar byggist á niðurstöðu matsgerðar. Til vara byggja áfrýjendur á því að þeir eigi rétt til 2.400.000 króna bóta vegna afnotamissis en til þrautavara á þeirri niðurstöðu matsmanns að þrjá mánuði tæki að koma íbúðarhúsinu í íbúðarhæft ástand og því mati hans að tjón vegna þess afnotamissis væri 560.000 krónur. 59. Tjón sem rekja má til þess að fasteign kemur ekki að þeim notum sem með réttu var stefnt að telst vera óbeint tjón í skilningi b-liðar 2. mgr. 59. gr. laga nr. 40/2002 en skilyrði þess að unnt sé að krefjast skaðabóta vegna slíks tjóns er að það megi rekja til saknæmrar háttsemi seljanda, sbr. 2. mgr. 43. gr. sömu laga. 60. Það tjón áfrýjenda sem samkvæmt framansögðu má rekja til vanrækslu á upplýsingaskyldu stefndu og þeim ber að bæta á sakargrundvelli felst í kostnaði við úrbætur á gólfefnum og undirlagi undir þau. Dómkvaddur matsmaður taldi hins vegar myglu í húsinu leiða til þess að ekki væri heppilegt fyrir áfrýjendur að dvelja í því á þeim þremur mánuðum sem tæki að gera við húsið. Í matsgerðinni var hins vegar ekki metið sérstaklega hversu langan tíma tæki að lagfæra gólfefni eða hvort húsið yrði óíbúðarhæft af þeim sökum eingöngu. Þótt matsmaður hafi að beiðni áfrýjenda lagt mat á kostnað við uppsetningu á bráðabirgðahúsnæði á jörðinni og leigu á því í 13 mánuði er ekki unnt að fallast á að þeir ágallar á íbúðarhúsinu sem stefndu bera ábyrgð á geti leitt til þess að þeim beri jafnframt að bæta slíkt óbeint tjón vegna afnotamissis. Þá liggur fyrir að áfrýjendur leigðu íbúðarhúsið út í skammtímaleigu á þeim tíma sem þeir töldu það óíbúðarhæft en hafa ekki upplýst nánar um hversu langan tíma það var í útleigu. Samkvæmt framangreindu hafa áfrýjendur ekki sýnt fram á umfang óbeins tjóns vegna þeirra galla á íbúðarhúsinu sem stefndu bera ábyrgð á og verða stefndu því sýknuð af þeirri kröfu. 61. Sem fyrr segir krefja áfrýjendur stefndu um skaðabætur á grundvelli matsgerðar vegna annars vegar 1.344.000 króna kostnaðar við að moka út úr haughúsi og við dreifingu áburðar en hins vegar 487.200 króna kostnaðar við hreinsun vélageymslu og járnarusls af jörðinni. Stefndu telja með vísan til 1. mgr. 48. gr. laga nr. 40/2002 að áfrýjendur hafi glatað rétti til að bera fyrir sig þessar vanefndir þar sem þeirra hafi ekki verið getið fyrr en í matsbeiðni sem tekin var fyrir í héraðsdómi 16. mars 2018. Af hálfu stefndu var þessari málsástæðu ekki haldið fram fyrr en í greinargerð til Landsréttar en henni mótmælt sem of seint fram kominni í greinargerð áfrýjenda til Landsréttar. Í þessu fólst því ný málsástæða sem hvorki gat komist að fyrir Landsrétti né nú hér fyrir dómi, enda standa ekki til þess lagaskilyrði 2. mgr. 163. gr. og 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991 þar sem stefndu var í lófa lagið að byggja á þessari málsástæðu í öndverðu. 62. Ofangreindar bótakröfur falla undir ákvæði 10. gr. laga nr. 40/2002 sem varðar undirbúning afhendingar og mælir fyrir um að við afhendingu skuli seljandi hafa rýmt fasteign og ræst en samkvæmt c-lið 1. mgr. 30. gr. og 34. gr. laganna getur kaupandi að jafnaði krafist skaðabóta vegna slíkra vanefnda þótt ekki sé um saknæma háttsemi að ræða af hálfu seljanda. Með vísan til þeirra röksemda sem fram koma í hinum áfrýjaða dómi um þennan kröfulið var úrgangur í haughúsi nýttur árlega sem áburður á tún jarðarinnar og hluti af því sem tilheyrði búrekstri á jörðinni. Bar stefndu því ekki skylda til að hreinsa húsdýraáburð úr haughúsinu fyrir afhendingu 1. ágúst 2017 og verða þau því sýknuð af þessum kröfulið. 63. Í matsgerð var lagt mat á kostnað við hreinsun úr vélageymslu og á ýmsu lauslegu við gafl vélageymslu og undir barði vestan við húsin. Í matsgerð kemur fram að hluti þess sem áfrýjendur lýstu í matsbeiðni hafi verið vélarhlutar og efni sem ætla mætti að tilheyrði rekstri búsins og ekki væri óeðlilegt að væri skilið eftir við sölu á eigninni. Aftur á móti taldi matsmaður rétt að gömlum málningardósum og hlutum sem ekki væru nýtanlegir væri hent svo og lélegum hjólbörðum og felgum. Þá taldi hann að fjarlægja hefði átt járnarusl við húsin og undir barði vestan við þau. 64. Fyrir afhendingu hins selda bar stefndu með vísan til 10. gr. laga nr. 40/2002 skylda til að fjarlægja úr útihúsum og af jörðinni þá hluti og rusl sem ekki voru not fyrir við áframhaldandi búrekstur. Með vísan til framangreindrar niðurstöðu matsgerðar ber stefndu að bæta áfrýjendum 487.200 króna kostnað við hreinsun fasteignarinnar. 65. Samkvæmt öllu framangreindu ber stefndu að greiða áfrýjendum skaðabætur að fjárhæð samtals 1.366.299 krónur. Upphafstíma vaxta hefur ekki verið mótmælt sérstaklega og verða vextir og dráttarvextir því dæmdir eins og í dómsorði greinir. 66. Í samræmi við úrslit málsins og 3. mgr. 130. laga nr. 91/1991 verða stefndu dæmd til að greiða áfrýjendum hluta af málskostnaði þeirra á öllum dómstigum eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Stefndu, Einar Jónsson og Drífa Friðgeirsdóttir, greiði óskipt áfrýjendum, Jóhannesi Sigurðssyni, Magnúsi B. Jóhannessyni og Sigurði Eyberg Jóhannessyni, sameiginlega, 1.366.299 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2017 til 13. júlí 2018 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Stefndu greiði óskipt áfrýjendum sameiginlega samtals 1.500.000 krónur í málskostnað á öllum dómstigum. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=d63855f8-689b-4037-ab7d-5143e8b5d8ca&verdictid=406b6dc4-92f4-4c64-82f4-126cf61340b6
Mál nr. 48/2021
Kærumál Frávísunarúrskurður staðfestur Lögvarðir hagsmunir
Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá Landsrétti. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með úrskurði héraðsdóms hefði verið fallist á kröfu varnaraðila um að sóknaraðili yrði, ásamt öllu sem honum tilheyrði, borinn út úr tiltekinni fasteign og varnaraðila fengin umráð eignarinnar. Sóknaraðili hefði kært þann úrskurð til Landsréttar og krafist þess að hann yrði felldur úr gildi. Útburðargerð hefði farið fram í samræmi við hinn kærða úrskurð og henni hefði verið lokið 20. október 2021. Landsréttur hefði í kjölfarið vísað málinu sjálfkrafa frá réttinum með úrskurði 25. sama mánaðar. Þá kom fram í dómi Hæstaréttar að fyrir því væri löng dómvenja að áfrýjunardómstóll vísaði sjálfkrafa frá dómi máli sem skotið væri til hans með kæru í því skyni að fá fullnustugerð fellda úr gildi ef gerðinni væri lokið áður en unnt væri að ljúka efnislegri afgreiðslu kærumálsins. Við þessar aðstæður hefði kærandi ekki lengur verið talinn hafa lögvarða hagsmuni eða réttarhagsmuni af því að hinn kærði úrskurður kæmi til endurskoðunar. Hinn kærði úrskurður var því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. nóvember 2021 en kærumálsgögn bárust réttinum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 25. október 2021 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá Landsrétti. Kæruheimild er í 5. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti. 4. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Helstu málsatvik 5. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 9. september 2021 var fallist á kröfu varnaraðila um að sóknaraðili yrði, ásamt öllu sem honum tilheyrði, borinn út úr fasteigninni að Dalvegi 16b í Kópavogi og varnaraðila fengin umráð eignarinnar. Sóknaraðili kærði úrskurðinn til Landsréttar og krafðist þess að hann yrði felldur úr gildi. Útburðargerð fór fram í samræmi við hinn kærða úrskurð og var henni lokið 20. október 2021. Landsréttur vísaði málinu sjálfkrafa frá réttinum með úrskurði 25. sama mánaðar. Niðurstaða 6. Fyrir því er löng dómvenja að áfrýjunardómstóll vísi sjálfkrafa frá dómi máli sem skotið er til hans með kæru í því skyni að fá fullnustugerð fellda úr gildi ef gerðinni er lokið áður en unnt var að ljúka efnislegri afgreiðslu kærumálsins. Við þessar aðstæður hefur kærandi ekki lengur verið talinn hafa lögvarða hagsmuni eða réttarhagsmuni af því að hinn kærði úrskurður komi til endurskoðunar. Um þetta má vísa til dóms Hæstaréttar 30. apríl 2002 í máli nr. 185/2002, þar sem útburðargerð hafði þegar farið fram, en einnig dóma réttarins 2. september 2008 í máli nr. 388/2008 og 13. janúar 2012 í máli nr. 674/2011 sem lutu að annars konar gerðum. 7. Að framangreindu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. 8. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Kærumálskostnaður fellur niður. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=29b7a7fb-d317-421f-819a-42886a63ccb4&verdictid=9f225bb3-bda8-4b76-87a5-4013eed00184
Mál nr. 28/2021
Peningaþvætti Upptaka Ákæra Stjórnarskrá Sératkvæði
H var ákærður fyrir peningaþvætti samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa um nokkurt skeið fram til 15. maí 2017 aflað sér ávinnings að tilgreindri fjárhæð með refsiverðum brotum. Í niðurstöðu um formhlið málsins taldi Hæstiréttur að ekki væru efni til að vísa málinu frá héraðsdómi eða ómerkja hinn áfrýjaða dóm vegna ágalla á ákæru eða samningu dómsins. Um efnishlið málsins sagði að sönnunarbyrði hvíldi á ákæruvaldinu um það að ávinningur sem ákæra málsins lyti að stafaði af refsiverðum brotum en í því efni nægði að sanna að útilokað væri að ávinningurinn væri til kominn á lögmætan hátt. Vísað var til niðurstöðu Landsréttar um að skýringar ákærða á tilvist þeirra verðmæta sem fundust við húsleit væru ekki trúverðugar og að það mat yrði ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti samkvæmt 2. mgr. 255. gr. laga nr. 88/2008. Ákærði hefði hlotið ellefu dóma á árunum 2003 til janúar 2018, meðal annars fyrir þjófnað, fjársvik og fíkniefnalagabrot fram til ársins 2014 en þau brot væru öll til þess fallin að hafa auðgun í för með sér. Þá taldi rétturinn öll skjalleg sönnunargögn málsins hníga að þeirri niðurstöðu að útilokað væri að ávinningurinn væri af lögmætum toga. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu, upptöku eigna og refsingu H var því staðfest.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. júní 2021 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu og upptöku verði staðfest en að refsing ákærða verði þyngd. 3. Ákærði krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms, til vara að hann verði sýknaður en að því frágengnu að refsing hans verði milduð og að upptökukröfur ákæruvaldsins sæti lækkun. Ágreiningsefni 4. Með ákæru héraðssaksóknara 17. maí 2018 var ákærða gefið að sök peningaþvætti með því að hafa um nokkurt skeið fram til 15. maí 2017 aflað sér ávinnings að fjárhæð allt að 8.121.760 krónum með refsiverðum brotum. Þá var annar nafngreindur maður jafnframt ákærður fyrir peningaþvætti á hluta framangreinds ávinnings. Í verknaðarlýsingu ákærunnar segir að við húsleit lögreglu á dvalarstað ákærða hafi fundist 2.530.000 krónur af umræddu fé. Þar af hafi 465.000 krónur verið í rassvasa ákærða, 1.365.000 krónur undir rúmdýnu í herbergi hans og 700.000 krónur í leynihólfi bak við eldhúsinnréttingu. Hluta umrædds ávinnings hafi ákærði nýtt til kaupa á bifreið, af gerðinni Tesla, í Litháen 13. apríl 2017 og greitt fyrir hana 46.000 evrur sem jafngildir 5.591.760 krónum. Hluti þess fjár sem nýttur hafi verið til kaupa á bifreiðinni hefði verið fenginn með greiðslu frá tryggingafélagi vegna tjóns á annarri bifreið, af gerðinni Audi, sem meðákærði hefði keypt fyrir ákærða í júlí 2016, en fyrir hana hefði ákærði einnig greitt með ávinningi af refsiverðum brotum. Þetta var talið varða við 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var þess jafnframt krafist með vísan til 69. og 69. gr. b sömu laga að ákærða yrði gert að sæta upptöku á framangreindum ávinningi brotanna. 5. Ákærði var sakfelldur fyrir brot í samræmi við ákæru með héraðsdómi 23. nóvember 2018 og refsing hans ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Honum var jafnframt gert að sæta upptöku á 2.530.000 krónum og framangreindri bifreið með vísan til 69. og 69. gr. b almennra hegningarlaga. Meðákærði var einnig sakfelldur fyrir peningaþvætti og undi hann dóminum. Með dómi Landsréttar 29. janúar 2020 var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða og upptöku staðfest en refsing hans ákveðin fangelsi í 20 mánuði en ákærða var dæmdur hegningarauki vegna annarra eldri dóma auk þess sem dómur sem kvað á um sex mánaða skilorðsbundna fangelsisrefsingu ákærða var tekinn upp. 6. Með ákvörðun Hæstaréttar 4. júní 2021 var veitt leyfi til að áfrýja málinu til réttarins. Í ákvörðuninni sagði að líta yrði svo á að úrlausn um beitingu 69. gr. b og 264. gr. almennra hegningarlaga myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Málsatvik 7. Ákærði var handtekinn 15. maí 2017 vegna gruns um aðild að stórfelldu broti gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Sama dag gerði lögregla húsleit á dvalarstað hans í Kópavogi. Við leitina fundust meðal annars, svo sem fyrr greinir, 2.530.000 krónur í reiðufé sem lögregla lagði hald á. Við leitina fundust einnig kvittanir og kaupsamningur vegna kaupa á Tesla-bifreið 13. apríl 2017 þar sem fram kemur að fyrirtækið C sé seljandi bifreiðarinnar og að ákærði og félagið B ehf. séu kaupendur hennar. Kaupverðið er þar tilgreint 46.000 evrur eða 5.591.760 krónur. 8. Í kjölfar handtöku og húsleitar yfirheyrði lögregla ákærða og var sakarefnið kynnt sem fíkniefnalagabrot. Við það tilefni neitaði hann að tjá sig um reiðufé sem fannst í eldhúsinnréttingu en kvaðst hins vegar eiga reiðufé sem fannst undir rúmdýnu hans. Hann hefði tekið það út úr banka sex vikum áður vegna þess að hann skuldaði bankanum peninga og vildi því ekki hætta á að geyma þá þar. Spurður um uppruna fjárins kvaðst hann hafa fengið það lánað. Ákærði kannaðist við að hafa flutt inn bifreið þá sem í ákæru getur og kvaðst hafa greitt 46.000 evrur fyrir hana. Hluta kaupverðsins hefði hann fengið að láni en fjármagnað kaupin að hluta til með tryggingabótum vegna annarrar bifreiðar í hans eigu sem hefði skemmst. Ákærði tók fram að vinur hans hefði átt peningana sem fundust í vasa hans. 9. Lögregla yfirheyrði ákærða aftur 30. maí 2017 og var honum kynnt að tilefni yfirheyrslunnar væri meint brot gegn 264. gr. almennra hegningarlaga um peningaþvætti. Ákærði kvaðst engar eignir eiga og vera gjaldþrota. Hann „stundaði bílabrask“ en gæfi ekki upp tekjur af því. Spurður um færslur á debetkortareikningi sínum, meðal annars um útgreiðslur af honum til ýmissa aðila, bar ákærði að hann hefði í einhverjum tilvikum lánað fólki peninga. Ákærði kannaðist við að hafa keypt bifreið af gerðinni Tesla í Litháen fyrir þá fjárhæð sem í ákæru greinir og greitt fyrir hana í reiðufé. Bifreiðina hefði hann ætlað að kaupa í gegnum einkahlutafélagið B þar sem „hann mætti ekki eiga neitt“. Hann hefði fjármagnað kaupin með andvirði bifreiðar af gerðinni Audi Q7 sem hefði skemmst en bætur frá tryggingafélaginu hefðu numið 2.200.000 krónum. Síðastnefnd bifreið hefði raunverulega verið í hans eigu en skráð á meðákærða og hefði sá síðarnefndi staðfest það fyrir dómi. Ákærði hefði síðan brúað bilið, 3.200.000 krónur, með láni í reiðufé frá manni sem hann vildi ekki nafngreina. Þá neitaði hann að tjá sig um hvernig umræddar bifreiðar væru skráðar. 10. Meðákærði í héraði var yfirheyrður 15. maí 2017. Kvaðst hann eiga reiðuféð sem fannst undir rúmdýnu ákærða og ekki hafa vitað um peningana sem fundust í eldhúsinnréttingu. Hann var yfirheyrður á ný 23. júní sama ár og kvaðst þá hafa verið skráður eigandi Audi-bifreiðar þeirrar sem ákærði hefði átt og fengið bætta af tryggingafélagi eftir að hún skemmdist. Það fé hefði ákærði fengið en meðákærði keypt evrur fyrir ákærða og nýtt til þess framangreindar bætur og peninga sem meðákærði hefði látið sig fá. 11. Við aðalmeðferð málsins í héraði neitaði ákærði sök. Hann kvaðst engar athugasemdir hafa við lýsingu í ákæru á því að umræddir peningar hefðu fundist við húsleit, hvorki er varðaði fjárhæð né þá staði sem þar voru tilgreindir. Hann kvaðst eiga umrætt reiðufé. Það sem fannst undir rúmdýnu hefði upprunalega verið frá nafngreindri vinkonu hans sem hefði lánað honum fjárhæðina en að öðru leyti bar hann fyrir sig minnisleysi um nánari atvik. Þá hefði maður að nafni D beðið hann um að millifæra „fyrir fasteign“ og látið hann hafa reiðufé í staðinn um það bil tveimur vikum fyrir húsleitina. Ákærði kvaðst hafa vitað af leynihólfi í eldhúsinnréttingu og að peningar í því hefðu verið frá D. Fjárhæðin sem fannst í vasa hans hefði verið fyrir leigu. Hann hefði ekki viljað nefna D áður við skýrslutökur þar sem hann hefði verið handtekinn fyrir fíkniefnainnflutning. Spurður um millifærslur inn á reikning sinn frá aðilum með nokkurn afbrotaferil, kvað hann þá vera vini sína og að þeir væru með sama brotaferil og hann sjálfur. Þá kannaðist hann við að hafa keypt bifreið af gerðinni Tesla með þeim hætti sem í ákæru greinir. Spurður hvers vegna bifreiðin hefði verið keypt fyrir reiðufé bar ákærði að það hefðu verið páskar, bankinn lokaður og að seljandi hefði ekki getað haldið bifreiðinni fyrir hann lengur. Hann hefði ætlað að kaupa bifreiðina í gegnum einkahlutafélagið B og fengið umboð til þess þótt fjármögnunin hefði öll verið „fyrir utan fjárhag félagsins“. Spurður hvers vegna skuldabréf vegna kaupa á Teslunni hefði verið dagsett tveimur dögum eftir árekstur á Audi-bifreiðinni, kvað ákærði að hann hefði verið búinn að ákveða að kaupa Tesluna til að selja hana hvernig sem þau kaup yrðu fjármögnuð. 12. Meðákærði kom einnig fyrir héraðsdóm og bar á sama veg og fyrir lögreglu hvað varðaði þau atriði ákærunnar sem lutu að ákærða. Fyrir héraðsdóm kom meðal annarra eiginkona fyrrverandi eiganda einkahlutafélagsins B og kvað starfsemi þess lúta að […] sonar síns sem er stjúpfaðir ákærða. Ákærði hefði enga aðkomu haft að félaginu og hún ekki vitað um innflutning bifreiðar á nafni félagsins. Vitnið E kvaðst hafa lánað fjármuni á grundvelli skuldabréfsins í þeim tilgangi að aðstoða ákærða við að fjármagna kaup á bifreið sem skyldi flytja inn til landsins. 13. Samkvæmt skattframtölum ákærða voru tekjur hans á árinu 2015 samtals 1.187.045 krónur frá Tryggingastofnun ríkisins. Ákærði og sambýliskona hans voru samsköttuð og hafði hún samkvæmt skattframtalinu 1.062.500 krónur í tekjur. Þá námu innstæður þeirra í banka samtals 695.837 krónum í lok framangreinds tekjuárs. Engar aðrar eignir voru taldar fram á skattframtalinu og námu skuldir þeirra samtals 3.200.897 krónum í árslok. Tekjur ákærða á árinu 2016 voru 2.608.307 krónur frá Tryggingastofnun ríkisins. Sambýliskona ákærða hafði samkvæmt skattframtali 1.150.000 krónur í tekjur. Þá námu innstæður þeirra í banka samtals 1.346.951 krónu í lok framangreinds tekjuárs. Engar aðrar eignir voru taldar fram og námu skuldir samtals 2.971.525 krónum í árslok. 14. Í gögnum málsins er greinargerð lögreglu um fjármál ákærða tímabilið 1. janúar 2016 til 11. maí 2017 sem byggist á rekjanlegum útgjöldum hans á tímabilinu. Þar kemur fram að afkoma hans hafi verið neikvæð um 7.581.758 krónur á tímabilinu. 15. Meðal gagna málsins er skuldabréf útgefið af ákærða fyrir hönd einkahlutafélagsins B þar sem það viðurkennir að skulda tilgreindum manni 3.000.000 krónur. Ákærði er skráður sjálfskuldarábyrgðaraðili. 16. Með dómi héraðsdóms 23. nóvember 2018 var ákærði sakfelldur fyrir peningaþvætti í samræmi við ákæru. Í forsendum dómsins var vísað til fjárhags ákærða og brotaferils hans til stuðnings sakfellingu hans. Fram kom að hann væri öryrki og hefði ekki haft aðrar tekjur en bætur frá Tryggingastofnun. Þá ætti hann engar eignir samkvæmt skattframtölum. Gerð var grein fyrir skýringum ákærða á peningunum sem fundust við húsleit. Hann hefði ýmist ekki getað skýrt hvaðan þeir væru komnir eða nafngreint aðila sem hann kvað tengjast peningunum. Ákærði hefði þó borið að hafa stundað bílabrask en þau viðskipti væru ekki opinberlega skráð. Þá var framburður vitnis sem bar um að hafa lánað ákærða fé samkvæmt skuldabréfi metinn ótrúverðugur. Með vísan til þessa var talið að næg sönnun væri komin fram um að ákærði hefði aflað sér peninga og bifreiða með peningaþvætti eins og í ákæru greindi. 17. Í hinum áfrýjaða dómi kom fram að ákærði hefði játað fyrir héraðsdómi að hafa átt þá peninga sem haldlagðir voru á heimili hans og að hafa keypt umrædda bifreið. Ákvæði 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga var rakið og vísað til þess að þrátt fyrir breytingar sem gerðar hefðu verið á því með lögum nr. 149/2009 röskuðu þær í engu þeirri skýringu sem fram kæmi í dómi Hæstaréttar 8. nóvember 2001 í máli nr. 200/2001, sbr. einnig dóm réttarins 2. desember 2010 í máli nr. 495/2010. Ákvæðið væri því skýrt svo að þótt áskilið væri að um ávinning væri að ræða af broti yrði með tilliti til eðlis og tilgangs ákvæðisins ekki gerð sú krafa að nákvæmlega lægi fyrir hvert brotið væri heldur yrði að meta í ljósi atvika hverju sinni hvort sýnt væri nægilega fram á að ávinningur væri ekki af lögmætum toga. Um fjármál ákærða 1. janúar 2016 til 11. maí 2017 var vísað til greinargerðar lögreglu. Taldi rétturinn að ákærði hefði ekki gefið trúverðugar skýringar á misræmi í útstreymi fjár af reikningum sínum og skráðum tekjum á sama tímabili. Þá hefði ákærði verið sakfelldur í tveimur sakamálum á árunum 2017 og 2018 sem meðal annars hefðu varðað fíkniefnalagabrot og innflutning fíkniefna til söludreifingar. Þannig hefðu brot hans verið til þess fallin að hafa í för með sér verulegan fjárhagslegan ávinning. Með hliðsjón af framangreindu og eins og atvikum væri að öðru leyti háttað taldi rétturinn að ákæruvaldinu yrði ekki gert að tilgreina frumbrot ákærða frekar en gert hefði verið í ákæru enda ekki ákært fyrir það eða þau brot. Að framangreindu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms taldi Landsréttur hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hefði á umræddum tíma aflað sér ávinnings allt að umræddri fjárhæð með refsiverðum brotum. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot hans var hegningarauki við þrjá eldri dóma, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga og var einn þeirra skilorðsdómur sem tekinn var upp og dæmdur með í málinu, sbr. 60. gr. laganna. Málatilbúnaður aðila Röksemdir ákæruvalds 18. Ákæruvaldið byggir kröfu sína um sakfellingu ákærða á því að gögn málsins sýni að hann hafi ekki haft tekjur sem útskýri útgjöld hans. Skýringar hans bæti þar engu við og hafi verið „með ólíkindablæ“. Þá hafi umræddar bifreiðar verið fjármagnaðar með afrakstri af brotastarfsemi enda sjáist þess hvorki merki að ákærði eða meðákærði hafi greitt af reikningum sínum við kaup þeirra né að ákærði hafi verið borgunarmaður fyrir kaupverði. Loks komi sönnunarmat á munnlegum framburði ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. 19. Til stuðnings upptökukröfu í ákæru byggir ákæruvaldið á því að skilyrði 1. og 2. töluliðar 1. mgr. 69. gr. b almennra hegningarlaga séu uppfyllt um að ákærði hafi gerst sekur um brot sem varðað geti að minnsta kosti sex ára fangelsi og sé til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning. Vísað er til þess að krafa um upptöku byggist ekki eingöngu á því að peningaþvættisbrotið uppfylli skilyrði fyrrnefnds ákvæðis og vísar ákæruvaldið til fyrri refsidóma sem ákærði hefur hlotið, meðal annars vegna fíkniefnalagabrota. Ekki sé áskilið að krafa um upptöku sé höfð uppi í því máli þar sem dæmt er um refsiverða háttsemi ákærða. Við mat á skilyrðum 4. mgr. ákvæðisins verði að hafa í huga að greiðslur frá Tryggingastofnun hafi engan veginn getað dugað til framfærslu ákærða og löglíkur séu fyrir því að hann hafi að miklu leyti séð sér farborða með ávinningi af brotastarfsemi. Röksemdir ákærða 20. Kröfu um ómerkingu hins áfrýjaða dóms byggir ákærði í fyrsta lagi á því að framsetning sakargifta samkvæmt ákæru sé svo óljós að fari í bága við c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Tilgreiningu á tímasetningu hins ætlaða brots í ákæru sé verulega ábótavant. Ætluð refsiverð brot ákærða sem hinn meinti ávinningur sjálfsþvættis eigi að stafa frá séu ekki tilgreind, hvorki brotategund né heiti ætlaðs frumbrots. Í öðru lagi skorti alfarið rökstuðning í hinum áfrýjaða dómi fyrir niðurstöðu hans um upptöku í andstöðu við f- og g-liði 2. mgr. 183. gr., sbr. 210. gr. laga nr. 88/2008. Í þriðja lagi hafi ákærði verið sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Enga tilvísun sé að finna til 2. mgr. ákvæðisins í hinum áfrýjaða dómi enda þótt meintri refsiverðri háttsemi sé lýst sem sjálfsþvætti í verknaðarlýsingu. Gæti þannig ekki samræmis á milli lýsingar á meintri háttsemi í ákæru og þess hegningarlagaákvæðis sem ákærði sé sakfelldur fyrir. 21. Sýknukrafa ákærða er byggð á því að ákæruvaldið hafi ekki axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvílir, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008. Ákærði telur að túlkun hins áfrýjaða dóms á dómi Hæstaréttar í máli nr. 200/2001 sé röng. Dómafordæmi Hæstaréttar feli ekki í sér að ekkert þurfi að liggja fyrir um hvert frumbrot er. Þá sé röksemdafærsla hins áfrýjaða dóms, þar sem vísað sé til brotaferils ákærða til stuðnings niðurstöðunni, í andstöðu við þá meginreglu við sönnunarmat að meta skuli sjálfstætt hvort sönnun hefur tekist um hvert einstakt brot. Þá mótmælir ákærði niðurstöðum fjármálagreiningar lögreglu einkum varðandi útreikninga á lífeyri hans og um mánaðarleg útgjöld ákærða. 22. Ákærði byggir á því að skilyrði 69. gr. b almennra hegningarlaga séu ekki uppfyllt. Þá vísar hann til þess að skilyrðum ákvæðisins verði ekki talið fullnægt með því einu að brot gegn 1. mgr. 264. gr. sömu laga geti varðað 6 ára fangelsi enda sé honum gefið að sök svonefnt sjálfsþvætti. Eðli máls samkvæmt geti menn ekki aflað sér fjárhagslegs ávinnings af því. Þá hafi Landsréttur ekki tekið afstöðu til varna ákærða um að hann hafi sýnt fram á að verðmætanna hafi verið aflað á lögmætan hátt. Niðurstaða Niðurstaða um formhlið málsins 23. Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Sú krafa er annars vegar byggð á því að tilteknir ágallar hafi verið á ákæru í málinu en hins vegar á því að samning dóms hafi að tvennu leyti ekki uppfyllt áskilnað laga nr. 88/2008. 24. Í c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um að í ákæru skuli greina svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga og stjórnvaldsfyrirmæla, ef því er að skipta. Teljist ákæra ekki uppfylla lágmarkskröfur 1. mgr. 152. gr. laganna, þar með talið þær kröfur um skýrleika sem fram koma í c-lið málsgreinarinnar, leiði það til frávísunar málsins frá héraðsdómi með eða án kröfu ákærða en ekki til ómerkingar hins áfrýjaða dóms líkt og ákærði gerir kröfu um. Þrátt fyrir það er rétt að taka til skoðunar hvort ákæra í máli þessu telst nægilega skýr til þess að dómur verði lagður á málið. Við þá skoðun verður að hafa í huga að í d-lið 1. mgr. 152. gr., sem var nýmæli í lögum nr. 88/2008, er mælt fyrir um að í ákæru skuli greina svo glöggt sem verða má þær röksemdir sem málsókn er byggð á, ef þörf krefur, svo sem ef mál er flókið eða umfangsmikið. Röksemdafærslan skuli þá vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftir eru. Í athugasemdum um d-lið með frumvarpi til laganna var ákvæðið skýrt á þann veg að stundum væri ekki nægilegt að greina í ákæru þau atriði sem talin væru upp í c-lið til þess að ákærða mætti vera ljóst hverjar þær sakir væru sem á hann væru bornar. Því til viðbótar gæti þurft að gera frekari grein fyrir þeim, til dæmis með því að skýra það ákvæði sem háttsemi ákærða væri heimfærð til og sýna fram á, með vísun til málsatvika, hvers vegna háttsemin væri talin falla undir það ákvæði. 25. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar eftir gildistöku laga nr. 88/2008 hefur kröfunni um skýrleika ákæru verið beitt með þeim hætti að lýsing á háttsemi sem ákærða er gefin að sök í ákæru verði að vera svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni og þeim röksemdum sem færðar kunna að vera fyrir sakargiftum á hendur honum hvaða refsiverðu háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa brotið. Ekki megi vera slík tvímæli um það hverjar sakargiftirnar eru að með réttu verði ákærða ekki talið fært að taka afstöðu til þeirra og halda uppi vörnum gegn þeim, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 og a-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Ákæra verður og að vera svo skýr að þessu leyti að dómara sé fært af henni einni að gera sér grein fyrir því um hvað ákærði er sakaður og hvernig telja má þá háttsemi refsiverða. Í þessum efnum verður ákæra að leggja fullnægjandi grundvöll að máli þannig að fella megi dóm á það samkvæmt því sem í henni segir, enda verður ákærði ekki dæmdur fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008, sbr. og dóm Hæstaréttar 10. desember 2012 í máli nr. 703/2012. 26. Þess er jafnframt að gæta að lýsing á ætlaðri refsiverðri háttsemi ákærða þarf að samsvara verknaðarlýsingu í því refsiákvæði eða þeim refsiákvæðum sem honum er gefið að sök að hafa brotið gegn. Það getur þannig ráðist af brotategund og eðli brots hversu miklar kröfur verða gerðar til nákvæmni um lýsingu á einstökum þáttum verknaðar, svo sem hvaða háttsemi ákæran lýtur að og á hvaða tíma eða tímabili brot hafi verið framið. 27. Háttsemi sú sem ákærða er gefin að sök er heimfærð undir 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Þar er tilgreint að refsivert sé að nýta eða afla sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum. Um skýrleika ákæru sem lýtur að peningaþvætti verði að líta til eðlis slíkra brota og framangreindrar verknaðarlýsingar. Þá er tekið fram í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 10/1997 og bættu ákvæði um peningaþvætti í almenn hegningarlög að líta beri á peningaþvætti sem sjálfstætt brot sem refsað verði fyrir þótt ekki sé samhliða ákært fyrir tiltekið frumbrot. Gildissvið 264. gr. almennra hegningarlaga var fært til núverandi horfs með lögum nr. 149/2009 og tekur það nú til ávinnings af öllum refsiverðum brotum. 28. Við mat á því hvort ákæra í máli þessu telst nægilega skýr ber einnig að líta til athugasemda við peningaþvættisákvæðið í frumvarpi því sem varð að fyrrnefndum lögum nr. 149/2009. Þar er tekið fram að meginmarkmiðið með því að gera háttsemina refsiverða sé að höggva að rótum afbrota með því að uppræta aðalhvata þeirra, þann ávinning sem af þeim kann að leiða og um það vísað til fyrrnefnds dóms Hæstaréttar í máli nr. 200/2001. Samkvæmt því er rétt að líta svo á að það markmið að sporna við viðtöku, nýtingu og öflun ávinnings af refsiverðum brotum sé þungamiðja ákvæðisins. Lýsing peningaþvættisbrots í ákæru hlýtur að taka mið af því. 29. Í fyrrnefndum athugasemdum er jafnframt vísað til eftirfarandi forsendna fyrrgreinds dóms Hæstaréttar: Í 1. mgr. 264. gr. hegningarlaganna er áskilið að um ávinning sé að ræða af broti samkvæmt þeim lögum. Þegar litið er til eðlis og tilgangs ákvæðisins þykir hins vegar ekki verða gerð sú krafa, að fyrir liggi, hvaða brot sé nákvæmlega um að ræða. Verður að meta í ljósi atvika hverju sinni, hvort sýnt sé nægilega fram á að ávinningur sé ekki af lögmætum toga, heldur stafi hann frá broti á lögunum. 30. Samkvæmt framansögðu þarf að koma fram í ákæru vegna peningaþvættis að ávinningur sem ákært er vegna stafi af refsiverðu broti en ekki nákvæm tilgreining á því hvert frumbrotið var og heldur ekki hvaða tegund brots eða brota var um að ræða. Hins vegar þarf í ákæru að greina frá og afmarka að hvaða verðmætum ávinningurinn lýtur. Undir rekstri málsins þarf ákæruvaldið að sanna að ávinningurinn stafi af refsiverðu broti og nægir þar að sýna fram á með óyggjandi hætti að útilokað sé að ávinningurinn sé kominn til með lögmætum hætti. 31. Í ákæru í máli þessu er ákærða gefið að sök peningaþvætti með því að hafa um nokkurt skeið fram til 15. maí 2017, aflað sér ávinnings að fjárhæð allt að 8.121.760 krónum með refsiverðum brotum. Í framhaldinu er hinum ætlaða ávinningi lýst, hvar sá hluti hans sem fólst í reiðufé fannst og hvernig hluti hans var nýttur til kaupa á bifreið. Í röksemdum í ákæru var lýst ellefu dómum sem ákærði hlaut frá desember 2003 til janúar 2018, meðal annars vegna þjófnaðar, fjársvika og fíkniefnalagabrota fram til ársins 2014. 32. Peningaþvættisbroti ákærða er aðeins markaður tími með þeim hætti að það hafi staðið yfir um nokkurt skeið fram til 15. maí 2017 en upphafstími þess ekki nánar tilgreindur. Þótt slík tilgreining á brotatímabili í ákæru sé ekki nákvæm er til þess að líta að í dómum Hæstaréttar þar sem reynt hefur á sambærilega afmörkun verknaðartíma í ákærum vegna peningaþvættis hefur skýrleika ákæru ekki verið talið ábótavant, sbr. meðal annars fyrrnefndan dóm réttarins í máli nr. 495/2010, dóma réttarins 27. september 2012 í máli nr. 122/2012, 6. febrúar 2013 í máli nr. 457/2013 og 5. febrúar 2015 í máli nr. 52/2014. 33. Samkvæmt öllu framangreindu voru ekki þeir ágallar á ákæru í málinu að ákærði gæti ekki af henni ráðið hvaða refsiverðu háttsemi hann var sakaður um. Ákærða var þannig fært að taka afstöðu til sakargifta og halda uppi vörnum gegn þeim. Þá var dómurum fært af henni einni að gera sér grein fyrir því um hvað ákærði var sakaður og hvernig telja mátti þá háttsemi refsiverða. Með ákærunni var þannig lagður fullnægjandi grundvöllur að málinu þannig að fella mætti dóm á það. Ekki er því tilefni til að vísa málinu frá dómi á þeim grunni að ákæra hafi ekki uppfyllt kröfur c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. 34. Ákærði byggir kröfu sína um ómerkingu dóms Landsréttar meðal annars á því að hann hafi þar verið sakfelldur á grundvelli ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga en enga tilvísun hafi verið að finna í dóminum til 2. mgr. sömu greinar enda þótt í verknaðarlýsingu sé hinni meintu refsiverðu háttsemi lýst sem sjálfsþvætti. Gæti þannig ekki samræmis á milli lýsingar á hinni ætluðu háttsemi í ákæru og þess refsiákvæðis sem ákærði hafi verið sakfelldur fyrir brot gegn í dómi Landsréttar. 35. Ákvæði 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga er ætlað að taka til peningaþvættis þegar fyrir liggur að um er að ræða ávinning af eigin brotastarfsemi en slíkt brot hefur verið nefnt sjálfsþvætti. Í ákæru er hvergi vikið að sjálfsþvætti og um háttsemi ákærða er ekki vísað til 2. mgr. 264. gr. Þar er ekki tekin afstaða til þess hvort ákærði hafi aflað sér ávinnings með brotum annarra eða eigin brotum. Í ákærunni er eingöngu vísað til þess að ákærði hafi hlotið dóma meðal annars fyrir fíkniefnalagabrot og fyrir innflutning og söludreifingu og í því sambandi nefndir tveir dómar frá árinu 2017 og 2018. Í þessum dómum var ákærði meðal annars sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot í félagi við aðra. 36. Landsrétti var því rétt að meta heimfærslu brotsins til refsiákvæðis í ákæru í ljósi eðlis þeirrar refsiverðu háttsemi sem ákærði hefur sannarlega áður verið dæmdur fyrir, meðal annars í félagi við aðra og þeirra takmörkuðu krafna sem gerðar verða til tilgreiningar á og sönnunar um af hvaða refsiverðu brotum ávinningur stafar samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Það var því ekki í andstöðu við f- og g-liði 2. mgr. 183. gr. sbr. 210. gr. laga nr. 88/2008 að ekki var í hinum áfrýjaða dómi tekin afstaða til refsinæmi háttsemi ákærða með hliðsjón af 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga enda háttsemin ekki heimfærð undir það ákvæði í ákæru. 37. Ákærði telur jafnframt að röksemdir fyrir niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um hvernig skilyrði 1. og 2. töluliðar 1. mgr. 69. gr. b almennra hegningarlaga væru uppfyllt hafi ekki samræmst áskilnaði f- og g-liða 2. mgr. 183. gr., sbr. 210. gr. laga nr. 88/2008. 38. Í dómi Landsréttar var um sönnun fyrir peningaþvætti meðal annars vísað til greinargerðar lögreglu um fjármál ákærða á tímabilinu 1. janúar 2016 til 11. maí 2017 þar sem gerð er grein fyrir mismun á tekjum hans og útstreymi fjár af bankareikningi hans. Talið var að hann hefði ekki gefið trúverðugar skýringar á þessum mismun. Þá var vísað til brota sem hann var dæmdur fyrir fram til ársins 2018 og af þeim dregin sú ályktun að hann hefði verið „viðriðinn ólögleg ávana- og fíkniefni“ nokkru áður en atburðir þeir gerðust er málið varðaði og að brot hans hefðu verið til þess fallin að hafa í för með sér verulegan ávinning. Að öðru leyti var vísað til forsendna héraðsdóms og talið að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að ákærði hefði um nokkurt skeið fram til 15. maí 2017 aflað sér ávinnings að fjárhæð allt að 8.121.760 krónum með refsiverðum brotum. 39. Um upptökukröfu sagði það eitt í dómi Landsréttar að ákvæði héraðsdóms þar um væri staðfest. Til þess verður þó að líta að í umfjöllun í dómi Landsréttar um sönnun fyrir peningaþvættisbroti ákærða var sem fyrr segir vísað til þeirra dóma sem hann hlaut fyrir þjófnað, fjársvik og fíkniefnalagabrot og komist að þeirri niðurstöðu að brot hans hefðu verið til þess fallin að hafa í för með sér verulegan ávinning. Í 1. og 2. tölulið 1. mgr. 69. gr. b almennra hegningarlaga eru sett þau skilyrði fyrir upptöku verðmæta sem tilheyra einstaklingi sem gerst hefur sekur um brot að það sé til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning og að það brot geti varðað að minnsta kosti sex ára fangelsi. Öll þau brot sem vísað er til í dómi Landsréttar varða að minnsta kosti sex ára fangelsi. Í fyrrgreindum forsendum dómsins er þannig augljóslega tekin afstaða til þeirra skilyrða sem gerð eru fyrir upptöku í 69. gr. b almennra hegningarlaga. 40. Þótt forsendur dóms Landsréttar um upptöku mættu vera fyllri eru ekki að þessu leyti þeir ágallar á dóminum að kröfum f- og g-liða 2. mgr. 183. gr., sbr. 210. gr. laga nr. 88/2008, teljist ekki hafa verið mætt. 41. Samkvæmt öllu framangreindu eru ekki tilefni til að ómerkja dóm Landsréttar. Niðurstaða um efnishlið málsins 42. Í 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga kemur fram að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að 6 árum. Þá segir í 2. mgr. að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. skuli sæta sömu refsingu og þar greinir og ákvæði 77. gr. laganna gildi þá eftir því sem við eigi. 43. Refsiákvæði í íslenskum rétti sem ætlað er að sporna gegn peningaþvætti eiga uppruna sinn í lögum nr. 80/1993 um aðgerðir gegn peningaþvætti. Með lögum nr. 10/1997, um breyting á almennum hegningarlögum o.fl., voru gerðar umtalsverðar breytingar á refsiákvæðum um peningaþvætti og með 4. gr. laganna kom nýtt ákvæði um peningaþvætti inn í 264. gr. almennra hegningarlaga. Það var síðan með 7. gr. laga nr. 149/2009 sem ákvæðinu var breytt í núverandi horf. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laganna segir að við breytingar á ákvæðinu sé horft til 6. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi frá 15. nóvember 2000, svonefnds Palermo-samnings, og athugasemda í skýrslu FATF (Financial Action Task Force) um aðgerðir gegn peningaþvætti á Íslandi frá 13. október 2006. Með breytingunni sé gildissvið peningaþvættisbrotsins samkvæmt 1. mgr. 264. gr. rýmkað þannig að það taki ekki einungis til frumbrota á almennum hegningarlögum heldur einnig refsiverðra frumbrota á öðrum lögum sem fullnægi að öðru leyti hlutrænum og huglægum efnisskilyrðum ákvæðisins. Jafnframt væri markmið lagabreytingarinnar að gera ákvæðið skýrara með því að orða í lokamálslið 1. mgr. greinarinnar sérstaklega þær verknaðaraðferðir sem slíkt brot tæki til, með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 6. gr. Palermo-samningsins. Við túlkun einstakra verknaðarþátta yrði sem fyrr að horfa til þess að peningaþvætti væri í megindráttum hver sú starfsemi sem lyti að því að fela uppruna og eiganda fjár sem væri ávinningur af brotastarfsemi. Svo sem fyrr var lýst var meginmarkmiðið að gera háttsemina refsiverða og höggva að rótum afbrota með því að uppræta aðalhvata þeirra, þann ávinning sem af þeim kynni að leiða. 44. Þá var með fyrrgreindum lögum nr. 149/2009 lögfest fyrrnefnt ákvæði um sjálfsþvætti í 2. mgr. 264. gr. Fram kemur í athugasemdum í greinargerð með frumvarpinu að með málsgreininni sé horft til athugasemda í skýrslu FATF-nefndarinnar um að óljóst væri hvort gildandi lagareglur tækju til sjálfsþvættis. Þá segir enn fremur að þar sem frumbrot og síðar tilkomið sjálfsþvætti á ávinningi sem af því stafi verði þannig tvö sjálfstæð brot væri áréttað að 77. gr. almennra hegningarlaga um brotasamsteypu gilti eftir því sem við ætti. 45. Í áður tilvitnuðum dómi Hæstaréttar í máli nr. 200/2001, sem laut að ákæru fyrir peningaþvætti sem talin var varða við þágildandi 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, kom sem fyrr segir fram að í 1. mgr. 264. gr. hegningarlaganna væri áskilið að um ávinning væri að ræða af broti samkvæmt þeim lögum. Yrði að meta í ljósi atvika hverju sinni hvort sýnt væri nægilega fram á að ávinningur væri ekki af lögmætum toga heldur stafaði frá broti á lögunum. 46. Í dómi Hæstaréttar 2. desember 2010 í máli nr. 495/2010 var einn ákærðu sýknaður af tilteknu fíkniefnalagabroti en hins vegar sakfelldur fyrir peningaþvætti vegna fjármuna sem fundust í bankahólfi og hann var talinn eiga. Sakfellingin í héraði var studd þeim rökum að hann hefði haft mjög miklar ráðstöfunartekjur umfram skráðar tekjur og hann ekki getað gefið trúverðugar skýringar á þeim. Ákærði hefði ítrekað áður gerst sekur um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Hæstiréttur staðfesti sakfellinguna með svipuðum rökum og að framan greinir í dómi réttarins í máli nr. 200/2001 en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms þar sem við sönnunarmat var meðal annars tekin afstaða til framburðar ákærða og vitna. 47. Eins og rakið hefur verið er ákærða gefið að sök peningaþvætti með því að hafa um nokkurt skeið fram til 15. maí 2017 aflað sér ávinnings að fjárhæð allt að 8.121.760 krónum með refsiverðum brotum og er brotið talið varða við 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Á ákæruvaldinu hvílir sönnunarbyrði um það að ávinningur sem ákæra málsins lýtur að stafi af refsiverðum brotum en í því efni nægir að sanna að útilokað sé að ávinningurinn sé til kominn á lögmætan hátt. 48. Samkvæmt greinargerð lögreglu um fjármál ákærða 1. janúar 2016 til 11. maí 2017 var innstæða á bankareikningi hans í upphafi tímabilsins 217.729 krónur. Greiðslur Tryggingastofnunar til ákærða inn á sama bankareikning á tímabilinu námu samtals 3.756.993 krónum en útstreymi fjár af bankareikningi hans á sama tíma nam 11.556.480 krónum. Munur á framangreindri inneign og innborgunum á bankareikning ákærða á tímabilinu og því fé sem hann ráðstafaði af bankareikningi sínum á þessum tíma nam samtals 7.581.758 krónum. Í hinum áfrýjaða dómi, sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða, kom fram að ákærði hefði ekki gefið trúverðugar skýringar á þessum mismun. Í héraðsdómi var lagt mat á skýringar ákærða, meðákærða og vitna á uppruna þess fjár sem fannst við húsleit hjá honum og skýringar þeirra á því hvernig hann eignaðist bifreið þá sem krafist er upptöku á í málinu. 49. Af hálfu ákærða hefur því verið haldið fram að hann hafi frá árinu 2012 átt Audi-bifreiðina sem getið er um í ákæru en ráðstafað henni á árinu 2014 í viðskiptum um veitingastað. Þau viðskipti hafi gengið til baka á árinu 2016 og hann þá fengið bifreiðina að nýju og hún verið skráð á nafn meðákærða í ökutækjaskrá. Upplýsingar úr ökutækjaskrá Samgöngustofu staðfesta að meðákærði var skráður eigandi hennar frá 4. júlí 2016 en hann bar í héraði að ákærði hefði verið raunverulegur eigandi. Margir voru skráðir eigendur bifreiðarinnar fyrir þann tíma. Þótt gögn málsins bendi til þess ákærði hafi eitthvað haft með umrædda bifreið að gera fyrir árið 2014 liggur fyrir að hann varð ekki eigandi hennar fyrr en á árinu 2016 er hún var skráð á nafn meðákærða. Skjalleg gögn um bifreiðina veita enga vísbendingu um að ákærði hafi fjármagnað kaup á henni með lögmætum hætti. 50. Þess er að gæta að niðurstaða Landsréttar um sakfellingu ákærða byggðist að hluta á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða, meðákærða og vitna í héraði. Að þeirri forsendu gefinni verður með vísan til 2. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008 ekki fyrir Hæstarétti endurskoðað það mat á sönnunargildi munnlegs framburðar sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi og dómi héraðsdóms sem vísað var til í dómi Landsréttar. Verður því lagt til grundvallar að þær skýringar sem gefnar voru á tilvist þeirra verðmæta sem fundust við húsleit á heimili hans 15. maí 2017 og fjármögnun kaupa á Tesla-bifreið séu ekki trúverðugar. 51. Eins og fyrr er getið hefur ákærði hlotið ellefu dóma á árunum 2003 til janúar 2018, meðal annars fyrir þjófnað, fjársvik og fíkniefnalagabrot fram til ársins 2014 en þau brot eru öll til þess fallin að hafa auðgun í för með sér. Skjalleg sönnunargögn málsins hníga öll að þeirri niðurstöðu að útilokað sé að ávinningur sá sem ákæra lýtur að sé af lögmætum toga. Þau sýna einnig að ákærði hefur haft fjárhagsleg tengsl við einstaklinga sem hafa gerst sekir um auðgunarbrot og fíkniefnalagabrot, meðal annars í félagi við ákærða. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sakfellingu ákærða fyrir peningaþvætti eins og í ákæru greinir, sbr. 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. 52. Ákvæði 69. og 69. gr. b almennra hegningarlaga, sem upptökukrafa ákæruvaldsins er reist á, voru lögleidd með 2. gr. laga nr. 149/2009 og urðu hluti af nýjum VII. kafla A sem leysti af hólmi eldri upptökuheimildir laganna. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að nefndum breytingarlögum kom meðal annars fram að markmið með nýjum ákvæðum um upptöku væri að gera þau skýrari, færa þau í nútímalegt horf og gera með því kleift að bregðast við skipulagðri brotastarfsemi með skilvirkari hætti. Þá var lögleiðing þeirra studd áskilnaði um innleiðingu á 12. gr. Palermo-samningsins og til að bregðast við athugasemdum í annarri matsskýrslu GRECO frá 2. júlí 2004. Fram kemur að í síðarnefndu heimildinni sé meðal annars lagt til að íslenska ríkið rýmki gildissvið ákvæða um upptöku eigna og ávinnings af refsiverðum brotum og taki til skoðunar að endurskoða reglur um sönnunarbyrði með það að markmiði að auka skilvirkni upptöku í málum sem varða spillingu, einkum að því er varðar aðstæður þar sem ekki er hægt að koma við sakfellingu og þegar verðmæti eru í vörslum þriðja manns. 53. Með c-lið 2. gr. frumvarpsins er varð að 69. gr. b var mælt fyrir um að þegar um væri að ræða alvarleg brot sem væru til þess fallin að hafa í för með sér verulegan ávinning væri mögulegt að gera upptæk verðmæti án þess að sýnt væri fram á að þau mætti rekja til tiltekins refsiverðs brots. Að þeim skilyrðum uppfylltum yrði unnt að gera upptæk verðmæti sem tilheyrðu viðkomandi, og raunar verðmæti er tilheyrðu þriðja manni ef svo bæri undir, nema sýnt væri fram á að þeirra hefði verið aflað með lögmætum hætti. Undir þessum kringumstæðum yrði sönnunarbyrði snúið við þannig að viðkomandi yrði að sýna fram á að verðmæti yrðu ekki rakin til brotastarfsemi. Í athugasemdum með tilvitnaðri frumvarpsgrein var nánar rakið að tilgangur lagareglu af þessum toga væri einkum sá að ná til þeirra sem byggðu lífsafkomu sína á brotastarfsemi eða hefðu af slíku verulegar tekjur. Mætti gera ráð fyrir að á regluna reyndi einkum vegna innflutnings ávana- og fíkniefna, auðgunarbrota og annarrar skipulagðrar brotastarfsemi. Líkur stæðu til þess að henni yrði einkum beitt til upptöku reiðufjár, innstæðna á bankareikningum, verðbréfa og annarra fjármuna sem sá brotlegi gæti ekki útskýrt hvernig hann hefði aflað. Kæmi reglan til viðbótar og yrði beitt samhliða almennum upptökuheimildum í a- og b-lið 2. gr. sem urðu að núverandi 69. og 69. gr. a almennra hegningarlaga. 54. Í 1. mgr. c-liðar 2. gr. frumvarpsins sem varð 1. mgr. 69. gr. b, er áskilið að brot hafi verið til þess fallið að hafa verulegan ávinning í för með sér og að það varði að minnsta kosti sex ára fangelsi. Í athugasemdum um ákvæðið segir að áskilnaður um verulegan ávinning útheimti ekki nauðsynlega að viðkomandi hafi í raun hagnast af brotinu heldur nægi að hann hefði getað hagnast af því. Er síðan nefnt sem dæmi að yrði aðili sakfelldur fyrir stórfelldan fíkniefnainnflutning en hins vegar ekki fyrir sölu efnanna væri áskilnaði ákvæðisins fullnægt ef sala þeirra hefði getað haft í för með sér verulegan ávinning. Þá gæti tilraun til brots orðið grundvöllur upptöku samkvæmt ákvæðinu. Um beitingu reglunnar er vísað nánar í tilvitnað dæmi um fíkniefnainnflutning og einstakling sem sakfelldur yrði fyrir stórfellt brot af því tagi en án þess að sýnt hafi verið fram á sölu neins af efnunum, til dæmis vegna þess að viðkomandi hefði verið handtekinn þegar við komuna til landsins. Ef við rannsókn á eignastöðu og fjárhag viðkomandi kæmu í ljós undir þessum kringumstæðum verulegar eignir og fjármunir sem ekki væru í samræmi við uppgefnar tekjur og fjárhagsstöðu væri unnt að krefjast upptöku á slíkum verðmætum og það þó svo þau yrðu ekki rakin til brots sem sakfellt yrði fyrir vegna fíkniefnainnflutnings viðkomandi. 55. Með 4. mgr. c-liðar 2. gr. frumvarpsins sem varð að 4. mgr. 69. gr. b almennra hegningarlaga, var lögð til veigamesta breytingin frá þeim ákvæðum sem áður giltu um eignaupptöku. Fólst hún í því að snúa við sönnunarbyrði um tilurð þeirra verðmæta sem lagareglan í heild tekur til. Með lagabreytingunni varð sú breyting að gera má upptækt allt það sem viðkomandi getur ekki sýnt fram á að hafi verið aflað með lögmætum hætti. Kemur fram í tilvitnuðum athugasemdum með frumvarpsgreininni að með vísan til orðalags ákvæðisins og þar sem um frávik frá sönnunarbyrði ákæruvaldsins sé að ræða beri ekki að gera strangar kröfur til þess að viðkomandi axli þá sönnunarbyrði. Slík sönnunarfærsla geti átt sér fullnægjandi stoð í kvittunum eða öðrum skriflegum gögnum, framburði vitna og í sumum tilvikum gæti trúverðug skýring ákærða nægt til þess að hann hefði axlað sönnunarbyrðina. Enn fremur geti skattframtöl haft ákveðið vægi sem og það hvernig verðmætin hafi verið geymd og þá tekið sem dæmi hvort reiðufé hafi verið falið eða fjárhæðir geymdar á erlendum bankareikningum. Í athugasemdum með frumvarpinu var allt að einu tekið fram að við setningu reglu af þessum toga, þar sem sönnunarbyrði um beitingu refsikenndra viðurlaga í formi eignaupptöku er lögð á þann sem upptökukrafan beinist gegn, þurfi sérstaklega að huga að stöðu slíkrar reglu að stjórnskipunarrétti og jafnframt þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu. 56. Til þess að fullnægt sé skilyrðum 69. og 69. gr. b almennra hegningarlaga um eignaupptöku ber ekki nauðsyn til að sýna fram á að verðmæti þau sem krafist er upptöku á stafi af tilteknu refsiverðu broti, heldur er sem fyrr segir nægilegt að sýnt sé fram á að ákærði hafi gerst sekur um brot sem er til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning og geti brotið varðað að minnsta kosti sex ára fangelsi. 57. Samkvæmt gögnum málsins var Tesla-bifreiðin sem upptökukrafan lýtur meðal annars að forskráð á nafn B ehf. hjá Samgöngustofu 17. maí 2017 sem var tveimur dögum eftir að lögregla gerði húsleit á heimili hans. Bifreiðin var þá ótollafgreidd og staðsett á Seyðisfirði. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi keypti ákærði Tesla-bifreiðina í því skyni að selja hana aftur og fjármagnaði kaupin en notaði félagið við innflutninginn. Í málinu liggur fyrir að enginn sem hafði heimild til að skuldbinda félagið stóð að kaupum, fjármögnun eða innflutningi bifreiðarinnar. Upptökukröfunni er því réttilega beint að ákærða. 58. Eins og rakið hefur verið hvílir sönnunarbyrði á ákærða fyrir því að fjármunir sem hjá honum fundust við húsleit séu til komnir á löglegan hátt. Héraðsdómur og Landsréttur hafa metið skýringar ákærða á því hvernig hann aflaði sér þess reiðufjár sem hjá honum fannst við húsleit ótrúverðugar og hinu sama gegnir um skýringar hans og vitna á því hvernig fjármögnun hans á Tesla-bifreiðinni hafi verið háttað. Það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008. Þá renna skattframtöl ákærða og eiginkonu hans um tekjur og eignir árin 2015 og 2016 engum stoðum undir að hann sé kominn að þessum fjármunum á löglegan hátt og hann hefur ekki lagt fram nein þau gögn um tilurð þessara fjármuna sem haggað geta þeirri niðurstöðu. 59. Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann dæmdur 19. maí 2017 í tveggja ára fangelsi fyrir brot gegn 173. gr. a, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, en slíkt brot getur varðað allt að sex ára fangelsi. Þá var hann dæmdur 12. janúar 2018 í sex mánaða fangelsi fyrir brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, tollalögum nr. 88/2005, lyfsölulögum nr. 30/1963 og lyfjalögum nr. 93/1994. Ekki er áskilið samkvæmt 69. gr. b almennra hegningarlaga að hið refsiverða brot sem er grundvöllur þess að unnt sé að fallast á eignaupptöku sé framið á sama tíma og ávinningur eða eignamyndun sú sem krafist er upptöku á fellur til. Framangreind brot sem ákærði gerðist sekur um voru framin á árinu 2014 en haldlagning ávinnings sem ákæra lýtur að fór fram í maí 2017. Brotin og haldlagningin voru því nálæg í tíma. Að þessu virtu og með vísan til þess að framangreind brot voru til þess fallin að hafa í för með sér verulegan ávinning verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um upptöku þeirra eigna sem greinir í ákæru, sbr. 69. og 69. gr. b almennra hegningarlaga. 60. Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. 61. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Ákærði, Hafþór Logi Hlynsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.196.651 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar lögmanns, 1.116.000 krónur. Sératkvæði Ásu Ólafsdóttur og Karls Axelssonar 1. Við erum sammála lýsingu á ágreiningsefni málsins, málsatvikum og almennri umfjöllun um lagagrundvöll í dómi meirihluta dómenda en ósammála niðurstöðu dómsins um formhlið þess af eftirfarandi ástæðum: 2. Í málinu er ákært fyrir peningaþvætti sem talið er varða við 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk þess sem krafist er upptöku á grundvelli 69. og 69. gr. b sömu laga. 3. Svo sem fram kemur í atkvæði meirihlutans er þess aðallega krafist af hálfu ákærða að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Sú krafa er öðrum þræði reist á því að þeir ágallar hafi verið á ákæru í málinu að ekki verði felldur á það dómur. Af því leiðir að rétt er að taka fyrst til skoðunar hvort ákæra í málinu er nægilega skýr í skilningi 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. 4. Samkvæmt c–lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal greina í ákæru svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brot er framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu og loks heimfærslu þess til laga. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa þessi fyrirmæli verið skýrð svo að lýsing á háttsemi sem ákærða er gefin að sök í ákæru verði að vera svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni hvaða háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa gerst brotlegur við. Mega ekki vera slík tvímæli um hverjar sakargiftir eru að með réttu verði ákærða talið torvelt að taka afstöðu til þeirra og halda uppi vörnum. Að þessu leyti verður ákæra að vera svo skýr að dómara sé kleift af henni einni að gera sér grein fyrir hvað ákærði er sakaður um og hvernig sú háttsemi verður talin refsiverð. Ákæra verður því að leggja viðhlítandi grundvöll að saksókn svo að dómur verði lagður á málið í samræmi við ákæru enda verður ákærði ekki sakfelldur fyrir aðra hegðun en þar greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Það veltur síðan á atvikum máls og eðli brots hvaða nánari kröfur verða gerðar samkvæmt framansögðu til skýrleika ákæru. Jafnframt má líta til d–liðar 1. mgr. 152. gr. laganna þar sem segir að í ákæru skuli greina svo glöggt sem verða má röksemdir sem málsókn er byggð á, ef þörf krefur, svo sem ef mál er flókið eða umfangsmikið en röksemdafærsla skuli þá vera gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála hverjar sakargiftir eru. 5. Ætluðum saknæmum þætti ákærða er lýst í I. og III. hluta ákæru en auk þess fylgja nánari röksemdir samkvæmt d–lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Í II. hluta ákæru er fjallað um þátt meðákærða í héraði en sá hluti hennar kemur ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. 6. Í I. hluta ákæru kemur fram að ákærða sé gefið að sök peningaþvætti „með því að hafa um nokkurt skeið fram til 15. maí 2017, aflað sér ávinnings að fjárhæð allt að 8.121.760 krónum með refsiverðum brotum.“ Þá er í 2. málsgrein I. hluta ákæru gerð grein fyrir því að við húsleit á dvalarstað ákærða að […] í Kópavogi hafi fundist peningar á nánar tilgreindum stöðum samtals 2.530.000 krónur. Í 3. málsgrein I. hluta ákæru segir síðan að hluta „umrædds ávinnings“ hafi ákærði nýtt til kaupa á bifreiðinni […] sem síðan er nánar útskýrt þannig að hluta kaupverðs bifreiðarinnar hafi verið aflað með greiðslu tjónabóta frá Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna tjóns á annarri bifreið en fyrri bifreiðina hafi ákærði „einnig greitt með ávinningi af refsiverðum brotum.“ Í III. hluta ákæru er brot ákærða heimfært til 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga og þess jafnframt krafist, með vísan til 69. og 69. gr. b almennra hegningarlaga, að ákærða verði gert að „sæta upptöku á ávinningi brotanna.“ Er síðan í stafliðum a og b gerð grein fyrir því með sundurliðuðum hætti að upptökukrafan nái annars vegar til þeirra fjármuna sem fundust við húsleit en hins vegar til bifreiðarinnar […]. 7. Í röksemdakafla ákæru er í fyrsta lagi vikið að forsögu 264. gr. almennra hegningarlaga í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ákvæðinu með 7. gr. laga nr. 149/2009. Í öðru lagi er gerð grein fyrir þeim fjármunum og gögnum sem fundust við húsleit á dvalarstað ákærða 15. maí 2017. Þá er í þriðja lagi gerð grein fyrir tekjum ákærða samkvæmt skattframtölum vegna gjaldáranna 2016 og 2017 og í fjórða lagi rakin tilurð og fjármögnun fyrrgreindrar bifreiðar með hliðsjón af gögnum og framburði ákærða. Loks er vísað til sakarvottorðs ákærða og gerð grein fyrir því að hann hafi hlotið ellefu dóma frá desember 2003. Þar á meðal séu þjófnaðarbrot, fjársvik, fíkniefnalagabrot, valdstjórnarbrot og innflutningur fíkniefna til söludreifingar. Síðan er þess sérstaklega getið að 19. maí 2017 hafi ákærði með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur verið dæmdur fyrir brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga og með öðrum dómi sama dómstóls 12. janúar 2018 verið sakfelldur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, tollalögum nr. 88/2005, lyfsölulögum nr. 30/1963 og lyfjalögum nr. 93/1994. Óumdeilt er í málinu að brot þau sem dæmt var fyrir í tilvitnuðum tveimur héraðsdómum áttu sér stað árið 2014. 8. Í atkvæði meirihlutans er réttilega gerð grein fyrir því að líta beri til athugasemda við peningaþvættisákvæði í frumvarpi því sem varð að fyrrnefndum lögum nr. 149/2009. Þar er jafnframt sérstaklega vikið að forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 200/2001 þar sem fram kom að þegar litið væri til eðlis og tilgangs ákvæðis um peningaþvætti í 264. gr. almennra hegningarlaga yrði ekki gerð sú krafa að fyrir lægi hvaða brot væri nákvæmlega um að ræða heldur að meta yrði það í ljósi atvika hverju sinni hvort sýnt væri nægilega fram á að ávinningur væri ekki af lögmætum toga heldur stafaði af broti á lögunum. 9. Hvað sem líður ályktunum af framangreindum lögskýringargögnum um skýringu 264. gr. almennra hegningarlaga og mikilvægis þess að höggva að rótum afbrota með því að uppræta aðalhvata þeirra, ávinning sem af þeim kunni að leiða, raskar það ekki þeirri meginreglu sakamálaréttarfars um tilhögun ákæru sem fram kemur í c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Í ljósi ummæla í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 149/2009 um nánari tilgreiningu brota að þessu leyti og tilvísun til dóms Hæstaréttar í máli nr. 200/2001 er því sérstök ástæða til að líta nánar til þeirra krafna sem gerðar hafa verið í dómum Hæstaréttar þegar ákært hefur verið fyrir peningaþvætti. 10. Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 200/2001 kom fram í ákæru að ákærði hefði á nánar tilgreindu tímabili í 66 skipti tekið við samtals 12.106.500 krónum frá nafngreindum einstaklingi og skipt þeim fyrir hann í erlenda mynt í íslenskum peningastofnunum, en ákærði hefði vitað að peningarnir væru afrakstur af fíkniefnasölu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar litið væri til eðlis og tilgangs ákvæðisins þætti ekki verða gerð sú krafa að fyrir lægi hvaða brot væri nákvæmlega um að ræða í skilningi 1. mgr. 264. gr. laganna. Yrði að meta í ljósi atvika hverju sinni hvort sýnt væri nægilega fram á að ávinningur væri ekki af lögmætum toga heldur stafaði hann frá broti á lögunum, en í málinu hefðu engar haldbærar skýringar komið fram um gjaldeyriskaup ákærða. 11. Í atkvæði meirihlutans er jafnframt vísað til nokkurra annarra dóma Hæstaréttar sem eiga það sameiginlegt að þar var sakfellt fyrir peningaþvætti á grundvelli ákæru þar sem hinni refsiverðu háttsemi var lýst á þann veg að ákærði hefði „um nokkurt skeið fram til“ ákveðins tíma aflað sér ávinnings með nánar tilgreindum hætti, svo sem „með sölu og dreifingu ótiltekins magns ávana- og fíkniefna“ eða „með sölu og dreifingu ótiltekins magns af lyfseðilsskyldum lyfjum“. Til frekari skýringar er rétt að gera grein fyrir því hvernig ákæru var hagað í þeim málum. 12. Í dómi Hæstaréttar 495/2010 var ákærðu gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa í mars og apríl 2010 staðið saman að innflutningi á tilgreindu magni af kókaíni til Íslands ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Einn ákærðu var sýknaður af fíkniefnalagabroti en sakfelldur fyrir peningaþvætti með því að hafa um nokkurt skeið fram til fimmtudagsins 15. apríl sama ár á höfuðborgarsvæðinu aflað sér ávinnings að tilgreindri fjárhæð með sölu og dreifingu ótiltekins magns ávana- og fíkniefna. 13. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 122/2012 var ákærða gefið að sök að hafa á árunum 2008 og 2009 selt í verslun sinni tveimur nafngreindum konum tiltekin lyf án tilskilins leyfis. Í IV. kafla sömu ákæru var ákærða jafnframt gefið að sök peningaþvætti „með því að hafa um nokkurt skeið fram til fimmtudagsins 10. júní 2010“ aflað sér ávinnings að tilgreindri fjárhæð „með sölu og dreifingu ótiltekins magns af lyfseðilsskyldum lyfjum, munn- og neftóbaki og ávana- og fíkniefnum, samskonar því sem var í vörslum hans þegar leit var gerð“, sbr. ákærulið I til og með III í málinu. Var talið sannað að stór hluti fjárhæðarinnar sem fannst við húsleit lögreglu hefði átt rót sína að rekja til peningaþvættis og væri afrakstur þeirra brota gegn lyfjalögum sem hann var jafnframt sakfelldur fyrir. 14. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 457/2013 var ákærði meðal annars sakfelldur fyrir að hafa á árunum 2011 og 2012 fram til fimmtudagsins 27. september 2012, ,,að [...] og á höfuðborgarsvæðinu“ selt ótilgreindum fjölda einstaklinga nánar tilgreind lyf án þess að hafa til þess tilskilin leyfi. Þá var hann sakfelldur fyrir peningaþvætti með því að hafa um nokkurt skeið fram til fimmtudagsins 27. september 2012 „að [...] og á höfuðborgarsvæðinu“ aflað sér ávinnings með sölu og dreifingu ótiltekins magns af lyfseðilsskyldum lyfjum, sams konar þeim sem voru í vörslum ákærða þegar leit var gerð vegna sakarefnis í ákærulið I. Ekki var talið unnt að slá því föstu hvaða fjárhæð ávinningur af brotum hans hefði numið. Hann hefði þó engar skýringar gefið á tilurð 350.000 króna reiðufjár sem fannst við húsleit og þótti „ekki óvarlegt að telja sannað“ að þeir fjármunir væru afrakstur lyfjasölu hans. 15. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 52/2014 var ákærði sakfelldur fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot með því að hafa 8. og 10. febrúar 2011 haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni nánar tilgreint magn fíkniefna. Þá var hann sakfelldur fyrir peningaþvætti, eins og því var lýst í kafla II. í ákæru, með því að hafa um nokkurt skeið fram til 10. febrúar 2011 á höfuðborgarsvæðinu aflað sér ávinnings að tilgreindri fjárhæð með sölu og dreifingu ótiltekins magns fíkniefna sem voru afrakstur kannabisræktunar hans. Var í þeim efnum vísað til I. kafla ákæru. 16. Fjórir síðastgreindu dómarnir eru ólíkir málsatvikum þessa máls að því leyti að þar voru þau frumbrot sem lágu til grundvallar peningaþvætti viðkomandi til umfjöllunar í sama máli og peningaþvættisbrotið. Frumbroti eða brotum var þannig lýst í sömu ákæru með tilliti til þess fyrir hvaða háttsemi var ákært og hvar og hvenær brotið taldist hafa verið framið. Er það í samræmi við framanrakta meginreglu sakamálaréttarfars. Af dómunum má jafnframt ráða að þótt ekki verði gerð sú krafa að fyrir liggi nákvæmlega um hvaða brot sé að ræða er eftir sem áður fyrir hendi krafa um skýrleika ákæru sem í þessu tilliti birtist í tilgreiningu og nánari afmörkun þess hvers efnis þau frumbrot séu sem liggi til grundvallar áskilnaði 264. gr. almennra hegningarlaga um peningaþvætti og að minnsta kosti á hvaða tímabili þau áttu sér stað. Í þeim efnum verður að líta til þess að grundvöllur sakamáls er lagður með útgáfu ákæru. Skýrleiki verknaðarlýsingar er jafnframt ein af forsendum þess að ákærði geti gert sér grein fyrir sakargiftum og haldið uppi vörnum auk þess sem dómur verður einungis lagður á mál í samræmi við ákæru. 17. Eins og fyrr greinir er í máli þessu ákært fyrir brot gegn 1. mgr. 264. gr. hegningarlaga. Af ákærutextanum sjálfum verður hins vegar ekki annað ráðið en að það eitt að í fórum ákærða hafi fundist fjármunir, sem hann geti ekki gert grein fyrir, feli í sér fullframið brot gegn 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Í niðurlagi röksemdakafla ákæru er sem fyrr segir vísað almennt til sakarferils ákærða, sem sýnist hafa átt upphaf sitt árið 2003, auk þess sem fjallað er sérstaklega um fyrrnefnda dóma héraðsdóms frá árunum 2017 og 2018 sem vörðuðu brot ákærða árið 2014. Af þeirri umfjöllun er svo dregin sú ályktun í niðurlagi ákæru að þau brot sem þá var dæmt fyrir hafi verið til þess fallin að „hafa í för með sér verulegan ávinning“, sbr. áskilnað 69. gr. b almennra hegningarlaga þar að lútandi. Af þessari framsetningu er óljóst hvort þar sé vísað til tilvitnaðra dóma eingöngu til stuðnings upptökukröfu eða hvort þeim sé jafnframt ætluð þýðing við mat á ætlaðri sök á grundvelli 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga eða mögulega ætlað að hafa þýðingu við mat á refsingu í málinu. 18. Um tímasetningu brotanna var svo einungis sagt í ákæru að þau hafi átt sér stað um „nokkurt skeið fram til 15. maí 2017“. Ekki var þar vikið að upphafstíma þeirra að öðru leyti en því að vísað var til sakaferils ákærða í röksemdum sem fylgdu ákæru. Jafnframt er í ákærutextanum sjálfum í engu vikið að einstökum brotum eða afmörkun þeirra brota sem legið gætu til grundvallar ákæru um peningaþvætti samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Undir rekstri málsins vísaði ákæruvaldið þó sérstaklega til umræddra héraðsdóma frá 2017 og 2018 en þeir voru fyrst lagðir fram við meðferð málsins í Landsrétti. Þess ber þá að gæta að þeir dómar fjölluðu um brot ákærða sem áttu sér stað á árinu 2014. Hins vegar liggur fyrir að skoðun lögreglu á fjárhag ákærða í máli þessu náði ekki til þess árs heldur einungis áranna 2015 og 2016 auk hluta ársins 2017. Enn fremur er þess að gæta að ákærði var dæmdur til að sæta upptöku á 537.000 krónum með fyrrgreindum dómi héraðsdóms sem féll árið 2018. 19. Samkvæmt framansögðu er það álit okkar að til þess að sakfellt verði fyrir brot gegn 264. gr. almennra hegningarlaga verði að gera kröfu um að lágmarksskírskotun komi fram í ákæru um tengsl frumbrots og þess ávinnings sem á að hafa leitt af því, svo sem með afmörkun á hvaða tímabili ávinningur á að hafa hlotist af frumbroti og hvers efnis þau frumbrot eru sem liggi til grundvallar eða eftir atvikum hvaða brotaflokki þau tilheyri. Ekki nægir eingöngu að vísa með almennum hætti til brotaferils ákærða eins og raunin er í ákæru í máli þessu. Þá teljum við þann ágalla vera á ákæru að eingöngu er ákært fyrir peningaþvætti á grundvelli 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga en ekki svokallaðs sjálfsþvættis, sbr. 2. mgr. sömu greinar, enda þótt skilja megi takmarkaða verknaðarlýsingu ákæru þannig að meintri refsiverðri háttsemi sé að hluta lýst sem sjálfsþvætti. Fær sá skilningur ekki staðist að þrátt fyrir að talin hafi verið þörf á því á árinu 2009 að lögfesta sérstaka reglu um refsinæmi sjálfsþvættis þurfi eftir sem áður engan greinarmun að gera á því í ákæru hvort það eða þau brot sem liggja til grundvallar ákæru fyrir peningaþvætti eru refsiverð á grundvelli 1. mgr. 264. gr. eða 1. mgr., sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Eykur þetta enn á óskýrleika ákærunnar og möguleika ákærða á því að afmarka hvaða refsiverðu brot er um að ræða og þar með möguleika hans á því að taka til varna í málinu. Var ákæruvaldinu í lófa lagið að haga ákæru með þeim hætti að nægilegs skýrleika væri gætt. 20. Afleiðing þessa óskýrleika í málatilbúnaði ákæruvaldsins birtist í ónákvæmni í úrlausnum bæði héraðsdóms sem og hinum áfrýjaða dómi þar sem mörk úrlausnar um peningaþvætti á grundvelli 264. gr. almennra hegningarlaga og eignaupptöku samkvæmt 69. gr. og 69. gr. b sömu laga eru í besta falli óljós. Í hinum áfrýjaða dómi er um upptökukröfuna vísað til þess eins að ákvæði héraðsdóms þar um sé staðfest. Þegar betur er að gáð er þar engin formleg afstaða tekin til upptökukröfunnar. Auk þess verður ekki annað séð en að á báðum dómstigum hafi svo, að hluta til að minnsta kosti, verið byggt á þáttum sem varða áskilnað eignaupptöku samkvæmt 69. gr. b við sakfellingu fyrir brot gegn 264. gr. laganna. Þannig er sakfelling ákærða í hinum áfrýjaða dómi fyrir brot gegn 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga meðal annars rökstudd með þeim hætti að brot ákærða á árinu 2014 hafi verið „til þess fallin að hafa í för með sér verulegan ávinning“, sem þó er í reynd efnisskilyrði upptöku eftir 69. gr. b almennra hegningarlaga. Er þó þar á sá grundvallarmunur að í fyrrnefnda tilvikinu er, svo sem rakið er í atkvæði meirihlutans, fyrir hendi öfug sönnunarbyrði um tilurð verðmæta sem gerð eru upptæk, sbr. 4. mgr. 69. gr. b, en hefðbundin sönnunarbyrði sakamálaréttarfars gildir við mat á sök á grundvelli 264. gr. sömu laga. 21. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. og 3. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, ber sérhverjum þeim sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi réttur til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli, auk þess sem hvorki má dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir né heldur dæma aðrar kröfur á hendur honum, sbr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Á nægilegum skýrleika ákæru í þessa veru ber ákæruvaldið óskoraða ábyrgð. 22. Í ljósi alls framangreinds er það niðurstaða okkar að óskýrleiki ákæru hafi leitt til þess að vörnum ákærða var ábótavant við meðferð málsins fyrir dómi og á það bæði við um ákæru fyrir 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga og kröfu um eignaupptöku samkvæmt 69. og 69. gr. b sömu laga. Vegna þessa annmarka verður ekki lagður efnisdómur á það og ber að vísa málinu frá héraðsdómi. Samkvæmt þeirri niðurstöðu ætti að fella sakarkostnað ákærða vegna meðferðar málsins í heild á ríkissjóð. 23. Með því að meirihluti dómenda hefur komist að gagnstæðri niðurstöðu um formhlið málsins er afstaða okkar um efnishlið málsins, sbr. 5. málslið 2. mgr. 226. laga nr. 88/2008, sú að við erum henni samþykk. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=8c1da710-f787-469f-9556-585276a033a5
Mál nr. 45/2021
Kærumál Dánarbú Eignarréttur Kröfuréttindi Sértökuréttur Frávísun frá héraðsdómi felld úr gildi
Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá héraðsdómi. Hæstiréttur vísaði til þess að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 20/1991 tæki dánarbú við öllum fjárhagslegum réttindum látins manns sem hann átti við andlát eða naut þá, nema annað leiddi af réttarreglum, löggerningi eða eðli réttindanna. Taldi rétturinn að við andlát Þ hefði varnaraðili tekið við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti þá eða naut, að teknu tilliti til þeirra undantekninga sem nefndar væru í 1. mgr. 2. gr. Þá vísaði Hæstiréttur til þess að ágreiningur aðila lyti að því hvor þeirra ætti tilkall til tiltekinna krafna. Úr slíkum ágreiningi bæri að leysa fyrir dómi í ágreiningsmáli á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991 enda þótt kröfuréttindin kynnu að vera umdeild. Ljóst væri að úrlausn þess ágreinings væri ekki til þess fallin að hafa bindandi réttaráhrif gagnvart öðrum en aðilum þessa máls um hver eða hverjir teldust réttir eigendur þeirra krafna og því síður um efnislegt inntak þeirra. Hinn kærði úrskurður var því felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. október 2021 en kærumálsgögn bárust réttinum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 11. október 2021 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti. 3. Varnaraðili kærði úrskurð Landsréttar fyrir sitt leyti 25. október 2021. Hann krefst þess einnig að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Helstu málsatvik 4. Með bréfi 10. janúar 2007 veitti umhverfisráðuneytið heimild til handa Kópavogsbæ á grundvelli þágildandi 1. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að taka eignarnámi hluta jarðarinnar Vatnsenda. Hinn 30. sama mánaðar var undirrituð sáttargerð vegna eignarnámsins milli Kópavogsbæjar og Þorsteins Hjaltesteds, þáverandi ábúanda jarðarinnar. Með henni var komist að samkomulagi um bæði afmörkun hins eignarnumda lands og skipulagningu þess en einnig um greiðslur vegna eignarnámsins. Fólust þær meðal annars í tilgreindum peningagreiðslum og ýmsum öðrum greiðslum sem tengdust skipulagsvinnu Kópavogsbæjar á landi og lóðum að Vatnsenda. Þannig sagði til að mynda í grein 2.2.3 í sáttargerðinni: „Landeigandi fær 11% af öllum byggingarétti fyrir íbúðarhús og atvinnuhúsnæði, úr hverjum skipulagsáfanga fyrir sig, sem úthlutað verður úr hinu eignarnumda landi. Miðað skal við sama hlutfall tegundar húsnæðis og hver skipulagsáfangi gerir ráð fyrir. Landeigandi greiðir ekki gatnagerðar, yfirtökugjöld eða önnur tengd gjöld til Kópavogsbæjar vegna þessara lóða eða framkvæmda Kópavogsbæjar vegna þeirra. Áður en til almennrar úthlutunar kemur skal dregið um hvaða lóðir koma í hlut landeiganda. Landeiganda verður heimilt framsal þessara lóða án sérstaks samþykkis Kópavogsbæjar eða getur óskað eftir því að lóðunum verði úthlutað beint á þriðja aðila telji hann það henta frekar.“ 5. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði á ágreiningur máls þessa rætur að rekja til erfðaskrár þáverandi eiganda jarðarinnar Vatnsenda, Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds, frá árinu 1938. Við andlát Magnúsar 1940 tók Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested arf samkvæmt erfðaskránni en hann var sonarsonur bróður Magnúsar. Við andlát Sigurðar Kristjáns árið 1966 reis ágreiningur um réttindi yfir jörðinni sem lyktaði með dómi Hæstaréttar 5. apríl 1968, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 422, þess efnis að Magnús Sigurðsson Hjaltested, elstur sona Sigurðar Kristjáns, hefði umráð og afnot jarðarinnar á grundvelli framangreindrar erfðaskrár. Við andlát Magnúsar tók Þorsteinn Hjaltested við réttindum Sigurðar yfir jörðinni samkvæmt sömu erfðaskrá. Þorsteinn lést 12. desember 2018 og var dánarbú hans tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 23. október 2019. Með bréfi 10. febrúar 2020 tilkynnti skiptastjóri búsins héraðsdómi að ákveðið hefði verið að fara með það samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. 6. Sóknaraðili lýsti kröfu í dánarbú Þorsteins 1. nóvember 2019 um að skiptastjóri afhenti honum þá þegar „sem erfingja samkvæmt fyrirmælum 3. gr. erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 og 29. október 1940, jörðina Vatnsenda í Kópavogi ... með öllu því sem henni fylgir og fylgja ber til ábúðar og hagnýtingar, umráða og afnota samkvæmt þeim réttindum sem honum eru áskilin sem erfingja samkvæmt erfðaskránni.“ Í kröfulýsingunni var vísað til þess að um kröfu sértökumanns utan skuldaraðar væri að ræða þar sem umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda væri ekki arfur eftir Þorstein Hjaltested heldur Magnús Einarsson Hjaltested sem lést 31. október 1940 og að sóknaraðili byggði rétt sinn á fyrrgreindri erfðaskrá sem elsti sonur síðasta erfingja samkvæmt henni. Vísað var til þess að sóknaraðili væri fjórði erfingi jarðarinnar Vatnsenda en áður hefðu eignarráðin verið hjá Þorsteini föður hans, þar áður Magnúsi afa hans og enn áður hjá Sigurði langafa hans. 7. Skiptastjóri samþykkti kröfu sóknaraðila um afhendingu jarðarinnar sem sértökukröfu samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991. Á hinn bóginn var því hafnað að réttur til eignarnámsbóta í fyrrgreindri sáttargerð félli þar undir. Niðurstaða skiptastjóra var að kröfur um eignarnámsbætur tilheyrðu dánarbúinu. Með bréfi 25. febrúar 2020 mótmælti sóknaraðili þessari afstöðu skiptastjóra. Á skiptafundi 23. mars 2020 var fjallað um ágreining aðila en ekki tókst að jafna hann. Skiptastjóri beindi ágreiningnum til héraðsdóms 26. mars 2020 með vísan til 171. gr. laga nr. 21/1991. Í bréfi skiptastjóra kom fram að ágreiningurinn lyti að því „hvort kröfur um eignarnámsbætur vegna eignarnáma á landi úr jörðinni Vatnsenda, sem þegar hafa farið fram og þar sem Þorsteinn Hjaltested var eignarnámsþoli, tilheyrði jörðinni í þeim skilningi að kröfurétturinn erfist til Magnúsar Péturs, samkvæmt fyrirmælum fyrrnefndrar erfðaskrár, eða ekki.“ 8. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 26. maí 2021 var viðurkennt að sóknaraðila tilheyrði réttur til ógreiddra eftirstöðva eignarnámsbóta vegna eignarnáms Kópavogsbæjar á landi Vatnsenda samkvæmt eignarnámsheimildinni 10. janúar 2007, sbr. sáttargerð 30. janúar 2007, að undanskildum réttindum samkvæmt grein 2.2.3 en réttindi samkvæmt henni skyldu tilheyra varnaraðila. 9. Sóknaraðili kærði úrskurð héraðsdóms til Landsréttar og krafðist staðfestingar hans um annað en niðurstöðu um grein 2.2.3 í sáttargerðinni og að viðurkennt yrði að réttur til eignarnámsbóta samkvæmt þeirri grein tilheyrði honum. Varnaraðili gerði á hinn bóginn kröfu um að viðurkennt yrði að hann ætti rétt til ógreiddra eftirstöðva eignarnámsbóta samkvæmt sáttargerðinni. Í úrskurði Landsréttar 11. október 2021 sagði að ágreiningur málsaðila lyti í raun að því hver ætti rétt til þess að innheimta hinar umdeildu kröfur sem annar hvor þeirra kynni að eiga á hendur Kópavogsbæ. Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að þau réttindi sem um væri deilt gætu ekki talist vera í vörslum búsins. Því hefðu ekki verið skilyrði til að vísa málinu til úrlausnar héraðsdóms á grundvelli 171. gr., sbr. 120. gr., laga nr. 21/1991, eins og gert var í beiðni skiptastjóra. Ekki væri heldur séð að skilyrði hefðu verið fyrir varnaraðila að hafa uppi gagnkröfu um viðurkenningu á rétti hans til eignarnámsbóta úr hendi Kópavogsbæjar en slík krafa yrði einungis höfð uppi að uppfylltum skilyrðum ákvæða 172. og 173. gr. laga nr. 21/1991. Málinu var því vísað frá héraðsdómi. Málsástæður 10. Sóknaraðili reisir málatilbúnað sinn á því að úr ágreiningsefni þessa máls verði ekki leyst í öðrum óskyldum dómsmálum heldur einungis í því máli sem hér er til meðferðar. Ágreiningi málsaðila verði ekki skotið til úrlausnar dómstóla nema eftir þeim leiðum sem mælt er fyrir um í XXIII. kafla laga nr. 21/1991. Með mál sem þannig sé vísað til úrlausnar dómstóla skuli fara eftir fyrirmælum XXIV. kafla sömu laga. 11. Varnaraðili reisir kröfu sína á því að ranglega sé byggt á því í hinum kærða úrskurði að umþrætt réttindi geti ekki talist vera í vörslum hans. Réttindin séu byggð á skriflegum samningi sem hinn látni hafi verið aðili að og enginn annar en dánarbúið geti talist hafa vörslur þeirra. Vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi krafist afhendingar á þeim réttindum með sértökukröfu samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili hafi ekki fallist á þá kröfu og sóknaraðili mótmælt þeirri afstöðu. Því beri að fá úrlausn dómstóla um þann ágreining samkvæmt 171. gr., sbr. 120. gr. laganna. Niðurstaða 12. Í hinum kærða úrskurði kom fram að rekin væru tvö önnur dómsmál þar sem gerðar væru kröfur á hendur Kópavogsbæ um greiðslu tiltekinna eignarnámsbóta vegna eignarnámsins 10. janúar 2007 og sáttargerðar 30. sama mánaðar. Þá sagði jafnframt í forsendum úrskurðarins að réttur til innheimtu eignarnámsbóta og skaðabóta vegna eignarnámsins myndi ráðast af niðurstöðu framangreindra dómsmála eða „eftir atvikum nýjum dómsmálum sem kunna að verða rekin um slíkar kröfur samkvæmt almennum reglum.“ Jafnframt sagði að ágreiningur málsaðila lyti að því hver ætti rétt til þess að innheimta hinar umdeildu kröfur sem annar hvor þeirra kynni að eiga. Þá taldi Landsréttur að þar sem þau réttindi sem deilt var um gætu ekki talist vera í vörslum dánarbúsins hefðu ekki verið skilyrði til að vísa málinu til úrlausnar héraðsdóms á grundvelli 171. gr., sbr. 120. gr. laga nr. 21/1991, eins og gert hefði verið. 13. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 20/1991 tekur dánarbú við öllum fjárhagslegum réttindum látins manns sem hann átti við andlát eða naut þá, nema annað leiði af réttarreglum, löggerningi eða eðli réttindanna. Fyrir liggur samkvæmt framanrituðu að við andlát Þorsteins Hjaltesteds tók dánarbú hans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti þá eða naut, að teknu tilliti til þeirra undantekninga sem nefndar eru í 1. mgr. 2. gr. Kröfur á hendur þriðja manni eru meðal þeirra réttinda sem falla undir skiptameðferð og ráðstöfunarheimildir skiptastjóra og gildir þá einu hvort þær eru umdeildar. 14. Aðilar máls þessa eru sammála um að fyrir hendi séu kröfur á hendur Kópavogsbæ vegna eignarnáms bæjarins á landi jarðarinnar Vatnsenda. Ágreiningur þeirra lýtur á hinn bóginn að því hvor þeirra á tilkall til þeirra krafna. Að því leyti er ágreiningur máls þessa annars eðlis en í dómi Hæstaréttar 20. janúar 2010 í máli nr. 759/2009 þar sem krafist var afhendingar á tilteknu lausafé sem ekki var í vörslum búsins og dómi Hæstaréttar 14. júní 2016 í máli nr. 368/2016 þar sem sértökukrafa laut að umsaminni innheimtuþóknun kröfuhafa og þrotamanns. Í máli þessu er hins vegar um að ræða ágreining milli aðila um hvorum tilheyri réttur til að fara með fyrrgreinda kröfu á hendur Kópavogsbæ og fellur slíkur ágreiningur undir úrlausn dómstóla á grundvelli fyrrgreindra ákvæða laga nr. 21/1991. 15. Samkvæmt framanrituðu ber að leysa úr slíkum ágreiningi fyrir dómi í ágreiningsmáli á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991 enda þótt kröfuréttindin kunni að vera umdeild. Ljóst er að úrlausn þess ágreinings er ekki til þess fallin að hafa bindandi réttaráhrif gagnvart öðrum en aðilum þessa máls um hver eða hverjir teljast réttir eigendur þeirra krafna og því síður um efnislegt inntak þeirra. Önnur dómsmál sem rekin eru að hluta til milli annarra aðila vegna þessara krafna geta því ekki með réttu leitt til frávísunar þessa máls frá héraðsdómi. 16. Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. 17. Kærumálskostnaður fellur niður. 18. Það athugast að forsendur hins kærða úrskurðar hefðu að réttu lagi átt að leiða til höfnunar á kröfu sóknaraðila en ekki til frávísunar málsins frá héraði, sbr. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 759/2009. Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir að málið sæti kæru til réttarins á grundvelli þeirra lagareglna sem greinir í 2. lið dómsins. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og úrskurðar að nýju. Kærumálskostnaður fellur niður. https://www.landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?Id=8e929653-b10e-49f1-940e-c231d60b6967&verdictid=c75b71eb-05b0-4feb-88d6-d1c5476cc21b
Mál nr. 27/2021
Sifskaparbrot Börn Forsjá Lögskýring Réttarheimild
X var ákærð fyrir brot gegn 193. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa á tilgreindu tímabili svipt tvo barnsfeður sína valdi og umsjá barna þeirra með því að fara með þau úr landi án leyfis og vitundar barnsfeðranna. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu X. Leyfi var veitt til áfrýjunar málsins til Hæstaréttar á þeim grunni að úrlausn um beitingu 193. gr. almennra hegningarlaga í málinu myndi hafa verulega almenna þýðingu. Ekki hafði áður reynt á beitingu ákvæðisins við þær aðstæður þegar forsjá foreldra er sameiginleg. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ótvírætt væri samkvæmt verknaðarlýsingu ákvæðisins og greinargerð með ákvæðinu að refsinæmi hinnar ólögmætu háttsemi, sem þar væri lýst, væri einskorðað við brot gegn foreldravaldi yfir barni. Óumdeilt var að X og B færu sameiginlega með forsjá sonar þeirra. Þá var talið að ekki væru efni til annars en að leggja hina opinberu skráningu sameiginlegrar forsjár X og D yfir dóttur þeirra til grundvallar í málinu. Í málinu lá jafnframt fyrir að börnin hefðu átt lögheimili hjá X eftir að upp úr slitnaði milli hennar og barnsfeðra. Vísað var til þess að samkvæmt 5. mgr. 28. gr. barnalaga fæli forsjá barns í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess. Þá færi forsjárforeldri með lögformlegt fyrirsvar barns. Enda þótt kveðið væri á um í 1. mgr. 28. gr. a barnalaga að foreldrar sem færu saman með forsjá barns skyldu ávallt leitast við að hafa samráð áður en þeim málum sem í ákvæðinu greinir væri ráðið til lykta væri ljóst af ákvæðinu og lögskýringargögnum að það foreldri sem barn væri með lögheimili hjá hefði ríkari rétt til að taka ákvarðanir um málefni þess. Þá benti Hæstiréttur á að í 3. mgr. 28. gr. a barnalaga væri mælt svo fyrir að færu foreldrar með sameiginlega forsjá væri öðru þeirra óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins. Hins vegar væri þar um einkaréttarlegt úrræði að ræða til handa foreldri sem teldi á sér brotið með flutningi hins foreldrisins á barni þeirra milli landa. Með vísan til umfjöllunar um refsinæmi 193. gr. almennra hegningarlaga, inntaks sameiginlegrar forsjár og skýrleika refsiheimilda var það niðurstaða dómsins að staðfesta hinn áfrýjaða dóm um sýknu X.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Helgi I. Jónsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Viðar Már Matthíasson fyrrverandi hæstaréttardómarar. 2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. júní 2021. Ákæruvaldið krefst þess að ákærða verði sakfelld fyrir þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru og hún dæmd til refsingar. 3. Ákærða krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að henni verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Ágreiningsefni 4. Með ákæru héraðssaksóknara 23. ágúst 2018 var ákærðu gefið að sök sifskaparbrot með því að hafa frá „[…]“ 2016 til […] 2017 svipt B valdi og umsjón yfir syni þeirra, C, kt. […], og á sama tíma svipt D valdi og umsjón yfir dóttur sinni og ákærðu, E, kt. […], með því að hafa farið með börnin, án leyfis og vitundar feðranna, til […] en á framangreindu tímabili hefðu ákærða og B farið sameiginlega með forsjá C og ákærða og D sameiginlega með forsjá E. Er háttsemi ákærðu talin varða við 193. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 5. Með héraðsdómi 20. mars 2019 var ákærða sýknuð af þeirri háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru. Sú niðurstaða var staðfest með hinum áfrýjaða dómi. 6. Að ósk ríkissaksóknara var veitt leyfi til áfrýjunar málsins til Hæstaréttar. Í ákvörðun réttarins 3. júní 2021 sagði að líta yrði svo á að úrlausn um beitingu 193. gr. almennra hegningarlaga í málinu myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sem mikilvægt væri að fá afstöðu Hæstaréttar til. Málsatvik og meðferð máls 7. Málavextir eru þeir helstir að ákærða og B hófu sambúð árið […] og eignuðust […] drenginn C. Upp úr sambúðinni slitnaði í […]. Gengið var frá sambúðarslitum […] sama ár hjá sýslumanni þar sem staðfest var samkomulag ákærðu og B sama dag um að þau færu sameiginlega með forsjá drengsins og að hann skyldi eiga lögheimili hjá móður. 8. Ákærða hóf árið […] sambúð með D í […] og fluttist C þangað með henni. Af því tilefni gerðu ákærða og B með sér samning um umgengni sonar þeirra við föður. Síðar sama ár fluttu ákærða, D og C til […] og þar fæddist ákærðu og D […] stúlkan E. Skömmu eftir fæðingu hennar slitnaði upp úr sambúð ákærðu og D og flutti ákærða síðla árs […] til Íslands með bæði börnin. Gengið var […] formlega frá sambúðarslitum við dómstól í […]. 9. Í úrskurði dómstólsins „um umgengni og búsetu“, sem fyrir liggur í þýðingu löggilts skjalaþýðanda, kom meðal annars fram að stúlkan skyldi búa hjá móður og væri henni heimilað að flytjast búferlum með stúlkuna frá […]. Þá skyldi móðir hafa samráð við föður hverju sinni um „fullnustu foreldraábyrgðar“ og gefa honum upplýsingar um ferðir frá Íslandi sem stæðu yfir lengur en tvær vikur. Einnig var þar kveðið á um umgengnisrétt stúlkunnar við föður og föðurfjölskyldu á Íslandi. 10. Samkvæmt vottorði Þjóðskrár Íslands 5. október 2016 fara ákærða og D sameiginlega með forsjá E. Að tilhlutan Hæstaréttar óskaði ríkissaksóknari eftir upplýsingum Þjóðskrár, ásamt gögnum, um hvernig staðið var að skráningu forsjárinnar. Í svari Þjóðskrár 22. október 2021 sagði að E hefði fæðst í […] í […] og á að þeim tíma hefðu ákærða og D verið gift. Samkvæmt verklagi Þjóðskrár væri forsjá barna sem fæðast erlendis skráð sameiginleg ef foreldrar þeirra væru í hjúskap. Væri það ástæða þess að forsjá E hefði verið skráð þannig á sínum tíma. Þegar gögn vegna skilnaðar foreldra hefðu borist Þjóðskrá hefði ekkert verið í þeim sem gefið hefði til kynna að forsjártilhögun ætti að breytast við skilnaðinn. Í gögnunum hefði komið fram að lögheimili stúlkunnar skyldi vera hjá móður og að umgengni ætti að vera við föður. Af þessu hefði því mátt ráða að forsjá ætti áfram að vera sameiginleg með ákærðu og D eftir skilnað þeirra. Fram er komið í málinu að ákærða lagði […] 2017 fram beiðni til sýslumanns um að forsjá stúlkunnar skyldi vera hjá ákærðu einni. Í þeirri beiðni tiltekur ákærða að forsjá sé sameiginleg. 11. Samkvæmt gögnum málsins hefur C átt lögheimili hjá ákærðu allt frá samvistarslitum hennar og B og einnig E frá hjúskaparslitum hennar og D. Eftir að ákærða flutti til Íslands eftir skilnaðinn hefur umgengni C við föður sinn verið nokkuð regluleg en umgengni E við föður og föðurfjölskyldu stopul. 12. Ákærða fór […] 2016 af landi brott með bæði börnin til […] í […] í andstöðu við feður þeirra og stundaði þar nám. Feður barnanna lögðu 18. október sama ár fram kæru á hendur ákærðu fyrir brot gegn 193. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. mgr. 28. gr. a barnalaga nr. 76/2003. Skýrslur voru teknar af þeim hjá lögreglu sama dag og þá gaf ákærða skýrslu 20. desember 2016. Jafnframt lögðu feðurnir, hvor fyrir sig, fram beiðni til innanríkisráðuneytisins um að börnin yrðu afhent þeim á grundvelli samnings um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa (Haagsamningsins) frá 25. október 1980, sbr. 1. tölulið 5. gr. laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. Fór svo að dómstóll í […] féllst […] 2017 á beiðni feðranna og voru börnin afhent þeim sama dag. Í framhaldi af því héldu ákærða, feðurnir og börnin til Íslands. 13. Í forsendum héraðsdóms fyrir sýknu ákærðu segir að ákærða hafi sjálf farið með vald og umsjá yfir börnum sínum og þau hafi átt lögheimili hjá henni. Ákærða og B hafi farið sameiginlega með forsjá sonar þeirra en vafi leiki hins vegar á því hvort ákærða og D hafa farið sameiginlega með forsjá dóttur þeirra. Þar sem enginn yfirvaldsúrskurður hafi legið fyrir sem meinaði ákærðu brottför úr landi með börn sín og hún hafi sjálf farið með vald og umsjá yfir þeim sé ekki unnt að færa háttsemi hennar undir 193. gr. almennra hegningarlaga. 14. Í niðurstöðu Landsréttar er rakin forsaga 193. gr. almennra hegningarlaga og sú ályktun dregin af henni að helst verði ráðið að með ákvæðinu sé brugðist við réttarbroti sem beinist að frelsi einstaklingsins eins og gert sé með 226. gr. sömu laga. Verði því að líta svo á að lagaákvæðinu sé fyrst og fremst ætlað að standa vörð um hagsmuni barns til að njóta umsjár og verndar þess sem fer með forsjá. Í ljósi stöðu ákærðu sem forsjárforeldris og aðalumönnunaraðila barnanna, sem og atvika að öðru leyti, verði ekki á það fallist að með háttsemi sinni hafi hún brotið gegn 193. gr. almennra hegningarlaga eins og skýra verði ákvæðið. Niðurstaða 15. Í máli þessu er ákærðu gefið að sök að hafa svipt feður tveggja barna valdi og umsjá yfir þeim í um sjö og hálfs mánaðar skeið með því að fara með þau af landi brott til […] án leyfis og vitundar feðra þeirra sem hvor um sig hafi farið sameiginlega með forsjá barnanna með ákærðu. 16. Samkvæmt 193. gr. almennra hegningarlaga skal hver sem sviptir foreldra eða aðra rétta aðila valdi eða umsjá yfir barni sem er ósjálfráða fyrir æsku sakir, eða stuðlar að því að það komi sér undan slíku valdi eða umsjá, sæta sektum eða fangelsi allt að 16 árum eða ævilangt. 17. Eftir verknaðarlýsingu 193. gr. almennra hegningarlaga í XXI. kafla laganna, sem tekur til sifskaparbrota, er refsinæmi þeirrar háttsemi sem greinir í ákvæðinu bundið samkvæmt orðanna hljóðan við rétt foreldra til valds eða umsjár yfir barni sem er ósjálfráða fyrir æsku sakir, svo og sams konar rétt annarra réttra aðila yfir ósjálfráða barni. Um lagagreinina segir í greinargerð með frumvarpi því er varð að almennum hegningarlögum að þar sé lögð refsing við broti sams konar því sem í 226. gr. getur og tekur til frelsissviptingar. Síðan segir svo: „Þar eð barn er ekki enn sjálfrátt, beinist verknaður að rétti foreldris til umráða yfir barni, og á ákvæðið því heima í þessum kafla.“ Samkvæmt því sem rakið hefur verið er ótvírætt eftir verknaðarlýsingu 193. gr. almennra hegningarlaga og greinargerð með ákvæðinu að refsinæmi hinnar ólögmætu háttsemi, sem þar er lýst, er einskorðað við brot gegn foreldravaldi yfir barni. 18. Í dómi Hæstaréttar 23. mars 2006 í máli nr. 206/2005 var faðir ákærður fyrir sifskaparbrot eftir 193. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa svipt móður valdi og umsjá yfir barni með því fara með það til Frakklands og halda því þar. Fyrir lá í málinu að móðirin fór með forsjá barnsins til bráðabirgða samkvæmt dómsúrskurði og jafnframt að lagt hafði verið bann við för þess af landi brott. Með dóminum var því slegið föstu að orðin vald og umsjá í 193. gr. almennra hegningarlaga svöruðu til forsjár í skilningi barnalaga, en sem fyrr greinir fór móðirin ein með forsjá barns þess sem um ræðir í málinu er faðirinn fór með það af landi brott. Var faðirinn sakfelldur í málinu með vísan til áðurnefnds ákvæðis almennra hegningarlaga. 19. Í máli þessu eru aðstæður á annan veg en í fyrrgreindu hæstaréttarmáli að því leyti að lagt er til grundvallar í ákæru að forsjá ákærðu og feðra barnanna sé sameiginleg. Ágreiningslaust er að ákærða og B fari sameiginlega með forsjá sonar þeirra. Þá er því haldið fram af hálfu ákæruvalds að það gildi einnig um forsjá yfir dóttur ákærðu og D samkvæmt opinberri skráningu. Því hefur ákærða andmælt með vísan til úrskurðar […] dómstóls 2. nóvember 2011 sem hún telur efnislega fela í sér að hún fari ein með forsjá stúlkunnar. 20. Í umræddum úrskurði er meðal annars kveðið á um að barnið skuli búa hjá ákærðu og að hún skuli hafa það „tiltækt fyrir samskipti við föður og/eða föðurfjölskyldu“, en með orðinu samskipti er átt við umgengni barnsins við föður og/eða föðurfjölskyldu. Umgengnisrétturinn er síðan skilgreindur með nánar tilgreindum hætti. Þá segir þar að móðir muni hafa samband við föður hverju sinni varðandi „fullnustu foreldraábyrgðar“ sem takmarkist ekki við hvar hún býr og fyrirhugaðar ferðir frá Íslandi sem standi yfir lengur en tvær vikur. Beri henni að veita föður upplýsingar um dvalarstað og fastlínusímanúmer. Í ákvörðun dómstólsins um fyrirkomulag samskipta og dvalarstað [...] er meðal annars mælt svo fyrir að móðir skuli ráðgast við föður tímanlega hvert sinn vegna „fullnustu foreldraábyrgðar“ og takmarkist það ekki við hvar hún býr og fyrirhugaðar breytingar á því eða menntun og heilbrigði stúlkunnar og læknismeðferð. Þá er þar lögð sú skylda á herðar móður að hún tryggi að sú skipan sem kveðið er á um samkvæmt framansögðu verði skráð á Íslandi innan 56 daga frá því að hún öðlaðist gildi. 21. Samkvæmt 5. mgr. 28. gr. barnalaga felur forsjá barns að íslenskum rétti í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess. Þá fer forsjárforeldri með lögformlegt fyrirsvar barns. 22. Mælt er fyrir um inntak sameiginlegrar forsjár í 1. mgr. 28. gr. a barnalaga, sbr. 5. gr. laga nr. 61/2012 um breytingu á þeim lögum. Þar segir að þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns skuli þeir taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir sem varða það. Ef foreldrar búa ekki saman hafi það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf þess, svo sem daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Foreldrar sem fara saman með forsjá barns skuli þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málum er ráðið til lykta. Í greinargerð með frumvarpi til fyrrgreindra breytingarlaga kemur fram að nauðsynlegt hafi þótt að afmarka frekar en gert hafi verið í þágildandi lögum hvenær annað foreldra getur ráðið ákveðnum málefnum barns til lykta. Þá segir þar að rétt eins og þegar um forsjá sé að ræða hafi búseta barns einnig tiltekin réttaráhrif. Sé réttarstaða foreldris, sem barn býr hjá, eða lögheimilisforeldris þannig önnur en réttarstaða foreldris, sem barn býr ekki hjá, eða umgengnisforeldris. Munurinn sé fyrst og fremst sá að lögheimilisforeldri hafi ríkari rétt til að taka ákvarðanir um málefni barns og hafi til dæmis réttarstöðu einstæðs foreldris þegar kemur að innheimtu og móttöku meðlags. 23. Eins og áður greinir er ágreiningslaust að ákærða og B fara sameiginlega með forsjá sonar þeirra. Þá verður að telja að það forsjárfyrirkomulag sem kveðið var á um af hálfu hins […] dómstóls og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan samræmist í meginatriðum ákvæðum barnalaga um sameiginlega forsjá. Eru því ekki efni til annars en að leggja hina opinberu skráningu sameiginlegrar forsjár ákærðu og D yfir dóttur þeirra til grundvallar í máli þessu. 24. Í 3. mgr. 28. gr. a barnalaga er mælt svo fyrir að fari foreldrar með sameiginlega forsjá sé öðru þeirra óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins. Það ákvæði var upphaflega lögfest með lögum nr. 23/1995 um breytingu á þágildandi barnalögum nr. 20/1992 í tengslum við fullgildingu Evrópuráðssamnings frá 20. maí 1980 um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endurheimt forsjár barna og fyrrgreinds Haagsamnings frá 25. október 1980 um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa, sbr. lög nr. 160/1995. Er hér um einkaréttarlegt úrræði að ræða til handa foreldri sem telur á sér brotið með flutningi hins foreldrisins á barni þeirra milli landa. 25. Hæstiréttur komst sem fyrr segir að þeirri niðurstöðu í máli réttarins nr. 206/2005 að refsivert væri eftir 193. gr. almennra hegningarlaga fyrir það foreldri, sem ekki fer með forsjá barns, að fara með það af landi brott og halda því þar. Í máli þessu eru aðstæður ólíkar þeim sem í fyrrnefndum dómi greinir, en fyrir liggur að ákærða er og hefur verið aðalumönnunaraðili barna þeirra er hér um ræðir allt frá fyrrgreindum sambúðarslitum og hjónaskilnaði. Jafnframt hafa börnin átt lögheimili hjá henni eftir að upp úr slitnaði milli hennar og barnsfeðra og gengið var formlega frá þeim málum hjá yfirvöldum. 26. Enda þótt kveðið sé á um í 1. mgr. 28. gr. a barnalaga að foreldrar sem fara saman með forsjá barns skuli ávallt leitast við að hafa samráð áður en þeim málum sem í ákvæðinu greinir er ráðið til lykta er ljóst af ákvæðinu og lögskýringargögnum með því að það foreldri sem barn er með lögheimili hjá hefur ríkari rétt til að taka ákvarðanir um málefni þess. 27. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 7. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, verður engum gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Þá segir í 1. mgr. 1. gr. almennra hegningarlaga að eigi skuli refsa manni nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem refsing er lögð við í lögum eða má öldungis jafna til hegðunar sem þar er afbrot talið. Sambærilega reglu er jafnframt að finna í 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Af þessum ákvæðum verður ráðið að réttmætan vafa um skýringu refsiákvæða skal meta sakborningi í hag, sbr. dóm Hæstaréttar 27. september 2018 í máli nr. 639/2017. 28. Af því sem að framan greinir um refsinæmi 193. gr. almennra hegningarlaga, inntak sameiginlegrar forsjár og skýrleika refsheimilda er það niðurstaða dómsins að ákærða hafi ekki með þeirri háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru svipt feður barnanna valdi og umsjá yfir börnunum og þar með forsjá þeirra í merkingu 193. gr. almennra hegningarlaga. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur að niðurstöðu til um sýknu ákærðu. 29. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað eru staðfest. 30. Allur áfrýjunarkostnaður málsins fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Allur áfrýjunarkostnaður málsins fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Halldórs Þ. Birgissonar lögmanns, 868.000 krónur. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=57663c98-cd7e-449e-b925-bee977610dec
Mál nr. 22/2021
Endurgreiðsla Framsal valds Gjaldtaka Skattur Stjórnarskrá Tollur
Á ehf. höfðaði mál gegn Í til endurgreiðslu á fjárhæðum sem hann hafði innt af hendi til Í vegna greiðslna fyrir tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum frá ríkjum Evrópusambandsins sem ráðherra úthlutaði honum á grundvelli 3. mgr. 65. gr., sbr. 65. gr. B, búvörulaga nr. 99/1993 og 5. mgr. 12. gr. tollalaga nr. 88/2005. Fyrir Hæstarétti laut ágreiningur málsins að því hvort ákvæði 3. mgr. 65. gr., sbr. 65. gr. B búvörulaga, eins og þau hljóðuðu á þeim tíma sem atvik málsins gerðust, teldist fullgild skattlagningarheimild og þá hvort heimild ráðherra til að setja reglugerð um úthlutun tollkvóta hefði falið í sér framsal skattlagningarvalds og þar með hvort álagning gjaldsins hefði samrýmst 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Í dómi Hæstaréttar kom fram með þeirri skattlagningu sem fólgin væri í gjaldtöku fyrir tollkvóta stefndi löggjafinn að tilteknum lögmætum markmiðum sem nánar væri lýst í 1. gr. búvörulaga. Játa yrði löggjafanum talsvert svigrúm um val á leiðum að þeim markmiðum að því tilskildu að gætt væri grundvallarsjónarmiða stjórnarskrár um að skattar skuli lagðir á eftir almennum efnislegum mælikvarða og jafnræðis gætt gagnvart skattborgurunum eftir því sem unnt væri. Þá sagði að við mat á því hvort ákvæði laga hefðu að geyma fullgilda heimild til skattlagningar hefði verið lögð megináhersla á það í dómum Hæstaréttar, án tillits til þess af hvaða toga skattlagning væri, að ákvörðun um hvort skattur verði lagður á, hver fjárhæð hans skuli vera, hverjir séu gjaldskyldir á hverjum tíma og önnur meginatriði skattheimtunnar sé ekki á hendi stjórnvalda. Hæstiréttur taldi að við útboð á tollkvótum á árinu 2018 hefðu ráðherra og önnur stjórnvöld ekki haft neitt það svigrúm sem máli skipti til að ákveða hversu hátt gjald Á ehf. greiddi fyrir tollkvótann, breyta því eða um önnur meginatriði skattheimtunnar. Þá taldi Hæstiréttur að af 3. mgr. 65. búvörulaga yrði ekki ráðið að ráðherra hefði í raun haft val um aðra útfærslu gjaldtökunnar en að kalla eftir tilboðum á jafnræðisgrundvelli og taka því boði sem hæst væri. Var því ekki fallist á að þágildandi ákvæði laganna hefðu veitt ráðherra frjálsa heimild til að setja ákvæði í reglugerð um það hvernig velja skyldi á milli þeirra sem gerðu tilboð í tollkvóta og við hvaða boð skyldi miða hið álagða gjald. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að gild skattlagningarheimild hefði legið til grundvallar þeirri gjaldtöku sem fólst í greiðslu Á ehf. fyrir þá tollkvóta sem málið laut að. Var Í því sýknað af kröfu Á ehf.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. maí 2021. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar á öllum dómstigum. 3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Ágreiningsefni 4. Ágreiningur málsins lýtur að gjaldtöku fyrir tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum frá ríkjum Evrópusambandsins sem ráðherra úthlutaði stefnda 7. maí og 18. desember 2018 á grundvelli 3. mgr. 65. gr., sbr. 65. gr. B búvörulaga nr. 99/1993 og 5. mgr. 12. gr. tollalaga nr. 88/2005 gegn greiðslu gjalds, samtals að fjárhæð 17.410.000 krónur. 5. Sundurliðun stefnufjárhæðar er með þeim hætti að annars vegar er krafist endurgreiðslu á 1.560.000 krónum vegna úthlutunar tollkvóta 7. maí 2018 samkvæmt reglugerð nr. 318/2018 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á landbúnaðarvörum frá ríkjum Evrópusambandsins og hins vegar endurgreiðslu 15.850.000 króna vegna úthlutunar á tollkvóta 18. desember sama ár samkvæmt reglugerð nr. 1045/2018 er ber sama heiti. 6. Fyrir Hæstarétti lýtur ágreiningurinn að því hvort ákvæði 3. mgr. 65. gr., sbr. 65. gr. B búvörulaga, eins og þau hljóðuðu á þeim tíma sem atvik málsins gerðust, teljast fullgild skattlagningarheimild og þá hvort heimild ráðherra til að setja reglugerð um úthlutun tollkvóta hafi falið í sér framsal skattlagningarvalds og þar með hvort álagning gjaldsins hafi samrýmst 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. 7. Stefndi höfðaði mál þetta 28. janúar 2019 og gekk dómur í héraði 1. nóvember það ár þar sem áfrýjandi var sýknaður af kröfu hans. Í hinum áfrýjaða dómi 19. mars 2021 var talið að í ljósi 40. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrár styddist álagning þeirra gjalda sem um ræðir ekki við lögmæta skattlagningarheimild. Áfrýjandi var dæmdur til endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem stefndi hafði greitt. 8. Áfrýjunarleyfi Hæstaréttar var veitt 14. maí 2021 á þeim grunni að dómur gæti haft fordæmisgildi um hvort viðhlítandi heimild hefði verið fyrir hendi fyrir gjaldtökunni. Málsatvik og lagaumhverfi 9. Stefndi hefur um árabil haft með höndum innflutning á matvörum, dreifingu og sölu þeirra. Hefur hann meðal annars flutt inn tilteknar landbúnaðarvörur á grundvelli tollkvóta. Í máli þessu var um að ræða innflutning stefnda á kjötvörum á árinu 2018 samkvæmt tollkvótum. Tollkvóti merkir samkvæmt 20. tölulið 1. gr. tollalaga tiltekið magn vöru sem flutt er inn á lægri tollum en almennt gerist samkvæmt meginreglu 5. gr. sömu laga. 10. Tollkvótar fela þannig í sér heimild til þess að fá að flytja inn tilteknar landbúnaðarafurðir á sérstökum tollkjörum. Áfrýjandi hefur skuldbundið sig til að gefa út tollkvóta samkvæmt ýmsum fríverslunar- og milliríkjasamningum, meðal annars á grundvelli samkomulags Íslands og Evrópusambandsins frá febrúar 2007 og september 2015 á grunni 19. gr. EES-samningsins og bókun 4 við hann, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta endurspeglast meðal annars í 1. tölulið 1. mgr. 7. gr. tollalaga sem mælir fyrir um að tollur skuli lækka, falla niður eða endurgreiðast í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. 11. Í 5. mgr. 12. gr. tollalaga segir að ráðherra er fari með málefni landbúnaðar úthluti tollkvótum samkvæmt skuldbindingum Íslands um innflutning á landbúnaðarvörum enda væri tollur lagður á vöruna sem magntollur eftir því sem greinir í tollskrá í viðauka I við lögin. Um úthlutun tollkvóta samkvæmt þessari málsgrein færi samkvæmt 65. gr. B búvörulaga. Falla hér undir tvíhliða skuldbindingar Íslands við Evrópusambandið um landbúnaðarvörur. 12. Áfrýjandi hefur úthlutað slíkum tollkvótum á hverju ári og hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið árlega gefið út reglugerðir um úthlutun þeirra að undangenginni auglýsingu. Sæki innflytjendur um meira magn til innflutnings en sem nemur tollkvóta vöru hafa kvótarnir verið boðnir út í sérstökum útboðum. 13. Á þeim tíma er atvik áttu sér stað var 3. mgr. 65. gr. búvörulaga svohljóðandi: Heimilt er að skipta tollkvótum upp í einingar. Tollkvótum skal úthlutað til ákveðins tíma, allt að einu ári í senn. Berist umsóknir um meiri innflutning en sem nemur tollkvóta vörunnar skal leita tilboða í heimildir til innflutnings samkvæmt tollkvótum og skal andvirðið þá renna í ríkissjóð. Endurúthluta má tollkvótum sem ekki eru nýttir innan þess frests sem tilgreindur er við úthlutun kvótans. 14. Þá var 2. mgr. 65. gr. B laganna svohljóðandi: Ráðherra birtir í reglugerð þær reglur sem gilda um úthlutun tollkvóta samkvæmt þessari grein þar sem m.a. komi fram úthlutunarkvóti, innflutningstímabil, tolltaxtar, viðurlög við misnotkun, sbr. 4. mgr. 65. gr., og aðrir skilmálar sem um innflutninginn skulu gilda. 15. Í 1. mgr. 65. gr. B búvörulaga kemur fram að ráðherra úthluti tollkvótum sem tilgreindir eru í 5. mgr. 12. gr. tollalaga og varði aðrar skuldbindingar Íslands um innflutning á landbúnaðarvörum í fríverslunar- og milliríkjasamningum en þær sem greinir í 65. gr. og 65. gr. A búvörulaga, enda væri tollur lagður á vöruna sem magntollur eftir því sem tollskrá í viðauka I við tollalög greinir. Um úthlutun tollkvóta fari eftir ákvæðum 65. gr. búvörulaga. Eins og áður kemur fram setti ráðherra reglugerðir nr. 318/2018 og 1045/2018 á grundvelli 65. gr. B búvörulaga og 5. mgr. 12. gr. tollalaga. 16. Í 2. gr. beggja framangreindra reglugerða var kveðið á um magn tollkvóta fyrir tilgreindar vörur og í 4. gr. þeirra voru áréttuð framangreind lagafyrirmæli þess efnis að bærust umsóknir um meira magn innflutnings en auglýstum tollkvóta næmi skyldi leita tilboða í tollkvóta vegna viðkomandi vöruliðar og jafnframt að tilboð skyldu ráða úthlutun. Síðan segir að sá tilboðsgjafi er hæst byði skyldi leysa til sín úthlutaðan tollkvóta með greiðslu andvirðis hans innan sjö daga frá dagsetningu um niðurstöðu útboðs. Úthlutun væri ekki framseljanleg. 17. Á grundvelli framangreindra laga og reglna gerði stefndi umrædd tilboð sín í tollkvóta á árinu 2018 að undangengnum auglýsingum þar um frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Fékk hann eins og áður segir úthlutaðan tollkvóta sem hann greiddi fyrir samtals 17.410.000 krónur. 18. Undir rekstri þess máls sem hér er til úrlausnar var 3. mgr. 65. gr. búvörulaga breytt með 1. gr. laga nr. 152/2019 er tóku gildi 1. janúar 2020. Ákvæðið er nú svohljóðandi: Heimilt er að skipta tollkvótum upp í einingar. Tollkvótum skal úthlutað til ákveðins tíma, allt að einu ári í senn. Heimilt er að endurúthluta tollkvótum sem ekki eru nýttir innan þess frests sem tilgreindur er við úthlutun kvótans. Berist umsóknir um meiri innflutning en sem nemur tollkvóta vörunnar skal leitað tilboða í heimildir til innflutnings samkvæmt tollkvótum og skal andvirðið þá renna í ríkissjóð. Til þess að tilboð teljist gilt er heimilt að fara fram á ábyrgðaryfirlýsingu eða staðgreiðslu tilboðs. Við útboð tollkvóta skulu valin hæstu verðtilboð í tiltekið magn þar til magni tollkvóta sem til ráðstöfunar er hefur verið náð. Verð tollkvótans fyrir öll valin verðtilboð ræðst að svo búnu af verði lægsta valda tilboðsins í hverjum vörulið. Gildir það verð þá jafnframt fyrir önnur hærri og valin tilboð sé þeim til að dreifa. Séu fleiri en einn þátttakandi með tilboð jöfn lægsta samþykkta tilboði skal úthlutað hlutfallslega. Auglýsa skal útboð tollkvóta. 19. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 152/2019 sagði að ákvæðið fæli í sér þá grundvallarbreytingu varðandi útboð á tollkvótum að tekin skyldi upp aðferð frá Hollandi sem nefnd hefði verið jafnvægisútboð. Fælist þessi uppboðsaðferð í því að lægsta samþykkta verð útboðs skyldi ákvarða verð tollkvótans á því magni sem til úthlutunar kæmi væri heildarmagn tilboða meira en það sem væri í boði. Útboðsverð vegna hvers tollkvóta yrði þannig jafnt fyrir alla án tillits til þess sem hver aðili bauð. 20. Með 2. gr. laga nr. 136/2020, er tóku gildi 22. desember það ár, var fyrirkomulagi á úthlutun tollkvóta aftur breytt. Með þeirri breytingu var kveðið á um að þrátt fyrir 7.-9. málslið 3. mgr. 65. gr. búvörulaga skuli verð tollkvóta frá og með gildistöku ákvæðisins til 1. ágúst 2022 ráðast af fjárhæð tilboða hverju sinni. Kvótunum yrði því fyrst úthlutað til hæstbjóðanda, svo til þess sem næsthæst bauð og þannig koll af kolli uns tiltækum kvóta hefði verið úthlutað. Í athugasemdum með frumvarpinu var vísað til breyttra markaðsskilyrða og því væri lagt til að eldra fyrirkomulag útboðs tollkvóta yrði tekið tímabundið upp að nýju í stað jafnvægisútboðs eins og lög nr. 152/2019 gerðu ráð fyrir. Réttarframkvæmd 21. Dómsmál hafa áður verið rekin vegna úthlutunar tollkvóta á grundvelli búvöru- og tollalaga þar sem ágreiningur hefur staðið um hvort ákvæði laganna eins og þau hafa verið á hverjum tíma hafi falið í sér viðhlítandi heimild til skattheimtu að virtum ákvæðum stjórnarskrár. Þá hafa lagaákvæði um úthlutun tollkvóta tekið ýmsum breytingum, meðal annars í tilefni af þessum dómsmálum. 22. Með dómum 21. janúar 2016 í málum nr. 317-319/2015 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að reglur þágildandi 65. gr., sbr. 65. gr. B, í búvörulögum um að ráðherra hefði frjálst val um það, þegar umsóknir bærust um meiri innflutning vöru en tollkvóta hennar næmi hverju sinni, hvort hlutkesti skyldi ráða úthlutun eða hvort leita skyldi tilboða í heimildir til innflutnings samkvæmt tollkvótunum, hefðu farið í bága við 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Fælist enda í þessari skipan að ráðherra gæti einhliða ákveðið hvort greiða skyldi gjald fyrir tollkvóta eða ekki, en slík gjaldtaka væri allsherjarréttarlegs eðlis og teldist skattheimta að því leyti að lagaheimildir til hennar þyrftu að uppfylla skilyrði sem gerð væru til fullgildrar sköttunarheimildar. Í dómum héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, sagði meðal annars að úthlutun tollkvóta fæli í sér ívilnun til handa þeim sem úthlutun hljóti. Innflytjendur hefðu ávallt val um að taka þátt í útboði en þeir hefðu ekki val um aðrar leiðir vildu þeir fá tollkvóta úthlutað. Aðrar leiðir stæðu því ekki til boða fyrir innflytjendur sem gæta vildu viðskiptalegra hagsmuna sinna. Tilboð þeirra réðu alfarið úthlutun og þar með því gjaldi sem þeir greiddu fyrir tollkvóta sem rynni síðan í ríkissjóð. Þá sagði að í ákvæðum 65. gr. og 65. gr. B búvörulaga væri ekki að finna reglur um ákvörðun fjárhæðar gjaldsins eða hámark þess en fyrir lægi að tilboð aðila réði úthlutun. Í þessu fælist sérstaða gjaldsins þar sem þeir er byðu í tollkvóta hefðu um það að segja hve hátt það yrði að lokum. Gjaldið væri þó skýrt að því leyti að bjóðandi vissi hvað hann byði og á sama hátt væri engum vafa undirorpið hver gjaldandinn væri. Þá fæli útboð að auki í sér að gætt væri vissrar jafnræðisreglu. Við þessar forsendur gerði Hæstiréttur ekki sérstakar athugasemdir. 23. Meðan á rekstri framangreindra dómsmála stóð voru gerðar breytingar á ákvæði 3. mgr. 65. gr. búvörulaga um úthlutun tollkvóta. Með 7. gr. laga nr. 46/2015, sem tóku gildi 9. júlí 2015, var felld brott heimild í 3. málslið 3. mgr. 65. gr. til að ráðherra gæti valið um hvort hlutkesti réði úthlutun tollkvóta eða hvort leitað yrði tilboða í heimildirnar í þeim tilvikum þegar borist hefðu umsóknir um meiri innflutning en sem næmi tollkvóta. Í ákvæðinu stóð hins vegar eftir heimild til handa ráðherra að opna fyrir frjálsan innflutning búvara samkvæmt tilgreindum viðaukum við tollalög í stað þess að innheimta gjald á grundvelli útboðs. Í lögskýringargögnum kom fram sú skýring við tillögu til þessarar breytingar að tilefni hennar hafi verið niðurstaða héraðsdóms í nokkrum málum, meðal annars í málum sem til endurskoðunar voru í síðastgreindum dómum Hæstaréttar. 24. Með dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2017 í málum nr. E-187/2017, E-188/2017 og E-495/2017 var komist að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulag 3. mgr. 65. gr. búvörulaga um að ráðherra hefði val um að heimila frjálsan innflutning búvara í stað innheimtu gjaldsins væri einnig andstætt ákvæðum 40. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrár. Dómum þessum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar. 25. Meðan á meðferð síðastgreindra héraðsdómsmála stóð var 3. mgr. 65. gr. búvörulaga enn breytt, sbr. lög nr. 102/2016 sem tóku gildi 1. janúar 2017. Með b-lið 34. gr. laganna var felld brott framangreind heimild ráðherra til að ákveða hvort veita ætti almenna heimild til innflutnings á sérstökum tollkjörum og ákvæði 3. mgr. 65. gr. búvörulaga fært í það horf sem rakið er í 13. lið hér að framan. Niðurstaða 26. Málatilbúnaður stefnda hefur verið óglöggur og misvísandi. Til að mynda byggði stefndi upphaflega á því að um væri að ræða landbúnaðarvörur er féllu undir vöruflokka IVA og IVB í tollalögum, að tollkvótunum hefði verið úthlutað eftir 65. gr. A en ekki 65. gr. B búvörulaga og að fyrrgreinda lagagreinin fæli í sér heimild til handa ráðherra að ákveða hvort gjaldtaka ætti sér stað eða hvort heimilaður yrði innflutningur án gjaldtöku. Við upphaf aðalmeðferðar í Landsrétti var á hinn bóginn bókað eftir stefnda að hann félli frá ýmsum þeim málsástæðum sem hann hafði haft uppi í héraði og við meðferð málsins fyrir Hæstarétti skýrðist málatilbúnaður stefnda að þessu leyti enn frekar. Fram kom hjá báðum aðilum að ágreiningur málsins snerist um hvort 3. mgr. 65. gr. búvörulaga fæli í sér fullnægjandi aðferð við skattlagningu að virtum 40. og 77. gr. stjórnarskrár. 27. Í 1. málslið 40. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að engan skatt megi á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Þá er mælt svo fyrir í 1. mgr. 77. gr. að skattamálum skuli skipað með lögum og ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. 28. Ákvæði 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar var breytt í það horf sem áður er lýst með 15. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því er varð að lögum nr. 97/1995 var fjallað sérstaklega um bann við framsali skattlagningarvalds. Sagði meðal annars að í ákvæðinu væri bætt við reglu um að beinlínis verði tekið fram að ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort skattur verði lagður á, honum breytt eða hann afnuminn. Efnislega væri þessi regla nokkuð skyld þeirri sem kæmi fram í upphafsmálslið 40. gr. stjórnarskrárinnar um að engan skatt megi á leggja, breyta né af taka nema með lögum. Dómstólar hafi orðið að leysa úr því í allnokkrum málum hvort eða hvernig þau fyrirmæli útiloka eða takmarka heimildir löggjafans til að framselja með lögum ákvörðunarvald um þessi atriði til stjórnvalda. Með orðalaginu í þessu ákvæði frumvarpsins væri leitast við að taka af skarið með miklu ákveðnari hætti en gert væri í 40. gr. stjórnarskrárinnar um að löggjafinn megi ekki framselja til framkvæmdarvaldsins ákvörðunarrétt um fyrrnefnd atriði, heldur verði að taka afstöðu til þeirra í settum lögum. 29. Heimildarákvæði í lögum fyrir stjórnvöld til þess að setja nánari reglur um útfærslu og framkvæmd viðkomandi laga verða að skoðast í þessu ljósi við mat á hvort um er að ræða fullgilda skattlagningarheimild. Þannig segir í dómi Hæstaréttar 21. október 1999 í máli nr. 64/1999 að af orðalagi framangreinds ákvæðis stjórnarskrárinnar, eins og það varð með 15. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 og með vísun til áðurgreindra ummæla í greinargerð, verði ráðið að settar hafi verið öllu ítarlegri reglur um skattamál en áður stóðu í 77. gr. stjórnarskrárinnar. Verði ráðið að ætlun stjórnarskrárgjafans hafi verið að banna með því fortakslaust að almenni löggjafinn heimili stjórnvöldum að ákveða hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema. Fyrri úrlausnir dómstóla fyrir þessa stjórnarskrárbreytingu yrðu af þessum sökum ekki taldar hafa nema takmörkuð áhrif við skýringu á lögmæti skattlagningarheimilda eftir breytinguna. 30. Hefðbundin merking skatthugtaksins er að skattur sé peningagreiðsla sem tilteknir hópar einstaklinga eða lögaðila verða að gjalda til hins opinbera samkvæmt einhliða ákvörðun ríkisvaldsins eftir almennum efnislegum mælikvarða og án sérgreinds endurgjalds, sbr. til hliðsjónar áðurgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 64/1999. Hefur hugtakið í 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar í síðari tíð verið skýrt rúmt, sbr. til að mynda dóm Hæstaréttar 23. mars 2017 í máli nr. 213/2016, þar sem ekki var talið hafa þýðingu að veiðigjaldi sem málið laut að væri öðrum þræði ætlað að fela í sér endurgjald fyrir nýtingu á nytjastofnum á Íslandsmiðum. Svo sem áður segir er gjaldtaka fyrir tollkvóta allsherjarréttarlegs eðlis og telst skattheimta að því leyti að lagaheimildir til hennar þurfa að uppfylla skilyrði þau sem gerð eru til fullgildrar skattlagningarheimildar. Engu að síður hefur skattlagning þessi sérstöðu þar sem í raun er um að ræða endurgjald fyrir nýtingu tollkvóta, sem eru takmörkuð gæði, tilkomin vegna þjóðréttarskuldbindinga íslenska ríkisins þar sem úthlutun felur í sér ívilnun frá almennum reglum tollalaga. 31. Með þeirri skattlagningu sem fólgin er í gjaldtöku fyrir tollkvóta stefnir löggjafinn einnig að tilteknum lögmætum markmiðum sem nánar lýst er í 1. gr. búvörulaga. Verður að játa löggjafanum talsvert svigrúm um val á leiðum að þeim markmiðum að því tilskildu að gætt sé grundvallarsjónarmiða stjórnarskrár um að skattar skuli lagðir á eftir almennum efnislegum mælikvarða og jafnræðis gætt gagnvart skattborgurunum eftir því sem unnt er, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 10. apríl 2014 í máli nr. 726/2013. 32. Þegar atvik þessa máls urðu höfðu sem fyrr segir tekið gildi breytingar á 3. mgr. 65. gr. búvörulaga með lögum nr. 102/2016. Mæla lögin nú fyrir um skyldu til að leita tilboða í heimildir til innflutnings samkvæmt tollkvótum, berist umsóknir um meiri innflutning en sem nemur tollkvóta vörunnar. Er því ljóst að ráðherra hefur ekki lengur heimild til að taka einhliða ákvörðun um hvort greiða skal gjald fyrir tollkvóta eða láta fara fram útboð á tollkvótum, svo sem dómstólar hafa talið andstætt 1. mgr. 77. gr. 33. Við mat á því hvort ákvæði laga hafi að geyma fullgilda heimild til skattlagningar hefur verið lögð megináhersla á það í dómum Hæstaréttar, án tillits til þess af hvaða toga skattlagning er, að ákvörðun um hvort skattur verði lagður á, hver fjárhæð hans skuli vera, hverjir eru gjaldskyldir á hverjum tíma og önnur meginatriði skattheimtunnar sé ekki á hendi stjórnvalda. Með því er stefnt að því markmiði stjórnarskrárbreytinganna 1995 sem kom skýrt fram í lögskýringargögnum að löggjafinn verði að taka afstöðu til þessara atriða. Jafnframt er borgurunum veitt vernd gegn því að ákvarðanir um skattheimtu, sem fela í sér almennar takmarkanir á eignarrétti þeirra, verði byggðar á geðþótta. Kom þessi afstaða réttarins meðal annars skýrt fram í fyrri dómum hans um tollkvóta frá 21. janúar 2016 í málum nr. 317-319/2015 sem lýst var að framan. Þar var til umfjöllunar fyrirkomulag sem þá gilti að ráðherra hefði frjálst val um hvort hlutkesti skyldi ráða úthlutun tollkvóta eða hvort leita skyldi tilboða í heimildir til innflutnings samkvæmt tollkvótum. Var í þessu talið felast í reynd að ráðherra gæti einhliða ákveðið hvort greiða skyldi gjald fyrir tollkvóta eða ekki, en slík skipan hjó að kjarna þeirrar verndar sem 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar veitir sem fyrr er lýst. 34. Svo sem að framan greinir er í 1. mgr. 5. gr. tollalaga að finna þá meginreglu að af vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins skuli greiða toll eins og mælt er fyrir um í tollskrá í viðauka I við lögin. Sú undantekning er gerð í 1. tölulið 1. mgr. 7. gr. laganna að tollur skuli lækka, falla niður eða endurgreiðast í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Með þessu er lögð áhersla á að löggjafanum beri þjóðréttarleg skylda til að mæla fyrir um slíkar ívilnanir en jafnframt að gera ráðstafanir í lögum til að ná þessu markmiði, því eins og fyrr segir verður stjórnvöldum ekki veitt óheft ákvörðunarvald þar um. Ákvæði 5. mgr. 12. gr. laganna og 65. gr. B búvörulaga fela í sér sérstaka heimild til að flytja inn landbúnaðarafurðir tollfrjálst í takmörkuðu magni eða á lægri tollum en almennt gerist, sbr. 20. tölulið 1. gr. fyrrnefndu laganna, og byggir ákvörðun þar um á fyrrgreindum þjóðréttarskuldbindingum. Þar sem tollkvótar eru sem fyrr segir takmörkuð gæði sem úthluta þarf til þeirra sem sækjast eftir þeim þarf löggjafinn að setja fyrirmæli um fyrirkomulag við að deila þeim út og búa jafnframt svo um hnútana að byggt sé á almennum efnislegum mælikvarða og gætt sé ákveðins jafnræðis eins og fyrr var lýst. 35. Eins og fram kom í forsendum héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti í málum 317˗˗319/2015, felst sérstaða gjaldsins í 65. gr. B og 65. gr. búvörulaga í því að þegar tilboða er aflað í tollkvóta og eftirspurn eftir þeim er meiri en framboð, ráði tilboð þeirra sem bjóða í tollkvótann úrslitum um fjárhæð gjaldsins sem þeir greiða. Þeir sem bjóða í tollkvóta hafa því um það að segja hve hátt það verður að lokum. Gjaldið er skýrt að því leyti að bjóðandi veit hvað hann býður og á sama hátt er engum vafa undirorpið hver gjaldandinn er. Þá felur útboð að auki í sér að gætt er vissrar jafnræðisreglu. 36. Í samræmi við þessa skipan fór fram útboð á vegum áfrýjanda á tollkvótum tiltekinna vara á árinu 2018 þar sem stefndi gerði tilboð í tollkvóta á jafnræðisgrundvelli með öðrum sem gerðu slík tilboð. Var stefnda úthlutaður tollkvóti sem hann greiddi fyrir í samræmi við tilboð sín. Ráðherra eða önnur stjórnvöld höfðu ekki neitt það svigrúm sem máli skiptir til að ákveða hversu hátt gjald stefndi greiddi fyrir tollkvótann, breyta því eða um önnur meginatriði skattheimtunnar. Að þessu virtu verður ekki fallist á að fyrirkomulag um að skylt sé að leita tilboða væntanlegra gjaldenda í heimildir til innflutnings samkvæmt tollkvótum sé í andstöðu við 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. 37. Annað meginúrlausnarefni málsins lýtur að því hvort fyrirmæli um þá aðferð að leita tilboða í tollkvóta samkvæmt 3. mgr. 65. gr. búvörulaga sé nægilega fest í sett lög, eða hvort ráðherra hafi verið framselt vald til að ákveða fjárhæð skattlagningar í stjórnvaldsfyrirmælum, sem ekki standist kröfur fyrrgreindra ákvæða stjórnarskrárinnar. Í því sambandi hefur stefndi bent á að í hinu setta lagaákvæði hafi hvergi verið tekið af skarið um hvaða tilboði skyldi taka í kjölfar útboðs á tollkvótum en það aðeins komið fram í 4. gr. reglugerða nr. 318/2018 og 1045/2018. Þá réð það úrslitum fyrir niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að fyrirmæli um það hvernig velja skyldi milli tilboðsgjafa í tollkvóta og við hvaða boð skyldi miða hið álagða gjald kæmu aðeins fram í reglugerðunum. 38. Af 3. mgr. 65. gr. búvörulaga verður ekki ráðið að ráðherra hafi í raun haft val um aðra útfærslu gjaldtökunnar en að kalla eftir tilboðum á jafnræðisgrundvelli, svo sem fyrr var lýst, og taka því boði sem hæst væri. Leiðir af þessu að fyrirmæli 4. gr. reglugerða nr. 318/2018 og 1045/2018 um að kalla eftir tilboðum með auglýsingu og að sá tilboðsgjafi sem hæst bjóði leysi til sín úthlutaðan tollkvóta með greiðslu andvirðis hans er í beinu samhengi við þessi lagafyrirmæli. Það samræmist einnig þeirri meginreglu sem almennt gildir þegar tilboða er leitað að taka skuli tilboði hæstbjóðanda nema fyrir hendi séu sérreglur um frávik frá því. Að öðru leyti fjalla framangreindar reglugerðir aðeins um útfærslu á því hvernig tollkvóti er greiddur, þar á meðal um greiðsluhátt, greiðslufresti og ábyrgðir, sem ekki hefur þýðingu fyrir efnislega ákvörðun um fjárhæð greiðslu fyrir tollkvóta. Verður því ekki fallist á með stefnda að ákvæði laganna á þeim tíma er mál þetta tekur til hafi veitt ráðherra frjálsa heimild til að setja ákvæði í reglugerð um það hvernig velja skyldi á milli þeirra sem gerðu tilboð í tollkvóta og við hvaða boð skyldi miða hið álagða gjald. 39. Af því sem rakið hefur verið verður heldur ekki fallist á með stefnda að framangreindar lagabreytingar á árunum 2019 og 2020 sem mæla meðal annars fyrir um sérstaka aðferð við útboð, svokölluð jafnvægisútboð, hafi þýðingu fyrir niðurstöðu þessa máls. 40. Samkvæmt öllu framanrituðu lá gild skattlagningarheimild til grundvallar þeirri gjaldtöku sem fólst í greiðslu stefnda fyrir þá tollkvóta sem málið lýtur að. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda. 41. Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins á öllum dómstigum. Dómsorð: Áfrýjandi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfu stefnda, Ásbjörns Ólafssonar ehf. Málskostnaður fellur niður á öllum dómstigum. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=4cd0c076-29cb-44c0-9f96-a4bc05cedf75
Mál nr. 21/2021
Líkamstjón Skaðabætur Uppgjör Fyrirvari Matsgerð Málsástæða Meðdómsmaður Hæfi dómara Samning dóms Ómerkingarkröfu hafnað Sératkvæði
A varð fyrir líkamstjóni á árinu 2013 við störf sín hjá Í sem háseti. Í viðurkenndi bótaskyldu og bótauppgjör fór fram í kjölfar kröfubréfs frá lögmanni A um bætur á grundvelli álitsgerðar örorkunefndar. Lögmaður A gerði fyrirvara við uppgjörið um frekari bætur yrði varanleg örorka eða miski síðar metinn hærri. Fljótlega eftir uppgjörið aflaði A nýrra gagna um tjón sitt og krafðist frekari bóta en þeim kröfum hafnaði Í. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu Í. Hæstiréttur féllst ekki á kröfu A um að dómur Landsréttar yrði ómerktur sökum þess að hann hefði ekki verið skipaður tveimur sérfróðum meðdómsmönnum, að einn dómari hefði verið vanhæfur eða að annmarki hefði verið á samningu dómsins. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar fyrirvari við bótaákvörðun fullnægir áskilnaði um að vera skýr og ótvíræður hafi hann gildi milli aðila. Í málinu lægju ekki fyrir gögn um nánari skýringar á fyrirvaranum, þar með talið tilefni hans eða hvort áfrýjandi teldi tilteknar forsendur í álitgerð örorkunefndar ekki standast. Þegar litið væri til orðalags fyrirvarans og þess sem lægi fyrir um aðdraganda uppgjörsins væri fyrirvarinn, að því leyti sem hann gat lotið að forsendum uppgjörsins, ekki nægilega ótvíræður til þess að geta orðið grundvöllur að frekari kröfum A um bætur. Taldi rétturinn að fyrirvarinn fæli ekki annað í sér en áskilnað um frekari bætur ef síðar yrðu ófyrirséðar breytingar á heilsu hans sem yllu því að varanlegur miski eða varanleg örorka yrði talin meiri en lagt hefði verið til grundvallar við fullnaðaruppgjör. Talið var ósannað að breytingar hefðu orðið á heilsufari A eftir að samkomulag um fullnaðaruppgjör hefði verið gert og að slíkar breytingar hefðu valdið því að varanlegar afleiðingar af völdum slyssins hefðu síðar verið metnar meiri en lagt var til grundvallar við gerð samkomulagsins. Þegar af þeirri ástæðu gæti A ekki haft uppi frekari kröfur á hendur Í hvorki á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga né fyrrgreinds fyrirvara. Hinn áfrýjaði dómur var því staðfestur um sýknu Í.
Dómur Hæstaréttar 1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. 2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. maí 2021. Hann krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms og að málinu verði vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Til vara krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 25.197.356 krónur með 4,5% ársvöxtum af tilgreindum fjárhæðum frá […] 2013 til 7. janúar 2017, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af höfuðstól kröfunnar frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 23. desember 2015 að fjárhæð 500.000 krónur og 20. júlí 2017 að fjárhæð 2.453.360 krónur. Til þrautavara krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða sér 21.193.293 krónur en að því frágengnu 11.751.552 krónur í báðum tilvikum með sömu vöxtum og frádrætti og í varakröfu. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefnda á öllum dómstigum án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt fyrir Hæstarétti. 3. Stefndi krefst aðallega staðfestingar á dómi Landsréttar og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla. Ágreiningsefni 4. Mál þetta lýtur að líkamstjóni sem áfrýjandi varð fyrir […] 2013 í starfi sínu hjá stefnda sem háseti […]. Stefndi viðurkenndi bótaskyldu og greiddi áfrýjanda bætur á grundvelli álitsgerðar örorkunefndar 28. janúar 2015. Við það uppgjör gerði áfrýjandi fyrirvara um frekari bætur yrði varanlega örorka eða miski síðar metinn hærri. Eftir að hafa aflað nýrra gagna um tjónið krafðist áfrýjandi frekari bóta en þeim kröfum hafnaði stefndi. 5. Með héraðsdómi 2. október 2019 var stefndi sýknaður á þeim grunni að fyrirvari áfrýjanda við uppgjör bóta hefði ekki falið annað í sér en áskilnað um frekari bætur ef síðar yrðu ófyrirséðar breytingar á heilsu hans sem leiddu til frekari varanlegs miska eða varanlegrar örorku. Jafnframt komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að ekki væri fullnægt skilyrðum 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til endurupptöku ákvörðunar um bætur. Með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar 26. mars 2021 var þessi niðurstaða staðfest. 6. Með beiðni áfrýjanda 12. apríl 2021 var óskað eftir heimild Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar. Til stuðnings þeirri beiðni vísaði hann meðal annars til þess að úrslit málsins hefðu verulegt almennt gildi og benti á að sama dag og hinn áfrýjaði dómur gekk hefði gengið annar dómur í Landsrétti í máli nr. 143/2020 þar sem sams konar fyrirvari við bótauppgjör hefði ekki verið talinn takmarkaður við þær aðstæður að ófyrirséðar breytingar yrðu á heilsu tjónþola. Þessir dómar væru því misvísandi og fyrir hendi óvissa um réttarframkvæmd. Með ákvörðun Hæstaréttar 14. maí 2021 var veitt heimild til að áfrýja málinu til réttarins. Í ákvörðuninni sagði að líta yrði svo á að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi meðal annars um þýðingu fyrirvara við bótauppgjör. Málsatvik 7. Í […] 2013 var áfrýjandi ráðinn í skipsrúm sem háseti hjá […]. Hinn […] það ár varð hann fyrir vinnuslysi úti á sjó og hlaut líkamstjón. Í skipsbók var atvikinu lýst þannig að klukkan 7.15 um morguninn hefði tóg […] slitnað þegar […]. Við það hefði […] lent á brjóstkassa áfrýjanda og kastað honum aftur á bak svo að hann hefði skollið á bakið ofan á keðjulóð og með höfuðið á þil bobbingarennu bakborðsmegin og við það misst meðvitund. Tekið var fram að áfrýjandi hefði verið með öryggishjálm. Hlúð var að honum og skipið sett á fulla ferð í land til móts við þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti hann til Akureyrar en þaðan var hann fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur og á bráðamóttöku Landspítalans. Eftir að hafa dvalið á bráðamóttöku í tæpan sólahring var áfrýjandi lagður inn á almenna skurðdeild og útskrifaður þaðan […] 2013. 8. Samkvæmt læknisvottorði frá heilsugæslunni 7. september 2014 hlaut áfrýjandi við slysið brot á X. og XI. brjósthryggjarlið og rifbeinsbrot. Hann hefði komið til skoðunar á heilsugæslunni 2. ágúst 2013 og þá verið með mikla verki og átt erfitt með svefn. Hann hefði komið aftur til skoðunar 25. september sama ár og enn verið allaumur í síðu og baki. Næst hefði áfrýjandi komið 9. desember það ár og verið allaumur neðst í baki og á lendhryggjarsvæði. Í vottorðinu kom einnig fram að áfrýjandi hefði leitað á bráðamóttöku 20. maí 2014 vegna slæmra verkja í neðanverðu baki. Loks sagði í vottorðinu að áfrýjandi hefði í viðtali við lækni í júní það ár lýst viðvarandi bakverk og svefntruflunum af þeim sökum. 9. Með sameiginlegri beiðni aðila 2. október 2014 var óskað eftir áliti örorkunefndar á líkamstjóni áfrýjanda vegna slyssins. Í álitsgerð nefndarinnar 28. janúar 2015 var komist að þeirri niðurstöðu að heilsufar áfrýjanda hefði verið orðið stöðugt […] 2014 þegar ár var liðið frá slysinu. Á því tímabili hefði hann verið veikur, þar af rúmliggjandi í tvo daga, og tímabundið tjón hans verið 100%. Tekið var fram að þrátt fyrir hvíld frá vinnu frá slysinu, sjúkraþjálfun og bólgueyðandi verkjalyf hefðu „vandræði“ áfrýjanda orðið viðvarandi. Því næst segir svo: Slæmir verkir í brjósthrygg um herðar og á milli herðablaða og út í vinstri síðu. Þrálátur höfuðverkur, þreyta, gleymska, skert einbeiting og minna úthald. Hann sefur illa vegna verkja, er endalaust að snúa sér og hann á erfitt með að klæða sig í og úr. Hann hefur reynt svefnlyf en varð að hætta því vegna fótapirrings. Hann hefur fundið fyrir eyrnasuði og svima og kveðst ekki ráða við erfiðari heimilisstörf, hann þoli illa langar stöður vegna bakverkja. [...], almenn vanlíðan og atvinnuleysi hafa valdið tjónþola félagslegri einangrun og andlegri vanlíðan. 10. Í umræddri álitsgerð örorkunefndar var tekið fram að við slys áfrýjanda hefðu þvertindar tveggja brjósthryggjarliða brotnað og jafnframt tvö rif vinstra megin. Hann hefði misst meðvitund við þungt högg og fallið á bakið ofan á keðjulóð. Að auki hefði hann að öllum líkindum hlotið vægan heilahristing og tognunaráverka á baki. Þá var talið að ekki yrði litið fram hjá fyrri áverkasögu áfrýjanda og var hún rakin í álitsgerðinni. Varanlegur miski hans var metin 15 stig án nánari sundurgreiningar. Um varanlega örorku áfrýjanda var tekið fram að hann væri menntaður [...] og hefði starfað á [...]. Hann gæti að einhverju marki sinnt slíkum störfum en telja yrði þó að afleiðingar slyssins hefðu gripið þar inn í og dregið úr möguleikum hans til að afla sér atvinnutekna. Að þessu virtu mat nefndin varanlega örorku áfrýjanda 15%. 11. Með bréfi lögmanns áfrýjanda 13. mars 2015 var gerð krafa á hendur stefnda á grundvelli álitsgerðar örorkunefndar 28. janúar sama ár og fylgdi útreikningur lögmanns áfrýjanda á bótakröfunni. Í kjölfarið gerðu aðilar með sér samkomulag 5. júní sama ár um fullnaðaruppgjör slysatryggingabóta samkvæmt viðeigandi kjarasamningi. Tekið var fram að uppgjörið væri gert á grunni skaðabótalaga og álitsgerðar örorkunefndar og nam heildargreiðsla 9.367.477 krónum til samræmis við efni bréfs lögmanns áfrýjanda. Með áritun á samkomulagið gerði lögmaður áfrýjanda fyrirvara um rétt hans til frekari bóta yrði „varanleg örorka og/eða miski síðar metinn hærri en skv. álitsgerð örorkunefndar“. 12. Í lok júlí 2015, eftir að bætur höfðu verið gerðar upp við áfrýjanda eftir samkomulaginu 5. júní 2015, fól áfrýjandi öðrum lögmanni að gæta hagsmuna sinna. Óskaði sá lögmaður eftir áliti C geðlæknis á afleiðingum slyssins á andlega heilsu áfrýjanda. Í vottorði læknisins 23. nóvember 2015 var vísað til álitsgerðar örorkunefndar um afleiðingar slyssins og tekið fram að áfrýjandi hefði sagt að einkennin hefðu lítið sem ekkert breyst. Um andlegar afleiðingar slyssins sagði að greinilegt væri að veruleg kvíða- og þunglyndiseinkenni hefðu komið fram í kjölfar þess og aðrir erfiðleikar auk áfengisvanda. Í kjölfarið aflaði lögmaðurinn frekari gagna um heilsufar áfrýjanda. 13. Áfrýjandi aflaði einhliða álitsgerðar G lögfræðings, I læknis og H geðlæknis 16. nóvember 2016 um líkamstjón sitt á grundvelli skaðabótalaga. Í henni var komist að þeirri niðurstöðu að heilsufar áfrýjanda teldist hafa orðið stöðugt 23. nóvember 2015 og miðaðist það tímamark við fyrrgreint mat C geðlæknis. Jafnframt að varanlegur miski hans væri 35 stig en af því væru 15 stig vegna geðeinkenna og 5 stig vegna heilataugaskaða. Þá var varanleg örorka metin 60%. Loks var komist að þeirri niðurstöðu að heilsufar áfrýjanda hefði versnað í skilningi 11. gr. skaðabótalaga frá janúar 2015 þegar örorkunefnd skilaði sinni álitsgerð. Þetta yrði aðallega rakið til andlegra einkenna sem hefðu byrjað að þróast eftir slysið en ekkert tillit hefði verið tekið til þeirra í álitsgerð örorkunefndar. Tekið var fram að þunglyndi áfrýjanda væri alvarlegt og þyrfti meðferðar við. Varakrafa áfrýjanda hér fyrir dómi, að höfuðstól 25.197.356 krónur, tekur mið af þessari álitsgerð. 14. Með bréfi 7. desember 2016 krafðist áfrýjandi frekari bóta úr hendi stefnda á grundvelli álitsgerðarinnar 16. nóvember 2016. Því erindi var svarað með bréfi 10. janúar 2017 þar sem kröfunni var hafnað. Í kjölfarið höfðaði áfrýjandi málið í héraði 10. maí 2017 á hendur stefnda. Matsgerðir 15. Undir rekstri málsins í héraði fékk áfrýjandi 24. febrúar 2017 dómkvödd þau J lögmann og K taugalækni til að meta líkamstjón sem áfrýjandi varð fyrir í slysinu […] 2013. Matið laut að því að kanna afleiðingar slyssins og jafnframt hvort heilsufar áfrýjanda hefði versnað frá janúar 2015 eftir að örorkunefnd skilaði álitsgerð sinni. Í matsgerð 13. júní 2017 kom fram að afleiðingar slyssins hefðu verið nær ótilfærð brot á X. og XI. hryggjarlið vinstra megin og aftan til í XI. rifi vinstra megin, auk tognunaráverka á hálsi, brjóstbaki og lendhrygg. Áfrýjandi hefði síðar fengið bólgueinkenni í báðar axlir. Í kjölfar slyssins hefði hann orðið þunglyndur, kvíðinn og fengið áfallastreituröskun og hefði einkenni eftir heilahristing. Þá hefði komið í ljós vanstarfsemi í heiladingli sem matsmenn töldu afleiðingar slyssins. Um það atriði sagði í matsgerðinni að eftir matsfund hefði áfrýjandi leitað til N læknis til skoðunar á starfsemi heiladinguls. Í læknabréfi hans 29. maí 2017 kom fram að áfrýjandi væri með klínísk einkenni og breytingar á tveimur hormónaöxlum sem ekki væri hægt að útiloka að væru afleiðingar slyssins. Þó væri hugsanlegt að karlmenn lentu í hraðri niðursveiflu á testósteróngildum og gætu þar komið til álita aðrir orsakaþættir eins og ofþyngd og áfengi eða jafnvel minnkun […]. Læknirinn taldi sig ekki finna afgerandi skýringu á testósterónlækkun hjá áfrýjanda en tekið var fram í bréfinu að hann notaði áfengi að mestu leyti í hófi. 16. Í matsgerðinni 13. júní 2017 kom fram það álit að í heildina hefðu líkamleg einkenni frá mjóbaki og hægri öxl heldur aukist. Einnig hefðu geðræn einkenni aukist og haft neikvæð áhrif á hugræn einkenni. Að auki hefði komið í ljós vanstarfsemi í heiladingli. Líkamleg einkenni og geðræn og hugræn einkenni hefðu því versnað frá álitsgerð örorkunefndar 28. janúar 2015. Matsmenn töldu varanlegan miska nema 35 stigum að teknu tilliti til einkenna áfrýjanda fyrir slysið. Þar af væru 10 stig vegna tognunareinkenna í hrygg, 20 stig vegna þunglyndis, kvíða- og áfallastreitueinkenna og heilkennis eftir heilahristing og 5 stig vegna […] af líkamlegum ástæðum. Loks töldu matsmenn að varanleg örorka áfrýjanda vegna slyssins væri 50%. Til stuðnings því var tekið fram að útilokað væri að áfrýjandi gæti unnið líkamlega krefjandi störf eins og sjómennsku sem hann hafði starfað við fyrir slysið. Einnig væri úthald hans til vinnu verulega skert, bæði vegna líkamlegra og andlegra einkenna. Þá væri ekki sjálfgefið að hann gæti vegna afleiðinga slyssins sinnt störfum sem hann hefði menntun til og áður gegnt á […]. Í því tilliti horfðu matsmenn ekki síður til andlegra afleiðinga slyssins en líkamlegra og tóku fram að til viðbótar auknu þunglyndi frá álitsgerð örorkunefndar væri áfrýjandi þjakaður af félagsfælni, kvíða og einangrun. Þrautavarakrafa áfrýjanda hér fyrir dómi, að höfuðstól 21.193.293 krónur, tekur mið af þessari matsgerð. 17. Stefndi leitaði með beiðni 12. desember 2017 eftir yfirmati til að endurmeta þau atriði sem undirmat tók til auk þess sem óskað var eftir að matsmenn fjölluðu jafnframt um hvort breytingar á afleiðingum tjóns áfrýjanda, líkamlegra og andlegra, hefðu verið ófyrirsjáanlegar þegar þær voru metnar af örorkunefnd 28. janúar 2015. Til að framkvæma matið voru dómkvaddir F lögmaður, E bæklunarlæknir og D heila- og taugalæknir og skiluðu þeir matsgerð 27. apríl 2018. Um það hvort heilsufar áfrýjanda hefði versnað verulega og ef svo væri hvort þær breytingar hefðu verið fyrirsjáanlegar, þegar afleiðingar slyssins voru metnar af örorkunefnd, sagði svo í yfirmatinu: Heilsufar yfirmatsþola hefur ekki versnað verulega frá janúar 2015. Í vottorði C geðlæknis, dags. 23.11.2015, kemur fram að einkennum yfirmatsþola sé nákvæmlega lýst í álitsgerð örorkunefndar og ástæðulaust sé að tíunda þau aftur. Yfirmatsþoli hafi við komu til læknisins þann 12.11.2015 sagt að einkennin hafi lítið sem ekkert breyst. Þeir áverkar sem samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er hægt að rekja til slyssins þann […] 2013 eru heilkenni eftir höfuðáverka og eftirstöðvar áverka á lendhrygg og neðri hluta brjósthryggjar. Að áliti yfirmatsmanna eru framangreindir áverkar þess eðlis að hægt er að slá því föstu að einkenni þeirra hafi verið komin fram þegar afleiðingar slyssins voru metnar af örorkunefnd í janúar 2015 og hafi því ekki versnað eftir það. 18. Um afleiðingar slyssins var í yfirmatsgerðinni vísað til þess að í fyrrgreindri álitsgerð 16. nóvember 2016 væri lýst geðrænum einkennum og metinn varanlegur miski vegna þeirra. Tekið var fram að þau geðrænu einkenni og einkenni sem flokkuð væru sem heilkenni eftir höfuðáverka sköruðust verulega og því töldu yfirmatsmenn óeðlilegt að meta varanlegan miska vegna beggja atriðanna. Þess í stað var aðeins litið til þess ástands sem matsmenn töldu alvarlegra. Um varanlegan miska vegna heiladingulsbilunar töldu yfirmatsmenn að ekki hefðu legið fyrir réttar upplýsingar við undirmat eða hjá N lækni sem skoðaði áfrýjanda vegna þess. Í læknabréfi hans 29. maí 2017 kæmi fram að áfrýjandi hefði notað áfengi að mestu leyti í hófi en af upplýsingum úr sjúkraskrá geðdeildar Landspítalans væri ljóst að þar væri um verulegt vandamál að ræða. Vísuðu yfirmatsmenn til heimilda um áhrif áfengisneyslu á testósterón og tóku fram að ekki væri hægt að draga þá ályktun að orsakasamhengi væri á milli slyssins og lækkunar á testósteróni hjá áfrýjanda. Yfirmatsmenn töldu varanlegan miska áfrýjanda sem rekja mætti til höfuðáverka vera 5 stig og varanlegan miska vegna einkenna frá brjóst- og lendhrygg 15 stig. Til frádráttar kæmi miski vegna fyrri höfuðáverka 2 stig og vegna fyrri einkenna frá brjóst og lendhrygg 3 stig. Varanlegur miski vegna slyssins væri því samtals 15 stig. Þá töldu yfirmatsmenn að líkamstjón vegna slyssins væri ekki með þeim hætti að það ylli sérstökum erfiðleikum í lífi áfrýjanda sem ástæða væri til að meta til frekari miska. 19. Yfirmatsmenn mátu varanlega örorku áfrýjanda vegna slyssins 35% að teknu tilliti til þess að hann hefði ekki búið við óskerta starfsorku á slysdegi. Með hliðsjón af menntun og starfsreynslu áfrýjanda töldu matsmenn nærtækast að leggja til grundvallar getu hans til […] við mat á varanlegri örorku en taka yrði þó sérstakt tillit til getu hans til líkamlega erfiðra starfa, svo sem sjómennsku. Í ljósi þeirra áverka sem áfrýjandi hlaut, einkum á brjóst- og lendhrygg, töldu yfirmatsmenn að þeir hefðu haft þó nokkur áhrif á starfsgetu og tekjuöflunarhæfi hans til framtíðar litið. Á hinn bóginn yrði ekki fram hjá því litið að gögn málsins bentu ótvírætt til að meðal annars áfengisneysla hefði einnig haft umtalsverð áhrif á vinnufærni áfrýjanda eftir slysið. Við matið væri ekki hægt að líta á áfengisneysluna sem afleiðingu slyssins enda væru skilyrði um sennilega afleiðingu ekki fyrir hendi. Þess í stað yrði matið að taka mið af því hvernig einstaklingi í sömu sporum og áfrýjandi hefði reitt af eftir slysið hefði hann ekki glímt við vandamál tengd áfengisneyslu. Þá tóku yfirmatsmenn fram að áverkar og einkenni áfrýjanda eftir slysið væru tvímælalaust til þess fallin að hafa áhrif á getu hans til erfiðra starfa og ólíklegt að hann gæti unnið þau. Enn fremur töldu yfirmatsmenn að óþægindin myndu takmarka nokkuð getu áfrýjanda til að sinna […] sem hann hefði menntun til. Hann væri þó ekki með öllu ófær um að vinna sem […] og gæti sinnt léttari störfum. Síðari þrautavarakrafa áfrýjanda hér fyrir dómi, að fjárhæð 11.751.552 krónur, tekur mið af yfirmatsgerðinni. 20. Áfrýjandi fékk 31. ágúst 2018 dómkvaddar þær L geðlækni og M taugasálfræðing til að meta hvort hann hefði orðið fyrir andlegu eða geðrænu tjóni og hvort hann hefði orðið fyrir höfuðáverkum eða heilaskaða í slysinu. Í matsgerð þeirra 5. apríl 2019 kom fram að áfrýjandi hefði orðið fyrir andlegu og geðrænu tjóni í því. Í kjölfar þess hefði þróast alvarlegur og langvinnur þunglyndis- og kvíðasjúkdómur ásamt einkennum um langvinna áfallastreituröskun sem hefði haft mikil áhrif á líf og lífsgæði hans. Tekið var fram að saga væri um þunglyndiseinkenni fyrir slysið, um 10 árum áður, og kvíða og einnig um fyrri áföll. Fyrri saga um geðrænan vanda væri áhættuþáttur fyrir öðrum veikindatímabilum en jafnframt væri löng saga um áfengisvanda. Þó svo að ákveðin viðkvæmni hefði verið fyrir hendi þegar slysið varð hefði eðli áfallsins og afleiðingar skipt miklu máli um þróun einkenna hans. Mjög líklegt væri að mikill vímuefnavandi áfrýjanda eftir slysið hefði átt þátt í því að geðræn einkenni þróuðust yfir í langvinnan vanda. Erfitt væri þó að leggja mat á umfang þess geðræna tjóns sem væri bein afleiðing slyssins. Jafnframt var talið að áfrýjandi hefði orðið fyrir höfuðáverka og heilaskaða í slysinu. Helstu einkenni skaðans væru veikleikar á sviði framkvæmdastjórnunar og vísbendingar um breytingar á persónuleika. Tekið var fram að áfrýjandi hefði fyrir slysið orðið fyrir höfuðáverkum en ekki væri líklegt að þeir hefðu áhrif á afleiðingar slyssins. Þá var tekið fram að erfitt væri að leggja mat á umfang þeirra einkenna sem fylgdu heilaskaðanum vegna langvinns neysluvanda fyrir og eftir slysið og vegna geðrænna einkenna. Niðurstaða Formhlið málsins 21. Krafa áfrýjanda um að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur er í fyrsta lagi reist á því að dómendur hafi ekki haft næga sérfræðiþekkingu til að leysa úr málsástæðum áfrýjanda sem lutu að því geðræna tjóni sem hann hlaut í slysinu. Telur áfrýjandi að nauðsynlegt hefði verið að dómurinn yrði skipaður geðlækni en bent hafi verið á í greinargerð til Landsréttar að þörf væri á sérkunnáttu í dómi á sviði geð- og taugalæknisfræði. 22. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur héraðsdómari kvatt til einn meðdómsmann með viðeigandi kunnáttu ef deilt er um staðreyndir sem bornar eru fram sem málsástæður og dómari telur þurfa slíka þekkingu til að leysa úr þeim. Einnig er heimilt að kveðja til tvo meðdómsmenn ef dómari telur þörf sérkunnáttu í dómi á fleiru en einu sviði. Í málinu reynir á fjölþættar afleiðingar þess líkamstjóns sem áfrýjandi varð fyrir en aflað hefur verið undir- og yfirmats um tjónið auk viðbótarmatsgerðar sem lýtur sérstaklega að því andlega og geðræna tjóni sem áfrýjandi hlaut. Eins og hér hagar til verður að telja að héraðsdómi hafi verið heimilt að kveðja til setu í dómi tvo lækna þannig að dómurinn yrði skipaður sérfræðingum á fleiri en einu sviði læknisfræði, þar á meðal geðlæknisfræði. Er þess þá að gæta að játa verður héraðsdómi nokkurt svigrúm við þetta mat meðal annars vegna þeirra matsgerða sem fyrir lágu í málinu. Getur það því ekki skilyrðislaust varðað ómerkingu dóms án kröfu þótt gengið hafi verið lengra en ýtrustu efni voru til með því að kveðja til setu í dómi sérfræðinga á sitthvoru sviðinu. Ef þetta er hins vegar gert án nægjanlegs tilefnis verður dómur ómerktur, sbr. dóm Hæstaréttar 27. febrúar 2019 í máli nr. 26/2018. 23. Þegar sérfróður meðdómsmaður hefur tekið þátt í meðferð máls fyrir héraðsdómi, sem fengið hefur efnislega úrlausn þar og enn er deilt um staðreyndir sem bornar eru fram sem málsástæður fyrir Landsrétti, og forseti réttarins telur þurfa sérkunnáttu í dómi til að leysa úr, getur hann að eigin frumkvæði eða samkvæmt ábendingu dómsformanns í málinu kvatt til einn meðdómsmann sem hefur slíka sérkunnáttu. Telji forseti þörf á sérkunnáttu á fleiri en einu sviði við úrlausn máls og ekki er völ á meðdómsmanni með sérþekkingu á báðum eða öllum sviðum getur hann kallað til tvo sérfróða meðdómsmenn, sbr. 2. gr. a laga nr. 91/1991. Eins og málið lá fyrir Landsrétti, að gengnum dómi í héraði skipuðum meðdómsmönnum með sérþekkingu á tveimur mismunandi sviðum læknisfræði, var eftir þeirri meginreglu sem fram kemur í 2. gr. a laga nr. 91/1991 fullnægjandi að kveðja til setu í Landsrétti einn sérfróðan meðdómsmann með sérþekkingu í taugalæknisfræði. Kröfu áfrýjanda um ómerkingu dómsins á þeim grunni að rétturinn hafi ekki haft á að skipa dómendum með næga sérkunnáttu er því hafnað. 24. Krafa áfrýjanda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er í öðru lagi reist á því að einn af dómendum málsins í Landsrétti, Davíð Þór Björgvinsson, hafi verið vanhæfur til að fara með málið vegna fyrri starfa sinna fyrir stefnda. Í því sambandi bendir áfrýjandi á að komið hafi fram í fjölmiðlum að dómarinn hafi fengið greiðslur frá ríkislögmanni fyrir aðstoð vegna flutnings tiltekins máls fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Til stuðnings kröfu um ómerkingu á þessum grundvelli vísar áfrýjandi til g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi telur að þetta valdi ekki því að dómarinn hafi verið vanhæfur til að fara með málið en ráðgjöf hans við embætti ríkislögmanns hefði verið látin í té löngu áður en mál þetta var til meðferðar í Landsrétti og tengist því á engan hátt. 25. Í dómi Hæstaréttar 6. júní 2019 í máli nr. 24/2019 kom til úrlausnar hvort umræddur dómari væri vanhæfur til að fara með mál vegna starfa sinna í þágu embættis ríkislögmanns. Þar var því meðal annars haldið fram að umfangsmikil störf dómarans fyrir framkvæmdarvaldið samrýmdust ekki rétti sakbornings til að fá úrlausn um ákæru á hendur sér fyrir sjálfstæðum og óháðum dómstóli, enda yrði í því sambandi að leggja mat á hvort dómstóll hefði almennt þá ásýnd að þau skilyrði gætu talist uppfyllt. Í umræddum dómi Hæstaréttar var lagt til grundvallar að óumdeilt væri að dómarinn hefði fyrir 1. október 2018 lagt af mörkum vinnu við undirbúning varna í þágu íslenska ríkisins í tilteknu máli sem rekið var fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu og þegið greiðslu fyrir. Taldi Hæstiréttur að það eitt að dómarinn hefði leyst þetta verk af hendi í þágu íslenska ríkisins, áður en hann tók við dómarastarfi, gæti ekki valdið því að hann yrði í bráð eða til lengdar talinn vanhæfur til að sitja í dómi í sérhverju einkamáli sem ríkið ætti aðild að eða sakamáli sem handhafi ríkisvalds höfðaði. Með vísan til þessa verður ekki fallist á með áfrýjanda að dómarinn hafi verið vanhæfur til að fara með málið en áfrýjandi hefur ekki bent á nein önnur atriði því til stuðnings en þau sem umræddur dómur tók til. 26. Loks reisir áfrýjandi kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms á því að ekki hafi með viðhlítandi hætti verið leyst úr þeim málsástæðum sem hafðar voru uppi fyrir Landsrétti. Í því sambandi bendir hann á að þar hafi ekki verið fjallað um þá málsástæðu að fyrirvari við bótauppgjör með samkomulagi 5. júní 2015 hafi verið nægjanlega skýr og að á álitsgerð örorkunefndar 28. janúar 2015 hafi verið annmarkar sem valdi því að hún verði ekki lögð til grundvallar. Enn fremur hafi ekki verið fjallað um þá málsástæðu áfrýjanda að yfirmatsgerð 27. apríl 2018 hafi verið ófullnægjandi þar sem niðurstaða hennar um að heilkenni eftir höfuðáverka rými burt geðrænu tjóni hafi verið í ósamræmi við gildandi rétt. 27. Í hinum áfrýjaða dómi var fjallað um yfirmatið og komist að þeirri niðurstöðu að á því væru engir þeir annmarkar sem leitt gætu til þess að það yrði ekki lagt til grundvallar dómi í málinu. Þá vísaði Landsréttur um önnur atriði til forsendna héraðsdóms og staðfesti dóminn, en þar var meðal annars leyst úr málsástæðum áfrýjanda sem lutu að áhrifum fyrirvara hans við bótauppgjör og þeim annmörkum sem hann taldi á álitsgerð örorkunefndar. Samkvæmt þessu var samning dómsins í samræmi við 3. og 4. mgr. 163. gr., sbr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um ómerkingu dómsins á þessum grunni er því haldlaus. 28. Samkvæmt öllu framansögðu verður hafnað kröfu áfrýjanda um að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur. Efnishlið málsins 29. Með málsaðilum var ágreiningslaust að stefndi bæri bótaábyrgð á vinnuslysinu sem áfrýjandi varð fyrir […] 2013. Til að gera upp tjónið öfluðu þeir sameiginlega álitsgerðar örorkunefndar 28. janúar 2015, eftir heimild í 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga. Á grundvelli álitsgerðarinnar gerðu aðilar með sér samkomulag 5. júní 2015 um fullnaðaruppgjör skaðabóta. Með áritun á samkomulagið gerði lögmaður áfrýjanda áðurgreindan fyrirvara um rétt hans til frekari bóta yrði „varanleg örorka og/eða miski síðar metinn hærri en skv. álitsgerð örorkunefndar“. 30. Áfrýjandi heldur því fram að verulegir annmarkar hafi verið á álitsgerð örorkunefndar og því geti hún ekki haft áhrif í lögskiptum aðila. Í þeim efnum bendir hann á að álitsgerðin sé illa rökstudd svo að erfitt sé að greina hvað hefur ráðið niðurstöðum nefndarinnar. Eigi þetta bæði við um hvaða áhrif áverkar sem áfrýjandi hlaut fyrir slysið hafi haft á mat nefndarinnar og hvernig miski hans sundurliðist eftir miskatöflu. Tekur áfrýjandi fram að stjórnsýslulög nr. 37/1993 gildi um störf nefndarinnar og því beri að haga rökstuðningi í samræmi við 22. gr. þeirra laga. Loks bendir áfrýjandi á að formaður nefndarinnar hafi ekki verið viðstaddur matsfund. 31. Áfrýjandi ráðstafaði hagsmunum sínum með því að óska eftir og semja um fullnaðaruppgjör skaðabóta á grundvelli umræddrar álitsgerðar örorkunefndar. Hann getur því ekki borið fyrir sig að skort hafi á rökstuðning fyrir niðurstöðu nefndarinnar þótt fallast megi á með honum að nokkuð hafi skort á í þeim efnum. Þá hefur ekkert komið fram sem bendir til að formaður nefndarinnar, sem er lögfræðingur, hafi ekki tekið þátt í matstörfum en í því tilliti breytir engu þótt hann hafi ekki verið viðstaddur þegar læknismenntaðir matsmenn ræddu við og skoðuðu áfrýjanda. Samkvæmt þessu er hafnað málsástæðum áfrýjanda sem lúta að álitsgerð örorkunefndar. 32. Um endurupptöku bótaákvörðunar gildir 11. gr. skaðabótalaga. Þar segir að tjónþola sé heimilt að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur ef fullnægt er því skilyrði að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Þessi skilyrði endurupptöku bótaákvörðunar girða ekki fyrir að tjónþoli geti gert fyrirvara við bótauppgjör þannig að hann njóti rýmri réttar til endurupptöku bótaákvörðunar en leiðir af 11. gr. laganna. Tekur það bæði til fyrirvara er lúta að forsendum uppgjörs og ófyrirséðra breytinga á afleiðingum slyss. Hér verður þó að gera þann áskilnað að fyrirvari sé skýr og ótvíræður enda getur tjónþoli ekki með almennum og óljósum fyrirvara haggað bindandi gildi ákvörðunar um bætur sem aðilar hafa lagt til grundvallar í lögskiptum sínum. Þetta hefur verið staðfest í dómaframkvæmd og má í þeim efnum benda á dóma Hæstaréttar 20. febrúar 2014 í máli nr. 576/2013 og 18. febrúar 2016 í máli nr. 391/2015. Í fyrri dóminum hafði tjónþoli gert fyrirvara „við mat á miska og varanlegri örorku“ en í þeim síðari við „mat á varanlegum afleiðingum“ líkamstjóns. Í báðum málunum var talið að fyrirvarinn gæti ekki talist hafa falið annað í sér en að tjónþoli áskildi sér rétt til að krefjast frekari bóta ef síðar yrðu breytingar á heilsufari hans sem yllu því að varanlegur miski eða varanleg örorka af völdum slyss yrði talin meiri en lagt var til grundvallar við bótauppgjör. Einnig sagði í fyrri dóminum að eðli máls samkvæmt yrði fyrirvarinn ekki skýrður svo að tjónþoli hefði áskilið sér rétt til endurupptöku bótaákvörðunar vegna þess að matið, sem hún var reist á, kynni að vera rangt. Yrði að gera þá kröfu að slíkir fyrirvarar og þeir sem lytu að tilteknum forsendum mats væru ótvíræðir. 33. Þegar fyrirvari við bótaákvörðun fullnægir á hinn bóginn áskilnaði um að vera skýr og ótvíræður hefur hann gildi milli aðila. Um það má vísa til dóms Hæstaréttar 18. janúar 2007 í máli nr. 300/2006, þar sem fyrirvari fól í sér áskilnað um endurmat kæmi til þess að tjónþoli þyrfti á nýjan leik að starfa á tilteknu sviði, dóms réttarins 1. mars 2018 í máli nr. 107/2017, þar sem fyrirvari beindist einkum að því hvort afleiðingar slyss yrðu verri en gert væri ráð fyrir vegna höfuðverkjakasta og dóms 26. júní 2018 í máli nr. 773/2017 þar sem fyrirvari beindist að því hvort varanleg örorka væri fyrir hendi en svo hafði ekki verið talið í áliti sem lagt var til grundvallar við bótauppgjör. Hér má einnig nefna dóm réttarins 24. október 2013 í máli nr. 273/2013 en þar hafði verið tekið við bótum með fyrirvara um að miskastig og varanleg örorka væri of lágt metin við uppgjör og síðan tekið fram að tjónþoli hygðist láta dómkveðja matsmenn til að meta afleiðingar slyssins. Þannig kom beinlínis fram í fyrirvaranum að mati á afleiðingum líkamstjóns væri ekki unað og að aflað yrði matsgerðar um það. Í þessum dómum voru fyrirvarar túlkaðir með hliðsjón af samskiptum aðila í aðdraganda bótauppgjörs og við uppgjörið sjálft. 34. Eins og greinir í héraðsdómi liggja ekki fyrir gögn um nánari skýringar á fyrirvaranum sem lögmaður áfrýjanda ritaði á samkomulagið um fullnaðaruppgjör 5. júní 2015, þar með talið um tilefni hans eða hvort áfrýjandi teldi tilteknar forsendur í álitsgerð örorkunefndar 28. janúar 2015 ekki standast. Óhjákvæmilegt er að líta til þess að lögmaður áfrýjanda sendi stefnda kröfubréf á grundvelli álitsgerðarinnar og að bætur voru gerðar upp eftir þeirri kröfugerð. Þá er til þess að líta að áfrýjandi gerði fljótt reka að því að afla frekari gagna um tjón sitt eftir uppgjörið og hefði honum því verið í lófa lagið að gera nánari fyrirvara við þau atriði í álitsgerðinni sem hann taldi orka tvímælis eða eftir atvikum hafna því að ganga til uppgjörs á grundvelli hennar. Þegar litið er til orðalags fyrirvarans og þess sem fyrir liggur um aðdraganda uppgjörsins var fyrirvarinn að því leyti sem hann gat lotið að forsendum uppgjörsins ekki nægilega ótvíræður til þess að geta orðið grundvöllur að frekari kröfu áfrýjanda um bætur. Að þessu virtu verður ekki fallist á að fyrirvarinn geti falið annað og meira í sér en að áfrýjandi áskildi sér rétt til að krefjast frekari bóta ef síðar yrðu ófyrirséðar breytingar á heilsufari hans sem yllu því að varanlegur miski og varanleg örorka hans af völdum slyssins yrði talin meiri en lagt var til grundvallar við samkomulag um fullnaðaruppgjör. Hér á því sama við um gildi fyrirvarans og lagt var til grundvallar í fyrrgreindum dómum réttarins í málum nr. 576/2013 og 391/2015. 35. Í yfirmatsgerðinni 27. apríl 2018, sem stefndi aflaði undir rekstri málsins í héraði, var komist að þeirri niðurstöðu að þeir áverkar sem rekja mætti til slyssins væru heilkenni eftir höfuðáverka og eftirstöðvar áverka á lendhrygg og neðri hluta brjósthryggjar. Töldu yfirmatsmenn áverkana þess eðlis að hægt væri að slá því föstu að einkenni þeirra hefðu verið komin fram þegar afleiðingar slyssins voru metnar af örorkunefnd 28. janúar 2015 og hefðu því ekki versnað eftir það. Að öllu jöfnu er sönnunargildi yfirmats ríkara en undirmats nema sýnt hafi verið fram á annmarka á yfirmati. 36. Í yfirmatsgerðinni eru tilgreind þau gögn sem yfirmatsmenn öfluðu sjálfir við matið en um var að ræða annars vegar sjúkraskrá áfrýjanda og hins vegar nánar tilgreind læknabréf. Í kjölfarið lagði áfrýjandi fram beiðni um viðbótarmat í þinghaldi 18. maí 2018 en í henni var gerð athugasemd við að áfrýjanda hefðu ekki verið kynnt þau gögn sem yfirmatsmenn öfluðu og því haldið fram að það rýrði verulega sönnunargildi yfirmatsins. Eftir að hafa aflað þessara gagna lagði áfrýjandi þau fram í þinghaldi og tók þá fram að honum hefðu ekki verið kynnt gögnin. Að þessu virtu verður talið að áfrýjandi hafi tímanlega hreyft mótmælum af þessu tilefni. Við mat á þessum andmælum hans er þess að gæta að þótt matsmönnum hafi verið heimilt eftir 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 að afla sjálfir gagna til afnota við matið bar þeim að réttu lagi að kynna honum gögnin ef þau gátu haft áhrif við það. Á hinn bóginn er til þess að líta að umrædd gögn varða öll heilsufar áfrýjanda og voru honum aðgengileg auk þess sem hann veitti yfirmatsmönnum skriflegt leyfi til öflunar þeirra. Þá hefur áfrýjandi heldur ekki bent á neitt sem dregur úr gildi og áreiðanleika þessara gagna, þar með talið færslna í sjúkraskrá sem benda til að hann hafi misnotað áfengi fyrir slysið. Samkvæmt þessu verður ekki séð að andmæli áfrýjanda varðandi umrædd gögn sem yfirmatsmenn öfluðu hefðu breytt neinu við matið og því getur þessi annmarki ekki haft áhrif á sönnunargildi þess. 37. Skilyrði 11. gr. skaðabótalaga fyrir endurupptöku ákvörðunar um bætur fyrir varanlegan miska eða örorku eru tvíþætt. Annars vegar að breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið og hins vegar að þessar breytingar hafi verið ófyrirsjáanlegar þegar uppgjör bóta fór fram. Eins og áður er rakið komust yfirmatsmenn að þeirri afdráttarlausu niðurstöðu að einkenni þeirra áverka sem áfrýjandi hlaut í slysinu hefðu verið komin fram þegar örorkunefnd mat afleiðingar slyssins í álitsgerð sinni 28. janúar 2015. Því hefði heilsu hans ekki hrakað eftir það. Að þessu leyti hefur yfirmatinu ekki verið hnekkt af áfrýjanda og í þeim efnum geta engu breytt þeir annmarkar sem hann telur á matinu í öðru tilliti. Þannig skiptir ekki máli þótt komist sé að þeirri niðurstöðu í yfirmati að meta eigi varanlegan miska með öðru móti en gert var í fyrrgreindri undirmatsgerð 13. júní 2017 eða álitsgerð 16. nóvember 2016 sem áfrýjandi aflaði einhliða. Jafnframt breytir hér engu hvernig yfirmatsmenn mátu áverka á öxlum áfrýjanda enda hefur mat á þeim engin tengsl við það hvort einkenni áfrýjanda hafa versnað eftir að örorkunefnd mat afleiðingar slyssins. Þá er þess að gæta að viðbótarmatsgerð 31. ágúst 2018 sem áfrýjandi aflaði um áhrif slyssins á geðheilsu hans fer ekki í bága við fyrrgreinda niðurstöðu yfirmatsmanna. Þvert á móti kemur þar fram að erfitt sé að leggja mat á umfang þeirra einkenna sem leiddu af heilaskaða áfrýjanda vegna langvinns neysluvanda fyrir og eftir slysið. Einnig töldu matsmenn erfitt að leggja mat á umfang þess geðræna tjóns sem væri bein afleiðing af slysinu. Þannig verður ekki ráðið af þessu að rakið verði til slyssins að andlegri heilsu áfrýjanda hafi hrakað eftir að örorkunefnd mat afleiðingar þess. 38. Samkvæmt framansögðu er ósannað að breytingar hafi orðið á heilsufari áfrýjanda eftir að samkomulagið 5. júní 2015 um fullnaðaruppgjör var gert og að slíkar breytingar hafi valdið því að varanlegar afleiðingar af völdum slyssins hafi síðar verið metnar meiri en lagt var til grundvallar við gerð samkomulagsins. Þegar af þeirri ástæðu getur áfrýjandi ekki haft uppi frekari kröfur á hendur stefnda hvorki á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga né fyrrgreinds fyrirvara sem skýra verður með þeim hætti sem greinir í 34. lið dómsins. 39. Áfrýjandi gerir í öllum tilvikum þá kröfu að stefnda verði gert að greiða sér 2.000.000 króna í miskabætur þar sem tjónið verði rakið til stórfellds gáleysis, sbr. a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Stefndi hefur ekki borið fyrir sig að áfrýjandi hafi glatað rétti til að hafa uppi kröfu á þessum grundvelli vegna samkomulagsins 5. júní 2015 um fullnaðaruppgjör. Aftur á móti liggur ekkert fyrir í málinu sem rennir stoðum undir að slysið verði rakið til stórfellds gáleysis og því er krafa á þessum grunni haldlaus. 40. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. 41. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Dómur Landsréttar skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 2.000.000 króna. Sératkvæði Bjargar Thorarensen og Ólafs Barkar Þorvaldssonar 1. Við erum sammála lýsingu á ágreiningsefni svo og niðurstöðu um ómerkingarkröfu áfrýjanda og gildi yfirmatsgerðar í atkvæði meirihluta dómenda. Við erum hins vegar ósammála niðurstöðu þeirra um gildi fyrirvara sem áfrýjandi gerði við fullnaðaruppgjör slysatryggingabóta af eftirfarandi ástæðum. 2. Niðurstaða álitsgerðar örorkunefndar 28. janúar 2015 var að varanlegur miski áfrýjanda væri 15 stig og varanleg örorka 15%. Þegar aðilar málsins gerðu með sér samkomulag 5. júní 2015 um fullnaðaruppgjör skaðabóta á grundvelli hennar gerði áfrýjandi fyrirvara „um rétt A til frekari bóta verði varanleg örorka og/eða miski síðar metinn hærri en skv. álitsgerð örorkunefndar“. Réttur tjónþola til að setja fram slíkan fyrirvara er ótvíræður svo sem einnig verður leitt af 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Áfrýjandi nýtti sér þennan rétt þegar uppgjör á bótagreiðslu fór fram. Honum hefði vissulega verið unnt að lýsa þeirri fyrirætlan að hann hygðist leita dómkvaðningar matsmanna til að láta fara fram nýtt mat á afleiðingum slyssins, sbr. dóm Hæstaréttar 24. október 2013 í máli nr. 273/2013. Það hefði þó ekki breytt eðli fyrirvarans og ræður ekki úrslitum um gildi hans, en í framangreindum dómi laut fyrirvari tjónþola einmitt að mati örorkunefndar á bæði miskastigi og varanlegri örorku án frekari tilgreiningar og taldist hann gildur. Ætla má að það hefði staðið stefnda nær að gefa áfrýjanda til kynna liti hann á fyrirvarann sem markleysu, svo sem ráðið verður af málatilbúnaði hans. Má í því sambandi líta til sterkrar stöðu stefnda við samningsgerðina. Einnig má hafa hliðsjón af dómi Hæstaréttar 26. júní 2018 í máli nr. 773/2017 þar sem tjónþoli hafði gert fullnaðaruppgjör um bótagreiðslu „með fyrirvara um varanlega örorku“, þegar fyrir lá mat sérfræðinga um að varanleg örorka væri engin, en síðara mat leiddi í ljós að hún væri 10%. Í dóminum var talið að fyrirvarinn væri ótvíræður og nægilega skýr, einkum í ljósi þess að í fyrra mati hefði varanleg örorka verið metin engin. Verður þó ekki séð að úrslitum skuli ráða um gildi fyrirvara hvort niðurstaða mats á varanlegri örorku er að hún sé engin eða mjög lítil. 3. Við skýringu á hvað fólst í fyrirvara áfrýjanda við bótauppgjörið hefur þýðingu að líta til eftirfarandi athafna hans til að fylgja fyrirvaranum eftir, en ekki aðeins til aðdragandans. Í því tilliti greina atvik þessa máls sig í veigamiklum atriðum frá þeim tveimur dómum Hæstaréttar sem meirihluti dómenda vísar í til stuðnings niðurstöðu sinni, 20. febrúar 2014 í máli nr. 576/2013 og 18. febrúar 2016 í máli nr. 391/2015. Ólíkt þeim málum gerði áfrýjandi reka að því í beinu framhaldi af samkomulaginu við stefnda að hnekkja fyrrgreindu mati örorkunefndar á miskastigi og varanlegri örorku hans. Í október 2015 leitaði hann vottorðs geðlæknis um afleiðingar slyssins fyrir andlega heilsu sína og lá það vottorð fyrir í nóvember sama ár. Því næst leitaði áfrýjandi einhliða álitsgerðar tveggja lækna og lögfræðings í maí 2016 og niðurstaða þeirra lá fyrir í nóvember sama ár. Eftir að áfrýjandi höfðaði mál þetta var síðan aflað tveggja matsgerða. Annars vegar fékk áfrýjandi dómkvadda tvo menn sem luku álitsgerð 13. júní 2017. Hins vegar leitaði stefndi eftir yfirmati og lá yfirmatsgerðin fyrir 27. apríl 2018. 4. Í ljósi framangreinds ber að skýra fyrirvara áfrýjanda í samkomulagi við stefnda 5. júní 2015 þannig að áfrýjandi hafi talið miskastig og varanlega örorku af völdum slyssins of lágt metna og því áskilið sér rétt til frekari skaðabóta ef matið sem hún var reist á reyndist síðar vera rangt. Fyrirvarinn var að þessu leyti bæði ótvíræður og nægilega skýr og honum fylgt eftir af áfrýjanda sem fyrr var lýst. Er ókleift að skýra fyrirvarann eins og stefndi heldur fram að hann takmarkist við rétt áfrýjanda í samhengi við 11. gr. skaðabótalaga til frekari bóta ef síðar yrðu ófyrirséðar breytingar á heilsufari hans sem yllu því að miskastig eða örorkustig yrði verulega hærra en lagt var til grundvallar við samkomulagið um fullnaðaruppgjör. Ef fallist yrði á þessi rök stefnda ætti áfrýjandi hvort eð er rétt á endurupptöku ákvörðunar samkvæmt beinum fyrirmælum 11. gr. skaðabótalaga og yrðu réttaráhrif slíks fyrirvara í reynd engin. 5. Af skoðun á fyrrgreindum álits- og matgerðum verður ráðið að efasemdir áfrýjanda um mat örorkunefndar í álitsgerðinni 5. júní 2015 hafi ekki verið að tilefnislausu og að nefndin hafi vanmetið afleiðingar slyssins fyrir heilsu hans. Þannig er verulegur munur á niðurstöðu nefndarinnar og síðari matgerðum um varanlega örorku áfrýjanda og einnig um varanlegan miska í undirmatsgerð. Þar sem sönnunargildi yfirmats er ríkara en undirmats og ekki verður séð að annmarkar hafi verið á yfirmatinu verður hér litið til yfirmatsgerðarinnar. Töldu yfirmatsmenn áverka áfrýjanda þess eðlis að hægt væri að slá því föstu að einkenni þeirra hefðu verið komin fram þegar afleiðingar slyssins voru metnar af örorkunefnd 28. janúar 2015 og hefðu ekki versnað verulega eftir það. Yfirmatsmenn mátu varanlega örorku áfrýjanda vegna slyssins 35% að teknu tilliti til þess að áfrýjandi hefði ekki búið við óskerta starfsorku á slysdegi, en hún hafði verið metin 15% í álitsgerð örorkunefndar sem fyrr segir. 6. Samkvæmt framansögðu og í ljósi þess fyrirvara sem áfrýjandi gerði við samkomulag um fullnaðaruppgjör slysatryggingabóta 5. júní 2015 teljum við að taka eigi til greina síðari þrautavarakröfu hans sem reist er á yfirmatsgerðinni frá 27. apríl 2018 um rétt áfrýjanda til bóta sem miðast við 35% varanlega örorku. Eftir þessum úrslitum ber stefnda að greiða áfrýjanda málskostnað á öllum dómstigum, en við erum sammála ákvörðun meirihluta dómenda um gjafsóknarkostnað. https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=5f1a7252-1711-4500-a4bb-2ed7a4ab3581
Mál nr. 33/2020
Kærumál Börn Lögvarðir hagsmunir Málsforræði Frávísun frá Hæstarétti
A kærði dóm Landsréttar þar sem máli B gegn henni var vísað frá héraðsdómi af þeirri ástæðu að ekki hefði verið leitað sátta um ágreiningsefni dómsmálsins fyrir málshöfðunina í samræmi við 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt meginreglu einkamálaréttarfars um málsforræði hafi stefnandi almennt einn forræði á því hvort máli verði fram haldið og að eðli máls samkvæmt geti aðrir en þeir sem mál hafa höfðað ekki haft lögvarða hagsmuni af því að kæra úrskurð eða dóm um frávísun máls. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar 16. október 2020 en kærumálsgögn bárust réttinum 23. sama mánaðar. Kærður er dómur Landsréttar 2. október 2020 þar sem máli varnaraðila á hendur sóknaraðila var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar. Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðili höfðaði mál þetta í héraði. Endanlegar dómkröfur hans voru aðallega að honum yrði einum falin forsjá þriggja barna hans og sóknaraðila. Til vara krafðist hann þess að aðilar færu áfram sameiginlega með forsjá barnanna en að þau hefðu lögheimili hjá sér. Í báðum tilvikum krafðist hann meðlags með börnunum úr hendi sóknaraðila og að ákveðinn yrði umgengnisréttur þess foreldris sem börnin hefðu ekki lögheimili hjá. Sóknaraðili krafðist sýknu af kröfum varnaraðila og jafnframt að sameiginlegri forsjá yrði slitið og henni einni falin forsjá barnanna. Þá krafðist hún meðlags frá varnaraðila með börnunum og að ákveðinn yrði umgengnisréttur þess foreldris sem ekki fengi forsjána. Með héraðsdómi voru þessar kröfur sóknaraðila teknar til greina. Varnaraðili áfrýjaði dóminum til Landsréttar og krafðist þess aðallega að málinu sem hann hafði sjálfur höfðað yrði vísað frá héraðsdómi. Til vara krafðist hann þess að héraðsdómur yrði ómerktur en til þrautavara gerði hann sömu kröfur og hann hafði uppi í héraði. Fyrir Landsrétti krafðist sóknaraðili staðfestingar héraðsdóms. Með hinum áfrýjaða dómi var málinu vísað frá héraðsdómi af þeirri ástæðu að ekki hefði verið leitað sátta um ágreiningsefni dómsmálsins fyrir málshöfðunina í samræmi við 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003. Eins og hér hefur verið rakið krefst sóknaraðili þess að hinum áfrýjaða dómi verði hnekkt þar sem máli er höfðað var á hendur henni var vísað frá héraðsdómi. Samkvæmt meginreglu einkamálaréttarfars um málsforræði hefur stefnandi almennt einn forræði á því hvort máli verði fram haldið þótt dómari sé ekki með öllu háður vilja stefnanda þar um. Hæstiréttur hefur jafnframt slegið því föstu, sbr. dóm réttarins 4. apríl 2019 í máli nr. 16/2019, að eðli máls samkvæmt geti aðrir en þeir, sem mál hafa höfðað, ekki haft lögvarða hagsmuni af því að kæra úrskurð eða dóm um frávísun máls. Í því tilliti gildir einu þótt sóknaraðili hafi á grundvelli dómvenju í forsjármálum haft uppi gagnkröfur fyrir héraðsdómi án höfðunar gagnsakar, enda verður því ekki jafnað til málshöfðunar til sjálfstæðs dóms samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991, en með því hefði henni verið kleift að reka það mál áfram án tillits til þess hvort aðalsök yrði vísað frá dómi. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti. Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá Hæstarétti. Kærumálskostnaður fellur niður.       Dómur Landsréttar 2. október 2020. Landsréttardómarinn Oddný Mjöll Arnardóttir, Ása Ólafsdóttir, prófessor og Gunnar Hrafn Birgisson, sálfræðingur, kveða upp dóm í máli þessu. Málsmeðferð og dómkröfur aðila Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 12. mars 2020. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2020 í málinu nr. E-2155/2018. Áfrýjandi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Að því frágengnu krefst hann þess að honum verði dæmd full forsjá C, kt. [...], D, kt. [...] og E, kt. [...] og að lögheimili barnanna verði hjá honum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra. Til vara krefst hann þess að forsjá barnanna verði áfram sameiginleg en að lögheimili þeirra verði hjá honum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra. Í báðum tilvikum krefst hann þess að stefndu verði gert að greiða honum einfalt meðlag með börnunum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra. Þá krefst hann þess að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki færi með forsjá barnanna eða lögheimili þeirra. Að lokum krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu í héraði og fyrir Landsrétti. Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Landsrétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Málsatvik og sönnunarfærsla Aðilar málsins hófu sambúð árið 1999 og gengu í hjónaband árið 2002. Á sambúðartíma eignuðust þau fjögur börn, þau F árið [...], C árið [...], D árið [...] og E árið [...]. Þau skildu að borði og sæng í [...] 2013 og gengu þá frá samkomulagi þar sem kveðið var á um sameiginlega forsjá barna þeirra. Var lögheimili barnanna hjá móður og regluleg umgengni ákveðin sjö dagar í senn hjá hvoru foreldri. Árið 2015 höfðaði áfrýjandi forsjármál sem lauk með dómsátt í september 2016. Þar var kveðið á um að forsjá barnanna skyldi vera sameiginleg og að lögheimili F og E skyldi vera hjá áfrýjanda en lögheimili C og D skyldi vera hjá stefndu. Skyldi regluleg umgengni hvors foreldris við börnin vera tvær vikur í senn. Leyfi til lögskilnaðar var gefið út í [...] 2017. Áfrýjandi höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi 19. júní 2018. Þegar málið var flutt hafði F náð 18 ára aldri og voru endanlegar dómkröfur áfrýjanda fyrir héraðsdómi þær að honum yrði dæmd forsjá C, D og E og að lögheimili barnanna yrði hjá honum. Þá krafðist hann þess að stefnda yrði dæmd til að greiða honum einfalt meðlag með börnunum fram að 18 ára aldri þeirra. Til vara krafðist hann þess að forsjá barnanna yrði áfram sameiginleg en að lögheimili þeirra yrði hjá honum og að stefnda yrði dæmd til að greiða honum einfalt meðlag með þeim til 18 ára aldurs. Loks krafðist hann þess að kveðið yrði á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki færi með forsjá eða lögheimili barnanna. Með hinum áfrýjaða dómi 21. febrúar 2020 var kveðið á um að stefnda skyldi ein fara með forsjá barnanna C, D og E frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra og að áfrýjandi skyldi greiða einfalt meðlag með börnunum á sama tíma. Auk þess var þar kveðið á um að regluleg umgengni áfrýjanda við börnin yrði frá fimmtudegi til mánudags aðra hverja viku og að umgengni um hátíðir og í sumarleyfum yrði með nánar tilgreindum hætti. Í málinu liggja fyrir þrjár matsgerðir um hæfni áfrýjanda og stefndu til að fara með forsjá barnanna. Er þar um að ræða undirmatsgerð sem aflað var í tengslum við fyrra forsjármál aðila og undirmatsgerð sem aflað var við meðferð málsins í héraði. Þá var aflað yfirmatsgerðar við meðferð málsins fyrir Landsrétti. Báðir málsaðilar gáfu viðbótarskýrslur fyrir Landsrétti auk þess sem yfirmatsmenn staðfestu matsgerð sína fyrir dómi. Þá voru lögð fram ný skjöl fyrir Landsrétti sem lýsa tölvusamskiptum aðila auk upplýsinga um mætingar og ástundun barnanna í skóla. Niðurstaða Fyrir Landsrétti gerir áfrýjandi kröfu um að málinu, sem hann höfðaði sjálfur í héraði, verði vísað frá dómi þar sem sáttameðferð sýslumanns uppfylli ekki skilyrði 33. gr. a barnalaga nr. 76/2003. Dómnum ber að gæta að því af sjálfsdáðum hvort fullnægjandi sáttameðferð samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði hafi farið fram áður en mál þetta var höfðað, sbr. dóm Hæstaréttar 6. október 2014 í máli nr. 632/2014. Samkvæmt 33. gr. a barnalaga, sem kom inn í lögin með 12. gr. laga nr. 61/2012, er það ófrávíkjanleg skylda foreldra að undirgangast sáttameðferð áður en mál er höfðað, en markmið sáttameðferðar samkvæmt 3. mgr. sama ákvæðis er að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn máls sem er barni fyrir bestu. Í vottorði um sáttameðferð á samkvæmt 6. mgr. ákvæðisins að gera grein fyrir því hvernig sáttameðferð fór fram, helstu ágreiningsatriðum, afstöðu aðila og sjónarmiðum barns nema það sé talið ganga gegn hagsmunum þess. Nánar er fjallað um inntak sáttameðferðar í athugasemdum við 12. gr. frumvarps til laga nr. 61/2012. Þar kemur fram að í 1. mgr. ákvæðisins sé mælt fyrir um skyldu til að undirgangast sáttameðferð áður en unnt sé að krefjast úrskurðar eða höfða mál um tiltekin ágreiningsefni og eru mál um forsjá barns þar á meðal. Rétt þyki að gera foreldrum almennt að leita sátta í hvert sinn sem krafist sé úrskurðar eða höfðað sé mál, enda megi ganga út frá því að æskilegt sé að skoða sérstaklega í hverju ágreiningur foreldra sé fólginn í hvert sinn og hvort unnt sé að hjálpa þeim að sætta mál. Í sáttavottorði 13. september 2018 kemur fram að helstu ágreiningsefni aðila við sáttameðferð hafi verið ,,forsjá barna og umgengni“. Þar kemur jafnframt fram að málinu hafi verið vísað til sáttameðferðar 9. apríl 2018 og henni hafi verið lokið 4. júní 2018 án þess að stefnda hefði mætt til boðaðra sáttafunda. Segir í athugasemdum í vottorðinu að ekki hafi farið fram virk sáttameðferð en upplýsingar um kröfur föður sé að finna í gögnum málsins. Í endurriti úr sifjamálabók sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 23. mars 2018 kemur jafnframt fram að áfrýjandi hafi leitað til embættisins vegna ágreinings um þrjú mál, hið fyrsta væri forsjármál, annað umgengnismál og hið þriðja meðlagsmál. Beiðni áfrýjanda 30. nóvember 2017, sem var grundvöllur sáttameðferðarinnar, var rituð á eyðublað fyrir beiðni „foreldris með sameiginlega forsjá um breytt lögheimili barns“. Þar kemur fram að áfrýjandi krefjist breytts lögheimilis barnanna C og D og einfalds meðlags með þeim. Í beiðninni er jafnframt vísað til skriflegrar greinargerðar áfrýjanda þar sem fram kemur að um sé að ræða beiðni foreldris með sameiginlega forsjá um breytt lögheimili tveggja barna ásamt beiðni um að úrskurðað verði um umgengni og meðlag. Í hinni skriflegu greinargerð kemur orðrétt fram að ,,áður en málið verður aftur sent til Héraðsdóms Reykjavíkur, er leitast eftir því að sátt takist á milli foreldra og að fallist verði á að lögheimili allra barnanna verði hjá föður og umgengni verði í samræmi við tillögur [...], ásamt því að móður verði gert að greiða einfalt meðlag með öllum börnum þeirra.“ Samkvæmt framangreindu og með vísan til 3. mgr. 71. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 verður lagt til grundvallar að í sáttameðferð þeirri sem lauk 4. júní 2018, sbr. sáttavottorð 13. september 2018, hafi ekki verið fjallað um ágreining aðila um forsjá barnanna þriggja sem mál þetta varðar. Aðalkrafa áfrýjanda er samkvæmt framansögðu að hann fari einn með forsjá þriggja barna aðila. Aðrar kröfur hans í málinu ráðast í öllum meginatriðum af úrlausn um kröfu hans um forsjá barnanna. Þegar litið er til málatilbúnaðar áfrýjanda í heild verður því ekki talið að leitað hafi verið sátta um ágreiningsefni dómsmálsins fyrir málshöfðunina í skilningi 1. mgr. 33. gr. a barnalaga. Verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá héraðsdómi af sjálfsdáðum. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Landsrétti. Um gjafsóknarkostnað stefndu í héraði og fyrir Landsrétti fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi. Málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, A, í héraði og fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna hennar Gunnhildar Pétursdóttur, 2.300.000 krónur og Einars Gauts Steingrímssonar, 1.200.000 krónur.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur                   Mál þetta, sem dómtekið var 24. janúar 2020, höfðaði B, [...], Reykjavík, hinn 19. júní 2018, á hendur A, [...], Reykjavík.                 Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnanda verði dæmd full forsjá og lögheimili barna aðila; C, kt. [...], D, kt. [...] og E, kt. [...], frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra.                 Til vara er þess krafist að forsjá barnanna verði áfram sameiginleg með aðilum, en að lögheimili allra barnanna verði hjá stefnanda frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra.                 Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda einfalt meðlag með börnunum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra. Enn fremur er þess krafist að með dómi verði kveðið á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki fær forsjá eða lögheimili barnanna. Loks krefst stefnandi málskostnaðar.                 Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst hún þess að sameiginlegri forsjá aðila vegna framangreindra barna aðila verði slitið og að hún fari framvegis ein með forsjá þeirra til 18 ára aldurs. Þá er þess krafist að kveðið verði nánar á um inntak umgengnisréttar barnanna við það foreldri sem ekki fær forsjá og að stefnandi greiði einfalt meðlag með börnunum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra. Loks er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.                 Undir rekstri málsins var dómkvaddur matsmaður, G sálfræðingur, til að leggja mat á forsjárhæfni aðila. Matsgerð hans, dags. 22. mars 2019, var lögð fram á dómþingi 27. sama mánaðar. Í þinghaldi 24. apríl s.á. krafðist stefnandi þess að matsmanni yrði gert að endurskoða matsgerð sína. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 10. júlí 2019 og var sá úrskurður ekki kærður.                 Aðalmeðferð málsins hófst 10. janúar sl., en var frestað til framhaldsaðalmeðferðar 24. s.m. þar sem ekki tókst að leiða öll þau vitni fyrir dóm þann dag sem aðilar töldu nauðsynlegt. Við upphaf framhaldsaðalmeðferðar lagði stefnandi fram bókun um endanlegar dómkröfur sínar og kom þá fyrst fram varakrafa hans um sameiginlega forsjá. Stefnda mótmælir þeirri kröfu sem of seint fram kominni.   I Helstu málsatvik og ágreiningsefni                 Aðilar máls þessa hófu sambúð árið 1999 og gengu í hjónaband árið 2002. Þau skildu að borði og sæng þann [...] 2013 og leyfi til lögskilnaðar var gefið út [...] 2017. Þau eignuðust saman fjögur börn á árunum 2000 til 2010, og lýtur mál þetta að þremur yngstu börnunum, en elsta barn þeirra hafði náð 18 ára aldri er málið var höfðað.                 Aðilar eru sammála um að lengi hafi stefnt í skilnað þeirra á milli. Stefnda lýsir sambúð þeirra sem stormasamri og kveðst hafa upplifað bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi af hálfu stefnanda. Stefnandi mótmælir öllum slíkum ásökunum og kveðst sjálfur vera fórnarlamb svæsins andlegs ofbeldis af hálfu stefndu, sem og líkamlegs ofbeldis, á meðan á sambúð þeirra stóð, en samskipti þeirra hafi lengi verið erfið.                 Við skilnað þeirra gengu þau frá samkomulagi sem staðfest var af sýslumanni um að foreldrar færu sameiginlega með forsjá barnanna, lögheimili þeirra væri hjá móður, faðir greiddi einfalt meðlag með hverju barni og að börnin hefðu umgengni við hann í sjö daga af hverjum fjórtán, þ.e. í viku í senn. Stefnandi kveður þetta samkomulag hafa verið gert til málamynda. Stefnda mótmælir því að samið hafi verið til málamynda um lögheimili barnanna en kveðst ekki hafa innheimt meðlag framan af þar sem þau hafi ákveðið að skipta heldur með sér kostnaði vegna barnanna. Það hafi ekki gengið vel og því hafi hún á endanum sótt um meðlag hjá Tryggingastofnun, síðla árs 2014. Var stefnanda tilkynnt um innheimtu meðlags frá 1. janúar 2015 með bréfum Tryggingastofnunar og Innheimtustofnunar sveitarfélaga 28. og 29. s.m.                 Stefnandi fór um svipað leyti fram á það hjá sýslumanni að lögheimili barnanna yrði fært til hans og að hann fengi meðlag með börnunum. Stefnda mætti ekki á fund sýslumanns vegna beiðni um lögheimilisbreytingu og ekki á boðaða sáttafundi, en mætti á fund 24. mars vegna kröfu um meðlag og mótmælti þeirri kröfu. Vottorð um árangurslausa sáttameðferð var gefið út 19. mars 2015 og sýslumaður vísaði málunum frá 31. s.m.                 Stefnandi höfðaði forsjármál í júní 2015, en því lauk með dómsátt aðila 28. september 2016. Hafði þá undir rekstri málsins verið aflað matsgerðar dómkvadds matsmanns, H sálfræðings, dags. 4. apríl 2016, og liggur sú matsgerð einnig fyrir í þessu máli. Var stefnda þar metin nokkru hæfari en stefnandi til að fara með forsjá barnanna og tekið fram að hún mældist einnig við betri geðræna heilsu en stefnandi.                 Samkvæmt dómsáttinni skyldu aðilar fara áfram sameiginlega með forsjá barna sinna fjögurra, lögheimili elsta og yngsta barnsins skyldi vera hjá föður en hinna tveggja hjá móður og foreldrar greiða einfalt meðlag með þeim börnum sem ekki hefðu lögheimili hjá þeim. Þá var ákveðið að regluleg umgengni skyldi vera þannig að öll börnin dveldu saman hjá hvoru foreldri í tvær vikur í senn. Ennfremur var kveðið á um að aðilar myndu leita aðstoðar sérfræðings vegna samskiptaörðugleika sinna.                 Aðilar leituðu í framhaldi til I sálfræðings í október 2016 en fljótlega mun hafa komið á daginn að lítill grundvöllur væri fyrir sáttameðferð hans og lyktaði þeim umleitunum vorið 2017. Það ár kveður stefnandi samskipti aðila hafa versnað og tengir það því að hann vann dómsmál á hendur tryggingafélagi, vegna slyss sem hann varð fyrir á árinu [...] og fékk greiddar háar slysabætur. Jafnframt er þó tekið fram í stefnu að stefnanda hafi gramist það mjög að sitja uppi með kostnaðinn af málarekstrinum og það að hafa greitt meðlag í um tvö ár, vegna þess eins að stefnda hafi ekki séð hversu ósanngjarnt það væri að bera fyrir sig málamyndasamkomulag milli þeirra. Stefnda kveðst aftur á móti frá upphafi hafa óttast að dómsáttin myndi ekki halda, en hafa ákveðið að láta á það reyna vegna eindreginnar óskar elstu dóttur aðila um að þau næðu sáttum.                 Í mars 2018 tók sýslumaður fyrir kröfu stefnanda um að fá lögheimili eldri sonar og yngri dóttur fært frá móður til föður þannig að öll börnin byggju hjá föður. Þá var höfð uppi krafa um breytingu á umgengni þannig að umgengni barnanna við móður yrði minnkuð og færi fram aðra hverja helgi. Loks var krafist meðlags með eldri drengnum. Í greinargerð sem fylgdi beiðni stefnanda um breytt lögheimili kom fram að ástæða kröfunnar væri einkum tvíþætt. Annars vegar var vísað til samskiptaleysis móður við elstu dóttur og þess að eldri sonurinn hefði átt í útistöðum við móður og neitað að fara til hennar síðastliðna fjóra mánuði. Hins vegar var vísað til þess að I sálfræðingur hefði lagt það til við sáttameðferð að lögheimili allra barnanna yrði hjá stefnanda. Málinu var vísað til sáttameðferðar hjá sýslumannsembættinu 9. apríl s.á. en henni lauk 4. júní s.á, án árangurs, samkvæmt vottorði um sáttameðferð, dags. 13. september 2018. Sama dag vísaði sýslumaður málinu frá.                 Mál þetta var, eins og fyrr sagði, höfðað 19. júní 2018 og þingfest 26. s.m.                  Við aðalmeðferð málsins gáfu báðir málsaðilar aðilaskýrslu. Auk þess gáfu skýrslu sem vitni H og G, bæði sálfræðingar og dómkvaddir matsmenn. Auk þess gáfu vitnaskýrslu sálfræðingarnir I, J, K og L, sem jafnframt er deildarstjóri skólaþjónustunnar í þjónustumiðstöð [...]og [...]. Þá gáfu vitnaskýrslu kennararnir M og N, O ráðgjafi, P, systir stefndu, og R, barnsfaðir P. Loks gaf skýrslu sem vitni F, 19 ára gömul dóttir málsaðila. Þá ræddu dómendur við yngri dóttur aðila, D, í viðtalsherbergi í dómhúsinu við aðalmeðferð málsins, að ósk stefnanda, og könnuðu afstöðu hennar og vilja.   II Málsástæður stefnanda                 Forsjá og lögheimili                 Stefnandi byggir á því að það sé börnunum fyrir bestu að lögheimili og forsjá þeirra verði hjá honum, með vísan til 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Ljóst sé að dómsátt aðila frá 28. september 2016 þjóni ekki hagsmunum barnanna og því sé nauðsynlegt að gerðar verði breytingar á sáttinni. Með dómsáttinni hafi aðilar m.a. heitið því að bæta samskipti sín hvort við annað, enda hefðu samskipti þeirra veruleg áhrif á líðan barna þeirra. Stefnda hafi hins vegar ekki sýnt af sér nægan vilja til að sættast við stefnanda og viljandi viðhaldið vondum eða engum samskiptum. Sálfræðingur sem fenginn hafi verið til að taka á samskiptavandamálum aðila telji samskipti aðila mjög slæm og raunar með versta móti. Sáttameðferð milli aðila hafi engu skilað. Sálfræðingurinn telji núverandi ástand ekki til þess fallið að þjóna hagsmunum barnanna. Hann álíti stefnanda betur til þess fallinn að fara með málefni barnanna og hafi lagt til að lögheimili barnanna verði hjá honum og að umgengni stefndu við börnin takmarkist við aðra hverja helgi.                 Frá undirritun dómsáttarinnar hafi stefnandi ítrekað reynt að eiga samskipti við stefndu. Oftar en ekki fái hann engin svör við skilaboðum sem hann sendi henni, en þau svör sem hann fái einkennist af mikilli fyrirlitningu og jafnvel illsku. Þessi samskiptamáti stefndu hafi leitt til togstreitu sem bitni verst á börnum aðila. Þannig geti stefnandi ekki fengið einföldustu skilaboð frá stefndu og verði að leita til barnanna um upplýsingar. Stefnandi kveðst átta sig á því að þetta valdi börnunum streitu, en að sama skapi sé honum nauðugur sá kostur að leita upplýsinga hjá börnum sínum, sérstaklega þeim eldri. Hann hafi áhyggjur af því að þetta samskiptaleysi stefndu sé nú þegar búið að valda börnum aðila miklum óþarfa áhyggjum og leggist sífellt þyngra á sálarlíf þeirra. Álíti stefnandi að öll samskipti verði einfaldari verði fallist á dómkröfur hans og hann fari með vald lögheimilisforeldris. Stefnandi hafi sýnt að hann sé fær um að koma skilaboðum áleiðis til stefndu. Færi stefnda með vald lögheimilisforeldris og stefnandi hefði einungis takmarkaða umgengni við börnin væru litlar líkur á því að hann fengi nokkrar upplýsingar frá stefndu. Stefnandi hafi lagt og muni ávallt leggja á það áherslu að upplýsa stefndu um málefni barna þeirra. Þá vilji hann að börn þeirra heimsæki stefndu að vild og að þau hætti að upplifa þá eilífu togstreitu sem nú ríki.                 Stefnandi byggir á því að stefnda hafi ekki þá fjárhagslegu getu eða fjárhagslegu yfirsýn sem nauðsynleg sé til að gæta hagsmuna barna aðila. Hún hafi ekki fjárhagslega burði til að standa straum af nauðsynlegum kostnaði vegna barnanna eða meta með hvaða hætti eigi að forgangsraða útgjöldum heimilisins. Dæmi séu um það að hún vilji hlutast til um hvaða tómstundir börn aðila velji sér út frá því hversu dýr tómstundin er. Hún sinni því illa eða ekki neitt að sækja um tómstundastyrki. Stefnandi fái engar eða litlar upplýsingar um það hvort börnin þarfnist læknismeðferðar eða tannlækninga þrátt fyrir að hann óski eftir slíkum upplýsingum.                 Stefnandi byggir á því að hann hafi sýnt að hann sé líklegri en stefnda til að gæta hagsmuna barnanna og tryggja þeim öryggi í framtíðinni. Stefnandi sinni því vel að hvetja börnin til að gera þá hluti sem þau hafa áhuga á. Hann sé duglegur við að fylgja eftir vandamálum er tengjast skólagöngu og tómstundum, sérstaklega í tilfelli C sem eigi við nokkur vandamála að stríða, m.a. ofvirkni. Stefnandi sé mun betur til þess fallinn að veita börnunum þann stuðning sem þau þurfi á að halda og skapa þeim sem bestar aðstæður til að þroskast og dafna. Stefnandi örvi börn sín og hvetji þau til að takast á við erfiðleika og fylgja áhuga sínum. Hann mæti á alla boðaða foreldrafundi og sé virkur þegar komi að því að fara yfir málefni barna hans.                 Stefnandi sé góð fyrirmynd barna sinna. Hann hafi lokið námi í [...] og [...], sé [...], hafi lokið námi við [...]og eigi sex einingar eftir til að útskrifast sem [...]. Stefnandi hafi sigrast á gríðarlegu mótlæti í kjölfar slyss árið 2012, unnið [...], staðið sig vel í starfi, sé reglusamur og hafi aldrei neytt vímuefna. Hann telji stefndu ekki standa sér jafnfætis þegar komi að því að vera börnum aðila góð fyrirmynd, hún sé áhrifagjörn, hvatvís, springi af reiði, valdi börnum sínum ótta með skapofsaköstum og sé dónaleg og ógnandi í samskiptum.                 Stefnandi byggir á því að börn aðila hafi meiri persónuleg tengsl við hann en stefndu og kveður það fá stuðning í matsskýrslu H sálfræðings, dags. 4. apríl 2016, sem aflað hafi verið í tengslum við fyrra dómsmál aðila. Af lestri matsskýrslunnar sé ljóst að tengsl stefndu við börnin versni með aldri barnanna. Stefnandi sé hræddur um að það sama verði uppi á teningnum með yngri börnin tvö og þau tvö eldri. Þegar yngri börnin eldist muni stefnda smátt og smátt ýta þeim frá sér með sama hætti og gerst hafi með eldri tvö systkinin.                 Stefnandi byggir á því að húsnæðismál hans séu betri en hjá stefndu, þar sé rýmra um börnin og þar líði þeim betur. Stefnandi sé líklegri til að geta staðið við útgjaldaliði af fasteign sinni en stefnda, þar sem stefnandi skuldi mun minna í fasteignalán en hún.                 Nú sé svo komið að tvö af börnum aðila sýni augljós merki um að þau vilji fremur vera hjá stefnanda en stefndu. Með því að fá fulla forsjá og lögheimili barna sinna skráð hjá sér telji stefnandi að börnin muni upplifa mun meiri stöðugleika og minna áreiti í sínu hversdagslega lífi. Þá telji stefnandi að tengsl barnanna við hann séu sterkari, nánari og betri en við stefndu. Stefnandi telji að sérfræðiskýrsla sem aflað verði við rekstur málsins muni leiða í ljós að andleg og líkamleg líðan barnanna verði langtum betri hjá stefnanda en stefndu. Stefnandi telji sig eiga auðveldara með að ná persónulegum tengslum við börnin fjögur. Bræði stefndu komi allt of oft óþarfa róti á börnin. Stefnandi gefi sér meiri tíma til að ná til barnanna og þeim líði vel í umsjá hans.                 Meðlag                 Krafa um einfalt meðlag frá dómsuppkvaðningu til fullnaðs átján ára aldurs hvers barns sé reist á I. kafla barnalaga nr. 76/2003, sbr. 5. mgr. 34. gr. sömu laga.                 Umgengni                 Stefnanda séu vel ljósar skyldur sínar sem foreldri til að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt, sbr. m.a. 46. gr. barnalaga, og muni stefnandi ekki koma í veg fyrir slíka umgengni. Um heimild dómara til að ákveða umgengni vísar stefnandi til 5. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Óskað sé eftir því að umgengi verði þannig háttað að faðir verði með börnin, nema aðra hverja helgi frá fimmtudegi kl. 15:00 til mánudags kl. 15:00. Óskað sé eftir því að fyrirkomulag stórhátíðardaga og sumarfría haldist eins og það hafi verið ákveðið í dómsátt aðila frá 28. september 2016.   III Málsástæður stefndu                 Krafa stefndu um forsjá og lögheimili.                 Stefnda kveðst ekki telja dómsátt aðila frá 28. september 2016 þjóna hagsmunum barna aðila og að gera verði breytingar á henni á þann hátt að henni verði falin forsjá allra barnanna þriggja og þar með lögheimili þeirra.                 Krafa stefnanda um sýknu af dómkröfum stefnanda og um forsjá barnanna sé reist á 2. og 3. mgr. 34. gr. laga nr. 76/2003. Hagsmunum barnanna sé best borgið í hennar umsjá, enda séu þau tengd henni afar sterkum tilfinningaböndum. Í matsgerð H frá árinu 2016 komi fram að geðtengsl barnanna við báða foreldra séu jafn góð og greini matsmaður ekki mun þar á. Frumtengsl barnanna hafi verið við stefndu, enda hafi það verið hún sem alla tíð hafi svarað frumþörfum þeirra og verið sá aðili sem þau hafi sótt öryggi sitt til. Hún og börnin séu nátengd.                 Stefnda sé ósammála þeirri málsástæðu stefnanda að hann sé hæfara foreldrið, enda komist matsmaður að hinu gagnstæða. Sú ályktun stefnanda sýni að hann sé ekki í tengslum við raunveruleikann og sjái ekki sína eigin vankanta. Varðandi vanhæfni hans sem forsjárforeldris að öðru leyti verði að líta til ofbeldis hans og sjúklegrar stjórnsemi. Hann hafi beitt börnin líkamlegum refsingum, svo sem með því að rassskella þau. Stefnda telji börnunum ekki betur borgið hjá aðila sem ráðskist með fólk og beiti það andlegu og líkamlegu ofbeldi.                 Að mati stefndu eigi sameiginleg forsjá ekki við þegar saga er um ofbeldishegðun í sambandi aðila og þegar einnig komi til samskipta- og samstarfserfiðleikar sé enginn vafi á því að best henti að forsjáin sé á einni hendi. Að mati stefndu sé það börnunum fyrir bestu að hún fari með forsjá þeirra, enda sé hún í betra jafnvægi en stefnandi. Komi það beinlínis fram í matsgerð.                 Stefnda byggir kröfur sínar einnig á því að hún hafi, umfram stefnanda, til að bera þá persónulegu eiginleika sem þurfi til að sinna umsjá og forsjá barnanna til frambúðar. Matsmaður taki undir þetta, enda mælist hún með betri geðræna heilsu en stefnandi. Stefnandi uppfylli greiningarskilmerki fyrir almenna kvíðaröskun en hann mælist með mikil kvíðaeinkenni og nokkur einkenni persónuleikaraskana. Þá komist matsmaður að þeirri niðurstöðu að stefnandi sé sjálflægur og óábyrgur. Hann fari í mótþróa og pirring þar til þolinmæði hans bresti og hann springi.                 Stefnda kveðst óttast að stefnandi muni tala illa um stefndu og snúa börnunum á sitt band, fái hann forsjána. Stefnandi hafi beitt eldri dóttur þeirra, F, andlegri kúgun og ráðskast með hana með því að láta hana vorkenna sér, sáð hjá henni fræjum um það hversu vond móðir hennar væri og fleira í þeim dúr, sem endað hafi með því að stúlkan tók afstöðu með stefnanda. Stefnda telji að stefnandi hafi vísvitandi gert þetta til að hefna sína á stefndu en að hann átti sig ekki á því hvaða neikvæðu áhrif þetta hafi á stúlkuna til frambúðar. Þetta sé ekki gott fyrir börnin og valdi þeim þjáningum. Stefnda gæti þess að tala ekki illa um stefnanda í eyru barnanna en hún óttist að fái stefnandi forsjá barnanna muni hann gera allt til að fá þau á sitt band gegn stefndu, eins og hann hafi gert með F. Slíkt sé óásættanlegt og beinlínis hættulegt fyrir börnin.                 Stefnda hafi sinnt umönnun barnanna af alúð og samviskusemi allt frá fæðingu þeirra og sinnt öllu því sem foreldrar sinni alla jafna varðandi börn sín. Þá hafi stefnda eytt frítíma sínum með börnunum, sinnt tómstundum og heimanámi, og hún mæti á alla viðburði og fundi tengda börnunum. Þá sinni hún heilsuvernd þeirra o.fl. Stefnandi sinni heimanámi barnanna mjög illa og þau komi oft of seint í skólann þegar þau eru hjá honum. Þá heimili stefnandi C oft að sofa út á skóladögum og vera mikið í tölvunni. Það sé ekki gott fyrir drenginn, sem glími við hegðunarvandamál. Agi sé lítill hjá stefnanda, auk þess sem stefnda telji að hann sé ekki í góðu jafnvægi og sé of stjórnsamur. Börnin leiti til stefndu með allar sínar þarfir og langanir og leiki sér glöð á heimili sínu þegar þau eru ekki skólanum.                 Því sé alfarið mótmælt að stefnda búi við lakari húsakost. Aðstæður hennar séu mjög góðar. Stefnda sé einhleyp og búi í eigin húsnæði í [...]. Um sé að ræða rúmgóða íbúð þar sem öll börnin hafi sér herbergi og stefnda einnig. Heimili stefnanda sé hins vegar ekki eins og venjulegt heimili, heldur eins og líkamsræktarstöð, eins og fram komi í matsgerð H á bls. 16. Stutt sé í skóla frá báðum heimilum.                 Börnin séu róleg hjá henni og upplifi meiri stöðugleika, en séu óróleg þegar þau koma frá stefnanda því hann tali mjög illa um stefndu í þeirra eyru. Stefnda telji að stefnandi hafi ekki tilfinningagreind til að sjá hversu mikil neikvæð áhrif þetta hafi á börnin. Taki matsmaður í sama streng. Stefnda leggi sig í líma við að tala ekki illa um stefnanda, þó tilefnin séu ærin, og taki hún þannig hagsmuni barnanna fram yfir sína.                 Stefnda sé róleg, reglusöm og heilsuhraust enda líði henni miklu betur nú en þegar hún var í hjónabandi með stefnanda. Í því hafi hún upplifað ofsóknir og öryggisleysi. Þá setji stefnda þarfir fjölskyldu sinnar ávallt ofar sínum eigin. Hún eigi mjög góð og innileg samskipti við börnin sín og þeim líði vel hjá henni. Stefnda hafi lagt sig fram um að eiga góð samskipti við skóla barnanna og aðra aðila er sinni þeim. Stefnda hafi jafnframt lagt sig mjög fram um að eiga góð samskipti við stefnanda en honum virðist ómögulegt að hlusta að skoðanir hennar og því hafi samskipti þeirra reynst erfið.                 Aðstæður stefnanda séu með allt öðrum hætti og skorti þar á stöðugleika og ábyrgð. Stefnandi þurfi oft að fara út á land að vinna. Hann sé mjög upptekinn af áhugamálum sínum og sé oft í útlöndum til að sinna þeim. Þá fái hann móður sína til að passa. Hann heimili [...] ára dóttur þeirra að vera einni heima, leyfi [...] ára syni þeirra að keyra sjálfskiptan bíl, viðurkenni ekki veikindi þess sonar og telji ekki þörf á að hann fái aðstoð.                 Stefnda kveðst telja að sókn stefnanda í peninga knýi hann til þess að höfða forsjármál þetta, en öll hans samskipti við stefndu snúist um peninga og reyni hann allt sem hann geti til að knésetja stefndu.                 Stefnda hafi lifað mjög ábyrgu lífi eftir fæðingu barnanna. Hún hafi starfað hjá [...] frá 2007, í um níu ár, við góðan orðstír, en nú nýlega hafið störf hjá [...]. Þá hafi hún starfað í aukavinnu hjá [...]frá nóvember 2016, einnig við góðan orðstír.                 Á heimili stefnanda séu ekki reglur og megi börnin vera í tölvunum óáreitt ef þau vilja. Auk þess heimili stefnandi eldri drengnum að vera í leikjum sem séu bannaðir börnum yngri en 16 ára og að horfa á bannaðir ofbeldismyndir. Yngri drengurinn sé farinn að sýna þessum leikjum og myndum eldri bróður síns og föður áhuga og fái oft að vera með. Þetta telji stefnda stofna hegðun og líðan þeirra í hættu. Nú þegar eigi eldri drengurinn við mikinn hegðunarvanda að stríða í skóla en stefnandi neiti að setja drengnum mörk og heimila meðferð til að takast á við þennan vanda. Þá mæti eldri drengurinn illa í skóla þegar hann er hjá stefnanda, sýni mjög slæma hegðun og þurfi á mjög miklu aðhaldi að halda.                 Börnin þurfi reglu, rútínu og aga og að skilja það að þau hafi líka skyldur, svo sem að mæta í skóla á réttum tíma og læra heima. Setja þurfi mörk varðandi tölvu- og tölvuleikjanotkun. Allt þetta setji stefnda á oddinn. Ástæða þess að eldri drengurinn vildi ekki fara til móður sinnar sumarið 2018 sé sú að hún setti honum mörk um tölvuleikjanotkun. Hann hafi verið inni allan daginn í tölvunni, þrátt fyrir að stefnda hafi margítrekað sagt að nú væri komið nóg. Hún hafi tekið af honum tölvuna, en þá hafi hann tekið símann af yngri bróður sínum. Þegar stefnda tók þann síma af honum og sagði honum að fara út að leika, enda þyrfti hann súrefni, hafi hann farið til föður síns og kvartað undan móður sinni. Frásögn í stefnu af þessu atviki sé röng. Í stað þess að standa með hinu foreldrinu í takmörkun tölvuleikjanotkunar og senda eldri drenginn aftur til hennar hafi stefnandi haldið drengnum hjá sér í marga mánuði og ýtt þannig undir óæskilega hegðun drengsins. Af þessu megi ráða að stefnandi sé ekki hæfur til að annast um börnin.                 Þá sé einnig á því byggt að stefnda sé mun líklegri en stefnandi til að viðhalda reglulegri umgengni við stefnanda. Þetta sjáist best á því að stefnandi leyfi börnunum að ráða hvort þau fari til móður sinnar eða ekki, í stað þess að hafa reglu á umgengninni. Sé framangreint dæmi með eldri drenginn skýrasta dæmi þess.                 Stefnda byggir á því að stefnandi sé ekki í andlegu jafnvægi og eigi við stjórnunar- og reiðivandamál að stríða. Í greinargerð er nefnt dæmi um það, sem ekki verður rakið hér.                 Þá sé stefnandi mjög upptekinn af því að stefnda sé skemmdur einstaklingur og geri hann allt sem hann geti til að sannfæra alla í kringum sig um að svo sé. Andleg vanheilindi hans lýsi sér einnig í mikilli stjórnsemi í garð stefndu varðandi allt sem viðkomi börnunum. Stefnda hafi þurft að leita sér sálrænnar aðstoðar eftir ofbeldi af hans hálfu. Þá kenni hann skólastjórnendum um hegðunarvanda eldri drengins í stað þess að taka á þeim vanda, og taki enga ábyrgð á því að setja honum mörk.                 Þá hafi stefnandi sýnt af sér mikið dómgreindarleysi með því að setja börnin inn í deilur foreldranna. Hann tali illa um stefndu í þeirra eyru og ásaki hana um að stela frá sér peningum. Vísar stefnda til atvika varðandi eldri dóttur aðila, sem sé mjög meðvirk og hafi á endanum fjarlægst móður sína og tekið afstöðu með föður sínum. Stefnda hafi hvatt stúlkuna til að fara í skiptinám í [...] frá hausti 2016 til vors 2017 svo að hún fengi frið frá deilum foreldra sinna. Hún sé nú orðin 18 ára og því snúist þetta mál ekki lengur um hana.                 Fái stefnandi forsjá yfir börnunum muni hann gera allt sem hann geti til að fá börnin á sitt band gegn móður sinni með upplognum sögum, eins og hann hafi gert við eldri dóttur þeirra. Hann blandi börnunum inn í deilur foreldranna og átti sig ekki á því hve slæm áhrif það hafi á börnin. Matsmaður hafi gert þetta að umtalsefni í matsgerð og hafi þessi atriði verið meðal þeirra sem hún taldi draga úr forsjárhæfni hans. Um það sé stefnda sammála og telji að stefnanda skorti innsæi í þarfir barnanna.                 Við mat á foreldrahæfni sé litið til sex þátta: Ástar, verndar og öryggis, líkamlegrar umönnunar og atlætis, örvunar og hvatningar, stuðnings og fyrirmyndar. Niðurstaða matsmanns 2016 hafi orðið sú að stefnda væri mun hæfara foreldrið.                 Varðandi ást hafi, að mati matsmanns, ekki verið annað að sjá en báðir foreldrar hafi myndað geðtengsl við öll börnin og greindi matsmaður ekki mun þar á.                 Varðandi vernd og öryggi þá hafi matsmaður metið það svo að stefnda hefði reynt að vernda börnin fyrir áreiti vegna deilna foreldra en stefnandi hefði blandað börnunum inn í deilurnar og þar með valdið þeim streitu. Stefnda eigi auðveldara með að viðurkenna vanda eldri drengsins en stefnandi og hafi sótt námskeið ætlað börnum með hegðunarvanda en stefnandi hafi afþakkað ráðgjöf. Stefnda hafi því staðið sig nokkuð betur en stefnandi í að tryggja vernd og öryggi barnanna.                 Varðandi örvun og hvatningu þá telji matsmaður stefnanda skorta innsýn í vanda eldri drengsins og að hann skynji ekki vanlíðan eldri dóttur aðila. Stefnda hafi lagt sig eftir því að læra uppeldis- og hegðunarmótandi aðferðir sem stefnandi telji sig ekki þurfa. Hún standi því nokkuð framar stefnanda hvað varði hæfni til að örva og hvetja börnin.                 Varðandi stuðning þá sýni stefnandi afar slakt innsæi í þroska og þarfir barnanna þegar hann ræðir málefni aðila við þau, að mati matsmanns. Fjármál sem hann ræði við börnin séu fyrir ofan skilning þeirra og hann valdi börnunum sársauka og álagi með því að saka móður þeirra um þjófnað og eigin fátækt. Þá hafi hann stillt eldri dóttur aðila upp á milli þeirra stefndu og skaðað tengsl þeirra. Matsmaður telur hvorugt foreldrið hafa sýnt góða færni í að ræða málefni skilnaðarins við börnin en þar standi stefnda sig þó betur en stefnandi.                 Varðandi fyrirmynd þá sé það mat matsmanns að stefnda leggi áherslu á að stöðva ofbeldishegðun á meðan stefnandi beiti sjálfur líkamlegum refsingum. Hann hafi slakt innsæi, ásaki aðra um það sem miður fer og taki ekki ábyrgð sjálfur. Stefnda sé því börnunum ívið betri fyrirmynd en stefnandi.                 Matsmaður 2016 hafi, m.t.t. þessara sex þátta, metið hæfni stefndu til að fara með forsjá barnanna nokkuð betri en stefnanda og tekið fram að hún mældist einnig með betri geðræna heilsu en stefnandi. Hafi matsmaður því mælt með því að stefndu yrði fremur falin forsjá barnanna en stefnanda.                 Með því að fela stefndu forsjá og lögheimili barnanna og gera stefnanda að greiða einfalt meðlag með börnunum, þannig að hún standi straum af öllum kostnaði vegna barnanna, sé hægt að koma í veg fyrir óþarfa árekstra.                 Krafa um inntak umgengi og meðlag                 Til stuðnings kröfu um að dómurinn ákvarði inntak umgengni vísar stefnda til 4. mgr. 34. gr. barnalaga. Stefnda telji það vera best fyrir börnin að samvistir við stefnanda verði aðra hverja helgi, langar helgar, t.d. frá fimmtudegi til mánudags. Þá verði samvistir um stórhátíðir til skiptis hjá aðilum. Þá verði sumarleyfi barnanna skipt jafn á milli aðila og það verði ákveðið fyrir 1. apríl ár hvert hvernig sumarfríum verði háttað.                 Stefnda telji ekki rétt að viðhalda núverandi umgengnisfyrirkomulagi, viku og viku. Hún telji það of mikið rask fyrir börnin. Sé vísað til framangreindra málsástæðna varðandi forsjá því til stuðnings.                 Stefnda byggir kröfu sína jafnframt á því að fyrra samkomulag aðila um að útgjöldum vegna barnanna yrði skipt jafnt á milli aðila hafi ekki gengið eftir og allt frá því að aðilar slitu hjúskap hafi hún staðið straum af stærstum hluta tilfallandi kostnaðar vegna barnanna.                 Stefnda byggir kröfu sína um einfalt meðlag úr hendi stefnanda með börnunum á framfærsluskyldu foreldra, sbr. 53. gr. barnalaga nr. 76/2003, og lágmarksmeðlagsskyldu forsjárlauss foreldris samkvæmt 57. gr., sbr. 55. gr. laganna. Um heimild dómara til að kveða á um meðlagsskyldu í málinu vísar stefnda til 4. mgr. 34. gr. laganna.                 Loks mótmælir stefnda öllum kröfum stefnanda um forsjá barnanna, lögheimili og meðlag, sem og málatilbúnaðinum öllum.   IV Matsgerð                 Undir rekstri þessa máls öfluðu málsaðilar sameiginlega nýrrar matsgerðar dómkvadds matsmanns og var G sálfræðingur dómkvaddur til starfans. Var matsgerðar aflað að tilmælum dómara og var ákveðið að kostnaður af matinu greiddist úr ríkissjóði, sbr. 42. gr. barnalaga nr. 76/2003. Með matsbeiðni var lagt fyrir matsmann að meta forsjárhæfni aðila og hvar forsjá skyldi vera, m.t.t. atriða sem fram koma í athugasemdum við frumvarp til 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þá var þess óskað að matsmaður kannaði sérstaklega kvíða og öryggi barnanna hjá hvoru foreldri um sig og vilja barnanna, þ.e. hjá hvoru foreldrinu þau vildu frekar vera, eftir því sem aldur þeirra leyfði, sbr. 43. gr. sömu laga.                 Matsgerð matsmannsins, dags. 22. mars 2018, var lögð fram á dómþingi 27. s.m. Í niðurstöðukafla er fjallað ítarlega um persónulega eiginleika og hagi hvors aðila um sig, svo og barnanna, en að því verður nánar vikið í niðurstöðukafla. Matsmaður telur báða foreldra eiga í góðum tengslum við börnin og ekkert benda til tengslaleysis. Báðir foreldrar sinni börnunum í tvær vikur í senn. Varðandi daglega umönnun og umsjá komi ekkert fram í matinu um að annað foreldrið sinni börnunum betur eða verr en hitt. Matsmaður tekur fram að umönnun foreldra sé þó alvarlega ábótavant vegna deilna þeirra, sem hafi haft mikil áhrif á allt utanumhald, nám, félagsstarf, íþróttir og heilsufar barnanna. Matsmaður telur systkinin samrýmd og mælir ekki með að þau verði aðskilin, en þau hafi ávallt fylgst að í umgengni. Báðir foreldrar séu í vinnu og með húsnæði og engar breytingar séu fyrirhugaðar hjá þeim. Ekki eru gerðar neinar athugasemdir við húsnæðismál foreldra, sem báðir eigi ágætar og rúmgóðar íbúðir. Foreldrar hafi ekki sérstakt liðsinni vandamanna við umönnun barnanna, en foreldrar föður séu þó eitthvað með börnin og móðir fái stuðning frá systur.                 Varðandi kvíða og öryggi barnanna tekur matsmaður fram að öll börnin segi sér líða vel hjá foreldrum og lítið komi fram sem bendi til að börnin upplifi kvíða og óöryggi hjá öðru foreldrinu fremur en hinu. C lýsi engum vandamálum og telji að deilur foreldra hafi ekki áhrif á sig. D lýsi því að móðir sé meira pirruð en faðir og hið sama eigi við um E. C og E virðist líða mjög vel hjá báðum foreldrum þrátt fyrir þetta, en D segi að það sé léttara hjá föður. Vísbendingar séu um að D líði betur hjá föður sinum en ekkert komi fram hjá drengjunum um að þeim líði verr eða þeir séu kvíðnari eða óöruggari hjá öðru hvoru foreldrinu. C og E vilji ekki gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi umgengni, í tvær vikur í senn. D virðist vera sátt við núverandi fyrirkomulag, en lýsi því þó að hún myndi fremur vilja vera meira hjá föður en móður.                 Í niðurlagi matsgerðar er tekin saman umfjöllun um forsjárhæfni aðila og hvar forsjá skuli vera. Segir þar m.a. að foreldrar séu hvorugt með góða færni til að sinna börnunum vegna áralangra illdeilna. Hvorugt taki næga ábyrgð eða hafi nægt innsæi í það hvað þau eru að gera börnunum. Mál þetta snúist fyrst og fremst um peninga eða hefnd en ekki um velferð barnanna. Hver svo sem niðurstaða þessa máls verði séu litlar líkur á að foreldrar muni sættast eða hafa samvinnu, enda virðist þau áhugalaus um sættir og ráðalaus um hvað þau sjálf geti gert til að laga ástandið.                 Ekki sé mikinn mun að sjá á hæfni foreldra. Bæði elski þau börnin og séu ágætlega tengd þeim. Bæði séu reglusöm, með stöðugt umhverfi og séu í vinnu. Þau séu því góðar fyrirmyndir, móðir auk vinnu í námi og faðir góð fyrirmynd varðandi hreyfingu og tómstundir.                   Faðir virðist ekki hafa eins gott innsæi og móðir í þarfir barnanna. Hann hafi ekki nýtt sér uppeldisráðgjöf og virðist gera minna úr vanda barnanna en móðir, en á móti komi að hann virðist vera þolinmóðari við þau, sé afslappaðri og geri frekar gott úr hlutunum. Hann sé samt stjórnsamur og hafi lítið innsæi í eigin hegðun. Hann virðist einnig beita líkamlegum refsingum til að aga börnin. Vísar matsmaður til fyrra sálfræðimats um að faðir hafi haft eldri dóttur aðila með í öllu málinu, en móðirin ekki og hafi sálfræðingurinn talið föður hafa skemmt tengslin á milli móður og dóttur með því að láta dóttur vorkenna sér. Hafi þetta einnig komið fram í viðtali sálfræðingsins við sálfræðinga í þjónustumiðstöð, þ.e. að stúlkan fengi miklar upplýsingar frá föður og sé reið og ásakandi út í móður. Tekur matsmaður fram að vísbendingar séu um að faðir sé einnig að blanda yngri dóttur aðila með sama hætti í málið.                 Vandi móður sé hvatvísi, óþolinmæði og pirringur, en hún virðist hafa betra innsæi í þarfir barnanna m.t.t. tilfinninga, hegðunar og námslegrar stöðu en faðir. Hún virðist hafa meiri vilja til að nýta sér ráðgjöf og leiðbeiningar um börnin og hafi reynt að takast á við tölvunotkun og hegðun barnanna. Hún taki meiri ábyrgð en faðir á fyrri hegðun og virðist að einhverju leyti sjá eigin sök í málinu. Matsmaður telji hana betur til þess fallna að halda samskiptum í lágmarki og ekki reyna að „stjórnast mikið í föður“. Telur matsmaður því að móðir hafi betri hæfni til að tryggja öryggi og velferð barnanna en faðir. Leggur matsmaður til að móðir fái forsjá og lögheimili barnanna en að umgengni verði skipt í tvær og tvær vikur eins og verið hefur. Þá mælir matsmaður með því að dómurinn setji niður umgengni yfir sumartíma, jól, páska og vetrarfrí barnanna, enda virðist foreldrar ófærir um að koma sér saman um slíkt.    V Niðurstaða                 Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 sker dómari, þegar foreldra greinir á um forsjá eða lögheimili barns, úr málinu með dómi hafi sátt ekki tekist. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar kveður dómari á um hvernig forsjá barns eða lögheimili verði háttað, eftir því sem barni er fyrir bestu. Í því efni lítur dómari m.a. til hæfis foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska. Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða og er gjarnan einnig litið til fleiri atriða sem rakin eru í greinargerð að baki 34. gr. laganna.                 Samkvæmt öðrum málslið 3. mgr. 34. gr. barnalaga getur dómari ákveðið að kröfu foreldris að forsjáin verði sameiginleg ef dómari telur þær aðstæður fyrir hendi að slíkt geti þjónað hagsmunum barnsins. Heimild dómara til slíks er þannig bundin við það að annar hvor aðili geri kröfu um að forsjá verði sameiginleg.                 Við munnlegan málflutning mótmælti stefnda sem of seint fram kominni varakröfu stefnanda um sameiginlega forsjá. Sú krafa kom fyrst fram við framhaldsaðalmeðferð þessa máls og vísar stefnandi til 41. gr. barnalaga henni til stuðnings, en þar er kveðið á um að aðilar geti borið fram nýjar málsástæður og haft uppi ný andmæli allt þar til mál er dómtekið. Samkvæmt orðanna hljóðan felur það ákvæði ekki í sér frávik frá þeirri reglu almenns einkamálaréttarfars, sbr. lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að dómkröfur aðila skuli koma fram í stefnu og greinargerð og að ekki verði aukið við þær kröfur nema með framhalds- eða sakaukastefnu. Í athugasemdum að baki 41. gr. barnalaga kemur m.a. fram að sifjalaganefnd hafi ekki talið rétt að ganga eins langt í frumvarpinu og þágildandi barnalög, sem heimiluðu að settar væru fram nýjar kröfur allt þar til mál væri flutt. Þegar af framangreindri ástæðu kemst síðbúin varakrafa stefnanda ekki að í málinu. Auk þess þykir hún raska grundvelli málsins, en engin gögn hafa verið lögð fram til stuðnings því að áframhaldandi sameiginleg forsjá muni, í ljósi alvarlegs samskiptavanda málsaðila, samræmast hagsmunum barnanna. Má hér til hliðsjónar vísa til dóms Landsréttar frá 10. maí 2019 í máli nr. 25/2019. Hvorugur hinna dómkvöddu matsmanna var beðinn að leggja mat á það hvort áframhaldandi sameiginleg forsjá kæmi til greina. Kemur fram í fundargerð G sálfræðings um matsfund, sem fylgdi matsgerð hans, að lögmenn aðila hafi ekki talið sameiginlega forsjá mögulega. Koma þó fram í báðum matsgerðunum sterkar vísbendingar um að áframhaldandi sameiginleg forsjá þjóni ekki hagsmunum barnanna, vegna áralangra deilna og samskiptaörðugleika foreldra. Þótt aðilar þessa máls fari samkvæmt núverandi fyrirkomulagi sameiginlega með forsjá, ólíkt því sem við átti í nefndum dómi Landsréttar, þykir hið sama eiga við hér, að hin síðbúna krafa um sameiginlega forsjá, sem er annars eðlis en krafa um fulla forsjá, sé til þess fallin að raska grundvelli málsins og getur hún því ekki komið til álita.                 Liggur þá fyrir dóminum að skera úr um það hvort málsaðila skuli framvegis fara eitt með forsjá barnanna og lögheimili.                 Eins og fram er komið liggja fyrir í málinu tvær matsgerðir dómkvaddra matsmanna þar sem lagt er mat á forsjárhæfni aðila o.fl., annars vegar matsgerð H sálfræðings frá árinu 2016 og hins vegar ný matsgerð G sálfræðings, en meginatriði niðurstöðu hans eru rakin í kafla IV hér að framan. Báðir matsmenn gáfu skýrslu fyrir dómi til staðfestingar matsgerðum sínum. Það er meginniðurstaða þeirra að báðir aðilar séu í grunninn vel hæfir til að fara með forsjá barnanna en að það hve illa þeim hefur gengið að setja hagsmuni barnanna í forgang og leggja ágreining sinn til hliðar rýri þó verulega forsjárhæfni þeirra beggja. Báðir matsmenn telja móður ívið hæfari til að fara með forsjá allra barnanna.                 Tekið skal fram að það heyrir á endanum undir dómara, en ekki matsmenn, að leysa úr því, á grundvelli heildstæðs mats, hvoru foreldra verði falin forsjáin. Það er hins vegar álit dómsins að báðar matsgerðir séu ítarlegar og vel unnar, án teljandi annmarka og að þær rími vel saman. Þá hefur þeim ekki verið hnekkt með yfirmati. Verður því litið til þeirra beggja við niðurstöðu máls þessa, einkum hinnar nýrri matsgerðar G og er átt við hana þegar ræðir um matsgerð hér á eftir, nema annað sé tekið fram.                 Börnin þrjú sem málið lýtur að eru nú tæplega [...], [...] og [...] ára gömul. Miðað við aldur þeirra, sérstaklega þeirra tveggja eldri, er rétt að taka tilhlýðilegt tillit til vilja þeirra í málinu. Í matsgerð kemur fram að börnin séu öll sátt við ríkjandi fyrirkomulag þar sem þau dvelja í tvær vikur í senn hjá hvoru foreldri, en D lýsi því þó að hún myndi fremur vilja vera meira hjá föður en móður. Í viðtali hennar við dómendur við aðalmeðferð málsins kom þó ekkert slíkt fram heldur var hún skýr um að vilja óbreytt fyrirkomulag og dvelja jafnt hjá foreldrum sínum. Í framburði G kom fram að hann hefði ekki talið rétt að krefja börnin frekar um afstöðu í málinu. Eru ekki gerðar athugasemdir við það mat matsmanns. Ljóst er að börnin gera ekki upp á milli foreldra sinna og er viljaafstaða þeirra þannig ekki til þess fallin að ráða neinum úrslitum í málinu um forsjá og lögheimili.                 Í samræmi við matsgerð leggur dómurinn til grundvallar að börnin þrjú hafi góð tengsl við báða foreldra sína og að ekki sé ástæða til að greina þar á milli. Þá telja dómendur ekki heldur efni til þess að gera upp á milli foreldra hvað varðar líðan barnanna á heimilum þeirra, kvíða og óöryggi. Ljóst er hins vegar að slæm samskipti foreldranna hafa haft veruleg áhrif á líðan barnanna í gegnum tíðina, eins og fram kom í framburði matsmanns, og má ætla að það eigi við á báðum heimilum.                 Kyn og aldur barna telur matsmaður ekki hafa þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Matsmaður telur rétt að halda systkinahópnum saman fremur en að aðskilja þau. Undir þetta tekur dómurinn og telur það sömuleiðis ekki hafa þýðingu hvar eldri dóttir aðila, sem er 19 ára gömul og ekki hluti af þessu máli, er búsett.                 Ekki er í matsgerð gert upp á milli aðila hvað varðar húsnæðismál og liðsinni vandamanna og telur dómurinn ekki efni til þess heldur. Þá eru engar breytingar fyrirhugaðar hjá aðilum, t.d. hvað varðar búsetu, sem þýðingu geta haft, eins og tekið er fram í matsgerð. Telur dómurinn því ekki efni til að gera upp á milli foreldra hvað stöðugleika snertir.                 Hvað persónulega hagi foreldra snertir kemur fram í matsgerð að báðir foreldrar séu reglusamir og stundi fulla vinnu. Hvorugt er nú í sambúð eða sambandi. Engar athugasemdir koma fram við líkamlegt heilsufar aðila, þótt vitnað sé til þess að faðir hafi meiðst í slysi [...]og til þess að móðir sé greind með [...] og sé í lyfjameðferð við því.                 Hvað geðræna heilsu snertir kemur fram í matsgerð að ekkert bendi til þess að málsaðilar glími við geðsjúkdóm. Leggur dómurinn til grundvallar að þau séu andlega heilbrigð, þótt bæði hafi á köflum glímt við [...] og [...]                 Ljóst er að báðir foreldrar glíma við skapgerðarbresti, eins og lýst er í báðum matsgerðum. Stefnandi er áberandi stjórnsamur og stefnda hefur augljóslega fengið sig fullsadda af honum. Að sama skapi er ljóst að stefnda er oft á tíðum atkvæðalítil og bregst ekki við, eða bregst við af mikilli hvatvísi. Orðaval hennar í ýmsum skeytasendingum til stefnanda eru til marks um hið síðarnefnda. Málsókn stefnanda er hins vegar til marks um þrákelkni hans og stjórnsemi, en með henni virðist hann leitast við að knýja stefndu til þess að eiga samskipti við hann um málefni barnanna. Þótt það sé æskilegt að fráskildir foreldrar eigi góð samskipti um málefni barna sinna, þá verður slíkt ekki knúið fram af hálfu eins foreldris í óþökk annars.                   Matsmaður staðfesti fyrir dómi að hann teldi báða foreldra vel hæfa til að annast börnin, styrkleikar þeirra séu margir og ekki sé stór munur á foreldrum hvað varðar umönnun barnanna, en það sem upp úr standi séu deilur þeirra, sem séu alvarlegar, hafi staðið yfir um árabil og haft mikil og varanleg áhrif á börnin. Matsmaður kvaðst telja að það væri æskilegt fyrir börnin ef engin eða sem minnst samskipti væru milli foreldra, enda hefðu foreldrar hingað til reynst ófærir um að fara að ráðleggingum sérfræðinga til að bæta samskipti sín. Undir þetta tekur dómurinn og einnig er tekið undir það það mat matsmanns að stefnda sé líklegri til þess að láta af illdeilum og slæmum samskiptum við stefnanda en stefnandi við hana.                 Þótt ekki sé tekið á því í matsgerðum matsmanna, þá telur dómurinn vísbendingar í málinu um það að stefnda sé líklegri en stefnandi til þess að viðhalda reglulegri umgengni barnanna við föður. Lítur dómurinn þar m.a. til þess hvernig stefnandi virðist hafa tilhneigingu til að gera allt of mikið úr því þegar stefnda setur börnunum mörk. Vísast hér t.d. til atvika á árinu 2017 þegar eldri börnunum sinnaðist við móður sína, sem leiddi til þess að eldri dóttirin, F, flutti til föður og sleit sambandi við móður, en eldri drengurinn, C, hélt til hjá föður um um allnokkurt skeið, eftir að stefnda hafði sett honum mörk í tengslum við tölvu- og símanotkun. Einnig er litið til þess sem fram kom í aðilaskýrslu stefnanda, þar sem hann virtist mest leggja upp úr vilja barnanna sjálfra varðandi umgengni, fremur en að viðhalda reglulegri umgengni.                 Þá tekur dómurinn undir það mat matsmanns að stefnda hafi að mörgu leyti betra innsæi til að bera, sérstaklega er kemur að málefnum barnanna og hvers konar stuðningi þau þurfi á að halda. Þá er ljóst að hún hefur fremur en stefnandi lagt sig eftir því að tileinka sér hegðunarmótandi uppeldisaðferðir og þegið ráðgjöf á því sviði. Má hér m.a. vísa til þess sem málsgögn bera með sér um mismunandi viðbrögð foreldra við hinum alvarlega hegðunarvanda sem eldri sonur aðila, C, glímdi við. Þá virðist hún frekar gera sér grein fyrir eigin hlut í samskiptum við bæði stefnanda og börnin, svo sem hlut sínum í því að samband hennar og eldri dótturinnar, F, rofnaði um langt skeið.                 Loks telur dómurinn gögn málsins eindregið hníga í þá átt að stefnandi hafi, vitandi eða óafvitandi, í of miklum mæli dregið eldri dóttur aðila, F, inn í málefni foreldranna og þannig stuðlað að því að hún tæki afstöðu með honum gegn móður sinni og spillt fyrir tengslum þeirra. Þegar litið er til gagna málsins telur dómurinn að hann sé líklegur til þess að halda uppteknum hætti með yngri börnin. Stefnda hefur á hinn bóginn haldið aftur af sér og ekki upplýst börnin um atvik er tengjast ágreiningi hennar og stefnanda.                  Að öllu framanrituðu virtu er það einróma álit dómsins að stefnda sé hæfari til þess að fara ein með forsjá, og þar með lögheimili, allra barnanna en stefnandi.                 Víkur þá að kröfu aðila um að dómurinn ákvarði umgengni barnanna við það foreldri sem ekki fer með forsjána. Fram er komið að báðir aðilar telja æskilegt að draga úr umgengni þess foreldris sem ekki fær forsjána frá því sem verið hefur, þar sem börnin hafa dvalið til jafns hjá báðum foreldrum í tvær vikur í senn. Leggur stefnandi til að umgengni verði fimmtudag til mánudags aðra hverja helgi, og lagði stefnda slíkt hið sama til í greinargerð, en við munnlegan málflutning lagði hún þess í stað til að umgengni yrði minnkuð í eina viku í mánuði eða haldið óbreyttri. Hvorugur aðili telur koma til greina að fara aftur í það fyrirkomulag að börnin dvelji í viku og viku í senn á hvoru heimili. Þótt matsmaður legði til að umgengni yrði haldið óbreyttri kom fram í framburði hans að það byggðist helst á því að ekki hefði virst neinn ágreiningur um það fyrirkomulag við matið og að börnin hefðu vanist því og væru sátt við þá tímalengd. Dómurinn telur hagsmunum barnanna best borgið með því að eiga eitt aðalheimili og því sé rétt, nú þegar gerðar eru breytingar á forsjá þeirra, að gera breytingar á umgengni. Er þá nærtækt að líta til tillögu stefnanda, sem samræmist tillögu í greinargerð stefndu, en þá tilhögun telur dómurinn jafnframt heppilegasta fyrir börnin. Skal umgengni barnanna við föður því eftirleiðis miðast við aðra hverja helgi frá fimmtudegi kl. 15, eða eftir að skóla lýkur, fram til sama tíma á mánudegi og skal sú tilhögun taka gildi þegar kemur að næstu skiptum milli heimila, eftir dómsuppsögu.                  Aðilar eru sammála um að miða umgengni að öðru leyti, þ.e. um jól, áramót, páska og í sumarleyfum, við ákvæði 6. og 7. gr. dómsáttar þeirra frá 28. september 2016, utan þess að stefnda fer fram á að miðað verði við að tilhögun sumarleyfis verði ákveðin fyrir 1. apríl ár hvert, í stað 1. mars. Sætti sú breyting engum andmælum af hálfu stefnanda við aðalmeðferð málsins og verður framangreind tilhögun því ákveðin hér með dómi, eins og nánar greinir í dómsorði.                 Í samræmi við niðurstöðu málsins um forsjá og meðlagskröfu stefndu verður mælt svo fyrir að stefnanda beri að greiða einfalt meðlag, sbr. 2. mgr. 55. gr. barnalaga, með öllum þremur börnunum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra.                 Ekki þykja efni til þess að kveða á um að áfrýjun fresti réttaráhrifum dóms þessa, í samræmi við 44. gr. barnalaga, eins og stefnandi fór fram á við munnlegan málflutning.                 Stefnda hefur gjafsókn í málinu, samkvæmt gjafsóknarleyfi, útgefnu 23. janúar 2020. Ber því að greiða allan gjafsóknarkostnað úr ríkissjóði, sbr. 127. gr. laga nr. 91/1991, þar með talda gjafsóknarþóknun lögmanns hennar, Gunnhildar Pétursdóttur lögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin með þeirri fjárhæð sem í dómsorði greinir, með hliðsjón af tímayfirliti lögmannsins. Við ákvörðun gjafsóknarþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts, samkvæmt dómvenju.                 Eftir atvikum öllum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.                 Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan sem dómsformaður, ásamt meðdómsmönnunum Sigríði Hjaltested héraðsdómara og Aðalsteini Sigfússyni sálfræðingi. Dómsorð:                 Stefnda, A, skal fara með forsjá og lögheimili barna aðila; C, D og E, frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra.                 Regluleg umgengni barnanna við föður sinn, stefnanda B, skal fara fram aðra hverja helgi, frá fimmtudegi kl. 15.00 eða eftir að skóla lýkur fram til sama tíma á mánudegi. Hefst það fyrirkomulag næst þegar kemur að því að börnin fara milli heimila foreldra, eftir að dómur hefur verið kveðinn upp.                 Börnin dvelja hjá foreldrum sínum önnur hver jól, áramót og páska. Regluleg umgengni fellur niður á meðan.                 a. Jólaumgengni er frá síðdegi 22. desember til síðdegis 29. desember. Börnin dvelji hjá móður jólin 2020, föður jólin 2021 og svo koll af kolli.                 b. Áramótaumgengni er frá síðdegi 29. desember til síðdegis 5. janúar. Tekur síðan regluleg umgengni við þangað til þarnæsta mánudag. Börnin dvelji hjá föður áramótin 2020/2021, hjá móður áramótin 2021/2022 og svo koll af kolli.                 c. Páskaumgengni er frá síðdegi mánudags fyrir skírdag til síðdegis annars í páskum og tekur þá regluleg umgengni við. Börnin dvelji hjá föður páskana 2020, móður 2021 og svo koll af kolli.                 Börnin dvelji í fjórar vikur samfleytt í sumarleyfi hjá hvoru foreldri fyrir sig ár hvert. Skiptidagar verða mánudagar. Foreldrar skulu ákveða dagsetningu sumarleyfa fyrir 1. apríl ár hvert. Náist ekki samkomulag um sumarleyfi skulu foreldrar skiptast á að eiga forgang um val á dagsetningu. Faðir fær forgang árið 2020 og móðir árið 2021 og svo koll af kolli.                 Stefnandi greiði einfalt meðlag með öllum þremur börnunum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þeirra.                 Málskostnaður milli aðila fellur niður.                 Allur gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. gjafsóknarþóknun lögmanns stefndu, Gunnhildar Pétursdóttur, 2.300.000 krónur.                                                                                                          
Mál nr. 14/2020
Líkamstjón Skaðabætur Orsakatengsl Sönnunarbyrði Lögregla Handtaka Matsgerð
Í málinu krafðist A þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda íslenska ríkisins á því líkamstjóni sem hann kvaðst hafa orðið fyrir af völdum lögreglu við handtöku árið 2010. Við handtökuna fór A í hjartastopp og hlaut við það dreifðan heilaskaða. Í málinu lágu fyrir fjórar matsgerðir sérfræðinga um orsakir þess að hjarta A hætti að slá. Af þeim var ráðið að ástand A þegar hann var handtekinn hafi verið frumorsök þess að hjarta hans stöðvaðist og að ofsafengin viðbrögð hans við handtökunni hafi átt þátt í eða aukið líkurnar á hjartastoppinu. Matsmenn voru hins vegar ekki sammála um hvort og þá hversu líklegt væri að hjarta A hefði stöðvast enda þótt ekki hefði komið til handtökunnar. Var það mat héraðsdóms og Landsréttar, sem skipaðir höfðu verið sérfróðum meðdómsmönnum, að A hefði ekki lánast sönnun um orsakatengsl á milli handtöku og líkamstjóns og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu. Í málinu reyndi því á hvort efni væru til að víkja frá almennum reglum um sönnun orsakatengsla. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar atvik áttu sér stað hefði ekki í lögum verið mælt fortakslaust fyrir um sérstaka rannsókn þegar maður andaðist eða yrði fyrir stórfelldu líkamstjóni í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur væri um refsivert brot. Allt að einu hefði lögreglu borið að rannsaka slys og aðrar ófarir, sbr. 2. málslið 2. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Taldi Hæstiréttur að eins og málið hafi legið fyrir hefðu ekki verið efni til að ráðast í frekari rannsókn á aðgerðum lögreglu. Þá þótti nægjanlega upplýst um aðdraganda að handtöku A og hvernig staðið hefði verið að framkvæmd hennar. Með ítarlegum matsgerðum hefði aftur á móti ekki tekist að leiða í ljós læknisfræðilegar ástæður þess að A hefði fengið krampa, hætti að anda og hjarta hans stöðvaðist og hvort handtakan hefði haft þar áhrif. Að þessu gættu þóttu ekki rök til að slaka á kröfum til sönnunar eða láta ríkið bera hallann af því að ekki hefði tekist að leiða í ljós orsakatengsl milli handtökunnar og líkamstjóns A. Var ríkið því sýknað af kröfu A.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson fyrrverandi hæstaréttardómarar. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. mars 2020. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verið ómerktur og að málinu verði vísað heim til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Til vara krefst áfrýjandi þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á því varanlega líkamstjóni sem hann kveðst hafa orðið fyrir 11. maí 2010 af völdum lögreglu við handtöku. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda á öllum dómstigum án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Áfrýjandi höfðaði mál þetta til viðurkenningar á bótaskyldu vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir vegna heilaskaða þegar hjarta hans hætti að slá við handtöku lögreglu 11. maí 2010. Varanleg örorka hans vegna tjónsins hefur verið metin 100% og varanlegur miski 100 stig. Með héraðsdómi var stefndi sýknaður af kröfunni og var sú niðurstaða staðfest með hinum áfrýjaða dómi. Þessi niðurstaða hins áfrýjaða dóms var reist á því að orsakatengsl milli aðgerða lögreglu við handtökuna og þess líkamstjóns sem áfrýjandi varð fyrir væru ósönnuð. Jafnframt voru ekki talin efni til þess að leggja sönnunarbyrðina á stefnda um að orsakatengsl væru ekki fyrir hendi og létta henni þannig af áfrýjanda. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að úrslit málsins vörðuðu sérstaklega mikilvæga hagsmuni áfrýjanda. Jafnframt var talið að dómur í því gæti haft fordæmisgildi og þá einkum um tilhögun sönnunarbyrði. II Í bréfi Neyðarlínunnar ohf. 23. maí 2019, þar sem svarað var fyrirspurn vegna útkalls 11. maí 2010, kemur fram að klukkan 11.46:43 þann dag hafi borist tilkynning um blóðugan mann sveiflandi golfkylfu við [...]. Í kjölfarið hafi verið send sjúkrabifreið á vettvang og fjarskiptamiðstöð lögreglu gert viðvart. Klukkan 11.49:48 hafi tilkynnandi hringt aftur og greint frá því að maðurinn hafi fært sig í átt að leikskóla á svæðinu. Tilkynnanda hafi þá verið gefið samband við fjarskiptamiðstöð lögreglu. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að borist hafi tilkynning um mann vopnaðan golfkylfu fyrir utan [...]. Þegar lögregla nálgaðist vettvang hafi borist önnur tilkynning um að maðurinn hafi hlaupið í átt að kirkju í nágrenninu. Við komu lögreglu á vettvang hafi henni verið greint frá því að maðurinn hafi hlaupið inn í kjallaraíbúð að [...]. Lögregla hafi knúið þar dyra og hitt fyrir húsráðanda, B, sem hafi sagt að maðurinn hafi komið hlaupandi, hálfnakinn, klæddur gallabuxum og barið á stofuglugga og síðan útidyrnar. Við það hafi makast einhvers konar sósa á rúðurnar en B hafi talið manninn hafa lent í slysi því að hann hafi virst blóðugur. B hafi hleypt manninum inn og boðið honum að fara í sturtu. Það hafi hann gert en í sturtunni hafi hann öskrað og látið undarlega. Í skýrslunni segir síðan að lögreglumenn hafi farið inn í baðherbergið og hitt áfrýjanda fyrir í sturtunni. Hann hafi öskrað og látið mjög einkennilega, barið í veggi og kúgast. Reynt hafi verið að ræða við hann en hann ekki virst veita lögreglu neina athygli. Lögreglumenn hafi því þurft að fara inn í sturtuna og skrúfa fyrir vatnið en þegar aftur hafi verið reynt að ræða við áfrýjanda hafi hann orðið svo æstur að færa hafi þurft hann í handjárn. Einnig hafi verið nauðsynlegt að bensla fætur hans þar sem hann hafi ítrekað sparkað til lögreglu. Rétt eftir að sjúkrabifreið hafi komið á vettvang hafi borist tilkynning frá lögreglu um að áfrýjandi væri hættur að anda og að enginn hjartsláttur hafi fundist hjá honum. Áfrýjandi hafi síðan verið fluttur með forgangi á Landspítala við Hringbraut og hafi lögreglubifreið ekið með sjúkrabifreiðinni til að leiðin yrði greiðfærari. Einnig kemur fram í frumskýrslu lögreglu að fólk á vettvangi hafi greint frá því að áfrýjandi byggi á 4. hæð að [...]. Lögregla hafi farið þangað og íbúðin þá verið mannlaus. Þar hafi allt verið á tjá og tundri, innanstokksmunir legið á hliðinni og rauðar slettur verið á gólfi, veggjum og lofti. Jafnframt hafi ætluð kannabisefni verið á gólfinu og nokkuð af reiðufé víðs vegar um íbúðina. Þá hafi verið búið að kasta munum fram af svölum íbúðarinnar, þar á meðal nokkuð stórum flatskjá, útvarpstæki, glerplötu af stofuborði og sturtuhengi. Í kjölfar þessara atvika tók lögregla skýrslu af þeim sem hún hitti á vettvangi. Í skýrslu af C kom fram að áfrýjandi hefði kvöldið áður og fram á nótt verið heima hjá vitninu. Áfrýjandi hefði verið „gjósandi“ sem hefði lýst sér í því að hann var mjög „ör og hreinskilinn“. Áfrýjandi hefði talað og talað þar til vitnið sofnaði en þegar það vaknaði morguninn eftir hefði hann verið farinn. Um hádegið hefði vitnið hringt í vin sinn og spurt hvort hann vissi hvar áfrýjandi væri en vinurinn hefði sagst hafa slæma tilfinningu vegna „stigvaxandi ástands“ áfrýjanda. C kvaðst þá hafa farið að [...] en þegar hann kom þangað hefði lögregla verið komin á vettvang. Í skýrslu D, sem var búsettur á jarðhæð beint fyrir neðan þar sem áfrýjandi bjó, kom fram að nágranni hefði reynt að kalla til áfrýjanda og segja honum að hætta að henda hlutum niður úr íbúðinni. Áfrýjandi hefði þá komið með golfkylfu og ógnað nágrannanum. Í skýrslu af E kom fram að hann hefði verið að störfum heima hjá sér að [...] með opna svalahurð þegar hann heyrði dynk. Vitnið kvaðst hafa kannað þetta og séð hlutum hent af svölum íbúðar á 4. hæð. Vitnið sagðist hafa kallað athugasemd af þessu tilefni en síðan hlaupið upp í íbúðina en engan hitt þar. Hefði hann þá farið út og komið að áfrýjanda berum að ofan í annarlegu ástandi og hefði hann virst vera blóðugur. Áfrýjandi hefði náð í golfkylfu og beðið vitnið um að hringja ekki í lögreglu. Áfrýjandi hefði síðan tekið upp á því að rífa í sundur „Agel“-bréf, sem er orkugel, og hefði kreist innihaldið úr þeim yfir sig og ítrekað talað um að „allt væri að fara til fjandans“. Hann hefði síðan horfið á braut í átt að leikskóla í nágrenninu. Einnig kom fram hjá E að nágrannakona hefði verið þarna og virst vera skelkuð. Þetta mun hafa verið F en í skýrslu hennar hjá lögreglu kom fram að hún hefði orðið vör við að verið væri að kasta einhverju niður á pallinn hjá sér. Hún hefði svo heyrt E kalla og litið út og séð þá muni sem hent hefði verið af hæðinni fyrir ofan. Því næst hefði hún farið út og hringt í lögreglu að ábendingu E en skömmu síðar hefði áfrýjandi komið, hellt í sig einhverjum vökva og náð í golfkylfu í bifreið sinni. Áfrýjandi hefði svo tekið á rás og hlaupið í átt að leikskóla í grenndinni. Í dagbók lögreglu kemur fram að eftir að áfrýjandi hafi verið færður í handjárn og fætur hans benslaðir hafi verið óskað eftir sjúkrabifreið og stórri lögreglubifreið til að flytja áfrýjanda á lögreglustöð. Skömmu síðar hafi hann fengið krampa og kastað upp. Þá hafi hann verið færður á hliðina svo að ælan ætti greiða leið úr vitum hans. Þetta hafi gerst fimm til sex sinnum en þá hafi hann hætt að anda og enginn hjartsláttur fundist. Þegar í stað hafi verið hafnar tilraunir til endurlífgunar og óskað eftir sjúkrabifreið með forgangi sem hafi komið fljótt á vettvang. Eftir um 25 mínútur hafi fundist hjartsláttur og áfrýjandi verið fluttur í sjúkrabifreið með lögreglufylgd á Landspítala við Hringbraut. Í dagbók lögreglu var einnig fært 21. maí 2010 að nafngreindur hjartalæknir hefði haft samband og upplýst lögreglu um að ástand áfrýjanda væri mjög bágborið. Hann væri með miklar heilaskemmdir og meðvitundarlaus. Jafnframt að hann væri með vöðvarof sem ylli því að efni er stífluðu nýrun færu út í blóðrásina. Það hefði orðið þess valdandi að hann hefði fengið hjartastopp. Þá hefði komið fram hjá lækninum að áfrýjandi hefði ekki verið með áverka sem skýrt gætu ástand hans og ekkert benti til þess að átök lögreglu við hann hefðu nokkuð með ástand hans að gera. Loks var fært í dagbók lögreglu að tekin hefði verið ákvörðun um að fella niður sakamál á hendur áfrýjanda. Af hálfu stefnda hefur verið gefin sú skýring á því að slæmt heilsufar áfrýjanda hafi komið í veg fyrir að hann yrði saksóttur. Þegar nokkuð var liðið frá atvikum eða 3. desember 2013 gaf B, húsráðandi íbúðar að [...], þar sem áfrýjandi var handtekinn, skýrslu hjá lögreglu. B kom einnig fyrir dóm í vitnamáli 30. september 2015 og við aðalmeðferð málsins í héraði. Þá gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi þeir lögreglumenn sem komu að handtöku áfrýjanda. Þessum vitnisburðum um handtökuna og atvikum í kjölfar hennar, þegar hjarta áfrýjanda hætti að slá, er skilmerkilega lýst í héraðsdómi og hinum áfrýjaða dómi. III 1 Áfrýjandi fékk hjartalækni og lögmann dómkvadda til að skila matsgerð um afleiðingar líkamstjónsins sem hann varð fyrir. Í matsgerð þeirra 10. september 2014 voru afleiðingar tjónsins taldar vera 100% varanleg örorka en varanlegur miski var metinn 100 stig. Jafnframt var þess farið á leit að matsmennirnir gæfu álit sitt á því hvort orsakatengsl væru milli valdbeitingar lögreglu við handtökuna og þess líkamstjóns sem áfrýjandi varð fyrir. Ef svo væri ekki talið var óskað eftir áliti á því hver væri líklegasta orsök líkamstjónsins. Í matsgerðinni var komist að þeirri niðurstöðu að ekki væru orsakatengsl milli valdbeitingar lögreglu og þess líkamstjóns sem áfrýjandi varð fyrir. Töldu matsmennirnir líklegustu skýringuna á hjartastoppi áfrýjanda, sem valdið hefði dreifðum heilaskaða vegna súrefnisskorts, vera það sturlunar- eða geðrofsástand sem hann virtist hafa verið í ásamt lífshættulegri brenglun á sýrustigi blóðs og gríðarlegri hækkun á vöðvaensímum. Allt þetta mætti tengja við ofneyslu á orkugeli eða orkudrykkjum í aðdraganda tjónsins. Þó var tekið fram að þekkt væri að einstaklingar í annarlegu ástandi, sem beittir væru valdi, færu í hjartastopp og væri þá oft einhver hækkun á vöðvaensímum. Hins vegar væri afar ósennilegt að sú mikla hækkun sem varð á vöðvaensímum áfrýjanda tengdist eingöngu handtökunni, þótt hún ætti þar einhvern þátt, heldur væri líklegra að hækkunin yrði að mestu rakin til mikilla æfinga og athafna hans í aðdraganda tjónsins. 2 Áfrýjandi fékk aftur dómkvadda matsmenn og síðar yfirmatsmenn til að skila undir- og yfirmati um fjögur álitaefni. Í fyrsta lagi hvort valdbeiting lögreglu við handtöku gæti verið ein af orsökum þess að áfrýjandi fór í hjartastopp. Ef svo væri var þess farið á leit að greint yrði á milli orsaka tjónsins. Í öðru lagi hvort efnið Agel, sem vísað væri til í gögnum málsins og talið væri að áfrýjandi hefði tekið inn í óhóflegu magni í aðdraganda líkamstjónsins, hefði að geyma efni sem gætu ein og sér orsakað hjartastopp. Í þriðja lagi hvort áfrýjandi hefði farið í hjartastopp ef ekki væri fyrir valdbeitingu lögreglu og í fjórða lagi hvort líklegt væri að hjarta hans hefði hætt að slá ef hann hefði fengið að halda áfram óáreittur í sturtu í stað þess að vera handtekinn með þeim hætti sem gert var. Undirmatsgerðinni var skilað 11. júní 2016 en að henni stóðu lyf- og hjartalæknir og geðlæknir. Í svörum við fyrstu og þriðju spurningunni var því hafnað að valdbeiting lögreglu væri ein af orsökum tjónsins. Til stuðnings því tóku þeir fram að áfrýjandi hefði verið í „asystólu“ við fyrstu greiningu sem þýði að engin rafvirkni hafi verið í hjartanu. Það gæti bent til þess að hjartastoppið væri í kjölfar öndunarstopps. Það kæmi til vegna krampa og uppkasta, áfrýjanda svelgdist á og hluti magainnihalds færi í öndunarfærin. Ástæða þess að hann hefði fengið krampa og kastað upp gæti tengst mikilli áreynslu vegna átaka við lögreglu verandi mjög örvaður. Orsök þeirrar örvunar væri ekki þekkt og sú undirliggjandi ástæða ein og sér gæti einnig hafa valdið krömpum og uppköstum með sömu hættu á ásvelgingu og öndunarstoppi. Þannig mætti færa rök fyrir því að áfrýjandi hefði óáreittur í sturtunni getað fengið hjartastopp vegna þess ástands sem hann var í og þá jafnvel ekki fengið hjálp fyrr en um seinan ef lögregla hefði ekki haft afskipti af honum. Því megi allt eins leiða líkur að því að lögregla hefði bjargað áfrýjanda. Samkvæmt þessu var svarið jákvætt við fjórðu spurningunni um hvort áfrýjandi hefði allt að einu getað lent í hjartastoppi. Annarri spurningunni um hvort efnið Agel gæti í óhóflegu magni valdið hjartastoppi töldu matsmenn svo ekki vera þótt þeir gætu ekki fullyrt um það ef efnið væri tekið í gríðarlegu magni. Að yfirmatsgerð 1. mars 2017 stóðu hjartalæknir, geðlæknir og taugalæknir. Þar voru nefndar ýmsar ástæður sem gætu valdið hjartastoppi en þær taldar ólíklegar í tilviki áfrýjanda. Aftur á móti væri þekkt að líkamleg valdbeiting gegn órólegum einstaklingi gæti leitt til hjartastopps. Þessu hefði einkum verið lýst í tengslum við handtökur lögreglu og við meðferð órólegra geðsjúklinga. Valdbeiting sem fælist í því að reigja háls á ákveðinn hátt og/eða halda manni niðri gæti truflað öndun verulega vegna þess að háls lokist og/eða þind gæti ekki sinnt öndunarhreyfingum. Afleiðing af slíkri valdbeitingu gæti verið köfnun og svo hjartastopp. Jafnframt væri óumdeilt að valdi hefði verið beitt í umræddu tilfelli, þótt vissulega væri ómögulegt að vita nákvæmlega hvaða tökum var beitt og hvaða áhrif þau höfðu á líkamsstarfsemi áfrýjanda. Einnig væri óumdeilt að hann hefði á þessum tíma verið órólegur og æstur. Í samræmi við þetta svöruðu yfirmatsmennirnir fyrstu spurningunni þannig að líklegt væri að valdbeiting við handtökuna hefði átt þátt í að valda hjartastoppinu. Einnig tóku þeir fram að aðrir þættir gætu hafa verið meðvirkandi. Annarri spurningunni um áhrif efnisins Agel svöruðu yfirmatsmennirnir þannig að ekkert kæmi fram í gögnum um að þetta fæðubótarefni innihéldi koffín eða önnur skaðleg efni. Ekkert benti því til að inntaka þess hefði átt þátt í að hjarta áfrýjanda hætti að slá. Að því er varðaði þriðju spurninguna um hvort áfrýjandi hefði farið í hjartastopp ef ekki væri fyrir valdbeitingu lögreglu og fjórðu spurninguna um hvort líklegt væri að það hefði gerst ef lögregla hefði ekki haft afskipti af honum í sturtunni tóku yfirmatsmenn fram að útilokað væri að svara þessum spurningum játandi eða neitandi með vissu. 3 Í tilefni af máli sem áfrýjandi höfðaði gegn Verði tryggingum hf. vegna sama líkamstjóns aflaði hann matsgerðar geðlæknis 25. september 2017 um andlega heilsu sína við handtökuna. Annars vegar óskaði áfrýjandi eftir mati á því hvort viðbrögð hans við handtökunni hefðu verið ósjálfráð og hins vegar hvert hefði verið andlegt ástand hans og að hvaða marki hann hefði getað gert sér grein fyrir gerðum sínum og afleiðingum þeirra. Um fyrra atriðið tók matsmaðurinn fram að öll viðbrögð áfrýjanda og gerðir hans hefðu verið algjörlega ósjálfráð en um það síðara sagði hann að áfrýjandi hefði ekki gert sér neina grein fyrir gerðum sínum og afleiðingum þeirra. Til skýringar á niðurstöðum sínum tók matsmaðurinn fram að áfrýjandi hefði augljóslega verið í alvarlegu geðrofi með óráði þegar hann í aðdraganda handtökunnar tók upp á því að henda munum út úr íbúð á 4. hæð. Taldi matsmaðurinn að ástand áfrýjanda passaði vel við sjaldgæft heilkenni sem nefnt væri „Lethal Catatonia“. Það skiptist í hægara form „retarded type“ og mun sjalfgæfara æsingsform „excited type“. Á þetta heilkenni reyndi helst hjá ungum einstaklingum. Áður hefði verið talið að þetta væri undirgerð geðklofa en nú væri talið að þetta gæti komið til hjá einstaklingum með ýmsa sjúkdóma, sérstaklega geðhvörf. Orsakirnar væru óþekktar og yrðu ekki skýrðar. Um æsingsform heilkennisins tók matsmaður fram að það einkenndist af miklum hreyfióróa sjúklings, hækkuðum hita, breytingu á meðvitund og truflun í ósjálfráða taugakerfinu. Þetta ástand gæti leitt til dauða á skömmum tíma og í sumum rannsóknum væri dánartíðni talin vera 20 til 30%. Lýst væri fjölgun hvítra blóðkorna og hækkun á vöðvaensímum, sem gæti leitt til nýrnabilunar. Þetta taldi matsmaður koma vel heim og saman við tilvik áfrýjanda en hjá honum kæmi fram mjög mikill og tilgangslaus hreyfiórói þegar hann henti munum úr íbúðinni. Hann hefði hlaupið hálfnakinn nær 500 metra, bankað upp á hjá ókunnugum manni, verið greinilega mjög ruglaður og kælt sig í sturtu þegar hann var handtekinn. Hann hefði farið í krampa og síðan í hjartastopp, verið lífgaður við og fluttur á gjörgæsludeild. Þar hefði komið fram gífurleg hækkun á vöðvaensímum með mikilli truflun á sýrubasajafnvægi líkamans. Í upphafi hefði hiti hans lækkað aðeins en síðan hækkað sem talið var stafa af „central“-ástæðum. Þá hefði verið fjölgun á hvítum blóðkornum við komu áfrýjanda á sjúkrahús. IV Áfrýjandi reisir kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms í fyrsta lagi á því að ekki hafi verið fallist á þá beiðni hans í greinargerð til Landsréttar að yfirmatsmenn yrðu leiddir fyrir réttinn til skýrslugjafar svo að þeir gætu skýrt frekar niðurstöður sína í ljósi gagnrýni á þær í héraðsdómi. Jafnframt hafi ekki verið fallist á að leiða fyrir réttinn nafngreindan lögreglufulltrúa sem vann að rannsókn málsins til að skýra hvernig handtökunni var lýst í sjúkraskrá Landspítalans. Þar sé þagað um hvernig gengið hafi að handjárna áfrýjanda og bensla fætur hans, auk þess sem ekki kæmi fram að hjarta hans hefði hætt að slá meðan á átökum við lögreglu stóð. Þessari ástæðu fyrir ómerkingu hins áfrýjaða dóms verður hafnað þegar af þeirri ástæðu að enginn áskilnaður var gerður í áfrýjunarstefnu til Landsréttar um að vitni yrðu leidd fyrir réttinn til skýrslugjafar, sbr. e-lið 1. mgr. 155. gr. laga nr. 91/1991, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir setningu laga nr. 76/2019. Þess utan voru ekki efni til að leiða aftur fyrir dóm yfirmatsmenn og að auki lögreglufulltrúa vegna skráningar upplýsinga í sjúkraskrá sem haldin er vegna meðferðar sjúklings á heilbrigðisstofnun, sbr. 5. tölulið 3. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár. Í öðru lagi krefst áfrýjandi ómerkingar hins áfrýjaða dóms þar sem í honum séu ýmsar rangfærslur og nefnir hann meðal annars í því sambandi að sú staðhæfing sé röng í 23. lið dómsins að ekki verði séð að lögreglumönnum hafi mátt vera ljóst við handtökuna að áfrýjandi væri í geðrofi. Á hinum áfrýjaða dómi eru engir þeir annmarkar sem valda því að málið hafi ekki verið dæmt á réttum grundvelli. Verði aftur á móti talið að þar sé að finna einhverjar missagnir yrði úr því bætt hér fyrir dómi við úrlausn málsins að efni til. Þessari ástæðu verður því einnig hafnað. Áfrýjandi hefur ekki teflt fram öðrum ástæðum fyrir ómerkingarkröfu sinni og verður henni því hafnað. V 1 Áfrýjandi reisir kröfu sína um viðurkenningu á því að stefndi beri skaðabótaskyldu á líkamstjóni sem hann hlaut 11. maí 2010 annars vegar á sakarreglunni og hins vegar hlutlægri bótareglu sem á þeim tíma var að finna í 3. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála en er nú í 3. mgr. 246. gr. laganna. Til að fallist verði á slíka kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna líkamstjóns þarf að vera fullnægt þeim frumskilyrðum skaðabótaábyrgðar að áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni og að orsakatengsl séu á milli þess og handtökunnar. Á það við hvort sem bótaábyrgð verður reist á sakarreglunni eða hlutlægri ábyrgð. Í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar hvílir sönnunarbyrði um þessi atriði venjulega á tjónþola. Svo sem áður er rakið hætti hjarta áfrýjanda að slá í kjölfar handtöku og hlaut hann við það dreifðan heilaskaða. Hefur varanleg örorka hans, sem fyrr greinir, verið metin 100% og varanlegur miski 100 stig. Samkvæmt þessu varð áfrýjandi fyrir mjög miklu líkamstjóni. Að því gættu kemur til skoðunar hvort orsakatengsl verða talin milli tjónsins og aðgerða lögreglu við handtökuna. Að virtu því sem fram hefur komið í málinu verður að leggja til grundvallar, eins og gert var í hinum áfrýjaða dómi, að hjartsláttur áfrýjanda hafi stöðvast eftir að hann hafði verið færður í handjárn og fótbensli inni á baðherberginu þar sem hann hafði farið í sturtu. Verður jafnframt að fallast á það með Landsrétti að ósannað sé að áfrýjandi hafi í aðdragandanum verið handtekinn með harkalegum hætti þótt lögregla hafi beitt valdi. Ekkert hefur heldur komið fram sem bendir til að þrengt hafi verið að öndunarvegi hans við handtökuna. Eins og hér hefur verið rakið liggja fyrir í málinu fjórar matsgerðir sérfræðinga um orsakir þess að hjarta áfrýjanda hætti að slá. Einnig gáfu þessir sérfræðingar skýrslur fyrir dómi við aðalmeðferð málsins í héraði og skýrðu nánar niðurstöður sínar. Héraðsdómur og Landsréttur voru skipaðir sérfróðum meðdómsmönnum en á báðum dómstigum var komist að þeirri niðurstöðu að orsakatengsl milli handtöku og líkamstjóns væru ósönnuð. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms, sbr. einkum 55. til 60. liði hans, verður sú niðurstaða staðfest enda hefur ekkert komið fram hér fyrir dómi sem fær henni hnekkt. 2 Þótt sönnunarbyrði um orsakatengsl milli bótaskylds tilviks og tjóns hvíli venjulega á tjónþola eru þess dæmi í dómaframkvæmd að slakað hafi verið á kröfum til þeirrar sönnunar eða jafnvel að sönnunarbyrðinni hafi verið snúið við þannig að hún hafi verið lögð á þann sem tjónþoli beinir kröfu sinni að. Hér má benda á skaðabótamál vegna læknamistaka en þá hefur sönnunarbyrði um orsakatengsl verið lögð á þann sem ber ábyrgð á sjúkrastofnuninni, sbr. dóm Hæstaréttar 10. desember 1992 í máli nr. 162/1992 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 2122, og dóm réttarins 25. október 2012 í máli nr. 6/2012. Einnig má nefna að slakað hefur verið á sönnunarkröfum vegna skaðabótaábyrgðar sérfræðinga eins og lögmanna og verður í þeim efnum bent á dóm Hæstaréttar 25. janúar 2001 í máli nr. 262/2000. Loks skal nefnt að vanræksla atvinnurekanda á því að tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um slys á mönnum, í samræmi við 1. og 2. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, hefur í mörgum dómum Hæstaréttar haft þau áhrif að vinnuveitandi þarf að bera hallann af því að málsatvik séu ekki upplýst nægjanlega sökum þess að rannsókn Vinnueftirlitsins hafi ekki farið fram. Um slíkt tilvik má í dæmaskyni benda á dóm Hæstaréttar 13. júní 2013 í máli nr. 20/2013. Ef málsatvik verða hins vegar nægjanlega upplýst þrátt fyrir þá vanrækslu hefur þetta ekki áhrif á sönnunarmatið, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 10. febrúar 2011 í máli nr. 433/2010. Að þessu gættu þarf að leysa úr því hvort efni eru til í þessu máli að víkja frá almennum reglum um sönnun orsakatengsla. 3 Í málinu liggur fyrir að ekki fór fram sérstök rannsókn á aðgerðum lögreglu og handtöku áfrýjanda. Á þeim tíma var ekki í lögum mælt fortakslaust fyrir um að athugun af því tagi færi fram þegar maður andaðist eða yrði fyrir stórfelldu líkamstjóni í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur væri um refsivert brot, eins og síðar var gert með c-lið 1. mgr. 35. gr. a. lögreglulaga nr. 90/1996, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 62/2016. Allt að einu bar lögreglu þá eins og nú að rannsaka slys og aðrar ófarir, sbr. 2. málslið 2. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008.  Í tilefni af því að lögregla var kölluð til í því skyni að hafa afskipti af áfrýjanda var rituð frumskýrsla um málið. Þar er lýst atvikum þegar lögregla kom að [...] og ræddi við húsráðanda og handtók síðan áfrýjanda sem hafði farið í sturtu í íbúðinni. Er þar lýst atvikum eftir frásögn þeirra lögreglumanna sem handtóku áfrýjanda og til hvaða úrræða hafi verið gripið. Einnig er lýst vettvangi í íbúð á 4. hæð að [...] þar sem áfrýjandi bjó og helstu upplýsingum sem vitni greindu lögreglu frá um aðdraganda þess að óskað var eftir aðstoð hennar. Lögregla tók síðan skýrslur af þessum vitnum og var það gert fljótlega eftir atburði ef frá er talin skýrsla B, sem búsettur var að [...], en sú skýrsla var tekin þremur og hálfu ári eftir atburði. Af þeirri skýrslu verður þó ekki ráðið að sá dráttur hafi komið að sök því að vitnið lýsti af nákvæmni atvikum í íbúðinni þar sem áfrýjandi var handtekinn. Aðrir voru ekki vitni að þeim atburði nema þeir lögreglumenn sem höfðu afskipti af áfrýjanda. Einnig voru færðar upplýsingar um málið í dagbók lögreglu en þar eru atvik rakin og frásögn lögreglumanns af atburðum. Þar kemur meðal annars fram að sá lögreglufulltrúi sem hafði málið til meðferðar ræddi dagana á eftir við foreldra áfrýjanda og aflaði upplýsinga frá Landspítalanum þar sem hann var til meðferðar. Eins og áður er rakið var fært í dagbók lögreglu 21. maí 2011 að nafngreindur hjartalæknir hefði haft samband við lögreglu og lýst alvarlegu ástandi áfrýjanda. Var haft eftir lækninum að áfrýjandi væri með vöðvarof, sem leysi efni út í blóðrásina er stífli nýrun, en það hefði valdið hjartastoppi. Þá hefði komið fram hjá lækninum að áfrýjandi hefði ekki verið með áverka sem skýrt gætu ástand hans og ekkert benti til þess að átök lögreglunnar við hann hefðu nokkuð með ástand hans að gera. Eins og málið lá fyrir samkvæmt framansögðu voru að þágildandi lögum ekki efni til að ráðast í frekari rannsókn á því og þá sérstaklega aðgerðum lögreglu í tilefni þess að hún var kölluð til í því skyni að hafa afskipti af áfrýjanda. Jafnframt er með hliðsjón af því sem fram hefur komið nægjanlega upplýst hver var aðdragandinn að handtökunni og hvernig staðið var að framkvæmd hennar. Aftur á móti hefur ekki með ítarlegum matsgerðum tekist að leiða í ljós læknisfræðilegar ástæður þess að áfrýjandi fékk við handtökuna krampa, hætti að anda og hjarta hans stöðvaðist og hvort handtakan hafi haft þar áhrif. Að þessu gættu eru ekki rök til að slaka á kröfum til sönnunar eða láta stefnda bera hallann af því að ekki hefur tekist að leiða í ljós orsakatengsl milli handtökunnar og líkamstjóns áfrýjanda. 4 Samkvæmt öllu framansögðu ber að staðfesta þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að ekki sé fullnægt skilyrðum til að taka til greina kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda vegna líkamstjónsins sem áfrýjandi hlaut 11. maí 2010 þar sem orsakatengsl milli handtöku lögreglu og tjónsins eru ósönnuð. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað verður staðfest. Um málskostnað og gjafsóknarkostnað hér fyrir dómi fer eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 2.000.000 króna.   Dómur Landsréttar Mál þetta dæma landsréttardómararnir Ragnheiður Harðardóttir og Sigurður Tómas Magnússon og Guðjón Karlsson hjartalæknir. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 19. febrúar 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2019 í málinu nr. E-3561/2015. 2        Áfrýjandi krefst þess að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og breytt á þann veg að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna þess varanlega líkamstjóns sem hann hafi orðið fyrir við handtöku 11. maí 2010. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. 3        Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti. Málsatvik og sönnunarfærsla 4        Með dómi Hæstaréttar 1. nóvember 2018 í máli nr. 851/2017 var dómur sem kveðinn hafði verið upp í máli þessu í héraði 8. desember 2017 ómerktur og því vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. 5        Af hálfu áfrýjanda hafa verið lögð fram fyrir Landsrétti ýmis ný gögn. Meðal þeirra er svarbréf Neyðarlínunnar 23. maí 2019 við fyrirspurn áfrýjanda vegna útkalls 11. maí 2010 en í bréfinu kemur fram að klukkan 11:46 þann dag hafi verið hringt í númerið 112 og tilkynnt um blóðugan mann sveiflandi golfkylfu við [...] en í kjölfarið hafi sjúkrabifreið verið send á staðinn og fjarskiptamiðstöð lögreglu gert viðvart. Þremur mínútum síðar hafi sami aðili hringt aftur og upplýst að sami maður hefði fært sig í áttina að leikskóla á svæðinu og hafi þeim sem hringdi verið gefið samband við fjarskiptamiðstöð lögreglu. 6        Þá hafa af hálfu áfrýjanda verið lögð fram ýmis gögn úr sjúkraskrá hans frá 11. til 15. maí 2010. Einnig bréf lögmanns áfrýjanda til Landspítala og læknaráðs spítalans 16. maí 2019 með fyrirspurn og kvörtunum vegna færslna um áfrýjanda í sjúkraskrá og svarbréf nefndar Landspítalans um aðgang að sjúkraskrárupplýsingum 19. september 2019. 7        Jafnframt hefur af hálfu áfrýjanda verið lagt fram erindi lögmanns hans til nefndar um eftirlit með störfum lögreglu 14. maí 2019. Í erindinu var meðal annars kvartað yfir því að áfrýjandi fengi ekki svör við fyrirspurnum sínum varðandi verklag vegna atvika sambærilegra því þegar hann fékk hjartastopp við handtöku og hvort viðunandi rannsókn hefði farið fram á því. Þá var kvartað yfir ósamræmi í skýrslu lögreglu vegna handtökunnar og að rannsóknin hefði ekki verið unnin af hlutlausum rannsóknarmönnum. Loks hefur áfrýjandi lagt fram ákvörðun nefndarinnar vegna erindisins 18. september 2019. Í ákvörðuninni kemur meðal annars fram að nefndin taki ekki afstöðu að svo stöddu til athugasemda áfrýjanda eða hvort tilefni sé til þess að hefja meðferð máls í tilefni þeirra. Það væri hlutverk viðkomandi lögreglustjóra að taka erindið til meðferðar og væri erindið í heild sent til meðferðar og afgreiðslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu með vísan til 3. mgr. 35 gr. a í lögreglulögum nr. 90/1996. Nefndin tók fram að ef vísbendingar kæmu fram um það undir meðferð málsins hjá því embætti að háttsemi lögreglumanna sem kvörtunin lyti að kynni að vera refsiverð bæri þegar í stað að senda erindið til meðferðar héraðssaksóknara og var um það vísað til ákvæða 35. gr. a og b í lögreglulögum. 8        Í undirbúningsþinghaldi í Landsrétti 28. október 2019 lagði lögmaður áfrýjanda fram bókun þar sem meðal annars kom fram að áfrýjandi beindi því til Landsréttar að stefndi legði fram það skjal sem hann hefði tilgreint í bréfi til Hæstaréttar sem hefði að geyma reglur um hvernig fara skuli með útköll vegna sjúklinga á spítölum og nauðungarvistun. Jafnframt að ef stefndi yrði ekki við því yrði afstaða hans tekin til úrskurðar í Landsrétti, sbr. 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991. 9        Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti svaraði lögmaður stefnda efni bókunarinnar á þá leið að fyrirspurn lögmanns áfrýjanda um reglur sem þar væri vísað til hefði verið svarað með fullnægjandi hætti í umræddu bréfi til Hæstaréttar í tengslum við rekstur málsins nr. 851/2017 og þar hafi verið vísað til reglna um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna sem lögð hefðu verið fram í málinu af áfrýjanda sjálfum. Ekki væru til aðrar reglur um handtöku sem ættu við í máli þessu eins og fram kæmi í bréfinu. Niðurstaða 10       Áfrýjandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni af völdum ólögmætrar og harkalegrar handtöku lögreglunnar 11. maí 2010 og að stefndi beri bótaábyrgð á því, annars vegar á grundvelli almennu skaðabótareglunnar og hins vegar á grundvelli hlutlægrar ábyrgðarreglu 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. 11       Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna 10. september 2014, sem ekki hefur verið hnekkt með yfirmati, voru afleiðingar af hjartastoppi áfrýjanda 11. maí 2010 meðal annars 100% varanleg örorka og varanlegur miski sem metinn er til 100 stiga. Með vísan til þess og forsendna hins áfrýjaða dóms þykir ekki tilefni til að vísa málinu frá héraðsdómi á þeim grundvelli að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af málsókninni í skilningi 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 12       Af hálfu áfrýjanda er byggt á því að handtakan hafi verið ólögmæt þar sem skilyrði 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 til handtöku hafi ekki verið uppfyllt. 13       Í skaðabótamálum er það meginreglan að tjónþoli ber sönnunarbyrði um þær staðreyndir sem hann byggir bótaábyrgð meints tjónvalds á og um að skilyrði bótaábyrgðar hans séu uppfyllt. Enda þótt áfrýjandi beini bótakröfu að stefnda vegna starfa lögreglumanna verður sönnunarreglum laga nr. 88/2008 og dómaframkvæmd í sakamálum um sönnunargildi lögregluskýrslna og framburðar lögreglumanna ekki beitt í máli þessu. 14       Með bréfi Neyðarlínunnar 23. maí 2019 og öðrum gögnum málsins þykir upplýst að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út klukkan 11:46 að morgni þriðjudagsins 11. maí 2010 vegna manns sem talinn var blóðugur og vopnaður golfkylfu við [...]. Þá liggur fyrir að lögregla handtók áfrýjanda í kjölfarið þar sem hann var í sturtu í íbúð í fjöleignarhúsinu að [...]. 15       Um aðdraganda þess að áfrýjandi var handtekinn 11. maí 2010 hafa málsaðilar vísað til lögregluskýrslna sem ritaðar voru um handtökuna og aðdraganda hennar svo og til gagna úr sjúkraskrá áfrýjanda. Lögregluskýrslurnar hafa meðal annars að geyma endursögn lögreglu af framburði nágranna áfrýjanda þar sem þeir lýsa samskiptum við áfrýjanda þennan dag. Einnig er í þeim endursögn af framburði C, vinar áfrýjanda, sem kom að [...] um hádegisbil umræddan dag og B sem var húsráðandi í íbúðinni þar sem áfrýjandi var handtekinn. Við mat á sönnunargildi umræddra lögregluskýrslna er til þess að líta að þær voru liður í rannsókn á því að húsbúnaði var kastað út úr íbúð sem ætlað var að áfrýjandi hefði dvalið í, á fjórðu hæð í fjölbýlishúsi, og háttsemi manns sem samkvæmt framburði sjónarvotta kom út úr þessu sama húsi ber að ofan og æstur og ógnaði nágranna með golfkylfu. Það sem haft er eftir þremur íbúum í umræddu fjöleignarhúsi um ástand mannsins þegar hann kom út úr húsinu og athafnir hans í framhaldinu samræmist frásögn B hjá lögreglu 3. desember 2013 og síðar fyrir dómi um ástand áfrýjanda þegar hann kom að glugga í íbúð hans og síðan inn í íbúðina. Það sem haft er eftir C, vini áfrýjanda, í lögregluskýrslu bendir til þess að áfrýjandi hafi verið í miklu andlegu ójafnvægi kvöldið áður. Með hliðsjón af ályktunum sem dregnar verða af gögnum málsins um aðdraganda að handtöku áfrýjanda þykir það hafa staðið honum nær en stefnda að leiða þá sem lögregla tók skýrslu af fyrir dómi til að hnekkja því sem fram kom í lögregluskýrslunum. Lögregluskýrslurnar teljast því hafa talsvert sönnunargildi í málinu, þar á meðal framburður vitna sem þar kemur fram. 16       Þegar litið er heildstætt til allra framangreindra sönnunargagna verður að leggja til grundvallar að þegar lögregla kom að íbúð B að [...] hafi legið fyrir rökstuddur grunur um að áfrýjandi hefði verið valdur að eignaspjöllum og skapað hættu fyrir íbúa hússins [...] með því að kasta húsbúnaði niður á jörð úr íbúð á fjórðu hæð hússins, hefði ógnað íbúa hússins með golfkylfu og væri á hlaupum um hverfið með golfkylfu, fáklæddur, blóðugur og í andlegu ójafnvægi. 17       Samkvæmt framansögðu er ekkert fram komið sem haggar því mati lögreglumanna sem þeir greindu frá fyrir dómi að vegna þeirra upplýsinga sem þeir höfðu um meinta háttsemi áfrýjanda og ástand hafi verið fullt tilefni til að handtaka hann til að tryggja öryggi hans og annarra, enda voru skilyrði handtöku samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 ótvírætt uppfyllt. 18       Þá byggir áfrýjandi á því að lögreglu hafi verið óheimilt að opna sér leið inn á baðherbergið þar sem hann hafi verið handtekinn en skýra verði undantekningarákvæði 2. mgr. 75. gr. laga nr. 88/2008 þröngt. 19       Vitnið B bar fyrir héraðsdómi í sérstöku vitnamáli 30. september 2015 að þegar lögreglumenn knúðu dyra að [...] í umrætt sinn hafi hann tjáð þeim að áfrýjandi væri í andlegu uppnámi. Lögregla hafi kallað strax á liðsauka og „fóru svo bara inn. Ég bað þá svona helst um að vera ekki að koma inn, en þeir gerðu það nú samt.“ Fyrir héraðsdómi við síðari aðalmeðferð málsins bar hann að lögreglumennirnir hefðu boðið sér sjálfir inn. Fjórir þeirra lögreglumanna sem tóku þátt í að handtaka áfrýjanda umræddan dag gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Tveir þeirra báru á þann veg að húsráðandi hefði leitað aðstoðar þeirra vegna áfrýjanda og sagt að hann væri í sturtu og hefði farið inn í húsið í óleyfi en einn þeirra bar að húsráðandinn hefði hleypt lögreglumönnunum inn. Af framburði lögreglumannanna og B verður ráðið að hann hafi upplýst lögreglumennina um hvar áfrýjandi væri staddur, hvernig komu hans í íbúðina hefði borið að og hvað hann væri að gera. Ekki verður ráðið af framburði B að hann hafi mótmælt eða gefið skýrt til kynna að hann væri mótfallinn því að lögreglumennirnir færu inn í íbúðina og hefðu afskipti af áfrýjanda. Við þessar aðstæður verður því ekki talið að handtaka áfrýjanda hafi verið ólögmæt á þeim grundvelli að lögreglu hafi skort húsleitarheimild. 20       Af hálfu áfrýjanda er því jafnframt haldið fram að handtakan hafi ekki farið fram í samræmi við þá meðalhófsreglu sem fram komi í 2. mgr. 93. gr. laga nr. 88/2008. Allir þeir lögreglumenn sem að handtökunni hafi staðið hafi gert sér grein fyrir því að áfrýjandi væri í geðrofi þegar hann var settur í handjárn og fótbensli. Af hálfu áfrýjanda er jafnframt bent á að í 4. gr. reglna um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja komi fram að handjárna megi handtekinn mann svo sem ef hætta er á að hann muni beita ofbeldi, valda sjálfum sér og öðrum tjóni eða öryggi hans verði ekki tryggt með öðrum hætti. Þessi skilyrði hafi ekki verið uppfyllt. Þá er byggt á því að lögmaður stefnda hafi vísað til þess að ákveðnar reglur giltu þegar geðsjúkir einstaklingar væru handteknir eða nauðungarvistaðir og að með vísan til þess hafi lögregla átt að fá aðstoð þeirra sjúkraliða sem mættir voru á vettvang til að sprauta áfrýjanda niður og færa undir læknishendur en það hafi verið raunhæfur möguleiki. Stefndi hafi ekki orðið við áskorun um að leggja þessar reglur fram og verði því að bera hallann af því að hafa ekki upplýst hvaða fyrirmæli þær hafi að geyma um handtöku. Af hálfu stefnda hefur verið vísað til þess að um handtöku gildi reglur sem lagðar hafi verið fram í málinu af áfrýjanda sjálfum og lögreglumenn sem handtóku áfrýjanda hafi fylgt þeim reglum. Af hálfu stefnda hefur því sem fyrr segir verið lýst yfir að ekki séu til aðrar reglur um handtöku sem átt hafi við í tilviki áfrýjanda. 21       Í 2. mgr. 93. gr. laga nr. 88/2008 kemur fram sú meðalhófsregla að við handtöku skuli forðast að valda hinum handtekna tjóni eða baka honum meiri óþægindi en nauðsyn beri til. Þess beri jafnframt að gæta eftir föngum að hann geti ekki unnið sjálfum sér eða öðrum tjón. 22       Með auglýsingu í B-deild stjórnartíðinda 5. febrúar 2015 með númerinu 156/2015 voru birtar reglur sem þáverandi dómsmálaráðherra setti 22. febrúar 1999 um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna, samkvæmt heimild í 3. gr. vopnalaga nr. 16/1998, ásamt skýringum. Í auglýsingunni kom fram að birting reglnanna hefði verið ákveðin að höfðu samráði við ríkislögreglustjóra. Í 4. gr. reglnanna er fjallað um handjárn og segir þar í 1. mgr. að handjárn skuli nota á handtekinn mann eða fanga sé ástæða til að ætla að hann muni reyna flótta, beita ofbeldi eða valda sjálfum sér eða öðrum tjóni. Í 2. mgr. segir að handjárn skuli nota ef hinn handtekni eða fanginn er æstur eða órólegur eða ætla megi að öryggi hans eða annarra verði ekki tryggt með öðrum hætti. Í 5. gr. reglnanna segir að um heimild og notkun bensla gildi sömu reglur og um handjárn og að aðeins skuli fjötra mann á fótum með benslum ef rík ástæða er til svo sem ef hann er það æstur eða órólegur að hann sé sjálfum sér eða öðrum hættulegur. Í skýringum með reglunum koma meðal annars fram þær athugasemdir við 4. gr. að gæta skuli þess að handjárnaður maður, eða fjötraður á annan hátt, hafi að nokkru leyti verið sviptur getu til sjálfsbjargar, t.d. ef hann dettur og því þurfi lögreglumaður að vera meðvitaður um að hann beri ábyrgð á því að hann skaðist ekki. 23       Ekkert er fram komið í málinu sem gefur tilefni til að ætla að þegar áfrýjandi var handtekinn hafi verið til sérstakar reglur sem lögreglumönnum hafi borið að fara eftir sem mæltu fyrir um að við handtöku geðsjúkra einstaklinga skyldi kalla til sjúkraliða til að sprauta þá niður og færa undir læknishendur. Ekkert tilefni er til að leggja sönnunarbyrði á stefnda um að reglur þess efnis séu ekki til. Þótt ótvírætt sé að áfrýjandi hafi verið í annarlegu ástandi þegar hann var handtekinn og það hafi verið ein af ástæðum handtökunnar verður heldur ekki séð að lögreglumönnum hafi mátt vera ljóst að áfrýjandi væri í geðrofi. Því síður verður sú ályktun dregin að koma hefði mátt í veg fyrir handtökuna ef sjúkraliði hefði verið kominn á staðinn þegar áfrýjandi var handtekinn þar sem nauðsynleg forsenda fyrir aðkomu sjúkraliða að því að „sprauta áfrýjanda niður“ hlaut að vera að búið væri að handtaka hann áður. 24       Hins vegar verður að líta svo á að lögreglumönnum þeim sem handtóku áfrýjanda hafi við handtökuna og notkun handjárna og bensla borið að fara eftir fyrrnefndum reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna sem dómsmálaráðherra setti 22. febrúar 1999, enda má ætla að lögreglumönnum hafi verið reglurnar aðgengilegar þótt þær hefðu ekki verið birtar opinberlega fyrr en á árinu 2015. 25       Samkvæmt lögregluskýrslu sem rituð var 11. maí 2010 báru tveir íbúar í fjöleignarhúsinu að [...] um það að maður hefði komið út úr húsinu ber að ofan. Þeir hafi lýst því að hann hafi virst blóðugur þar sem hann hafi verið ataður einhverju rauðu, öskrað eitthvað út í loftið, sveiflað golfkylfu og verið í mjög annarlegu ástandi. Hann hafi síðan hlaupið í átt að [...]. Formlegar skýrslur voru síðar teknar af íbúum hússins, þeim D, E og F, í nóvember 2010. Lýstu þau því hvernig húsbúnaði hefði verið kastað út um glugga á íbúð á fjórðu hæð hússins og niður á pall og grasflöt fyrir neðan. Þá báru þau að ungur maður sem byggi í húsinu hefði komið út ber að ofan, sprautað á sig næringargeli, sótt golfkylfu í bifreið og sveiflað henni. Maðurinn hafi verið í annarlegu ástandi og virst undir miklum áhrifum fíkniefna. Hann hafi öskrað, meðal annars að allt væri að fara til fjandans, og beðið um að ekki yrði hringt á lögregluna. Þessum lýsingum ber saman við lýsingar B í lögregluskýrslu og fyrir héraðsdómi á ásigkomulagi áfrýjanda þegar hann kom nakinn að glugga á íbúð hans og makaði á hann geli. B bar að áfrýjandi hefði virst með sár á hálsi en komið hafi í ljós að hann hefði makað á sig rauðu geli. Áfrýjandi hafi verið órólegur en hann hefði komið áfrýjanda í sturtu hjá sér og hefði hann róast. Í skýrslu sem lögregla tók af B 3. desember 2012 og hann staðfesti við síðari aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi að væri í samræmi við það sem hann myndi eftir af atburðum, bar hann að þegar lögregla hefði komið í íbúðina hefði áfrýjandi verið farinn að kalla í sturtunni og greinilega verið í miklu andlegu uppnámi. Nánar spurður um ástand áfrýjanda svarði hann: „Hann var örvinglaður og hræddur. Hann var mjög æstur og erfitt að ná tengingu við hann. Nánast eins og hann sé ekki á staðnum. Mér fannst hann mjög ör en hann var ekki ógnandi.“ 26       Fjórir af lögreglumönnunum sex sem komu að handtöku áfrýjanda í baðherbergi íbúðarinnar að [...] gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Af framburði þeirra og B er ljóst að þeir opnuðu baðherbergisdyrnar utan frá og fóru inn þar sem áfrýjandi var í sturtu. Tveir þeirra báru að áfrýjandi hefði öskrað og lamið í veggi í sturtuklefanum og út í loftið, snúið sér í hringi og verið sturlaður, sá þriðji að áfrýjandi hefði stutt sig við vegginn og sá fjórði að hann hefði haldið um höfuð sér og andað frekar ört. Þeim ber öllum saman um að þeir hafi reynt að tala áfrýjanda til en ekki hafi verið unnt að ná neinu sambandi við hann þar sem hann var í sturtunni og að hann hefði engin viðbrögð sýnt þegar þeir reyndu að ná sambandi við hann. Einn lögreglumannanna bar þannig fyrir dómi: „og þar var hann í mjög slæmu ástandi, hann var trylltur eða sturlaður og lét öllum illum látum og og öskraði óstjórnlega og engu sambandi hægt að ná við hann og við reyndum að tala við hann og fá hann til að ræða við okkur og koma til okkar og spjalla við okkur, en það, það gagnaði ekki neitt. Það var bara eins og hann væri bara í öðrum heimi.“ Lögreglumennirnir báru að baðherbergið hefði verið þröngt og glerþil við sturtuna. Þeir hafi metið aðstæður þannig að nauðsynlegt væri í ljósi ástands áfrýjanda og þess sem á undan hafði gengið að handtaka hann í sturtunni til að tryggja öryggi, hans og annarra. Þá ber þeim öllum saman um að handtakan hafi verið framkvæmd með þeim hætti að tveir lögreglumenn hafi tekið hvor í sinn handlegg áfrýjanda þar sem hann sneri baki í þá, dregið hann aftur á bak út úr sturtuklefanum og lagt hann á gólfið. Áfrýjandi hafi þá tryllst eða sturlast þannig að þeir hafi neyðst til að leggja hann á baðherbergisgólfið og handjárna hann fyrir aftan bak. Þar sem áfrýjandi hafi verið sturlaður, látið ófriðlega og sparkað frá sér hafi þeir einnig benslað fótleggi hans. 27       B bar fyrir héraðsdómi að eftir að lögreglumennirnir hefðu komist inn hefðu þeir reynt „eitthvað í smá stund að tala við hann í gegnum hurðina og hann ansaði ekki, þá fóru þeir inn og tóku hann, tóku hann tökum“. Í fyrrnefndri lögregluskýrslu eru eftirfarandi ummæli höfð eftir honum: „Ég hálfsé inn um dyragættina. Þeir voru eitthvað búnir að reyna að tala við hann en það hafði ekki virkað. Þeir fara inn og taka hann, ég sé ekki þau átök en heyri meira lætin.“ 28       Af framburði lögreglumannanna og B verður ráðið að áfrýjandi hafi enn verið æstur og í annarlegu ástandi þegar lögregla kom í íbúðina að [...] og er ekkert fram komið sem haggar því mati lögreglumannanna að við þær aðstæður sem uppi voru hafi verið eðlilegt að standa að handtökunni með þeim hætti sem gert var. 29       Í lögregluskýrslu sem tekin var af B 3. desember 2013 er sem fyrr segir haft eftir honum að hann hafi hálfséð inn um dyrnar inn á baðherbergið. Hann hafi ekki séð átökin þegar áfrýjandi var tekinn en heyrt meira lætin. „Ég hins vegar sé hann þegar hann er í handjárnum liggjandi á gólfinu og sé einn lögreglumann með hnéið í bakinu á manninum og er að setja hann í handjárn. Ég hafði séð þegar hann féll í gólfið, en lögreglan ætlaði að setja hann í gólfið en það var meira eins og hann lyppaðist í gólfið, eins og kerfið í honum hafi slökkt á sér.“ Eftir það hafi hann veitt því athygli að áfrýjandi hreyfði sig ekki og hafi hann því beðið lögreglu að fara að hnoða áfrýjanda. Í framhaldinu hafi sjúkrabifreið komið og sjúkraliðar drifið sig inn með öll sín tæki og tól. Lögreglan hafi þá dregið áfrýjanda fram á gang og verið með hann í lærahæð en áfrýjandi verið háll og lögreglumenn misst takið þannig að hann hafi skollið niður á gólf og hnakkinn lent á flísalögðu gólfinu en þá hafi hann þegar verið meðvitundalaus. Sjúkraliðarnir hafi eftir það tekið við lífgunartilraunum. Síðar í skýrslunni er ritað eftir honum þegar hann er spurður hvort eitthvað sem hann hafi séð til lögreglu hafi valdið því að áfrýjandi missti meðvitund: „Nei ekkert sem ég sá. Þeir voru ekki að reyna að meiða manninn, þeir voru að reyna að ná honum með góðu en þó með valdi. Ég sá engan slá til hans eða neitt þannig.“ Við síðari aðalmeðferðina fyrir héraðsdómi bar B: „Sko eins og ég man þetta, þá var eins og hann missti mátt við handtökuna og lyppaðist í gólfið og þaðan fór lögreglan ofan á hann til þess að bensla hann.“ Þá bar hann að lögregla hefði beðið hann um að hafa þögn og sitja. Að öðru leyti var framburður B um málsatvik svipaður og haft var eftir honum í lögregluskýrslunni. Enginn lögreglumannanna kannaðist við að hafa sett hné í bakið á áfrýjanda þegar hann var handtekinn og lagður á gólfið í baðherberginu en einn þeirra bar fyrir héraðsdómi að lögreglumennirnir hefðu þurft að halda honum niðri. Annar þeirra bar fyrir dómi að þegar búið hafi verið að leggja áfrýjanda á gólfið hefði hann haldið áfram að reyna að sparka í þá og frá sér. Hann hafi þá kropið á gólfinu hjá áfrýjanda og haldið við hann þannig að hann gæti ekki snúið sér við. Í kjölfarið hafi áfrýjandi fengið krampa og byrjað að kasta upp og hafi hann þá sett áfrýjanda á hliðina en þetta hafi gerst tiltölulega fljótt. Síðan hafi hann heyrt að áfrýjandi hafi hætt að anda og hann þá strax athugað með púls hans. Hann hafi ekki fundið púls og þá losað um handjárnin og byrjað endurlífgun. Þá hafi verið búið að kalla á sjúkrabifreið. Einn lögreglumannanna sem gaf skýrslu vildi ekki útiloka að þeir hefðu misst áfrýjanda í gólfið þegar þeir báru hann út af baðherberginu, hinir könnuðust ekki við það. Sá lögreglumaður bar hins vegar að þegar lögreglumennirnir hefðu verið komnir með áfrýjanda inn á ganginn fyrir framan baðherbergið hafi áfrýjandi legið á bakinu og þá hafi hann horft á „slokkna á honum“. Hann lýsti því nánar svo: „sé að það réttist úr, hann svona spennist allur upp og réttist úr ristunum á honum og svo bara er eins og að tappinn sé tekinn úr, eða já svo slokknar á honum í framhaldinu af því.“ Umræddur lögreglumaður bar þó að baðherbergið hefði verið lítið og hann minnti að hann „hafi nú bara farið fram til þess að búa til pláss fyrir mennina sem voru að eiga við hann og svo komu þeir með hann fram“. Hinir þrír lögreglumennirnir báru á annan veg. G lýsti aðstæðum við handtökuna þannig: „Það var bleyta út um allt og það var, þetta var mjög þröngt og við hefðum, það var mjög sleipt þarna. Þannig að ég mundi segja að við pössuðum, við vorum þrír, höfðum góða stjórn á honum allan tímann. Þannig að þetta, við misstum aldrei, við misstum aldrei stjórn á handtökunni, þannig að ég mundi segja að hún hafi verið eðlileg að öllu leyti miðað við aðstæður.“ H lögreglumaður lýsti handtökunni hins vegar svo: „en ég man að hann var bara sem sagt færður í tök, við reyndum að tryggja handleggi og hann svona braust um og þá rann hann á gólfið og þar hélt handtakan áfram og hann svona sparkaði í okkur líka og þá var ákveðið að kasta á fæturna og tryggja þær og okkur.“ 30       Nokkuð erfitt er að meta hvað B sá í raun af því sem gerðist inni á baðherberginu en hann var ekki þar inni þegar atburðirnir áttu sér stað heldur sá hann hluta af atburðarásinni inn um baðherbergisdyrnar þar sem að minnsta kosti fjórir lögreglumenn og áfrýjandi voru staddir. Hann kvaðst ekki hafa séð þegar lögreglumennirnir tóku áfrýjanda tökum en hins vegar þegar hann var færður í handjárn. 31       Við mat á sönnunargildi framburðar lögreglumannanna fjögurra verður að líta til 59. gr. laga nr. 91/1991 og þess að þeir voru starfsmenn stefnda og gætu auk þess haft nokkra hagsmuni af úrslitum málsins. Þá var talsvert ósamræmi í framburði þeirra um nokkur atriði og þá yfirleitt þannig að einhver einn þeirra bar á annan hátt en hinir þrír um einstök atriði. Við mat á framburði þeirra verður jafnframt að líta til þess að þröngt var á baðherberginu og þeir voru ekki allir þar inni samtímis. Þá var mjög langt um liðið frá atburðum þegar þeir gáfu skýrslu fyrir dómi. Við mat á sönnunargildi framburðar vitnisins B er hins vegar til þess að líta að ekki hefur verið sýnt fram á að hann hafi nein tengsl við áfrýjanda eða hagsmuni af úrslitum málsins. Hins vegar var hann ekki inni á baðherbergi þegar áfrýjandi var tekinn tökum en sá hluta atburða inn um dyrnar á baðherberginu þar sem fjöldi lögreglumanna var auk áfrýjanda. Þá bar hann sjálfur að hafa vikið frá til að hleypa sjúkraliðum inn í íbúðina. 32       Í innlagnarnótu á gjörgæsludeild 11. maí 2010 var ritað að áfrýjandi hefði við komu þangað verið með rispur á öxlum og kvið en ekki önnur áverkamerki. Læknisfræðileg gögn benda því ekki til þess að áfrýjandi hafi fengið áverka eftir fall við eða eftir handtökuna eða að valdbeiting lögreglu hafi farið fram með harkalegum hætti. 33       Þegar framburður lögreglumannanna fjögurra fyrir dómi er virtur heildstætt og borinn saman við framburð vitnisins B verður helst ráðið að tveir lögreglumenn hafi tekið hvor í sinn handlegg áfrýjanda þar sem hann sneri baki við þeim í sturtunni og ætlað að taka hann þannig aftur á bak. Áfrýjandi hafi hins vegar barist um, mögulega runnið til þegar hann var lagður á baðherbergisgólfið. Áfrýjandi hafi verið færður í handjárn liggjandi á grúfu og haldið þar niðri. Fyrir liggur að sett voru bensli á fætur áfrýjanda þar sem hann sparkaði frá sér og verður að ætla að það hafi verið eftir að hann var færður í gólfið. Frásögn B um að hann hafi séð áfrýjanda lyppast í gólfið inni á baðherberginu og að slokknað hafi á honum samrýmist ekki þeirri frásögn hans að hann hafi ekki séð þegar lögreglan tók áfrýjanda tökum og að atburðarásin hafi tekið mjög skamman tíma. Með hliðsjón af því og að teknu tilliti til framburðar allra fjögurra lögreglumannanna verður að leggja til grundvallar að áfrýjandi hafi hætt að anda og farið í hjartastopp liggjandi á grúfu inni á baðherberginu eftir að hann hafði verið færður í handjárn og fótbensli. Af framburði B og þriggja lögreglumanna verður ráðið að þegar áfrýjandi hætti að anda og hjartsláttur stöðvaðist hafi verið losað um handjárn, hann settur á bakið og lögreglumaður byrjað hjartahnoð inni á baðherberginu. Er það í samræmi við framburð eins lögreglumannanna þriggja og verður það lagt til grundvallar. Síðan hafi bráðaliðar komið á vettvang með sjúkrabifreið og tekið við lífgunartilraunum. Þrír lögreglumannanna báru að áfrýjandi hefði verið færður úr baðherberginu fram á gang meðan á lífgunartilraunum stóð en sá fjórði bar að allar lífgunartilraunir hefðu farið fram inni á baðherberginu. Frásögn eins lögreglumanns styður framburð B um að áfrýjandi kunni að hafa fallið á gólfið og lent á hnakkanum þegar hann var borinn fram á gang. Um það atriði er hins vegar til þess að líta að þegar framburður lögreglumannanna og B er virtur heildstætt þykir ljóst að þetta ætlaða atvik hafi ekki átt sér stað fyrr en eftir að hjarta áfrýjanda stöðvaðist og endurlífgunartilraunir voru hafnar. 34       Af hálfu áfrýjanda hefur verið vísað til þess að gögn málsins séu misvísandi um það hversu lengi endurlífgun hafi staðið yfir áður en hjarta áfrýjanda byrjaði að slá á ný en ýmist hafi verið skráð að endurlífgun hafi tekið 20 eða 25 mínútur. Þar sem fyrir liggur að sjúkraliðar komu á vettvang mjög skömmu eftir að hjarta áfrýjanda stöðvaðist og tóku við endurlífgun af lögreglumönnum, sem ekki höfðu eftir það afskipti af endurlífgun og læknismeðferð áfrýjanda, verður ekki séð að umrætt vafaatriði hafi nokkra þýðingu við úrlausn þess hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð á heilsutjóni áfrýjanda. 35       Með vísan til þess að við komu áfrýjanda á sjúkrahús fundust engir áverkar á honum sem bent gætu til þess að valdbeitingu umfram það sem nauðsynlegt var hafi verið beitt við handtöku hans svo og framburðar B og lögreglumannanna fyrir héraðsdómi er ekkert fram komið sem bendir til annars en að við handtökuna hafi verið viðhaft það meðalhóf sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 93. gr. laga nr. 88/2008. Þá bendir heldur ekkert til annars en að við handtökuna og notkun handjárna og fótbensla hafi lögreglumenn fylgt ákvæðum 4. og 5. gr. fyrrnefndra reglna um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna sem dómsmálaráðherra setti 22. febrúar 1999. Jafnframt er ekki annað í ljós leitt en að lögreglumennirnir hafi gert allt, sem hægt var að ætlast til af þeim miðað við aðstæður, til þess að tryggja að áfrýjandi skaðaðist ekki við handtökuna. 36       Áfrýjandi hefur því ekki sýnt fram á að lögreglumennirnir hafi við handtökuna brotið gegn lögum eða verklagsreglum sem um slíka valdbeitingu gilda og ekki heldur sýnt fram á að þeir hafi ekki gætt nauðsynlegs meðalhófs við handtökuna eða að háttsemi þeirra geti með öðrum hætti talist saknæm. 37       Ekki verður því fallist á kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda á varanlegu líkamstjóni áfrýjanda á grundvelli almennu skaðabótareglunnar. 38       Sem fyrr segir reisir áfrýjandi kröfu sína um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda jafnframt á 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008, áður 3. mgr. 228. gr. laganna. Í ákvæðinu segir meðal annars að hafi maður ekki verið borinn sökum í sakamáli eigi hann engu að síður rétt til bóta ef hann hefur beðið tjón af þeim aðgerðum sem taldar eru upp í 2. mgr. greinarinnar. Í 2. mgr. segir að dæma skuli bætur vegna aðgerða samkvæmt IX.-XIV. kafla laganna en ákvæði XIII. kafla eiga við um handtöku. Þótt áfrýjandi hafi öðrum þræði verið handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi og hann þannig haft stöðu sakbornings við handtökuna liggur fyrir að lögregla hefur ekki tekið af honum skýrslu sem sökuðum manni. Í gögnum málsins kemur jafnframt fram að löglærður fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefði síðar tekið ákvörðun um að hætta rannsókn málsins en sú ákvörðun virðist ekki hafa verið kynnt áfrýjanda. Af hálfu stefnda hafa ekki verið gerðar athugasemdir við að bótaskylda hans geti verið reist á 3. mgr. 246. gr. og verður leyst úr málinu á þeim grundvelli, enda enginn efnislegur munur sem hér skiptir máli á bótarétti handtekins manns samkvæmt því ákvæði og 1. mgr. greinarinnar sem fjallar um bótarétt þess sem hefur verið borinn sökum í sakamáli en í því ákvæði er einnig vísað til 2. mgr. Í báðum tilvikum gildir sú regla að fella má niður bætur eða lækka þær ef bótakrefjandi hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. 39       Eins og fram kemur í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli þessu er það frumskilyrði þess að bótaskylda verði felld á stefnda að tjón liggi fyrir í skilningi skaðabótaréttar og að orsakatengsl teljist sönnuð milli þess tjóns áfrýjanda og hinnar ætluðu skaðabótaskyldu háttsemi starfsmanna stefnda. 40       Til þess að orsakatengsl teljist vera milli atburðar og tjóns þannig að til bótaábyrgðar leiði er þess að jafnaði krafist að atburðurinn hafi verið nauðsynlegt skilyrði fyrir tjóninu. Þess er hins vegar ekki krafist að orsök sé nægjanlegt skilyrði tjóns. Þegar metið er hvort orsakasamband sé til staðar í þessum skilningi eru þannig bornar saman tvær atburðarásir, önnur með umræddum atburði og hin án hans. Ef niðurstaða þessa samanburðar er sú að sýnt þyki að tjónið hefði orðið þótt hinn umræddi atburður hefði ekki verið liður í atburðarásinni teljast orsakatengsl í þessum skilningi ekki til staðar milli atburðarins og tjónsins og þar af leiðandi ekki um að ræða bótaskyldu þess sem ber ábyrgð á atburðinum þótt hann kunni að teljast viðbótarorsök. 41       Ef hins vegar þykir sýnt að fleiri en einn atburður eða ástand hafi átt þátt í tjóni og tjónið hefði ekki orðið nema fyrir samspil þessara orsakaþátta geta þeir sem ábyrgð bera á þeim þáttum borið óskipta bótaábyrgð á tjóninu. 42       Samkvæmt því sem rakið hefur verið hér að framan þykir sannað að hjarta áfrýjanda hætti að slá meðan á handtöku hans stóð og að hann varð fyrir stórfelldu heilsutjóni vegna öndunar- og hjartastopps. Enda þótt handtaka áfrýjanda hafi þannig óumdeilanlega verið liður í þeirri atburðarás sem leiddi til tjóns áfrýjanda nægir það ekki til þess að unnt sé að slá því föstu að handtakan teljist orsök tjónsins í skilningi skaðabótaréttar. 43       Það er hlutverk dómstóla að leggja endanlegt mat á hvort nægileg sönnun um orsakatengsl sé fram komin í máli, þar á meðal að skera úr um hvað teljist sannað um hvert það atriði sem máli skiptir við mat á því hvort orsakatengsl hafi verið til staðar. Þegar mat er lagt á hvort orsakatengsl hafi verið milli handtöku áfrýjanda og tjóns þess sem hann varð fyrir vegna hjartastopps við handtökuna þarf að taka afstöðu til ýmissa atriða, þar á meðal atriða sem þörf er á sérkunnáttu á sviði læknisfræði til að leysa úr en jafnframt til þess hvað teljist sannað um önnur atriði en læknisfræðileg. 44       Í málinu liggja fyrir fjórar matsgerðir lækna sem áfrýjandi hefur aflað meðal annars í því skyni að tryggja sér sönnun um orsakatengsl milli handtökunnar og þess heilsutjóns sem leiddi af hjartastoppi við handtökuna. 45       Um er að ræða eina yfirmatsgerð þriggja lækna, undirmatsgerð tveggja lækna, undirmatsgerð læknis og lögfræðings og undirmatsgerð eins læknis. 46       Lagt var fyrir matsmennina I hjartalækni og J lögmann að svara eftirfarandi spurningum sem settar voru fram um orsakatengsl í matsbeiðni áfrýjanda 29. nóvember 2012: „1. Hvort orsakatengsl séu til staðar á milli valdbeitingu lögreglu gegn matsbeiðanda umrætt sinn og þess líkamstjóns sem hann varð fyrir. 2. Ef svarið við spurningu nr. 1 er nei; hver sé líklegasta orsök þess líkamstjóns sem matsbeiðandi varð fyrir umrætt sinn.“ Svar matsmanna við fyrri spurningunni var að matsmenn teldu ekki vera orsakatengsl þarna á milli. Þeir benda þó á að þekkt sé að þeir einstaklingar sem eru í annarlegu ástandi og beittir valdi fari í hjartastopp og er þá oft einhver hækkun á vöðvaensímum. Síðari spurningunni svöruðu matsmenn þannig að líklegasta orsök hjartastoppsins hafi verið „það sturlunar eða geðrofsástand sem hann virtist vera í ásamt lífshættulegri brenglun á sýrustigi blóðs og gríðarlegri hækkun á vöðvaemsímum. Allt þetta má að mati matsmanna tengja við ofneyslu hans á orkugeli/orkudrykkjum í aðdraganda tjónsatburðar.“ Matsmenn töldu að ekkert í gögnum málsins benti til orsakatengsla milli valdbeitingar lögreglu og þess líkamstjóns sem áfrýjandi hafi orðið fyrir og töldu ósennilegt að áfrýjandi hefði getað lifað með svo lágt sýrustig sem greindist hjá honum. Þá töldu þeir ósennilegt að sú mikla hækkun sem mælst hefði á vöðvaensímum við komu á spítalann hafi eingöngu stafað af átökum áfrýjanda við lögreglu og líklegra að miklar æfingar í aðdraganda tjónsatburðar og athafnir hans sama dag og tjónsatburður varð hafi átt stærri þátt. 47       Áfrýjandi lagði fyrir undirmatsmennina K geð- og embættislækni og L lyf- og hjartalækni og síðar yfirmatsmennina M lyf- og hjartalækni, N geðlækni og O taugalækni að svara eftirfarandi matsspurningum: „1. Hvort valdbeiting lögreglunnar er stefnandi var handtekinn, geti verið einn af orsakavöldum þess, að stefnandi fór í hjartastopp, hinn 11.5.2010. Ef svarið er jákvætt, er þess beiðst að matsmenn greini á milli orsaka líkamstjónsins. 2. Hvort efnið Agel, sem minnst er á í lögregluskýrslu og talið er, að stefnandi hafi tekið inn í óhóflegu magni fyrir tjónsatburðinn, sbr. fyrirliggjandi matsgerð, hafi að geyma efni sem geti orsakað það eitt og sér, að stefnandi/matsbeiðandi hafi farið í hjartastopp. 3. Hvort matsbeiðandi hefði farið í hjartastopp ef ekki væri fyrir valdbeitingu lögreglunnar í umrætt sinn. 4. Hvort líklegt sé, að stefnandi/matsbeiðandi hefði orðið fyrir hjartastoppi, ef hann hefði fengið að halda áfram óáreittur í sturtunni, hefði fengið að klára það verk, og ekki hefði komið til að hann hefði verið handtekinn á þeim stað af lögreglu, með þeim hætti sem gert var og á þeirri stundu.“ 48       Í matsgerð 11. júní 2016 svöruðu undirmatsmennirnir fyrstu matsspurningunni um orsakatengsl milli handtöku og tjóns áfrýjanda neitandi. Þeir svöruðu annarri matsspurningunni einnig neitandi og töldu sig ekki sjá að Agel væri til þess fallið að valda hjartastoppi en gætu ekki fullyrt um slíkt, væri það tekið í gríðarlegu magni. Þriðju spurningunni svöruðu þeir þannig að þeir teldu líkurnar á því að matsbeiðandi hefði farið í hjartastopp, þótt valdbeiting hefði ekki komið til, auknar vegna hins öra ástands hans rétt fyrir tjónsatburð. Fjórðu spurningunni svöruðu þeir játandi. Í rökstuðningi matsmanna kemur fram að engin rafvirkni hafi verið í hjarta áfrýjanda við fyrstu greiningu og það gæti bent til þess að hjartastoppið hefði orðið í kjölfar öndunarstopps. Öndunarstoppið hefði komið til vegna krampa og uppkasta við það að matsbeiðanda svelgdist á og hluti magainnihalds hafi farið í öndunarfærin. Hins vegar gætu krampar og ástæða uppkasta tengst mikilli áreynslu í átökum við lögreglu þegar hann hafi verið í mjög örvuðu ástandi. Ástæða þessa örvaða ástands væri hins vegar ekki þekkt og undirliggjandi ástæða gæti líka ein og sér hafa valdið krömpum og uppköstum með sömu hættu á ásvelgingu og öndunarstoppi. Allt eins mætti færa líkur að því að lögregla hafi bjargað matsbeiðanda og hinu að hún hafi valdið honum tjóni. Í ljósi kringumstæðna væri það álit matsmanna að aðgerðir lögreglu hafi verið nauðsynlegar björgunaraðgerðir. 49       Í yfirmatsgerð 1. mars 2017 svöruðu yfirmatsmenn fyrstu matsspurningunni þannig: „Miðað við það sem sagt er frá hér að ofan um aukna hættu á hjartastoppi við aðstæður þar sem hefur verið nauðsynlegt að beita valdi, telja yfirmatsmenn það vera líklegt, að valdbeiting hafi átt þátt í að valda hjartastoppinu. Aðrir þættir gætu hafa verið meðvirkandi.“ Annarri matsspurningu svöruðu þeir þannig: „Þar sem ekkert kemur fram í gögnum um að umrætt fæðubótarefni innihaldi koffein eða önnur mögulega skaðleg efni, er ekkert sem bendir til að inntaka af þessu fæðubótarefni hafi átt þátt í að orsaka hjartastoppi yfirmatsbeiðanda, sbr. nánari umfjöllun í yfirmatsgerðinni.“ Þriðju og fjórðu matsspurningunni svöruðu matsmenn á sama veg þannig: „Það er útilokað að svara þessari spurningu játandi eða neitandi með vissu.“ 50       Í yfirmatsgerðinni er fjallað um ýmsar mögulegar orsakir hjartastopps áfrýjanda, meðal annars inntöku á fæðubótarefninu Agel, lágt sýrustig, hækkun á vöðvaensímum, A- eða D-vítamíneitrun og öndunarstopp vegna ásvelgingar og töldu yfirmatsmenn líkurnar á að þessir þættir hefðu valdið hjartastoppi litlar. Í rökstuðningi kemur meðal annars fram að við uppvinnslu eftir hjartastopp áfrýjanda hafi engin augljós eða ákveðin orsök fyrir atburðinum greinst. Þá töldu þeir engar sannanir fyrir því að áfrýjandi hefði neytt koffíns eða annarra efna sem gætu hafa skapað ofangreindar aðstæður og gátu þess að lyfjaleit við komu á sjúkrahúsið hefði verið neikvæð. Í rökstuðningi yfirmatsmanna segir enn fremur: „Þekkt er að líkamleg valdbeiting á órólegum einstaklingum geti leitt til hjartastopps. Þessu hefur verið lýst einkum í tengslum við handtökur lögreglumanna […] og við meðferð órólegra geðsjúklinga. […] Valdbeiting sem felst í því að reigja hálsinn á ákveðinn hátt og/eða halda manni niðri getur truflað öndun verulega vegna þess að háls lokast og/eða þind getur ekki sinnt öndunarhreyfingum. Afleiðing af slíkri valdbeitingu getur verið köfnun og svo hjartastopp. […] Það er óumdeilt að valdi var beitt í umræddu tilfelli, þó vissulega sé ómögulegt að vita nákvæmlega hvaða tökum var beitt og hvaða beinu áhrif þau höfðu á líkamsstarfsemi yfirmatsbeiðanda. Það er einnig óumdeilt að yfirmatsbeiðandi var á þessum tíma órólegur og æstur. Í ljósi atburðarásarinnar verður að teljast líklegt að valdbeiting hafi átt þátt í hjartastoppinu.“ Vísað er til ýmissa fræðigreina í þessum rökstuðningi. 51       Í matsgerð sem áfrýjandi aflaði í dómsmáli gegn Verði tryggingum hf. vegna sama tjónsatburðar, en hún hefur verið lögð fram í máli þessu, svaraði matsmaðurinn P eftirfarandi tveimur matsspurningum: „1. Hvort og að hvaða leyti viðbrögð stefnanda/matsbeiðanda hafi verið ósjálfráð, er hann var handtekinn þann 11. maí 2010. 2. Hvert hafi verið andlegt [ástand] stefnanda/matsbeiðanda, er hann var handtekinn og að hvaða leyti hann hafi getað gert sér grein fyrir gerðum sínum og afleiðingum þeirra.“ Svör matsmannsins við fyrri matsspurningunni voru eftirfarandi: „Eins og fram kemur í matsgerðinni er það álit undirritaðs að A hafi verið haldinn geðrofi og síðan mjög miklu óráði í kjölfar alvarlegra veikinda sem lýst er þegar hann var handtekinn hinn 11. maí 2010. Öll viðbrögð hans og raunar gerðir eins og lýst er hafa að mati undirritaðs verið algjörlega ósjálfráð.“ Síðari matsspurningunni svaraði hann þannig: „Í matsgerðinni kemur fram lýsing á mjög alvarlegu andlegu ástandi A umræddan dag og það er álit undirritaðs að A hafi enga grein gert sér fyrir gerðum sínum og afleiðingum þeirra.“ Í rökstuðningi matsmanns kemur meðal annars fram að ekki hafi verið hægt að fá fram neina sögu um geðsjúkdóma í ætt, engar geðsveiflur og haft er eftir áfrýjanda og föður hans að hann hefði alltaf verið mjög virkur í íþróttum og líkamlega hraustur, jákvæður og með jafnaðargeð. Hann hafi þó verið farinn að nota ólögleg lyf 15 ára að aldri og farið í meðferð hjá SÁÁ þegar hann var 15 eða 16 ára. Matsmaður taldi að ástand áfrýjanda, eins og því hefði verið lýst, félli vel að lýsingu á sjaldgæfu heilkenni „Lethal Catatonia“ sem skiptist í hægara form og mun sjaldgæfara æsingsform. Þetta heilkenni kæmi helst fyrir hjá ungum einstaklingum. Áður hefði verið talið að þetta væri undirgerð af geðklofa en nú væri talið að þetta gæti komið fyrir hjá einstaklingum með ýmsa sjúkdóma, sérstaklega geðhvörf. Orsakir ástandsins væru óþekktar og ekki skýrðar. Æsingsformið einkenndist af miklum hreyfióra, hækkuðum hita, breytingu á meðvitund og truflun í ósjálfráða taugakerfinu og gæti ástandið leitt til dauða á skömmum tíma. Í sumum rannsóknum hefði dánartíðni verið talin 20-30%. Lýst hafi verið fjölgun hvítra blóðkorna og hækkun á vöðvaensímum sem gæti leitt til nýrnabilunar. 52       Umræddir matsmenn komu allir fyrir dóm í héraði við fyrri aðalmeðferð málsins og gáfu skýrslu. Undir matsmenn voru meðal annars bornar niðurstöður annarra matsgerða. Þannig var yfirmatsmaðurinn M spurð hvort niðurstöður P breyttu eitthvað forsendum yfirmatsins. Hún svaraði því að áfrýjandi hefði augljóslega verið í einhvers konar óráðsástandi áður en hann fékk hjartastopp og að því leyti væru yfirmatsmenn sammála P. Yfirmatsmaðurinn O kvað tilgátu P nýja og athyglisverða, kvað hana hugsanlega og að sér hefði ekki hugkvæmst sá möguleiki. Hann kvað „Lethal Catatonia“ hins vegar mjög sjaldgæft ástand og ekki eins líklega skýringu og niðurstöðu yfirmatsins. Þá fjallaði hann um niðurstöður undirmats læknanna K og L og taldi skýringar þeirra á hjartastoppinu ólíklegar. Nánar um það sagði hann meðal annars: „En sem sagt þessi streituástand veldur, telja menn líklegast auknu losun noradrenalín og þá er spurning, hvað eru meiri líkur og hvað eru minni líkur af því að honum var snúið þetta hratt uppá hlið, þetta vel upp á hlið af því að það náði sem sagt að hérna, að hreinsa loftvegi, þá finnst okkur samkvæmt því sem við sjáum í lýsingu, það vera minni líkur á að það sé það sem veldur því og þá höldum við okkur við að þá stendur uppi að líklegra er að þetta hafi verið þessi viðbrögð við höftunum, heftingu.“ 53       Í framburði matsmannsins L fyrir héraðsdómi kom eftirfarandi fram: „Já sko sagan öll er mjög ruglingsleg og ónákvæm og tímafaktorar ónákvæmir, oft er erfitt að átta sig á hvað kemur fyrst. Sem læknir þá reyni ég að upphugsa allar mögulegar orsakir, ekki einungis þær sem passa inn í mína nálgun eða fyrirfram gefna ástæðu, eða líklegustu ástæðu. Ekki er ljóst samkvæmt sögunni hvenær matsbeiðandi missir meðvitund, er það þegar hann liggur á, eða lyppaðist hann niður þegar hann var í fanginu á lögreglumönnunum og kastar hann t.d. upp áður eða eftir að hann missir meðvitund. Ef að uppköst eða ásvelging hefur valdið öndunarstoppi og síðar hjartastoppi, þá eru átökin við lögreglu líklegasti orsakavaldurinn. Hins vegar eins og kemur fram í yfirmati er það ólíklegt sem frumorsök og meðal annars þess vegna er ólíklegt að hjartastoppið sé eingöngu vegna átaka við lögreglu og ég segi eingöngu og ætla aðeins að fá að útskýra það. Matsbeiðandi hann er með undirliggjandi ástand sem er lífshættulegt, þetta kemur einnig fram í sérstöku mati P geðlæknis og hann kallar þetta ástand „Lethal Catatonia“ og er þetta ástand í sjálfu sér lífshættulegt og í sumum rannsóknum hefur dánartíðnin verið 20 til 30 prósent og ég held að það sé best að útskýra þessa hugsun okkar og skilning með öðru dæmi og það er að bráð kransæðastífla, t.d. er lífhættuleg og getur valdið skyndidauða, en einstaklingur sem er með bráða kransæðastíflu og lendi í mikilli áreynslu, er þó líklegri til að deyja skyndidauða og er á þá ástæðan fyrir skyndidauðanum þessi bráða kransæðastífla, eða þessi mikla áreynsla sem hann lendir í og það er megin ástæða niðurstöðu okkar að það er ekki hægt að aðskilja þetta.“ 54       Samkvæmt því sem rakið er hér að framan er ósannað að áfrýjandi hafi verið handtekinn með harkalegum hætti þótt valdi hafi vissulega verið beitt. Þótt ekki hafi tekist að upplýsa með óyggjandi hætti við hvaða aðstæður öndun og hjartsláttur áfrýjanda stöðvaðist þykir samkvæmt framansögðu rétt að leggja til grundvallar að það hafi gerst eftir að áfrýjandi hafði verið handjárnaður og færður í fótbensli. Ekkert er fram komið sem bendir til þess að þrengt hafi verið að öndunarvegi áfrýjanda við handtökuna. Í ljósi framburðar B um að hann hafi heyrt en ekki séð hvað fram fór á baðherberginu þegar áfrýjandi var handtekinn en síðar í atburðarásinni fylgst með framan af gangi er gegn neitun allra fjögurra lögreglumannanna ekki nægilega í ljós leitt að þeir hafi rekið hnéð í bak áfrýjanda og heldur ekki að þrýst hafi verið á bak hans eða honum haldið niðri af slíku afli að truflað hafi öndun hans. 55       Við mat á innbyrðis þýðingu framangreindra fjögurra matsgerða verður að líta til þess að yfirmatsgerð er að jafnaði talin hafa meira sönnunargildi en undirmatsgerð. Við það mat verður þó jafnframt að líta til þess að spurningar þær sem lagðar voru fyrir undirmatsmenn í síðastnefndu tveimur undirmötunum voru ekki þær sömu og svarað var í yfirmatsgerð og þess að ekki hefur verið óskað yfirmats vegna þessara tveggja undirmatsgerða. Þá verður að líta til þess að stefndi var ekki matsþoli í matsgerð þeirri sem P geðlæknir vann. 56       Allar matsgerðirnar eru haldnar þeim annmarka að í þeim álykta matsmenn um hvað rétt sé að leggja til grundvallar um ýmis önnur atriði en sérkunnátta þeirra nær til og reisa síðan niðurstöður sínar um læknisfræðileg atriði meðal annars á slíkum ályktunum. Þar sem matsmenn ganga þannig út frá talsvert mismunandi forsendum um staðreyndir málsins og komast að mjög mismunandi niðurstöðum um líklegar orsakir hjartastoppsins og um orsakatengsl verður litið til þeirra allra við úrlausn málsins og jafnframt þeirra skýringa sem matsmennirnir gáfu fyrir héraðsdómi á niðurstöðum sínum. 57       Af öllum matsgerðunum verður ráðið að það sé mjög sjaldgæft að ungur maður sem ekki hefur sögu um neina þá sjúkdóma sem skýrt geta skyndilegt hjartastopp, verði fyrir því og jafnframt að mjög sjaldgæft sé að slíkt gerist við handtöku. Í þessum matsgerðum setja matsmenn fram mjög ólíkar tilgátur um orsakir öndunar- og hjartastopps áfrýjanda byggðar á ályktunum sínum um atvik í aðdraganda þess og hvenær það átti stað. Jafnframt eru matsmenn ósammála um hversu líklegar einstaka tilgátur séu. Í öllum matsgerðunum er látið að því liggja með einum eða öðrum hætti að líklegt sé að það annarlega ástand sem áfrýjandi var í þegar hann var handtekinn hafi verið frumorsök þess að hjarta hans stöðvaðist. Hvernig áfrýjandi komst í þetta annarlega ástand og hversu lengi það hafi staðið hafa matsmenn ekki treyst sér til að svara af neinu öryggi. Jafnframt verður ráðið af öllum matsgerðunum að ofsafengin viðbrögð áfrýjanda við handtökunni hafi átt þátt í eða aukið líkurnar á að hjarta hans stöðvaðist. Af matsgerðunum öllum verður þannig ráðið að handtaka áfrýjanda og viðbrögð hans sjálfs við henni hafi verið þáttur í því hvernig fór. Matsmenn eru hins vegar ósammála um hvaða atriði tengd handtökunni sé líklegast að hafi átt mestan þátt í öndunar- og hjartastoppinu. 58       Þegar rökstuðningur yfirmatsmanna er metinn í heild virðist ljóst að sú niðurstaða þeirra að líklegt sé að valdbeiting lögreglu hafi átt þátt í hjartastoppinu sé fengin með því að útiloka aðra mögulega orsakaþætti. Þá virðist niðurstaða matsmanna vera fengin með því að álykta sem svo að þar sem valdbeiting átti sér stað og þekkt sé að valdbeiting geti valdið hjartastoppi við ákveðnar aðstæður, sérstaklega ef sá sem beittur er valdi er órólegur eða æstur eins og áfrýjandi hafi verið, sé líklegt að handtakan hafi átt þátt í hjartastoppinu. Það veikir talsvert röksemdafærslu yfirmatsmanna að þeir telja ómögulegt að vita nákvæmlega hvaða tökum hafi verið beitt við handtökuna og hvaða beinu áhrif þau höfðu á líkamsstarfsemi áfrýjanda. Þessi röksemdafærsla gæti þannig átt við öll hjartastopp sem verða við handtöku á órólegum einstaklingum án tillits til atvika að öðru leyti. Niðurstöður og rökstuðningur yfirmatsmanna er ekki svo afdráttarlaus að yfirmatsgerðin verði talin hnekkja niðurstöðum og rökstuðningi í undirmatsgerð þeirra K og L eða öðrum framlögðum matsgerðum. 59       Samkvæmt framansögðu verða þær ályktanir dregnar af matsgerðunum að líklegast sé að það annarlega ástand sem áfrýjandi var í við handtökuna hafi verið frumorsök þess að hjarta hans stöðvaðist við handtökuna. Matsmennirnir eru hins vegar ekki sammála um hvort og þá hversu líklegt sé að hjarta áfrýjanda hefði stöðvast vegna þessarar frumorsakar enda þótt ekki hefði komið til handtökunnar. Af matsgerð I og J verður ráðið að þau útiloka ekki að handtakan hafi átt þátt í hjartastoppinu en athafnir hans í aðdragandanum, miklar æfingar, lítill svefn og inntaka á Ageli eigi stærri þátt. Matsmaðurinn P taldi líklegt að áfrýjandi hefði verið með heilkenni sem 20 til 30% líkur væru á að drægju menn til dauða. Undirmatsmennirnir K og L töldu ástand áfrýjanda þegar hann var handtekinn líklegustu skýringuna á hjartastoppinu sem þeir töldu að hefði orðið við ásvelgingu þegar áfrýjandi fékk krampa og uppköst. Var niðurstaða þeirra sú að líklegt væri að þessir orsakaþættir hefðu leitt áfrýjanda til dauða ef ekki hefði komið til þess að hann hefði verið handtekinn. Yfirmatsmenn töldu ekki unnt að svara af öryggi spurningum áfrýjanda um líkur þess að hjarta áfrýjanda hefði stöðvast þótt ekki hefði komið til handtökunnar og leysir yfirmatið því ekki úr því álitaefni hvort handtaka áfrýjanda hafi verið nauðsynlegt skilyrði þess að hjarta hans stöðvaðist og hann varð fyrir heilsutjóni. 60       Þótt enginn matsmanna hafi útilokað að atriði sem áttu sér stað við handtökuna og það geðrofsástand sem áfrýjandi var í við handtökuna hafi átt þátt í að hjarta áfrýjanda stöðvaðist verður sú ályktun hvorki dregin af matsgerðunum, framburði matsmanna fyrir dómi né öðrum sönnunargögnum að líklegra sé en ekki að hjarta áfrýjanda hefði ekki stöðvast ef ekki hefði komið til handtökunnar. 61       Sönnunarbyrði um að tiltekin háttsemi þess sem tjónþoli beinir bótakröfu að hafi orsakað tjón hans hvílir að jafnaði á tjónþola þótt í dómaframkvæmd hafi verið slakað á sönnunarbyrði um orsakatengsl eða henni jafnvel snúið við, til dæmis þegar vinnuveitandi hefur ekki hlutast til um rannsókn Vinnueftirlitsins á vinnuslysi og þegar saknæm mistök sérfræðinga þykja sönnuð. Af hálfu áfrýjanda er byggt á því að í máli þessu beri að leggja sönnunarbyrði um orsakatengsl á stefnda þar sem sérstök rannsókn hafi ekki farið fram á því hvernig staðið var að handtökunni. 62       Ekki hefur verið upplýst af hálfu stefnda að sérstök rannsókn hafi farið fram á framkvæmd umræddrar handtöku og verður að ganga út frá því að svo hafi ekki verið. Engu að síður liggja samkvæmt framansögðu fyrir ítarlegar lögregluskýrslur um aðdraganda handtökunnar og hana sjálfa. Framburður fjögurra lögreglumanna sem stóðu að handtökunni, við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi, ber þess skýr merki hversu mikið var þá farið að fenna yfir atburði. Vegna hinna alvarlegu afleiðinga af hjartastoppi sem áfrýjandi varð fyrir við handtökuna var fullt tilefni til að rannsaka framkvæmd handtökunnar sérstaklega en ætla má að sú rannsókn hefði getað varpað skýrara ljósi á hana en framburður lögreglumanna fyrir dómi sjö árum síðar. 63       Þótt verulegur vafi sé samkvæmt framansögðu bæði um staðreyndir málsins og ýmis læknisfræðileg atriði þykir áfrýjandi, í ljósi þeirra gagna og upplýsinga sem liggja fyrir í málinu, ekki hafa sýnt fram á að skilyrði séu til að láta stefnda bera sönnunarbyrðina um orsakatengsl. Þótt rétt sé að taka nokkurt tillit til þess að rannsókn fór ekki fram á atvikinu þegar metið er hvort áfrýjanda hafi lánast sönnun um atriði sem mögulega hefði verið unnt að upplýsa betur með slíkri rannsókn eru ekki efni til þess að slaka verulega á sönnunarkröfum til áfrýjanda um orsakatengsl. 64       Þar sem áfrýjanda hefur samkvæmt framansögðu hvorki lánast sönnun um orsakatengsl milli aðgerða lögreglu við handtöku áfrýjanda og þess heilsutjóns sem hann varð fyrir eða gert nægilega líklegt að slík orsakatengsl séu fyrir hendi eru ekki skilyrði til að fallast á kröfu hans um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda á grundvelli 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008. Hinn áfrýjaði dómur verður því staðfestur. 65       Þar sem veruleg vafaatriði eru í máli þessu verður málskostnaður fyrir Landsrétti felldur niður, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Landsrétti fellur niður.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 12. febrúar 2019   Mál þetta sem höfðað var 23. október 2015 var dómtekið eftir aðalmeðferð þess 10. nóvember 2017. Stefnandi er A, [...] og stefndi er íslenska ríkið. Aðalmeðferð málsins fór fram sem fyrr segir föstudaginn 10. nóvember 2017 og dómur var kveðinn upp 8. desember sama ár. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar sem með dómi sínum fimmtudaginn 1. nóvember sl. ómerkti hinn áfrýjaða dóm og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar. Rökstuðningur réttarins fyrir ómerkingu var einkum eftirfarandi: „Með því að niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, varð eins og áður greinir, var þar í engu fjallað um hvort orsakatengsl voru á milli líkamstjóns áfrýjanda og athafna lögreglu í umrætt sinn og þar með hvort skilyrði 3. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 og almennu skaðabótareglunnar um orsakatengsl væru uppfyllt. Verður af þeim sökum ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar og dómsálagningar að nýju.“ Ákveðin var því ný aðalmeðferð í málinu sem náðist að koma á 15. janúar sl. Skýrsla var þá tekin af vitninu B íbúa í íbúð þeirri þar sem handtaka lögreglu átti sér stað og stefnandi lenti í hjartastoppi, málið síðan flutt í kjölfarið og dómtekið. Aðilar vísa til fyrri framburðar í málinu sem liggur fyrir í útprentun. Kröfugerð og málsástæður eru þær sömu og hafðar voru uppi í málinu fyrir aðalmeðferð þess 10. nóvember 2017, utan þess að stefnandi féll fyrir Hæstarétti sem og nú, frá kröfu um sérstakar bætur að fjárhæð 3.000.000 króna samkvæmt a lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en byggir allt að einu kröfu sína á 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 og meginreglum XIII. kafla laganna.   II. Stefnandi gerir þá dómkröfu að viðurkennd verði bótaskylda íslenska ríkisins vegna varanlegs líkamstjóns, sem stefnandi varð fyrir, þegar lögreglan handtók hann þann 11. maí 2010. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu, líkt og eigi væri um að ræða gjafsóknarmál. Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.   II. Þriðjudaginn 11. maí kl. 11:43 var lögregla að boði fjarskiptamiðstöðvar send að [...] vegna, að sögn, átaka sem þar áttu að eiga sér stað. Þá kom fljótlega önnur tilkynning um að maður vopnaður golfkylfu væri fyrir utan húsið. Einnig var tilkynnt um mann sem væri að rústa íbúð á fjórðu hæð. Er lögreglumenn komu á staðinn var þeim sagt að nakinn maður vopnaður golfkylfu hefði hlaupið í átt að kirkju skammt frá. Þegar þangað var komið var lögreglu tilkynnt af aðilum á vettvangi að maðurinn hefði hlaupið inn í kjallaraíbúð að [...]. Knúði lögregla þar dyra og hitti húsráðanda. Tjáði hann lögreglu að stefnandi hefði komið hlaupandi, hálfnakinn og barið á stofugluggann hjá sér og síðan á útidyrnar. Við það hafi makast einhvers konar sósa á rúðurnar, en húsráðanda virtist maðurinn blóðugur. Kvaðst hann hafa boðið stefnanda að fara í sturtu og þvo sér. Meðan stefnandi var í sturtunni hafi hann heyrt hann öskra og láta einkennilega. Lögreglumenn kveða að þegar þeir hafi komið inn og farið að sturtunni hafi þeir séð að stefnandi öskraði og lét mjög sérkennilega í kaldri sturtunni. Hann hafi barið í veggi og kúgast. Lögreglumennirnir hafi reynt að ræða við stefnanda en hann hafi ekki veitt þeim neina athygli. Þá var skrúfað fyrir sturtuna og á ný reynt að ræða við stefnanda en hann hafi þá orðið mjög æstur svo að færa þurfti hann í handjárn og jafnframt var hann lagður á gólfið. Einnig töldu lögreglumennirnir nauðsynlegt að fjötra (bensla) fætur hans því hann sparkaði ítrekað til lögreglumannanna. Var tekin ákvörðun um að fá sjúkrabifreið á vettvang til að kanna með ástand stefnanda. Skömmu síðar byrjaði stefnandi að fá krampa og kasta upp. Færði lögreglumaður hann í hliðarstöðu og losaði handjárn og um fætur. Skömmu síðar hætti stefnandi að anda og hóf lögregla þá strax endurlífgunartilraunir. Sjúkrabifreið kom mjög fljótt á vettvang og tóku þá sjúkraflutningamenn við endurlífgunartilraunum. Eftir um 20-25 mínútur greindist púls á stefnanda og var hann þá fluttur í forgangi á Landspítalann við Hringbraut. Þeir munir sem stefnandi hafði kastað fram af svölum við [...] voru ónýtir eftir fallið. Þar á meðal var flatskjár, útvarpstæki, glerplata af stofuborði, sturtuhengi og fleira. Lentu munirnir á palli á neðstu hæð blokkarinnar og á grasi þar við. Samkvæmt vitni sem kom fyrir lögreglu hafði verið reynt að fá stefnanda til að hætta að henda niður hlutum en stefnandi hafi þá komið niður og ógnað nágranna með golfkylfu. Samkvæmt upplýsingum frá móður stefnanda hafði hann kvöldinu áður verið ásamt systur sinni í mat hjá henni. Hvorug þeirra hafi tekið eftir einhverju óvenjulegu í fari hans, en þetta staðfesti móðirin fyrir dómi. Þá er upplýst að eftir mat hafi stefnandi farið til C, vinar síns. Samkvæmt skýrslu C hjá lögreglu, sem tekin var sama dag og handtakan átti sér stað, kvað C stefnanda hafi komið kvöldið áður og verið fram á nótt. Hann hafi í stuttu máli verði gjósandi eins og vitnið orðaði það; verið ör og hreinskilinn. C hafi sofnað og þegar hann hafi vaknað um morguninn hafi stefnandi verið farinn. Upp úr hádegi hringdi téður C í Q vin sinn, til að forvitnast um stefnanda. Þennan sama dag var einnig tekin skýrsla af E, íbúa í íbúð [...], [...]. Kvaðst E allt í einu hafa heyrt dynk og þá séð að ruslapoki, sem hafði verið hent niður, hafði splundrast. Sá hann að opinn gluggi var á 4. hæð hússins, en spáði ekki frekar í það. Eftir þetta hafi verið hent niður gardínustöngum, plasmasjónvarpi, hátölurum og fleiru. Fór E upp á fjórðu hæð og bankaði á dyr íbúðarinnar, sem hann taldi að hlutirnir hafi komið úr. Þar svaraði enginn. Hafi hann svo gengið niður á planið og hitt stefnanda þar, sem hann kvað hafa verið beran að ofan í annarlegu ástandi. Mun stefnandi hafa náð í golfkylfu inn í bíl og sagt að mikið væri að. Allt væri að fara til fjandans, en bað E að hringja ekki í lögreglu. Kvað hann stefnanda hafa farið út á grasflöt og byrjað að rífa í sundur bréf með Ageli og kreista þau yfir sig. Hringdi E þá í lögregluna. Þegar stefnandi heyrði í sírenum mun hann hafa hlaupið í burtu og benti E lögreglunni þangað sem stefnandi hljóp. F, íbúi á 1. hæð að [...], kveðst hafa séð hálfa búslóð á pallinum hjá sér. Kvaðst hún hafa séð stefnanda og fannst henni hann „út úr dópaður“. Kvað hún stefnanda hafa haldið á plastbréfum með hvítum vökva í og hafi sagt, að hann yrði að sprauta úr þessu hér. Kvað hún stefnanda hafa farið í skottið á bílnum sínum, hellt í sig einhverjum vökva og náð í golfkylfu. Bað stefnandi hana um að fá lánaðan gsm-síma en afþakkað þegar hún bauð honum heimasíma. Eftir það kvað hún hann hafa tekið á rás að leikskóla hinum megin við götuna. Í dagbókarfærslu lögreglunnar er skráð að þegar lögreglan kom á staðinn hafi tilkynnandi beint þeim að [...]kirkjunni við [...] og skýrt frá því að nakinn maður, vopnaður golfkylfu hefði hlaupið í þá átt. Hafi allt verið á öðrum endanum í íbúð stefnanda, talsvert af peningum, ætluð kannabisefni og plöntur lágu á gólfinu. Síðar hafi lögreglan kallað eftir aðstoð en þá var búið að staðsetja stefnanda í íbúð að [...]. Þegar þangað var komið tók húsráðandi, B, á móti þeim. Í skýrslutöku af B, dagsettri 3. desember 2013, kvaðst hann hafa verið heima hjá sér þennan dag, 11. maí 2010, þegar hann sér mann hlaupa fram hjá glugganum. Kvað hann stefnanda hafa verið nakinn og farið að maka geli á rúðuna. Kvaðst B hafa kallað á stefnanda og spurt hvort ekki væri allt í lagi og hvort hann þyrfti aðstoð. B sagðist hafa boðið stefnanda að fara í sturtu. Kvaðst B hafa sagt stefnanda að drífa sig í sturtu og hafi þá tekið eftir því að stefnandi var búinn að læsa útihurðinni. Þegar stefnandi var í sturtunni hafi tveir lögreglumenn bankað á gluggann. Opnaði B fyrir þeim og spurðu lögreglumennirnir tveir hvort hann hefði séð „strípaling á vappi“. B svaraði því játandi og kvað stefnanda vera í sturtu hjá sér. Kvaðst hann ekki þekkja stefnanda en tók það fram að hann teldi sér ekki stafa hætta af honum. Hafi stefnandi greinilega verið í miklu andlegu uppnámi og kallað eitthvað úr sturtunni, en B kvaðst ekki hafa heyrt orðaskil. Sagðist B síðan hafa séð inn um dyragættina, eftir að lögreglumennirnir voru búnir að opna lásinn til að komast inn á baðherbergið, þar sem stefnandi hafi verið í sturtu. Lögreglan hafi farið inn og tekið á manninum. B kvaðst ekki hafa séð átök í sturtuherberginu en heyrt lætin. B sagðist hafa séð stefnanda í handjárnum, liggjandi á gólfinu og lögreglumann með hnéð í bakið á honum að handjárna hann. Kvaðst B hafa séð stefnanda þegar hann féll í gólfið og það hafi verið eins og hann lyppaðist niður „eins og kerfið í honum hafi slökkt á sér“. Hafi stefnandi ekki hreyft sig og hafi B því beðið lögreglumennina um að hnoða stefnanda. Kvað hann lögregluna á sama tíma hafa áttað sig á að maðurinn barðist ekki lengur á móti. Hafi B þá farið að útidyrunum, séð sjúkrabíl og veifað honum að koma. Sjúkraflutningamenn hafi þá komið inn með sín tæki og tól. Kvað hann lögregluna þá hafa ætlað að draga stefnanda fram á gang, tekið hann upp en stefnandi hafi verið háll viðkomu og þegar þeir hafi verið með hann í um lærahæð hafi þeir misst takið og við það hafi stefnandi skollið í gólfið. B sagði manninn þegar hafa verið meðvitundarlausan þegar þetta gerðist en hnakki hans hafi skollið á flísarnar á gólfinu. Í dagbókarfærslu lögreglunnar kemur fram að lögreglumennirnir hafi ávarpað stefnanda er hann var í sturtu. Stefnandi hafi að því er virtist ekkert heyrt, þ.e. engin viðbrögð komu frá honum. Ákváðu lögreglumennirnir þá að ná stefnanda úr sturtunni en um leið og þeir gripu í hendur hans hafi hann veitt mótspyrnu. Hafi þeir þá fært stefnanda í lögreglutök, handjárnað hann og lagt hann á gólfið. Hafi lögreglumennirnir þar að auki orðið að binda fætur hans þar sem hann sparkaði í allar áttir. Fram kemur, að á þessum tíma hafi þeir beðið um að fá senda sjúkrabifreið. Í dagbókarfærslunni er öndunarstopp skráð kl. 12:20 og þess getið að sjúkrabifreið hafi komið nánast samstundis. B staðfesti skýrslu sína fyrir lögreglu í sérstöku vitnamáli fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, 30. september 2015, en þar lýsti B því að stefnandi hefði verið örvinglaður og viti sínu fjær er hann kom á heimili hans. Hann tók þó fram að engin hætta hefði stafað af stefnanda og hann hafi ákveðið að reyna að róa hann niður. Við komu á LSH var stefnandi meðvitundarlaus, með barkarrennu og kominn með gáttatif. Var hann svæfður fljótlega eftir komu og fluttur á gjörgæsludeild til kælingar. Í innlagnarnótu á gjörgæsludeild er lýst rispum á öxlum og kvið. Farið var með stefnanda í tölvusneiðmynd af höfði, sem sýndi ekki blæðingu eða önnur áverkamerki. Tölvusneiðmynd af hálshrygg sýndi ekki merki um brot. Á tölvusneiðmynd af brjóstkassa sáust dreifðar þéttingar, mest í hægra lunga sem vöktu grun um byrjandi lungnabólgu en hvorki sáust merki um rifbrot né loftbrjóst. Á tölvusneiðmynd var að sjá mikla þenslu í maga en ekkert annað athugavert. Við komu á spítalann var þvag einnig sent í lyfjaleit, m.a. fyrir amfetamíni, kókaíni, kannabis, E-töflum o.fl. og reyndist það allt vera neikvætt. Var stefnandi með mikla truflun á sýrubasa jafnvægi og metabolískt súr, sem leiðréttist smám saman með lyfjagjöf og öndunarmeðferð. Var stefnandi einnig með mikla hækkun á vöðvaensímum, CK og var myoglobín einnig mjög hækkað, sem benti til útbreidds vöðvaskaða. Var stefnanda haldið sofandi í öndunarvél og kældur til að draga úr heilaskaða eftir hjartastoppið. Stefnandi var tekinn úr öndunarvél hinn 16. maí 2011, sem gekk vel. Hinn 17. maí 2011, skoðaði R taugalæknir stefnanda og benti taugaskoðun til útbreidds heilaskaða af völdum súrefnisskorts. Hinn 18. maí 2011 vaknaði stefnandi og virtist vita eitthvað af umhverfi sínu. Þennan dag var hann útskrifaður af gjörgæsludeild á hjartadeild. Þegar ástand hans var á endanum talið stöðugt var stefnandi fluttur til frekari endurhæfingar á Grensásdeild Landspítalans, 16. júní 2011. Í læknisvottorði V, sérfræðings í lyflækningum og hjartasjúkdómum, dagsettu 6. maí 2012, gaf læknirinn álit sitt á mögulegum orsökum þess að stefnandi hefði farið í hjartastopp 11. maí 2010. Annaðist téður læknir stefnanda eftir komu á sjúkrahús. Taldi V orsök hjartastoppsins mjög sennilega tengda handtökunni. Mögulegar orsakir taldi hann helst vera tvær: Í fyrsta lagi væri vel þekkt að einstaklingar í annarlegu ástandi, sem eru beittir valdi og sem berjast á móti, geti farið í hjartastopp. Fari öll starfsemi einstaklingsins á fullt, sem valdi miklu álagi á hjartað og orsaki hjartsláttatruflanir. Taldi læknirinn mjög há gildi vöðvaensíma hjá stefnanda styðja að hann hefði reynt mjög á sig í átökum við lögregluna. Í öðru lagi gæti högg á brjóst valdið hjartastoppi. Var stefnandi í sturtu og þar af leiðandi blautur og sleipur. Lögreglumennirnir hafi hæglega getað misst hann í gólfið, eins og lýst væri af vitni. Þáverandi lögmaður stefnanda fór þess á leit við héraðsdóm að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta afleiðingar og orsök tjónsatburðarins. Dómkvödd voru þau I hjartalæknir og J hrl. Um orsakatengsl á milli valdbeitingar lögreglunnar gegn stefnanda í umrætt sinn og þess líkamstjóns sem hann varð fyrir kemur fram í matsgerðinni að stefnandi hafði fyrir tjónsatburðinn neytt töluverðs magns af orkugeli. Þá komi fram í sjúkraskrá Landspítala að aðstandendum hafi þótt stefnandi vera mjög ör í tvær vikur fyrir tjónsatburð. Þá kemur fram að flestar auka- og eiturverkanir orkugels/orkudrykkja tengist háu koffíninnihaldi þeirra og auk þess eru oft í þeim önnur efni sem einnig innihalda koffín. Á síðustu árum hafi tilfellum koffíneitrana vegna neyslu orkudrykkja fjölgað og lýst hafi verið dauðsföllum hjá einstaklingum, sem ekki hafi haft merki um hjartasjúkdóm sem talin eru tengjast eitrunaráhrifum þeirra. Koffíneitrun geti leitt til geðrofs og hjartsláttartruflana, sem geti verið lífshættulegar og í sjaldgæfum tilfellum leitt til dauða. Töldu matsmenn ofneyslu orkugels/orkudrykkja fyrir tjónsatburð vera líklega skýringu á geðrofseinkennum, sem stefnandi sýndi í aðdraganda tjónsatburðarins, daginn sem atburðurinn gerðist og gæti hún einnig hafa verið meðvirkandi í hjartastoppinu sem hann lenti í. Því til stuðnings vísa matsmenn til þess að við komu á spítalann hafi stefnandi verið með miklar truflanir á sýru-basa jafnvægi, en sýrustig í blóði mældist mjög lágt. Væri útilokað að stefnandi hefði lifað með svo lágt sýrustig, nema að hafa fengið einhvern tíma til aðlögunar, sem þýddi að líklegast væri um að ræða tveggja til þriggja daga ástand áður en hann fór hjartastopp og að þetta lága sýrustig tengdist inntöku orkugels/orkudrykkja dagana áður. Þá hafi stefnandi við komu á spítalann verið með verulega hækkun á vöðvaensímum, CK og myoglobíni, sem benti til útbreidds vöðvaskaða. Ekki voru merki um skaða á hjartavöðva. Umrædd hækkun hafi getað leitt til nýrnabilunar og verið meðvirkandi í hjartastoppi. Það sé þekkt að einstaklingar sem eru í annarlegu ástandi og beittir valdi fari í hjartastopp og er þá oft einhver hækkun á vöðvaensímum. Það sé hins vegar afar ósennilegt að sú mikla hækkun sem var á vöðvaensímum hjá stefnanda tengist eingöngu handtökunni. Þó að hún eigi einhvern þátt í hækkun vöðvaensíma er líklegra að þessi mikla hækkun tengist að mestu leyti miklum æfingum í aðdraganda tjónsatburðar. Þá voru matsmenn ekki sammála þeirri niðurstöðu V læknis að hugsanleg skýring hjartastoppsins væri sú að lögreglumenn hafi misst stefnanda í gólfið. Ástæða þess sé fyrst og fremst sú að í skýrslu B vitnis komi greinilega fram að þegar lögreglumennirnir misstu stefnanda í gólfið hafi hann verið meðvitundarlaus, auk þess sem því sé lýst að hann hafi skollið á hnakkann en ekki á brjóstið. Með vísan til þessa töldu matsmenn ekki vera orsakatengsl milli valdbeitingar lögreglu gegn stefnanda og þess líkamstjón sem hann varð fyrir. Töldu matsmenn líklegustu orsök líkamstjónsins vera það sturlunar- eða geðrofsástand sem hann virtist vera í ásamt lífshættulegri brenglun á sýrustigi blóðs og gríðarlegri hækkun á vöðvaensímum. Allt þetta mætti að mati matsmanna tengja við ofneyslu stefnanda á orkugeli/orkudrykkjum í aðdraganda tjónsatburðar. Var stefnandi metinn til algjörs varanlegs miska, þ.e. 100 stiga og 100% varanlegrar örorku. Tímabundið atvinnutjón var 100% frá tjónsatburði fram að áætluðum stöðuleikatímapunkti. Þjáningatímabil og tímabil tímabundins atvinnutjóns taldist það sama, þar af taldist stefnandi hafa verið rúmliggjandi frá 11. maí 2010 til 29. september 2010. Samkvæmt beiðni stefnanda voru þann 22. janúar 2016 dómkvaddir sem matsmenn í málinu þeir K geð- og embættislæknir L lyf- og hjartalæknir. Matsgerð lá fyrir 11. júní það ár. Matsmenn töldu að miðað við lýsingar á atburðinum mætti jafnvel líta á aðgerðir lögreglu sem björgunaraðgerð fremur en að þær hafi valdið hjartstoppi, enda hefði stefnandi allt eins getað fengið hjartastopp þótt lögreglan hefði ekki haft afskipti af honum. Niðurstaða matsmanna var því sú að þeir töldu valdbeitingu lögreglu ekki geta verið einn af orsakavöldum þess að stefnandi fór í hjartastopp. Þá töldu matsmenn ekki að efnið Agel sem talið var að stefnandi hefði neitt í óhóflegu magni fyrir atvikið gæti orsakað hjartastopp en þó með fyrirvara um að það væri hugsanlegt ef þess væri neytt í mjög miklu magni. Þá töldu matsmenn líkur á hjartastoppi auknar vegna aðgerða lögreglu sökum ástands stefnanda fyrir handtökuna. Að lokum töldu matsmenn líkur fyrir því að stefnandi hefði farið í hjartastopp þótt ekki hefði komið til aðgerða lögreglu. Stefnandi var ósáttur við matið og óskaði yfirmats. Yfirmatsmenn voru dómkvaddir 28. október 2016, þau, M lyf- og hjartalæknir, O taugalæknir og N geðlæknir. Yfirmatsgerð var gefin út 1. mars 2017. Matsmenn töldu aukna hættu á hjartastoppi við þær aðstæður þegar nauðsynlegt væri að beita valdi og töldu því líklegt að valdbeiting hefði átt þátt í að valda hjartastoppinu en aðrir þættir gætu verið meðvirkandi. Um fæðubótaefnið Agel töldu matsmenn ekki forsendur til að ætla að það gæti valdið hjartastoppi. Þá töldu matsmenn í þriðja lagi útilokað að svara því játandi eða neitandi hvort stefnandi hefði farið í hjartstopp ef ekki hefði komið til valdbeitingar lögreglu. Á sama veg svöruðu matsmenn spurningunni ef stefnandi hefði fengið að klára sturtuna óáreittur. Niðurstaða matsmanna var sú að það yrði að teljast líklegt að valdbeiting hefði átt þátt í hjartastoppinu. Fyrir dómi kom fram að matsmenn töldu meira en helmingslíkur á þessu. Við upphaf aðalmeðferðar var lögð fram geðrannsókn P geðlæknis frá 25. september 2017 en hana framkvæmdi læknirinn vegna annars dómsmáls nr. E-161/2016 sem stefnandi höfðaði gegn Verði tryggingum hf. vegna atviksins. Læknirinn var dómkvaddur til verksins 29. júní 2017. Um hvort og að hvaða leyti viðbrögð stefnanda hafi verið ósjálfráð við handtökuna segir læknirinn það sitt álit að stefnandi hafi verið haldinn geðrofi og síðan miklu óráði í kjölfar alvarlegra veikinda við handtökuna. Því hafi öll viðbrögð hans verið algjörlega ósjálfráð. Þá taldi læknirinn að stefnandi hefði ekki gert sér neina grein fyrir gerðum sínum og afleiðingum þeirra. Undir- og yfirmatsmenn gáfu allir skýrslu fyrir dómi. Þá gáfu skýrslu H, fyrrum lögreglumaður og lögreglumennirnir G, S og T. P geðlæknir kom fyrir dóm og V hjartalæknir gaf símaskýrslu. Að endingu var tekin skýrsla af móður stefnanda. IV. Stefnandi byggir á því, að hann hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni vegna ólögmætrar og harkalegrar handtöku (valdbeitingar) lögreglunnar. Byggir stefnandi á að orsök hjartastoppsins hafi verið óheimilar og óþarflega harkalegar aðgerðir lögreglunnar. Því sé íslenska ríkið bótaskylt vegna líkamstjónsins. Byggir stefnandi kröfu sína á almennu skaðabótareglunni, auk 3. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála en sú bótaregla sé hlutlæg. Hafi stefnandi ekki stuðlað sjálfur að þessum harkalegu aðgerðum lögreglunnar, nema þá með litlu mótvægi og ósjálfráðum viðbrögðum, sem hafi verið eðlileg miðað við aðstæður. Verði ekki fallist á að ábyrgð stefnda sé hlutlæg byggir stefnandi á því, með vísan til sömu lagagreinar og hinnar almennu skaðabótareglu, að lögreglan beri ábyrgð vegna sakar þeirra starfsmanna sinna er að handtökunni stóðu. Fyrir það fyrsta byggir stefnandi á að handtaka lögreglunnar í umrætt sinn hafi verið ólögmæt, þar sem ekki verði séð að heimild hafi verið til hennar með vísan til 1. mgr. 90. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Ósannað sé að rökstuddur grunur hafi verið um að stefnandi hafi framið brot í umrætt sinn sem sætt getur ákæru, enda hafi hann aldrei verið ákærður í framhaldinu. Þá verði ekki heldur séð að handtakan hafi verið nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, enda hafi stefnandi verið í boði húsráðanda á heimili hans í sturtu, eða til að tryggja návist hans eða öryggi eða öryggi annarra. Þá byggir stefnandi á að lögreglunni hafi þar að auki verið óheimilt að opna sér leið inn á baðherbergið og rífa stefnanda úr sturtunni án dómsúrskurðar eða sérstaks samþykkis stefnanda. Þá telur stefnandi þar að auki augljóst að ekki hafi verið um samfellda eftirför í húsið að ræða sem réttlætt geti það að baðherbergið hafi verið opnað án dómsúrskurðar eða samþykkis stefnanda. Enn fremur byggir stefnandi á að lögreglan hafi ekki í umrætt sinn gætt meðalhófs við handtökuna. Ljóst sé að lögreglu hafi verið unnt að beita mun vægari úrræðum við handtökuna. Meðalhófsreglan sé bæði skráð og óskráð meginregla í íslenskum lögreglurétti og talin þýðingarmikil við framkvæmd lögreglustarfa. Reglan fái og stoð í stjórnsýslulögum, lögum nr. 88/2008, mannréttindasáttmála Evrópu og 68. og 71. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi vísar og til 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og greinargerðar með lögunum. Þótt handhöfum lögregluvalds sé heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna megi þeir þó aldrei ganga lengra en þörf sé á hverju sinni, sbr. 14. gr. lögrl. Stefnandi bendir á að þegar lögreglumenn komu að húsnæði B hafi téður B sagt lögreglu að engin hætta stafaði af stefnanda. Þá hafi legið fyrirá þessum tímapunkti að stefnandi hafi verið óvopnaður. Þar af leiðandi hafi engin þörf verið á þeim harkalegu úrræðum sem lögreglan beitti í umrætt sinn og sem urðu þess valdandi að stefnandi fór í hjartastopp. Þá hafi lögreglunni verið í lófa lagið að leyfa stefnanda að klára sturtuna og reyna að róa hann niður áður en hann væri handtekinn. Hefði þess háttar meðalhófs verið gætt sé ljóst, að mati stefnanda, að hann hefði ekki farið í hjartastopp Stefnandi byggir á því, með hliðsjón af þeim hátternisreglum og verklagsreglum lögreglu, þeirri kunnáttu sem lögreglumenn eigi að búa yfir, og þar af leiðandi á grundvelli reglna skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð, að stefndi beri sönnunarbyrði um að líkamstjón stefnanda sé ekki á ábyrgð lögreglunnar. Alla vega eigi þessar reglur að létta sönnunarbyrði stefnanda. Í því sambandi verði stefndi að sýna fram á hvað réttlæti þá handtöku sem stefnandi varð fyrir og hver hafi verið raunveruleg ástæða handtökunnar. Varðandi orsakatengsl milli handtöku lögreglunnar og hjartastoppsins byggir stefnandi á því að orsök þess að hann hafi farið í hjartastopp sé að öllum líkindum tengd handtökunni, líkt og V, sérfræðingur í lyflækningum og hjartasjúkdómum, telji samkvæmt vottorði sínu. Þar telji læknirinn mögulegar og líklegar orsakir vera af tvennum toga. Í fyrsta lagi, að sú valdbeiting sem lögreglan hafi beitt stefnanda í því ástandi sem hann var hafi verið þess valdandi að stefnandi hafi farið í hjartastopp. Í öðru lagi, að höggið þegar lögreglumenn hafi misst stefnanda á gólfið, hafi leitt til hjartastoppsins. Sé hjartastoppið sennileg afleiðing þessara tveggja hugsanlegra orsaka. Telur stefnandi í þessu samhengi að ekki sé tækt að byggja á niðurstöðu undirmats en þar gefi matsmenn sé ákveðnar fyrir fram gefnar forsendur, sem við nánari athugun standist ekki endilega nánari skoðun. Hann vísar hins vegar yfirmats sem hann telur að byggja beri á um orsakatengsl í málinu. Fjallað sé í undirmati almennt um auka- og eiturverkanir orkugels/orkudrykkja, án þess að nokkurn tímann hafi farið fram rannsókn eða skoðun á sjálfu gelinu sem stefnandi tók inn daginn sem hann var handtekinn. Af lestri matsgerðarinnar megi ráða að það virðist skipta meginmáli í niðurstöðu matsmanna að stefnandi hafi innbyrt mikið magn af koffíndrykkjum. Umrætt Agel hafi aldrei verið rannsakað af matsmönnum Byggir stefnandi á að þannig sé ómögulegt og óvísindalegt að gefa sér þær forsendur að gelið hafi valdið eða átt þátt í því að valda hjartastoppinu. Það sé til dæmis engan veginn sannað að stefnandi hafi orðið fyrir koffíneitrun. Þá telur stefnandi það furðulegt að vottorði V sé alfarið hafnað, m.a. með vísan til þess að stefnandi hafi fallið með hnakkann á gólfið, er lögreglumennirnir misstu hann, en ekki á brjóstið. Byggir stefnandi á að þrátt fyrir að hann hafi fallið með hnakkann í fyrstu viðkomu við gólfið hafi hann einnig orðið fyrir átökum við handtökuna sem eins líklegt sé að hafi orsakað hjartastoppið. Allavega sé ótækt að útiloka það einungis með vísan til þess að stefnandi hafi fallið með hnakkann á gólfið. Telur stefnandi í því ljósi að undirmatsgerð svari ekki með fullnægjandi hætti hvort handtakan sem slík hafi verið aðalorsakavaldur eða meðorsök þess að stefnandi fór í hjartastopp. Byggir stefnandi á að til þess að orsakatengsl teljist vera fyrir hendi í skaðabótarétti sé nægilegt að orsakasamband sé til staðar þótt ekki sé um að ræða meginorsök. Að þessu hafi ekki verið gætt við vinnslu matsgerðarinnar. Byggir stefnandi á að hin harkalega og óþarfa handtaka (valdbeiting) sem viðhöfð hafi verið af lögreglunni í umrætt sinn hafi verið meðvirkandi þáttur í að stefnandi fór í hjartastopp með fyrrnefndum afleiðingum. Hið meinta geðrofsástand hans þennan dag geti ekki talist nægjanlegur orsakavaldur eitt og sér. Ekki hafi legið fyrir rökstuddur grunur í skilningi 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 um ætlaða refsiverða háttsemi stefnanda. Telur stefnandi því að lögmæt skilyrði hafi brostið til þessara aðgerða, ekki hafi verið tilefni til þeirra af hálfu lögreglu og þær verið framkvæmdar á óþarfalega hættulegan, særandi og móðgandi hátt. Hafi hin harkalega og óþarfa handtaka að endingu leitt til mikils tjóns fyrir stefnanda eins og komið er að hér að ofan. Eigi stefnandi því rétt til bóta, með vísan til XXXVII. kafla laga nr. 88/2008. Stefnandi styður dómkröfur sínar við sakarregluna, meginreglur um vinnuveitanda­ábyrgð og sakamálalög nr. 88/2008. Þá styðji stefnandi dómkröfur sínar við meginreglur skaðabótaréttar, svo sem regluna um vinnuveitendaábyrgð. Byggir stefnandi jafnframt kröfu sína á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins og stjórnskipunarréttarins og á lögreglulögum, en viðurkenningarkröfu sína byggi hann á 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Einnig byggi stefnandi á þeim lagaákvæðum og réttarreglum sem þegar hafi verið nefndar, sem og reglum skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð og sennilega afleiðingu og á skilyrðiskenningunni. Hvað málskostnað varði sé vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. V. Stefndi bendir á vegna kröfu stefnanda um viðurkenningu skaðabótaskyldu sem byggi á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að í fjölda dóma Hæstaréttar hafi tilvitnað ákvæði verið skýrt með þeim hætti að sá sem höfði mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir í hverju tjón hans felist svo og tengslum þess við hið ætlaða skaðaverk. Í máli þessu liggi fyrir að stefnandi fékk dómkvadda tvo matsmenn sem skiluðu matsgerð 10. september 2014. Óskað var m.a. eftir mati á því hvort orsakatengsl væru til staðar á milli valdbeitingar lögreglu gagnvart stefnanda og þess líkamstjóns sem hann varð fyrir. Á bls.18 í undirmatsgerð sé gerður reki að því að svara ofangreindri spurningu. Sé niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna á þann veg að ekki séu orsakatengsl milli valdbeitingar lögreglu gagnvart stefnanda og þess líkamstjóns sem hann varð fyrir. Stefnandi geri reyndar grein fyrir þessari niðurstöðu í stefnu en telji ekki tækt að byggja á niðurstöðu matsgerðarinnar. Matið hafi engu að síður verið unnið af tveimur óvilhöllum aðilum. Í matsgerð sé reifað ástand stefnanda dagana fyrir tjónsatburð. Komi þar m.a. fram að stefnandi hafði ekki sofið í um fimm sólarhringa og farið í líkamsrækt u.þ.b. þrisvar sinnum á dag.  Einnig hafi hann verið hálf manískur og talað um fátt annað en orkugelið sem hann ætlaði að hefja innflutning á. Taki matsmenn undir álit U, yfirlæknis á gjörgæsludeild þar sem fram komi að það væri útilokað að stefnandi hefði lifað með eins lágt sýrustig og mældist í honum nema að líkaminn hefði fengið einhvern tíma til aðlögunar. Að mati U sé líklegast að þarna hafi verið um að ræða tveggja eða þriggja daga ástand áður en stefnandi hafi farið í hjartastopp og að þetta lága sýrustig tengist inntöku orkugels/orkudrykkja dagana áður. Eins og áður segir hafi niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna verið sú að ekki væru orsakatengsl milli valdbeitingar lögreglu og líkamstjóns. Byggi það m.a. á vitnisburði húsráðanda um að stefnandi hafi þegar verið meðvitundarlaus áður en hann skall í gólfið og auk þess hafi hann skollið á hnakkann en ekki brjóstið eins og V læknir taldi að gæti verið hugsanleg skýring. Niðurstaða dómkvaddra undirmatsmanna geri það að verkum að dómkrafa stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu fullnægi ekki þeim kröfum sem 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 geri til slíkra krafna um viðurkenningu. Stefndi bendi á að samkvæmt gögnum málsins séu ekki tengsl milli tjóns og atvika máls og beri því í samræmi við fjölmörg dómafordæmi að vísa þessari kröfu frá dómi sjálfkrafa (ex officio) nema dómurinn komist að annarri niðurstöðu en hinir dómkvöddu matsmenn sbr. 66. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi bendir á að þegar atburðir gerðust hafi stefnandi legið undir grun um eignaspjöll og fíkniefnalagabrot. Hafði stefnandi einnig lagt nágranna sína í stórhættu með því að henda þungum hlutum fram af svölum og það hafi ekki verið honum að þakka að enginn varð fyrir þeim hlutum. Var þetta leiksvæði barna og útiverusvæði. Stefnandi hafi hlaupið um nakinn að því er virtist blóðugur og vopnaður golfkylfu. Hann hafi fundist í húsi þar sem hann átti ekki erindi og var ástand hans með þeim hætti að tryggja þurfti návist hans og öryggi. Með þessu framferði hafi stefndi valdið eða a.m.k. stuðlað að þeim aðgerðum sem hann nú reisir kröfur sínar á, sbr. 2. og 3. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt undirmati hafi stefnandi sjálfur komið sér í það ástand sem leiddi til þeirrar niðurstöðu sem orðin er. Handtakan hafi ekki verið ólögmæt og ekki um að ræða óþarflega harkalegar aðgerðir samkvæmt þeim skýrslum sem liggi fyrir. Í 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 komi fram skilyrði fyrir handtöku en þar segi m.a. að lögreglu sé rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur leikur á að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot o.s.frv. Í þessu máli hafi legið fyrir rökstuddur grunur um ýmis brot og þótt ekki hafi verið ákært breyti það því ekki að ákvörðun um að handtaka stefnanda hafi verið rétt og uppfyllt skilyrði laganna. Ástæða þess að ákæra hafi ekki verið gefin út sé sú að heilsufarsástand stefnanda eftir þessa atburði hafi ekki gefið tilefni til að ákæra og ná fram sakfellingu. Varðandi röksemdir stefnanda um að lögreglu hafi verið óheimilt að fara inn og sækja hann í sturtu bendir stefndi á að húsráðandi hafi ekki gert neina athugasemd við lögreglu eftir atburðinn né heldur hafi hann varnað lögreglu inngöngu. Eins og húsráðandi lýsti atburðum eftir á hafi hann sagt stefnanda hafa öskrað og látið einkennilega í sturtunni. Það sé ekki rétt sem fram komi í stefnu að húsráðandi hafi verið því alfarið mótfallinn að lögregla færi inn á heimili hans. Auk þess eigi hér við ákvæði 2. mgr. 75. gr. laga nr. 88/2008. Full ástæða hafi verið fyrir lögreglu, miðað við upplýsingar vitna og aðstæður í [...], að hafa áhyggjur af og elta stefnanda. Hafi upplýsingar gefið tilefni til að ætla að hann gæti verið sjálfum sér og öðrum hættulegur og við þær aðstæður hafi hann verið eltur og handtekinn. Varðandi meðalhóf þá hafi þess verið gætt við handtökuna og miðað við þá aðstöðu sem var til staðar. Þá liggi það fyrir samkvæmt gögnum málsins að stefnandi hafi misst meðvitund vegna eigin neyslu og skorts á svefni og það síðan leitt til hjartastopps eins og segi á bls. 19 í undirmati. Þannig sé ekkert í gögnum málsins sem bendi til að lögregla hafi gengið lengra en ástæða var til eða brotið gegn meðalhófsreglu. Tilvísun stefnanda til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er hafnað enda eigi skilyrði þeirrar greinar ekki við hér. Hvorki sé um að ræða ásetning né stórfellt gáleysi af hálfu lögreglu í þeirri atburðarás sem þarna varð. Eins og fram sé komið hafi legið fyrir rökstuddur grunur um ætlaða refsiverða háttsemi stefnanda og lögregla taldi lögmæt skilyrði til staðar til að handtaka hann. Aðgerðin hafi ekki verið harkalegri en ástæða var til en stefnandi hafi barist kröftuglega á móti eins og fram komi í gögnum málsins. Samkvæmt 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 megi lækka eða fella niður bætur ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Það ákvæði eigi við í þessu máli. Þar sem stefnandi málsins hafi komið sér sjálfur í það ástand sem leiddi til þeirra afleiðinga sem urðu beri hann sjálfur ábyrgð á því sem gerðist. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir öllu sem bótakröfu hans viðkemur m.a. um sök, ólögmæti, orsakasamband og sennilega afleiðingu. Stefndi byggi á því að ekki séu til staðar skilyrði til að dæma bætur í máli þessu. Tilvísun stefnanda til stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og rökstuðningi er vísað á bug. Að öðru leyti er vísað til málsástæðna og lagaraka varðandi aðalkröfu stefnda. Stefnandi vísar um málskostnað til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. VI. Í fyrri dómi var fjallað um að stefndi reifaði í greinargerð sinni til dómsins þá sjónarmið sem hann taldi að leiða ættu til frávísunar málsins sjálfkrafa (ex officio) sökum þess að stefnandi hefði ekki sannað orsakatengsl á milli aðgerða lögreglu og þess ástands sem stefnandi búi við í dag. Því hafi ekki tekist sönnun um að stefnandi hafi, vegna ætlaðs skaðaverks, orðið fyrir fjárhagslegu tjóni og því ekki fullnægt skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, til að höfða viðurkenningarmál. Rétt er að í undirmati og öðru mati til var ekki talið að valdbeiting lögreglu hefði átt þátt í hjartastoppi hjá stefnanda. Í yfirmati kom hins vegar fram að matsmenn töldu líklegt að valdbeiting hefði átt þátt í hjartastoppinu. Fyrir dómi kom fram hjá öllum yfirmatsmönnum að með þessu væri átti við meiri líkur en 50%. Í ljósi þessa og þeirrar staðreyndar að stefnandi er metinn til 100% varanlegrar örorku og 100 stiga miska vegna þessa atviks verður að telja að stefnandi eigi rétt á því að um kröfu hans verði fjallað efnislega og skilyrðum 2. mgr. 25. gr. sé því fullnægt. Í umfjöllun dómsins um þetta atriði þ.e. um hvort nægjanlegar líkur væru fyrir orsakatengslum þannig að skilyrðum ákvæðisins um viðurkenningarkröfu væri fullnægt var engu hins vegar slegið föstu um að slík orsakatengsl hafi verið til staðar sbr. sérstaka umfjöllun um það atriði í niðurlagi fyrri úrlausnar. Ekki er, þannig að skipti máli, gerður ágreiningur um aðdraganda þess að lögregla kom umrætt sinn að [...]. Tilkynning hafði borist um átök og að maður vopnaður golfkylfu væri fyrir utan húsið. Einnig var tilkynnt um mann sem væri að rústa íbúð á fjórðu hæð. Er lögreglumenn komu á staðinn var þeim sagt að nakinn maður vopnaður golfkylfu hefði hlaupið í átt að kirkju skammt frá og haft í hótunum við nærstadda. Þegar að [...] var komið var lögreglu tilkynnt af aðilum á vettvangi að maðurinn hefði hlaupið inn í kjallaraíbúð að [...]. Stefnandi heldur því reyndar fram að ósannað sé með öllu að hann hafi valdið spjöllum á íbúðinni. Framburður lögreglumanna sem á staðinn komu er einróma um að húsráðandi í íbúðinni sem stefnandi hafði farið inn í hafi á engan hátt sett sig á móti því að lögregla kæmi inn og verður ekki heldur annað ráðið af framburði hans sjálfs fyrir dómi 30. september 2015. Eins og atvikum hefur verið lýst verður að líta svo á að ekkert bendi til þess að lögregla hefði þurft að afla sér húsleitarheimildar í umrætt sinn og hefur þetta atriði enga þýðingu við úrlausn málsins. Framburður lögreglumanna fyrir dómi um ástandið á stefnanda þegar lögregla kom að honum er ekki með öllu samhljóða enda gerðust atburðir næstum sjö og hálfu ári fyrr en framburður var gefinn fyrir dómi. Um hitt voru lögreglumenn sammála, að þegar reynt var að tjónka við stefnanda og handtaka hann lét stefnandi öllum illum látum. Eitt vitnanna sagði að hann hefði verið viti sínu fjær, annað að hann hefði fengið æðiskast, þriðja vitnið lýsti því svo að hann hefði verið kolvitlaus, streist á móti og verið í sturlunarástandi, fjórði lögreglumaðurinn sagði stefnanda hafa öskrað óstjórnlega og hafi hann verið í öðrum heimi. Allir voru lögreglumennirnir sammála um að nauðsynlegt hefði verið að handtaka stefnanda við þær aðstæður sem höfðu skapast en þeir hefðu ekki náð neinu sambandi við stefnanda sökum ástands hans. Þá kom fram að aðstæður hefðu verið nokkuð hættulegar og nauðsynlegt að forða stefnanda frá því að skaða sjálfan sig miðað við aðstæður á baðherberginu og ástand stefnanda. Lögregla taldi fullljóst að handtaka færi fram ef sömu aðstæður sköpuðust að nýju.  Ekkert er heldur komið fram í málinu um að handtakan hafi verið óþarflega harðneskjuleg en lögreglumaður sem fylgdist með álengdar taldi hana hafa verið fumlausa og gengið hratt fyrir sig. Framburður húsráðanda um að lögreglumaður hafi sett hné í bak stefnanda fær ekki stuðning í öðrum gögnum málsins og jafnvel þótt um slíkt hefði verið að ræða þá verður því ekki slegið föstu að það hefði verið eitthvert úrslitaatriði um það sem á eftir kom, auk þess sem að til sanns vegar mætti þá og færa að nauðsynlegt hefði verið að beita slíkum tökum á stefnanda miðað við ástand hans. Hið sama gildir um þann framburð húsráðanda að stefnandi hafi skollið með hnakkann í gólfið þegar lögreglumennirnir hafi misst hann. Þeir fjórir lögreglumenn sem komu fyrir dóminn staðhæfðu að þetta hefði ekki gerst og til þess er að líta þegar framburður húsráðanda er metinn að aðstæður voru mjög þröngar inni á baðinu og jafnframt nokkur þröng á þingi þegar handtakan átti sér stað en samkvæmt lögregluskýrslu verður ekki betur séð en að sex lögreglumenn hafi verið viðstaddir handtöku stefnanda. Sama gildir hér og um að lögreglumaður hafi sett hné í bak stefnanda að ekki liggur fyrir nein sönnun um það í málinu að svona fall hafi getað valdið hjartastoppinu. V hjartalæknir taldi hins vegar í vottorði að högg á brjóst gæti valdið hjartastoppi. Ekki er heldur óvarlegt að ætla að ef litið yrði, þrátt fyrir framangreint, svo á að lögregla hefði misst stefnanda á gólfið í baðherberginu hefði það verið vegna mikillar bleytu á gólfinu, vegna þess að stefnandi var sjálfur rennblautur og sleipur og vegna erfiðra aðstæðna og yrði þá talið til óhappatilviks. Þá verður þessi hugsanlega atburðarrás nú metin í því ljósi að fram kom í skýrslu húsráðanda sem tekin var fyrir dómi við endurtekna aðalmeðferð málsins 15. janúar sl. að stefnandi hafi farið í andnauð/hjartastopp inn á baðinu þ.e. áður en lögregla ákvað að koma honum út af baðherberginu til að hægt væri við betri aðstæður að reyna endurlífgun. Með vísan til alls framangreinds telur dómurinn með öllu ósannað að lögreglumenn hafi gerst sekir um saknæma háttsemi við handtöku stefnanda eða að handtakan hafi verið ólögmæt af öðrum orsökum. Verður ekki annað séð en að aðstæður umrætt sinn við handtökuna hafi verið með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. 90. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 eða í 2. mgr. 93. gr. laganna og má til sanns vegar færa að reynt hafi verið að gæta þess eftir föngum að stefnandi ynni ekki tjón á sjálfum sér eða öðrum, sbr. síðari málslið þess ákvæðis. Eins og ástandi stefnanda hefur verið lýst verður ekki séð að hægt hefði verið að beita vægari úrræðum umrætt sinn og verður því talið að meðalhófs hafi verið gætt. Ekki verður fallist á að framangreind lagafyrirmæli eigi ekki stoð í stjórnarskrá sbr. 1. mgr. 67. gr. hennar eða brjóti gegn mannréttindasáttmála Evrópu. Ekkert bendir til þess að aðgerðir lögreglu hafi verið óheimilar og óþarflega harkalegar eins og stefnandi byggir á. Því eru engin efni til að fallast á bótaskyldu stefnda á grundvelli almennu sakarreglunnar og reglna um ábyrgð vinnuveitanda á starfsmönnum sínum. Stefnandi byggir kröfu sína jafnframt á 3. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Stefnandi byggir ekki á því í stefnu málsins að 1. mgr. ákvæðisins eigi við en nefndi það við aðalmeðferð að málið gegn stefnanda hefði verið fellt niður. Lögmaður stefnda benti á að sú ákvörðun hefði einvörðungu byggst á heilsubresti stefnanda og er ekki ástæða til að draga þá fullyrðingu í efa miðað við málsatvik. Í ljósi ástæðna þess að fyrri héraðsdómur var ómerktur af Hæstarétti og þeirra ábendinga til dómsins sem rétturinn setti þar fram verður nú fjallað um hvort orsakatengsl hafi verið á milli aðgerða lögreglu og þess tjóns sem stefnandi varð fyrir í tengslum við þær. Eins og áður er rakið liggja fyrir þrjár matsgerðir í máli þessu. Lögmaður stefnda benti 1á það við síðari aðalmeðferð málsins að matsgerð sem stefnandi óskaði eftir í máli nr. M-116/2012 ætti að hafa meira sönnunargildi en ella fyrir þær sakir að ekki var þar óskað yfirmats. Í ítarlegri matsgerð I hjartalæknis og J hæstaréttarlögmanns frá 10. september 2014 var fjallað um, líklegustu orsök þess líkamstjóns sem stefnandi, matsbeiðandi varð fyrir 11. maí 2010. Þar segir: „Líklegasta orsök hjartastoppsins er það sturlunar eða geðrofsástand sem hann virtist vera í ásamt lífshættulegri brenglun á sýrustigi blóðs og gríðarlegri hækkun á vöðvaensímum. Allt þetta má að mati matsmanna tengja við ofneyslu hans á orkugeli/orkudrykkjum í aðdraganda tjónsatburða.“ Síðar segir í niðurstöðum: „Eins og rakið er að framan ......þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til orsakatengsla milli valdbeitingar lögreglu og þess líkamstjóns sem A varð fyrir.“ I var ekki kölluð fyrir dóm til skýrslugjafar en J kom og svaraði því einungis að hann kannaðist við matsgerðina en því hefur ekki verið mótmælt að matsgerðin eins og hún liggur fyrir í málinu stafar frá þeim. Eins og fyrr segir var ekki brugðist sérstaklega við þessari matsgerð eftir því sem best verður séð fyrr en með nýrri matsbeiðni sem lögð var fram í héraðsdómi 29. október 2015. Þar var fyrsta matsspurning þessi: „Hvort valdbeiting lögreglunnar er stefnandi var handtekinn, geti verið einn af orsakavöldum þess, að stefnandi fór í hjartastopp, hinn 11. maí 2010. Ef svarið jákvætt, er þess beiðst að matsmenn greini á milli orsaka líkamstjónsins.“ Þriðja matsspurning var: „Hvort matsbeiðandi hefði farið í hjartastopp ef ekki væri fyrir valdbeitingu lögreglunnar í umrætt sinn.“ og fjórða spurning var „Hvort líklegt sé að stefnandi/matsbeiðandi hefði orðið fyrir hjartastoppi, ef hann hefði fengið að halda áfram óáreittur í sturtunni, hefði fengið að klára það verk, og ekki hefði komið til að hann hefði verið handtekinn á þeim stað af lögreglu, með þeim hætti sem gert var og á þeirri stundu.“ Með matsgerð sem leit dagsins ljós 11. júní 2016 skiluðu dómkvaddir matsmenn, K dr. med. geð- og embættislæknir og L, lyf- og hjartalækni niðurstöðum sínum. Svörin við framangreindum spurningum voru þau að matsmenn svöruðu fyrstu spurningu neitandi. Þriðju spurningu svöruðu þeir með vísan til svars við fyrstu spurningar, en bættu við að „matsmenn telja að líkurnar á að matsbeiðandi hefði getað farið í hjartastopp séu auknar vegna hans öra ástands rétt fyrir tjónsatburð.“ Fjórðu spurningu svöruðu þeir þannig að þeir teldu líkurnar á því að matsbeiðandi hefði getað farið í hjartastopp hefðu verið fyrir hendi. Þá svöruðu matsmenn að auki spurningu um hvort efnið Agel sem stefnandi hafði tekið inn fyrir atvikið gæti orsakað hjartastopp. Matsmenn töldu það ekki þ.e. að efnið væri til þess fallið en töldu sig ekki geta fullyrt neitt um það ef það væri tekið í gríðarlegu magni. Í forsendum niðurstöðu sinnar taka matsmenn eftirfarandi fram: „Matsmenn telja því að allt eins megi færa líkur að því að lögreglan hafi bjargað matsbeiðanda eins og hinu að hún hafi valdið honum tjóni. Í ljósi kringumstæðna er það álit matsmanna að aðgerðir lögreglu hafi verið nauðsynlegar björgunaraðgerðir“. L matsmaður greindi m.a. frá því í skýrslu fyrir dómi að stefnandi hafi umrætt sinn verið í undirliggjandi ástandi sem sé lífshættulegt og að í sumum rannsóknum hafi þetta ástand „Lethal Catatonia“ verið talið bera dánartíðni 20 til 30%. Matsmaðurinn lýsti sig ósammála niðurstöðu yfirmatsmanna. Taldi skýringuna fyrir þeirra niðurstöðu einkum vera þá að þar hafi verið þrír sérfræðingar úr sitthvorri áttinni sem hafi komist í raun að þremur mismunandi niðurstöðum sem sýni hvað málið sé margslungið og óvanalegt. Þá hafi yfirmatsmenn ekki tekið jafn víðtæka nálgun á málið og undirmatsmenn hefðu gert þ.e. hafi ekki tekið afstöðu til þess hvað hefði getað gerst ef ekki hefði komið til átaka við lögreglu. Hafi undirmatsmenn talið mjög ólíklegt að hraustur ungur maður færi í hjartastopp þrátt fyrir gríðarmikla áreynslu ef ekki væri til staðar einhver undirliggjandi ástæða. K matsmaður taldi yfirmatsgerð vel unna og vandaða en var ekki sammála niðurstöðunni þ.e. að ekki væri hægt að slá því föstu að ástæða fyrir öndunar/hjartastoppi væru helst átök við lögreglu. Kvað hann langlíklegustu skýringuna geðrof, þ.e. illkynja sturlunarástand, geðrofsstjarfi eða „malignant catatonia, en slíkt ástand gæti valdið niðurbroti vöðva í líkamanum og mikilli hættu. Í samantekt yfirmatsmanna kemur eftirfarandi fram í niðurlagi: „Um er að ræða heilsuhraustan ungan mann sem fékk hjartastopp 22ja ára gamall í átökum við lögreglu. Maðurinn var á þeim tíma í geðrofslíku ástandi en orsök þess er ekki þekkt. Við uppvinnslu eftir hjartastoppið greindist engin ein augljós og ákveðin orsök fyrir atburðinum. Sérstaklega greindist enginn undirliggjandi hjartasjúkdómur og lyfjaleit var neikvæð. Það er þekkt að valdbeiting getur valdið  hjartastoppi við ákveðnar aðstæður, sérstaklega ef sá sem beittur er valdi er órólegur og æstur eins og í umræddu tilfelli. Það er okkar mat að í ljósi atburðarrásarinnar verður að teljast líklegt að valdbeiting hafi átt þátt í hjartastoppinu.“ M hjartalæknir einn yfirmatsmanna sagði í skýrslu sinni að það væri ekki endilega bara einn þáttur sem gæti orsakað hjartastopp heldur væri það oft einn, tveir eða fleiri meðvirkandi þættir. Hún staðfesti hins vegar að niðurstaða matsmanna hefði verið sú að yfir 50% líkur væru á því að valdbeiting lögreglu hefði átt þá í að valda hjartastoppinu. Hún sló því þó föstu að áður en stefnandi fékk hjartastopp hafi hann greinilega verið í einhverju óráðsástandi og kvaðst taka undir álit P geðlæknis frá 25. september 2017. Þar taldi sá læknir að ástand stefnanda fyrir atvikið hafi passað vel við lýsingu á ástandi sem bæri heitið æsingarástand (exited type) af heilkenni sem nefnt sé „Lethal Catatonia“. Æsingsformið einkennist af miklum hreyfióróa einstaklingsins, hækkuðum hita, breytingu á meðvitund, truflun í ósjálfráða taugakerfinu og þetta ástand geti leitt til dauða á skömmum tíma. Í sumum rannsóknum hafi dánartíðni vera talin 20-30%. Lýst sé fjölgun hvítra blóðkorna, hækkun á vöðva ensýmum, sem geti leitt til hjartabilunar. M kvaðst í raun vera sammála niðurstöðum P þótt hún teldi hana ekki breyta meginniðurstöðu yfirmats. O taugalæknir og yfirmatsmaður staðfesti þá niðurstöðu að matsmenn hefðu talið meiri líkur en minni á því að átök stefnanda við lögreglu hafi átt þátt í hjartastoppi, en slík átök geti verið tölvuverður áhættuþáttur fyrir hjartastoppi. Læknirinn taldi minni líkur en meiri fyrir því að stefnandi hafi verið haldinn „Lethal Catatonia“ heilkenninu miðað við atvikalýsingar málsins, og kvaðst þannig persónulega draga niðurstöðu P í efa fremur en hitt. Læknirinn átti að mati dómsins mjög erfitt með að útskýra hvers vegna spurningum þrjú og fjögur væri svarað með öðrum hætti en fyrstu spurningunni, þrátt fyrir að spurningarnar væru mjög keimlíkar. Vísaði hann ítrekað til þeirrar miklu óvissu sem væri til staðar í málinu og gríðarlega mörg ef, sem gerðu í raun það ómögulegt að gefa skýr svör. Þriðji yfirmatsmaðurinn N geðlæknir, kvaðst í raun ekki getað fullyrt hvaða líkur væru fyrir því að aðgerðir lögreglu hafi valdið skaða stefnanda. Þær væru meiri en minni en hann taldi sig persónulega ekki getað reiknað það með neinu móti. Hann lýsti sig þó ósammála niðurstöðu P og taldi hana nokkuð langsótta. Varðandi meint misræmi á milli svara matsmanna við spurningu þrjú og fjögur annars vegar og fyrstu spurningu hins vegar, lýsti vitnið því að matsmenn hefðu ekki viljað: „láta hanka okkur á því að fullyrða það að einhver einn þáttur sé afgerandi í þessu. Það er alveg samræmi finnst mér í svörunum, það er alveg skýrt fyrir okkur að valdbeiting lögreglunnar miðað við lýsingu og það sem er vitað í þessum fræðum, getur verið einn af orsakaþáttunum.“ ------- Eins og framangreint staðfestir eru bæði undirmötin afdráttarlaus um að ekki sé hægt að rekja hjartastopp stefnanda og það tjón sem hann varð fyrir til aðgerða lögreglu umrætt sinn. Heldur verði tjónið rakið mun frekar til þess ástands sem stefnandi var í umrædd sinn. Ganga dómkvaddir undirmatsmenn reyndar svo langt að telja aðgerðir lögreglu hafa frekar verið til þess fallnar að bjarga stefnanda heldur en að skaða hann. Þrátt fyrir að geðrannsókn P taki ekki afstöðu að þessu leyti enda hann ekki spurður þeirra spurninga er rannsókn hans afdráttarlaus um það að stefnandi hafi verið í lífshættulegu ástandi sem hafi eftir því sem best verður séð valdið tjóni hans. P lýsir ástandi stefnanda við komu á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Hann hafi verið með fjölgun á hvítum blóðkornum, hækkað kalíum, hita sem talinn var stafa af „central“ orsökum. Þá hafi verið merki um mikið niðurbrot vöðva með gífurlegri hækkun á vöðvaenzymum, hækkun á kreatini og byrjandi einkenni um nýrnabilun. Með vísan til framangreindra sjónarmiða og eins og aðgerðum lögreglu hefur verið lýst hér að framan og þeirrar niðurstöðu að með öllu sé ósannað að þær hafi verið að einhverju leyti óeðlilegar eða of harkalegar, eða að eitthvað einstakt atvik í þeirri atburðarráðs hafi verið sérstaklega fallið til þess að leiða til þess tjóns sem stefnandi varð fyrir, telur dómurinn ósannað að tjón stefnanda verði rakið beinlínis til aðfara lögreglu. Í þessu sambandi athugist að ekki er hægt að líta svo á að yfirmatsmenn hafi verið mjög afdráttarlaus hvað þetta atriði varðar og því hvergi í málinu verið slegið föstu að aðgerðir lögreglu hafi beinlínis verið orsök fyrir hjartastoppi stefnanda. Niðurstaða þeirra er sú að það séu meiri líkur en minni á því að aðgerðir lögreglu hafi átt hlut að máli. Þ.e. að hafi verið líklegt til að hafa átt þátt í hjartastoppinu en aðrir þættir gætu hafa verið þar meðvirkandi. Dómurinn telur því ósannað í sjálfu sér að átökin við lögreglu hafi orsakað það að stefnandi fór í hjartastopp. Hvorki er hægt í þessu tilfelli að fullyrða að þau hafi engin áhrif haft þar á eða að fullyrða að aðkoma lögreglu hafi yfirhöfuð skipt máli. Ekki verður því á þessum grunni og með hliðsjón af öðrum gögnum málsins því slegið föstu að sönnun hafi tekist um að orsakatengsl séu á milli aðgerða lögreglu og þess tjóns sem stefnandi varð fyrir. Það stendur eftir að orsök hjartastoppsins er óklár þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir og vangveltur matsmanna þar um. Það er einfaldlega útilokað að fullyrða, miðað við gögn málsins, að bein orsakatengsl séu á milli handtökunnar og hjartastoppsins. Þá blasir það jafnframt við að mati dómsins að skilyrði um að tjónið hafi verið sennileg afleiðing af aðgerðum lögreglu geti ekki talist uppfyllt. Þegar af þeirri ástæðu að ekki eru sönnuð orsakatengsl á milli aðferða lögreglu við handtöku á stefnanda og þeirra atvika sem gerðust á sama tíma og leiddu til stórfellds tjóns fyrir stefnanda verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda. Með vísan til framangreinds telur dómurinn ekki ástæðu til að endurtaka umfjöllun um meintan hlut stefnanda í því tjóni sem hann varð fyrir, þ.e. að hann hafi valdið því með hegðan sinni að lögregla taldi brýna nauðsyn bera til þess að handtaka hann umrætt sinn. Þannig er ekki ástæða til að taka upp í niðurstöðu þessa dóms það sem lagt var til grundvallar í fyrri úrlausn að stefnandi hafi sjálfur valdið aðgerðum lögreglu og með því fyrirgert rétti sínum til bóta samkvæmt þágildandi 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, að háttsemi lögreglu hafi því ekki verið saknæm. Rétt þykir að málskostnaður falli niður. Stefnandi hefur lagt fram gjafsóknarleyfi í málinu sem útgefið var 5. júlí 2012 og er takmarkað við rekstur málsins fyrir héraðsdóms og því greiðist málkostnaður hans úr ríkissjóði. Að hafðri hliðsjón af málskostnaðarkröfu lögmanns stefnanda sem byggir á tímaskráningu og umfangi málsins er þóknun lögmanns ákveðin 900.000 krónur fyrir utan virðisaukaskatt. Fyrir hönd stefnanda flutti málið Steingrímur Þormóðsson hæstaréttarlögmaður og fyrir hönd stefnda, Ólafur Helgi Árnason hæstaréttarlögmaður. Dóm þennan kveða upp Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari, dómsformaður, og meðdómsmennirnir Davíð O. Arnar hjartalæknir og Nanna Briem geðlæknir. D Ó M S O R Ð Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda A. Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hans, 900.000 krónur.
Mál nr. 19/2020
Gjaldþrotaskipti Riftun Gjöf Endurgreiðsla Ógjaldfærni Kyrrsetning Hlutafélag Skipting félags Kröfugerð Málsforræði
Fallist var á með þrotabúi einkahlutafélagsins E að ráðstöfun fasteignar frá E til S sem framkvæmd var með skiptingu E í tvö félög hefði falið í sér gjafagerning í skilningi 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Var við það miðað að gjöfin hefði verið afhent þegar ráðstöfunin varð skuldbindandi og kom til framkvæmda við staðfestingu hluthafafunda E og S á skiptingaráætluninni og þar með innan riftunarfrests. Þar sem S var ekki talið hafa lánast sönnun um að E hefði verið gjaldfært þegar fasteignin hafði verið færð úr félaginu var riftunarkrafa þrotabús E tekin til greina. Jafnframt var fallist á kröfu þrotabús E um riftun á greiðslu E á skuld við S sem framkvæmd var skömmu fyrir töku E til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt því var S gert að greiða þrotabúi E 324.344.922 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Loks staðfesti Hæstiréttur kyrrsetningu í fjórum fasteignum S og SG, sem bent hafði á eignir í sinni eigu. Þar sem SG var talinn þriðji maður í skilningi laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. en ekki gerðarþoli var ekki talið að þrotabúi E hefði verið nauðsynlegt að stefna honum til staðfestingar á kyrrsetningu í fasteignum hans.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon og Eiríkur Tómasson, Garðar Gíslason og Helgi I. Jónsson fyrrverandi hæstaréttardómarar. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. apríl 2020. Hann krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur en gerir að því frágengnu eftirfarandi efniskröfur: Í fyrsta lagi aðallega að rift verði kaupsamningi Eggerts Kristjánssonar hf. og gagnáfrýjanda 29. desember 2013 um fasteignina Skútuvog 3 í Reykjavík, fastanúmer 202-0926 og 225-2018, og að gagnáfrýjanda verði gert að greiða aðaláfrýjanda 284.620.393 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 61.750.000 krónum frá 29. desember 2013 til 23. nóvember 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 222.870.393 krónum frá 1. júlí 2014 til 23. nóvember 2016 og af 284.620.393 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara að rift verði ráðstöfun sömu fasteignar sem gerð var með skiptingaráætlun Eggerts Kristjánssonar hf. og gagnáfrýjanda 30. mars 2014, sem staðfest var á hluthafafundum 9. og 12. september sama ár og að gagnáfrýjanda verði gert að greiða aðaláfrýjanda 303.028.340 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. september 2014 til 23. nóvember 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara að gagnáfrýjanda verði gert að greiða aðaláfrýjanda 222.870.393 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. júlí 2014 til greiðsludags.  Í öðru lagi að rift verði greiðslu Eggerts Kristjánssonar ehf. 15. mars 2016 til gagnáfrýjanda að fjárhæð 21.316.582 krónur sem framkvæmd var með þeim hætti að millifært var af bókarlausum reikningi nr. 105502 í eigu Eggerts Kristjánssonar ehf. inn á reikning í eigu gagnáfrýjanda og að gagnáfrýjanda verði gert að greiða aðaláfrýjanda 21.316.582 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. mars 2016 til 23. desember sama ár en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Í þriðja lagi að staðfest verði kyrrsetning sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 19. júlí 2017 í fasteignum gagnáfrýjanda að Eyrarvegi 2, Selfossi, fastanúmer 227-0582, og Egilsstöðum, Ölfusi, landnúmer 171697 og fastanúmer 231-4805, og eignum Skúla Gunnars Sigfússonar, fyrirsvarsmanns gagnáfrýjanda, Selbraut 86, Seltjarnarnesi, fastanúmer 206-8165 og Ósgerði, Ölfusi, fastanúmer 171790, sem bent var á til kyrrsetningar við kyrrsetningargerð nr. K-41/2017. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar á öllum dómstigum. Gagnáfrýjandi skaut málinu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 22. júlí 2020. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum aðaláfrýjanda en til vara að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum. I Bú EK1923 ehf., sem rak heildverslun, var tekið til gjaldþrotaskipta 7. september 2016 og var frestdagur við skiptin 9. maí sama ár. Félagið hét áður Eggert Kristjánsson hf. en rekstrarformi þess var breytt í einkahlutafélag 12. september 2014. Nafni félagsins var síðar breytt í EK1923 ehf. skömmu fyrir gjaldþrot þess. Gagnáfrýjandi er í eigu Stjörnunnar ehf. og Leitis eignarhaldsfélags ehf. sem bæði eru í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar. Mál þetta lýtur í fyrsta lagi að þríþættri kröfu aðaláfrýjanda vegna ráðstöfunar fasteignarinnar að Skútuvogi 3 í Reykjavík frá Eggerti Kristjánssyni hf. til gagnáfrýjanda. Aðaláfrýjandi krefst aðallega riftunar kaupsamnings um eignina 29. desember 2013 á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en til vara riftunar á þeirri ráðstöfun á eigninni sem gerð var með skiptingu Eggerts Kristjánssonar hf. í tvö félög samkvæmt skiptingaráætlun þess félags og gagnáfrýjanda 30. mars 2014, sem samþykkt var á hluthafafundum félaganna 9. og 12. september sama ár, aðallega á grundvelli 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991, en til vara 141. gr. sömu laga. Til þrautavara krefst aðaláfrýjandi þess að kaupsamningurinn verði efndur samkvæmt efni sínu og gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 222.870.393 krónur. Í öðru lagi lýtur málið að kröfu aðaláfrýjanda um riftun á greiðslu skuldar til gagnáfrýjanda að fjárhæð 21.316.582 krónur 15. mars 2016 og endurgreiðslu hennar, aðallega á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991, en til vara 141. gr. laganna. Í þriðja lagi krefst aðaláfrýjandi þess að staðfest verði kyrrsetning sem fór fram 19. júlí 2017 í fjórum tilgreindum fasteignum í eigu gagnáfrýjanda og fyrirsvarsmanns hans. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um riftun greiðslu 15. mars 2016 og endurgreiðslu hennar sem og kyrrsetningu tveggja fasteigna gagnáfrýjanda en kröfum aðaláfrýjanda var að öðru leyti hafnað. Málskostnaður var felldur niður í héraði og fyrir Landsrétti. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að úrslit málsins myndu hafa verulegt almennt gildi að því er varðar þær kröfur aðaláfrýjanda sem lúta að ráðstöfun umræddrar fasteignar til gagnáfrýjanda og um skilyrði og framkvæmd kyrrsetningar. II 1   Samkvæmt gögnum málsins gerði Leiti eignarhaldsfélag ehf. ásamt fleirum tilboð í allt hlutafé Eggerts Kristjánssonar hf. 16. nóvember 2013. Meðal eigna félagsins var fasteignin að Skútuvogi 3 í Reykjavík. Eggert Kristjánsson hf. og gagnáfrýjandi undirrituðu samning 29. desember sama ár um kaup gagnáfrýjanda á Skútuvogi 3 fyrir 475.000.000 króna. Kaupverðið skyldi greiða með peningum við útgáfu afsals og afhendingu eignarinnar 1. júlí 2014. Í samningnum kom fram að hann væri gerður í tengslum við fyrirhugaða sölu á hlutafé Eggerts Kristjánssonar hf. til Leitis eignarhaldsfélags ehf. og fleiri. Gengi sú sala ekki eftir væri hvorum aðila fyrir sig heimilt að rifta samningnum. Þá var kveðið á um að fyrir afhendingardag skyldu kaupandi og seljandi gera með sér leigusamning um hina seldu eign. Samningur um kaup Leitis eignarhaldsfélags ehf. og fleiri á hlutafé í Eggerti Kristjánssyni hf. var undirritaður 1. janúar 2014. Kaupsamningnum um Skútuvog 3 var þinglýst 22. sama mánaðar. Með leigusamningi gagnáfrýjanda, sem leigusala, og Eggerts Kristjánssonar hf., sem leigutaka, 14. mars 2014 tók síðarnefnda félagið fasteignina að Skútuvogi 3 á leigu til 15 ára. Upphaf leigutíma var miðað við 1. október 2013. Leigufjárhæð var 4.750.000 krónur á mánuði. Á stjórnarfundum 30. mars 2014 samþykktu stjórnir Eggerts Kristjánssonar hf. og gagnáfrýjanda að skipta fyrrgreinda félaginu í tvö félög á grundvelli 133. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 107. gr. a. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög samkvæmt skiptingaráætlun dagsettri sama dag. Samkvæmt skiptingunni yfirtók gagnáfrýjandi fasteignina Skútuvog 3 miðað við 1. október 2013. Skyldi skiptingin leiða til þess að hluthafar í Eggerti Kristjánssyni hf. létu af hendi hluti að nafnvirði 9.983.255 krónur í félaginu en fengju sem endurgjald hluti í gagnáfrýjanda að nafnvirði 641.573 krónur. Samkvæmt skiptingarefnahagsreikningi 30. september 2013 tók gagnáfrýjandi yfir skuldir sem hvíldu á fasteigninni og aðrar skuldbindingar, samtals að fjárhæð 267.461.304 krónur, en þar af var tekjuskattsskuldbinding 32.461.304 krónur. Fasteigninni var færð yfir á bókfærðu virði sem var 437.384.257 krónur.   Í skýrslu endurskoðanda vegna skiptingarinnar var tekið fram að endurgjald fyrir eignarhluta í hvoru félagi fyrir sig væri sanngjarnt og efnislega rökstutt með tilliti til fyrirliggjandi gagna. Þá yrði ekki séð að skiptingin myndi rýra möguleika lánardrottna félaganna til fullnustu krafna sinna. Skiptingaráætlunin var send fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra 30. apríl 2014 og birt í Lögbirtingablaði 16. maí sama ár. Á hluthafafundum félaganna 9. og 12. september 2014 var skiptingaráætlunin staðfest, þó með þeirri breytingu að fallið var frá fyrirhugaðri hækkun hlutafjár í Eggerti Kristjánssyni hf. Þar sem hlutafé félagsins varð við þetta undir lágmarki hlutafjár hlutafélaga samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 2/1995 var ákveðið að breyta rekstrarformi þess í einkahlutafélag. Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra var tilkynnt um staðfestinguna 17. september 2014. Samkvæmt gögnum málsins fékk gagnáfrýjandi tvö lán hjá Íslandsbanka 14. mars 2014, samtals að fjárhæð 475.000.000 króna, með veði í Skútuvogi 3. Lánin voru greidd út 8. apríl 2014 og var andvirðið að hluta nýtt til að greiða upp áhvílandi lán á fasteigninni, samtals 303.198.812 krónur á greiðsludegi. Mismunurinn var lagður inn á reikning gagnáfrýjanda. Þá fékk hann greiddar 51.069.205 krónur frá Eggerti Kristjánssyni hf.             Gagnáfrýjandi og Eggert Kristjánsson ehf. gerðu með sér nýjan leigusamning 21. júlí 2015 til fimm ára um húsnæðið að Skútuvogi 3. Reitir I ehf. gerðu kauptilboð 1. september 2015 í fasteignina og var kaupsamningur undirritaður 1. október sama ár. Í kjölfarið tóku Reitir I ehf. yfir fyrrgreindan húsaleigusamning. Óumdeilt er að við sölu fasteignarinnar til Reita I ehf. kom í ljós að afsal á eigninni til gagnáfrýjanda hafði ekki farið fram. Í gögnum málsins liggur fyrir afsal um fasteignina 3. september 2015 útgefið af Eggerti Kristjánssyni ehf. til handa gagnáfrýjanda. Þar er vísað til þess að það sé gert á grundvelli kaupsamnings aðila frá 29. september 2013 og að fullt og endanlegt uppgjör hafi farið fram milli aðila. Samkvæmt málsgögnum gaf gagnáfrýjandi 18. desember 2014 eftir kröfu á hendur Eggerti Kristjánssyni ehf. um leigu ársins 2014 að fjárhæð 57.650.997 krónur auk virðisaukaskatts eða samtals 72.352.002 krónur með útgáfu kreditreiknings. Í desember 2014 var hlutafé Eggerts Kristjánssonar ehf. aukið um 55.060.542 krónur. Fór sú hlutafjáraukning þannig fram að 27.000.000 króna kröfu gagnáfrýjanda á hendur félaginu, sem var tilkomin vegna láns til þess í nóvember sama ár, og 28.060.542 króna eftirstöðvum af kröfu Sólstjörnunnar ehf. vegna kaupa Eggerts Kristjánssonar ehf. á vörubirgðum Subway matsölustaða var breytt í hlutafé. Gagnáfrýjandi seldi Reitum I ehf. fasteignina Skútuvog 3 í Reykjavík með kaupsamningi 1. október 2015 og var kaupverðið 670.000.000 króna. Eftir arðgreiðslu frá gagnáfrýjanda á árinu 2017 og skiptingu hans í félögin Staðarfjall ehf. og Papbýlisfjall ehf., sem samþykkt var á hluthafafundum í félögunum þremur 26. janúar 2018 en miðaðist við 1. júlí 2017, hafði eigið fé gagnáfrýjanda lækkað úr 1.176.373.371 krónu í árslok 2016 niður í að vera neikvætt í árslok 2017 og allar fasteignir gagnáfrýjanda verið færðar í síðarnefndu félögin tvö. Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi aflaði aðaláfrýjandi mats dómkvadds manns á verðmæti fasteignarinnar Skútuvogs 3, annars vegar í desember 2013 og hins vegar í september 2014. Samkvæmt matsgerðinni var markaðsverð eignarinnar í desember 2013 talið vera 475.000.000 króna miðað við þá forsendu að hún væri ekki leigð út en 536.750.000 krónur miðað við þá leigufjárhæð sem lögð var til grundvallar í leigusamningi gagnáfrýjanda og Eggerts Kristjánssonar hf. 14. mars 2014. Þá var markaðsverð eignarinnar talið hafa verið 570.489.644 krónur miðað við september 2014 að teknu tilliti til leigufjárhæðar samkvæmt sama leigusamningi en 550.050.000 krónur ef ekki væri tekið tillit til áhrifa hans. Gagnáfrýjandi aflaði matsgerðar undir rekstri málsins í Landsrétti um framkvæmd skiptingar Eggerts Kristjánssonar hf. Niðurstaða matsmanns var að skipting verðmæta milli þess félags, gagnáfrýjanda og hluthafa beggja félaganna hefði verið í samræmi við skiptingaráætlun 30. mars 2014. 2 Mál þetta lýtur í annan stað að greiðslu Eggerts Kristjánssonar ehf. á skuld við gagnáfrýjanda 15. mars 2016. Gagnáfrýjandi lánaði félaginu 21.000.000 króna í október 2015 til baktryggingar fyrir húsaleiguábyrgð sem Íslandsbanki hf. veitti vegna skuldbindinga þess samkvæmt húsaleigusamningi um Skútuvog 3 frá 21. júlí 2015. Reitir I ehf. höfðu þá tekið yfir leigusamninginn. Fjárhæðin var lögð inn á bókarlausan reikning í eigu Eggerts Kristjánssonar ehf. sem handveðsettur var bankanum. Í kjölfar þess að nýr leigutaki tók við húsnæðinu 1. apríl 2016 og húsaleiguábyrgðin var felld niður óskuðu fyrirsvarsmenn Eggerts Kristjánssonar ehf. eftir því við starfsmenn Íslandsbanka hf. að innstæða á bankareikningnum yrði greidd gagnáfrýjanda. Af hálfu bankans var orðið við því með 21.316.582 króna millifærslu 15. mars 2016. 3 Í málinu krefst aðaláfrýjandi í þriðja lagi staðfestingar á kyrrsetningu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 19. júlí 2017 í fasteignum gagnáfrýjanda að Eyrarvegi 2 á Selfossi og Egilsstöðum í Ölfusi. Auk þess krefst hann staðfestingar á kyrrsetningu í eignum fyrirsvarsmanns gagnáfrýjanda, Skúla Gunnars Sigfússonar, að Selbraut 86 á Seltjarnarnesi og Ósgerði í Ölfusi, til tryggingar þeirra krafna sem mál þetta fjallar um. Samkvæmt gögnum málsins var kyrrsetning í síðastgreindum eignum gerð að ábendingu lögmanns gagnáfrýjanda sem mættur var við gerðina og ábyrgðist að samþykki Skúla Gunnars væri fyrir hendi.  III 1 Mál þetta var upphaflega höfðað í þrennu lagi en málin voru sameinuð í eitt í þinghaldi 25. janúar 2018. Með bókun í héraðsdómi 25. janúar 2018 lækkaði aðaláfrýjandi endurgreiðslukröfur þær, sem hann hafði gert í aðalkröfu og varakröfu vegna ráðstöfunar fasteignarinnar Skútuvogs 3, til samræmis við niðurstöðu matsgerðar, sem hann hafði aflað, með þeim afleiðingum að varakrafa varð hærri en aðalkrafa. Engu að síður hefur hann eftir þessar breytingar á kröfugerð haldið sömu röð á aðalkröfu, varakröfu og þrautavarakröfu. Samkvæmt meginreglu einkamálaréttarfars um málsforræði á stefnandi forræði á kröfugerð og framsetningu krafna sinna, þar með talið í hvaða röð hann stillir upp aðalkröfu og varakröfum. Dómstólum ber því að fjalla um kröfur í þeirri röð sem þær eru settar fram. Telst það því ekki annmarki á kröfugerð aðaláfrýjanda að henni sé hagað með þeim hætti að varakrafan gangi lengra en aðalkrafan. 2 Aðaláfrýjandi afmarkar ómerkingarkröfu sína með þeim hætti að hún taki ekki til þess þáttar hins áfrýjaða dóms sem varðar þá niðurstöðu að rifta greiðslu Eggerts Kristjánssonar ehf. á 21.316.582 krónum af bókarlausum reikningi félagsins yfir á reikning gagnáfrýjanda en aðaláfrýjandi krefst þess að Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu. Í málflutningi hér fyrir dómi var því lýst yfir af hálfu aðaláfrýjanda að forsenda fyrir því að umrædd krafa hans um ómerkingu hins áfrýjaða dóms kæmi til álita væri að hvorki yrði fallist á aðalkröfu hans um riftun á sölu fasteignarinnar að Skútuvogi 3 til gagnáfrýjanda samkvæmt kaupsamningi 29. desember 2013 né varakröfu hans um riftun á ráðstöfun eignarinnar á grundvelli skiptingar Eggerts Kristjánssonar hf. í tvö félög á árinu 2014. Af þessum sökum verður að leysa efnislega úr þessum kröfum aðaláfrýjanda áður en tekin er afstaða til ómerkingarkröfu hans. IV 1 Gjaldþrotaskipti eru sameiginleg fullnustugerð allra þeirra sem eiga kröfur á hendur skuldara við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti og lýsa kröfum sínum með réttum hætti í þrotabú eða eiga af öðrum ástæðum rétt til greiðslu við úthlutun. Riftunarreglur gjaldþrotaskiptalaga gera þrotabúi kleift að ónýta með afturvirkum hætti tilteknar ráðstafanir þrotamanns í þeim tilgangi meðal annars að draga fleiri eignir undir skiptin til hagsbóta fyrir kröfuhafa búsins. Reglurnar miða að því að rifta tilteknum ráðstöfunum þrotamanns sem áhrif hafa haft á möguleika kröfuhafa til að fá efndir af fjármunum búsins. Þannig kveða þær aðeins á um riftun ráðstafana sem hafa tiltekið eðli og endurheimt þeirra verðmæta sem þrotabúið hefur orðið af vegna þeirra en hafa ekki að geyma upptalningu á þeim tegundum löggerninga sem nýttir eru til þess að framkvæma þessar ráðstafanir. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar verður ráðið að riftanlegar ráðstafanir geta verið gerðar með margvíslegum og flóknum löggerningum á sviði fjármunaréttar eða öðrum réttarsviðum. Við mat á því hvort reglunum verði beitt þarf þannig að líta fram hjá tegund og formi löggerninganna en beina þess í stað sjónum að þeim afleiðingum sem ráðstöfunin hefur haft á fjárhag skuldara og þar með hagsmuni kröfuhafa hans, jafnt þeirra sem áttu kröfur á hendur skuldara þegar hún kom til framkvæmda og þeirra sem síðar eignuðust slíka kröfu allt til uppkvaðningar gjaldþrotaskiptaúrskurðar. 2 Í fyrsta kröfulið efniskrafna sinna krefst aðaláfrýjandi þess aðallega að hinum áfrýjaða dómi verði hnekkt og fallist á kröfu hans um riftun kaupsamnings Eggerts Kristjánssonar hf. og gagnáfrýjanda 29. desember 2013 um fasteignina Skútuvog 3 á grundvelli almennu riftunarreglunnar í 141. gr. laga nr. 21/1991 og endurgreiðslu 284.620.393 króna með nánar tilgreindum vöxtum. Aðaláfrýjandi hefur gert þá grein fyrir samspili aðalkröfu, varakröfu og þrautavarakröfu í þessum kröfulið að hann verði að gæta allra hagsmuna sinna og halda fram ýtrustu kröfum. Miklir hagsmunir séu af því fyrir kröfuhafa aðaláfrýjanda að vinda ofan af því undanskoti sem átt hafi sér stað með ráðstöfun á fasteigninni að Skútuvogi 3. Lögfræðileg staða milli málsaðila að því er varði þessa eignayfirfærslu sé langt í frá einföld. Sú flækja hafi skapast af því að sömu eigninni hafi verið ráðstafað frá Eggerti Kristjánssyni hf. til gagnáfrýjanda með mismunandi aðferðum. Fyrst með kaupsamningi, síðan með skiptingu og loks með afsali á grundvelli kaupsamningsins. Þessi eignayfirfærsla hafi ávallt verið því marki brennd að fasteignin hafi sannarlega farið á undirverði milli félaganna og hvort sem miðað sé við þann tíma sem kaupsamningurinn var gerður eða þegar áætlun um skiptinguna var staðfest hafi verið fyrirsjáanlegt að Eggert Kristjánsson hf. færi að öllu óbreyttu í þrot. Óumdeilt sé í málinu að kaupsamningurinn 29. desember 2013 hafi ekki verið að fullu efndur þar sem greiðslur sem þar var kveðið á um hafi ekki farið fram nema að hluta. Aðalkrafa aðaláfrýjanda í þessum kröfulið er þannig upp byggð að auk riftunar á fyrrnefndum kaupsamningi á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 krefst hann þess að greiddur verði mismunur á markaðsverði eignarinnar á þeim degi sem kaupsamningurinn var gerður og kaupverði samkvæmt samningnum en auk þess krefst hann greiðslu ógreiddra eftirstöðva kaupverðsins. Umrædd krafa er reist á því að áætlun um skiptingu Eggerts Kristjánssonar hf. í tvö félög hafi verið hrein markleysa og að jafnvel þótt hún verði talin halda haggi hún ekki skuldbindingargildi kaupsamnings og afsals um fasteignina Skútuvog 3. Gagnáfrýjandi hefur frá upphafi byggt málatilbúnað sinn á því að fasteigninni hafi verið ráðstafað á grundvelli gildrar skiptingar hlutafélags. Skiptingin hafi að fullu verið framkvæmd og gildi hennar ekki verið hnekkt. Eignayfirfærslan hafi að öllu leyti verið framkvæmd í samræmi við áætlun um skiptingu en ekki á grundvelli kaupsamnings 29. desember 2013. Þannig hafi verið staðið að uppgjöri skulda í samræmi við áætlunina en í hróplegu ósamræmi við ákvæði kaupsamnings. Bókhaldsgögn sýni einnig að fasteignin hafi verið færð til gagnáfrýjanda á grundvelli skiptingarinnar. Enda þótt fyrir liggi að skiptingaráætlunin, sem samþykkt var af stjórnum Eggerts Kristjánssonar hf. og gagnáfrýjanda 14. mars 2014, hafi að efni til verið ósamrýmanleg þeim löggerningum sem fyrir lágu um ráðstöfun fasteignarinnar Skútuvogs 3 milli félaganna með þinglýstum kaupsamningi í árslok 2013 verður að líta svo á að í áætluninni hafi falist nýtt og endanlegt fyrirkomulag á ráðstöfun fasteignarinnar milli félaganna sem hafi gengið framar fyrri kaupsamningi milli sömu aðila. Þessi ráðstöfun fasteignarinnar hafi öðlast fullt gildi með staðfestingu hluthafafunda félaganna 9. og 12. september 2014 á skiptingaráætluninni, með þeim breytingum sem þá voru gerðar á henni, en hafi verið nánar útfærð í skiptingarefnahagsreikningi þar sem glögglega kom fram á hvaða verði fasteignin var færð á milli félaganna og hvaða skuldbindingar gagnáfrýjandi yfirtók. Hvað reikningsskil varðar hafi skiptingin miðast við 1. október 2013. Ekki verður annað séð en fjárhagslegum samskiptum félaganna vegna skiptingarinnar og yfirfærslu fasteignarinnar svo og bókhaldi og reikningsskilum félaganna hafi verið hagað í samræmi við skiptingaráætlunina. Þegar tekin er afstaða til riftanleika ráðstafana í lögskiptum milli Eggerts Kristjánssonar hf. og gagnáfrýjanda verður að líta svo á með vísan til gagna málsins og málatilbúnaðar gagnáfrýjanda að hin raunverulega ráðstöfun fasteignarinnar Skútuvogs 3 frá hinu fyrrnefnda félagi til hins síðarnefnda hafi farið fram á grundvelli skiptingar fyrrnefnda félagsins en ekki kaupsamningsins 29. desember 2013. Breytir þar engu þótt afsal vegna fasteignarinnar hafi verið gefið út á árinu 2015 á grundvelli hins þinglýsta kaupsamnings. Þegar af þeirri ástæðu verður staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að sýkna gagnáfrýjanda af aðalkröfu aðaláfrýjanda samkvæmt þessum kröfulið. 3. Í fyrsta kröfulið efniskrafna sinna krefst aðaláfrýjandi þess til vara að hinum áfrýjaða dómi verði hnekkt og fallist verði á kröfu hans um riftun á þeirri ráðstöfun fasteignarinnar Skútuvogs 3 sem gerð var með skiptingu Eggerts Kristjánssonar hf. í tvö félög á grundvelli skiptingaráætlunar þess félags 30. mars 2014, sem staðfest var á hluthafafundum 9. og 12. september sama ár, og endurgreiðslu á 303.028.340 krónum með nánar tilgreindum vöxtum. Samkvæmt því sem fram kom í stefnu fyrir héraðsdómi vegna þessa sakarefnis tekur varakrafan mið af því að litið verði á skiptinguna sem eignayfirfærslugerning á fasteigninni Skútuvogi 3 milli Eggerts Kristjánssonar hf. og gagnáfrýjanda. Aðaláfrýjandi byggir á því að sú ráðstöfun lúti sömu riftunarsjónarmiðum og aðrir eignayfirfærslugerningar. Varakrafan lýtur samkvæmt því að riftun á þeirri ráðstöfun fasteignarinnar sem í skiptingunni fólst á grundvelli 131. og 141. gr. laga nr. 21/1991 en auk þess krefst aðaláfrýjandi mismunar á markaðsvirði eignarinnar á þeim tíma sem áætlun um skiptingu var staðfest og því bókfærða verði sem eigninni var ráðstafað á samkvæmt henni. Af hálfu gagnáfrýjanda er því hafnað að ráðstöfun fasteignarinnar til sín hafi falið í sér gjafagerning í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Ráðstöfunin hafi ekki á ótilhlýðilegan hátt verið sér til hagsbóta á kostnað kröfuhafa aðaláfrýjanda og hvorki leitt til þess að eignir búsins hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum né haft í för með sér aukningu skulda í skilningi 141. gr. sömu laga. Þá hafi Eggert Kristjánsson hf. ekki verið ógjaldfært þegar ráðstöfunin fór fram og ekki orðið það vegna hennar. Gagnáfrýjandi byggir á því að með ráðstöfun fasteignarinnar samkvæmt skiptingaráætluninni hafi ekki falist gjöf þar sem fullt endurgjald hafi komið fyrir hana. Gagnáfrýjandi hafi greitt fyrir eignina og hlutafé í Eggerti Kristjánssyni hf. að fullu í samræmi við áætlun um skiptingu. Með því hafi verið staðið í skilum með greiðslu gagngjalds fyrir fasteignina og skiptingin framkvæmd lögum samkvæmt. Eignarhlutur eigenda Eggerts Kristjánssonar hf. í gagnáfrýjanda hafi eftir skiptinguna samsvarað þeirri aukningu eigin fjár gagnáfrýjanda sem leitt hafi af skiptingunni. Yrði fjárkrafa aðaláfrýjanda tekin til greina fælist í því að gagnáfrýjandi þyrfti að greiða tvívegis fyrir sömu fasteign en með því myndu kröfuhafar aðaláfrýjanda hagnast með óeðlilegum hætti á sinn kostnað. 4 Í 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 segir að krefjast megi riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þetta gildi einnig um gjafir til nákominna sem hafi verið afhentar sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag. Vegna þeirra eignatengsla sem að framan eru rakin milli félaganna Eggerts Kristjánssonar hf. og gagnáfrýjanda er óumdeilt að þau teljast nákomin í skilningi síðari málsliðar 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem frestdagur við skipti á aðaláfrýjanda var 9. maí 2016 tekur riftunarreglan þannig til gjafa til nákominna sem afhentar voru eftir 9. maí 2014. Regla 131. gr. laga nr. 21/1991 er ein þeirra riftunarreglna sem beinast að ráðstöfunum sem falið hafa í sér skerðingu á eignum skuldara. Gjafahugtakið í 131. gr. nær yfir hvers kyns örlætisgerninga, þar á meðal gagnkvæma samninga þar sem verulegur munur er á verðmæti þess sem skuldari lætur af hendi og því endurgjaldi sem hann fær í hendur. Gjafahugtak ákvæðisins hefur að geyma þrjú meginatriði. Í fyrsta lagi að gjöf rýri eignir skuldara, í öðru lagi að gjöf leiði til eignaaukningar hjá móttakanda hennar og í þriðja lagi að tilgangurinn með gerningi hafi verið að gefa. Framsetning varakröfu aðaláfrýjanda samrýmist þeim skýra málatilbúnaði gagnáfrýjanda að yfirfærsla fasteignarinnar hafi að öllu leyti verið framkvæmd í samræmi við skiptinguna en ekki á grundvelli kaupsamnings 29. desember 2013. Í greinargerð gagnáfrýjanda í héraði vegna þessa sakarefnis segir þannig að í mars 2014, þegar ráðist hafi verið í framkvæmd skiptingar á Eggerti Kristjánssyni hf., hafi aðilar þegar ákveðið að falla frá kaupsamningnum frá 29. desember 2013 um kaup gagnáfrýjanda á fasteigninni „sem var raunar ekki hugsaður sem neitt annað en leið til að spara hlutaðeigandi aðilum stimpilgjöld“. Þegar litið er til málatilbúnaðar beggja aðila og þess að aðaláfrýjandi byggir riftunarkröfuna meðal annars á 131. gr. laga nr. 21/1991 er óhjákvæmilegt annað en að líta svo á að þessi riftunarkrafa aðaláfrýjanda beinist að þeim ætlaða örlætisgerningi sem hann telur hafa falist í ráðstöfun fasteignarinnar með skiptingunni og þeirri tilfærslu á verðmætum milli félaganna sem leitt hafi af framkvæmd hennar. Fyrrgreind skiptingaráætlun fól í sér að fasteignin Skútuvogur 3 var færð frá Eggerti Kristjánssyni hf. til gagnáfrýjanda. Þar kemur ekki fram að gagnáfrýjandi ætti að inna af hendi greiðslu til Eggerts Kristjánssonar hf. fyrir fasteignina. Hins vegar skyldi hlutafé síðarnefnda félagsins lækka um 9.983.255 krónur að nafnverði og var það orðað svo í skiptingaráætluninni að hluthafar félagsins skyldu láta það af hendi. Í raun jafngilti þessi ráðstöfun hins vegar niðurfærslu hlutafjárins. Aftur á móti skyldi gagnáfrýjandi gefa út nýtt hlutafé að nafnvirði 641.573 krónur en hlutafé hans við það hækka úr 2.700.000 krónum í 3.341.573 krónur og skyldu hluthafar í Eggerti Kristjánssyni hf. fá hið nýja hlutafé sem gagngjald fyrir hluti sína í því félagi, eins og það var orðað í áætluninni. Í skýrslu endurskoðanda 30. mars 2014 vegna skiptingar á Eggerti Kristjánssyni hf. í tvö félög kemur meðal annars fram að fyrir liggi drög að skiptingarefnahagsreikningi sem sýni allar þær breytingar sem álitið sé að skiptingin muni hafa í för með sér. Þessi drög liggja ekki fyrir í málinu en af hálfu gagnáfrýjanda er fullyrt að þau hafi verið sama efnis og endanlegur skiptingarefnahagsreikningur. Það var álit endurskoðandans að endurgjald fyrir eignarhluta í hvoru félagi fyrir sig væri sanngjarnt og efnislega rökstutt að teknu tilliti til fyrirliggjandi gagna. Þá taldi hann að ekki yrði séð að skiptingin rýrði möguleika lánardrottna félaganna til fullnustu krafna sinna og vísaði til 3. mgr. 107. gr. a. laga nr. 138/1994 og 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995. Við úrlausn málsins verður að skilja á milli áhrifa skiptingarinnar á hagsmuni hluthafa félaganna tveggja annars vegar og hins vegar hagsmuni félaganna sjálfra og þar með kröfuhafa þeirra. Í málinu er ekki til umfjöllunar hvort hluthafar annars félagsins hafi borið skarðan hlut frá borði við skiptinguna heldur aðeins hvaða fjárhagslegu áhrif skiptingin hafi haft á fjárhagsstöðu félaganna. Af skiptingarefnahagsreikningi beggja félaganna, sem miðaður var við 30. september 2013, verður ráðið að fasteignin Skútuvogur 3 hafi með skiptingunni verið tekin út úr Eggerti Kristjánssyni hf. á bókfærðu verði, 437.384.257 krónum, og færð yfir til gagnáfrýjanda. Hann hafi hins vegar við skiptinguna tekið yfir 235.000.000 króna af langtímaskuldum Eggerts Kristjánssonar hf. og 32.461.304 króna tekjuskattsskuldbindingu félagsins eða samtals skuldbindingar að fjárhæð 267.461.304 krónur. Áhrif skiptingarinnar á bókfærðan efnahag félaganna voru þannig þau að bókfært eigið fé Eggerts Kristjánssonar hf. lækkaði um 169.922.953 krónur en eigið fé gagnáfrýjanda hækkaði um sömu fjárhæð. Þótt skiptingarefnahagsreikningur félaganna hafi miðast við lok september 2013 og reikningsskil þeirra frá 1. október sama ár taki mið af skiptingunni varð hún ekki skuldbindandi fyrir félögin fyrr en með samþykki hluthafafunda gagnáfrýjanda 9. september 2014 og Eggerts Kristjánssonar hf. 12. sama mánaðar. Raunar var áætlunin ekki samþykkt óbreytt þar sem fallið hafði verið frá ákvæði hennar sem laut að loforði um hækkun hlutafjár Eggerts Kristjánssonar hf. um 2.800.000 krónur. Við samþykki hluthafafunda á skiptingunni og með þeim skiptingarefnahagsreikningi sem fylgdi tilkynningu til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra 17. september 2014 um samþykki skiptingarinnar komu fjárhagsleg áhrif hennar á félögin fyrst fram. Þegar tekin er afstaða til þess hvort í ráðstöfun verðmæta þrotamanns felist gjöf verður að líta til þess hvort verðmætum hafi verið ráðstafað á lægra verði en nam raunvirði þeirra þegar ráðstöfunin kom til framkvæmda. Samkvæmt ódagsettri matsgerð dómkvadds manns, sem lögð var fram í héraði 2. nóvember 2017 og ekki hefur verið hnekkt með yfirmati eða með öðrum hætti, var markaðsverð fasteignarinnar Skútuvogs 3 talið vera 570.489.644 krónur í september 2014, að teknu tilliti til fyrirliggjandi leigusamnings um hana. Fyrir liggur samkvæmt framansögðu að með ráðstöfun fasteignarinnar á bókfærðu verði með skiptingunni naut Eggert Kristjánsson hf., og þar með kröfuhafar þess félags, aðeins góðs af yfirtöku gagnáfrýjanda á 267.461.304 króna skuldbindingum en einskis af því hlutafé sem hluthafar félagsins fengu í gagnáfrýjanda. Í álitsgerð endurskoðanda 30. október 2018, sem gagnáfrýjandi lagði fram í Landsrétti, segir að það komi „nákvæmlega eins út og er raunar það sama og þegar hlutafé er lækkað með greiðslu á eignum (og skuldum) til hluthafa“. Við það álit verður þó að gera þann fyrirvara að við lækkun hlutafjár með slíkri skiptingu er ekki fylgt ákvæðum VII. kafla laga nr. 2/1995 um lækkun hlutafjár með greiðslu til hluthafa. Með skírskotun til matsgerðar dómkvadds manns, sem mat markaðsverð fasteignarinnar 570.489.644 krónur miðað við september 2014 að teknu tilliti til leigufjárhæðar samkvæmt gildandi leigusamningi um eignina, er ljóst að verðmæti hennar var verulega meira þegar hún var tekin úr Eggerti Kristjánssyni hf. með skiptingunni en sem nemur fjárhæð þeirra skuldbindinga sem félagið var leyst undan með henni. Ráðstöfunin rýrði því verulega eignir félagsins. Samkvæmt skiptingarefnahagsreikningi var umræddri fasteign ráðstafað til gagnáfrýjanda á bókfærðu verði, 437.384.257 krónum, gegn yfirtöku á 267.461.304 króna skuldbindingum Eggerts Kristjánssonar hf. og komu engar aðrar greiðslur fyrir hana til þess félags. Fyrir liggur hins vegar að hluthafar félagsins fengu í sinn hlut við skiptinguna nýtt hlutafé í gagnáfrýjanda að nafnverði 641.573 krónur í stað eignaaukningar gagnáfrýjanda við skiptinguna. Skiptingin fól þannig í sér að bókfært eigið fé gagnáfrýjanda hækkaði um 169.922.953 krónur. Verðmæti eigna gagnáfrýjanda hækkaði hins vegar meira en sem nam þeirri fjárhæð þar sem ljóst er samkvæmt framansögðu að verðmæti fasteignarinnar var meira en sem nam bókfærðu verði hennar. Af hálfu gagnáfrýjanda er byggt á því að lánardrottnum Eggerts Kristjánssonar hf. hafi verið tryggður réttur samkvæmt lögum um hlutafélög og einkahlutafélög, svo og með 6. gr. skiptingaráætlunarinnar sjálfrar, til að krefjast greiðslu frá þátttökufélögum í skiptingunni ef þeir fengju ekki fullnustu kröfu sinnar í því félagi sem skyldi greiða upphaflegu kröfuna. Í 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995 segir að ef kröfuhafi í félagi, sem tekið hefur þátt í skiptingu, fær ekki fullnustu kröfu sinnar í því félagi sem kröfuna skal greiða beri hvert hinna þátttökufélaganna óskipta ábyrgð á skuldbindingum sem stofnast höfðu þegar upplýsingar um skiptingaráætlunina voru birtar. Ábyrgð viðtökufélaganna takmarkist þó við nettóverðmæti þess sem við bættist í hverju einstöku viðtökufélagi þegar áætlunin var birt en ábyrgð félagsins, sem skipt er og heldur áfram starfsemi, takmarkast við nettóverðmæti þess sem var eftir í félaginu á sama tíma. Sambærilegt ákvæði um einkahlutafélög er í 3. mgr. 107. gr. a. laga nr. 138/1994. Af hálfu gagnáfrýjanda er því ekki haldið fram að félagið hafi orðið fyrir útgjöldum vegna slíkrar ábyrgðar gagnvart kröfuhöfum Eggerts Kristjánssonar hf. Við úrlausn málsins þarf að taka afstöðu til þess hvort í framangreindum lagafyrirmælum, sem tekin voru efnislega upp í 6. gr. skiptingaráætlunarinnar, felist að félag, sem tekur á grundvelli skiptingar við meiri verðmætum en það lætur af hendi, geti ekki talist hafa hagnast við skiptinguna vegna ábyrgða á kröfum lánardrottna annars þátttökufélags og þar af leiðandi sé ekki um gjöf að ræða í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Við þetta mat verður að hafa í huga að réttarstaða kröfuhafa við úthlutun úr þrotabúi ræðst ekki af því hvenær kröfur þeirra stofnuðust eða hvenær þær gjaldféllu. Fyrir liggur að kröfur sem lýst var á hendur aðaláfrýjanda voru ýmist til komnar fyrir eða eftir að skiptingaráætlunin var samþykkt og birt. Aðeins þeir kröfuhafar sem eignuðust kröfu á hendur Eggerti Kristjánssyni hf. fyrir birtingu skiptingarinnar gætu látið reyna á ábyrgð gagnáfrýjanda samkvæmt framangreindri reglu. Við þetta mat ræður þó úrslitum að innbyrðis réttarstaða félaga sem standa að skiptingu markast af henni og skiptingarefnahagsreikningi. Af því leiðir að þrátt fyrir framangreinda reglu um gagnkvæma ábyrgð þátttökufélaga gagnvart kröfuhöfum hins félagsins verður að ætla að ef slík krafa yrði greidd á grundvelli ábyrgðarreglunnar myndi það félag sem það gerir eiga endurkröfu á hitt. Möguleg ábyrgð gagnáfrýjanda á þeim kröfum lánardrottna Eggerts Kristjánssonar hf. sem stofnast höfðu við birtingu skiptingaráætlunar getur því ekki leitt til þess að gagnáfrýjandi verði ekki talinn hafa hagnast við skiptinguna. Samkvæmt framansögðu teljast eignir gagnáfrýjanda hafa aukist við ráðstöfun fasteignarinnar Skútuvogs 3 við skiptinguna sem nemur mismun á markaðsverði fasteignarinnar og þeim 267.461.304 króna skuldbindingum sem hann yfirtók samkvæmt skiptingarefnahagsreikningi. Þessi eignaaukning gagnáfrýjanda samsvarar rýrnun á eignum Eggerts Kristjánssonar hf. Til þess að um gjöf teljist vera að ræða í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 þarf tilgangur ráðstöfunar að hafa verið sá að gefa og þar með rýra eignir skuldara og auka eignir móttakanda að sama skapi. Í fylgiskjölum með tilboði Leitis eignarhaldsfélags ehf. og Hallgríms Ingólfssonar fyrir hönd óstofnaðs félags 17. nóvember 2013 í allt hlutafé Eggerts Kristjánssonar hf. var lagt til grundvallar að fasteignin Skútuvogur 3 væri 450.000.000 króna virði. Kaupsamningur um hlutaféð var síðan undirritaður 1. janúar 2014. Í tengslum við framangreind kaup var aflað verðmats fasteignasala á fasteigninni og var niðurstaða þess að verðmæti hennar væri 550.000.000 króna miðað við 1. desember 2013. Í kaupsamningi milli Eggerts Kristjánssonar hf. og gagnáfrýjanda 29. desember 2013 um sömu fasteign var umsamið kaupverð 475.000.000 króna. Með vísan til framangreindra upplýsinga sem lágu fyrir um verðmæti fasteignarinnar í desember 2013 og eigendum Eggerts Kristjánssonar hf. og gagnáfrýjanda voru ljósar, svo og skiptingarefnahagsreiknings beggja félaganna, liggur ljóst fyrir að tilgangur ráðstöfunar á fasteigninni með skiptingunni var að rýra eignir Eggerts Kristjánssonar hf. og auka að sama skapi eignir gagnáfrýjanda. Gjafatilgangur ráðstöfunarinnar er því augljós. Tímamörk sem riftanleiki gjafar til nákominna markast af eru annars vegar afhending hennar og hins vegar frestdagur. Riftanleikinn ræðst ekki af því hvenær gjafaloforð er gefið heldur hvenær það er efnt, sem oftast er við afhendingu gjafarinnar. Þegar riftun beinist að ráðstöfun sem felur í sér örlætisgerning og er hluti af gagnkvæmum samningi verður að miða við þann tíma þegar ráðstöfunin kemur endanlega til framkvæmda, er orðin skuldbindandi og eignarráð viðkomandi verðmæta hafa flust á milli aðila, sbr. dóm Hæstaréttar 27. febrúar 2014 í máli nr. 664/2013. Sú ráðstöfun á umræddri fasteign sem gerð var með skiptingu Eggerts Kristjánssonar hf. í tvö félög öðlaðist ekki gildi fyrr en með staðfestingu hluthafafunda gagnáfrýjanda 9. september 2014 og Eggerts Kristjánssonar hf. 12. sama mánaðar, sem tilkynnt var fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra 17. þess mánaðar, og varð þá fyrst skuldbindandi fyrir félögin tvö. Hin endanlega ráðstöfun fasteignarinnar, sem rýrði eignir Eggerts Kristjánssonar hf. og jók eignir gagnáfrýjanda, kom þá fyrst til framkvæmda. Á frestdegi 9. maí 2016 voru samkvæmt því ekki liðin tvö ár frá því að ráðstöfunin var gerð. Sú gjöf sem í henni fólst var því innan tímamarka 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. 5 Samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 er unnt að krefjast riftunar á gjafagerningi nema leitt sé í ljós að þrotamaður hafi þegar gjöf er afhent verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur hugtakið gjaldfærni verið skýrt til samræmis við það skilyrði fyrir töku bús skuldara til gjaldþrotaskipta sem fram kemur í 1. mgr. 64. gr. laganna, en það er að skuldari geti ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma. Þetta skilyrði hefur verið nefnt ógreiðslufærni, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 5. júní 2014 í máli nr. 785/2013. Af hálfu aðaláfrýjanda hefur verið vísað til fjölmargra atriða sem hann telur til marks um ógjaldfærni Eggerts Kristjánssonar hf. í september 2014. Fjárhagsstaða félagsins hafi verið slæm í byrjun ársins og enn verri í september. Aðaláfrýjandi hefur meðal annars vísað til þess að leigusamningur milli félagsins og gagnáfrýjanda í mars 2014 hafi sligað félagið, skuldsetning þess hafi aukist stórlega á árinu, lager hafi verið keyptur háu verði af tengdu félagi og eftir að fasteigninni Skútuvogi 3 hafi verið ráðstafað frá félaginu hafi allar eignir þess verið veðsettar. Þá hefur hann vísað til framburðar stjórnenda félagsins sem lýst hafi erfiðri rekstrarstöðu félagsins þegar ráðstöfunin hafi verið gerð. Af hálfu gagnáfrýjanda er því mótmælt að Eggert Kristjánsson hf. hafi verið ógjaldfært í september 2014. Ekkert í ársreikningi félagsins um áramótin þar á eftir sýni alvarlega stöðu þess í þeim skilningi að það hafi verið ógjaldfært. Þá vísar gagnáfrýjandi til þess að hlutafé félagsins hafi verið aukið á árinu 2014 og rekstrargrundvöllur þess styrktur verulega með veltuaukningu í svokölluðum Subway-viðskiptum. Þá hafi gagnáfrýjandi ekki innheimt húsaleigu á árinu 2014 þar sem húsaleigukrafa vegna ársins hafi verið gefin eftir 18. desember 2014. Félaginu hafi því ekki verið íþyngt með leigu. Sönnunarbyrði um gjaldfærni skuldara hvílir samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 á móttakanda gjafar og vísast um það meðal annars til dóma Hæstaréttar 1. október 2009 í máli nr. 61/2009 og 5. júní 2014 í máli nr. 785/2013. Hvorugur málsaðila hefur aflað matsgerðar dómkvaddra manna um greiðslufærni Eggerts Kristjánssonar ehf. í september 2014 en samkvæmt framansögðu stóð gagnáfrýjanda nær að afla slíkrar sönnunar. Við mat á því hvort gagnáfrýjanda hafi lánast slík sönnun er nærtækast að líta til reikningsskila Eggerts Kristjánssonar hf. vegna áranna 2013 og 2014 og annarra fyrirliggjandi upplýsinga um það hvernig efnahagur félagsins þróaðist á árinu 2014. Í ársreikningi þess fyrir árið 2014 koma fram tölur úr reikningsskilum fyrir árið 2013. Samkvæmt því var tæplega 48.000.000 króna tap á rekstri félagsins á því ári og eigið fé þess í árslok aðeins 1.580.900 krónur. Samkvæmt fyrrgreindum reikningsskilum fyrir árið 2014 var bókfærður hagnaður félagsins á því ári 1.930.489 krónur og eigið fé í árslok 58.571.931 króna. Í ársreikningnum kemur fram að hlutafé félagsins hafi verið aukið um 55.000.000 króna í desember 2014 en samkvæmt öðrum málsgögnum var um 55.060.542 króna hækkun hlutafjár að ræða. Áður er gerð grein fyrir að sú hlutafjáraukning hafi orðið til með því að kröfum tengdra aðila á hendur félaginu hafi verið breytt í hlutafé. Af hálfu gagnáfrýjanda hefur verið vísað til þess að 72.352.002 króna krafa hans á hendur Eggerti Kristjánssyni ehf. vegna húsaleigu fyrir árið 2014, að meðtöldum virðisaukaskatti, hafi verið felld niður í desember 2014 og að hlutafé í félaginu hafi verið aukið um 55.060.542 krónur í sama mánuði. Þegar þessar ráðstafanir gagnáfrýjanda og félaga sem tengdust honum til að rétta við fjárhag Eggerts Kristjánssonar ehf. í árslok 2014 eru skoðaðar í ljósi reikningsskila félagsins fyrir það ár verður ekki annað ráðið en eigið fé félagsins hafi verið verulega neikvætt í september 2014. Þótt gagnáfrýjandi hafi samkvæmt framansögðu rétt fjárhagsstöðu félagsins við tímabundið í lok þess árs hefur hann hvorki sýnt fram á að eftir að  fasteigninni var ráðstafað hafi það getað staðið í fullum skilum við lánardrottna þegar kröfur þeirra féllu í gjalddaga né að þá hafi mátt telja sennilegt að greiðsluerfiðleikar félagsins myndu líða hjá innan skamms tíma. Gagnáfrýjanda hefur því ekki lánast sönnun um að félagið hafi verið gjaldfært í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 þegar fasteignin hafði verið færð úr félaginu með skiptingunni í september 2014. Samkvæmt öllu framansögðu verður fallist á framangreinda riftunarkröfu aðaláfrýjanda. 6 Endurgreiðslukrafa aðaláfrýjanda er reist á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um endurgreiðslu hagnaðar vegna riftanlegrar ráðstöfunar en meginregla þess ákvæðis er sú að ef riftun fer fram með stoð í 131. til 138. gr. laganna skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun eða fullnustugerð greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins.   Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur fjárhæð endurgreiðslukröfu þegar um gjafagerning er að ræða verið miðuð við mismun á raunvirði þeirra verðmæta sem ráðstafað var og því endurgjaldi sem innt var af hendi. Stuðst hefur verið við almennar sönnunarreglur við úrlausn þess hvort verð sem lagt var til grundvallar í viðkomandi löggerningi teljist hafa verið raunvirði, sbr. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 2014 í máli nr. 664/2013 og 9. júní 2016 í máli nr. 713/2015. Eins og áður er rakið liggur fyrir í málinu það mat dómkvadds manns að verðmæti fasteignarinnar Skútuvogs 3 hafi verið 570.489.644 krónur í september 2014 þegar hin riftanlega ráðstöfun til gagnáfrýjanda kom samkvæmt framansögðu til framkvæmda og tók matsmaður þar tillit til leigufjárhæðar samkvæmt gildandi leigusamningi um eignina. Þessu mati hefur ekki verið hnekkt af hálfu gagnáfrýjanda með yfirmati eða með öðrum hætti. Með vísan til framangreindrar dómaframkvæmdar verður niðurstaða matsgerðarinnar lögð til grundvallar um verðmæti fasteignarinnar þegar hin riftanlega ráðstöfun var framkvæmd. Endurgreiðslukrafa aðaláfrýjanda í varakröfu, 303.028.340 krónur, svarar til mismunar á þessu matsverði fasteignarinnar og 267.461.304 króna yfirteknum skuldbindingum. Samkvæmt framansögðu nam eignaaukning gagnáfrýjanda og samsvarandi rýrnun á eignum Eggerts Kristjánssonar hf. 303.028.340 krónum. Samþykktar kröfur í aðaláfrýjanda eru að fjárhæð 287.091.223 krónur. Að því virtu og með tilliti til vaxta af samþykktum kröfum, ætlaðs skiptakostnaðar og upplýsinga um innheimtar kröfur búsins eru ekki efni til að lækka fjárhæð endurgreiðslukröfunnar. Með vísan til alls framangreinds er fallist á endurgreiðslukröfu aðaláfrýjanda að öðru leyti en því að þar sem ekki er um skaðabótakröfu að ræða verða ekki dæmdir vextir samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 og dráttarvextir ekki fyrr en frá 23. desember 2016 er mánuður var liðinn frá því að skiptastjóri tilkynnti gagnáfrýjanda um riftun og krafðist endurgreiðslu. Samkvæmt því sem áður greinir leiðir þessi niðurstaða til þess að ekki er þörf á að fjalla um ómerkingarkröfu aðaláfrýjanda. 7 Gagnáfrýjandi krefst í gagnsök sýknu af kröfu aðaláfrýjanda um riftun á greiðslu Eggerts Kristjánssonar ehf. til gagnáfrýjanda 15. mars 2016 að fjárhæð 21.316.582 krónur með millifærslu af bókarlausum reikningi í eigu félagsins inn á reikning í eigu gagnáfrýjanda og endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar. Með hinum áfrýjaða dómi var fallist á kröfu aðaláfrýjanda um riftun á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 og um endurgreiðslu fjárhæðarinnar. Gagnáfrýjandi byggir á því að greiðslan hafi ekki skert greiðslugetu Eggerts Kristjánssonar ehf. verulega í skilningi ákvæðisins þar sem innstæðan hafi ekki verið félaginu til frjálsrar ráðstöfunar og aldrei getað staðið kröfuhöfum þess til fullnustu auk þess sem félagið hafi átt umtalsverðar eignir þegar ráðstöfunin var gerð. Þá hafi greiðslan virst venjuleg eftir atvikum. Gagnáfrýjandi bendir á að greiðslan hefði átt sér stað með sama hætti óháð fjárhagserfiðleikum félagsins. Greiðslan fór fram innan sex mánaða fyrir frestdag við gjaldþrotaskipti aðaláfrýjanda. Gögn málsins bera með sér að lán gagnáfrýjanda til Eggerts Kristjánssonar ehf. 1. október 2015 með millifærslu 21.000.000 króna inn á bókarlausan reikning í eigu síðarnefnda félagsins hjá Íslandsbanka hf. hafi verið til komið vegna kröfu um að félagið legði fram baktryggingu vegna húsaleiguábyrgðar sem bankinn tókst á hendur fyrir félagið gagnvart Reitum I ehf. Innstæða á reikningnum var sama dag handveðsett bankanum. Samkvæmt handveðsyfirlýsingu Eggerts Kristjánssonar ehf. var veðsala óheimilt að veðsetja eða framselja hið veðsetta á meðan veðsetningin varði nema með skriflegu samþykki veðhafa. Óumdeilt er að í upphafi hafi þessi tryggingarráðstöfun aðeins átt að vera tímabundin og voru hugmyndir uppi um að Leiti eignarhaldsfélag ehf. og síðar gagnáfrýjandi gengi í sjálfskuldarábyrgð vegna húsaleiguábyrgðarinnar. Það gekk ekki eftir og stóð handveðsetningin óhreyfð allt fram til þess að nýr leigutaki tók við húsnæðinu 1. apríl 2016 og ábyrgðin var felld niður. Aðilar deila um gildi fyrirliggjandi skriflegs lánssamnings milli Eggerts Kristjánssonar ehf. og gagnáfrýjanda og hvenær hann hafi verið gerður. Gagnáfrýjandi telur að af honum leiði að lánsfjárhæðin hafi ekki verið til frjálsrar ráðstöfunar fyrir Eggert Kristjánsson ehf. og greiðslan 15. mars 2016 hafi því ekki skert greiðslugetu félagsins. Þá hafi lánið verið tryggt með öðrum veðrétti í innstæðu á fyrrnefndum reikningi. Samkvæmt lánssamningnum var lánsfjárhæðin lögð inn á bankareikning lántaka vegna áskilnaðar Íslandsbanka hf. um reiðufjártryggingu í tengslum við húsaleiguábyrgð bankans. Endurgreiðsla lánsins skyldi tryggð með því að innstæða á bankareikningnum væri veðsett gagnáfrýjanda með öðrum veðrétti og uppfærslurétti, næst á eftir veðrétti Íslandsbanka hf. Skuldbatt lántaki sig til þess að endurgreiða lánsfjárhæðina, ásamt vöxtum, með einni greiðslu þegar lánveitandi tilkynnti um gjaldfellingu lánssamningsins, þó að teknu tilliti til veðréttar bankans. Aðaláfrýjandi byggir á því að lánssamningurinn sé málamyndagerningur sem útbúinn hafi verið í kjölfar riftunaryfirlýsingar skiptastjóra 23. desember 2016. Bendir hann meðal annars á að þegar þáverandi framkvæmdastjóri gagnáfrýjanda hafi óskað eftir því að féð yrði millifært inn á reikning gagnáfrýjanda hafi hann ekki vísað til veðsetningar eða lánssamnings. Eggert Kristjánsson ehf. hafi haft umráð fjárins þegar handveði bankans hafi verið aflétt, enda hafi þurft atbeina stjórnarmanns félagsins, Skúla Gunnars Sigfússonar, til þess að millifæra féð af bankabókinni. Þá hafi lánssamningurinn ekki verið meðal bókhaldsgagna þrotabúsins. Enda þótt fallist yrði á það með gagnáfrýjanda að það hafi verið skilningur aðila að innstæðunni ætti að skila þegar skuldbinding Eggerts Kristjánssonar ehf. gagnvart Íslandsbanka hf. félli niður, verður ekki fram hjá því litið að atbeina félagsins þurfti til að millifæra féð af reikningi þess hjá bankanum inn á reikning gagnáfrýjanda 15. mars 2016. Millifærslan fór fram samkvæmt beiðni þáverandi framkvæmdastjóri gagnáfrýjanda fyrir hönd Skúla Gunnars, stjórnarmanns Eggerts Kristjánssonar ehf., um að peningar á reikningnum yrðu millifærðir með vöxtum „á móti gjaldfallinni skuld við Sjöstjörnuna“. Innstæða á reikningnum var hvorki sérgreind gagnáfrýjanda hjá bankanum né voru starfsmenn bankans upplýstir um veðrétt gagnáfrýjanda þrátt fyrir að Eggerti Kristjánssyni ehf. væri samkvæmt handveðsyfirlýsingunni óheimilt að veðsetja eða framselja hið veðsetta meðan á veðsetningunni stæði. Þá liggur fyrir að í bókum félagsins var millifærsla gagnáfrýjanda til þess 1. október 2015 skráð sem skammtímakrafa og ekki getið um lánssamning eða veðréttindi gagnáfrýjanda. Samkvæmt þessu hefur gagnáfrýjandi hvorki sýnt fram á að hann hafi átt kröfu til afhendingar innstæðunnar til fullnustu kröfu sinnar utan skuldaraðar né muni, ef riftun nær fram að ganga, geta gert kröfu á hendur aðaláfrýjanda á grundvelli veðréttar sem nemi andvirði innstæðunnar. Að framangreindu athuguðu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms skerti greiðsla skuldarinnar greiðslugetu Eggerts Kristjánssonar ehf. verulega með tilliti til eigna félagsins sem stóðu því til ráðstöfunar þegar hún fór fram. Ljóst er að rekstur félagsins var þá kominn í óefni enda var bú þess tekið til gjaldþrotaskipta tæpum tveimur mánuðum síðar. Fyrirsvarsmönnum gagnáfrýjanda, sem jafnframt voru fyrirsvarsmenn Eggerts Kristjánssonar ehf., mátti vera kunnugt um aðstæðurnar sem riftunin er reist á. Eru ekki efni til að líta svo á að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum en um það hefur gagnáfrýjandi sönnunarbyrði, sbr. 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Að þessu gættu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um riftun á greiðslu Eggerts Kristjánssonar ehf. til gagnáfrýjanda 15. mars 2016 og endurgreiðslu til aðaláfrýjanda. Með vísan til þess sem að framan greinir er ekki ástæða til að lækka fjárhæð kröfunnar. 8 Í þriðja kröfulið krefst aðaláfrýjandi staðfestingar á kyrrsetningu sem fram fór hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 19. júlí 2017 í tveimur fasteignum gagnáfrýjanda og tveimur fasteignum í eigu fyrirsvarsmanns hans. Landsréttur féllst á kröfuna hvað varðar fasteignir gagnáfrýjanda en hafnaði henni hvað varðar fasteignir í eigu fyrirsvarsmannsins. Í 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. segir að kyrrsetja megi eignir skuldara til tryggingar fullnustu lögvarinnar kröfu um greiðslu peninga ef henni verði ekki þegar fullnægt með aðför og sennilegt megi telja, ef kyrrsetning fari ekki fram, að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta hennar takist eða að fullnusta verði verulega örðugri. Kyrrsetning er samkvæmt því bráðabirgðaaðgerð sem felst í því að eins konar veðréttur er myndaður í kyrrsettri eign eða réttindum fyrir kröfunni. Í 15. gr. laganna segir meðal annars að um þær eignir sem kyrrsettar verða, virðingu þeirra og rétt málsaðila til að vísa á þær gildi meðal annars ákvæði 36. til 50. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 90/1989 er mælt fyrir um að gera megi fjárnám til fullnustu peningakröfu í eignum sem nægi til greiðslu hennar og tilheyra gerðarþola eða öðrum er býður þær sjálfur fram til fjárnáms. Gerðarþoli samkvæmt ákvæðinu er sá sem greiðsluskylda hvílir á samkvæmt hljóðan skilríkja fyrir aðfararheimild eða sá annar sem gerðarbeiðanda er heimilt samkvæmt lagaboði að gera fjárnám hjá til fullnustu kröfu. Ef annar maður en gerðarþoli býður eign sína fram til fjárnáms samkvæmt umræddu ákvæði telst hann eftir orðalagi þess þriðji maður við gerðina. Enda þótt gert sé ráð fyrir því í 5. gr. laga nr. 31/1990 að eignir skuldara verði einar kyrrsettar verður með vísan til 15. gr. laganna að skýra ákvæðið til samræmis við 1. og 36. gr. laga nr. 90/1989 þannig að kyrrsetning geti farið fram í eignum sem tilheyra öðrum en skuldara ef sá býður þær sjálfur fram til kyrrsetningar eða sá sem hefur umboð hans til þess. Samkvæmt framangreindu telst sá þriðji maður í skilningi laga nr. 31/1990. Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 er mælt fyrir um að innan viku frá lokum kyrrsetningargerðar skuli gerðarbeiðandi fá gefna út réttarstefnu til héraðsdóms til staðfestingar gerðinni nema gerðarþoli hafi lýst yfir við gerðina að hann uni við hana án málshöfðunar. Samkvæmt 39. gr. laganna gildir sú regla að sé mál ekki höfðað með þeim hætti sem áskilið er í 36. til 38. gr. falli kyrrsetning sjálfkrafa úr gildi frá þeim tíma sem gerðarbeiðandi mátti í síðasta lagi fá gefna út réttarstefnu í málinu. Þriðja manns er ekki getið í fyrrnefndum lagagreinum enda reynir í staðfestingarmáli ekki á atriði sem varða hann heldur annars vegar á það hvort lagaskilyrði hafi verið til kyrrsetningar og hins vegar hvort gerðarbeiðandi eigi þá kröfu sem kyrrsetningin er reist á. Á hinn bóginn kemur fram í 40. gr. laganna að þriðji maður, sem telur rétti sínum hallað í sambandi við kyrrsetningargerð, geti haft uppi kröfur sínar í staðfestingarmáli með meðalgöngu eða sótt þær í sérstöku máli, hvort tveggja til niðurfellingar gerðar eða skaðabóta vegna kyrrsetningar. Við kyrrsetningargerð þá sem hér um ræðir var bókað að gagnáfrýjandi væri gerðarþoli. Við gerðina voru eignir fyrirsvarsmanns gerðarþola, Skúla Gunnars Sigfússonar, boðnar fram til kyrrsetningar af hálfu lögmanns, sem ekki hefur verið vefengt að hafi haft umboð frá fyrirsvarsmanninum til þess. Með vísan til framangreinds er ekki unnt að líta svo á að fyrirsvarsmaður gagnáfrýjanda hafi fengið stöðu gerðarþola við það að eignir hans voru kyrrsettar heldur hafði hann stöðu þriðja manns í skilningi laganna. Aðaláfrýjanda var því ekki skylt samkvæmt lögum nr. 31/1990 að stefna fyrirsvarsmanninum til staðfestingar á umræddri kyrrsetningu í fasteignum hans. Af hálfu gagnáfrýjanda er því haldið fram að synja beri um staðfestingu kyrrsetningarinnar sökum þess að sýslumaður hafi ekki sinnt lagaskyldu sinni samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1990. Þar segir að áður en frekari aðgerðir fari fram vegna kyrrsetningarbeiðni sé sýslumanni rétt að setja það skilyrði að gerðarbeiðandi setji tiltekna tryggingu til bráðabirgða eftir ákvörðun hans fyrir greiðslu bóta sem gerðarþoli kynni að öðlast rétt til vegna beiðninnar eða meðferðar hennar, nema líklegt sé þá þegar að tryggingar verði ekki þörf vegna fyrirmæla 3. mgr. 16. gr. laganna. Samkvæmt því er skylda sýslumanns til að krefja gerðarbeiðanda um tryggingu ekki fortakslaus. Eftir 5. tölulið áðurnefndrar málsgreinar er sýslumanni þannig heimilt að kröfu gerðarbeiðanda að ljúka kyrrsetningargerð án tryggingar úr hendi hans ef krafan er með þeim hætti að sýslumaður telji réttmæti hennar og gerðarinnar tvímælalausa í ljósi atvika. Í endurriti úr gerðarbók sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu vegna fyrirtöku kyrrsetningargerðarinnar 18. júlí 2017 er bókað um tryggingu: „Af hálfu sýslumanns er ekki gerð krafa um tryggingu sbr. 8. gr. sbr. 16. gr. kyrrsetningarlaga.“ Ekki voru færð til bókar andmæli af hálfu gagnáfrýjanda sem gerðarþola við þeirri ákvörðun, en hún raskar ekki gildi gerðarinnar. Samkvæmt öllu framangreindu verður staðfest kyrrsetning sem fram fór 19. júlí 2017 í fasteignunum Selbraut 86 á Seltjarnarnesi, Ósgerði í Ölfusi, Eyrarvegi 2 á Selfossi og Egilsstöðum í Ölfusi eins og nánar greinir í dómsorði. Samkvæmt framansögðu er fallist á riftun þeirra ráðstafana sem í dómsorði greinir. Þá verður gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda samtals 324.344.922 krónur með dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Eftir úrslitum málsins verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað sem ákveðinn er í einu lagi á öllum dómstigum eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Rift er ráðstöfun fasteignarinnar Skútuvogs 3 í Reykjavík með skiptingu Eggerts Kristjánssonar hf. í tvö félög sem staðfest var á hluthafafundi gagnáfrýjanda, Sjöstjörnunnar ehf., 9. september 2014 og Eggerts Kristjánssonar hf. 12. sama mánaðar. Staðfest eru ákvæði hins áfrýjaða dóms um riftun greiðslu 15. mars 2016 á skuld Eggerts Kristjánssonar ehf. við gagnáfrýjanda. Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda, þrotabúi EK1923 ehf., 324.344.922 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 303.028.340 krónum frá 23. desember 2016 til 23. janúar 2017 en af 324.344.922 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Staðfest er kyrrsetning sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 19. júlí 2017 í fasteignum gagnáfrýjanda að Eyrarvegi 2 á Selfossi, fastanúmer 227-0582, og Egilsstöðum, Ölfusi, fastanúmer 231-4805 og 171697, og fasteignum Skúla Gunnars Sigfússonar að Selbraut 86, Seltjarnarnesi, fastanúmer 206-8165 og Ósgerði, Ölfusi, fastanúmer 171790, fyrir dæmdum kröfum. Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 5.000.000 króna í málskostnað í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti.     Dómur Landsréttar 6. mars 2020.   Mál þetta dæma landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Eiríkur Jónsson og Hervör Þorvaldsdóttir. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1     Aðaláfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 14. janúar 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október 2018 í málinu nr. E-2536/2017 þar sem aðaláfrýjanda var gert að greiða gagnáfrýjanda 222.870.393 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum auk þess sem staðfest var riftun á greiðslu EK1923 ehf. 15. mars 2016 til aðaláfrýjanda að fjárhæð 21.316.582 krónur og kveðið á um skyldu hans til endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar ásamt vöxtum og dráttarvöxtum. Loks var með dóminum staðfest kyrrsetning á nánar tilgreindum eignum aðaláfrýjanda og fyrirsvarsmanns hans auk þess sem aðaláfrýjanda var gert að greiða gagnáfrýjanda 2.500.000 krónur í málskostnað.   2    Aðaláfrýjandi krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms en til vara sýknu af öllum kröfum gagnáfrýjanda. Að því frágengnu krefst hann þess að dómkröfur gagnáfrýjanda verði lækkaðar verulega. Í öllum tilfellum krefst hans málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.   3   Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 1. mars 2019. Í aðalsök krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti. Í gagnsök krefst hann þess aðallega að rift verði með dómi kaupsamningi aðila um fasteignina að Skútuvogi 3 í Reykjavík, fastanúmer 202-0926 og 225-2018, frá 29. desember 2013 og að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 284.620.393 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 61.750.000 krónum frá 29. desember 2013 til 23. nóvember 2016, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 5. gr. sömu laga, af 222.870.393 krónum frá 1. júlí 2014 til 23. nóvember 2016, en af 284.620.393 krónum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 5. gr. og 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að rift verði með dómi þeirri ráðstöfun fasteignarinnar að Skútuvogi 3 í Reykjavík, fastanúmer 202-0926 og 225-2018, sem gerð var með skiptingaráætlun aðila 30. mars 2014 og staðfest var á hluthafafundum 9. og 12. september sama ár, og að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 303.028.340 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 9. september 2014 til 23. nóvember 2016, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.   4     Í gagnsök krefst aðaláfrýjandi aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda en til vara að þær verði lækkaðar verulega. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti.   5      Aðaláfrýjandi aflaði matsgerðar við meðferð málsins hér fyrir dómi og var hún lögð fram í réttinum 29. mars 2019. Dómþing var háð í málinu 20. nóvember 2019 á grundvelli 3. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vegna upplýsinga frá lögmanni gagnáfrýjanda um að ákæra hefði verið gefin út á hendur stjórnarmanni aðaláfrýjanda, Skúla Gunnari Sigfússyni, meðal annars vegna tiltekinna millifærslna sem krafist er riftunar á í máli þessu. Af hálfu dómsins var tekin ákvörðun 4. desember 2019 um að ekki væri tilefni til að fresta málinu í heild eða að hluta vegna útgáfu ákærunnar.   6     Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu vitnin Benedikt Magnússon, Snorri Aðalsteinsson og Eggert Aðalsteinsson. Áður hafði vitnið Þorvarður Guðmundsson, dómkvaddur matsmaður, gefið skýrslu fyrir réttinum.   Málsatvik og málsástæður   7    Sakarefni málsins varðar í fyrsta lagi ráðstöfun fasteignar að Skútuvogi 3, Reykjavík, sem var í eigu heildverslunarinnar EK1923 ehf. (áður Eggerts Kristjánssonar hf.) til aðaláfrýjanda, í öðru lagi greiðslu EK1923 ehf. á skuld til aðaláfrýjanda að fjárhæð 21.316.582 krónur 15. mars 2016 og í þriðja lagi kyrrsetningu sem fór fram að kröfu gagnáfrýjanda 19. júlí 2017 í fasteignum í eigu aðaláfrýjanda og fyrirsvarsmanns hans, Skúla Gunnars Sigfússonar. Upprunalega voru rekin þrjú aðskilin dómsmál um þessi ágreiningsefni en með ákvörðun héraðsdóms 25. janúar 2018 voru þau sameinuð á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.   8    Atvik málsins varðandi fyrsta sakarefnið eru að EK1923 ehf. keypti fyrrgreinda fasteign af Arion banka hf. 5. október 2012 fyrir 440.000.000 króna og var starfsemi félagsins færð í húsnæðið í kjölfarið. Fyrir liggur að þáverandi eigendur EK1923 ehf. vildu selja félagið á árinu 2013 og fór svo að Leiti eignarhaldsfélag ehf., sem er í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar sem jafnframt er fyrirsvarsmaður og raunverulegur eigandi aðaláfrýjanda, gerði ásamt Hallgrími Ingólfssyni tilboð í allt hlutafé þess fyrir 275.000.000 króna 16. nóvember 2013. Í kauptilboðinu er hinu selda lýst sem öllu hlutfé í EK1923 ehf. í samræmi við lýsingu á félaginu í „skýrslu KPMG“. Af þeirri skýrslu má ráða að fasteignin að Skútuvogi 3 hafi verið meðal eigna félagsins og ljóst er að tilboðið tók mið af því. Kauptilboðið var meðal annars gert með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og var kaupsamningur undirritaður 1. janúar 2014. Kaupendur voru Leiti eignarhaldsfélag ehf. sem eignaðist 70%, Sedona ehf. sem eignaðist 25% og Páll Hermann Kolbeinsson sem eignaðist 5%. Fyrir liggur að Leiti eignarhaldsfélag ehf. eignaðist síðar allt hlutaféð. Endanlegt kaupverð var 270.000.000 króna eftir að verðið hafði verið fært niður að teknu tilliti til athugasemda sem komu fram við áreiðanleikakönnun. Áður en síðastnefndur samningur var undirritaður hafði verið gengið frá samningi um kaup aðaláfrýjanda á Skútuvogi 3 fyrir 475.000.000 krónur. Sá samningur var undirritaður 29. desember 2013 en var gerður með þeim fyrirvara að heimilt væri að rifta honum ef fyrrgreind kaup Leitis eignarhaldsfélags ehf. o.fl. á öllu hlutafé í EK1923 ehf. gengju ekki eftir. Samkvæmt kaupsamningnum átti að greiða kaupverðið fyrir fasteignina í einu lagi við útgáfu afsals sem átti að fara fram 1. júlí 2014 og átti afhending að fara fram sama dag. Kaupsamningnum var þinglýst 22. janúar 2014. Óumdeilt er að kaupverðið var ekki greitt í samræmi við efni kaupsamningsins og fasteignin afhent mun fyrr. Afsal var gefið út 3. september 2015 og innfært í þinglýsingabók 19. september sama ár. Í afsalinu var vísað til þess að það væri gert á grundvelli kaupsamnings frá 29. september 2013 en auk þess kom þar fram að fullt og endanlegt uppgjör hefði þá farið fram milli aðila.   9    Með leigusamningi 14. mars 2014 tók EK1923 ehf. húsnæðið að Skútuvogi 3 á leigu. Í samningnum var aðaláfrýjandi tilgreindur leigusali og var upphaf leigutíma miðað við 1. október 2013. Með skiptingaráætlun 30. mars 2014 samþykktu stjórnir EK1923 ehf. og aðaláfrýjanda að skipta fyrrgreinda félaginu í tvö félög á grundvelli 133. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 107. gr. a laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Í skiptingunni fólst að aðaláfrýjandi yfirtók fasteignina Skútuvog 3 miðað við 1. október 2013 sem er sami dagur og upphafstími fyrrgreinds leigusamnings tók mið af. Samkvæmt skiptingarefnahagsreikningi tók aðaláfrýjandi yfir skuldir sem hvíldu á fasteigninni að fjárhæð 267.461.304 krónur en þar af var tekjuskattsskuldbinding 32.461.304 krónur. Fasteigninni var skipt út á bókfærðu virði sem var 437.384.257 krónur.   10   Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi aflaði aðaláfrýjandi matsgerðar á verðmæti fasteignarinnar, annars vegar í desember 2013 og hins vegar september 2014. Samkvæmt henni var markaðsverð eignarinnar í desember 2013 475.000.000 króna miðað við þá forsendu að hún væri ekki leigð út en 536.750.000 krónur miðað við þá leigufjárhæð sem lögð var til grundvallar í fyrrgreindum leigusamningi aðaláfrýjanda og EK1923 ehf. frá 14. mars 2014. Þá var markaðsverð eignarinnar metið 570.489.644 krónur miðað við september 2014 að teknu tilliti til leigufjárhæðar samkvæmt sama leigusamningi.   11   Málatilbúnaður gagnáfrýjanda byggist á því að fasteigninni hafi verið ráðstafað til aðaláfrýjanda fyrir of lágt verð þegar EK1923 ehf. hafi verið ógjaldfært í skilningi laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krefst hann þess aðallega að framangreindum kaupsamningi 29. desember 2013 verði rift á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 og aðaláfrýjanda verði gert að greiða honum 284.620.393 krónur. Tekur kröfugerðin mið af þeirri niðurstöðu matsgerðar á verðmæti fasteignarinnar sem byggðist á greiðsluflæði samkvæmt leigusamningnum frá 14. mars 2014. Verði ekki fallist á þá kröfu krefst gagnáfrýjandi þess til vara að þeirri ráðstöfun á fasteigninni sem framkvæmd var með skiptingu félagsins verði rift, aðallega á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 en til vara á grundvelli 141. gr. sömu laga. Krefst hann þess jafnframt að aðaláfrýjanda verði þá gert að greiða honum 303.028.340 krónur. Tekur sú kröfugerð jafnframt mið af fyrrgreindri niðurstöðu matsgerðar sem byggðist á greiðsluflæði samkvæmt leigusamningnum en miðað við annað tímamark og bókfært verð fasteignarinnar í stað kaupverðs samkvæmt kaupsamningi. Verði hvorki fallist á aðal- né varakröfu krefst hann þess til þrautavara að kaupsamningurinn frá 29. desember 2013 verði efndur samkvæmt efni sínu og aðaláfrýjanda gert að greiða honum 222.870.393 krónur. Á þá kröfu var fallist í hinum áfrýjaða dómi.   12  Annað sakarefnið varðar greiðslu skuldar. Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi lánaði aðaláfrýjandi EK1923 ehf. 20.843.316 krónur til að nota sem tryggingu fyrir húsaleiguábyrgð sem Íslandsbanki hf. veitti vegna skuldbindinga EK1923 ehf. samkvæmt húsaleigusamningi frá 21. júlí 2015 við Reiti I ehf. Var fjárhæðin lögð inn á bókarlausan reikning í eigu EK1923 ehf. en óumdeilt er að reikningurinn var ekki sérmerktur aðaláfrýjanda í kerfum bankans. Síðastnefndur húsaleigusamningur var gerður eftir að aðaláfrýjandi seldi Reitum I ehf. húsnæðið að Skútuvogi 3 1. október 2015. Í kjölfar þess að nýr leigutaki, Parlogis ehf., tók við húsnæðinu og húsaleiguábyrgðin var felld niður óskuðu fyrirvarsmenn aðaláfrýjanda eftir því við starfsmenn Íslandsbanka hf. að fjárhæðin á bankareikningnum yrði greidd aðaláfrýjanda beint. Var orðið við þeirri ósk af hálfu bankans með millifærslu 15. mars 2016 að fjárhæð 21.316.582 krónur. Gagnáfrýjandi byggir á því að þessi greiðsla sé riftanleg á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 en til vara 141. gr. sömu laga. Í hinum áfrýjaða dómi var fallist á riftun greiðslunnar á grundvelli fyrrnefndu greinarinnar og aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda þá fjárhæð með nánar tilgreindum vöxtum og dráttarvöxtum.   13 Þriðja sakarefnið varðar það álitaefni hvort heimilt hafi verið að kyrrsetja fasteignir í eigu aðaláfrýjanda og fyrirsvarsmanns hans, Skúla Gunnars Sigfússonar, til tryggingar á þeim kröfum sem mál þetta fjallar um. Kyrrsetningin fór fram hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 19. júlí 2017. Ágreiningurinn varðar fyrst og fremst það álitamál hvort skilyrðum 5. gr. laga nr. 31/1990 hafi verið fullnægt og hvort rétt hafi verið staðið að kyrrsetningunni af hálfu sýslumanns. Fallist var á kröfu gagnáfrýjanda um staðfestingu á kyrrsetningunni í hinum áfrýjaða dómi.   14   Bú EK1923 ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 7. september 2016 en frestdagur við skiptin var 9. maí sama ár er gjaldþrotaskiptabeiðni var lögð fram í héraðsdómi.   15   Atvik málsins og málsástæður eru að öðru leyti reifuð í hinum áfrýjaða dómi.   Niðurstaða   Ómerkingarkrafa aðaláfrýjanda   16  Aðaláfrýjandi krefst þess aðallega að dómur héraðsdóms verði ómerktur. Er sú krafa einkum byggð á því að í dóminum skorti á að tekin sé efnisleg afstaða til ýmissa málsástæðna sem byggt hafi verið á af hans hálfu um gildi skiptingaráætlunarinnar sem staðfest var á hluthafafundum EK 1923 ehf. og aðaláfrýjanda 9. og 12. september 2014. Vísað er til þess að ekki sé hægt að ráða af dómi héraðsdóms hvernig hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að virða bæri að vettugi umrædda skiptingu félagsins sem ekki hefði verið hnekkt eða krafist ógildingar á.   17  Í hinum áfrýjaða dómi kemst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að skiptingaráætlunin haggi ekki skuldbindingargildi hins þinglýsta kaupsamnings. Fólst í þeirri niðurstöðu að fallist var á þá málsástæðu gagnáfrýjanda að skiptingin hefði verið markleysa sem horfa bæri alfarið fram hjá. Þótt fallast megi á að röksemdafærsla héraðsdóms hefði mátt vera skýrari um þetta atriði verður ekki talið að slíkir annmarkar séu á dóminum um þetta eða önnur atriði að tilefni sé til að ómerkja hann. Verður kröfu aðaláfrýjanda um ómerkingu dómsins því hafnað.   Aðalkrafa gagnáfrýjanda   18  Sem fyrr segir byggist aðalkrafa gagnáfrýjanda á 141. gr. laga nr. 21/1991. Riftun samkvæmt greininni er háð því skilyrði að fyrir liggi sönnun um að þrotamaður hafi verið ógjaldfær þegar viðkomandi ráðstöfun átti sér stað eða hafi orðið það vegna hennar. Þrotabúið ber sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrðinu um ógjaldfærni sé fullnægt.   19 Um ógjaldfærni félagsins vísar gagnáfrýjandi til þess að þegar kaupsamningur um fasteignina hafi verið undirritaður 29. desember 2013 hafi fjárhagsleg staða þess verið með þeim hætti að það hafi „alls ekki mátt við þeirri blóðtöku sem kaupsamningurinn um Skútuvog 3 var“. Fyrir liggur að kaupsamningurinn var afhentur til þinglýsingar 30. desember 2013 og var honum þinglýst 22. janúar 2014. Gagnáfrýjandi byggir á því að félagið hafi á þeim tíma er fasteigninni var ráðstafað ekki getað staðið í skilum með skuldbindingar sínar þegar þær féllu í gjalddaga og hafi af þeim sökum verið ógjaldfært eða hafi að minnsta kosti orðið það vegna framsals eignarinnar. Jafnframt vísar gagnáfrýjandi til skýrslna stjórnenda félagsins fyrir og eftir sölu þess um áramótin 2013/2014 um erfiða fjárhagslega stöðu þess.   20  Í gögnum málsins liggur fyrir ársreikningur EK1923 ehf. fyrir rekstrarárið 2014 þar sem meðal annars er að finna samanburð á rekstri og efnahag félagsins við árið 2013. Ársreikningurinn er undirritaður af stjórn og framkvæmdastjóra í maí 2015 og ber með sér að hafa verið kannaður af löggiltum endurskoðanda á vegum KPMG ehf. sem undirritaði hann í sama mánuði. Ekki er byggt á því af hálfu gagnáfrýjanda að reikningurinn hafi að geyma efnislega rangar eða misvísandi upplýsingar. Samkvæmt reikningnum námu heildarrekstrartekjur félagsins 897.035.659 krónum árið 2013 en 1.355.768.918 krónum árið 2014. Rekstrartap félagsins fyrir árið 2013 nam 47.910.376 krónum eftir fjármagnsliði og tekjuskatt en rekstrarhagnaður var 1.930.489 krónur árið 2014. Heildareignir félagsins árið 2013 voru metnar að verðmæti 278.354.321 króna en heildarskuldir 276.773.421 króna. Eigið fé félagsins í árslok 2013 var 1.580.900 krónur og eiginfjárhlutfall 1,6%. Til samanburðar voru heildareignir félagsins í árslok 2014 metnar að verðmæti 424.093.780 krónur en heildarskuldir 365.521.849 krónur. Nam eigið fé félagsins þá 58.571.931 krónu í kjölfar hlutafjárhækkunar sem ársreikningurinn ber með sér að hafi farið fram í desember það ár að fjárhæð 55.060.542 krónur. Eiginfjárhlutfall félagsins var þá 13,8%. Fyrir liggur að framangreind reikningsskil félagsins tóku mið af því að fasteigninni að Skútuvogi 3 hafi verið ráðstafað úr félaginu samkvæmt skiptingaráætluninni sem var endanlega samþykkt á hluthafafundum EK1923 ehf. og aðaláfrýjanda 9. og 12. september 2014 en þar var miðað við 1. október 2013.   21  Þrátt fyrir að framangreindur ársreikningur beri með sér að heildareignir félagsins hafi verið umfram heildarskuldir þess árin 2013 og 2014 og eiginfjárhlutfallið hafi verið jákvætt gefur reikningurinn til kynna að félagið hafi á þessum tíma átt í lausafjárerfiðleikum. Þannig var handbært fé frá rekstri í árslok 2013 eingöngu 860.575 krónur og 721.093 krónur í árslok 2014. Jafnframt ber reikningurinn með sér að eiginfjárstaða félagsins var mjög veik í árslok 2013 í kjölfar þess að fasteignin var seld frá félaginu og hélst þannig fram í desember 2014 er hlutaféð var hækkað með þeim áhrifum að eiginfjárhlutfallið hækkaði í 13,8%. Í framburðum fyrrum stjórnenda félagsins fyrir héraðsdómi og Landsrétti kom fram að rekstur þess hefði verið erfiður árin 2013 og 2014. Skúli Gunnar Sigfússon bar fyrir héraðsdómi að reksturinn hefði „aldrei“ gengið vel og vísaði um það til ársreikninga félagsins. Páll Gústaf Arnar, sölustjóri og síðar framkvæmdastjóri EK1923 ehf. frá desember 2014 til loka janúar 2016, sagði að hann minnti að það hefði verið farið að „halla undan fæti“ hjá félaginu þegar á árinu 2010 til 2011 en eftir flutninga þess í Skútuvog 3 árið 2012 hefði staðan versnað, þá hefði farið að bera á „drætti á greiðslu til birgja“. Sagði hann sölu fasteignarinnar úr félaginu í árslok 2013 hafa haft þau áhrif að dregið hefði úr trausti erlendra birgja á félaginu sem hefði leitt til lakari greiðslukjara þess. Á sama veg bar Snorri Aðalsteinsson, fyrrverandi hluthafi og stjórnarmaður félagsins, í framburði sínum hér fyrir dómi þar sem fram kom að það hefði verið farið að „halla undan fæti“ hjá félaginu síðustu árin fyrir sölu þess í lok árs 2013 og að hann teldi að kaup félagsins árið 2012 á fasteigninni að Skútuvogi 3 hefði haft neikvæð áhrif á rekstur þess. Í framburði Eggerts Aðalsteinssonar, fyrrverandi hluthafa og stjórnarmanns, hér fyrir dómi kom fram að í aðdraganda þess að félagið var selt í lok árs 2013 hefði legið fyrir að rekstraráform þess hefðu ekki gengið eftir, að halli hefði verið á rekstrinum og að honum hafi ekki litist á framhaldið. Framburður annarra sem gáfu skýrslu um þetta fyrir héraðsdómi var af svipuðum toga.   22  Í dómaframkvæmd hefur verið lagt til grundvallar að við mat á hugtakinu gjaldfærni í skilningi XX. kafla laga nr. 21/1991 sé lagður til grundvallar sá mælikvarði sem stuðst er við í 64. gr. og upphafsorðum 2. mgr. 65. gr. sömu laga, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 28. apríl 2016 í máli nr. 578/2015. Til þess að félag teljist ógjaldfært í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 dugar því ekki að sýna fram á að félag hafi átt við rekstrarerfiðleika að stríða, heldur þarf að færa fram sönnur um að á þeim tíma sem um ræðir hafi félagið ekki getað greitt skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga og að ekki verið líklegt að úr rættist í náinni framtíð. Þótt gögn málsins beri með sér að EK1923 ehf. hafi átti í rekstrarerfiðleikum í árslok 2013 verður ekki af þeim ráðið að félaginu hafi þá ekki verið unnt að greiða skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga. Af hálfu gagnáfrýjanda hafa ekki verið lögð fram matsgerð eða önnur haldbær sönnunargögn sem renna stoðum undir það. Fyrir liggur að 1. janúar 2014 áttu sér stað viðskipti með allt hlutafé í EK1923 ehf. sem byggðust ekki eingöngu á því að fasteignin að Skútuvogi 3 væri í eigu félagsins heldur jafnframt á því að verðmæti væru fólgin í rekstri þess. Gefa þessi viðskipti til kynna að rekstrarvandi félagsins hafi þá ekki verið það alvarlegur að það hafi ekki getað greitt skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga. Samkvæmt því verður ekki fallist á að sýnt hafi verið fram á að félagið hafi í lok desember 2013 verið ógjaldfært í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991.   23  Gagnáfrýjandi byggir á því að jafnvel þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að ósannað væri að EK1923 ehf. hafi verið ógjaldfært er kaupsamningurinn um fasteignina var gerður hafi félagið orðið ógjaldfært vegna ráðstöfunarinnar sem í honum fólst. Um þetta er meðal annars vísað til þess að félagið hafi ekki verið í stakk búið til að standa straum af leigugreiðslum fyrir afnot húsnæðisins samkvæmt leigusamningi sem var gerður við aðaláfrýjanda 14. mars 2014. Eins og fyrr er rakið var eiginfjárstaða félagsins í árslok 2013 jákvæð þrátt fyrir framsal fasteignarinnar en jafnframt liggur fyrir, eins og nánar verður vikið að síðar, að vegna framsalsins var félagið losað undan langtímaskuldbindingum á árinu 2014 samtals að fjárhæð 267.461.304 krónur. Ljóst er að með því var félagið losað undan umtalsverðum skuldum auk þess sem fyrir liggur að aðaláfrýjandi innheimti ekki húsaleigu árið 2014 og gaf þá kröfu eftir með útgáfu kreditreiknings 18. desember 2014. Einnig liggur fyrir að rekstrarhagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði árið 2014 var 19.598.997 krónur, 2.417.811 krónur eftir fjármagnsliði og 1.930.489 krónur eftir skatta sem gefur til kynna að félaginu hafi á því ári verið unnt að greiða skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga. Loks verður að líta til þess að í árslok 2014 voru heildareignir félagsins metnar hærri en heildarskuldir en fyrirliggjandi reikningsskil fyrir árin 2013 og 2014 hafa eins og fyrr greinir hvorki verið vefengd af hálfu gagnáfrýjanda né hefur verið sýnt fram á með matsgerð eða öðrum haldbærum sönnunargögnum að þau séu efnislega röng eða misvísandi.   24   Samkvæmt öllu framangreindu verður gagnáfrýjandi látinn bera hallann af sönnunarskorti um að EK1923 ehf. hafi verið ógjaldfært í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 er fasteigninni að Skútuvogi 3 var ráðstafað til aðaláfrýjanda með kaupsamningi 29. desember 2013 eða að félagið hafi orðið ógjaldfært vegna ráðstöfunarinnar. Verður niðurstaða héraðsdóms um sýknu aðaláfrýjanda af aðalkröfu gagnáfrýjanda því staðfest.   Varakrafa gagnáfrýjanda   25   Gagnáfrýjandi krefst þess til vara að rift verði með dómi þeirri ráðstöfun á fasteigninni að Skútuvogi 3 sem fólst í skiptingaráætlun aðaláfrýjanda og EK1923 ehf. 30. mars 2014 sem var staðfest á hluthafafundum félaganna 9. og 12. september sama ár. Auk þess krefst hann þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða honum 303.028.340 krónur auk nánar tilgreindra vaxta og dráttarvaxta. Byggist riftunarkrafan aðallega á 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 en til vara á 141. gr. sömu laga. Aðaláfrýjandi byggir á því að skilyrðum þessara lagaákvæða sé ekki fullnægt.   26    Samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þetta gildir einnig um gjafir til nákominna sem hafa verið afhentar sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag.   27   Forsenda þess að stuðst verði við ákvæði 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 er að sú afhending á gjöf sem riftun er beint að hafi átt sér stað innan þeirra tímamarka sem þar eru tilgreind. Óumdeilt er að aðaláfrýjandi var nátengdur EK1923 ehf. og þarf því að liggja fyrir að afhending fasteignarinnar hafi átt sér stað sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag, sbr. síðari málslið 2. mgr. 131. gr. fyrrgreindra laga. Eins og fyrr hefur verið rakið var frestdagur við skiptin 9. maí 2016. Samkvæmt því hefði þurft að afhenda fasteignina 9. maí 2014 eða síðar svo að til álita komi að styðjast við ákvæði 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991.   28  Eins og fyrr hefur verið rakið var fasteigninni ráðstafað með kaupsamningi 29. desember 2013 sem var þinglýst 22. janúar 2014. Í 22. gr. kaupsamningsins kemur fram að hann hafi verið gerður „í tengslum við fyrirhugaða sölu á hlutafé [EK1923 ehf.] til Leiti eignarhaldsfélags …, Sedona ehf. …, og Páls Hermanns Kolbeinssonar“. Á þeim tíma lá fyrir að þáverandi hluthafar EK1923 ehf. höfðu samþykkt kauptilboð síðastnefndra aðila í allt hlutafé félagsins fyrir 275.000.000 króna en tilboðið hafði nánar tiltekið verið samþykkt 17. nóvember 2013. Kemur jafnframt fram í 22. gr. kaupsamningsins 29. desember 2013 að ef ekkert yrði af þeim kaupum fyrir afhendingardag skyldi hvorum aðila um sig heimilt að rifta honum með skriflegri tilkynningu þess efnis til gagnaðila. Kemur loks fram að aðaláfrýjandi „ábyrgist skaðleysi [EK1923 ehf.] ef til riftunar kaupsamnings“ kæmi.   29  Samkvæmt kaupsamningnum átti afhending fasteignarinnar að fara fram 1. júlí 2014 samhliða útgáfu afsals og greiðslu kaupverðs að fjárhæð 475.000.000 króna. Kaup Leitis eignarhaldsfélags ehf., Sedona ehf. og Páls Hermanns Kolbeinssonar á öllu hlutafé í EK1923 ehf. gengu eftir með undirritun kaupsamnings um hlutaféð 1. janúar 2014. Líta verður svo á að frá og með sama tíma hafi fyrrgreindur fyrirvari í 22. gr. kaupsamningsins fallið brott og samkomulag um kaup aðaláfrýjanda á fasteigninni þar með orðið endanlegt. Leigusamningur var í kjölfarið undirritaður 14. mars 2014 þar sem samið var um að EK1923 ehf. tæki fasteignina á leigu af aðaláfrýjanda.   30   Í 131. gr. laga nr. 21/1991 eru réttaráhrif gjafar miðuð við það tímamark er hún er afhent. Ekki er miðað við hvenær gjafaloforðið var gefið heldur afhendinguna, efndir gjafaloforðsins. Af þessu leiðir að horfa verður til þess hvenær fasteignin var afhent aðaláfrýjanda í skilningi ákvæðisins, óháð því tímamarki þegar skiptingaráætlunin var endanlega samþykkt á hluthafafundum EK 1923 ehf. og aðaláfrýjanda 9. og 12. september 2014. Við mat á því hvenær gjöf telst afhent í skilningi 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 verður að horfa til 140. gr. sömu laga, sem miðar við þinglýsingu eða eftir atvikum aðra tryggingarráðstöfun, sem er nauðsynleg til að hindra að betri réttur fáist með fullnustugerð. Samkvæmt því miðast tímamörkin við þinglýsingu kaupsamningsins sem eins og fyrr segir fór fram 22. janúar 2014. Af því leiðir að sú gjöf sem gagnáfrýjandi byggir á að hafi falist í afhendingu fasteignarinnar átti sér stað utan tímamarka síðari málsliðar 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Eins og fyrr hefur verið rakið og nánar er vikið að í umfjöllun um beitingu 141. gr. laga nr. 21/1991 verður jafnframt að leggja til grundvallar að EK1923 ehf. hafi á þessum tíma verið gjaldfært. Þegar af þessum ástæðum kemur ekki til álita að beita ákvæði 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991.   31  Aðaláfrýjandi byggir riftunarkröfu sína til vara á 141. gr. laga nr. 21/1991. Eins og fyrr hefur verið rakið liggur fyrir að rekstrarhagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði árið 2014 var 19.598.997 krónur, 2.417.811 krónur eftir fjármagnsliði og 1.930.489 krónur eftir skatta sem gefur til kynna að félaginu hafi á því ári verið unnt að greiða skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga. Í árslok 2014 voru heildareignir félagsins jafnframt metnar hærri en heildarskuldir en fyrirliggjandi reikningsskil fyrir árin 2013 og 2014 hafa eins og fyrr greinir hvorki verið vefengd af hálfu gagnáfrýjanda né hefur verið sýnt fram á með matsgerð eða öðrum haldbærum sönnunargögnum að þau séu efnislega röng eða misvísandi. Af þeim sökum og í ljósi þess sem rakið er um sönnunarstöðu í umfjöllun um aðalkröfu gagnáfrýjanda verður hann látinn bera hallann af sönnunarskorti um að EK1923 ehf. hafi verið ógjaldfært í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 er fyrrgreind skiptingaráætlun félagsins og aðaláfrýjanda var endanlega samþykkt 9. og 12. september 2014 eða að það hafi orðið ógjaldfært vegna þeirrar ráðstöfunar sem í henni fólst.   32  Verður niðurstaða héraðsdóms um sýknu aðaláfrýjanda af varakröfu gagnáfrýjanda samkvæmt framansögðu staðfest.   Þrautavarakrafa gagnáfrýjanda   33  Gagnáfrýjandi krefst til þrautavara staðfestingar á þeirri niðurstöðu héraðsdóms að aðaláfrýjanda verði gert að greiða honum 222.870.393 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 5. gr. sömu laga, frá 1. júlí 2014 til greiðsludags. Byggist krafan á því að kaupsamningurinn um fasteignina frá 29. desember 2013 verði efndur samkvæmt efni sínu en eftirstöðvar hans séu framangreind fjárhæð. Dómkrafan er sundurliðuð með þeim hætti að kaupverðið hafi verið 475.000.000 króna en frá því dragist fjárhæð yfirtekinna veðskulda samtals 303.198.812 krónur. Aðaláfrýjandi hafi við uppgjör áhvílandi veðskulda fengið 51.069.205 krónur endurgreiddar frá EK1923 ehf. en að teknu tilliti til þess næmu eftirstöðvar kaupverðsins 222.870.393 krónum.   34  Með skiptingaráætlun 30. mars 2014 samþykktu stjórnir EK1923 ehf. og aðaláfrýjanda að skipta fyrrgreinda félaginu í tvö félög á grundvelli 133. gr. laga nr. 2/1995 og 107. gr. a laga nr. 138/1994. Í skiptingunni fólst að aðaláfrýjandi yfirtók fasteignina að Skútuvogi 3 miðað við 1. október 2013. Samkvæmt skiptingaráætluninni létu hluthafar í EK1923 ehf. af hendi hluti að nafnverði 9.983.255 krónur en fengu sem endurgjald hluti í aðaláfrýjanda að nafnverði 641.573 krónur. Samkvæmt skiptingarefnahagsreikningi tók aðaláfrýjandi yfir skuldir að fjárhæð 267.461.304 krónur en þar af var tekjuskattsskuldbinding 32.461.304 krónur. Fasteigninni var skipt út á bókfærðu virði sem var 437.384.257 krónur. Yfirteknar langtímaskuldir voru lífeyrissjóðslán að fjárhæð 178.927.870 krónur og lán við Íslandsbanka hf. að fjárhæð 56.072.130 krónur. Að teknu tilliti til yfirtekinnar tekjuskattsskuldbindingar vegna fasteignarinnar að fjárhæð 32.461.304 krónur nam nettó verðmæti eiginfjár sem rann til aðaláfrýjanda við skiptinguna 169.922.953 krónum.   35  Ágreiningslaust er að skipting félagsins fór fram í samræmi við fyrirmæli 1. til 2. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995 og 1. til 2. mgr. 107. gr. a laga nr. 138/1994. Í málatilbúnaði gagnáfrýjanda er á hinn bóginn á því byggt að skiptingin sé „hrein markleysa í lagalegum skilningi en jafnvel þó svo sé ekki, hafi skiptingaráætlunin ekki með nokkru móti haggað skuldbindingargildi kaupsamningsins um Skútuvog 3, frá 29. desember 2013“.   36  Með kaupsamningnum 29. desember 2013 náðist samkomulag milli aðaláfrýjanda og EK1923 ehf. um sölu fasteignarinnar að Skútuvogi 3. Eins og fyrr er rakið varð það samkomulag endanlega bindandi 1. janúar 2014 þegar fyrirvari í 22. gr. samningsins féll niður en samningnum var, eins og fyrr hefur verið rakið, þinglýst 22. janúar sama ár. Skiptingaráætlunin sem var undirrituð af stjórnum sömu aðila 30. mars 2014 og samþykkt endanlega á hluthafafundum félaganna 9. og 12. september það ár hreyfði ekki við skuldbindingargildi kaupsamningsins en kvað á um breytingar á því hvernig staðið skyldi að framsali fasteignarinnar og greiðslu fyrir hana. Breytingarnar endurspeglast í skiptingaráætluninni sem fyrr hefur verið lýst. Af gögnum málsins má ráða að við framsal fasteignarinnar var farið eftir skiptingaráætluninni en jafnframt byggt á skuldbindingargildi kaupsamningsins. Þetta má meðal annars ráða af leigusamningnum milli aðaláfrýjanda og EK1923 ehf. frá 14. mars 2014 sem ekki hefði verið unnt að gera af hálfu aðaláfrýjanda án vanheimildar nema vegna tilvistar kaupsamningsins. Í leigusamningnum var gert ráð fyrir því að EK1923 ehf. tæki húsnæðið á leigu frá 1. október 2013 í samræmi við skiptingaráætlunina sem þó var ekki undirrituð fyrr en 16 dögum síðar. Í afsali 3. september 2015 var jafnframt vísað til kaupsamningsins án nokkurs fyrirvara en þar kom fram að „fullt og endanlegt uppgjör“ hefði þá farið fram. Eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að þar sé vísað til uppgjörsins sem fólst í ráðstöfun fasteignarinnar samkvæmt skiptingaráætluninni sem þá hafði verið framkvæmd.   37 Samkvæmt framansögðu er fallist á þá málsástæðu gagnáfrýjanda að skiptingaráætlunin hafi ekki haft áhrif á skuldbindingargildi kaupsamningsins. Tilvist kaupsamningsins getur á hinn bóginn ekki haft þau réttaráhrif að skiptingaráætlunin teljist markleysa, enda verður að líta svo á eins og fyrr segir að hún hafi einungis falið í sér breytingar á samningi milli sömu aðila á því hvernig staðið skyldi að framsali fasteignarinnar til aðaláfrýjanda. Gagnáfrýjandi hefur ekki fært fram neinar aðrar málsástæður eða lagarök en að framan greinir fyrir því að skiptingin hafi verið „hrein markleysa“. Hann byggir ekki á því að skiptingin skuli teljast ógild á grundvelli ógildingarreglna III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga þar sem hún hafi stangast á við ákvæði laga nr. 2/1995 eða önnur lagaákvæði. Af hans hálfu hefur samkvæmt því ekki verið vísað til neinna réttarheimilda sem geta haft í för með sér að líta beri á skiptinguna sem markleysu eða að horft verði á öðrum grundvelli alfarið fram hjá tilvist hennar. Tilvísun gagnáfrýjanda til dóms Hæstaréttar 12. nóvember 2015 í máli nr. 217/2015 hefur ekki þýðingu þar sem niðurstaðan í því máli var meðal annars reist á 57. gr. laga 90/2003 um tekjuskatt sem fjallar um óvenjuleg skipti í fjármálum. Hefur gagnáfrýjandi ekki byggt á því að með skiptingaráætluninni hafi aðaláfrýjandi brotið gegn 76. gr. laga nr. 2/1995 sem kveður á um að félagsstjórn, framkvæmdastjóra og öðrum þeim sem hafa heimild til að koma fram fyrir hönd félags megi ekki gera neinar þær ráðstafanir sem eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins og ráðstöfunin hafi af þeim sökum verið ógild eða gefið tilefni til greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem félagið hafi orðið fyrir.   38 Eins og mál þetta er lagt upp af hálfu gagnáfrýjanda verður samkvæmt framansögðu ekki komist hjá því að leggja til grundvallar að skiptingin á EK1923 ehf. með ráðstöfun fasteignarinnar að Skútuvogi 3 til aðaláfrýjanda hafi farið fram lögum samkvæmt. Liggur því ekki annað fyrir en aðaláfrýjandi hafi efnt skuldbindingar sínar samkvæmt kaupsamningnum frá 29. desember 2013 að teknu tilliti til þeirra breytinga sem skiptingaráætlunin fól í sér. Verður hann því sýknaður af þrautavarakröfu gagnáfrýjanda.   Krafa um riftun á millifærslu til aðaláfrýjanda 15. mars 2016   39  Gagnáfrýjandi krefst staðfestingar á þeirri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að rifta beri greiðslu EK1923 ehf. til aðaláfrýjanda að fjárhæð 21.316.582 krónur sem fram fór 15. mars 2016 en um aðdraganda hennar er vísað til málsatvika sem hafa verið rakin. Riftunarkrafan er aðallega byggð á 134. gr. laga nr. 21/1991 en til vara á 141. gr. sömu laga.   40  Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.   41  Eins og fyrr hefur verið rakið var bú EK1923 ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 7. september 2016 en frestdagur við skiptin var 9. maí sama ár. Samkvæmt því liggur fyrir að greiðslan sem riftunarkröfunni er beint að átti sér stað um það bil einum mánuði og þremur vikum fyrir frestdag og var því innan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.   42  Samkvæmt gögnum málsins var Friðrik Friðriksson um áramótin 2015/2016 beðinn af fyrirsvarsmanni aðaláfrýjanda, Skúla Gunnari Sigfússyni, að greina rekstur EK1923 ehf. og meta hvort forsendur væru til að selja hann og koma fyrirtækinu „fyrir vind“. Í framburði hans fyrir héraðsdómi kemur meðal annars fram að félagið hafi verið „illa statt“ þegar hann kom að því en samkvæmt hans greiningu hafi vantað 50 til 100 milljónir króna til að reksturinn yrði „sjálfbær“. Kom fram hjá honum að hann hafi talið félagið vera „ógjaldfært“ þótt hann teldi að hægt yrði að koma rekstrinum í lag með fyrrgreindu fjárframlagi. Í endurriti skýrslu Friðriks hjá skiptastjóra 21. september 2016 er eftir honum haft að greining hans á rekstrinum hafi legið fyrir í lok janúar 2016. Um niðurstöðu hennar er orðrétt haft eftir honum, sem hann staðfesti fyrir dómi að væri rétt eftir haft: „Tæknilega var félagið gjaldþrota á þessum tíma, reyndar má ljóst vera að það hafi verið gjaldþrota í talsverðan tíma“. Í síðastnefndri skýrslu hans kemur jafnframt fram að stór langtímalán hefðu verið „í frosti og yfirdráttur fullnýttur“.   43  Í skýrslu Guðmundar Hjaltasonar, framkvæmdastjóra aðaláfrýjanda, sem tekin var af skiptastjóra 9. september 2016 er haft eftir honum að orðið hefði ljóst „í mars 2016 að þetta [væri] búið spil…ekki yrði hægt að snúa við rekstri né selja félagið“. Hafi því verið tekin ákvörðun um að selja umboð og rekstur utan um þau „og reyna frjálsa nauðasamninga með andvirði þeirrar sölu“.   44  Af framangreindu verður ráðið að EK1923 ehf. hafi þegar í janúar 2016 átt við alvarlega greiðsluerfiðleika að stríða sem leggja verður til grundvallar að hafi verið þess eðlis að greiðslan í mars 2016 hafi skert greiðslugetu þess verulega í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Við það mat er meðal annars horft til þess að greiðslan nam ríflega 36% af eiginfjárgrunni félagsins í árslok 2014 og var hærri en rekstrarhagnaður þess það ár fyrir fjármagnsliði og tekjuskatt. Er jafnframt litið til þess að handbært fé samkvæmt reikningsskilum félagsins var mjög takmarkað. Fyrir liggur að frá árslokum 2014 fór fjárhagsleg staða félagsins versnandi allt þar til óskað var eftir gjaldþrotaskiptum á búi þess í maí 2016. Þótt félagið hafi í mars 2016 átt eignir lá ekki fyrir hvort og þá fyrir hvaða verð unnt væri að selja þær. Verður því ekki fallist á að tilvist þeirra geti haft áhrif á mat á greiðslugetu félagsins. Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi voru fyrirsvarsmenn aðaláfrýjanda sem óskuðu eftir millifærslunni frá Íslandsbanka hf. grandsamir um greiðsluerfiðleikana en af því leiðir óhjákvæmilega að greiðsla skuldarinnar getur ekki talist hafa verið venjuleg eftir atvikum. Samkvæmt því verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um riftun greiðslunnar á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 staðfest.   45  Samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 ber aðaláfrýjanda að endurgreiða gagnáfrýjanda þá greiðslu sem hann tók við 15. mars 2016. Verður krafa gagnáfrýjanda um greiðslu að fjárhæð 21.316.582 krónur því tekin til greina. Gagnáfrýjandi krefst greiðslu vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá því að greiðslan var innt af hendi 15. mars 2016 til 23. desember sama ár. Krafa gagnáfrýjanda er endurgreiðslukrafa en ekki skaðabótakrafa en af því leiðir að aðaláfrýjandi verður sýknaður af þessum hluta vaxtakröfu hans. Gagnáfrýjandi krafði aðaláfrýjanda um endurgreiðslu með bréfi 23. desember 2016. Verður fallist á kröfu hans um greiðslu dráttarvaxta er mánuður var liðinn frá þeim tíma, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Af hálfu aðaláfrýjanda hafa engin haldbær rök verið færð fram fyrir því að forsendur séu til að lækka kröfuna eins og hann krefst í þrautavarakröfu sinni.   Krafa um staðfestingu á kyrrsetningu   46  Gagnáfrýjandi krefst staðfestingar á kyrrsetningu sem gerð var hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 19. júlí 2017 í fasteignum aðaláfrýjanda Eyrarvegi 2, Selfossi, fastanúmer 227 0582 og Egilsstöðum, Ölfusi, landnúmer 171697 og fastanúmer 231 4805. Auk þess krefst hann staðfestingar á kyrrsetningu í eignum fyrirsvarsmanns aðaláfrýjanda, Skúla Gunnars Sigfússonar, Selbraut 86, Seltjarnarnesi, fastanúmer 206 8165 og Ósgerði, Ölfusi, fastanúmer 171790.   47  Samkvæmt 15. gr. laga nr. 31/1990 gilda ákvæði 36. til 50. gr., 2. mgr. 51. gr., 62. og 63. gr. laga nr. 90/1989 um aðför um þær eignir sem kyrrsettar verða, virðingu þeirra og rétt málsaðila til að vísa á þær og um heimildir til að ljúka kyrrsetningargerð án árangurs. Af 1. mgr. 36. gr. laga nr. 90/1989 hefur verið talið leiða að sá sem leita á fullnustu hjá við aðfarargerð verði alltaf talinn gerðarþoli hvort sem krafa eða skilríki fyrir aðfararheimild hljóðar á hann eða ekki. Af 15. gr. laga nr. 31/1990 leiðir að hið sama verður talið gilda þegar kyrrsetning fer fram í eign sem ekki tilheyrir skuldara þeirrar kröfu sem liggur kyrrsetningarbeiðni til grundvallar. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 31/1990 hefði gagnáfrýjandi því þurft að fá gefna út réttarstefnu af héraðsdómi til staðfestingar á kyrrsetningu eigna fyrirsvarsmanns aðaláfrýjanda, Skúla Gunnars Sigfússonar, en ekki liggur fyrir að hann hafi lýst því yfir við gerðina að hann myndi una við hana án málshöfðunar. Gagnáfrýjandi hefði þurft að beina slíkri málssókn að Skúla Gunnari Sigfússyni sem gerðarþola en ekki aðaláfrýjanda sem var ekki skráður eigandi fasteignanna Selbraut 86, Seltjarnarnesi, og Ósgerði, Ölfusi. Þar sem það var ekki gert verður kröfu aðaláfrýjanda um staðfestingu á kyrrsetningu síðastnefndra fasteigna hafnað.   48  Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans um staðfestingu á kyrrsetningu eigna aðaláfrýjanda, Eyrarvegi 2, Selfossi, og Egilsstöðum, Ölfusi, staðfest.   49  Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður falli niður í héraði og fyrir Landsrétti.   Dómsorð: Rift er greiðslu 15. mars 2016 á skuld EK1923 ehf. við aðaláfrýjanda, Sjöstjörnuna ehf., að fjárhæð 21.316.582 krónur. Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda, þrotabúi EK1923 ehf., 21.316.582 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. janúar 2017 til greiðsludags. Felld er úr gildi kyrrsetning, sem gerð var að kröfu gagnáfrýjanda hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 19. júlí 2017 í fasteignum fyrirsvarsmanns aðaláfrýjanda, Skúla Gunnars Sigfússonar, Selbraut 86, Seltjarnarnesi, fastanúmer 206 8165 og Ósgerði, Ölfusi, fastanúmer 171790. Staðfest er kyrrsetning sem gerð var að kröfu gagnáfrýjanda hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 19. júlí 2017 í fasteignum aðaláfrýjanda Eyrarvegi 2, Selfossi, fastanúmer 227 0582 og Egilsstöðum, Ölfusi, landnúmer 171697 og fastanúmer 231 4805. Málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti fellur niður.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október 2018   Mál þetta, sem dómtekið var 14. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af þ.b. EK 1923 ehf., Grjótagötu 7, 101 Reykjavík, með réttarstefnu, útgefinni 20. júlí 2017, á hendur Sjöstjörnunni ehf., Suðurlandsbraut 46, Reykjavík. Í þinghaldi þann 25. janúar voru sameinuð þessu máli mál nr. E-374/2017 og E-1101/2017, sem eru milli sömu aðila.   I. Stefnandi krefst þess að rift verði með dómi kaupsamningi stefnanda og stefnda um fasteignina Skútuvog 3 í Reykjavík, fastanúmer 202-0926 og 225-2018, frá 29. desember 2013 og stefnda gert að greiða stefnanda 284.620.393 kr. auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 61.750.000 kr. frá 29. desember 2013 til 23. nóvember 2016 en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 5. gr., sömu laga af 222.870.393 kr. frá 1. júlí 2014 til 23. nóvember 2016 en af 284.620.393 kr. samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 5. gr. og 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.         Til vara krefst stefnandi þess að rift verði með dómi þeirri ráðstöfun á fasteigninni að Skútuvogi 3 í Reykjavík, fastanúmer 202-0926 og 225-2018, sem gerð var með skiptingaráætlun stefnda og stefnanda frá 30. mars 2014 og staðfest var á hluthafafundum 9. og 12. september 2014, og að stefnda verði gert að greiða stefnanda 303.028.340 kr. auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. september 2014 til 23. nóvember 2016 en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.            Til þrautavara er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda 222.870.393 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 5. gr. sömu laga frá 1. júlí 2014 til greiðsludags.            Þá krefst stefnandi að rift verði með dómi greiðslu stefnanda til stefnda að fjárhæð 21.316.582 kr. sem fór fram þann 15. mars 2016 með þeim hætti að millifært var af bókarlausum reikningi nr. 105502 í eigu stefnanda inn á reikning í eigu stefnda.            Þá er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda 21.316.582 kr. Krafist er vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. mars 2016 til 23. desember 2016 en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.            Jafnframt er þess krafist að staðfest verði kyrrsetning sem gerð var hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu miðvikudaginn 19. júlí 2017 í fasteignum stefnda, Eyrarvegi 2, á Selfossi, fnr. 227 0582 og Egilsstöðum, Ölfusi, lnr. 171697 og fnr. 231 4805 og eignum fyrirsvarsmanns stefnda, sem bent var á til kyrrsetningar, Selbraut 86, Seltjarnarnesi, fnr. 206 8165 og Ósgerði, Ölfusi, fnr. 171790, sbr. kyrrsetningargerð nr. K-41//2017.             Í öllum tilvikum er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað skv. síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti og að málskostnaðurinn beri dráttarvexti frá dómsuppsögu til greiðsludags skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.   Stefndi gerir þá kröfu varðandi fyrstu kröfu stefnanda aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.             Varðandi aðra kröfu stefnanda krefst stefndi þess að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.             Stefndi krefst þess varðandi þriðju kröfu stefnanda að hafnað verði kröfu um staðfestingu kyrrsetningar sem gerð var hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu miðvikudaginn 19. júlí 2017 en til vara að stefnanda verði gert að setja tryggingu fyrir því tjóni sem kyrrsetningargerðin kann að valda stefnda.             Í öllum tilvikum krefst stefndi þess að sér verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.   II. Málsatvik Bú stefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 7. september 2016 og skipaður skiptastjóri. Frestdagur var 9. maí 2016. Eggert Kristjánsson stofnaði stefnanda árið 1922 og félagið var lengst af þekkt sem Eggert Kristjánsson hf. Heildverslun. Í september 2014 var félaginu breytt í einkahlutafélag og skömmu fyrir gjaldþrot var nafni stefnanda breytt í EK1923 ehf. Aðalstarfsemi var innflutningur á matvörum og hreinlætisvörum.           Í nóvember 2013 var gerður samningur um kaup Leitis eignarhaldsfélags ehf., hér eftir kallað „Leiti“, Sedona ehf. og Páls Kolbeinssonar á öllu hlutafé í stefnanda. Seljendur voru Gunnar, Eggert og Snorri Aðalsteinssynir og formlegur kaupsamningur var undirritaður 1. janúar 2014. Kaupverð var 270.000.000 kr. Hlutir Páls og Sedona ehf. í stefnanda voru árið 2015 yfirteknir af Leiti sem átt hafði 70% hlutafjár í stefnanda. Stefndi er alfarið í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar í gegnum eignarhald hans á Stjörnunni ehf. og Leiti. Stjarnan á 81,5% hlutafjár í stefnda á móti 18,5% hlut Leitis. Stjarnan er 100% í eigu Leitis og Skúli er 100% eigandi Leitis. Stefnandi er síðan, eins og áður sagði, 100% í eigu Leitis.           Þann 29. desember 2013 var undirritaður kaupsamningur milli stefnanda og stefnda um Skútuvog 3 í Reykjavík. Fyrir hönd stefnanda rituðu Gunnar, Eggert og Snorri Aðalsteinssynir, sem stjórnarmenn í Eggerti Kristjánssyni hf. undir kaupsamninginn, en Skútuvogur 3 var eina fasteign stefnanda. Kaupsamningur var lagður inn til þinglýsingar 30.desember 2013. Fasteignina hafði stefnandi keypt af Arion banka hf. með kaupsamningi, dags. 5. október 2012, og var kaupverð þá 440.000.000 króna. Kaupverð í samningi stefnanda og stefnda var 475.000.000 kr. sem greiða skyldi við útgáfu afsals 1. júlí 2014 í peningum inn á reikning stefnanda. Áhvílandi lán á fasteigninni eru kaupanda óviðkomandi skv. kaupsamningnum. Umsaminn afhendingardagur var 1. júlí 2014, en ákvæði var í samningnum um það að kaupandi gæti flýtt afhendingardegi gegn greiðslu kaupverðs. Fram kom í kaupsamningnum að hann væri gerður í tengslum við fyrirhugaða sölu á hlutafé seljanda til Leitis, Sedona ehf. og Páls Kolbeinssonar. Tekið var fram í kaupsamningi að gengju umrædd hlutafjárkaup ekki eftir fyrir umsaminn afhendingardag skv. þessum kaupsamningi gætu bæði seljandi og kaupandi rift kaupunum.             Í málinu liggur fyrir verðmat Ingileifs Einarssonar fasteignasala, sem stefndi lét gera mánuði áður en ritað var undir kaupsamninginn, og var niðurstaða hans að söluverðmæti eignarinnar næmi 550 m.kr.             Í kaupsamningnum um fasteignina var kveðið á um það að fyrir afhendingardag skyldu kaupandi og seljandi gera með sér samning um langtímaleigu stefnanda á eigninni. Þann 14. mars 2014 var ritað undir 15 ára leigusamning um Skútuvog 3 milli stefnanda og stefnda. Leiguverð var ákveðið 4.750.000 kr. á mánuði. Leigutíminn var ákveðinn frá 1. október 2013 og var leigan bundin vísitölu þess mánaðar.         Þann 30. mars 2014 var skiptingaráætlun milli stefnanda og stefnda samþykkt í stjórnum félaganna. Skiptingin skyldi miðast við 1. október 2013, en með henni var fasteigninni að Skútuvogi 3 skipt út úr afhendingarfélaginu stefnanda til móttökufélagsins stefnda.             Endurfjármögnun fór þannig fram að tvö lán voru tekin hjá Íslandsbanka hinn 14. mars 2014, annað að fjárhæð 427.500.000 krónur og hitt að fjárhæð 47.500.000 krónur, lántaki Sjöstjarnan ehf., samtals 475.000.000 kr., jafnhá fjárhæð og kaupverð á fasteigninni. Þessum lánum var ráðstafað þannig að stærra lánið var greitt inn á reikning nr. 515-26-974900 í eigu bankans en minna lánið lagt inn á reikning nr. 515-04-253766 í eigu stefnda og síðan nýtt til uppgreiðslu yfirtekinna skuldbindinga EK samkvæmt skiptingaráætlun, sbr. og tölvuskeyti frá starfsmanni Íslandsbanka um uppgreiðslu tiltekinna lána. Sama dag og lánin voru tekin gaf stefndi út handveðsyfirlýsingar til tryggingar skuldum sínum við Íslandsbanka.           Í apríl 2014 voru áhvílandi lán á Skútuvogi 3 greidd upp að fjárhæð 3030 m.kr. og endurgreidd fjárhæð um 51 m.kr. frá stefnanda til stefnda samkvæmt því sem fram kemur í bréfi Vilhjálms G. Vilhjálmssonar dagsettu 15. mars 2017 til skiptastjóra.                     Skiptingaráætlun var send Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra þann 30. apríl 2014 með ósk um birtingu í Lögbirtingablaði. Að því ferli loknu voru haldnir hluthafafundir bæði hjá stefnanda og stefnda 9. og 12. september 2014. Tilkynning um staðfesta skiptingu var síðan send Fyrirtækjaskrá 17. september 2014.             Þann 21. júlí 2015 var gerður nýr leigusamningur um Skútuvog 3 milli sömu aðila. Leigutími var ákveðinn fimm ár, frá 1. ágúst 2015 til 31. júlí 2020. Leiguverðið var ákveðið 5.603.042 kr. á mánuði.             Þann 1. september 2015 gerðu Reitir I ehf. tilboð í Skútuvog 3 sem stefndi samþykkti. Kaupverð var ákveðið 670 m.kr. Kaupsamningur um eignina var svo undirritaður 1. október 2015 og var eignin afhent þann dag.         Reitir I yfirtóku leigusamning stefnda við stefnanda og var það hluti af skilmálum kaupanna að þeim fylgdi bankaábyrgð vegna húsaleigu. Í tengslum við söluna kom fram beiðni til Íslandsbanka frá stefnanda um að bankinn myndi gefa út húsaleiguábyrgð til tryggingar húsaleigu stefnanda í Skútuvogi 3. Bankinn samþykkti það gegn því að hann fengi að handveði samsvarandi fjárhæð á bundinni bók.            Sama dag og kaupsamningur var undirritaður gaf Íslandsbanki út yfirlýsingu vegna húsaleiguábyrgðar þar sem bankinn staðfesti að hafa samþykkt húsaleiguábyrgð til tryggingar skuldbindingum stefnanda skv. leigusamningi dags. 21. júlí 2015 um Skútuvog 3. Húsaleiguábyrgð þessi var í yfirlýsingu Íslandsbanka ákveðin 20.843.31 kr. og var fjárhæð þessari ætlað að tryggja Reiti I gagnvart mögulegum vanskilum á leigugreiðslum og tjóni á hinu leigða og skyldi þessi ábyrgð gilda til 31. júlí 2020.             Að baki þessari húsaleiguábyrgð var bókarlaus reikningur í eigu stefnanda nr. 105502; „bundin bók v/leigu“ eins og þessi reikningur er kallaður í bókum stefnanda. Inn á hann var lögð 21 m.kr. króna sama dag og leiguábyrgðin var gefin út. Fjárhæð þessi var millifærð inn á bókina fyrr um daginn af tékkareikningi stefnda nr. 515-26-676 og þar á undan sama dag af reikningi nr. 515-04-6253766 sem einnig er í eigu stefnda. Í tengslum við téða innlögn á reikning 105502 ritaði Gunnar Thoroddsen, þáverandi stjórnarmaður stefnanda, undir handveðsyfirlýsingu á hinum bókarlausa reikningi nr. 105502. Var um allsherjarveð að ræða til tryggingar öllum skuldum og öðrum fjárskuldbindingum stefnanda í bankanum. Þar kom fram að aðeins Íslandsbanki gæti ráðstafað fé af reikningnum og stefnanda væri að sama skapi óheimilt að taka fé út af honum.             Fram kemur í tölvuskeyti Guðmundar Hjaltasonar, fyrirsvarsmanns stefnda, til Íslandsbanka þann 1. október 2015 kl. 16:39 og í tölvuskeyti Smára Björnssonar, verkefnastjóra hjá stefnda, sama dag kl. 16:42 að þessi 21 m.kr. eigi að bakfærast frá stefnanda til stefnda þar sem sjálfskuldarábyrgð Leitis eignarhaldsfélags ehf., eiganda stefnanda, eigi að koma í staðinn. Segir í tölvuskeytum beggja að aðgerðin sé aðeins tímabundin. Samkvæmt upplýsingum Íslandsbanka kom þessi sjálfskuldarábyrgð Leitis aldrei til, enda fékkst ekki samþykki fyrir því í bankanum að aflétta handveðsetningunni á reikningi 105502 gegn sjálfskuldarábyrgð Leitis og voru því þessir fjármunir áfram inni á umræddum reikningi og leiguábyrgðin í fullu gildi. Liggur einnig fyrir staðfesting Reita I á því að engin sjálfskuldarábyrgð hefði leyst af hendi leiguábyrgð bankans. Fjármunir þessir voru ekki greiddir inn á fjárvörslu á nafni stefnda eða með nokkrum hætti sérgreindir í bókum stefnanda sem eign stefnda, heldur greiddir inn á bókarlausan reikning í eigu stefnanda án nokkurra fyrirvara eða afmörkunar. Stefndi lánaði stefnanda þessa fjármuni til að leggja inn á bókina sem baktryggingu vegna leiguábyrgðar Íslandsbanka gagnvart Reitum I, þannig að salan á Skútuvogi 3 til Reita I gæti farið fram.             Þann 11. mars 2016 var undirritað samkomulag um leigulok milli stefnanda og Reita I um Skútuvog 3 þar sem formleg leigulok skyldu verða 31. mars 2016. Þann dag skyldi húsnæðið vera rýmt þar sem Parlogis ehf. hóf leigu á húsnæðinu þann 1. apríl 2016. Síðan segir í samkomulaginu: „Bankaábyrgð Eggerts Kristjánssonar ehf., sem stendur til tryggingar leigugreiðslum fellur niður um leið og Parlogis afhendir Reitum nýja bankaábyrgð fyrir leiguskuldbindingu sinni.“ Það gekk eftir og féllu Reitir I þar með frá því að ganga að þessari leiguábyrgð Íslandsbanka, þó að vanskil hefðu orðið hjá stefnanda á húsaleigu.             Þann 14. mars 2016 fékk Íslandsbanki fyrirmæli frá Guðmundi Hjaltasyni um það að millifæra inneign á reikningi 105502 yfir á reikning stefnda nr. 111-26-736. Þennan dag kl. 15:47 sendi Silja Guðmundsdóttir, lánastjóri í útibúinu á Kirkjusandi, tölvuskeyti til Skúla Gunnars þar sem hann var beðinn að staðfesta að þessi millifærsla ætti að eiga sér stað, og það gerði hann með tölvuskeyti kl. 16:46 þennan saman dag. Guðmundur fékk einnig þetta tölvuskeyti Skúla til sín. Næsta morgun, þann 15. mars 2016, var þessi millifærsla framkvæmd með því að 21.316.582 krónur voru greiddar inn á reikning stefnda og reikningur 105502 eyðilagður.             Með bréfi, dags. 23. desember 2016, var stefnda tilkynnt, með vísan til 134. gr. og 141. gr. gjaldþrotaskiptalaganna., að stefnandi rifti þeirri greiðslu sem fram fór að kröfu stefnda með millifærslu af reikningi nr. 105502 þann 15. mars 2016 og stefnda væri gert að endurgreiða stefnanda 21.316.582 krónur. Myndi skiptastjóri þá um leið heimila stefnda að lýsa kröfu á hendur þrotabúinu við skipti vegna framangreindrar lánveitingar. Skiptastjóri gerði stefnda grein fyrir því að yrði þessi greiðsla ekki innt af hendi fyrir lok ársins 2016 yrði strax á nýju ári höfðað riftunarmál á hendur stefnda, þar sem við kröfuna bættust dráttarvextir og kostnaður, auk þess sem kæra yrði send Héraðssaksóknara á hendur Skúla Gunnari sem stjórnarmanni stefnanda og stefnda og Guðmundi sem framkvæmdastjóra stefnda, fyrir fjárdrátt og/eða skilasvik.             Guðmundur Hjaltason, f.h. stefnda, svaraði skiptastjóra með bréfi, dags. 30. desember 2016. Í bréfi þessu kemur fram að gerður hafi verið lánssamningur milli stefnanda og stefnda sem hafi verið undirritaður þann 1. október 2015 eða sama dag og leiguábyrgðin var gefin út og kaupsamningurinn gerður við Reiti I. Lánssamningurinn er undirritaður af Skúla Gunnari.             Þann 9. janúar 2017 lagði stefnandi fram kæru á hendur Skúla Gunnari og Guðmundi fyrir auðgunarbrot, skjalabrot og ranga skýrslugjöf. Skiptafundur var haldinn í þrotabúi stefnda þann 20. janúar 2017 og samþykkt á fundinum að höfða þetta riftunarmál.             Í málinu liggja fyrir minnispunktar Vilhjálms G. Vilhjálmssonar, löggilts endurskoðanda, varðandi það hvort kaupsamningurinn frá 29. desember 2013 hafi verið gerður upp. Fram kemur að stefndi hafi greitt sem nemi 303.198.712 kr. inn á kaupsamninginn þegar Íslandsbanki ráðstafaði láni sem stefndi fékk til uppgreiðslu lána þann 8. og 15. apríl 2014. Þann 2. maí 2014, þegar stefnandi hafi fengið greiddan út seinni hluta láns frá Íslandsbanka, hafi stefnandi síðan endurgreitt stefnda 51.069.205 kr. með vísan til hlutdeildar stefnanda í langtímalánum. Í bókhaldi stefnanda sé þessi greiðsla kölluð „uppgjör skulda vegna skiptingar“. Samtals hafi því verið greiddar 252.129.607 kr. af umsömdu kaupverði samkvæmt samningi dags. 29. desember 2013.              Þann 3. maí 2017 var Magnús Árni Skúlason hagfræðingur dómkvaddur af Héraðsdómi Reykjavíkur samkvæmt matsbeiðni stefnanda til að leggja mat á markaðsvirði fasteignarinnar Skútuvogs 3 í Reykjavík. Annars vegar í desember 2013 og hins vegar í september 2014 og þá bæði almennt og einnig að teknu tilliti til leigusamnings um eignina, dags. 14. mars 2014. Niðurstaða matsmanns var að markaðsverð í desember 2013, leigulaust, væri 475 m.kr. kr., í desember 2013, að teknu tilliti til leigusamnings frá 14. mars 2014, 536.750.000 kr., í september 2014 550.050.000 kr. og í september 2014, að teknu tilliti til leigusamningsins, 570.489.644 kr. III. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi tekur fram að miklir hagsmunir séu af því fyrir kröfuhafa stefnanda að vinda ofan af undanskoti sem átt hafi sér stað með ráðstöfun á fasteign félagsins að Skútuvogi 3 í Reykjavík. Eignayfirfærslan sé flókin þar sem sömu eigninni sé ráðstafað á milli stefnanda og stefnda með mismunandi aðferðum. Fyrst sé þetta gert með kaupsamningi, síðan með skiptingaráætlun og svo loks með afsali á grundvelli kaupsamningsins. Eignayfirfærslan sé ávallt því marki brennd að fasteignin fari sannanlega á undirverði frá stefnanda til stefnda, og hvort sem miðað sé við þann tíma sem kaupsamningur var gerður (aðalkrafa) eða þegar skiptingaráætlun var staðfest (varakrafa) hafi verið fyrirsjáanlegt að stefnandi færi að öllu óbreyttu í þrot. Það sé óumdeilt í málinu að kaupsamningurinn frá 29. desember 2013 hafi ekki verið að fullu efndur; þær greiðslur sem þar sé kveðið á um að skuli fara fram á milli stefnanda og stefnda hafa ekki farið fram nema að hluta.             Stefnandi hafi tekið þann kostinn að hafa uppi aðal-, vara- og þrautavarakröfu, eftir fjárhæð krafna. Aðalkrafan sé í raun tvíþætt þar sem annars vegar sé krafist riftunar á kaupsamningi stefnanda og stefnda um fasteignina að Skútuvogi 3, frá 29. desember 2013, á grundvelli almennu riftunarreglunnar í 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og að greiddur verði mismunur markaðsverðs eignarinnar á þeim degi sem kaupsamningurinn var gerður og kaupverðsins samkvæmt kaupsamningnum. Hins vegar sé þess einnig krafist að eftirstöðvar hins riftanlega kaupsamnings verði greiddar.             Eftir breytingu á kröfugerð sundurliðar stefnandi aðalkröfu með eftirfarandi hætti: a.  Matsverð Skútuvogs 3 með sjóðstreymi:                                536.750.000 kr. b.  Kaupverð Skútuvogs 3 skv. kaupsamningi 29. des 2013:       475.000.000 kr. c.  Uppgreidd lán áhvílandi á Skútuvogi 3:                                  303.198.812 kr. d.  Endurgreiðsla stefnanda til stefnda vegna uppgr. á hv.             51.069.205 kr. e.  Mismunur á matsverði og kaupverði:                                         61.750.000 kr. f.  Eftirstöðvar umsamins kaupverðs:                                             222.870.393 kr. Samtals                                                                                           341.620.393 kr.   Í varakröfu sé byggt á því að líta megi á skiptingaráætlun stefnanda og stefnda sem formlegan eignayfirfærslugerning milli stefnanda og stefnda um fasteignina Skútuvog 3 sem lotið getið sömu riftunarsjónarmiðum og aðrir eignayfirfærslugerningar. Í samræmi við það sé í varakröfu sett fram krafa um riftun á grundvelli 131. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og krafist mismunarins á markaðsvirði eignarinnar á þeim tíma sem skiptingaráætlunin var staðfest og því verði sem eignin fór á skv. skiptingaráætluninni.             Fjárhæð varakröfunnar sundurliðist með vísan til niðurstöðu dómkvadds matsmanns með eftirfarandi hætti: a.         Yfirtökuverð Skútuvogs 3 skv. skiptingaráætlun:                  437.384.257 kr. b.         Yfirteknar langtímaskuldir skv. skiptingaráætlun:                267.461.304 kr. c.         Yfirfært eigið fé skv. skiptingaráætlun:                                 169.922.953 kr. d.         Matsverð Skútuvogs 3 með sjóðstreymi:                               570.489.644 kr. e.         Mismunur á matsverði og yfirtökuverði:                               133.105.387 kr. f.          Mismunur + yfirfært eigið fé:                                               303.028.340 kr.             Í þrautavarakröfu, í því tilviki að ekki sé fallist á neina riftun, sé aðeins krafist fullra efnda á kaupsamningnum með greiðslu eftirstöðva að fjárhæð 222.870.393 kr. sem sundurliðast last með eftirfarandi hætti: a.         Kaupverð:                                                                              475.000.000 kr. b.         Uppgreidd lán áhvílandi á Skútuvogi 3:                               303.198.812 kr. c.         Endurgreiðsla gerðarbeiðanda til gerðarþola vegna             uppgr. á áhv.                                                                           51.069.205 kr. d.         Eftirstöðvar:                                                                           222.870.393 kr.               Stefnandi líti á skiptingaráætlun stefnanda og stefnda sem hreina markleysu, og jafnvel þó að hún haldi, haggi hún ekki í nokkru skuldbindingargildi þess kaupsamnings og afsals sem undirrituð voru og þinglýst á eignina. En haldi skiptingaráætlunin sem eignayfirfærslugerningur þyki rétt að beina riftunarkröfu að skiptingaráætluninni, eins og gert sé til vara.             Hafa verði að í huga að sömu aðilar séu báðum megin í viðskiptunum, það eigi bæði við um kaupsamninginn og skiptingaráætlunina. Skúli Gunnar hafi verið beggja megin borðsins í skiptingaráætluninni sem eini eigandi stefnda og sem ráðandi hluthafi í stefnanda. Þegar kaupsamningurinn hafi verið undirritaður hafi kaupin á hlutafénu í stefnanda í raun verið um garð gengin, sem sjáist best á því að fimm dögum fyrir undirritun séu meðfjárfestar Skúla Gunnars, Páll og Hallgrímur, komnir inn í stjórn og framkvæmdastjórn.              Fjárhæð krafna stefnanda séu þær skorður settar að endanlegar dómkröfur stefnanda á hendur stefnda geti aldrei orðið hærri en sem samsvari þeirri fjárhæð sem þurfi til að gera upp allar kröfur í búið og skiptakostnað. Samþykktar kröfur í þrotabú stefnanda, miðað við dagsetningar á kröfulýsingum, nemi 287.091.223 kr. og hækki dag frá degi í formi áfallinna vaxta og kostnaðar frá úrskurðardegi. Kröfuskrá liggi fyrir en endanlegar heimtur eigna liggi hvorki fyrir á þessari stundu né endanlegur skiptakostnaður. Því sé ekki unnt að afmarka aðalkröfuna með nákvæmari hætti út frá þessu sjónarmiði.             Varðandi aðalkröfu byggi stefnandi á því að ráðstöfun eignarinnar að Skútuvogi 3 með kaupsamningnum frá 29. desember 2013 sé bæði ótilhlýðileg í skilningi almennu riftunarreglunnar í 141. gr. gþl. og kaupverðið samkvæmt hinum riftanlega gerningi hafi aðeins verið greitt að hluta. Því sé í aðalkröfunni annars vegar krafist fullra efnda á hinum riftanlega kaupsamningi með greiðslu eftirstöðva samkvæmt kaupsamningnum og hins vegar að ráðstöfun stefnanda og stefnda samkvæmt hinum vanefnda kaupsamningi verði rift með dómi, með vísan til 141. gr. gþl., og stefndi verði dæmdur til greiðslu á fjárhæð sem nemi mismun á markaðsvirði eignarinnar og verði samkvæmt hinum riftanlega kaupsamningi aðila. Það blasi við að fjárhagsleg staða stefnanda á kaupsamningsdegi hafi verið með þeim hætti að félagið hafi alls ekki mátt við þeirri blóðtöku sem kaupsamningurinn um Skútuvog 3 var. Stefnandi byggi á því að stefnandi hafi, á þeim tíma sem framsal eignarinnar samkvæmt kaupsamningi átti sér stað, ekki getað staðið í skilum með skuldbindingar sínar þegar þær féllu í gjalddaga. Stefnandi hafi því verið ógjaldfær eða a.m.k orðið það vegna sölu eignarinnar.             Til sönnunar um ógjaldfærni stefnanda sé vísað til þess að stjórnendur stefnanda, bæði fráfarandi og viðtakandi, séu á einu máli um það að staða félagsins hefði verið mjög erfið þegar nýir eigendur hefðu tekið við og að rekstur hefði verið mjög þungur. Fyrir liggi greiningar á rekstrarlegri stöðu stefnanda á þeim tíma sem eignin var seld og að fjárhagsleg staða stefnanda hafi verið mjög slæm um áramótin 2013–2014.         Um verðmæti hinnar ráðstöfuðu eignar þá liggi fyrir matsgerðir frá Ingileifi Einarssyni hjá fasteignasölunni Ásbyrgi annars vegar og Róberti Óskari Sigurvaldasyni og Vilhjálmi Guðna hjá R101 hins vegar og sýni þær að um gjafagerning hafi verið að ræða í skilningi 131. gr. gþl. þegar fasteigninni að Skútuvogi 3 var ráðstafað til stefnda með skiptingaráætluninni. Ingileifur hafi verið kallaður til af stefnda í desember 2013 og niðurstaða hans sé að á þeim tíma hafi verðmæti eignarinnar numið 550.000.000 kr. Í bréfi til skiptastjóra, dags. 10. október 2016, staðfesti hann matsgerð sína frá 1. desember 2013, en það var mat Ingileifs að hefði við mat í desember 2013 verið tekið tillit til leigusamningsins milli stefnanda og stefnda, sem miðist við 1. október 2013, hefði verðmætið verið 570.000.000 kr. Niðurstaða Róberts og Vilhjálms hafi verið sú að verðmæti Skútuvogs 3 í árslok 2013 hefði verið 555.000.000 kr. en væri tekið tillit til leigusamningsins milli stefnanda og stefnda hefði verðmætið verið 593.750.000 kr. Í þessum mismun felist gjafagerningurinn í skilningi 131. gr. gþl. og við þessa síðastnefndu tölu sé miðað í riftunarkröfu þrotabúsins.             Ráða megi af bréfi lögmanns stefnda að í raun felist ekki í skiptingaráætluninni eignatilfærsla Skútuvogs 3 þegar segi: „Það virði á fasteigninni sem notað var, var fyllilega eðlilegt til nota við skiptingu á félaginu í samræmi við lög um hlutafélög. Rétt er að árétta að í skiptingu félags eins og hér um ræðir felast ekki hefðbundin viðskipti.“ Eins og reifað sé í málavaxtalýsingu hafi stefnandi verið búinn að ráðstafa fasteigninni að Skútuvogi 3 til stefnda með kaupsamningi sem þinglýst var degi eftir undirritun, þremur mánuðum áður en stjórnir félaganna samþykktu skiptingaráætlun þar sem ráð hafi verið gert fyrir því að skipta þessari sömu eign út úr stefnanda sem afhendingarfélagi til stefnda sem viðtökufélags. Fyrirvari hafi verið í þessum kaupsamningi þess efnis að yrði ekki af kaupum Leitis, Sedona ehf. og Páls á öllum hlutum í stefnanda gæti hvor kaupsamningsaðila um sig rift kaupsamningnum um Skútuvog 3. Kaupin á hlutunum hafi gengið eftir og því falist í kaupsamningnum eignatilfærsla milli kaupanda og seljanda. Áður en skiptingaráætlun var samþykkt í stjórnum stefnanda og stefnda hafi Skútuvogur 3 verið afhentur og áður en skiptingaráætlunin hafi verið samþykkt hafi aðilar að skiptingaráætluninni þá þegar, eða þann 14. mars 2014, gert á milli sín leigusamning. Hafi stefndi þá verið orðinn leigusali og stefnandi leigutaki. Þegar skiptingaráætlunin hafi verið samþykkt í stjórnum félaganna 30. mars 2014 hafi stefndi verið búinn að fá lánveitingu frá Íslandsbanka til þess að greiða kaupverð fasteignarinnar en skuldabréf fyrir öllu kaupverðinu hafi verið gefin út af Íslandsbanka þann 14. mars 2014. Áður en endurskoðandi stefnda sendi skiptingaráætlunina til Fyrirtækjaskrár RSK, ásamt greinargerðum stjórna félaganna og drögum að skiptingarefnahagsreikningum stefnanda og stefnda, þar sem ráð var fyrir því gert að stefndi tæki yfir langtímaskuldbindingar stefnanda, hafi þegar verið búið að gera upp þær langtímaskuldir sem áhvílandi voru á eigninni og yfirtaka átti. Þetta hafi gerst 8. og 15. apríl og skiptingarefnahagsreikningur félaganna eins og hann var lagður fyrir RSK hafi því verið rangur.             Þó skiptingaráætlunin og skiptingarefnahagsreikningurinn hafi verið látin gilda sex mánuði aftur í tímann breyti hún ekki orðnum hlut þegar hún er samþykkt og eru forsendur augljóslega brostnar fyrir skiptingaráætluninni þegar andlag hennar er þegar farið yfir til viðtökufélagsins og þegar áformaðar yfirteknar langtímaskuldbindingar hafa verið uppgreiddar. Skiptingaráætlunin hefði augljóslega aldrei verið samþykkt af RSK hefðu þær upplýsingar fylgt henni að sú eign, sem skv. 1. gr. áætlunarinnar var verið að skipt út úr afhendingarfélaginu, hefði þá þegar verið farin yfir til viðtökufélagsins með kaupsamningi og þær skuldbindingar sem taka ætti yfir væru þá þegar upp gerðar.             Það er síðan endanlega til marks um það að kaupsamningurinn teljist vera gild eignayfirfærsluheimild milli stefnanda og stefnda að stefnandi gaf út afsal til handa stefnda þann 3. september 2015 þar sem vísað var í kaupsamning aðila frá 29. desember 2013 og að hann hefði verið efndur.             Stefndi hafi síðan sýnt fram á, þvert á það sem fullyrt sé í afsali á Skútuvoginum til handa stefnda, að kaupverð samkvæmt kaupsamningi sé ekki að fullu uppgert. Aðeins hafa verið greiddar 252.129.607 kr. af kaupverðinu, 475.000.000 kr. Samhliða riftun í aðalkröfu sé gerð krafa um að eftirstöðvar kaupverðsins, 222.870.393 kr., verði gerðar upp. Aðalkrafan sé þannig samsett að annars vegar sé krafist á grundvelli riftunar mismunarins á réttu virði eignarinnar þegar kaupin áttu sér stað í árslok 2013 og þess kaupverðs sem um var samið í kaupsamningi aðila og hins vegar eftirstöðva kaupsamningsins. Þegar komi að innborgunum stefnda á kaupverðið og eftirstöðvum sé annars vegar höfð hliðsjón af upplýsingum Íslandsbanka um uppgreiðslu áhvílandi veðbanda í apríl 2014 með ráðstöfun láns bankans til stefnda og hins vegar af upplýsingum úr bókhaldi stefnanda um greiðslur milli aðila í tengslum við fasteignaviðskiptin, sbr. minnispunkta Vilhjálms Guðna.             Krafa um vexti sé þannig sett fram að krafist sé vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 118.750.000 kr. frá dagsetningu hins riftanlega gernings, 29. desember 2013, til 23. nóvember 2016, sem sé sá dagur þegar tilkynning um riftun var send stefnda, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga af 222.870.393 kr. frá 1. júlí 2014, en það sé sá dagur þegar stefnda bar hið síðasta að greiða upp kaupsamningsverðið, og til 23. nóvember 2016, en af allri fjárhæðinni, 341.620.393 kr., frá þeim degi til greiðsludags, en af lægri fjárhæðum en miðað við sömu dagsetningar, annaðhvort með hliðsjón af niðurstöðu dómkvadds matsmanns eða að mati dómsins.             Varakrafa stefnanda byggi á því að í skiptingaráætlun stefnanda og stefnda felist ráðstöfun eignarinnar að Skútuvogi 3 í Reykjavík. Þar hafi verið ákveðið verð fyrir fasteignina og beinist riftunarkrafan að þessari eignayfirfærslu. Riftunarkrafa stefnanda byggi aðallega á 131. gr., sbr. 2. mgr., en til vara á 141. gr. gjaldþrotaskiptalaganna.         Til sérstakrar skoðunar komi hver sé viðmiðunardagsetning hinnar riftanlegu ráðstöfunar. Þó skiptingaráætlunin sé dagsett 30. mars 2014, þá hafi hún ekki tekið gildi fyrr en hún hafði verið auglýst í Lögbirtingablaði 14. maí 2014 og síðan staðfest á hluthafafundum stefnanda og stefnda 9. og 12. september 2014. Í ljósi þess að ekki hefði verið um neina skiptingaráætlun að ræða nema með staðfestingu hluthafafunda, þá sé það ljóst að dagsetning hluthafafunda marki gildistöku skiptingarinnar. Um þetta atriði sé vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 217/2015. Rift sé á grundvelli 2. mgr. 131. gr. gþl. þar sem skiptingaráætlunin var ekki staðfest á hluthafafundi fyrr en 9. og 12. september 2014 og sú staðfesting ekki tilkynnt fyrirtækjaskrá fyrr en 17. september 2014 og þar sem stefndi sé nákominn í skilningi 5. töluliðar 3. gr. gjaldþrotaskiptalaganna enda bæði félögin í eigu sama aðila, Skúla Gunnars, í gegnum eignarhald á öðrum félögum. Til að verjast riftun á grundvelli þessa riftunarákvæðis þurfi stefndi að sýna fram á að stefnandi hafi verið gjaldfær á þeim tíma sem gerningurinn átti sér stað og verið það áfram þrátt fyrir ráðstöfun fasteignarinnar að Skútuvogi 3 með skiptingaráætlun, auk þess að sýna fram á að verðið sem miðað var við í skiptingaráætluninni hafi verið eðlilegt.             Til að fá riftun samþykkta á grundvelli almennu riftunarreglunnar í 141. gr. gþl. þurfi stefnandi annars vegar að sýna fram á að verðið fyrir Skútuvog 3 í skiptingaráætluninni hafi verið of lágt og að á þeim tíma sem salan fór fram hafi stefnandi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunar eignarinnar og að fyrirsvarsmaður stefnda hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærnina.             Skiptingaráætlun stefnanda og stefnda hafi í fyrsta lagi leitt til þess að fasteignin að Skútuvogi 3 var ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum stefnanda. Ekki aðeins hafi eigninni verið ráðstafað í skiptingaráætluninni á óeðlilega lágu verði, heldur hafi í áætluninni verið gert ráð fyrir „greiðslu“ að hluta, svo sem rakið hefur verið. Þá sé einnig á því byggt að stefnandi hafi orðið ógjaldfær vegna ráðstöfunarinnar. Enn fremur sé á því byggt að stefndi hafi vitað eða mátt vita um þessar afleiðingar ráðstöfunarinnar.             Skiptastjóri telji að fjárhagsleg staða stefnanda á þessum tíma hafi verið með þeim hætti að félagið hafi alls ekki mátt við þeirri blóðtöku sem skiptingaráætlunin var, þegar fasteignin var tekin út úr stefnanda á undirverði og eigið fé nánast þurrkað út við það að samsvarandi skuldir fylgdu ekki fasteigninni. Stefnandi byggi á því að stefnandi hafi, á þeim tíma sem framsal eignarinnar samkvæmt skiptingaráætlun átti sér stað, ekki getað staðið í skilum með skuldbindingar sínar þegar þær féllu í gjalddaga. Stefnandi hafi því verið ógjaldfær eða a.m.k orðið það vegna skiptingaráætlunarinnar.             Til sönnunar ógjaldfærni stefnanda sé m.a. vísað til rökstuðnings með aðalkröfu auk alls þess sem rakið sé í málavaxtalýsingu og gögnum málsins um allar þær ráðstafanir sem fylgdu í kjölfar innkomu nýrra eigenda, þrátt fyrir blóðtökuna sem framkvæmd var í upphafi. Í því samhengi vísi stefnandi til þess að leigusamningur sligaði félagið, skuldsetning jókst stórkostlega, lager var keyptur dýrum dómum af nátengdu félagi og eftir að fasteign félagsins var farin, hafi allar aðrar eignir verið veðsettar. Greining á rekstrarlegri stöðu stefnanda, annars vegar á þeim tíma sem eignin var seld út úr stefnanda með kaupsamningi og hins vegar þegar skiptingaráætlun var staðfest á hluthafafundum stefnanda og stefnda, staðfesti ógjaldfærnina. Fjárhagsleg staða stefnanda hafi verið slæm um áramót 2013–2014 og enn verri í september 2014. Fyrir liggi skýrslur frá stjórnarmönnum og stjórnendum sem og skjalleg gögn sem lýsi erfiðri rekstrarstöðu félagsins á þeim tíma sem hinar umdeildu ráðstafanir hafi átt sér stað.             Vísað sé til þess sem rakið sé til stuðnings aðalkröfu um verðmæti hinnar ráðstöfuðu eignar. Stefnandi hafi reyndar ekki látið þá sérfróðu aðila sem fengnir voru til að meta markaðsvirði fasteignarinnar í lok desember 2013 til þess að meta markaðsvirði sömu eignar í september 2014, þó nokkuð augljóst megi telja að einhver hækkun hafi orðið á markaðsverði á þeim níu mánuðum sem liðu. Undir varakröfunni sé krafist fjárhæðar í samræmi við niðurstöðu dómkvadds matsmanns um verðmæti Skútuvogsins á þeim tíma þegar skiptingaráætlunin tók gildi.             Stefndi hafi gert grein fyrir sjónarmiðum sínum í bréfi sem lögmaður sendi skiptastjóra.             Í fyrsta lagi telji lögmaður stefnda að riftunarkröfu eigi ekki að beina að stefnda þar sem stefndi hafi ekki verið beinn aðili að skiptingaráætluninni, heldur hafi það verið hluthafar stefnanda og stefnda sem hafi staðið að henni og hluthafar þeir sem stóðu að ákvörðuninni um að færa eignir og skuldir úr stefnanda yfir til stefnda hafi fengið hlut í stefnda. Að mati stefnanda fái þessi röksemdafærsla ekki staðist. Með skiptingaráætluninni hafi fasteignin Skútuvogur 3 verið færð yfir til stefnda frá stefnanda; það sé sú eignayfirfærsla sem skipti máli hér, hvort sem hlutafé í stefnda skipti um hendur eða ekki; riftunarkrafan beinist að eignayfirfærslunni. Fasteignin hafi verið metin af fasteignasala, sem stefndi sjálfur fékk til verksins, á 550 m.kr. en fór með skiptingaráætluninni yfir til stefnda á 267 m.kr.             Í öðru lagi bendi stefndi á að í yfirlýsingu endurskoðanda félagsins hafi komið fram að skiptingaráætlunin hafi ekki rýrt rétt lánardrottna til fullnustu krafna sinna. Samkvæmt 126. gr. laga nr. 2/1995 hafi allir lánardrottnar rétt til þess að krefjast trygginga fyrir skuldum sínum og séu allar þær skuldir sem fyrir hendi voru á skiptingardegi uppgerðar, þó nýjar skuldir hafi myndast eftir skiptadag. Enn fremur beri stefndi skv. 3. mgr. 133. gr. sömu laga óskipta ábyrgð á skuldbindingum stefnanda sem stofnast höfðu þegar upplýsingar um skiptingaráætlunina voru birtar. Vegna alls þessa hafi viðskiptin ekki haft áhrif á gjaldfærni stefnanda á þeim tíma sem þau áttu sér stað. Því sé rétt að taka fram að 126. gr. eigi við þegar hlutafélagi sé slitið án skuldaskila með þeim hætti að félagið sé algerlega sameinað öðru hlutafélagi með yfirtöku eigna og skulda (samruni með yfirtöku) og þegar tvö eða fleiri hlutafélög renna saman í nýtt hlutafélag (samruni með stofnun nýs félags), sbr. 119. gr. l. 2/1995, en ekki við skiptingar. Um skiptingar gildi ákvæði 133. gr. sömu laga. Reyndar segi í 1. mgr. þess ákvæðis að ákvæði 6., 7. og 8. gr., 1. mgr. 37. gr. og 119.–128. gr. gildi um skiptingu eftir því sem við eigi. Ákvæði 126. gr. eigi augljóslega ekki við um skiptingar þar sem sérstakt ákvæði sé í 133. gr. 3. mgr.             Fullyrðing lögmanns stefnda um að allar kröfur sem til staðar hafi verið á skiptingardegi séu uppgerðar sé hvort tveggja röng og órökstudd. Langstærsti kröfuhafinn í þrotabú stefnanda sé Íslandsbanki með rúmlega 91 m.kr. kröfu í búið eða um þriðjung af lýstum kröfum. Kröfum bankans sé lýst samkvæmt lánasamningi frá því í janúar 2014. Íslandsbanki eigi því augljóslega kröfu á hendur stefnda að svo miklu leyti sem eignir stefnanda hrökkvi ekki til greiðslu við skipti.             Í bréfi sínu hafni lögmaður stefnda því að stefnandi hafi verið ógjaldfær þegar fasteigninni var ráðstafað samkvæmt skiptingaráætlun.             Samkvæmt því sem rakið hafi verið sé ljóst að þeir kröfuhafar stefnanda sem voru til staðar þegar skiptingaráætlunin var auglýst í Lögbirtingablaðinu 14. maí 2014 hafi getað gengið að stefnda, þ.e.a.s. þeirri nettó viðbót eigin fjár sem bættist við hjá stefnda við viðtökuna á fasteigninni að Skútuvogi 3. Það sem skipti máli hér sé hvort stefnda takist að sýna fram á að stefnandi hafi verið gjaldfær í framangreindum skilningi á þeim tímapunkti þegar hluthafafundir stefnanda og stefnda samþykktu ráðstöfun eignarinnar samkvæmt skiptingaráætluninni. Það hafi stefnda ekki tekist.             Í bréfi lögmanns stefnda sé því haldið fram að það verðmæti fasteignarinnar að Skútuvogi 3 sem miðað hafi verið við í skiptingaráætluninni hafi verið markaðsverð fasteignarinnar á þeim tíma sem hún var gerð, þ.e.a.s. í árslok 2013. Við þetta er tvennt að athuga.             Í fyrsta lagi hafi skiptingaráætlunin verið samþykkt af stjórnum félaganna 30. mars 2013. Þá hafi hins vegar verið ákveðið að viðmiðunarmörk hennar væru 30. september 2013. Hún hafi hins vegar ekki tekið gildi fyrr en 12. september 2014 þegar hún var staðfest á hluthafafundi stefnanda. Þegar komi að því að ákveða tímamark eignayfirfærslunnar beri að miða við það tímamark þegar skiptingaráætlunin tók gildi, þ.e.a.s. 12. september 2014. Ef bera ætti skiptingaráætlunina saman við hefðbundin fasteignakaup væri dagsetning hennar sambærileg við dagsetningu samþykkts tilboðs með fyrirvörum og skilmálum sem þyrfti að uppfylla, en samþykkt hluthafafunda væri sambærileg við dagsetningu kaupsamnings. Ákvörðun um reikningslega afturvirkni breyti ekki þessum dagsetningum þannig að viðmiðunardagsetning þegar kemur að riftun ráðstöfunar samkvæmt skiptingaráætlun verði aldrei mánaðamót september–október 2013. Í þessu tilviki sé heldur ekki verið að horfa til ársloka 2013. Það sé viðmiðunardagsetning þegar komi að riftun á ráðstöfun fasteignarinnar samkvæmt kaupsamningi, sbr. aðalkröfu.             Í öðru lagi sé vandséð til hvaða verðs lögmaður stefnda sé að vísa. Samkvæmt skiptingaráætluninni hafi fasteignin að Skútuvogi 3 verið afhent stefnda á bókfærðu verði 437.384.257 kr. en hins vegar sé raunverulegt verð samkvæmt skiptingaráætluninni aðeins 267.461.304 kr. sem séu hinar yfirteknu langtímaskuldbindingar. Mismunurinn sé eigið fé 169.922.953 kr. sem færist yfir til stefnda.             Krafa um vexti sé þannig sett fram að krafist sé vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kröfufjárhæðinni frá dagsetningu hins riftanlega gernings, 12. september 2014, til 23. nóvember 2016, dagsins þegar tilkynning um riftun var birt stefnda, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags en af lægri fjárhæð annaðhvort með hliðsjón af niðurstöðu dómkvadds matsmanns eða að mati dómsins.             Í þrautavarakröfu sé gengið út frá því að dómur hafi hafnað því að lagaskilyrði séu til þess að rifta ráðstöfun fasteignarinnar, hvort sem það sé samkvæmt kaupsamningnum eða skiptingaráætluninni, sbr. aðalkröfu og varakröfu. Með sama hætti og í aðalkröfu sé á því byggt í þrautavarakröfu að þegar komi að framsali fasteignarinnar að Skútuvogi 3 sé skiptingaráætlun stefnanda og stefnda annaðhvort hrein markleysa í lagalegum skilningi eða í það minnsta haggi ekki skuldbindingargildi kaupsamningsins um Skútuvog 3, frá 29. desember 2013. Í þrautavarakröfunni sé einfaldlega krafist fullra efnda á kaupsamningi stefnanda og stefnda um fasteignina Skútuvog 3 í Reykjavík, 222.870.393 króna             Krafa stefnanda um dráttarvexti miðist við 1. júlí 2014 en það hafi verið sá dagur sem kveðið var á um í kaupsamningi að gefa skyldi út afsal og afhenda eignina. Sé þetta síðasta tímamarkið sem stefndi hafði til þess að greiða umsamið kaupverð. Ekki hafi verið unnt að staðfesta ákveðna dagsetningu sem afhendingardag þó fyrir liggi að eignin hafi verið afhent fyrr en ráð var fyrir gert í kaupsamningi.             Varðandi lagarök þá vísi stefnandi, auk þess sem rakið sé hér að framan, til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafa stefnanda um riftun og endurgreiðslu byggist á XX. kafla laganna, sbr. það sem að framan er rakið. Jafnframt sé vísað til almennra reglna skaðabótaréttarins. Um vexti og dráttarvexti sé vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 sé mál þetta höfðað innan frests, en kröfulýsingarfresti lauk 16. nóvember 2016. Krafa stefnanda um málskostnað sé byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing vísist til 1. mgr. 32. gr. laganna.             Krafan skv. stefnu á hendur stefnda, sem gefin var út 30. janúar 2017 og sameinuð var máli þessu, felist í því að rift verði með dómi greiðslu stefnanda til stefnda að fjárhæð 21.316.582 kr. sem fór fram þann 15. mars 2016 með þeim hætti að millifært var af bókarlausum reikningi nr. 105502 í eigu stefnanda inn á reikning í eigu stefnda og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda þá fjárhæð með vöxtum, dráttarvöxtum og kostnaði. Með þessu hafi verið gerð upp krafa stefnda á hendur stefnanda innan við tveimur mánuðum fyrir frestdag sem var 9. maí 2016. Gerningurinn sé því riftanlegur auk þess sem sem leitast hafi verið við að leyna skiptastjóra þessu uppgjöri og veðsamningur gerður aftur í tímann.   Krafa um staðfestingu kyrrsetningar Í 1. mgr. 5. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990 komi fram að kyrrsetja megi eignir skuldara til tryggingar fullnustu lögvarinnar kröfu um greiðslu peninga ef henni verður ekki þegar fullnægt með aðför og sennilegt má telja, ef kyrrsetning fer ekki fram, að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta hennar takist eða að fullnusta verði verulega örðugri. Stefnandi telji allar líkur á að fullnusta takist síður eða verði örðugri verði kyrrsetningargerðin ekki staðfest með dómi. Til þess ber að líta að stefndi sé einkahlutafélag þar sem eigendur og aðrir stjórnendur félagsins beri takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins. Ljóst sé af framlögðum gögnum að skilyrðið um lögvarða kröfu sé uppfyllt, sbr. það sem að framan sé rakið. Stefndi muni ekki sýna fram á það að stefnandi eigi ekki þá kröfu sem krafist er kyrrsetningar á, sbr. ákvæði 2. mgr. 5. gr. ksl., enda hafi stefndi ekkert látið bóka við fyrirtöku kyrrsetningarinnar um efni krafnanna sem séu tilefni kyrrsetningarinnar.                 Ljóst sé einnig, þar sem hvorki sé um dæmda kröfu að ræða né kröfu sem tryggja megi með aðför án undangengis dóms, að ekki sé unnt að fullnægja kröfunni nú þegar með aðför. Eftir standi því að kanna hvort uppfyllt sé það skilyrði ákvæðisins að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta hennar takist eða að fullnusta verði verulega örðugri verði kyrrsetning ekki staðfest. Stefnandi telur að eftir að ráðstöfunarblað Landsbankans var lagt fram hafi slæm eignastaða stefnda skýrst. Með hliðsjón af því sé ljóst að uppfyllt sé það skilyrði laganna að fyrirsjáanlegt sé að verulega muni draga úr líkindum þess að fullnusta kröfu stefnanda takist eða hún að minnsta kosti verði verulega örðugri nái kyrrsetning ekki fram að ganga.             Eins og rakið hafi verið hafi veðsetningar á fasteignum kyrrsetningarþola stóraukist. Veðsetningarhlutfallið sé miðað við bókfært heildarverð að lágmarki 91%. Í þessu samhengi skipti ekki máli að skuldin að baki tryggingarbréfinu sé eitthvað lítillega lægri en fjárhæð tryggingarbréfsins.             Eins og rakið sé ítarlega í stefnum þeim og kærum sem lagðar voru fram með kyrrsetningarbeiðninni sé ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að til staðar sé mjög rík tilhneiging fyrirsvarsmanna stefnda til þess að skjóta eignum undan kröfuhöfum. Kveði svo hart að þessum ásetningi að ekki sé hikað við að útbúa skjöl aftur í tímann og leyna skiptastjóra mikilvægum upplýsingum. Þessi tilhneiging raungerist enn á ný í tryggingarbréfi Landsbankans og framlögðu ákvarðanatökublaði. Samhliða því að veðtryggingar Landsbankans á fasteignum félagsins hafi stóraukist (að undanskildum Eyrarvegi 2 og Egilsstöðum) hafi tryggingum bankans vegna skulda stefnda, sem voru fyrir útgáfu 1,8 milljarða tryggingarbréfsins jafnframt í eignum fyrirsvarsmannsins sjálfs eða tengdra félaga, verið aflétt. Hér væri um augljósa riftanlega gerninga að ræða kæmi til gjaldþrots, þar sem verið er að koma eignum tengdra aðila í skjól, enda fyrirsvarsmaður stefnda og bankinn fullkomlega meðvitaðir um málshöfðanir stefnanda. Það hafi því verið mjög brýnir hagsmunir fyrir kröfuhafa í þrotabúi stefnanda að ná að vinda ofan af annars vegar þessum viðbótarveðsetningum Landsbankans og hins vegar því undanskoti sem hafi átt sér stað með útgáfu þessa tryggingarbréfs í því formi að aflétt var tryggingarveðum á fasteignum í persónulegri eigu fyrirsvarsmanns kyrrsetningarþola eða Suðurhúsa ehf., sem hann eigi einnig. Með hliðsjón af riftunarfrestum væri það aðeins gert með því að ná fram árangurslausri kyrrsetningu og þá í framhaldi að láta reyna á kröfu um gjaldþrotaskipti. Hagsmunir stefnanda hafi hins vegar verið tryggðir með þeim ábendingum eigna í eigu fyrirsvarsmanns stefnda þannig að ekki var gerð árangurslaus kyrrsetning. Það sé þá hugsanlega annarra kröfuhafa að láta reyna á slíka riftun. Samantekið hafi staðan frá því að stefnur stefnanda voru birtar fyrir stefnda til dagsins í dag versnað til mikilla muna að því er varðar mögulegar heimtur stefnanda á fullnustu krafna sinna. Fyrir utan það að bókfærðar eignir stefnda hafi lækkað að verðmæti úr 2,5 milljörðum í árslok 2015 í 1,6–2,0 milljarða í árslok 2016 hafi veðtryggingar viðskiptabanka stefnda í fasteignum hans hækkað stórlega frá og með 22. maí 2017, eða um 348 m.kr. að nafnvirði, eða nettó um 240 m.kr., auk þess sem um leið sé verið að aflétta krossveðsetningu tryggingarbréfa í öðrum eignum tengdra aðila, sem augljóslega geri veðstöðuna á fasteignum stefnda verri sem þeim afléttingum nemur.             Samkvæmt framangreindu telur stefnandi óhjákvæmilegt að staðfesta kyrrsetningu þá sem fram fór hjá embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu miðvikudaginn 19. júlí 2017 í fasteignunum Eyrarvegi 2 á Selfossi, Egilsstöðum í Ölfusi, Ósgerði, Ölfusi og Selbraut 86, Seltjarnarnesi, sbr. kyrrsetningargerð nr. K-41/2017. Stefnandi áréttar að þó að sýnt hafi verið fram á að eignastaða stefnda hafi versnað stórkostlega frá því að mál stefnanda var höfðað til dagsins í dag, þá sé aðalatriðið hver staða stefnda sé í dag og hver líkindin séu á því að stefnandi muni ná fullnustu krafna sinna að fengnum dómi, verði kyrrsetningin ekki staðfest. Hafi núverandi staða sem lýtur að mögulegri fullnustu verið sú sama fyrir sex eða tólf mánuðum skipti það engu máli. Aðalatriðið sé hvort eignastaða stefnda sé þannig að fullnusta megi fyrirsjáanlega takast eður ei. Það sé það sem sýslumaður mat og það sem dómari endurmetur. Verði kyrrsetningin ekki staðfest aukist augljóslega hættan á því að fullnusta á kröfum stefnanda takist ekki eða verði mun örðugri en ella enda eignir félagsins í dag að lágmarki 91% veðsettar miðað við bókfært verð aukinheldur sem verið er að þyngja veðsetninguna á eignum stefnda til muna með því aflétta tæplega 300 milljóna kr. öruggum krosstryggingarveðum af öðrum fasteignum sem eru í eigu fyrirsvarsmanns stefnda persónulega eða annars félags í hans eigu. Þegar metin sé möguleg fullnusta beri líka að líta til þess að fyrirsvarsmaður stefnda skuli standi í gerningum sem feli það í sér að verið sé að koma öðrum fasteignum í hans eigu í gott skjól. Í þessu sambandi vísi stefnandi til Hrd. 307/2001.             Varðandi kröfur stefnanda um riftun og greiðslu fjárkrafna vísi stefnandi til tilvísaðra og framlagðra stefna. Krafa um staðfestingu kyrrsetningar byggist á II. kafla laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, einkum 5. gr. laganna. Krafa um málskostnað styðjist við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Varnarþing styðjist við 33. gr. laga nr. 91/1991.   IV. Málsástæður og lagarök stefnda Kjarni þessa máls lúti að því að fasteignin að Súðarvogi 3 hafi verið færð úr eignarhaldi EK ehf. undir eignarhald stefnda. Ágreiningur málsins sé einangraður við það hvort sú ráðstöfun sé riftanleg á grundvelli 131. og 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og hvaða fjárhæð stefndi skuli greiða stefnanda ef á það verður fallist með stefnanda að um riftanlega ráðstöfun hafi verið að ræða. Til viðbótar virðist vera ágreiningur um hvort kaupverð samkvæmt kaupsamningi hafi verið að fullu greitt eða að hve stórum hluta það hefur verið greitt.             Varðandi skiptingu EK vill stefndi taka fram að hvað sem málatilbúnaði stefnanda líði þá sé af hálfu stefnanda ekki gerð krafa um ógildingu skiptingarinnar. Verði því ekki annað lagt til grundvallar í þessu máli en að skipting EK, sem sé afstaðin, sé gild og lögmæt.             Stefndi byggi sýknukröfu sína á því að umrædd ráðstöfun sé ekki riftanleg, hvorki á grundvelli 131. né 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Þar að auki byggi stefndi á því að það sé rangt að kaupverð fyrir fasteignina að Skútuvogi 3 sé að einhverju leyti ógreitt af hálfu stefnda. Stefndi hafni því að ráðstöfun fasteignar EK til stefnda hafi falið í sér gjafagerning í skilningi 131. gr. gþl. Því sé jafnframt hafnað að ráðstöfunin hafi leitt til þess að EK yrði ógjaldfært. Þá hafni stefndi því að greiðslan hafi á ótilhlýðilegan hátt verið stefnda til hagsbóta á kostnað kröfuhafa stefnanda, leitt til þess að eignir stefnanda urðu ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða valdið skuldaaukningu, sem og því að stefnandi hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og að stefndi hafi verið grandvís um ógjaldfærnina og ótilhlýðileika ráðstöfunarinnar í skilningi 141. gr. gþl.             Stefndi byggi á því að sú skipting EK sem liggi fyrir í skjölum málsins sé gild, enda hafi skiptingin verið að fullu framkvæmd og gildi hennar ekki verið hnekkt. Stefndi vísi til þess að örfáum dögum eftir að samningur var gerður um kaup og sölu á 100% hlut í EK hafi félögin tvö, EK og stefndi, orðið systurfélög undir yfirráðum Leitis. Skiptingaráætlun hafi verið unnin fyrir EK og tók hún m.a. á færslu fasteignarinnar að Skútuvogi 3 til stefnda. Þar hafi m.a. verið gert ráð fyrir uppgreiðslu skulda EK af hálfu stefnda. Skiptingaráætlun sú sem hér sé vísað til hafi verið birt opinberlega í Lögbirtingablaði og henni fylgt yfirlýsing löggilts endurskoðanda um að hún rýrði ekki rétt lánardrottna til fullnustu kröfum sínum. Þetta sé óumdeilt í málinu. Það hafi verið mat löggilts endurskoðanda að endurgjald fyrir eignarhluta í hvoru félagi fyrir sig, EK og stefnda, eftir skiptingu væri sanngjarnt og efnislega rökstutt.             Stefndi árétti að ákvörðun um skiptingu sé tekin af hlutaðeigandi félagi og viðtökufélagi. Hluthafar gæti hagsmuna sinna með nýtingu atkvæðisréttar síns á hluthafafundum auk þess sem stjórn viðkomandi félags gæti hagsmuna þess. Skipting sem þessi sé gerð í þágu hluthafanna og þeim til hagsbóta. Stefndi hafi ekki komið að ákvörðun um skiptingu EK heldur hafi það verið hluthafar í EK sem tóku ákvörðun um að færa eignir og skuldir út úr EK og fengu sem gagngjald hluti í stefnda. Þessar tilfærslur hafi verið ákveðnar af hluthöfunum og ekki haft áhrif á verðmæti hlutafjáreignar þeirra. Stefndi telji að þegar af þessari ástæðu beri að sýkna hann vegna aðildarskorts, enda geti krafa um riftun skiptingaráætlunarinnar ekki beinst að stefnda. Enn fremur sé réttur lánardrottna tryggður á þann hátt að félag geti ekki með tilstuðlan skiptingar komið sér undan skuldum sínum. Stefndi vísi hér til þess sem fram komi í skýrslu endurskoðandans, með vísan til laga um einkahlutafélög, laga um hlutafélög og 6. gr. skiptingaráætlunarinnar sjálfrar, að kröfuhöfum sé tryggður réttur til að krefja þátttökufélag, óskipt, ef kröfuhafinn fær ekki fullnustu kröfu sinnar í því félagi sem upphaflegu kröfuna skal greiða. Samkvæmt þessum sérreglum gæti viðtökufélagið, stefndi, því borið ábyrgð á greiðslum kröfuhafa EK vegna skiptingarinnar, þó aðeins sem nemi nettóverðmæti þess sem við bættist þegar skiptingaráætlunin var birt. Í ljósi þessarar sérreglu, og með vísan til fyrirliggjandi mats löggilts endurskoðanda á réttu endurgjaldi og rétti lánardrottna, sé með öllu útilokað að opinberlega birt og athugasemdalaus skipting hlutafélags geti falið í sér gjafagerning á einhvern hátt. Stefndi árétti að enginn kröfuhafa EK hafi nýtt sér þennan rétt né gert sig líklegan til að nýta hann, enda sé ekki að sjá að til þess hafi gefist nokkurt tilefni.             Til viðbótar við framangreint komist stefndi ekki hjá því að gera athugasemd við þá framsetningu í stefnu þar sem krafist sé riftunar á ráðstöfun fasteignarinnar með skiptingu og greiðslu mismunarins á markaðsvirði eignarinnar á þeim tíma sem skiptingaráætlunin var staðfest og yfirtökuverði samkvæmt skiptingaráætlun. Hér sé á engan hátt tekið með í reikninginn hvert eðli skiptingarinnar sé og hvernig uppgjöri sé háttað með hlutum í hvoru skiptingarfélagi fyrir sig. Þá sé og alvanalegt að miða við bókfært virði í gerningum sem þessum en stefndi þekki ekki til nokkurra dæma um að miðað sé við metið markaðsvirði þeirra eigna sem um ræðir og skipting taki til í stað bókfærðs virðis. Engar reglur eða fordæmi séu til sem bendi til þess að miða beri verðmat fasteigna í skiptingaráætlunum við markaðsvirði í stað bókfærðs virðis.             Í ljósi málatilbúnaðar stefnanda telji stefndi nauðsynlegt að árétta að öll gögn málsins beri með sér að eignayfirfærslan á fasteigninni að Skútuvogi 3 hafi verið framkvæmd á grundvelli skiptingarinnar en ekki á grundvelli kaupsamningsins frá 29. desember 2013. Beri hér helst að nefna hvernig staðið var að uppgjöri skulda EK. Líkt og rakið hafi verið hafi það að öllu leyti verið í samræmi við skiptingaráætlunina en í hróplegu ósamræmi við ákvæði kaupsamningsins frá 29. desember 2013. Þá verði ekki litið fram hjá því að samtíma bókhaldsgögn sýni að fasteignin að Skútuvogi 3 hafi verið færð inn í félagið á grundvelli skiptingaráætlunarinnar enda komi þar fram bókfært virði fasteignarinnar að teknu tilliti til fyrningar, þ.e. færsla vegna skiptingarinnar að virði 437.384.257 krónur. Með vísan til framangreinds, og þeirrar augljósu staðreyndar að skipting hlutafélags feli ekki í sér hefðbundin viðskipti og jafngildi því ekki viðskiptum á almennum markaðskjörum, telji stefndi að með öllu sé útilokað að byggt verði á riftunarreglum gjaldþrotaskiptalaga varðandi yfirfærslu fasteignarinnar að Skútuvogi 3 frá EK til stefnda. Þar sem fasteigninni að Skútuvogi 3 hafi raunverulega verið ráðstafað með skiptingu en ekki kaupsamningi séu málsástæður stefnanda fyrir riftun kaupsamningsins frá 29. desember 2013 bersýnilega haldlausar, sem og kröfur um greiðslur vegna þeirrar riftunar.             Verði af einhverjum ástæðum litið fram hjá fyrirliggjandi skiptingu EK, og það án þess að gerð sé krafa um ógildingu hennar af hálfu stefnanda, auk þeirrar staðreyndar að hagsmunir kröfuhafa EK hafi verið tryggðir með sérreglum varðandi skiptingu á hlutafélagi, mótmæli stefndi því alfarið að ráðstöfun EK hafi falið í sér gjafagerning í skilning 131. gr. gþl. Byggi stefndi afstöðu sína í fyrsta lagi á því að í samningnum frá því í desember 2013 hafi verið samið um greiðslu markaðsverðs. Upphaflega hafi verið samið um að stefndi myndi greiða kaupverð sem næmi 475.000.000 króna. Gögn málsins styðji að þetta verð hafi verið markaðsverð á þeim tíma sem gengið var til samningsins. Vísi stefndi hér einkum til skýrslu KPMG sem unnin var fyrir seljendur EK að beiðni Hallgríms Ingólfssonar. Nánar tiltekið sé vísað til þess texta sem fram komi á bls. 11 í skýrslunni, þess efnis að EK hefði nýlega keypt fasteignina og rétt væri því að miða við mat í lok árs 2012, sem nam 447.600.000 króna, og uppreikna það miðað við vísitölu til verðmatsdags. Þar að auki var metinn seljanleikaafsláttur 15%.             Þá byggi stefndi á því að Kjartan Hallgeirsson, löggiltur fasteignasali, hafi verðmetið húsið leigulaust hinn 28. nóvember á 450 m.kr., sem sé nokkru undir umsömdu kaupverði. Í fundargerð sem tekin sé saman í tölvupósti Hallgríms komi fram að seljendur hafi verðmetið fasteignina á 450 m.kr. Staðan sé því sú að bæði kaupandi og seljandi, með vísan til úttektar sérfróðra aðila, töldu markaðsvirði fasteignarinnar vera í kringum 450 m.kr. og ákvörðun kaupverðs að fjárhæð 470 m.kr. því síst of lágt. Í upphafi árs 2015 verðmat Reitir I ehf. fasteignina að Skútuvogi 3 á 580 m.kr. Miðað við það mat og hækkun um u.þ.b. 20% frá ráðstöfun fasteignarinnar til stefnda virðist mega miða við að verðmat á síðasta ársfjórðungi ársins 2013 hafi verið rétt um 480 m.kr. sem sé mjög nálægt því sem um var samið.             Niðurstaða dómkvadds matsmanns styðji og framangreindan málatilbúnað stefnda. Líkt og rakið sé í forsendum matsmanns fyrir verðmati á fasteigninni leigulausri þá var í samningnum við EK ákveðið hæsta fermetraverð miðað við sambærilegar eignir á sama tíma. Forsendur matsmanns bendi því ótvírætt til þess að umsamið kaupverð, 475 m.kr., hafi verið yfir því sem sem matsmaður telji hafa verið „rétt“ markaðsverð á þessum tíma. Húsið hafi verið leigulaust í desember 2013 þegar samningur EK og stefnda um það var gerður. Stefndi telji því enga ástæðu vera til þess að meta húsið öðruvísi en leigulaust.             Stefndi vísi í í öðru lagi til þess að Faxaflóahafnir sf. hafi fallið frá forkaupsrétti sem félagið átti með yfirlýsingu, dags. 30. desember 2013. Þá er því í þriðja lagi mótmælt að EK hafi verið ógjaldfært við ráðstöfun fasteignarinnar til stefnda eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar. Með vísan til þess sem að framan greini sé ljóst að skilyrði 131. gr. gþl. séu einfaldlega ekki uppfyllt í málinu. Það virði fasteignarinnar sem samið var um í kaupsamningi hafi verið markaðsvirði eignarinnar á þeim tíma. Fjárhæð sem samsvarar því kaupverði hafi verið greidd til EK af hálfu stefnda Hvorki var um gjafagerning að ræða né leiddi ráðstöfun fasteignarinnar til ógjaldfærni EK.             Um möguleika EK í lok árs 2013 til að standa í skilum við lánardrottna sína, þegar kröfur þeirra féllu í gjalddaga, byggi stefndi á því að ráðstöfun fasteignarinnar til stefnda hafi ekki haft nokkur áhrif á gjaldfærni EK. Í fyrsta lagi megi nefna að allar þær skuldir sem voru fyrir hendi á skiptingardegi séu að fullu uppgerðar þótt nýjar skuldir hafi myndast eftir skiptingardag. Vísi stefndi hér til endurfjármögnunar lána hjá Íslandsbanka sem átti sér stað í apríl 2014. Gangi fullyrðingar stefnanda um ætlaða ógjaldfærni EK í lok árs 2013 og byrjun árs 2014 því afar illa upp. Í öðru lagi, eins og að framan greinir, liggi fyrir mat löggilts endurskoðanda um að skiptingin hafi ekki rýrt rétt lánardrottna til fullnustu krafna sinna.             Í þriðja lagi sýni ársreikningar EK frá rekstrarárunum 2013 og 2014 að það sé enginn fótur fyrir tilhæfulausum ásökunum í stefnu um ógjaldfærni. Ársreikningur EK fyrir árið 2013 hafi verið staðfestur án athugasemda af hálfu endurskoðanda félagsins. Vísi stefndi til þess að skv. lögum nr. 3/2006 um ársreikninga feli þessi áritun endurskoðandans í sér að það hafi verið mat hans að félagið hefði verið rekstrarhæft í a.m.k. eitt ár frá þessum tíma og að kröfur eða aðrar fjárfestingar yrðu áfram í eign EK í a.m.k. eitt ár. Sá reikningur sýni að í árslok 2013 námu veltufjármunir samtals um 230.400.000 krónum á meðan skammtímaskuldir námu um 205.200.000 krónum. Í ársreikningi EK fyrir árið 2014 komi fram að í árslok voru veltufjármunir um 389.200.000 krónur á sama tíma og skammtímaskuldir voru um 256.800.000 krónur. Veltufjármunir hafi því verið meiri en skammtímaskuldir í lok árs bæði 2013 og 2014.                  Í fjórða lagi hafi stefnandi sjálfur aflað mats sérfræðings á verðmæti tiltekinna eigna EK á þeim tíma sem hér skipti máli. Um sé að ræða minnisblað, dags. 17. nóvember 2016, sem unnið hafi verið af Jóni Scheving Thorsteinssyni að beiðni stefnanda í þeim tilgangi að varpa ljósi á umboð EK og viðskiptavild tengda þeim sem seld voru til ÍSAM ehf. með kaupsamningi, dags. 12. apríl 2016. Í mati Jóns hafi verið tekið tillit til helstu umboða, en ekki hafi verið tekið tillit til birgða eða umboða sem voru komin til annarra heildsala, sbr. það sem nánar kemur fram í minnisblaðinu um helstu forsendur útreikninga. Stefndi leggi áherslu á að á þessu verðmati, sem stefnandi aflaði einhliða, byggði stefnandi fullum fetum málatilbúnað sinn gagnvart ÍSAM ehf. í héraðsdómsmálinu nr. E-78/201. Til samanburðar vísi stefndi til kröfuskrár. Þannig liggi fyrir að verðmæti metinna umboða á þeim tíma sem fasteigninni að Skútuvogi 3 var ráðstafað til stefnda hafi verið metið f.h. stefnanda mun meira en samtala allra lýstra krafna í stefnanda. Á þessu hefur stefnandi sjálfur byggt fyrir dómstólum.             Í fimmta lagi, eins og leiði af öllum gögnum máls þessa, þá hafi EK og Leitis-samstæðan í þágu EK haft nokkuð greiðan aðgang að lánsfjármagni frá Íslandsbanka. Vísist til þess sem að framan greinir um endurfjármögnun í apríl 2014. Til viðbótar má nefna tölvupóst frá starfsmanni Íslandsbanka frá 29. apríl 2015 um lengingu og breytingu lána til lækkunar greiðslubyrði sem sýni ágætlega samstarf bankans við EK. Sérstök athygli sé vakin á því að síðastnefnd samskipti um lengingu og breytingu lána hafi átt sér stað um mitt ár 2015.             Stefndi byggi á því að þessi staða sýni glöggt að Íslandsbanki hafi ekki talið EK vera ógjaldfært þótt staða þess kynni að hafa vera erfið á þeim tímapunkti.             Í sjötta lagi hafi af hálfu eigenda EK verið gripið til ýmissa ráðstafana í þeim tilgangi að rétta reksturinn við. Aðgerðir í lok ársins 2014 sýni glöggt vilja forsvarsmanna Leitis og getu innan samstæðunnar til að styðja við reksturinn. Þannig hafi skuld EK við Sólstjörnuna ehf. að upphæð 28.060.542 krónur verið breytt í hlutafé auk þess sem stefndi millifærði 27 m.kr. inn á reikning EK sem svo var breytt í hlutafé. Hækkun hlutafjár nam því samtals 55.060.542 krónum. Til viðbótar við framangreint hafi stefndi veitt 100% afslátt af húsaleigu fyrir árið 2014, en sú skuld hafi numið rúmlega 73 m.kr. Í raun megi sjá af lestri minnisblaðs, dags. 23. september 2015, að jafnvel seint á árinu 2015 hafi menn ekki verið búnir að gefa upp alla von. Rakið sé í minnisblaðinu að taprekstur EK hafi verið fjármagnaður í lok árs 2014 og jafnframt lagt til hvernig taprekstur ársins 2015 yrði fjármagnaður.             Stefndi byggi á að með öllu sé ósannað af hálfu stefnanda að umrædd ráðstöfun hafi skert greiðslugetu EK verulega. Engin gögn hafi verið lögð fram af hálfu stefnanda sem sýni fram á þetta.              Stefndi byggi á því að af sömu ástæðum og að framan greini hafi ráðstöfun EK á fasteign sinni til stefnda verið eðlileg og réttmæt og að ráðstöfunin hafi ekki falið í sér gjöf né orsakað ógjaldfærni, og þá hafi hún jafnframt verið tilhlýðileg. Sönnunarbyrðin fyrir því að öllum skilyrðum 141. gr. gjaldþrotalaga sé fullnægt hvíli á stefnanda. Beri því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda.             Verði fallist á með stefnanda að ekki hafi verið fallið frá kaupsamningi stefnda og EK frá desember 2013, eins og byggt sé á í aðalkröfu, þá sé á því byggt til vara að fjárkrafa stefnanda geti ekki numið hærri fjárhæð en umsömdu kaupverði samkvæmt hinum umþrætta kaupsamningi að frádregnum yfirteknum skuldum EK og öðrum greiðslum stefnda vegna fasteignarinnar, sem hafi verið sem hér segi:               Með vísan til framangreinds byggi stefndi á því í varakröfu að ekki verði hjá því komist að líta til þess að stefndi hefur greitt 437.384.257 kr. í tengslum við viðtöku fasteignarinnar. Byggi stefndi á því að stefnandi geti ekki átt hærri kröfu en nemi mismuninum á umsömdu kaupverði í desember 2013, þ.e. 475 m.kr. og framangreindri samtölu. Heildarskuld stefnda við stefnanda getur þannig ekki með nokkru móti talist nema hærri fjárhæð en 37.615.743 kr.             Kröfum stefnanda um almenna vexti sé hafnað með vísan til 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kröfum stefnanda um vexti samkvæmt 8. gr. vaxtalaga sé mótmælt með vísan til 2. mgr. 42. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Á sama grundvelli sé öllum kröfum stefnanda um vexti fram til þess tíma sem mál þetta var höfðað mótmælt.             Dráttarvaxtakröfum stefnanda sé sérstaklega mótmælt. Stefndi telji engin efni til að reikna dráttarvexti fyrr en í fyrsta lagi frá dómsuppsögu enda ekki ljóst fyrr en þá hvort stefnandi eigi einhverja kröfu á hendur stefnda.             Varðandi aðra kröfu stefnanda, þá hafi stefndi með kaupsamningi, dags. 1. október 2015, skuldbundið sig til að selja og Reitir I ehf. til að kaupa fasteignina að Skútuvogi 3 í Reykjavík og fasteignin verið afhent þann sama dag. Samhliða kaupunum hafi Reitir I yfirtekið réttindi og skyldur stefnda samkvæmt leigusamningi við EK. Í framhaldi af kaupum Reita I hafi félagið gert kröfu um húsaleiguábyrgð til tryggingar skuldbindingum EK sem leigutaka í samræmi við skilmála hins yfirtekna leigusamnings frá 21. júlí 2015, nánar tiltekið 5. mgr. 2. kafla fylgiskjals nr. 1 við leigusamninginn. Segi þar að leigusala skuli afhent tryggingarfé eða bankaábyrgð sem gilda skuli út leigutímann og samsvara umsömdum þriggja mánaða leigukjörum auk virðisaukaskatts eða 20.843.316 kr. Á þessum tíma hafi Íslandsbanki verið viðskiptabanki EK og til þess að bankinn gæfi út ábyrgð hafi þurft að liggja fyrir handveðsett innstæða að samsvarandi fjárhæð. Á þessum tíma hafi EK ekki átt fjármuni til að standa straum af umræddri tryggingarkvöð í húsaleigusamningnum. Af þeim sökum hafi stefndi lagt til að hann myndi baktryggja ábyrgðina sem myndi tilheyra EK gagnvart Reitum, eins og það var orðað í tölvupóstsamskiptum Guðmundar f.h. stefnda við Íslandsbanka. Svar Íslandsbanka hafi verið á þá leið að óheimilt væri að stefndi, sem systurfélag EK, myndi gangast í umrædda ábyrgð. Íslandsbanki hafi lagt til að aðrar leiðir yrðu skoðaðar, s.s. að stefndi myndi leigja húsnæðið og endurleigja það EK eða að Leiti myndi ábyrgjast leiguna.                    Úr hafi orðið að stefndi lánaði EK þá fjárhæð sem til þurfti til að ganga frá húsaleigutryggingunni. Um skammtímaráðstöfun hafi verið að ræða og sameiginlegur skilningur aðila að stefndi myndi leggja 21 m.kr. inn á reikning EK hjá Íslandsbanka sem skyldi handveðsettur bankanum vegna húsaleiguábyrgðarinnar. Aðilar hafi verið sammála um að féð skyldi endurgreitt við allra fyrsta tækifæri og þess leitað eftir föngum að afla annarrar tryggingar sem leyst gæti hina handveðsettu peninga af hólmi. Í framhaldi framangreindra ráðstafana hafi Íslandbanki gefið út yfirlýsingu, dags. 1. október 2015, vegna húsaleiguábyrgðar þar sem því hafi verið lýst yfir að samþykkt væri að gefa út húsaleiguábyrgð til tryggingar skuldbindingum EK samkvæmt leigusamningi, dags. 21. júlí 2015. Húsaleiguábyrgðin skyldi tryggja leigugreiðslur samkvæmt leigusamningnum og mögulegar skaðabætur vegna tjóns á hinu leigða, allt að fjárhæð 20.843.316 kr., og gilda til 31. júlí 2020.             Hinn 28. október 2015 hafi af hálfu stefnda verið spurst fyrir um frágang á sjálfskuldarábyrgð sem ætti að koma í staðinn fyrir handveð í þeim peningum sem lágu á reikningi nr. 515-14-105502 fyrir húsaleiguábyrgð EK gagnvart Reitum I. Segir svo í póstinum: „á móti færi peningurinn, 21 m.kr., inn á reikning Sjöstjörnunnar aftur“. Með tölvupóstinum fylgdi jafnframt óundirrituð handveðsyfirlýsing Leitis eignarhaldsfélags ehf.             Hinn 29. október 2015 hafi stefnda borist tölvupóstur þar sem Íslandsbanki tilkynnti að innan bankans hefði á þeim tíma einungis fengist samþykki fyrir handveði í peningum sem tryggingu á móti húsaleiguábyrgð EK. Ekkert varð því úr því á þessu stigi að fjárhæðin á reikningi EK nr. 515-14-105502, um 21 m.kr., sem stefndi hafði lánað EK til bráðabirgða, fengist endurgreidd til stefnda, enda hafi sú trygging sem boðin var af hálfu Leitis ekki verið tekin gild af hálfu Íslandsbanka.             Af þessum sökum hafi verið settur upp lánssamningur milli stefnda og EK sem ætlað var að ná utan um þann skilning sem hafði verið á milli aðila allt frá upphafi, auk hinna breyttu aðstæðna, og var samningurinn því dagsettur. 1. október. Fyrirætlun aðila með láninu hafi verið að um skammtímaráðstöfun væri að ræða til að greiða fyrir kaupunum en ábyrgð Leitis yrði svo útfærð í framhaldinu. Stefndi myndi svo fá þá fjárhæð sem lögð var út um leið og húsaleigutrygging þessi félli niður, hvort sem væri vegna nýs tryggingarandlags, vegna niðurfellingar af hálfu leigusala eða af öðrum sökum. Endurspeglist þessi skilningur aðila í ákvæðum 3.1 og 3.2 í samningnum en þar komi fram að lántaki skuli endurgreiða lánsfjárhæðina þegar lánveitandi tilkynni um gjaldfellingu, að teknu tilliti til handveðréttar Íslandsbanka og með þeim áskilnaði að handveði sé aflétt af þeim bankareikningi sem fjárhæðin skuli standa á til tryggingar skilvísum greiðslum EK til Reita I. Til að tryggja endurgreiðslu fjármunanna eftir að nýrrar tryggingar væri aflað, eða húsaleiguábyrgðin að öðrum kosti niðurfallin, hafi verið kveðið á um það í lánssamningnum að krafan skyldi tryggð með 2. veðrétti og uppfærslurétti á eftir veðrétti Íslandsbanka í innstæðu bankareiknings EK nr. 515-14-105502.             Lánssamningurinn hafi verið færður inn í bókhald stefnda hinn 7. janúar 2016 en umrædd fjárhagsdagbók sé færð í kerfi sem kallast Navision Financials. Kerfið sé þess eðlis að ekki sé mögulegt að leiðrétta, laga eða breyta færslum án þess að mögulegt sé að rekja þær. Stefndi áréttar að umrædd fjárhagsdagbók hafi verið stofnuð hinn 7. janúar 2016. Staðhæfingar stefnanda um að lánssamningurinn sé eftirátilbúningur í tilefni af bréfi skiptastjóra stefnanda hinn 23. desember 2016 séu því bersýnilega haldlausar.             Stefndi telur gögn málsins bera glöggt með sér að ekki hafi allt farið á þann veg sem ráðgert var í upphafi enda verið stefnt að því að stefndi fengi fjárhæðina á reikningi EK nr. 515-14-105502 endurgreidda sem fyrst og hafi menn þá haft daga eða vikur í huga en ekki mánuði. Dæmi um þetta megi finna í þeim samskiptum sem fram komi á dskj. 21 með stefnu á dskj. 5 en þar sjáist ágætlega þau vandræði sem það olli að bráðabirgðaráðstöfun stefnda dróst. Starfsfólk EK hafi þannig ekki vitað hvernig skyldi farið með hina handveðsettu fjárhæð enda hefði ekki verið stefnt að því að fjárhæðin yrði á bankareikningi EK fram yfir áramót. Stefndi leggi þó áherslu á að forsvarsmenn stefnda, EK og Íslandsbanka hafi verið, eða a.m.k. mátt vera, meðvitaðir um að handveðsetta fjárhæðin á reikningi EK nr. 515-14-105502 væri tryggt lán sem bæri að endurgreiða stefnda um leið og þess gæfist kostur.             Raunin hafi orðið sú að ekki kom til þess að ný trygging væri lögð fram með þeim áhrifum að fjárhæðin á reikningi EK nr. 515-14-105502 fengist endurgreidd til stefnda, enda hefði Leitissamstæðan alltaf þurft að leggja til peninga að handveði samkvæmt þeim skilyrðum sem Íslandsbanki setti fyrir húsaleigutryggingunni. Fjármunirnir hafi því enn verið óhreyfðir á reikningi EK nr. 515-14-105502 þegar samkomulag um leigulok milli Reita I og EK var undirritað 11. mars 2016. Í samkomulagi Reita I og EK um leigulok hafi verið ákveðið að leigulok skyldu fara fram 31. mars 2016. Fram komi í samkomulaginu að bankaábyrgð EK, sem stóð til tryggingar leigugreiðslum, skyldi falla niður um leið og Parlogis ehf. myndi afhenda Reitum I nýja bankaábyrgð fyrir leiguskuldbindingu sinni, þó með þeim fyrirvara að ekki væri verið að fella niður kröfu vegna leiguvanskila EK við Reiti.             Í framhaldi af leigulokum EK á fasteigninni að Skútuvogi 3 og með vísan til ákvæða 3.1 og 3.2 í lánssamningi stefnda gjaldfelldi stefndi lánið og fór fram á að EK myndi skila fjármununum á reikningi nr. 515-14-105502 í samræmi við önnur ákvæði. Hinn 14. mars 2016 var af hálfu EK send beiðni til Íslandsbanka um millifærslu í samræmi við framangreint. Staðfest var með tölvupósti sama dag af hálfu prókúruhafa EK að millifærslan skyldi eiga sér stað á þann hátt sem um var beðið.             Hinn 15. mars 2016 var af hálfu Íslandsbanka tilkynnt um lokun ábyrgðarinnar ásamt því að kvittun var send fyrir millifærslu. Bókinni var lokað í þeim tilgangi að geta greitt út áfallna vexti. Hafi þetta verið gert athugasemdalaust af hálfu Íslandsbanka þrátt fyrir veðrétt bankans í umræddum bankareikningi EK og þá staðreynd að EK stóð í skuld við Íslandsbanka, en sumar þessara skulda voru á þessum tíma komnar í vanskil. Millifærslan hafi verið í samræmi við skilning allra hlutaðeigandi aðila að málinu enda ljóst frá upphafi að um tryggða bráðabirgðalánveitingu væri að ræða frá stefnda sem ætlast væri til að skilað yrði við fyrsta mögulega tækifæri. Þetta uppgjör hafi verið að öllu leyti í samræmi við ákvæði lánssamningsins frá 1. október 2015 milli stefnda og EK             Krafa stefnda um sýknu af þessari kröfu stefnanda lýtur að húsaleiguábyrgð sem ætlað var að tryggja leigugreiðslur EK gagnvart Reitum I ehf. og þeim fjármunum sem stefndi ráðstafaði vegna þeirrar tryggingar og fékk svo endurgreidda eftir að húsaleiguábyrgðin var felld niður af hálfu Reita I. Ágreiningur málsins sé einangraður við það hvort endurgreiðsla þessi hafi falið í sér riftanlega ráðstöfun á grundvelli 134. gr. og 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Stefndi byggi sýknukröfu sína á því að umrædd ráðstöfun sé ekki riftanleg, hvorki á grundvelli 134. né 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Stefndi hafni því að endurgreiðsla fjárhæðarinnar, sem ráðstafað var inn á reikning EK nr. 515-14-105502 vegna húsaleigutrygginga, hafi falið í sér greiðslu fyrr en eðlilegt var. Því sé jafnframt hafnað að ráðstöfunin hafi skert greiðslugetu EK verulega. Þvert á móti hafi verið um ráðstöfun að ræða sem greidd var með venjulegum greiðslueyri á gjalddaga og telja má venjulega eftir atvikum í skilningi 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Þá hafni stefndi því að greiðslan hafi á ótilhlýðilegan hátt verið stefnda til hagsbóta á kostnað kröfuhafa stefnanda, og leitt til þess að eignir stefnanda hafi ekki orðið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða hafi valdið skuldaaukningu, sem og því að stefnandi hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og að stefndi hafi verið grandvís um ógjaldfærnina og ótilhlýðileika ráðstöfunarinnar í skilningi 141. gr. gþl.             Stefndi byggi í fyrsta lagi á því að hann hafi átt tryggða kröfu á hendur EK á grundvelli lánssamnings. Það sé meginregla í íslenskum kröfurétti að peningalán beri að endurgreiða á gjalddaga. Til viðbótar hafi verið gerður sérstakur skriflegur samningur um lán stefnda til EK. Í 2. grein lánssamningsins komi fram að stefndi hafi samþykkt að veita EK lán að fjárhæð 21 m.kr. vegna áskilnaðar um reiðufjártryggingu í tengslum við húsaleiguábyrgð til að tryggja greiðslur samkvæmt leigusamningi þar sem EK væri leigutaki. Kveðið var á um að fjárhæðin skyldi lögð inn á bankareikning lántaka nr. 515-14-105502 sem veðsettur væri Íslandsbanka með 1. veðrétti vegna framangreindrar húsaleiguábyrgðar. Til tryggingar endurgreiðslu lánsfjárhæðarinnar hafi EK veðsett innstæðu á bankareikningi sínum nr. 515-14-105502, eins og innstæða reiknings kynni að vera á hverjum tíma, með 2. veðrétti og uppfærslurétti á eftir veðrétti Íslandsbanka og að teknu tilliti til veðréttar Íslandsbanka.             Stefndi áréttar að samkvæmt ákvæði 3. greinar lánssamnings hafi gjaldfelling alfarið verið á hendi stefnda að teknu tilliti til veðréttar Íslandsbanka og háð því skilyrði að Íslandsbanki hefði áður aflétt veðrétti af bankareikningi nr. 515-14-105502.             Í öðru lagi telji stefndi að greiðsla EK á skuld sinni gagnvart stefnda hafi ekki farið fram fyrr en eðlilegt var. Þegar endurgreiðsla EK fór fram hafi bankaábyrgð EK til tryggingar leigugreiðslum gagnvart Reitum I verið felld niður og hafi veðréttar Íslandsbanka af þeim sökum ekki lengur notið við. Þá hafi verið komin fram þau skilyrði sem áskilin voru til gjaldfellingar á skuld EK við stefnda og kröfu um endurgreiðslu og gjalddagi kominn. Tilkynnt hafi verið um gjaldfellingu lánsins í samræmi við skilmála lánssamningsins en ekki hafi þar verið gerð krafa um form tilkynninga heldur aðeins tekið fram að tilkynningum skyldi beint til skráðra fyrirsvarsmanna aðila.             Stefndi byggi á því að umrædd ráðstöfun í formi endurgreiðslu peningaláns hafi hvorki skert greiðslugetu EK né breytt fjárhagslegri getu félagsins til fullnustu skulda, enda um að ræða bundna innstæðu á sérgreindri bankabók sem veðsett hafði verið stefnda, og hún EK því ekki til frjálsrar ráðstöfunar til efnda á öðrum fjárskuldbindingum félagsins, jafnvel þótt henni hefði ekki verið ráðstafað til stefnda þegar það var gert.             Engu breyti varðandi skuldbindingargildi samnings milli stefnda og EK um veðrétt stefnda hvaða kvaðir EK hafði áður undirgengist gagnvart Íslandsbanka, enda ekki reynt á efni lánssamningsins um 2. veðrétt á eftir Íslandsbanka fyrr en bankinn hafði fengið veðkröfu sína greidda eða fellt hana niður á einhvern hátt.             Umrætt skilyrði Íslandsbanka hafi ekki þau áhrif að samningur stefnda og EK sé að þessu leyti ógildur eða ógildanlegur. Umrætt skilyrði hefði hins vegar tryggt Íslandsbanka tiltekin úrræði í skuldauppgjöri ef til þess hefði komið að veðréttur bankans hefði verið fullnustaður á sama tíma og stefndi fullnustaði sína kröfu. Að veðrétti Íslandsbanka frágengnum sé ekkert sem fellt geti úr gildi samkomulag tveggja lögaðila sín á milli um veitingu tryggingar fyrir endurgreiðslu í formi veðs. Þá sé ekki á því byggt af hálfu stefnanda í málinu. Ekki hafi verið um ólögmæta ráðstöfun að ræða né vanheimild að teknu tilliti til þess að bankaábyrgðinni vegna leigusamnings EK og Reita I hafði verið aflétt þegar stefndi fullnustaði kröfu sína samkvæmt lánssamningnum við EK.             Stefndi veki athygli á því að bankaábyrgð EK til tryggingar leigugreiðslum til Reita var felld niður þrátt fyrir að þær væru á þeim tíma í vanskilum. Byggi stefndi og á því að með öllu sé ósannað af hálfu stefnanda að umrædd ráðstöfun hafi skert greiðslugetu EK verulega og því sé ekki með nokkru móti unnt að fallast á að skilyrði 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga sé uppfyllt. Gögn í málinu virðist þvert á móti sanna gjaldfærni EK. Ekki verði fram hjá því litið að stefnandi aflaði sjálfur mats sérfræðings á verðmæti tiltekinna eigna EK á þeim tíma sem hér skiptir máli, sbr. minnisblað, dags. 17. nóvember 2016, sem unnið var af Jóni Scheving Thorsteinssyni. Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi byggt málatilbúnað sinn fullum fetum á þessu mati gagnvart ÍSAM ehf. í héraðsdómsmálinu nr. E-78/2017. Til samanburðar vísi stefndi til kröfuskrár. Það liggi því fyrir að verðmæti metinna umboða, á þeim tíma sem hin ætlaða riftanlega ráðstöfun fór fram, hafi verið metið, f.h. stefnanda, mun meira en samtala allra lýstra krafna í stefnanda. Á þessu hafi stefnandi sjálfur byggt fyrir dómstólum.             Endurgreiðslan hafi verið venjuleg eftir atvikum og alvanalegt að peningaskuldbindingar séu greiddar með peningum á gjalddaga. Þá hafi allir þeir sem þekktu til verið meðvitaðir um að lán stefnda til EK fól í sér skammtímaráðstöfun sem til stóð að stefndi fengi sem fyrst til baka.             Stefndi árétti að Íslandsbanki hafi framkvæmt hina umþrættu greiðslu til stefnda þótt hann nyti allsherjarveðs í bankareikningnum sem peningagreiðslunni var ráðstafað af. Þá hafi Reitir I fellt niður það tilkall sem það félag átti til peninganna á grundvelli bankaábyrgðar þó að leigugreiðslur væru í vanskilum, sem bankaábyrgðinni var einmitt ætlað að tryggja. Stefndi ítrekar að greitt hafi verið á gjalddaga með venjulegum greiðslueyri. Öll gögn málsins bendi til þess að EK hafi verið gjaldfært þrátt fyrir umrædda ráðstöfun. Beri því að hafna riftunarkröfu stefnanda á grundvelli 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga.             Stefndi byggi á því að af sömu ástæðum og að framan greinir, að endurgreiðsla EK á gjaldföllnu láni hafi verið eðlileg og réttmæt, þá hafi hún jafnframt verið tilhlýðileg. Sönnunarbyrði fyrir því að öllum skilyrðum 141. gr. gjaldþrotalaga sé fullnægt hvíli á stefnanda. Framangreindir fjármunir hafi aldrei staðið EK til frjálsrar ráðstöfunar og því hafi ekki verið unnt að komast að þeirri niðurstöðu að EK hafi orðið ógjaldfært við umrædda ráðstöfun. Stefndi byggi á því að í mars 2016 vonuðust forsvarsmenn EK enn til þess að unnt væri að selja verðmæti félagsins og ná að standa í skilum við kröfuhafa þess. Sú staðreynd að Íslandsbanki samþykkti að greiða til baka fjárhæðina á bankareikningi EK til stefnda, þótt bankinn hefði átt allsherjarverð í reikningnum og stóra útistandandi kröfu á EK, sýni glöggt að EK hafi á þessum tíma ekki verið talið vera ógjaldfært.             Af hálfu stefnda sé því hafnað að stefnanda hafi tekist að axla þá ströngu sönnunarbyrði sem á honum hvíli samkvæmt ákvæði 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Beri því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda.                Kröfum stefnanda um almenna vexti sé hafnað með vísan til 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kröfum stefnanda um vexti samkvæmt 8. gr. vaxtalaga er mótmælt með vísan til 2. mgr. 42. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Á sama grundvelli sé öllum kröfum stefnanda um vexti fram til þess tíma sem mál þetta var höfðað mótmælt.             Dráttarvaxtakröfum stefnanda sé sérstaklega mótmælt. Stefndi telji engin efni til að reikna dráttarvexti fyrr en í fyrsta lagi frá dómsuppsögu enda ekki ljóst fyrr en þá hvort stefnandi eigi einhverja kröfu á hendur stefnda.               Varðandi kyrrsetningarkröfu stefnanda þá vísi stefndi til þess að þann 17. júlí 2017 hafi heildarskuldbindingar stefnda við Landsbankann sem tryggðar voru með nýju tryggingarbréfi, samtals numið 1.759 m.kr. Þann 7. nóvember hafi allar skuldbindingar stefnda við Landsbankann numið sambærilegri fjárhæð, eða um 1.800 m.kr. Allar fyrri áhvílandi skuldir stefnda við Landsbankann og aðrar lánastofnanir hafi verið greiddar upp og eldri tryggingarbréfum Landsbankans, sem hvíldu á hluta þeirra eigna sem veðsettar voru Landsbankanum með tryggingarbréfinu, hafi verið aflýst.             Við mat Landsbankans á lánveitingunni og umfangi trygginga byggði bankinn á því að áætlað virði tiltekinna fasteigna í eigu stefnda og tengdra aðila hafi verið samtals 2.925 m.kr.             Áætlað verðmæti framangreindra fasteigna hafi verið reiknað m.a. með tilliti til leigutekna og leigutaka og með almennum aðferðum við að áætla markaðsvirði fasteigna. Stefnandi virðist telja endurfjármögnun þessa og tengdar tryggingarráðstafanir hafa orðið til þess að möguleikar stefnanda til að standa í skilum við stefnanda hafi versnað til mikilla muna. Vegna þessa hafi stefnandi gert þá kröfu með kyrrsetningarbeiðni dags. 12. júlí 2017 að kyrrsettar yrðu eignir stefnda svo nægði til fullnustu fjárkröfu að samtals 457.707.674 kr. Kvað stefnandi það vera ljóst að þróun fjárhagsstöðu stefnda bæri það með sér að stefnandi fengi kröfur sínar ekki uppgerðar í kjölfar endanlegra dóma. Byggði kröfugerð stefnanda alfarið á bókfærðu virði fasteigna stefnda samanborið við veðskuldir. Í fyrirtöku sýslumanns var því mótmælt að tækt væri að miða við bókfært virði umræddra fasteigna enda augljóst að markaðsvirði þeirra væri töluvert hærra. Það var niðurstaða sýslumanns að miða bæri við bókfært verð fasteigna gerðarþola samkvæmt ársreikningi gerðarþola fyrir árið 2016, enda bæri ársreikningi félagsins að gefa sem réttasta mynd af fjárhagslegri stöðu félagsins samkvæmt lögum.             Niðurstaða sýslumanns byggði á bókfærðu virði fasteigna stefnda skv. ársreikningum hans og fullyrðingum stefnanda um ætlaða erfiðleika við hugsanlegar innheimtur á kröfum sem allskostar óvíst er að séu raunverulega til staðar. Stefndi veki jafnframt athygli á því að sýslumaður hafi komist að framangreindri niðurstöðu  þó framlögð gögn málsins hafi borið með sér að stefndi væri stöndugt fyrirtæki með yfir einn milljarð í eigin fé. Þá sé engan rökstuðning að finna í endurriti úr gerðabók fyrir því að sýslumaður hafi látið hjá líða að krefja stefnanda um tryggingu fyrir kyrrsetningarbeiðninni samkvæmt 8. og 16. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Stefnda hafi ekki gefist tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri hvað þetta varðar og gera kröfu um að trygging yrði lögð fram.             Loks sé vakin athygli á því að gerð var kyrrsetning í tveimur fasteignum í persónulegri eigu fyrirsvarsmanns stefnda, Skúla Gunnars.             Endurupptöku hafi verið krafist af hálfu stefnda með endurupptökubeiðni, dags. 26. september 2017. Samhliða beiðni stefnda um endurupptöku hafi af hans hálfu verið óskað eftir því við sýslumannsembættið að þeim fulltrúa sýslumanns sem afgreiddi kyrrsetningabeiðni stefnanda yrði ekki falin endurupptökubeiðnin til meðferðar.                  Beiðni stefnda um endurupptöku var hafnað af hálfu Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu með bréfi, dags. 6. október 2017.             Varðandi kröfu um að hafnað verði staðfestingu kyrrsetningargerðar K-41/2017 þar sem kyrrsettar voru annars vegar fasteignirnar Eyrarvegur 2, Selfossi, og Egilsstaðir, Ölfusi, í eigu stefnda og hins vegar fasteignirnar Selbraut 86, Seltjarnarnesi og Ósgerði, Ölfusi, báðar í eigu Skúla Gunnars, eiganda og forsvarsmanns stefnda: Með stefnu útgefinni 20. júlí 2017 höfðaði stefnandi mál til staðfestingar kyrrsetningunni á hendur stefnda einum. Hins vegar höfðaði stefnandi ekki mál á hendur Skúla Gunnari til staðfestingar kyrrsetningu þeirra tveggja eigna sem eru í hans eigu. Þar sem Skúla Gunnari hafi með kyrrsetningargerðinni verið gert að þola eignarréttarleg höft á umræddum tveimur eignum sínum byggi stefndi á því að stefnanda hafi verið nauðsynlegt að höfða dómsmál gegn honum til þess að fá staðfestingu dómstóls á þessari bráðabirgðagerð í eignum hans.              Stefndi byggi á því að ekki sé nægilegt að mál hafi einungis verið höfðað á hendur stefnda, enda hafi það félag engar heimildir að lögum yfir umræddum eignum Skúla Gunnars og geti því ekki svarað til sakar um staðfestingu kyrrsetningar í þeim. Þá muni dómur á hendur stefnda ekki binda eiganda fasteignanna, Skúla Gunnar, og sé því þýðingarlaus í þessu máli.             Þar sem stefnu til staðfestingar á kyrrsetningargerðinni hafi ekki verið beint að Skúla Gunnari teljist staðfestingarmál ekki hafa verið höfðað innan frests skv. 36. gr. kyrrsetningarlaga. Kyrrsetningargerðin hafi því fallið sjálfkrafa úr gildi skv. 39. gr. kyrrsetningarlaga og beri því að aflétta kyrrsetningunni af fasteignunum Selbraut 86, Seltjarnarnesi, og Ósgerði, Ölfusi.             Með vísan til framangreinds krefjist stefndi sýknu vegna aðildarskorts er varði dómkröfu stefnanda er snúi að fasteignunum að Selbraut 86, Seltjarnarnesi, og Ósgerði, Ölfusi.             Verði af einhverjum ástæðum ekki fallist á framangreinda kröfu stefnda um sýknu vegna fasteignanna að Selbraut 86, Seltjarnarnesi, og Ósgerði, Ölfusi, þá byggi stefndi á þeim rökum sem hér fara á eftir sýknukröfu sinni til stuðnings er varðar allar hinar kyrrsettu eignir.             Stefndi byggi á því að tjón hafi hvorki verið yfirvofandi né geti nú talist á nokkurn hátt vera yfirvofandi. Þá telji stefndi að gerðin hafi ekki verið framkvæmd réttilega. Stefndi telji verulega hafa á það skort að sýslumaður mæti fjárhagsstöðu stefnda heildstætt. Af hálfu stefnanda sé það með öllu ósannað að tilefni sé til að ætla að stefndi muni ekki verða fær um að standa við skuldbindingar sínar gagnvart stefnanda verði fallist á efnisinntak dómkrafna 1 og 2 í stefnu. Stefnandi hafi engan reka gert að því að sanna raunverulega fjárhagsstöðu stefnanda heldur látið sér nægja að vísa til upplýsinga um bókfært virði umræddra fasteigna en ekki gangvirði. Beinlínis sé gert ráð fyrir því í lögum um ársreikninga að varanlegir rekstrarfjármunir skuli afskrifaðir árlega á kerfisbundinn hátt á áætluðum nýtingartíma þeirra, sbr. 23. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga. Endurmat á fasteignum í eigu stefnda hafi aðeins farið fram einu sinni, þ.e. í árslok 2011. Í það skiptið hafi aðeins ein fasteign verið endurmetin, þ.e. Þingholtsstræti 2–4. Aðrar fasteignir hafi ekki verið endurmetnar í ársreikningum félagsins. Vísi stefndi hér til ársreikninga félagsins frá árinu 2010 til síðasta árs þar sem má ráða megi hvernig staðið hafi verið að hækkun afskriftarstofns við endurmatshækkun og árlegum afskriftum eftir það. Sú regla sem endurskoðendur félagsins hafa beitt undanfarin ár sé að fyrna eignirnar um 1% sem hafi þótt hæfilegt að teknu tilliti til þróunar fasteignaverðs almennt á Íslandi. Þessi reikniaðferð sé í fullu samræmi við lög um ársreikninga en endurspegli ekki markaðsverð og þróun þess.             Til hliðsjónar sé vísað til þess sem fram komi í ársreikningum stefnda um metið gangvirði fasteigna félagsins að mati stjórnenda. Gangvirði fasteigna félagsins hafi í lok árs 2015 verið talið 3.488,3 m.kr. en í lok árs 2016 3.380,6 m.kr. Til hliðsjónar komi fram í ársreikningi fyrir rekstrarárið 2016 að vátryggingarverðmæti fastafjármuna sé 3.411,2 m.kr.             Þá vísi stefndi til áætlaðs virðis tiltekinna fasteigna sem Landsbankinn hafði til hliðsjónar við ákvörðun sína um lánveitingu en þar var áætlað virði umræddra fasteigna samtals 2.925.000 kr.             Til viðbótar hafi stefndi aflað verðmats vegna tiltekinnafasteigna.             Í forsendum matsins segi að miðað hafi verið við opinberar tölulegar upplýsingar um framangreindar eignir. Miðað hafi verið við raunverð, þ.e. áætlað söluverð, og tekið tillit til stærðar, gerðar, ástands, staðsetningar, leigutekna, eðlilegrar ávöxtunarkröfu og markaðsaðstæðna. Á grundvelli framangreinds var markaðsverð metið 3.070. m.kr. Eins og ráða megi af veðbókarvottorðum  eignanna séu áhvílandi veðskuldir innan við 2.000 m.kr., fyrir utan kyrrsetningargerð þá sem hér sé um deilt, sbr. og skuldayfirlit Landsbankans, dags. 7. nóvember 2017.             Til viðbótar við framangreint skal því haldið til haga að í eignasafni stefnda eru jafnframt eftirfarandi fasteignir sem ekki hefur verið tekið tillit til í fyrirliggjandi verðmati né áætluðu verðmati hjá Landsbankanum:         Eins og sjá megi í töflunni hér fyrir ofan sé umtalsvert virði í þeim fasteignum sem séu í eigu stefnda en standi utan þeirra eigna sem Landsbankinn hafi tekið tillit til og stóðu jafnframt fyrir utan það verðmat sem stefndi lét vinna fyrir sig.         Með vísan til alls framangreinds telji stefndi öll gögn málsins bera með sér að virði fasteigna stefnda hafi hækkað svo verulega á undanförnum árum að veðrými hafi í engu verið raskað með endurfjármögnun stefnda hjá Landsbankanum. Sama hvernig á það sé litið þá standist sú staðhæfing stefnanda enga skoðun að eignastaða stefnda gefi tilefni til að ætla að fullnusta þeirra krafna sem stefnandi telji sig eiga verði verulega örðug ef ekki kemur til kyrrsetningar. Gildi hér einu hvort horft sé til þróunar undanfarna mánuði eða staðan metin þann dag sem greinargerð þessi sé skrifuð. Stefndi eigi einfaldlega eignir á móti öllum skuldum sínum, bæði skuldum sem liggi fyrir og eins ætluðum og óstaðfestum kröfum. Virði eignanna sé raunar svo langt umfram þær ætluðu heildarskuldir að það verði að teljast augljóst að ekki nokkur ástæða sé til þess að kyrrsetja eignir stefnda. Telji stefndi einsýnt að skilyrðum 5. gr. kyrrsetningarlaga sé ekki fullnægt. Stefnandi hafi ekki á nokkurn hátt leitast við að sanna fullyrðingar sínar um bága stöðu stefnda og minnkandi líkur á fullnustu krafna stefnanda. Einhliða útreikningar byggðir á bókfærðu virði geti sýnilega ekki talist til haldbærrar sönnunar fyrir raunverulegri stöðu stefnda og hættu á raunverulegu tjóni stefnanda. Stefnandi beri hallann af þessum sönnunarskorti.          Í endurriti úr gerðabók segi að af hálfu sýslumanns hafi ekki verið gerð krafa um tryggingu, sbr. 8. gr., sbr. 16. gr., kyrrsetningarlaga. Þessi afstaða hafi ekki verið rökstudd þó að meginreglan sé að krefjast skuli tryggingar úr hendi gerðarbeiðanda. Stefndi telji að óheimilt hafi verið að láta kyrrsetningargerðina fara fram án tryggingar úr hendi gerðarbeiðanda. Þannig segi í 3. mgr. 8. gr. að sýslumanni sé rétt að setja það skilyrði fyrir aðgerðum við kyrrsetningargerð að gerðarbeiðandi setji tiltekna tryggingu til bráðabirgða [...] nema líklegt sé þá þegar að tryggingar verði ekki þörf vegna fyrirmæla 3. mgr. 16. gr. Enginn fyrstu fjögurra töluliða ákvæðisins eigi við og hljóti niðurstaða sýslumanns því að hafa ráðist af 5. tl. Að mati stefnda sé sú niðurstaða ótæk að telja kröfu stefnanda og réttmæti gerðarinnar af þeim sökum tvímælalaust í ljósi atvika, sbr. ákvæði 5. tl. 3. mgr. 16. gr. kyrrsetningarlaga. Krafa stefnanda styðjist við riftun á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefndi haldi uppi vörnum í málunum, sem rekin séu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, og fari því fjarri að fullyrða megi að réttmæti kröfu stefnanda sé tvímælalaust. Stefnandi hafi einungis lagt fram stefnur málanna og sé ljóst að af lestri stefnanna einna hafi sýslumaður ekki getað lagt heildstætt mat á réttmæti krafna stefnanda. Undir rekstri málsins hafi verið aflað mats dómkvadds matsmanns. Um sé að ræða flókið lögfræðilegt úrlausnarefni og því útilokað að fulltrúi sýslumanns hafi getað litið svo á að réttmæti kröfu stefnanda væri tvímælalaust. Því sé engri lagaheimild skv. 3. mgr. 16. gr. kyrrsetningarlaga til að dreifa til að undanþiggja stefnanda því að setja fram tryggingu.         Rétt sé að líta til 5. mgr. 16. gr. kyrrsetningarlaga þar sem m.a. segir að við ákvörðun um fjárhæð tryggingar skuli sýslumaður einkum hafa hliðsjón af því að hverju marki kyrrsetning kunni að hefta athafnir gerðarþola honum til tjóns, hvort líklegt megi telja að gerðin eða beiðnin um hana spilli lánstrausti hans eða viðskiptahagsmunum og hvort hann hafi haft uppi athugasemdir um réttmæti kröfu gerðarbeiðanda og gerðarinnar. Hinar kyrrsettu eignir stefnda séu fasteignir í rekstri og rýri kyrrsetningargerðin því notagildi þeirra óhjákvæmilega. Eignirnar séu enn fremur háðar ýmsum kvöðum vegna fjármögnunarsamninga er um þær hafa verið gerðir og valdi gerðin stefnda því mikilli fjártjónshættu. Þannig sé m.a. í skilmálum tiltekinna lánssamninga stefnda kveðið á um heimild lánveitanda til að fella lán í gjalddaga séu eignir lántaka, móður- eða dótturfyrirtækis hans eða ábyrgðarmanns kyrrsettar. Telji stefndi því að kyrrsetningargerðin hafi spillt lánstrausti sínu og viðskiptahagsmunum, auk þess sem hagnýtingarmöguleikar hans á eignum sínum hafi verið heftir, honum til tjóns.         Við mat á tjónshættu stefnda af kyrrsetningargerðinni og því hvort gera eigi stefnanda að setja tryggingu verði ekki horft fram hjá því að stefnandi sé þrotabú. Verði kröfur stefnanda ekki staðfestar fyrir dómi og hljótist tjón af fyrir stefnda muni stefndi einungis öðlast skaðabótakröfu sem njóta muni rétthæðar sem búskrafa á hendur stefnanda sem þrotabúi samkvæmt 3. mgr. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Réttarvernd kröfunnar muni því alfarið ráðast af því hvort nægar eignir verði til staðar í þrotabúi stefnanda til að fullnusta kröfu stefnda, nema stefnanda verði gert að setja tryggingu fyrir hugsanlegri skaðabótakröfu stefnda. Hagsmunir stefnda verði ekki tryggðir nema með því að stefnanda verði gert að setja fullnægjandi tryggingu í samræmi við fyrirmæli 1. mgr., sbr. 2. mgr., 16. gr. kyrrsetningarlaga. Ákvörðun sýslumanns um að gera ekki kröfu um tryggingu úr hendi stefnanda hafi í engu verið rökstudd í endurriti fyrir kyrrsetningargerðinni.             Í ljósi þess sem greini að framan telji stefndi rétt að gerðarbeiðanda verði gert að leggja fram tryggingu í samræmi við fyrrnefnd ákvæði kyrrsetningarlaga. Við ákvörðun fjárhæðar vænti stefndi þess að tekið verði tillit til þeirra atriða sem tilgreind séu í 5. mgr. 16. gr. kyrrsetningarlaga, þ.á m. hugsanlegs kostnaðar stefnda af rekstri dómsmáls vegna gerðarinnar og framkvæmd hennar.             Stefndi byggi kröfur sínar á lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., þá einkum 131., 134. og 141. gr. laganna; lögum nr. 3/2006 um ársreikninga; lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu; XIV. kafla laga um einkahlutafélög nr. 138/1994; XIV. kafla laga um hlutafélög nr. 2/1995; og II. kafla nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.             Krafa um málskostnað byggi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.   V. Niðurstaða Í máli þessu krefst stefnandi, sem er þrotabú, riftunar tiltekinna ráðstafana og staðfestingar á kyrrsetningu sem gerð var til að tryggja greiðslu þeirra krafna sem hafðar eru uppi í málinu. Að baki ágreiningi aðila eru flókin viðskipti sem fóru að mestu leyti fram á milli tengdra aðila. Kjarni ágreinings málsins felst hins vegar í ráðstöfun, sölu og greiðslu kaupsverðs fasteignarinnar Skútuvogs 3 í Reykjavík.             Aðalkrafa stefnanda felur í sér riftun á kaupsamningi um framangreinda fasteign, sem stefnandi, sem þá var hlutafélag og hét Eggert Kristjánsson hf., seldi stefnda með kaupsamningi dagsettum 29. desember 2013. Kaupverð samkvæmt samningnum var 475 milljónir króna sem greiða skyldi í einu lagi í reiðufé þann 1. júlí 2014, þegar afsal skyldi gefið út, gegn því að stefndi aflétti áhvílandi veðum. Í kaupsamningnum var fyrirvari þess efnis að rifta mætti kaupunum ef fyrirhuguð sala á öllu hlutafé seljanda til Leitis eignarhaldsfélags og tveggja annarra aðila, gengi ekki eftir. Eignarhald stefnda og Leitis eignarhaldsfélags er á hendi sama aðila, Skúla Gunnars Sigfússonar. Fyrir liggur að þau hlutafjárkaup gengu eftir með samningi 1. janúar 2014 og jafnframt að veðskuldum var aflétt af eigninni. Þá var jafnframt ákvæði í kaupsamningnum þess efnis að fyrir afhendingu fasteignarinnar til stefnda skyldu seljandi og kaupandi gera samning um langtímaleigu seljanda á eigninni. Það gekk eftir. Jafnframt er sannað og um leið óumdeilt, svo sem síðar verður rakið, að hluti umsamins kaupverðs var ekki greiddur.             Stefndi byggir varnir sínar í málinu m.a. á því að umræddur kaupsamningur sé málamyndagerningur. Stefndi ber sönnunarbyrði fyrir þessari staðhæfingu og hefur ekki axlað hana. Í þessu efni ber að líta til þess að samningurinn var undirritaður og honum þinglýst og settur í hann ákveðinn fyrirvari, sem gekk eftir. Gunnar Aðalsteinsson, einn forsvarsmanna seljanda eignarinnar, Eggerts Kristjánssonar hf., bar fyrir dómi að samningi þessum hefði verið ætlað að gilda samkvæmt efni sínu. Þá var gefið út afsal fyrir eigninni þann 3. september 2015 þar sem fram kemur að afsalið sé gefið út á grundvelli kaupsamnings þessa. Þá ákváðu Faxaflóahafnir að neyta ekki forkaupsréttar á grundvelli þessa kaupsamnings, svo sem fram kemur í bréfi frá þeim dagsettu 30. desember 2014. Allt framangreint veitir sterka vísbendingu um að samningurinn hafi ekki verið málamyndagerningur hvað sem líður öðrum síðar gerðum gerningum aðila, sem eftir 1. janúar 2014 voru tengdir aðilar í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar. Með vísan til framangreinds er þessari málsástæður því hafnað.             Eitt skilyrða riftunar samkvæmt 141. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 er sú að skuldari hafi verið ógjaldfær þegar ráðstöfunin var gerð eða orðið það vegna hennar. Sönnunarbyrðin um það atriði hvílir á stefnanda. Söluverð fasteignarinnar, 475 milljónir króna, var hærra en bókfært verð eignarinnar þann 30. september 2013, sem var þá liðlega 437 milljónir króna. Miða verður við bókfært verð á nefndum degi þar sem fasteignina er ekki að finna í ársreikningi félagsins fyrir árið 2014 eða í samanburðartölum fyrir árið á undan. Miðað við efni kaupsamningsins hefði því orðið bókhaldslegur söluhagnaður af þessum viðskiptum sem leitt hefði til bættrar eiginfjárstöðu félagsins um 38 milljónir króna, án skattaáhrifa. Ef kaupverð hefði allt verið greitt til stefnanda, að frádregnum þeim lánum er hvíldu á fasteigninni, hefði fjárhagsstaða hans því batnað. Þá eru engar vísbendingar eða gögn sem styðja það að stefnandi hafi orðið verr settur til að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem þær féllu í gjalddaga vegna umdeildrar sölu, enda verður að leggja til grundvallar við mat á gjaldfærni stefnanda að samningurinn hefði verið efndur. Þvert á móti, með vísan til bættrar eiginfjárstöðu og bættrar lausafjárstöðu vegna sölu eignarinnar, hefði stefnandi verið betur í stakk búinn til að standa við skuldbindingar sínar. Þá liggur jafnframt fyrir að Leiti eignarhaldsfélag, sem eignaðist meirihluta  hlutafjár í stefnda 1. janúar 2014, hafði greiðslugetu og vilja til að varna því að stefnandi kæmist í greiðsluþrot í kjölfar fasteignaviðskiptanna. Sést það m.a. af því að ekki var gengið eftir leigugreiðslum félagsins vegna leigu á fasteigninni og skuld sem þannig myndaðist var síðar breytt í hlutafé. Liggja því engin gögn fyrir um að stefnandi hafi lent í vanskilum né að slík vanskil megi rekja til sölunnar. Niðurstaða dómsins er því sú að stefnandi hafi ekki verið ógjaldfær þegar kaupsamningur var gerður né orðið það vegna samningsins. Þegar af þessari ástæðu eru skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 fyrir riftun sölu fasteignarinnar með kaupsamningi 29. desember 2013 ekki fyrir hendi. Verður aðalkröfu stefnanda því hafnað.             Varakrafa lýtur að riftun ráðstöfunar fasteignarinnar með skiptasamningi sem gerður 30. mars 2014 og samþykktur hluthafafundum félaganna í september sama ár. Svo sem rakið hefur verið lítur dómurinn svo á að kaupsamningurinn frá 29. desember 2013 sé gildur samningur um sölu eignarinnar. Síðar gerð skiptingaráætlun haggar ekki skuldbindingargildi hins þinglýsta kaupsamnings. Af því leiðir að hafna ber varakröfu stefnanda.             Með þrautavarakröfu sinni krefur stefnandi stefnda um greiðslu eftirstöðva kaupverðs fasteignarinnar. Stefnandi fékk Vilhjálm G. Vilhjálmsson, löggiltan endurskoðanda, til að staðreyna hve mikið af kaupverði fasteignarinnar hefði verið greitt af stefnda. Eins og rakið er í skýrslu hans, dagsettri 15. nóvember 2017, sem liggur fyrir í málinu, var aflétt af eigninni lánum samtals að fjárhæð liðlega 303 milljónir króna. Þá endurgreiddi stefnandi til stefnda rúmlega 51 milljón króna. Að teknu tilliti til þessa er niðurstaða hans sú að samtals hafi 252.129.607 krónur borist stefnanda sem endurgjald fyrir fasteignina. Af málflutningi aðila fyrir dómi og gögnum málsins verður ekki önnur ályktun dregin en þessar fjárhæðir séu óumdeildar. Dómurinn fellst ekki á þá málsástæðu stefnda að líta eigi til annarra greiðslna sem stefndi kann að hafa lagt félaginu til þar sem ósannað er að þessar greiðslur hafi verið inntar af hendi til greiðslu eftirstöðva kaupverðs.             Með hliðsjón af framangreindu fellst dómurinn á þrautavarakörfu stefnanda og verður stefnda því gert að greiða honum 222.870.373 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá gjalddaga 1. júlí 2014 til greiðsludags.             Auk framangreinds gerir stefnandi kröfu um að rift verði með dómi greiðslu stefnanda til stefnda að fjárhæð 21.316.582 kr. sem fór fram þann 15. mars 2016 með þeim hætti að millifært var af bókarlausum reikningi nr. 105502 í eigu stefnanda inn á reikning í eigu stefnda, og loks að stefnda verði gert að greiða stefnanda 21.316.582 kr. auk vaxta eins og nánar greinir í stefnu.             Að framan hefur verið rakinn aðdragandi að húsaleiguábyrgð Íslandsbanka á skuldbindingum stefnanda skv. leigusamningi, dagsettum 21. júlí 2015, en í framhaldi af sölu stefnda á Skútuvogi 3 til Reita I ehf. yfirtóku Reitir I ehf. leigusamning stefnda við stefnanda. Yfirlýsing bankans var gefin út sama dag og kaupsamningurinn var undirritaður. Bankinn samþykkti ábyrgðina sem í yfirlýsingu bankans var ákveðin 20.843.316 kr. gegn handveði í samsvarandi upphæð á bókarlausum reikningi nr.1205502 eða „bundin bók vegna leigu“ eins og reikningurinn er kallaður í bókum stefnanda. Inn á reikninginn var lögð 21.000.000 kr. sama dag og leiguábyrgðin var gefin út og kom greiðslan af tékkareikningi stefnda nr. 5154-26-676. Við innlögnina ritaði Gunnar Thoroddsen, þáverandi stjórnarmaður stefnanda, undir handveðsyfirlýsingu á bókarlausa reikningnum nr. 105502. Þar var um allsherjarveð að ræða í öllum skuldum og öðrum fjárskuldbindingum stefnanda í bankanum.             Þessir fjármunir voru ekki greiddir inn á reikning í eigu stefnda eða með nokkrum hætti sérgreindir í bókum stefnanda sem eign stefnda. Þeir voru greiddir inn á bókarlausan reikning í eigu stefnanda án sérstakrar afmörkunar eða fyrirvara. Í málinu liggur fyrir lánssamningur milli stefnda og stefnanda, dagsettur 1. október 2015, eða sama dag og leiguábyrgðin var undirrituð. Við aðalmeðferð komu fram misvísandi yfirlýsingar um það hvenær lánssamningurinn var undirritaður og nokkuð ljóst er að hann var undirritaður síðar en dagsetning samningsins segir til um.             Það var síðan 11. mars 2016 að gengið var frá samkomulagi um leigulok milli stefnanda og Reita I ehf. Í samkomulaginu kom fram að bankaábyrgð stefnanda til tryggingar leigugreiðslum félli niður um leið og Parlogis ehf., sem var nýr leigutaki, afhenti nýja bankaábyrgð fyrir leiguskuldbindingum sínum. Reitir I féllu síðan frá því að ganga að leiguábyrgð Íslandsbanka, þó að til staðar væru vanskil stefnanda á leigu. Þann 14. mars fékk Íslandsbanki síðan fyrirmæli frá Guðmundi Hjaltasyni, framkvæmdastjóra stefnda, um að millifæra inneign á reikningi 105502 yfir á reikning stefnda nr. 111-26-736. Þennan sama dag staðfesti Skúli Gunnar samkvæmt beiðni í tölvupósti til lánastjóra hjá útibúi Íslandsbanka á Kirkjusandi að millifærslan ætti að eiga sér stað. Morguninn eftir var millifærslan að fjárhæð 21.316.582 kr. lögð inn á reikning stefnda og reikningur 105502 eyðilagður.             Riftunarkrafa stefnanda byggir aðallega á 134. gr., sbr. 2. mgr., en til vara 141. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 134. gr. má krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega, nema greiðslan hafi verið venjuleg eftir atvikum. Þá segir að krefjast megi riftunar slíkrar greiðslu til nákominna sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag nema í ljós sé leitt að þrotamaður hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir greiðsluna.             Bú stefnda var tekið til gjaldþrotaskipta 7. september 2016, frestdagur var 9. maí 2016. Lýstar kröfur nema um 260 m.kr. Telja verður að á þeim tíma sem millifærslan átti sér stað hafi stefnandi ekki getað staðið við skuldbindingar sínar, og ráðstöfun fjármuna af bók stefnanda inn á reikning stefnda leiddi til þess að fjármunir þessir voru ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum stefnanda. Þá verður að telja að stefndi hafi vitað eða mátt vita að stefnandi væri ógjaldfær enda honum nákominn. Telja verður að bæði Skúli Gunnar og Guðmundur, sem óskaði eftir millifærslunni og tók við henni, hafi á þeim tíma verið meðvitaðir um ógjaldfærni stefnda. Skúli Gunnar hafði ráðið Friðrik Friðriksson ráðgjafa til að leysa upp eignir og semja við lánardrottna ásamt framangreindum Guðmundi. Í skýrslu Friðriks hjá skiptastjóra, þann 21. september 2016, sem hann staðfesti við aðalmeðferð, kom fram að stefnandi hefði verið tæknilega gjaldþrota í janúar 2016. Þá kom fram í skýrslu Guðmundar hjá skiptastjóra þann 9. september 2016, sem hann staðfesti við aðalmeðferð, að í mars 2016 hafi honum verið orðið ljóst að staða stefnanda væri þannig að „þetta var búið spil, ekki yrði hægt að snúa við rekstri eða selja félagið“. Telja verður, vegna stöðu Skúla Gunnars hjá báðum félögum og stöðu Guðmundar hjá stefnda, að þeim hafi verið ljós ógjaldfærni stefnanda er umrædd millifærsla var framkvæmd. Þá verður talið að umrætt fé hafi ekki verið verðmæti í vörslum stefnanda sem orðið hefði að kröfu utan skuldaraðar. Má því slá því föstu að um sé að ræða greiðslu skuldar til félags nákomins skuldara, sem riftanleg er á grundvelli 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Verður krafa þar að lútandi því tekin til greina. Að fenginni þessari niðurstöðu ber að fallast á að stefnda beri að endurgreiða stefnanda þá fjárhæð.             Í málinu krefst stefnandi jafnframt staðfestingar á kyrrsetningu, sem gerð var af Sýslumanninum í Reykjavík miðvikudaginn 19. júlí 2017 í fasteignum stefnda að Eyrarvegi 2 á Selfossi, fnr. 227 0582, og Egilsstöðum í Ölfusi, lnr. 171697 og fnr. 231 4805, og eignum fyrirsvarsmanns stefnda, sem bent var á til kyrrsetningar, Selbraut 86 á Seltjarnarnesi, fnr. 206 8165, og Ósgerði í Ölfusi, fnr. 171790, sbr. kyrrsetningargerð nr. K-41/2017.             Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. má kyrrsetja eignir skuldara til tryggingar fullnustu lögvarinnar kröfu um greiðslu peninga ef henni verður ekki þegar fullnægt með aðför og sennilegt má telja, ef kyrrsetning fer ekki fram, að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta hennar takist eða að fullnusta verði verulega örðugri. Ekki er það skilyrði kyrrsetningar að gerðarbeiðandi leiði sönnur að réttmæti kröfu sinnar, en synja skal um kyrrsetningu ef ætla verður af fyrirliggjandi gögnum að hann eigi ekki þau réttindi sem hann hyggst tryggja.             Með réttarstefnu, útgefinni 20. júlí 2017, höfðaði stefnandi á hendur stefnda mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Í þinghaldi þann 25. janúar voru sameinuð þessu máli mál nr. E-374/2017 og E-1101/2017, sem eru milli sömu aðila. Mál þetta höfðaði stefnandi til riftunar og til innheimtu framangreindra fjárkrafna og krafðist jafnframt staðfestingar á framangreindri kyrrsetningu.             Stefnandi byggir, eins og rakið hefur verið, á því að kröfur sínar séu skýrar og byggi á framangreindum fjárkröfum, sbr. dómkröfur í stefnu, og að uppfyllt séu skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann fyrir kyrrsetningunni. Um sé að ræða kröfu um greiðslu peninga og mjög sennilegt að draga myndi verulega úr líkindum á fullnustu hennar eða hún verða verulega örðugri ef beðið yrði dóms um kröfur stefnanda. Því sé nauðsynlegt fyrir hann að tryggja hagsmuni sína með kyrrsetningu á eignum stefnda að því marki sem þær nægja til þess að tryggja kröfur hans.             Varðandi þennan áskilnað þá kom fram við kyrrsetningu að bókfært verð eigna stefnda hafði lækkað frá 2015 til 2016 um 400 m.kr. , úr 2.500 m.kr.  niður í 2.100 m.kr. Þá hafi tryggingar Landsbankans lækkað um u.þ.b. 115 m.kr. að bókfærðu verði við það að eftirfarandi eignir voru ekki lengur til tryggingar nýju tryggingarbréfi til Landsbankans, þ.e hitaveituréttindi að Ósgerði, bókfært verð 73.542.303 kr. og Egilsstaðir, Ölfusi, bókfært verð 42.022.709 kr.             Þá lá fyrir að skuldir gagnvart Landsbankanum höfðu hækkað úr 1.300 m.kr. í 1.800 m.kr., þó með uppgreiðslu lána til Íslandsbanka og Kviku að fjárhæð 145 m.kr. Veðsetning þessa tryggingarbréfs Landsbankans væri á þessum tíma 91% miðað við bókfært verð fasteigna stefnda. Þá hafi öruggum krossveðum til handa Landsbankanum að fjárhæð um 300 m.kr. verið aflétt af eignum fyrirsvarsmanns stefnda og tengdra aðila.            Þá kom fram í niðurstöðum sýslumanns að engu veðrými væri til að dreifa á eignum stefnda gagnvart kröfuhöfum nema á Eyrarvegi 2 á Selfossi, og Egilsstöðum í Ölfusi. Þá kom fram að staðan hefði versnað fyrir Landsbankann um 325 m.kr. og því til viðbótar hefðu eignir stefnda verið teknar út sem veðandlag fyrir Landsbankann að fjárhæð 115 m.kr.             Dómurinn fellst á að rétt hafi verið að miða við bókfært verð fasteigna samkvæmt ársreikningi stefnda fyrir árið 2016, enda beri ársreikningi félags skv. lögum að gefa glögga mynd af afkomu, efnahag og breytingu á handbæru fé, sbr. 5. gr. laga nr. 3/2006, og þar af leiðandi fjárhagslegri stöðu félags. Því voru skilyrði 5. gr. kyrrsetningarlaga uppfyllt á þeim tíma þegar kyrrsetningin fór fram. Fallist er á það með sýslumanni að kyrrsetningarbeiðni og fylgigögn sýni fram á að fjárhagsstaða gerðarþola, stefnda í máli þessu, hafi farið versnandi og hafi hann því stefnt hagsmunum gerðarbeiðanda í hættu og dregið úr líkindum þess að fullnusta takist síðar eða valdið því að hún verði verulega örðugri. Þá hafi gerðarbeiðandi sýnt nægilega fram á réttmæti kröfunnar. Samkvæmt því sem rakið hefur verið hefur stefndi ekki fært fram haldbær rök fyrir því að hafna beri staðfestingu kyrrsetningarinnar og er kröfu hans því hafnað.            Í þinghaldi þann 5. september sl. voru lögð fram ný gögn þar sem fram kemur að fjórum dögum eftir að lögð var fram greinargerð stefnda í máli þessu, eða þann 13. nóvember 2017, hafði verið samþykkt skiptingaráætlun milli stefnda Sjöstjörnunnar ehf., Staðarfjalls ehf. og Pabýlisfjalls ehf., allra í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar. Viðmiðunardagsetning skiptingaráætlunarinnar og hinna nýju systurfélaga var 1. júlí 2017, eða 18 dögum fyrir kyrrsetningar stefnanda í eigum stefnda. Með skiptingunni var stefnda skipt upp í þrjú félög á grundvelli XIV. kafla laga nr. 138/1994 þannig að einkahlutafélögin tvö tækju yfir þær eignir stefnda sem tilgreindar voru á fylgiskjali með skiptingaráætluninni. Skiptin leiddu til þess að hlutafé stefnda, sem var fyrir skiptinguna 3.341.573 kr., varð eftir hana 500.000 kr. Þá hefur verið lagður fram í málinu skiptingarefnahagsreikningur sem stefndi lagði fram hjá RSK en þar kemur fram að eignir lækka úr tæplega þremur milljörðum í 893.171 krónu. Fasteignir stefnda eru engar skv. skiptingaráætluninni.             Samkvæmt því sem rakið hefur verið er það mat dómsins að skilyrði 5. gr. kyrrsetningarlaga séu uppfyllt og því er fallist á kröfu stefnanda um staðfestingu kyrrsetningargerðarinnar eins og nánar greinir í dómsorði.             Dómurinn fellst ekki á að borið hafi að stefna Skúla Gunnari ásamt stefnda þar sem Skúli Gunnar sé gerðarþoli varðandi kyrrsettar eignir í hans eigu. Fyrirsvarsmaður gerðarþola benti, eftir áskorun,á umræddar persónulegar eignir Skúla Gunnars og ábyrgðist að samþykki væri fyrir þessari ábendingu vegna krafna á hendur stefnda. Stefndi er því með réttu gerðarþoli en ekki Skúli Gunnar.             Í ljósi framangreindrar niðurstöðu verður ekki fjallað nánar um varakröfu stefnda þar sem hann hefur ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn ágreinings um framlagningu tryggingar úr hendi stefnanda þegar kyrrsetning fór fram.             Að fenginni framangreindri niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála málskostnað eins og nánar er kveðið á um í dómsorði.             Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn ásamt Ingibjörgu Þorsteinsdóttur héraðsdómara og sérfróðum meðdómanda Einari Guðbjartssyni, dósent við viðskiptadeild HÍ.   D ó m s o r ð : Stefndi, Sjöstjarnan ehf., greiði stefnanda, þb. EK1923 ehf., 222.870.393 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 5. gr. sömu laga, frá 1. júlí 2014 til greiðsludags.             Þá er staðfest riftun greiðslu stefnanda til stefnda að fjárhæð 21.316.582 krónur sem fór fram þann 15. mars 2016 með þeim hætti að millifært var af bókarlausum reikningi nr. 105502 í eigu stefnanda inn á reikning í eigu stefnda.             Stefndi greiði stefnanda 21.316.582 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. mars 2016 til 23. desember 2016 en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.           Staðfest er kyrrsetning sem gerð var hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu miðvikudaginn 19. júlí 2017 í fasteignum stefnda og, Eyrarvegi 2 á Selfossi, fnr. 227 0582 og Egilsstöðum í Ölfusi, lnr. 171697 og fnr. 231 4805 og eignum fyrirsvarsmanns stefnda, Selbraut 86, Seltjarnarnesi, fnr. 206 8165, og Ósgerði, Ölfusi, fnr. 171790, sem bent var á til kyrrsetningar, sbr. kyrrsetningargerð nr. K-41/2017.            Stefndi greiða stefnanda 2.500.000 krónur í málskostnað.  
Mál nr. 16/2020
Börn Kynferðisbrot Sönnun Ómerking Heimvísun Stjórnarskrá Sannleiksregla Fíkniefnalagabrot Nauðgun
X var ákærður fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn dóttur þáverandi sambýliskonu sinnar, sbr. 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft í vörslum sínum í síma 85 ljósmyndir og eina hreyfimynd sem sýndu börn á kynferðislegan hátt, sbr. 1. mgr. 210. gr. a. laga nr. 19/1940. Loks var X ákærður fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 1,44 g af kókaíni, sbr. 2. gr., sbr. 5. og 6. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Með héraðsdómi var X sýknaður af því broti sem honum var gefin að sök gegn dóttur þáverandi sambýliskonu sinnar en fundinn sekur um hin brotin. Með dómi Landsréttar var X fundinn sekur um öll brotin sem honum voru gefin að sök. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að svo verulegir annmarkar hefðu verið á aðferð við sönnunarmatið í hinum áfrýjaða dómi að óhjákvæmilegt væri að ómerkja hann og vísa málinu til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon og Ingibjörg Benediktsdóttir og Þorgeir Örlygsson fyrrverandi hæstaréttardómarar. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. apríl 2020 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.   Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af 1. og 2. lið ákæru og að sér verði gerð vægasta refsing sem lög heimila vegna brots samkvæmt 3. lið ákæru. Til vara krefst ákærði þess að refsingin verði milduð. I Með ákæru héraðssaksóknara 29. janúar 2018 voru ákærða gefin að sök kynferðis- og fíkniefnalagabrot í þremur liðum. Í 1. lið ákærunnar var ákærða gefin að sök nauðgun og kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa þriðjudaginn 24. janúar og föstudaginn 17. febrúar 2017 haft önnur kynferðismök við A, fædda [...] 2012, dóttur þáverandi sambýliskonu sinnar, með því að hafa sleikt kynfæri stúlkunnar og stungið fingri í leggöng hennar og/eða endaþarm og þannig beitt hana ofbeldi og nýtt sér yfirburði sína gagnvart stúlkunni og traust hennar og trúnað til hans sem sambýlismanns móður. Var þetta talið varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í 2. lið ákærunnar var ákærða gefið að sök kynferðisbrot, aðallega með því að hafa föstudaginn 10. mars 2017 haft í vörslum sínum í farsíma 85 ljósmyndir og eina hreyfimynd sem sýna börn á kynferðislegan hátt en til vara að hafa á tímabilinu 2. október 2016 til 10. mars 2017 skoðað umræddar myndir og myndskeið í símanum. Var þetta aðallega talið varða við 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga en til vara við 2. mgr. sömu greinar. Loks var ákærða í 3. lið ákærunnar gefið að sök fíkniefnalagabrot með því að hafa föstudaginn 10. mars 2017 haft í vörslum sínum 1,44 g af kókaíni sem lögregla fann við leit. Var það talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur lyfseðilsskyld efni. Við upphaf aðalmeðferðar málsins í héraði var fært til bókar, að ósk ákæruvaldsins, að láðst hefði að tilgreina brotavettvang í 1. lið ákæru, en hann hefði verið heimili barnsins að [...] í Hafnarfirði. Jafnframt féll ákæruvaldið frá aðalkröfu í 2. lið ákæru við meðferð málsins í héraði en hélt sig við varakröfuna. Með héraðsdómi var ákærði sýknaður af því broti sem honum var gefið að sök í 1. lið ákærunnar. Hann var hins vegar fundinn sekur um þau brot sem honum voru gefin að sök í 2. og 3. lið hennar, en hann var sakfelldur fyrir síðarnefnda brotið á grundvelli játningar sinnar. Var refsing ákærða ákveðin 300.000 króna sekt í ríkissjóð, auk þess sem gerð voru upptæk farsími hans og þau fíkniefni sem fundust í vörslum hans. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði fundinn sekur um öll brotin sem honum voru gefin að sök. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 3 ár auk þess sem staðfest var niðurstaða héraðsdóms um eignaupptöku. Að ósk ákærða var veitt áfrýjunarleyfi með vísan til 4. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en þar segir að verða skuli við ósk ákærðs manns, sem sýknaður er af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur í Landsrétti, um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar. Í ákvörðun réttarins um að veita leyfið var tekið fram að líta yrði svo á að úrlausn um þá aðferð sem viðhöfð var í dómi Landsréttar að telja sakfellingu fyrir tiltekinn ákærulið geta haft áhrif við mat á sönnunargildi framburðar vegna annars ákæruliðar gæti haft almenna þýðingu og mikilvægt væri að fá úrlausn Hæstaréttar þar um í skilningi 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. II 1 Rannsókn málsins hófst í kjölfar þess að lögreglu barst bréf barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar 3. mars 2017 þar sem tilkynnt var um ætlað kynferðisbrot ákærða gagnvart fyrrgreindu barni. Þar kom fram að deginum áður hefði móðir barnsins haft samband símleiðis við starfsmann nefndarinnar og tilkynnt að þá um morguninn hefði stúlkan komið upp í rúm til sín og rekið fótinn óvart í klof hennar þar sem móðirin lá nakin. Hefði stúlkan þá spurt hvort hún hefði rekið fótinn í „píkuna á þér“. Móðirin hefði játað því og sagt að hún ætti ekki að vera með fæturna þarna. Því næst hefði stúlkan kropið við hlið móður sinnar og sagt henni að loka augunum. Stúlkan hefði svo tekið niður um sig nærbuxurnar og fært hönd móður sinnar að klofi sínu. Móðir hennar hefði þá dregið höndina til baka og sagt við stúlkuna að þetta ætti ekki að gera. Þá hefði stúlkan sagt: „Ég og X tókum buxurnar niður og nærbuxurnar líka og ég setti puttann á (eða í) rassinn á honum og hann fékk að skoða rassinn á mér.“ Í bréfinu voru síðan rakin samskipti og sambúð móður barnsins með ákærða eftir frásögn hennar, en þau höfðu þá nýlega slitið sambúðinni. Jafnframt sagði að móðir barnsins hefði upplýst að ákærði hefði tvívegis verið einn með barninu og muni það hafa verið í þau skipti sem greini í 1. lið ákæru. Einnig kom fram að samkvæmt upplýsingum frá leikskóla barnsins hefði hegðun hennar breyst svo að eftir var tekið einhvern tímann frá 7. til 14. febrúar 2017, auk þess sem faðir stúlkunnar hefði spurt móðurina hvort hún hefði tekið eftir því að stúlkan væri leið og grátgjarnari en áður. Brotaþoli gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi 13. mars 2017 á grundvelli a-liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008. Stúlkan kannaðist þá ekki við að ákærði hefði gert eitthvað við „einkastaði“ hennar og bætti við að hún myndi segja „stopp“ ef einhver vildi gera það. Hún kvaðst heldur ekki hafa snert óvart „einkastaði“ móður sinnar. Síðar við skýrslutökuna sagði stúlkan þó að ákærði hefði strokið á henni rassinn utan klæða þegar hann var að svæfa hana í rúmi móður hennar. Einu sinni hefði hann þó strokið rassinn á henni innan klæða en þá hefðu þau verið að lesa bók í „kósý-horninu“ undir koju hennar. Spurð um líðan sína þegar þetta gerðist sagði stúlkan að sér hefði liðið vel og að hún hefði greint móður sinni frá þessu. Einnig neitaði hún því að ákærði hefði strokið henni annars staðar. Hjá henni kom hins vegar fram að bæði ákærði og móðir hennar hefðu stundum hjálpað henni að skeina sig.   Móðir stúlkunnar gaf skýrslu hjá lögreglu 15. mars 2017 og greindi frá því að kvöldið áður hefðu mæðgurnar rætt saman upp í rúmi. Talið hefði borist að líðan stúlkunnar eftir að hún gaf skýrslu sína í Barnahúsi 13. sama mánaðar. Móðirin hefði sagt henni að vel gæti verið að hún þyrfti aftur að hitta þá konu í Barnahúsi sem tók skýrsluna af henni. Stúlkan hefði þá sagt að hún vildi það ekki og spurt um ástæðu þess. Því hefði móðirin svarað að konan vildi fá að vita meira um hana og ákærða og hvað þau hefðu verið að gera. Stúlkan hefði þá sagt að hún vildi ekki segja það en eftir nokkrar fortölur hefði hún sagt að ákærði hefði sett puttann í píkuna og rassinn á henni og sleikt hana þar. Brotaþoli gaf aftur skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi 18. apríl 2017 og greindi frá því að hún og ákærði hefðu eitt sinn verið að lita og fara í leiki. Þá hefði ákærði allt í einu sagt henni að leggjast í rúm móður sinnar og síðan hefði hann girt niður um hana bæði buxur og nærbuxur og sleikt á henni píkuna. Nánar spurð sagði stúlkan að ákærði hefði sleikt sig með tungunni auk þess sem hann hefði notað puttann og sett hann „í strikið“. Hjá stúlkunni kom fram að þetta hefði gerst tvisvar en ekki sama dag. Þá sagði hún að sér hefði liðið illa á meðan og þetta hefði hætt þegar hún sagði „stopp“. Einnig greindi hún frá því að ákærði hefði stundum potað með puttanum í rassinn eða rasskinnina á sér. 2 Ákærði var handtekinn 10. mars 2017 og við leit á honum fundust þau fíkniefni sem greinir í 3. lið ákæru. Sama dag var gerð húsleit á heimili ákærða á grundvelli dómsúrskurðar sem gengið hafði fyrr um daginn. Ekkert fannst við þá leit sem skipti máli fyrir rannsókn málsins. Jafnframt var lögreglu með úrskurði 11. mars 2017 heimilað að athuga efni í farsíma ákærða og við þá rannsókn fundust þær myndir sem vísað er til í 2. lið ákæru. Með úrskurði sama dag var ákærða gert að sæta gæsluvarðhaldi til 13. sama mánaðar. Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 10. mars 2017 í kjölfar þess að hann var handtekinn og neitaði sakargiftum. Hjá honum kom fram að í janúar á því ári hefði hann passað stúlkuna í eitt sinn þegar móðir hennar fór á námskeið. Þegar stúlkan fór að sofa hefði hún farið úr nærbuxunum og viljað sofa nakin eins og móðir sín. Ákærði kvaðst ekki hafa gert athugasemdir við það og hefðu þau lagst upp í rúm þar sem ákærði las fyrir hana. Þá hefði stúlkan tekið í hönd hans og fært hana á klof sitt og beðið ákærða um að snerta á sér kynfærin. Einnig hefði hún sagt að sér þætti gott að láta snerta sig þar. Ákærði sagði að hönd sín hefði aðeins snert kynfæri stúlkunnar, en hann hefði tekið höndina til sín og sagt að þetta væri eitthvað sem fullorðnir ættu ekki að gera og hún gæti bara gert þetta sjálf. Ákærði greindi einnig frá tilviki skömmu síðar, eða í febrúar, þegar hann átti að aka stúlkunni í leikskóla eftir að móðir hennar var farin til vinnu. Ákærði kvaðst hafa legið nakinn uppi í rúmi og rumskað við það að stúlkan var með höndina á rassinum á sér að skoða hann. Ákærði kvaðst hafa brugðist við með því að standa upp og klæða sig. Þá hefði stúlkan beðið hann um að skoða á sér rassinn því að hana klæjaði þar. Ákærði sagðist hafa athugað þetta og séð að hún var illa þrifin og því þurrkað henni með blautþurrku. Stúlkan hefði þá aftur sagt að sér þætti þetta gott. Hann hefði síðan ekið henni í leikskólann. Eftir að brotaþoli gaf síðari skýrslu sína í Barnahúsi 18. apríl 2017, þar sem hún bar ákærða alvarlegum sökum, var hann aftur yfirheyrður af lögreglu 26. maí sama ár. Aðspurður um seinni framburð stúlkunnar neitaði ákærði eindregið sök í öllum atriðum og vísaði í fyrri framburð sinn. Ákærði gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins í héraði og fyrir Landsrétti og bar í öllum meginatriðum á sama veg og hann hafði gert hjá lögreglu. 3 Brotaþoli gekkst undir læknisskoðun í Barnahúsi 10. maí 2017. Í læknisvottorði 16. sama mánaðar kemur fram það álit að almenn líkamsskoðun sé eðlileg. Við skoðun á kynfærum stúlkunnar megi hins vegar sjá óeðlilegt útlit á meyjarhafti með skarði að aftanverðu en á því svæði vanti alveg haftið. Skeiðarop að ofanverðu sé um 7 til 8 mm í þvermál og endaþarmssvæði hafi verið eðlilegt við skoðun. Eftir að brotaþoli gaf skýrslu í Barnahúsi 13. mars 2017 fór hún þangað í viðtöl. Meðal málsgagna eru bréf Barnahúss 5. júlí 2017 og 22. febrúar 2018 þar sem lýst er gangi þessara viðtala og líðan stúlkunnar. Einnig liggur fyrir bréf forstöðumanns Barnahúss 10. september 2020 þar sem fram kemur að yfirleitt nægi að börn komi einu sinni í skýrslutöku en sum þurfi að koma aftur þar sem þau eigi erfitt með að treysta ókunnugum við ókunnugar aðstæður. Það eigi sérstaklega við um ung börn eða börn með þroska- eða hegðunarfrávik af einhverjum toga. III 1 Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verður vefengd með skynsamlegum rökum, er fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafa, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sönnunargögn. Enn fremur metur dómari, ef þörf krefur, hvert sönnunargildi þær staðhæfingar hafa sem varða ekki beinlínis það atriði sem sanna skal en ályktanir má leiða af um það, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Framangreind ákvæði mæla fyrir um það sem nefnt hefur verið hið frjálsa sönnunarmat dómara og er þá átt við að sönnunarmatið sé ekki lögbundið, eins og gilti eftir réttarfarsreglum á öldum áður. Í því felst að málsatvik verða sönnuð með hverri þeirri aðferð og gögnum sem haft geta áhrif til sönnunar eftir heilbrigðri skynsemi og mannlegri reynslu. Jafnframt má mat dómara við sönnun hvorki vera andstætt lögmálum rökfræðinnar né vísindalegri eða almennri þekkingu. Enn fremur verður matið ekki reist eingöngu á huglægum atriðum og heldur ekki á ómálefnalegum sjónarmiðum eins og persónulegum skoðunum dómara um menn eða málefni. Markmiðið með hinu frjálsa sönnunarmati dómara er að komast að réttri niðurstöðu í samræmi við þá meginreglu sakamálaréttarfars að leiða skuli hið sanna í ljós en hún er nefnd sannleiksreglan. Í sakamálaréttarfari gildir einnig sú meginregla að sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag, hvíli á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008. Í samræmi við þetta er markmið rannsóknar sakamáls að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skal mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 53. gr. laganna. Til viðbótar því að ákæruvaldið þarf samkvæmt framansögðu að axla sönnunarbyrðina gildir áðurgreind regla eftir 1. mgr. 109. gr. laganna um að sanna beri sekt ákærða svo að ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum. Af því leiðir að vafa um sönnun sektar verður að skýra ákærða í hag (in dubio pro reo). Samhliða gildir sú regla að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur lagagildi hér á landi eftir lögum nr. 62/1994. 2 Í niðurstöðukafla hins áfrýjaða dóms (17. lið) segir um 1. lið ákæru að framburður ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi hafi verið skýr og stöðugur að því er varðar lýsingu á þeim tveimur tilvikum sem hann telur málið vera sprottið af. Við mat á trúverðugleika frásagnar ákærða skipti á hinn bóginn máli að hann hafi ítrekað skoðað efni á netinu sem sýni börn á kynferðislegan hátt, en hann hafði áður með dóminum verið fundinn sekur um þá háttsemi samkvæmt 2. lið ákæru. Í niðurlagi dómsins (25. lið) segir síðan að samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að framburður ákærða sé að nokkru marki ótrúverðugur um atriði sem hafi þýðingu við mat á sönnun í málinu. Verður dómurinn ekki skilinn á annan veg en að með þessu sé vísað til sakfellingarinnar samkvæmt 2. lið ákæru, enda ekkert annað atriði nefnt sem gæti dregið úr trúverðugleika frásagnar ákærða. Svo sem áður er rakið var fallist á beiðni ákærða um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar á þeim grunni að það hefði almenna þýðingu að fá úrlausn réttarins um þá aðferð við sönnunarmatið að telja sakfellingu fyrir tiltekið ákæruatriði geta haft áhrif við mat á sönnunargildi frásagnar ákærða vegna annars ákæruatriðis. Í dómum Hæstaréttar hefur við mat á sönnun sakar reynt á hvaða áhrif það hefur að ákærði hefur samhliða eða áður verið fundinn sekur um samkynja brot eða hann gengist við slíkri háttsemi. Í fyrsta lagi skal nefndur dómur réttarins 30. janúar 2003 í máli nr. 359/2002. Þar var ákærði borinn sökum um kynferðisbrot gegn tveimur ungum stúlkum, annars vegar mágkonu sinni um tveggja til þriggja ára skeið og hins vegar dóttur sinni í framhaldi af því á næstu tveimur árum. Tók Hæstiréttur fram að hvert brot um sig sætti sjálfstæðu mati og yrði sakfelling af einu ekki notuð til sönnunar um sök af öðru, þótt hún kynni að geta gefið ákveðna vísbendingu um hvatir ákærða. Í öðru lagi er dómur réttarins 23. apríl 2008 í máli nr. 658/2007. Þar voru ákærða gefin að sök kynferðisbrot gegn sex stúlkum og hann sakfelldur fyrir verulegan hluta þeirrar háttsemi. Tekið var fram í dómi réttarins að við sönnun tiltekinna sakargifta skipti ekki máli sú röksemd héraðsdóms að nafngreind frænka ákærða hefði lagt fram kæru á hendur honum fyrir kynferðisbrot sem ekki hefði leitt til ákæru. Jafnframt var tekið fram í dómi réttarins að við mat á sönnun fyrir einstök brot ákærða yrði ekki litið til þess að hann hefði verið sakfelldur fyrir önnur samkynja brot í málinu, svo sem gert var með héraðsdómi. Í þriðja lagi skal getið dóms réttarins 28. maí 2009 í máli nr. 58/2009 þar sem ákærða voru gefin að sök kynferðisbrot gegn ungri stjúpdóttur sinni á tilteknu árabili. Hæstiréttur staðfesti sakfellingu héraðsdóms með þeirri athugasemd að ekki skipti máli að systir ákærða hefði borið um kynferðislega tilburði hans gagnvart sér þegar hún var barn að aldri og ákærði hefði viðurkennt það að vissu marki. Loks er hér til að taka dóm réttarins 24. október 2013 í máli nr. 316/2013. Þar hafði ákærði verið sakfelldur í héraði fyrir kynferðisbrot gegn ungum dreng. Hann var hins vegar sýknaður með dómi Hæstaréttar en í honum sagði meðal annars að þótt ákærði hefði verið sakfelldur með dómi réttarins árið 1994, sem birtur var á bls. 639 í dómasafni réttarins það ár, fyrir kynferðisbrot gegn fjórum ungum drengjum fengi það ekki breytt þeirri niðurstöðu í málinu að ákæruvaldið hefði ekki axlað sönnunarbyrði samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um að ákærði hefði framið þau brot sem honum voru gefin að sök. Samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 88/2008 metur dómari við úrlausn máls sönnunargildi framburðar ákærða, þar á meðal trúverðugleika hans. Í því sambandi skal meðal annars hugað að ástandi og hegðun ákærða við skýrslugjöf og stöðugleika í frásögn hans. Samkvæmt þessu verður að meta annars vegar innra samræmi framburðarins með tilliti til þess hvort mótsagna gæti í frásögn og skýringum ákærða og hins vegar ytra samræmi framburðarins sem beinist að því að virða hann í ljósi annarra upplýsinga sem komið hafa fram við málsmeðferðina. Á þessum grunni verður metið hvort framburðurinn sé trúverðugur og hvaða áhrif það hefur með tilliti til annarra sönnunargagna sem liggja fyrir í málinu. Við þetta mat á frásögn ákærða verður aftur á móti ekki litið til þess hvort hann hefur áður verið sakfelldur fyrir samkynja brot eða hvort honum eru í málinu gefin að sök önnur sams konar brot. Að öðrum kosti sætti það brot sem til úrlausnar væri ekki sjálfstæðu mati í samræmi við þau fordæmi réttarins sem hér hafa verið rakin, auk þess sem með því væri létt af ákæruvaldinu þeirri sönnunarbyrði sem það þarf að axla eftir 108. gr. laga nr. 88/2008 og ákærði fengi heldur ekki notið þess vafa við sönnun sem kynni að vera fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 109. gr. laganna. Jafnframt verður hér að gæta grunnreglunnar í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem mynda hornstein réttarríkisins um að hver maður skuli talinn saklaus uns sekt hans hefur verið sönnuð. Um samspil fyrrgreindu reglnanna gagnvart þeirri síðastnefndu má til hliðsjónar benda á dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Tsalkitzis gegn Grikklandi (nr. 2) frá 19. október 2017 (60. lið), Telfner gegn Austurríki frá 20. mars 2001 (15. lið) og Barberà, Messegué og Jabardo gegn Spáni frá 6. desember 1988 (77. lið). Eftir framansögðu var sá annmarki á aðferð við sönnunarmat í hinum áfrýjaða dómi að framburður sem metinn var stöðugur var að nokkru marki talinn ótrúverðugur í ljósi annars brots sem ákærði var sakfelldur fyrir í málinu. 3 Í niðurstöðukafla hins áfrýjaða dóms (21. lið) um 1. lið ákæru er fjallað um hvort framburður brotaþola hafi verið misvísandi, en héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að svo hefði verið um tiltekin atriði. Um þetta segir í hinum áfrýjaða dómi að til þess sé að líta að í fyrri framburði brotaþola lýsi barnið samskiptum sem ákærði hafi lýst með svipuðum hætti en lýsing í síðari framburðinum vísi hins vegar til atvika sem ákært sé fyrir. Því sé ekki augljóst að um misræmi í lýsingum sé að ræða hjá barninu. Samkvæmt þessu taldi Landsréttur framburð brotaþola í meginatriðum trúverðugan og stöðugan. Svo sem áður er rakið kannaðist brotaþoli ekki við í fyrri skýrslu sinni fyrir dómi 13. mars 2017 að ákærði hefði gert eitthvað við „einkastaði“ hennar. Þó sagði stúlkan umrætt sinn að ákærði hefði strokið á henni rassinn utan klæða þegar hann var að svæfa hana í rúmi móður sinnar og einu sinni hefði hann þó strokið henni þar innan klæða. Í síðari skýrslu brotaþola 18. apríl sama ár lýsti hún hins vegar þeim sakargiftum sem ákærða eru gefnar að sök í 1. lið ákæru. Við fyrri skýrslutökuna var stúlkan spurð með almennum hætti um samskipti af þessu tagi við ákærða og því tjáði hún sig ekki um þau atvik sem ákæran lýtur að. Samkvæmt þessu liggur fyrir að stúlkan greindi ekki nánar við fyrri skýrslutökuna frá samskiptunum við ákærða en á því kunna að vera eðlilegar skýringar með hliðsjón af aldri hennar og öðrum aðstæðum. Á hinn bóginn hefur framburður hennar fyrir dómi ekki verið stöðugur eins og staðhæft er í hinum áfrýjaða dómi. Að réttu lagi bar Landsrétti að meta hvort fyrir hendi væru ástæður fyrir breyttum framburði stúlkunnar en í ljósi þeirra má vel vera að síðari framburðurinn hafi verið trúverðugur þrátt fyrir framangreint misræmi. Að þessu leyti er því einnig annmarki á aðferð við sönnunarmat í hinum áfrýjaða dómi. 4 Í umfjöllun um 1. lið ákæru í niðurstöðukafla hins áfrýjaða dóms (21. lið) var fallist á það með ákæruvaldinu að engar „áreiðanlegar“ vísbendingar væru um að brotaþola hefðu verið lögð orð í munn áður en hún gaf seinni skýrslu sína fyrir dómi og framburður hennar þannig orðið fyrir áhrifum frá öðrum, einkum móður. Héraðsdómur taldi aftur á móti að ekki væri hægt að útiloka áhrif annarra á framburð stúlkunnar. Ef vísbendingar voru um að aðrir hefðu haft áhrif á framburð brotaþola bar að leggja mat á hvaða áhrif það hefði á sönnunargildi framburðar barnsins. Í því sambandi skiptir ekki máli hvort vísbendingar eru áreiðanlegar eins og segir í dómi Landsréttar. Verða ekki gerðar auknar kröfur til sönnunar að því leyti ákærða í óhag enda færi það í bága við fyrrgreinda reglu í 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um að virða beri vafa við sönnun honum í hag. Hér er því jafnframt um að ræða annmarka á aðferð við sönnunarmat í hinum áfrýjaða dómi. 5 Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið eru svo verulegir annmarkar á sönnunarmati hins áfrýjaða dóms að ómerkja ber hann og vísa málinu aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. Það skal áréttað að hér hefur aðeins verið dæmt um þá aðferð sem beitt var við sönnunarmatið án þess að nokkur afstaða sé tekin til þess hvort ætlaðar sakir á hendur ákærða teljist sannaðar. Ákvörðun um sakarkostnað bíður nýs dóms í málinu. Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða með virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði.    Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Björgvins Jónssonar lögmanns, 992.000 krónur.     Dómur Landsréttar 24. janúar 2020 Mál þetta dæma landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson og Jóhannes Sigurðsson og Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrverandi héraðsdómari. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1. Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar 23. október 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjaness 15. október 2018 í málinu nr. S-59/2018. 2. Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar og að upptækur verði gerður farsími hans af gerðinni Samsung Galaxy S7 Edge og 1,44 g af kókaíni. 3. Ákærði krefst aðallega sýknu af ákæruliðum 1 og 2 og að honum verði gerð vægasta refsing sem lög heimila samkvæmt ákærulið 3. Til vara krefst ákærði þess að honum verði gerð vægasta refsing sem lög heimila vegna allra ákæruliða og að refsing hans verði skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta. Þá krefst hann þess að einkaréttarkröfu brotaþola verði vísað frá héraðsdómi en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð verulega. Málsatvik og sönnunarfærsla 4. Málið er höfðað með ákæru héraðssaksóknara 29. janúar 2018. Í 1. lið ákæru er ákærða gefin að sök nauðgun og kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa í nánar tilgreind skipti snemma á árinu 2017 haft önnur kynferðismök við brotaþola sem þá var tæplega fimm ára gömul, en hún er dóttir þáverandi sambýliskonu ákærða, með því að hafa sleikt kynfæri stúlkunnar og stungið fingri í leggöng hennar og/eða endaþarm og þannig beitt hana ofbeldi og nýtt sér yfirburði sína gagnvart stúlkunni og traust hennar og trúnað til hans sem sambýlismanns móður hennar. Er háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í 2. lið ákærunnar er ákærða gefið að sök að hafa í mars 2017 haft í vörslum í farsíma sínum 85 ljósmyndir og eina hreyfimynd sem sýna börn á kynferðislegan hátt, en til vara að hafa á tímabilinu 2. október 2016 til 10. mars 2017, skoðað umræddar myndir og myndskeið á símanum. Telst þetta í ákæru aðallega varða við 1. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga, en til vara við 2. mgr. 210. gr. a laganna. Þá er ákærða í 3. lið ákæru gefið að sök fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 10. mars sama ár haft í vörslum sínum 1,44 g af kókaíni sem lögregla fann við leit. Er þetta talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur lyfseðilsskyld efni nr. 233/2001. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. 5. Í ákæru er þess krafist, með vísan til 1. töluliðar 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga, að farsími ákærða sem notaður var við að fremja brotið, og er af gerðinni Samsung Galaxy S7 Edge, verði gerður upptækur. Einnig er þess krafist með heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, að samtals 1,44 g af kókaíni sem lögregla lagði hald á verði gerð upptæk. 6. Við upphaf aðalmeðferðar í héraði óskaði sækjandi eftir því að bókað yrði að láðst hefði að tilgreina brotavettvang í ákærulið 1, en hann væri heimili stúlkunnar að [...] í Hafnarfirði. Við framhaldsaðalmeðferð óskaði sækjandi jafnframt eftir því að bókað yrði að ákæruvaldið félli frá aðalkröfu samkvæmt 2. tölulið ákæru um vörslu á klámefni sem sýndi börn á kynferðislegan hátt, en héldi sig við varakröfu samkvæmt sama tölulið um skoðun á slíku efni. 7. Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti var tekin skýrsla af ákærða. Þá voru skoðaðar og hlýtt á upptökur af skýrslutökum af brotaþola í Barnahúsi, sem og af foreldrum hennar fyrir héraðsdómi. Niðurstaða 8. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 15. október 2018 var ákærði sakfelldur samkvæmt 2. og 3. lið ákæru, eins og henni var breytt við framhaldsaðalmeðferð, en sýknaður af broti því sem honum er gefið að sök í 1. lið hennar. Fyrir Landsrétti krefst ákæruvaldið sakfellingar samkvæmt 1. lið ákærunnar, en að öðru leyti staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu samkvæmt öðrum liðum ákærunnar. Þá er þess krafist að hann verði dæmdur til refsingar. Ákærði hefur neitað sök samkvæmt ákæruliðum 1 og 2, en játar sök samkvæmt 3. ákærulið. Hann krefst staðfestingar á sýknu af ákærulið 1 og að hann verði jafnframt sýknaður af ákærulið 2. Ákærði unir aftur á móti sakfellingu samkvæmt ákærulið 3. 9. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sýknaður af ákærulið 1 og einkaréttarkröfu brotaþola var vísað frá héraðsdómi eins og bar við þær aðstæður að gera samkvæmt 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008. Krafa ákærða um frávísun kröfunnar frá héraðsdómi kemur því ekki til álita. Ákæruliður 3 10. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er sakfelling ákærða og heimfærsla brots samkvæmt ákærulið 3 staðfest. Ákæruliður 2 11. Í héraðsdómi var ákærði sakfelldur samkvæmt 2. lið ákærunnar þar sem honum er gefið að sök brot gegn 2. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga fyrir að hafa á tímabilinu 2. október 2016 til 10. mars 2017 skoðað í síma sínum 85 ljósmyndir, og eina hreyfimynd, sem sýna börn á kynferðislegan hátt. Ákærði neitar sök og skýrir þessar myndir í síma sínum með því að hann hafi verið í samskiptum á spjallsíðu á netinu þar sem fólk var að skiptast á klámmyndum. Hann hafi ýtt á einhvern hlekk sem þar var sendur sem færði hann inn á einhverja aðra netsíðu og hafi umræddar myndir þá vistast óumbeðið í síma hans. Hafi hann séð að eitthvað var athugavert við myndirnar og farið strax út af síðunni. 12. Í framburði vitnisins B lögreglumanns fyrir héraðsdómi kemur fram að hann hafi afritað gögn úr síma ákærða og þar hafi þær 85 myndir sem ákært er fyrir fundist í flýtiminni símans. Fram kemur í skýrslu hans að myndir fari ekki sjálfkrafa í flýtiminnið, til dæmis þegar notandi fái sendan hlekk, heldur þurfi notandinn að opna hlekkinn. Yfirlit um myndir sem vistast hafa í flýtiminni síma ákærða og hversu oft og hvenær þær hafa vistast þar liggur fyrir dóminum. Sýnir yfirlitið að í flýtiminni síma ákærða hafi vistast tugir mynda með grófu efni sem sýna börn á kynferðislegan hátt. Af yfirlitinu má ráða að myndirnar hafi vistast mismunandi oft í flýtiminninu, sumar allt að þrisvar til fjórum sinnum. Vistun myndanna í flýtiminninu átti sér stað annars vegar í október 2016 og hins vegar í mars 2017. Samkvæmt framangreindu verður ekki annað ráðið en að ákærði hafi skoðað að minnsta kosti sumar myndirnar oftar en einu sinni og á mismunandi tímum. Samkvæmt þessu eru skýringar ákærða í þá veru að hann hafi í ógáti hnotið um þetta efni í leit að öðru klámefni því afar ótrúverðugar. Telja verður sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi skoðað myndir og myndskeið sem sýna börn á kynferðislegan hátt svo sem lýst er í ákæru. Með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður staðfest sakfelling ákærða fyrir þessa háttsemi, í samræmi við endanlega kröfu ákæruvaldsins, og er þar réttilega færð til refsiákvæða. Ákæruliður 1 13. Að því er varðar forsendur héraðsdóms fyrir sýknu af sakargiftum samkvæmt ákærulið 1 er á því byggt að ákærði hafi staðfastlega neitað sök og að framburður hans, bæði hjá lögreglu og síðar fyrir dómi, sé samhljóða og stöðugur. Jafnframt er í héraðsdómi á því byggt að framburður brotaþola, sem aflað var í tveimur skýrslutökum í Barnahúsi, sé misvísandi um nokkur atriði og hann sé að því leyti svo ótraustur að ekki sé unnt að útiloka áhrif annarra, einkum móður, á framburð hennar. Í því ljósi, en einnig að gættum öðrum atriðum sem nefnd eru í forsendum dómsins, þótti ekki unnt að slá því föstu, svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er sakaður um samkvæmt þessum ákærulið. 14. Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, hvílir á ákæruvaldinu að færa sönnur á sekt ákærða. Dómari metur hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé komin fram um hvert það atriði er varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, sbr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Tekur þetta mat meðal annars til þess hvaða sönnunargildi skýrsla ákærða eigi að hafa sem og skýrslur vitna. Við þetta mat geta skýrslur vitna, sem ekki hafa skynjað atvik af eigin raun, haft þýðingu að því marki að unnt sé að draga ályktanir um sakarefnið af framburði þeirra. 15. Ákærði, sem neitar sök samkvæmt ákærulið 1, lýsir atvikum með allt öðrum hætti en gert er í ákæru. Við yfirheyrslu hjá lögreglu neitaði ákærði að hafa brotið gegn brotaþola. Ákærði lýsti því á hinn bóginn í skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði verið beðinn um að passa brotaþola að kvöldi til. Þegar hann hafi verið að undirbúa stúlkuna fyrir háttinn hafi hún sagt honum að hún vildi sofa nakin eins og mamma hennar gerði, og hafi hann leyft henni það. Sjálfur hafi hann hins vegar verið í nærbuxum og bol. Hann hafi lagst í rúmið við hlið hennar og lesið fyrir hana. Að loknum lestri hafi brotaþoli tekið í hönd hans og fært hana að klofi hennar. Hafi hann við það snert kynfæri hennar, en strax tekið höndina í burtu og sagt henni að hann ætti ekki að koma þarna við hana. Hafi hún þá tekið fram að henni þætti gott að vera snert þarna. Kvaðst hann þá hafa sagt brotaþola að hún ætti þá bara að snerta sig þarna sjálf. Ákærði greindi frá með svipuðum hætti þegar hann gaf skýrslu fyrir héraðsdómi og Landsrétti. 16. Í skýrslutöku hjá lögreglu lýsti ákærði því einnig að einn morgun hefði móðir stúlkunnar, beðið hann um að keyra stúlkuna í leikskólann og hefði hann tekið vel í það. Kvaðst hann hafa verið á milli svefns og vöku þegar brotaþoli hefði komið inn í herbergið og sett hendur á rasskinnar hans þar sem hann hefði legið nakinn í rúminu. Ekki sagðist ákærði hafa sagt brotaþola að færa hendurnar þar sem þetta hafi ekki verið löng stund, en drifið sig á fætur. Brotaþoli hafi þá beðið hann um að skoða á sér rassinn því að hana klæjaði þar. Kvaðst ákærði hafa séð að hún var illa skeind og því hafi hann strokið yfir rassinn á henni með blautu „tissue“. Hafi stúlkan þá sagt að henni þætti gott að vera snert þarna. 17. Ákærði byggir mál sitt á því að þau samskipti við brotaþola sem hann lýsti fyrir lögreglu og er í samræmi við fyrsta framburð brotaþola í Barnahúsi hafi ekki verið af kynferðislegum toga af hans hálfu heldur átt sér eðlilegar skýringar eins og að framan er lýst. Framburður ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi hefur verið skýr og stöðugur að því er varðar lýsingu á þeim tveimur tilvikum sem hann telur málið vera sprottið af. Við mat á trúverðugleika frásagnar ákærða skiptir á hinn bóginn máli, eins og fyrr er rakið, að ákærði hefur ítrekað skoðað efni á netinu sem sýnir börn á kynferðislegan hátt. 18. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi er upphaf málsins bréf barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar 3. mars 2017 þar sem  nefndin fer fram á rannsókn lögreglu á meintu kynferðisbroti ákærða gegn brotaþola. Í bréfinu kemur fram að móðir brotaþola hafi daginn áður hringt í starfsmann nefndarinnar og lýst áhyggjum af atviki sem hafi átt sér stað þá um morguninn. Í vitnisburði móðurinnar fyrir héraðsdómi kom fram að brotaþoli hefði í umrætt skipti skriðið upp í rúm til móður sinnar, en þá óvart rekið fótinn í klof hennar. Hafi stúlkan þá spurt hvort hún hafi komið við píkuna á henni. Hafi móðirin játað því og sagt stúlkunni að vera ekki með fæturna þarna því þetta væri einkastaðurinn hennar. Þær hafi síðan farið að spjalla þar til brotaþoli hafi risið upp í rúminu og kropið við hlið móður sinnar og sagt henni að loka augunum. Því næst hafi brotaþoli tekið nærbuxur sínar niður á mið læri, tekið í hönd móður sinnar og fært hana að klofi sínu og sagt henni að setja höndina á píkuna á sér. Móðirin hafi tekið höndina til baka og sagt dóttur sinni að svoleiðis ætti ekki að gera. Hafi stúlkan þá sagt að hún og ákærði hafi tekið buxurnar og nærbuxurnar niður, hún hafi sett puttann á eða í rassinn á honum og hann hafi fengið að skoða rassinn á henni. Hafi móðirin spurt dóttur sína hvort þetta hefði ekki verið óþægilegt og hefði stúlkan svarað því neitandi. 19. Við fyrri skýrslutöku af brotaþola í Barnahúsi 13. mars 2017 kom fram að í nokkur skipti hefði ákærði strokið rass hennar. Af myndbandsupptöku, sem spiluð var við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti, sést að brotaþoli lýsti þessu nánar með látbragði með því að setja hönd sína annars vegar í klof sér og hins vegar á rass. Nánar aðspurð endurtók stúlkan að snertingar hefðu stundum verið utan á og stundum innan á og að bara einu sinni hefði hann gert innan á. Nánar innt eftir þessu tilviki þar sem snerting var innan á hafi það gerst í „kósý horninu undir hjá mér“ sem mun vera undir koju brotaþola. Samkvæmt þessu er ljóst að í fyrri skýrslutöku í Barnahúsi lýsti brotaþoli snertingum af svipuðum toga og hún hafði áður lýst fyrir móður sinni. Hefur ákærði raunar einnig lýst slíkum snertingum, þótt hann hafni því að þær hafi verið af kynferðislegum toga af hans hálfu. 20. Í síðari skýrslutöku í Barnahúsi, sem einnig var spiluð við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti, lýsti stúlkan brotunum með líkum hætti og í ákæru. Greinir hún frá því að ákærði hafi einn dag lagt hana á rúmið, girt niður buxurnar hennar og naríurnar og sleikt á henni kynfærin. Enn fremur kemur fram að stundum hafi hann sett puttann inn og stundum gert með tungunni. Henni hefði liðið illa yfir því að ákærði hefði komið við einkastaðina hennar þegar þau voru uppi í rúmi. Enn fremur greindi hún frá því að ákærði hefði potað í rassinn á henni með puttanum og lýsti því með látbragði. Samkvæmt þessu liggur fyrir all greinargóð lýsing brotaþola, sem var rétt nýorðin fimm ára þegar skýrslutakan fór fram, með orðum og látbragði, á því hvernig ákærði hefði brotið gegn henni. 21. Í héraðsdómi er framburður brotaþola metinn misvísandi um tiltekin atriði. Munur sé á framburði hennar við fyrri og síðari skýrslutöku. Við fyrri skýrslutöku sé atvikum lýst þannig að geti vel samrýmst lýsingu ákærða á atvikum. Það hafi á hinn bóginn ekki verið fyrr en við síðari skýrslutöku að lýst sé háttsemi sem 1. liður ákærunnar lýtur að og ekki sé hægt að útiloka áhrif annarra á þann framburð sem stúlkan gaf við það tækifæri og þá einkum áhrif frá móður. Þá sé frásögn brotaþola misvísandi um hvar brotið á að hafa verið framið, en „kósý horn“ það sem stúlkan vísaði til hafi ekki verið til staðar þegar meint brot á að hafa verið framið. Þrátt fyrir þetta verður að fallast á með ákæruvaldinu að afar ólíklegt sé að brotaþoli, sem þá var rétt um fimm ára gömul, geti lýst atvikum með þeim hætti sem hún gerði án þess að hafa upplifað þau sjálf. Þá er enn fremur fallist á með ákæruvaldinu að engar áreiðanlegar vísbendingar séu um að barninu hafi verið lögð orð í munn fyrir síðari skýrslutökuna og framburður hennar þannig orðið til fyrir áhrif annarra, einkum móður. Til þess er að líta, að í fyrri framburðinum lýsir barnið samskiptum sem ákærði hefur lýst með svipuðum hætti en lýsingar í seinni framburðinum vísa hins vegar til þeirra atvika sem ákært er fyrir, og er því ekki augljóst að um misræmi í lýsingum hennar sé að ræða. Samkvæmt þessu verður framburður brotaþola í meginatriðum metinn trúverðugur og stöðugur. 22. Þá er þess að geta að móðir og faðir brotaþola hafa bæði borið um frásagnir hennar sem eru í öllum atriðum, sem máli skipta, í samræmi við síðari framburð hennar í Barnahúsi. Þótt framburður þeirra feli í sér endursögn á frásögn stúlkunnar sjálfrar þá styður hann framburð brotaþola í Barnahúsi og eykur á trúverðugleika hans. Þá er ekki unnt, eins og fyrr greinir, að ráða af gögnum málsins að foreldrarnir hafi haft áhrif á framburð brotaþola þótt fyrir liggi að móðirin hafi upplýst hana um að hún gæti þurft að segja aftur frá samskiptum sínum við ákærða.  23. Meðal gagna málsins er vottorð C barnalæknis og D kvensjúkdómalæknis sem skoðuðu brotaþola 10. maí 2017. Þar segir meðal annars að engin áverkamerki hafi verið að finna á kynfærum stúlkunnar en aftur á móti hafi útlit á meyjarhafti hennar verið óeðlilegt. Í því hafi verið skarð að aftanverðu. Í skýrslum sem þau gáfu við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi kom fram að útlit meyjarhaftsins gæti bent til þess að fingur hafi verið settur í kynfæri barnsins þótt þau gætu í raun ekkert fullyrt um orsakir þessa. 24. Samkvæmt vottorðum Barnahúss, sem unnin eru af E félagsráðgjafa, hefur brotaþoli, sem þá hafði farið þar í 17 meðferðarviðtöl, sýnt merki um að hafa orðið fyrir áföllum. Hún hafi sýnt merki um aðskilnaðarkvíða, grátið mikið og sýnt erfiða hegðun, en þetta séu þekkt einkenni þolenda kynferðisofbeldis. Þótt vottorð þessi geti ekki slegið neinu föstu um sekt ákærða skipta þau máli í heildarmati á þeim sönnunargögnum sem fyrir liggja í málinu. 25. Samkvæmt því sem að framan er rakið verður lagt til grundvallar að framburður ákærða sé að nokkru marki ótrúverðugur um atriði sem hafa þýðingu við mat á sönnun í málinu. Framburður brotaþola er á hinn bóginn í megindráttum stöðugur og trúverðugur. Framburðir annarra vitna, einkum móður og föður, sem og vætti sérfræðinga styðja við framburð brotaþola og auka trúverðugleika hans. Að þessu gættu og með hliðsjón af öðrum atvikum málsins þykir komin fram lögfull sönnun um að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 1. lið ákærunnar og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða. Verður hann sakfelldur fyrir hana. Með þessari háttsemi nýtti ákærði sér yfirburðastöðu sína gagnvart brotaþola og traust hennar og trúnað sem sambýlismaður móður hennar. 26. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár. 27. Staðfest eru ákvæði héraðsdóms um upptöku farsíma ákærða af gerðinni Samsung Galaxy S7 Edge og á 1,44 g af kókaíni. 28. Ákærða verður gert að greiða allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Landsrétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða í einu lagi að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár. Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, 4.938.493 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Landsrétti, Unnsteins Arnar Elvarssonar lögmanns, 3.700.000 krónur.         Dómur Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 15. október 2018 Mál þetta, sem þingfest var 21. mars 2018, höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 29. janúar 2018 á hendur X kt. [...], [...], Reykjavík, „fyrir neðangreind hegningar- og fíkniefnalagabrot, framin á  árinu 2017, nema annað sé tekið fram, svo sem hér greinir: Nauðgun og kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa þriðjudaginn 24. janúar og föstudaginn 17. febrúar haft önnur kynferðismök við A, fædda [...] 2012, dóttur þáverandi sambýliskonu sinnar, með því að hafa sleikt kynfæri stúlkunnar og stungið fingri í leggöng hennar og/eða endaþarm og þannig beitt hana ofbeldi og nýtt sér yfirburði sína gagnvart stúlkunni og traust hennar og trúnað til hans sem sambýlismanns móður. Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kynferðisbrot, aðallega með því að hafa föstudaginn 10. mars haft í vörslum sínum í Samsung Galaxy S7 Edge farsíma sínum,  85 ljósmyndir og eina hreyfimynd sem sýna börn á kynferðislegan hátt, en til vara að hafa á tímabilinu 2. október 2016 til 10. mars 2017, skoðað umræddar myndir og myndskeið á símanum. Telst þetta aðallega varða við 1.  mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga, en til vara við 2. mgr. 210. gr. a laganna. Fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 10. mars haft í vörslum sínum 1,44 g af kókaíni sem lögregla fann við leit. Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur lyfseðilskyld efni nr. 233/2001. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist með vísan til 1. tl. 69. gr. a almennra hegningarlaga, að ofangreindur sími af gerðinni Samsung Galaxy S7 Edge verði gerður upptækur. Einnig er þess krafist með heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, að samtals 1,44 g af kókaíni sem lögregla lagði hald á verði gerð upptæk. Einkaréttarkrafa: Af hálfu F, kennitala [...], og G, kennitala [...], fyrir hönd ólögráða dóttur þeirra, A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 3.000.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. janúar 2017 þar til mánuður er liðinn frá því að bótakrafa var birt ákærða en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“ Ákærði neitar sök samkvæmt ákæruliðum 1 og 2, en játar sök samkvæmt 3. ákærulið. Hann hafnar jafnframt bótakröfu. Aðalmeðferð málsins hófst með skýrslutökum af ákærða og hluta vitna 28. ágúst 2018, en var þá frestað til 24. september síðastliðinn, og aðalmeðferð þá fram haldið og málið dómtekið. Við upphaf aðalmeðferðar óskaði sækjandi eftir því bókað yrði að láðst hefði að tilgreina brotavettvang í ákærulið 1, en hann væri heimili stúlkunnar að [...] í Hafnarfirði. Við framhaldsaðalmeðferð óskaði sækjandi einnig eftir því að bókað yrði að ákæruvaldið félli frá aðalkröfu samkvæmt 2. tölulið ákæru, en héldi sig við varakröfu samkvæmt sama tölulið.    Málsatvik Með bréfi 3. mars 2017 óskaði barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar eftir rannsókn lögreglu á meintu kynferðisbroti ákærða gegn A, brotaþola í máli þessu, sem fædd er [...] 2012. Fram kemur í bréfinu að móðir brotaþola, F, hafi daginn áður hringt í starfsmann barnaverndarnefndar og haft áhyggjur af atviki sem átti sér stað þann sama morgun. Brotaþoli hefði þá skriðið upp í rúm til móður sinnar, en þá óvart rekið fótinn í klof hennar og spurt hvort hún hafi komið við píkuna á henni. Hafi móðirin játað því og sagt stúlkunni að vera ekki með fæturna þarna. Brotaþoli hafi þá kropið við hlið móður sinnar og sagt henni að loka augunum. Því næst hafi brotaþoli tekið nærbuxur sínar niður á mið læri, tekið í hönd móður sinnar og fært hana að klofi sínu og sagt henni að setja höndina á píkuna á sér. Móðirin hafi tekið höndina til baka og sagt dóttur sinni að svoleiðis ætti ekki að gera. Hafi stúlkan þá sagt að hún og ákærði hafi tekið buxurnar og nærbuxurnar niður, hún hafi sett puttann á eða í rassinn á honum og hann hafi fengið að skoða rassinn á henni. Hafi móðirin spurt dóttur sína hvort þetta hefði ekki verið óþægilegt og hefði stúlkan svarað því neitandi. Móðir brotaþola gaf skýrslu hjá lögreglu 7. mars 2017 og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna meintra brota hans gegn dóttur hennar. Er framburður hennar af atvikum á sama veg og að ofan greinir. Aðspurð kvaðst móðirin aðeins muna eftir tveimur skiptum sem ákærði hafi verið einn með stúlkunni, annars vegar 24. janúar 2017 og hins vegar 17. febrúar sama ár. Þegar hún kom heim í fyrra skiptið hafi ákærði legið hjá dóttur hennar uppi í rúmi hennar og hafi bæði verið sofandi. Ákærði hafi verið í buxum og bol, en stúlkan líklega bara í náttbol og nærbuxum. Hafi henni ekkert fundist athugavert við þetta. Ekki sagðist móðirin heldur hafa tekið eftir neinu óvenjulegu í síðara skiptið, en hún hafi þá komið heim um eittleytið um nóttina. Tók hún þó fram að ákærði hefði þá um kvöldið sent henni skilaboð um að eldri bróðir hennar hefði komið í heimsókn og hafi ákærði þá verið á nærbuxunum. Hafi hann bætt við að vonandi hafi bróðurnum ekki þótt það skrýtið. Teknar voru skýrslur af brotaþola í Barnahúsi 13. mars 2017 og 18. apríl sama ár og verður efni þeirra rakið með framburði annarra. Móðir brotaþola mætti á ný til skýrslutöku hjá lögreglu 15. mars 2017 og sagðist þá þurfa að upplýsa um samtal sem hún hefði átt við dóttur sína kvöldið áður. Sagði hún þær mæðgur hafa legið í rúminu og verið að spjalla saman, m.a. um bíómynd sem þær höfðu horft á saman. Einnig hefði hún beint spjalli þeirra að líðan dótturinnar í samtali við konuna sem yfirheyrði hana í Barnahúsi 13. mars, og sagt að vel gæti verið að hún þyrfti að hitta þá konu aftur. Dóttirin hafi þá neitað því, sagt að hún vildi það ekki, og hafi hún spurt í framhaldinu af hverju konan vildi tala við hana aftur. Kvaðst móðirin þá hafa sagt að konan vildi kannski vita eitthvað meira um hana og X og hvað þau hafi verið að gera. Hafi stúlkan þá sagt að hún vildi ekki segja það. Eftir nokkrar fortölur móðurinnar hafi stúlkan sagt að X hefði sett puttann í píkuna og rassinn á henni og einnig sleikt á henni píkuna og rassinn. Kvaðst móðirin þá hafa spurt dóttur sína hvort hún gæti sagt konunni í Barnahúsi þetta, en stúlkan hafi neitað því og sagt að hún mætti sjálf segja frá þessu. Fram kom einnig í máli móðurinnar að eftir þetta hefði dóttir hennar orðið ólík sjálfri sér í hegðun, m.a. hefði hún pissað í sig í leikskólanum daginn eftir spjall þeirra mæðgna og um skeið ekki viljað fara þangað. Ákærði var handtekinn 10. mars 2017 og yfirheyrður af lögreglu. Sama dag var húsleit gerð á heimili hans að [...] í Reykjavík, en daginn eftir var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald til 13. mars 2017. Ákærði var síðan aftur yfirheyrður af lögreglunni 26. maí sama ár. Við yfirheyrslu hjá lögreglu neitaði ákærði að hafa brotið gegn brotaþola. Í fyrri yfirheyrslunni var hann sérstaklega að því spurður hvort hann hefði látið brotaþola stinga fingri sínum inn í rassinn á honum og að hafa skoðað rassinn á stúlkunni, en hann svaraði því neitandi. Hvort eitthvað annað hefði gerst svaraði hann því til að einhvern tíma í janúar það ár hafi hann verið beðinn um að passa brotaþola að kvöldi til. Þegar hann var að undirbúa stúlkuna fyrir háttinn hafi hún sagt honum að hún vildi sofa nakin eins og mamma hennar, og hafi hann leyft henni það. Sjálfur hafi hann hins vegar verið í nærbuxum og bol. Hafi hann lagst í rúmið við hlið hennar og lesið fyrir hana, en að því loknu hafi brotaþoli tekið í hönd hans og beðið hann um að fara með hana í klofið á sér því að henni þætti það svo gott. Hafi hann snert kynfæri hennar, en strax tekið höndina í burtu og sagt henni að hann ætti ekki að koma þarna við hana. Hafi hún þá endurtekið að henni þætti gott að vera snert þarna. Kvaðst hann þá hafa sagt brotaþola að hún ætti þá bara að snerta sig þarna sjálf. Eftir þetta sagði ákærði að brotaþoli hefði sofnað og hann einnig. Minnti ákærða að brotaþoli hefði í umrætt sinn legið á bakinu með beina fætur og í sundur. Aðspurður hvort eitthvað annað hefði gerst milli hans og brotaþola sagði ákærði að einn morgun hefði F, móðir stúlkunnar, beðið hann um að skutla stúlkunni í leikskólann og hefði hann tekið vel í það. Kvaðst hann hafa verið á milli svefns og vöku þegar brotaþoli kom inn í herbergið og setti hendur sínar á rasskinnar hans þar sem hann lá nakinn í rúminu. Ekki sagðist hann hafa sagt brotaþola að færa hendurnar þar sem þetta hafi ekki verið löng stund, en drifið sig á fætur. Brotaþoli hafi þá beðið hann um að skoða á sér rassinn því að hana klæjaði þar. Kvaðst ákærði hafa séð að hún var illa skeind og því hafi hann strokið yfir rassinn á henni með blautu „tissue“. Hafi stúlkan endurtekið að henni þætti gott að vera snert þarna. Í síðari yfirheyrslu lögreglu yfir ákærða, 26. maí 2017, kvaðst hann standa við allt sem hann sagði í fyrri yfirheyrslu og hafnaði með öllu ásökunum um að hafa snert brotaþola á óviðeigandi hátt eða sleikt á henni kynfærin. Hann var þá að því spurður hvort stúlkan hafi stungið putta sínum í rassinn á honum í sama skipti og hún snerti rasskinn hans og sagðist hann ekki vita til þess, hún hljóti þá að hafa gert það þegar hann var sofandi. Hann kvaðst þó örugglega hafa vaknað við slíkt ef sú hefði verið raunin. Við sama tækifæri var ákærði spurður um ljósmyndir og hreyfimynd sem hann geymdi í síma sínum og sýna börn á kynferðislegan hátt, og sagðist hann hafa farið inn á einhverja síðu, ýtt þar á einhvern „link“, og hafi myndirnar þá dælst óumbeðið í síma hans. Kvaðst hann ekki hafa skoðað þessar myndir og hefði alls engan áhuga á því. Meðal gagna málsins er skýrsla C barnalæknis og D kvensjúkdómalæknis, en þau önnuðust skoðun á brotaþola 10. maí 2017. Þar segir m.a. eftirfarandi: „Það er eðlileg skoðun á ytri kynfærum stúlkunnar. Engin áverkamerki en hins vegar er óeðlilegt útlit á meyjarhafti stúlkunnar, það er skarð í því að aftanverðu eða um kl. 6 og á því svæði vantar alveg meyjarhaft. Skeiðaropið að ofanverðu er um 7-8 mm í þvermál. Spöng er eðlileg. Svæðið umhverfis endaþarm er eðlilegt og það er eðlilegur tonus í endaþarmsvöðva.“ Einnig fylgja málinu upplýsingaskýrslur Barnahúss um meðferðarviðtöl við brotaþola, dagsettar 5. júlí 2017 og 22. febrúar 2018, ásamt teikningum brotaþola. Samkvæmt síðari skýrslunni hafði brotaþoli komið í 17 meðferðarviðtöl í Barnahúsi.   Framburður fyrir dómi Ákærði kvaðst hafa kynnst F, móður brotaþola, árið 2014 er þau störfuðu hjá [..]. Sambandið var í upphafi leynilegt ástarsamband sem varð til þess að slitnaði upp úr sambandi beggja við maka þeirra. Sambandið var þó slitrótt þeirra í milli, F hætti oft með honum og tók síðan aftur upp þráðinn. Ekki kvaðst hann hafa flutt formlega til hennar, samband þeirra hafi aðeins verið þannig að hann dvaldi oft hjá henni þegar hann var ekki með strákana sína og hún ekki með dóttur sína. Þess á milli kvaðst hann hafa dvalið á heimili foreldra sinna. Fyrir kom þó að hann dveldi hjá F þegar dóttir hennar var þar einnig. Samband hans og brotaþola hafi verið mjög gott og hafi þau verið ágætir félagar. Spurður um líðan sína í upphafi árs 2017 sagði ákærði að hún hafi ekki verið góð, hann hafi glímt við þunglyndi og þurft lyfjameðferð vegna þess. Fyrir kom að hann mætti ekki til vinnu af þessum sökum og hefði F ráðlagt honum að leita sér aðstoðar sálfræðings. Ástæður þunglyndisins rakti hann til þess að hann hafi verið niðurbrotinn maður eftir öll þau skipti sem F hefði slitið sambandi sínu við hann. Í lok janúar eða byrjun febrúar 2017 hafi hann ákveðið að slíta endanlega sambandinu við hana og tók fram að hann hafi þá ekki getað meira. Spurður um meint kynferðisbrot gagnvart brotaþola kvaðst ákærði alls ekki kannast við neitt slíkt. Hann var þá spurður um atvik í fyrra skiptið samkvæmt ákæru, þ.e. 24. janúar 2017. Hann sagði að F hefði þá beðið hann um að passa dóttur sína um kvöldið. Erfiðlega hefði gengið að fá brotaþola til að hátta, en svo fór að lokum að hún samþykkti að fara í rúmið. Vildi hún ekki vera í náttfötum, en sagðist frekar vilja sofa nakin eins og mamma hennar gerði oft. Komu þau sér fyrir í rúmi brotaþola, hún breiddi yfir sig sængina, en hann lagðist við hlið hennar fullklæddur og las fyrir hana sögu. Að lestri loknum hafi brotaþoli tekið í hönd hans, sem hann hafði ofan á sænginni, og fært hana í klofið á sér. Kvaðst hann þá hafa kippt hendinni að sér og sagt að þetta væri ekki neitt sem hann ætti að koma við og enginn ætti að snerta hana þarna. Sérstaklega aðspurður sagði hann að snertingin hafi verið örlítil áður en hann kippti hendinni að sér. Hafi honum þótt þetta vandræðalegt og óþægilegt og nokkuð sem hann hefði aldrei áður lent í. Síðan kvaðst ákærði hafa sofnað við hlið stúlkunnar, en vaknað þegar F kom heim. Ekki sagðist hann hafa sagt F frá þessu atviki og kunni ekki skýringu á því. Hins vegar hefði honum þótt þetta háttalag stúlkunnar skrýtið. Ákærði neitaði því alfarið að hafa í umrætt sinn káfað á kynfærum stúlkunnar, stungið fingri í leggöng hennar eða sleikt kynfæri hennar. Þessu næst var ákærði spurður hvort hann myndi eftir því að hafa passað brotaþola febrúarkvöld 2017, þegar F fór í afmæli, og kvaðst hann muna eftir því. Hafi þau tvö komið heim, eldað sér eitthvað, horft á sjónvarp og síðan hafi hann líkast til svæft stúlkuna. Bróðir F hefði komið í heimsókn um kvöldið og hefðu þeir horft á sjónvarpið stutta stund. Brotaþoli hafi þá verið vakandi. Ákærði kvaðst muna eftir því að hafa sent F SMS-skilaboð um kvöldið þar sem hann sagði frá því að bróðir hennar hefði komið í heimsókn, en hann sjálfur hefði þá verið á nærbuxunum. Gaf hann þá skýringu á skilaboðunum að honum hafi þótt það vandræðalegt að hann hefði verið á nærbuxunum þegar bróðir hennar kom í heimsókn. Sérstaklega spurður um einhver önnur tilvik, þar sem brotaþoli hefði beðið hann um að skoða á sér kynfærin eða gera eitthvað við sig, sagði ákærði að einn morgun hefði F beðið hann um að keyra dóttur sína í leikskólann. Kvaðst hann sofa fast, en í þetta skipti hafi hann vaknað við það að brotaþoli var með höndina á rasskinninni á honum. Hafi honum brugðið við þetta og orðið mjög vandræðalegur, en stokkið á fætur og klætt sig. Brotaþoli hafi verið uppi í rúminu og sagt að sig klæjaði í rassinn og beðið hann um að kíkja. Hafi hann þá séð að hún var illa skeind. Því hafi hann sótt pappír, bleytt hann og þurrkað henni um rassinn. Ekki kvaðst hann heldur hafa haft orð á þessu atviki við F og gaf þær skýringar að honum hafi þótt þetta vandræðalegt. Ákærði neitaði því með öllu að hann hneigðist að börnum. Kvaðst hann engar skýringar geta gefið á því hvers vegna stúlkan bæri á hann þessar sakir, samband þeirra hefði alltaf verið gott, þau hafi leikið sér saman, litað og málað. Þá hafi samband sona hans og barnsins einnig verið gott og hafi þau leikið sér saman þegar þeir komu í heimsókn. Þótti honum þessar ásakanir barnsins hræðilegar og kvaðst alls ekki hafa átt von á slíku.   Ákærði var því næst spurður um þær myndir sem fundust í síma hans, sbr. ákærulið 2, og sýna m.a. börn á kynferðislegan hátt. Kvaðst hann ekki hafa séð þær. Gaf hann þær skýringar að á þeim tíma þegar hann átti við þunglyndi að stríða, og um það leyti sem hann var að slíta sambandi við F, hafi hann verið að vafra á milli spjallsíðna þar sem klámfengnar, en eðlilegar myndir, hafi verið sendar á milli manna. Líklega hafi hann þá ýtt á einhvern „link“ sem hafi fært hann í ógáti inn á einhverja aðra netsíðu. Hafi hann „skrollað“ niður síðuna en séð að þarna var eitthvað athugavert og því strax farið út af síðunni. Ekki kvaðst hann hafa skýringar á því að myndirnar hafi vistast í síma hans, en neitaði því að hafa skoðað þær. Ekki gat hann heldur skýrt hvers vegna búið væri að opna sumar myndirnar oft, en taldi að hann hefði þá líklega í ógáti ýtt á sama „linkinn“ tvisvar. Tók hann fram að hann hefði litla kunnáttu á tölvur og vissi ekki hvernig þetta virkaði. Brotaþoli, A, var yfirheyrð í Barnahúsi 13. mars og 18. apríl 2017, og hefur dómari horft og hlýtt á upptökur af þeim yfirheyrslum. Í fyrri yfirheyrslunni sagði brotaþoli að ákærði hefði stundum gist á heimili hennar og strákarnir hans líka. Hann væri fínn, þau léku sér stundum í mömmó og máluðu og lituðu saman. Spurð hvort einhver hefði gert eitthvað við hennar einkastaði svaraði hún því neitandi og bætti við að hún myndi segja stopp ef einhver vildi gera það. Ekki sagðist hún heldur hafa rekist í einkastað mömmu sinnar. Síðar í skýrslutökunni sagði stúlkan að ákærði hefði strokið á henni rassinn þegar hann var að svæfa hana í rúmi mömmu hennar og hefði mamma hennar þá verið frammi. Sagðist hún þá hafa verið í buxum og nærbuxum og hefði hann strokið henni utanklæða um rassinn. Hefði henni bara liðið vel og ekkert meitt sig við það. Síðar sagði hún að ákærði hefði strokið henni um rassinn utanklæða, „eitt skipti fyrst, svo var það fimm og fjögur og svo tuttugu“. Einu sinni hefði hann þó strokið rassinn á henni innanklæða og hefðu þau þá verið að lesa bók í kósý-horninu undir kojunni hennar. Rúmið í koju hennar væri hátt uppi með engu rúmi neðar. Frekar spurð um það atvik svaraði stúlkan þannig: „Hann hérna var bara að strjúka mér og hann gerði bara einu sinni og ekki meira.“ Spurð um líðan sína þegar ákærði strauk rass hennar innanklæða sagði brotaþoli að henni hafi liðið vel og bætti við: „Af því að hann var að strjúka bara einu sinni og svo utan á nærbuxunum.“ Sagðist brotaþoli hafa sagt mömmu sinni frá þessu. Aðspurð neitaði brotaþoli því að ákærði hefði strokið henni einhvers staðar annars staðar, svo og að hún hafi einhvern tíma sofið nakin. Fram kom hins vegar að bæði ákærði og mamma hennar hefðu stundum hjálpað henni að skeina sig. Í síðari skýrslutöku yfir brotaþola, 18. apríl 2017, sagði hún að hún og ákærði hefðu einu sinni verið að lita og fara í leiki þegar ákærði hefði allt í einu sagt henni að leggjast í rúm mömmu sinnar. Síðan hefði hann girt niður um hana buxurnar og nærbuxurnar og sleikt á henni píkuna. Sagði stúlkan að þetta hefði gerst tvisvar, en ekki sama dag. Hefði hún legið á bakinu í engum fötum og verið með beina fætur. Mamma hennar hefði ekki verið heima þegar þetta gerðist, en hún og ákærði hefðu „fattað“ upp á þessu. Sjálf sagðist hún hafa sagt ákærða að gera þetta ekki og hafi henni liðið illa. Þegar stúlkan var að því spurð hvers vegna hún hafi ekki verið í fötum sagðist hún ekki vita það. Að þessu loknu sagði brotaþoli að þau hafi farið í dúkkuleik. Brotaþoli svaraði því neitandi þegar hún var að því spurð hvort ákærði hefði oft verið að passa hana. Hins vegar hefði hann gist og þá sofið í rúmi með mömmu hennar, en hún sjálf í koju, hátt uppi, og væri kojan inni hjá mömmu hennar og með stiga. Hún neitaði því einnig að eitthvað meira hafi verið gert við líkama hennar og tók fram að hún hefði sagt stopp. Þá sagðist hún aldrei sofa allsber, en ýmist í náttfötum eða naríum og kjól og stundum í naríum og bol. Mamma hennar og ákærði svæfu hins vegar allsber. Brotaþoli tók fram að ákærði gisti ekki lengur á heimilinu og þætti henni það fínt. Brotaþoli var því næst spurð hvort einhver hefði komið við einkastaðina hennar, píkuna eða rassinn, og sagði hún að ákærði hefði gert það þegar þau voru uppi í rúmi mömmu hennar. Hann hefði líka potað með puttanum í rassinn á henni eða rasskinnina og hefði hún þá ekki verið í neinum fötum. Þegar brotaþoli var spurð nánar hvernig ákærði hefði potað í rassinn á henni sagði hún að hann hefði potað í strikið eða í rasskinnina og hefði henni ekki fundist það gott og sagt stopp. Þó hefði hún ekki meitt sig. Brotaþoli var loks að því spurð hvernig ákærði hefði sleikt á henni píkuna og sagði hún að hann hefði gert það með tungunni og bætti við: „Hann setti stundum puttann og gerði með puttanum og stundum gerði hann bara með tungunni.“ Nánar spurð sagði brotaþoli að hann hefði sett puttann í strikið. Vitnið F, móðir brotaþola, skýrði fyrst frá upphafi sambands hennar og ákærða. Sagði hún að samband þeirra hefði hafist veturinn 2014, en með hléum allt til desembermánaðar 2016, þegar hún biðlaði til ákærða um að láta reyna á varanlegra samband. Hefði ákærði verið á báðum áttum um þá hugmynd, en þó slegið til á endanum og flutt inn á heimili hennar í byrjun janúar 2017. Vitnið sagðist áður hafa vitað af þyngslum hjá ákærða í sambandi þeirra, en um miðjan janúar hafi hann orðið ofboðslega þunglyndur. Hafi hann oft sofið heilu og hálfu dagana og ekki farið út úr húsi. Kvaðst vitnið hafa orðað það við ákærða að leita sér frekari aðstoðar þar sem hún hafi vitað að hann tæki inn þunglyndislyf, en hann hafi tekið því fálega. Þann 23. febrúar hafi ákærði síðan sagt henni að hann vildi slíta sambandi þeirra, en vitnið gat þess að fyrri sambandsslit þeirra hafi jafnan verið að hennar frumkvæði. Spurð um samband ákærða og brotaþola sagði vitnið að það hafi verið gott, ákærði sé hlýr og barngóður maður og hafi leikið sér við stúlkuna og hafi hún sótt í hann. Hinu sama gegndi um syni ákærða sem hafi verið mjög hændir að honum. Vitnið greindi því næst frá samtali hennar og brotaþola, er mál þetta kom upp. Sagðist vitnið hafa sótt dóttur sína í leikskólann skömmu fyrir afmæli hennar. Dóttir hennar hafi þá spurt hvort synir ákærðu kæmu ekki í afmælið og hafi vitnið þá sagt henni að hún og ákærði væru ekki lengur kærustupar og því byggi ákærði ekki lengur hjá þeim. Barnið hafi tekið þeim tíðindum illa og grátið óstjórnlega. Tveimur dögum síðar, á fimmtudagsmorgni, hafi þær mæðgur legið í rúminu undir sæng og verið að spjalla saman. Stúlkan hafi þá rekið fótinn í klofið á vitninu, sem kvaðst yfirleitt sofa nakin, og hafi barnið þá sagt: „Oj, er þetta píkan á þér.“ Vitnið hafi játað því og sagt stúlkunni að fara með fótinn í burtu, þetta væri hennar einkastaður. Skömmu síðar hafi stúlkan farið á fjóra fætur í rúminu, sagt móður sinni að loka augunum, tekið í hönd hennar og ætlað að færa hana inn fyrir nærbuxur sínar. Hafi vitnið þá sagt við stúlkuna að hún ætlaði ekki að koma við þetta, þetta væri hennar einkastaður. Stúlkan hafi þá sagt að hún og ákærði hefðu girt niður buxurnar og nærbuxurnar og hafi hún sett puttann í rassinn á honum, en hann hafi fengið að skoða rassinn á henni. Vitnið sagði að sér hefði brugðið mjög við þetta en ákveðið að spyrja dóttur sína ekki frekar. Þess í stað kvaðst vitnið hafa rætt við starfsfólk barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar í því skyni að leita ráða. Jafnframt sagðist vitnið hafa hringt í leikskóla dóttur sinnar og spurt hvort einhver fræðsla hafi verið þar um einkastaði barnanna, en fengið þau svör að svo hafi ekki verið. Tók vitnið fram að sér hafi þótt skrýtið að barnið væri að segja þetta, þótt hún hafi heldur ekki verið að kaupa það að ákærði hafi verið að gera þetta. Vitnið kvaðst hafa farið með brotaþola í skýrslutöku í Barnahúsi 13. mars 2017. Eftir viðtal við stúlkuna sagði vitnið að starfsmaður barnaverndarnefndar hefði sagt sér að barnið hefði ekki greint frá öllu sem það sagði við hana. Lagði starfsmaðurinn til að ef barnið greindi síðar frá einhverju skyldi vitnið skrifa það niður. Jafnframt hafi henni verið sagt að ekki væri útilokað að barnið þyrfti að koma aftur til skýrslutöku. Daginn eftir sagðist vitnið hafa sagt stúlkunni að ef hún þyrfti að fara aftur í Barnahús gæti verið að hún yrði spurð frekar um hvað hún og ákærði hafi gert. Hafi stúlkan mótmælt því og sagt að hún væri búin að segja frá. Nokkru síðar hafi hún hins vegar sagt að „hann hafi sett puttann í píkuna og rassinn og sleikt píkuna og rassinn.“ Hefði henni brugðið mjög við þetta og spurt dóttur sína hvort hún gæti sagt þetta við konuna í Barnahúsi, en hún hafi alls ekki viljað það. Hafi brotaþoli viljað að móðir hennar segði frá þessu. Kvaðst vitnið þá hafa lagt til að hún fengi að taka frásögn stúlkunnar upp á vídeó og hafi hún samþykkt það. Hafi brotaþoli þar endurtekið það sem hún hafði áður sagt. Daginn eftir kvaðst vitnið aftur hafa gefið skýrslu hjá lögreglunni. Vitnið gat þess að þegar stúlkan var sótt á leikskólann þann dag hefði hún verið búin að pissa í sig, en slíkt hefði ekki gerst frá tveggja ára aldri. Fram kom hjá vitninu að ákærði hefði aðeins tvisvar sinnum passað brotaþola, 24. janúar og 17. febrúar 2017. Í fyrra skiptið kvaðst vitnið hafa komið heim um tíuleytið og hafi þá bæði ákærði og brotaþoli verið sofandi í rúmi brotaþola. Sagðist vitnið hafa tekið mynd af þeim og er sú mynd meðal gagna málsins. Á myndinni má sjá ákærða og brotaþola sofandi í litlu barnarúmi í herbergi brotaþola. Ákærði liggur þar við hlið brotaþola, íklæddur bol, en brotaþoli liggur undir sæng og virðist ber að ofan. Kvaðst vitnið hafa hent þessu rúmi þegar dóttir hennar fékk koju í afmælisgjöf frá ömmu sinni. Vitnið G, faðir brotaþola, sagði að F, barnsmóðir hans, hefði hringt í hann 2. mars 2017 og sagt honum frá samtali hennar og dóttur þeirra fyrr um morguninn. Kvaðst hann minnast þess að nokkrum vikum áður, eða um það leyti sem ákærði og synir hans hafi farið að venja komur sínar á heimilið, hafi hann og sambýliskona hans tekið eftir breytingum á hegðun dóttur sinnar, en hún dvelji hjá þeim aðra hverja viku. Hafi hún verið vælin og erfið og ólík sjálfri sér, og hafi hann spurt barnsmóður sína hvort hún hafi einnig tekið eftir þessu. Vitnið kvaðst einnig hafa orðið vart við miklar breytingar í fari dóttur sinnar eftir að hún sagði móður sinni frá umræddu atviki. Þannig hafi hún pissað í sig í leikskólanum og neitað að fara þangað um nokkurt skeið, auk þess sem hún hafi ítrekað fengið martraðir. Þá greindi vitnið frá því að dóttir hans hefði fyrst í október 2017 sagt honum frá því að ákærði hefði gert ógeðslegt við hana, hann hefði sleikt og potað í píkuna á henni og potað í rassinn á henni. Sagðist vitnið margoft síðar hafa rætt þetta við dóttur sína og sagt henni að þetta eigi fullorðnir ekki að gera við börn.    Vitnið H, sambýliskona föður brotaþola, sagðist hafa heyrt af máli þessu frá G, föður brotaþola, og síðar í samtali við F, móður brotaþola. Á sama hátt og faðir brotaþola greindi vitnið frá þeim breytingum sem hún hefði merkt á hegðun stúlkunnar, bæði fyrir og eftir að hún greindi móður sinni frá meintu broti ákærða. Vitnið C  barnalæknir kvaðst hafa skoðað brotaþola í Barnahúsi 10. maí 2017, ásamt D kvensjúkdómalækni, og ritað um það skýrslu sem dagsett er 16. maí það ár. Sjálfur kvaðst hann þó ekki hafa skoðað kynfæri stúlkunnar, en aðeins stuðst við teikningu sem D hafi látið honum í té, og lögð var fram sem dómskjal í málinu. Tók hann fram að myndbandsupptaka af skoðun stúlkunnar hafi farið forgörðum og því hafi hann talið nauðsynlegt að endurtaka skoðunina. Móðir stúlkunnar hafi hins vegar ekki talið slíkt nauðsynlegt. Vitnið sagði að áðurnefnd teikning af kynfærum stúlkunnar sýndi breytingar sem taldar væru óeðlilegar á meyjarhafti hjá fimm ára stúlku. Í því sambandi benti vitnið sérstaklega á að skarð væri í meyjarhafti brotaþola að aftanverðu, en þar vantaði það alveg. Hins vegar kvaðst vitnið ekki með neinu móti geta kveðið upp úr um ástæðu þess. Sérstaklega spurður hvort verið gæti að ástæða þessa væri sú að einhver hefði stungið fingri í leggöng stúlkunnar, sagði vitnið þó að sú gæti verið skýringin. Vitnið D kvensjúkdómalæknir sagðist hafa skoðað kynfæri brotaþola og hafi hún, ásamt C barnalækni, ritað vottorð um þá skoðun. Vel hafi gengið að skoða stúlkuna og hafi ytri kynfæri hennar verið eðlileg. Hins vegar hafi þeim þótt óeðlilegt að eins konar skarð hafi verið á meyjarhafti stúlkunnar, að aftanverðu, og hafi það vantað nánast alveg þar. Báðum hafi þeim fundist slíkt óeðlilegt á svo ungu barni. Vitnið var þá að því spurt hvort útlit meyjarhaftsins gæti bent til þess að fingur hafi verið settur í kynfæri barnsins og sagði vitnið að svo gæti verið. Vitnið var einnig að því spurt hvort hún teldi að blætt hefði ef fingur hefði verið settur í kynfæri stúlkunnar, og sagði vitnið að það gæti hafa blætt, en þyrfti ekki að gera það. Hins vegar tók vitnið fram að það hefði verið sárt ef slíkt hefði gerst. Vitnið I, leikskólakennari og hópstjóri á leikskólanum [...] Hafnarfirði, sagðist hafa kynnst brotaþola í ágúst 2016, er hún tók við hópi barna á þeirri deild er brotaþoli var. Sagði hún að brotaþoli hafi verið glöð, opin og ræðin stúlka, sem greinilega hafi verið vel sinnt af foreldrum. Engu að síður kvaðst vitnið hafa skynjað breytingar á stúlkunni frá hausti, september eða október, og fram yfir áramót, en þá hafi hún ekki viljað fara í leikskólann og sleppa hendi af foreldrum sínum, auk þess sem hún hafi verið lystarlaus og ekki tekið mikinn þátt í umræðum og öðru leikskólastarfi. Þegar borinn var undir vitnið framburður hennar hjá lögreglu 13. mars 2017, þar sem hún sagðist hafa skynjað áðurnefndar breytingar á barninu í lok janúar eða byrjun febrúar, sagðist vitnið enn halda að þetta hafi byrjað seint um haustið. Þó sagðist vitnið hafa munað þetta betur þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglunni. Vitnið sagði enn fremur að engin markviss fræðsla hefði verið fyrir börnin um kynferðisofbeldi á þessum tíma, en umræða um einkastaði þeirra hefði verið tekin þegar lesnar voru bækur um slíkt efni. Vitnið J, félagsráðgjafi og starfsmaður Barnahúss, kvaðst alls hafa átt 17 meðferðarviðtöl við brotaþola eftir meint brot ákærða, og liggja fyrir í málinu tvær skýrslur vitnisins, dagsettar 5. júlí 2017 og 22. febrúar 2018. Fram kom í máli vitnisins að brotaþoli hafi fengið martraðir og hafi meðferðin í upphafi beinst að þeim vanda. Einnig hafi stúlkan um langt skeið glímt við aðskilnaðarkvíða, auk þess sem hún hafi í byrjun sýnt af sér breytta og óeðlilega hegðun, svo sem að toga í nærbuxur sínar við kynfærin, eins og henni liði þar óþægilega. Með tímanum dró þó úr þessari hegðun, allt þar til í maí 2017, en þá hafi móðir stúlkunnar greint frá því að stúlkan væri hrædd við að sofa í herbergi móður sinnar, þar sem meint brot voru talin hafa átt sér stað. Hafi stúlkan því aftur komið til meðferðar. Sú meðferð hafi gengið vel, en bakslag hafi þó síðar orðið, og nefndi vitnið sérstaklega frásögn móður stúlkunnar af ferð þeirra mæðgna í verslun þar sem stúlkan hafi talið sig finna lykt sem minnti hana á ákærða. Hafi móðirin tjáð vitninu að við þetta hafi stúlkan tryllst. Vitnið K, fyrrverandi sambýliskona ákærða og barnsmóðir hans, sagði að hún og ákærði hefðu búið saman í tíu ár og ættu saman þrjá drengi, [...], [...] og [...] ára. Hún sagði að ákærði væri mjög góður maður og faðir og treysti hún honum 100 prósent fyrir börnum, bæði eigin börnum og annarra. Vitnið var einnig að því spurt hvort hún hafi vitað að ákærði hafi vistað klámfengið efni, barnaníð, í síma sínum og neitaði hún því. Þá sagðist hún aldrei hafa orðið þess vör að kynferðislegur áhugi hans beindist að börnum. Vitnið L lögreglumaður gaf skýrslu í gegnum síma. Hún kvaðst hafa annast myndskoðun í síma ákærða og hafi hún þar meðal annars fundið myndir með barna-og dýraníði, og tók fram að myndirnar hafi verið í grófari kantinum. Vitnið B lögreglumaður kvaðst hafa fengið síma ákærða afhentan til þess að afrita gögn af honum. Síminn hafi verið læstur, en tekist hefði að opna hann með sérstökum hugbúnaði sem lögreglan búi yfir. Hafi síminn verið speglaður, gögnin afrituð og fengin öðrum lögreglumanni til skoðunar. Síðar sagðist vitnið hafa verið beðið um að rannsaka hvar myndirnar hafi verið í símanum. Hafi þær fundist í flýtiminninu, sem tengt væri við „Gallerí-appið“. Útskýrði vitnið að í flýtiminni, tengt „Gallerí-appinu“, færu til dæmis myndir sem teknar væru á símann og myndir sem hlaðið væri niður. Flýtiminni, eða „cache-minni“, væri ekki aðgengilegt fyrir notendur, heldur væri þar um að ræða virkni fyrir stýrikerfi símans svo að fljótlegra væri að opna myndir og vefsíður. Sagði vitnið að myndir færu ekki sjálfkrafa í flýtiminnið, til dæmis þegar notandi fengi sendan hlekk, heldur þyrfti notandinn að opna hlekkinn. Að öðrum kosti vistist myndirnar ekki í flýtiminni símans. Fullyrti vitnið að myndirnar í síma ákærða hefðu verið opnaðar, að öðrum kosti hefðu þær ekki farið í flýtiminnið.    Niðurstaða  Eins og fram er komið neitar ákærði alfarið að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruliðum 1 og 2. Krefst hann aðallega sýknu, en til vara að ákvörðun refsingar verði frestað skilorðsbundið. Til þrautavara krefst hann vægustu refsingar sem lög heimila. Þá krefst hann þess að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði verulega lækkuð. Loks er þess krafist að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, greiðist úr ríkissjóði. Að því er varðar 3. tölulið ákærunnar játar ákærði sök og krefst vægustu refsingar sem lög framast leyfa. 1. töluliður ákæru Ákæruvaldið byggir kröfu sína um sakfellingu ákærða samkvæmt þessum ákærulið á framburði brotaþola, framburði vitna og fyrirliggjandi gögnum. Í því sambandi er sérstaklega vísað til framburðar móður brotaþola sem ákæruvaldið telur trúverðugan. Þá hafi brotaþoli skýrt og greinilega sagt frá brotum ákærða í viðtölum við starfsmenn Barnahúss. Vanlíðan barnsins eftir brot ákærða, breytt hegðun þess og teikningar barnsins í meðferðarviðtölum styðji og frásögn þess. Fyrirliggjandi læknisvottorð um skoðun á meyjarhafti stúlkunnar renni enn fremur stoðum undir sekt ákærða. Í ljósi þessa telur ákæruvaldið að leggja beri framburð stúlkunnar og móður hennar til grundvallar, enda sé hann trúverðugur. Að sama skapi sé framburður ákærða ótrúverðugur. Sýknukrafa ákærða byggist á því að brot þau sem ákærði er sakaður um í 1. tölulið ákæru séu tilbúningur og hafi aldrei átt sér stað. Bendir hann á að ekkert saknæmt hafi komið fram í fyrsta viðtali við brotaþola og gerir um leið athugasemd við að ýmis vitni hafi síðan verið kölluð til, bæði hjá lögreglu og fyrir dóm, sem öll eigi það sammerkt að vera í nánum tengslum við móður brotaþola. Þá byggir hann á því að móðir brotaþola hafi, annaðhvort vísvitandi eða ómeðvitað, lagt barninu orð í munn í síðari skýrslutöku þess í Barnahúsi, svo og að viðmælendur þess í báðum skýrslutökum hafi lagt hart að barninu með leiðandi spurningum. Með svörum sínum hafi barnið verið að þóknast viðmælendum, en ekki að greina frá staðreyndum. Eins og fram er komið er upphaf þessa máls að rekja til bréfs barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar 3. mars 2017 til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í bréfinu er skýrt frá því að daginn áður hafi móðir brotaþola hringt í starfsmann barnaverndarnefndar og lýst áhyggjum af atviki sem þá hafði gerst fyrr um morguninn. Hafði stúlkan þá rekið fótinn í klof móður sinnar, en síðar lagst á fjóra fætur, tekið nærbuxur sínar niður á mið læri, tekið í hönd móður sinnar og fært hana að klofi sínu og sagt henni að setja höndina á píkuna á sér. Móðirin hafi þá tekið höndina til baka og sagt dóttur sinni að svoleiðis ætti ekki að gera. Hafi stúlkan þá sagt að hún og ákærði hafi tekið buxurnar og nærbuxurnar niður, hún hafi sett puttann í rassinn á honum og hann hafi fengið að skoða rassinn á henni. Í skýrslu sinni hjá lögreglu og síðar fyrir dómi sagði móðir brotaþola frá atvikum á sama veg og að ofan. Fyrir dómi sagði hún einnig að skömmu fyrir afmæli dóttur sinnar hefði hún sótt hana í leikskólann og hefði stúlkan þá spurt hvort synir ákærða kæmu ekki í afmælið, en afmæli hennar var [..] Þegar móðirin sagði dóttur sinni að hún og ákærði væru ekki lengur kærustupar og ákærði byggi því ekki lengur hjá þeim, hafi stúlkan tekið því illa og grátið óstjórnlega. Í SMS-skilaboðum frá móðurinni til ákærða, sem lögð voru fram við meðferð málsins, segir móðirin svo um þetta: „Er óskynsamlegt að bjóða strákunum í afmælið? A er nánast óhuggandi. Var að sækja hana og hún skilur ekki neitt í því af hverju hún hitti ykkur ekki aftur og segir að afmælisdagurinn verði ömurlegur. En þegar ég sótti hana var hún eitt sólskinsbros yfir því að það væru bara 8 dagar.“ Ákærði svaraði móðurinni með eftirfarandi skilaboðum: „Æ vá það er sárt að heyra. En nei nei eða þú veist ég held ekki eða hvað heldur þú?“ Tveimur dögum síðar, á fimmtudagsmorgni, sagði móðirin að dóttir hennar hefði svo greint sér frá því atviki sem áður er lýst og er upphaf þessa máls. Ákærði var handtekinn 10. mars 2017 og færður til yfirheyrslu. Neitaði hann því að hafa brotið gegn stúlkunni. Hann greindi hins vegar frá atviki er stúlkan tók í hönd hans, er þau lágu í rúmi hennar, og bað hann um að fara með hana í klofið á sér því að henni þætti það svo gott. Mun þetta hafa átt sér stað 24. janúar 2017, en móðir stúlkunnar hafði þá beðið ákærða um að passa hana. Einnig skýrði ákærði frá því er móðir stúlkunnar bað hann um að skutla henni í leikskólann, en samkvæmt framburði ákærða mun stúlkan þá hafa sett hönd sína á rasskinn hans, og hann síðar skeint hana þar sem hún var illa skeind. Frásögn ákærða af atvikum þessum hefur verið rakin hér að framan og er samhljóða hjá lögreglu og fyrir dómi.  Í skýrslutöku í Barnahúsi 13. mars 2017 kom ekkert fram sem benti til þess að frásögn stúlkunnar af meintu broti ákærða, sem hún sagði móður sinni frá skömmu áður, ætti við rök að styðjast. Þannig sagði hún að enginn hefði gert neitt við hennar einkastaði og bætti við að hún myndi segja stopp ef einhver vildi gera það. Ekki sagðist hún heldur hafa rekist í einkastaðinn á mömmu sinni og ekki skýrði hún frá því er hún reyndi að færa hönd ákærða og mömmu sinnar að klofi sínu, en bæði báru þau um að stúlkan hefði reynt það. Síðar í skýrslutökunni sagði stúlkan hins vegar að ákærði hefði strokið henni um rassinn utanklæða þegar hann var að svæfa hana í rúmi mömmu hennar, og hefði mamma hennar þá verið frammi. Enn síðar sagði stúlkan að ákærði hefði strokið henni einu sinni um rassinn innanklæða, en utan á nærbuxunum, þegar þau voru að lesa bók í kósý-horninu undir kojunni. Sagðist stúlkan einnig hafa sagt mömmu sinni frá þessu. Hins vegar neitaði barnið því að ákærði hefði strokið henni einhvers staðar annars staðar. Bæði ákærði og mamma hennar hefðu þó stundum hjálpað henni að skeina sig. Loks neitaði hún því að hafa einhvern tíma sofið nakin. Fram er komið að móðir brotaþola tók mynd af ákærða og dóttur sinni er hún kom heim að kvöldi 24. janúar 2017. Á myndinni má sjá ákærða og brotaþola sofandi í barnarúmi og er ákærði þar íklæddur bol, en brotaþoli virðist ber að ofan. Sagðist móðirin hafa hent þessu rúmi þegar dóttir hennar fékk koju í afmælisgjöf frá ömmu sinni. Samkvæmt lýsingu brotaþola í skýrslutökum í Barnahúsi er koja þessi inni hjá mömmu hennar, með stiga og engu rúmi neðar, og sagðist brotaþoli sofa þar hátt uppi. Þar sem barnið fékk koju þessa í afmælisgjöf frá ömmu sinni [...], en ákærði sleit sambandi við móður barnsins 23. febrúar, er ljóst að hvorki umrædd koja né kósý-hornið undir henni var á heimili þeirra mæðgna þegar ákærði á að hafa strokið stúlkunni um rassinn innanklæða, en utan á nærbuxunum, eins og barnið lýsti í skýrslutöku í Barnahúsi. Fyrir dómi sagði móðir brotaþola að eftir skýrslutökuna í Barnahúsi hafi starfsmaður barnaverndarnefndar sagt henni að barnið hefði ekki greint frá öllu sem það sagði henni, og lagði til að ef það myndi síðar greina frá einhverju skyldi hún skrifa það niður. Jafnframt hafi starfsmaðurinn sagt að ekki væri útilokað að barnið þyrfti að koma aftur til skýrslutöku. Daginn eftir sagðist móðirin hafa sagt dóttur sinni að ef hún þyrfti að fara aftur í Barnahús gæti verið að hún yrði spurð frekar um hvað hún og ákærði hafi gert. Mun dóttirin hafa mótmælt því og sagt að hún væri búin að segja frá. Skömmu síðar hafi barnið hins vegar sagt að ákærði „hafi sett puttann í píkuna og rassinn og sleikt píkuna og rassinn.“ Þar sem barnið hafi alls ekki viljað segja konunni í Barnahúsi þetta sagðist móðirin hafa lagt til að hún fengi að taka frásögnina upp á vídeó og hafi stúlkan samþykkt það og endurtekið þar frásögn sína. Upptaka þessi er þó ekki meðal gagna málsins og sætir það furðu. Daginn eftir, 15. mars 2017, gaf móðir brotaþola skýrslu hjá lögreglu um umrætt atvik. Í skýrslunni ræðir hún meðal annars um samtal sitt við dóttur sína eftir skýrslutöku hennar í Barnahúsi 13. mars og aðdraganda þess að dóttir hennar sagði frá ofangreindu. Kvaðst hún hafa talið óhætt að dóttir hennar vissi af hverju hún þyrfti að fara þangað aftur og tala við konuna. Orðrétt segir hún síðan: „Og hún sagði af hverju þarf hún að tala við mig og svona og ég segi við hana að hún vilji kannski vita eitthvað meira hérna um hana og X. Og hérna og kannski vilji hún, kannski vilji hún heyra eitthvað meira sem að þið gerðuð.“ Fram kemur einnig við skýrslutökuna að móðirin ræddi daginn áður við lögreglumanninn sem stjórnaði skýrslutökunni og má skilja orð hennar svo að hún hafi talið að lögreglumaðurinn hafi sagt henni að í lagi væri að undirbúa stúlkuna fyrir síðari skýrslutöku í Barnahúsi. Lögreglumaðurinn sagðist þá ekki hafa sagt móðurinni að undirbúa stúlkuna fyrir síðara viðtal og bætti síðar við: [...] „bara ég vil að það komi skýrt fram sem sé að þetta sé, hafi ekki verið einhvers konar, ég var ekki að hvetja.“ Brotaþoli gaf aftur skýrslu í Barnahúsi 18. apríl 2017, eða rúmum mánuði eftir samtal hennar og móður hennar 14. mars sama ár. Hefur efni hennar þegar verið rakið, en ljóst er að þá greindi barnið frá allt öðrum og mun alvarlegri brotum en í fyrri skýrslutöku þess. Í tilefni af því var ákærði yfirheyrður á ný af lögreglu 26. maí 2017 og kvaðst hann standa við allt sem hann sagði í fyrri yfirheyrslu. Hafnaði hann með öllu ásökunum um að hafa snert stúlkuna á óviðeigandi hátt eða sleikt á henni kynfærin. Fyrir dómi neitaði hann því einnig alfarið að hafa káfað á kynfærum stúlkunnar, stungið fingri í leggöng hennar eða sleikt á henni kynfærin. Í öllum meginatriðum er fullur samhljómur í framburði hans hjá lögreglu og síðar fyrir dómi. Ekki liggur ljóst fyrir hvenær ákærði á að hafa framið það brot sem stúlkan lýsti í samtali við móður sína 14. mars 2017, en samkvæmt ákæru er á því byggt að hann hafi framið það 24. janúar og 17. febrúar 2017. Óumdeilt er að ákærði var einn með brotaþola að kvöldi beggja þessara daga, en í bæði skiptin hafði móðir stúlkunnar beðið hann um að passa dóttur sína. Í fyrra skiptið kom móðirin heim um tíuleytið um kvöldið og kom þá að ákærða og dóttur sinni sofandi í barnarúminu og tók þá af þeim ljósmyndina sem áður er getið. Hjá lögreglu sagðist ákærði hafa hitt þær mæðgur það kvöld á kjúklingastaðnum í Suðurveri og hafi hann og brotaþoli verið komin heim einhvers staðar á milli átta og níu. Í sömu yfirheyrslu sagði hann að í seinna skiptið hefði hann sótt stúlkuna á leikskólann, farið með hana í vinnuna og leyft henni að prófa gröfu. Að því loknu hafi þau farið í Krónuna og svo heim, þar sem stúlkan hafi lagst í sófann og farið að horfa á barnaefni. Eftir það hafi þau meðal annars farið að lita. Bróðir F, móður brotaþola, hefði komið í heimsókn um áttaleytið og stoppað í korter til tuttugu mínútur. Síðan kvaðst ákærði hafa lesið og sungið fyrir stúlkuna og hún farið að sofa í sínu rúmi. Aðspurður sagðist hann umrætt sinn hafa verið í vinnubuxum, en farið úr þeim og því verið smástund á nærbuxum, en síðan klætt sig í aðrar buxur og bol. Fyrir dómi sagðist ákærði hafa verið á nærbuxunum þegar bróðir F kom í heimsókn og hafi honum þótt það vandræðalegt. Mundi hann eftir því að hafa sent F SMS-skilaboð um kvöldið, þar sem hann sagði frá heimsókn bróður hennar og að hann hafi þá verið á nærbuxunum. Þá kvaðst hann hafa verið vakandi þegar F kom heim um eittleytið um nóttina. Af óútskýrðum ástæðum er ekki að sjá að lögreglan hafi sannreynt frásögn ákærða af heimsókn móðurbróður brotaþola og ekki gaf sá heldur skýrslu fyrir dómi. Telur dómurinn það alvarlega yfirsjón við rannsókn jafn alvarlegs brots og hér um ræðir.    Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að brotaþoli hafi á neinn hátt verið búin undir skýrslutöku í Barnahúsi 13. mars 2017. Síðari frásögn brotaþola af meintum brotum ákærða vekur hins vegar óneitanlega athygli, ekki aðeins vegna alvarleika þeirra, heldur einnig vegna þess að brotaþoli greindi móður sinni frá þeim daginn eftir áðurnefnda skýrslutöku. Á þeim tíma hafði móðir stúlkunnar sagt henni að ef hún þyrfti að fara aftur í Barnahús gæti verið að hún yrði spurð frekar um hvað hún og ákærði hafi gert, en stúlkan mun þá hafa mótmælt því og sagt að hún væri búin að segja frá. Ósagt skal látið hvort stúlkan hafi við orð móður sinnar viljað þóknast henni, en viðbrögð hennar voru engu að síður þau að hún lýsti þeim brotum sem ákærði er sakaður um í máli þessu, fyrst fyrir móður sinni og rúmum mánuði síðar við skýrslutöku í Barnahúsi. Breytt viðhorf stúlkunnar til ákærða á skömmum tíma vekur einnig athygli, en eins og áður er rakið grét hún óstjórnlega þegar móðir hennar upplýsti hana um að hún og ákærði væru ekki lengur kærustupar, og því kæmi hvorki hann né strákarnir hans í afmæli hennar. Minnt er einnig á að í fyrri skýrslutöku í Barnahúsi sagði stúlkan að ákærði væri fínn, þau léku sér stundum í mömmó og máluðu og lituðu saman. Í síðari skýrslutökunni sagði stúlkan hins vegar að það væri fínt að ákærði gisti ekki lengur á heimilinu. Við mat á trúverðugleika frásagnar stúlkunnar verður að líta til þessa, og ekki síður til áðurrakins framburðar móðurinnar í skýrslu hennar hjá lögreglu 15. mars 2017, sem vart verður skilinn öðruvísi en svo að hún hafi eftir samtal við lögreglumanninn sem stjórnaði yfirheyrslunni, talið óhætt að undirbúa stúlkuna fyrir síðara viðtal í Barnahúsi. Reyndar mótmælti lögreglumaðurinn því að hann hafi sagt móðurinni að undirbúa stúlkuna fyrir það viðtal. Ákæruvaldið bendir á að báðir foreldrar stúlkunnar, auk stjúpmóður hennar og leikskólakennara, hafi veitt athygli miklum breytingum á hegðun stúlkunnar eftir meint brot ákærða. Reyndar kvaðst faðir stúlkunnar og sambýliskona hans hafa tekið eftir breytingum á hegðun stúlkunnar nokkru áður, og lýstu þeim þannig að hún hafi verið vælin, erfið og ólík sjálfri sér. Sagði faðirinn að það hafi verið um það leyti sem ákærði og synir hans fóru að venja komur sínar á heimili móðurinnar. Þá sagði faðirinn að stúlkan hafi ítrekað fengið martraðir eftir meint brot ákærða. Vitnið J félagsráðgjafi staðfesti einnig að stúlkan hafi glímt við martraðir og hafi viðtalsmeðferð hennar í upphafi beinst að þeim vanda, en síðar einnig að aðskilnaðarkvíða. Telur ákæruvaldið að ofangreint styðji frásögn barnsins af meintum brotum. Engin efni eru til að draga í efa frásagnir ofangreindra aðila um breytta hegðun stúlkunnar um það leyti sem hún lýsti meintum brotum ákærða. Hins vegar verður ekki á þeim byggt sem sönnun þess að ákærði hafi framið þau brot sem hann er sakaður um, enda liggur ekkert fyrir um að orsök breyttrar hegðunar verði rakin til meintra brota. Af hálfu ákæruvaldsins er loks á því byggt að framlagt læknisvottorð tveggja lækna sem skoðuðu brotaþola í Barnahúsi, svo og vætti þeirra fyrir dómi, styrki frásögn stúlkunnar, en í vottorði þeirra komi fram að óeðlilegt skarð sé í meyjarhafti hennar að aftanverðu og vanti það þar alveg. Hvorugur læknanna kvaðst geta kveðið upp úr um ástæðu þessa, en báðir sögðu þó aðspurðir að skýringin gæti verið sú að fingur hafi verið settur í kynfæri stúlkunnar. Annar læknanna var þá að því spurður hvort blæða myndi úr kynfærum stúlkunnar við slíkt og svaraði hann því til að það gæti hafa blætt, en þyrfti ekki að gera það. Hins vegar tók læknirinn fram að það hefði verið sárt ef slíkt hefði gerst. Í tilefni af þessu þykir rétt að minna á framburð brotaþola í seinni skýrslutöku í Barnahúsi, en þar sagði stúlkan að ákærði hefði potað í strikið eða rasskinnina og hefði henni ekki þótt það gott. Þó hefði hún ekki meitt sig. Þá er hvergi í gögnum málsins að finna vísbendingar um að fundist hafi blóð á kynfærum stúlkunnar, rúmfötum eða í fatnaði. Eins og áður greinir hefur ákærði staðfastlega neitað sök og er framburður hans, bæði hjá lögreglu og síðar fyrir dómi, samhljóða og stöðugur. Framburður brotaþola er hins vegar misvísandi í nokkrum atriðum og að því leyti ótraustur að ekki er unnt að útiloka áhrif annarra á framburð hennar. Í því ljósi, en einnig að öðrum atriðum gættum sem nefnd hafa verið hér að framan, þykir ekki unnt að slá því föstu, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er sakaður um samkvæmt þessum ákærulið. Verður hann því sýknaður af þeirri háttsemi og einkaréttarkröfu brotaþola vísað frá dómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008. 2. töluliður ákæru Eins og ákæruvaldið hefur nú breytt þessum ákærulið er ákærði sakaður um að hafa á tímabilinu 2. október 2016 til 10. mars 2017 skoðað 85 ljósmyndir og eina hreyfimynd í Samsung Galaxy S7 Edge farsíma sínum, en myndir þessar sýna börn á kynferðislegan hátt. Er háttsemin talin varða við 2. mgr. 210. gr. a í almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Fram er komið að ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákærulið og krefst sýknu. Hefur hann skýrt umræddar myndir í síma sínum þannig að hann hafi verið að vafra á milli spjallsíðna þar sem klámfengnar, en eðlilegar myndir, hafi verið sendar á milli manna. Líklega hafi hann ýtt á einhvern hlekk sem fært hafi hann í ógáti inn á einhverja aðra netsíðu, og hafi myndirnar þá vistast óumbeðið í síma hans. Hafi hann „skrollað“ niður síðuna, en séð að þarna var eitthvað athugavert og því strax farið út af síðunni. Hann neitaði því að hafa opnað myndirnar og skoðað þær, en gat ekki skýrt hvers vegna búið væri að opna sumar þeirra oft. Vitnið B lögreglumaður sagði fyrir dómi að hann hefði afritað gögn úr síma ákærða og þar hafi umræddar myndir fundist í flýtiminni hans. Tók hann fram að myndir færu ekki sjálfkrafa í flýtiminnið, til dæmis þegar notandi fengi sendan hlekk, heldur þyrfti notandinn að opna hlekkinn. Að öðrum kosti vistuðust myndirnar ekki í flýtiminni símans. Með vísan til ofangreindra skýringa lögreglumannsins á hvar umræddar myndir var að finna í síma ákærða, þykja skýringar ákærða ekki trúverðugar. Þá liggur fyrir að ákærði opnaði og skoðaði að minnsta kosti einhverja þessara mynda áður en hann fór út af netsíðunni, enda hefði hann að öðrum kosti ekki séð að þar var eitthvað athugavert efni að finna. Samkvæmt því þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem að ofan greinir og varðar brot hans við 2. mgr. 210. gr. a í almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Samkvæmt því sem að framan er rakið er ákærði sýknaður af þeim verknaði sem lýst er í 1. tölulið ákærunnar. Hins vegar verður hann sakfelldur fyrir brot það sem greinir í varakröfu 2. töluliðar og 3. tölulið ákærunnar, en eins og fram er komið hefur hann játað sök samkvæmt síðastnefnda ákæruliðnum. Ákærði er fæddur  í [...] árið 1984 og hefur ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin 300.000 króna sekt til ríkissjóðs, og skal hún greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, en ella sæti ákærði fangelsi í 20 daga. Þá verður honum, með vísan til 1. tl. 69. gr. a í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, gert að sæta upptöku á áðurnefndum farsíma af gerðinni Samsung Galaxy S7 Edge, og 1,44 g af kókaíni, sem lögreglan fann við leit á ákærða og lagði hald á.  Með hliðsjón af úrslitum málsins og vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 þykir rétt að allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Unnsteins Arnar Elvarssonar lögmanns, 2.039.490 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns, 1.052.450 krónur, og þóknun réttargæslumanns á rannsóknarstigi málsins, Jóhönnu Sigurjónsdóttur lögmanns, 84.320 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ingimundur Einarsson héraðsdómari kveður upp dóminn. D ó m s o r ð: Ákærði, X, greiði 300.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, en sæti ella fangelsi í 20 daga. Einkaréttarkröfu F og G, fyrir hönd A, er vísað frá dómi. Upptækur skal gerður til ríkissjóðs farsími ákærða af gerðinni Samsung Galaxy S7 Edge, og 1,44 g af kókaíni. Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Unnsteins Arnar Elvarssonar lögmanns, 2.039.490 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns, 1.052.450 krónur, og þóknun réttargæslumanns á rannsóknarstigi málsins, Jóhönnu Sigurjónsdóttur lögmanns, 84.320 krónur.
Mál nr. 13/2020
Stjórnarskrá Meðalhóf Jafnræði Sveitarfélög Lögmætisregla Skyldubundið mat
A höfðaði mál á hendur R og krafðist þess að ógiltar yrðu ákvarðanir R og úrskurður úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þar sem umsókn hennar um fjárhagsaðstoð var synjað á grundvelli tekna maka hennar. Þá krafðist A að henni yrði greidd nánar tilgreind fjárhæð sem hún hefði fengið frá R ef ekki hefði komið til fyrrnefndrar skerðingar. Ágreiningur málsins laut að því hvort R hefði með synjun sinni um fjárhagsaðstoð til A brotið gegn grundvallarréttindum hennar samkvæmt 65. og 76. gr. stjórnarskrárinnar og hvort R hefði við töku ákvarðana sinni brotið gegn meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af því lögbundna fyrirkomulagi velferðarkerfisins leiddi að þegar fjárhagslegum stuðningi ríkisins sleppti kæmi það almennt í hlut sveitarfélaga að taka afstöðu til þess á grundvelli þeirra laga sem um það gilti sérstaklega hvernig fjárhagsaðstoð þeirra við íbúa sína yrði hagað til að tryggja þeim nauðsynlega framfærslu. Var talið að leggja yrði til grundvallar að það fyrirkomulag í reglum R að tekjur maka gætu haft áhrif til skerðingar á rétti manna til fjárhagsaðstoðar ætti sér fullnægjandi stoð í lögum. Þá var talið að fyrrnefnt fyrirkomulag reglna R ætti við málefnaleg rök að styðjast og að sú skerðing sem A sætti hefði ekki farið í bága við grundvallarreglur stjórnarskrárinnar. Að lokum var vísað til þess að af hálfu A hefði engin grein verið gerð fyrir því að einhverjar þær ástæður sem kæmu fram í umræddum reglum væru fyrir hendi sem réttlættu þörf á frekari mati á fjárhagsaðstoð en veitt hefði verið á grundvelli hinna hlutlæga viðmiða. Var R því sýknað af kröfum A.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Árni Kolbeinsson og Þorgeir Örlygsson fyrrverandi hæstaréttardómarar. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. febrúar 2020. Hún krefst þess að ógiltar verði ákvarðanir stefnda frá 8. janúar og 8. apríl 2015 þar sem umsókn hennar um fjárhagsaðstoð var synjað. Jafnframt krefst hún þess að ógiltur verði úrskurður úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála 14. október 2015 sem staðfesti ákvarðanir stefnda. Þá krefst áfrýjandi þess að stefndi greiði sér 49.868 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. janúar 2015 til greiðsludags. Loks krefst hún málskostnaðar á öllum dómstigum. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort stefndi hafi með synjun sinni um fjárhagsaðstoð til áfrýjanda brotið gegn grundvallarréttindum hennar samkvæmt 65. gr. og 76. gr. stjórnarskrárinnar. Einnig er um það deilt hvort stefndi hafi með ákvörðunum sínum brotið gegn meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat. Ekki er deilt um það að ef eingöngu hefði verið tekið tillit til tekna áfrýjanda á því tímabili, sem um ræðir í málinu, og skilgreindrar grunnfjárhæðar til framfærslu einstaklings samkvæmt reglum stefnda, hefðu tekjur áfrýjanda verið undir viðmiðunarmörkum og hún notið fjárhagsaðstoðar. Í ákvörðunum stefnda var á hinn bóginn tekið tillit til tekna maka áfrýjanda og voru samanlagðar tekjur þeirra yfir viðmiðunarmörkum fyrir hjón og sambúðarfólk og var synjun stefnda um fjárhagsaðstoð til handa áfrýjanda á því reist. II Áfrýjandi hefur verið metin með hámarksörorku frá 1. mars 2011 og fengið á grundvelli laga nr. 100/2007 um almannatryggingar greiddan örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót og tekjutryggingu. Þá hefur hún fengið greidda sérstaka framfærsluuppbót á grundvelli laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Áfrýjandi sótti um fjárhagsaðstoð til framfærslu hjá stefnda fyrir tímabilið 1. janúar  til 28. febrúar 2015 en umsókninni var synjað 8. janúar 2015 á þeim grundvelli að hún samrýmdist ekki reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem settar eru með stoð í lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 21. gr. laganna. Í synjun stefnda var sérstaklega vísað til 2. og 12 gr. reglnanna. Í þeirri síðarnefndu kemur fram að allar tekjur einstaklings og maka í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinn á undan, aðrar en greiðslur vegna barna og húsaleigu/vaxtabætur komi til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar. Áfrýjandi kærði synjunina til velferðarráðs stefnda 3. febrúar 2015 sem staðfesti hana 8. apríl sama ár. Með kæru 24. júlí 2015 skaut áfrýjandi málinu til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála sem 14. október sama ár staðfesti ákvörðun velferðarráðsins. Héraðsdómur sýknaði stefnda af kröfum áfrýjanda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grundvelli að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um hvort og þá að hvaða marki sveitarfélögum væri heimilt að skerða fjárhagsaðstoð til einstaklinga vegna tekna maka. III Samkvæmt 1. gr. laga nr. 40/1991 er markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Það skal gert meðal annars með því að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti og veita aðstoð til þess að íbúar geti búið sem lengst í heimahúsum og við sem mest lífsgæði. Í 2. gr. laganna er kveðið svo á um að með félagsþjónustu samkvæmt lögunum sé átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf í tengslum við tilgreinda málaflokka, þar á meðal fjárhagsaðstoð. Í 12. gr. laganna segir að sveitarfélag skuli veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 1. mgr. 19. gr. laganna að skylt sé hverjum manni að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Jafnframt er kveðið svo á um í 1. mgr. 21. gr. laganna að sveitarstjórn skuli setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar, sbr. 2. mgr., að fengnum tillögum félagsmálanefndar. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að félagsmálanefnd meti þörf og ákveði fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 1. mgr. 21. gr. Þá segir í 3. mgr. ákvæðisins að fjárhagsaðstoð sé aldrei skylt að veita lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn er lögð fram. Upphaflega hljóðaði ákvæði 1. mgr. 21. gr. svo að fjárhagsaðstoð á vegum sveitarfélags skyldi vera svo mikil sem nauðsyn krefði og 2. mgr. kvað á um að sveitarstjórn setti reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar. Með lögum nr. 34/1997 var 1. og 2. mgr. ákvæðisins breytt til núverandi horfs og í lögskýringargögnum kom fram að ekki væri um efnisbreytingu að ræða heldur einungis aðra framsetningu. Í almennum athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 40/1991 kom fram að við setningu heildstæðrar löggjafar um félagsþjónustu sveitarfélaga hefðu tvær leiðir komið til álita. Önnur væri sú að leggja til að öll lög um félagsþjónustu sveitarfélaga yrðu felld saman í einn lagabálk. Hin væri sú að vinna að frumvarpi til rammalaga þar sem kveðið væri stuttlega á um meginreglur, en við hlið laganna giltu sérlög, auk þess sem sveitarfélögin settu sér sjálf reglur. Lagaþróunin hefði verið sú að sett hefðu verið sérlög innan félagsmálalöggjafarinnar, svo sem lög um málefni aldraðra og lög um málefni fatlaðra og þannig ekki stefnt að heildarlöggjöf heldur fremur hinu gagnstæða. Sveitarstjórnarlög nr. 8/1986 sem fólu í sér áherslur á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga hefðu ekki síður haft áhrif á þá niðurstöðu að unnið yrði að frumvarpi til rammalaga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þá sagði í frumvarpinu að gengið yrði út frá því að það veitti svigrúm til mats miðað við aðstæður á hverjum stað og samrýmdist þannig sjónarmiðum um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Ekki væri gert ráð fyrir neinum breytingum á fjármögnun þjónustunnar frá því sem lög um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og lög um tekjustofna sveitarfélaga kvæðu á um. Það sem mælti helst með rammalöggjöf væri að hún veitti sveitarfélögum ákveðið frelsi og sjálfræði um val á leiðum og til að ná settum markmiðum. Skapast gætu þá meiri möguleikar til að taka mið af staðbundnum sjónarmiðum og sveigjanleiki í félagsþjónustu ykist. Um markmiðslýsingu var komist svo að orði í frumvarpinu að grundvallaratriði við framkvæmd félagsþjónustu væri að lög hefðu að geyma skýra markmiðslýsingu. Hún gæti hins vegar einungis verið almenns eðlis, en nauðsyn á markmiðslýsingu væri einkar brýn þegar um væri að ræða löggjöf sem veitti sveitarfélögum frelsi til að velja um úrræði. Ekki væri mögulegt að tilgreina með tæmandi hætti í lögum öll þau fjölbreytilegu tilvik sem til álita gætu komið, síst í rammalögum. Stór hluti þeirra félagslegu þarfa sem glímt væri við væru með þeim hætti að þeim yrði ekki fullnægt eftir nákvæmlega tilgreindum aðferðum.  Hér kæmi því til faglegt mat ef úrræðin ættu að henta hverjum einstaklingi fyrir sig. Skýrt markmið gæti verkað sem aðhald og leiðbeining við hið faglega mat. Enda þótt telja yrði að um það væri samstaða að varðveita sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga við framkvæmd félagsþjónustu væri jafnframt höfuðatriði að öllum íbúum landsins væri tryggð sambærileg félagsþjónusta. Vega og meta yrði þessi tvö markmið sem gætu rekist á. Með framangreindu væri leitast við að samræma þau. Markmiðsákvæði gætu einnig haft mikilvæga þýðingu við skýringu á lögunum, einkum þegar beitt væri ákvæðum sem byðu upp á matskenndar ákvarðanir. Jafnframt sagði í frumvarpinu að enda þótt mælt væri fyrir um margvíslegar skyldur sveitarfélaga til að tryggja félagslega velferð einstaklinga yrði að leggja áherslu á það grundvallaratriði að einstaklingum væri engu að síður ætlað að bera ábyrgð á sjálfum sér og sínum. Kæmi þetta skýrt fram í markmiðslýsingu frumvarpsins og einstökum köflum þess þar sem kveðið væri á um tiltekna aðstoð, til dæmis fjárhagsaðstoð. Þrátt fyrir ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt frumvarpinu væru skyldur þeirra ekki svo afdráttarlausar að einstaklingar ættu skilyrðislausan og tafarlausan rétt til tiltekinnar þjónustu eða aðstoðar. Um rétt íbúa sveitarfélaga til félagsþjónustu sagði í frumvarpinu að hann væri ekki tryggður ef hann væri skilgreindur svo að við vissar aðstæður gæti fólk krafist ákveðinnar aðstoðar eða þjónustu sem ætti sér stað án tafar. Sá réttur sem íbúum sveitarfélaga væri tryggður samkvæmt frumvarpinu væri almenns eðlis í samræmi við þær skyldur sem lagt sé til í frumvarpinu að sveitarfélögin beri. Hvert sveitarfélag útfærði þennan rétt út frá aðstæðum hvers umsækjanda fyrir sig. Þannig væri til dæmis ekki lagt til að tilgreint væri hver sú fjárhæð eða lágmarksfjárhæð skyldi vera sem umsækjandi um fjárhagsaðstoð ætti rétt á. Ástæðan væri að slík afmörkuð skylda stríddi gegn þeim skilningi sem lagður væri í sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og slíkum rétti yrði varla fullnægt án sérstaks ríkisframlags sem eingöngu væri ætlað þessum málaflokki.  IV Reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, sem settar voru með vísan til 1. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991, voru samþykktar í velferðarráði 17. nóvember 2010 og í borgarráði 25. sama mánaðar. Í 1. mgr. 1. gr. reglnanna kemur fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991. Í 4. mgr. 1. gr. reglnanna kemur fram að jafnan skuli kanna til þrautar rétt umsækjanda til annarra greiðslna, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, svo og skuli kanna rétt til aðstoðar samkvæmt lögum um námsstyrki. Í 1. málslið 2. gr. reglnanna segir að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Þá segir í 5. gr. þeirra að fjárhagsaðstoð skuli að jafnaði veitt sem styrkur. Jafnframt segir í 6. gr. að hún skuli að öðru jöfnu vera greidd einn mánuð í senn og skuli ákvarðanir um aðstoð að jafnaði ekki ná yfir lengra tímabil en þrjá mánuði, en heimilt sé að samþykkja aðstoð í sex mánuði í senn ef umsækjandi fær jafnframt bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og ljóst sé að aðstæður hans muni ekki breytast. Þá er í undantekningartilvikum kveðið svo á um að heimilt sé að veita fjárhagsaðstoð vikulega vegna sérstakra aðstæðna. Í 7. gr. reglnanna segir að fjárhagsaðstoð sé aldrei skylt að veita lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn er lögð fram, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991. Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar, mat á fjárþörf og útreikning fjárhagsaðstoðar í III. kafla reglnanna. Samkvæmt 10. gr. þeirra skal við ákvörðun fjárhagsaðstoðar leggja til grundvallar grunnþörf til framfærslu samkvæmt 11. gr. reglnanna og draga frá henni heildartekjur samkvæmt 12. gr. Þegar áfrýjandi sótti um fjárhagsaðstoð var grunnfjárhæð aðstoðar 174.952 krónur á mánuði fyrir einstakling sem rak eigið heimili, en 262.482 krónur fyrir hjón, sbr. 1. og 3. mgr. 11. gr. reglnanna, eins og þær hljóðuðu þá með breytingum sem samþykktar voru í velferðarráði stefnda 18. desember 2014 og borgarráði sama dag. Tekjur áfrýjanda námu 150.018 krónum á mánuði en samanlagðar tekjur hennar og maka hennar 412.880 krónum á mánuði. Í rökstuðningi velferðarráðs 27. apríl 2015 fyrir synjuninni kom meðal annars fram að í ljósi samanlagðra mánaðartekna áfrýjanda og maka hennar, sem væru 150.398 krónum hærri en viðmiðunarfjárhæð fjárhagsaðstoðar fyrir hjón/sambúðarfólk, uppfyllti umsókn áfrýjanda ekki skilyrði 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. V 1 Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar verður stjórnarskrárákvæðið skýrt svo að skylt sé að lögum að tryggja rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmark framfærslu eftir fyrir fram gefnu skipulagi sem ákveðið er á málefnalegan hátt. Hefur almenni löggjafinn vald um það hvernig því skipulagi er háttað en það verður eigi að síður að fullnægja þeim lágmarksréttindum sem í 1. mgr. 76. gr. felast, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000, 16. október 2003 í máli nr. 549/2002 og 15. nóvember 2018 í máli nr. 795/2017. Til samræmis við áskilnað 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar hefur með almennum lögum verið komið á fót velferðarkerfi sem ætlað er að styðja við þá sem standa höllum fæti fjárhagslega og félagslega. Í því sambandi er fyrst að geta laga nr. 100/2007 sem kveða meðal annars á um rétt öryrkja og ellilífeyrisþega til bótagreiðslna. Í öðru lagi eru lög nr. 99/2007 sem stefna einnig að því markmiði sem fram kemur í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og lög nr. 112/2008 um sjúkratryggingar. Í þriðja lagi eru lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof og lög nr. 40/1991 sem eins og áður greinir eru rammalöggjöf sem veitir sveitarfélögum ákveðið frelsi og sjálfræði um val á leiðum til að ná settum markmiðum. Jafnframt þessu gegna lífeyrissjóðir veigamiklu hlutverki í velferðarkerfinu, sbr. lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þótt velferðarkerfinu í heild sé ætlað að ná til þeirra sem stuðning þurfa er sá munur á löggjöf sem fjallar um fjárgreiðslur þeim til handa að hluti löggjafarinnar mælir fyrir um skýlausan rétt manna til ótímabundinna greiðslna fullnægi þeir ákveðnum skilyrðum, eins og meðal annars á við um lög nr. 100/2007. Í öðrum lögum er á hinn bóginn um heimildarákvæði að ræða, eins og á við um lög nr. 99/2007, og hluti löggjafarinnar mælir fyrir um tímabundnar greiðslur sem komið geta til viðbótar greiðslum samkvæmt öðrum lögum líkt og lög nr. 40/1991 kveða á um. Með því lögbundna fyrirkomulagi um velferðarkerfið, sem komið hefur verið á og hér var lýst, hefur almenni löggjafinn fullnægt þeirri skyldu sinni samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar að tryggja öllum þeim sem þess þurfa að lögum rétt til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Svo sem skipulagi þessu er háttað hvílir á ríkisvaldinu frumskyldan til að veita þeim einstaklingum stuðning er þess þurfa. Eins og getur í fyrrgreindum dómi réttarins 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000 hefur löggjafarvaldið með lögum um almannatryggingar komið til móts við skyldur sínar um réttindi samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar að því er varðar öryrkja sérstaklega. Önnur lagaákvæði af þessum meiði svo sem samkvæmt lögum nr. 40/1991 eru á hinn bóginn heimildarákvæði en mæla ekki fyrir um rétt til greiðslna. Af þessu lögbundna fyrirkomulagi velferðarkerfisins leiðir að þegar fjárhagslegum stuðningi ríkisins sleppir kemur það almennt í hlut sveitarfélaga að taka afstöðu til þess á grundvelli þeirra laga sem um það gilda sérstaklega hvernig fjárhagsaðstoð þeirra við íbúa sína verður hagað til að tryggja þeim nauðsynlega framfærslu. 2 Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn í fyrsta lagi á því að reglur stefnda um fjárhagsaðstoð eigi sér ekki stoð í lögum. Vísar hún hvað það varðar sérstaklega til þess að vegna skorts á lagastoð sé í slíkum reglum ekki heimilt að mæla fyrir um skerðingu fjárhagsaðstoðar vegna tekna maka þess er aðstoðar leitar. Í þessu sambandi er fyrst að geta að samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991 er kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að setja reglur um fjárhagsaðstoð, að fengnum tillögum félagsmálanefndar, sem meti þörf og ákveði fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglurnar, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Í annan stað ber að nefna 2. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 en þar segir um markmið laganna, að við framkvæmd félagsþjónustu skuli þess gætt að hvetja einstaklinga til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt þeirra og styrkja þá til sjálfshjálpar. Í þriðja lagi kemur fram í 19. gr. laganna að hverjum manni sé skylt að framfæra sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Er þetta til samræmis við þá reglu sem fram kemur í 1. mgr. 46. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og 1. og 2. mgr. 47. gr. sömu laga, að hjón beri sameiginlega ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar og gagnkvæma framfærsluskyldu hvort gagnvart öðru. Loks er þess að geta sem fram kemur í lögskýringargögnum og áður er rakið að sá réttur sem íbúum sveitarfélaga er tryggður samkvæmt lögum nr. 40/1991 er almenns eðlis í samræmi við þær skyldur sem sveitarfélögin bera. Útfærsla réttarins hvílir því í einstökum tilvikum á herðum hvers sveitarfélags miðað við aðstæður hvers umsækjanda fyrir sig. Að öllu þessu gættu verður að leggja til grundvallar að það fyrirkomulag í reglum stefnda að tekjur maka geti haft áhrif til skerðingar á rétti manna til fjárhagsaðstoðar eigi sér fullnægjandi stoð í lögum. 3 Málatilbúnaður áfrýjanda er í öðru lagi á því reistur að reglur stefnda um fjárhagsaðstoð eftir lögum nr. 40/1991 standi því í vegi að hún fái notið þeirra lágmarksréttinda sem í ákvæði 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar felist. Vegna þeirrar mismununar sem gerð sé í reglum stefnda á grundvelli hjúskaparstöðu fái hún ekki notið þeirra mannréttinda sem 65. gr. stjórnarskrárinnar mæli fyrir um.  Við úrlausn um þessa málsástæðu skiptir í fyrsta lagi máli það sem áður segir að það er fyrst þegar fjárstuðningi ríkisins sleppir að í hlut sveitarfélaga kemur að taka afstöðu til þess hvernig fjárhagsaðstoð þeirra við íbúa sína verði hagað til að tryggja þeim nauðsynlega framfærslu. Þá skiptir og máli í þessu samhengi að fjárhagsaðstoð samkvæmt lögum nr. 40/1991 er tímabundið úrræði öndvert við það sem almennt gildir um rétt til greiðslna úr almannatryggingum samkvæmt lögum nr. 100/2007. Í annan stað er að líta til þeirrar stöðu sem sveitarfélögum er markaður í 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar en þar kemur fram að þau skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Það mat sem sveitarstjórnum er falið í lögum nr. 40/1991 tekur mið af sjálfsákvörðunarrétti þeirra en í honum felst meðal annars heimild til þess að setja reglur um framkvæmd og útfærslu tiltekinna verkefna innan marka laga. Sveitarfélög fara samkvæmt þessu sjálf með forræði eigin tekjustofna og hafa á þeim grundvelli svigrúm til að ákveða forgangsröðun lögbundinna verkefni innan ákveðins ramma. Samkvæmt þessu hafa sveitarfélög verulegt svigrúm til að meta hvert tilvik fyrir sig út frá skyldum sínum til að veita fjárhagsaðstoð samkvæmt lögum nr. 40/1991. Af þessari stöðu sveitarfélaga, sem stjórnskipunarreglur mæla fyrir um, leiðir að reglur um fjárhagsaðstoð samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991 geta verið mismunandi eftir sveitarfélögum. Er það öndvert við ákvæði laga nr. 100/2007 sem mæla fyrir um skýlausan rétt öryrkja til fjárhagsaðstoðar óháð búsetu þeirra. Í þriðja lagi er þess að geta að þótt telja megi það aðalreglu íslensks réttar að  einstaklingar eigi rétt til greiðslna úr opinberum sjóðum án tillits til tekna maka sinna er víða í lögum tekið tillit til hjúskaparstöðu fólks og má sem dæmi nefna í því sambandi skattalög og fyrrgreint ákvæði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 40/1991. Eins og segir í áður tilvitnuðum dómi réttarins í máli nr. 125/2000 getur átt við málefnaleg rök að styðjast að gera nokkurn mun á greiðslum til einstaklinga úr opinberum sjóðum eftir sambúðarformi. Kemur sama afstaða einnig fram í dómi réttarins í máli nr. 549/2002 en þar segir að ekkert í forsendum dóms réttarins í máli nr. 125/2000 gefi tilefni til þeirrar ályktunar að löggjafanum sé óheimilt að láta tekjur maka hafa áhrif á tekjutryggingu öryrkja til skerðingar þótt því valdi séu settar skorður. Sveitarfélög eru eins og ríkið bundin af ákvæðum stjórnarskrárinnar við setningu reglna um réttindi borgaranna og framkvæmd þeirra. Í ljósi þess sem áður er rakið verður eigi að síður að leggja til grundvallar að svigrúm sveitarfélaga til þess að láta tekjur maka hafa áhrif á rétt einstaklinga til fjárhagsaðstoðar samkvæmt lögum nr. 40/1991 sé rýmra en á við um þær ótímabundnu greiðslur sem almannatryggingalög mæla fyrir um. Af því leiðir að heimilt er í reglum sem settar eru á grundvelli laga nr. 40/1991 að mæla fyrir um skerðingu þeirrar fjárhagsaðstoðar sem kveðið er á um í sömu lögum vegna tekna maka og þá jafnvel með þeim afleiðingum að sú aðstoð geti eftir atvikum fallið niður eins og gerðist í tilviki áfrýjanda. Að gættu öllu framangreindu verður að telja að það fyrirkomulag reglna stefnda að láta tekjur maka hafa áhrif á rétt til fjárstuðnings eigi við málefnaleg rök að styðjast. Jafnframt er fallist á það mat Landsréttar að ekki verði talið að sú skerðing sem áfrýjandi sætti og um er deilt í málinu hafi farið í bága við grundvallarreglur stjórnarskrárinnar.   4  Áfrýjandi byggir kröfur sínar einnig á því að stefndi hafi takmarkað rannsókn sína og skyldubundið mat með setningu reglna um fjárhagsaðstoð. Eins og rakið hefur verið fjallar 11. gr. reglnanna um grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, en þó er veitt svigrúm til handa stefnda til þess að meta ólíkar aðstæður og þörf einstaklinga fyrir frekari aðstoð, eins og fram kemur í 2. málslið 10. gr. reglnanna. Samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991 er kveðið svo á um að félagsmálanefnd meti þörf og ákveði fjárhagsaðstoð í samræmi við framangreindar reglur. Þannig er mælt fyrir um skyldu stefnda til að meta þörf fyrir fjárhagsaðstoð í hverju tilviki fyrir sig og í 16. til 27. gr. reglnanna er kveðið á um heimild til fjárhagsaðstoðar vegna sérstakra aðstæðna. Af hálfu áfrýjanda hefur engin grein verið gerð fyrir því að einhverjar þær aðstæður hafi verið fyrir hendi sem réttlættu þörf á frekara mati á fjárhagsaðstoð en veitt var á grundvelli hinna hlutlægu viðmiða sem fram koma í 11. gr. reglnanna. Samkvæmt öllu framangreindu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest en rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.                                                                                      Dómur Landsréttar. Mál þetta dæma landsréttardómararnir Oddný Mjöll Arnardóttir og Sigurður Tómas Magnússon og Eggert Óskarsson, settur landsréttardómari. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1 Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 12. apríl 2019 að fengnu áfrýjunarleyfi. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2018 í málinu nr. E-3811/2017. 2  Áfrýjandi krefst þess að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og breytt á þá leið að ógiltar verði ákvarðanir stefnda 8. janúar og 8. apríl 2015, þar sem umsókn áfrýjanda um fjárhagsaðstoð frá stefnda fyrir tímabilið 1. janúar 2015 til 28. febrúar sama ár var synjað. Jafnframt krefst áfrýjandi þess að ógiltur verði úrskurður úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála 14. október 2015 þar sem framangreindar ákvarðanir voru staðfestar. Þá krefst áfrýjandi þess að stefndi greiði sér 49.868 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. janúar 2015 til greiðsludags. Að lokum krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. 3  Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti. Niðurstaða 4  Atvikum og málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi en líkt og þar greinir er í máli þessu deilt um hvort stefndi hafi með ólögmætum hætti synjað áfrýjanda um fjárhagsaðstoð í janúar og febrúar 2015. 5  Samkvæmt 10. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, sem settar eru með heimild í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, skal grunnfjárþörf til framfærslu samkvæmt 11. gr. reglnanna lögð til grundvallar veittri fjárhagsaðstoð. Grunnfjárþörfin er skilgreind með ólíkum hætti fyrir einstakling sem rekur eigið heimili og hjón eða sambúðarfólk í sömu stöðu en í síðarnefnda tilvikinu er fjárhæðin lægri en ef um tvo einstaklinga er að ræða. Frá skilgreindri grunnfjárþörf eru síðan samkvæmt 12. gr. reglnanna dregnar allar tekjur umsækjanda og maka, í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinn á undan, aðrar en greiðslur vegna barna og húsaleigubætur eða vaxtabætur. Koma þær tekjur til frádráttar veittri fjárhagsaðstoð. Atvik máls þessa eru með þeim hætti að hefði eingöngu verið litið til tekna áfrýjanda á framangreindum tíma, og skilgreindrar grunnfjárþarfar til framfærslu einstaklings samkvæmt 11. gr. reglnanna, hefðu tekjur hennar verið undir viðmiðunarmörkum og hún fengið fjárhagsaðstoð, en þegar tillit var tekið til tekna maka hennar voru samanlagðar tekjur þeirra yfir viðmiðunarmörkum fyrir hjón eða sambúðarfólk. Var synjun stefnda um fjárhagsaðstoð til áfrýjanda á því byggð. 6  Áfrýjandi krefst þess í málinu að ógiltar verði ákvarðanir stefnda 8. janúar og 8. apríl 2015, og úrskurður úrskurðarnefndar félagsþjónustu og velferðarmála 14. október sama ár, þar sem umsókn áfrýjanda um fjárhagsaðstoð á framangreindu tímabili var synjað. Jafnframt krefst hún þess að stefnda verði gert að greiða henni 49.868 krónur, sem samsvari þeirri fjárhagsaðstoð sem hún hefði fengið á grundvelli reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg ef eingöngu hefði verið litið til tekna hennar á framangreindum tíma og skilgreindrar grunnfjárþarfar til framfærslu einstaklings samkvæmt 11. gr. reglnanna. 7  Áfrýjandi byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á því að stefndi hafi ekki frjálsar hendur um útfærslu fjárhagsaðstoðar og skerðing á fjárhagsaðstoð til hennar vegna tekna maka hafi farið í bága við ákvæði laga nr. 40/1991 og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. 8  Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að ákvörðun stefnda um að synja áfrýjanda um fjárhagsaðstoð vegna tekna maka hafi haft fullnægjandi lagastoð. 9  Í öðru lagi byggir áfrýjandi á því að sú skerðing vegna tekna maka sem um er deilt í máli þessu hafi farið í bága við 1. mgr. 76. gr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar, sem og stjórnskipulega meðalhófsreglu. Í þessu sambandi bendir hún sérstaklega á að engan sjálfstæðan rétt einstaklings til lágmarksframfærslu, án tillits til tekna maka, sé að finna í reglum stefnda um fjárhagsaðstoð. 10  Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í 65. gr. stjórnarskrárinnar greinir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Þá skuli konur og karlar njóta jafns réttar í hvívetna. Í óskráðri meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar felst að þegar stjórnarskrárvarin réttindi sæta takmörkunum skuli ekki gengið lengra en þörf krefur í því skyni að ná þeim lögmætu markmiðum sem að er stefnt með takmörkuninni. 11 Með dómum Hæstaréttar 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000 og 15. nóvember 2018 í máli nr. 795/2017 var því slegið föstu að 76. gr. stjórnarskrárinnar verði skýrð á þann veg að skylt sé að tryggja að lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu eftir fyrir fram gefnu skipulagi sem sé ákveðið á málefnalegan hátt. Almenni löggjafinn hafi þó vald um það hvernig þessu skipulagi skuli háttað, sbr. 2. gr. og 41. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar metið sé hvort útfærsla framangreindra réttinda í lögum samrýmist grundvallarreglum stjórnarskrárinnar beri að líta til þess hvort skerðing réttinda gangi of nærri þeim lágmarksréttindum sem felist í ákvæðum 76. gr. stjórnarskrárinnar og hvort byggt hafi verið á lögmætum sjónarmiðum á borð við jafnræði, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, og meðalhóf. 12  Í 78. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að sveitarfélög skuli ráða málefnum sínum sjálf eftir því sem lög ákveði. Skuli tekjustofnar þeirra ákveðnir með lögum svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir. Almenni löggjafinn hefur kveðið á um félagsþjónustu sveitarfélaga í lögum nr. 40/1991 en samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna er markmið þeirra að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Eins og skýrt kemur fram í almennum athugasemdum með frumvarpi til framangreindra laga var við setningu þeirra, í ljósi sjálfsákvörðunarréttar sveitarfélaga, valin sú leið að setja rammalöggjöf sem veitti sveitarfélögum ákveðið frelsi og sjálfræði við val á leiðum til að ná framangreindum markmiðum. Var jafnframt tekið fram að frumvarpið kvæði ekki á um réttindi í þeim skilningi að fólk gæti krafist tiltekinnar aðstoðar heldur væri sveitarfélögum falið að útfæra réttindin. Þannig væri til dæmis ekki kveðið á um tiltekna lágmarksupphæð fyrir fjárhagsaðstoð sveitarfélaga enda myndi slíkt stríða gegn sjálfsákvörðunarrétti þeirra. Jafnframt greinir í athugasemdunum að í frumvarpinu sé lögð áhersla á það grundvallaratriði að einstaklingum sé þrátt fyrir skyldur sveitarfélaga samkvæmt lögunum ætlað að „bera ábyrgð á sjálfum sér og sínum“. Í samræmi við þetta er í 19. gr. laganna, sem er upphafsákvæði VI. kafla þeirra um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, kveðið á um að sérhverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn undir 18 ára aldri. Gera lög nr. 40/1991 þannig með skýrum hætti ráð fyrir því að sveitarfélög geti ákveðið að ekki komi til fjárhagsaðstoðar nema þörf krefji eftir að tekið hefur verið tillit til gagnkvæmrar framfærsluskyldu hjóna, sbr. einnig 46. og 47. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.  13  Þegar metið er hvort framangreind útfærsla fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga í lögum nr. 40/1991 standist þær grundvallarreglur stjórnarskrárinnar sem áfrýjandi vísar til er til þess að líta að þrátt fyrir að 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár feli eins og að framan greinir í sér einstaklingsbundinn rétt til lágmarksframfærslu er víða í lögum, með svipuðum hætti og í lögum nr. 40/1991, tekið tillit til hjúskaparstöðu fólks. Hefur ekki verið talið óheimilt að láta tekjur maka, upp að vissu marki, hafa áhrif á rétt til greiðslna úr opinberum sjóðum, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 15. nóvember 2018 í máli nr. 795/2017 og 16. október 2003 í máli nr. 549/2002. Í því sambandi hefur meðal annars verið vísað til þess að þeir sem eru í hjúskap eða sambúð þurfi minna sér til framfærslu en sá sem býr einn, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000. 14  Þegar staða áfrýjanda er metin er einnig til þess að líta að hún er örorkulífeyrisþegi og hefur frá árinu 2011 fengið greiddar bætur á grundvelli laga nr. 100/2007 um almannatryggingar auk þess sem hún hefur fengið greiðslur á grundvelli laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þegar metið er hvort gengið hafi verið of nærri stjórnarskrárvörðum lágmarksréttindum hennar vegna þess að tekjur maka hafi haft áhrif á fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi samkvæmt lögum nr. 40/1991 verður að hafa í huga að það er fyrst og fremst með lögum nr. 100/2007 sem kveðið er á um hinn stjórnarskrárvarða grundvallarrétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu eftir fyrir fram gefnu skipulagi, sbr. ummæli í dómi Hæstaréttar frá 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000. Verður því ekki talið að nákvæmlega sömu sjónarmið eigi við um félagslega aðstoð sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 40/1991, eða um heimildir laga nr. 99/2007 til að greiða félagslegar bætur vegna tiltekinna aðstæðna, og greiðslur úr almannatryggingum. Þá er til þess að líta að eftir lagabreytingar í kjölfar dóma Hæstaréttar 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000 og 16. október 2003 í máli nr. 549/2002 er það almenna reglan samkvæmt lögum nr. 100/2007 að tekjur maka örorkulífeyrisþega hafi ekki lengur áhrif við útreikning bóta að öðru leyti en hvað varðar fjármagnstekjur, sbr. a- og c-liði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007. Því verður við mat á aðstæðum áfrýjanda að líta fyrst til þess að hún naut greiðslna samkvæmt lögum nr. 100/2007 áður en metið er hvort skerðing vegna tekna maka á grundvelli reglna um framkvæmd fjárhagsaðstoðar, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991, gangi of nærri stjórnarskrárvörðum lágmarksréttindum hennar. 15  Þegar framangreint er virt, ásamt því að fyrir liggur að áfrýjandi hafði sjálf tekjur að fjárhæð 150.018 krónur á mánuði á því tímabili sem um ræðir í kröfugerð hennar, verður ekki talið að að sú skerðing vegna tekna maka sem um er deilt í máli þessu hafi farið í bága við grundvallarreglur stjórnarskrárinnar. 16  Loks byggir áfrýjandi á því að brotið hafi verið gegn meginreglu stjórnsýsluréttar um skyldubundið mat. Mat það sem félagsmálanefnd bar samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991 að leggja á mál áfrýjanda hafi verið afnumið eða takmarkað óhóflega með þeim reglum um fjárhagsaðstoð sem á var byggt í máli hennar.  17  Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991 skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar en samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal félagsmálanefnd meta þörf og ákveða fjárhagsaðstoð í samræmi við þær reglur. Með síðarnefnda ákvæðinu er þannig mælt fyrir um skyldu félagsmálanefndar til að meta þörf fyrir fjárhagsaðstoð í hverju tilviki. Þau hlutlægu viðmið um grunnfjárþörf til framfærslu sem fram koma í 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, og regla 12. gr. um frádrátt vegna tekna, sem byggt var á í tilviki áfrýjanda, gera ráð fyrir því að tekjur áfrýjanda og maka hennar séu kannaðar með einstaklingsbundnum hætti og útiloka ekki frekara mat á þörfum hennar séu sérstakar aðstæður fyrir hendi, sbr. 16. gr. til 27. gr. sömu reglna. 18  Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ekki talið að lögbundið mat félagsmálanefndar stefnda hafi verið óhóflega takmarkað í málinu. 19  Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sýknu stefnda af kröfum áfrýjanda. 20  Með hliðsjón af atvikum máls verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um málskostnað jafnframt staðfest. 21  Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af meðferð málsins fyrir Landsrétti. 22  Það athugast að ekki voru efni til þess hjá áfrýjanda að krefjast ógildingar ákvörðunar þjónustumiðstöðvar hjá stefnda 8. janúar 2015, sem staðfest var af velferðarráði stefnda 8. apríl sama ár, til viðbótar við kröfu hennar þess efnis að úrskurður úrskurðarnefndar félagsþjónustu og velferðarmála 14. október sama ár, sem staðfesti framangreinda ákvörðun, yrði ógiltur.   Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Landsrétti fellur niður.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 2. desember 2018 Mál þetta, sem var höfðað með stefnu birtri 29. nóvember 2017, var dómtekið 26. nóvember sl. Stefnandi er A, [...] í Reykjavík. Stefndi er Reykjavíkurborg. Stefnandi krefst þess aðallega að ógiltar verði ákvarðanir stefnda frá 8. janúar 2015 og 8. apríl 2015, þar sem umsókn hennar um fjárhagsaðstoð frá stefnda fyrir tímabilið 1. janúar 2015 til 28. febrúar 2015 var synjað. Þá krefst stefnandi þess einnig að ógiltur verði úrskurður úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þann 14. október 2015, þar sem framangreindar ákvarðanir voru staðfestar. Enn fremur krefst stefnandi þess að stefndi greiði sér 49.868 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 8. janúar 2015 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að stefnda hafi verið óheimilt að synja umsókn stefnanda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. janúar 2015 til 28. febrúar 2015 á grundvelli tekna maka stefnanda samkvæmt 2. og 12. gr. reglna stefnda um fjárhagsaðstoð. Loks krefst stefnandi, bæði í aðal- og varakröfu, greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda. Stefndi krefst aðallega frávísunar á kröfum stefnanda en til vara sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst stefndi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda. Með úrskurði dómsins, kveðnum upp 8. maí sl., var varakröfu stefnanda vísað frá dómi. Atvik máls Stefnandi er örorkulífeyrisþegi og hefur verið metin með hámarksörorku (75%) frá 1. mars 2011. Frá þeim tíma hefur stefnandi fengið greiddan örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót og tekjutryggingu á grundvelli laga um almannatryggingar. Þá hefur stefnandi einnig fengið sérstaka framfærsluuppbót á grundvelli laga um félagslega aðstoð. Þann 6. janúar 2015 sótti stefnandi um fjárhagsaðstoð til framfærslu hjá Reykjavíkurborg fyrir tímabilið 1. janúar 2015 til 28. febrúar 2015. Umsókninni var synjað af Þjónustumiðstöð [..] þann 8. janúar 2015. Synjunin var rökstudd með vísan til þess að umsókn stefnanda samrýmdist ekki reglum Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Samkvæmt reglunum um fjárhagsaðstoð stefnda var, á þeim tíma sem stefnandi sótti um fjárhagsaðstoð, grunnfjárhæð aðstoðar 174.952 krónur á mánuði fyrir einstakling sem rekur eigið heimili en 262.482 krónur fyrir hjón, sbr. 1. og 3. mgr. 11. gr. reglnanna. Tekjur stefnanda á umræddu tímabili námu 150.018 krónum á mánuði en samanlagðar tekjur hennar og maka hennar voru 412.880 krónur á mánuði. Synjun þjónustumiðstöðvarinnar byggðist á því að þótt tekjur stefnanda hefðu verið undir framangreindum viðmiðunarmörkum fyrir einstakling hefðu samanlagðar tekjur stefnanda og maka hennar verið umfram þau tekjumörk sem veiti rétt til fjárhagsaðstoðar. Í framangreindri synjun var sérstaklega vísað til 2. gr. reglna stefnda, þar sem segir að m.a. að hjón beri framfærsluskyldu gagnavart maka sínum og til 12. gr. reglnanna þar sem mælt er fyrir um að allar tekjur, bæði umsækjanda og maka hans, komi til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar. Stefnandi kærði framangreinda synjun til velferðarráðs Reykjavíkurborgar með kæru dagsettri 3. febrúar 2015. Kæra stefnanda var tekin fyrir á fundi velferðarráðs þann 8. apríl 2015 þar sem ákvörðun þjónustumiðstöðvarinnar var staðfest. Stefnandi óskaði eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun velferðarráðs og barst umbeðinn rökstuðningur þann 27. apríl 2015. Stefnandi skaut þá málinu til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og krafðist þess að synjun stefnda yrði felld úr gildi og að ákvörðuninni yrði breytt þannig að stefnanda yrði veitt fjárhagsaðstoð frá og með 1. janúar 2015. Þann 14. október 2015 kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í máli stefnanda, nr. 44/2015, þar sem hin kærða ákvörðun var staðfest. Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi reisir kröfur sínar í fyrsta lagi á því að ákvæði í reglum stefnda um fjárhagsaðstoð, sem mæli fyrir um að tekjur maka skerði rétt stefnanda til fjárhagsaðstoðar, eigi sér ekki stoð í lögum. Reglurnar séu settar á grundvelli laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, en í þeim lögum sé ekki tekið fram að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga skuli sæta skerðingu vegna tekna maka. Þá megi leiða af markmiðsákvæðum og öðrum ákvæðum laganna að sveitarfélög skuli hafa að leiðarljósi, þegar þau veiti fjárhagsaðstoð, rétt einstaklings til að framfæra sig sjálfur og hafa til hliðsjónar skyldu hans til að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn. Þá skuli einstaklingar hvattir til að taka ábyrgð á sjálfum sér og öðrum, þeir hvattir til sjálfshjálpar og sjálfsákvörðunarréttur þeirra virtur. Vísar stefnandi til 2. mgr. 1. gr., 1. mgr. 12. gr. og 19. gr. laganna þessu til stuðnings. Framangreindar skerðingarreglur stefnda gangi gegn þessum markmiðum laganna. Í öðru lagi byggir stefnandi á því að reglur stefnda brjóti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 76. gr. hennar þar sem mælt er fyrir um að öllum sem þess þurfa skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Með því að fella með öllu niður rétt stefnanda til fjárhagsaðstoðar, sem hún annars nyti, á grundvelli tekna maka hennar, hafi stefndi svipt stefnanda rétti sem henni sé tryggður í framangreindum ákvæðum stjórnarskrár, sbr. einnig 5. gr. 7. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu. Rétt stefnanda samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar verði að skýra á þann veg að skylt sé með lögum að tryggja rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu eftir fyrirfram gefnu skipulagi sem ákveðið sé á málefnalegan hátt. Skipulagið verði að tryggja þau lágmarksréttindi sem felast í 76. gr. og uppfylla skilyrði 65. gr. stjórnarskrárinnar um að hver einstaklingur njóti jafnréttis á við aðra sem réttar njóta, auk almennra mannréttinda. Það sé aðalregla í íslenskum rétti að réttur einstaklinga til greiðslna úr opinberum sjóðum skuli vera án tillits til tekna maka. Undantekningar á þeirri reglu verði að skýra þröngt. Jafnframt verði að hafa í huga að framfærsluskylda hjóna sé gagnkvæmur réttur og skylda beggja. Með því að fella með öllu niður rétt stefnanda til fjárhagsaðstoðar vegna tekna maka hennar hafi stefndi brotið framangreindan rétt stefnanda sem henni sé tryggður í 65. og 76. gr. stjórnarskárinnar. Loks, í þriðja lagi, reisir stefnandi kröfu sína á því að stefndi hafi brotið gegn meginreglunni um skyldubundið mat við ákvarðanir um að synja stefnanda um fjárhagsaðstoð. Umsókn stefnanda hafi verið synjað með vísan til þess eins að samanlagðar tekjur stefnanda og maka hennar hafi verið umfram þau viðmið sem sett eru í reglum stefnda án þess að heildarmat á aðstæðum hennar hafi farið fram. Jafnvel þótt stefndi geti sett tiltekin hlutlæg viðmið við mat á umsóknum um fjárhagsaðstoð verði að gæta þess að slík viðmið útiloki ekki að öllu leyti frekara mat á þörfum stefnanda á aðstoð. Með vísan til framangreindra málsástæðna krefst stefnandi þess að ákvarðanir stefnda verði ógiltar. Ákvarðanirnar hafi verið haldnar verulegum efnisannmarka og slíkur annmarki leiði til ógildingar ákvörðunar enda engir aðrir hagsmunir sem komi í veg fyrir það. Auk þess gerir stefnandi fjárkröfu sem byggir á því að virða beri að vettugi hinar ólögmætu ákvarðanir stefnda og veita stefnanda fjárhagsaðstoð á því tímabili sem hún sótti um, með hliðsjón af tekjum hennar á sama tímabili. Fjárhæð fjárkröfunnar sé því miðuð við viðmiðunarfjárhæð um fjárhagsaðstoð til einstaklinga að frádregnum tekjum stefnanda, sbr. 11. og 12. gr. reglna stefnda á því tímabili sem um er deilt. Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að hann hafi að öllu leyti farið að lögum og reglum við meðferð mála stefnanda sem og við framkvæmd umdeildra ákvarðana. Stefndi byggir á því að ákvarðanir hans séu í fullu samræmi við skyldur sem á honum hvíla samkvæmt lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Lögin séu almenn rammalöggjöf sem mæli fyrir um skyldu sveitarfélaga til að sinna tilteknum verkefnum en veiti þeim jafnframt svigrúm til að setja reglur þar að lútandi. Sveitarfélög geti metið, með hliðsjón af aðstæðum á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilji veita, þar á meðal umfang og útfærslu fjárhagsaðstoðar sem mælt sé fyrir um í VI. kafla laganna. Samkvæmt framangreindu sé lögunum um félagsþjónustu sveitarfélaga einungis ætlað að tryggja rétt fólks en ekki að skilgreina hann efnislega. Hafi það verið vilji löggjafans að setja útfærslu fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga einhver tiltekin mörk hvað varðar útreikning á fjárhagsaðstoð til einstaklings þá hafi sá vilji þurft að koma skýrt fram í lögunum. Í samræmi við framangreint og 78. gr. stjórnarskrárinnar, um sjálfstjórn sveitarfélaga, sé mat á nauðsyn á aðstoð að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar sem veiti þjónustuna. Löggjöf um sveitarfélög sé breytileg frá einum tíma til annars og málefni sem sjálfstjórn sveitarfélaga taki til breytileg frá einum tíma til annars. Ráðist það af löggjöf hverju sinni hvaða málefni það eru sem sveitarfélögin hafa sjálfstjórnarvald um. Því sé sjaldgæft að löggjöf takmarki sjálfstjórnarvald sveitarfélags við framkvæmd þeirrar þjónustu sem löggjafinn hafi falið sveitarfélögum að inna af hendi. Sé það hins vegar gert þá er ljóst að slík ákvæði verði að vera skýr. Í lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, sé ekki að finna slík ákvæði. Í samræmi við sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga, sem tryggður sé í 78. gr. stjórnarskrárinnar, ráði stefndi því sjálfur hvernig hann forgangsraði útgjöldum sínum í samræmi við lagaskyldur og áherslur hverju sinni. Það hafi hann gert með því að setja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Þá vísar stefndi einnig til 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, en þar segi að sveitarfélög séu sjálfstæð stjórnvöld sem ráði málefnum sínum sjálf og á eigin ábyrgð. Eitt meginsjónarmið við gerð lagafrumvarpsins hafi verið að tryggja ríka sjálfstjórn sveitarfélaga. Sjálfstjórnarréttur sveitarfélaga sé ríkari en ella í þeim tilvikum þegar um er að ræða rammalöggjöf eins og á við um lög nr. 40/1991. Löggjafinn hafi með þeim látið sveitarfélögum eftir að ákveða nánari útfærslu á framkvæmd aðstoðar innan ramma laga um viðkomandi málaflokk og í hvaða mæli unnt sé að veita hana. Það hafi stefndi gert með því að setja reglur um fjárhagsaðstoð frá stefnda. Þá byggir stefndi á því að fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar bjargir séu fyrir hendi. Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð stefnda komi fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, með síðari breytingum, sbr. III. kafla reglna um fjárhagsaðstoð frá stefnda. Meginreglan sé sú að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð ef hann eða maki hans getur ekki framfleytt umsækjanda. Sú regla eigi sér stoð í 2. gr. reglnanna og 1. mgr. 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sem kveði á um skyldu hvers og eins til að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Þá sé jafnfram mælt fyrir um framfærsluskyldu hjóna í 1. mgr. 46. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Við mat á því hvort umsækjandi geti átt rétt til fjárhagsaðstoðar til framfærslu á grundvelli 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá stefnda skal meðal annars horfa til 12. gr. reglnanna sem kveði á um áhrif tekna umsækjanda og maka hans og eigna umsækjanda á rétt til aðstoðar. Það sé mat stefnda að hjón og sambúðarfólk njóti hagræðis af því að halda saman heimili auk þess sem þeim sé skylt að framfæra maka sinn og börn. Samanlagðar mánaðartekjur stefnanda og maka hennar hafi numið 412.880 krónum og því verið 150.398 krónum hærri en viðmiðunarfjárhæð fjárhagsaðstoðar fyrir hjón og sambúðarfólk á þeim tíma sem stefnandi sótti um fjárhagsaðstoð. Reglur stefnda eigi sér ótvírætt stoð í lögum og sjónarmið að baki reglunum í 12. gr. séu málefnaleg. Í athugasemdum við 21. gr. þess frumvarps sem varð að lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga komi fram að í því skyni að tryggja ákveðna festu við framkvæmd fjárhagsaðstoðar í sveitarfélaginu sé lagt til það nýmæli að öllum sveitarfélögum verði gert skylt að setja ákveðnar reglur um fjárhagsaðstoð til einstaklinga. Með því móti verði tryggt að íbúar sveitarfélagsins eigi í raun rétt á ákveðinni lágmarksaðstoð enda þótt viðmiðunin um lágmark verði ekki tilgreind í lögum. Ljóst sé af þessu að ætlun löggjafans hafi verið að sveitarfélög sjálf skyldu ákveða slík viðmið. Fjárhæð þeirrar aðstoðar sem veitt er á grundvelli reglna stefnda sé endurskoðuð árlega í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar. Meginviðmið við ákvörðun fjárhæðarinnar sé hækkun á vísitölu neysluverðs. Ákvörðun sé háð samþykki velferðarráðs hverju sinni. Stefndi telur að sýnt hafi verið fram á að lögmætisreglunni hafi í hvívetna verið fylgt við umdeildar ákvarðanir og úrskurð um rétt stefnanda. Stefndi hafnar því alfarið að reglur stefnda um fjárhagsaðstoð til einstaklinga í hjúskap og sambúð brjóti gegn 65. gr. og 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Þá andmælir hann þeirri málsástæðu stefnanda að það sé aðalregla íslensks réttar að réttur einstaklinga til greiðslna úr opinberum sjóðum skuli vera án tillits til tekna maka. Sú málsástæða sé ekki studd neinum lagarökum. Stefndi vísar til 19. gr. laga um félagsaðstoð sveitarfélaga til stuðnings hinu gagnstæða, sem og til ákvæða hjúskaparlaga, einkum 1. mgr. 46. gr. og 1. mgr. 47. gr. þeirra laga og enn fremur til 2. gr. eigin reglna um fjárhagsaðstoð. Loks áréttar hann þá málsástæðu að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sé í eðli sínu tímabundin neyðaraðstoð Samkvæmt reglum stefnda um fjárhagsaðstoð geti grunnfjárhæð aðstoðar til hjóna og sambúðarfólks numið allt að 262.482 krónum. Svo sem fram komi í stefnu séu samanlagðar mánaðartekjur stefnanda og maka hennar 412.880 krónur eða 150.398 krónum hærri en viðmiðunarfjárhæð fjárhagsaðstoðar fyrir hjón og sambúðarfólk. Samkvæmt því hafi stefnandi og maki hennar töluvert hærri tekjur en hjón og sambúðarfólk sem njóti fjárhagsaðstoðar frá stefnda. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga komi fram að áhersla sé lögð á aðstoð til sjálfshjálpar þannig að veitt aðstoð og þjónusta hafi það að markmiði að einstaklingurinn verði sjálfbjarga og fær um að lifa sem eðlilegustu lífi. Í því felist að markmið aðstoðar er að einstaklingur verði fær um að stjórna málum sínum sjálfur en verði ekki háður aðstoðinni. Ljóst sé af framangreindu að fjárhagsaðstoð sveitarfélags sé ekki ætluð til lengri tíma og ef einstaklingi tekst ekki að sjá sér sjálfur farborða taki annað framfærslukerfi við, það er örorkubætur frá Tryggingastofnun. Loks mótmælir stefndi þeirri staðhæfingu sem rangri og ósannaðri að stefndi hafi með ákvörðun sinni brotið gegn meginreglunni um skyldubundið mat stjórnvalda. Stjórnvöldum sé skylt, þrátt fyrir framangreinda meginreglu, að leysa úr sambærilegum málum þannig að jafnræðis sé gætt, sbr. jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í reglum um fjárhagsaðstoð frá stefnda séu sett ákveðin viðmið í því skyni að gæta jafnræðis og séu þau bæði forsvaranleg og málefnaleg og takmarki ekki matið með óhóflegum hætti. Viðurkennt sé að stjórnvöld geti sett reglur til tímasparnaðar og samræmingar og það auðveldi umsækjendum að kynna sér efni reglnanna þegar þær eru settar fram með skýrum hætti. Slíkt fyrirkomulag leiði jafnframt af sér meiri skilvirkni innan stjórnsýslunnar sem sé afar mikilvæg fyrir umsækjendur sem eru í þeirri stöðu að geta ekki framfleytt sér án aðstoðar. Þá sé í reglum stefnda svigrúm til að taka tillit til sérstakra aðstæðna en í tilviki stefnanda hafi slíkar aðstæður ekki verið fyrir hendi. Að endingu mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda og þá sérstaklega upphafsdegi þeim sem tilgreindur er í stefnu, sem og kröfu stefnanda um greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda. Forsenda og niðurstaða Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort stefndi hafi með ólögmætum hætti synjað stefnanda um fjárhagsaðstoð í janúar og febrúar 2015. Í reglum stefnda um fjárhagsaðstoð er ákveðin tiltekin grunnfjárhæð aðstoðar, sem er mismunandi fyrir einstaklinga sem reka eigið heimili og hjón eða sambúðarfólk í sömu stöðu, en frá þeirri fjárhæð eru dregnar allar tekjur umsækjanda og maka hans. Umsókn stefnanda var hafnað þar sem samanlagðar tekjur hennar og maka hennar voru hærri en grunnfjárhæð fyrir hjón og sambúðarfólk. Tekjur stefnanda sjálfrar voru hins vegar lægri en grunnfjárhæð fyrir einstakling sem rekur eigið heimili. Í 1. og 2. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, er markmiðum laganna lýst og hvernig þeim skuli ná. Þar segir m.a. að markmið þjónustu stefnda sé að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Fjárhagsaðstoð er eitt þeirra úrræða sem lögin gera ráð fyrir að notuð séu til að ná því markmiði, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna. Í 12. gr. laganna er mælt fyrir um skyldu sveitarfélaga til að veita íbúum þjónustu og aðstoð í samræmi við ákvæði laganna og jafnframt að tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Í VI. kafla laganna er mælt nánar fyrir um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og vísað til almennra ákvæða í IV. kafla laganna, þ.á m. 12. gr. sem að framan er rakin. Þá er í 21. gr. lögð sú skylda á sveitarstjórn að setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar, sem metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga á grundvelli þeirra reglna sem sveitarstjórn setur. Stefndi hefur uppfyllt skyldu sína samkvæmt 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga með því setja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Reglurnar voru samþykktar í velferðarráði 17. nóvember 2010 og í borgarráði 25. nóvember s.á. og hafa tekið breytingum árlega upp frá því og fram til þess tíma sem mál þetta varðar. Ekki er um það deilt að við setningu þeirra var gætt þeirra aðferða sem mælt er fyrir um í framangreindu ákvæði. Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 eru ekki nánari fyrirmæli um það hvernig fjárstuðningi stefnanda skuli háttað, hver fjárhæð stuðningsins eigi að vera eða önnur fyrirmæli sem lúta að inntaki þess réttar sem reglurnar veita. Lögin lýsa almennt því markmiði sem stuðningi sveitarfélaga við íbúa sína er ætlað að ná. Stefnda er því, eins og öðrum sveitarfélögum, veitt svigrúm til að meta hve mikla aðstoð hann veitir og hvernig aðstoð hann býður upp á. Þetta svigrúm stefnda er í samræmi við ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar, sem mælir fyrir um sjálfstjórn sveitarfélaga, og m.a. felst í rétti þeirra til ákveða sjálf hvort og hvernig tekjustofnar þeirra eru nýttir, og endurspeglast jafnframt í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011. Af framangreindu leiðir að ekki er fallist á þá málsástæðu stefnanda að reglur stefnda um tengsl réttar stefnanda til fjárhagsaðstoðar við tekjur maka hennar þarfnist sérstakrar heimildar í lögum. Þá er heldur ekki fallist á að umdeildar reglur stefnda gangi gegn markmiðsákvæðum laganna eða öðrum fyrirmælum þeirra. Þvert á móti verður af 19. gr. laganna ráðið að löggjafinn hafi gert ráð fyrir því að framfærsluskylda maka væri eitt þeirra sjónarmiða sem líta mætti til við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Því er hafnað sjónarmiðum um að ógilda beri ákvörðun stefnda á þeirri forsendu að reglur stefnda hafi ekki fullnægjandi lagastoð. Þrátt fyrir það sem að framan er rakið, um svigrúm stefnda til að meta þörf fyrir fjárhagsaðstoð og setja reglur þar að lútandi, verður mat stefnda að taka mið af og virða þau réttindi sem borgurunum eru tryggð í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum sem Ísland er aðili að. Kjarni ágreinings aðila í þessu máli lítur að því hvort réttindi stefnanda, sem henni eru tryggð í 65. gr. og 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið virt. Stefnandi byggir á því að stefnda hafi verið óheimilt að líta til tekna maka hennar við mat á umsókn hennar um fjárhagslegan stuðning. Líta verður svo á að í málatilbúnaði stefnanda felist jafnframt að stefnda sé óheimilt að leggja til grundvallar við mat á fjárþörf að hjón og sambúðarfólk þurfi hlutfallslega minni stuðning en einstaklingar sem reki einir heimili. Í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar segir að öllum, sem þess þurfi, skuli tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Fjallað hefur verið um réttindi samkvæmt þessu ákvæði stjórnarskrárinnar í dómum Hæstaréttar, m.a. í málum nr. 125/2000, 549/2002, 61/2013 og 795/2017. Stefnandi byggir á því að stefnda sé óheimilt að taka tillit til tekna maka við ákvörðun um rétt hennar til fjárhagsaðstoðar. Jafnvel þótt fallast megi á það með stefnanda að það sé aðalregla í íslenskum rétti, að réttur einstaklinga til greiðslu úr opinberum sjóði skuli vera án tillits til tekna maka, þá er í lögum víða tekið tillit til hjúskaparstöðu fólks án þess að það teljist ganga í berhögg við ákvæði stjórnarskrár. Í þessu efni verður að líta til þess að hjón bera sameiginlega ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar og gagnkvæma framfærsluskyldu hvort gagnvart öðru, sbr. 1. mgr. 46. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og 1. og 2. mgr. 47. gr. sömu laga. Í síðasttöldu málsgreininni er mælt fyrir um skyldu hjóna til að láta maka sínum, sem ekki getur framfært sig sjálfur, í té peningafjárhæð sem með þarf. Enn fremur er kveðið á um framfærsluskyldu maka í 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Með hliðsjón af þessari lagaskyldu verður ekki fallist á að það sé ólögmætt út af fyrir sig að taka, að minnsta kosti að einhverju leyti, tillit til tekna maka þegar félagsþjónusta á vegum sveitarfélaga er skipulögð. Til stuðnings þessari niðurstöðu er jafnframt vísað til dóms Hæstaréttar 16. október 2003 í máli nr. 549/2002. Á hinn bóginn eru takmörk fyrir því hve langt má ganga í því að skerða bætur vegna tekna maka og hefur Hæstiréttur slegið því föstu í dómi sínum 19. desember 2000, í máli nr. 125/2001, að það fari í bága við 1. mgr. 76. gr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar að skerða rétt einstaklinga til örorkulífeyris svo mikið á grundvelli tengingar við tekjur maka að með réttu megi segja að þeir fái ekki notið þeirra grundvallarmannréttinda og reisnar sem þeim eru tryggð með framangreindum ákvæðum stjórnarskrár. Sömu sjónarmið eiga við um félagslega aðstoð sveitarfélaga og greiðslur almannatrygginga, sem fjallað er um í framangreindum dómi Hæstaréttar. Umdeildar reglur stefnda, sem kveða á um að tekjur maka séu að fullu lagðar að jöfnu við tekjur umsækjanda um fjárhagsaðstoð, leiða í reynd til þess að einstaklingur í hjúskap á engan rétt til fjárhagsaðstoðar ef tekjur maka hans eru umfram grunnfjárhæð hjóna og sambúðarfólks, jafnvel þótt umsækjandi sjálfur sé tekjulaus. Slíkt fyrirkomulag er andstætt 1. mgr. 76 gr. stjórnarskrár þar sem það „tryggir ekki rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarks framfærslu eftir fyrirfram gefnu skipulagi sem ákveðið er á málefnanlegan hátt“, svo sem slegið var föstu í framangreindum dómi Hæstaréttar, þar sem jafnframt var vísað til 65. gr. stjórnarskrárinnar til stuðnings niðurstöðu dómsins. Við úrlausn um kröfu stefnanda í þessu máli verður hins vegar að líta til þess að tekjur hennar voru 150.018 krónur á því tímabili sem um er deilt en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar stefnda var 174.952 krónur á mánuði fyrir einstakling sem rekur eigið heimili. Með hliðsjón af þessum atvikum er ekki á það fallist að synjun stefnda um að veita stefnanda fjárstyrk hafi falið í sér brot á rétti sem hún nýtur samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar svo sem hún hefur verið skýrð af Hæstarétti í áður nefndum dómi frá 19. desember 2001. Má í þessu efni jafnframt vísa til dóms Hæstaréttar frá 15. nóvember 2018 í máli nr. 795/2017. Stefnandi byggir einnig á því að sú regla stefnda sem fram kemur í 3. mgr. 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð, að miða grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar hjóna og sambúðarfólks við lægri fjárhæð en samanlagða grunnfjárhæð tveggja einstaklinga, feli í sér brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar. Af framangreindu ákvæði í reglum stefnda má ráða að grunnfjárhæð aðstoðar til hjóna og sambúðarfólks nemi 1,5 faldri grunnfjárhæð aðstoðar til einstaklinga. Taka verður undir það sjónarmið stefnda að málefnalegar ástæður liggi að baki reglu af þessu tagi. Í því efni er annars vegar að líta til þess að það leiðir af gagnkvæmri framfærsluskyldu hjóna skv. 46 og 47. gr. hjúskaparlaga, sem áður er getið, að unnt er að gera þá kröfu til tekjuhærri maka að hann leggi meira fé til reksturs heimilis en sá sem lægri tekjur hafi. Þá gera ákvæði um félagsþjónustu sveitarfélaga ráð fyrir því á ýmsum stöðum að við mat á þörf fyrir aðstoð sveitarfélaga sé horft til stöðu fjölskyldna í heild fremur en hvers einstaklings innan hennar, sbr. m.a. 19. gr. laganna. Samræmist það og markmiðsákvæði laganna, sbr. 1. gr. þeirra, og endurspeglast einnig í öðrum reglum stefnda sem á ýmsan hátt taka tillit til fjölskyldunnar í heild, sbr. rétt til fjárstuðnings vegna sérstakra aðstæðna í IV. kafla reglnanna. Loks verður fallist á að málefnaleg rök standi til þess að draga þá ályktun að hjón og sambúðarfólk hafi tiltekið hagræði af sameiginlegum rekstri heimilis. Með framangreindum rökum er ekki fallist á það að reglur stefnda hafi falið í sér brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar með því að miða grunnfjárhæð framfærsluaðstoðar til stefnanda við aðra og lægri fjárhæð en ef hún ræki ein heimili. Loks byggir stefnandi á því að ógilda beri ákvörðun stefnda þar sem brotin hafi verið meginregla um skyldubundið mat með setningu umdeildra reglna stefnda um fjárhagsaðstoð. Jafnvel þótt stjórnvöldum kunni að vera skylt að meta sérstaklega aðstæður hvers og eins samkvæmt framangreindri meginreglu er þeim jafnframt játaður réttur til að setja tileknar almennar reglur. Slíkar almennar reglur eru nauðsynlegar til að tryggja að borgarar geti kynnt sér réttindi sín, þær stuðla að skilvirkni í framkvæmd og þjóna því mikilvæga markmiði að tryggja jafnræði við úthlutun takmarkaðra verðmæta. Þá verður jafnframt að líta til þess að þær reglur sem hér er deilt um fjalla um grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, en reglur stefnda um fjárhagsaðstoð veita að öðru leyti talvert svigrúm til mats á ólíkum aðstæðum og þörf borgara fyrir frekari aðstoð. Loks hefur stefnandi hvorki rökstutt né lagt fram gögn sem varpa ljósi á það hvaða einstaklingsbundnu aðstæður hafi verið fyrir hendi sem kröfðust þess að stefndi mæti aðstæður hennar sérstaklega eða leitt líkur að því að slíkt mat hefði leitt til annarrar niðurstöðu. Er því ekki fallist á ógildingu ákvörðunar stefnda á þessari forsendu. Að virtu öllu því sem að framan er rakið verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda. Með hliðsjón af atvikum máls og stöðu aðila er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins. Mál þetta flutt Flóki Ásgeirsson lögmaður fyrir stefnanda og Anna Guðrún Árnadóttir lögmaður fyrir stefnda. Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn. Dómsorð: Stefndi, Reykjavíkurborg, er sýkn af kröfum stefnanda, A. Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 15/2020
Hlutdeild Nauðgun Ómerking dóms Landsréttar Samning dóms Sératkvæði
X var ákærð fyrir hlutdeild í nauðgun meðákærða Y samkvæmt 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna. Y lést áður en aðalmeðferð málsins fór fram í héraði og var það því fellt niður á hendur honum. Með héraðsdómi var X sakfelld fyrir hlutdeild í nauðgunarbroti og dæmd í 2 ára fangelsi en dómurinn taldi að hlutdeild X hefði verið af ásetningi og falist bæði í athöfn og afhafnaleysi. Með dómi Landsréttar var X sýknuð af ákærunni þar sem talið var að X yrði ekki dæmd sek um hlutdeild í nauðgunarbroti á grundvelli þess athafnaleysis að hafa einungis horft á samskipti Y og A. Í dómi Hæstaréttar var meðal annars vísað til þess að Landsréttur hefði látið hjá líða að taka rökstudda afstöðu til þess ákæruatriðis er laut að því hvort telja hefði að X hefði veitt atbeina sinn að ætluðu nauðgunarbroti Y með því að liggja við hlið hans og A meðan á kynferðismökum stóð þannig að félli undir verknaðarlýsingu 194. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 19/1940. Þá kom fram að í röksemdum hins áfrýjaða dóms hefði hvorki farið fram mat á fyrirliggjandi upplýsingum um þroskahömlun A og þýðingu hennar við úrlausn málsins né að tekin hefði verið afstaða til þess hvort máli skipti í því samhengi að atvik hefðu gerst í lokuðu herbergi á heimili Y og X. Einnig yrði ekki séð að við mat á sakargiftum í dóminum hefði verið tekin afstaða til þýðingar þess liðsmunar sem Y hefði skapað gagnvart A með nærveru sinni. Var því talið af röksemdum í dóminum yrði ekki ráðið að fram hefði farið heildarmat á þeim atvikum sem sönnuð þótti og aðstæðum eins og þeim hefði verið lýst í ákæru við úrlausn um hvort háttsemi X uppfyllti við þær aðstæður lágmarksskilyrði hlutdeildar í nauðgunarbroti. Hefðu því með hinum áfrýjaða dómi ekki verið uppfyllt skilyrði f. liðar 2. mgr. 183. gr., sbr. 210. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var af þessum sökum talið óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon og Helgi I. Jónsson fyrrverandi hæstaréttardómari. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. apríl 2020. Ákæruvaldið krefst þess að „ákærða verði sakfelld fyrir hlutdeild í nauðgun meðákærða, sbr. ákærulið 1, samkvæmt þeirri verknaðarlýsingu ákæruliðar 2 að hafa veitt meðákærða liðsinni í verki með því að hafa legið við hlið meðákærða og brotaþola og horft á, á meðan meðákærði braut gegn brotaþola.“ Ákærða krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að henni verði gerð vægasta refsing sem lög heimila og sú refsing verði bundin skilorði. I Með 1. lið ákæru héraðssaksóknara 22. febrúar 2018 var Y gefin að sök nauðgun með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 2. október 2016 á heimili sínu og ákærðu látið brotaþola, A, hafa við sig munnmök, stungið fingri inn í leggöng hennar og haft við hana samræði um leggöng en Y hefði notfært sér yfirburðastöðu sína og aðstöðumun gagnvart brotaþola sem væri þroskahömluð og verið ein og mátt sín lítils gegn honum og ákærðu í lokuðu herbergi, undir áhrifum lyfja og/eða vímuefna, lömuð af hræðslu og fjarri öðrum á ókunnugum stað. Í 2. tölulið ákærunnar var ákærðu gefin að sök hlutdeild í broti Y, samkvæmt 1. lið ákærunnar, með því að hafa veitt honum liðsinni í verki með því að gefa brotaþola óþekkta töflu og láta hana reykja kannabisefni sem brotaþoli hefði sagt hafa sljóvgað sig, legið við hlið Y og brotaþola og horft á og fróað sér meðan Y braut gegn brotaþola. Var háttsemi Y heimfærð undir 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007 og háttsemi ákærðu undir sömu ákvæði, sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna. II 1 Við þingfestingu málsins í héraði 27. mars 2018 neituðu bæði Y og ákærða sök. Y lést 11. apríl 2018, áður en aðalmeðferð málsins fór fram í héraði og var það fellt niður á hendur honum með vísan til a. liðar 1. mgr. 170. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með héraðsdómi var ákærða sakfelld fyrir hlutdeild í nauðgunarbroti og dæmd í 2 ára fangelsi, jafnframt því sem henni var gert að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 1.000.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Framburður brotaþola, sem talinn var hafa stuðning í framburði vitna og að hluta til í framburði ákærðu sjálfrar, var lagður til grundvallar niðurstöðunni, en framburður ákærðu á hinn bóginn metinn ótrúverðugur um ýmis atriði er máli þóttu skipta. Sagði í dóminum að hlutdeild ákærðu hefði verið af ásetningi og falist bæði í athöfn og athafnaleysi. Ákærðu, sem þekkt hefði brotaþola, hefði borið að reyna að koma í veg fyrir að höfð yrðu kynferðismök við hana við þær aðstæður sem um ræðir. Þess í stað hefði hún stuðlað að þeim með nánar tilgreindri háttsemi sinni gagnvart brotaþola sem hefði verið ein og upp á ákærðu og Y komin.  2 Við meðferð málsins fyrir Landsrétti féll ákæruvaldið frá þeirri verknaðarlýsingu í ákæru að ákærða hefði veitt Y liðsinni í verki með því að láta brotaþola reykja kannabisefni. Með dómi Landsréttar 14. febrúar 2020 var ákærða sýknuð af kröfu ákæruvaldsins og einkaréttarkröfu brotaþola vísað frá héraðsdómi. Kom fram í dóminum að ósannað væri að ákærða hefði gefið brotaþola töflu sem leitt hefði til þess að hún hefði orðið mjög sljóvguð. Gegn neitun ákærðu væri einnig ósannað að hún hefði fróað sér á meðan Y hefði haft kynferðismök við brotaþola. Því kæmi einungis til skoðunar hvort ákærða hefði gerst sek um hlutdeild í nauðgun samkvæmt 1. lið ákæru með því að hafa horft á Y brjóta gegn brotaþola, eins og komist væri að orði í 2. lið ákærunnar. Til að sakfellt yrði fyrir hlutdeild í nauðgunarbroti fyrir slíkt athafnaleysi, yrði að lágmarki að liggja fyrir að ákærða hefði áður átt virkan þátt í að koma brotaþola í þá stöðu að Y hefði getað brotið gegn henni. Hjá lögreglu og fyrir dómi hefði brotaþoli aftur á móti borið að það hefði verið Y en ekki ákærða sem boðið hefði sér heim og látið aka sér þangað. Því yrði ákærða ekki dæmd sek um hlutdeild í nauðgunarbroti á grundvelli þess athafnaleysis að hafa horft á samskipti Y og brotaþola.   3 Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt á þeim grunni að líta yrði svo á að úrlausn um beitingu ákvæða 1. og 2. mgr. 194. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. III 1 Ákæruvaldið færir þau rök fyrir kröfu sinni um sakfellingu ákærðu hér fyrir dómi að Landsréttur hafi með öllu litið fram hjá mikilsverðum atriðum, bæði er varðar ákæruefnið og hvað telja megi sannað í málinu. Þannig yrði til að mynda hvorki séð að lagt hafi verið mat á fyrirliggjandi upplýsingar um þroskahömlun brotaþola né þá ólögmætu nauðung sem lýst sé í 1. lið ákæru um að Y hafi notfært sér yfirburði sína og aðstöðumun gagnvart brotaþola sem sé þroskahömluð og hafi mátt sín lítils bæði gegn honum og ákærðu við nánar tilgreindar aðstæður. Þá hafi Landsréttur ekki vikið að því að ákærðu sé ekki einungis gefið að sök að hafa horft á Y hafa samræði við brotaþola heldur hafi hún jafnframt legið við hlið þeirra. Hafi nærvera hennar við þessar aðstæður verið til þess fallin að auka liðsmun Y gegn brotaþola og því verið þáttur í þeirri ólögmætu nauðung sem brotaþoli hafi verið beitt. Þannig hafi ákærða veitt liðsinni í verki við hina ólögmætu nauðung sem ákært er fyrir. Auk þessa hafi Landsréttur látið hjá líða að víkja að þroskahömlun brotaþola og vitneskju ákærðu um hana. Ekki verði fallist á þá ályktun dómsins að til þess að ákærða hafi getað talist hlutdeildarmaður hafi hún þurft að eiga virkan þátt í að koma brotaþola í þá stöðu að Y gæti brotið gegn henni. Matskennt sé hvernig fara eigi með athafnaleysi manns sem viðstaddur sé refsiverðan verknað. Um sé að ræða rýmkaða refsiábyrgð og í reynd séu engin lágmarksskilyrði fyrir því að hlutdeildarbrot teljist hafa verið framið. Hafi Landsréttur einnig litið fram hjá framburði ákærðu um að hún hafi greitt fyrir akstur brotaþola að heimili þeirra Y umrætt kvöld og um talsverða þátttöku ákærðu í því kynferðisbroti sem um ræði. Loks verði að líta til þess að ákærða hefði með einföldum hætti getað afstýrt brotinu. 2 Krafa ákærðu um staðfestingu hins áfrýjaða dóms er einkum reist á því að sönnunargildi munnlegs framburðar verði ekki endurmetið fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Eftir standi því það eina ákæruatriði að ákærða hafi veitt Y liðsinni í verki með því að liggja við hlið hans og brotaþola og horfa á það sem gerðist milli þeirra. Sú nærvera ákærðu verði á hinn bóginn ekki talin vera liðsinni í verki og ekki þáttur í nauðung í garð brotaþola, auk þess sem vafasamt sé að fullyrða að Y hafi þvingað brotaþola til kynmaka við sig. Ákæruvaldinu hafi heldur ekki tekist sönnun um að þroskahömlun brotaþola hafi verið með þeim hætti að áhrif skuli hafa á niðurstöðu máls. Þá hafi ákærða ekki vitað fyrir fram að til stæði að brotaþoli kæmi á heimili hennar en hún hefði greitt fyrir akstur brotaþola þangað samkvæmt fyrirmælum Y. Hafa verði í huga að Y hafi beitt ákærðu bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi í sambúð þeirra. Loks verði að líta til þess að þau atriði sem ákæruvaldið tilgreini til stuðnings sakfellingu ákærðu, svo sem greiðsla ákærðu fyrir akstur eða spurning hennar til brotaþola um hvort hún mætti sjálf snerta brotaþola, séu ekki meðal þeirra atriða sem greint sé frá í ákæru. Með vísan til 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 komi því ekki til álita að dæma ákærðu seka um hlutdeildarbrot á grundvelli þeirrar ætluðu háttsemi. IV Í 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga kemur fram að hafi refsilöggjöf breyst frá því að verknaður var framinn til þess er dómur gengur, skuli dæma eftir nýrri lögunum, bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu. Aldrei má þó dæma refsingu, nema heimild hafi verið til þess í lögum, þegar verk var framið, og ekki þyngri refsingu en orðið hefði eftir þeim lögum. Með lögum nr. 16/2018, sem tóku gildi 12. apríl 2018, voru ákvæði 194. gr. almennra hegningarlaga færð í það horf sem nú er. Í 1. mgr. greinarinnar segir að hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skuli sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Telst samþykki liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja en ekki ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti. Þá segir í 2. mgr. 194. gr. að einnig teljist nauðgun, og varði sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr., að beita blekkingum eða notfæra sér villu viðkomandi um aðstæður eða að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig væri ástatt um hann að öðru leyti að hann gæti ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans. Á þeim tíma er atvik máls gerðust sagði í 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga að hver sem hefði samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerðist sekur um nauðgun og skyldi sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis teldist svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti. Þá sagði í 2. mgr. greinarinnar að það teldist einnig nauðgun og varðaði sömu refsingu og mælt væri fyrir um í 1. mgr. að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig væri ástatt um hann að öðru leyti að hann gæti ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans. Í 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga er almennt ákvæði um hlutdeild í brotum samkvæmt ákvæðum laganna, öðrum en þeim sem hafa að geyma sjálfstæðar og sérhæfðar hlutdeildarheimildir. Þar er kveðið á um að hver sá maður, sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt á þátt í því, að brot samkvæmt almennum hegningarlögum er framið, skuli sæta þeirri refsingu, sem við brotinu er lögð. Í 2. mgr. sömu greinar er að finna frjálsar heimildir til refsilækkunar hlutdeildarmanns samkvæmt greininni, ef aðstæður eða atvik gefa tilefni til, svo sem að þátttaka hlutdeildarmanns í broti er smávægileg eða er fólgin í því að styrkja áform annars manns, sem áður er til orðið, eða fyrirhuguð þátttaka hefur misheppnast. Þá er í 3. mgr. greinarinnar heimild til refsibrottfalls ef manni hefur af gáleysi orðið á að taka þátt í broti sem á undir hegningarlagaákvæði þar sem ekki er sett þyngri refsing en fangelsi allt að einu ári. Loks eru í 4. mgr. greinarinnar reglur um hlutdeild eftir að brot hefur verið fullframið, sem felast þarf í að veita brotamanni eða öðrum liðsinni til þess að halda við ólögmætu ástandi, sem skapast hefur fyrir brotið eða njóta hagnaðar af því, enda taki önnur ákvæði laga ekki til verknaðar hlutdeildarmanns. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að almennum hegningarlögum segir að í 1. mgr. 22. gr. sé gert ráð fyrir því sem almennri reglu að þegar fleiri en einn maður vinni saman að framkvæmd brots, skuli sök hvers um sig metin sjálfstætt eftir afstöðu hvers um sig til brotsins eða tilraunar til þess. Þá geti refsing hvers þátttakanda um sig orðið misjöfn eftir atvikum. Eins og að framan greinir er hlutdeild samkvæmt 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga fólgin í þátttöku manns í afbroti, sem lýst er annars staðar í þeim lögum, og ræðst hún eðli málsins samkvæmt talsvert af verknaðarlýsingu þess afbrots og fullframningarstigi. Hlutdeildarbrot er sjálfstætt brot þótt ekki sé tilgreint með tæmandi hætti í 1. mgr. 22. gr. hvaða háttsemi fella beri  undir ákvæðið, heldur eru þess í stað nefnd nokkur dæmi um hana. Þá kunna atvik að vera með þeim hætti að sakfellt verði fyrir hlutdeildarverknað óháð refsiábyrgð aðalmanns, en ásetningur til hlutdeildar verður að öllu jöfnu að standa til þess að brotið verði fullframið þrátt fyrir að atbeini hlutdeildarmanns lúti einungis að undirbúningsstigi brots. Samkvæmt framansögðu er lýsing 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga víðtæk um þá háttsemi sem fallið getur undir ákvæðið. Þannig er hlutdeild hvorki skilgreind né bundin þátttöku í undirbúningi brots eða skipulagningu og getur hún jafnvel falist í þátttöku sem ekki er skaðleg eða hættuleg í sjálfu sér en tengist refsinæmum aðalverknaði og verður refsiábyrgð fyrir hlutdeild ákvörðuð sjálfstætt. Hlutdeildarbrot þarf ekki að vera afgerandi þáttur í því hvort refsiverður verknaður er framinn heldur getur nægt, eins og áður segir, að styrkja áform annars manns sem áður eru til orðin, sbr. 2. mgr. 22. gr. Getur hlutdeild í einhverjum tilvikum verið fólgin í athafnaleysi en eðli málsins samkvæmt felst hún alla jafna í athöfn í verki eða orði, sbr. meðal annars til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 4. febrúar 1993 í máli nr. 422/1992, sem birtur er í dómasafni réttarins árið 1993 á blaðsíðu 198, 12. desember 2002 í máli nr. 328/2002 og 24. janúar 2008 í máli nr. 354/2007. V Niðurstaða hins áfrýjaða dóms er einkum reist á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðu og vitna, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Tekur kröfugerð ákæruvalds hér fyrir dómi mið af því. Með vísan til 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærða ekki sakfelld fyrir aðra háttsemi en greinir í ákæru. Á hinn bóginn verður við mat á því hvort sú háttsemi sem lýst er í ákæru teljist sönnuð að líta til annarra atriða sem kunna að vera henni til stuðnings og hvílir sönnunarbyrði um þau á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laganna. Eins og að framan greinir er hlutdeild samkvæmt 22. gr. almennra hegningarlaga fólgin í þátttöku í afbroti sem lýst er annars staðar í þeim lögum og ræðst inntak hlutdeildarverknaðar mjög af verknaðarlýsingu þess afbrots. Ræðst því mat á þeirri háttsemi ákærðu, sem ákært er fyrir, af verknaðarlýsingu 194. gr. laganna. Ekki var tiltekið í hinum áfrýjaða dómi hvort háttsemi Y hefði mátt fella undir ákvæði 194. gr. almennra hegningarlaga eða hverju úrlausn um það skyldi varða við mat á því hvort ákærða hefði gerst sek um hlutdeildarbrot. Verður úrlausn hins áfrýjaða dóms skilin svo að sönnuð háttsemi ákærðu hafi ekki nægt til sakfellingar hennar, óháð mati á atferli Y gagnvart brotaþola.  Á hinn bóginn lét dómurinn hjá líða að taka rökstudda afstöðu til þess ákæruatriðis er laut að því hvort telja yrði að ákærða hefði veitt atbeina sinn að ætluðu nauðgunarbroti Y með því að liggja við hlið hans og brotaþola meðan á kynferðismökum stóð, þannig að félli undir verknaðarlýsingu 194. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Í því sambandi var heldur ekki tekin afstaða til þess hvort ákærða vissi um þroskaskerðingu brotaþola, og eftir atvikum til þýðingar þeirrar skerðingar við mat á aðstæðum, eða um tilefni þess að brotaþola var boðið á heimili hennar og Y. Í dóminum var jafnframt látið hjá líða að taka afstöðu til þess hvort sú skírskotun í 2. ákærulið til 1. ákæruliðar um „hlutdeild í nauðgun samkvæmt 1. ákærulið“ varðaði einhverju fyrir niðurstöðu málsins. Við mat á því hvort ákærða hefði gerst sek um hlutdeild í nauðgun var þannig ekki tekin afstaða til þeirrar aðstöðu sem lýst er í 1. lið ákæru að Y „notfærði sér yfirburða stöðu sína og aðstöðumun gagnvart A sem er þroskahömluð og að hún var ein og mátti sín lítils gegn honum og meðákærðu X í lokuðu herbergi ... lömuð af hræðslu og fjarri öðrum á ókunnugum stað.“ Um nauðsyn þess að slíkt mat færi fram ber að líta til efnisinntaks þágildandi 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, að til ofbeldis teljist svipting sjálfræðis með innilokun og að það teljist nauðgun að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann geti ekki spornað við verknaðinum. Eins og að framan greinir varð ekki breyting á ákvæði 194. gr. að þessu leyti með lögum nr. 16/2018. Samkvæmt framansögðu verður hvorki séð að í röksemdum hins áfrýjaða dóms komi fram mat á fyrirliggjandi upplýsingum um þroskahömlun brotaþola og þýðingu hennar við úrlausn málsins né að tekin hafi verið afstaða til þess hvort máli skipti í því samhengi að atvik urðu í lokuðu herbergi á heimili Y og ákærðu, sem lá við hlið hans og brotaþola meðan kynferðismök áttu sér stað, eins og segir í ákæru. Þá verður ekki séð að við mat á sakargiftum hafi í dóminum verið tekin afstaða til þýðingar þess liðsmunar sem ákærða hafi skapað gagnvart brotaþola með nærveru sinni við þessar aðstæður. Af röksemdum í dóminum verður þannig ekki ráðið að fram hafi farið heildarmat á þeim atvikum sem sönnuð þóttu og aðstæðum eins og þeim var lýst í 1. lið ákæru við úrlausn um hvort sönnuð háttsemi ákærðu uppfyllti við þessar aðstæður lágmarksskilyrði hlutdeildar í nauðgunarbroti því sem lýst er í 1. lið ákæru. Með hinum áfrýjaða dómi voru því ekki uppfyllt skilyrði f. liðar 2. mgr. 183. gr., sbr. 210. gr., laga nr. 88/2008 um röksemdir fyrir niðurstöðu. Er því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm, án kröfu, og vísa málinu til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný. Ákvörðun um sakarkostnað bíður nýs dóms í málinu. Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði.   Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Björgvins Jónssonar lögmanns, 800.000 krónur.     Sératkvæði Benedikts Bogasonar og Helga I. Jónssonar Við erum ósammála meirihluta dómenda um niðurstöðu málsins af eftirfarandi ástæðum: I Í máli þessu var ákærðu gefin að sök hlutdeild í nauðgunarbroti Y samkvæmt 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940 að kvöldi 2. október 2016 á heimili sínu og Y með því að hann hefði látið A hafa við sig munnmök, stungið fingri inn í leggöng hennar og haft við hana samræði um leggöng. Hefði Y notfært sér yfirburðastöðu sína og aðstöðumun gagnvart brotaþola, sem væri þroskahömluð, og að hún hefði mátt sín lítils gegn honum og ákærðu í lokuðu herbergi, undir áhrifum lyfja og/eða vímuefna, lömuð af hræðslu og fjarri öðrum á ókunnugum stað. Ákærðu var gefin að sök hlutdeild eftir 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga í framangreindri háttsemi Y með því að veita honum liðsinni í verki með því að gefa brotaþola óþekkta töflu og láta hana reykja kannabisefni, sem brotaþoli kveðst hafa orðið mjög sljóvguð af, legið við hlið brotaþola og Y og horft á og fróað sér á meðan hann braut gegn brotaþola. Y lést 10. apríl 2018, fyrir aðalmeðferð málsins í héraði, og var málið á hendur honum fellt niður samkvæmt heimild í a. lið 1. mgr. 170. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með héraðsdómi var ákærða sakfelld samkvæmt ákæru og gert að sæta fangelsi í 2 ár. Í greinargerð ákæruvaldsins fyrir Landsrétti var fallið frá þeirri verknaðarlýsingu í ákæru að ákærða hefði veitt Y liðsinni í verki með því að láta brotaþola reykja kannabisefni. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærða sýknuð af ákærunni. Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að með hliðsjón af misvísandi framburði brotaþola væri ósannað að ákærða hefði gefið henni töflu sem leitt hefði til þess að hún hefði orðið mjög sljóvguð. Þá væri ósannað gegn neitun ákærðu að hún hefði fróað sér á meðan Y hafði samfarir við brotaþola. Kæmi því einungis til skoðunar hvort ákærða hefði gerst sek um hlutdeild í nauðgun með því að hafa horft á meðan Y braut gegn brotaþola. Til að sakfellt yrði fyrir slíkt athafnaleysi sem hlutdeild í nauðgunarbroti yrði að lágmarki að liggja fyrir að ákærða hefði áður átt virkan þátt í því að að koma brotaþola í þá stöðu að Y gat brotið gegn henni. Hjá lögreglu og fyrir dómi hefði brotaþoli aftur á móti borið að það hefði verið Y, en ekki ákærða, sem hefði haft samband við sig, boðið sér heim og látið aka sér þangað. Yrði ákærða því ekki sakfelld fyrir hlutdeild í nauðgunarbroti á grundvelli þess athafnaleysis að hafa horft á samskipti Y og brotaþola. Með ákvörðun Hæstaréttar 31. mars 2020 var með skírskotun til 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fallist á beiðni ákæruvaldsins um að mál þetta yrði flutt munnlega um beitingu ákvæða 1. og 2. mgr. 194. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr., almennra hegningarlaga. Þá sagði í ákvörðuninni að niðurstaða Landsréttar byggðist að hluta á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðu, en það mat yrði ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Eftir hinu tilvitnaða lagaákvæði er ekki heimilt að veita leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar til endurskoðunar á mati Landsréttar á sönnunargildi munnlegs framburðar. Tekur ákvæðið í senn til sönnunargildis munnlegs framburðar ákærðu og vitna. Af því leiðir að ekki verður haggað við sýknu ákærðu af því að hafa gefið brotaþola töflu, sem hún hafi orðið mjög sljóvguð af, og að hafa fróað sér meðan á ætluðu kynferðisbroti Y stóð, en hvort tveggja var reist á sönnunargildi munnlegs framburðar. Er því einungis til úrlausnar hvort ákærða hafi gerst sek um hlutdeild í broti Y samkvæmt ákæru með því að hafa legið við hlið hans og brotaþola og horft á. II Í skýringum við 22. gr. almennra hegningarlaga í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að meta verði sjálfstætt hvern hlutdeildarverknað eftir afstöðu geranda til brotsins og að sakfella megi fyrir hlutdeildarverknað, óháð ábyrgð aðalmanns. Í máli þessu verður ekki skorið úr um sekt eða sýknu Y þar sem það var, eins og áður greinir, fellt niður gagnvart honum.   Samkvæmt ákæru er ákærðu ekki gefið að sök að hafa komið að þeim undirbúningsathöfnum Y að setja sig í samband við brotaþola, bjóða henni heim til sín og láta aka henni þangað eða greiða fyrir farið, en hið síðastnefnda hefur ákærða viðurkennt að hafa gert að fyrirlagi Y. Þá er ákærðu heldur ekki gefið að sök að hafa tekið þátt í þeim kynlífsathöfnum, sem í ákæru greinir, eða tilraun til þeirra, sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga, en  samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 má ekki dæma ákærðu fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir. Samkvæmt þessu var ákærðu hvorki gefin að sök verkleg hlutdeild í ætluðu nauðgunarbroti Y við undirbúning eða framkvæmd þess né sálræn hlutdeild með því að hafa, meðan á atferli hans stóð, með orðum, svipbrigðum, hreyfingum, bendingum eða öðru látbragði veitt honum liðsinni við framningu þess. Verður því að taka afstöðu til þess sem út af stendur í verknaðarlýsingu ákæru, hvort í því athafnaleysi ákærðu, einu og sér, að liggja við hlið hans og brotaþola og horfa á, felist liðsinni í verki eftir 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Það mat Landsréttar á sönnunargildi framburðar brotaþola að Y hafi haft allt frumkvæði að komu hennar á heimili hans og ákærðu með því að setja sig í samband við brotaþola, bjóða henni þangað og láta aka henni, er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Enda þótt fyrir liggi í málinu að ákærða hafi í beinu framhaldi af komu brotaþola og að frumkvæði Y verið samþykk því að taka þátt í kynlífsathöfnum með honum og brotaþola er ljóst af málsgögnum að þegar það gekk ekki eftir, þar sem Y sneri sér alfarið að brotaþola, að afstaða ákærðu til þess brots, sem honum var gefið að sök, var skýr um að hún hefði verið því mótfallin. Jafnframt liggur fyrir að þessi afstaða ákærðu leiddi í raun til þess að Y lét af háttsemi sinni gagnvart brotaþola. Við þessar aðstæður og í ljósi þeirrar verknaðarlýsingar, sem eftir stendur samkvæmt ákæru um hlutdeild hennar í ætluðu broti Y, verður ákærða ekki sakfelld fyrir að hafa með umræddu athafnaleysi sínu veitt Y liðsinni í verki í skilningi 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt framansögðu teljum við að staðfesta beri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms og fella allan áfrýjunarkostnað málsins á ríkissjóð.     Dómur Landsréttar 14. febrúar 2020 Mál þetta dæma Oddný Mjöll Arnardóttir landsréttardómari, Hjörtur O. Aðalsteinsson, settur landsréttardómari, og Eggert Óskarsson, fyrrverandi héraðsdómari. Málsmeðferð og dómkröfur aðila Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar 5. nóvember 2018 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Vestfjarða 10. október 2018 í málinu nr. S-13/2018. Ákæruvaldið krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að því er varðar sakfellingu ákærðu en fellur frá þeirri verknaðarlýsingu í ákæru að ákærða hafi veitt meðákærða liðsinni í verki með því að láta brotaþola reykja kannabisefni. Jafnframt er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd. Ákærða krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing verði milduð og hún ákvörðuð skilorðsbundin. Þá krefst ákærða þess aðallega að einkaréttarkröfu brotaþola verði vísað frá dómi en til vara að fjárhæð þeirrar kröfu verði lækkuð. Brotaþoli, A, krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að því er varðar einkaréttarkröfu hennar. Ákærða gaf viðbótarskýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti og þá var einnig spiluð upptaka af framburði brotaþola fyrir héraðsdómi. Niðurstaða Í 1. lið ákæru í máli þessu er Y gefin að sök nauðgun með því að hafa látið brotaþola hafa við sig munnmök, stungið fingri inn í leggöng hennar og haft við hana samræði um leggöng. Er ákærði talinn hafa notfært sér yfirburðastöðu sína og aðstöðumun gagnvart brotaþola sem sé þroskahömluð og að hún hafi verið ein og mátt sín lítils gegn honum og ákærðu í lokuðu herbergi, undir áhrifum lyfja og/eða vímuefna, lömuð af hræðslu og fjarri öðrum á ókunnugum stað. Í 2. lið ákærunnar er ákærðu gefin að sök hlutdeild í nauðgun samkvæmt 1. lið ákærunnar með því að hafa veitt meðákærða Y liðsinni í verki með því að gefa brotaþola óþekkta töflu sem brotaþoli kvaðst hafa orðið mjög sljóvguð eftir, legið við hlið meðákærða og brotaþola og horft á og fróað sér á meðan meðákærði braut gegn brotaþola. Við þingfestingu málsins í héraðsdómi 27. mars 2018 neitaði ákærði Y sök, en hann lést 10. apríl sama ár og var mál ákæruvaldsins á hendur honum fellt niður samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 170. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Brotaþoli lýsti því fyrir héraðsdómi að ákærða hefði gefið henni e-pillu rétt eftir að hún hefði verið komin upp í rúm til ákærðu og meðákærða og hefði hana farið að svima, ekkert séð voða mikið og séð bara svart. Hún lýsti töflunni þannig að hún hefði verið kringlótt og staðið „e“ á henni. Síðar í skýrslutökunni var brotaþola sýnd mynd af 100 mg Seroquel töflu og þá staðfesti hún að ákærða hefði gefið henni slíka töflu. Meðal gagna málsins eru upplýsingar um lyfið Seroquel og þar kemur fram að um sé að ræða lyfseðilsskylt sefandi lyf sem innihaldi virka efnið quetíapín og sé notað til að meðhöndla geðklofa. Það sé óvenjulegt sefandi lyf og fylgi notkun þess vægar hreyfitruflanir sem líkist einkennum parkinsonsveiki og ósjálfráðra hreyfinga. Þá segir að verkun lyfsins komi fram innan viku og sé verkunartími allt að 12 klukkustundir. Með hliðsjón af hinum misvísandi framburði brotaþola að þessu leyti verður að telja ósannað að ákærða hafi gefið brotaþola einhverja þá töflu sem hafi leitt til þess að hún hafi orðið mjög sljóvguð eftir. Þá hefur ákærða neitað því að hafa fróað sér á meðan meðákærði hafði samfarir við brotaþola, en brotaþoli er ein til frásagnar um það. Gegn neitun ákærðu verður að telja þetta atriði ákærunnar ósannað. Samkvæmt framangreindu kemur einungis til skoðunar í máli þessu hvort ákærða hafi gerst sek um hlutdeild í nauðgun samkvæmt 1. lið ákærunnar með því að hafa horft á meðan meðákærði braut gegn brotaþola eins og komist er að orði í ákærunni.  Samkvæmt 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal hver sá maður, sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt á þátt í því, að brot samkvæmt lögunum er framið, sæta þeirri refsingu sem við brotinu er lögð. Til að refsiábyrgð verði lögð á ákærðu fyrir hlutdeild í nauðgun samkvæmt verknaðarlýsingu 1. töluliðar ákæru verður ákæruvaldið því bæði að færa sönnur að því að sú háttsemi sem þar er lýst hafi farið fram og að ákærða hafi veitt liðsinni til hennar í orði eða verki. Eins og áður greinir stendur það eitt eftir af verknaðarlýsingu 2. töluliðar ákæru í máli þessu að ákærða hafi horft á meðan meðákærði braut gegn brotaþola. Til að sakfellt verði fyrir slíkt athafnaleysi sem hlutdeild í nauðgunarbroti verður að lágmarki að liggja fyrir að ákærða hafi áður átt virkan þátt í því að koma brotaþola í þá stöðu að meðákærði gat brotið gegn henni. Hjá lögreglu og fyrir dómi bar brotaþoli aftur á móti að það hefði verið meðákærði, en ekki ákærða, sem hefði haft samband við sig, boðið sér heim og látið aka sér þangað. Verður ákærða því ekki sakfelld fyrir hlutdeild í nauðgunarbroti á grundvelli þess athafnaleysis að hafa horft á samskipti meðákærða og brotaþola. Með hliðsjón af þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 ber að vísa einkaréttarkröfu brotaþola frá dómi. Þá ber með vísan til 2. mgr. 235. gr. sömu laga að fella sakarkostnað eins og hann var ákveðinn í héraðsdómi á ríkissjóð. Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Ákærða, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins. Einkaréttarkröfu A er vísað frá héraðsdómi. Sakarkostnaður eins og hann var ákveðinn í héraði greiðist úr ríkissjóði. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Björgvins Jónssonar lögmanns, 1.000.000 króna, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Einars Gauts Steingrímssonar lögmanns, 300.000 krónur.       Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 10. október 2018   I Mál þetta, sem dómtekið var 14. september 2018 að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 22. febrúar 2018, á hendur „Y, kennitala [...], [...], [...] og X, kennitala [...], [...], [...], fyrir eftirgreind brot að kvöldi sunnudagsins 2. október 2016, á þáverandi heimili þeirra að [...]:   Gegn ákærða Y fyrir nauðgun, með því að hafa látið A hafa við sig munnmök, stungið fingri inn í leggöng hennar og haft við hana samræði um leggöng en ákærði notfærði sér yfirburða stöðu sína og aðstöðumun gagnvart A sem er þroskahömluð og að hún var ein og mátti sín lítils gegn honum og meðákærðu X í lokuðu herbergi, undir áhrifum lyfja og/eða vímuefna, lömuð af hræðslu og fjarri öðrum á ókunnugum stað.   Gegn ákærðu X fyrir hlutdeild í nauðgun samkvæmt 1. ákærulið, með því að hafa veitt meðákærða Y liðsinni í verki með því að gefa A óþekkta töflu og láta hana reykja kannabisefni sem A kveðst hafa orðið mjög sljóvguð eftir, legið við hlið meðákærða og A og horft á og fróað sér á meðan meðákærði braut gegn A.   Telst brot samkvæmt 1. ákærulið varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007, en brot samkvæmt 2. ákærulið telst varða við sömu ákvæði, sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.   Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.   Einkaréttarkröfur: Af hálfu A kt. [...] eru gerðar eftirfarandi kröfur:   Á hendur ákærða Y er gerð krafa um að hann greiði henni miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verð­tryggingu nr. 38/2001 frá 3. október 2016 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða þóknun vegna réttargæslu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.   Á hendur ákærðu X er gerð krafa um að hún greiði henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.000.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verð­tryggingu nr. 38/2001 frá 3. október 2016 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærðu verði gert að greiða þóknun vegna réttargæslu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.“   II             Ákærðu mættu bæði við þingfestingu málsins, 28. mars 2018, neituðu sök og höfnuðu bótakröfu. Í því sama þinghaldi var að beiðni héraðssaksóknara dómkvaddur matsmaður til þess að leggja mat á þroska brotaþola, og hvort brotaþoli ætti erfitt með að lesa í félagslegar aðstæður og setja mörk varðandi óviðeigandi samskipti. Var dr. B sálfræðingur dómkvaddur til þess verkefnis og skyldi hann skila mati sínu eigi síðar en þann 15. maí 2018. Þá var mál nr. S-10/2018, sem var höfðað á hendur ákærða Y, með ákæru útgefinni 21. febrúar 2018, sameinað þessu máli, sbr. heimild í 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði Y lést þann 10. apríl 2018. Mál ákæruvaldsins á hendur honum var því fellt niður samkvæmt heimild a-liðar 1. mgr. 170 gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. III             Ákæruvaldið gerir þær kröfur sem í ákæru greinir á hendur ákærðu X.             Af hálfu brotaþola eru gerðar sömu kröfur og í greinargerð gagnvart ákærðu auk þess sem brotaþoli áskildi sér rétt til að hafa uppi bótakröfu gegn dánarbúi ákærða Y.             Ákærða neitar sök. Ákærða krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og að bótarkröfu verði vísað frá dómi. Til vara gerir ákærða kröfu um vægustu refsingu er lög leyfa auk lækkunar bótakröfu. Þá gerir ákærða kröfu um að málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði. IV             Mál þetta á upphaf sitt í bréfi barnaverndanefndar á norðanverðum Vestfjörðum 21. desember 2016, beiðni um rannsókn á meintu kynferðislegu ofbeldi gagnvart brotaþola, A. Samkvæmt því sem þar greinir kom brotaþoli ásamt móður sinni í viðtal fyrr þann sama dag eftir að móðir brotaþola hafði frétt frá þriðja aðila að brotaþola hefði verið „nauðgað“. Í bréfinu er greint frá frásögn brotaþola af því að ákærði Y heitinn hefði haft samband við sig gegnum samskiptaforritin Snapchat og Messenger í september 2016. Brotaþoli hefði ekki þekkt manninn og ekki hitt hann áður, en þekkti hins vegar kærustu hans, X, frá því að hún passaði börn hennar fyrir einhverjum árum. Í bréfinu er nánar greint frá lýsingum brotaþola á atvikum þann 2. október 2016, sem þróuðust þannig að brotaþoli var sótt til [...] og henni ekið heim til ákærðu að [...]. Þar hefðu ákærðu tekið á móti henni, látið hana reykja gras og gefið henni pillu. Brotaþoli hefði ekki getað neitað, verið hrædd og óttast hvað myndi gerast ef hún afþakkaði. Í framhaldi af því hefði ákærði Y heitinn sagt brotaþola að afklæðast og átt við hana mök. Eftir það hafi brotaþoli viljað fara heim. Ákærði Y heitinn hafi ekki viljað það en ákærða X útvegað brotaþola far til síns heima. Þá segir og að brotaþoli hafi sagt að hún hefði ekki greint frá þessu af ótta við að móðir hennar yrði reið og einnig að brotaþoli hafi verið hrædd við Y heitinn. Í bréfinu er frá því greint að móðir brotaþola hafi sagt að ákærða X hefði tekið myndir af því sem átti sér stað milli brotaþola og Y heitins og sýnt þær konu að nafni C, og sú kona hefði síðar upplýst móður brotaþola um þessi atvik. Loks er á það bent í bréfi barnaverndarnefndar að brotaþoli sé þroskahömluð og eigi erfitt með að átta sig á því hvenær verið sé að blekkja hana og tæla. Skilningur hennar á því sem sagt sé við hana sé mjög slakur og því geti hún fundið sig í aðstæðum sem hún ráði ekki við og geti þá ekki spornað við fótum, sett mörk eða farið úr aðstæðum.             Skýrslur voru teknar af brotaþola og móður hennar vegna málsins 22. desember 2016. Í framhaldi af því voru teknar skýrslur af D og E, sem báðir könnuðust við að hafa ekið með brotaþola að kvöldi 2. október 2016. Sömuleiðis voru teknar skýrslur af C, F, G og H. Ákærðu voru handtekin á heimili sínu 23. desember 2016 og teknar af þeim skýrslur. Meðal gagna málsins eru skýrslur Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins frá árinu 2013 er varða brotaþola. Þar kemur fram að fylgst hefur verið með þroska brotaþola frá fimm ára aldri. Samkvæmt nefndum gögnum var brotaþoli greind á mörkum miðlungs til vægrar þroskahömlunar. Þá glími brotaþoli við athyglisbrest án ofvirkni auk erfiðleika í félagsumhverfi. Hefur brotaþoli vegna þessa fengið lyfjameðferð auk liðveislu og stuðnings í námi. Þá liggja fyrir ýmis rannsóknargögn er varða síma- og samskiptamiðlanotkun ákærðu og brotaþola. Við rannsókn málsins var óskað eftir mati sálfræðings á andlegri líðan brotaþola og ástandi eftir hið meinta kynferðisbrot. Var I sálfræðingur fenginn til þess að vinna það mat. Liggur skýrsla hans þar að lútandi fyrir í málinu. Að beiðni héraðssaksóknara var dómkvaddur dr. B sálfræðingur til þess að leggja mat á þroska brotaþola og hvort hún ætti erfitt með að lesa í félagslegar aðstæður og setja mörk varðandi óviðeigandi samskipti. Liggur skýrsla hans fyrir í málinu. V             Sem fyrr segir lést ákærði Y eftir að mál þetta var þingfest en áður en aðalmeðferð málsins fór fram, og var mál ákæruvaldins á hendur honum fellt niður. Skýrsla sem tekin var af Y hjá lögreglu var spiluð, í hljóði og mynd, við aðalmeðferð málsins. Þar neitaði hann sök. Í skýrslu sinni hjá lögreglu kannaðist Y heitinn við að hafa verið að „reyna við“ brotaþola, sem hefði komið einu sinni til hans og ákærðu X. Kvað hann engan hafa þá verið heima við nema hann og ákærðu X. Þá kannaðist hann við að hafa boðið brotaþola í heimsókn og kvað þau parið hafa gert það í sameiningu. Hins vegar neitaði Y heitinn að hafa átt kynmök við brotaþola og að hafa gefið henni pillur eða gras.             Ákærða neitar sök. Fyrir dómi kvaðst ákærða þekkja brotaþola. Þær hefðu unnið saman á [...] og brotaþoli hefði passaði fyrir hana.             Um atvik þann 2. október 2016 sagðist ákærðu svo frá að þetta hefði verið afmælishelgin sín. Y hefði sagt sér að brotaþoli væri að koma og hún ætti að láta „gaurinn“ sem skutlaði henni hafa pening. Kvaðst hún ekki hafa vitað fyrirfram hvað stæði til. Brotaþoli hefði komið um níuleytið og farið inn í herbergi til Y að spjalla. Sjálf hefði hún sest inn í stofu og spjallað við gesti sína, J og K, í dágóða stund, en síðar farið inn til brotaþola og Y sem þá hefðu legið uppi í rúmi í fötunum sínum. Hún kvaðst hafa spurt brotaþola hvort hún vildi totta Y og þær hefðu báðar gert það til skiptis. Ákærða kvaðst hafa spurt brotaþola hvort hún mætti snerta hana en brotaþoli neitað því. Y hefði viljað fá að sofa hjá brotaþola sem hefði sagt já við því. Kvaðst ákærða þá hafa orðið mjög afbrýðisöm. Y og brotaþoli hefðu haft kynmök í einhverjar mínútur og ákærða orðið mjög pirruð og snúið sér undan en Y hefði ekki skilið neitt í því. Hún hefði þá ekki sagst geta þetta og viljað hætta þessu. Þau hefðu þá klætt sig. Ákærða kvaðst hafa útskýrt fyrir brotaþola að þetta hefði ekkert með hana að gera og útvegað brotaþola leigubíl heim. Brotaþoli hafi sagt þetta allt í lagi en mamma hennar mætti ekki vita af þessu. Ákærða kvaðst ekki hafa áttað sig á því hvers vegna það væri fyrr en í skýrslutöku í desember, því að hún hefði talið að brotaþoli væri orðin 18 ára eða alveg að verða það. Nokkrum dögum eftir þessi atvik hefði brotaþoli sent sér og Y Snapchat um að redda sér bjór og grasi, en ákærða kvaðst hafa svarað brotaþola því til að hún væri enn í Reykjavík. Um aðstæður á heimili sínu að öðru leyti umrætt kvöld sagði ákærða að þrennt hefði verið gestkomandi frammi í stofu meðan því fór fram sem að framan var lýst. Þá kvað ákærða kvikmynd hafa verið í sjónvarpi í svefnherberginu, einhverja kvikmynd, ekki klámmynd.  Klám hefði verið sett á seinna.             Ákærða neitaði að hafa gefið brotaþola nokkuð og kvaðst ekki hafa séð hana taka pillu. Aðspurð um neyslu sína kvaðst ákærða hafa fengið sér extacy og drukkið um helgina, „ekkert frábært ástand“ hefði verið á sér. Svipað ástand hefði verið á Y, hann hefði neytt áfengis og tekið kvíðalyf. Hún staðfesti að Y heitinn og hún sjálf hefðu átt svefnlyfið Seroquel, en neitaði að hafa gefið brotaþola það lyf.             Aðspurð um kynni Y heitins og brotaþola taldi ákærða Y hafa hitt brotaþola í starfsmannapartýi í [...], þegar hann hefði komið með sér. Það hafi verið þeirra eina tenging sem hún vissi um.             Ákærða neitaði alfarið að hafa vitað um þroskahömlun brotaþola enda hefði hún ekki treyst henni fyrir börnum sínum um kvöld eða yfir nótt ef svo hefði verið. Hún kannaðist þó við að hafa heyrt að brotaþoli væri „eftirá“, en hefði ekki tekið mark á slíku, enda sjálf oft verið milli tannanna á fólki.             Ákærða neitaði að hafa beitt brotaþola ofbeldi eða þvingun til þátttöku í kynlífi með sér og manni sínum og sömuleiðis að hafa tekið myndir af því. Ákærða kvaðst hafa sýnt C myndir af sér og Y eftir að vitnið hafði sagt að sig langaði í „threesome“. Þá hefði ákærða einnig sagt vitninu að Y væri ekki sáttur við að ákærða væri í „threesome“ með öðrum og að þau hefðu reynt að fara í „threesome“, með brotaþola, en það hefði verið fáranlegt.             Ákærða var tvísaga um tildrög þess að brotaþoli kom á heimili hennar í umrætt sinn, en viðurkenndi þó hjá lögreglu að hafa boðið brotaþola í heimsókn, ásamt fleirum „til að hafa gaman“, en gat þó ekki nafngreint aðra gesti er skýrsla var tekin hjá lögreglu. Ákærða neitaði alfarið að tjá sig um sakarefni á hendur manni sínum í þeirri skýrslutöku eða þátttöku sína í meintum kynlífsathöfnum við brotaþola.             Brotaþoli A greindi frá því fyrir dómi að hún hefði þekkt ákærðu þar sem hún hefði passað fyrir ákærðu fyrir nokkrum árum, en ekki þekkt Y beinlínis. Þá hefði hún unnið með ákærðu á [...] og mundi eftir að hafa hitt Y heitinn í starfsmannaferð. Hún kvað Y hafa haft samband við sig gegnum Snapchat, og sagst ætla að koma og sækja hana. Hún hefði svo verið sótt af einhverjum, sem hún vissi ekki hver var, og ekið heim til ákærðu og Y. Hún hefði ekkert vitað hvað var í gangi. Þegar á staðinn var komið hefðu þau gefið sér einhverja pillu og eitthvað að drekka og allt í einu hefði hún verið komin í „miðjuna á milli þeirra“ og þá hefði þetta gerst. Aðspurð kvaðst brotaþoli ekki hafa komið áður í þetta hús. Brotaþoli kvað enga aðra en þau þrjú hafa verið á staðnum þegar hún kom, en eftir á hefði hún séð einhverja, sem hún taldi leigja með ákærðu. Nánar aðspurð um atvik 2. október 2016 lýsti brotaþoli því þannig að hún hefði bankað og ákærða komið til dyra, hálfnakin, í skyrtu. Hún hefði gengið á eftir ákærðu inn í herbergi og þar hefði Y verið. Ákærða hefði gefið sér pillu, kringlótta sem á stóð e. Hún hefði reynt að hafna þessu, gert sitt besta. Eftir það hefði hana farið að svima og allt í einu hafi hún verið komin úr fötunum. Y hefði svo átt við sig kynmök en ákærða notað titrara á sjálfa sig. Eftir þetta hefði hún klætt sig og þá hefði henni verið rétt gras, sem þau hefðu verið að reykja. Brotaþoli kvaðst muna eftir því að hafa verið beðin um að totta Y og taldi að hann hefði sjálfur beðið um það. Hennar viðbrögð við því hefðu verið að gera það. Brotaþoli kvaðst fyrir dómi ekki hafa vitað hvað stæði til, en verið til í að fara til þeirra og vita hvað þau vildu sér. Hún kvað ákærðu hafa verið ósátta við Y þar sem hann hefði frekar vilja ríða sér en ákærðu. Ákærða hefði þá orðið ósátt og ekki talað við sig. Aðspurð um ástandið á þeim ákærðu og Y heitnum þegar hún kom kvaðst brotaþoli ekki vita hvað hún ætti að segja, en hefði fundist eins og þau hefðu verið að drekka áfengi, það mætti sjá á augunum á fólki, en ekki fundið neina áfengislykt. Sjálf kvaðst hún ekki hafa neytt áfengis áður en hún kom á staðinn. Aðspurð hvort hún hefði reynt að stoppa ákærða í athöfnum sínum, kvaðst brotaþoli hafa reynt það en ekki þorað að segja neitt, hún hefði verið kjaftstopp. Brotaþoli kvaðst hafa verið hrædd og farið í „panikk“ eftir að smokkur rifnaði. Að öðru leyti kvaðst brotaþoli ekki muna vel hvað fram fór. Hún kvaðst hafa farið í leigubíl heim, og farið út við sundlaugina, svo að mamma hennar fattaði ekki neitt, en brotaþoli kvaðst ekki hafa þorað að segja móður sinni frá þessu fyrr en eftir að móðir hennar hafði frétt þetta frá þriðja aðila.             Um líðan sína eftir atvikin kvaðst brotaþoli hafa gengið til sálfræðings og það gengi vel og svo hefði hún fengið hund. Móðir brotaþola, L, kom fyrir dóminn. Hún upplýsti að C hefði haft samband við sig og greint frá samtali við ákærðu X þar sem ákærða hefði sagt C frá því að ákærða og maður hennar hefðu farið í „threesome“ með brotaþola og að ákærða hefði sýnt sér myndir af því. Að fengnum þessum upplýsingum hefði hún snúið sér til barnaverndarnefndar og í kjölfar þess hefði rannsókn málsins hafist.             Móðir brotaþola kvað líðan dóttur sinnar hafa breyst eftir atvikið. Hún hefði málað sig mikið, verið reið og lokað sig af. Hún hefði læst að sér og tekið reiðiköst. Þá hefði hún fengið martraðir. Þá hefði hún elt móður sína á stundum.             Vitnið kvað dóttur sína ekki eiga marga vini. Hún hafi verið mikið ein, ekki verið félagslega sterk. Hún sé nú farin í björgunarsveit og það hafi gert henni gott. Þó taldi móðir brotaþola að bakslag hefði komið í bata brotaþola eftir að málið fór fyrir dómstóla. Brotaþoli sé í vinnu og hafi í seinni tíð ekki treyst sér til að gera hluti sem hún hefur hingað til ráðið við. Hafi vinnuveitandi brotaþola af þessum sökum ítrekað haft samband við sig vegna þess og hún hefði sjálf farið í vinnuna til brotaþola og aðstoðað hana. F kom fyrir dóminn og greindi frá því að hún þekkti brotaþola, sem hefði passað fyrir hana. Þá kvaðst hún þekkja móður brotaþola. Enn fremur að hún þekkti ákærðu, sem væri besta vinkona sín, þær hefðu þekkst frá því að þær voru krakkar.              Aðspurð um samskipti sín við ákærðu fyrstu helgina í október 2016 kvaðst vitnið hafa hringt í ákærðu til að biðja hana að útvega sér sígaréttur en ákærða hafi verið upptekin með kærastanum sínum. Vitnið kvað þetta hafa verið afmælishelgi ákærðu sem hafi verið að halda upp á það og verið með einhverja í heimsókn. Hún sjálf hafi verið heima með pínulítið barn.             Vitnið kannaðist við að hafa verið í samskiptum við móður brotaþola á Facebook, sem hefði verið reið. Kannaðist vitnið við að hafa greint móður brotaþola frá samtali sínu við ákærðu í október 2016, þegar ákærða hefði sagt sér frá því að Y heitinn hefði fengið sig til að fara í „threesome“, sem hún hefði ekki viljað, en verið svo mikið undir áhrifum að hún gerði það samt.             Er framburður vitnisins í ágætu samræmi við það sem fram kom í skýrslu hennar hjá lögreglu, en þar bar vitnið að hún hefði hringt í ákærðu á laugardagskvöldið 2. október og ákærða hefði þá sagst vera „mellupoppuð að horfa á klám með Y“. Vitnið G greindi frá því að hún og ákærða hefðu lengi verið vinkonur og kvaðst vitnið þekkja brotaþola gegnum ákærðu. Um atvik málsins kvaðst vitnið vita það eitt sem ákærða hefði sagt henni. Að brotaþoli hefði komið í heimsókn og Y heitinn hefði sofið hjá henni. Kvaðst vitnið ekki muna hvort ákærða hefði sagst hafa tekið þátt í því eða tekið myndir á meðan. Kvaðst hún ekki hafa verið mikið í sambandi við þau á þessum tíma, þau hefðu verið í mjög slæmu ástandi, í neyslu.             Í lögregluskýrslu, sem tekin var af vitninu í febrúar 2017, sagðist vitninu svo frá að ákærða hefði sagt sér að brotaþoli hefði komið í heimsókn til ákærðu og þau hefðu ætlað í „threesome“ en brotaþoli hefði ekki viljað það. Y hefði þá haft kynmök við brotaþola.             C kom fyrir dóminn og kvaðst vita það eitt um mál þetta að ákærða og maður hennar Y hefðu sofið hjá brotaþola. Þau hefðu bæði greint frá því. Vitnið kvaðst lítið muna eftir lögregluskýrslu sem tekin var af henni í tengslum við rannsókn málsins, hún væri búin að vera veik frá því að það var gert, hefði orðið fyrir áfalli. Aðspurt kvaðst vitnið muna eftir að hafa sagt móður brotaþola frá því. Það hefði hún gert vegna þess að brotaþoli hefði verið barn þegar þetta átti sér stað.             Í skýrslu lögreglu af vitninu kemur fram að vitnið kvaðst hafa séð myndskeið í síma ákærðu, þar sem ákærða og maður hennar voru í kynlífsathöfnum með brotaþola, þannig að ekki fór á milli mála hver hún var. Ákærða hefði sagt að hún væri að fara að eyða þessu úr símanum sínum. Vitnið E  kom fyrir dóminn og kvaðst muna eftir að hafa skutlað stelpu frá [...] til [...] Hann hefði fengið 2000 krónur fyrir greiðann, en hefði átt að fá gras fyrir. Hann kvað stúlku hafa komið til dyra að [...]i, mjög léttklædda, eiginlega ekki í neinu.              Í skýrslu sinni hjá lögreglu kvaðst vitnið hafa verið beðið um að skutla stelpu frá sundlauginni í [...] inn á [...], til ákærðu X.  D leigubílstjóri kom fyrir dóminn og kvaðst lítið muna eftir atvikum. Taldi vitnið að hann hefði munað þetta betur þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu vegna rannsóknar málsins. Staðfesti vitnið að hafa ekið stúlku frá [...] til [...]og hún hefði farið út við sundlaugina.             Í skýrslu lögreglu kemur fram að vitnið hafði þá kannast við að hafa ekið stúlku frá [...] , sem hefði greinilega verið að flýta sér. Hún hefði beðið um að fá lánað fyrir bílnum og túrinn hefði svo verið greiddur mörgum dögum síðar. Þá hefði ákærða X greitt honum fyrir aksturinn. K kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið gestkomandi á heimili ákærðu þá helgi sem þau atvik urðu sem ákært er fyrir. Tilefni þess hafi verið afmæli ákærðu X. Kvaðst vitnið hafa verið þar ásamt bróður sínum, M og kærustu hans, J. Hann hafi setið og horft á sjónvarp með bróður sínum þegar brotaþoli kom. Kvað hann ákærðu X hafa sagt að von væri á heimsókn, stelpu sem ætlaði í „threesome“ með þeim.  Brotaþoli hafi svo komið og farið inn í herbergið þar sem Y var og þau þrjú hafi lokað á eftir sér. Kvaðst hann hafa heyrt stunur frá þessu herbergi. Aðspurt kvað vitnið mögulegt að eftir á hefði ákærða X verið eitthvað fúl út í Y. J gaf símaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Hún kvaðst hafa verið á heimili ákærðu fyrstu helgina í október 2016. Hún hafi verið á staðnum, með K, M, Y og X, þegar ljóshærð stelpa hafi komið í heimsókn. Vitnið kvaðst sjálft hafa farið til dyra og opnað fyrir henni, en mundi ekki eftir því að ákærða hefði rætt við bílstjórann sem „skilaði stelpunni“.  Stelpan hafi farið inn í herbergi til Y og ákærðu X. Ákærða hefði svo síðar sagt að það þyrfti að redda henni fari heim. Vitnið kvað þau Y, ákærðu og stúlkuna hafa verið að gera „eitthvað saman öll þrjú“. Ákærða hefði svo komið fram grátandi vegna þess að hún fékk ekki athygli og vildi því redda stelpunni fari heim, þar sem stelpan hafi ekki átt heima á [...].  Vitnið M greindi frá því fyrir dómi að hafa verið á staðnum er brotaþoli kom til ákærðu og kvað hana hafa verið þar í um klukkustund. Hann hefði ekki rætt við hana, aðeins heilsað og kvatt. Hún hefði verið með ákærðu og Y inni í herbergi. Aðspurður kvaðst hann hafa heyrt eitthvað, mögulega stunur. Vitnið kannaðist ekki við að neitt rifrildi hefði orðið eftir á milli ákærðu og Y heitins. N lögreglufulltrúi kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslur sem frá honum stafa í málinu. Upplýsti hann að þrátt fyrir að ekki hafi verið unnt að rekja eða kalla fram eydd skilaboð milli brotaþola og Y heitins, hafi verið ummerki um nafn hans á Messenger-hluta Facebook hjá brotaþola. Unnt hefði verið að sýna fram á samskipti en ekki hver þau samskipti voru. Þá lægju fyrir gögn sem sýndu samskipti ákærðu D leigubílstjóra, rétt fyrir klukkan 11 að kvöldi, þann 2. október 2016. I sálfræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu sem hann vann að beiðni lögreglu í upphafi árs 2017 og greindi frá meðferð sinni á brotaþola vegna þess atviks er málið varðar. Upplýsti vitnið að vegna þroskaskerðingar brotaþola hafi orðið að einfalda alla meðferð hennar. Reynt hefði verið að leggja áfallastreituröskunarpróf fyrir brotaþola en það hafi ekki gengið þar sem brotaþoli hafi ekki skilið innihald margra spurninganna þrátt fyrir útskýringar, en sú vanlíðan og þau sálrænu viðbrögð sem brotaþoli hafi greint frá samsvari líðan og viðbrögðum sem þekkt séu hjá fólki sem orðið hafi fyrir kynferðisbrotum. Vitnið kvað brotaþola geta greint ágætlega frá, en frásögn hennar væri einföld og knöpp. Þau hefðu farið nokkrum sinnum gegnum atvikin og brotaþoli hefði haldið sig fast við ákveðin atriði og þau verið samsvarandi frá einu skipti til annars.             Vitnið kvað brotaþola hafa liðið ömurlega og hún verið uppfull af skömm yfir því að hafa lent í þessu. Hún hafi sagst hafa orðið mjög vör um sig. Farið að læsa að sér, átt erfitt með svefn. Passað að fara alltaf stystu leið á milli staða og þá hafi hún verið hrædd við að hitta meinta gerendur. Þá hafi minningar um þetta truflað brotaþola fyrst á eftir heilmikið.             Vitnið taldi að þroskaskerðing brotaþola ætti að vera fólki ljós. Það þyrfti ekki að tala lengi við hana til að átta sig á því. Aðspurt taldi vitnið að brotaþoli væri berskjaldaðri en aðrir vegna skerðingar sinnar og auðveldara að afvegaleiða brotaþola vegna þess. Einstaklingur með slíka skerðingu ætti erfitt með að lesa milli lína, skildi ekki hvort væri verið að gera grín að sér eða hrósa, skildi ekki almennilega hvað væri að gerast. Taldi vitnið að brotaþoli ætti erfitt með að standa á sínu ef hún væri í aðstæðum sem hún upplifði ógnandi eða væru ógnandi. B sálfræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína í málinu. Í niðurstöðum þeirrar matsgerðar kemur fram að greindartala brotaþola mældist 61 stig,  sem væri vel undir efri mörkum vægrar þroskahömlunar. Þá bæri hún marktæk einkenni um kvíða og þunglyndi. Fyrir dómi áréttaði vitnið að þótt talað væri um væga þroskahömlun væri ekkert í raun vægt við það. Ekki væri aðeins um að ræða skerðingu á greindarlegri hæfni heldur einnig félagslegri, hvernig maður næði að bjarga sér í daglegu lífi. Brotaþoli glímdi við víðtæka vitsmunalega erfileika á öllum sviðum. Máltengdir erfiðleikar væru umtalsverðir og líka í því sem kallað er verkleg greind. Brotaþoli væri í þörf fyrir mjög mikla aðstoð og mikinn stuðning. Brotaþoli hefði verulega skerta hæfni til að leggja mat á félagslegar aðstæður og setja mörk. Skilningur hennar á samskiptum væri takmarkaður. Taldi vitnið að hæfileiki brotaþola til að meta félagslega þætti væri kannski eins og hjá 10 ára barni, hún væri verulega á eftir því sem vænta mætti af jafnöldum hennar. Vitnið taldi að þrátt fyrir að brotaþoli bæri ekki sýnileg útlitseinkenni þroskahömlunar, þá væri útilokað annað en gera sér grein fyrir því ef maður kynntist henni. Fullorðinn maður sem hefði samskipti við brotaþola ætti að komast fljótt að því að brotaþoli væri þroskaskert. Þá upplýsti vitnið að brotaþoli hefði átt erfitt með að greina frá þessum atvikum, t.d. móður sinni. Það væri helst að hún gæti tjáð sig við I sálfræðing og hundinn sinn.             Vitnið taldi ekki ólíklegt að brotaþoli hefði verið grunlaus um aðstæður. Hún hefði þekkt ákærðu X og haft traust á henni. Taldi vitnið að miðað við mat sitt á brotaþola hefði hún ekki haft forsendur til að átta sig á því hvað var að fara að gerast í umrætt sinn og hún hefði ekki forsendur eða getu til að koma sér út úr slíkum aðstæðum. Brotaþoli væri leiðitöm og ætti erfiðara með að standast þrýsting en aðrir. Hún væri margfalt meira útsett fyrir kynferðisbrotum en manneskja með fulla greind.  VI Ákærða hefur viðurkennt að brotaþoli hafi komið á heimili hennar og Y heitins að kvöldi 2. október 2016. Hún kannaðist við að hafa greitt manni fyrir akstur brotaþola frá [...] til [...]og leigubíl fyrir hana til baka. Ákærða hefur og viðurkennt að hafa verið í neyslu þá helgi. Þá hefur hún viðurkennt að hafa sjálf beðið brotaþola um að eiga kynmök við Y heitinn og sig en orðið afbrýðisöm þegar Y vildi fremur hafa mök við brotaþola en hana. Þessi framburður ákærðu fær einnig stoð í framburði vitna, vinkvenna ákærðu, sem hafa borið um að ákærða hafi greint þeim frá þessu síðar. Sömuleiðis liggur fyrir í skýrslu af Y heitnum viðurkenning hans á því að brotaþoli hefði komið á heimili þeirra og að hann hefði verið „að reyna við hana“. Þá kannaðist ákærða við það hjá lögreglu að hafa boðið brotaþola heim til sín „til að hafa gaman“. Ákærða hefur borið því við að hún hafi ekki vitað að til stæði að hafa kynmök við brotaþola fyrr en hún var mætt á staðinn. Þá kveðst ákærða hafa beðið frammi í stofu til að byrja með vegna þess að hún vissi ekki hvað stóð til. Þessi framburður ákærðu stangast á við framburð vitna. K, sem kvaðst hafa verið á staðnum umrætt kvöld, bar fyrir dómi að ákærða og Y hefðu sagt sér og öðrum gestkomandi að von væri á stelpu sem ætlaði í „threesome“ með þeim húsráðendum. Brotaþoli hefði svo komið og farið beint inn í herbergi með þeim og þaðan hefðu svo heyrst stunur. Vitnið J kvaðst einnig hafa verið á staðnum umrætt sinn. Kvaðst hún sjálf hafa farið til dyra og opnað fyrir brotaþola, sem hefði farið inn í herbergi til Y og ákærðu til „gera eitthvað saman“. Ákærða hefði svo komið fram grátandi vegna þess að hún fékk ekki athygli og vildi senda brotaþola heim.  Ákærða hefur og borið því við að brotaþoli hafi ekki verið þvinguð til þeirra kynlífsathafna sem viðurkennt er að áttu sér stað þegar brotaþoli kom á heimili ákærðu. Brotaþoli hafi ekki verið beitt ofbeldi, gefið lyf eða fíkniefni og þá kveðst ákærða ekki hafa gert sér grein fyrir ungum aldri brotaþola, haldið að hún væri 18 ára eða alveg að verða það, eða þeirri staðreynd að hún er þroskaheft. Ákærða hefur greint frá því að brotaþoli hafi gætt barna sinna ítrekað sumarið 2015 eða 2014. Brotaþoli er fædd í nóvember 1999 og hefur þá verið á fjórtánda eða fimmtánda ári þegar hún gætti barna ákærðu. Að mati dómsins er það harla ótrúverðugt að ákærða hafi falið brotaþola gæslu ungra barna sinna án þess að hafa nokkra hugmynd um aldur hennar, auk þess sem hún hlýtur að hafa átt samskipti við brotaþola í tengslum við það og þannig óhjákvæmilega mátt verða vör við að brotaþoli er alls ekki þroskuð með þeim hætti sem vænta má af jafnöldrum hennar og enn síður þeim sem eldri eru. Þessa hefði ákærða einnig átt að verða vör sem samstarfskona brotaþola á [...], enda hefur hún sjálf sagt að samstarfsmenn þeirra hafi talað um að brotaþoli væri „eftirá“, en hún kosið að taka ekki mark á því tali. Brotaþoli kom fyrir dóminn og að mati dómsins er augljóst af framburði hennar og framkomu að brotaþoli er ekki þar stödd í þroska sem vænta má af stúlku á hennar aldri. Í þessu samhengi ber og að líta til framburðar sálfræðinganna tveggja sem vitni báru í málinu, en þeir töldu báðir að þroskaskerðing brotaþola ætti að vera hverjum manni ljós sem hefði samskipti við hana. Er það mat dómsins að ákærða hafi ekki mátt komast hjá því með ítrekuðum samskiptum við brotaþola að brotaþoli væri svo þroskaheft sem gögn málsins bera með sér. Auk þess sem telja verður að ákærða og ákærði Y heitinn hefðu mátt gera sér grein fyrir ungum aldri brotaþola af samskiptum þeirra við hana gegnum samskiptaforritið Facebook. En meðal ganga málsins er ljósmynd af brotaþola af Facebook-síðu hennar. Af þeirri mynd verður ekki dregin önnur ályktun um aldur brotaþola en að hún sé barn auk þess sem þar greinir glöggt fæðingardag hennar og ár. Framburður ákærðu er samkvæmt framansögðu ekki í samræmi við framburð vitna, auk þess sem ósamræmis gætti í framburði hennar. Er það mat dómsins að framburður ákærðu sé lítt trúverðugur um þau atvik sem áttu sér stað og eru tilefni þessa máls.             Við mat á framburði brotaþola ber að líta til þess sérstaklega að brotaþoli er þroskaskert. Í skýrslum og framburði sálfræðinganna tveggja sem hafa hitt hana og metið kemur fram að þroskaskerðing brotaþola veldur því m.a. að hún á erfitt með að tjá sig, hefur ekki endilega skilning á tíma og frásögn hennar er knappari og einfaldari en hjá einstaklingi með fulla greind. Þá er málskilningur hennar lakur og því erfitt að spyrja hana og hætta er á að menn leggi henni orð í munn. Brotaþoli var óörugg og átti erfitt með að tjá sig fyrir dómi en framburður hennar var þó í ágætu samræmi við framburð hennar hjá lögreglu og frásagnir hennar af atvikum síðar, hjá barnaverndarnefnd og sálfræðingi hennar. Þannig hefur brotaþoli hvergi vikið frá því að henni hafi verið gefin pilla og gras um rætt kvöld. Framburður brotaþola af atvikum fær enn fremur stoð í framburði I sálfræðings sem brotaþoli hefur endurtekið tjáð sig við um atvikið með nokkuð samsvarandi hætti. Þá kemur fram í skýrslu hans í málinu að þrátt fyrir að ekki hafi gengið að leggja áfallastreitupróf fyrir brotaþola sakir skerðingar hennar hafi brotaþoli greint frá vanlíðan og viðbrögðum sem þekkt séu hjá fólki sem orðið hafi fyrir kynferðisbrotum. Þá hefur móðir brotaþola borið um breytta hegðun brotaþola eftir atvikið, merki um vanlíðan og aukin vandamál í félagslíf og vinnu. Að ofangreindu virtu er að mati dómsins ekki óvarlegt að leggja frásögn brotaþola af atvikum til grundvallar því sem átti sér stað kvöldið 2. október 2016.  Það er mat dómsins að ákærða hafi án vafa gengið að því með vissu hvað til stóð þegar brotaþoli kom á heimili hennar. Ákærða hafði sjálf frumkvæði að þeim kynmökum sem áttu sér stað milli Y heitins og brotaþola og þrátt fyrir að hún segist hafa spurt brotaþola hvort hún vildi taka þátt í þeim athöfnum að einhverju leyti leysir það ákærðu ekki undan því að hafa með því veitt atbeina sinn að því sem þar átti sér stað. Hlutdeild ákærðu í hinum kærða verknaði fólst hvorutveggja í senn í athöfn og athafnaleysi, þar sem ákærðu hefði borið að koma í veg fyrir að haft væri samræði við brotaþola við þessar aðstæður fremur en hitt, þar sem ljóst má vera að ákærða þekkti brotaþola. Þá viðurkenndi ákærða að hafa sjálf viljað taka beinan þátt í kynlífsathöfnum með brotaþola og manni sínum og hefði í raun bundið enda á þær vegna þess eins að henni fannst hún sjálf höfð út undan. Verður ekki litið öðruvísi á en   svo að ákærða hafi haft ásetning til þess að misnota sér aðstöðu sína gagnvart brotaþola þetta kvöld; það að brotaþoli var ein og upp á ákærðu og mann hennar komin, fólk sem var undir áhrifum áfengis og eða lyfja, töluvert eldra en brotaþoli, á heimili þeirra og inni í lokuðu herbergi þar sem brotaþoli, barnung þroskaheft stúlka, átti sér enga undankomuleið. Með vísan til framangreinds verður ákærða sakfelld fyrir það brot sem henni er gefið að sök í ákæru og er brot hennar þar rétt heimfært til refsiákvæða. VII.             Sakaferill ákærðu hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu. Við ákvörðun refsingar er litið til 2. mgr. 22. gr. sem og a-liðar 195. gr. laga nr. 19/1940. Að því gættu og með vísan til 1., 2., 5. og 6. tl. 70 gr. þykir refsing ákærðu réttilega ákveðin fangelsi í tvö ár.             Fallist er á kröfu brotaþola um miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna sem skulu bera vexti eins og í dómsorði greinir. Á grundvelli sakfellingar ákærðu, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður henni gert að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Þórðar Más Jónssonar lögmanns, og síðar skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar, og réttargæslumanns brotaþola eins og hann er ákveðinn í dómsorði, en þá hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þá ber ákærðu að greiða útlagðan ferðakostnað verjanda síns og réttargæslumanns. Þá þykir enn fremur rétt, eins og málið liggur fyrir og með vísan til 236. gr. laga nr. 88/2008, að gera ákærðu að greiða helming sakarkostnaðar samkvæmt framlögðum yfirlitum héraðssaksóknara, 556.096 krónur. Þóknun Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, fyrir verjandastörf fyrir Y, 379.440 krónur greiðist úr ríkissjóði. Dóm þennan kveður upp Bergþóra Ingólfsdóttir héraðsdómari. DÓMSORÐ:             Ákærða, X, sæti fangelsi í tvö ár.             Ákærða greiði brotaþola, A, 1.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2008 frá 3. október 2016 til 8. apríl 2018 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. frá þeim degi til greiðsludags.             Ákærða greiði 3.264.231 krónu í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Þórðar Más Jónssonar lögmanns, 321.470 krónur, og málsvarnarlaun síðar skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 1.159.400 krónur, auk útlagðs kostnaðar lögmannsins 108.282 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur lögmanns, 1.046.715 krónur, auk útlagðs kostnaðar, 72.268 krónur.  
Mál nr. 10/2020
Skaðabætur Líkamstjón Örorkubætur Uppgjör Varanleg örorka Örorkumat Lífeyrissjóður
A krafði V hf. um eftirstöðvar skaðabóta vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir við störf um borð í fiskiskipi. Í málinu deildu aðilar um rétt V hf. til að draga frá bótum vegna varanlegrar örorku eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. V hf. byggði á því að miða skyldi áætlaðar framtíðargreiðslur til A við þær greiðslur sem hann naut frá lífeyrissjóðum á stöðugleikapunkti en til vara að miða skyldi rétt A til greiðslna frá lífeyrissjóðum við 50% varanlega örorku A. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að þótt upplýsingar um greiðslur sem tjónþoli hefði notið á stöðugleikapunkti gæfu að jafnaði vísbendingu um hvaða greiðslna hann mætti vænta til framtíðar, yrðu þær upplýsingar ekki einar og sér lagðar til grundvallar við ákvörðun um frádrátt. Þá ákvörðun yrði að byggja á heildarmati á því hvort og þá hvaða réttinda til greiðslna tjónþoli myndi njóta í framtíðinni. Til grundvallar matinu yrði að leggja allar upplýsingar sem fyrir lægju þegar það færi fram og unnt væri að draga af ályktanir um hvernig réttindi til slíkra greiðslna myndu þróast í framtíðinni. Hæstiréttur leit til þess að greiðslur sem A naut á stöðugleikapunkti voru tímabundnar til þriggja ára og að gera mátti ráð fyrir því að þær tækju breytingum að þeim tíma liðnum vegna ólíkra matsforsendna í samþykktum lífeyrissjóðsins LV. Þá hefði legið fyrir við bótauppgjörið endurmat trúnaðarlæknis lífeyrissjóðsins LV, um að örorka A til almennra starfa væri minni en 40%, sem leiddi til þess að A naut ekki örorkulífeyris þegar það fór fram né síðar. Með hliðsjón af því var ekki fallist á með V hf. að miða ætti áætlun um rétt A til örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum í framtíðinni við þær greiðslur sem hann naut á stöðugleikapunkti. Þá var ekki fallist á með V hf. að rétt væri að miða við að A myndi í framtíðinni njóta örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum miðað við áætlaða 50% örorku. Í því tilliti var litið til ólíkra forsendna að baki mati á fjárhagslegri örorku samkvæmt skaðabótalögum annars vegar og örorkumati trúnaðarlæknis lífeyrissjóðsins LV hins vegar. Þá hefði V hf. ekki freistað þess að hnekkja forsendum eða niðurstöðum þess örorkumats sem lífeyrissjóðurinn byggði á þá ákvörðun sína að greiða A ekki örorkulífeyri. Loks renndu gögn um tekjur A fyrir fullt starf í landi á árunum 2018 til 2020 stoðum undir að A hefði ekki haft réttmæta ástæðu til að fá örorkumat lífeyrissjóðsins endurskoðað í þeim tilgangi að sækja örorkulífeyri úr sjóðnum. Voru kröfur A því teknar til greina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon og Viðar Már Matthíasson fyrrverandi hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. febrúar 2020. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Mál þetta lýtur að ágreiningi um uppgjör á kröfu stefnda á hendur áfrýjanda um greiðslu eftirstöðva skaðabóta fyrir varanlega örorku úr kjarasamningsbundinni slysatryggingu sjómanna vegna afleiðinga vinnuslyss sem stefndi varð fyrir um borð í fiskiskipi 17. mars 2014. Uppgjör bóta fór fram milli aðila 4. maí 2017, meðal annars á grundvelli þeirrar niðurstöðu örorkumats 25. nóvember 2016 að stefndi hefði orðið fyrir skerðingu á getu til að afla tekna sem metin yrði til 40% varanlegrar örorku. Í matinu var stöðugleikapunktur ákveðinn 12. febrúar 2016. Við uppgjörið dró áfrýjandi frá bótum 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris, sem stefndi hafði fengið greiddan frá lífeyrissjóðum fram til apríl 2017, 2.921.345 krónur, og 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris sem áfrýjandi áætlaði að stefndi myndi njóta frá lífeyrissjóðum í framtíðinni miðað við að hann byggi til framtíðar við 50% skerðingu á getu til að vinna við önnur störf en sjómennsku, sem nam 17.180.256 krónum. Útreikningar á eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris voru miðaðir við stöðugleikapunkt. Báðir aðilar gerðu fyrirvara við uppgjörið. Stefndi aflaði matsgerðar dómkvaddra manna 12. febrúar 2018 og komust þeir að þeirri niðurstöðu að varanleg örorka stefnda væri hæfilega metin 50%. Stöðugleikapunkt töldu þeir hinn sama og í fyrra áliti.  Í málinu er hvorki ágreiningur um bótaskyldu áfrýjanda né varanlega örorku stefnda. Þá er ekki tölulegur ágreiningur. Stefndi byggir kröfu um greiðslu eftirstöðva bóta, miðað við 50% varanlega örorku, á því að ekki sé grundvöllur til að draga frá bótunum eingreiðsluverðmæti ætlaðs örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum í framtíðinni. Krafa hans lýtur því að hækkun bóta vegna varanlegrar örorku um 11.685.825 krónur og ofteknum frádrætti vegna ætlaðs örorkulífeyris í fyrra bótauppgjöri að fjárhæð 17.180.256 krónur. Héraðsdómur og Landsréttur tóku kröfu stefnda að fullu til greina. Með áfrýjuninni freistar áfrýjandi þess að fá niðurstöðu Landsréttar hnekkt. Hann telur að draga beri frá bótagreiðslum 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris sem ætla megi að  stefndi muni eiga rétt á í framtíðinni miðað við þær örorkulífeyrisgreiðslur sem hann hafi notið frá lífeyrissjóðum á stöðugleikapunkti. Þær greiðslur hafi tekið mið af þeirri niðurstöðu örorkumats, sem Lífeyrissjóður Vestmannaeyja hafi aflað, um 100% örorku stefnda til fyrri starfa á sjó. Til vara telur áfrýjandi rétt að miða frádráttinn við 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóðnum í framtíðinni sem taki mið af ætlaðri 50% örorku stefnda til almennra starfa. Beiðni um áfrýjunarleyfi var meðal annars studd þeim rökum að óvissa væri um túlkun og beitingu 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og fordæmisgildi dóma Hæstaréttar, þar sem ítrekað hefði verið kveðið á um að leggja bæri til grundvallar að reikna skyldi greiðslur samkvæmt fyrrnefndu ákvæði til eingreiðsluverðmætis miðað við stöðu tjónþola við stöðugleikapunkt og draga þá fjárhæð frá bótum. Málið hefði verulegt fordæmisgildi enda teldi áfrýjandi að dómur Landsréttar væri á skjön við fyrri fordæmi og með honum hefði rétturinn gerbreytt bótauppgjörum. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að úrslit málsins gætu haft fordæmisgildi um túlkun og beitingu 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. II Stefndi varð fyrir umræddu vinnuslysi 17. mars 2014 við störf í fiskiskipinu [...]. Hann var tryggður hjá áfrýjanda fyrir afleiðingum slíks slyss með kjarasamningsbundinni slysatryggingu sjómanna. Stefndi var sjóðfélagi í Lífeyrissjóði Vestmannaeyja þegar hann slasaðist og réttur hans til örorkulífeyris úr sjóðnum grundvallaðist á 12. kafla samþykkta hans. Í grein 12.1 í samþykktunum er kveðið á um að sjóðfélagi sem verður fyrir orkutapi sem talið er að svari til 50% örorku eða meira, og hefur greitt í lífeyrissjóð í að minnsta kosti tvö ár, eigi rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum. Þá er í grein 12.4 kveðið á um að hundraðshluta orkutaps og tímasetningu þess skuli ákveða á grundvelli örorkumats trúnaðarlæknis sjóðsins samkvæmt reglum um læknisfræðilegt örorkumat og að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku sjóðfélaga aftur í tímann. Þá segir í greininni að fyrstu þrjú árin eftir orkutapið skuli örorkumat aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna því starfi sem hann hafi gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd. Að því tímabili loknu skuli orkutapið metið á ný með tilliti til vanhæfni sjóðfélaga til almennra starfa, nýrra upplýsinga um heilsufar og störf og árangurs af endurhæfingu. Orkutap skuli síðan endurmetið eftir því sem stjórn sjóðsins telji ástæðu til. Samkvæmt endurmati trúnaðarlæknis lífeyrissjóðsins 21. apríl 2016 á orkutapi stefnda taldi hann ljóst að vegna slyssins myndi stefndi ekki „stunda sjómennsku aftur í framhaldi þessa“. Hann mat örorku stefnda til fyrri starfa 100% frá 17. mars 2014 til loka apríl 2017 en þá skyldi hún endurmetin. Ekki er ágreiningur um að stefndi fékk greiddan örorkulífeyri frá lífeyrissjóðnum í samræmi við þetta mat fram til apríl 2017 og að draga beri eingreiðsluverðmæti 40% þeirra greiðslna,  2.921.345 krónur, frá skaðabótum vegna varanlegrar örorku. Aðilar öfluðu sameiginlega álitsgerðar læknis og lögfræðings um afleiðingar slyssins. Í álitsgerð þeirra 25. nóvember 2016 kom fram að einkenni stefnda væru til þess fallin að valda verulegri skerðingu á getu hans til að afla tekna þegar litið væri til starfsreynslu hans til sjós. Möguleika stefnda til starfa við sjómennsku í framtíðinni töldu þeir litla. Þá töldu þeir að einkenni stefnda í kjölfar slyssins myndu há honum að einhverju marki við léttari störf tengd sjávarútvegi í landi þrátt fyrir að þau reyndu ekki jafn mikið á líkamlega burði. Í álitsgerðinni kom fram að geta stefnda til að afla tekna í framtíðinni vegna afleiðinga slyssins svaraði til 40% varanlegrar örorku. Stöðugleikapunkt, þegar ekki hafi verið að vænta frekari bata hjá stefnda, töldu þeir vera 12. febrúar 2016. Trúnaðarlæknir Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja endurmat orkutap stefnda vegna slyssins að nýju 23. mars 2017 og komst þá að þeirri niðurstöðu að varanleg örorka stefnda til fyrri sjómanns- og erfiðisstarfa væri 100% frá 17. mars 2014. Þá mat hann örorku stefnda til „annarra almennra starfa“ minni en 40%. Niðurstöðuna byggði trúnaðarlæknirinn meðal annars á vottorði læknis 8. mars 2017 og samtali við stefnda þar sem fram kom að hann ætlaði að láta á það reyna að vinna almenn störf. Ágreiningslaust er að stefndi hefur ekki notið örorkulífeyris frá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja frá apríl 2017. Aðilar gengu til uppgjörs bóta 4. maí 2017 á grundvelli matsgerðarinnar 25. nóvember 2016. Við uppgjörið dró áfrýjandi frá bótum fjárhæð sem svaraði til 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyrisgreiðslna frá þremur lífeyrissjóðum sem áfrýjandi taldi að stefndi hefði notið frá stöðugleikapunkti og myndi njóta til ellilífeyrisaldurs. Annars vegar var miðað við 100% örorku frá slysdegi og fram til 30. apríl 2007 og hins vegar að lífeyrissjóðirnir myndu meta örorku hans 50% eftir það og út starfsævina. Útreikningar á eingreiðsluverðmæti voru miðaðir við verðlag á stöðugleikapunkti 12. febrúar 2016. Áfrýjandi lagði til grundvallar þessum frádrætti útreikninga tryggingastærðfræðings á eingreiðsluverðmæti ætlaðra greiðslna örorkulífeyris og lífeyrisuppbótar til stefnda frá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja, Gildi lífeyrissjóði og Almenna lífeyrissjóðnum. Reiknaðir voru þrír kostir hvað varðar frádrátt vegna örorkulífeyris stefnda frá 30. apríl 2017 til lífeyrisaldurs, miðað við 50%, 75% og 100% örorku. Niðurstaða útreikninga miðað við 50% örorku frá þeim tíma var að eingreiðsluverðmæti ætlaðra greiðslna frá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja myndi nema 47.410.114 krónum, frá Gildi lífeyrissjóði samtals 2.600.859 krónum og Almenna lífeyrissjóðnum 243.030 krónum eða alls 50.254.003 krónum en 40% af þeirri fjárhæð næmi 20.101.601 krónu. Við uppgjörið gerði stefndi fyrirvara um rétt til frekari bóta yrði varanleg örorka og/eða miski hans síðar metin hærri en samkvæmt þeirri álitsgerð sem lögð var til grundvallar við uppgjörið. Þá gerði stefndi fyrirvara við frádrátt greiðslna frá lífeyrissjóðum frá bótum fyrir varanlega örorku og um rétt til dráttarvaxta. Áfrýjandi hafði áður, í tölvubréfi til lögmanns stefnda 6. apríl 2017, sem fylgdi tilboði áfrýjanda um uppgjör bóta, gert þann áskilnað að endurskoða frádrátt örorkulífeyris til hækkunar ef í ljós kæmi að stefndi yrði að fullu óvinnufær. Stefndi fékk lækni og lögfræðing dómkvadda 29. september 2017 til að meta meðal annars varanlega örorku sína vegna afleiðinga slyssins 17. mars 2014. Þeir komust að þeirri niðurstöðu í matsgerð 12. febrúar 2018 að varanleg örorka stefnda væri hæfilega metin 50%. Í forsendum matsmanna kom fram að ljóst væri að afleiðingar slyssins hefðu haft umtalsverð áhrif á starfsgetu stefnda og að ólíklegt væri að hann ætti afturkvæmt í sjómannsstörf. Enn fremur væri starfsgeta hans til líkamlega krefjandi starfa í landi umtalsvert skert. Fram kom í matsgerðinni að stefndi hefði ekki stundað launuð störf eftir slysið. Hins vegar ætti stefndi að geta unnið léttari almenn störf í landi, til dæmis störf sem tengdust sjávarútvegi, en stefndi hefði menntað sig til slíkra starfa. Matsmenn töldu þó ljóst að slík störf væru mun verr launuð en þau sem hann hefði gegnt á sjó. Þá töldu þeir starfsval stefnda og tekjumöguleika frekar takmarkaða vegna búsetu hans. III 1 Í málinu reynir á hvað eigi að leggja til grundvallar við ákvörðun um hvort stefndi muni eiga rétt til örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum í framtíðinni, sem koma eigi til frádráttar skaðabótum vegna varanlegrar örorku eftir ákvæðum 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, og eftir atvikum hversu ríkan rétt stefndi muni eiga. Stefndi var á slysdegi tryggður hjá áfrýjanda samkvæmt kjarasamningsbundinni slysatryggingu sjómanna, sbr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Óumdeilt er að bætur vegna varanlegrar örorku stefnda samkvæmt tryggingunni skuli ákvarðast samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga, þar á meðal ákvæðum laganna sem mæla fyrir um frádrátt frá bótum.   Um varanlega örorku vegna líkamstjóns segir í 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga að valdi líkamstjón, þegar heilsufar tjónþola sé orðið stöðugt, varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna eigi hann rétt á bótum fyrir varanlega örorku.  Í 4. mgr. sömu greinar, eins og henni var breytt með 4. gr. laga nr. 37/1999, er fjallað um frádrátt frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns og segir þar meðal annars að frá slíkri kröfu dragist 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og skuli við útreikninginn miðað við 4,5% ársafvöxtun. Mat á varanlegri örorku er einstaklingsbundið fjárhagslegt mat. Metið er með svokallaðri mismunaaðferð sem miðar að því að áætla mismun þeirra atvinnutekna sem ætla má að tjónþoli hefði unnið sér inn ef líkamstjónið hefði ekki orðið og þeirra tekna sem hann muni að líkindum hafa í framtíðinni að teknu tilliti til þeirra áhrifa sem líkamstjónið hefur á aflahæfi hans. Matið miðast við heilsufarslega stöðu tjónþola þegar frekari bata er ekki að vænta. Mat á því hvenær svo er komið og hið fjárhagslega örorkumat er að jafnaði unnið talsvert síðar á grundvelli allra tiltækra upplýsinga sem þá liggja fyrir og til þess eru fallnar að treysta grundvöll undir ályktanir og spár um getu tjónþola til að afla atvinnutekna í framtíðinni. 2 Af hálfu áfrýjanda er aðallega byggt á því að honum sé heimilt, í kjölfar niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um 50% varanlega örorku stefnda, að endurskoða fyrri frádrátt og draga frá greiðslu bóta til hans 40% af eingreiðsluverðmæti ætlaðra örorkulífeyrisgreiðslna í framtíðinni miðað við að þær verði í samræmi við þær greiðslur sem hann naut frá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja á stöðugleikapunkti 12. febrúar 2016. Þær greiðslur hafi miðast við 100% örorku stefnda til starfa á sjó. Hækkun frádráttarins frá því sem miðað hafi verið við í fyrra bótauppgjöri nemi hærri fjárhæð en hækkun bóta miðað við 50% varanlega örorku í stað 40% sem nemi 5.494.432 krónum. Því sé krafist sýknu í málinu. Áfrýjandi telur hækkun fjárhagslegrar örorku stefnda í 50%, samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna, renna stoðum undir að stefndi muni njóta greiðslna örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum vegna slyssins í framtíðinni. Eins og rakið er í dómi Hæstaréttar 18. september 2003 í máli nr. 520/2002 er með ákvæðum skaðabótalaga meðal annars leitast við að bæta áætlað framtíðartjón tjónþola. Í dóminum sagði að samkvæmt orðalagi 4. mgr. 5. gr. laganna og lögskýringargögnum yrðu lögin ekki skýrð á annan hátt en að miða bæri framtíðarfrádrátt vegna greiðslna af félagslegum toga við þann tíma sem tjónþoli gæti ekki vænst frekari bata. Yrði það ekki gert nema mið væri tekið af því hvernig mál tjónþola stæðu á þeim tíma og áætla út frá því hvernig þau myndu þróast í framtíðinni samkvæmt meðaltalslíkindareglu. Í dómi Hæstaréttar 20. október 2005 í máli nr. 119/2005 reyndi á hvernig haga bæri frádrætti örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins frá bótum fyrir líkamstjón. Í forsendum dómsins segir svo: „Áfrýjandi fór fram á að tjón hans yrði bætt af réttargæslustefnda og var það gert með eingreiðslu í uppgjöri 13. janúar 2004, þar sem miðað var við stöðugleikapunkt áfrýjanda 3. júní 2001. Forsendur slíkrar eingreiðslu eru að skaðabætur fyrir varanlega örorku vegna slyss séu greiddar fyrir líkindatjón fram í tímann og að frá skaðabótum dragist að sama skapi áætlaðar framtíðargreiðslur frá almannatryggingum vegna slyssins, eins og gert er ráð fyrir í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Enda þótt endurmeta skuli varanlega örorku áfrýjanda hjá Tryggingastofnun ríkisins í lok janúar 2006 verður vegna þessara forsendna fyrir tjónsuppgjöri að miða við að mat stofnunarinnar muni ekki breytast í þeim mæli í framtíðinni að ekki sé unnt að draga þessar uppreiknuðu bótagreiðslur frá metnum skaðabótum.“ Í dómum réttarins 27. september 2012 í máli nr. 45/2012 og 13. júní 2013 í máli nr. 20/2013 er jafnframt vísað til stöðugleikapunkts hvað varðar viðmiðunardag við útreikninga á eingreiðsluverðmæti greiðslna og réttinda sem koma eiga til frádráttar samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Í ljósi þýðingar stöðugleikapunkts við uppgjör bóta vegna varanlegrar örorku samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga er rétt að reikna eingreiðsluverðmæti greiðslna eða réttinda sem koma eiga til frádráttar miðað við sömu dagsetningu. Þótt upplýsingar um greiðslur sem tjónþoli naut á stöðugleikapunkti gefi að jafnaði vísbendingu um hvaða greiðslna hann megi vænta til framtíðar verða þær upplýsingar ekki einar og sér lagðar til grundvallar við ákvörðun um frádrátt. Þá ákvörðun verður, samkvæmt framangreindum dómum og dómi réttarins 8. desember 2011 í máli nr. 242/2011,  að byggja á heildarmati á því hvort og þá hvaða réttinda til greiðslna tjónþoli muni njóta í framtíðinni. Þannig geta þær greiðslur sem tjónþoli nýtur á stöðugleikapunkti verið tímabundnar og ólíklegt að framhald verði á þeim auk þess sem undir hælinn kann að vera lagt hvort tjónþoli hafi á stöðugleikapunkti sótt allan rétt sem hann kann að eiga til slíkra greiðslna. Til grundvallar framangreindu mati verður þannig að leggja allar upplýsingar sem fyrir liggja þegar það er gert og unnt er að draga af ályktanir um hvernig réttindi til slíkra greiðslna muni þróast í framtíðinni. Óumdeilt er að stefndi naut á stöðugleikapunkti 12. febrúar 2016 tímabundinna greiðslna örorkulífeyris frá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja sem tóku mið af mati trúnaðarlæknis sjóðsins um 100% örorku stefnda til starfa við sjómennsku í þrjú frá slysdegi. Ef mið er tekið af grein 12.4 í samþykktum sjóðsins lá fyrir á stöðugleikapunkti að ekki mætti gera ráð fyrir að stefndi héldi óbreyttum réttindum til örorkulífeyris frá sjóðnum að liðnum þremur árum frá slysinu. Eftir þann tíma hlaut réttur stefnda til örorkulífeyris að taka mið af nýju mati trúnaðarlæknis lífeyrissjóðsins á orkutapi hans sem samkvæmt samþykktum sjóðsins skyldi þá metið með tilliti til vanhæfni stefnda til almennra starfa, auk nýrra upplýsinga um heilsufar og árangurs af endurhæfingu. Við uppgjör skaðabóta 4. maí 2017 lá fyrir endurmat trúnaðarlæknis lífeyrissjóðsins 23. mars sama ár um að örorka stefnda til almennra starfa væri minni en 40%. Stefndi naut því ekki örorkulífeyris þegar uppgjör bóta fór upphaflega fram og hefur ekki notið síðar. Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á með áfrýjanda að miða eigi áætlun um rétt stefnda til örorkulífeyris frá sjóðnum í framtíðinni við þær greiðslur sem hann naut á stöðugleikapunkti. 3 Af hálfu áfrýjanda er á því byggt til vara að í öllu falli sé rétt að líta svo á að stefndi muni í framtíðinni njóta réttinda til örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum miðað við ætlaða 50% örorku og því beri að lækka kröfu stefnda sem því nemur eða um 17.180.256 krónur. Áfrýjandi vísar meðal annars til þess að stefndi geti samkvæmt grein 18.3 í samþykktum Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja sótt bótarétt tvö ár aftur í tímann. Þá vísar áfrýjandi til þess að málatilbúnaður stefnda um að hann hafi meira en 50% vinnugetu til almennra starfa sé ekki í samræmi við niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um hækkun varanlegrar örorku úr 40% í 50%, sem meðal annars hafi verið byggð á lýsingu stefnda sjálfs á matsfundi á afleiðingum slyssins. Sú lýsing hafi ekki verið í samræmi við upplýsingar sem hann hafi gefið trúnaðarlækni lífeyrissjóðsins, þegar hann undirgekkst endurmat á orkutapi, um að hann treysti sér til að hefja störf á almennum vinnumarkaði. Stefndi byggir á því að það sé komið undir ákvörðun Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja hvort hann muni njóta greiðslna örorkulífeyris í framtíðinni. Þá byggir hann á því að hann hafi stundað vinnu í landi og haft launatekjur frá 2018 og því sé ekkert sem bendi til þess að það mat sem lífeyrissjóðurinn hafi lagt til grundvallar því að greiða honum ekki örorkulífeyri muni breytast í framtíðinni. Við úrlausn þess hvort sú niðurstaða dómkvaddra matsmanna að varanleg örorka stefnda sé 50% renni nægum stoðum undir þann málatilbúnað áfrýjanda að rétt sé að miða við að stefndi muni í framtíðinni njóta örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum, miðað við ætlaða 50% örorku, verður að hafa í huga mismunandi matsgrundvöll. Annars vegar verður að skoða forsendur mats á fjárhagslegri örorku samkvæmt skaðabótalögum og hins vegar forsendur þess örorkumats trúnaðarlæknis Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja sem lagt var til grundvallar ákvörðun um að greiða stefnda ekki örorkulífeyri að liðnum þremur árum frá vinnuslysi. Bætur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga miða að því að bæta mönnum varanlega skerðingu vinnutekna af völdum líkamstjóns frá stöðugleikapunkti til ætlaðra starfsloka. Í samræmi við það miðar mat á varanlegri örorku samkvæmt skaðabótalögum að því að áætla fjártjón tjónþola í framtíðinni vegna afleiðinga tjónsatburðar á grundvelli samanburðar á atvinnuþátttöku fyrir tjónsatburð og ætlaðri atvinnuþátttöku í framtíðinni. Örorkumat trúnaðarlæknis Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja skal hins vegar vera í samræmi við ákvæði samþykkta lífeyrissjóðsins. Eins og glöggt kemur fram í áðurnefndri matsgerð 12. febrúar 2018 byggðist niðurstaða um 50% fjárhagslega örorku stefnda einkum á því að mjög ólíklegt væri að stefndi ætti afturkvæmt til starfa á sjó en að hann ætti að geta unnið við léttari almenn störf í landi. Þá töldu matsmenn ljóst að laun fyrir slík störf í landi væru mun lægri en þau sem stefndi hefði haft á sjó. Áfrýjandi hefur fallist á að greiða bætur í samræmi við niðurstöðu þessa mats á fjárhagslegri örorku stefnda og hefur ekki andmælt forsendum þess. Samkvæmt grein 12.1 í samþykktum Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja á sjóðfélagi, sem verður fyrir orkutapi sem talið er að svari til 50% örorku eða meira og hefur greitt í lífeyrissjóð í að minnsta kosti tvö ár, rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum í samræmi við áunnin réttindi. Ef mið er tekið af orðalagi greinar 12.4 er gert ráð fyrir að hundraðshluta örorkutaps og tímasetningu þess skuli ákveða á grundvelli örorkumats trúnaðarlæknis sjóðsins samkvæmt reglum um læknisfræðilegt örorkumat og að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku sjóðfélaga aftur í tímann.  Líta verður svo á að átt sé við áþekkt mat á örorku og miðað er við þegar fjárhæð miska er ákveðin samkvæmt 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga. Þrátt fyrir umrætt orðalag segir síðan í grein 12.4 í samþykktunum að fyrstu þrjú árin eftir orkutap skuli örorkumat aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna því starfi sem hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd en að því tímabili loknu með tilliti til vanhæfni hans til annarra starfa. Síðastgreinda orðalagið bendir fremur til þess að matið eigi að reisa á öðrum grundvelli en læknisfræðilegu örorkumati. Örorkumöt trúnaðarlæknis lífeyrissjóðs Vestmannaeyja sem liggja fyrir í málinu benda til þess að mötin hafi ekki verið reist á reglum um mat á læknisfræðilegri örorku. Upplýsingar sem stefndi hefur lagt fram fyrir Landsrétti og ný gögn sem hann hefur lagt fram fyrir Hæstarétti um tekjur fyrir fullt starf í landi á árunum 2018 til 2020 renna stoðum undir að hann hafi ekki haft réttmæta ástæðu til að fá örorkumat trúnaðarlæknis lífeyrissjóðsins 23. mars 2017 endurskoðað í þeim tilgangi að sækja örorkulífeyri úr lífeyrissjóðum. Enda þótt áfrýjandi byggi á því að ætla megi að stefndi muni í framtíðinni njóta örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum hefur hann ekki freistað þess að hnekkja forsendum eða niðurstöðu þess örorkumats trúnaðarlæknis sem þeir hafa byggt á ákvarðanir sínar um að greiða stefnda ekki örorkulífeyri. Þá hefur hann ekki skorað á stefnda að óska endurmats á örorkumatinu. Samkvæmt þessu verður við uppgjör bóta til stefnda að miða við að hann eigi ekki rétt til greiðslna örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum frá apríl 2017 sem koma eigi til frádráttar við uppgjör bóta til hans vegna slyssins 17. mars 2014.  Hinn áfrýjaði dómur verður því staðfestur. Eftir úrslitum málsins verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Vörður tryggingar hf., greiði stefnda, A, 1.200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.     Dómur Landsréttar 20. desember 2019. Mál þetta dæma landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson og Jóhannes Sigurðsson og Sigríður Ingvarsdóttir, settur landsréttardómari. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 9. apríl 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2019 í málinu nr. E-1671/2018. 2        Áfrýjandi krefst sýknu af öllum kröfum stefnda. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla. 3        Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti. Niðurstaða 4        Mál þetta lýtur að uppgjöri á skaðabótum vegna slyss sem stefndi varð fyrir 17. mars 2014 um borð í fiskiskipinu [...]. Í málinu er deilt um hvort miða skuli frádrátt samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við batahvörf, sem í gögnum málsins er vísað til sem stöðugleikatímapunkts, eða síðari dagsetningu. Í útreikningum tryggingarstærðfræðings á reiknuðu endurgreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóðnum er miðað við þau réttindi sem stefndi naut við batahvörf. 5        Í 4. málslið 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga kemur fram að frá skaðabótakröfu skuli draga 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og skal við útreikninginn miðað við 4,5% ársávöxtun. Í ákvæðinu er ekki kveðið á um hvort miða skuli við stöðu tjónþola hjá lífeyrissjóði við batahvörf, ólíkt því sem segir í 1. mgr. sömu greinar um mat á bótum fyrir varanlega örorku. Ákvæði 4. mgr. 5. gr. tók á sig núverandi mynd að þessu leyti þegar því var breytt með 4. gr. laga nr. 37/1999. Samkvæmt eldra ákvæðinu voru greiðslur sem tjónþoli fékk frá þriðja manni vegna líkamstjóns, þar með talið lífeyrissjóði, ekki dregnar frá við uppgjör bóta fyrir varanlega örorku. 6        Í athugasemdum við 4. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 37/1999 kemur meðal annars fram að lagt sé til að til frádráttar bótum fyrir varanlega örorku komi greiðslur af félagslegum toga sem komi í hlut tjónþola vegna örorkunnar. Þá kemur fram að lengi hafi verið álitamál hvernig fara beri með örorku­lífeyri við uppgjör slysabóta. Rétt til örorkulífeyris öðlist menn með iðgjaldagreiðslum til lífeyrissjóðs. Í eðli sínu sé örorkulífeyrir samsettur annars vegar sem tryggingabætur sem tjónþoli hafi sjálfur greitt iðgjald af og hins vegar sem tryggingabætur þar sem vinnu­veitandi greiði iðgjaldið. Algengast sé að launþeginn greiði 4% tekna sinna í lífeyrissjóðsiðgjald en vinnuveitandinn 6% ofan á greidd laun. Iðgjaldshluti vinnu­veitandans sé þó stundum hærri. Samkvæmt lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sé öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnu­rekstur eða sjálfstæða starfsemi skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyris­sjóði. Vegna lagaskyldunnar megi færa fyrir því rök að réttur til örorkulífeyris sé annars eðlis en bótaréttur sem fáist úr frjálsum slysatryggingum. Örorkulífeyrir sé, vegna lagaskyld­unnar, nær því að vera félagslegt úrræði. Áður en skaðabótalögin tóku gildi árið 1993 hafi dómstólar haft verðmæti örorkulífeyris til hliðsjónar við ákvörðun bóta, án þess þó að verðmætið væri dregið frá að fullu við ákvörðunina. Almennt öðlist tjón­þoli ekki rétt til örorkulífeyris frá lífeyrissjóði nema varanleg örorka hans sé a.m.k. 40%. 7        Eins og ráðið verður af tilvitnuðum athugasemdum við 4. gr. frumvarps, sem varð að lögum nr. 37/1999, er tilgangur reglna skaðabótaréttarins um bætur fyrir varanlega örorku að bæta tjónþola tap á atvinnutekjum sem hann mun að líkindum verða fyrir í framtíðinni þannig að hann verði jafnsettur og ef tjónið hefði aldrei orðið, eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga miðast mat á varanlegri örorku við batahvörf, sem er það tímamark þegar heilsufar tjónþola er orðið stöðugt og ekki er að vænta frekari bata. 8        Samkvæmt greinum 12.1 og 12.3 í samþykktum Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja um lágmarksréttindi og fleira frá 8. maí 2015 á sjóðfélagi, sem verður fyrir orkutapi sem talið sé að svari til 50% örorku eða meira og hafi greitt í lífeyrissjóð í a.m.k. tvö ár, rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum, enda hafi hann orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Fram kemur í grein 12.4 að hundraðshluta orkutaps og tímasetningu þess skuli ákveða á grundvelli örorkumats trúnaðarlæknis sjóðsins samkvæmt reglum um læknisfræðilegt örorkumat og að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku sjóðfélaga aftur í tímann. Fyrstu þrjú árin eftir orkutapið skuli örorkumat aðallega miða við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna því starfi er hann hefur gegnt en að því tímabili loknu skuli orkutap metið á ný með tilliti til vanhæfni sjóðfélaga til almennra starfa, nýrra upplýsinga um heilsufar og störf og árangurs af endurhæfingu. Orkutap skuli síðan endurmetið eftir því sem stjórn sjóðsins telji ástæðu til. 9        Dómar Hæstaréttar Íslands sem raktir eru í héraðsdómi, þar sem reynt hefur á frádrátt bóta samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, eiga það sameiginlegt að þar hafa tjónþolar notið bóta við batahvörf og að endurmat á örorku mundi ekki breytast í þeim mæli í framtíðinni að ekki væri unnt að draga reiknaðar örorkubætur frá skaðabótum vegna varanlegrar örorku. Atvik þessa máls eru ósambærileg, enda liggur fyrir að eftir batahvörf, en áður en aðilar máls gengu til uppgjörs, var orkutap stefnda metið að nýju af Lífeyrissjóði Vestmannaeyja, sem leiddi til þess að stefndi naut ekki lengur réttar til örorkulífeyris hjá lífeyrissjóðnum. Við batahvörf voru umtalsverðar líkur á því að réttindi stefnda til örorkulífeyris myndu skerðast þar sem framtíðarviðmið örorkulífeyrisréttinda hans hjá lífeyrissjóðnum skyldu samkvæmt samþykktum hans miða við örorku til almennra starfa en ekki sjómennsku. Áfrýjandi ber sönnunarbyrðina fyrir réttmæti þess frádráttar sem hann gerði við bótauppgjörið.  Hann hefur á hinn bóginn ekki fært fram gögn eða rök fyrir því að örorkumat stefnda hjá lífeyrissjóðnum sé líklegt til að breytast þannig að hann muni á ný njóta réttar til örorkulífeyris hjá sjóðnum. Yrði fallist á kröfu áfrýjanda myndi það við þessar aðstæður leiða til þess að stefndi fengi tjón sitt ekki að fullu bætt í samræmi við þau grundvallarsjónarmið sem liggja að baki reglum skaðabótalaga. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. 10       Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Landsrétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Héraðsdómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Vörður tryggingar hf., greiði stefnda, A, 1.000.000 króna í málskostnað fyrir Landsrétti.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2019. I. Dómkröfur o.fl.: Mál þetta var höfðað 23. maí 2018 og dómtekið 28. febrúar 2019. Stefn­andi er A, [...]. Stefndi er Vörður trygg­ingar hf., Borgartúni 25, Reykjavík. Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 28.866.081 krónu með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 12. febrúar 2016 til 2. janúar 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 17.180.256 krónum en 4,5% vöxtum af 11.685.825 krónum frá þeim degi til 16. mars 2018, en með dráttarvöxtum af 28.866.081 krónu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skað­­­­­­lausu að mati dómsins, í samræmi við þá hagsmuni sem í húfi eru og vinnu mál­flytjanda, og að tekið verði tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun. Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og máls­­­­­­­­­­kostnaður verði látinn niður falla.   II. Málsatvik: 1. Stefnandi, sem er fæddur árið [...], slas­aðist 17. mars 2014 þegar hann var við störf á fiskiskipinu [...]. Stefn­andi varð óvinnufær eftir slysið og leitaði sér læknis­­­­aðstoðar og sjúkra­­þjálfunar til að ná bata. Stefnandi hafði starfað mestalla sína starfs­­­­­ævi fram að slysinu við sjómennsku á fiskiskipum, sem háseti, matsveinn og vélar­­­­vörður, og hafði lokið hluta af námi í vél­stjórn. Stefn­andi var tryggður hjá stefnda samkvæmt kjara­samn­ings­bundinni slysa­­­trygg­ingu sjó­manna, sbr. 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985, en bætur sam­kvæmt slysatrygg­ing­­­unni eru ákvarð­aðar á grundvelli laga nr. 50/1993 með síðari breyt­ingum.   2. Stefnandi naut á slysdegi réttinda hjá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja o.fl. sam­kvæmt lög­­um nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi líf­eyris­sjóða, sbr. síðari breyt­­­­­­ingar. Með matsgerð B læknis, dagsettri 21. apríl 2016, til Lífeyris­sjóðs Vestmannaeyja, var lagt mat á orkutap. Samkvæmt því mati var örorka stefn­­­anda til fyrri starfa talin vera 100% frá slys­degi til 30. apríl 2017 og var meðal annars tekið fram að stefnandi myndi ekki stunda sjómennsku framvegis.   3. Með sameiginlegri matsbeiðni aðila, dagsettri 4. nóvember 2015, var óskað eftir því að C læknir og D lögmaður mætu tíma­bundnar og varan­­legar afleiðingar slyssins á grundvelli laga nr. 50/1993. Í matsgerð C og D, dagsettri 25. nóvember 2016, greinir meðal annars að tímabil tímabundins atvinnutjóns samkvæmt 2. gr. laga nr. 50/1993 hafi verið metið og það talið eiga við frá slysdegi til 12. febrúar 2016, þegar stöðug­leika­tíma­punkti var náð. Tímabil þján­inga samkvæmt 3. gr. sömu laga hafi verið metið og það talið eiga við í jafn­langan tíma. Varanlegur miski sam­­kvæmt 4. gr. lag­anna var hæfi­­lega metinn 18 stig. Þá var varanleg örorka sam­kvæmt 5. gr. laga nr. 50/1993 metin 40%.   4. Með bréfi til stefnda 2. desember 2016 krafðist stefnandi uppgjörs bóta fyrir tíma­bundnar og varanlegar afleiðingar slyssins, sbr. fyrrgreinda matsgerð C og D frá 25. nóvember sama ár. Af því tilefni óskaði stefndi eftir útreikningi trygg­inga­­stærð­­­fræðings á eingreiðslu­verð­­­­­­mæti bóta­greiðslna frá líf­eyris­­­sjóðum til stefn­­anda vegna slyss­ins, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Sam­­­kvæmt út­­­reikn­­ing­um tryggingastærðfræðingsins, dagsettum 9. febrúar 2017, var ein­­­greiðslu­verð­mæti bóta­­greiðslna frá lífeyrissjóðum frá fyrrgreindu tíma­marki stöðug­­­­l­eikatímapunkts til 67 ára aldurs stefn­anda metið 20.101.601 króna mið­að við 50% örorku og 37.281.858 krónur mið­að við 100% ör­orku.   5. Stefnandi leitaði til E, læknis við Heil­­brigðis­stofnun Suður­lands í Vestmannaeyjum. Í vottorði læknisins til Lífeyrissjóðs Vest­manna­eyja, dag­­settu 8. mars 2017, greindi meðal annars að stefnandi teldist vinnufær til almennra starfa frá og með dag­setningu vott­orðsins en hann væri hins vegar óvinnu­fær til að starfa á sjó og til erfiðis­­­vinnu. Með matsgerð B, læknis, dagsettri 23. mars 2017, til Líf­eyris­sjóðs Vestmannaeyja, þar sem vísað var til fyrrgreinds læknisvottorðs, var orkutap stefn­­anda endurmetið. Í þeirri matsgerð var lagt til grund­­­­vallar að örorka stefnanda til fyrri sjó­manns­­­starfa og erfiðis­starfa væri 100% og að hún væri varan­leg frá 17. mars 2014 að telja. Ör­orka til annarra almennra starfa væri hins vegar minni en 40%. Að þessu virtu miðaði lífeyrissjóðurinn við að örorkulífeyrisgreiðslur frá sjóðnum til stefnda féllu niður frá þeim tíma, sbr. grein 12.1 í sam­þykktum líf­eyris­sjóðsins um lágmarks­réttindi og fleira.   6. Bótatilboð stefnda var sent til lögmanns stefnanda með tölvuskeyti 6. apríl 2017. Tilboðið var sett fram með fyrirvara, og þá sérstaklega varðandi ein­greiðslu­­verð­mæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóðnum samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993. Í því til­boði var miðað við að stefnandi fengi 50% áframhaldandi örorkumat hjá lífeyris­sjóðn­um. Að sögn stefnda gerði hann þetta í sáttatilgangi enda hefði legið fyrir að stefn­­­­­andi væri metinn til 100% tíma­bund­innar örorku hjá líf­eyris­­sjóðn­um á stöðug­­­­leikatíma­punkti 12. febrúar 2016 og að út­reikn­ingur trygginga­stærð­fræð­­ings­ins hefði tekið mið af því. Vísað var til hins sam­eigin­lega örorkumats um langan starfsferil stefnanda á sjó og að hann hefði tjáð sig um það á matsfundi að hann ætti erfitt með að sjá atvinnu­möguleika sína á öðrum svið­um. Þá benti stefndi á að fram kæmi í ör­­orku­matinu að ein­­­kenni stefn­­­anda í kjöl­­far slyssins myndu há hon­um að einhverju marki við léttari störf þrátt fyrir að þau reyndu ekki jafn mikið á líkam­lega burði. Að því virtu teldi stefndi að allar líkur væru á því að stefnandi yrði metinn hið minnsta til 50% lág­marks­­­­­örorku hjá lífeyrissjóðnum og að hann myndi í fram­tíð­inni þiggja greiðslur þaðan. Kæmi hins vegar annað í ljós, til dæmis að stefn­andi yrði áfram að fullu óvinnu­­­­­­fær, þá áskildi stefndi sér allan rétt til að endur­skoða frádráttinn til hækkunar.  Lögmaður stefnanda óskaði eftir því við stefnda 7. apríl 2017 að félagið uppfærði bóta­­tilboð sitt miðað við fyrrgreindar niðurstöður lífeyrissjóðsins 23. mars sama ár um að örorkulífeyrisgreiðslur féllu niður. Með svari stefnda 25. apríl 2017 var beiðn­inni hafnað en fyrra bótatilboð áréttað. Í svar­­­­­­inu var lagt til grund­vallar að miða ætti við stöðu tjón­­þola á stöðugleikatímapunkti þegar kæmi til frádráttar á grund­velli 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 vegna eingreiðslu­verð­­mætis örorkulífeyris frá líf­eyris­sjóði. Með þessu væri miðað við sama tímamark og ætti við um varan­lega ör­orku. Hið sama ætti við þótt fyrir lægi að frek­ari greiðslur myndu ekki berast að svo stöddu. Önnur niður­­staða væri í andstöðu við mark­­­­­­­­­­mið laga nr. 50/1993 um endan­legt uppgjör og var vís­að til nánar tilgreindra dóma Hæsta­réttar Íslands. Þessu til viðbótar var tekið fram að stefn­di teldi að það væri stefn­­anda í hag að í bótauppgjöri yrði ekki miðað við 100% greiðslur úr lífeyrissjóði til framtíðar, eins og hugsanlega væri rétt að gera, og stefndi myndi gera fyrirvara um í upp­gjöri aðila. Þá ítrekaði stefndi fyrra bótatilboð sitt en taldi rétt að ágreiningur um hvort frádráttur vegna eingreiðslu­verð­mætis ör­orku­­lífeyris væri réttmætur mynda fara fyrir dóm­­stóla svo skýrt fordæmi fengist fyrir því hvort síð­­ari breyting á bótarétti tjónþola hjá lífeyrissjóði gæti breytt for­sendum upp­­gjörs.    7. Aðilar náðu ekki saman um framangreindan ágreining. Fullnaðaruppgjör sam­kvæmt lögum nr. 50/1993 fór fram 4. maí 2017 á grundvelli hinnar sameiginlegu mats­gerðar C og D, dagsettrar 25. nóvember 2016. Uppgjörið var með fyrirvara næðist ekki sam­­­­komulag um bætur. Í bótauppgjörinu var meðal annars lagt til grund­vallar að frá­dráttur yrði frá bótum stefn­­anda fyrir varanlega örorku miðað við að hann fengi 50% örorkulíf­eyris­­­greiðslur frá apríl 2017 og þar til hann næði 67 ára aldri. Nánar til­tekið nam frá­drag stefnda frá bótum stefnanda vegna örorku­lífeyris­greiðslna samtals 20.101.601 krónu, þar af 2.921.345 krónum vegna slíkra greiðslna sem stefnandi fékk frá stöðugleika­tímapunkti til og með mars 2017, sem ekki var ágrein­ingur um. Því til við­­bótar var hins vegar miðað við að hann sætti frádragi að fjár­hæð 17.180.256 krónur vegna tíma­bils­ins frá apríl 2017 til 67 ára aldurs stefnanda. Stefnandi tók á móti bóta­greiðslu stefnda með nokkrum fyrir­­­vörum af hans hálfu sem skráðir voru á fylgiskjali með kvittun um full­naðaruppgjör. Fyrirvararnir voru meðal annars um lögmæti fyrr­greinds frá­­dráttar vegna greiðslna frá líf­eyrissjóði frá apríl 2017 til 67 ára aldurs og einnig um hugsan­legan rétt hans til frek­ari bóta yrði varanleg ör­orka eða miski síðar met­inn hærri en sam­kvæmt fyrr­greindri matsgerð.   8. Í framhaldi af bótauppgjörinu óskaði stefnandi eftir mati dómkvaddra matsmanna á afleiðingum slyssins með tilliti til varanlegs miska og varanlegrar örorku, sbr. 4. og 5. gr. laga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna, F bæklunarlæknis og G lögmanns, dagsettri 12. febrúar 2018, voru niðurstöður matsgerðar C og D um varanlegan miska og stöðug­leikatíma­­­­punkt stefnanda óbreyttar. Varanleg örorka hans var hins vegar metin 50% og þar með hækkuð um 10% frá því sem var í hinni fyrri matsgerð. Með tölvu­­skeyti til stefnda 16. sama mánaðar krafðist lögmaður stefnanda greiðslu á frek­ari skaða­­­bótum til stefnanda að fjárhæð 11.685.825 krónur, auk vaxta og kostn­aðar, á þeim grundvelli að varanleg örorka væri 10% hærri en miðað hefði verið við í fyrr­­greindu bótauppgjöri. Þá var áréttað að hluti bóta fyrir varanlega örorku sam­kvæmt fyrri matsgerð væri enn ógreiddur. Viðbótarkröfunni var hafnað með tölvuskeyti stefnda 20. mars sama ár. Í því skeyti var áréttað að félagið teldi rétt að miða frádrátt sam­kvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 við stöðu tjónþola á stöðugleikatímapunkti. Vísað var til þess að stefn­andi hefði verið algjörlega óvinnufær frá slysdegi og ekki verið á vinnumarkaði frá þeim degi. Við fyrra uppgjör hefði félagið ákveðið að miða einungis við 50% greiðslur frá líf­­­eyris­­sjóði til fram­búðar í stað 100%, sem félagið hefði áskilið sér að endur­skoða ef stefn­­­­­andi yrði áfram óvinnufær. Þá var vísað til niðurstöðu dómkvaddra mats­manna þar sem fram kæmi að stefnandi hefði ekki stundað neina launaða vinnu eftir slysið og að hann hefði upplýst að öll störf sem tengdust menntun hans væru líkamlega krefj­andi. Dómkvaddir matsmenn hefðu því hækkað varanlega örorku hans úr 40% í 50%. Teldi stefndi því að að miða ætti frádrátt við 100% greiðslur úr líf­­eyrissjóði til 67 ára aldurs enda hefði félagið áskilið sér rétt til að endurskoða frá­drátt á síðari stig­um. Þá taldi stefndi, miðað við þessar forsendur, að félagið væri búið að ofgreiða stefn­anda 5.494.432 krónur og að þessu virtu hafnaði félagið frekari bótagreiðslum vegna slyss­ins.    III. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda: Stefnandi gerir í málinu kröfu á hendur stefnda um greiðslu eftirstöðva bóta fyrir varanlega örorku úr slysatryggingu sjómanna vegna afleiðinga sjóvinnuslyss 17. mars 2014. Stefnandi tekur fram að í málinu sé hvorki ágreiningur um bótaskyldu stefnda né niður­stöðu matsgerðar dómkvaddra matsmanna um 50% varanlega örorku vegna af­­leiðinga slyssins. Þá sé heldur ekki deilt um útreikning á bótum til hans fyrir varan­lega örorku. Ágreiningurinn taki hins vegar til þess hvort heimild sé fyrir frá­dragi sam­­­kvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 frá bótum stefnanda fyrir varanlega örorku. Nánar tiltekið snýst ágreiningurinn um það hvort slík heimild sé fyrir hendi eftir mars 2017 með tilliti til endur­­mats Líf­­eyrissjóðs Vestmannaeyja á örorku stefnanda til almennra starfa sem leitt hafi til þess að stefnandi átti ekki lengur rétt á örorku­lífeyris­greiðslum frá sjóðn­um sam­kvæmt sam­þykkt­um hans.  Stefnandi tekur fram að við uppgjör bóta samkvæmt fyrri matsgerð hafi stefnda verið heimilt að draga fjárhæð frá bótum stefnanda fyrir varanlega örorku sem nemi 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyrissjóðsgreiðslna stefnanda frá stöðug­­­­­­leikatíma­­punkti fram í mars 2017. Frá þeim tíma hafi þær greiðslur hins vegar fallið niður. Frekara frádrag eftir þann tíma hafi því verið óheimilt þar sem stefn­andi njóti ekki lengur fyrrgreinds örorkulífeyrisréttar. Að mati stefnanda hljóti það að vera for­­senda fyrir slíku frádragi að hann eigi rétt til slíkra greiðslna. Að því virtu eigi við­bótar­­­­­­­frádrag stefnda ekki rétt á sér og afstaða hans til þess sé fjarstæðukennd og standist ekki skoðun. Þá hafi dómar sem stefndi vísi til ekki fordæmisgildi þar sem máls­­­­­­­atvik séu ósambærileg. Stefnandi vísar til þess að við uppgjör bóta samkvæmt matsgerð, dagsettri 25. nóv­ember 2016, hafi stefndi að ósekju haldið eftir 17.180.256 krónum þar sem hann hafi talið að heimilt væri að draga frá bótum stefnanda fjárhæð sem næmi 40% af reikn­­­­­uðu eingreiðsluverðmæti miðað við 50% örorkulífeyrisgreiðslur til stefnanda, vegna tíma­­­bilsins frá apríl 2017 uns stefnandi næði 67 ára aldri. Niðurstaða dóm­kvaddra mats­manna hefði svo leitt til viðbótarbótaréttar stefnanda að fjárhæð 11.685.825 krónur vegna hækkunar á varanlegri örorku. Eftir að stefnandi hafi krafið stefnda um þá fjárhæð hafi stefndi breytt afstöðu sinni til frádrags og talið sér heimilt að miða við 100% örorkulífeyrisgreiðslur í stað 50% áður. Stefndi hafi því talið sér heimilt að draga 34.360.512 krónur frá bótum stefnanda fyrir varanlega ör­orku, vegna tímabilsins frá apríl 2017 til 67 ára aldurs hans. Að því virtu hefði stefndi hafnað kröfu stefn­­­anda um greiðslu viðbótarbóta og lagt til grundvallar að hann hefði ofgreitt honum bætur fyrir varanlega örorku að fjárhæð 5.494.432 krónur. Stefnandi byggir á því að augljóst sé að viðbótarfrádrag stefnda sé óheimilt sam­kvæmt lögum nr. 50/1993, einkum miðað við gagnályktun frá 4. mgr. 5. gr. laganna. Þá telur stefnandi að afstaða stefnda fái ekki samrýmst reglum kröfuréttar, meðal annars um óréttmæta auðgun, né heldur skilmálum gildandi vátryggingar. Telur stefn­andi að engin stoð sé fyrir þeirri lögskýringu stefnda að fái tjónþoli greiddan tíma­­bund­­inn ör­orku­lífeyri frá lífeyrissjóði á stöðugleikatíma­punkti þá leiði það til þess að heimilt sé að miða við að áframhald verði á líf­eyrisgreiðslum til 67 ára aldurs, og jafn­vel þó að það liggi fyrir að svo sé ekki í raun og veru. Hug­lægt mat stefnda geti ekki ráðið því hversu háa fjár­hæð honum sé heimilt að draga frá lögmætum bóta­kröfum stefnanda. Þessu til við­bótar byggir stefnandi á því, fallist dómstólar á það að við­bótar­frádragið sé heimilt, að stefndi sé engu að síður bundinn af bótauppgjöri sínu 4. maí 2017, enda hafi hann ekki gert fyrirvara í uppgjörinu um að frádragið skyldi vera hærra. Stefnandi tekur fram að samkvæmt framangreindu sé höfuðstóll bótakröfu hans í máli þessu 28.866.081 króna og beri krafan 4,5% vexti frá stöðug­leika­tímapunkti 12. febrúar 2016, en dráttarvexti af 17.180.256 krónum frá 2. janúar 2017, þegar mán­uður var liðinn frá því að bótakrafa var gerð á grundvelli fyrra matsins, og af 28.866.081 krónu frá 16. mars 2018, þegar mánuður var liðinn frá því að stefnda var send bóta­krafa á grundvelli matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Um málskostnaðarkröfu vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála. Í því sambandi tekur hann fram að sérstaklega eigi að líta til 131. gr. þeirra laga þar sem hann telji að varnir stefnda séu fráleitar. Þá vísar stefnandi til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt varðandi málflutningsþóknun. Um lagarök að öðru leyti vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 50/1993 með síðari breytingum, auk skil­mála slysa­trygg­­­ingar sjómanna hjá stefndu. Einnig vísar stefnandi til laga nr. 30/2004 um vá­­trygg­­­­ingarsamninga og dómafordæma Hæstaréttar Íslands án frekari til­grein­ingar. Þessu til viðbótar, að því er varðar vexti og dráttarvexti, vísar stefnandi til laga nr. 38/2001 og laga nr. 50/1993.   Helstu málsástæður og lagarök stefnda: Stefndi tekur fram að ágreiningur aðila afmarkist við það hvort heimilt sé að draga frá greiðslu vegna varanlegrar örorku stefnanda áætlaðar örorkulífeyrisgreiðslur frá lífeyris­sjóðum, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993. Stefndi reisir sýknukröfu á því að stefnandi hafi fengið að fullu greitt tjón vegna varanlegrar örorku í umræddu slysi. Nánar tiltekið varðandi sýknukröfu vísar stefndi til þess að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 skuli greiða skaðabætur fyrir varanlega örorku, valdi líkamstjón, þegar heilsufar tjónþola er orðið stöðugt, varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnu­tekna. Um sé að ræða bætur sem greiddar séu fyrir líkindatjón fram í tímann. Við tíma­­­­­­­­­­mark á mati tjónsins sé tekið mið af ástandi tjónþola á stöðugleikatímapunkti en þá sé heil­­­brigðisástand tjónþola orðið stöðugt að mati matsmanna sem leggi mat á varan­­­­legar afleiðingar slyss. Í tilfelli stefnanda hafi stöðugleikatímapunktur verið ákveðinn 12. febrúar 2016 samkvæmt niðurstöðu matsgerðar C læknis og D lögmanns, dagsettri 25. nóvember sama ár. Þá sé ekki ágrein­ingur hjá aðilum um tímamark stöðug­­­­leika­tímapunkt­sins. Mat á varan­leg­um afleiðingum slyss miðist við stöðuleikatíma­punkt, þegar fyrir liggi samkvæmt læknis­­­fræðilegu mati að ekki verði að vænta frekari bata á heilsu­fari tjónþola í kjölfar slyss. Þann 12. febrúar 2016 hafi því ekki verið að vænta frek­­­ari bata á heilsu stefn­anda og læknisfræðilegt mat og bótauppgjör hafi því sam­kvæmt lögum nr. 50/1993 átt að taka mið af stöðu stefn­­anda á þeim degi. Á stöðugleikatímapunkti, 12. febrúar 2016, hafi stefnandi verið metinn til 100% ör­­orku til fyrri starfa af matslækni á vegum Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja. Samkvæmt mati B læknis sé orkutap stefnanda til fyrri starfa 100% frá slys­degi 17. mars 2014 til 30. apríl 2017. Fyrir liggi, og sé í reynd óumdeilt, að stefnandi hafi á stöðug­leikatímapunkti átt rétt á mánaðarlegum greiðslum úr lífeyrissjóði vegna slyss­­­­­­ins. Þegar að bótauppgjöri hafi komið hafi því bæði verið eðlilegt og það sam­rýmst ákvæðum skaðabótalaga að þær greiðslur yrðu færðar til eingreiðslu­verðmætis svo unnt væri að draga þær fjárhæðir frá skaðabótakröfu. Niðurstaða trygg­inga­stærð­fræð­ings­ sé óumdeild og stefnandi hafi ekki bent á neina ann­marka á þeim út­reikn­ing­um sem ættu að leiða til þess að ekki væri unnt að leggja út­reikn­ingana til grund­vallar bóta­­­­uppgjöri vegna slyssins.   Stefndi tekur fram að hann byggi á því að frádrátt vegna lífeyrisgreiðslna sam­kvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 eigi að miða við það tímamark þegar heilsa stefn­­­­­­­anda hafi verið orðin stöðug, sem sé sama tímamark og gildi um 1. mgr. 5. gr. lag­­­­­anna. Óumdeilt sé að stöðugleikatímapunktur stefnanda hafi samkvæmt mati verið mið­­aður við 12. febrúar 2016. Stefnda hafi því borið að miða frádrátt vegna greiðslna frá líf­­­­eyrissjóði við það tímamark sem samkvæmt markmiði laga nr. 50/1993 ætti að vera endan­­legt. Ekkert í lögum nr. 50/1993 bendi til þess að miða eigi frádrátt sam­kvæmt ákvæðinu við annað tímamark en mælt sé fyrir um í 1. mgr. 5. gr. laganna. Stefndi tekur fram að ef túlkun og málatilbúnaður stefnanda yrði ofan á þá myndi það leiða til mikillar réttaróvissu enda sé þá sá möguleiki fyrir hendi að bóta­uppgjör verði aldrei endan­legt þar sem bæði tjónþolar og vátryggingafélög gætu, þegar þannig stæði á, breytt forsendum uppgjörsins eftir á vegna þess að greiðslur frá lífeyris­sjóði og almanna­­tryggingum hefðu breyst til ýmist lækkunar eða hækkunar. Stefndi telur að sú til­­högun geti ekki gengið þegar litið sé til eðlis skaða­bóta­uppgjörs og markmiða með lög­um nr. 50/1993. Stefndi vísar til þess að samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar beri að miða fram­­­­­­­­­­­tíðarfrádrátt vegna greiðslna af félagslegum toga við stöðugleikatímapunkt. Eins og með varanlega örorku byggist frádráttur samkvæmt fyrrnefndri 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 á líkindamati og reglurnar séu hlutlægar á þann veg að samkvæmt þeim sé farið á sama hátt með alla tjónþola sem eins hátti til um. Eðli máls samkvæmt séu greiðslur úr lífeyrissjóði háðar óvissu að því leyti að örorka sé metin á nýjan leik á nokkurra mánaða fresti. Þannig hátti til með stefnanda. Óvíst sé hver verði niður­staða mats­­­­­­­­læknis þegar núgildandi örorkumat hafi runnið sitt skeið á enda. Niðurstaða mats­gerðar dómkvaddra matsmanna um 50% varanlega örorku stefnanda bendi til þess að stefn­­­andi muni þiggja greiðslur frá lífeyrissjóði í framtíðinni þótt núgildandi mat á orku­­­­­­tapi leggi til grundvallar að stefnandi sé með meira en 50% vinnugetu til almennra starfa. Í þessari aðstöðu komi í reynd skýrt fram nauðsyn þess að frá­dráttur frá varan­legri örorku miðist við stöðugleikatímapunkt hverju sinni og niður­stöðu mats­­­­­­­­­­­­­manna um varanlega örorku. Annað myndi að mati stefnda leiða til réttaróvissu og ómöguleika við að ljúka bótauppgjöri endanlega. Þá byggir stefndi á því að niðurstaða dómkvaddra matsmanna styðji ekki þau sjónar­­­­­mið stefnanda að hann muni aldrei framar þiggja greiðslur úr lífeyrissjóði vegna slyss­ins. Stefndi telur að stefnandi geti ekki fullyrt þetta með fullri vissu. Skjóti það í reynd skökku við að stefnandi telji heilsufar sitt slíkt að hann hafi meira en 50% vinnu­­­­­­getu til almennra starfa í ljósi þess sem fram komi í niðurstöðu dómkvaddra mats­­­­­­­manna og gögn málsins staðreyni. Þannig greini í niðurstöðu þeirra um varanlega ör­­orku stefnanda: Ljóst er að afleiðingar slyssins hafa haft umtalsverð áhrif á starfs­getu mats­beiðanda og hefur hann ekki stundað nein launuð störf eftir slysið. Mats­menn telja ennfremur mjög ólíklegt þegar horft er til eðli áverka, gagna málsins, við­tals við matsbeiðanda á matsfundi og skoðun að hann muni eiga afturkvæmt í sjó­manns­störf. Ennfremur er starfsgeta hans til líkamlega krefjandi starfa í landi um­tals­vert skert. Hann ætti þó að geta unnið við léttari almenn störf í landi, t.d. störf sem tengjast sjávarútvegi. Stefndi tekur fram að hann telji að stefnandi geti ekki bæði haldið og sleppt. Lýs­ingar stefnanda á afleiðingum slyssins á matsfundi hjá dómkvöddum mats­mönn­um, sem séu hluti forsendna fyrir niðurstöðu þeirra um varanlega örorka stefnanda, séu í engu samhengi við það sem stefnandi hafi lýst fyrir matslækni lífeyrissjóðs þegar hann gekkst undir mat á orkutapi. Í ljósi þess að stefnandi hafi nú fullyrt að vinnugeta hans sé umtalsvert meiri en á matsfundi hjá dómkvöddum mats­mönnum sé í reynd full ástæða til þess að íhuga hvort endurmeta þurfi varanlega örorku stefnanda til lækk­unar. Þessu til viðbótar byggir stefndi á því að honum hafi verið heimilt, við útreikning bóta til handa stefnanda í kjölfar niðurstöðu dómkvaddra matsmanna, að draga frá greiðslunni eingreiðsluverðmæti örorkulífeyrisgreiðslna samkvæmt nýjum út­reikning­um og endur­­skoða fyrri frádrátt. Leiði það af meginreglu skaðabótaréttar að stefnandi eigi ekki rétt á hærri bótum en svari raunverulegu tjóni hans, auk þeirrar meginreglu kröfu­réttar að sá sem hafi ofgreitt fé eigi rétt til endurgreiðslu þess sem ofgreitt sé. Í þessu sam­­­bandi beri að ítreka að nýir útreikningar hafi farið fram vegna þess að stefn­andi hafi samkvæmt niðurstöðu dómkvaddra matsmanna orðið fyrir meira tjóni en talið var við fyrra uppgjör, enda hafi varanleg örorka hans hækkað úr 40% í 50% með nýrri niður­­­­stöðu. Hækkun á varanlegri örorku stefnanda samkvæmt niður­stöðu dóm­kvaddra mats­manna renni stoðum undir þau sjónarmið stefnda að allar líkur standi til þess að stefn­andi muni fá greiðslur úr lífeyrissjóði vegna slyssins í fram­tíðinni. Stefndi byggir þar með á því að honum hafi verið heimilt að draga áætlaðar greiðslur úr lífeyrissjóði frá bótum eins og staða stefnanda var á stöðugleika­tíma­punkti. Ef túlkun stefnanda yrði ofar myndi það í reynd leiða til þess að hann fengi hærri bætur en svari raunverulegu tjóni hans, sem gengi í berhögg við þá meginreglu skaða­bóta­réttar að tjónþoli eigi ein­ungis að fá raun­tjón bætt. Varðandi varakröfu um lækkun á stefnukröfu tekur stefndi fram að hann byggi á því að miða eigi frádrátt vegna eingreiðsluverðmætis greiðslna úr lífeyrissjóði við 50% mat á orkutapi. Í því sambandi vísar stefndi til fyrri umfjöllunar varðandi aðal­kröfu stefnda að breyttu breytanda. Samkvæmt niðurstöðu tryggingastærðfræðings nemi sá frádráttur 20.101.601 krónu sem draga eigi frá kröfu stefnanda á stöðugleika­tímapunkti 12. febrúar 2016. Þá tekur stefndi fram að verði fallist á kröfur stefnanda að hluta eða í heild þá sé því jafnframt mótmælt að krafa stefnanda eigi að bera dráttarvexti frá 2. janúar 2017, eins og krafist sé. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 beri skaðabótakröfur dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi lagði sannanlega fram upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Útreikningur trygginga­stærð­fræð­ings hafi fyrst legið fyrir 9. febrúar 2017. Þá fyrst hafi stefndi haft möguleika á að reikna út fjárhæð bótatilboðs til stefnanda. Að mati stefnda séu engar forsendur til að miða við fyrra tímamark en þegar mánuður var liðinn frá því að útreikningurinn lá fyrir. Að því virtu eigi upphafstími dráttarvaxta að miðast við 9. mars 2017. Um lagarök að öðru leyti vísar stefndi til fyrrgreindra laga auk meginreglna skaða­­­­­­­­­­­­­bótaréttar. Þá tekur stefndi fram að krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga nr. 91/1991 en jafnframt sé krafist álags á málskostnað sem nemi virðis­auka­skatti þar sem hann reki ekki virðisaukaskattsskylda starfsemi.   IV. Niðurstöður: Meðal markmiðs og hlutverks skaðabótareglna er að veita þeim sem verður fyrir tjóni fjárhagslega uppreisn. Hann á að verða eins settur fjárhagslega og ef tjónið hefði ekki orðið. Sömu meginreglur eiga við á sviði vátryggingaréttar. Markmið með bótum fyrir varanlega örorku er að bæta tjónþola tap á atvinnu­­­tekjum sem hann mun að lík­indum verða fyrir í framtíðinni vegna afleiðinga líkams­­tjóns og er um að ræða fram­­tíðar­­­spá. Með þessu er leitast við að vernda hags­muni tjónþola sem felast í afla­hæfi hans, það er getu hans til að afla atvinnutekna í fram­tíðinni. Skerðing á þessari getu, sem að líkindum hefur í för með sér lægri atvinnutekjur í framtíðinni, á að leiða til þess að mismunurinn bætist. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 mið­ast mat á varan­­legri örorku við það tíma­­mark þegar heilsu­­far tjónþola er orðið stöð­ugt. Er í því sam­bandi miðað við batahvörf eða svo­kall­aðan stöðug­leika­tíma­punkt en það við­mið er fyrst og fremst reist á læknis­fræði­legu mati á því hvenær ekki megi vænta frekari bata eða hvenær heilsufar tjónþola er orðið stöðugt. Samkvæmt 4. málsl. 4. mgr. 5. gr. sömu laga skal draga frá skaðabótakröfu vegna varanlegrar örorku 40% af reiknuðu ein­greiðslu­verð­mæti örorkulífeyris frá líf­eyris­sjóði og skal við útreikn­ing­inn miðað við 4,5% árs­ávöxtun. Tilgangurinn með frá­dráttarreglunni er að girða fyrir að tjón­­­­þoli auðgist á tjóninu vegna félagslegra greiðslna frá þriðja aðila samhliða bótagreiðslu. Í máli þessu er ekki ágreiningur um bótaskyldu, tímamark stöðugleikatímapunkts, tölu­­legar forsendur við útreikninga eða varanlega örorku stefnanda sam­kvæmt niður­stöðu dómkvaddra matsmanna. Ágrein­ingur­­inn tekur til þess hvort frá­dráttur sam­kvæmt 4. málsl. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 eigi rétt á sér vegna tjóns stefnanda, eins og áður greinir. Í því ákvæði er ekki kveðið á um að miða skuli við stöðu tjónþola hjá lífeyris­sjóði á stöðug­­leika­tímapunkti andstætt því sem kveðið er á um í 1. mgr. sömu lagagreinar um mat á bótum fyrir varanlega örorku. Stefndi byggir á því að rök­rétt sé að miða við sama tímamark og það fái samrýmst dóma­fordæmum Hæsta­réttar Ís­lands í mál­um nr. 520/2002, 119/2005, 706/2009, 45/2012, 544/2012, 20/2013 og 598/2017. Í þeim dómum hefur meðal annars verið lagt til grund­­vallar að miða beri fram­­­tíðarfrádrátt, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993, vegna greiðslna af félagslegum toga, við þann tíma þegar tjónþoli gat ekki vænst frekari bata og ætla út frá því hvernig mál þróist í fram­tíðinni sam­kvæmt meðaltalslíkindareglu. Þá byggir stefndi á því að frádrátturinn eigi enn fremur rétt á sér eins og mál stefnanda hafi þróast miðað við mat á varanlegri örorku hans og þá fyrirvara sem lágu til grund­vallar bótauppgjöri þeirra. Fyrrgreindir dómar Hæsta­réttar eiga það sammerkt í framangreindu tilliti að þar var verið að fjalla um greiðslur af félagslegum toga, einkum frá almannatryggingum, sem áttu sér stað á stöðugleikatímapunkti og tals­verðar líkur stóðu til að myndu halda áfram í óbreyttri mynd um ókominn tíma. Í máli þessu háttar hins vegar svo til að stefn­­­­­­­­­andi naut tímabundins örorku­lífeyris frá Líf­eyris­sjóði Vest­mannaeyja o.fl. eftir um­rætt slys fram í mars 2017 miðað við 100% örorku til fyrra sjómannsstarfs sam­kvæmt ör­orku­mati trúnaðarlæknis sjóðsins 21. apríl 2016, sbr. eldra örorkumat sama læknis 8. mars 2015. Sam­kvæmt grein 12.4 í sam­­þykkt­um líf­eyris­­­sjóðs­­ins var fyrr­greind­­­­um örorkulífeyri frá upphafi ætlað að vera tímabundinn til allt að þriggja ára og miðast við van­hæfni stefnanda til að gegna fyrra ­starfi og tók ör­orku­matið mið af því. Eftir það tíma­mark átti örorkulífeyririnn samkvæmt fyrr­greindri grein í samþykktum líf­­eyris­sjóðsins að sæta gagngerðri endur­skoðun á grund­velli nýs mats trún­aðar­­læknis sjóðsins á orku­tapi og miðast við vanhæfni stefn­anda til að gegna almenn­um störfum o.fl. Lá þannig skýrt fyrir frá upphafi, sam­kvæmt sam­þykkt­um lífeyris­sjóðsins, að 100% ör­orku stefn­anda, sem í hans tilviki miðaðist við sjó­manns­­starf, var ekki ætlað að vera viðmið hjá sjóðnum um ókominn tíma með tilliti til áframhaldandi réttar stefn­anda til örorku­lífeyris. Þá liggur jafnframt fyrir að réttar­staða stefn­­anda hjá sjóðn­um til fram­tíðar litið var endur­metin 23. mars 2017 til sam­­ræmis við áskilnað sam­kvæmt grein 12.4 í samþykktum lífeyris­sjóðs­ins. Niður­staða þess mats var sú að ör­orkan var metin 40% til almennra starfa og leiddi það til þess að hann naut ekki lengur réttar til ör­orku­­lífeyris hjá lífeyris­sjóðn­um, sbr. grein 12.1 í sam­­þykktum sjóðs­­ins. Endurmetin réttar­­staða stefn­anda hjá lífeyrissjóðnum lá þannig fyrir áður en bóta­uppgjör gagnvart stefnda fór fram 4. maí 2017. Var því ekki um að ræða ófyrir­­sjáanlega breyt­­ingu eftirá í tengsl­um við bóta­uppgjörið sem var til þess fallin að ganga gegn meginmarkmiði laga nr. 50/1993 um endanlegt uppgjör skaða­bóta. Hefur ekki þýðingu í þessu sam­bandi þótt stefndi hafi ekki haft að­komu að endurskoðun ör­orku­matsins hjá líf­eyris­­sjóðnum eða öflun gagna sem lágu því til grund­vallar. Ekkert í samþykktum sjóðs­ins, sbr. lög nr. 129/1997, né heldur í lögum nr. 50/1993, gerði ráð fyrir aðkomu stefnda að því ­­­mati. Að framangreindu virtu getur fyrr­greind staða stefn­anda hjá líf­eyrissjóðnum á tíma­marki stöðug­leikatíma­punkts ekki gefið raunhæfa mynd af því hvernig mál hans myndi þróast í fram­tíðinni hjá sjóðnum sam­kvæmt meðal­­­­tals­líkinda­reglu, eins og atvik­­­­­­­um er hér hátt­að. Þessu til viðbótar er ágreinings­laust að stefnandi hefur ekki fengið greiddan örorkulífeyri frá líf­eyris­sjóðnum eftir mars 2017. Þá er ekkert í gögn­um málsins sem bendir til þess að slík áform séu uppi eða líkleg í lög­skiptum stefn­anda og sjóðs­ins. Stefndi hefur ekki fært fram hald­bær rök fyrir hinu gagnstæða. Niður­­­­­­­­staða dóm­­­kvaddra mats­manna, dagsett 12. febrúar 2018, um hærra ör­orku­stig stefn­­­anda o.fl., sem stefndi hefur ekki hlutast til um að fá hnekkt með yfirmati, breytir ekki mynd­inni af stöðu stefnanda í framangreindu tilliti. Stefnandi hefur langa sam­­fellda sögu á vinnumarkaði fyrir umrætt slys samkvæmt upp­lýs­ing­um úr mats­gerðum. Sam­­kvæmt gögn­um úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra liggur fyrir að stefn­andi var á vinnu­­­­markaði árið 2018, eftir að niðurstaða dómkvaddra matsmanna lá fyrir. Við aðal­meðferð var upplýst af lögmanni stefnanda að þar var um að ræða starf við [...]. Því til viðbótar var upplýst af lög­mann­inum að stefn­andi hefði nýlega tekið við starfi [...]. Af þessu verður ráðið að afstaða og athafnir stefnanda, sem birtast með framan­greind­um hætti, standi til þess að vera með fulla þátttöku á vinnu­mark­aði til framtíðar litið sem taki til líkam­lega létt­ari almennra starfa í landi. Að mati dómsins samrýmist þetta nægjanlega for­sendum um ætlaða möguleika stefnanda til þátttöku á vinnumarkaði til framtíðar litið, sem greinir í örorkumati trúnaðar­læknis lífeyrissjóðsins 23. mars 2017 og ör­orku­­mati hinna dóm­kvöddu matsmanna 12. febrúar 2018. Að mati dómsins er mála­­tilbún­aður stefnda ekki í nægjan­legu samræmi við 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 né heldur fyrr­greindar megin­­reglur skaðabóta- og vá­trygginga­réttar um fullar bætur til tjónþola fyrir tjón, eins og hér stendur á. Að öllu framan­­greindu virtu verður ekki fallist á með stefnda að til greina komi að miða frá­drag frá bótum til stefn­anda vegna varanlegrar ör­orku við 40% hlut­fall af reiknuðu ein­­greiðslu­­verðmæti örorku­lífeyris frá Lífeyris­sjóði Vestmanna­eyja o.fl. á stöðug­leikatímapunkti miðað við 100% örorku­ né heldur mið­að við 50% mat á orkutapi. Verður því hvorki fallist á aðal- né varakröfu stefnda. Að þessu virtu verður fallist á dóm­kröfu stefnanda eins og hún er sett fram í stefnu um að stefnda verði gert að greiða honum 28.866.081 krónu. Í máli þessu er einnig uppi ágreiningur um upphafstíma dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, að því er varðar 2. janúar 2017. Stefndi mót­mælir því tíma­marki og byggir á því að hann hafi fyrst haft mögu­leika á því að reikna út fjárhæð bóta­­­­­­tilboðs til stefnanda þegar útreikningar trygginga­stærðfræðings lágu fyrir 9. febrúar 2017. Eigi því að miða upphafstíma dráttarvaxta við mánuð eftir þann tíma. Við úr­lausn á þessu atriði er til þess að líta að í greinargerð stefnda sam­kvæmt 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 er tekið fram að hann hafi óskað eftir útreikn­ingi trygg­­inga­­stærð­fræð­ingsins 9. febrúar 2017. Ekkert í málsgögnum liggur fyrir um aðra dag­­setn­ingu í því sambandi. Að því virtu liggur fyrir að beiðninni var fyrst beint til trygginga­stærð­fræðingsins rúmum tveimur mánuðum frá því að stefnandi sendi bóta­­kröfu til stefnda 2. desember 2016. Er það óvenjulega seint í almennu tilliti. Þá liggur fyrir að hin sam­eiginlega matsgerð C og D lá fyrir í lok nóvember sama ár. Sam­kvæmt dag­setn­­­ingum á gögn­um virðast útreikn­ingar trygginga­stærðfræðings­ins hins vegar hafa legið fyrir sama dag og kallað var eftir þeim. Að framan­greindu virtu verður ekki fallist á með stefnda að unnt sé að miða upp­hafs­tíma við 9. febrúar 2017. Þykir rétt að fallast á með stefnanda að miða við 2. janúar sama ár, sem er mánuður eftir að bóta­kröfu var fyrst beint að stefnda og hann gat brugðist við, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Verður því fallist á vaxta- og dráttar­vaxta­­kröfu stefn­­anda eins og hún er sett fram og nánar greinir í dóms­­­orði. Með vísan til 129. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða stefn­anda málskostnað, annars vegar þóknun vegna vinnu lögmanns hans, sem telst hæfi­lega ákveðin 1.300.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts, og hins vegar vegna út­lagðs kostn­aðar stefn­­­­­­anda í tengslum við gagnaöflun frá dómkvöddum mats­­­mönnum, 908.600 krónur, samtals 2.208.600 krónur. Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Jónas Þór Jónasson lögmaður. Af hálfu stefnda flutti málið Eva B. Helgadóttir lögmaður. Daði Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.   D Ó M S O R Ð:          Stefndi, Vörður tryggingar hf., greiði stefnanda, A, 28.866.081 krónu með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 12. febrúar 2016 til 2. janúar 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 17.180.256 krónum en 4,5% vöxtum af 11.685.825 krónum frá þeim degi til 16. mars 2018, en með dráttarvöxtum af 28.866.081 krónu frá þeim degi til greiðsludags.          Stefndi greiði stefnanda 2.208.600 krónur í málskostnað.  
Mál nr. 54/2019
Kynferðisbrot Börn Barnavernd Nálgunarbann Vitnaskylda
X var sakfelldur fyrir tvö kynferðisbrot gegn þáverandi eiginkonu sinni A samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og blygðunarsemis- og barnaverndarlagabrot gagnvart syni sínum B samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Auk þess var X sakfelldur fyrir brot gegn 232. gr. almennra hegningarlaga fyrir rúmlega 950 brot gegn nálgunarbanni. Loks var X sakfelldur fyrir brot gegn 5. mgr. 74. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003 með því að hafa komið fyrir eftirfararbúnaði í bifreið A. Fyrir Hæstarétti krafðist X aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms á þeim grunni að Landsrétti hafi borið að leggja framburð B til grundvallar við sönnunarmatið. Í hinum áfrýjaða dómi var vísað til þess að ekki hefði komið fram í þingbók að gætt hefði verið ákvæðis b. liðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um rétt vitnis til að skorast undan að gefa skýrslu vegna skyldleika við ákærða og af þeim sökum var ekki byggt á skýrslu B. Engu að síður var X sakfelldur fyrir þann ákærulið á grundvelli framburðar annarra vitna og gagna frá Barnahúsi. Í dómi Hæstaréttar var talið að Landsréttur hefði réttilega komist að þeirri niðurstöðu að annmarki hefði verið á skýrslutökunni af fyrrnefndum sökum. Þá var meðal annars tekið fram að vitni hefði ekki gefist kostur á að skorast undan því að gefa skýrslu og þegar það hefði tjáð sig um málsatvik ákærða í hag yrði sú skýrsla lögð til grundvallar við sönnunarmatið. Af framburði B var talið fráleitt að hann væri ákærða í hag heldur þvert á móti. Var því vísað til þess að það hefði síður en svo komið að sök fyrir X að Landsréttur hefði ekki byggt á skýrslu B og ómerkingarkröfu X því hafnað. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að ásetningur X til þeirra fjöldamörgu brota sem hann var sakfelldur fyrir var styrkur og einbeittur og að annað nauðgunarbrotið hefði verið framið á sérstaklega meiðandi hátt. Aftur á móti var talið að lagaheimild skorti til að taka upp pólska skilorðsdóma sem X hafði hlotið. Þá var það einnig til refsiþyngingar að brotin beindust gegn eiginkonu hans og syni þeirra. Var X gert að sæta fangelsi í 6 ár. Þá var honum gert að greiða A miskabætur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómarar. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. nóvember 2019. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd. Ákærði krefst aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Til vara krefst hann þess að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð. Brotaþoli, A, krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 3.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. febrúar 2016 til 18. janúar 2018, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er krafist staðfestingar ákvæðis hins áfrýjaða dóms um kröfuna. I Með ákæru héraðssaksóknara 9. október 2017 voru ákærða gefin að sök eftirtalin brot: 1. Tilraun til nauðgunar með því að hafa 15. febrúar 2016 falast eftir samræði við þáverandi eiginkonu sína, A, og þegar hún neitaði ráðist á hana og rifið niður um hana buxur hennar og reynt að rífa niður nærbuxur hennar, í þeim tilgangi að hafa við hana samræði eða önnur kynferðismök gegn vilja hennar, en við mótspyrnu hennar hefðu nærbuxurnar rifnað og ákærði þá látið af háttseminni. Var brotið talið varða við 1. mgr. 194. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 2. Nauðgun með því að hafa 22. febrúar 2016 haft samræði við sömu konu gegn vilja hennar með því að beita hana ofbeldi og annars konar nauðung, tekið hana úr fötunum, snúið henni á magann og haldið höndum hennar á sama tíma og hann þröngvaði getnaðarlim sínum inn í leggöng hennar. Við þetta hefði konan hlotið marbletti á vinstri framhandlegg. Var brotið talið varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. 3. Nauðgun og frelsissviptingu með því að hafa 23. febrúar 2016 ruðst inn í bifreið, sem áðurnefnd kona hafði til umráða, og skipað henni að aka bifreiðinni á heimili þeirra hjóna, skipað konunni að koma með sér þar inn, tekið þar af henni farsíma og bíllykla og þvingað hana til að veita sér munnmök og sleikja á sér punginn. Að þessu loknu hefði ákærði meinað konunni för og skipað henni að koma með sér í annarri bifreið, sem ákærði ók síðan um höfuðborgarsvæðið, uns hann ók henni að tilgreindri lögreglustöð, þar sem hann hleypti henni út, en þá hefði konan verið svipt frelsi sínu í tæpar sex klukkustundir. Brotið var talið varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga. 4. Brot í nánu sambandi með því að hafa með þeirri háttsemi, sem lýst hefur verið að framan, ógnað heilsu og velferð þáverandi maka síns með ítrekuðu og alvarlegu ofbeldi og nauðung í langan tíma. Var brotið talið varða við 218. gr. b. almennra hegningarlaga. 5. Blygðunarsemis- og barnaverndarlagabrot og brot í nánu sambandi með því að hafa ítrekað á tímabilinu 31. desember 2015 til 31. janúar 2016 horft á klámmyndir og fróað sér í viðurvist sonar síns, sem þá var 9 ára gamall. Með þessari háttsemi hefði ákærði sært blygðunarsemi drengsins og sýnt af sér ruddalegt og ósiðlegt athæfi gagnvart honum, sem hefði sært hann og móðgað, ásamt því að ógna heilsu hans og velferð. Töldust brotin varða við 209. gr. og 218. gr. b. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. 6. Rúmlega 950 brot gegn nálgunarbanni á tímabilinu 8. mars til 1. september 2016, sem beindust gegn þáverandi eiginkonu hans, utan eitt er beindist bæði gegn henni og syni þeirra. Voru brotin heimfærð undir 232. gr. almennra hegningarlaga. 7. Brot gegn lögum um fjarskipti nr. 81/2003 með því að láta þjónustuaðila koma fyrir eftirfararbúnaði og GPS-staðsetningartæki í bifreið, sem fyrrnefnd kona hafði til umráða, í þeim tilgangi að fylgjast með ferðum hennar á tímabilinu 22. febrúar til og með 16. júní 2016, en öllum upplýsingum um akstur bifreiðarinnar hafði verið safnað saman á læstan aðgang á vefsvæði, sem ákærði og annar aðili höfðu aðgang að. Taldist brotið varða við 5. mgr. 47. gr., sbr. 74. gr., laga nr. 81/2003. Með héraðsdómi var ákærði sýknaður af brotum, sem lýst er í 1. og 2. lið, sakfelldur fyrir nauðgunarbrotið í 3. lið, en sýknaður af frelsissviptingu sem getið er um í þeim lið. Þá var hann sýknaður af brotinu í 4. lið, en sakfelldur fyrir blygðunarsemis- og barnaverndarlagabrotin á tímabilinu 31. desember 2015 til 21. janúar 2016, sem lýst er í 5. lið. Loks var hann sakfelldur fyrir brotin í 6. og 7. lið á grundvelli játningar sinnar. Var ákærða gert að sæta fangelsi í 4 ár og greiða brotaþola 1.600.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Einkaréttarkröfu brotaþola fyrir hönd ólögráða sonar síns vegna brota, sem lýst er í 5. lið, var vísað frá dómi. Í hinum áfrýjaða dómi kom fram að ákæruvaldið yndi niðurstöðu héraðsdóms um framangreind brot í 1. og 4. lið hér á undan og þeim þætti í 3. lið, sem lyti að frelsissviptingu brotaþola. Þá hefði ákærði játað brotin gegn nálgunarbanni og brotið gegn lögum um fjarskipti. Væri því einungis til endurskoðunar niðurstaða héraðsdóms vegna þeirrar háttsemi, sem lýst er í 2. og 5. lið og að hluta í 3. lið. Með dóminum var ákærði sakfelldur fyrir þau brot, sem þar voru til endurskoðunar samkvæmt áðursögðu, þar á meðal nauðgunarbrotið sem lýst er í 2. lið, en af því broti var ákærði sem fyrr segir sýknaður í héraði. Var honum gert að sæta fangelsi í 3 ár og greiða brotaþola 2.000.000 króna í miskabætur með sömu vöxtum og dæmdir voru í héraði. Bæði ákæruvaldið og ákærði óskuðu eftir heimild til að áfrýja dómi Landsréttar. Á það var fallist með þeim rökum að líta yrði svo á að úrlausn í málinu um beitingu ákvæðis b. liðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála myndi hafa verulega almenna þýðingu, auk þess sem mikilvægt væri að fá úrlausn réttarins um ákvörðun viðurlaga, sbr. 4. mgr. 215. gr. sömu laga. Málið yrði því flutt um beitingu fyrrnefndra réttarreglna og ákvörðun viðurlaga, sbr. a. og b. liði 1. mgr. 215. gr. laganna. Aftur á móti var tekið fram að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu byggðist að hluta á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og vitna, en það mat yrði ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. þeirra. II 1 Svo sem rakið er í 5. lið í kafla I eru ákærða gefin að sök blygðunarsemis- og barnaverndarlagabrot gagnvart syni sínum og var hann sakfelldur fyrir þau brot á tímabilinu 31. desember 2015 til 21. janúar 2016, bæði í héraði og með hinum áfrýjaða dómi. Undir rannsókn málsins hjá lögreglu gaf drengurinn skýrslu fyrir héraðsdómi 8. febrúar 2016 í Barnahúsi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008, en hann var þá 9 ára að aldri. Við skýrslutökuna tjáði drengurinn sig aðspurður um sakargiftir á hendur föður sínum. Hvorki í upphafi né meðan á skýrslutökunni stóð var drengnum gefinn kostur á að skorast undan að bera vitni vegna skyldleika við ákærða. Í niðurstöðu héraðsdóms um framangreindar sakargiftir sagði að drengurinn hefði greint frá því að faðir sinn væri oft að horfa á klámmyndir og hristi þá á sér typpið í sófastólnum. Hefði drengurinn sagst mörgum sinnum hafa séð þetta og að pabbi sinn gerði þetta alltaf þegar hann væri fullur. Væri framburður drengsins trúverðugur og engin efni til að draga hann í efa. Var framburðurinn, ásamt öðrum gögnum, lagður til grundvallar sakfellingu ákærða vegna umræddrar háttsemi. Um þetta ákæruefni var í hinum áfrýjaða dómi vísað til þess að ekki kæmi fram í þingbók að gætt hefði verið ákvæðis b. liðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 um rétt vitnis til að skorast undan að gefa skýrslu vegna skyldleika við ákærða. Af þeim sökum yrði ekki byggt á skýrslu drengsins. Engu að síður var ákærði sakfelldur fyrir þennan ákærulið á grundvelli framburðar annarra vitna og gagna frá Barnahúsi. 2 Ákærði færir þau rök fyrir ómerkingarkröfu sinni að Landsrétti hafi borið að leggja framburð drengsins til grundvallar við sönnunarmatið. Þar sem Landsréttur hafi vikið framburðinum til hliðar hafi hann hvorki komið til skoðunar þar né geti gert það fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þetta leiði til þess að taka beri ómerkingarkröfuna til greina. Jafnframt bendir ákærði á að verði framburðurinn lagður til grundvallar eigi hann að leiða til sýknu ákærða af umræddum sakargiftum, enda verði ekki ráðið af honum að ákærði hafi vísvitandi sýnt drengnum klámfengið efni eða misboðið honum af ásetningi þannig að varði við ákvæði 209. gr. almennra hegningarlaga eða 99. gr. barnaverndarlaga. Þvert á móti virðist atvik fremur vera með þeim hætti að drengurinn „hafi gengið fram á ákærða honum að óvörum og í óþökk hans.“ Ákæruvaldið telur einnig að rangt hafi verið hjá Landsrétti að byggja ekki á framburði drengsins af þeirri ástæðu að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að skorast undan að gefa skýrslu fyrir dómi. Í því sambandi bendir ákæruvaldið á að það væri augljóslega til þess fallið að hafa áhrif á skýrslu barns undir 15 ára aldri ef því yrði kynnt við upphaf skýrslutöku að það þyrfti ekki að tjá sig. Þannig yrðu barni, sem hefði haft dug til að greina frá ætluðu broti nákomins í sinn garð fyrir skýrslutöku, gefin afar misvísandi og illskiljanleg skilaboð við erfiðar aðstæður sem væru til þess fallin að valda vanlíðan og draga úr sönnunargildi skýrslunnar. Hér sé þess einnig að gæta að ekki sé unnt að beita slík vitni viðurlögum fyrir að sinna ekki vitnaskyldu og þeim verði ekki gert að staðfesta framburð sinn með eiði eða drengskaparheiti, sbr. a. lið 1. mgr. 124. gr. laga nr. 88/2008. Að þessu gættu heldur ákæruvaldið því fram að réttur vitnis til að skorast undan að gefa skýrslu samkvæmt 1. mgr. 117. gr. laganna eigi ekki við um vitni yngri en 15 ára. Þennan annmarka á meðferð málsins fyrir Landsrétti telur ákæruvaldið þó ekki valda því að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm, enda hafi þetta engu breytt um niðurstöðuna hvað varðar þetta ákæruatriði. 3 Um vitnaskyldu er mælt fyrir í 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008. Þar segir að hverjum manni, sem orðinn er 15 ára, lýtur íslenskri lögsögu og er ekki ákærði eða fyrirsvarsmaður hans, sé skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum, sem beint er til hans um málsatvik. Þá segir í fyrri málslið 2. mgr. sömu greinar að dómari meti með hliðsjón af atvikum hverju sinni hvort yngri manni en getur í 1. mgr. verði gert skylt að gefa skýrslu sem vitni. Í 1. mgr. 117. gr. umræddra laga eru fyrirmæli um hverjir geta skorast undan að gefa vitnaskýrslu og eru þau tilvik talin upp í stafliðum a. til d. Eftir b. lið málsgreinarinnar á þetta við um skyldmenni ákærða í beinan legg, systkin hans og þá sem tengjast honum þannig vegna ættleiðingar. Eins og tekið er fram í dómi Hæstaréttar 1. febrúar 2007 í máli nr. 40/2006 er þessi regla meðal annars reist á því að ekki sé rétt að setja vitni í þá erfiðu siðferðilegu stöðu að þurfa hugsanlega, áminnt um sannsögli, að bera vitni um afbrot nákomins ættingja. Til frekari skýringar má nefna að þetta gæti haft þau áhrif að vitni stæði frammi fyrir því annað hvort að baka sér hugsanlega refsiábyrgð með röngum framburði fyrir rétti eða að bera skyldmenni sínu í óhag með þeim afleiðingum sem það gæti haft fyrir samskipti vitnisins við skyldmennið. Þessi regla um heimild til að skorast undan að gefa skýrslu miðar að því að vernda friðhelgi fjölskyldu, en hún er varin af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Um þetta má til hliðsjónar benda á dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Van Der Heijden gegn Hollandi frá 3. apríl 2012. Eins og áður greinir gaf drengurinn skýrslu fyrir héraðsdómi undir rannsókn málsins á grundvelli a. liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008. Þar segir að skýrslutaka vegna lögreglurannsóknar skuli fara fram fyrir dómi ef hún beinist að broti á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli hefur ekki náð 15 ára aldri þegar rannsókn málsins hefst. Við slíka skýrslugjöf gilda almennar reglur um vitni eftir XVIII. kafla laga nr. 88/2008. Þótt almenn vitnaskylda hvíli ekki á þeim sem er yngri en 15 ára getur dómari, svo sem áður er rakið, lagt þá skyldu á barnið að gefa skýrslu sem vitni eftir 2. mgr. 116. gr. laganna, eins og gert var í því tilviki sem hér reynir á. Í þeim tilvikum búa sömu rök að baki því að vitni geti skorast undan að gefa skýrslu, enda stæði barn yngra en 15 ára frammi fyrir sömu siðferðilegu vandkvæðum og þeir sem eldri eru ef því yrði gert að bera um brot þeirra skyldmenna sem talin eru upp í b. lið 1. mgr. 117. gr. laganna. Í því tilliti gildir einu þótt ósakhæft barn baki sér ekki refsiábyrgð með röngum framburði og að því verði ekki gert að staðfesta framburð sinn með eiði eða drengskaparheiti, sbr. a. lið 1. mgr. 124. gr. laganna. Að þessu gættu getur barn yngra en 15 ára skorast undan að gefa skýrslu fyrir dómi á grundvelli 1. mgr. 117. gr. laganna, eins og leiðir beint af orðalagi ákvæðisins, en þar er ekki gerður greinarmunur að þessu leyti með tilliti til aldurs vitnis. Jafnframt ber dómara eða kunnáttumanni, sem honum er til aðstoðar við skýrslutökuna, að vekja athygli barns á þessum rétti, sbr. 6. mgr. 122. gr. laganna. Um þetta má til hliðsjónar benda á dóm Hæstaréttar 28. nóvember 2013 í máli nr. 293/2013. Þó verður að gera fyrirvara um þennan rétt þegar barn gerir sér ekki grein fyrir því hvað felst í að skorast undan að gefa vætti sitt, eins og á við um yngri börn, en þá kemur í hlut lögráðamanns að taka ákvarðanir þar að lútandi ef barn er brotaþoli, sbr. 2. mgr. 39. gr. umræddra laga. Þetta verður að meta í hverju tilviki fyrir sig eftir aldri og þroska barns og getur ekki tekið til eldri barna. Samkvæmt framansögðu komst Landsréttur réttilega að þeirri niðurstöðu að annmarki hefði verið á skýrslutökunni, þar sem drengnum var ekki gefinn kostur á að skorast undan vitnisburði fyrir dómi vegna rannsóknar sakamáls hjá lögreglu gegn föður hans. 4 Í settum lögum er ekki mælt fyrir um hvaða réttaráhrif það hefur þegar misferst að gefa vitni, sem getur skorast undan að gefa skýrslu eftir 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008, kost á að neyta þess réttar og það tjáir sig um sakargiftir. Þess er þó að gæta að úr slíkum annmarka verður bætt ef vitnið er aftur leitt fyrir dóm og lýsir því yfir að það skorist ekki undan að gefa skýrslu og er reiðubúið að tjá sig um málsatvik og staðfesta fyrri skýrslu sína. Ef vitnið á hinn bóginn skorast þá undan skýrslugjöf verður að virða fyrra vætti þess í því ljósi. Eins og mál þetta lá fyrir þegar aðalmeðferð þess fór fram í héraði eða við þá meðferð í Landsrétti hefði að réttu lagi átt að freista þess að bæta úr þessum annmarka við málsmeðferðina með því að leiða son ákærða aftur fyrir dóm. Eins og annars staðar á Norðurlöndum gildir ekki sú regla í íslensku réttarfari að sönnunargögn hafi fortakslaust ekkert gildi ef þeirra hefur verið aflað andstætt lögum, sbr. dóm Hæstaréttar 3. mars 2006 í máli nr. 97/2006. Regla þess efnis þekkist hins vegar í engilsaxnesku réttarfari og hefur verið nefnd útilokunarregla (exclusionary rule). Þannig er ekki loku fyrir það skotið að sönnunargögn geti hér á landi haft einhver áhrif þótt annmarki hafi verið á öflun þeirra. Á þetta sér stoð í þeirri grundvallarreglu sakamálaréttarfars að leiða skuli hið sanna í ljós. Í dómum Hæstaréttar hefur ekki verið komist að einhlítri niðurstöðu um réttaráhrif þess að vitni, sem skorast getur undan að gefa skýrslu, hefur ekki verið gefinn kostur á því. Hér má nefna að í dómum réttarins 21. mars 2005 í máli nr. 393/2004 og 1. febrúar 2007 í máli nr. 40/2006 var litið til skýrslu slíkra vitna, en þær höfðu minna vægi við sönnunarmatið. Aftur á móti var talið í dómum réttarins 15. desember 2005 í máli nr. 323/2005 og 29. september 2011 í máli nr. 280/2011 að slíkt sönnunargagn hefði ekkert gildi. Þá má finna dóma þar sem athugun á málsgögnum leiðir í ljós að ekki var gætt að því að gefa börnum yngri en 15 ára kost á að skorast undan að gefa skýrslu án þess að nokkuð væri vikið að því eða tekið fram hvort það hefði áhrif á sönnunarmatið, sbr. til dæmis dóma réttarins 12. nóvember 2009 í máli nr. 176/2009 og 16. júní 2010 í máli nr. 30/2010.    Ef vitni sem getur skorast undan að gefa skýrslu er ekki gefinn kostur á því og það tjáir sig um málsatvik ákærða í hag yrði sú skýrsla lögð til grundvallar við sönnunarmatið. Jafnframt væri rétt að líta til hennar ef hún leiddi í ljós ósamræmi við önnur gögn, en það gæti einnig verið ákærða til hagsbóta. Ef skýrsla er aftur á móti í samræmi við annað sem liggur fyrir í málinu þá gæti hún haft gildi til fyllingar við sönnunarmatið án þess þó að ráða úrslitum. Því má hins vegar slá föstu að skýrsla af þessu tagi getur ekki ein og sér ráðið niðurstöðu um sakfellingu, enda væri þá verið enn frekar að ganga gegn rétti vitnisins, fyrst með því að gefa vitninu ekki kost á að skorast undan að gefa skýrslu og síðan að sakfella ákærða á grundvelli hennar.   5 Eins og áður getur krefst ákærði ómerkingar hins áfrýjaða dóms á þeim grunni að Landsréttur hafi vikið framburði drengsins til hliðar og ekki lagt hann til grundvallar við sönnunarmatið. Jafnframt heldur ákærði því fram að framburðurinn eigi að leiða til sýknu hans af þessu ákæruatriði. Í umræddri skýrslu drengsins kom fram að þegar hann væri „inni í herbergi þá heyri ég hljóðin í sjónvarpinu svona hljóð af því að pabbi er að horfa á klámmyndir.“ Spurður hvernig hann vissi að það væri „klámmynd“ kvaðst drengurinn ekki alveg kunna að útskýra það, en það gæti mamma sín. Einnig sagði drengurinn að stundum segði pabbi sér að fara inn í herbergi „og ég segi nei og þá sé ég hvernig hann er þarna að hrista á, á sófastólnum. Hann sagði mér að fara inn í herbergi og bara hann gat ekki haldið aftur af sér.“ Aðspurður sagði drengurinn að faðir sinn hefði verið að hrista typpið. Faðirinn vildi „ekkert svona almennt“ að hann sæi „en stundum gerir hann svona sjálfur fyrir framan mig.“ Spurður hversu oft ákærði hefði gert svona fyrir framan sig svaraði drengurinn því til að þetta gerði hann alltaf þegar hann væri fullur, en ekki svo oft þegar hann væri ekki fullur. „Hann var fullur í mánuð núna.“ Þá greindi drengurinn frá því að ákærði segði mömmu sinni að sleikja á sér typpið og reyndi drengurinn þá að hjálpa henni svo hún gerði það ekki með því að koma inn til þeirra. Af framburði drengsins verður fráleitt talið að hann sé ákærða í hag, heldur þvert á móti. Verður þetta ráðið beint af skýrslunni eins og hún liggur fyrir í endurriti án þess að metið verði sönnunargildi framburðarins. Kom því síður en svo að sök fyrir ákærða að Landsréttur byggði ekki á skýrslu drengsins við sönnunarmatið að því er umræddar sakargiftir varðar. Af þeirri ástæðu er ómerkingarkröfu ákærða hafnað. Sakfelling Landsréttar vegna þessarar háttsemi er ekki til endurskoðunar hér fyrir dómi og stendur hún því óhögguð. III Í máli þessu hefur ákærði verið sakfelldur fyrir tvö nauðgunarbrot samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga gegn brotaþola, þáverandi eiginkonu sinni, með dags millibili, blygðunarsemis- og barnaverndarlagabrot eftir 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga gegn áðurnefndum syni sínum, rúmlega 950 nálgunarbannsbrot samkvæmt 232. gr. almennra hegningarlaga, svo og brot gegn lögum um fjarskipti. Brot þau, sem ákærði er sakfelldur fyrir, voru framin frá árslokum 2015 til 1. september 2016. Rannsókn málsins var umfangsmikil, enda um mörg brot að ræða, og virðist henni hafa lokið 22. nóvember síðarnefnda árið. Ákæra var síðan sem fyrr segir gefin út 9. október 2017 og málið þingfest 18. desember sama ár. Aðalmeðferð þess fór fram 20. mars 2018 og var dómur í héraði kveðinn upp 26. apríl sama ár. Áfrýjunarstefna var gefin út 15. maí 2018 og birt ákærða 25. september sama ár. Dómsgerðir héraðsdóms voru sendar ákæruvaldinu 2. október 2018 og barst staðfesting Landsréttar á að þær hefðu verið mótteknar þar með tölvupósti 15. febrúar 2019. Liðu því um fjórir og hálfur mánuður frá því að ákæruvaldinu voru sendar dómsgerðirnar þar til þær bárust Landsrétti, en ekki sjö og hálfur mánuður eins og ranghermt er í hinum áfrýjaða dómi. Dómþing voru háð í málinu í Landsrétti 3. og 4. júní 2019 um tilhögun aðalmeðferðar, sem fór fram 10. september það ár. Hinn áfrýjaði dómur var síðan kveðinn upp 20. sama mánaðar. Frá því að rannsókn málsins lauk samkvæmt framansögðu og þar til ákæra var gefin út liðu tæplega ellefu mánuðir. Hefur sá tími ekki áhrif á refsingu. Þá hefur málið verið til meðferðar á þremur dómstigum og að teknu tilliti til þess er málsmeðferðartími ekki slíkur að áhrif hafi til refsilækkunar. Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði ekki framið brot hér landi sem hafa áhrif við ákvörðun refsingar. Í málinu liggur fyrir íslensk þýðing á þremur dómum sem ákærði hefur hlotið í Póllandi. Í fyrsta lagi var ákærði með héraðsdómi 16. október 2007 sakfelldur fyrir að hafa „frá og með janúar 2007“ beitt brotaþola andlegu og líkamlegu ofbeldi með því að hafa átt upptök að heimilisófriði og í kjölfarið niðurlægt hana munnlega með grófum ærumeiðandi orðum, líkamlegu ofbeldi og af ásetningi valdið henni skaða. Fyrir þetta var honum gert að sæta fangelsi í 6 mánuði. Í öðru lagi var hann með héraðsdómi 11. janúar 2012 sakfelldur fyrir að hafa 25. október 2011 hótað móður sinni lífláti og dæmdur til að sæta „fésekt sem nemur 60 (sextíu) dageiningum“, en refsingin var bundin skilorði í 3 ár. Loks var hann með héraðsdómi 20. febrúar 2013 sakfelldur fyrir að hafa í tvö skipti í júlí 2011 fengið stúlku, yngri en 15 ára, til kynferðislegra athafna, sem fólust annars vegar í snertingu á kynfærum hennar og rasskinnum og hins vegar snertingu á kynfærum. Var ákærða gert að sæta 2 ára fangelsi, skilorðsbundnu í 5 ár. Fólst skilorðið í því að ákærði héldi sig frá ofneyslu áfengis og hefði ekki samband við eða nálgaðist brotaþola. Af hálfu ákæruvaldsins er því haldið fram að ákærði hafi rofið skilorð þessa pólska dóms með því að hafa neytt áfengis í nokkrar vikur þegar atvik þessa máls áttu sér stað og að ákveða eigi refsingu með tilliti til þess. Í fullveldi ríkis felst að það er bært til að ákveða sjálft hvort og að hvaða marki það tekur tillit til erlendra refsidóma. Samkvæmt íslenskum rétti þarf lagastoð til að skilorðsbundinn erlendur refsidómur hafi réttaráhrif, þannig að hann verði tekinn upp og refsing dæmd á grundvelli hans. Slíka heimild er að finna vegna skilorðsdóma frá Norðurlöndum, sbr. 9. gr. laga nr. 69/1963 um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, o.fl. Aftur á móti er hún ekki fyrir hendi vegna skilorðsbundinna dóma frá Póllandi. Samkvæmt þessu skortir lagaheimild til að taka upp refsingu samkvæmt umræddum dómi og dæma hana með í þessu máli. Eftir sem áður ber að líta til sakaferils ákærða í Póllandi við ákvörðun refsingar, sbr. 5. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Til refsiþyngingar horfir í máli þessu að ásetningur ákærða, sem á sér engar málsbætur, til þeirra fjölmörgu brota, sem hann hefur verið sakfelldur fyrir, var styrkur og einbeittur, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá var nauðgunarbrotið 23. febrúar 2016 framið á sérstaklega meiðandi hátt, sbr. c. lið 195. gr. sömu laga, með því að ákærði neyddi brotaþola til að hafa við sig munnmök. Loks er það til refsiþyngingar að brotin beindust gegn eiginkonu ákærða og syni þeirra, sbr. 3. mgr. 70. gr. laganna. Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 6 ár. Til frádráttar refsingu kemur samkvæmt 76. gr. sömu laga gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 24. febrúar til 4. mars 2016. IV Samkvæmt 3. mgr. 215. laga nr. 88/2008 er heimilt að leita endurskoðunar á niðurstöðum Landsréttar um kröfu samkvæmt XXVI. kafla laganna, ef leyst hefur verið úr henni að efni til, sé óskað eftir leyfi til að áfrýja Landsréttardómi í einhverjum þeim tilgangi sem ræðir í 1. mgr. 215. gr., enda hafi ákærði eða brotaþoli krafist endurskoðunar fyrir sitt leyti. Er krafa ákærða um frávísun einkaréttarkröfu brotaþola frá Hæstarétti því haldlaus. Að virtum þeim brotum sem ákærði er sakfelldur fyrir verður krafa brotaþola um miskabætur samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fullu tekin til greina. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir. Það athugast að fyrir Landsrétti var þess krafist af hálfu brotaþola fyrir hönd ólögráða sonar hennar að ákærði yrði dæmdur til að greiða honum 1.200.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Eins og áður greinir hafði kröfunni verið vísað frá héraðsdómi. Sú niðurstaða var ekki kærð til Landsréttar, eins og heimilt er samkvæmt u. lið 1. mgr. 192 gr. laga nr. 88/2008, og gat krafan þar af leiðandi ekki komið til endurskoðunar fyrir Landsrétti, sbr. og 3. mgr. 196. gr. sömu laga. Að réttu lagi hefði átt að geta um þetta í hinum áfrýjaða dómi. Dómsorð: Ákærði, X, sæti fangelsi í 6 ár, en til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 24. febrúar til 4. mars 2016. Ákærði greiði A 3.000.000 króna með sömu vöxtum og greinir í dómi Landsréttar. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.121.607 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hauks Arnar Birgissonar lögmanns, 744.000 krónur, og réttargæslumanns brotaþola, Eiríks Gunnsteinssonar lögmanns, 248.000 krónur.   Dómur Landsréttar   Mál þetta dæma landsréttardómararnir Kristbjörg Stephensen og Sigurður Tómas Magnússon og Arngrímur Ísberg, settur landsréttardómari.   Málsmeðferð og dómkröfur aðila   Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar 15. maí 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjaness 26. apríl 2018 í málinu nr. S-371/2017.   Ákæruvaldið krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða en að ákærði verði auk þess sakfelldur samkvæmt 2. lið ákæru héraðssaksóknara 9. október 2017. Þá krefst ákæruvaldið þess að refsing ákærða verði þyngd.   Ákærði krefst sýknu af 2., 3. og 5. lið ákæru. Að öðru leyti krefst ákærði staðfestingar hins áfrýjaða dóms en að refsing verði milduð verulega. Þá krefst ákærði þess að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð.   Brotaþoli, A, krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða henni 3.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. febrúar 2016 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún staðfestingar á ákvæði héraðsdóms um fjárhæð bóta og vexti. Þá krefst hún staðfestingar héraðsdóms um þóknun skipaðs réttargæslumanns síns í héraði og að ákærði verði dæmdur til að greiða þóknun hans fyrir Landsrétti.   Hvorki ákæruvaldið né ákærði töldu nauðsynlegt að ákærði eða brotaþoli gæfu skýrslu fyrir Landsrétti. Nægilegt væri að upptökur af skýrslum þeirra fyrir héraðsdómi væru spilaðar við aðalmeðferð málsins, sbr. e-lið 203. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Landsréttur taldi ekki heldur þörf á því. Auk þess sem framangreindar upptökur af skýrslum ákærða og brotaþola voru spilaðar við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti var tekin viðbótarskýrsla af vitninu B sálfræðingi.   Niðurstaða Atvikum málsins og ákæru er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ákæruvaldið unir niðurstöðu héraðsdóms um sýknu ákærða af ákæruliðum 1 og 4 og þeim þætti í ákærulið 3 er lýtur að frelsissviptingu brotaþola. Ákærði játar sök í ákæruliðum 6 til 11. Til endurskoðunar fyrir Landsrétti er því einungis niðurstaða héraðsdóms í ákæruliðum 2 og 5 og hluti ákæruliðar 3.   Samkvæmt ákærulið 2 er ákærða gefin að sök nauðgun, með því að hafa mánudaginn 22. febrúar 2016, að [...] í Kópavogi, haft samræði við brotaþola, gegn vilja hennar, með því að beita hana ofbeldi og annars konar ólögmætri nauðung en ákærði hafi tekið hana úr fötunum, snúið henni á magann og haldið höndum hennar á meðan hann þröngvaði getnaðarlim sínum inn í leggöng hennar.   Ákærði hefur kannast við fyrir héraðsdómi og lögreglu að hafa haft samræði við brotaþola í umrætt sinn en að það hafi ekki verið gegn hennar vilja. Í skýrslu ákærða hjá lögreglu er haft eftir honum að brotaþoli hafi gefið „svona óljóst svar, en hún var ekki á móti því“.   Brotaþoli greindi frá því atviki sem hér er til umfjöllunar við komu á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis 23. febrúar 2016. Í skýrslu læknis er skoðaði brotaþola er haft eftir henni að ákærði hafi mikinn sannfæringarmátt og vald yfir henni „þannig að hún verði stíf og fái hnút í magann af hræðslu“. Hafi hann þannig getað haft við hana kynmök gegn neitun hennar. Hann hafi haldið henni með þéttu taki um framhandlegg hennar á meðan hann kom vilja sínum fram. Hafi brotaþoli bent á marblett á handlegg og fullyrt að hann hafi komið eftir þetta tak. Við aðalmeðferð málsins í héraði staðfesti læknirinn að um nýlegan marblett hefði verið að ræða sem gæti hafa komið við slíkt átak.   Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu 24. febrúar 2016 og lýsti atvikum með sama hætti og hjá Neyðarmóttöku. Þá bar kunningjakona brotaþola, C, fyrir lögreglu að brotaþoli hefði greint henni frá því að ákærði hefði neytt hana til kynlífs tveimur dögum áður. Vitnið staðfesti þann framburð við aðalmeðferð málsins í héraði. Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi bar brotaþoli jafnframt við aðalmeðferð málsins í héraði að hún hefði sagt skýrt við ákærða að hún vildi ekki kynmök í umrætt sinn en að ákærði hefði haft svo mikla stjórn yfir henni að hún hefði talið það skyldu sína að verða við ósk hans. Framburður brotaþola fyrir héraðsdómi og lögreglu verður túlkaður með þeim hætti að hún hafi ekki veitt samþykki sitt fyrir samförum í umrætt sinn. Með trúverðugum framburði brotaþola, sem fær stuðning í fyrrnefndri skýrslu læknis sem skoðaði hana eftir komu á neyðarmóttöku og fyrrnefndum framburði kunningjakonu brotaþola, þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði neyddi brotaþola til samfara með ólögmætri nauðung í umrætt sinn.   Þegar atvik þetta gerðist var brotaþoli flutt út frá ákærða og hafði dvalist í Kvennaathvarfinu í rúman mánuð eða frá 21. janúar 2016. Af þeim sökum og með hliðsjón af því sem upplýst er í málinu um samskipti ákærða og brotaþola í aðdraganda atviksins gat ákærða ekki dulist að hún væri andvíg kynmökunum.   Að öllu framangreindu virtu er sannað að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 2. lið ákæru og réttilega er þar heimfærð undir 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.   Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að ákærði hafi 23. febrúar 2016 gegn vilja brotaþola þvingað hana með ofbeldi til að veita sér munnmök og sleikja á sér punginn eins og honum er gefið að sök í ákærulið 3 og þannig gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.   Samkvæmt ákærulið 5 er ákærða gefið að sök að hafa ítrekað á tímabilinu 31. desember 2015 til 31. janúar 2016 horft á klámmyndir og fróað sér í viðurvist sonar síns, D, sem þá var níu ára gamall. Í hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir þessi brot á tímabilinu 31. desember 2015 til 21. janúar 2016 og unir ákæruvaldið þeirri niðurstöðu. Drengurinn gaf skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjaness 8. febrúar 2016 á grundvelli c-liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008. Skýrslutakan fór fram í Barnahúsi. Í þingbók kemur ekki fram að við skýrslutökuna hafi verið gætt ákvæðis b-liðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 og verður af þeim sökum ekki byggt á skýrslu drengsins.   Í málinu liggja hins vegar fyrir önnur gögn. Í beiðni barnaverndarnefndar Kópavogs frá 28. janúar 2016 um lögreglurannsókn kemur fram að starfsmaður nefndarinnar, E, sálfræðingur, hafi farið í skólann til drengsins þar sem hann greindi starfsmanninum frá þeirri háttsemi sem í ákæruliðnum greinir. Starfsmaðurinn gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins í héraði og staðfesti framangreint. Þá liggur fyrir framburður brotaþola, móður drengsins, fyrir héraðsdómi og hjá lögreglu um þá háttsemi sem ákærða er gefin að sök. Jafnframt kom fram hjá vitninu B í skýrslu hennar í héraði að brotaþoli hefði greint frá því í samtölum við vitnið að ákærði hafi horft á klámmyndir og fróað sér að henni og drengnum ásjáandi. Gögn frá Barnahúsi, sem liggja fyrir í málinu, styðja jafnframt framangreindan framburð vitna.   Samkvæmt framansögðu er sannað svo hafið er yfir skynsamlegan vafa að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 5. lið ákæru. Með háttsemi sinni særði ákærði blygðunarsemi drengsins og sýndi af sér ruddalegt og ósiðlegt athæfi. Telst brot hans varða við 209. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.   Ákærði hefur samkvæmt framansögðu verið fundinn sekur um að hafa nauðgað brotaþola 22. og 23. febrúar 2016 og fyrir blygðunarsemis- og barnaverndarlagabrot gagnvart syni sínum á tímabilinu 31. desember 2015 til 21. janúar 2016. Að auki hefur hann játað að hafa margoft gerst sekur um brot gegn nálgunarbanni samkvæmt ákæruliðum 6 til 10 og eru þau brot rétt heimfærð undir 232. gr. almennra hegningarlaga. Loks hefur hann játað brot gegn 5. mgr. 47. gr., sbr. 74. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti, sbr. ákærulið 11.   Um sjö og hálfur mánuður liðu frá því að dómsgerðir voru afgreiddar frá héraðsdómi til ríkissaksóknara þar til þær bárust Landsrétti. Með hliðsjón af því og öllu framangreindu og samkvæmt 3. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 24. febrúar til 4. mars 2016. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur sem ákveðnar verða 2.000.000 króna með vöxtum og dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði.   Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.   Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og greinir í dómsorði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti.   Ákæruvaldið hefur ekki haft uppi kröfu fyrir Landsrétti um upptöku á GPS-staðsetningartæki af gerðinni Scope og er því ekki unnt að staðfesta ákvæði héraðsdóms þar um. Dómsorð: Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 24. febrúar til 4. mars 2016. Ákærði, greiði brotaþola, A, 2.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. febrúar 2016 til 18. janúar 2018 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.481.052 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ómars Arnar Bjarnþórssonar lögmanns, 1.200.000 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Eiríks Gunnsteinssonar lögmanns, 248.000 krónur.     Dómur Héraðsdóms Reykjaness 26. apríl 2018.   Mál þetta, sem var þingfest 18. desember 2017 og dómtekið 3. apríl 2018, höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 9. október 2017 á hendur X, kt. [...], [...], Kópavogi, „fyrir eftirfarandi hegningarlagabrot, brot gegn barnaverndarlögum og lögum um fjarskipti, sem beindust að A, þáverandi eiginkonu ákærða, og syni þeirra, D, á árinu 2016 nema annað sé tekið fram;   Fyrir tilraun til nauðgunar, með því að hafa mánudaginn 15. febrúar, að [...] í Kópavogi, falast eftir samræði við A og þegar hún neitaði, ráðist á hana og rifið niður um hana buxur hennar og reynt að rífa niður nærbuxur hennar í þeim tilgangi að hafa við hana samræði eða önnur kynferðismök gegn vilja hennar en við mótspyrnu hennar rifnuðu nærbuxurnar og ákærði lét af háttseminni. Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.   Fyrir nauðgun, með því að hafa mánudaginn 22. febrúar, að [...] í Kópavogi, haft samræði við A, gegn vilja hennar, með því að beita hana ofbeldi og annars konar ólögmætri nauðung en ákærði tók hana úr fötunum, snéri henni á magann og hélt höndum hennar á sama tíma og hann þröngvaði getnaðarlim sínum inn í leggöng hennar. Við þetta hlaut A marbletti á vinstri framhandlegg. Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.   Fyrir nauðgun og frelsissviptingu, með því að hafa, skömmu fyrir kl. 12 þriðjudaginn 23. febrúar ruðst inn í bifreiðina [...], sem A hafði til umráða, á bifreiðastæði við [...] tungumálaskóla, [...] í Kópavogi, þar sem hún stundaði nám, og skipað henni að aka bifreiðinni að [...] í Kópavogi. Þar skipaði ákærði henni að koma með inn í íbúð þar sem hann tók farsíma og bíllykla af henni og þvingaði hana til þess að veita sér munnmök og sleikja á sér punginn. Að þessu loknu meinaði ákærði A för og skipaði henni að koma með sér í bifreiðina [...], sem ákærði síðan ók um höfuðborgarsvæðið, uns hann ók henni að lögreglustöðinni við Dalveg í Kópavogi þar sem hann hleypti henni út um kl. 17:40, en þá hafði A verið svipt frelsi sínu í tæpar 6 klukkustundir. Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.     Fyrir brot í nánu sambandi, með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæruliðum 1 til 3 ógnað heilsu og velferð þáverandi maka síns, A, með ítrekuðu og alvarlegu ofbeldi og nauðung sem stóð yfir í langan tíma. Telst þetta varða við 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.    Fyrir blygðunarsemis- og barnaverndarlagabrot og brot í nánu sambandi, með því að hafa ítrekað á tímabilinu 31. desember 2015 til 31. janúar 2016 horft á klámmyndir og fróað sér í viðurvist D, sonar síns, sem þá var níu ára gamall. Með þessari háttsemi særði ákærði blygðunarsemi barnsins og sýndi af sér ruddalegt og ósiðlegt athæfi gagnvart barninu sem særði það og móðgaði ásamt því að ógna heilsu og velferð barnsins. Telst þetta varða við 209. gr. og 218. gr. b.  almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.   Fyrir brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa ítrekað á tímabilinu 8. mars til 22. apríl hringt í símanúmerið [...], sem A hafði til umráða á fyrrgreindu tímabili, þrátt fyrir að honum væri bannað að setja sig í samband við hana með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 4. mars 2016 og úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í máli R-[...]/2016 frá 10. mars sama ár. Telst þetta varða við 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.   Fyrir brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa ítrekað eða í allt að 848 skipti á tímabilinu 23. apríl til 13. maí hringt í símanúmerið [...], sem A hafði til umráða á fyrrgreindu tímabili, þrátt fyrir að honum væri bannað að setja sig í samband við hana með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem getið er í ákærulið 6. Telst þetta varða við 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.   Fyrir brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa ítrekað eða í allt að 102 skipti á tímabilinu 1. júní til 1. september hringt í símanúmerin [...] og [...] og sent 64 sms skilaboð á sama tímabili í sömu símanúmer, sem A hafði til umráða á fyrrgreindu tímabili, þrátt fyrir að honum væri bannað að setja sig í samband við hana með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem getið er í ákærulið 6. Telst þetta varða við 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.   Fyrir brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa mánudaginn 9. maí nálgast A og son þeirra D fyrir utan kvennaathvarfið við Snorrabraut í Reykjavík, gefið sig á tal við A og tekið utan um hana, þrátt fyrir að honum væri bannað að koma í námunda við þau bæði eða nálgast þau á almannafæri með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem getið er í ákærulið 6. Telst þetta varða við 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.   Fyrir brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa fimmtudaginn 12. maí veitt A eftirför á bifreiðastæði við Hótel Nordica við Suðurlandsbraut í Reykjavík, nálgast hana og gert tilraun til að opna dyr bifreiðarinnar [...] sem A ók, þrátt fyrir að honum væri bannað að koma í námunda við hana eða nálgast á almannafæri með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og úrskurði Héraðsdóms Reykjaness sem getið er í ákærulið 6. Telst þetta varða við 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.   Fyrir brot gegn lögum um fjarskipti, með því að hafa látið þjónustuaðila koma fyrir  eftirfararbúnaði og GPS staðsetningartæki af gerðinni Scope í bifreiðinni [...] í ólögmætum tilgangi og án vitundar umráðamanns bifreiðarinnar, A, í þeim tilgangi að fylgjast með ferðum hennar á tímabilinu 22. febrúar til og með 16. júní en öllum upplýsingum um akstur bifreiðarinnar var safnað saman á læstan aðgang á vefsvæði, sem ákærði og einn annar aðili höfðu aðgang að. Telst þetta varða við 5. mgr. 47. gr., sbr. 74. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003.   Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að GPS staðsetningartæki af gerðinni Scope sem lögregla lagði hald á verði gert upptækt til ríkissjóðs (munur nr. [...]).   Einkaréttarkröfur: Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 3.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 23. febrúar 2016 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.    Af hálfu A, kt. [...], fyrir hönd ólögráða sonar síns, D, kt. [...], er þess krafist að ákærða verði gert að greiða honum miskabætur að fjárhæð kr. 1.200.000 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 1. janúar 2014 en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“   Ákærði neitar sök samkvæmt ákæruliðum 1-5, en játar að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæruliðum 6-11.   Málsatvik Hér verða aðeins rakin málsatvik er lúta að ákæruliðum 1-5, en látið nægja að skírskota til ákæru og rannsóknargagna að því er aðra ákæruliði varðar. Hinn 21. janúar 2016 kom brotaþoli, A, á lögreglustöðina í Kópavogi  og óskaði eftir aðstoð vegna endurtekinna ofbeldisbrota af hálfu eiginmanns síns, ákærða í máli þessu, bæði gagnvart henni sjálfri og níu ára gömlum syni þeirra. Sagði hún ofbeldið hafa staðið yfir í mörg ár, en væri sérlega slæmt nú þar sem eiginmaðurinn væri ölvaður og búinn að vera það samfellt frá áramótum. Lýsti hún ofbeldinu sem andlegu, líkamlegu og kynferðislegu. Í frumskýrslu lögreglunnar er haft eftir brotaþola að ákærði neyði hana til að horfa á klámmyndir með honum og vilji á meðan eiga við hana samfarir eða að hún veiti honum munnmök, stundum oft á dag, gegn vilja brotaþola. Hann gangi einnig um nakinn og frói sér á meðan hann horfi á klámmyndir og yfir hana þegar hún fari í bað. Hafi sonur þeirra oft orðið vitni að þessu háttalagi.  Ákærði hafi jafnframt lagt hendur á drenginn, rifið í hár hans og sparkað í magann á honum. Brotaþoli óskaði aðstoðar lögreglu og barnaverndaryfirvalda til að komast af heimilinu og var ákveðið að flytja hana, ásamt börnum hennar tveimur, í Kvennaathvarfið. Brotaþoli kom á ný á lögreglustöð 29. janúar 2016 og lagði þá fram kæru á hendur eiginmanni sínum fyrir ofbeldi gagnvart henni og eldri syni þeirra. Lýsti hún atvikum á sama hátt og hér að ofan. Sérstaklega aðspurð sagði brotaþoli að ákærði hefði ekki lamið hana eða neytt hana til kynmaka, hann ýtti henni frekar með líkama sínum og togaði hönd hennar að getnaðarlimi sínum. Ofbeldið væri meira andlegt, ákærði biðji hana stöðugt um kynlíf og bregðist reiður við er hún neiti honum, allt þar til hún láti undan. Fram kemur í skýrslunni að brotaþoli og ákærði hafi verið saman í tólf ár, en þau fluttu hingað til lands frá Póllandi árið 2013. Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 5. febrúar 2016. Hann sagðist hafa verið búinn að drekka í mánuð. Neitaði hann að hafa beitt konu sína ofbeldi, en kannaðist við að hafa togað í hárið á syni sínum. Hafi það gerst í kjölfar þess að drengurinn hafi verið að hlæja að honum er hann kom nakinn úr baði og gekk um íbúðina. Drengurinn hafi einnig verið að pirra hann. Sagðist hann stundum horfa á klámefni með konu sinni, en taldi að drengurinn hefði ekki séð slíkt þótt ekki væri hægt að útiloka að það hafi gerst. Hann hafnaði ásökunum konunnar um að hann hafi neytt hana til kynmaka. Þann 23. febrúar komu á lögreglustöðina C og F og skýrðu frá því að vinkona þeirra, brotaþoli í máli þessu, hefði hringt í þau og beðið um aðstoð. Sögðu þau að ákærði væri að ógna henni og héldi henni nauðugri í íbúð ákærða að [...]. Óskuðu þau eftir að lögregla færi að heimili ákærða. Er lögreglan kom á vettvang var íbúðin mannlaus, en skömmu síðar kom sonur ákærða og brotaþola, D, og sagði foreldra sína hafa farið út í búð. Lögreglan ákvað að aka drengnum á lögreglustöð. Á leiðinni þangað hringdi brotaþoli í drenginn og kom hún ásamt ákærða skömmu síðar á lögreglustöðina. Eftir að hafa rætt við brotaþola ákvað lögreglan að handtaka ákærða og vista hann í fangageymslu, en brotaþoli var færður til skoðunar á Neyðarmóttöku LSH. Daginn eftir lagði brotaþoli fram kæru á hendur ákærða vegna kynferðisbrots og frelsissviptingar. Skýrði hún svo frá að deginum áður, 23. febrúar, hefði hún verið á íslenskunámskeiði í skóla. Þangað hefði ákærði komið, setið um hana og beðið eftir henni á bílaplani. Þegar hún hugðist bakka bíl sínum hafi hann hoppað inn, sest í farþegasætið og sagt henni að keyra að [...], enda þyrftu þau að ræða um að breyta samningi um íbúðina sem þau væru með á leigu. Þegar þangað var komið hafi ákærði tekið af henni símann og talað um að hann langaði í kynlíf. Síðar hafi hann kallað hana inn í herbergi sona þeirra, þar sem hann reyndi að afklæða hana, en hún hafi streist á móti og sagt honum að hún myndi kæra hann fyrir nauðgun. Hafi ákærði þá hætt, en sagt að gott væri ef hún setti typpið á honum í munninn og sleikti á honum punginn. Hún hafi ekki viljað það og reynt að komast undan, en ákærði hafi þá haldið í hár hennar og hnakka og þröngvað henni til munnmaka. Allan tímann hafi hann haldið höfði hennar að limnum, uns hann fékk sáðlát í munn hennar. Eftir þetta hafi sonur þeirra, D, komið heim. Er ákærði fór á baðherbergið kvaðst brotaþoli hafa fengið síma sonar síns lánaðan og sent vini sínum, G, sms-skilaboð, þar sem hún bað um aðstoð vegna þess að ákærði héldi henni nauðugri. Skilaboð þessi er að finna í gögnum málsins og voru þau send úr síma sonarins umræddan dag kl. 14.21 til G. Eru þau rituð á pólsku, en hljóða þannig í íslenskri þýðingu „Gerðu eitthvað hann heldur okkur með valdi ekki skrifa ekki hringja annars tekur hann eftir því að ég hafi skrifað.“ Í sömu skýrslu brotaþola hjá lögreglu er einnig haft eftir henni að ákærði hafi deginum áður, þ.e. 22. febrúar 2016, nauðgað henni í sömu íbúð. Hafi hún farið þangað um hádegið til þess að ræða við hann um leigusamninginn. Þegar þangað kom hafi ákærði sagt að túlkurinn hefði ekki tíma þann dag til að fara yfir leigusamninginn með þeim. Hafi ákærði þá reynt að tala hana til og fá hana til kynmaka. Hafi hún streist á móti þegar ákærði reyndi að toga buxur hennar niður. Hafi ákærði þá sagt að hann væri með svo mikla standpínu að hann ætlaði beint inn. Í kjölfarið hafi hann gripið um hendur hennar, tekið hana úr fötunum, lagt hana á magann og haft við hana samfarir um leggöng. Brotaþoli kvaðst hafa sagt ákærða að hún vildi þetta ekki. Brotaþoli gaf einnig skýrslu hjá lögreglu 29. febrúar 2016 og greindi þar frá langvarandi ofbeldi af hálfu ákærða. Greindi hún einnig frá því að 15. febrúar hefði hún og ákærði mælt sér mót á fyrrverandi heimili þeirra. Hafi hún átt að láta hann fá bíl þeirra og hafi hann boðið henni í kaffi í íbúðinni. Hafi hann stöðugt verið að biðja hana um að taka saman við sig aftur og spurt hvenær hún ætlaði að leyfa honum að hafa samfarir við hana. Hafi hún svarað honum að svo yrði pottþétt ekki í augnablikinu. Hafi hann þá gengið að henni og byrjað að rífa niður um hana buxurnar. Hafi hún haldið um þær báðum höndum og öskrað og sagt honum að hætta og láta sig í friði. Við þetta hafi nærbuxurnar rifnað. Sagðist hún hafa grátið og þá hafi ákærði látið hana vera. Hafi hann verið reiður á meðan á þessu stóð. Þegar brotaþoli kom í Kvennaathvarfið eftir þetta sagðist hún hafa tekið mynd af nærbuxunum og sent G til að sýna honum hvernig hún hafi komið frá ákærða. Meðal gagna málsins er skýrsla læknis um skoðun á brotaþola á Neyðarmóttöku LSH að kvöldi 23. febrúar 2016. Frásögn brotaþola af atvikum þann dag og deginum áður er á sama veg og frásögn hennar hjá lögreglu. Þar segir einnig að brotaþoli sé með nýlegan marblett á vinstri framhandlegg, nýlega marbletti á hægri fótlegg og utanvert á mjöðm, svo og ílangt mar á sköflungi vinstri fótleggjar.    Framburður fyrir dómi Ákærði kannaðist ekki við þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 1. tölulið ákæru. Hann neitaði því að hafa gert tilraun til að nauðga brotaþola og tók fram að hann hafi aldrei beitt konu sína ofbeldi í sambandi þeirra. Þau hafi stundum rifist, en ofbeldi hafi hann aldrei beitt. Aðspurður um rifnar nærbuxur brotaþola, en ljósmynd af þeim liggur frammi í málinu, sagðist hann aðeins hafa séð myndir af þeim í málsskjölum. Brotaþoli hafi örugglega sjálf rifið nærbuxurnar og taldi ákærði að það væri liður í samsæri hennar gegn honum. Hann viðurkenndi að eiga við áfengisvandamál að stríða og drykki oftast í nokkrar vikur þegar hann byrjaði. Eftir langa drykkju væri hann mjög slappur og lægi þá oftast í rúminu eða sæti í sófanum. Ætti hann það til að missa minnið eða fara í „black-out“ eftir langvarandi drykkju. Að því er varðar 2. tölulið ákærunnar kvaðst ákærði ekki muna nákvæmlega hvort eitthvað kynferðislegt hefði átt sér stað milli hans og eiginkonunnar þennan dag, 22. febrúar 2016, en tók fram að þau hafi oft haft samfarir þegar hún kom í heimsókn til hans, jafnvel eftir að hún var farin frá honum. Hafi það alltaf verið með fullu samþykki hennar. Ákærði var því næst spurður um frekari skýringar á eftirfarandi orðum hans við yfirheyrslu hjá lögreglu 24. febrúar 2016: „Já þá við já höfðum svona samfarir, stunduðum kynlíf, en þetta var svona með samþykki svona okkar beggja. En þetta var alls ekki svona nauðgun, ég spurði um leyfi og hún sagði svona, þetta var svona óljóst svar, en hún var ekki á móti því. [...] Við sátum þarna saman svona fórum að kyssast og ég fór að káfa á henni og hún gerði það sama gagnvart mér og já og svona byrjaði þetta og hún tók alveg þátt í þessu.“ Kvaðst ákærði ekki muna nákvæmlega hvernig þetta gekk fyrir sig, en áréttaði að alltaf hafi samfarirnar verið með hennar samþykki. Tók hann fram að hefði þetta verið nauðgun hefði brotaþoli ekki viljað koma aftur heim til hans. Spurður um áverka á brotaþola og hvort hann hafi haldið fast um hendur hennar í umrætt sinn, sagði hann að það gæti verið, en áverkarnir hafi ekki verið vegna nauðgunar. Ekki kvaðst hann heldur vita af hverju hún var með marga marbletti, en tók fram að þeir stöfuðu örugglega ekki af kynlífi þeirra. Aðspurður hvers vegna brotaþoli dveldi í Kvennaathvarfinu sagði ákærði að það hafi verið skipulagt af brotaþola til þess að hún gæti flutt frá honum og fengið félagslegt íbúðarhúsnæði. Þá hafi hún einnig fengið D, son þeirra, til þess að hlæja að honum og pirra hann. Því hafi hann tekið í eyrað á drengnum og togað í hárið á honum.  Ákærði var því næst spurður um atvik að baki 3. tölulið ákærunnar. Skýrði hann svo frá að brotaþoli hefði viljað hitta hann og þess vegna hefði hann komið í skólann 23. febrúar. Vinur hans hefði ekið honum þangað. Í sömu andrá og brotaþoli keyrði úr bílastæðinu hafi hún séð hann og opnað bílhurðina fyrir honum. Kvaðst ákærði þá hafa spurt brotaþola um leigusamninginn og hafi hún sagt að þau skyldu ganga í að breyta honum. Þegar á [...] var komið hafi brotaþoli lagt bílnum og þau farið inn. Ákærði sagðist hafa lagað kaffi, en nokkrum mínútum síðar hafi sonur þeirra, Dr, komið heim úr skólanum, eða upp úr kl. 13.00. Ákærði neitaði því að hafa tekið símann af brotaþola, hann hafi legið á borðinu, en vel gæti verið að hann hafi skoðað hann. Hún hafi líka stundum skoðað símann hans. Ákærði neitaði einnig að hafa varnað því að brotaþoli kæmist út og tók fram að dyrnar hafi verið ólæstar. Henni hafi verið frjálst að fara ef hún hefði óskað eftir því. Þá neitaði ákærði því að nokkuð kynferðislegt hefði gerst milli þeirra þennan dag. Sérstaklega spurður um hvort ákærði hafi látið brotaþola sleikja á honum punginn neitaði hann því einnig. Eftir að þau yfirgáfu íbúðina sagði ákærði að þau hafi farið á leigumiðlunina til að gera nafnabreytingu á leigusamningnum. Taldi hann að þá hafi klukkan verið um þrjú. D hafi ekki viljað koma með, hann hafi frekar viljað vera hjá vini sínum. Spurður um sms-skeyti frá brotaþola, þar sem hún biður um hjálp, sagðist ákærði ekkert vita um það annað en að C] hafi farið á lögreglustöðina og tilkynnt um hvarf A. Þess vegna hafi þau farið á lögreglustöðina. Hins vegar hafi brotaþoli gert ýmislegt til þess að losna úr sambandi þeirra og verið gæti að hún hafi sent sms-skeytið úr síma D í þeim tilgangi. Hafi það verið skipulagt af brotaþola og C til þess að gera þetta trúverðugra. Brotaþoli hafi viljað komast í nýtt samband, þrátt fyrir að hann bæði hana ítrekað um að hætta við slíkt, enda ættu þau saman tvö börn. Sérstaklega aðspurður sagði ákærði að brotaþoli hafi farið með honum í íbúðina og síðar í leigumiðlunina af fúsum og frjálsum vilja. Hann neitaði því staðfastlega að þau hafi haft kynmök þennan dag.   Ákærði kannaðist ekki við að hafa verið að fróa sér svo sonur hans sæi til, eins og honum er gefið að sök í 5. tölulið ákærunnar. Hins vegar sagði hann að verið gæti að hann hafi setið á nærbuxum í sófanum, en neitaði því að hafa alltaf verið að „hrista“ typpið á sér, eins og sonur hans haldi fram.  Brotaþoli, A, var fyrst spurð um atvik að baki 1. ákærulið. Sagðist hún á þessum tíma hafa búið í Kvennaathvarfinu, en hún hafi komið í íbúð ákærða 15. febrúar 2016, þar sem hann hafi alltaf verið að finna tilefni til þess að hún heimsækti sig vegna fyrirhugaðrar  nafnabreytingar á húsaleigusamningnum. Kvaðst hún líka hafa vorkennt honum. Í umrætt sinn hafi hún staðið við eldavélina þegar ákærði kom að henni og reyndi að toga af henni buxurnar og hafa við hana samfarir. Hafi hún streist á móti og við það hafi nærbuxur hennar rifnað. Eftir það hafi hún flúið úr íbúðinni. Aðspurð kvaðst hún hafa sagt sínum nánustu frá atvikinu, auk þess sem hún sendi vini sínum, G, skilaboð og ljósmynd af rifnum nærbuxum sínum sama dag. Sagðist hún þess fullviss að ákærði hafi ætlað að nauðga henni í umrætt sinn.  Spurð um atvik samkvæmt 2. tölulið ákærunnar sagði brotaþoli að hún hafi komið á heimili ákærða þar sem til stóð að breyta leigusamningi um íbúðina. Líklega hafi það þó aðeins verið yfirvarp af hálfu ákærða, enda hafi hann strax sagt við hana er þangað var komið að þau færu ekki á leigumiðlunina þann dag. Þess í stað hafi ákærði talað um að langt væri frá því að hann hefði haft samfarir við konu. Kvaðst hún hafa sagt honum að hún vildi ekki kynmök, en ákærði hafi haft svo mikla stjórn yfir henni að hún taldi það skyldu að verða við ósk hans. Hafi ákærði klætt hana úr fötunum og haldið um hendur hennar á meðan á samförum stóð. Eftir þetta kvaðst brotaþoli hafa ákveðið að skrifa hvorki undir breytingu á leigusamningi né svara nokkrum símtölum frá ákærða. Daginn eftir hafi það þó breyst er ákærði kom í skólann. Aðspurð sagðist brotaþoli hafa sagt ákærða skýrt að hún vildi ekki eiga við hann kynmök umrætt sinn. Að því er varðar 3. ákærulið kvaðst brotaþoli hafa verið í skólanum þennan dag. Hafi ákærði reynt að hafa símasamband við hana, en hún ekki svarað. Í frímínútum hafi hún tekið eftir honum á bílastæðinu og orðið hrædd. Kennarinn hennar hafi líka séð að henni var brugðið. Þegar skóla var lokið, um tólfleytið, hafi ákærði komist inn í bíl hennar á bílastæðinu og hafi henni þá orðið ljóst hvað myndi gerast. Hafi þau ekið að [...]t og hafi ákærði þar talað um að breyta þyrfti leigusamningnum. Kvaðst hún alls ekki hafa farið sjálfviljug í íbúð ákærða. Ákærði hafi síðan lokað krakkana inni í herbergi og beðið hana um að klippa sig, sem hún gerði. Að því loknu hafi hann farið í bað. Eftir það hefði ákærði reynt að hafa við hana samfarir, en hún hafi sagt honum að hún leyfði það ekki, og ef hann héldi áfram myndi hún kæra hann fyrir nauðgun. Ákærði hefði þá neytt hana til að fróa sér og sleikja á honum punginn, uns hann fékk sáðlát. Kvaðst hún hafa sagt ákærða að hún vildi þetta ekki, en ákærði hafi haldið henni. Aðspurð kvaðst brotaþoli ekki hafa reynt að kalla eftir aðstoð þegar komið var í íbúðina og taldi að það hefði verið þýðingarlaust. Ákærði hefði líklega skemmt síma hennar ef hann sæi hana hringja. Brotaþoli var þá spurð um skilaboð sem send voru úr síma Dr, sonar hennar, til G. Sagði hún að ákærði hafi þá verið búinn að taka af henni síma hennar. Því hafi hún notað síma sonarins þegar hann kom heim um tvöleytið og þegar ákærði fór í bað. Brotaþoli kvaðst skýrt hafa látið það í ljós við ákærða að hún vildi fara úr húsinu, en hann hafi neitað því og sagt að þau yrðu að ganga frá nýjum leigusamningi. Fram kom í máli brotaþola að hún og ákærði hefðu farið á nokkra staði eftir að hafa yfirgefið íbúðina, þ. á m. í leigumiðlunina. Spurð hvort henni hafi ekki dottið í hug að flýja þá frá ákærða sagði brotaþoli að hún hafi ekki reynt það. Hún sagðist ekki hafa óttast um líf sitt, en hún hafi verið hrædd um að ákærði lemdi hana. Brotaþoli var loks spurð um atvik að baki 5. tölulið ákærunnar. Sagði hún það oft hafa gerst að D hafi orðið vitni að því er ákærði var að horfa á klámmyndir og fróa sér. Hafi hún oft gert athugasemdir við þetta háttalag, en ákærði hafi svarað því til að D ætti ekki að vera þarna. Kvaðst hann mega gera þetta í sinni íbúð. Fram kom í máli brotaþola að hjónabandi hennar og ákærða hafi lokið í desember 2016. Sonur ákærða og brotaþola, D, var yfirheyrður í Barnahúsi 8. febrúar 2016. Var hann níu ára gamall, fæddur í desember árið 2006. Drengurinn skýrði frá því að pabbi hans og mamma rifust stundum og öskruðu á hvort annað, en aldrei lemdu þau hvort annað. Ástandið á heimilinu væri ekki gott þegar pabbi hans væri að drekka. Segði pabbi hans þá honum að fara inn í herbergið sitt með bróður sínum, en mamma hans ætti að vera frammi hjá honum. Úr herberginu gæti hann heyrt hljóð frá sjónvarpinu og væri pabbi hans þá að horfa á klámmyndir. Oft hafi hann sjálfur séð slíkar myndir. Stundum sagðist hann ekki vilja fara inn í herbergi sitt og hafi hann þá séð pabba sinn hrista typpið á sér í sófastólnum. Hafi pabbi hans oft gert þetta svo hann sæi, og geri þetta alltaf þegar hann sé fullur. Þá sagðist hann hafa heyrt pabba sinn segja við mömmu hans að hún ætti að sleikja á honum typpið, en hún segi þá að hún vilji það ekki. Reyni hann þá að hjálpa mömmu sinni með því að koma fram, en við það verði pabbi hans reiður. Aðspurður sagði drengurinn að alltaf þegar hann pirraði pabba sinn togaði pabbi hans í hárið á honum og væri það svolítið vont. Hann hefði líka einu sinni sparkað í hann, en mundi ekki hvar. Hann hefði þó ekki meitt sig. Vitnið E, sálfræðingur hjá barnavernd í Kópavogi, kvaðst hafa rætt við D að ósk lögreglunnar 21. janúar 2016. Hafi samtalið farið fram í skóla drengsins með aðstoð túlks. Sagði hún að drengurinn hafi lýst alvarlegu ástandi á heimili sínu. Faðir hans sæti að drykkju, horfði á klámmyndir og fróaði sér. Þá hafi drengurinn heyrt pabba sinn biðja mömmu hans um að sleikja á sér typpið og hafi hann séð slíkt. Vitnið H, dómtúlkur, sagðist hafa túlkað fyrir brotaþola og ákærða í nokkur skipti, þ. á m. þegar þau fóru í leigumiðlunina 23. febrúar 2016. Fannst henni þá sem brotaþola liði illa, væri óstyrk og ólík sjálfri sér. Ekki kvaðst vitnið minnast þess að ákærði hafi sagt sér frá því að hann hafi nauðgað brotaþola. Borin var undir vitnið samantekt úr skýrslu þess hjá lögreglu 13. júní 2016, og taldi vitnið þar rétt eftir sér haft. Vitnið I sagðist búa í sama húsi og ákærði og áður brotaþoli, að [...] í Kópavogi. Ekki sagðist hún oft hafa rætt við brotaþola, enda hafi þær ekki verið nánar vinkonur. Hins vegar hafi henni oft fundist brotaþoli vera óróleg og undir álagi. Hafi hún vitað að vandamál væru í hjónabandi hennar og ákærða. Ákærði væri ekki góður við brotaþola og son þeirra þegar hann væri undir áhrifum áfengis og væri brotaþoli þá mjög hrædd við hann. Nefndi hún að brotaþoli hefði einu sinni verið svo hrædd við hann að hún hafi gist á heimili vitnisins. Hafi ákærði oft verið drukkinn í langan tíma og kvaðst vitnið þá sjálft hafa verið hrætt við hann, svo og börnin hennar. Vitnið F kvaðst þekkja brotaþola og vera vinur G. Sagði hann að C hafi hringt í sig að ósk G og hafi G sagt C í símann að ákærði héldi brotaþola gegn vilja hennar. Þar sem hvorki C né G tali ensku hafi hann farið til lögreglunnar með C og óskað aðstoðar hennar vegna málsins. Ekki kvaðst vitnið þekkja neitt til ákærða, hann hafi þó einu sinni komið á verkstæðið þar sem hann vinni, og hafi þá verið að leita að G. Vitnið C sagði að hún og brotaþoli væru vinkonur, en kvaðst ekkert þekkja ákærða. Hún greindi frá því að 23. febrúar 2016 hefði G hringt í hana og beðið hana um að aðstoða sig við að tilkynna lögreglu um hvarf brotaþola, en sjálfur kvaðst G ekki geta haft samband við hana. Kvaðst hún hafa reynt að ná símasambandi við brotaþola, en án árangurs. Vegna tungumálaerfiðleika hafi hún hringt í F, vin sinn, og beðið hann um að koma með sér á lögreglustöðina og hafi hann orðið við því. Hún sagðist ekki hafa séð áverka á brotaþola. Aðspurð hvort brotaþoli hafi síðar greint henni frá því hvað gerst hefði þennan dag játti vitnið því, en kvaðst ekki muna það til að segja frá því nú. Vildi hún heldur vísa til framburðar síns hjá lögreglu. Borin var síðan undir vitnið frásögn þess í samantekt lögreglunnar 1. mars 2016, þar sem vitnið sagði að brotaþoli hefði tjáð sér að ákærði hefði reynt að nauðga henni 23. febrúar og nauðgað henni deginum áður, og sagði vitnið að rétt væri þar eftir sér haft.  Vitnið G, kvaðst hafa kynnst brotaþola á íslenskunámskeiði og upp úr því hafi þau orðið vinir. Seinna hafi brotaþoli hringt í hann og beðið um aðstoð þar sem eiginmaður hennar hefði nauðgað henni. Áður hefði bæði hún og D, sonur brotaþola, rætt við vitnið um mikla drykkju ákærða og líkamlegt ofbeldi af hans hálfu. Einnig hefði brotaþoli tjáð vitninu að hún óttaðist ákærða. Kvaðst vitnið strax hafa skynjað að brotaþola leið ekki vel. Ekki kvaðst vitnið hafa séð áverka á brotaþola, en hún notaði andlitsfarða. G að því spurður hvort hann hafi fengið senda ljósmynd í síma sinn frá brotaþola 15. febrúar 2016, þar sem sjá má rifnar nærbuxur brotaþola og kynfæri hennar. Játti hann því og sagði að brotaþoli hefði sagt sér að hún og ákærði hefðu verið að rífast og að ákærði hefði ætlað að nauðga henni. Brotaþoli þekkti engan annan hér á landi og því hefði hún sent honum ljósmyndina til að sýna honum hvernig ákærði kæmi fram við hana. Tók vitnið fram að hvorki hann né brotaþoli hefðu getað farið til lögreglunnar vegna tungumálaörðugleika. Aðspurt sagði vitnið að í síma hans væri nafn A skráð sem [...].  G kannaðist við að hafa móttekið sms-skilaboð úr síma D 23. febrúar 2016, þar sem fram komi að ákærði haldi brotaþola og D föstum á heimilinu og megi hann ekki hringja til baka. Í fyrstu sagðist hann ekki fyllilega hafa skilið skilaboðin, en hafi síðan áttað sig á því að eitthvað amaði að brotaþola. Hafi hann þá hringt í C og beðið hana um að hafa samband við lögreglu.  Aðspurt sagði vitnið að hann og brotaþoli væru kærustupar í dag og hefðu þau hafið sambúð á heimili hans eftir skilnað brotaþola og ákærða. Vitnið var því næst spurt um samband hans og brotaþola 15. febrúar 2016 og sagði vitnið að þau hefðu þá aðeins verið góðir vinir. Vitnið J  sagði að brotaþoli hefði verið nemandi hennar í tungumálaskólanum. Hún kvaðst muna eftir því að ákærði hafi komið í skólann og viljað hitta brotaþola. Hafi hann verið mjög ógnandi og því hafi hún ekki hleypt honum inn í kennslustofuna. Brotaþoli hafi greinilega verið mjög hrædd við manninn og hafi hún falið sig. Taldi vitnið að ákærði hafi komið tvisvar þennan dag til þess að hitta brotaþola og hafi vitnið þurft að vísa ákærða úr skólanum. Borin var undir vitnið samantekt úr skýrslu þess hjá lögreglunni 26. febrúar 2016 og staðfesti vitnið að þar væri rétt eftir sér haft.  Vitnið K  lögreglumaður kvaðst hafa komið að máli þessu 23. febrúar 2016 þegar C og F komu á lögreglustöðina og óskuðu aðstoðar. Lýsti hann líðan og ástandi brotaþola þannig að hún hafi verið dofin og í einhvers konar sjokki. Ákærði hafi hins vegar virst í jafnvægi. Vitnið L  lögreglumaður ræddi við brotaþola síðdegis 23. febrúar 2016. Sagði hann að brotaþoli hafi skýrt frá því að þennan dag hafi hún verið frelsissvipt og orðið fyrir kynferðisofbeldi, m.a. nauðgun, af hálfu eiginmanns síns. Hafi hún sérstaklega nefnt að ákærði hafi neytt hana til munnmaka. Einnig hafi hún nefnt að eiginmaðurinn hefði deginum áður neytt hana til kynmaka gegn hennar vilja. Í kjölfar þessa hafi ákærði verið handtekinn og vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins, en brotaþoli fluttur á Neyðarmóttöku til skoðunar. Vitnið gat þess að brotaþoli hafi virst buguð og í ójafnvægi. Vitnið M læknir kvaðst hafa skoðað brotaþola við komu hennar á Neyðarmóttöku og hafi hún strax skynjað að brotaþoli þyrfti að dvelja í Kvennaathvarfinu. Líðan brotaþola og frásögn hennar hafi gefið slíkt til kynna. Taldi hún að áverkar á brotaþola samræmdust frásögn hennar af atvikum, eins og þeim er lýst í skýrslu læknisins.   Vitnið B sálfræðingur gaf skýrslu í gegnum síma. Fram kom í máli hennar að brotaþola hafi verið vísað til hennar vegna ofbeldis af hálfu eiginmanns hennar, en brotaþoli hafi þá dvalið í Kvennaathvarfinu. Kvaðst vitnið alls hafa átt nítján viðtöl við brotaþola, á tímabilinu frá 19. febrúar 2016 til 26. janúar 2017. Vitnið sagði að í viðtölum við brotaþola hafi aðallega verið rætt um meint ofbeldi eiginmanns brotaþola og afleiðingar þess. Brotaþoli hafi greint henni frá viðvarandi ofbeldi eiginmannsins í þrettán ár, jafnt andlegu, líkamlegu og kynferðislegu. Hafi brotaþoli verið döpur og dofin og upplifði bæði skömm og sjálfsásökun, ásamt því að hún óttaðist eiginmanninn. Þá hafi brotaþoli greint henni frá kynferðisofbeldi 23. febrúar 2016 og að eiginmaðurinn hafi þá haldið henni fanginni, ásamt syni þeirra, á heimili sínu. Einnig hafi brotaþoli sagt henni frá því að eiginmaðurinn horfði mikið á klám og fróaði sér þá í viðurvist brotaþola og sonar síns. Vitnið staðfesti vottorð sem liggur frammi í málinu, dagsett 19. mars 2018. Ekki er ástæða til að rekja framburð annarra vitna sem gáfu skýrslu fyrir dómi. Niðurstaða  I Eins og fram er komið neitar ákærði að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruliðum 1-5. Krefst hann aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að einkaréttarkröfum verði vísað frá dómi, en til vara að þær verði lækkaðar verulega. Loks er krafist málsvarnarlauna. Byggist sýknukrafa á því að ósannað sé að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir. Ákærði gengst á hinn bóginn við sakargiftum samkvæmt ákæruliðum 6-11 og krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. 1. töluliður ákæru Ákærða er samkvæmt þessum lið gefin að sök tilraun til nauðgunar 15. febrúar 2016. Byggir ákæruvaldið á því að leggja beri til grundvallar frásögn brotaþola af atvikum, enda sé hún trúverðug og studd framburði vitna, auk þess sem ljósmyndir af rifnum nærbuxum brotaþola bendi til átaka ákærða og brotaþola umrætt sinn.  Eins og rakið er hér að framan fór brotaþoli í Kvennaathvarfið, ásamt börnum sínum tveimur, eftir að hafa leitað aðstoðar lögreglu 21. janúar 2016. Í skýrslu sinni hjá lögreglu 29. febrúar sama ár greindi brotaþoli fyrst frá því atviki sem hér er til umfjöllunar, en hafði þá nokkrum dögum áður, 24. febrúar, lagt fram kæru á hendur ákærða vegna meintra kynferðisbrota hans gagnvart henni 22. og 23. febrúar sama ár. Fyrir dómi sagðist brotaþoli hafa heimsótt ákærða umræddan dag vegna fyrirhugaðrar nafnabreytingar á húsaleigusamningi. Einnig kvaðst hún hafa vorkennt honum. Kvaðst hún þess fullviss að ákærði hafi ætlað að nauðga henni.  Ákærði og brotaþoli eru ein til frásagnar um það sem gerðist umrætt sinn og stendur þar orð gegn orði. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki kannast við þá háttsemi sem honum er gefin að sök og neitaði því að hafa reynt að nauðga konu sinni. Þá kannaðist hann heldur ekki við umrætt atvik í skýrslu sinni hjá lögreglu 24. febrúar 2016. Sagði hann að öll fjölskyldan hefði þennan dag verið að hjálpa bróður hans að þrífa bílskúr í Hafnarfirði, og gætu bæði bróðir hans og eigandi bílskúrsins staðfest það. Ekki verður séð að athugun hafi farið fram á sannleiksgildi þessa. Þá verður ekki framhjá því horft að brotaþoli skýrði fyrst frá atviki þessu í síðari skýrslu sinni hjá lögreglu, 29. febrúar 2016, en hafði ekki greint frá því í kæruskýrslu 24. sama mánaðar. Brotaþoli greindi heldur ekki frá atvikinu í samtali við lækni á neyðarmóttöku LSH 23. febrúar 2016, né í samtölum sínum við sálfræðing, en eins og áður greinir átti sálfræðingur fyrst viðtal við brotaþola 19. febrúar 2016. Frásögn vitnisins H af samtali sínu við ákærða, sem greint er frá í skýrslu vitnisins hjá lögreglu 13. júní 2016, getur ekki ráðið hér úrslitum, enda var þá nokkuð liðið frá atvikinu, auk þess sem ekki verður ráðið af frásögninni að ákærði hafi þá reynt að nauðga brotaþola. Fyrir dómi kvaðst vitnið reyndar ekki muna eftir þessu samtali. Ekki þykir heldur unnt að byggja á framburði vitnisins G fyrir dómi þar sem hann og brotaþoli hafa verið kærustupar um langt skeið og í sambúð frá desember 2016. Loks hafa rifnar nærbuxur brotaþola sem afhentar voru lögreglu nokkru eftir umrætt atvik, svo og ljósmynd af þeim og kynfærum brotaþola, sem send var G 15. febrúar 2016, takmarkað sönnunargildi, þar sem ekki er ljóst að um sömu nærbuxur sé að ræða í báðum tilvikum.  Samkvæmt framanrituðu þykir slíkur vafi leika á um atvik samkvæmt þessum ákærulið, bæði um meintan verknað og ásetning ákærða, að ekki verður hjá því komist að sýkna hann af þeirri háttsemi sem hann er þar ákærður fyrir. 2. töluliður ákæru Samkvæmt þessum ákærulið er ákærði sakaður um að hafa nauðgað brotaþola að [...] í Kópavogi 22. febrúar 2016. Byggir ákæruvaldið á því að leggja beri til grundvallar framburð brotaþola um atvik, enda hafi hann verið stöðugur og óbreyttur frá upphafi, jafnt hjá lögreglu og fyrir dómi, sem og á Neyðarmóttöku LSH. Framburður vitnisins C styðji og framburð brotaþola. Þá telur ákæruvaldið framburð ákærða um að brotaþoli hafi samþykkt kynlíf ótrúverðugan í ljósi fyrri framkomu ákærða gagnvart brotaþola, svo og þess að brotaþoli hafði þá þegar flúið heimilið og dvaldi í Kvennaathvarfinu. Í skýrslu sinni hjá lögreglu 24. febrúar 2016 játaði ákærði að hafa haft kynmök við brotaþola umræddan dag, en hafnaði því alfarið að um nauðgun hafi verið að ræða. Hafi kynmökin verið með fullu samþykki brotaþola. Fyrir dómi kvaðst hann ekki muna nákvæmlega hvernig þetta gekk fyrir sig, en tók fram að þau hafi oft haft samfarir þegar brotaþoli kom í heimsókn til hans, og hafi það ávallt verið með samþykki brotaþola. Þá telur ákærði það rýra trúverðugleika framburðar brotaþola að hún hafi ekki greint lögreglu frá atviki þessu fyrr en tveimur dögum síðar. Í kæruskýrslu hjá lögreglu 24. febrúar 2016 greindi brotaþoli frá því atviki sem hér er til umfjöllunar. Hafa meginatriði frásagnar hennar verið rakin hér að framan og samrýmist hún lýsingu brotaþola í samantekt læknis sem skoðaði hana á Neyðarmóttöku LSH síðdegis 23. febrúar 2016. Þá kvaðst vitnið C minnast þess að brotaþoli hafi sagt henni að ákærði hafi nauðgað henni þennan dag. Brotaþoli mun hins vegar ekki hafa greint sálfræðingi frá umræddu atviki. Sannað er að ákærði og brotaþoli höfðu samfarir umrætt sinn, en þau greinir á um hvort það hafi verið með samþykki brotaþola. Ákærði fullyrðir að kynmökin hafi farið fram með samþykki brotaþola, en í skýrslu hans hjá lögreglu er eftir honum haft að brotaþoli hafi gefið „svona óljóst svar, en hún var ekki á móti því.“ Fyrir dómi kvaðst brotaþoli hafa sagt skýrt við ákærða að hún vildi ekki kynmök umrætt sinn, en ákærði hafi haft svo mikla stjórn yfir henni að hún taldi það skyldu sína að verða við ósk hans. Af þessum orðum brotaþola verður ekki annað ráðið en að brotaþoli hafi látið til leiðast og fallist á kynmökin þótt henni hafi verið það óljúft. Alltént verður að teljast ósannað að ákærði hafi haft ásetning til þess að þvinga brotaþola til kynmaka með þeim verknaðaraðferðum sem lýst er í þessum ákærulið. Að því virtu verður ákærði sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er þar gefin að sök. 3. töluliður ákæru Atvikum að baki þessum ákærulið hefur ítarlega verið lýst hér að framan. Telur ákæruvaldið hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um nauðgun og frelsissviptingu gagnvart brotaþola 23. febrúar 2016 og hafi brotin verið framin af ásetningi. Ákærði neitar sök og mótmælir því að nokkuð kynferðislegt hafi gerst milli hans og brotaþola þennan dag. Jafnframt neitar hann því staðfastlega að hafa frelsissvipt brotaþola. Eins og rakið er kom ákærði í skólann, þar sem brotaþoli var við íslenskunám, að morgni 23. febrúar 2016. Samkvæmt vætti kennara brotaþola fyrir dómi vildi hann hitta brotaþola og var ógnandi í framkomu. Þurfti kennarinn að vísa ákærða út, en brotaþoli virtist mjög hrædd og faldi sig fyrir honum. Að sögn brotaþola hafði ákærði reynt að hringja í hana um nóttina, en hún ekki svarað. Sagði brotaþoli hjá lögreglu að ástæða þess væri sú að hún hefði daginn áður skipt um símanúmer þar sem hún ætlaði ekki að ræða við ákærða frekar eftir atburði þess dags, þ.e. 22. febrúar 2016. Af framlögðu yfirliti lögreglu um símanotkun ákærða og brotaþola má sjá að ákærði hringdi 33 sinnum í síma brotaþola á tímabilinu frá kl. 02:57 til kl. 11:36, án þess að brotaþoli svaraði. Í skýrslu brotaþola hjá lögreglu kemur fram að skóla lauk kl. 11:35 og hófst þá sú atburðarás sem hér er til umfjöllunar. Frásögn brotaþola af því sem gerðist, er komið var í íbúð ákærða umrætt sinn og allt þar til þau komu á lögreglustöð síðdegis þennan dag, hefur verið óbreytt og stöðug frá upphafi. Að vísu gætir misræmis í framburði brotaþola fyrir dómi og hjá lögreglu um hvenær ákærði þvingaði brotaþola til munnmaka. Þannig sagði hún hjá lögreglu að ákærði hefði gert það áður en eldri sonur þeirra kom í íbúðina, en fyrir dómi sagði hún að þetta hefði gerst á meðan báðir drengirnir voru í íbúðinni og hefði ákærði lokað þá inni í herbergi. Hefur þetta þó engin áhrif á trúverðugleika framburðar brotaþola og verður hann, gegn neitun ákærða, en með stoð í framburði vitna um ástand og líðan brotaþola fyrir og eftir brot ákærða, lagður til grundvallar sem sönnun fyrir sekt ákærða. Vísast í þessu efni til framburðar kennara brotaþola, lögreglumanna sem komu að frumrannsókn málsins, skýrslu og framburðar læknis á Neyðarmóttöku LSH, ásamt vottorði og framburði sálfræðings er annaðist brotaþola. Samkvæmt því verður ákærði sakfelldur fyrir að hafa í umrætt sinn, gegn vilja brotaþola, þvingað hana með ofbeldi til að veita sér munnmök og sleikja á honum punginn. Varðar háttsemi þessi við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Samkvæmt ákæru er háttsemi ákærða umræddan dag einnig talin varða við 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga, en samkvæmt því ákvæði skal hver sem sviptir annan mann frelsi sínu sæta fangelsi allt að fjórum árum. Byggir ákæruvaldið á því að ákærði hafi hindrað brotaþola í því að hún kæmist frá honum allt frá hádegi til kl. 17:40 og því hafi brotaþoli í raun verið svipt frelsi þann tíma. Þessu til stuðnings vísar ákæruvaldið til framburðar brotaþola fyrir dómi og hjá lögreglu. Ákærði neitar þessu og mótmælir því að hann hafi á nokkurn hátt hindrað brotaþola í að yfirgefa íbúðina eða hann síðar þennan sama dag. Íbúðin hafi verið ólæst og hafi þau síðan ekið saman á ýmsa staði, þar sem brotaþola hafi verið frjálst að yfirgefa bílinn hafi hún kosið það. Í málinu liggur fyrir að ákærði settist í framsætið í bíl brotaþola í þann mund er hún var að aka frá skólanum skömmu fyrir hádegið 23. febrúar 2016. Þaðan lá leið þeirra í íbúð ákærða. Nokkru eftir að þangað var komið kom eldri sonur þeirra í íbúðina og dvaldi þar allt til þess er ákærði og brotaþoli yfirgáfu íbúðina um kl. 15:00, en sonur þeirra fór þá til vinar síns. Fram er komið að á þeim tíma er þau dvöldu í íbúðinni fór ákærði tvisvar á baðherbergið og í fyrra skiptið í bað. Eftir þetta óku þau um, m.a. á leigumiðlun, þar sem þau gengu frá nafnabreytingu á leigusamningi um íbúðina. Nutu þau þar aðstoðar túlks, vitnisins H. Fyrir dómi sagði túlkurinn að henni hafi virst sem brotaþola liði illa, hún hafi verið óstyrk og ólík sjálfri sér. Frá leigumiðluninni var síðan ekið um, m.a. á bílasölu og í Hagkaup í Garðabæ, þar sem þau hittu túlkinn. Fyrir dómi sagði brotaþoli að ákærði hafi tekið af henni símann þegar í íbúðina var komið og neitað henni um að yfirgefa húsið. Kvaðst hún heldur ekki hafa þorað að flýja frá ákærða, hvorki er hún dvaldi í íbúðinni, né síðar um daginn. Hafi hún óttast að ákærði lemdi hana. Dómurinn fellst ekki á að sú háttsemi sem hér að framan er lýst geti talist frelsissvipting í skilningi 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga. Er þá sérstaklega til þess horft að ekki er sýnt að brotaþola hafi með beinum eða óbeinum hætti verið haldið fanginni eða á þann hátt að henni væri illmögulegt að koma sér úr þeim aðstæðum sem þar er lýst og yfirgefa ákærða. Þvert á móti verður ekki annað ályktað en að til þess hafi gefist fjölmörg tækifæri. Að þessu gættu verður ákærði sýknaður af því að hafa í umrætt sinn svipt brotaþola frelsi sínu. 4. töluliður ákæru Í þessum lið er ákærða gefið að sök brot í nánu sambandi, með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæruliðum 1 til 3 ógnað heilsu og velferð þáverandi maka síns með ítrekuðu og alvarlegu ofbeldi og nauðung sem stóð yfir í langan tíma. Er brot þetta talið varða við 218. gr. b. í almennum hegningarlögum. Með lögum nr. 23/2016, um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940, var 218. gr. b. skeytt við gildandi hegningarlög. Lögin tóku gildi 5. apríl 2016 og því nokkru eftir þau atvik sem ákært er fyrir samkvæmt 1. til 3. tölulið ákæru. Verður ákærða þar af leiðandi ekki gerð refsing á grundvelli ákvæðisins, sbr. 1. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og hann því sýknaður af þeirri háttsemi er í þessum ákærulið greinir. 5. töluliður ákæru Eins og áður greinir var sonur ákærða og brotaþola, D, yfirheyrður í Barnahúsi 8. febrúar 2016. Drengurinn var þá níu ára gamall og greindi frá því að ákærði, faðir hans, væri oft að horfa á klámmyndir og hristi þá á sér typpið í sófastólnum. Sagðist drengurinn oft hafa séð þetta og gerði pabbi hans þetta alltaf þegar hann væri fullur. Vitnið E, sálfræðingur hjá barnavernd Kópavogs, sagði fyrir dómi að drengurinn hefði einnig sagt henni frá þessu í samtali þeirra 21. janúar 2016. Brotaþoli hefur jafnframt ítrekað, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, en einnig í samtölum við B sálfræðing, greint frá því að ákærði horfi á klámmyndir og frói sér þá að henni og drengnum ásjáandi. Er framburður brotaþola og sonar hennar trúverðugur og engin efni til að draga hann í efa. Gegn neitun ákærða verður hann lagður til grundvallar sem sönnun fyrir sekt ákærða. Með háttsemi sinni hefur ákærði sært blygðunarsemi drengsins og sýnt af sér ruddalegt og ósiðlegt athæfi. Við aðalmeðferð málsins benti ákærði á að bæði brotaþoli og synir hans hefðu flutt í Kvennaathvarfið 21. janúar 2016 og því stæðist ekki að hann hefði sýnt af sér þá háttsemi sem þessi ákæruliður lýtur að til 31. janúar það ár. Ábending þessi á við rök að styðjast og verður ákærði því sakfelldur fyrir þessa háttsemi frá 31. desember 2015 til 21. janúar 2016. Telst brot hans varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Af sömu ástæðu og um er fjallað hér að ofan undir 4. tölulið verður ákærði á hinn bóginn sýknaður af broti gegn 218. gr. b. almennra hegningarlaga. II Samkvæmt framanrituðu hefur ákærði verið fundinn sekur um nauðgun gegn þáverandi eiginkonu sinni 23. febrúar 2016 og blygðunarsemis- og barnaverndarlagabrot gagnvart syni sínum á tímabilinu frá 31. desember 2015 til 21. janúar 2016. Að auki hefur hann játað að hafa ítrekað gerst sekur um ótal brot gegn nálgunarbanni samkvæmt töluliðum 6 til 10  í ákæru, og eru þau brot rétt heimfærð til 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Loks hefur hann játað brot gegn lögum um fjarskipti, sbr. 11. tölulið ákæru, og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða. Ákærði er fæddur í [...] árið 1980. Framlagt sakavottorð frá sakaskrá ríkisins hefur ekki áhrif við ákvörðun refsingar hans. Vegna óskýrleika þykir ekki unnt að líta til sakavottorðs hans frá sakaskrá ríkisins í Póllandi, en ákæruvaldið lagði það fram við upphaf aðalmeðferðar  málsins. Með hliðsjón af öllu framangreindu, sbr. og 1. og 8. tl. 1. mgr. og 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 24. febrúar 2016 til 4. mars sama ár. Þá er með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. sömu laga fallist á kröfu ákæruvaldsins um upptöku á GPS- staðsetningartæki af gerðinni Scope, sem lögreglna lagði hald á. Af hálfu brotaþola, A, er krafist miskabóta að fjárhæð 3.000.000 króna. Brot ákærða voru til þess fallin að valda brotaþola andlegri vanlíðan og ótta. Vísast um það til vættis sálfræðings brotaþola fyrir dómi, svo og vottorðs sama sálfræðings, en þar kemur fram að brotaþoli var í 19 viðtölum á tímabilinu frá 19. febrúar 2016 til 26. janúar 2017. Enn fremur er vísað til skýrslu læknis er skoðaði brotaþola á Neyðarmóttöku LSH 23. febrúar 2016. Samkvæmt því, og með vísan til b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur sem þykja hæfilega ákveðnar 1.600.000 krónur, auk vaxta eins og greinir í dómsorði. Sami brotaþoli hefur einnig krafist miskabóta að fjárhæð 1.200.000 krónur fyrir hönd ólögráða sonar síns, D. Þar sem ekki nýtur við neinna sérfræðigagna um að drengurinn hafi hlotið skaða eða andlega vanlíðan af háttsemi ákærða er krafa þessi vanreifuð. Óhjákvæmilegt er því að vísa henni frá dómi. Þar sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir sum þeirra brota sem ákæra lýtur að, en sýknaður af öðrum, verður honum, með vísan til 2. málsliðar 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 68. gr. laga nr. 49/2016, gert að greiða helming alls sakarkostnaðar málsins, en hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði. Samkvæmt framlögðum reikningum nemur kostnaður vegna rannsóknar lögreglu og vottorðs sálfræðings alls 580.245 krónum, og verður ákærða gert að greiða helming þeirrar fjárhæðar. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjólfs Eyvindssonar lögmanns, eru hæfilega ákveðin 1.370.200 krónur og verður ákærða einnig gert að greiða helming þeirrar fjárhæðar. Þá verður ákærða gert að greiða helming þóknunar skipaðs réttargæslumanns A, Sigurðar Freys Sigurðssonar lögmanns, sem í heild ákveðst 1.623.160 krónur, auk helmings þóknunar réttargæslumanns sama brotaþola á rannsóknarstigi málsins, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns, 77.812 krónur. Loks verður ákærði dæmdur til að greiða helming þóknunar réttargæslumanns D, Jóhönnu Sigurjónsdóttur lögmanns, sem í heild ákveðst 737.800 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ingimundur Einarsson héraðsdómari kveður upp dóminn. D ó m s o r ð: Ákærði, X, sæti fangelsi í fjögur ár. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 24. febrúar 2016 til 4. mars 2016. Upptækt skal gert GPS- staðsetningartæki af gerðinni Scope. Ákærði greiði A 1.600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. febrúar 2016 til 18. desember 2017, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Vísað er frá dómi einkaréttarkröfu A, fyrir hönd ólögráða sonar hennar, D.  Ákærði greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar lögmanns, sem í heild nemur 1.370.200 krónum, helming þóknunar til réttargæslumanna A, Sigurðar Freys Sigurðssonar lögmanns, sem í heild nemur 1.623.160 krónum og 77.812 krónum til Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur lögmanns, auk helmings þóknunar til réttargæslumanns D, Jóhönnu Sigurjónsdóttur lögmanns, sem í heild nemur 737.800 krónum. Þá greiði ákærði helming annars sakarkostnaðar, sem alls nemur 580.245 krónum. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.    
Mál nr. 5/2020
Skaðabætur Líkamstjón Vinnuslys Árslaun Frávísun frá Hæstarétti að hluta Gjafsókn
A krafði T hf. um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir við það að veggskápur féll ofan á hana er hún var við vinnu sem tanntæknir á tannlæknastofunni B slf. Hafði A hafið störf hjá B slf. þremur vikum fyrir slysið og var starfshlutfall hennar 70%. Í málinu deildu aðilar um hvort stofnast hefði til skaðabótaábyrgðar vinnuveitanda sem T hf. bæri að bæta úr ábyrgðartryggingu og ef svo væri hvort bætur fyrir varanlega örorku ætti að reikna miðað við árslaun A eftir meginreglunni í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eða hvort meta ætti árslaunin sérstaklega samkvæmt 2. mgr. sömu greinar. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að lögmaður T hf. hafði sent lögmanni A fyrirvaralausa yfirlýsingu T hf. um að ákveðið hefði verið að una dómi Landsréttar og hefði með því sakarefni málsins verið ráðstafað og áfrýjun málsins ósamrýmanleg því. Var því kröfum T hf. í aðalsök vísað frá Hæstarétti. Þá var talið að þátttaka A á vinnumarkaði á árunum 2011 til 2013 hefði verið frábrugðin fyrri atvinnuþátttöku hennar. Með hliðsjón af því að A hefði verið í námi og atvinnulaus hluta af umræddu tímabili, auk þess sem hún hefði verið í hlutastarfi og unnið um skeið við annað en hún hafði menntun til, var talið að aðstæður hennar hefðu verið óvenjulegar. Laun hennar á því árabili voru því ekki talin gefa rétta mynd af framtíðartekjum hennar og af þeim sökum var talið að meta yrði árslaun hennar sérstaklega eftir heimild í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þá var talið eftir gögnum málsins að ætla mætti að A hefði aukið starfshlutfall sitt þegar börn hennar yrðu eldri auk þess sem gera mætti ráð fyrir að hún hefði nýtt starfsgetu sína við heimilisstörf sem svaraði til skerts starfshlutfalls en þau væru samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga lögð að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Var fallist á með A að miða bæri árslaun hennar við þau laun sem hún hafði hjá B slf. miðað við fullt starf.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon og Viðar Már Matthíasson, fyrrverandi hæstaréttardómari. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. janúar 2020. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda en til vara að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi gagnáfrýjanda á öllum dómstigum. Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 13. febrúar 2020. Hún krefst þess að kröfum aðaláfrýjanda í aðalsök verði vísað frá Hæstarétti. Jafnframt krefst hún þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 14.785.959 krónur með 4,5% ársvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 5. september 2014 til 29. júlí 2017 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi aðaláfrýjanda á öllum dómstigum án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. I Gagnáfrýjandi er lærður tanntæknir og starfaði í þeirri grein hjá B slf. Við þá vinnu varð hún fyrir slysi 5. september 2014 þegar skápur losnaði af vegg og féll á hana. Vinnuveitandinn var með ábyrgðartryggingu hjá aðaláfrýjanda og beinir hún kröfum sínum um bætur að honum. Í málinu deila aðilar um hvort stofnast hafi til skaðabótaábyrgðar vinnuveitanda sem aðaláfrýjanda beri að bæta úr tryggingunni. Verði fallist á það er jafnframt ágreiningur með aðilum um hvort bætur fyrir varanlega örorku eigi að reikna miðað við árslaun gagnáfrýjanda eftir meginreglunni í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eða hvort meta eigi árslaunin sérstaklega samkvæmt 2. mgr. sömu greinar. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að skaðabótaábyrgð vinnuveitanda væri fyrir hendi og ákvað bætur fyrir varanlega örorku eftir árslaunum sem metin voru sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga út frá launum hennar í veikindaforföllum hjá B slf. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um skaðabótaábyrgðina en ákvað bætur fyrir varanlega örorku miðað við tekjur gagnáfrýjanda þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysið, sbr. 1. mgr. sömu greinar. Þá vísaði rétturinn kröfu um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón frá héraðsdómi. Aðaláfrýjandi sótti um áfrýjunarleyfi 5. desember 2019 en þeirri beiðni andmælti gagnáfrýjandi meðal annars af þeirri ástæðu að hún teldi aðaláfrýjanda hafa fyrirgert rétti sínum til áfrýjunar með því að tilkynna gagnáfrýjanda að tekin hefði verið ákvörðun um að una dómi Landsréttar. Gagnáfrýjandi sótti jafnframt um áfrýjunarleyfi 6. sama mánaðar til að fá endurskoðaða niðurstöðu dómsins um ákvörðun árslauna samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga við útreikning bóta fyrir varanlega örorku. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um þau atriði sem beiðnir aðila um áfrýjunarleyfi voru reistar á. II Gagnáfrýjandi hóf störf sem tanntæknir hjá B slf. 15. ágúst 2014. Þegar hún hafði starfað þar í þrjár vikur, eða að morgni 5. september það ár, varð hún fyrir áðurgreindu vinnuslysi. Mun hún hafa verið að leggja frá sér bakka með glösum á borð er stóð við skáp þegar hann hrundi af veggnum og á hana. Skápurinn mun hafa lent á höfði og öxlum gagnáfrýjanda sem féll í gólfið við höggið. Kölluð var til sjúkrabifreið sem flutti hana á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Jafnframt kom lögregla á vinnustaðinn í umrætt sinn. Í skýrslu lögreglu vegna málsins sagði að haft hefði verið samband við Vinnueftirlitið og gerð grein fyrir slysinu en eftirlitið hefði ekki séð ástæðu til að koma á vettvang. Skápurinn sem féll á gagnáfrýjanda var keyptur í verslun IKEA 27. nóvember 2012 og fékk vinnuveitandinn trésmið til að setja hann upp. Skápurinn var af gerðinni Faktum og var um að ræða þrjár einingar sem festar voru saman og vógu samtals 78,9 kg. Samkvæmt fyrrgreindri lögregluskýrslu var skápurinn festur á gifsvegg með níu skrúfum, fimm að ofan og fjórum að neðan. Samkvæmt vinnuseðli trésmiðsins lagði hann til festingar fyrir skápinn. Samkvæmt læknisvottorði frá bráðamóttöku Landspítalans var gagnáfrýjandi við komu á spítalann með grunnan 4 cm langan skurð hliðlægt vinstra megin á höfði, auk þreifieymsla yfir hryggjartindum og í herðavöðvum vinstra megin. Jafnframt hefði mar sjáanlega verið byrjað að myndast aftan á vinstri öxl og eymsli verið yfir liðamótum viðbeins og herðablaðs en full hreyfigeta í öxlinni. Í vottorðinu stóð einnig að gagnáfrýjandi hefði tognað á hálsi og gæti hafa fengið vægan heilahristing. Í kjölfar slyssins var gagnáfrýjandi að mestu frá störfum vegna afleiðinga þess og hætti þeim 25. febrúar 2015. Hún hefur verið óvinnufær síðan. Með bréfi 24. mars 2015 óskaði gagnáfrýjandi eftir því að B slf. tæki afstöðu til bótaábyrgðar vegna slyssins. Því bréfi var einnig beint að aðaláfrýjanda sem svaraði erindinu með tölvubréfi 31. sama mánaðar. Þar var viðurkennt að slysið væri bótaskylt úr slysatryggingu launþega sem tekin hefði verið hjá aðaláfrýjanda. Einnig kom fram að vinnuveitandinn væri með frjálsa ábyrgðartryggingu hjá félaginu en senda þyrfti rökstudda kröfu í þá tryggingu svo að afstaða yrði tekin til ábyrgðar félagsins. Með bréfi 9. júní 2015 sendi gagnáfrýjandi slíka kröfu til aðaláfrýjanda sem hafnaði henni með bréfi 12. febrúar 2016 af þeirri ástæðu að félagið teldi að slysið yrði ekki rakið til atriða sem vinnuveitandinn bæri skaðabótaábyrgð á. Gagnáfrýjandi fékk 27. maí 2016 dómkvadda tvo menn til að meta líkamstjón sitt vegna slyssins. Í matsgerð þeirra 21. nóvember sama ár var talið að ekki væri að vænta frekari bata eftir að ár var liðið frá slysinu 5. september 2015. Tímabundið atvinnutjón var talið hafa orðið frá 5. september 2014 til 21. sama mánaðar, aftur frá 3. október til 19. nóvember sama ár og loks frá 25. febrúar 2015 til 5. september sama ár. Þjáningarbótatímabil án rúmlegu var talið það sama. Þá var varanlegur miski metinn 15 stig en varanleg örorka 25%. III Eftir að hinn áfrýjaði dómur féll sendi lögmaður gagnáfrýjanda tölvubréf 25. nóvember 2019 til lögmanns aðaláfrýjanda þar sem óskað var upplýsinga um hvort aðaláfrýjandi vildi greiða tildæmda fjárhæð þótt frestur til að leita eftir áfrýjunarleyfi væri ekki liðinn. Jafnframt var spurt um afstöðu aðaláfrýjanda til greiðslu bóta fyrir tímabundið atvinnutjón og hvort til greina kæmi að semja um þann kröfulið eða hvort höfða ætti annað mál um hann. Þessu erindi svaraði lögmaður aðaláfrýjanda með tölvubréfi daginn eftir þar sem kom fram að erindið hefði verið framsent aðaláfrýjanda til að taka afstöðu til þess. Lögmaður aðaláfrýjanda fékk tölvubréf 29. nóvember 2019 frá umbjóðanda sínum þar sem fram kom að tekin hefði verið sú ákvörðun að „una dómi Landsréttar“ og yrðu bætur greiddar í samræmi við hann. Jafnframt yrði samhliða tekin afstaða til tímabundna atvinnutjónsins. Þessa yfirlýsingu framsendi lögmaður aðaláfrýjanda með tölvubréfi 2. desember sama ár til lögmanns gagnáfrýjanda með svofelldum skilaboðum: „Sjá svar TM hér að neðan.“ Lögmaður aðaláfrýjanda sendi lögmanni gagnáfrýjanda aftur tölvubréf 3. desember 2019 þar sem vísað var til þess að gengið hefði dómur í Landsrétti 29. nóvember sama ár í máli nr. 217/2019 þar sem vinnuveitandi var ekki talinn bera ábyrgð á því að Vinnueftirlitið hefði ekki talið ástæðu til vettvangsrannsóknar vegna tilkynningar sem því hefði borist um slys. Þetta væri önnur niðurstaða en í máli gagnáfrýjanda og því hefði verið ákveðið að óska eftir leyfi til áfrýjunar dómsins til Hæstaréttar. Þessu bréfi svaraði lögmaður aðaláfrýjanda með tölvubréfi sama dag en þar sagði svo: „... já en í því máli var raunveruleg tilkynning öfugt við það sem við höfum verið að kljást um hingað til. Himinn og haf er á milli símtals frá lögreglu annars vegar og skriflegrar tilkynningar vinnuveitanda hins vegar, sér í lagi þegar að tildrög slyssins liggja ekki fyrir.“ Með því að senda lögmanni gagnáfrýjanda fyrirvaralausa yfirlýsingu aðaláfrýjanda um að ákveðið hefði verið að una dómi Landsréttar var sakarefni málsins ráðstafað og var áfrýjun dómsins ósamrýmanleg því. Þá verður ekki fallist á það með aðaláfrýjanda að gagnáfrýjandi hafi í kjölfar þess samþykkt áfrýjun dómsins eða í öllu falli að hún stæði ekki í vegi fyrir því að málinu yrði áfrýjað af aðaláfrýjanda, þótt lögmaður hennar hafi svarað á þann veg sem hann gerði í síðastgreindu tölvubréfi. Samkvæmt þessu verður tekin til greina krafa gagnáfrýjanda um að vísað verði frá Hæstarétti kröfum aðaláfrýjanda í aðalsök. IV Aðaláfrýjandi heldur því fram að við útreikning skaðabóta fyrir varanlega örorku gagnáfrýjanda eigi að miða árslaun hennar við meðaltekjur síðustu þrjú almanaksárin fyrir slysið, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þannig reiknaðar námu meðaltekjur hennar á því tímabili 3.958.727 krónum að teknu tilliti til launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku er miðað við. Gagnáfrýjandi reisir aftur á móti þessa kröfu sína á því að ákveða eigi árslaunin sérstaklega á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laganna. Telur hún að aðstæður sínar á árunum 2011 til 2013 hafi verið óvenjulegar og endurspegli ekki líklegar framtíðartekjur sínar. Þess í stað miðar hún við þau laun sem hún fékk í veikindaforföllum í sjö mánuði eftir slysið og svara til launa fyrir fullt starf sem tanntæknir. Samkvæmt því og að teknu tilliti til launavísitölu námu árslaunin 5.164.168 krónum. Eins og áður greinir féllst héraðsdómur á kröfu gagnáfrýjanda reiknaða á þessum grunni en Landsréttur tók til greina málatilbúnað aðaláfrýjanda og dæmdi bætur miðað við tekjur hennar á fyrrgreindu árabili. Gagnáfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt afrit af skattframtölum sínum vegna áranna 2001 til 2010. Hún hóf störf sem tanntæknir eftir að hafa lokið námi í þeirri grein árið 2001 og starfaði samfellt við það til ársbyrjunar 2013 ef frá er talið fæðingarorlof vegna tveggja barna hennar sem hún eignaðist á árunum 2004 og 2009 og launalaust leyfi sem hún tók á árinu 2005. Ef þau ár eru ekki talin með heldur aðeins litið til áranna 2002, 2003, 2006, 2007, 2008 og 2010 námu árlegar meðaltekjur hennar 4.435.243 krónum, framreiknaðar eftir launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku er miðað við. Þá er þess einnig að geta að árlegar tekjur hennar síðustu tvö árin áður en hún eignaðist eldra barn sitt námu ríflega 5 milljónum króna, framreiknaðar með sömu vísitölu. Jafnframt liggur fyrir að samkvæmt launakönnun í júní 2014 námu meðallaun tanntækna á mánuði 367.600 krónum.   Þátttaka gagnáfrýjanda á vinnumarkaði á árunum 2011 til 2013 var frábrugðin fyrri atvinnuþátttöku hennar að því leyti að hún var í hlutastarfi sem tanntæknir á árunum 2011 og 2012 og hvarf frá því starfi í ársbyrjun 2013. Þá hóf hún störf á leikskóla haustið 2013 þar sem hún starfaði fram á næsta ár. Samhliða starfaði hún lítillega hjá fyrirtæki sambúðarmanns síns. Einnig stundaði hún skrifstofunám og lauk því vorið 2013 en var um skeið án vinnu og fékk greiddar atvinnuleysisbætur á því ári. Hún hóf störf 15. ágúst 2014 hjá B slf., eins og áður greinir, en þar var starfshlutfall hennar 70%. Með hliðsjón af því að gagnáfrýjandi var í námi og atvinnulaus hluta af umræddu tímabili, auk þess sem hún var í hlutastarfi og vann um skeið við annað en hún hafði menntun til, voru aðstæður hennar óvenjulegar. Laun hennar á því árabili verða því ekki talin gefa rétta mynd af framtíðartekjum hennar og annar grundvöllur vera réttari. Er þá einnig litið til tekjusögu hennar og fjölskylduaðstæðna. Af þeim sökum verður að meta árslaun hennar sérstaklega eftir heimild í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Svo sem áður greinir var gagnáfrýjandi í hlutastarfi þegar hún varð fyrir slysinu. Eftir gögnum málsins má ætla að hún hefði aukið starfshlutfall sitt þegar börn hennar yrðu eldri auk þess sem gera má ráð fyrir að hún hefði nýtt starfsgetu sína við heimilisstörf sem svarar til skerts starfshlutfalls. Verður í þeim efnum að líta til þess að verðmæti vinnu við heimilisstörf skal samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga lagt að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Um þetta má til hliðsjónar benda á dóm Hæstaréttar 7. júní 2001 í máli nr. 451/2000. Að þessu gættu verður fallist á með gagnáfrýjanda að miða beri árslaun hennar við þau laun sem hún hafði hjá B slf. miðað við fullt starf, enda hefur aðaláfrýjandi ekki bent á annan og réttari grundvöll til að ákveða árslaunin. Einnig er til þess að líta að kröfu hennar er í hóf stillt en hún er lítillega lægri en meðallaun tanntækna samkvæmt fyrrgreindri launakönnun. Samkvæmt framansögðu nema bætur vegna varanlegrar örorku gagnáfrýjanda 14.319.759 krónum, en þær miða við árslaun að fjárhæð 5.164.168 krónur þegar tekið hefur verið tillit til 8% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð, margfaldað með örorku gagnáfrýjanda og stuðlinum 11,092 í samræmi við aldur hennar við upphaf varanlegrar örorku, sbr. 6. gr. skaðabótalaga. Við þetta bætast 466.200 krónur vegna þjáningarbóta, sbr. 3. gr. laganna, en sú krafa er ekki til endurskoðunar hér fyrir dómi. Alls verður því aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda 14.785.959 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest. Um málskostnað og gjafsóknarkostnað hér fyrir dómi fer eins og greinir í dómsorði.        Dómsorð: Kröfum aðaláfrýjanda, TM hf., í aðalsök er vísað frá Hæstarétti. Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda, A, 14.785.959 krónur með 4,5% ársvöxtum af 466.200 krónum frá 5. september 2014 til 5. september 2015, af 14.785.959 krónum frá þeim degi til 29. júlí 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu óröskuð. Aðaláfrýjandi greiði 1.400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.400.000 krónur.       Dómur Landsréttar 8. nóvember 2019. Mál þetta dæma landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Hervör Þorvaldsdóttir og Ragnheiður Harðardóttir. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 6. desember 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2018 í málinu nr. E-2169/2017. 2        Áfrýjandi krefst þess aðallega að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og hann sýknaður af öllum kröfum stefndu en til vara að dæmdar bætur verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. 3        Stefnda krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Til vara er þess krafist að áfrýjanda verði gert að greiða henni 14.354.242 krónur ásamt 4,5% vöxtum frá 5. september 2014 til 29. júlí 2017 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Landsrétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla. Málsatvik 4        Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi eru atvik málsins þau að veggskápur féll ofan á stefndu er hún var við vinnu á tannlæknastofu sem tanntæknir 5. september 2014 með þeim afleiðingum að hún varð fyrir varanlegu líkamstjóni. 5        Af hálfu stefndu er á því byggt að aðstæður á vinnustaðnum hafi ekki verið forsvaranlegar og ekki staðist þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða. Áfrýjandi byggir á hinn bóginn á því að stefnda hafi ekki fært sönnur á að rekja megi slysið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi vátryggingartaka. Niðurstaða 6        Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 skal atvinnurekandi án ástæðulausrar tafar tilkynna Vinnueftirliti ríkisins öll slys þar sem starfsmaður verður óvinnufær í einn eða fleiri daga. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar skal atvinnurekandi innan viku tilkynna skriflega um slysið til Vinnueftirlits ríkisins. 7        Fyrir liggur að vátryggingartaki og vinnuveitandi stefndu tilkynnti Vinnueftirliti ríkisins ekki um slysið. Á hinn bóginn var lögreglu tilkynnt um það og kom hún á vettvang, tók myndir og ritaði skýrslu þar sem tildrögum slyss var lýst í stuttu máli. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að haft hafi verið samband við Vinnueftirlit ríkisins að frumkvæði lögreglu og því gerð grein fyrir slysinu en það hefði ekki séð „ástæðu til að koma á vettvang“. 8        Ágreiningur er um orsök þess að skápurinn féll á stefndu en af hennar hálfu er meðal annars á því byggt að skápurinn hafi verið ofhlaðinn. Með rannsókn Vinnueftirlits ríkisins á orsökum slyssins hefði verið unnt að staðreyna hvort svo hafi verið miðað við þær festingar sem voru notaðar til að hengja hann upp á vegginn og uppgefna burðargetu. Vátryggingartaki getur ekki firrt sig ábyrgð með því að vísa til þess að það hafi verið hlutverk lögreglu og Vinnueftirlits ríkisins að rannsaka orsakir slyssins, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 19. mars 2009 í máli nr. 363/2008 og 4. febrúar 2010 í máli nr. 286/2009. Áfrýjandi hefur borið því við að líklegasta orsök slyssins sé sú að skápurinn hafi ekki verið réttilega festur upp af hálfu sjálfstæðs verktaka sem vátryggingartaki beri ekki ábyrgð á. Þessi málsástæða áfrýjanda getur ekki komið til athugunar þar sem hann hefur ekki stutt hana við matsgerð dómkvadds matsmanns eða önnur haldbær sérfræðileg gögn. Að öllu þessu virtu er óhjákvæmilegt að áfrýjandi beri hallann af því að ekki hafi farið fram viðhlítandi rannsókn á orsökum slyss stefndu. Af því leiðir að vátryggingartaki telst ekki hafa gætt þess á fullnægjandi hátt að vinnustaður stefndu væri þannig úr garði gerður að þar væri gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 46/1980 og 1. tölulið 3. gr. reglna nr. 581/1995. 9        Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi reisir stefnda aðalkröfu sína um skaðabætur á 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Byggir hún á því að aðstæður hennar síðustu þrjú almanaksárin fyrir slysdag hafi verið óvenjulegar og gefi tekjur hennar þau ár því ekki rétta mynd af líklegum framtíðartekjum. Miðast aðalkrafa stefndu við full laun tanntæknis í 100% starfi en gögn málsins bera með sér að hún hafði síðustu þrjú almanaksárin fyrir slysdag einungis gegnt því starfi sem hlutastarfi. Samkvæmt gögnum málsins lauk stefnda námi sem tanntæknir árið 2001 og sinnti því starfi til 2012 er hún ákvað að fara í nám í Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum sem hún lauk árið 2013. Af hálfu stefndu hafa ekki verið lögð fram skattframtöl fyrir tekjuárin 2001 til 2010 er hún starfaði sem tanntæknir og liggja engar upplýsingar fyrir um laun hennar á því tímabili. Verður því ekki ráðið af gögnum málsins hvort og þá hvaða áhrif nánar tilgreindar aðstæður stefndu tekjuárin 2011 til 2013 hafi haft á tekjur hennar. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki talið að stefnda hafi sýnt fram á að annar mælikvarði en tekjur hennar árin 2011 til 2013 gefi réttari mynd af líklegum framtíðartekjum hennar, sbr. skilyrði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt því verður við uppgjör skaðabóta að horfa til tekna hennar árin 2011, 2012 og 2013, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. 10       Varakrafa stefndu um bætur fyrir varanlega örorku byggir á árslaunaviðmiði þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt 9. gr. skaðabótalaga skal við útreikning bóta reiknað með að margfeldisstuðull samkvæmt 6. gr. laganna breytist hlutfallslega jafnt milli töflugilda sem þar eru tilgreind en þau miðast við upphaf aldursárs. Fyrir liggur að stefnda var 37 ára og 168 daga gömul 15. september 2015 sem upphaf varanlegrar örorku hennar miðast við. Við útreikning viðmiðunarlauna bar stefndu því að notast við margfeldisstuðulinn 11,092 en ekki 11,317. Að því gættu nemur krafa hennar um bætur fyrir varanlega örorku 10.902.058 krónum (3.931.503 x 11,092 x 0,25). 11       Krafa stefndu um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón er í málatilbúnaði hennar reiknuð hlutfallslega út frá meðalatvinnutekjum hennar eins og þær voru reiknaðar út samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna skal ákveða bætur fyrir tímabundið atvinnutjón miðað við raunverulegt fjártjón sem tjónþoli hefur orðið fyrir. Í kröfugerð stefndu er ekki að finna sundurliðun á þeim tekjum sem hún naut á tímabilinu frá slysdegi 5. september 2014 til 5. september 2015 sem upphaf varanlegrar örorku hennar miðast við. Þar er ekki heldur að finna neinar upplýsingar um hvort og þá hvaða greiðslna hún hafi notið á þessu tímabili sem koma skulu til frádráttar samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga. Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að vísa þessum kröfulið stefndu frá dómi án kröfu vegna vanreifunar, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 12       Í kröfugerð stefndu um þjáningarbætur samkvæmt 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga er miðað við dagafjöldann 256 sem átti samkvæmt hennar eigin málatilbúnaði að vera 252 dagar. Að því gættu nemur fjárhæð þessa kröfuliðar 466.200 krónum. 13       Samkvæmt öllu framangreindu verður varakrafa stefndu tekin til greina að því marki sem rakið hefur verið hér að framan. Verður áfrýjanda því gert að greiða stefndu 11.368.258 krónur (10.902.058 + 466.200) í skaðabætur. Vaxtakrafa stefndu er tekin til greina en samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga miðast upphafstími vaxta fyrir varanlega örorku við 5. september 2015. 14       Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir og rennur í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu í héraði og fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, eins og nánar segir í dómsorði. Dómsorð: Áfrýjandi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði stefndu, A, 11.368.258 krónur, ásamt 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 466.200 krónum frá 5. september 2014 til 5. september 2015 en af 11.368.258 krónum frá þeim degi til 29. júlí 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Kröfulið stefndu um bætur samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er vísað frá héraðsdómi. Áfrýjandi greiði samtals 2.400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti, er renna í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar í héraði og fyrir Landsrétti, 2.400.000 krónur.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur  12. nóvember 2018 Mál þetta er höfðað með birtingu stefnu þann 27. júní 2017. Stefnandi er A, [...], Mosfellsbæ og stefndi Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079, Síðumúla 24 Reykjavík. Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur: Aðallega að stefndi verði dæmdur til greiðslu að fjárhæð 21.721.912 krónur- með  4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 5. september 2014 til 29. júlí 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu að fjárhæð 14.354.242 krónum með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 5. september 2014 til 29. júlí 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar.   I. Málsatvik                 Stefnandi starfaði sem tanntæknir hjá B slf. frá 15. ágúst 2014. Stefnandi slasaðist í vinnuslysi þann 5. september sama ár. Slysið varð með þeim hætti að skápur í vinnurými á tannréttingastofunni féll í heilu lagi niður af veggnum á stefnanda. Lögregla og sjúkrabíll voru kvödd á vettvang, auk þess sem haft var samband við Vinnueftirlitið, sem sá ekki ástæðu til að koma á vettvang. Stefnandi var flutt með sjúkrabifreið á bráðadeild Landspítalans. Samkvæmt læknisvottorði var stefnandi með skurð á höfði, vægan heilahristing, hálstognun og áverka á öxl. Í vottorðinu segir að stefnandi ætti að ná sér að fullu af þessum áverkum á skömmum tíma. Stefnandi leitaði til Heilsugæslunnar í Salahverfi þann 11. nóvember vegna versnandi verkja í hálsi og herðum. Saumar voru síðan teknir úr höfði stefnanda þann 15. september 2014. Stefnandi fór aftur til vinnu þann 22. september 2014 en hætti endanlega störfum vegna viðvarandi verkja þann 25. febrúar 2015. Í læknisvottorði heimilislæknis dagsettu 20. janúar 2016, kemur fram að stefnandi hafi verið með viðvarandi höfuðverk og verki í hálsi og herðum og vinstri öxl frá því að slysið varð. Jafnframt segir í vottorðinu að hún hafi verið óvinnufær utan heimilis og átt bágt með að sinna léttum störfum heima við þrátt fyrir meðferð hjá læknum og sjúkraþjálfurum, m.a. hjá VIRK og á Reykjalundi. Þá hafi hún glímt við kvíða- og áfallastreituröskum og leitað sér aðstoðar á Kvíðamiðstöðinni vegna þess.                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                     Stefnandi sendi bréf til stefnda þann 24. mars 2015 með beiðni um að tekin yrði afstaða til bótaskyldu, annars vegar samkvæmt lögboðinni slysatryggingu launþega og hins vegar til skaðabótakröfu á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttarins úr frjálsri ábyrgðartryggingu hjá stefnda. Stefndi samþykkti þann 31. mars 2015 að slysið væri bótaskylt úr slysatryggingu launþega. Varðandi bótaskyldu úr frjálsu ábyrgðartryggingunni óskaði stefndi eftir frekari rökstuðningi og sendi stefnandi slíka kröfu með bréfi, dagsettu 9. júní 2015. Stefndi hafnaði því með bréfi þann 12. febrúar 2016 að slysið mætti rekja til atvika sem vátryggingartaki bæri skaðabótaábyrgð á samkvæmt lögum. Skáparnir hefðu verið keyptir í IKEA og settir upp af smið í lok nóvember 2012. Samkvæmt upplýsingum söluaðila hafi mátt hengja skápinn upp á einfalda gifsplötu með viðeigandi festingum. Skápurinn hafi ekki verið gefinn upp fyrir ákveðið burðarþol, en samkvæmt upplýsingum stefnda voru tannréttingatyllur og plastmódel með sýnishornum af spöngum um 10 kg, í skápnum þegar slysið varð. Þann 22. apríl 2016 lagði stefnandi inn matsbeiðni og voru dómkvaddir matsmenn til að meta afleiðingar slyssins þann 27. maí 2016. Samkvæmt matsgerð dagsettri 21. nóvember 2016 var tímabundið atvinnutjón frá 5. september 2014 til 21. september 2014 og aftur frá 3. október 2014 til 19. nóvember 2014 og svo frá 25. febrúar 2015 til 5. september 2015. Þjáningatímabil var metið það sama. Varanlegur miski var metinn 15 stig og varanleg örorka 25%. Stefndi greiddi stefnanda 2.665.498 krónur fyrir metinn miska þann 21. júní 2017. Ágreiningur stefnanda og stefnda varðar hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir vegna umrædds vinnuslyss og hver fjárhæð bótanna skuli vera. Við aðalmeðferð gaf stefnandi aðilaskýrslu fyrir dómi, en auk þess gáfu skýrslu sem vitni C og D. Við aðalmeðferð málsins upplýsti lögmaður stefnanda að hann hafi boðað E til að gefa skýrslu með stefnuvotti föstudaginn 12. október sl. en hún sé ekki mætt. Lögmaður stefnda gerði athugasemdir við þetta og vísaði til þess að E hafi stöðu aðila og sé ekki skylt að mæta fyrir dóm til að gefa skýrslu. Í annan stað liggi ekkert fyrir um að boðunin hafi verið með lögmætum fyrirvara og í þriðja lagi liggi ekki fyrir í málinu staðfesting þess að boðunin hafi verið birt E.   II. Helstu málsástæður stefnanda           Stefnandi krefst þess að greiddar verði skaðabætur úr frjálsri ábyrgðartryggingu B slf. hjá stefnda. Kröfunni er beint að stefnda á grundvelli 2. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. B slf. sé skaðabótaskylt á grundvelli reglna sakabótaréttar og stefndi þá með sama hætti samkvæmt vátryggingasamningi stefnda við tannréttingastofuna. Auk þess hafi báðir þessir aðilar óskað eftir því að kröfunni yrði beint að stefnda.   Stefnandi byggir á því að samkvæmt sakarreglunni beri stefndi skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hún varð fyrir með saknæmum og ólögmætum hætti, enda sé reglum um sennilega afleiðingu og orsakasamhengi fullnægt, samanber t.d. viðurkenningu stefnda og B á skaðabótaskyldu á grundvelli slysatryggingar launþega. Stefnandi byggir á því að slysið megi rekja til þess að aðbúnaði á vinnustaðnum hafi verið ábótavant, sbr. 13. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Vinnuveitandi stefnanda hafi brugðist þeirri skyldu sinni að tryggja stefnanda fyllsta öryggi og góðan aðbúnað á vinnustaðnum, sbr. 37. gr. sömu laga. Í því sambandi skuli fylgja viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlitsins og yfirvaldsboðum, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 46/1980. Stefnandi byggir á því að vinnuveitandi hans hafi brugðist þeirri skyldu að tryggja að hinn stóri og þungi veggskápur væri nægilega vel festur á vegginn. Þá er einnig byggt á því að að fyrirtækið hafi brugðist skyldu sinni samkvæmt 1. tölul. 3. gr. reglna nr. 58/1995 um að innrétta vinnuhúsnæðið þannig að hægt væri að nota það á öruggan hátt. Veggskápurinn hafi augljóslega ekki verið festur með nægilega tryggum hætti á vegginn og með því hafi öryggi stefnanda verið teflt í hættu. Stefndi beri fulla ábyrgð á allri uppsetningu skápsins, en ljóst sé að festingum veggskápsins hafi verið verulega ábótavant og notkunin  ekki í samræmi við hönnun þeirra. Þá sé umræddur skápur hvorki gerður fyrir vinnustaði né gert ráð fyrir að slíkir skápar séu festir saman. Húsgögn og búnaður á tannlæknastofum sé sérhæfður m.a. út frá álagi og notkun. Samkvæmt upplýsingum stefnda og myndum úr lögregluskýrslu hafi hin samsetta skápaeining öll verið fest upp á einfaldan gifsvegg með níu tiltölulega litlum skrúfum. Engin þverbiti hafi verið undir skápnum eða aðrar slíkar festingar. Stefnandi krefst þess að greiddar verði skaðabætur úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda vegna slyssins. Vátryggingartaki sé skaðabótaskyldur á grundvelli almennu skaðabótareglunnar og reglunnar um húsbóndaábyrgð. Þá styðjist krafan einnig við regluna um aukna ábyrgð atvinnurekanda vegna ófullnægjandi aðbúnaðar á vinnustað sem og það að þess hafi ekki verið gætt að tryggja öryggi og starfsumhverfi tjónþola eins og kveðið sé á um í lögum. Stefnandi telur að beita eigi sakarreglunni með strangara sakarmati en ella vegna eðlis vinnusambandsins. Þær vinnuaðstæður sem stefnanda hafi verið boðið  upp á, hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gera má til öruggs vinnuumhverfis, sem sé ein af skyldum vinnuveitanda. Tiltölulega auðvelt hefði verið að gera sér grein fyrir hættunni og gera viðeigandi ráðstafanir í tæka tíð. Stefnandi vísar einnig til 23. gr. a. í skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 124/2009. Samkvæmt ákvæðinu eigi starfsmaður sem verður fyrir líkamstjóni í starfi í öllum tilvikum rétt á að tjónið verði bætt. Um sé að ræða hlutlæga ábyrgðarreglu eða ákvæði sem kveði á um stranga sakarábyrgð og sönnunarbyrði vinnuveitanda, og verulegar takmarkanir varðandi eigin sök tjónþola. Stefnandi vísar einnig til skilgreiningar á gáleysi sem fram komi í greinargerð með lögum nr. 124/2009 um stöðu starfsmanns er verði fyrir líkamstjóni í starfi, sbr. 2. kafla  greinargerðar með lögunum. Þetta sér ströng regla um ábyrgð vinnuveitanda í vinnuslysamálum þar sem það hafi raunverulega þýðingu að vinnuveitandi sé ábyrgðartryggður hjá tryggingafélagi fyrir því fjártjóni sem hann beri ábyrgð á. Þá vill stefnandi einnig benda á að reglur um að vinnuveitandi tryggi öryggi á vinnustað nái ekki fyllilega markmiðum sínum ef ekki er jafnframt fallist á bótaábyrgð vinnuveitanda ef út af bregður. Fái þetta stoð í 3. mgr. 5. gr. tilskipunar 89/391/EBE, sem og í dómi EFTA-dómstólsins í máli nr. E-2/2010, þar sem komi fram að skyldur starfsmanna á sviði öryggis og hollustu við vinnu sína skuli ekki hafa áhrif á meginregluna um ábyrgð vinnuveitanda. Stefnandi hafi enga ábyrgð borið á upphengingu veggskápsins og hafi gætt eins vel að sér við vinnu sína og eðlilegt og sanngjarnt geti talist. Stefnandi byggir að auki á því að skaðabótaábyrgð stefnda hvíli á reglunni um húsbóndaábyrgð en samkvæmt henni geti vinnuveitandi talist bera ábyrgð á tjóni sem starfsmanni sjálfum sé ekki um að kenna og ráði húsbóndavald vinnuveitandans og samband þeirra að öðru leyti því að vinnuveitandi beri ábyrgð á slíkum slysum. Þá er á því byggt að húsbóndaábyrgðin taki einnig til þess aðila sem á sínum tíma kom að því að festa umrædda skápaeiningu á gifsvegginn. Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 skuli atvinnurekandi án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll slys þar sem starfsmaður verður óvinnufær í einn eða fleiri daga. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skuli tilkynna til Vinnueftirlitsins eigi síðar en innan sólarhrings. Slys það sem mál þetta snýst um hafi ekki verið formlega tilkynnt til Vinnueftirlitsins heldur einungis til lögreglu. Fulltrúi Vinnueftirlitsins hafi því aldrei komið á vettvang til að kanna aðstæður á slysstað og rannsaka mögulegar orsakir slyssins. Þar sem slík tilkynningarskylda sé á ábyrgð stefnda krefjist stefnandi þess að stefndi verði látinn bera hallann af mögulegri óvissu um orsakir slyssins.        Stefnandi byggir á því í aðalkröfu að árslaun hennar skuli metin sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skbl., þar sem hún hafi alla tíð unnið í hlutastarfi sem tanntæknir viðmiðunarárin 2011, 2012 og 2013. Hafi hún verið í fljótandi hlutastarfi sem tanntæknir hluta þessa tíma, í um 60% til 75% starfshlutfalli. Þá starfaði stefnandi ekki sem tanntæknir hluta viðmiðunartímabilsins. Telur stefnandi því að aðstæður hjá sér viðmiðunarárin 2011, 2012 og 2013 hafi verið óvenjulegar í skilningi fyrrnefnds ákvæðis. Telur stefnandi bæði meginskilyrði ákvæðisins uppfyllt, þ.e. að aðstæður hennar á viðmiðunarárunum hafi verið óvenjulegar og að þær aðstæður hafi leitt til þess að árslaun sem meginregla 1. mgr. 7. gr. skbl. miði við séu ekki rétti mælikvarðinn á líklegar framtíðartekjur hennar, heldur sé annar mælikvarði réttari. Í þessu sambandi byggir stefnandi á meginreglu skaðabótaréttar um fullar bætur fyrir raunverulegt tjón. Þessu til fyllingar og stuðnings er einnig á því byggt að verðmæti vinnu við heimilisstörf skuli lagt að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr., sbr. 3. mgr. 1. gr. skbl. Auk þess verði tekið tillit til tekna hennar árið 2013 hjá Verki og efni ehf. Miðist aðalkrafa stefnanda við bætur m.v. full laun tanntæknis í 100% starfi. Eins og áður hafi komið fram fékk stefnandi greidd laun í veikindaforföllum frá og með september 2014 til og með mars 2015, þegar þeim greiðslum lauk. Greiðslur á þessum tíma hafi numið launum tanntæknis í 100% starfi. Árslaunaviðmið aðalkröfu fáist með því að leggja saman laun stefnanda þessa sjö mánuði og finna meðaltal þeirra ásamt því að uppreikna launin til stöðugleikapunkts að viðbættu 8% álagi á árslaunaviðmið vegna lífeyrissjóðsgreiðslna. Árslaun miðist því við 4.538.803 kr. Uppreiknuð til stöðugleikapunkts nemi þau 5.572.496 kr. og með 8% álagi nemi árslaunaviðmiðið 6.018.295 kr. Nánar tiltekið sundurliðar stefnandi aðalkröfu sína tölulega með eftirfarandi hætti: 1.             Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, eða tímabundin örorka skv. 2. gr. skaðabótalaga, eru metnar fyrir þrjú mismunandi tímabil. Í fyrsta lagi frá 5. september 2014 til 21. september 2014 eða 15 daga. Í öðru lagi frá 3. október 2014 til 19. nóvember 2014 eða 46 daga. Í þriðja lagi fyrir tímabilið frá 25. febrúar 2015 til stöðugleikapunkts, 5. september 2015, eða 195 daga. Samtals sé því um að ræða 256 daga á tímabilinu frá því að slysið átti sér stað og fram að stöðugleikapunkti, þ.e. á einu ári. Tímabundin örorka reiknist því: 256/365 sem er margfaldað með árslaunaviðmiðun með 8% álagi, þ.e. 6.018.295 kr., þ.e. 4.221.050 kr. 2.             Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl. reiknist til stöðugleikapunkts þann 5. september 2015. Alls sé um þrjú tímabil að ræða, þ.e. þau sömu og um ræðir varðandi mat á tímabundnu atvinnutjóni. Samtals sé því um að ræða 256 daga í þjáningabætur, allt án rúmlegu. Þjáningabætur á dag miðist við 1.850 kr. Krafa um þjáningabætur nemi því 473.600 kr. 3.             Varanleg (fjárhagsleg) örorka skv. 5. gr. skbl. Varanleg örorka reiknist 25% miðað við viðmiðunarlaun á sjö mánaða tímabili í veikindaforföllum, sbr. áður, sbr. 2. mgr. 7. gr. skbl. Árslaun miðist því við 4.538.803 kr. og uppfærð til stöðugleikapunkts nemi þau 5.572.496 kr. Viðmiðunarlaun, þ.e. árslaunaviðmiðun með skyldubundnum (8%) lífeyrisréttindum, séu 6.018.295 kr. Stuðull skv. 6. gr. skbl. er 11,317 stig. Því reiknist fjárhæðin þannig: 6.018.295 x 11,317 x 25% = 17.027.262 kr.       Dómkrafan (aðalkrafa) sundurliðist því þannig í stuttu máli:                 Tímabundið atvinnutjón:      4.221.050 kr.                 Þjáningabætur:                           473.600 kr.                 Varanleg örorka:                 17.027.262 kr.                 Samtals:                                21.721.912 kr.   Varakrafa stefnanda byggi á árslaunaviðmiði tekna síðustu þriggja almanaksára fyrir slysdag. Eins og í aðalkröfu er byggt á því til fyllingar og stuðnings að verðmæti vinnu við heimilisstörf skuli lagt að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr., sbr. 3. mgr. 1. gr. skbl. Auk þess verði tekið tillit til tekna stefnanda árið 2013 hjá Verki og efni ehf. Stefnandi sundurliðar varakröfu sína tölulega með eftirfarandi hætti: 1.             Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, eða tímabundin örorka skv. 2. gr. skbl., eru metnar fyrir þrjú mismunandi tímabil. Í fyrsta lagi frá 5. september 2014 til 21. september 2014 eða 15 daga. Í öðru lagi frá 3. október 2014 til 19. nóvember 2014 eða 46 daga. Í þriðja lagi fyrir tímabilið frá 25. febrúar 2015 til stöðugleikapunkts, 5. september 2015, eða 195 daga. Samtals sé því um að ræða 256 daga á tímabilinu frá því að slysið átti sér stað og fram að stöðugleikapunkti, þ.e. á einu ári. Tímabundin örorka reiknist því: 256/365 sem er margfaldað með árslaunaviðmiðun með 8% álagi, þ.e. 3.931.503 kr., þ.e. 2.757.437 kr. 2.             Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl. reiknist til stöðugleikapunkts þann 5. september 2015. Alls sé um þrjú tímabil að ræða, þ.e. þau sömu og um ræði varðandi mat á tímabundnu atvinnutjóni. Samtals sé því um að ræða 256 daga í þjáningabætur, allt án rúmlegu. Þjáningabætur á dag miðist við 1.850 kr. Krafa um þjáningabætur nemi því 473.600 kr. 3.             Varanleg (fjárhagsleg) örorka skv. 5. gr. skbl. Varanleg örorka reiknist 25%  miðað við viðmiðunarlaun síðustu þrjú almanaksár fyrir slys eða meðaltal tekjuáranna 2011, 2012 og 2013 uppfært til launavísitölu á stöðugleikapunkti (531 stig). Þau viðmiðunarlaun nemi að meðaltali 3.640.280, þ.e. árslaunaviðmiðun og með skyldubundnum 8% lífeyrisréttindum 3.931.503 krónum. Stuðull skv. 6. gr. skbl. er 11,317 stig. Því reiknast fjárhæðin þannig: 3.931.503 x 11,317 x 25% = 11.123.205 kr.      Varadómkrafan sundurliðist því þannig í stuttu máli:                 Tímabundið atvinnutjón:      2.757.437 kr.                 Þjáningabætur:                           473.600 kr.                 Varanleg örorka:                 11.123.205 kr.                 Samtals:                                14.354.242 kr. Gerð er krafa um almenna 4,5% vexti, sbr. 16. gr. skbl., frá tjónsatburði og fram til 29. júlí 2017, en þá er liðinn mánuður frá því að mál þetta er þingfest og því a.m.k. mánuður liðinn frá því að stefnda lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta endanlega tjónsatvik og fjárhæð bóta. Gerð er krafa um dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags. Á þetta við bæði um aðal- og varakröfu stefnanda. Krafa stefnanda byggir á sakarreglunni og öðrum meginreglum  skaðabótaréttar. Þá er einnig byggt á reglunni um húsbóndaábyrgð ásamt reglunni um aukna ábyrgð vinnuveitanda vegna ófullnægjandi aðbúnaðar á vinnustað. Eins er vísað til reglna skaðabótalaga nr. 50/1993 sem og ólögfestra reglna skaðabótaréttar. Þá er vísað til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum ákvæða 6., 8., 9., 13., 14., 16., 21–23., 37., 42., 78. og 79. gr. Eins er vísað til 1. tölul. 3. gr. reglna nr. 58/1995 um húsnæði vinnustaða. Þá er einnig vísað til ákvæða laga um nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, einkum 44. gr. laganna. III Helstu málsástæður stefnda Stefndi vísar til þess að það sé grundvallarregla í íslenskum skaðabótarétti að sá sem verði fyrir tjóni verði að sýna fram á að tjónið verði rakið til saknæmrar og ólögmætrar hegðunar tjónvalds eða athafnaleysis hans. Þá beri vinnuveitandi ábyrgð á saknæmum og ólögmætum athöfnum starfsmanna sinna, sem leiða til þess að tjónþoli verður fyrir tjóni. Stefndi mótmælir því að beita eigi strangara sakarmati en almennt gerist í þessu dómsmáli. Hvorki öfug sönnunarbyrði né hlutlæg ábyrgð eigi við, heldur komi eingöngu almenna skaðabótareglan, sakarreglan, til álita. Sýknukrafa stefnda er byggð á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á og sannað að vinnuslysið sem stefnandi varð fyrir 5. september 2014 verði rakið til saknæmrar og ólögmætrar hegðunar vinnuveitanda stefnanda (vátryggingartaka), eða starfsmanna sem vátryggingartaki beri ábyrgð á. Tjón stefnanda verði ekki rakið til vanbúnaðar vinnusvæðisins, mistaka starfsmanna vátryggingartaka, aðgæsluleysis af þeirra hálfu eða annarra atriða sem  vátryggingartaki kunni að bera skaðabótaábyrgð á. Eins og fram komi í stefnu hóf stefnandi störf hjá B 15. ágúst 2014  og hafði því starfað hjá fyrirtækinu tæpan mánuð þegar slysið varð.                 Stefndi vísar til þess að samkvæmt lögregluskýrslu hafði lögreglan samband við Vinnueftirlitið og gerði starfsmanni þess grein fyrir óhappinu en hann sá ekki ástæðu til að koma á vettvang. Tilkynningarskyldu til Vinnueftirlitsins samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum hafi þar með verið fullnægt. Hvorki vátryggingartaki né stefndi geti borið ábyrgð á því að Vinnueftirlitið ákveði að sinna ekki útkalli. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum skuli atvinnurekandi tryggja að gætt sé fyllsta öryggis á vinnustað. Í 14. gr. laganna er fjallað um upplýsingaskyldu atvinnurekanda gagnvart starfsmönnum. IV. kafli laganna fjallar um vinnustaði og kemur sú meginregla fram í 42. gr. að vinnustaður skuli þannig úr garði gerður að þar sé fyllsta öryggis gætt og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Stefndi heldur því fram að vátryggingartakinn hafi í hvívetna fylgt lögum og reglum og tryggt öryggi á vinnustaðnum eftir því sem hægt var og aðstæður leyfðu. Hafi þar engu verið áfátt. Starfsemi vátryggingartaka sé tannréttingastofa og þar sé hreinlæti og framúrskarandi umgengni höfð að leiðarljósi. Á engan hátt hafi verið sýnt fram á að starfsumhverfið hafi ekki verið til fyrirmyndar. Stefndi byggir á því að starfsmaður vátryggingartaka hafi keypt umræddar skápaeiningar hjá IKEA þann 26. nóvember 2012. Fenginn hafi verið fagmaður, D smiður, til þess að festa skápinn á vegginn. Smiðurinn hafi unnið verkið sem sjálfstæður verktaki og beri hvorki vátryggingartaki né stefndi húsbóndaábyrgð á verkum hans. Skápurinn hafi verið festur á einfaldan gifsvegg og samkvæmt svörum starfsmanns IKEA megi hengja þessa skápa upp á einfaldan gifsvegg. Til þess að festa skápinn á gifsvegginn hafi smiðurinn notað sérstakar festingar sem voru festar með skrúfum, fimm festingar voru að ofan og fjórar að neðan. Starfsmenn vátryggingartaka hafi hvorki keypt festingarnar né skrúfurnar. Af myndum megi sjá að skrúfurnar hafi gengið vel inn í gifsvegginn. Ákvörðun um hvernig standa skyldi að uppsetningu skápsins hafi verið tekin af verktakanum, smiðnum, sem sá um uppsetninguna. Í skápnum hafi aðeins verið geymdar tannréttingatyllur og plastmódel með sýnishornum af spöngum, u.þ.b. 10 kg. Skápurinn hafi því alls ekki verið ofhlaðinn eða í honum meiri þungi en hann hafi átt að bera. Skápurinn hafi verið settur upp í nóvember 2012 og hafði verið fastur við vegginn í tæp tvö ár áður en slysið varð. Enginn starfsmaður vátryggingataka, hvorki stefnandi né aðrir, hafi tekið eftir því að skápurinn væri laus. Hefði svo verið hefði verið gripið til viðeigandi ráðstafana. Vátryggingartaki hafi enga ástæðu haft til að ætla annað en að skápurinn væri tryggilega fastur við vegginn. Vátryggingartaki hafi ekki getað brugðist við hættu sem enginn gerði sér grein fyrir að kynni að vera til staðar eða yfirvofandi. Stefndi vísar til þess að þar sem slys stefnanda verði ekki rakið til atriða sem vátryggingartaki beri ábyrgð á að lögum og þar sem tjónið verði ekki rakið til saknæmrar hegðunar hans eða starfsmanna hans taki ábyrgðartrygging sú sem vátryggingartaki hefur hjá stefnda ekki til tjónsins. Því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í dómsmáli þessu. Stefndi gerir verulegar athugasemdir við framsetningu og útreikning bótafjárhæða. Í aðalkröfu sé árslaunaviðmið til grundvallar tímabundnu atvinnutjóni og varanlegri örorku sagt byggt á launum á sjö mánaða tímabili í veikindaforföllum á árunum 2014 og 2015. Þá segi að til fyllingar og stuðnings sé einnig á því byggt að verðmæti vinnu við heimilisstörf skuli lagt að jöfnu við launatekjur. Auk þess vilji stefnandi að tekið verði tillit til tekna hennar hjá Verki og efni ehf. á árinu 2013. Engin gögn, skattframtöl, staðgreiðsluyfirlit eða launaseðlar hafi fylgt með stefnu málsins þannig að stefnda sé ómögulegt að staðreyna þær kröfur sem settar eru fram varðandi tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku. Dómkröfurnar séu því ekki dómtækar og standist ekki skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. t.d. d- og g-lið greinarinnar. Stefndi vísar til þess að stefnandi geri kröfu til þess í aðalkröfu að tjón hennar fyrir varanlega örorku verði gert upp á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ennfremur að bætur fyrir tímabundið atvinnutjón verði reiknaðar á grundvelli þess árslaunaviðmiðs sem leiði af 2. mgr. 7. gr. skbl. Meginregla skaðabótalaganna hvað varði bætur fyrir varanlega örorku komi fram í 1. mgr. 7. gr. laganna en þar sé kveðið á um að árslaun til ákvörðunar bóta skuli teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðist við. Kröfur sínar byggi stefnandi á 2. mgr. 7. gr. skbl. þar sem kveðið er á um að árslaun skuli metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Stefnandi þurfi að færa sönnur á að óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi hjá henni síðustu þrjú almanaksár fyrir tjónsatvik og að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hennar. Hvort tveggja skilyrðið verði að vera uppfyllt. Stefnandi kaus að vera í hlutastarfi þrjú síðustu árin fyrir slys og verði sú ákvörðun hennar með engu móti heimfærð undir óvenjulegar aðstæður. Óvenjulegar aðstæður séu breytingar sem verði á högum tjónþola sem áður hafi haft tekjur eða störf sem réttara væri að taka mið af. Með vísan til framanritaðs beri að hafna aðalkröfu stefnanda fyrir tímabundið atvinnutjón og um bætur fyrir varanlega örorku. Varakrafa stefnanda varðandi tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku er sögð byggjast á árslaunaviðmiði miðað við tekjur þriggja síðustu almanaksára fyrir slysdag.  Þá er sagt að til fyllingar og stuðnings sé einnig á því byggt að verðmæti vinnu við heimilisstörf skuli lagt að jöfnu við launatekjur. Auk þess vilji stefnandi að tekið verði tillit til tekna hennar hjá Verki og efni ehf. á árinu 2013. Eins og í aðalkröfu liggi engin gögn fyrir sem geri stefnda mögulegt að staðreyna kröfurnar. Dómkröfurnar séu því ekki dómtækar og standist ekki skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. t.d. d- og g-lið greinarinnar. Með vísan til framanritaðs beri að hafna varakröfu stefnanda fyrir tímabundið atvinnutjón og um bætur fyrir varanlega örorku. Stefndi vísar máli sínu til stuðnings til skaðabótalaga nr. 50/1993 og meginreglna skaðabótaréttarins sem og almennra reglna kröfuréttar. Ennfremur er vísað til laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 og reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða. IV Niðurstaða I Í íslenskum rétti er það talin almenn regla að vinnuveitandi beri ekki ábyrgð á tjóni af völdum sjálfstæðs verktaka eða annars framkvæmdaaðila. Í settum lögum kann þó að vera vikið frá þessari reglu og eins eru dæmi um undantekningar þó að settri lagaheimild sé ekki til að dreifa þegar sérstaklega stendur á. Þótt vinnuveitandi fái sjálfstæðan verktaka til að vinna fyrir sig verk sem honum er skylt að vinna eða láta vinna, þá losnar hann ekki undan ábyrgð ef verktakinn vinnur verkið ekki eins og honum ber og af verður tjón, a.m.k. ef um lögbundnar skyldur er að ræða. Samkvæmt lögum nr. 46/1980 ber vinnuveitanda að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar á vinnustað.   Í málinu er óumdeilt að vátryggingartaki fékk, í lok nóvember 2012, D trésmið til að setja upp umrædda skápaeiningu á starfsstöð sinni, sem vátryggingataki hafði keypt. Í skýrslutöku fyrir dómi kom fram hjá D að það væri föst regla að farið væri yfir það með verkkaupum að gæta beri varúðar þegar notaðir eru veggskápar sem ekki eru með stoðir við borð eða festingar niður í gólf, þar sem þeir þoli ekki mikla þyngd. Í lögregluskýrslu sem gerð var á slysstað kemur fram lýsing á því hvernig festingum á skápnum var háttað. Í skýrslunni er hins vegar hvorki að finna  lýsingu á því hvað hafi verið í skápnum né hversu þungt innihald skápsins var á þeim tíma sem slysið átti sér stað. Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 ber atvinnurekendum að tilkynna um alvarleg slys til Vinnueftirlitsins án ástæðulauss dráttar innan sólarhrings frá slysinu og síðan fylgja því eftir með skriflegri tilkynningu innan viku frá því að slysið átti sér stað, sbr. 2. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980. Í lögregluskýrslu er gerð grein fyrir því að haft hafi verið samband við Vinnueftirlitið en það ekki séð ástæðu til þess að koma á vettvang. Þessari beiðni var ekki fylgt eftir skriflega af vátryggingartaka,  þó að stefnandi hefði fengið slæmt höfuðhögg. Vátryggingartaki getur ekki firrt sig ábyrgð á því að fullnægjandi rannsókn hafi ekki farið fram með vísan til þess að það hafi verið hlutverk lögreglu og Vinnueftirlits ríkisins að rannsaka orsakir slyssins, sbr. t.d. Hrd. nr. 363/2008 og Hrd. 286/609. Vátryggingartaki verður að bera ábyrgð á því að takmörkuð rannsókn fór fram á aðstæðum á vettvangi og bera hallann af skorti á sönnun í málinu um þau atriði sem geta haft áhrif á sakarmat og talin eru óljós. Stefnda hefur ekki tekist að sanna að hvorki hann né starfsmenn hans eigi sök á því að umrædd skápaeining féll af veggnum. Ljóst er að festingar skápsins voru ekki nægjanlega öruggar miðað við notkun skápsins á starfsstöð vátryggingartaka.  Talsverður tími leið frá uppsetningu skápsins og þar til hann féll af veggnum, eða tæp tvö ár, sem bendir til þess að röng notkun skápsins hafi haft áhrif á það að hann féll niður. Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið verður því fallist á það með stefnanda að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir, enda er ekki ágreiningur um að kröfunni sé beint að stefnda á grundvelli 2. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga. II.                 Að því er varðar þá málsástæðu stefnda að kröfur stefnanda standist ekki skilyrði 80. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála og séu því ekki dómtækar, þá  var rekið sérstakt matsmál nr. M-65/2016 áður en mál þetta var þingfest. Stefndi var aðili að því matsmáli. Matsgerð vegna matsmálsins lá fyrir 21. nóvember 2016 og var lögð fram við þingfestingu málsins. Í matsgerðinni kemur fram að meðal þeirra gagna sem fylgdu matsbeiðninni hafi verið skattframtöl og staðgreiðsluyfirlit. Í matsgerðinni koma auk þess fram launagreiðslur frá einstökum launagreiðendum til stefnanda fyrir tekjuárin 2011 til 2015. Undir rekstri málsins hafa síðan umrædd gögn verið lögð fram, að öðru leyti en láðst hefur að leggja fram skattskýrslu fyrir tekjuárið 2011.  Stefndi krafðist ekki frávísunar vegna þessa máls og hafði í tengslum við matsmálið og fyrirliggjandi matsgerð öll þau gögn sem máli skiptu fyrir hann til þess að geta tekið til varna. Málsástæðu hans um að kröfur stefnanda séu ekki dómtækar er því hafnað.                 Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skal við ákvörðun skaðabóta vegna varanlegrar örorku leggja til grundvallar meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir slysdag. Þær fjárhæðir skulu síðan framreiknaðar til samræmis við breytingar á launavísitölu til þess tíma, sem heilsufar tjónþola verður stöðugt. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. sömu laga skulu árslaun þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola. Í athugasemdum sem fylgdu 6. gr. frumvarps til laga nr. 37/1999, sem breytti 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, kemur fram að launatekjur liðinna ára séu ekki góður mælikvarði ef breytingar hafa orðið á högum tjónþola skömmu áður en slys hafi orðið eða þegar fullyrða megi að slíkar breytingar standi fyrir dyrum. Sem dæmi um slíkt sé þegar tjónþoli hafi skipt um starf þannig að breyting hafi orðið á tekjum. Í slíkum tilvikum sé eðlilegra að ákveða viðmiðunar­launin miðað við nýjar aðstæður.  Stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir því að skilyrðum 2. mgr. 7. gr. sé fullnægt.                 Í málinu liggur fyrir að stefnandi útskrifaðist sem tanntæknir árið 2001 og starfaði við slík störf á árunum 2001 – 2012. Í skýrslutöku fyrir dómi og í gögnum málsins  kemur fram að stefnda hafi lokið skrifstofunámi á árinu 2013 og síðan starfað á leikskóla, sem var nálægt heimili hennar, í eitt ár. Eiginmaður hennar var upptekinn á þessum tíma við að byggja upp fyrirtæki og hún hafi viljað vera nær dætrum þeirra sem fæddar eru á árinu 2004 og 2009. Á skattskýrslu fyrir árið 2013 kemur fram að stefnandi hafi þegið atvinnuleysisbætur á því ári. Stefnandi hóf síðan aftur störf sem tanntæknir og nú hjá vátryggingartaka stefnda rétt um fjórum vikum áður en slysið varð. Hún var upphaflega í 70% starfi en hafði hug á að auka það hlutfall eftir því sem dætur hennar yrðu eldri. Fallast verður á það með stefnanda að aðstæður hennar síðustu þrjú árin fyrir slysið hafi verið óvenjulegar, en aukin viðvera stefnanda hjá ungum börnum, tímabundið atvinnuleysi, endurmenntun og ákvörðun stefnanda um að hefja störf sem tanntæknir að nýju, sem hún hafði aflað sér menntunar til að starfa við, varða öll aðstæður sem teljast réttlæta beitingu 2. mgr. 7. gr. Verður því að leggja til grundvallar að sanngjarnt og eðlilegt sé að miða bætur stefnanda við laun hennar vegna þess starfs sem hún gegndi á slysdegi. Stefnandi starfaði þá sem tanntæknir hjá vátryggingartaka stefnda. Stefnandi var almennt  heilsuhraust fyrir slysið og ekkert sem benti til annars en að hún hefði haft fulla atvinnuþátttöku út starfsævina.  Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal verðmæti vinnu við heimilisstörf lagt að jöfnu við launatekjur, bæði við ákvörðun bóta fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. laganna. Sá sem gegnir hlutastarfi utan heimilis, telst verða fyrir fjártjóni vegna skerðingar á starfsgetu sinni á heimilinu. Ákvæði laganna skera ekki úr um það við hvaða launatekjur eigi að miða, en í dómaframkvæmd er miðað við að um sé að ræða kröfur sem séu sanngjarnar og hóflegar. Stefnandi hafði lokið menntun og átti að baki áratuga starfsreynslu sem tanntæknir. Hún hafði jafnframt lokið skrifstofunámi hjá Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum og starfaði að einhverju leyti hjá fyrirtæki eiginmanns síns, m.a. á árunum 2013 og 2014. Þykir ekki óvarlegt að leggja til grundvallar að miða við sömu laun vegna heimilisstarfanna og starfs stefnanda hjá vátryggingartaka, sem er eitt þeirra sjónarmiða sem miðað hefur verið við í dómum Hæstaréttar, sbr. t.d. Hrd. 451/2000. Er þá einkum vísað til þess að launin eru ekki úr hófi og stefnandi var í aðstöðu til þess auka tekjur sínar með því að geta auðveldlega útvegað sér íhlaupavinnu hjá fyrirtæki eiginmanns síns auk þess sem ætla má að svigrúm hennar til hærra starfshlutfalls, og þar með hærri tekna, myndi fljótlega aukast eftir því sem dætur hennar yrðu eldri. III                 Með vísan til þess sem að framan er rakið er fallist á aðalkröfu stefnanda um að skaðabætur til stefnanda skuli miðast við laun tanntæknis hjá vátryggingartaka í fullu starfi. Jafnframt er fallist á að árslaunaviðmið aðalkröfu fáist með því að leggja saman laun stefnanda þá sjö mánuði sem vátryggingartaki greiddi stefnanda í veikindaforföllum á tímabilinu frá og með september 2014 til og með mars 2015. Samkvæmt staðgreiðsluskrá sem liggur fyrir í gögnum málsins námu þessar fjárhæðir á þessum sjö mánuðum 2.647.635 krónum. Meðallaun þessa 7 mánuði námu því 378.234 krónum og heildarárslaun eru þá 4.538.803 sem er sama fjárhæð og kemur fram í sundurliðun aðalkröfunnar í stefnu. Í stefnu er þessi fjárhæð síðan uppreiknuð frá því að slysið á sér stað til stöðugleikapunkts og vísað til þess að uppreiknuð nemi hún 5.572.496 krónum. Hvorki er að finna neinar skýringar á því í stefnu við hvaða stig launavísitölu er miðað í þessum útreikningum, né hvers vegna það stig launavísitölunnar er notað.  Í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er kveðið á um að árslaun að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs skuli leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Launavísitalan er 531 stig í september 2015 þegar stöðugleikapunkti er náð. Launin eru verðbætt með því að deila meðaltalslaunavísitölu þess launaárs við laun það árið, sem síðan er margfaldað með launavísitölu við stöðugleikapunkt. Ef tekið er mið af uppreiknaðri fjárhæð í stefnu er sú launavísitala sem deilt er með 432 stig. Þau heildarárslaun sem miðað er við í stefnu 4.538.803 krónur, eru miðuð við tímabilið frá september 2014 til september 2015. Meðaltal launavísitölu á því tímabili er ekki 432 stig heldur 504,03 stig. Með því að deila með þeirri launavísitölu og margfalda með launavísitölu við stöðugleikapunkt er fjárhæðin 4.781.637 krónur. Þegar tekið hefur verið tillit til 8% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð nemur fjárhæðin 5.164.168 krónum. Í 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er fjallað um tímabundið atvinutjón, en samkvæmt ákvæðinu skulu bætur stefnanda fyrir tímabundið atvinnutjón greiðast frá tjónsdegi og þar til stöðugleikapunkti er náð. Þar sem stefnandi gerði þrjár tilraunir til að snúa aftur til vinnu, miðast bætur fyrir tímabundna örorku við þrjú tímabil. Í stefnu er miðað við að heildardagafjöldi þessara þriggja tímabila sé 256 dagar. Þar er  vísað til þess að þriðja tímabilið frá 25 febrúar 2015 til stöðugleikapunkts 5. september 2015 sé samtals 195 dagar. Það er fjórum dögum ofaukið og miðast því heildardagafjöldinn við 252 daga. Bætur fyrir tímabundna örorku miðaðst því við tekjuviðmið 5.164.168 krónur sem margfaldað er með dagafjölda 252/365 eða samtals 3.565.398 krónur. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 skal greiða stefnanda þjáningabætur frá tjónsdegi og fram að stöðugleikapunkti. Í stefnu er miðað við að þjáningabætur án rúmlegu miðist við 1.850 krónur í 256 daga. Þegar dagafjöldinn hefur verið leiðréttur í 252  daga nemur þessi fjárhæð 466.200 krónum sem fallist er á að stefnda beri að greiða stefnanda. Við útreikning á varanlegri örorku eru fyrirmæli í 6. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þar kemur fram að árslaun skuli margfölduð við aldursstuðull sem er tiltekinn í ákvæðinu og örorkustig. Í stefnu er miðað við aldursstuðulinn 11,317 stig. Í stefnu er ekki að finna neinar skýringar á því hvers vegna er miðað við þennan stuðul, en aldur tjónþola á stöðugleikapunkti er notaður til að finna stuðul samkvæmt þeirri töflu sem sett er fram í 1. mgr. 6. gr. Á þeim degi er stefnandi 37 ára og 168 daga  gömul. Aldursstuðull við 37 ára aldur er samkvæmt töflunni 11,180 og þegar tekið er tillit til þessara 168 daga er stuðullinn 11,092. Því reiknast fjárhæðin þannig 5.164.168 x 11,092 x 25% eða 14.319.759 krónur sem fallist er á að stefnda beri að greiða stefnanda. Með vísan til ofangreinds verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda samtals 18.351.357 krónur. (3.565.398 + 466.200 + 14.319.759 ). Þá er fallist á að krafan beri vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga, en þó þannig að upphafstími vaxta fyrir aðrar kröfur en varanlega örorku er 5. september 2014 eins og krafist er í stefnu, en upphafstími vaxta vegna varanlegrar örorku er 5. september 2015. Þá er fallist á dráttarvaxtakröfu stefnanda frá 29. júlí 2017. Samkvæmt 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar sem með hliðsjón af atvikum þykir hæfilega ákveðin 2.400.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Fjárhæð þessa greiði stefndi í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans 2.400.000 krónur greiðist úr ríkissjóði. Af hálfu stefnanda flutti málið Steinbergur Finnbogason, lögmaður. Af hálfu stefnda flutti málið Hjörleifur Kvaran lögmaður. Helgi Sigurðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð: Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði stefnanda, A 18.351.357 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af  4.031.598 krónum frá 5. september 2014 til 5. september 2015 en af 18.351.357 krónum frá þeim degi til 29. júlí 2017, en með dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð  samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi greiði 2.400.000 krónur í málskostnað sem renni í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Steinbergs Finnbogasonar, 2.400.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.
Mál nr. 6/2020
Skaðabætur Munatjón Sönnun Matsgerð
S ehf. höfðaði mál á hendur SP ehf. og krafðist skaðabóta vegna tjóns á fatnaði í verslun S ehf. af völdum steinryks sem hafði borist inn í verslunina vegna framkvæmda á vegum SP ehf. í nærliggjandi verslunarrými í sömu verslunarmiðstöð. S ehf. gerði annars vegar kröfu um bætur fyrir munatjón sem nam kostnaðarverði óseljanlegra vara og hins vegar fyrir afleitt tjón vegna tapaðrar framlegðar af sölu þeirra. Undir rekstri málsins aflaði S ehf. bæði matsgerðar og yfirmatsgerðar um kostnaðarverð hinna skemmdu vara og umfang rekstrartjóns. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þar sem SP ehf. hefði ekki áfrýjað dómi Landsréttar af sinni hálfu gætu kröfur hans um greiðslu lægri fjárhæða ekki komið til álita. Var niðurstaða hins áfrýjaða dóms um bætur fyrir munatjón S ehf. því staðfest. Að mati Hæstaréttar leiddi aftur á móti af matsspurningum, svörum yfirmatsmanna og framburði annars þeirra fyrir héraðsdómi að í niðurstöðu yfirmatsgerðar um tapaða framlegð hefði aðeins falist mat á tekjum sem S ehf. hefði getað haft af því að selja þá vöru sem varð óseljanleg að frádregnum kostnaði við öflun hennar en ekki mat á öllum breytilegum kostnaði við að afla þeirra tekna. Yfirmatsgerðin var því ekki talin endurspegla umfang rekstrartjóns S ehf. og var því ekki lögð til grundvallar við ákvörðun skaðabóta vegna afleidds tjóns hans. Þótt umfang hins afleidda tjóns væri samkvæmt þessu ósannað var fallist á að skilyrði væru til að dæma S ehf. skaðabætur að álitum vegna slíks tjóns úr hendi SP ehf.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. janúar 2020. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 29.208.508 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. mars 2015 til 8. janúar 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni 5.096.012 króna innborgun 8. maí 2015. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum. Stefndi krefst þess aðallega að honum verði gert að greiða áfrýjanda 11.358.503 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 13. mars 2015 til 17. júní 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 5.096.012 krónum miðað við 8. maí 2015. Til vara krefst hann þess að honum verði gert að greiða áfrýjanda 14.358.508 krónur með sömu vöxtum og frádrætti. Til þrautavara krefst stefndi þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi áfrýjanda fyrir Hæstarétti. I Mál þetta lýtur að kröfu áfrýjanda á hendur stefnda um skaðabætur vegna tjóns á fatnaði í verslun áfrýjanda 13. mars 2015 af völdum steinryks sem barst inn í verslun hans vegna framkvæmda á vegum stefnda í nærliggjandi verslunarrými í sömu verslunarmiðstöð. Áfrýjandi krefst annars vegar bóta fyrir munatjón sem nemur kostnaðarverði óseljanlegra vara, að því leyti sem það tjón hafði ekki þegar verið bætt af vátryggingafélagi, og hins vegar vegna afleidds tjóns sem nemur tapaðri framlegð af sölu þeirra miðað við meðaltalsálagningu í verslun hans á árunum 2014 og 2016. Fjárhæð bótakröfu er byggð á niðurstöðu yfirmatsgerðar.  Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi og Landsrétti byggði stefndi á því að hann bæri ekki bótaábyrgð gagnvart áfrýjanda og taldi að auki tjón áfrýjanda ósannað þar sem niðurstöður yfirmatsgerðar um umfang bótakröfunnar væru byggðar á röngum forsendum. Héraðsdómur féllst á allar kröfur áfrýjanda að frátöldum upphafstíma dráttarvaxta. Í hinum áfrýjaða dómi var fallist á kröfu áfrýjanda um bætur fyrir munatjón og áfrýjanda auk þess dæmdar bætur að álitum fyrir missi hagnaðar. Með áfrýjun til Hæstaréttar freistar áfrýjandi þess að fá allar kröfur sínar dæmdar, þar á meðal dráttarvexti frá fyrri tíma en Landsréttur dæmdi. Stefndi hefur ekki áfrýjað dómi Landsréttar fyrir sitt leyti en aðal- og varakrafa hans fyrir Hæstarétti miða engu að síður að því að hann verði dæmdur til að greiða áfrýjanda lægri bætur fyrir munatjón en Landsréttur dæmdi og að hann verði sýknaður af kröfu áfrýjanda um bætur fyrir afleitt tjón. Beiðni um áfrýjunarleyfi var meðal annars studd þeim rökum að Landsréttur hefði ranglega talið að bætur fyrir afleitt tjón skyldu miðast við áætlaðan missi hagnaðar áfrýjanda en rétt hefði verið að miða bætur við tapaða framlegð af óseljanlegum vörum. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að með tilliti til gagna málsins gætu úrslit þess haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðni væri reist á. II Áfrýjandi hefur rekið fataverslun í verslunarmiðstöðinni Hafnarstræti 99 -101 á Akureyri. Að morgni 13. mars 2015, þegar opna átti verslunina, kom í ljós fyrrgreint tjón sem fólst í því að steinryk hafði borist inn í verslunina og meðal annars sest í fatnað sem þar var til sölu. Óumdeilt er að rykið stafaði af múrbroti í nærliggjandi verslunarrými stefnda. Haft var samband við fyrirsvarsmenn stefnda og vátryggingafélög beggja málsaðila. Vátryggingafélag áfrýjanda taldi verulegan hluta fatnaðar í verslun áfrýjanda óseljanlegan og mat verðmæti hans 14.358.508 krónur. Í samræmi við skilmála vátryggingar áfrýjanda fékk hann 8. maí 2015 bættan hluta af þeirri fjárhæð eða 5.096.012 krónur. Áfrýjandi krafði vátryggingafélag stefnda 6. júlí 2015 um 16.683.074 króna bætur vegna sama tjónsatburðar. Áfrýjandi krafðist þess að fá bættan þann hluta fatnaðarins sem vátryggingafélag áfrýjanda hafði ekki bætt, rekstrartjón að fjárhæð 6.883.990 krónur, byggt á útreikningum áfrýjanda um tapaða sölu eftir tjónsatburðinn, sundurliðað fyrir mánuðina mars, apríl, maí og júní 2015, og loks útlagðan kostnað. Vátryggingafélag stefnda hafnaði bótaskyldu. Lögmaður áfrýjanda sendi stefnda bréf 31. mars 2016 þar sem boðað var að áfrýjandi myndi krefja stefnda um fullar bætur vegna tjónsatburðarins. Lögmaður áfrýjanda sendi stefnda bréf 28. apríl sama ár þar sem beint var að honum sömu bótakröfu og áður hafði verið beint að vátryggingafélagi hans og var krafan rökstudd og sundurliðuð með sama hætti. Kröfunni var hafnað með ódagsettu bréfi lögmanns stefnda en þar var mati á verðmæti óseljanlegra vara mótmælt og krafa um tjón vegna tapaðrar sölu talin vera óskýr og vanreifuð. Með beiðni 4. desember 2016 óskaði áfrýjandi eftir dómkvaðningu matsmanns til þess að meta tjón sitt. Í matsbeiðninni voru settar fram fimm matsspurningar sem raktar eru í héraðsdómi. Matsgerð var skilað 21. mars 2017 og í henni komist að þeirri niðurstöðu að þær vörur sem vátryggingafélag áfrýjanda mat óseljanlegar hefðu skemmst vegna ryks og að útilokað hefði verið að reyna að þrífa þær og gera söluhæfar. Þá komst matsmaðurinn að þeirri niðurstöðu að mat vátryggingafélags áfrýjanda á kostnaðarverði óseljanlegra vara hefði verið raunhæft en taldi þó varfærnislegt miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um framlegð, veltuhraða birgða og bókfært verðmæti þeirra undanfarin þrjú til fjögur ár að gera ráð fyrir 20% afföllum frá því mati. Matsmaðurinn mat verðmæti birgðanna samkvæmt því 11.486.806 krónur. Þá mat hann framlegð af óseljanlegum vörum, að teknu tilliti til affalla, 13.900.000 krónur og miðaði þá niðurstöðu við áætlað söluverð að frádregnu áætluðu kostnaðarverði. Áfrýjandi aflaði yfirmats og voru tveir yfirmatsmenn dómkvaddir 1. júní 2017. Í matsgerð 31. október 2017 komust þeir að þeirri niðurstöðu að umræddar vörur hefðu ekki verið seljanlegar. Þá töldu matsmennirnir að útreikningar vátryggingafélagsins á innkaupsverði hinna óseljanlegu vara hefðu verið raunhæfir og mátu kostnaðarverð þeirra 14.358.508 krónur. Yfirmatsmenn töldu að hæfileg álagning á óseljanlegar vörur hefði verið 103,47% og að framlegð af þeim vörum hefði því getað numið 14.850.000 krónum. III 1 Fyrir Hæstarétti krefst stefndi aðallega og til vara að honum verði gert að greiða áfrýjanda lægri fjárhæðir en hann var dæmdur til að greiða með dómi Landsréttar en með þrautavarakröfu sinni krefst hann staðfestingar á hinum áfrýjaða dómi. Þar sem stefndi hefur ekki áfrýjað dómi Landsréttar af sinni hálfu til Hæstaréttar koma aðal- og varakrafa hans ekki til álita hér fyrir dómi. Rök hans fyrir þeim kröfum geta því ekki komið til skoðunar fyrir Hæstarétti nema að því leyti sem þau styðja þrautavarakröfu hans um staðfestingu hins áfrýjaða dóms. Samkvæmt því sætir ekki endurskoðun fyrir Hæstarétti og stendur óhögguð sú niðurstaða Landsréttar að stefnda beri að bæta áfrýjanda með 14.358.508 krónum kostnaðarverð þeirrar vöru sem ónýttist við fyrrnefndan tjónsatburð, í samræmi við niðurstöðu yfirmatsgerðar, að frádregnum áður fengnum bótum frá vátryggingafélagi að fjárhæð 5.096.012 krónur. Af sömu ástæðu verða áfrýjanda ekki dæmdar lægri bætur úr hendi stefnda en 3.000.000 króna fyrir afleitt tjón. Áfrýjandi miðar upphafsdag dráttarvaxtakröfu sinnar við 8. janúar 2018 en þá kröfu hafði hann jafnframt uppi í héraði. Héraðsdómur dæmdi áfrýjanda hins vegar dráttarvexti frá 17. júní 2018. Áfrýjandi gagnáfrýjaði ekki þeim dómi til Landsréttar og undi þar með niðurstöðu héraðsdóms um upphafsdag dráttarvaxtakröfu. Áfrýjandi getur því ekki haft þessa kröfu uppi fyrir Hæstarétti enda standa ekki til þess lagaskilyrði 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991. Fyrir Hæstarétti liggur því einungis að skera úr ágreiningi málsaðila um hvort áfrýjandi eigi rétt á  hærri skaðabótum úr hendi stefnda vegna óbeins tjóns en Landsréttur dæmdi. 2 Í máli þessu reynir á ólögfestar reglur skaðabótaréttar utan samninga um bætur fyrir tjón vegna rekstrarstöðvunar eða missis hagnaðar sem leiðir af því að hlutur skemmist eða ónýtist en slíkt tjón er almennt nefnt afleitt tjón eða óbeint tjón til aðgreiningar frá munatjóni. Þessar reglur hafa mótast af dómaframkvæmd þar sem hliðsjón hefur meðal annars verið höfð af ákvæðum eldri laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 um umfang slíks tjóns, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 7. október 1975 í máli nr. 182/1973 sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 713. Ákvæði um skaðabætur fyrir óbeint tjón, svo sem missi hagnaðar og tjón sem rekja má til samdráttar eða stöðvunar í framleiðslu eða viðskiptum vegna vanefnda, er nú til dæmis að finna í 1. mgr. 67. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup og 1. og 2. mgr. 59. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Það afleidda tjón sem áfrýjandi freistar að fá bætt í máli þessu felst nánar tiltekið í þeim tekjum sem hann telur sig hafa orðið af í rekstri verslunar sinnar af völdum stefnda vegna þess að hluti fatnaðar í versluninni varð óseljanlegur og skapaði ekki þær tekjur sem áfrýjandi telur að þessi söluvara hefði myndað ef tjónsatburður hefði ekki orðið. Tjónþoli ber almennt sönnunarbyrði um að hann hafi orðið fyrir afleiddu tjóni og um umfang þess. Í samræmi við meginreglu einkamálaréttarfars um málsforræði aðila hefur tjónþoli almennt forræði á því hvernig hann hagar sönnunarfærslu um umdeild atriði, sbr. 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Miklum örðugleikum getur þó verið bundið að færa sönnur á umfang afleidds tjóns. Mikilvægt er að slíkri sönnunarfærslu sé markaður farvegur sem stuðlað getur að því að leiða í ljós raunverulegt rekstrartjón sem leitt hefur af munatjóni. Við afmörkun afleidds tjóns skiptir til dæmis máli hvort tjónsatburður hefur leitt til fullkominnar rekstrarstöðvunar hjá tjónþola eða aðeins raskað starfsemi hans að hluta. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar í hinum ýmsu tegundum skaðabótamála hefur verið fallist á bætur fyrir rekstrartjón og við umfang þess verið tekið mið af missi hagnaðar eða jafnvel tapaðri framlegð vegna tjónsatburðar. Missir hagnaðar getur endurspeglað rauntjón, til dæmis þegar tjónsatburður veldur því að fasteign eða lausafé fer forgörðum og rekstur stöðvast þannig að fastur kostnaður í rekstri fellur niður samfara tekjumissi. Í dómaframkvæmd hefur á hinn bóginn verið fallist á skaðabætur sem svara til tapaðrar framlegðar í rekstri sem rekja má til tjónsatburðar en framlegð er þá skilgreind sem mismunur rekstrartekna og breytilegs kostnaðar. Um slíka afmörkun á rekstrartjóni vísast meðal annars til dóms Hæstaréttar frá 20. september 2012 í máli nr. 416/2011. Verulegum vandkvæðum getur þó verið bundið að afmarka hvað telst breytilegur kostnaður og hvað fastur kostnaður í hverju einstöku tjónstilviki en um það ber tjónþoli sönnunarbyrði. Um afleitt tjón gildir jafnframt sú regla skaðabótaréttar að tjónþola er skylt að grípa til þeirra ráðstafana sem með sanngirni má ætlast til af honum til að takmarka tjón sitt og getur hann ekki krafist bóta fyrir tjón sem orðið hefur vegna vanrækslu þar um. 3 Áfrýjandi hefur freistað þess að tryggja sér sönnun um umfang rekstrartjóns síns með öflun matsgerðar og yfirmatsgerðar. Hann markaði þeirri sönnunarfærslu farveg með matsspurningum þar sem óskað var annars vegar mats á hvað væri hæfileg álagning á þær vörur sem metnar voru óseljanlegar og hins vegar hver framlegð hefði orðið af þeim vörum. Dómkröfur áfrýjanda um bætur fyrir tapaða framlegð eru byggðar á þeim niðurstöðum yfirmatsmanna að hæfileg álagning á umræddum vörum hefði verið 103,47% og framlegð af þeim „hafi getað verið“ 14.850.000 krónur. Annar yfirmatsmanna skýrði þessar niðurstöður þannig fyrir héraðsdómi: „En við vorum í sjálfu sér bara beðin um að meta hver framlegðin hefði getað verið af þessum vörum miðað við, miðað við þær forsendur sem við síðan gáfum okkur sem var meðaltalsálagning áranna þarna tveggja á undan.“ Nánar spurður um forsendur niðurstöðunnar skýrði hann muninn á hagnaði og framlegð þannig að framlegð væri mismunurinn á raunverulegu innkaupsverði vörunnar, það er kostnaðarverði hennar, og því söluverði sem fengist fyrir hana. Hins vegar gæti verið einhver annar kostnaður við söluna eins og til dæmis auglýsingar þannig að hagnaður yrði minni en framlegð. Hann kvaðst gera ráð fyrir því að leggja hefði þurft í einhvern kostnað við að selja vöruna en yfirmatsmenn hefðu ekki verið beðnir um að leggja mat á þann kostnað heldur aðeins hvaða framlegð varan hefði getað skilað. Af hálfu stefnda hefur frá upphafi verið byggt á því að yfirmatsgerðin feli ekki í sér sönnun á rekstrartjóni áfrýjanda þar sem niðurstaða hennar um tapaða framlegð af þeim vörum sem urðu óseljanlegar sé ekki réttur mælikvarði á raunverulegt rekstrartjón. Jafnframt hefur stefndi byggt á því að áfrýjandi hafi ekki reynt allt sem hægt var til að takmarka tjón sitt.  Af matsspurningum, svörum yfirmatsmanna við þeim í yfirmatsgerð og framburði annars þeirra fyrir héraðsdómi um forsendur sem þar voru lagðar til grundvallar verður ráðið að í niðurstöðu hennar um tapaða framlegð felist aðeins mat á tekjum sem áfrýjandi hefði getað haft af því að selja þá vöru sem varð óseljanleg að frádregnum kostnaði við öflun hennar en ekki mat á öllum breytilegum kostnaði við að afla þeirra tekna. Yfirmatsgerðin hefur samkvæmt því ekki að geyma mat á áhrifum tjónsatburðarins á framlegð af rekstri áfrýjanda. Fyrir liggur að verslun áfrýjanda var aðeins lokuð frá 13. til 24. mars 2015 en eftir það var rekstri hennar haldið áfram. Verulegur hluti af lager verslunarinnar varð óseljanlegur við tjónsatburðinn en ekki er vitað hversu stór hluti það var. Jafnframt liggur fyrir að áfrýjandi hafði 37.712.774 króna tekjur af vörusölu á árinu 2014 en 35.913.524 króna tekjur af vörusölu á árinu 2015, þegar sölutölur samkvæmt ársreikningi að fjárhæð 40.997.373 krónur hafa verið leiðréttar um fjárhæð sem nemur 5.096.012 króna vátryggingabótum. Þá voru tekjur áfrýjanda af vörusölu 48.845.684 krónur á árinu 2016. Þrátt fyrir framangreint var matsmönnum ekki falið að bera tekjur af vörusölu og framlegð í versluninni eftir tjónsatburðinn 13. mars 2015 saman við tekjur af vörusölu og framlegð sama tímabils á árunum 2014 og 2016 og afmarka og meta með þeim hætti raunveruleg áhrif tjónsatburðarins á framlegð í verslunarrekstri áfrýjanda. Í málinu liggja ekki fyrir skjallegar upplýsingar um hvernig áfrýjanda gekk að afla sér fatnaðar til að hafa á boðstólum í verslun sinni í stað þess fatnaðar sem varð óseljanlegur við tjónsatburðinn 13. mars 2015. Fyrir héraðsdómi bar fyrirsvarsmaður áfrýjanda að verslunin hefði verið með „mikið svona klassískar vörur, danskar vandaðar vörur sem ég panta mikið bara inn í aftur, er alltaf að selja sömu vörurnar eins, svona vandað og sem að bara gengur alltaf og ... með undirföt, snyrtivörur, fatnað.“ Þá kvaðst fyrirsvarsmaðurinn hafa misst megnið af því sem átt hafi að selja í versluninni það sem eftir lifði sumri.  Í bréfum sem lögmaður áfrýjanda sendi vátryggingafélagi hans 6. júlí 2015 og stefnda 28. apríl 2016, þegar rúmt ár var liðið frá tjónsatburði, voru settar fram kröfur meðal annars um bætur vegna rekstrartaps sem byggðar voru á mismun á sölutölum verslunarinnar mánuðina mars til júní árið 2014 og sölutölum sömu mánaða árið 2015 en sá mismunur nam 6.883.990 krónum. Framburður fyrirsvarsmanns áfrýjanda, umrædd framsetning kröfugerðar vegna rekstrartjóns fram á sumar 2015 og þær upplýsingar sem liggja fyrir úr rekstri áfrýjanda benda sterklega til þess að hann hafi dregið úr rekstrartjóni sínu á síðari hluta ársins 2015 með því að afla sér söluvöru í stað þeirrar sem varð óseljanleg við tjónsatburðinn, en þá vöru fær áfrýjandi bætta á kostnaðarverði samkvæmt niðurstöðu þessa máls. Framburður annars yfirmatsmanns fyrir héraðsdómi um þann tíma sem taki að afla fatnaðar til sölu í verslun hér á landi virðist eingöngu byggður á eigin reynslu en ekki upplýsingum úr verslunarrekstri áfrýjanda og hefur því ekki þýðingu við úrlausn málsins. Samkvæmt öllu framansögðu er fallist á með stefnda að yfirmatsgerð sú sem áfrýjandi hefur aflað og byggir dómkröfur sínar á endurspegli ekki umfang rekstrartjóns hans og að niðurstöður matsgerðarinnar verði ekki lagðar til grundvallar við ákvörðun skaðabóta vegna afleidds tjóns áfrýjanda. Áfrýjandi ber ábyrgð á því hvernig hann hefur kosið að haga sönnunarfærslu sinni. Þótt umfang afleidds tjóns áfrýjanda sé samkvæmt framansögðu ósannað er fallist á með Landsrétti að skilyrði séu til að dæma honum skaðabætur að álitum vegna slíks tjóns úr hendi stefnda. Við ákvörðun skaðabóta að álitum verður, eins og fram kemur í forsendum hins áfrýjaða dóms, að gæta hófs enda á ekki að geta falist ávinningur í því að ekki liggi fyrir sannanir um fjárhæð tjóns, sbr. dóm Hæstaréttar 3. maí 2018 í máli nr. 321/2017. Þegar litið er til þeirra gagna og upplýsinga sem liggja fyrir í málinu um tekjur áfrýjanda af vörusölu árin 2014, 2015 og 2016, tímabundna rekstrarstöðvun áfrýjanda, vöruþurrð og minni tekjur af vörusölu fyrstu mánuðina eftir að tjónið varð er fallist á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um fjárhæð óbeins tjóns. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.                                                                                  Dómur Landsréttar 13. desember 2019.   Mál þetta dæma landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Eiríkur Jónsson og Ragnheiður Harðardóttir. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 29. mars 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. mars 2019 í málinu nr. E-74/2018. 2        Áfrýjandi krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. Til vara krefst áfrýjandi þess að krafa stefnda verði lækkuð verulega og málskostnaður í héraði felldur niður en stefnda verði gert að greiða honum málskostnað fyrir Landsrétti.             3        Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti. Niðurstaða 4        Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða að áfrýjandi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefndi varð fyrir vegna ryks sem barst inn í verslun hans við framkvæmdir á vegum áfrýjanda í mars 2015. 5        Töluleg krafa stefnda er í tveimur liðum. Annars vegar er krafist 14.358.508 króna vegna innkaupsverðs þess hluta lagers stefnda sem varð óseljanlegur en hins vegar 14.850.000 króna vegna þeirrar framlegðar sem orðið hefði af sama hluta lagersins. Í báðum tilvikum byggir stefndi á yfirmatsgerð dómkvaddra manna og í hinum áfrýjaða dómi var fallist að fullu á báða kröfuliði. 6        Um fyrri kröfuliðinn kemur fram í yfirmatsgerð að vörurnar sem teknar voru af lager stefnda hafi allar skemmst af völdum steinryks sem í þær barst, að þær hafi ekki verið seljanlegar úr versluninni eftir það og að innkaupsverð þeirra hafi verið 14.358.508 krónur. Er yfirmatsgerðin að þessu leyti til samræmis við það sem fram kemur í gögnum málsins um afstöðu starfsmanna Vátryggingafélags Íslands hf. sem og þá undirmatsgerð sem fyrir liggur í málinu. Samkvæmt framangreindu hefur stefndi fært sönnur á að vörurnar hafi farið forgörðum og að innkaupsverð þeirra hafi numið fyrrgreindri fjárhæð. Ekki eru efni til að færa þá fjárhæð niður enda er meginreglan við ákvörðun bóta þegar hlutur fer forgörðum sú að bætur skuli miðast við innkaupsverð, að frádreginni hæfilegri verðrýrnun vegna aldurs, notkunar, minnkaðs notagildis og annarra atvika, en síðargreindu atriðin verða ekki talin geta leitt til frádráttar í málinu. Þá verður í ljósi framangreindra gagna að hafna sjónarmiðum áfrýjanda um að stefndi hafi ekki gripið til nægilegra ráðstafana til að takmarka tjón sitt. Verður fyrri kröfuliðurinn því tekinn til greina að fullu. 7        Síðari kröfuliðurinn byggist á niðurstöðu yfirmatsgerðar um framlegð af þeim vörum sem metnar voru óseljanlegar, en í yfirmatsgerðinni segir að framlegðin „hafi getað verið“ 14.850.000 krónur. Samkvæmt gögnum sem liggja fyrir í málinu og stafa frá stefnda var verslun hans lokuð frá 14. til 25. mars 2015 þegar hún var opnuð að nýju. Ljóst er að stefndi varð að kaupa aðrar vörur í stað þeirra sem ónýttust, enda var þar um að ræða meira en 60% af lager hans samkvæmt fyrirliggjandi yfirliti. Samkvæmt sama yfirliti seldi stefndi vörur fyrir 2.279.912 krónur frá upphafi árs til 14. mars 2015, en af ársreikningi stefnda 2015 má ráða að heildarsala ársins hafi numið 40.997.373 krónum. 8        Af framangreindu er ljóst að sala stefnda eftir enduropnun verslunarinnar 25. mars til ársloka 2015 svarar til 38.717.461 krónu, sem er nokkuð meira en öll sala ársins 2014. Í kröfu stefnda felst að til viðbótar framlegð vegna þeirra viðskipta sem urðu eftir enduropnunina fái hann einnig ætlaða framlegð af sölu alls þess varnings sem ónýttist. Með því móti yrði stefndi í reynd settur í sams konar stöðu og ef allar vörurnar sem ónýttust, eða rúmlega 60% lagersins, hefðu selst frá 14. til 25. mars 2015. Hefur á engan hátt verið gert líklegt að af svo umfangsmikilli sölu á árinu 2015 hefði getað orðið. Þá benda fyrirliggjandi ársreikningar skýrlega til þess að tjón stefnda yrði ofbætt ef krafa hans yrði tekin að fullu til greina. Árið 2014 varð 17.329 króna tap af rekstrinum, árið 2015 3.083.849 króna tap og árið 2016 1.813.729 króna hagnaður. Ef fallist yrði á kröfu stefnda að fjárhæð 14.850.000 krónur yrði hagnaður vegna ársins 2015 verulegur og í engu samræmi við reksturinn á árunum 2014 og 2016. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að svar yfirmatsmanna við framangreindri spurningu endurspegli rauntjón stefnda, en yfirmatsmenn voru eðli málsins samkvæmt bundnir af matsspurningunni, sem einskorðaðist við mat á framlegð viðkomandi varnings. 9        Á hinn bóginn verður að telja að stefndi hafi með framlögðum gögnum sýnt nægilega fram á að hann myndi einhvern hagnað hafa haft af þeim hluta lagersins sem ónýttist og að hann hafi aðhafst nægilega í því skyni að sýna fram á tjón sitt svo að honum verði dæmdar bætur að álitum. Við ákvörðun skaðabóta með þeim hætti verður að gæta hófs enda á ekki að geta falist ávinningur í því að ekki liggi fyrir fullar sönnur um fjárhæð tjóns. Þykja bæturnar, að virtum öllum gögnum og atvikum, hæfilega ákveðnar 3.000.000 króna. 10       Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda samtals 17.358.508 krónur, auk vaxta og með frádrætti líkt og í dómsorði greinir, en um þau atriði er ekki ágreiningur milli aðila. 11       Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest og áfrýjanda verður gert að greiða málskostnað fyrir Landsrétti líkt og í dómsorði greinir.                  Dómsorð: Áfrýjandi, Sportver ehf., greiði stefnda, Stefu ehf., 17.358.508 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. mars 2015 til 17. júní 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 5.096.012 krónum sem greiddar voru inn á kröfuna 8. maí 2015. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest. Áfrýjandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti.           Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. mars 2019 Mál þetta var höfðað 17. maí 2018 og fyrst dómtekið föstudaginn 14. desember sama ár. Þar sem ekki reyndist unnt sökum embættisanna dómara að kveða upp dóm innan lögmælts frests var málið flutt að nýju og dómtekið 27. febrúar 2019. Stefnandi er, Stefa ehf., Laxagötu 3b, Akureyri, en stefnda er Sportver ehf., Gleráreyrum 2, Akureyri.                 Stefnandi krefst þess að stefni verði dæmdur til að greiða stefnanda 29.208.508 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. mars 2015 til 8. janúar 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 5.096.012 krónum sem greiddar hafi verið inn á kröfuna 8. maí 2015. Þá krefst stefnandi málskostnaðar. Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að kröfur stefnanda sæti verulegri lækkun. Þá krefst hann málskostnaðar.   I                 Mál þetta varðar skaðabótakröfu stefnanda á hendur stefnda vegna rykmengunar sem barst inn í verslun stefnanda og rakin var til vinnu við endurbætur í húsnæði stefnda. Deila aðilar um hvort skaðabótaskylda hvíli á stefnda vegna tjónsins og hvert umfang þeirrar bótaskyldu á með réttu að vera. Fram kom við munnlegan málflutning að stefndi bæri ekki brigður á að umrædd rykmengun hefði stafað frá framkvæmdum á hans vegum, en hafnar því að hann beri skaðabótaábyrgð á þeirri mengun.                 Umræddur atburður átti sér stað að Hafnarstræti 99-101, fyrstu hæð en þar rak stefnandi verslun með tískufatnað og undirföt. Stefndi festi þar kaup á aðliggjandi verslunarrými og er atburðurinn átti sér stað vann hann að endurbótum þess. Fólust umræddar endurbætur m.a. í múrbroti. Liggur fyrir að starfsmenn stefnda einangruðu rýmið með byggingaplasti til að koma í veg fyrir að rykmengun bærist út úr rýminu. Liggur fyrir að um kvöld þann 12. mars 2015 var unnið að múrbroti í verslunarrými stefnda en í skýrslu fyrirsvarsmanns hans fyrir dómi kom fram að hann teldi sig hafa gengið þannig frá byggingaplasti að ekki hefði átt að vera hætta á að rykmengun bærist út úr rýminu. Lýsti hann því nánar svo að eftir lokun verslana að kvöldi 12. mars 2015 hafi hann starfað við að brjóta upp gólfflísar og af því hafi stafað rykmengun. Kvað hann að til að koma í veg fyrir að ryk bærist fram á sameiginlegan gang og inn í aðrar verslanir hafi hann strengt byggingaplastdúk til að loka verslunarrými sitt frá öðrum rýmum í verslunarhúsinu. Hann hafi notað tréstoðir til að festa plastið og hafi límt plastið á samskeytum til að tryggja að ryk bærist ekki fram. Um kvöldið hafi vinur hans komið til hans þarna og þegar hann hafi opnað útidyr hafi komið vindsveipur inn í rýmið. Í tilefni af því kvaðst fyrirsvarsmaðurinn hafa kannað ástand plastsins en ekki séð neitt athugavert. Um kvöldið að vinnu lokinni hafi hann farið af staðnum og talið allt vera í lagi. Morguninn eftir hafi  honum verið tilkynnt um rykmengunina og kvað  hann, að er hann hafi komið á staðinn, hafi hann farið yfir plastið og fundið að plast hafi losnað frá í horni. Í kjölfarið hafi hann í samstarfi við aðra verslunareigendur tekið þátt í að þrífa verslanirnar þar sem ryk hafi komið inn. Hafi það gengið þokkalega og ekki hafi verið tilkynnt um tjón á öðrum verslunum. Verslun stefnanda hafi hins vegar verið lokað og læst og engin tilraun gerð til að ræða við hann um þrif þar. Þá kom fram hjá fyrirsvarsmanni stefnda að töluverður vindur hafi verið umrætt kvöld. Einnig nefndi hann að umgangur væri um sameignlegan gang eftir lokun verslana vegna fólks sem ætti erindi í tónlistarskóla á annarri hæð byggingarinnar á kvöldin. Þá kom fram hjá fyrirsvarsmanninum að hann hafi talið stefnda hafa tryggingu gegn tjóni af því tagi sem um ræðir en það hafi komið í ljós að farist hafi fyrir að skrá umrætt húsnæði hjá tryggingafélagi. Hafi félagið þegar af þeim ástæðum hafnað því að félagið bætti hugsanlegt tjón.                 Að morgni föstudagsins 13. mars 2015 er starfskona stefnanda kom til vinnu sá hún að ryk hafði borist inn í verslunina og lá yfir vörum m.a. fatnaði sem þar var einkum til sölu. Kallaðir voru til tjónaskoðunarmenn frá Vátryggingafélagi Íslands hf. (hér eftir kallað VÍS hf.), en stefnandi var með lausafjártryggingu hjá því félagi, og frá Tryggingamiðstöðinni hf. (hér eftir kallað TM hf.) en talið var í upphafi að stefndi hefði tryggingu hjá því félagi sem tæki til hugsanlegrar bótaskyldu hans.                 Þá gaf skýrslu Ármann Þorgrímsson tjónamatsmaður hjá VÍS hf. Hann kvað aðspurður að hann væri húsasmíðameistari að mennt og hefði um áratugaskeið starfað sem slíkur áður en hann hafi gerst tjónamatsmaður hjá ofangreindu tryggingafélag. Í skýrslu hans kom fram að hann hefði verið kallaður í verslun stefnanda 13. mars 2015 til að skoða þar aðstæður eftir að ryk hafi borist þar inn. Hann kvað steypuryk hafa legið yfir öllum vörum verslunarinnar. Þá kvaðst hann hafa skoðað rykvarnir á verslunarrými stefnda og að þeim hefði verið ábótavant að hans mati. Ekki hafi verið notaðar tréstoðir til að festa plastdúk við loftið heldur aðeins límband og hann hafi séð að plastið hafi gapað frá á nokkrum stöðum.                  Að beiðni stefnanda kom Eiríkur Jónsson verkfræðingur í húsnæðið 16. mars 2015 og kannaði þar aðstæður. Liggur fyrir stutt skrifleg skýrsla hans í málinu þar sem m.a. kemur fram að yfir hafi staðið vinna við að breyta húsnæði verslunar handan gangsins sem verslun stefnanda stendur við og hafi það rými verið skermað frá ganginum með plastdúk. Frágangur hafi verið sæmilegur og samskeyti límd. Fram kemur það álit Eiríks að múrbrot í framangreindu rými og lélegur frágangur bráðabirgðalokunar á meðan hafi orsakað rykmengunina sem orðið hafi í verslun stefnanda. Þá er því einnig lýst að verslun stefnanda sé aðskilin frá fyrrnefndum gangi með glerrúðum en rifur séu á milli þeirra, auk þess sem op (ca. 0,1²) sé efst á veggnum. Eiríkur kom fyrir dóminn og lýsti aðkomu sinni og staðfesti ofangreinda skýrslu. Kom fram í framburði hans að er hann hafi komið á staðinn 16. mars hafi hann meðal annars litið á frágang á rykvörn í verslunarrými stefnda. Kvað hann rykvörnina hafa falist í því að plastdúkur hafi verið límdur á veggi og við loft. Kvað hann greinilega hafa verið búið að laga dúkinn eitthvað þegar hann hafi komið þar að. Plastdúkurinn hafi að hans mati ekki verið loftþéttur og því ekki verið fullnægjandi til að verjast rykmengun. Aðspurður um hvort hann hefði séð missmíð eða gat á plastinu kvað hann að umræddur plastdúkur hafi ekki verið festur með tréstoðum (lektum) eða grind eins og oft sé gert við aðstæður sem þessar til að gera rými rykþétt.                 Stefnandi var með svokallaða „víðtæka lausafjártryggingu“ hjá VÍS hf. og eftir skoðun viðurkenndi tryggingafélagi að um bótaskyldan atburð væri að ræða og bætti kostnaðarverð þeirra vara sem taldar voru ónýtar að því hlutfalli sem samræmdist tryggingarskilmálum. Mun ákvörðun um að fatnaður væri ónýtur hafa verið tekin í kjölfar þess að kannað hafi verið hvort möguleiki væri á að hreinsa fatnaðinn, en ekki hafi verið talinn möguleika á því með þeim hætti að unnt væri að selja vörurnar sem nýjan tískufatnað. Í framangreindu uppgjöri var miðað við að innkaupsverð skemmdra vara væri að heildarfjárhæð 14.358.508 krónur. Í samræmi við skilmála tryggingarinnar greiddi tryggingafélagið 34.64% af tjóninu, eða 4.973.797 krónur að frádregnum 10% vegna eigin áhættu stefnanda, 319.300 krónur og fékk stefnandi því greiddar 4.654.497 krónur vegna tjónsins. Að auki greiddi tryggingafélagið 441.515 krónur með skýringunni „ýmis kostnaður ótalinn annarsstaðar“ og kveður stefnandi að þar sé um að ræða lögmannskostnað.                 Meðhöndlun fatnaðarins var þannig að honum var pakkað í 52 kassa sem færðir voru í geymslu hjá VÍS hf. og munu vera þar enn.                 Í skýrslu fyrirsvarsmann stefnanda fyrir dómari kom fram að henni hefði ekki verið unnt að afla nýs fatnaðar til að selja í verslun sinni þegar í stað eftir að tjónið varð. Lýsti hún því nánar svo að pantanir yrði að gera með margra mánaða fyrirvara og að framleiðendur framleiddu fatnaðinn upp í pantanir en lægju ekki með hann á lager. Hún hafi gert tilraunir til að fá ný föt til sölu en þær hafi verið árangurslausar.                 Undir rekstri málsins óskaði stefnandi dómkvaðningar matsmanns, til að svara eftirgreindum spurningum: „1.           Óskað er eftir að matsmaður skoði og meti vörur sem teknar voru af lager matsbeiðanda 26. mars 2015 og leggi mat á hvort þær hafi skemmst vegna ryks sem barst í þær aðfaranótt 13. mars 2015. 2.             Óskað er eftir að matsmaðurinn leggi mat á hvort vörurnar hafi verið seljanlegar eftir að ryk barst í þær þann 13. mars 2015. 3.             Ef matsmaðurinn telur að vörurnar hafi að hluta eða öllu leyti verið óseljanlegar, sbr. spurningu 2 þá er óskað eftir að hann leggi mat á innkaupsverð varanna, sem hann metur óseljanlegar. 4.             Óskað er eftir að matsmaðurinn meti hvað er hæfileg álagning á þær vörur sem hann telur að hafi verið óseljanlegar. 5.             Óskað er eftir að matsmaðurinn meti hver hafi verið framlegð af þeim vörum sem hann metur óseljanlegar.“                   Ragnar Jóhann Jónsson endurskoðandi var dómkvaddur til verksins og er matsgerð hans dagsett 21. mars 2017.  Svör matsmannsins við ofangreindum spurningum voru eftirfarandi í sömu töluröð. „1.           Það er mat undirritaðs að þær vörur sem teknar voru af lager matsbeiðanda 26. mars 2015 hafi skemmst vegna ryks og útilokað hafi verið að reyna að þrífa þær og gera þær með því móti söluhæfar, enda óvíst að það hefði tekist og/eða svarað kostnaði. 2.             Það er mat undirritaðs að umræddar vörur hafi ekki verið seljanlegar sem slíkar, þ.e. sem nýjar tískuvörur, eftir að ryk komst í þær þann 13. mars 2015. 3.             Það er mat undirritaðs að útreikningar Vátryggingafélags Íslands hf. séu raunhæfir, þ.e. að miða kostnaðarverð lagersins við 200% álagningu með virðisaukaskatti. 4.             Með vísan til liðar 3 hér að framan er það mat undirritaðs að hæfileg álagning sé um 200% mið virðisaukaskatti. Hins vegar er það einnig mat undirritaðs að slíkum tískuvörum sem hér um ræðir fylgi áhætta um seljanleika og að ekki hefði tekist að selja allar vörurnar á fullu verði. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um framlegð, veltuhraða birgða og bókfært verðmæti birgða undanfarinna þriggja til fjögurra ára tel ég varfærnislegt að reikna með 20% afföllum frá mati Vátryggingafélags Íslands hf. og að samkvæmt því sé verðmæti birgðanna kr. 11.486.806. Miðað við það mat hefði framlegð ársins 2015 orðið um 60,1% í stað þess að vera 43,4%. 5.             Það er mat undirritaðs að framlegðin af þeim vörum sem taldar eru óseljanlegar að teknu tilliti til affalla, samtals að verðmæti 11.486.806 krónur, hefði getað orðið 50% af útsöluverði þeirra án virðisaukaskatts, eða um 13,9 millj. kr., það er áætlað söluverðmæti að frádregnu kostnaðarverði.“                 Stefnandi sætti sig ekki við framangreinda matsniðurstöðu og óskaði yfirmats til að svara sömu spurningum og undirmatsmaður. Til að framkvæma yfirmat voru dómkvödd þau Rögnvaldur Dofri Pétursson, löggiltur endurskoðandi og Stella Leifsdóttir rekstrarfræðingur. Yfirmatsgerð þeirra er dagsett 31. Október 2017 og eru svör þeirra við matsspurningum eftirfarandi í sömu töluröð: 1.             Eftir að hafa skoðað vörurnar og rætt við aðila hjá VÍS, er það niðurstaða okkar, að vörurnar hafi allar skemmst af völdum steinryks sem í þær barst þann 13. mars 2015. 2.             Við teljum að vörurnar hafi ekki verið seljanlegar úr versluninni, eftir að steinryk barst í þær þann 13. mars 2015. 3.             Við teljum að útreikningar VÍS á innkaupsverði vörulagersins séu raunhæfir og að innkaupsverð (kostnaðarverð) lagersins hafi verið kr. 14.358.508. 4.             Niðurstaðan af skoðun okkar leiddi í ljós, að forsendur fyrir álagningu voru þær sem okkur var tjáð og í samræmi við forsendur sem starfsmenn VÍS notuðu við útreikning á kostnaðarverði vörulagersins. Á árinu 2015 lækkaði VSK hlutfall úr 25,5% í 24% og innflutningstollar, sem áður voru af hluta af söluvörum matsbeiðanda, voru felldir niður. Hvorutveggja hafði þau áhrif að álagning hjá matsbeiðanda hækkaði á árinu 2015 frá því sem áður var, þar sem lægri opinberar álögur skiluðu sér ekki að fullu í útsöluverði varanna. Hluti af þeim lager sem ónýttist voru nýjar vörur, keyptar á árinu 2015 og hluti eldri vörur. Til að svara spurningunni um hvað við teljum hæfilega álagningu á þær vörur sem við teljum að hafi verið óseljanlegar, þykir okkur rétt að miða við meðalálagningu áranna 2014 og 2016, eins og hún kemur fram í ársreikningi fyrir hvort ár. Álagning samkvæmt ársreikningi 2014 var 98,36% og 108,57% samkvæmt ársreikningi 2016. Ársreikning 2015 teljum við ekki marktækan í þessu sambandi, í ljósi þess tjóns sem félagið varð fyrir og hér um ræðir. Við teljum því að hæfileg álagning á þær vörur sem við teljum óseljanlegar sé 103,47%. 5.             Í ljósi framangreindrar niðurstöðu okkar á því hvað hafi verið hæfileg álagning á þær vörur sem ónýttust, metum við að framlegð af þeim vörum hafi getað verið kr. 14.850.000.                 Framangreindir matsmenn gáfu skýrslu fyrir dómi og staðfestu matsgerð sína og svöruðu spurningum um efni hennar.   II                 Stefnandi kveður stefnda hafi valdið rykmengun er hann viðhafði múrbrot á eignarhluta sínum í verslunarmiðstöðinni að Hafnarstræti 99-101. Stefndi hafi gert einhverjar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að rykmengun bærist inn í aðrar verslanir í húsinu, en þær hafi augljóslega verið ófullnægjandi. Hafi verkfræðingur á vegum stefnanda skoðað aðstæður og skilað minnisblaði sem liggi fyrir í málinu. Komi þar fram að rými þar sem vinna hafi farið fram hafi verið skermað með plastdúk, frágangur hafi verið sæmilegur og samskeyti límd. Þá kemur fram að múrbrot í rýminu og lélegur frágangur bráðabirgðalokunar hafi valdið því að ryk hafi borist í verslun stefnanda.                 Engar aðrar framkvæmdir hafi verið í gangi í húsinu og kveðst stefnandi byggja á því að engin önnur ástæða geti verið fyrir rykmengun í verslun hans en fyrrnefndar framkvæmdir á vegum stefnda. Þá telur hann augljóst að stefndi hafi ekki gætt þess að gera nægjanlegar ráðstafanir til að fyrirbyggja að ryk bærist um húsið og þar með í verslun stefnanda sem hafi verið rétt við þann hluta hússins sem stefnandi hafi verið að breyta. Sé eðlilegt að gera þær kröfur til stefnda, sem verið hafi að breyta verslunarhúsnæði, að hann gerði allt sem í hans valdi stæði til að fyrirbyggja að ryk bærist inn í önnur verslunarrými. Þar sem hann hafi ekki gert það beri hann skaðabótaábyrgð á afleiðingum þeirrar vanrækslu sinnar gagnvart stefnanda. Kveðst stefnandi byggja á því að tjón sem af þessu hlaust hafi verið fyrirsjáanlegt í ljósi þess að stefndi hafi verið að vinna við múrbrot inni í verslunarmiðstöð.                 Er starfsmaður stefnanda hafi komið til vinnu að morgni 13. mars 2015 hafi hann orðið var við að ryk hafi verið yfir öllu í versluninni. Þetta hafi reynst vera múrryk og hafi það borist í allan fatnað í versluninni. Hafi það verið mat kunnáttumanna að hluti varanna væri óseljanlegur þar sem ekki væri hagt að hreinsa rykið úr fötunum án þess að á þeim sæist. Hafi Vátryggingarfélag Íslands hf. talið og verðmetið vörur sem félagið taldi óseljanlegar og liggi gögn um þetta fyrir í málinu. Félagið hafi síðan greitt bætur til stefnanda og séu umræddar vörur í vörslum þess. Þetta mat kveður stefnandi að hafi verið staðfest með yfirmatsgerð sem liggi fyrir í málinu. Kveður stefnandi að fjárkrafa hans sé byggð á umræddri yfirmatsgerð.                 Vísar stefnandi til þess að verðmæti þeirrar vöru sem talin sé óseljanleg hafi verið metið 14.358.508 krónur af yfirmatsmönnum en það sé innkaupsverð vörunnar sem hafi skemmst. Kveðst stefnandi krefjast þess að stefndi bæti honum þetta tjón.                 Í yfirmatsbeiðni hafi verið óskað eftir að yfirmatsmenn leggðu mat á hver hefði orðið framlegð af þeim vörum sem metnar voru óseljanlegar. Meta matsmenn tapaða framlegð miðað við meðalálagningu áranna 2014 og 2016 eins og hún komi fram í ársreikningum stefnanda. Niðurstaða yfirmatsmanna sé að framlegðin hefði orðið 14.850.000 krónur af hinum óseljanlegu vörum. Kveðst stefnandi gera kröfu um að stefndi bæti honum þetta tjón. Stefnandi hafi haldið rekstri sínum áfram og hafi þurft að taka lán til að kaupa inn í verslunina að nýju. Sé byggt á því að stefnandi hafi greitt allan breytilegan og fastan kostnað af rekstri sínum án þess að njóta framlegðar af þeirri vöru sem talin hafi verið óseljanleg með tilheyrandi áhrifum á afkomu í rekstrinum. Hann telji því hluta af tjóni sínu vera hina töpuðu framlegð sem hann hefði haft af sölu hinnar skemmdu vöru. Við það sé miðað að við mat á tjóni stefnanda að þessu leyti sé ekki beitt hefðbundnum aðferðum við að finna út ætlaðan hagnað af sölu á þeim vörum sem metnar hafi verið óseljanlegar. Ástæðan sé sú að stefnandi hafi haldið áfram rekstri og hafi þegar greitt allan breytilegan og fastan kostnað af rekstrinum. Sú framlegð sem yfirmatsmenn telji að hafi tapast sé því beint tjón stefnanda sem hann krefjist að stefnandi bæti.                 Þá vísar stefnandi til þess að innborgun á kröfuna stafi af greiðslu Vátryggingarfélags Íslands hf. inn á hana.     III                 Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því að ekki sé sannað að tjón stefnanda megi rekja til skaðabótaskyldrar háttsemi stefnda eða starfsmanna á hans vegum, enda hafi allur umbúnaður við verkið verið eins góður og ætlast hafi mátt til við þessar aðstæður. Fullyrðingar í stefnu um frágang á vettvangi séu byggðar á minnisblaði nafngreinds verkfræðings sem kallaður hafi verið til af hálfu lögmanns stefnanda þremur dögum eftir tjónsatburð. Ekki sé að sjá að stefnda hafi verið gert viðvart eða honum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við verkfræðinginn. Í minnisblaðinu segi að það rými þar sem múrbrot hafi farið fram hafi verið skermað frá ganginum með plastdúk og frágangur hafi verið „…sæmilegur, samskeyti límd.“ Enn fremur segi: „Múrbrot í rýminu og lélegur frágangur bráðabirgðalokunar á meðan er talin hafa orsakað rykmengunina yfir í húsnæði Rósarinnar. Veggurinn milli Rósarinnar og gangsins er úr gleri, rifur eru milli glerrúðanna auk þess sem op (ca. 0,1 m²) er efst í veggnum fram á ganginn.                 Stefndi kveðst benda á að skoðun verkfræðingsins hafi farið fram þremur dögum eftir tjónsatburðinn og sé því ekki ótvíræð sönnun um ástandið eins og það hafi verið þegar hann átti sér stað. Þannig sé ekki hægt að útiloka að frágangur á plastdúknum hafi verið að einhverju leyti breyttur t.d. hafi límingar losnað.                 Stefndi veki athygli á að fram komi í minnisblaðinu að glerveggur milli Rósarinnar og gangsins sem sé milli verslunarrýmanna sé þannig úr garði gerður að rifur séu milli glerrúða og auk þess sé op efst á honum fram á ganginn. Þarna komi fram að hönnun á verslunarrými stefnanda virðist vera með þeim hætti að ryk eigi mjög greiða leið inn í rýmið. Stefndi kveðst hafna því að hann beri ábyrgð á þessu og telur það vera á eigin ábyrgð stefnanda að sjá til þess að húsnæði hans sé rykþétt, einkum í ljósi þess að þar séu vörur sem viðkvæmar séu fyrir ryki. Því sé ekki um saknæmt gáleysi að ræða af hálfu stefnanda, enda hafi hann gert það sem til hafi mátt ætlast af honum til að koma í veg fyrir að ryk bærist frá framkvæmdum hans og ylli skaða. Ef frágangur á verslunarrými stefnanda sjálfs hefði verið með forsvaranlegum hætti hefði tjónið aldrei orðið og því sé um eigin sök stefnanda að ræða.                 Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að tjón hans megi án vafa rekja til saknæmrar háttsemi stefnda. Stefndi byggi á því að sú sönnun liggi ekki fyrir. Ekki hafi verið aflað sönnunargagna um hvernig ástandið hafi verið strax eftir tjónsatburðinn t.d. með ljósmyndum eða lögregluskýrslum.                 Varðandi varakröfu um lækkun dómkrafna kveðst stefndi byggja á því að þrátt fyrir að stefnufjárhæðin sé byggð á fyrirliggjandi yfirmatsgerð sé kröfufjárhæðin ósönnuð, en stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir fjárhæð tjóns síns.                 Stefnufjárhæðin sé samsett úr tveimur fjárhæðum; annars vegar innkaupsverði vörunnar og hins vegar af framlegð af sömu vörum, samkvæmt mati yfirmatsmanna. Stefndi kveðst mótmæla því að bótakrafa sé byggð á tapaðri framlegð eins og gert sé. Framlegð sé skilgreind þannig að um sé að ræða tekjur að frádregnum breytilegum kostnaði. Framlegð sé ekki sama og hagnaður því fyrirtæki þurfi einnig að borga fastan kostnað, sem sé m.a. laun starfsmanna, húsnæðiskostnaður, rafmagn, hiti, vaxtakostnaður o.fl. Stefndi kveðst benda á að matsmennirnir meti einungis framlegð en ekki tapaðan hagnað, enda ekki um það beðnir. Ljóst sé að mati stefnda að stefnandi hafi haft verulegan fastan kostnað við rekstur verslunar sinnar svo sem vinnulaun og vaxtakostnað og kveðst stefndi vísa um það til framlagðra ársreikninga stefnanda. Þessi kostnaður hefði komið fram að fullu þótt tjónið hefði ekki orðið og dregist frá framlegð. Engin tilraun hafi verið gerð af hálfu stefnanda til að sanna tapaðan hagnað og verði hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Stefndi byggi því á þeirri málsástæðu að hafna beri þessum þætti í bótakröfu stefnanda algerlega, því aðeins sé heimilt að bæta tapaðan hagnað en ekki tapaða framlegð, enda sé töpuð framlegð ein og sér ekki raunverulegt fjártjón.                 Stefndi kveðst jafnframt byggja á því að stefndi hafi ekki reynt allt sem hægt hafi verið til að takmarka tjón sitt. Bendir stefndi á að jafnvel þótt vörurnar séu taldar óseljanlegar sé alkunna að nánast allt megi selja fyrir eitthvert verð og því hefði mátt minnka tjónið hefði það verið reynt til þrautar. Þá hafi ekki verið tekið tillit til þess að alltaf má gera ráð fyrir einhverjum afföllum af söluvörum.                 Stefndi kveðst vísa til almennu skaðabótareglunnar og meginreglna skaðabótaréttarins til stuðnings kröfum sínum. Varðandi kröfu um málskostnað vísar hann til 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.                 Við munnlegan málflutning mótmælti stefndi einnig upphafsdegi dráttarvaxta og kvað kröfuna sem beint var að umbjóðanda sínum ekki hafa verið nægilega skýra er honum var sent afrit yfirmatsgerðar með bréfi lögmanns stefnanda 8. Desember 2017.                  IV Í máli þessu er óumdeilt að það ryk sem barst inn í verslun stefnanda aðfaranótt 13. mars 2015 gat aðeins stafað frá framkvæmdum á vegum stefnda handan gangsins í verslunarmiðstöð þeirri þar sem báðir aðilar voru með verslunarpláss. Þá liggur fyrir að stefndi hafði gert tilraun til að varna því að ryk bærist fram á sameiginlegan gang með öðrum verslunum. Fyrir liggur að er fyrirsvarsmaður stefnda kom í verslunarpláss sitt umræddan morgun veitti hann því athygli að plast hafði rifnað frá. Í framburði vitna, skoðunarmanns tryggingafélags og verkfræðings sem stefnandi fékk til að kanna aðstæður kom fram að hvorugur þeirra taldi rykvarnir hafa verið fullnægjandi og kvaðst annar þeirra hafa séð að byggingaplast gapti við loft. Þykir með framburði fyrirsvarsmanns stefnda og framangreindra tveggja vitna, verða að leggja til grundvallar að umbúnaður á byggingaplasti því sem stefndi setti upp hafi verið með þeim hætti að ekki hafi verið fulltryggt að ryk bærist ekki í aðrar verslanir. Er það mat dómsins að þessi vanbúnaður verði metinn stefnda til sakar og ekkert sé komið fram í málinu sem bendi til óhappatilviks eða sakar annarra manna sem stefndi ber ekki ábyrgð á. Ber hér að  athuga að vindstyrkur fyrir utan verslunina, sem gæti hafa átt þátt í því að plast losnaði við umgang um útihurð er atriði sem starfsmenn stefnda hefði að réttu átt að hafa í huga er þeir gengu frá rykvörnum. Þá verður að leggja til grundvallar að starfsmönnum stefnda mátti vera ljóst að þeir unnu við mjög rykmengandi endurbætur á húsnæði sínu sem staðsett var í verslunarmiðstöð þar sem verslanir voru í fullum rekstri. Stefnda dugar ekki að bera fyrir sig að rifur meðfram glerjum sem aðskildu verslun stefnanda frá sameiginlegum gangi hafi verið óforsvaranlegur og ryk hafi borist inn í verslunina af þeim sökum. Verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að aðgreining á verslun stefnanda frá sameiginlegum gangi hafi verið ábótavant miðað við að um var að ræða verslunarmiðstöð. Af framangreindum sökum verður lagt til grundvallar að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem varð í verslun stefnanda umræddan dag. Telst og sýnt að orsakasamband var á milli tjónsins og þess vanbúnaðar á rykvörnum sem fyrr er getið og er það einnig mat dómsins að tjón stefnanda hafi verið sennileg afleiðing af þeim vanbúnaði. Í málinu liggja fyrir tvær matsgerðir til sönnunar tjóns þess sem stefnandi kveðst hafa orðið fyrir. Eru þær samstíga í því mati að þær vörur sem fjarlægðar voru úr versluninni í kjölfar atburðarins og fluttar til VÍS hf. hafi allar verið skemmdar og að ekki hafi verið hægt að selja þær sem nýjar tískuvörur. Þá fallast matsmenn einnig á að starfsmenn VÍS hf. hafi réttilega metið innkaupsverð samtals að fjárhæð 14.358.508 krónur. Þar sem framangreindu mati hefur ekki verið hnekkt er það mat dómsins að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni sem framangreindri fjárhæð nemur að frádreginni þeirri greiðslu sem VÍS hf. greiddi stefnanda vegna þess. Stefndi gerir athugasemdir við að bótakrafa stefnanda taki einnig til missis framlegðar af sölu umræddrar vöru og kveður að réttara sé að líta til missis hagnaðar. Hann bendir á í þessu sambandi að tap hafi verið á rekstri verslunar stefnanda samkvæmt ársreikningum sem liggi fyrir. Með yfirmatsgerð, sem ekki hefur verið hnekkt, hefur stefnandi gert nægilega líklegt að sala umræddrar vöru í verslun hans, hefði skilað rekstrinum framlegð að fjárhæð 14.800.000 krónur. Er fallist á með stefnanda að með yfirmatsgerð sé nægilega sannað að reksturinn hafi farið á mis við þessa fjárhæð og að sýnt sé að tjón stefnanda verði ekki fullbætt með innkaupsverði vörunnar einu. Liggur ekki annað fyrir en að fastur kostnaður við reksturinn hafi verið greiddur vegna rekstrarársins 2015 og því verði að leggja til grundvallar að framlegð vegna þeirra vara sem ónýttust hefði að fullu komið á móti þeim kostnaði greiða þurfti. Hefur stefndi í engu reynt að hnekkja þeirri sönnun sem í yfirmati felst og er ekki tilefni til annars en að leggja yfirmatsgerðina til grundvallar við ákvörðun bótafjárhæðar. Af hálfu stefnda hafa ekki verið færðar nægar sönnur á það að stefnandi hafi ekki gripið til nægilegra ráðstafana til að takmarka tjón sitt. Kom fram hjá fyrirsvarsmanni stefnanda að innkaup tískufatnaðar væru gerð með margra mánaða fyrirvara og henni hefði því ekki verið kleift að afla nýs fatnaðar til að selja í stað þess sem eyðilagðist. Í framburði annars yfirmatsmanna kom fram staðfesting á því að þannig væri þessu háttað í fataverslun og pantanir væru gerðar með margra mánaða fyrirvara. Þá hefur ekki verið hnekkt því mati matsmanna að umræddur fatnaður hafi verið óseljanlegur í því ástandi sem hann var. Að svo komnu hvílir sönnunarbyrði um hið gagnstæða á stefnda og hefur honum ekki tekist slík sönnun. Samkvæmt framansögðu verðu fallist á kröfu stefnanda eins og hún er fram sett. Upphafsdagur dráttarvaxta er ákveðinn sá dagur er mánuður var liðinn frá þingfestingu málsins, sem var 17. maí 2017, en taka verður undir með stefnda um að þá fyrst hafi honum verið birt skýrlega bótakrafa stefnanda. Með vísan til framangreinds verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn sú fjárhæð sem nánar greinir í dómsorði. Hefur þá verið tekið tillit til þess kostnaðar sem stefnandi bar af dómkvaðningu matsmanns og yfirmatsmanna. Af hálfu stefnanda flutti málið Árni Pálsson lögmaður. Af hálfu stefnda flutti málið Arnar Sigfússon lögmaður. Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.   Dómsorð                 Stefndi, Sportver ehf., greiði stefnanda, Stefu ehf., 29.208.508 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. mars 2015 til 17. júní 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 5.096.012 krónum sem greiddar voru inn á kröfuna 8. maí 2015. Stefndi greiði stefnanda 2.186.593 krónur í málskostnað.
Mál nr. 8/2020
Kærumál Opinber skipti Dánarbússkipti Kaupmáli Eignarréttur Sameign Erlend réttarregla Lagaskil
Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem krafa barna E heitins um að tiltekin fasteign í Bandaríkjunum félli undir opinber skipti á dánarbúi E var tekin til greina. A, eiginkona E, kærði úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar og krafðist viðurkenningar á því að fasteignin félli ekki undir skipti á dánarbúi E. Ágreiningur aðila laut að því hvort að um eignarhald á fasteigninni færi eftir ákvæðum íslenskra lagareglna eða laga í Suður Karólínu fylki í Bandaríkjunum um svokallað JTWROS sem fæli í sér að við andlát skammlífari sameiganda ljúki eignarrétti hans og fasteignin falli þar með óskipt til hins langlífari. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt ólögfestum lagaskilareglum væri sú meginregla talin gilda að um erfðir færi eftir reglum þess lands þar sem arfleiðandi átti síðast heimilisfesti. Sé í lögum erlends ríkis, þar sem eign er, mælt fyrir um sérstakar reglur varðandi slíkar eignir, sem komi í stað almennra reglna, víki meginreglan fyrir sérreglunni og beri þá að beita um eignina lögum þess lands þar sem hún er. Þegar sakarefni eða málsaðilar hafi slík tengsl við erlent ríki, að til beitingar reglna þess ríkis komi fyrir íslenskum dómstólum um sakarefnið í heild eða að hluta, þurfi að heimfæra lagareglur um hið erlenda lögfræðilega fyrirkomulag sem um ræðir til réttarsviðs en við slíka heimfærslu beri almennt að styðjast við lög dómstólslandsins. Ef hið erlenda fyrirkomulag sé mjög ólíkt því sem tíðkast í dómstólslandinu eða þekkist jafnvel ekki þar geti þó verið varhugavert eða orkað tvímælis að heimfæra það til annars réttarsviðs en þess sem miðað er við í því erlenda ríki þar sem reglan á uppruna sinn. Geti við þær aðstæður verið réttlætanlegt að víkja frá meginreglunni um að heimfærsla til réttarsviðs lúti lögum dómstólslandsins og láta hana þess í stað ráðast af lögum í hinu erlenda ríki. Taldi Hæstiréttur að A hefði með framlagðri matsgerð dómkvadds manns sannað tilvist og efni þeirra bandarísku lagareglna sem málatilbúnaður hennar var reistur á. Jafnframt taldi Hæstiréttur að A hefði sannað að til eignarhalds hennar og E á fasteigninni hefði í upphafi stofnast í samræmi við umræddar lagareglur og að eignarréttur E hefði við andlát hans færst óskiptur yfir til hennar samkvæmt sömu reglum. Var krafa A um að fasteignin í Bandaríkjunum félli ekki undir opinber skipti á dánarbúi E því tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar 2. janúar 2020 en kærumálsgögn bárust réttinum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 19. desember 2019. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að fasteignin [...], Suður Karólínu í Bandaríkjunum, falli ekki undir skipti á dánarbúi E. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðilar greiði sér óskipt kostnað vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Landsrétti og Hæstarétti. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 13. maí 2020. I Í málinu greinir aðila á um hvort fasteignin [...], Suður Karólínu í Bandaríkjunum, falli undir skipti á dánarbúi E sem lést [...]. Krafa sóknaraðila sem er eftirlifandi maki E er á því reist að um eignarhald á fasteigninni fari eftir ákvæðum laga í Suður Karólínu um svokallað „joint tenancy with the right of survivorship“, skammstafað JTWROS. Fasteignin hafi frá upphafi verið skráð eign þeirra beggja, E og sóknaraðila, samkvæmt JTWROS-reglunum. Fasteign sem lúti þeim reglum sé í óskiptri sameign tveggja eða fleiri. Við andlát skammlífari sameiganda ljúki eignarrétti hans og falli fasteignin þá óskipt til hins langlífari. Samkvæmt reglum alþjóðlegs einkamálaréttar, sem séu hluti íslensks landsréttar, beri hvað eignarrétt yfir fasteignum varðar að beita reglum þess lands þar sem fasteignin er, sem í þessu tilviki séu reglur í Suður Karólínu fylki í Bandaríkjunum, sbr. meðal annars 3. mgr. 4. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar. Varnaraðilar, sem eru börn E af fyrra hjónabandi, telja á hinn bóginn að þar sem E og sóknaraðili hafi verið íslenskir ríkisborgarar og með lögheimili á Íslandi eigi erfðalög nr. 8/1962 og lög nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. að gilda um dánarbússkiptin í heild og umrædd fasteign að koma til skipta samkvæmt þeim lögum. E og sóknaraðili hafi gert með sér kaupmála [...], sjö árum eftir að meint samkomulag um „joint tenancy with the right of survivorship“ eigi að hafa verið gert. Verði litið svo á að stofnast hafi til eignarréttar á grundvelli JTWROS- reglnanna milli sóknaraðila og E við kaup fasteignarinnar sé í öllu falli ljóst að þeirri eignarréttarskipan hafi lokið við gerð kaupmálans. Með úrskurði héraðsdóms var fallist á kröfu sóknaraðila um að umrædd fasteign skyldi ekki falla undir skipti á dánarbúinu en Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu í hinum kærða úrskurði. Kæruleyfi var veitt 27. janúar 2020 á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem úrslit málsins um það hvort beita eigi bandarískum eða íslenskum lögum um ágreining málsaðila gæti haft fordæmisgildi. II 1 E var tvíkvæntur. Með fyrri konu sinni eignaðist hann þrjú börn fædd árin [...] og eru þau varnaraðilar málsins. Fyrra hjónabandi E mun hafa lokið árið [...] og árið [...] eignaðist hann barn með sóknaraðila. E og sóknaraðili gengu í hjónaband á Íslandi [...] og gerðu með sér kaupmála [...]. Í honum kemur fram að sumarbústaður að Nesjavöllum í Grímsnes- og Grafningshreppi skuli vera séreign sóknaraðila en um aðrar eignir þeirra fari eftir almennum reglum hjúskaparlaga. Sameiginlegt heimilisfang E og sóknaraðila eftir að þau gengu í hjónaband var á Íslandi. Samkvæmt bréfi utanríkisráðuneytisins [...] var sóknaraðili á árunum [...] til [...] staðarráðin við [...] hjá [...] og á [...] í [...] en hún hafði þá verið búsett í Bandaríkjunum um nokkurra ára skeið. Hún kom til starfa við [...] í [...] í lok [...] og var þar til ársloka [...]. Í bréfi ráðuneytisins segir að sóknaraðili hafi fengið ársleyfi frá störfum árið [...] til að vera með maka sínum, E, þegar hann fluttist til [...] frá [...] það ár. Sóknaraðili hafi svo aftur komið til starfa við [...] í [...] í [...] árið [...] og starfað þar til [...] þegar hún fór á eftirlaun. Um störf E í Bandaríkjunum segir í bréfi ráðuneytisins að hann hafi hafið störf í [...] árið [...] að loknu námi í Bandaríkjunum. Hann hafi orðið [...] við [...] hjá [...] í [...] árið [...] og starfað þar sem slíkur til ársins [...]. Frá árinu [...] til ársins [...] hafi E starfað við [...] í [...] og frá árinu [...] til ársins [...] í [...]. Þá hafi E fylgt maka sínum, sóknaraðila, þegar hún fór til starfa í [...] í [...] árið [...] og dvalið þar með henni út árið [...]. 2 Á árinu [...] festu E og sóknaraðili kaup á íbúð þeirri sem um er deilt í málinu en hún er staðsett [...], Suður Karólínu í Bandaríkjunum. Kaupsamningur um eignina ber fyrirsögnina [...] og er hann dagsettur [...]. Í honum kemur fram að kaupendur séu [...] segir að [...] Afsal seljanda (Title to real estate) vegna umræddra kaupa var gefið út [...]. Í því kemur fram að eigninni sé afsalað til [...] Í afsalinu er tilgreint að heimilisfang afsalshafa sé [...] Afsalið ber með sér að sama dag og það var gefið út var það vottað af lögbókanda í Suður Karólínu (Notary Public for SC) og skráð opinberri skráningu í [...] í Suður Karólínu. Þá er meðal gagna málsins eiðsvarin yfirlýsing lögmanns kaupendanna þess efnis að kaupin um íbúðina hafi átt sér stað og kaupverðið sé að fullu greitt og er yfirlýsing lögmannsins staðfest með áritun lögbókanda [...]. Sem fyrr greinir lést E [...]. Í málinu er ágreiningslaust að eftir andlát hans lét sóknaraðili breyta skráningu á eignarhaldi íbúðarinnar yfir á sitt nafn en það hafði eins og áður er fram komið verið skráð á nöfn þeirra beggja. Meðal gagna málsins er skjal sem hefur að geyma yfirlit um skráða eigendur íbúðarinnar að [...] og er sóknaraðili þar ein skráð sem núverandi eigandi. 3 Á árunum [...] og [...] stofnuðu E og sóknaraðili tvo bankareikninga í Bandaríkjunum, annan í Bank of America og hinn í Merrill Lynch sem síðar varð Merrill Edge. Í hæstaréttarmáli nr. 7/2020, sem er milli sömu aðila og þetta mál, er deilt um hvort innstæður á bankareikningunum falli undir skipti á dánarbúi E, og er dómur í því máli kveðinn upp í dag samhliða dómi í þessu máli. 4  Dánarbú E var tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur [...] og nafngreindur lögmaður skipaður skiptastjóri. Í bréfi hans [...] til Héraðsdóms Reykjavíkur kom fram að ágreiningur væri milli sóknaraðila og varnaraðila um hvort fasteignin [...], félli undir dánarbússkiptin og væri þeim ágreiningi vísað til héraðsdóms til úrlausnar eftir 122. gr. laga nr. 20/1991. Í bréfinu kemur fram að sóknaraðili haldi því fram að samkvæmt ákvæðum laga í Bandaríkjunum falli fasteignin ekki undir dánarbússkiptin heldur beint til sóknaraðila og beri að beita bandarískum reglum í því tilviki. Varnaraðilar haldi því á hinn bóginn fram að íslensk lög gildi um allar eignir hins látna hvort sem þær sé að finna á Íslandi eða annars staðar og falli fasteignin því undir dánarbússkiptin jafnt sem aðrar eignir hins látna. Með bréfi skiptastjóra til héraðsdóms fylgdi greinargerð lögmanns sóknaraðila [...] til skiptastjóra. Í henni færir lögmaðurinn fram rök sóknaraðila fyrir því að um fasteignina gildi bandarísk lög og falli hún samkvæmt þeim ekki undir skipti á dánarbúinu. Í því sambandi vísar lögmaðurinn meðal annars til ritsins Erfðaréttur eftir Ármann Snævarr þar sem segi að ef sérreglur gildi um erfðir að tilteknum fasteignum erlendis verði íslenskir dómstólar væntanlega að beita þeim erlendu réttarreglum er við eigi. Ágreiningsmál um dánarbússkiptin var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur [...] og er það mál hér til úrlausnar. Sóknaraðili lagði fram greinargerð af sinni hálfu 7. september 2018 og greinargerð varnaraðila var lögð fram 9. nóvember sama ár. Í þinghaldi 21. desember 2018 lagði sóknaraðili fram matsbeiðni en breytti matsspurningu með bókun í þinghaldi 25. janúar 2019. Í þinghaldi 28. sama mánaðar var Víðir Smári Petersen lögmaður kvaddur til að framkvæma hið umbeðna mat og var matsgerð hans 18. febrúar 2019 lögð fram í þinghaldi 27. mars 2019. III Spurningar þær sem lagðar voru fyrir matsmanninn Víði Smára Petersen voru eftirfarandi: „Spurning 1. Hvaða réttarreglur gilda í rétti Suður Karólínu fylkis í Bandaríkjunum (tilvist og efni) um kaupsamninga um fasteign sem kveða á um að um fasteign gildi sameiginlegt eignarhald með erfðarétti (e. joint tenancy with the right of survivorship) (SC Code 27-7-40 Creation of joint tenancy; filing; severance). Spurning 2. Þess er óskað að matsmaður lýsi hinni erlendu réttarreglu og láti í ljós rökstutt álit á efni hennar og þá hvernig fari um eignarhald á fasteign sem um gildi „joint tenancy with the right of survivorship“ við andlát annars sameiganda fasteignarinnar. Þess er óskað að matsmaður skoði og meti efni réttarreglunnar miðað við tímabilið 2002 til 2017.“ Í matsgerðinni tilgreinir matsmaður í upphafi hvaða gögn hann hafi haft til hliðsjónar við samningu hennar. Í kafla undir fyrirsögninni „Almennt um regluna og uppruna hennar“ segir að matsgerðin fjalli um réttarreglu sem nefnist „joint tenancy with the right of survivorship“, skammstafað, JTWROS, en mælt sé fyrir um hana í 40. gr., 7. kafla, 27. þáttar lögbókar Suður Karólínu (Section 40, Chapter 7, Title 27 of the SC Code of Laws). Í bandarískum rétti sé að finna ýmis eignarform sameigenda en algengustu tegundirnar séu JTWROS og „Tenancy in Common“, skammstafað TIC. Fyrir aldamótin 2000 hafi eignarformið JTWROS sjaldan verið notað í Suður Karólínu vegna þess að lögin sem átt hafi við hafi verið óljós. Á árinu 2000 hafi verið sett sérstök löggjöf varðandi JTWROS og eigi hún við í þessu máli, það er 40. gr., 7. kafla, 27. þáttar lögbókar Suður Karólínu. Eignarformið sé ekki einskorðað við hjón en það hafi þó orðið vinsælt meðal þeirra í ríkinu. Til einföldunar verði í umfjöllun matsmannsins gert ráð fyrir því að sameigendur í eignarforminu JTWROS séu tveir, þar sem sú staða sé uppi í dómsmálinu sem rekið sé fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, en reglurnar geri ráð fyrir því að sameigendur geti verið fleiri. Miðað við þær upplýsingar sem matsmaður hafi haft verði ekki séð að réttarreglan hafi breyst á árunum 2002 til 2017. Munurinn á TIC og JTWROS felist fyrst og fremst í því hvernig yfirfærsla eignarréttar sé útfærð við andlát skammlífari sameigandans. Í tilviki TIC verði eignarhlutur hans eign dánarbús viðkomandi og skiptist eftir almennum reglum (e. intestacy law) eða í samræmi við erfðaskrá hins látna. Þessu sé öðru vísi farið í tilviki JTWROS en í stuttu máli feli reglan það í sér að eign sé í sameign á meðan sameigendur séu á lífi en við andlát hins skammlífari eiganda renni eignin ásamt öllum réttindum og skyldum til langlífari sameiganda. Í þessu felist að hinum sameiginlegu hagsmunum, sem JTWROS feli í sér, ljúki við andlát skammlífari sameigandans og eigi hinn langlífari í kjölfarið rétt á stærri hlut í eigninni. Í bandarískum rétti sé ekki litið svo á að eignarhluti hins skammlífari færist til þess sem eftir lifi eða að hann erfi eignarhlutinn heldur að hagsmunum hins látna einfaldlega ljúki og þar með verði hagsmunir eftirlifandi sameiganda meiri yfir eigninni en áður. Til þess að setja framangreint í annað samhengi megi segja að í tilviki TIC sé litið á hvern og einn sameiganda sem sjálfstæðan eiganda. Sameignin sé óskipt í þeim skilningi að allir sameigendur hafi rétt til þess að hagnýta eignina en eignarhaldið sé skipt þannig að hver sameigandi fari aðeins með tiltekinn eignarhluta í eigninni sem geti erfst eftir almennum reglum. Af þeim sökum sé litið svo á í tilviki TIC að eignin sé í eigu margra sameigenda sem geti ráðstafað hagsmunum sínum með þeim hætti sem þeir kjósi, til dæmis með framsali eða arfleiðslu. Í tilviki JTWROS sé bæði hagnýtingin og eignarhaldið sameiginlega á hendi sameigendanna og sé litið á þá sem einn eiganda. Þeir deili óskiptum hagsmunum í allri eigninni og sé litið á þá sem sameiginlega eigendur. Sameigandi í JTWROS geti því ekki ráðstafað hagsmunum sínum og þeir erfist ekki eftir almennum reglum enda sé litið svo á að hagsmunir sameigandans hverfi við andlát hans. Í kafla undir fyrirsögninni „Nánar um eðli eignarformsins“ segir í matsgerðinni að við túlkun og beitingu hinnar umdeildu reglu sé mikilvægt að hafa í huga að JTWROS sé eignarform í rétti Suður Karólínu, svipað eins og sérstök sameign eða séreignarréttur séu eignarform í íslenskum rétti. Í þessu sambandi megi benda á að heiti 27. þáttar lögbókar Suður Karólínu sé „Eignir og yfirfærslur“ (Property and Conveyances) og 7. kafli þess þáttar fjalli um „Form og framkvæmd yfirfærslu eignarréttinda“ (Form and Execution of Conveyances). Á hinn bóginn sé erfitt að heimfæra eignarformið JTWROS upp á íslenskan rétt. TIC sé að mestu leyti sambærilegt sérstakri sameign að íslenskum rétti sem felist meðal annars í því að hagnýtingarréttur yfir sameigninni sé óskiptur, þótt eignarhaldið sé skipt, og við andlát erfist hlutdeild hins látna í sameigninni eftir almennum reglum. JTWROS sé frábrugðið eignarform að því leyti að sameigendur eigi ekki tiltekinn eignarhlut og hagsmunir sameigandans erfist ekki heldur „sameinist“ hagsmunum þess sem lengur lifir. JTWROS svipi að einhverju leyti til óðalsréttar eins og hann hafi verið í gildistíð eldri jarðalaga. Þá megi jafnvel líta svo á að JTWROS sé nokkurs konar sjálfseignarstofnun með óskiptum hagsmunum sameigenda sem báðir hafi í umráðum sínum en eðli „stofnunarinnar“ breytist í hefðbundinn séreignarrétt við andlát hins skammlífari sameiganda. Í kafla undir fyrirsögninni „Stofnun eignarformsins samkvæmt lögum“ segir að af (a)-lið hins umdeilda lagaákvæðis lögbókar Suður Karólínu megi ráða að hægt sé að stofna til eignarformsins með margvíslegum hætti. Í ákvæðinu komi fram að stofnað sé til JTWROS með hvers kyns skjali um eignaryfirfærslu fasteignar sem innihaldi nöfn sameigendanna ásamt orðunum „as joint tenants with the right of survivorship, and not as tenants in common“. Í þessu sambandi megi nefna að í dómi Hæstaréttar Suður Karólínu 9. maí 2012 í máli nr. 27123 (Eldridge IV III gegn Eldridge) hafi maður fært eign úr tilteknum sjóði einhliða yfir á sig og eiginkonu sína samhliða stofnun eignarformsins JTWROS. Ekki hafi verið uppi ágreiningur í málinu um að löglega hafi verið stofnað til þess. Í kafla undir fyrirsögninni „Hvernig eign færist yfir til langlífari sameiganda að lögum“ segir að fræðilega virðist gengið út frá því að eignarrétturinn færist sjálfkrafa (e. automatically eða immediately) yfir til langlífari sameigandans við andlát hins skammlífari en að framlagning dánarvottorðs sé nauðsynleg til þess að breyta skráningunni í fasteignaskrá. Í (b)-lið hins umdeilda lagaákvæðis komi fram að hinn eftirlifandi sameigandi þurfi að leggja fram dánarvottorð til fasteignaskrár (e. Register of Deeds) í þeirri sýslu þar sem fasteignin sé staðsett. Framlagning dánarvottorðsins feli í sér staðfestingu á að hinn skammlífari sameigandi sé látinn og að hagsmunir hans í eigninni færist yfir til langlífari eiganda. Loks segir í matsgerðinni í kafla undir fyrirsögninni „Sérákvæði um túlkun ákvæðisins“ að í (c)-lið þess komi fram að ákvæðið eigi að túlka rúmt í því skyni að ná fram vilja samningsaðilanna. Matsmaðurinn kom fyrir dóm, staðfesti að hafa unnið matsgerðina og að hún fæli í sér rétta lýsingu á þeim réttarreglum sem þar væri fjallað um. IV Þegar ágreiningsefni kemur til kasta íslenskra dómstóla er algengast að þeir beiti íslenskum réttarreglum við úrlausn máls (lex fori). Aðild máls eða sakarefni kann þó að vera svo vaxið að í vissum tilvikum sé eðlilegra að beita erlendri réttarreglu en íslenskri. Alþjóðlegur einkamálaréttur eða lagaskilaréttur er það svið landsréttar sem segir til um hvers lands lögum beita beri við úrlausn ágreinings sem tengist fleiri en einu réttarkerfi. Íslenskur lagaskilaréttur er að mestu ólögfestur og reglur hans fyrst og fremst reistar á dómafordæmum, réttarvenjum, eðli máls og fræðiskoðunum. Meðal lögfestra lagaskilareglna eru lög nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar. Þau eiga sér fyrirmynd í Rómarsamningnum svonefnda (The Rome Convention) sem undirritaður var 19. júní 1980 en hann var öðrum þræði byggður á 220. gr. Rómarsáttmálans (The Rome Treaty), stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu (EBE). Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi til laga nr. 43/2000 kemur fram að vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu sé brýnt að íslenskar lagaskilareglur á sviði samningaréttar séu í samræmi við reglur annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Of þungt sé í vöfum að Ísland gerist aðili að Rómarsamningnum en tryggja megi að í innlendan rétt séu settar reglur samhljóða ákvæðum þess samnings, og sé það markmið frumvarpsins. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 43/2000 gilda lögin þótt þau leiði til þess að beita beri löggjöf ríkis sem er utan Evrópska efnahagssvæðisins. Um það segir í lögskýringargögnum að með ákvæði 2. gr. sé lögð áhersla á víðfeðmt gildissvið laganna. Þannig gildi þau einnig fullum fetum þótt þau leiði til þess að beitt verði reglum lands utan Evrópska efnahagssvæðisins, til dæmis vegna þess að aðilar hafi samið um það, sbr. ákvæði 3. gr. Aðrar reglur laganna geti einnig leitt til hins sama, sbr. til dæmis 4. gr. þeirra, þegar samningur sé talinn hafa sterkust tengsl við tiltekið land. Í máli þessu er ágreiningur um hvort fasteignin [...] í Suður Karólínu í Bandaríkjunum falli undir skipti á dánarbúi E sem fara fram hér á landi. Eins og áður er rakið telur sóknaraðili, meðal annars með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 43/2000, að um eignarrétt að fasteigninni fari eftir reglum bandarískra laga og samkvæmt þeim sé umrædd fasteign séreign sóknaraðila og falli því ekki undir skiptin. Varnaraðilar telja á hinn bóginn að skipti dánarbúsins lúti í öllu íslenskum réttarreglum og samkvæmt þeim falli fasteignin undir skiptin. Í 1. gr. laga nr. 20/1991 kemur fram að eftir fyrirmælum þeirra skuli skipta dánarbúum eftir þá menn sem áttu lögheimili eða höfðu annars fasta búsetu hér á landi á dánardægri, nema skiptin fari fram í öðru ríki eftir reglum þjóðaréttar eða ákvæðum samnings sem íslenska ríkið hefur gert við annað ríki og hefur lagagildi hér á landi. Eins og áður er fram komið áttu sóknaraðili og E lögheimili hér á landi og höfðu hér fasta búsetu á dánardægri hans. Kemur dánarbú hans því með réttu til skipta hér á landi. Í XIV. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993 eru reglur um fjárskipti milli hjóna vegna hjúskaparslita o.fl. Þar segir í 2. mgr. 96. gr. að efnisreglur um skipti í þeim kafla eigi einnig við um skipti vegna andláts maka nema annað leiði af einstökum ákvæðum. Samkvæmt 99. gr. laganna taka skiptin til heildareigna hvors hjóna nema samningar um séreignir, reglur um lögmæltar séreignir eða fyrirmæli gefanda eða arfleiðanda leiði til annarrar niðurstöðu. Endurspeglast í þessu ákvæði sú grundvallarregla norræns réttar að við skipti dánarbúa fari í einu lagi fram heildarskipti  sem taki til allra eigna hins látna. Er reglan á Norðurlandamálum ýmist nefnd heildarskiptareglan (princippet om bobehandlingens enhed og universalitet), eða reglan um einn arfleiðanda, eitt bú og eitt uppgjör (prinsippet om skiftets enhet, ein arvelatar, eitt bu, eitt uppgjer). Í reglunni felst meðal annars að dánarbússkipti sem fara fram hér á landi lúta almennt einum lögum og þá íslenskum (lex fori) og ná til allra eigna bús án tillits til þess hvar þær eru eða hvort um er að ræða fasteignir eða lausafé. Samkvæmt ólögfestum lagaskilareglum í norrænum rétti og þar með talið íslenskum er sú meginregla talin gilda að um erfðir fari eftir reglum þess lands þar sem arfleiðandi átti síðast heimilisfesti (avdødes sidste hjemlands rett, personalstatuttet –  arveladers sidste domicil, hans domicillov på dødsfaldets tidspunkt). Jafnframt er viðurkennt að sé í lögum erlends ríkis, þar sem eign er, mælt fyrir um sérstakar reglur varðandi slíkar eignir, sem komi í stað almennra reglna, víki meginreglan fyrir sérreglunni. Eru þau sjónarmið sem almennt liggja því til grundvallar að beita einum lögum um öll búskiptin þá ekki talin eiga við og ber þá að beita um eignina lögum þess lands þar sem hún er (lex rei sitae). Í því felst að til viðbótar lögum í því landi þar sem arfleifandi átti síðast heimilisfesti sé um eign beitt þeim reglum sem gilda í því landi þar sem hún er. Þegar sakarefni eða málsaðilar hafa slík tengsl við erlent ríki, að til beitingar reglna þess ríkis kemur fyrir íslenskum dómstólum um sakarefnið í heild eða að hluta, þarf að heimfæra lagareglur um hið erlenda lögfræðilega fyrirkomulag sem um ræðir til réttarsviðs. Það er óskráð meginregla í norrænum rétti sem á sér stoð í fræðiskoðunum og dómaframkvæmd, sbr. dóm Hæstaréttar Noregs, sem birtur er í Rt. 1995, bls. 1415, og dóm Hæstaréttar Svíþjóðar, sem birtur er í NJA 1970, bls. 420, að við heimfærslu til réttarsviðs sé meginreglan sú að stuðst er við lög dómstólslandsins (lex fori) og að frá henni séu fáar undantekningar. Við dánarbús- og gjaldþrotaskipti, svo dæmi séu nefnd, er algengt að erlent fyrirkomulag sem á reynir sé samkvæmt íslenskum rétti á sviði erfðaréttar, hjúskaparréttar, samningaréttar eða eignarréttar. Eru það þá lagaskilareglur á þessum réttarsviðum sem eftir heimfærslu (kvalifikation) ráða því hvers lands lögum beitt er við úrlausn málsins.  Ef erlendu fyrirkomulagi sem á reynir við úrlausn máls fyrir íslenskum dómstólum svipar til þess sem gildir í íslenskum rétti er heimfærsla til réttarsviðs sjaldnast vandkvæðum bundin og ræðst af lögum dómstólslandsins (lex fori). Öðru máli gegnir þegar hið erlenda fyrirkomulag er mjög ólíkt því sem tíðkast í dómstólslandinu eða þekkist jafnvel alls ekki þar. Getur þá verið varhugavert og orkað tvímælis að heimfæra það til annars réttarsviðs en þess sem miðað er við í því erlenda ríki þar sem reglan á uppruna sinn. Hefur það sjónarmið verið orðað í kenningum norrænna fræðimanna að við þær aðstæður geti verið réttlætanlegt að víkja frá meginreglunni um að heimfærsla til réttarsviðs lúti lögum dómstólslandsins og láta hana þess í stað ráðast af lögum í hinu erlenda ríki. Að þessu gættu kemur næst til skoðunar hvort svo hagi til í máli þessu. Eins og áður greinir festu sóknaraðili og E kaup á íbúðinni [...] í Suður Karólínu í Bandaríkjunum árið [...]. Í kaupsamningi og afsali fyrir íbúðinni var tekið fram að eigendur hennar væru E og sóknaraðili og að um eignarhald þeirra giltu fyrrnefndar JTWROS reglur. Þá var íbúðin í framhaldi kaupanna skráð opinberri skráningu með sama hætti. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 þarf sá sem í dómsmáli ber fyrir sig erlenda réttarreglu að sanna tilvist hennar og efni. Með framlagðri matsgerð hins dómkvadda manns, sem ekki hefur verið hnekkt með yfirmati, hefur sóknaraðili sannað tilvist og efni þeirra bandarísku lagareglna sem málatilbúnaður hennar er reistur á, JTWROS-reglnanna. Jafnframt hefur sóknaraðili með málatilbúnaði sínum leitt í ljós að til eignarhalds hennar og E á íbúðinni hafi í upphafi stofnast í samræmi við umræddar reglur og að eignarréttur E hafi við andlát hans færst óskiptur yfir til hennar samkvæmt sömu reglum. Með matsgerð hins dómkvadda manns og öðrum framlögðum gögnum telst í ljós leitt að hinar svokölluðu JTWROS-reglur séu samkvæmt bandarískum rétti á sviði eignarréttar og varði fyrirkomulag á sameignarrétti sem ekki þekkist í íslenskum rétti. Þá kemur einnig fram í matsgerðinni að þó svo að þessar reglur njóti vinsælda meðal hjóna í Suður Karólínu sé gildissvið þeirra ekki takmarkað við hjón og geti tveir eða fleiri nýtt sér þetta eignarform, til dæmis viðskiptafélagar. Í þessu sambandi er þess að geta að þegar sóknaraðili og E festu kaup á íbúð þeirri sem um ræðir í málinu á árinu [...] höfðu þau ekki gengið í hjónaband en það gerðu þau eins og áður er fram komið í ágúst árið [...]. Af framangreindu eðli hins erlenda fyrirkomulags sem á reynir í málinu leiðir að það verður hvorki heimfært til sviðs erfðaréttar né reglna um fjármál hjóna samkvæmt íslenskum rétti. Verða íslenskar lagaskilareglur á þeim réttarsviðum því ekki lagðar til grundvallar við úrlausn málsins. Þar sem hinar erlendu réttarreglur sem við eiga í málinu mæla fyrir um stofnun, inntak, lögvernd, yfirfærslu og lok eignarréttar yfir fasteign í sameign, og um er að ræða sérstakt tilbrigði sameignarréttar sem ekki þekkist í íslenskum rétti, verður að heimfæra reglurnar til sviðs eignarréttar eins og gert er í Bandaríkjunum. Af því leiðir að það fer eftir íslenskum lagaskilareglum á sviði eignarréttar hvers lands lögum skuli beitt við úrlausn málsins varðandi fasteignina. Á þetta sér og stoð í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 43/2000 en þar segir að að því marki sem samningur varði réttindi yfir fasteign, þar með talið afnotarétt, skuli þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. ákvæðisins að jafnaði litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem fasteign er. Samkvæmt íslenskum lagaskilareglum á sviði eignarréttar skal þegar fasteign á í hlut leggja til grundvallar þær reglur sem gilda þar sem fasteignin er (lex rei sitae) og í því tilviki sem hér er til úrlausnar eru það hinar umræddu JTWROS-reglur í Suður Karólínu sem gilda. Á grundvelli þeirra varð sóknaraðili við andlát E og eftirfarandi opinbera skráningu eini eigandi allrar íbúðarinnar og öðluðust aðrir erfingjar E við andlát hans enga hlutdeild í þeim eignarrétti sem áður hafði tilheyrt honum. Gerð kaupmálans milli sóknaraðila og E [...] fær þessari niðurstöðu ekki breytt. Er í því sambandi fyrst til þess að líta að samkvæmt efni sínu virðist kaupmálanum fyrst og fremst ætlað að tryggja að sumarbústaðurinn að Nesjavöllum sé séreign sóknaraðila. Í annan stað verður að leggja til grundvallar að til þess að kaupmálinn gæti breytt þeirri eignarréttarskipan sem komið var á við kaup íbúðarinnar hefði þurft að taka til þess afstöðu berum orðum í honum og fylgja fyrirmælum hans síðan eftir með löggerningsgerð og breyttri skráningu í samræmi við efni bandarískra reglna. Það var ekki gert. Verður í þessu sambandi einnig að taka mið af því sem fram kemur í matsgerð hins dómkvadda manns að við túlkun JTWROS-reglnanna eigi að túlka ákvæði þeirra rúmt í því skyni að ná fram vilja samningsaðilanna. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða málsins að íbúðin [...] í Suður Karólínu í Bandaríkjunum falli ekki undir skipti á dánarbúi E. Eftir framangreindum úrslitum verður varnaraðilum gert að greiða sóknaraðila óskipt kostnað af rekstri máls þessa sem ákveðinn verður í einu lagi á öllum dómstigum eins og nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun um málskostnað er tekið tillit til þess að samhliða þessu máli er sem fyrr greinir rekið annað samkynja mál milli sömu aðila. Dómsorð: Íbúðin [...] í Suður Karólínu í Bandaríkjunum fellur ekki undir skipti á dánarbúi E. Varnaraðilar, B, C og D, greiði óskipt sóknaraðila, A, 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti.       Úrskurður Landsréttar Landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Eiríkur Jónsson og Hervör Þorvaldsdóttir kveða upp úrskurð í máli þessu. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Sóknaraðilar skutu málinu til Landsréttar með kæru 25. nóvember 2019 en málsgögn og greinargerð bárust réttinum 9. desember sama ár. Greinargerð varnaraðila barst réttinum 16. desember 2019. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. nóvember 2019 í málinu nr. [...]/2018 þar sem viðurkennt var að fasteignin [...], Suður-Karólínu í Bandaríkjunum, falli ekki undir skipti á dánarbúi E og að beita beri viðeigandi ákvæðum bandarískra laga um eignarhald fasteignarinnar. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. 2        Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt á þá leið að fallist verði á að fyrrgreind íbúð falli undir skipti á dánarbúi E. Þá krefjast sóknaraðilar þess að varnaraðila verði gert að greiða þeim málskostnað í héraði og kærumálskostnað. 3        Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Málsatvik 4        Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði varðar sakarefni málsins það álitaefni hvort nánar tilgreind fasteign í Bandaríkjunum skuli falla undir opinber skipti á dánarbúi E sem lést [...]. Varnaraðili var eiginkona E heitins en sóknaraðilar eru börn hans af fyrra hjónabandi. Fyrir liggur að varnaraðili og E keyptu fasteignina árið [...] og var hún þá skráð eign þeirra beggja. Óumdeilt er að í kjölfar andláts E hafi eignin að frumkvæði varnaraðila verið skráð á hennar nafn eingöngu á grundvelli réttarreglu í bandarískum lögum sem nefnist í íslenskri þýðingu „sameiginlegt eignarhald með erfðarétti“ (e. joint tenancy with the right of survivorship). Reglan felur efnislega í sér, samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð um efni hennar, að eignarréttur sameigenda færist yfir á hinn langlífari við andlát hins skammlífari. 5        Af hálfu varnaraðila er á því byggt að fyrrgreind réttarregla bandarískra laga feli í sér að fasteignin sé alfarið í hennar eigu og komi ekki til skipta í dánarbúinu og var á það fallist í hinum kærða úrskurði. Sóknaraðilar byggja á hinn bóginn á því að eignin eigi að falla undir dánarbússkiptin. Niðurstaða 6        Samkvæmt 2. mgr. 96. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 skulu efnisreglur um fjárskipti milli hjóna einnig eiga við um skipti vegna andláts maka nema annað leiði af lögum. Samkvæmt 1. mgr. 99. gr. sömu laga skulu skiptin ná til heildareigna hvors hjóna nema samningar um séreignir, reglur um lögmæltar séreignir eða fyrirmæli gefanda eða arfleiðanda leiði til annars, sbr. ákvæði 74. til 77. gr. og 94. gr. sömu laga. 7        Af framangreindum lagaákvæðum leiðir að allar hjúskapareignir varnaraðila falla undir skiptin á dánarbúi E en séreignir hennar standa þar fyrir utan. 8        Varnaraðili og E gengu í hjónaband [...]. Í málinu liggur fyrir kaupmáli sem þau gerðu [...] eða ríflega sjö árum eftir kaupin á fasteigninni í Bandaríkjunum. Samkvæmt 1. gr. hans var nánar tilgreindur sumarbústaður að Nesjavöllum við Þingvallavatn, sem þá var skráður sem eign E, gerður að séreign varnaraðila. Í 2. gr. kaupmálans var hins vegar tekið fram að um aðrar eignir skyldi farið eftir almennum reglum hjúskaparlaga. 9        Samkvæmt 54. gr. hjúskaparlaga verður eign maka hjúskapareign nema sérstakar heimildir standi til annars. Á þetta við um eignir sem maki flytur í búið við hjúskaparstofnun eða öðlast síðar og gegnir einu með hverjum hætti eignar er aflað að lögum. Eign verður ekki gerð að séreign maka nema fullnægt sé skilyrðum XI. kafla hjúskaparlaga um séreignir. Einu gögnin sem liggja fyrir um kaupin og eignarhaldið á umræddri fasteign í Bandaríkjunum eru kaupsamningur, afsal og vottorð lögbókanda um framsal eignarinnar. Gögnin bera með sér að um eignarhaldið hafi átt að gilda fyrrgreind réttarregla bandarískra laga um „sameiginlegt eignarhald með erfðarétti“ (e. joint tenancy with the right of survivorship) sem getur falið í sér samkvæmt fyrirliggjandi matsgerð að eignin komi ekki til skipta í dánarbúi þess skammlífara. Þrátt fyrir það verður ekki fram hjá því litið að í fyrrgreindum kaupmála varnaraðila og E, sem gerður var hér á landi sjö árum eftir kaup fasteignarinnar, er ekkert minnst á að um þá eign ætti að gilda séreignarfyrirkomulag. Gefur það að fyrra bragði til kynna að þau hafi sjálf ekki litið svo á eða hafi, eftir atvikum, ákveðið að breyta því fyrirkomulagi með gerð kaupmálans. Verður varnaraðili látin ber hallann af sönnunarskorti um hið gagnstæða en af því leiðir að ekki reynir á það álitamál hvort til greina komi að leggja efni hinnar erlendu réttarreglu til grundvallar við mat á því hvort líta beri á eignina sem séreign varnaraðila fremur en hjúskapareign. Í ljósi þess og að engin gögn hafa verið lögð fram í málinu sem fullnægja skilyrðum XI. kafla hjúskaparlaga um stofnun séreignar yfir umræddri fasteign verður ekki talið að fullnægt sé því skilyrði 54. gr. hjúskaparlaga að sérstök heimild standi til annars en að telja fasteignina til hjúskapareignar sem skal samkvæmt 1. mgr. 99. gr. hjúskaparlaga falla undir dánarbússkiptin, sbr. 2. mgr. 96. gr. sömu laga. 10       Í málatilbúnaði varnaraðila í héraði var jafnframt á því byggt til vara að meta bæri samning varnaraðila og E um kaupin á eigninni „sem erfðagerning“ í skilningi erfðalaga nr. 8/1962 „sem rúmist innan heimildar 35. gr. laganna“. Eins og fyrr greinir hafa í málinu eingöngu verið lögð fram gögn um kaupin á umræddri fasteign sem fullnægja augljóslega ekki formskilyrðum erfðalaga um erfðaskrár eða eftir atvikum um gerð annars konar „erfðagerninga“. Verður af þeim sökum ekki fallist á þessa málsástæðu varnaraðila. 11       Samkvæmt framangreindu verður krafa sóknaraðila tekin til greina. Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Úrskurðarorð: Fasteignin [...], Suður-Karólínu í Bandaríkjunum fellur undir skipti á dánarbúi E. Varnaraðili, D, greiði sóknaraðilum, A, B og C, hverju um sig samtals 150.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.         Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 12. nóvember 2019   Mál þetta barst dómnum með málskoti Benedikts Ólafssonar skiptastjóra í dánarbúi E, samkvæmt 122. gr. laga nr. 20/1991. Erindi skiptastjóra er dagsett 14. maí 2018 og barst dómnum sama dag. Aðilar málsins eru erfingjar dánarbúsins. Sóknaraðilar voru í upphafi D maki og F sonur bæði til heimilis að […], Reykjavík, F féll frá aðild og lét málið ekki til sín taka. Til varnar eru börn hins látna af fyrra hjónabandi, A og B báðir búsettir erlendis og C, […], Garðabæ.   I.                    Dómkröfur Sóknaraðilar krefjast þess að viðurkennt verði að fasteignin […], […], Suður Karólínu í Bandaríkjunum, falli ekki undir skipti á dánarbúi E, kt. […] og að beita beri viðeigandi ákvæðum bandarískra laga um eignarhald fasteignarinnar.   Þá krefjast sóknaraðilar þess að varnaraðilar verði úrskurðaðir til greiðslu málskostnaðar in solidum að mati dómsins.   Varnaraðilar krefjast þess að íbúð að […], […], Suður Karólínu í Bandaríkjunum falli undir skipti í dánarbúi E, kt. […].   Að auki krefjast varnaraðilar þess að sóknaraðilar verði, in solidum, dæmd til að greiða varnaraðilum málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.   II.                  Málsatvik Mál þetta varðar dánarbú E. Hann kvæntist tvívegis á lífsleiðinni. Í fyrra hjónabandi sínu eignaðist hann þrjú börn sem eru varnaraðilar í þessu máli. Fjórða barnið F eignaðist hann árið […] með síðari eiginkonu sinni D. Þann [...] keypti hinn látni og D íbúð sem staðsett er við […], […], […], í Bandaríkjunum sem deilt er um í þessu máli. Kaupverð íbúðarinnar var USD […]. Íbúð þessi var í eigu D og hins látna þegar hann lést.   Þann […]gengu þau E og D í hjúskap. Giftingin fór fram á Íslandi og skv. íslenskum lögum enda þau bæði íslenskir ríkisborgarar.   Þann […] gerðu E og D á milli sín kaupmála. Í 1. gr. kaupmálans kemur fram að sumarbústaður á […] skuli verða séreign D á grundvelli kaupmálans. Í 2. gr. kaupmálans sagði: „Um aðrar eignir okkar en að ofan greinir skal fara að almennum reglum hjúskaparlaga. Skal kaupmáli þessi afhentur Sýslumanninum í Reykjavík til skráningar lögum samkvæmt.“   Þann […]lést E á Íslandi. Á sama tíma mun D hafa látið afmá nafn E sem eiganda að eigninni og í stað þess látið skrá eignina alfarið á sitt nafn.   Þann [...] kröfðust varnaraðilar þessa máls opinberra skipta á búinu. Ástæðan fyrir því var að þeim fannst lítið miða áfram með skiptin og var því varnaraðilum að sögn nauðugur einn sá kostur að óska eftir opinberum skiptum.   Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 6. febrúar 2018 var dánarbú E, tekið til opinberra skipta og var Benedikt Ólafsson, hrl. skipaður til að gegna starfi skiptastjóra í dánarbúinu.   Varnaraðilar mótmæla því sérstaklega að í greinargerð sóknaraðila sé því haldið fram að hin umþrætta íbúð hafi verið keypt árið 2010 sem sé rangt. Hið rétta sé að íbúðin hafi verið keypt þann [...].   Sóknaraðili óskaði eftir dómkvaðningu matsmanns í málinu og í þinghaldi 28. janúar sl. var G lögmaður dómkvaddur til að svara eftirfarandi matsspurningum:   „Matsspurning 1: Hvaða réttarreglur gilda í rétti Suður Karólínu fylkis í Bandaríkjunum (tilvist og efni) um kaupsamninga um fasteign sem kveða á um að um fasteign gildi sameiginlegt eignarhald með erfðarétti („joint tenancy with the right of survivorship“) (SC Code 27-7-40 Creation of joint tenancy; filing; severance).   Matsspurning 2: Þess er óskað að matsmaður lýsi hinni erlendu réttarreglu og láti í ljós rökstutt álit á efni hennar og þá hvernig fari um eignarhald á fasteign sem um gildi „joint tenancy with the right of survivorship“ við andlát annars sameiganda fasteignarinnar. Þess er óskað að matsmaður skoði og meti efni réttarreglunnar miðað við tímabilið 2002-2017.“   Um niðurstöður matsmanns verður fjallað í niðurstöðukafla úrskurðarins eftir því sem ástæða þykir til.   III.               Málsástæður og lagarök sóknaraðila Sóknaraðilar krefjast þess að viðurkennt verði að áðurnefnd fasteign í […] í Bandaríkjunum verði talin falla utan skipta á dánarbúi E heitins og að viðurkennt verði að ákvæði bandarískra laga gildi um eignarhald að fasteigninni. Fyrir liggi að sóknaraðili D og E heitinn voru um tíma búsett í Bandaríkjunum en þar festu þau kaup á áðurgreindri fasteign. Samkvæmt kaupsamningi um fasteignina skyldi um hana gilda svokallað sameiginlegt eignarhald með erfðarétti (e. joint tenancy with the right of survivorship) samkvæmt ákvæðum bandarískra laga. Samningurinn sé opinbert skjal, vottað af þarlendum embættismanni (lögbókanda), sbr. 71. gr. laga nr. 91/1991. Í samningnum séu þau nefnd sameiginlegir eigendur með gagnkvæman erfðarétt. Nánar tiltekið sé um að ræða fyrirkomulag samkvæmt grein 27-7-40 í 7. kafla 27. hluta „Code of Laws“ í Suður Karólínu um myndun sameiginlegs eignarhalds með erfðaréttindum til fasteignar. Í framlagðri þýðingu löggilts skjalaþýðanda í i- og b-lið ákvæðisins komi eftirfarandi fram: „(i) Við andlát sameiginlegs eiganda og ef aðeins einn annar sameiginlegur eigandi er eftirlifandi skal öll eign hins látna sameiginlega eiganda í fasteigninni færast yfir á hinn eftirlifandi sameiginlega eiganda sem telst eigandi að fasteigninni í heild sem var í eigu hinna sameiginlegu eigenda. […] (b) […] Skráning dánarvottorðsins er staðfesting á að hinn sameiginlegi eigandi sé látinn og að hagsmunir hins látna sameiginlega eiganda eru fluttir með lagalegum hætti til eftirlifandi sameiginlegs eiganda eða eigenda að fasteigninni.“   Samkvæmt reglum ákvæðisins sé eiganda eignar samkvæmt slíku fyrirkomulagi óheimilt að ráðstafa réttindum sínum án samþykkis meðeigandans. Við andlát annars aðilans flytjist eignin samkvæmt lögum til hins langlífara og komi ekki til skipta í dánarbúi hins skammlífara. Sá langlífari verði einn eigandi fasteignarinnar og geti ráðstafað henni að vild, m.a. veðsett hana eða selt. Við andlát hins langlífara fari um eignina samkvæmt lögum um erfðir eftir hann. Þegar umrætt fyrirkomulag sé haft á eignarhaldi, þ.e. sameiginlegt eignarhald með erfðarétti þýði það að eign sú sem háð sé þessu fyrirkomulagi geti hvorki komið til skipta samkvæmt erfðaskrá né reglum laga um erfðir, heldur falli rétturinn til langlífari meðeigandans. Þetta fyrirkomulag á eignarhaldi fasteigna sé þekkt í Bandaríkjunum.   Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hafi íslenskir dómstólar heimild til að beita lagareglum annars lands en Íslands. Sá sem beri fyrir sig erlenda réttarreglu verði að leiða tilvist hennar og efni í ljós. Reynt hafi á beitingu þessa ákvæðis í dómum Hæstaréttar, þannig að hafi þýðingu fyrir úrlausn þessa máls, eins og rakið verði.   Lögð er sérstök áhersla á að sóknaraðili D og E heitinn hafi gert með sér umræddan samning um fasteignina í Bandaríkjunum á grundvelli ákvæða bandarískra laga á þeim tíma er þau voru búsett í Bandaríkjunum. Þau hafi ákveðið berum orðum að hafa tiltekið fyrirkomulag á eignarhaldi fasteignarinnar og að fara skyldi að bandarískum lögum um það eignarhald, m.a. eftir andlát annars þeirra eða beggja. Vilji þeirra hafi verið mjög skýr og hljóti að teljast óumdeildur. Ítreka beri að um hafi verið að ræða fasteign í Bandaríkjunum sem D og E heitinn hafi verið sammála um að færi samkvæmt ákvæðum bandarískra laga. Samningur sóknaraðila D og E heitins hafi jafnframt sterkust tengsl við Bandaríkin og um hafi verið samið að þarlendar reglur skyldu gilda um eignarhald á fasteigninni. Þess sé því krafist að farið verði að ákvæðum bandarískra laga um eignina og að hún komi ekki til skipta í dánarbúi E heitins.   Sóknaraðilar benda einnig á meginreglu laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar, en samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna skuli, að því marki sem samningur varðar réttindi yfir fasteign, að jafnaði líta svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem fasteignin er staðsett. Sóknaraðilar vísa ennfremur til umfjöllunar fræðimanna í þessa veru. Þá geti réttlætis- og sanngirnissjónarmið leitt til þess að mati sóknaraðila, að rétt sé að beita erlendum lagareglum, enda markmið lagaskilareglna að leitast við að sama niðurstaða fáist í lögfræðilegum álitaefnum án tillits til þess hvar mál sé höfðað. Komi einkum til álita að beita erlendum réttarreglum ef stofnast hafi til réttinda í erlendu ríki, en að mati sóknaraðila verði í því ljósi ekki hjá því komist að taka tillit til erlends réttar við úrlausn málsins.   Þá telja sóknaraðilar, hvað sem öðru líði, að fallast beri á kröfu þeirra í málinu með vísan til arfleiðsluheimildar 35. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Sóknaraðilar benda á að D og E heitinn hafi gert með sér samning samkvæmt lögum sem giltu í Suður Karólínu, Bandaríkjunum, […] um að það langlífara skyldi fá í sinn hlut alla umþrætta eign. Sóknaraðilar telja að meta beri þann samning sem erfðagerning í skilningi laga nr. 8/1962 sem rúmist innan heimildar 35. gr. laganna. Af þeim sökum beri m.a. að fallast á kröfur sóknaraðila.   Sóknaraðilar byggja m.a. á 35. gr. erfðalaga nr. 8/1962, 2. mgr. 44. gr., 71. gr. og IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 4. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar, sem og óskráðum reglum á sviði lagaskilaréttar, sifjaréttar, erfðaréttar, samningaréttar og eignaréttar.   Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra, sem og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.   IV.               Málsástæður og lagarök varnaraðila Varnaraðilar benda á að hinn látni hafi verið íslenskur ríkisborgari og um skiptin skuli því gilda íslensk erfðalög. Hinn látni og D hafi lengi verið […] og um tíma staðsett í Bandaríkjunum. […]. Sem íslenskir ríkisborgarar […] hafi þau greitt skatta og skyldur á Íslandi. Hinn látni og D hafi alla tíð verið með lögheimili á Íslandi og eins og lög geri ráð fyrir verið skráð á sama lögheimili að […] eftir hjónaband.   Í 1. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. komi fram að eftir fyrirmælum laganna skuli skipta dánarbúum eftir þá menn sem áttu lögheimili eða höfðu annars fasta búsetu hér á landi á dánardægri, en þetta sé svokölluð heimilisfestisregla. Ágreiningslaust sé á milli aðila máls þessa að hinn látni hafi verið með lögheimili á Íslandi og því eigi framangreind lög við um skiptin.   Varnaraðilar byggja á því að það sé viðurkennd regla í alþjóðlegum einkamálarétti á sviði erfða- og skiptaréttar, að skipti á dánarbúum skuli fara fram samfellt í tilteknu ríki og taka til allra eigna og skulda hlutaðeigandi arfleifanda, óháð því hvar eignirnar séu niðurkomnar.   Hinn látni og D eiginkona hans hafi búið við hjúskapareignafyrirkomulag skv. hjúskaparlögum nr. 31/1993. Því komi allar eignir þeirra til skipta sem hjúskapareignir að undanskildum sumarbústaðnum við […] sem gerður var að séreign D með kaupmála.   Í 54. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 komi fram að eign maka verði hjúskapareign nema sérstakar heimildir standi til annars og að þetta eigi við um eignir sem maki flytji í búið við hjúskaparstofnun eða öðlast síðar og gegnir einu með hverjum hætti eignar er aflað að lögum. Í 55. gr. sömu laga komi fram að séreign geti myndast með kaupmála hjóna eða hjónaefna, sbr. 74., 75., og 76. gr., eða fyrir ákvörðun gefanda eða arfleiðanda, sbr. 77. gr. og einnig geti séreign verið lögmælt, sbr. 94. gr., svo og ákvæði annarra laga þar um. Varnaraðilar byggja á því í máli þessu að bústaðurinn á […] sé eina eignin sem uppfylli það skilyrði að hafa verið gerð að séreign en um allar aðrar eignir hins látna á Íslandi og annars staðar í heiminum gildi að þær séu hjúskapareignir hans og D og eigi að koma til skipta eftir hann skv. ákvæðum íslenskra laga.   Þegar hjónin hafi gert með sér kaupmála […] hafi legið fyrir að þau höfðu þá átt hina umþrættu íbúð í Bandaríkjunum í sjö ár, sem keypt var árið [...]. Í 1. gr. kaupmálans komi fram að sumarbústaður að […] skuli verða séreign D á grundvelli kaupmálans. Í 2. gr. kaupmálans sé síðan eftirfarandi ákvæði: „Um aðrar eignir okkar en að ofan greinir skal fara að almennum reglum hjúskaparlaga.“ Í þessu ákvæði kaupmálans felist að um allar aðrar eignir þeirra hjóna skyldi fara eftir almennum reglum hjúskaparlaga m.a. hina umþrættu íbúð hverrar varnaraðilar telja að verðmæti geti legið á bilinu USD […].   Í 1. gr. laga nr. 14/2004 um erfðafjárskatt komi fram að af öllum fjárverðmætum sem við skipti á dánarbúi manns hverfi til erfingja hans skuli greiða skatt í ríkissjóð. Ef fallist yrði á málsgrundvöll sóknaraðila í þessu máli væri auðvelt fyrir arfleifanda og arfþega almennt að sniðganga þetta ákvæði með því að fara þá leið sem sóknaraðilar byggi á í þessu máli. Slíkt gangi einfaldlega ekki upp og yrði til þess að ríkissjóður myndi verði snuðaður um gríðarlegar fjárhæðir í formi erfðafjárskatta sem hann eigi lögmætt tilkall til.   -------   Varnaraðilar telja að enginn fótur sé fyrir kröfum sóknaraðila um að byggja eigi á ákvæðum bandarískra laga varðandi eignarhald á íbúðinni.   Sóknaraðilar byggi í fyrsta lagi á því að skv. kaupsamningi um fasteignina skyldi um hana gilda svokallað sameiginlegt eignarhald með erfðarétti (e. joint tenancy with the right of survivorship) skv. ákvæðum bandarískra laga. Varnaraðilar mótmæla því að þessi meinta erlenda regla sem sóknaraðilar vísa til komi til greina við skipti á dánarbúi E og í öðru lagi mótmæla varnaraðilar því að reglan hafi það innihald sem sóknaraðilar leggja upp með í málinu. Varnaraðilar benda einnig á að í greinargerð sóknaraðila sé ítrekað vísað til „ákvæða bandarískra laga“ án þess að tilgreina á nokkurn hátt til hvaða laga sé verið að vísa. Slík vanreifun leiði til þess að líta verði fram hjá öllum slíkum tilvísunum sóknaraðila.   Sóknaraðilar byggi í þessu sambandi á skjali sem þeir leggi fram og hverju fylgi einhverskonar þýðing yfir á íslensku. Þegar betur sé að gáð sé hér um sama skjalið að ræða og lagt hafi verið fram með bréfi skiptastjóra þegar málinu var vísað til dómsins. Sá munur sé þó á að skjalið sem fylgdi með bréfi skiptastjóra hafi verið fjórar síður en tilvísað skjal sé aðeins tvær síður. Þetta leiði síðan til þess að enska þýðingin nái aðeins til tveggja síðna en ekki fjögurra.   Varnaraðilar benda á það að þetta skjal þ.e. afsal sé ekki upprunalega afsalið, heldur einungis afrit af afsali sem dagsett er þann [...]. Samkvæmt áritun á afsalinu hafi það síðan verið skráð (e. filed) í maí 2010. Þarna sé um að ræða einhliða afsal sem sé einungis undirritað af seljanda árið [...] í viðurvist löggilts votts og sé það einnig vottað af Notary Public þann sama dag. Engar undirritanir séu á afsalinu af hálfu hins látna né D.   Varnaraðilar byggja á því að framangreint skjal sé aðeins afsal á milli kaupanda og seljanda en ekki nokkuð annað. Í afsalinu komi fram að hinn látni og D hafi heimilisfangið: […] […] Reykjavík Iceland.   Varnaraðilar telja að það sé með hreinum ólíkindum að því sé haldið fram í málinu af hálfu sóknaraðila að afsal fyrir íbúð sem sé ekki undirritað af hinum látna né D sé gagnkvæmur samningur á milli þeirra um eitthvert „joint tenant with rights of survivorship“. Slík röksemdafærsla af hálfu sóknaraðila standist enga skoðun.   Jafnframt þó viðurkennt væri að afsalið hefði eitthvað gildi á milli hins látna og D og um gagnkvæman erfðarétt væri að ræða, sé ljóst að það eina sem kæmi þá til greina væri að hið formlega skráða eignarhald yrði á þann veg að eignin yrði skráð á D en í öllu falli kæmi eignin þá til skipta í sameiginlegu búi þeirra hjóna enda hafi hún ekki verið gerð að séreign né hafi verið gerð bréfleg erfðaskrá vegna hennar.   Í greinargerð sóknaraðila komi svo fram að nánar tiltekið sé um að ræða fyrirkomulag skv. grein 27-7-40 í 7. kafla 27. hluta „Code of Laws“ í Suður Karólínu um myndun sameiginlegs eignarhalds með erfðaréttindum til fasteignarinnar. Þessi tilvísun sóknaraðila gangi engan veginn upp því hvergi á hinum fjórum blaðsíðum afsalsins sé að finna neina tilvísun til framangreindra laga.   Í greinargerð sóknaraðila sé því haldið fram að við andlát annars aðilans flytjist eignin samkvæmt lögum til hins langlífara og að hún komi þá ekki til skipta í dánarbúi hins skammlífara. Varnaraðilar mótmæla þessari fullyrðingu enda komi ekkert fram um það í hinum tilvitnaða lagatexta. Sóknaraðilar hafi sönnunarbyrði fyrir því að reglan eigi við dánarbússkipti á Íslandi og hún sé þess efnis sem þeir halda fram, sbr. og 2. tl. 44. gr. laga nr. 91/1991. Hvorugt hafi þeim tekist að sanna og sé því ljóst að íbúðin verður aldrei undanskilin við skiptin á grundvelli þessarar meintu lagareglu.   Varnaraðilar byggja einnig á því að ef virðulegur dómur telji að það komi til greina að skoða hvort einhver bandarísk sérákvæði um eignarhald eigi við í ljósi efnisinnihalds afsalsins að þá verði einnig að skoða kaupmálann frá árinu [...] um leið. Af því leiði að skýrt ákvæði í 2. gr. kaupmálans á þá leið að um allar aðrar eignir hjónanna en sumarbústaðinn skuli fara skv. reglum hjúskaparlaga hljóti alltaf að trompa einhver óljós ákvæði í erlendu afsali frá árinu [...] sem er þar að auki óundirritað af hálfu D og hins látna.   Kröfum sínum til stuðnings vísi sóknaraðilar í öðru lagi til fordæma Hæstaréttar sem vísað sé til í aðalmeðferð en þeir dómar virðist flestir eiga það sameiginlegt að þeim aðila sem hafi haldið fram efni erlendrar réttarreglu verði að sýna fram á að hún eigi við.   Í þriðja lagi byggi sóknaraðilar á því að D og hinn látni hafi gert með sér umræddan samning um fasteignina í Bandaríkjunum á grundvelli ákvæða bandarískra laga á þeim tíma sem þau voru búsett í Bandaríkjunum. Varnaraðilar telja að hér fari sóknaraðilar rangt með því að „samningurinn“ sem sóknaraðilar vísi til í þessu sambandi sé ekki á milli D og hins látna heldur sé hér hreinlega um að ræða afsal þar sem fyrri eigandi íbúðarinnar afsalar henni til hins látna og D. Ekkert sé hins vegar fjallað um innbyrðis réttindi á milli D og hins látna í afsalinu að öðru leyti en því að íbúðinni sé afsalað til þeirra sameiginlega. Af framangreindu sé ekki hægt að draga neina aðra ályktun en þá að D og hinn látni hafa aldrei gert á milli sín neinn samning sem geti undanskilið íbúðina í Bandaríkjunum frá búskiptum E heitins.   Í fjórða lagi vísi sóknaraðilar til þess sem þau kalla meginreglu laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar og 3. mgr. 4. gr. laganna. Ljóst sé að tilvísun sóknaraðila í þessi lög standist engan veginn því skýrlega komi fram í b – lið, 2. mgr., 1. gr. laganna að lögin gildi ekki um skuldbindingar sem varði erfðir, þ.m.t. erfðaskrár, og samninga milli hjóna um fjármál þeirra.   Í fimmta lagi vísi sóknaraðilar til 35. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og virðist byggja á því að hinn látni og D hafi gert á milli sín samning, skv. lögum sem giltu í Bandaríkjunum, um að hið langlífara skyldi fá í sinn hlut hina umþrættu íbúð við fráfall hins skammlífara og að telja verði þann gerning sem erfðagerning sem rúmist innan heimildar 35. gr. erfðalaga. Varnaraðilar telja að þetta geti ekki staðist enda séu mjög ströng skilyrði um form vegna erfðaskráa þar sem um bréferfð er að ræða sem ekki séu uppfyllt í þessu máli og vísist um það nánar til VI kafla erfðalaga nr. 8/1962. Upplýst sé að engin erfðaskrá hafi verið í gildi á milli hins látna og D og þegar þau hafi gert kaupmálann árið [...] hafi komið skýrt fram að um allar aðrar eignir þeirra en sumarbústaðinn skyldi fara að almennum reglum hjúskaparlaga.               Um lagarök vísa varnaraðilar til 1. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Einnig vísa varnaraðilar til hjúskaparlaga nr. 31/1993 og þá einkum til 54. og 55. gr. þeirra laga. Til viðbótar vísa varnaraðilar í 2. tl. 44. gr. laga nr. 91/1991 um það að sá sem vill bera fyrir sig erlenda réttarreglu verði að leiða tilvist og efni hennar í ljós.   Krafa um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.   V.                 Niðurstaða Ekki er deilt um það í málinu að sóknaraðili og hinn látni, E, höfðu mjög sterk tengsl við Bandaríkin og sóknaraðili hefur slík tengsl enn í dag að því er virðist. Sú ráðstöfun sem þau hjónin gerðu varðandi fasteignina sem um er deilt er skiljanlegri fyrir vikið.   Verður að mati dómsins ekki dregið í efa, miðað við framlögð gögn málsins, að það hafi verið vilji þeirra hjóna að það fyrirkomulag sem nefnt er „joint tenants with the rigths of survivorship“ skyldi gilda um þessa sameiginlegu fasteign þeirra. Kemur þetta skýrt fram í skjali sem löggiltur skjalaþýðandi hefur kallað „Eignarhald á fasteign“ (e. „Title to real estate“). Skjalið er útgefið af seljanda eignarinnar til staðfestu á yfirfærslu eignarréttarins til þeirra hjóna, vottað af einum votti og jafnframt vottað og staðfest af lögbókanda í Suður-Karólínu („Notary Public for SC“) 1. maí 2005. Ekki verður talið skipta máli þótt hjónin hafi ekki undirritað skjalið, enda ljóslega ekki gert ráð fyrir undirritun kaupenda á það. Þá ber kaupsamningur um eignina frá [...] einnig merki um þetta, en þar er kveðið á um að „Title“ sem er væntanlega fyrrnefnt skjal skuli vera á nafni E og D og í framhaldi rituð skammstöfunin „JTWROS“, sem gefur sterklega til kynna að þar sé átt við framangreinda reglu. Ekkert bendir heldur til þess að þau hafi ekki gert sér fulla grein fyrir því hvað fólst í þessu fyrirkomulagi, heldur í raun þvert á móti.   Þrátt fyrir að skjalið sem vísað er til hér að framan um eignarhald á fasteigninni sé einungis undirritað af seljanda og vottað af lögbókanda, en ekki undirritað af D og E, enda ekki gert ráð fyrir undirritun kaupenda, sbr. framangreint, verður að líta til þess að varnaraðilar hafa ekki dregið með nokkrum hætti í efa að þau hjón hafi keypt eignina og greitt fyrir hana, enda hverfist málið um að það hafi þau einmitt gert. Því verður skjalið ásamt kaupsamningi, sbr. framangreint, lagt til grundvallar við úrlausn málsins, en skjölin bera það bæði með sér að eignin hafi verið og sé háð þeim reglum sem nefndar hafa verið um „joint tenants with the rigths of survivorship“ og byggt hefur verið á af hálfu sóknaraðila að gildi í málinu.   Varnaraðilar byggja á því að sóknaraðili hafi ekki sannað hvað felist í þessum reglum, þ.e. að þær geti með einhverjum hætti í sjálfu sér girt fyrir að eignin komi undir skipti á dánarbúi E. Vegna þessa ágreinings óskaði sóknaraðili eftir dómkvaðningu matsmanns til að svara tveimur matsspurningum sem lýst er í lok málavaxtalýsingar hér að framan. Helstu niðurstöður matsmanns skulu reifaðar.   Matsmaður lýsir því að matgerðin fjalli um réttarreglu sem nefnist „joint tenancy with the right of survivorship“ (A) og sé mælt fyrir um hana í 40. gr., 7. kafla, 27. þætti lögbókar Suður Karólínu (e. Section 40, Chapter 7, Title 27 of the SC Code of Laws). Í bandarískum rétti sé að finna ýmis eignarform sameigenda, en algengustu tegundirnar séu regla A og „Tenancy in Common“ (B). Árið 2000 hafi verið sett sérstök löggjöf varðandi A og sé hún undir í þessu máli. Matsmaður kvaðst ekki sjá að réttarreglan hefði breyst á árunum 2002–2017.   Munurinn á B og A felist fyrst og fremst í því hvernig yfirfærsla eignarréttar sé útfærð við andlát skammlífari sameiganda ef þeir eru tveir.. Í tilviki B verði eignarhlutur sameigandans eign dánarbús viðkomandi og skiptist eftir almennum reglum (e. intestacy law) eða í samræmi við erfðaskrá hins látna. Þessu sé öðruvísi farið í tilviki A, en í stuttu máli feli sú regla í sér að eign sé í sameign á meðan sameigendur eru á lífi en við andlát renni eignin, ásamt öllum réttindum og skyldum, til hins langlífari sameiganda. Í þessu felist að hinum sameiginlegu hagsmunum sem regla A feli í sér ljúki við andlát skammlífari sameigandans og hinn langlífari eigi í kjölfarið rétt á stærri hlut í eigninni eða eftir atvikum allri eigninni. Í bandarískum rétti sé ekki litið svo á að eignarhlutur hins látna færist yfir á þann sem eftir lifir eða að hann erfi eignarhlutinn, heldur að hagsmunum hins látna einfaldlega ljúki og þar með verði hagsmunir hins eftirlifandi sameiganda meiri af eigninni en áður.   Dómkvaddur matsmaður telur mega ráða af framangreindu ákvæði lögbókar Suður-Karólínu að mögulegt sé að stofna til eignarformsins með margvíslegum hætti. Í ákvæðinu komi fram að stofnað sé til A með hvers kyns skjali um eignaryfirfærslu fasteignar sem innihaldi nöfn sameigendanna ásamt orðunum „as joint tenants with rights of survivorship, and not as tenants in common“.   Matsmaðurinn dregur þá ályktun að fræðilega virðist gengið út frá því að eignarrétturinn færist sjálfkrafa (e. automatically eða immediately) yfir til langlífari sameigandans við andlát hins skammlífari, en að framlagning dánarvottorðs sé nauðsynleg til þess að breyta skráningunni í fasteignaskrá og með slíkri staðfestingu um að hinn skammlífari sameigandi sé látinn færist þeir hagsmunir sem hann átti í eigninni yfir til hins langlífari eiganda.   Þá komi fram í (c)-lið hins umdeilda lagaákvæðis að ákvæðið eigi að túlka rúmt (e. liberally) í því skyni að ná fram vilja samningsaðilanna.   Matsmaður kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína. Hvað hann eign undir þessum kringumstæðum ekki koma til skipta milli erfingja og orðaði það svo að eignarréttur hins skammlífara ef um hjón væri að ræða hreinlega gufaði upp við andlátið þegar þetta fyrirkomulag væri við lýði.   Þýðing löggilts skjalaþýðanda á umræddum lagaákvæðum, sem lögð hefur verið fram, staðfestir að mati dómsins meginniðurstöður matsmanns.   Að öllu framangreindu virtu telur dómurinn ljóst, eins og fyrr sagði, að sóknaraðili og E hafi viljað hafa fasteignina sem um er deilt undir þessu fyrirkomulagi, og að það hafi verið sameiginleg ákvörðun þeirra. Samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns, sem ekki hefur verið hnekkt og engir sjáanlegir hnökrar eru á, verður og að telja sýnt fram á að réttaráhrif þess að eign sé sannanlega undirseld þessu ákvæði séu þau að eignarréttur færist sjálfkrafa til, í þessu tilviki, eftirlifandi maka jafnvel þegar við framvísun dánarvottorðs. Ekkert bendir til þess að einhverjar ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu þeirra hjóna í Bandaríkjunum til að leysa eignina undan þessum reglum, eða að ekki hafi verið stofnað til þessarar skipanar með réttum hætti á sínum tíma. Þær hafi því leitt til þess að sóknaraðili sé nú, a.m.k. samkvæmt bandarískum lögum, ein eigandi hinnar umdeildu fasteignar. Því hefur ekki verið hnekkt.   Ekki er fallist á það með varnaraðilum sem fram kemur í bókun sem lögð var fram 27. mars sl. að vangaveltur matsmanns um heimfærslu þessarar reglu yfir á íslenskan rétt skipti máli eða dragi úr gildi matsgerðarinnar. Niðurstaða matsgerðarinnar um regluna stendur þrátt fyrir það.   Kemur þá til skoðunar hvort kaupmáli þeirra hjóna sem þau gerðu […] leiði til þess að hægt sé að líta svo á að með honum hafi þau ákveðið að fella niður framangreindar reglur, þ.e. að þær skyldu ekki lengur gilda þeirra í millum um eignina í Bandaríkjunum. Dómurinn telur það ekki tæka niðurstöðu og að kaupmálanum hafi þannig fyrst og fremst verið ætlað að tryggja að sumarbústaður sem þar er getið skyldi vera séreign sóknaraðila og að um aðrar eignir skyldu gilda almennar reglur hjúskaparlaga. Dómurinn lítur svo á að undir það ákvæði, þ.e. „aðrar eignir“, verði ekki fellt sérstakt samkomulag sem hjónin höfðu þá þegar gert og hafði gilt um nokkurra ára skeið, heldur hefði þurft að geta þess sérstaklega í kaupmálanum ef sú átti að verða raunin, auk þess sem vænta má þess að gera hefði þurft einhverjar ráðstafanir í Bandaríkjunum af því tilefni. Það athugist í þessu sambandi að þegar hjónin keyptu fasteignina í Bandaríkjunum árið [...] voru þau ógift og stóð því það fyrirkomulag sem tveir lögráða einstaklingar samþykktu að skyldi gilda þeirra í millum í sjö ár áður en þau ákváðu að gifta sig og gera kaupmála. Þá verður að líta til þess að kaupmála er fyrst og fremst ætlað að fastsetja ákveðna skiptingu eigna ef hjón skilja. Fasteignin í Bandríkjunum hefði væntanlega skipst til helminga við skilnað, bæði með vísan til almennra reglna og ákvæða kaupmálans. Kaupmálinn breytti þannig engu í þeim efnum, en ekki verður hins vegar séð að með honum hafi hjónin ætlað sér að raska þeirri stöðu sem þau höfðu áður komið á um ráðstöfun eignarinnar við andlát.   Í ljósi þess að dómurinn hefur slegið því föstu að fasteign sú sem deilt er um sé í dag eign sóknaraðila, a.m.k. hefur því ekki verið haldið fram að sú sé ekki raunin, sbr. framangreindar reglur, verður fallist á kröfur sóknaraðila og að kaupmáli þeirra hjóna standi ekki í vegi þeirri niðurstöðu. Andspænis þeirri stöðu að lögum að eignin teljist að fullu vera í eigu sóknaraðila verður ekki séð hvernig sú krafa verður gerð, og á hvaða lagagrunni, að sóknaraðila verði gert að afhenda eignina til dánarbús E þannig að hún komi til skipta þar. Þarf því að mati dómsins ekki umfjöllun um hvort beita eigi íslenskum eða bandarískum lögum um skiptin sjálf. Um skipti búsins gilda þannig íslensk lög en ákvæði í lögum Suður-Karólínu í Bandaríkjunum leiða til þess að fasteign þeirra hjóna í Bandaríkjunum rennur ekki til búsins, enda nú þegar eign sóknaraðila.   Þá verður ekki fallist á að lög nr. 14/2004 um erfðafjárskatt geti haggað framangreindri niðurstöðu og sú málsástæða því haldlaus. Benda má á í því sambandi að væntanlega verður greiddur erfðafjárskattur af þessum verðmætum á Íslandi við andlát hins langlífara, þ.e. ef þau verða þá til staðar.   Dómurinn telur rétt, með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, að málskostnaður milli aðila falli niður.   Fyrir sóknaraðila flutti málið Þorsteinn Einarsson lögmaður og fyrir varnaraðila Árni Ármann Árnason lögmaður.   Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.   Ú R S K U R Ð A R O R Ð Viðurkennt er að fasteignin […], […], Suður-Karólínu í Bandaríkjunum, falli ekki undir skipti á dánarbúi E, kt. […], og að beita beri viðeigandi ákvæðum bandarískra laga um eignarhald fasteignarinnar.   Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 11/2020
Manndráp Brenna Ásetningur Sönnunarmat Gjafsókn
V var sakfelldur fyrir brennu og manndráp samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 164. gr. og 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa valdið eldsvoða í íbúðarhúsnæði með nánar tilgreindum hætti með þeim afleiðingum að tvær manneskjur létust. Í dómi Hæstaréttar kom fram að V hafi ekki getað dulist hverjar afleiðingar þess að kveikja eld í stofu íbúðarhúsnæðisins gætu orðið. V hafi haft raunverulega vitund um refsinæmar afleiðingar háttsemi sinnar en engu að síður látið það sér í léttu rúmi liggja hvort eldurinn breiddist út með þeim afleiðingum að mönnum yrði lífsháski búinn, stórfellt eignatjón yrði og líklegt væri að þeir sem væru á efri hæð hússins kæmust ekki undan og biðu bana. Við ákvörðun refsingar var litið til skelfilegra afleiðinga brota V. Á hinn bóginn var litið til þess að á verknaðarstundu hafi V haft lægsta stig ásetnings til beggja brotanna. Var V gert að sæta fangelsi í 14 ár. Þá var honum gert að greiða börnum og foreldrum hinna látnu bætur.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. febrúar 2020 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.   Ákærði krefst aðallega sýknu, til vara lægstu refsingar sem lög leyfa, en að því frágengnu staðfestingar héraðsdóms. Þá krefst hann þess aðallega að bótakröfum verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af þeim, en að því frágengnu að þær verði lækkaðar verulega. C krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 6.808.773 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. október 2018 til 11. mars 2019, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, en til vara að ákvæði Landsréttar um einkaréttarkröfuna verði staðfest. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi ákærða fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. D krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 5.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. október 2018 til 11. mars 2019, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, en til vara að ákvæði Landsréttar um einkaréttarkröfuna verði staðfest. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi ákærða fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt. E krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 7.064.155 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 5.000.000 króna frá 31. október 2018 og 4,5% ársvöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 59/1993 af 2.064.155 krónum frá 31. október 2018, hvort tveggja til 23. janúar 2019, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 7.964.155 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi ákærða fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt. F krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 5.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. október 2018 til 23. janúar 2019, en dráttarvöxtum af sömu fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi ákærða fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt. G krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 4.364.650 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 4.000.000 króna frá 31. október 2018 til 13. nóvember 2018, en af 4.364.650 krónum frá þeim degi til 23. janúar 2019, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af þeirri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi ákærða fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt. H krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 5.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. október 2018 til 23. janúar 2019, en dráttarvöxtum af sömu fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi ákærða fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt. I krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 4.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um nr. 38/2001 frá 31. október 2018 til 23. janúar 2019, en dráttarvöxtum af sömu fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi ákærða fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt. I Með ákæru héraðssaksóknara 23. janúar 2019 voru ákærða gefin að sök hegningarlagabrotin brenna og manndráp en til vara brenna og manndráp af gáleysi, framin 31. október 2018, að Kirkjuvegi 18, Selfossi ,,með því að hafa lagt eld að pappakassa og gardínum í stofu á neðri hæð íbúðarhússins og valdið þannig eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu, vitandi af A ... og B ... sem voru gestkomandi í svefnherbergi á efri hæð hússins, en eldurinn magnaðist upp og hafði breiðst út um húsið þegar slökkvistarf hófst. Afleiðingar þessa voru þær að A og B létust af völdum kolmónoxíðeitrunar vegna innöndunar á reyk og húsið gjöreyðilagðist, en ákærði gerði enga tilraun til að aðvara A og B um eldinn, eða koma þeim til bjargar, áður en hann yfirgaf húsið.“ Voru brot hans talin varða við 1., sbr. 2. mgr. 164. gr. og 211. gr. en til vara við 1., sbr. 2. mgr. 164. gr. og 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í sömu ákæru var J ákærð fyrir brot gegn 169. gr. almennra hegningarlaga. II Með héraðsdómi 9. júlí 2019 var ákærði sakfelldur fyrir brennu samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga og manndráp af gáleysi, sbr. 215. gr. laganna. Ákærða var gert að sæta fangelsi í 5 ár að frádreginni gæsluvarðhaldsvist sem hann hafði sætt frá 1. nóvember 2018 og hann dæmdur til að greiða tilgreindum einkaréttarkröfuhöfum bætur. Með héraðsdómi var meðákærða sýknuð af kröfu ákæruvaldsins og bótakröfum á hendur henni vísað frá dómi. Ákæruvaldið undi þeirri niðurstöðu og áfrýjaði málinu til Landsréttar einungis gagnvart ákærða. Með hinum áfrýjaða dómi 13. desember 2019 var staðfest sakfelling ákærða fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga. Jafnframt var hann sakfelldur fyrir manndráp, sbr. 211. gr. almennra hegningarlaga og dæmdur til að sæta fangelsi í 14 ár.  Þá var honum gert að greiða tilgreindum einkaréttarkröfuhöfum bætur. III Áfrýjunarleyfi í máli þessu var veitt á þeim grunni að líta yrði svo á að úrlausn um mörk ásetnings og gáleysis í máli þessu hefði verulega almenna þýðingu auk þess sem mikilvægt væri að fá úrlausn réttarins um ákvörðun viðurlaga. Var því fallist á að málið yrði flutt um framangreind atriði, sbr. a. og b. liði 1. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. IV Samkvæmt gögnum málsins var húsið að Kirkjuvegi 18 á Selfossi timburhús með stálklæðningu, einangrað með reiðingi, en milligólf voru einangruð með sagi. Einhverjir veggir þess voru með múrklæðningu á vírneti. Þá var talið að klæðningar í útveggjum væru að hluta til úr asbesti. Gengið var inn um útidyr á norður hlið hússins. Við innganginn var stigi upp á efri hæð, en þar voru fjögur herbergi. Á jarðhæð var gengið inn gang, en inn af ganginum lá baðherbergi og til hægri á vestur hlið hússins voru tvær samliggjandi stofur. Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um upptök elds í húsinu umræddan dag var upphafsstaður eldsins í og við sófa í stofu á jarðhæð, vestan megin í húsinu en eldurinn hafði náð að breiðast um allt hús áður en slökkvistarf hófst. Í skýrslunni sagði að við skoðun eldferla í stofu hafi mátt sjá að þriggja sæta svampsófi með tauáklæði og trégrind, sem staðsettur var við glugga á vesturvegg, hafi brunnið mest og lengst. Annar tveggja sæta sófi, sem staðsettur hafi verið gegnt þeim þriggja sæta hafi verið minna brunninn. Útbreiðslu eldsins um allt húsið er nánar lýst í skýrslunni, en þau sem fórust í eldsvoðanum voru í herbergi í suðaustur horni hússins á efri hæð. Það herbergi var sýnu minnst brunnið, en þar hafði hins vegar verið mikill hiti og reykur. Niðurstaða skýrslunnar var að eldsupptök hefðu verið íkveikja af mannavöldum með opnum eldi. Þá fundust ekki eldhvetjandi efni í greinanlegu magni í þeim sýnum sem tekin voru á vettvangi. K verkfræðingur var dómkvaddur til þess að leggja mat á almannahættu vegna brunans. Í matsgerð hans 27. desember 2018 kom meðal annars fram að eldur hefði magnast upp í þriggja sæta sófanum. Eldur í sófanum hefði nægt til þess að kveikja í nærliggjandi húsgögnum og klæðningum og breiðast út um húsið. Þar sem eldurinn hefði ekki hjaðnað niður á þeim stað þar sem hann var kveiktur, heldur breiðst út til annarra hluta hússins, hefði verið um eldsvoða í skilningi 164. gr. almennra hegningarlaga að ræða.  Húsið hefði brunnið bæði eftir yfirborðinu og að innanverðu, yfirtendrun hefði orðið og húsið sjálft og burðargrind þess, allar innréttingar og lausafé eyðilagst. Því væri öruggt að fjárhagsmunir sem bundnir hefðu verið við húsið hefðu farið forgörðum. Þegar kveikt hefði verið í, hefðu fjórir einstaklingar verið í húsinu, tveir á efri hæð og tveir á neðri hæð. Hefðu þeir sem voru á neðri hæð hússins komið sér út eftir að eldurinn var farinn að magnast upp í sófanum. Viðvörun um eldinn til þeirra sem voru á efri hæð hússins hefði mögulega nægt þeim til björgunar. Ekki hefði verið flóttaleið úr herbergi þeirra og stiginn niður á neðri hæð orðinn illfær eða ófær vegna reyks og hita þegar þau hefðu orðið vör við reyk frá brunanum. Þá var matsmaðurinn fenginn til þess að meta sérstaklega önnur tilgreind atriði vegna brunans, meðal annars hversu skammur tími hefði liðið frá íkveikju til þess að lífi og heilsu manna á neðri hæð hússins hefði verið ógnað af völdum reyks og hita. Í matsgerð hans 13. apríl 2019 kom meðal annars fram að eftir að eldur hefði verið kominn af stað í þriggja sæta sófa í stofunni, eftir um eina og hálfa mínútu og sýnileg reykmyndun hafin, hefði reykurinn fyrst safnast saman undir lofti stofunnar. Taldi matsmaður að hitastig í reyknum næði 100º C á skömmum tíma og mætti ætla að það hefði gerst á innan við tveimur mínútum frá íkveikju. Hitinn í reyklaginu færi hratt vaxandi og aðstæður í stofunni væru orðnar hættulegar fólki tveimur til þremur mínútum frá íkviknun. V Ákærði byggir varnir sínar á því að hann hafi kveikt í pappakassa inni í stofu íbúðarhússins í því skyni að skaða sjálfan sig, enda hafi hann hlotið brunasár á lærum af völdum þess. Ekkert bendi til þess að eldhvetjandi efni hafi verið notuð til íkveikju eða eldur kveiktur á fleiri stöðum í húsinu. Þá hafi ákærði hringt í Neyðarlínuna þegar hann áttaði sig á útbreiðslu eldsins. Að öðru leyti sé atburðarásin óljós og gloppótt hvað varði atvik málsins og huglæga afstöðu ákærða. Jafnframt hafi ákæruvaldinu ekki tekist að sanna að þessi háttsemi hafi í raun valdið eldsvoðanum. Auk þess beri að líta til þess við sakarmat að ákærði sé með greind er svari til tornæmis. Þá hafi hann verið undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna er atvikið átti sér stað, auk þess sem langvarandi neysla hafi haft áhrif á dómgreind og andlega burði hans. Ákærði telur að ekki hafi verið sýnt fram á huglæga afstöðu sína til brennubrotsins og verði ekki annað ráðið af sönnunargögnum en að um gáleysi hafi verið ræða, ef talið verði að háttsemi hans hafi leitt til eldsvoðans. Ákærði telur að niðurstaða Landsréttar byggi á getgátum um atvik máls og huglæga afstöðu hans og feli í sér bersýnilega ranga og afar varhugaverða heimfærslu til þeirra refsiákvæða sem sakfellt var fyrir. Um brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga taldi ákærði að þótt talið yrði sannað að hann hafi gerst sekur um brennubrot af ásetningi leiddi það ekki sjálfkrafa til þess að hann yrði fundinn sekur um manndráp af ásetningi. Við mat á ásetningi bæri ávallt að líta til huglægrar afstöðu geranda til afleiðinga háttseminnar á verknaðarstundu. Þannig þyrfti huglæg afstaða ákærða að taka til allra efnisþátta brotsins á verknaðarstundu, þar á meðal ókominna afleiðinga. Ákæruvaldinu hafi ekki tekist að setja fram trúverðuga sönnunarfærslu um að ákærði hafi af ásetningi ætlað sér að bana þeim sem létust í eldsvoðanum. VI Í hinum áfrýjaða dómi er rakinn sá framburður ákærða og meðákærðu í héraði hjá lögreglu og fyrir héraðsdómi sem talinn var hafa þýðingu fyrir sönnun um atvik og saknæmi. Af framburði þeirra var dregin sú ályktun að sannað væri að ákærði hefði kveikt eld í pappaumbúðum í kjöltu sér þar sem hann hefði setið í tveggja sæta sófa í stofu hússins.  Hann hafi ýtt umbúðunum á gólfið í átt að þeim stað þar sem eldsupptök hafi verið í þriggja sæta sófa stofunnar. Landsréttur taldi ósannað að ákærði hefði beinlínis kveikt í gluggatjöldunum eins og hann væri ákærður fyrir, en hins vegar væri sannað að hann hefði kveikt eld í stofunni og í kjölfarið hefði kviknað í húsinu sem mikill eldsvoði hefði hlotist af og haft í för með sér að tvær manneskjur hefðu látist í brunanum. Þá taldi Landsréttur sannað að ákærði hefði vitað að í húsinu væri mikill eldsmatur, en jafnframt hefði hann sjálfur borið um að tvær manneskjur hefðu verið á annarri hæð hússins, auk þess sem hann og meðákærða hefðu verið á neðri hæð hússins. Hefði honum ekki getað dulist að með því að kveikja eld við þessar aðstæður hefði mönnum verið búinn bersýnilegur lífsháski auk þess sem augljós hætta væri á yfirgripsmikilli eyðingu eigna annarra manna. Jafnframt taldi Landsréttur að ákærða hefði ekki getað dulist að svo gæti farið að þeir sem voru á efri hæð hússins kæmust ekki undan ef kviknaði í húsinu og að líklegt væri að þau biðu bana eins og reyndin hefði orðið. Þrátt fyrir vitneskju um þessar aðstæður hefði ákærði kveikt eld sem leiddi til þess að tvær manneskjur sem voru á efri hæðinni, létust. Sönnunarmat Landsréttar, sem óhjákvæmilega helst í hendur við mat dómsins á saknæmi verknaðar ákærða, verður ekki endurskoðað hér fyrir dómi þar sem það byggist að verulegu leyti á sönnunargildi munnlegs framburðar, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þótt mörk stórfellds gáleysis og lægsta stigs ásetnings geti skarast með ýmsum hætti verður að leggja til grundvallar það mat Landsréttar að ákærða hafi ekki getað dulist hverjar afleiðingar þess að kveikja eld í stofu íbúðarhússins gætu orðið. Af framangreindu orðalagi í rökstuðningi dómsins um brot ákærða verður ráðið að rétturinn taldi ákærða hafa haft raunverulega vitund um refsinæmar afleiðingar háttsemi sinnar en engu að síður látið það sér í léttu rúmi liggja hvort eldurinn breiddist út með þeim afleiðingum að mönnum yrði lífsháski búinn, stórfellt eignatjón yrði og líklegt væri að þeir sem væru á efri hæð hússins kæmust ekki undan og biðu bana. Komst Landsréttur þannig réttilega að þeirri niðurstöðu að ákærði hafi á verknaðarstundu haft lægsta stig ásetnings (dolus eventualis) til beggja brotanna. Samkvæmt framangreindu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða vegna beggja brotanna og heimfærslu þeirra til refsiákvæða. Við ákvörðun refsingar verður litið til skelfilegra afleiðinga brota ákærða, þar sem tvær manneskjur létust, sbr. 1., 2., og 3. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.  Á hinn bóginn verður litið til ásetningsstigs ákærða, sbr. 6. tölulið. 70. gr. laganna. Að þessu virtu og með hliðsjón af 77. gr. laganna verður staðfest ákvörðun refsingar í hinum áfrýjaða dómi. Jafnframt verða staðfest ákvæði dómsins um einkaréttarkröfur með þeirri breytingu þó að einkaréttarkröfuhafanum G verða dæmdar 1.364.650 krónur. Þá verða staðfest ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað, málskostnað og sakarkostnað. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Óskars Sigurðssonar lögmanns, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Gjafsóknarkostnaður F, E, H, I og G fyrir Hæstarétti skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Sigmundar Hannessonar lögmanns, eins og greinir í dómsorði.   Gjafsóknarkostnaður C og D skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Sigurðar Sigurjónssonar lögmanns, eins og greinir í dómsorði. Loks verður ákærða gert að greiða málskostnað í ríkissjóð eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en einkaréttarkröfu G. Ákærði, Vigfús Ólafsson, greiði henni 1.364.650 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í Landsrétti. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.417.313 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Óskars Sigurðssonar lögmanns, 1.240.000 krónur. Gjafsóknarkostnaður F, E, H, I og G fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Sigmundar Hannessonar, samtals 1.000.000 krónur. Gjafsóknarkostnaður C og D fyrir Hæstarétti, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Sigurðar Sigurjónssonar, samtals 500.000 krónur greiðist úr ríkissjóði. Ákærði greiði 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.       Dómur Landsréttar Mál þetta dæma landsréttardómarinn Jóhannes Sigurðsson og Arngrímur Ísberg og Eggert Óskarsson, settir landsréttardómarar. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar 15. júlí 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Suðurlands 9. júlí 2019 í málinu nr. S-31/2019. 2        Ákæruvaldið krefst þess að ákærði verði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru samkvæmt aðalkröfu ákæruvaldsins og að refsing hans verði þyngd. 3        Ákærði krefst aðallega sýknu af öllum sakargiftum en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Að því frágengnu krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Þá krefst hann þess að bótakröfum verði vísað frá dómi, til vara sýknu af þeim en að því frágengnu að þær verði lækkaðar verulega. 4          Af hálfu einkaréttarkröfuhafans, C, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna með nánar tilgreindum vöxtum. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Landsrétti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. 5          Af hálfu einkaréttarkröfuhafans, D, fyrir hönd ófjárráða sonar hans, E, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur og bætur fyrir missi framfæranda, samtals 7.064.155 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Landsrétti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. 6          Af hálfu einkaréttarkröfuhafans, F, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 4.000.000 króna með nánar tilgreindum vöxtum. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Landsrétti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. 7          Af hálfu einkaréttarkröfuhafans, G, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni í miskabætur og útfararkostnað, samtals 4.364.650 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Landsrétti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. 8          Af hálfu einkaréttarkröfuhafans, H, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna með nánar tilgreindum vöxtum. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Landsrétti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. 9          Af hálfu einkaréttarkröfuhafans, I, er þess krafist aðallega að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna, en til vara staðfestingar ákvæðis héraðsdóms um greiðslu miskabóta. Þá er krafist staðfestingar ákvæðis héraðsdóms um greiðslu útfararkostnaðar að fjárhæð 1.808.773 krónur. Í öllum tilvikum er krafist nánar tilgreindra vaxta. Jafnframt er krafist staðfestingar ákvæðis héraðsdóms um greiðslu þóknunar skipaðs réttargæslumanns en til vara er krafist málskostnaðar fyrir héraðsdómi. Loks er krafist málskostnaðar fyrir Landsrétti. 10         Af hálfu einkaréttarkröfuhafans, Í, er þess krafist aðallega að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna, en til vara staðfestingar ákvæðis héraðsdóms um greiðslu miskabóta. Í báðum tilvikum er krafist nánar tilgreindra vaxta. Jafnframt er krafist staðfestingar ákvæðis héraðsdóms um greiðslu þóknunar skipaðs réttargæslumanns en til vara er krafist málskostnaðar fyrir héraðsdómi. Loks er krafist málskostnaðar fyrir Landsrétti. Málsatvik og sönnunarfærsla 11         Húsið sem brann að Kirkjuvegi 18, Selfossi var í eigu föður ákærða eins fram kemur í skýrslu lögreglu um samtal við föðurinn 6. nóvember 2018.  12         Í skýrslu tæknideildar lögreglu segir um húsið að Kirkjuvegi 18 að það sé tveggja hæða einbýlishús. Húsið sé timburhús með stálklæðningu, einangrað með reiðingi. Milligólf var einangrað með sagi. Einhverjir veggir voru með múrklæðningu á vírneti og talið var að asbest væri í klæðningum á útveggjum. Í skýrslunni segir að eldurinn „hafði brunnið lengst og mest í syðri stofu á jarðhæð í vestur enda hússins. Við skoðun eldferla í stofu mátti sjá að þriggja sæta svampsófi með tauáklæði og trégrind, sem staðsettur var við glugga á vesturvegg hafði brunnið mest og lengst. Annar samskonar sófi, tveggja sæta sem var staðsettur gegnt þeim þriggja sæta var minna brunninn. Timburklæðningar í lofti og á veggjum stofunnar voru alveg brunnar og loft og veggja grind, sem var úr timbri einnig mikið brunnin í stofu.“ Í niðurstöðum skýrslunnar segir að eldurinn hafi átt upptök sín í og við sófa á jarðhæð vestan megin í húsinu. Um hafi verið að ræða íkveikju af mannavöldum. Þá er bent á að á vettvangi hafi ekki fundist efni sem hefðu getað valdið sjálfsíkveikju og ekki hafi verið upplýst um notkun þeirra í húsinu. Rafmagnstæki og tenglar á vettvangi hafi borið merki um utanaðkomandi eld. 13         Fyrir héraðsdómi staðfesti rannsóknarlögreglumaður að upptök eldsins hefðu verið í framangreindum þriggja sæta sófa. Þá bar hann að eldurinn hefði ekki átt upptök á fleiri stöðum, mögulega á tveim stöðum í sófanum en ekki annars staðar í stofunni eða í húsinu. 14         Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 1. nóvember 2018 daginn eftir brunann og var honum skýrt frá því að hann væri grunaður um að vera valdur að brunanum og var hann beðinn um að skýra frá því sem gerðist. Hann svaraði „Já ég veit ekki það hérna ja (óskýrt) stofan þú bara veist magnaðist eldurinn í stofunni og ég bara einhvern veginn mundi ekki eftir fólkinu sem var í húsinu með mér og ég einhvern veginn kom mér út og svo bara (óskýrt) ægilegur hiti í ganginum og svona og ég man ekki hvort að ég hringdi í neyðarlínuna var það ekki?“. Þá skýrði hann frá því að hin látnu hefðu farið upp á efri hæð hússins rétt áður en eldurinn braust út, en hann kvaðst ekki vita hvar meðákærða í héraði hefði verið fyrr en hann hefði séð hana úti eftir að eldurinn hafði brotist út. Taldi hann sig hafa verið einan í stofunni þegar eldurinn braust út. Ákærði var spurður hvernig eldurinn hefði kviknað í stofunni og hann svaraði: „Ég hérna það var þarna við gluggann sko þú veist þarna þú veist hérna í hérna gardínunni sko.“ Hann var spurður hvernig eldurinn hefði kviknað og hann svaraði: „Hérna ég var eitthvað búinn að reyna að kveikja hérna á pappa á sjálfum mér af því ég er með brunasár hérna sko og hérna svo hérna og svo slökkti ég í því sko hérna og ég held ég hafi bara látið á gólfið pappann ég man ekki alveg sko.“ Ákærði kvað meðákærðu í héraði hafa beðið sig um að slökkva og sagði svo: „Jú ég slökkti í þessu held ég og hérna en ég held ég hafi hérna bara hent þessu á gólfið sko ég held ég ég hérna ég vissi nú ekki alveg hvort það var slökknað í því sko eða þú veist glóð eftir eða eitthvað ég man ekki alveg. Ég man ekki hvað þetta var bjórkassi eða eitthvað ég man ekki hvað það var.“ Hann kvaðst hafa kveikt í með kveikjara og segir þegar hann var spurður hvað hefði gerst næst: „Ja ég man … ég held ég hafi eitthvað ég er ekki alveg klár á því hvort ég hafi labbað fram ég þú veist man það ekki alveg hérna ég veit ekki svo og svo einhvern veginn bara magnast eldurinn upp sko og þú veist hérna og maður ræður ekki við neitt og ég einhvern veginn næ ekki neinni hugsun eða neitt sko ég hérna og ég bara er bara einhvern veginn stjarfur og ég er ekkert að hugsa þú veist gleymi því að aðrir eru í húsinu bæði DD og A og B ég bara gleymi því. Bara hefði ég vitað af því auðvitað hefði ég bara farið upp og vakið þau á meðan ég hafði tíma til af því þetta er náttúrlega timburhús og það bara verður allt eitt eldhaf strax.“ Ákærði lýsti því síðan að hann hefði forðað sér út, enda hefði allt orðið eitt eldhaf. „Bara eldurinn logar þarna og alveg upp í loft og hann magnast svo hratt sko að hérna ég fer bara strax út sko.“ Þá kom fram hjá honum að eldur hefði verið í gluggatjöldunum en hann kvaðst ekki vita hvernig eldurinn hefði borist í þau. Hann benti á að það hefði verið teppi á gólfinu og þegar hann var spurður hvort eldur hefði verið í því svaraði hann: „Ég hérna ég man það ekki sko en það var sko mig minnir eins og hafi verið komið strax eftir í loftinu sko það er timburloft sko svo bara þú veist bara strax magnaðist svo mikið sko.“ Yfirheyrandinn segir: „Þú manst ekki hvort það er eldur í pappanum en þú manst það er eldur í gardínunni gardínunum og þú talar um eld í loftinu, hvar í loftinu?“ og ákærði svarar: „Bara út frá glugganum.“ 15         Þá kom fram hjá ákærða að hann hefði búið í húsinu frá 1968 eða 1969. Hann kvaðst hafa vitað að milliloftið hefði verið úr timbri og gamall dúkur á því, en ekki gat hann borið um einangrun hússins. 16         Ákærði bar efnislega á sama hátt fyrir dómi við aðalmeðferð málsins í héraði. 17         Meðákærða í héraði var yfirheyrð af lögreglu sama dag og ákærði. Hún kvaðst hafa verið í húsinu ásamt ákærða og þeim tveim sem létust í brunanum. Hún var beðin að skýra frá því sem gerðist og eftir að hafa sagt að hún hefði verið að drekka bjór með ákærða sagði hún „bara var hann kveikjandi í öllu og gardínum og pappakössum og í fötunum sínum og þau sögðu mér að fa… þau voru bara uppi í bæli eins og vanalega að hanga þar og ég fer upp að tala við þau tala við þau þar, þá segir að A er bara farinn niður bara farinn niður að tékka á Fúsa hvað Fúsi er að gera …“. Síðar í yfirheyrslunni kom fram hjá henni að ákærði hefði kveikt í með kveikjara og hún hefði slökkt tvisvar í hjá honum. Þetta hefði verið í stofunni á fyrstu hæð. Fyrst hefði ákærði kveikt í pitsukössum „Í stofunni situr með þetta í fanginu og er að kveikja í og kveikti í buxunum og eitthvað og svo fór hann í gardínurnar og kveikti þar í svo fór hann eitthvað.“ Hún kvaðst hafa slökkt eld í pitsukössunum með því að hella bjór yfir, en næst hefði ákærði ráðist „á B eitthvað af því hún var eitthvað að segja honum að hætta þessu að þá réðst hann á B í sófanum og B var logandi logandi hrædd eins og ég skil það vel og hérna og hérna og hún hleypur upp og segir eitthvað „hann er að kveikja í hann er að kveikja í“ eitthvað og „þetta er timburhús og þetta fer alveg eða þú veist það brennur alveg á nóinu eitthvað svoleiðis segir hún, …“. Eftir þetta kvað hún ákærða hafa farið að kveikja í gluggatjöldunum fyrir stofuglugganum við hliðina á stóra sófanum, en hún kvaðst ekki vera alveg viss um hvort kviknað hefði í þeim um leið eða ekki. Þá kom fram hjá henni að hún hefði eins og dottið úr sambandi og munað svo eftir sér í stofunni og hún hafi séð svartan reyk. Þegar þetta var hefði ákærði verið kominn út. 18         Meðákærða í héraði bar efnislega á sama hátt fyrir dómi við aðalmeðferð málsins í héraði. 19         Að öðru leyti vísast til hins áfrýjaða dóms um lýsingu málsatvika og rannsóknar á vettvangi brunans. Þar er einnig gerð grein fyrir niðurstöðum dómkvadds matsmanns sem lagði mat á hvort almannahætta hefði stafað af brunanum og svaraði tilteknum spurningum í öðru mati, eins og rakið er í héraðsdómi. Þá eru í hinum áfrýjaða dómi rakin læknisvottorð og gerð grein fyrir dánarorsökum hinna látnu. Þar er einnig gerð grein fyrir niðurstöðum geðlækna og sálfræðinga sem rannsökuðu ákærða og komust að þeirri niðurstöðu að hann væri sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og að refsing gæti borið árangur, sbr. 16. gr. sömu laga. Loks eru í héraðsdómi raktar skýrslur ákærðu og vitna við aðalmeðferð málsins. 20         Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti var spiluð í heild sinni hljóð- og myndbandsupptaka af skýrslugjöf ákærða og meðákærðu í héraði. Ákærði var ekki viðstaddur meðferð málsins í Landsrétti. Verjanda hans kvað honum vera kunnugt um aðalmeðferðina en hann hefði kosið að koma ekki fyrir Landsrétt. Hann hygðist ekki tjá sig ekki frekar um málið heldur vísa til skýrslu sinnar fyrir héraðsdómi. Niðurstaða 21         Hér að framan var gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu lögreglu að eldsupptök hefðu verið í þriggja sæta sófa sem stóð við vesturvegg í stofu hússins. Myndir af vettvangi sýna glögglega að þar hefur brunnið mikill eldur, bæði í sófanum og eins á veggnum. Meðal gagna málsins eru myndir sem teknar voru í stofunni í júlí 2017 og sýna þær gólfsíð gluggatjöld við hlið þriggja sæta sófans. Þær sýna einnig tveggja sæta sófa. Myndir af brunavettvangi sýna tveggja sæta sófann gegnt þriggja sæta sófanum og hefur verið borð á milli þeirra. Fyrir héraðsdómi kvað ákærði sig minna að hann hefði setið í minni sófanum þegar hann kveikti í pappaumbúðunum. 22         Ákærði hefur allt frá upphafi kannast við að hafa kveikt eld í pappaumbúðum í kjöltu sér og er sá framburður hans studdur framburði meðákærðu í héraði. Þá kom fram hjá ákærða í fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu að eldur hefði borist í gluggatjöldin en ekki kvaðst hann vita hvernig. Þaðan hefði eldurinn borist upp í loft og magnast mikið. Fyrir héraðsdómi bar ákærði að hann hefði kveikt í pappaumbúðum sem hann hefði svo ýtt frá sér út á gólfið þegar komið var gat á buxurnar hans og hann var farinn að brenna sig. Þá kvaðst hann ekki muna eftir að hafa reynt að slökkva eldinn en meðákærða í héraði bar fyrir héraðsdómi að hún hefði slökkt eldinn með því að hella yfir hann bjór. Hún bar einnig hjá lögreglu að hún hefði séð að ákærði ætlaði að kveikja í gluggatjöldunum þótt hún myndi ekki hvort hann hefði kveikt í þeim. Ákærði kvaðst ekki muna eftir að hafa lagt eld að gluggatjöldunum en útilokaði það ekki. 23         Með játningu ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi, sem fær stuðning í framburði meðákærðu, er sannað að hann kveikti eld í pappaumbúðum í kjöltu sér þar sem hann sat í tveggja sæta sófanum í stofu hússins að Kirkjuvegi 18. Samkvæmt framburði ákærða ýtti hann umbúðunum út á gólfið og hefur það þá verið í átt að þriggja sæta sófanum þar sem eldsupptökin voru samkvæmt niðurstöðum tæknideildar lögreglu. Þá bar ákærði að gluggatjöldin hefðu logað og eftir það hefði eldurinn breiðst hratt út og ekki verið við neitt ráðið. Þótt ósannað sé að ákærði hafi beinlínis kveikt í gluggatjöldunum, eins og hann er ákærður fyrir, liggur hins vegar fyrir að hann kveikti eld í stofunni og í kjölfarið kviknaði í húsinu sem mikill eldsvoði hlaust af og tvær manneskjur létust í brunanum. Engar vísbendingar eru um það í málinu að eldsupptökin sé að rekja til athafna annarra en ákærða og því ekki óvarlegt að telja sannað, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að eldurinn hafi kviknað af völdum hans. 24         Ákærði kvaðst hafa búið í húsinu frá þriggja eða fjögurra ára aldri og vitað úr hverju það var byggt. Samkvæmt þessu er sannað að ákærði kveikti eld í húsi í eigu annars manns og hann vissi að í því var mikill eldsmatur, eins og rakið var. Þá hefur hann sjálfur borið að tvær manneskjur hafi verið á annarri hæð hússins, auk þess sem hann og meðákærða voru á neðri hæðinni. Með þessu var ákærði valdur að eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu. Þá gat ákærða ekki dulist að með því að kveikja eld við þessar aðstæður var mönnum búinn bersýnilegur lífsháski auk þess sem augljós hætta var á yfirgripsmikilli eyðingu eigna annarra manna. Ákærði verður því sakfelldur fyrir brennu og varðar brot hans við 1., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga, eins og hann er ákærður fyrir. 25         Þegar ákærði kveikti eldinn vissi hann að á efri hæðinni voru þau tvö sem létust í eldsvoðanum. Hann vissi líka að mikill eldsmatur var í húsinu og gat honum ekki dulist að svo gæti farið að þau, sem uppi voru, kæmust ekki undan ef kviknaði í húsinu og líklegt væri að þau gætu beðið bana, eins og reyndin varð. Þrátt fyrir þessa vitneskju um þessar aðstæður kveikti hann eld sem leiddi til þess að tvær manneskjur létust. Ákærði verður því einnig sakfelldur fyrir manndráp og varðar brot hans við 211. gr. almennra hegningarlaga eins og hann er ákærður fyrir. 26         Sakaferill ákærða hefur ekki þýðingu við ákvörðun refsingar. Við ákvörðun hennar verður annars vegar litið til þess að ásetningur ákærða var ekki mjög einbeittur. Hins vegar er til þess að líta að hann gerði enga tilraun til að vara þau við, sem voru á efri hæðinni og létust í eldsvoðanum, eða koma þeim til bjargar. Samkvæmt þessu er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 14 ár en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans eins og í dómsorði greinir. 27       Með vísun til þeirra lagaraka, sem tilgreind eru í héraðsdómi, verður ákærði dæmdur til að greiða foreldrum hinna látnu og sonum B miskabætur. Eru bætur til foreldranna hæfilega ákveðnar ein milljón króna til hvers þeirra en tvær milljónir króna til hvers sona hennar. Þá verða staðfest ákvæði héraðsdóms um greiðslu bóta fyrir missi framfæranda og útfararkostnað. Bæturnar skulu bera vexti eins og í dómsorði greinir. Foreldrar B heitinnar og synir hennar hafa gjafsókn vegna bótakrafna þeirra. Gjafsóknarkostnaður þeirra skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Sigmundar Hannessonar lögmanns, sem ákveðin er í einu lagi án virðisaukaskatts í dómsorði. Verður ákærði dæmdur til að greiða gjafsóknarkostnað í ríkissjóð, að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir. Loks verður ákærði dæmdur til að greiða foreldrum A málskostnað sem ákveðinn er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. 28         Við meðferð málsins í héraði voru lögmenn sona og foreldra B og foreldra A skipaðir réttargæslumenn þeirra án þess að lagaskilyrði væru til þess samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 41. gr. sömu laga. Hvorki verjandi ákærða né sækjandinn gerðu þá athugasemdir við skipunina og þykja því ekki efni til að hrófla við henni. Með þessari athugasemd verða ákvæði hins áfrýjaða dóms um greiðslu sakarkostnaðar staðfest. 29         Ákærði skal greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Landsrétti, Óskars Sigurðssonar lögmanns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti í dómsorði. Annan sakarkostnað fyrir Landsrétti skal hann einnig greiða, eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Ákærði, Vigfús Ólafsson, sæti fangelsi í 14 ár en til frádráttar skal koma gæsluvarðhaldsvist hans frá 1. nóvember 2018. Ákærði greiði C 2.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. október 2018 til 24. febrúar 2019 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði D, vegna ófjárráða sonar hans, E, 4.064.155 krónur, 2.064.155 krónur með 4,5% vöxtum frá 31. október 2018 til 24. febrúar 2019 og 2.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. október 2018 til 24. febrúar 2019, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 4.064.155 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði H 2.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. október 2018 til 24. febrúar 2019 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði F 1.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. október 2018 til 24. febrúar 2019 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði G 2.364.650 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. október 2018 til 24. febrúar 2019 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði I 2.808.773 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. október 2018 til 15. mars 2019 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 248.000 krónur í málskostnað. Ákærði greiði Í 1.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. október 2018 til 15. mars 2019 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 248.000 krónur í málskostnað. Gjafsóknarkostnaður C, D vegna E, H, F og G skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns þeirra, Sigmundar Hannessonar lögmanns, samtals 775.000 krónur án virðisaukaskatts. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um greiðslu sakarkostnaðar í héraði eru staðfest. Ákærði greiði 961.000 krónur í málskostnað sem renni í ríkissjóð. Ákærði greiði 137.004 krónur í sakarkostnað fyrir Landsrétti og málsvarnarlaun verjanda síns, Óskars Sigurðssonar lögmanns, 1.928.820 krónur.       Dómur Héraðsdóms Suðurlands þriðjudaginn 9. júlí 2019 Mál þetta, sem dómtekið var þann 26. júní sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 23. janúar 2019, á hendur ákærðu, DD, [...], til heimilis að [...] og Vigfúsi Ólafssyni, kt. [...], til heimilis að [...], [...], „fyrir hegningarlagabrot, framin miðvikudaginn 31. október 2018 að Kirkjuvegi 18 á Selfossi svo sem hér greinir: 1.       Gegn ákærða Vigfúsi fyrir brennu og manndráp, en til vara brennu og manndráp af gáleysi, með því að hafa lagt eld að pappakassa og gardínum í stofu á neðri hæð íbúðarhússins og valdið þannig eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu, vitandi af A, kennitala [...] og B, kennitala [...] sem voru gestkomandi í svefnherbergi á efri hæð hússins, en eldurinn magnaðist upp og hafði breiðst út um húsið þegar slökkvistarf hófst. Afleiðingar þessa voru þær að A og B létust af völdum kolmónoxíðeitrunar vegna innöndunar á reyk og húsið gjöreyðilagðist, en ákærði gerði enga tilraun til að aðvara A og B um eldinn, eða koma þeim til bjargar, áður en hann yfirgaf húsið. Telst þetta verða við 1., sbr. 2. mgr. 164, gr. og 211. gr. en til vara við 1., sbr. 2. mgr. 164. gr. og 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.   2.       Gegn ákærðu DD fyrir almannahættubrot, með því að hafa látið hjá líða að gera það sem í hennar valdi stóð til þess að vara við eldsvoða, eins og lýst er í ákærulið 1, en DD gerði enga tilraun til að aðvara A og B sem voru stödd í herbergi á efri hæð hússins um eldinn, eða koma þeim til bjargar, áður en hún yfirgaf húsið af völdum eldsins.  Telst þetta varða við 169. gr. almennra hegningarlaga. Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Einkaréttarkröfur: Af hálfu C, kt. [...], er þess krafist að ákærða Vigfúsi verði gert að greiða honum kr. 5.000.000,- auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. október 2018, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga af þeirri fjárhæð, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar fyrir kærða til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi er lagður verður fram við aðalmeðferð málsins ef til kemur, að viðbættum virðisaukaskatti. Af hálfu D, kennitala [...], fyrir hönd ófjárráða sonar hans, E, kennitala [...], er þess krafist á að ákærða Vigfúsi verði gert að greiða honum samtals 7.064.155 kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 5.000.000 kr. frá 31. október 2018, og með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 1. mgr. 16.gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 2.064.155 kr. frá 31. október 2018, hvort tveggja til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar fyrir kærða, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 7.064.155 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi er lagður verður fram við aðalmeðferð málsins ef til kemur, að viðbættum virðisaukaskatti. Af hálfu F, kennitala [...], er þess krafist að ákærða Vigfúsi verði gert að greiða honum 4.000.000 kr. auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. október 2018, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af þeirri fjárhæð að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar fyrir ákærða til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi er lagður verður fram við aðalmeðferð málsins ef til kemur, að viðbættum virðisaukaskatti. Af hálfu G, kt. [...], er þess krafist að ákærða Vigfúsi verði gert að greiða henni 4.364.650 kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 4.000.000 kr. frá 31. október 2018, og með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 364.650 kr. frá 13. nóvember 2018, hvort tveggja til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar fyrir kærða, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtrygginu (svo) nr. 38/2001 af 4.364.650 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi er lagður verður fram við aðalmeðferð málsins ef til kemur, að viðbættum virðisaukaskatti. Af hálfu H, kt. [...], er þess krafist að ákærða Vigfúsi verði gert að greiða honum kr. 5.000.000,- auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. október 2018, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga af þeirri fjárhæð, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar fyrir kærða til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi er lagður verður fram við aðalmeðferð málsins ef til kemur, að viðbættum virðisaukaskatti.“ Með framhaldsákæru dagsettri þann 11. febrúar sl. var eftirfarandi viðbót gerð á ofangreindri ákæru: „Einkaréttarkröfur: Af hálfu I, kennitala [...], er þess krafist að ákærðu verið dæmd in solidum til að greiða henni bætur að fjárhæð kr. 6.808.773, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá tjónsdegi til þess dags er mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar, og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, samanber 6. gr. sömu laga. Þess er krafist að ákærðu verið dæmd in solidum til að greiða lögmannskostnað tjónþola samkvæmt tímaskýrslu, auk virðisaukaskatts, sem lögð verður fram við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Af hálfu Í, kennitala [...], er þess krafist að ákærðu verði dæmd in solidum til að greiða honum bætur fjárhæð kr. 5.000.000, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá tjónsdegi til þess dags er mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar, og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, samanber 6. gr. sömu laga. Þess er krafist að ákærðu verið dæmd in solidum til að greiða lögmannskostnað tjónþola samkvæmt tímaskýrslu, auk virðisaukaskatts, sem lögð verður fram við aðalmeðferð málsins fyrir dómi.“  Ákærðu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefjast ákærðu þess að bótakröfum verði vísað frá dómi, til vara að þau verði sýknuð af þeim og til þrautavara að þær verði lækkaðar verulega. Málavextir. Miðvikudaginn 31. október kl. 15:53 barst lögreglu tilkynning um að eldur væri í einbýlishúsi við Kirkjuveg 18 á Selfossi og var talið að einn aðili væri innandyra. Í frumskýrslu J lögreglumanns segir að hann hafi ekið inn Kirkjuveg til suðurs frá Eyravegi og hafi mátt sjá mikinn eld og reyk frá Kirkjuvegi 18 og hafi mátt sjá eldtungur koma frá gluggum og hurð á neðri hæð. Hafi ákærðu staðið fyrir utan húsið og hafi sjúkraflutningamaður tjáð honum að hún hafi heyrt í manneskju öskra inni í húsinu á efri hæð. Lögreglan hafi ekki reynt björgunaraðgerðir þar sem mikill eldur hafi verið í húsinu. Við aðaldyr og í anddyri hafi mátt sjá mikinn eld og reyk stíga út, þá hafi mátt sjá að stigi upp á efri hæð hússins hafi verið orðinn alelda. Í frumskýrslu segir að ákærðu hafi verið sjáanlega æst og óróleg. Hafi ákærða DD sagt að A og B væru inni á efri hæð hússins og vildi hún meina að ákærði Vigfús hefði kveikt í innandyra en hann hefði verið að leika sér með eld allan daginn og þá hafi hann montað sig af því að hafa kveikt í. Í skýrslu K lögreglumanns kemur fram að ákærða DD hafi hrækt og öskrað á ákærða Vigfús að hann væri ógeðslegur morðingi. Hafi hún ítrekað kallað á meðákærða og sagt að hann hefði gert þetta og hann væri morðingi. Í skýrslu L lögreglumanns kemur fram að ákærða DD hafi öskrað stanslaust á meðákærða: „Þú gerðir þetta, morðinginn þinn“ og þá hafi hún hrækt á hann. Ákærðu voru handtekin kl. 16:03 og færð í fangageymslur. Fram kemur í skýrslu L að ákærði Vigfús hafi sagt að hann væri morðingi, hann væri með mannslíf á samviskunni. Þá hafi hann spurt hvort hann væri morðingi og hvort þau væru lifandi. Fyrsta slökkviliðsbifreið mun hafa komið á vettvang kl. 16:00 og kemur fram í dagbók brunavarna Árnessýslu að það mikill eldur hafi verið í húsinu að ekki hafi verið hægt að senda reykkafara inn. Stigi hafi verið reistur við gafl hússins og rúða brotin en litur reyksins og kraftur hafi verið svo mikill að ekki hafi verið möguleiki á að fara inn. Hafi hiti innandyra mælst meira en 150°C með IR vél og ekki hafi verið hægt að sjá hvort fólk væri innandyra. Þegar ljóst hafi orðið að engum yrði bjargað hafi verið lögð áhersla á að kæla herbergið sem talið hafi verið að einstaklingarnir væru í. Að loknu slökkvistarfi fundust lík þeirra A og B í svefnherbergi á efri hæð hússins og var niðurstaða bráðabirgðakrufningar sú að dánarorsök þeirra beggja væri innöndun kolmónoxíðs. Hafi verið sót í öndunarvegi og lungum þeirra beggja og engin ummerki um ofbeldi hafi verið að sjá á líkunum. Í krufningarskýrslu M réttarmeinafræðings frá 5. desember 2018 segir að á B hafi verið merki um áhrif vegna mikils hita og ásamt miklu magni af kolmónoxíði sem fundist hafi í blóði hennar gefi það til kynna að hin látna hafi orðið fyrir áhrifum af eldinum í nokkurn tíma meðan hún var enn á lífi (margar mínútur). Þá kemur fram að hún hafi neytt blöndu af gabapentín, kvetíapíni og etanóli rétt fyrir dauðann og megi telja að deyfandi áhrif þessara efna hafi átt þátt í dauða hennar. Í krufningarskýrslu sama réttarmeinafræðings frá 5. desember 2018  vegna A segir að hann hafi látist vegna kolmónoxíðseitrunar af völdum innöndunar á reyk. Á honum hafi verið merki um áhrif vegna mikils hita sem sé dæmigert fyrir eldsvoða. Ásamt miklu magni af kolmónoxíði sem fundist hafi í blóði hans gefi það til kynna að hinn látni hafi orðið fyrir áhrifum af eldinum í nokkurn tíma meðan hann var enn á lífi (margar mínútur). Þá kemur fram að hann hafi neytt blöndu af gabapentín, etanóli og kvetíapíni rétt fyrir dauðann og megi telja að deyfandi áhrif þessara efna hafi átt þátt í dauða hans. N læknir skoðaði ákærðu fljótlega eftir handtöku þeirra. Samkvæmt vottorði hans var ákærði Vigfús með áverka á hnúum eftir að hafa kýlt í vegg. Þá hafi hann verið með brunasár á báðum lærum innanvert. Þá hafi engir áverkar verið á ákærðu DD. Þá skoðaði læknirinn einnig lík þeirra A og B og sá hann ekki önnur áverkamerki á þeim en vegna bruna. Samkvæmt skýrslu O lögreglufulltrúa um rannsókn á eldsupptökum voru upptök eldsins íkveikja í og við sófa í stofu á jarðhæð vestan megin í húsinu. Þá hafi ekki legið fyrir upplýsingar um að á vettvangi hafi verið í notkun eða fundist efni sem hafi þá eiginleika að geta kveikt í sér sjálf. Þá hafi rafmagnstæki og tenglar við upptakastað borið merki utanaðkomandi elds. Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu þann 1. nóvember sl. og kvað hann A, B og meðákærðu DD hafa undanfarið dvalið á heimili hans. Hann kvaðst stundum hafa rifist við A en aðallega við meðákærðu og kvað hann sér ekki hafa liðið vel undanfarið og hafi meðákærða oft lamið hann. Hann kvaðst daginn áður hafa verið að drekka bjór með þeim þremur og hafi A og B farið upp að sofa. Hann kvaðst ekki hafa munað hvar meðákærða hafi verið fyrr en hann hafi séð hana úti eftir að eldurinn hafi verið kominn upp. Hann kvaðst muna eftir því að hafa hringt í Neyðarlínuna og síðan hafi verið þarna fullt af slökkviliðs- og lögreglubifreiðum. Þá hafi meðákærða verið að skammast í honum og kenna honum um eldinn. Ákærði taldi að kviknað hefði í gardínu inni í stofu  en hann hafi verið búinn að reyna að kveikja í pappa á sjálfum sér en slökkt í honum og hélt hann að hann hefði látið pappann á gólfið en mundi það ekki. Hann hélt að meðákærða hefði verið inni í stofu en mundi ekki hvort hún hefði beðið hann um að slökkva í kassanum. Hann kvað eldinn hafa magnast og hann hafi ekki ráðið við neitt, orðið stjarfur og gleymt því að aðrir væru í húsinu. Hefði hann vitað af því hefði hann farið upp og vakið þau meðan hann hefði haft tíma til þess. Hann hafi forðað sér út úr hitanum, dottið úr sambandi og gleymt því að hann væri ekki einn. Ákærði kvaðst ekki vita hvernig eldurinn hefði komist í gardínurnar. Ákærði kvað sér ekki hafa liðið vel, hann hafi ekki vitað hvað hann væri að hugsa að refsa sjálfum sér eða eitthvað eins og hann komst að orði. Ákærða DD var yfirheyrð hjá lögreglu sama dag að og kvaðst hún undanfarið hafa dvalið á heimili meðákærða og þar hefðu einnig dvalið A og B. Hún kvaðst vera alkóhólisti og sprautufíkill. Hún kvað meðákærða hafa verið að ógna sér og A. Hún og meðákærði hafi verið að drekka bjór og hafi meðákærði verið að kveikja í öllu í stofunni, gardínum og pappakössum og fötunum sínum og kvaðst hún tvisvar hafa slökkt í með því að hella bjór yfir kassana. Hafi A og B verið uppi og hafi B verið búin að koma niður og sagt honum að hætta. Hafi ákærða farið í klósettið og ekki muna eftir neinu fyrr en hún hafi vaknað og hafi allt verið í reyk. Hún kvaðst þá hafa farið út og hafi meðákærði þá verið kominn út. Hún hélt að A og B hefðu verið uppi en allt hafi verið orðið logandi og því hafi hún ekki getað tékkað á þeim. Hún kvaðst hafa heyrt brothljóð og hélt að þau hefðu farið út um gluggann. Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 8. nóvember sl. kvaðst ákærða ekkert hafa getað gert til að vara fólkið við eldinum eftir að hann hafði kviknað vegna þess að hún hafi dottið út sökum hræðslu. Hún hafi reynt að slökkva eldinn og síðan hafi hugsunin verið að koma sér út. Hún kvaðst ekkert hafa getað gert til þess að bjarga fólkinu sem var inni í húsinu. Ákærða Vigfúsi var tekið blóð til rannsóknar á alkóhóli, lyfjum og ólöglegum ávana- og/eða fíkniefnum kl. 16:55 sama dag. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði reyndist magn alkóhóls í blóði hans vera 1,91‰ en önnur efni voru ekki mælanleg í sýnunum. Ákærðu DD var tekið blóð til sams konar rannsóknar kl. 17:15 sama dag og samkvæmt niðurstöðu rannsóknarstofunnar reyndist magn alkóhóls í blóði hennar vera 1,41‰ en önnur efni voru ekki mælanleg í sýnunum. Ó verkfræðingur var fenginn til þess að meta hvort almannahætta hefði skapast vegna íkveikjunnar og í skýrslu hans dagsettri 27. desember 2018 segir að samkvæmt gögnum málsins virðist að einstaklingarnir á efri hæðinni hafi orðið varir við eldinn þegar fyrst hafi verið kveikt í pappakössum í stofunni því annar þeirra hefði komið niður og átt í orðaskiptum við húsráðanda en farið síðan aftur upp. Þegar þau hafi aftur orðið vör við reyk frá brunanum virðist sem stiginn niður af hæðinni hafi þá þegar verið orðinn ill- eða ófær vegna reyks og hita. Hafi herbergishurðin fram í stigann staðið opin á brunatímanum auk þess sem glugginn á suðurhliðinni hafi verið opinn sem hafi gert það að verkum að reykurinn hafi leitað upp í herbergið og fyllt það af reyk. Slíkur reykur og hiti skapi fljótt lífshættulegar aðstæður fyrir fólk og slævi alla rökhugsun. Ekki hafi verið um aðra flóttaleið að ræða frá herberginu. Mögulega hefði verið hægt að vinna nokkurn tíma með því að loka herbergishurðinni og brjóta síðan gluggann á suðurhlið hússins og láta sig falla þá leiðina. Það sé þó ekki hættulaus leið því fallið sé líklega um 3,5 m og mikil hætta á alvarlegum skurðsárum vegna glersins í glugganum og á jörðinni fyrir neðan. Það var niðurstaða Ó að um eldsvoða í skilningi 164. gr. almennra hegningarlaga hafi verið að ræða og myndi eldur í sófanum ekki hjaðna niður, heldur valda útbreiðslu elds um allt húsið. Þá hafi almannahætta verið fyrir hendi þar sem aðilum á efri hæð hússins hafi ekki verið gert viðvart um eldinn og þeim því bersýnilegur lífsháski búinn. Þá hafi verið hætta á yfirgripsmikilli eyðingu eigna í húsinu, bæði fasteigninni sjálfri og öllu lausafé. Sami matsmaður var fenginn til þess að meta nánar tiltekin atriði varðandi brunann, í fyrsta lagi hversu fljótt frá íkveikju lífi og heilsu manna sem staddir hafi verið á neðri hæð hafi verið hætta búin af völdum reyks, í öðru lagi hversu fljótt lífi og heilsu fólks á neðri hæð hafi verið hætta búin sökum hitageislunar frá eldsvoðanum, í þriðja lagi hvort mögulegt væri að eldur hefði verið kveiktur með beinum hætti í sófanum jafnframt því að kviknað hafi í honum vegna logandi gluggatjalda sem fallið hafi á sófann, í fjórða lagi hvort mögulegt væri að eldur hafi verið kveiktur á fleiri stöðum en í sófanum og í fimmta lagi, ef svarið við þriðju og fjórðu spurningu felur í sér möguleika á að eldur hafi verið kveiktur á fleiri en einum stað, sé óskað eftir mati á því hvaða áhrif það hafi haft á útbreiðslu reyks, hita og elds og þá hversu fljótt frá íkveikju lífi og heilsu manna sem staddir hafi verið á neðri hæð hússins hafi stafað hætta af eldsvoðanum. Svar matsmannsins dagsett 13. apríl sl. við fyrstu spurningu var að aðstæður í stofunni væru orðnar fólki hættulegar á 2-3 mínútum frá íkviknun auk þess sem hitageislun frá reyklaginu sé farið að valda hættu. Svar við annarri spurningu var að fólk í stofunni væri komið í hættu af beinni hitageislun frá eldinum í sófanum eftir um 2 mínútur, en þeir sem séu á ganginum, annars staðar en framan við hurðina, fái ekki á sig teljandi hitageislun nema frá heitu reyklaginu. Svar við þriðju spurningu var að ljóst væri að eldur í gluggatjöldunum sem falli á sófann geti kveikt í honum og mögulegt sé að kveikja í honum með litlum gasloga eins og á venjulegum gaskveikjara. Svar matsmanns við fjórðu spurningu var að hvorki væri hægt að fullyrða að eldur hefði verið kveiktur á fleiri en einum stað né að svo hafi ekki verið gert. Matsmaður svaraði fimmtu spurningu á þann hátt að með því að eldur væri kveiktur í fleiri en einu húsgagni samtímis væri vaxtarhraði brunans heldur hraðari en við bruna eingöngu í þriggja sæta sófanum og mögulega líka í gluggatjöldunum en afltoppur hans yrði ekki teljandi meiri fyrstu mínútur eldsins. Þá taldi matsmaður aðstæður fyrir fólk í stofunni á neðri hæð hússins vera orðnar hættulegar á nær sama tíma, þ.e. 2-3 mínútum frá íkviknun í húsgögnunum. P geðlæknir var fenginn til þess að framkvæma geðrannsókn á ákærða Vigfúsi og er greinargerð hans dagsett 20. desember 2018. Í henni kemur fram að engar vísbendingar hafi komið fram hjá ákærða um einkenni geðrofs, ranghugmynda, rugls eða ofskynjana. Hann sé með lága greind, tornæmur en sé líkast til betur gefinn en nýjasta greindarpróf sýni. Þá hafi lífsstíll síðustu ára tekið sinn toll. Hann hafi engin merki um þunglyndissjúkdóm, kvíðaröskun, geðhvarfasjúkdóm eða eiginlegan geðklofasjúkdóm. Hann greinist með merki um persónuleikaveilu, andfélagslegan persónuleika, mest á fullorðinsárum í kjölfar mikillar áfengisneyslu. Hann sýni einnig snögg geðhrif, sé háður öðrum og sé kvíðinn, hann forðist hluti og geti orðið hvatvís. Meginvandi ákærða sé mikil áfengissýki sem hann hafi algjörlega misst stjórn á, hann sé háður öðrum og láti aðra stjórna sér. Hann sé mjög hræddur við að valda öðrum vandræðum. Hann vilji einn bera alla sök á brunanum og vilji ekki að meðákærða beri neinn skaða af málinu. Þetta sé vegna hins viðkvæma persónuleika hans og hræðslu við hefndaraðgerðir. Þá sé ákærði örugglega sakhæfur. P óskaði eftir mati R, sérfræðings í klínískri sálfræði og réttarsálfræði, á þroska og persónuleika ákærða og í áliti hans dagsettu þann 13. desember 2018 kemur fram að ákærði eigi langa sögu um áfengisvanda, endurtekið þunglyndi og félagskvíða. Saga sé um sjálfsvígshegðun, m.a. hafi hann kveikt í sjálfum sér og öðru til að deyja. Hann skori á tornæmisstigi á greindarprófi og á persónuleikaprófi komi fram vísbendingar um þunglyndi, lágt sjálfsmat og kvíða í félagslegum samskiptum sem hafi valdið honum töluverðri hömlun í lífinu. Einnig komi fram óvenjulegt hegðunarmynstur sem skýrist mest af langvinnum áfengis- og fíkniefnasjúkdómi. Þá séu sterkar vísbendingar um langvinna hæðispersónuleikaröskun (dependent) en ákveðin einkenni jaðarpersónuleikaröskunar (borderline). Hann hafi alltaf verið félagskvíðinn og vegna þroskastöðu, kvíða og annarra þátta þróað með sér persónuleikaröskun sem lýsi sér í því að vera háður öðrum, ósjálfstæður og að leita eftir samþykki annarra. Þá hafi hann sýnt af sér óábyrga og andfélagslega hegðun m.a. með því að vinna ekki, ljúga, stela og neyta fíkniefna og sýnt sjálfskaðandi hegðun án þess að huga að öryggi annarra. Óskað var eftir yfirmati á framangreindu mati og voru S sálfræðingur og T geðlæknir dómkvödd til starfans þann 15. febrúar sl. Yfirmatið er dagsett 4. mars sl. og þar kemur m.a. fram að ákærði hafi snemma trúað því að hann væri einskis virði og hafi hann þróað mörg óhjálpleg bjargráð til að fela þá vissu. Hann hafi snemma farið að ljúga og forðast erfiðar aðstæður. Hann hafi átt erfitt með að setja mörk og það hafi verið auðvelt að stjórna honum. Hann uppfylli einnig viðmið fyrir hæðispersónuleikaröskun og jaðarpersónuleikaröskun. Hann hafi ríka tilhneigingu til að láta aðra annast um sig sem leiði til þess að hann eigi það til að verða undirgefinn og hengja sig á aðra. Hann eigi sögu um að meiða sig, hóta að fyrirfara sér og sjálfsvígstilraunir. Hann hafi brennt sig og skorið viljandi. Hann eigi það til að missa stjórn á skapi sínu og geti orðið reiður út af smámunum. Þó að hann uppfylli ekki viðmið um andfélagslega persónuleikaröskun hafi hann sýnt af sér andfélagslega hegðun án þess að hugsa um öryggi annarra. Að mati yfirmatsmanna er ákærði ekki haldinn neinum þeim atriðum sem talin séu upp í 15. gr. almennra hegningarlaga sem hafi gert hann alls óhæfan að stjórna gerðum sín þann 31. október sl. Þá sé ekkert læknisfræðilegt sem komi í fyrir að refsing geti borið árangur, sbr. 16. gr. sömu laga. Í þinghaldi þann 11. febrúar sl. var U, geð- og embættislæknir dómkvaddur að beiðni verjanda ákærðu DD til að meta  að hvaða marki [...] höfðu áhrif á hæfi hennar til þess að átta sig á og bregðast við hættu af eldsvoða að Kirkjuvegi 18, einnig að meta hugsanleg áhrif [...] á minni hennar af atburðum. Þá var óskað eftir mati á sakhæfi, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga og jafnframt því hvort andleg heilsa hennar standi því í vegi að refsing beri árangur, sbr. 16. gr. sömu laga. Matið er dagsett 24. mars sl. og þar kemur fram að framangreindar lagagreinar eigi ekki við um ákærðu. Þá telur matsmaður að samverkun [...] hafi gert viðbragðsflýti ákærðu það lítinn að þó hún í sjálfu sér viti og hafi vitað hvað ætti að gera hafi hún ekki gert það á verknaðarstundu. Skortur á hugarsnerpu í jafn afgerandi kringumstæðum og eldsvoða hafi án efa dregið úr getu hennar til að bregðast við með tímanlegum og réttum hætti. Framburður ákærðu og vitna fyrir dómi. Ákærði Vigfús skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi vaknað rétt fyrir kl. 8, tekið leigubíl í Krambúðina og fengið sér  kók og sígarettur. Síðan hafi hann farið í bankann og í ríkið kl. 11. Hann kvaðst hafa verið búinn að drekka mikið yfir daginn og var að fikta eitthvað með eld en hann kvaðst ekki alveg vita af hverju. Hann kvaðst hafa verið að kveikja í bjórkassa eða pizzukassa, haft þetta á fótunum á sér og síðan ýtt því frá sér út á gólf þegar komið hafi verið gat á buxurnar og hann hafi brennt sig. Hann kvað minni sitt gloppótt en hann taldi að ekki hefði verið búið að slökkva alveg í þessu, það hafi verið glóð og teppi á gólfinu. Þá hafi gardínurnar náð næstum niður á gólf en þær hafi verið mjög eldfimar. Stofan hafi logað og hafi hann ekki ráðið við neitt. Ákærði hélt að hann hefði setið í minni sófanum í stofunni upp við kommóðuna. Ákærði mundi ekki hvort hann hefði reynt að slökkva eldinn í kassanum. Hann kvaðst hafa dottið út en hann hafi verið búinn að drekka alla daga í eitt og hálft ár og hafi hann því verið illa farinn og haldinn minnisleysi. Ákærði kvaðst muna eftir því að allar gardínurnar hafi logað og hafi eldurinn skriðið strax eftir loftinu og hafi verið orðið mjög heitt. Ákærði kvaðst síðan hafa hringt í 112 þegar hann hafi áttað sig á því að hann myndi ekki ráða við neitt og þegar hann hafi komið út hafi hann áttað sig á því að þarna hefði orðið stórslys. Hann kvaðst hafa séð fljótlega eftir að hann hafi verið kominn út að eldurinn væri kominn fram á gang og eldurinn hafi fljótlega farið út um hurðina. Ákærði kvaðst ekki muna eftir meðákærðu þarna inni en hann kvaðst muna eftir henni þegar þau voru úti. Hann kvað A og B hafa verið uppi á lofti. Þau hefðu verið búin að vera þarna einhverja daga og hafi þau oft lagt sig á daginn. Þau hafi oft farið upp, lagt sig í smástund og komið niður aftur.  Ákærði mundi ekki eftir því að B hafi komið niður og skammað hann fyrir að vera að kveikja eld. Aðspurður hvort hann  hefði aðvarað þau um eldinn kvaðst ákærði ekkert hafa munað eftir þeim þegar hann hafi verið þarna inni en strax þegar hann hafi komið út hafi hann munað eftir þeim og þá hafi hann farið í geðshræringu og óttast að þeim yrði ekki bjargað og húsið myndi algjörlega skemmast. Hann hafi því orðið mjög skelkaður. Ákærði mundi eftir að hafa hitt A og B fyrr um morguninn en þau hafi farið einn og einn dag til Reykjavíkur og gist þar. Ákærði taldi að hefði hann munað eftir þeim hefði hann getað farið upp áður en reykurinn hafi leitað upp, en hann taldi að eftir þrjár til fjórar mínútur hefði allt lokast. Hann kvaðst ekki hafa ætlað að skaða þau og hefði hann munað eftir þeim hefði hann látið þau vita. Hann kvaðst ekki hafa reynt að fara aftur inn í húsið því neðri hæðin hafi öll logað. Ákærði hélt að meðákærða hefði farið út á undan en hann gat ekki staðfest það. Ákærði mundi ekki eftir að hafa kveikt í öðru en kassanum og hann mundi ekki eftir að hafa kveikt í gardínunum en þar sem minni hans hafi ekki verið í lagi gat hann ekki útilokað það. Ákærði kvaðst drekka til þess að deyfa sig eða gleyma einhverju. Hann kvað A og B hafa verið drykkjufélaga, hann hafi kynnst B um sumarið en A hefði hann verið búinn að þekkja í 20 ár. Hann kvað samband hans við A ekki alltaf hafa verið gott, þeir hafi stundum rifist, en þennan dag hafi þeir átt góð samskipti. A hafi verið frekur, hann hafi gengið um eins og hann ætti heima þarna, hann hefi gengið í matinn án þess að biðja um leyfi. Síðasta daginn hafi hann spurt hvort hann mætti fá bjór. Þá hafi þau stolið frá honum um sumarið. Ákærði kvað meðákærðu einnig hafa verið drykkjufélaga og hafi hún verið búin að vera þarna í marga mánuði. Ákærða minnti að hún hefði þennan dag komið í kringum hádegið. Hún hafi oft skammast í honum og kennt honum um ýmislegt. Hann mundi ekki fyrir hvað hún hafi skammað hann þennan dag. Hann kvaðst yfirleitt hafa tekið þessu vel en undanfarið hafi hann verið farinn að svara henni meira. Aðspurður hvers vegna hann hafi verið að fikta með eld kvaðst ákærði ekki vita það. Hann vissi ekki hvort það væri vegna sjúkdóms en þekkt væri að brennuvargar geri þetta í neyslu. Hann kvaðst áður hafa gert þetta, kveikt í sinu fyrir 15 til 20 árum og í borði heim hjá sér á Kirkjuveginum fyrir rúmu ári, en slökkviliðið hefði slökkt þann eld. Ákærði kvað sér átt að hafa verið ljóst að kviknað gæti í húsinu þegar hann var að kveikja í kassanum.  Ákærði kvaðst enga ástæðu hafa haft til að drepa A og B og hafi hann engan ásetning haft til þess, það hafi verið fíflaskapur og vitleysa að kveikja í kassanum á lærunum.  Ákærða DD skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi komið á Kirkjuveg rúmlega tvö umræddan dag, hún hafi sest inn og fengið sér tvo eða þrjá bjóra. Hafi þá eitthvert rifrildi byrjað milli hennar, meðákærða og B inni í stofu, en þetta væri mikið í móðu hjá henni. Hún mundi ekki hvort A hafi verið niðri en B hafi síðan farið upp. Meðákærði hafi byrjað að hóta að kveikja í og hafi hann kveikt í einhverjum pappakassa sem hann hafi verið með í kjöltunni þar sem hann sat á tveggja sæta sófa og hafi kviknað aðeins í buxunum hans. Hann hafi hent kassanum á gólfið og hafi hún hafi slökkt í með því að hella bjór á hann. Hana minnti að hún hefði slökkt alveg í honum en útilokaði ekki að glóð hefði getað verið í honum. Hún kvað meðákærða hafa verið reiðan og hótað að henda henni út og leggja á hana hendur. Hún mundi að meðákærði hafi hótað að kveikja í gardínunni og hafi hann farið með kveikjara að henni og spurt hvort hann ætti að kveikja í en hún kvaðst ekki muna hvort hann hefði kveikt í henni en hún hafi farið á klósettið og verið þar í einhvern tíma. Hún kvaðst þó ekki muna eftir því þegar hún hafi farið inn á klósettið. Þegar hún hafi komið út aftur hafi henni fundist að allt væri fullt af reyk og hafi hún þá strax hlaupið út.  Hafi meðákærði verið fyrir utan að hringja í neyðarlínuna og skömmu eftir að hún hafi verið komin út hafi hurðarkarmurinn byrjað að loga nokkrum sekúndum síðar. Ákærða kvað B hafa vitað af því að meðákærði væri að kveikja í og hafi B öskrað upp á loft til A að meðákærði væri að kveikja í. B hafi síðan farið upp á loft en síðan hafi húsið fuðrað upp. Hún kvaðst hafa beðið meðákærða að fara  upp og bjarga A og B, hann hafi reynt það en komið fljótlega út aftur því hann hafi ekki þolað reykinn. Ákærðu fannst hún ekki hafa haft tíma til að aðvara þau, henni hafi fundist að ekki væri kominn nógu mikill reykur en það fyrsta sem hún hafi hugsað hafi verið að hlaupa út og svo hafi hún hugsað um þau. Hún kvað þau bæði hafa kallað þegar þau voru komin út, rúða hafi brotnað og kvaðst hún hafa haldið að þau hefðu brotið rúðuna og væru að koma sér út. Ákærða var ekki frá því að hún hefði náð að fara upp og láta þau vita ef hún hefði munað eftir þeim þegar hún hljóp út, en þetta væri allt í mikilli móðu hjá henni. Hún kvað þau meðákærða vera drykkjufélaga og hefðu kynnst í gegnum A. Hún kvaðst hafa fengið að vera hjá meðákærða í nokkra mánuði, en hún kvaðst hafa flutt út þegar A og B fluttu inn fyrir um hálfum mánuði. Hafi ástæðan verið eilíf slagsmál og fyllerí milli þeirra allra. Hún kvað samskipti sín við A ekki hafa verið góð en samskiptin við B hafi verið ágæt og hafi henni alls ekki verið illa við hana.  Hún taldi að meðákærði hefði vitað af fólkinu á efri hæðinni þegar hann var að kveikja í kassanum en útilokaði ekki að hann hefði haldið að þau væru farin út. Ákærða kvaðst umræddan dag aðeins hafa verið undir áhrifum áfengis, ekki lyfja.  Hún kvaðst mánuðina áður hafa verið í mikilli neyslu og drykkju og hefði andlegt ástand hennar verið mjög slæmt, hún væri fljót að detta út og fara í black out. Ákærða kvaðst nokkrum mánuðum áður hafa kveikt í sófaborði í húsinu en meðákærði hafi farið með það út. Ú rannsóknarlögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi stýrt rannsókn málsins og verið með þeim fyrstu á vettvang. Hann kvað strax hafa verið vitað að einstaklingar væru innandyra sem hafi taldir vera látnir. Hafi farið af stað sögur um að hugsanlega hefði verið framið morð og íkveikjan hefði verið leið til þess að hylma yfir það. Hafi því verið reynt að vernda efri hæðina þar sem hin látnu voru talin vera í því skyni að vernda sönnunargögn.  Tekið hafi langan tíma að ná tökum á eldinum, mikill hiti hafi verið í húsinu og þá hafi menn verið hræddir við asbestmengun. Tæknideildin hafi síðan komið daginn eftir og skoðað vettvang, en áður hefði slökkvilið komist inn með hitamyndavél og þar hafi verið talið að hin látnu sæjust. Þegar lögreglumenn og sjúkraflutningamenn hefðu komið á vettvang hafi eldurinn verið kominn á það stig að þeir hefðu aldrei getað farið inn í húsið án þess að valda sjálfum sér tjóni.  Vitnið kvaðst ekki hafa rætt við ákærðu, þau hafi verið komin inn í lögreglubifreiðar þegar hann hafi komið á vettvang.  Vitnið J lögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að borist hafi tilkynning um eld í húsi að Kirkjuvegi og hugsanlega væri þar inni einn maður. Vitnið kvaðst hafa farið á vettvang og hafi verið mikill eldur á neðri hæð hússins. Þá hafi verið mikill reykur í öllu húsinu og hafi ákærðu staðið fyrir utan. Hafi ákærða DD talað um að ákærði Vigfús hefði kveikt í og hafi hann verið að monta sig af því við hana að hann hafi verið með eld innandyra. Vitnið kvaðst því hafa handtekið þau bæði og sett þau í sitt hvora lögreglubifreiðina. Hann kvað þau hafa verið óróleg, þau hafi byrjað að rífast og hafi ákærða DD kennt honum um að hafa  kveikt í og hafi hún verið reið við hann út af því. Hafi ákærði Vigfús ekki tekið því illa. Hann kvað ekki hafa verið hægt að fara inn í húsið á þessum tíma og bjarga einhverju fólki. Hann kvaðst ekkert hafa heyrt í fólkinu þegar hann kom á vettvang. Hann kvað ákærða Vigfús ekkert hafa tjáð sig um það sem gerst hefði, en hann hefði frétt frá öðrum lögreglumönnum að hann hefði talað um að hann væri morðingi. Vitnið K lögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi verið með þeim fyrstu á vettvang og hefði neðri hæðin verið alelda og þegar hún hafi stigið út úr bílnum hafi hún heyrt sprengingar og öskur innan úr húsinu, kvenmannsrödd að því er hún taldi. Hafi þá sjúkraflutningamaður sagt henni að tveir einstaklingar væru inni og hafi hún þá farið að framhlið hússins þar sem ákærðu hafi staðið fyrir utan. Hafi ákærða DD kallað á ákærða Vigfús og sagt að hann hefði gert þetta. Hann hafi ekkert sagt en hún hafi sagt að hann væri ógeðslegur morðingi og hrækt á hann. Þau hafi síðan verið handtekin og sett í sitt hvora lögreglubifreiðina. Ákærði Vigfús hafi ítrekað sagt að hann væri morðingi en hann hafi verið í frekar annarlegu ástandi. Þá hafi þau bæði nafngreint þau sem verið hafi inni í  húsinu. Hún kvað að eldur hefði verið það mikill að ekki hefði verið hægt að fara inn í húsið.  Vitnið V sjúkraflutningamaður skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi verið fyrst á vettvang. Hafi húsið verið aldelda, ákærðu fyrir utan og einhver inni í húsinu að banka á gluggann öskrandi. Hún kvað ekki mögulegt að komast inn í húsið, það hafi verið alelda við innganginn í stiganum. Hún kvaðst hafa heyrt nokkur öskur, eitthvað hafi verið barið, en svo hafi það verið búið. Hún kvað ákærðu DD hafa verið mjög reiða við ákærða Vigfús, hún hafi öskrað á hann ýmsum ljótum orðum, hann hafi verið að reyna að hringja og ætlað inn í  húsið. Ákærða DD hafi öskrað að ákærði Vigfús þyrfti að ná í A, hún hafi öskrað að hann væri að drepa þau. Vitnið L lögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi verið með þeim fyrstu á vettvang og hafi hún séð mikinn eld í húsinu og mikinn dökkan reyk. Ákærðu hafi verið fyrir utan öskrandi, maðurinn hafi verið í rifnum buxum og haldið á bjórdós og hafi ráfað um eins og hann hafi ekki vitað hvað væri í gangi en konan hafi staðið og öskrað á hann að hann væri morðingi. Eftir að fleiri hafi komið á vettvang hafi maðurinn farið að spyrja hvað hann hefði gert, hvort hann væri morðingi og hafi hann talað eins og hann hafi vitað af því að fólk væri í húsinu. Vitnið Þ, varðstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi stýrt slökkvistarfi á vettvangi.  Hafi verið mikill eldur á neðri hæð hússins og út um glugga bakvið og hiti í húsinu. Hafi fengist upplýsingar um að fólk væri inni í húsinu en það hafi verið það mikill eldur á neðri hæðinni og hiti sem tekið hafi á móti þeim og mikill reykur að ekki hafi verið mögulegt að senda reykkafara inn. Vitnið O lögreglufulltrúi skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi séð um vettvangsrannsókn og væri niðurstaðan sú að eldsupptök hefðu verið inni í stofu þar sem verið hafi tveir sófar og hafi enginn vafi leikið á því að upptökin hefðu verið í þriggja sæta svampsófa. Ekki hafi kviknað í út frá rafmagni og þá hafi engin eldfýrandi efni fundist á vettvangi.  Vitnið Ó verkfræðingur staðfesti matsgerðir sínar fyrir dómi og skýrði svo að þegar bornar hafi verið saman myndir af húsinu eftir brunann við myndir sem hafi verið til af því fyrir brunann hafi verið auðvelt að átta sig á aðstæðum í húsinu. Hann kvaðst ekki hafa séð ástæðu til að efast um þá niðurstöðu lögreglunnar að um íkveikju af mannavöldum hafi verið að ræða og hafi upptökin verið í stærri sófanum í stofunni. Sést hafi af myndum að mikill eldur hafi verið þar lengi og hafi sófinn virst meira brunninn vinstra megin. Hann kvað engan vafa leika á því að almannahætta hafi stafað af brunanum og mikil hætta á stórfelldu tjóni varðandi líf og líkama og eignatjóni. Hann kvað það taka um eina og hálfa mínútu fyrir brunann að ná taki á sófanum en þegar eldurinn sé kominn í gegnum áklæðið og í svampinn fari þetta að gerast miklu hraðar. Hann taldi að ekki væri hægt að haldast við í stofunni lengur en í tvær til þrjár mínútur, en eftir aðstæðum gætu það verið ein og hálf til fjórar. Þegar eldur sé kominn í sófann sé hitageislunin orðin það mikil að óbærilegt sé að vera þar nema í nokkurra metra fjarlægð. Reykurinn liggi við loftið og sé hægt að komast undir hann í nokkrar mínútur með því að skríða. Hann kvað það gríðarlega einstaklingsbundið hvenær fólk upplifi hættuna af reyk og hafi prófanir sýnt að í um 10% tilvika fari fólk að snúa við. Reykurinn hafi farið léttustu leiðina, þ.e. upp stigann á móti þeim sem eru að fara niður og þá sé miklu meiri tilhneiging til þess að snúa við og sé tímarúmið tvær til þrjár mínútur. Hann gat ekki sagt til um það hvort útidyrahurðin hefði verið opin frá upphafi brunans eða að ákærðu hefðu skilið hana eftir opna. Hann kvaðst hafa gengið út frá því sem kæmi fram í gögnum málsins að kveikt hefði verið í pizzukössum og síðan í gardínum. Hann taldi að væri einhver búinn að loka að sér inni á baði tæki það smá stund fyrir viðkomandi að verða var við að eldur væri í stofunum en í svona litlu húsi sæist þetta mjög fljótt. Hann kvað gardínur úr gerviefnum bráðna við hita og eiga mjög auðvelt með að kveikja í því sem sé undir. Hann taldi ekki mögulegt að verulegur eldur hefði verið kominn í sófann innan einnar mínútu. Vitnið M réttarmeinafræðingur gaf símaskýrslu fyrir dómi og staðfesti niðurstöður sínar varðandi dánarorsök þeirra A og B, þau hafi bæði látist af völdum kolmónoxíðs eitrunar sem var afleiðing þess að anda að sér reykgufum. Krufning hafi leitt í ljós að þau hafi bæði verið á lífi meðan eldurinn geisaði og hafi þau verið fær um að vera á ferli í húsinu. Þau hafi bæði neytt lyfja sem hafi slævandi og róandi áhrif og hefðu því getað dregið úr meðvitund þeirra og kynni það að hafa leitt til þess að þau hefðu síðar orðið eldsins vör en sá sem ekki hefði neytt slíkra lyfja. Magnið hafi þó ekki verið það hátt að líta megi á það sem eitrun.  Vitnið taldi að B hefði látist 8-10 mínútum eftir að hún hafi byrjað að anda að sér kolmónoxíði en A hefði látist eftir 3-8 mínútur. Vitnið N læknir gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti læknisvottorð sín. Hann kvað ákærða Vigfús hafa verið með brunaáverka frekar innarlega á báðum lærum. Þá hafi hann verið með klór eða hrufl á bakinu og hrufl á hnúum, en hann hafi sagst hafa kýlt í vegg. Þá hafi ákærða DD verið með hrufl á framhandlegg. Þá kvaðst hann hafa skoðað lík þeirra A og B og hafi hann talið að þau hefðu látist af völdum eitraðra lofttegunda en engir áverkar hafi verið á þeim. Vitnið Æ skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi umræddan dag verið í símasamskiptum við A. Hann hafi verið að sækjast eftir því að fá pillur frá einhverjum manni sem hann hafi ekki mátt tala við sjálfur. Hann kvaðst síðan hafa farið á hjóli til að hitta A, en húsið hafi verið í ljósum logum þegar hann hafi komið. Vitnið kvað greinilegt að ákærði Vigfús réði engu heima hjá sér, ákærða DD hefði verið að hóta honum með sonum sínum og fengið hann til að gera hitt og þetta. Hann vissi ekki hvernig samskipti ákærða Vigfúsar voru við A og B en hann taldi að ákærði hefði viljað hafa þau öðru vísi, hann hafi litlu um þau ráðið. Vitnið Ö skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi þekkt bæði ákærðu og hin látnu. Hann kvaðst hafa verið mikið á heimilinu en hann hafi eiginlega verið hættur að fara þangað, hann hafi verið að reyna að ná sér á strik og koma sér út úr þessum geira. Hann kvað B og ákærðu DD umræddan dag hafa verið í samskiptum við hann í þeim tilgangi að útvega þeim dóp, en hann kvaðst hafa reynt að koma sér undan því. Hann kvaðst oft hafa orðið vitni að því að ákærða DD hafi fyrir nokkrum mánuðum talað um að kveikja í húsinu en það hafi verið meira í djóki en annað.  Hann kvað ákærða Vigfús hafa verið eins og í gíslingu gagnvart ákærðu DD á heimili sínu. Ef hann gerði ekki það sem hún hafi beðið hann um hafi hún alltaf hótað syninum á hann. Vitnið AA skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið á leið framhjá húsinu að Kirkjuvegi þegar hann hafi séð að kviknað hafði í því. Hann kvaðst hafa séð konu fyrir utan og síðan hafi hann séð mann koma hlaupandi út úr húsinu. Hann kvaðst hafa tekið mynd af húsinu og síðan gengið áfram.   Vitnið P geðlæknir staðfesti matsgerð sína fyrir dómi og skýrði svo frá að ekkert hefði bent til ósakhæfis ákærða Vigfúsar. Það sem hafi stungið í stúf sé tveggja ára gríðarleg áfengisneysla, fram að því hafi ákærði unnið mjög vel en missi þráðinn og verði mjög sveiflóttur á geði og líði illa í aðdraganda atburðarins. Hann hafi verið efins um alla atburðarásina en engin spurning um það að hann hafi kveikt í. Það sem einkenni ákærða sé að hann vilji engum gera illt og taki hann á sig alla ábyrgð á þessu.  Hann hafi lýst því mjög vel að hann hafi kveikt í pizzukössum en hann hafi einnig lýst því að hann hafi kveikt í gardínunum, en meiri efi hafi verið um það hjá honum. Hann gæti hafa verið í hálfgerðu óminnisástandi vegna áfengisáhrifa, hann hafi munað slitrur en ekki alla atburðarásina. Vitnið staðfesti að ákærði væri haldinn hæðispersónuleikaröskun sem lýsi sér í því að maður eigi erfitt með að standa gegn vilja og orðum, kannski áskorunum annarra. Þá hafi þetta komið fram með því að hann hafi leyft fólki að vera heima hjá honum sem sé í vafasömum viðskiptum, en hann hafi átt erfitt með að segja nei við fólk. Hann láti margt yfir sig ganga og sé þetta eitthvað sem hann hefði átt að glíma við miklu fyrr. Vitnið kvaðst hafa farið að velta því fyrir sér hvort hann væri einn að taka á sig alla sök, en engin spurning sé að þarna hafi gerst atburður sem hann sé að einhverju leyti valdur að. Þá hafi skinið í gegn að hann hafi ekki viljað koma meðákærðu í klandur, hann hafi viljað taka alla sök á sig. Þá hafi hann verið hræddur við hefndaraðgerðir. Hann kvað ákærða vera með óstöðugleika í persónuleika sínum, svokallaða borderline þætti, en þegar slíku fólki líði illa vilji það skaða sig, í þessu tilviki brenna sig. Hann hafi líka skorið sig áður og hafi þetta verið einhvers konar aðferð sálarinnar til að fá útrás fyrir vonda líðan. Vitnið T geðlæknir kom fyrir dóm og staðfesti yfirmatsskýrslu vegna ákærða Vigfúsar. Hann kvað niðurstöðuna vera þá að ákærði Vigfús væri ekki haldinn neinum þeim atriðum sem talin séu upp í 15. gr. almennra hegningarlaga og sé hann því sakhæfur. Þá bendi ekkert til þess að refsing komi ekki að notum. Ákærði hafi verið undir verulegum áfengisáhrifum og hafi hann átt við áralangt áfengisvandamál að stríða. Þá komi önnur atriði inn, langvarandi vanmáttarkennd og þunglyndi, lág greind sem hafi háð honum allt sitt líf. Þá sé hann í alvarlegri geðlægð og haldinn áfallastreituröskun, hæðispersónuleikaröskun og jaðarpersónuleikaröskun. Þá sé hann með langvarandi vanmetakennd, þunglyndiseinkenni og sjálfsvígshugmyndir.  Ekkert hafi bent til þess að hann væri með geðrofseinkenni.  Hann kvað ákærða hafa lagt á það áherslu að hann bæri einn ábyrgð á því sem hefði gerst. Vitnið S sálfræðingur kom fyrir dóm og staðfesti yfirmatsgerð. Það hafi verið niðurstaðan að ákærði Vigfús væri sakhæfur og að refsing gæti borið árangur. Þá hafi hann greinst með hæðispersónuleikaröskun. Vitnið R sálfræðingur staðfesti aðkomu sína að máli þessu og skýrði svo frá fyrir dómi að ákærði Vigfús hafi mælst á tornæmisstigi sem hafi haft áhrif á skilning hans og getu til að eiga samskipti við fólk. Þá sé hann haldinn hæðispersónuleikaröskun og eigi til sjálfskaðahegðun.  Hann kvað ákærða hafa viljað ræða atvikið og hafi komið fram hjá honum að hann hafi verið með sjálfsvígshugsanir og hafi hann verið að kveikja í pizzukössum og sett þá á lærið á sér. Hann hafi síðan ekkert ráðið við eldinn. Vitnið U geðlæknir staðfesti matsgerð sína og skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að ekkert benti til þess að refsing gagnvart ákærðu DD myndi ekki bera árangur. Hún hefði góðan skilning á umræddum atburðum og nú sé heilsa hennar og þroski með þeim hætti að refsing myndi bera árangur. Hún hafi verið áfengis- og vímuefnasjúklingur frá unglingsárum með örstuttum hléum og á köflum með alvarleg þunglyndis- og geðrofseinkenni. Hann taldi því viðbragðsflýti og snerpu ákærðu til þess að bregðast af skynsemi við umræddum atburði skerta miðað við fólk í besta ástandi. Þá hafi áfengisáhrif hennar gert það að verkum til viðbótar við þann kvíða sem sé hamlandi fyrir ákærðu að snerpa hennar minnkar enn verulega.  Honum fannst frásögn ákærðu vera trúverðug, hún hafi ekkert verið að fegra sig og hafi hún sagt frá eins og þetta hafi blasað við henni. Vitnið BB skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi séð að kviknað hafi í á Kirkjuveginum og kvaðst hann hafa farið að vettvangi og rætt við ákærða Vigfús sem hafi verið kominn inn í lögreglubifreið. Hann kvað ákærða hafa tjáð sér að pizzukassi hefði dottið á gólfið og hefði verið eldur í honum. Hann kvað þá vera æskufélaga og þekkti hann því ansi vel. Hann kvaðst aldrei hafa orðið var við ofbeldishneigð hjá ákærða en eftir að farið hafi að síga á ógæfuhliðina hjá honum hafi hann orðið svolítið eftirgefanlegur við sig og aðra.  Vitnið CC yfirlögregluþjónn skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi fengið símtal frá aðila sem ekki hafi viljað láta nafns síns getið og hafi hann sagt að hann hefði verið staddur í húsi í júní eða júlí þetta sama ár og þar hafi hann heyrt ákærðu DD hafa uppi mjög stór orð um hversu reið hún væri B fyrir að hafa tekið A af sér og hafi hún lýst því að hún vildi hana feiga. Hafi hún frekar sagt að hún hafi viljað að hún dræpist en að hún ætlaði að drepa hana. Hafi þeim sem á hlýddu verið verulega brugðið. Hafi þessi aðili tjáð vitninu að honum væri veruleg hætta búin og eftir að hafa hugleitt það gat vitnið fallist á það og taldi rétt að upplýsa ekki um nafn vitnisins. Hafi aðilinn sagt að ef hann gæfi skýrslu undir nafni myndu aðilar tengdir ákærðu DD valda honum skaða.   Niðurstaða.                 Í máli þessu er ákærða Vigfúsi gefin að sök brenna og manndráp en til vara brenna og manndráp af gáleysi með því að hafa valdið eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu að Kirkjuvegi 18 á Selfossi, vitandi af A og B á efri hæð hússins, en þau létust bæði af völdum kolmónoxíðeitrunar. Þá er honum gefið að sök að gera enga tilraun til að aðvara þau um eldinn eða koma þeim til bjargar, allt eins og nánar er rakið í ákæru. Ákærðu DD er gefið að sök almannahættubrot með því að hafa látið hjá líða að gera það sem í hennar valdi stóð til að vara við eldsvoða, en hún hafi enga tilraun gert til að aðvara A og B áður en hún yfirgaf húsið af völdum eldsins. Ákærðu neita bæði sök. Samkvæmt gögnum málsins voru ákærðu bæði undir verulegum áfengisáhrifum við handtöku, en önnur efni mældust ekki í sýnum sem tekin voru af þeim. Fram kemur í lögregluskýrslu að ákærða DD hafi á vettvangi öskrað stanslaust á meðákærða: „Þú gerðir þetta, morðinginn þinn“ og þá hafi hún hrækt á hann. Þá kemur fram að ákærði Vigfús hafi sagt að hann væri morðingi, hann væri með mannslíf á samviskunni. Þá hafi hann spurt hvort hann væri morðingi og hvort þau væru lifandi. Ákærði skýrði svo frá hjá lögreglu að hann teldi að kviknað hefði í gardínu inni í stofu  en hann hafi verið búinn að reyna að kveikja í pappa á sjálfum sér en slökkt í honum og hélt hann að hann hefði látið pappann á gólfið en mundi það ekki. Hann hélt að meðákærða hefði verið inni í stofu en mundi ekki hvort hún hefði beðið hann um að slökkva í kassanum. Hann kvað eldinn  hafa magnast og hann hafi ekki ráðið við neitt, orðið stjarfur og gleymt því að aðrir væru í húsinu. Hann kvaðst ekki hafa munað hvar meðákærða hafi verið fyrr en hann hafi séð hana úti eftir að eldurinn hafi verið kominn upp. Í skýrslu AA fyrir dómi kom fram að hann hafi séð konu fyrir utan húsið og síðan hafi hann séð mann koma hlaupandi út úr því. Ákærða DD skýrði svo frá hjá lögreglu að hún og meðákærði hafi verið að drekka bjór og hafi meðákærði verið að kveikja í öllu í stofunni, gardínum og pappakössum og fötunum sínum og kvaðst hún tvisvar hafa slökkt í með því að hella bjór yfir kassana. Hafi A og B verið uppi og hafi B verið búin að koma niður og sagt honum að hætta. Hafi ákærða farið á klósettið og ekki muna eftir neinu fyrr en hún hafi vaknað og hafi allt verið í reyk. Ákærði Vigfús hefur fyrir dómi viðurkennt að hafa verið að fikta eitthvað með eld en hann kvaðst ekki alveg vita af hverju. Hann kvaðst hafa verið að kveikja í bjórkassa eða pizzukassa, haft þetta á fótunum á sér og síðan ýtt því frá sér út á gólf þegar komið hafi verið gat á buxurnar og hann hafi brennt sig. Hann taldi að ekki hefði verið búið að slökkva alveg í þessu, það hafi verið glóð og teppi á gólfinu. Hann mundi ekki eftir því að hafa kveikt í gardínunum en útilokaði það ekki. Hann kvaðst muna eftir því að allar gardínurnar hafi logað og hafi eldurinn skriðið strax eftir loftinu og hafi verið orðið mjög heitt. Hann kvaðst ekki hafa munað eftir þeim A og B fyrr en  hann hafi verið kominn út úr húsinu. Hann taldi að hefði hann munað eftir þeim hefði hann getað farið upp áður en reykurinn hafi leitað upp. Hann hafi ekki reynt að fara aftur inn í húsið því neðri hæðin hafi öll logað.  Ákærða DD hefur fyrir dómi skýrt svo frá að meðákærði hafi verið að hóta að kveikja í og hafi hann kveikt í pappakassa sem hann hafi verið með í kjöltunni.  Hann hafi hent kassanum á gólfið og hafi hún hafi slökkt í með því að hella bjór á hann. Hún kvað meðákærða hafa hótað að kveikja í gardínunni og hafi hann farið með kveikjara að henni og spurt hvort hann ætti að kveikja í en hún kvaðst ekki muna hvort hann hefði kveikt í henni. Kvaðst ákærða muna að hafa verið inni á klósetti, en hún kvaðst þó ekki muna eftir því þegar hún fór þangað inn. Þegar hún hafi komið út aftur hafi henni fundist að allt væri fullt af reyk og hafi hún þá strax hlaupið út.  Ákærða kvað B hafa vitað af því að meðákærði væri að kveikja í og hafi B öskrað upp á loft til A að meðákærði væri að kveikja í. B hafi síðan farið upp á loft en síðan hafi húsið fuðrað upp. Hún kvaðst hafa beðið meðákærða að fara upp og bjarga A og B, hann hafi reynt það en komið fljótlega út aftur því hann hafi ekki þolað reykinn.  Ákærða var ekki frá því að hún hefði náð að fara upp og láta þau vita ef hún hefði munað eftir þeim þegar hún hljóp út, en þetta væri allt í mikilli móðu hjá henni.  Hún taldi að meðákærði hefði vitað af fólkinu á efri hæðinni þegar hann var að kveikja í kassanum en útilokaði ekki að hann hefði haldið að þau væru farin út.  Ákærðu eru ein til frásagnar um það sem gerðist í aðdraganda þess að eldur kviknaði í húsinu. Þeim ber saman um að ákærði hafi verið að fikta með eld með því að kveikja í pappakössum í kjöltu sinni. Ákærði Vigfús hefur kannast við að hafa hent logandi kassa á gólfið og þá hefur ákærða DD borið að meðákærði hafi verið að hóta að kveikja í gardínum og borið kveikjara að þeim, en ákærði Vigfús kveðst ekki muna eftir því. Rannsókn málsins hefur leitt í ljós að orsök brunans var íkveikja í stofunni þar sem ákærðu voru og hefur verið útilokað að kviknað hafi í af völdum rafmagns eða eldhvetjandi efna. Að mati Ó verkfræðings leikur enginn vafi á því að almannahætta hafi stafað af brunanum og mikil hætta á stórfelldu tjóni varðandi líf og líkama og eignatjóni. Samkvæmt framansögðu er því sannað að ákærða Vigfúsi hafi mátt vera þetta ljóst og hefur hann því gerst sekur um brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga. Kemur þá til skoðunar hvort ákærði Vigfús hafi með þeirri háttsemi sinni, sem samkvæmt framansögðu er sönnuð, gerst sekur um manndráp eða manndráp af gáleysi. Ekki er um það deilt í máli þessu að þau A og B létust af völdum eldsvoða sem ákærði ber ábyrgð á. Ekkert er fram komið í máli þessu sem bendir til þess að beinn ásetningur ákærða hafi staðið til að bana þeim en fyrir dómi skýrði ákærði svo frá að honum hefði átt að hafa verið ljóst að kviknað gæti í húsinu þegar hann var að kveikja í kassanum. Fram kemur í matsgerðum að ákærði hafi glímt við sjálfsvígshuganir og þá ætti hann til sjálfskaðahegðun. Þá hafi hann áður brennt sig og skorið viljandi. Er því ekki loku fyrir það skotið að ásetningur ákærða hafi einvörðungu staðið til þess að skaða sjálfan sig en ekki aðra sem í húsinu voru. Allt að einu bar ákærða að sjá til þess að ekki gæti kviknað í út frá pappakassa þeim sem sannað verður að telja að hann hafi hent frá sér á gólfið. Þar sem ákærði lét þetta undir höfuð leggjast leiddi þetta gáleysi ákærða til þess að tvær manneskjur létu lífið í eldsvoða sem hann ber einn ábyrgð á. Þá verður að telja sannað að ákærði hafi enga tilraun gert til þess að aðvara A og B um eldinn og er sú vörn hans að hann hafi gleymt að þau væru í húsinu haldlaus. Hefur ákærði því með þessari háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 215. gr. almennra hegningarlaga. Ákærðu DD er eins og að framan greinir gefið að sök að hafa brotið gegn 169. gr. almennra hegningarlaga, en samkvæmt þeirri lagagrein skal sá maður sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári, sem lætur hjá líða að gera það, sem í  hans valdi stendur, til þess að vara við eða afstýra m.a eldsvoða eða þess háttar óförum, sem mönnum eða miklum verðmætum er búinn háski af, enda hefði hann getað gert það án þess að stofna verulegum hagsmunum sínum eða annarra í hættu. Eins og að framan er rakið kvað ákærða B hafa vitað af því að meðákærði væri að kveikja í og kveður hún B hafa látið A vita af því. Hafi B síðan farið upp á loft en síðan hafi húsið fuðrað upp. Ákærða er ein til frásagnar um þetta en meðákærði kvaðst  ekki muna eftir því að B hafi komið niður og skammað hann fyrir að vera að kveikja eld. Þá er ekki hægt að hafna þeim framburði ákærðu að hún hafi beðið meðákærða að fara upp og bjarga A og B. Með hliðsjón af skýrslu Ó er ljóst að eftir örfáar mínútur hafi eldur og reykur verið orðinn það mikill í húsinu að ekki reyndist unnt að fara upp á efri hæð þar sem þau A og B voru í þeim tilgangi að bjarga þeim. Þegar allt framanritað er virt verður að telja ósannað að ákærða DD hafi gerst sek um þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru og verður hún því sýknuð af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu og bótakröfum á hendur henni vísað frá dómi. Samkvæmt sakavottorði ákærða Vigfúsar sættist hann á sektargreiðslu og sviptingu ökuréttar fyrir ölvun við akstur árið 2009. Samkvæmt gögnum málsins leikur enginn vafi á sakhæfi ákærða Vigfúsar og hefur hann með framangreindri háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga frá refsivistinni með fullri dagatölu gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 1. nóvember 2018. Synir B heitinnar, þeir C, E og H og foreldrar hennar, F og G krefjast hvert um sig miskabóta úr hendi ákærða Vigfúsar og nemur krafa hvers sonar um sig 5.000.000 króna auk vaxta og miskabótakrafa foreldra hennar hvors um sig nemur 4.000.000 króna auk vaxta. Þar að auki krefst E þess að ákærða Vigfúsi verði gert að greiða honum 1.268.123 krónur auk vaxta vegna missis framfæranda, sbr. 12. gr., sbr. 14. gr. skaðabótalaga og 796.032 krónur auk vaxta í bætur vegna missis framfæranda skv. 12. gr. laganna frá 18 til 20 ára aldri vegna náms. Þá krefst G þess að ákærða Vigfúsi verði gert að greiða henni 364.650 krónur auk vaxta í útfararkostnað skv. 12. gr. skaðabótalaga. Foreldrar A heitins, þau I og Í, krefjast miskabóta úr hendi ákærða Vigfúsar og nemur krafa hvors þeirra um sig 5.000.000 króna auk vaxta. Þá krefst I þess að ákærða Vigfúsi verði gert að greiða henni 1.808.779 krónur auk vaxta í útfararkostnað skv. 12. gr. skaðabótalaga. Allir framangreindir bótakrefjendur hafa notið aðstoðar skipaðra réttargæslumanna við gerð bótakrafna og meðferð þeirra fyrir dómi og er krafist þóknunar þeim til handa í samræmi við tímaskýrslur þeirra. Brotaþolar byggja allir á því að ákærði Vigfús hafi valdið þeim skaðabótaskyldum miska sem honum beri að bæta þeim samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Ákærði Vigfús hefur í máli þessu verið fundinn sekur um að hafa valdið dauða þeirra B, móður C, E og H og dóttur F og G og A, sonar I og Í. Þessi háttsemi ákærða og afleiðingar hennar var til þess fallin að valda brotaþolum miska í skilningi 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Verður að telja að miski brotaþola hafi verið mikill og þykja miskabætur til sona B og foreldra A hæfilega ákveðnar 3.000.000 króna til hvers um sig og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir. Þá verður ákærða gert að greiða E samtals 2.064.155 krónur vegna missis framfæranda ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir. Ákærða verður einnig gert að greiða G útfararkostnað eins og hún hefur krafist og með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Miskabætur til foreldra B þykja hæfilega ákveðnar 2.000.000 króna til hvors um sig og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir. Þá verður ákærða gert að greiða I 1.808.779 krónur í útfararkostnað auk vaxta eins og í dómsorði greinir. Samkvæmt gögnum málsins voru ákærða Vigfúsi kynntar kröfur annarra brotaþola en foreldra A við þingfestingu málsins þann 24. janúar sl., en kröfur þeirra voru birtar ákærða við þingfestingu framhaldsákæru þann 11. febrúar sl. Þá ber með vísan til 1. mgr. 233. gr., sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008  um meðferð sakamála að dæma ákærða Vigfús til greiðslu alls þess sakarkostnaðar sem hann varðar í máli þessu, þar með talinn útlagðan kostnað samkvæmt yfirliti lögreglu, samtals 4.106.338 krónur og hefur þá verið dreginn frá sá kostnaður sem til féll vegna ákærðu DD og greiðist hann úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 235. gr. sömu laga. Þá verður ákærða Vigfúsi gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Óskars Sigurðssonar lögmanns, sem með hliðsjón af tímaskýrslu lögmannsins og eðlis og umfangs málsins þykir hæfilega ákveðin 4.000.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 35.900 krónur.  Með vísan til 2. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 ber að greiða sakarkostnað vegna ákærðu DD úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hennar, Guðna Jóseps Einarssonar lögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 3.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 103.024 krónur. Ákærða Vigfúsi verður einnig gert að greiða þóknun skipaðra réttargæslumanna allra brotaþola, þeirra Arnars Inga Ingvarssonar lögmanns, réttargæslumanns C, E og H, 1.900.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 89.320 krónur, Ívars Þórs Jóhannssonar lögmanns, réttargæslumanns F og G, 1.400.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og Sigurðar Sigurjónssonar lögmanns, réttargæslumanns I og Í, 1.070.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.    Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari flutti mál þetta af hálfu ákæruvaldsins. Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsorð: Ákærði, Vigfús Ólafsson, sæti fangelsi í 5 ár. Frá refsivistinni skal draga með fullri dagatölu gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 1. nóvember 2018. Ákærða, DD, skal vera sýkn af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu og er bótakröfum á hendur henni vísað frá dómi. Ákærði Vigfús greiði eftirtöldum bætur: C, kt. [...], 3.000.000 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. október 2018, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga af þeirri fjárhæð frá 24. febrúar 2019 til greiðsludags.  D, kt. [...], fyrir hönd ófjárráða sonar hans, E, kt. [...], samtals 5.064.155 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 3.000.000 krónum frá 31. október 2018, og með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 2.064.155 krónum frá 31. október 2018, hvort tveggja til 24. febrúar 2019, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 5.064.155 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  F, kt. [...], 2.000.000 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. október 2018, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af þeirri fjárhæð frá 24. febrúar 2019 til greiðsludags.  G, kt. [...], 2.364.650 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 2.000.000 krónum frá 31. október 2018, og með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 364.650 krónum frá 13. nóvember 2018, hvort tveggja til 24. febrúar 2019, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 2.364.650 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  H, kt. [...], 3.000.000 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. október 2018, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga af þeirri fjárhæð frá 24. febrúar 2019 til greiðsludags.  I, kt. [...], 4.808.773 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá tjónsdegi til 11. mars 2019 og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, samanber 6. gr. sömu laga.  Í, kt. [...], 3.000.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá tjónsdegi til 11. mars 2019 og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, samanber 6. gr. sömu laga.  Ákærði Vigfús greiði allan sakarkostnað sem hann varðar í máli þessu, þar með talinn útlagðan kostnað samkvæmt yfirliti lögreglu, samtals 4.106.338 krónur. Þá greiði  ákærði Vigfús málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Óskars Sigurðssonar lögmanns, 4.000.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 35.900 krónur.  Ákærði Vigfús greiði einnig þóknun skipaðra réttargæslumanna allra brotaþola, þeirra Arnars Inga Ingvarssonar lögmanns, réttargæslumanns C, E og H, 1.900.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 89.320 krónur, Ívars Þórs Jóhannssonar lögmanns, réttargæslumanns F og G, 1.400.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og Sigurðar Sigurjónssonar lögmanns, réttargæslumanns I og Í, 1.070.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Allur sakarkostnaður vegna ákærðu DD greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hennar, Guðna Jóseps Einarssonar lögmanns, 3.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 103.024 krónur.
Mál nr. 51/2019
Viðskiptabréf Skuldabréf Skuldaraskipti Kröfuhafaskipti Tómlæti Skipting sakarefnis
Ágreiningur aðila laut að því hvort A ehf. bæri greiðsluskyldu gagnvart L ehf. vegna ofgreiddra vaxta af skuldabréfi, sem S ehf. hafði upprunalega gefið út til D hf., en A ehf. síðar eignast og L ehf. tekið að sér greiðslu með skuldskeytingu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að við framsal viðskiptabréfa væri gerð undantekning frá þeirri meginreglu kröfuréttar við kröfuhafaskipti að framsalshafi öðlist ekki betri rétt á hendur skuldara en framseljandi átti. Skuldari viðskiptabréfs geti þannig glatað mótbáru gegn grandlausum framsalshafa, ef hún kemur ekki fram á bréfinu, en markmið reglunnar er að auðvelda viðskipti með viðskiptabréf og gera réttarstöðu framsalshafa tryggari en almennar reglur kröfuréttarins mæla fyrir um. Í ljósi þess að reglurnar um viðskiptabréf fela í sér veruleg frávik frá almennum reglum verði að gera þann áskilnað að ótvírætt sé að krafa sé viðskiptabréfskrafa. Taldi Hæstiréttur að til þess að þessu skilyrði væri fullnægt hefði hinn nýi skuldari þurft að lýsa því yfir einhliða og skilyrðislaust að hann lofaði að greiða kröfuna og hefði sú skriflega yfirlýsing þurft að koma fram á bréfinu sjálfu til þess að það gæti talist skuldabréf eftir skuldaraskiptin. Var ekki talið nóg að L ehf. hafi undirritað sérstaka yfirlýsingu á öðru skjali þess efnis að hann gengist undir öll ákvæði viðkomandi bréfs og skuldbindingar samkvæmt því. Af þessum sökum var talið að krafan hafi breyst við skuldaraskiptin úr því að vera krafa samkvæmt viðskiptabréfi í almenna fjárkröfu. Var L ehf. því ekki talinn hafa glatað mótbárum við framsal kröfunnar og gat þar af leiðandi haft uppi frekari kröfur vegna ofgreiðslu vaxta af skuldabréfinu gagnvart A ehf.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. nóvember 2019. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar á öllum dómstigum. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Mál þetta lýtur að því hvort áfrýjandi sé greiðsluskyldur gagnvart stefnda vegna ofgreiðslna á grundvelli skuldabréfs útgefnu af Suðurhlíð ehf. 10. nóvember 2010 til Dróma hf. en það skuldabréf kom í stað fyrra skuldabréfs sem útgefið var 28. desember 2007 af Suðurhlíð ehf. til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. Síðarnefnda bréfið var ólögmætt gengistryggt lán sem greiddist upp með hinu nýja skuldabréfi. Með skilmálabreytingu 15. janúar 2012 var höfuðstóll nýja skuldabréfsins lækkaður úr 11.843.004 krónum í 5.394.595 krónur  í samræmi við endurútreikning á grundvelli 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefndi tók að sér greiðslu skuldarinnar með skuldskeytingu 18. febrúar 2014 og hefur greitt hana að fullu. Telur hann að samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar um þýðingu fullnaðarkvittana við greiðslu lána sem bundin voru ólögmætri gengistryggingu hafi verið óheimilt að krefja skuldara um vexti aftur í tímann með þeim hætti sem hér hafi verið gert. Nemur krafa stefnda þeirri fjárhæð sem hann telur hafa verið ofgreidda. Sakarefni málsins var skipt þannig að einungis er nú til umfjöllunar krafa stefnda um viðurkenningu á greiðsluskyldu áfrýjanda gagnvart sér. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2018 var áfrýjandi sýknaður af endurgreiðslukröfu stefnda með vísan til aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í hinum áfrýjaða dómi var komist að gagnstæðri niðurstöðu og viðurkennt að áfrýjandi væri greiðsluskyldur gagnvart stefnda. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að í málinu reyni á álitaefni varðandi túlkun viðskiptabréfsreglna. II Suðurhlíð ehf. gaf út skuldabréf til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 28. desember 2007 að jafnvirði 5.000.000 króna, en lánið var til helminga í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Til tryggingar skuldinni var fasteign stefnda að Gagnheiði 59 í Árborg sett að veði með 1. veðrétti. Með skilmálabreytingum 30. mars 2008 og 6. nóvember 2009 var endurgreiðslu lánsins frestað. Fjármálaeftirlitið tók þá ákvörðun 21. mars 2009 að víkja stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá og skipaði skilanefnd yfir sjóðinn. Á grundvelli ákvörðunarinnar stofnaði bráðabirgðastjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hlutafélagið Dróma sem samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins tók við öllum eignum og tryggingaréttindum sparisjóðsins. Suðurhlíð ehf. gaf út nýtt veðskuldabréf 10. nóvember 2010 til Dróma hf. að fjárhæð 11.843.004 krónur með 1. veðrétti í fyrrgreindri fasteign stefnda. Skuldabréfið kom í stað skuldabréfsins 28. desember 2007 sem taldist uppgreitt að fullu með hinu nýja skuldabréfi. Skilmálum nýja skuldabréfsins var breytt 13. janúar 2012 á þeim grunni að hið fyrra skuldabréf hefði verið ólögmætt gengistryggt lán og var lánið endurreiknað í samræmi við 18. gr. laga nr. 38/2001 og höfuðstóllinn lækkaður úr 11.843.004 krónum í 5.394.595 krónur. Var skuldabréfið áritað um þessa skilmálabreytingu og vísað til hennar sem viðauka vegna erlends láns. Með yfirlýsingu um skuldaraskipti og endurskoðun vaxtakjara 18. febrúar 2012 tók stefndi að sér greiðslu skuldarinnar samkvæmt skuldabréfinu 10. nóvember 2010 frá og með gjalddaga þess 1. mars 2012. Skuldaraskiptin voru samþykkt af Arion Banka hf. fyrir hönd kröfueigandans Dróma hf. og var áritað um þau á skuldabréfið. Þá sagði í yfirlýsingu Arion banka hf. að hann staðfesti fyrir hönd kröfueiganda „að fyrirvari um betri rétt skuldara framselst með kröfunni til Línulagna ehf.“ Drómi hf. framseldi svo skuldabréfið til Hildu ehf. 31. desember 2013 sem síðan framseldi það áfrýjanda 31. ágúst 2016. Með bréfi 30. september 2015 til Hildu ehf., þáverandi eiganda bréfsins, óskaði stefndi þess að lánið yrði endurreiknað í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar um gildi fullnaðarkvittana við greiðslu ólögmætra gengistryggðra lána. Með tölvubréfi 22. desember sama ár hafnaði Hilda ehf. þeirri ósk stefnda. Eftir að áfrýjandi hafði eignast umdeilt skuldabréf fékk stefndi löggiltan endurskoðanda til að endurreikna lánið og í samræmi við niðurstöðu hans greiddi hann áfrýjanda 1.417.714 krónur 10. janúar 2017 og skoraði á áfrýjanda með tölvubréfi 6. febrúar sama ár að afhenda frumrit skuldabréfsins til aflýsingar af fasteigninni að Gagnheiði 59. Áfrýjandi varð ekki við því og greiddi stefndi eftirstöðvar kröfunnar 21. mars 2017 með fyrirvara um réttmæti greiðsluskyldu. Með bréfi 6. apríl 2017 krafði stefndi áfrýjanda um það sem hann taldi ofgreitt af kröfunni að fjárhæð 2.888.215 krónur auk vaxta og kostnaðar. Áfrýjandi varð ekki við því og höfðaði stefndi mál þetta 2. maí sama ár. Í þinghaldi 1. nóvember 2017 tók héraðsdómari að beiðni aðila ákvörðun um að skipta sakarefni málsins með þeim hætti að fyrst yrði leyst úr því hvort áfrýjandi væri greiðsluskyldur gagnvart stefnda þannig að ekki yrði fjallað um fjárhæð endurkröfunnar væri hún fyrir hendi. III Íslensk lög hafa ekki að geyma almenna reglu um hvaða bréf teljast viðskiptabréf en af tilskipun 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf er ljóst að skuldabréf teljast viðskiptabréf. Þannig eru öll skuldabréf viðskiptabréf nema skýrlega sé kveðið á um annað í bréfinu sjálfu. Hugtakið skuldabréf er ekki skilgreint í lögum, en í réttarframkvæmd hefur verið lagt til grundvallar að með því sé átt við einhliða, óskilyrta og skriflega viðurkenningu á peningaskuld. Af því leiðir að skuldabréf er skjal sem hefur að geyma skriflega yfirlýsingu sem efnislega verður að geta staðið sjálfstætt. Þá felur skuldabréf ávallt í sér loforð um greiðslu peninga og koma verður fram með undirskrift eða á annan sambærilegan hátt frá hverjum hið skuldbindandi loforð stafar. Við framsal viðskiptabréfa er gerð undantekning frá þeirri meginreglu kröfuréttar við kröfuhafaskipti að framsalshafi öðlist ekki betri rétt á hendur skuldara en framseljandi átti. Þannig getur skuldari viðskiptabréfs glatað mótbáru gegn grandlausum framsalshafa, ef hún kemur ekki fram á bréfinu, en markmið þessarar viðskiptabréfsreglu er að auðvelda viðskipti með viðskiptabréf og gera réttarstöðu framsalshafa tryggari en almennar reglur kröfuréttarins mæla fyrir um. Nægir því framsalshafa að rannsaka viðskiptabréfið sjálft og má almennt leggja til grundvallar að krafa sé þess efnis sem viðskiptabréfið ber með sér. Fela sérreglur um viðskiptabréf það í sér að grandlaus framsalshafi getur öðlast meiri rétt en framseljandinn átti gagnvart skuldara. Með því að reglurnar um viðskiptabréf fela í sér veruleg frávik frá almennum reglum verður að gera þann áskilnað að ótvírætt sé að krafa sé viðskiptabréfskrafa. Eins og að framan er rakið tók stefndi að sér að greiða kröfu þáverandi eiganda kröfunnar, Dróma hf., með yfirlýsingu um skuldaraskipti 18. febrúar 2012. Samkvæmt því skjali lýsti stefndi því yfir að hann hefði „kynnt sér eftirstöðvar skuldarinnar, öll ákvæði skuldabréfsins/veðskuldabréfsins/lánasamningsins og að hann undirgangist allar skuldbindingar samkvæmt því.“ Þá kom fram í skjalinu að Arion banki hf. fyrir hönd Dróma hf. samþykkti skuldaraskiptin og jafnframt að bankinn staðfesti „fyrir hönd kröfueiganda að fyrirvari um betri rétt skuldara framselst með kröfunni til Línulagna ehf.“  Skuldabréfið var áritað um skuldaraskiptin af Arion banka hf. fyrir hönd Dróma hf. Til að fullnægt væri framangreindum skilyrðum þess að um skuldabréf væri að ræða hefði hinn nýi skuldari þurft skriflega að lýsa því yfir einhliða og skilyrðislaust að hann lofaði að greiða kröfuna og hefði sú skriflega yfirlýsing þurft að koma fram á bréfinu sjálfu til þess að það gæti talist skuldabréf eftir skuldaraskiptin. Var því ekki nóg að stefndi undirritaði sérstaka yfirlýsingu á öðru skjali þess efnis að hann gengist undir öll ákvæði viðkomandi bréfs og skuldbindingar samkvæmt því og skiptir í því sambandi ekki máli þótt bréfið hefði verið áritað um skuldaraskiptin. Þá er þess að geta að kröfuhafinn samþykkti skuldaraskiptin með fyrirvara um að betri réttur skuldara framseldist með kröfunni til stefnda, en þar með fullnægði krafan ekki þeim áskilnaði að vera einhliða svo um skuldabréf væri að ræða. Samkvæmt þessu breyttist krafa þáverandi eiganda bréfsins við skuldaraskiptin úr því að vera krafa samkvæmt viðskiptabréfi í almenna fjárkröfu. Fer því um hana samkvæmt almennum reglum kröfuréttar um kröfuhafaskipti.  Af því leiðir að stefndi glataði engum mótbárum við framsal kröfunnar en á því er málatilbúnaður hans reistur. Við meðferð málsins fyrir Landsrétti var því lýst yfir af hálfu áfrýjanda að óumdeilt væri að krafa vegna oftekinna vaxta, sem stefndi telur sig eiga á hendur áfrýjanda, hafi í upphafi stofnast. Þegar stefndi gekkst undir skuldbindinguna með yfirlýsingunni 18. febrúar 2012 var það með fyrirvara um betri rétt skuldara, en með skilmálabreytingu 13. janúar sama ár hafði krafa samkvæmt skuldabréfinu 10. nóvember 2010 verið lækkuð vegna ólögmætrar gengistryggingar. Af þessu leiðir að stefndi gat gagnvart eiganda bréfsins haft uppi frekari kröfur vegna ofgreiðslu og þeim rétti glataði hann ekki gagnvart áfrýjanda við framsalið til hans samkvæmt því sem hér hefur áður verið rakið. Þá verður heldur ekki talið að stefndi hafi glatað þessum rétti vegna tómlætis, en hann hafði haft uppi andmæli bæði við fyrri eiganda bréfsins með bréfi 30. september 2015 og áfrýjanda með tölvubréfi 6. febrúar 2017. Að því virtu sem nú hefur verið rakið verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur að niðurstöðu til. Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Það athugist að eins og mál þetta er vaxið verður ekki séð að sú ákvörðun héraðsdómara að verða við beiðni aðila að skipta sakarefni þess á grundvelli undantekningarákvæðis 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 hafi haft í för með sér hagræði fyrir úrlausn málsins. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, ALM fjármögnun ehf., greiði stefnda, Línulögnum ehf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.     Dómur Landsréttar Mál þetta dæma landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson og Eiríkur Jónsson og Sigríður Ingvarsdóttir, settur landsréttardómari. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 20. desember 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2018 í málinu nr. E-1684/2017. 2        Áfrýjandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi „að stefndi beri greiðsluskyldu gagnvart áfrýjanda vegna ofgreiðslna á grundvelli skuldabréfs, dags. 10. nóvember 2010, sem Suðurhlíð ehf. gaf upphaflega út til Dróma hf., en áfrýjandi tók við sem skuldari þann 22. febrúar 2012“. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. 3        Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti. Niðurstaða 4        Málsatvikum og málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi. 5        Málið höfðaði áfrýjandi til greiðslu á 2.888.215 krónum úr hendi stefnda. Byggist krafan á þeirri forsendu að vextir hafi verið ofgreiddir af veðskuldabréfi sem áfrýjandi tók við sem skuldari í febrúar 2012 og greiddi upp í mars 2017. Telur áfrýjandi að samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar um þýðingu fullnaðarkvittana við greiðslu lána sem bundin voru ólögmætri gengistryggingu hafi verið óheimilt að krefja skuldara um vexti aftur í tímann með þeim hætti sem hér hafi verið gert. Nemur krafa áfrýjanda þeirri fjárhæð sem hann telur hafa verið ofgreidda í vexti. Á móti byggir stefndi, sem eignaðist veðskuldabréfið í ágúst 2016, einkum á því að samkvæmt reglum um viðskiptabréf hafi veðskuldabréfið að geyma þann rétt sem það beri með sér. Vísar stefndi meðal annars til þess að áritun um mótbáru á viðskiptabréf verði að vera það skýr að hana megi skilja. Áfrýjandi hafi enga kröfu átt á hendur stefnda en ef svo hafi verið sé krafan fallin niður vegna tómlætis.           6        Í þinghaldi í héraði 1. nóvember 2017 ákvað dómari að verða við beiðni málsaðila um að skipta sakarefni málsins með þeim hætti að fyrst yrði fluttur sá þáttur málsins sem lyti að viðurkenningu greiðsluskyldu, það er um annað en fjárhæðir málsins. Í hinum áfrýjaða dómi sýknaði héraðsdómur stefnda af kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á greiðsluskyldu. Byggði héraðsdómur þá niðurstöðu sína á stöðu veðskuldabréfsins sem viðskiptabréfs. Stefndi hafi ekki getað talist grandsamur um „betri rétt“ þannig að áhrif gæti haft á niðurstöðu málsins og stefndi hefði mátt treysta því að skuldabréfið færði honum þann rétt sem það sjálft hefði borið með sér. Þegar af þessum ástæðum bæri að sýkna stefnda af viðurkenningarkröfunni og því væri ekki þörf á að taka afstöðu til annarra málsástæðna stefnda, svo sem um tómlæti. Þá taldi héraðsdómur að af framangreindri niðurstöðu leiddi sjálfkrafa að ágreiningur um fjárhæð dómkröfu áfrýjanda gæti ekki komið til frekari umfjöllunar. Því bæri, þrátt fyrir áðurgreinda skiptingu sakarefnis, að sýkna stefnda af dómkröfu áfrýjanda í heild.     7        Samkvæmt framangreindu virðist sem fyrri áfangi málsins, eftir skiptingu sakarefnis, hafi einkum lotið að því hvort reglur um viðskiptabréf og eftir atvikum tómlæti gætu komið í veg fyrir að áfrýjandi hefði uppi þá kröfu sem hann gerir á hendur stefnda. Ekki var fjallað um það í hinum áfrýjaða dómi hvort umrædd krafa hefði stofnast í upphafi. Með hliðsjón af dómum Hæstaréttar 4. júní 2019 í málum nr. 5/2019 og 6/2019 var lögmaður stefnda inntur eftir því, við aðalmeðferð í Landsrétti, hvort óumdeilt væri að krafa vegna oftekinna vaxta, sem áfrýjandi telur sig geta gert á hendur stefnda, hafi stofnast í upphafi. Kvað lögmaður stefnda svo vera. Í ljósi þeirrar yfirlýsingar er ekki ástæða til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm á þeim grunni að niðurstaða málsins feli í sér getsakir um kröfuréttindi sem ekki hefur verið staðreynt hvort orðið hafi til. 8        Kemur þá til athugunar hvort áfrýjandi geti haft framangreinda kröfu uppi á hendur stefnda. Sem fyrr segir byggir stefndi á því að reglur um viðskiptabréf leiði til þess að áfrýjandi geti ekki vegna mótbárumissis haft kröfuna uppi og á það var fallist í hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjandi byggir hins vegar meðal annars á því að reglur viðskiptabréfsréttar um mótbárutap skuldara eigi ekki við í málinu. 9        Samkvæmt 3. gr. tilskipunar 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf gilda viðskiptabréfsreglur um mótbárutap skuldara ekki um vaxtagreiðslur af viðskiptabréfi. Krafa sú sem áfrýjandi hefur uppi er um endurgreiðslu vegna oftekinna vaxta af skuldabréfi. Verður samkvæmt því að fallast á með áfrýjanda að fyrrnefndar viðskiptabréfsreglur eigi ekki við í málinu. Breytir engu í því sambandi þótt áfrýjandi hafi ekki vísað til framangreinds ákvæðis tilskipunarinnar í málatilbúnaði sínum, enda er um að ræða heimfærslu dómsins til lagareglna á þeirri niðurstöðu að viðskiptabréfsreglur um mótbárutap eigi ekki við, en þeirri málsástæðu hélt áfrýjandi skýrlega fram við aðalmeðferð og var henni eigi mótmælt sem of seint fram kominni. 10       Um aðilaskipti að hinni umdeildu kröfu fer því samkvæmt almennum reglum kröfuréttar en í þeim felst meðal annars sú meginregla að skyldur skuldara aukast ekki við framsal og skuldari heldur mótbárum sínum við kröfuhafaskipti. Samkvæmt því hindra þau kröfuhafaskipti sem fyrir liggja í málinu ekki þá kröfu sem áfrýjandi hefur uppi. Þá eru fyrirliggjandi skjöl um þá skuldskeytingu sem varð skýr um að henni hafi verið ætlað að hafa þau réttaráhrif að krafa af umræddum toga tilheyrði hinum nýja skuldara bréfsins, áfrýjanda. 11       Stefndi byggir einnig á því að krafa áfrýjanda sé niður fallin sökum tómlætis. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og vitnaskýrslum hafði áfrýjandi gert athugasemdir við fyrri eiganda skuldabréfsins og farið fram á endurútreikning á grundvelli þeirra sjónarmiða sem hann hefur uppi í máli þessu. Þá viðurkennir stefndi að hann hafi kynnt sér skilmálabreytinguna sem gerð var 13. janúar 2012 og skuldskeytinguna 22. febrúar 2012 en þessi skjöl báru með sér að um gengistryggt lán hefði verið að ræða og að hugsanlegur betri réttur væri til staðar sem tilheyrði áfrýjanda. Verður í ljósi þessa að leggja til grundvallar að stefndi hafi verið grandsamur um tilvist kröfunnar er hann eignaðist skuldabréfið í lok ágúst 2016 en mál þetta var höfðað á hendur honum vorið 2017. Verður því ekki talið að krafa áfrýjanda sé niður fallin sökum tómlætis.  12       Samkvæmt öllu framansögðu verður viðurkenningarkrafa áfrýjanda tekin til greina svo sem hún er fram sett. Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum eins og nánar greinir í dómsorði. Dómsorð: Viðurkennt er að stefndi, ALM Fjármögnun ehf., beri greiðsluskyldu gagnvart áfrýjanda, Línulögnum ehf., vegna ofgreiðslna á grundvelli skuldabréfs 10. nóvember 2010, sem Suðurhlíð ehf. gaf upphaflega út til Dróma hf. en áfrýjandi tók við sem skuldari 22. febrúar 2012.  Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.       Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 26. nóvember 2018 Mál þetta, sem dómtekið var 29. október 2018, höfðuðu Línulagnir ehf., Fossvegi 6, Selfossi, hinn 2. maí 2017 á hendur ALM Fjármögnun ehf., Sundagörðum 2, Reykjavík „til endurgreiðslu ofgreiddrar kröfu“.             Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði stefnanda 2.888.215 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá málshöfðunardegi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.             Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar.             Að sameiginlegri beiðni aðila var ákveðið að skipta sakarefni málsins, sbr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með þeim hætti að fyrst yrði fluttur sá þáttur málsins sem lýtur að viðurkenningu greiðsluskyldu, þ.e. um annað en fjárhæðir.             Undirritaður héraðsdómari tók við málinu 2. janúar 2018 og hafði engin afskipti haft af meðferð þess fram að því. Málið var fyrst dómtekið að lokinni aðalmeðferð 21. mars 2018, en sökum embættisanna dómarans tókst ekki að leggja dóm á málið innan lögbundins frests. Var munnlegur málflutningur því endurtekinn 29. október 2018, í samræmi við 2. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en að því búnu var málið dómtekið að nýju. I Málsatvik             Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um endurgreiðslu fjár sem hann kveðst hafa ofgreitt vegna skuldar samkvæmt skuldabréfi. Byggir hann á því að hann eigi rétt til endurgreiðslu á grundvelli dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands um fullnaðarkvittanir í gengislánamálum.             Stefnandi byggir á því að skuldin hafi upphaflega verið samkvæmt skuldabréfi útgefnu 2007, með ólögmætri gengistryggingu, og að ekki hafi verið um nýtt lán að ræða heldur í reynd skilmálabreytingu þegar gefið var út nýtt skuldabréf í íslenskum krónum vegna lánsins á árinu 2010. Stefndi byggir aftur á móti á því að uppgreidd skuld stefnanda við hann hafi verið samkvæmt skuldabréfi útgefnu 2010 og að eldri lögskipti stefnanda eða upphaflegs skuldara og fyrri kröfuhafa hafi enga þýðingu í málinu.              Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum gaf Suðurhlíð ehf. út skuldabréf til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 28. desember 2007 „að jafnvirði“ 5.000.000 króna, en lánið var til helminga í svissneskum frönkum (CHF 50%) og japönskum jenum (JPY 50%). Skyldi lánið endurgreiðast á 18 mánuðum með sex afborgunum. Til tryggingar skuldinni var sett að veði með 1. veðrétti tiltekin fasteign stefnanda þessa máls [...]. Veðskuldabréfinu var þinglýst samdægurs á hina veðsettu eign. Með skilmálabreytingu 30. mars 2008 og aftur 6. nóvember 2009 var endurgreiðslu lánsins frestað.             Eins og rakið er í stefnu vék Fjármálaeftirlitið stjórn Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis frá 21. mars 2009 og skipaði skilanefnd yfir sparisjóðinn. Um leið tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að stofna sérstakt hlutafélag, Dróma hf., til að taka við öllum eignum og tryggingaréttindum sparisjóðsins.             Hinn 10. nóvember 2010 gaf Suðurhlíð ehf. út skuldabréf til Dróma hf., að fjárhæð 11.843.004 krónur, með veði í fyrrgreindri fasteign stefnanda með samþykki hans sem veðsala. Skuldin skyldi endurgreiðast á 25 árum. Skuldabréfið var innfært í þinglýsingabækur 19. nóvember 2010, ásamt skjali sem ber yfirskriftina „Lán á milli sömu aðila (sama kennitala)“. Í því skjali kemur fram að hið nýja skuldabréf að fjárhæð 11.843.004 krónur komi í stað fyrrgreinds skuldabréfs sem útgefið var 28. desember 2017, en uppgreiðslufjárhæð þess sé að sömu fjárhæð. Samhliða þinglýsingu skuldabréfsins var þinglýst veðleyfi sem Arion banki hf. gaf út samkvæmt umboði og heimild í samningi milli bankans og skilanefndar SPRON.             Skilmálum þessa skuldabréfs var breytt 13. janúar 2012, „í samræmi við endurreikning á grundvelli ákvæðis 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu“. Afrit skuldabréfsins, sem liggur fyrir í málinu, var áritað um þessa skilmálabreytingu og er í árituninni vísað til viðauka „v/ endurr. erl. láns“.             Skuldabréfið er einnig áritað um að nýr skuldari, þ.e. stefnandi, hafi tekið við láninu 22. febrúar 2012. Enn fremur er skuldabréfið áritað um framsal þess frá Dróma hf. til Hildu ehf. 31. desember 2013 og svo aftur frá Hildu ehf. til stefnda 31. ágúst 2016, en stefndi mun hafa eignast skuldabréfið við kaup í söluferli lánasafns Hildu ehf. sem opið var fjármálafyrirtækjum.             Stefnandi sendi þáverandi eiganda skuldabréfsins, Hildu ehf., beiðni 30. september 2015 um endurútreikning lánsins í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar Íslands um gildi fullnaðarkvittana við greiðslu ólögmætra gengistryggðra lána. Vísaði stefnandi til þess að um gengistryggt lán hefði verið að ræða sem breytt hefði verið í óverðtryggt íslenskt lán 10. nóvember 2010. Þeirri beiðni var hafnað af hálfu Hildu ehf. með tölvupósti 22. desember s.á.             Eftir að stefndi hafði eignast skuldabréfið á árinu 2016 fékk stefnandi löggiltan endurskoðanda til að endurreikna lánið. Í samræmi við niðurstöðu endurskoðandans greiddi stefnandi stefnda 1.417.714 krónur 10. janúar 2017 og skoraði í framhaldinu á stefnda að afhenda sér frumrit veðskuldabréfsins til aflýsingar af hinni veðsettu fasteign. Stefndi varð ekki við því og greiddi stefndi þá, 20. mars 2017, eftirstöðvar lánsins, sem nam stefnufjárhæðinni, með fyrirvara og áskildi sér rétt til endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar ásamt vöxtum og kostnaði.  II Málsástæður stefnanda             Stefnandi kveðst byggja aðild sína til sóknar í málinu á framsali, dags. 18. febrúar 2012, frá upphaflegum skuldara, Suðurhlíð ehf., sem undirritað hafi verið í tilefni af skuldaraskiptum þann dag. Um aðild stefnda til varnar sé byggt á yfirlýsingu stefnda og greiðslukvittunum sem frá honum stafa sem kröfueiganda lánsins. Stefndi leiði kröfurétt sinn frá lánveitanda í gegnum Dróma hf. og Hildu ehf. og beri því skyldur lánveitanda og framseljenda gagnvart stefnanda sem skuldara og veðsala. Stefnda hafi verið fullkunnugt um að keypt krafa á hendur stefnanda væri upphaflega ólögmætt gengistryggt lán sem hefði verið endurreiknað á grundvelli ákvæðis 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.              Lán það sem Suðurhlíð ehf. hafi tekið hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis þann 28. desember 2007 hafi falið í sér ólögmæta gengistryggingu. Samkvæmt 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, eins og greininni hafi verið breytt með 1. gr. laga nr. 151/2010, skuli upphaflegur höfuðstóll skuldar ólögmæts gengisláns vaxtareiknaður þannig að miðað sé við að lán beri vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna. Fyrirmæli ákvæðisins eigi rætur að rekja til dóms Hæstaréttar frá 16. september 2010 í málinu nr. 471/2010.             Krafa stefnda á hendur stefnanda hafi verið endurreiknuð þann 13. janúar 2012 með vísun í 18. gr. laga nr. 38/2001. Endurútreikningur sá miðist við endurreikning 5.000.000 króna frá stofndegi, 28. desember 2007, með vöxtum skv. 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 í samræmi við fyrirmæli 3. og 5. mgr. 18. gr. laganna. Þannig hafi stefndi talið sig eiga kröfu aftur í tímann um vexti skv. 4. gr. laga nr. 38/2001 vegna gjalddaga sem stefnandi eða sá sem hann leiði rétt sinn frá hafði þegar greitt umsamda vexti á og fengið fullnaðarkvittun fyrir.             Stefnandi telji sér óskylt að bera þann vaxtamun sem felist í mismun á greiddum vöxtum samkvæmt samningi aðila annars vegar og hins vegar þeim vöxtum sem endurreiknaðir hafi verið vegna sama tímabils skv. 4. mgr. laga nr. 38/2001. Stefnandi byggi kröfu sína á því að hver og ein vaxtagreiðsla skuldara sé fullnaðargreiðsla sem verði ekki endurskoðuð síðar með því að höfuðstóllinn verði uppreiknaður með aðferð sem aðilar sömdu ekki um.             Stefnandi byggi kröfur sínar á því að kröfueigandi geti ekki krafið stefnanda um viðbótargreiðslur vegna mismunar á umsömdum vöxtum, sem þegar höfðu verið greiddir af láni í íslenskum krónum með ólögmætu ákvæði um gengisviðmiðun, og þeim vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001.             Með opinberum yfirlýsingum af hálfu Dróma hf. hafi stefnandi, sem og fyrri skuldari, verið upplýstir og sannfærðir um að engar aðgerðir, s.s. skuldbreytingar eða undirritanir og samþykki endurútreikninga, firrtu skuldara og veðsala betri rétti sem þessir aðilar ættu og kynni að koma í ljós síðar. Síðari dómafordæmi hafi leitt í ljós betri rétt skuldara en fyrri endurútreikningur gaf til kynna. Þá hafi ekki annað falist í undirritun á nýtt skuldabréf til Dróma hf. þann 10. nóvember 2010 en skilmálabreyting gengistryggðs láns, enda hafi ekkert lán verið greitt upp af því tilefni og ekkert nýtt lán verið veitt.             Stefnandi byggi á því að ekki eigi við í málinu sú meginregla kröfuréttar að kröfuhafi sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Þess í stað séu uppfyllt skilyrði undantekningar sem valdi því að kröfuhafi glati kröfu sinni.             Stefnandi byggi í fyrsta lagi á því að vextir hafi ávallt verið greiddir í góðri trú. Skuldari og stefnandi sem veðsali hafi hvorki vitað né mátt vita að vaxtagreiðslur væru ófullnægjandi er þær voru inntar af hendi. Í öðru lagi byggi stefnandi á því að milli aðila hafi verið sá aðstöðumunur að það réttlæti að hafna beri viðbótarkröfu stefnda og annarra kröfueigenda, en lánveitandi hafi verið fjármálafyrirtæki sem veitti neytendum sérfræðiþjónustu á lánamarkaði þar sem ýmis kjör voru í boði, þar með talin kjör sem reyndust ólögmæt. Í þriðja lagi byggi stefnandi á því að það standi stefnda og lánveitanda nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leiddu til meintra vangreiðslna, en stefnandi og skuldari hafi jafnan greitt í samræmi við greiðslutilkynningar lánveitanda og stefnda. Sem fjármálafyrirtæki hafi það staðið stefnda nær að gæta að því að lánið væri í samræmi við heimildir laga nr. 38/2001. Fyrir lánveitanda, sem stefndi leiði rétt sinn frá, hefði ekki átt að vera flókið að gæta að lögmæti samningsákvæða, en það sama eigi ekki við um stefnanda.             Að öllu þessu virtu og með vísan til þeirra viðmiða sem ítrekað hafi verið lögð til grundvallar í fordæmum Hæstaréttar byggi stefnandi á því að það standi stefnda nær en stefnanda að bera þann vaxtamun sem hlotist hafi af ólögmætri gengistryggingu. Stefnda sé því óheimilt að krefja stefnanda um viðbótargreiðslur vegna greiddra og gjaldfallinna vaxta.             Stefnandi geri kröfu um endurgreiðslu í samræmi við endurútreikning löggilts endurskoðanda á hinu umdeilda láni. Endurútreikningur miðist við að á þeim gjalddögum þar sem fullnaðarkvittun vaxta liggi fyrir séu vextir ekki endurreiknaðir afturvirkt, en að öðrum kosti séu þeir endurreiknaðir miðað við óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands. Þar sem allir gjalddagar hafi verið greiddir fari enginn eiginlegur vaxtaútreikningur fram afturvirkt og eftirstöðvar lánsins nemi því upprunalegum höfuðstól að frádregnum greiddum afborgunum á greiðslutímanum.             Þar sem krafa stefnda hafi verið endurreiknuð í samræmi við lög nr. 151/2010 þá miðist framlagður endurútreikningur endurskoðandans við sama dag og fyrri endurútreikningur 3. janúar 2012. Greiðsluröð skilmálabreytts láns í kjölfar endurútreiknings sé þá reiknuð upp á nýtt miðað við nýjar forsendur. Mismunur þess sem greitt hafi verið í vexti eftir að endurútreikningur fór fram og þess sem hefði átt að greiða miðað við nýjan endurútreikning sé færður til lækkunar á eftirstöðvum lánsins. Niðurstöður endurútreiknings, í samræmi við forsendur sem lýst sé að framan, séu að krafa stefnda á hendur stefnanda hafi numið 1.417.714 krónum þann 10. janúar 2017. Þann dag hafi stefnandi greitt þá fjárhæð til stefnda.             Krafa stefnanda á hendur stefnda nemi þeim eftirstöðvum sem stefndi hafi talið vera af kröfu sinni eftir að fullnaðargreiðsla hafði verið innt af hendi þann 10. janúar 2017. Þann 20. mars 2017 hafi stefnandi greitt stefnda 2.888.215 krónur,  sem sé sú fjárhæð sem stefndi hafi talið vera eftirstöðvar af kröfu sinni. Stefndi hafi verið endurkrafinn um fjárhæðina með bréfi, dags. 6. apríl 2017, og sé krafist dráttarvaxta frá þeim degi er mál þetta sé höfðað.             Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna kröfu- og samningaréttarins, m.a. um efndir fjárskuldbindinga. Krafa um dráttarvexti styðjist við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og upphafsdagur við 4. mgr. 5. gr. laganna. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing sé vísað til 33. gr. laga nr. 91/1991. III Málsástæður stefnda             Í greinargerð stefnda eru málsatvik rakin samhliða málsástæðum, en stefndi telur málsatvikalýsingu stefnanda einhliða.             Stefndi bendir á að þann 31. ágúst 2016 hafi stefndi fengið framselt umrætt veðskuldabréf, útgefið af Suðurhlíð ehf. 10. nóvember 2010. Veðskuldabréfið hafi upphaflega verið að fjárhæð 11.843.004 krónur, en bréfið hafi verið áritað um skilmálabreytingu 13. janúar 2012 þar sem eftirstöðvar voru ákvarðaðar 5.394.595 krónur. Bréfið hafi einnig verið áritað um að skuldskeyting hefði átt sér stað þann 22. febrúar 2012 og að nýr skuldari þá hefði verið Línulagnir ehf., stefnandi máls þessa. Efni veðskuldabréfsins sé skýrt og ljóst og hafi krafa stefnda á hendur stefnanda byggt á því.             Umrætt veðskuldabréf sé viðskiptabréf sem geti gengið kaupum og sölum í viðskiptum, þ.e. kröfuhafaskipti geti átt sér stað án samþykkis stefnanda, enda sé ekki um gagnkvæman samning að ræða. Þetta eðli skuldabréfsins hafi verið upphaflegum skuldara ljóst við útgáfu bréfsins og síðar stefnanda er skuldaraskipti áttu sér stað.             Því sé mótmælt að kröfu stefnanda megi rekja til eldri lögskipta. Einfaldlega sé um að ræða kröfu samkvæmt veðskuldabréfi sem hafi verið gefið út í íslenskum krónum. Ekkert liggi fyrir um að útgáfa veðskuldabréfsins hafi verið með fyrirvara um réttmætar eftirstöðvar lánsins og lögmæti skilmála eins og greinir í stefnu. Veðskuldabréfið beri þetta ekki með sér með neinum hætti.             Rangt sé það sem stefnandi haldi fram í stefnu að stefndi hafi leitt kröfurétt sinn frá lánveitanda í gegnum Dróma hf. og Hildu ehf. og beri því skyldur lánveitanda og framseljanda gagnvart stefnanda. Hið rétta sé að réttindi og skyldur stefnda hafi takmarkast við veðskuldabréf það sem nú sé uppgreitt.             Skoðun á bréfinu sjálfu, skilmálabreytingu, skuldskeytingu og veðbókarvottorði hafi ekki gefið annað til kynna en að um væri að ræða hefðbundið veðskuldabréf í íslenskum krónum. Skuldabréfið virðist hafa verið gefið út til uppgjörs á eldri skuld á milli Dróma hf. og Suðurhlíðar ehf. Hafi því myndast ný sjálfstæð krafa við útgáfu bréfsins.             Vegna þess að um viðskiptabréf var að ræða hafi ekki hvílt skylda á stefnda til að skoða öll skjöl er þinglýst voru á hinni veðsettu eign, enda hafi þau ekkert með fjárhæð skuldarinnar að gera eða kröfuréttindin sem slík. Skuldabréfið beri með sér að það hafi verið innfært í þinglýsingabækur án athugasemda og hafi því engin ástæða verið til að skoða þinglýstar heimildir frekar. Skoðun á veðbókarvottorði hafi leitt í ljós að veðskuldabréfið var tryggt með þeim veðrétti sem það bar með sér.             Lögskipti milli stefnanda eða Suðurhlíðar ehf. við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, Dróma hf. eða Hildu ehf. séu stefnda algjörlega óviðkomandi. Stefndi hafi fengið veðskuldabréfið framselt til sín í ágúst 2016 og byggt rétt sinn á efni þess. Allar opinberar yfirlýsingar upphaflegs kröfuhafa, Dróma hf., sem stefnandi vísi til séu stefnda óviðkomandi og breyti í engu skuldbindingargildi umrædds veðskuldabréfs.             Til stuðnings kröfu sinni vísi stefnandi m.a. til skilmálabreytingar, dags. 13. janúar 2012, sem fól í sér lækkun höfuðstóls. Rétt sé að taka fram að þá hafi skuldabréfið verið í eigu upphaflegs kröfuhafa og hafi honum verið frjálst að semja um lækkun skuldarinnar, þ.e. að krafa Suðurhlíðar ehf. á hendur honum vegna endurútreiknings kæmi sem innborgun á lánið. Þar með hafi verið samkomulag aðila um að eftirstöðvar yrðu lækkaðar í stað þess að greiða kröfuna. Samkomulag þetta sé stefnda óviðkomandi.             Lögskipti stefnanda gagnvart fyrri aðilum séu stefnda óviðkomandi með öllu. Stefndi hafi fengið framselt viðskiptabréf, veðskuldabréf í íslenskum krónum. Bréfið sjálft hafi verið hefðbundið veðskuldabréf og ekki borið með sér einhvern „betri rétt“ sem stefnandi byggi mál sitt á. Stefndi bendi á mikilvægi trausts í viðskiptum og að aðilar í viðskiptalífinu verði að geta treyst því að viðskiptabréfum fylgi sá réttur sem efni þeirra beri með sér.             Hafi einhver „betri réttur“ verið til staðar hafi stefndi verið grandlaus um hann. Það hvíli á stefnanda að sýna fram á annað, en stefndi ítrekar að ekki hafi verið um grandsemi af hans hálfu að ræða.             Stefndi hafi engar upplýsingar um greiðslur af lánum Suðurhlíðar ehf. hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis eða Dróma hf. og geti því ekki sannreynt grundvöll dómkrafna stefnanda. Greiðslur þessar séu stefnda óviðkomandi og eðli máls samkvæmt hafi stefndi aðeins upplýsingar um greiðslusögu þess skuldabréfs sem hann fékk framselt. Hafi stefndi því engan grundvöll til að yfirfara útreikninga stefnanda og sé þeim því mótmælt. Ekki liggi fyrir önnur gögn en útreikningur endurskoðanda ásamt Excel-útreikningum.             Af stefnu virðist ljóst að Suðurhlíð ehf. hafi gert upp og greitt skuld sína við Dróma hf. með útgáfu nýs skuldabréfs (viðskiptabréfs) sem gefið hafi verið út í íslenskum krónum og hafi vaxtakjör endurspeglað það.             Eins og upplýst hafi verið í framlögðum tölvupóstsamskiptum stefnanda við Hildu ehf. hafi stefnandi aldrei verið með gengistryggt lán hjá Dróma hf. eða Hildu ehf. Hafi stefnandi vísað til eldra láns sem hafi í upphafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu en stefnandi hafi aldrei verið skuldari þess láns.             Stefnandi hafi tekið yfir með skuldskeytingu veðskuldabréf sem frá upphafi hafi verið í íslenskum krónum. Um veðskuldabréf sé að ræða sem hafi að geyma þau réttindi sem það beri með sér. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á neinn betri rétt sem hann telur sig eiga eða hvernig hann sé fundinn.             Stefnandi vísi til þess að hann eigi einhvern óskilgreindan „betri rétt“ sem leiða eigi til þess að dómkröfur hans verði teknar til greina. Í þessu sambandi sé rétt að horfa til þess hvernig staðan væri ef umrædd skuldskeyting hefði ekki átt sér stað og Suðurhlíð ehf. væri enn útgefandi veðskuldabréfsins. Ljóst sé að í því tilviki gæti útgefandi ekki borið fyrir sig önnur lögskipti við aðra aðila sem ekki tengist viðskiptabréfinu sem sé grundvöllur máls þessa.             Stefnandi bendi á að í skuldskeytingu sé áritun um að „betri réttur“ „framselst með kröfunni“. Ekki sé hægt að túlka þessa áritun með öðrum hætti en þeim að um sjálfstætt kröfuframsal sé að ræða sem ekki sé hluti af kröfu samkvæmt umræddu veðskuldabréfi. Þessi sjálfstæða krafa sé ekki á hendur stefnda og geti stefnandi því ekki beint kröfu á grundvelli hennar á hendur stefnda.             Stefndi telji því einnig að sýkna eigi hann á grundvelli aðildarskorts. Samkvæmt almennum reglum geti skuldari komið mótbárunni á framfæri við upphaflegan kröfuhafa þótt hann geti það ekki samkvæmt almennum viðskiptabréfareglum gagnvart kröfuhafa samkvæmt viðskiptabréfinu.             Stefndi telji að jafnvel þótt svo ólíklega vildi til að talið yrði að stefnandi hefði átt kröfu á hendur stefnda þá sé hún í öllu falli fallin niður vegna augljóss tómlætis. Hafi stefnandi talið sig eiga einhvern betri rétt á hendur kröfuhafa samkvæmt umræddu veðskuldabréfi þá hafi honum borið að fylgja rétti sínum eftir. Skuldaraskipti þau sem stefnandi byggi rétt sinn á hafi átt sér stað í febrúar 2012 en þá þegar hafi verið uppi ágreiningur um endurútreikning lána með ólögmætri gengistryggingu. Það hafi ekki verið fyrr en í september 2015 að stefnandi sendi þáverandi kröfuhafa beiðni um endurútreikning, sem var hafnað, og ekki fyrr en á árinu 2017 sem stefnandi hafi aftur haft uppi kröfur um endurútreikning. Engar skýringar séu á þeim verulegu töfum sem hafi orðið á því að stefnandi setti fram kröfur sínar. Við framsal umrædds veðskuldabréfs hafi stefndi því mátt gera ráð fyrir að allar kröfur um mögulegan endurútreikning, væru þær til staðar, væru til lykta leiddar.             Stefndi bendi einnig á að engar innheimtuaðgerðir hafi beinst að honum fyrr en með birtingu stefnunnar, en innheimtubréf það sem lagt sé fram í málinu sé ekki stílað á stefnda.             Almennt gildi sú regla að áritun um mótbáru á viðskiptabréf verði að vera það skýr að hana megi skilja.             Stefndi hafi keypt veðskuldabréf og fengið það framselt til sín. Hafi hann mátt ganga út frá því að fullnægjandi væri fyrir hann að kanna viðskiptabréfið sjálft, skilmálabreytingu og skuldskeytingu til að staðreyna fjárhæðir, kjör og aðila. Hafi stefndi því mátt leggja til grundvallar að viðskiptabréfskrafan væri þess efnis sem viðskiptabréfið bæri með sér. Á þessu hafi stefndi byggt og því hafnað kröfum stefnanda sem virðist vera ranglega að honum beint.  IV Niðurstaða             Við endurflutning málsins vakti lögmaður stefnda athygli á því að hann teldi dómkröfu stefnanda hugsanlega haldna annmörkum sem varðað gætu frávísun án kröfu vegna skorts á gögnum um fjárhæð kröfunnar. Í ljósi sakarefnisskiptingar eru engin efni til að vísa málinu frá dómi án kröfu af þeim ástæðum.              Eins og rakið hefur verið á dómkrafa stefnanda rót sína að rekja til uppgreiðslu hans á skuld samkvæmt veðskuldabréfi sem upphaflega var gefið út af Suðurhlíð ehf. til Dróma hf., 10. nóvember 2010, að fjárhæð 11.843.004 krónur. Aðila greinir í meginatriðum á um hvort lögskipti sem tengjast eldra veðskuldabréfi, sem rakin eru í kafla um málsatvik hér að framan, hafi þýðingu fyrir réttarsamband þeirra.                  Þótt gögn málsins bendi til þess að ásamt framangreindu veðskuldabréfi frá 10. nóvember 2010 hafi verið þinglýst sérstöku skjali þar sem fram kemur að um sé að ræða „lán á milli sömu aðila“ sem komi „í stað“ veðskuldabréfsins sem Suðurhlíð ehf. gaf út 28. desember 2007, þá haggar það ekki þeirri staðreynd að þarna var gefið út nýtt skuldabréf, sem skuldara mátti vera ljóst að gæti gengið kaupum og sölum sem viðskiptabréf. Verður að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að í reynd hafi einungis verið um „skilmálabreytingu“ gengistryggðs láns að ræða.             Veðskuldabréfið frá 10. nóvember 2010 fól í sér einhliða yfirlýsingu skuldara um að hann skuldaði kröfuhafa, eða þeim sem síðar kynni að eignast skuldabréfið á löglegan hátt, tilgreinda fjárhæð og að hann skuldbyndi sig til að endurgreiða hana með þeim fjölda afborgana og á þeim gjalddaga eða gjalddögum sem tilgreint væri í skuldabréfinu. Er bréfið ekki skilyrt með neinum hætti sem valdið getur því að það uppfylli ekki skilyrði til þess að teljast skuldabréf og þar með viðskiptabréf. Um slík bréf gilda óskráðar reglur kröfuréttarins um viðskiptabréf, þar á meðal sú meginregla að framsalshafi fær við framsal þann rétt sem bréfið sjálft bendir til að framseljandi þess eigi. Í því felst að framsalshafi þarf aðeins að rannsaka bréfið sjálft til að komast að því hvaða réttindi hann fær við framsalið. Að sama skapi kann skuldari að glata rétti til að bera fyrir sig gagnvart framsalshafa mótbárur sem hann hefði getað borið fyrir sig gagnvart framseljanda bréfsins.             Skuldabréfið hefur verið áritað um skuldaraskipti, tvenn kröfuhafaskipti og um skilmálabreytingu „v/ endurr. erl. láns“. Þótt síðastnefnd áritun hljóti að hafa gefið stefnda vísbendingu um að útgáfa skuldabréfsins ætti rót að rekja til eldra láns sem bundið var ólögmætri gengistryggingu, var ekkert í áritun þessari sem gaf til kynna að skuldabréfið sjálft hefði verið skilyrt með nokkrum hætti þannig að eðli þess sem viðskiptabréfs hefði breyst. Hið sama á við um áritun á bréfið um skuldaraskiptin. Þótt þinglýst gögn um skuldaraskiptin beri með sér staðfestingu Dróma hf. á því að „fyrirvari um betri rétt skuldara“ hafi verið framseldur til stefnanda við skuldaraskiptin, þá var skuldabréfið sjálft ekki áritað um neinn slíkan fyrirvara. Þá er ekkert fram komið sem bendir til annars en að viðskiptabréfareglur eigi við um þau kröfuhafaskipti er stefndi eignaðist veðskuldabréfið.             Samkvæmt framanrituðu uppfyllti veðskuldabréfið frá 10. nóvember 2010 þannig öll skilyrði til þess að teljast skuldabréf, og þar með viðskiptabréf, jafnt áður en sem eftir að það var áritað um skilmálabreytingu og aðilaskipti. Jafnvel þótt stefndi hefði kynnt sér efni þinglýstra skjala gæti hann ekki talist grandsamur um neinn „betri rétt“ stefnanda þannig að áhrif gæti haft á niðurstöðu þessa máls, enda mátti hann treysta því að skuldabréfið færði honum þann rétt sem það sjálft bar með sér. Hugsanlegri kröfu sem stefnandi byggir á að hann eigi vegna dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands um fullnaðarkvittanir í gengislánamálum og framsals „betri réttar“ við skuldaraskiptin er þannig ekki réttilega beint að stefnda í máli þessu. Er því um aðildarskort að ræða sem leiðir til þess að sýkna ber stefnda af kröfu stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.             Þegar af framangreindum ástæðum ber að sýkna stefnda af þeirri viðurkenningarkröfu stefnanda sem til umfjöllunar er í þessum hluta málsins. Gerist þá ekki þörf á því að taka afstöðu til annarra málsástæðna sem stefndi teflir fram til stuðnings sýknukröfu sinni, s.s. tómlætis.             Af framangreindri niðurstöðu leiðir sjálfkrafa að ágreiningur um fjárhæð dómkröfu stefnanda getur ekki komið til frekari umfjöllunar. Ber því, þrátt fyrir sakarefnisskiptingu, að sýkna stefnda af dómkröfu stefnanda í heild, eins og hún er fram sett í stefnu.             Samkvæmt úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn með þeirri fjárhæð sem í dómsorði greinir og hefur þá verið tekið tillit til skyldu stefnda til greiðslu virðisaukaskatts af málskostnaði             Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð:             Stefndi, ALM Fjármögnun ehf., er sýkn af öllum dómkröfum stefnanda, Línulagna ehf., í máli þessu.             Stefnandi greiði stefnda 850.000 krónur í málskostnað.
Mál nr. 50/2019
Fiskveiðistjórn Viðurkenningarmál Skaðabætur Jafnræðisregla Bótaábyrgð hins opinbera Atvinnuréttindi Ómerkingarkröfu hafnað
Í málinu krafðist H ehf. viðurkenningar á skaðabótaskyldu Í vegna fjártjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir með því að hafa ekki notið tekna af áframhaldandi veiðum þegar veiðidögum á grásleppuvertíðinni 2017 var fjölgað um 10 daga með reglugerð nr. 374/2017. Reglugerðin tók gildi eftir að H ehf. hafði hætt grásleppuveiðum þar sem leyfilegt veiðitímabil hans var liðið og sótt um leyfi til strandveiða. Hæstiréttur taldi nægilega komið fram að nokkurt óhagræði hefði verið af því fyrir H ehf. og aðra þá sem voru í sömu stöðu að hefja aftur grásleppuveiðar eftir að þeim hefði verið hætt. Til þess væri að líta að stjórnvöld hefðu gripið til ýmissa úrræða til að koma til móts við þá sem fengið hefðu leyfi til grásleppuveiða og draga eftir mætti úr röskun á innbyrðis jafnræði þeirra á milli. Hefði meðal annars verið bætt við reglugerðina ákvæði til bráðabirgða þar sem bátum, sem hætt hefðu veiðum og tekið upp net sín áður en veiðidögum var fjölgað, var heimilað að hefja veiðar að nýju þrátt fyrir 3. gr. reglugerðar nr. 164/2017 um samfelldar veiðar, auk þess sem Fiskistofa hefði tilkynnt að fresta mætti upphafsdegi strandveiða. Var vísað til þess að þótt vafi kynni að hafa leikið á heimild Fiskistofu til að leyfa grásleppuveiðar í slíkum tilvikum hefði H ehf. getað sér að vítalausu haldið til veiða enda hefði hann ekki getað fengið úr því álitaefni skorið fyrirfram. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að fjölgun veiðidaga með fyrrnefndri reglugerð hefði ekki farið í bága við lög. Skorti því á að fullnægt væri skilyrði sakarreglunnar um ólögmæta háttsemi Í svo bótaábyrgð yrði felld á Í. Þegar af þeirri ástæðu var hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.   Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. nóvember 2019. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Til vara krefst áfrýjandi þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda gagnvart sér vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna setningar reglugerðar nr. 374/2017 um (2.) breytingu á reglugerð nr. 164/2017, um hrognkelsaveiðar 2017. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda á öllum dómstigum. Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti. I Áfrýjandi starfar í sjávarútvegi og hefur meðal annars gert út fiskiskip til grásleppuveiða. Eftir að hann hafði lokið þeim á veiðitímabilinu 2017 var heimild til veiða framlengd um 10 daga með reglugerð nr. 374/2017. Telur áfrýjandi að þetta hafi valdið sér almennu fjártjóni vegna tapaðra tekna af áframhaldandi grásleppuveiðum og beri stefndi skaðabótaábyrgð á því. Með héraðsdómi var stefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda og var sú niðurstaða staðfest með hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjunarleyfi var veitt á þeim grunni að dómur í málinu hefði almennt gildi þar sem fjöldi útgerðarfyrirtækja hefði verið í sömu stöðu og áfrýjandi og málið lyti að valdheimildum stjórnvalda. II Áfrýjandi gerir út fiskiskipin Hróðgeir hvíta NS-89 og Finna NS-21, sem bæði hafa um árabil stundað grásleppuveiðar. Fyrrnefnda skipið, sem er án aflamarks, hefur jafnframt verið á strandveiðum, en hið síðarnefnda fengið árlega úthlutað aflamarki og veitt á grundvelli þess. Grásleppuveiðar eru háðar sérstöku leyfi Fiskistofu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Sókn í þessar veiðar er stýrt með fjölda slíkra leyfa, lengd vertíðar og stærð og gerð neta. Um fyrirkomulag veiðanna hefur nánar verið mælt í reglugerð sem ráðherra hefur sett eftir heimild í fyrrgreindu lagaákvæði og samkvæmt lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Þær reglur hafa tekið mið af ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar um veiðarnar. Á árunum 2013 til 2016 var fjöldi veiðidaga ákveðinn 20 með reglugerð sem gefin var út fyrir upphaf veiðitímabils, sbr. reglugerð nr. 106/2013 um hrognkelsaveiðar og reglugerðir nr. 72/2014, nr. 177/2015 og nr. 202/2016 um hrognkelsaveiðar þau ár. Þegar þessar reglugerðir voru settar munu þær hafa tekið mið af bráðabirgðaráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar um veiðarnar. Þegar sú ráðgjöf hafði verið endurskoðuð til hækkunar á hámarksafla í lok mars eða byrjun apríl ár hvert, að lokinni stofnmælingu á botnfiskafla, var veiðidögum fjölgað í 32 með breytingum á reglugerðunum, sbr. reglugerðir nr. 277/2013, nr. 337/2014, nr. 305/2015 og nr. 302/2016. Með reglugerð nr. 164/2017 um hrognkelsaveiðar 2017 var ákveðið að veiðitímabilið það ár skyldi í upphafi vera 20 dagar fyrir hvern bát þar til ákvörðun um heildarfjölda daga hefði verið tekin. Jafnframt voru veiðileyfi bundin við ákveðin veiðisvæði og veiðitímabil, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar. Áfrýjandi fékk veiðileyfi fyrir skip sín á nánar tilgreindu veiðisvæði á Austurlandi tímabilið frá 20. mars til og með 2. júní. Þegar reglugerðin var sett mun hafa legið fyrir bráðabirgðatillaga Hafrannsóknarstofnunar um 2.030 tonna hámarksafla á vertíðinni, en eftir stofnmælingu var hún snemma í apríl hækkuð í 6.355 tonn. Í kjölfarið var veiðidögum fjölgað í 36 með reglugerð nr. 290/2017 um (1.) breytingu á reglugerð nr. 164/2017, um hrognkelsaveiðar 2017. Með tölvubréfi 11. apríl 2017 vakti Vignir G. Jónsson hf., sem vinnur afurðir úr grásleppu, athygli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á því að útilokað væri að fyrrgreindur hámarksafli næðist á vertíðinni. Í bréfinu kom fram að illa hefði viðrað og þorskur verið á veiðislóð sem hefði valdið því að leggja varð net grynnra þar sem minna var af honum. Einnig var vísað til þess að fram kæmi á vef Fiskistofu að landaður afli fyrstu 23 veiðidagana hefði verið 898 tonn en hann hefði á sama tíma verið 1.752 tonn árið 2016 og 1.646 tonn árið 2015. Með hliðsjón af þessu óskaði félagið eftir því að ráðuneytið endurskoðaði fjölda veiðidaga svo unnt yrði að veiða í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar. Ráðuneytið sendi þetta erindi samdægurs til Landssambands smábátaeigenda með ósk um að það léti í ljós afstöðu sína til beiðninnar. Þessi ósk ráðuneytisins um umsögn var síðan ítrekuð 18. apríl 2017. Landssambandið svaraði með bréfi sama dag þar sem fram kom að það teldi ekki ástæðu til að fjölga veiðidögum. Því til stuðnings var bent á að ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar um hámarksafla fæli ekki í sér að nauðsynlegt væri að veiða það magn, en mælingar stofnunarinnar sýndu minna magn af grásleppu en árið áður og það hefðu sjómenn sannreynt. Því væri full ástæða til að fara varlega á vertíðinni, en ómögulegt væri að segja til um hve mikið myndi veiðast. Þessi afstaða sambandsins var kynnt á heimasíðu þess 21. apríl 2017. Hinn 19. apríl 2017 áréttaði Vignir G. Jónsson hf. beiðni sína til ráðuneytisins um að veiðidögum yrði fjölgað. Til stuðnings því var vísað til þess að heildarafli grásleppu til þess dags næmi 1.416 tonnum, en hefði á sama tíma árið áður verið 2.632 tonn. Því væri útlit fyrir að þeir bátar sem væru í viðskiptum við félagið væru ekki nálægt því að ná meðalafla. Þar með yrði birgðastaða þess aðeins um 60% af áætlun, en hún miðaði við ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar vegna veiðanna. Áfrýjandi mun hafa dregið net Hróðgeirs hvíta NS-89 úr sjó 23. apríl 2017 og Finna NS-21 degi síðar, en þá var 36 daga leyfðu veiðitímabili skipanna við það að ljúka. Með tölvubréfi 25. apríl 2017 spurðist Vignir G. Jónsson hf. fyrir um svar ráðuneytisins við erindi félagsins. Í svari ráðuneytisins sama dag kom fram að málið væri til athugunar. Jafnframt óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum um aflabrögð sem það fékk með tölvupósti frá félaginu sama dag. Þar kom fram að samkvæmt heimasíðu Fiskistofu væri aflinn 1.773 tonn, en hefði á sama tíma árið áður verið 3.239 tonn. Á heimasíðu Fiskistofu var birt frétt 26. apríl 2017 um aflabrögð á vertíðinni. Þar kom fram að á fyrstu 38 dögum hennar hefði grásleppuaflinn verið 2.236 tonn. Það væri nokkuð minni afli en á sama tíma á síðustu vertíð, en þá hefði 4.047 tonnum verið landað. Aflinn væri því tæplega helmingi minni miðað við vertíðina árið áður. Áfrýjandi fékk gefið út leyfi til strandveiða 27. apríl 2017 fyrir Hróðgeir hvíta NS-89 og var tekið fram að það gilti frá og með 2. maí sama ár. Í leyfinu sagði að á gildistíma þess féllu úr gildi öll önnur veiðileyfi sem bundin kynnu að vera við bátinn og gefin væru út með stoð í lögum nr. 116/2006 og lögum nr. 79/1997. Á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins var birt tilkynning 29. apríl 2017 þar sem fram kom að ráðherra hefði ákveðið að fjölga veiðidögum á grásleppuvertíðinni úr 36 í 46. Þetta yrði gert með reglugerð sem tæki gildi 3. maí sama ár. Tekið var fram að veiðin á vertíðinni hefði verið dræm og á því væru meðal annars þær skýringar að fáir hefðu sótt um leyfi til veiða það sem af væri vertíðarinnar og aflabrögð verið með lakara móti. Einnig sagði að ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar fyrir vertíðina væri óbreytt. Þá kom fram að ráðuneytinu væri ljóst að þessi ákvörðun kæmi seint, en lengi hefði verið vonast til að aflinn tæki að glæðast. Fyrir lægi að þeir sem hefðu fyrst hafið veiðar væru búnir að taka upp netin og strandveiðar að hefjast. Eftir sem áður væri mikið í húfi fyrir þá sem stunduðu grásleppuveiðar áfram og þá sem hefðu atvinnu af þeim í landi, meðal annars við vinnslu afurða, að allt yrði reynt til að ná því magni sem Hafrannsóknarstofnun legði til. Hinn 30. apríl 2017 var birt tilkynning á heimasíðu Fiskistofu vegna fyrirhugaðrar fjölgunar veiðidaga á grásleppuvertíð. Þar sagði að Fiskistofa hefði ákveðið að gera ekki kröfu um að þeir leyfishafar sem hygðust halda áfram veiðum drægju upp net sín ef þeir hefðu veitt í fleiri en 36 daga fyrir 3. maí það ár. Einnig kom fram í tilkynningunni að sumir leyfishafar hefðu þegar sótt um og greitt fyrir strandveiðileyfi, sem þeir hefðu virkjað, þannig að þeir færu af grásleppuveiðum á strandveiðar á fyrsta degi strandveiðitímabils sem væri 2. sama mánaðar. Fiskistofa hefði ákveðið að þeir grásleppuveiðimenn sem ættu í hlut og vildu nýta sér fjölgun veiðidaga á grásleppu gætu, með því að tilkynna Fiskistofu fyrir lok dags 2. maí, frestað upphafi strandveiða sinna til þess dags sem þeir tilgreindu í tilkynningunni. Jafnframt var öðrum grásleppuveiðimönnum, sem sótt hefðu um og greitt fyrir strandveiðileyfi og tilkynnt um upphafsdag strandveiða 3. maí eða síðar, bent á að þeir þyrftu fyrirfram að tilkynna Fiskistofu um frestun á upphafsdegi strandveiða sinna ef þeir vildu nýta sér fjölgun á veiðidögum í grásleppu. Í samræmi við framangreint var veiðidögum fjölgað í 46 með 1. gr. reglugerðar nr. 374/2017 um (2.) breytingu á reglugerð nr. 164/2017, um hrognkelsaveiðar sem gefin var út 2. maí 2017. Í 2. gr. reglugerðarinnar voru fyrirmæli þess efnis að við hana bættist bráðabirgðaákvæði þar sem mælt var fyrir um að þeim bátum, sem hætt hefðu veiðum eða tekið upp net sín fyrir gildistöku reglugerðar nr. 374/2017 væri heimilt að hefja veiðar að nýju þrátt fyrir ákvæði 3. gr. um samfelldar veiðar. III Krafa áfrýjanda um ómerkingu er reist á því að héraðsdómara hafi samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála borið að kveðja til meðdómsmann með sérkunnáttu þar sem deilt sé í málinu um staðreyndir sem bornar séu fram sem málsástæður og slík kunnátta sé nauðsynleg til að leysa úr þeim. Að þessum atriðum er nánar vikið í hinum áfrýjaða dómi, en þau snerta starfsemi áfrýjanda. Þótt áfrýjandi geri kröfu um að dómur Landsréttar verði ómerktur verður með hliðsjón af þessum röksemdum að skilja kröfuna þannig að hún beinist að héraðsdómi. Ef krafan verður tekin til greina leiðir af sjálfu sér að hinn áfrýjaði dómur fellur úr gildi, enda yrði þá málið dæmt aftur í héraði. Áfrýjandi höfðaði málið til að fá viðurkennda skaðabótaskyldu stefnda vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir þegar veiðidögum á grásleppuvertíðinni 2017 var fjölgað eftir að hann hafði hætt veiðum. Engin efni voru til að kveðja til sérfróðan meðdómsmann til að meta það óhagræði fyrir útgerðina sem gat verið samfara því að hefja aftur veiðar eftir að þeim var hætt. Á þetta gat héraðsdómari lagt mat með tilliti til þess hvort raunhæft var fyrir áfrýjanda að fara aftur til grásleppuveiða. Samkvæmt þessu verður ómerkingarkröfunni hafnað.    IV Krafa áfrýjanda á hendur stefnda er reist á reglum skaðabótaréttar um bótaábyrgð hins opinbera vegna tjóns sem hlýst í opinberri sýslan. Um þá bótaábyrgð fer eftir sakarreglunni nema á annan veg sé mælt í lögum eða sérstakar ástæður leiði til þess að beitt verði strangari bótareglum. Hvorugt á við um það sakarefni sem hér er til úrlausnar og verður málið því dæmt á grunni sakarreglunnar. Eins og áður greinir telur áfrýjandi sig hafa orðið fyrir fjártjóni með því að hafa ekki notið tekna af áframhaldandi veiðum þegar veiðidögum á grásleppuvertíðinni 2017 var fjölgað um 10 daga með reglugerð nr. 374/2017. Þessi reglugerð átti sér viðhlítandi stoð í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 79/1997, en þar segir að ráðherra skuli í reglugerð kveða nánar á um skipulag grásleppuveiða og veiðitíma. Að því gættu reynir á hvort fjölgun veiðidaga með reglugerðinni hafi í öðru tilliti verið andstæð lögum. Þegar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kynnti opinberlega á heimasíðu sinni með tilkynningu 29. apríl 2017 að veiðidögum á vertíðinni yrði fjölgað hafði áfrýjandi, sem hóf veiðar á fyrstu dögum veiðanna, dregið upp net sín þar sem leyfilegt veiðitímabil hans var liðið. Þetta var honum skylt og breytir þá engu hvort hann gat reiknað með að tímabilið yrði síðar framlengt. Í málinu er jafnframt nægjanlega komið fram að nokkurt óhagræði var af því fyrir áfrýjanda og aðra þá sem voru í sömu stöðu að hefja aftur veiðar eftir að þeim hafði verið hætt.   Við mat á þessari síðbúnu fjölgun veiðidaga er auk annars til þess að líta að stjórnvöld gripu til ýmissa úrræða til að koma til móts við þá sem leyfi höfðu haft til grásleppuveiða og draga eftir mætti úr röskun á innbyrðis jafnræði þeirra á milli. Í fyrsta lagi kom fram í tilkynningu 30. apríl 2017 á heimasíðu Fiskistofu að þeir leyfishafar sem væru enn með net sín í sjó þyrftu ekki að draga þau úr sjó þótt þeir hefðu veitt í fleiri daga en 36 fyrir 3. maí þegar veiðidögum yrði fjölgað með reglugerð nr. 374/2017. Í öðru lagi var bætt við reglugerðina ákvæði til bráðabirgða þar sem bátum, sem hætt höfðu veiðum og tekið upp net sín áður en veiðidögum var fjölgað, var heimilað að hefja veiðar að nýju þrátt fyrir 3. gr. reglugerðar nr. 164/2017 um samfelldar veiðar. Verður fallist á það með Landsrétti að í þessu hafi falist ótvíræð heimild fyrir áfrýjanda og þá sem hætt höfðu veiðum að hefja þær aftur og í alla þá 10 daga sem bætt var við veiðitímabilið með reglugerð nr. 374/2017. Í þriðja lagi var með fyrrgreindri tilkynningu Fiskistofu upplýst að þeir veiðileyfishafar sem fengið hefðu strandveiðileyfi gætu frestað upphafsdegi þeirra ef þeir vildu nýta sér fjölgun veiðidaga á grásleppu. Þessu mátti áfrýjandi treysta og gat hann því haldið aftur til grásleppuveiða á Hróðgeiri hvíta NS-89 þótt hann hefði fengið gefið út strandveiðileyfi fyrir skipið. Hér skiptir ekki máli um heimild áfrýjanda til að hefja aftur grásleppuveiðar á skipinu þótt vafi kynni að hafa leikið á heimild Fiskistofu til að leyfa grásleppuveiðar í slíkum tilvikum í ljósi þess að tekið er fram í 4. mgr. 6. gr. a. laga nr. 116/2006 að fiskiskipi sé óheimilt frá útgáfudegi strandveiðileyfis til loka fiskveiðiárs að stunda veiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum. Úr þessu álitaefni var ekki hægt að fá skorið fyrir fram og gat áfrýjandi því sér að vítalausu haldið til veiða. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið var áfrýjanda, eins og öðrum leyfishöfum, heimilt að hefja aftur grásleppuveiðar á skipum sínum í þá 10 daga sem veiðitímabilið var lengt með reglugerð nr. 374/2017. Vissulega var óhagræði af því að þurfa að hefja aftur veiðar eftir að hafa hætt þeim en áfrýjandi, eins og aðrir í útgerð, varð sjálfur að bera áhættuna af vandkvæðum á borð við að manna skip sín og hafa aftur til net sem eftir atvikum yrðu ekki lögð á sömu veiðislóð og hann hafði áður lagt. Loks er þess að gæta að fjölgun veiðidaga með reglugerðinni var í samræmi við þann tilgang sem lýst er í 1. gr. laga nr. 79/1997 og 1. gr. laga nr. 116/2006 að stuðla að hagkvæmri nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið fór fjölgun veiðidaga með reglugerð nr. 374/2017 ekki í bága við lög. Er því ekki fullnægt skilyrði sakareglunnar um ólögmæta háttsemi stefnda svo bótaábyrgð verði felld á hann. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða hins áfrýjaði dóms staðfest.   Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Hróðgeir hvíti ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.     Dómur Landsréttar 25. október 2019. Mál þetta dæma landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Hervör Þorvaldsdóttir og Ragnheiður Harðardóttir. Málsmeðferð og dómkröfur aðila Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 25. október 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2018 í málinu nr. E-2962/2017. Áfrýjandi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Til vara krefst hann þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda gagnvart áfrýjanda vegna tjóns sem áfrýjandi hafi orðið fyrir vegna setningar reglugerðar nr. 374/2017 er tók gildi 3. maí 2017. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti. Málsatvik Áfrýjandi naut leyfa til grásleppuveiða fyrir tvö fiskiskip sín árið 2017. Voru leyfin gefin út á grundvelli 2. gr. reglugerðar nr. 164/2017 um hrognkelsaveiðar það ár til „20 samfelldra daga í upphafi, þar til ákvörðun um heildarfjölda daga“ yrði tekin, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt síðastnefndu ákvæði átti veiðitímabilið að standa yfir frá 20. mars 2017 til og með 2. júní sama ár. Stundaði áfrýjandi veiðarnar á tveimur skipum, Hróðgeiri hvíta NS-89, sem hóf veiðar 20. mars 2017, og Finna NS-21, sem hóf veiðar degi síðar. Með reglugerð nr. 290/2017 frá 4. apríl 2017, um breytingu á fyrrgreindri reglugerð nr. 164/2017, var veiðidögum til grásleppuveiða fjölgað úr 20 í 36. Veiðidögum var svo fjölgað á ný úr 36 í 46 með reglugerð nr. 374/2017, um breytingu á reglugerð nr. 164/2017. Veiðitímabilið, sem hafði í reglugerð nr. 164/2017 verið tilgreint frá 20. mars til 2. júní 2017, var þá jafnframt framlengt til 14. júní sama ár, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 374/2017. Er síðastnefnd reglugerð nr. 374/2017 tók gildi 3. maí 2017 hafði áfrýjandi hætt grásleppuveiðum. Höfðu net Hróðgeirs hvíta NS-89 verið tekin úr sjó 23. apríl 2017 og net Finna NS-21 25. sama mánaðar. Áfrýjandi sótti um leyfi til strandveiða 24. apríl 2017 fyrir Hróðgeir hvíta NS-89 en til stóð að Finni NS-21 myndi hefja veiðar á grundvelli úthlutaðs aflamarks. Leyfi til strandveiða fyrir Hróðgeir hvíta NS-89 var gefið út 27. apríl 2017 og átti það að taka gildi 2. maí sama ár. Í leyfinu kom fram að á gildistíma þess myndu „öll önnur veiðileyfi“ sem bundin væru við bátinn falla úr gildi í samræmi við ákvæði 4. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Áður en reglugerð nr. 374/2017 tók gildi 3. maí 2017 hafði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leitað umsagnar Landssambands smábátaeigenda á hugmyndum um fjölgun veiðidaga vegna dræmrar veiði. Fyrir liggur að Landssamband smábátaeigenda lagðist gegn slíkri fjölgun í bréfi til ráðuneytisins 18. apríl 2017. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins 29. apríl 2017 kom fram að tekin hefði verið ákvörðun um að fjölga veiðidögum úr 36 í 46. Í bréfi til lögmanns áfrýjanda 2. júní 2017 var ástæða fjölgunar veiðidaga tilgreind sú af hálfu ráðuneytisins að í lok apríl sama ár hefði veiðin einungis verið 1.800 tonn samanborið við 3.300 tonn á sama tíma veiðiárið 2016. Vísað var til þess að ráðlögð veiði Hafrannsóknastofnunar fyrir veiðiárið 2017 hefði hins vegar verið 6.355 tonn. Fram kom að ráðuneytið teldi mikilvægt að afli á veiðitímabilinu yrði sem næst ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í tonnum talið. Í tilkynningu frá Fiskistofu 30. apríl 2017 kom fram að stofnunin hefði í ljósi þeirrar ákvörðunar ráðuneytisins að fjölga veiðidögum ákveðið að leyfishafar grásleppuveiða sem hefðu sótt um strandveiðileyfi og greitt fyrir það gætu frestað upphafsdegi strandveiða ef þeir vildu nýta sér fjölgun á veiðidögum til grásleppuveiða. Sakarefni málsins varðar það álitaefni hvort stefndi hafi bakað sér skaðabótaábyrgð við útgáfu reglugerðar nr. 374/2017 vegna fjölgunar veiðidaga úr 36 í 46. Byggir áfrýjandi á því að vegna þess hversu seint reglugerðin var gefin út hafi honum í reynd verið ómögulegt að hefja veiðar á ný. Hann hafi þá verið búinn að taka net til grásleppuveiða úr sjó og undirbúa skip sín fyrir strandveiðar með tilheyrandi fyrirhöfn og kostnaði. Hásetar hans hafi verið horfnir til annarra starfa og leyfi til strandveiða fyrir Hróðgeir hvíta NS-89 útgefið með þeim afleiðingum að honum hafi verið óheimilt samkvæmt lögum að hefja grásleppuveiðar á ný, sbr. 4. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006. Hafi honum verið mismunað með ólögmætum hætti þar sem ýmsir aðrir sem ekki höfðu lokið veiðum þegar reglugerðin var gefin út hafi getað haldið veiðunum áfram. Hafi stefndi brotið gegn 10. og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Um tjón sitt vísar áfrýjandi einkum til þess að grásleppuveiðar séu umtalsvert arðbærari en strandveiðar og hafi hann því fyrirsjáanlega orðið fyrir tjóni sem nemi mismun á aflaverðmæti þessara veiða að frádregnum kostnaði. Niðurstaða Ómerkingarkrafa Áfrýjandi reisir ómerkingarkröfu sína á því að í héraði hafi verið þörf á sérfróðum meðdómsmanni þar sem í málinu reyni á sérþekkingu um staðreyndir sem bornar væru fram sem málsástæður af hans hálfu. Í dæmaskyni um það er vísað til þess að sérþekkingar hafi verið þörf til að meta hvaða þýðingu það hafi haft fyrir málið að net hans til grásleppuveiða höfðu verið tekin úr sjó er reglugerð nr. 374/2017 tók gildi, að aðrir bátar hefðu verið búnir að leggja net þar sem hann hefði lagt sín net og að hann hefði ekki getað ráðið háseta til að hefja grásleppuveiðar á ný með þeim litla fyrirvara sem gafst er reglugerðin tók gildi.   Um mat á þýðingu þeirra atriða sem áfrýjandi hefur vísað til um ómerkingarkröfu sína reynir fyrst og fremst á sönnunarreglur og aðra þekkingu sem dómari býr yfir. Eru samkvæmt því engin efni til að verða við ómerkingarkröfu áfrýjanda. Krafa um viðurkenningu á skaðabótaskyldu Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands eru grásleppuveiðar háðar sérstöku leyfi Fiskistofu og eiga þeir bátar einir kost á slíku leyfi sem áttu rétt til leyfis á grásleppuvertíðinni 1997 samkvæmt reglum þar um. Samkvæmt síðastnefndu ákvæði skal ráðherra í reglugerð kveða nánar á um skipulag grásleppuveiða og veiðitíma. Reglugerð nr. 164/2017 um hrognkelsaveiðar árið 2017 var gefin út með stoð í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 79/1997. Voru veiðileyfi áfrýjanda gefin út á grundvelli 2. gr. reglugerðarinnar en samkvæmt 3. gr. hennar var veiðitímabilið fyrir Austurland tilgreint frá 20. mars til og með 2. júní 2017. Samkvæmt 2. gr. var veiðileyfi hvers báts „gefið út til 20 samfelldra daga í upphafi, þar til ákvörðun um heildarfjölda daga [hefði] verið tekin“. Samkvæmt því lá fyrir strax við útgáfu leyfanna að heildarfjöldi veiðidaga kynni að breytast á tilgreindu veiðitímabili sem varð og raunin með útgáfu reglugerðar nr. 290/2017 er dögunum var fjölgað í 36 og svo aftur með reglugerð nr. 374/2017 þegar þeim var fjölgað í 46 og veiðitímabilið framlengt frá 2. til 14. júní 2017. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 374/2017 var bætt við reglugerð nr. 164/2017 bráðabirgðarákvæði þar sem fram kom að þeim bátum sem hefðu hætt veiðum eða tekið upp net sín fyrir gildistöku reglugerðarinnar væri heimilt „að hefja veiðar að nýju þrátt fyrir ákvæði 3. gr. um samfelldar veiðar“. Samkvæmt framangreindu var áfrýjanda ótvírætt heimilt að hefja grásleppuveiðar á ný á grundvelli fyrrgreinds bráðabirgðaákvæðis sem bættist við reglugerð nr. 164/2017 við gildistöku reglugerðar nr. 374/2017. Af orðalagi ákvæðisins má skýrlega ráða að gerð var undanþága frá skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 164/2017 um samfelldar veiðar en samkvæmt því hefði áfrýjandi getað tekið ákvörðun um að hefja grásleppuveiðar í þá viðbótarveiðidaga sem þar voru tilgreindir. Eins og fyrr greinir var ljóst af 2. gr. reglugerðar nr. 164/2017 þegar veiðileyfin voru upprunalega gefin út að breytingar kynnu að verða á heildarfjölda veiðidaga innan tilgreinds veiðitímabils. Af ákvæðinu verður ekki ráðið að slík breyting gæti eingöngu átt sér stað í eitt skipti þannig að áfrýjandi hafi mátt treysta því eftir fyrri fjölgun veiðidaga úr 20 í 36 að ekki yrði um frekari fjölgun veiðidaga að ræða. Samkvæmt því verður lagt til grundvallar að áfrýjandi hafi vitað eða mátt vita er hann ákvað að taka net sín úr sjó 23. og 25. apríl 2017 og hefja undirbúning á skipum sínum til strandveiða að ákvörðun um frekari fjölgun veiðidaga kynni að verða tekin síðar. Fyrir lá þá jafnframt að grásleppuveiði hafði verið dræm á vertíðinni og sú hugmynd borin undir Landssamband smábátaeigenda að veiðidögum yrði fjölgað. Þótt afstaða Landssambands smábátaeigenda í fyrrgreindu bréfi 18. apríl 2017 hafi verið neikvæð um fjölgun veiðidaga gat áfrýjandi ekki treyst því að ekki yrði þrátt fyrir það tekin ákvörðun um frekari fjölgun veiðidaga innan veiðitímabilsins af hálfu ráðuneytisins. Af hálfu áfrýjanda hefur sérstaklega verið vísað til þess að honum hafi verið óheimilt að hefja grásleppuveiðar á ný vegna ákvæðis 4. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006 sem kveður á um að óheimilt sé að stunda veiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum frá útgáfudegi strandveiðileyfis. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006 eru strandveiðar háðar leyfi Fiskistofu en eins og fyrr greinir gaf sú stofnun út sérstaka tilkynningu 30. apríl 2017 um að þeir sem vildu hefja grásleppuveiðar á ný vegna umræddrar ákvörðunar ráðuneytisins um fjölgun veiðidaga en hefðu sótt um og fengið leyfi til strandveiða gætu frestað gildistöku strandveiðileyfanna með sérstakri tilkynningu til stofnunarinnar fyrir lok dags þriðjudagsins 2. maí 2017. Af hálfu áfrýjanda er á því byggt að þessi tilkynning Fiskistofu um frestun réttaráhrifa strandveiðileyfa geti ekki haft neina þýðingu þar sem hún hafi stangast á við 4. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006.  Ákvæði 6. gr. a laga nr. 116/2006 var sett í lög með lögum nr. 32/2010, um breytingu á lögum nr. 116/2006. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að þeim lögum kemur meðal annars fram að 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins, sem varð að 4. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006, væri ætlað að koma í veg fyrir að fiskiskip gætu „stundað frjálsar handfæraveiðar á sama tíma og aðrar leyfisskyldar veiðar [væru] stundaðar“. Af lögskýringargögnum má þannig ráða að bann 4. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006 til veiða samkvæmt öðrum veiðileyfum ætti að miða við gildistöku strandveiðileyfis. Samkvæmt gögnum málsins var leyfi áfrýjanda til strandveiða gefið út af Fiskistofu 27. apríl 2017 en í því kom fram að það tæki ekki gildi fyrr en 2. maí 2017. Í leyfinu kom fram að á „gildistíma [þess] … falli úr gildi öll önnur veiðileyfi sem bundin kunna að vera við bátinn og gefin eru út með stoð í lögum nr. 116/2006 og lögum nr. 79/1997“. Leyfið gerði samkvæmt því ráð fyrir að áfrýjandi nyti réttar til veiða samkvæmt öðrum veiðileyfum fram að gildistöku strandveiðileyfisins 2. maí 2017. Þar sem strandveiðileyfi áfrýjanda hafði ekki tekið gildi þegar Fiskistofa gaf út fyrrgreinda tilkynningu verður ekki fallist á að ákvæði 4. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006 hafi staðið í vegi fyrir því að áfrýjandi gæti óskað eftir fresti á gildistöku strandveiðileyfisins á meðan hann stundaði grásleppuveiðar í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 374/2017. Samkvæmt öllu framangreindu verður ekki fallist á að stefndi hafi brotið gegn 10. og 11. gr. stjórnsýslulaga eða 65. gr. stjórnarskrárinnar vegna ákvörðunar um fjölgun veiðidaga með útgáfu reglugerðar nr. 374/2017, um breytingu á reglugerð nr. 164/2017. Verður því ekki fallist á að hann hafi með útgáfu reglugerðarinnar bakað sér skaðabótaábyrgð. Verður niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda og greiðslu málskostnaðar því staðfest. Eftir úrslitum málsins verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað vegna meðferðar málsins fyrir Landsrétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Hróðgeir hvíti ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 600.000 krónur í málskostnað.       Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2018. Mál þetta, sem dómtekið var 19. september sl., var höfðað 19. september 2017 af Hróðgeiri hvíta ehf., Hafnargötu 17, Bakkafirði, á hendur íslenska ríkinu. Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda gagnvart stefnanda vegna tjóns sem stefnandi varð fyrir vegna setningar reglugerðar stefnda, nr. 374/2017, er tók gildi hinn 3. maí 2017. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda. Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda. I. Stefnandi er eigandi tveggja fiskiskipa, Hróðgeirs hvíta NS-89, með skipa­skráningar­númerið 7067 og Finna NS-21, með skipaskráningarnúmerið 1922. Hróðgeir Hvíti NS er án aflamarks, en stefnandi fær árlega úthlutað aflamarki á Finna NS. Stefnandi mun undanfarin ár hafa gert bæði fiskiskipin út á grásleppuveiðar, sem er tegund utan kvóta. Grásleppuveiðar eru háðar sérstöku leyfi frá Fiskistofu, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Sjávarútvegs- og landbúnaðar­ráðherra kveður nánar á um skipulag veiðanna með reglugerð, sem nánar verður vikið að hér á eftir.  Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákveður ár hvert fjölda leyfilegra veiðidaga á grásleppuveiðileyfi með reglugerð sem sett er með stoð í lögum nr. 116/2006. Hinn 22. febrúar 2017 setti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra reglugerð, nr. 164/2017, þar sem ákveðið var að fjöldi leyfilegra veiðidaga á grásleppuveiðileyfi hvers fiskiskips skyldi vera 20 samfelldir dagar fyrir vertíðina 2017. Veiðisvæðið sem skiptir máli hér er skilgreint í f-lið 3. gr. reglugerðarinnar og nefnist „Austurland, frá línu réttvísandi austur frá Fonti á Langanesi (grunnpunktur 9) 66°22,70 N 014°31,90 V að línu réttvísandi austur frá Hvítingum (grunnpunktur 18) 64°23,90 N 014°28,00 V“. Skyldi veiðitímabilið standa frá og með 20. mars til og með 2. júní. Hinn 4. apríl 2017, í kjölfar niðurstöðu vorralls Hafrannsóknastofnunar, setti ráðherra reglugerð nr. 290/2017, um breytingu á reglugerð nr. 164/2017, þess efnis að veiðidögum á grásleppu skyldi fjölgað í 36. Net Hróðgeirs Hvíta NS voru, að sögn stefnanda tekin úr sjó 23. apríl og veiðum á Finna NS lauk 25. apríl. Hinn 24. apríl mun stefnandi hafa sótt um leyfi til strandveiða fyrir Hróðgeir Hvíta NS, sem var gefið út 27. apríl 2017. Fyrir liggur að tillaga Hafrannsóknastofnunar um hámarksafla fyrir grásleppuvertíðina 2017 var upphaflega 2.030 tonn og eftir að stofnmæling lá fyrir í byrjun apríl var tillagan hækkuð í 6.355 tonn. Alls munu 259 bátar hafa fengið grásleppuveiðileyfi hjá Fiskistofu. Um veiðarnar gilti reglugerð nr. 164/2017, um hrognkelsaveiðar 2017. Veiðileyfi voru bundin við ákveðin svæði og hafði hvert svæði sitt veiðitímabil, skyldu leyfishafar veiða innan þess og voru leyfin gefin út til veiða í samfellda daga, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar. Veiðisvæðin voru sjö og á fjórum þeirra var tímabilið frá 20. mars til og með 2. júní, á tveimur svæðum frá 1. apríl til og með 14. júní og á einu svæði frá 20. maí til og með 2. ágúst. Upphaflega var úthlutað 20 dögum á hvern leyfishafa, eins og fyrri ár, en eftir að stofnmæling Hafrannsóknastofnunar lá fyrir og stofnunin hækkaði tillögu um hámarksafla var veiðidögum fjölgað í 36, sbr. reglugerð nr. 290/2017. Aflabrögð í upphafi vertíðar munu hafa verið léleg í samanburði við fyrri ár. Stefndi lýsir því svo að þegar líða fór á tímabilið hafi framkvæmdastjóri kavíarframleiðandans Vignis G. Jónssonar hf. bent ráðuneytinu á tölfræði um þetta og farið þess farið á leit að veiðidögum í grásleppu yrði fjölgað í þessu ljósi. Ráðuneytið mun hafa framsent erindi þetta til framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda (LS) og ítrekað með tölvuskeyti 18. apríl 2017. Í svari LS kom fram að grásleppunefnd LS myndi fjalla um málið þennan dag. Í svari LS, sem barst síðar þann dag, kom m.a. fram sú skoðun Landssambandsins að ekki ætti að fjölga dögum á grásleppuvertíðinni 2017 umfram þá 36 daga sem búið væri að úthluta leyfishöfum. Það væri mat LS að tillaga Hafrannsóknastofnunar um hámarksafla væri ekki skilaboð um að nauðsynlegt væri að veiða það magn. Bent var á að mælingar Hafrannsóknastofnunar sýndu að minna væri af grásleppu á þessari vertíð en á vertíðinni árinu áður. Það hefðu sjómenn sannreynt og því bæri að fara varlega í veiðarnar. Að sögn stefnda var, vegna andstöðu og ábendinga LS, ákveðið af hálfu ráðuneytisins að bíða með aðgerðir í þeirri von að veiðin myndi glæðast. Þá hafi fleiri aðilar haft samband við ráðherra og óskað eftir að veiðidögum í grásleppu yrði fjölgað í ljósi lélegra aflabragða. Að frumkvæði ráðherra hafi verið leitað afstöðu Hafrannsóknastofnunar um fjölgun veiðidaga, og hún hafi staðfest að niðurstöður stofnmælinga sem fram fóru fyrr um vorið væru þau viðmið sem stofnunin vísaði til, þ.e. að tillaga að hámarksafla myndi ekki breytast. Þann 26. apríl 2017 birti Fiskistofa frétt á heimasíðu sinni þar sem fjallað var um aflabrögð á grásleppuvertíðinni 2017. Fram kom að á fyrstu 38 dögum vertíðar væri grásleppuaflinn 2.236 tonn, nokkru minni afli en á síðustu vertíð en þá hafði 4.047 tonnum verið landað eftir 38 daga. Alls hefðu 157 grásleppuveiðileyfi verið virkjuð og afli á bát væri 11,2 tonn en árið áður hefði hann verið 20 tonn. Af hálfu stefnda hefur því verið lýst að á þessum tíma hafi þótt ljóst að veiði myndi ekki glæðast og yrði langt undir tillögu Hafrannsóknastofnunar um hámarksafla. Á þeim grunni hafi verið ákveðið að fjölga veiðidögum í grásleppu úr 36 dögum í 46. Fréttatilkynning þess efnis var sett á vefsvæði ráðuneytisins 29. apríl 2017. Í fréttinni var vísað til þess að heildarveiði á grásleppuvertíðinni hefði verið dræm sem rekja mætti til þess hve fá leyfi hefðu verið virkjuð og að aflabrögð hefðu verið með lakara móti. Þá kom einnig fram að ráðuneytinu væri ljóst að ákvörðun um fjölgun veiðidaga kæmi seint, en lengi hefði verið vonað að afli tæki að glæðast. Fyrir lægi að þeir sem hófu fyrst veiðar væru búnir að taka upp netin, en eftir sem áður væri mikið í húfi fyrir þá sem stunduðu grásleppuveiðar áfram og þá sem hefðu atvinnu af þeim í landi, m.a. við vinnslu. Undir lok sama dags barst ráðuneytinu tölvuskeyti frá formanni LS, þar sem spurt var hvernig færi með veiðarnar í framhaldinu og var honum svarað degi síðar. Þann 30. apríl 2017 birti Fiskistofa frétt á vef sínum um að ráðuneytið hefði ákveðið að fjölga veiðidögum um 10 í grásleppu og að fjölgun veiðidaga myndi taka gildi þann 3. maí 2017. Í fréttatilkynningu Fiskistofu kom fram að stofnunin myndi ekki gera kröfu um að þeir aðilar sem hygðust halda áfram grásleppuveiðum drægju upp net sín ef upp kæmi sú staða að þeir myndu veiða í fleiri en 36 daga fyrir 3. maí 2017. Þá kom einnig fram að þeir aðilar sem voru á grásleppuveiðum og höfðu þegar sótt um strandveiðileyfi sem þeir höfðu virkjað þannig að þeir hæfu strandveiðar á fyrsta degi strandveiðitímabilsins, 2. maí 2017, gætu frestað upphafi strandveiða sinna með því að senda tilkynningu þess efnis til Fiskistofu. Þá var þeim grásleppuveiðimönnum sem hygðust stunda strandveiðar eftir 3. maí 2017 og höfðu þegar greitt fyrir strandveiðileyfi og tilkynnt upphafsdag sinn bent á að þeir þyrftu fyrirfram að tilkynna Fiskistofu um frestun á upphafsdegi strandveiða sinna ef þeir ætluðu að nýta sér fjölgun á veiðidögum í grásleppu. Stefnandi lýsir því svo að 2. maí 2017, daginn áður en stefnandi hafi áætlað að fara í fyrsta róður á strandveiðum, hafi fyrirsvarsmaður hans lesið framangreinda frétt á vef Ríkisútvarpsins og jafnframt orðið þess áskynja að reglugerð þessa efnis skyldi taka gildi degi síðar, þ.e. 3. maí. Málshöfðun stefnanda byggir á því að félagið hafi á þessum tímapunkti enga möguleika haft á því að útbúa skip sitt til grásleppuveiða að nýju og hefja slíkar veiðar aftur. Vika hafi verið liðin frá því að stefnandi lauk veiðum á Finna NS og níu dagar frá því að Hróðgeir hvíti NS tók net í land. Stefnandi hafi því misst þau pláss sem hann hafði í sjónum til þeirra sem byrjuðu veiðar síðar á tímabilinu og voru enn að. Enginn mannskapur hafi heldur verið stefnanda tiltækur á þessum tíma. Svo sem boðað hafði verið af hálfu ráðuneytisins tók umrædd reglugerð, nr. 374/2017, gildi þann 3. maí 2017 og munu þá átta bátar hafa snúið aftur á grásleppuveiðar. Af þeim 80 bátum sem lokið höfðu veiðum áður en reglugerðin tók gildi hófu 28 bátar sem höfðu verið á grásleppuveiðum strandveiðar við upphaf strandveiðitímabilsins 3. maí 2017. Stefnandi hefur höfðað þetta mál til viðurkenningar á bótaskyldu stefnda vegna þess að hann kveðst ekki hafa getað nýtt sér fjölgun veiðidaga samkvæmt reglugerð nr. 374/2017. Stefndi mótmælir því sem röngu að stefnandi hafi ekki getað nýtt sér fjölgun veiðidaga. Auk þess telur stefndi ósannað að tjón hafi orðið sökum þessa. II. Stefnandi byggir á því að brotið hafi verið gegn honum með fjölgun veiðidaga eftir að hann var hættur veiðum og að fjölgun veiðidaga hafi verið framkvæmd með þeim hætti að hún nýttist ekki fyrir grásleppuveiðileyfi stefnanda eða honum hafi verið ókleift að nýta viðbótardagana. Ekki liggi nákvæmlega fyrir af hverju ráðherra hafi ákveðið svo seint sem raun ber vitni að fjölga veiðidögum hvers grásleppuveiðileyfis. Í svari ráðuneytisins 2. júní 2017 hafi komið fram að ástæða fjölgunarinnar hafi verið sú að veiði á grásleppu hafi í apríl 2017 verið undir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, en ráðuneytið telji mikilvægt að veiði sé ávallt sem næst ráðgjöf stofnunarinnar. Því hafi leyfilegum dögum verið fjölgað. Þessi rökstuðningur fái ekki staðist. Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sé ávallt ráðgjöf um veiðihámark. Ráðgjöf stofnunarinnar um svokallað upphafsaflamark grásleppu fyrir vertíðina 2017 hafi verið 2.030 tonn. Eftir vorrallið hafi hámarkið verið hækkað í 6.355 tonn og veiðidögum þá fjölgað um 16. Veiðiráðgjöfin sé sett fram sem ráðgjöf um hámark, sem veiðar skuli ekki fara fram yfir. Það sé ekki og hafi aldrei verið markmið veiðiráðgjafar að veiði skuli vera jöfn ráðgjöf um hámarksveiðar. Á hverju ári falli niður ónýttar fiskveiðiheimildir í mörgum fisktegundum án þess að gripið sé til sérstakra aðgerða af hálfu stjórnvalda. Veiði ráðist gjarnan af markaðsástæðum, svo sem lágu fiskverði. Hafi Landssamband smábátasjómanna t.d. ítrekað lagt til, m.a. við ráðherra sjávarútvegsmála, að heimilað yrði að veiða ufsa utan kvóta á strandveiðum, þar sem ufsakvóti hafi verið mjög vannýttur undanfarin ár. Þessu hafi ávallt verið hafnað og veiðar á ufsa árum saman verið langt undir veiðiráðgjöf. Því komi það á óvart að ráðuneytið haldi því fram nú að mikilvægt sé að tegundir séu veiddar í samræmi við ráðgjöf um hámarksveiði. Engin málefnaleg sjónarmið hafi komið fram um það af hverju ákveðið hafi verið að fjölga veiðidögum grásleppu á umræddu tímamarki, en ákvörðunin hafi verið fordæmalaus og fyrir henni hafi ekki verið rökbundin nauðsyn. Stefnandi telur ákvörðun þessa hafa fyrst og fremst verið tekna að beiðni kavíarframleiðenda og með þá hagsmuni að leiðarljósi. Stefnandi byggir á því að þó að öðru hafi verið haldið fram af ráðuneytinu hafi fjölgun leyfilegra veiðidaga grásleppuleyfis um 10 ekki tekið til allra þeirra sem fengið höfðu útgefið leyfi til hrognkelsaveiða 2017. Það eigi m.a. við um fiskiskip stefnanda. Því sé rangt að þeir sem ekki nýttu viðbótardagana beri sjálfir ábyrgð á því. Stefnandi byggir á því að þar sem fjölgunin hafi aðeins tekið til sumra veiðileyfishafa, en ekki annarra, hafi veiðileyfishöfum verið mismunað með ólögmætum hætti. Þessu til stuðnings bendir stefnandi á að samkvæmt reglugerð nr. 374/2017, sem breytti reglugerð nr. 164/2017, um hrognkelsaveiðar 2017, og fjölgaði veiðidögum um 10, hafi engin breyting verið gerð á því skilyrði að leyfi til grásleppuveiða væru gefin út til samfelldra veiðidaga. Þannig segi í reglugerð nr. 374/2017 að grásleppuveiðileyfi hvers báts skuli gefið út til 46 samfelldra daga. Til að bregðast við því að óheimilt sé að fara aftur á veiðar eftir að grásleppuveiðum lýkur var í 2. gr. reglugerðarinnar kveðið á um, til bráðabirgða, að þeim bátum sem hætt höfðu veiðum eða tekið upp net sín fyrir gildistöku reglugerðarinnar væri heimilt að hefja veiðar að nýju þrátt fyrir ákvæði 3. gr. um samfelldar veiðar. Grásleppuleyfi hafi hins vegar áfram verið bundið við 46 samfellda daga. Fiskiskip stefnanda hafi hafið grásleppuveiðar við upphaf veiðitímabilsins, dagana 20. og 21. mars 2017. Samfellt veiðitímabil þeirra teljist frá og með þeim dögum. Samkvæmt því hafi 46 samfelldir dagar verið liðnir fyrir Hróðgeir Hvíta NS, hinn 4. maí 2017, daginn eftir að reglugerðin tók gildi, og fyrir Finna NS degi síðar. Því hafi aðeins verið mögulegt að stunda veiðarnar á t.d. Hróðgeiri Hvíta NS í besta falli í tvo daga, þ.e.a.s. 3. og 4. maí. Veiðidagar fiskiskipa hans, 36 dagar á hvoru skipi, voru liðnir 24. og 25. apríl 2017. Það hefði aldrei borgað sig fyrir stefnanda að leggja aftur net í sjó 3. maí og draga þau öll upp aftur degi síðar. Stefnandi telur að staðið hafi verið að fjölgun veiðidaganna með þeim hætti að þeir sem hófu veiðar 20. mars 2017 hafi einungis getað hafið veiðar aftur, en þeim hafi ekki staðið til boða að stunda veiðarnar í 10 daga til viðbótar, þar sem veiðileyfi þeirra hafi áfram verið bundið við samfelldan dagafjölda. Þessum aðilum hafi ekki verið heimilt að hefja veiðar að nýju fyrr en í fyrsta lagi 3. maí 2017, er reglugerðin tók gildi. Það hafi því alls ekki verið ákvörðun þessara veiðileyfishafa sjálfra að nýta ekki 10 viðbótardaga, heldur hafi það einfaldlega ekki verið í boði samkvæmt reglugerðinni. Þessi aðferð hafi brotið gegn jafnræði leyfishafa grásleppuveiða, mismunað veiðileyfishöfum og leitt til fjárhagstjóns fyrir þá. Eðlilegra hefði verið að gefa leyfishöfum kost á að hefja aftur veiðar í 10 daga frá 3. maí 2017 og binda grásleppuleyfið við 46 daga, án orðsins „samfelldra“. Þá hefðu leyfishafar átt fræðilegan möguleika á að nýta viðbótina að hluta þótt stefnandi telji alls óvíst að það hefði borgað sig. Ástæður þess að það hefði ekki verið raunhæft að hefja aftur veiðar 3. maí fyrir þá sem þeim luku síðla í apríl, jafnvel þótt þeim hefðu staðið til boða 10 daga veiðar, séu nokkrar. Í fyrsta lagi hafi engan veginn verið víst að til þess fengist mannskapur. Í tilviki stefnanda hafi hann misst háseta sína til annarra starfa þegar reglugerð 374/2017 tók gildi. Í öðru lagi er á það bent, að þegar net eru tekin úr sjó missi menn það pláss sem þeir höfðu í sjónum fyrir net sín til annarra og verði því að leggja netin á öðrum og yfirleitt lakari veiðistöðum. Í þriðja lagi sé mikil fyrirhöfn að taka net upp úr sjó, færa upp á land og yfirfara eftir vertíð. Stefnandi hafði lokið því verki og einnig lokið netaafskurði eftir vertíðina og hafi því ekki átt jafnmörg net og áður. Í fjórða lagi hafi hann verið búinn að útbúa fiskiskip sín fyrir aðrar veiðar, m.a. annað skipið fyrir strandveiðar. Því fylgi bæði kostnaður og fyrirhöfn að breyta útbúnaði aftur. Undirbúningur fyrir grásleppuveiðar taki alla jafna nokkra daga. Því sé mjög óraunhæft að stefnanda hefði tekist að búa skip sín og veiðarfæri til veiða að nýju, jafnvel þótt reglugerð nr. 374/2017 hefði verið sett þannig að fjölgunin stæði öllum veiðileyfishöfum til boða með sama hætti. Af hálfu stefnanda er einnig á því byggt að sökum þess að félagið hafði þegar fengið útgefið strandveiðileyfi fyrir Hróðgeir hvíta NS þegar reglugerð 374/2017 tók gildi hafi stefnanda ekki verið heimilt að fara aftur á grásleppuveiðar með það skip. Í bréfi sjávarútvegsráðuneytisins 28. september 2017 segi að Fiskistofa hafi heimilað grásleppuveiðimönnum sem voru hættir veiðum og voru á leið á strandveiðar að fresta upphafi strandveiða „eftir tilteknum reglum“. Ekki komi þó fram í bréfinu hvaða reglur það séu. Í bréfinu segi að grásleppuveiðimenn hafi því getað frestað upphafi strandveiða og haldið áfram grásleppuveiðum. Stefnandi hafnar þessu og telur að Fiskistofu hafi verið þetta óheimilt. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. a í lögum nr. 116/2006 sé fiskiskipi óheimilt, eftir útgáfudag strandveiðileyfis, að stunda aðrar veiðar en strandveiðar til loka fiskveiðitímabilsins. Stefnandi hafi fengið útgefið leyfi til strandveiða 27. apríl 2017 og hafi því lögum samkvæmt glatað rétti til að stunda aðrar veiðar til loka fiskveiðiársins, 31. ágúst 2017. Fiskistofa hafi enga heimild til að breyta þessu. Engin heimild sé til þess í lögum nr. 116/2006 og ekki ljóst hvaða „tilteknu reglna“ vísað sé til varðandi verklag Fiskistofu.  Stefnandi vísar til þess að þar sem leyfi til hrognkelsaveiða séu veitt af stjórnvöldum hvíli sú skylda á þeim að sjá til þess að allar upplýsingar liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, svo og að gætt sé samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við þá úrlausn, sbr. 11. gr. sömu laga. Allir þeir sem fái úthlutað slíku opinberu leyfi til grásleppuveiða eigi að njóta sömu stöðu, að minnsta kosti að því marki sem framast sé unnt. Ef leyfi er gefið út til ákveðins dagafjölda sé óheimilt að framlengja leyfi sumra en ekki annarra. Óheimilt sé að mismuna þeim sem fái úthlutað slíku veiðileyfi samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga og 65. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944, bæði í raun og með ákvörðun sem geri rétthöfum ókleift að nýta réttindi sín. Að þessu hafi ekki verið gætt, heldur hafi sumum leyfishöfum einfaldlega verið úthlutað 10 viðbótardögum, en öðrum verið úthlutað í besta falli tveimur dögum, jafnvel þótt þeir leyfishafar hefðu viljað stunda veiðarnar. Í þessu hafi falist ómálefnaleg og ónauðsynleg mismunum sem valdið hafi stefnanda fjárhagstjóni. Stefnandi skírskotar til þess að það sé hlutverk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að setja reglur um hrognkelsaveiðar og það geri ráðherra með reglugerðum. Stefndi beri ábyrgð á því fjártjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir af því að honum var ekki úthlutað jafnmörgum dögum og öðrum leyfishöfum eða verið gert ókleift að halda áfram veiðum á grásleppu með fiskiskip sín. Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir fjártjóni vegna ólögmætrar og saknæmrar háttsemi ráðherra og telur það vera hafið yfir allan vafa. Flókið geti hins vegar verið að reikna tjónið út með nákvæmum hætti. Fyrir liggi að heildarveiði beggja fiskiskipa stefnanda á grásleppu 2017 hafi verið, samkvæmt upplýsingum á vef Fiskistofu, alls 52.999 kg yfir 36 daga veiðitímabil, eða að meðaltali 1.472 kg. á dag. Kílóverð á veiddri grásleppu á vertíðinni 2017 hafi verið 180 krónur. Heildaraflaverðmæti stefnanda hafi verið 9.539.820 kr. Stefnandi telur að hefði félagið átt þess kost að framlengja vertíð sína um 10 daga megi ætla að fiskiskip hans hefðu hæglega getað veitt um 15.000 kg af grásleppu til viðbótar. Meðalaflaverðmæti hvers úthaldsdags hafi samkvæmt framangreindu verið um 134.000 kr. fyrir hvorn bát. Mögulegt viðbótaraflaverðmæti hefði samkvæmt framangreindu getað numið allt að þremur milljónum króna, en frá því dragist kostnaður. Því næst hefði stefnandi sótt um strandveiðileyfi fyrir Hróðgeir hvíta NS, sem hefði byrjað strandveiðar mánudaginn 8. maí, en strandveiðar séu aðeins heimilar mánudaga til fimmtudaga. Fyrsti strandveiðiróðurinn hafi verið farinn 3. maí. Finni NS-21 hafi í kjölfar grásleppuveiða byrjað að veiða úthlutað aflamark skipsins, en hann fór í fyrsta slíkan róður 5. maí 2017. Því sé ljóst að stefnandi hafi orðið fyrir verulegu fjárhagstjóni við það að fjölgun veiðidaga um nærri þriðjung var framkvæmd með þeim hætti að stefnandi fékk í engu notið aukningarinnar þó að fiskiskip hans hafi verið með gild leyfi til hrognkelsaveiða og átt að sitja við sama borð og aðrir leyfishafar. Er krafist viðurkenningar á bótaskyldu stefnda vegna þessa. III. Stefndi byggir sýknukröfu sína m.a. á þeim málsástæðum að markaðsaðstæður og veðurskilyrði hafi valdið því að stefnandi hafi ákveðið að fresta ekki strandveiðum sínum. Grundvöllur þeirrar ákvörðunar stefnanda að hætta grásleppuveiðum sé stefnda með öllu óviðkomandi. Meintu tjóni stefnanda sé sérstaklega mótmælt sem röngu og ósönnuðu. Samkvæmt upplýsingum frá Verðlagsstofu skiptaverðs hafi fengist 170,50 krónur fyrir hvert kíló af grásleppu í mars 2017. Verðið hafi hækkað um 4 krónur og 4 aura í apríl og aftur um 1 krónu og 29 aura í maí og þá hafi fengist greiddar 175,83 krónur fyrir hvert kíló af óslægðri grásleppu. Óumdeilt sé að stefnandi hafi hafið strandveiðar í byrjun maí 2017. Finni NS hafi verið gerður út á net en Hróðgeir Hvíti NS á handfæri. Samkvæmt upplýsingum frá Verðlagsstofu skiptaverðs hafi verðmæti vegins meðaltals óslægðrar ýsu veiddrar í net numið 253,93 krónum á kíló í maí 2017 og 201,57 krónum fyrir óslægðan þorsk. Vegið meðaltal fyrir óslægðan þorsk sem veiddur var á handfæri í maí 2017 hafi numið 192,20 krónum á kílóið og fyrir óslægða ýsu 237.99 krónum. Stefndi telur því ljóst að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu fjárhagslegu tjóni vegna þess að hann nýtti sér ekki þá 10 daga fjölgun á grásleppuveiðileyfi sem reglugerð nr. 374/2017 kvað á um þar sem bátar stefnanda hafi verið nýttir í aðrar og arðbærari veiðar. Ætluðu fjártjóni stefnanda er því mótmælt af stefnda hálfu, sem ósönnuðu. Að mati stefnda beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Stefndi bendir á að auk þess liggi fyrir að launakostnaður við strandveiðar sé minni en við grásleppuveiðar, enda óumdeilt að þær síðarnefndu krefjist meiri mannafla. Stjórnsýslulög nr. 37/1993 gildi ekki um setningu stjórnvaldsfyrirmæla, eins og skýrlega sé tekið fram í 2. mgr. 1. gr. þeirra laga. Stefndi bendir á að samkvæmt 14. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands bera ráðherrar ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, sbr. og 1. gr. laga um stjórnarráð Íslands nr. 115/2011. Ráðherrar setji reglugerðir í skjóli þeirra valdheimilda sem þeim séu fengnar í lögum. Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 79/1997 sé kveðið á um að ráðherra skuli kveða nánar á um skipulag grásleppuveiða og veiðitíma í reglugerð, sbr. og 14. gr. laganna. Reglugerð nr. 374/2017, um breytingu á reglugerð nr. 164/2017, um hrognkelsaveiðar 2017, hafi verið sett samkvæmt lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum og lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Tilgangur og markmið hvorra tveggja þessara laga sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna sjávar og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Þau sjónarmið séu almennt talin málefnaleg sem til þess séu fallin að ná fram markmiði þeirra laga sem ákvörðun er byggð á. Þegar ráðherra ákvað að fjölga veiðidögum með setningu reglugerðar hafi legið fyrir að landaður grásleppuafli var helmingi minni en á fyrra ári og hefði vart náð þriðjungi þess afla sem Hafrannsóknastofnun hafði lagt til að veiddur yrði á fiskveiðiárinu. Líkt og fram komi í stefnu hafi veður verið óhagstætt. Einnig hafi verið mikill þorskur á veiðislóðum þannig að net hafi verið lögð grynnra þar sem minna var af þorski. Aflabrögð hafi verið léleg, heildarafli á grásleppuvertíðinni 2017 hafi numið 4.500 tonnum, tæpum 2.000 tonnum minna en Hafrannsóknastofnun lagði til. Stefndi skírskotar til þess að hrognkelsi séu skammlíf tegund og mikilvægt að afli hvers árs taki mið af stofnstærð þess árs. Um hrognkelsi gildi því ekki sömu forsendur um millifærslur aflaheimilda milli ára og hjá mörgum langlífari tegundum. Hafrannsóknastofnun hafi undanfarin ár lagt áherslu á að afli hvers árs sé miðaður við stofnstærð þess árs. Það hafi eingöngu verið nýtingar- og hagkvæmnisjónarmið sem lágu að baki fjölgun veiðidaga og þau sjónarmið séu í samræmi við markmið framangreindra laga. Það hafi verið á þessum málefnalega grundvelli sem ráðherra tók ákvörðun um fjölgun veiðidaga eftir að hafa vegið og metið ólík sjónarmið sem teflt hafði verið fram við ráðherra, meðal annars af hagsmunaaðilum og Hafrannsóknastofnun. Í daglegri umsýslu við stjórnun fiskveiða komi hagsmunaaðilar oft með athugasemdir eða óskir um breytta framkvæmd með vísan til ákveðinna aðstæðna. Ráðuneytið skoði þær beiðnir á málefnalegum forsendum í ljósi hagkvæmni og nýtingarsjónarmiða. Málástæðum stefnanda þess efnis að ráðuneytið hafi verið að hygla einum aðila sé mótmælt sem röngum, órökstuddum og ósönnuðum, enda leggi sá aðili ekki sjálfur stund á grásleppuveiðar. Öndverðum málsástæðum stefnanda er mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi sætt ójafnræði. Reglugerð nr. 374/2017 hafi að geyma almenn stjórnvaldsfyrirmæli og taki jafnt til allra sem höfðu fengið útgefin grásleppuveiðileyfi á vertíðinni 2017. Ekkert í lögum, reglum né framkvæmd hafi girt fyrir það að stefnandi eða aðrir í hans stöðu nýttu sér þá 10 daga fjölgun veiðidaga sem reglugerðin kvað á um. Bráðabirgðaákvæðið í 2. gr. reglugerðarinnar sé skýrt. Þar segir að ekki sé gerð krafa um samfellda veiði hjá þeim aðilum sem höfðu tekið upp net sín við gildistöku reglugerðarinnar. Einnig sé þar tekið skýrlega fram að þeim sé heimilt að hefja veiðar að nýju. Breytt framkvæmd hafi verið auglýst m.a. á heimasíðu Fiskistofu 30. apríl 2017. Sama dag hafi formaður LS lagt að ráðuneytinu að svara því hvaða áhrif reglugerðarbreytingin myndi hafa á þá aðila sem væru að ljúka veiðum eða hefðu lokið þeim. Í tilkynningu Fiskistofu hafi verið tekið fram með skýrum hætti að ekki yrði gerð krafa um að grásleppuveiðimenn tækju net úr sjó fyrir gildistöku reglugerðar nr. 374/2017 og um frestun á gildistöku strandveiðileyfa. Þá liggi fyrir að aðilum sem voru í sömu stöðu og stefnandi, þ.e. höfðu tekið upp net sín fyrir 30. apríl 2017, gafst kostur á að hefja veiðar að nýju. Sú staðreynd að stefnandi kaus að nýta sér ekki viðbótardagana baki stefnda ekki bótarétt. Það að handhafi veiðileyfis meti það svo, af hagkvæmnisástæðum,að ekki svari kostnaði fyrir hann, með tilliti til rekstrarkostnaðar, að halda á ný til veiða byggi á rekstrarforsendum sem séu stefnda óviðkomandi. Þá verði ekki séð að til skaðabótakröfu geti stofnast þar sem sem stefnandi virðist hafa talið að hann hefði ekki getað lagt net sín á jafngjöful mið og áður. Þetta séu allt aðstæður sem stefnandi sjálfur hafi haft forræði yfir og metið sem svo að það væri ekki hagkvæmt fyrir hans rekstur að nýta sér fjölgun veiðidaga í grásleppu. Stefndi vísar til þess að áform um fjölgun veiðidaga hafi orðið opinber 21. apríl 2017 þegar LS birti frétt þess efnis að grásleppunefnd samtakanna hefði hafnað fjölgun veiðidaga. Ljóst hafi því verið á þeim tíma að ráðuneytið væri að skoða fjölgun veiðidaga í grásleppu vegna lélegra aflabragða. Í ljósi þess að aflabrögð bötnuðu ekki hafi leyfishöfum mátt vera ljóst að fjölgun veiðidaga á grásleppuvertíðinni stæði jafnvel til. Stefndi mótmælir þeirri staðhæfingu stefnanda að þeir leyfishafar sem þegar höfðu hætt veiðum hefðu einungis getað nýtt örfáa daga af þeim 10 sem bætt var við með reglugerðinni vegna kröfu um samfelldar veiðar. Staðreyndir tali öðru máli, átta leyfishafar sem þegar höfðu lokið veiðum og tekið upp net sín þegar reglugerð nr. 374/2017 tók gildi hafi snúið aftur á grásleppuveiðar. Þessir aðilar hafi verið í sömu stöðu og stefnandi. IV. Við aðalmeðferð málsins gaf fyrirsvarsmaður stefnanda, Birgir Ingvarsson, aðilaskýrslu. Þá gáfu skýrslu sem vitni þeir Jón Tryggvi Árnason útgerðarmaður, Jóhann Guðmundsson, starfsmaður hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, og Þorsteinn Hilmarsson, sviðsstjóri á Fiskistofu. Málatilbúnaður stefnanda er á því reistur að brotið hafi verið gegn félaginu með fjölgun veiðidaga eftir að stefnandi var hættur hrognkelsaveiðum. Viðurkenningarkröfu sína setur stefnandi fram með vísan til ákvæðis 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, sem heimilar að leitað sé viðurkenningardóms um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands ef aðili hefur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr slíkri kröfu. Skilyrði fyrir slíkri kröfugerð er að aðili telji sig hafa orðið fyrir tjóni og leiði líkur að því að svo hafi verið.                 Í forgrunni þess ágreinings sem uppi er í máli þessu stendur reglugerð nr. 374/2017, um 2. breytingu á reglugerð nr. 164/2017, um hrognkelsaveiðar 2017. Reglugerðin nr. 374/2017 tók gildi 3. maí 2017. Í 1. gr. reglugerðar þessarar var tekið fram að grásleppuveiðileyfi hvers báts skuli gefið út til „46 samfelldra daga“. Í 2. gr. sömu reglugerðar er að finna bráðabirgðaákvæði sem hljóðar nánar svo: Við reglugerðina bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða: Þeim bátum sem hætt hafa veiðum eða tekið upp net sín fyrir gildistöku þessarar reglugerðar er heimilt að hefja veiðar að nýju þrátt fyrir ákvæði 3. gr. um samfelldar veiðar. Stefnandi heldur því fram að svo illa hafi verið staðið að fjölgun veiðidaga með reglugerð nr. 374/2017 að stefnanda hafi verið ókleift að nýta sér viðbótardagana. Með vísan til framburðar Birgis Ingvarssonar, fyrirsvarsmanns stefnanda, við aðalmeðferð málsins hér fyrir dómi, má leggja til grundvallar að hann hafi verið upplýstur um téða framlengingu eigi síðar en 1. maí 2017, eftir símtal þar að lútandi frá Axel Helgasyni, formanni Landssambands smábátaeigenda. Að þessu fram komnu verður þykir mega leggja til grundvallar að tilkynning sem birtist á vef Fiskistofu 30. apríl 2017 hafi mátt vera stefnanda kunn frá og með 1. maí 2017. Í tilkynningunni var frá því greint að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefði boðað að veiðidögum á grásleppu yrði fjölgað „úr 36 í 46 með reglugerð sem tekur gildi nk. miðvikudag, 3. maí.“ Síðar í sömu tilkynningu segir orðrétt, undir fyrirsögninni „Grásleppuveiðimenn geta frestað að hefja strandveiðar“: Ennfremur hafa sumir aðilar á grásleppuveiðum þegar sótt um og greitt fyrir strandveiðileyfi sem þeir hafa virkjað þannig að þeir fari af grásleppu á strandveiðar á fyrsta degi strandveiðitímabilsins, sem er þriðjudagurinn 2. maí. Fiskistofa hefur ákveðið að þeir grásleppuveiðimenn sem þannig er ástatt fyrir og vilja nýta sér fjölgun veiðidaga á grásleppu geti með því að senda Fiskistofu tilkynningu með tölvupósti á [email protected] fyrir lok dags þriðjudaginn 2. maí frestað upphafi strandveiða sinna til þess dags sem þeir tilkynna í tölvupóstinum. Fiskistofa bendir þeim öðrum grásleppuveiðimönnum sem hafa sótt um og greitt fyrir strandveiðileyfi og tilkynnt um upphafsdag sinna strandveiða 3. maí eða síðar að þeir þurfa að tilkynna Fiskistofu með tölvupósti á [email protected] um frestun á upphafsdegi strandveiða sinna ef þeir vilja nýta sér fjölgun á veiðidögum á grásleppu.   Með vísan til þessara tilvitnuðu orða af vef Fiskistofu, sem Þorsteinn Hilmarsson, sviðsstjóri hjá þeirri stofnun, staðfesti í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins hér fyrir dómi að hefði verið fylgt í framkvæmd, verður ekki á það fallist að fyrirsvarsmenn stefnanda hafi mátt líta svo á að grásleppuveiðileyfi stefnanda teldust hafa verið fallin úr gildi vegna útgáfu strandveiðileyfis, sem fyrir liggur að stefnandi fékk útgefið 27. apríl 2017 fyrir skipið Hróðgeir hvíta NS-89. Tekið skal fram að ekkert hefur komið fram í málinu sem sýnir að samsvarandi leyfi hafi verið gefið út til stefnanda vegna Finna NS-21. Ágreiningslaust er að stefnandi sótti ekki um frestun á téðu strandveiðileyfi Hróðgeirs hvíta, en samkvæmt framlögðu leyfisbréfi Fiskistofu gilti leyfið frá og með 2. maí 2017.                 Fyrir liggur að veiðitímabili grásleppuveiða átti ekki að ljúka fyrr en 26. apríl 2017, sbr. ákvæði 1. gr. reglugerðar um 1. breytingu á reglugerð nr. 164/2017 um hrognkelsaveiðar 2017 sem tók gildi 4. apríl 2017. Ágreiningslaust er að af hálfu stefnanda var tekin ákvörðun um að láta skip félagsins hætta grásleppuveiðum 23. apríl 2017 annars vegar og 25. sama mánaðar hins vegar. Fram hefur komið af hálfu stefnanda að í framhaldi hafi verið unnið að netaafskurði og undirbúningi strandveiða skipanna. Af hálfu stefnanda sjálfs hefur þó jafnframt komið fram að félagið hafi átt önnur net en þessi. Ákvarðanir stefnanda um netaafskurð og annað sem því tengist hafa af þeim sökum ekki sérstakt vægi í málinu. Þá er með öllu ósannað að stefnanda hafi verið ómögulegt að ráða háseta á báta sína til áframhaldandi grásleppuveiða á grundvelli reglugerðar nr. 374/2017. Málsástæður stefnanda um netalagnir eru sama marki brenndar. Stefnandi hefur ekki lagt fram nægjanlegan rökstuðning fyrir ætluðu tjóni, svo sem vegna breytinga á veiðarfærum eða vegna mannaráðningamála útgerðarinnar, sem stutt gætu niðurstöðu sem telja mætti stefnanda í vil í máli þessu. Þannig skortir mjög á að haldbær gögn hafi verið lögð fram um hið ætlaða tjón stefnanda. Á þetta bæði við um umfang tjónsins og orsakasamhengi. Í síðastnefndu samhengi hefur dómurinn ekki litið fram hjá því að sú ákvörðun ráðherra um framlengingu, sem tók gildi samkvæmt reglugerð nr. 374/20017 var í grunninn ívilnandi fyrir veiðileyfishafa. Þótt birting ákvörðunarinnar hafi verið síðbúin getur tímasetningin ein ekki riðið baggamuninn við úrlausn um kröfur stefnanda í máli þessu. Óhagræði sem af þessu kann að hafa leitt verður hér ekki talið jafngilda ómöguleika í tilviki stefnanda. Þótt fyrirvari ráðuneytisins hafi verið skammur er slíkt ekki svo óalgengt í framkvæmd að það atriði geti, án þess að fleira komi til, leitt til viðurkenningar á bótaskyldu. Við umfjöllun um viðurkenningarkröfu stefnanda verður ekki annað lagt til grundvallar en að stefnandi sé sjálfur best til þess fallinn að taka ákvarðanir um tilhögun veiða fiskiskipa sinna, út frá hagkvæmnismati hverju sinni. Meðan ekki hefur verið sýnt fram á að uppfyllt séu bótaskilyrði hlýtur stefnandi einn að bera ábyrgð á afleiðingum þeirra ákvarðana sem teknar hafa verið í rekstri félagsins. Að mati dómsins er áður tilvitnað orðalag 2. gr. reglugerðar nr. 374/2017  nægjanlega afdráttarlaust um heimildir til áframhaldandi veiða á hrognkelsum. Verður samkvæmt því ekki fallist á það með stefnanda að fyrirsvarsmenn félagsins hafi mátt vera í réttmætum vafa um heimildir sínar til grásleppuveiða eftir birtingu síðastnefndrar reglugerðar. Af hálfu stefnda hefur undir rekstri málsins verið bent á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem ástæðu þess að veiðidögum var fjölgað. Ákvörðun sú sem hér um ræðir var tekin með almennum hætti og á grundvelli lagaheimildar þar að lútandi. Stefnandi hefur ekki fært fram nokkrar viðhlítandi röksemdir fyrir málsástæðum sínum um ólögmæta mismunun ellegar að stefndi hafi dregið taum tiltekinna útgerða á kostnað stefnanda. Af öllu þessu leiðir að ekki verður á það fallist með stefnanda að ómálefnaleg sjónarmið hafi legið að baki ákvörðun um fjölgun veiðidaga. Fyrir liggur í máli þessu að á því tímabili sem málshöfðun þessi lýtur að nýtti stefnandi skip sín til annarra veiða. Af framlögðum gögnum verður ekki annað ráðið en að stefnandi hafi haft tekjur af þeim veiðum. Gagnaframlagningu stefnanda er þó ábótavant að þessu leyti og telst félagið ekki hafa uppfyllt áskilnað 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um líkur á því að tjón hafi orðið og í hverju það felist, þannig að sýnt þyki að tekjur stefnanda af strandveiðum á umræddu tímabili hafi verið rýrari en þær sem félagið hefði getað haft af grásleppuveiðum á sama tíma. Samkvæmt öllu framanskráðu verður ekki á það fallist að stefnandi hafi fært fram slík rök fyrir viðurkenningarkröfu sinni að líkur séu fyrir því að félagið hafi orðið fyrir tjóni sökum atvika sem stefndi beri ábyrgð á. Að þessu athuguðu og með vísan til skorts á sönnunargögnum frá stefnanda að öðru leyti verður ekki á það fallist að félaginu hafi verið gert ókleift að halda aftur á hrognkelsaveiðar á þeim tíma sem hér um ræðir. Að öllu framanrituðu virtu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Eftir þessum úrslitum málsins verður stefnandi, samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, dæmdur til greiðslu málskostnaðar sem telst hæfilega ákveðinn 1.000.000 krónur. Arnar Þór Jónsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð: Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Hróðgeirs hvíta ehf., í máli þessu. Stefnandi greiði stefnda 1.000.000 króna í málskostnað.
Mál nr. 30/2019
Lögmaður Úrskurðarnefnd Aðild Stjórnarskrá Sératkvæði
J höfðaði mál þetta á hendur L og krafðist ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna þar sem honum var gert að sæta áminningu vegna tilgreindrar framgöngu sinnar í samskiptum við dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur. Í málinu greindi aðila á um hvort L hefði heimild til að leggja fram kvörtun á hendur félagsmanni til úrskurðarnefndarinnar. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn væri sérhverjum þeim sem teldi að lögmaður hefði í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríddi gegn lögum eða siðareglum heimilað að leggja fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum vegna þess. Þrátt fyrir framangreint orðalag ákvæðisins yrði það þó ekki skýrt á þann veg að samkvæmt því gæti hver átt sök sem vildi, enda væri það skilyrði jafnframt sett að sá hinn sami teldi að gert hefði verið á „sinn hlut“. Yrði ekki talið að í ákvæðinu fælist frávik frá almennum reglum stjórnsýsluréttar um nauðsyn beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna til kæruaðildar. Var hvorki talið að í ákvæði 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 fælist nægilega skýr lagaheimild fyrir L til að bera fram kvörtun vegna hinnar meintu háttsemi J né að hagsmunir félagsins vegna hennar væru slíkir að félagið teldist hafa öðlast þann rétt. Var hinn áfrýjaði dómur staðfestur og úrskurðurinn felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma Haraldur Henrysson, fyrrverandi hæstaréttardómari, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Eggert Óskarsson, fyrrverandi héraðsdómari, Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari og Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrverandi héraðsdómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. júní 2019. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti. Stefndi krefst staðfestingar á dómi Landsréttar og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I Mál þetta á rætur að rekja til samskipta stefnda við dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur síðla árs 2016 í framhaldi af beiðni hins fyrrnefnda um flýtimeðferð máls sem hann hugðist höfða fyrir dómstólnum til ógildingar á rekstrar- og starfsleyfum tiltekins aðila. Stefndi taldi sig hafa fengið jáyrði dómstjórans fyrir því að hann þyrfti ekki að senda öll gögn málsins, sem voru viðamikil, með beiðninni. Hins vegar hafnaði dómstjórinn beiðninni og byggðist synjunin á því að nauðsynleg gögn hefðu ekki fylgt. Stefndi sendi þá dómstjóranum tölvubréf og lýsti þeirri skoðun á bréfi dómstjórans að það væri „furðulegt og reyndar eins konar högg undir beltisstað.“ Þá kvaðst hann ekki muna eftir „svona framgöngu embættismanns eða dómara fyrr á starfsæfi minni, sem spannar um hálfa öld“ og bætti við orðunum: „Vonandi sefur þú vel næstu nótt.“ Dómstjórinn svaraði þessu og kvaðst hafa sagt í fyrra samtali þeirra að ekki væri nauðsynlegt að senda öll gögnin en að hann hefði nefnt sem dæmi að væri óskað flýtimeðferðar vegna ákvörðunar stjórnvalds þá þyrfti ákvörðunin að sjálfsögðu að fylgja. Að öðru leyti kvaðst hann ekki hirða um ávirðingar stefnda. Þessu svaraði stefndi með tölvuskeyti nokkru síðar og kvaðst finna hjá sér þörf fyrir að ljúka þessum óskemmtilegu samskiptum við dómstjórann, mann sem hann hefði „jafnan talið að væri þokkalega heiðarlegur maður með sæmilegt jarðsamband.“ Tók hann fram að í ljósi samskiptanna hefðu allir venjulegir menn tekið upp símann og gert viðvart um vöntun gagna og bætti síðan við „[e]n ekki þú hinn mikli dómstjóri! Svo sendir þú mér í þokkabót svar sem er fullt af hroka og yfirlæti. Ef satt skal segja kenni ég í brjósti um þig. Menn sem koma svona fram eru að mínum dómi varla í góðu jafnvægi. Ég mun núna eftir helgina senda að nýju óskina um flýtimeðferð, þó ekki væri til annars en að skemmta þér í yfirlæti þínu.“ Sendi hann síðan nýja beiðni um flýtimeðferð til Héraðsdóms Reykjavíkur en henni var hafnað með þeim rökum að hvorki væri séð að brýn þörf væri á skjótri úrlausn málsins né að sú úrlausn hefði slíka þýðingu fyrir skjólstæðing stefnda að rétt væri að verða við beiðninni. Í framhaldi þessa sendi stefndi dómstjóranum enn tölvuskeyti þar sem hann sagði meðal annars að dómstjórinn ætti að láta af hroka og yfirlæti sem svo mjög hefði einkennt afgreiðslu  hans á málinu. Miklu betur færi á því að sleppa slíku þó að menn kynnu að líta stórt á sig. Þeim liði að jafnaði betur þannig.      Ofangreind samskipti urðu tilefni bréfs dómstjórans til formanns áfrýjanda 4. janúar 2017 þar sem hann vakti athygli á framgöngu stefnda sem að sínu áliti bæri vott um „fádæma dónaskap, virðingarleysi og vanstillingu“ stefnda gagnvart verkefnum dómstjórans eftir að hann hafði tvívegis hafnað beiðni stefnda um flýtimeðferð. Kvaðst dómstjórinn telja einsýnt að háttsemi stefnda bryti í bága við 19. gr. siðareglna lögmanna, „hvað þá almenna kurteisi og samskiptavenjur.“ Dómstjórinn tók fram að honum væri ekki kunnugt um hvernig dómari eða dómstjóri ætti að fara með mál sem þetta og léti sig ekki varða hvort félagið kysi að aðhafast en óskaði þess aðeins að hvorki hann né aðrir í sömu stöðu þyrftu eftirleiðis að sitja undir slíkum skætingi sem þarna um ræddi. Stjórn áfrýjanda fjallaði um bréf þetta á fundi og sendi stefnda bréf 24. janúar 2017 og óskaði afstöðu hans og skýringa á umræddum samskiptum. Því bréfi svaraði stefndi 31. janúar og greindi frá atvikum eins og þau horfðu við honum. Taldi hann framkomu dómstjórans í sinn garð ámælisverða og bréf hans gæfi sérstakt tilefni til að spyrja hann hvernig hann færi með eftirlits- og agavald yfir dómurum sem starfa við dómstól hans þar sem brotinn sé freklega réttur á borgurum. Með bréfi 8. mars 2017 sendi stjórn áfrýjanda úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun og krafðist þess að nefndin úrskurðaði hvort háttsemi stefnda, sem nánar var lýst í bréfinu, samrýmdist siðareglum lögmanna og teldist svo ekki vera yrðu honum ákvörðuð viðurlög til samræmis við tilefnið. Stefndi krafðist þess í bréfi 23. mars 2017 að málinu yrði vísað frá nefndinni en ella synjað kröfu um að honum yrðu ákveðin viðurlög. Úrskurðarnefndin úrskurðaði 26. maí 2017 að stefndi hefði brotið gegn 19. gr. siðareglna lögmanna og skyldi hann sæta áminningu. Í niðurstöðu nefndarinnar segir meðal annars: „Þegar metin eru þau skrif sem kærði sendi dómstjóranum í Reykjavík og fólu í sér viðbrögð kærða við úrlausn hans, er það mat nefndarinnar að kærði hafi farið langt út fyrir þau mörk sem ákvæði 19. gr. siðareglna lögmanna setur. Það getur ekki talist eðlilegt að lögmenn setji sig í beint samband við dómendur til að fjalla um óánægju sína með úrlausnir þeirra eftir að þær koma fram með þeim hætti sem gert var. Einstök ummæli kærða í þessum samskiptum, sem að ofan eru rakin, um högg undir beltisstað, um nætursvefn dómarans, hroka, yfirlæti, skort á jarðsambandi, heiðarleika og að hann sé varla í góðu jafnvægi, eru fjarri því sem er viðeigandi í samskiptum lögmanna við dómendur. Með þessu er gefið í skyn að umræddan dómara skorti þá lyndiseinkunn sem dómara þarf að prýða og dómstólalög gera ráð fyrir. Ekkert tilefni var til þessa. Ekki fæst séð að þessi tilskrif kærða hafi á nokkurn hátt þjónað þeim tilgangi að gæta hagsmuna skjólstæðingsins og verða þau ekki réttlætt með því. ... Við ákvörðun viðurlaga er horft til þess að brot kærða lýtur að þeim mikilvægu hagsmunum réttarkerfisins að samskipti séu fagleg og grundvölluð á virðingu. Víki lögmenn frá þessu í andstöðu við lög eða siðareglur er farið gegn þeim hagsmunum og þar með einnig hagsmunum skjólstæðinga þeirra. Nefndin telur brot kærða alvarlegt og sætir hann áminningu vegna þess.“    Stefndi höfðaði síðan mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 13. október 2017 til ógildingar á ofangreindum úrskurði. Með dómi héraðsdóms 17. maí 2018 var áfrýjandi sýknaður af kröfum stefnda. Var þeirri niðurstöðu snúið við með dómi Landsréttar 5. apríl 2019 þar sem fallist var á kröfur stefnda og úrskurðurinn felldur úr gildi. Áfrýjunarleyfi var veitt fyrir Hæstarétti á þeim grunni að dómur í málinu hefði verulegt almennt gildi um skýringu 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. II Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi er mælt fyrir um starf og hlutverk áfrýjanda í lögum nr. 77/1998 um lögmenn, en með lögmanni er eftir 1. mgr. 1. gr. laganna átt við þann sem hefur leyfi til að flytja mál fyrir héraðsdómstólum, Landsrétti eða Hæstarétti Íslands. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna skulu lögmenn hafa með sér félag sem nefnist Lögmannafélag Íslands og er þeim öllum skylt að vera þar félagsmenn. Í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar segir að engan megi skylda til aðildar að félagi, en með lögum megi þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998 setur félagið sér samþykktir og skal það ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem sérstaklega er mælt fyrir um í lögum, sbr. þó 5. mgr. sömu greinar um að félagið geti starfrækt deild eða deildir sem félagsmönnum er frjálst að eiga aðild að. Í 3. mgr. 3. gr. laganna segir að í tengslum við áfrýjanda skuli starfa sjálfstæð úrskurðarnefnd lögmanna, sem hafi lögsögu yfir lögmönnum er starfa hér á landi og er þar mælt fyrir um hvernig hún skuli skipuð. Eftir 4. mgr. skal áfrýjandi bera kostnað af störfum sem félaginu og úrskurðarnefnd lögmanna eru falin með lögum. Í 1. mgr. 5. gr. er kveðið á um að áfrýjandi komi fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum og í 2. mgr. sömu greinar segir að áfrýjandi setji siðareglur fyrir lögmenn. Í 1. mgr. 27. gr. laganna segir að telji einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum samkvæmt 2. mgr. 5. gr. geti hann lagt kvörtun fyrir úrskurðarnefndina. Er þar vísað til siðareglna sem áfrýjandi hefur sett fyrir lögmenn (Codex Ethicus) 17. mars 2000 með síðari breytingum. III Ágreiningur  er milli aðila málsins um það hvernig túlka eigi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og þá hvort áfrýjandi hafi heimild til að leggja fram kvörtun á hendur félagsmanni fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Áfrýjandi heldur því fram að hann hafi slíkan rétt og að við úrlausn málsins þurfi annars vegar að huga að réttri túlkun ákvæðisins og hins vegar að hagsmunum áfrýjanda af því að lögmenn virði ákvæði siðareglna í samskiptum við dómstóla. Telur hann að ályktun sú sem dregin er í hinum áfrýjaða dómi af lögskýringargögnum við túlkun ákvæðisins sé með öllu órökrétt. Vitnar hann til umfjöllunar um ákvæðið á Alþingi þar sem í upphafi hafi verið gert ráð fyrir að einungis umbjóðandi lögmanns gæti lagt fram kvörtun til úrskurðarnefndarinnar teldi hann lögmanninn hafa gert á sinn hlut. Þessu hafi verið breytt í meðförum þingnefndar í núgildandi horf með þeirri skýringu meðal annars að eðlilegt væri að víkka heimildina út þannig að um greiða kæruleið yrði að ræða. Augljóst sé að löggjafinn hafi talið að áfrýjandi hefði verulega hagsmuni af því að lögmenn gerðust ekki sekir um framferði er telja mætti stéttinni ósamboðið. Í hinum áfrýjaða dómi sé hvergi vikið að þessum hagsmunum. Þá vísar áfrýjandi til 43. gr. siðareglna er hann hefur sett samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 77/1998. Hann telur engar vísbendingar að finna í lögskýringargögnum um að eftirlitsskyldur áfrýjanda væru aflagðar eða fyrir það girt að hann gæti vísað málum sem hann hefði hagsmuni af til úrskurðarnefndarinnar. Áfrýjandi byggir á því að í þessu máli séu hagsmunir hans verulegir, beinir og lögvarðir. Stefndi hafi því gert á hlut hans í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Stefndi byggir á því að stjórn áfrýjanda hafi ekki heimild til að kvarta til úrskurðarnefndar lögmanna vegna samskipta lögmanns við dómara og að með kvörtun sinni hafi áfrýjandi farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt, í beinni andstöðu við lög og þau sjónarmið er gildi um neikvætt félagafrelsi, sbr. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. stjórnskipunarlög nr. 97/1995. Með lögum nr. 77/1998 hafi eftirlitshlutverk áfrýjanda verið fellt niður og vald til að ákveða lögmönnum agaviðurlög vegna brota gegn lögum og siðareglum fært til sjálfstæðrar úrskurðarnefndar. Áréttað sé í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998 að áfrýjandi skuli ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem mælt sé fyrir um í lögum, sbr. þó 5. mgr. ákvæðisins. Öll vafaatriði varðandi þetta verði að túlka með þrengjandi skýringu. Hvergi í lögum sé áfrýjanda falið að hafa eftirlit með því að lögmenn fylgi siðareglunum. Ekki sé fullnægjandi að kveða svo á í reglunum sjálfum. Varðandi ætlaða hagsmuni áfrýjanda af fylgni félagsmanna við siðareglur lögmanna í einkasamskiptum lögmanna og dómara er það mat stefnda að þeir séu í besta falli almennir, óverulegir og óbeinir og alls ekki slíkir að réttlætt geti að áfrýjandi taki upp hanskann fyrir dómara, sem telji lögmann hafa brotið gegn sér og beini kvörtun af því tilefni til úrskurðarnefndar lögmanna. IV Áður er fram komið að með 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er sérhverjum þeim sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laganna heimilað að leggja fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum vegna þess. Þrátt fyrir framangreint orðalag ákvæðisins verður það þó ekki skýrt á þann veg að samkvæmt því geti hver átt sök sem vill, enda er það skilyrði jafnframt sett að sá hinn sami telji að gert hafi verið „á sinn hlut“. Verður ekki talið að í ákvæðinu felist frávik frá almennum reglum stjórnsýsluréttar um nauðsyn beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna til kæruaðildar. Þá verður og að hafa í huga við skýringu ákvæðisins að aðild að áfrýjanda er skyldubundin og að með tilliti til þessa er sérstaklega áréttað í 2. mgr. 3. gr. fyrrgreindra laga að félagið skuli ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem sérstaklega sé mælt fyrir um í lögum, utan heimildarinnar í 5. mgr. lagagreinarinnar til starfsrækslu sérstakrar félagsmáladeildar sem áður hefur verið vikið að. Ber því enn frekar til þess nauðsyn, með hliðsjón af ákvæði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, að gera strangar kröfur til skýrleika lagaákvæða er kveða á um eftirlit stjórnarinnar gagnvart einstökum félagsmönnum og heimila henni eftirfylgni gagnvart úrskurðarnefnd félagsins vegna meintra brota einstakra lögmanna á lögum eða siðareglum þess. Þótt áfrýjanda sé í 13. gr. laga nr. 77/1998 falið að hafa eftirlit með tilteknum þáttum í starfsemi lögmanna, svo sem að hann uppfylli ávallt skilyrði fyrir lögmannsréttindum samkvæmt 6., 9. og 12. gr. laganna, verður hvorki talið að í fyrrgreindu ákvæði 1. mgr. 27. gr. felist nægilega skýr lagaheimild fyrir áfrýjanda til að bera fram kvörtun vegna hinnar meintu háttsemi stefnda né að hagsmunir félagsins vegna hennar séu slíkir að félagið teljist hafa öðlast þann rétt. Í samræmi við þetta verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest og gildir það einnig um niðurstöðu hans um málskostnað. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Lögmannafélag Íslands, greiði stefnda, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, 900.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.                                                                             Sératkvæði                                                               Haralds Henryssonar                                                               og Eggerts Óskarssonar Við erum sammála því sem kemur fram í köflum I-III í atkvæði meirihluta dómenda.            Meðal þeirra hlutverka sem löggjafinn hefur ætlað áfrýjanda er sem fyrr segir að koma fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum og setja lögmönnum siðareglur svo sem hann hefur gert. Er þar kveðið á um góða lögmannshætti, skyldur lögmanna gagnvart skjólstæðingum sínum, samskipti lögmanna við dómstóla og lögmanna innbyrðis svo nokkur dæmi séu nefnd. Í 1. mgr. 43. gr. reglnanna segir að stjórn áfrýjanda hafi eftirlit með því að þeim sé fylgt, en úrskurðarnefnd lögmanna skeri úr ágreiningi um skilning á reglunum, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Í 3. mgr. 3. gr. samþykkta áfrýjanda sem settar eru samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn er vísað til siðareglnanna þegar fjallað er um réttindi og skyldur félagsmanna. Þá er í 3. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndar lögmanna sem hún hefur sett sér, sbr. 2. málslið 1. mgr. 4. gr. sömu laga, gert ráð fyrir því að hlutverk hennar sé meðal annars að fjalla um erindi frá stjórn áfrýjanda samkvæmt 3. mgr. 43. gr. siðareglnanna. Þegar litið er til þessara ákvæða í ljósi fyrirmæla löggjafans um setningu siðareglna verður að telja að áfrýjandi hafi réttilega með höndum eftirlit með fylgni við reglurnar og séu félagsmeðlimir við það bundnir. Eftirlitshlutverk áfrýjanda að þessu leyti er hluti af lögbundnu hlutverki hans og er í almannaþágu, sbr. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki verður talið vafa undirorpið að meðal þeirra hagsmuna sem siðareglum lögmanna er ætlað að vernda séu hagsmunir áfrýjanda og lögmannastéttarinnar í heild af því að einstakir lögmenn komi fram af virðingu fyrir starfi sínu og skaði ekki orðstír stéttar sinnar í heild. Við setningu laga nr. 77/1998 kom fram ótvíræður vilji löggjafans til þess að kæruleið til úrskurðarnefndar lögmanna yrði greið. Eftir orðanna hljóðan verður 1. mgr. 27. gr. laganna  ekki skilin öðru vísi en svo að hver sá sem telur lögmann hafa gengið á hagsmuni sína með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna geti kvartað til úrskurðarnefndarinnar. Er þessi heimild ekki einskorðuð við umbjóðendur lögmanna svo sem greinilega kemur fram í lögskýringargögnum sem áður er vísað til. Miðað við afdráttarlaust orðalag ákvæðisins þykir ekki tækt að álykta að áfrýjandi sé hér undanskilinn enda eigi hann ótvíræðra hagsmuna að gæta vegna framkomu lögmanns og gildir þá einu þótt aðrir kynnu að eiga hagsmuna að gæta af sama tilefni. Kvörtun áfrýjanda á hendur stefnda til úrskurðarnefndarinnar kom til vegna háttsemi sem hann taldi lúta að slíkum hagsmunum sínum. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á þá niðurstöðu hans að þessir hagsmunir hafi verið beinir, lögvarðir og nægilega sérgreindir til að áfrýjandi gæti átt aðild að máli þessu fyrir úrskurðarnefndinni. Auk þess sem þetta styðst við ofangreint ákvæði 27. gr. er þetta og í samræmi við ákvæði 1. mgr. 5. gr. laganna um hagsmunagæslu áfrýjanda fyrir lögmannastéttina og samrýmist áskilnaði 2. mgr. 3. gr. laganna um starfsemi áfrýjanda. Stefndi varð sem félagsmaður að una kvörtunarrétti áfrýjanda. Þá skal á það bent að fyrir liggja skýr dómafordæmi Hæstaréttar um að félagasamtökum sem telja brotið á lögvörðum hagsmunum félagsmanna sinna sé heimil málsókn hvort sem er fyrir dómstólum eða á stjórnsýslusviði eins og hér háttar til, sbr. og málshöfðunarheimild 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að þessu athuguðu, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, teljum við að staðfesta eigi hann að öllu leyti.                                                        Dómur Landsréttar Mál þetta dæma landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson, Kristbjörg Stephensen og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1   Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 22. júní 2018 að fengnu áfrýjunarleyfi. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2018 í málinu nr. E-3301/2017. 2   Áfrýjandi krefst þess að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og breytt á þá leið að ógiltur verði með dómi úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna, uppkveðinn þann 26. maí 2017 í málinu nr. 14/2017: Lögmannafélag Íslands gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni hrl. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati réttarins í héraði og fyrir Landsrétti. 3   Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Hann krefst einnig greiðslu málskostnaðar úr hendi áfrýjanda fyrir Landsrétti að mati dómsins. Málsatvik 4   Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Þar er meðal annars gerð grein fyrir beiðni áfrýjanda 5. desember 2016 til dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur um flýtimeðferð á máli skjólstæðings síns, samskiptum þeirra á milli og synjun dómstjóra á beiðni áfrýjanda 7. sama mánaðar. Í tölvuskeytum áfrýjanda til dómstjóra eftir synjunina sem rakin eru í héraðsdómi, lýsir áfrýjandi áliti sínu á afgreiðslu dómstjóra meðal annars með þeim orðum að hann muni ekki eftir svona framgöngu embættismanns eða dómara fyrr á starfsævi sinni, sem spanni um hálfa öld. Í fyrrnefndum tölvuskeytum segir jafnframt: „Ég finn hjá mér þörf til að ljúka þessum óskemmtilegu samskiptum við þig, mann sem ég hef jafnan talið að væri þokkalega heiðarlegur maður með sæmilegt jarðsamband.“ Þá rekur héraðsdómur að þann 4. janúar 2017 sendi dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur bréf til formanns stefnda þar sem hann vekur athygli formannsins á framkomu áfrýjanda í samskiptum þeirra. Taldi dómstjórinn framgöngu áfrýjanda bera vott um „fádæma dónaskap, virðingarleysi og vanstillingu lögmannsins“ sem brjóti í bága við 19. gr. siðareglna lögmanna og gæti vart talist stétt lögmanna til framdráttar. Í bréfinu krafðist dómstjórinn ekki beinna aðgerða stefnda af þessu tilefni en afrit af tölvuskeytum áfrýjanda fylgdu bréfinu. Niðurstaða 5   Í 1. mgr. 3. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998 segir að lögmenn skuli hafa með sér félag sem nefnist Lögmannafélag Íslands og sé þeim öllum skylt að vera þar félagsmenn. Af þeirri skylduaðild leiðir að hvorki áfrýjandi né nokkur annar lögmaður getur skorast undan aðildinni eða þeim skyldum sem henni fylgja. Í 2. mgr. sama ákvæðis segir að Lögmannafélagið setji sér samþykktir. Í greininni segir einnig að félagið skuli ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem sérstaklega er mælt fyrir um í lögum, sbr. þó 5. mgr., en það ákvæði kemur ekki til álita hér. Í 3. mgr. 3. gr. laganna segir síðan að í tengslum við Lögmannafélag Íslands skuli starfa sjálfstæð úrskurðarnefnd lögmanna sem leysi úr málum eftir ákvæðum laganna. Úrskurðarnefndin hafi lögsögu yfir lögmönnum sem starfa hér á landi í samræmi við 2. mgr. 1. gr. laganna. 6   Í 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar segir  að engan megi skylda til aðildar að félagi, en með lögum megi þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Meginrökin fyrir skylduaðild að stefnda eru reist á ákvæðum laganna um eftirlitshlutverk úrskurðarnefndar lögmanna samkvæmt 3. mgr. 3. gr.  þeirra, sbr. og 26. og 27. gr. laganna. Leiðir af ákvæði stjórnarskrárinnar sem og 3. mgr. 3. gr. laganna að heimildir stjórnar stefnda til að koma fram viðurlögum gagnvart lögmönnum þurfa að styðjast við skýra lagaheimild. 7   Meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna fer eftir stjórnsýslulögum og setur nefndin sér nánari reglur um meðferð einstakra málaflokka, sbr. 4. gr. laga nr. 77/1998. Þá setur stefndi siðareglur fyrir lögmenn, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. 8   Í 26. og 27. gr. laga nr. 77/1998 eru með tæmandi hætti talin þau tilvik sem verða borin undir úrskurðarnefndina. Í 26. gr. er fjallað um rétt lögmanns til endurgjalds en í 27. gr. segir að telji einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum samkvæmt 2. mgr. 5. gr. geti hann lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum. 9   Ágreiningur aðila máls þessa lýtur einkum að því hvort stefndi hafi á grundvelli 27. gr. laga nr. 77/1998 getað átt aðild að málinu og lagt fram kvörtun fyrir úrskurðarnefndina á hendur áfrýjanda fyrir brot á siðareglum stefnda. Samkvæmt orðanna hljóðan er kæruheimildin víðtæk. Á hinn bóginn verður ráðið af lögskýringargögnum að undir 27. gr. falli fyrst og fremst mál sem byggjast á kvörtun umbjóðanda á hendur lögmanni fyrir háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum lögmanna. 10 Að öllu því virtu sem að framan greinir verður að telja að ekki sé fyrir hendi nægilega traust lagaheimild fyrir stjórn stefnda til að koma fram viðurlögum gegn félagsmanni  með því að leggja fram kvörtun fyrir úrskurðarnefndina. Skírskotun til málsmeðferðarreglna nefndarinnar og siðareglna stefnda nægir ekki til að bæta úr skorti á slíkri skýrri heimild til handa stefnda til að sækja hið umþrætta mál fyrir úrskurðarnefndinni. Verður úrskurðurinn því felldur úr gildi. 11 Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Felldur er úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna frá 26. maí 2017 í málinu nr. 14/2017: Lögmannafélag Íslands gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni hrl. Stefndi, Lögmannafélag Íslands, greiði áfrýjanda, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti, samtals 1.200.000 krónur.   Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, fimmtudaginn 17. maí 2018                 Mál þetta sem dómtekið var að aflokinni aðalmeðferð þann 23. apríl sl., er höfðað af Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Holtsvegi 31, 210 Garðabæ, með stefnu birtri 13. október 2017, á hendur stefnda, Lögmannafélagi Íslands, Álftamýri 9, 108 Reykjavík.                 Stefnandi gerir þær dómkröfur að ógiltur verði með dómi úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna, uppkveðinn þann 26. maí 2017 í málinu nr. 14/2017: Lögmannafélag Íslands gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni hrl.                 Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.                 Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar úr hendi stefnanda.                 Ágreiningsefni og málsatvik                 Málavextir eru þeir að stefnanda var ásamt Konráð Jónssyni héraðsdómslögmanni falið að annast málsókn til ógildingar á rekstrar- og starfsleyfum sem Matvælastofnun og Umhverfisstofnun höfðu veitt fyrirtækinu Arnarlaxi hf. til sjókvíaeldis á laxi í Arnarfirði með leyfum dags. 15. febrúar og 6. maí 2016. Með bréfi dags. 5. desember 2016 fór stefnandi fram á það við þáverandi dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur að umrætt mál fengi flýtimeðferð með vísan til 123. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í bréfi þessu kvaðst stefnandi hafa vísað til þeirra hagsmuna er í húfi væru fyrir málsaðila og aðra í sömu sporum en með því hafi fylgt stefna í málinu til útgáfu.                 Áður en stefnan var þannig send dómstjóra afréði stefnandi að hafa símasamband við hann. Í því símtali kveðst stefnandi hafa greint dómstjóranum frá því að stefnan geymdi ítarlega og nákvæma lýsingu á málavöxtum og að henni fylgdu viðamikil gögn. Kveðst stefnandi hafa spurt dómstjórann hvort hann vildi fá gögnin með beiðninni um flýtimeðferðina. Er staðhæft af hálfu stefnanda að dómstjórinn hafi þá enga þörf talið á því á þessu stigi málsins og hafi þá orðið að samkomulagi með stefnanda og dómstjóranum að stefnandi sendi honum skjalaskrána og að dómstjórinn myndi síðan láta stefnanda vita ef hann teldi sig þurfa að sjá einhver þeirra skjala sem talin hafi verið upp í skjalaskránni og myndi þá stefnandi senda honum þau skjöl.                 Til samræmis við framangreint ætlað samkomulag hafi stefnandi getið þess í niðurlagi bréfs síns, dags. 5. desember 2016, að málsgögn sem fram yrðu lögð við þingfestingu málsins væru mikil vöxtum og hann léti fylgja skrá yfir þau. Hafi hann tekið fram að ef dómstjóri óskaði eftir að kynna sér einhver þeirra áður en hann tæki afstöðu til beiðninnar myndi stefnandi framvísa skjölum. Eftir að stefnandi sendi framangreinda beiðni inn og áður en tekin var afstaða til hennar áttu dómstjórinn og stefnandi samtal símleiðis þar sem staðhæft er af hálfu stefnanda að dómstjórinn hafi tekið fram að hann hefði móttekið beiðnina og að vel hefði verið gengið frá öllu af hálfu stefnanda, en það eina sem væri þó til athugunar snerti blaðsíðu 19 í beiðninni.                 Fyrir liggur í málinu að dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur hafnaði síðan framangreindri beiðni stefnanda með bréfi dags. 7. desember 2016. Byggðist synjunin á því að nauðsynleg gögn hefðu ekki fylgt með erindi stefnanda. Lítur stefnandi svo á að með þessari afgreiðslu málsins hafi dómstjórinn brotið gegn því framangreinda ætlaða samkomulagi sem stefnandi telur að hann og dómstjórinn hafi áður komist að.                 Eftir að svar dómstjórans um synjun barst stefnanda sendi stefnandi sama dags dómstjóranum tölvuskeyti þar sem hann lýsti þeirri skoðun á bréfi dómstjórans að það væri „furðulegt og reyndar eins og högg undir beltisstað“. Vísaði stefnandi þar til samskipta vegna gagna málsins. Í niðurlagi skeytisins kvaðst stefnandi ekki muna eftir „slíkri framgöngu embættismanns eða dómara á starfsæfi sinni sem spannaði hálfa öld.“ Bætti stefnandi síðan að endingu við orðunum „vonandi sefur þú vel næstu nótt“.                 Dómstjórinn sendi síðan stefnanda tölvuskeyti þann 7. desember 2016. Í því skeyti kvaðst hann þurfa að leiðrétta stefnanda. Sagðist dómstjórinn hafa sagt í samtali þeirra að ekki væri nauðsynlegt að senda inn öll gögnin en að hann hefði nefnt sem dæmi að ef óskað væri flýtimeðferðar vegna ákvörðunar stjórnvalds þá þyrfti að sjálfsögðu að fá ákvörðunina. Kvaðst dómstjórinn að öðru leyti ekki hirða um ávirðingar stefnanda, en kvaðst þykja það leitt ef stefnandi hefði gleymt samtali þeirra.                 Stefnandi sendi dómstjóranum þá enn tölvuskeyti dags. 11. desember 2016. Þar kvaðst stefnandi finna hjá sér þörf fyrir að ljúka þessum óskemmtilegu samskiptum við dómstjórann, mann sem hann hefði „jafnan talið að væri þokkalega heiðarlegur maður með sæmilegt jarðsamband.“ Stefnandi tók þar fram að hann myndi samskipti sín við dómstjórann á annan veg en jafnvel þótt dómstjórinn hefði rétt fyrir sér mætti honum vera ljóst að eitthvað hefði farið milli mála þegar gögnin sem dómstjórinn nefndi fylgdu ekki bréfinu. Stefnandi tók þá fram að í ljósi samskiptanna hefðu allir venjulegir menn þá tekið upp símann og gert viðvart um þetta en bætti síðan við: „ En ekki þú hinn mikli dómstjóri! Svo sendir þú mér í þokkabót svar sem er fullt af hroka og yfirlæti. Ef satt skal segja þá kenni ég í brjósti um þig. Menn sem koma svona fram eru að mínum dómi varla í góðu jafnvægi. Ég mun núna eftir helgina senda að nýju óskina um flýtimeðferð, þó ekki væri til annars en að skemmta þér í yfirlæti þínu.“                 Stefnandi sendi nýja beiðni um flýtimeðferð til Héraðsdóms Reykjavíkur þann 14. desember 2016. Þann 19. desember 2016 var þeirri beiðni um flýtimeðferð hafnað á þeim grunni að hvorki væri séð að brýn þörf væri á skjótri úrlausn málsins né að sú úrlausn hefði slíka þýðingu fyrir hagsmuni stefnanda að rétt væri að verða við beiðni.                 Í framhaldinu, 23. desember 2016, sendi stefnandi tölvuskeyti til dómstjórans þar sem hann sagði meðal annars að dómstjórinn ætti að láta af hroka og yfirlæti sem svo mjög hefði einkennt afgreiðslu hans í málinu. Sagði svo að það færi miklu betur á því að sleppa slíku þó að menn kynnu að líta stórt á sig. Þeim liði að jafnaði betur þannig.                 Þann 4. janúar 2017 sendi dómstjórinn bréf til Reimars Péturssonar, formanns Lögmannafélags Íslands. Í bréfinu lýsir dómstjórinn því að hafa átt í „óskemmtilegum samskiptum“ við stefnanda sem sé félagi í Lögmannafélaginu. Dómstjórinn benti þar á að háttsemi stefnanda í samskiptum þeirra tveggja hlyti að fara á svig við 19. gr. siðareglna lögmanna, „hvað þá almenna kurteisi og samskiptavenjur, og geti vart talist stétt lögmanna til framdráttar“. Tók dómstjórinn fram að þar sem honum væri ekki kunnugt um hvernig dómari eða dómstjóri ætti að fara með erindi sem þetta leitaði hann til formanns félagsins. Þá tók dómstjórinn fram að hann léti sig ekki varða hvernig eða hvort félagið kysi að aðhafast, en að hann óskaði þess aðeins að hvorki hann né aðrir í hans stöðu þyrftu „eftirleiðis að sitja undir skætingi sem þessum“.                  Þann 24. janúar 2017 sendi Ingimar Ingason, framkvæmdastjóri Lögmannafélags Íslands, bréf fyrir hönd stjórnar þess til stefnanda. Í bréfinu kom fram að erindi dómstjórans hefði verið lagt fyrir stjórnarfund í félaginu, þar sem samþykkt hefði verið að óska eftir afstöðu stefnanda til erindis dómstjórans. Þá var óskað eftir skýringum á þeim samskiptum sem um ræðir, sérstaklega með tilliti til ákvæða 2., 19. og 22. gr. siðareglna lögmanna. Stefnandi sendi stjórn stefnda svarbréf ásamt með fylgiskjölum dags. 31. janúar 2017. Með bréfi dags. 8. mars 2017 kvartaði svo framkvæmdastjórinn fyrir hönd stjórnar Lögmannafélags Íslands til úrskurðarnefndar lögmanna. Í bréfinu var gerð sú krafa að nefndin úrskurðaði hvort háttsemi stefnanda í garð dómstjórans í Reykjavík samrýmdist siðareglum lögmanna og ákvarðaði honum viðurlög til samræmis við tilefnið teldist svo ekki vera. Kvörtunin var stimpluð um móttöku með móttökustimpli Lögmannafélags Íslands sama dag, 8. mars 2017, og málinu gefið númerið 14/2017 hjá úrskurðarnefnd lögmanna. Kvörtun stjórnar stefnda var síðan send til stefnanda í bréfi frá úrskurðarnefnd lögmanna, dags. 14. mars 2017. Í bréfinu var óskað eftir greinargerð stefnanda um erindið og sendi hann greinargerð ásamt með fylgiskjölum til úrskurðarnefndar lögmanna þann 23. mars 2017.                 Föstudaginn 26. maí 2017 var síðan kveðinn upp úrskurður í málinu nr. 14/2017: Lögmannafélag Íslands gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni. Úrskurðarorðið er svohljóðandi: „Kærði, Jón Steinar Gunnlaugsson hrl., sætir áminningu.“ Stefnandi er ósammála niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og afréð því að skjóta málinu til héraðs- dóms til að fá úrskurðinum hnekkt með dómi, sbr. 5. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998.                 Geta ber þess að stefndi, Lögmannafélag Íslands, vísar um málavexti til kvörtunar sinnar til úrskurðarnefndar lögmanna, dags. 8. mars 2017, og til I. kafla úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 14/2017. Sé málavaxtalýsingu af hálfu stefnanda í stefnu mótmælt að því leyti sem hún feli í sér fullyrðingar um efni símtala á milli stefnanda og þáverandi dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, sem ekki fari saman við lýsingu dómstjórans sjálfs, sbr. tölvuskeyti hans til stefnanda, dags. 7. desember 2016. Sé því sérstaklega mótmælt sem ósönnuðu að á milli stefnanda og dómstjórans hafi komist á einhvers konar samkomulag um tiltekna meðferð þess erindis sem stefnandi sendi dómstjóranum, dags. 5. desember 2016, samkvæmt 123. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, og að með afgreiðslu dómstjórans, dags. 7. desember 2016, hafi dómstjórinn brotið gegn samkomulagi sem hann og stefnandi hefðu gert með sér.                   Málsástæður og lagarök af hálfu stefnanda                 Stefnandi byggi mál þetta á því að stefndi, Lögmannafélag Íslands (LMFÍ), geti ekki átt aðild að máli sem þessu hjá úrskurðarnefnd lögmanna, meðal annars vegna skorts á lögvörðum hagsmunum og vegna þess að lagareglur um nefndina leyfi ekki slíka aðild. Þá byggi stefnandi á því að úrskurðarnefnd LMFÍ sé vanhæf til þess að úrskurða í málum þar sem stefndi sé annar málsaðila. Þá byggi stefnandi á því að með úrskurðinum og þeim reglum sem hann sé byggður á sé í raun verið að skerða tjáningarfrelsi stefnanda og grafa undan getu hans til þess að sinna starfi sínu sem lögmaður. Loks byggi stefnandi á því að hann hafi ekki gerst brotlegur við neitt ákvæði í siðareglum lögmanna eða lögum og reglum sem gildi um störf lögmanna.                 Stefnandi byggi á því að stefndi geti ekki átt aðild að máli fyrir úrskurðarnefnd lögmanna er varði samskipti lögmanns og dómara. Í það minnsta geti slík aðild ekki átt við í þessu máli. Grundvallarheimildin til að leggja mál fyrir úrskurðarnefnd lögmanna sé í 1. mgr. 27. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998. Þar sé gert að skilyrði fyrir því að leggja mál fyrir nefndina að málshefjandi telji að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Stefnandi hafi ekki gert neitt á hlut stjórnar stefnda eða stefnda. Það breyti engu að dómstjórinn hafi lagt það í hendur stjórnar stefnda að ákveða hvernig brugðist yrði við erindi dómstjórans. Dómstjórinn sé sá eini er geti haldið því fram að stefnandi hafi gert á sinn hlut. Hvergi sé í lögum að finna heimild til að framselja réttinn til að leggja mál fyrir úrskurðarnefndina til annarra, en stjórn stefnda hafi sótt málið í eigin nafni.                 Samkvæmt reglum um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sem nefndin setji sér sjálf samkvæmt 2. mgr. 13. gr. samþykkta fyrir LMFÍ, sbr. 2. málslið 1. mgr. 4. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, sé hlutverk nefndarinnar meðal annars að fjalla um erindi sem stjórn stefnda sendi nefndinni samkvæmt 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna. Í 3. mgr. 43. gr. siðareglnanna segi að úrskurðarnefnd lögmanna skeri úr ágreiningi um skilning á reglunum. Stefnandi fái ekki séð að á grundvelli framangreinds sé stefnda veitt sjálfstæð heimild til að leggja kæru gegn tilgreindum lögmanni fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Því hljóti almenna heimildin að gilda, það er að sá geti kvartað til nefndarinnar sem telji lögmann hafa gert á hlut sinn, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Stefnandi telji stefnda ekki hafa sýnt fram á það með neinum hætti að stefnandi hafi gert á sinn hlut.                 Stjórn stefnda hafi sjálf talið að lög um lögmenn nr. 77/1998 geri ekki ráð fyrir því að stjórn félagsins geti beint málum til úrskurðarnefndar lögmanna. Samkvæmt bréfi dags. 16. júlí 2015 hafi stefndi unnið drög að breytingum á lögum um lögmenn nr. 77/1998. Í drögunum hafi verið lögð til sú breyting á 27. gr. laganna að stjórn félagsins hefði heimild til þess að leggja fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun, teldi hún að lögmaður hefði með háttsemi sinni brotið gegn lögum eða reglum samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laganna sem kastað gæti rýrð á störf og ímynd lögmanna. Þetta gefi skýrlega til kynna að almennt hafi verið litið svo á að stefndi gæti ekki átt aðild að málum fyrir úrskurðarnefnd lögmanna nema til kæmi breyting á lögum um lögmenn.                 Jafnvel þótt stefnda yrði játuð viss heimild til að bera mál undir úrskurðarnefnd lögmanna verði hún ekki skýrð svo rúmt að stjórn stefnda geti ákveðið að stefndi hafi frumkvæði að því að höfða mál fyrir úrskurðarnefndinni af hvaða tilefni sem er. Úrskurðarnefndin virðist sjálf fallast á þetta í úrskurði í þessu máli sem og í tveimur öðrum málum sem stjórn stefnda hafi tekið ákvörðun um að höfða fyrir nefndinni.       Í forsendum nefndarinnar fyrir niðurstöðu í málunum þremur sé efnislega samhljóða umfjöllun um það að játa verði stjórn stefnda formlegan rétt til þess að bera fram kvörtun þegar hún telji að lögmaður hafi brotið gegn lögum eða siðareglum og að brotið hafi beinst gegn hagsmunum lögmanna almennt eða gegn stefnda. Síðan segi að stefndi geti ekki knúið fram umfjöllun vegna kvartana sem beinist að því að lögmaður hafi í störfum sínum brotið gegn ákveðnum aðila, sem fari þá með forræði á sakarefni, þar á meðal á ákvörðun um það hvort þeir beini kæru til úrskurðarnefndar eða ekki.                 Í þessu máli hafi ekkert komið í veg fyrir það að dómstjórinn kærði stefnanda til úrskurðarnefndarinnar teldi hann stefnanda hafa gert á sinn hlut. Þetta hafi hann ekki gert heldur tilkynnt formanni stefnda um samskipti sín við stefnanda og sagt ekki láta það sig varða hvernig eða hvort félagið kysi að aðhafast eitthvað vegna málsins. Byggi stefnandi á því að dómstjórinn hafi ekki og geti ekki framselt málshöfðunarrétt sinn með bréfinu og að enginn annar en hann og stefnandi geti hafa haft lögvarða hagsmuni af úrlausn máls um einkasamskipti þeirra á milli. Þá byggi stefnandi á því að meint brot hans gegn dómstjóranum geti ekki varðað hagsmuni lögmannastéttarinnar eða lögmanna almennt, enda sé að mati stefnanda enginn dómari sem líti svo á að lögmaður sem eigi í samskiptum við dómara komi fram sem fulltrúi allrar stéttarinnar.                 Þá byggi stefnandi á því að úrskurðarnefnd lögmanna hafi verið vanhæf til að úrskurða í málinu vegna þess að nefndin sé rekin á kostnað stefnda og stefndi eigi verulegan þátt í því að skipa nefndarmenn. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 77/1998 fari um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna eftir stjórnsýslulögum nema annað leiði af ákvæðum V. kafla. Í II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu reglur um sérstakt hæfi. Þar komi fram að nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls eigi hann sjálfur sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta eða ef fyrir hendi séu þær aðstæður er fallnar séu til þess að draga óhlutdrægni nefndarmannsins í efa með réttu.                 Stefnandi byggi á því að nefndarmenn úrskurðarnefndarinnar eigi fjárhagslegra hagsmuna að gæta í málum sem stjórn stefnda ákveði að beina til hennar. Þá sé málshefjandi stjórn félagsins er ákveði og greiði nefndarmönnum laun sem séu ekki óveruleg. Þá sjái stefndi um að skipa einn af þremur nefndarmönnum samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998. Verði og að benda á, að ef úrskurðarnefnd lögmanna, sem hafi á að skipa þremur lögmönnum, hafi til umfjöllunar mál um það hvort lögmaður hafi í störfum sínum gert á hlut stéttar lögmanna í heild sinni þá séu nefndarmenn þegar af þeim sökum vanhæfir enda hefðu þeir þá beina hagsmuni af úrslitum máls.                 Varðandi gagnrýni lögmanna á störf dómara og neikvætt félagafrelsi vísist til þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi í fjölda mála komist að þeirri niðurstöðu að lögmönnum skuli játuð rúm heimild til gagnrýni á störf dómara og annarra opinberra starfsmanna. Sú heimild taki bæði til opinberrar umfjöllunar um störf opinberra starfsmanna og til gagnrýni á störf þeirra sem fari með opinbert vald sem ekki sé borin út opinberlega heldur aðeins send afmörkuðum hópi. Sömu sjónarmið hljóti að eiga við um gagnrýni lögmanns á dómara þegar gagnrýninni sé beint til dómarans sjálfs.                 Stefnandi hefði getað skrifað grein um afgreiðslu dómstjórans á erindinu og haft þar uppi harðorða gagnrýni á afgreiðslu hans og birt í fjölmiðlum. Stefnandi hafi þó þess í stað ákveðið að gera það sem minna væri, að beina gagnrýni að dómstjóranum í persónulegu tölvuskeyti sem enginn hafi séð nema hann, í stað þess að birta gagnrýni í fjölmiðlum. Það fái ekki staðist að stefnandi sé í verri stöðu vegna þess að hann hafi kosið að beina gagnrýni að dómstjóranum einum en ekki birt hana opinberlega.                 Stefnandi telji sig ekki hafa gengið of hart fram í gagnrýni sinni á meðferð dómstjórans á erindi umbjóðanda stefnanda. Dómarar verði að mati stefnanda að þola það að spjótum sé beint að þeim í þeim tilfellum sem lögmenn telji afgreiðslu þeirra á erindum í ósamræmi við lög eða samkomulag sem dómari og lögmaður hafi komist að. Það gangi að mati stefnanda ekki upp að stjórn stefnda taki þá ákvörðun að taka upp hanskann fyrir dómara sem móðgist eða telji að sér vegið í tilfelli sem þessu.                 Það samrýmist ekki hlutverki stefnda eða úrskurðarnefndar á vegum þess félags að takmarka frelsi lögmanna til tjáningar og til að gagnrýna störf dómara líkt og hér. Það sé eitt af grundvallarhlutverkum lögmanns í hagsmunagæslu fyrir umbjóðendur að geta tjáð sig greiðlega við aðra lögmenn, dómstóla og stjórnvöld eftir eigin samvisku og án inngrips stefnda eða úrskurðarnefndar lögmanna. Lögmaður eigi ekki að þurfa að óttast áminningu frá henni vegna starfa í þágu umbjóðanda síns þar sem hann gagnrýni dómara fyrir ósanngjarna og óeðlilega meðferð á máli umbjóðandans.                 Stefndi sé félag sem lögmönnum sé skylt að eiga aðild að. Félagið feli því í sér lögbundna takmörkun á neikvæðu félagafrelsi, það er frelsinu til að standa utan félaga og verða ekki þvingaður til aðildar að þeim, sbr. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Sem slíkt verði LMFÍ að gæta þess að ganga ekki lengra í störfum sínum en nauðsynlegt sé til þess að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Meginhlutverk félagsins sé samkvæmt 5. gr. laga nr. 77/1998 þríþætt: Félagið komi í fyrsta lagi fram fyrir hönd lögmanna gagnvart stjórnvöldum og dómstólum um þau málefni sem stéttina varði. Í öðru lagi setji félagið siðareglur fyrir lögmenn. Í þriðja lagi skuli félagið stuðla að því að sérhver sem þarfnist aðstoðar lögmanns fái notið hennar. Í 1. mgr. 13. gr. laganna komi síðan fram eftirlitshlutverk er stefnda sé falið en það beinist aðeins að því að gæta þess að lögmenn uppfylli skilyrði laganna fyrir lögmannsréttindum. Með því að hafa frumkvæði að málum fyrir úrskurðarnefndinni sé stefndi að fara út fyrir skyldubundið hlutverk sitt og sé farið að sinna eftirlits- og ritskoðunarhlutverki sem fái ekki samrýmst því hlutverki sem samtök lögmanna eigi að sinna.                 Hvað varði Siðareglur lögmanna (Codex Ethicus) þá sé í málatilbúnaði stefnda fyrir úrskurðarnefnd lögmanna byggt á því að stefnandi hafi gerst sekur um brot gegn 2., 19. og 22. gr. siðareglnanna. Í 2. gr. þeirra sé kveðið á um það að lögmaður skuli gæta að heiðri lögmannastéttarinnar jafnt í lögmannsstörfum sem öðrum athöfnum.      Í 19. gr. komi fram að lögmaður skuli sýna dómstólum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu en skuli eftir sem áður gæta hagsmuna skjólstæðings síns fyrir dómi af fullri einurð og heiðarleika og án tillits til eigin hagsmuna eða hagsmuna annarra. Í 22. gr. komi svo fram að lögmaður skuli kappkosta að vanda málatilbúnað sinn fyrir dómstólum og stuðla á annan hátt að greiðri og góðri málsmeðferð af sinni hálfu.                 Stefnandi byggi á því að hann hafi ekki með neinum hætti brotið gegn þessum ákvæðum siðareglna lögmanna. Þvert á móti hafi hann sinnt því lykilhlutverki lögmanns sem komi fram í 1. gr. sömu siðareglna að efla rétt og hrinda órétti. Hann hafi lagt til þessa máls það sem hann vissi sannast eftir sinni samvisku. Í samtali við dómara hafi orðið samkomulag um að haga umsókn um flýtimeðferð með þeim hætti að stefna og skjalaskrá yrðu send dómara, en dómari myndi láta vita ef hann teldi þörf á að fá gögn, og þá hvaða gögnum hann teldi þörf á. Jafnvel þótt það teldist ósannað að samtal stefnanda og dómarans hefði verið með þessum hætti þá hafi það ekki getað dulist dómaranum að stefnandi teldi svo vera þegar bréf um ósk um flýtimeðferð hafi verið sent dómstjóra þann 5. desember 2016. Í niðurlagi bréfsins segi: „Með stefnunni fylgir listi yfir þau skjöl sem til stendur að leggja fram við þingfestingu málsins. Þau eru mikil að vöxtum. Ef þér óskið eftir að fá einhver þeirra til athugunar, áður en afstaða verður tekin til beiðninnar um útgáfu stefnunnar, verða þau send yður.“                 Þegar dómstjórinn hafi brugðist við erindi stefnanda með því að hafna beiðninni á þeim grundvelli að gögn með beiðninni hafi ekki verið fullnægjandi hafi stefnandi auðvitað orðið ósáttur í ljósi þess sem hafi farið fram þeirra á milli í símtali og í ljósi niðurlags bréfs stefnanda til dómstjórans. Stefnandi telji viðbrögð sín sem hann hafi sent með tölvuskeyti 7. desember 2016, ekki hafa verið úr hófi fram, en með þeim hafi stefnandi verið að bregðast við því þegar umbjóðandi hans hafi verið beittur órétti.                 Stefnandi geti með engu móti áttað sig á því hvernig einkasamskipti hans við dómstjórann eigi að geta vegið að heiðri lögmannastéttarinnar í andstöðu við 2. gr. siðareglna lögmanna. Dómstjóra hafi verið fullkomlega ljóst að stefnandi kæmi fram fyrir hönd umbjóðanda síns en ekki sem sérstakur sendiboði stéttar lögmanna. Ekkert hafi verið að finna í samskiptum stefnanda við dómstjórann sem hafi verið með þeim hætti að stefnandi hafi gert á hlut annarra lögmanna. Engin ástæða hafi verið til þess að gera samskipti stefnanda og dómarans opinber. Jafnvel þótt talið yrði að háttsemi stefnanda hafi með einhverjum hætti ekki verið eðlileg í samskiptum lögmanns við dómara þá leiði sú niðurstaða ekki til þess að stefnandi verði sakaður um að hafa vegið að starfsheiðri lögmannastéttarinnar, heldur hafi hann þá hugsanlega vegið að eigin starfsheiðri. Það sé ekkert sem banni einstaklingi að vega að eigin starfsheiðri. Stefnandi hafi sýnt dómstjóranum alla þá virðingu í ræðu og riti sem málið hafi gefið tilefni til. Honum hafi þó borið að bregðast við höfnun dómstjórans á erindi umbjóðanda síns með því að gæta réttmætra hagsmuna umbjóðandans. Dómstjórinn hafi að mati stefnanda gengið á bak orða sinna og við því hafi stefnandi brugðist.                 Loks mótmæli stefnandi því að hann hafi brotið gegn 22. gr. siðareglna lögmanna. Stefnandi hafi kappkostað að vanda málatilbúnað sinn þegar hann hafi haft samband símleiðis við dómarann til að ganga úr skugga um hvernig hann vildi að framsetningu erindisins væri háttað. Stefnandi hafi ítrekað í bréfi sínu til dómstjórans að stefnandi myndi leggja fram þau gögn sem dómstjórinn teldi þörf á að leggja fram að beiðni hans. Þetta hafi allt verið gert í því skyni að greiða fyrir hraðri afgreiðslu málsins enda ljóst að þau umfangsmiklu gögn sem til hafi staðið að leggja fram við þingfestingu málsins hafi ekki öll skipt máli við afgreiðslu á beiðni um flýtimeðferð. Stefnandi hafi því ekki brotið gegn 22. gr. siðareglna lögmanna heldur þvert á móti kappkostað að vanda málatilbúnað og tryggja greiða málsmeðferð. Sé ekki stefnanda um að kenna að dómstjórinn hafi kosið að bregðast við erindinu með þeim hætti sem raun bar vitni.                 Að öllu framangreindu virtu verði ekki hjá því komist að fallast á kröfu stefnanda um að úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna í málinu nr. 14/2017 verði felldur úr gildi og stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað. Málshöfðunin eigi stoð í 5. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn þar sem kveðið sé á um heimild aðila máls fyrir úrskurðarnefndinni til þess að leita ógildingar úrskurðar nefndarinnar fyrir dómi. Stefnandi byggi á meginreglum stjórnsýsluréttar og einkamálaréttarfars en vísi að öðru leyti til framangreindrar umfjöllunar um einstök lagaákvæði sem byggt sé á.                   Málsástæður og lagarök af hálfu stefnda                 Stefndi byggi á því að hann hafi haft lögvarða hagsmuni og átt aðild að málinu fyrir úrskurðarnefnd lögmanna og að nefndarmenn í úrskurðar­nefndinni hafi verið hæfir til þess að úrskurða í málinu. Einnig sé byggt á því að úrskurður úrskurðar­nefndarinnar sé efnislega réttur og ekki haldinn ágöllum sem valda beri ógildi hans.                 Almennt sé viðurkennt að félög lögmanna njóti sjálfstæðis. Hafi mikilvægi þess verið áréttað í ályktun ráðherraráðs Evrópu­ráðsins sem lagt hafi áherslu á að starfandi séu slík sjálfstæð félög er séu í störfum sínum óháð yfirvöldum og almenningi. Félögin eigi að setja lögmönnum siðareglur, gæta stéttarhagsmuna þeirra og bera ábyrgð á og eiga rétt til þátttöku í agamálum lögmanna. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn (lögmannalög) skuli lögmenn hafa með sér félag er nefnist Lögmannafélag Íslands (LMFÍ). Stefndi sé það félag. Sé öllum lögmönnum skylt að vera félagsmenn í stefnda. Stefndi skuli ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem sérstaklega sé mælt fyrir um í lögum, sbr. þó 5. mgr. 3. gr. lögmannalaga.                   Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. lögmannalaga setji stefndi sér samþykktir. Samþykktir fyrir LMFÍ hafi fyrst verið settar í desember 1944 en hafi síðan tekið breytingum. Í 2. gr. gildandi samþykkta stefnda sé tilgangur félagsins meðal annars skilgreindur sem svo að það sé að sinna lögboðnu eftirlits- og agavaldi, að gæta hagsmuna lögmanna­stéttarinnar, stuðla að samheldni og góðri samvinnu félagsmanna, að standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar og stuðla að framþróun réttarins og réttaröryggi. Samkvæmt 11. gr. samþykktanna sé stjórn stefnda meðal annars falið það hlutverk að koma fram fyrir hönd lögmannastéttarinnar, að leysa úr ágreinings­málum á milli félagsmanna innbyrðis, að gæta þess að fylgt sé góðum lögmanns­háttum og vinna að hagsmunamálum félagsmanna.                 Samkvæmt 5. gr. lögmannalaga komi stefndi fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum um þau málefni sem stétt þeirra varði. Stefndi skuli jafnframt setja siðareglur (Codex Ethicus) fyrir lögmenn. Slíkar reglur hafi fyrst verið samþykktar í júní 1960 en þær hafi síðan tekið breytingum. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. gildandi siðareglna lögmanna skuli stjórn stefnda hafa eftirlit með því að reglunum sé fylgt, í samráði við dómstóla og stjórnardeildir.                 Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. lögmannalaga skuli, í tengslum við stefnda, starfa sjálfstæð úrskurðarnefnd lögmanna sem leysi úr málum eftir ákvæðum laganna. Úrskurðarnefnd lögmanna hafi það grundvallarhlutverk að fjalla um kvartanir á hendur lögmanni vegna háttsemi sem kunni að stríða gegn lögunum eða siðareglum lögmanna. Þetta sé orðað svo í 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga að telji „einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr.“ geti hann lagt fyrir úrskurðarnefndina kvörtun á hendur lögmanninum. Þá sé sérstaklega tilgreint í 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna að úrskurðarnefndin skeri úr ágreiningi um skilning á reglunum.                 Þessu til samræmis og á grundvelli 1. mgr. 4. gr. laga nr. 77/1998 hafi úrskurðarnefndin sett sér málsmeðferðarreglur. Fram komi í 2. og 3. tl. 3. gr. þeirra að hlutverk nefndarinnar sé „að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ“ og „að fjalla um erindi sem stjórn LMFÍ sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna“. Þessi skilgreining á hlutverki úrskurðarnefndarinnar sé að mati stefnda í fullu samræmi við lögmannalög og þær siðareglur sem lögmenn skuli starfi eftir. Í þeim lögum og reglum sem gildi um úrskurðarnefndina sé þannig síður en svo ráðgert að kvartanir frá stjórn stefnda séu undanskildar valdsviði nefndarinnar. Þá sé vandséð hvernig félagið eigi að geta sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu, geti það ekki leitað úrlausnar nefndarinnar um meint brot lögmanna á lögmannalögum og siðareglum.                 Samkvæmt framangreindu sé aðild að kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna skilgreind vítt og bundin við „einhvern“ sem telji að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum. Hver sá sem sýnt geti fram á lögvarða hagsmuni geti því lagt mál fyrir nefndina. Skipti í því sambandi ekki máli hvort um sé að ræða félag eða einstakling eða hvernig hafi verið gert á hlut viðkomandi. Þá verði varla um það deilt að það falli undir tilgang stefnda að hafa eftirlit með störfum lögmanna, gæta hagsmuna lögmannastéttarinnar og að standa vörð um sjálfstæði stéttarinnar, sbr. 2. gr. samþykkta félagsins.                 Stefndi byggi á því að þau brot gegn siðareglum lögmanna sem kvartað hafi verið undan, sem og það brot er úrskurðarnefndin hafi komist að niðurstöðu um að stefnandi hafi gerst sekur um, varði hagsmuni lögmannastéttarinnar í heild sinni, en ekki aðeins hagsmuni þess sem beinlínis sé misgert við. Hagsmunir lögmannastéttarinnar af því að virðing sé borin fyrir stétt lögmanna séu mikilvægir enda gegni þeir veigamiklu hlutverki í réttarríki sem ella væri stefnt í hættu. Tilhlýðileg samskipti lögmanna við dómstóla vegi þar þungt og endurspeglist áherslan meðal annars í því að um samskipti lögmanna og dómstóla sé fjallað í heilum kafla í siðareglum lögmanna. Ákvæði 2. og 19. gr. siðareglnanna, sem stefndi telji að stefnandi hafi meðal annars brotið gegn, séu sett til verndar þessum hagsmunum. Brot gegn ákvæðum siðareglnanna sem sett séu til verndar virðingu fyrir lögmannastéttinni brjóti því ekki aðeins gegn þeim sem beinlínis sé misgert við heldur einnig gegn lögmönnum almennt. Úrskurður sá sem stefnandi krefjist ógildingar á varði háttsemi sem stefndi telji í andstöðu við þá hagsmuni sem félaginu beri að gæta og vinna að, sbr. til hliðsjónar einnig 1. mgr. 5. gr. lögmannalaga. Stefndi hafi því beina og nægilega sérgreinda hagsmuni af kvörtun þeirri sem lögð hafi verið fram við úrskurðarnefnd lögmanna.                 Samkvæmt öllu framangreindu hafi stefndi því haft lögvarða hagsmuni og átt aðild að málinu fyrir úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. einnig sjónarmið úrskurðar­nefndar­innar um þetta atriði sem fram komi í I. hluta niðurstöðukafla úrskurðarins og sjónarmið stefnda sem fram komi í bréfi hans til nefndarinnar, dags. 4. maí 2017.                 Hvað varði hæfi nefndarmanna úrskurðarnefndarinnar þá mótmæli stefndi því að nefndarmenn í úrskurðarnefnd lögmanna hafi verið vanhæfir til meðferðar málsins af þeirri ástæðu að stjórn stefnda ákveði og greiði nefndarmönnum laun fyrir nefndarstörfin. Störf og skipan nefndar þessarar séu lögbundin og sé hún sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Stefndi skipi minnihluta nefndarmanna og greiði nefndinni, lögum samkvæmt, laun fyrir starfann. Brúttólaun fyrir setu í nefndinni séu í dag 90.000 krónur á mánuði eða þá 54.484 krónur þegar tekið hafi verið tillit til skatta, lífeyrissjóðsgreiðslna, o.s.frv. Mánaðarlaun nefndarmanna hafi ekki verið hækkuð frá 1. desember 2013, en þá hafi þau verið hækkuð samhliða ákvörðun um hækkun á tímagjaldi starfsmanns nefndarinnar. Laun fyrir setu í nefndinni séu töluvert lægri en þau laun sem þeir lögmenn sem í nefndinni sitja myndu innheimta við hefðbundinn málarekstur í ljósi þeirrar vinnu sem nefndarmenn inni af hendi við lestur mála, fundasetu, vinnu að niðurstöðu í málum, o.s.frv. Nefndarmenn standi heldur ekki í sérstakri þakkarskuld við stefnda fyrir greiðslur til sín vegna starfanna enda séu greiðslurnar fjármagnaðar á lögákveðinn hátt, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga um lögmenn, með framlögum meðlima félagsins, þar á meðal með framlögum frá stefnanda.                 Megi og benda á að yrði fallist á rök stefnanda að þessu leyti myndi engin skipan nefndarinnar samkvæmt lögunum um lögmenn uppfylla hæfisskilyrði, enda yrði einn ad hoc nefndarmanna einnig skipaður af stefnda og laun ad hoc nefndarmanna einnig greidd af stefnda. Líkt og tíðrætt sé um í skrifum fræðimanna sé ótækt að skýra hæfisreglur svo að enginn sé hæfur til að úrskurða í máli. Þannig hafi aðild ríkisins að málum á stjórnsýslustigi, t.d. fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og kærunefnd jafnréttismála, ekki verið talin valda vanhæfi nefndarmanna sem ríkið skipi og greiði laun. Þá hafi dómarar sem skipaðir séu og fái greidd laun frá ríkinu ekki verið taldir vanhæfir til þess að dæma í dómsmálum þar sem íslenska ríkið sé aðili.                 Að auki mótmæli stefndi því að nefndarmenn í úrskurðarnefnd lögmanna hafi verið vanhæfir til meðferðar málsins sökum þess að ætluð brot stefnanda hafi beinst gegn lögmannastéttinni allri sem nefndarmenn tilheyri. Enda þótt nefndum ákvæðum siðareglnanna sé ætlað að gæta að heiðri stéttarinnar og að hagsmunir hennar séu þannig tryggðir með ákvæðunum verði ekki talið að einstaka lögmenn hafi svo beina hagsmuni af málum er varði slík brot að þeir teljist vanhæfir af þeirri ástæðu. Forðast beri að túlka reglur um vanhæfi með svo rúmt að enginn geti talist hæfur, svo sem niðurstaðan yrði ef hæfisreglur yrðu túlkaðar svo að enginn lögmaður væri hæfur til að úrskurða í máli fyrir úrskurðarnefndinni sem varðaði heiður lögmannastéttarinnar.                 Hvað varði ummæli stefnanda og efnislega niðurstöðu úrskurðarins þá telji stefndi einsýnt að stefnandi hafi með ummælum sínum gerst sekur um brot gegn 19. gr. siðareglna lögmanna og vísist um það til forsendna úrskurðarnefndar lögmanna. Verði ummæli stefnanda ekki réttlætt með því að hann hafi með þeim gætt hagsmuna umbjóðanda síns enda hafi honum verið sá starfi fær án þess að vega að starfsheiðri dómarans og sýna honum vanvirðingu. Til þess sé að líta við mat á ummælum stefnanda að þau hafi ekki verið látin falla í hita leiksins heldur skriflega á nokkurra daga tímabili. Sé því enn síður tilefni til þess að gefa stefnanda afslátt af þeirri kröfu sem siðareglur lögmanna geri um tillitssemi og virðingu með vísan til þess að í orðunum hafi falist viðbrögð við því sem stefnandi hafi upplifað sem óréttlæti, enda hafi hann haft nægan tíma til að láta sér renna reiðina og ígrunda orð þau sem hann hafi látið falla við dómstjórann. Orð hans hafi, líkt og úrskurðarnefndin hafi komist að niðurstöðu um, verið fjarri því sem viðeigandi sé í samskiptum lögmanna við dómara.                 Þá sé því hafnað að ummæli stefnanda um og við dómstjórann séu hans einkamál og komi stétt lögmanna ekki við. Stefnandi byggi á því að hann hafi ekki komið fram sem sendiboði stéttar lögmanna gagnvart dómstjóranum heldur fyrir hönd umbjóðanda síns. Væru siðareglur lögmanna eða ákvæði þeirra um að halda uppi heiðri lögmannastéttarinnar túlkaðar svo að þær tækju aðeins til þess þegar lögmenn kæmu fram sem sendiboðar stéttarinnar væri ljóst að gildissvið þeirra yrði allverulega þröngt. Öllum lögmönnum megi vera ljóst að þegar þeir komi fram í störfum sínum þá séu þeir ekki aðeins fulltrúar sín og umbjóðenda sinna, heldur einnig óbeint fulltrúar lögmannastéttarinnar í heild. Hið sama megi segja um fjölmargar aðrar stéttir og þannig þyki störf dómara t.a.m. ekki aðeins endurspegla þá sjálfa heldur einnig dómstóla almennt. Um þetta telji stefndi að almennt sé ekki deilt enda hafi löggjafinn falið stefnda að setja siðareglur fyrir lögmenn og taki ákvæði þeirra meðal annars til atriða sem nauðsynlegt sé að virt séu, ef lögmenn og störf þeirra í þágu réttarkerfisins eiga að vera tekin alvarlega og njóta virðingar í samfélaginu.                 Stefndi hafni því að með úrskurði nefndarinnar hafi verið vegið að tjáningarfrelsi eða neikvæðu félagafrelsi stefnanda. Vissulega hafi lögmenn rétt til þess að gagnrýna dómstóla og störf dómara en sú gagnrýni, líkt og önnur störf lögmanna, þurfi að vera sett fram með þeim hætti sem gæti að heiðri lögmanna­stéttarinnar. Stefnanda hafi vel verið fært að gera athugasemdir við afgreiðslu erindis síns, hvort heldur sem hann kysi að gera það í tölvuskeyti til dómstjórans eða á opinberum vettvangi, án þess að sýna þann fádæma dónaskap sem raunin hafi orðið. Ekki hafi verið vegið að neikvæðu félagafrelsi stefnanda með þeirri aðgerð stefnda að beina kvörtun undan honum til úrskurðarnefndarinnar eða að félagið hafi með því farið út fyrir skyldubundið hlutverk sitt. Félaginu sé falið það hlutverk að koma fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum, að setja siðareglur fyrir lögmenn og hafa eftirlit með framfylgni þeirra reglna. Þegar einstaka lögmaður stefni heiðri lögmannastéttarinnar í hættu með framkomu sinni gagnvart dómstólum standi það félaginu og hlutverki þess afar nærri að láta til sín taka og gæta að því að siðareglum lögmanna sé framfylgt, og þá ekki síst þegar undan slíkri framkomu sé sérstaklega kvartað til stjórnar stefnda.                 Samkvæmt öllu framangreindu beri því að hafna kröfu stefnanda um að ógiltur verði með dómi úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna sem kveðinn hafi verið upp hinn 26. maí 2017 í málinu nr. 14/2017, en um lagarök vísi stefndi til laga nr. 77/1998, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og til óskráðra reglna stjórnsýsluréttarins.                   Niðurstaða.                 Í málinu krefst stefnandi ógildingar á framangreindum úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna gagnvart honum, dags. 26. maí 2017, þar sem niðurstaðan varð sú að stefnandi var látinn sæta áminningu vegna framgöngu sinnar sem lögmaður í samskiptum við þáverandi dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, sbr. 27. gr. laga nr. 77/1998 og með síðari breytingum, eins og nánar er lýst hér að framansögðu.                 Byggir stefnandi dómkröfu sína um ógildingu, sbr. 5. mgr. 28. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, einkum á því að stefndi, Lögmannafélag Íslands (LMFÍ), hafi með réttu ekki átt að geta haft stöðu sem kærandi í málinu á stjórnsýslustigi fyrir úrskurðarnefnd lögmanna vegna skorts á lögvörðum hagsmunum og vegna þess að lög um nefndina leyfi ekki slíka aðild félagsins í máli af þessu tagi. Í annan stað byggir stefnandi svo ógildingarkröfu á því að úrskurðarnefndin hafi verið vanhæf í málinu þar sem stefndi, LMFÍ, sem hafi aðkomu að tilnefningu í nefndina og standi straum af kostnaði við rekstur hennar, hafi verið málsaðili. Í þriðja lagi byggir stefnandi síðan á því að hann hafi í umrætt skipti ekki gerst brotlegur við nein ákvæði í siðareglum lögmanna eða almennt í lögum og reglum sem gildi um störf lögmanna þar sem hann hafi aðeins sinnt nauðsynlegri hagsmunagæslu fyrir skjólstæðing sinn, en slík skerðing á úrræðum til þess feli auk þess í sér skerðingu á tjáningarfrelsi hans sem lögmanns.                 Hvað varðar fyrst þá málsástæðu stefnanda fyrir ógildingu, sem snýr að aðild stefnda, LMFÍ, sem kæranda í úrskurðarmáli því sem leiddi til áminningar stefnanda í úrskurðinum, dags. 26. maí 2017, þá er ágreiningur um það í málinu hvort stefndi geti samkvæmt lögum um lögmenn og siðareglum lögmanna átt aðild að slíku kærumáli sem varðar samskipti lögmanns við dómara, sem og hvort stefndi geti þá mögulega átt lögvarða hagsmuni í slíku máli þar sem háttsemi stefnanda hafi beinst að dómara.                 Í 1. málslið 1. mgr. 27 gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn segir um mögulega aðild:                  „Nú telur einhver að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr. og getur hann þá lagt fyrir úrskurðarnefnd lögmanna kvörtun á hendur lögmanninum.“                 Reglur sem hér er vísað til í 2. mgr. 5. gr. laganna eru siðareglur þær sem LMFÍ setur fyrir lögmenn (Codex Ethicus) og eru frá 24. júní 1960 með síðari breytingum.                 Sé tekið mið af orðalagi framangreinds ákvæðis í 1. mgr. 27 gr. laga nr. 77/1998 þá er það nú fremur opið um það hverjir geti mögulega talist aðilar sem kærendur í kærumálum til úrskurðarnefndarinnar, sem starfar samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna, en þó er við það miðað að gert hafi verið á hlut þess er beinir kvörtun til nefndarinnar. Sé litið til nefndarálits frá allsherjarnefnd Alþingis er lá fyrir í tengslum við setningu laganna þá kemur þar fram að fyrirætlun hafi verið sú að víkka kæruheimild út þannig að um greiða kæruleið verði að ræða fyrir aðra en einungis umbjóðendur lögmanna.                 Þá liggur fyrir að úrskurðarnefndin hefur sjálf sett sér frekari málsmeðferðarreglur sem eru frá árinu 1999 með síðari breytingum, sbr. 2. mgr. 13. gr. samþykkta fyrir LMFÍ frá 1944 með síðari breytingum, sbr. og 2. málslið, 1. mgr. 4. gr. laga nr. 77/1998. Er í 3. gr. málsmeðferðarreglnanna gert ráð fyrir því að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé meðal annars „að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna háttsemi, sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ“ og „að fjalla um erindi sem stjórn LMFÍ sendir nefndinni skv. 3. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna“.                 Að mati dómsins verður því ekki séð að framangreind lög og reglur fyrirbyggi mögulega aðild stefnda LMFÍ að kærumálum gagnvart einstökum lögmönnum eins og hér um ræðir samkvæmt 1. mgr. 27 gr. laga nr. 77/1998, að því gefnu að félagið geti þá með réttu fært rök fyrir úrskurðarnefndinni fyrir því að gert hafi verið á þess hlut.                 Ber þá að taka fram að ekki er unnt að draga hér of víðtækar ályktanir í ljósi þess að ekki er nú fjallað sérstaklega um mögulegt umfang og inntak þessara heimilda LMFÍ til aðildar að kærumálum fyrir úrskurðarnefndinni í 27. gr. laga nr. 77/1998 og þess að komið hafa fram tillögur og hugmyndir um það að skerpa þurfi frekar á þeim heimildum sérstaklega, en hefur þó til þessa ekki náð fram að ganga, sbr. þær tillögur stjórnar stefnda LMFÍ til breytinga á 27. gr. frá 16. júlí 2015, er liggja fyrir í málinu.                 Hvað varðar síðan skilyrði um að sýna þurfi fram á mögulega lögvarða hagsmuni LMFÍ, og þá með tilliti til lögbundins hlutverks þess, þá liggur óumdeilt fyrir í málinu að heimildir stjórnar stefnda LMFÍ til þess að hafa frumkvæði að slíkum kærumálum fyrir úrskurðarnefndinni gagnvart einstökum lögmönnum eru, eins og nú er ástatt um, í öllu falli takmarkaðar við þau tilvik þegar brot lögmanns gegn framangreindum lögum nr. 77/1998, eða þá siðareglunum lögmanna, telst ótvírætt beinast gegn hagsmunum lögmanna almennt sem stéttar eða þá hagsmunum félagsins sem slíks.                 Eins og vísað er til af hálfu stefnda, þá gera gildandi samþykktir fyrir LMFÍ, sem settar hafa verið á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998, ótvírætt ráð fyrir því að tilgangur félagsins sé meðal annars sá að sinna lögboðnu eftirlits- og agavaldi og gæta hagsmuna lögmannastéttarinnar, sbr. 2. gr. gildandi samþykkta, en stjórn félagsins sé meðal annars falið það hlutverk að gæta þess að fylgt sé góðum lögmannsháttum, sbr. 11. gr. þeirra. Þá gerir 5. gr. laga nr. 77/1998 ráð fyrir því að LMFÍ komi fram fyrir hönd lögmanna gagnvart dómstólum og stjórnvöldum og setji lögmönnum siðareglur, en í 1. mgr. 43. gr. siðareglna er síðan gert ráð fyrir því að stjórn LMFÍ hafi eftirlit með því að siðareglunum sé fylgt í samráði við dómstóla og stjórnardeildir.                 Að mati dómsins verður að fallast á með stefnda, að líta verði til framangreinds tilgangs og hlutverks við mat á því hvort stefndi geti hér almennt átt lögvarða hagsmuni, en einnig verður þá síðan að líta hverju sinni til þeirra efnislegu verndarhagsmuna sem undir eru í viðkomandi tilviki, í þessu tilviki ætluð brot stefnanda gegn 1. mgr. 19. gr., sbr. 2. gr. í siðareglum fyrir lögmenn, er virðast út frá verndarhagsmunum allt eins geta varðað lögmannastéttina í heild, eins og ákvæðin eru fram sett.                 Í máli því sem hér um ræðir byggir stefndi enn fremur á því að þau brot stefnanda gegn siðareglum lögmanna sem kvartað hafi verið yfir, sem og þau brot á siðareglum sem úrskurðarnefndin hafi síðan komist að niðurstöðu um að stefnandi hefði sannarlega haft í frammi í þeim samskiptum við þáverandi dómstjóra í Héraðsdómi Reykjavíkur og sem áður er hér lýst, varði hagsmuni lögmannastéttarinnar í heild, en ekki einungis hagsmuni þess dómstjóra sem beinlínis hafi hér verið misgert við.                 Verður að mati dómsins fallist á það með stefnda að þær röksemdir um mikilvægi tilhlýðilegrar háttvísi í samskiptum lögmanna við dómstóla sem endurspeglist einkum í ákvæðum III. kafla í siðareglum fyrir lögmenn, sbr. þá einkum 19. gr. þeirra, feli í sér heildarhagsmuni lögmannastéttarinnar og að úrskurður sá sem stefnandi krefjist hér ógildingar á varði því háttsemi sem geti talist vera í andstöðu við þá hagsmuni sem stefnda beri að gæta og vinna að, sbr. og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 77/1998, og að stefndi teljist því hafa getað haft beina og nægilega sérgreinda lögvarða hagsmuni af kvörtun til úrskurðarnefndar lögmanna og til þess að geta átt aðild að því máli fyrir nefndinni.                 Að framangreindu virtu er það því mat dómsins að stefnandi hafi hér ekki sýnt fram á að gild rök standi til þess að ógilda beri úrskurð úrskurðarnefndar lögmanna gagnvart honum, dags. 26. maí 2017, byggt á því að stefndi hafi ekki getað átt aðild að umræddu kærumáli með hliðsjón af framangreindum lögum og reglum sem um það gilda, sbr. einkum ákvæði 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998, sbr. 2. og 11. gr. samþykkta fyrir LMFÍ, sem og 1. mgr. 43. gr. siðareglna lögmanna og 3. gr. málsmeðferðarreglna úrskurðarnefndarinnar, sem virt í heild sinni virðast styðja þá framkvæmd og skýringu á lögunum að slík aðild stefnda fái hér við svo búið staðist.                 Skal þá því næst vikið að þeirri málsástæðu stefnanda að ógilda beri úrskurðinn frá 26. maí 2017 á þeim grundvelli að fulltrúar í úrskurðarnefnd lögmanna hafi verið vanhæfir til þess að fjalla um málið. Byggir stefnandi þá einkum á því að þetta leiði af því að úrskurðarnefndin sé alfarið rekin á kostnað stefnda og stefndi skipi auk þess einn af þremur nefndarmönnum, sbr. 3. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998. Vísar stefnandi til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 77/1998, sbr. og II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með síðari breytingum, um sérstakt hæfi nefndarmanna í slíkri stjórnsýslunefnd, sbr. einkum 5. og 6. tölulið 1. mgr. 3. gr. um vanhæfisástæður, þegar viðkomandi nefndarmaður telst sjálfur eiga sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls eða ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu. Þá vísar stefnandi til þess að nefndarmenn í málinu, sem allir þrír hafi verið lögmenn, eigi þá í öllu falli slíka hagsmuni af niðurstöðu í máli sem félagið hefur frumkvæði að þar sem málsefnið varði hagsmuni stéttarinnar í heild.                 Að mati dómsins verður hins vegar að fallast á það með stefnda að framangreind lögbundin skipun úrskurðarnefndarinnar og fjármögnun hennar samkvæmt 3. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998 geti ekki eitt og sér talist leiða sjálfkrafa til þess háttar vanhæfis nefndarmanna í málum þar sem LMFÍ á sjálft aðild að kærumáli, þó svo að félagið standi vissulega straum af kostnaði við rekstur nefndarinnar og skipi í hana einn fulltrúa, eins og lög bjóða. Er og ljóst að viðlíka háttur við skipun og fjármögnun sjálfstæðra stjórnsýslunefnda hefur t.d. ekki verið talinn valda vanhæfi í málum þegar hið opinbera á í hlut, sbr. almennt um úrskurðarnefndir á vegum ríkisins. Þá er ekki heldur tækt að fallast á það að ætlað vanhæfi nefndarmanna í úrskurðanefndinni geti grundvallast á því að þeir hljóti að hafa átt svo einstaka hagsmuni af úrlausn umrædds máls, þó svo að það hafi snúið almennt að heildarhagsmunum lögmannastéttarinnar.                 Að framangreindu virtu er því ekki unnt að fallast á það að stefnandi hafi hér sýnt fram á það að fallast beri á kröfu hans um ógildingu úrskurðarins frá 26. maí 2017 á þeim grundvelli að einhverjir nefndarmannanna hafi sannarlega verið vanhæfir við meðferð umrædds stjórnsýslumáls, sbr. ákvæði í II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.                 Að lokum ber þá að víkja í einu lagi að þeim málsástæðum stefnanda að hann hafi þó í öllu falli með umræddri framgöngu sinni ekki gerst brotlegur við nein ákvæði í siðareglum lögmanna eða í lögum og reglum er gildi um störf lögmanna, þar sem hann hafi í umrætt sinn aðeins haft í frammi gagnrýni í tengslum við hagsmunagæslu fyrir skjólstæðing sinn, sem fullt tilefni hafi hér verið til. Skerðing á úrræðum lögmanns til þess með slíkum viðurlögum sem umrædd áminning í skjóli skyldubundinnar aðildar að Lögmannafélagi Íslands sé feli auk þess í sér skerðingu á tjáningarfrelsi stefnanda sem lögmanns til þess að gagnrýna störf dómara og gæta hagsmuna umbjóðenda. Telur stefnandi að með umræddri kæru er leiddi til áminningar úrskurðarnefndarinnar hafi stefndi farið út fyrir skyldubundið hlutverk sitt, sbr. 5. og 13. gr. laga nr. 77/1998, en stefnandi hafi hér auk þess ekki farið á svig við 19. gr. siðareglna fyrir lögmenn, eins og úrskurðarnefndin hafi komist að í úrskurði sínum frá 26. maí 2017.                  Er það mat dómsins að við efnislega endurskoðun á umræddum úrskurði frá 26. maí 2017, þá verði að líta svo á að þar sé fyrst og fremst um að ræða matskennda ákvörðun þar til bærrar sjálfstæðrar úrskurðarnefndar um það hvernig bæri að heimfæra framgöngu stefnanda með hliðsjón af túlkun ákvæða í 2., 19., og 22. gr. siðareglna fyrir lögmenn. Var mat nefndarinnar að hún taldi stefnanda með framgöngu sinni a.m.k. hafa farið á svig við 19. gr. siðareglnanna þannig að leiddi til áminningar hans að mati nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Að mati dómsins verður að telja þetta forsvaranlega niðurstöðu af hálfu úrskurðarnefndarinnar með hliðsjón af efni umræddra siðareglna og þeim gögnum sem liggja fyrir um samskipti stefnanda sem lögmanns við þáverandi dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, auk þess sem ekki er deilt á það mat nefndarinnar að framgangan hafi varðað stéttina sem heild.                 Verður þannig að telja ótvírætt að ýmis framangreind ummæli þau sem stefnandi viðhafði óumdeilt í þessum samskiptum sínum við dómstjórann hafi verið alls kostar óviðeigandi og óþörf í því skyni að vinna sem best að hagsmunum umbjóðenda hans. Voru ummælin auk þess sett þannig fram að það getur ekki með nokkru móti falið í sér skerðingu á eðlilegu tjáningarfrelsi stefnanda eða þá misbeitingu á neikvæðu félagafrelsi gagnvart honum sem lögmanni að þannig hafi verið við þeim brugðist sem gert var hér af hálfu stefnda og úrskurðarnefndarinnar við meðferð stjórnsýslumálsins. Ekki verður heldur séð að hald sé í þeim röksemdum af hálfu stefnanda að gætt hafi verið viss meðalhófs með því að birta ekki opinberlega ummælin í garð dómstjórans enda er það alls ekki inntak málefnalegrar gagnrýni stefnanda á störf dómstjórans sem tekist var á um og sem aðilum ber ekki allskostar saman um heldur einungis óverjandi framsetning og orðaval stefnanda í garð dómstjórans, sbr. hér framangreinda lýsingu á málsatvikum. Er því fallist á það með stefnda að ekki hafi hér heldur verið sýnt fram á af hálfu stefnanda að stefndi eða úrskurðarnefndin hafi með einhverjum hætti farið út fyrir lögbundin hlutverk sín í þeirri málsmeðferð eða þá við það mat sem viðhaft var í framangreindu stjórnsýslumáli, sbr. úrskurðurinn frá 26. maí 2017 í máli nr. 14/2017.                 Að öllu framangreindu virtu er það því mat dómsins að stefnandi hafi í máli þessu ekki fært fram neinar þær málsástæður eða lagarök sem leiða eigi til ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndarnefndar lögmanna í máli nr. 14/2017, er kveðinn var upp 26. maí 2017, og með hliðsjón af því ber að sýkna stefnda af þeirri dómkröfu stefnanda.                 Eins og mál þetta er vaxið þykir þó rétt að málskostnaður á milli aðila falli niður.                       Málið flutti Björgvin Þorsteinsson lögmaður fyrir stefnanda en Óttar Pálsson lögmaður fyrir stefnda.                 Pétur Dam Leifsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.                                                                                  D ó m s o r ð:                 Stefndi, Lögmannafélag Íslands, er sýknaður af kröfu stefnanda, Jóns Steinars Gunnlaugssonar.                 Málskostnaður fellur niður.  
Mál nr. 1/2020
Kærumál Málsóknarfélag Veiðifélag Stjórnvaldsákvörðun Lögvarðir hagsmunir Frávísunarúrskurður staðfestur Sératkvæði
Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem máli N á hendur M og L ehf. var vísað frá héraðsdómi. Í málinu krafðist N ógildingar á rekstrarleyfi sem Fiskistofa hafði veitt L ehf. til reksturs sjókvíaeldis á laxi í Reyðarfirði. Í dómi Hæstaréttar kom fram að N væri málsóknarfélag samkvæmt 19. gr. a. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og að því stæðu tilgreind veiðifélög. Hagsmunir tengdir nýtingu laxveiðihlunninda tilheyrðu ekki veiðifélögum heldur félagsmönnum þeirra samkvæmt 5. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Í ljósi markmiða síðastnefndra laga og að því gættu að veiðiréttarhöfum væri skylt að hafa með sér félagsskap í því skyni að markmiðunum yrði náð, yrði að leggja til grundvallar að veiðifélög gætu í skjóli umboðs sótt fyrir dómstólum kröfur sem lytu að veiðirétti félagsmanna sinna og þeir hefðu lögvarða hagsmuni af að fá úrlausn dómstóla um, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Væri slíkt hvorki andstætt lögbundnu hlutverki veiðifélaga né, í því tilviki sem væri til úrlausnar, öndvert samþykktum þeirra veiðifélaga sem stæðu að N. Í dóminum var vísað til þess að hvorki félagsmenn í veiðifélögunum né félögin sem slík hefðu átt aðild að stjórnsýslumáli um útgáfu umrædds rekstrarleyfis. Réttur N til að bera undir dómstóla hvort farið hefði verið að lögum við útgáfu rekstrarleyfisins yrði því ekki reistur á aðild þeirra að stjórnsýslumálinu. Þegar metið væri hvort sá sem hefði óbeinna hagsmuna að gæta af úrlausn stjórnsýslumáls gæti borið lögmæti stjórnvaldsákvörðunarinnar undir dómstóla yrði að taka mið af því hvort hagsmunir hans af ákvörðuninni væru verulegir og meiri en hvers annars í samfélaginu, til dæmis vegna nálægðar við leyfisskylda starfsemi sem ákvörðun stjórnvaldsins heimilar. Benti rétturinn á að þegar ekki færu saman hagsmunir þeirra sem stunda fiskeldi og þeirra sem veiðiréttar njóta samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði hefði löggjafinn metið það svo að hagsmunir fiskeldisins skyldu víkja með þeim hætti sem nánar væri mælt fyrir um í lögum. Þegar litið til þess hversu langt laxveiðiár þær sem um ræddi í málinu væru frá sjókvíaeldinu í Reyðarfirði, miðað við ákvæði reglugerðar nr. 105/2000, fengi fyrrnefnt hagsmunamat því ekki breytt að N gæti ekki reist heimild sína til höfðunar máls til ógildingar á umræddu starfsleyfi á reglum grenndarréttar, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 9. júní 2005 í máli nr. 20/2005 og 3. júní 2004 í máli nr. 171/2004. Loks kom fram að til þess að fullnægt væri skilyrðum um lögvarða hagsmuni samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 yrði N að sýna fram á eða gera líklegt að félagsmenn hans hefðu orðið fyrir tjóni vegna umræddrar starfsemi en það hefði hann ekki gert. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest og málinu vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2019 en kærumálsgögn höfðu áður borist réttinum 29. október sama ár. Kærður er úrskurður Landsréttar 20. desember 2019 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 16. mars 2020. I Í efnisþætti málsins greinir aðila á um hvort leyfi varnaraðilans Laxa fiskeldis ehf. 15. mars 2012 til reksturs stöðvar til sjókvíaeldis á laxi í Reyðarfirði sé haldið annmörkum sem leiða eigi til ógildingar þess en að því lýtur dómkrafa sóknaraðila. Undir rekstri málsins í héraði kröfðust varnaraðilar þess að því yrði vísað frá dómi, þar sem sóknaraðila skorti lögvarða hagsmuni af úrslausn dómstóla um dómkröfu sína, auk þess sem málið væri vanreifað. Héraðsdómur hafnaði kröfu varnaraðila um frávísun málsins, lagði á það efnisdóm og sýknaði varnaraðila af ógildingarkröfu sóknaraðila. Við áfrýjun héraðsdóms til Landsréttar kröfðust varnaraðilar þess að málinu yrði vísað frá héraðsdómi með sömu rökum og áður. Með hinum kærða úrskurði féllst Landsréttur á þá kröfu og er sú úrlausn til endurskoðunar hér fyrir dómi. II Sóknaraðili höfðaði mál þetta á hendur varnaraðilum 4. apríl 2017 til ógildingar á rekstrarleyfi nr. IS-36096 sem Fiskistofa veitti varnaraðilanum Löxum fiskeldi ehf. 15. mars 2012 til reksturs stöðvar til sjókvíaeldis á laxi í Reyðarfirði. Með héraðsdómi 12. desember 2018 voru varnaraðilar sýknaðir af kröfu sóknaraðila en málskostnaður felldur niður. Sóknaraðili áfrýjaði málinu til Landsréttar 7. janúar 2019. Því var gagnáfrýjað 19. mars sama ár af hálfu varnaraðilans Laxa fiskeldis ehf. sem krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá héraðsdómi en til vara að héraðsdómur yrði staðfestur. Í báðum tilvikum var þess krafist að varnaraðilanum yrði dæmdur kostnaður vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Landsrétti. Málinu var ekki gagnáfrýjað af hálfu varnaraðilans Matvælastofnunar sem fyrir Landsrétti krafðist þess aðallega að því yrði vísað frá héraðsdómi en til vara staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Í báðum tilvikum krafðist varnaraðilinn málskostnaðar fyrir Landsrétti úr hendi sóknaraðila. Með úrskurði Landsréttar 11. október 2019 var málinu vísað frá héraðsdómi og sóknaraðila gert að greiða varnaraðilum hvorum um sig 2.000.000 króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti. Sóknaraðili kærði úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar sem með dómi 18. nóvember 2019 í máli nr. 47/2019 ómerkti úrskurðinn þar sem Landsréttur hefði farið út fyrir kröfur varnaraðilans Matvælastofnunar um málskostnað. Auk þess hefði ekki getað komið til álita að dæma þeim varnaraðila málskostnað í héraði þar sem málinu hefði ekki verið gagnáfrýjað af hans hálfu. Var málinu því vísaði á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Með úrskurði 20. desember 2019 vísaði Landsréttur málinu frá héraðsdómi og var sóknaraðila gert að greiða varnaraðilanum Löxum fiskeldi ehf. samtals 2.000.000 króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti og varnaraðilanum Matvælastofnun 400.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti. III Atvikum málsins er lýst í héraðsdómi. Samkvæmt því sem þar kemur fram var varnaraðilinn Laxar fiskeldi ehf. stofnaður í desember 2005 í þeim tilgangi að hefja undirbúning að rekstri laxeldis í sjókvíum hér við land. Skipulagsstofnun barst 12. apríl 2011 tilkynning félagsins um fyrirhugað eldi á 6.000 tonnum af laxi í sjókvíum í Reyðarfirði. Fram kom það mat félagsins að fyrirhuguð framkvæmd myndi ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, notaður yrði Sagalax sem ræktaður hefði verið hér á landi frá árinu 1984 og ráðgert væri að eldisstöðin yrði komin í fulla nýtingu árið 2018. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar 8. júní 2011 var talið að umrædd framleiðsla í sjókvíum varnaraðilans væri ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og væri hún ekki háð mati á umhverfisáhrifum.    Í kjölfar ákvörðunar Skipulagsstofnunar sótti varnaraðilinn Laxar fiskeldi ehf. um rekstrarleyfi til Fiskistofu sem 15. mars 2012 gaf út leyfi það sem deilt er um í málinu. Varnaraðilinn Matvælastofnun tók við hlutverki Fiskistofu 1. janúar 2015 og sendi 11. maí 2016 varnaraðilanum Löxum fiskeldi ehf. bréf þar sem athygli var vakin á því að samkvæmt V. kafla laga nr. 71/2008 um fiskeldi skyldi stofnunin fella rekstrarleyfi úr gildi yrði starfsemi ekki hafin innan þriggja ára frá útgáfu leyfis. Hygðist stofnunin samkvæmt því fella rekstrarleyfi félagsins úr gildi yrði starfsemi þess ekki hafin 29. maí 2017. Varnaraðilinn Matvælastofnun gaf 7. apríl 2016 út vottorð þar sem fram kom að varnaraðilinn Laxar fiskeldi ehf. hefði fengið laxaseiði frá Stofnfiski ehf. og að flutningur í sjókvíar væri ráðgerður degi síðar. Varnaraðilinn Matvælastofnun gerði 23. júní 2017 úttekt hjá varnaraðilanum Löxum fiskeldi ehf. í starfsstöð félagsins við Gripalda en starfsstöðvar höfðu þá ekki verið settar upp á öðrum eldissvæðum sem voru tilgreind í rekstrarleyfinu. Degi síðar staðfesti varnaraðilinn Matvælastofnun gildistöku rekstrarleyfis varnaraðilans Laxa fiskeldis ehf. í samræmi við 15. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi og 25. júní 2017 voru seiði sett í sjóeldiskví félagsins við Gripalda. Þegar mál þetta var höfðað 4. apríl 2017 hafði varnaraðilinn Laxar fiskeldi ehf. ekki hafið starfsemi í sjókvíum í Reyðarfirði. Undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti upplýsti varnaraðilinn að starfsemi hans væri í fullum gangi. Seiðaframleiðsla færi fram í þremur stöðvum í Ölfusi, áframeldi væri í Reyðarfirði og slátrað væri hjá Búlandstindi í Djúpavogi. Félagið hefði slátrað 4500 tonnum af laxi á árinu 2019 og ráðgert væri að fullnýta 6000 tonna starfs- og rekstrarleyfi á árinu 2020. Heildarfjárfesting félagsins í fasteignum, tækjum og búnaði hefði í lok árs 2019 numið 32.000.000 evra, tryggingarverðmæti lífmassa 38.000.000 evra og tekjur félagsins 27.000.000 evra á árinu. Þá var upplýst að starfsmenn félagsins væru 42 og að það ætti hlut í Búlandstindi sem ynni úr og pakkaði afurðum félagsins en þar væru 62 starfsmenn. Undir rekstri málsins í héraði kröfðust varnaraðilar frávísunar þess, meðal annars á þeim grunni að þeir sem stæðu að sóknaðila hefðu ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfur sínar. Í úrskurði héraðsdóms 8. mars 2018 sagði að málið væri af sóknaraðila hálfu höfðað til að fá fellt úr gildi rekstrarleyfi varnaraðilans Laxa fiskeldis ehf. til sjókvíaeldis í Reyðarfirði. Sóknaraðili héldi því fram að hlunnindi þeirra veiðifélaga sem ættu aðild að honum myndu skerðast ef laxeldi samkvæmt starfsleyfinu næði fram að ganga. Í forsendum úrskurðar héraðsdóms sagði að ekki væri hægt að útiloka að svo stöddu að veiðifélögin gætu átt lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins. Málsástæður þeirra væru samhljóða og kröfur þeirra ættu rót að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Félögin gætu haft lögvarða hagsmuni af málinu þótt þau hefðu enn ekki orðið fyrir tjóni af völdum laxeldis varnaraðilans Laxa fiskeldis ehf. Ágreiningur um tjón sem kynni að verða vegna laxeldisins og hvaða þýðingu fjarlægðir milli ánna og laxeldisstöðvarinnar hefðu í því sambandi vörðuðu efni máls og sönnunarfærslu væri ekki lokið. Væri kröfu varnaraðila um frávísun málsins því hafnað. IV 1 Eins og áður er fram komið krefst sóknaraðili þess í efnisþætti málsins að ógilt verði rekstrarleyfi það sem Fiskistofa veitti varnaraðilanum Löxum fiskeldi ehf. 15. mars 2012 til reksturs stöðvar til sjókvíaeldis á laxi í Reyðarfirði. Teflir sóknaraðili fram málsástæðum í sjö liðum til stuðnings dómkröfu sinni. Í fyrsta lagi sé rekstrarleyfið gefið út án tilgreiningar um leyfilegan eldisstofn eins og fyrir sé mælt í 10. gr. laga nr. 71/2008. Í öðru lagi hafi leyfið runnið út og því eigi að fella það úr gildi. Í þriðja lagi hafi málsmeðferð við útgáfu og framlengingu rekstrarleyfisins verið háð annmörkum og eigi það eitt og sér að valda ógildingu leyfisins. Í fjórða lagi hafi lagaheimild skort til að afhenda varnaraðilanum Löxum fiskeldi ehf. afnot af því hafsvæði þar sem starfsemi félagsins fari fram. Í fimmta lagi fari starfsemi rekstrarleyfishafans gegn ákvæðum laga og valdi það eitt og sér ógildingu leyfisins. Í sjötta lagi fari rekstur sjókvíaeldisstöðvarinnar í bága við einkaréttarlega hagsmuni þeirra sem aðild eigi að sóknaraðila og standi að málsókninni. Í sjöunda lagi hafi tiltekinn starfsmaður varnaraðilans Matvælastofnunar verið vanhæfur til meðferðar á rekstrarleyfisumsókninni og valdi það ógildingu leyfisins. Um lögvarða hagsmuni sína af því að fá úrlausn um ógildingarkröfuna segir sóknaraðili í stefnu til héraðsdóms að kröfur hans séu reistar á því að fyrirhugaður rekstur umræddrar sjókvíaeldisstöðvar fari í bága við einkaréttarlega hagsmuni þeirra sem aðild eigi að sóknaraðila og standi að málsókninni. Nái fram að ganga sú starfsemi sem rekstrarleyfið taki til sé innan fárra ára svo gott sem vissa fyrir eyðileggingu villtra laxastofna í ám á Íslandi og þar með töldum þeim laxveiðiám sem séu í eigu þeirra sem standi að sóknaraðila. Sóknaraðili telji afar sterkar líkur standa til þess að starfsemin í Reyðarfirði muni skaða varanlega hagsmuni þeirra sem standi að sóknaraðila af nýtingu laxveiðihlunninda sinna. Starfsemin muni skaða hagsmuni aðila málsóknarfélagsins á grundvelli grenndarréttar og upplýsingar frá Noregi bendi til að þetta megi telja nánast öruggt. Málsóknin sé meðal annars á því reist að varnaraðilanum Löxum fiskeldi ehf. sé óheimilt að stunda starfsemi sem líklegt sé að valdi slíku tjóni. Að mati sóknaraðila standi málið þegar til frambúðar sé litið um val á milli þess að stunda annað hvort þá starfsemi, sem varnaraðilinn Laxar fiskeldi ehf. fyrirhugi og verði stunduð víðar um landið, eða að viðhalda nýtingu laxveiðihlunninda í íslenskum veiðiám með náttúrulegum stofnum. Sóknaraðili telji aðallega að með öllu sé óheimilt að fremja þetta strandhögg í hagnýtingu þeirra hlunninda sem hér um ræði. Verði varnaraðilanum á annað borð talin starfsemin heimil, með þeim afleiðingum sem af muni hljótast, sé til vara bent á að því hljóti að fylgja full bótaskylda gagnvart öllum þeim aðilum sem verði að láta af eða draga verulega úr hagnýtingu fasteignaréttinda sinna. Ekkert hafi verið hugað að þessu við útgáfu og framlengingu hins umstefnda leyfis og ætti það eitt og sér að valda ógildingu þess. Í kæru til Hæstaréttar áréttar sóknaraðili enn frekar framangreindan grundvöll málsóknar sinnar. Þar segir meðal annars að málsaðilar deili aðallega um hvort starfsemi varnaraðilans Laxa fiskeldis ehf. valdi hættu á að veiðiréttindi í ám þeirra sem standi að málsóknarfélaginu spillist vegna starfseminnar. Sóknaraðilar telji þessa hættu aðallega felast í því að eldislaxar, sem vissa sé fyrir að muni sleppa úr sjókvíum varnaraðilans, spilli viðgangi og tilvist hinna villtu laxastofna ánna. Alveg sé ljóst af málatilbúnaði sóknaraðila að málsókn hans byggist á því að hann eigi stjórnarskrárvarin eignarréttindi í laxveiðirétti sínum í viðkomandi veiðiám og að hann sé að bera undir dómstóla spurninguna um hvort hann þurfi að una þeirri skerðingu eignarréttinda sinna sem af muni hljótast. Í þessu sambandi tekur sóknaraðili fram að félagar í málsóknarfélaginu séu veiðifélög um laxveiðiár á Austurlandi. Með stofnun félagsins og þeim málsóknarháttum sem uppi séu hafi þeir ákveðið að byggja að öllu leyti á sömu málsástæðum og fram komi í stefnu. Í því felist meðal annars að þeir byggi ekki á því að til greina komi að gera mun á réttarstöðu þeirra vegna mismunandi fjarlægðar frá fiskeldisstöðinni í Reyðarfirði. Ef dómur kæmist til dæmis að þeirri niðurstöðu að ekki stafaði hætta af laxveiði í þeirri laxveiðiá  sem fjærst sé eldisstöðinni telji þeir sig allir hafa selt sig undir þá niðurstöðu dómsmálsins sem af því leiddi. Sóknaraðili áréttar í kæru sinni til Hæstaréttar að dómkrafa hans í málinu sé ekki viðurkenningarkrafa samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, heldur aðfararkrafa um ógildingu leyfis. Verði krafan tekin til greina muni henni verða fullnægt með þeim hætti sem kveðið sé á um í 11. kafla laga nr. 90/1989 um aðför. Verði málinu vísað frá dómi sé sóknaraðili hindraður í  að bera undir dómstóla hvort hann verði að sæta því að varnaraðilinn Laxar fiskeldi ehf. fái að stunda starfsemi sem sóknaraðili telji að muni spilla eignarréttindum hans. Útgáfa rekstrarleyfisins feli í sér sjálfstætt réttarbrot gagnvart sóknaraðila, hún varði sóknaraðila beint og sérstaklega og sé þannig til þess fallin að valda honum tjóni. Við þessar aðstæður hljóti sóknaraðili að eiga rétt á að fá úr því skorið efnislega hvort brotinn hafi verið réttur á honum með þeim hætti sem hann fullyrði. Í þessu samhengi skipti ekki máli hvort sóknaraðili setji fram kröfu sína sem viðurkenningarkröfu eða aðfararkröfu. 2 Varnaraðilinn Matvælastofnun reisir kröfu sína um að vísa beri málinu frá dómi á því að sóknaraðili og þeir sem að honum standi hafi ekki beinna, einstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins, eins og áskilið sé í 25. gr. laga nr. 91/1991, heldur séu hagsmunir þeirra almenns eðlis. Sóknaraðili hafi hvorki verið aðili að þeirri stjórnvaldsákvörðun sem fólst í útgáfu rekstrarleyfis varnaraðilans Laxa fiskeldis ehf. né hafi hann sýnt fram á eða leitt líkur að því að réttindi þeirra sem að honum standi muni skerðast vegna laxeldisins í Reyðarfirði. Fullyrðingar sóknaraðila um meinta skerðingu hagsmuna séu ósannaðar með öllu og hann hafi ekki sýnt fram á beina og sérstaka hagsmuni sína af því að fá efnisdóm í málinu. Þar sem sóknaraðili krefjist ekki viðurkenningar á bótaskyldu á þeim grundvelli sem málatilbúnaður hans sé reistur á feli dómkrafan í sér lögspurningu sem fari í bága við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Óumdeilt sé að aðilar að sóknaraðila hafi ekki orðið fyrir nokkru tjóni af völdum laxeldisins í Reyðarfirði enda röksemdir hans á því byggðar að sú starfsemi muni hugsanlega valda þeim tjóni. Fullnægi málatilbúnaður sóknaraðila því ekki þeim áskilnaði sem gerður sé til málatilbúnaðar af hálfu málsóknarfélaga, sbr. dóm Hæstaréttar 22. ágúst 2017 í máli nr. 449/2017. Varnaraðilinn bendir á að raunverulegt markmið og tilgangur málsóknar sóknaraðila sé að stöðva uppbyggingu fiskeldis í sjókvíum við Ísland og þar með að stöðva atvinnustarfsemi sem sóknaraðili telji ógna öllu náttúrulegu lífríki villtra laxastofna við landið. Slík kröfugerð brjóti í bága við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Þá sé einnig til þess að líta að pólitísk stefnumótum stjórnvalda sem birtist í lögum og reglum um fiskeldi verði ekki breytt með þessari málsókn. Með öllu sé vanreifuð sú málsástæða sóknaraðila að hann njóti lögvarinna hagsmuna á grundvelli grenndarréttar og beri því að vísa málinu frá dómi vegna vanreifunar. Þótt umrætt rekstrarleyfi til laxeldis í Reyðarfirði yrði fellt úr gildi myndi fiskeldi halda áfram við Íslandsstrendur. Því skipti niðurstaða málsins engu fyrir þá sem aðild eigi að sóknaraðila þar sem ógilding rekstrarleyfisins í Reyðarfirði breyti ekki þeirri staðreynd að fiskeldi verði samt sem áður stundað á Austfjörðum og Vestfjörðum með tilheyrandi áhættu. Verði því að vísa málinu frá dómi á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Þá telur varnaraðilinn að einnig sé til þess að líta að enginn aðili að sóknaraðila geti átt lögvarinna hagsmuna að gæta vegna mikillar vegalengdar frá sjókvíaeldinu í Reyðarfirði, sbr. reglugerð nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna. Í 4. gr. reglugerðarinnar komi fram að við leyfisveitingar fyrir hafbeitar- og sjókvíastöðvar skuli fjarlægð stöðvanna frá laxveiðiám með yfir 500 laxa meðalveiði vera 15 km. Sjókvíaeldið í Reyðarfirði sé fjarri þeim ám sem málið varði. Það sé í að minnsta kosti 70 km fjarlægð frá Breiðdalsvík þar sem Breiðdalsá falli til sjávar og að minnsta kosti 150 km frá Vopnafirði þar sem Selá, Vesturdalsá og Hofsá falla til sjávar en Sunnudalsá falli í Hofsá. Því geti ekki verið um einstaklega, beina og lögvarða hagsmuni að ræða hjá þeim aðilum sem standi að sóknaraðila. Málatilbúnaður sóknaraðila lúti að meintum annmörkum á málsmeðferð stjórnvalda við veitingu rekstrarleyfisins í Reyðarfirði. Þeir sem standi að sóknaraðila hafi ekki verið aðilar að stjórnsýslumáli um útgáfu rekstrarleyfisins en miðað sé við að viðkomandi hafi einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta. Þá hafi þeir ekki átt lögbundinn rétt til að skila inn umsögnum um fyrirhugaða leyfisveitingu, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008. Loks byggir varnaraðilinn á því að samkvæmt 2. mgr. 19. gr. a. laga nr. 91/1991 þurfi hver og einn aðili málsóknarfélags að geta sýnt fram á lögvarða hagsmuni af úrlausn sakarefnisins en þannig hagi ekki til í þessu máli. Ef einn aðila málsóknarfélags skorti lögvarða hagsmuni hljóti að þurfa að vísa málinu frá í heild sinni. Þá geti veiðifélögin ekki átt lögvarða hagsmuni af úrlausn sakarefnisins heldur aðeins handhafar veiðiréttarins, landeigendurnir. Því hefðu þeir þurft að standa að málsóknarfélaginu en ekki veiðifélögin, sbr. meginreglu 1. mgr. 5. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, sbr. einnig 2. mgr. 18. gr. laga nr. 71/2008, þar sem vísað sé til tjóns veiðiréttarhafa. Höfðun dómsmáls sem þessa sé andstæð hlutverki veiðifélaga að lögum, sbr. 37. gr. laga nr. 61/2006, og ýti þetta enn frekar undir það að veiðifélögin geti ekki átt nokkra hagsmuni af úrlausn málsins. 3 Krafa varnaraðilans Laxa fiskeldis ehf. um að vísa beri málinu frá héraðsdómi er á því reist annars vegar að félagsmenn sóknaraðila og þar með sóknaraðila sjálfan skorti lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfur sínar. Hins vegar er krafan á því reist að málið sé vanreifað af hálfu sóknaraðila. Hvað lögvarða hagsmuni varðar telur varnaraðilinn Laxar fiskeldi ehf. að þótt skerðing einkaréttarlegra hagsmuna í formi veiðiréttinda geti skapað rétt til höfðunar máls um ógildingu stjórnvaldsákvörðunar verði að gera þá kröfu til málatilbúnaðar sóknaraðila að hann sýni fram á eða leiði nægar líkur að því að réttindi félagsmanna hans skerðist í raun vegna laxeldisins í Reyðarfirði. Til þess að verða talinn hafa lögvarða hagsmuni af því að fá efnisdóm á grundvelli einkaréttarlegra hagsmuna þurfi sóknaraðili að sýna fram á að lax úr sjókvíunum í Reyðarfirði muni sleppa, hann muni synda upp í þær veiðiár sem félagsmenn sóknaraðila njóti veiðiréttar í, valda þar óafturkræfri erfðablöndun og eða dreifingu sjúkdóma og að þessi ætlaða erfðablöndun og eða dreifing sjúkdóma muni skaða hagsmuni félagsmanna sóknaraðila og valda þeim tjóni. Ekkert af þessu hafi sóknaraðila tekist að sýna fram á. Í sambandi við framangreint vísar varnaraðilinn meðal annars til þess að fyrir liggi ákvörðun Skipulagsstofnunar 8. júní 2011. Hún grundvallist á því að laxeldið í Reyðarfirði sé ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, auk þess sem reistar hafi verið skorður við sjókvíaeldi við landið í þeim tilgangi að koma í veg fyrir erfðablöndun milli eldislax og villtra laxastofna, komi til óhappa eða slysa við sleppingu við sjókvíaeldi. Fullyrðingar sóknaraðila um að almennt sé viðurkennt að eldislax sleppi úr eldiskvíum séu alls ósannaðar og jafnvel þótt þær teldust sannaðar sýni þær þvert á móti að ekkert sé fast í hendi um að laxeldið í Reyðarfirði muni hafa nokkur skaðleg áhrif á villta laxastofna. Því sé ljóst að þau gögn sem sóknaraðili hafi lagt fram í málinu geti ekki leitt til þess að hann verði talinn hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn dómstóla um hvort rekstrarleyfi varnaraðilans verði fellt úr gildi. Varnaraðilinn vísar því á bug að starfsemi hans í Reyðarfirði varði grenndarhagsmuni félagsmanna sóknaraðila og bendir í því sambandi á þá miklu fjarlægð sem sé á milli sjókvíanna og ósa veiðiánna. Verði ekki séð hvaða óþægindi félagsmenn sóknaraðila eigi að hafa af starfseminni enda hafi sóknaraðili engin sérstök rök fært fram fyrir því. Ljóst sé af dómaframkvæmd að umhverfissjónamið ein og sér teljist ekki til lögvarinna hagsmuna. Skilyrði réttarfars um lögvarða hagsmuni sé einmitt að koma í veg fyrir að mál verði höfðuð á grundvelli slíkra hagsmuna sem séu á sviði allsherjarréttar og á forræði hins opinbera. Þá sé ljóst að veiðifélögin geti aldrei haft lögvarða hagsmuni af úrlausn um sakarefni málsins heldur geti einungis komið til skoðunar hvort handhafar veiðiréttarins á grundvelli 1. mgr. 5. gr. laga nr. 61/2006 hafi slíka hagsmuni, sbr. einnig 2. mgr. 18. gr. laga nr. 71/2008, þar sem vísað sé til tjóns veiðiréttarhafa. Því geti veiðifélögin sem séu félagsmenn í sóknaraðila ekki staðið að baki málsókn þessari. Loks bendir varnaraðilinn á hvað lögvarða hagsmuni varðar að ekki verði séð að félagsmenn í sóknaraðila hafi haft uppi neinar athugasemdir við meðferð málsins hjá stjórnvöldum, heldur kjósi þeir að koma fram með athugasemdir sínar í sérstöku dómsmáli löngu seinna. Verði að hafa þetta í huga við mat á hagsmunum félagsmanna sóknaraðila í málinu.   Um vanreifun af hálfu sóknaraðila vísar varnaraðilinn til þess að málatilbúnaður sóknaraðila styðjist að mestu við gögn sem ekki séu á íslensku. Þingmálið sé íslenska, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991, og á meðan ekki njóti við íslenskrar þýðingar framangreindra skjala verði ekki til þeirra horft, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Því skorti á að málatilbúnaður sóknaraðila styðjist við viðhlítandi sönnunargögn og fullnægi þeim kröfum sem gerðar séu samkvæmt g. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Beri því að vísa málinu frá dómi af þessum sökum. V 1 Sóknaraðili er málsóknarfélag samkvæmt 19. gr. a. laga nr. 91/1991 og standa að honum Veiðifélag Hofsár og Sunnudalsár, Veiðifélag Selár, Veiðifélag Breiðdæla og Veiðifélag Vesturdalsár. Sjóleiðin frá fiskeldi varnaraðilans Laxa fiskeldis ehf. í Reyðarfirði að ósum Hofsár, Sunnudalsár, Selár og Vesturdalsár mun samkvæmt gögnum málsins vera tæpir 170 km í norður en sjóleiðin að ósi Breiðdalsár um 50 km í suður. Meðal gagna málsins eru samþykktir veiðifélaganna og samkvæmt þeim eru meðlimir í félögunum eigendur eða ábúendur nánar tilgreindra jarða á starfssvæði félaganna. Í samþykktum allra félaganna kemur fram að verkefni þeirra sé að viðhalda góðri fiskgengd á félagssvæði sínu, stuðla að sjálfbærri nýtingu fiskistofna, vernda vistsvæði vatnafiska á félagssvæðinu og koma í veg fyrir að verklegar framkvæmdir eða önnur starfsemi skaði lífríki á félagssvæðinu. Þá er félögunum heimilt að stunda fiskrækt í samræmi við gilda fiskræktaráætlun á hverjum tíma.  Með málsókn sinni leitar sóknaraðili dóms um ógildingu leyfis þess, sem Fiskistofa veitti varnaraðilanum Löxum fiskeldi ehf. til reksturs sjókvíaeldis í Reyðarfirði 15. mars 2012, á þeim grunni að rekstrarleyfið sé haldið annmörkum sem leiða eigi til ógildingar þess. Snýr ágreiningur í þessum þætti málsins fyrst og fremst að því hvort sóknaraðili hafi sýnt fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá afstöðu dómstóla til dómkröfu sinnar og hvort vanreifunar gæti í málatilbúnaði hans. Fyrir liggur í málinu að hvorki félagsmenn í veiðifélögunum, sem standa að sóknaraðila, né félögin sem slík áttu aðild að stjórnsýslumáli um útgáfu umrædds rekstrarleyfis og þessir aðilar höfðu ekki uppi athugasemdir af neinu tagi við meðferð málsins hjá stjórnvöldum. Samkvæmt því sem fram hefur komið undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti hefur varnaraðilinn Laxar fiskeldi ehf. hafið starfsemi á grundvelli rekstrarleyfisins en svo var ekki þegar málið var höfðað 4. apríl 2017. Í málinu liggja ekki fyrir gögn um að eldislax hafi sloppið úr sjókvíunum í Reyðarfirði, gengið í veiðiár þær sem um ræðir í málinu og valdið þar usla. 2 Fram til ársins 2006 var ákvæðum um veiðirétt í ferskvatni og fiskeldi skipað saman í einn lagabálk, lög nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði. Á árinu 2006 fór fram heildarendurskoðun  þeirra laga og var sú leið þá valin að skipta efni þeirra í fimm lagabálka, lög um lax- og silungsveiði, lög um fiskirækt, lög um eldi vatnafiska, lög um varnir gegn fisksjúkdómum og lög um Veiðimálastofnun. Því til grundvallar lá það sjónarmið að skipa saman í lagabálk þeim atriðum sem ættu efnislega samstöðu en skilja að öðru leyti á milli. Til samræmis við það voru meðal annars sett lög nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði og lög nr. 57/2006 um eldi vatnafiska sem lög nr. 71/2008 leystu síðar af hólmi.  Samkvæmt 1. gr. laga nr. 61/2006 er markmið þeirra að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra. Í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur fram að eignarlandi hverju fylgir veiðiréttur í vatni á eða fyrir því landi enda sé ekki mælt fyrir um aðra skipan í lögum. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar fylgir ábúð á jörð veiðiréttur sem jörðinni tilheyrir nema á annan veg semjist milli jarðeigenda og ábúanda. Í því skyni að markmiðum samkvæmt 1. gr. laganna verði náð er mönnum samkvæmt 1. mgr. 37. gr. þeirra skylt að hafa með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskhverfi og samkvæmt 2. mgr. greinarinnar eru félagsmenn veiðifélags allir þeir sem skráðir eru veiðiréttarhafar á félagssvæðinu. Í 1. gr. laga nr. 57/2006 sagði að markmið þeirra væri að skapa skilyrði til uppbyggingar eldis vatnafiska og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Við framkvæmd laganna skyldi þess ávallt gætt að sem minnst röskun yrði á vistkerfi villtra ferskvatnsfiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra yrði ekki stefnt í hættu. Í lögskýringargögnum kom fram að með gildistöku laganna væri ætlunin að stuðla eftir föngum að möguleikum manna til fiskeldis og setja þeirri atvinnugrein jafnframt skýrar reglur og umgjörð. Á hinn bóginn væri skýrt og endurspeglaðist að sínu leyti í markmiðsyfirlýsingu ákvæðisins og fleiri greinum frumvarpsins að vöxtur og viðgangur atvinnugreinarinnar mætti ekki verða á kostnað viðgangs og nýtingar villtra fiskstofna. Í þessari takmörkun fælist að þegar ekki færu saman annars vegar hagsmunir þeirra sem veiðirétt ættu samkvæmt lax- og silungsveiðilögum og hins vegar hagsmunir þeirra sem sérstaklega væri fjallað um í frumvarpi til laganna skyldu hagsmunir hinna síðarnefndu víkja. Sæi þessa stað meðal annars í 6. og 13. gr. og í bótareglum 2. og 9. gr. frumvarpsins. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 71/2008, sem eins og áður greinir leystu af hólmi lög nr. 57/2006, segir að markmið þeirra sé að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Skuli í því skyni leitast við að tryggja gæði framleiðslunnar, koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýti slíka stofna. Til að ná því markmiði skuli tryggt að eldisbúnaður og framkvæmd í sjókvíaeldi standist ströngustu staðla sem gerðir séu fyrir fiskeldismannvirki í sjó. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að við framkvæmd laganna skuli þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 71/2008 var áðurgreint sjónarmið um mat á hagsmunum þeirra sem annars vegar stunda fiskeldi og hins vegar þeirra sem veiðirétt eiga samkvæmt lax- og silungsveiðilögum áréttað og vísað í þeim efnum til 6. og 13. gr. og bótareglna 2. og 3. mgr. 18. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 71/2008.   Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 71/2008 getur ráðherra takmarkað eða lagt bann við fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum og flóum eða á svæðum sem teljast sérstaklega viðkvæm gagnvart starfsemi þeirri sem fram fer samkvæmt lögunum. Við ákvörðun samkvæmt 1. mgr. skal taka mið af því að markmið laganna er meðal annars að vernda villta nytjastofna, hvort sem um er að ræða ferskvatnsfiska eða sjávarfiska, og hlífa þeim við fisksjúkdómum og öðrum neikvæðum vistfræðilegum áhrifum, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Skal í því sambandi meðal annars líta til staðsetningar eldisstöðva, stærðar þeirra, fjarlægðar frá veiðiám og veiðiverðmætis á viðkomandi svæði. Jafnframt skal litið til þess hvort fiskeldissvæði séu á gönguleiðum lax og silungs og hvort straumur geti leitt sleppifisk í ár. Skal ráðherra taka tillit til sjónarmiða um aðra nýtingu hafsvæða en nýtingu vegna fiskeldis við ákvörðun sína samkvæmt 1. mgr. 6. gr. Í 13. gr. laganna er mælt fyrir um aðgerðir sem rekstrarleyfishafa er skylt að grípa til, ef ætla má að hann hafi misst eldisfisk úr fiskeldisstöð, eins og tilkynningarskyldu og veiðiskyldu. Í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 71/2008 segir að þyki sannað að missir eldisfisks úr fiskeldisstöð valdi tjóni á hagsmunum veiðiréttarhafa sem verndar njóta samkvæmt lax- og silungsveiðilögum skuli viðkomandi rekstrarleyfishafi bæta tjónið á grundvelli mats samkvæmt VII. kafla laga um lax- og silungsveiði. Hið sama eigi við um tjón annarra þeirra sem hafbeit, fiskeldi eða fiskrækt stunda. Í athugasemdum við 18. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 71/2008, segir að í greininni sé fjallað um það sérstaka tilvik þegar fiskur sleppi úr eldi. Svo sem fram hafi komið geti óhjákvæmilega hlotist meiri eða minni skaði af slíku. Mest hætta steðji þá að villtum laxfiskstofnum en ekki sé útilokað að hætta geti af þessum sökum steðjað að öðrum fiskeldisstöðvum. Styðjist regla 2. mgr. 18. gr. frumvarpsins við þau rök að eðlilegast sé að rekstrarleyfishafi beri án tillits til sakar bótaábyrgð á því tjóni sem hljótist af slíkum atburði. Í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 71/2008 kemur fram að þyki sannað að starfsemi samkvæmt lögunum valdi tjóni í veiðivatni samkvæmt lax- og silungsveiðilögum í öðrum tilvikum en þeim sem greinir í 2. mgr. skuli það tjón bætt eftir mati samkvæmt VII. kafla þeirra laga ef eigi semur. Í lögskýringargögnum kemur fram að þetta sé sambærileg regla og verið hafi í 3. mgr. 19. gr. laga nr. 57/2006 og eigi hún sér fyrirmynd í 70. gr. laga nr. 76/1970. Þá segir ennfremur að reglunni sé „fyrst og fremst ætlað að taka til þeirra tilvika þegar veiði í veiðivötnum nærri fiskeldisstöð minnkar. Þá þykir eðlilegra í ljósi þess hagsmunamats, sem löggjöf á sviði lax- og silungsveiði felur í sér, að fiskeldisstöðvar beri hallann af því ef staðsetning þeirra og starfsemi veldur sannanlegri rýrnun veiði í nærliggjandi veiðivötnum. Áréttað skal að sönnunarbyrðin vegna slíks skaða/tjóns hvílir með hefðbundnum og óskoruðum hætti á þeim handhöfum veiðiréttar sem telja að viðkomandi veiðivatn hafi orðið fyrir tjóni. Að öðru leyti en því sem um er fjallað sérstaklega í 18. gr. frumvarpsins fer um skaðabætur vegna þeirrar starfsemi, sem lög þessi taka til, eftir almennum reglum íslensks skaðabótaréttar.“ 3 Hagsmunir tengdir nýtingu laxveiðihlunninda tilheyra ekki veiðifélögum, sem starfa samkvæmt VI. kafla laga nr. 61/2006, heldur félagsmönnum þeirra, sbr. 5. gr. laganna. Í ljósi markmiða laganna, sem áður eru rakin, og að því gættu að veiðiréttarhöfum er skylt að hafa með sér félagsskap í því skyni að markmiðunum verði náð, verður að leggja til grundvallar að veiðifélög geti í skjóli umboðs sótt fyrir dómstólum kröfur sem lúta að veiðirétti félagsmanna sinna og þeir hafa lögvarða hagsmuni af að fá úrlausn dómstóla um, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Er slíkt hvorki andstætt lögbundnu hlutverki veiðifélaga né í því tilviki sem hér er til úrlausnar öndvert samþykktum þeirra veiðifélaga sem standa að sóknaraðila. Er þá haft í huga að hlutverk veiðifélaga er ekki skilgreint með tæmandi hætti í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 og jafnframt að í lögskýringargögnum kemur fram að mið var tekið af því við framsetningu málsgreinarinnar að veiðifélögum væri ætlað meira hlutverk við framkvæmd lax- og silungsveiðilaga en áður var. Af þessu leiðir einnig að þremur veiðifélögum eða fleiri er að öðrum lagaskilyrðum fullnægðum heimilt að nýta sér það réttarfarshagræði, sem felst í ákvæðum 19. gr. a. laga nr. 91/1991, og láta málsóknarfélag í skjóli umboðs reka í eigin nafni dómsmál um hagsmuni þeirra félagsmanna í veiðifélögum sem standa að málsóknarfélagi. Um mál sem höfðað er og rekið af málsóknarfélagi samkvæmt 19. gr. a. laga nr. 91/1991 gilda allar reglur réttarfarslaga að því marki sem ekki er beinlínis á annan veg mælt í lögum. Það er meginregla samkvæmt íslenskum rétti að dómstólar verða ekki krafðir álits um lögfræðileg álitaefni eða hvort tiltekið atvik hafi gerst nema að því leyti sem nauðsynlegt er til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Þá býr sú grunnregla að baki ákvæðum laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 25. gr. laganna, að dómstólar leysa ekki úr sakarefni nema sýnt sé að það skipti máli að lögum fyrir aðila að fá dóm um það. Samkvæmt þessu njóta menn réttar til að bera mál sín undir dómstóla eigi þeir lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þeirra og er sá réttur tryggður með 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. dóm Hæstaréttar 14. mars 2008 í máli nr. 114/2008. Í skjóli meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar nýtur sá, sem aðild hefur átt að máli fyrir stjórnvaldi, almennt réttar til að bera undir dómstóla hvort farið hafi verið að lögum við meðferð þess og úrlausn, sbr. dóm Hæstaréttar 12. júní 2002 í máli nr. 231/2002. Eins og áður getur áttu þeir sem standa að sóknaraðila ekki aðild að meðferð þess stjórnsýslumáls sem leiddi til útgáfu rekstrarleyfisins sem málið varðar. Réttur sóknaraðila til að bera undir dómstóla hvort farið hafi verið að lögum við útgáfu leyfisins verður því ekki reistur á aðild þeirra að stjórnsýslumálinu. Það eitt getur ekki staðið því í vegi að tiltekinn aðili beri undir dómstóla hvort farið hafi verið að lögum við meðferð stjórnsýslumáls og úrlausn þess að sá hinn sami átti ekki aðild að málinu á stjórnsýslustigi. Af því leiðir að þegar metið er hvort sá sem hefur óbeinna hagsmuna að gæta af úrlausn stjórnsýslumáls geti borið lögmæti stjórnvaldsákvörðunarinnar undir dómstóla verður að taka mið af því hvort hagsmunir hans af ákvörðuninni séu verulegir og meiri en hvers annars í samfélaginu, til dæmis vegna nálægðar við leyfisskylda starfsemi sem ákvörðun stjórnvaldsins heimilar. Í 4. gr. reglugerðar nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna kemur fram að við leyfisveitingar fyrir hafbeitar- og sjókvíastöðvar skuli miða við að þær séu ekki nær laxveiðiám með yfir 100 laxa meðalveiði síðastliðin 10 ár en 5 km. Sé um að ræða ár með yfir 500 laxa meðalveiði skuli fjarlægðin vera 15 km nema notaðir séu stofnar af nærliggjandi vatnasvæði eða geldstofnar og megi þá stytta fjarlægðina niður í 5 km. Eins og áður greinir mun fjarlægð þeirra laxveiðiáa sem um ræðir í málinu frá sjókvíaeldisstöðinni í Reyðarfirði samkvæmt gögnum málsins vera tæpir 170 km í öðru tilvikinu og um 50 km í hinu. Áður er gerð grein fyrir því að þegar ekki fara saman hagsmunir þeirra sem stunda fiskeldi og hinna sem veiðiréttar njóta samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði hefur löggjafinn að sönnu metið það svo að hagsmunir fiskeldisins skuli víkja með þeim hætti sem nánar er mælt fyrir um í lögum. Þegar litið er til þess hversu langt laxveiðiár þær sem um ræðir í málinu eru frá sjókvíaeldinu í Reyðarfirði, miðað við ákvæði reglugerðar nr. 105/2000, fær framangreint hagsmunamat því ekki breytt að sóknaraðili getur ekki reist heimild sína til höfðunar máls til ógildingar á umræddu starfsleyfi varnaraðilans Laxa fiskeldis ehf. á reglum grenndarréttar, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 9. júní 2005 í máli nr. 20/2005 og 3. júní 2004 í máli nr. 171/2004. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila er tilgangur málsóknar hans að koma í veg fyrir starfsemi af því tagi, sem varnaraðilinn Laxar fiskeldi ehf. stundar, í því skyni að vernda náttúrulega stofna í íslenskum laxveiðiám. Grundvöllur málsóknarinnar varðar þannig ekki lögmæti tiltekinnar stjórnvaldsákvörðunar, heldur miðar hann að því að dómstólar taki afstöðu til þess hagsmunamats sem fram kemur í lögum nr. 71/2008. Tengist þessi málatilbúnaður þannig fyrirmælum 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 sem eins og áður segir girða fyrir að dómstólar verði krafðir svara við álitaefnum um tilvist eða skýringu réttarreglna sem ekki varða úrlausn um ákveðna kröfu. Verður slík lögspurning, sem sóknaraðili hefur uppi samkvæmt áðursögðu, ekki lögð fyrir dómstóla. Af hálfu sóknaraðila er ekki á því byggt að félagsmenn aðildarfélaga hans hafi orðið fyrir tjóni vegna starfsemi varnaraðilans Laxa fiskeldis ehf. í Reyðarfirði, heldur að þeir muni að öllum líkindum verða fyrir tjóni á ókomnum árum. Dómstólar verða almennt ekki krafðir svara við því hvað kunni að gerast í framtíðinni, heldur verður sakarefni máls að vera þannig vaxið að úrlausn um það hafi raunhæft gildi fyrir réttarstöðu aðila, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Í ljósi hinnar almennu reglu um lögvarða hagsmuni fær þessu í engu breytt þótt sóknaraðili hafi klætt málið í þann búning að krefjast ógildingar umrædds starfsleyfis í stað viðurkenningar á bótaskyldu sem hinir raunverulegu hagsmunir hans af málsókninni felast í. Óumdeilt er í málinu að félagsmenn sóknaraðila hafa ekki orðið fyrir tjóni vegna starfseminnar í Reyðarfirði en til þess að fullnægt sé lagaskilyrðum um lögvarða hagsmuni samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 verður sóknaraðili að sýna fram á eða gera líklegt að sú sé raunin en það hefur hann ekki gert. Hvort tjón muni hljótast af völdum starfseminnar í Reyðarfirði í framtíðinni, þannig að fullnægt sé lagaskilyrðum um lögvarða hagsmuni, er ógjörningur að segja til um. Samkvæmt öllu framangreindu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest. Eftir þessum úrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur. Sóknaraðili, Náttúruvernd 2 málsóknarfélag, greiði varnaraðilum, Matvælastofnun og Löxum fiskeldi ehf., hvorum um sig, 700.000 krónur í kærumálskostnað.   Sératkvæði Ólafs Barkar Þorvaldssonar I Um helstu málavexti, málsástæður og lagarök vísa ég til atkvæðis meirihluta dómenda. Ég er sammála þeim að leggja verði til grundvallar að veiðifélög geti í skjóli umboðs síns sótt fyrir dómstólum kröfur sem lúta að veiðirétti félagsmanna sinna sem þeir hafi lögvarða hagsmuni af að fá úrlausn um. Þá er ég samþykkur því að málsóknarfélag geti að lögum rekið málið í nafni þeirra þriggja veiðifélaga sem um ræðir. Nægir um röksemdir fyrir þessu að vísa til atkvæðis meirihlutans. II Kröfu sóknaraðila er skýrlega lýst í stefnu í héraði. Krefst hann ógildingar þeirrar stjórnvaldsákvörðunar varnaraðilans Matvælastofnunar að heimila sjókvíaeldi varnaraðilans Laxa fiskeldis ehf. í Reyðarfirði. Er lýsing hans á málavöxtum og málsástæðum nægilega ljós. Vísar sóknaraðili til ýmissa gagna til stuðnings þeim röksemdum sínum að vegna þessarar stjórnvaldsákvörðunar hafi skapast veruleg hætta á að villtir laxastofnar sem hann varða verði fyrir varanlegu og óafturkræfu tjóni. Raunar kveður hann framlögð gögn sýna að ganga megi út frá því sem vísu að slíkt tjón verði. Telur hann að með þessari stjórnvaldsákvörðun hafi verið skert stjórnarskrárvarin eignarréttindi þeirra veiðiréttarhafa er að honum standa. Hafi málsmeðferð við töku hennar og efni ákvörðunarinnar verið margvíslegum annmörkum háð og andstæð lögum. III             Eins og fram kemur í atkvæði meirihlutans var ákvæðum um veiðirétt í ferskvatni og fiskeldi fram til ársins 2006 skipað saman í lögum nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði, en svo var ákveðið að skipta efni þeirra í fimm lagabálka, lög um lax- og silungsveiði, lög um fiskirækt, lög um eldi vatnafiska, lög um varnir gegn fisksjúkdómum og lög um Veiðimálastofnun. Um lax- og silungsveiði gilda nú lög nr. 61/2006, en um fiskeldi lög nr. 71/2008. Í 1. gr. laga nr. 61/2006 kemur fram það markmið þeirra að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra. Segir meðal annars um þetta ákvæði í athugasemdum með frumvarpi að lögunum að markmið frumvarpsins sé að mæla fyrir um eignarhald veiðiréttar í ferskvatni og þær takmarkanir sem sá réttur sætir. Er sérstaklega áréttað að stuðla skuli að skynsamlegri, hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu þeirra fiskstofna sem undir ákvæði laganna falla. Með þessari tilhögun sé stefnt að samræmingu við efni og markmið annarrar löggjafar sem um eignarhald og nýtingu auðlinda gildir, sem og frekari löggjafaráform í þá veru. Þá er vísað til svokallaðrar varúðarreglu sem mælir fyrir um að villtir dýrastofnar og umhverfi þeirra eigi að njóta vafans í öllum ákvörðunum er lúta að nýtingu og verndun stofnanna og búsvæða þeirra. Megi skortur á vísindalegum upplýsingum ekki verða til þess að ekki verði gripið til nauðsynlegra verndaraðgerða eða þeim slegið á frest. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 71/2008 kemur fram það markmið laganna að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Skuli í því skyni leitast við að tryggja gæði framleiðslunnar, koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýta slíka stofna. Til að ná því markmiði skuli tryggt að eldisbúnaður og framkvæmd í sjókvíaeldi standist ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó. Þá segir í 2. mgr. greinarinnar að við framkvæmd laganna skuli þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu. Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi að lögum nr. 71/2008 segir um 1. gr. að markmiðið með setningu sérstakra laga um fiskeldi sé, svo sem nánar komi fram í greininni, að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Hafi fiskeldi sem atvinnugrein átt misjöfnu gengi að fagna á umliðnum árum og áratugum og orðið deilur milli þeirra sem veiðirétt eiga að villtum ferskvatnsfiskstofnum og þeirra sem fiskeldi vilja stunda. Eigi að síður séu bundnar við það vonir að atvinnugrein þessi geti eflt atvinnulíf og byggð í landinu og þannig skilað þjóðarbúinu umtalsverðum tekjum, svo sem raun hafi á orðið með öðrum þjóðum. Með gildistöku laganna sé ætlunin því sú að stuðla eftir föngum að möguleikum manna til fiskeldis og setja þeirri atvinnugrein jafnframt skýrar reglur og umgjörð. Þá er tekið fram að á hinn bóginn sé það skýrt og endurspeglist að sínu leyti í markmiðsyfirlýsingu 2. mgr. greinarinnar og fleiri greinum frumvarpsins að vöxtur og viðgangur atvinnugreinarinnar megi ekki gerast á kostnað viðgangs og nýtingar villtra fiskstofna. Í þessari takmörkun felist í raun að þegar ekki fara saman annars vegar hagsmunir þeirra sem veiðirétt eiga samkvæmt lax- og silungsveiðilögum og hins vegar hagsmunir þeirra sem fjallað sé sérstaklega um í frumvarpinu víki hinir síðarnefndu. Sjái þessa meðal annars stað í 6. og 13. gr. frumvarpsins og í bótareglum 2. og 3. mgr. 18. gr. þess.             Í 1. mgr. 6. gr. laganna segir að ráðherra geti, að fenginni umsögn Fiskistofu, Matvælastofnunar, Hafrannsóknastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar, takmarkað eða bannað fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða á svæðum sem teljast sérlega viðkvæm gagnvart starfsemi þeirri sem fram fer samkvæmt lögum þessum. Í 2. mgr. greinarinnar segir svo að við ákvörðun ráðherra samkvæmt 1. mgr. skuli taka mið af því að markmið laganna sé meðal annars að vernda villta nytjastofna, hvort sem um er að ræða ferskvatnsfiska eða sjávarfiska, og hlífa þeim við fisksjúkdómum og öðrum neikvæðum vistfræðilegum áhrifum. Skuli í því sambandi meðal annars litið til staðsetningar eldisstöðva, stærðar þeirra, fjarlægðar frá veiðiám og veiðiverðmætis á viðkomandi svæði, þ.e. firði eða flóa. Jafnframt skuli litið til þess hvort fiskeldissvæði séu á gönguleiðum lax og silungs og hvort straumar geti leitt sleppifisk í ár. Í athugasemdum við 6. gr. frumvarpsins segir meðal annars að þau viðmið, sem leggja beri til grundvallar áður en slík ákvörðun sé tekin sem um ræðir í 1. mgr. greinarinnar, séu tíunduð í 2. mgr. hennar og skýri sig að mestu sjálf í ljósi þeirra ástæðna sem samkvæmt 1. mgr. geta heimilað beitingu þessa úrræðis. Með neikvæðum vistfræðiáhrifum í skilningi 2. mgr. 6. gr. og annars staðar þar sem hugtakið komi fyrir í frumvarpinu sé meðal annars átt við erfðablöndun. Ákvæðið gildi um villta nytjastofna, hvort sem um er að ræða ferskvatnsfiska eða sjávarfiska. Í 2. og 3. mgr. 18. gr. laga nr. 71/2008 er mælt fyrir um bótarétt til handa veiðiréttarhafa ef sannað þykir að missir eldisfisks úr fiskeldisstöð valdi tjóni á hagsmunum veiðiréttarhafa, sem verndar njóta samkvæmt lax- og silungsveiðilögum, eða í veiðivatni í öðrum tilvikum. Skuli viðkomandi rekstrarleyfishafi bæta tjónið á grundvelli mats samkvæmt VII. kafla laga um lax- og silungsveiði. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008 veitir varnaraðilinn Matvælastofnun rekstrarleyfi til starfrækslu fiskeldisstöðva. Áður en það er gert getur hún aflað umsagnar Fiskistofu, Hafrannsóknarstofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar eftir því sem við á um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldisstöðvar eða fyrirhugaðar eldistegundir, eldisstofnar eða eldisaðferðir gefi tilefni til neikvæðra vistfræði- eða erfðafræðiáhrifa sem leitt geti af leyfisskyldri starfsemi, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Jafnframt er í 13. gr. laganna að finna ýmis ákvæði um innra eftirlit rekstrarleyfishafa með starfsemi sinni. Loks er til að taka að í 21. gr. laganna er mælt fyrir um að ráðherra setji nánari reglur um framkvæmd þeirra með reglugerð. Hafa nokkrar slíkar verið settar, meðal annars reglugerð nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna. Í 4. gr. reglugerðarinnar kemur fram að við leyfisveitingar fyrir hafbeitar- og sjókvíastöðvar skuli miða við að þær séu ekki nær laxveiðiám með yfir 100 laxa meðalveiði síðastliðin 10 ár en 5 km. Sé um að ræða ár með yfir 500 laxa meðalveiði skuli fjarlægðin vera 15 km nema notaðir séu stofnar af nærliggjandi vatnasvæði eða geldstofnar og megi þá stytta fjarlægðina niður í 5 km. Reglugerð þessi var upphaflega sett með heimild í eldri lögum um lax- og silungsveiði nr. 76/1970 en færð undir lög nr. 61/2006 með reglugerð nr. 55/2019 um breytingu á reglugerð nr. 105/2000, án þess að breyting yrði á framangreindum ákvæðum 4. gr. hennar. IV Megineinkenni íslenskrar réttarskipunar og stjórnsýsluréttar koma fram í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um að öllum beri réttur að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð fyrir dómi og í 60. gr. hennar um að dómstólar skeri úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Ágreiningur aðila í efnisþætti málsins lýtur að því hvort meðferð þess á stjórnsýslustigi hafi verið andstæð lögum og hvort stjórnvaldsákvörðun sem fólst í leyfi til reksturs stöðvar til sjókvíaeldis á laxi í Reyðarfirði hafi verið andstæð ákvæðum laga og stjórnarskrár. Lýtur sá ágreiningur meðal annars að því hvort ákvæði reglugerðar nr. 105/2000 séu samþýðanleg lögunum og þá einkum um þá hagsmuni veiðiréttarhafa sem þeim er ætlað að vernda. Svo sem áður greinir kemur fram í 4. gr. reglugerðar nr. 105/2000 að við leyfisveitingar fyrir hafbeitar- og sjókvíastöðvar skuli fjarlægð stöðvanna frá laxveiðiám með yfir 500 laxa meðalveiði vera 15 km. Samkvæmt gögnum málsins mun sjókvíaeldið í Reyðarfirði vera í um 70 km fjarlægð frá Breiðdalsvík þar sem Breiðdalsá fellur til sjávar og að minnsta kosti 150 km frá Vopnafirði þar sem Selá, Vesturdalsá og Hofsá falla til sjávar en Sunnudalsá fellur í Hofsá. Byggja varnaraðilar á því að þetta leiði til þess að ekki geti verið um einstaklega, beina og lögvarða hagsmuni að ræða hjá þeim aðilum sem standa að sóknaraðila. Málsókn sóknaraðila verði því ekki reist á reglum um grenndarrétt. Benda þeir jafnframt á að veiðiréttarhafar nutu ekki aðildar að málinu á stjórnsýslustigi samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008. Þar sem málatilbúnaður sóknaraðila lúti að meintum annmörkum á málsmeðferð stjórnvalda við veitingu rekstrarleyfisins standi þetta í vegi þess að sóknaraðili njóti aðildar að dómsmáli um þá hagsmuni sem stjórnsýslumeðferðin tók til. Í máli þessu háttar svo til að réttur sóknaraðila til að bera undir dómstóla hvort farið hafi verið að lögum við útgáfu rekstarleyfis fyrir sjókvíaeldi í Reyðarfirði verður ekki reistur á aðild að stjórnsýslumáli sem var undanfari veitingar leyfisins. Á hinn bóginn hindrar það ekki sjálfkrafa rétt sóknaraðila til að bera undir dómstóla hvort farið hafi verið að lögum við meðferð stjórnsýslumálsins og úrlausn þess. Verður við mat á heimild sóknaraðila til að bera lögmæti umræddrar stjórnvaldsákvörðunar, sem komin er til framkvæmda, undir dómstóla að taka mið af því hvort hagsmunir hans af ákvörðuninni teljist nægjanlegir, eða meiri en hvers annars í samfélaginu meðal annars að virtu verndarandlagi því sem um ræðir, nálægðar þess við þá leyfisskyldu starfsemi er ákvörðun stjórnvaldsins tók til og umfangi starfseminnar, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar, 14. mars 2008 í máli 114/2008.  Eins og áður er fram komið gera ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008 ekki ráð fyrir veiðiréttarhafa frekar en nokkrum öðrum sem mögulegum aðila að stjórnsýslumáli við veitingu rekstrarleyfis. Skiptir þá engu hvort hagsmunir þeirra kunni að vera augljósir vegna nálægðar við sjókvíastöð og er ekki vikið að fjarlægðarmörkum í lögunum. Raunar gerir ákvæðið einungis ráð fyrir að leyfisveitandi megi leita umsagnar tiltekinna opinberra aðila, telji hann þörf á því. Þá lýtur ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 105/2000 einungis að meðalveiði í laxveiðiám afar nærri hafbeitar- og sjókvíastöðvum, en til að mynda hvorki að staðsetningu né stærð eldisstöðva, eins og kveðið er á um í ákvæðum laga nr. 71/2008 að máli skipti við mat á hagsmunum veiðiréttarhafa gagnvart fiskeldi. Samkvæmt ákvæði 4. gr. reglugerðarinnar einu og sér telst að þessu leyti raunar ætíð nægjanlegt skilyrði fyrir veitingu leyfis til sjókvíaeldis að það sé í meira en 15 kílómetra fjarlægð frá laxveiðiám, óháð umfangi eldisins, en fyrir liggur að varnaraðilinn Laxar fiskeldi ehf. ráðgerir að fullnýta 6.000 tonna starfs- og rekstrarleyfi sitt á árinu 2020. Eins og rakið hefur verið er það eitt af helstu markmiðum laga um fiskeldi að verja hagsmuni veiðiréttarhafa í ferskvatni fyrir þeirri hættu sem fylgir fiskeldi eins og því sem um ræðir í þessu máli. Skal í því sambandi líta til varúðarreglu, sem lýst er í 9. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, við túlkun á því hvenær ekki fara saman annars vegar hagsmunir þeirra sem veiðirétt eiga samkvæmt lax- og silungsveiðilögum og hins vegar þeirra sem standa vilja að fiskeldi. Er í lögum kveðið á um að hagsmunir þeirra sem fiskeldi vilja stunda skuli víkja, rekist þeir á hagsmuni veiðiréttarhafa. Mæla lögin þannig fyrir um sérstaka vernd á réttindum félagsmanna veiðifélaga eins og þeim sem að sóknaraðila standa, gegn hættu af starfsemi eins og þeirri sem varnaraðilinn Laxar Fiskeldi ehf. stundar og lýtur ágreiningur aðila meðal annars að því hvort þau almennu stjórnvaldsfyrirmæli sem felast í framangreindri reglugerð stangist á við ákvæði laga og stjórnarskrár um það til hvaða atriða stjórnvaldi hafi borið að líta við rannsókn sína áður en leyfi var veitt. Af öllu því sem að framan er rakið verður hvorki talið að ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 105/2000 né skortur á aðild að stjórnsýslumáli samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 71/2008 útiloki fortakslaust sóknaraðila frá því að teljast hafa lögvarða hagsmuni til málsóknarinnar á grundvelli reglna um grenndarrétt til verndar stjórnarskrárvörðum eignarrétti veiðiréttarhafa. Eins og gögn málsins bera með sér eru hagsmunir veiðiréttarhafa andspænis rekstri eldisstöðva gríðarlega miklir og er lögum nr. 71/2008 beinlínis ætlað að vernda þá gegn þeirri hættu sem af slíkri starfsemi kann að leiða. Ekkert er að finna í lögum sem girðir fyrir að krafa um ógildingu umræddrar stjórnvaldsákvörðunar hljóti efnisumfjöllun fyrir dómstólum. Verður heldur ekki séð að önnur atriði, sem varnaraðilar hafa bent á í þessum þætti málsins, leiði til frávísunar þess á þeim grunni að sóknaraðila skorti lögvarða hagsmuni. Þannig hafa ekki þýðingu þau sjónarmið varnaraðila að sóknaraðili eigi þann eina kost að bíða eftir því hvort hann verði fyrir tjóni svo uppfyllt séu skilyrði til að leita viðurkenningardóms um bótaskyldu varnaraðilans Laxa fiskeldis ehf. eftir ákvæðum 2. mgr. 18. gr. laga nr. 71/2008. Þá getur fullyrðing sóknaraðila, sem hann hefur uppi til frekari stuðnings röksemdum sínum, um að fleiri veiðiréttarhafar hringinn í kringum landið kunni að verða fyrir tjóni vegna sjókvíaeldisins í Reyðarfirði illa leitt til þess að honum verði meinuð málsóknin um það tiltekna sakarefni sem undir er í málinu og hann varðar að lögum. Enn síður skiptir máli við mat á einstaklegum hagsmunum veiðiréttarhafa hvort sóknaraðili hafi lýst því yfir að hann vilji koma í veg fyrir fiskeldisstarfsemi víðar um landið en á Reyðarfirði og vernda náttúrulega stofna í íslenskum laxveiðiám. Þá leiða sjónarmið hans um á hvaða lagaákvæðum skuli byggja efnisdóm ekki til þess að líta verði svo á hann sé einvörðungu að klæða málsókn sína í þann búning að óska eftir afstöðu dómstóla til hagsmunamats löggjafans. Um allt þetta verður einnig að hafa í huga að sóknaraðili ber fram margvíslegar röksemdir til stuðnings dómkröfu sinni, meðal annars um að ekki hafi verið gætt reglna stjórnsýsluréttar við undirbúning og töku stjórnvaldsákvörðunar. Teldi dómur að einhver af frambornum röksemdum sóknaraðila fyrir kröfu sinni væru þess eðlis að falla ekki undir endurskoðunarvald dómstóla, mætti úrlausn um þá röksemd að öllu jöfnu frekar að leiða til sýknu á þeim grunni að ekki væru efni til að hnekkja slíku mati sem birtist í vilja löggjafarvaldsins eða í frjálsu málefnalegu mati eða fyrirmælum stjórnvaldsins teknum innan ramma laganna, sbr. til hliðsjónar að sínu leyti dóma Hæstaréttar 8. nóvember 2012 í máli nr. 547/2011, 13. júní 2013 í máli nr. 61/2013 og 15. nóvember 2018 í máli nr. 795/2017. V Samkvæmt því sem áður segir verða dómstólar að virtum ákvæðum 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar að fara varlega í að vísa máli frá dómi af þeim sökum að það skipti ekki máli fyrir stöðu aðila að lögum að fá dóm um sakarefni. Þarf þá að vera ljóst að ekki hafi á neinn hátt raunhæft gildi fyrir aðilana að fá leyst úr því.  Eins og rakið hefur verið fullnægir málatilbúnaður sóknaraðila áskilnaði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en kröfu hans er skýrlega lýst í stefnu í héraði og er lýsing málavaxta og málsástæðna nægilega ljós um hvert sakarefnið er. Telur sóknaraðili að ekki hafi verið löglega staðið að umræddri stjórnvaldsákvörðun og að hún brjóti gegn stjórnarskrárvörðum réttindum þeirra sem að honum standa. Hefur hann lagt fram ýmis gögn til stuðnings hagsmunum sínum af málarekstrinum sem ekki verða talin svo veigalítil að augljóst skuli telja að ekkert raunhæft gildi hafi fyrir hann að fá efnisdóm um kröfu sína. Samkvæmt öllu framansögðu verður hvorki fallist á með varnaraðilum að sóknaraðila skorti lögvarða hagsmuni til að fá úrlausn dómstóla um kröfu sína, né að málið sé svo vanreifað af hans hálfu að efnisdómur verði ekki á það lagður. Því er rétt að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og vísa málinu til efnismeðferðar hjá Landsrétti. Loks ber að dæma varnaraðila til að greiða óskipt sóknaraðila kærumálskostnað.            Úrskurður Landsréttar 20. desember 2019 Landsréttardómararnir Oddný Mjöll Arnardóttir og Sigurður Tómas Magnússon og Eggert Óskarsson, settur landsréttardómari, kveða upp úrskurð í máli þessu. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Landsréttar 7. janúar 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjaness 12. desember 2018 í málinu nr. E-386/2017. 2        Með úrskurði Landsréttar 11. október 2019 var málinu vísað frá héraðsdómi. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar sem ómerkti hann með dómi sínum 18. nóvember 2019 í máli nr. 47/2019. 3        Málið var samkvæmt framangreindu tekið til meðferðar á ný í Landsrétti. Samkvæmt ákvörðun dómsins var málið á ný flutt eingöngu um formsatriði þess 12. desember 2019, sbr. 2. mgr. 161. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 4        Í efnisþætti málsins krefst aðaláfrýjandi þess að ógilt verði rekstrarleyfi nr. IS-36096, sem Fiskistofa veitti gagnáfrýjanda, Löxum fiskeldi ehf., 15. mars 2012 til reksturs stöðvar til sjókvíaeldis á laxi í Reyðarfirði. Þá krefst hann þess að stefndi, Matvælastofnun, og gagnáfrýjandi verði dæmdir óskipt til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti. Í þessum þætti málsins krefst hann þess að málinu verði ekki vísað frá dómi. 5        Stefndi, Matvælastofnun, krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Landsrétti. 6        Gagnáfrýjandi, Laxar fiskeldi ehf., krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Landsrétti. Niðurstaða 7        Við meðferð máls þessa í héraði gerðu bæði stefndi, Matvælastofnun, og gagnáfrýjandi, Laxar fiskeldi ehf., frávísunarkröfu. Með úrskurði héraðsdóms Reykjaness 8. mars 2018 var þeim kröfum hafnað. Gagnáfrýjandi gerði í gagnáfrýjunarstefnu kröfu um frávísun málsins frá héraðsdómi ásamt kröfu um málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti. Stefndi hefur aftur á móti ekki gagnáfrýjað málinu fyrir sitt leyti og kemur frávísunarkrafa hans ekki til álita við úrlausn málsins hér fyrir dómi, sbr. 1. og 3. mgr. 151. gr. laga nr. 91/1991. Hvað sem framangreindu líður getur Landsréttur vísað málinu frá héraðsdómi af sjálfsdáðum ef málatilbúnaður aðaláfrýjanda gefur tilefni til. 8        Mál þetta er höfðað af málsóknarfélagi samkvæmt 19. gr. a laga nr. 91/1991 en stofnfélagar þess eru Veiðifélag Hofsár og Sunnudalsár, Veiðifélag Selár, Veiðifélag Breiðdæla og Veiðifélag Vesturdalsár. Í þessum þætti málsins byggir aðaláfrýjandi á því að aðildarfélög hans hafi lögvarða hagsmuni af málsókninni, annars vegar vegna þess að aðilar málsóknarfélagsins séu „eigendur veiðiréttinda í laxveiðiám í Breiðdal og Vopnafirði“ og starfsemi gagnáfrýjanda samkvæmt hinu umdeilda rekstrarleyfi muni „skaða varanlega hagsmuni af nýtingu laxveiðihlunninda þeirra aðila sem að stefnanda standa“, en hins vegar vegna þess að á grundvelli hennar muni fara fram erfðablöndun á milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna um allt land þannig að af muni hljótast „svo gott sem vissa fyrir eyðingu villtra laxastofna í ám á Íslandi“. Standi málið, „þegar til frambúðar er litið, um val á milli þess að stunda annað hvort þá starfsemi sem [gagnáfrýjandi] fyrirhugar að stunda og til stendur að stunduð verði víðar um landið, eða viðhalda nýtingu laxveiðihlunninda í íslenskum veiðiám með náttúrulegum stofnum“. Hljóti dómstólar að geta fjallað um álitaefni þessu tengd. 9        Krafa aðaláfrýjanda í máli þessu lýtur að ógildingu stjórnvaldsákvörðunar sem hvorki hann né félagsmenn hans voru aðilar að. Samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar skera dómendur úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda og eftir 1. mgr. 70. gr. hennar ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir dómstólum. Þessi fyrirmæli hafa verið skýrð þannig að sérhver sem á lögvarinna hagsmuna að gæta geti almennt krafist þess fyrir dómi að ákvarðanir stjórnvalda verði ógiltar brjóti þær í bága við lög að formi til eða efni.  10       Til þess að málsóknarfélag geti rekið mál fyrir dómstólum þurfa félagsmenn þess að eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af sakarefninu. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði fylgir eignarlandi hverju veiðiréttur í vatni á eða fyrir því landi, enda sé ekki mælt fyrir um aðra skipan í lögum. Í 1. mgr. 37. gr. sömu laga er kveðið á um að mönnum sé skylt að hafa með sér félagsskap „um skipulag veiði í hverju fiskihverfi“ og sé hlutverk veiðifélaga meðal annars að tryggja vöxt og viðgang fiskstofna og sjálfbæra nýtingu þeirra og að skipta veiði eða arði af veiði milli félagsmanna í samræmi við rétt þeirra. Samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis eru félagsmenn veiðifélags allir skráðir veiðiréttarhafar á félagssvæðinu.  11       Samkvæmt framangreindu tilheyra hagsmunir tengdir nýtingu laxveiðihlunninda ekki þeim veiðifélögum sem saman mynda aðaláfrýjanda, heldur félagsmönnum þeirra. Þegar af þeirri ástæðu teljast veiðifélögin ekki hafa lögvarða hagsmuni af efnisúrlausn um það efni. Kemur þá hvorki til úrlausnar dómsins hvort nægar líkur hafi verið leiddar að því að starfsemi gagnáfrýjanda muni valda tilteknu tjóni á hagsmunum veiðiréttarhafa þannig að um verulega, einstaklega hagsmuni geti verið að ræða né hvort skilyrði 19. gr. a laga nr. 91/1991 séu uppfyllt þrátt fyrir ólíkar aðstæður hjá aðildarfélögum aðaláfrýjanda. 12       Til viðbótar við framangreinda hagsmuni veiðiréttarhafa hefur aðaláfrýjandi vísað til hættunnar á blöndun eldislaxa við náttúrulega laxastofna í veiðiám um allt land en í því sambandi verður ekki annað ráðið af málatilbúnaði hans en að markmið málsóknarinnar sé að koma í veg fyrir starfsemi af því tagi sem gagnáfrýjandi stundar í því skyni að vernda náttúrulega stofna í íslenskum veiðiám. Framangreindur grundvöllur málatilbúnaðar aðaláfrýjanda varðar þannig ekki lögmæti tiltekinnar stjórnvaldsákvörðunar, heldur miðar hann að því að fá fram afstöðu dómstóla til þess hagsmunamats löggjafans sem birtist í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Verða aðildarfélög aðaláfrýjanda ekki talin hafa einstaklega lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um það efni, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. 13       Með vísan til alls hins framangreinda verður máli þessu af sjálfsdáðum vísað frá héraðsdómi, sbr. einnig til hliðsjónar úrskurð Landsréttar 8. febrúar 2019 í máli nr. 69/2019. 14       Eftir þessum úrslitum verður aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda, Löxum fiskeldi ehf., málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá verður aðaláfrýjanda gert að greiða stefnda, Matvælastofnun, málskostnað fyrir Landsrétti eins og í úrskurðarorði greinir.     Úrskurðarorð: Máli þessu er vísað frá héraðsdómi. Aðaláfrýjandi, Náttúruvernd 2 málsóknarfélag, greiði gagnáfrýjanda, Löxum fiskeldi ehf., samtals 2.000.000 króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti og stefnda, Matvælastofnun, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti.         Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12. desember 2018 Mál þetta, sem var höfðað 4. apríl 2017, var dómtekið 15. nóvember 2018. Stefnandi er Náttúruvernd 2, málsóknarfélag, Borgartúni 28, Reykjavík. Stefndu eru Matvælastofnun, Austurvegi 64, Selfossi, og Laxar fiskeldi ehf., Akralind 2, Kópavogi. Dómkröfur stefnanda eru þær að ógilt verði rekstrarleyfi nr. IS-36096 sem Fiskistofa veitti stefnda Löxum fiskeldi ehf. þann 15. mars 2012 til reksturs stöðvar til sjókvíaeldis á laxi í Reyðarfirði. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum. Stefndi Matvælastofnun krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara er krafist sýknu af kröfum stefnanda. Einnig er gerð krafa um málskostnað. Stefndi Laxar fiskeldi ehf. krafðist þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi en til vara var krafist sýknu af kröfum stefnanda. Þá gerði stefndi kröfu um málskostnað. Með úrskurði dómsins 8. mars 2018 var frávísunarkröfum stefndu hafnað. Við aðalmeðferð málsins taldi stefndi Laxar fiskeldi ehf. enn að vísa ætti málinu frá dómi. I. Málsatvik eru þau að stefndi Laxar fiskeldi ehf. var stofnað í desember 2005 í þeim tilgangi að hefja undirbúning á rekstri laxeldis í sjókvíum hér á landi. Megintilgangur félagsins er fiskeldi og vinnsla sjávarfangs. Stærsti hluthafi stefnda er norska félagið Masoval Fiskeoppdrett AS. Hinn 12. apríl 2011 barst Skipulagsstofnun tilkynning, samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, frá Löxum fiskeldi ehf. um fyrirhugað fiskeldi á 6.000 tonnum af laxi í sjókvíaeldi í Reyðarfirði. Í greinargerð stefnda Laxa fiskeldis ehf. til Skipulagsstofnunar kom fram það mat stefnda að fyrirhuguð framkvæmd hefði ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og ætti því ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum. Þá kom fram í greinargerðinni að notaður yrði Sagalax, sem hefði verið ræktaður hér á landi frá árinu 1984, og að gert væri ráð fyrir því að eldisstöð væri komin í fulla nýtingu árið 2018. Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu í ákvörðun um matsskyldu, dags. 8. júní 2011, að fyrirhuguð 6.000 tonna framleiðsla á laxi í sjókvíum stefnda Laxa fiskeldis ehf. væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í forsendum ákvörðunar Skipulagsstofnunar var vísað til þess að á árinu 2002 hafi umhverfisáhrif 6.000 tonna laxeldis í Reyðarfirði verið metin af Samherja hf. og að í úrskurði Skipulagsstofnunar 23. október 2002 hafi verið fallist á þá framkvæmd, en ekki varð úr áformum um eldið. Þá var vísað til þess að Laxar fiskeldi ehf. áformaði 6.000 tonna fiskeldi í Reyðarfirði á sömu svæðum og áðurnefnt mat á umhverfisáhrifum fjallaði um. Umhverfisaðstæður í firðinum væru í aðalatriðum þær sömu og voru á þeim tíma sem Samherji hf. vann mat á umhverfisáhrifum fiskeldis félagsins. Taldi Skipulagsstofnun að niðurstöður rannsókna í tengslum við það mat væru því í fullu gildi. Áður en Skipulagsstofnun tók framangreinda ákvörðun aflaði stofnunin umsagnar ýmissa aðila. Stefndi Matvælastofnun, Umhverfisstofnun, Hafrannsókna­stofnun, Siglingastofnun og Fjarðabyggð töldu að ekki væri þörf á að fyrirhugað sjókvíaeldi stefnda Laxa fiskeldis ehf. færi í sérskylt umhverfismat. Fiskistofa taldi hins vegar að fyrirhugað fiskeldi skyldi háð umhverfismati varðandi líkleg áhrif slysasleppinga og áhrif á villta laxastofna.  Í kjölfarið á ákvörðun Skipulagsstofnunar sótti stefndi Laxar fiskeldi ehf. um rekstrarleyfi til Fiskistofu samkvæmt lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Hinn 15. mars 2012 gaf Fiskistofa út leyfi til stefnda Laxa fiskeldis ehf. til að stunda eldi á laxi í sjókvíum í Reyðarfirði, þar sem heimilt væri að framleiða allt að 6.000 tonn af laxi árlega. Í rekstrarleyfi stefnda Laxa fiskeldis ehf. eru m.a. ákvæði um staðsetningu eldisstöðvarinnar, búnað, eftirlit og afturköllun leyfis.    Hinn 11. maí 2016 sendi stefndi Matvælastofnun, sem tók við hlutverki af Fiskistofu 1. janúar 2015, stefnda Löxum fiskeldi ehf. bréf þar sem athygli var vakin á því að samkvæmt V. kafla laga nr. 71/2008 um fiskeldi skyldi stofnunin fella rekstrarleyfi úr gildi væri starfsemi ekki hafin innan þriggja ára frá útgáfu leyfis og að stofnunin hygðist í samræmi við lögin fella rekstrarleyfi Laxa fiskeldis ehf. úr gildi yrði starfsemi ekki hafin þann 29. maí 2017. Fyrir liggur í gögnum málsins „heilbrigðisvottorð – flutningsskýrsla fyrir laxaseiði“, útgefið af stefnda Matvælastofnun 7. apríl 2016, þar sem fram kemur að stefndi Laxar fiskeldi ehf. hefði fengið laxaseiði frá Stofnfiski ehf. og að flutningur í sjókvíar hafi verið áætlaður degi síðar, 8. apríl. Einnig liggur fyrir skjal sama efnis, dags. 25. apríl 2016, um flutning á seiðum. Stefndi Laxar fiskeldi ehf. segir að áætlanir sínar hafi staðist fyllilega. Stefndi Matvælastofnun gerði hinn 23. júní 2017 úttekt hjá stefnda Löxum fiskeldi ehf. á starfsstöð við Gripalda, en starfsstöðvar höfðu þá ekki verið settar upp á öðrum eldissvæðum sem voru tilgreind í rekstrarleyfinu. Degi síðar, 24. júní, gaf stefndi Matvælastofnun út staðfestingu á gildistöku rekstrarleyfis stefnda Laxa fiskeldis ehf. í samræmi við 15. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi. Hinn 25. júní 2017 voru seiði sett í sjóeldiskví stefnda Laxa fiskeldis ehf. við Gripalda.   Stefnandi er málsóknarfélag sem var stofnað með heimild í 19. gr. a í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Aðilar þess eru eigendur veiðiréttinda í laxveiðiám í Breiðdal og Vopnafirði. Þeir telja að þessi hlunnindi muni skerðast ef laxeldi stefnda Laxa fiskeldis ehf. nær fram að ganga og þeir eigi einkaréttarlega hagsmuni af því að fellt verði úr gildi rekstrarleyfi það sem stefndi Laxar fiskeldi ehf. hefur fengið. Stofnfélagar málsóknarfélagsins eru Veiðifélag Hofsár og Sunnudalsár, Árhvammi, Vopnafirði, sem fer með veiðirétt landeigenda við Hofsá og Sunnudalsá, Veiðifélag Selár, Fremri-Nýpum, Vopnafirði, sem fer með veiðirétt landeigenda við Selá, Veiðifélag Breiðdælinga, Heydölum, Breiðdalsvík, sem fer með veiðirétt landeigenda við Breiðdalsá, og Veiðifélag Vesturdalsár, Hamrahlíð 24, Vopnafirði, sem fer með veiðirétt landeigenda við Vesturdalsá. Stefnandi heldur því fram að ef starfsemi stefnda Laxa fiskeldis ehf. byggð á rekstarleyfinu, laxeldi í sjókvíum, nái fram að ganga sé innan fárra ára svo gott sem vissa fyrir eyðingu villtra laxastofna í ám á Íslandi, þar með töldum þeim laxveiðiám sem eru í eigu aðila að stefnanda. Stefnandi segir að neikvæðum áhrifum innblöndunar eldislaxa í náttúrulega stofna hafi verið ítarlega lýst í erlendum rannsóknum. Þær sýni að blöndun eldisstofna við náttúrulega stofna leiði til verulega minnkaðrar viðkomu, trufli náttúruval og dragi úr líffræðilegri fjölbreytni villtu laxastofnanna. Talið sé að við stöðuga innblöndun eldislaxa við náttúrulega stofna hverfi náttúrulegir stofnar á æviskeiði 10 kynslóða laxa sem sé um 40 ár. Því muni viðvarandi sókn stroklaxa inn í náttúrulega stofna leiða til óafturkræfrar eyðingar viðkvæmra náttúrulegra stofna. Almennt sé viðurkennt að eldislax sleppi úr sjókvíum og gera megi að jafnaði ráð fyrir að árlega sleppi a.m.k. einn eldislax fyrir hvert framleitt tonn. Í Noregi hafi formlega verið tilkynnt um að meðaltali 315.000 stroklaxa á ári úr eldi árin 2006 til 2012, en hafrannsóknastofnun þar í landi álíti að raunverulegur fjöldi stroklaxa sé fjórum til fimm sinnum meiri en tilkynnt er um. Þannig hafi sloppið þar a.m.k. ein milljón eldislaxa á ári á undanförnum árum, eða um einn eldislax á hvert framleitt tonn. Fjöldi laxveiðiáa í Noregi muni vera ónýtur til stangveiði vegna eldislaxa og laxalúsar af þeirra völdum, sem einkum drepi sjógönguseiðin þegar þau gangi til sjávar. Meira en 65% náttúrulegra norskra laxastofna sýni meiri eða minni erfðabreytingar af völdum stroklaxa úr sjókvíaeldi. Aðeins 22% norskra laxveiðiáa séu taldar vera í heilbrigðu umhverfi án mengunar frá fiskeldi.  Rannsóknir sýni að áhrifasvæði laxeldis vegna erfðablöndunar sé ekki bundið við villta laxastofna í næsta nágrenni við eldissvæði. Þannig hafi verið sýnt fram á í norskri rannsókn að hluti endurheimta á eldislaxi, sem sleppt var úr eldi, hafi komið fram í allt að 2000 kílómetra fjarlægð frá sleppistað. Því sé áhrifasvæði laxeldis í Reyðarfirði ekki bundið við villta laxastofna í allra næsta nágrenni, heldur nái það einnig til stofna í laxveiðiám sem staðsettar eru mun fjær. Um Ísland sé réttsælis hringstraumur í efstu sjávarlögum. Eldisfiskur sem sleppi hér við land sé samkvæmt norskum rannsóknum líklegur til að hringsóla um landið réttsælis og leita upp í ár hvar sem er á landinu. Ljóst sé því að laxeldi, af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir, muni hafa áhrif á náttúrulega laxastofna um allt land. Stefndu mótmæla því að hlunnindi félagsmanna stefnanda muni skerðast ef laxeldi stefnda Laxa fiskeldis ehf. í Reyðarfirði nái fram að ganga og að villtir laxastofnar í ám á Íslandi muni eyðast. Stefndu segja þetta með öllu órökstutt og ósannað og sett fram í pólitískum tilgangi í hagsmunabaráttu andstæðinga laxeldis. II. Stefnandi byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á því að rekstrarleyfi stefnda Laxa fiskeldis ehf. sé gefið út til laxeldis án tilgreiningar um leyfilegan eldisstofn eins og fyrir er mælt í 10. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi og valdi það ógildingu leyfisins. Stefnandi telur að við ákvörðun um útgáfu rekstrarleyfis verði tvímælalaust að taka tillit til verndarhagsmuna 1. gr. laganna. Ekki sé hægt að skilja það eftir opið hvaða stofnar séu notaðir. Slíkur annmarki á leyfinu einn og sér, þ.e. ef sjálft leyfið er ekki afdráttarlaust í þessu efni, hljóti að leiða til ógildingar leyfisins, enda fari texti leyfisins í bága við skýr fyrirmæli 10. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Í öðru lagi byggir stefnandi á því að Fiskistofu, og síðar Matvælastofnun, hafi borið að fella rekstrarleyfið úr gildi vegna þess að það hafi runnið út samkvæmt lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Rekstrarleyfið hafi verið gefið út 15. mars 2012. Með vísan til 24 mánaða reglunnar í þágildandi 15. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi hafi rekstrarleyfið runnið út 15. mars 2014, þar sem starfsemin samkvæmt rekstrarleyfinu hafi ekki verið hafin. Samkvæmt seinni málsgrein þágildandi 15. gr. skyldi Fiskistofa ávallt veita rekstrarleyfishafa skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta. Í stefnu kveðst stefnandi ekki vita hvort slík skrifleg viðvörun hafi verið gefin, eða frestur veittur til úrbóta. Ljóst sé þó að ekki hafi neinar úrbætur átt sér stað, enda engin starfsemi enn hafin. Engin málefnaleg rök standi til þess að Fiskistofu hafi verið heimilt að leyfa rekstrarleyfinu að halda gildi sínu áfram. Fiskistofa hefði því átt að fella rekstrarleyfið úr gildi. Lög nr. 49/2014, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (flutningur verkefna, stofnun sjóðs o.fl.), hafi tekið gildi 29. maí 2014, eða rúmlega tveimur mánuðum eftir að rekstrarleyfið hefði átt að vera fellt úr gildi. Með 12. gr. breytingalaganna hafi verið gerð sú breyting að frestur til að hefja starfsemi samkvæmt lögunum hafi verið framlengdur í þrjú ár. Eftir breytinguna hafi stefnda Matvælastofnun berum orðum verið gert skylt að fella rekstrarleyfið úr gildi eftir þrjú ár frá veitingu þess, sbr. orðalagið „skal Matvælastofnun fella rekstrarleyfið úr gildi“. Því hafi stefnda Matvælastofnun borið að fella rekstrarleyfið úr gildi 15. mars 2015, enda hafi þá þrjú ár verið liðin frá útgáfu þess. Samkvæmt 15. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi geti stefndi Matvælastofnun frestað afturköllun leyfisins um 12 mánuði með undanþágu ef málefnaleg sjónarmið búa að baki töfinni á því að starfsemin hefjist, en ekkert liggi fyrir um að slík sjónarmið hafi verið til staðar. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. skuli stefndi Matvælastofnun ávallt veita rekstrarleyfishafa skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta. Láti Matvælastofnun farast fyrir að veita slíka viðvörun geti slíkt ekki leitt til þess að rekstrarleyfið haldi gildi sínu. Úrbætur á starfseminni í skilningi lagaákvæðisins hafi ekki átt sér stað, enda engin starfsemi hafin á grundvelli rekstrarleyfisins. Hinn 11. maí 2016, eða rúmum fjórum árum eftir að upphaflega rekstrarleyfið hafi verið gefið út, hafi stefndi Matvælastofnun sent stefnda Löxum fiskeldi ehf. bréf þar sem honum hafi verið tilkynnt að stofnunin hygðist fella úr gildi rekstrarleyfi fyrirtækisins yrði starfsemi ekki hafin 29. maí 2017. Fyrir utan að bréfið hafi verið sent löngu eftir að rekstrarleyfið átti að vera fellt niður hafi frestur Matvælastofnunar verið gefinn til lengri tíma en lögin heimili samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Stefnandi telur að stefndi Matvælastofnun hefði átt að fjalla sérstaklega um frest vegna niðurfellingar rekstrarleyfisins áður en það rann út. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi leyfið runnið út 15. mars 2015, þ.e. ef ekki verður fallist á að það hafi runnið út í gildistíma eldri laga, 15. mars 2014. Ekki sé hægt að framlengja leyfi sem þegar sé runnið út. Í öllu falli hafi ýtrasti hámarksfrestur til að hefja starfsemi, sem stefnda Matvælastofnun hafi verið heimilt að veita samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi, verið 12 mánuðir frá 15. mars 2015 eða til 15. mars 2016. Frestur stefnda Matvælastofnunar fyrir stefnda Laxa fiskeldi ehf. fram yfir 15. mars 2016 sé án lagaheimildar og því haldlaus. Stefnandi telur af framangreindum ástæðum, það er að tilgreiningu um eldisstofn vanti í leyfið og/eða samkvæmt grunnreglu 15. gr. laga nr. 71/2008 varðandi hámarksgildistíma rekstrarleyfis án starfsemi leyfishafa, að rekstrarleyfi stefnda Laxa fiskeldis ehf. sé ógilt og/eða útrunnið. Því beri að fella það úr gildi. Í þriðja lagi byggir stefnandi á því, verði ekki þegar fallist á framangreindar málsástæður, að málsmeðferð við útgáfu og „framlengingu“ rekstrarleyfis hafi verið háð annmörkum og eigi það eitt og sér að valda ógildingu leyfisins. Ákvörðun stofnunarinnar sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og telur stefnandi að við undirbúning hennar hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu, sbr. 10. gr., og andmælarétti, sbr. 13. gr. laganna. Þá hafi ekki verið fylgt lögmæltum fyrirmælum 10. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Um brot á rannsóknarreglu segir stefnandi að meðal markmiða laga um fiskeldi, svo sem þeim sé lýst í 1. gr. laganna, sé að stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Í því skyni skuli leitast við að koma í veg fyrir m.a. hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýta slíka stofna. Ekkert hafi komið fram um að nokkur sjálfstæð rannsókn hafi farið fram af hálfu Fiskistofu, fyrirrennara stefnda Matvælastofnunar né af hálfu Matvælastofnunar í samræmi við þessi ákvæði laganna. Byggir stefnandi á því að þessir annmarkar á málsmeðferð stofnananna valdi ógildingu rekstrarleyfisins. Stefnandi telur að þessi framkvæmd hafi verið háð mati á umhverfisáhrifum þrátt fyrir að Skipulagsstofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að svo hafi ekki verið. Stefnandi bendir meðal annars á að Fiskistofa hafi talið að umhverfismat þyrfti að fara fram. Framkvæmd upp á 6.000 tonn á ári sé þrjátíu sinnum stærri en þau 200 tonna mörk sem tilgreind séu í tölulið 1.11 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Stefnandi telur að veita beri hagsmunaaðilum andmælarétt við útgáfu á rekstrarleyfum eins og því sem hér um ræðir, sbr. IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Starfsemin sem hér um ræðir sé háð mati á umhverfisáhrifum. Það verði því að fullnægja skilyrðum um meðferð samkvæmt 2.-6. mgr. 6. gr. og 8. gr. tilskipunar 2011/92/ESB, sbr. breytingu á tilskipuninni sem hafi verið gerð með tilskipun 2014/52/ESB og skýra verði íslensk lög með hliðsjón af þeim ákvæðum. Tilskipun 2014/52/ESB hafi verið felld inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar nr. 117/2015, 30. apríl 2015, EES-viðbætir nr. 34 18.6.2015, bls. 229-246. Kveðið sé á um þessa málsmeðferð í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Þegar umsókn um rekstrarleyfi er til meðferðar verði meðal annars að fylgja ákvæðum varðandi leyfisveitingar í löggjöf um mat á umhverfisáhrifum. Því hafi borið að tryggja að almenningur væri upplýstur um umsókn stefnda Laxa fiskeldis ehf. um rekstrarleyfi og „framlengingu“ þess og ætti þess kost að koma á framfæri athugasemdum og að tekið yrði eftir atvikum tillit til þeirra athugasemda, sbr. 2. mgr. 6. gr. og 8. gr. tilskipunar 2011/92/ESB. Stefnandi telur þannig ljóst að Fiskistofa og stefndi Matvælastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaganna, sem kveði á um að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, svo sem einnig sé gerð krafa um í lögum um fiskeldi, tilskipun nr. 2011/92/ESB og náttúruverndarlögum. Þá  hafi Fiskistofa og stefndi Matvælastofnun brotið gegn reglu um andmælarétt og samráð, sem kveði á um að aðili máls, í þessu tilfelli félagsmenn stefnanda og raunar fleiri aðilar, skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því. Við allt mats- og leyfisferlið hafi stjórnvöld sem í hlut áttu hverju sinni í engu sinnt þeirri skyldu að rannsaka, fjalla um og bera saman þá aðra valkosti, sem til greina komu varðandi framkvæmdina, svo sem notkun á geldlaxi, eldi á landi, eldi í lokuðum sjókvíum, minna sjókvíaeldi eða svokallaðan núll valkost (enga framkvæmd), sem hefðu í för með sér minni eða enga skaðsemi fyrir náttúruna og eignir annarra aðila, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og h-lið 1. tl. 2. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, og h-lið 1. tl. 2. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum, sem hafi verið felld úr gildi með reglugerð nr. 660/2015. Eigi það við um greinargerð um framkvæmdina, sem hafi verið á ábyrgð stefnda Laxa fiskeldis ehf. og útgáfu og „framlengingu“ rekstrarleyfis sem hafi verið á hendi Fiskistofu og stefnda Matvælastofnunar. Stefnandi byggir á því að þessi vanræksla stefnda valdi ógildingu rekstrarleyfisins. Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að lagaheimild skorti til að afhenda stefnda Löxum fiskeldi ehf. afnot af því hafsvæði þar sem starfsemin eigi að fara fram. Samkvæmt 2. málsl. 40. gr. stjórnarskrárinnar geti íslenska ríkið ekki afhent eignar- eða afnotarétt að hafsvæði við landið, sé ekki fyrir hendi sérstök lagaheimild til hinnar tilteknu ráðstöfunar hafsvæðisins. Við útgáfu og „framlengingu“ rekstrarleyfisins hafi ekki notið heimildar í settum lögum til hinnar tilteknu afhendingar afnotaréttar hafsins til stefnda Laxa fiskeldis ehf. Hvergi sé að finna í lögum heimild til handa stjórnsýsluhöfum að stofna til einstaklingsbundinna afnota manna yfir hafsvæðum umhverfis landið. Hér sé um að ræða hafsvæði utan netlaga en innan landhelgi Íslands, sbr. lög nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Hugtakið netlög merki í lögum vatnsbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar, sbr. t.d. 2. gr. jarðalaga nr. 81/2004 og 17. tölul. 3. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Fylgi eignarréttur að netlögum eignarrétti að því landi sem liggur að sjó á viðkomandi stað. Athafnasvæði stefnda Laxa fiskeldis ehf. sé utan netlaga. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins sé íslenska ríkið eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki. Samkvæmt þessu lagaákvæði fylgi þessum eignarrétti ríkisins eignarráð yfir hafinu á sama svæði. Byggir stefnandi á því að íslenska ríkið geti ekki afhent einstaklingsbundnum aðila eignar- eða afnotaréttindi að þessu hafsvæði nema sú tiltekna ráðstöfun fasteignarréttinda sem um ræðir njóti sérstakrar lagaheimildar. Í fimmta lagi byggir stefnandi á því að starfsemin sem um ræðir fari gegn ákvæðum laga, m.a. ákvæðum náttúruverndarlaga og laga um fiskeldi, og valdi það eitt og sér ógildingu leyfisins. Stefnandi telur að útgáfa og „framlenging“ rekstrarleyfis fyrir 6.000 tonna laxeldi muni valda verulegum og óafturkræfum skaða á öllum villtum laxastofnum í öllum ám Austfjarða á stuttum tíma og muni einnig setja í stórhættu alla villta laxastofna landsins á fáum árum. Starfsemin brjóti því gegn 1., 2. og 9. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Starfsemin setji fjölbreytni íslenskrar náttúru til framtíðar í hættu og þróun íslenskrar náttúru á eigin forsendum sé ekki lengur tryggð nái starfsemin fram að ganga og feli því í sér brot gegn 1. mgr. 1. gr. laganna. Starfsemin varði samskipti manns og náttúru og valdi því að líf spillist. Hún sé því brot gegn 3. mgr. 1. gr. Starfsemin fari enn fremur gegn þeirri stefnu að stuðla að vernd líffræðilegrar fjölbreytni svo sem kveðið sé á um í 2. gr. laganna. Þá brjóti starfsemin gegn markmiði laga nr. 71/2008 um fiskeldi, en það sé samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna m.a. að stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Skuli í því skyni m.a. koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýta slíka stofna. Einnig byggir stefnandi á því að starfsemin brjóti gegn 2. mgr. 1. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi, sem kveði á um að við framkvæmd laganna skuli þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra verði ekki stefnt í hættu. Verði ekki fallist á að vissa sé um þau spjöll sem starfsemin muni valda á náttúru landsins sé ljóst að starfsemin brjóti gegn 9. gr. laga um náttúruvernd, þar sem þá liggi ekki fyrir nægileg vissa um hvaða áhrif starfsemin muni hafa á náttúruna og því verði að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á þeim náttúruverðmætum sem náttúrulegir íslenskir laxastofnar séu. Í þessu tilviki sé hætta á verulegum og óafturkræfum náttúruspjöllum og því sé ekki hægt að beita skorti á vísindalegri þekkingu sem rökum til að láta hjá líða að grípa til skilvirkra aðgerða sem koma í veg fyrir spjöllin eða draga úr þeim. Áhættan sem leiði af umræddri starfsemi vegna óvissu um afleiðingar hennar valdi því samkvæmt framansögðu að óheimilt sé að leyfa starfsemina. Stefnandi byggir einnig á því að starfsemin hafi fyrir setningu náttúruverndarlaga nr. 60/2013 brotið gegn ákvæðum og meginreglum fyrri náttúruverndarlaga nr. 44/1999 að breyttu breytanda. Í sjötta lagi byggjast kröfur stefnanda á því að fyrirhugaður rekstur sjókvíaeldisstöðvar stefnda Laxa fiskeldis ehf. fari í bága við einkaréttarlega hagsmuni þeirra aðila sem aðild eiga að stefnanda og standa að málsókn þessari. Stefnandi telur afar sterkar líkur standa til þess að starfsemi stefnda Laxa fiskeldis ehf. í Reyðarfirði muni skaða varanlega hagsmuni af nýtingu laxveiðihlunninda þeirra aðila sem að stefnanda standa. Einnig telur stefnandi að starfsemin muni skaða hagsmuni aðila málsóknarfélagsins á grundvelli grenndarréttar. Upplýsingar frá Noregi bendi til þess að þetta megi telja nánast öruggt. Málsókn þessi sé því meðal annars byggð á því að stefnda Löxum fiskeldi ehf. sé óheimilt að stunda starfsemi, sem líklegt sé að valdi slíku tjóni. Að mati stefnanda stendur málið, þegar til frambúðar er litið, um val á milli þess að stunda annaðhvort þá starfsemi sem stefndi Laxar fiskeldi ehf. fyrirhugar að stunda og til stendur að stunduð verði víðar við landið, eða viðhalda nýtingu laxveiðihlunninda í íslenskum veiðiám með náttúrulegum stofnum. Aðallega telur stefnandi að með öllu sé óheimilt að „fremja þetta strandhögg“ í hagnýtingu þeirra hlunninda sem hér um ræðir. Ef á annað borð yrði talið heimilt að hefja þessa starfsemi með þeim afleiðingum sem af því muni leiða hljóti að fylgja því full bótaskylda gagnvart þeim aðilum sem verði að láta af eða draga verulega úr hagnýtingu á fasteignarréttindum sínum. Ekkert hafi verið hugað að þessu við útgáfu og „framlengingu“ rekstarleyfis stefnda Laxa fiskeldis ehf. Ætti það eitt og sér að valda ógildingu þess. Í þinghaldi 4. desember 2018 var bókuð eftir stefnanda ný málsástæða um að starfsmaður stefnda Matvælastofnunar, Gísli Jónsson, hafi verið vanhæfur til meðferðar á rekstrarleyfi stefnda Laxa fiskeldis ehf., og að það valdi ógildingu á hinu umstefnda rekstrarleyfi. Nánar tiltekið hafi Gísli veitt umsögn fyrir hönd Matvælastofnunar á umhverfismatsstigi, en hann hafi haft fjárhagslega hagsmuni af uppgangi laxeldis. Um lagarök vísar stefnandi m.a. til ákvæða stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, laga um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn nr. 41/1979, laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins nr. 73/1990, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, jarðalaga nr. 81/2004, reglugerða um mat á umhverfisáhrifum nr. 1123/2005 og 660/2015, laga um fiskeldi nr. 71/2008, laga um stjórn vatnamála nr. 36/2011, laga um umhverfisábyrgð nr. 55/2012, upplýsingalaga nr. 140/2012, laga um náttúruvernd nr. 44/1999 og 60/2013, reglugerðar um fiskeldi nr. 401/2012, samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipana 2011/92/ESB og 2014/52/ESB, Árósasamningsins um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, Bernarsamningsins um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu og til meginreglna eignarréttar. Kröfu um málskostnað úr hendi stefndu byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. III.                 Stefndi Laxar fiskeldi ehf. byggir sýknukröfu sína á því að engir form- eða efnisannmarkar hafi verið á veitingu rekstrarleyfis stefnda þannig að varði ógildingu þess. Leyfið hafi ekki runnið út, málsmeðferðar­reglum hafi verið fylgt í hvívetna og að fullar efnislegar forsendur hafi verið til veitingar leyfisins. Þá byggir stefndi jafnframt á því að jafnvel þó að stefnanda, og félagsmönnum hans, verði játað að eiga lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og jafnvel þó að talið yrði mögulegt að félagsmenn stefnanda verði fyrir tjóni vegna starfsemi stefnda á grundvelli rekstrarleyfisins þá leiði slíkt ekki til ógildingar rekstrarleyfisins. Stefnandi gæti við þær aðstæður í besta falli sótt bætur til ríkisins fyrir að heimila, að undangenginni pólitískri stefnumótun, starfsemi sem valdið hafi félagsmönnum stefnanda tjóni. Stefndi byggir nánar tiltekið í fyrsta lagi á því að stefnandi geti ekki átt aðild að dómsmáli um gildi rekstrarleyfis stefnda til sjókvíaeldis í Reyðarfirði og því beri að vísa máli þessu frá dómi, eða að sýkna stefnda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Til að stefnandi geti talist eiga aðild að dómsmáli um gildi rekstrarleyfisins þurfi stefnandi, og þar með allir félagsmenn stefnanda, að eiga einstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta vegna rekstrarleyfisins. Stefndi byggir á að á það skorti. Stefnandi, eða félagsmenn hans, hafi á engu stigi átt aðild að þeirri stjórnvaldsákvörðun að veita rekstrarleyfið, né nokkrum öðrum þeim stjórnsýslu­meðferðum sem stefndi hafi þurft að ganga í gegnum til að afla allra tilskilinna leyfa til að hefja starfsemi sína í Reyðarfirði. Í stefnu málsins, eða framlögðum gögnum stefnanda við þingfestingu málsins, sé heldur alls ekki ljóst hvernig stefnandi telur sig eða félagsmenn sína geta átt einstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Þeir hagsmunir sem vísað sé til í stefnu séu aðeins almennir og/eða allsherjar­réttarlegir, svo sem náttúruverndar­hagsmunir, hagsmunir allra veiðiréttarhafa í laxveiðiám um allt Ísland o.s.frv. Engin þessara sjónarmiða sýni fram á með nokkrum hætti að stefnandi, eða félagsmenn hans, hafi þá sérstöðu gagnvart rekstrarleyfi stefnda að þeim verði játuð aðild að dómsmáli um gildi þess. Beri þegar af þessari ástæðu að vísa málinu frá dómi eða að sýkna af kröfum stefnanda. Í öðru lagi byggir stefndi á því að skortur á tilgreiningu eldisstofns í rekstrarleyfi valdi ekki ógildingu. Stefndi segir að þegar stefndi sótti um rekstrar­leyfið til Fiskistofu hafi verið lagt til grundvallar að notaður yrði lax af SAGA-stofni við eldið og hafi það komið skýrlega fram í greinargerð stefnda til Skipulagsstofnunar í apríl 2011. Á þeirri sömu forsendu hafi Skipulagsstofnun fjallað um matsskyldu framkvæmdar­innar, sbr. niðurstöðu Skipulagsstofnunar 8. júní 2011. Þá sé það kunnara en að frá þurfi að segja að við allt laxeldi í sjókvíum við Ísland sé notaður lax af SAGA-stofni. Í ljósi þessarar aðstöðu telur stefndi algjörlega fráleitt að þó að það sé ekki sérstaklega tilgreint í texta rekstrarleyfisins að það nái aðeins til ræktunar á laxi af SAGA-stofni að slíkt teljist svo alvarlegur annmarki á leyfinu að það varði ógildingu, enda hafi öllum hlutaðeigandi verið ljóst til hvers konar ræktunar rekstrarleyfið næði. Í þriðja lagi telur stefndi að leyfið sé ekki útrunnið. Stefndi mótmælir því að hlutaðeigandi stjórnvöldum hafi borið að fella rekstrarleyfi stefnda úr gildi þar sem starfsemi hafi ekki verið hafin innan tilgreinds frests, sbr. 15. gr. laga nr. 71/2008. Stefndi bendir á að í gildistíð ákvæðisins óbreytts, þ.e. þar til ákvæðinu hafi verið breytt með 12. gr. laga nr. 49/2014, hafi tilvitnaðar lagaheimildir „heimilað“ viðkomandi stjórnvöldum að fella rekstrarleyfi úr gildi ef starfsemi á grundvelli leyfis væri ekki hafin innan frests. Stefndi mótmælir þeirri túlkun stefnanda að stjórnvöldum hafi verið skylt að fella leyfið úr gildi. Segi enda í frumvarpsgreinargerð með sambærilegu ákvæði laga nr. 83/2001 að tilgangur tímafrestsins hafi verið að koma í veg fyrir að aðilar safni rekstrar­leyfum í þeim tilgangi að koma þeim síðar í verð, án þess að ætla sér sjálfir starfsemi. Ljóst sé að aldrei hafi neitt slíkt verið á ferðinni hvað stefnda varðar. Hvað varðar réttarstöðu stefnda frá gildistöku laga nr. 49/2014 sé því hins vegar til að svara að líkt og rakið sé í greinargerð stefnda Matvælastofnunar þá hafi stefndi fengið viðvörun frá Matvælastofnun um að hefja þyrfti starfsemi innan þriggja ára frá gildistöku breytingalaganna, þ.e. til að ljúka undirbúningi eldis. Þá hafi stefnda verið veittur 12 mánaða frestur til úrbóta með bréfi 11. maí 2016, eins og gert sé ráð fyrir í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 71/2008, sem sé matskennt ákvæði sett í þeim tilgangi að svigrúm sé fyrir rekstraraðila til að hefja starfsemi sína, ef málefnalegar ástæður eru fyrir því að hún sé ekki þá þegar hafin. Stefndi hafi sett fyrstu seiðin út í sjókvíar sínar í Reyðarfirði vorið 2017, en hafi þá fjárfest í og komið fyrir eldisbúnaði, alið seiði og gripið til allra nauðsynlegra ráðstafana til að sjósetja mætti þau seiði. Augljóslega séu seiði ekki sett út á fyrsta degi eftir að nauðsynlegra leyfa hafi verið aflað, heldur kosti slíkt yfirlegu og undirbúning. Stefndi hafi látið engan tíma fara til spillis við undirbúning starfsemi í Reyðarfirði og hafi hlutaðeigandi stjórnvöldum verið alveg ljóst að sá undir­búningur væri í fullum gangi, sbr. bréf Matvælastofnunar 24. júní 2017, og hafi því enga ástæðu séð til að afturkalla rekstrarleyfi vegna tafa við framkvæmdir. Rekstrarleyfið hafi verið í gildi frá útgáfu og aldrei hafi verið skilyrði eða ástæður til afturköllunar. Þá hafi legið ljóst fyrir að áætlanir stefnda hafi alltaf miðað við að framleiðsla yrði komin á fullt skrið á árinu 2018, en ekki fyrr, og hafi öll hlutaðeigandi stjórnvöld verið upplýst um það allan tímann. Þá sé einnig ljóst, og megi telja óumdeilt, að athöfn viðkomandi stjórnvalds, nú Matvælastofnunar, þurfi til svo að rekstrarleyfi verði fellt úr gildi á þessum grundvelli. Það færi því gegn þrígreiningu ríkisvalds að dómstóll ógilti rekstrarleyfi á þeirri forsendu sem krafist er í stefnu málsins, gegn vilja stjórnvaldsins. Enda sé það ekki hlutverk dómstóla að taka stjórnvalds­ákvarðanir. Í fjórða lagi mótmælir stefndi því að málsmeðferðarreglur hafi verið brotnar við veitingu rekstrarleyfis, sem varði ógildingu þess. Stefndi hafnar alfarið því að Fiskistofa hafi átt að láta fara fram sjálfstæða rannsókn á hugsanlegum spjöllum á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra, og þar sem það hafi ekki verið gert hafi verið brotið gegn rannsóknar­reglu með svo alvarlegum hætti að það varði ógildingu rekstrarleyfis. Stefndi telur að það hafi ekki verið hlutverk Fiskistofu eða síðar stefnda Matvælastofnunar að láta slíkt mat fara fram, enda sé gert ráð fyrir því að umsókn um rekstrarleyfi fylgi ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu sömu framkvæmdar, sbr. lokamálslið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 71/2008. Það sé vitaskuld gert í því skyni að fyrir liggi mat Skipulagsstofnunar á því hvort sama framkvæmd sé háð mati á umhverfisáhrifum og því ekki hlutverk stjórn­valdsins sem veitir rekstrarleyfið, þá Fiskistofu og nú stefnda Matvælastofnunar, að endurskoða niðurstöðu um það. Með því m.a. að kanna ákvörðun Skipulags­stofnunar um matsskyldu hafi þar með rannsóknarskyldu Fiskistofu verið að þessu leyti fullnægt. Einnig mótmælir stefndi því að veita beri hagsmunaaðilum andmælarétt við útgáfu á rekstrarleyfum og að þar sem það hafi ekki verið gert sé leyfið ógildanlegt. Stefndi byggir á því að aðeins aðilar máls njóti andmælaréttar samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga. Stefnandi, eða aðilar að stefnanda, hafi ekki átt aðild að veitingu rekstrarleyfisins og átt þ.a.l. engan andmælarétt. Tilskipun sem stefnandi vísi til í stefnu hafi ekki verið innleidd í íslenskan rétt og sé því marklaus rökstuðningur stefnanda um að rýmri aðild en almennt gildir í stjórnsýslurétti hafi átt við um ákvörðun um veitingu rekstrarleyfisins. Þá hafi ekki hvílt skylda á Fiskistofu að veita hagsmunaaðilum andmælarétt á grundvelli tilskipunar 2011/92/ESB, líkt og haldið sé fram í stefnu, enda hafi við innleiðingu tilskipunarinnar með lögum nr. 138/2014 aðeins verið breytt reglum um umsagnarrétt við ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum. Þá mótmælir stefndi þeirri málsástæðu stefnanda að stjórnvöld hafi ekki sinnt „þeirri skyldu að rannsaka, fjalla um og bera saman aðra valkosti, sem til greina koma varðandi framkvæmdina.“ Stefndi byggir á því að engin skylda til slíks samanburðar valkosta hafi hvílt á Fiskistofu vegna veitingar rekstrarleyfis eða á stefnda. Í fyrsta lagi hafi legið fyrir mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2002, sem byggðist á eldra mati og hafi ekki verið hnekkt á nokkurn hátt þegar rekstarleyfi var veitt. Í öðru lagi hafi, þegar það umhverfismat var gert, ekki verið til að dreifa þeim reglugerðarákvæðum eða lagaákvæðum sem stefnandi vísi til. Í þriðja lagi hafi Skipulagsstofnun, þegar rekstrarleyfið var veitt, nýtekið ákvörðun um að framkvæmdin skyldi ekki sæta nýju mati á umhverfisáhrifum. Það hafi ekki verið hlutverk Fiskistofu að endurskoða þá ákvörðun. Jafnframt segir stefndi að leiðrétta verði það sem fram kemur í stefnu um að rekstrarleyfið hafi verið framlengt. Hið rétta sé að rekstrarleyfið hafi gilt allt frá útgáfu þess árið 2012 og sé markaður 10 ára gildistími og hafi því enn ekki komið til þess að íhuga hvort það skuli framlengt. Samkvæmt öllu framangreindu byggir stefndi því á því að málsmeðferð við veitingu rekstrarleyfisins hafi verið með öllu forsvaranleg og fráleitt slíkum annmörkum háð að varði ógildingu. Þvert á móti hafi við veitingu leyfisins verið farið að gildandi lögum og reglum og leyfið gefið út í samræmi við það. Í fimmta lagi telur stefndi málsástæðu stefnanda um að ekki sé fyrir hendi sérstök lagaheimild til ráðstöfunar hafsvæðis til reksturs sjókvíaeldis samkvæmt rekstrarleyfi augljóslega haldlausa og mótmælir henni. Rekstrarleyfið hafi verið veitt á grundvelli laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Í 2. mgr. 8. gr. laganna komi fram að með umsókn um rekstrarleyfi skuli fylgja skilríki fyrir heimild til afnota af landi, vatni og sjó. Hafsvæði, innan efnahagslögsögu en utan netlaga, teljist til hafalmenninga sem enginn geti talið til beinna eignarréttinda yfir, en jafnframt til forráðasvæðis íslenska ríkisins, sbr. lög nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Þar komi fram að innan efnahags­lögsögunnar hafi íslenska ríkið fullveldisrétt og ákvörðunarvald hvað varðar m.a. efnahagslega nýtingu og hagnýtingu auðlinda, sbr. 3. og 4. gr. Ríkið hafi því heimild til að leyfa, með lögum og í skjóli fullveldisréttar, tiltekna nýtingu hafsvæða innan hafalmennings. Þetta hafi löggjafinn gert með lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, þar sem fram komi í 2. gr. að lögin taki til eldis vatnafiska og nytjastofna sjávar á íslensku forráðasvæði. Það sé því bæði skýrt og afdráttarlaust að íslenska ríkið hafi með lögum, og í skjóli fullveldisréttar síns innan efnahagslögsögunnar, ákveðið að heimila megi fiskeldi í hafalmenningi á grundvelli laga nr. 71/2008. Í sjötta lagi mótmælir stefndi því að útgáfa rekstrarleyfis muni „valda verulegum og óafturkræfum skaða á öllum villtum laxastofnum í öllum ám Austfjarða á stuttum tíma og […] í stórhættu alla villta laxastofna landsins á fáum árum.“ Stefndi hafnar því að brotið sé gegn bæði náttúruverndarlögum nr. 60/2013 og lögum nr. 71/2008. Allar staðhæfingar stefnanda um þetta séu ósannaðar og byggðar á heimsendaspám sem eigi sér engan vísindalegan grundvöll. Í nýrri rannsóknum en stefnandi kjósi að leggja fram séu fullyrðingar sem hann byggir á hraktar. Stefndi vísar í þessu sambandi einkum til skýrslu Ragnars Jóhannssonar, Sigurðar Guðjónssonar, Agnars Steinarssonar og Jóns Hlöðvers Friðrikssonar um Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi frá júlí 2017, og einnig til skýrslu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi, dags. 21. ágúst 2017. Tekin hafi verið rökstudd afstaða til væntra umhverfisáhrifa vegna starfsemi stefnda á grundvelli rekstrarleyfisins, í lögboðnu umhverfismatsferli, og í engu hafi niðurstaðan verið í líkingu við það sem stefnandi geri að forsendu fyrir málsókn sinni. Niðurstaða stjórnvalda hafi ekki verið hrakin með neinum rökum sem standist skoðun. Þá hafi, sem fyrr segir, verið staðið að stefnumótun um fiskeldi við Ísland þar sem haft hafi verið að leiðarljósi að gæta þurfi jafnvægis milli ólíkra hagsmuna. Þetta mál sé í raun höfðað til höfuðs þeirri stefnumótun. Það sé almennt ekki hlutverk dómstóla að fella gildisdóma um slíka stefnumótun. Í sjöunda lagi segir stefndi, um þá málsástæðu stefnanda í stefnu málsins að „afar sterkar líkur“ standi til þess að starfsemi stefnda í Reyðarfirði „muni skaða verulega hagsmuni af nýtingu laxveiðihlunninda þeirra aðila sem að stefnanda standa“, að stefnda sé ekki alveg ljóst á hverju stefnandi byggir, enda komi í stefnu aðeins fram almennar hugleiðingar stefnanda um meint tjón á hagsmunum aðila að stefnanda og hugsanlega bótaskyldu ótilgreindra aðila vegna þess meinta tjóns og að ekki hafi verið hugað að því við útgáfu leyfisins. Stefndi mótmælir þessum hugleiðingum stefnanda og áréttar að ómögulegt sé að átta sig á hvernig, með lögfræðilegum rökum, þessar hugleiðingar eigi að geta leitt til þess að fallist yrði á kröfur stefnanda. Stefndi kveðst hafa fjárfest gríðarlega í uppbyggingu laxeldis í Reyðarfirði, á grundvelli rekstrarleyfisins. Í húfi séu stórkostlegir hagsmunir, bæði fyrir stefnda, starfsmenn stefnda, nærumhverfið á Austfjörðum og þjóðarbúið allt sem mæli eindregið með því að starfsemi stefnda fái að halda áfram. Þá njóti hagsmunir stefnda og réttindi hans samkvæmt rekstrarleyfinu verndar bæði eignarréttar- og atvinnufrelsisákvæða stjórnarskrárinnar, sbr. 72. og 75. gr. Rekstrarleyfið hafi verið veitt í samræmi við lög, sem sett hafi verið að undangengnu hagsmunamati löggjafans um jafnvægi ólíkra sjónarmiða, og að undangenginni langri og vandaðri málsmeðferð þar sem gætt hafi verið að umhverfisáhrifum og varúðar­ráðstöfunum. Fráleitt sé að aðilar, sem hafi í engu látið sig málið varða fyrr en löngu síðar, geti svipt grundvellinum undan slíkum réttindum með ósönnuðum og órökstuddum staðhæfingum, sem að auki varði miklu frekar við stefnumótun til framtíðar en þegar veitt leyfi. Þá bendir stefndi á að lagaumhverfi fiskeldis við Ísland hafi verið í mikilli endurskoðun á allra síðustu misserum, á vettvangi stjórnmála og hagsmuna­samtaka. Það sé rétti vettvangurinn fyrir skoðanaskipti um ólík sjónarmið. Afrakstur þeirrar stefnumótunar sé m.a. frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi, sem ekki hafi verið lagt fram heldur kynnt opinberlega til umsagnar, þar sem gert sé ráð fyrir að metin verði sérstaklega hætta á erfðablöndun eldislax við villta nytjastofna og að það mat verði meðal þess sem lagt skuli til grundvallar við ákvörðun um veitingu leyfa til eldis. Hafrannsóknastofnun hafi þegar lagt grunninn að slíku áhættumati í skýrslu sem kom út sumarið 2017. Í því mati, sem stefndi telur að byggist á mun varfærnari forsendum en vísindaleg gögn gefi tilefni til, sé niðurstaða Hafrannsóknastofnunar að framleiðsla í Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði skuli ekki fara yfir 15.000 tonn. Það rekstrarleyfi sem krafist sé ógildingar á í þessu dómsmáli hljóði upp á 6.000 tonn, sem sé langt innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnun telur forsvaranlega áhættu af vegna mögulegrar erfða­blöndunar í sínu afskaplega varfærna mati. Stefndi mótmælir málsástæðu stefnanda um að starfsmaður stefnda Matvælastofnunar hafi verið vanhæfur og telur hana of seint fram komna. Samkvæmt öllu framanrituðu telur stefndi augljóst að verði máli þessu ekki vísað frá dómi beri að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um ógildingu rekstrarleyfis. Jafnvel þó svo að komist verði að þeirri niðurstöðu að stefnandi eigi lögvarða hagsmuni, og jafnvel þótt hugsanlegt verði talið að hann kunni að verða fyrir tjóni vegna starfsemi stefnda, þá leiði það ekki til þess að ógilda beri rekstrarleyfið. Leyfið hafi verið veitt á grundvelli laga að undangenginni pólitískri stefnumörkun og hafi stefndi því stjórnarskrárvarðar væntingar til þess að leyfið haldi. Stefnandi myndi því við þær aðstæður þurfa að beina kröfu að íslenska ríkinu vegna slíks tjóns. Stefndi tekur undir allar málsástæður og rökstuðning stefnda Matvælastofnunar. Þá ítrekar stefndi fyrri sjónarmið um frávísun málsins. Um lagarök vísar stefndi til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, einkum 2. gr., 72. gr. og 75. gr., laga nr. 71/2008 um fiskeldi, laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglna stjórnsýsluréttar, laga nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. IV.                 Stefndi Matvælastofnun telur að sýkna beri stefnda á grundvelli aðildarskorts stefnanda samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála enda geti stefnandi ekki talist eiga aðild að máli um ógildingu rekstrarleyfis til handa þriðja aðila.                 Þá byggir stefndi á því að ákvörðun um umrætt rekstrarleyfi uppfylli form- og efnisskilyrði laga. Ákvörðun um að veita stefnda Löxum fiskeldi ehf. rekstrarleyfi á grundvelli laga nr. 71/2008 um fiskeldi og á grundvelli þágildandi reglugerðar um fiskeldi nr. 401/2012 sé stjórnvaldsákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Skilyrði þess að ógilda megi stjórnvaldsákvörðun sé að ákvörðunin sé haldin annmörkum, þeir annmarkar séu verulegir og að sjónarmið mæli ekki gegn ógildingu. Stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á neitt af þessum skilyrðum og verði því að sýkna stefnda af þeirri ástæðu. Stefndi telur að ákvörðun við útgáfu rekstrarleyfis til stefnda Laxa fiskeldis ehf. uppfylli allar form- og efniskröfur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga nr. 71/2008 um fiskeldi, reglugerðar nr. 401/2012 um fiskeldi sem hafi verið í gildi þegar leyfið var útgefið, núgildandi reglugerðar nr. 1170/2015 og laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Engin lagaskilyrði séu því fyrir hendi til að ákvörðunin verði ógilt, enda á henni engir annmarkar. Stefndi segir að ákvörðun um að leyfa fiskeldi við strendur Íslands sé pólitísk. Reyðarfjörður sé ekki innan svokallaðs skilgreinds friðunarsvæðis, sbr. auglýsingu nr. 460/2004, enda sé laxeldi leyft í Reyðarfirði. Almennt sé viðurkennt að fjörðurinn henti vel til fiskeldis þar sem í firðinum séu engar laxveiðiár. Næstu laxveiðiár við Reyðarfjörð séu ár fyrir norðan sem renni í Vopnafjörð og í hina áttina Rangárnar á Suðurlandi. Í Breiðdalsá hafi verið stundaðar seiðasleppingar í þeirri von að ná þar upp laxveiði en þar sé ekki náttúrulegur laxastofn. Eldissvæði í Reyðarfirði séu í mikilli fjarlægð frá þessum ám og mun lengra frá laxveiðiám en áskilið sé í reglugerð nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna. Gönguleiðir laxfiska séu því hvergi nærri laxeldi Laxa fiskeldis ehf. í Reyðarfirði. Samkvæmt málatilbúnaði stefnanda ferðist lax réttsælis með hafstraumum og ef gengið er út frá því sem réttu sé verulega óvíst og nánast útilokað að lax sem myndi sleppa í Reyðarfirði myndi nokkurn tímann rata í þær ár sem stefnandi telur vera í hættu. Lög nr. 71/2008 um fiskeldi séu í samræmi við stefnu stjórnvalda um að leyfa fiskeldi á ákveðnum stöðum á landinu en í 1. mgr. 1. gr. laganna komi m.a. fram að til þess að koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra „skuli tryggt að eldisbúnaður og framkvæmd sjókvíaeldis standist ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó.“ Mælt sé fyrir um fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif fiskeldis. Þá komi fram í 2. mgr. 18. gr. laganna að ef sannað þyki að missir eldisfisks úr fiskeldisstöð valdi tjóni á hagsmunum veiðiréttarhafa, sem verndar njóti samkvæmt lax- og silungsveiðilögum, skuli viðkomandi rekstrarleyfishafi bæta tjónið á grundvelli mats samkvæmt VII. kafla laga um lax- og silungsveiði. Hið sama gildi um tjón annarra þeirra sem hafbeit, fiskeldi eða fiskrækt stundi. Þar með sé ljóst að ekki verði komið í veg fyrir slysasleppingar vegna fiskeldis en leitast sé við að koma í veg fyrir þær með bestu tækni á hverjum tíma. Þá sé búið að mæla fyrir um bótarétt þeirra sem verði fyrir tjóni vegna hugsanlegra slysasleppinga. Þar með sé búið að ákveða að heimila fiskeldi á ákveðnum stöðum við landið þrátt fyrir ákveðna áhættu sem því fylgi. Lögum og reglum hafi verið fylgt við leyfisveitingar, en það hafi verið gert við útgáfu rekstrarleyfis til Laxa fiskeldis ehf. Það sé ekki á valdsviði dómstóla að kveða á um ógildingu slíks leyfis. Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda að það að leyfilegir eldisstofnar hafi ekki verið sérstaklega tilgreindir í rekstrarleyfi leiði til ógildingar leyfisins. Lagt hafi verið til grundvallar við útgáfu rekstrarleyfis að notaður yrði lax af SAGA-stofni við eldið, enda komi það skýrt fram í greinargerð Laxa fiskeldis ehf. með tilkynningu til Skipulagsstofnunar. Þannig segi á bls. 4: „Notast verður við Sagalax sem ræktaður hefur verið hér á landi frá árinu 1984 og hentar sérlega vel í eldi. Framkvæmdaraðilar hafa nokkurra ára reynslu af ræktun Sagalax í Berufirði.“ Á bls. 16 komi þetta fram: „Laxinn sem fyrirhugað er að nota við eldið hefur verið ræktaður hér á landi frá árinu 1984 og hefur verið dreift á eldisstöðvar um allt land. Laxinn er kynbættur eldislax af norskum uppruna sem framleiddur hefur verið af Stofnfiski undir heitinu Sagalax og er ræktun hans ein helsta forsenda fyrir samkeppnishæfni íslenskra framleiðenda á markaði. Helstu samkeppnislönd ala lax þessarar gerðar þar sem hann hentar einstaklega vel í eldi. Stofnfiskur hefur unnið mikið þróunarstarf og hefur aðlagað laxinn að íslenskum aðstæðum.“ Þá segi á bls. 3 í ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 8. júní 2011: „Fram kemur að Laxar fiskeldi ehf. muni nota kynbættan íslenskan eldislax af norskum uppruna …“ Á bls. 9 segi: „Við málsmeðferð Skipulagsstofnunar hefur komið fram að almennt kunni helstu umhverfisáhrif af laxeldi Laxar fiskeldis ehf. að stafa af laxi (af norskum uppruna) …“ Nákvæmar upplýsingar um það hvaða laxastofn yrði notaður við laxeldi Laxa fiskeldis ehf. hafi því legið skýrt fyrir við leyfisveitinguna bæði hjá Skipulagsstofnun og stefnda. Rekstrarleyfið hafi verið gefið út á þeim forsendum að notaður yrði Sagalax-stofn við eldið en enginn annar stofn. Stefndi Laxar fiskeldi ehf. hafi því látið framleiða og alið seiði af Sagalax-stofni og hafi sjósetning seiðanna af þessum stofni farið fram. Þetta sé sami laxastofn og notaður sé í öllu sjókvíaeldi við strendur Íslands. Sá annmarki á rekstrarleyfi að ekki hafi verið tilgreint sérstaklega hvaða laxastofn yrði notaður sé fráleitt þess eðlis að það leiði til ógildingar þess, enda sé hvorki um verulegan annmarka að ræða né mæli rök með ógildingu leyfisins. Kæmi til þess að stefndi Laxar fiskeldi ehf. létu framleiða fyrir sig seiði af öðrum stofni eða settu út seiði af öðrum stofni í sjókvíar sínar, væri um brot á skilyrðum leyfisins að ræða og stefndi gæti fellt leyfið úr gildi. Þá mótmælir stefndi því að Fiskistofu, og síðar stefnda, hafi verið skylt að fella rekstrarleyfi stefnda Laxa fiskeldis ehf. úr gildi þar sem starfsemin hafi ekki verið hafin, á grundvelli 15. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Í ákvæðinu, eins og það sé nú, sé mælt fyrir um hvernig rekstrarleyfi verði fellt úr gildi ef leyfishafar hefja ekki rekstur innan ákveðins tíma. Ákvæðið hafi tekið umtalsverðum breytingum frá því Fiskistofa gaf út rekstrarleyfi til Laxa fiskeldis ehf. hinn 15. mars 2012. Þegar Fiskistofa gaf út rekstrarleyfi til Laxa fiskeldis ehf. hinn 15. mars 2012 hafi ákvæði 15. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi verið svohljóðandi: „Ef fiskeldisstöð hefur ekki innan 24 mánaða frá útgáfu rekstrarleyfis hafið starfsemi í samræmi við 8. gr. er Fiskistofu heimilt að fella rekstrarleyfið úr gildi. Sama gildir ef starfsemi fiskeldis-stöðvar stöðvast í 24 mánuði. Áður en gripið er til afturköllunar leyfis skv. 1. mgr. skal Fiskistofa ávallt veita rekstrarleyfishafa skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta.“ Í athugasemdum með frumvarpi til laganna segi að ákvæðið eigi sér samsvörun í eldri lögum. Tilgangurinn með ákvæðinu hafi samkvæmt athugasemdum með sambærilegu ákvæði sem kom fyrst í lög nr. 76/1970, með lögum nr. 83/2001, verið að sporna við því að fiskeldisstöðvar afli sér rekstrarleyfa ef ekki er fyrirhugaður raunverulegur rekstur á grundvelli leyfisins. Þá segi í athugasemdum við eldri ákvæði að fiskeldi sé takmörkuð auðlind og því nauðsynlegt að koma í veg fyrir að aðilar helgi sér staði víðs vegar um landið sem hagkvæmir eru til starfsemi fiskeldis án þess að hafa í hyggju að nýta sér þá aðstöðu og takmarka þannig aðgang að henni. Nokkur umræða hafi verið um að hætta sé á að aðilar vilji safna rekstrarleyfum í þeim tilgangi að auðvelt verði að koma þeim í verð síðar en með frumvarpinu sé hins vegar girt fyrir þennan möguleika þar sem bann verði við framsali, leigu og veðsetningu rekstrarleyfa. Þannig hafi samkvæmt ákvæðinu, eins og það var 15. mars 2012, verið „heimild“ fyrir Fiskistofu að fella leyfi úr gildi ef starfsemin væri ekki hafin fyrir 15. mars 2014, en alls ekki skylda. Eins og fram komi í 2. mgr. ákvæðisins hafi Fiskistofu borið að gefa skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta áður en hægt væri að fella gilt rekstrarleyfi úr gildi. Slíkt hafi ekki verið gert af hálfu Fiskistofu. Stefndi Laxar fiskeldi ehf. hafi fjárfest í eldisbúnaði, seiðaeldisstöðvar byggðar upp, alin hafi verið upp seiði o.fl., allt í þeim tilgangi að nýta rekstrarleyfi til sjókvíaeldis í Reyðarfirði, og starfsemin því hafin löngu áður en fyrstu laxaseiði voru sett í sjókvíar. Stefnda sé ekki kunnugt um að Fiskistofa hafi fellt niður rekstrarleyfi til fiskeldis á grundvelli forsendubrests. Fiskistofu hafi engin skylda borið til að hafast að gagnvart stefnda Löxum fiskeldi ehf. samkvæmt þeim lögum sem giltu meðan sú stofnun fór með stjórnsýslu þessara mála og af þeim sökum hafi félagið verið með gilt rekstrarleyfi 1. janúar 2015, þegar breytingar á lögum nr. 71/2008 tóku gildi og stefndi tók við stjórnsýsluverkefnum Fiskistofu samkvæmt lögunum. Stefndi bendir á að ákvæði 15. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi hafi verið breytt með 12. gr. laga nr. 49/2014 og hljóði nú fyrri tveir málsl. 1. mgr. svo, en 2. mgr. sé óbreytt nema að stefndi Matvælastofnun sé þar tilgreind í stað Fiskistofu: „Ef fiskeldisstöð hefur ekki innan þriggja ára frá útgáfu rekstrarleyfis hafið starfsemi í samræmi við rekstraráætlun sem fylgdi umsókn samkvæmt ákvæðum 8. gr. skal Matvælastofnun fella rekstrarleyfið úr gildi. Matvælastofnun getur veitt undanþágu frá 1. málsl. ef málefnaleg sjónarmið búa að baki töfinni, þó ekki lengur en 12 mánuði. […].“ Með lögunum hafi stjórnsýsla með fiskeldi, þ.m.t. leyfisveitingar, verið færð frá Fiskistofu til stefnda, frá og með 1. janúar 2015, sbr. 23. gr. laga nr. 49/2014. Lögin tóku að öðru leyti en varðar breytingu á lögum um fiskeldi nr. 71/2008 gildi þann 29. maí 2014. Þar sem áður hafi verið heimild fyrir stjórnvöld til að fella niður rekstrarleyfi á grundvelli forsendubrests væri nú skylda. Með þeirri breytingu sem hafi orðið á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi með 12. gr. laga nr. 49/2014 hafi stefndi þurft að taka afstöðu til rekstrarleyfa sem voru í gildi. Það hafi þurft að meta hvaða áhrif hið nýja ákvæði um skyldu til niðurfellingar leyfis hefði og við hvaða tímamark ætti að miða. Mat stefnda hafi verið byggt á almennum sjónarmiðum um lagaskil og þeirri meginreglu að íþyngjandi lögum eða lagaákvæðum sé ekki beitt afturvirkt. Við matið hafi stefndi talið rétt að líta til væntinga allra rekstrarleyfishafa, þ.m.t. stefnda Laxa fiskeldis ehf., sem ekki höfðu fengið senda viðvörun eins og lagaáskilnaður hafi verið um og þar með tækifæri til að komast hjá því að rekstrarleyfi yrði e.t.v. fellt úr gildi. Hefði verið byggt á því af stefnda að um forsendubrest væri að ræða strax í kjölfar lagabreytingar, hefði verið um mjög íþyngjandi og óréttmæta kröfu að ræða gagnvart rekstarleyfishöfum. Uppbygging sjókvíaeldis taki umtalsverðan tíma og kalli á miklar fjárfestingar, bæði í sjókvíabúnaði og framleiðslu seiða. Þá hafi sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti verið lögð til grundvallar, m.a. að gera leyfishöfum kleift að skipuleggja rekstur og fjárfestingar án þess að eiga að hættu að nýjar lagareglur myndu gjörbreyta því hvernig litið yrði á forsendubrest sem og hvaða afleiðingar slíkt hefði á rekstrarleyfi.  Við gildistöku laga nr. 49/2014, hinn 29. maí 2014, hafi verið í gildi rekstrarleyfi stefnda Laxa fiskeldis ehf. fyrir 6.000 tonna sjókvíaeldi. Stefndi Laxar fiskeldi ehf. hafi því mátt hafa réttmætar væntingar til þess að leyfið yrði ekki fellt úr gildi fyrr en í fyrsta lagi þremur árum eftir gildistöku breytinga á lagareglunni, þar sem kveðið hafi verið á um skyldu til niðurfellingar leyfis á þeim grundvelli að starfsemi væri ekki hafin. Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum um lagaskil, réttmætum væntingum, að íþyngjandi lagaákvæðum verði ekki beitt afturvirkt og að teknu tilliti til vandaðra stjórnsýsluhátta, hafi það verið niðurstaða stefnda að veita stefnda Löxum fiskeldi ehf. svigrúm í þrjú ár frá gildistöku laga nr. 49/2014, til að ljúka við uppbyggingu á fiskeldi samkvæmt útgefnu rekstrarleyfi. Stefndi telur að lagarök hefðu verið til þess að miða við þrjú ár frá því að breyting á 15. gr. tók gildi, þ.e. 1. janúar 2015, en engu að síður hafi verið ákveðið af stefnda að miða við almenna gildistöku laganna hinn 29. maí 2014. Ákvörðun þessi hafi verið tilkynnt með bréfi, dags. 11. maí 2016, og stefnda Löxum fiskeldi ehf. gefinn 12 mánaða skrifleg viðvörun og frestur til úrbóta í samræmi við 2. mgr. 15. gr. laga nr. 71/2008. Rekstrarleyfi það sem krafist sé ógildingar á hafi miðað við framangreint verið í gildi frá útgáfu þess og engin lagaskilyrði verið fyrir afturköllun þess. Leyfið hafi ekki runnið út 15. mars 2014 eða síðar né hefði átt að fella það úr gildi eins og stefnandi heldur fram. Rekstrarleyfið hafi aldrei verið framlengt enda gildi það til 15. mars 2022. Ákvörðun stefnda um að veita skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta hafi ekki verið látin fyrirfarast en ómögulegt hafi verið vegna ákvæða 2. mgr. 15. gr. og almennra reglna stjórnsýsluréttar að fella leyfið niður án þess að veita skriflega viðvörun og hæfilegan frest til þess að hefja starfsemina. Hafa verði í huga þær miklu fjárfestingar og undirbúningstíma sem laxeldi krefjist. Skrifleg viðvörun hafi verið send og veittur frestur til 29. maí 2017 af stefnda. Stefndi Laxar fiskeldi ehf. hafi hafið starfsemi fyrir þann tíma og fyrstu seiðin verið sett út við Gripalda hinn 25. júní 2017. Rekstrarleyfið sé því í fullu gildi. Benda megi á í þessu sambandi að stefndi hafi heimild til að veita undanþágu frá þriggja ára frestinum í 12 mánuði til viðbótar þriggja ára frestinum ef málefnaleg sjónarmið búa að baki töfinni, sbr. 2. málslið 1. mgr. 15. gr. laga nr. 71/2008. Stefndi hafnar þeirri fullyrðingu stefnanda að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin. Stefndi telur að ekki sé með nokkrum hætti hægt að túlka 1. gr. laga nr. 71/2008 þannig að Fiskistofa eða stefndi hafi átt að framkvæma sjálfstæða rannsókn á þeim atriðum sem þar eru tilgreind. Í 1. mgr. 8. gr. laganna komi fram að með umsókn um rekstrarleyfi skuli fylgja afrit af ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin sé ekki matsskyld. Ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi fylgt með umsókn Laxa fiskeldis ehf. þegar sótt hafi verið um rekstrarleyfi, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Stefndi hafi kynnt sér ákvörðun Skipulagsstofnunar og álit um mat á umhverfisáhrifum frá 2002 áður en rekstrarleyfi var gefið út. Í rekstrarleyfi hafi verið kveðið á um allt sem beri að taka fram í slíku leyfi, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 71/2008, utan leyfilegrar tegundar í eldi. Þá hafi verið tekið fram í leyfinu að það væri háð skilyrðum reglugerða og annarra stjórnvaldsreglna, sem kunni að verða settar á grundvelli laga um fiskeldi. Stefndi mótmælir jafnframt þeirri málsástæðu stefnanda að þrátt fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum, hafi framkvæmdin verið háð mati á umhverfisáhrifum. Stefndi bendir á að fram hafi farið mat á umhverfisáhrifum vegna 6.000 tonna laxeldis í Reyðarfirði árið 2002 sem Samherji hf. hafi ætlað að framkvæma. Ekki hafi orðið af þeirri framkvæmd en Skipulagsstofnun komist að þeirri niðurstöðu að aðstæður hefðu ekki breyst frá því að matið var framkvæmt og því þyrfti ekki nýtt umhverfismat. Stefnandi hafi hvorki fært fram röksemdir né sýnt fram á með öðrum hætti, þ.m.t. gögnum, að mat Skipulagsstofnunar um að aðstæður hefðu lítið sem ekkert breyst frá því umhverfismatið fór fram, hafi verið rangt eða byggt á röngum eða vafasömum forsendum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi því verið í samræmi við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Einnig mótmælir stefndi því að veita hafi átt hagsmunaaðilum andmælarétt við útgáfu rekstrarleyfis, sbr. IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Tilskipun 2011/92/EBE hafi verið innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 138/2014 og hafi lögum nr. 106/2000 m.a. verið breytt í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Skipulagsstofnun stýri málsmeðferð við mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000. Það ferli sem varði aðkomu almennings að ákvörðunum sem stefnandi vísar til hafi þ.a.l. verið innleitt í lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 með síðari breytingum. Hvorki samkvæmt þeim lögum né lögum nr. 71/2008 um fiskeldi sé mælt fyrir um að auglýsa beri leyfisveitingu áður en leyfi er veitt. Sú aðkoma sem almenningi sé tryggð með framangreindri tilskipun felist í aðkomu á fyrri stigum máls, þ.e. við umhverfismatsferlið. Verði talið að mælt sé fyrir um slíka skyldu í tilskipun hafi stefnda ekki borið að byggja á henni enda hafi hún ekki verið innleidd í íslenskan rétt. Breyting á tilskipun 2011/92/EBE um mat á umhverfisáhrifum hafi verið gerð með tilskipun 2014/52/ESB. Stefndi tekur fram, vegna misskilnings sem virðist gæta af hálfu stefnanda, að íslenska ríkið hafi ekki innleitt tilskipunina frá 2014 í íslenska löggjöf og starfshópur vinni nú að því að semja frumvarp til breytinga á lögum nr. 106/2008. Því sé þ.a.l. mótmælt að tilvitnað ákvæði eða tilskipunin almennt gildi um útgáfu rekstrarleyfis stefnda. Stefndi áréttar mótmæli við þeirri röngu fullyrðingu stefnanda að rekstrarleyfi stefnda Laxa fiskeldis ehf. hafi verið framlengt. Rekstrarleyfið hafi aldrei verið framlengt, heldur hafi það verið í gildi frá útgáfu. Stefnandi eða aðrir hafi því aðeins átt rétt á að koma að athugasemdum við upphaflegt mat á umhverfisáhrifum en ekki við útgáfu rekstrarleyfisins. Hvað varðar samanburð valkosta segir stefndi að engin lagaskylda hafi verið eða sé fyrir hendi að láta fara fram mat á núll kosti við framkvæmd umhverfismats á grundvelli 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000, auk þess sem reglugerð nr. 1123/2005, sem stefnandi vísi til, hafi ekki verið í gildi árið 2002 þegar mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram og hafi þ.a.l. ekki getað átt við um matið. Því hafi hvorki Samherja hf. né Löxum fiskeldi ehf. borið að láta fara fram mat á núll kosti. Þá bendir stefndi á rekstrarleyfið frá 15. mars 2012, sem sé grundvöllur að starfsemi stefnda Laxa fiskeldis ehf. við sjókvíaeldi í Reyðarfirði, sé ívilnandi stjórnvaldsákvörðun byggð á lögum, tekin í kjölfar ákvörðunar Skipulagsstofnunar 8. júní 2001 um að ekki þyrfti nýtt mat á umhverfáhrifum þar sem aðstæður hefðu ekki breyst frá undangengnu umhverfismati samkvæmt lögum nr. 106/2000 með síðari breytingum. Leyfið myndi grunn að atvinnuréttindum stefnda Laxa fiskeldis ehf. sem séu stjórnarskrárvarin, sbr. 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Leyfið teljist því til eignarréttinda stefnda í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Engin vanræksla sem valdi ógildingu rekstrarleyfisins hafi átt sér stað heldur hafi það verið gefið út í samræmi við þágildandi lög og reglur. Enn fremur mótmælir stefndi þeirri málsástæðu stefnanda að ekki standi lagaheimild til ráðstöfunar hafsvæðis undir fiskeldi á þeim grundvelli að íslenska ríkið fari með eignarráð yfir hafinu svo langt sem fullveldisréttur Íslands nær. Stefndi telur að ákvæði laga nr. 73/1990 séu skýr um að þau taki einungis til auðlinda hafsbotnsins og eigi ekki við eignarrétt ríkisins yfir hafinu á sama svæði, sbr. meðal annars 1. og 2. gr. laganna. Það sé því ljóst að gildissvið laganna nái ekki til nýtingar hafsvæðis undir fiskeldi og að þau eigi ekki við í máli þessu. Rekstrarleyfi sem um ræðir hafi verið veitt á grundvelli laga, þ.e. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Með leyfinu hafi verið heimilað fiskeldi utan netlaga á svæði sem sé ekki undirorpið beinum eignarrétti íslenska ríkisins eða annarra. Í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 71/2008 komi fram að með umsókn um rekstrarleyfi skuli fylgja skilríki um heimild til afnota af landi, vatni og sjó. Hafsvæði utan netlaga teljist ólíkt auðlindum hafsbotnsins til hafalmenninga sem enginn geti talið til beinna eignarréttinda yfir, sbr. t.d. 52. kapítula Landsleigubálks Jónsbókar sem sé í gildi. Um sé að ræða forráðasvæði íslenska ríkisins, sbr. lög nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Þar komi fram að innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar hafi íslenska ríkið m.a. fullveldisrétt að því er varðar hagnýtingu auðlinda í hafinu, lífrænna og ólífrænna, svo og aðrar athafnir varðandi efnahagslega nýtingu og rannsóknir innan svæðisins, sbr. 3. og 4. gr. laganna. Ríkið hafi því heimild til að setja lög og reglur sem gilda á svæðinu, þar með talið um nýtingu auðlinda.  Löggjafinn geti í skjóli fullveldisréttar síns leitt í lög ákvæði um nýtingu innan hafalmenninga og þannig undanskilið eða takmarkað réttindi almennings. Lög nr. 71/2008 um fiskeldi séu dæmi um slíka löggjöf, en sem önnur dæmi megi nefna lög nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og fyrrgreind lög nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins. Fram komi í 2. gr. laga nr. 71/2008 að þau taki til eldis vatnafiska og nytjastofna sjávar á „íslensku forráðasvæði“. Í 3. gr. laganna sé meðal annars að finna skilgreiningu á hugtakinu sjókvíaeldissvæði sem firði eða afmörkuðu hafsvæði fyrir sjókvíaeldi. Í 5. gr. laganna sé fjallað um heimildir ráðherra til að ákveða skiptingu fiskeldissvæða meðfram ströndum landsins og í 6. gr. heimildir til að takmarka eða banna veiðar á tilteknum svæðum. Hafi það verið gert með auglýsingum um friðunarsvæði, nr. 226 frá 15. mars 2001 og nr. 460 frá 27. maí 2004. Að sama skapi mæli lögin fyrir um leyfisveitingar stjórnvalda til starfseminnar og um eftirlit með henni. Samkvæmt framangreindu telur stefndi það engum vafa undirorpið að lög nr. 71/2008 geri ráð fyrir að fiskeldi geti farið fram á hafsvæði innan íslensks forráðasvæðis. Það sé því til staðar fullnægjandi lagaheimild til starfseminnar og verði með engu móti séð að hún stangist á við stjórnarskrá. Um sé að ræða svæði sem ekki sé undirorpið beinum eignarrétti, en í samræmi við einkarétt íslenska ríkisins til að setja lög innan íslensks forráðasvæðis hafi verið ákveðið að heimila fiskeldi og samhliða afnot af hafsvæðum með sérstökum lögum. Hvers konar lagaáskilnaður sem felst í stjórnarskránni eða meginreglum stjórnskipunarréttar sé því uppfylltur, enda hafi íslenska ríkið í samræmi við einkarétt sinn til að setja lög heimilað fiskeldi á ákveðnum svæðum og samhliða afnot af hafsvæði. Stefndi telur vart séð hvernig ákvæði 2. mgr. 40. gr. stjórnarskrárinnar eigi hér við, enda ekki um að ræða afnot af fasteign í skilningi laga. Stefndi telur að röksemdir stefnanda séu því marki brenndar að þær grundvallist á almennri andstöðu hans við fiskeldi hér á landi. Þannig segi í stefnu að útgáfa og „framlenging“ rekstraleyfis fyrir 6.000 tonna laxeldi í Reyðarfirði muni valda verulegum og óafturkræfum skaða á öllum villtum laxa- og silungastofnum í öllum ám Austfjarða á stuttum tíma og muni einnig setja í stórhættu alla villta laxastofna landsins á fáum árum. Stefnandi hafi einkum vísað til ótilgreindra erlendra rannsókna þessu til stuðnings, en þær fræðigreinar og fréttir sem stefnandi hafi lagt fram styðji með engu móti þessar fullyrðingar. Þessum staðhæfingum, sem og öðrum af sama meiði, sé mótmælt sem ósönnum, röngum og villandi enda hafi þær verið hraktar með nýjustu rannsóknum á þessu sviði. Stefndi mótmælir því að starfsemi Laxa fiskeldis ehf. brjóti gegn 1., 2. og 9. gr. náttúruverndarlaga og 1. og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 71/2008. Um þetta vísar stefndi til þess sem áður segir um að starfsemin byggist á sérlögum, lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, og hafi ákvörðun um rekstrarleyfi verið tekin á þeim grunni. Stefndi mótmælir því að starfsemin sé í andstöðu við markmið náttúruverndarlaga og dugi þar að vísa til markmiðsákvæðis laga nr. 71/2008. Stefndi kveður að við umhverfismatsferli, ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki þyrfti nýtt umhverfismat, og þegar tekin hafi verið ákvörðun um leyfisveitingu hafi það verið metið svo að starfsemi stefnda Laxa fiskeldis ehf. samræmdist þessum markmiðum, enda hefði leyfið ella ekki verið veitt. Þá hafi verið sett margvísleg skilyrði fyrir leyfinu, svo sem hvað varðar eldisbúnað og vöktun, sem hafi jafnframt verið í samræmi við þau markmið að vernda umhverfið og villta fiskistofna. Það standist því með engu móti að starfsemin sé í andstöðu við lögin og þau markmið sem að er stefnt. Stefndi leggur áherslu á að tilvitnuð ákvæði eigi það sammerkt að vera „markmiðsákvæði“ viðkomandi lagabálka og séu þau bæði almenn og matskennd. Áhrif markmiðsákvæða séu óbein, þ.e. þau geti haft þýðingu við túlkun á inntaki annarra réttarheimilda en ekki sé unnt að byggja beinan efnislegan rétt á þeim.  Stefndi telur tilvísun stefnanda til varúðarreglu 9. gr. náttúruverndarlaga ekki hafa þýðingu í máli þessu. Líkt og fram komi í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að náttúruverndarlögum komi það „fyrst og fremst til skoðunar þegar óvissa er til staðar eða þekkingarskortur um afleiðingar ákvarðana sem áhrif kunna að hafa á náttúruna.“ Segi svo að ef fyrir liggur „nægileg þekking eða vissa um afleiðingar ákvörðunar verður varúðarreglunni ekki beitt.“ Beri í slíkum tilvikum að „vega og meta mikilvægi ákvörðunar í ljósi neikvæðra afleiðinga hennar.“ Í málinu liggi fyrir ítarlegar upplýsingar um mögulega hættu og afleiðingar sem litið hafi verið til í leyfisferlinu. Þó svo að varúðarregla 9. gr. náttúruverndarlaga gildi einvörðungu þegar tekin er ákvörðun á grundvelli þeirra laga, sé engu að síður um að ræða meginreglu sem höfð sé hliðsjón af. Hafi því verið litið til meginreglunnar, en ákvörðun um leyfið verið tekin á grundvelli laga nr. 71/2008. Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu með öllu að starfsemi sú sem rekstrarleyfið var veitt fyrir hafi fyrir setningu náttúruverndarlaga nr. 60/2013 brotið gegn ákvæðum og meginreglum fyrri náttúruverndarlaga nr. 44/1999 að breyttu breytanda. Þessi málsástæða stefnanda sé óútskýrð með öllu. Því sé ekki hægt að taka afstöðu til hennar og hún vanreifuð í skilningi e-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi vísar til þess að stefnandi taki fram að starfsemi stefnda Laxa fiskeldis ehf. hljóti að fylgja „full bótaskylda“ gagnvart þeim aðilum sem verði að láta af eða draga verulega úr hagnýtingu á fasteignaréttindum sínum. Talið sé að það eigi eitt og sér að leiða til ógildingar rekstrarleyfis. Stefndi kveðst eiga erfitt með að átta sig á þýðingu þessara röksemda fyrir mál þetta, en hún varpi þó ljósi á þá staðreynd að aðilar að stefnanda hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni af völdum starfsemi stefnda og að málsóknin beri mikinn keim af beiðni um lögfræðilega álitsgerð. Sérstök og hlutlæg ákvæði séu um skaðabætur vegna tjóns veiðiréttarhafa af völdum fiskeldis, sbr. 2. og 3. mgr. 18. gr. laga um fiskeldi, og gildi þar meginregla skaðabótaréttarins um að stefnanda beri að sýna fram á og sanna tjón sitt. Það hafi ekki verið gert og því teljist meint tjón ósannað með öllu. Stefndi telur að það séu til staðar sjónarmið sem mæli gegn ógildingu ákvörðunar um veitingu rekstrarleyfis. Það verði að telja óhóflega ósanngjarnt og viðurhlutamikið að ógilda ákvörðunina vegna þess óhagræðis og/eða tjóns sem það geti valdið rekstrarleyfishafa stefnda Löxum fiskeldi ehf. Stefndi Laxar fiskeldi ehf. hafi hafið starfsemi í góðri trú. Félagið hafi sótt um rekstrarleyfi á grundvelli ákvörðunar Skipulagsstofnunar 8. júní 2011 um að framleiðsla á 6.000 tonnum af laxi í sjókvíum í Reyðarfirði væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Rekstrarleyfið hafi verið veitt í samræmi við þágildandi lög og reglur sem stefndi Laxar fiskeldi ehf. byggir atvinnustarfsemi sína á með tilheyrandi kostnaði, sbr. til hliðsjónar 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Ógilding rekstrarleyfis myndi leiða til eyðileggingar mikilla verðmæta sem ekki verði réttlætt nema annmarkar teljist verulega miklir. Verði talið að um einhvers konar annmarka á rekstrarleyfi sé að ræða verði að benda á að þeir séu ekki verulegir og framangreind sjónarmið mæli gegn ógildingu leyfisins. Stefndi áréttar að það sé pólitísk ákvörðun að leyfa fiskeldi í Reyðarfirði og á öðrum völdum stöðum í kringum landið, enda hafi hættan ekki verið metin meiri en svo að áhættumat mæli með auknu fiskeldi, þ. á m. í Reyðarfirði. Stefndi byggir að lokum á því að sýkna verði hann af öllum kröfum stefnanda sakir tómlætis. Aðilar stefnanda hafi haft tök á að koma að athugasemdum við mat á umhverfisáhrifum árið 2002 en ekki gert það. Rekstrarleyfi stefnda Laxa fiskeldis ehf. sem krafist er ógildingar á hafi verið gefið út 15. mars 2012. Stefna málsins hafi verið þingfest í apríl 2017 eða um fimm árum eftir útgáfu leyfisins. Stefnandi hafi látið undir höfuð leggjast að koma að sjónarmiðum og athugasemdum á þeim stigum málsins þar sem hann hafi haft til þess tækifæri samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, auk þess að höfða ekki dómsmál fyrr en hálfum áratug eftir útgáfu leyfisins. Verði því að telja óhjákvæmilegt að stefnandi hafi glatað fyrir tómlæti rétti sínum, teljist hann einhver hafa verið, til að hafa uppi kröfur um ógildingu rekstrarleyfisins. Stefndi mótmælir málsástæðu stefnanda um að starfsmaður stefnda Matvælastofnunar hafi verið vanhæfur og telur hana of seint fram komna. Um lagarök vísar stefndi einkum til 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 71/2008 um fiskeldi, laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglna stjórnsýsluréttar, laga nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, reglugerða nr. 401/2012 og 1170/2015 um fiskeldi, tilskipunar 2011/92/ESB, laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og Árósasamningsins um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð auk almennra sjónarmiða um tómlæti. Krafa stefnda um málskostnað úr hendi stefnanda styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. V. Eins og rakið hefur verið fékk stefndi Laxar fiskeldi ehf. hinn 15. mars 2012 útgefið rekstrarleyfi frá Fiskistofu til að stunda eldi á laxi í sjókvíum í Reyðarfirði, allt að 6.000 tonn af laxi árlega. Með lögum nr. 49/2014, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi, var stjórnsýsla vegna útgáfu rekstrarleyfa og eftirlits með fiskeldi flutt til stefnda Matvælastofnunar. Stefnandi höfðaði mál þetta 4. apríl 2017, rúmum fimm árum eftir að framangreint rekstrarleyfi var gefið út og krefst þess að leyfið verði fellt úr gildi, en stefnandi telur að hlunnindi þeirra veiðifélaga sem eiga aðild að stefnanda muni skerðast ef laxeldið nær fram að ganga, en félögin fara með veiðirétt landeigenda við tilteknar ár á Austfjörðum. Vísar stefnandi í þessu sambandi til hættu sem fylgi slysasleppingum og erfðablöndun laxa. Til grundvallar rekstarleyfi stefnda Laxa fiskeldis ehf. lá ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 8. júní 2011, um að fyrirhuguð 6.000 tonna framleiðsla á laxi í sjókvíum stefnda Laxa fiskeldis ehf. væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar var kæranleg til umhverfisráðherra samkvæmt 14. gr. laga nr. 106/2000 og var kærufrestur til 11. júlí 2011 en enginn aðila stefnanda kærði ákvörðunina. Þá var veiting rekstrarleyfisins til stefnda Laxa fiskeldis ehf. kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi en veiting leyfisins var ekki kærð. Þar sem mjög langt er um liðið frá því að rekstrarleyfið var veitt og vegna réttmætra væntinga leyfishafa þarf mikið að koma til svo að leyfið verði ógilt. Í máli þessu gerðu stefndu aðallega kröfu um að málinu yrði vísað frá dómi þar sem stefnandi hefði ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins en þeirri kröfu stefndu var hafnað með úrskurði dómsins 8. mars 2018. Er ekkert komið fram í málinu sem breytir þeirri niðurstöðu. Þá er hafnað kröfu stefndu um sýknu á grundvelli aðildarskorts. Þrátt fyrir að stefnandi, eða veiðifélögin, hafi ekki verið aðilar að þeirri stjórnvaldsákvörðun að veita rekstrarleyfið getur stefnandi átt aðild að málinu á grundvelli nábýlisréttar. Löggjafinn hefur með lögum nr. 71/2008 sett sérstök lög um fiskeldi og fara þau lög ekki í bága við náttúruverndarlög nr. 60/2013, eða eldri náttúruverndarlög. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi er markmið þeirra að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Skal í því skyni leitast við að tryggja gæði framleiðslunnar, koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýta slíka stofna. Til að ná því markmiði skal tryggt að eldisbúnaður og framkvæmd í sjókvíaeldi standist ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó. Í 2. mgr. 1. gr. er sérstaklega kveðið á um að við framkvæmd laganna skuli þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu. Þá kemur fram í greinargerð með frumvarpi er varð að lögum nr. 71/2008 að markmið með setningu sérstakra laga um fiskeldi sé að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Deilur hafi orðið milli þeirra sem veiðirétt eiga að villtum ferskvatnsfiskstofnum og þeirra sem vilja stunda fiskeldi. Eigi að síður séu bundnar við það vonir að fiskeldi geti eflt atvinnulíf og byggð í landinu og þannig skilað þjóðarbúinu umtalsverðum tekjum, svo sem raun hafi á orðið með öðrum þjóðum. Með gildistöku laganna sé ætlunin því sú að stuðla eftir föngum að möguleikum manna til fiskeldis og setja þeirri atvinnugrein jafnframt skýrar reglur og umgjörð. Á hinn bóginn sé það skýrt að vöxtur og viðgangur atvinnugreinarinnar eigi ekki að gerast á kostnað viðgangs og nýtingar villtra fiskstofna. Í þessari takmörkun felist í raun að þegar ekki fari saman annars vegar hagsmunir þeirra sem veiðirétt eiga samkvæmt lax- og silungsveiðilögum og hins vegar hagsmunir þeirra sem fjallað er sérstaklega um í frumvarpinu víki hinir síðarnefndu. Sjái þessa m.a. stað í 6. gr. um staðbundið bann við starfsemi, 13. gr. um veiðar fisks sem sleppur og í bótareglum 2. og 3. mgr. 18. gr. Aðilar máls þessa hafa lagt fram ýmis gögn um laxeldi og áhrif þess á umhverfið. Samkvæmt þeim gögnum er ljóst að slysasleppingar og erfðablöndun laxa er staðreynd. Löggjafinn hefur beinlínis gert ráð fyrir þessari hættu en um leið sett fiskeldi reglur til að ekki verði röskun á vistkerfi villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra verði ekki stefnt í hættu. Þannig er að finna í lögum um fiskeldi, og reglugerðum settum samkvæmt þeim, ákvæði um rekstrarleyfi til fiskeldis, starfrækslu fiskeldisstöðva, eftirlit og afturköllun rekstrarleyfis. Þá er stjórnvöldum heimilt að ákveða staðbundið bann við starfsemi og ákveða friðunarsvæði í sjó. Einnig er til staðar umhverfissjóður sjókvíaeldis sem hefur það markmið að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis. Með sjóðnum skal m.a. greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður. Ráðstöfunarfé sjóðsins er byggt á árlegri fjárveitingu á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum og arði af eigin fé, en rekstrarleyfishafa sjókvíaeldis ber að greiða árlegt gjald fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða. Gert er ráð fyrir starfsemi eins og laxeldi stefnda Laxa fiskeldis ehf. í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Fiskeldi stefnda Laxa fiskeldis ehf. er ekki innan skilgreinds friðunarsvæðis og með úttekt stefnda Matvælastofnunar 23. júní 2017 var staðfest að stefndi Laxar fiskeldi ehf. stæðist ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldi. Fyrir liggur ítarleg skýrsla Hafrannsóknastofnunar frá 14. júlí 2017 um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi, sem unnin var í samstarfi við erlenda sérfræðinga á sviði stofnerfðafræði. Þar kemur fram að áhættumatið verður sannreynt og uppfært reglulega með viðamikilli vöktun í laxveiðiánum. Frumforsenda greiningarinnar sé að náttúrulegir laxastofnar skaðist ekki. Sé tekið til varúðarsjónarmiða sé miðað við að fjöldi eldislaxa verði ekki meira en 4% í ánum en erfðablöndun verði mun minni. Þá segir í skýrslunni að dreifingarlíkan geri almennt ráð fyrir litlum áhrifum á náttúrulega stofna fyrir utan fjórar ár sem þurfi að vakta sérstaklega, m.a. Breiðdalsá í Breiðdalsvík. Niðurstaða matsins er að ásættanlegt sé að leyfa allt að 71.000 tonna framleiðslu af frjóum eldislaxi hér við land, þar af 21.000 tonn á Austfjörðum, en ársframleiðsla í íslensku laxeldi sé um 10.000 tonn. Helsta ástæðan fyrir þessari niðurstöðu sé sú að eldissvæðin séu í mikilli fjarlægð frá helstu laxveiðiám og laxeldi bannað á mjög stórum hluta strandlengjunnar. Í Noregi og Skotlandi séu eldissvæðin hins vegar í mjög mikilli nálægð við helstu laxveiðiár og því verði blöndunaráhrifin mun meiri í þessum löndum. Til viðbótar séu lagðar til mótvægisaðgerðir til að sporna við erfðablöndun. Samkvæmt þessari skýrslu fær sú fullyrðing stefnanda ekki staðist að rekstrarleyfi stefnda Laxa fiskeldis ehf. fyrir 6.000 tonna laxeldi í Reyðarfirði muni valda „verulegum og óafturkræfum skaða á öllum villtum laxastofnum í öllum ám Austfjarða á stuttum tíma og muni einnig setja í stórhættu alla villta laxastofna landsins á fáum árum.“ Málsástæður stefnanda er lúta að skaðsemi laxeldisins varða í raun ekki lögmæti tiltekinnar athafnar eða ákvörðunar stjórnvalds heldur miða að því að dómstólar kveði á um að laxeldi í sjókvíum sé almennt ekki heimilt en það er ekki á valdi dómstóla að gera það. Stefnandi heldur því fram að fella beri rekstrarleyfi stefnda Laxa fiskeldis ehf. úr gildi þar sem leyfilegur eldisstofn hafi ekki verið tilgreindur í leyfinu eins og mælt sé fyrir um í 10. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Í tilkynningu stefnda Laxa fiskeldis ehf. til Skipulagsstofnunar, dags. 12. apríl 2011, samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, um fyrirhugað fiskeldi, kom fram að notaður yrði Sagalax, sem hefði verið ræktaður hér á landi frá árinu 1984. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, dags. 8. júní 2011, var jafnframt gengið út frá því að notaður yrði lax af norskum uppruna. Einnig liggur fyrir í gögnum málsins bréf stefnda Matvælastofnunar, dags. 6. júlí 2017, þar sem vísað var í tölvupóst þar sem stefndi Laxar fiskeldi ehf. óskaði eftir staðfestingu stefnda Matvælastofnunar á heimild stefnda til að nota SAGA-stofn samkvæmt rekstrarleyfinu. Í téðu bréfi stefnda Matvælastofnunar segir að það sé ljóst að rekstrarleyfið hafi verið gefið út á þeirri forsendu að notaður yrði SAGA-stofn og að stefndi Laxar fiskeldi ehf. hefði heimild til að nota þann stofn við eldisstarfsemi sína í Reyðarfirði. Þá kemur fram í rekstrarleyfinu sjálfu að verði verulegar breytingar á forsendum fyrir rekstri fiskeldisstöðvar, s.s. er varðar eldistegund eða eldisaðferðir, skuli sækja um leyfi að nýju. Að öllu þessu virtu getur þessi annmarki á leyfinu eins og hér á stendur ekki leitt til þess að það verði ógilt. Þá byggir stefnandi á því að það hafi borið að fella rekstrarleyfið úr gildi þar sem það hafi runnið út samkvæmt 15. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Samkvæmt 15. gr. laganna eins og ákvæðið var áður en því var breytt með lögum nr. 49/2014, sem tóku gildi 26. maí 2014 en 1. janúar 2015 hvað varðar 15. gr. laganna, var heimilt að fella leyfi úr gildi hefði fiskeldisstöð ekki hafið starfsemi innan tveggja ára. Stefnandi heldur því fram að rekstrarleyfið hafi því runnið út 15. mars 2014. Þessari málsástæðu stefnanda er hafnað enda var á þessum tíma um að ræða heimildarákvæði en ekki skyldu. Með breytingarlögum nr. 49/2014 var hins vegar kveðið á um að stefndi Matvælastofnun skuli fella leyfi úr gildi hafi starfsemi ekki hafist innan þriggja ára frá útgáfu rekstrarleyfis, en stefnda Matvælastofnun er heimilt að veita undanþágu frá þessu ef málefnaleg sjónarmið búa að baki töfinni, þó ekki lengur en 12 mánuði. Ávallt skal veita rekstrarleyfishafa skriflega aðvörun og hæfilegan frest til úrbóta áður en leyfi er afturkallað. Stefnandi telur að samkvæmt þessu hafi borið að fella leyfið úr gildi 15. mars 2015. Stefndi Matvælastofnun kveður hins vegar að við breytinguna á 15. gr. laganna, með lögum nr. 49/2014, hafi verið litið svo á að stefndi Laxar fiskeldi ehf. hafi mátt hafa réttmætar væntingar til þess að leyfið yrði ekki fellt úr gildi fyrr en í fyrsta lagi þremur árum eftir gildistöku breytinganna og eru þau sjónarmið ekki ómálefnaleg. Í skriflegri aðvörun stefnda Matvælastofnunar, dags. 11. maí 2016, um afturköllun rekstrarleyfis, var stefnda Löxum fiskeldi ehf. veittur frestur miðað við almenna gildistöku laganna 26. maí 2014 en ekki 1. janúar 2015, þegar breytingar á 15. gr. tóku gildi. Þannig var stefnda Löxum fiskeldi ehf. veittur frestur til 29. maí 2017. Fyrir liggur að stefndi Laxar fiskeldi hafði hafið starfsemi innan þess tíma, en í gögnum málsins kemur t.d. fram að stefndi Laxar fiskeldi ehf. hefði frá því í febrúar 2016 verið með eldi á laxaseiðum í Ölfusi til að setja í sjókvíar í Reyðarfirði. Þá verður að horfa til þess að ávallt lá fyrir, strax í matsskýrslu stefnda Laxa fiskeldis ehf. til Skipulagsstofnunar í apríl 2011, að starfsemi stefnda Laxa fiskeldis ehf. myndi ekki hefjast að fullu fyrr en á árinu 2018 og í rekstrarleyfinu sjálfu segir að leyfið gildi í tíu ár frá útgáfudegi, til 15. mars 2022. Að öllu þessu virtu er því hafnað að fella beri rekstrarleyfið úr gildi á grundvelli þess að það hafi runnið út eða að borið hafi að fella það úr gildi. Einnig er því hafnað að ógilda beri rekstrarleyfið á grundvelli þess að rannsóknarregla og andmælaréttur hafi verið brotinn. Stefnandi, eða veiðifélögin, voru ekki aðilar máls. Fiskistofu, sem var fyrirrennari stefnda Matvælastofnunar við útgáfu rekstrarleyfa, bar því ekki að veita þeim andmælarétt samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvæði í lögum nr. 106/2006, um umhverfisáhrif, varðandi þátttökurétt almennings, þ.e. rétt til upplýsinga og rétt til að koma að athugasemdum og gögnum við málsmeðferð, eiga ekki við um veitingu rekstrarleyfa samkvæmt lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, eins og stefnandi virðist halda fram, heldur vísar 4. mgr. 10. gr. laga nr. 71/2008, sem stefnandi byggir á, til þess að við útgáfu rekstrarleyfis beri að gæta þess að metið hafi verið hvort framkvæmd sé matsskyld á grundvelli laga nr. 106/2000 um umhverfisáhrif. Tillaga að starfsleyfi var auglýst opinberlega og áttu veiðifélögin kost á að koma að andmælum. Einnig var niðurstaða Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum auglýst opinberlega. Þá var það ekki hlutverk Fiskistofu að framkvæma sjálfstæða rannsókn á því hvort fyrirhuguð starfsemi samrýmdist  markmiðum laga nr.  71/2008 um fiskeldi, eins og þeim er lýst í 1. gr. Fiskistofu bar heldur ekki að meta hvort starfsemin væri háð mati á umhverfisáhrifum enda var það hlutverk Skipulagsstofnunar. Samkvæmt 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um umhverfisáhrif fellur starfsemi stefnda Laxa fiskeldis ehf. ekki undir framkvæmdir í flokki A, sem eru ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, heldur flokk B, þ.e. að þær skuli háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að starfsemin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Dómurinn fellst á með stefnanda að sá annmarki var á matsskýrslu að ekki var fjallað um aðra valkosti en valkost framkvæmdaaðila og fór því ekki fram neinn samanburður á umhverfisáhrifum mismunandi kosta. Þegar ekki er gerður samanburður umhverfisþátta þeirra valkosta sem til greina koma getur verið um ógildingar­annmarka að ræða. Við aðalmeðferð málsins kom fyrir dóm Egill Þórarinsson, sérfræðingur á sviði umhverfismats hjá Skipulagsstofnun. Fram kom hjá vitninu að notkun á geldlaxi og eldi í lokuðum sjókvíum væri í dag á tilraunastigi og þessir valkostir hafi ekki verið raunhæfir á sínum tíma. Þá hafi eldi á landi á umræddum stað varla verið mögulegt. Að þessu virtu og eins og hér stendur á getur sá annmarki að ekki var fjallað um aðra valkosti ekki leitt til þess að rekstrarleyfi stefnda Laxa fiskeldis ehf. verði nú ógilt. Ekki hefur verið sýnt fram á neina aðra annmarka á ákvörðun Skipulagsstofnunar sem geta leitt til þess að rekstrarleyfið verði ógilt. Stefnandi heldur því enn fremur fram að lagaheimild skorti til að afhenda stefnda Löxum fiskeldi ehf. afnot af því hafsvæði þar sem starfsemin fari fram. Um er að ræða hafsvæði utan netlaga en innan landhelgi Íslands. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins er íslenska ríkið eigandi svæðisins. Svæðið er á forráðasvæði íslenska ríkisins samkvæmt lögum nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn og hefur ríkið því heimild til að setja lög og reglur um nýtingu auðlinda, eins og gert hefur verið með lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Þessari málsástæðu stefnanda er því hafnað.   Stefnandi byggir að lokum á því að starfsmaður stefnda Matvælastofnunar, Gísli Jónsson dýralæknir, hafi verið vanhæfur til meðferðar á rekstrarleyfi stefnda Laxa fiskeldis ehf. og þetta valdi ógildingu rekstrarleyfisins. Nánar tiltekið heldur stefnandi því fram að starfsmaðurinn hafi átt persónulegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta af málinu þar sem hann hafi starfað að hluta sjálfstætt vegna þjónustu við laxeldisfyrirtæki, þ.e. með því að selja bóluefni til eldisfyrirtækja. Stefndu mótmæla þessari málsástæðu sem of seint fram kominni. Hér verður að líta til þess að mál þetta er höfðað 4. apríl 2017 en á þeim tíma virðist stefnandi ekki hafa haft tilefni til að tefla fram þessari málsástæðu. Verður því tekin afstaða til þessarar málsástæðu stefnanda. Umræddur starfsmaður kom ekki að útgáfu rekstrarleyfisins heldur veitti fyrir hönd Matvælastofnunar umsögn til Skipulagsstofnunar og var umsögnin aðeins ein af mörgum umsögnum. Þá liggur ekkert fyrir um að fjárhagslegir hagsmunir starfsmannsins hafi verið svo verulegir að aðkoma hans að undirbúningi málsins geti hér leitt til þess að rekstrarleyfið verði ógilt. Er þessari málsástæðu stefnanda því hafnað. Með vísan til alls framangreinds er hafnað kröfu stefnanda um að ógilt verði rekstrarleyfi sem Fiskistofa veitti stefnda Löxum fiskeldi ehf. hinn 15. mars 2012 til reksturs stöðvar til sjókvíaeldis á laxi í Reyðarfirði. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.                 Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari. D ó m s o r ð:                 Stefndu, Laxar fiskeldi ehf. og Matvælastofnun, eru sýkn af kröfum stefnanda, Náttúruvernd 2 málsóknarfélags.                 Málskostnaður fellur niður.
Mál nr. 12/2020
Kærumál Hæfi dómara
Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu T og H um að tveir landsréttardómarar og fyrrverandi héraðsdómari vikju sæti í máli þeirra á hendur Í.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 21. febrúar 2020, en kærumálsgögn bárust réttinum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 7. febrúar 2020, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson og Oddný Mjöll Arnardóttir og Eggert Óskarsson fyrrverandi héraðsdómari vikju sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að fyrrnefnd krafa þeirra verði tekin til greina. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Fyrir Hæstarétti hafa sóknaraðilar fallið frá málsástæðu, sem þau höfðu uppi fyrir Landsrétti, vegna ætlaðs annmarka á skipun landsréttardómaranna Aðalsteins og Oddnýjar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn kærði úrskurður er staðfestur.       Úrskurður Landsréttar 7. febrúar 2020 Landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson og Oddný Mjöll Arnardóttir og Eggert Óskarsson, fyrrverandi héraðsdómari, kveða upp úrskurð í máli þessu. Dómkröfur aðila Áfrýjendur skutu málinu til Landsréttar 26. mars 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2019 í málinu nr. E-514/2018 þar sem stefndi var sýknaður af kröfu þeirra um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 7.667.597 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum og dráttarvöxtum. Á þessu stigi er einungis til úrlausnar krafa áfrýjenda um að öllum dómurum málsins í Landsrétti verði gert að víkja sæti vegna vanhæfis. Stefndi lýsti því yfir að hann teldi ekki ástæðu til að dómarar málsins víki sæti vegna vanhæfis en lét þennan þátt málsins að öðru leyti ekki til sín taka. Málsatvik og málsmeðferð Krafa áfrýjenda um greiðslu skaðabóta er annars vegar á því reist „að um ranga túlkun og/eða misskilning Hæstaréttar“ hafi verið að ræða á ákvæði 1. mgr. 12. gr. eldri laga nr. 121/1994 um neytendalán í dómi frá 26. nóvember 2015 í máli nr. 243/2015 og hins vegar „að um ranga eða misheppnaða innleiðingu“ hafi verið að ræða á tilskipun 87/102/EBE við setningu laga nr. 121/1994. Hafi framangreint valdið áfrýjendum tjóni sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Í greinargerð áfrýjenda til Landsréttar var gerður áskilnaður um að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um „hvort að um ranga túlkun og/eða misskilning Hæstaréttar hafi verið að ræða á ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 í niðurstöðu [hans] í máli nr. 243/2015“. Jafnframt „hvort að innleiðing á tilskipun sem gengur lengra en lágmarksverndin sem skylt var að innleiða samkvæmt tilskipuninni þegar mælt er fyrir [um] heimild í tilskipuninni [til] að tryggja neytendum ríkari réttarvernd, getur talist fela í sér ranga innleiðingu ef viðbótarverndin er ekki í samræmi við tilskipunina að einhverju leyti“. Dómþing var háð í málinu 9. janúar 2020 á grundvelli 3. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem lögmönnum málsaðila var gefinn kostur á að tjá sig um beiðni áfrýjenda um að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Með ákvörðun dómsins 16. janúar sama ár, sem tekin var á grundvelli 3. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991, var beiðni áfrýjenda hafnað. Ákvörðunin var svohljóðandi: Í 1. mgr. 1. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið segir að ef taka þurfi í dómsmáli afstöðu til skýringar á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum er getið, megi leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á því atriði málsins áður en málinu er ráðið til lykta. Í dómaframkvæmd hefur ákvæðið verið skýrt á þann veg að ekki skuli leita álits EFTA-dómstólsins nema að skýring EES-reglna hafi raunverulega þýðingu fyrir úrslit málsins, að staðreyndir máls liggi nægilega skýrt fyrir og að réttlætanlegur vafi leiki á túlkun þeirra EES-reglna sem um ræðir með hliðsjón af sakarefninu. Fyrir liggur að EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í ráðgefandi áliti 24. nóvember 2014 í máli nr. E-27/13 að „þegar lánssamningur er bundinn vísitölu neysluverðs og lántökukostnaðurinn tekur þar af leiðandi breytingum í samræmi við verðbólgu samrýmist það ekki neytendalánatilskipuninni [87/102/EBE] að miðað sé við 0% verðbólgu við útreikning á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar ef þekkt verðbólgustig á lántökudegi er ekki 0%“. Með dómi Hæstaréttar 26. nóvember 2015 í máli nr. 243/2015 var því slegið föstu að nánar tilgreint orðalag 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 hefði í ljósi þeirrar niðurstöðu ekki verið í samræmi við ákvæði tilskipunar 87/102/EBE. Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að í 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið væri kveðið á um skyldu til að skýra lög og reglur til samræmis við EES-samninginn gæti slík lögskýring eðli málsins samkvæmt ekki leitt til þess að orðum íslenskra laga yrði gefin önnur merking en leidd væri af hljóðan þeirra. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að orðalag fyrrgreindrar 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 hefði verið það afdráttarlaust að ekki væri unnt að gefa því þá merkingu sem leiddi af áliti EFTA-dómstólsins. Niðurstaða Hæstaréttar byggðist þannig eingöngu á túlkun á orðalagi íslenskra laga en ekki samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum er getið, sbr. áskilnað 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Samkvæmt því eru ekki skilyrði til að fallast á að aflað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um „hvort um ranga túlkun og/eða misskilning Hæstaréttar hafi verið að ræða“ í fyrrgreindu máli á ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 2. gr. tilskipunar nr. 87/102/EBE náði gildissvið hennar ekki til lánssamninga sem ætlað var „að afla eða viðhalda eignarrétti á landi eða byggingu sem reist hefur verið eða áformað er að reisa“. Samkvæmt síðastnefndu ákvæði féllu lánssamningar sem voru tryggðir með veði í fasteign utan gildissviðs tilskipunarinnar en fyrir liggur að sakarefni málsins varðar einmitt slíkan samning. Tilskipunin var innleidd í íslensk lög með lögum nr. 121/1994 en samkvæmt f-lið 1. mgr. 2. gr. laganna náðu þau upprunalega ekki til slíkra lánssamninga. Ákvæðið var á hinn bóginn fellt brott við setningu laga nr. 179/2000, til breytinga á lögum nr. 121/1994, með þeim afleiðingum að gildissvið þeirra náði í kjölfarið til slíkra samninga. Þrátt fyrir þá breytingu liggur fyrir að tilskipunin kvað ekki á um réttindi lántakenda samkvæmt slíkum lánssamningum. Af því leiðir óhjákvæmilega að fyrirsjáanlegt er að skýring EES-reglna hafi ekki raunverulega þýðingu fyrir úrslit málsins. Samkvæmt framangreindu verður ekki fallist á að efni séu til að afla ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Verður kröfu áfrýjenda um það því hafnað. Í tölvupósti lögmanns áfrýjenda 23. janúar 2020 var gerð krafa um að öllum dómurum málsins í Landsrétti yrði gert að víkja sæti vegna vanhæfis. Fram kemur að áfrýjendur telji að í ákvörðun Landsréttar „komi í raun fram staðfesting á dómi héraðsdóms í málinu“. Um síðastnefnt er sérstaklega vísað til eftirfarandi orðalags í ákvörðuninni: Þrátt fyrir þá breytingu liggur fyrir að tilskipunin kvað ekki á um réttindi lántakenda samkvæmt slíkum lánssamningum. Af því leiðir óhjákvæmilega að fyrirsjáanlegt er að skýring EES-reglna hafi ekki raunverulega þýðingu fyrir úrslit málsins. Í fyrrgreindum tölvupósti lögmanns áfrýjenda er um meint vanhæfi jafnframt vísað til fyrri vangaveltna sem settar höfðu verið fram af þeirra hálfu í ódagsettu bréfi sem var móttekið af Landsrétti 5. nóvember 2019. Þar kom fram að „mögulega þyrftu tveir af dómurum málsins þau Aðalsteinn E. Jónasson og Oddný Mjöll Arnardóttir, að víkja sæti í málinu“ þar sem þau hefðu verið „ásamt 13 öðrum dómurum […] skipuð með einni atkvæðagreiðslu um öll 15 dómaraefnin í einu lagi“ en það hafi ekki verið lögum samkvæmt. Um þetta var jafnframt vísað til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 12. mars 2019 í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn íslenska ríkinu. Með öðru ódagsettu bréfi lögmanns áfrýjenda, sem barst Landsrétti 7. nóvember 2019, gerðu áfrýjendur formlega kröfu um að landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson og Oddný Mjöll Arnardóttir vikju sæti vegna framangreinds. Niðurstaða Í málatilbúnaði áfrýjenda var ekki vísað til ákveðins lagaákvæðis um meint vanhæfi dómara málsins en í munnlegum málflutningi um kröfuna hér fyrir dómi 4. febrúar 2020 kom fram sú skýring lögmanns þeirra að krafan væri studd við g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 þar sem fram kemur að dómari teljist vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður en taldar eru upp í a- til f-lið sömu lagagreinar sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Í ákvæði 5. gr. laga nr. 91/1991 er að finna talningu á þeim tilvikum sem valdið geta vanhæfi dómara. Telji aðili að einkamáli eitthvert þeirra tilvika eiga við um dómara getur hann krafist þess að dómarinn víki sæti í málinu en að lögum geta þessi atriði ein og engin önnur orðið til þess að svo fari, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 8. mars 2018 í máli nr. 5/2018. Málsástæður áfrýjenda sem snúa að meintu vanhæfi landsréttardómaranna Aðalsteins og Oddnýjar vegna þess hvernig staðið var að atkvæðagreiðslu á Alþingi um tillögu ráðherra um skipun dómara samkvæmt 2. mgr. ákvæðis IV til bráðabirgða við lög nr. 50/2016 um dómstóla byggjast á því að ekki hafi verið farið að lögum við skipun þeirra. Málsástæður þessar varða ekki hæfisreglur 5. gr. laga nr. 91/1991 og verða þegar af þeirri ástæðu ekki teknar til efnisumfjöllunar í úrskurði þessum, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 8. mars 2018 í máli nr. 5/2018 sem varðar efnislega sambærilegt ákvæði laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Breytir engu um þá niðurstöðu þótt fyrrgreindur dómur Mannréttindadómstóls Evrópu hafi gengið eftir uppkvaðningu síðastnefnds dóms Hæstaréttar. Samkvæmt því verður ekki fallist á að framangreint geti falið í sér atvik eða aðstæður sem séu fallnar til þess að draga megi óhlutdrægni umræddra dómara í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Af 1. mgr. 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994, leiðir að það er hlutverk EFTA-dómstólsins að skýra EES-samninginn, en íslenskra dómstóla að fara með sönnunarfærslu um staðreyndir máls, skýringu innlends réttar og beitingu samningsins að íslenskum lögum. Þegar dómstóll tekur afstöðu til þess hvort leita beri ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins hefur hann eingöngu tekið afstöðu til þess hvort slíks sé þörf við þær aðstæður sem uppi eru í málinu, en hann hefur með því ekki tekið afstöðu til efnisatriða þess, sbr. dóm Hæstaréttar 5. maí 2015 í máli nr. 291/2015. Eins og rakið er í fyrrgreindri ákvörðun Landsréttar, um kröfu áfrýjenda um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, hefur ákvæði 1. mgr. 1. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 21/1994 verið skýrt með þeim hætti í dómaframkvæmd að ekki skuli leita ráðgefandi álits nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem eru nánar tiltekið þau að skýring EES-reglna hafi raunverulega þýðingu fyrir úrslit málsins, að staðreyndir máls liggi nægilega skýrt fyrir og að réttlætanlegur vafi leiki á túlkun þeirra EES-reglna með hliðsjón af sakarefninu. Með ákvörðun Landsréttar var eingöngu tekin afstaða til þess skilyrðis hvort það hefði raunverulega þýðingu fyrir úrslit málsins að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, sbr. 2. mgr. 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Niðurstaðan var að svo væri ekki þar sem tilskipun nr. 87/102/EBE næði ekki til lánssamninga af þeim toga sem ágreiningur málsins varðar. Byggði niðurstaðan á skýru orðalagi a-liðar 1. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar um gildissvið hennar sem verður eins og hér stendur á ekki talið háð vafa um túlkun. Ákvörðunin laut eingöngu að atriði varðandi rekstur málsins fyrir Landsrétti en ekki efnislegri meðferð þess sem enn á eftir að fara fram, sbr. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 291/2015. Af þeim sökum verður ekki fallist á að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni dómara málsins í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á kröfu áfrýjenda um að dómarar málsins víki sæti vegna vanhæfis. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu áfrýjenda, Theodórs Magnússonar og Helgu Margrétar Guðmundsdóttur, um að landsréttardómurunum Aðalsteini E. Jónassyni og Oddnýju Mjöll Arnardóttur og Eggerti Óskarssyni, fyrrverandi héraðsdómara, verði gert að víkja sæti í málinu.
Mál nr. 58/2019
Börn Barnavernd Forsjársvipting Stjórnarskrá Gjafsókn
BH krafðist þess að A og B yrðu svipt forsjá tveggja barna sinna með vísan til a., c. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í málinu lá meðal annars fyrir álitsgerð sálfræðings um forsjárhæfni B þar sem B var talin skorta nægjanlega hæfni til að fara með forsjá barnanna. Einnig lá fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns þar sem fram kom að vilji barnanna væri afar skýr um að þau vildu ekki búa hjá A og B. Héraðsdómur féllst á kröfu BH en A og B voru hins vegar sýknuð af kröfum BH í Landsrétti. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að rétt til fjölskyldulífs, sem varinn væri af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, skyldi ætíð meta út frá hagsmunum barnsins og rétti þess til einkalífs og friðhelgi samkvæmt 3. mgr. 76. gr. hennar. Í þessu fælist jafnframt að líta bæri, eins og frekast væri kostur, til viljaafstöðu barns við úrlausn um málefni þess. Talið var með vísan til gagna málsins, einkum mats dómkvadds matsmanns, að börnin upplifðu verulegan ótta við A þannig að heilsu þeirra og þroska væri hætta búin í umsjá hans sökum þess að breytni hans væri til þess fallin að valda börnunum alvarlegum skaða. Þá voru gögn málsins talin bera með sér að forsjárhæfni B væri skert og að vandséð væri að B væri unnt að byggja upp tengsl og traust við börnin að nýju. Með vísan til þessa og því að börnin hafi sýnt sterkan vilja til þess að búa áfram hjá fósturforeldrum var það talið þeim fyrir bestu að fallast á kröfu BH um forsjársviptingu á grundvelli d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. desember 2019. Hann krefst þess að stefndu verði svipt forsjá barna sinna, C og D. Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt. I 1             Stefndu eru hjón og eiga saman tvö börn, C, sem fædd er [...], og D, sem fæddur er [...]. Hinn [...] 2015 sendi E í [...] tilkynningu til áfrýjanda undirritaða af F, sérkennslufulltrúa og meðstjórnanda skólans, þar sem fram kom að C hefði komið að fyrra bragði á skrifstofu F og sagst vilja tala við hana. Stúlkan hefði veturinn áður verið í meðferð hjá sérkennslufulltrúanum, þar sem hún hefði verið að læra á tilfinningar sínar og viðbrögð við hugsunum sínum, styrkingu sjálfsmyndar og eflingu kjarks. Í samtalinu hefði stúlkan talað um líðan sína og lýst ofbeldi á heimili og áhyggjum af móður sinni og bróður. Þá hefði hún með teikningu sýnt að faðir sinn hefði strokið sér og bróður sínum á „einkastöðum“ þeirra. Hefði hann „ruglast“ eitthvað með hendur sínar. Aðspurð hvort hún hefði áður viljað segja F frá þessu bókaði F eftir stúlkunni: „Já - þorði ekki að segja þegar ég var sex ára því þá vissi ég ekki að hann væri að ruglast.“ Aðspurð hversu oft pabbi hennar hefði ruglast á skalanum 1 til 10 sagði stúlkan að það væri „fimm“ eða „oft - ekki mjög.“ Hefði F bent á svartan hluta teikningarinnar af pabbanum og spurt stúlkuna hvað þetta væri. Stúlkan hefði svarað: „Það er þetta - þetta er typpið sem fór inn í píkuna mína.“ Þá mátti ráða af tilkynningunni að bróðir stúlkunnar hefði einnig orðið fyrir áreiti af hálfu föður síns. Fram kom að samskipti sérkennslufulltrúans og stúlkunnar umrætt sinn hefðu tekið um tvær og hálfa klukkustund.   Málið var þegar tilkynnt lögreglu og var stefndi boðaður til skýrslutöku [...] 2015. Hann var þá handtekinn og sætti í framhaldinu gæsluvarðhaldi í fjóra daga. Samkvæmt gögnum málsins var hann yfirheyrður á ný hjá lögreglu [...], [...] 2015 og [...] 2016. Hann hefur ætíð neitað að hafa framið kynferðisbrot gegn börnum sínum. Stúlkan fór [...] 2015 í skýrslugjöf í Barnahúsi, sbr. 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Fyrst sagðist stúlkan aðspurð hvorki muna eftir að faðir sinn hefði gert eitthvað á hennar hlut né að hafa sagt áðurnefndum sérkennslufulltrúa frá því. Stúlkan var þá beðin um að útskýra mynd sem hún teiknaði í samtali sínu við sérkennslufulltrúann. Kvað stúlkan hana vera af stelpu, en sagðist ekki vita hvort það væri hún, vinkona hennar eða einhver annar. Stelpan á teikningunni væri að gráta. Í kjölfarið grét stúlkan mikið og lengi í skýrslugjöfinni og fékk ekka þannig að gera þurfti hlé. Er yfirheyrandi reyndi að taka upp þráðinn að nýju grét stúlkan enn meira, yppti öxlum hvað eftir annað og gaf engin bein svör við því hvort faðir sinn hefði beitt sig eða bróður sinn kynferðislegu ofbeldi. Sama dag var tekin skýrsla af drengnum í Barnahúsi. Var hann meðal annars spurður að því hvort pabbi sinn hefði snert á honum „mallann“, typpið eða rassinn og hristi hann í öllum tilvikum höfuðið. Starfsmenn áfrýjanda fóru á heimili fjölskyldunnar þegar rannsókn málsins hófst. Samkvæmt skýrslu þeirra var þar mikil óreiða og börnin afar illa hirt, stúlkan með [...]. Hún hefði verið látin pissa í bleyju, en drengurinn haft hægðir í bleyju vegna [...] og ekki verið vaninn á að nota salerni. Stúlkan gaf á ný skýrslu í Barnahúsi [...] 2015 og lýsti því þá að faðir sinn hefði snert „einkastaði“ sína með typpinu og hefði hún áhyggjur af bróður sínum.  Þegar rannsókn málsins hófst var stefnda til meðferðar á G vegna [...]. Með samþykki hennar var ákveðið að vista börnin tímabundið utan heimilis á vegum áfrýjanda. Stóð vistunin til [...] 2015, er börnin fóru aftur í umsjá móður sinnar, en faðirinn hafði þá flutt af heimilinu. Áætlun um frekari meðferð málsins samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 var gerð [...] 2015, með áherslu á að börnin, einkum stúlkan, myndu ekki umgangast föður sinn meðan sakamálarannsókn stæði yfir, nema að takmörkuðu leyti og þá um jól og áramót. Stefnda naut á þessum tíma ýmiss konar aðstoðar og tilsagnar, tók á móti tilsjón á heimili sínu, gekkst þar undir óboðað eftirlit starfsmanna áfrýjanda og lýsti því jafnframt yfir að hún væri samstarfsfús í þágu dóttur sinnar. Eftir að börnin komu á ný heim til móður sinnar í [...] 2015 fóru starfsmenn áfrýjanda að hafa áhyggjur af högum þeirra. Hinn [...] 2016 ritaði H, sálfræðingur Barnahúss, áfrýjanda bréf, þar sem sagði meðal annars: „Staða málsins er sú að C er í samskiptum við meintan geranda (sem er faðir hennar) og nýtur ekki stuðnings móður sinnar. Meðferðarviðtöl eru þar af leiðandi ekki líkleg til að skila árangri þar sem mikilvægt er, þegar svo ung börn eiga í hlut, að ummönnunaraðili taki þátt í meðferðarvinnunni og haldi áfram með hana á heimilinu.“ Af gögnum málsins verður ráðið að móðir stúlkunnar hafði lýst þeirri afstöðu sinni í samtali við tilsjónaraðila, svo og á fundi með kennurum skólans 11. janúar 2016, að tilkynning um kynferðisofbeldi væri byggð á misskilningi, barnið hefði ruglast í frásögn sinni og faðirinn ekki gert það sem hann væri sakaður um. Jafnframt kom fram sú afstaða móður að skóli barnsins hefði farið offari í tilkynningu um kynferðislegt ofbeldi og ekki staðið rétt að málum varðandi stuðning við barnið í þessum aðstæðum. Samkvæmt úrskurði áfrýjanda [...] 2016 var stúlkan vistuð utan heimilis foreldra í sex mánuði með stoð í 26. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, og var sú niðurstaða staðfest með úrskurði héraðsdóms [...] 2016. Með úrskurði héraðsdóms [...] 2016 var fallist á kröfu áfrýjanda um frekari vistun stúlkunnar utan heimilis. Var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar 19. maí sama ár í máli nr. 362/2016. Hinn [...] 2016 ritaði fyrrnefndur sérkennslufulltrúi samantekt um líðan stúlkunnar á vorönn skólans, þar sem fram kom að stúlkan hefði átt mjög erfiða daga, oft verið döpur og grátið og sýnt óöryggi, hangið utan í kennara og pissað á sig. Hefði hún annað slagið sagst sakna móður sinnar og bróður, en á þeim tíma sem stúlkan var ein vistuð utan heimilis naut hún takmarkaðrar umgengni við þau. Fólst umgengnin í því að þau hittust einu sinni í viku, tvo tíma í senn, undir eftirliti, fyrst á vistheimilinu, en síðar í íbúð á vegum áfrýjanda. Stúlkan gaf enn á ný skýrslu í Barnahúsi [...] 2016, þar sem hún lýsti kynferðisbrotum föður síns sem hefði snert „einkastaði“ sína með puttanum og borið krem á og einnig snert „einkastaðina“ með typpinu. Lýsti stúlkan sem fyrr áhyggjum af bróður sínum og vildi að hann byggi hjá sér og fósturmóður sinni svo hann væri öruggur gagnvart föður.   2 Í [...] 2016 tók móðir barnanna drenginn úr leikskóla í Hafnarfirði og flutti lögheimili þeirra til [...]. Vegna upplýsinga um að drengurinn væri í miklum samvistum við föður sinn úrskurðaði áfrýjandi [...] 2016, sbr. 31. gr. barnaverndarlaga, að drengurinn skyldi tekinn af heimilinu og vistaður á vegum áfrýjanda á sama heimili og stúlkan. Hinn [...] sama mánaðar barst áfrýjanda tilkynning frá fósturmóður barnanna um að drengurinn ætti við [...] að stríða. Þá hefði hann lýst því aðspurður sem leyndarmáli að faðir sinn hefði borið krem á kynfæri sín, en ekki mætti segja móður frá því. Af þessu tilefni sendi áfrýjandi kæru til lögreglu og tók málefni drengsins jafnframt fyrir á fundi sínum [...] 2016. Þar mættu stefndu bæði og kom fram hjá þeim að þótt faðir barnanna myndi ekki dvelja á heimilinu meðan á rannsókn máls stæði væri samband þeirra hjóna traust og fyrri hugmyndir þeirra um skilnað misráðnar. Rætt var við drenginn í Barnahúsi [...] 2016, þar sem hann lýsti því að faðir sinn hefði nuddað á sér typpið og borið krem á það og auk þess stungið fingri upp í endaþarm sinn. Hefði faðirinn sagt að ekki mætti segja mömmu frá. Degi síðar úrskurðaði áfrýjandi að drengurinn skyldi tekinn af heimili foreldra og vistaður á vegum áfrýjanda í tvo mánuði. Jafnframt var ákveðið samkvæmt 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga að gera kröfu fyrir héraðsdómi um að ráðstöfunin stæði í sex mánuði. Ekki gekk eftir að krafa um áframhaldandi vistun kæmi fram í tæka tíð áður en vistunartíminn rann út, en áfrýjandi ákvað þess í stað [...] 2016 neyðarvistun samkvæmt 31. gr. laganna og úrskurðaði að drengurinn skyldi kyrrsettur á fósturheimilinu. Gerði áfrýjandi kröfu fyrir héraðsdómi um að ráðstöfun þessi stæði í allt að sex mánuði. Var fallist á það með úrskurði héraðsdóms [...] 2016. 3 Að beiðni áfrýjanda skilaði I sálfræðingur skýrslu [...] 2016 um sálfræðilegt mat á forsjárhæfni móður. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi og dómi Landsréttar kom meðal annars fram í álitsgerðinni að vísbendingar væru um vanrækslu móður og ljóst að tilfinninga- og tengslavandi hefði hamlað getu hennar til að sinna börnunum með eðlilegum hætti. Var það ályktun sálfræðingsins að töluverð áhætta myndi fylgja því ef börnin færu aftur í umsjá hennar. Hún hefði ekki tekið afstöðu með börnunum til að vernda þau, auk þess sem vísbendingar væru um ákveðna vanrækslu á tímabili og hugsanlegt ofbeldi. Þá hefði samstarfi móður við barnavernd verið áfátt. Hefði móðirin sýnt af sér dómgreindarleysi með því að hafa föðurinn áfram á heimilinu og leggja að stúlkunni að breyta framburði sínum. Var það niðurstaða sálfræðingsins að móður skorti nægjanlega hæfni til að fara með forsjá barnanna. Mælti hann með því að þau yrðu áfram í fóstri, en umgengni við móður yrði undir ströngu eftirliti. 4 Hinn [...] 2016 ritaði áðurnefndur sálfræðingur Barnahúss bréf til áfrýjanda, þar sem veitt voru svör við fyrirspurn áfrýjanda um „gang meðferðarviðtala og stöðu“ stúlkunnar. Í bréfinu var nefnt það helsta úr framangreindum viðtölum í Barnahúsi [...] og [...] 2015 og tilgreint að í þriðja viðtalinu [...] 2016 hefði stúlkan skýrt frá kynferðisbrotum föður síns og frásögnin verið sú sama og kom fram í viðtali hennar við sérkennslufulltrúa [...] 2015 og síðari samtölum hennar og fósturmóður. Í viðtalinu [...] 2016 hefði stúlkan meðal annars skrifað á blað „hvað pabbi hafði gert“ af því að „það var svo erfitt að segja það.“ Með úrskurði héraðsdóms [...] 2016 var fallist á fyrrnefnda kröfu áfrýjanda um að drengurinn skyldi áfram vistaður utan heimilis í allt að sex mánuði. Á sama hátt var með úrskurði héraðsdóms [...] 2017 ákveðið að stúlkan skyldi áfram vistuð á vegum áfrýjanda utan heimilis í allt að sex mánuði, en áfrýjandi hafði jafnframt [...] 2016 úrskurðað að stúlkan skyldi vistuð áfram í tvo mánuði utan heimilis. Hinn [...] 2017 ritaði fyrrgreindur sálfræðingur Barnahúss vottorð um meðferðarviðtöl við stúlkuna. Þar kom fram að henni liði vel á fósturheimilinu og treysti fósturforeldrum. Hún væri hrædd við föður sinn vegna kynferðisbrota og óttaðist afskipti hans af bróður sínum. Þá „ruglaðist“ móðir hennar einnig stundum og vísaði stúlkan þar til þess að móður gæti verið laus höndin. Fram kom að stúlkan hefði mætt í 22 viðtöl í Barnahúsi frá [...] 2016 og mikil breyting orðið á líðan hennar, framkomu og fasi. Hún hefði verið mjög lokuð í byrjun, horft niður fyrir sig og ekki sagt orð að fyrra bragði, en það væri nú breytt. Um [...] 2017 tók J félagsráðgjafi að sér að vera talsmaður barnanna samkvæmt 46. gr. barnaverndarlaga. Í kjölfar óskar áfrýjanda um að hún myndi ræða við stúlkuna um framtíðarbúsetu og umgengni við móður gerði hún skýrslu [...] 2017, þar sem fram kom að hún hefði hitt stúlkuna alls sex sinnum. Stúlkan hefði svarað því til að hún vildi búa hjá fósturforeldrum sínum „þangað til hún yrði unglingur.“ Þá hefði hún sagst vera sátt við að umgengni þeirra systkina við móður yrði á tveggja vikna fresti, en að bróðir sinn ætti ekki fara án sín í umgengni. Hún sagðist óttast að móðir sín „myndi lemja hann“, enda þótt aðspurð segðist hún hvorki hafa séð slíkt né hafa heyrt bróður sinn segja frá því.    Í greinargerð tveggja félagsráðgjafa áfrýjanda [...] 2017 kom fram það mat þeirra að hvorugt foreldranna væri til þess fallið að sjá um börnin og sinna þörfum þeirra. Var gerð tillaga um að stefndu yrðu svipt forsjá með dómi og börnin vistuð á vegum áfrýjanda til 18 ára aldurs. Hinn [...] 2017 gerði áðurnefndur talsmaður barnanna sitt hvora skýrsluna um viðtöl, sem hún átti við börnin að ósk áfrýjanda, í því skyni að fá fram afstöðu þeirra til umgengni við móður. Þar kom fram að stúlkan hefði sagst vilja hitta móður sína hálfsmánaðarlega og þá með bróður sínum, en hún treysti ekki móður sinni einni með honum. Drengurinn hefði á hinn bóginn verið fámáll og sagt aðspurður að erfitt væri að tala um þessa hluti. Hann hefði sagst vilja hitta móður sína oftar en hann gerði, en þá með systur sinni og vilja búa áfram hjá fósturforeldrum sínum. 5 Hinn [...] 2017 var gefin út ákæra á hendur stefnda, þar sem honum voru gefin að sök kynferðisbrot gegn börnunum. Annars vegar stúlkunni „með því að hafa 10 - 20 sinnum, þegar telpan var 6 - 7 ára gömul eða á árinu 2014 til loka [...] 2015, sett getnaðarlim sinn inn í kynfæri telpunnar, þar sem hún lá í rúmi sínu að kvöldi til” og hins vegar gegn drengnum „með því að hafa í eitt skipti, þegar drengurinn var 4 eða 5 ára gamall eða á árinu 2015 til loka [...] 2016, á baðherbergi heimilisins nuddað getnaðarlim drengsins og stuttu síðar í svefnherbergi sett fingur inn í endaþarm hans.“ Með héraðsdómi [...] 2017 var stefndi sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Í dóminum sagði meðal annars að stefndi hefði staðfastlega neitað sök, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, og að mati dómsins væri framburður hans á engan hátt ótrúverðugur. Þá væru engin gögn er styddu frásagnir barnanna um að stefndi hefði beitt þau kynferðislegu ofbeldi. Hefðu því ekki verið færðar viðhlítandi sönnur á, svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa, sbr. 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008, að hann hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum væri gefin að sök í ákæru. Dóminum var ekki áfrýjað. 6 Hinn [...] 2017 samþykkti áfrýjandi bókun, þar sem fram kom það álit að stefndu væru ekki hæf til að fara með forsjá barna sinna og yrði krafist sviptingar forsjár fyrir dómi með vísan til a., c., og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Mál þetta var síðan höfðað [...] 2017. Undir rekstri málsins var K sálfræðingur dómkvaddur til að meta meðal annars forsjárhæfni foreldra og hagi barnanna. Í matsgerð hans [...] 2018 kom fram að stúlkan hefði mætt þrisvar í skýrslutöku í Barnahúsi frá því að málið kom upp og síðan í 22 skipti í viðtöl þar hjá sálfræðingi. Hefði hún átt erfitt með að tala um ætluð kynferðisbrot og frásögn hennar komið smátt og smátt yfir langt tímabil. Stúlkan hefði sagt fósturmóður frá atvikum og þá frásögn hefði hún endurtekið í viðtölum. Drengurinn hefði einnig farið í skýrslutöku í Barnahúsi [...] 2016 og síðan í meðferðarviðtöl hjá sálfræðingi. Þar hefði hann greint frá háttsemi föður í sinn garð og að hann væri hræddur um að slíkt gerðist aftur. Í matsgerðinni kom fram að það væri mat sálfræðinga, er sáu um viðtöl í Barnahúsi, að frásagnir barnanna væru trúverðugar. Í viðtölum matsmanns við stúlkuna hefði komið fram að henni litist ekki vel á að flytja til móður, en sagst vilja búa áfram hjá fósturforeldrum. Hún væri öruggari þar. Þá hefði móðir sín ekki alltaf verið góð. Stúlkan hefði lítið viljað tjá sig um föður, en spurð um hvernig henni litist á að búa með honum hefði hún svarað ákveðið að það væri ekki gott. Drengurinn hefði aðspurður sagt að sér liði vel hjá fósturforeldrum. Hefði hann lýst jákvæðum samskiptum við móður sína, en nefnt að þegar hann hefði búið hjá henni hefði hún stundum meitt hann, pabbi hans einnig, og hefði hann lýst því nánar fyrir matsmanni. Aðspurður litist drengnum ekki vel á að búa hjá móður sinni og lýst vilja til að búa áfram hjá fósturforeldrum. Samandregið var það niðurstaða matsmanns að veikleikar hefðu verið í forsjárhæfni foreldra og ýmislegt betur mátt fara í umönnun og uppeldi barnanna. Taldi matsmaður líklegt að andleg vanlíðan móður hefði haft áhrif á getu hennar til að sinna börnunum sem skyldi. Þá hefðu vaknað grunsemdir um kynferðisofbeldi föður, sem flækt hefði málið, en börnin hefðu verið samkvæm sjálfum sér um að eitthvað hefði gerst. Þau óttuðust föður sinn og vildu ekki hitta hann. Tengslamyndun barnanna við móður, einkum stúlkunnar, hefði einnig virst skert. Hvorugt barnanna hefði lýst vilja til að búa á heimili móður sinnar til frambúðar og virst hefði sem tilhugsunin um að flytjast aftur til hennar ylli þeim öryggisleysi. Frekara tengslarof við foreldra hefði orðið eftir að börnin fluttu á fósturheimilið og lítil samskipti upp frá því og hefði það haft mikil áhrif á tengslin. Börnin hefðu hins vegar myndað djúpstæð tengsl við fósturforeldra, þar sem þau virtust upplifa öryggi og hlýju. Þau virtust ekki sakna þess að búa hjá foreldrum og umsagnir skóla og meðferðaraðila bent til að staða þeirra hefði styrkst verulega á þeim tíma sem þau hefðu verið hjá fósturforeldrum. Um getu foreldra til að veita börnunum öruggt og tryggt umhverfi kom fram í matsgerð að þrátt fyrir sýknudóm í sakamáli á hendur föður upplifðu börnin engu að síður enn hræðslu og óöryggi í tengslum við mögulega návist hans. Þar sem þau upplifðu ekki öryggi hjá föður sínum og sökum þess að móðir þeirra tæki afstöðu með honum næði hún heldur ekki að skapa börnunum öruggt og tryggt umhverfi eins og þau upplifðu það. Vilji barnanna væri að áliti matsmanns afar skýr, bæði að teknu tilliti til samtala hans við þau og annarra gagna málsins. Börnin upplifðu núverandi aðstæður sínar góðar og vildu búa áfram hjá fósturforeldrum. Hvorugt þeirra vildi snúa aftur á heimili foreldra. Með héraðsdómi 16. júlí 2018 var fallist á kröfu áfrýjanda um að stefndu skyldu svipt forsjá barna sinna. Dóminum var áfrýjað til Landsréttar sem með dómi 1. mars 2019 í máli nr. 671/2018 ómerkti héraðsdóm og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar á þeim grundvelli að héraðsdómur hefði verið skipaður tveimur sérfróðum meðdómendum á sama sviði og einum embættisdómara. Eins og háttaði til í málinu væri slík skipan í andstöðu við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. dóm Hæstaréttar 27. febrúar 2019 í máli nr. 26/2018. Þegar málið var undir áfrýjun í Landsrétti úrskurðaði áfrýjandi [...] 2018 á grundvelli 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga að umgengni barnanna við móður skyldi vera einu sinni í mánuði, tvo tíma í senn, undir eftirliti þar til Landsréttur kvæði upp dóm sinn. Aftur úrskurðaði áfrýjandi [...] 2019 á grundvelli sama lagaákvæðis að umgengni barnanna við móður skyldi vera óbreytt. Þá skyldu ömmur barnanna eiga kost á að taka þátt í umgengni móður við börnin fjórum sinnum ári, á hátíðum og afmælum. Á hinn bóginn skyldi engin umgengni vera við föður. Úrskurðurinn gilti uns lokaniðurstaða dómstóla lægi fyrir um skipan forsjár barnanna. Með héraðsdómi 6. júní 2019 var fallist á kröfu áfrýjanda um sviptingu forsjár barnanna. Málinu var áfrýjað 20. júní 2019 og var hinn áfrýjaði dómur kveðinn upp 1. nóvember sama ár, þar sem stefndu voru sýknuð af kröfu áfrýjanda. Hæstiréttur veitti áfrýjunarleyfi 17. desember 2019 á þeim grunni að málið hefði verulegt almennt gildi að barnarétti, einkum að því er varðaði hversu mikið vilji barns ætti að vega í málum er snertu það með tilliti til aðstæðna allra. 7 Auk alls framanritaðs eru í gögnum málsins fjölmargar skýrslur og vottorð starfsmanna áfrýjanda um eftirlit með umgengni við móður allan þann tíma sem um ræðir. Samkvæmt þeim hefur umgengnin gengið misvel, illa í fyrstu en batnað svo. Hittu börnin móður sína bæði sitt í hvoru lagi og einnig saman. Bera gögn málsins með sér að aðilar voru ekki á eitt sáttir um fyrirkomulag umgengni. Þá liggja meðal annars fyrir ýmis vottorð, sem áfrýjandi hefur aflað með reglubundnum hætti samkvæmt 44. gr. barnaverndarlaga, svo sem frá skólum barnanna, þar sem lýst er ítrekað vanlíðan þeirra á því tímabili sem meðferð málsins hefur staðið yfir. Einnig eru meðal málsgagna vottorð frá Barnahúsi með upplýsingum um meðferðarviðtöl. Til að mynda gerði L, sérfræðingur í klínískri barnasálfræði, vottorð [...] 2018 og [...] 2019 um meðferðarviðtöl við drenginn í Barnahúsi. Þar kom fram að hann hefði farið í fjölmörg slík viðtöl og skýrt frá kynferðislegu ofbeldi af hálfu föður síns. Hefði hann verið samkvæmur sjálfum sér í viðtölunum og fram komið ótti hans í garð föður. Vegna vanlíðunar drengsins hefði verið stofnað meðferðarteymi með sálfræðingum, fósturforeldrum, fulltrúum skóla, listmeðferðarfræðingi og fulltrúum barnaverndar. Þá ber að nefna skýrslur M listmeðferðarfræðings um 20 tíma meðferð hvors barns um sig. Þar kom fram að drengurinn nyti öryggis hjá fósturforeldrum og vildi búa áfram hjá þeim. Um stúlkuna sagði að hún hefði unnið vel úr áfallinu á myndrænan hátt og umbreytt og styrkt tilfinningu sína fyrir öryggi og vernd. Kvíðaköst og vanlíðan kæmu fyrir, en henni virtist líða vel í skólanum og hjá fósturforeldrum og fyndi öryggi þar. Stúlkan væri viðkvæm og erfið reynsla gagnvart föður sínum sæti enn í henni. Enn fremur gerði fyrrnefndur talsmaður barnanna [...] 2017 sitt hvora skýrsluna vegna þeirra. Lýsti talsmaðurinn því að stúlkan vildi eindregið búa hjá fósturforeldrum og hefði áhyggjur af því að þurfa að fara til móður sinnar. Þá hefði drengurinn sagst vilja búa hjá fósturforeldrum sínum, en hitta móður sína oftar og einnig ömmur sínar. Loks er að finna í gögnum málsins fleiri en eina lýsingu fósturmóður barnanna, meðal annars við skýrslugjöf hjá lögreglu [...] og [...] 2016, um að stúlkan hefði fengið grátköst og skýrt að eigin frumkvæði frá kynferðisofbeldi föður síns. Að gengnum hinum áfrýjaða dómi hafa ýmis gögn verið lögð fyrir Hæstarétt. Um er að ræða skýrslur talsmanns barnanna um viðtöl hennar við þau [...], tilkynningu til barnaverndarnefndar og skýrslu stuðningsfulltrúa stúlkunnar vegna viðtals stúlkunnar við hana [...] um hug stúlkunnar til foreldra sinna, skýrslur vegna umgengni móður við börnin dagana [...] og [...] og [...], [...], [...], [...] og [...] 2019, skýrslur skóla barnanna [...] 2019, [...]og [...] og [...] 2020 og skýrslur barnaspítala [...] og heilsugæslu um andlega líðan stúlkunnar síðastnefndan dag. Í þessum gögnum er umfjöllun um vanlíðan beggja barnanna, einkum stúlkunnar, í kjölfar hins áfrýjaða dóms og skýra afstöðu beggja barnanna um að þau vilji alls ekki búa hjá stefndu. Þá kom fram í gögnunum að umgengni hefði farið verulega úr skorðum. Loks voru lögð fyrir Hæstarétt endurrit af framangreindum viðtölum barnanna í Barnahúsi [...] og [...] 2016, en þau voru eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi ekki meðal gagna máls við meðferð þess þar. II 1 Í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar segir að allir eigi rétt til friðhelgi einkalífs, fjölskyldu og heimilis og þann rétt megi ekki skerða nema með lögum og að brýna nauðsyn beri til. Hliðstætt ákvæði er í 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá er í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar mælt fyrir um að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Í athugasemdum við frumvarp til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, þar sem lögfest voru framangreind ákvæði stjórnarskrárinnar, segir í skýringum við 3. mgr. 76. gr. að ákvæðið feli í sér vissa stefnuyfirlýsingu og sæki meðal annars fyrirmynd í 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989 og sé eink­um gert ráð fyrir að leggja skyldu á löggjafann til að setja lög um að veita börnum fyrr­nefnda tryggingu. Í 1. tölulið. 3. gr. samningsins, sem veitt var lagagildi með lögum nr. 19/2013, segir að það sem sé barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn. Þá er meðal annars í 2. og 6. gr. samningsins kveðið á um að aðildarríki hans skuli í hvívetna virða réttindi barnsins og tryggja af fremsta megni að börn megi lifa og þroskast. Í 1. tölulið 12. gr. er jafnframt mælt fyrir um að tryggja skuli barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða og skuli tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. Síðan segir í 2. tölulið greinarinnar að vegna þessa skuli barni einkum veitt tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi er barnið varðar, annað hvort beint eða fyrir milligöngu talsmanns eða viðeigandi stofnunar, á þann hátt sem samræmist reglum í lögum um málsmeðferð. Þá segir í 13. gr. samningsins að slíkt feli í sér rétt til að leita, taka við og miðla hvers kyns vitneskju og hugmyndum án tillits til landamæra, annað hvort munnlega, skriflega eða á prenti, í formi lista eða eftir hvers kyns öðrum leiðum að vali þess. Jafnframt kemur fram í 14. gr. að virða skuli rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar. Loks verður ráðið af ákvæðum 41. gr. samningsins að hann kveði á um lágmarksréttindi barns. Í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 19/2013, er meðal annars tíundað að ákvæði 1. töluliðar 3. gr. áðurnefnds samnings feli í sér einn af máttarstólpum hans ásamt hinum meginreglunum í 2., 6. og 12. gr. og að túlka beri einstök ákvæði hans með hliðsjón af því. Ákvæðið gegni sérlega mikilvægu hlutverki við aðstæður þegar önnur og sértækari ákvæði samningsins eigi ekki við. Við mat á því hvað teljist barni fyrir bestu skuli taka mið af efni grundvallarreglna samningsins, lögum hvers aðildarríkis, sem og rannsóknum og þekkingu á málefnum barna innan samfélagsins, ekki síst þekkingu og vitneskju barnanna sjálfra. Séu réttindi annarra tekin fram yfir réttindi barns eða barna beri þeim sem tekur ákvörðunina að gera grein fyrir ástæðum þess og rökstyðja með sannfærandi hætti. Annað sé í ósamræmi við samninginn. Forsenda þess að yfirvöld geti tekið slíkar ákvarðanir, sem séu barni fyrir bestu samkvæmt 3. gr. samningsins, sé að börn fái að segja álit sitt, að á þau sé hlustað og skoðanir þeirra virtar í samræmi við aldur þeirra og þroska, sbr. 12. gr. Þessi réttur barna sé ekki einungis bundinn við persónuleg málefni, heldur nái hann einnig til málefna samfélagsins og þá fyrst og fremst þeirra málefna er varði nánasta umhverfi barnanna og þau þekkja af eigin raun. Eðli máls samkvæmt þarfnist börn meiri umhyggju og ríkari verndar meðan þau eru ung að árum. Eftir því sem þau verða eldri og þroskaðri þurfi þau jafnframt í auknum mæli að fá tækifæri til að hafa áhrif á líf sitt og umhverfi. Þetta sé grunnurinn að nútímaviðhorfi til barna sem sjálfstæðra einstaklinga með eigin réttindi og marki endalok þeirrar aldagömlu hugmyndar að börn séu „eign“ foreldra sinna. Svo sem áður segir er friðhelgi einkalífs, fjölskyldu og heimilis varin af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þá vernd verður þó að meta í samhengi við 3. mgr. 76. gr. hennar sem mælir fyrir um að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Með því ákvæði er sú skylda lögð á almenna löggjafann að móta nánar með lögum hvernig og með hvaða hætti velferð barna verður tryggð. Þótt þetta sé falið almenna löggjafanum mælir ákvæðið sjálft fyrir um að vernd barna skuli tryggð í þágu velferðar þeirra. Af því leiðir að grunnregla barnaréttar um að hagsmunir barna skuli hafðir í fyrirrúmi, eftir því sem velferð þeirra krefst, nýtur verndar stjórnarskrárinnar. Er þá jafnframt litið til þess að markmið 3. mgr. 76. gr. hennar er að tryggja að íslenskur réttur sé í samræmi við umræddan alþjóðasamning um réttindi barnsins, en hann hvílir á fyrrgreindri grunnreglu. Samkvæmt þessu leiðir af stjórnarskránni að friðhelgi einkalífs, fjölskyldu og heimilis verður að víkja þegar velferð barns er í húfi. Þegar hagsmunir barns eru metnir í því tilliti er nauðsynlegt að líta til vilja þess eftir því sem aldur þess og þroski stendur til.   2 Krafa áfrýjanda er reist á því að uppfyllt séu skilyrði a., c. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga til sviptingar forsjár stefndu, en börn þeirra eru nú vistuð utan heimilis á vegum áfrýjanda samkvæmt 28. gr., sbr. b. lið 27. gr. laganna. Barnaverndarnefnd getur krafist sviptingar forsjár fyrir dómi samkvæmt a. lið 29. gr. barnaverndarlaga ef daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns er alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska. Þá eru skilyrði sviptingar samkvæmt c. lið greinarinnar þau að barni sé misþyrmt, misboðið kynferðislega eða megi þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu. Loks er í d. lið veitt heimild til forsjársviptingar ef fullvíst er að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða breytni þeirra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Í 2. mgr. greinarinnar er síðan mælt fyrir um að kröfu um sviptingu forsjár skuli því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs. Í 1. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga kemur fram það markmið laganna að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Í því tilliti skal leitast við að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að barnaverndarlögum segir í skýringum með ákvæðinu að í þessu felist meðal annars það almenna sjónarmið að hagsmunir barna séu alla jafna best tryggðir með því að þau alist upp hjá sinni eigin fjölskyldu og að stöðugleiki ríki í uppvexti þeirra. Í 4. gr. laganna koma fram þær meginreglur sem gilda í barnaverndarstarfi. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu og skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Í 2. mgr. segir að í störfum sínum skuli barnaverndaryfirvöld taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til. Þá er mælt fyrir um í 3. og 4. mgr. greinarinnar að barnaverndarstarf skuli stuðla að stöðugleika í uppvexti barna og skuli barnaverndaryfirvöld leitast við að eiga góða samvinnu við börn og foreldra sem þau hafa afskipti af og ávallt sýna þeim fyllstu nærgætni og virðingu. Jafnframt skulu þau í störfum sínum og öllum ákvörðunum gæta samræmis og jafnræðis, sbr. 6. mgr. Þá kemur fram í 7. mgr. að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þau skuli ávallt gæta meðalhófs þannig að íþyngjandi ráðstafanir komi aðeins til greina að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að barnaverndarlögum segir í skýringum við 4. gr. að í henni sé safnað saman nokkrum meginreglum alls barnaverndarstarfs og að reglur þessar beri að leggja til grundvallar við beitingu og túlkun laganna. Í 1. mgr. ákvæðisins sé sett fram sú almenna grundvallarregla barnaréttar að í barnaverndarstarfi skuli jafnan beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu. Þessi regla vísi til sjálfstæðs réttar barnsins þar sem hagsmunir þess skuli skipa öndvegi. Aðrir hagsmunir, svo sem hagsmunir foreldra, verði þar af leiðandi að víkja ef þeir stangist á við hagsmuni barnsins, en reglan komi meðal annars fram í 1. tölulið 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Við beitingu þessarar reglu í barnaverndarstarfi séu barnaverndaryfirvöld þó að sjálfsögðu bundin við þau úrræði sem lögin geri ráð fyrir og heimili. Þá er vísað til þess að ýmis ákvæði samningsins um réttindi barnsins séu byggð á því viðhorfi sem fram komi í 2. mgr. greinarinnar og þess gæti í vaxandi mæli íslenskri í löggjöf um málefni barna. Í hendur við þetta viðhorf haldist sú regla að taka beri tillit til sjónarmiða og óska barnsins eftir því sem við eigi. Er um þetta meðal annars vísað til 1. töluliðar 12. gr. samningsins. Til þess er skírskotað að afskipti barnaverndaryfirvalda skuli grundvallast á meðalhófi og sérstakar ráðstafanir aðeins réttlætanlegar beri nauðsyn til vegna hagsmuna barnsins, sbr. 7. mgr. 4. gr. Í 1. mgr. 33. gr. barnaverndarlaga segir að þegar barnaverndarnefnd hefur tekið við umsjá eða forsjá barns sem vistast utan heimilis skuli hún gera skriflega áætlun um um vistunina. Þá er kveðið á um í 2. mgr. sömu greinar að leitast skuli við að finna systkinum sameiginlegar lausnir í samræmi við þarfir þeirra og hagsmuni. Eigi foreldrar sem hafa verið sviptir forsjá barns ekki aðild að málum sem varða ákvarðanir um úrræði því til handa, að undanskildum málum er varða ákvörðun um umgengnisrétt, sbr. 3. mgr. greinarinnar. III 1             Upphaf máls þessa verður sem fyrr segir rakið til tilkynningar til Barnahúss og lögreglu í lok [...] 2015 um grunsemdir þess efnis að stefndi hafi beitt dóttur sína kynferðisofbeldi. Af þeim sökum voru börnin vistuð tímabundið utan heimilis á vegum áfrýjanda með samþykki móður er þá var í meðferð á [...] vegna [...]. Stóð vistun barnanna fram í desember það ár er þau fluttust aftur heim til móður sinnar. Var þá gerð áætlun um frekari meðferð málsins í samræmi við 33. gr. barnaverndarlaga, þar sem lögð var áhersla á að börnin, einkum stúlkan, skyldu ekki nema að afar takmörkuðu leyti umgangast föður sinn meðan málið væri í rannsókn. Svo sem áður greinir gekk áætlunin ekki eftir og leiddi það til þess að stúlkan var vistuð utan heimilis á grundvelli b. liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga frá [...] 2016 og drengurinn frá [...] það ár, sbr. 31. gr. laganna. Hefur stúlkan því verið vistuð utan heimilis foreldra sinna rúm fjögur ár og drengurinn liðlega þrjú og hálft ár. Á því tímabili hefur móðir notið takmarkaðrar umgengni við þau og faðir engrar. 2 Í málinu liggja fyrir fjölmörg gögn ýmissa fagaðila um stefndu og börn þeirra, þar sem fram koma upplýsingar um líðan barnanna, heilsu þeirra og þroska á þeim tíma sem um ræðir. Þá hafa börnin reglulega lýst vilja sínum um málefni sín, þar á meðal um búsetu og umgengni við stefndu. Af þessum gögnum verður með engum hætti dregin önnur ályktun en að börnin hafi við alla meðferð málsins verið afdráttarlaus um að þau vilji ekkert samneyti eiga við föður sinn. Bera gögnin með sér að þau óttist hann og var það álit dómkvadds matsmanns að sá ótti væri þeim raunverulegur. Jafnframt hafa börnin allan þann tíma sem þau hafa búið hjá fósturforeldrum lýst þeirri afstöðu sinni að þar líði þeim vel og vilji búa þar áfram. Auk þessa ræddu dómendur í héraði beint við börnin til þess að kanna afstöðu þeirra í samræmi við síðari málslið 2. mgr. 55. gr. barnaverndarlaga. Var stúlkan mjög afdráttarlaus um að hún vildi búa áfram hjá fósturforeldrum sínum, en hvorki fara aftur í umsjá foreldra sinna né búa hjá móður sinni, jafnvel þótt faðir hennar væri ekki þar. Stúlkan féllst á að hitta móður sína mánaðarlega, en vildi alls ekki hitta föður sinn. Drengurinn tjáði sig ekki jafn skýrt, en dómendur í héraði mátu vilja hans á þann veg að hann vildi fá að búa með systur sinni hjá fósturforeldrum þótt hann vildi jafnframt hitta móður sína meira. Hann kvaðst hins vegar ekki vilja hitta föður sinn. Í dóminum var tekið fram að áberandi væri að hvorugt barnanna virtist geta hugsað sér að eiga í samskiptum við föðurinn, en drengurinn virtist sakna þess að fá ekki að sjá meira af móður sinni eftir að umgengni hans við hana var skert um helming um [...] 2018. Í minnisblaði dómara Landsréttar um samtal þeirra við börnin 13. febrúar 2019 við fyrri meðferð málsins þar fyrir dómi kom fram að stúlkan myndi „aldrei vilja fara til móður og föður“, en féllist á að umgengni við móður yrði með tilteknum hætti. Þá sagði að stúlkan vildi búa hjá fósturforeldrum sínum. Samkvæmt minnisblaðinu tjáði drengurinn sig „ekki mikið sjálfstætt um málið við dómara.“ Þó var haft eftir drengnum að honum líkaði „smá vel“ að búa hjá fósturforeldrum. Hann óskaði eftir að fá meiri umgengni við móður og „kannski hitta pabba.“  Var það ályktun dómsins samkvæmt minnisblaðinu að í svörum drengsins kæmi fram skýr vilji um að hafa meiri samskipti við móður og eftir atvikum búa hjá henni. Samkvæmt þessu og að virtu því sem að framan er rakið um þær meginreglur, sem líta ber til við úrlausn barnaverndarmála og að teknu tilliti til þess sem ráðið verður um vilja barnanna, getur ekki ráðið úrslitum að faðir þeirra var sýknaður í sakamáli samkvæmt þeim ströngu kröfum um sönnun sem í slíkum málum gilda. Þvert á móti verður að virða atvik málsins með hliðsjón af því hvað börnunum er fyrir bestu eftir þeim reglum sem áður eru raktar. Fer þetta ekki í bága við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus uns sekt hans hefur verið sönnuð. 3 Tekið er undir þær athugasemdir, sem fram koma í héraðsdómi og hinum áfrýjaða dómi, að ýmislegt hafi farið úrskeiðis varðandi meðferð málsins af hálfu áfrýjanda.  Að virtum þeim meginreglum sem að framan eru raktar er það á hinn bóginn sjálfstætt úrlausnarefni hvaða áhrif ágallar í stjórnsýslumeðferð skuli hafa á niðurstöðu þessa máls um velferð barna stefndu. 4 Endurrit af þinghöldum vegna síðari meðferðar málsins fyrir Landsrétti ber með sér að áfrýjandi hafi talið rétt að börnin færu á ný í viðtal hjá dómurum málsins, en dómurinn féllst ekki á það. Þótt börnin hafi þurft að þola óvenju mikið álag við málsmeðferðina er til þess að líta að rúmlega átta mánuðir liðu frá því að þau gáfu skýrslu fyrir Landsrétti þar til hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp. Bar réttinum að fullvissa sig um afstöðu og líðan barnanna með því að tala við þau á nýjan leik. Var enn meiri nauðsyn til þess í því ljósi að með dóminum er farið á svig við afdráttarlaus gögn málsins um vilja stúlkunnar og að sínu leyti gögn um vilja drengsins, sbr. framangreind ákvæði 2. mgr. 4. gr., 2. mgr. 46. gr. og 2. mgr. 55. gr. barnaverndarlaga og 1. og 2. tölulið 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, og dóm Hæstaréttar 29. nóvember 2017 í máli nr. 703/2017.   Nokkuð skortir á rökstuðning í hinum áfrýjaða dómi með hvaða hætti óumdeildir annmarkar við stjórnsýslumeðferð málsins eigi að vera stoð undir aðra efnislega niðurstöðu en héraðsdómur komst að. Ekki er með fullnægjandi hætti fjallað um hvernig frásagnir eða endursagnir af frásögnum barnanna við málsmeðferðina alla hafi verið misvísandi og þá í hvaða atriðum. Auk þess er til að mynda ónákvæm sú ályktun dómsins að við skýrslutöku af stúlkunni í Barnahúsi [...] 2015 sé ekki að finna neinar upplýsingar um ætluð kynferðisbrot stefnda. Má þar um vísa til lýsingar hér að framan á viðbrögðum hennar við spurningum og vanlíðan meðan á viðtali stóð. Í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms er að engu leyti vikið að matsgerð dómkvadds matsmanns. Í henni kemur fram að vilji barnanna sé mjög skýr um að þau upplifi aðstæður sínar góðar á fósturheimilinu, öfugt við heimili foreldra sinna, og vilji hvorugt þeirra snúa aftur á heimili foreldranna. Eru þessar ályktanir matsmanns mjög í samræmi við viðtöl barnanna við talsmann sinn og meðferðaraðila í Barnahúsi og einnig lýsingar annarra þeirra er komu að málefnum barnanna, svo og þau nýju gögn sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, meðal annars frá skipuðum talsmanni þeirra.   Loks er því heldur ekki lýst í hinum áfrýjaða dómi með hvaða hætti aðkoma starfsmanna áfrýjanda og meðferðaraðila barnanna hafi haft áhrif á viljaafstöðu þeirra þannig að ekki verði byggt á frásögnum barnanna um atriði sem skipta máli, þar á meðal vilja þeirra og líðan. Gengur þessi niðurstaða að auki þvert á þann framburð matsmanns fyrir dómi að ekki væri að merkja innrætingu um þessi atriði hjá systkinunum. Til viðbótar þessu verður ekki séð hvernig framfylgja megi að lögum þeim fyrirmælum eða tilmælum um umgengni stefndu við börnin er fram koma í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms og lýst er sem nauðsynlegum forsendum fyrir því að unnt sé að sýkna stefndu. Þrátt fyrir framangreinda ágalla á hinum áfrýjaða dómi er hins vegar óhjákvæmilegt, með tilliti til brýnna hagsmuna barnanna, að dæma málið að efni til í stað þess að vísa því til nýrrar meðferðar. 5 Réttur barns til fjölskyldulífs er alla jafna samþýðanlegur því sem barni er fyrir bestu. Eins og mál þetta liggur fyrir er hins vegar deilt um hvort hér hátti svo til. Við úrlausn málsins er það grundvallaratriði að tekin verði ákvörðun með sérstakri hliðsjón af þeim ákvæðum stjórnarskrár og laga sem að framan eru rakin og eftir þeirri meginreglu að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni séu fyrir bestu þegar á kunna að rekast hagsmunir foreldra og barna. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, einkum mati dómkvadds matsmanns sem ekki hefur verið hnekkt, er ljóst að upplifun beggja barnanna ber með sér verulegan ótta við stefnda. Er fallist á með áfrýjanda að líklegt sé að heilsu barnanna og þroska sé hætta búin í umsjá stefnda sökum þess að breytni hans sé til þess fallin að valda börnunum alvarlegum skaða, sbr. d. lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Verður stefndi því sviptur forsjá beggja barnanna. Ekki verður vefengt sem fram kemur í fyrirliggjandi gögnum, þar á meðal matsgerð dómkvadds manns, að forsjárhæfni stefndu B sé skert og þótt litið sé til þess að hún hafi lagt sig fram um að bæta stöðu sína séu veikleikar í persónugerð hennar og skortur á innsæi, auk þess sem þrálátt [...] og vanvirkni hamli henni. Er þó fallist á að í þessu efni dugi ekki að líta eingöngu til ætlaðrar vanrækslu stefndu við umönnun barnanna, þar sem hún virðist ekki hafa verið slík að réttlæti forsjársviptingu. Á hinn bóginn verður af því sem fram er komið í málinu ekki vefengt að tengsl hafi ekki myndast á eðlilegan hátt á milli mæðgnanna. Þá bera gögn málsins með sér að eftir vistun stúlkunnar utan heimilis varð enn frekara tengslarof og vandséð að unnt sé að byggja upp tengsl þeirra og traust að nýju. Jafnframt hefur stúlkan margítrekað lýst því afar skýrt að hún treysti stefndu ekki nægilega vel og vilji búa í öruggu umhverfi fósturforeldra sinna eins og hún geri nú. Enn fremur sýndi stefnda verulegan innsæisskort með viðbrögðum sínum við erfiðri stöðu dóttur sinnar eftir að málið kom upp. Verður heldur ekki fram hjá því litið að stefndu eru í hjúskap og hafa lýst því yfir að ekki standi til að breyting verði þar á. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga til að svipta stefndu forsjá dóttur sinnar.   Ótvírætt er af því sem fram er komið í málinu að staða drengsins gagnvart móður er að sumu leyti önnur en staða stúlkunnar. Hefur drengurinn lýst vilja sínum til að vera áfram hjá fósturforeldrum. Á hinn bóginn hefur hann einnig greint frá því að hann óski eftir að umgangast móður sína meira en nú og eftir atvikum búa hjá henni. Á móti kemur að verulegs vantrausts virðist einnig hafa gætt hjá honum gagnvart móður sinni varðandi samskipti hennar við stefnda, sem drengurinn hefur óttast eins og áður segir. Í 2. mgr. 33. gr. barnaverndarlaga er mælt fyrir um að leitast skuli við að finna systkinum sameiginlegar lausnir í samræmi við þarfir þeirra og hagsmuni. Samræmist það þeirri niðurstöðu  dómkvadds matsmanns, sem studd er öðrum gögnum málsins, að réttast sé að rjúfa ekki tengslin milli systkinanna, einnig til framtíðar þeirra litið. Um þetta verður einnig að líta til eindreginnar viljaafstöðu barnanna um að þau fái að búa áfram saman, er kemur skýrt fram í gögnum málsins. Loks verður að líta til þess sem áður greinir að börnin virðast ekki treysta móður sinni til þess að veita þeim vernd sem þau þarfnast vegna ótta þeirra við stefnda. Samkvæmt þessu og því að börnin hafa sýnt sterkan vilja til þess að fá að vera áfram saman hjá fósturforeldrum verður ekki annað séð en að þeim sé fyrir bestu að fallist verði á þá kröfu áfrýjanda að stefnda verði svipt forsjá sonar síns með stoð í sama lagaákvæði og vísað var til um forsjársviptingu dóttur hennar. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest. Þá er rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað stefndu hér fyrir dómi fer eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Stefndu, B og A, eru svipt forsjá barnanna C og D. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna þeirra, 1.000.000 krónur til hvors um sig.                                                                                 Dómur Landsréttar 1. nóvember 2019 Mál þetta dæma landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson og Jóhannes Sigurðsson og Ragna Ólafsdóttir sálfræðingur. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Áfrýjendur skutu málinu til Landsréttar 11. júní 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2019 í málinu nr. E-[…]/2017. 2        Áfrýjendur gera þá kröfu að þau verði sýknuð af kröfu stefnda um sviptingu forsjár barna þeirra. Þá gera þau kröfu um greiðslu málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. 3        Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Málsatvik og sönnunarfærsla 4        Áfrýjendur eru hjón sem fara sameiginlega með forsjá barnanna C sem er fædd [...] og D sem er fæddur [...]. Börnin er nú [...] og [...] ára. Upphaf máls þessa má rekja til þess að […] í skóla stúlkunnar tilkynnti til barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar [...] 2015 að stúlkan hefði í viðtali við fulltrúann upplýst að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu föður síns. Starfsmenn barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar tilkynntu málið strax til lögreglu og var faðirinn handtekinn þann sama dag. Hann sætti gæsluvarðhaldi í framhaldi af því. Gerð var húsleit á heimili áfrýjenda og lagt hald á tölvur og ýmis önnur gögn. Faðirinn hefur ávallt neitað sök í málinu. 5        Móðirin dvaldi á þessum tíma á [...] vegna [...]. Ákvað barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar þá með samþykki móður að vista börnin utan heimilis til [...] 2015. Óskað var eftir samþykki móður til að framlengja vistina þar til skýrslutökum yfir stúlkunni í Barnahúsi lyki. Því hafnaði móðirin og ákvað stefndi því að beita neyðarráðstöfun samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og vista bæði börnin áfram utan heimilis til [...] 2015. 6        Þann [...] 2015 voru teknar skýrslur af báðum börnunum í Barnahúsi. Endurrit af þeim skýrslum liggja fyrir í málinu en þar er ekki að finna neinar upplýsingar um meinta kynferðislega misnotkun. Dóttirin gaf að nýju skýrslu í Barnahúsi [...] 2015 þar sem hún lýsti því að faðir hennar hefði snert einkastaði hennar […]. Nánar lýsti hún því þannig að […]. Nánar aðspurð gat hún ekki lýst því hvernig […]. Framburður stúlkunnar var óljós þegar hún var nánar spurð út í atvik og bar hún oft fyrir sig minnisleysi. Þann [...] 2016 var þriðja skýrslan tekin af stúlkunni í Barnahúsi. Endurrit þeirrar skýrslu hefur ekki verið lagt fram í málinu en hluti hennar er tekinn upp í dómi héraðsdóms [...] í máli nr. S-[...]/2017 þar sem fjallað var um ákærur á hendur föður um kynferðislega misnotkun. Þar er haft eftir stúlkunni að faðirinn komið við einkastað hennar […]. Þá skrifaði hún á blað að faðirinn hefði […]. Nánar aðspurð sagði hún síðan að það hefði gerst nokkrum sinnum eða tíu til tuttugu sinnum í […].  7        Í framangreindum dómi kemur fram að drengurinn gaf að nýju skýrslu í Barnahúsi [...] 2016. Drengurinn hafði þá aftur verið vistaður utan heimilis frá [...] 2016 eins og nánar verður vikið að hér síðar. Skýrslutakan átti sér stað í kjölfar þess að vistmóðir hans hafði spurt drenginn hvort hann og stúlkan ættu sér leyndarmál. Hafi drengurinn neitað því en sagt að hann og pabbi hans ættu leyndarmál. Sagði hann vistmóðurinni að pabbinn hefði […]. Í framburði drengsins hjá Barnahúsi endurtók drengurinn þessa frásögn og sagði þetta hafa gerst í eitt skipti. Nánar aðspurður hvar þetta hafi átt sér stað svaraði drengurinn því til að það hefði verið […]. Sagði hann mömmu sína hafa verið viðstadda og að hún hafi verið í símanum. 8        Í greinargerð starfsmanna barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar [...] 2017, sem liggur til grundvallar úrskurði nefndarinnar um forsjársviptingarkröfuna, eru rakin atvik málsins út frá sjónarhorni þeirra. Þar kemur fram að jafnhliða grun um kynferðislega misnotkun hafi vaknað grunur um vanrækslu foreldra í uppeldi barnanna. Kom þar einkum þrennt til. Í fyrsta lagi hafi komið í ljós að drengurinn átti erfitt með [...]. Í öðru lagi kom í ljós að stúlkan hafi um skeið átt við [...]. Í þriðja lagi hafi verið [...] 9        Áfrýjendur hafa lýst því að í raun hafi [...] ekki verið mikið vandamál hjá drengnum en hann hafi viljað [...]. Það hafi þau leyft eftir að hafa leita ráða hjá ýmsum aðilum um hvernig bregðast ætti við þessum vanda. Stúlkan hafi átt það til að [...]. Ástandið hefði verið farið að lagast þótt enn hafi borið á því þegar börnin voru fyrst tekin af heimilinu. Hefðu þau verið búin að leita aðstoðar sérfræðinga um möguleg úrræði og hafi verið að vinna að lausnum á því, meðal annars með [...]. Þá hefur móðirin lýst því að hún hafi [...]. 10       Í framburði G, starfsmanns stefnda, fyrir Landsrétti, sem unnið hefur við barnaverndarmálið frá upphafi, kom fram að stúlkan væri með [...] og að fylgjast þyrfti með því hvort drengurinn [...]. Vandamál með [...] stúlkunnar væru ekki lengur til staðar. Þá kom fram í framburði G að samkvæmt upplýsingum lögreglu hefði verið mikil óreiða á heimili áfrýjenda þegar lögreglan gerði þar húsleit við upphaf málsins. 11       Auk framangreindra atriða kemur fram í gögnum málsins að bæði börnin hafi glímt við [...]. Stúlkan hafi sýnt merki um [...] og drengurinn verið [...]. Fram kemur í gögnum málsins að þessi vandamál hafi haldið áfram eftir vistun utan heimilis þótt sumt hafi þróast til betri vegar. Líðan barnanna er þó misjöfn og hafa fósturmóðir og kennarar sagt að háttsemi þeirra og líðan sé oft slæm í tengslum við umgengni við móður. Umgengni móður hefur frá upphafi verið undir eftirliti og kemur fram í skýrslum eftirlitsaðila að umgengni hafi almennt gengið vel. Þá sýna gögn í málinu að börnin [...]. Börnin hafi í framhaldi af því [...] 12       Af áðurgreindri greinargerð starfsmanna barnaverndarnefndar má ráða að móðurinni hafi verið mjög brugðið þegar ásökun um kynferðislega misnotkun af hálfu föður kom fyrst fram. Hún hafi tjáð starfsmönnunum að hún mundi standa með stúlkunni þótt hún vissi ekki hvorum aðilanum hún ætti að trúa. Að hennar sögn hefði eiginmaður hennar reynst henni mjög vel og væri natinn við börnin. Þá bar móðuramman föðurnum mjög vel söguna í samtali við starfsmenn stefnda. Þá kemur fram að móðirin hafi sýnt góða samvinnu við þá í upphafi, meðal annars með því að samþykkja vistun barnanna utan heimilis. Fljótlega töldu starfsmenn barnaverndarnefndar að móðirin stæði í raun ekki með stúlkunni og að hún tryði ekki frásögn hennar. Meðal annars hefði móðirin sýnt börnunum myndbandsupptöku með kveðju frá föður þeirra þegar þau voru í umgengni hjá henni. Þá komu fram ásakanir frá móður og móðurömmu barnanna á fundum með starfsmönnum stefnda um að stúlkunni hafi verið lögð orð í munn af […]. Töldu mæðgurnar jafnframt að starfsmenn barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar væru að vinna gegn fjölskyldunni. 13       Börnin fóru aftur til móður [...] 2015. Starfsmenn stefnda lögðu þá áherslu á það við móður að faðirinn umgengist börnin ekki og boðuðu heimsókn á heimilið. Í heimsókninni [...] 2015 kom til umræðu hvort stúlkan mætti hitta föður sinn í jólaboðum en fram kom hjá móður að fyrirhuguð væru jólaboð hjá fjölskyldunni nánast alla daga. Samkvæmt greinargerð starfsmanna stefnda var talið í lagi að stúlkan hitti föðurinn í einu fjölskylduboði en of mikið væri að hún hitti hann á hverjum degi. Móðirin hefur á hinn bóginn lýst þessum samskiptum þannig að hún hafi ekki fengið skýr skilaboð um að faðirinn mætti aðeins hitta börnin í einu boði, heldur hafi hún talið að það væri í lagi að þau hittu hann oftar að því tilskildu að þau væru ekki ein með honum. 14       Starfsmenn barnaverndarnefndar gerðu skriflega meðferðaráætlun [...] 2015 í því skyni að styðja við móður og börn og skyldi áætlunin gilda til [...] 2016. Í henni kemur fram að móðirin skuli sýna starfsmönnum barnaverndarnefndar samstarfsvilja í málinu, koma ásamt börnum í viðtöl við félagsráðgjafa eftir þörfum og mæta í sálfræðiviðtöl til að styrkja hana í uppeldishlutverkinu og tengsl hennar við börnin. Þá kemur einnig fram að móðirin eigi að sinna því að dóttirin fari í viðtöl í Barnahúsi og að hún þiggi aðstoð í formi tilsjónar á heimili. Starfsmenn barnaverndarnefndar skyldu fá móður í regluleg viðtöl, fylgjast með börnum í […], útvega sálfræðiviðtöl fyrir móður og dóttur, útvega tilsjón á heimilið og setja á fund með skóla og foreldri. Ekki voru gerðar frekari meðferðaráætlanir í málinu. 15       Starfsmenn barnaverndarnefndar gera grein fyrir því í áðurnefndri greinargerð að í samskiptum þeirra við móður [...] 2016 hafi aftur komið fram það sjónarmið hjá móður að hún teldi […] hafa farið út fyrir verklagsreglur í samtölum við stúlkuna. Þá hafi hún gefið í skyn að vinnsla málsins væri ekki rétt og að vandræði fjölskyldunnar væru tilkomin vegna vinnubragða starfsmanna barnaverndarnefndar og skóla. Var í framhaldinu ákveðið að móðirin og starfsmenn stefnda hittu starfsmenn skólans [...] 2016 til þess að varpa frekara ljósi á málið. Á þeim fundi hafi móðirin sagt frá því að stúlkan hafi upplýst hana um að hún hefði ruglast þegar hún var að tala við […] og að faðirinn hefði aldrei gert neitt. Þá setti móðirin út á störf […]. Aðilar voru þó sammála um það á fundinum að stúlkan færi sem fyrst í viðtöl í Barnahúsi. Seinna fengu starfsmenn stefnda upplýsingar frá Barnahúsi um að hringt hefði verið þrisvar í móðurina þennan sama dag en hún ekki svarað eða hringt til baka. Daginn eftir, [...] 2016, barst starfsmönnum barnaverndarnefndar bréf frá Barnahúsi þar sem því er lýst að stúlkan sé í samskiptum við meintan geranda og að hún njóti ekki stuðnings móður sinnar. Meðferðarviðtöl séu því ekki líkleg til að skila árangri. Ekki kemur fram í bréfinu hvaðan starfsmaður Barnahúss hafði þær upplýsingar að stúlkan væri í samskiptum við föður og að hún nyti ekki stuðnings móður sinnar. 16       Í samræmi við meðferðaráætlunina var höfð tilsjón með heimilinu með því markmiði að koma reglu á heimilishaldið. Tilsjónarkonan fór þrisvar á heimilið á tímabilinu [...] til [...] 2016. Í skýrslum hennar kemur fram að móðirin hafi lýst því að stúlkan hafi sagst hafa ruglast í frásögn sinni og að málið væri allt misskilningur. Í skýrslunum kemur einnig fram að móðirin hafi verið í samskiptum við föður meðal annars vegna sálfræðiaðstoðar sem þau væru að leita eftir fyrir stúlkuna og að maðurinn hefði komið oft í heimsókn á heimilið en gisti hjá […]. 17       Samkvæmt meðferðaráætluninni skyldi barnaverndarnefnd útvega móður sálfræðiviðtöl. Leituðu starfsmenn barnaverndarnefndar til O sálfræðings í þessu skyni [...]. Í framburði O fyrir héraðsdómi staðfesti hún að rætt hefði verið við hana en hún hefði hins vegar ekki fengið beiðni frá barnaverndarnefnd þótt hún hefði gengið eftir því. 18       Fram kemur í greinargerð starfsmanna barnaverndarnefndar að í upplýsingum frá skóla stúlkunnar [...] 2016 hafi komið fram að hún hafi átt erfiðan dag í skólanum og að hún hafi sagt frá því að hún hefði farið með foreldrum sínum og bróður að kaupa [...]. Þá hafi faðir og móðir mætt saman í foreldraviðtal í skólanum [...] 2016 og þar hefðu komið fram vísbendingar um að faðirinn væri ennþá á heimilinu. 19       Starfsmaður barnaverndarnefndar ræddi við móðurina [...] 2016 um að hún styddi ekki við dóttur sína sem kæmi meðal annars fram í því að hún hefði ekki svarað símhringingum Barnahúss og að meðferðin þar mundi ekki koma að gagni ef umönnunaraðilinn væri ekki virkur þátttakandi. Þá hafi komið fram hjá móðurinni að hún tryði ekki frásögn dótturinnar hjá […] eða Barnahúsi, heldur eingöngu frásögn hennar um að þetta væri allt á misskilningi byggt. Rætt var hvort móðirin mundi samþykkja vistun utan heimilis svo að stúlkan gæti verið í umhverfi þar sem hún hefði stuðning. Móðirin hafnaði þeirri tillögu. 20       Starfsmenn barnaverndarnefndar lögðu fram tillögu [...] 2016 um vistun stúlkunnar utan heimilis og úrskurðaði barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar [...] 2016 að stúlkan skyldi tekin af heimili foreldra og vistuð utan þess á vegum nefndarinnar. Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti úrskurð barnaverndarnefndar með dómi [...] 2016. Stúlkan hefur síðan verið vistuð utan heimilis. 21       Sumarið 2016 bárust starfsmönnum barnaverndarnefndar upplýsingar um að drengurinn hefði ekki mætt í […] eftir sumarfrí og að hann hefði [...]. Ræddu starfsmenn barnaverndarnefndar við starfsmenn [...] og kom fram hjá þeim að drengnum hefði gengið mjög erfiðlega að aðlagast. Í viðtali starfsmanna barnaverndarnefndar við drenginn í […] kom fram að hann, móðirin og faðir byggju öll saman. Þegar rætt var við móðurina um þessi mál sagðist hún hafa ákveðið að flytja frá Hafnarfirði til [...] og hún væri að hefja nám í [...]. 22       Á fundi starfsmanna barnaverndarnefndar með móðurinni og lögmanni hennar í [...] 2016 var borin undir hana grunur um að hún byggi ennþá með föður barnanna. Móðirin sagði það rangt, þau væru búin að slíta samvistum og hefðu ekki búið saman síðan í [...] 2015. Móðirin upplýsti að faðir kæmi stundum til þeirra um helgar í umgengni við drenginn en væri aldrei einn með honum. Lögmaður konunnar staðfesti að hún hefði verið að vinna í skilnaði hjónanna í hálft ár. Umsókn um skilnað var lögð fram hjá sýslumanni [...] 2016 en hún var síðar dregin til baka þar sem þau hefðu ákveðið að vera í hjúskap en búa ekki saman þar til málið væri til lykta leitt. Samkvæmt upplýsingum starfsmanna barnaverndarnefndar hefði komið fram í skýrslutöku af stúlkunni í Barnahúsi [...] 2016 að hún hefði áhyggjur af bróður sínum hjá móður sinni en hún hafði tvívegis áður nefnt þessar áhyggjur sínar að sögn starfsmanna barnaverndarnefndar. 23       Í ljósi upplýsinga sem starfsmenn barnaverndarnefndar töldu sig hafa um stöðu foreldra á heimili barnsins var ákveðið [...] 2016 að beita neyðarráðstöfun samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga og vista drenginn utan heimilis. […]. Drengurinn hefur frá þessum tíma verið vistaður utan heimilis. 24       Á heimilinu þar sem börnin voru vistuð, fyrst í [...] 2015 og síðan frá árinu 2016, voru fyrir [...]. Samkvæmt framburði vistmóður fyrir héraðsdómi voru vistforeldrarnir þá [...] og [...] ára gamlir. 25       Í ágústmánuði 2016 óskaði barnaverndarnefnd eftir því við E sálfræðing að hann mæti forsjárhæfni móðurinnar. Skilaði hann matinu 7. nóvember sama ár. Meginniðurstöður þess voru þær að móðirin væri ekki nægilega hæf til að fara með forsjá barna sinna einkum vegna afstöðu hennar til barnaverndarmálsins. Það lýsti sér í því að hún hefði ekki tekið skýra afstöðu með börnunum, hún hefði verið í samskiptum við föður, samstarf hennar við barnaverndarnefnd hefði ekki verið nægjanlega gott, vísbendingar væru um ákveðna vanrækslu á heimili vegna [...] stúlkunnar og [...] hjá drengnum, mögulegt ofbeldi, foreldrar hefðu rætt um barnaverndarmálið í veislu og móðirin pressað á stúlkuna vegna framburðar hennar. Matsmaðurinn mælti þó með áframhaldandi umgengni undir eftirliti og að hún yrði aukin þegar á liði og færi fram á heimili móður. Telur matsmaðurinn að aðlaga þurfi börnin aftur móður sinni þegar lögreglumálinu verður lokið ef vel gengur með umgengni. Þá mælir hann með því að móðir og börn vistist í greiningar- og leiðbeiningarvistun áður en þau fara í hennar umsjá ef möguleiki er á slíku úrræði eða að vandað verði vel til aðlögunar á heimilinu. Í matinu kemur fram að tengsl móður við börnin séu eðlileg í umgengninni og að móðirin hafi góðan grunn til tengslamyndunar. Styrkleiki hennar felist einnig í að hún sé reglusöm, hafi sýnt vilja til að sinna börnunum og hafi sterk fjölskyldutengsl. Tengslin við bæði börnin hafi í umgengni virst eðlileg [...]. Í ljósi alls þessa taldi matsmaðurinn ekki rétt eins og á stæði að börnin færu í hennar umsjá meðan á rannsókn málsins stæði. 26       Með greinargerð 8. júní 2017 lögðu starfsmenn barnaverndarnefndar til að áfrýjendur yrðu sviptir forsjá barna sinna með dómi og að börnin yrðu vistuð til 18 ára aldurs á vegum barnaverndarnefndar. Til grundvallar tillögunni lá að þeir hefðu reynt til hlítar að ná fram samvinnu við móðurina en afstaða hennar væri sú að um misskilning hafi verið að ræða við upphaf málsins sem hafi leitt til ómaklegrar aðfarar að fjölskyldu hennar. Þá kemur fram í tillögunni að þrátt fyrir útgáfu ákæru á hendur föður í málinu styðji móðirin föðurinn en ekki börnin og megi því ætla að hvort sem um sekt eða sýknu verði að ræða í dómsmálinu muni móðirin ekki skipta um skoðun. Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar samþykkti með bókun 4. júlí 2017 að gerð yrði krafa fyrir dómi um að foreldrarnir yrðu sviptir forsjá barnanna. Í bókuninni er meðal annars vísað til þess að ákæra hafi verið gefin út á hendur föður og að börnunum líði vel á vistheimilinu. Stefna í máli til sviptingar forsjár var gefin út 22. september 2017 og var hún þingfest í Héraðsdómi [...] 2017. 27       Með ákæru útgefinni [...] 2017 var faðirinn ákærður fyrir brot gegn börnum sínum sem talin voru varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með dómi Héraðsdóms […] í máli nr. S-[...]/2017 uppkveðnum [...] 2017 var hann sýknaður af sakargiftum. Þeirri niðurstöðu var ekki áfrýjað og er sá dómur því endanlegur.  28       Frá því að börnin voru vistuð utan heimilis hefur móðir haft við þau umgengni. Upphaflega var umgengni við stúlkuna tvisvar í mánuði í tvær klukkustundir í senn. Eftir að drengurinn fór í vistun var umgengni hans við móður einu sinni í viku, tvær klukkustundir í senn og var stúlkan með þeim í umgengni tvisvar í mánuði. Eftir að dómur féll í héraði [...] 2018 sem staðfesti kröfur stefnda um forsjársviptingu úrskurðaði barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar 16. ágúst 2019 að umgengni barnanna við móður skyldi vera einu sinni í mánuði í tvær klukkustundir og undir eftirliti. Faðir hefur ekki haft neina umgengni við börnin frá vistun þeirra og ömmur barnanna hafa haft mjög takmarkaða umgengni við þau. 29       Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi var dómkvaddur matsmaður 25. október 2017 til að framkvæma mat á forsjárhæfni foreldra. Matsmaðurinn, F sálfræðingur, skilaði mati 12. maí 2018. Meginniðurstöður matsgerðarinnar voru þær að ýmislegt hefði mátt fara betur í umönnun og uppeldi barnanna. Veikleikar hafi verið í forsjárhæfni foreldra en erfitt væri að meta þá vegna þess hvernig málið væri vaxið og að ekki hefði náðst samvinna með aðilum í upphafi. [...] B hefði haft áhrif á getu hennar til að sinna börnunum og sömuleiðis fjarvistir föður vegna […]. Útilokað hafi verið að meta tengsl barnanna við föður með beinum hætti þar sem ekkert samband hafi verið á milli þeirra í langan tíma. Tengslamyndun móður við börnin væri skert og þá einkum tengsl hennar við stúlkuna. Tengslarof hafi orðið þegar börnin voru tekin af heimilinu og foreldrum nær algjörlega haldið fyrir utan umönnun þeirra síðustu tvö árin. Börnin hafi á þessu tíma myndað djúpstæð tengsl við vistforeldra sína og virst upplifi þar öryggi, ást og hlýju.   30       Í gögnum málsins er að finna tvö bréf þar sem fram koma athugasemdir og ábendingar Barnaverndarstofu við málsmeðferð barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar í málum barnanna. Í fyrsta bréfinu, [...] ágúst 2017 vegna kvörtunar lögmanns móður 26. október 2016, gerir Barnaverndarstofa athugasemdir við vinnslu málsins þar sem ekki hafi verið fylgt ákvæðum 23. gr. barnaverndarlaga og að börnin hafi verið vistuð utan heimilis á ólögmætan hátt. Nánar lutu athugasemdirnar að því að ekki hefðu verið gerðar greinargerðir um niðurstöður könnunar í málinu, ekki hefði legið fyrir á hvaða grundvelli stuðningsúrræði hefðu verið veitt, ekki hefðu verið gerðar áætlanir fyrir hvort barn um sig auk þess sem ekki hefði verið fjallað um þau atriði í áætluninni sem skylt var að gera. Þá hefðu ekki verið gerðar einhliða áætlanir ef samvinnu foreldra skorti. Þar sem vistheimili barnanna hefði ekki haft leyfi Barnaverndarstofu til að vista börnin frá [...] 2016 hafi þau ekki verið löglega vistuð. 31       Í seinna bréfinu [...] maí 2019, vegna kvörtunar lögmanns föður 31. janúar 2018, gerir Barnaverndarstofa athugasemdir við að drengurinn hafi verið vistaður utan heimilis eftir að úrskurður um vistun hafi runnið út [...] 2017 án þess að ákvörðun um hana hafi verið endurnýjuð. Drengurinn hafi því verið vistaður án þess að legið hafi fyrir leyfi Barnaverndarstofu fyrir vistheimilinu. Þá gerir Barnaverndarstofa athugasemdir við að ekki hafi verið gerður skriflegur umgengnissamningur við föður barnanna og ömmur þótt þau hafi leitað eftir umgengni. 32       Fyrir Landsrétti hafa málsaðilar lagt fram ný gögn en þar á meðal eru endurrit af fyrstu skýrslutökum yfir börnunum í Barnahúsi á árinu 2015, athugasemdir Barnaverndarstofu við málsmeðferð barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar 8. maí 2019 og úrskurður barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar um að umgengni móður skuli vera einu sinni í mánuði, tvo tíma í senn undir eftirliti og að engin umgengni verði við föður. 33       Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi var dómur héraðsdóms frá 16. júlí 2018 um forsjársviptingu ómerktur með dómi Landsréttar í máli nr. 671/2018 frá 1. mars 2019 þar sem héraðsdómur hafði verið skipaður tveimur sérfróðum meðdómsmönnum. Með hinum áfrýjaða dómi sem kveðinn var upp 6. júní 2019 í málinu nr. E-[...]/2017 var komist að því að fallast bæri á kröfur stefnda um að áfrýjendur yrðu sviptir forsjá barnanna þar sem uppfyllt þættu skilyrði a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga og að ekki yrði séð að önnur og vægari úrræði væru tæk samkvæmt 2. mgr. 29. gr. laganna. 34       Við meðferð málsins nr. 671/2018 í Landsrétti, sem ómerkti dóm héraðsdóms, ræddu dómarar við börnin 13. febrúar 2019. Ekki var talin ástæða til að ræða við börnin að nýju þegar málið kom aftur fyrir dóminn enda töldu áfrýjendur að börnin væru farin að gjalda verulega fyrir þau fjölmörgu viðtöl sem þau hafi átt við sérfræðinga og dómara í málinu í gegnum tíðina. Í málinu er lagt fram minnisblað dómara um viðtöl þeirra við börnin 13. febrúar 2019 en þar kemur fram að stúlkan vilji búa hjá fósturforeldrum og finnist hún örugg þar. Sagðist hún vera óörugg hjá móður og ekki treysta henni þar sem hún hefði ekki passað hana. Hún vildi hins vegar fara í umgengni til móður. Drengurinn tjáði dómurum að honum líkaði „smá vel“ að búa hjá fósturforeldrum en hann vildi meiri umgengni við móður og jafnvel fá að gista hjá henni. Hann hlakkar til að hitta móður sína í umgengni og verður „smá dapur“ þegar hann fer frá henni. Hann hugsar stundum um mömmu þegar hann er einn og „smá“ um pabba.  Málsástæður aðila Málsástæður stefnda 35       Svo sem rakið hefur verið gerir stefndi kröfu um að áfrýjendur verði sviptir forsjá barna sinna þar sem uppfyllt séu skilyrði a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Krafan byggist á því að móðirin hafi ekki lagt trúnað á frásagnir barnanna af meintu kynferðisofbeldi og telji að ákæra á hendur föðurnum hafi verið á misskilningi byggð. Þar sem börnin hafi ekki notið stuðnings áfrýjenda í málinu séu þau óhæf til þess að fara með forsjá barnanna þar sem heilsu þeirra og þroska sé hætta búinn í umsjá þeirra við óbreyttar aðstæður. Þá er á því byggt að börnin óttist föður sinn og móður og stafi raunveruleg ógn af þeim. Stefndi byggir á því að önnur og vægari úrræði hafi verið fullreynd þegar málið var höfðað, sbr. 2. mgr. 29. gr. laganna, sérstaklega í ljósi þess að móðirin hefur ekki verið til neinnar samvinnu í málinu og ekki stutt frásagnir barnanna. Í stefnu til héraðsdóms er ekki sérstaklega byggt á því að vanræksla barnanna vegna áðurnefndra [...], [...] og óreiðu á heimili séu málsástæður fyrir sviptingarkröfunni þótt þessara atriða sé getið í lýsingu málsatvika. Málsástæður áfrýjenda 36       Áfrýjendur reisa kröfur um sýknu á því að skilyrði a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga séu ekki uppfyllt í málinu. Það sé röng forsenda hjá stefnda að móðir hafi ekki stutt við hagsmuni barnanna í málinu eða verið til samvinnu. Málsgrundvöllur stefnda sé ekki lengur til staðar þar sem faðirinn hafi verið sýknaður af ákæru. Þá er á því byggt að upphafleg frásögn stúlkunnar hafi fengist í viðtali við […] sem tók tvær og hálfa klukkustund og að fulltrúinn hafi ekki haft reynslu eða þekkingu til að taka slík viðtöl. Þá hafi vistmóðir haft áhrif á frásagnir bæði stúlkunnar og drengsins enda liggur fyrir í framburði hennar hjá lögreglu og í framangreindum dómi í sakamálinu að hún hafi spurt þau út í meinta kynferðislega misbeitingu. Skýrslur barnanna í Barnahúsi hafi verið teknar í kjölfar þessara samtala og eftir ábendingu vistmóður. 37       Jafnframt byggja áfrýjendur kröfur sínar einnig á því að ekki hafi verið færðar sönnur á að skilyrði forsjársviptingar samkvæmt 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga séu að öðru leyti til staðar. Þá hafi stefndi ekki sýnt fram á að ekki hafi verið unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til að tryggja hagsmuni barnanna, sbr. 2. mgr. 29. gr. laganna, heldur liggi þvert á móti fyrir að stefndi hafi vanrækt þær skyldur sínar að styðja við fjölskylduna vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem komu upp. Meðferðaráætlanir hafi ekki verið gerðar og upphaflegri áætlun ekki verið fylgt af hálfu stefnda. Stefndi hafi brotið gegn meginreglum barnaverndarlaga sem fram koma í 4. gr., meðal annars um að hagsmunir barnanna skuli ráða för. Niðurstaða 38       Í ákvæði 1. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja nauðsynlega aðstoð við börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu. Til að ná markmiðum laganna skuli leitast við að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverkinu og beita úrræðum til verndar börnum þegar það á við. Í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur fram það grunnviðhorf að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla má að börnum séu fyrir bestu og að hagsmunir þeirra skuli hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Þá kemur fram í 7. mgr. 4. gr. laganna að barnaverndaryfirvöld skuli gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu skuli reynd áður en gripið er til annarra úrræða og að beitt skuli vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. 39       Ákvæði barnaverndarlaga taka mið af þeim grunnréttindum sem mælt er fyrir um í 71. gr. stjórnarskrárinnar um að allir eigi rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu og heimilis og að þann rétt megi ekki skerða nema með lögum og að brýna nauðsyn beri til. Sambærilegt ákvæði er að finna í 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en þar kemur fram að ekki megi ganga á þann rétt nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi meðal annars til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra. Þá ber einnig að geta 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, þar sem segir meðal annars að barn eigi eftir því sem unnt er rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra.   40       Framangreind ákvæði barnaverndarlaga, stjórnarskrár og alþjóðlegra sáttmála eru reist á því að á milli foreldris og barns séu tengsl sem njóta skuli lagaverndar. Gengið er út frá því að almennt þjóni það hagsmunum barnsins að leitað sé leiða til að barn og foreldri þess geti verið saman og þannig myndað fjölskyldutengsl eða til að efla og rækta þau tengsl sem fyrir eru. Af barnaverndarlögum og þeim meginreglum sem þau eru reist á leiðir að ávallt beri að velja þann kost að barn verði áfram hjá foreldri nema í ljós sé leitt að það samræmist ekki hagsmunum barnsins. Leiða af þessum meginreglum, sem og ákvæði 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, ríkar skyldur barnaverndarnefndar til að kanna til hlítar hvort grundvöllur sé til þess að halda fjölskyldum saman og eftir atvikum hvort það sé unnt með viðeigandi stuðningsúrræðum barnaverndaryfirvalda ef talið er að skorti á forsjárhæfni foreldra. 41       Upphaf málsins er sem fyrr segir að […] í skóla stúlkunnar tilkynnti til stefnda, barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar, í [...] 2015 að stúlkan hefði í viðtali við hana upplýst að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu föður síns. Starfsmenn stefnda tilkynntu málið strax til lögreglu og var faðirinn handtekinn þann sama dag. Strax í [...] var tekin, með samþykki móður, ákvörðun um að börnin yrðu vistuð utan heimilis. Þar sem móðir var ófús að samþykkja framlengingu á vist barnanna utan heimilis í [...] var gripið til neyðarráðstöfunar samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga og voru bæði börnin vistuð áfram utan heimilis til [...] 2015. 42       Í málinu liggur fyrir að starfsmenn barnaverndarnefndar töldu í upphafi árs 2016 að móðir barnanna stæði ekki af heilum hug að baki stúlkunni og þeirri meðferð sem fór fram í Barnahúsi og lögreglu vegna rannsóknar á ásökunum um kynferðislega misnotkun af hálfu föður. Þá bera gögn málsins með sér að þótt móðirin hafi viljað trúa stúlkunni og styðja við hana hafi geta hennar til þess á þeim tíma verið takmörkuð þar sem hún taldi sig ekki vita hverju hún ætti að trúa um hina meintu misnotkun. Hún hafi haft traust á föðurnum og taldi hann hafa reynst börnunum vel. Þá fullyrðir móðirin að stúlkan hafi sagt henni, eftir að hún kom til baka úr fyrstu vistuninni [...] 2015, að hún hefði ruglast í viðtalinu hjá […] og að málið væri á misskilningi byggt. Kemur fram í greinargerðum starfsmanna stefnda sem liggja frammi í málinu að móðirin og móðuramman hafi ítrekað lýst því yfir á þessum tíma að rekja mætti málið til mistaka […] og afstöðu starfsmanna stefnda. Þá kemur einnig fram í málsgögnum að starfsmenn stefnda hafi grunað að faðirinn hafi verið í meiri samskiptum við börnin um jólin en þeir höfðu gert ráð fyrir og jafnvel að hann hefði verið inni á heimilinu um jól og áramót. Þessu hefur móðirin mótmælt sem röngu en staðfest að hún hafi skilið það svo að faðirinn mætti umgangast stúlkuna í fjölskylduboðum. Fram hefur komið að starfsmenn barnaverndarnefndar gáfu vilyrði sitt fyrir því að börnin gætu hitt föður um jól í eitt sinn að minnsta kosti. 43       Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. barnaverndarlaga ber barnaverndarnefndum að kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns þegar nefndinni berast upplýsingar um hugsanlega vanrækslu. Þá er mælt fyrir um það í 1. mgr. 23. gr. að nefndinni beri að taka saman greinargerð þar sem lýst er niðurstöðum könnunarinnar, hverra úrbóta sé þörf og tillögum að heppilegum úrræðum. Ef könnunin leiðir til þess að þörf sé á sérstökum úrræðum ber að gera skriflega áætlun um frekari meðferð málsins. Í gögnum málsins verður ekki séð að nefndin hafi tekið saman greinargerð um könnun málsins en fyrir liggur að aðeins var gerð ein skrifleg meðferðaráætlun [...] 2015. 44       Þegar fyrir liggur grunur um misnotkun á barni þarf að tryggja að rannsókn slíks máls hafi eðlilegan framgang. Þá er eðlilegt að gripið sé til ráðstafana til að tryggja að samskipti barns og meints geranda séu takmörkuð. Miðað við þær aðstæður sem voru uppi í málinu og lýst er að framan verður að fallast á að forsvaranlegt hafi verið að vista stúlkuna tímabundið utan heimilis meðan á rannsókn málsins stóð og eftir atvikum meðan unnið væri með móður að því að skapa fullnægjandi aðstæður á heimilinu fyrir stúlkuna. 45       Eftir að stúlkan og síðan drengurinn voru vistuð utan heimilis fékk móðirin vikulega umgengni við drenginn en við stúlkuna á tveggja vikna fresti. Umgengnin fór fyrst fram utan heimilis móður en síðar á heimili hennar. Af fjölmörgum skýrslum umsjónaraðila sem liggja fyrir í málinu verður ekki annað ráðið en að umgengnin hafi almennt gengið vel miðað við aðstæður. 46       Áður er rakið að stefndi fékk E sálfræðing til að meta forsjárhæfni móðurinnar og skilaði hann niðurstöðu 7. nóvember 2016. Meginniðurstöður matsins eru þær að móðirin sé ekki nægilega hæf til að fara með forsjá barna sinna einkum vegna afstöðu hennar til barnaverndarmálsins og að hún hafi ekki tekið skýra afstöðu með börnunum. Matsmaðurinn mælti þó með áframhaldandi umgengni og að hún yrði aukin. Taldi hann að aðlaga þyrfti börnin aftur að móður þegar sakamálinu lyki. Í matinu kemur fram að tengsl móður við börnin hafi verið eðlileg í umgengni og að móðirin hafi góðan grunn til tengslamyndunar. Tengslin séu [...]. Taldi matsmaðurinn ekki rétt að börnin færu í hennar umsjá meðan á rannsókn sakamálsins stæði. 47       Eftir að ákæra á hendur föður var gefin út […] 2017, en áður en dómur féll í máli hans [...] sama ár, ákvað stefndi með bókun 4. júlí 2017 að gerð yrði krafa fyrir dómi um að foreldrarnir yrðu varanlega sviptir forsjá barnanna, þrátt fyrir ráðleggingar sálfræðingsins um aukna umgengni og aðlögun þegar sakamálinu lyki. Í bókuninni er meðal annars vísað til þess að ákæra hafi verið gefin út á hendur föður og að börnunum líði vel á vistheimilinu. Í tillögu starfsmanna stefnda sem lá til grundvallar bókuninni kom fram að þeir höfðu talið sig hafa reynt til hlítar að ná fram samvinnu við móður en að afstaða hennar við upphaf málsins væri sú að um misskilning hafi verið að ræða sem hafi leitt til ómaklegrar aðfarar að fjölskyldunni. Þá kemur fram í tillögunni að þrátt fyrir útgáfu ákæru á hendur föður í málinu styðji móðir hann en ekki börnin og megi því ætla að hvort sem um sekt eða sýknu yrði að ræða í dómsmálinu myndi hún ekki skipta um skoðun. Af þessum rökstuðningi nefndarinnar verður ekki annað ráðið en að það hafi engu skipt fyrir stefnda, þegar bókað var að krafa yrði gerð fyrir dómi um að foreldarnir yrði sviptir forsjá, hvort faðir barnanna yrði sakfelldur eða sýknaður af ákæru.    48       Sem fyrr greinir var faðirinn með dómi Héraðsdóms [...] 2017 sýknaður af sakargiftum. Má af gögnum málsins ráða að stefndi hafi talið þá niðurstöðu engu skipta um nauðsyn áframhaldandi afskipta af málefnum fjölskyldunnar, sem birtist meðal annars í því að nefndin hélt til streitu kröfu sinni fyrir dómi um að foreldarnir yrðu báðir varanlega sviptir forsjá barna sinna. Afstaða stefnda virðist hafa mótast af þeirri sannfæringu starfsmanna nefndarinnar að faðirinn hefði misnotað börnin þótt sýknaður hefði verið í sakamáli af sakargiftum þar um. Þessi afstaða nefndarinnar samræmist illa  þeim sjónarmiðum sem ákvæði 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. greinar mannréttindasáttmála Evrópu eru reist á, en þar er kveðið á um að hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Sýkna af sakargiftum gaf stefnda þvert á móti fullt tilefni til að endurskoða í heild aðkomu sína að málinu. Þetta á einkum við um þá ákvörðun að krefjast þess að báðir foreldrar skyldu varanlega sviptir forsjá barna sinna. Þá var tilefni til að gera nýja meðferðaráætlun um samskipti barna við móður og föður, saman eða hvort í sínu lagi, með það að markmiði að sameina fjölskylduna aftur nema það yrði talið ógerlegt vegna hagsmuna barnanna. 49       Krafa stefnda um að áfrýjendur verði sviptir forsjá barna sinna er reist á a-, c- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Samkvæmt a-lið er heimilt að krefjast þess fyrir dómi að annað foreldri eða bæði verði svipt forsjá ef daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns er alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska. Samkvæmt c-lið er heimilt að krefjast forsjársviptingar ef barninu er misþyrmt, því misboðið kynferðislega eða megi þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu. Þá er unnt samkvæmt d-lið ákvæðisins að krefjast forsjársviptingar ef fullvíst þykir að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar séu augljóslega vanhæfir til að fara með forsjá, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Þá kemur fram í 2. mgr. 29. gr. að forsjársviptingu verði eingöngu beitt þegar önnur úrræði hafa verið fullreynd. 50       Svipting forsjár barna samkvæmt 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga er alvarlegt inngrip í friðhelgi fjölskyldu og gengur lengst þeirra úrræða sem barnaverndarlög heimila. Með úrræðinu er í reynd miðað að því að slíta tengsl barna við foreldra sína og aðra fjölskyldumeðlimi. Verður forsjársviptingu af þessum ástæðum aðeins beitt að uppfylltum ströngum skilyrðum og að fullreyndum öðrum úrræðum sem skemmra ganga, sbr. 7. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga.  51       Í hinum áfrýjaða dómi er á því byggt að uppfyllt séu skilyrði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga í tilviki móður og því sé rétt að svipta hana forsjá. Rökstyður dómurinn það með því að ótti barnanna gagnvart föður virðist af einhverjum ástæðum vera raunverulegur og sérstaklega að stúlkan treysti ekki móður sinni til að veita þeim vernd. Að auki byggir dómurinn á því að það sé sterkur vilji hjá börnunum að búa hjá vistforeldrum. Niðurstaða héraðsdóms byggir að þessu leyti á frásögn barnanna við ýmsa aðila sem hafa verið í samskiptum við þau vegna málsins. Í hinum áfrýjaða dómi er ekki frekar skýrt í hverju ótti barnanna felist heldur látið nægja að nefna að stúlkan hafi „… upplifað eitthvað það af völdum föður sem leitt hefur til þess að hún óttist hann ...“, hún sé „… sýnilega þjökuð af einhverju“. Í málinu hefur ekkert komið fram um að þessi ótti stúlkunnar kunni að stafa af öðru en meintum kynferðisbrotum sem hún hefur lýst í skýrslum í Barnahúsi og faðirinn hefur nú verið sýknaður af. 52       Þegar barnaverndarnefnd hóf afskipti af málefnum fjölskyldunnar var stúlkan [...] ára gömul. Hún er nú [...] ára gömul og hefur samfellt frá febrúarmánuði 2016 verið vistuð utan heimilis í þrjú ár og sjö mánuði. Drengurinn var [...] ára þegar barnaverndarmálið hófst. Hann er nú [...] ára gamall og hefur samfellt verið vistaður utan heimilis frá 1. september 2016 eða í ríflega þrjú ár. Umgengni móður við börnin á þessum tíma hefur verið takmörkuð og undir eftirliti þrátt fyrir ráðleggingar sálfræðings um að umgengni skyldi aukin og börnin aðlöguð heimili móður þegar niðurstaða í sakamálinu lægi fyrir. Umgengni við föður hefur nánast engin verið, hvorki fyrir né eftir sýknudóminn yfir honum. 53       Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. a. í barnaverndarlögum skal gefa barni sem ekki er aðili barnaverndarmáls kost á að tjá sig um mál í samræmi við aldur þess og þroska nema dómari telji að afstaða barns komi fram með nægilega skýrum hætti í gögnum málsins. Reglan er áréttuð í 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þar segir í 1. mgr. að aðildarríki skuli tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skuli tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að vegna þessa skuli barni einkum veitt tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem barnið varðar, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu talsmanns eða viðeigandi stofnunar, á þann hátt sem samræmist reglum í lögum um málsmeðferð. 54       Í héraðsdómi er meðal annars á því byggt að börnin, og þá einkum stúlkan, vilji vera áfram hjá vistforeldrum. Áður er þess getið að í viðtölum dómara Landsréttar við börnin 13. febrúar 2019 hafi komið fram hjá stúlkunni að hún óttist föður sinn og treysti ekki móður sinni. Hins vegar kom enginn slíkur ótti eða vantraust fram hjá drengnum, heldur lýsti hann þvert á móti áhuga á meiri samskiptum við móður og föður. Ljóst er að gögn málsins eru nokkuð misvísandi um vilja barnanna að þessu leyti eftir því hver hefur frásögnina eftir börnunum og hvenær hún átti sér stað. Þegar horft er til misvísandi endursagna af frásögnum barnanna, ungs aldurs þeirra og mikillar takmörkunar á umgengni við foreldra, sem staðið hefur í mjög langan tíma, verður að fara gætilega þegar vilja barnanna er gefið vægi í málinu. Þá er þess að gæta að svipting forsjár verður ekki byggð á því einu að vilji barnanna standi til þess að búa ekki hjá foreldrum sínum. 55       Við mat á því hversu mikið vægi meintum vilja barnanna verði gefið í málinu þarf að hafa í huga að börnin hafa verið vistuð lengi utan heimilis. Umgengni þeirra við móður hefur verið afar takmörkuð og við föður nánast engin. Þá verður að meta hvort þau hafi aldur og þroska til að skilja langvarandi og víðtækar afleiðingar þess að verða varanlega tekin úr forsjá foreldra sinna. Enn fremur þarf að huga að því hvernig meintur vilji barnanna hafi myndast. Ætla má að hann hafi mótast að einhverju marki af því að umgengni hefur lengst af farið fram undir eftirliti sem kann að hafa átt þátt í að móta þann skilning þeirra að þeim sé ekki óhætt í umsjá móður sinnar án þess að utanaðkomandi aðili sé viðstaddur. Að framangreindu virtu getur vilji barnanna ekki ráðið úrslitum í málinu. 56       Frá upphafi árs 2016 og fram á þennan dag, og þá einkum eftir að sýknudómur yfir föður lá fyrir, verður ekki séð að marktækar tilraunir hafi verið gerðar til að auka umgengni barna við móður, styrkja forsjárhæfni hennar eða aðlaga börnin heimili hennar. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að kannað hafi verið hvort forsendur hafi verið til þess að koma aftur á samskiptum barnanna við föður sinn eftir að sýknudómurinn féll. Þá voru, svo sem fram hefur komið í athugasemdum Barnaverndarstofu, málsmeðferðarreglur ítrekað brotnar við meðferð málsins. 57       Samkvæmt því sem að framan er rakið er óhjákvæmilegt að líta svo á að stefndi hafi ekki sýnt fram á að ekki hafi verið unnt, eftir að sýknudómur féll, að beita öðrum og vægari úrræðum en varanlegri forsjársviptingu í málinu til þess að tryggja friðhelgi fjölskyldunnar og hagsmuni barnanna í samræmi við þau meginsjónarmið sem lög um barnavernd byggjast á. Með vísan til 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga er því fallist á kröfu áfrýjenda um sýknu af kröfum stefnda. 58       Í ljósi þeirrar niðurstöðu sem dómurinn hefur komist að er brýnt að barnaverndaryfirvöld sem koma að framhaldi málsins leggi sig fram um að koma á aukinni og bættri umgengni við foreldra sem fyrst. Þá er nauðsynlegt að gerð verði raunhæf og ítarleg áætlun um aðlögun að heimili móður. Markmið áætlunarinnar verði meðal annars að kanna nánar í hverju ótti stúlkunnar liggur og hvernig best verði að byggja upp traust hennar gagnvart móður og eftir atvikum föður. Áfrýjendur hafa lýst því yfir við dóminn að þau búi ekki saman og að faðirinn muni ekki búa á heimilinu eða koma að umgengni við börnin nema samkvæmt ráði sérfræðinga. Í framhaldinu mun því reyna verulega á vilja og getu foreldranna til þess að tryggja hagsmuni barnanna og sýna fram að þau séu hæf til þess að fara áfram með forsjá barnanna og gæta að fullu hagsmuna þeirra. Í ljósi atvika málsins, afstöðu barnanna og þess hvernig málinu hefur undið fram, er ljóst að stíga þarf varlega til jarðar í nýrri meðferðaráætlun. Þegar viðeigandi meðferð hefur farið fram mun koma í ljós hvort foreldrarnir geti áfram farið með forsjá barnanna, hvernig umgengni þeirra við börnin verði og hvort gerlegt sé, vegna hagsmuna barnanna, að sameina fjölskylduna á ný. 59       Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest. 60       Málskostnaður fyrir Landsrétti fellur niður en um gjafsóknarkostnað áfrýjenda fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Áfrýjendur, A og B, skulu vera sýkn af kröfum stefnda, barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað áfrýjenda skulu vera óröskuð. Málskostnaður fyrir Landsrétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna þeirra, Jóhannesar Ásgeirssonar, 1.000.000 króna, og Þorbjargar Ingu Jónsdóttur, 1.000.000 króna.         Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 6. júní 2019 I. Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þess […]. maí sl., er höfðað af Hafnarfjarðarkaupstað vegna Barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar, Strandgötu 6 í Hafnarfirði, með stefnu birtri 22. september 2017 á hendur B og A, báðum til heimilis að […] í Reykjavík. Stefnandi gerir þá kröfu að stefndu verði svipt forsjá barnanna C og D, sem nú eru vistuð utan heimilis á vegum stefnanda, samkvæmt 28. gr., sbr. b-lið 27. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002. Stefnandi krefst ekki málskostnaðar sér til handa. Stefnda B krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Af hálfu stefnda A er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og ekki væri um gjafsókn að ræða. Mál þetta sætir meðferð samkvæmt 53. gr. b í barnaverndarlögum nr. 80/2002. Rétt er að geta þess að fyrri héraðsdómur í máli þessu, dags. […]. júlí 2018, og meðferð málsins allt frá aðalmeðferð sem fram fór dagana 20.–21. júní s.á. var ómerkt með dómi Landsréttar í máli nr. 671/2018, dags. 1. mars 2019, með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 26/2018 frá 27. febrúar s.á., og hefur nú verið brugðist við því með því að endurtaka aðalmeðferð fyrir dómi skipuðum eins og að framan greinir.    II. Ágreiningsefni og málsatvik Stefndu eru hjón og fara sameiginlega með forsjá barna sinna, þeirra C, sem er fædd […], og D, sem er fæddur […]. Mál þetta á annars einkum rætur að rekja til þess að þann […]. október 2015 barst stefnanda, Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar, tilkynning þess efnis að eldra barnið, C, hefði í samskiptum við […] í grunnskóla hennar í […] greint frá því að faðir hennar, stefndi A, hefði haft í frammi háttsemi gagnvart henni sem svaraði til kynferðislegrar misnotkunar. Málið var þegar tilkynnt af hálfu skólans til lögreglu og var faðirinn, stefndi A, í framhaldi handtekinn sama dag og hann síðan úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir þar sem hann var í haldi í fjóra daga. Var þá í framhaldi ákveðið, með samþykki móður barnanna, stefndu B, að vista skyldi stúlkuna C, og […] systkini hennar, drenginn D, tímabundið utan heimilis á heimili á vegum stefnanda og stóð það svo til […]. desember 2015, en móðirin var innlögð á […] vegna […] þegar málið kom upp. Af hálfu stefnanda hefur verið vísað til þess að við könnun málsins í upphafi þess þá hafi starfsmenn barnaverndar farið inn á heimili fjölskyldunnar, en þar hafi þá verið mikil óreiða og börnin verið þar illa hirt, […]. Ber aðilum ekki saman um orsakir þessara vandamála hjá börnunum, en stúlkan hefur glímt við […] og drengurinn átt í vanda með […]. Heldur stefnandi því fram að merkjanlegar framfarir hafi orðið hjá börnunum eftir að þau fóru á vistheimili og þau þá fengið viðeigandi meðferð vegna framangreindra vandamála sinna, en börnin hafi þá einnig sýnt merki um betri líðan í skóla og leikskóla. Eftir að málið kom upp fór stúlkan C í skýrslutökur fyrir dómi, þann […]. október og […]. desember 2015 og síðar […]. ágúst 2016, þar sem hún staðfesti framburð sinn um kynferðislegt athæfi föður gagnvart sér, auk þess sem fram komu þá áhyggjur af bróður hennar þar sem hún hefði talið sig sjá föður „eiga við hann“. Var einnig tekið viðtal við drenginn D í Barnahúsi […]. október 2015, en erfitt reyndist þá að ná athygli hans og kom þá ekkert fram sem gaf vísbendingar um að faðir hans hefði beitt hann misnotkun. Síðar var svo tekin skýrsla af D í Barnahúsi […]. september 2016 þar sem hann skýrði frá því að faðir hann hefði átt við hann kynferðislega. Af hálfu stefnanda hefur verið vísað til þess að þegar við upphaf málsins hafi móðir og móðuramma átt afar erfitt með að trúa því að faðir barnanna gæti hafa gert stúlkunni nokkuð, en móðir komið með þær skýringar að stúlkan hefði átt við vanda að etja og ásakanir hennar skýrðust mögulega af […] sem þyrfti greiningar við. Kvaðst móðir engu að síður ætla að styðja dóttur sína í gegnum það ferli sem við tæki.  Börnin tvö fóru síðan aftur heim í umsjá móður sinnar […] 2015, en faðirinn var þá fluttur af heimilinu til […]. Var þá gerð áætlun um frekari meðferð málsins og var af hálfu stefnanda lögð áhersla á það að börnin, og þá einkum stúlkan, myndu ekki umgangast föður sinn nema að takmörkuðu leyti þá um jól og áramót á meðan umrædd mál hans væru enn í rannsókn. Stefnda B þáði á þessum tíma einnig ýmiss konar aðstoð og tilsögn og sótti meðal annars sálfræðitíma, tók á móti tilsjón á heimili sínu, gekkst þar undir óboðað eftirlit barnaverndar og lýsti því jafnframt yfir að hún væri samstarfsfús í þágu dóttur sinnar.     Eftir að börnin tvö komu á ný heim til móður sinnar í […] 2015 fóru þó starfsmenn barnaverndar fljótlega að hafa áhyggjur af stöðu barnanna þar. Þá einkum yfir því að stúlkan, sem átti að fara í meðferðarviðtöl í Barnahúsi, nyti ekki nauðsynlegs stuðnings móður sinnar, en hún hafði, að mati stefnanda, átt í erfiðleikum með að taka afstöðu með stúlkunni og dregið trúverðugleika framburðar hennar í efa. Hafi stefnda B þannig lýst þeirri afstöðu í samtali við tilsjónaraðila og á fundi með kennurum skólans, þegar í byrjun árs 2016, að tilkynningin um kynferðisofbeldi væri byggð á misskilningi, að barnið hefði ruglast í frásögn sinni og að faðirinn hefði ekki gert það sem hann væri sakaður um. Þá kom einnig fram sú afstaða móðurinnar að skólinn hefði farið offari með tilkynningunni og ekki staðið rétt að málum þar sem viðbrögð […] við frásögn stúlkunnar í upphafi hefðu verið röng og ekki verið nægilegt tilefni til að stefnandi hefði afskipti af málum þeirra. Í greinargerð sem móðirin lagði síðan fram á fundi barnaverndar þann 26. janúar 2016 kom einnig fram að hún teldi að stúlkan ætti mögulega við geðrænan vanda að etja, jafnvel […]. Þá hafi, að sögn stefnanda, stefnda B talið að framburður yngra barnsins um kynferðisofbeldi, sem hefði komið fram síðar í málsmeðferðinni, væri hugarburður.    Auk framangreinds bárust síðan einnig ábendingar frá skóla og tilsjónaraðila um að stúlkan hefði um þetta leyti verið í meiri samskiptum við föður en eðlilegt gæti talist með hliðsjón af þeim brotum sem hann hefði þá verið grunaður um, en foreldrarnir hefðu þá enn verið samvistum að mati stefnanda. Þá telur stefnandi að móðirin hafi á þessum tíma ekki sinnt því að C færi í nauðsynleg meðferðarviðtöl í Barnahúsi, móðirin sjálf ekki komið í viðtöl við starfsmenn barnaverndar, auk þess sem hún hafi ekki svarað í síma. Þá hafi komið fram vísbendingar um það að stefndu hefðu þá enn verið samvistum, þau mætt saman í skólaviðtöl og afmæli, en ekki sótt um skilnað, eins og stefnda B hefði áður tjáð barnaverndarnefnd að yrði gert. Þá hafi stefndu einnig farið saman í […] með D og hann lýst því í viðtölum að hann hefði á þessum tíma ítrekað sofið á milli foreldra sinna heima við þótt faðir hans ætti ekki að búa þar. Mál vegna C var lagt fyrir á fyrrgreindum fundi barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar 26. janúar 2016. Var það gert í kjölfar þess að sérfræðingar Barnahúss höfðu þá látið í ljós það álit sitt við barnavernd að ekki væri vænlegt til árangurs að hefja þar meðferð með barn sem ekki nyti stuðnings ummönnunaraðila síns. Í úrskurði stefnanda frá 3. febrúar 2016 var ákveðið að C skyldi vistuð utan heimilis í tvo mánuði, en móðir hafði þá ekki viljað fallast á slíka vistun. Liggur fyrir að í ljósi framangreindra efasemda móður um frásögn barnsins og málsmeðferð skólans og barnaverndar hafi verið talin nauðsyn í skilningi b-liðar 1. mgr. 27. gr. laga nr. 80/2002 að C yrði vistuð utan heimilis um tíma svo viðtalsmeðferð gæti farið fram. Var ákvörðunin borin undir dóm og staðfest í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, dags. […] 2016. Á fundi barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar 8. mars 2016 var svo samþykkt, með vísan til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 80/2002, að gerð yrði krafa fyrir héraðsdómi um að vistun C yrði framlengd þar til viðtölum í Barnahúsi væri lokið eða í allt að sex mánuði til viðbótar við þann tíma sem kveðið hafði verið á um í úrskurðinum […] 2016. Var fallist á kröfu um áframhaldandi vistun stúlkunnar utan heimilis í sex mánuði í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, dags. […] 2016.         Á þeim tíma sem C var að nýju vistuð utan heimilis, frá […] 2016, naut hún áfram takmarkaðrar umgengni við móður sína og bróður undir eftirliti, fyrst á vistheimilinu en síðar í íbúð á vegum stefnanda og fékk stefnda þá að hitta dóttur sína þannig aðra hverja viku í tvo tíma í senn og þá undir eftirliti. Í […] afréð stefnda B síðan að taka drenginn D úr […] í Hafnarfirði og flytja lögheimili þeirra til Reykjavíkur þar sem hún kvaðst ætla að hefja nám, og flutti hún síðan drenginn í skóla þar. Liggur fyrir í gögnum málsins að drengurinn hafi átt fremur erfitt uppdráttar í samskiptum við önnur börn þá um vorið og einnig eftir að hann fór í hinn nýja skóla. Þótti starfsmönnum stefnanda þá ljóst orðið, með hliðsjón af framangreindu, að foreldrarnir myndu ekki ætla að eiga samvinnu við stefnanda, og að móðirin hefði sagt ósatt um hagi þeirra og sonar þeirra á heimilinu þar sem faðir hefði áfram verið í virkum samskiptum við þau. Var þá kveðinn upp úrskurður 1. september 2016, sbr. 31. gr. laga nr. 80/2002, um töku drengsins af heimilinu og vistun hans á vegum stefnanda. Þá liggur einnig fyrir að um miðjan […] 2016 var drengurinn svo aftur fluttur í […] í Hafnarfirði þar sem hann hafði áður verið. Þann […]. september 2016 barst barnavernd síðan tilkynning frá vistmóður barnanna þar sem hún lýsti því að drengurinn ætti við […] að stríða, eins og þegar hann hefði dvalið hjá henni í fyrra skiptið. Kvað hún D þá enn fremur hafa tjáð sér, aðspurður um leyndarmál sín, að faðir hans hefði […], en sagt að ekki mætti segja móður hans frá því. Í framhaldi var síðan send kæra til lögreglu og óskað eftir rannsóknarviðtali við D í barnahúsi. Mál drengsins var síðan tekið fyrir hjá barnaverndarnefnd 13. september 2016. Þar áréttaði móðirin að faðir barnanna væri fluttur af heimilinu og hann hefði ekki búið þar frá því í […] 2015. Faðirinn kom enn fremur á fund nefndarinnar og tjáði þar þá skoðun sína að þau hjónin gerðu sér nú grein fyrir því að skilnaður væri misráðinn þar sem samband þeirra væri traust, þótt þau yrðu að búa í sundur á meðan á málarekstri stæði. Skýrsla var síðan tekin af D í Barnahúsi […] 2016 þar sem hann staðfesti, að mati stefnanda, framburð um athafnir föður síns í sinn garð. Úrskurður var svo kveðinn upp […] um að D skyldi tekinn af heimili móður og vistaður utan heimilis á vegum stefnanda í tvo mánuði, en stefnandi samþykkti þá jafnframt, með vísan til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 80/2002, að gerð yrði krafa fyrir héraðsdómi um að ráðstöfun þessi skyldi standa í allt að sex mánuði. Sú krafa var þó ekki sett fram í tæka tíð áður en vistunartími rann út og var þá neytt úrræða 31. gr. laga nr. 80/2002 og úrskurðað að barnið D skyldi kyrrsett á vistheimili. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá […] 2016 var loks fallist á vistun til sex mánaða. Var umræddur úrskurður héraðsdóms síðan staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands. Fyrir liggur að stefnandi hafi óskað eftir sálfræðilegu mati á forsjárhæfni stefndu B eftir að […] barnið var einnig vistað utan heimilis á vegum stefnanda í […]árið 2016. E sálfræðingur hafi þá verið fenginn til þess að vinna sálfræðilegt mat á forsjárhæfni stefndu. Í matsgerð hans, dags. 7. nóvember 2016, kemur meðal annars fram að vísbendingar séu um vanrækslu móður og ljóst sé að tilfinninga- og tengslavandi hennar hafi hamlað getu hennar til að sinna börnunum með eðlilegum hætti. Þá hafi komið fram vísbendingar um innsæisleysi móður, meðal annars varðandi […] og tilfinningar C. Þá hafi komið fram vísbendingar um að móðirin kynni að hafa beitt börnin ofbeldi. Matsmaður tekur þó einnig fram að móðirin hafi góða kosti, greind og menntun auk vinnusögu, sé reglusöm og sýni áhuga á að fá börnin aftur. Hún hafi að mestu staðið sig vel í umgengni og að mörgu leyti farið eftir ábendingum fagaðila og barnaverndar. Hún hafi þó ekki enn sýnt að henni sé treystandi eða tekið skýra afstöðu í málinu. Hún sé ekki að fara að skilja við barnsföður sinn og sé í miklum samskiptum við hann. Var það ályktun sálfræðingsins að töluverð áhætta myndi fylgja því ef börnin færu aftur í umsjá móður. Hún hafi ekki tekið afstöðu með börnunum til að vernda þau auk þess sem vísbendingar væru um ákveðna vanrækslu á tímabili og mögulegt ofbeldi. Þá hafi samstarfi við barnavernd verið áfátt. Hafi móðirin sýnt af sér dómgreindarleysi með því að hafa föðurinn áfram á heimilinu og lagt að stúlkunni að breyta framburði sínum. Þá hafi hún ekki sinnt […] stúlkunnar, […] drengsins, né viðurkennt að um vandamál væri að ræða. Matsmaður hafi átt gott samtal við móður í lokaviðtali og þá látið hana vita af áhyggjum sínum og að ekki yrði mælt með því að hún fengi börnin að óbreyttu ástandi. Hafi hún þá lýst miklum vilja til samstarfs og bent á það að ekki hefði verið reyndur neinn stuðningur en hún hygðist nú setja börnin í forgang. Matsmaður taldi hins vegar að hún hefði sýnt tilhneigingar til þess að varpa ábyrgð á aðra. Mælti hann með því að börnin yrðu áfram í fóstri en að umgengni héldi áfram undir ströngu eftirliti enda hætta á að móðir reyndi að hafa áhrif á framburð barnanna.  Mánudaginn […]. desember 2016 úrskurðaði barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar að C skyldi kyrrsett á vistheimili í tvo mánuði. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, dags. […] 2017, var vistun stúlkunnar C utan heimilis síðan enn framlengd til sex mánaða. Þar sem mál þetta um sviptingu forsjár er höfðað í […] liggur þannig fyrir að bæði börnin hafa nú samfellt verið vistuð utan heimilis í umtalsverðan tíma, C í á […] og D í á […]. Af hálfu móðurinnar, B, hefur verið lögð áhersla á að henni hafi ekki verið gefið neitt að sök í málinu, en samt hafi hún ekki notið eðlilegra réttinda og stöðu sinnar sem móðir barnanna við meðferð málsins. Hafi málsmeðferð stefnanda að hennar mati verið afar áfátt og raunar verið ámælisverð í ýmsum atriðum, en frekar verður vikið að því í þeim kafla dómsins er fjallar um málsástæður hennar og lagarök.  Fyrir liggur að stefndi A hefur allt frá upphafi máls þessa staðfastlega neitað öllum ásökunum um það að hafa beitt börn sín kynferðislegu ofbeldi. Eftir að lögreglurannsókn á meintum brotum lauk sætti hann ákæru fyrir brot gegn báðum börnunum sem töldust varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Varð niðurstaðan í sakamálinu sú að stefndi A var þar sýknaður af öllum ákæruatriðum með dómi Héraðsdóms […] frá […] 2017, eins og þar er nánar lýst, það er vegna skorts á lögfullri sönnun á þeim brotum sem honum voru þar gefin að sök, og var dómi í sakamálinu á hendur honum ekki áfrýjað. Í umræddum dómi Héraðsdóms […] segir meðal annars um framburð drengsins D: „Telur dómurinn sér ekki fært að byggja sakfellingu ákærða á þeim framburði sem drengurinn gefur vistmóður sinni þegar hún spyr hann sérstaklega að því hvort hann og ákærði eigi sér einhver leyndarmál, löngu eftir að upphaflegar ásakanir á hendur ákærða komu fram og að því gættu að engin gögn málsins renna neinum stoðum undir þann framburð drengsins að ákærði hafi beitt hann kynferðisofbeldi með þeim hætti sem lýst er í II. kafla ákærunnar.“ Hvað varðar stúlkuna C, þá kemur meðal annars fram í framangreindum dómi að teknar hafi verið alls þrjár skýrslur af stúlkunni fyrir dómi og þar af tvær í Barnahúsi og var það mat dómsins að sá framburður stúlkunnar hefði ekki verið á einn veg, eins og þar er nánar lýst, en önnur gögn í málinu, þá einkum líkamsskoðun lækna, styddu heldur ekki við sönnun á þeim brotum er ákærða hefðu verið gefin að sök með hliðsjón af síðasta framburði stúlkunnar fyrir dómi. Af hálfu stefnda A hefur verið lögð áhersla á það að hann hafi verið alfarið sýknaður af ákæru um kynferðisbrot gagnvart börnum sínum í framangreindu sakamáli en hann njóti samt sem áður engrar umgengni við börn sín. Hann hafi ekki hitt dóttur sína síðan um jól og áramót 2015–2016 og ekki fengið að hitta son sinn eða átt við hann samskipti frá því að hann að var settur á sama vistheimili og systir hans […] 2016. Þá hefur stefndi A lagt áherslu á að sú trú stefndu B að hann væri saklaus af þeirri háttsemi sem honum var gefin að sök hafi verið notuð mjög gegn henni af hálfu stefnanda, en nú sé sýnt að það hafi verið að ófyrirsynju.   Þrátt fyrir framangreint liggur þó fyrir í málinu að stúlkan C hefur áfram haldið sig við þá upplifun sína og þá frásögn að faðir hennar, sem eftir því sem næst verður komist var áður náinn henni, hafi misboðið henni á einhvern þann hátt að hún óttist hann nú og geti nú ekki hugsað sér að vera í návist hans. Þá ber að geta þess að af hálfu stefnanda er lögð áhersla á að C hafi á þeim tíma sem hún hafi verið vistuð utan heimilis sýnt áberandi betri líðan og tekið miklum framförum með ýmsan vanda sem hún hafi áður glímt við og hafi hún nú einnig myndað traust og góð tengsl við vistforeldra og önnur börn sem þar búa. Sömu sögu sé að segja í megindráttum um D, en þau systkinin séu auk þess tengd tilfinningaböndum og vilji vera saman. Þá hefur verið bent á af hálfu stefnanda að á vistunartíma hafi stefnda B haft reglulega umgengni við börnin. Móðirin hafi þannig frá því að bæði börn voru vistuð á vegum stefnanda almennt haft umgengni við stúlkuna aðra hverja viku, en við drenginn vikulega, tvo tíma í senn, undir eftirliti, fyrst í húsnæði á vegum stefnanda, en frá ársbyrjun 2017 á heimili móður. Heldur stefnandi því fram að við ákvörðun á þessu fyrirkomulagi hafi einkum verið tekið mið af óskum […] barnsins […]. Stefnandi hefur líka vísað til þess að að mati skóla og vistunaraðila hafi umgengnin valdið börnunum streitu og kvíða, er hafi svo létt þegar dregið hafi verið úr umgengni. Af hálfu stefndu B hefur þessu verið mótmælt og lögð áhersla á að drengurinn a.m.k. hafi þvert á móti sóst eftir meira samneyti við móður sína og það bersýnilega haft jákvæð áhrif á hann en framkoma vistmóður og barnaverndaryfirvalda hafi með tímanum skapað neikvæða afstöðu í garð beggja foreldranna hjá börnunum.   Stefnandi leggur einnig áherslu á það að að mati eftirlitsaðila hafi umgengnin ekki leitt í ljós náin tengsl á milli barnanna og móður þeirra en þessu hafa stefndu mótmælt með vísan til málsgagna um hið gagnstæða. Þá bendir stefnandi á það að samkvæmt umsögn meðferðaraðila í Barnahúsi hafi mikil framför orðið á líðan, framkomu og fasi […] barnsins frá því að meðferð hófst eftir flutning hennar á vistheimilið. Í upphafi hafi stúlkan verið lokuð og átt erfitt með að tjá sig, einkenni sem oft megi sjá hjá þolendum ofbeldis og vanrækslu. Nú væri stúlkan hins vegar opin og sjálfsörugg og hefði ekki áhyggjur eða mælanlegan kvíða líkt og í upphafi. Í umsögn meðferðaraðila komi fram að stúlkan hafi verið samkvæm sjálfri sér í frásögn sinni og trúverðug, en af hálfu stefndu hefur verið vísað til gagna um hið gagnstæða. Þá vísar stefnandi loks til þess að bæði börnin hafi lýst því í viðtölum við talsmann þeirra að […]. Þá hafi eldra barnið ítrekað lýst ákveðið þeirri afstöðu sinni að […].  Við meðferð málsins var dómkvaddur matsmaður F, sálfræðingur, til þess að meta forsjárhæfni stefndu. Verður nánar gerð grein fyrir matsgerð hans í niðurstöðukafla dómsins. Að endingu er rétt að árétta það að börnin tvö hafa frá því að hinn ómerkti héraðsdómur var kveðinn upp, þann […]. júlí 2018, áfram verið í umsjá stefnanda. Hafa þau búið á sama vistheimili og áður hjá […]. Liggur einnig fyrir í málinu að stefnandi hefur frá miðju síðasta ári ákveðið að skerða umgengni stefndu B við bæði börnin frá því sem áður var, það er úr tveimur og fjórum skiptum í mánuði niður í eitt skipti í mánuði, auk þess sem stefndi A hefur ekki haft neina umgengni við börnin tvö.   III. Framburður aðila og vitna fyrir dómi Fyrir dómi gáfu bæði hin stefndu, þau B og A, aðilaskýrslu. Vitnaskýrslur í málinu létu meðal annars í té þeir F, sálfræðingur og dómkvaddur matsmaður, er staðfesti fyrir dómi framangreinda matsgerð sína, sem og E sálfræðingur, er staðfesti fyrirliggjandi matsskýrslu sína varðandi stefndu B, sem einnig liggur fyrir í málinu, svo sem rakið var í málsatvikakafla. Auk þeirra gáfu vitnaskýrslu hér fyrir dómi í málinu þau G og H, starfsmenn barnaverndar Hafnarfjarðar, I, vistmóðir barnanna, J, […] í skóla barnanna, K, talsmaður beggja barnanna, L listmeðferðarfræðingur, M félagsráðgjafi, sem hefur annast eftirlit með umgengni móður við börnin, N, sálfræðingur stefndu B, O sálfræðingur stefndu B, P, móðuramma barnanna, R lögmaður og S, sem hefur nú tekið við eftirliti með umgengni stefndu við börnin. Rétt er að geta að stefnandi ákvað jafnframt að leggja fram fyrir dóminn endurrit af vitnaskýrslum úr þeirri aðalmeðferð héraðsdóms í máli þessu sem ómerkt var og bað þá síðan tilsvarandi vitni nú um að staðfesta skrifleg endurrit af þeim framburði þeirra. Var stefnanda bent á það að með hliðsjón af meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi væri a.m.k. ekki unnt að líta á þær skýrslur sem gögn í skilningi VII. kafla laga nr. 91/1991, heldur aðeins sem önnur framlögð gögn í málinu. Fyrir dómi bar stefnda B um það að hún byggi ein í […] og hefði barist við […] árum saman en hefði nú náð góðum tökum á því. Hún hafi hafið […] nú í haust og gangi vel, sé […] og líði almennt ágætlega sé hún ekki að hugsa um of um þetta mál og börnin sín. Börnin hafi aldrei búið þarna hjá henni en þau þekki vel heimili hennar, eins og það sé þeirra, a.m.k. D, en þau eigi þar sitt dót. Börnin tvö hafi komið þangað í umgengni frá og með […] 2016. Eftir dóm héraðsdóms nú í fyrra hafi umgengni stefndu við börnin þó verið minnkuð úr tveimur skiptum niður í tvær klukkustundir í eitt skipti í mánuði þar sem þau komi til hennar saman undir eftirliti. Drengurinn hafi talað um það að hann vildi gista og sagst vilja komast til stefndu. Aðspurð um tildrög máls þessa kvaðst stefnda í fyrstu hafa talið að lögreglukonan sem hringdi hefði verið að gera at í sér. Stefnda hafi síðan verið í áfalli og ekki trúað því að faðir barnanna hefði gert eitthvað, en hún hafi þó ekki viljað vera í afneitun og viljað styðja dóttur sína, en þó fundist þetta afar langsótt miðað við samband þeirra. Hún hafi þá ekki fengið leiðbeiningar nema um það að hún ætti ekki að ræða um málið við dóttur sína. Fyrst þegar málið hafi komið upp hafi bæði börnin verið tekin í neyðarvistun og stefnda hafi síðan samþykkt áframhaldandi tímabundna vistun þeirra en hún hafi þá ekki haft lögmann. Stefnda hafi þá verið til dvalar á […] og starfsmaður barnaverndar sagt henni að best væri að hún yrði þar áfram og fengi þá alla þá aðstoð sem hún þyrfti þar en sagt að hún yrði að samþykkja vistun því ella færi sú krafa fyrir dóm. Þegar stúlkan hafi svo aftur snúið heim hafi hún spurt stefndu af hverju hún hefði verið í vistun og þá hafi barnavernd ráðlagt henni að svara stúlkunni þannig að hún vissi hvað stúlkan hefði sagt um föður sinn í Barnahúsi þótt hún vissi ekki hvað það var. Stúlkan hafi þá svarað stefndu þannig til að hún hefði ruglast og ekki áttað sig á því að það skipti máli að þau hefðu verið í fötum og að faðir hennar hefði aldrei meitt hana, en þetta hafi verið í […] 2015. Stefnda kvaðst aldrei hafa reynt að hafa áhrif á frásögn dóttur sinnar, eða sagt að hún tryði henni ekki, en aðeins brýnt fyrir barninu að segja sannleikann. Stefnda hafi gagnrýnt starfsmenn barnaverndar og hvernig þeir hafi talað við dóttur hennar og vegna þess hafi sú afstaða vísast orðið til hjá þeim að stefnda stæði ekki með dóttur sinni. Stefnda hafi algerlega verið tilbúin að vinna með barnaverndaryfirvöldum. Í […] 2016 hafi stefndu þannig verið boðin tilsjón sem hún hafi þegið, en aldrei hafnað, auk þess að hafa samþykkt óboðið eftirlit. Þrátt fyrir þetta hafi þó verið úrskurðað um vistun stúlkunnar utan heimilis að nýju, en umgengni stefndu við stúlkuna hafi síðan verið í annarri hverri viku. Stúlkan hafi þá grátið og ekki viljað fara og hún verið miður sín að vera í burtu. Stúlkan hafi annars alltaf verið fremur lokuð tilfinningalega og tjáð sig lítið að fyrra bragði. Hún hafi síðan verið í vistun utan heimilis frá […] 2016 og tengsl þeirra hafi óneitanlega minnkað við hina löngu samfelldu fjarveru. Það sé því mjög eðlilegt, miðað við þessa forsögu, að barnið sækist eftir stöðugleika og að afstaða hennar nú ráðist helst af því. Stefnda hafi ekki skýringu á því hvers vegna dóttir hennar ætti ekki að treysta henni en mögulega hafi barninu verið innrættar slíkar hugmyndir. Telur stefnda að gerlegt væri með aðstoð fagaðila að aðlaga þær mæðgur að nýju. Heimilið sem stúlkan búi nú á sé ekki ákjósanlegt þar sem þar dveljist […] ásamt þeim systkinum, […], auk þess sem stunduð sé […] á heimilinu sem fylgi […]. Fósturfaðir hafi komið fram af virðingu, en fósturmóðir ekki komið fram af heilindum, og þau séu […]. Aðspurð kvaðst stefnda ekki hafa fengið að hitta börnin um síðustu jól. Aldrei hefði henni verið boðin nein ráðgjöf með tengslin við stúlkuna, einungis tilsjón og síðan sálfræðiaðstoð. Sú aðstoð hafi þó aldrei verið veitt og hafi hún því þurft að leita til eigin sálfræðings. Aldrei hafi verið boðin aðstoð fyrir fjölskylduna né verið unnið með mögulega endurkomu barnanna til hennar. D hafi verið vistaður utan heimilis frá […] 2016. Drengurinn sé enn mjög tengdur móður sinni og tengsl þeirra sterk. Það yrði því mun minna mál að aðlaga þau tvö að nýju og hann kalli ítrekað eftir því að fá að vera meira með stefndu og hafi sagst vilja búa hjá henni. Aðspurð kvaðst stefnda ekki hafa fengið neinar ráðleggingar fyrir […] 2016 um það að hún ætti ekki að vera að hitta föður barnanna. Þau hafi þá hist af og til en henni hafi aldrei verið sagt að drengurinn mætti ekki hitta föður sinn. Hún hafi þó aldrei skilið drenginn einan eftir með honum. Þau meðstefndi hafi ekki búið saman, né búi þau saman, frá því að málið hafi komið upp, en drengurinn hafi þá verið ósáttur við það að faðir hans mætti ekki búa hjá þeim. Aðspurð telur stefnda að dóttir hennar hafi ekki orðið fyrir kynferðisbrotum af hálfu föður. Frásögn hennar frá því í […] 2016 verði að virða með hliðsjón af því að þá hafði hún þegar verið í vistun í […] mánuði og ekki séð föður sinn í […] mánuði. Stefnda viti ekki hvað sé rætt við dóttur hennar þar en allar nýjar upplýsingar í málinu virðist þó koma frá vistmóðurinni. Stúlkan taki margt bókstaflega og hafi verið með […] og hafi tilhneigingu til að reyna að þóknast fólki. Hún hafi því vísast tekið umræðu í skóla um einkastaði bókstaflega, en auðvitað komist foreldrar ekki hjá því að snerta á þeim hjá ungum börnum sínum. Það sé ekki saknæmt og hefði […] ekki hafið málið ranglega eins og hún hafi gert hefði upphafleg frásögn stúlkunnar vísast ekki undið þannig upp á sig. Upphaflega hefðu þau foreldrarnir leitað til […] 2014 vegna […] í skóla hjá stúlkunni og hún síðan fengið að fara til hennar eftir þörfum. Umræddan dag hafi hún svo verið hjá […] í tvær og hálfa klukkustund þar sem stúlkan eigi svo undir lokin að hafa sagt þetta sem haldið er fram. Eftir að faðir var sýknaður í sakamáli hafi þó engin áherslubreyting orðið hjá barnavernd og ljóst sé að starfsmenn þar taki ekkert mark á þeim dómi. Stefnda kveðst vera tilbúin til að reyna samstarf í hvaða formi sem er til þess að aðlaga börnin að nýju. Faðir barnanna hafi flutt af heimili þeirra í […] 2015 vegna málsins og þau tvö ekki búið saman síðan þá en þau séu gift og eigi ágæt samskipti sem vinir. Þá kvaðst stefnda ekki kannast við vanrækslu, en stúlkan hefði haft […] frá fæðingu, sem væri ættgengur vandi, auk þess sem hún hefði glímt við […], en […] drengsins og […] hefði í reynd ekki verið stórfellt vandamál. Ekkert hafi verið reynt til að aðstoða með slíkt né verið gerð áætlun fyrir fjölskylduna. Aðeins hafi verið gerð ein áætlun frá desember 2015 og til mars 2016 um að stefnda leitaði sálfræðiaðstoðar og stúlkan færi í viðtöl í Barnahúsi en annað ekki verið reynt. Stefnda hafi ítrekað óskað eftir meiri umgengni við börnin sem hafi ýmist verið neitað eða ekki svarað. Kvaðst stefnda aldrei hafa orðið vör við ofbeldi föður í garð barnanna en þau fjögur hefðu fram til þess að mál þetta hófst […] 2015 lifað mjög venjulegu fjölskyldulífi og aldrei komið fram neinar athugasemdir frá skóla áður en málið hófst. Lýsti stefnda því að áður hefði hún hitt börnin saman aðra hverja viku og drenginn því til viðbótar aðra hverja viku, en nú sæi hún þau aðeins saman einu sinni í mánuði, en flyttust börnin að nýju til hennar þá væri það ljóst að þau kæmu einungis til hennar.                                    Fyrir dómi lýsti stefndi A því að hann hefði verið að sækja börnin í […]skóla um kl. 14 umræddan dag og síðan ætlað með þau til […]læknis. Lögregla hefði þá hringt í hann og sagt honum að koma upp á lögreglustöð í snatri. Stefndi hefði þá ekki vitað hvers eðlis málið væri og því fyrst farið til læknisins með börnin en svo hringt í tengdamóður sína og beðið hana að sækja börnin þar sem hann þyrfti að fara að ræða við lögregluna, en stefnda B hefði þá verið til dvalar á […]. Þegar komið hafi verið á lögreglustöðina hafi hann verið handtekinn, þá yfirheyrður og svo settur í fangaklefa, en síðan hafi tekið við einangrun í fjórar nætur uns hann hafi svo verið látinn laus. Stefndi hafi alveg komið af fjöllum með þessar ætluðu ásakanir. Síðan hafi hann verið ákærður og svo sýknaður í sakamáli. Eftir það hafi hins vegar aðeins verið haldinn einn fundur hans með barnavernd og þetta engu breytt og hann ekki fengið neina umgengni við börnin í rúm þrjú ár og ekkert mark verið tekið á sýknudómi hans. Engin vanhirða hafi verið fyrir hendi með börnin, stúlkan hafi átt við […] að stríða og læknir talið það vera […], en aldrei verið reynd vægari úrræði en svipting. Stefndi hafi áttað sig á því að hann væri í veikri stöðu á meðan sakamál hans var til meðferðar og hann því ákveðið að halda sig fjarri. Samskipti hans og barnanna hafi ætíð verið góð og stúlkan verið mikil pabbastelpa en drengurinn öllu hændari að móður sinni. Stefndi kunni enga skýringu á því hvers vegna börnin ættu að óttast hann og hann hafi ekkert gert þeim, en búið sé að hræða börnin og gera „grýlu“ úr honum. Málið hafi haft veruleg áhrif fyrir stefnda, en hann hafi ráðlagt stefndu að standa með stúlkunni í þessari stöðu og trúa því sem hún sjálf segði henni en ekki því sem aðrir segðu henni að stúlkan hefði sagt. […] ár sé liðið frá því að hann hafi verið með börnunum og hann hafi því ekkert getað fylgst með þeim. Þegar dóttirin hafi fæðst hafi B […] og hann því verið mikið með stúlkuna og þau þá tengst afar sterkum böndum. Drengurinn hafi jafnan verið meiri mömmustrákur, en […]. Þegar stúlkan var lítil hafi hún haft viss sérkenni, […] Stefndi hafi annars engar skýringar á því af hverju börnin séu fráhverf honum en þær hugmyndir geti aðeins komið frá vistheimilinu sem þau dvelji á. Stefndi kveðst nú tilbúinn til að leyfa allri aðlögun að eiga sér stað með tilheyrandi sérfræðiaðstoð en aldrei hafi þó neitt verið unnið með tengsl hans við börnin þar sem barnavernd virðist sannfærð um að hann sé sekur um að hafa framið skelfilegan glæp.         Í vitnisburði dómkvadds matsmanns, F sálfræðings, staðfesti hann fyrirliggjandi matsgerð sína í málinu. Kvaðst matsmaður hafa lagt til grundvallar gögn frá barnavernd um að stefnda B hefði ekki verið fús til samstarfs. Mestu varði þó að mikið samræmi hafi verið í frásögnum barnanna, bæði í samtölum hjá honum, hjá talsmanni og meðferðaraðilum í Barnahúsi. Börnin hafi vissulega farið ung í gegnum erfitt ferli en hefðu grunntengsl við foreldra verið heilbrigð og sterk hefði þó annað átt að koma fram varðandi tengslarof en raunin hefði orðið við athugun hans. Veikleikar hefðu verið greinilegir í forsjárhæfni en hið meinta kynferðisbrot hefði þó vegið einna þyngst. Börnin hafi verið samkvæm sjálfum sér um það að eitthvað mikið hefði gengið á, hvað svo sem nákvæmlega það hafi verið og þau sýni þess skýr merki. Aðspurður kannaðist matsmaður við það að hafa séð greiningarmerki hjá stefndu B varðandi […] og það gæti vissulega haft áhrif á tengslamyndun en hann treysti sér ekki til að meta slíkt varðandi stúlkuna C. Matsmaður taldi að aldur og þroski barnanna, þ.e. […] og […] ára, væri slíkur að stúlkan hefði ótvírætt þroska til að álit hennar hefði þýðingu en þetta væri meira álitamál með drenginn sem væri […] ára og hefði því ekki sams konar heildarsýn. Ekki væri útilokað að byggja upp rofin tengsl við foreldri en þá þyrftu forsendur að vera töluvert aðrar og breyttar. Þegar matsmaður hafi rætt við börnin hafi […]. Hvað varði innbyrðis tengsl barnanna tveggja þá hafi stúlkan sýnt verndandi tilfinningar gagnvart litla bróður sínum í því sem hún sagði og hún tengist greinilega bróður sínum sterkt auk þess sem börnunum virtist líða vel í aðstæðum sínum á fósturheimilinu. Taldi matsmaður ljóst að fósturhæfni foreldranna hefði verið skert og eitthvað mikið hefði gengið á, en það að svo ung börnin virtust frekar fagna því að komast frá heimilinu væri heldur óvenjulegt. Þau hafi síðan almennt bæði verið að bæta sig og styrkja hjá vistforeldrum. Matsmaður kvað stefnda A í viðtölum hafa virkað á sig sem viðkunnanlegur en frásagnir barnanna, sem virðist heilt yfir vera mjög samkvæm sjálfum sér, gefi það þó eindregið til kynna að eitthvað mikið hafi gengið þarna á. Hafi matsmaður því, þrátt fyrir sýknudóm stefnda A í sakamáli, ekki getað litið fram hjá tilfinningalegum og hegðunartengdum viðbrögðum beggja barnanna. Matsmaður hafi í samtölum sínum við börnin upplifað þennan ótta hjá þeim báðum og það hafi verið […]. Tilgáta um innrætingu hjá börnunum sé að mati matsmanns afar langsótt og ólíkleg skýring. Matsmaður telur það vera afgerandi niðurstöðu sína að það sé að óbreyttu börnunum ekki fyrir bestu að fara aftur í umsjá foreldra sinna. Matsmaður kvaðst þá aðspurður einnig vilja staðfesta orðréttan framlagðan framburð sinn fyrir dómi, […] 2018, og hann stæði enn við allt það sem þar hefði komið fram.             Í vitnisburði E sálfræðings, er gaf nú skýrslu í síma fyrir dómi, staðfesti hann að hafa gert framlagða matsgerð um forsjárhæfni stefndu B frá því fyrir tæpum þremur árum, dags. 7. nóvember 2016, er getið var um hér áður. Aðspurður kvaðst vitnið enn geta staðið við allt er þar kæmi fram. Hann hafi byggt matsgerð sína á fyrirliggjandi gögnum frá barnavernd, auk þess sem hann hafi tekið viðtöl við stefndu B og lagt fyrir hana sálfræðipróf og hafi einnig verið viðstaddur umgengni hennar við börnin tvö, skoðað heimili hennar og rætt við fósturforeldra, en matið byggist á þessu öllu. Ekki hafi verið nein fjölskylduráðgjöf í gangi á þessum tíma en stefnda hafi sótt ráðgjafarviðtöl hjá barnavernd og málið þá verið í rannsóknarferli. Vitnið telji að sýknudómurinn yfir föður barnanna hafi í reynd engu breytt um stöðuna hvað varði mat hans á forsjárhæfni stefndu því það hefði eftir sem áður verið eðlilegra viðhorf hjá henni að setja börn sín í forgang í samstarfi við barnavernd á meðan svo alvarlegt mál hefði enn verið til rannsóknar. Stefnda hafi verið afar ósammála nálgun barnaverndar í málinu og legið hafi fyrir að hún væri ófús til samstarfs við barnavernd. Matið hafi leitt í ljós að stefnda hefði ekki næga forsjárhæfni en vitnið hefði þó lagt áherslu á að endurmeta yrði það að nýju síðar þegar málið væri komið í betri farveg. Stefndu hafi ekki verið treystandi því hún hefði ekki tekið skýra afstöðu með börnunum, en fyrir hefði legið að faðir barnanna hefði enn verið að koma á heimili hennar eftir að málið kom upp. Einnig hafi verið saga um ákveðna vanrækslu og skort á innsæi í þarfir barnanna. Vitnið kvaðst kannast við að vinna mikið fyrir barnaverndarnefndir en taldi þó að hann gæti verið hlutlaus í þessari vinnu við mötin og að hann legði metnað sinn í það. Vitnið kvaðst þá aðspurður einnig vilja staðfesta orðréttan framlagðan framburð sinn fyrir dómi, frá […] 2018, og hann stæði enn við allt það sem þar hefði komið fram.           Vitnið G, félagsráðgjafi hjá barnavernd í Hafnarfirði, kvaðst hafa unnið að máli þessu því sem næst frá upphafi. Hún væri enn að vinna að þessu máli, það væri þá tengt eftirfylgni með umgengni, óskum um aukaumgengni, ef börnin þyrftu aðstoð o.fl. Börnin tvö dvelji enn á sama vistheimili hjá þeim I og U og fyrir liggi að þar fái þau að vera áfram þar til þau vilji flytja að heiman sem fullorðnir einstaklingar. Þessi vetur hafi verið afar erfiður börnunum þar sem endalaus málaferli í þessu máli reyni mjög á þau og erfitt sé að útskýra þetta síendurtekna ferli á mismunandi dómstigum fyrir þeim. Þá hafi stúlkan í haust […]. Börnin haldi sig enn við sömu frásögn og frá því […] 2015, það er að faðir þeirra hafi meitt þau, og það hafi ekkert breyst. Á tímabili hafi stúlkunni verið tíðrætt um þá minningu að foreldrar þeirra hefðu slegið til þeirra, og þá einkum drengsins, og hann verið með ákveðið viðbragð í því sambandi. Móðirin hafi kosið að trúa börnunum ekki og sagt að drengurinn lygi en einnig sagt að stúlkan hefði sagt sér að hún hefði bara ruglast og að hún tryði einungis þeirri frásögn hennar. Móðirin hafi í raun sjálf tekið þann kost að halda sig frá málinu árið 2016 og það hafi því verið lítið samband og engin samvinna af hennar hálfu. Faðir barnanna hafi svo verið sýknaður en börnin þó ekki breytt frásögn sinni og barnavernd beri að tryggja öryggi þeirra og velferð. Stúlkan hafi verið mjög afgerandi í afstöðu sinni og alfarið hafnað aukinni umgengni við móður en börnin hafi jafnan viljað halda umgengni í þeim skorðum sem hún er. Stúlkan hafi líka verið mjög afgerandi í því að vilja áfram búa hjá I og U, en drengurinn sé ekki jafn mikið að spá í þetta, hafi minni yfirsýn, en vilji þó jafnan hafa systur sína með sér í heimsóknum. Óöryggið í kringum málið leggist nú afar þungt á stúlkuna sem sé orðin nógu þroskuð til þess að skilja betur aðstæðurnar og hún eigi erfitt með að rifja þetta svona stöðugt upp og gráti þá. Eftir héraðsdóminn í […] 2018 hafi umgengni við móður verið minnkuð til að reyna að skapa meiri ró og stöðugleika en það sé almennt verklag þegar búið sé að svipta forsjá. Umgengnin við móður sé enn undir eftirliti. Í fyrstu hafi alls konar aðstæður verið að koma upp í tengslum við umgengnina og engin heilindi verið í samstarfinu við móður þar sem hún tryggði þá ekki nægilega að faðir barnanna héldi nauðsynlegri fjarlægð. Síðar hafi verið reynt að gera eftirlitið frjálslegra en stúlkunni þá þótt það ótryggt og viljað hafa eftirlitskonu viðstadda til að skapa öryggi og drengurinn líka minnst á það. Varðandi málsmeðferðina þá hefði vissulega mátt standa betur að málum í tengslum við meðferðaráætlanir en í tvígang hafi þó verið send út drög en engin viðbrögð komið frá stefndu og því hafi ekki verið gerðar frekari áætlanir. Þó hafi verið gerð áætlun í upphafi en stefnda dregið sig út úr því og afþakkað. Þá hefði átt að gera einhliða áætlanir en alltaf hafi þó legið fyrir úrskurðir um umgengni. Vitnið hafi unnið að málinu nánast frá byrjun þess. Það hafi verið hringt frá skólanum og málið útskýrt og þá verið farið í að reyna að ná til barnanna sem hafi þá verið í umsjá föður en móðirin […]. Lögreglan hafi hringt í föðurinn og kallað á hann í skýrslutöku en […] síðan komið með börnin. Samstarfsmaður hennar, H, hafi svo tekið að sér að nálgast móðurina. Farið hafi verið með börnin í skoðun á spítala og svo farið með þau á vistheimilið. Faðir barnanna hafi svo verið settur í gæsluvarðhald. Móðirin hafi strax brugðist við tíðindunum með því að hringja í föður barnanna og þá upplýst hann um allt sem barnavernd hafði rætt við hana. Síðan hafi samskiptin verið þannig að móðirin hafi verið mun meira samvistum við föðurinn en til hafi staðið miðað við aðstæður í kringum […] 2015 […]. Síðan hafi komið fram ásakanir móður á hendur […] sem tilkynnti málið og á skólann. Þá hafi verið haldinn foreldrafundur í janúar 2016 þar sem stefndu hafi mætt saman og þá talað eins og þau byggju enn saman. Þá hafi stefnda B ekki svarað ítrekuðum símtölum frá Barnahúsi og sérfræðingar þar ekki talið mögulegt að halda meðferð áfram á meðan móðir væri ekki til samvinnu um stuðning við stúlkuna. Eftir að faðirinn var síðan sýknaður vegna ónógrar sönnunar í sakamáli í […] 2017 hafi barnavernd staðið uppi með börnin tvö sem staðhæfi ennþá að faðir þeirra hafi meitt þau og að þau hræðist hann og vilji ekki vera nálægt honum. Barnavernd verði að nálgast málið út frá hagsmunum barnanna og gerð hafi verið skýrsla eftir fund þar í desember 2017 þar sem ákveðið hafi verið að halda forsjársviptingarmálinu áfram eftir sem áður. Reynt hafi verið að vinna með móðurinni frá upphafi en hún verið ófús til nauðsynlegrar samvinnu við barnavernd. Móðirin hafi í upphafi samþykkt vistun barnanna utan heimilis og barnavernd talið hana fúsa til samstarfs í fyrstu, í […] 2015. En eftir […] 2016 hafi sú staða gerbreyst eftir foreldrafundinn í skólanum þar sem faðir barnanna hafi komið með henni og þau talað eins og hann hefði verið þar heima kvöldið áður og stefnda þá auk þess ekki svarað símtölum vegna viðtala í Barnahúsi. Þá hafi verið búið að gera stefndu það ljóst að faðir barnanna mætti ekki vera hjá henni með börnunum á meðan rannsókn á máli hans stæði yfir, þó svo að það hafi ekki verið gert skriflega, en fram hafi farið óboðað eftirlit. Tilraunir til samstarfs við stefndu hafi verið gerðar frá október 2015 til janúar 2016, en síðan ekki verið unnt að grípa til vægari úrræða miðað við viðbrögð stefndu og alvarleika málsins að mati starfsmanna stefnanda. […]. Ekki hafi verið talið fýsilegt að færa málið yfir til annarra barnaverndaryfirvalda. Þegar barnaverndaryfirvöld hafi fyrst komið inn á heimilið hafi drengurinn reynst vera […] og stúlkan […]. […] þeirra hafi verið boðið að taka þátt í umgengni en fyrir liggi mál hjá stefnanda um kröfu um frekari umgengni þeirra. Stúlkan sé farin að gera sér glögga grein fyrir þessu máli öllu en hafi miklar áhyggjur af því að standa sig ekki nógu vel fyrir dómi og óttast að […]. Drengurinn hafi ekki verið […] þegar málið kom upp en hann leiti mjög til fósturforeldra og fólki í Barnahúsi þyki hann trúverðugur í frásögn. Báðum börnum sé nú vel sinnt en viðraðar hafi verið hugmyndir um stuðningsfjölskyldu eða tengingu við fólk í fjölskyldu þeirra. Þó verði að gæta þess að stúlkan sé ekki sett í þá stöðu að hún fái samviskubit. Vistforeldrarnir séu afar eljusöm við að sinna börnunum þó svo að þau séu […]. Vitnið kvaðst aðspurð einnig vilja staðfesta orðréttan framlagðan framburð sinn fyrir dómi, dags. […] 2018, og að hún stæði enn við allt það sem þar hefði komið fram.            Vitnið H félagsráðgjafi bar fyrir dómi að hann hefði frá upphafi unnið að málinu hjá barnavernd Hafnarfjarðar en að hann hefði tekið þar við öðrum málaflokki á síðasta ári. Vitnið hafi þegar málið kom fyrst upp farið […] að hitta stefndu B. Stefnda hafi þá fallist á vistun barnanna þar sem móðir hennar hafi þá ekki getað verið með börnin og til þess að stefnda gæti klárað meðferð sína á […]. Eftir að stefnda hafi síðan komið heim og þá fengið börnin til sín hafi svo komið í ljós að stefnda hefði ekki gætt að því að taka stöðu með stúlkunni á meðan mál eiginmanns hennar var til rannsóknar. Það hafi vissulega þurft þrjár erfiðar skýrslutökur í Barnahúsi áður en stúlkan hafi opnað sig um málið en allt frá því að hún hafi gert það hafi hún ekki hvikað frá þeirri frásögn sinni. Vitnið kvaðst ekki vera ánægður með málsmeðferðina yfirleitt þessi fjögur ár frá því að málið kom upp. Stúlkan hafi myndað trúnaðarsamband við […]kennara í […] og þar sagt fyrst frá ætlaðri misnotkun föður og síðan aldrei hvikað frá þeirri frásögn, en að þurfa síðan að endurtaka þetta fyrir framan margt fólk sem hún þekki hvorki né treysti sé henni afar erfitt. Í ferlinu í desember 2015 og í janúar 2016 hafi svo ýmislegt komið upp í samstarfi við stefndu B. Fjölskyldan hafi öll verið mikið saman í […]. Stefnda hafi síðan borið því við að hún hafi ekki vitað betur, en ætla verði að þetta hafi verið verulegur dómgreindarbrestur hennar, eins og málið stóð þá, það er að þau hjónin væru þannig saman á meðan mál föður gagnvart dóttur voru enn til rannsóknar. Eitt og annað af þessu tagi hafi gefið vísbendingar um það að stefnda væri ekki fær um eða tilbúin til að vernda stúlkuna og því hafi komið til sviptingarinnar í […] 2016. Starfsmenn stefnanda hafi svo reynt að fá stefndu til að skilja alvarleika málsins, en án árangurs, og á þessum tíma hafi fjölskyldumeðferð ekki verið raunhæft úrræði. Margoft hafi síðan verið rætt við börnin og þá komið skýrt fram að stúlkan vildi […] og að börnin tvö […] og starfsmenn stefnanda staðið með þeim í því, enda hafi barnavernd jafnan haft hagsmuni barnanna að leiðarljósi. Ákveðið hafi verið að draga úr umgengni eftir héraðsdóminn í […] 2018 þar sem þá hafi verið stefnt að varanlegu fóstri, en svo mikil umgengni hafi verið erfið fyrir börnin, og þá einkum stúlkuna. Börnin tvö hafi, þrátt fyrir sýknudóm föður þeirra í sakamáli, aldrei dregið framburð sinn til baka hvað hann varði. Vitnið kvaðst enn fremur aðspurður vilja staðfesta orðréttan framlagðan framburð sinn fyrir dómi, dags. […] 2018, og að hann stæði enn við allt það sem þar hafi komið fram. Vitnið I, vistmóðir barnanna, bar fyrir dómi að börnin tvö byggju hjá henni og eiginmanni hennar, en þau væru nú vistforeldrar þeirra. Eftir að niðurstaða héraðsdómsins í […] 2018 lá fyrir hafi G útskýrt fyrir börnunum að málinu hefði verið áfrýjað og þau þyrftu þá hugsanlega að fara fyrir dóm aftur. Þau hafi verið í sumarbústað þegar dómurinn barst og hafi verið fegin að fá tíðindin um að nú væru þau örugg. Þeim líði yfirleitt vel, […]. Áframhaldandi dómsmeðferð í málinu hafi reynt mjög á bæði börnin, en þau séu nú bæði tímabundið komin […] sem hafi hjálpað mikið. […]. Drengurinn sé nú miklu öruggari með sig, […]. Börnin geti búið og vilji búa áfram á vistheimilinu og þau séu orðin eins og hluti af fjölskyldu hennar eftir þessi bráðum fjögur ár. Aðspurð kvaðst vitnið aldrei hafa reynt að hafa áhrif á börnin og aldrei hafi verið rætt við þau um þeirra fyrra líf að fyrra bragði. Stúlkan sé mjög staðföst, og drengurinn vilji líka vera áfram hjá þeim, en hann sé enn það ungur að hann skilji aðstæðurnar ekki eins vel. Börnin hafi óttast föður sinn mjög en ekki móður en stúlkan hafi ekki þessi tengsl við móður sem drengurinn hafi og vilji stundum alls ekki þessa umgengni. Drengurinn biðji þó aldrei um að fara til móður en honum þyki það þó alveg ágætt að hitta hana. Þá hafi stúlkan t.d. nefnt við vistmóður í eitt sinn að hún vildi ekki vera […] og þetta hafi komið henni í opna skjöldu. Drengurinn hafi um tíma átt mjög erfitt og þótt það óþægilegt að vera úti að leika sér utan við garðinn á vistheimilinu af ótta við það að […]. Lýsti vitnið því að þau væru með […]. Þau hjónin séu nú […] og […] ára og […] á heimilinu, […]. Þau fái um […] krónur greiddar með börnunum tveimur á mánuði, sem séu nýttar í þágu barnanna. Stúlkan hafi kviðið nokkuð fyrir því að fara […] og þá hafi […] komið upp aftur. Þá sæki stundum á hana endurminningar um það sem kom fyrir hana og valdi það henni þá vanlíðan. Varðandi það að drengurinn sé […], þá telji vitnið að hin framlengda dómsmeðferð hafi reynt mjög á börnin og rifji upp fyrir þeim vondar minningar sem valdi þeim vanlíðan. Vitnið kvaðst trúa því sem börnin hefðu sagt um misnotkun föður. Drengurinn hafi eftir að hann kom í síðara skiptið til hennar getið þess eitt sinn að hann og pabbi ættu saman leyndarmál sem væri það að pabbi […]. Þá hafi stúlkan sagt henni fljótlega eftir að hún kom fyrst að pabbi hefði meitt hana […]. Hvorugt barnanna vilji hitta föðurinn en drengurinn sé kærleiksríkur í garð móður sinnar. Stúlkan virðist vera fremur köld í garð móður sinnar en vilji þó geta komið til hennar til þess að geta leikið sér þar með gamla dótið sitt. Vitnið kvaðst þá aðspurð staðfesta orðréttan framlagðan framburð sinn fyrir dómi, dags. […] 2018, og standa enn við allt það sem þar hefði komið fram.           Vitnið J, […] í […], bar hér fyrir dómi að haustið […]  hefði stúlkan C byrjað í […]. bekk skólans. Móðir hennar hafi síðan komið og rætt um áhyggjur sínar af stúlkunni bæði tengdar skólanum en einnig heima fyrir. Ákveðið hafi verið að styrkja stúlkuna sérstaklega til að […]. Í […] 2015 hafi verið beðið um frumgreiningu og niðurstaðan orðið sú að stúlkan væri yfir mörkum í […] en ekkert komið fram tengt […]. Hafi þá verið ákveðið að stúlkan færi til vitnisins í svokallaða […]-vinnu til að læra á tilfinningar sínar og […] og hafi sú vinna lofað mjög góðu þegar komið var […] 2015. Hafi þá verið ákveðið að stúlkan mætti áfram koma eftir þörfum og hafi hún þá stundum komið og þetta gengið þannig fram […] 2015. Þegar stúlkan kom svo […] 2015 þá hafi verið opið inn á skrifstofu vitnisins og stúlkan komið inn og þá aðspurð sagst vilja koma í […] þar sem hún valdi að tala um […]. Síðan hafi komið þarna fram hjá stúlkunni að […] og svo hafi hún brotnað niður og grátið í fanginu á vitninu og mikil angist verið í svip hennar en stúlkan hafi verið mjög lengi að koma þessu frá sér. Vitnið hafi þá hringt í barnavernd og verið tjáð að H og G myndu koma en faðirinn hefði þó áður komið og sótt börnin. Vitnið kvað viðtalið hafa verið alfarið á forsendum stúlkunnar og hefði hún verið stöðvuð þarna þá hefði hún vísast aldrei getað sagt frá. Vitnið hafi metið barnið í hættu og aldrei verið í vafa um að rétt hefði verið að tilkynna málið um leið og þetta lá svona fyrir. Vitnið gat um það að áður hefði borið á […] hjá stúlkunni og […]. Þá hafi verið áberandi […] hjá D bróður hennar. Frá haustinu 2015 og fram til […] 2018 hafi skólinn reynt að styðja sem best við stúlkuna því hún hafi haft verulegar áhyggjur af því að […]. Þá hafi borið á vanlíðan sem virtist tengd dögum þegar umgengni var við móður en stúlkan hafi yfirleitt ekki rætt um móður sína að fyrra bragði en oft sagst vilja fá að vera hjá I og U. D hafi komið í skólann haustið […] og verið áberandi pirraður þegar liðið hafi að umgengni en önnur kona hjá skólanum mest sinnt honum. Drengurinn hafi átt afar erfitt tímabil nú í vor þegar fyrir lá að hann ætti að koma aftur fyrir dóm og þurft hafi að kalla til sálfræðing í gegnum barnavernd. Hafi drengurinn sýnt mikið óöryggi og reiði en líka skrifað eitt sinn niður að […]. Drengurinn tali líkt og systir hans um það að hann sé öruggur hjá I og U en hann hafi ekki tjáð sig sérstaklega í skólanum um […]. Samskipti við foreldrana hafi verið ágæt áður en málið kom upp, en verið mjög erfið eftir það, og móðirin og móðuramma þá sakað vitnið um það að hafa komið máli þessu til leiðar. Samskipti við vistforeldrana hafi verið afar góð og börnin virst fljót að tengjast þeim og sé greinilega vel séð um börnin þar og þau virðist njóta þar ástúðar og umhyggju. Vitnið taldi að hún hefði alls ekki leitt stúlkuna í […] 2015. Þá kvaðst vitnið kannast við að þessi skólavetur hefði verið sérlega erfiður fyrir drenginn. Vitnið kvaðst einnig aðspurð vilja staðfesta orðréttan framlagðan framburð sinn fyrir dómi, dags. […] 2018, og að hún stæði enn við allt það sem þar hefði komið fram.   Vitnið K, félagsráðgjafi hjá barnavernd Reykjavíkur, sem tilnefnd var sem talsmaður C og síðar D, kom fyrir dóminn. Voru þar bornar undir hana tvær nýjar talsmannaskýrslur hennar, báðar dags. 1. apríl 2019, sín um hvort barnið, sem vitnið staðfesti. Hvað varðaði skýrsluna um C kannaðist vitnið við að stúlkunni liði nú verr en áður. Hún kvaðst hafa hitt stúlkuna í alls níu skipti, síðast í desember 2017, en þá hefði stúlkan átt erfitt með að […]. Ljóst sé frá upphafi og hún hafi tjáð það í öll skiptin að hún vilji búa hjá I og U. Þá hafi stúlkan sagt að hún […]. D sé mun lokaðri og erfiðara að ráða í hans afstöðu. Hann hafi þó virst mun opnari gagnvart þeim möguleika að flytja aftur til móður en ekkert talað um föður og sé greinilega tengdari móður en systir hans virðist vera. D kveðst vitnið hafa hitt í alls fimm skipti sem talsmaður. […]. Afstaða C virðist ígrunduð en D bregðist meira við eftir líðan hverju sinni og sé hann ekki eins dómbær og stúlkan á það hvað sé honum fyrir bestu. Sem talsmaður kvaðst vitnið hafa nokkrar áhyggjur af því hversu margir væru að tala við börnin um málið og það væri vísast stór ástæða fyrir vanlíðaninni nú. Systkinin séu tengd sterkum böndum og þeim þyki mjög vænt hvoru um annað, þar sem hún passi upp á hann, en aðskilnaður myndi ótvírætt reynast þeim báðum mjög erfiður. Vitnið kvaðst fyrst hafa hitt stúlkuna í júlí 2016 en drenginn í september sama ár. Hún kvaðst hafa rætt við börnin einslega á vistheimilinu, en þar virðist þau telja sig örugg. Vitnið kvaðst einnig aðspurð vilja staðfesta orðréttan framlagðan framburð sinn fyrir dómi, dags. […] 2018, og standa enn við allt það sem þar hefði komið fram. Vitnið L listmeðferðarfræðingur gaf skýrslu í síma fyrir dómi. Bar vitnið um það að síðan síðasta sumar hefði D haldið áfram hjá henni í listmeðferð en C hefði nú lokið sinni meðferð. Hann hafi verið að fá […] sem virtist tengjast því að verið væri að opna þessi mál aftur og það hafi valdið honum ólgu og óöryggi, en honum virtist líða betur nú eftir að […]. […]. Það væri alls ekki til bóta ef hann færi aftur til foreldra sinna miðað við það sem hann segi. Allt rótið eftir að málið var tekið upp aftur valdi drengnum greinilega óöryggi. Stúlkan hafi áður verið hjá henni í meðferð og hún þá tjáð öryggi sem heima hjá I og U og tjáð skýrt […]. Aðspurð kvaðst vitnið nú hafa hitt drenginn í um 60 skipti alls. Vitnið kvaðst einnig aðspurð vilja staðfesta orðréttan framlagðan framburð sinn fyrir dómi, dags. […] 2018, og að hún stæði enn við allt það sem þar hefði komið fram.  Vitnið M, félagsráðgjafi hjá barnavernd í Reykjavík, gaf skýrslu í síma fyrir dómi. Vitnið kvaðst aðspurð lengstum hafa haft eftirlit af hálfu barnaverndar með umgengni C og D við stefndu móður þeirra. Bar hún að endurteknar skýrslutökur fyrir dómi væru farnar að reyna mjög á börnin og […]. Hún hafi annars hætt að hafa umsjón með umgengninni eftir mitt síðasta ár. Almennt hafi umgengnin gengið misjafnlega og hún verið öryggisventill, og einkum fyrir stúlkuna. Henni hafi þótt drengurinn sýna viss tengsl við móðurina en stúlkan síður. Hún hafi þekkt börnin síðan 2016 og henni þótt stúlkan vera orðin miklum mun sjálfstæðari, öruggari og opnari en áður var, en það hefði hins vegar verið dagamunur á drengnum. Vitnið kvaðst einnig aðspurð vilja staðfesta orðréttan framlagðan framburð sinn fyrir dómi, dags. […] 2018, og að hún stæði enn við allt það sem þar hefði komið fram. Vitnið N sálfræðingur gaf skýrslu fyrir dómi í síma. Kvaðst vitnið fyrst hafa fengið stefndu B til sín í viðtal 27. júní 2017, en alls hefðu þetta verið 23 meðferðarviðtöl sem hefði lokið upp úr síðustu áramótum. Fyrst hafi stefnda verið í miklu uppnámi yfir málinu og sagt að það hefði verið mikið áfall þegar málið hefði komið upp og hún þá raunar gengið í gegnum fleiri áföll, t.d. […]. Stefnda hafi lýst langri sögu um […] og að hún fyndi til mikils saknaðar og sorgar vegna barnanna en síðar hafi áherslan orðið meiri á að komast í gegnum daglega lífið. Stefnda hafi verið opin og einlæg og mikið velt málinu fyrir sér frá öllum hliðum og þá ekki síst sínum eigin viðbrögðum og hvað hún hefði getað gert betur og öðruvísi sem og hvað væri best fyrir börnin í þessari erfiðu stöðu. Stefndu hafi þótt vera brotið á sér og þótt erfitt að skilja af hverju börnin voru tekin af henni. Stefnda hafi talið sig hafa reynt að fara eftir fyrirmælum barnaverndar en hún ekki fengið þaðan nógu skýr fyrirmæli. Stefnda hafi virst vera skýr í hugsun en foreldrahæfnin hafi ekki verið metin. Vitnið hafi þá bent stefndu á að starfsmenn skóla ættu ekki að yfirheyra börn. Síðast er vitnið hafi hitt stefndu hafi hún fundið til […].   Vitnið O sálfræðingur bar hér fyrir dómi að hún kannaðist við þau skjöl sem frá henni séu í málinu. Vitnið kvaðst hafa þekkt stefndu B frá því að […] hafi fyrst vísað stefndu til sín árið 2010, eftir að hún hafði þá glímt við […], og svo hafi hún aftur komið í viðtöl 2014, en síðan fengið […] og staða hennar þá orðið betri. Síðan hafi líf stefndu aftur tekið aðra og verri stefnu vegna […] og áföll riðið yfir fjölskylduna þegar […]. Stefnda hafi farið á […] 2015 og síðan leitað til vitnisins þegar mál þetta hafi farið af stað. G hefði þó fyrst haft samband við vitnið 2015 og beðið hana að veita konu sálfræðiviðtöl sem síðar hefði komið í ljós að var stefnda. Hafi vitnið orðið við þessu og þær síðan hist reglulega upp frá því en þó ekki fyrir milligöngu stefnanda þar sem slík formleg beiðni hefði aldrei borist sér. Vitnið hafi svo upp frá því fyrst og fremst litið á sig sem stuðningsaðila fyrir stefndu í gegnum öll þessi áföll sem hún hafi þurft að þola. Vitnið kvaðst ekki telja að stefndu hefði skort forsjárhæfni en hún hefði þó oft reynt að bera sig eftir stuðningi og ráðum. Stefnda hafi þannig í kringum 2014 rætt nokkuð við vitnið um stöðu dóttur sinnar og að mögulega […]. Vitnið telur að stefnda hafi ekki verið sátt við þessi miklu inngrip í líf fjölskyldunnar og vísast eitthvað í hennar framkomu verið túlkað sem skortur á samstarfsvilja. Stefnda hafi átt erfitt með að taka við stuðningi frá sama fólki og ruddist þannig inn í líf hennar og væri vafasamt blanda þessum hlutverkum þannig saman. Stefnda hafi átt erfitt með að trúa slæmu upp á mann sinn en þó viljað láta dóttur sína njóta alls vafa.    Vitnið P, móðuramma barnanna tveggja, gaf vitnaskýrslu fyrir dómi. Hún hafi […] en síðan flutt til […] 2015. Vel hafi verið séð um börnin en stúlkan hafi jafnan verið […]. Frá því í […] 2016 hafi vitnið aðeins fengið að hitta stúlkuna í fjögur skipti en hún margoft beðið um að fá að hitta börnin oftar en því yfirleitt verið svarað seint og illa. Vitnið hafi mætt tvisvar á fundi með stefndu dóttur sinni vegna málsins. Þær hafi fyrst talið að málið yrði leist fljótlega og ekki órað fyrir þeim ósköpum er svo hefðu gengið  á og þær ekki gert sér grein fyrir þessu og verið í sjokki. Ekki hafi síðan auðnast að vista börnin hjá vandamönnum þar sem sagt hafi verið að fjölskyldunni væri ekki treyst. Vitnið hafi þó nú fyrir skömmu rekist á stúlkuna í sundi og hún þá heilsað henni og þær fallist í faðma. Þær mæðgur hafi jafnan verið í daglegu sambandi og heilsufar barnanna hafi ekkert skorið sig úr að því er hún best vissi. Þetta hafi verið venjuleg börn, hún hændari að föður en hann að móður. Vitnið kunni enga skýringu á framvindunni en börnunum hafi verið haldið frá fjölskyldunni í lengri tíma og þau viti nú ekkert um föður sinn nema af afspurn. Aldrei hafi vitnið orðið vör við neitt ofbeldi á heimilinu og stefnandi aldrei spurt hana hvort hún gæti tekið börnin að sér. Vitnið R, fyrrum lögmaður stefndu B, bar fyrir dómi að hún hefði fyrst komið að málinu í […] 2016. Stefnda hafi þá lítið náð sambandi við þann lögmann sem fyrst hafi farið með málið fyrir hana og þá greinilega þegar orðin erfið staða í samskiptunum við barnavernd sem vinna hafi þurft með. Þarna hafi verið nýbúið að taka drenginn líka í vistun. Reynt hafi verið að ná samstarfi við barnavernd en síðan orðið augljóst að engin málamiðlun kæmi til álita af hálfu stjórnvaldsins. Afstaða þess hafi verið sú að börnin skyldu áfram vistuð utan heimilis og umgengni við móður vera lítil sem engin. Þarna hafi því þegar verið komið upp mikið vantraust og samskiptavandi allur verið skrifaður á reikning stefndu þótt henni væri ekki alltaf um að kenna. Vitninu hafi blöskrað ofsinn í málinu og hvernig starfsmenn stefnanda hafi talað til stefndu, sem sé afar óvenjulegt. Enginn vilji hafi verið til að reyna neitt annað en sviptingu og tregða verið til að veita umgengni þótt stefnda væri undir eftirliti, gagnvart konu sem ekki var sakborningur. Sýknudómur stefnda A hafi svo engu breytt um stöðuna og H þá sagt að þá yrði þeim bara náð á vanrækslunni en aldrei hafi þó verið reynt að vinna nokkuð með þann þátt málsins. Hvað varði hina meintu vanrækslu þá hafi það aldrei verið ástæða vistunar barnanna og það í raun ekki komið til umfjöllunar fyrr en síðar, þegar stefndi var sýknaður. Meðferðaráætlun hafi ekki verið reynd fyrr en 2016 en vistun í raun staðfest vegna sakamálsins. Aldrei hafi komið til tals að börnin yrðu vistuð hjá vandamönnum og það ekki þótt raunhæft en ömmur barnanna síðan ekki fengið að hitta börnin nema með eftirgangsmunum. Vitnið kvaðst hafa verið í sambandi við Barnaverndarstofu vegna málsmeðferðarinnar þar sem barnavernd í Hafnarfirði hafi borið af leið og ekkert gert til að viðhalda tengslum.        Vitnið S félagsráðgjafi bar fyrir dómi að hún hefði tekið við eftirliti með umgengni stefndu við börnin tvö í janúar 2019 en áður þó komið að sem slík með öðrum. Þau skipti sem hún hafi verið viðstödd hafi gengið vel og stefnda þá lagt sig fram við að gera eitthvað með börnunum. Börnin virðist þekkja heimilið nokkuð vel og séu þar eins og venjuleg systkini. Börnin séu ólík þar sem hann sé virkari en hún rólegri en vitnið greini ekki muninn á tengslum móður við þau.   IV. Málsástæður og lagarök aðila Málsástæður og lagarök af hálfu stefnanda Af hálfu stefnanda er vísað til þess að afstaða stefndu B gagnvart ásökunum barnanna sé óbreytt. Stefnda telji að málssókn á hendur stefnda A hafi verið á misskilningi byggð og að stefnandi hafi farið offari í málinu. Með hliðsjón af því njóti börnin ekki stuðnings stefndu í málinu, en að mati meðferðaraðila í Barnahúsi ráði það úrslitum um velferð þeirra til langframa. Séu stefndu þannig vanhæf til að fara með forsjá barnanna þar sem heilsu þeirra og þroska sé hætta búin í umsjá þeirra við óbreyttar aðstæður. Í munnlegum málflutningi vísaði stefnandi til þess að vilji barnanna til búsetu væri skýr. Þau vilji búa áfram á vistheimilinu. Þrátt fyrir sýknudóm í máli ákæruvaldsins gegn föður þeirra lýstu þau ákveðnum upplifunum sem ekki væri hægt að horfa fram hjá. Börnin njóti hér vafans og í barnaverndarmálum skuli ætíð hafa að markmiði það sem þeim er fyrir bestu. Stefnandi byggi kröfu sína um forsjársviptingu á því að ákvæði a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt í máli þessu. Stefnanda beri skylda til þess að tryggja grundvallarréttindi barnanna samkvæmt barnaverndarlögum, að börnin megi búa við stöðugleika í uppvexti og við þroskavænleg skilyrði. Með hliðsjón af öllu framansögðu um málavexti og gögnum málsins sé það mat stefnanda að hagsmunir barnanna verði ekki tryggðir með öðru móti en því að krefjast þess að stefndu verði svipt forsjá barnanna svo hægt sé að finna þeim varanlegt fóstur. Að mati stefnanda hafi önnur og vægari úrræði barnaverndarlaga verið fullreynd. Ekki hafi tekist að koma á samvinnu við stefndu B um að hún taki skýra afstöðu með börnunum og veiti þeim viðeigandi vernd. Um lagarök sé einkum vísað til barnaverndarlaga nr. 80/2002, og til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 18/1992, auk laga nr. 91/1991.   Málsástæður og lagarök af hálfu stefndu B Stefnda mótmælir málsástæðum stefnanda. Byggi hún sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á það að skilyrði a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt í máli þessu. Málsástæður stefnanda séu af þeim toga að málsgrundvöllur sé þar ekki lengur til staðar eftir sýknudóm í máli ákæruvaldsins gegn stefnda A. Ástæða forsjársviptingar sé eingöngu sögð vera afstaða stefndu B til ásakana um meint kynferðisbrot föður gegn börnum hennar. Eins og stefnda B hafi margsinnis tekið fram undir rekstri málsins hjá stefnanda þá hafi hún staðið með börnum sínum í gegnum allt málið og hlustað á frásagnir þeirra. Hennar afstaða hafi einnig verið sú að þar sem hún hafi sjálf ekki orðið vitni að neinu hafi hún ekki getað fallist á það að hún hafi beinlínis staðið við hlið stefnda A, eins og henni hafi verið gefið að sök. Þá hafi hún sannanlega ekki orðið vör við meint brot og hafi það haft áhrif á viðhorf hennar til frásagna, ekki síst þar sem stúlkan hafi allt frá fæðingu drengsins verið mun hændari að A en móður sinni. Hafi hún ávallt leitað meira til hans með sínar daglegu þarfir og ekkert borið á ótta eða neikvæðri afstöðu stúlkunnar í garð föður fram að því að hún hafi verið vistuð utan heimilis. Þá megi sjá það af umsögnum eftirlitsaðila og skóla að stúlkan virðist sakna fjölskyldunnar sárt. Stúlkan hafi einnig greint frá því í upphafi máls að hún hefði ruglast er hún hefði sagt […] að faðir hennar hefði beitt hana ofbeldi. Hafi hún beðið stefndu B um að koma því til skila. Þrátt fyrir þetta hafi stefnda að sjálfsögðu sagst styðja börn sín og hafi hún gert það meðal annars með því að slíta samvistum við stefnda A og gera allt sem hún hafi getað til þess að njóta góðra samvista við börn sín. En þrátt fyrir sýknudóm yfir A hafi stefnandi enn ekki leyft stefndu að umgangast börn sín með eðlilegum hætti. Engin hætta sé á því að stefnda reyni að hafa áhrif á frásögn barnanna enda sé dómsmáli föður þeirra nú lokið og ákæruvaldið hafi enga ástæðu talið vera til áfrýjunar.  Stefnda vísi til matsgerðar í málinu máli sínu til stuðnings. Hún komi þar vel út í persónuleikaprófi, en meintir veikleikar eins og þeir birtist í mati byggist á gögnum frá stefnanda sem stefnda kannist ekki við og hafi margsinnis mótmælt. Samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns teljist stefnda hæf til þess að annast börnin þótt hún hafi um tíma átt erfitt uppdráttar vegna […]. Þá megi sjá greinilega væntumþykju og vilja barnanna til samveru við hana í skýrslum eftirlitsaðila. Varðandi það að stúlkan hafi ítrekað verið með […] og að það sé merki um vanrækslu stefndu gagnvart barninu þá bendi stefnda á það að stúlkan glími enn við […]. Ekki séu þó gerðar athugasemdir við slíka stöðu á vistheimilinu heldur sé barnið látið dvelja þar áfram þrátt fyrir […]. Varðandi frásögn um bætta líðan barnanna á vistheimilinu þá virðist drengurinn áfram þurfa […]. Óróleikann megi án efa rekja til vanlíðunar vegna hins skerta tíma sem drengurinn fái með móður sinni þrátt fyrir ítrekaðar óskir hans um aukna umgengni við hana. Stúlkan hafi hins vegar fengið þó nokkra aðstoð fagaðila, en vert sé að benda á það að áður en málarekstur hófst þá hafi stefndu leitað til sérfræðings vegna […] hennar. Hafi verið talið, eftir lauslegt mat, að stúlkan kynni að vera með […]. Þrátt fyrir ítrekaða ábendingu stefndu B hafi stefnandi ekki enn látið fara fram neina athugun á stúlkunni. Ummælum um að börnin hafi sýnt vanlíðan í kjölfar umgengni verði að vísa til föðurhúsanna enda séu þau órökstudd. Hvað varði meinta afstöðu barnanna til dvalarstaðar þá bendir stefnda á að um sé að ræða ung börn. Augljóst tengslarof hafi orðið enda ekkert verið gert af hálfu stefnanda til að varðveita tengsl og byggja upp traust á milli stefndu og barna hennar. Börnin hafi mátt heyra það allan vistunartímann að heimili móður væri ótækt til búsetu en þau hafi eingöngu fengið að hitta hana undir eftirliti nokkrar klukkustundir í mánuði. Stefnda byggi sýknukröfu einnig á 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um meðalhóf, en þar segi að kröfu um sviptingu forsjár skuli aðeins gera ef aðrar og vægari aðgerðir hafa verið reyndar án viðunandi árangurs. Vert sé að benda á það að ekkert hafi verið gert til þess að reyna að aðstoða fjölskylduna í þeim hremmingum sem hún hafi verið í. Engin sálfræðiaðstoð hafi verið veitt stefndu og börnum hennar né heldur tilsjón með heimili eða önnur og vægari úrræði sem almennt séu notuð áður en til forsjársviptingar sé gripið. Þrátt fyrir sýknudóm í sakamáli stefnda A þá hafi viðhorf starfsmanna stefnanda haldist að öllu leyti óbreytt þótt stefndu hafi eingöngu verið legið á hálsi fyrir að hafa ekki trúað meintum ásökunum. Stefnda telji auk þess að krafa stefnanda um að hún verði svipt forsjá barna sinna fari í bága við fjölmargar meginreglur barnaverndarlaga. Þannig sé í 4. gr. þeirra laga kveðið á um meginreglur barnaverndarstarfs. Í 1. mgr. 4. gr. komi fram að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni séu fyrir bestu. Stefnda telji að svipting forsjár hennar yfir börnunum sé andstæð hagsmunum barnanna enda sé það grundvallarréttur barns að njóta samvista við fjölskyldu sína. Enginn stuðningur hafi verið veittur á heimili, engin fjölskylduaðstoð, heldur eingöngu aðstoð við börnin utan heimilis og það notað sem staðfesting á því að þeim líði betur utan heimilis móður. Stefnda telji mikilvægt að dómurinn sé upplýstur um það hvernig freklega hafi verið brotið á grundvallarmannréttindum hennar og barna hennar allt frá fyrstu afskiptum stefnanda af málum fjölskyldunnar. Þá hafi stefnda aldrei legið undir nokkrum grun um það að hafa beitt börnin ofbeldi eða annarri vanvirðandi meðferð. Allt frá fyrsta inngripi stefnanda hafi umgengni stefndu við börnin verið stórlega skert. Þá hafi stefnandi ekki uppfyllt sínar lögbundnu skyldur samkvæmt 2. og 4. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um gerð meðferðaráætlunar vegna málsins. Stefnandi hafi vanrækt að treysta tengsl barnanna við stefndu og stórfjölskylduna og virðist málsmeðferðin fremur hafa miðað að því leynt og ljóst að slíta varanlega þau grundvallartengsl við fjölskylduna er börnin eigi rétt á. Stefnda hafi aldrei verið grunuð um ofbeldi eða vanvirðandi hegðun gagnvart börnunum og því sé ljóst að viðbrögð stefnanda séu ekki í neinu samræmi við tilefni. Engin tilraun hafi verið gerð af hálfu stefnanda til að lina þjáningar barnanna vegna hins skyndilega aðskilnaðar. Ekkert hafi verið reynt til að byggja upp traust á milli stefndu og barna hennar heldur þvert á móti verið unnið markvisst gegn möguleikum á því að viðhalda tengslum og góðu sambandi með eins takmarkaðri umgengni og raun beri vitni. Engin tilraun hafi verið gerð til þess að fá fjölskylduráðgjöf eða aðra ráðgjöf með aðstoð Barnahúss eða annarra fagaðila. Þá skorti alveg á það, þrátt fyrir sýknudóminn, að stefnandi hafi hugleitt hvernig staðið skuli að því að börnin komi aftur heim til stefndu, enda hafi starfsmaður stefnanda lýst því yfir að það yrði aldrei. Þvert á móti hafi hann lýst því yfir á fundi barnaverndarnefndar að hvort sem stefndi A yrði fundinn sekur eða ekki myndi stefnandi halda áætlun um sviptingu forsjár til streitu. Stefnda vísi til barnaverndarlaga nr. 80/2002, einkum 4. gr., 2. mgr. 29. gr., 1. mgr. 41. gr. og 60. gr., og til óskráðrar meginreglu stjórnsýsluréttar um meðalhóf, auk 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá byggist málskostnaðarkrafa á 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en stefndu hafi verið veitt gjafsóknarleyfi í málinu.   Málsástæður og lagarök af hálfu stefnda A Stefndi A byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrði a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt í máli þessu. Þvert á móti þá sýni niðurstöður forsjárhæfnismats hins dómkvadda matsmanns í fyrirliggjandi matsgerð að stefndu séu hæf til þess að fara með forsjá barna sinna. Í matinu komi fram að vitsmunalegar forsendur séu fyrir hendi hjá báðum stefndu hvað varði forsjá. Þá staðfesti matsmaður einnig að bæði stefndu lifi reglusömu lífi.      Af stefnu megi ráða það að stefnandi byggi málatilbúnað sinn hér á þremur málsástæðum: Í fyrsta lagi á ásökunum um það að stefndi A sé grunaður um að hafa beitt börnin kynferðislegu ofbeldi. Í öðru lagi á því að stefnda B hafi tekið afstöðu með stefnda A og trúað á sakleysi hans. Í þriðja lagi sé svo byggt á því að börnin hafi verið vanhirt, stúlkan með […] og […]. Þá hafi drengurinn glímt við […] og börnin í upphafi máls þurft að […].      Við útgáfu stefnu hafi ekki legið fyrir sýknudómur frá […] 2017, en þrátt fyrir hann hafi stefnandi áfram kosið að halda þessari málsástæðu á lofti. Skjóti það skökku við að stjórnvald, í þessu tilfelli stefnandi, kjósi þannig að hundsa löglega uppkveðinn dóm þriggja dómara. Að sjálfsögðu hljóti sú spurning þá að vakna hvað búi á bak við þessa ákvörðun stefnanda. Stefndi A telji þessa háttsemi stefnanda verulega ámælisverða og ekki í samræmi við meginreglur barnaverndarstarfs, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar um meðalhóf.      Sú afstaða stefndu B að standa með saklausum manni sínum allt frá upphafi rannsóknar liggi eins og rauður þráður í gegnum allt ferlið hjá stefnanda. Þessi afstaða virðist hafa ráðið mestu um ákvörðun stefnanda um vistun barnanna utan heimilis hjá vandalausum, vistun sem nú hafi staðið yfir í nokkur ár. Refsing stefndu B sé gífurleg og veki það furðu að henni skuli skuli enn vera haldið til streitu eftir að sýknudómur hafi verið kveðinn upp. Samkvæmt þessu megi ljóst vera að tvær af þeim málsástæðum sem stefnandi byggi mál sitt á eigi ekki við. Eftir standi þá sú fullyrðing stefnanda að börn stefndu hafi verið vanhirt. Því sé mótmælt. Rétt sé að börnin hafi þurft að […] þegar málið gegn stefnda A hafi farið af stað en fyrir því hafi legið gild rök. Stefnandi hafi lagt mikla áherslu á það, þegar nefndin hafi tekið ákvarðanir sem snert hafi stefndu og börnin, að stúlkan hafi verið með […]. Vilji stefndi vekja athygli á því að á þeim tíma sem stúlkan hafi verið vistuð utan heimilis þá hafi honum borist til eyrna að hún glímdi enn við […]. Stefndi vísar til þess að börnin hafi aldrei sætt ofbeldi af hálfu stefndu sem telji sig fullfær um að fara með forsjá þeirra og telji að þær málsástæður sem stefnandi byggi á séu ekki fyrir hendi. Það megi aldrei vera markmið barnaverndaryfirvalda með afskiptum sínum að svipta foreldra forsjá yfir börnum sínum heldur beri að leita allra leiða til að börnin geti alist upp hjá þeim og haldið í uppruna sinn eins og þau eigi rétt til samkvæmt lögum. Það sé þekkt viðhorf í barnarétti að aðskilnaður svo ungra barna frá aðalumönnunaraðila sínum í langan tíma geti haft skaðleg áhrif á þau til frambúðar. Sé það því mat stefnda A að stefnandi hafi gerst sekur um ítrekuð brot gagnvart stefndu og börnunum og réttindum þeirra við meðferð málsins. Endurspeglist það í því að stefnandi hafi ákveðið að halda málinu til streitu þó að fyrir liggi sýknudómur.  Stefndi bendir á að dómkvaddur hafi verið matsmaður, F, til þess að meta forsjárhæfni stefndu og komi þau mjög vel út í matinu. Matsmaður telji hvorugt þeirra uppfylla skilmerki fyrir persónuleikaröskun og því hafi ekki verið sýnt fram það að stefndu séu vanhæf til þess að fara með forsjá barnanna.Þó svo að matsgerðin styðji dómkröfur stefndu, þá geri stefndi nokkrar athugasemdir við sumt sem þar kemur fram. Þannig vísi matsmaður t.d. til þess að vaknað hafi upp grunsemdir um kynferðisofbeldi af stefnda sem flækir málið óneitanlega en börnin hafa verið samkvæm sjálfum sér um að eitthvað hafi gerst. Þetta sé ekki rétt. Stúlkan hafi farið í þrjú viðtöl í Barnahúsi og þar hafi hún ekki verið samkvæm sjálfri sér í frásögnum sínum. Þá hafi drengurinn farið í tvö viðtöl í Barnahúsi og ekki verið samkvæmur sjálfum sér í framburði sínum.  Fullyrt sé í matsgerðinni að stefnda B hafi ekki verið fús til samstarfs við stefnanda. Þetta sé alrangt. Það hafi verið stefnandi sem ekki hafi verið fús til samstarfs þar sem stefnda B hafi neitað að trúa því að eiginmaður hennar væri sekur. Í kaflanum séu fullyrðingar um það að komið hafi í ljós að þau A hafi haldið sambandi síðan en sagt ósatt um það, sem séu alrangar. Stefndi bendir á að sjálfsögðu hafi þau hjónin haldið sambandi og aldrei farið leynt með það. Fáránlegt sé að telja það brot þó að stefndu hafi haft samband, en þau hafi verið og séu hjón og ekkert óeðlilegt við það. Þá kannist stefndu ekki við það að þeim hafi verið bannað að hafa samband hvort við annað enda ekki á valdi stefnanda að hindra samskipti þeirra.  Í matsgerð dómkvadds matsmanns í málinu sé loks stuttur kafli undir heitinu Vilji barnanna. Telji matsmaður að vilji barnanna sé mjög skýr, það er að þau vilji búa áfram hjá vandalausu vistunaraðilunum. Þetta veki upp afar áleitna spurningu, það er hversu gömul þurfi börn að vera og hversu þroskuð til þess að geta tekið slíkar ákvarðanir og hvenær eigi þá að taka mark á þeim. Stefndu telji það mjög óeðlilegt, við þær sérstöku kringumstæður sem hér hafi verið um að ræða, að leyfa eigi börnunum þannig að ráða hvar heimili þeirra verði í framtíðinni. Einnig væri það mjög óeðlilegt að fara eftir slíkum óskum og beinlínis brot á barnaverndarlögum. Börnin hafi hvorki séð né heyrt í stefnda A í nokkur ár og umgengist móður sína mjög stopult þann tíma. Megi gera ráð fyrir því að svör barnanna séu lituð af því. Með vísan til alls framangreinds þá telji stefndi að skilyrði a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu hér ekki uppfyllt og krefjist hann því sýknu af kröfum stefnanda. Stefndi byggi sýknukröfu sína einnig á 2. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002, þar sem segi að kröfu um sviptingu forsjár skuli aðeins gera ef aðrar og vægari aðgerðir hafa verið reyndar án viðunandi árangurs. Samkvæmt þessu ákvæði laganna þá sé ekki nóg að vægari aðgerðir hafi verið reyndar heldur sé það sett sem skilyrði að slíkar aðgerðir hafi ekki skilað viðunandi árangri. Stefndi vísi annars til barnaverndarlaga nr. 80/2002, einkum 4. gr., 2. mgr. 29. gr., 1. mgr. 41. gr. og 60. gr. Þá vísist til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 10. og 12. gr., auk óskráðrar meginreglu stjórnsýsluréttar um meðalhóf. Málskostnaðarkrafa byggi á 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en sótt hafi verið um gjafsóknarleyfi vegna reksturs máls þessa.   V. Niðurstaða Í máli þessu gerir stefnandi kröfu um það að hinir stefndu foreldrar, þau B og A, verði með dómi svipt forsjá barna sinna, þeirra C og D, sem nú eru vistuð utan heimilis á vegum stefnanda samkvæmt 28. gr., sbr. b-lið 27. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002. Byggist þessi krafa stefnanda einkum á því að uppfyllt séu í málinu skilyrði í a-, c- og d- lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, fyrir forsjársviptingu, en í umræddu ákvæði laganna segir eftirfarandi:    „Barnaverndarnefnd er heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar, annar þeirra eða báðir, skuli sviptir forsjá ef hún telur:      a. að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska, […]      c. að barninu sé misþyrmt, misboðið kynferðislega eða megi þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu,     d. fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða.“  Fyrir liggur að framangreind krafa stefnanda um forsjársviptingu tengist þeirri forsögu málsins sem að framan hefur verið lýst í málsatvikakafla dómsins, þar sem faðir barnanna, stefndi A, var ákærður fyrir brot gegn báðum börnum sínum samkvæmt 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en hann var síðan sýknaður af þeim meintu brotum í dómi Héraðsdóms […] frá […] 2017. Eftir stendur engu að síður krafa stefnanda um sviptingu forsjár, það er þá einkum vegna ætlaðrar vanrækslu beggja foreldra á umönnun barnanna, sem og meintrar vanhæfni þeirra til að axla forsjárskyldur sínar. En auk þessa er því enn borið við að hvorugt barnanna beri traust til foreldra sinna, að því er virðist í ljósi atvika sem átt hafi sér stað á heimilinu og leiddu til málsins. […] Í málinu liggja fyrir ítarleg gögn, bæði varðandi foreldrana og börnin, auk þess sem ýmsir þeir sem komið hafa að málinu á ýmsum stigum þess gáfu skýrslu fyrir dómi. Á meðal gagna í málinu er matsgerð dómkvadds matsmanns, F sálfræðings, dags. 12. maí 2018, en hann staðfesti hana hér fyrir dómi. Í framangreindri matsgerð dómkvadds matsmanns var matsmaður sérstaklega beðinn um það að leggja mat á forsjárhæfni móður, tengsl barnanna við móður, getu móður til þess að veita börnunum öruggt og tryggt umhverfi, svo og liðsinni vandamanna og áhrif tengslarofa við stórfjölskylduna á börnin. Þá var þess farið á leit að matsmaður tilgreindi annað það sem máli kynni að skipta með vísan til þeirra atriða sem tilgreind eru í greinargerð með frumvarpi til 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þá var einnig síðar aukið við matsbeiðni spurningum um afstöðu móður til föður til framtíðar og um afstöðu móður til sambands hennar og barnanna við föður til framtíðar. Síðar var matsmanni svo falið að meta sömu atriði varðandi föður. Í matsgerðinni kemur meðal annars fram að stúlkan C hafi mætt þrisvar í skýrslutöku í Barnahúsi frá því að málið hafi komið fyrst upp […] 2015 og síðan í 22 skipti í viðtöl þar hjá sálfræðingi. Hafi hún þar átt erfitt með það að tala um meint kynferðisbrot og frásögn hennar komið smátt og smátt yfir langt tímabil. Hún hafi sagt vistmóður frá atvikum sem hún hafi síðan endurtekið í viðtölum. Drengurinn D hafi einnig farið þangað í skýrslutöku […] 2016 og síðan í meðferðarviðtöl hjá sálfræðingi. Þar hafi D greint frá háttsemi föður í sinn garð og að hann væri hræddur um að slíkt gerðist aftur. Hann væri hins vegar ekki hræddur við að fara til móður sinnar því þar væri kona sem væri að passa hann. Samkvæmt matsgerð var það mat sálfræðinga er sáu um viðtöl í Barnahúsi að frásagnir barnanna væru trúverðugar. Hvað varðar móður barnanna, stefndu B, þá kemur meðal annars fram í matsgerðinni að hún eigi sögu um […] og þegar C hafi fæðst árið […] hafi hún þjáðst af […]. Eftir að D hafi fæðst árið […] hafi hún svo verið greind […] árið 2012 og hafi síðan greinst með […] árið 2014. Þá hafi veikindi og […] í seinni tíð reynst henni erfið. B hafi verið á […] vegna þessara vandamála sinna þegar málið hafi komið upp í […] 2015. Liggi fyrir að stefnda reyki ekki og eigi ekki sögu um vandamál tengd áfengi eða vímuefnum. Í sálfræðiprófunum B komi fram fremur há gildi í tengslum við […]. Hvað varðar síðan föðurinn, stefnda A, þá kom meðal annars fram í mati matsmanns að hann kæmi vel fyrir og hefði rólegt yfirbragð. Hann eigi að baki háskólamenntun og sé í traustri vinnu. A segist jafnan hafa verið mjög virkur í umönnun barna sinna og þá meðal annars vegna […]. A reyki ekki og eigi ekki sögu um vanda tengdan áfengi eða vímuefnum og taki engin lyf. A sé heilsugóður og ekki hafi borið á […] áður en að mál þetta hafi komið upp. Í sálfræðiprófum komi fram að hann sýni tilhneigingu til sjálfsfegrunar auk tregðu til þess að viðurkenna eða gangast við almennum breyskleikum. Hvað varðar barnið C þá kom fram í viðtölum matsmanns að um væri að ræða stúlku á […] ári sem væri aldurssvarandi í þroska en sýnilega þjökuð af einhverju. C hafi verið fremur til baka í viðtölum. Aðspurð hafi henni ekki litist vel á að flytja til móður en sagt að hún vildi búa áfram hjá vistforeldrunum, I og U, […]. […] Hvað varðar barnið D þá hafi meðal annars komið fram að um sé að ræða […] ára kröftugan dreng sem virðist klínískt eðlilegt barn í þroska og komi vel fyrir sig orði. […]. D hafi einnig lýst vilja til að búa áfram hjá núverandi vistforeldrum. […]. Ekki eru að mati dómsins efni til þess að rekja hér sérstaklega viðtöl við aðra þá sem matsmaður ræddi við, svo sem vistforeldra, ömmur, kennara og aðra handleiðara. En í samantekt þá var það niðurstaða matsmanns hvað varðar forsjárhæfni foreldra að ýmislegt hefði mátt betur fara í umönnun og uppeldi barnanna. Það hafi verið veikleikar í forsjárhæfni foreldra. Telur matsmaður líklegt, með hliðsjón af gögnum málsins, að […] B hafi haft áhrif á getu hennar til þess að sinna börnunum sem skyldi. Þá vakni upp grunsemdir um kynferðisofbeldi föður sem flæki málið óneitanlega en börnin hafi verið samkvæm sjálfum sér um það að eitthvað hefði gerst. Hvað varði tengslamyndun barnanna við foreldrana þá sé að mati matsmanns erfitt að meta hana hvað varði föður þar sem ekkert samband hafi verið þar um langan tíma. Eins og líðan barnanna sé í dag þá óttist þau föður sinn og vilji ekki hitta hann. Sú afstaða komi einnig ítrekað fram í málsgögnum. Tengslamyndun barnanna við móður þeirra virðist samkvæmt gögnum einnig vera skert að mati matsmanns og þá einkum C. Hvorugt barnanna hafi lýst vilja til þess að búa á heimili móðurinnar til frambúðar og virðist sem að tilhugsunin um það að flytjast aftur til hennar valdi þeim öryggisleysi. Þá kveðst matsmaður líta til þess að frekara tengslarof við foreldranna hafi orðið eftir að börnin hafi flust á vistheimili og lítil samskipti verið upp frá því og hafi það haft mikil áhrif á tengslin. Börnin hafi hins vegar myndað djúpstæð tengsl við vistforeldra þar sem þau virðist upplifa öryggi og hlýju. Börnin virðist ekki sakna þess að búa hjá foreldrum og umsagnir skóla og meðferðaraðila bendi til þess að staða þeirra hafi styrkst verulega á þeim tíma sem þau hafa verið utan heimilis hjá vistforeldrum. Hvað varðar getu foreldranna til þess að veita börnunum öruggt og tryggt umhverfi þá kemur fram í matsgerð að þrátt fyrir sýknudóm í sakamáli föðurins upplifi börnin engu að síður enn hræðslu og óöryggi í tengslum við mögulega návist hans. Þar sem börnin upplifi ekki öryggi hjá föður og þar sem móðir taki afstöðu með honum nái hún heldur ekki að veita börnunum öruggt og tryggt umhverfi eins og þau upplifi það. Hvað varði vilja barnanna þá sé hann að mati matsmanns afar skýr, bæði út frá viðtölum hans við þau og öðrum gögnum málsins, það er að þau upplifi núverandi aðstæður sínar góðar og að þau vilji búa áfram hjá vistforeldrum, en hvorugt vilji snúa aftur á heimili foreldra. Auk framangreindrar matsgerðar hins dómkvadda matsmanns þá ræddu dómarar málsins beint við bæði börnin til þess að kanna afstöðu þeirra í málinu. Hér fyrir dómi tjáði C, sem nú er á […] ári, sig mjög afdráttarlaust um það að hún vilji fá að búa áfram hjá núverandi vistforeldrum sínum, en ekki fara aftur í umsjá foreldra sinna, né heldur vilji hún búa hjá móður sinni þótt faðir hennar væri ekki þar, þar sem hún telji sig ekki örugga þar. Hún telur það hæfilegt að hitta móður sína mánaðarlega, eins og nú er, en að hún vilji ekki hitta föður sinn því hann hafi meitt hana og hún vilji ekki þurfa að rifja það upp. D er hins vegar yngri, eða […] ára, og tjáir sig ekki jafn afdráttarlaust. Vilji hans virðist þó vera sá að fá að dvelja með systur sinni hjá núverandi vistforeldrum. D tók þó jafnframt fram að hann vildi fá að hitta móður sína meira en nú er og að það væri skemmtilegt að fara til hennar. Hann kvaðst hins vegar ekki vilja hitta föður sinn því að hann hafi stundum verið hræddur við hann en þó ekki jafn mikið og áður. Áberandi var því að hvorugt barnanna virtist nú geta hugsað sér að eiga í samskiptum við föðurinn, en D virtist a.m.k. sakna þess að fá ekki að sjá meira af móður sinni eftir að umgengni hans við hana var skert um helming um mitt árið 2018. Að öllu framangreindu virtu þá er það mat dómenda að hér sé um að ræða afar flókið og vandmeðfarið mál, sé tekið mið af skilyrðum í a-, c- og d- lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sem og í 2. mgr. sama lagaákvæðis, sem uppfylla þarf hvað varðar báða foreldra og bæði börnin til þess að dómkrafa stefnanda í málinu geti náð fram að ganga. En að mati dómsins er það þó einnig grundvallaratriði í málinu að tekin verði hér ákvörðun með sérstakri hliðsjón af þeim markmiðum laganna sem lýst er í 1. og 2. gr. þeirra, sem og þeirri meginreglu að í öllu barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni séu fyrir bestu, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Sé litið til fyrirliggjandi gagna, og þá einkum til mats dómkvadds matsmanns sem ekki hefur verið hrakið í málinu, þá verður að taka undir það með matsmanni að ljóst verði að telja að upplifun beggja barnanna af verulegum ótta við föður sinn sé mjög raunveruleg fyrir þeim báðum, þótt ekkert verði hér fullyrt um það hvaða atvik kunni raunverulega að hafa leitt til þessa, en bæði börnin hafa þó ítrekað lýst háttsemi, eins og fram hefur komið, af hálfu föður í þeirra garð. Verður því að mati dómsins, með hliðsjón af framangreindu, að leggja það til grundvallar að uppfyllt séu hér nægilega skilyrði c-liðar 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002 í tilviki föðurins, stefnda A, til þess að svipta megi hann forsjá beggja barna hans. Þá er einnig fallist á það með stefnanda að í tilviki föðurins eigi d-liður sama ákvæðis ótvírætt við, þar sem sýnt þykir að stefndi sé vanhæfur til þess að fara með forsjá barnanna þar sem heilsu þeirra og þroska sé hætta búin í umsjá hans þar sem breytni hans sé fallin til þess að valda börnunum skaða. Hvað varðar síðan móður barnanna, stefndu B, þá er það mat dómenda að sérstaklega verði að horfa til þess að fyrirliggjandi gögn í málinu benda til þess að forsjárhæfni hennar sé skert. Þó svo að stefnda hafi lagt sig fram um það að bæta stöðu sína þá eru veikleikar í persónugerð hennar og hana skortir innsæi, auk þess sem þrálátt […] og vanvirkni hamlar henni. Í þessu tiltekna sambandi dugar að mati dómsins þó ekki að líta sérstaklega til ætlaðrar vanrækslu við umönnun þar sem hún virðist þegar á allt er litið ekki hafa verið slík að það réttlæti forsjársviptingu ein og sér. Það sem hins vegar blasir við í málinu er að frum- og umönnunartengsl hafa ekki myndast á eðlilegan hátt á milli mæðgnanna B og C. Eftir vistun C utan heimilis hefur síðan orðið þar enn frekara tengslarof og vandséð að unnt sé að byggja upp tengsl þeirra og traust að nýju. Þá sýndi móðirin, stefnda B, einnig af sér verulegan innsæisskort með viðbrögðum sínum við erfiðri stöðu dóttur sinnar fljótlega eftir að málið kom upp og það átti ásamt öðru þátt í því hvernig því vatt óheppilega fram eftir það. Verður að heimfæra þennan vanda samantekið undir bæði a- og d- liði 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002 og fallast á það að stefnda verði svipt forsjá dóttur sinnar C á þessum grundvelli, enda hefur stúlkan einnig ítrekað sjálf lýst því afar skýrt að hún treysti ekki móður sinni nægilega vel en vilji áfram fá að þroskast í öruggara umhverfi, eins og hún nú búi við. Hvað síðan varðar drenginn D, þá er staða hans gagnvart móður ótvírætt um margt flóknari þar sem hann hefur einnig lýst því yfir að hann vilji vera áfram hjá vistforeldrum, en tengsl hans við móður sína virðast þó, með hliðsjón af því sem liggur fyrir í málinu, vera bæði raunveruleg og nokkuð sterk, þótt verulegs vantrausts og ótta virðist einnig hafa gætt hjá honum gagnvart móður. Stefnda glímir eins og áður segir enn við […] og hefur sótt stuðning sinn til föður og í ljósi reynslu verður að telja óvarlegt að treysta því að stefnda tryggi að stefndi verði ekki í samvistum við drenginn. Er það því niðurstaða dómenda að svipta beri móður einnig forsjá drengsins D með vísan til d-liðar 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002 þar sem sýnt hafi verið nægilega fram á það að stefnda sé, líkt og í tilviki C, vanhæf til að fara með forsjá hans því að heilsu hans og þroska sé hætta búin í umsjá hennar. En hér er meðal annars einnig litið til þess álits dómkvadds matsmanns að réttast sé að rjúfa ekki tengslin á milli þeirra systkinanna, og þá einnig til framtíðar þeirra litið, en þar fyrir utan þyrfti gríðarlega vinnu til að treysta tengsl drengsins að nýju við móður sína, þó svo að viss grundvöllur kunni að vera þar fyrir hendi. Enn fremur vísast í þessu samhengi til ákvæðis 2. mgr. 33. gr. sömu laga sem kveður á um það að leitast skuli við að finna systkinum sameiginlegar lausnir í samræmi við þarfir þeirra og hagsmuni. Rétt er að geta þess að í málinu liggja nú enn fremur fyrir ýmis ný gögn frá síðasta og þessu ári sem sína fram á það að líðan beggja barnanna hafi alls ekki verið nægilega góð á umliðnu ári en nokkuð vandasamt er þó að ráða rækilega í þá stöðu. Verður þó að telja það nærtækt að sérstakt álag hafi verið fyrir stúlkuna að […]. Varðandi drenginn þá virðist vilji hans standa til þess að fá að hitta móður sína meira en nú er, en fyrir liggur að frá miðju síðasta ári var umgengni hans við móður sína skert umtalsvert í trássi við leiðbeiningar sérfróðra meðdómsmanna, sem þá fjölluðu um mál þetta, um mikilvægi þess að reyna fremur að efla og styrkja þau tengsl til framtíðar. Er einnig ótvíræð afstaða dómenda nú að sú síendurtekna dómsmeðferð sem börnin hafa þurft að þola hljóti að hafa valdið þeim verulegu álagi. En auk þess verði að taka alvarlega ábendingar, sbr. t.d. af hálfu talsmanns þeirra hér fyrir dómi, um það að börnin hafi vísast verið undir of miklu álagi hjá of mörgum meðferðaraðilum.    Sé tekið mið af öllu hér framangreindu þá er það þó mat dómsins að eins og málum er komið þá sé það börnunum fyrir bestu að fallist verði á kröfu stefnanda um það að báðir foreldrar verði sviptir forsjá þeirra beggja. Er þá, sem fyrr segir, einkum til þess að líta að ótti barnanna við föður sinn virðist af einhverjum ástæðum hafa verið mjög raunverulegur fyrir þeim og líklegur til þess að vera langvarandi, auk þess sem börnin, og þá sérstaklega stúlkan, treysta ekki móður sinni til þess að veita þeim vernd í þessari stöðu. Með hliðsjón af þessu og því að börnin hafa sýnt sterkan vilja til þess að fá að vera áfram saman hjá núverandi vistforeldrum, þar sem þeim virðist yfirleitt líða vel, þá er það mat dómsins að það sé börnunum nú ótvírætt fyrir bestu að fallist verði á dómkröfu stefnanda um forsjársviptingu eins og hún liggur hér fyrir. Er þá einnig til þess að líta að ekki virðast, eins og málum er komið, heldur vera raunhæfir kostir til þess að láta hér reyna á einhver önnur og vægari úrræði með hliðsjón af hagsmunum barnanna, sbr. áskilnað 2. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002.  Þrátt fyrir þá niðurstöðu sem liggur hér fyrir telur dómurinn engu að síður sérstakt tilefni til þess að gera athugasemdir við ýmislegt varðandi meðferð málsins af hálfu stefnanda. Liggur þannig meðal annars fyrir í málinu að móðir hafi beint kvörtun til Barnaverndarstofu, dags. 26. október 2016, þar sem fundið var að vinnubrögðum stefnanda. Í úrskurði Barnaverndarstofu, dags. 21. ágúst 2017, kemur svo meðal annars fram að nokkuð hafi skort á að vinnsla málsins væri í samræmi við það hvernig standa eigi að könnun mála og gerð áætlana. Þá var þar fundið að því að börnin hefðu verið vistuð á heimili sem ekki hefði um tíma haft tilskilin leyfi til þess að vista börn. Að mati dómsins ber að taka undir þessar athugasemdir Barnaverndarstofu. En auk þessa telur dómurinn ástæðu til að átelja fleira í vinnubrögðum starfsmanna stefnanda og annarra sem komu að málinu, og þá einkum þá ófaglegu nálgun að fjalla ítrekað um meint kynferðisbrot föður barnanna eins og sönnuð hefði verið sú sök hans áður en dómur féll í sakamáli á hendur honum. Þá er það einnig mat dómsins að móðirin, stefnda B, virðist heldur ekki allskostar hafa notið sannmælis hjá starfsmönnum stefnanda og allt of lítið verið aðhafst af hálfu stefnanda til þess að reyna að styrkja tengsl hennar við börn sín fyrr í ferlinu eða til þess að auka traust hennar í garð barnaverndar, auk þess sem engin meðferðaráætlun var í gildi frá apríl 2016 á meðan unnið var að málinu. Þá virðist heldur ekki hafa verið höfð samvinna eða samráð við móðurina varðandi […] á stúlkunni, um viðtöl í Barnahúsi eða um viðtöl hjá listmeðferðarfræðingi, svo dæmi séu nefnd. Einnig virðist að mati dómsins hafa mátt láta reyna á frekari og opnari umgengni drengsins við móður, sem hann virðist nú sjálfur kalla eftir, en þvert á móti þá virðist stefnandi allt frá síðasta ári hafa reynt að skerða þau tengsl frekar, án gildra skýringa, og verður að telja vandséð hvernig það eigi að geta talist barninu fyrir bestu til lengri tíma litið. En þrátt fyrir framangreint þá er það mat dómsins að þessir annmarkar við meðferð málsins séu þó ekki þess eðlis að þeir geti leitt til annarrar efnislegrar niðurstöðu en hér er þegar fengin með hliðsjón af öllu hér framansögðu og hefur að öllu virtu einkum að leiðarljósi hagsmuni beggja barnanna. Eins og mál þetta er vaxið þykir rétt að málskostnaður á milli aðila falli niður. Bæði stefndu njóta gjafsóknar, sbr. fyrirliggjandi gjafsóknarleyfi með vísan til 60. gr. laga nr. 80/2002, sbr. 126. gr. laga nr. 91/1991, til handa stefndu B, dags. […] 2019, og til handa stefnda A, dags. […] 2019, og skal því allur gjafsóknarkostnaður beggja stefndu vegna reksturs máls þessa fyrir dómi greiðast úr ríkissjóði. Þar með talin er þá málflutningsþóknun lögmanna þeirra, Þorbjargar Ingu Jónsdóttur, lögmanns B, sem ákvarðast 1.400.000 krónur og Jóhannesar Ásgeirssonar, lögmanns A, sem ákvarðast 1.000.000 krónur. En krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á sér hér ekki stoð, sbr. úrskurður Landsréttar í máli nr. 7/2019, dags. 22. janúar 2019, um þau efni. En við ákvörðun málflutningsþóknunar var tekið mið af yfirlitum um tímaskráningu af hálfu lögmanna.         Málið flutti Björgvin Halldór Björnsson lögmaður fyrir stefnanda, en þau Þorbjörg Inga Jónsdóttir lögmaður fyrir stefndu B og Jóhannes Ásgeirsson lögmaður fyrir stefnda A. Pétur Dam Leifsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan sem dómsformaður í fjölskipuðum dómi, sbr. 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991, með þeim Kolbrúnu Sævarsdóttur héraðsdómara og Guðrúnu Oddsdóttur sálfræðingi. Þess skal getið að dómsformaður tók fyrst við meðferð málsins þann 10. janúar 2018, en hafði fram til þess tíma engin afskipti haft af meðferð þess. D ó m s o r ð Stefndu, B og A, eru svipt forsjá barnanna C og D. Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu B og stefnda A greiðist úr ríkissjóði, en þar með talin er málflutningsþóknun Þorbjargar Ingu Jónsdóttur, lögmanns B, sem ákvarðast 1.400.000 krónur, og Jóhannesar Ásgeirssonar, lögmanns A, sem ákvarðast 1.000.000 krónur.
Mál nr. 49/2019
Börn Barnavernd Forsjársvipting Meðdómsmaður Lögskýring Ómerking dóms Landsréttar Gjafsókn
Í málinu höfðu bæði héraðsdómur og Landsréttur fallist á kröfu B um að A yrði sviptur forsjá tveggja barna sinna á grundvelli a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Fyrir Hæstarétti var einungis deilt um hvort ómerkja bæri dóm Landsréttar. Byggði A á því að málsmeðferð fyrir Landsrétti hefði verið ábótavant þar sem sérfróður meðdómsmaður hefði ekki verið kvaddur til setu í dóminum svo sem lögskylt væri samkvæmt 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga. Í dómi sínum rakti Hæstiréttur tilgreind ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og þær breytingar sem á þeim höfðu verið gerðar með lögum nr. 49/2016 og hlutaðeigandi ákvæði barnaverndarlaga og þær breytingar sem á þeim höfðu verið gerðar með lögum nr. 80/2011. Var talið að við meðferð forsjársviptingarmála, sem rekin væru fyrir héraðsdómi samkvæmt 29. gr. barnaverndarlaga, bæri dómara samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laganna að kveðja til sérfróðan meðdómsmann eða meðdómsmenn, nema við ættu undantekningar þær sem greindi í ákvæðinu. Þá vísaði Hæstiréttur til þess að lög um dómstólaskipan landsins gerðu ráð fyrir því að sérfróður meðdómsmaður eða eftir atvikum meðdómsmenn gætu tekið sæti í Landsrétti við meðferð máls þar fyrir dómi þegar þess væri þörf. Með því að engin undantekning væri gerð í lögum frá þeirri skipan mála þegar forsjársviptingarmál væri rekið fyrir Landsrétti gilti meginreglan einnig við rekstur slíks máls þar fyrir dómi, nema við ættu þær undantekningar sem greindi í ákvæðinu. Var því til samræmis við meginreglu 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga talið að borið hefði að kveðja til sérfróðan meðdómsmann við meðferð málsins fyrir Landsrétti. Þar sem það hafði ekki verið gert hefði skipan Landsréttar við meðferð málsins ekki verið í samræmi við áskilnað laga og var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. október 2019. Hann krefst ómerkingar hins áfrýjaða dóms og að málinu verði vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms. I Í efnisþætti máls þessa er um það deilt hvort fullnægt sé skilyrðum a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 til þess að svipta áfrýjanda forsjá tveggja barna sinna. Við meðferð málsins í héraði skipuðu dóm tveir embættisdómarar og sálfræðingur. Í héraði var fallist á kröfu stefnda um að áfrýjandi yrði sviptur forsjánni. Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með skírskotun til forsendna hans. Dóm Landsréttar skipuðu þrír embættisdómarar. Áfrýjandi sótti um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar og rökstuddi beiðni sína meðal annars með því að meðferð málsins fyrir Landsrétti hefði verið ábótavant þar sem sérfróður meðdómsmaður hefði ekki verið kvaddur til setu í dóminum svo sem lögskylt væri samkvæmt 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga. Svipting forsjár barna sinna sé eitt mest íþyngjandi úrræði sem foreldri geti orðið fyrir og því brýnt að skipan dóms sem taki slíka ákvörðun sé í samræmi við lög. Megin röksemd stefnda í málinu er á hinn bóginn sú að Landsrétti sé einungis heimilt en ekki skylt að kveðja meðdómsmann til setu í dóminum og þegar af þeirri ástæðu séu ekki efni til ómerkingar og heimvísunar dóms Landsréttar. Áfrýjanda var 28. október 2019 veitt leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar á þeim grunni að úrlausn um það hvort réttilega hefði verið staðið að skipan dóms Landsréttar í málinu með tilliti til 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga myndi hafa fordæmisgildi og því skyldi málið flutt fyrir Hæstarétti um formhlið þess. II Mál þetta lýtur eins og fyrr greinir í efnisþætti þess að kröfu stefnda um að áfrýjandi verði á grundvelli a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga sviptur forsjá barna sinna, C, sem fædd er árið 2003, og D, sem fæddur er árið 2006. Samkvæmt hinum tilvitnuðu ákvæðum er barnaverndarnefnd heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar, annað eða bæði, verði svipt forsjá ef hún telur að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska og fullvíst sé að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar séu augljóslega óhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana eða greindarskorts, eða breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Samkvæmt gögnum málsins hófust afskipti barnaverndaryfirvalda af málefnum barna áfrýjanda í lok árs 2015. Í mars 2016 höfðu þeim borist fjórar tilkynningar um fátækt fjölskyldunnar, áfengisneyslu og vanrækslu föður gagnvart börnunum. Voru þau send í fósturvistun í kjölfar þessa í mars 2016 fram í apríl sama ár á meðan áfrýjandi leitaði sér meðferðar við áfengissýki. Eftir það hafa börnin ítrekað verið vistuð utan heimilis í lengri eða skemmri tíma og mun núverandi vistun þeirra vera sú sjöunda en í henni hafa þau dvalið frá 19. nóvember 2018. Málefni barnanna hafa heyrt undir þrjár barnaverndarnefndir frá þeim tíma er afskipti yfirvalda hófust. Á fundi stefnda 5. febrúar 2019 var ákveðið að gera kröfu um forsjársviptingu þá sem mál þetta lýtur að. Í framhaldinu höfðaði stefndi málið 18. mars 2019. Undir rekstri þess í héraði lagði héraðsdómur fyrir stefnda að afla matsgerðar um forsjárhæfni áfrýjanda með heimild í 2. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga og var nafngreindur sálfræðingur kvaddur til þess verks. Í matsgerð sálfræðingsins 3. júní 2019 kom fram að forsjárhæfni áfrýjanda væri verulega ábótavant, hann hefði vanrækt alvarlega daglega umönnun og uppeldi barnanna með hliðsjón af aldri þeirra og þroska og ekki væri líklegt að breyting yrði þar á. Með vísan til matsins, framburðar vitna og gagna málsins taldi héraðsdómur í ljós leitt að skilyrðum fyrir forsjársviptingu samkvæmt a. og d. liðum 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga væri fullnægt. Héraðsdómur var kveðinn upp 12. júlí 2019. Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar sem með dómi 27. september 2019 staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með skírskotun til forsendna hans. III Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eins og ákvæðið var upphaflega, sagði að ef deilt væri um staðreyndir sem bornar væru fram sem málsástæður og dómari teldi þurfa sérkunnáttu í dómi til að leysa úr gæti hann kvatt til tvo meðdómsmenn sem hefðu slíka sérkunnáttu. Framangreindu ákvæði var breytt með 1. gr. laga nr. 49/2016 sem tóku gildi 1. janúar 2018. Þar segir nú að dómari geti, ef deilt sé um staðreyndir sem bornar séu fram sem málsástæður og hann telur þurfa sérkunnáttu í dómi til að leysa úr, kvatt til einn meðdómsmann sem hafi slíka kunnáttu. Þó sé dómara heimilt að kveðja til tvo meðdómsmenn ef hann telur þurfa sérkunnáttu í dómi á fleiri en einu sviði. Í lögskýringargögnum kom fram að rökin fyrir þessari breytingu væru einkum þau að hún myndi vega upp á móti auknum kostnaði af sérfróðum meðdómsmönnum á millidómstigi. Þá væru meðdómsmenn oft valdir úr tiltölulega þröngum hópi og með breytingunni væri dregið úr hættu á að hæfir sérfræðingar á viðkomandi sviði yrðu ekki lengur tiltækir þegar kæmi að kvaðningu meðdómsmanna á millidómstigi. Með breytingunni væri jafnframt dregið úr líkum á því að sérfróðir meðdómsmenn gætu myndað meirihluta gegn embættisdómara í atkvæðagreiðslu um lögfræðileg atriði en almennt yrði að telja það óæskilegt. Með 2. gr. laga nr. 49/2016 var nýrri grein, 2. gr. a., bætt í lög nr. 91/1991. Í 1. málslið 1. mgr. kemur fram að hafi sérfróður meðdómsmaður tekið þátt í meðferð máls fyrir héraðsdómi sem fengið hefur efnislega úrlausn þar, enn sé deilt um staðreyndir sem bornar séu fram sem málsástæður fyrir Landsrétti og forseti telji þurfa sérkunnáttu í dómi til að leysa úr, geti hann að eigin frumkvæði eða samkvæmt ábendingu dómsformanns í málinu kvatt til einn meðdómsmann sem hafi slíka sérkunnáttu og skipi hann þá dóm í máli með tveimur dómurum við Landsrétt. IV 1 Í X. kafla barnaverndarlaga er fjallað um meðferð mála samkvæmt 29. gr. og 2. mgr. 34. gr. laganna fyrir dómi en í 29. gr. er eins og fyrr greinir fjallað um forsjársviptingu. Í 53. gr. laganna kemur fram að um meðferð mála fyrir dómi samkvæmt ákvæðum X. kafla þeirra gildi ákvæði laga um meðferð einkamála, með þeim frávikum sem í barnaverndarlögum greini. Í 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga kemur fram að í málum samkvæmt X. kafla laganna skuli kveðja til setu í dómi sérfróðan meðdómsmann eða meðdómsmenn nema útivist verði af hálfu aðila eða máli vísað frá dómi vegna augljósra annmarka. Um fjölda þeirra og kvaðningu fari að öðru leyti eftir 2. gr. og 2. gr. a. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sagði upphaflega: „Í málum samkvæmt ákvæðum þessa kafla skal að jafnaði kveðja til sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi. Um sérfróða meðdómsmenn gilda að öðru leyti ákvæði laga um meðferð einkamála.“ Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að þeim lögum var þess meðal annars getið að hugmyndir um að fela dómstólum meira hlutverk í barnaverndarmálum en verið hefði væru ekki nýjar af nálinni. Þeim hefði þó verið hafnað við setningu barnaverndarlaga nr. 58/1992 og megin röksemdin fyrir því verið sú að með dómstólaleiðinni væri erfitt að tryggja nægilega sérþekkingu sem nauðsynleg væri talin í barnaverndarmálum. Þetta sjónarmið ætti ekki við rök að styðjast. Mál sem væru borin undir dómstóla væru margvísleg og kæmu iðulega inn á svið þar sem sérþekkingar kynni að vera þörf. Við því væri hægt að bregðast með ýmsum hætti, svo sem með kvaðningu sérfróðra meðdómsmanna og eða matsmanna. Þá væri í barnaverndarmálum hægt að mæla fyrir um sérreglur um meðferð slíkra mála sem ættu að tryggja að sérþekkingar, að því marki sem hún teldist nauðsynleg, væri aflað áður en ákvörðun væri tekin.Væri þeirri skoðun hafnað að sérstaða þessara mála væri slík að ekki væri hægt að fela dómstólum meðferð þeirra vegna skorts á sérþekkingu. Þá var þess getið í athugasemdum með framangreindu frumvarpi að eftir ítarlegar umræður um mismunandi leiðir sem til greina hefðu komið varðandi úrskurðarvald í barnaverndarmálum hefði niðurstaðan orðið sú að heppilegast væri að úrskurðarvald í stærri málum færi beint til dómstóla en barnaverndarnefndir færu áfram með úrskurðarvald í vissum málum sem vörðuðu þvingunarráðstafanir sem telja mætti að vörðuðu minni hagsmuni. Meðal fjölmargra nýmæla í frumvarpinu væru reglur um málsmeðferð fyrir dómi, sbr. ákvæði X. og XI. kafla frumvarpsins. Þau ákvæði væru að öllu leyti nýmæli enda hefði ekki fyrr í íslenskum lögum sérstaklega verið gert ráð fyrir því að barnaverndarmál væru rekin fyrir dómi. Gerður væri greinarmunur á málum samkvæmt 2. mgr. 34. gr. og 29. gr. annars vegar og málum samkvæmt 27. og 28. gr. hins vegar. Mál þessi væru ólík að eðli, meðal annars að því leyti að mál samkvæmt 27. og 28. gr. væru ekki höfðuð með stefnu heldur væri máli beint til héraðsdómara. Af þessum sökum væri ákvæðum um málsmeðferð fyrir dómi skipt niður á tvo kafla og sérstök athygli vakin á 1. mgr. 54. gr. um sérfróða meðdómsmenn. Væri í því sambandi vert að benda á að í frumvarpinu væru ákvæði þar sem beinlínis segði að sérfróða meðdómsmenn skyldi að jafnaði kveðja til setu í dómi vegna mála samkvæmt 29. gr., sbr. nánar ákvæði 54. gr. frumvarpsins. Í athugasemdum við 54. gr. frumvarpsins sagði að í 1. mgr. væri lagt til að lögfest yrði sú regla að sérfróðir meðdómsmenn skyldu að jafnaði kallaðir til setu í dómi. Þá sagði: „Tæplega er ástæða til að sérfróðir meðdómsmenn séu ávallt kallaðir til, t.d. þar sem útivist verður af hálfu aðila, máli er vísað frá vegna augljósra annmarka á því eða þar sem máli er lokið með sátt. Í öðrum tilvikum þar sem mál kemur til frekari meðferðar er miðað við að sérfróðir meðdómsmenn séu kallaðir til. Um meðdómsmenn gilda að öðru leyti ákvæði laga um meðferð einkamála. Í almennum athugasemdum við frumvarp þetta, sbr. kafla um meðferð barnaverndarmála fyrir dómi, kemur fram að færð hafi verið þau rök gegn því að fela dómstólum meðferð barnaverndarmála að erfitt sé að tryggja nægilega sérþekkingu hjá hinum almennu dómstólum. Nefndin telur að mál skv. X. kafla séu þannig vaxin efnislega að almennt verði að gera ráð fyrir að sérþekkingar sé þörf. Því er einfaldlega lagt til að lögfest verði ákvæði sem gerir ráð fyrir að sérfróðir meðdómsmenn skuli að jafnaði kvaddir til setu í dómi í málum af því tagi. Með þessum hætti ætti að vera unnt að tryggja nægilega sérþekkingu þar sem hennar er þörf.“ 2 Ákvæði 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga var breytt með 27. gr. laga nr. 80/2011 og eftir þá breytingu sagði í ákvæðinu: „Í málum samkvæmt ákvæðum þessa kafla skal kveðja til sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi nema útivist verði af hálfu aðila eða máli vísað frá vegna augljósra annmarka.“ Í lögskýringargögnum kom fram að rétt þætti „að kveða skýrara að orði um skyldu til að kveðja sérfróða meðdómsmenn í barnaverndarmálum. Við setningu núgildandi laga var gengið út frá því að barnaverndarmál væru þannig vaxin efnislega að almennt bæri að gera ráð fyrir að sérþekkingar væri þörf. Samkvæmt greinargerð með frumvarpi til laganna var gengið út frá því að sérfróðir meðdómsmenn yrðu kallaðir til nema í undantekningartilvikum sem voru nefnd sérstaklega. Í dómi Hæstaréttar frá 7. febrúar 2008 í máli nr. 382/2007 kemur fram að það sé háð mati héraðsdómara hvort kveðja skuli til sérfróða meðdómendur skv. 54. gr. laganna en í málinu hafði héraðsdómari einn lagt efnisdóm á mál og sýknað stefndu af kröfu um sviptingu forsjár. Ekki þykir rétt að kvika frá því að þörf sé sérþekkingar til að kveða upp efnisdóm í barnaverndarmáli. Því þykir rétt að taka af öll tvímæli og gera það skylt að kveðja til sérfróða meðdómsmenn nema við þær sérstöku aðstæður sem er lýst í ákvæðinu.“   3 Hæstiréttur kvað 27. febrúar 2019 upp dóm í máli nr. 26/2018. Þar var deilt um það hvort skilyrðum a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga fyrir forsjársviptingu væri fullnægt. Við meðferð málsins í héraði höfðu tveir sérfróðir meðdómsmenn verið kvaddir til setu í dómi 20. apríl 2018, en lög nr. 49/2016 tóku eins og áður segir gildi 1. janúar sama ár, og giltu því breytt ákvæði laganna um þá skipan. Dómur Landsréttar í málinu var kveðinn upp 21. september 2018 og skipuðu dóm þar tveir embættisdómarar og einn sálfræðingur. Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar var komist að þeirri niðurstöðu að 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga, sbr. 27. gr. laga nr. 80/2011, leiddi af sér skyldu héraðsdómara til að kveðja til tvo sérfróða meðdómsmenn í málum sem vörðuðu sviptingu forsjár barns og hafi það ekki verið háð mati hans. Að þessu síðastgreinda leyti hefði ákvæðið að geyma sérreglu. Til þess yrði að líta að við setningu laga nr. 80/2011 hefði aðalregla laga nr. 91/1991 verið sú að þegar þörf væri á sérkunnáttu í héraðsdómi yrðu kvaddir til tveir menn sem hana hefðu til að taka sæti í dómi. Af þessum sökum hefði á þeim tíma verið sjálfgefið að orðalagi 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga yrði hagað á þann hátt að rætt væri í fleirtölu um að kvaddir yrðu til sérfróðir meðdómsmenn. Eftir að áðurnefndri aðalreglu laga nr. 91/1991 hefði verið breytt með 1. gr. laga nr. 49/2016 í það horf, að einn sérfróður meðdómsmaður sæti í dómi í héraði þegar sérþekkingar væri þörf ásamt tveimur embættisdómurum, samrýmdist orðalag 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga á hinn bóginn ekki lengur almennum reglum um meðferð einkamála fyrir dómi. Ekki yrðu séð haldbær rök fyrir því að mál af þessum toga ættu að njóta að þessu leyti sérstöðu í samanburði við önnur mál. Yrði að þessu gættu að líta svo á að óhögguð stæði sú sérregla í 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga að héraðsdómara bæri ávallt að kveðja sérfróðan meðdómsmann til setu í dómi við rekstur máls um sviptingu forsjár barns, en með 1. gr. laga nr. 49/2016 hefði í raun fallið brott sá almenni þáttur fyrrnefndu lagagreinarinnar að sérfróðu meðdómsmennirnir skyldu vera tveir. Samkvæmt þessu hefði sú ákvörðun héraðsdómara að kveðja til tvo sálfræðinga til að skipa dóm í málinu með sér verið í andstöðu við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Var því talið óhjákvæmilegt að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar. 4 Ákvæði 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga var breytt með 39. gr. laga nr. 76/2019. Eftir þá breytingu segir í ákvæðinu: „Í málum samkvæmt ákvæðum þessa kafla skal kveðja til setu í dómi sérfróðan meðdómsmann eða meðdómsmenn nema útivist verði af hálfu aðila eða máli vísað frá vegna augljósra annmarka. Um fjölda þeirra og kvaðningu fer að öðru leyti eftir 2. gr. og 2. gr. a. laga um meðferð einkamála.“ Í almennum athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 76/2019 kom fram að með þeim breytingum sem lagðar væru til í frumvarpinu væri fyrst og fremst stefnt að því að skýra, samræma og einfalda lagaákvæði sem fjalli um málsmeðferð fyrir dómstólum. Hvað sérfróða meðdómsmenn og barnaverndarmál varðaði væri lagt til að skylt yrði að kveðja til meðdómsmann eða meðdómsmenn í málum sem rekin væru samkvæmt 54. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Um fjölda þeirra og kvaðningu færi aftur á móti eftir almennum reglum um meðferð einkamála. Um 39. gr. fyrrgreinds frumvarps sagði svo í skýringum við þá grein: „Þegar gerðar voru þær breytingar á 2. gr. laga um meðferð einkamála með 1. gr. laga nr. 49/2016 að meginreglan yrði sú að heimilt væri að kveðja einn sérfróðan meðdómsmann til setu í dómi í héraði í stað tveggja áður, var ekki hugað sérstaklega að því að taka til endurskoðunar sérregluna um sérfróða meðdómsmenn í 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga eins og henni var breytt með 27. gr. laga nr. 80/2011. Það sem greindi ákvæðið um meðdómsmenn í 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga frá almennu heimildinni í 2. gr. laga um meðferð einkamála, eins og það var fyrir gildistöku laga nr. 49/2016, var að í fyrrnefnda ákvæðinu var kveðið á um skyldu til að kveðja til sérfróða meðdómsmenn en það síðara var orðað sem heimildarákvæði. Í 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga er aðeins talað um meðdómsmenn en ekki mælt fyrir um fjölda þeirra enda óþarft þar sem gert var ráð fyrir því í almenna ákvæðinu í 2. gr. laga um meðferð einkamála að meðdómsmenn væru tveir.“ Áfram sagði í skýringum við 39. gr. frumvarpsins: „Nokkur réttaróvissa hefur af framangreindum ástæðum skapast um fjölda meðdómsmanna í barnaverndarmálum eftir að almenna reglan í 2. gr. laga um meðferð einkamála varð sú að kveðja skyldi til setu í dómi í héraði einn sérfróðan meðdómsmann. Með breytingunni er ætlunin að greiða úr þessari réttaróvissu. Svo virðist sem tilefni þess að ákvæði 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga var breytt með 27. gr. laga nr. 80/2011 hafi fyrst og fremst verið að tryggja að sérþekkingar nyti við í dómi í málum í þessum málaflokki en ekki endilega að tryggja að þeir yrðu fleiri en einn. Til marks um þetta segir í skýringum við 27. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 80/2011 að ekki þætti rétt að hvika frá því að þörf væri sérfræðiþekkingar til að kveða upp efnisdóm í barnaverndarmáli, sbr. 139. löggjafarþing 2010-2011 (56. mál, þskj. 57). Til skýringar er rétt að taka fram að 27. gr. téðs frumvarps varð að 26. gr. laga nr. 80/2011 í meðförum Alþingis. Orðalagið „sérfróða meðdómsmenn“ virðist þannig til komið af þeirri ástæðu einni að almenna reglan í 2. gr. laga um meðferð einkamála gerði þá ráð fyrir tveimur meðdómsmönnum. Að frágenginni skyldu til þess að kveðja til meðdómsmann í málum samkvæmt 29. gr. og 2. mgr. 34. gr. barnaverndarlaga þykja ekki sérstök rök fyrir að hafa aðra tilhögun á fjölda og kvaðningu sérfróðra meðdómsmanna í slíkum málum en öðrum málum þar sem bornar eru fram málsástæður sem dómari telur sérkunnáttu þörf til að leysa úr í dómi.“ V Eins og áður er rakið var við setningu barnaverndarlaga nr. 80/2002 lögfest það nýmæli í íslenskum rétti að fela dómstólum úrskurðarvald í stærri barnaverndarmálum og þar á meðal í málum um forsjársviptingu samkvæmt 29. gr. laganna. Til samræmis við það kom fram í 1. mgr. 29. gr. að barnaverndarnefnd væri heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar, annar þeirra eða báðir, skyldu sviptir forsjá að fullnægðum þeim skilyrðum sem nánar greindi í ákvæðinu. Um málsmeðferð fyrir dómi var fjallað í X. kafla laganna og þar sagði í 1. mgr. 54. gr., eins og ákvæðið var í upphafi, að í málum samkvæmt X. kafla skyldi að jafnaði kveðja sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi og skyldu að öðru leyti gilda um þá ákvæði laga um meðferð einkamála. Af orðalagi ákvæðisins leiddi að kvaðning sérfróðra meðdómsmanna til setu í dómi í þessari tegund mála skyldi vera meginregla og var tilgangur þess fyrirkomulags að tryggja að nægileg sérþekking væri til staðar við meðferð barnaverndarmála fyrir dómi. Framangreind meginregla var ekki forstakslaus, sbr. orðalagið „að jafnaði“ í 1. mgr. 54. gr. laganna. Í lögskýringargögnum var eins og áður greinir tekið fram að ekki væri í öllum tilvikum þörf sérfróðra meðdómsmanna, til dæmis þar sem útivist yrði af hálfu aðila, máli væri vísað frá vegna augljósra annmarka á því eða þar sem máli væri lokið með sátt. Með breytingu þeirri á 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga, sem gerð var með 27. gr. laga nr. 80/2011, var áðurgreind meginregla áréttuð af löggjafans hálfu og svo komist að orði í lögskýringargögnum að ekki þætti rétt að hvika frá því að þörf væri sérþekkingar til að kveða upp efnisdóm í barnaverndarmáli. Þætti því rétt að taka af öll tvímæli og gera það skylt að kveðja til sérfróða meðdómsmenn, nema við þær sérstöku aðstæður sem lýst væri í ákvæðinu, en þær væru þegar útivist yrði eða máli vísað frá vegna augljósra annmarka. Eins og áður getur komst Hæstiréttur í dómi sínum 27. febrúar 2019 í máli nr. 26/2018 að þeirri niðurstöðu að 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga, sbr. 27. gr. laga nr. 80/2011, leiddi af sér skyldu héraðsdómara til að kveðja til tvo sérfróða meðdómsmenn í málum sem vörðuðu sviptingu forsjár barns og væri það ekki háð mati hans. Að þessu leyti hefði ákvæðið að geyma sérreglu. Fram til 1. janúar 2018 var aðalregla laga nr. 91/1991 sú að ef deilt var um staðreyndir sem bornar voru fram sem málsástæður og dómari taldi þörf sérkunnáttu í dómi til að leysa úr gat hann kvatt til tvo meðdómsmenn sem hefðu slíka kunnáttu. Eins og getur í téðum dómi Hæstaréttar 27. febrúar 2019 var sjálfgefið að orðalagi 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga yrði hagað á þann hátt að rætt væri í fleirtölu um að kvaddir yrðu til sérfróðir meðdómsmenn. Jafnframt var þess getið í dóminum að með 1. gr. laga nr. 49/2016 hefði í raun fallið brott sá almenni þáttur 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga að sérfróðir meðdómsmenn skyldu vera tveir. Var og af löggjafans hálfu tekið af skarið um þetta með þeirri breytingu á 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga sem gerð var með 39. gr. laga nr. 76/2019 og gildi tók 25. júní 2019. Af framangreindu leiðir að við meðferð forsjársviptingarmála, sem rekin eru fyrir héraðsdómi samkvæmt 29. gr. barnaverndarlaga, ber dómara samkvæmt sérreglu 1. mgr. 54. gr. laganna að kveðja til sérfróðan meðdómsmann eða meðdómsmenn, nema við eigi undantekningar þær sem greinir í ákvæðinu. Fer þá um fjölda þeirra og kvaðningu að öðru leyti eftir 2. gr. eða 2. gr. a. laga nr. 91/1991. Með lögum nr. 50/2016 um dómstóla sem gildi tóku 1. janúar 2018, að undanskildum bráðabirgðaákvæðum I, II, IV, V, VI, VII og VIII, var sú breyting gerð á dómstólaskipan landsins að dómstigum var fjölgað í þrjú með stofnun Landsréttar sem áfrýjunardómstóls. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laganna taka þrír dómarar við Landsrétt þátt í meðferð máls fyrir dómi með þeim undantekningum sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála. Í 1. mgr. 40. gr. laganna kemur fram, að þegar þörf er á sérfróðum meðdómsmanni til setu í dómi við meðferð máls skulu héraðsdómari, forseti Landsréttar eða eftir atvikum dómsformaður, sem falin hefur verið meðferð máls, kveðja til setu einhvern eða einhverja þeirra kunnáttumanna sem dómstólasýslan hefur tilnefnt samkvæmt 39. gr. laganna, að því tilskildu að hann eða þeir hafi þá sérkunnáttu sem þörf er á til úrlausnar málsins. Samkvæmt þessu gera lög um dómstólaskipan landsins ráð fyrir því að sérfróður meðdómsmaður eða eftir atvikum meðdómsmenn geti tekið sæti í Landsrétti við meðferð máls þar fyrir dómi þegar þess er þörf. Eins og áður getur hefur löggjafinn metið það svo að við meðferð forsjársviptingarmáls fyrir dómi sé það meginregla að kveðja skuli til sérfróðan meðdómsmann eða meðdómsmenn, sbr. 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga. Með því að engin undantekning er í lögum gerð frá þeirri skipan mála þegar forsjársviptingarmál er rekið fyrir Landsrétti gildir meginreglan einnig við rekstur slíks máls þar fyrir dómi, nema við eigi þau undantekningartilvik sem greinir í ákvæðinu. Svo hagar ekki til í máli þessu. Bar því til samræmis við meginreglu 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga að kveðja til sérfróðan meðdómsmann við meðferð málsins fyrir Landsrétti. Þar sem það var ekki gert var skipan Landsréttar við meðferð málsins ekki í samræmi við áskilnað laga. Ber því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer sem í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur.     Dómur Landsréttar 27. september 2019. Mál þetta dæma landsréttardómararnir Aðalsteinn E. Jónasson, Eiríkur Jónsson og Ragnheiður Harðardóttir. Málsmeðferð og dómkröfur aðila Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 24. júlí 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Vestfjarða 12. júlí 2019 í málinu nr. E-23/2019. Áfrýjandi krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar fyrir Landsrétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt. Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms. Niðurstaða Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur. Málskostnaður verður ekki dæmdur. Um gjafsóknarkostnað fer eins og í dómsorði greinir. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Málskostnaður fyrir Landsrétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Oddgeirs Einarssonar, 800.000 krónur.         Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 12. júlí 2019.              Mál þetta, sem höfðað var 18. mars sl. með með áritun lögmanns stefnda um birtingu réttarstefnu, sem útgefin var sama dag, var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 24. júní sl. Málið sætir flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum 53. gr. b í barnaverndarlögum nr. 80/2002, sbr. XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi barnaverndarnefnd B, kt. [...], [...]. Stefndi er A, kt. [...], með lögheimili að [...], [...]. Stefnandi krefst þess að stefndi verði sviptur forsjá barna sinna, C, kt. [...], og D, kt. [...], sbr. a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. I Mál þetta snýr að börnunum C, sem er 16 ára gömul, og bróður hennar, D, sem er á þrettánda ári. Þegar C fæddist var faðir hennar í fangelsi. C var á þriðja ári þegar stefndi lauk afplánun og skömmu síðar fæddist D. Fjölskyldan bjó fyrstu árin á [...] en flutti til [...] þegar börnin voru um [...] ára. Þar bjuggu börnin í um eitt ár, en faðir þeirra fór fljótlega til [...] og móðir þeirra á eftir honum. Voru börnin þá í umsjá vinafólks í [...] þar til þau fóru til [...]. Þar bjuggu börnin þar til foreldrar þeirra skildu 2015. Eftir skilnaðinn hefur stefndi farið einn með forsjá barnanna en móðir þeirra býr í [...]. Stefndi flutti með börnin til Íslands í lok [...] 2015. Bjuggu þau fyrst í [...]og síðan á [...] en sumarið 2018 fluttu þau í [...]. Afskipti barnaverndaryfirvalda af málefnum barnanna hófust í lok árs 2015. Í mars 2016 höfðu barnaverndaryfirvöldum borist fjórar tilkynningar um fátækt fjölskyldunnar, áfengisneyslu og vanrækslu föður gagnvart börnunum. Voru börnin fyrst send í fósturvistun í kjölfar þessa í mars 2016 fram í apríl sama ár, meðan stefndi leitaði sér meðferðar við áfengissýki. Síðan hafa börnin ítrekað verið vistuð utan heimilis í lengri og skemmri tíma og er núverandi vistun þeirra sú sjöunda frá þeim tíma. Í þeirri vist hafa þau dvalið frá [...] 2018. Mál barnanna hafa heyrt undir þrjár barnaverndarnefndir á þessum tíma. Eftir að barnaverndarmál stefnda fluttist til stefnanda sumarið 2018 var fyrst gert samkomulag við hann um meðferð máls í september það ár, sem skyldi gilda fram á árið 2019, en þá höfðu börnin verið hjá föður sínum frá því í lok júní 2018. Stefndi greindi stefnanda frá því 4. október 2018 að hann hygðist fara til [...] og dvelja þar frá 13. til 21. október. Kvað hann móðurbróður barnanna mundu dvelja hjá þeim á meðan og þau færu í mat til ömmu sinnar. Mánudaginn 22. október barst stefnanda tölvupóstur frá Grunnskólanum [...], þess efnis að stefndi hefði tilkynnt að börnin kæmu ekki í skólann fyrr en 5. nóvember, þar sem þau væru í [...]. Ekki hafði verið óskað eftir leyfi frá skólanum vegna þessa. Fjórum dögum síðar barst barnaverndarnefnd tilkynning undir nafnleynd um að börnin hefðu dvalist í Reykjavík og áhyggjur væru hafðar af því að stefndi hefði aðeins keypt flug fyrir þau utan en ekki heim aftur. Þann 29. október mætti D í skólann en ekki systir hans, sem þó reyndist vera komin aftur heim til [...]. Höfðu börnin farið til Reykjavíkur með ættingja sínum og átt að gista hjá kunningja fjölskyldunnar. Það gekk hins vegar ekki eftir og höfðu þau þá fengið að dvelja hjá kærasta C þessa viku, þar til þau fengu far aftur heim. Ekki náðist samband við stefnanda í tengslum við þetta. Stefndi var fluttur á sjúkrahús [...] 2018 vegna hjartaverks og var þá ölvaður. Stefndi var á sjúkrahúsi til 16. sama mánaðar, er hann útskrifaði sig sjálfur gegn læknisráði. Á meðan höfðu börnin verið í umsjón móðurömmu sinnar. Laugardaginn [...] skar stefndi sig á púls á heimili sínu að börnunum viðstöddum. Var hann undir áhrifum áfengis er það gerðist. Samkvæmt skýrslu lögreglu sem kom á staðinn var mikill skortur á hreinlæti á heimilinu er að var komið og vart verjandi að bjóða börnum upp á að búa þar. Var börnunum enn komið fyrir hjá móðurfjölskyldu þeirra er þarna var komið sögu. Mánudaginn [...] voru börnin komin aftur til síns heima, til föður síns sem hafði útskrifað sig sjálfur af sjúkrahúsi. Þá mættu börnin ekki til skóla. Stefndi gekkst undir áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga 20. nóvember 2018.  Þar samþykkti hann tímabundna vistun barnanna á fósturheimili í tvo mánuði, meðan hann lyki læknismeðferðum, sem læknar hefðu mælt fyrir um, og færi í áfengismeðferð eða ynni markvisst að því að halda sig alveg frá áfengisneyslu. Fljótlega eftir það fór stefndi til [...] þar sem hann dvelur enn með unnustu sinni. Stefnandi var í samskiptum við stefnda með tölvupósti í upphafi árs 2019 um framhald málsins og símafundur var haldinn með stefnda um mál hans 5. febrúar 2019. Samkvæmt fundargerð þess fundar kvaðst stefndi þá eiga pláss á Vogi 17. febrúar í 10 daga meðferð og kvaðst vilja aðstoð og að börnin yrðu vistuð í eitt ár til að hann hefði tíma til að koma sér upp húsnæði og stöðugleika. Á fundi nefndarinnar síðar sama dag var tekin ákvörðun um að gera kröfu um þá forsjársviptingu sem mál þetta lýtur að. II Málsástæður og lagarök stefnanda Stefnandi byggir kröfu sína um forsjársviptingu á því að uppfyllt séu skilyrði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Fullvíst sé, með hliðsjón af gögnum málsins og forsögu þess, að líkamlegri og andlegri heilsu barnanna sé hætta búin fari stefndi með forsjá þeirra, auk þess sem daglegri umönnun þeirra sé alvarlega ábótavant. Stefnandi telur stuðningsaðgerðir á grundvelli barnaverndarlaga ekki duga til að tryggja öryggi barnanna og fullnægjandi uppeldisskilyrði til frambúðar á heimili stefnda. Þrátt fyrir yfirlýsingar stefnda um vilja til samstarfs virðist hann hvorki hafa úthald né getu til að framfylgja forsjárskyldum sínum. Í því samhengi skipti aldur barnanna ekki máli, þau þarfnist eftir sem áður umhyggju, öryggis og hlýju. Ítrekaðar tilraunir og afskipti barnaverndaryfirvalda til þess að reyna að aðstoða stefnda hafi ekki gagnast. Telur stefnandi gögn málsins sýna svo ekki verði um villst að daglegri umönnun, uppeldi og andlegri heilsu barnanna sé hætta búin sökum þess að stefndi sé augljóslega vanhæfur til að fara með forsjá þeirra vegna veikinda sinna og áfengissýki. Þá bendir stefnandi á að mál barnanna hafi verið til meðferðar hjá öðrum barnaverndarnefndum frá árinu 2015, eins og gögn málsins beri með sér, ítrekaðrar tilkynningar um áfengisneyslu og vanrækslu stefnda gagnvart börnunum. Stefnandi telur stuðningsaðgerðir í því skyni að bæta forsjárhæfni stefnda fullreyndar. Leitast hafi verið við að eiga góða samvinnu við stefnda og beita eins vægum úrræðum og unnt hafi verið hverju sinni. Mikill og margvíslegur stuðningur fagaðila í fleiri ár hafi litlum sem engum árangri skilað, stefndi nái ekki, þrátt fyrir það, að tryggja börnunum viðunandi umhverfi og líðan. Daglegri umönnun barnanna sé verulega ábótavant og heilsu þeirra og þroska hætta búin vegna alvarlegs fíknivanda stefnda og heilsuleysis. Telur stefnandi að hafa verði hagsmuni barnanna að leiðarljósi og virða rétt þeirra til þroskavænlegra aðstæðna. Það sé mat stefnanda að það þjóni hagsmunum þeirra best að búa við stöðugleika og öryggi, sbr. 3. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Mikil og óforsvaraleg áhætta felist í því að láta stefnda fara með forsjá barna sinna. Þá telur stefnandi önnur og vægari úrræði en forsjársviptingu ekki tæk, þar sem brýna nauðsyn beri til að skapa börnunum öryggi og stöðugleika til frambúðar og þá umönnun sem þau eigi rétt á lögum samkvæmt. Stuðningsúrræði sem stefnandi hafi yfir að ráða nægi ekki í því sambandi. Þá hafi vægustu ráðstöfunum alltaf verið beitt til að ná fram markmiðum stefnanda og krafa stefnanda nú sé sett fram samkvæmt fortakslausu ákvæði 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Meðalhófs hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins og ekki gripið til viðarhlutameiri úrræða en nauðsyn hafi verið til. Þá vísar stefnandi til frumréttinda barna og almennrar skyldu foreldra sem lögfest er í 2. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir foreldris og barns vegist á skuli líta til þeirrar grundvallarreglu íslensks barnaréttar að hagsmunir barnsins, það sem því sé fyrir bestu, skuli vega þyngst á vogarskálunum. Þá sé hinu opinbera skylt að veita börnum vernd. Um þetta vísar stefnandi til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, barnaverndarlaga og ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Einnig til 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979. III Málsástæður og lagarök stefnda Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að meintir annmarkar á forsjáhæfni hans séu ekki í samræmi við þau gögn sem liggi þeim til grundvallar. Þá sé að finna gögn í málinu þar sem fullyrt sé um atvik máls undir nafnleynd. Þær fullyrðingar geti ekki talist sannaðar þótt opinber aðili hafi skráð þær niður. Fráleitt sé að slaka á almennum sönnunarkröfum sem endranær gildi í einkamálum í máli sem þessu. Staðhæfingar stefnanda í þessu efni séu því að mestu leyti ósannaðar. Hvað varðar málsmeðferð og vinnubrögð barnaverndaryfirvalda byggir stefndi á því að brotið hafi verið gróflega á friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu sinnar með aðgerðum barnaverndaryfirvalda á [...] sem hafi verið í andstöðu við barnaverndarlög, stjórnsýslulög og jafnvel hegningarlög.  Stefndi kveður ástæður þess að börn hans hafi verið í viku í Reykjavík meðan hann var í [...] eiga sér skýringar sem ekki sé að rekja til sín og sömuleiðis fjarvist dóttur hans úr skóla. Telur stefndi vinnubrögð barnaverndaryfirvalda stefnanda til þess að komast inn á heimili sitt, þ.e. í fylgd sonar stefnda, óforsvaranleg og ólögmæt. Þá telur stefndi þeim staðreyndum ekki gerð skil í málinu að hann hafi óskað eftir að börnin yrðu ekki vistuð hjá systur hans vegna þeirra aðstæðna sem þar séu. Stefndi byggir á því að sterk tengsl séu milli sín og barnanna, eins og gögn málsins beri með sér, og skýr vilji og afstaða barnanna muni koma fram undir rekstri málsins. Stefndi byggir á því að skilyrðum 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé ekki fullnægt. Til þess að unnt sé að svipta stefnda forsjá á grundvelli a- eða d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga þurfi hann augljóslega að vera vanhæfur til að fara með forsjá og „fullvíst“ að líkamlegri eða andlegri heilsu barnsins eða þroska sé hætta búin í umsjá hans. Sönnunarbyrði fyrir því að svo sé hvíli á stefnanda sem ekki hafi axlað hana nægilega.  Þá byggir stefndi á því að málið sé ekki nægilega upplýst, sbr. skyldur stefnanda í því efni samkvæmt 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, 1. mgr. 56. gr. s.l. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðun í máli hans hafi verið tekin áður en málið var nægilega upplýst og slíkt brot á rannsóknarreglu eigi að leiða til ógildingar þeirrar stjórnvaldsákvörðunar. Þá byggir stefndi og á því að meðalhófs hafi ekki verið gætt í málinu, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga og 12. gr. stjórnsýslulaga. Skylt hefði verið að beita vægara úrræði en forsjársviptingu í málinu. Ýmis úrræði og stuðning hefði mátt og megi enn veita stefnda til að styrkja forsjárhæfni hans. Þá sé auk þess unnt að fara þá leið að vista drenginn utan heimilis í allt að 12 mánuði á grundvelli 28. gr. barnaverndarlaga í stað þess að svipta stefnda forsjá. Brot á meðalhófsreglu leiði til þess að ógilda beri ákvörðunina.  Þá telur stefndi málsmeðferð stefnanda fara gegn 6. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Mál hans hafi ekki fengið sömu meðferð og annarra í sambærilegri stöðu. IV Skýrslur fyrir dómi Stefndi kom fyrir dóminn og kvaðst hafa flutt einn með börnin til [...] árið 2015 þar sem hann hefði fengið vinnu á vöktum. Það hefði haft í för með sér vandkvæði sem leiddu til afskipta barnaverndaryfirvalda. Kvaðst hann ekki sammála öllu sem barnaverndaryfirvöld fyrir [...] héldu fram. Því hefði verið haldið fram að hann hefði verið að drekka en hann hefði aðeins drukkið eins og „eina rútu af bjór“ um helgi sem væri ekki mikið. Þá kvaðst stefndi ekki hafa drukkið áfengi síðan hann fór til [...]. Um aðdraganda þessa máls sagði stefndi að hann hefði fengið tölvupóst frá barnaverndarnefnd þar sem honum hefði verið stillt upp við vegg. Hann hefði þá greint frá því að hann hefði ekki efni á lögfræðingi. Hann hefði óskað eftir því að börnin yrðu send í ársfóstur til þess að hann gæti gert eitthvað í málunum, aflað fjár og náð heilsu. Stefndi upplýsti að hann hefði flutt til [...] í nóvember sl. þar sem hann byggi nú með konu. Þau búi í lítilli þriggja herbergja en rúmgóðri íbúð ásamt tveimur sonum konunnar. Stefndi kvaðst vera miklu betri til heilsunnar nú en áður. Um tengsl sín við börnin kvað hann þau ágæt. Stefndi kvað dóttur sína vilja halda áfram í námi og vera með kærasta sínum og hann vildi ekki standa í vegi fyrir því. Hvað D varðaði teldi hann betra að drengurinn væri hjá sér. Hann ætti nú konu og það væri betra að hugsa um börn með henni. Stefndi kvaðst telja að börnunum myndi líða betur hjá sér en í fóstri, þar skipti öllu máli að hann væri faðir þeirra. Aðspurður um það hvers vegna mál þetta væri tilkomið kvaðst stefndi ekki vita það. Stefndi taldi sig þó hafa brugðist börnum sínum þegar hann var að drekka. Stefndi kvaðst hafa verið samvinnuþýður gagnvart barnaverndaryfirvöldum. Aðspurður um framtíðaráform sín kvaðst stefndi sjá framtíðina fyrir sér hér á landi með fjölskyldu sinni, konu sinni og hennar börnum, þótt óvíst væri hvenær það yrði. Til þess þyrfti hann peninga sem hann ætti ekki á [...], hann fengi ekki íbúð á vegum bæjarins og hann væri öryrki. Stefndi taldi drenginn ráða við að flytja til [...], enda væri hann góður í ensku. Stefndi kvaðst ekki vera í vinnu þar sem hann væri veikur. Hann hefði ekki farið í meðferð á síðastliðnu ári en sækti AA-fundi. E, varaformaður barnaverndarnefndar B, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Vitnið upplýsti að rætt hefði verið við stefnda í síma í tengslum við ákvörðun í máli hans. Talin hefði verið þörf á að stöðva óvissu í lífi barnanna. Stefndi hefði beðið um vistun þeirra í ár meðan hann tæki á sínum málum. Hann hefði m.a. ætlað að fara í meðferð. Hún taldi það hafa verið mat nefndarinnar að útilokað væri að beita vægari úrræðum að teknu tilliti til forsögu málsins og hagsmuna barnanna. F, deildarstjóri barnaverndar B, kom fyrir dóminn. Vitnið greindi frá því að mál stefnda hefði flust til nefndarinnar í júlí 2018. Fyrsta tilkynning um áfengisneyslu stefnda hefði borist nefndinni um miðjan september 2018. Hann hefði þá verið heimsóttur og gerð áætlun um meðferð máls sem skyldi gilda í fimm mánuði. Áætlunin hefði falist í tilsjón, sálfræðiviðtölum fyrir C, áskilnaði um edrúmennsku stefnda og ýmsu öðru hefðbundnu. Þá hefði stefndi átt að funda vikulega með vitninu. Hann hefði komið þrisvar sinnum og svo greint frá því að hann væri að fara til [...] í tvær vikur. Ferðin hefði í upphafi sýnst ágætlega undirbúin af hálfu stefnda en annað hefði komið á daginn. Nefndin hefði haft spurnir af því að börnin væru farin til föður síns í [...] en þau hefðu svo reynst vera í Reykjavík í viku, eða þar til þau fengu far [...]. Stefndi hefði svo komið í viðtal hjá sér 5. nóvember og greint sér frá því að hann ætti unnustu í [...]. Vitnið greindi frá tilkynningu [...] 2018 er stefndi fór á sjúkrahús vegna hjartaverks og var þá undir áhrifum áfengis. Viku síðar hefði hann skorið sig á púls heima hjá sér. Hefðu börnin þá verið tekin af heimilinu. Mikil óreiða hefði verið á heimilinu og þau haldið til í stofunni. Stefndi hefði þá samþykkt vistun barnanna í tvo mánuði. Börnin hefðu þá verið vistuð á heimili þar sem þau höfðu áður verið í fóstri, að þeirra ósk. Gerð hefði verið önnur áætlun um meðferð máls með stefnda og í kjölfar þess hefði hann farið aftur til [...] þar sem hann væri enn. Vitnið kvað erfitt hafa verið að ná sambandi við stefnda. Það hefði ekki tekist fyrr en starfsmaður barnaverndarnefndar setti sig í samband við hann gegnum persónulegan aðgang sinn á samskiptamiðlinum Messenger. Vitnið kvaðst hafa farið [...] til barnanna og rætt við þau og þau hefðu ekki viljað að sér yrði skipaður talsmaður. Þeim hefði engu að síður verið skipaður talsmaður í febrúar, eftir að ákvörðun var tekin í málinu. Vitnið kvað nefndina hafa horft á mál stefnda í heild sinni. Það hafi verið mat nefndarinnar að öll vægari úrræði hefðu verið fullreynd. Barnaverndaryfirvöld hefðu verið með mál stefnda til meðferðar frá árinu 2016 án þess að það skilaði árangri. Þá hefði það verið mat nefndarinnar að ósk stefnda um fóstur barnanna í 12 mánuði meðan hann ynni í sínum málum hefði í raun falið í sér það sama og hafði verið gert í málum barnanna árið áður og það væri fullreynt. Vitnið áréttaði að stefndi hefði ekki mætt í meðferð á Vogi í janúar eins og hann hefði þó greint nefndinni frá að stæði til í tengslum við þessa tillögu hans. Vitnið kvað stefnda ekki hafa haft samband við nefndina að fyrra bragði eftir ákvörðunina, ekki leitast eftir umgengi og ekki verið í sambandi við fósturforeldrana, en hins vegar hefði hann verið í sambandi við börnin. Aðspurt um það hvers vegna ekki hefði verið unnið forsjárhæfnismat áður en ákvörðun var tekin í málinu, svaraði vitnið því til að atvik hefðu gerst hratt og tími ekki gefist til þess og stefndi flutt til [...] Til hefði staðið að vinna slíkt mat meðan stefndi bjó fyrir [...], en hann hefði flutt milli umdæma. Aðspurt um það hvort stefnda hefði verið bent á rétt sinn til fjárhagsaðstoðar vegna málsins kvað hún það koma fram í fundarboði sem stefnda hefði verið sent, bréfleiðis og með tölvupósti. G sálfræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína um forsjárhæfni stefnda, sem unnin var undir rekstri málsins. Hún gerði grein fyrir því hvernig að vinnu matsins var staðið og að niðurstaða slíks mats byggðist jafnan á mati á því hvernig foreldri myndi ganga að mæta grundvallarþörfum barna almennt og eftir atvikum á skilgreindum sérstökum þörfum einstakra barna. Í ljósi þess hvernig lífi þessara barna hefði verið háttað, m.a. þess að þau hefðu fyrst búið á Íslandi, þá í [...], [...] og svo aftur á mörgum stöðum á Íslandi og gengið í marga skóla og þurft að aðlagast miklum breytingum, hefði verið litið svo á að þörf barnanna fyrir staðfestu og ró í lífinu mætti jafna við sérstakar þarfir. Þau hefðu þörf fyrir að festa rætur. Það kæmi enda fram í því að börnin hefðu tekið miklum framförum upp á síðkastið. Um tengsl barnanna við föður sinn áréttaði vitnið að í góðum tengslum barns og foreldris fælist það að foreldrið væri til staðar fyrir barnið, sú væri ekki raunin í þessu tilviki. Þá sýndi sagan að stefndi væri ekki fær um það til lengri tíma að vera til staðar fyrir börn sín, sakir veikinda og áfengisneyslu. Þá hefði stefndi lítinn skilning á þroska barna sinna. Hann hefði lagt mikið á þau en lítt verið til staðar fyrir þau. Taldi matsmaðurinn mikið vanta upp á hæfni stefnda til að sinna börnum sínum. Þá kvað matsmaðurinn það hafa í sér fólgna mikla óvissu fyrir D ef hann færi til föður síns í [...], í enn eitt landið og til einstaklinga sem hann hefur ekki hitt. Mjög margt gæti farið úrskeiðis við þær aðstæður. Allt raunsæi vantaði í mat stefnda á þessu sem fegraði mjög myndina fyrir drengnum. Stefndi hefði ekki innsæi í þarfir barna og léti sínar eigin þarfir ganga framar öðru. Þarfir barnanna sætu á hakanum. Taldi matsmaðurinn að vægari úrræði en forsjársvipting stefnda, ráðgjöf eða stuðningur myndu ekki duga til.  H, fósturmóðir barnanna, upplýsti að börnin hefðu verið í  fóstri hjá sér fyrst frá 20. janúar 2018 til 1. júlí 2018 og svo aftur frá 20. nóvember sl. Vitnið kvað börnin hafa verið lokuð og buguð þegar þau komu í seinna sinnið. Þau hefðu farið aftur í sama skóla og áður. Vitnið kvað algeran viðsnúning hafa orðið á líðan barnanna. Þau sýndu bættan árangur í námi, þau væru nú glöð og liði vel. C væri komin með skólavist í framhaldsskóla á [...] og væri í vinnu í sumar. D væri meira úti og léki sér. Vitnið kvað D rokka mjög í afstöðu sinni til þess hvar hann vildi vera, eftir aðstæðum. Vitnið kvað börnin vera mjög náin hvort öðru og taldi að aðskilnaður þeirra gæti reynst D erfiður. Aðspurt upplýsti vitnið að enginn ættingi barnanna hefði haft samband við fósturforeldrana. Einhver samskipti væru milli barnanna og ömmu þeirra [...]. I, móðir kærasta C, gaf símaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Vitnið upplýsti að D hefði verið hjá sér um tíma áður en börnin fóru í fóstur hjá föðursystur sinni á liðnu sumri. Hann hefði átt erfitt. J sálfræðingur, talsmaður barnanna, gaf símaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann staðfesti að hafa rætt við börnin og þær skýrslur sem frá honum stafa í málinu. K, móðir stefnda, gaf símaskýrslu í málinu, en vitnið er búsett í [...]. Vitnið kvað börnin hafa verið hjá sér á hverju ári þegar þau voru lítil og búið hjá sér á tímabili. Kvaðst vitnið hafa viljað fá börnin til sín og kvaðst vera í sambandi við þau. V Forsendur og niðurstaða Stefnandi gerir í máli þessu kröfu um að stefndi, A, verði sviptur forsjá barna sinna, C og D, á grundvelli a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Stefndi krefst sýknu á þeim grundvelli að ekki sé fullnægt skilyrðum nefndra lagaákvæða til að svipta hann forsjá. Byggir stefndi á því að málið hafi ekki verið nægilega upplýst áður en ákvörðun var tekin, sbr. 1. mgr. 41. gr. og 1. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, né hafi verið gætt meðalhófs við meðferð þess, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga og 12. gr. stjórnsýslulaga. Þá telur stefndi að málsmeðferð stefnanda hafi farið gegn 6. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, en mál hans hafi ekki fengið sömu meðferð og annarra í sambærilegri stöðu.   Þegar stefnandi tók ákvörðun um að mál þetta skyldi höfðað á fundi 5. febrúar sl. lá fyrir greinargerð F, deildarstjóra barnaverndar, sem hún hafði tekið saman vegna málsins og dagsett er 10. janúar 2019. Þar er rakin forsaga málsins og ítrekuð vistun barnanna utan heimilis á vegum barnaverndar. Gerð er grein fyrir afskiptum barnaverndarnefndar B sérstaklega og aðdraganda þess að börnin voru tekin af heimilinu í lok nóvember 2018. Þá kemur fram að stefndi hafi ekki haft samband við barnaverndarnefnd eftir að hann fór af landi brott og ekki upplýst um það hvar næðist í hann. Til stóð að taka mál barnanna fyrir á fundi 18. janúar sl., þar sem samningur um tímabundna vistun barnanna var þá að renna út. Stefndi var þá í [...]. Það reyndist erfiðleikum bundið að ná sambandi við stefnda, en engu að síður tókst að boða hann til fundar nefndarinnar og senda honum fyrrnefnda greinargerð. Að ósk stefnda var fundinum frestað til 5. febrúar 2019. Stefndi mætti ekki til fundarins en gafst kostur á að koma sjónarmiðum sínum að símleiðis. Í fundargerð kemur fram að stefndi hafi óskað eftir að börnin yrðu í fóstri í eitt ár svo að hann hefði tíma til að koma sér upp húsnæði og stöðugleika. Ákvörðun stefnanda, sem tekin var 5. febrúar sl., var rökstudd með eftirfarandi hætti: „Ítrekað hefur verið farið í gegnum úrræði 24. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 án árangurs. Þvert á móti hefur staða barnanna heldur versnað. Af þeim sökum þarf að bregðast hratt við og gera ráðstafanir sem tryggja börnunum festu, reglu og nauðsynlegan ramma. Eins og málið lýtur út í dag er talið fullreynt að vista börnin tímabundið meðan faðir þeirra leitar sér enn einnar meðferðarinnar við krónískri áfengissýki og líkamlegra veikinda sem af henni hefur hlotist. Sést það best af því að á þeim 36 mánuðum sem börnin og faðir þeirra hafa dvalist á landinu hafa börnin verið vistuð sjö sinnum í samanlagt 20 mánuði, lengst í 12 mánuði samfellt, á meðan að faðir þeirra hefur leitað aðstoðar með litlum árangri. Því miður er því sú staða komin upp að telja má að vægari úrræði teljist fullreynd, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og ekki hægt að leggja það á börnin að flytja þau enn einu sinni á milli staða. Mat teymis barnaverndar er að ekki sé lengur boðlegt fyrir börn að búa við slíkt óöryggi  að flytja á milli staða, á milli fósturheimila á heimili föður eða hvert þangað sem faðir hyggst flytjast næst.  Faðir þeirra hefur dvalist í [...] frá því í lok nóvember með unnustu sinni og hennar tveimur börnum. Mjög miklar líkur eru taldar á að hann muni taka börnin með sér þangað ef börnin fara úr fósturvistinni, með tilheyrandi raski, álagi og óvissu. Þau hafa bæði verið mjög skýr með það að þau kæri sig ekki um að flytja til [...], þar sem þau þekkja engan og tala ekki tungumálið. Einnig eru þungar áhyggjur af því að faðir sé ekki og muni ekki geta haldið sér edrú og börnin muni á ný búa við áframhaldandi vanrækslu, óvissu og álag tengt því.“ Í þinghaldi í málinu 28. mars sl. lagði dómurinn fyrir stefnanda að afla matsgerðar um forsjárhæfni stefnda með heimild í 2. mgr. 56. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í þinghaldi 9. apríl var G sálfræðingur dómkvödd til þess verks. Matsgerðin er dagsett 3. júní 2019, þar segir m.a. að forsjárhæfni sé metin út frá almennum og sértækum uppeldisþörfum viðkomandi barna. Almennar þarfir sem öll börn hafi snúist um atriði eins og náin og ástrík tengsl við foreldra, vernd og öryggi, líkamlega umönnun og atlæti, örvun, hvatningu og stuðning. Einnig þurfi að taka tillit til sértækra þarfa viðkomandi barna sem upplýsingar kunna að liggja fyrir um. Við forsjármat sé haft í huga að ekki sé leitað að fullkomnum foreldrum, þannig að ýtrustu kröfur og strangasta mat eigi ekki við. Um mat á niðurstöðum persónuleikaprófa sem matsmaður framkvæmdi á stefnda segir að þær gefi fyrst og fremst til kynna takmarkað innsæi stefnda í alvarleika aðstæðna sinna og barnanna. Saga þeirra lýsi einnig skorti á innsæi stefnda í þarfir þeirra, að hann annist ekki um þau á viðeigandi hátt og skorti ábyrgðarkennd til að mæta þörfum þeirra og búa þeim boðlegar aðstæður. Sömuleiðis að hann taki duttlungakenndar ákvarðanir út frá sínum þörfum en ekki barnanna.  Í matsgerðinni greinir matsmaður frá því að í samtali sínu við stefnda hafi verið skýrt að hann axli ekki ábyrgð á aðstæðum sínum heldur kenni öðrum um. Í sögu hans megi sjá ýmis einkenni jaðarpersónuleikaröskunar, svo sem hvatvísi, sem viðkomandi bíður oft skaða af, óljósa eða óstöðuga sjálfsmynd, sjálfsvígshótanir eða sjálfsmeiðingar og stormasöm sambönd við annað fólk. Telur matsmaður fullvíst að miklir brestir hljóti að vera í tengslum milli stefnda og barnanna. Aftur og aftur hafi þau ekki getað reitt sig á að hann væri til staðar fyrir þau heldur hafi þurft að koma þeim til vandalausra vegna áfengisneyslu hans og heilsubrests sem af henni hafi leitt. Auk þess sé ljóst að tengsl við börnin og það að annast um þau sé ekki forgangsmál í lífi stefnda um þessar mundir. Það sjáist til dæmis af því að hann hafi farið úr landi síðastliðið haust og þegar ljóst hafi verið að hann kæmi ekki til baka hafi börnin verið vistuð áfram. Þá hafi stefndi ekki nýtt sér að fá börnin í umgengni, eins og gert hafi verið ráð fyrir þegar þau hafi fyrst verið vistuð hjá núverandi fósturforeldrum. Hann hefði þá borið því við að hann þyrfti að vinna mikið en börnin haldi því fram að hann hafi þá farið utan til að hitta konu sem hann hafði kynnst á netinu. Matsmaður telur að vegna óstöðugleika og margvíslegra erfiðleika í uppvexti barnanna hafi þau sérstakar þarfir fyrir stöðugleika og einnig almennt góðar uppeldisaðstæður til þess að þau nái sem best að þroskast sem sjálfstæðir einstaklingar sem eru færir um að lífa góðu lífi. Lýsingar á D og því hvað hann hafi verið háður systur sinni þegar hann kom í núverandi fóstur sýni ofurviðkvæman dreng með mikinn kvíða. Sagan sýni hins vegar að stefndi sé ófær um að skapa börnum sínum umhverfi sem fullnægir almennum þörfum barna fyrir vernd og öryggi. Lífsstíll sá sem hann hafi boðið börnum sínum síðustu ár hafi einkennst af hinu gagnstæða, skorti á staðfestu og stöðugleika, miklum óróleika, óvissu og ófyrirsjáanlegri framtíð. Þá telur matsmaður að stefndi sé illa fær um að annast um líkamlega umönnun og atlæti barna sinna svo vel sé yfir lengri tíma. Endurteknar lýsingar á óviðunandi ástandi heimilisins og barnanna þegar stefndi hafi verið að drekka liggi fyrir. Þá hafi börnin að sögn fósturforeldra skort leiðsögn og kennslu í almennum atriðum. Hjá tannlækni hafi komið í ljós að hvorugt þeirra kunni að bursta í sér tennurnar og lítið eftirlit hefði verið haft með tannhirðu þeirra. Þá er það mat matsmanns að stefndi hafi lítinn skilning á þroskastigi barna sinna og í staðinn fyrir að veita þeim góð tækifæri til að spreyta sig og hjálpa þeim og styðja hafi hann lagt á þau ómanneskjulegt álag með óstöðugum lífsstíl og sífelldum flutningum. Í stað þess að reyna að búa börnum sínum mannsæmandi aðstæður á Íslandi láti hann eigin hvatir stjórna ferðinni og taki ekki tillit til þarfa barnanna. Þá telur matsmaður að stefndi hafi lítt sinnt þeim þætti foreldrahlutverksins sem felst í fyrirmynd og siðun. Börnin hafi þurft að horfa upp á drykkju hans og afleiðingar hennar. Þar hafi hann verið þeim afleit fyrirmynd. Þá hafi hann skömmu eftir komuna til landsins lagt á dóttur sína, þá 12 ára gamla, að annast um bróður sinn. Slíkt fyrirkomulag sé almennt kallað vanræksla gagnvart börnum og ekki þroskavænlegar aðstæður. Niðurstaða matsmanns um forsjárhæfni stefnda er afdráttarlaus en hann telur að „hæfni A til að fara með forsjá barnanna C og D sé verulega ábótavant og að hann hafi vanrækt alvarlega daglega umönnun og uppeldi þeirra með hliðsjón af aldri þeirra og þroska. Ekki virðist líklegt að breyting sé að verða þar á.“ G sálfræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína. Lýsti hún því mati sínu að vægari úrræði en forsjársvipting stefnda, eins og ráðgjöf og stuðningur, myndu ekki duga til. Mikið vantaði upp á hæfni stefnda til að sinna börnum sínum og taldi matsmaður það hafa í sér mikla óvissu fyrir drenginn ef hann færi til föður síns í [...], í enn eitt landið og til einstaklinga sem hann hafi ekki hitt. Mjög margt gæti farið úrskeiðis og allt raunsæi vantaði í mat stefnda á þessu, sem fegraði mjög myndina fyrir drengnum. Stefndi hefði ekki innsæi í þarfir barna sinna og léti sínar eigin þarfir ganga framar öðru, þarfir barnanna sætu á hakanum. Við gerð forsjárhæfnismats fór matsmaður ekki sjálfur á fund barnanna til að kynna sér afstöðu þeirra, en studdist við skýrslur talsmanns, sem þeim var skipaður í febrúar sl. eftir að ákvörðun var tekin í málinu. Í ljósi þess og með vísan til 2. mgr. 63. gr. a í barnaverndarlögum nr. 80/2002 ákvað dómurinn að hitta börnin fyrir aðalmeðferð málsins. Rætt var einslega við hvort þeirra um sig. Á þeim fundum kom í sjálfu sér  ekkert fram sem ekki verður ráðið af öðrum gögnum málsins og skýrslum sem teknar voru fyrir dómi. Við aðalmeðferð málsins báru bæði varaformaður stefnanda og deildarstjóri barnaverndar á B, sem hafa haft með mál stefnda að gera, að nefndin hefði talið vægari úrræði í málinu fullreynd. Vitnið F kvað nefndina hafa horft á mál stefnda í heild sinni við það mat. Þá hefði það verið mat nefndarinnar að ósk stefnda um tímabundið fóstur barnanna í 12 mánuði myndi ekki skila árangri, það væri fullreynt. Í því samhengi áréttaði vitnið að stefndi hefði greint nefndinni frá því að hann ætti pláss á Vogi í janúar 2019, en hefði ekki mætt í þá meðferð. Þá hefði hann ekki leitast eftir umgengni við börnin né haft samband við fósturforeldrana. Aðspurt um hvers vegna ekki hefði verið unnið forsjárhæfnismat áður en ákvörðun var tekin í málinu svaraði vitnið því til að atvik hefðu gerst hratt og ekki gefist tími til þess. Þá hefði stefndi farið úr landi. Til viðbótar því sem liggur fyrir samkvæmt framansögðu um aðstæður stefnda og barna hans fram að því að sú ákvörðun var tekin sem hér er til meðferðar eru greinargerðir og gögn barnaverndarnefnda [...] og [...] ásamt fylgiskjölum, afritum dagbóka lögreglu í umdæmi lögreglustjórans [...] er varða atvik 11. og 17. nóvember 2018, og eldri gögn sem stafa frá lögreglu í öðrum umdæmum sem og gögn frá heilbrigðisstofnunum er varða stefnda. Sem fyrr segir var börnunum skipaður talsmaður 11. febrúar sl., eftir að ákvörðun var tekin í málinu. Í málinu liggja fyrir skýrslur hans, en talsmaðurinn ræddi í tvígang við börnin, fyrst 18. febrúar sl. og síðar 9. maí sl. Í fyrra viðtali talsmanns við drenginn kom fram sá vilji drengsins að búa hjá föður sínum með því skilyrði að það yrði á [...]og faðir hans drykki ekki. Hann var þó einnig spenntur fyrir því að búa hjá móður kærasta systur sinnar og hennar manni. Fann hann ekkert að dvölinni á núverandi fósturheimili. Systir hans á hinn bóginn kvaðst vilja búa áfram á fósturheimilinu og fara í framhaldsskóla. Hún vildi ekki búa hjá föður sínum þegar hann væri að drekka og hún taldi sig ekki geta treyst því að svo yrði. Þá greindi hún frá því að faðir hennar hefði ásakað hana um að vera völd að því að þau systkin hefðu verið tekin frá honum. Hann ætti það til að kenna henni um eitt og annað sem hann bæri sjálfur frekar ábyrgð á. Síðara viðtal talsmanns við börnin fór fram í tengslum við umgengni stefnda við börnin dagana 6.-8. maí sl., er stefndi kom til landsins til að undirgangast forsjárhæfnismat. Greindi drengurinn þá frá því að hann hefði átt ánægjulegar stundir með föður sínum og kvaðst nú reiðubúinn að flytja til [...]um hríð enda hefði faðir hans sagt honum að þar væru flottari „parkar“ fyrir hlaupahjól en á [...] sem hann væri spenntur fyrir að prófa. Þá yrði dvölin í [...] ekki löng þar sem pabbi hans ætlaði að flytja til Íslands bráðlega. Á hinn bóginn var afstaða stúkunnar óbreytt frá fyrra viðtali. Eins og rakið hefur verið tók stefnandi þá ákvörðun sem hér er til meðferðar á fundi 5. febrúar 2019. Er ákvörðunin grundvölluð á a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Áður höfðu börn stefnda verið vistuð tímabundið í tvo mánuði með samþykki föður 19. nóvember 2018, á grundvelli 25. gr. barnaverndarlaga, og þá var jafnframt gerð áætlun um meðferð máls, sbr. 23. gr. barnaverndarlaga. Nefnd ráðstöfun barnanna var gerð í kjölfar alvarlegra atvika og heilsubrests stefnda. Áður en að þessu kom höfðu málefni fjölskyldunnar verið til meðferðar hjá barnaverndarnefndum frá því í lok árs 2015, fyrst á [...], þá í [...] og loks hjá stefnanda frá því að stefndi flutti í umdæmi stefnanda sumarið 2016. Fljótlega eftir að börnin voru vistuð í nóvember 2018 fór stefndi til [...] og hefur verið þar síðan, utan þess að hann kom til landsins til að undirgangast forsjárhæfnismat í byrjun maí sl. Að sögn stefnda býr hann þar með konu og tveimur börnum hennar í rúmgóðri þriggja herbergja íbúð. Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga skal því aðeins gera kröfu um sviptingu forsjár að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða aðrar slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án árangurs. Þá er í 1. mgr. 41. gr. laganna kveðið á um skyldu barnaverndarnefndar til að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. og 1. mgr. 56. gr. s.l. Eins og rakið hefur verið og gögn málsins bera með sér höfðu barnaverndaryfirvöld í þremur sveitarfélögum á landinu margsinnis haft afskipti af málefnum stefnda og barna hans allt frá því að þau fluttust til landsins í árslok 2015. Aðstæður barnanna höfðu ítrekað verið skoðaðar og metnar óviðunandi. Gerðir voru samningar um meðferð máls fjölskyldunnar og börnin ítrekað vistuð utan heimilis, með samþykki föður. Í janúar sl. höfðu börnin, frá því að þau komu til landsins, verið lengur í fóstri á vegum barnaverndaryfirvalda en í umsjón föður, með hans samþykki. Þá liggur og fyrir að stefndi hvarf af landi brott þegar eftir að samningur var gerður við hann um tveggja mánaða vistun barna hans í lok [...] 2018, þ.e. stuttu eftir að hann skar sig á púls í viðurvist barna sinna. Á gildistíma þess samnings hafði stefndi ekkert frumkvæði að samskiptum við barnaverndaryfirvöld, og illmögulegt reyndist að ná sambandi við stefnda til samráðs um framhald mála barna hans. Þá liggur ekki annað fyrir um hvað stefndi rækti af skyldum þeim sem hann tókst á herðar með samkomulaginu við stefnanda 20. nóvember 2018, annað en það að stefndi fór ekki í áfengismeðferð eins og hann hafði þó lofað. Þá sá stefndi sér ekki fært að mæta til fundar um málefni barna sinna í febrúar þrátt fyrir að honum mætti vera ljóst að samningurinn um vistun þeirra væri útrunninn, en haft var samband við hann símleiðis. Stóð vilji stefnda þá til þess að börn hans yrðu áfram vistuð í 12 mánuði, þannig að hann hefði tök á að koma sér upp húsnæði og stöðugleika. Enda þótt fallast megi á það með stefnda að málsmeðferð stefnanda á stjórnsýslustigi hafi ekki með öllu verið hnökralaus, þá verður ekki fram hjá því litið að stefndi var lítt eða ekki til samvinnu í málinu og sakir þess að hann dvaldi erlendis var stefnanda  erfiðara um vik að afla gagna, t.d. forsjárhæfnismats, áður en málið var höfðað. Úr því hefur verið bætt undir rekstri málsins. Þá lágu fyrir ítarleg gögn frá öðrum barnaverndarnefndum um málefni fjölskyldunnar allt aftur til ársins 2015, þar sem þess hafði ítrekað verið freistað að grípa inn í málefni stefnda og liðsinna með úrræðum sem barnaverndarnefndum eru tæk, án árangurs. Í ljósi forsögu málsins og þess sérstaklega að stefndi var þá ekki aðeins staddur erlendis heldur hafði ekki hug á að koma til landsins í bráð verður heldur ekki á það fallist með stefnda að stefnanda hefði verið unnt að grípa til vægari úrræða í málinu en raun ber vitni. Í því samhengi ber til þess að líta að börn stefnda eru nú að verða stálpuð og því afar mikilvægt að þau fái notið verndar og umönnunar í samræmi við aldur sinn og þroska og búa við viðunandi uppeldisaðstæður þar sem velfarnaðar þeirra er gætt í hvívetna þann tíma sem eftir er af bernsku þeirra, sbr. 1. gr. barnaverndarlaga. Að mati dómsins er afar brýnt að þeim verði tryggð sú festa og öryggi sem börnum er nauðsynleg og mælt er fyrir um í lögum er varða börn og barnavernd. Á það hefur verulega skort fram til þessa og brýnt að lát verði á þeirri óvissu sem börnin hafa búið við um framtíðarhagi sína og heimili. Við munnlegan málflutning málsins reifaði lögmaður stefnda það sjónarmið að ekki hefði verið gætt að ákvæðum 29. og 30. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd, en umrædd ákvæði varða skipun talsmanns barna og hæfi þess talsmanns. Enda þótt fallast megi á það með stefnda að misbrestur hafi verið á því að þessum ákvæðum hafi verið fylgt við stjórnsýslumeðferð málsins þá getur það eitt og sér ekki haft þýðingu við úrlausn þessa dómsmáls, enda ákvað dómurinn eins og áður segir að hitta börnin fyrir aðalmeðferð málsins. Var þá rætt einslega við hvort þeirra um sig þannig að afstaða þeirra lægi fyrir. Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið, fyrirliggjandi matsgerðar dómkvadds matsmanns og vitnisburðar hans fyrir dómi, gagna málsins og framburðar vitna verður að telja í ljós leitt að skilyrðum fyrir forsjársviptingu samkvæmt a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga sé fullnægt, og að önnur og vægari úrræði komi ekki að haldi. Er því niðurstaða dómsins sú að hagsmunir og þarfir barna stefnda krefjist þess að stefndi verði sviptur forsjá þeirra. Samkvæmt framansögðu ber að taka kröfu stefnanda til greina. Stefndi hefur lagt fram gjafsóknarleyfi vegna reksturs þessa máls fyrir héraðsdómi, útgefið 11. apríl sl., sbr. heimild í 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga. Rétt er að málskostnaður milli aðila falli niður en af hálfu stefnanda var ekki gerð krafa um málskostnað. Gjafsóknarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, sem er þóknun lögmanns hans, Oddgeirs Einarssonar, samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti 1.944.690 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Dóm þennan kveða upp Bergþóra Ingólfsdóttir, dómstjóri og dómsformaður, Arnaldur Hjartarson héraðsdómari og Ragna Ólafsdóttir sálfræðingur. Dómsorð: Stefndi, A, er sviptur forsjá barna sinna, C og D. Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, Oddgeirs Einarssonar, 1.944.690 krónur. 
Mál nr. 19/2019
Samningur Veð Uppgjör Endurgreiðsla ofgreidds fjár Fyrning Mótbárumissir
G höfðaði mál á hendur L hf. til endurgreiðslu á vöxtum sem hún taldi sig hafa ofgreitt í tengslum við uppgjör tveggja veðskuldabréfa útgefnum af eiginmanni hennar 10. mars 2001 og 27. nóvember 2003 og tryggð með veði í fasteign G. Meginágreiningur málsins laut að túlkun á samkomulagi lántaka og L hf. um uppgjör á skuldbindingum samkvæmt veðskuldabréfunum og yfirlýsingu sem G gaf út sama dag. Á grundvelli samkomulagsins og yfirlýsingarinnar innti G af hendi greiðslur síðari hluta árs 2016 sem hún taldi hafa falið í sér greiðslu á kröfu sem hefði að hluta til verið fyrnd. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að í ljósi þess að lántaki hefði áður borið fyrir sig að vextir af lánunum væru fyrndir yrði samkomulagið skilið þannig að hann hefði fallið frá þeim andmælum og samið endanlega og með bindandi hætti um hvernig uppgjörinu yrði hagað. Tekið var fram að G hefði ekki átt beina aðild að umræddu uppgjörssamkomulagi og hefði hvorki gengist undir skyldur samkvæmt því gagnvart L hf. með yfirlýsingu þeirri sem hún hefði gefið út né með öðru móti. Af því leiddi að hún gæti haft uppi allar mótbárur sem fyrir hendi voru gegn kröfum L hf., enda væri sá réttur hennar sem veðþola sjálfstæður eftir meginreglum fjármunaréttar. Hins vegar hefði G, í stað þess að hafa uppi mótbárur gegn kröfum L hf., ráðstafað greiðslum til hans án fyrirvara. Til þess hefði þó verið brýnt tilefni í ljósi aðdragandans sem fólst meðal annars í því að L hf. beindi að henni greiðsluáskorunum. Einnig hefði hún veitt tveimur nafngreindum mönnum umboð til að fá allar upplýsingar um skuldir hjá L hf. sem hvíldu á eign hennar og ekkert hefði komið fram í málinu sem benti til að upplýsingum af hálfu L hf. hefði verið áfátt. Að þessu gættu var talið að G gæti ekki fyrirvaralaust gert upp við L hf. veðskuldina í trausti þess að geta síðar beint endurkröfu að honum. Var L hf. því sýknaður af kröfum G.
Dómur Hæstaréttar. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. apríl 2019. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 41.696.543 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. júní 2017 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar á öllum dómstigum. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. I             Meginágreiningur málsins lýtur að túlkun á samkomulagi eiginmanns áfrýjanda, Jóns Gunnars Zöega, og stefnda 6. september 2016 um uppgjör á skuldbindingum samkvæmt tveimur veðskuldabréfum, útgefnum 10. mars 2001 og 27. nóvember 2003, er Jón Gunnar var skuldari að, sem og yfirlýsingu sem áfrýjandi gaf út sama dag og samkomulagið var gert, en skuldabréfin voru tryggð með veði í fasteign áfrýjanda að Reynimel 29, Reykjavík. Á grundvelli samkomulagsins og yfirlýsingarinnar innti áfrýjandi af hendi greiðslur síðari hluta árs 2016 sem hún telur hafa falið í sér greiðslu á kröfu sem hafi að hluta til verið fyrnd. Í samræmi við það hefur hún uppi endurkröfu á hendur stefnda. II Samkvæmt gögnum málsins gaf eiginmaður áfrýjanda út þau veðskuldabréf sem mál þetta lýtur að, hið fyrra 10. mars 2001 til Búnaðarbanka Íslands hf. að fjárhæð 20.000.000 króna og hið síðara 27. nóvember 2003 til Landsbanka Íslands hf. (nú LBI ehf.) að fjárhæð 40.000.000 króna. Með tveimur viðaukum við veðskuldabréfin 2004 og 2005 var lánunum breytt þannig að eftirstöðvarnar skyldu miðast við gengi japansks jens. Fyrra veðskuldabréfið var framselt  Landsbanka Íslands hf. árið 2005 og komust bæði veðskuldabréfin í eigu stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008, sem tekin var í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf., vék stjórn félagsins frá og setti yfir það skilanefnd. Veðskuldabréfin voru bæði tryggð með veði í fasteign í eigu áfrýjanda að Reynimel 29 í Reykjavík. Lántaki greiddi afborganir af lánunum til og með desember 2007 en eftir það var ekkert greitt fyrr en við uppgjör haustið 2016 er greiðsla barst vegna sölu áfrýjanda á þeirri eign, er stóð til tryggingar greiðslu skuldarinnar. Af hálfu stefnda er því haldið fram að skuldari hafi sótt um lækkun lánanna eftir svokallaðri 110% leið. Af hálfu áfrýjanda er því hins vegar haldið fram að lántaki hafi hafnað útreikningi stefnda byggðum á þeirri leið. Samkvæmt gögnum málsins voru lán þau sem mál þetta lýtur að lækkuð í mars 2012 á grundvelli þess útreiknings. Þá endurreiknaði stefndi 27. ágúst 2013 þau lán sem málið lýtur að í kjölfar dóma Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 og 18. október sama ár í máli nr. 464/2012 með tilliti til fullnaðarkvittana vegna vaxta. Niðurstaða þess endurreiknings voru lántaka óhagfelldari en sá endurreikningur sem byggðist á fyrri útreikningi sem gerður var samkvæmt fyrrgreindri 110% leið og lagði stefndi síðarnefndan útreikning til grundvallar um ætlaða skuld lántaka við stefnda. Á milli lántaka og stefnda fóru fram bréfaskipti frá febrúar 2013 til febrúar 2014, þar sem lántaki óskaði eftir að endurfjármagna skuldbindingar sínar, en úr því varð ekki. Þá liggja fyrir í málinu greiðsluáskoranir sem lántaka og áfrýjanda voru sendar 4. mars 2014.  Fór svo að lántaki höfðaði mál á hendur stefnda 20. mars 2014 og krafðist þess að viðurkennt yrði að skuld hans samkvæmt framangreindum veðskuldabréfum hefði verið að tiltekinni fjárhæð miðað við 10. desember 2007. Með héraðsdómi 30. júní 2015, sem ekki var áfrýjað, var viðurkennt að veðskuldabréf, upphaflega að höfuðstól 20.000.000 króna hefði verið að eftirstöðvum 13.428.465 krónur 10. desember 2007 og að veðskuldabréf, upphaflega að höfuðstól 40.000.000 króna hefði sama dag verið að eftirstöðvum 35.196.242 krónur. Með bréfi 5. janúar 2016 til stefnda fór lántaki fram á að greiða framangreindar skuldir miðað við að höfuðstóll þeirra í ársbyrjun 2011 væri sá sami og hann hefði verið 1. janúar 2008 og að vextir fyrir árin 2008 til 2012 væru fyrndir. Stefndi hafnaði því, en með tölvubréfi 7. mars sama ár bauð hann lántaka að gera upp framangreindar skuldbindingar með eingreiðslu að fjárhæð 100.000.000 króna, ef greitt væri fyrir 31. mars 2016. Ekki varð af því og sendi stefndi greiðsluáskoranir til lántaka og áfrýjanda 13. apríl 2016. Með umboði 12. ágúst sama ár veitti áfrýjandi Birni Zöega og Sverri Hermannsyni umboð til að fá ,,allar upplýsingar um ábyrgðarskuld mína hjá Landsbankanum hf., áhvílandi á 1. veðrétti fasteignarinnar, Reynimelur 29, Reykjavík, svo og að semja um framangreinda skuld.“ Mun stefndi hafa samþykkt að bíða með að krefjast nauðungarsölu á fasteigninni, svo að áfrýjandi gæti freistað þess að selja eignina frjálsri sölu. Eignin var seld á frjálsum markaði síðari hluta ársins 2016 og var greiðslum vegna hennar ráðstafað til stefnda, samtals 104.550.632 krónum. III Stefndi og lántaki gerðu með sér uppgjörssamkomulag 6. september 2016. Í upphafsorðum þess greinir að samhliða samkomulaginu undirriti áfrýjandi, sem þinglýstur eigandi Reynimels 29, Reykjavík, yfirlýsingu þess efnis að hún samþykki að framselja Landsbankanum greiðslur samkvæmt kaupsamningi, alls 100.000.000 króna auk vaxta með kjörvaxtaflokki 0 frá 1. apríl 2016 til greiðsludags. Gegn greiðslu þeirrar fjárhæðar skyldi stefndi létta áhvílandi veðskuldum af fasteigninni. Í framhaldinu segir svo að stefndi ,,og viðskiptamaður hafa komist að samkomulagi, sem felur í sér að viðskiptamaður greiðir til Landsbankans alls kr. 100.000.000.- auk vaxta með kjörvaxtaflokki 0 frá 01.04.2016 til greiðsludags, um er að ræða fullnaðaruppgjör á skuldum sem eru áhvílandi á Reynimel 29 ... og staðfesta aðilar með undirritun sinni að þeir eigi ekki frekari kröfur hvor á annan í tengslum við og vegna þeirra skulda sem samkomulag þetta tekur til.“ Í 1. gr. samkomulagsins eru tilgreindar þær skuldir sem það nær til, en þær hafi 18. ágúst 2016 numið samanlagt 150.775.018 krónum og skiptist annars vegar í veðskuldabréf sem væri 38.641.780 krónur og hins vegar veðskuldabréf sem væri 112.133.238 krónur. Í 2. gr. samkomulagsins sem ber yfirskriftina ,,Skyldur viðskiptamanns“ segir að viðskiptamaður skuldbindi sig til að greiða Landsbankanum alls 100.000.000 króna auk tilgreindra vaxta til greiðsludags. Þá segir að greiðslan verði ,,greidd eftir því sem greiðslur berast vegna sölu á veðandlaginu Reynimel ... en heildargreiðslan skal vera að fullu greidd í síðasta lagi 01.02.2017.“ Í 4. gr. samkomulagsins eru tilgreindar þær veðskuldir sem Landsbankinn skuldbatt sig til aflétta að uppfylltum skilyrðum samkvæmt samkomulaginu, en þar á meðal voru þær skuldir sem mál þetta lýtur að. Í 5. gr. segir meðal annars að ,,[a]ðilar samnings þessa eru sammála um að um fullnaðaruppgjör er að ræða. Við greiðslu viðskiptamanns samkvæmt 2. gr. á hvorugur aðila kröfu á hinn umfram það sem kemur fram í samningi þessum.“ Ekki eru efni til að rekja aðrar greinar samkomulagsins, en undir það rituðu lántakinn og tveir starfsmenn Landsbankans. Eins og greindi í upphafsorðum samkomulagsins ritaði áfrýjandi undir yfirlýsingu sama dag og það var gert. Í yfirlýsingunni segir að hún samþykki ,,að framselja Landsbankanum greiðslur skv. kaupsamningi að fjárhæð kr. 100.000.000.- auk vaxta samkvæmt kjörvaxtaflokki 0 frá 01.04.2016 til greiðsludags, vegna fasteignarinnar að Reynimel 29 ... í samræmi við skilyrt veðleyfi sem gefið verður út vegna sölu á fasteigninni auk greiðslna sem berast skv. kaupsamningi, að frádregnum sölukostnaði, eigi síðar en þann 01.02.2017. Að uppfylltu ofangreindu skilyrði og skilyrtu veðleyfi mun Landsbankinn aflétta neðangreindum veðskuldum þegar kaupsamningsgreiðslum kr. 100.000.000.- ... hefur verið ráðstafað inn á áhvílandi veðskuldir.“ Þá voru taldar þær veðskuldir sem stefndi skyldi aflétta, en þar á meðal voru veðskuldabréf þau sem málið lýtur að. Undir yfirlýsinguna ritaði áfrýjandi ásamt starfsmanni stefnda og vottur að henni var annar þeirra sem vottað hafði fyrrgreint samkomulag. Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp 22. febrúar 2019 og var með honum staðfestur héraðsdómur 21. júní 2018 um sýknu stefnda af kröfum áfrýjanda. IV 1             Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því í fyrsta lagi að hluti kröfu stefnda feli í sér fyrnda vexti. Í öðru lagi geti stefndi eingöngu leitað fullnustu dráttarvaxta og innheimtukostnaðar hjá áfrýjanda tveimur vikum eftir að henni var sannanlega gefinn kostur á að greiða gjaldfallna afborgun, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, en það hafi stefndi vanrækt. Áfrýjanda hafi fyrst í apríl 2016 verið tilkynnt um stöðu skuldarinnar og gefinn kostur á að greiða gjaldfallna afborgun og því sé eingöngu heimilt að reikna vexti og kostnað eftir það tímamark. Í þriðja lagi er á því byggt að stefndi geti eingöngu krafist vaxta sem féllu í gjalddaga einu ári áður en beiðni um nauðungarsölu var sett fram, sbr. b. lið 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð, en jafna megi þeirri aðferð sem stefndi hafi beitt í málinu til þess að fá fullnustu við nauðungarsölu. Áfrýjandi bendir á að hún sé ekki aðili að samkomulagi stefnda og lántaka. Meginregla samningaréttar sé að enginn geti unnið beinan og sjálfstæðan rétt samkvæmt samkomulagi sem hann er ekki aðili að og breyti réttarreglur um þriðjamannslöggerninga ekki þeirri grundvallarreglu. Áfrýjandi sé því óbundin af samkomulaginu og ekki sé unnt að svipta hana réttinum til að hafa uppi mótbáru gegn fjárhæðinni. Geti hún því endurheimt þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Í yfirlýsingu þeirri er hún gaf samhliða samkomulaginu sé ekki að finna samþykki hennar eða viðurkenningu um réttmæti fjárhæðarinnar. Almenna reglan sé að ábyrgðarmaður geti haft uppi allar mótbárur, jafnvel þótt aðalskuldari hafi fallið frá þeim. Þessi regla eigi við um veðsala jafnt sem ábyrgðarmann, enda séu reglur veðréttar og kröfuréttar um ábyrgðir algerlega samhljóða um það. Áfrýjandi vísar til þess að matið á því hvort endurgreiðslukrafa nái fram að ganga sé heildstætt og ráðist af atvikum. Telur áfrýjandi að leggja beri til grundvallar að stefndi hafi vitað frá upphafi innheimtuaðgerða sinna að skuldari bæri fyrir sig að vextir eldri en fjögurra ára væru fyrndir. Stefndi hafi því verið í vondri trú. Einnig hafi verið mikill aðstöðumunur með aðilum, stefndi sé ein stærsta fjármálastofnun á Íslandi en áfrýjandi eftirlaunaþegi. Þá hafi greiðsla hennar verið knúin fram í skugga hótana um nauðungarsölu fasteignarinnar. Jafnframt vísar áfrýjandi til sanngirnis- og réttlætisraka sem 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga sé reist á. 2 Af hálfu stefnda er á því byggt að uppgjörssamkomulag lántaka og stefnda sem og fyrirvaralaus yfirlýsing áfrýjanda séu bindandi og standi kröfum hennar í vegi. Ekki sé unnt að líta á yfirlýsinguna án tengsla við uppgjörssamkomulagið. Í yfirlýsingunni hafi beinlínis falist samþykki og viðurkenning á fjárhæð skulda lántaka, sem tryggðar voru  með veði í fasteign áfrýjanda og þar með viðurkenning hennar á réttmæti kröfu stefnda. Því séu ekki uppfyllt skilyrði endurheimtu. Áfrýjanda hafi hlotið að vera kunnugt um efnisinntak og forsendur uppgjörssamkomulagsins. Hafi áfrýjandi og lántaki, sem ekki hafi vefengt skuldbindingu sína samkvæmt uppgjörssamkomulaginu, því staðið saman að efndum fyrirvaralaust og án athugasemda. Hafi áfrýjandi því fyrirgert rétti til þess að bera fyrir sig meinta fyrningu vaxta eða bera brigður á framangreindar ráðstafanir og jafnframt hafa uppi endurheimtukröfu. Þá bendir stefndi á að endurútreikningur lánanna og þar með uppgjörsdagur þeirra í skilningi laga nr. 151/2010 um breytingu á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, hafi fyrst orðið til miðað við 20. september 2011 en sá endurútreikningur hafi verið endurtekinn 27. ágúst 2013 með tilliti til fullnaðarkvittana. Fyrningarfrestur samkvæmt bráðabirgðaákvæði XIV í lögum nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010 og lög nr. 38/2014, sem sé átta ár, reiknað frá 16. júní 2010, hafi því ekki verið liðinn við gerð uppgjörssamkomulagsins 6. september 2016. Stefndi ítrekar málsástæðu sína um aðildarskort, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og mótmælir þýðingu laga nr. 32/2009 í þessu sambandi. Þá mótmælir stefndi því að uppgjörssamkomulagið hafi komist á vegna hótana stefnda um nauðungarsölu eignarinnar sem og tilvísun áfrýjanda til 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. V  Eins og rakið hefur verið var ekki greitt af skuldabréfum þeim sem málið lýtur að frá því í desember 2007 og þar til í október 2016 er greiðsla barst vegna sölu áfrýjanda á fasteign þeirri er sett hafði verið að veði til tryggingar skuldunum. Lánin voru endurreiknuð á árinu 2011, lækkuð í mars árið 2012 og endurreiknuð á ný 27. ágúst 2013. Þá höfðaði lántaki, sem eins og fyrr greinir er eiginmaður áfrýjanda, mál á hendur stefnda í mars 2014 þar sem þess var krafist að veðskuldabréfin væru að tilteknum eftirstöðvum miðað við síðasta greidda gjalddaga 10. desember 2007. Var fallist á þrautavarakröfu lántaka í málinu með dómi héraðsdóms 30. júní 2015 og viðurkennt að eftirstöðvar lánanna hefðu annars vegar verið 13.428.465 krónur og hins vegar 35.196.242 krónur eða samtals 48.624.707 krónur miðað við fyrrgreindan dag. Þá áttu lántaki og stefndi í bréfaskiptum og umræðum um greiðslu skuldarinnar á árinu 2016, þar sem umfjöllunarefnið var meðal annars sú skoðun lántaka að vextir vegna áranna 2008 til 2012 væru fyrndir. Þessi bréfaskipti leiddu ekki til samkomulags og fór svo að áfrýjanda og lántaka voru sendar greiðsluáskoranir í apríl 2016. Lántaki og stefndi gerðu síðan uppgjörssamkomulag 6. september 2016 en í upphafsorðum þess kemur fram að samhliða samkomulaginu riti áfrýjandi undir yfirlýsingu þess efnis að hún framselji stefnda greiðslur samkvæmt kaupsamningi um fasteignina, alls 100.000.000 króna, auk tilgreindra vaxta. Gegn greiðslunni skyldi stefndi létta áhvílandi veðskuldum af fasteigninni. Áfrýjandi gaf síðan út yfirlýsingu þessa sama dag og samkomulagið var undirritað. Í uppgjörssamkomulaginu 6. september 2016 kemur fram að aðilar þess séu sammála um að það feli í sér fullnaðaruppgjör og að hvorugur aðila eigi kröfu á hinn umfram það sem kemur fram í samkomulaginu. Í ljósi þess að lántaki hafði áður borið fyrir sig að vextir af lánunum væru fyrndir verður samkomulagið skilið þannig að hann hafi fallið frá þeim andmælum og samið endanlega og með bindandi hætti um hvernig uppgjörinu yrði hagað. Áfrýjandi átti ekki beina aðild að umræddu uppgjörssamkomulagi eiginmanns síns og stefnda þótt það gerði ráð fyrir að hún ráðstafaði til stefnda greiðslu við sölu á veðbundinni eign sinni. Þá gekkst hún hvorki undir skyldur samkvæmt því gagnvart stefnda með yfirlýsingu þeirri sem hún gaf út né með öðru móti. Af því leiðir að hún gat eftir sem áður haft uppi allar mótbárur sem fyrir hendi voru gegn kröfum stefnda, enda var sá réttur hennar sem veðþola sjálfstæður eftir meginreglum fjármunaréttar og var hún ekki bundin af því þótt lántaki hefði fallið frá einhverri mótbáru gegn kröfum á hendur sér. Í stað þess að hafa uppi mótbárur gegn kröfum stefnda ráðstafaði hún greiðslum til hans, eins og áður hefur verið rakið, en með málsókn þessari krefst hún endurgreiðslu á þeim grunni að vextir hafi verið fyrndir eða kröfu um greiðslu þeirra verði ekki beint að henni af öðrum ástæðum. Hvort slík krafa hafi stofnast á hendur stefnda ræðst af óskráðum reglum kröfuréttar um endurheimtu ofgreidds fjár. Er samkvæmt þessu haldlaus með öllu sú málsástæða stefnda að áfrýjandi geti ekki verið réttur aðili að endurkröfu vegna greiðslu sem hún sjálf innti af hendi. Þegar áfrýjandi ráðstafaði greiðslum til stefnda með yfirlýsingunni 6. september 2016 gerði hún engan fyrirvara um lögmæti kröfunnar á hendur sér. Til þess var þó brýnt tilefni í ljósi aðdragandans sem fólst meðal annars í því að stefndi hafði beint að henni greiðsluáskorunum 4. mars 2014 og 13. apríl 2016. Einnig hafði hún veitt tveimur nafngreindum mönnum umboð 12. ágúst 2016 til að fá allar upplýsingar um skuldir hjá stefnda sem hvíldu á eign hennar og hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til að upplýsingum af hálfu stefnda hafi verið áfátt. Að þessu gættu gat hún ekki fyrirvaralaust gert upp við stefnda veðskuldina í trausti þess að geta síðar beint endurkröfu að honum. Um nauðsyn þess að gera fyrirvara við greiðslu kröfunnar breytir engu þótt stefndi hafi áður gefið til kynna að hann myndi leita fullnustu fyrir kröfum sínum í eign áfrýjanda fyrir skuldum sem voru löngu gjaldfallnar. Geta í þessu sambandi ekki átt við málsástæður áfrýjanda reistar á 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936. Jafnframt er þess að gæta að sú fjárhæð sem stefndi fékk greidda af söluandvirði eignar áfrýjanda í október og nóvember 2016 var rétt liðlega sú fjárhæð sem lántaka var gert að greiða með útreikningi rúmum fjórum árum áður miðað við uppgjör eftir svonefndri 110% leið. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest um annað en málskostnað. Eftir atvikum er rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins á öllum dómstigum. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað. Málskostnaður á öllum dómstigum fellur niður.                                                                             Dómur Landsréttar Mál þetta dæma landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Davíð Þór Björgvinsson og Jóhannes Sigurðsson. Málsmeðferð og dómkröfur aðila 1        Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar 16. júlí 2018. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júní 2018 í málinu nr. E-2263/2017. 2        Áfrýjandi krefst þess aðallega að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og breytt á þann veg að fallist verði á dómkröfur áfrýjanda í héraði, með þeim hætti að stefnda verði gert að greiða áfrýjanda 41.696.543 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. júní 2017 til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða áfrýjanda 30.577.072 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt sömu lögum og frá sama degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða málskostnað vegna reksturs málsins í héraði og fyrir Landsrétti. 3        Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi áfrýjanda fyrir Landsrétti, að skaðlausu samkvæmt mati réttarins, auk virðisaukaskatts. Niðurstaða 4        Ágreiningur í málinu varðar uppgjör tveggja skuldabréfalána sem maki áfrýjanda, Jón Gunnar Zoëga, tók hjá forverum stefnda. Annars vegar er um að ræða veðskuldabréf nr. 0106-36-3344 að fjárhæð 20.000.000 króna sem gefið var út 10. mars 2001 til Búnaðarbanka Íslands hf. og hins vegar veðskuldabréf nr. 0106-36-1878 að fjárhæð 40.000.000 króna sem gefið var út 23. nóvember 2003 til Landsbanka Íslands hf. Fyrrgreint veðskuldabréf var framselt til LBI ehf. 2005 og voru bæði skuldabréfin flutt frá LBI ehf. til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Upphaflega voru skuldabréfin í íslenskum krónum en með tveimur viðaukum 2004 og 2005 var lánunum breytt þannig að eftirstöðvarnar skyldu miðaðar við gengi japanskra jena. Voru veðskuldabréfin tryggð með veði í fasteign í eigu áfrýjanda að Reynimel 29 í Reykjavík. 5        Á árinu 2011 voru umrædd veðskuldabréf endurreiknuð vegna ólögmætrar gengistryggingar. Með ákvörðun stefnda 29. febrúar 2012 var samþykkt að lækka skuldir lántaka hjá bankanum og miða við svonefnda 110% leið. Ætla verður af þeim upplýsingum sem liggja fyrir í málinu að sá endurútreikningur hafi verið gerður að ósk lántaka. Á árinu 2013 gerði stefndi annan endurútreikning á skuldum lántaka á grundvelli nýrra dóma Hæstaréttar um áhrif fullnaðarkvittana. Niðurstaða seinni endurútreikningsins var sú að fjögur lán lántaka hefðu lækkað úr samtals 134.378.510 krónum í 105.350.075 krónur miðað við 20. september 2011. Í kjölfarið sendi stefndi lántaka bréf 27. ágúst 2013 þar sem fram kom að áðurnefnd lækkun skulda samkvæmt 110% leiðinni gæfi þá niðurstöðu sem hagstæðust væri fyrir lántaka og stæði skuldin þá í 104.378.510 krónum miðað við 20. september 2011. Upplýsti stefndi í bréfinu að endurútreikningur samkvæmt 110% leiðinni myndi standa. Verður samkvæmt þessu að miða við að samkomulag hafi orðið um að lántaki myndi njóta lægri fjárhæðarinnar við uppgjör lánanna og hafi þá myndast nýr höfuðstóll skuldar lántaka.  6        Í uppgjörssamkomulagi áfrýjanda og eiginmanns hennar, Jóns Gunnars Zoëga, 6. september 2016 eru taldar upp skuldir lántaka sem falla undir samkomulagið. Þar er tilgreint í 1. gr. að 18. ágúst 2016 hafi þær numið alls 150.775.018 krónum. Fram kemur einnig að fjárhæðin skiptist þannig að 38.641.780 krónur hafi verið vegna láns nr. 0106-36-3344 og 112.133.238 krónur vegna láns nr. 0106-36-1878. Við þessa útreikninga voru lagðir til grundvallar fyrrnefndir endurútreikningar frá 2011 samkvæmt 110% leiðinni, að viðbættum vöxtum sem á lánin höfðu fallið frá endurútreikningi þeirra. Í 2. gr. uppgjörssamkomulagsins kemur fram að lántaki skuldbindi sig til að greiða stefnda 100.000.000 króna auk vaxta sem þar eru nánar greindir. Lækkaði stefndi þannig kröfu sína um ríflega 50.000.000 króna. Jafnframt var samið um að greiðslur yrðu inntar af hendi eftir því sem greiðslur bærust vegna sölu á hinni veðsettu eign áfrýjanda að Reynimel 29 í Reykjavík. Segir jafnframt að þegar búið væri að ráðstafa greiðslunum með þessum hætti myndi stefndi fella niður eftirstöðvar skulda lántaka og aflétta öllum áhvílandi veðlánum. 7        Samhliða undirritun fyrrnefnds uppgjörssamkomulags undirritaði áfrýjandi yfirlýsingu þar sem hún samþykkti að framselja stefnda greiðslur samkvæmt kaupsamningi vegna fasteignarinnar að Reynimel 29 að fjárhæð 100.000.000 króna, auk nánar tilgreindra vaxta frá 1. apríl 2016 til greiðsludags. 8        Uppgjörssamkomulag stefnda og lántaka fól í sér bindandi samkomulag um lokauppgjör þeirra krafna á hendur lántaka sem að baki því bjuggu. Með því var bundinn endi á samningaviðræður þar um sem staðið höfðu yfir í langan tíma. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að sú fjárhæð sem samið var um í uppgjörinu hafi falið í sér ofgreiðslu á fyrndum vöxtum, uppgjörið hafi á einhvern hátt verið ósanngjarnt eða falið í sér afarkosti. Undirritun áfrýjanda á yfirlýsingu um ráðstöfun greiðslna samkvæmt kaupsamningi um Reynimel 29 í Reykjavík að fjárhæð 100.000.000 króna til greiðslu skulda lántaka við stefnda verður að líta á sem hluta af uppgjörssamkomulaginu. Að þessu gættu, og með vísan til forsendna hin áfrýjaða dóms að öðru leyti, verður hann staðfestur. Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Áfrýjandi, Guðrún Björnsdóttir, greiði stefnda, Landsbankanum hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti.     Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júní 2018   Mál þetta, sem var dómtekið 30. maí sl., var höfðað 15. júní 2017 af Guðrúnu Björnsdóttur, Vatnsstíg 21 í Reykjavík, gegn Landsbankanum hf., Austurstræti 11 í Reykjavík. Endanlegar dómkröfur stefnanda í aðalkröfu eru þær að að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 41.696.543 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þingfestingardegi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 30.577.072 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þingfestingardegi til greiðsludags. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda. Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins. I. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins (hér eftir FME) 9. október 2008 yfirtók stefndi tiltekin réttindi og skyldur Landsbanka Íslands hf. (hér eftir LBI). Ágreiningslaust er að lán LBI sem um er deilt í máli þessu fluttust yfir til stefnda með ákvörðun FME. Eiginmaður stefnanda, Jón Gunnar Zoëga, gaf út veðskuldabréf að fjárhæð 40.000.000 kr. 23. nóvember 2003 til LBI. Til tryggingar skuldinni var veðsett fasteign stefnanda að Reynimel 29 í Reykjavík. Lánið hlaut númerið 1878 í bókum stefnda. Með viðauka við veðskuldabréfið 10. júní 2004 voru eftirstöðvar lánsins tilgreindar 40.847.848 kr. miðað við 26. febrúar 2004 og ákveðið að eftirleiðis skyldu eftirstöðvar lánsins miðast við gengi JPY, 100%. Fyrsti gjalddagi lánsins var 10. desember 2004 en vextir reiknuðust frá 26. febrúar 2004. Eiginmaður stefnanda gaf út veðskuldabréf að fjárhæð 20.000.000 kr. 10. mars 2001 til Búnaðarbanka Íslands hf. Til tryggingar skuldinni var veðsett fasteign stefnanda, Reynimelur 29 í Reykjavík. Veðskuldabréfið var framselt til LBI 13. júlí 2005. Með viðauka 18. júlí 2005 var skilmálum lánsins breytt á þann hátt að lántaki lofaði að greiða LBI 15.000.000 kr. „að jafnvirði í eftirtöldum myntum og hlutföllum: JPY 100%”. Fyrsti gjalddagi lánsins var 10. desember 2005 en vextir reiknuðust frá 1. júlí 2005. Lánið fékk númerið 3344 í bókum stefnda.  Þann 28. október 2006 undirritaði Jón Gunnar Zoëga lánssamning við LBI um fjölmyntalán til 22 ára að jafnvirði 10.000.000 kr. í japönskum jenum (JPY 100%). Lánið fékk númerið 6026 í bókum stefnda. Fram kemur í 9. tl. samningsins að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra lánshluta hafi lántaki sett að veði fasteignina Reynimel 29, heildareignina, í Reykjavík, með útgáfu á tryggingarbréfi nr. 0106-63-51728, að fjárhæð 20.000.000 kr. Þann 18. desember 2006 undirritaði Jón Gunnar Zoëga lánssamning við LBI um fjölmyntalán til fimm ára að jafnvirði 10 m.kr. í japönskum jenum (JPY 100). Lánið fékk númerið 10467 í bókum stefnda. Fram kemur í 9. tl. samningsins að til „tryggingar þeim lánum sem veitt kunna að verða samkvæmt ákvæðum hans verða núverandi allsherjarveð tryggð með veðum í ýmsum eignum lántaka“. Á veðbandayfirliti 26. október 2006 vegna fasteignar stefnanda að Reynimel 29 í Reykjavík kemur fram að stefnandi hafi verið búin að veðsetja fasteignina fyrir tveimur tryggingarbréfum frá LBI, verðtryggðum en án vaxta, annars vegar með bréfi útgefnu 3. ágúst 2008 að fjárhæð 20.000.000 kr. og hins vegar með bréfi útgefnu 23. febrúar 2006 að fjárhæð 20.000.000 kr., en bréfin voru útgefin til tryggingar skuldum eiginmanns hennar og fyrirtækis hans, J. Brynjólfssonar ehf.   Lántaki greiddi afborganir af lánunum nr. 1878 og 3344 til og með desember 2007. Þann 26. nóvember 2008 sendi stefndi lántaka greiðsluseðla vegna gjalddagans 10. desember 2008. Þar sem lántaki greiddi ekki af lánunum sendi stefndi tilkynningu um vanskil til lántaka 17. desember 2008 og ítrekun 7. janúar 2009. Gögn málsins bera ekki með sér að lántaki hafi brugðist við með greiðslu fyrr en í októbermánuði 2016 er greiðsla barst vegna sölu stefnanda á tryggingarandlagi lánanna, Reynimel 29, Reykjavík. Vegna vanskila á lánunum voru lántaka sendar tilkynningar um vanskil, ítrekanir og innheimtuviðvaranir. Lántaki varð ekki við áskorunum um greiðslu og 15. júní 2010 sendi stefndi greiðsluáskoranir á stefnanda og lántaka vegna lánanna. Í apríl 2011 sótti lántaki um 25% höfuðstólslækkun lána nr. 1878 og 3344, en féll síðar frá þeirri umsókn og sótti þess í stað um lækkun lána sinna og fyrirtækis síns, J. Brynjólfssonar ehf., á grundvelli svonefndrar 110% leiðar. Greiðsluúrræði þetta fól í sér að áhvílandi fasteignalán voru lækkuð í 110% af matsverði fasteignar. Beiðni þessi var samþykkt af stefnda 29. febrúar 2012. Lán stefnda á eigninni munu á þessum tíma hafa staðið þannig að eftirstöðvar láns nr. 1878 námu 75.232.822 kr., en eftirstöðvar láns nr. 3344 voru 25.926.442 kr., eftirstöðvar láns nr. 6026 voru að fjárhæð 16.512.077 kr. og eftirstöðvar láns nr. 10467 stóðu í 15.094.941 kr. Með framangreindu samþykki bankans fyrir 110% leiðinni voru veðkröfur stefnda á Reynimel 29 í Reykjavík lækkaðar um 30.000.000 kr., en að sögn stefnda var þetta hámarkslækkun sem hjón gátu fengið samkvæmt þessari leið. Staðfesting á þessari lækkun var veitt með útgáfu kvittunar 2. mars 2012 sem sýnir að lán 6026 hafi verið lækkað um 14.905.059 kr., þannig að eftirstöðvar þess eftir lækkunina voru 1.607.018 kr. og lán nr. 10467 var lækkað um 15.094.941 kr. og þar með greitt upp. Stefndi endurreiknaði lán nr. 1878 og 3344 miðað við 1. júní 2011, þ.e. án gengistryggingar, en með tilliti til þess að skuldbindingarnar bæru vexti samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 18. gr., laga nr. 151/2010. Var nýr höfuðstóll láns nr. 1878 75.232.822 kr. og nýr höfuðstóll láns nr. 3344 var 25.926.442 kr. Var lántaka tilkynnt um þennan endurútreikning og nýja stöðu lánanna með bréfum 6. og 8. júlí 2011. Með bréfi stefnda til lántaka 5. september 2011 var tilkynnt að stefndi hefði endurreiknað lán nr. 6026 á grundvelli laga nr. 151/2010 um breytingar á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, og var niðurstaðan sú að lánið lækkaði úr 29.103.903 kr. í 16.512.077 kr. Með bréfi 21. september 2011 var lántaka kynntur sambærilegur endurreikningur vegna láns nr. 10467 sem leiddi til þess að lánið lækkaði úr 32.110.232 kr. í 15.094.941 kr. Með dómum Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að greiðslukvittanir hefðu jafngilt fullnaðarkvittunum og að endurútreikningur gengistryggðra lána hefði átt að taka mið af því. Stefndi endurreiknaði fjögur framangreind lán sem Jón Gunnar Zoëga tók hjá LBI og sendi honum niðurstöðu útreikningsins með bréfi 27. ágúst 2013, en endurútreikningur allra lánanna var miðaður við 20. september 2011. Í niðurstöðum þessum var endurútreikningurinn borinn saman við lækkun lánanna vegna 110% leiðarinnar. Borin var saman staða lánanna fyrir lækkun þeirra samkvæmt 110% leiðinni, þar sem samtala lánanna var 134.378.510 kr. og staða lánanna eftir 110% lækkunina en með endurútreikningi með tilliti til fullnaðarkvittana. Niðurstaðan var sú að endurútreikningurinn lækkaði lánin úr 134.378.510 kr. í 105.350.075 kr. Þá var jafnframt reiknuð út staða lánanna eftir lækkun samkvæmt 110% leiðinni, sem lækkaði lánin úr 134.378.510 kr. í 104.378.510 kr., eða um 30.000.000 kr. Stefndi ákvað að lántaki og stefnandi myndu njóta lægri fjárhæðarinnar og voru eftirstöðvar lánanna lækkaðar í 104.378.510 kr.   Lántaki sendi stefnda bréf 22. febrúar 2013, þar sem hann fór fram á að gefin væru út ný lán til uppgreiðslu á þeim eldri. Bankinn fór fram á að lántaki greiddi hluta af vanskilunum en það gerði hann ekki og náðu aðilar því ekki saman um uppgjör lánanna. Þann 11. febrúar 2014 sendi lántaki stefnda bréf, þar sem hann ítrekaði þá kröfu sína að fá að gera upp lánin miðað við stöðu þeirra 1. janúar 2008. Þessu bréfi svaraði stefndi með bréfi 12. febrúar 2014 þar sem vísað var til þess að gengistryggð lán lántaka hefðu verið endurreiknuð á árinu 2011 í samræmi við lög nr. 151/2010 og að sá endurútreikningur stæði og væri réttur. Þar sem engar greiðslur komu frá lántaka eða stefnanda sendi stefndi greiðsluáskoranir á stefnanda og lántaka 4. mars 2014 vegna lána nr. 1878 og 3344 þar sem skorað var á þau að greiða lánin. Í mars 2014 höfðaði lántaki dómsmál á hendur stefnda þar sem hann gerði kröfu um að viðurkennt væri með dómi að veðskuldabréf nr. 3344 hefði verið að eftirstöðvum 12.789.795 kr. 10. desember 2007 og að veðskuldabréf nr. 1878 hefði verið að eftirstöðvum 29.622.078 kr. 10. desember 2007, sjá stefnu á dskj. nr. 35. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2015 í máli nr. 950/2014 var fallist á þrautavarakröfu og ítrustu þrautavarakröfu stefnanda, sem voru þess efnis að eftirstöðvar skuldabréfs nr. 3344 hefðu verið 13.428.465 krónur og eftirstöðvar skuldabréfs nr. 1878 hefðu verið 35.196.242 krónur. Tekið var fram í forsendum dómsins að sú niðurstaða byggði á endurreikningi stefnda, sem unninn var með tilliti til dóms Hæstaréttar Íslands 16. september 2010 í máli nr. 471/2010, sbr. og lög nr. 151/2010. Niðurstaða héraðsdóms byggði jafnframt á skírskotun til dóms Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011. Dómsúrlausn héraðsdóms í máli þessu ber þess merki að útreikningum stefnanda hafi verið hafnað en fallist á reikningsaðferðir stefnda. Með bréfi lántaka til stefnda 15. janúar 2016, vísaði hann til samningaumleitana sinna við bankann um uppgjör á lánum nr. 1878 og 3344. Vísaði hann einnig til stöðu lánanna samkvæmt framangreindri dómsniðurstöðu héraðsdóms milli aðila og taldi að vextir af láninu væru fyrndir og byggði það á því að bráðabirgðaákvæði XIV í vaxtalögum nr. 38/2001 um fyrningu uppgjörskrafna væri afturvirkt ákvæði. Stefndi svaraði með bréfi 18. janúar 2016 og mótmælti þeim rökum sem fram komu í bréfinu. Þar segir m.a. „Í málinu liggur fyrir að umrædd skuldabréf voru endurreiknuð í samræmi við ákvæði laga nr. 151/2010 en að mati Landsbankans verður að skýra umrætt bráðabirgðaákvæði til samræmis við önnur ákvæði laga nr. 151/2010, svo og samkvæmt orðanna hljóðan, þannig að fyrningarfrestur krafna sem grundvallaðar eru á endurútreikningi samkvæmt 5. mgr. 18. gr. laganna hafi fyrst hafist hinn 16. júní 2010. Er samkvæmt þessu um að ræða sérákvæði um fyrningarfrest sem gengur framar almennum reglum um upphaf fyrningar.“ Af gögnum málsins má ráða að samningaviðræður aðila hafi haldið áfram eftir þetta, sbr. tölvupóstsamskipti frá 4. og 7. mars 2016, þar sem starfsmaður bankans greindi lántaka frá því áliti stefnda að útreikningur lántaka á þeim vöxtum sem hann taldi að væru ófyrndir byggði á röngum forsendum þar sem miðað væri við ranga meðalvexti vegna ársins 2009. Bankinn bauð lántaka að gera upp lán nr. 1878 og 3344 með eingreiðslu að fjárhæð 100 m.kr. auk þess sem bankinn myndi aflétta tveimur tryggingarbréfum af fasteigninni Reynimel 29, Reykjavík. Lántaki gat ekki greitt fjárhæðina fyrir 31. mars 2016, sem var lokadagsetning tilboðsins. Fór hann fram á að stefndi gæfi út ný veðskuldabréf fyrir fjárhæðinni en ekki var vilji til þess hjá bankanum heldur var gerð krafa um uppgreiðslu lánanna.  Þar sem lántaki greiddi ekki upp lánin sendi stefndi greiðsluáskorun á stefnanda 13. apríl 2016 og einnig var send greiðsluáskorun á lántaka. Lántaki átti samningaviðræður við stefnda í framhaldinu og að beiðni lántaka samþykkti stefndi að bíða með að senda uppboðsbeiðni til sýslumanns vegna fasteignarinnar að Reynimel 29, Reykjavík, svo stefnandi og lántaki fengju tækifæri til að selja eignina á frjálsum markaði. Gerðu lántaki og stefndi uppgjörssamkomulag 6. september 2016, þar sem samið var um að lántaki gerði upp lán nr. 1878 og 3344 með greiðslu að fjárhæð 100.000.000 kr., auk vaxta samkvæmt kjörvaxtaflokki 0 frá 1. apríl 2016 til greiðsludags. Staða lánanna á þessum tíma var sú að lán nr. 1878 var að fjárhæð 112.133.238 kr. og lán nr. 3344 að fjárhæð 38.641.780 kr., eða samtals 150.775.018 kr.  Í framhaldi af uppgjörssamkomulaginu ritaði stefnandi undir yfirlýsingu dags. 6. september 2016, sjá dskj. nr. 38, þar sem hún skuldbatt sig til þess að framselja stefnda greiðslur samkvæmt kaupsamningi að fjárhæð 100.000.000 kr., auk vaxta samkvæmt kjörvaxtaflokki 0 frá 1. apríl 2016 til greiðsludags. Stefndi samþykkti að þegar þessi greiðsla hefði borist honum myndi hann aflétta lánum nr. 1878 og 3344, auk tveggja tryggingarbréfa bankans, af fasteigninni. Við sölu fasteignarinnar fékk stefndi greiddar 100.000.000 kr. vegna lána nr. 1878 og 3344 auk vaxta að fjárhæð 4.550.632 kr., sjá staðfestingu á greiðslu frá Fasteignamarkaðinum ehf., á dskj. nr. 15. Stefndi aflétti lánum af eigninni í samræmi við samkomulag aðila. Ekki er að sjá að málsaðilar hafi átt í samskiptum eftir þetta fram til þess að mál þetta var höfðað í júnímánuði 2017. Með málshöfðun sinni freistar stefnandi þess að fá endurgreitt það sem hún telur að ofgreitt hafi verið á fyrri stigum. II. Stefnandi byggir endurgreiðslukröfu sína á því að greiðslur til Landsbankans hafi falið í sér greiðslur á fyrndri kröfu samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2010, sem stefndi hafi ranglega innheimt af henni, þrátt fyrir mótmæli stefnanda. Stefnandi vísar til þess að þessi háttsemi stefnda gangi gegn góðum viðskiptaháttum og fari því í bága við ákvæði 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Stefnandi byggir jafnframt á því að hún hafi ekki getað uppfyllt samningsskyldur sínar gagnvart kaupanda eignarinnar nema með því að greiða vexti sem hafði verið mótmælt sem fyrndum. Stefnandi vísar til þess að fyrningu hafi ekki verið slitið gagnvart henni fyrr en með greiðslu á hluta fjárhæðarinnar þann 31. október 2016. Innheimtir vextir fyrir 31. október 2012 séu því fallnir niður fyrir fyrningu og beri stefnda að endurgreiða þá til stefnanda. Stefnandi byggir á því að ákvæði XIV. kafla laga nr. 38/2001 taki ekki til fyrndra vaxta stefnda fyrir árin 2008 til 2012. Ákvæðið er svohljóðandi: Fyrningarfrestur uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga í formi gengistryggingar reiknast frá 16. júní 2010. Fyrningarfresturinn skal vera átta ár frá því tímamarki.   Af hálfu stefnanda er því hafnað að fyrndir vextir sem féllu til fyrir 31. október 2012 teljist til „uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga“ í skilningi XIV. kafla laga nr. 38/2001. Stefnandi byggir á því að ákvæðið sé afmarkað við ólögmæta gengistryggingu skuldabréfanna. Þessi skilningur fái enn frekari stoð í frumvarpi með lögum nr. 151/2010 en þar segi m.a. Í e-lið er kveðið á um hver fyrningarfrestur skuli vera vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga í formi gengistryggingar. Er lagt til að fyrningarfrestur verði reiknaður frá 16. júní 2010   Stefnandi telur að orðalag ákvæðisins og skýringar með frumvarpinu beri með sér að einungis geti verið um að ræða fyrningu á uppgjörskröfunni sem verði til vegna hinnar ólögmætu verðtryggingar. Þessi sérstaki fyrningarfrestur taki hins vegar ekki til kröfunnar í heild sinni eftir að búið sé að draga hina ólögmætu verðtryggingu frá heldur afmarkist af þeirri ólögmætu gengistryggingu sem skuldabréfin miði við. Við endurútreikning kröfunnar hafi hin ólögmæta gengistrygging fallið niður og við það stofnist krafa skuldara á hendur kröfuhafa, svo framarlega sem íslenska krónan hafi veikst gagnvart þeim gjaldmiðlum sem hún taki mið af samkvæmt hinni ólögmætu gengistryggingu. Átta ára fyrningarfrestur XIV. kafla laga nr. 38/2001 taki samkvæmt orðalagi sínu einungis til þessarar uppgjörskröfu. Stefnandi vísar jafnframt til umfjöllunar framsögumanns efnahags- og viðskiptanefndar þegar málið var til umræðu á Alþingi, en þar segi m.a. Það hefur auðvitað verið rætt í nefndinni hvort það gætu verið einhver sjónarmið sem mæltu gegn því að fara þessa leið. Niðurstaða okkar hefur verið sú að svo sé ekki. Hér er fyrst og fremst verið að tryggja að endurkröfuréttur, sem er að fyrnast, á hendur lánafyrirtækjunum viðhaldist. Stefnandi byggir á því að vextir af endurreiknaðri kröfu geti ekki talist til uppgjörskröfu vegna ólögmætrar verðtryggingar í skilningi XIV. kafla laga nr. 38/2001 sem njóti verndar sérstaks átta ára fyrningarfrests. Ákvæðið geti aldrei verið túlkað með þeim hætti að það veiti kröfuhöfum aukið svigrúm til að innheimta kröfur sem að öðrum kosti væru fyrndar. Ákvæðið sé sett til að tryggja að endurkröfuréttur skuldara á hendur kröfuhöfum fyrnist ekki, en ekki til þess að auka rétt kröfuhafans. Stefnandi vísar til þess að ákvæði XIV. kafla laga nr. 38/2001 feli í sér undantekningu frá lögum um fyrningu kröfuréttinda og beri því að skýra það þröngt. Þetta eigi sérstaklega við í þeim tilvikum þar sem önnur túlkun myndi hafa í för með sér íþyngjandi niðurstöðu gagnvart einstaklingum eða fela í sér að önnur lög giltu um lögskiptin en voru fyrir hendi þegar stofnað var til þeirra. Stefndi hafi samið samningsskilmálana einhliða og án allrar aðkomu stefnanda. Það hafi staðið stefnda nær sem fjármálafyrirtæki að gæta að því að krafan væri í samræmi við ákvæði laga nr. 38/2001. Engin rök séu fyrir því að stefnda sé tryggður sérstakur viðbótarfyrningarfrestur í lögum og eðlilegt að það komi þá skýrt fram í lagatextanum sjálfum. Svo sé ekki í þessu tilviki.   Stefnandi vísar til þess að hún sem veðþoli falli undir ákvæði laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, sbr. 2. mgr. 2. gr. Samkvæmt 7. gr. laganna skuli lánveitandi senda ábyrgðarmanni tilkynningu um vanefndir lántaka og upplýsingar um stöðu láns um hver áramót. Stefnandi hafi engar slíkar upplýsingar fengið frá stefnda og raunar virðist aðalskuldari ekki heldur hafa fengið slíkar upplýsingar þrátt fyrir að hafa kallað sérstaklega eftir þeim. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skuli ábyrgðarmaður vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu og sé vanrækslan veruleg skuli ábyrgðin falla niður. Stefnandi byggir á því að stórfelld vanræksla stefnda á að veita henni lögbundnar upplýsingar hljóti a.m.k. að hafa þau áhrif að hún þurfi ekki að gera ráð fyrir að stofnast hafi kröfur sem samkvæmt lögum um fyrningu nr. 150/2007 séu fyrndar. Stefnandi byggir á því að sé krafa stefnda ekki fallin niður sökum fyrningar þá sé hún fallin niður fyrir tómlæti. Samkvæmt framlögðum gögnum hafi stefndi ekkert aðhafst gagnvart stefnanda til að fá efndir kröfu sinnar, allt frá því að skuldin féll í gjalddaga 10. desember 2008 og þar til honum var birt greiðsluáskorun þann 13. apríl 2016, eða í tæplega sjö og hálft ár. Stefndi sé fjármálafyrirtæki og eðlilegt að gerðar séu ríkar kröfur til fjármálafyrirtækja að þessu leyti. Aðgerðaleysi stefnda gagnvart stefnanda við að innheimta kröfuna hafi hlotið að skapa þær réttmætu væntingar hjá stefnanda að hún þyrfti ekki að búast við því að greiða vexti af kröfunni rúmlega átta ár aftur í tímann. Til frekari stuðnings þessari kröfu vísar stefnandi einnig til 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð þar sem vextir af skuld sem fallið hafi í gjalddaga séu einungis tryggðir með aðalkröfunni einu ári áður en beiðni um nauðungarsölu veðsettrar eignar er sett fram.   Stefnandi byggir á því að stefndi hafi ekki sinnt eðlilegum trúnaðar- og tillitsskyldum í garð stefnanda. Stefndi hafi ekki getað látið hjá líða að innheimta kröfu á hendur aðalskuldara í tæplega sjö og hálft ár og ætlast til þess að stefnandi sem veðþoli þyrfti að sætta sig við að vextir sem féllu á kröfuna á því tímabili væru að fullu tryggðir í hinni veðsettu eign. Trúnaðarskyldan komi í veg fyrir að stefndi geti rýrt hagsmuni stefnanda sem veðþola með því að vanrækja vísvitandi innheimtu kröfunnar á hendur aðalskuldara í þeim tilgangi að safna upp vöxtum yfir langt tímabil sem hann geti síðan gengið að í eign þriðja aðila. Stefndi verði sjálfur að bera ábyrgð á því að aðgerðarleysi hans við innheimtu kröfunnar leiði til þess að möguleikar hans á að ganga að tryggingum í eigu þriðja aðila skerðist. Stefnandi byggir kröfu sína um endurgreiðslu ofgreidds fjár á því að stefndi geti ekki gert kröfu um vexti sem séu eldri en fjögurra ára fyrir hærri fjárhæð en sem nemi viðbótarvöxtum, þ.e. mismun á endurreiknuðum Seðlabankavöxtum og upphaflegum vöxtum samkvæmt skuldaskjölum fyrir tímabilið 01.11.2008 til 01.12.2012. Vextir sem séu eldri en frá 01.11.2008, þ.e. á tímabilinu frá 10.12.2007 til 01.11.2008, séu auk þess fyrndir, jafnvel þótt reiknað sé með átta ára fyrningarfresti. Varakrafa stefnanda byggir, auk framangreindra sjónarmiða, á því að við endurútreikninginn vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar hafi stofnast tvær kröfur. Annars vegar krafa stefnanda á hendur stefnda vegna ólögmætrar gengistryggingar og hins vegar krafa stefnda á hendur stefnanda vegna viðbótarvaxta, sem kröfuhafi hafi eignast á hendur skuldaranum. Viðbótarvextirnir verði til við það að vextir á hinum erlendu myntum sem hin ólögmæta gengistrygging vísar til séu lægri en meðalvextir Seðlabanka Íslands, sem endurútreikningurinn byggir á. Þessar tvær kröfur sem stefnandi eignast vegna ólögmætrar gengistryggingar og stefndi eignast vegna viðbótarvaxta njóti sérstaks fyrningarfrests skv. XIV. kafla laganna.   Þessi skilningur komi einnig fram í niðurstöðu héraðsdóms í máli nr. E-2296/2013 þar sem reyndi á túlkun bráðabirgðaákvæðis vaxtalaga nr. 151/2010. Í málinu hafi verið talið að bráðabirgðaákvæðið ætti jafnt við um endurgreiðslukröfu lántaka sem kröfu lánveitanda vegna viðbótarvaxta. Krafa lánveitanda sé þar afmörkuð við viðbótarvexti. Til þessa dóms sé sérstaklega vísað í frumvarpi til laga nr. 38/2014 um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Þar segi m.a. að skýra verði umrætt bráðabirgðaákvæði til samræmis við önnur ákvæði laga nr. 151/2010, svo og samkvæmt orðanna hljóðan. Stefnandi byggir á því að orðalag ákvæðisins, og þó einkum skýringar með frumvarpi til laga nr. 38/2014, lúti að þeirri ólögmætu gengistryggingu sem skuldabréfin miði við og viðbótarkröfu vegna vaxta. Við endurútreikninginn sé gengistryggingin felld niður og vextir endurreiknaðir út frá meðalvöxtum Seðlabanka Íslands. Við það verði til viðbótarkrafa sem feli í sér mismun á endurreiknuðum vöxtum og upphaflegum vöxtum skuldabréfsins. Þetta sé í samræmi við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2296/2013 þar sem talið var að bráðabirgðaákvæðið ætti jafnt við um endurgreiðslukröfu lántaka sem og kröfu lánveitanda vegna viðbótarvaxta. Í frumvarpi til laga nr. 38/2014 sé ítrekað vísað til dóms héraðsdóms í máli nr. E-2296/2013, en í frumvarpinu segir m.a. orðrétt:  Í dómi héraðsdóms frá 4. mars 2014, í máli nr. E-2296/2013, er talið að skýra verði umrætt bráðabirgðaákvæði „til samræmis við önnur ákvæði laga nr. 151/2010, svo og samkvæmt orðanna hljóðan, þannig að fyrningarfrestur krafna sem grundvallaðar eru á endurútreikningi skv. 5. mgr. 18. gr. laganna hafi fyrst hafist hinn 16. júní 2010“. Í málinu var talið að bráðabirgðaákvæðið ætti jafnt við um endurgreiðslukröfu lántaka sem kröfu lánveitanda vegna viðbótarvaxta.“ [...] „Héraðsdómur í máli nr. E-2296/2013 dregur þá ályktun af ákvæðum laga nr. 151/2010 að með þeim hafi fjármálafyrirtækjum og skuldurum verið gefið ákveðið tóm til þess að taka afstöðu til endurútreiknings án þess að það leiddi til fyrningar krafna sem virkar voru við gildistöku laganna.    Stefnandi vísar til þess að ákvæðið feli í sér undantekningu frá lögum um fyrningu kröfuréttinda og beri því að skýra það þröngt. Ákvæðið geti ekki falið í sér viðbótarfyrningarfrest til handa stefnda frá almennum fyrningarlögum. Stefnandi byggir á því að vextir á tímabilinu frá 10.12.2007 til 01.11.2008 séu fyrndir hvort sem miðað er við fjögurra eða átta ára fyrningarfrest. Fyrningu sé ekki slitið fyrr en með greiðslu á kröfunni. Stefnandi sundurliðar aðalkröfu sína með eftirfarandi hætti. Aðalkrafan sé mismunur á þeirri fjárhæð sem greidd var 31.10.2016, 04.11.2016 og 22.11.2016 samtals 104.550.632 kr. og heildarfjárhæð samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-90/2014, 48.624.707 kr., auk Seðlabankavaxta af þeirri fjárhæð frá 01.11.2012 til 01.11.2016. Við útreikninga sé miðað við Seðlabankavexti, sbr. neðangreinda sundurliðun.   Tímabil Vextir Fjárhæð Vextir tímabils Framreiknað 01.11.12-01.11.13 6,73% vextir Kr. 48.624.707 Kr. 3.272.240 Kr. 51.896.947 01.11.13-01.11.14 6,74% vextir Kr. 51.896.947 Kr. 3.499.901 Kr. 55.396.748 01.11.14-01.11.15 6.25% vextir Kr. 55.396.748 Kr. 3.460.683 Kr. 58.857.431 01.11.15-01.11.16 6,79% vextir Kr. 58.857.431 Kr. 3.996.658 Kr. 62.854.089   Heildarkrafa í aðalkröfu sé því 104.550.632 kr. – 62.854.089 kr. eða 41.696.543 kr.      Varakröfu sína sundurliðar stefnandi með því að gera ráð fyrir að varakrafan sé mismunur á þeim fjárhæðum sem voru greiddar 31.10.2016, 04.11.2016 og 22.11.2016, samtals 104.550.632 kr. og heildarfjárhæð samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-90/2014, 48.624.707 kr. auk Seðlabankavaxta af þeirri fjárhæð frá 01.11.2012 til 01.11.2016 að viðbættum mismun á Seðlabankavöxtum og Libor-vöxtum auk 3,25% álags á tímabilinu frá 01.11.2008 til 01.11.2012, sbr. og eftirfarandi töflu: Tímabil Vextir Fjárhæð Vextir tímabils Framreiknað 01.11.08-01.11.09 15,46%   SÍ vextir Kr. 48.624.707 Kr. 7.516.573 56.141.280 01.11.09-01.11.10   8,40%   SÍ vextir Kr. 56.141.280 Kr. 4.713.530 60.854.810 01.11.10-01.11.11   5,42%   SÍ vextir Kr. 60.854.810 Kr. 3.301.369 64.156.179 01.11.11-01.11.12   5,74%   SÍ vextir Kr. 64.156.179 Kr. 3.683.632 67.839.811 01.11.08-01.11.09   4,16 %  libor-vextir Kr. 48.624.707 Kr. 2.024.865 50.649.572 01.11.09-01.11.10   3,93 %  libor-vextir Kr. 50.649.572 Kr. 1.988.154 52.637.727 01.11.10-01.11.11   3,81 %  libor-vextir Kr. 52.637.727 Kr. 2.007.252 54.644.979 01.11.11-01.11.12   3,80 %  libor-vextir Kr. 54.644.979 Kr. 2.075.361 56.720.340   Samkvæmt ofangreindu séu viðbótarvextir Seðlabankavextir á tímabilinu 01.11.2008–01.11.2012 67.839.811 kr. að frádregnum umsömdum Libor-vöxtum, með álagi – 56.720.340 kr. eða samtals 11.119.471 kr. Fjárhæð varakröfu sé þá  104.550.632 – (62.854.089 + 11.119.471) eða samtals 30.577.072 kr.            III. Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda og telur að engin þeirra eigi að leiða til þess að dómkröfur hennar verði teknar til greina. Umfjöllun stefnda um sýknu á bæði við um aðal- og varakröfu stefnanda. Stefndi telur að sýkna beri hann af kröfum stefnanda þar sem í uppgjörssamkomulagi aðila hafi falist fullnaðaruppgjör á lánunum og samkomulag um að hvorugur aðila ætti kröfu á hendur hinum vegna uppgjörs lánanna. Stefndi hefði aldrei gert þetta samkomulag ef lántaki eða stefnandi hefðu gert fyrirvara við það um að stór hluti af kröfunni væru vextir sem væru fyrndir. Stefndi telur að stefnandi hafi samþykkt ákvæði uppgjörssamkomulagsins með því að undirrita yfirlýsingu um greiðslu fjárhæðarinnar og greiða stefnda í samræmi við samkomulagið án athugasemda um fjárhæðina og/eða fyrnda vexti. Lántaki og stefnandi hafi gengið til samninga um uppgjör kröfunnar sem þeim beri að efna og vísar stefndi þar um til almennrar meginreglu kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Stefndi mótmælir því að ákvæði uppgjörssamkomulagsins sé í andstöðu við ákvæði 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, um góða viðskiptahætti.  Stefndi krefst sýknu vegna aðildarskorts til sóknar samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi vísar til meginreglu kröfuréttar um að aðilar samnings geti einir haft uppi kröfur í tilefni að ætlaðri vanefnd hans. Aðrir, svo sem ábyrgðarmenn á skuldum samningsaðila, eigi almennt ekki aðild að slíkum málum enda þótt þeir kunni að hafa hagsmuni af því hvernig samningur er skýrður eða framkvæmdur. Stefnandi sé ekki aðili að veðskuldabréfum nr. 1878 og 3344 heldur hafi hún gengið í ábyrgð fyrir lánunum með því að veita veð í fasteign sinni til tryggingar á greiðslum lánanna. Stefnandi eigi því ekki aðild að ágreiningi um efndir samninganna jafnvel þó hún telji sig hafa orðið fyrir afleiddu fjártjóni. Lántaki og stefndi hafi samið um uppgjör kröfunnar og sé stefnandi bundin af því samkomulagi og geti ekki haft uppi sjálfstæða kröfu á stefnda á grundvelli veðskuldabréfanna. Í málinu byggir stefnandi á að lánin séu gengistryggð og því hafi átt að endurreikna þau í samræmi við ákvæði vaxtalaga nr. 38/2001. Telji stefnandi að byggja verði á útreikningi lánanna miðað við 10. desember 2007, síðasta greidda gjalddaga, í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms í máli aðila nr. E-90/2014. Þessu hafnar stefndi og bendir á að niðurstaða dómsins segi eingöngu hver staða lánanna var hefðu þau verið endurreiknuð miðað við þann dag, en ekki hafi verið fallist á þá málsástæðu lántaka að lagaskylda væri að reikna lánin út á þessum tímapunkti. Ljóst sé að á árinu 2007 hafði ekki gengið neinn dómur um að lán gætu verið gengistryggð en fyrsti dómur um gengistryggingu hafi verið kveðinn upp í Hæstarétti 16. júní 2010. Í ljósi þess dóms og síðar dóms Hæstaréttar nr. 471/2010 hafi vaxtalögum verið breytt með lögum nr. 151/2010 sem kváðu á um það hvernig standa skyldi að útreikningi gengistryggðra lána. Stefndi bendir á að hann reiknaði lánin í júlí 2011 í samræmi við ákvæði vaxtalaga og hafi stefnandi ekki mótmælt þeim útreikningi. Stefndi hafi leiðrétt þann útreikning með hliðsjón af fullnaðarkvittunum þann 27. ágúst 2013. Að mati stefnda sé þetta réttur og endanlegur endurútreikningur lánanna þar sem ekki sé hægt að miða við stöðu lánanna samkvæmt útreikningi frá árinu 2007 því að ekki hafi verið nein ástæða til að endurreikna lánin á þeim tíma. Að mati stefnda er jafnframt aðildarskortur til varnar í málinu samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 þar sem stefnandi þurfi að beina kröfu um útreikning lánanna í desember 2007 til LBI sem var eigandi lánanna á þeim tíma. Stefndi bendir einnig á að þegar hann hafi yfirtekið lánin 9. október 2008 hafi fjárhæðir þeirra verið allt aðrar en 10. desember 2007, sem stefnandi vill miða við í lögskiptum aðila. Þar sem stefnandi sé ekki aðili að lánunum geti hún ekki byggt málatilbúnað sinn á endurreiknaðri stöðu þeirra í desember 2007, þegar stefndi var ekki til. Stefnandi horfi fram hjá því að stefndi hafi endurreiknað lánin í júlí 2011 í samræmi við fyrirmæli vaxtalaga nr. 38/2001. Lántaki einn geti haft uppi kröfur byggðar á endurútreikningi lánanna sem aðili að þeim.     Stefndi hafi framkvæmt leiðréttan endurútreikning á öllum lánum lántaka hjá stefnda þann 27. ágúst 2013. Niðurstaða endurútreikningsins hafi verið sú að fjögur lán lántaka hafi lækkað úr 134.378.510 kr. í 105.350.075 kr., en lækkun sem hann hafði fengið samkvæmt 110% leiðinni lækkaði lánin í 104.378.510 kr. Þar sem lántaki hafi ekki getað fengið lækkun samkvæmt báðum leiðum hafi verið ákveðið að hann myndi njóta lægri niðurstöðunnar og lánin því verið lækkuð í 104.378.510 kr. miðað við 2. mars 2012 og stefndi afskrifað mismuninn. Ekki hafi legið fyrir fyrr en með þessum leiðrétta endurútreikningi hvort endurreiknuð staða allra lánanna væri lægri fjárhæð en niðurfærsla þeirra eftir 110% leiðinni. Að mati stefnda hafi vextir ekki verið fyrndir þar sem fyrningardagur vaxta lánanna hafi verið eftir leiðréttan endurútreikning þeirra í samræmi við bráðabirgðaákvæði XIV í vaxtalögum. Stefnandi hafi greitt lánin upp með greiðslu að fjárhæð 104.550.632 kr. í samræmi við uppgjörssamkomulagið en þar hafi verið miðað við stöðu lánanna eftir 110% leiðréttinguna en ekki endurreiknaða stöðu þeirra miðað við 10. desember 2007 og vexti frá þeim tíma til október 2016 eins og stefnandi haldi fram. Samkvæmt 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905, sem gildi um veðskuldabréfin, fyrnist vextir á fjórum árum. Ef fallist verður á kröfu stefnanda um að miða beri upphafsfrest fyrningar við 10. desember 2007 séu vextir eingöngu fyrndir frá 10. desember 2011 til 2. mars 2012. Málatilbúnaður stefnanda byggi á þeirri forsendu að stefndi miði endurútreikning lána nr. 1878 og 3344 við 10. desember 2007 og hafi við uppgjör lánanna á árinu 2016 notað þann höfuðstól, 48.624.703 kr., og bætt við hann Seðlabankavöxtum samkvæmt 4. gr. vaxtalaga. Þessu hafnar stefndi og bendir á að í öllum samskiptum við lántaka og stefnanda hafi verið miðað við endurútreikninga lánanna sem bankinn gerði á árinu 2011 og svo leiðréttan endurútreikning í ágúst 2013 og niðurstöðu lækkunar lánanna samkvæmt 110% leiðinni. Þessu til stuðnings bendir stefndi á greiðsluáskoranir sem sendar hafi verið lántaka og stefnanda og ýmsar vanskilatilkynningar. Við leiðréttan endurútreikning á lánum nr. 1878 og 3344 þann 27. ágúst 2013 hafi fyrst legið fyrir hver hafi verið rétt staða lánanna miðað við 20. september 2011 og þá hafi fyrst verið hægt að krefja lántaka um rétta greiðslu og ganga að veði fyrir lánunum. Stefndi vísar til þess að með bráðabirgðaákvæði XIV í lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010, um breytingar á lögum nr. 38/2001, hafi upphaf fyrningarfrests uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga í formi gengistryggingar verið miðað við 16. júní 2010, og fyrningarfresturinn talist vera fjögur ár frá því tímamarki, en síðar verið framlengdur í átta ár, sbr. lög nr. 38/2014. Fyrningarfrestur samkvæmt bráðabirgðaákvæði XIV taki til uppgjörskrafna, sem teljist greiðsluuppgjör samkvæmt tilvísuðu bráðabirgðaákvæði, og til leiðréttinga lánsskuldbindinga, sem reynist haldin óheimilli gengistryggingu, bæði höfuðstóls slíkra krafna svo og endurútreiknings vaxta. Teljist hvor tveggja því ófyrnt.          Bráðabirgðaákvæðið sé sérákvæði um fyrningarfrest vegna endurreiknings gengistryggðra lána sem gangi framar almennum reglum um upphaf fyrningar. Að því er varði kröfu stefnda um vexti samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010, hafi hún ekki verið fyrnd, þar sem fyrningarfrestur samkvæmt bráðabirgðaákvæði XIV hafi verið ákveðinn fjögur ár frá 16. júní 2010 að telja, síðar átta ár.  Leiðréttur endurútreikningur hafi farið fram þann 27. ágúst 2013 og þá fyrst hafi legið fyrir rétt fjárhæð lánanna og verið ljóst að krafa stefnda gagnvart lántaka væri ekki fyrnd fyrr en 16. júní 2018. Verði ekki fallist á þessa túlkun ákvæðisins telur stefndi að vextir gætu fyrst verið fyrndir að liðnum fjórum árum frá því að leiðréttur endurútreikningur fór fram eða þann 27. ágúst 2017. Er þetta byggt á 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905, þar sem fram kemur að vextir fyrnist á fjórum árum. Þessi lög gildi um veðskuldabréf nr. 1878 og 3344 en þau voru gefin út í gildistíð laganna. Stefndi bendir á að í málatilbúnaði sínum vísi stefnandi ekki til laga um fyrningu heldur eingöngu til vaxtalaga.    Stefndi telur að krafa stefnanda sé byggð á þeirri forsendu að miða beri endurútreikning lána nr. 1878 og 3344 við 10. desember 2007. Sú forsenda sé í andstöðu við umsókn lántaka um 110% leiðina og þá lækkun sem varð á lánum áhvílandi á fasteign stefnanda um 30 m.kr. Við samþykki stefnda fyrir 110% leiðinni þann 29. febrúar 2012 hafi verið miðað við stöðu lánanna eftir endurútreikning þeirra á árinu 2011 en ekki endurútreikning miðað við 10. desember 2007. Bæði stefnandi og lántaki hafi samþykkt niðurstöðu 110% leiðarinnar og aldrei gert athugasemd við hana. Ef stefndi hefði byggt á stöðu lánanna eftir endurútreikning miðað við 10. desember 2007 hefði niðurstaða 110% leiðarinnar verið allt önnur. Í málatilbúnaði stefnanda vanti umfjöllun um það hvaða áhrif þessi niðurfærsla lánanna hefði haft á kröfu hennar um endurgreiðslu á fyrndum vöxtum. Því sé málatilbúnaður stefnanda vanreifaður að þessu leyti.                Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi aldrei fengið neinar upplýsingar frá stefnda um vanskil á lánum nr. 1878 og 3344. Stefndi hafi lagt fram afrit af greiðsluáskorunum sem bankinn sendi stefnanda og lántaka vegna lánanna á árunum 2010 og 2014 og einnig hafi lántaki fengið senda greiðsluseðla, ítrekanir og innheimtuviðvaranir vegna hvers gjalddaga lánanna. Á sameiginlegu skattframtali stefnanda og lántaka hafi einnig komið fram hver væri staða lánanna sem hvíldu á fasteign stefnanda. Lántaki, eiginmaður stefnanda, sé hæstaréttarlögmaður og hafi alla tíð verið í reglulegu sambandi við stefnda og gefið stefnda til kynna að hann hefði haldið stefnanda upplýstum um stöðu mála og tilraunir til samninga um uppgjör lánanna. Stefndi mótmælir því að ekki hafi verið uppfyllt ákvæði 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Stefndi mótmælir því að lántaki hafi óskað eftir þessum upplýsingum sjálfur og engin gögn í málinu styðji þá fullyrðingu. Stefnandi hafi vitað um stöðu lánanna og skortur á áramótatilkynningum um stöðu ábyrgðanna sé ekki svo verulegur að það geti valdið því að ábyrgðirnar falli niður. Stefndi hafnar þeirri málsástæðu stefnanda að 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð leiði til þess að telja verði vexti fyrnda. Þetta ákvæði eigi við þegar fasteign er seld á nauðungaruppboði. Þessi staða sé ekki uppi í máli þessu. Stefndi mótmælir því að vaxtakrafa stefnda sé fallin niður fyrir tómlæti. Stefndi bendir á að hann hafi samþykkt umsókn aðila um 25% höfuðstólslækkun lánsins og svo lækkun lánanna samkvæmt 110% leiðinni. Jafnframt hafi verið sendar greiðsluáskoranir á stefnanda og lántaka í júní 2010 og svo aftur í mars 2014. Því sé ekki hægt að tala um tómlæti af hálfu stefnda. Stefndi bendir einnig á að skuldin féll ekki í gjalddaga þann 10. desember 2008 heldur sé það elsti gjalddagi lánanna í vanskilum. Stefndi hafi endurreiknað lánin í júlí 2011 og þau verið í skilum eftir þann útreikning, þ.e. engir ógreiddir gjalddagar. Síðan hafi sá endurútreikningur verið leiðréttur 27. ágúst 2013 með tilliti til fullnaðarkvittana. Þá fyrst hafi legið fyrir hver væri rétt staða lánanna og því eðlilegt að miða upphafstíma fyrningar vaxta við þá dagsetningu. Vextir séu því ekki fyrndir fyrr en 27. ágúst 2017 en greitt hafi verið inn á lánið í október 2016 og það gert upp að fullu í desember 2016. Verði ekki fallist á þau rök stefnda að miða upphafstíma fyrningar vaxta við leiðréttan endurútreikning, þá verði að mati stefnda að miða við dagsetningu fyrri útreiknings sem var gerður 6. og 8. júlí 2011.    Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda að hann hafi ekki virt eðlilegar trúnaðar- og tillitsskyldur gagnvart henni. Stefndi hafi sent stefnanda og lántaka greiðslutilkynningar og greiðsluáskoranir og lántaki verið í reglulegu sambandi við stefnda og reynt að semja um greiðslu kröfunnar eins og framlögð gögn beri með sér. Stefnanda hafi verið kunnugt um að sótt hefði verið um 25% höfuðstólslækkun lánanna, 110% leiðina, og að lánin hefðu verið endurreiknuð vegna ólögmætrar gengistryggingar. Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi verið neydd af stefnda til að selja fasteign sína. Ekki hafi verið greitt inn á lánin frá desember 2007 og stefnandi ekki getað búist öðru en að gengið yrði að veðinu. Varðandi varakröfu stefnanda áréttar stefndi að endurútreikningur lána nr. 1878 og 3344 hafi farið fram í júlí 2011 og leiðréttur endurútreikningur, þar sem tekið var tillit til fullnaðarkvittana, farið fram 27. ágúst 2013. Eftir lækkun lánanna í samræmi við 110% leiðina og endurútreikning þeirra hafi lánin verið í skilum og nýr höfuðstóll þeirra verið stofnaður í íslenskum krónum. Kröfur stefnda samkvæmt lánunum hafi því ekki verið fyrndar þegar stefnandi rauf fyrningu með innborgun inn á lánin þann 31. október 2016. Stefndi telur ljóst að kröfur á hendur lántaka og stefnanda, sem eiganda tryggingarandlagsins, hafi ekki verið fyrndar þegar lög nr. 151/2010 tóku gildi þann 28. desember 2010 og því gildi bráðabirgðaákvæði XIV um kröfur stefnda samkvæmt lánunum, en síðasti greiddi gjaldagi þeirra hafi verið 10. desember 2007. Eins og fram komi í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, nr. E-2296/20136, sé bráðabirgðaákvæðið sérákvæði um fyrningarfrest sem gangi framar almennum reglum um upphaf fyrningar og sé fyrningarfrestur samkvæmt ákvæðinu til 16. júní 2018. Stefndi vísar til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. desember 2015 í máli nr. E-5093/2014 þar sem talið hafi verið, að virtu orðalagi bráðabirgðaákvæðis XIV og athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 151/2010, að líta yrði svo á að ákvæði bráðabirgðaákvæðisins um fyrningarfrest ætti við um uppgjör umræddra krafna í heild en ekki einvörðungu að því er varðaði endurútreikning á ólögmætri verðtryggingu þeirra.        IV. Mál þetta hefur stefnandi höfðað til endurgreiðslu ofgreidds fjár, nánar tiltekið vaxta sem stefnandi telur að hafi verið fallnir niður sökum fyrningar og því beri stefnda að endurgreiða stefnanda fjárhæð þeirra. Í heild er um að ræða tæplega helming þeirrar fjárhæðar sem greidd var til stefnda samkvæmt samkomulagi sem gert var 6. september 2016 og yfirlýsingu stefnanda sem undirrituð var sama dag. Í heildarsamhengi málsatvika er óhjákvæmilegt að gefa gaum að efnislegum ákvæðum umræddra skjala. „Uppgjörssamkomulag“ stefnda og eiginmanns stefnanda, Jóns Gunnars Zoega, sem undirritað var í votta viðurvist 6. september 2016, hefur að geyma sérstakt upphafsákvæði sem skírskotar berum orðum til stefnanda og hljóðar svo: Samhliða samkomulagi þessu undirritar Guðrún Björnsdóttir, kt. 060745-2559, sem þinglýstur eigandi Reynimels 29, 107 Reykjavík, fastanúmer 202-7404, yfirlýsingu þess efnis að hún samþykkir að framselja Landsbankanum greiðslur skv. kaupsamningi alls kr. 100.000.000,- auk vaxta með kjörvaxtaflokki 0 frá 01.04.2016 til greiðsludags. Gegn greiðslu fyrrgreindrar fjárhæðar mun Landsbankinn aflétta áhvílandi veðskuldum sem eru áhvílandi á Reynimel 29, fastanúmer 202-7404.   Í inngangsákvæði sem kemur þessu næst er að finna lýsingu á efni samkomulagsins „sem felur í sér að viðskiptamaður greiðir til Landsbankans alls kr. 100.000.000,- auk vaxta með kjörvaxtaflokki 0 frá 01.04.2016 til greiðsludags, um er að ræða fullnaðaruppgjör á skuldum sem eru áhvílandi á Reynimel 29 [...], sbr. 1. gr. samkomulags þessa og staðfesta aðilar með undirritun sinni að þeir eigi ekki frekari kröfur hvor á annan í tengslum við og vegna þeirra skulda sem samkomulag þetta tekur til.“ Í 1. gr. samkomulagsins eru tilgreindar þær skuldir eiginmanns stefnanda við stefnda sem falla undir samkomulagið og tilgreint að þær hafi samanlagt numið 150.775.018 kr. 18. ágúst 2016 og skiptist sú fjárhæð þannig að lán nr. 0106-36-3344 er sagt hafa verið að upphæð 38.641.780 kr. nefndan dag og að lán nr. 0106-36-1878 hafi á sama tíma verið að fjárhæð 112.133.238 kr. Ákvæði 2. gr. samkomulagsins geymir yfirlýsingu þess efnis að eiginmaður stefnanda skuldbindi sig til að greiða stefnda alls 100.000.000 kr. auk nánar tilgreindra vaxta sem innt verði af hendi eftir því sem greiðslur berist vegna sölu á veðandlaginu Reynimel 29, en að heildargreiðslan skuli vera að fullu greidd í síðasta lagi 1. febrúar 2017. Í 3. gr. er samið um eftirstöðvar skulda á þann veg að þegar greiðslu samkvæmt 2. gr. hafi verið ráðstafað til Landsbankans „verður andvirði hennar ráðstafað upp í þær veðskuldir sem tilgreindar eru í 1. gr. samkomulagsins eins langt og þær ná. Þegar búið er að ráðstafa greiðslunni mun Landsbankinn fella niður eftirstöðvarnar og aflétta áhvílandi veðlánum.“ Viðvíkjandi afléttingu veða var í 4. gr. ákveðið að Landsbankinn myndi „að uppfylltum skilyrðum samkvæmt samkomulagi þessu“ aflétta fjórum tilgreindum veðum þegar skilyrði fyrir niðurfellingu samkvæmt 2. gr. væru uppfyllt. Nánar var þar um að ræða eftirtalin veð: Lán nr. 1878 á 1. veðrétti, upphaflega að fjárhæð 40.000.000 kr. Lán nr. 3344 á 2. veðrétti, upphaflega að fjárhæð 20.000.000 kr. Lán nr. 050849 á 3. veðrétti, upphaflega að fjárhæð 20.000.000 kr. Lán nr. 051246 á 4. veðrétti, upphaflega að fjárhæð 20.000.000 kr.                 Ekki er ástæða til að rekja hér nánar efni þessa samkomulags. Á hinn bóginn er fyllsta ástæða til að reifa efni yfirlýsingar stefnanda sem var, eins og áður segir, gefin út af hennar hálfu samhliða undirritun framangreinds samkomulags eiginmanns stefnanda við stefnda. Í yfirlýsingu sinni lýsir stefnandi því yfir að hún samþykki að framselja Landsbankanum greiðslur samkvæmt kaupsamningi að fjárhæð 100.000.000 kr. auk nánar tilgreindra vaxta frá 1. apríl 2016 til greiðsludags, vegna fasteignarinnar að Reynimel 29, 107 Reykjavík, fastanúmer 202-7404 „í samræmi við skilyrt veðleyfi sem gefið verður út vegna sölu á fasteigninni auk greiðslna sem berast samkvæmt kaupsamningi, að frádregnum sölukostnaði, eigi síðar en þann 01.02.2017.“ Í niðurlagi yfirlýsingarinnar er eftirfarandi málsgrein að finna: Að uppfylltu ofangreindu skilyrtu veðleyfi mun Landsbankinn aflétta neðangreindum veðskuldum, þegar kaupsamningsgreiðslum kr. 100.000.000,- auk vaxta með kjörvaxta flokki 0 frá 1. apríl 2016 til greiðsludags, hefur verið ráðstafað inn á áhvílandi veðskuldir: a.       0106-36-001878 b.       0106-36-003344 c.        0106-63-050849 d.       0106-63-051246                   Svo sem áður er fram komið voru samkomulagið 6. september 2016 og yfirlýsing stefnanda sama dag gerð í kjölfar bréfaskipta lántaka við stefnda fyrr á því sama ári, sbr. bréf lántaka til stefnda 25. janúar 2016 þar sem vikið var að niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í réttarágreiningi þessara aðila sem og ætlaðri fyrningu vaxta. Þessar viðræður héldu áfram í marsmánuði 2016, sbr. fyrrnefnd tölvupóstsamskipti 4. mars 2016 og 7. sama mánaðar. Í kjölfar áframhaldandi samningaviðræðna samþykkti stefndi að fresta nauðungarsölubeiðni og gefa stefnanda og lántaka möguleika á að selja eignina frjálsri sölu. Samkomulagið sem vitnað er til fremst í þessum kafla, sem og tilvitnuð yfirlýsing stefnanda frá sama tíma, eiga rót að rekja til þeirra samskipta sem hér hafa verið rakin. Við úrlausn málsins er til þess að líta að stefndi hafði á fyrri stigum ekki aðeins átt í langvarandi samskiptum við lántaka, heldur einnig sent stefnanda sjálfri greiðsluáskoranir frá árinu 2010. Í því samhengi hefur rétturinn sérstaklega haft hliðsjón af greiðsluáskorunum sem stefnanda og eiginmanni hennar voru birtar á árinu 2014. Þá er þess jafnframt að geta að samkvæmt gögnum málsins voru greiðsluáskoranir ennfremur sendar stefnanda og lántaka í apríl 2016. Með hliðsjón af þessu og áralöngum samskiptum stefnda við lántaka um þær kröfur sem hér um ræðir verður ekki talið að stefnandi hafi getað gengið þess dulin að samkomulagið 6. september 2016 og yfirlýsing hennar sama dag hlytu að hafa verulega þýðingu viðvíkjandi hugsanlegum endurkröfurétti hennar gagnvart stefnda. Hefur dómurinn í því efni litið til náinna tengsla lántaka og stefnanda, sem og þess að gögn málsins bera vott um að stefnandi hafi í reynd notið sérfræðiaðstoðar á öllum stigum málsins í samskiptum sínum við stefnda, enda er eiginmaður hennar, lántakinn Jón Gunnar Zoëga, ekki aðeins lögfræðingur að mennt heldur hefur hann áratugalanga lögmannsreynslu að baki. Á síðastnefndum grundvelli ber að hafna sjónarmiðum, sem vísað hefur verið til undir rekstri málsins af hálfu stefnanda, þess efnis að skýra beri samkomulagið og yfirlýsinguna 6. september 2016 með hliðsjón af ætluðum aðstöðumun málsaðila.                 Eins og mál þetta hefur verið lagt fyrir dóminn gerir stefnandi kröfu um endurgreiðslu fjármuna sem áður hafa verið greiddir stefnda á grundvelli skýrra gagnkvæmra samningsskilmála um uppgjör þeirra krafna sem að baki bjuggu. Áður hefur verið rakið að uppgjör þetta átti sér langan aðdraganda og að verulegar vanefndir höfðu orðið á greiðslu afborgana af þeim lánum sem hér hafa verið til umfjöllunar. Til veðkrafna stefnda var stofnað með frjálsum tvíhliða samningum, sem þinglýst var á eign stefnanda, Reynimel 29 í Reykjavík. Þá liggur og fyrir að stefnandi hafði með undirritun sinni lýst sig samþykka því að fasteign hennar yrði sett að veði fyrir þeim skuldbindingum sem hér um ræðir og um leið samþykkt staðlaða samningsskilmála þess efnis að lánveitanda væri heimilt, ef skuldin félli í gjalddaga, að láta selja veðið nauðungarsölu til lúkningar skuldinni, án undangengins dóms, sáttar eða aðfarar, sbr. ákvæði 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að stefndi hafi beitt stefnanda blekkingum eða ólögmætri þvingun af nokkru tagi. Að öllum framangreindum atvikum virtum telur dómurinn að uppgjörssamkomulagið 6. september 2016 og yfirlýsing stefnanda þann sama dag feli í sér fyrirvaralausa skuldaviðurkenningu gagnvart stefnda. Eins og yfirlýsingar þessar eru orðaðar telur dómurinn að stefndi hafi með réttu mátt skilja framgöngu lántaka og stefnanda á þann hátt að þau bæði könnuðust við skuldina og lofuðu að greiða hana í samræmi við orðalag skuldbindinga þessara. Afdráttarlaust orðalag nefndra skjala skírskota auk þess hvergi til ágreinings um kröfur stefnda, fjárhæð þeirra eða mögulegrar fyrningar að hluta eða öllu leyti, svo sem þó hafði verið haldið á lofti gagnvart stefnda á fyrri stigum, svo sem áður var nefnt. Samkvæmt þessu ber að hafna ber málsástæðum stefnanda sem lúta að fyrningu. Með yfirlýsingu sinni 6. september 2016, sem undirrituð var samhliða títtnefndu „uppgjörssamkomulagi“ eiginmanns stefnanda við stefnda þann sama dag, samþykkti stefnandi að framselja stefnda greiðslur samkvæmt kaupsamningi að fjárhæð 100.000.000 kr. um Reynimel 29 í Reykjavík, gegn afléttingu veðskulda. Undirritun stefnanda á yfirlýsingu þessa verður samkvæmt þessu að skilja sem hluta af heildarsamkomulagi um skuldauppgjör og um skuldaniðurfellingu að hluta. Í því samhengi og í ljósi forsögunnar mátti stefnanda vera fyllilega ljóst að með fyrirvaralausri undirritun yfirlýsingar hennar var verið að binda enda á samningaþóf um skuldauppgjör og veðkröfur gagnvart stefnda, enda má sem fyrr segir leggja til grundvallar að hún hafi á öllum stigum notið sérfræðiráðgjafar og gert sér fulla grein fyrir réttaráhrifum undirritunar sinnar. Af framanrituðu leiðir að stefnanda er ekkert hald í tilvísun til réttarreglna um endurgreiðslu ofgreidds fjár (condictio indebiti). Með sömu rökum verður hafnað málsástæðum stefnanda viðvíkjandi reikningsaðferðum stefnda, um ætlaðan upplýsingaskort gagnvart stefnanda sem ábyrgðarmanni og um tómlæti stefnanda. Að atvikum málsins virtum þykir stefnandi ekki eiga heimtingu á því að hluti umsaminnar uppgjörsgreiðslu, sem afhent var stefnda í tengslum við sölu Reynimels 29 í Reykjavík, renni aftur til stefnanda. Með því að fasteignin var seld á frjálsum markaði ber sömuleiðis að hafna málsástæðum stefnanda sem skírskota til þess að eignin hafi verið seld nauðungarsölu. Samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Í samræmi við ákvæði 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað svo sem í dómsorði greinir.                 Arnar Þór Jónsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsorð: Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Guðrúnar Björnsdóttur, í máli þessu. Stefnandi greiði stefnda 900.000 krónur í málskostnað.